Print

Mál nr. 429/2012

Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Frávísunarkröfu hafnað
  • Sönnunarbyrði
  • Vitni

                                     

Fimmtudaginn 29. nóvember 2012.

Nr. 429/2012.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.

Tómas Hrafn Sveinsson hdl.)

(Margrét Gunnlaugsdóttir hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Frávísunarkröfu hafnað. Sönnunarbyrði. Vitni.

X var ákærður fyrir að hafa í þvottahúsi á heimili sínu káfað tvisvar innanklæða á rassi A, sem þá var 15 ára, strokið með fingrum um klof hennar innanklæða og í kjölfarið stungið þeim upp í sig og sagt að stúlkan væri flott. Var þetta talið varða við 199. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. X hafði með dómi héraðsdóms verið sýknaður af ákæru, en Hæstiréttur ómerkti dóminn og meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar og vísaði málinu heim í hérað til meðferðar á ný með dómi Hæstaréttar 20. október 2011 í máli nr. 243/2011. Héraðsdómur tók málið til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný og sakfelldi X samkvæmt ákæru. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar sem vísaði til þess að um ætlaða háttsemi væru engin önnur vitni en X og A og því stæði orð gegn orði. Við mat á sönnunargildi framburðar þeirra yrði að líta til þess hvernig hann samræmdist öðrum gögnum málsins. Taldi Hæstiréttur að virtum öllum atvikum málsins, þ. á m. dagbókarskrifum A, mati sálfræðinga á andlegri líðan hennar og aðstæðum er ætluð atvik málsins gerðust, að framburður A hefði ekki þá stoð í öðrum gögnum málsins að hann nægði til þess, gegn eindreginni neitun X, að ákæruvaldið hefði axlað sönnunarbyrði sína samkvæmt 108. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var ákærði því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og einkaréttarkröfu A vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason, Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. júní 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða en að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný. Að þessu frágengnu krefst ákærði sýknu en verði ekki á það fallist að honum verði gerð svo væg refsing sem lög leyfa. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð.

A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. maí 2010 til 7. júní sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hún staðfestingar á ákvæði héraðsdóms um skaðabætur.

I

Ákærða er gefið að sök kynferðisbrot með því að hafa að morgni 7. maí 2010, í þvottahúsi á heimili sínu að [...] á [...], tvisvar sinnum káfað innanklæða á rassi A, sem þá var 15 ára, strokið með fingrinum um klof hennar innanklæða og í kjölfarið stungið fingrunum upp í sig og sagt að stúlkan væri flott. Þetta er talið varða við 199. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Með dómi Héraðsdóms Norðurlands vestra 15. mars 2011 var ákærði sýknaður af þeim brotum sem honum eru gefin að sök. Ríkissaksóknari áfrýjaði héraðsdómi og með dómi Hæstaréttar 20. október 2011 í máli nr. 243/2011 var héraðsdómur ómerktur og meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar og því vísað heim í hérað til meðferðar á ný. Þessi niðurstaða var reist á því að dómur hefði verið lagður á málið án þess að tillit hefði verið tekið til allra gagna sem lágu fyrir dóminum. Voru taldar líkur á því að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kynni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Þegar málið var á ný tekið fyrir í héraði krafðist ákærði þess að því yrði vísað frá dómi. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði héraðsdóms 17. febrúar 2012 og leitar ákærði eftir endurskoðun á þeim úrskurði með áfrýjun sinni. Hinn áfrýjaði dómur gekk síðan 31. maí sama ár.

II

Ákærði færir fram tvenns konar rök fyrir kröfu sinni um að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Annars vegar telur hann að Hæstiréttur hafi með dómi í fyrrgreindu máli nr. 243/2011 í raun endurmetið sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir héraðsdómi án þess að ákærði og vitni, sem komu fyrir dóm, hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi. Þetta fari í bága við 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Hins vegar heldur ákærði því fram að 2. mgr. og 3. mgr. 208. gr. laganna brjóti gegn meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi, en sú regla sé varin af 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. og d. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Í 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 kemur fram að Hæstiréttur geti ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi. Á hinn bóginn getur Hæstiréttur samkvæmt 3. mgr. sömu greinar fellt úr gildi héraðsdóm ef rétturinn telur líkur á að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng svo að einhverju skipti. Jafnframt verður þá felld úr gildi meðferð málsins í héraði í þeim mæli að munnleg sönnunarfærsla geti farið þar fram eftir þörfum og leyst verði úr máli á ný. Þessi ákvæði laganna eru sama efnis og 4. mgr. og 5. mgr. 159. gr. eldri laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, eins og greininni hafði verið breytt með 19. gr. laga nr. 37/1994. 

Fyrirmæli 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð fyrir dómi hafa verið skýrð svo að þáttur í henni sé að sönnunarfærsla í sakamálum skuli vera milliliðalaus. Í því felst að ákærði og vitni, sem leidd eru fyrir dóm, skulu gefa skýrslu fyrir þeim dómendum, sem skera úr um sekt eða sýknu ákærða, auk þess sem skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn skulu lögð fyrir þá. Af reglunni leiðir að Hæstarétti er óheimilt að leggja mat á sönnunargildi munnlegs framburðar þeirra, sem gefið hafa skýrslu fyrir héraðsdómi, þegar leyst er efnislega úr máli, eins og beinlínis er kveðið á um í 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt þessu fara fyrrgreind ákvæði 3. mgr. sömu greinar ekki í bága við nefnd fyrirmæli stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu, enda metur Hæstiréttur aðeins hvort efni séu til að sönnunarfærsla fari fram á ný þar sem líkur standi til að annmarki hafi verið á niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar svo að einhverju skipti fyrir úrslit máls.

Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 243/2011 er fjallað á gagnrýninn hátt um mat héraðsdóms á sönnunargögnum sem færð voru fyrir dóm við fyrri meðferð málsins í héraði. Svo sem áður er rakið fólst ekki annað og meira í þeim dómi Hæstaréttar en að efni stæðu til að sönnunarfærsla færi á ný fram í héraði og að leyst yrði úr málinu aftur. Verður því ekki fallist á það með ákærða að sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir héraðsdómi hafi í raun verið endurmetið með umræddum dómi Hæstaréttar. Af því leiðir jafnframt að dómurinn er ekki bindandi þegar endanlega er leyst úr um sekt eða sýknu ákærða.

Samkvæmt framansögðu verður ekki tekin til greina krafa ákærða um að málinu verði vísað frá héraðsdómi.

III

Ákærði reisir kröfu sína um heimvísun málsins á því að niðurstaða dómsins um sönnunargildi vitnisburðar B, sonar ákærða, hafi verið röng í ýmsum atriðum. Því til stuðnings bendir ákærði meðal annars á að A hafi staðfest að B hafi verið á ferli um húsið rétt eftir að hún kom á heimili ákærða og tvívegis komið í dyragætt þvottahússins þar sem ákærða er gefið að sök að hafa brotið gegn henni. Því skipti engu þótt ekki sé sjónlína úr herbergi B inn í þvottahúsið. Jafnframt telur ákærði ekki ósamræmi í samhljóða frásögn sinni og B um að drengurinn hafi verið sneggri til að vakna á morgnana til að fara á íþróttaæfingu en þegar hann var vakinn til að fara í skólann, enda séu á því eðlilegar skýringar. Þessi atriði hafi haft áhrif á mat héraðsdóms og því sé niðurstaða dómsins um sönnunargildi vitnisburðar B röng.

Samkvæmt 126. gr. laga nr. 88/2008 metur dómari sönnunargildi vitnisburðar við úrlausn máls, en í þeim efnum skal meðal annars hugað að afstöðu vitnis til ákærða. Umræddur sonur ákærða var á unglingsaldri þegar atvik gerðust. Þessi nánu tengsl vitnisins við ákærða draga úr sönnunargildi vitnisburðarins og verður eins og atvikum var háttað aðeins litið til hans að því marki sem hann styðst við önnur sönnunargögn. Við úrlausn fyrri héraðsdóms sem gekk í málinu var sýkna ákærða meðal annars reist á framburði drengsins. Var tekið fram í dóminum að nokkur atriði styrktu málstað ákærða, en þar hefði ekki haft minnst áhrif „einarður framburður sonar hans“. Það mikla vægi sem framburðurinn hafði samkvæmt þessu á niðurstöðu dómsins um sýknu ákærða var ásamt öðru talið valda því í nefndum dómi Hæstaréttar að líkur væru á að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kynni að vera röng svo einhverju skipti um úrslit málsins. Var héraðsdómurinn því ómerktur með dómi Hæstaréttar eins og fyrr segir.

Þótt fallist yrði á það með ákærða að annmarki kynni að vera á niðurstöðu héraðsdóms að því er varðar nánar tilgreind atriði er lúta að mati á sönnunargildi munnlegs framburðar sonar hans getur sá vitnisburður einn og sér aldrei haft það vægi í málinu að ráðið gæti úrslitum þess, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Að því gættu eru engin efni til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm vegna niðurstöðu dómsins um sönnunargildi þessa framburðar.

Ákærði reisir ómerkingarkröfu sína einnig á því að héraðsdómur hafi ekkert litið til þess við mat á sönnunargildi munnlegs framburðar A fyrir dómi að hún hafi breytt framburði sínum við vettvangsskoðun og lýst því að ákærði hafi notað vinstri hönd sína til að taka buxur hennar frá til að koma hægri hendi ofan í buxurnar að framanverðu. Þótt A hafi aðspurð við aðalmeðferð málsins lýst þessu atviki nánar verður það ekki talið geta rýrt sönnunargildi framburðar hennar, enda er hann í samræmi við það sem fram hefur komið í fyrri skýrslum hennar. Hinn áfrýjaði dómur verður því heldur ekki ómerktur af þessum sökum og er þeirri kröfu ákærða hafnað.

IV

Ákærði hefur eindregið neitað sök allt frá upphafi rannsóknar málsins. Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi hafa önnur vitni en A ekki lýst þeirri háttsemi sem ákærða er gefin að sök. Því stendur orð gegn orði. Þegar sönnunargildi framburðar þeirra er metið verður meðal annars að líta til þess hvernig skýrslur þeirra samræmast öðru því sem fram hefur komið í málinu.

Í héraðsdómi er rakið að A hafi lýst atvikum á sama veg við rannsókn málsins hjá lögreglu og fyrir dómi. Taldi dómurinn hana skýra, einbeitta og trúverðuga í frásögn sinni. Einnig taldi dómurinn ljóst af framburði vitna og framkomu A fyrir dómi að hún væri vel gefin, hörð af sér, réttsýn og skýr. Þá var framburður hennar talinn fá stoð í framburði móður og systur stúlkunnar um ástand hennar þann dag sem ákærði á að brotið gegn henni og í vitnisburði kennara um líðan hennar í skólanum sama dag. Mat héraðsdóms á sönnunargildi framburðar þessara vitna verður ekki endurskoðað hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Aftur á móti kemur til endurskoðunar mat héraðsdóms á sönnunargildi annarra gagna málsins en munnlegs framburðar fyrir dómi.

Í málinu liggja fyrir ítarleg dagbókarskrif A sem hún ritaði á tölvu og eru frá 15. maí 2009 til 19. janúar 2010. Þann dag mun forvarnafulltrúi hafa átt fund í grunnskólanum [...] með nemendum og sendi stúlkan honum dagbókina með tölvupósti síðar sama dag. Forvarnafulltrúinn mun síðan hafa sent skólanum dagbókina, en fram kemur í héraðsdómi að ákæruvaldið hafi fengið hana frá skólanum. Í þessum skrifum lýsir stúlkan í löngu máli ýmsum hugrenningum sínum um tilfinningalíf sitt, félagsleg tengsl við fjölskyldu og jafnaldra og vandamál sem hún glímdi við. Án þess að einstök efnisatriði verði rakin verður ekki litið fram hjá þessum skrifum A þegar virt eru önnur gögn málsins um andlega líðan hennar sem aflað var við rannsókn lögreglu.

Að beiðni lögreglu fór fram sálfræðilegt mat á þroska og andlegu heilbrigði A. Sálfræðingurinn sem gerði matið ritaði skýrslu 6. september 2010, en þar kemur fram að matið byggi á tveimur viðtölum sem hann átti við stúlkuna, niðurstöðum sálfræðiprófa sem lögð voru fyrir hana og viðtali við móður hennar. Einnig segir að sálfræðingurinn hafi fengið aðgang að nánar tilgreindum rannsóknargögnum málsins. Að þessum gögnum virtum komst sálfræðingurinn að þeirri niðurstöðu að ekkert hefði komið í ljós sem gæfi til kynna að frásögn A um ætlað kynferðisbrot ákærða gegn henni væri ótrúverðug. Stúlkan var einnig í viðtölum hjá sérfræðingi Barnahúss og liggur fyrir greinargerð hans 12. janúar 2011. Þar kemur fram að hún hafði þegar greinargerðin var rituð sótt þrettán viðtöl og taldi sérfræðingurinn þau hafa leitt í ljós fjölmörg einkenni hjá henni sem væru þekkt meðal barna og ungmenna sem sætt hafa kynferðisbrotum. Hvorugur þessara sérfræðinga, sem tekið hafa saman skrifleg gögn um andlega líðan stúlkunnar, höfðu undir höndum dagbókarskrif hennar sem fyrr er vikið að. Verður ekki útilokað að þau skrif hefðu getað haft áhrif á mat sérfræðinganna og dregur það úr vægi þessara gagna.

Andspænis framburði A, sem metinn hefur verið trúverðugur, stendur afdráttarlaus neitun ákærða. Í hinum áfrýjaða dómi er tekið fram að ákærði hafi verið sjálfum sér samkvæmur og verður niðurstaða dómsins ekki skilin á annan veg en þann að ákærði hafi verið trúverðugur í frásögn sinni svo langt sem hún nær. Verður því heldur ekki vísað á bug að það sé að sínu leyti ósennilegt að ákærði hafi vakið son sinn rétt í aðdraganda þess að hann á að hafa framið þau brot sem lýst er í ákæru. Að því gættu og þegar haft er í huga það sem hér hefur verið rakið um sönnunargildi fyrrgreindra sérfræðigagna hefur framburður A ekki þá stoð í öðrum gögnum málsins að hann nægi til þess, gegn eindreginni neitun ákærða, að ákæruvaldið hafi axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvílir samkvæmt 108. gr., sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 109. gr., laga nr. 88/2008. Verður ákærði því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Af því leiðir að skaðabótakröfu á hendur honum verður vísað frá héraðsdómi, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.

Eftir þessum úrslitum málsins verður allur sakarkostnaður í héraði, eins og hann var þar ákveðinn, felldur á ríkissjóð. Hið sama gildir um sakarkostnað fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru til hvors um sig með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.      

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvaldsins.

Einkaréttarkröfu A er vísað frá héraðsdómi.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um fjárhæð málsvarnarlauna og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola eru staðfest.

Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 627.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 31. maí 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð þann 11. maí sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 14. september 2010, á hendur X, kt. [...], [...],[...], „fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa, að morgni föstudagsins 7. maí 2010, í þvottahúsi á heimili sínu að [...], [...], tvisvar sinnum káfað innanklæða á rassi stúlkunnar [...], þá 15 ára, strokið með fingrunum um klof hennar innanklæða og í kjölfarið stungið fingrunum upp í sig og sagt að stúlkan væri flott.

Telst þetta varða við 199. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 61/2007, 82/1998 og 40/1992 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Í málinu er gerð sú einkaréttarkrafa að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð 800.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 7. maí 2010 og þar til mánuður er liðinn frá birtingardegi bótakröfunnar, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðari framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti. Loks er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.

Með dómi Héraðsdóms Norðurlands vestra, frá 15. mars 2011, var ákærði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins, samkvæmt ákæru dagsettri 14. september 2010. Með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 243/2010, sem kveðinn var upp fimmtudaginn 20. október 2011, var dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra frá 15. mars 2011 ómerktur ásamt meðferð málsins frá og með þinghaldi 18. janúar 2011 og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný. Var málið fyrst tekið fyrir þann 16. nóvember 2011 og frestað til framlagningar greinargerðar ákærða til 15. desember 2011. Að beiðni verjanda ákærða var málinu frestað utan réttar til 5. janúar 2012 en þá lagði ákærði fram greinargerð. Krafðist hann þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi. Fór munnlegur málflutningur fram um frávísunarkröfuna þann 2. febrúar sl. og var frávísunarkröfu stefnda hafnað með úrskurði 17. febrúar sl.

Aðalmeðferð hófst með vettvangsgöngu dómsins að heimili ákærða þann 10. maí sl. og var fram haldið 11. maí sl. og var málið dómtekið að henni lokinni.

Ákærði neitar sök og krefst sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög framast leyfi og verulegrar lækkunar bótakröfu. Verjandi hans krefst málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Málavextir.

Samkvæmt gögnum málsins hafði C, móðir brotaþola, símasamband við félagsmálastjóra [...] föstudaginn 7. maí 2010 og tilkynnti að X, ákærði í máli þessu, hefði þá um morguninn framið kynferðisbrot gagnvart dóttur hennar, A, með því að þreifa á henni innan klæða í þvottahúsi á heimili ákærða, en þangað hafi A verið komin vegna íþróttaæfingar sem ákærði stjórnaði. A kom, ásamt móður sinni, 10. maí 2010 á fund [...] þar sem hún sagði sögu sína. Sama dag tilkynnti [...] málið til ríkissaksóknara. Ákærði starfaði þá sem lögregluþjónn við embætti [...] og fól ríkissaksóknari lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu rannsókn málsins. Ákærði stjórnaði hlaupa- og knattspyrnuæfingum fyrir unglinga [...] og umræddan morgun kom A rétt fyrir klukkan sex á heimili hans. Segir hún umræddan atburð hafa orðið í þvottahúsi, sem sé einnig inngangur á heimili ákærða, en ákærði neitar að nokkuð kynferðislegt hafi þar átt sér stað. B, sonur ákærða, býr einnig á heimilinu. Er óumdeilt að þau hittust áður en hlaupaæfingin hófst og bera bæði að þegar A fór inn úr þvottahúsinu hafi hún farið inn í herbergi til B og sest á rúm hans á meðan þau biðu eftir öðrum sem voru á leið á æfinguna sem átti að byrja klukkan sex. Ákærði mótmælir því sem A kveður hafa gerst í þvottahúsinu og B kveðst ekkert óeðlilegt hafa séð gerast á milli ákærða og hennar. Umrædd hlaupa- og knattspyrnuæfing fór fram og eftir hana ók ákærði stúlkunum sem tóku þátt í æfingunni heim til hverrar þeirra. Hagaði hann akstursleiðinni þannig að A fór síðust stúlknanna úr bifreiðinni. Samkvæmt frásögn A fór hún upp í rúm til móður sinnar þegar hún kom heim af æfingunni um sjöleytið um morguninn og sagði henni frá því sem gerðist. Þá liggur fyrir að lengi hefur mikil vinátta og samgangur verið milli fjölskyldna ákærða og A. Á þessum tíma kenndi móðir A við [...]skólann [...] en eiginkona ákærða [D] er [...] [...]skólans og vinkona móður A. 

Í málinu liggur fyrir tölvuprentaður texti í dagbókarformi, skráður af A. Afhenti hún hann fulltrúa [...], sem hélt fund með nemendum í [...]skólanum [...] í ársbyrjun 2010. Afhenti hann [D] þennan texta en ákæruvaldið aflaði hans hjá [D] og lagði fram í málinu.

Anna Kristín Newton sálfræðingur vann, að beiðni lögreglu, mat á þroska og andlegu heilbrigðisástandi A. Í niðurstöðu matsgerðar segir að ýmis próf hafi verið lögð fyrir stúlkuna sem meti persónuleikaeinkenni og sálrænt ástand. Niðurstöður hafi gefið til kynna að hún væri hvorki döpur né kvíðin og viðhorf hennar til framtíðarinnar jákvæð. Þá virðist hún í góðu andlegu jafnvægi, þrautseig og sjálfsörugg, jafnvel undir erfiðum aðstæðum. Hún standi vel af sér þrýsting annarra og sé ekki undanlátssöm. Hún sé varkár í samskiptum og ákvörðunartöku. Félagsleg ábyrgð hennar virðist sterk. Hún virðist jafnlynd og erfitt sé að koma henni í uppnám. Þá virðist hún einræn og finnist erfitt að tala um óþægilega hluti er hana sjálfa varði og vilji helst forðast slíkt tal. Hún virðist stundum eiga erfitt með að setja sig í spor annarra en komi vel fyrir og virði samskiptareglur. Engin merki séu um andfélagslega hegðun heldur hafi hún sterkar skoðanir á réttu og röngu og virði samskiptareglur. Þá sé hún varkár og með gott sjálfsmat. Þá virðist hún vera tilbúin að prófa nýja hluti en geri það af varkárni, þ.e. að hún mælist mjög lág í hvatvísi. Sjálfsmat hennar sé gott og jafnvel þótt hún mælist eilítið einræn telji hún sig ekki vera einmana. Í matsgerðinni segir einnig að hún sýni væg einkenni áfallastreitu. Einkennin tengist helst því að hún reyni að forðast að hugsa eða tala um atburðinn en það sé bjargráð sem hún segist beita undir margs konar aðstæðum og sé ekki einskorðað við þennan atburð. Af niðurstöðum prófa sé ekki hægt að merkja að hún glími við sálræn vandamál eða þroskavandamál sem trufli hana eða aðra. Í niðurlagi niðurstaðnanna segir svo: „Eftir að hafa skoðað fyrirliggjandi gögn, rætt við A, lagt fyrir hana ýmis sálfræðipróf sem og tekið viðtal við móður hennar um persónuleika og ástand A, hefur ekkert komið í ljós sem gefur til kynna að frásögn hennar varðandi meint kynferðisbrot þann 7. maí 2010 sé ótrúverðug.“ Lýkur niðurstöðunum á þeim orðum að A „virðist líða ágætlega miðað við aðstæður“ og standi hún sig vel í því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Þá liggur fyrir í málinu vottorð Þorbjargar Sveinsdóttur, sérfræðings í Barnahúsi. Segir í samantekt og áliti að A hafi komið á tímabilinu 3. júní 2010 til 7. janúar 2011 í þrettán viðtöl til Þorbjargar og hafi viðtölin „leitt í ljós fjölmörg einkenni sem þekkt eru meðal barna og unglinga er sætt hafi kynferðislegu ofbeldi. Ber þar fyrst að nefna aukinn pirring og óþol við áreitum í umhverfinu sem hafa valdið A erfiðleikum í samskiptum við aðra. Henni finnst hún alltaf þurfa að vera á varðbergi gagnvart öðru fólki og lítið þarf til að koma henni úr jafnvægi. A hefur greint frá erfiðleikum við að ná svefni og halda svefninn út en slík einkenni eru mjög algeng hjá börnum sem sætt hafa kynferðislegu ofbeldi. Hugsanir um meint ofbeldi herja þá á og valda vanlíðan og svefnleysi. Þá hefur A forðast aðstæður sem minna hana á meint kynferðisofbeldi og reyndist henni erfitt í upphafi að sjá lögreglubíla aka um [...], lögreglustöðina eða bifreið sem svipaði til bifreiðar X. A hefur einnig forðast að vera ein og gætt þess vel að hafa ætíð nóg fyrir stafni þar sem hún finnur fyrir meiri vanlíðan þegar hún er einsömul. Þá er A tíðrætt um þau áhrif sem meint kynferðisbrot hafa haft á sýn hennar á aðra og brostnar forsendur til að treysta öðrum. Finnst henni sem hún búi í „áhyggjuveröld“ þar sem hún þurfi alltaf að vera á varðbergi og finnst henni andlega krefjandi.“ Segir í vottorðinu að afleiðingar kynferðisbrota séu oft langvarandi og ekki sé hægt að svo stöddu að segja til um hvort stúlkan muni ná sér eftir það ofbeldi sem hún segist hafa sætt. Geti kynferðislegt ofbeldi haft mikil áhrif á tilfinningalegan og persónulegan þroska barna og unglinga.

Skýrslur aðila og vitna fyrir dómi.

Verður nú rakin skýrsla ákærða og framburður vitna fyrir dómi eftir því sem ástæða þykir til.

Ákærði, sem kom fyrir dóminn þann 11. maí sl., kvaðst hafa staðið utan við hús sitt með kaffibolla í hendi, snemma á föstudagsmorgni, og beðið eftir krökkum sem áttu að hefja hlaupaæfingu klukkan sex. Hann hafi séð hvar brotaþoli hafi komið gangandi norður [...] í átt til hans. Kvaðst hann þá hafa farið inn og kallað til B, sonar síns, sem svaf í herbergi sínu, að A eða einhver væri að koma á æfinguna og hafi hann sprottið á fætur og komið í þvottahúsdyrnar um það leyti sem brotaþoli gekk inn í þvottahúsið. Ákærði kvað brotaþola hafa lokað útidyrahurðinni á eftir sér og B spurt hvað klukkan væri. Ákærði kvaðst hafa sagt honum að klukkuna vantaði tíu eða fimmtán mínútur í sex og B þá spurt hvort hann mætti ekki lúra lengur, sem ákærði kvað hafa verið sjálfsagt. Ákærði hafi þá sagt brotaþola að fara inn með B, hún hafi klætt sig úr skónum og farið á eftir honum inn í herbergi hans. Aðspurður kvað ákærði strákana yfirleitt koma gangandi götuna norðan frá og hann þá kallað í B. Hafi hann stundum verið búinn að klæða sig í allt nema fótboltaskó þegar krakkarnir komu á staðinn. Stundum hafi ákærði rekið á eftir honum og hjálpað honum í sokka eða eitthvað til að flýta fyrir en það hafi verið það eina, B hafi alltaf verið tilbúinn og snöggur á fætur og eftir æfingar farið í sturtu og kannski borðað og farið að sofa, kannski í hálftíma í viðbót. Þessar æfingar hafi verið þrisvar í viku og aldrei verið vandamál að koma B á fætur. Síðar kvað ákærði aðspurður að hann hafi stundum þurft að hjálpa B eða reka á eftir honum að klæða sig en hann væri snöggur fram úr í samanburði við það ef átti að vekja hann í skólann. Hann væri mun fljótari að fara á íþróttaæfinguna en þegar hann væri að drattast á fætur þegar þyrfti að koma honum í skólann. Því væri ekki saman að líkja. Þegar eingöngu strákarnir kæmu á æfingu þá sæjust þeir lengra að en brotaþoli þegar hún kom, og þá væri B yfirleitt búinn að klæða sig í íþróttafötin þegar strákarnir væru komnir en stundum þyrfti ákærði að flýta fyrir honum, hjálpa honum í sokkana en fötin væru alltaf tiltekin og tilbúin á morgnana. Spurður um klæðaburð B þegar brotaþoli kom kvaðst ákærði ekki muna það sérstaklega, hann væri ekki vanur að koma fram á náttfötunum, en í þetta skipti hafi hann sennilega fundið á sér hvað klukkan væri, hann hafi reyndar spurt hvað klukkan væri. Ákærði var spurður hvort hann og B hafi rætt atburðinn og kvað ákærði svo vera, fjölskylda hans væri búin að vera í stofufangelsi í tvö ár og þeir hafi rætt þetta atvik á þeim tíma.

Ákærði var beðinn um að lýsa brotaþola og svaraði ákærði að hún væri afburðaklár stelpa og góður námsmaður. Kvaðst hann ekki vita til að um nein vandamál væri að ræða hjá henni. Framburður ákærða fyrir lögreglu var borinn undir hann þar sem hann lýsti því að brotaþoli væri einangruð, eitthvað mikið væri að hjá henni, og ákærði varpaði því fram hvort hún gerði greinarmun á veruleika og draumi, og kvaðst ákærði ekki geta sagt til um það misræmi nema að það hafi þá verið sagt í reiði. Ákærði kvaðst ekki hafa áhuga á að vita neitt um hana héðan í frá.

Ákærði kvað þau brotaþola aldrei hafa verið ein í þvottahúsinu og neitar því að hann hafi snert brotaþola eins og segir í ákæru. Þá hafi ákærði ekið stelpunum heim eftir æfinguna og ekið brotaþola síðast heim.

Brotaþoli gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins auk þess sem hún hafði deginum áður komið á vettvang og útskýrt fyrir dóminum hvernig atvikið hafi átt sér stað og afstöðu sína, ákærða og B. Kvað hún ákærða og fjölskyldu hans og sína fjölskyldu hafa verið mikið vinafólk og meðal annars farið saman til útlanda í frí. Þá hafi hún og B, sonur ákærða, verið æskuvinir og bekkjarfélagar alla tíð. Kvaðst brotaþoli hafa verið á leið á íþróttaæfingu sem átti að hefjast heima hjá ákærða klukkan sex að morgni 7. maí 2010. Hafi hún komið að heimili ákærða og séð hann fyrir innan þvottahúsglugga þegar hún kom að húsinu og hafi hann opnað dyrnar og hleypt henni inn. Þegar inn var komið hafi hún staðið á þvottahúsgólfinu og ákærði gengið inn fyrir innri dyrnar, beygt sig inn fyrir dyrakarminn inn á ganginn og tekið þar upp jakkann sinn. Ákærði hafi um leið kallað eitthvað til B, gengið aftur inn í þvottahúsið og klætt sig í jakkann um leið. Brotaþoli kvaðst hafa verið í íþróttabol og íþróttabuxum með teygju í mittið og bolinn girtan ofan í buxurnar. Ákærði hafi komið upp að vinstri hlið brotaþola og sagt „Manstu?“ Brotaþoli hafi hikað og ákærði þá spurt: „Má ég?“, en brotaþoli hafi hikað aftur og ákærði þá sett hægri hönd sína ofan í buxur hennar og snert við það rass hennar. Í sama mund hafi B komið fram úr herberginu og ákærði þá dregið höndina upp úr buxum hennar. B hafi gengið fram hjá dyragættinni og virst eins og hann hafi beygt sig, líkt og hann væri að sækja þangað eitthvað og á meðan hafi ákærði sett hönd sína aftur ofan í buxur hennar aftan frá. Kvaðst brotaþoli ekki muna í hvort skiptið það var en ákærði hefði í annað skiptið snert endaþarm hennar. B hafi síðan komið í dyragættina og sagt eitthvað sem hún myndi ekki lengur hvað var og farið aftur inn í herbergi sitt. Ákærði hefði þá tekið út buxnastreng á buxum brotaþola og sett hægri hönd sína niður í buxurnar með lófann að líkama hennar og snert á henni kynfærin með fingrunum alveg aftur að leggöngum. Hann hafi dregið hönd sína til baka, gengið innar í þvottahúsið og sett vísifingur og löngutöng upp í sig og sleikt fingurna og sagt eitthvað á þá leið að hún væri flott, þú er mjög flott, og sagt henni að fara og skríða upp í til B og bíða eftir hinum krökkunum. Kvaðst hún hafa gert það og sest á rúmið hjá B. Ákærði hefði komið stuttu seinna inn í herbergið með banana og gefið þeim báðum bita. Eftir þetta hafi hinir krakkarnir komið og allir farið í þvottahúsið. Þegar síðasti maður hefði verið kominn hefði hlaupaæfingin hafist. Kvað hún ákærða hafa ekið stelpunum heim eftir æfingu og þegar hún var síðust eftir hefði ákærði teygt sig aftur í bílinn þar sem hún sat og reynt að ná til hennar. Ákærði hafi á leiðinni heim til hennar sagt meðal annars „að ef það væri eitthvað og hvort hann mætti einhvern tímann vera góður við hana“. Þá hafi hann sagt að hún mætti ekki segja frá þessu og tiltók E og aðrar vinkonur hennar. Ákærði hefði spurt hana fyrir utan heimili hennar hvort móðir hennar væri vöknuð og hún svarað því til að hún væri að vakna. Brotaþoli hafi farið inn, lokað dyrunum og byrjað að gráta. Hún hafi farið inn til móður sinnar, skriðið upp í til hennar og sagt henni hvað hafði gerst.

Aðspurð kvaðst brotaþoli halda að frá því hún sá B fyrst í dyragættinni og þar til hún var komin inn í herbergi hans hafa liðið í mesta lagi um tvær mínútur.

Brotaþoli kvað sig minna að B hafi verið, þegar hann gekk fram hjá dyragættinni, klæddur í dökkleitum svörtum eða dökkbláum buxum og rauðri háskólapeysu merktri [...] og með rautt buff um hárið sem búið var að brjóta eitthvað aðeins saman, líka merkt [...].  

Aðspurð hvort hún hafi mótmælt framkomu ákærða kvaðst brotaþoli ekki hafa gert það, hún hefði frosið og ekki vitað hvað hún ætti að gera. Brotaþoli var spurð að því hvað ákærði hafi átt við þegar hann sagði „manstu?“, og kvað brotaþoli það vera atvik sem átti sér stað á Þorláksmessu, þegar ákærði og brotaþoli hefðu séð um jólapóstinn. Ákærði hefði beðið brotaþola um að koma við rassinn á sér eða finna rassvöðvana á sér þegar þeir voru spenntir og ákærði hafi líka komið við rassinn á brotaþola. Þetta hafi verið utanklæða og ákærði hafi einnig beðið hana að spenna rassinn og ákærði hafi klipið í rassinn á henni.

Eftir atvikið í þvottahúsinu kvað brotaþoli sér hafa liðið illa og fundist illa komið fram við sig. Hún hefði hins vegar ákveðið að taka þátt í íþróttaæfingunni því annars væri hún að draga að sér athygli sem gæti kallað á óþægilegar spurningar. Á íþróttaæfingunni hafi brotaþoli verið stressuð og meðal annars velt fyrir sér hvort ákærði hefði gert þetta sama við einhverjar hinna stúlknanna.

Brotaþoli kvað þær mæðgur hafa rætt saman um það hvað væri hægt að gera. Þær hefðu reynt að hringja í síma Rauða krossins um morguninn en þar hefði ekki verið svarað. Þær vissu að ekki var hægt að leita til lögreglunnar þar sem ákærði starfaði sem lögreglumaður. Þá var eiginkona ákærða skólastjóri og yfirmaður móður hennar og vildu þær ekki vekja upp grunsemdir hjá henni með því að tilkynna þær veikar. Því hefðu þær ákveðið að fara í skólann klukkan átta og reyna að þrauka daginn og ákveða síðan hvað þær ættu að gera. Aðspurð kvaðst brotaþoli hafa farið á vefsíður og kannað kynferðisbrot í hegningarlögunum áður en hún fór í skólann um morguninn. Kvað brotaþoli sér hafa liðið illa í skólanum og hálfdottað í bókasafninu. Þær mæðgur hefðu, líklega um morguninn, hringt í hjálparsímanúmerið og leitað ráða. Hefði þeim þar verið bent á að hafa samband við Blátt áfram. Þar hefði þeim verið bent á að tala við F hjá félagsþjónustunni. Brotaþoli sagðist hafa verið viðkvæmari eftir þennan atburð en áður. Hún hefði leitað sér hjálpar og farið til sálfræðings. Eftir að málið hafi verið flutt í fyrra skiptið fyrir héraðsdómi hafi henni fundist ákveðið uppgjör hafa farið fram og hún því ekki sótt sálfræðitíma eftir það. Kvaðst brotaþoli vera í skóla núna og líða ágætlega. Það hefði þó verið óþægilegt að þurfa að koma aftur fyrir dóminn þetta löngu síðar.

Brotaþoli var spurð um dagbók sína og hugleiðingar þar um. Kvaðst hún hafa afhent dagbókina í fullum trúnaði en það sem spurt var út í væru hugleiðingar hennar um hvernig hún ætti til að bregðast við, t.d. ef hún hugsaði út í sorglega hluti, þá ætti hún það til að vikna eða tárast. Hefði hún velt slíkum hugleiðingum upp í dagbókinni en þær ættu ekkert skylt við raunveruleikann né ímyndunarveiki. Brotaþoli kvað sér finnast neikvæð athygli virkilega óþægileg. Þá kvaðst hún ekki eiga í neinum erfiðleikum með að greina milli raunveruleika og ímyndunar.  

Vitnið C, móðir brotaþola, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa vaknað umræddan morgun þegar brotaþoli skreið upp í til hennar, grátandi og köld. Hafi vitninu brugðið og spurt brotaþola hvað hafi komið fyrir. Hafi brotaþoli þá sagt að X hafi káfað á henni. Vitnið kvaðst hafa vaknað mjög snögglega og sest upp og reynt að taka um brotaþola og spurt hana aftur og þá hvort hann hafi káfað á henni uppi eða niðri og brotaþoli svarað, niðri. Lengra hafi þær ekki komist á þessum tímapunkti því brotaþoli hafi brotnað saman í fanginu á vitninu. Næsta klukkutímann hafi þær verið í hálfgerðu rusli og reynt að vinna úr þessum upplýsingum, hvernig þær ætluðu að taka á þessu og hvað þær ættu að gera. Vitnið kvað brotaþola alltaf hafa verið mjög sterkan einstakling og ákveðinn og venjulega ekki leitað til hennar. Vitnið hafi aldrei séð brotaþola svona niðurbrotna áður. Aðspurt hvort vitninu hafi fundist brotaþoli vera að segja frá einhverju sem hún hafi raunverulega lent í, kvað vitnið það svo sannarlega vera. Það hafi ekki efast eitt augnablik um að brotaþoli væri að segja satt frá, ástandið hafi verið þannig á henni að það hafi ekki farið á milli mála. Hún hafi verið algjörlega niðurbrotin. Vitnið kvað þær hafa rætt framhaldið, hvort vitnið ætti að tilkynna þær veikar, en kvaðst ekki hafa treyst sér í að hringja í skólann og halda andlitinu. D og G væru hennar bestu vinkonur og vitnið hefði ekki treyst sér til að skrökva veikindum að þeim. Þær mæðgur hefðu talið betri kost og auðveldari að fara í skólann og „klára daginn“ og vinna úr þessu þegar þær kæmu aftur heim. Þá hafi verið auðvelt fyrir brotaþola að fara í skólann að því leyti að hún væri í svo miklu fjarnámi að hún gæti sinnt því á bókasafninu í skólanum. Brotaþoli hafi ekki viljað vera ein heima og því hafi þær valið þessa leið. Aðspurt kvað vitnið brotaþola hafa skoðað kynferðisbrotakaflann í hegningarlögunum í tölvunni um morguninn og hafi þær reynt að hringja í hjálparsíma Rauða krossins en þar hafi ekki verið svarað. Þá kvað vitnið H, umsjónarkennara brotaþola, hafa komið til sín í ellefu-frímínútum og spurt vitnið hvort brotaþoli væri eitthvað lasin. Vitnið kvað sér hafa brugðið og spurt hvers vegna hún héldi það og hafi I þá svarað því að brotaþoli væri svo dauf. Vitninu hafi fundist það ekki geta rætt þetta við neinn, ekki lögregluna og ekki D, yfirmann sinn og eiginkonu ákærða. Vitnið kvaðst hafa hringt í Blátt áfram eftir að þær komu heim úr skólanum og fengið leiðbeiningar um það hvert þær gætu snúið sér. Þá kvað vitnið brotaþola hafa skrifað niður frásögn af atburðinum seinna þennan dag að ráðleggingu systur sinnar ef það mætti hjálpa brotaþola. Vitnið kvaðst ekki hafa séð né lesið frásögn brotaþola fyrr en vitnið sá málskjölin í máli þessu og þá með leyfi brotaþola. Aðspurt kvað vitnið brotaþola hafa verið mikið heima eftir atvikið, en vitnið hafi ekki mátt taka utan um brotaþola eða koma við hana nema fá leyfi áður. Brotaþoli hafi oft lokað sig af, legið undir sæng og horft á sjónvarpið eða farið inn í herbergi sitt og legið þar. Vitnið kvaðst ekki skilja hvernig brotaþoli hafi komist í gegnum þetta því sjálft hafi vitnið verið í henglum eftir þetta. Brotaþoli hafi bitið í sig og ætlað að vera hörð og sterk en þegar hún hafi farið suður í [...]skóla og komist burt úr þessu umhverfi hafi vitnið komist nær henni og þá fundið miklu betur hversu meyr brotaþoli var og hversu erfitt hún átti. Það væri hins vegar í eðli brotaþola að vera hörð af sér og láta sínar áhyggjur eða vandamál ekki bitna á öðrum. Kvaðst vitnið ekki geta ímyndað sér hvað hefði gerst ef það hefði ekki verið til staðar þegar brotaþoli kom heim, sennilega hefði hún birgt þetta allt inni. 

Vitnið B, sonur ákærða, sagði fyrir dóminum að það hefði vaknað í umrætt sinn við að ákærði kallaði á það. Vitnið kvaðst hafa haft andvara á sér og haldið að klukkan væri orðin meira, farið fram úr og í þvottahúsdyrnar þar sem vitnið hefði séð brotaþola og föður sinn. Hafi brotaþoli verið að koma inn úr útidyrunum og faðir hans gengið á undan. Vitnið kvaðst hafa spurt hvað klukkan væri og þegar það heyrði að klukkuna vantaði tíu mínútur til korter í sex hafi það spurt hvort það mætti ekki leggja sig lengur. Hafi faðir vitnisins sagt svo vera og sagt brotaþola að fara inn í herbergi með vitninu þar til aðrir væru komnir. Brotaþoli hafi klætt sig úr skónum og komið á eftir vitninu inn í herbergi og lokað að þeim. Kvaðst vitnið aðspurt hafa verið þreytt og hálfdottað eftir að það kom aftur inn í rúm og vaknað síðan við það að faðir þess kallaði að restin væri komin. Þá hafi vitnið farið fram úr og klárað að klæða sig og farið á æfinguna. Aðspurt um það hvar nákvæmlega ákærði og brotaþoli hafi verið þegar vitnið sá þau í þvottahúsinu kvað vitnið ákærða hafa verið úti með kaffibolla og gengið inn í þvottahúsið þegar brotaþoli kom. Spurt ítrekað um það hvort vitnið hafi séð ákærða standa úti með kaffibolla dró vitnið í land og kvaðst hafa giskað á að ákærði hafi verið úti þar sem hann væri vanur að gera það. Vitnið kvað ákærða hafa staðið í þvottahúsinu við skenkinn og vaskinn, með höndina á kaffibolla, þegar vitnið kom í dyrnar. Aðspurt um bil á milli ákærða og brotaþola þegar vitnið sá þau í þvottahúsinu kvað vitnið að það hafi verið um tveir metrar á milli þeirra, jafnvel þrír metrar. Vitnið kvaðst hafa verið í náttbuxum og bert að ofan þegar það fór fram í fyrra skiptið. Aðspurt um náttbuxurnar mundi vitnið ekki hvort það hafði verið í ljósbláum náttbuxum með brosköllum eða öðrum náttbuxum. Aðspurt kvaðst vitnið alltaf vera snöggt á fætur þegar íþróttaæfingar væru en það væri „lengi að langa að vakna“ þegar það væri vakið í skólann. Þegar íþróttaæfingar væru væri vitnið vant að vakna snögglega og fara fram þegar krakkarnir kæmu en vanalega klæddi vitnið sig fyrst áður en það færi fram, en út af því að bara brotaþoli væri komin þá hefði vitnið ákveðið að kíkja fram áður en það klæddi sig. Vitnið kvaðst hafa farið á meira en þrjátíu æfingar um veturinn. Aðspurt um það hversu langur tími hafi liðið frá því að ákærði kallaði á vitnið og vakti það og þar til vitnið var komið fram kvaðst vitnið ekki vita það svo nákvæmlega, það gætu hafa verið tíu sekúndur, en það hafi ekki verið að telja. Vitnið sagði að ákærði og brotaþoli hefðu aldrei verið ein í þvottahúsinu og vitnið hefði hvorki séð ákærða snerta hana né standa þétt upp við hana. Vitnið kvaðst hafa rætt þetta mál við föður sinn eftir að það kom upp en ekki um atvikið sjálft.

Vitnið D, [...],[...], eiginkona ákærða, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa sofið þegar meint atvik átti sér stað og ekki hafa orðið vör við neitt.

Vitnið I, systir brotaþola, kvaðst hafa gist hjá kærasta sínum aðfaranótt 7. maí en hafa komið heim til sín um níuleytið um morguninn þegar systir hennar og móðir hefðu verið farnar í skólann. Um hádegi hefðu þær komið heim og þá verið þungt yfir brotaþola. Hafi vitninu verið sagt þá frá því að leitað hafi verið á brotaþola. Kvaðst vitnið hafa ráðlagt systur sinni að skrifa niður atburðinn, það gæti hjálpað henni við að vinna úr atvikinu, það hefði alla vega reynst vitninu vel. Vitnið kvaðst aldrei hafa séð þessa frásögn systur sinnar. Vitnið kvað brotaþola hafa verið búinn að lofa því að gæta barna vinafólks foreldra þeirra um kvöldið. Vegna ástands brotaþola hefði vitnið ákveðið að fara með brotaþola. Þá um kvöldið hafi brotaþoli sagt vitninu nánar frá því sem gerðist. Brotaþoli hefði grátið og verið miður sín þegar hún sagði frá. Hafi hún lýst því að ákærði hafi farið inn á kynfæri hennar og sleikt fingurna á sér á eftir. Kvaðst vitnið sjaldan hafa séð brotaþola gráta en þarna hafi brotaþoli verið mjög miður sín og niðurbrotin. Kvaðst vitnið aldrei áður hafa séð systur sína í þessu ástandi og hefði það verið átakanlegt. Systir hennar hefði alltaf verið lokaður persónuleiki og „sterkur karakter“ sem vildi leysa sín mál sjálf.

Vitnið H, umsjónarkennari brotaþola til þriggja ára, gaf símaskýrslu fyrir dóminum. Vitnið kvaðst hafa þekkt brotaþola í gegnum námið. Vitnið kvað brotaþola hafa verið afburðanemanda. Aðspurt kvað vitnið brotaþola ekki hafa verið „dramatíska“. Áttundi bekkur væri oft erfiður bekkur fyrir stelpur og oft mikil „gelgja“ í gangi en það hafi yfirleitt ekki gengið mikið á í kringum brotaþola sem hafi verið frekar róleg. Aðspurt kvaðst vitnið muna eftir umræddum 7. maí en þá hafi vitnið spurt brotaþola hvort eitthvað væri að þar sem vitninu hafi fundist hún líta út fyrir að vera lasin. Vitninu hafi fundist hún líta illa út og ætti því bara að vera heima.

Vitnið J kvaðst kannast við ákærða og vera mjög góð vinkona brotaþola. Þær hafi verið lengi saman í skóla og íþróttum. Kvaðst vitnið hafa verið á umræddri hlaupaæfingu. Kvað vitnið brotaþola hafa sent sér smáskilaboð á sunnudeginum og beðið það að koma í göngutúr þá um kvöldið. Þá hafi brotaþoli sagt vitninu frá atvikinu og hvenær það hafi gerst og varað vitnið við að fara á æfingar sjálft. Hafi brotaþoli verið leið þegar hún sagði frá. Vitnið kvað brotaþola hafa verið svolítið eina eftir þetta og haldið sig frá öllum. Lýsti vitnið brotaþola sem glöðum og góðum einstaklingi og væri hún alls ekki „dramadrottning“, gerði ekki mikið úr hlutunum en vildi að allir væru góðir og traustir. 

                Vitnið K námsráðgjafi kom fyrir dóminn og kvað brotaþola hafa verið í nokkrum framhaldsskólafögum samhliða grunnskólanáminu þannig að hún hafi ekki alltaf verið með öðrum nemendum í tímum. Vitnið minntist þess ekki að hafa tekið brotaþola í viðtöl umfram það sem væri í hennar verkahring. Minntist vitnið þess að hafa boðið brotaþola viðtal þar sem vitninu fannst brotaþoli oft ein innan skólans en ekkert sérstakt hafi verið tilefni þess.

Vitnið Þorbjörg Sveinsdóttir sálfræðingur gaf skýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa verið með brotaþola í þrettán viðtölum þegar skýrsla þess var skrifuð en brotaþoli hafi komið í þrjú viðtöl eftir það. Viðtölin hafi leitt í ljós fjölmörg einkenni sem þekkt séu meðal barna og unglinga sem sætt hafi kynferðislegu ofbeldi og sérstaklega hafi vitnið orðið vart við aukinn pirring og að brotaþoli hafi þolað illa áreiti í umhverfinu. Hafi atvikið verið brotaþola sérstaklega erfitt þar sem gerandi hafi verið tengdur fjölskyldu hennar og hún borið mikið traust til hans, enda hafi þetta haft mikil áhrif á samskipti fjölskyldnanna. Þetta hafi verið mikið áfall fyrir brotaþola og hún átt erfitt með að treysta fólki eftir atvikið. Brotaþoli hafi verið á varðbergi gagnvart öðru fólki þó svo að hún hafi þekkt það vel. Brotaþoli hafi átt erfitt með svefn í framhaldi og verið mikið með hugann við atvikið. Brotaþoli hafi verið lokuð í viðtölum til að byrja með og erfitt hafi verið að ná til hennar. Hún hafi sýnt einkenni áfallastreitu í upphafi, haft mikla forvörn og helst ekki viljað vera í viðtölum, vildi helst tækla þetta sjálf. Eftir nokkur viðtöl hafi hún verið opnari og farið að tjá sig meira. Þá hafi hún undir það síðasta sóst í að nýta sér viðtölin. Brotaþoli hafi alltaf passað að hafa nóg fyrir stafni og liðið illa þegar hún var ein. Brotaþoli væri stelpa sem væri ofsalega dugleg og gætti þess að halda sér upptekinni til að vera ekki ein með þær hugsanir sem trufluðu hana. Þannig hafi hennar bjargráð verið. Aðspurt kvað vitnið að brotaþoli hafi fundist pirrandi þegar fólk talaði um hvað hún væri dugleg en henni hafi fundist það veikleikamerki hjá sér að hafa sagt móður sinni frá atvikinu strax. Þá þyldi brotaþoli ekki ef hún fyndi fyrir vorkunnsemi og hafi verið svekkt út í sjálfa sig fyrir að hafa brotnað niður, ekki fyrir að hafa rætt við móður sína, heldur að hafa brotnað niður. Þá kvað vitnið það hafa verið mikið áfall fyrir brotaþola að heyra framburð ákærða og sonar hans hjá lögreglu, mikill vinskapur hafi verið á milli þeirra og hún hafi litið á B sem einn af sínum bestu vinum. Þó hafi hún haft skilning á framburði B, hann væri jú sonur ákærða. Vitnið kvað brotaþola hafa verið samkvæma sjálfri sér í viðtölum og algjörlega trúa henni. Brotaþoli hafi verið skýr frá upphafi í frásögn sinni og haldið sig á jörðinni. Kvað vitnið brotaþola nú vera útskrifaðan frá sér en henni standi til boða að koma í viðtöl áfram. 

  Vitnið Anna Kristín Newton sálfræðingur framkvæmdi mat á þroska og andlegu heilbrigði brotaþola. Þroskamat hefði komið mjög vel út, en vegna námsárangurs hennar hafi ekki þótt ástæða til greindarprófs. Þess í stað hefði verið hugað að þunglyndi, kvíða, persónuleikaeinkennum, hvatvísi, áfallastreitueinkennum, siðferði, trúverðugleika og viðhorfum hennar til sjálfrar sín og annarra, og hefði hún alls staðar komið vel út. Engin persónuleikafrávik hefðu greinst. Ekkert hefði bent til andlegra erfiðleika og ekkert til þess að hún greindi ekki mun ímyndunar og raunveruleika. Slíkt hefði átt að sjást á prófi, ef um væri að ræða.

Fyrir dóminum kvað vitnið brotaþola bera ýmis streitumerki sem verið var að vinna úr með henni á þeim tíma. Hafi brotaþoli lýst atvikinu nokkuð nákvæmlega fyrir vitninu, bæði út frá hugsunum og hegðunareinkennum. Kvað vitnið brotaþola hvorki hafa sýnt merki um neina áhættuhegðun né að hún væri stelpa sem væri ögrandi með þeim hætti sem sumir unglingar sýndu, hún geti einmitt staðið af sér þrýsting að því leyti að hún fylgi ekki endilega hópunum. Hún láti alla jafnan ekki undan þrýstingi. Brotaþoli hafi sterkar skoðanir á því hvað sé rétt og ekki rétt og hvort fólki beri að fara eftir lögum og reglum og hafi sterka siðferðiskennd  Þá hafi brotaþoli skorað mjög lágt í hvatvísi, hún hugsi sig vel og vandlega um áður en hún framkvæmi. Ekkert hafi komið fram sem gæfi til kynna að brotaþoli gerði ekki greinarmun á raunveruleika og ímyndun. Vitnið staðfesti aðspurt að brotaþoli sýndi væg einkenni áfallastreitu. Vitnið kvað ekkert hafa komið fram í viðtölum eða prófum hjá brotaþola sem rýrði trúverðugleika hennar.       

Niðurstaða.

Við upphaf síðari málsmeðferðar fyrir héraðsdómi fór dómurinn á vettvang og kynnti sér aðstæður. Kom ákærði þar ásamt syni sínum B og lýstu þeir fyrir dóminum hvernig atvik horfðu við þeim. Þá kom brotaþoli einnig á vettvang, eftir að ákærði og sonur hans höfðu yfirgefið vettvang, og lýsti því fyrir dóminum hvernig atvik horfðu við henni. Að því loknu fóru fram skýrslutökur af aðilum og vitnum fyrir dómi. Voru ákærði og brotaþoli að gefa skýrslu fyrir dómi í annað sinn frá því að mál þetta kom upp. Var framburður beggja í samræmi við framburð þeirra á fyrri stigum málsins utan að ákærði kaus í seinna skiptið að tjá sig ekki um álit sitt á brotaþola eins og hann hafði gert á fyrri stigum. 

Fyrir dóminum sagði brotaþoli frá með sama hætti og hún hafði gert í Barnahúsi og við fyrri aðalmeðferð málsins. Er ekkert fram komið sem rýrir trúverðugleika hennar eða framburð á nokkurn hátt. Brotaþoli lýsti því, bæði á vettvangi og fyrir dóminum, hvernig ákærði fór með hönd sína tvisvar inn fyrir buxur hennar og strauk rass hennar og síðan kynfæri að framan. Að mati dómsins var brotaþoli skýr, einbeitt og trúverðug í frásögn sinni. Virðist dóminum ljóst af framburði vitna að stúlkan sé vel gefin, hörð af sér, réttsýn og skýr. Sömu ályktun dregur dómurinn af framgöngu hennar fyrir dóminum. Þá styrkir niðurstaða sálfræðimats Önnu Kristínar Newton sálfræðings það mat dómsins, að ekkert hafi komið í ljós sem bendi til að brotaþoli hafi borið rangar sakir á ákærða eða ímyndi sér atvik. Álit Þorbjargar Sveinsdóttur sálfræðings, styrkir einnig það mat dómsins en hún hafði brotaþola til meðferðar í sextán skipti eftir atvikið.

Ákærði neitar sök að öllu leyti og hefur verið eindreginn í því og sjálfum sér samkvæmur að mati dómsins. Engin vitni voru að þeim atburði sem brotaþoli lýsir í framburði sínum og ákærði er sakaður um. Verður því að horfa til annarra sönnunargagna, sem er framganga brotaþola eftir atvikið og önnur atvik sem skipt geta máli.

B, sonur ákærða, er eina vitnið sem var á staðnum umrætt sinn. Kvaðst hann hafa verið örskotsstund að koma sér fram úr þegar faðir hans kallaði á hann og verið kominn fram í þvottahúsdyr á um það bil tíu sekúndum. Faðir hans hafi staðið úti á stétt með kaffibolla í hendi, hann hafi gengið inn í þvottahús og brotaþoli á eftir honum. Aðspurður frekar kvaðst B ekki hafa séð föður sinn úti heldur hafa giskað á það að faðir hans hafi verið utandyra þegar brotaþoli kom. Þá taldi hann að tveir til þrír metrar hafi verið á milli ákærða og brotaþola þegar hann kom í þvottahúsdyrnar, en af vettvangsgöngu að ráða og teikningum er sú fjarlægð útilokuð vegna smæðar þvottahússins. Þá kom fram hjá B að hann hafi verið syfjaður, hann hafi dottað eftir að hann kom aftur inn í rúm og vaknað þegar faðir hans kallaði aftur í hann þegar allir voru komnir. Frásögn B og ákærða um það hversu snöggur B var fram úr rúminu umrætt sinn er á skjön við aðra frásögn þeirra beggja um það þegar B er vakinn á morgnana en eins og B sagði sjálfur þá sé hann lengi að „langa til að vakna“ þegar hann er vakinn í skólann, en hann sprytti fram þegar hann ætti að fara á íþróttaæfingu. Þá kvaðst ákærði stundum þurfa sjálfur að aðstoða B við að klæða sig í sokkana þegar hann væri vakinn á íþróttaæfingar. Að þessum framburði virtum verður ekki talið útilokað að athygli B hafi verið lítil og ekki á hana treystandi þegar hann kom fram í þvottahúsdyrnar. Þá verður einnig að líta til þess, við mat á trúverðugleika framburðar B, að hann er sonur ákærða og þeir hafa margoft rætt atburðinn eins og ákærði staðfesti fyrir dóminum. Er því ekki loku fyrir það skotið að framburður B sé litaður af frásögn föður hans. Þá hefur það misræmi sem er á milli frásagnar brotaþola og B um klæðaburð hans þennan morgun lítið vægi, enda mundi B ekki fyrir dóminum hvernig hann var klæddur utan að hann kvaðst hafa verið í náttbuxum en mundi ekki hvernig þær voru en yfirleitt kæmi hann fullklæddur fram þegar farið væri á íþróttaæfingar.

Við mat á því hvort ákærði hafi haft möguleika á að snerta brotaþola, eins og hann er ákærður fyrir, verður að horfa til þess að ekki er bein sjónlína úr herbergi B á þann stað er ákærði og brotaþoli stóðu, að B kvaðst hafa verið syfjaður og þreyttur, og því ekki treystandi á athygli hans, svo og að teknu tilliti til annarra aðstæðna, telur dómurinn slíkt vel geta átt sér stað. Er alls ekki ótrúverðugt að ákærði hafi getað sett hönd sína ofan í buxur brotaþola áður en B kom fram úr herbergi sínu en, eins og brotaþoli sagði, þá hafi ákærði kippt hendinni upp úr buxunum þegar B kom fram. Þá hefur ákærði einnig haft svigrúm til að setja hönd sína ofan í buxur brotaþola eins og brotaþoli lýsti, þegar B var á leið til herbergis síns.

Móðir brotaþola bar fyrir dómi að dóttir hennar hafi komið niðurbrotin upp í rúm til sín eftir umrætt atvik. Kvaðst móðirin ekki vera í nokkrum vafa um að brotaþoli segði satt frá. Fær frásögn brotaþola sjálfs og móður hennar um ástand brotaþola um morguninn stoð í framburði umsjónarkennara brotaþola, sem spurði móður brotaþola hvort brotaþoli væri lasin, hún væri svo dauf. Þá fær framburður brotaþola stoð í framburði systur brotaþola, sem lýsti ástandi brotaþola þennan dag, og sömu frásögn og brotaþoli hefur marglýst við rannsókn málsins og fyrir dóminum. Auk þess fær framburður brotaþola stoð í framburði og sálfræðimötum Önnu Kristínar Newton og Þorbjargar Sveinsdóttur sálfræðinga sem báðar hafa haft brotaþola til meðferðar eftir atvikið. Er ekkert sem fram kemur í sálfræðimati Önnu Kristínar Newton né sálfræðimati Þorbjargar sem kastar rýrð á trúverðugleika brotaþola. Auk þess fær framburður brotaþola stoð í framburði vitnisins J, vinkonu brotaþola, en brotaþoli sagði henni frá atvikinu að kvöldi sunnudags, tveim dögum síðar.

Telur dómurinn, þegar litið er heildstætt á framburð brotaþola og vitna, lögfulla sönnun hafa verið færða fyrir því að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákæru. Með hliðsjón af þessu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin réttilega færð til 199. gr. og 209. gr. laga nr. 19/1940. Þá er brotið einnig réttilega heimfært til 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Ákærði braut með háttsemi sinni gegn fimmtán ára stúlku, dóttur vinahjóna hans til margra ára. Þá er brot hans alvarlegra með hliðsjón af því að ákærði var starfandi lögreglumaður á þessum tíma og þjálfaði unglinga, þar á meðal brotaþola, í íþróttastarfi. Brást hann trúnaði brotaþola með alvarlegum hætti með háttsemi sinni. Verður það virt ákærða til refsiþyngingar.

Samkvæmt sakarvottorði hefur ákærði ekki hlotið refsingu áður. Þá verður að líta til þess að tvö ár eru liðin frá því að brot þetta átti sér stað.

Með hliðsjón af ofansögðu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í sex mánuði. Ekki þykja skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna.

                Réttargæslumaður brotaþola hefur krafist skaða- og miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 800.000 krónur, auk vaxta. Er til grundvallar kröfunni vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Framferði ákærða greint sinn var til þess fallið að valda brotaþola miska eins og rakið er að ofan. Er brotið sérstaklega alvarlegt með tilliti til ungs aldurs brotaþola og aldurs og stöðu ákærða og er brotið til þess fallið að hafa áhrif á andlega og þar með líkamlega heilsu brotaþola um ókomna tíð. Í málinu liggur fyrir vottorð Þorbjargar Sveinsdóttur sálfræðings er hefur verið með brotaþola í meðferð. Kemur fram að stúlkan hafi einkenni sem þekkt séu meðal barna sem sætt hafi kynferðislegri misnotkun. Hafi greinst hjá brotaþola einkenni áfallastreitu. Á hún rétt á skaðabótum á þeim grundvelli sem í ljósi atvika málsins og dómvenju þykja hæfilega ákveðnar 300.000 krónur. Ber krafan vexti svo sem nánar greinir í dómsorði.

                Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar sem hlaust af máli þessu utan þess kostnaðar sem hlaust af fyrri meðferð málsins fyrir héraði og Hæstarétti. Verður ákærði því dæmdur til að greiða sakarkostnað, sem er vegna yfirheyrslna í Barnahúsi, sálfræðimata og ferðakostnaðar vitna að fjárhæð 650.716 krónur, auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda hans, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 600.000 krónur auk virðisaukaskatts. Ákærði greiði einnig kostnað réttargæslumanns brotaþola, 225.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti. Annar sakarkostnaður sem hlotist hefur af máli þessu greiðist úr ríkissjóði.

Af hálfu ákæruvaldsins fór Kolbrún Benediktsdóttir, settur saksóknari, með málið.

Málið dæma héraðsdómararnir Ástríður Grímsdóttir dómsformaður og Eggert Óskarsson og Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómarar.  

D Ó M S O R Ð

Ákærði, X, sæti fangelsi í sex mánuði.

Ákærði greiði sakarkostnað að fjárhæð 1.475.716 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 600.000 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hdl., 225.000 krónur.

Annars sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.

Ákærði greiði C, kt. [...], fyrir hönd brotaþola, 300.000 krónur ásamt vöxtum, samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 7. maí 2010 til 7. júní 2010 en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.