Print

Mál nr. 265/1999

Lykilorð
  • Bifreið
  • Stjórnarskrá
  • Umferðarlagabrot
  • Ölvunarakstur
  • Ökuréttarsvipting
  • Öndunarsýni

                                                                                                                 

Fimmtudaginn 21. október 1999.

Nr. 265/1999.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Júlíusi Hjaltasyni

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

Bifreiðir. Stjórnarskrá. Umferðarlagabrot. Ölvunarakstur. Ökuréttarsvipting. Öndunarsýni.

J var var ákærður fyrir ölvunarakstur. Talið var að almennt mætti mæla magn vínanda í útöndunarlofti með nægilegri nákvæmni með tæki því, sem lögregla notaði umrætt sinn til að lögfull sönnun fengist um ölvunarakstur. Þá var talið að leitt hefði verið í ljós að önnur efni en áfengi hefðu ekki truflað mælinguna. Var J dæmdur til refsingar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. júní 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Krefst ákæruvaldið þess að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað aftur til löglegrar meðferðar fyrir héraðsdómi, en að því frágengnu að hann verði sýknaður. Verði ekki á það fallist krefst ákærði þess að honum verði gerð vægasta refsing, sem lög leyfa.

I.

Svo sem greinir í héraðsdómi er ákærði sóttur til saka fyrir að hafa ekið bifreið að Þórufelli í Reykjavík undir áhrifum áfengis aðfaranótt sunnudags 12. júlí 1998. Viðurkennir ákærði að hafa fyrr um nóttina drukkið um hálfan lítra af áfengu öli, en kveðst ekki hafa fundið til áfengisáhrifa við aksturinn. Var ákærði látinn blása í öndunarsýnamæli af gerðinni Intoxilyzer 5000 N, sem mælir magn etanóls í útöndunarlofti. Mældist það 0,314 mg í hverjum lítra lofts eftir að tillit hafði verið tekið til skekkjumarka. Mótmælir ákærði niðurstöðu mælingarinnar, sem hann telur að ekki fái staðist, en andmæli hans og framburður vitna er rakinn í hinum áfrýjaða dómi.

Aðalkröfu sína styður ákærði þeim rökum að „það sé brot á grundvallar mannréttindum að sami aðili, sem er Lögreglustjórinn í Reykjavík í þessu tilfelli, bæði rannsaki mál og taki ákvörðun um saksókn.“ Ákvörðun um að höfða opinbert mál eigi að vera í höndum óháðs aðila, sem meti rannsóknargögn hlutlægt, en hafi ekki komið nálægt þeim sem rannsakandi líkt og gerist um þau mál, sem ríkissaksóknari fjallar um. Lögreglustjóri, sem hafi komið að málinu á fyrri stigum, hafi því verið vanhæfur til að taka síðar ákvörðun um ákæru. Er vísað um það til 3. og 4. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá sé heldur ekki jafnræði milli manna, þar sem sumir sæti opinberri málshöfðun eftir ákvörðun óháðs ákæranda, en aðrir þurfi að sæta slíkri ákvörðun frá sama aðila og rannsakaði brot þeirra. Fái það ekki samrýmst 70. gr. stjórnarskrárinnar eða 6. gr. samnings um vernd mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

Í 1. mgr. 66. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála kemur fram að rannsókn opinberra mála er almennt í höndum lögreglu. Í 2. mgr. sömu greinar segir meðal annars að ríkissaksóknari geti gefið henni fyrirmæli um að hefja rannsókn, og samkvæmt 5. mgr. er rannsóknari sá starfsmaður lögreglu eða ákæruvalds, sem sinnir eða stýrir rannsókn hverju sinni. Ákæruvald er í höndum ríkissaksóknara og lögreglustjóra og á handhöfum þess hvílir skylda um hlutlægni í störfum. Þótt tengsl ákæruvalds við þá, sem fara með rannsókn sakamála, séu lögum samkvæmt veruleg, gætir ekki í þessum atriðum mismununar gagnvart sakborningum eftir því hvaða embættismaður fer með sókn máls. Sú skipan, sem hér um ræðir og á sér hliðstæðu víða í öðrum ríkjum Evrópu, er á engan hátt andstæð 70. gr. stjórnarskrárinnar eða 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Að virtu því, sem að framan er rakið, er krafa ákærða um vísun málsins frá héraðsdómi haldlaus með öllu og verður henni hafnað.

II.

Við aðalmeðferð málsins 10. maí 1999 gaf ákærði skýrslu fyrir dómi. Gat hann þess þá, að þegar atburðurinn varð hafi hann unnið í malbikunarstöð. Hann hafi verið þar föstudaginn 10. júlí 1998 og við störf sín hafi hann andað að sér miklu af eiturefnum, tjöru og asfalti. Þá hafi hann verið eitthvað slappur tveim dögum fyrir atburð þann, sem ákært er fyrir, og með hita. Er ákærði kom aftur fyrir dóm 19. maí 1999 var athygli hans vakin á að hann hafi í lögregluskýrslu 12. júlí 1998 sagst vera atvinnulaus. Breytti hann þá framburði sínum og kvaðst hafa unnið við að tjarga þök á þessu tímabili, þar á meðal umræddan föstudag 10. júlí 1998.

Í málinu nýtur við ítarlegra skýringa í ritum og framburði vitnisins Jakobs Kristinssonar dósents um eiginleika tækisins Intoxilyzer 5000 N. Með þessu er í ljós leitt að andi menn fyrir sýnatöku að sér lífrænum leysiefnum, svo sem gufum af bensíni og olíu, geti það truflað mælingu þess á etanóli í útöndunarlofti. Hár líkamshiti getur einnig skekkt niðurstöðu mælingar. Framburður ákærða um nálægð sína við slík efni hefur hins vegar verið á reiki. Að auki var svo langt um liðið frá hugsanlegri umgengni hans við lífræn leysiefni þar til etanól í útöndunarlofti hans var mælt, að óhætt er að slá föstu að áhrifa slíkra efna hafi ekki getað gætt lengur. Sama máli gegnir um hita, sem hann kveðst hafa haft tveimur dögum áður. Eru engin efni til að ætla að niðurstöður mælingarinnar hafi orðið rangar vegna þeirra ástæðna, sem að framan eru raktar.

III.

Krafa ákærða um ómerkingu héraðsdóms er reist á því að óvissa sé um áreiðanleika þess tækis, sem áður er vikið að. Um sé að ræða hátæknilegt mælitæki og fyrir liggi skriflegar skýrslur og framburður vitna um eiginleika þess. Sé þar lýst hversu áreiðanlegt eða óáreiðanlegt tækið sé. Héraðsdómur hafi ekki verið skipaður sérfróðum meðdómsmönnum og niðurstaða héraðsdómarans um að tækið mæli vínandamagn af nægilegri nákvæmni sé ekki reist á fullnægjandi þekkingu réttarins. Sýknukrafa ákærða er á því reist að svo mikill vafi sé um áreiðanleika tækisins að ekki sé unnt að leggja niðurstöðu þess til grundvallar sakfellingu í opinberu máli. Allur vafi að þessu leyti eigi að vera ákærða í hag.

Í dómi Hæstaréttar 18. mars 1999 í máli nr. 482/1998 er í II. kafla rakið að með breytingu á umferðarlögum nr. 50/1987, sem gerð var með lögum nr. 48/1997, hafi verið lögfest ákvæði um töku öndunarsýna og mælt fyrir um mörk vínandamagns í öndunarsýnum ökumanna. Í almennum athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi, er varð að síðarnefndu lögunum, segir meðal annars að á síðari árum hafi komið fram nýjar aðferðir til að mæla ölvunarástand með ekki minni nákvæmni en með blóðrannsókn. Í þeim felist að mælt sé vínandamagn í lofti, sem ökumaður andi frá sér, og hafi reglur um sönnunargildi slíkra mælinga verið lögfestar í ýmsum ríkjum Evrópu. Sé góð reynsla af þessari mæliaðferð. Lagt sé til að heimilt verði að ákveða ölvunarástand ökumanns á grundvelli vínandamagns í lofti, sem hann andar frá sér, til jafns við vínandamagn í blóði. Sýni rannsóknir að fullt samræmi sé milli vínandamagns í blóði manns og vínandamagns í því lofti, sem hann andi frá sér við mismunandi ölvunarástand. Í áðurnefndu máli voru lögð fram ýmis gögn um öndunarsýnamæli þann af gerðinni Intoxilyzer 5000 N, sem notaður var við að rannsaka öndunarsýni ákærða í umrætt sinn. Meðal þeirra var skýrsla Rannsóknastofu í lyfjafræði 19. janúar 1998 um mælingar á etanóli í blóði og útöndunarlofti. Er hún gerð af Jakobi Kristinssyni dósent.

Í máli ákærða nú hefur umrædd skýrsla Rannsóknastofu í lyfjafræði verið lögð fram ásamt ýmsum öðrum gögnum, sem varpa ljósi á notagildi nefnds öndunarsýnamælis, svo sem áður er getið. Þá hefur Jakob Kristinsson gefið ítarlega skýrslu fyrir dómi. Kom þar meðal annars fram, að hann teldi helsta annmarka tækisins felast í því að önnur efni en etanól, það er lífræn leysiefni, geti mælst eins og um vínanda væri að ræða. Sé það einkum við vinnu með slík efni að þau geti safnast fyrir í líkama manna og mælst í útöndunarlofti, ekki síst ef ekki er fylgt reglum, sem gilda um vinnu með þau. Geti þeirra þá gætt í líkamanum jafnvel lengur en etanóls, sem drukkið hefur verið. Hins vegar hafi ekki verið sýnt fram á að önnur efni en lífræn leysiefni geti truflað niðurstöðu mælinga á öndunarsýnum. Ef ekki sé grunur um að lífræn leysiefni hafi verið í útöndunarlofti, sé ekki annað vitað en að tækið mæli magn etanóls í því af nægilegri nákvæmni. Sé að öllu leyti farið eftir settum reglum við mælingu sé engin ástæða til að ætla að nákvæmni mælinga sé utan þeirra marka, sem gefin séu upp, það er eðlilegra skekkjumarka. Kom jafnframt fram það álit vitnisins, að fyrir „meðalmanninn“ væri hagstæðara að fara í öndunarpróf en að gefa blóðsýni, því að væri magn vínanda alveg við lögmælt mörk væru meiri líkur á að verða undir mörkum við öndunarpróf en þegar blóðsýni er tekið.

Af hálfu ákæruvalds hefur verið lagt fyrir Hæstarétt bréf ríkislögreglustjóra til rannsóknarstofu í Wales auk svarbréfs, sem gefið er af sérfræðingi í tækni til að rannsaka öndunarsýni. Í bréfi ríkislögreglustjóra eru bornar upp ýmsar spurningar um álit viðtakanda bréfsins á áreiðanleika tækisins Intoxilyzer 5000 N við að mæla vínanda í útöndunarlofti. Í svari er látið í ljós það álit að þetta tæki sé líklega hið fullkomnasta, sem völ sé á til þessara nota. Þar er jafnframt lýst þeirri skoðun, að áhrifa lífrænna leysiefna gæti mun skemur í útöndunarlofti en fram kom í skýrslu Jakobs Kristinssonar fyrir dómi og áður er getið.

IV.

Þegar lögreglumenn höfðu tal af ákærða áður en hann var færður á lögreglustöðina á Hverfisgötu fannst áfengisþefur frá vitum hans. Ákærði viðurkenndi að hafa drukkið áfengi skömmu fyrir aksturinn. Hann gaf á vettvangi öndunarsýni í blöðru, sem sýndi þriðja stig. Í lögregluskýrslu kom fram að niðurstaða öndunarprófs með S-D2 mæli hafi verið 0,6 o/oo. Áður en ákærði gaf skýrslu hjá varðstjóra var öndunarsýni tekið og mælt með Intoxilyser 5000 N eins og fyrr greinir. Samkvæmt skýrslu sýnatökumanns svaraði ákærði neitandi spurningum um hvort hann hefi verið með leysiefni skömmu fyrir handtöku, hefði notað lyf eða haft haft líkamshita yfir 37°. Með hliðsjón af því, sem áður er rakið, þykir leitt í ljós að lífræn leysiefni hafa ekki getað haft áhrif á nákvæmni mælingar á vínanda í lofti, sem ákærði andaði frá sér í umrætt sinn.

Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, eru ekki viðhlítandi rök til að vefengja að almennt megi mæla magn vínanda í lofti, sem maður andar frá sér, með tæki af gerðinni Intoxilyzer 5000 N af nægilegri nákvæmni svo að lögfull sönnun teljist fengin um brot, sem ákært er fyrir í máli þessu. Tækið hafði nýlega verið athugað erlendis og ekkert fundist athugavert, er atvik þessa máls urðu. Þá er ekkert fram komið, sem vakið getur réttmætan vafa um að tækinu hafi verið rétt stjórnað í umrætt sinn. Ekki er heldur sýnt fram á að aðstæður að öðru leyti hafi verið með þeim hætti að niðurstaða mælingarinnar verði dregin í efa.

Eins og sönnunargögnum í máli þessu er háttað verður ekki talið að efni séu til að vísa málinu heim í hérað á grundvelli þess, að héraðsdómari kvaddi ekki sérfróða meðdómsmenn til setu í dómi. Verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða staðfest og er brot hans réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru. Er refsing hans hæfilega ákveðin í héraðsdómi og verður hann staðfestur.

Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Júlíus Hjaltason, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Guðna Á. Haraldssonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 1999.

Ár 1999, þriðjudaginn 1. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 846/1998: Ákæruvaldið gegn Júlíusi Hjaltasyni sem tekið var til dóms hinn 19. maí sl. að lokinni aðalmeðferð.

Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 29. september sl. á hendur ákærða, Júlíusi Hjaltasyni, kt. 060867-3649, Þórufelli 20, Reykja­vík, „fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni R-2263, aðfaranótt sunnudagsins 12. júlí 1998, undir áhrifum áfengis frá miðborg Reykjavíkur að húsi við Þórufell í Breiðholtshverfi.

Þetta telst varða við 1. sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og sbr. 3. gr. laga nr. 57/1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar sbr. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998”.

Málavextir.

Aðfaranótt sunnudagsins 12. júlí sl. stöðvaði lögregla ákærða þar sem hann ók bíl sínum eftir Þórufelli í Reykjavík á leið heim til sín frá Grensásvegi en þar hafði hann verið á skemmtistað. Fyrr um nóttina, líklega á bilinu frá hálf tvö til tvö, drakk hann „einn stóran bjór” að eigin sögn. Var ákærði færður á lögreglustöðina við Hverfis­götu og látinn þar blása í tæki sem mælir vínandamagn í útöndunarlofti. Mældist það vera 0,314 mg í lítra lofts eftir að tillit hafði verið tekið til vikmarka.

Ákærði hefur frá upphafi neitað því að hafa fundið til áfengisáhrifa við stjórn bílsins og er mælingunni mótmælt sem rangri. Hann segist hafa unnið við að tjarga húsþak föstudaginn næsta á undan en ekki hafa unnið með leysiefni. Þá segist hann hafa verið með einhvern slappleika og einhvern hita nokkrum dögum áður en það verið horfið að mestu.

Pétur Guðmundsson lögreglumaður minnist þess að ákærði hafi verið gljá­eygur og af honum hafi verið áfengislykt. Ekki nýtur við annarra vitnisburða um ástand ákærða eftir aksturinn.

Af hálfu ákærða er því haldið fram að tæki það sem notað var við mælinguna sé ekki áreiðanlegt. Það sé ekki haft í skermuðu herbergi og geti þannig orðið fyrir truflunum af utanaðkomandi rafsegulbylgjum. Þá sé tækið ekki nægilega sérhæft og geti önnur efni en vínandi, s.s. lífræn leysiefni, haft áhrif á mælinguna. Þá hafi tækið ekki fengið löggildingu eins og skylt sé samkvæmt III. kafla laga um vog, mál og faggildingu nr. 100,1992. Loks hafi það ekki hlotið gerðarviðurkenningu samkvæmt reglum hins evrópska efnahagssvæðis.

Tæki það sem um ræðir er af gerðinni Intoxilyzer 5000N. Er það ætlað til þess að mæla vínandamagn í útöndunarlofti, sbr. 2. og 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Tæki þetta var sérhannað eftir norskum gæðakröfum og hefur um árabil verið notað þar í landi eða frá árinu 1996. Hér hefur það verið notað frá síðasta vori. Í mjög stuttu máli fer mælingin þannig fram að tækið tekur loftsýni úr umhverfinu til þess að athuga hvort þar séu lofttegundir sem truflað geti mælinguna. Jafnframt prófar tækið sig sjálft með því að mæla staðlaðan prófunarvökva sem inniheldur etanól. Mælingin er gerð með því að lýst er með innrauðu ljósi í gegnum loftsýnið og skynjar tækið þannig hvort og í hve miklu magni etanólsameindir eru í sýninu. Skekkjumörk eru 0,038 mg/l.

Fyrir dóminn hefur komið sem vitni Terje Kjeldsen gæðaöryggisstjóri, sem ásamt öðrum sérfræðingum átti þátt í því að þróa búnaðinn á vegum norskra yfirvalda. Að sögn hans var tæki þetta þróað í nánu samstarfi við hinn bandaríska framleiðanda tækjanna og hinn sænska innflytjanda þeirra og í samræmi við kröfur hinna norsku sérfræðinga. Vitnið er einnig í eftirlitshópi sem norska dómsmálaráðuneytið hefur sett á laggirnar til þess að fylgjast með því að tæki þessi séu rétt notuð. Hann segir tæki þetta m.a. þannig úr garði gert að það skynjar sjálft rafsegulbylgjur í umhverfinu t.d. frá farsímum, senditækjum lögreglunnar eða öðrum rafsenditækjum. Ef slík tæki eru í notkun í sama herbergi og mælitækið taki skynjari í sjálfri blástursslöngunni við rafsegulbylgjunum frá þeim og stöðvi sýnatökuna með því að tilkynna að eitthvað sé að. Fjarskiptatæki sem ekki séu í notkun hafi engin áhrif á tækið. Tækið þurfi að vera í hreinu herbergi og þar megi ekki vera framandi gastegundir, svo sem eins og þær sem gætu borist frá bílskúr eða tækjageymslu. Þá megi það ekki standa óvarið í sólskini. Annars taki tækið sjálft loftsýni úr herberginu fimm sinnum meðan á mælingu standi og skynji það gastegundir í þeim slái það út. Jafnframt þessu fylgist tækið með því að rétt sé staðið að mælingunni og að blásið sé í tækið á réttan hátt. Sé eitthvað athugavert við þessi atriði fæst ekki niðurstaða og tækið gefur til kynna að sýnið sé ógilt. Vitnið kynnti sér niðurstöðu úr mælingu á útöndunarlofti ákærða og sagði allt vera með felldu um hana.

Fyrir dóminn hefur einnig komið Jakob Kristinsson, dósent í lyfjafræði við Háskóla Íslands sem jafnframt hefur starfað við vínandamælingar í blóðsýnum ökumanna á Rannsóknastofu háskólans í lyfjafræði. Hann hefur kynnt sér tæki það sem um ræðir með því að lesa um það í vísindaritum og ræða við þá sem áttu sæti í norsku nefndinni. Hann kveðst þó ekki hafa notað tækið sjálfur eða prófað. Hann kveður þessa mælingaraðferð vera vel þekkta. Geti hún verið nákvæm eftir atvikum og í því tilviki sem hér um ræði sé hún nokkuð nákvæm í þeim skilningi að hún mæli sams konar sýni eins aftur og aftur. Sé rétt staðið að mælingunni sé engin ástæða til þess að ætla að tækið mæli ekki alkóhól innan uppgefinna skekkjumarka tækisins. Aftur á móti megi gagnrýna sérhæfni tækisins, þ.e. möguleikana á því að tækið villist á alkóhóli og lífrænum leysiefnum, þ.e. að þau gefi sömu svörun og etanól. Lífræn leysiefni séu t.d. bensín, olíur, málning og þ.h. Tækið þekki þó og geti varað sig á um 20 leysiefnum en það geti þó ekki talist uppfylla ströngustu kröfur í réttarefnafræði þar sem það mæli aðeins með einni aðferð en ekki tveimur óskyldum.

Fyrir dóminn hefur komið Þorfinnur Steinar Finnsson lögreglumaður, sem fram­kvæmdi mælinguna sem um ræðir í málinu. Hafði hann unnið með tæki þetta frá því að það var tekið í notkun hér og sótt námskeið í meðferð þess hjá Ríkislögreglu­stjóra. Hann upplýsir að í herberginu þar sem mælingin fari fram séu engin tæki önnur en tækið sjálft og tölvan sem það sé tengt við. Þá séu þar húsgögn og sími. Farsímar séu teknir af mönnum áður en þeir fari þar inn, enda sé merki á dyrunum í þá veru. Hann kveðst ekki muna sérstaklega eftir þessu tilviki en í skýrslu sem hann gerði um atvikið kemur fram að ákærði hafi neitað því að hafa unnið með leysiefni skömmu fyrir aksturinn og að hann notaði lyf, að hann væri með aukinn líkamshita eða að hafa neytt áfengis eftir að akstri lauk. Hefur ákærði staðfest að þetta sé rétt hermt í skýrslunni.

Bjarni Jóhann Bogason aðstoðaryfirlögregluþjónn, hefur komið fyrir dóminn. Hann er einn af yfirumsjónarmönnum með þeim tveim tækjum af þessari gerð sem eru í notkun hér á landi. Hann upplýsir að áður en tækin voru tekin í notkun hafi þau fengið ársprófun hjá Statens kriminaltekniska laboratorium í Svíþjóð í maí 1998 og er það staðfest með vottorði stofnunarinnar. Kemur þar einnig fram að þau hafi að öllu leyti staðist þá prófun.

Niðurstaða.

Það er álit dómsins að tæki það sem hér um ræðir mæli vínandamagn í útöndunarlofti af nægilegri nákvæmni og öryggi. Þá liggur fyrir að mælingin var gerð af kunnáttumanni og að gætt var réttra aðferða við hana. Enn fremur er ekkert komið fram sem bendir til þess að rafsegulbylgjur úr umhverfi tækisins hafi haft áhrif á mælinguna né heldur að lífræn leysiefni hafi verið í útöndunarlofti ákærða. Loks er ekki vísbending um það að heilsufar ákærða hafi verið þannig að það hefði getað haft áhrif á mælinguna né heldur um það að hann hafi neytt áfengis eftir að akstri lauk. Ekki þykir það skipta máli um sönnunargildi mælingarinnar þótt tækið hafi ekki hlotið viðurkenningu samkvæmt íslenskri eða evrópskri samkeppnis og verslunarlöggjöf. Er það mat dómsins að sannað sé að ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis við aksturinn í umrætt sinn og brotið þau lagaákvæði sem tilfærð eru í ákærunni.

Viðurlög og sakarkostnaður.

Brot ákærða er ítrekað öðru sinni. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga.

Svipta ber ákærða ökurétti ævilangt frá 12. júlí 1998 að telja.

Dæma ber ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað þar með talin máls­­varnarlaun til verjanda síns, Guðna Haraldssonar hrl., 155.000 krónur. Vegna tafar á meðferð málsins, sem ákærða verður ekki kennt um og bakað hefur verj­andanum aukna vinnu, svo og vegna kæru hans til Hæstaréttar á úrskurði um frestun og úrslita þar, þykir mega ákveða að 45.000 króna málsvarnarlaun skuli greiðast verj­andanum úr ríkissjóði.

 

Dómsorð:

Ákærði, Júlíus Hjaltason, sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærði sæti sviptingu ökuréttar ævilangt frá 12. júlí 1998 að telja.

Ákærði greiði verjanda sínum, Guðna Haraldssyni hrl., 155.000 krónur í málsvarnarlaun en úr ríkissjóði greiðist 45.000 króna málsvarnarlaun til verjandans. Allan annan sakarkostnað greiði ákærði.