Print

Mál nr. 214/2014

Lykilorð
  • Ærumeiðingar
  • Tjáningarfrelsi
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Sératkvæði

                                     

Fimmtudaginn 20. nóvember 2014.

Nr. 214/2014.

Egill Einarsson

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

gegn

Inga Kristjáni Sigurmarssyni

(Valtýr Sigurðsson hrl.)

Ærumeiðingar. Tjáningarfrelsi. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Sératkvæði.

E höfðaði mál á hendur I og krafðist þess að hann yrði dæmdur til refsingar fyrir ærumeiðandi aðdróttun með því að hafa breytt ljósmynd af sér á nánar tilgreindan hátt og birt hana þannig breytta og gegn betri vitund á myndskipamiðlinum Instagram, svo og að nánar tilgreind ummæli, sem I hafði viðhaft og birt í þessu samhengi, yrðu dæmd dauð og ómerk. Að auki gerði E kröfur um skaðabætur og kostnað af birtingu dóms í málinu. Var háttsemi I talin hafa falið í sér birtingu í merkingu 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Talið var að E nyti þeirrar persónuverndar sem lög stæðu til hvort sem hann kæmi fram undir eigin nafni eða öðrum tilbúnum nöfnum, en að hann yrði að sama skapi að axla ábyrgð á því efni sem hann léti frá sér fara, óháð því hvaða nafni hann kysi að kalla sig. Þá var skírskotað til þess að í undanfara að háttsemi I hefði E komið fram í blaðaviðtali og viðhaft þar ögrandi, ef ekki niðrandi ummæli um aðra. Með því hefði E hrundið af stað þjóðfélagsumræðu og mátt jafnframt gera sér ljóst að ummæli hans kynnu að kalla á hörð viðbrögð þeirra sem andúð hefðu á viðhorfum hans. Talið var að I nyti tjáningarfrelsis á grundvelli stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu og eins og á hefði staðið hefði hann notið rýmkaðs frelsis til að tjá sig um E og skoðanir hans. Þegar virt voru í heild hin afbakaða mynd, þar með talin áðurgreind ummæli, var talið að um væri að ræða fúkyrði I í garð E í óvæginni þjóðfélagslegri umræðu, sem E hefði átt frumkvæði að, og þar með gildisdóm um E en ekki staðhæfingu um að hann hefði gerst sekur um refsiverða háttsemi. Var í því samhengi meðal annars litið til þess að I hefði ekki haldið því fram að E hefði brotið þannig af sér gegn einhverjum öðrum, nafngreindum eða ónafngreindum. Var tjáning I umrætt sinn talin hafa verið innan marka þess frelsis sem honum væri tryggt í 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og hann því sýknaður af öllum kröfum E.  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 17. janúar 2014. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 5. mars sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni 26. mars 2014 samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Áfrýjandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til refsingar fyrir ærumeiðandi aðdróttun með því að hafa breytt ljósmynd af sér á nánar tilgreindan hátt og birt hana þannig breytta og gegn betri vitund á myndskiptamiðlinum Instagram 22. nóvember 2012. Einnig krefst hann þess að ummælin „fuck you rapist bastard“ sem stefndi viðhafði og birti í þessu samhengi verði dæmd dauð og ómerk. Þá krefst áfrýjandi þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. nóvember 2012 til 18. janúar 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Loks krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 150.000 krónur til þess að kosta birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í málinu í einu dagblaði, svo og að stefnda verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara þess að sér verði ekki gerð refsing. Einnig krefst hann sýknu af bótakröfu áfrýjanda, ellegar lækkunar hennar. Þá krefst stefndi sýknu af kröfu um greiðslu kostnaðar vegna birtingar forsendna og niðurstöðu dóms í dagblaði. Loks krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Við meðferð málsins í héraði var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

I

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi þar sem meðal annars kemur fram að tvær konur höfðu borið áfrýjanda sökum um kynferðisbrot. Að lokinni rannsókn lögreglu voru bæði málin felld niður af hálfu ákæruvaldsins 15. júní og 15. nóvember 2012 á grundvelli 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þar sem það, sem fram hafi komið við rannsóknina, væri ekki líklegt eða nægilegt til sakfellis. Í framhaldi af því mun áfrýjandi hafa borið fram kæru á hendur konunum vegna rangra sakargifta í sinn garð, en það mál einnig verið fellt niður.

Hinn 22. nóvember 2012 birtist viðtal við áfrýjanda í fylgiriti Morgunblaðsins, Monitor, þar sem hann ræddi auk annars um aðra af fyrrgreindum kærum vegna ætlaðs kynferðisbrots hans gegn átján ára stúlku. Í blaðaviðtalinu var áfrýjandi meðal annars spurður hvort það hefði aldrei hvarflað að honum að draga sig úr sviðsljósinu. Því svaraði hann: „Af hverju ætti ég að draga mig úr sviðsljósinu til lengri tíma, ég er saklaus af þessum viðbjóði sem ég var sakaður um. Það kemur náttúrulega ekkert til greina að ég láti nokkra vitleysinga og rangar sakargiftir stjórna lífi mínu.“ Nokkru síðar var áfrýjandi spurður: „Kvöldið örlagaríka ferðu heim með töluvert yngri konu ásamt kærustunni þinni þar sem, samkvæmt þinni frásögn, þið sofið saman öll þrjú með samþykki allra. Vissulega átti slíkt ekki að rata í fjölmiðla en er slíkt kynlíf orðið eðlilegur hlutur í dag?“ Í lok svars við spurningunni komst áfrýjandi svo að orði: „En stúlkan var inni á stað þar sem var 20 ára aldurstakmark og ég komst að því seinna að hún hafi verið 18 ára og það var ákveðið áfall, ég viðurkenni það.“ Aðspurður í beinu framhaldi hvort hann myndi ráðleggja ungum drengjum að stunda slíkt kynlíf svaraði áfrýjandi: „Ég ráðlegg öllum að stunda það kynlíf sem þeim bara sýnist en þó með þeim fyrirvara að þeir séu vissir um að bólfélagarnir séu í lagi.“

Í tilefni af blaðaviðtalinu ákvað stefndi að breyta mynd af áfrýjanda, sem birt var á forsíðu Monitor, á þann hátt að hann teiknaði öfugan kross á enni áfrýjanda, skrifaði „aumingi“ yfir andlit hans og bætti við fyrir neðan myndina textanum: „Fuck you rapist bastard“. Sama dag og viðtalið birtist setti stefndi myndina svo breytta á myndskiptamiðilinn Instagram. Daginn eftir var myndin birt á visir.is og rætt þar við áfrýjanda af því tilefni. Þegar stefndi setti myndina á Instagram taldi hann að um 100 vinir og kunningjar hans hefðu aðgang að þeim myndum, sem hann vistaði þar, en í rauninni munu myndirnar hafa verið aðgengilegar fyrir aðra notendur miðilsins.

II

Stefndi heldur því fram að sú háttsemi sín að setja hina afbökuðu mynd á umræddan myndskiptamiðil hafi ekki falið í sér birtingu hennar í merkingu 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þar sem hann hafi álitið að aðeins takmarkaður fjöldi manna hefði þar aðgang að henni. Ekki verður á það fallist, enda telst það birting samkvæmt hefðbundinni skýringu á hugtakinu að eitthvað sé gert aðgengilegt á rafrænan hátt fyrir jafn stóran hóp manna og að framan greinir, án tillits til þess hvort í hlut eiga vinir og kunningjar þess sem það gerir, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 24. maí 2012 í máli nr. 469/2011. Þá stendur eftir að skera úr um hvort birting stefnda á myndinni hafi, eins og atvikum var háttað, falið í sér refsiverða aðdróttun í garð áfrýjanda samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga.

Í hinum áfrýjaða dómi er gerð ítarleg grein fyrir að áfrýjandi hafi áður en hann var kærður fyrir kynferðisbrot þau, sem að framan greinir, verið þjóðþekkt persóna, ekki síst fyrir framgöngu sína á opinberum vettvangi undir nafninu Gillz eða Gillzenegger, en undir því heiti hélt hann úti skrifum á netinu, gaf út bækur og myndir og kom fram í fjölmiðlum. Skoðanir áfrýjanda sem þar birtust vöktu athygli, en voru jafnframt umdeildar, þar á meðal viðhorf hans til kvenna og kynfrelsis þeirra. Á skjölum málsins sést að fyrir kom að gagnrýni hans beindist að nafngreindum einstaklingum, gjarnan konum, og í sumum tilvikum mátti skilja orð hans svo að hann hvetti beinlínis til kynferðislegs ofbeldis gagnvart þeim. Áfrýjandi hefur gjarnan réttlætt slíkt framferði með því að umfjöllunin hafi verið grín og þeir sem gagnrýnt hafi hana skorti kímnigáfu. Fallist er á með héraðsdómi að áfrýjandi njóti þeirrar persónuverndar sem lög standa til, sbr. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, hvort sem hann kemur fram undir eigin nafni eða öðrum tilbúnum nöfnum. Að sama skapi verður hann að axla ábyrgð á því efni sem hann lætur frá sér fara, óháð því hvaða nafni hann kýs að kalla sig.

Þegar áfrýjandi kom fram í áðurgreindu blaðaviðtali og viðhafði þar ögrandi, ef ekki niðrandi ummæli um aðra, þar á meðal stúlku sem hafði kært hann fyrir kynferðisbrot gegn sér, hratt hann af stað þjóðfélagsumræðu og mátti jafnframt gera sér ljóst að ummæli hans kynnu að kalla á hörð viðbrögð frá þeim sem höfðu andúð á áðurgreindum viðhorfum hans. Stefndi nýtur tjáningarfrelsis á grundvelli 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og er réttilega komist að þeirri niðurstöðu í héraðsdómi að við þessar aðstæður hafi hann notið rýmkaðs frelsis til að tjá sig um áfrýjanda og skoðanir hans.

Við úrlausn um það hvort ummæli eða önnur tjáning teljist refsiverð aðdróttun í skilningi 235. gr. almennra hegningarlaga, að teknu tilliti til þess hvernig ákvæði 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu hafa verið skýrð af mannréttindadómstóli Evrópu, verður að taka afstöðu til þess hvort í tjáningunni hafi falist gildisdómur eða staðhæfing um tiltekna staðreynd. Þótt fallast megi á að með því að nota orðið „rapist“ um nafngreindan mann sé verið að brigsla honum um að hafa gerst sekur um nauðgun verður að líta til þess í hvaða samhengi orðið er sett fram, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 29. janúar 2009 í máli nr. 321/2008. Ef hin afbakaða mynd og ummælin „fuck you rapist bastard“ eru  virt í heild eins og aðilar eru sammála um að skuli gert verður fallist á með héraðsdómi að hér hafi verið um að ræða fúkyrði stefnda í garð áfrýjanda í óvæginni þjóðfélagslegri umræðu, sem sá síðarnefndi hafði eins og fyrr greinir átt frumkvæði að, og þar með gildisdóm um áfrýjanda, en ekki staðhæfingu um að hann hafi gerst sekur um nauðgun. Í því sambandi skiptir máli þótt það skeri ekki eitt úr að stefndi hélt því ekki fram að áfrýjandi hefði brotið þannig af sér gegn einhverjum öðrum, nafngreindum eða ónafngreindum. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að tjáning stefnda umrætt sinn hafi verið innan marka þess frelsis sem honum er tryggt í 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Þar af leiðandi verður hann sýknaður af öllum kröfum áfrýjanda.

Eins og réttilega kemur fram í hinum áfrýjaða dómi var hin afbakaða mynd og ummæli stefnda sem henni fylgdu ósæmileg og ósmekkleg í garð áfrýjanda. Af þeim sökum og með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.

Dómsorð:

 Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður, að öðru leyti en því að málskostnaður skal falla niður í héraði.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara

I

Í máli þessu krefst áfrýjandi þess að stefndi verði dæmdur til refsingar fyrir ærumeiðandi aðdróttanir með því að hafa breytt ljósmynd af áfrýjanda þannig að hann hafi teiknað kross á hvolfi á enni áfrýjanda, skrifaði „AUMINGI“ þvert yfir andlit hans og „Fuck you rapist bastard“ sem myndatexta og birt ljósmyndina þannig breytta gegn betri vitund á Instagram 22. nóvember 2012. Þá krefst áfrýjandi þess að síðastgreind orð verði dæmd dauð og ómerk. Einnig krefst hann miskabóta úr hendi stefnda og fjárhæðar til að birta forsendur og niðurstöðu dómsins í dagblaði.

Í umræddu viðtali í fylgiriti Morgunblaðsins, Monitor, ræddi áfrýjandi rannsókn á hendur sér vegna ætlaðs kynferðisbrots gegn ónafngreindri konu, en mál það hafði ákæruvaldið fellt niður 15. júní 2012 á grundvelli 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá er fram komið að áfrýjandi muni áður hafa verið kærður fyrir kynferðisbrot. Var það mál einnig fellt niður af sömu sökum með bréfi ríkissaksóknara 15. nóvember 2012. Kveður stefndi þetta viðtal hafa verið kveikjuna að því að hann lét framangreint frá sér fara.

Fyrir Hæstarétt hefur áfrýjandi lagt ný gögn. Annars vegar er um að ræða bréf lögmanns áfrýjanda 27. nóvember 2012 til lögmanns stefnda með áréttingu um að stefndi bæðist afsökunar eins og óskað hafði verið eftir í bréfi til stefnda 26. nóvember 2012. Hins vegar er um að ræða vottorð löggilts skjalaþýðanda þar sem segir: „Skv. beiðni um þýðingu eftirfarandi setningar úr ensku á íslensku ... Fuck you rapist bastard bendir undirrituð á eftirfarandi: Notkun enskra blótsyrða á íslensku hefur leitt til mikilla breytinga frá upphaflegri merkingu þeirra í frummálinu, þ.e. þegar þau eru notuð á ensku í íslensku samhengi. Að teknu tilliti til þessa þýðir undirrituð ofangreint sem hér segir: Farðu til fjandans nauðgaraskepna“.

Málsatvikum er réttilega lýst í hinum áfrýjaða dómi að öðru leyti en því að ekki verður ráðið af endurritum úr þinghöldum að áfrýjandi hafi verið spurður fyrir dómi hvort hann hafi sent blaðamanni umrædda mynd. Þá er fram komið að mun fleiri en svokallaðir fylgjendur stefnda á Instagram hafi átt þess kost að sjá myndina og þau ummæli sem henni fylgdu. Til viðbótar þeim svörum sem áfrýjandi veitti í umræddu viðtali og getið er um í atkvæði meirihlutans er loks rétt að nefna að áfrýjandi kvaðst hafa séð eftir sumu því sem hann hefði látið frá sér fara gegnum tíðina og lét þess getið að hann hefði beðist afsökunar vegna tilgreindra ummæla sinna. Þá lýsti áfrýjandi vanlíðan sinni og sinna nánustu vegna opinbers umtals sem kærumál á hendur honum hefði fengið.

II

Í 145. gr. laga nr. 88/2008 segir að þegar ákærandi hefur fengið gögn máls í hendur og gengið úr skugga um að rannsókn sé lokið athugar hann hvort sækja skuli sakborning til sakar eða ekki. Ef hann telur það sem fram er komið ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis lætur hann við svo búið standa, en ella höfðar hann mál á hendur sakborningi. Það er ekki á færi annarra en dómstóla að kveða upp úr um sekt áfrýjanda og samkvæmt þessu liggur fyrir að áfrýjandi mun hvorki verða ákærður né dæmdur fyrir þau mál sem til rannsóknar voru.

Ég er samþykkur þeirri niðurstöðu meirihluta dómenda að birting á fyrrgreindri mynd og ummælum um áfrýjanda sé opinber, óháð því hvort hún hafi verið ætluð 100 manns eða þeim ótölulega fjölda fólks um allan heim sem í raun hafði aðgang að þeim upplýsingum sem stefndi lét frá sér fara með þeim hætti sem hann gerði. Á hinn bóginn er ég öndverðrar skoðunar við meirihluta dómenda um að líta beri á ummælin „Fuck you rapist bastard“ í því samhengi að myndin sem þau eru rituð undir dragi úr alvarleika þeirra, en eins og áður greinir er um að ræða andlitsmynd af áfrýjanda sem stefndi hefur teiknað á krossmark á hvolfi og jafnframt ritað þar orðið „AUMINGI“.

Eins og áður greinir kveður stefndi ummæli sín hafa verið viðbrögð við framangreindu blaðaviðtali þar sem meðal annars var fjallað um þá staðreynd að felld hafði verið niður rannsókn á hendur áfrýjanda um nauðgunarbrot. Þótt áfrýjandi hafi þar lýst með sínum hætti því að kærur á hendur sér væru ósannar gaf hvorki það né annað sem fram er komið í málinu stefnda tilefni til þeirra viðbragða sem um ræðir. Verða ummæli stefnda ekki talin fela í sér annað en grófa aðdróttun um að áfrýjandi hafi gerst sekur um grafalvarlegt refsivert afbrot og verða þau ekki réttlætt með vísan til þess að þar hafi stefndi einungis verið að láta frá sér fara mat á staðreyndum eða gildisdóm um áfrýjanda, sem skilja bæri með öðrum hætti en ætla má við fyrsta lestur. Vegna þessa og þess sem að framan greinir um lyktir fyrrgreindra kærumála verður ekki talið að áfrýjandi, þótt þjóðþekkt persóna sé sem ýmislegt hafi látið frá sér fara á opinberum vettvangi, þurfi að þola slík ummæli.

Samkvæmt framansögðu voru ummæli stefnda í andstöðu við 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ber að fallast á kröfu um ómerkingu þeirra samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laganna. Jafnframt er rétt að stefndi greiði miskabætur samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fjárhæð 200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. nóvember 2012 til 18. nóvember 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Á grundvelli reglna um meðalhóf og að virtri 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar tel ég ekki rétt að stefndi eigi að þola refsingu í máli þessu. Að virtum öllum atvikum en einkum því hvar ummælin birtust, tel ég að ekki eigi að fallast á kröfu áfrýjanda um kostnað við sérstaka birtingu áfellisdóms í dagblaði. Loks tel ég að stefndi eigi að bera allan kostnað af rekstri málsins á báðum dómstigum.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2013.

Mál þetta, sem var dómtekið 24. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Agli Einarssyni, Baugakór 9 í Kópavogi á hendur Inga Kristjáni Sigurmarssyni, Fjólugötu 7 í Reykjavík með stefnu, birtri 17. desember 2012.

Stefnandi gerir eftirfarandi kröfur:

Að stefndi verði dæmdur til refsingar fyrir ærumeiðandi aðdróttanir með því að hafa breytt ljósmynd af stefnanda þannig að hann teiknaði kross á hvolfi á enni stefnanda, skrifaði aumingi þvert yfir andlit stefnanda og Fuck you rapist bastard sem myndatexta og birti ljósmyndina þannig breytta, gegn betri vitund, á Instagram, 22. nóvember 2012, en þessi háttsemi stefnda varðar við 235. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. tl. 1. mgr. 242. gr. sömu laga.

Að eftirfarandi ærumeiðandi aðdróttanir, sem stefndi viðhafði og birti um stefnanda á Instagram, 22. nóvember 2012, verði dæmdar dauðar og ómerkar, sbr. 235. gr., sbr. 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940: „Fuck you rapist bastard.“

Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna, með vöxtum skv. 1. málsl. 4. gr. laga nr. 38/2001, frá 22. nóvember 2012 til 18. janúar 2013, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 150.000 krónur til þess að kosta birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í málinu í einu dagblaði, sbr. 2. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940.

Loks gerir stefnandi kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað ásamt 25,5% virðisaukaskatti ofan á dæmdan málskostnað, en stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda í málinu. Til vara krefst stefndi þess að eingöngu verði fallist á kröfu stefnanda um ómerkingu ummæla, en öðrum kröfum hans hafnað. Til þrautavara krefst stefndi verulegrar lækkunar krafna stefnanda. Í öllum tilfellum er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins og að við ákvörðun um fjárhæð málskostnaðar verði tekið tillit til virðisaukaskatts á málskostnað.

Málsatvik

Fimmtudaginn 22. nóvember 2012 birtist viðtal við stefnanda í Monitor, fylgiriti Morgunblaðsins. Í viðtalinu ræddi stefnandi opinskátt um sakamál þar sem hann var með réttarstöðu sakbornings vegna meintra kynferðisbrota. Sakamálin voru felld niður með bréfum ríkissaksóknara, dags. 15. júní og 15. nóvember 2012. Í báðum tilvikum byggði ríkissaksóknari niðurstöðu sína um niðurfellingu á því að það sem fram hefði komið við rannsókn málanna væri ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis, sbr. 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Töluvert hörð viðbrögð urðu við þessu viðtali í samfélaginu. Sama dag og það birtist var stofnuð Facebook-síða með yfirskriftinni „Gillz af forsíðunni – krefjum Monitor um afsökunarbeiðni“ ásamt því sem birt var mynd af stefnanda. Á síðunni var birtingu viðtalsins við stefnanda mótmælt og skorað á ritstjóra Monitors að biðjast afsökunar á birtingu þess. Í kjölfarið spunnust umræður á vefsíðunni um birtingu viðtalsins. Af sama tilefni og sama dag ákvað stefndi að setja myndina sem deilt er um á samfélagsmiðilinn Instagram. Myndin er forsíðumyndin af stefnanda á Monitor sem stefndi hafði breytt með þeim hætti að teiknað var á hana kross á enni stefnanda, „aumingi“ handskrifað yfir andlit hans og eftirfarandi texti settur undir myndina „Fuck you rapist bastard“. Þann 23. nóvember birtist frétt á Visir.is um myndbirtingu stefnda og var rætt við stefnanda af því tilefni. Myndin var birt með fréttinni.

Lögmaður stefnanda sendi stefnda bréf sem dagsett er 26. nóvember sl., þar sem hann gerir, fyrir hönd skjólstæðings síns, kröfu um afsökunarbeiðni og miskabætur. Í bréfinu er myndinni lýst ásamt því að stefndi er upplýstur um að stefnandi telji athæfi hans fela í sér ærumeiðandi aðdróttanir sem varði við 235. gr. almennra hegningarlaga. Er þess krafist að stefndi dragi ummæli sín til baka, viðurkenni að þau hafi verið tilhæfulaus og biðji stefnanda afsökunar með yfirlýsingu til fjölmiðla. Jafnframt er krafist greiðslu 500.000 kr. miskabóta sem sagt er að muni verða látin renna til góðgerðarmála. Með bréfinu er stefnda veittur frestur til kl. 14.00 sama dag og bréfið er dagsett til að verða við kröfum stefnanda. Að öðrum kosti verði hafist handa við málssókn gegn honum.

Sigurmar Kristján Albertsson hrl. svarar bréfinu fyrir hönd stefnda með tölvupósti sem sendur var kl. 13.39 sama dag. Segir þar að stefndi hafi ekki dreift umræddri mynd á netinu. Myndin hafi farið til lokaðs vinahóps á Instagram og einhver annar en stefndi hafi komið henni í víðtækari dreifingu á netinu. Jafnframt kemur fram að stefnda þyki þetta miður og það hafi hvorki gerst með hans vilja né vitund. Loks er óskað eftir því að litið verði á bréfið sem afsökunarbeiðni af hálfu stefnda.

Stefnandi kveðst engin viðbrögð hafa fengið við bréfi lögmanns síns og sá sig af þeim sökum knúinn til málaferla þessara.

Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilar þess skýrslu.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Um málsaðild og málsgrundvöll kveður stefnandi að stefndi hafi viðhaft umdeild ummæli á Instagram en sá miðill sé ekki fjölmiðill í skilningi laga nr. 38/2011, sbr. 13. tölul. 1. mgr. 2. gr. þeirra laga. Um sakarefnið gildi því almennar reglur refsi- og skaðabótaréttarins, þ.e. ákvæði XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og almennar skaðabótareglur, s.s. sakarreglan og 26. gr. laga nr. 50/1993.

Stefnandi höfðar einkarefsimál þetta á hendur stefnda á grundvelli lagheimildar í 3. tölul. 1. mgr. 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ummæli stefnda séu viðhöfð undir nafninu Ingi Kristján, og auðkennd með mynd af viðkomandi, en samhliða komi fullt nafn stefnda fram. Það verður því að teljast óumdeilt að stefndi sé höfundur hinnar breyttu myndar og myndatextans og beri því ábyrgð á hinum ærumeiðandi aðdróttunum að lögum. Málssókn þessari sé því réttilega beint að stefnda.

Hvað varðar málsaðild sóknarmegin þá séu ummælin myndatexti við breytta mynd af stefnanda og því sé hafið yfir vafa að þeim er beint að stefnanda. Myndin sem stefndi breytti sé forsíðumynd Monitors frá 22. nóvember 2012, en í blaðinu hafi verið viðtal við stefnanda. Virðist ummælin og hin breytta mynd vera innlegg stefnda í umræðu um það hvort rétt væri að stefnandi prýddi forsíðu Monitors. Stefnandi er því réttur aðili að málssókn þessari sóknarmegin.

Refsikrafa stefnandi byggi á því að stefndi hafi vegið með alvarlegum hætti að æru stefnanda með hinni breyttu ljósmynd og myndatextanum „Fuck you rapist bastard“ á Instagram. Við mat á alvarleika aðdróttana stefnda beri að horfa á ljósmyndina og myndatextann í samhengi, en myndatextinn og hin breytta ljósmynd stefnda innihaldi hvor um sig sjálfstæðar refsiverðar ærumeiðandi aðdróttanir. Þegar ljósmyndin og myndatextinn séu metin heildstætt sé ljóst að í þeim felast aðdróttanir þess efnis að stefnandi sé sjálfur antikristur og aumingi sem nauðgar konum.

Myndatextann „Fuck you rapist bastard“, megi þýða sem „farðu til fjandans nauðgara svín/óþokki‟, eða eitthvað á þá lund. Með ummælum þessum fullyrði stefndi að stefnandi sé nauðgari sem feli í sér alvarlega ásökun þess efnis að stefnandi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi og brotið gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en allt að 16 ára fangelsi liggi við brotinu.

Stefndi geri engan fyrirvara við aðdróttanir sínar þrátt fyrir vitneskju um niðurfellingu áðurgreindra sakamála. Aðalatriðið hjá stefnda sé því að úthrópa stefnanda opinberlega sem aumingja og nauðgara. Sannleikurinn sé aukaatriði. Stefnandi sé einfaldlega aumingi, djöfull í mannsmynd sem nauðgi konum. Hér birtist dómstóll götunnar í sinni verstu mynd. Stefndi telji sig þess umkominn að sakfella stefnanda fyrir nauðgun og kalla stefnanda aumingja og antikrist. Aftakan fer fram á Instagram án dóms og laga.

Það sé óumdeild opinber birting að birta ærumeiðandi aðdróttanir á Instagram. Jafnframt sé hafið yfir skynsamlegan vafa að stefndi hafi vitað að ríkissaksóknari hafi verið búinn að fella niður áðurnefnd sakamál á hendur stefnanda. Stefndi hafi hins vegar látið sér það í léttu rúmi liggja og viðhafði aðdróttanirnar engu að síður. Brotið hafi þannig verið framið af ásetningi og með einbeittum brotavilja. Það beri að virða stefnda til refsiþyngingar.

Með vísan til framangreinds sé þess krafist að stefndi verði dæmdur til refsingar fyrir ærumeiðandi aðdróttanir í garð stefnanda með því að hafa breytt ljósmynd af stefnanda með því að teikna kross á hvolfi á enni hans, skrifa aumingi þvert yfir andlit stefnanda og Fuck you rapist bastard sem myndatexta og birta ljósmyndina þannig breytta gegn betri vitund á Instagram, 22. nóvember 2012, en háttsemi stefnda varði við 235. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 236. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 242. gr. sömu laga.

Um rökstuðning fyrir ómerkingarkröfu vísar stefnandi til þess sem segir að framan um refsikröfuna. Því til viðbótar byggir hann á því að ummælin „Fuck you rapist bastard“ feli í sér refsiverðar ærumeiðandi aðdróttanir í garð stefnanda og brjóti gegn 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Því beri að ómerkja ummælin með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga.

Með ummælunum fullyrði stefndi að stefnandi sé nauðgari, en nauðgun sé glæpur sem við liggi margra ára fangelsisrefsing, auk þess að vera svívirðilegt brot í huga alls almennings. Hin umstefndu ummæli séu ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta stefnanda enda sé stefnanda með ummælunum gefin að sök refsiverð háttsemi sem ekki eigi við rök að styðjast. Hagsmunir stefnanda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir.

Stefnandi byggi miskabótakröfuna á að stefndi hafi vegið með alvarlegum hætti að æru hans og með því framið ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda sem hann beri skaðabótaábyrgð á. Einnig sé ljóst að virðing stefnanda hafi beðið hnekki, sem og æra hans og persóna. Réttur stefnanda til æruverndar njóti verndar 71. gr. stjórnarskrár, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um sé að ræða ærumeiðandi aðdróttanir sem séu rangar, birtar og bornar út opinberlega og gegn betri vitund stefnda. Fjárhæð miskabótakröfu stefnanda taki mið af alvarleika aðdróttana stefnda sem og því að aðdróttanirnar séu bornar út gegn betri vitund. Stefndi meiddi æru stefnanda af ásetningi. Miskabótakrafa stefnanda sé því hófleg. Miskabótakrafan byggi á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Um sé að ræða skýr og ótvíræð brot á réttarreglum, sem ætlað er að vernda æru stefnanda, svo sem 235. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Öll skilyrði séu uppfyllt til þess að dæma stefnanda háar miskabætur úr hendi stefnda.

Þá gerir stefnandi kröfu um að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 150.000 krónur til þess að kosta birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í málinu í einu dagblaði, sbr. 2. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940. Fyrir liggi að aðdróttanir stefndu í garð stefnanda séu alvarlegar og nauðsynlegt sé fyrir stefnanda að rétta hlut sinn með því að tryggja víðtæka birtingu dóms í málinu með auglýsingu í fjölmiðli. Öll lagaskilyrði til þess að dæma stefnanda birtingarkostnað séu fyrir hendi.

Hvað varðar tjáningarfrelsi stefnda vísar stefnandi til 2. og 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, en það falli utan marka stjórnarskrárvarins tjáningarfrelsis að brjóta gegn réttindum eða mannorði annarra manna. Stefnanda sé ljóst að hann sé þekktur einstaklingur og einkum þá vegna persónunnar Gillz. Stefnanda sé einnig ljóst að vegna þessa þurfi hann að þola meiri og hvassari umfjöllun en aðrir. Hann eigi hins vegar stjórnarskrárvarinn rétt til æruverndar. Mörkin sem liggi milli tjáningarfrelsis þeirra sem tjá sig opinberlega um stefnanda og æruverndar hans séu skýr. Ljóst sé að þær refsiverðu aðdróttanir sem hér sé stefnt vegna gangi langt út fyrir nokkuð sem stefnanda verði gert að þola vegna tjáningarfrelsis annarra. Stefnandi fjallar að auki í stefnu um opinberan málflutning stefnanda í hlutverki Gillz. Sú persóna sé ólíkindatól og eigi það til að misbjóða fólki og valda hneykslan og farið út fyrir velsæmismörk. Það hafi gerst í nóvember 2007 þegar stefnandi, undir merkjum svonefndrar „fréttastofu Gillz“, birti umfjöllun á netinu undir yfirskriftinni „Þorir meðan aðrir þegja“. Með ummælum sem stefnandi setti fram umrætt sinn hafi hann í hlutverki Gillz farið yfir strikið varðandi ummæli um nafngreinda aðila. Honum hafi strax orðið ljós mistök sín, beðist afsökunar á ummælunum og birtingu þeirra og fjarlægt þau af netinu. Þessi ummæli hafi hins vegar oft og iðulega verið rifjuð upp og haldið á lofti, þrátt fyrir þá afsökunarbeiðni og yfirbót stefnanda, og þess látið ógetið að stefnandi hafi ítrekað beðist afsökunar á ummælunum, dregið þau tilbaka og fjarlægt þau af netinu. Nú síðast hafi hann ítrekað afsökunarbeiðni og eftirsjá sína í umræddu viðtali í Monitor, 22. nóvember 2012.

Af öllu framansögðu sé ljóst að réttur stefnanda til æruverndar gangi framar tjáningarfrelsi stefnda eins og hér háttar til og því beri að taka dómkröfur stefnanda til greina og ómerkja ummælin og dæma stefndu til refsingar og greiðslu miskabóta.

Krafa um vexti og dráttarvexti á dómkröfur er byggð á IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafan um vexti byggist á 1. málsl. 4. gr. laganna, sbr. 8. gr. sömu laga, þar sem segi að skaðabótakröfur beri vexti frá þeim degi sem hið bótaskylda atvik átti sér stað, í því tilviki sem hér um ræðir frá birtingu ummæla stefnda og hinnar afbökuðu myndar á Instagram, 22. nóvember 2012. Krafan um dráttarvexti sé reist á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. sömu laga, þar sem segi að skaðabótakröfur beri dráttarvexti þegar liðinn er mánuður frá þeim degi sem kröfuhafi lagði fram upplýsingar til að meta tjón og fjárhæð bóta. Í því tilviki sem hér um ræðir sé miðað við þingfestingardag stefnu, 18. desember 2012.

Loks sé krafist greiðslu málskostnaðar og sé sú krafa byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þess sé krafist að dæmdur málskostnaður beri 25,5% virðisaukaskatt.

Um lagarök vísar stefnandi til 235. gr., 1. og 2. mgr. 236. gr., 1. og 2. mgr. 241. gr. og 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig vísar hann til 71. gr. stjórnarskrár og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá vísar stefnandi til 1. mgr. b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra skaðabótareglna, s.s. sakarreglunnar. Krafa stefnanda um vexti og dráttarvexti á miskabótakröfu er byggð á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá er krafa um málskostnað byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991. Einnig er vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, s.s. hvað varðar varnarþing, málsaðild og málskostnað.

Málsástæður og lagrök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að umdeild mynd sé alls ekki af stefnanda sjálfum persónulega. Hún sé af skáldaðri persónu, Gillzenegger, sem stefnandi hafi skapað. Í kynningu sem fylgdi umræddu viðtali komi skýrlega fram að viðtalið sé við þessa skálduðu persónu, þótt raunar sé texti viðtalsins að nokkru leyti á skjön við þessa framsetningu. Stefnandi geti sett fram ögrandi skoðanir í nafni þessa aukasjálfs, þótt ekki firri það hann ábyrgð á slíkum ummælum. Ummæli sem sett eru fram um skáldaðar persónur á borð við Gillzenegger varði hins vegar ekki við lagaákvæði um ærumeiðingar. Hljóti stefnandi að bera hallann af því sem óljóst kunni að vera í þessum efnum í ljósi þess hvernig málflutningur hans í gervi persónunnar Gillzenegger hafi verið og hvernig hann hafi sjálfur kosið að hafa óljós mörk á milli sín og þessa aukasjálfs.

Þá byggi stefndi sýknukröfur sínar á því að stefnandi hafi sjálfur ákveðið að taka þátt í opinberri umræðu með alveg sérstaklega óvægnum hætti. Sé þar um að ræða feril sem einkennist af svo glórulausum ærumeiðingum, móðgunum og smekkleysu að það sé beinlínis ósvífið af stefnanda að ætla sjálfum sér annars konar viðbrögð en þau sem hér sé stefnt fyrir. Niðrandi umfjöllun stefnanda um þá einstaklinga og hópa sem honum þykja liggja vel við höggi sé annars vegar sett fram í því skyni að upphefja stefnanda og auglýsa hann, en hins vegar í hreinu fjáröflunarskyni, svo sem í útgefnum sjónvarpsþáttum stefnanda. Sé útilokað að beita miskabótaákvæðum og refsiákvæðum með þeim hætti að stefnandi hagnist enn frekar á framgöngu sinni og þeim viðbrögðum sem hann hefur viljandi vakið upp með henni. Vísað sé til sjónarmiða um málfrelsi, sbr. 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og nauðsyn þess að takmarkanir á því séu túlkaðar þröngt.

Stefndi byggi á því að það hafi ekki verið fyrir ásetning hans sem umrædd mynd komst í dreifingu og varð aðgengileg almenningi og stefnanda. Vistun á lokuðu vefsvæði, þar sem takmarkaður fjöldi einstaklinga hafi aðgang, feli ekki í sér opinbera birtingu fremur en ummæli sem látin eru falla í lokuðum hópi fólks. Jafnvel þótt talið yrði að stefndi beri ábyrgð á birtingu myndanna byggi hann á því að það hafi mjög veruleg áhrif á mat á sök, jafnt í refsiþætti málsins sem og bótaþætti, að það hafi verið óviljaverk að myndirnar birtust opinberlega.

Stefndi byggir á því að stefnandi beri fulla ábyrgð á eigin orðum, hvort sem hann setji þau fram undir eigin nafni eða öðrum, s.s. Gillzenegger, Gillz eða Þykki. Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda, er sérstaklega byggt á því, að stefnandi geti ekki skákað í því skjóli að bera fyrir sig skáldaðar persónur af þessu tagi umfram stefnda.

Stefndi telur ekki tilefni til að gera honum refsingu í málinu þegar öll málsatvik séu metin af sanngirni. Þótt sakamál á hendur stefnanda hafi verið fellt niður vegna þess að það þótti ekki líklegt til sakfellis, feli það ekki í sér „betri vitund“ hans um að meintur brotaþoli í því máli hafi orðið ber að ósannindum, sbr. 1. mgr. 236. gr. alm hgl. Þetta sé vafalaust nú þegar kærumál stefnanda gegn umræddum brotaþola hafi einmitt verið fellt niður þar sem ekkert slíkt hafi þótt sannað. Framburður umrædds brotaþola á opinberum vettvangi sé sennilegur í skilningi 2. mgr. 236. gr. alm. hgl. þótt hann sé ef til vill ekki nægilegur til sakfellis í refsimáli. Stefndi hafði því haft sennilega ástæðu til að trúa stúlkunni.

Þá byggi stefndi á því að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinum miska af birtingu myndarinnar og æra hans, virðing og persóna sé söm og áður. Eins og fram komi í stefnu og málsatvikalýsingu hér að ofan hafi ummælin ekki verið sett fram í tómarúmi. Er í stefnu beinlínis byggt á því að menn hafi þekkt til málsatvika, þ. á m. um niðurfellingu umræddra sakamála. Mikil umfjöllun hefur verið um stefnanda árum saman, ekki síst á hans eigin vegum og persóna hans verið sérlega umdeild. Sömuleiðis var mikið fjallað um þau sakamál sem áður eru rakin og ljóst að án nokkurs atbeina stefnda töldu sumir að stefnanda væri sæmst að hugsa sinn gang vegna þeirra atvika sem urðu tilefni þeirra. Aðrir töldu hins vegar að um uppspuna eða jafnvel samsæri gegn stefnanda væri að ræða. Upphrópanir einstakra manna um afstöðu sína að þessu leyti hafa við þessar aðstæður tæpast haft nein raunveruleg áhrif á æru stefnanda til eða frá. Það væri mjög ósanngjarnt að verðlauna stefnanda, sem hefur hagnast verulega á þeim ferli sem að ofan er lýst, með fjárbótum úr hendi snauðs háskólanema vegna viðbragða sem ekki voru ætluð til birtingar. Sé hér um að ræða mjög óvenjulegar aðstæður í skilningi 24. gr. skaðabótalaga.

Stefndi telur dómsmál þetta með öllu óþarft. Ennþá þarflausara hljóti þó að vera að efna til einhverra sérstakra útgjalda til að rifja umrædd ummæli upp eða halda umræddri mynd á lofti. Ummælin hafi verið sett fram á lokuðu svæði en verið afrituð þaðan og dreift á netið. Vefmiðlar hafi svo greint frá þeim eins og fram komi í stefnu. Sé engin ástæða sé til að efast um að þessir sömu vefmiðlar verði jafn fúsir að greina frá niðurstöðum þessa dómsmáls, aðilum að kostnaðarlausu.

Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um greiðslu málskostnaðar og vísar til atvika og samhengis málsins sem að framan er lýst og þess að stefndi hafi þegar beðið stefnanda afsökunar. Málaferlin séu því bersýnilega þarflaust. Þá beri mörg málaferli með miskabóta- og málskostnaðarkröfum með sér að stefnandi freisti þess að auðgast enn frekar á þeim deilum um eigin persónu sem hann hafi stofnað til með yfirlýsingum sínum og framgöngu. Sé að öllu samanlögðu rétt að leggja þann kostnað á stefnanda sem af þessu hljótist.

Um lagarök vísar stefndi til 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Einnig vísar stefndi til XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 24. og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafa um málskostnað er byggð á 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sérstaklega 130. og 131. gr.

Niðurstaða

Í máli þessu gerir stefnandi kröfu um refsingu, ómerkingu ummæla, greiðslu skaðabóta og opinbera birtingu dómsniðurstöðu á kostnað stefnda ásamt greiðslu málskostnaðar. Telur hann myndbirtinguna og textagerðina fela í sér tvö sjálfstæð refsiverð brot og séu þau virt í heild feli þau áreiðanlega í sér refsiverða ærumeiðandi aðdróttun í garð stefnanda.

Atvik máls eru að mestu óumdeild. Fyrir liggur að stefndi birti þá mynd sem um er deilt á Instagram í þeim búningi sem lýst er í kröfugerð stefnanda og atvikalýsingu.

Sýknukrafa stefnda er í fyrsta lagi reist á því að myndin sé ekki af stefnanda, Agli Einarssyni, heldur af Gillzenegger sem sé skálduð persóna sem stefnandi hafi skapað. Ummæli sem sett séu fram um skáldaðar persónur varði ekki við ákvæði hegningarlaga um ærumeiðingar. Á þetta fellst dómurinn ekki. Stefnandi er þjóðþekktur maður sem alkunna er að kalli sig Gillz eða Gillzenegger og ýmsum öðrum nöfnum á opinberum vettvangi. Stefnandi hefur árum saman birt greinar, bloggað og gefið út bækur undir þessu nafni og komið fram í kvikmyndum, sjónvarpi, og víðar. Þá fer ekki á milli mála að umrætt viðtal í Monitor, sem myndin fylgdi með, er mynd af stefnanda, sem nefndur er skírnarnafni sínu og einnig Gillz. Stefnandi nýtur því þeirrar persónuverndar sem lög standa til, hvort sem hann er kallaður Egill, Gillz, eða einhverju öðru nafni sem hann sjálfur gengst við. Að sama skapi verður stefnandi að axla ábyrgð á því efni sem hann lætur frá sér fara óháð því hvaða nafni hann kýs að kalla sjálfan sig.

Þá heldur stefndi því fram að birting myndarinnar á Instagram hafi ekki falið í sér opinbera birtingu þar eð hún hafi verið vistuð á lokuðu vefsvæði þar sem aðeins takmarkaður fjöldi einstaklinga hafi aðgang. Af gögnum málsins má ráða að stefndi hafði rúmlega 100 fylgjendur á Instagram þegar myndin var birt. Ekki liggur fyrir hver dreifði henni út fyrir þann hóp en stefndi neitar því að hafa haft nokkra vitneskju eða vilja til að myndin færi annað en til þeirra sem fylgjast með honum á Instagram. Fyrir liggur að hún fór víðar og birtist meðal annars með frétt á Visir.is þar sem rætt var við stefnanda. Stefnandi bar fyrir dómi að hann myndi ekki hvort hann sjálfur hefði sent blaðamanni myndina. Leggja verður til grundvallar í málinu að það sé ósannað að stefndi hafi átt þátt í annarri birtingu en á Instagram. Fyrir dóminum liggja engin gögn um það hvernig háttað er aðgangi að því efni sem þar er birt. Verður því að ganga út frá frásögn stefnda, um að einungis þeir sem hann hafi fallist á að væru fylgjendur hans á síðunni hafi haft aðgang að myndinni. Instagram sé þannig vettvangur til að deila myndum á milli lokaðs hóps fólks. Því er ekki fallist á að birting myndarinnar á þeim vettvangi sé opinber birting. Á hinn bóginn ber að hafa í huga að aðdróttun kann að vera brot á 235. gr. almennra hegningarlaga þótt hún sé ekki borin út opinberlega, sbr. hins vegar ákvæði 2. mgr. 236. gr.

Dómurinn fellst á það með stefnanda að líta verði á myndina, í því formi sem stefndi breytti henni, ásamt textanum, sem hann skrifaði undir hana, sem eina heild. Í henni felst tjáning stefnda um persónu stefnanda sem felur í sér sterka andúð á honum, hann er kallaður aumingi og send skilaboðin „Fuck you rapist bastard“. Stefnandi telur þetta vera brot á 235. sbr. 1. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í 235. gr. segir að það varði sektum eða fangelsi allt að einu ári ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því, sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka aðdróttun út. Sé hin ærumeiðandi aðdróttun höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund varðar það enn þyngri refsingu, sbr. 1. mgr. 236. gr. og sé aðdróttunin birt eða borin út opinberlega, enda þótt sakaráberi hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda hana rétta, þá varði það sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Svo sem áður hefur komið fram fellst dómurinn ekki á að um opinbera birtingu sé að ræða.

Stefndi nýtur tjáningarfrelsis á grundvelli 1. málsl. 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í 3. mgr. 73. gr. kemur fram að tjáningarfrelsi megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Í því felst að refsing eða bætur verða því aðeins dæmdar ef slík úrræði teljast nauðsynleg og samrýmanleg lýðræðishefðum. Við mat á því hvort þessi skilyrði séu fyrir hendi kemur m.a. til skoðunar í hvaða samhengi tjáning stefnda var sett fram, hvort líta megi á hana sem lið í almennri þjóðfélagsumræðu og hvort í henni felist staðhæfing um staðreynd eða hvort líta megi á hana sem gildisdóm, en stefndi hélt hinu síðastnefnda fram við aðalmeðferð málsins. Auk þessa verður að meta alvarleika ummæla stefnda, bæði út frá efni myndarinnar og textans og útbreiðslu hennar í þeirri mynd sem stefndi útbjó hana.

Um það hvort tjáning stefnda sé hluti af almennri þjóðfélagsumræðu er fyrst til þess að líta að stefnandi er þjóðþekkt persóna og verður sem slíkur almennt að þola það að um hann sé fjallað opinberlega. Stefnandi er þekktastur vegna framgöngu sinnar á opinberum vettvangi undir nafninu Gillz eða Gillzenegger, sem hann kveður vera listamannsnafn sitt. Undir því heiti hefur hann haldið úti skrifum á netinu, gefið út bækur og myndir og komið fram í sjónvarpi og víðar. Efnið sem hann gefur út er afþreyingarefni sem hefur náð mikilli útbreiðslu hér á landi og ljóst að hann naut, a.m.k til skamms tíma, velgengni og vinsælda. Á sama tíma misbauð framganga hans mörgum og vakti sterk reiðiviðbrögð. Stefndi hefur lagt fyrir dóminn nokkurt magn efnis sem stefnandi hefur gefið út auk gagnrýni á efnið sem birst hefur opinberlega. Umfjöllunarefni stefnanda hefur í miklum mæli snúist um karlmennsku, kynferði og samskipti kynjanna. Gagnrýni á verk hans hefur m.a. beinst að því að orðræða hans sé uppfull af óbeinu ofbeldi þar sem niðurlægjandi mynd er ítrekað dregin upp af konum og ýmsum öðrum hópum fólks, s.s. blökkumönnum, hommum og þeim karlmönnum sem stefnandi telur ekki vera „alvöru menn“. Stefnandi hefur tekið virkan þátt í umræðum og deilum um eigin skrif og verið ófeiminn við að gagnrýna þá sem hafa lýst vanþóknun sinni á honum. Hefur hann skákað í því skjólinu að umfjöllun hans sé grín og gagnrýni á hann komi frá fólki sem skorti kímnigáfu. Má því segja að stór hluti af opinberri ímynd stefnanda og atvinnustarfsemi hans hafi tengst umdeildri afstöðu hans til samskipta kynjanna og kynfrelsis kvenna og eru þá ótalin umdeilanleg ummæli hans um aðra hópa fólks. Stefnandi sjálfur hefur viðurkennt að hafa farið yfir strikið í einni grein sem hann birti árið 2007. Fyrirsögn greinarinnar var „Þorir meðan aðrir þegja“. Þar lýsir stefnandi því að hann telji þörf á að þagga niður í nafngreindum gagnrýnendum sínum með því að tilgreindur maður hafi við þær kynmök, sem er síðan nánar lýst í greininni hvernig eigi að framkvæma. Stefnandi lætur að því liggja í stefnu að umrædd grein sé einangrað tilvik, sem hann hafi margfaldlega beðist afsökunar á. Að mati dómsins eru framangreind skrif stefnanda fjarri því að vera einangrað fyrirbæri þótt þau gangi lengra en flest annað, ekki síst vegna þess að þar er fjallað um nafngreinda einstaklinga. Af öðru efni frá stefnanda, sem stefndi hefur lagt fram í málinu, er ljóst að stefnandi hefur bæði fyrir og eftir birtingu umræddrar greinar birt efni sem líklegt er að hafi átt þátt í þeirri gagnrýni sem stefnandi hefur sætt vegna viðhorfa sem birtast í því sem hann setur fram opinberlega, ekki síst þegar kemur að kynfrelsi kvenna.

Telja verður að það orðspor sem stefnandi sjálfur hefur skapað sér með framgöngu sinni og nýtt í atvinnuskyni hafi átt stærstan þátt í því að nauðgunarkærur á hendur honum vöktu miklu meiri athygli en almennt er um kærur af þessu tagi. Umræðan sem fram fór í kjölfar þeirra og atburðarásin sem af þeim spratt verður að horfa á í því samhengi að þar er ekki einvörðungu um að ræða málefni sem varðar persónu stefnanda heldur hugmyndafræðileg átök um það hvaða staðalímyndum sé hampað í samfélaginu og hvernig orðræðu sé hægt að umbera og hverja beri að fordæma. Stefnandi sjálfur tók virkan þátt í þeirri umræðu, m.a. með umræddu viðtali í Monitor og opinberum yfirlýsingum í kjölfar þess að rannsókn var hætt. Auk þess að lýsa í viðtalinu því persónulega áfalli sem lögreglurannsóknin var honum lætur hann að því liggja að annar eða báðir kærendur hafi verið undir þrýstingi frá áhrifafólki um að leggja fram kæru og þær hafi mögulega verið hluti af pólitískum hráskinnaleik. Kvað hann gögn málsins hrópa á meinsæri og upplýsti að hann hefði lagt fram kæru þessa efnis. Með þessu viðtali má því segja að stefnandi sjálfur hafi efnt til opinberrar umræðu um sakargiftir á hendur sér og skotið fast til baka, bæði gangvart kærendum og almennt að þeim ótilgreinda hópi manna sem hann telur standa að herferð gegn sér.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er það mat dómsins að umræðan um málefni stefnanda, þ. á m. um afdrif kæru á hendur honum, sé innlegg í almenna þjóðfélagsumræðu og tjáningarfrelsi stefnda sé af þeim sökum rýmra í þessu tilviki en ella.

Stefnandi heldur því fram að í myndatextanum sem stefndi skrifaði undir myndina af honum „fuck you rapist bastard“ felist ærumeiðandi aðdróttanir í garð stefnanda þar sem í þeim felist fullyrðing um að stefnandi sé nauðgari. Ummælin séu ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta stefnanda. Stefnandi telur það auka á alvarleika brots stefnanda að enginn fyrirvari sé settur við framangreinda aðdróttun þótt stefnda hafi verið fullkunnugt um að rannsókn mála á hendur stefnanda vegna kæru um nauðgun hafði verið felld niður með vísan til 145. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Framsetning þessara orða stefnda bera að mati dómsins með sér að vera fúkyrði fremur en staðhæfing um staðreynd. Um orðalag af þessu tagi gildir að líta verður á það sem gildisdóm fremur en staðhæfingu um staðreynd. Gildisdómar lýsa huglægri afstöðu þess sem setur fullyrðingu fram og verða hvorki sannaðir né afsannaðir. Telja verður að tjáning sem felur í sér gildisdóm njóti víðtækari verndar heldur en önnur tjáning auk þess sem ráða má af dómaframkvæmd að skilgreina megi gildisdóma rúmt þannig að í vafatilvikum verði ummæli fremur flokkuð sem gildisdómur en staðhæfing um staðreynd. Líta verður svo á að hvorki einstök orð né hvatningin í heild, „fuck you rapist bastard“ beri að skilja bókstaflega. Það að textinn er settur fram á ensku gerir hann einnig líkari skömmum eða formælingum en staðhæfingu um staðreynd. Textinn er augljóslega settur fram til að lýsa vanþóknun á stefnanda eins og aðrar breytingar á myndinni. Svo sem áður er rakið verður jafnframt að skoða myndina í hinum breytta búningi, í ljósi þeirra opinberu deilna sem stefnandi sjálfur tók fullan þátt í. Þær deilur sneru bæði að þeim lögreglurannsóknum sem stefnandi sætti og almennt að framlagi hans til afþreyingariðnaðarins. Verður, með hliðsjón af þessum aðdraganda og tilefni tjáningar stefnda, ekki talið að í henni felist staðhæfing um að stefnandi hafi gerst sekur um nauðgun, heldur fúkyrði sem ekki beri að taka bókstaflega fremur en annan texta eða tákn á myndinni. Ummælin fela að mati dómsins í sér gildismat stefnda á stefnanda. Þau eru ósæmileg og ósmekkleg en verða, líkt og aðrir gildisdómar, hvorki sönnuð né ósönnuð. Ummælin, sem látin voru falla í lokuðum hópi og ósannað er að stefndi hafi dreift opinberlega, dæma sig því sjálf. Almennt hefur mönnum verið játað víðtækari réttur til að láta í ljósi gildisdóma sína en staðhæfingar um staðreyndir, einkum ef telja verður að sá sem telur sér misboðið hefur átt nokkurn þátt í því að ýta undir eða hvetja til umræðunnar. Að mati dómsins eiga slík sjónarmið við í þessu máli. Þá verður að virða það við stefnda að hann bað stefnanda afsökunar á umræddri myndbirtingu. Ekki er fallist á það með stefnanda að afsökunin sé ómarktæk af því að hún barst í gegnum lögmann stefnda. Stefnandi sjálfur krafði stefnda um afsökun með atbeina lögmanns sem í sama bréfi gerði kröfu um greiðslu miskabóta og tilkynnti um mögulega málssókn. Eðlileg viðbrögð við kröfu, sem þannig er komið á framfæri, er að fela lögmanni að svara henni. Loks hefur það áhrif á framangreinda niðurstöðu að myndin var ekki gerð til opinberrar birtingar og ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um það í hve mikla dreifingu myndin fór ef frá er talin birting hennar með áðurnefndu viðtali við stefnanda á Visir.is.

Með hliðsjón af öllu framanröktu er það mat dómsins að tjáning stefnda hafi verið innan þess frelsis sem 73. gr. stjórnarskrárinnar tryggir honum og að hún hafi ekki falið í sér ærumeiðandi aðdróttun í garð stefnanda. Með þessum röksemdum er kröfum stefnanda hafnað.

Á grundvelli úrslita máls, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 400.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Ingi Kristján Sigurmarsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Egils Einarssonar. Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.