Print

Mál nr. 593/2012

Lykilorð
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Tímabundið atvinnutjón
  • Varanleg örorka
  • Miski
  • Annað fjártjón
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
  • Gjafsókn

                                     

Fimmtudaginn 14. mars 2013.

Nr. 593/2012.

Hjördís Diljá Bech Ásgeirsdóttir

(Daníel Isebarn Ágústsson hrl.)

gegn

Sláturfélagi Suðurlands svf. og

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

Skaðabætur. Líkamstjón. Tímabundið atvinnutjón. Varanlega örorka. Miski. Annað fjártjón. Frávísun frá héraðsdómi að hluta. Gjafsókn.

H krafði S svf. og V hf. um skaðabætur vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í tveimur slysum í vinnu sinni hjá S svf., en í síðara slysinu hrundi kassastæða og lenti á hægri öxl og handlegg H. Deildu aðilar m.a. um það hvort H ætti rétt til greiðslu úr ábyrgðartryggingu S svf. hjá V hf. vegna þessa, en H hafði fengið greiddar bætur úr slysatryggingu launþega. Hæstiréttur féllst á það með héraðsdómi að orsök fyrra slyssins yrði ekki rakin til ófullnægjandi verkstjórnar og eftirlits af hálfu S svf. Hefði slysið orðið fyrir gáleysi H sem hún bæri sjálf ábyrgð á. Hæstiréttur taldi aftur á móti að S svf. og V hf. bæru bótaábyrgð á síðara slysi H þar sem S svf. hefði ekki brugðist við með viðeigandi ráðstöfunum þrátt fyrir að vera kunnugt um um að fyrir hefði komið að skemmdir kassar hefðu verið notaðir undir matarbakka og að hætta hefði verið á að kassastæður hryndu af þeim sökum með þeim afleiðingum að starfsmenn kynnu að slasast. Var S svf. og V hf. gert að greiða H bætur vegna varanlegrar örorku, varanlegs miska, tímabundins atvinnutjóns og þjáninga. Kröfu hennar um bætur vegna annars fjártjóns var hins vegar vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Helgi I. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. september 2012. Endanleg krafa hennar er sú að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 7.574.689 krónur með 4,5% ársvöxtum af 222.080 krónum frá 17. október 2006 til 25. apríl 2007, en af 4.658.061 krónu frá þeim degi til 16. júlí 2008, en af 7.574.689 krónum frá þeim degi til 12. júní 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 3. júní 2010 að fjárhæð 2.054.512 krónur og 8. sama mánaðar að fjárhæð 339.488 krónur. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en hún nýtur gjafsóknar á báðum dómstigum.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum. Stefndu hafa ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti og kemur krafa þeirra um málskostnað í héraði því ekki til álita fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi varð fyrir tveimur slysum í vinnu sinni hjá stefnda Sláturfélagi Suðurlands svf. Fyrra slysið átti sér stað þriðjudaginn 17. október 2006. Áfrýjandi fór á slysa- og bráðadeild Landspítala næsta dag og var þá haft eftir henni að aðdragandi slyssins hafi verið „sá að [áfrýjandi] mun hafa verið að standa upp deginum áður ... um kl. 08.30 þegar hún fann einhvers konar verk um hægra hné.“ Í tilkynningu stefnda Sláturfélags Suðurlands svf. 20. október 2006 til Vinnueftirlits ríkisins um slysið, sem árituð var um móttöku af hálfu þess 28. desember sama ár, segir að áfrýjandi hafi komið til yfirmanns og sagst hafa snúið sig á fæti er hún var að ganga á milli vörubretta í afgreiðslusal stefnda. Áfrýjandi kom til skoðunar hjá lækni 3. nóvember 2006 og segir í vottorði hans 22. janúar 2010 að áfrýjandi hafi sagst „hafa snúið illa upp á hægra hné“ greint sinn. Í tilkynningu til stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. um slysið, sem áfrýjandi útfyllti og undirritaði, kemur fram að hún hafi rekið fótinn í og misstigið sig „við ristina“ og snúið upp á fótinn er hún datt, en þá hafi hún verið með „bakka mat“ í höndunum. Hafi hún tognað „í fæti og hné“. Í viðtali við dómkvadda menn vegna öflunar matsgerðar var haft eftir áfrýjanda að hún hafi gengið milli vörubretta í afgreiðsludeild á vinnustað sínum er hún festi hægri fótinn „í einhverju“ og við það hrasað og snúið sig á hnénu. Fyrir dómi skýrði áfrýjandi svo frá að hún hafi haldið á fullum kassa af mat og sett fótinn „milli bretta“ og hafi hún þá verið að „snúa [sér] akkúrat í leiðinni“, sem hafi orðið til þess að fóturinn hafi fest undir bretti og við það hafi hún snúið upp á hann.

Samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað og hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum skal atvinnurekandi tilkynna til vinnueftirlitsins öll slys sem leiða til þess að starfsmaður verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Áfrýjandi var samkvæmt vinnuyfirliti skráð í vinnu þann dag, sem slysið átti sér stað, en var frá vinnu vegna þess næstu þrjá vinnudaga. Var því um tilkynningarskylt slys að ræða, sbr. áðurnefnt ákvæði laga nr. 46/1980. Þar sem stefndi Sláturfélag Suðurlands svf. sinnti ekki þeirri skyldu sinni að tilkynna slysið til vinnueftirlitsins fyrr en að liðnum tveimur og hálfum mánuði fór engin rannsókn fram á aðstæðum á vettvangi af hálfu stofnunarinnar. Verða stefndu því að bera hallann af skorti á sönnun í málinu um þau atriði sem geta haft áhrif á sakarmat og eru talin óljós. Á hinn bóginn hvílir sú skylda á áfrýjanda að sýna fram á að vanræksla á að tilkynna slysið og að rannsókn hafi ekki farið fram á því valdi vafa um sönnun um tildrög þess.

Engin vitni voru að slysinu og verður því að leggja framburð áfrýjanda til grundvallar atvikum að því. Enda þótt það sem haft er eftir áfrýjanda um aðdraganda slyssins samkvæmt framansögðu sé ekki að öllu leyti samhljóða verður að telja fram komið í málinu að hún hafi rekið hægri fót undir vörubretti er hún var á göngu á vinnusvæði sínu með matarkassa í fanginu. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir framburði vitna um aðstæður á vinnustaðnum og verður ráðið af honum að vinnusvæði áfrýjanda hafi verið þröngt. Fallist er á það með héraðsdómi að orsök slyssins verði ekki rakin til ófullnægjandi verkstjórnar og eftirlits af hálfu stefnda Sláturfélags Suðurlands svf. Þá er ekkert fram komið í málinu um að aðstæður hafi verið hættulegar á vinnustaðnum eða þær brotið í bága við lög eða fyrirmæli um heilbrigði eða öryggi á vinnustöðum. Áfrýjandi þekkti vel til aðstæðna og vissi af vörubrettum, sem þar voru, og gat því með eðlilegri aðgát komið í veg fyrir slysið. Verður því að telja að slysið hafi orðið fyrir gáleysi áfrýjanda, sem hún ber sjálf ábyrgð á. Stefndu verða því sýknaðir af kröfu áfrýjanda um bætur vegna slyssins.

II

Síðara slysið varð 25. apríl 2007. Í ódagsettri tilkynningu stefnda Sláturfélags Suðurlands svf. um slysið til vinnueftirlitsins, sem barst því 14. maí sama ár, var greint svo frá tildrögum þess að áfrýjandi hafi verið að taka niður efsta kassa í átta til níu kassa stæðu er brotinn kassi hafi gefið sig, stæðan hrunið og lent á hægri öxl og handlegg áfrýjanda. Áfrýjandi leitaði á slysa- og bráðadeild Landspítala tveimur sólarhringum síðar og kvaðst hafa fengið þungan kassa á hægri öxl og „annan á framhandlegg.“ Við læknisskoðun 12. júní 2007 kvaðst áfrýjandi hafa umrætt sinn unnið við að taka á móti mat, sem síðan fór í dreifingu í mötuneyti skóla, en hún hafi þá fengið þungan kassa á hægri öxl og annan á framhandlegg. Í kössunum mun hafa verið matur á allmörgum bökkum. Í tilkynningu til stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. um slysið, sem áfrýjandi útfyllti og undirritaði, er því lýst svo að hún hafi verið að fara að taka kassa af stæðu er næst neðsti kassinn hafi gefið sig og stæðan hrunið yfir hægri hlið hennar og á öxl og handlegg. Hafi komið í ljós að kassinn, sem gaf sig, hafi verið skemmdur. Fyrir matsmönnum lýsti áfrýjandi atvikinu á þann hátt að kassastæða hafi hrunið á hana úr um það bil seilingarfjarlægð. Fyrir dómi greindi áfrýjandi þannig frá atvikum að hún hafi verið að gera sig klára til að taka „matinn af brettunum“ og kassastæðan þá verið í um það bil 30 cm fjarlægð frá sér. Áfrýjandi hafi snúið hægri hlið að stæðunni sem allt í einu hafi hrunið, áfrýjandi borið „höndina“ fyrir sig og kassarnir lent á öxl og olnboga án þess að áfrýjandi hafi komið við stæðuna. Hún kvaðst þó áður hafa verið búin að fjarlægja plast utan af stæðunni.

Þrátt fyrir slysið var áfrýjandi í vinnu samkvæmt vinnuskrá á slysdegi og næstu daga. Veikindi voru skráð 30. apríl 2007 án tengsla við slys og síðan í nokkur skipti þar til skráð var 18. júní sama ár að hún væri frá vinnu vegna vinnuslyss. Eftir það var áfrýjandi ekki í vinnu og mun hún hafa hætt störfum í lok sama mánaðar. Samkvæmt því var slysið ekki tilkynningarskylt fyrr en eftir að ljóst var fyrrgreindan dag að áfrýjandi yrði frá vinnu út af því, sbr. 79. gr. laga nr. 46/1980. Slysið var tilkynnt af hálfu stefnda Sláturfélags Suðurlands svf. og eins og áður greinir ber áritun vinnueftirlitsins á tilkynninguna með sér að hún hafi verið móttekin af hálfu þess 14. maí 2007.

Áfrýjandi hefur skýrt svo frá að kassar þeir, sem innihéldu matarbakka og staflað var á bretti í átta til níu kassa stæðu, hafi hver og einn verið frá 10 kg og allt upp í 20 til 25 kg á þyngd. Þessari staðhæfingu hennar hefur ekki verið andmælt af hálfu stefndu. Heldur hún því fram að orsök slyssins sé að rekja til þess að stæða sú, sem hrundi, hafi verið of há og að næst neðsti kassinn hafi gefið sig með þeim afleiðingum að stæðan hrundi yfir hana. Við úrlausn málsins verður að leggja til grundvallar tilkynningu stefnda Sláturfélags Suðurlands svf. um slysið til vinnueftirlitsins, en þar var greint svo frá tildrögum þess að áfrýjandi hafi verið taka niður efsta kassa í átta til níu kassa stæðu er brotinn kassi hafi gefið sig og stæðan hrunið og lent á hægri öxl og handlegg áfrýjanda. Svo sem áður greinir hefur áfrýjandi skýrt frá aðdraganda slyssins á sama hátt og fram kemur í tilkynningunni að öðru leyti en því að hún hafi ekki verið að taka kassa af stæðunni er það varð. Þrír fyrrverandi starfsmenn stefnda Sláturfélags Suðurlands svf. lýstu fyrir dómi að ástandi kassa þeirra, er notaðir voru af hálfu stefnda Sláturfélags Suðurlands svf., hafi verið áfátt. Í vætti Vigfúsar Kristjáns Dagnýjarsonar, sem var starfsmaður stefnda Sláturfélags Suðurlands svf. á árunum 2005 til 2008, kom fram að af hálfu fyrirtækisins hafi verið notaðir kassar „sem voru alltaf mjög lélegir.“ Þá minntist vitnið þess að eitt sinn hafi kassastæða hrunið „beint við hliðina á mér, dettur bara á gólfið.“ Hafi komið í ljós að næst neðsti kassinn hafi verið brotinn. Kassarnir hafi alltaf brotnað við endann þar sem „þyngsli fer á, þeir klofna bara, þá bara hrynur þetta allt. Þannig gerðist þetta oft.“ Þá sagði vitnið: „Þegar við tókum af bílunum og settum inn, þá voru bakkarnir alltaf frosnir. Maturinn var frosinn, svo var hann látinn afþíðast, þeir voru mjög sleipir. Það kom oft fyrir að þetta datt af brettunum, rann bara af. Ég hef alla vega aldrei lent í jafn illum aðstæðum á lager, ég hef unnið á lager í mörg ár og þetta hefur aldrei verið svona slæmt. Það skipti ekki máli hvort maður sagði eitthvað, það var lítið hægt að gera.“ Þá greindi vitnið Lilja Bryndís Sigurbjörnsdóttir, sem vann hjá stefnda árið 2005, svo frá að kassarnir hafi mjög oft verið brotnir „að innan“. Hafi ekki sést að utan hvort þeir voru brotnir eða ekki. Starfsmenn hafi oft kvartað undan þessu, en ekki verið hlustað á þá. Aðspurð um hvort oft hafi komið fyrir að kassarnir hryndu svaraði hún: „Já, þetta var oft mjög valt.“ Sama kom fram í vitnisburði Jónínu Guðmundsdóttur, en hún hóf störf hjá stefnda á árinu 2000 og starfaði þar í átta ár. Kassarnir hafi oft verið skemmdir og líka sprungnir „ekki bara brotið á hornunum.“ Hafi oft komið fyrir að stæðurnar hryndu og hafi verið búið að kvarta yfir því. Þá liggja fyrir í málinu ljósmyndir, sem áfrýjandi tók af kössum á vinnusvæðinu sem voru skemmdir á hornum. Jafnframt er upplýst að áfrýjandi kvartaði strax næsta dag eftir slysið með tölvubréfi til starfsmanns í „Stýrihópi SS skólamötuneyta“  um að þann dag hafi komið bretti í hús, sem staflað hafi verið alltof hátt á og tveir kassar verið skemmdir í stæðunni, en stórhættulegt væri að hafa skemmda kassa neðst á brettinu. Þá kom fram í kvörtuninni að áfrýjanda sárverkjaði í öxlina og höndina eftir slysið degi fyrr. Áfrýjanda var svarað samdægurs af starfsmanni stefnda og sagði þar svo: „Ég veit ekki betur en það sé verið að vinna í því núna að lækka stæðurnar þó fyrr hefði verið svo vonandi fer þetta að lagast.“ Að þessu virtu var full ástæða fyrir stefnda Sláturfélag Suðurlands svf. að láta fara fram rannsókn á slysinu og verður það metið honum í óhag að svo var ekki gert.

Samkvæmt öllu því, sem rakið hefur verið, verður að leggja til grundvallar frásögn áfrýjanda af tildrögum slyssins. Verður því talið að orsökina sé að rekja til þess að næst neðsti kassi í umræddri stæðu hafi gefið sig og hún við það hrunið undan þunga sínum yfir áfrýjanda. Þótt áfrýjandi kannist við að hafa tekið plast utan af stæðunni, áður en slysið átti sér stað, verður ekki talið gegn andmælum áfrýjanda að orsakatengsl séu milli þeirrar athafnar hennar og slyssins. Markmið hátternisreglna laga nr. 46/1980 er að tryggja öryggi og forðast líkamstjón, sbr. einkum 13. gr., 1. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 42. gr. þeirra. Af því sem að framan greinir verður ráðið að stefnda Sláturfélagi Suðurlands svf. hafi verið kunnugt um að fyrir hafði komið að skemmdir kassar voru notaðir undir matarbakka og að hætta gæti verið á að kassastæður hryndu af þeim sökum undan þunga sínum með þeim afleiðingum að starfsmenn kynnu að slasast. Við því bar þessum stefnda að bregðast með viðeigandi ráðstöfunum, en það lét hann undir höfuð leggjast. Gætti stefndi þannig ekki áðurnefndra fyrirmæla laga nr. 46/1980 um að tryggja að framkvæmd vinnu og aðstæður á vinnustað væru þannig að gætt væri fyllsta öryggis starfsmanna. Bera stefndu bótaábyrgð á líkamstjóni áfrýjanda vegna slyssins 25. apríl 2007.

III

Í málinu liggur fyrir matsgerð dómkvaddra manna frá 26. apríl 2010, sem lögð verður til grundvallar við ákvörðun bóta fyrir tímabundna örorku, þjáningabætur, varanlegan miska og varanlega örorku. Þar er tímabundin óvinnufærni áfrýjanda vegna slyssins metin 100% á tímabilinu frá 18. júní 2007 til 16. júlí 2008, tímabil þjáninga án rúmlegu það sama, varanlegur miski 15 stig og varanleg örorka 10%. Gerir áfrýjandi kröfu um að stefndu greiði sér 2.518.696 krónur vegna tímabundins atvinnutjóns, 607.410 krónur í þjáningabætur, 1.309.875 krónur vegna varanlegs miska og 1.847.438 krónur fyrir varanlega örorku. Loks krefst hún 1.069.190 króna vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns. Samtals nemur krafa áfrýjanda því 7.352.609 krónum og er samtala framangreindra kröfuliða þannig lægri en endanleg kröfugerð áfrýjanda fyrir Hæstarétti eins og henni var lýst í upphafi. Til frádráttar kröfunni kveður áfrýjandi eiga að koma tilteknar innborganir stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. Í frádráttarliðum áfrýjanda virðast vera greiðslur vegna beggja slysanna.

Ekki er ágreiningur milli aðila um fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku, varanlegan miska og þjáningar. Stefndu halda því hins vegar fram að lækka beri bótaliðinn tímabundið atvinnutjón sem nemur dagpeningagreiðslu stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., 3. júní 2010 að fjárhæð 917.700 krónur og tveimur sams konar greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins, 166.152 krónum árið 2007 og 815.784 krónum árið 2008. Þá beri að lækka kröfulið vegna varanlegrar örorku um 740.474 krónur vegna greiðslu upp í hann 3. júní 2010. Að lokum er kröfuliðnum sjúkrakostnaður og annað fjártjón mótmælt þar sem hvorki verði séð hvað af þeim útlagða kostnaði, sem áfrýjandi vísar til, tengist slysum né hvaða kostnaður tilheyri hvoru slysa þeirra er mál þetta tekur til.

Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skal draga frá bótum vegna tímabundins atvinnutjóns dagpeninga og aðrar bætur frá opinberum tryggingum. Ákvæði þetta ber að skýra svo að draga skuli frá bótum hvers konar dagpeninga, sem tjónþoli fær meðan á tímabundinni óvinnufærni stendur. Er þar átt við dagpeninga, sem tjónþoli kann að eiga rétt til samkvæmt lögum nr. 117/1993 um almannatryggingar, sbr. 26. gr. og 28. gr. og e. lið 1. mgr. 36. gr., sbr. 38. gr. sömu laga um sjúkradagpeninga, en fyrrnefnd lög voru endurútgefin sem lög nr. 100/2007, sbr. 19. gr. laga nr. 166/2006. Óumdeilt er að áfrýjandi fékk greiddar 166.152 krónur frá Tryggingastofnun ríkisins árið 2007 og 815.784 krónur árið 2008. Af hálfu stefndu var því haldið fram þegar í greinargerð fyrir héraðsdómi að hér væri um dagpeningagreiðslur að ræða vegna slyssins 25. apríl 2007. Þeirri staðhæfingu hefur ekki verið hrundið af hálfu áfrýjanda, svo sem henni hefði verið í lófa lagið. Verður því lagt til grundvallar að um slíkar greiðslur hafi verið að ræða, sem koma  samkvæmt framansögðu til frádráttar kröfu áfrýjanda um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns. Þá kemur til frádráttar þessum kröfulið dagpeningagreiðsla stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. 3. júní 2010 að fjárhæð 917.700 krónur. Samkvæmt þessu verður tímabundið atvinnutjón áfrýjanda bætt með 619.060 krónum.

Fram er komið í málinu að greiddar voru 3. júní 2010 af hálfu stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. 740.474 krónur úr launþegatryggingu, auk vaxta að fjárhæð 568.023 krónur, vegna varanlegrar örorku. Kemur höfuðstóll þeirrar greiðslu til frádráttar kröfu áfrýjanda um bætur samkvæmt þeim kröfulið, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, og verða áfrýjanda því dæmdar 1.106.964 krónur í bætur vegna varanlegrar örorku.

Mælt er fyrir um það í 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga að sá sem ber ábyrgð á líkamstjóni skuli greiða skaðabætur fyrir sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af því hlýst. Áfrýjandi krefst sem fyrr segir greiðslu 1.069.190 króna úr hendi stefndu vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns. Meðal þess kostnaðar, sem vísað virðist til undir þessum kröfulið, er þóknun dómkvaddra matsmanna að fjárhæð 750.000 krónur, sem ekki á hér undir þar sem slíkur kostnaður er hluti málskostnaðar, sbr. e. lið 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ef á hann verður fallist. Sama á við um gjöld sem renna í ríkissjóð, svo sem kostnað vegna matsbeiðni, sbr. c. lið sama ákvæðis. Krafan er ósundurliðuð og engin grein gerð fyrir einstökum kröfuliðum, auk þess sem ekki er greint á milli hvaða kostnaður falli undir hvort þeirra slysa, sem mál þetta er sprottið af. Kröfuliður þessi er svo vanreifaður að dómur verður ekki á hann lagður. Verður honum vísað frá héraðsdómi að öðru leyti en því er síðar segir um kostnað vegna dómkvaddra manna.

Að lokum hafa stefndu mótmælt vaxtakröfu áfrýjanda að því leyti að eldri vextir en fjögurra ára frá birtingu stefnu séu fyrndir, sbr. 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sem giltu á þeim tíma sem tjónsatburður varð. Mál þetta var höfðað 15. nóvember 2011 og verður því fallist á með stefndu að vextir frá fyrri tíma en 15. nóvember 2007 séu fyrndir, sbr. 28. gr. núgildandi laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007.

Að öllu því virtu, sem rakið hefur verið, verða stefndu dæmdir óskipt til að greiða áfrýjanda 3.643.309 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Eftir þessum úrslitum verða stefndu dæmdir til að greiða málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir og rennur í ríkissjóð. Við ákvörðun hans er tekið tillit til útlagðs kostnaðar vegna öflunar matsgerðar dómkvaddra manna.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda er staðfest. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndu, Sláturfélag Suðurlands svf. og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði áfrýjanda, Hjördísi Diljá Bech Ásgeirsdóttur, óskipt 3.643.309 krónur með 4,5% ársvöxtum af 2.536.345 krónum frá 15. nóvember 2007 til 16. júlí 2008 og af 3.643.309 krónum frá þeim degi til 12. júní 2010, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

Kröfulið áfrýjanda á hendur stefndu um greiðslu á grundvelli 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er vísað frá héraðsdómi.

Stefndu greiði óskipt samtals 1.900.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, er rennur í ríkissjóð.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 700.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2012.

Mál þetta, sem var dómtekið 30. maí sl. er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Hjördísi Bech Ásgeirsdóttur, Vitastíg 5, Hafnarfirði á hendur Sláturfélagi Suðurlands svf., Fosshálsi 1, Reykjavík og Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu birtri 15. nóvember 2011.

Stefnandi krefst þess, að stefndu verði sameiginlega (in solidum) gert að greiða stefnanda 7.991.329 kr. með 4,5% ársvöxtum af 222.080 kr. frá 17. október 2006 til 25. apríl 2007 en frá þeim degi af 4.658.061 kr. til 16. júlí 2008 en frá þeim degi af 7.991.329 kr. til 12. júní 2010 en frá þeim degi með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, til greiðsludags að teknu tilliti til innborgana stefndu að upphæð 2.054.512 kr., dags. 3. júní 2010 og 339.488 kr., dags. 8. júní 2010.

Þá er krafist málskostnaðar eins og stefnandi væri ekki með gjafsókn, og taki tildæmdur málskostnaður mið af því að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að þeir verið sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hennar hendi að mati dómsins, en til vara að sök verði skipt, stefnukröfur lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Málavextir

Stefnandi vann hjá Sláturfélagi Suðurlands svf. (hér eftir SS) og varð þar fyrir tveimur slysum við vinnu sína á árunum 2006 og 2007. Þegar slysin urðu var stefndi, SS, með slysatryggingu launþega og ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. (hér eftir VÍS).

Í fyrra slysinu, hinn 17. október 2006 um kl. 8:30, kveðst stefnandi hafa rekið fót sinn undir vörubretti og við það snúið sig illa á hné. Hafi það verið vegna þrengsla. Stefnandi vann áfram þennan dag, en leitaði á slysadeild daginn eftir, eða hinn 18. október um kl. 17:00, þar sem hún greindist með tognun kringum hægra hné og ofreynslu. Enginn vökvi var í hnénu við skoðun og engin eymsli yfir hliðlægum liðböndum eða yfir liðbili. Hins vegar voru dálítil eymsli yfir nærhluta sköflungsbeins neðan hnéliðs yfir vöðvafestu. Fékk stefnandi bólgueyðandi lyf og almennar leiðbeiningar. Var talið um „lágmarks tognun“ að ræða. Engin vitni voru að óhappinu, en mismunandi lýsingar eru í læknisfræðilegum gögnum málsins um það hvernig slysið átti sér stað.

Seinna slysið varð miðvikudaginn 25. apríl 2007 um kl. 9:30. Stefnandi kveður í stefnu að slysið hafa orðið með þeim hætti að bakkastæða hafi hrunið ofan á hana með þeim afleiðingum að hún slasaðist á öxl og handlegg. Ástæðuna kveður stefnandi þá að of margir bakkar hafi verið í stæðunni, auk þess sem einn bakkanna, neðarlega í stæðunni, hafi verið ónýtur og gefið sig með fyrrgreindum afleiðingum. Í tilkynningu stefnanda til stefnda, VÍS, kveðst stefnandi hafa verið að taka niður úr seilingarhæð efsta bakkann í 8-9 bakka hárri plastbakkastæðu, þegar næst neðsti bakkinn hafi gefið sig og stæðan hrunið og lent á hægri öxl hennar og handlegg. Hafi komið í ljós að plastbakkinn sem gaf sig hefði verið settur skemmdur í stæðuna, sem komið hafi að Fosshálsi frá Hvolsvelli. Ekki voru vitni að slysinu. Á þriðja degi, eða 27. apríl leitaði stefnandi á slysadeild vegna verkja í öxlinni, þar sem hún var greind með tognun og ofreynslu á axlarlið og mar og yfirborðsáverka á handlegg. Segir í vottorði slysadeildar, dags. 15. júlí 2007, að misjafnt sé hve fljótt fólk jafni sig eftir svona áverka. Flestir nái fullum bata innan nokkurra vikna, en í einstaka tilviki sé bataferill lengri ef upp koma bólgur í vöðvafestum eða liðpoka vegna álags.

Hinn 14. júlí 2009 skaut stefnandi málinu til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Hann 18. ágúst 2009 kom niðurstaða nefndarinnar á þann veg að stefnda, VÍS, bæri að greiða bætur úr slysatryggingu launþega vegna fyrra slyssins og úr ábyrgðartryggingu vegna seinna slyssins. Hinn 19. ágúst 2009 óskaði stefndi VÍS eftir endurupptöku málsins þar sem afstaða félagsins hafði ekki borist úrskurðarnefndinni. Hinn 8. september 2009 komst nefndin að sömu niðurstöðu, þ.e. að greiðsluskylda væri fyrir hendi úr slysatryggingu launþega vegna fyrra slyssins en úr ábyrgðartryggingu vegna seinna slyssins.

Matsgerð dómkvaddra matsmanna þeirra, Halldórs Baldurssonar læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hrl., er frá 26. apríl 2010. Niðurstaðan er sú að tímabundin óvinnufærni stefnanda vegna fyrra slyssins hafi verið algjör frá 18. október 2006 til 22. október 2006 og frá 26. október til 12. nóvember sama árs. Tímabil þjáninga án rúmlegu hafi verið einn mánuður. Þá var varanlegur miski metinn 2 stig, sem og læknisfræðileg örorka (2%). Engin varanleg örorka var metin. Stöðugleikapunktur var 17. desember 2007.

Í seinna slysinu var stefnandi metin algerlega óvinnufær frá 18. júní 2007 til 19. júlí 2008. Tímabil þjáninga án rúmlegu var hið sama. Varanlegur miski var metinn 15 stig og læknisfræðileg örorka 15%. Varanleg örorka var metin 10% og  stöðugleikapunktur var 16. júlí 2008.

Með bréfi, dags. 12. maí 2010, var krafist bóta samkvæmt fyrrgreindri matsgerð og skaðabótalögum. Stefndi féllst ekki á greiðslu bóta á grundvelli ábyrgðartryggingar en féllst þó á að greiða inn á heildarkröfu stefnanda.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Krafa stefnanda byggir á því að stefndu beri ábyrgð á líkamstjóni hennar. Líkamstjón stefnanda sé afleiðing af saknæmri og ólögmætri háttsemi stefnda, SS og starfsmanna þess. Þar sem félagið hafi verið með ábyrgðartryggingu hjá stefnda, VÍS á slysdegi sé félaginu einnig stefnt, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Deila aðila snúist um hver beri bótaábyrgð á slysunum. Stefnandi telur stefnda, SS bera ábyrgð á slysunum á grundvelli sakarreglunnar, reglunnar um vinnuveitandaábyrgð, ströngum bótareglum vegna hættulegs vinnuumhverfis og ströngum bótareglum um ábyrgð fasteignareiganda

Stefnandi byggir á þeim sérstöku sjónarmiðum sem eigi við um beitingu sakar-reglunnar þegar slys verði á vinnustað, vegna sakar starfsmanna og/eða vegna ófullnægjandi aðbúnaðar. Þannig sé byggt á ströngu sakarmati á ábyrgð vinnuveitanda á hættulegum vinnuaðstæðum. Byggt sé á því að stefndu beri skaðabótaábyrgð á verkstjórn og vinnubrögðum starfsmanna sinna.

1. Bótagrundvöllur vegna vinnuslyss 17. október 2006

Stefnandi rekur fyrra slysið, hinn 17. október 2006, til þess að vinnuaðstaða og verkstjórn hafi ekki verið fullnægjandi. Henni hafi verið ætlað að ganga með þunga bakka eftir gólfi þar sem erfitt hafi verið að fóta sig vegna þess að gólfflöturinn hafi verið þakinn vörum og brettum og gönguleiðin hafi þannig verið mjög þröng. Stefnandi hafði ítrekað kvartað yfir þessari vinnuaðstöðu.

Hinn 17. október 2006 er stefnandi hafi haldið á þungum bakka og þurft að smeygja sér á milli skápa og vörubretta hafi hún rekið fót sinn undir eitt vörubrettanna og snúið sig illa.

Um skyldur vinnuveitanda til að gæta fyllsta öryggis, leiðbeina og hafa eftirlit

Á atvinnurekanda hvíli strangar skyldur um eftirlit og verkstjórn með starfsmönnum. Atvinnurekendur beri höfuðábyrgð á því vinnuumhverfi sem þeir búi starfsmönnum sínum og því hvernig vinnan sé framkvæmd. Á vinnuveitanda hvíli skylda til að tryggja, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað, sbr. 13. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í 37. gr. sömu laga segi að vinnu skuli haga og framkvæma þannig, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta.

Það sé á ábyrgð vinnuveitanda að skapa öruggt starfsumhverfi og koma í veg fyrir slysahættu. Ekki verði séð að stefndi, SS hafi farið að þessum reglum enda hafi vinnuaðstaðan  ekki verið örugg. Stefnandi hafði kvartað undan aðstöðunni en ekkert hafi verið gert til að bæta hana fyrr en eftir slys stefnanda. Auðveldlega hefði mátt koma í veg fyrir þessa slysahættu með því að bæta skipulagið á vinnusvæðinu. Það hafi ekki verið gert og þess í stað ætlast til þess að starfsfólk smeygði sér á milli vörubretta, jafnvel haldandi á þungum byrðum. Það sé því alveg ljóst að hvorki hafi fyllsta öryggis verið gætt né hafi starfsumhverfið verið öruggt.

Í 21. gr. laga nr. 46/1980 komi fram að verkstjóri sé fulltrúi atvinnurekanda og sjái um, að allur búnaður sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á þeim vinnustöðum sem hann hafi umsjón með. Þá sé í 23. gr. laganna lögð sú skylda á verkstjóra, að beita sér fyrir, að starfsskilyrði innan þess starfssviðs, sem hann stjórni, séu fullnægjandi að því er varði aðbúnað, hollustuhætti og öryggi.

Verkstjóri skuli sjá um, að þeim ráðstöfunum, sem gerðar séu til þess að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti, sé framfylgt. Stefnandi byggi á því að stefndi SS hafi brotið gegn skyldum sínum sem vinnuveitanda skv. reglum um vinnuvernd.

Stefndi, SS hafi ekki aðeins látið viðgangast að starfsmenn viðhefðu verklag sem hafi verið hættulegt,  heldur hafi hann beinlínis ætlast til þess að starfsmenn ynnu verkið á þennan hátt. Leiði þetta til bótaábyrgðar stefndu á slysi stefnanda.

Um skyldur stefnda í tengslum við húsnæði vinnustaða

Stefnandi heldur því fram að á fasteignareiganda hvíli rík aðgæsluskylda og beri honum að haga aðstæðum á fasteigninni á þann veg að þeir sem eigi erindi fasteigninni verði ekki fyrir tjóni. Af dómaframkvæmd síðustu ára megi sjá að rík skylda sé lögð á fasteignaeigendur til að tryggja öryggi vegfarenda og hafi sú skylda verið vanrækt hafi það leitt til bótaskyldu fasteignareigandans.

Enn ríkari skylda hafi hvílt á stefnda, SS, þess efnis að haga aðstæðum á vinnusvæði stefnanda á þann hátt að öryggi hennar og annarra væri tryggt. Vinnuaðstaða stefnanda hafi verið ófullnægjandi og hafi það leitt til slyssins.

Vinnustaður skuli þannig úr garði gerður að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta, skv. 42. gr. laga nr. 46/1980. Þessi regla laganna hafi svo verið útfærð nánar í reglum um húsnæði vinnustaða nr. 581/1995. Í 1. og 2. mgr. 3. gr. reglnanna segir: „Húsnæði vinnustaða skal innrétta þannig að þar sé sem öruggast og heilsusamlegast starfsumhverfi. Byggingar skulu vera nægjanlega traustar og þannig gerðar að hæfi notkun þeirra.Vinnurými skal skipulagt með hliðsjón af því starfi sem þar á að framkvæma. Allar umferðaleiðir manna og flutningstækja skulu vera greiðar og afmarkaðar. Sömuleiðis skal skipa efni, vörum og flutningstækjum eða öðrum færanlegum vélum á afmarkað eða aðgreint svæði eða rými eftir því sem aðstæður leyfa. Starfsmenn skulu hafa nægjanlegt athafnarými við störf sín án þess að vera á umferðarsvæðum nema eðli starfsins krefjist þess.“

Stefndi, SS, hafi ekki farið eftir reglum þessa ákvæðis. Vinnuaðstaðan hafi ekki verið þannig úr garði gerð að hún væri sem öruggust. Þá hafi vinnurýmið ekki verið skipulagt með hliðsjón af því starfi sem þar hafi verið framkvæmt því þá hefðu a.m.k. umferðarleiðir verið greiðar.

Í 1. mgr. 39. gr. tilvitnaðra reglna segi að umferðarleiðir skuli staðsetja og útbúa þannig að fótgangendur og ökutæki megi nota þær vandkvæðalaust, með fullu öryggi og á þann hátt sem tilgangur þeirra segi til um.

Í 2. mgr. sömu greinar sé lögð sú skylda á vinnuveitendur að tryggja að rými á umferðarleiðum fyrir fótgangendur og flutning á vörum skuli vera í samræmi við fjölda hugsanlegra notenda og þá starfsemi sem stunduð sé. Ætlast hafi verið til þess að stefnandi færi með þunga bakka um allt af þrönga umferðarleið, og hafi umferðarleiðin þar með ekki verið í samræmi við starfsemina sem þar hafi verið stunduð.

Um skyldur vinnuveitanda um skriflega áætlun um öryggi og áhættumat á vinnustaðnum

Stefnandi byggir einnig á því að stefndi hafi brotið gegn skyldu sinni samkvæmt 14. gr. laga nr. 46/1980, um að gera starfsmönnum sínum ljósa slysahættu, sem kunni að vera bundin við starf þeirra. Atvinnurekandi eigi að sjá um að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma störf sín þannig að ekki stafi hætta af. Þá skuli atvinnurekandi, skv. 65. og 66. gr. laganna, gera skriflega áætlun um öryggi, heilbrigði og mat á áhættu. Ljóst sé að stefndi, SS hafi vanrækt þessar skyldur sínar. Engar reglur eða áætlanir hafi verið til hjá fyrirtækinu, sem hafi mælt fyrir um örugg vinnubrögð og áhættumat þegar slysið varð.

Um að stefndu beri sönnunarbyrðina fyrir því að vinnuaðstæður hafi verið fullnægjandi

Vinnueftirliti ríkisins hafi ekki borist tilkynning um slysið fyrr en 28. desember 2006 eða rúmum tveimur mánuðum eftir að það hafi átt sér stað. Samt sem áður sé tilkynningin dagsett 20. október 2006. Þessi vanræksla á tilkynningu slyssins hafi leitt til þess að Vinnueftirlitið rannsakaði ekki slysið og aðstæður á vinnustaðnum. Það leiði til þess að sönnunarbyrði um tildrög slyss sé snúið við.

2. Bótaábyrgð vegna vinnuslyss 25. apríl 2007

Stefnandi telur stefndu einnig bera ábyrgð á seinna vinnuslysinu sem hún hafi orðið fyrir hinn 25. apríl 2007. Bótaábyrgðin sé reist á sömu sjónarmiðum og þegar séu fram komin vegna bótaábyrgðar á fyrra slysi stefnanda, svo sem um skyldu vinnuveitanda til að tryggja fyllsta öryggis á vinnustað og skyldur hans til að gera skriflega áætlun um öryggi og áhættumat á vinnustaðnum. Til að forðast endurtekningu sé vísað í umfjöllunina hér að framan en auk þess verði fjallað um önnur atriði hér á eftir.

Í tilkynningu stefnda, SS, til Vinnueftirlits ríkisins er slysinu svo lýst: „Var að taka niður efsta bakka í stæðu þegar brotinn bakki gaf sig og stæðan hrundi. Stæðan var 8-9 bakkar á hæð. Stæðan lenti á hægri öxl og handlegg.“ Stefndi, SS, telur því orsök slyssins vera brotinn bakka í stæðu sem hafi leitt til þess að stæðan hrundi. Stefnandi hafi ítrekað bent stefnda, SS, á hættuna sem fylgdi því að hafa stæðurnar of háar og einnig að í þeim kynnu að leynast brotnir bakkar. Ekki hafi verið brugðist við ábendingum hennar en með því hefði mátt koma í veg fyrir umrætt slys og fleiri sambærileg slys á öðrum starfsmönnum fyrirtækisins. Slys stefnanda sé ekki eina dæmið um að starfsmaður slasist í fyrirtækinu við það að bakkastæða detti ofan á hann.

Um að stæðunni sem hrundi hafi verið rangt staflað

Stefnandi byggir kröfur sínar einnig á 7. gr. reglna nr. 499/1994, um öryggi og hollustu þegar byrðar séu handleiknar, en þar komi fram að þegar byrðum sé staflað skuli séð til þess að hægt sé að gera það án hættu á heilsutjóni og án hættu á að staflinn falli. Þessi regla hafi verið brotin af hálfu starfsmanna stefnda, SS, því stæðunni sem féll á stefnanda hafi ekki verið raðað rétt. Hún hafi verið of þung auk þess sem í henni hafi verið brotnir bakkar. Stæðunni hafi alls ekki verið staflað örugglega heldur hafi hún verið allt of há og óstöðug og hafi það leitt til slyss stefnanda. Stefndi SS beri ábyrgð á þessum mistökum við verkstjórn og þar með tjóni stefnanda.

3. Bótafjárhæðir

Afleiðingar slysa stefnanda hafi verið metnar af dómkvöddum matsmönnum og taki kröfugerðin mið af niðurstöðum matsgerðarinnar og ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Fjárhæðir miðist við vísitöluna í maí 2010 (7165) en þá hafi kröfubréf stefnanda verið sent stefnda VÍS. Í stefnu er ítarleg sundurliðun dómkröfunnar.

4. Aðrar kröfur

Málskostnaðarkrafa stefnanda er byggð á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og því sé nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar.

Um varnarþing vísast til 1. mgr. 33. gr., sbr. 42. gr., laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefndu séu með lögheimili í Reykjavík.

Málsástæður og lagarök stefndu

Stefndu taka fram að um bæði hin umstefndu slys gildi almennar skaðabótareglur. Hvíli sönnunarbyrðin á stefnanda um ætlaða sök stefnda, SS, á hinum umstefndu slysum. Verði ekki séð að slysin hafi verið tilkynningarskyld til vinnueftirlitsins skv. 79. gr. laga nr. 46/1980. Stefnandi hafi haldið áfram vinnu eftir slysin og ekkert verið fyrirliggjandi um að slysin myndu hafa í för með sér langvinnt eða varanlegt heilsutjón. Hafi því ekkert tilefni verið til þess að tilkynna slysin strax til Vinnueftirlitsins. Verði stefndu því ekki látnir bera hallann af vafaatriðum varðandi málsatvik, ætlaða sök stefnda, SS, og orsakatengsl, eða sönnunarbyrðinni snúið við.

Þá bendi ekkert til „hættulegs vinnuumhverfis“ þar sem slysin urðu, eins og stefnandi haldi fram. Gildi sakarreglan um vinnuumhverfi í íslenskum rétti. „Ströngum bótareglum“ vegna „hættulegs vinnuumhverfis“ verði því ekki beitt eins og stefnandi krefjist. Sé og óljóst hvaða ströngu bótareglur stefnandi eigi hér við. Komi hlutlæg bótaábyrgð ekki til álita. Sakarreglan gildi einnig í íslenskum rétti um skaðabótaábyrgð fasteignareiganda. „Ströngum bótareglum um ábyrgð fasteignareiganda“ verði því heldur ekki beitt gagnvart stefnda sem eiganda hússins, þar sem slysin urðu, svo sem stefnandi krefjist. 

1. Slys stefnanda 17. október 2006

Sýknukrafa stefndu sé á því reist, að ekki sé sannað að stefndi, SS, eigi nokkra sök á umstefndu slysi stefnanda hinn 17. október 2006. Megi rekja slysið til óhapps og gáleysis stefnanda sjálfrar.

Þessu til stuðnings sé bent á eftirfarandi: Engar sönnur hafi verið leiddar að því að vinnuaðstæður í afgreiðslusal stefnda að Fosshálsi 1, Reykjavík, þar sem stefnandi hafi orðið fyrir slysinu, hafi verið saknæmar eða brotið í bága við lög eða reglur um öryggi á vinnustöðum og húsnæði vinnustaða og það valdið slysinu. Hafi fullyrðingar stefnanda í þá átt ekkert sönnunargildi, en ekkert sé fyrirliggjandi frá eftirlitsaðilum eða öðrum um að einhverju hefði verið áfátt á vinnustaðnum á þessum tíma, eða að stefndi, SS, hefði brotið eitthvert ákvæði laga eða reglugerða um öryggi á vinnustöðum og húsnæði vinnustaða, sem gæti verið orsakavaldur slyssins. Það eitt að vörur og vörubretti hafi staðið á gólfinu í afgreiðslusalnum og að starfsmenn hafi þurft að ganga á milli þeirra hafi í sjálfu sér verið ósaknæmt, en rangt sé og ósannað, að gönguleiðirnar hafi verið eitthvað óeðlilega eða hættulega þröngar. Að sama skapi sé alls ósannað að verklag í afgreiðslusalnum hafi verið hættulegt og verkstjórn áfátt. Hafi stefnandi heldur ekki sýnt fram á, hvernig hefði mátt skipuleggja vinnusvæðið og verklagið í salnum þannig að komið hefði í veg fyrir slysið. Ekki sé nóg að fullyrða að það hefði auðveldlega verið hægt. Þá séu þau laga- og reglugerðaákvæði um öryggi á vinnustöðum og húsnæði vinnustaða, sem stefnandi vísar til, almennar efnisreglur og gagnist því lítið við sakarmat í þessu sambandi. Ekki sé heldur sýnt fram á að tilvist öryggisáætlunar og áhættumats, þótt verið hefði til staðar, myndi hafa afstýrt slysinu. Þá kannist stefndi, SS, ekki við að stefnandi eða aðrir hafi fyrir slysið kvartað út af vinnuaðstæðunum í afgreiðslusalnum. Þannig sé ekki við stefnda að sakast um slysið.

Hins vegar bendi frásagnir stefnanda um atvik að slysinu eindregið til þess að slysið sé að rekja til gáleysis hennar sjálfrar og óhapptilviljunar. Sé stefnandi ein til frásagnar um slysið og frásagnir hennar ekki samhljóða. Til að mynda sé haft eftir henni í vottorði slysadeildar á dskj. nr. 31, að hún hafi verið að standa upp um kl. 08:30 slysdaginn, þegar hún hafi fundið einhvers konar verk um hægra hné og síðan þá verið með verk um hnéð. Í tilkynningu stefnda til vinnueftirlitsins sé hins vegar haft eftir henni, að hún hafi snúið sig á fæti er hún hafi verið að ganga milli vörubretta. Í tilkynningu stefnanda til stefnda VÍS kveðst hún hafa rekið fótinn í og misstigið sig við ristina og snúið upp á fótinn þegar hún hafi dottið. Í matsgerðinni sé svo haft eftir henni, að hún hafi fest fótinn í einhverju, hrasað og snúið sig á hægra hné. Í stefnu byggi stefnandi á því, að hún hafi rekið fót sinn undir vörubretti. Séu atvik að slysinu þannig ekki á hreinu, en þó ljóst af þessum frásögnum að stefnandi hafi ekki sýnt tilhlýðilega aðgæslu, er hún hafi gengið eftir gönguleiðinni milli vörubrettanna, en hún hafi verið búin að starfa þarna í vöruafgreiðslunni í meira en ár og gjörþekkti þar aðstæður. Hafi verið vandalaust að komast hjá því að reka fótinn í eða undir vörubretti eða vörur með fram gönguleiðinni ef eðlileg aðgát væri viðhöfð. Á því hafi orðið misbrestur eftir frásögn stefnanda að dæma. Eigi stefnandi því sjálf sökina á slysinu en ekki stefndi.

2.  Slys stefnanda 27. apríl 2007

Sýknukrafa stefndu sé á því reist að ekki sé sannað, að stefndi, SS, eigi nokkra sök á umstefndu slysi stefnanda hinn 27. apríl 2007. Megi rekja slysið til óhapps og gáleysis stefnanda sjálfrar.

Stefndu telja að engar sönnur hafi verið leiddar að því, að vinnuaðstæður í afgreiðslusal stefnda, SS, að Fosshálsi 1, Reykjavík, hafi, þegar stefnandi varð fyrir slysinu, verið saknæmar eða brotið í bága við lög og reglur um öryggi á vinnustöðum eða húsnæði vinnustaða og það valdið slysinu. Hafi fullyrðingar stefnanda í þá átt ekkert sönnunargildi, en ekkert liggi fyrir frá eftirlitsaðilum eða öðrum um það að einhverju hafi verið áfátt á vinnustaðnum eða að stefndi, SS, hafi brotið einhver ákvæði laga eða reglugerða um öryggi á vinnustöðum og húsnæði vinnustaða, sem gæti hafa orsakað slysið. Sé alls ósannað að bakkastæðan, sem fallið hafi á stefnanda, hafi verið „of þung“ og „allt of há og óstöðug“ og „alls ekki staflað örugglega“, svo sem stefnandi haldi fram. Hafi efsti bakkinn í stæðunni verið í seilingarhæð, sbr. framlögð gögn, en engar forskriftir mæli fyrir um hæð eða þyngd á plastbakkastæðum sem þessum. Það eitt að stæðan hrundi, þegar stefnandi hafi verið að taka niður efsta bakkann, sé og ekki sönnun þess að stæðan hafi verið of þung, of há eða henni ekki staflað örugglega. Hafði stæðan enda ekkert haggast fyrr en stefnandi hafi farið að eiga við hana.

Að sama skapi sé ósannað, að stæðan hafi hrunið vegna þess að bakki í stæðunni hafi verið brotinn eða skemmdur. Sé lýsing á atvikum í tilkynningu stefnda, SS, til Vinnueftirlitsins, þar sem segi að brotinn bakki hafi gefið sig og stæðan hrunið, aðeins það sem haft sé eftir stefnanda um slysið, en sé ekki álit stefnda, SS, á orsökum slyssins eins og stefnandi haldi fram eða neins konar viðurkenning. Þá kannist stefndi, SS, ekki við að stefnandi eða aðrir hafi kvartað út af verklagi við niðurtöku bakka né að önnur slys hafi orðið vegna þess að bakkastæða hafi hrunið. Hafi plastbakki í stæðunni verið skemmdur og settur skemmdur í stæðuna eins og stefnandi haldi fram í slysatilkynningu sinni til stefnda, VÍS verði stefnda, SS ekki gefin sök á því, en stæðan hafi komið til stefnda frá Hvolsvelli. Sé og ógerningur að koma í veg fyrir, að plastbakkarnir geti skemmst í flutningi og meðförum og við venjulega notkun. Að plastbakki hafi veiklast eða skemmst sjáist líka misvel og sjaldnast jafnóðum og stundum ekki. Það eitt að skemmdur bakki sé í stæðu verði því sjaldnast metið nokkrum til sakar. Verði þeir sem meðhöndla bakkana að sýna aðgát. Hafi stefnandi ekki sýnt fram á að aðrir starfsmenn SS, fremur en hún sjálf, hefðu átt að sjá að bakkinn hafi verið skemmdur, ef um var að ræða, og bregðast við því. Sé þannig ekkert við stefnda SS um slysið að sakast.

Um eigin sök stefnanda sé hins vegar ekki vafi. Stefnandi hafi brotið gegn verklagsfyrirmælum með því að taka ekki aðstoðarmann með sér í verkið. Hafi það verið verulega gálaust, enda augljóst hverjum manni að hætta gat verið á því að stæðan ylti, ef aðeins einn maður stóð að verki. Hins vegar hafi lítil hætta verið á því að eitthvað færi úrskeiðis eða bakkastæðan ylti, ef tveir menn lyftu saman efstu bökkunum niður af stæðunni í stað eins. Hafði stefnandi í ljósi aldurs og starfreynslu og ítrekaðra verklagsfyrirmæla ekkert því til afsökunar að kalla ekki til aðstoðarmann. Hafi stefnandi því sjálf valdið hruni stæðunnar með því að fást ein við það að taka efsta bakkann af stæðunni í stað þess að taka bakkann niður með hjálp aðstoðarmanns, svo sem verklagsreglur buðu og stefnanda hafi verið skylt að fylgja. Hafði margoft verið brýnt fyrir starfsmönnum stefnda að hafa aðstoðarmann við að taka niður efstu bakkana í bakkastæðunum. Hafi slík aðstoð ávallt verið tiltæk (dskj. 5 og 49). Eigi stefnandi þannig sjálf sök á slysinu.

Stefndu mótmæla einnig dómkröfu stefnanda tölulega í greinargerð sinni sem og vaxtakröfunni.

Niðurstaða

Ágreiningur málsins lýtur að tveimur slysum er stefnandi kveðst hafa orðið fyrir í starfi sínu hjá stefnda, SS. Annars vegar hinn 17. október 2006 og hins vegar 25. apríl 2007. Engir sjónarvottar voru að slysum þessum.

Samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum með síðari breytingum skal atvinnurekandi án ástæðulausrar tafar tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins öll slys þar sem starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Slys þar sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skal tilkynna Vinnueftirlitinu eigi síðar en innan sólarhrings.

Í fyrra slysinu var atvikum svo háttað að stefnandi slasaðist árla þriðjudagsins 17. október 2006 og vann þann dag. Daginn eftir og fram að helgi mun stefnandi hafa verið frá vinnu vegna slyssins og mætt til vinnu mánudaginn 23. október 2006.

Seinna slysið á sér stað 25. apríl 2007 og var stefnandi í vinnu þann dag og næstu daga. Mánudaginn 30. apríl 2007 er stefnandi veik án tengsla við óhappið og síðan í nokkur skipti þar til hún er hinn 18. júní 2007 skráð frá vinnu vegna vinnuslyssins en hún lét af störfum í lok júní 2007.

Með vísan til þess að stefnandi var við vinnu sína til dagsloka báða slysdagana og í vinnu dagana eftir seinna slysið hvíldi ekki sú lagaskylda á stefnda, SS, að tilkynna vinnuslysið til Vinnueftirlitsins. Ber stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því að hún hafi orðið fyrir tjóni sem stefndu beri bótaábyrgð á.

Í málatilbúnaði sínum vísar stefnandi til þess að á atvinnurekanda hvíli strangar skyldur um eftirlit og verkstjórn með starfsmönnum. Þá hvíli einnig sú ábyrgð á atvinnurekanda að skapa öruggt starfsumhverfi og koma í veg fyrir slysahættu. Stefnandi heldur því fram að á fasteignareiganda hvíli rík aðgæsluskylda og beri honum að haga aðstæðum á fasteigninni á þann veg að þeir sem eigi erindi á fasteigninni verði ekki fyrir tjóni. Þá eigi starfsmenn rétt á nauðsynlegri kennslu og þjálfun í framkvæmd starfa sinna og að skrifleg áætlun eigi að vera um öryggi, heilbrigði og mat á áhættu. Stefnandi vísar til 13. gr., 14. gr., 21. gr., 23. gr., 37. gr., 42. gr. 65. gr. og 66. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þá vísar stefnandi til reglna um húsnæði vinnustaða nr. 581/1995, en í 3. gr. reglnanna segir meðal annars að allar umferðarleiðir manna og flutningstækja skuli vera greiðar og afmarkaðar og að starfsmenn skuli hafa nægjanlegt athafnarými við störf sín án þess að vera á umferðarsvæðum nema eðli starfsins krefjist þess. Þá segi í 39. gr. tilvitnaðra reglna að umferðarleiðir skuli staðsetja og útbúa þannig að fótgangendur og ökutæki megi nota þær vandkvæðalaust, með fullu öryggi og á þann hátt sem tilgangur þeirra segi til um. Varðandi seinna óhappið vísar stefnandi einnig til 7. gr. reglna nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar séu handleiknar, en þar komi fram að þegar byrðum sé staflað skuli séð til þess að hægt sé að gera það án hættu á heilsutjóni og án hættu á að staflinn falli.

Stefnandi hefur leitt fyrir dóm þrjú vitni um starfsumhverfið. Í framburði Vigfúsar Kristjáns Dagnýsson, en hann starfaði hjá stefnda, SS, á árunum 2005 til 2008, kemur fram að hann kvaðst einungis þekkja til seinna óhappsins. Hann kvað aðstæður vera mjög þröngar, lagerinn hafi verið illa skipulagður og aðstaðan ömurleg. Hann kvað að einn starfsmaður hafi komist á milli brettanna. Kannski hafi tveir náð að smeygja sér á milli. Hann kvað að þeir hafi haft trillur til afnota og þær hafi komist á milli brettanna. Hann kvaðst hafa séð stæðu hrynja, en næst neðsti bakkinn hafi verið brotinn. Þá kom fyrir dóminn Lilja Bryndís Sigurbjörnsdóttir. Hún kvaðst hafa unnið hjá stefnda, SS, á árinu 2005. Svæðið hafi verið lítið og þröngt. Stæðurnar hafi verið mjög háar. Þær hafi alltaf hjálpast að við að taka niður efstu bakkanna og það hafi verið vinnuregla á staðnum. Hún kvað að bakkarnir hafi oft verið brotnir og þeir hafi verið valtir. Að lokum kom fyrir dóminn Jónína Guðmundsdóttir sem starfaði hjá SS frá 2000 til 2008. Hún kvaðst hafa vitað að stefnandi hefði lent í tveimur óhöppum en þó sérstaklega seinna óhappinu. Hún kvað hafa verið mjög þröngt á vinnusvæði stefnanda. Mikið að vörum hafi komið þarna inn. Brettin hafi komið þarna inn með rauðu bökkunum, og þeir hafi oft verið skemmdir, með sprungum og brotnir. Það hafi verið búið að kvarta yfir því. Hún kvað það hafa komið fyrir að stæðurnar hafi hrunið, þannig að bakkarnir hafi dottið hver ofan á annan en ekki dottið niður á gólf.

Stefndi er matvælafyrirtæki með fjölda manns í vinnu. Stefnandi hóf störf hjá stefnda, SS, árið 2005 og var starfssvið hennar fólgið í því að sjá um skólamáltíðir, en þær voru fluttar í rauðum bökkum frá Hvolsvelli á starfsstöð stefnanda á Fosshálsi. Þar bar stefnanda að sjá til þess koma matnum í kæliskápa, yfirfara matinn og athuga hvort allt væri í lagi og fleira. Þá bar henni að fylgja eftir gæðaeftirlitinu í skólunum sjálfum. Eins og stefnandi lýsir starfi sínu fyrir dómi er ekki hægt að fallast á það að verkstjórn eða eftirliti með starfsmönnum hafi verið ábótavant og hægt sé að rekja slysin til þess. Stefnandi sem og vitni þau sem fyrir dóminn komu hafa borið að þröngt hafi verið á starfssvæði stefnanda og slysin megi rekja til þess. Hins vegar er á það að líta að stefnandi var gjörkunnug þessum þrengslum sem voru þó ekki meiri en svo að trilla hafi komist á milli stæðanna og tveir menn getað smeygt sér á milli. Því verður ekki fallist á að starfsaðstaðan hafi valdið slysunum, né heldur að stefnda, SS, hafi ekki fullnægt skyldum sínum til að gera skriflega áætlun um öryggi og áhættumat á vinnustaðnum. Þá verður ekki talið að hægt sé að rekja slysin til fasteignarinnar sem slíkrar eða annarra þeirra atriða er stefnandi byggir á.

Fyrra slys stefnanda er óhappatilviljun sem allir geta lent í. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á hvernig það átti sér stað en lýsingar af því eru misvísandi í framlögðum gögnum. Óhapp þetta er því á ábyrgð stefnanda.

Varðandi seinna slysið er stefnandi einnig ein til frásagnar um hvernig það bar að. Í tilkynningu stefnanda til stefnda, VÍS, segir: „Var að fara taka bakka af stæðu þegar næst neðsti kassi gaf sig og stæðan hrundi yfir hægri hlið mína á öxl og handlegg. Kom í ljós að plastkassinn var skemmdur sem gaf sig.“ Í tilkynningu um vinnuslys til Vinnueftirlitsins segir að slysið hafi átt sér stað kl. 9.30. Í lýsingu á vinnuslysinu segir: „Var að taka niður efsta bakka í stæðu þegar brotinn bakki gaf sig og stæðan hrundi. Stæðan var 8-9 bakkar á hæð. Stæðan lenti á hægri öxl og handlegg. Læknisvottorð um áverka, sem fengið var tveimur dögum síðar, mun liggja fyrir.“ Síðan segir á tilkynningunni: „Það hefur verið ítrekað margsinnis við starfsmenn að fá aðstoð við að taka efstu bakka í stæðu.“ Í tölvupósti Ragnars Guðmundssonar frá 21. maí 2011, kl. 13.34 til stefnanda segir hann að það eitt að fara óvarlega og leita ekki aðstoðar virðist hafa leitt til óhappa. Af póstinum má ráða að Ragnar líti svo á að stæðan hafi hrunið þegar stefnandi var að taka efsta bakkann niður, samanber lýsingu í tilkynningu til Vinnueftirlitsins. Í svari stefnanda frá því kl. 16.20 sama dag hreyfir hún ekki andmælum við því. Í stefnu er hins vegar byggt á því að stæðan hafi hrunið á stefnanda að því er virðist án þess að hún hafi nokkuð komið við hana. Fyrir dómi kvað stefnandi að hún hefði verði búin að taka plastið utan af stæðunni og liggur því fyrir að stefnandi hefur átt við stæðuna áður en hún hrundi.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður að leggja til grundvallar að stefnandi hafi verið byrjuð að taka efsta bakka stæðunnar niður, án aðstoðar, er stæðan hrundi. Slysið er því að rekja til aðgæsluleysis stefnanda sem fór ekki að vinnureglum og verða stefndu sýknaðir af bótakröfu hennar vegna slyssins.

Með vísan til þess sem að framan greinir ber að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður. Stefnandi hefur gjafsóknarleyfi. Kostnaðurinn greiðist því úr ríkissjóði þar með talin málflutningslaun lögmanns stefnanda, Daníels Isebarn Ágústssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin svo sem greinir í dómsorði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndu, Sláturfélag Suðurlands svf. og Vátryggingafélag Íslands hf., eru sýknuð af kröfum stefnanda, Hjördísar Bech Ásgeirsdóttur.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Daníels Isebarn Ágústssonar, hdl. 500.000 krónur.