Mál nr. 94/2017
- Eignarréttur
- Fasteign
- Þjóðlenda
- Stjórnsýsla
- Gjafsókn
- Aðfinnslur
F ehf. höfðaði mál gegn Í og krafðist þess að ógilt yrði ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar um að landsvæðið Hvassafellsdalur væri þjóðlenda með nánar tilgreindum merkjum, en í afréttareign F ehf. Reisti F ehf. kröfu sína á því að landið væri háð beinum eignarrétti félagsins, en það hafði keypt landsvæðið af eiganda jarðarinnar Hvassafells í Eyjafjarðarsveit. Hæstiréttur vísaði til þess að af texta Landnámabókar yrðu engar beinar ályktanir dregnar um hvort beinn eignarréttur hefði stofnast með námi lands á svæðinu sem um ræddi. Á hinn bóginn yrði að líta til þess að Í hefði ekki dregið í efa fyrir óbyggðanefnd að beinn eignarréttar væru að víðáttumiklu landi í og upp af Hraunárdal fyrir norðvestan Hrauná sem ætti undir jörðina Kambfell. Væri óhjákvæmilegt að líta svo á að Í viðurkenndi að þau eignarréttindi hefðu orðið til með námi. Landsvæðið sem um var deilt í málinu lægi að Hrauná gegnt Kambfelli og væri sú á lítill farartálmi. Yrði því ekki útilokað að land á Hvassafellsdal hefði að minnsta kosti að einhverju marki getað verið numið og þannig orðið háð beinum eignarrétti. Heimildir sem lágu fyrir í málinu styddu á hinn bóginn á engan engan hátt að land á svæðinu hefði með námi orðið háð beinum eignarrétti, heldur hnigu þær eigndregið að því að eigendur jarðarinnar Hvassafells hefðu notið óbeinna eignarrétttinda yfir landinu til afréttarnota. Þótt eigandi Hvassafells, sem hefði gefið út afsal til F ehf. fyrir landsvæðinu árið 2005, hefði ekki getað framselt með því víðtækari réttindi en hann hefði notið með réttu, yrði ekki fram hjá því litið að þeir hefðu leitað eftir því við landbúnaðarráðherra að hann heimilaði skiptingu á jörðinni Hvassafelli á þann hátt að svæðið yrði gert „að sér fasteign og skráð sem jörð undir nafninu Hvassafellsdalur“, svo og að það yrði leyst úr landbúnaðarnotum. Hefði landbúnaðarráðherra ekki gert fyrirvara um eignarréttarlega stöðu landsvæðisins þegar hann varð við þeirri ósk að jarðarhlutinn sem skipt var úr jörðinni og leystur úr landbúnaðarnotum yrði skráður sem jörðin Hvassafellsdalur. Eðli máls samkvæmt hefði ekki verið unnt að ræða á þennan hátt um landsvæðið nema á þeim grundvelli að landið væri háð beinum eignarrétti. Krafa fjármálaráðherra um mörk þjóðlendu og eignarlanda hefði verið alls ósamrýmanleg afstöðu landbúnaðarráðherra, hliðsetts handhafa framkvæmdarvalds Í. Var því fellt úr gildi ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar um landsvæðið Hvassafellsdalur væri þjóðlenda.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. febrúar 2017. Hann krefst þess að fellt verði úr gildi ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar 19. júní 2009 í máli nr. 2/2008 um að landsvæði, sem þar var nefnt Hvassafellsdalur og afmarkað á eftirfarandi hátt, sé þjóðlenda: „Frá ármótum Djúpadalsár og Hraunár er hvorri á um sig fylgt til upptaka sinna. Þaðan eru dregnar línur til sveitarfélagamarka Eyjafjarðarsveitar og Hörgárbyggðar, í samræmi við kröfulínur gagnaðila ríkisins, og sveitarfélagamörkum síðan fylgt þar á milli.“ Áfrýjandi krefst þess einnig að viðurkennt verði að innan framangreindra merkja sé engin þjóðlenda. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Dómendur fóru á vettvang 1. september 2017.
I
Samkvæmt ákvæðum laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta tók óbyggðanefnd 29. mars 2007 til meðferðar landsvæði á vestanverðu Norðurlandi, sem náði yfir alla fyrrum Eyjafjarðarsýslu, Skagafjarðarsýslu og Austur-Húnavatnssýslu austan Blöndu ásamt Hofsjökli. Að beiðni stefnda ákvað nefndin 28. desember sama ár að skipta svæðinu í tvennt og taka að svo stöddu einungis til meðferðar syðri hluta þess. Sá hluti svæðisins var nánar afmarkaður þannig að til norðurs fylgdi hann norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps og Seyluhrepps, Norðurá og Norðurárdal, Öxnadalsheiði og Öxnadalsá þar til hún fellur í Hörgá og síðan þeirri á til ósa í Eyjafirði. Austurmörk fylgdu Fnjóská frá ósum í sama firði til suðurs þar til hún sker sveitarfélagamörk Eyjafjarðarsveitar að austan, en þaðan var farið eftir þeim mörkum áfram til suðurs í Fjórðungakvísl. Að sunnan réðst svæðið af suðurmörkum Eyjafjarðarsveitar og suðurjaðri Hofsjökuls, en til vesturs var Blöndu fylgt sunnan frá upptökum hennar í Hofsjökli til norðurmarka fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps.
Óbyggðanefnd bárust 14. mars 2008 kröfur stefnda um þjóðlendur á þessum syðri hluta svæðisins og birti hún þær samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 ásamt því að skora á þá, sem teldu þar til eignarréttinda, að lýsa kröfum sínum. Nefndinni bárust af því tilefni fjölmargar kröfur, en í framhaldi af því ákvað hún að fjalla um syðri hluta svæðisins í fimm aðskildum málum. Meðal þeirra var mál nr. 2/2008, sem náði til Eyjafjarðarsveitar vestan Eyjafjarðarár. Það mál tók meðal annars til landsvæðisins Hvassafellsdals, sem áfrýjandi taldi háð beinum eignarrétti sínum en stefndi taldi þjóðlendu. Í úrskurði óbyggðanefndar 19. júní 2009 var komist að þeirri niðurstöðu að svæðið væri þjóðlenda í afréttareign áfrýjanda, en þó að undanskildum upprekstrarrétti, sem tilheyrði eiganda jarðarinnar Hvassafells, sbr. 5. gr. og c. lið 7. gr. laga nr. 58/1998. Í úrskurði nefndarinnar var svæði þetta afmarkað á þann hátt, sem fram kemur í fyrrgreindri kröfugerð áfrýjanda hér fyrir dómi, og er ekki deilt um þau merki.
Áfrýjandi höfðaði mál þetta 20. janúar 2010 og er ekki ágreiningur um að það hafi verið gert innan þess frests, sem um ræðir í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 58/1998. Í héraði gerði áfrýjandi sömu dómkröfur og hann hefur uppi fyrir Hæstarétti, en með hinum áfrýjaða dómi var stefndi sýknaður af þeim.
II
Jörðin Hvassafell er í Eyjafjarðarsveit á því svæði, þar sem Djúpidalur greinist til suðvesturs frá Eyjafjarðardal. Til austurs liggur jörðin að Djúpadalsá, þar sem hún rennur eftir Djúpadal uns hún sameinast Eyjafjarðará á mótum dalanna tveggja, en frá bæjarhúsum á Hvassafelli eru um 22 km í beinni loftlínu norður til sjávar í Eyjafirði við Akureyri. Fyrir suðvestan þessa jörð liggja í röð frá henni að Djúpadalsá jarðirnar Ytra-Dalsgerði, Syðra-Dalsgerði, Stóridalur, Litlidalur og Kambfell og eru þær tvær síðastnefndu í eyði, en handan árinnar við Litladal og Stóradal er land annarrar eyðijarðar, Strjúgsár.
Sunnan og suðaustan við land Kambfells er landsvæðið Hvassafellsdalur, sem mál þetta snýr að. Til vesturs nær það að sveitarfélagamörkum Eyjafjarðarsveitar gegnt svonefndum Almenningum í Hörgárbyggð, sem er þjóðlenda samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar 19. júní 2009 í máli nr. 3/2008 og dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 14. október 2013. Til norðurs er svæðið afmarkað af Hrauná, sem rennur frá upptökum í norðaustur eftir Hraunárdal, en handan árinnar er land Kambfells, sem óumdeilt er að háð sé beinum eignarrétti. Til suðurs og suðausturs liggur svæðið að Djúpadalsá, sem einnig fellur í norðaustur frá upptökum eftir Hvassafellsdal, en handan þeirrar ár er land, sem var nefnt Djúpidalur „innan grjótgarðs“ í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 2/2008 og talið þar þjóðlenda í afréttareign stefnda sem eiganda jarðarinnar Saurbæjar í Eyjafjarðarsveit. Á norðausturmerkjum svæðisins rennur Hrauná út í Djúpadalsá, en þar mætast jafnframt Hraunárdalur og Hvassafellsdalur og tekur þá við Djúpidalur. Bæjarhús á Kambfelli stóðu áður skammt norðaustan við þessi merki, en frá þeim merkjum eru um 9 km í beinni loftlínu að næstu merkjum heimalands jarðarinnar Hvassafells.
Á mótum Hraunár og Djúpadalsár og að nokkru í fyrrnefndum dölum, sem þær renna eftir, mun land vera í um 300 m hæð yfir sjávarmáli. Upp frá dölunum tveimur rís á hinn bóginn landið á svæðinu, sem málið varðar, skarpt upp í Hvassafellshnjúk í 1203 m hæð og eru þar um 3 km á milli dalanna. Eftir gögnum málsins eru engar heimildir um fasta búsetu á þessu svæði, en á hinn bóginn var þar haft í seli frá jörðinni Hvassafelli fram á byrjun 20. aldar.
III
Samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar var þess getið í Sturlunga sögu að nafngreindir menn hafi búið „undir Hvassafialli í Eyafirdi“. Í úrskurðinum var einnig sagt frá því að leitað hafi verið eftir því í bréfi á árinu 1579 að kirkjujörðin Mikligarður, sem liggur fyrir norðan jörðina Hvassafell, fengi hana að hálfu á leigu, en í málinu eru að öðru leyti ekki gögn um þetta. Á hinn bóginn hafa verið lögð fram gögn um að fjallað hafi verið um dýrleika jarðarinnar á manntalsþingi 9. ágúst 1699 og hafi þá einnig komið fram að hún lægi að hálfu „under holadom Kijrkiu, en half under Munkaþuerar Klaustur“.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 var greint frá því að 30 hundruð í Hvassafelli hafi þá verið í konungseigu og lægi sá hluti undir Munkaþverárklaustur, en 20 hundruð í jörðinni væru í eigu Hólastóls. Þá var eftirfarandi tekið fram: „Selför með tilliggjandi landi á jörðin fram á Djúpadal, sem er allur dalurinn vestan framm heim í Hrauná, og brúkast árlega, og er nokkuð í lengra lagi.“
Sýslumaður Eyjafjarðarsýslu stýrði 1. nóvember 1841 svonefndri „Skodunar- og afhendíngargjörd“ á ⅖ hlutum af jörðinni Hvassafelli vegna óskar eiganda þess hluta um að eiga makaskipti á honum og annarri tiltekinni jörð, sem væri „Múnkaþverár Klausturgóts“. Var Hvassafell sagt að öðru leyti, að ⅗ hlutum, „alltaf hafa verið Kóngseign“, en í gerðinni var ekki að finna lýsingu á jörðinni.
Í Jarðatali J. Johnsens frá 1847 var Hvassafell talið vera 50 hundruð að dýrleika og að ⅖ hlutum kirkjustaður, en að ⅗ hlutum eign Munkaþverárklausturs. Var tekið fram að í jarðabók frá 1760 hafi hálf jörðin, 20 hundruð að dýrleika, verið sögð í eigu klaustursins, en aðrar jarðabækur hafi talið „klausturpartinn ⅗, og 30 h. að dýrleika“.
Í jarðamati 1849 kom fram um Hvassafell að jörðinni „fylgir afréttur, er þad hálfur Hraunárdalur, og afréttur þessi er nefndur Hvassafellsdalur; er þar selstada frá Hvassafelli, er þad einn med þeim bestu afréttum hér; en ei er hann stærri enn fyrir heimilid.“
Svohljóðandi landamerkjabréf var gert fyrir Hvassafell 16. janúar 1883: „Að sunnan: beina stefnu eptir gömlum garði, sem sjest óglöggt, neðan frá Djúpadalsá og uppí fjall. Að utan: Úr Barðhús-klöpp við Djúpadalsá eptir merkjagörðum, er liggja skáhallt út og upp að Miklagarðsfit, og síðan beina stefnu upp allar mýrar, örskamt fyrir sunnan Hlíðarhaga, og í litla grasgróna laut fyrir sunnan og ofan Hlíðarhaga og þaðan sömu stefnu uppá fjall. Að austan ræður Djúpadalsá. Að vestan fjallið. Undir jörðina heyrir fjallið milli Djúpadalsár og Hraunár fyrir framan Kambfell.“ Bréfið var áritað um samþykki fyrir Árgerði, Syðra-Dalsgerði, Ytra-Dalsgerði, Hlíðarhaga og Miklagarð og lesið upp á manntalsþingi 25. maí 1886.
Sýslumaður Eyjafjarðarsýslu dómkvaddi 8. maí 1909 tvo menn til að gera „lýsingu á þjóðjörðinni Hvassafelli“ og meta hana til peningaverðs, að virðist í tilefni af beiðni ábúanda á jörðinni um að fá hana keypta. Í matsgerð 17. sama mánaðar var jörðinni lýst og mannvirkjum þar. Þess var einnig getið að „undir jörðina liggur afrétt, sem notuð er til upprekstrar og sumpart fyrir búfjárhaga á sumrum.“ Var hæfilegt söluverð jarðarinnar með „öllu því, sem henni fylgir og fylgja ber“ metið 4.500 krónur. Í framhaldi af þessu gaf ráðherra Íslands út afsal 15. júní 1910 fyrir Hvassafelli „með þeim landamerkjum, sem tiltekin eru í landamerkjaskrá jarðarinnar“ og kom þar fram að söluverð hafi verið 4.750 krónur.
Samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar sendi Saurbæjarhreppur svofellt bréf 26. júní 1912 til ábúenda Litladals og Kambfells: „Viðvíkjandi ósk ykkar ... um að hreppsnefndin hlutaðist til um að girðing yrði sett upp á Hvassafells og Djúpadalsafréttum, er það að segja, að eigandi Hvassafellsafréttar Júlíus bóndi í Hvassafelli kveðst engin hross eða tryppi hafa á afréttinni, og fellur girðingarskilda hans þar með niður. Hvað Djúpadal aftur á móti áhrærir munu hlutaðeigendur ef til vill fáanlegir til að girða, en slík girðing er þýðingarlítil eða með öllu gagnslaus meðan Hvassafellsdalur er ógirtur. Þetta vill hreppsnefndin að þið athugið áður en lengra er gengið.“
Í lýsingu, sem gerð var á Hvassafelli 22. nóvember 1916 vegna fasteignamats 1916-1918, sagði meðal annars: „Undir jörðina liggur afrjettarland, Hvassafellsdalur, nægilegt land fyrir fje og trippi jarðarinnar.“
Í skrá, sem virðist hafa verið gerð hjá embætti sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu á árinu 1979, var kafli um afrétti „á Djúpadölum“, þar sem sagði meðal annars: „5. Hvassafellsdalur vestan Djúpadalsár frá Hrauná til botns og Hraunárdalur sunnan Hraunár. Heyrir undir Hvassafell.“
Oddviti Saurbæjarhrepps ritaði félagsmálaráðuneytinu bréf 8. janúar 1990 í tilefni af fyrirspurn þess frá 20. febrúar 1989, þar sem sagði að engin afréttarlönd væru í hreppnum „önnur en fjallshlíðarnar ofan við girt heimalönd og dalskorur sem ganga inn í hálendið út frá byggðum dölum“, en þau væru öll „í einkaeigu“.
Áfrýjandi gerði 26. apríl 2005 samning við eiganda Hvassafells um kaup á hluta „jarðarinnar Hvassafells ... er afmarkast af Djúpadalsá á annan veginn og Hrauná á hinn veginn ... nánar tiltekið Hvassafellsdalur vestan Djúpadalsár og Hraunárdalur austan Hraunár.“ Samkvæmt uppdrætti, sem vísað var til í kaupsamningnum, voru merki þessa lands í meginatriðum þau sömu og merki landsvæðisins Hvassafellsdals, sem lögð eru til grundvallar í málinu. Kaupverðið, 8.000.000 krónur, skyldi greitt við útgáfu afsals, en í samningnum sagði að öðru leyti: „Hinum selda eignarhluta skal skipt út úr jörðinni Hvassafelli og gerður að sér fasteign og skal kaupandi bera kostnað af skiptingu jarðarinnar. Eignast kaupandi öll réttindi og yfirtekur allar skyldur er eigninni fylgja, hverju nafni sem nefnast. Eignarhlutinn skal jafnframt leystur úr landbúnaðarnotum. Jörðin Hvassafell skal áfram hafa rétt til að nýta umrædda landspildu til beitar og að nýta þá vegi sem kunna að verða lagðir að viðkomandi spildu. Réttur þessi er án endurgjalds og óuppsegjanlegur. Afsal fyrir hinu selda skal gefa út eftir þinglýsingu stofnskjals fyrir eignarhlutann og afléttingu veðbanda. Miðað er við að skipting jarðarinnar og útgáfa afsals fari fram innan tveggja mánaða frá undirritun samnings þessa.“
Samkvæmt gögnum, sem áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt, leitaði hann ásamt eiganda Hvassafells eftir því með bréfi til landbúnaðarráðuneytisins 2. maí 2005 að það heimilaði „skiptingu jarðarinnar Hvassafells ... þannig að spilda sem afmarkast af Djúpadalsá á annan veginn og Hrauná á hinn veginn verði gerð að sér fasteign og skráð sem jörð undir nafninu Hvassafellsdalur.“ Var einnig óskað eftir því að „viðkomandi spilda verði leyst úr landbúnaðarnotum.“ Samkvæmt áritun á bréfinu virðist það ekki hafa borist ráðuneytinu fyrr en 30. júní 2005 og má þannig ætla að því hafi þá fylgt bréf sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar 23. sama mánaðar, þar sem sagði: „Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar lýsir því hér með yfir að hún gerir ekki athugasemd við að hluti úr jörðinni Hvassafelli verði leystur úr landbúnaðarnotum. Svæði þetta afmarkast af Djúpadalsá á annan veginn en Hrauná á hinn veginn og er nánar tiltekið Hvassafellsdalur vestan Djúpadalsár og Hraunárdalur austan Hraunár. Sveitarstjórn gerir auk heldur ekki athugasemd við að land þetta verði skráð sem jörð undir nafninu Hvassafellsdalur sbr. beiðni í meðfylgjandi erindi Aðalsteins Bjarnasonar f.h. Fallorku ehf. dags. 02.05.05.“ Þessi síðastnefnda beiðni er ekki meðal gagna málsins. Landbúnaðarráðherra gerði í framhaldi af þessu leyfisbréf 15. júlí 2005, þar sem tiltekið var að á grundvelli 6. gr. jarðalaga nr. 81/2004 leysti hann „úr landbúnaðarnotum spildu úr jörðinni Hvassafelli í Eyjafjarðarsveit, landnúmer 152659, sem er eign Tryggva Jóhannssonar skv. þinglýsingarvottorði dags. 2. maí 2005.“ Væru jafnframt staðfest „landskipti á spildunni úr jörðinni skv. 13. gr. sömu laga.“ Að öðru leyti sagði eftirfarandi í leyfisbréfinu: „Lausn þessi, sem veitt er að beiðni eiganda og væntanlegs kaupanda spildunnar, Fallorku ehf., hefur hlotið jákvæða umsögn sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar með bréfi dags. 23. júní 2005. Jarðarhluti sá sem skipt er út úr jörðinni og leystur er úr landbúnaðarnotum er óskað eftir að verði skráður sem jörðin Hvassafellsdalur og er afmörkun jarðarhlutans Hvassafellsdalur vestan Djúpadalsár og Hraunárdalur austan Hraunár og er hann merktur inn á uppdrátt sem áritaður er af eiganda og kaupanda og jafnframt staðfestur af skipulagsyfirvöldum Eyjafjarðarsveitar og fylgir uppdrátturinn leyfi þessu og er hluti af því. Leyfi þessu, ásamt uppdrætti skal þinglýsa og öðlast það þá gildi.“ Þessu skjali var þinglýst 19. júlí 2005.
Eigandi Hvassafells undirritaði 7. ágúst 2005 skjal með fyrirsögninni: „Stofnskjal sbr. 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og 2. mgr. 20. gr. laga um þinglýsingar, nr. 39/1978 með síðari breytingum.“ Í skjalinu kom fram að „heiti fasteignar/lóðar“ sem það sneri að væri Hvassafellsdalur, landnúmer lóðar og fastanúmer fasteignar væri 202641, en „landnúmer þess lands sem lóð er tekin úr“ væri 152659. Í meginmáli skjalsins sagði að öðru leyti: „Landspilda þessi afmarkast af Djúpadalsá annars vegar og Hrauná hins vegar og er lögun hennar og staðsetning eins og fram kemur á meðfylgjandi uppdrætti, sem er staðfestur af skipulagsyfirvöldum. Landeigandi ráðstafar afnotarétti á landinu í samræmi við reglur og framkvæmd viðkomandi sveitarfélags þar um. Setning nánari skilmála er í höndum landeigenda/sveitarfélags.“ Skjalinu var þinglýst 8. ágúst 2005.
Áfrýjandi fékk 9. september 2005 útgefið afsal á grundvelli fyrrnefnds kaupsamnings frá 26. apríl 2005 og var því þinglýst 27. september sama ár. Í málinu liggur fyrir þinglýsingarvottorð fyrir eignina „Hvassafellsdalur 202641“ og er efni þess í samræmi við það, sem að framan hefur verið rakið.
IV
Í Landnámabók var greint frá því að Helgi hinn magri hafi numið „allan Eyjafjǫrð milli Sigluness ok Reynisness“. Eftir fyrstu tvo veturna á Íslandi hafi hann fært bú sitt að Kristnesi, en síðan „tóku menn at byggja í landnámi Helga at hans ráði.“ Nánar um þetta sagði meðal annars að Helgi hafi gefið Hámundi mági sínum „land milli Merkigils ok Skjálgdalsár“ og hafi hann búið að „Espihóli enum syðra“. Sú jörð er í Eyjafjarðardal vestan Eyjafjarðarár og mun síðar hafa fengið nafnið Litlihóll, en bærinn þar er um 9 km norðan við Hvassafell. Skjálgdalsá mun nú heita Skjóldalsá og fellur hún úr vestri í Eyjafjarðará um 6 km fyrir sunnan Litlahól. Einnig hafi Helgi gefið Þóru dóttur sinni og Gunnari manni hennar Úlfljótssyni „land upp frá Skjálgdalsá til Háls“ og hafi þau búið „í Djúpadal.“ Jörðin Djúpidalur, sem nú heitir Stóridalur, er í Djúpadal og eru bæjarhús þar um 3 km suðvestan við Hvassafell. Bærinn á Hálsi stendur á hinn bóginn í Eyjafjarðardal, nánast miðju vegu milli Djúpadalsár og Eyjafjarðarár, um 2 km suðaustan við bæinn á Hvassafelli. Þá sagði í Landnámabók að Helgi hafi gefið dóttur sinni Helgu og manni hennar Auðuni rotin Þórólfssyni „land upp frá Hálsi til Villingadals“ og hafi þau búið að Saurbæ. Sá bær er í Eyjafjarðardal um 3,5 km fyrir suðaustan Hvassafell og 1 km sunnan við Háls, en Villingadalur gengur inn í landið til suðvesturs frá Eyjafjarðardal um 13 km fyrir sunnan Saurbæ.
Af framangreindri lýsingu verður ekki annað ráðið en að hún hafi tekið til lands í Eyjafjarðardal, en ekki í Djúpadal sem slíkum að öðru leyti en því að þar kom fram að Þóra Helgadóttir og Gunnar Úlfljótsson hafi búið í dalnum eða á býli, sem dró heiti sitt af honum. Hvað sem líður heimildargildi Landnámabókar verða þannig engar ályktanir dregnar af texta hennar um hvort beinn eignarréttur kunni að hafa stofnast með námi lands á svæðinu, sem málið varðar, hvað þá um umfang slíks landnáms. Fram hjá því verður á hinn bóginn ekki litið að fyrir óbyggðanefnd dró stefndi ekki í efa að fyrir hendi væri beinn eignarréttur að víðáttumiklu landi, sem að verulegu leyti er hálendi, í og upp af Hraunárdal fyrir norðvestan Hrauná og að það ætti undir jörðina Kambfell. Er óhjákvæmilegt að líta svo á að stefndi viðurkenni að þau eignarréttindi hafi orðið til með námi. Landsvæðið, sem mál þetta varðar, liggur sem áður segir að norðvestan að Hrauná gegnt landi Kambfells og er sú á lítill farartálmi. Að þessu leyti verður því ekki útilokað að land á Hvassafellsdal gæti að minnsta kosti að einhverju marki einnig hafa verið numið og þannig orðið háð beinum eignarrétti.
Þegar litið er til annarra atriða við mat á því hvort beinn eignarréttur geti hafa orðið til að landi á svæðinu Hvassafellsdal verður að gæta að því að það er að öðru leyti en að framan greinir umlukið þjóðlendum. Láglendi á svæðinu er óverulegt og eru engar heimildir um að nokkru sinni hafi þar verið búseta að frátöldu því að um aldir virðist hafa verið þar sel frá jörðinni Hvassafelli. Milli merkja þeirrar jarðar og svæðisins eru sem fyrr segir nærri 9 km og liggur þar land fimm annarra jarða. Í málinu eru fáar heimildir um réttindi yfir landi á svæðinu, en fyrst var þess getið sem áður segir í jarðabók frá 1712 með orðum um að Hvassafell ætti þar selför og því næst í jarðamati 1849, en þar var í stuttum texta ítrekað rætt um svæðið sem afrétt og tekið fram að á honum væri selstaða frá Hvassafelli. Eins var fjallað um svæðið sem afrétt í fyrrnefndu bréfi Saurbæjarhrepps 26. júní 1912 og lýsingu á Hvassafelli 22. nóvember 1916, sem gerð var vegna fasteignamats 1916-1918. Að auki verður að gæta að því að í landamerkjabréfi fyrir Hvassafell 16. janúar 1883 var eftir tilgreiningu á merkjum jarðarinnar tekið fram að fjallið milli Djúpadalsár og Hraunár fyrir framan Kambfell heyrði undir jörðina, en það orðalag gefur vart til kynna að þetta land hafi verið hluti af henni og háð beinum eignarréttindum. Síðast en ekki síst verður að líta til þess að í áðurnefndri matsgerð dómkvaddra manna frá 17. maí 1909, þar sem jörðin Hvassafell var metin til verðs með „öllu því, sem henni fylgir og fylgja ber“, var tekið svo til orða að „undir jörðina liggur afrétt, sem notuð er til upprekstrar og sumpart fyrir búfjárhaga á sumrum.“ Í ljósi þess að í kjölfarið gaf stefndi út til nafngreinds ábúanda á jörðinni afsal 15. júní 1910, þar sem vísað var til ákvæða laga nr. 31/1905 um sölu þjóðjarða, getur ekki orkað tvímælis að þessarar matsgerðar hafi verið aflað til að fullnægja fyrirmælum 7. gr. þeirra laga um aðdraganda að sölu þjóðjarðar, þótt það hafi ekki verið tekið fram í matsgerðinni. Samkvæmt 10. gr. sömu laga bar sýslumanni að kynna slíka matsgerð væntanlegum kaupanda þjóðjarðar áður en til afsals kæmi. Ekkert liggur fyrir um að kaupandi jarðarinnar samkvæmt afsalinu 15. júní 1910, sem áfrýjandi leiðir rétt sinn frá, hafi hreyft nokkurri athugasemd við lýsingu hennar í matsgerðinni. Heimildirnar, sem hér hefur verið vísað til, styðja á engan hátt að land á svæðinu, sem málið varðar, hafi með námi orðið háð beinum eignarrétti, heldur hníga þær þvert á móti eindregið að því að eigendur jarðarinnar Hvassafells hafi notið óbeinna eignarréttinda yfir landinu, sem falist hafi í hefðbundnum notum til upprekstrar búfjár og öðru því, sem afréttir hafa í aldanna rás almennt verið hafðir til.
Þótt eigandi Hvassafells, sem gaf út afsal til áfrýjanda fyrir landsvæðinu Hvassafellsdal 9. september 2005, hafi ekki getað framselt með því víðtækari réttindi en hann naut með réttu, er ekki unnt við úrlausn málsins að horfa fram hjá því að saman leituðu þeir sem áður segir með bréfi 2. maí sama ár eftir því við landbúnaðarráðherra að hann heimilaði „skiptingu jarðarinnar Hvassafells“ á þann hátt að þetta svæði yrði gert „að sér fasteign og skráð sem jörð undir nafninu Hvassafellsdalur“, svo og að það yrði leyst úr landbúnaðarnotum. Við þessu erindi brást ráðherra eins og fyrr greinir með því að gefið var út í nafni hans 15. júlí 2005 leyfisbréf, þar sem hann leysti „úr landbúnaðarnotum spildu úr jörðinni Hvassafelli“ með vísan til 6. gr. jarðalaga og staðfesti á grundvelli 13. gr. sömu laga „landskipti á spildunni úr jörðinni“. Að því verður að gæta að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. jarðalaga gilda þau meðal annars um jarðir, jarðarhluta, afréttarlönd, almenninga, öræfi og þjóðlendur. Samkvæmt 5. gr. jarðalaga, eins og hún hljóðaði á þessum tíma, var lausn lands undan landbúnaðarnotum eftir 6. gr. laganna ekki háð því að það væri háð beinum eignarrétti sem hluti af jörð, enda var tekið fram í fyrrnefndu lagagreininni að undir reglur þessar féllu meðal annars „afréttir, almenningar, þjóðlendur“. Þá er tekið fram í 1. mgr. 12. gr. jarðalaga, upphafsákvæði IV. kafla laganna sem tekur til landskipta og fyrrnefnd 13. gr. heyrir meðal annarra til, að um skipti á landi, sem lögin gilda um, fari eftir ákvæðum gildandi laga á hverjum tíma. Samkvæmt þessu var nauðsyn á staðfestingu ráðherra á landskiptum og leyfi hans til lausnar á landi úr landbúnaðarnotum ekki bundin við lönd jarða, sem háð eru beinum eignarrétti, heldur gilti það sama um þjóðlendu, sem er í afréttareign tiltekinnar jarðar. Í því horfi hefði landbúnaðarráðherra getað orðið við beiðni áfrýjanda og eiganda Hvassafells frá 2. maí 2005 eða sett í leyfi sínu fyrirvara um eignarréttarlega stöðu landsvæðisins, sem hún laut að. Það gerði ráðherra á hinn bóginn ekki, en á honum hvíldi rannsóknarskylda samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við töku ákvörðunar um þessa beiðni, heldur var í bréfi hans 15. júlí 2005 tekið fram, auk þess sem að framan var vísað til, að óskað væri eftir að „jarðarhluti sá sem skipt er út úr jörðinni og leystur er úr landbúnaðarnotum“ yrði „skráður sem jörðin Hvassafellsdalur“ með tilteknum merkjum og við þeirri ósk var orðið. Eðli máls samkvæmt var ekki unnt að ræða á þennan hátt um landsvæðið Hvassafellsdal sem spildu innan jarðarinnar Hvassafells, skiptingu þeirrar spildu út úr landi jarðarinnar og skráningu svæðisins sem nýrrar jarðar, svo og að samþykkja að það fengi þá stöðu að lögum, nema á þeim grundvelli að landið á svæðinu væri háð beinum eignarrétti. Krafa fjármálaráðherra, sem barst óbyggðanefnd 14. mars 2008 um mörk þjóðlendu og eignarlanda, var að því er varðar Hvassafellsdal alls ósamrýmanleg framangreindri afstöðu landbúnaðarráðherra, hliðsetts handhafa framkvæmdarvalds stefnda. Er því óhjákvæmilegt að taka til greina kröfu áfrýjanda um að felld verði úr gildi ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 2/2008 um að landsvæðið Hvassafellsdalur sé þjóðlenda, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 11. maí 2006 í máli nr. 496/2005 og 10. október 2013 í máli nr. 617/2012.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða látin standa óröskuð. Ekki eru efni til að dæma áfrýjanda málskostnað úr hendi stefnda fyrir Hæstarétti, enda nýtur áfrýjandi gjafsóknar hér fyrir dómi, en kostnað af henni skal greiða úr ríkissjóði að meðtalinni þóknun lögmanns hans eins og í dómsorði greinir.
Það athugast að mál þetta var þingfest í héraði 21. janúar 2010, en stefndi tók til varna í því með greinargerð, sem lögð var fram 8. apríl 2010, og fékk hann síðan frest til frekari gagnaöflunar, sem lokið var í þinghaldi 27. maí sama ár. Málið var næst tekið fyrir á dómþingi nærri þremur árum og fimm mánuðum síðar, 25. október 2013, en þá var fært til bókar að farið hafi verið á vettvang 3. sama mánaðar, málið hafi verið munnlega flutt og það dómtekið. Aftur var málið tekið fyrir meira en tveimur árum síðar, 27. nóvember 2015. Var þá fært í þingbók að munnlegur málflutningur hafi farið fram á ný „þar sem dómsuppsaga dróst“ og var málið dómtekið að nýju. Enn var málið tekið fyrir meira en hálfu ári síðar, 8. júní 2016, og það sama bókað og í næsta þinghaldi á undan. Loks að tæpum fimm mánuðum liðnum var málið tekið fyrir 1. nóvember 2016 með sömu skýringu í þingbók og fyrr. Hinn áfrýjaði dómur var svo kveðinn upp 29. nóvember 2016, sex árum og tíu mánuðum eftir að málið var þingfest. Þessi málsmeðferð er óforsvaranleg og harðlega vítaverð.
Dómsorð:
Fellt er úr gildi ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar 19. júní 2009 í máli nr. 2/2008 um að landsvæði, sem þar var nefnt Hvassafellsdalur, sé þjóðlenda.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Fallorku ehf., fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 1.000.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 29. nóvember 2016.
Mál þetta, sem var dómtekið 1. nóvember sl. var höfðað 20. janúar 2010.
Stefnandi er Fallorka ehf., Rangárvöllum, Akureyri.
Stefndi er íslenska ríkið.
Stefnandi krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í máli nr. 2/2008, Eyjafjarðarsveit vestan, sem var kveðinn upp 19. júní 2009, að því er varðar þjóðlendu á landsvæði innan neðangreindra marka:
Frá ármótum Djúpadalsár og Hraunár er hvorri á um sig fylgt til upptaka sinna. Þaðan eru dregnar línur til sveitarfélagamarka Eyjafjarðarsveitar og Hörgárbyggðar, í samræmi við kröfulínur gagnaðila ríkisins, og sveitarfélagmörkum síðan fylgt þar á milli.
Þá krefst stefnandi viðurkenningar á því að innan framangreindra merkja sé engin þjóðlenda.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar, en til vara sýknu og að málskostnaður falli niður.
I
Með bréfi dagsettu 29. mars 2007 tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra f.h. stefnda að hún hefði ákveðið að taka til meðferðar tiltekið landsvæði á Norðurlandi, hið sjöunda í röðinni hjá nefndinni. Að ósk ráðherra var umfjöllun skipt, þannig að fyrst yrði einungis syðri hluti þess til meðferðar. Fékk sá hluti, vestanvert Norðurland, syðri hluti, númerið 7A. Fjallaði nefndin um hann og fleira í máli nr. 2/2008, Eyjafjarðarsveit vestan Eyjafjarðarár. Kröfulýsingar stefnda voru sendar óbyggðanefnd 14. mars 2008. Gerði stefndi kröfu um að viðurkennt yrði sem þjóðlenda nánar tiltekið svæði, þ.á m. það sem hér er til umfjöllunar. Nefndin birti tilkynningu um meðferð á svæðinu í Lögbirtingablaði 28. mars 2008 og síðan í fleiri blöðum. Stefnandi sem er þinglýstur eigandi Hvassafellsdals gerði kröfu um að nefndin hafnaði kröfum stefnda og viðurkenndi eignarrétt hans að öllu landi jarðarinnar innan þinglýstra merkja.
Hinn 19. júní 2009 kvað nefndin upp úrskurð í máli nr. 2/2008. Var niðurstaða hennar að á svæðinu ætti að vera þjóðlenda í afréttareign stefnanda, að undanskildum upprekstrarrétti.
II
Stefnandi kveðst telja landið eignarland í skilningi 1. gr. laga nr. 58/1998, þar sem eignarland sé skilgreint þannig að eigandi fari með öll venjuleg eignarráð innan þeirra marka sem lög segi til um á hverjum tíma.
Stefnandi kveðst halda því fram að hið umdeilda svæði hafi verið hluti landnáms Helga hins magra og hafi það verið staðfest í úrskurði óbyggðanefndar. Samkvæmt Landnámu hafi Djúpadalslönd, á milli Skjálgdalsár og Háls, fylgt Þóru dóttur Helga, þegar hún hafi verið gefin Gunnari Úlfljótssyni. Þau hafi búið í Djúpadal.
Stefnandi kveðst byggja á því að hið umdeilda land hafi frá öndverðu fylgt jörðinni og notið stöðu jarðar að lögum. Telji hann það hafa verið meginforsendu fyrir niðurstöðu óbyggðanefndar að aðrar jarðir séu á milli umdeilds og óumdeilds lands jarðarinnar Hvassafells. Virðist sem nefndin hafi ekki tekið tillit til þess að hið umdeilda land hafi verið hluti landnámsjarðarinnar Djúpadals, en við landskipti hafi mál skipast þannig að einstakar jarðir innan torfunnar séu tvískiptar og skýrist það af landsháttum. Telur hann að væru landsvæðin ekki aðgreind hefði niðurstaða nefndarinnar orðið sér í hag. Tekur hann fram að raunar virðist svo sem landsvæði, sem hafi verið úrskurðuð þjóðlendur á svæði 7A, séu öll því marki brennd að vera aðskildir hlutar jarða og virðist sem það eitt og sér nægi til þess að land sé úrskurðað þjóðlenda, jafnvel þó heimildir um eignarhald og nýtingu hafi í sumum tilfellum verið að minnsta kosti jafn góðar og þær sem hafi verið til umfjöllunar í máli Hæstaréttar nr. 448/2006, þar sem rétturinn hafi komist að því að Stórhöfði í Mýrdal hafi verið háður beinum eignarrétti sem heiðaland jarðar, allt frá landnámi.
Þá sé í tilfelli Leynings í Eyjafjarðarsveit til dómur frá 1571, þar sem segi um Leyningsdal að ,,...þessi dalur sem hjá Leyningi liggur og selið í stendur hafi verið haldinn lögleg eign jarðarinnar oft nefnds Leynings aðkallslaust og átölulaust meira en í sextíu ár, eður mun lengur, því allt í guðs nafni amen og eftir þessum vitnum svo og að öllu svo prófuðu máli og fyrir mig komnu þá úrskurða ég nú með ljósum lagaverknað þennan dal er selið frá Leynings jörðu í stendur, löglega eign oft nefndrar jarðar Leynings.“ Segi í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 að jörðin Leyningur eigi selstöðu með tilliggjandi landi á Leyningsdal, sem liggi fram frá Villingadalslandi fyrir framan Svartá. Segir stefnandi að sömu tilgreiningu sé að finna í Jarðabókinni um hið umdeilda land, þ.e. selstöðu með tilliggjandi landi. Kveðst stefnandi halda því fram að slík tilgreining taki til þess að landið þar sem selið standi sé beinum eignarrétti undirorpið, sbr. dóm Landsyfirréttar í máli nr. 11/1896 um Hellistungur í Borgarfirði.
Þá kveðst stefnandi einnig vísa til þess að stefndi hafi fallið frá kröfum varðandi Hóladal/Steinsstaðadal undir meðferð máls nr. 3 á svæði 7A, en hann sé aðskilinn frá heimajörðinni af landi Þverár.
Samkvæmt þessu telur stefnandi að úrskurður óbyggðanefndar sé í ósamræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 448/2006, jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.
Stefnandi tekur fram að fyrirliggjandi heimildir beri allar með sér að hið umdeilda land hafi alla tíð fylgt jörðinni við aðilaskipti og ekki hafi verið gerður greinarmunur á því og öðru landi hennar. Hafi það verið metið til verðs, greidd af því tíund og síðar fasteignaskattur. Sé það afmarkað í landamerkjabréfum sem hafi verið gerð fyrir jörðina og sé því mótmælt að um annað en landamerkjabréf fyrir jörð sé að ræða.
Þá segir stefnandi að óbyggðanefnd virðist ganga út frá því að hið umdeilda landsvæði hafi verið samnotaafréttur frá fornu fari. Kveðst stefnandi mótmæla þessu með vísan til fyrrnefndra gagna, auk svars hreppstjóra Saurbæjarhrepps við fyrirspurn félagsmálaráðuneytisins, dags. 8. janúar 1990, sem og skrá yfir afrétti í Saurbæjarhreppi sem liggi frammi í málinu. Ekkert í þessum gögnum bendi til þess að um samnotaafrétt hafi verið að ræða, heldur þvert á móti.
Einnig segir stefnandi að óbyggðanefnd vísi til þeirra almennu röksemda að hið umdeilda land sé misjafnlega gróið og hluti þess sé gróðursnautt. Kveðst hann minna á að staðhættir og gróðurfar sé með öðrum hætti en þegar landið hafi verið tekið til eignar.
Þá segir stefnandi að litið hafi verið til þess í sambærilegum málum að réttmætar væntingar eiganda um eignarrétt sinn, eins og þær sem að framan greini, njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Verði eigandi ekki sviptur þeim fjárhagslegu hagsmunum sem nánar greini í umræddum eignarréttarákvæðum. Athugasemdir við frumvarp sem hafi orðið að lögum nr. 58/1998 beri skýrlega með sér að það hafi ekki verið ætlun löggjafans að svipta landeigendur eignarheimildum sem þeir hafi aflað og notið athugasemdalaust um aldalangt skeið, með því að gera þeim að sýna fram á órofna sögu eignarréttar frá landnámi og láta þá bera hallann af vafa um þetta efni.
Hið umdeilda land hafi fengið staðfestingu opinberra aðila, bæði Fasteignamats ríkisins og sýslumannsins á Akureyri, á því að það sé undirorpið beinum eignarrétti. Þannig hátti til að árið 2005 hafi Hvassafellsdalur verið skilinn frá öðru landi Hvassafells með útgáfu og þinglýsingu stofnskjals, en ekki sé gert ráð fyrir því í lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 og þinglýsingalögum nr. 39/2009, að með stofnskjali sé stofnað annars konar land en fullkomið eignarland. Hafi Hvassafellsdalur samhliða útgáfu stofnskjals fengið sérstaka síðu í fasteignabók sýslumanns og sérstakt fasteignamat til grundvallar fasteignaskatti. Síðan hafi landið verið selt stefnanda fyrir 8.000.000 króna.
Stefnandi telur að með háttsemi sinni hafi opinberir aðilar skapað hjá honum réttmætar væntingar um að landið sem hann hafi keypt sé fullkomið eignarland. Njóti hinar réttmætu væntingar hans sérstakrar verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og annarra mannréttindaákvæða.
Stefnandi hafi þannig í gegnum tíðina haft réttmætar ástæður til að ætla að land innan þinglýstra landamerkja jarðarinnar væri undirorpið fullkomnum eignarrétti og hafi aðgerðir stefnda fram til þessa aðeins styrkt landeigendur í þeirri trú.
Samkvæmt öllu framangreindu séu þeir annmarkar á úrskurði óbyggðanefndar að varði ógildingu hans.
Stefnandi kveðst byggja á því að lög nr. 58/1998 verði ekki skýrð á þá leið að hann þurfi að sýna frekar fram á, en þegar hafi verið gert, að umrætt landsvæði sé eignarland og þar með utan þjóðlendu. Ekki ráði úrslitum í þessu máli þótt víða í heimildum sé notað orðið afréttur um hið umdeilda land. Afréttur geti verið heimaafréttur og ekki eingöngu notaður til sumarbeitar sauðfjár. Þá ráði ekki úrslitum um eignarhald þótt land sé aðeins notað til sumarbeitar.
Stefnandi kveðst vísa til þess að stefndi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi nokkurn rétt til umrædds landsvæðis. Til að stefndi geti öðlast þann rétt sem sé skilgreindur í þjóðlendulögum verði að sýna fram á að heimildir um landamerki séu rangar og sömuleiðis þinglesnar landamerkjaskrár, en það hafi hann á engan hátt gert. Þá þurfi stefndi að sýna fram á að afréttur sé samnotaafréttur en ekki einkaafréttur eða hluti jarðar, sem hann hafi ekki gert og hafi það mikið að segja við ákvörðun um inntak eignarréttarins.
Stefnandi kveðst byggja á því að verði eignarréttur hans ekki viðurkenndur á grundvelli þinglýstra eignarheimilda hafi hann öðlast eignarrétt að hinu umdeilda landsvæði fyrir hefð og vísar hann til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 46/1905. Stefnandi og fyrri eigendur hafi í góðri trú haft öll umráð landsins í aldaraðir. Fullnægt sé öllum skilyrðum um hefðartíma, virk umráð og huglæga afstöðu. Samkvæmt því verði að telja, án tillits til uppruna og sögu eignarheimilda fyrir jörðinni, að hefð hafi unnist, sbr. 2. gr. laga nr. 46/1905. Með hliðsjón af afstöðu eigenda á hverjum tíma og nýtingar þeirra verði að telja að sú hefð hafi verið til eignar á landinu en ekki aðeins náð til takmarkaðra afnota eða ítaksréttinda.
Stefnandi vísar til 25. og 26. gr. laga nr. 39/1978, 72. gr. stjórnskipunarlaga, sbr. 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá er vísað til óskráðra reglna eignarréttar um beinan eignarrétt, 1. gr. laga nr. 58/1998 og 1. gr. laga nr. 41/1919 um landamerki, sbr. eldri lög um sama efni. Þá er vísað til laga nr. 14/1905, venjuréttar, meginreglna einkamálaréttarfars um sönnunargildi dóma, sbr. nú 116. gr. laga nr. 1991 og málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttar, sbr. lög nr. 37/1993.
III
Stefndi kveðst aðallega byggja á því að Hvassafellsdalur sé svæði utan eignarlanda og teljist því þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998. Telur hann ljóst af heimildum að svæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti. Hvíli sönnunarbyrði á stefnanda um annað.
Þá tekur stefndi fram að óbyggðanefnd hafi byggt úrskurð sinn á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum. Sé niðurstaðan byggð á kerfisbundinni leit nefndarinnar að gögnum og á framlögðum skjölum frá málsaðilum. Þá hafi verið byggt á skýrslum sem hafi verið gefnar fyrir nefndinni. Hafi óbyggðanefnd talið að svæðið væri þjóðlenda og úrskurðað að Hvassafellsdalur væri í afréttareign stefnanda, að upprekstrarrétti undanskildum. Kveðst stefndi styðja sýknukröfu við niðurstöður nefndarinnar auk annarra málsástæðna sinna.
Stefndi vísar til þess að fyrir hendi sé landamerkjabréf fyrir Hvassafell, dagsett 16. janúar 1883. Þar sé merkjum jarðarinnar lýst og síðan segi að undir jörðina heyri fjallið milli Djúpadalsár og Hraunár fyrir framan Kambfell. Við mat á gildi slíkra bréfa beri að gæta að því að þau feli fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felist á engan hátt að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland. Þrátt fyrir að bréfinu hafi verið þinglýst, sé ekki hægt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi eigi. Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. m.a. niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 48/2004.
Þá segir stefndi að almennt skipti það máli hvort um sé að ræða jörð í eignarréttarlegum skilningi, eða annað landsvæði. Þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig önnur svæði, svo sem afréttarsvæði, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð. Almennt feli landamerkjabréf fyrir jörð í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða, þó með hliðsjón af eldri heimildum, enda verði við slíkt mat að meta gildi hvers landamerkjabréfs sérstaklega. Við mat á gildi landamerkjabréfsins verði að horfa til þess að ágreiningssvæðið sé landfræðilega aðskilið frá jörðinni Hvassafelli. Telur stefndi að slíkt dragi úr líkum á að hið aðskilda svæði sé háð beinum eignarrétti. Í sama landamerkjabréfi kunni að vera afmarkað annars vegar svæði sem sé háð beinum eignarrétti og hins vegar afmörkun á svæði með takmörkuðum réttindum.
Þá bendir stefndi á að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt inn til lands landnám á þessu svæði hafi náð. Verði að teljast ólíklegt að umdeilda svæðið hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum, gróðurfari, víðáttu og því að það er hálent.
Í samræmi við dómafordæmi teljist heimildarskortur um þetta leiða til þess að álitið verði ósannað að heiðalönd eða öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu. Verði af dómafordæmum ráðin sú regla að sé deilt um upphaflegt nám lands verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildarskortur leiði til þess að álitið verði ósannað að slík svæði hafi verið numin í öndverðu. Hvíli sönnunarbyrðin um slíka stofnun eignarréttar á þeim sem haldi henni fram.
Ekki verði annað ráðið af heimildum en að svæðið hafi eingöngu verið nýtt með afar takmörkuðum hætti. Þá sé Djúpidalur sunnan Djúpadalsár þjóðlenda samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar.
Verði talið að svæðið hafi verið numið í öndverðu hafi það ekki verið numið til eignar, heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota. Frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér landsvæði sem hafi verið háð beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi sem einhverja þýðingu hafi getað haft fyrir afkomu þeirra. Meðan landsvæði hafi gefið eitthvað af sér hafi legið hagsmunir til að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau hafi verið.
Verði hins vegar talið að svæðið kunni að hafa að hluta eða öllu leyti verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarrétti, kveðst stefndi byggja á til vara, að allar líkur séu á því að slíkt eignarhald hafi fallið niður, en svæðið hafi verið tekið til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota. Þó að talið yrði að til beins eignarréttar hafi stofnast í öndverðu, liggi ekkert fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar.
Stefndi kveðst byggja á því að staðhættir og fjarlægð frá byggð bendi til þess að landið hafi ekki verið numið í öndverðu eða teljist lúta beinum eignarrétti. Það liggi allt í yfir 300 metra hæð fyrir sjávarmáli og rísi skarpt í Hvassafellshnjúk (1203 m), sem standi milli Djúpadalsár og Hraunár. Hvassafellsdalur sé vestan fyrrnefndu árinnar og austan eða suðaustan hnjúksins.
Engin gögn sé um það að finna að svæðið hafi nokkru sinni verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé. Segist stefndi álíta að sá háttur sem hafi verið hafður við fjallskil geti ekki einn og sér haft þýðingu við mat á eignarréttarlegri stöðu svæðisins, enda verði við mat á því jafnframt að horfa til annarra heimilda sem varði svæðið. Af þeim verði ekki annað ráðið en að það hafi frá öndverðu eingöngu verið nýtt til takmarkaðra nota, afréttarnota. Þótt það kunni eftir atvikum að hafa talist tilheyra Hvassafelli, þá hafi ekki í þeirri tilheyrslu falist annað og meira en tilheyrsla á afnotaréttindum, eftir atvikum fullkominni afréttareign, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58/1988. Beri jafnframt að líta til þess að það sé ekki afgirt og þangað hafi búfénaður getað leitað frá öðrum án hindrana.
Stefndi segir að eldri heimildir bendi eingöngu til afréttarnota. Vísar hann einkum til Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712, sem bendi eindregið til þess að um sé að ræða svæði sem sé háð óbeinum eignarrétti. Þar segi í umfjöllun um Hvassafell að jörðin eigi selför með tilliggjandi landi fram á Djúpadal, sem sé allur dalurinn vestan fram heim í Hrauná og brúkist árlega og sé í nokkuð lengra lagi. Þannig virðist ekki hafa verið litið á svæðið sem hluta af jörðinni, heldur landsvæði til selfarar. Í jarðamati 1849 segi að Hvassafelli fylgi afréttur í hálfum Hraunárdal sem kallist Hvassafellsdalur og sé þar selstaða frá Hvassafelli. Þá segi einnig að dalurinn sé með bestu afréttum þarna, en sé ekki stærri en fyrir heimilið. Í lýsingu Hvassafells 17. maí 1909 komi fram að undir jörðina liggi afrétt, sem notuð sé til upprekstrar og sumpart fyrir búfjárhaga á sumrin. Í fasteignamati 1916-1918 komi fram að undir Hvassafell liggi afréttarlandið Hvassafellsdalur, sem sé nægilegur fyrir fé og tryppi jarðarinnar.
Stefndi kveðst telja að þessar heimildir bendi ótvírætt til þess, að umrætt svæði sé ekki háð beinum eignarrétti, heldur sé þar um að ræða þjóðlendu, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998, sem að hluta til sé háð takmörkuðum eignarrétti stefnanda, sbr. c-lið 7. gr. sömu laga.
Þá kveðst stefndi mótmæla því að nokkur sönnun sé fram komin fyrir því að fasteignamöt og jarðamöt, sem hafi verið grundvöllur álagningar tíundar og fasteignaskatta vegna Hvassafells, hafi verið við það miðuð að Hvassafellsdalur væri háður beinum eignarrétti. Í því sambandi sé á það bent að dæmi hafi verið um það að beitiland jarða hafi verið metið sérstaklega til tíundar og að afréttur einstakra jarða hafi í sumum tilvikum verið reiknaður með í jarðamati, einkum ef þær hafi haft tekjur af upprekstrartollum. Þá kveðst stefndi gera athugasemdir við túlkun stefnanda á úrskurði óbyggðanefndar í þá veru að af honum megi ráða að nefndin gangi út frá því að svæðið hafi verið samnotaafréttur frá fornu fari. Kveðst stefndi benda á að niðurstaða nefndarinnar sé þvert á móti sú að það sé í afréttareign stefnanda að upprekstrarrétti frátöldum. Kveðst stefndi ekki gera athugasemd við þá niðurstöðu.
Þá verði ekki talið að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, m.a. með vísan til framanritaðra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhætti og eldri heimildir. Í aldanna rás hafi svæðið verið nýtt með afar takmörkuðum hætti, svo sem til sumarbeitar fyrir sauðfé. Hefðbundin afréttarnot eða önnur takmörkuð nýting lands geti hins vegar ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi.
Þá kveðst stefndi hafna því að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á svæðinu, þegar svo hátti til að heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignarréttar. Landslög þurfi til ráðstöfunar fasteigna ríkisins. Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík yfirráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þar með talið að þjóðlenda hafi verið látin af hendi. Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram. Þar að auki verði væntingarnar einnig að vera réttmætar. Geti menn ekki vænst þess að öðlast meiri og frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á.
Ef svo hátti til, líkt og hér, að m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignarréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.
Þinglýsing heimildarskjals feli ekki í sér sönnun um tilvist beins eignarréttar, sbr. þá meginreglu eignarréttarins að menn geti ekki með eignayfirfærslugerningi öðlast betri rétt en seljandi hafi átt.
Með vísan til framangreindra málsástæðna kveðst stefndi telja að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á eignarrétt sinn að Hvassafellsdal. Einstakir hlutar þessa svæðis séu misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taki þó breytingum og séu ekki endilega samfelld. Hvassafellsdalur sé því landsvæði sem að staðaldri hafi verið notað til sumarbeitar fyrir búfé, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998.
Stefndi vísar til almennra reglna eignarréttar, nánar greindra meginreglna hans og til þjóðlendulaga nr. 58/1998. Þá vísar hann til 72. gr. stjórnskipunarlaga nr. 33/1944, hefðarlaga nr. 14/1905 og laga nr. 6/1986 um afréttarmálefni og fjallskil, svo og ýmissa eignarréttarreglna Grágásar og Jónsbókar.
IV
Ekki er ágreiningur milli aðila um afmörkun svæðisins sem þetta mál varðar.
Eins og segir í úrskurði óbyggðanefndar er Djúpadals getið í Landnámu. Er rakið hér að framan að Djúpadalslönd milli Skjálgdalsár (sem nú heitir Skjóldalsá) og Háls hafi fylgt Þóru dóttur Helga magra er hún var gefin Gunnari Úlfljótssyni. Verður að miða við að svæðið sem þetta mál tekur til hafi verið hluti þessa landnáms, en hins verður að gæta, sem einnig kemur fram í úrskurði óbyggðanefndar að ekkert liggur fyrir um afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu eignarréttinda sem þar kann að hafa verið stofnað til og að beinn eignarréttur kann að hafa fallið niður og landsvæðið í kjölfarið verið tekið til takmarkaðra nota annarra.
Hér að framan er getið dóms Orms Sturlusonar frá 1571. Fallast má á það með stefnanda að langlíklegast verði að telja að þar sé fjallað um Leyningsdal, sérstaklega með tilliti til þess að þar er vísað til selsins frá Leyningsjörð, sem í honum standi. Þótt Ormur úrskurði þarna dalinn löglega eign Leynings, verður að líta til þess að ekki verður á því byggt að þar hafi verið um meira en afnotaréttindi að ræða, þ.e. selstöðu og beitarréttindi, einkum þegar litið er til yngri heimilda. Þannig segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns að jörðin eigi selstöðu með tilliggjandi landi á dalnum, en hafi ekki verið notuð í mörg ár nema til beitar. Verður dómur Orms ekki talinn hafa sérstakt fordæmisgildi um þetta svæði.
Þótt Djúpadalslönd kunni að hafa verið numin sem ein heild í öndverðu verður ekki fram hjá því horft að það skiptir máli að það svæði sem hér er deilt um er nú aðskilið frá landi jarðarinnar Hvassafells og hefur svo verið lengi. Hefur það ekki verið til annarra nota eftir að hætt var að hafa í seli, en til sumarbeitar fyrir búfé.
Hér að framan er rakið hvað segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 um að Hvassafell eigi selför með tilliggjandi landi fram á Djúpadal, svo og tilvitnanir í jarðamöt og lýsingu Hvassafells, þar sem rætt er um afrétt á Hvassafellsdal. Verður þetta talið benda til afréttarnota, fremur en beins eignarréttar.
Í landamerkjabréfi Hvassafells frá 1883 segir að undir jörðina heyri fjallið milli Djúpadalsár og Hraunár fyrir framan Kambfell. Fallast verður á það með stefnda að við mat á gildi slíkra bréfa verði að líta til þess að þau feli fyrst og fremst í sér lýsingu á merkjum, en í því felist ekki að allt land innan merkja sé óskorað eignarland. Þegar þetta er virt og litið til orðalags fyrrnefndra heimilda um selför og afrétt, verður að fallast á það að bréfið sé ekki sönnun um beinan eignarrétt að Hvassafellsdal.
Þegar þetta er virt verður fallist á það með stefnda að ekki hafi verið sýnt fram á að svæðið hafi haft stöðu jarðar að lögum. Þá verður ekki fallist á að beinn eignarréttur að því hafi unnist með hefð, miðað við þau takmörkuðu not sem stefnandi og fyrri eigendur hafa haft af því.
Hér að framan er rakið að stofnskjal var gert fyrir Hvassafellsdal og hann síðan seldur stefnanda. Þótt sýslumaður hafi þinglýst stofnskjali og svæðið hafi verið gert að sérstökum matshluta í fasteignamati, verður stefndi ekki talinn bundinn af því. Gat seljandi svæðisins ekki afsalað betri rétti en hann átti til þess og stofnaðist ekki fullkominn eignarréttur til handa stefnanda við þetta. Ekki er heldur unnt að fallast á að stefnandi hafi mátt hafa réttmætar væntingar til að hann ætti að því beinan eignarrétt, þegar litið er til staðhátta, gróðurfars og nýtingar svæðisins. Verður að líta svo á að svæðið sé landsvæði utan byggðar, sem að staðaldri hafi verið notað til sumarbeitar fyrir búfé, þ.e. afréttur í skilningi 1. gr. laga nr. 58/1998. Stefndi unir þeirri niðurstöðu að það sé í afréttareign stefnanda.
Samkvæmt þessu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Málskostnaður fellur niður. Um gjafsóknarkostnað fer eins og segir í dómsorði.
Erlingur Sigtryggsson kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi, íslenska ríkið, á að vera sýkn af kröfum stefnanda, Fallorku ehf. í þessu máli.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin gjafsóknarlaun lögmanns hans, Friðbjörns E. Garðarssonar hrl., 900.000 krónur.