Print

Mál nr. 360/2015

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
X (Tómas Jónsson hrl., Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson hdl.), Guðmundi Loftssyni (Tómas Jónsson hrl., Grétar Dór Sigurðsson hdl.), Júlíusi Þór Sigurþórssyni (Hörður Felix Harðarson hrl., Bragi Björnsson hdl.), Kenneth Breiðfjörð (Sigmundur Hannesson hrl., Árni Helgason hdl.), Y (Jóhannes Ásgeirsson hrl., Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl.), Leifi Erni Gunnarssyni (Þórhallur Haukur Þorvaldsson hrl., Daníel Pálmason hdl.), Ragnari Má Amazeen (Skarphéðinn Pétursson hrl., Halldór Brynjar Halldórsson hdl.), Stefáni Árna Einarssyni (Þorsteinn Einarsson hrl., Halldór Reynir Halldórsson hdl.), Stefáni Inga Valssyni (Lúðvík Örn Steinarsson hrl., Magnús Óskarsson hdl.) og Steingrími Birki Björnssyni (Geir Gestsson hrl.)
Lykilorð
  • Samkeppnislagabrot
  • Verðsamráð
  • Skýrslugjöf
  • Aðfinnslur
Reifun

Tíu starfsmenn byggingavörufyrirtækjanna Byko og Húsasmiðjunnar voru ákærðir fyrir refsivert verðsamráð í störfum sínum hjá fyrirtækjunum á tímabilinu 13. september 2010 til 3. mars 2011. Í ákæru voru átta þeirra sakaðir um refsivert verðsamráð í störfum sínum hjá fyrirtækjunum með skipulagðri upplýsingagjöf um verð og tilboðskjör sérgreindra grófvörutegunda í símtölum milli starfsmanna fyrirtækjanna. Á sama hátt var fjórum ákærðu gefin að sök sams konar brot í störfum sínum fyrir Byko í símtölum milli eins þeirra og starfsmanna þriðja fyrirtækisins. Þá voru tveir ákærðu sakaðir um refsiverða hvatningu til verðsamráðs milli Byko og Húsasmiðjunnar í símtölum sem þeir áttu hvor í sínu lagi og aðrir tveir um refsivert verðsamráð milli fyrirtækjanna og hvatningu til þess í enn öðru símtali. Loks var þremur ákærðu gefin að sök, hverjum fyrir sig, tilraun til að koma á slíku samráði í símtölum við starfsmann fjórða fyrirtækisins. Í dómi Hæstaréttar var talið sannað með vísan til þeirra gagna sem lögð höfðu verið fram í málinu að Byko hefði upphaflega spurst fyrir um verð hjá Húsasmiðjunni í símtölum, en samskiptin síðan þróast úr því að vera einhliða í að verða gagnkvæm þar sem þeir, sem ræðst hefðu við, skiptust á upplýsingum um verð hjá fyrirtækjunum í sömu eða sambærilegum vörutegundum sem einkum hefðu tilheyrt svokallaðri grófvöru. Hefði tilgangurinn með upplýsingagjöfinni augljóslega verið sá að fá gleggri mynd af verðum keppinautarins á samkeppnisvörum og þróun þeirra en kostur hefði verið fyrir fyrirtækin, hvort um sig, með því að kynna sér einungis verðin með þeim aðferðum sem neytendum stóð til boða. Var talið að hin tíðu og reglubundnu samskipti milli Byko og Húsasmiðjunnar hefðu falið í sér samstilltar aðgerðir sem höfðu það að markmiði að raska samkeppni milli fyrirtækjanna og brutu því gegn 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Hið sama var talið eiga við um samskipti Byko og þriðja fyrirtækisins þótt umfang þeirra hafi verið takmarkað. Þar sem um hefði verið að ræða samráð um verð milli fyrirtækja á sama sölustigi hefðu þeir, sem framkvæmdu, hvöttu til þess eða létu framkvæma það, borið refsiábyrgð samkvæmt 1. mgr. og a. lið 2. mgr. 41. gr. a. laganna. Við mat á sekt eða sýknu ákærðu var meðal annars litið til þess að X og Y störfuðu báðir sem sölumenn í þjónustuveri Húsasmiðjunnar, fyrst og fremst við að svara í síma, og var talið ósannað að þeir hefðu með háttsemi sinni brotið með saknæmum hætti gegn áðurgreindum ákvæðum samkeppnislaga. Voru þeir því sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins í málinu. Hins vegar var talið að G og R hefðu, hvor hjá sínu fyrirtæki, borið ábyrgð á framkvæmd þess samráðs sem átt hafði sér stað milli Byko og Húsasmiðjunnar og skipti í því sambandi ekki máli þótt þeir teldu sig hafa tekið þátt í samráðinu með vitund eða vilja yfirmanna sinna. Voru þeir sakfelldir fyrir brot af ásettu ráði gegn 1. mgr. og a. lið 2. mgr. 41. gr. a. samkeppnislaga, sbr. 1. mgr. 10. gr. þeirra. Þá voru S, SI og L sakfelldir fyrir brot á sömu ákvæðum samkeppnislaga með skírskotun til þeirra stjórnunarstarfa sem þeir gegndu innan Byko og þess að þeim bárust reglulega upplýsingar um að borin hefðu verið saman verð hjá fyrirtækinu og Húsasmiðjunni á yfir 100 vörutegundum. Var talið ótvírætt sannað að þeir hefðu af hálfu Byko stýrt samráði um verð milli þess fyrirtækis annars vegar og Húsasmiðjunnar og þriðja fyrirtækisins hins vegar. Við mat á refsiábyrgð SÁ var aðallega litið til þess að hann hefði verið yfirmaður G og borið ábyrgð á að verðkannanir voru gerðar á grófvöru. Þá þóttu gögn málsins bera með sér að honum hefði verið kunnugt um að Byko aflaði reglulega á ákærutímabilinu upplýsinga um verð á fjölmörgum vörutegundum hjá Húsasmiðjunni með því að hringja í starfsmenn síðarnefnda fyrirtækisins. Vegna þeirra stöðu sem hann gegndi og vitneskju hans um hið refsiverða samráð, var hann sakfelldur fyrir brot á áðurgreindum ákvæðum samkeppnislaga fyrir aðkomu sína, þó aðeins að því er tók til þeirra tilvika þar sem Byko hefðu verið látnar í té upplýsingar um verð. Þá voru K og SÁ sakfelldir fyrir að hafa hvatt til refsiverðs verðsamráðs milli Byko og Húsasmiðjunnar hvor í sínu símtali og voru brot þeirra heimfærð undir áðurnefnd ákvæði samkeppnislaga. Loks var talið að S og J hefðu í símtali þeirra á milli brotið af ásettu ráði og á alvarlegan hátt gegn 1. mgr. og a. og d. liðum 2. mgr. 41. gr. a. laganna þar sem ekki fór á milli mála í umræddu símtali að báðir ákærðu hvöttu hvorn annan til að halda uppi verðum hjá Byko og Húsasmiðjunni í grófvöru, þar á meðal við gerð tilboða. Hins vegar var talið ósannað að R, K og J hefðu gerst sekir um tilraunir til að koma á samráði við starfsmann fjórða fyrirtækisins í símtölum við hann. Við mat á refsingu ákærðu var meðal annars litið til þess að refsing einstaklinga fyrir brot á samkeppnislögum hefði verið þyngd til muna með lögum nr. 52/2007. Þá var jafnframt litið til þess að sum brotanna stóðu lengi yfir og voru umfangsmikil, en önnur háttsemi, sem sakfellt var fyrir, fól í sér grófari brot. Þá hefðu Byko og Húsasmiðjan verið nánast einráð á markaðnum á ákærutímabilinu og brot ákærðu því ekki einungis beinst að mikilvægum hagsmunum viðskiptavina fyrirtækjanna, heldur alls almennings. Litið var til þess að brot S, sem gegnt hafði stöðu framkvæmdastjóra hjá Byko, og því verið meðal æðstu stjórnenda fyrirtækisins, hefðu verið stórfelld og áðurgreint brot hans í símtali við J mjög alvarlegt. Þessu til viðbótar var jafnframt horft til þess hve einbeittur vilji hans var til að raska samkeppni milli Byko og Húsasmiðjunnar í síðastnefnda tilvikinu, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing hans hæfilega ákveðin 18 mánaða fangelsi. Þá hafði SÁ gegnt starfi framkvæmdastjóra hjá Húsasmiðjunni og var því í hópi æðstu stjórnenda þess fyrirtækis. Brot hans sem laut að almennu verðsamráði fyrirtækjanna var talið minna í sniðum og annars eðlis en brot stjórnenda Byko. Hins vegar var til þess að líta að önnur háttsemi sem hann var fundinn sekur um fól í sér alvarlegt brot á samkeppnislögum. Með hliðsjón af því og stöðu hans hjá Húsasmiðjunni var SÁ dæmdur til að sæta 9 mánaða fangelsi. J og K höfðu báðir starfað sem vörustjórar hjá Húsasmiðjunni. Brot þau sem þeir voru sakfelldir fyrir voru alvarleg, einkum þó brot J í símtali við S. Að teknu tilliti til þess var refsing J ákveðin fangelsi í 9 mánuði, en K var gert að sæta fangelsi í 3 mánuði. Þá hafði L gegnt stöðu verslunarstjóra timbursölu Byko og SI sölustjóra fagsölusviðs þess. Brot þeirra voru umfangsmikil en við ákvörðun refsingar var litið til stöðu þeirra hjá fyrirtækinu sem millistjórnenda og var þeim hvorum um sig gerð 3 mánaða fangelsisrefsing. Loks var litið til þess að G og R hefðu verið óbreyttir starfsmenn fyrirtækjanna tveggja og var miðað við að sú háttsemi sem þeir hefðu verið sakfelldir fyrir, hefði verið viðhöfð samkvæmt fyrirmælum yfirmanna þeirra. Var ákvörðun refsingar þeirra því frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þar sem ákærðu hafði ekki áður verið refsað var refsing þeirra, sem gert hafði verið að sæta fangelsi, skilorðsbundin að fullu í tvö ár, að undanskildum S, en fullnustu 15 mánaða af refsingu hans var frestað skilorðsbundið í þrjú ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. maí 2015. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærðu verði sakfelldir samkvæmt ákæru og þeir dæmdir til refsingar, auk þess sem refsing ákærða Steingríms Birkis Björnssonar verði þyngd.

Ákærði Steingrímur Birkir krefst sýknu af refsikröfu ákæruvaldsins, til vara að refsing verði látin niður falla, en að því frágengnu að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa.

Ákærðu X, Guðmundur Loftsson, Leifur Örn Gunnarsson, Kenneth Breiðfjörð, Y, Ragnar Már Amazeen, Stefán Árni Einarsson og Stefán Ingi Valsson krefjast þess, hver fyrir sitt leyti, aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur, til vara að refsing verði látin niður falla, en að því frágengnu að þeir verði dæmdir til vægustu refsingar sem lög leyfa.

Ákærði Júlíus Þór Sigurþórsson krefst staðfestingar héraðsdóms.

I

1

Með bréfi 30. nóvember 2010 beindi Samkeppniseftirlitið samkvæmt 1. mgr. 42. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 með áorðnum breytingum kæru til ríkislögreglustjóra þar sem tíu nafngreindir starfsmenn Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf., þeirra á meðal ákærðu Guðmundur, Júlíus, Kenneth, Leifur Örn, Ragnar Már, Stefán Árni og Stefán Ingi, voru sakaðir um brot á 41. gr. a. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 52/2007. Í kærunni var tekið fram að fyrirtækin tvö stunduðu smásöluverslun með byggingavörur og rækju verslanir víða um land, auk þess sem þriðja fyrirtækið, Múrbúðin ehf., ræki þrjár byggingavöruverslanir. Væru fyrirtækin þrjú keppinautar á þessum markaði. Staða Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. væri sterk á markaðnum, en Múrbúðin ehf. hefði þar mun minni hlutdeild. Reyndist grunur um ólögmætt samráð fyrirtækjanna tveggja, sem væru öflugir keppinautar á mikilvægum markaði, á rökum reistur gæti það haft í för með sér mikið tjón fyrir neytendur og atvinnulífið. Ljóst væri því að um mjög alvarleg brot gæti verið að ræða.

Í kærunni var greint frá því að tveir fyrirsvarsmenn Múrbúðarinnar ehf. hafi snúið sér til Samkeppniseftirlitsins og óskað eftir fundi þar sem þeir vildu upplýsa stofnunina „um tilraunir Byko og Húsasmiðjunnar til að fá Múrbúðina til þess að taka þátt í ólögmætu samráði“ svo og um verðsamráð milli tveggja fyrrgreindu fyrirtækjanna. Tveir fundir voru haldnir með fyrirsvarsmönnunum 21. október og 3. nóvember 2010 og var það helsta, sem þar kom fram, skráð í fundargerð er fylgdi kærunni.

Á fyrri fundinum greindi BB, eigandi og framkvæmdastjóri Múrbúðarinnar ehf., svo frá að fyrirtækið „hafi ákveðið um mitt sumar árið 2010 að hefja sölu á svokölluðum grófvörum, þ.e. viðarplötum, gifsplötum, spónarplötum, steinull o.fl.“ Jafnframt skýrði EGS, deildarstjóri grófvörudeildar fyrirtækisins, frá því að 25. ágúst 2010, þegar verið var að undirbúa opnun sérstakrar verslunar fyrir þessar vörur, hafi ákærði Stefán Ingi ásamt öðrum starfsmanni Byko ehf. komið í verslunina þar sem þeir hefðu spurt „um hina væntanlegu nýju samkeppni frá Múrbúðinni, þ. á m. hvort búið væri að verðleggja vörurnar og hvort EGS væri með verðlista fyrir vörurnar.“ Kvaðst EGS hafa neitað þeim um upplýsingarnar. Nokkru síðar eða 9. september hafi ákærði Stefán Ingi komið aftur í verslunina ásamt öðrum nafngreindum starfsmanni Byko ehf. þótt ekki hafi verið búið að opna hana. Sagði EGS „að þeir hafi spurt sömu spurninga“ og áður „þ.e. um fyrirhugað verð o.fl. Einnig hafi þeir skoðað vörurnar gaumgæfilega, viljað vita hvaðan þær væru pantaðar o.fl.“ Þegar verslunin var opnuð 8. október 2010 sagði EGS að þessir sömu starfsmenn Byko ehf. hafi komið þangað og ákærði Stefán Ingi þá boðið honum „að koma í heimsókn til þeirra í Byko á næstu dögum“ en hann ekki þegið það boð. Hinn 14. sama mánaðar hafi svo tveir starfsmenn Húsasmiðjunnar ehf., ákærðu Júlíus og Kenneth, komið í verslunina „skoðað vörurnar í versluninni, spurt hvaðan þær kæmu og af hverjum þær væru fluttar hingað til lands. EGS greindi frá því að Júlíus og Kenneth hafi virst hjálpsamir og viljugir til að veita upplýsingar og að það hafi vakið athygli hjá sér hversu opnir þeir hefðu verið í svörum með hliðsjón af því að um keppinauta hefði verið að ræða. EGS greindi frá því að þeir hafi talað mjög opinskátt um vöruval, vörugæði, upprunalönd, flutningsmál o.fl.“ Daginn eftir, 15. október, kvað EGS að starfsmaður Byko ehf., Ragnar að nafni, hafi hringt klukkan 8.43 „og spurt hvort hann væri ekki tilbúinn til þess að skiptast á verðupplýsingum við Byko“. Skömmu síðar, klukkan 9.04, hafi ákærði Kenneth hringt „og spurt hvort hann væri ekki tilbúinn til þess að skiptast á verðupplýsingum við Húsasmiðjuna. EGS kvaðst hafa spurt ... hvort þessar fyrirspurnir þættu eðlilegar. Að sögn EGS svaraði Kenneth játandi og tók jafnframt fram að þetta væri fyrirkomulag sem Húsasmiðjan og Byko viðhafi.“ EGS upplýsti að klukkan 10.44 þennan dag hafi ákærði Júlíus hringt og hann þá stillt símann þannig að fyrrnefndur BB gæti hlustað á símtalið. „Að sögn EGS bað Júlíus hann ... að passa upp á það að senda ekki verðupplýsingarnar með tölvupósti til Húsasmiðjunnar. EGS sagði að Júlíus hafi ítrekað að EGS yrði að passa upp á þetta því það væri aldrei að vita hvað „þessir eftirlitsaðilar gera“.“ Stuttu eftir þetta símtal, klukkan 10.57, sagði EGS að áðurnefndur Ragnar hafi hringt „og einnig óskað eftir skiptum á verðupplýsingum. EGS kvaðst hafa talað stuttlega við hann og neitað slíku samstarfi.“ Þá greindi EGS frá því að ákærði Guðmundur hafi mætt eftir hádegi þennan sama dag í verslunina „með skrifblokk og verðlista ... til að skiptast á verðupplýsingum ... EGS sagði að hann hefði spurt Guðmund hvort Húsasmiðjan og Byko skiptust á verðupplýsingum og að Guðmundur hafi játað því.“

Með bréfum Samkeppniseftirlitsins til ríkislögreglustjóra 23. febrúar og 7. mars 2011 voru tólf nafngreindir starfsmenn Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. til viðbótar, þeirra á meðal ákærðu X, Y og Steingrímur Birkir, kærðir fyrir ætluð brot á 41. gr. a. samkeppnislaga, auk tveggja annarra manna sem tengdust Úlfinum Lagerverslun ehf. Þessar viðbótarkærur voru byggðar á gögnum sem ríkislögreglustjóri hafði aflað við rannsókn á upphaflega kæruefninu, sem að framan er lýst, og látið Samkeppniseftirlitinu í té samkvæmt 6. mgr. 42. gr. samkeppnislaga.

2

Að lokinni lögreglurannsókn gaf sérstakur saksóknari, sem tekið hafði við rannsókninni af ríkislögreglustjóra, út ákæru 23. apríl 2014 á hendur ákærðu og þremur öðrum mönnum. Þær sakargiftir, sem fjallað er um hér fyrir dómi, komu fram í I., II., III. og V. köflum ákærunnar og 1. lið IV. kafla hennar. Þessir kaflar eru teknir upp í heild í hinum áfrýjaða dómi, en helstu efnisatriði þeirra voru sem hér segir:

Í I. kafla ákærunnar var ákærðu Steingrími Birki, sem framkvæmdastjóra fagsölusviðs Byko ehf., Leifi Erni, sem verslunarstjóra timbursölu þess félags, Stefáni Inga, sem sölustjóra fagsölusviðs þess, Ragnari Má, sem starfsmanni í timbursölu þess, Stefáni Árna, sem framkvæmdastjóra vörustýringarsviðs Húsasmiðjunnar ehf., Y, sem sölumanni í þjónustuveri þess félags, X, sem sölumanni í timbursölu þess og Guðmundi, sem starfsmanni í þjónustuveri þess, gefið að sök verðsamráð í framangreindum störfum sínum fyrir fyrirtækin á tímabilinu frá 13. september 2010 til 3. mars 2011 „með skipulagðri upplýsingagjöf um verð og tilboðskjör sérgreindra grófvörutegunda, einkum bygginga- og timburvara, í símtölum milli starfsmanna fyrirtækjanna, sem var til þess fallið að hafa áhrif á verð, afslætti, álagningu og önnur viðskiptakjör innan umræddra fyrirtækja.“ Í ákærukaflanum var því haldið fram að samráðið hafi verið „af hálfu starfsmanna Byko viðhaft að undirlagi og/eða samkvæmt fyrirmælum ákærðu Steingríms Birkis, Leifs Arnar og Stefáns Inga en af hálfu starfsmanna Húsasmiðjunnar að undirlagi og/eða samkvæmt fyrirmælum ákærða Stefáns Árna.“ Í kaflanum var talið upp 21 tilvik á áðurgreindu tímabili þar sem samráð af þessum toga hafi átt sér stað. Í öllum þeirra hafi starfsmaður Byko ehf., nánast alltaf ákærði Ragnar Már, hringt reglulega í starfsmann Húsasmiðjunnar ehf., oftast ákærða X en einnig ákærða Y eða ákærða Guðmund, og fengið hjá viðmælanda sínum upplýsingar um verð hjá síðarnefnda fyrirtækinu á liðlega 100 vörutegundum. Í fjögur skipti, í lok janúar og febrúar 2011, hafi ákærðu Ragnar Már og Guðmundur í þessum símtölum veitt hvor öðrum upplýsingar um verð og tilboðskjör beggja fyrirtækjanna á þessum fjölda vörutegunda. Jafnframt hafi ákærðu Leifur Örn, Stefán Ingi eða Steingrímur Birkir verið upplýstir um verðin, oftast tveir þeir fyrstnefndu, stöku sinnum annar þeirra og í enn önnur skipti sá síðastnefndi ásamt öðrum hvorum hinna eða jafnvel þeir allir, með því að fá send tölvubréf með verðupplýsingunum frá Húsasmiðjunni ehf. auk upplýsinga um verð á sambærilegum vörum hjá Byko ehf.

Í II. kafla ákærunnar voru ákærðu Steingrímur Birkir, Leifur Örn, Stefán Ingi og Ragnar Már ásamt starfsmanni hjá Úlfinum Lagerverslun ehf. sakaðir um „verðsamráð í framangreindum störfum sínum fyrir Byko ... á tímabilinu frá 15. október 2010 til 17. febrúar 2011, með skipulagðri upplýsingagjöf um verð og tilboðskjör sérgreindra grófvörutegunda, einkum bygginga- og timburvara, í símtölum milli starfsmanna fyrirtækjanna, sem var til þess fallið að hafa áhrif á verð, afslátt, álagningu og önnur viðskiptakjör innan umræddra fyrirtækja.“ Var því haldið fram að verðsamráðið hafi verið „viðhaft að undirlagi og/eða samkvæmt fyrirmælum ákærðu Steingríms Birkis, Leifs Arnar og Stefáns Inga.“ Í ákærukaflanum voru talin upp 11 tilvik á umræddu tímabili þar sem samráð af þessum toga hafi átt sér stað. Í öllum þeirra hafi starfsmaður Byko ehf., ákærði Ragnar Már, hringt reglulega í einhvern starfsmann Úlfsins Lagerverslunar ehf. og fengið hjá honum upplýsingar um verð hjá síðarnefnda fyrirtækinu á allt að tíu vörutegundum í hvert skipti. Jafnframt hafi ákærðu Leifur Örn, Stefán Ingi eða Steingrímur Birkir verið upplýstir um verðin, í fimm skipti tveir þeir fyrstnefndu, tvisvar sinnum ákærði Stefán Ingi einn, tvívegis ákærði Steingrímur Birkir ásamt öðrum hvorum hinna og í tvö skipti þeir allir, með því að fá send tölvubréf með verðupplýsingunum frá Úlfinum Lagerverslun ehf. auk upplýsinga um verð á sambærilegum vörum hjá Byko ehf.

Samkvæmt 1. lið III. kafla ákærunnar var ákærða Kenneth, sem vörustjóra timbursölu Húsasmiðjunnar ehf., gefið að sök að hafa hvatt „til verðsamráðs, sem hafði það að markmiði eða af því leiddi að komið yrði í veg fyrir samkeppni eða henni yrði raskað milli Byko og Húsasmiðjunnar og þannig, beint eða óbeint, haft áhrif á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör fyrirtækjanna“. Hafi þetta gerst í símtali ákærða við ákærða Guðmund 16. febrúar 2011 þar sem hann hafi meðal annars beðið þennan samstarfsmann sinn „að koma tilteknum upplýsingum um grófvörur Húsasmiðjunnar til Ragnars Más Amazeen ... ef hann myndi hafa samband.“ Eftir 2. lið ákærukaflans var ákærði Stefán Árni sakaður um „að hvetja til verðsamráðs, sem hafði það að markmiði eða af því leiddi að komið yrði í veg fyrir samkeppni eða henni yrði raskað milli Byko og Húsasmiðjunnar og þannig, beint eða óbeint, haft áhrif á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör fyrirtækjanna.“ Hafi þetta átt sér stað í símtali ákærða við ákærða Kenneth 23. febrúar 2011 þar sem hann hafi beðið þann síðarnefnda „að koma upplýsingum um verðbreytingar hjá Húsasmiðjunni til Byko með því að láta Guðmund Loftsson ... koma umræddum upplýsingum til starfsmanns Byko“. Tilefni símtalsins hafi verið „að Kenneth hringdi í ákærða Stefán Árna til þess að gleðja hann „óheyrilega mikið“ með því að tilkynna honum um að Byko væri búið að hækka verð á tilteknum grófvörum“.

Í 1. lið IV. kafla ákærunnar var ákærðu Steingrími Birki og Júlíusi Þór, sem vörustjóra timburdeildar Húsasmiðjunnar ehf., gefið að sök verðsamráð og hvatning til slíks samráðs „er hafði það að markmiði eða af því leiddi að komið yrði í veg fyrir samkeppni eða henni yrði raskað milli Byko og Húsasmiðjunnar, og þannig, beint eða óbeint, haft áhrif á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör fyrirtækjanna við tilboðsgerð á grófvörum almennt“. Þetta hafi gerst í símtali 28. febrúar 2011 þar sem þeir hafi „rætt sín á milli um tilboðsmál fyrirtækjanna, þar sem ákærði Steingrímur Birkir upplýsti meðákærða Júlíus Þór meðal annars um hvernig hann myndi haga tilboðsgerð Byko í grófvörum og þar sem ákærðu hvöttu hvorn annan til þess að stuðla að því að Byko og Húsasmiðjan myndu ekki stunda samkeppni“. Ekki reynir á sakargiftir, sem vísað er til í 2. lið þessa kafla ákærunnar, hér fyrir dómi.

Samkvæmt 1. lið V. kafla ákærunnar var ákærða Ragnari Má gefin að sök „tilraun til verðsamráðs, er hafði það að markmiði eða af því leiddi að komið yrði í veg fyrir samkeppni eða henni yrði raskað milli Byko og Múrbúðarinnar og þannig, beint eða óbeint, reynt að hafa áhrif á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör fyrirtækjanna með sérgreindar grófvörutegundir“. Þetta hafi átt sér stað í símtali að morgni 15. október 2010 þar sem ákærði hafi „reynt að fá starfsmann Múrbúðarinnar til þess að skiptast á upplýsingum um vöruúrval og verðupplýsingar á grófvörum þeim sem Múrbúðin hafði til sölu“. Eftir 2. lið ákærukaflans var ákærði Kenneth og eftir 3. lið hans ákærði Júlíus Þór sakaðir um „tilraun til verðsamráðs, er hafði það að markmiði eða af því leiddi að komið yrði í veg fyrir samkeppni eða henni yrði raskað milli Húsasmiðjunnar og Múrbúðarinnar og þannig, beint eða óbeint, reynt að hafa áhrif á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör fyrirtækjanna með sérgreindar grófvörutegundir“. Þetta hafi annars vegar gerst í símtali ákærða Kenneth við starfsmann Múrbúðarinnar ehf. strax eftir áðurgreint símtal ákærða Ragnars Más og hins vegar í símtali ákærða Júlíusar Þórs við starfsmann fyrirtækisins nokkru síðar þennan sama morgun þar sem ákærðu hafi báðir „reynt að fá starfsmann Múrbúðarinnar, til þess að skiptast á upplýsingum um vöruúrval og verðupplýsingum á grófvörum þeim sem Múrbúðin hafði til sölu“.

3

Með úrskurði héraðsdóms 10. desember 2014, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 9. janúar 2015 í máli nr. 844/2014, var ákæru á hendur einum þeirra, sem ákærður hafði verið, vísað frá héraðsdómi þar sem hann hafði ekki verið kærður fyrir ætlað brot á samkeppnislögum af Samkeppniseftirlitinu.

Af þeim tólf, sem voru ákærðir og eftir stóðu, voru ellefu sýknaðir af sakargiftum í hinum áfrýjaða dómi. Ákærði Steingrímur Birkir var sakfelldur fyrir þá háttsemi, sem honum er gefin að sök í 1. lið IV. kafla ákærunnar, en sýknaður af öðrum sökum sem hann er ákærður fyrir. Unir ákæruvaldið niðurstöðu héraðsdóms að því er varðar tvo þeirra, sem sýknaðir voru, en hefur sem fyrr segir áfrýjað dóminum að öðru leyti.  

II

1

Samkvæmt gögnum málsins var Byko rekið sem hlutafélag fram á árið 2008, en í janúar 2010 hafði rekstrarformi þess verið breytt í einkahlutafélag. Tilgangur félagsins var „allur almennur atvinnurekstur, svo sem heildsala, smásala, iðnaður, fiskeldi, skógrækt, almenn verktaka og mannvirkjagerð, útleiga tækja og vinnuvéla, kaup og sala fasteigna svo og rekstur þeirra, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur.“ Félagið var að öllu leyti í eigu Norvik hf.

Stjórn Byko ehf. var í upphafi árs 2010 skipuð fimm mönnum og mun sú skipan hafa haldist þann tíma sem ákæra í máli þessu tekur til. Í framkvæmdastjórn félagsins sátu á þeim tíma sex menn, þeirra á meðal SER, sem bar starfsheitið forstjóri, og ákærði Steingrímur Birkir.

Meðal gagna málsins eru tvö skipurit fyrir Byko ehf. sem í gildi voru á árunum 2010 og 2011. Samkvæmt því fyrra, sem tók til tímabilsins frá janúar 2010 til október sama ár, heyrðu undir forstjóra fjórir framkvæmdastjórar og var einn þeirra ákærði Steingrímur Birkir sem stýrði byggingasviði félagsins. Með síðara skipuritinu, sem gilti frá október 2010 til mars 2011, varð sú breyting að fimm stjórnendur heyrðu undir forstjóra í stað fjögurra, þeirra á meðal ákærði Steingrímur Birkir sem framkvæmdastjóri fagsölusviðs fyrirtækisins. Í skjali, sem bar heitið „BYKO Stefnumótun 2010-2011“, sagði að hlutverk forstjóra, sem heyrði undir stjórn félagsins, væri: „Daglegur rekstur og stjórnun fyrirtækisins og framkvæmdastjórnar“. Þar kom ennfremur fram að hlutverk vörustjórnunarsviðs væri meðal annars: „Innkaup á vörum frá erlendum og innlendum birgjum. Standa að virkri vöruþróun, ná hagkvæmustu innkaupsverðum á hverjum tíma ... Fylgja eftir verðstefnu og markmiðum fyrirtækisins um álagningu.“ Eitt af helstu verkefnum vöruþróunarsviðs væru verðkannanir. Hlutverk fagsölusviðs væri: „Að samræma sölu og markaðssókn gagnvart fagaðilum, verktökum stórum sem smáum, opinberum aðilum, stærri fyrirtækjum, fyrir allar rekstrareiningar BYKO“. Meðal árangursmælinga á sviðinu væru: „Sala og framlegð yfirvöruflokka byggingavöru“ og „Markaðshlutdeild – innflutningshlutdeild“.  

Í skjali 20. september 2010 var fjallað sérstaklega um hlutverk, markmið, stefnu og ábyrgð fagsölusviðs Byko ehf. Þar sagði meðal annars um hlutverk þess: „Að stýra og samræma sölu og markaðssókn gagnvart fagaðilum fyrir allar rekstrareiningar BYKO. Það vinnur að markaðsmálum í samvinnu við markaðssvið BYKO.“ Meðal markmiða sviðsins var: „Að auka sölu og markaðshlutdeild BYKO“. Verkefni ákærða Stefáns Inga sem sölustjóra sviðsins voru auk annars: „Yfirumsjón og samræming söluaðgerða ... Áætlanagerð, markaðsvakt og greiningarvinna.“ Í skjalinu var vikið frekar að hlutverki og ábyrgð fagsölusviðs og þar sagði meðal annars: „Tilboðsgerð og eftirfylgni. Deildin sér um tilboðsgerð til fagaðila á öllum landsvæðum. Framlegð verður hámörkuð með skipulegum hætti.“ Síðar sagði þar: „Markaðsvakt. Í þessu felst m.a. að framkvæma reglulegar verðkannanir hjá samkeppnisaðilum BYKO, fylgjast með breytingum á starfsemi þeirra, innkomu nýrra samkeppnisaðila eða nýrra vara og miðla þessum upplýsingum.“

Ákærði Steingrímur Birkir, sem er viðskiptafræðingur, skýrði svo frá fyrir héraðsdómi að hann hafi tekið við starfi framkvæmdastjóra síðla árs 2007. Aðspurður kvað hann yfirmenn sína hjá Byko ehf. á þeim tíma, sem ákæran tekur til, hafa verið SER forstjóra og EK aðstoðarforstjóra, en nánasti samstarfsmaður sinn á fagsölusviði hafi verið ákærði Stefán Ingi. Að sögn ákærða Steingríms Birkis áttu verðkannanir almennt að heyra undir vörustýringarsvið, en samkvæmt eldri venjum hefðu þær verið gerðar á vegum timbursölu félagsins.

Ákærði Stefán Ingi, sem hefur lokið námi í verslunarstjórnun, kvaðst fyrir dómi hafa átt að baki langan starfsferil hjá fyrirtækinu þegar hann tók við starfi sölustjóra á fagsölusviði á árinu 2005 eða 2006. Sagðist hann hafa unnið náið með ákærða Steingrími Birki sem hafi verið yfirmaður sinn. Spurður hvort hann hafi borið að einhverju leyti ábyrgð á verðkönnunum kvað hann svo ekki hafa verið því að þær hefðu heyrt undir ákærða Leif Örn.

Ákærði Leifur Örn, sem hefur lokið BA námi í lögfræði, tók að eigin sögn við starfi verslunarstjóra í timburverslun fyrirtækisins árið 2008, en hafði áður starfað hjá því í tæpan áratug. Fyrir dómi sagði ákærði timburverslunina hafa heyrt undir  byggingarsvið þegar hann tók við starfi verslunarstjóra og hafi ákærði Steingrímur Birkir verið yfirmaður sinn sem framkvæmdastjóri þess. Þetta hafi hins vegar breyst, líklega á árinu 2010. Þá hafi verslunin færst undir verslanasvið, sem stýrt var af EK, aðstoðarforstjóra, en ákærði kvaðst þó áfram hafa litið á ákærða Steingrím Birki sem yfirmann sinn ásamt EK. Ákærði Leifur Örn staðfesti fyrir dómi að undirmaður sinn, ákærði Ragnar Már, hafi framkvæmt verðkannanir samkvæmt almennum fyrirmælum og hefði það verið „hluti af rútínu“ hjá fyrirtækinu. Hefð hafi verið fyrir því að starfsmenn timbursölu hafi annast þessar kannanir, en þær hefðu ekki verið nýttar þar, heldur hafi upplýsingar um verð verið framsendar til fagsölusviðs þar sem „allar verðkannanir“ hefðu verið og ákærðu Steingrímur Birkir og Stefán Ingi störfuðu.

Að sögn ákærða Ragnars Más tók hann við starfi sölumanns í timbursölu fyrirtækisins árið 2004. Aðspurður fyrir dómi sagði hann að næstu yfirmenn sínir hafi verið ákærðu Leifur Örn og Stefán Ingi og sennilega ákærði Steingrímur Birkir. Ákærði Ragnar Már kvaðst hafa annast verðkannanir á ákærutímabilinu á svonefndri grófvöru.

2

Eins og gögn málsins bera með sér var Húsasmiðjan rekin sem einkahlutafélag á þeim tíma sem ákæra í máli þessu tekur til. Í lok árs 2011 mun rekstur félagsins hafa verið seldur Bygma Ísland Holding ehf. og í kjölfarið var nafni þess fyrrnefnda breytt í Holtavegur 10 ehf. Heiti félagsins, sem yfirtók reksturinn, var jafnframt breytt í Húsasmiðjan ehf.

Á árinu 2010 og fram í byrjun árs 2011 var stjórn Húsasmiðjunnar ehf., nú Holtavegar 10 ehf., skipuð þremur mönnum, en þeim var fjölgað í fimm frá 11. febrúar 2011. Var SAS ráðinn forstjóri félagsins í janúar 2010 og gegndi því starfi á ákærutímabilinu.

Í málinu hafa verið lögð fram tvö skipurit fyrir Húsasmiðjuna ehf. sem munu hafa gilt annars vegar árið 2010 og hins vegar 2011. Samkvæmt því fyrra virðast níu svið hafa heyrt undir forstjóra, þeirra á meðal vörustýringarsvið sem laut stjórn framkvæmdastjóra, ákærða Stefáns Árna, en hann átti sæti í framkvæmdastjórn félagsins. Þá kom þar fram að forstjóri, sem væri ábyrgur gagnvart stjórn félagsins, bæri ábyrgð á og stýrði daglegum rekstri þess. Framkvæmdastjóri vörustýringarsviðs bæri auk annars „ábyrgð á vöruúrvali og verðstefnu“. Á skipuritinu fyrir árið 2011, sem er á ensku, virðist þeim sviðum, sem heyrðu undir forstjóra, hafa fækkað í sjö. Ákærði Stefán Árni stýrði áfram sviði, sem nefnt var „Wholesale“, og ákærði Kenneth var stjórnandi sviðs sem kallað var „Procurement“.

Ákærði Stefán Árni, sem er byggingaverkfræðingur, kvaðst fyrir héraðsdómi hafa byrjað störf hjá Húsasmiðjunni ehf. árið 2007 sem framkvæmdastjóri vörustýringarsviðs fyrirtækisins og heyrt beint undir forstjóra. Í samræmi við það var tekið fram í ráðningarsamningi hans frá 25. júlí það ár að hann bæri ábyrgð á starfsemi sviðsins gagnvart forstjóra. Sagði ákærði að undir sviðið hafi meðal annars fallið viðskipti með alla grófvöru og kvaðst hann aðspurður hafa borið ábyrgð á að verðkannanir væru gerðar á þeirri vöru.

Ákærði Kenneth, sem er byggingaverkfræðingur, skýrði frá því fyrir dómi að hann hafi tekið við starfi vörustjóra í timbursölu fyrirtækisins haustið 2009, en samkvæmt ráðningarsamningi, sem virðist hafa verið gerður árið 2005, gegndi hann áður starfi rekstrarstjóra timbursölunnar. Ákærði sagði að á ákærutímabilinu hafi timbursalan heyrt undir vörustýringarsvið fyrirtækisins og yfirmaður sinn verið ákærði Stefán Árni auk annars manns sem gegnt hafi starfi aðstoðarframkvæmdastjóra sviðsins til ársloka 2010. Aðspurður kvað ákærði Kenneth verðkannanir á grófvöru ekki hafa heyrt undir sig.

Ákærði Júlíus Þór, sem er tæknifræðingur, sagðist fyrir dómi hafa gegnt starfi vörustjóra á þungavörusviði hjá fyrirtækinu frá árinu 1998 og hafi hann tilheyrt vörustýringarsviði þess. Í ráðningarsamningi ákærða frá 5. september 2006 var sagt að hann bæri „ábyrgð á innkaupum og birgðahaldi fyrir sína vöruflokka“. Einnig að yfirmaður hans væri framkvæmdastjóri vörustýringarsviðs, ákærði Stefán Árni.

 Að sögn ákærða X starfaði hann sem sölumaður í þjónustuveri fyrirtækisins frá árinu 2004 og hafi starfið einkum verið í því fólgið að svara í síma. Spurður fyrir dómi sagði ákærði að nafngreindur rekstrarstjóri í timbursölu fyrirtækisins hafi verið næsti yfirmaður sinn. Verðkannanir hefðu ekki heyrt undir sig.

Ákærði Guðmundur sagðist fyrir dómi hafa byrjað að starfa hjá fyrirtækinu árið 2001, en 4. október 2010 hafi hann tekið við því verkefni að sjá um allar verðkannanir fyrir það. Í samræmi við það var tekið fram í ráðningarsamningi ákærða frá 18. nóvember sama ár að hann væri starfsmaður vörustýringarsviðs og „aðalstarfssvið“ hans væri „vinna við verðkannanir og aðstoð við vörustjóra“. Samkvæmt samningnum var næsti yfirmaður ákærða aðstoðarframkvæmdastjóri vörustýringarsviðs, sem lét af störfum í árslok 2010, en þá mun ákærði Stefán Árni hafa komið í hans stað. Kvaðst ákærði hafa unnið verðkannanir fyrir alla vörustjóra fyrirtækisins, þeirra á meðal ákærðu Júlíus Þór og Kenneth.

Ákærði Y greindi frá því fyrir dómi að á ákærutímabilinu hafi hann starfað sem sölumaður í þjónustuveri fyrirtækisins, en áður hafi hann um árabil gegnt ýmsum störfum hjá því. Starf sölumanns hafi fyrst og fremst verið í því fólgið að svara í síma. Samkvæmt ráðningarsamningi ákærða frá 23. janúar 2009 var „aðalstarfssvið“ hans „sala og upplýsingagjöf til viðskiptavina í gegnum síma“. Aðspurður sagði ákærði að yfirmenn sínir á þessu tímabili hafi verið nafngreindur rekstrarstjóri í timbursölu fyrirtækisins og ákærði Stefán Árni, svo og ákærðu Júlíus Þór og Kenneth sem vörustjórar. Kvað ákærði Y verðkannanir hjá fyrirtækinu yfirleitt hafa heyrt undir vörustjórana. Hann hefði einstaka sinnum hringt til að kanna verð, en það hafi ekki verið á sinni ábyrgð. 

III

Meðal þeirra gagna, sem lögð hafa verið fram í málinu, eru tölvupóstsamskipti milli starfsmanna Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. á árinu 2010 og fyrstu þrjá mánuði ársins 2011. Einnig upplýsingar um símtöl, sem áttu sér stað á sama tímabili, svo og hljóðupptökur af símtölum sem aflað var á grundvelli dómsúrskurða. Verður hér á eftir gerð grein fyrir þessum gögnum að því marki sem þau geta haft þýðingu við úrslausn um sekt eða sýknu ákærðu.

Fyrir liggur að hlustað var á símtöl sakborninga, þeirra á meðal ákærðu, innbyrðis eða við aðra skömmu eftir að þeir höfðu gefið skýrslu hjá lögreglu 8. mars 2011 þar sem þeir höfðu réttarstöðu sakaðs manns og var því óskylt að svara spurningum varðandi refsiverða hegðun, sem þeim var gefin að sök, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með því að hlusta á símtöl sakborninga við þessar aðstæður, þótt það væri gert á grundvelli dómsúrskurða, var brotið gegn rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. og dóm Hæstaréttar 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014. Því verður horft framhjá upptökum af þessum símtölum, sem eru meðal gagna málsins, við úrlausn þess.

1

Meðal málsgagna er tölvubréf með yfirskriftinni: „Verðkönnunarlisti BYKO“ sem ákærði Kenneth sendi ákærðu Júlíusi Þór og Stefáni Árna 27. janúar 2010. Í bréfinu sagði: „Hérna er listinn sem BYKO gerir verðkönnun eftir alla miðvikudaga. Hugmyndin er að Y og þeir í þjónustuverinu spyrji um sömu vörur á sama tíma og BYKO gerir könnun hjá okkur.“ Bréfinu fylgdi listi með 92 vörutegundum. Skömmu síðar þennan dag sendi ákærði Kenneth þremur starfsmönnum Húsasmiðjunnar ehf., þeirra á meðal ákærða Stefáni Árna, tölvubréf þar sem fram kom: „Hérna er síðasta verðkönnun. Ég hef ekki náð í BYKO til að kanna verðlagningu á græna efninu. Það er hugsanlega á tilboði og þá þurfum við að stilla það rétt af. Ég er búinn að hringja 4 sinnum en aldrei náð sambandi.“ Með „græna efninu“ mun hafa verið átt við gagnvarið timbur sem meðal annars var notað sem pallaefni.

Hinn 27. maí 2010 sendi ákærði Ragnar Már svohljóðandi tölvubréf til ákærðu Leifs Arnar og Stefáns Inga: „Gagnvarða efnið er á verði án virðisauka, allt annað efni er með virðisauka. Það er farið að minnka verulega í gagnvarða efninu.“ Meðfylgjandi var staðlað skjal á excel formi með yfirskriftinni „Verðkönnun Timbursölu“. Neðan við hana voru skráð símanúmer hjá Húsasmiðjunni ehf. og símanúmer „Y.“ og „X“. Einnig dagsetningin 27. maí 2010. Í skjalinu voru greind í fremsta dálki 105 vörunúmer og verð á hverri vöru um sig, annars vegar hjá Byko ehf. og hins vegar Húsasmiðjunni ehf., svo og munur á verðinu í prósentum. Í aftasta dálki voru sums staðar skráð vörunúmer hjá síðarnefnda fyrirtækinu.

Ákærði Kenneth sendi tölvubréf til SAS og ákærða Stefáns Árna auk þriggja annarra starfsmanna Húsasmiðjunnar ehf. 28. júlí 2010 þar sem sagði: „Ég er búinn að fá B í þjónustuverinu til að gera könnun á grænu efni hjá Byko í fyrramálið. Hann mun kanna lagerstöðuna í þessu helsta græna efni og hvaða lengdir eru til. Hann ætlar að hringja í sölustaði þeirra um landið og kanna stöðuna á hverjum stað svo við séum með sem bestar upplýsingar. Ég sendi ykkur niðurstöðuna á morgun.“ Daginn eftir, 29. júlí, sendi ákærði Kenneth þeim sömu tölvubréf þar sem fram kom: „Hérna kemur þetta. Þeir eiga lítið til en aðallega í 3,6 og 3,9 metrum í magni. Svo eru til búnt og búnt hingað og þangað í öðrum lengdum. Það sem verra er að þeir fá skip um helgina eftir því sem kunningi B á Selfossi sagði honum. Einnig taldi sá aðili að efnið gæti lækkað hjá þeim eftir helgina um 10%. Það eru sögusagnir og ég ætla að vona að það sé ekki rétt.“ Fyrr sama dag hafði BÞK, starfsmaður Húsasmiðjunnar ehf., sent ákærða Kenneth tölvubréf með afriti til ákærða Stefáns Árna þar sem sagði: „Ragnar var að hringja frá Byko og gerði verðkönnun á öllum pakkanum. Ég spurði hann varðandi lagerstöðuna á 28x95. Þeir eiga nánast bara til í Kjalarvoginum 3,6 og 3,9M, en hann sagði að það væri slatti til af því. Hann sagði að það sama gildi um flest útibú, þó auðvitað sé eitthvað til af öðrum lengdum, en amk eitthvað mjög lítið í vöruhúsi. Spurði hann um verðin á græna í leiðinni.“ Á eftir fylgdi tafla með verðum hjá Byko ehf. annars vegar og Húsamiðjunni ehf. hins vegar á fimm stærðum af hinu gagnvarða efni.

2

Í skýrslu lögreglu um samskipti milli tiltekinna símanúmera hjá Byko ehf., Húsasmiðjunni ehf., Úlfinum Lagerverslun ehf. og Múrbúðinni ehf. voru skráð flest þau símtöl sem vísað er til í I. til V. kafla ákæru. Þar kom fram að hringt hafi verið úr símanúmeri ákærða Ragnars Más hjá Byko ehf. í símanúmer ákærða Y hjá Húsasmiðjunni ehf. 13. september 2010, klukkan 10.28, og hafi símtalið staðið í rúmar 25 mínútur. Klukkan 11.50 sama dag sendi ákærði Ragnar Már ákærðu Leifi Erni og Stefáni Inga tölvubréf og fylgdi því staðlað skjal á excel formi eins og það, sem að framan er lýst, dagsett 13. september 2010 með upplýsingum um verð hjá Byko ehf. og Húsasmiðjunni ehf. á 105 vörutegundum. Ákærði Stefán Ingi framsendi skjalið í tölvupósti klukkan 13.20 sama dag til ákærða Steingríms Birkis, SER og eins annars starfsmanns Byko ehf.

Einnig kom fram í áðurgreindri skýrslu að hringt hafi verið úr símanúmeri ákærða Ragnars Más í símanúmer ákærða X hjá Húsasmiðjunni ehf. 23. september 2010, klukkan 10.41, og hafi símtalið staðið í tæpar 18 mínútur. Jafnframt að 30. sama mánaðar hafi verið hringt tvisvar úr símanúmeri ákærða Ragnars Más í númer ákærða X, fyrst klukkan 9.43 og hafi símtalið varað í rúmar fjórar mínútur og síðar klukkan 9.48, en það símtal hafi verið tæplega 11 mínútna langt. Fyrri daginn, klukkan 11.46, sendi ákærði Ragnar Már ákærðu Leifi Erni og Stefáni Inga tölvubréf ásamt hinu staðlaða skjali dagsettu sama dag með upplýsingum um verð hjá Byko ehf. og Húsasmiðjunni ehf. á 105 vörutegundum og síðari daginn, klukkan 11.47, sendi ákærði Ragnar Már sömu ákærðu tölvubréf ásamt staðlaða skjalinu dagsettu samdægurs með upplýsingum um verð hjá fyrirtækjunum tveimur á jafn mörgum vörutegundum. Í báðum tilvikum framsendi ákærði Stefán Ingi upplýsingarnar í tölvupósti til sömu þriggja starfsmanna Byko ehf. og áður greinir, þeirra á meðal ákærða Steingríms Birkis.

Hinn 8. október 2010, klukkan 10.25, var hringt úr símanúmeri ákærða Ragnars Más í númer ákærða X og varaði símtalið í rúmar 18 mínútur. Einnig var hringt 15. sama mánaðar, klukkan 9.41, úr símanúmeri, skráðu á landsbyggðarþjónustu Byko ehf., í númer ákærða X og stóð símtalið í rúmar 20 mínútur. Fyrri daginn, klukkan 11.45, sendi ákærði Ragnar Már ákærðu Leifi Erni og Steingrími Birki tölvubréf ásamt hinu staðlaða skjali dagsettu sama dag með upplýsingum um verð hjá Byko ehf. og Húsasmiðjunni ehf. á 105 vörutegundum og síðari daginn, klukkan 11.08, sendi sami ákærði tölvubréf til ákærðu Leifs Arnar og Stefáns Inga ásamt staðlaða skjalinu dagsettu samdægurs með upplýsingum um verð hjá fyrirtækjunum tveimur á 103 vörutegundum. Gerð hafði verið sú breyting á skjalinu að bætt hafði verið við dálkum með fyrirsögnunum „Múrbúðin“ og „Úlfurinn“ og voru greind verð á nokkrum vörutegundum í síðari dálkinum eins og nánar verður gerð grein fyrir í kaflanum hér á eftir. Sama dag, 15. október, klukkan 11.50, sendi ákærði Ragnar Már sömu ákærðu annað tölvubréf með sama staðlaða skjalinu, en upplýsingarnar, sem þar var að finna, höfðu verið leiðréttar. Í því tilviki framsendi ákærði Stefán Ingi upplýsingarnar í tölvupósti til fimm starfsmanna Byko ehf., þeirra á meðal ákærða Steingríms Birkis.

Hringt var úr símanúmeri, skráðu á VJ, starfsmann Byko ehf., í númer ákærða X 22. október 2010, klukkan 10.26, og var símtalið rúmlega 19 mínútna langt. Einnig var hringt 29. sama mánaðar, klukkan 9.07, úr áðurnefndu símanúmeri, skráðu á landsbyggðarþjónustu Byko ehf., í númer ákærða X og stóð símtalið í 15 og hálfa mínútu. Fyrri daginn, klukkan 11.50, sendi ákærði Ragnar Már ákærðu Leifi Erni og Stefáni Inga tölvubréf ásamt hinu staðlaða skjali dagsettu sama dag með upplýsingum um verð hjá Byko ehf. og Húsasmiðjunni ehf. á 103 vörutegundum og síðari daginn, klukkan 10.21, sendi sami ákærði tölvubréf til ákærðu Leifs Arnar og Steingríms Birkis ásamt staðlaða skjalinu dagsettu samdægurs með upplýsingum um verð hjá fyrirtækjunum tveimur á jafn mörgum vörutegundum. Í fyrrgreinda tilvikinu, 22. október, framsendi ákærði Stefán Ingi upplýsingarnar í tölvupósti til þriggja starfsmanna Byko ehf., þeirra á meðal ákærða Steingríms Birkis, með athugasemdinni: „Múrbúðin gaf ekki verð.“ Í því síðargreinda, 29. október, bárust ákærða Stefáni Inga upplýsingarnar í tölvupósti frá ákærða Leifi Erni.

Hinn 4. nóvember 2010, klukkan 15.01, var hringt úr áðurnefndu símanúmeri, skráðu á landsbyggðarþjónustu Byko ehf., í númer ákærða X og stóð símtalið í tæpar 16 mínútur. Sama dag, klukkan 15.43, sendi ákærði Ragnar Már ákærða Leifi Erni tölvubréf ásamt hinu staðlaða skjali dagsettu sama dag með upplýsingum um verð hjá Byko ehf. og Húsasmiðjunni ehf. á 103 vörutegundum. Síðar sama dag, klukkan 15.57, framsendi ákærði Leifur Örn upplýsingarnar til ákærðu Stefáns Inga og Steingríms Birkis með svofelldri athugasemd: „Ekki fengust uppgefin verð frá Múrbúðinni.“

 Hinn 19. nóvember 2010, klukkan 9.50, var hringt úr áðurnefndu símanúmeri, skráðu á landsbyggðarþjónustu Byko ehf., í nánar tiltekið símanúmer Húsasmiðjunnar ehf. og varaði símtalið í tæpa 31 mínútu. Hinn 25. sama mánaðar, klukkan 15.01, var hringt úr framangreindu símanúmeri hjá Byko ehf. í sama númer hjá Húsasmiðjunni ehf. og stóð það símtal í tæpa 15 og hálfa mínútu. Fyrri daginn, 19. nóvember, klukkan 11.18, sendi ákærði Ragnar Már ákærðu Leifi Erni og Stefáni Inga tölvubréf ásamt hinu staðlaða skjali dagsettu sama dag með upplýsingum um verð hjá fyrirtækjunum tveimur á 103 vörutegundum. Í bréfinu sagði: „Óbreytt verð hjá Úlfinum, hringdi í G í Múrbúðinni hann sagði mér að hringja í BB, hann svarar ekki í síma.“ Samkvæmt gögnum málsins bárust ákærða Steingrími Birki upplýsingarnar í tölvupósti skömmu síðar þennan dag. Síðari daginn, 25. nóvember, klukkan 16.29, sendi ákærði Ragnar Már sömu ákærðu tölvubréf ásamt staðlaða skjalinu dagsettu samdægurs með upplýsingum um verð hjá fyrirtækjunum á jafn mörgum vörutegundum. Í bréfinu var tekið fram: „Úlfurinn er með óbreytt verð frá því síðast, okkar verð eru komin inn.“ Daginn eftir, 26. nóvember, bárust ákærða Steingrími Birki upplýsingarnar í tölvupósti frá ákærða Stefáni Inga.

Hringt var úr áðurnefndu símanúmeri, skráðu á landsbyggðarþjónustu Byko ehf., í númer ákærða X 2. desember 2010, klukkan 11.07, og stóð símtalið í rúmar 15 mínútur. Þá var hringt úr sama símanúmeri í númer ákærða X 10. sama mánaðar, klukkan 10.31, og var það símtal liðlega 14 mínútna langt. Fyrri daginn, klukkan 11.36, sendi ákærði Ragnar Már ákærðu Leifi Erni og Stefáni Inga tölvubréf ásamt hinu staðlaða skjali dagsettu sama dag með upplýsingum um verð hjá Byko ehf. og Húsasmiðjunni ehf. á 103 vörutegundum og síðari daginn, klukkan 11.09, sendi sami ákærði tölvubréf til sömu ákærðu ásamt staðlaða skjalinu dagsettu samdægurs með upplýsingum um verð hjá fyrirtækjunum tveimur á jafn mörgum vörutegundum. Í því tilviki framsendi ákærði Stefán Ingi upplýsingarnar í tölvupósti til fjögurra starfsmanna Byko ehf., þeirra á meðal ákærða Steingríms Birkis.

Enn var hringt úr áðurnefndu símanúmeri, skráðu á landsbyggðarþjónustu Byko ehf., í númer ákærða X 16. desember 2010, klukkan 10.59, og varaði símtalið í rúmar 20 mínútur. Sama dag, klukkan 15.17, sendi ákærði Ragnar Már ákærðu Leifi Erni og Stefáni Inga tölvubréf ásamt hinu staðlaða skjali dagsettu sama dag með upplýsingum um verð hjá Byko ehf. og Húsasmiðjunni ehf. á 107 vörutegundum. Samdægurs framsendi ákærði Stefán Ingi skjalið í tölvupósti til fjölmargra starfsmanna Byko ehf., þeirra á meðal ákærða Steingríms Birkis. Í tölvubréfi til ákærða Stefáns Inga daginn eftir, 17. desember, spurði SER: „Hvert er verðið á steinullinni frá Múrbúðinni? Ég er búinn að vera að bíða eftir því í einar 2-3 vikur!“ Þessu svaraði ákærði þannig: „Þeir gefa mér ekki upp verð. Ég er að fá verktaka til að fá verð í þetta fyrir mig.“ Hinn 16. desember 2010 barst ákærða Stefáni Árna tölvubréf frá starfsmanni Húsasmiðjunnar ehf. með fyrirsögninni: „Byko voru að gera könnun á öllu draslinu“. Þegar ákærði spurði hvaða vörur þetta væru barst honum tölvubréf frá starfsmanninum að morgni næsta dags, en í því stóð: „Eflaust hafa þeir verið að tala við Y vikulega, hann er ekki við. Þeir voru að taka þennan lista sem þeir hafa verið með í gangi, heyrðist hann ekki vera að breyta neinu frá því að hann tók seinustu könnun, nema borðplötunum, sem eru ekki lengur á tilboði. Annars var hann að spyrja um krossvið, spónaplötur, MDF, grindarefni, styrkleikaflokkað, mótatimbur, smíðavið ... gagnvarið, kambstál, vatnsklæðningar, panil, steinull, bárujárn, gips ... borðplötur, límtré, hilluefni og sement.“ Síðar sama dag sendi ákærði Stefán Árni tölvubréf sem svar við áðurgreindum tveimur tölvubréfum, meðal annarra til ákærðu Guðmundar og Y, þar sem sagði: „Var búinn að ræða við Y, þeir hafa ekki verið að hringja í hann að undanförnu. Látið mig vita og Guðmund Loftsson líka þegar þeir gera verðkönnun“.

Hinn 12. janúar 2011, klukkan 15.38, var hringt úr áðurnefndu símanúmeri, skráðu á landsbyggðarþjónustu Byko ehf., í númer ákærða Y og stóð símtalið í liðlega 29 mínútur. Níu dögum síðar, 21. sama mánaðar, klukkan 10.39, var hringt úr framangreindu símanúmeri hjá Byko ehf. í sama númer hjá Húsasmiðjunni ehf. og hringt hafði verið í 19. og 25. nóvember 2010. Í þetta sinn var símtalið tæplega 24 mínútna langt. Hinn 12. janúar 2011, klukkan 16.46, sendi ákærði Ragnar Már ákærða Stefáni Inga tölvubréf ásamt hinu staðlaða skjali, sem dagsett var tveimur dögum fyrr, 10. janúar, með upplýsingum um verð hjá fyrirtækjunum tveimur á 103 vörutegundum. Skömmu síðar þennan sama dag, 12. janúar, sendi ákærði Stefán Ingi skjalið með sömu verðupplýsingum í tölvupósti til fjölmargra starfsmanna Byko ehf., þeirra á meðal ákærða Steingríms Birkis, en þá hafði það verið dagsett 12. janúar 2011 í stað 10. þess mánaðar. Hinn 21. janúar, klukkan 11.23, sendi ákærði Ragnar Már ákærða Stefáni Inga tölvubréf ásamt staðlaða skjalinu dagsettu samdægurs með upplýsingum um verð hjá fyrirtækjunum á jafn mörgum vörutegundum og áður greinir. Sá síðarnefndi framsendi skjalið sama dag í tölvupósti til þriggja starfsmanna Byko ehf., þeirra á meðal ákærða Steingríms Birkis.

Hinn 19. janúar 2011, klukkan 12.11, sendi ákærði Stefán Árni vörustjórum hjá Húsasmiðjunni ehf. tölvubréf þar sem sagði meðal annars: „Guðmundur L er að gera verðkannanir fyrir ykkur þar sem miðast er við að þið fáið þær mánaðarlega ... Allur mismunur sem er á milli vörunúmera í samanburði við Byko skal jafna (ef undantekningar eiga sér stað látið mig þá vita).“

Hringt var úr áðurnefndu símanúmeri, skráðu á landsbyggðarþjónustu Byko ehf., í símanúmer ákærða Guðmundar hjá Húsasmiðjunni ehf. 28. janúar 2011, klukkan 10.31, og stóð símtalið í rúmar 49 mínútur. Viku síðar, 4. febrúar, klukkan 8.45, var hringt úr símanúmeri hjá Byko ehf., skráðu á fyrrgreindan VJ, í númer ákærða Guðmundar og varaði það símtal í tæpar 38 mínútur. Fyrir liggur upptaka af símtalinu þar sem ákærðu Ragnar Már og Guðmundur skiptust á upplýsingum um verð á fjölmörgum vörutegundum hjá Byko ehf. annars vegar og Húsasmiðjunni ehf. hins vegar. Markmið símtalsins var auðheyrilega að fá sem nákvæmastan samanburð á verðum fyrirtækjanna á vörutegundunum, sem einkum tilheyrðu svonefndri grófvöru. Ástæðan sýnist vera sú að vegna þess að sama varan virtist í sumum tilvikum hafa mismunandi númer hjá hvoru fyrirtæki um sig lýstu ákærðu henni í hvert sinn og gátu þess að auki ef hún vék að einhverju leyti frá sambærilegri vöru, sem var til sölu í hinu fyrirtækinu, svo sem ef lengd sama efnis var ekki sú sama. Þá greindu þeir hvor öðrum frá sérkjörum, sem í boði væru, eins og hvort um væri að ræða sérverð eða tilboð á tilteknum vörum, en einnig hvort verðið væri fast eða afsláttur fengist af því. Af símtalinu er ljóst að ákærðu skráðu upplýsingarnar jafn óðum niður hjá sér auk þess sem heyra má að þeir hefðu áður skipst á upplýsingum sem þessum. Hinn 28. janúar 2011, klukkan 11.58, sendi ákærði Ragnar Már tölvubréf til ákærðu Leifs Arnar, Stefáns Inga og Steingríms Birkis ásamt hinu staðlaða skjali dagsettu sama dag með upplýsingum um verð hjá Byko ehf. og Húsasmiðjunni ehf. á 103 vörutegundum. Þá sendi sami ákærði tölvubréf til sömu ákærðu 4. febrúar, klukkan 10.03, ásamt staðlaða skjalinu dagsettu samdægurs með upplýsingum um verð hjá fyrirtækjunum á jafn mörgum vörutegundum. Í tölvubréfi frá ákærða Steingrími Birki til ákærða Stefáns Inga og annars starfsmanns Byko ehf. síðar sama dag sagði: „Samkvæmt verðkönnun Ragnars þá erum við aðeins hærri í 4 teg spónaplatna. Eigum við ekki að lækka okkur undir þá? Þurfum við kannske að gera aðeins víðtækari könnun?“

Hinn 10. febrúar 2011, klukkan 11.21, var hringt úr áðurnefndu símanúmeri, skráðu á landsbyggðarþjónustu Byko ehf., í númer ákærða Guðmundar og stóð símtalið í liðlega 32 mínútur. Fyrir liggur upptaka af símtalinu þar sem ákærðu Ragnar Már og Guðmundur skiptust á upplýsingum um verð á fjölmörgum vörutegundum hjá Byko ehf. og Húsasmiðjunni ehf. með áþekkum hætti og í símtalinu frá 4. sama mánaðar og áður hefur verið greint frá. Rúmri viku eftir að símtalið 10. febrúar átti sér stað, 18. þess mánaðar, klukkan 9.25, var hringt úr áðurnefndu símanúmeri hjá Byko ehf. í sama númer hjá Húsasmiðjunni ehf. og hringt hafði verið í 21. janúar 2011. Símtalið var tæplega 25 mínútna langt. Hinn 10. febrúar 2011, klukkan 13.14, sendi ákærði Ragnar Már ákærðu Stefáni Inga og og Steingrími Birki tölvubréf ásamt hinu staðlaða skjali dagsettu sama dag með upplýsingum um verð hjá fyrirtækjunum tveimur á 103 vörutegundum. Þá sendi sami ákærði tölvubréf til sömu ákærðu 18. sama mánaðar, klukkan 10.29, ásamt staðlaða skjalinu dagsettu samdægurs með upplýsingum um verð hjá fyrirtækjunum á jafn mörgum vörutegundum. Eftir að hafa fengið upplýsingarnar sendi ákærði Steingrímur Birkir skömmu síðar þennan sama dag, 18. febrúar, tvö tölvubréf. Það fyrra var til tveggja starfsmanna Byko ehf. og var annar þeirra ákærði Stefán Ingi. Í því stóð: „Þetta er orðinn mikill munur víða. Hvenær hækkuðu þeir eiginlega?“ Í síðara tölvubréfinu, sem sent var forstjóra og framkvæmdastjórum Byko ehf., ásamt staðlaða skjalinu fórust ákærða Steingrími Birki svo orð: „Sjá meðfylgjandi verðkönnun. Húsasmiðjan er búin að hækka verð á grófri vöru. Hér er um talsverða hækkun að ræða víða miðað við síðustu verðkönnun. Þurfum við ekki að ræða þetta á eftir á fundinum?“ Þá er meðal málsgagna skjal, sem prentað hefur verið úr tölvu, þar sem var að finna upplýsingar um verð á fjölmörgum vörutegundum hjá Húsasmiðjunni ehf. og Byko ehf. Skjalið sem fannst við húsleit á skrifstofu ákærða Stefáns Árna bar yfirskriftina „Samanburður á söluverði“ og efst á því stóð: „GUDMUNDL 11.02.2011“.

Hringt var úr símanúmeri hjá Byko ehf., skráðu á fyrrgreindan VJ, í símanúmer, skráð hjá Timburmiðstöð Húsasmiðjunnar ehf., 28. febrúar 2011, klukkan 15.19, og varaði símtalið í liðlega 24 mínútur. Fyrir liggur upptaka af símtalinu þar sem Æ, starfsmaður hjá Byko ehf., spurðist fyrir um verð Húsasmiðjunnar ehf. á fjölda vörutegunda. Í byrjun símtalsins var það GÞ, starfsmaður hjá síðarnefnda fyrirtækinu, sem gaf upplýsingar um verðin, en síðar ákærði X. Annars var símtalið á sömu nótum og símtöl ákærðu Ragnars Más og Guðmundar 4. og 10. sama mánaðar og áður hefur verið lýst. Hinn 28. febrúar, klukkan 16.08, sendi Æ ákærða Leifi Erni tölvubréf ásamt hinu staðlaða skjali sem dagsett var 4. sama mánaðar en hafði að geyma aðrar upplýsingar um verð hjá fyrirtækjunum tveimur heldur en skjalið sem sent hafði verið þann dag. Vörutegundirnar voru að þessu sinni 106 talsins í stað 103. Síðar um daginn, 28. febrúar, framsendi ákærði Leifur Örn sama skjalið í tölvupósti til fjölmargra starfsmanna Byko ehf., þeirra á meðal ákærðu Stefáns Inga og Steingríms Birkis, en dagsetningu þess hafði þá verið breytt í 28. febrúar 2011.

Hinn 3. mars 2011, klukkan 11.22, var hringt úr áðurnefndu símanúmeri, skráðu á landsbyggðarþjónustu Byko ehf., í númer ákærða X og stóð símtalið í tæpar 18 mínútur. Fyrir liggur upptaka af símtalinu þar sem ákærði Ragnar Már spurði ákærða X um verð á fjölda vörutegunda hjá Húsasmiðjunni ehf. Sama dag, klukkan 16.59, sendi ákærði Ragnar Már ákærðu Stefáni Inga og og Steingrími Birki tölvubréf ásamt hinu staðlaða skjali dagsettu sama dag með upplýsingum um verð hjá fyrirtækjunum tveimur á 103 vörutegundum. Síðar sama dag framsendi ákærði Steingrímur Birkir skjalið í tölvupósti til þriggja starfsmanna Byko ehf., þeirra á meðal ákærðu Leifs Arnar og Stefáns Inga, með spurningunni: „Eigum við ekki að hætta að bera saman þennan birkikrossvið eins og við gerum alltaf?“

3

Í framangreindri skýrslu lögreglu um samskipti milli tiltekinna símanúmera kom fram að hringt hafi verið úr áðurnefndu símanúmeri, skráðu á landsbyggðarþjónustu Byko ehf., í símanúmer, sem skráð var á Úlfinn Lagerverslun ehf., 15. október 2010, klukkan 10.11. Það símtal varaði í tæpa 18 og hálfa mínútu. Eins og áður segir sendi ákærði Ragnar Már þennan sama dag, klukkan 11.08, ákærðu Leifi Erni og Stefáni Inga tölvubréf ásamt hinu staðlaða skjali dagsettu samdægurs með samanburði á verðum Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf., auk upplýsinga um verð hjá Úlfinum Lagerverslun ehf. á níu vörutegundum. Sama dag, klukkan 11.50, sendi ákærði Ragnar Már tölvupóst til sömu ákærðu þar sem upplýsingarnar í skjalinu höfðu verið leiðréttar. Jafnframt barst ákærða Steingrími Birki hið leiðrétta skjal í tölvupósti frá ákærða Stefáni Inga.

Hinn 20. október 2010, klukkan 14.38, var hringt úr símanúmeri, skráðu á Úlfinn Lagerverslun ehf., í símanúmer ákærða Ragnars Más hjá Byko ehf. og stóð símtalið í rúma eina mínútu. Þá var 29. sama mánaðar, klukkan 9.32, hringt úr áðurnefndu símanúmeri, skráðu á landsbyggðarþjónustu síðargreinda fyrirtækisins, í númer hjá því fyrrgreinda og varaði það símtal í liðlega 17 og hálfa mínútu. Sem fyrr segir sendi ákærði Ragnar Már 22. sama mánaðar, klukkan 11.50, ákærðu Leifi Erni og Stefáni Inga tölvubréf ásamt hinu staðlaða skjali dagsettu þann sama dag þar sem fram komu til viðbótar upplýsingar um verð hjá Úlfinum Lagerverslun ehf. á níu vörutegundum. Hinn 29. október 2010, klukkan 10.21, sendi sami ákærði tölvubréf til ákærðu Leifs Arnar og Steingríms Birkis ásamt staðlaða skjalinu dagsettu samdægurs. Í bréfinu sagði: „Úlfurinn er ekki inni í þessari könnun það er vonlaust að fá verð hjá þeim í gegnum síma, tómar afsakanir hef ekki tíma og svo framv.“ Samt sem áður var að finna í skjalinu verð hjá fyrirtækinu á níu vörutegundum. Í fyrrgreinda tilvikinu, 22. október, barst ákærða Steingrími Birki skjalið í tölvupósti frá ákærða Stefáni Inga, en í því síðargreinda, 29. október, bárust ákærðu Stefáni Inga upplýsingarnar í tölvupósti frá ákærða Leifi Erni.

Hringt var úr áðurnefndu símanúmeri, skráðu á landsbyggðarþjónustu Byko ehf., í númer hjá Úlfinum Lagerverslun ehf. 4. nóvember 2010, klukkan 15.19, og var símtalið liðlega 11 mínútna langt. Hinn 19. sama mánaðar, klukkan 11.00, hófst símtal milli sömu símanúmera sem stóð í rúmar tvær mínútur. Sem fyrr greinir sendi ákærði Ragnar Már fyrri daginn, klukkan 15.43, ákærða Leifi Erni tölvubréf ásamt hinu staðlaða skjali dagsettu sama dag þar sem fram komu til viðbótar upplýsingar um verð hjá Úlfinum Lagerverslun ehf. á tíu vörutegundum. Síðari daginn, klukkan 11.18, sendi sami ákærði tölvubréf til ákærðu Leifs Arnar og Stefáns Inga ásamt staðlaða skjalinu dagsettu samdægurs með upplýsingum um verð hjá síðastgreinda fyrirtækinu á jafn mörgum vörutegundum. Í upphafi bréfsins var tekið fram: „Óbreytt verð hjá Úlfinum“. Í fyrrgreinda tilvikinu, 4. nóvember, barst ákærðu Stefáni Inga og Steingrími Birki skjalið í tölvupósti frá ákærða Leifi Erni, en í því síðargreinda, 19. nóvember, barst það samkvæmt gögnum málsins í tölvupósti til ákærða Steingríms Birkis.

Hinn 2. desember 2010, klukkan 11.00, var hringt úr áðurnefndu símanúmeri, skráðu á landsbyggðarþjónustu Byko ehf., í númer hjá Úlfinum Lagerverslun ehf. og varaði símtalið í rúmar sex mínútur. Þá hófst símtal milli sömu símanúmera 16. sama mánaðar, klukkan 14.20, og stóð í tæpar fimm mínútur. Eins og áður greinir sendi ákærði Ragnar Már fyrri daginn, klukkan 11.36, ákærðu Leifi Erni og Stefáni Inga tölvubréf ásamt hinu staðlaða skjali dagsettu sama dag þar sem greind voru, auk verða hjá Byko ehf. og Húsasmiðjunni ehf., verð hjá Úlfinum Lagerverslun ehf. á tíu vörutegundum. Síðari daginn, klukkan 15.17, sendi sami ákærði tölvubréf til ákærðu Leifs Arnar og Stefáns Inga ásamt staðlaða skjalinu dagsettu samdægurs með upplýsingum um verð hjá síðastgreinda fyrirtækinu á jafn mörgum vörutegundum. Í bréfinu sagði meðal annars: „Óbreytt verð hjá Úlfinum, talaði við Þ.“ Í því tilviki barst ákærða Steingrími Birki skjalið í tölvupósti frá ákærða Stefáni Inga.

Hringt var úr áðurnefndu símanúmeri, skráðu á landsbyggðarþjónustu Byko ehf., í númer hjá Úlfinum Lagerverslun ehf. 12. janúar 2011, klukkan 16.10, og var símtalið rúmlega 12 mínútna langt. Hinn 21. sama mánaðar, klukkan 11.05, hófst símtal milli sömu símanúmera sem stóð í næstum fjórar og hálfa mínútu. Sem fyrr segir sendi ákærði Ragnar Már fyrri daginn, 12. janúar, klukkan 16.46, ákærða Stefáni Inga tölvubréf ásamt hinu staðlaða skjali, sem var eins og áður segir dagsett 10. sama mánaðar, þar sem fram komu til viðbótar upplýsingar um verð hjá Úlfinum Lagerverslun ehf. á tíu vörutegundum. Skömmu síðar þennan sama dag, 12. janúar, sendi ákærði Stefán Ingi skjalið með sömu verðupplýsingum í tölvupósti til fjölmargra starfsmanna Byko ehf., þeirra á meðal ákærða Steingríms Birkis, en þá hafði það sem fyrr greinir verið dagsett 12. janúar 2011 í stað 10. þess mánaðar. Síðari daginn, 21. janúar, klukkan 11.23, sendi ákærði Ragnar Már tölvubréf til ákærða Stefáns Inga ásamt staðlaða skjalinu dagsettu samdægurs með upplýsingum um verð hjá Úlfinum Lagerverslun ehf. á níu vörutegundum. Í því tilviki barst ákærða Steingrími Birki skjalið í tölvupósti frá ákærða Stefáni Inga.

Hinn 4. febrúar 2011, klukkan 9.25, var enn hringt úr áðurnefndu símanúmeri, skráðu á landsbyggðarþjónustu Byko ehf., í númer hjá Úlfinum Lagerverslun ehf. og stóð símtalið í liðlega tíu og hálfa mínútu. Þá var hringt úr sama númeri hjá síðargreinda fyrirtækinu í númer ákærða Ragnars Más 17. sama mánaðar, klukkan 14.57, og var það símtal rúmlega níu mínútna langt. Sem fyrr greinir sendi ákærði fyrri daginn, klukkan 10.03, tölvubréf til ákærðu Leifs Arnar, Stefáns Inga og Steingríms Birkis ásamt hinu staðlaða skjali dagsettu sama dag þar sem greind voru auk verða hjá Byko ehf. og Húsasmiðjunni ehf. verð hjá Úlfinum Lagerverslun ehf. á níu vörutegundum. Hinn 18. febrúar 2011, klukkan 10.29, sendi ákærði Ragnar Már tölvubréf til ákærðu Stefáns Inga og Steingríms Birkis ásamt staðlaða skjalinu dagsettu samdægurs með upplýsingum um verð hjá síðastgreinda fyrirtækinu á jafn mörgum vörutegundum.

4

Meðal málsgagna er upptaka af símtali sem átti sér stað milli ákærðu Kenneth og Guðmundar að morgni 16. febrúar 2011 og stóð í rúma eina mínútu. Í símtalinu fórust Kenneth meðal annars svo orð: „Ef hann hringir ... frá Byko ... Ragnar heitir hann ... við erum ekki búnir að hækka verðin okkar ... þannig að ef hann hringir. Það er spurning hvort að þú ættir að fá hann bara til þess að hringja á morgun upp á, af því að þá getum við bara klárað listana og ... hækkað ... þá tekur það gildi á morgun. Þú getur þá bara sagt honum að við séum í verðhækkunum og það er eiginlega ekkert að marka það sem þú segir honum í dag en ... gætir sagt honum það bara á morgun.“ Guðmundur spurði: „Já, við reiknum með að klára þetta í dag, er það ekki?“ Kenneth svaraði: „Jú ... við hefðum viljað keyra inn breytingarnar líka á eftir ... þannig að þær taki gildi á morgun.“ Guðmundur: „Já, ég læt hann bara vita það.“ Eins og áður greinir sendi ákærði Steingrímur Birkir tvö tölvubréf eftir að honum bárust upplýsingar um verð hjá Húsasmiðjunni ehf. frá ákærða Ragnari Má 18. febrúar 2011 þar sem fram kom að fyrirtækið hafi hækkað verð á grófvöru.

Þá liggur einnig fyrir upptaka af símtali þar sem ákærðu Stefán Árni og Kenneth ræddu saman í tæpar þrjár mínútur síðdegis 23. febrúar 2011. Nokkru eftir að símtalið hófst sagðist Kenneth hafa hringt „til þess að gleðja þig óheyrilega mikið.“ Eftir að þeir Stefán Árni höfðu skipst á nokkrum orðum sagði Kenneth: „Heyrðu, Byko er búið að hækka.“ Stefán Árni: „Neeei.“ Kenneth: „Jú.“ Stefán Árni: „Til hamingju.“ Kenneth: „Já, þakka þér sömuleiðis.“ Stefán Árni: „Í öllu saman?“ Kenneth: „Ja, ég tók bara ... double tékkaði bara græna efnið, heflaða efnið, fimmta flokkinn og styrkflokkaða ... og þetta helsta.“ Stefán Árni sagði skömmu síðar: „Látið þið nú stjórann vita af þessu. Honum líður þá betur ... Þú mátt alveg hringja í mig sko á klukkutíma fresti með svona gleðifréttir.“ Þegar lengra var liðið á símtalið lét Stefán Árni þessi orð falla: „Ef þeir eru búnir að taka timbrið þá er plötuviðurinn kominn líka upp.“ Kenneth: „Ja, það er svo sem ekkert mál að kanna það bara, taka einhverjar stikkprufur“. Stuttu síðar spurði Stefán Árni: „En heyrðu, gætirðu græjað annað, að Guðmundur láti þetta fréttast þá með hina vöruflokkana sem við vorum að breyta núna?“ Kenneth svaraði: „Já, ég skal ... ef að það er ekki búið að gerast neitt í því, þá skal ég bara double tékka það.“ Stefán Árni: „Já biddu hann. Hann ... er búinn að taka það að sér ... í staðinn fyrir E, að sjá um þessar breytingar ... á runukeyrslunum. Ég er búinn að færa þetta af E til hans ... til að létta aðeins á þessu ... en hann þarf bara að fá eiginlega að vita bara hvað var búið að breyta á undan líka þannig að hann geti sagt þeim bara frá því.“ Rétt á eftir sagði Kenneth: „Ég skal tékka á plötugögnum og ... sjá hvort að þeir hafi brugðist eitthvað við.“

5

Lögð hefur verið fram í málinu upptaka af símtali þar sem ákærðu Steingrímur Birkir og Júlíus Þór ræddu saman í um 11 mínútur fyrir hádegi 28. febrúar 2011. Sá fyrrnefndi hringdi í þann síðarnefnda og minntist fyrst á ferðir á vörusýningar erlendis. Í því sambandi sagði ákærði Júlíus Þór: „Þessir ... vinir okkar, Múrbúðin og fleiri ... það er alltaf einhverjir [...] og eitthvað dót sem á alltaf að vera að skaffa betri verð sko, þannig að menn fóru eitthvað að skoða það hvort það væri rétt.“ Rétt á eftir lét Steingrímur Birkir þessi orð falla: „Ég held og ég er búinn að heyra þetta frá mörgum ... hann er náttúrulega að djöflast í ullinni ... og ætlar sér að, segir hann, núna í næsta mánuði ... vera með timbur. Fá timbursendingu.“ Síðar sagði Steingrímur Birkir: „Hann er að selja sumt af þessari vöru hjá sér undir kostnaðarverði“. Júlíus Þór lýsti skömmu síðar þessari skoðun sinni: „Hann er búinn að haga ... sér alveg eins og fífl.“ Tók Steingrímur Birkir undir þá skoðun. Júlíus Þór sagði nokkru síðar: „Við ætlum ... ekkert að láta hann ... auðvitað verðum við að fylgjast með honum“. Steingrímur Birkir: „Algjörlega.“

Að lokinni umræðu um keppinautinn lét Steingrímur Birkir þessi orð falla í símtalinu: „Veistu, ég hringdi. Ég hef nú aldrei gert þetta áður en ég held að ... og ég er núna ... ég stjórna tilboðsmálunum hjá okkur, allavega varðandi grófu vöruna ... Og þetta er komið bara í algjört bull ... Þetta eru orðin hjaðningavíg ef þetta heldur svona áfram“. Júlíus Þór: „Já. Þetta verður bara hjaðningavíg.“ Steingrímur Birkir: „Ég skal bara segja þér það og ég er búinn að tala við BF hjá mér ... og ég mun núna, í allri tilboðsgerð, frá og með bara sko morgundeginum ... Þá mun ég ýta öllu upp. Öllu. Alveg sama hvað það er og það verður ... Ég mun handstýra allri tilboðsgerð núna í heilan mánuð“. Júlíus Þór: „Þetta eru hjaðningavíg ... við erum að blæða báðir tveir.“ Steingrímur Birkir: „Algjör ... ég veit nú að við erum báðir jafn ósáttir við það“. Júlíus Þór: „Við erum bara að drepa hvern annan.“ Steingrímur Birkir: „En við viljum hafa fagleg vinnubrögð og allt það og ... ekkert eitthvað húmbúkk, en þetta gengur ekki“. Júlíus Þór: „Nei, veistu það, við erum bara að drepa hvern annan. Menn leka tilboðunum á milli okkar“. Steingrímur Birkir: „Alveg miskunnarlaust.“ Rétt á eftir sagði Júlíus Þór: „Við lifum þetta ekki af ef við ætlum að halda þessu áfram“. Steingrímur Birkir: „Nei, ég ætla mér sem sagt að hækka núna, bara handvirkt, tilboð. Alveg sama hvað er. Þetta verður allt sent inn til mín til ... yfirferðar. Ég, BF og Stebbi Vals munum fara yfir öll þessi tilboð ... Ég ætla að hækka allt um 2% lágmark.“

Símtalið snerist þessu næst um ástandið á Akureyri og Selfossi sem báðir ákærðu töldu óviðunandi. Komst Steingrímur Birkir svo að orði: „Mér finnst ég hafa sæmilega stjórn á mínum mönnum hérna í bænum en á þessum tveimur stöðum þá eru þeir algjörlega ... eins og þeir séu í öðru sólkerfi.“ Júlíus Þór: „Já, við höfum tekið líka eftir því ... að til dæmis Stór-Reykjavíkursvæðið ... það er ... í lagi sko. Það eru ekki sömu djöfulsins verðin þar eins og á Akureyri og Selfossi“. Steingrímur Birkir: „En ég ætla mér ... sem sagt að draga núna upp um 2%, allt, bara komplet ... ég get nú ekki tölusett það nákvæmlega ... það sem ég ætla með Akureyri sérstaklega og líka Selfoss, það er að ég ætla mér að draga þetta upp meira þar í tilboðsgerðinni og þeir verða bara undir þeim skipunum, og ef þeir ekki hlýða mér og ef ég fæ ekki tilboðin og þeir klára þetta ekki eins og ég vil, þá hérna, fá menn ... skriflega áminningu og síðan geta þeir bara kysst starfið sitt bless.“ Júlíus Þór: „Þetta ... er ekkert flóknara en það að maður er að segja upp starfsmönnum ... og velturnar eru að minnka ... og við ætlum að missa framlegðina frá okkur líka.“ Steingrímur Birkir: „Ég hvet þig bara, Júlíus, til þess að beita einhverjum áhrifum þarna innanborðs. Þið hljótið ... ég er alveg“. Þessu svaraði Júlíus Þór: „Jú, jú.“ Steingrímur Birkir: „Eftir nokkra daga þá bara sjáið þið það ... að við erum búnir að færa okkur til ... við erum búnir að vera að hækka verð, útsöluverð. Það dylst engum. Það er náttúrulega bara krónan og hækkanirnar erlendis frá sem að draga ... þann hérna, vagn áfram.“ Júlíus Þór: „Já, við höfum líka verið að hækka sjálfir undanfarið vegna þess að við erum búnir að fá á okkur alveg hellings hækkanir“. Steingrímur Birkir: „Já, já ... við höfum verið að fylgja ykkur eftir þar ... aldrei þessu vant höfum við verið dálítið á eftir ykkur, finnst mér sko. Eða þið dregið vagninn þar“. Hann hélt svo áfram: „Þetta grófvörutilboðskjaftæði er bara ... þú veist.“ Júlíus Þór: „Við erum að fara inn í há seasonið okkar ... þar sem við þurfum að fá tekjurnar okkar og við megum ekki missa þetta frá okkur núna. Auðvitað munum við slást en við eigum að slást bara á eðlilegum nótum.“ Steingrímur Birkir: „Já, ég segi það. En við þurfum að hækka levelið þar sem við erum að slást.“ Júlíus Þór: „Já, ég er alveg sammála.“ Steingrímur Birkir: „Og ég ætla mér að ... ég hafði hugsað mér að gera þetta í tvisvar sinnum 2% núna ... Byrja í 2% núna og svo aftur 2% eftir 2-3 vikur ... og ég vona að þið merkið þetta“. Júlíus Þór svaraði: „Já, ég skal ... sjá til þess að við fylgjum þessu eftir.“

Steingrímur Birkir vék nú að öðru: „En svo er eitt ... Mér finnst hérna og ég held að ég skaði ykkur ekkert með því að segja þetta ... Ég veit að þið eruð að bjóða alveg svakalega og eruð að ná ofnapökkum núna ... Þú hlýtur að vita eitthvað af því.“ Júlíus Þór: „Já, já.“ Steingrímur Birkir: „En, ég held ... mér sé óhætt að segja er að ... þið eruð svo langt frá okkur að það er ekki heilbrigt fyrir ykkur ... við höfum fengið að sjá þrjú tilboð núna ... og það munar meira heldur en 10% á okkur og mestu munaði á einu tilboði og það var 18% munur á því sem að við vorum að bjóða og ... þið verðið að hugsa ykkar gang þarna.“ Júlíus Þór: „Já, ég skal skoða það“. Steingrímur Birkir: „Þið þurfið allavega ekki að gefa svona mikið frá ykkur, það er nokkuð ljóst“.

Steingrímur Birkir tók því næst svo til orða: „Og ef að Múrbúðin á að fara á hausinn þá verðið þið að vera lifandi.“ Þessu svaraði Júlíus Þór: „Það er ekki spurning vegna þess að bara síðasta ár var það hrikalegt hjá okkur ... miðað við að missa til dæmis sérstaklega græna efnið svona niður í rusl ... það skiptir okkur miklu máli líka ... og þess vegna er náttúrulega líka mjög mikilvægt að menn séu ekki ... að jarða sig fyrir seasonið sko, fara með verðin ... niður í svaðið áður en ... og halda því svo yfir seasonið. Það er ekkert hægt. Við verðum að lyfta okkur upp núna ... ef við ætlum bara að lifa þetta af“. Steingrímur Birkir: „Nákvæmlega ... og reksturinn á síðasta ári væntanlega verri heldur en árið á undan, eins og hjá okkur, eða hvað?“ Júlíus Þór: „Já, það er bara svoleiðis ... þetta er bara hörmung.“ Síðan bætti hann við: „Og svo fara salan ... og framlegðin niður ... og er ekki glæsilegt.“ Steingrímur Birkir: „Nei ... þetta er algjör geggjun.“ Júlíus Þór: „Ég veit það. En ég skal koma ... þessu áfram á rétta staði.“ Steingrímur Birkir: „Hérna ... eins og ég segi, ég byrja á þessu í fyrramálið og ég mun ekki hleypa einu einasta tilboði í gegn ... og þetta á ekki bara við um grófu vöruna. Ég ætla mér að, eins og ég segi, BF mun vinna þetta með mér og hann mun stýra þessu líka í ... hvað á ég að segja, þú veist, eins og við köllum valvöruna og það allt saman.“ Júlíus Þór: „Og það er líka mikilvægast vegna þess að þessi tilboð sem eru á þessu Selfoss-svæði og Akureyrar, þetta lekur oft yfir á hin svæðin líka“. Steingrímur Birkir: „Já, já ... Ég veit ekki hvernig þetta ... gat nú eiginlega leiðst út í þessa geggjun á þessum tveim stöðum, sko. Því að ég er búinn að reyna að vinna núna gegn þessu, sérstaklega á Akureyri allavega, Stebbi hefur séð meira um Selfossið núna ... síðan í nóvember á síðasta ári“. Síðar bætti hann við: „Og samt sko, þrátt fyrir ítrekaða fundi og ég veit ekki hvað og hvað, þá hlýða menn ekki og nú er mér bara nóg boðið ... Þessu verður bara handstýrt núna.“ Júlíus Þór: „Já, það þýðir ekkert annað.“ Steingrímur Birkir: „Þannig að þið verðið varir við þetta og vonandi, eins og ég segi, tekst okkur að gera lífið.“ „Bærilegra“ skaut Júlíus inn í og sagði svo undir lok símtalsins: „Heyrðu, Steingrímur minn. Ég þakka þér bara fyrir og ég mun koma þessum upplýsingum áfram.“

Meðal málsgagna er upptaka af símtali, sem átti sér stað eftir hádegi 28. febrúar 2011 milli SAS og Z, framkvæmdastjóra verslanasviðs Húsasmiðjunnar ehf. Þegar nokkuð var liðið á símtalið spurði Z: „En ertu búinn að heyra eitthvað í ÓÞJ?“ SAS: „Nei.“ Z: „Hann hefur ekki sagt þér frá símtalinu sem Júlli fékk í morgun?“ Þegar SAS neitaði því hélt Z áfram: „Það er eiginlega magnað símtal. Hann hringir í hann Steingrímur úr Byko ... og er svona að gefa honum hint um það ... að staða þeirra á Akureyri og Selfossi ... í þungavöru og tilboðshasarnum við Húsasmiðjuna, sé orðin þannig ... að ... hann ætlar að taka öll tilboð inn til sín á þessum tveimur stöðum ... með það að markmiði að hækka ... framlegðina og minnka afslættina um tvisvar sinnum 2% á einum mánuði.“ Skömmu síðar spurði SAS hvort ákærði Steingrímur Birkir hefði hringt í ákærða Júlíus Þór og útskýrði Z fyrir honum að þeir væru málkunnugir, en bætti svo við: „Þú ættir eiginlega að pumpa Júlla ... og Júlli sagði okkur ÓÞJ frá þessu í morgun og ... við bara báðum Júlla að segja ekki nokkrum öðrum manni frá þessu.“ SAS: „Nei.“ Z: „Því þetta er náttúrulega verður að fara með eins og mannsmorð og það verður að vera mjög strategísk pæling hvernig við meðhöndlum þetta og hvað við segjum til dæmis við okkar sölumenn ... hvernig við mætum þessu“. SAS: „Já. Það verður að vera það. Tvisvar sinnum 2%?“ Z: „Já, sem hann ætlar að hefa upp hérna, tilboðin á þessum tveimur stöðum. Nú eru þeir farnir að horfa á janúar-uppgjörin eins og við.“ SAS: „Akureyri og Selfoss?“ Þessari spurningu svaraði Z: „Þetta eru bara staðirnir sem við höfum verið að berjast mest við þá“. SAS: „Nákvæmlega. Og ég hugsa að þeir hafi verið að tapa meira en við á Self ... á Akureyri ... sem sagt af þungavörunni.“ Z: „Og þeir hafa kannski fengið að spila svolítið frítt spil á meðan við vorum sofandi og vorum ekki að fylgjast nógu vel með þessu.“ SAS: „Ég hugsa það nefnilega. Og þeir hafa kannski þá verið að ná alveg ágætis sölum á alveg þokkalegri framlegð“. Z: „Já, svo byrjum við að djöflast og þá hrynur þetta.“ Tók SAS undir það og bætti við: „Og þá hérna hrökkva þeir í kút“. Z: „Já ... Júlli ... sagði okkur að í þessu samtali hafi hann notað tækifærið og farið að ræða græna efnið, að þetta mætti nú ekki endurtaka sig. Þannig að ... þeir voru með mikla samtölu þarna strákarnir.“ Þessu svaraði SAS: „Þetta er bara fínt.“ Endurtók Z þau orð og sagði: „Þú sérð að þeir eru að fara upp með timbrið ... þetta er náttúrulega skýringin á framlegðardroppinu okkar í mjög mörgum vöruflokkum í nýbyggingarflokkunum, alveg klárlega.“ Því samsinnti SAS áður en þeir viku talinu að öðru.

6

Í framangreindri skýrslu lögreglu um samskipti milli tiltekinna símanúmera kom fram að hringt hafi verið úr símanúmeri, skráðu á ákærða Ragnar Má hjá Byko ehf., í símanúmer, sem skráð var á Múrbúðina ehf., 15. október 2010, klukkan 8.44. Það símtal stóð í rúma fjóra og hálfa mínútu.

Sama dag, klukkan 8.55, var hringt úr símanúmeri, skráðu á ákærða Kenneth hjá Húsasmiðjunni ehf., í sama númer hjá Múrbúðinni ehf. og varaði símtalið innan við fjórar mínútur. Enn var hringt í sama númer hjá fyrirtækinu þennan sama dag, klukkan 10.45, en að þessu sinni úr símanúmeri, skráðu á ákærða Júlíus Þór hjá Húsasmiðjunni ehf., og var það símtal liðlega tveggja mínútna langt.

7

Við meðferð málsins í héraði voru lögð fram ýmis skjöl af hálfu ákærðu. Meðal þeirra voru ljósrit af verðlistum hjá Byko ehf. frá þeim tíma, sem ákæra í málinu nær til, þar sem fram komu verð á fjölmörgum vöruflokkum eftir númerum. Neðst á listunum sagði meðal annars: „Verð miðast við uppgefna dagsetningu ... Tilboðsverð eru feitletruð.“ Þá stóð „SV“ eða „#“ fyrir framan sumar vörutegundirnar án þess að frekari skýringar kæmu þar fram. Ennfremur voru lögð fram afrit af verðlistum af vef Húsasmiðjunnar ehf. sem sögð voru spanna tímabilið frá 21. apríl 2009 til 3. nóvember 2012. Á listunum var að finna verð á fjölda vöruflokka eftir númerum og stóð við marga þeirra: „Sérvara – Hafið samband við sölumann“. Þá voru sumar vörutegundirnar merktar með stjörnu, en ekki kom þar fram hvað sú merking táknaði.

Í málflutningi fyrir Hæstarétti kom fram af hálfu nokkurra ákærðu að á vefsíðu Húsasmiðjunnar ehf. hafi á ákærutímabilinu verið að finna almenna viðskiptaskilmála fyrirtækisins fyrir viðskiptamenn í reikningsviðskiptum. Þar hafi meðal annars verið tekið fram að afslættir reiknuðust ekki af tilboðsverði eða stjörnumerktum vörum í verslunum þess.

IV

Í hinum áfrýjaða dómi er rakinn í meginatriðum framburður ákærðu og vitna fyrir héraðsdómi.

1

Eins og ráðið verður af endurriti úr þingbók var skýrslutöku fyrir dómi hagað með þeim hætti að ákærðu, sem mættu til þinghalds, gafst kostur á að vera viðstaddir þegar meðákærðu gáfu skýrslu án tillits til þess hvort þeir ættu eftir að koma fyrir dóm til skýrslugjafar. Samkvæmt síðari málslið 2. mgr. 114. gr. laga nr. 88/2008 getur dómari ákveðið að ákærðu skuli ekki hlýða á framburð þess, sem ákærður er í sama máli, ef ástæða þykir til. Með hliðsjón af þeirri áherslu, sem á það er lögð í sakamálum að leiða hið sanna í ljós, verður að skýra niðurlagsorð þessa ákvæðis svo að dómari skuli sjá til þess að ákærði sé ekki viðstaddur skýrslutöku af meðákærða ef það gæti orðið til þess að hafa áhrif á framburð hans fyrir dómi. Vegna þess að sú háttsemi, sem ákærðu er gefin að sök, er eðlislík og á að verulegu leyti rót sína að rekja til sömu atvika var af þessum sökum brýnt að koma í veg fyrir að ákærðu hlýddu á framburð meðákærðu fyrr en eftir að þeir sjálfir hefðu komið fyrir dóm og gefið þar skýrslu. Í endurriti af skýrslum ákærðu fyrir dómi kemur þannig fram að í sumum tilvikum vísuðu þeir til framburðar meðákærða, sem þeir höfðu áður hlustað á, svo sem þegar ákærði Júlíus Þór var beðinn um að tjá sig um sakargiftir samkvæmt III. kafla ákæru þá sagði hann að lýsing ákærða Kenneth „hér áðan á atburðarásinni“ samræmdist algjörlega sinni.

Þá var skýrslutöku af sumum ákærðu háttað þannig að fyrst gáfu þeir skýrslu um þá háttsemi, sem þeim var gefin að sök í ákæru, og höfðu þá réttarstöðu sakaðra manna samkvæmt XVII. kafla laga nr. 88/2008, en síðar stöðu vitna eftir XVIII. kafla laganna þegar þeir tjáðu sig um önnur ákæruatriði. Þar sem við skýrslugjöf fyrir dómi er gerður skýr greinarmunur í lögunum á ákærða annars vegar og vitnum hins vegar vegna mismunandi réttarstöðu þeirra var engin lagastoð fyrir þessari tilhögun á skýrslutökunni, enda kom fyrir að ákærði væri spurður út í atriði, sem hann er sakaður um í ákæru, eftir að hann fékk samkvæmt framansögðu stöðu vitnis þvert gegn fyrirmælum 2. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008 um að ákærða sé óskylt að svara spurningum varðandi refsiverða hegðun sem honum er gefin að sök.

Sá háttur á skýrslutöku af ákærðu, sem hér hefur verið lýst, er ekki síst ámælisverður fyrir þá sök að hann rýrir til muna sönnunargildi framburðar þeirra fyrir dómi.

2

Ákærðu neituðu allir sök fyrir héraðsdómi. Til að varpa skýrara ljósi á atvik málsins verður hér á eftir vitnað til einstakra ummæla þeirra fyrir dómi.

 Ákærði Ragnar Már kvaðst ekki neita því að atvikin, sem lýst er í I. og II. köflum ákæru og hann varða, hafi átt sér stað. Hann sagðist hafa hringt og beðið um verð. Eftir að hann hafi fengið verðin upp gefin hafi hann skráð þau niður í sérstakt skjal. Aðspurður hvort hann hafi fengið fyrirmæli til að gera þetta eða gert það upp á sitt eindæmi svaraði ákærði: „Þetta var nú svona komin ákveðin rútína í þetta, það var ætlast til þess að ég ... gerði þetta“. Spurður hvort hann hafi veitt upplýsingar á móti kvað hann það hafa komið fyrir, þar á meðal í símtölum við ákærða Guðmund 4. og 10. febrúar 2011. Þegar ákærði Ragnar Már var spurður hvers vegna hann hafi sent verðupplýsingarnar til ákærða Steingríms Birkis í tölvupósti svaraði hann: „Ég var held ég örugglega beðinn um það, ég sendi á, yfirleitt Leif og Stefán og ... í einhverjum tilfellum hef ég verið líklega beðinn um það eða jafnvel að ég hafi gert það sjálfur, ég skal ekki segja.“ Ákærði Ragnar Már sagðist ekkert muna eftir að hafa hringt í símanúmer hjá Múrbúðinni ehf. 15. október 2010.

Í skýrslu ákærða Y kom fram að ákærði Ragnar Már, sem starfað hafi hjá Byko ehf., hafi hringt í sig annað slagið á ákærutímabilinu og spurst fyrir um verð á grófvörum. Spurður hvort hann hafi talið sér heimilt að veita verðupplýsingar til starfsmanns Byko ehf. svaraði ákærði Y: „Ja ég gat ekki neitað neinum um verð sem hann spurði um.“ Ákærði neitaði því að hafa verið sérstaklega beðinn um að veita því fyrirtæki upplýsingar.

Ákærði X kvað ákærða Ragnar Má alla jafna hafa hringt í sig og spurt „um töluvert marga vöruliði“. Aðspurður sagðist ákærði X ekki hafa spurt um verð á móti. Hann staðfesti að þau símtöl, sem vísað er til í I. kafla ákæru milli sín og ákærða Ragnars Más, hafi átt sér stað. Spurður hvort yfirmönnum hans hafi verið kunnugt um að hann hafi veitt verðupplýsingarnar svaraði ákærði X: „Já það myndi ég ætla.“

Að sögn ákærða Guðmundar kvaðst hann ekki hafa hringt í starfsmann Byko ehf. og spurt um upplýsingar um grófvöru „nema í örfáum tilfellum.“ Hann minnti að það hafi aðeins verið ákærði Ragnar Már sem hafi hringt í sig til að spyrja um verð. Aðspurður sagðist ákærði Guðmundur ekki hafa spurt um verð á móti í byrjun, en síðan hafi það gerst „svona ósjálfrátt að við spyrjum um verð og hann gefur upp verð á móti ... en ég nýtti mér ekkert þau verð sem að hann gaf mér upp á móti, ég var alltaf kominn með þau“. Ákærði sagðist hafa sett upplýsingarnar inn í sérstakt verðkönnunarkerfi hjá Húsasmiðjunni ehf. og prentað þær síðan út í nokkrum eintökum. Hefði eitt þeirra farið til ákærða Stefáns Árna og annað til vörustjóra viðkomandi vöru. Ákærði Guðmundur greindi aðspurður frá því að hann hefði ekki upplýst yfirmenn sína beint um samskipti sín við ákærða Ragnar Má, en hins vegar talið „fullvíst að þeir vissu um þessi upplýsingaskipti“. Þegar ákærði Guðmundur var spurður um símtöl sín við ákærða Ragnar Má, sem vísað er til í I. kafla ákæru, staðfesti hann að þau símtöl hafi farið fram og þeir skipst á upplýsingum um verð. Á hinn bóginn neitaði ákærði því að hafa veitt viðmælanda sínum upplýsingar um tilboðskjör, heldur einungis upplýst hann um tilboðsverð. Þá neitaði hann því að hafa prentað út skjal með verðupplýsingum, sem hann hafi fengið í símtali við ákærða Ragnar Má 10. febrúar 2011, og afhent það ákærða Stefáni Árna því að upplýsingarnar í skjalinu hafi hann náð í sjálfur á vef Byko ehf.

Ákærðu Leifur Örn, Stefán Ingi og Steingrímur Birkir könnuðust allir við að hafa fengið tölvubréfin frá ákærða Ragnari Má eða öðrum starfsmanni Byko ehf. sem vísað er til í I. og II. köflum ákæru. Spurður um hvernig verðkannanir hjá fyrirtækinu hafi farið fram svaraði ákærði Leifur Örn að sér hafi ekki verið kunnugt um það, en ákærði Ragnar Már hafi átt „að afla verða frá samkeppnisaðilum og ég vissi nú bara ekki betur en að hann væri að hringja ... í þá og fá upp verð.“ Ákærði Stefán Ingi var einnig spurður að því hvernig verðkannanir á grófvöru hafi farið fram og svaraði hann því til „að það átti að hringja og fá verð.“ Ákærði Steingrímur Birkir lýsti því að hann hafi farið yfir verðkannanirnar þegar þær bárust honum. Hafi verið þörf á þessum upplýsingum til „að stunda samkeppnisrekstur ... og vita stöðuna á markaðnum.“ Kannanirnar hafi átt „að felast í því að það væri hringt í samkeppnisaðila til þess að útvega verðlistaverð.“ Ákærði kvaðst ekki „á þessum tíma“ hafa lagt línur um hvernig þeim yrði hagað en það hafi hann gert „á sínum tíma.“

Ákærði Stefán Árni sagðist ekkert vita um símtölin milli starfsmanna fyrirtækjanna tveggja sem vísað er til í I. kafla ákæru. Frá árinu 2007 hafi hann óskað eftir því að allir vörustjórar Húsasmiðjunnar ehf. „færu inn á net Byko til að kanna verð“. Hafi hann borið ábyrgð á að verðkannanir væru gerðar með þessum hætti. Aðspurður kvaðst ákærði hafa vitað að starfsmaður hjá Byko ehf. hafi hringt og spurst fyrir um verð, en ekki vitað um umfang þeirra kannana. Hann hafi sjálfur fengið mánaðarlega frá ákærða Guðmundi lista yfir verð hjá samkeppnisaðilum sem prentaðir hafi verið út úr áðurnefndu verðkönnunarkerfi Húsasmiðjunnar ehf. Þá staðfesti ákærði að hafa fengið tölvubréfin frá ákærða Kenneth 27. janúar 2010.

Loks héldu ákærðu Kenneth og Júlíus Þór því báðir fram fyrir dómi að lýsing í V. kafla ákæru á efni símtala þeirra við starfsmann Múrbúðarinnar ehf. 15. október 2010 væri ekki sannleikanum samkvæm.

V

Hinn 9. júlí 2014 var undirrituð sátt milli Samkeppniseftirlitsins og Holtavegar 10 ehf., áður Húsasmiðjunnar ehf., sem lögð var fram við meðferð málsins í héraði. Eftir að hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp tók Samkeppniseftirlitið 15. maí 2015 ákvörðun sína nr. 11/2015 þar sem meðal annars var fjallað um ætluð brot Byko ehf. á 10. gr. samkeppnislaga á þeim tíma sem ákæra í málinu tekur til. Þeirri ákvörðun var skotið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem felldi 28. september 2015 úrskurð sinn í máli nr. 6/2015. Þessar tvær úrlausnir samkeppnisyfirvalda hafa verið lagðar fram hér fyrir dómi.

1

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kom fram að af hálfu Holtavegar ehf., sem rak fyrirtækið Húsasmiðjuna á sínum tíma, hafi í kjölfar rannsóknar stofnunarinnar á ætluðum brotum fyrirtækisins verið óskað eftir að kannað yrði hvort unnt væri að ljúka málinu með sátt á grundvelli 17. gr. samkeppnislaga. Í framhaldinu gerðu aðilar með sér sátt 9. júlí 2014.

Með sáttinni var viðurkennt að Húsasmiðjan ehf. hafi á tímabilinu frá nóvember 2008 til mars 2011 brotið 10. gr. samkeppnislaga „með samfelldu samráði við Byko ehf. um m.a. verð á byggingavörum.“ Nánar tiltekið var meðal annars viðurkennt að brotið hafi falist í „reglubundnum, yfirleitt vikulegum, samskiptum við Byko um verð, birgðastöðu o.fl. í því skyni að hækka verð/vinna gegn verðlækkunum á grófvörum ... samráði við Byko sem átti sér stað í símtali þann 28. febrúar 2011 og fól í sér sérstakt átak til að hækka verð og draga úr samkeppni.“ Einnig „með því að hafa gert sameiginlega tilraun með Byko til að fá Múrbúðina til að taka þátt í samráði um verð á grófvöru og ... að hafa greint Byko frá mikilvægum viðskiptalegum upplýsingum.“ Vegna þessa féllst Holtavegur 10 ehf. á að greiða 325.000.000 krónur í stjórnvaldssekt.

2

Af hálfu Byko ehf. var því mótmælt að fyrirtækið hefði brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga með samskiptum sínum við Húsasmiðjuna ehf. og önnur fyrirtæki. Sökum þess tók Samkeppniseftirlitið fyrrgreinda ákvörðun 15. maí 2015 þar sem stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að Byko ehf. hefði brotið gegn lagagreininni með margvíslegum hætti á tímabilinu frá nóvember 2008 til mars 2011 og var móðurfélagi þess, Norvik hf., meðal annars af þeim sökum gert að greiða 650.000.000 krónur í stjórnvaldssekt.

Umrædd ákvörðun Samkeppniseftirlitsins var ítarlega rökstudd. Þar var í upphafi skilgreindur sá markaður, sem Byko ehf. og Húsasmiðjan ehf. störfuðu á, og talið að verslanir fyrirtækjanna tveggja, sem boðið hafi breitt úrval byggingavöru og skyldra vara, væru sérstakur flokkur verslana sem starfað hafi á aðgreindum markaði. Samkvæmt því hafi markaðurinn verið sala á alhliða byggingavöru hér á landi og var til einföldunar miðað við höfuðborgarsvæðið. Á grundvelli tölfræðilegra upplýsinga var áætlað að hlutdeild Byko ehf. hafi verið á bilinu frá 55% til 60% á þeim markaði á árinu 2010 og milli 60% og 65% á fyrri helmingi ársins 2011. Á sama tíma hafi markaðshlutdeild Húsasmiðjunnar ehf. verið á bilinu frá 30% til 35% og Múrbúðarinnar milli 5% og 10%.

Í ákvörðuninni var því slegið föstu að á þeim tíma, sem rannsókn stofnunarinnar tók til, hafi Byko ehf. og Húsasmiðjan ehf. átt í reglubundnu samráði, sem aðallega hafi tengst viðskiptum með grófvörur, og tækju flest tilvikin „til ársins 2010 og fram í mars 2011.“ Hafi Úlfurinn Lagerverslun ehf. tekið að hluta þátt í samráðinu. Vörunúmer sem fyrstnefndu tvö fyrirtækin seldu hafi skipt tugþúsundum, en umrædd verðsamskipti hafi tekið „til 105 vörutegunda í flokki grófvara sem eiga það sameiginlegt að teljast til mikilvægustu og söluhæstu grófvara þeirra.“ Eðli þessarar vöru væri þannig að torvelt væri að bera saman verð á henni. „Hin skipulögðu verðsamskipti gerðu hins vegar Byko og Húsasmiðjunni kleift að bera saman verð á fullkomlega sambærilegum grundvelli.“

Í VI. kafla ákvörðunarinnar var fjallað á ítarlegan hátt um svonefnd samráðstilvik, þar á meðal þau sem áttu sér stað á ákærutímabilinu. Í upphafi kafla um samráð í júlí 2010 sagði: „Gögn málsins bera með sér að í júlí 2010 hafi brotist út verðsamkeppni á milli Byko og Húsasmiðjunnar í græna efninu. Gögnin sýna einnig að þarna hafi komist á samkeppni sem Byko og Húsasmiðjan reyndu á síðari stigum að koma í veg fyrir að myndi aftur koma upp, sbr. t.d. ummæli í símtali framkvæmdastjóra fagsölusviðs Byko og vörustjóra timbursölu Húsasmiðjunnar þann 28. febrúar 2011“.

Í VIII. kafla ákvörðunarinnar þar sem meðal annars var fjallað um viðurlög var komist svo að orði um eðli og umfang brots Byko ehf.: „Fólst brot Byko nánar tiltekið í eftirfarandi aðgerðum: Með reglubundnum, yfirleitt vikulegum, samskiptum við Húsasmiðjuna um verð, birgðastöðu o.fl. í því skyni að hækka verð/vinna gegn verðlækkunum á grófvörum ... Með samráði við Húsasmiðjuna sem átti sér stað í símtali þann 28. febrúar 2011 og fól í sér sérstakt átak til að hækka verð og draga úr samkeppni. Nánar tiltekið fólst eftirfarandi í þessu: Samráð um að hækka verð í öllum tilboðum á grófvöru í áföngum. Samráð um að grípa til sérstakra aðgerða til að draga úr samkeppni í tilboðum til viðskiptavina á Selfossi og Akureyri. Samráð um að vinna gegn verðsamkeppni í sölu á gagnvörðu timbri („græna efninu“) á aðalsölutíma þeirrar vöru og reyna þess í stað að hækka verð ... Upplýsingagjöf um fyrirætlanir Byko um að hækka verð á annarri vöru en grófvöru (svokallaðri „valvöru“). Með því að hafa gert sameiginlega tilraun með Húsasmiðjunni til að fá Múrbúðina til að taka þátt í samráði um verð á grófvöru og með því að hafa ákveðið með Húsasmiðjunni að fylgjast með aðgerðum Múrbúðarinnar á markaðnum. Með því að hafa tekið við mikilvægum viðskiptalegum upplýsingum frá Húsasmiðjunni. Þá fólst brot Byko einnig í verðsamráði við Úlfinn.“ Síðan sagði: „Þetta umfangsmikla og tíða samráð átti sér stað á mikilvægum markaði. Augljóst er að það hefur mikla þýðingu fyrir bæði fyrirtæki og neytendur að samkeppni sé ekki raskað í sölu á byggingavörum. Þá höfðu þátttakendur í samráðinu samanlagt nánast 100% markaðshlutdeild. Þá ber að líta til þess að samráð keppinauta um verð er í eðli sínu ávallt alvarlegt og skaðlegt brot ... Var brot Byko því til þess fallið að valda alvarlegri röskun á samkeppni á mjög mikilvægu sviði viðskipta.“

3

Sem fyrr greinir var ákvörðun Samkeppniseftirlitsins skotið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Með úrskurði nefndarinnar 28. september 2015 var ákvörðunin staðfest að öðru leyti en því, sem hér skiptir máli, að stjórnvaldssektin var lækkuð í 65.000.000 krónur.

Í úrskurðinum var tekið fram að í meginatriðum snerist „málið um að Húsasmiðjan og ... Byko, hafi reglubundið skipst á upplýsingum um verð á tilteknum söluvörum, svokölluðum grófvörum, einkum timbri í stöðluðum lengdum og þykkt. Þessi upplýsingaskipti eru talin hafa dregið úr óvissu um hegðun keppinauta sem er einn meginþátturinn í að verðsamkeppni geti átt sér stað. Það form sem haft var á upplýsingaskiptunum hafi því raskað samkeppni. Hér háttar þannig til að fyrirtækin gáfu ekki beinlínis upplýsingar um væntanlegar verðákvarðanir sínar, heldur einskorðuðust samskiptin að mestu leyti við gildandi verð. Þá hefur því heldur ekki verið hnekkt að verð þeirra vörutegunda sem málið tekur til hafi getað verið aðgengilegt fyrir viðskiptamenn eða aðra þá sem hefðu haft tíma og áhuga á því að skoða heimasíður fyrirtækjanna, hringja í þjónustuver og mæta á sölustað til að fá verð gefin upp ... Þegar metið er hvort samskipti („verðkannanir“) um gildandi verð samkeppnisaðilans hafi falið í sér samráðsbrot verður jafnframt að hafa í huga þá staðreynd að tíðar verðkannanir samkeppnisaðila eru þáttur í virkri samkeppni. Allir samkeppnisaðilar, og óháðir aðilar, fylgjast reglubundið með verðum. Ekkert bannar þetta og því þarf eitthvað sérstakt að koma til svo fyrirkomulagið á slíkum aðgerðum teljist ólögmætt.“

Í úrskurðinum var lagt „til grundvallar að verðkannanir ... Byko, og samskipti við Húsasmiðjuna í tengslum við þær, hafi almennt farið fram með þeim hætti á rannsóknartímabilinu að nafngreindur starfsmaður ... hafi hringt vikulega í starfsmenn í þjónustuveri Húsasmiðjunnar til að fá upplýsingar um gildandi verð á tilteknum vörunúmerum ... Svo virðist sem fyrirkomulagið hafi með tímanum orðið fastara í forminu ... hafi samskiptin þróast úr því að vera einhliða, þ.e. starfsmaður Byko spurðist fyrir um það verð sem gilti hjá samkeppnisaðilanum, í það að þau urðu tvíhliða. Með því er átt við að starfsmaður Húsasmiðjunnar fékk þá við sama tækifæri upplýsingar um verðið sem Byko var með á sömu eða sambærilegum vörum.“ Var komist að þeirri niðurstöðu í úrskurðinum að þetta form á verðkönnununum og öðrum samskiptum fyrirtækjanna tveggja hafi verið „tvímælalaust andstætt samkeppnislegum sjónarmiðum.“ Fyrirkomulagið hafi ekki aðeins verið „til þess fallið að bjóða hættunni heim heldur leiddi af því röskun á samkeppni og þá frekar í þá átt að verð hækkaði.“ Jafnframt var talið að skilgreining markaðarins, sem um ræddi í málinu, hafi verið fullnægjandi í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Ætlað samráðsbrot lyti „að kjarnastarfsemi alhliða byggingavöruverslana en á þeim markaði voru ... Byko og Húsasmiðjan nánast einráðandi.“

Þá var í úrskurðinum vikið að einstökum þáttum í hinu ætlaða samráði. Var tekið svo til orða að segja mætti „að flest atvikin sem Samkeppniseftirlitið leggur til grundvallar tengist þeirri háttsemi að ... Byko og Húsasmiðjan skiptust reglubundið á verðupplýsingum og eftir atvikum upplýsingum sem gátu haft áhrif á markaðsverð. Ekki er umdeilt að slík samskipti áttu sér stað á brotatímabilinu og verður lagt til grundvallar að báðir aðilar hafi haft fulla vitneskju um hver var mótaðili í þeim upplýsingaskiptum ... Að mati áfrýjunarnefndarinnar teljast upplýsingaskipti af þessu tagi, og sú hegðun sem hún er fallin til að stuðla að í þessu tilviki, brot í skilningi 10. gr. samkeppnislaga“. Hins vegar leit nefndin svo á að í sumum tilvikum hafi Samkeppniseftirlitið „dregið of víðtækar ályktanir af gögnum málsins“. Það sem hér hefur helst þýðingu var sú ályktun áfrýjunarnefndarinnar að samskiptin, sem rakin hafa verið, væru „ekki þess eðlis að hægt sé að segja að Múrbúðinni hafi verið boðin þátttaka í verðsamráði“ og ekki lægju fyrir gögn um að „einhvers konar samráð“ hafi verið með Byko ehf. og Húsasmiðjunni ehf. „um það að bjóða Múrbúðinni að taka þátt í verðsamráði.“ Í úrskurðinum var sérstaklega tekið fram að áðurgreint símtal 28. febrúar 2011 hafi falið í sér brot á 10. gr. samkeppnislaga og yrði „það að teljast alvarlegt.“

Samkvæmt framansögðu taldi áfrýjunarnefndin að brot Byko ehf. „hafi ekki verið jafn umfangsmikil, alvarleg og kerfisbundin“ og lagt hafi verið til grundvallar í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Að mati nefndarinnar var í þeirri háttsemi, sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar 30. október 2003 í máli nr. 37/2003 og vísað hafi verið til í ákvörðuninni, fólgið „mun alvarlegra og kerfisbundnara brot í því skyni að breyta markaði, draga úr samkeppni og auka markvisst framlegð með skipulögðu samráði.“ Meðal annars af þessum ástæðum var stjórnvaldssektin, sem móðurfélagi Byko ehf. var gert að greiða, stórlega lækkuð.

VI

1

Í máli þessu eru átta ákærðu samkvæmt I. kafla ákæru sakaðir um refsivert verðsamráð í störfum sínum fyrir Byko ehf. og Húsasmiðjuna ehf. „á tímabilinu frá 13. september 2010 til 3. mars 2011 með skipulagðri upplýsingagjöf um verð og tilboðskjör sérgreindra grófvörutegunda, einkum bygginga- og timburvara, í símtölum milli starfsmanna fyrirtækjanna“. Á sama hátt eru fjórum ákærðu í II. kafla ákæru gefin að sök sams konar brot í störfum sínum fyrir Byko ehf. í símtölum milli eins þeirra og starfsmanna Úlfsins Lagerverslunar ehf. á tímabilinu frá 15. október 2010 til 17. febrúar 2011. Samkvæmt III. kafla ákæru eru tveir ákærðu sakaðir um refsiverða hvatningu til verðsamráðs milli Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. í símtölum, sem þeir áttu hvor í sínu lagi 16. og 23. febrúar 2011, og aðrir tveir eftir IV. kafla hennar um refsivert verðsamráð milli fyrirtækjanna og hvatningu til þess í símtali 28. sama mánaðar. Loks er þremur ákærðu í V. kafla ákæru gefin hverjum um sig að sök tilraun til að koma á slíku samráði í símtölum við starfsmann Múrbúðarinnar ehf. 15. október 2010. Hin ætluðu brot ákærðu eru talin varða við a. lið 2. mgr., sbr. 1. mgr. 41. gr. a. samkeppnislaga, sbr. a. lið 2. mgr., sbr. 1. mgr. 10. gr. þeirra, auk þess sem vísað er til d. liðar 2. mgr. 41. gr. a. að því er varðar ætluð brot samkvæmt IV. kafla ákæru.

Eins og gerð var grein fyrir í framangreindri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins 15. maí 2015 var markaður sá, sem hér um ræðir, sala á alhliða byggingavöru og var áætlað að samanlögð hlutdeild Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. á þeim markaði hafi verið um 90% á því tímabili sem ákæran tekur til. Voru fyrirtækin tvö því nær einráð á honum. Í ákvörðuninni kom einnig fram að eðli máls samkvæmt væri erfitt að bera saman verð á grófvöru og sést það jafnframt á gögnum málsins. Þannig voru  tegundir grófvöru yfirleitt ekki verðmerktar sérstaklega í byggingavöruverslunum eins og tíðkast í verslunum, heldur voru verðin aðgengileg fyrir viðskiptavini á verðlistum, sem lágu þar frammi, og að einhverju leyti á vefsíðum fyrirtækjanna, auk þess sem unnt var að spyrjast fyrir um verðin í verslunum sjálfum, hjá sölumönnum eða með því að hringja til fyrirtækjanna.

Í gögnum um skipulag Byko ehf., sem fyrir liggja í málinu, virðist svo sem verðkannanir á vegum fyrirtækisins hafi á ákærutímabilinu heyrt bæði undir vöruþróunarsvið og fagsölusvið þess þar sem eitt af hlutverkum þess síðarnefnda var sagt vera markaðsvakt sem meðal annars væri fólgin í því að framkvæma reglulega verðkannanir hjá samkeppnisaðilum fyrirtækisins. Ákærði Steingrímur Birkir var framkvæmdastjóri fagsölusviðs Byko ehf. og heyrði undir forstjóra fyrirtækisins, en sölustjóri sviðsins og nánasti samstarfsmaður ákærða Steingríms Birkis var ákærði Stefán Ingi. Óumdeilt er að verðkannanir á vegum Byko ehf. voru framkvæmdar af ákærða Ragnari Má, sem var sölumaður í timbursölu fyrirtækisins, en hann var undirmaður ákærða Leifs Arnar sem gegndi starfi verslunarstjóra timbursölunnar.

Ákærði Stefán Árni var framkvæmdastjóri vörustýringarsviðs Húsasmiðjunnar  ehf. og heyrði undir forstjóra fyrirtækisins. Bar ákærði samkvæmt skipuriti ábyrgð á vöruúrvali þess og verðstefnu. Fyrir héraðsdómi sagði ákærði að undir sviðið hafi meðal annars fallið viðskipti með grófvöru og kvaðst hann hafa borið ábyrgð á að verðkannanir væru gerðar á þeirri vöru. Að sögn ákærða Guðmundar tók hann í byrjun október 2010 við því verkefni að sjá um allar verðkannanir fyrir Húsasmiðjuna ehf. Starfaði hann á vörustýringarsviði fyrirtækisins sem laut eins og áður segir stjórn ákærða Stefáns Árna. Ákærðu Júlíus Þór og Kenneth gegndu störfum vörustjóra hjá Húsasmiðjunni ehf. á vörustýringarsviði, en ákærðu X og Y störfuðu sem sölumenn í þjónustuveri fyrirtækisins, einkum við að svara fyrirspurnum í síma frá viðskiptavinum þess.

Eins og greinir í I. og II. köflum ákæru er því haldið fram að hið refsiverða verðsamráð hafi af hálfu starfsmanna Byko ehf. verið „viðhaft að undirlagi og/eða samkvæmt fyrirmælum ákærðu Steingríms Birkis, Leifs Arnar og Stefáns Inga“. Á sama hátt er slíkt samráð af hálfu starfsmanna Húsasmiðjunnar ehf. sagt í I. kafla ákæru hafa verið „að undirlagi og/eða samkvæmt fyrirmælum ákærða Stefáns Árna.“ Með skírskotun til þess að ákærðu eru sakaðir um að hafa brotið af sér í störfum sínum sem stjórnendur, annars vegar á fagsölusviði Byko ehf. og í timbursölu þess og hins vegar á vörustýringarsviði Húsasmiðjunnar ehf., verður að skýra hið tilvitnaða orðalag þannig að samráði því, sem lýst er í umræddum ákæruköflum, hafi verið stýrt af ákærðu en framkvæmdin verið í höndum manna, sem lutu beint eða óbeint stjórn þeirra, auk þess sem ákærðu hafi lagt á ráðin um hvernig að því var staðið.

Sem fyrr segir neita allir ákærðu sök. Þótt þeir telji að sakir þær, sem á þá eru bornar, séu rangar draga þeir ekki í efa að lýsing málsatvika í ákæru sé í meginatriðum sannleikanum samkvæm að frátöldu efni símtalanna sem rakið er í V. kafla hennar.

2

Í 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga er mælt svo fyrir að allir samningar og samþykktir milli fyrirtækja, hvort heldur þær eru bindandi eða leiðbeinandi, og samstilltar aðgerðir, sem hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað, séu bannaðar. Samkvæmt a. lið 2. mgr. lagagreinarinnar tekur bannið til samninga, samþykkta og samstilltra aðgerða sem áhrif hafa á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör með beinum eða óbeinum hætti. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 107/2000, sem breyttu 10. gr. þágildandi samkeppnislaga, nr. 8/1993, í núverandi horf sagði að skýra bæri hugtakið samstilltar aðgerðir rúmt á þann hátt að það tæki til sérhverra beinna eða óbeinna samskipta fyrirtækja sem hefðu þann tilgang að hafa áhrif á samkeppni eða hefðu slík áhrif í reynd. Í þessu gæti meðal annars falist að fyrirtæki skiptust á upplýsingum um verð og af því leiddi samræmd markaðshegðun.

Með 4. gr. laga nr. 52/2007 var tekin upp í samkeppnislög ný grein, 41. gr. a. Í 1. mgr. hennar er meðal annars kveðið á um að hver starfsmaður fyrirtækis sem framkvæmir, hvetur til eða lætur framkvæma samráð, sem brýtur gegn 10. gr. laganna og varðar þau atriði sem tilgreind eru í 2. og 3. mgr., skuli sæta refsingu. Í samræmi við það segir í 2. mgr. 41. gr. a. að ákvæði 1. mgr. taki til brota fyrirtækja á sama sölustigi á 10.  gr., sem síðan eru talin upp í sex stafliðum, þar á meðal samráðs um verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör, sbr. a. lið 2. mgr., og samráðs um gerð tilboða, sbr. d. lið hennar. Þá er hnykkt á því í 4. mgr. lagagreinarinnar að með samráði í henni sé átt við samninga, samþykktir, ákvarðanir eða samstilltar aðgerðir fyrirtækja eða samtaka þeirra.

Sökum þess að í 1. mgr. 41. gr. a. samkeppnislaga er vísað til 10. gr. laganna ber að líta svo á að við afmörkun á því hvað teljist vera refsivert samráð milli fyrirtækja samkvæmt 1. mgr. fyrrnefndu lagagreinarinnar skuli líta til ákvæða hinnar síðarnefndu og hvernig þau hafa verið skýrð, svo framarlega sem um sé að ræða samráð milli fyrirtækja á sama sölustigi, sbr. 2. mgr., þar sem reyndar er einnig skírskotað til 10. gr. Samkvæmt því nægir að samráð fyrirtækja á sama sölustigi, þar á meðal samstilltar aðgerðir þeirra, hafi það að markmiði að samkeppni sé takmörkuð eða henni verði raskað til þess að refsað verði fyrir það, að því tilskildu að um saknæma háttsemi sé að ræða. Í 3. mgr. 41. gr. a. er ólögmætt samráð milli fyrirtækja, sem hefur það að markmiði að fyrirtæki hefji ekki samkeppni í atvinnustarfsemi, sérstaklega lýst refsivert sem ella væri ekki. Því er haldlaus sú röksemd, sem fram hefur komið af hálfu sumra ákærðu, að gagnálykta eigi frá þessu sérákvæði og þrengja þar með gildissvið 1. og 2. mgr. lagagreinarinnar þvert gegn skýru orðalagi þeirra.

Þá getur það varðað starfsmann fyrirtækis refsingu að koma að samráði um verð eða gerð tilboða samkvæmt 1. mgr. og a. og d. liðum 2. mgr. 41. gr. a., svo sem með þátttöku í samstilltum aðgerðum, sbr. 4. mgr. hennar, með því að ræða við starfsmann annars fyrirtækis sem er keppinautur á sama sölustigi, enda hafi aðgerðirnar það að markmiði að takmarka eða raska samkeppni. Til þess nægir að starfsmaður taki undir slíka ráðagerð viðmælanda síns eða lýsi yfir að hann muni stuðla að því að hrinda henni í framkvæmd.

3

Með 10. gr. samkeppnislaga er ekki lagt bann við því að fyrirtæki kanni verð hjá keppinautum sínum á markaði, enda eru slíkar verðkannanir snar þáttur í virkri samkeppni þeirra á milli. Þá eru það ekki aðeins fyrirtæki, sem fylgjast reglubundið með verðum hvert hjá öðru, heldur tíðkast að aðrir geri það einnig, svo sem samtök neytenda og verkalýðsfélaga. Af þessum sökum þarf eitthvað sérstakt til að koma svo að þær aðgerðir teljist ólögmætar og eftir atvikum refsiverðar.

Samkvæmt þessu er verðkönnun, sem framkvæmd er einhliða af fyrirtæki með því til dæmis að kynna sér verðlista keppinautar eða verð á vefsíðu hans eins og hver annar viðskiptavinur, fyllilega lögmæt.  Öðru máli kann að gegna um það ef starfsmaður fyrirtækis hefur samband við starfsmann annars fyrirtækis, sem það fyrrnefnda keppir við, og spyrst fyrir um verð. Með því móti getur stofnast til gagnkvæmra samskipta milli keppinauta á markaði, sem býður þeirri hættu heim að samkeppni milli þeirra raskist, ekki síst ef starfsmennirnir fara að skiptast á upplýsingum um verð. Eftir því sem samskipti eins og þessi verða tíðari, reglubundnari og víðtækari, þannig að þau séu ekki einskorðuð við eina eða fáar vörutegundir heldur taki til mikils fjölda þeirra, aukast líkur á að þau dragi úr óvissu fyrirtækjanna, sem í hlut eiga, um hegðun keppinautanna sem er ein af meginforsendum þess að óheft verðsamkeppni geti átt sér stað. Þetta á ekki síst við á fákeppnismarkaði þar sem gagnkvæm skipti á upplýsingum um verð geta auðveldað ráðandi fyrirtækjum að halda uppi vöruverði og auka þar með framlegð sína á kostnað viðskiptavinanna.

Þegar samskipti Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf., sem lýst er í I. kafla ákæru, eru virt í heild liggur fyrir að starfsmaður fyrrnefnda fyrirtækisins hringdi í starfsmann hjá því síðarnefnda í 21 skipti á tæplega sex mánaða tímabili til að spyrjast í hvert sinn fyrir um verð á yfir 100 vörutegundum sem voru meira og minna þær sömu. Sé tekið tillit til þess að hlé var gert á samskiptunum í lok desember 2010 og byrjun janúar 2011 liggur nærri að hringt hafi verið vikulega í þessum tilgangi á umræddu tímabili. Af þeim gögnum, sem lögð hafa verið fram og gerð er grein fyrir að framan, telst sannað að á fyrri hluta þess hafi af hálfu Byko ehf. verið spurst fyrir um verð hjá Húsasmiðjunni ehf., en samskiptin síðan þróast úr því að vera einhliða í að verða gagnkvæm þar sem þeir, er ræddust við, skiptust á upplýsingum um verð hjá fyrirtækjunum í sömu eða sambærilegum vörutegundum sem einkum tilheyrðu svonefndri grófvöru. Með upptökum af símtölum 4., 10. og 28. febrúar 2011 hafa verið færðar óyggjandi sönnur á þessa gagnkvæmu upplýsingagjöf og hvernig að henni var staðið.

Því hefur verið haldið fram af hálfu ákærðu að upplýsingarnar um verð og kjör, sem látnar voru í té, hafi verið opinberar og öllum aðgengilegar, svo sem á verðlistum og vefsíðum beggja fyrirtækjanna. Ekki er á það fallist að sú hafi verið raunin í öllum tilvikum, til dæmis voru tilteknar vörur stjörnumerktar á verðlistum Húsasmiðjunnar ehf. án þess að þar kæmi fram hvaða skilning bæri að leggja í þá merkingu. Þótt það lægi fyrir í almennum viðskiptaskilmálum á vefsíðu fyrirtækisins og hefði þar með átt að vera á vitorði þeirra, sem voru í föstum viðskiptum við það, er ekki þar með sagt að þessi vitneskja hafi verið aðgengileg öllum viðskiptavinum þess. Þó vegur öllu þyngra, þegar skorið er úr um hvort upplýsingagjöfin hafi samrýmst ákvæðum samkeppnislaga, að tilgangurinn með hinum gagnkvæmu samskiptum var augljóslega að fá gleggri mynd af verðum keppinautarins á samkeppnisvörum og þróun þeirra en kostur var fyrir fyrirtækin, hvort um sig, með því að kynna sér einungis verðin með þeim aðferðum sem neytendum stóðu til boða. Af símtalinu, sem 1. liður IV. kafla ákæru tekur til og vikið verður nánar að hér á eftir, verður ráðið að þessar nákvæmu upplýsingar hafi auðveldað fyrirtækjunum að hækka verð og fylgja eftir verðhækkunum keppinautarins svo að vitnað sé til eftirfarandi orðaskipta um miðbik símtalsins. Þar sagði ákærði Júlíus Þór: „Já, við höfum líka verið að hækka sjálfir undanfarið vegna þess að við erum búnir að fá á okkur alveg hellings hækkanir“. Því svaraði ákærði Steingrímur Birkir: „Já, já ... við höfum verið að fylgja ykkur eftir þar ... aldrei þessu vant höfum við verið dálítið á eftir ykkur ... Eða þið dregið vagninn þar“. Skömmu síðar komst Júlíus Þór svo að orði: „Auðvitað munum við slást en við eigum að slást bara á eðlilegum nótum.“ Steingrímur Birkir: „Já, ég segi það. En við þurfum að hækka levelið þar sem við erum að slást.“ Júlíus Þór: „Já, ég er alveg sammála.“

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, fólu hin tíðu og reglubundnu samskipti milli Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf., sem greinir í I. kafla ákæru, í sér samstilltar aðgerðir sem höfðu það að markmiði að raska samkeppni milli fyrirtækjanna og brutu því gegn 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga. Hið sama á við um samskipti milli Byko ehf. og Úlfsins Lagerverslunar ehf. samkvæmt II. kafla ákæru þótt umfang þeirra hafi verið takmarkað. Þar sem um var að ræða samráð um verð milli fyrirtækja á sama sölustigi bera þeir, sem það framkvæmdu, hvöttu til þess eða létu framkvæma, refsiábyrgð samkvæmt 1. mgr. og a. lið 2. mgr. 41. gr. a. laganna.

4

Þegar tekin er afstaða til sektar eða sýknu ákærðu getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Á hinn bóginn er rétturinn ekki bundinn af mati héraðsdóms á gildi sýnilegra sönnunargagna á borð við tölvubréf og upptökur af símtölum og enn síður af niðurstöðu hans að því leyti sem hún er reist á rangri skýringu á áðurgreindum ákvæðum samkeppnislaga.

Þau gögn, sem varða sakargiftir samkvæmt I. kafla ákæru og gerð hefur verið grein fyrir að framan, bera með sér að ákærði X svaraði í 11 skipti og ákærði Y tvívegis fyrirspurnum ákærða Ragnars Más um verð á yfir 100 vörutegundum í hvert sinn hjá Húsasmiðjunni ehf. Á hinn bóginn liggur ekki fyrir að ákærði Y hafi spurt viðmælanda sinn á móti um verð hjá Byko ehf. og ákærði X aðeins í einu símtali. Sé litið til þess að ákærðu X og Y störfuðu báðir sem sölumenn hjá þjónustuveri Húsasmiðjunnar ehf., fyrst og fremst við að svara í síma, telst ósannað að þeir hafi með framangreindri háttsemi sinni brotið með saknæmum hætti gegn þeim ákvæðum samkeppnislaga sem vísað er til í ákærukaflanum. Verður því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að sýkna þá af kröfu ákæruvaldsins í máli þessu.

Ákærði Guðmundur hafði það starf með höndum hjá Húsasmiðjunni ehf. að sjá um allar verðkannanir fyrir fyrirtækið. Á sama hátt voru verðkannanir á vegum Byko ehf. gerðar af ákærða Ragnari Má. Upptökur af símtölum, sem þessir ákærðu áttu 4. og 10. febrúar 2011, leiða í ljós að þeir skiptust þar á upplýsingum um verð hjá fyrirtækjunum tveimur, auk þess sem sá síðarnefndi spurðist fyrir um verð hjá Húsasmiðjunni ehf. í 18 öðrum símtölum og 11 til viðbótar hjá Úlfinum Lagerverslun ehf. eins og greinir í I. og II. köflum ákæru. Vegna þeirra starfa, sem ákærðu Guðmundur og Ragnar Már höfðu með höndum hvor hjá sínu fyrirtæki, voru þeir ábyrgir fyrir framkvæmd á samráði fyrirtækjanna tveggja sem áður er lýst og var í senn ólögmætt og refsivert. Skiptir í því sambandi ekki máli þótt ákærðu teldu sig hafa tekið þátt í samráðinu með vitund eða vilja yfirmanna sinna. Samkvæmt því verður ákærði Guðmundur sakfelldur eftir I. kafla ákæru og ákærði Ragnar Már eftir I. og II. köflum hennar fyrir brot af ásettu ráði gegn 1. mgr. og a. lið 2. mgr. 41. gr. a. samkeppnislaga, sbr. 1. mgr. 10. gr. þeirra.

Eins og sést á þeim gögnum, sem varða sakargiftir samkvæmt I. og II. köflum ákæru og rakin hafa verið, fékk ákærði Steingrímur Birkir sent í tölvupósti staðlað skjal með upplýsingum um verð hjá Byko ehf. og Húsasmiðjunni ehf. á yfir 100 vörutegundum í alls 20 skipti af þeim 21, sem ákært er fyrir í fyrri kaflanum, og í 10 af þeim 11 tilvikum sem sá síðari tekur til. Í sum skiptin fékk hann upplýsingarnar beint frá þeim, sem fyllti út skjalið, eins og fram kemur í ákæru, en í öðrum voru þær sendar honum skömmu síðar eins og gerð hefur verið grein fyrir. Á sama hátt fengu ákærðu Leifur Örn og Stefán Ingi sams konar skjal í tölvupósti, sá fyrrnefndi í samtals 25 skipti og sá síðarnefndi í 31 af þeim 32 tilvikum sem ákært er fyrir í umræddum ákæruköflum. Ákærði Steingrímur Birkir var framkvæmdastjóri fagsölusviðs Byko ehf. og var hlutverk þess meðal annars að framkvæma reglulega verðkannanir hjá keppinautum fyrirtækisins. Ákærði Stefán Ingi var sölustjóri þess sviðs og nánasti samstarfsmaður ákærða Steingríms Birkis, en ákærði Ragnar Már, sem gerði verðkannanirnar, var undirmaður ákærða Leifs Arnar. Með skírskotun til þessara stjórnunarstarfa ákærðu Steingríms Birkis, Stefáns Inga og Leifs Arnar og þess að þeim bárust reglulega framangreindar upplýsingar telst ótvírætt sannað að þeir hafi af hálfu Byko ehf. stýrt samráði um verð milli þess fyrirtækis annars vegar og Húsasmiðjunnar ehf. og Úlfsins Lagerverslunar ehf. hins vegar eins og þeim er gefið að sök í ákæruköflunum tveimur. Með því hafa þeir gerst sekir um brot af ásetningi á fyrrgreindum ákvæðum samkeppnislaga.

 Ákærða Stefáni Árna barst sem fyrr segir í tölvupósti 27. janúar 2010 verðkönnunarlisti frá ákærða Kenneth með þessum ummælum: „Hérna er listinn sem BYKO gerir verðkönnun eftir alla miðvikudaga. Hugmyndin er að Y og þeir í þjónustuverinu spyrji um sömu vörur á sama tíma og BYKO gerir könnun hjá okkur.“ Síðar þennan dag sendi ákærði Kenneth ákærða Stefáni Árna tölvubréf þar sem fram kom: „Hérna er síðasta verðkönnun. Ég hef ekki náð í BYKO til að kanna verðlagningu á græna efninu. Það er hugsanlega á tilboði og þá þurfum við að stilla það rétt af. Ég er búinn að hringja 4 sinnum en aldrei náð sambandi.“ Í tölvubréfi frá ákærða Kenneth, sem sent var ákærða Stefáni Árna 28. júlí sama ár, tók sá fyrrnefndi fram að hann hafi fengið nafngreindan starfsmann í þjónustuveri Húsasmiðjunnar ehf. „til að gera könnun á grænu efni hjá BYKO í fyrramálið“ með því „að hringja í sölustaði þeirra um landið“. Daginn eftir, 29. júlí, skýrði ákærði Kenneth frá afrakstri könnunarinnar þar sem meðal annars kom fram birgðastaða hjá Byko ehf. í nokkrum vörutegundum. Fyrr sama dag hafði ákærða Stefáni Árna borist afrit af tölvubréfi til ákærða Kenneth frá fyrrnefndum starfsmanni þar sem sagði: „Ragnar var að hringja frá Byko og gerði verðkönnun á öllum pakkanum.“ Hinn 16. desember 2010 barst ákærða Stefáni Árna tölvubréf frá sama starfsmanni með fyrirsögninni: „Byko voru að gera könnun á öllu draslinu“. Í tölvubréfi til ákærða að morgni næsta dags bætti hann við: „Eflaust hafa þeir verið að tala við Y vikulega, hann er ekki við.“ Í bréfinu kom ennfremur fram að könnunin hafi tekið til nánar greindra tegunda af grófvöru. Síðar sama dag sagði ákærði í tölvubréfi: „Var búinn að ræða við Y, þeir hafa ekki verið að hringja í hann að undanförnu. Látið mig vita og Guðmund Loftsson líka þegar þeir gera verðkönnun“. Í símtali ákærða Stefáns Árna við ákærða Kenneth 23. febrúar 2011, sem vísað er til í 2. lið III. kafla ákæru, bað sá fyrrnefndi þann síðarnefnda um „að Guðmundur láti þetta fréttast þá með hina vöruflokkana sem við vorum að breyta núna ... hann þarf bara að fá eiginlega að vita bara hvað var búið að breyta á undan líka þannig að hann geti sagt þeim bara frá því.“ Ekki fer milli mála eins og nánar verður rakið hér á eftir að með þessum orðum vildi ákærði Stefán Árni að upplýsingum um breytt verð hjá Húsasmiðjunni ehf. yrði komið til Byko ehf. fyrir tilstilli ákærða Guðmundar.

Þegar mat er lagt á þessi gögn í heild sinni og þau borin saman við önnur samtímagögn, sem fyrir liggja í málinu, er sannað svo að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærða Stefáni Árna var kunnugt um að Byko ehf. aflaði reglulega á ákærutímabilinu upplýsinga um verð á fjölmörgum vörutegundum hjá Húsasmiðjunni ehf. með því að hringja í starfsmenn fyrirtækisins. Þótt ýmislegt bendi til að ákærði hafi jafnframt vitað að samstarfsmenn hans hafi um leið spurst fyrir um verð hjá keppinautnum  hafa ekki verið færðar á það nægar sönnur gegn eindreginni neitun hans. Hins vegar er á það að líta að ákærði Stefán Árni var framkvæmdastjóri vörustýringarsviðs Húsasmiðjunnar ehf. og bar ábyrgð á að verðkannanir væru gerðar á grófvöru, auk þess sem hann var yfirmaður ákærða Guðmundar. Vegna þeirrar stöðu ákærða Stefáns Árna og samkvæmt því, sem að framan segir um vitneskju hans um hið refsiverða samráð fyrirtækisins og Byko ehf., verður hann sakfelldur fyrir brot á áðurgreindum ákvæðum samkeppnislaga fyrir aðkomu sína að því, sem lýst er í I. kafla ákæru, þó aðeins að því er tekur til þess að Byko ehf. hafi verið látnar í té upplýsingar um verð í gagnkvæmum samskiptum fyrirtækjanna.

5

Samkvæmt 1. lið III. kafla ákæru er ákærða Kenneth gefið að sök að hafa í símtali við ákærða Guðmund 16. febrúar 2011 hvatt til verðsamráðs sem hafi meðal annars haft að markmiði að samkeppni yrði raskað milli Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. Í símtalinu, sem stóð í rúma mínútu og rakið hefur verið, fór ákærði Kenneth fram á að ákærði Guðmundur kæmi því leiðar að ákærða Ragnari Má, sem kynni að hringja von bráðar, yrðu ekki gefin upp verð fyrr en eftir að Húsasmiðjan ehf. hefði hækkað þau. Á gögnum málsins sést að ákærði Ragnar Már hafði síðast kannað verð hjá fyrirtækinu 10. sama mánaðar og því mátti ætla, miðað við fyrri samskipti, að hann gerði það 16. eða 17. dag mánaðarins. Raunin varð hins vegar sú að hann fékk upp gefin verð hjá Húsasmiðjunni ehf. 18. febrúar og höfðu þau þá hækkað umtalsvert miðað við síðustu verðkönnun sem kom ákærða Steingrími Birki á óvart.

Í 2. lið sama ákærukafla eru bornar fram sams konar sakargiftir á hendur ákærða Stefáni Árna vegna símtals, sem hann átti við ákærða Kenneth 23. febrúar 2011 og var tæplega þriggja mínútna langt, en meginefni þess hefur áður verið reifað. Snemma í símtalinu sagði Kenneth: „Heyrðu, Byko er búið að hækka.“ Þegar lengra kom lét Stefán Árni þessi orð falla: „Ef þeir eru búnir að taka timbrið þá er plötuviðurinn kominn líka upp.“ Stuttu síðar spurði hann: „En heyrðu, gætirðu græjað annað, að Guðmundur láti þetta fréttast þá með hina vöruflokkana sem við vorum að breyta núna?“ Svo bætti hann við: „Já biddu hann. Hann ... er búinn að taka það að sér ... að sjá um þessar breytingar ... á runukeyrslunum ... en hann þarf bara að fá eiginlega að vita bara hvað var búið að breyta á undan líka þannig að hann geti sagt þeim bara frá því.“ Rétt á eftir sagði Kenneth: „Ég skal tékka á plötugögnum og ... sjá hvort að þeir hafi brugðist eitthvað við.“ Séu þessi orðaskipti virt í heild leikur enginn vafi á því að með persónufornöfnunum „við“ og „þeir“ átti ákærði Stefán Árni annars vegar við Húsasmiðjuna ehf. og hins vegar Byko ehf. Samkvæmt því liggur ljóst fyrir að ákærði Stefán Árni var í símtalinu að leggja fyrir ákærða Kenneth að koma upplýsingum um breytt verð hjá fyrrnefnda fyrirtækinu til þess síðarnefnda fyrir tilstilli ákærða Guðmundar. 

 Með þeirri háttsemi, sem að framan greinir, eru ákærðu Kenneth og Stefán Árni sannir að sök að hafa hvatt til refsiverðs verðsamráðs milli fyrirtækjanna tveggja eins og þeim er gefið að sök í umræddum ákærukafla. Verða brot þeirra heimfærð til 1. mgr. og a. liðar 2. mgr. 41. gr. a. samkeppnislaga, sbr. 1. mgr. 10. gr. þeirra.

6

Eftir 1. lið IV. kafla ákæru eru ákærðu Steingrímur Birkir og Júlíus Þór sakaðir um verðsamráð og hvatningu til slíks samráðs sem hafi meðal annars haft að markmiði að valda röskun á samkeppni milli Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. Þetta hafi átt sér stað í símtali 28. febrúar 2011, sem varaði í rúmar 11 mínútur, en að framan hefur verið gerð ítarleg grein fyrir því helsta sem þar kom fram.

Fyrir liggur að ákærði Steingrímur Birkir átti frumkvæði að því að hafa samband við ákærða Júlíus Þór, en þeir þekktust eitthvað fyrir. Í símtalinu kvaðst Steingrímur Birkir stjórna tilboðsmálum hjá Byko ehf., alla vega varðandi grófvöru. Síðan sagði hann: „Og þetta er komið bara í algjört bull ... Ég skal bara segja þér það ... ég mun núna, í allri tilboðsgerð, frá og með ... morgundeginum ... Þá mun ég ýta öllu upp ... Ég mun handstýra allri tilboðsgerð núna í heilan mánuð“. Þessu svaraði Júlíus Þór skömmu síðar: „Við erum bara að drepa hvern annan. Menn leka tilboðunum á milli okkar.“ Steingrímur Birkir: „Alveg miskunnarlaust.“ Rétt á eftir sagði Júlíus Þór: „Við lifum þetta ekki af ef við ætlum að halda þessu áfram“. Steingrímur Birkir: „Nei, ég ætla mér sem sagt að hækka núna ... Ég ætla að hækka allt um 2% lágmark.“ Ákærðu ræddu þessu næst um ástandið á Akureyri og Selfossi sem báðir töldu óviðunandi. Hafði Steingrímur Birkir á orði að yrði honum ekki hlýtt af starfsmönnum Byko ehf. á þeim stöðum gætu „þeir bara kysst starfið sitt bless.“ Þessu svaraði Júlíus Þór: „Þetta er ekkert flóknara en það að maður er að segja upp starfsmönnum ... og velturnar eru að minnka ... og við ætlum að missa framlegðina frá okkur líka.“ Steingrímur Birkir: „Ég hvet þig bara, Júlíus, til þess að beita einhverjum áhrifum þarna innanborðs.“ Júlíus Þór: „Jú, jú.“ Steingrímur Birkir: „Eftir nokkra daga þá bara sjáið þið það ... að við erum búnir að vera að hækka verð, útsöluverð. Það dylst engum. Það er náttúrulega bara krónan og hækkanirnar erlendis frá sem að draga ... þann hérna, vagn áfram.“ Júlíus Þór: „Já, við höfum líka verið að hækka sjálfir undanfarið vegna þess að við erum búnir að fá á okkur alveg hellings hækkanir“. Steingrímur Birkir: „Já ... við höfum verið að fylgja ykkur eftir þar ... aldrei þessu vant höfum við verið dálítið á eftir ykkur, finnst mér sko. Eða þið dregið vagninn þar“. Hann minntist svo á „grófvörutilboðskjaftæði“ og þá lét Júlíus Þór þessi orð falla: „Við erum að fara inn í há seasonið okkar ... þar sem við þurfum að fá tekjurnar okkar og við megum ekki missa þetta frá okkur núna. Auðvitað munum við slást en við eigum að slást bara á eðlilegum nótum.“ Steingrímur Birkir: „Já, ég segi það. En við þurfum að hækka levelið þar sem við erum að slást.“ Júlíus Þór: „Já, ég er alveg sammála.“ Steingrímur Birkir: „Og ég ætla mér að ... ég hafði hugsað mér að gera þetta í tvisvar sinnum 2% núna ... Byrja í 2% núna og svo aftur 2% eftir 2-3 vikur ... og ég vona að þið merkið þetta“. Júlíus Þór svaraði: „Já, ég skal ... sjá til þess að við fylgjum þessu eftir.“ Síðar í símtalinu sagði hann: „Það er ekki spurning vegna þess að bara síðasta ár var það hrikalegt hjá okkur ... miðað við að missa til dæmis sérstaklega græna efnið svona niður í rusl ... og þess vegna er náttúrulega líka mjög mikilvægt að menn séu ekki ... að jarða sig fyrir seasonið sko, fara með verðin ... niður í svaðið áður en ... og halda því svo yfir seasonið. Það er ekkert hægt. Við verðum að lyfta okkur upp núna ... ef við ætlum bara að lifa þetta af“. Síðan bætti hann við: „Og svo fara salan ... og framlegðin niður ... og er ekki glæsilegt.“ Steingrímur Birkir: „Nei ... þetta er algjör geggjun.“ Júlíus Þór: „Ég veit það. En ég skal koma ... þessu áfram á rétta staði.“ Steingrímur Birkir: „Hérna ... eins og ég segi, ég byrja á þessu í fyrramálið og ég mun ekki hleypa einu einasta tilboði í gegn ... og þetta á ekki bara við um grófu vöruna.“ Í lok símtalsins sagði Júlíus Þór að hann myndi „koma þessum upplýsingum áfram.“

 Samkvæmt framansögðu upplýsti ákærði Steingrímur Birkir umrætt sinn um hvernig tilboðsgerð í grófvöru af hálfu Byko ehf. yrði hagað á næstunni þannig að þau verð, sem fyrirtækið byði, yrðu hækkuð að lágmarki um tiltekinn hundraðshluta. Kvaðst ákærði ætla að fylgja þessu eftir innan fyrirtækisins, svo sem með því að áminna þá starfsmenn, sem ekki hlýddu fyrirskipunum um að hækka tilboðsverð, og ef það dygði ekki að segja þeim upp störfum. Hvatti hann ákærða Júlíus Þór til að beita áhrifum sínum innan Húsasmiðjunnar ehf. til að gera það sama og játti sá síðarnefndi því. Eins og áður greinir voru ákærðu sammála um að halda uppi verðum hjá fyrirtækjunum á grófvöru, ekki síst gagnvörðu timbri, og var ákærða Júlíusi Þór sérstaklega í mun að þess yrði gætt á aðalsölutímabilinu sem í hönd færi. Í lok símtalsins sagðist ákærði ætla að koma upplýsingunum frá viðmælanda sínum áleiðis innan Húsasmiðjunnar ehf. Í símtali framkvæmdastjóra verslanasviðs fyrirtækisins við forstjóra þess skömmu eftir að fyrrgreint símtal ákærðu Steingríms Birkis og Júlíusar Þórs átti sér stað kom fram að sá síðarnefndi hafi upplýst framkvæmdastjórann og annan starfsmann fyrirtækisins um það sem ákærðu fór á milli í símtalinu.

Ekki fer milli mála að með ummælum sínum umrætt sinn hvöttu báðir ákærðu hvorn annan til að halda uppi verðum hjá Byko ehf. og Húsasmiðjunni ehf. í grófvöru, þar á meðal við gerð tilboða. Þótt ákærði Steingrímur Birkir hafi gengið lengra í þá veru tók ákærði Júlíus Þór undir með honum og hvatti sem fyrr segir sérstaklega til að verðin yrðu hækkuð fyrir aðalsölutímabilið. Samkvæmt þessu verða báðir ákærðu sakfelldir fyrir þá háttsemi, sem þeim er gefin að sök í umræddum ákærulið, og hafa þeir með framferði sínu brotið af ásettu ráði og á alvarlegan hátt gegn 1. mgr. og a. og d. liðum 2. mgr. 41. gr. a. samkeppnislaga, sbr. 1. mgr. 10. gr. þeirra.

7

Eins og áður greinir eru ákærðu Ragnar Már, Kenneth og Júlíus Þór sakaðir í V. kafla ákæru um tilraunir til að koma á samráði við starfsmann Múrbúðarinnar ehf. í þremur símtölum sem fram fóru 15. október 2010. Er efni þeirra lýst í ákærukaflanum.

Ákærðu hafa viðurkennt að hafa rætt við starfsmann Múrbúðarinnar ehf. í síma þennan dag, en neita því staðfastlega að þeir hafi reynt að fá hann til þess að skiptast á upplýsingum um vöruúrval og verð eins og þeim er gefið að sök. Þar sem ekki er til að dreifa öðrum sönnunargögnum um það, sem ákærðu og starfsmanninum fór á milli í símtölunum, en framburði þeirra auk framkvæmdastjóra Múrbúðarinnar ehf. telst ósannað að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er borin á brýn í þessum ákærukafla. Verða þeir því sýknaðir af þeim sakargiftum.

8

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. a. samkeppnislaga varða brot þau, sem átta af tíu ákærðu hafa verið sakfelldir fyrir, sektum eða fangelsi allt að sex árum. Með 4. gr. laga nr. 52/2007, sem breytti umræddri lagagrein, var refsing einstaklinga fyrir brot á samkeppnislögum þyngd til muna. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 52/2007 var tekið fram að það væri gert í ljósi alvarleika brota gegn 10. og 12. gr. laganna, sem ein voru lýst refsiverð eftir breytinguna og þá aðeins sum þeirra, öfugt við það sem áður hafði verið.

Brot ákærðu samkvæmt I. og II. köflum ákæru stóðu lengi yfir og voru umfangsmikil, en önnur háttsemi, sem sakfellt hefur verið fyrir, fól í sér grófari brot, einkum sú sem IV. kafli ákæru fjallar um. Sökum þess að Byko ehf. og Húsasmiðjan ehf. voru nánast einráð á markaðnum á ákærutímabilinu teljast brotin, sem framin voru í þeim tilgangi að styrkja markaðsstöðu fyrirtækjanna tveggja, enn alvarlegri en ella hefði verið. Vegna stærðar fyrirtækjanna og fjölda vörutegunda, sem verðsamráðið náði til, var með því ekki einasta brotið gegn mikilvægum hagsmunum viðskiptavina þeirra, heldur alls almennings. Af þessum sökum og með vísan til þess, sem áður segir um 1. mgr. 41. gr. a. samkeppnislaga, kemur ekki annað til álita en að dæma ákærðu til fangelsisrefsingar fyrir þau brot, sem þeir hafa gerst sekir um, sbr. og 1. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brotin eru því ekki fyrnd, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 81. gr. sömu laga.

Ákærði Steingrímur Birkir var sem fyrr greinir framkvæmdastjóri hjá Byko ehf. og því meðal æðstu stjórnenda fyrirtækisins. Brot ákærða samkvæmt I. og II. köflum ákæru voru stórfelld og brot hans eftir IV. kafla mjög alvarlegt. Til viðbótar þessu verður við ákvörðun refsingar ákærða sérstaklega litið til þess hve einbeittur vilji hans var til að raska samkeppni milli Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. í síðastnefnda tilvikinu, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt því telst refsing hans vera hæfilega ákveðin 18 mánaða fangelsi.

Ákærði Stefán Árni gegndi starfi framkvæmdastjóra hjá Húsasmiðjunni ehf. og var því í hópi æðstu stjórnenda þess fyrirtækis. Brot ákærða samkvæmt I. kafla ákæru var minna í sniðum og annars eðlis en brot stjórnenda Byko ehf. eftir þeim ákærukafla. Hins vegar fól háttsemi hans, sem féll undir III. kafla ákæru, í sér alvarlegt brot á samkeppnislögum. Með hliðsjón af því og stöðu hans hjá Húsasmiðjunni ehf. verður hann dæmdur til að sæta 9 mánaða fangelsi.

Ákærðu Júlíus Þór og Kenneth störfuðu báðir sem vörustjórar hjá Húsasmiðjunni ehf. Brot þau, sem þeir hafa verið sakfelldir fyrir, voru alvarleg, einkum þó brot ákærða Júlíusar Þórs samkvæmt IV. kafla ákæru. Að teknu tilliti til þess verður refsing hans ákveðin fangelsi í 9 mánuði, en ákærða Kenneth gert að sæta fangelsi í 3 mánuði.

Ákærði Leifur Örn var verslunarstjóri timbursölu Byko ehf. og ákærði Stefán Ingi sölustjóri fagsölusviðs þess. Brot þeirra samkvæmt I. og II. köflum ákæru voru sem fyrr segir umfangsmikil, en við ákvörðun refsingar verður að líta til stöðu þeirra hjá fyrirtækinu sem millistjórnenda. Samkvæmt því verður refsing hvors þeirra um sig ákveðin fangelsi í 3 mánuði.

Ákærðu Guðmundur og Ragnar Már voru óbreyttir starfsmenn fyrirtækjanna tveggja og verður að miða við að sú háttsemi, sem þeir hafa verið sakfelldir fyrir, hafi verið viðhöfð samkvæmt fyrirmælum yfirmanna þeirra. Af þessum sökum verður frestað skilorðsbundið að ákveða refsingu þeirra eins og fram kemur í dómsorði.

Þar sem ákærðu hefur ekki áður verið refsað verða refsingar þeirra, sem gert hefur verið að sæta fangelsi, bundnar skilorði, að undanskildum ákærða Steingrími Birki, en refsing hans verður skilorðsbundin að hluta, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Sakarkostnaður í héraði fólst einvörðungu í málsvarnarlaunum verjenda og verða staðfest ákvæði héraðsdóms um fjárhæð þeirra. Samkvæmt málsúrslitum hér fyrir dómi verður staðfest sú niðurstaða að fella málsvarnarlaun verjenda ákærðu X og Y á ríkissjóð. Hins vegar verður öðrum ákærðu, sem sakfelldir hafa verið fyrir alvarlegustu brotin sem þeim voru gefin að sök, gert að greiða laun verjenda sinna í héraði, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008. Á sama hátt fer um áfrýjunarkostnað, eins og nánar kemur fram í dómsorði, en málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu fyrir Hæstarétti eru ákveðin þar að meðtöldum virðisaukaskatti. Við ákvörðun þeirra hefur verið tekið tillit til þess að sami verjandi annaðist vörn tveggja ákærðu og voru hagsmunir þeirra að verulegu leyti þeir sömu.

Dómsorð:

Ákærði Steingrímur Birkir Björnsson sæti fangelsi í 18 mánuði, en fresta skal fullnustu 15 mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærðu Stefán Árni Einarsson og Júlíus Þór Sigurþórsson sæti hvor um sig fangelsi í 9 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærðu Kenneth Breiðfjörð, Leifur Örn Gunnarsson og Stefán Ingi Valsson sæti hver um sig fangelsi í 3 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákvörðun um refsingu ákærðu Guðmundar Loftssonar og Ragnars Más Amazeen er frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákvæði héraðsdóms um sýknu ákærðu X og Y skulu vera óröskuð.

Ákvæði héraðsdóms um fjárhæð málsvarnarlauna skulu vera óröskuð. Ákærðu Steingrímur Birkir, Stefán Árni, Júlíus Þór, Kenneth, Leifur Örn, Stefán Ingi, Guðmundur og Ragnar Már skulu, hver fyrir sitt leyti, greiða þær fjárhæðir að fullu, en ákvæði um greiðslu málsvarnarlauna í héraði skulu annars vera óbreytt.

Fyrir Hæstarétti fer um sakarkostnað sem hér segir: Ákærði Steingrímur Birkir greiði 6.944.000 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Geirs Gestssonar hæstaréttarlögmanns, ákærði Stefán Árni 5.654.400 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Þorsteins Einarssonar hæstaréttarlögmanns, ákærði Júlíus Þór 2.430.400 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Harðar Felix Harðarsonar hæstaréttarlögmanns, ákærði Kenneth 4.290.400 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, ákærði Leifur Örn 4.166.400 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Þórhalls Hauks Þorvaldssonar hæstaréttarlögmanns, ákærði Stefán Ingi 4.786.400 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Lúðvíks Arnar Steinarssonar hæstaréttarlögmanns, ákærði Guðmundur 3.323.200 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Tómasar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, og ákærði Ragnar Már 4.364.800 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Skarphéðins Péturssonar hæstaréttarlögmanns, en málsvarnarlaun verjanda ákærða X, Tómasar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 4.885.600 krónur, og verjanda ákærða Y, Jóhannesar Ásgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 1.984.000 krónur, greiðast úr ríkissjóði. Þá skulu ákærðu Steingrímur Birkir, Stefán Árni, Júlíus Þór, Kenneth, Leifur Örn, Stefán Ingi, Guðmundur og Ragnar Már greiða óskipt 4/5 hluta annars áfrýjunarkostnaðar, 1.181.644 krónur, en 1/5 hluti hans, 295.411 krónur, fellur á ríkissjóð.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. apríl 2015.

A.

Mál þetta, sem þingfest var 22. maí 2014 og dómtekið 27. febrúar sl., var höfðað með ákæru embættis sérstaks saksóknara samkvæmt lögum nr. 135/2008, útgefinni 23. apríl 2014, á hendur Steingrími Birki Björnssyni, kennitala [...], Lómasölum 41, Kópavogi, Leifi Erni Gunnarssyni, kennitala [...], Baugakór 14, Kópavogi, Stefáni Inga Valssyni, kennitala [...], Bakkaseli 35, Reykjavík, Ragnari Má Amazeen, kennitala [...], Seljugerði 9, Reykjavík, Æ, kennitala [...], [...], [...], Stefáni Árna Einarssyni, kennitala [...], Lindarflöt 38, Garðabæ, Y, kennitala [...], [...], [...], X, kennitala [...], [...], [...], Guðmundi Loftssyni, kennitala [...], Viðarrima 23, Reykjavík, Kenneth Breiðfjörð, kennitala [...], Gnoðarvogi 24, Reykjavík, Júlíusi Þór Sigurþórssyni, kennitala [...], Vallartröð 2, Kópavogi, Z, kennitala [...], [...], [...], og Þ, kennitala [...], [...], [...],

„fyrir eftirtalin brot gegn samkeppnislögum:

I.

Verðsamráð starfsmanna Byko og Húsasmiðjunnar á árunum 2010 og 2011

Á hendur ákærðu Steingrími Birki, sem framkvæmdastjóra fagsölusviðs Byko, Leifi Erni, sem verslunarstjóra timbursölu Byko, Stefáni Inga, sem sölustjóra fagsölusviðs Byko, Ragnari Má, sem starfsmanni í timbursölu Byko, Æ, sem sölumanni í timbursölu Byko, Stefáni Árna, sem framkvæmdastjóra vörustýringarsviðs Húsasmiðjunnar, Y, sem sölumanni í þjónustuveri Húsasmiðjunnar, X, sem sölumanni í timbursölu Húsasmiðjunnar, og Guðmundi, sem starfsmanni í þjónustuveri Húsasmiðjunnar, fyrir verðsamráð í framangreindum störfum sínum fyrir Byko og Húsasmiðjuna, á tímabilinu frá 13. september 2010 til 3. mars 2011, með skipulagðri upplýsingagjöf um verð og tilboðskjör sérgreindra grófvörutegunda, einkum bygginga- og timburvara, í símtölum milli starfsmanna fyrirtækjanna, sem var til þess fallið að hafa áhrif á verð, afslætti, álagningu og önnur viðskiptakjör innan umræddra fyrirtækja. Verðsamráðið var af hálfu starfsmanna Byko viðhaft að undirlagi og/eða samkvæmt fyrirmælum ákærðu Steingríms Birkis, Leifs Arnar og Stefáns Inga en af hálfu starfsmanna Húsasmiðjunnar að undirlagi og/eða samkvæmt fyrirmælum ákærða Stefáns Árna. Um var að ræða eftirfarandi tilvik:

 

1) Verðsamráð 13. september 2010

Í símtali er stóð yfir í 25 mínútur og 8 sekúndur, frá klukkan 10:28, veitti ákærði Y meðákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að 105 vörutegundir hjá Húsasmiðjunni sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um.

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Stefán Inga og Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 11:50, með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „Verðkönnun 13 sept 2010.xlsx“ en skjalið hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá meðákærða Y ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

2) Verðsamráð 23. september 2010

Í símtali er stóð yfir í 17 mínútur og 48 sekúndur, frá klukkan 10:41, veitti ákærði X meðákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að 105 vörutegundir hjá Húsasmiðjunni sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um. 

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Stefán Inga og Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 11:46, með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „verðkönnun 23 sept 2010.xlsx“ en skjalið hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá meðákærða X ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

3) Verðsamráð 30. september 2010

Í tveimur símtölum er stóðu annars vegar yfir í 4 mínútur og 21 sekúndu, frá klukkan 9:43, og hins vegar 10 mínútur og 59 sekúndur, frá klukkan 9:48, veitti ákærði X meðákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að 105 vörutegundir hjá Húsasmiðjunni sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um. 

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Stefán Inga og Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 11:47, með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „verðkönnun 30 sept 2010.xlsx“ en skjalið hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá meðákærða X ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

4) Verðsamráð 8. október 2010

Í símtali er stóð yfir í 18 mínútur og 18 sekúndur, frá klukkan 10:25, veitti ákærði X meðákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að 105 vörutegundir hjá Húsasmiðjunni sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um. 

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Steingrím Birki og Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 11:45, með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „verðkönnun 0810 2010.xlsx“ en skjalið hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá meðákærða X ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

5) Verðsamráð 15. október 2010

Í símtali er stóð yfir í 20 mínútur og 16 sekúndur, frá klukkan 9:41, veitti ákærði X meðákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að 103 vörutegundir hjá Húsasmiðjunni sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um. 

                                                           

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Stefán Inga og Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 11:08, með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „Verðkönnun frumskjal.xlsx“ en skjalið hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá meðákærða X. Sama dag, klukkan 11:50, sendi ákærði Ragnar Már tölvubréf til hinna sömu. Í texta þess tölvubréfs segir eftirfarandi: „Leiðrétt“. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „verðkönnun 15.10.2010.xlsx“ en um var að ræða sambærilegt skjal og sent hafði verið fyrr sama dag og hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá meðákærða X ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.  

 

6) Verðsamráð 22. október 2010

Í símtali er stóð yfir í 19 mínútur og 20 sekúndur, frá klukkan 10:26, veitti ákærði X meðákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að 103 vörutegundir hjá Húsasmiðjunni sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um. 

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Stefán Inga og Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 11:50, með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „VERÐKÖNNUN 22 OKT 2010.xlsx“ en skjalið hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá meðákærða X ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

7) Verðsamráð 29. október 2010

Í símtali er stóð yfir í 15 mínútur og 30 sekúndur, frá klukkan 9:07, veitti ákærði X meðákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að 103 vörutegundir hjá Húsasmiðjunni sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um. 

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Stefán Inga og Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 10:21, með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „Verðk. 29, 10 2010.xlsx“ en skjalið hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá meðákærða X ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

8) Verðsamráð 4. nóvember 2010

Í símtali er stóð yfir í 15 mínútur og 54 sekúndur, frá klukkan 15:01, veitti ákærði X meðákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að 103 vörutegundir hjá Húsasmiðjunni sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um.

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærða Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 15:43, með því að senda honum tölvubréf. Í texta tölvubréfsins ritaði ákærði Ragnar Már eftirfarandi texta: „Ekki fengust uppgefin verð frá Múrbúðinni“. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „04 NOV. 2010.xlsx“ en skjal það hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá meðákærða X ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

Ákærði Leifur Örn upplýsti meðákærðu Stefán Inga og Steingrím Birki um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 15:43, með því að senda þeim tölvubréf. Með tölvubréfinu fylgdi sama viðhengi og með tölvubréfi meðákærða Ragnars Más sem hafði að geyma verðupplýsingar fyrir 103 sambærilegar vörutegundir hjá Byko og Húsasmiðjunni.

 

9) Verðsamráð 19. nóvember 2010

Í símtali er stóð yfir í 30 mínútur og 50 sekúndur, frá klukkan 9:50, veitti óþekktur starfsmaður Húsasmiðjunnar ákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að 103 vörutegundir hjá Húsasmiðjunni sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um.

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Stefán Inga og Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 11:18, með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „19 NOV. 2010 VERÐK.xlsx“ en skjal það hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá hinum óþekkta starfsmanni Húsasmiðjunnar, ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

10) Verðsamráð 25. nóvember 2010

Í símtali er stóð yfir í 15 mínútur og 25 sekúndur, frá klukkan 15:01, veitti óþekktur starfsmaður Húsasmiðjunnar ákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að 103 vörutegundir hjá Húsasmiðjunni sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um.

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Stefán Inga og Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 16:29, með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „25 nov. 2010.xlsx“ en skjal það hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá hinum óþekkta starfsmanni Húsasmiðjunnar, ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

11) Verðsamráð 2. desember 2010

Í símtali er stóð yfir í 15 mínútur og 8 sekúndur, frá klukkan 11:07, veitti ákærði X meðákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að 103 vörutegundir hjá Húsasmiðjunni sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um. 

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Stefán Inga og Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 11:36, með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „2.desember 2010.xlsx“ en skjalið hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá meðákærða X ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

12) Verðsamráð 10. desember 2010

Í símtali er stóð yfir í 14 mínútur og 13 sekúndur, frá klukkan 10:31, veitti ákærði X meðákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að 103 vörutegundir hjá Húsasmiðjunni sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um. 

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Stefán Inga og Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 11:09, með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „10 des 2010.xlsx“ en skjalið hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá meðákærða X ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

13) Verðsamráð 16. desember 2010

Í símtali er stóð yfir í 20 mínútur og 10 sekúndur, frá klukkan 10:59, veitti ákærði X meðákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að 107 vörutegundir hjá Húsasmiðjunni sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um.

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Stefán Inga og Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 15:17, með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið 16. des 2010.xlsx“ en skjalið hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá meðákærða X ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

14) Verðsamráð 12. janúar 2011

Í símtali er stóð yfir í 29 mínútur og 13 sekúndur, frá klukkan 15:38, veitti ákærði Y meðákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að 103 vörutegundir hjá Húsasmiðjunni sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um.

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærða Stefán Inga um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 16:46, með því að senda honum tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „Copy of 10 des 2010.xlsx“ en skjalið hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá meðákærða Y ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

15) Verðsamráð 21. janúar 2011

Í símtali er stóð yfir í 23 mínútur og 54 sekúndur, frá klukkan 10:39, veitti óþekktur starfsmaður Húsasmiðjunnar ákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að 103 vörutegundir hjá Húsasmiðjunni sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um.  

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærða Stefán Inga um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 11:23, með því að senda honum tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „vk.21-01 2011.xlsx“ en skjal það hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá hinum óþekkta starfsmanni Húsasmiðjunnar, ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

16) Verðsamráð 28. janúar 2011

Í símtali er stóð yfir í 49 mínútur og 12 sekúndur, frá klukkan 10:31, veittu ákærðu Ragnar Már og Guðmundur hvor öðrum upplýsingar um verð og tilboðskjör Byko og Húsasmiðjunnar allt að 103 vörutegunda.

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Steingrím Birki, Stefán Inga og Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 11:58, með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „28 jan 2011.xlsx“ en skjal það hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá meðákærða Guðmundi, ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

17) Verðsamráð 4. febrúar 2011

Í símtali er stóð yfir í 37 mínútur og 58 sekúndur, frá klukkan 8:45, veittu ákærðu Ragnar Már og Guðmundur hvor öðrum upplýsingar um verð og tilboðskjör Byko og Húsasmiðjunnar á 103 vörutegundum.

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Steingrím Birki, Stefán Inga og Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 10:03, með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „4 februar 2011.xlsx“ en skjal það hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá meðákærða Guðmundi, ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

18) Verðsamráð 10. febrúar 2011

Í símtali sem stóð yfir í 32 mínútur og 14 sekúndur, frá klukkan 11:21, veittu ákærðu Ragnar Már og Guðmundur hvor öðrum upplýsingar um verð og tilboðskjör Byko og Húsasmiðjunnar á 103 vörutegundum.

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Steingrím Birki og Stefán Inga um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 13:14, með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „verðkonnun 10 feb. 2011.xlsx“ en skjal það hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá meðákærða Guðmundi, ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

Ákærði Guðmundur upplýsti meðal annars meðákærða Stefán Árna um framangreindar verðupplýsingar með því að prenta út skjal, daginn eftir, en skjalið hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá meðákærða Ragnari Má, ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Húsasmiðjunni.

 

19) Verðsamráð 18. febrúar 2011

Í símtali er stóð yfir í 24 mínútur og 50 sekúndur, frá klukkan 9:25, veittu ákærðu Ragnar Már og Guðmundur hvor öðrum upplýsingar um verð og tilboðskjör Byko og Húsasmiðjunnar allt að 103 vörutegunda.

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Steingrím Birki og Stefán Inga um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 10:29, með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „18 FEB 2011.xlsx“ en skjal það hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá meðákærða Guðmundi, ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

20) Verðsamráð 28. febrúar 2011

Í símtali er stóð yfir í 24 mínútur og 15 sekúndur, frá klukkan 15:19, veitti ákærði X meðákærða Æ upplýsingar um verð og tilboðskjör 97 vörutegunda hjá Húsasmiðjunni. Þá aflaði Æ, í sama símtali, upplýsinga um sex vörutegundir til viðbótar frá GÞ, starfsmanni í þjónustuveri Húsasmiðjunnar, og aflaði því samtals upplýsinga um 103 vörutegundir. 

 

Ákærði Æ upplýsti meðákærða Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 16:08, með því að senda honum tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „28 febrúar 2011 verðkönnun.xlsx“ en skjal það hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið í umræddu símtali, ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

21) Verðsamráð 3. mars 2011

Í símtali er stóð yfir í 17 mínútur og 41 sekúndu, frá klukkan 11:22, veitti ákærði X meðákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að 103 vörutegundir hjá Húsasmiðjunni sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um. 

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Steingrím Birki og Stefán Inga um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 16:59, með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „03 Feb. 2011.xlsx“ en skjal það hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá meðákærða X, ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

II.

Verðsamráð starfsmanna Byko og Úlfsins byggingarvara á árunum 2010 og 2011

Á hendur ákærðu Steingrími Birki, sem framkvæmdastjóra fagsölusviðs Byko, Leifi Erni, sem verslunarstjóra timbursölu Byko, Stefáni Inga, sem sölustjóra fagsölusviðs Byko, Ragnari Má, sem starfsmanni í timbursölu Byko, og Þ, sem starfsmanni hjá Úlfinum byggingarvörum (hér eftir Úlfurinn), fyrir verðsamráð í framangreindum störfum sínum fyrir Byko og Úlfinn, á tímabilinu frá 15. október 2010 til 17. febrúar 2011, með skipulagðri upplýsingagjöf um verð og tilboðskjör sérgreindra grófvörutegunda, einkum bygginga- og timburvara, í símtölum milli starfsmanna fyrirtækjanna, sem var til þess fallið að hafa áhrif á verð, afslátt, álagningu og önnur viðskiptakjör innan umræddra fyrirtækja. Verðsamráðið var af hálfu starfsmanna Byko viðhaft að undirlagi og/eða samkvæmt fyrirmælum ákærðu Steingríms Birkis, Leifs Arnar og Stefáns Inga. Um var að ræða eftirfarandi tilvik:

 

1) Verðsamráð 15. október 2010

Í símtali er stóð yfir í 18 mínútur og 27 sekúndur, frá klukkan 10:11, veitti óþekktur starfsmaður Úlfsins ákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að níu vörutegundir hjá Úlfinum sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um. 

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Stefán Inga og Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 11:08, með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „Verðkönnun frumskjal.xlsx“ en skjal það hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá hinum óþekkta starfsmanni Úlfsins, ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

Sama dag, klukkan 11:50, sendi ákærði Ragnar Már tölvubréf til hinna sömu. Í texta þess tölvubréfs segir eftirfarandi: „Leiðrétt“. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „verðkönnun 15.10.2010.xlsx“ en um var að ræða sambærilegt skjal og sent hafði verið fyrr sama dag og hafði meðal annars að geyma verðupplýsingar fyrir níu sambærilegar vörutegundir hjá Byko og Úlfinum.  

 

2) Verðsamráð 20. október 2010

Í símtali er stóð yfir í 1 mínútu og 4 sekúndur, frá klukkan 14:38, veitti óþekktur starfsmaður Úlfsins ákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að níu vörutegundir hjá Úlfinum sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um.  

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Stefán Inga og Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, tveimur dögum síðar, með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „VERÐKÖNNUN 22 OKT 2010.xlsx“ en skjal það hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá hinum óþekkta starfsmanni Úlfsins, ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

3) Verðsamráð 29. október 2010

Í símtali er stóð yfir í 17 mínútur og 32 sekúndur, frá klukkan 9:32, veitti óþekktur starfsmaður Úlfsins ákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að níu vörutegundir hjá Úlfinum sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um.  

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Stefán Inga og Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 10:21, með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „Verðk. 29, 10 2010.xlsx“ en skjal það hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá hinum óþekkta starfsmanni Úlfsins, ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

4) Verðsamráð 4. nóvember 2010

Í símtali er stóð yfir í 11 mínútur og 9 sekúndur, frá klukkan 15:19, veitti óþekktur starfsmaður Úlfsins ákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að tíu vörutegundir hjá Úlfinum sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um.  

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærða Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 15:43, með því að senda honum tölvubréf. Í texta tölvubréfsins ritaði ákærði Ragnar Már eftirfarandi texta: „Ekki fengust uppgefin verð frá Múrbúðinni“. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „04 NOV. 2010.xlsx“ en skjal það hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá hinum óþekkta starfsmanni Úlfsins, ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

Ákærði Leifur Örn upplýsti meðákærðu Steingrím Birki og Stefán Inga um framangreindar verðupplýsingar klukkan 15:57, með því að áframsenda þeim tölvubréf meðákærða Ragnars Más. Með tölvubréfinu fylgdi sama viðhengi og með tölvubréfi ákærða Ragnars Más.

 

5) Verðsamráð 19. nóvember 2010

Í símtali er stóð yfir í 2 mínútur og 17 sekúndur, frá klukkan 11:00, veitti óþekktur starfsmaður Úlfsins ákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að tíu vörutegundir hjá Úlfinum sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um.  

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Stefán Inga og Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 11:18, með því að senda þeim tölvubréf. Í texta tölvubréfsins segir meðal annars eftirfarandi: „Óbreitt [svo] verð hjá Úlfinum“. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „19 NOV. 2010 VERÐK.xlsx“ en skjal það hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá hinum óþekkta starfsmanni Úlfsins, ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

6) Verðsamráð 2. desember 2010

Í símtali er stóð yfir í 6 mínútur og 1 sekúndu, frá klukkan 11:00, veitti óþekktur starfsmaður Úlfsins ákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að tíu vörutegundir hjá Úlfinum sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um.  

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Stefán Inga og Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 11:36, með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „2.desember 2010.xlsx“ en skjal það hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá hinum óþekkta starfsmanni Úlfsins, ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

7) Verðsamráð 16. desember 2010

Í símtali er stóð yfir í 4 mínútur og 43 sekúndur, frá klukkan 14:20, veitti ákærði Þ meðákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að tíu vörutegundir hjá Úlfinum sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um.

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Stefán Inga og Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 15:17, með því að senda þeim tölvubréf. Í texta tölvubréfsins segir meðal annars eftirfarandi: „Óbreitt [svo] verð hjá Úlfinum, talaði við Þ“. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „Verðkönnun 16. des 2010.xlsx“ en skjal það hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá meðákærða Þ, ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

8) Verðsamráð 12. janúar 2011

Í símtali er stóð yfir í 12 mínútur og 3 sekúndur, frá klukkan 16:10, veitti óþekktur starfsmaður Úlfsins ákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að tíu vörutegundir hjá Úlfinum sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um.  

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærða Steingrím Birki um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 16:46, með því að senda honum tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „Copy of 10 des 2010.xlsx“ en skjal það hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá hinum óþekkta starfsmanni Úlfsins, ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

9) Verðsamráð 21. janúar 2011

Í símtali er stóð yfir í 4 mínútur og 20 sekúndur, frá klukkan 11:05, veitti óþekktur starfsmaður Úlfsins ákærða Ragnari Má verðupplýsingar um allt að níu vörutegundir hjá Úlfinum sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um.  

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærða Stefán Inga um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 16:46, með því að senda honum tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „vk.21-01 2011.xlsx“ en skjal það hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá hinum óþekkta starfsmanni Úlfsins, ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

10) Verðsamráð 4. febrúar 2011

Í símtali er stóð yfir í 10 mínútur og 35 sekúndur, frá klukkan 9:25, veitti ákærði Þ ákærða Ragnari Má verðupplýsingar um níu vörutegundir hjá Úlfinum sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um, með þeim orðum að „þetta“ væri „allt óbreytt“. 

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Steingrím Birki, Stefán Inga og Leif Örn um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 10:03, með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „4 februar 2011.xlsx“ en skjal það hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá meðákærða Þ, ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

 

11) Verðsamráð 17. febrúar 2011

Í símtali er stóð yfir í 9 mínútur og 11 sekúndur, frá klukkan 14:57, veitti ákærði Þ ákærða Ragnari Má verðupplýsingar um níu vörutegundir hjá Úlfinum sem ákærði Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um, með orðunum „þetta er allt við það sama“.   

 

Ákærði Ragnar Már upplýsti meðákærðu Steingrím Birki og Stefán Inga um framangreindar verðupplýsingar daginn eftir með því að senda þeim tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „18 FEB 2011.xlsx“ en skjal það hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið hjá meðákærða Þ, ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá Byko.

III.

Hvatning til verðsamráðs milli Húsasmiðjunnar og Byko 16. og 23. febrúar 2011

1) Á hendur ákærða Kenneth, sem vörustjóra timbursölu Húsasmiðjunnar, fyrir að hvetja til verðsamráðs, sem hafði það að markmiði eða af því leiddi að komið yrði í veg fyrir samkeppni eða henni yrði raskað milli Byko og Húsasmiðjunnar og þannig, beint eða óbeint, haft áhrif á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör fyrirtækjanna, með því að hafa 16. febrúar 2011, í símtali er stóð yfir í liðlega 1 mínútu, frá klukkan 8:10, beðið samstarfsmann sinn, Guðmund Loftsson, starfsmann í þjónustuveri Húsasmiðjunnar, að koma tilteknum upplýsingum um grófvörur Húsasmiðjunnar til Ragnars Más Amazeen, starfsmanns í timbursölu Byko, ef hann myndi hafa samband. Fram kom hjá ákærða Kenneth að Guðmundur ætti að beina því til Ragnars Más „að fá hann bara til þess að hringja á morgun upp á, af því að þá getum við bara klárað listana og […] hækkað“. Var hér átt við mögulegt símtal í tengslum við verðkönnun og gerð verðkönnunarlista fyrir grófvörur. Þá kom eftirfarandi fram hjá ákærða Kenneth í umræddum samtali: „Þá tekur það gildi á morgun. Þú getur þá bara sagt honum að við séum í verðhækkunum og það er eiginlega ekkert að marka það sem þú segir honum í dag en […] gætir sagt honum það bara á morgun.“ Loks kom fram í símtalinu að Guðmundur ætlaði að koma þessum skilaboðum til Ragnars Más, ef hann hefði samband, með þeim orðum að hann ætlaði að láta hann „bara vita það“.

 

2) Á hendur ákærða Stefáni Árna, sem framkvæmdastjóra vörustýringarsviðs Húsasmiðjunnar, fyrir að hvetja til verðsamráðs, sem hafði það að markmiði eða af því leiddi að komið yrði í veg fyrir samkeppni eða henni yrði raskað milli Byko og Húsasmiðjunnar og þannig, beint eða óbeint, haft áhrif á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör fyrirtækjanna, með því að hafa 23. febrúar 2011, í símtali er stóð yfir í 2 mínútur og 54 sekúndur, frá klukkan 16:21, beðið samstarfsmann sinn, Kenneth Breiðfjörð, vörustjóra timbursölu Húsasmiðjunnar, að koma upplýsingum um verðbreytingar hjá Húsasmiðjunni til Byko með því að láta Guðmund Loftsson, starfsmann í þjónustuveri Húsasmiðjunnar, koma umræddum upplýsingum til starfsmanns Byko, með þeim orðum að „Guðmundur láti þetta fréttast þá með hina vöruflokkana sem við vorum að breyta núna“ og „hann þarf bara að fá eiginlega að vita bara hvað var búið að breyta á undan líka þannig að hann geti sagt þeim bara frá því“. Var hér átt við ýmsar vörutegundir Húsasmiðjunnar en tilefni framangreinds símtals var það að Kenneth hringdi í ákærða Stefán Árna til þess að gleðja hann „óheyrilega mikið“ með því að tilkynna honum um að Byko væri búið að hækka verð á tilteknum grófvörum, að minnsta kosti „græna efnið“, „heflaða efnið“, „fimmta flokkinn“ og „styrktarflokkaða“.  

IV.

Verðsamráð og hvatning til verðsamráðs milli Byko og Húsasmiðjunnar í tengslum við tilboðsgerð o.fl. 28. febrúar 2011

1) Á hendur ákærðu Steingrími Birki, sem framkvæmdastjóra fagsölusviðs Byko, og Júlíusi Þór, sem vörustjóra timburdeildar Húsasmiðjunnar, fyrir verðsamráð og hvatningu til verðsamráðs, er hafði það að markmiði eða af því leiddi að komið yrði í veg fyrir samkeppni eða henni yrði raskað milli Byko og Húsasmiðjunnar, og þannig, beint eða óbeint, haft áhrif á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör fyrirtækjanna við tilboðsgerð á grófvörum almennt, með því að hafa 28. febrúar 2011, í símtali sem stóð yfir í 11 mínútur og 11 sekúndur, frá klukkan 10:55, rætt sín á milli um tilboðsmál fyrirtækjanna, þar sem ákærði Steingrímur Birkir upplýsti meðákærða Júlíus Þór meðal annars um hvernig hann myndi haga tilboðsgerð Byko í grófvörum og þar sem ákærðu hvöttu hvor annan til þess að stuðla að því að Byko og Húsasmiðjan myndu ekki stunda samkeppni, svo sem hér greinir í útdrætti símtalsins:  

Ákærði Steingrímur Birkir upplýsti meðákærða Júlíus Þór að hann stjórnaði öllum tilboðsmálum hjá Byko, „alla vega varðandi grófu vöruna“. Fram kom hjá ákærða Steingrími Birki að „þetta“ væri „komið bara í algjört bull sko“. „Þetta eru orðin hjaðningavíg ef þetta heldur svona áfram,“ kom fram hjá ákærða Steingrími Birki. Undir þetta tók meðákærði Júlíus Þór með orðunum: „þetta verður bara hjaðningavíg.“   

Ákærði Steingrímur Birkir upplýsti meðákærða Júlíus Þór um að hann væri búinn að ræða við „BF“ og myndi núna, „frá og með bara sko morgundeginum. Þá mun ég ýta öllu upp. Öllu. Alveg sama hvað það er og það verður. Ég mun handstýra allri tilboðsgerð núna í heilan mánuð þangað til að, af því sko…“. Ákærði Júlíus Þór svaraði meðal annars með þeim orðum: „þetta eru hjaðningavíg. […] Við erum að blæða báðir tveir“ og „við erum bara að drepa hvern [svo] annan.“ Fram kom enn fremur hjá ákærða Júlíusi Þór að „við lifum þetta ekki af ef við ætlum að halda þessu áfram sko“.

 

Eftirfarandi kom meðal annars fram hjá ákærða Steingrími Birki: „Nei, ég ætla mér sem sagt að hækka núna, bara handvirkt, tilboð. Alveg sama hvað er. Þetta verður allt sent inn til mín til hérna … til, skal ég segja þér, yfirferðar. Ég, BF og Stebbi Vals munum fara yfir öll þessi tilboð. […] Ég ætla að hækka allt um 2% lágmark.“

 

Ákærði Steingrímur Birkir upplýsti því næst meðákærða Júlíus Þór um að hann ætlaði „sem sagt að draga núna upp um 2%, allt, bara „komplet““. Fram kom hjá ákærða að hann gæti ekki „tölusett það nákvæmlega“.

 

Því næst kom fram hjá ákærða Steingrími Birki að hann ætlaði að viðhafa ákveðna hegðun á markaði þegar kæmi að Akureyri og Selfossi, með eftirfarandi orðum: „Það sem ég ætla með Akureyri sérstaklega og líka Selfoss, það er að ég ætla mér að draga þetta upp meira þar í tilboðsgerðinni og þeir verða bara undir þeim skipunum og ef þeir ekki hlýða mér og ef ég fæ ekki tilboðin og þeir klára þetta ekki eins og ég vil, þá hérna, fá menn hérna, skriflega áminningu og síðan geta þeir bara kysst starfið sitt bless.“

 

Hvatti ákærði Steingrímur Birkir meðákærða Júlíus Þór til þess að beita áhrifum innan Húsasmiðjunnar, með eftirfarandi orðum: „Ég hvet þig bara, Júlíus, til þess að beita einhverjum áhrifum þarna innanborðs.“ Þá kom fram hjá ákærða Steingrími Birki að „eftir nokkra daga þá bara sjáið þið það að við erum búnir að færa okkur til og hérna“. Þessu svaraði meðákærði Júlíus Þór þannig að Húsasmiðjan hefði einnig „verið að hækka sjálfir undanfarið vegna þess að við erum búnir að fá á okkur alveg hellings hækkanir“. Kom fram hjá ákærða Steingrími Birki að Byko hefði „verið að fylgja ykkur eftir þar“. „Aldrei þessu vant höfum við verið dálítið á eftir ykkur, finnst mér sko. Eða þið dregið vagninn þar sko, skulum við segja,“ kom jafnframt fram hjá ákærða Steingrími Birki í þessu samhengi.

 

Fram kom hjá ákærða Júlíusi Þór að Húsasmiðjan væri að fara inn í „háseasonið“ þar sem þeir þyrftu „að fá tekjurnar okkar og við megum ekki missa þetta frá okkur núna. Auðvitað munum við slást en við eigum að slást bara á eðlilegum nótum“. Ákærði Steingrímur Birkir tók undir þetta og sagði „við þurfum að hækka „levelið“ þar sem við erum að slást“. Fram kom hjá meðákærða Júlíusi Þór að hann væri þessu „alveg sammála“.

 

Ákærði Steingrímur Birkir upplýsti meðákærða Júlíus Þór því næst um að hann hefði hugsað sér „að gera þetta í tvisvar sinnum 2% núna“. Eftirfarandi kom enn fremur fram hjá ákærða Steingrími Birki: „Byrja í 2% núna og svo aftur 2% eftir 2-3 vikur og ég ætl… og ég vona að þið merkið þetta og… og hérna… og einhvern veginn svona.“ „Já, ég skal sjá til þess að við fylgjum þessu eftir,“ kom fram hjá meðákærða Júlíusi Þór.

 

Því næst upplýsti ákærði Steingrímur Birkir meðákærða Júlíus Þór að Húsasmiðjan væri að „bjóða alveg svakalega og eruð að ná ofnapökkum núna“. Eftirfarandi kom orðrétt fram hjá ákærða Steingrími Birki: „En, ég held ég… mér sé óhætt að segja er að þú ert sko… þið eruð svo langt frá okkur að það er ekki heilbrigt fyrir ykkur. Við er… Við erum að tala um að… að… að… Við höfum fengið að sjá þrjú tilboð núna… og það munar meira heldur en 10% á okkur og mestu munaði á einu tilboði og það var 18% munur á því sem að við vorum að bjóða og þið. Þið er… Þið verðið að hugsa ykkar gang þarna.“ Þessu svaraði ákærði Júlíus Þór með eftirfarandi orðum: „Já, ég skal skoða það.“

 

Þá ræddu ákærðu um „græna efnið“ og mikilvægi þess að missa það ekki „niður í rusl“. Eftirfarandi kom fram hjá ákærða Júlíusi Þór í því sambandi: „Og þess vegna er náttúrulega líka mjög mikilvægt að menn séu ekki sko að… að jarða sig fyrir „seasonið“ sko, fara með verðin einhvers staðar… niður í svaðið áður en… og… og halda því svo yfir „seasonið“. Það er ekkert hægt. Við verðum að lyfta okkur upp núna, sko.“ Fram kom hjá ákærða Steingrími Birki að þetta væri „geggjun, algjör“. Undir það tók meðákærði Júlíus Þór sem sagðist mundu koma „þessu áfram á rétta staði“.

 

Ákærði Steingrímur Birkir upplýsti meðákærða Júlíus Þór um það hvenær hann hygðist hrinda „þessu“ í framkvæmd, með eftirfarandi orðum: „Hérna ég… eins og ég segi, ég byrja á þessu í fyrramálið og ég mun ekki hleypa einu einasta tilboði í gegn í… Og þetta á ekki bara við um grófu vöruna. Ég ætla mér að, eins og ég segi, BF mun vinna þetta með mér og hann mun stýra þessu líka í…hvað á ég að segja, þú veist, eins og við köllum valvöruna og það allt saman.“

 

Ákærði Steingrímur Birkir áréttaði því næst við meðákærða Júlíus Þór að „þessu“ yrði „bara handstýrt núna“. Meðákærði Júlíus Þór svaraði því með eftirfarandi ummælum: „Já, það þýðir ekkert annað.“ Lauk ákærði Steingrímur Birkir samtalinu með eftirfarandi ummælum: „Þannig að þið verðið varir við þetta og vonandi, eins og ég segi, tekst okkur að gera lífið… örlítið bærilegra heldur en það er í dag, sko.“

 

Ákærði Júlíus Þór lauk fyrir sitt leyti samtalinu með eftirfarandi ummælum: „Já, já. Heyrðu, Steingrímur minn. Ég þakka þér bara fyrir og ég mun koma þessum upplýsingum áfram.“

 

Ákærði Júlíus Þór upplýsti samstarfsmenn sína, Z, framkvæmdastjóra verslanasviðs Húsasmiðjunnar, og Ó, framkvæmdastjóra heildsölusviðs Húsasmiðjunnar, hinn sama dag um símtalið milli hans og Steingríms Birkis, þar sem að minnsta kosti var upplýst um að staða Byko í þungavöru og tilboðsgerð væri orðin þannig, einkum á Akureyri og Selfossi, að hækka ætti framlegð og minnka afslætti um tvisvar sinnum 2%. Enn fremur var rætt um „græna efnið“ í því samhengi að frekari samkeppni með þær vörur mætti ekki „endurtaka sig“.   

 

2) Á hendur ákærða Z, sem framkvæmdastjóra verslanasviðs Húsasmiðjunnar, fyrir hlutdeild í verðsamráði, er hafði það að markmiði eða af því leiddi að komið yrði í veg fyrir samkeppni eða henni yrði raskað milli Byko og Húsasmiðjunnar, og þannig, beint eða óbeint, haft áhrif á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör fyrirtækjanna við tilboðsgerð á grófvörum almennt, með því að hafa 28. febrúar 2011, í símtali sem stóð yfir í 16 mínútur og 7 sekúndur, frá klukkan 14:33, upplýst SAS forstjóra Húsasmiðjunnar, um framangreint símtal milli Júlíusar Þórs Sigurþórssonar, starfsmanns Húsasmiðjunnar, og Steingríms Birkis Björnssonar, starfsmanns Byko. Samkvæmt símtalinu upplýsti ákærði Z, SAS, um að Júlíus Þór hefði upplýst hann og ÓÞJ, starfsmann Húsasmiðjunnar, um að Steingrímur Birkir hefði gefið Júlíusi Þór „hint um það“ að staða Byko á Akureyri og Selfossi í „þungavöru og tilboðsbransanum við Húsasmiðjuna, sé orðin þannig“ að Steingrímur Birkir ætlaði að „taka öll tilboð inn til sín á þessum tveimur stöðum með það að markmiði að hækka framlegðina og minnka afslættina um tvisvar sinnum 2% á einum mánuði“. Fram kom hjá ákærða Z að hann og ÓÞJ hefðu beðið Júlíus Þór að „segja ekki nokkrum öðrum manni frá þessu“. Fram kom í samtalinu að bæði Z og SAS voru sammála um að Akureyri og Selfoss væru þeir staðir þar sem mesta samkeppnin væri, sbr. ummæli Z á þá leið að það væru „staðirnir sem við höfum verið að berjast mest við þá á“. Þá kom fram að framlegð á þessum stöðum hefði verið þokkaleg þar til Húsasmiðjan hefði farið að „djöflast“ í Byko og „þá hrynur þetta“. Fram kom hjá ákærða Z að Júlíus Þór hefði notað tækifærið og farið að ræða „græna efnið“ og „að þetta mætti nú ekki endurtaka sig“. Þá kom fram hjá ákærða Z og SAS að þetta væri „fínt“. Loks kom fram hjá ákærða Z að „þeir séu að fara upp með timbrið“ og að þetta sé „náttúrulega skýringin á „framlegðardroppinu“ okkar í mjög mörgum vöruflokkum í nýbyggingarflokkunum,“ og undir það tók SAS.      

V.

Tilraunir starfsmanna Byko og Húsasmiðjunnar við að koma á samráði við starfsmann Múrbúðarinnar 15. október 2010

1) Á hendur ákærða Ragnari Má, sem sölumanni í timbursölu Byko, fyrir tilraun til verðsamráðs, er hafði það að markmiði eða af því leiddi að komið yrði í veg fyrir samkeppni eða henni yrði raskað milli Byko og Múrbúðarinnar og þannig, beint eða óbeint, reynt að hafa áhrif á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör fyrirtækjanna með sérgreindar grófvörutegundir, með því að hafa 15. október 2010, í símtali sem stóð yfir í 4 mínútur og 34 sekúndur, frá klukkan 8:44, reynt að fá starfsmann Múrbúðarinnar til þess að skiptast á upplýsingum um vöruúrval og verðupplýsingar á grófvörum þeim sem Múrbúðin hafði til sölu í verslun sinni að Smiðjuvegi í Kópavogi. Var þess beiðst að upplýsingar þessar yrðu veittar munnlega.

 

2) Á hendur ákærða Kenneth, sem vörustjóra í timbursölu Húsasmiðjunnar, fyrir tilraun til verðsamráðs, er hafði það að markmiði eða af því leiddi að komið yrði í veg fyrir samkeppni eða henni yrði raskað milli Húsasmiðjunnar og Múrbúðarinnar og þannig, beint eða óbeint, reynt að hafa áhrif á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör fyrirtækjanna með sérgreindar grófvörutegundir, með því að hafa 15. október 2010, í símtali sem stóð yfir í 3 mínútur og 43 sekúndur, frá klukkan 8:55, reynt að fá starfsmann Múrbúðarinnar til þess að skiptast á upplýsingum um vöruúrval og að fá verðupplýsingar um grófvörur þær sem Múrbúðin hafði til sölu í verslun sinni að Smiðjuvegi í Kópavogi. Var þess beiðst að upplýsingar þessar yrðu veittar munnlega.

 

3) Á hendur ákærða Júlíusi Þór, sem vörustjóra Húsasmiðjunnar, fyrir tilraun til verðsamráðs, er hafði það að markmiði eða af því leiddi að komið yrði í veg fyrir samkeppni eða henni yrði raskað milli Húsasmiðjunnar og Múrbúðarinnar og þannig, beint eða óbeint, reynt að hafa áhrif á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör fyrirtækjanna með sérgreindar grófvörutegundir, með því að hafa 15. október 2010, í símtali er stóð yfir í 2 mínútur og 16 sekúndur, frá klukkan 10:45, reynt að fá starfsmann Múrbúðarinnar, til þess að skiptast á upplýsingum um vöruúrval og verðupplýsingum um grófvörur þær sem Múrbúðin hafði til sölu í verslun sinni að Smiðjuvegi í Kópavogi. Var þess beiðst að upplýsingar þessar yrðu veittar munnlega og sérstaklega tiltekið að ekki ætti að senda þær með tölvupósti.

VI.

Heimfærsla til refsiákvæða

Brot samkvæmt I. kafla ákæru

Brot ákærðu teljast varða við a.-lið 2. mgr. 41. gr. a, sbr. 1. mgr., samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. 4. gr. laga um breytingu á samkeppnislögum nr. 52/2007, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr., laga nr. 44/2005.

Brot samkvæmt II. kafla ákæru

Brot ákærðu teljast varða við a-lið 2. mgr. 41. gr. a, sbr. 1. mgr., samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. 4. gr. laga um breytingu á samkeppnislögum nr. 52/2007, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr., laga nr. 44/2005.

Brot samkvæmt III. kafla ákæru

Brot ákærðu teljast varða við a-lið 2. mgr. 41. gr. a, sbr. 1. mgr., samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. 4. gr. laga um breytingu á samkeppnislögum nr. 52/2007, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr., laga nr. 44/2005.

Brot samkvæmt IV. kafla ákæru

Brot ákærðu Steingríms Birkis og Júlíusar Þórs samkvæmt lið 1) teljast varða við a- og d-lið 2. mgr. 41. gr. a, sbr. 1. mgr., samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. 4. gr. laga um breytingu á samkeppnislögum nr. 52/2007, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 44/2005.

Brot ákærða Z samkvæmt lið 2) telst varða við a-lið 2. mgr. 41. gr. a, sbr. 1. mgr., samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. 4. gr. laga um breytingu á samkeppnislögum nr. 52/2007, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 44/2005, sbr. 6. mgr. 41. gr. a sömu laga, sbr. 4. gr. laga um breytingu á samkeppnislögum nr. 52/2007, sbr. 4. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Brot samkvæmt V. kafla ákæru

Brot ákærðu teljast varða við a-lið 2. mgr. 41. gr. a, sbr. 1. mgr., samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. 4. gr. laga um breytingu á samkeppnislögum nr. 52/2007, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 44/2005, sbr. 6. mgr. 41. gr. a sömu laga, sbr. 4. gr. laga um breytingu á samkeppnislögum nr. 52/2007, sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

VII.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Með framhaldsákæru útgefinni 14. janúar sl.  var ofangreindri ákæru breytt þannig:

„Að breyta verður ákæru útgefinni 23. apríl 2014 á hendur Steingrími Birki Björnssyni, kennitala [...], Lómasölum 41, Kópavogi, Leifi Erni Gunnarssyni, kennitala [...], Baugakór 14, Kópavogi, Stefáni Inga Valssyni, kennitala [...], Bakkaseli 35, Reykjavík, Ragnari Má Amazeen, kennitala [...], Seljugerði 9, Reykjavík, Stefáni Árna Einarssyni, kennitala [...], Lindarflöt 38, Garðabæ, Y, kennitala [...], [...], [...], X, kennitala [...], [...], [...], Guðmundi Loftssyni, kennitala [...], Viðarrima 23, Reykjavík, Kenneth Breiðfjörð, kennitala [...], Gnoðarvogi 24, Reykjavík, Júlíusi Þór Sigurþórssyni, kennitala [...], Vallartröð 2, Kópavogi, Z, kennitala [...], [...], [...], og Þ, kennitala [...], [...], [...], með eftirfarandi hætti:“

„Í I. kafla á bls. 3, í ákærulið 7) Verðsamráð 29. október 2010, í 2. mgr., í stað textans „Stefán Inga“ komi textinn „Steingrím Birki“.

     Í I. kafla á bls. 3, í ákærulið 8) Verðsamráð 4. nóvember 2010, í 2. mgr., fellur á brott 2. málsliður, þ.e. eftirfarandi texti: „Í texta tölvubréfsins ritaði ákærði Ragnar Már eftirfarandi texta: „Ekki fengust uppgefin verð frá Múrbúðinni““. Í 3. mgr. sama ákæruliðar, í stað „15:43“, komi textinn „15:57“ og við bætist fyrir aftan 1. málslið svofelldur texti: „Í texta tölvubréfsins ritaði ákærði Leifur Örn eftirfarandi texta: „Ekki fengust uppgefin verð frá Múrbúðinni““.

     Í I. kafla á bls. 5, í ákærulið 13) Verðsamráð 16. desember 2010, í 2. mgr., bætist við á eftir orðinu „heitið“ eftirfarandi greinarmerkjahluti og orð: „„Verðkönnun“. 

     Í II. kafla á bls. 8, í ákærulið 3) Verðsamráð 29. október 2010, í 2. mgr., í stað textans „Stefán Inga“ komi textinn „Steingrím Birki“.

     Í II. kafla á bls. 8, í ákærulið 4) Verðsamráð 4. nóvember 2010, í 2. mgr., fellur á brott 2. málsliður, þ.e. eftirfarandi texti: „Í texta tölvubréfsins ritaði ákærði Ragnar Már eftirfarandi texta: „Ekki fengust uppgefin verð frá Múrbúðinni““. Í 3. mgr. sama ákæruliðar bætist fyrir aftan 1. málslið svofelldur texti: „Í texta tölvubréfsins ritaði ákærði Leifur Örn eftirfarandi texta: „Ekki fengust uppgefin verð frá Múrbúðinni““.

     Í II. kafla á bls. 9, í ákærulið 9) Verðsamráð 21. janúar 2011, í 2. mgr., í stað „16:46“ komi textinn „11:23“.“

                Ákærðu mættu allir fyrir dóminn við þingfestingu málsins og neituðu allir sök. Var málinu frestað til 26. júní 2014 til framlagningar yfirlits sækjanda málsins um þau málskjöl sem byggja ætti aðallega á við aðalmeðferð málsins þar sem framlagður skjalafjöldi rannsóknargagna var um sex þúsund blaðsíður. Í því þinghaldi var veittur frestur til framlagningar greinargerðar ákærðu til 20. nóvember 2014. Á þeim degi voru greinargerðir lagðar fram. Ákærði Æ krafðist frávísunar málsins frá dómi og fór flutningur um þá kröfu fram þann 4. desember 2014. Var sú krafa tekin til greina með úrskurði  undirréttar uppkveðnum 10. desember sl., þar sem ákæru á hendur honum var vísað frá dómi. Var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 844/2014 þann 9. janúar sl. Hófst aðalmeðferð þann 11. febrúar 2015 og var lokið 27. febrúar 2015. Var málið dómtekið að henni lokinni. Kröfðust allir ákærðu sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.

B.

Málsatvik.

Málsatvik eru þau að sumarið 2010 réð BYKO Ragnar Má Amazeen til starfa í þjónustuveri sínu til þess m.a. að sjá um verðkannanir hjá samkeppnisaðilum en hann hafði fyrir þann tíma starfað hjá fyrirtækinu. Voru niðurstöður verðkannana færðar inn í sérstakt excel-skjal sem útbúið hafði verið í þeim tilgangi. Virðist enginn vita hvaðan skjalið upphaflega kom en á því voru gerðar breytingar eftir þörfum. Voru niðurstöður verðkannana hjá BYKO sendar sem fylgiskjal í tölvupósti til yfirmanna BYKO og ýmist til sölustjóra eða vörustjóra eftir atvikum. Samkvæmt því sem fram kom undir rekstri málsins var verðkönnunum í fyrstu hagað þannig að hringt var í samkeppnisaðila, ýmist með nafnleynd eða ekki, og spurt um verð á fáum vöruflokkum. Þá hafi tilboð að undirlagi BYKO verið fengin hjá Húsasmiðjunni til að sjá verð þeirra svo og öfugt. Þá voru einnig starfsmenn í þjónustuveri Húsasmiðjunnar til að svara fyrirspurnum svo og var hlutverk þeirra að gera verðkannanir og var sérstakt excel-skjal útbúið í þeim tilgangi þar sem verð samkeppnisaðila voru færð inn á. Þegar fram liðu stundir voru starfsmenn BYKO og Húsasmiðjunnar farnir að þekkja hvor annan þegar svarað var og virðast samtöl þeirra rétt fyrir rannsókn málsins hafa verið á vinsamlegum nótum þannig að þeir gáfu upp verð hjá hvor öðrum. Í flestum tilfellum var hringt frá BYKO í Húsasmiðjuna samkvæmt þeim símtölum sem byggt er á í málinu. Á árinu 2007 var verslunin Úlfurinn stofnaður í þeim tilgangi að flytja inn ódýrt byggingarefni. Aðallega voru það tveir skólar sem var viðfangsefni Úlfsins en á árinu 2010 var lítil sem engin velta hjá fyrirtækinu og engin sala. Var fyrirtækið úrskurðað gjaldþrota á árinu 2011. Á árinu 2010 hóf Múrbúðin innflutning á svokallaðri grófvöru og opnaði sérstaka deild um þann rekstur. Var Múrbúðin því komin í samkeppni við BYKO og Húsasmiðjuna á byggingarmarkaði með grófvöru. Þann 21. október 2010 og 3. nóvember 2010 voru haldnir fundir hjá Samkeppniseftirlitinu þar sem eigandi og starfsmaður Múrbúðarinnar tjáðu Samkeppniseftirlitinu að tilraunir hafi verið gerðar af hálfu BYKO og Húsasmiðjunnar til að fá Múrbúðina með sér í verðsamráð. Í kjölfar hafi þeir ákveðið að kæra BYKO og Húsasmiðjuna fyrir lögbrot.

Þann 21. október 2010 og 3. nóvember 2011 voru haldnir fundir hjá Samkeppniseftirlitinu með starfsmönnum Múrbúðarinnar ehf., en þeir starfsmenn tilkynntu um tilraunir starfsmanna Húsasmiðjunnar og BYKO til að fá starfsmenn Múrbúðarinnar í samstarf um verðsamráð.

Þann 30. nóvember 2010 kærði Samkeppniseftirlitið til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjórans meint verðsamráð tíu starfsmanna BYKO hf. og Húsasmiðjunnar. Með viðbótarkæru þann 23. febrúar 2011 kærði Samkeppnisstofnun átta starfsmenn Húsasmiðjunnar og BYKO til viðbótar til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra fyrir meint verðsamráð og aftur með kæru þann 7. mars 2011 voru fimm starfsmenn BYKO, Húsasmiðjunnar, og einn starfsmaður Úlfsins, kærðir fyrir meint verðsamráð til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Í kjölfar hófst rannsókn lögreglu á meintu samráði. Voru símhleranir heimilaðar með dómsúrskurðum, fyrst þann 3. febrúar 2011 og síðast 7. mars 2011. Þá voru húsleitir heimilaðar með dómsúrskurðum 7. mars og 13. október 2011 hjá Húsasmiðjunni. Þann 24. apríl 2012 var rannsókn hætt eða mál felld niður hjá embætti sérstaks saksóknara á hendur fjórtán aðilum sem kærðir voru upphaflega til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og fengu þeir ásamt fleirum réttarstöðu vitnis.

Samkvæmt gögnum málsins voru skýrslur teknar af vitnum 8. og 14. mars 2011 og síðan ekki fyrr en í júní 2013. Skýrslur af ákærðu voru teknar 8. og 14. mars 2011 og síðan ekki fyrr en í mars til júní 2013. Engar skýrslur voru teknar af tveimur ákærðu fyrr en í desember 2013. Virðist rannsókn málsins, samkvæmt þessu, vera lokið í júní 2013 en ákæra var gefin út á hendur þrettán aðilum þann 23. apríl 2014. Eins og segir að ofan var máli á hendur einum ákærða vísað frá dómi.

C.

Bein og óbein sönnunargögn.

Í gögnum málsins liggja fyrir hljóðupptökur af símtölum ákærðu ásamt endurriti af þeim, sem lögregla hlustaði á á tímabilinu 4. febrúar. til 13. mars 2011. Skrá yfir símtöl starfsmanna BYKO, Húsasmiðjunnar, verslunarinnar Úlfsins og Múrbúðarinnar á tímabilinu 4. ágúst 2010 til 9. mars 2011 liggur fyrir í málinu en þar er um fjölda símtala að ræða.

Þá liggur fyrir fjöldi tölvuskeyta ákærðu og vitna þar sem fram koma upplýsingar varðandi verðkannanir. Fjöldi tölvuskeyta milli starfsmanna BYKO ásamt niðurstöðum í verðkönnunum liggur fyrir. Auk þess liggur fyrir fjöldi tölvuskeyta milli starfsmanna Húsasmiðjunnar með ýmsum fyrirspurnum um verð Húsasmiðjunnar á ýmsum vöruflokkum svo og upplýsingar eða fyrirspurnir um verð samkeppnisaðila. Þá eru upplýsingar sem sýna tilraunir nokkurra ákærðu til að fá upp verð á ákveðnum vöruflokkum hjá Múrbúðinni. Að auki liggja fyrir afrit excel-skjala frá BYKO og Húsasmiðjunni þar sem starfsmenn skráðu niður verð samkeppnisaðila og eigin verð til samanburðar og ýmist afhentu sínum yfirmönnum eða sendu rafrænt með tölvupósti ásamt athugasemdum sendanda.  Efnisinnihald og tilvísanir til þeirra tölvuskeyta sem byggt er á í málinu er ýmist rakið í ákæru eða í skýrslutökum fyrir dómi.

Ráðningarsamningar ásamt starfslýsingum nokkurra ákærðu liggja fyrir svo og skjöl varðandi fyrirhugað skipulag BYKO sem og afrit fundargerða. Þá liggja fyrir skipurit BYKO og Húsasmiðjunnar.

D.

Skýrslur fyrir dómi.

Ákærði Steingrímur Birkir Björnsson.

Ákærði kom fyrir dóminn og neitaði sök í öllum ákæruliðum en mótmælti því ekki að sú háttsemi sem lýst er í ákærunni hafi átt sér stað. Ákærði kvaðst hafa starfað sem framkvæmdastjóri fagsölusviðs hjá BYKO á ákærutímabilinu. Það svið hafi heyrt undir SER forstjóra og EK aðstoðarforstjóra, sem hafi verið yfirmenn ákærða. Fyrir þann tíma hafi ákærði verið framkvæmdastjóri byggingarsviðs seint á árinu 2007 til 2010, sem hafi verið víðtækara og fleiri deildir þar undir. Ákærði sé menntaður viðskiptafræðingur. Hann hafi haft náið samstarf við yfirmenn sína en lítil samskipti við stjórn félagsins. Skipurit fyrir BYKO var borið undir ákærða sem hann kvað vera rétt. Ákærði kvað launakjör sín á þessum tíma ekki hafa verið árangurstengd því að allir bónusar hafi verið afnumdir á þessum tíma og eftir bankahrunið. Skjal um hlutverk, markmið, stefnu og ábyrgð fagsölusviðs  BYKO var borið undir ákærða. Ákærði kvaðst hafa samið þetta skjal, sennilega í ágúst 2010 þegar breytingar voru gerðar á skipuriti félagsins. Þetta skjal hafi ekki verið kynnt starfsmönnum eða undirmönnum ákærða, enda hafi skjalið breyst í meðförum framkvæmdastjórnar áður en kynning á skipulagsbreytingunum voru kynntar í heild sinni.

Ákærukafli I.

Ákærði neitaði sök í þessum ákærukafla og mótmælti því að sú háttsemi sem þar sé lýst hafi verið framin að undirlagi hans eða fyrirmælum. Aðspurður kvað ákærði verðkannanir almennt hafa heyrt undir vörustjórnunarsvið en af gamalli venju hafi það verið gert í deild 150 sem sé timbursala sem þá hafi heyrt undir EK og SER. Verðkannanir hafi ekki verið á ábyrgð ákærða en hann hafi farið yfir þær og skoðað þær þegar þær bárust honum. Nauðsynlegt hafi verið að vita stöðu fyrirtækisins gagnvart samkeppnisaðilum. Í skjalinu „Hlutverk, markmið, stefna og ábyrgð Fagsölusviðs Byko“,  sé liður sem kallist „Markaðsvakt“, en í því felist að framkvæma reglulegar verðkannanir hjá samkeppnisaðilum BYKO, fylgjast með breytingum á starfsemi þeirra, innkomu nýrra samkeppnisaðila eða nýrra vara og miðla þeim upplýsingum. Ákærði kvaðst kannast við þetta en verið sé að vísa til verðkannana sem hafi verið gerðar um árabil. Það hafi verið hugmynd ákærða að verðkannanir yrðu á ábyrgð fagsölusviðs en það hafi ekki komið fram eftir meðferð stjórnar og ekki verið kynnt þannig eftir breytingar stjórnar. Verðkannanir hafi heyrt undir vörustjórnunarsvið en verið framkvæmdar áfram í timbursölunni. Þá hafi ákærði einnig stundum beðið menn um að láta framkvæma verðkannanir. Ákærði kvað verðkannanir hafa átt að vera gerðar þannig að hringja átti út í samkeppnisaðila til að útvega verðlistaverð. Ákærði hafi ekki lagt neinar línur um það á þessum tíma, hann hafi gert það löngu áður. Verð hafi þá verið kannað á þann máta að spurt hafi verið um nokkrar vörur eða tilboðs leitað í einhvern pakka en ákærði hafi komist að því eftir að málið var kært að verðkannanir hafi farið fram með þeim hætti sem liggur fyrir í málinu. Það hafi verið VJ og Ragnar Már sem hafi sinnt verðkönnunum. Ákærði kvaðst ekki hafa átt sérstakt samstarf við þá og ákærði Ragnar Már hafi ekki verið undirmaður ákærða á ákærutímabilinu. Framburður ákærða Ragnars Más, um að hann hafi litið á ákærða Steingrím sem sinn yfirmann, var borinn undir ákærða. Kvað ákærði það hafa breyst sumarið 2010 en ákærði hafi ekki verið hans næsti yfirmaður eftir það. Ákærði hafi verið framkvæmdarstjóri þeirrar deildar sem ákærði Ragnar Már starfaði hjá sumarið 2010. Ákærði kvað sér hafa verið kunnugt um að verðkannanir hafi verið framkvæmdar eins oft og raun var en vörunúmerin hafi ekki verið mörg í heildarmyndinni. Kvað ákærði að verðlista hafi verið hægt að sækja til viðkomandi samkeppnisaðila fara til þeirra og spyrja um verð. Þessar vörur séu ekki verðmerktar í hillum og því sé ekki hægt að kanna verðið eins og í matvöruverslun. Þetta hafi því verið langfljótasta og skilvirkasta aðferðin. Eflaust hafi verið hægt að fá verðin á internetinu en ákærða minnti, haft eftir meðákærða Leifi, að það hafi verið mjög tafsamt að leita eftir verði á heimasíðu Húsasmiðjunnar en ákærði hafi ekki kannað það sérstaklega sjálfur. Ákærði kvaðst ekki vita hvers vegna þessir vöruflokkar hafi valist í verðkönnunarskjalið en þetta hafi verið helstu vörurnar í grófvöru.

Ákæruliður 1.

Ákærði kvaðst hafa vitað um það að verðkannanir fóru í gegnum síma og reiknaði með því að þannig væri framkvæmdin í flestum tilvikum. Um einstök tilvik kvaðst ákærði ekki hafa vitað sérstaklega. Tölvupóstur ásamt verðkönnun frá 14. september 2010 var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir tölvupóstinum sérstaklega. Skjalið hafi verið notað til að sjá stöðu BYKO á samkeppnismarkaði en hann vissi ekki hvernig skjalið hafi verið notað að öðru leyti. Aðspurður um fyrirspurn frá SER um það hvort þeir eigi að bregðast við verði á 25x150 mm hjá Húsasmiðjunni, kvað ákærði þetta einhverjar bollalengingar frá SER en ákærði viti ekki hvað átt hafi verið við. Ákærði gerði ráð fyrir að þarna hafi verið einhver verðmunur sem hafi komið fram í verðkönnun en hann gæti ekki fullyrt hvort eitthvað annað hafi haft áhrif, hann vissi það ekki. Ákærði hafi hins vegar fengið mjög mikið af pósti frá vitninu KV þar sem hann hafi tilkynnt um verðbreytingar vegna hækkana frá birgjum. Þá kvað ákærði verðbreytingar ekki hafa átt sér stað á grundvelli verðkannana eingöngu heldur ef breytingar urðu á innkaupskostnaði, gengi eða flutningskostnaði. Verðkönnun hafi hins vegar verið höfð til hliðsjónar.

Ákæruliður 2.

Tölvupóstur frá Stefáni Inga Valssyni til ákærða og fleiri frá 23. september 2010 var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst hafa fengið þann póst en hann myndi ekki sérstaklega eftir honum. Þar komi fram, í fyrri tölvupóstsendingu frá ákærða til KV og fleiri, fyrirspurn um það hvort þeir eigi ekki að lækka gipsið um einhverjar krónur. Ákærði gerði ráð fyrir því að BYKO hafi ekki verið lægstir í þessari vöru og gerði ákærði ráð fyrir að það væru örfá vörunúmer um að ræða. Fyrirtækið hafi verið með verðverndarstefnu í gangi og reiknaði ákærði með að það væri ástæðan fyrir þessu. Líklegt sé að verðkönnunin hafi þá verið höfð til hliðsjónar.

Ákæruliður 3.

Tölvupóstur frá Stefáni Inga Valssyni til ákærða, KV og SER var borinn undir ákærða en með honum fylgdi verðkönnun 30. september 2010. Ákærði kvaðst ekki muna sérstaklega eftir umræðu um þennan póst.

Ákæruliður 4.

Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa hugmynd um hvers vegna vörutegundum sem kannaðar voru fjölgaði. Tölvupóstur frá Ragnari Má til ákærða og Leifs Arnar frá 8. október 2010, þar sem einnig kemur fram að þeirra verð séu komin inn, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessum tölvupósti.

Ákæruliður 5.

Tölvupóstur frá Stefáni Inga Valssyni til ákærða, KV og SER, verslunarstjóra BYKO, EK og BF ásamt verðkönnun í fylgiskjali, frá 15. október 2010, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna hvað hafi verið gert með þessar upplýsingar í framhaldi.

Ákæruliður 6.

Tölvupóstur frá Stefáni Inga Valssyni til ákærða, KV og SER ásamt verðkönnun í fylgiskjali, frá 22. október 2010, var borinn undir ákærða en þar komi fram að Múrbúðin hafi ekki gefið upp verð. Ákærði kvaðst ekki muna hvað hafi verið gert með þessar upplýsingar í framhaldi. Tölvupóstur frá SER til ákærða, Stefáns Inga, KV og EK, ásamt verðkönnun í fylgiskjali, frá 22. október 2010, var borinn undir ákærða en þar koma fram hugleiðingar um að hækka verð á því timbri sem þeir geti. Þá er einnig spurt hvort þeir nái niður í verð Múrbúðarinnar. Ákærði kvaðst ekki muna hvað hafi verið gert með þessar upplýsingar í framhaldi.

Ákæruliður 7.

Tölvupóstur ásamt verðkönnun frá 29. október 2010 frá Ragnari Má til ákærða og Leifs Arnar sama dag var borinn undir ákærða en þar kemur fram að Úlfurinn sé ekki inni í þeirri verðkönnun og það sé vonlaust að fá verð frá þeim í gegnum síma. Ákærði kunni engar skýringar á þessum pósti en taldi að meðákærði Leifur hafi verið að lagfæra excel-skjalið eftir Ragnar Má. 

Ákæruliður 8.

Tölvupóstur frá Leifi Erni til Stefáns Inga ásamt verðkönnun í fylgiskjali, frá 4. nóvember 2010, var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði ekki muna sérstaklega eftir þessum pósti, enda pósturinn ekki sendur til hans.

Ákæruliður 9.

Tölvupóstur frá SER til ákærða ásamt verðkönnun í fylgiskjali, frá 19. nóvember 2010, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna hvað hafi verið gert með þessar upplýsingar í framhaldi en taldi líklegt að einhverju hafi verið breytt í kjölfarið. Tölvupóstur frá KV til ákærða, Stefáns Inga og SER, ásamt verðkönnun í fylgiskjali, frá 24. nóvember 2010, var borinn undir ákærða en þar kemur fram í efni skjalsins að verðbreyting frá síðustu verðkönnun sé frágengin. Ákærði kvaðst ekki muna hvað hafi verið gert með þessar upplýsingar í framhaldi.

Ákæruliður 10.

Tölvupóstur frá Stefáni Inga Valssyni til ákærða, KV og SER, EK, sölustjóra og verslunarstjóra, ásamt verðkönnun í fylgiskjali, frá 26. nóvember 2010, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu sérstaklega. Tölvupóstur frá KV til ákærða og Stefáns Inga frá 26. nóvember 2010 var borinn undir ákærða. Ákærði mundi ekki eftir þessum pósti sérstaklega né efni póstsins. 

Ákæruliður 11.

Ákærði neitaði að þetta væri að hans undirlagi.

Ákæruliður 12.

Tölvupóstur frá Stefáni Inga Valssyni til ákærða, KV og SER, EK, sölustjóra og söludeildar BYKO ásamt verðkönnun í fylgiskjali, frá 10. desember 2010, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst hafa fengið póstinn og verðkönnunina. Fundargerð frá 13. desember 2010, þar sem ákærði, Leifur Örn, og tveir aðrir starfsmenn voru mættir, var borin undir ákærða. Ákærði taldi örugglega að hann hafi fengið þessa fundargerð senda en slíkir fundir höfðu verið haldnir mánaðarlega á timbursviðinu. Hafi verið ákveðið að bæta vörutegund inn í verðkönnunina og hafi framkvæmdin verið hjá meðákærða Leifi. 

Ákæruliður 13.

Tölvupóstur milli Stefáns Inga Valssonar, Ragnars Más, ákærða, KV, SER, EK og sölustjóra ásamt verðkönnun í fylgiskjali, frá 16. desember 2010, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu sérstaklega. Tölvupóstur frá ákærða til SER, Stefáns Inga Valssonar og KV ásamt verðkönnun í fylgiskjali frá 17. desember 2010 var borinn undir ákærða. Í þeim pósti koma fram spurningar hvort þeir eigi að hækka pallaefni um 10% en Húsasmiðjan sé 15% dýrari auk spurningar um hvert verðið sé á steinull frá Múrbúðinni. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessum tölvupósti sérstaklega.

Ákæruliður 14.

Tölvupóstur frá Stefáni Inga Valssyni til EK ásamt verðkönnun í fylgiskjali frá 21. janúar 2011 var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði ekki kannast við hann. Tölvupóstur samdægurs frá KV til ákærða, sölustjóra, o.fl., ásamt sömu verðkönnun, var borinn undir ákærða. Kannaðist ákærði ekki við þann tölvupóst. Tölvupóstur frá BF til SER, ákærða og EK, frá 31. janúar 2011, var borinn undir ákærða en þar kemur m.a. fram spurning um hvort þetta gefi ekki tilefni til verðhækkunar og það strax, ekki veiti af til að ná upp framlegð. Þá er einnig spurt hvort ekki þurfi að gera eina ítarlegri verðkönnun með mun fleiri vöruliðum. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu og vissi ekki til hvers var verið að vísa með orðunum „verðhækkun eða ítarlegri verðkönnun“. Væntanlega væri verið að biðja einhvern á vörustjórnunarsviði að hækka eða lækka vöru en hann taldi þetta óvanalegt þar sem Stefán Ingi væri ekki á því sviði.  Þá var ákærði inntur eftir efnisinnihaldi í tölvupósti frá 14. janúar 2011 frá ákærða þar sem fram kemur hvort þeir eigi ekki bara að halda sig við sama verðmun og hafi verið áður en „þeir“ hækkuðu og leyfa þeim að leiða þessa hækkun. Ákærði kvaðst ekki vita til hvers var verið að vísa en um grófvöru væri að ræða. Varðandi að „leyfa þeim að leiða þessa hækkun“ kvaðst ákærði gerða ráð fyrir að „þeir“ eða Húsasmiðjan hafi verið á undan að hækka verðið. Tölvupóstur frá SER á „Fundur BYKO“ frá 14. janúar 2011 ásamt skjali sem bar heitið „Hvernig ætlum við að ná framlegðarmarkmiðum okkar fyrir 2011“ var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði ekki muna eftir þeirri umræðu.

Ákæruliður 15.

Tölvupóstur frá Stefáni Inga Valssyni til SER, KV og ákærða með fylgiskjali, merkt verðkönnun frá 21. janúar 2011, var borinn undir ákærða en þar kemur fram fyrirspurn um hvort þeir eigi ekki að laga í hvelli verðið á þeim spónaplötum sem séu dýrari hjá BYKO en þeim. Kvaðst ákærði ekki muna eftir þessu sérstaklega en taldi að hann hafi viljað vera með lægra verð en samkeppnisaðilarnir. Tölvupóstur frá SER til Stefáns Inga, KV og ákærða, var borinn undir ákærða, þar sem m.a. kemur fram að SER sjái að Húsasmiðjan sé miklu ódýrari en þeir í plast- og borðplötum og séu þeir með það á sérverði, Spyr SER hvort þeir eigi ekki að gera nákvæmari verðkönnun og þá líka hvað varðar sólbekkina og færa það í sérverð ef Húsasmiðjan sé ódýrari en þeir. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu skjali en örugglega væri verið að vísa með „SV“ í sérverð BYKO. 

Ákæruliður 16.

Tölvupóstur frá Ragnari Má til Leifs Arnar, Stefáns Inga Valssonar og ákærða frá 28. nóvember 2011 með athugasemdinni að Úlfurinn svari ekki, vikugömul verð séu hjá honum, líklega óbreytt, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna hvað hafi verið gert með þær upplýsingar.

Ákæruliður 17.

Tölvupóstur frá Ragnari Má til ákærða, Stefáns Inga og Leifs Arnar með verðkönnun í fylgiskjali frá 4. febrúar var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir því skjali né hvað hafi verið gert með það. Borinn var undir ákærða tölvupóstur frá ákærða til Stefáns Inga Valssonar og KV þann 4. febrúar með athugasemdinni að samkvæmt verðkönnun Ragnars þá séu þeir aðeins hærri í fjórum tegundum spónaplatna og hvort BYKO eigi ekki að lækka undir þá. Þeir þurfi kannski að gera aðeins víðtækari könnun, svo og tölvupóstur frá KV til ákærða og Stefáns Inga Valssonar 5. febrúar 2011 með athugasemd um að þeir skuli lækka sig strax á mánudagsmorguninn og KV sjái um það. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu sérstaklega. Með „víðtækari könnun“ kvaðst ákærði vera að vísa til spónaplatna. KV hafi lagt til að lækka þær strax á mánudeginum og líklegt að það sé á grundvelli verðkönnunar en ákærði kvaðst ekki hafa fylgst með því.

Ákæruliður 18.

Tölvupóstur frá Ragnari Má til Stefáns Inga og ákærða þann 10. febrúar 2011 ásamt verðkönnun í fylgiskjali var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði ekki muna  hvað hafi verið gert með þessar upplýsingar.

Ákæruliður 19.

Tölvupóstur frá Ragnari Má til ákærða þann 18. febrúar 2011 ásamt verðkönnun í fylgiskjali og athugasemdum um að hún sé klár, svo og tölvupóstur sama dag frá ákærða til Stefáns Inga og KV ásamt verðkönnun í fylgiskjali og athugasemdum um að þetta sé orðinn mikill munur víða, og hvenær þeir hafi eiginlega hækkað, var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði örugglega hafa fengið þennan tölvupóst en mundi ekki eftir honum. Upplýsingar sem þar komi fram séu örugglega byggðar á verðkönnun en hann mundi ekki hvað var gert í framhaldi. Borinn var undir ákærða tölvupóstur frá ákærða til „FramlBYKO“ þann 18. febrúar 2011 ásamt athugasemd þar sem vísað er til meðfylgjandi verðkönnunar og segir að Húsasmiðjan sé búin að hækka verð á grófri vöru. Þar sé um talsverða hækkun að ræða miðað við síðustu verðkönnun og spyr ákærði hvort þeir þurfi ekki að ræða þetta á fundinum á eftir. Kvaðst ákærði ekki muna eftir þessu en tölvupósturinn kæmi sannanlega frá honum. Fundargerð framkvæmdastjórnarfundar þann 18. febrúar 2011 þar sem á dagskrá var m.a. verðkannanir var borin undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir því um hvað var rætt á fundinum en fannst líklegt að tekin hafi verið ákvörðun um að hækka verð í skrefum. Í fyrra tölvubréfinu hafi verið vísað til meðfylgjandi verðkönnunar og að Húsasmiðjan hafi verið búin að hækka verð á grófri vöru. Sú verðkönnun hafi örugglega verið höfð til hliðsjónar. Tölvupóstur frá KV til ÞS í BYKO þann 18. febrúar 2011, þar sem fram kom að SER hafi fengið bakþanka og vilji framkvæma verðhækkanir í nokkrum skrefum og því þurfi KV að biðja ákærða að hækka útsöluverð á nokkrum vöruflokkum um 4,5%, einn vöruflokk um 2,5% og annan vöruflokk um 10%, var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði ekki muna eftir þessu. Þá var tölvupóstur frá KV til níu verslunarstjóra í BYKO, sölustjóra, ákærða, EK, Stefáns Inga, PA, ásamt fylgiskjali sem bar heitið „Verðhækkanir á timbri og kambstáli 18.02.211“ og athugasemd um að verðhækkanir á timbri og kambstáli verði framkvæmdar eftir lokun þann sama dag, auk þess sem móttakendur voru beðnir um að taka niður viðkomandi verðlista sem liggi frammi hjá þeim og prenta út nýja daginn eftir, auk þess að verðhækkanirnar séu mismunandi eftir vöruflokkum og séu tilkomnar vegna hækkunar frá birgjum þeirra, borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði ekki muna eftir þessum pósti en taldi rétt að verðhækkanir hafi verið vegna verðhækkana frá birgjum eins og fram kæmi í póstinum.

Ákæruliður 20.

Símtal á milli ákærða og Leifs Arnar, þar sem ákærði bað Leif um að láta gera verðkönnun, var borið undir ákærða. Ákærði kvað Leif örugglega hafa látið framkvæma verðkönnun að beiðni ákærða. Í símtalinu komi fram að það hafi átt að bæta við tegundum. Ákærði mundi ekki eftir því. Aðspurður um hvað ákærði meinti með „Vatnslímdar og standard“ kvaðst ákærði hafa viljað hafa nákvæmari verðkannanir en taldi að þetta símtal hafi verið einstakt. Ákærði mundi ekki í hvaða tilefni hann hafi beðið um þetta en taldi að legið hafi fyrir hækkun frá birgjum. Hafi það ekkert haft með verð Húsasmiðjunnar að gera en verðkönnun hafi verið höfð til hliðsjónar. Tölvupóstur frá STS til Æ frá 4. febrúar 2011 svo og tölvupóstur frá Leifi Erni þann sama dag til STS, þar sem Leifur biður STS um að láta Æ klára fyrir sig þessa verðkönnun um leið og hann komi, og „þá bara fyrir Húsasmiðjuna; taka eigi út öll gömlu verðin en það væri beðið eftir þessu og bæta þurfi í þetta fleiri spónaplötum en séu í skjalinu, fleiri þykktir og allar gerðir“, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst þekkja Æ en minntist þess ekki að hann hafi beðið hann um verðkönnun. Tölvupóstur frá Leifi Erni til „9Group“, KV, SER, EK og ákærða, Stefáns Inga, sölustjóra BYKO og verð@Byko.is frá 28. febrúar 2011, ásamt verðkönnun í fylgiskjali, var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði ekki muna eftir þessum tölvupósti. Símtal við Leif Örn frá sama degi var borið undir ákærða. Kvaðst hann ekki hafa velt fyrir sér hvernig upplýsinganna við verðkannanir hafi verið aflað. Tölvupóstur frá ÞS til KV með efnisheitinu „Hækkun á útsöluverði“ þann 28. febrúar 2011 var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna sérstaklega eftir þessum tölvupósti. Borinn var undir ákærða tölvupóstur frá KV til söludeildar byggingarsviðs, sölumanna í timburdeild, aðstoðarverslunarstjóra, sölustjóra, ákærða, EK og PA, með tilkynningu um hækkun um 5-10% á völdum vöruflokkum eftir lokun þann daginn og að hækkunin væri vegna hækkana frá birgjum, og kvað ákærði það örugglega vera réttar upplýsingar. 

Ákæruliður 21.

Tölvupóstur frá Ragnari Má til ákærða og Stefáns Inga Valssonar ásamt verðkönnun í fylgiskjali frá 3. mars 2011 með athugasemdinni „Tilbúið“ var borinn undir ákærða. Kvaðst hann ekki muna sérstaklega eftir þessu. Tölvupóstur sendur af ákærða til KV, Stefáns Inga Valssonar og Leifs Arnar, með athugasemdinni hvort þeir eigi ekki að hætta að bera saman birkikrossvið eins og þeir hafi alltaf gert, var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði ekki muna eftir þessu sérstaklega. Skjal sem ber yfirskriftina „Hvernig eigum við að ná framlegðarmarkmiðum okkar fyrir 2011“ var borið undir ákærða og þá  sérstaklega liður þar sem segir eftirfarandi: „PAND og hans fólk er að fara yfir allar vörur og hækka eftir því sem hægt er miðað við „árangurríka verðlagningu“ (hækka og/eða lækka) og líka almennt hækka eftir verðkönnunum PAND“. Ákærði kannaðist við skjalið og kvað tilganginn hafa verið að bæta rekstrarafkomuna og nauðsynlega hafi þurft að gera eitthvað til að laga stöðuna en kvað þennan lið í skjalinu hafi verið ætlaðan PA og ekki snerta ákærða. 

Símtal milli ákærða og meðákærða Leifs frá 10. mars 2011var borið undir ákærða. Ákærði kvað að eftir fyrri yfirheyrslur lögreglu hafi verið talið ámælisvert af hálfu rannsóknaraðila hvernig verðkannanir voru gerðar og því hafi ákærði farið fram á að því vinnulagi sem viðhaft hefði verið yrði hætt og fyrri aðferðir teknar upp. Hægt hafi verið að fara á netið en það hafi verið óvinnandi vegur. Ákærði kvað þetta hafa farið fram á of vinalegum nótum. Aðspurður kvaðst ákærði aldrei hafa kannað með hvaða hætti verðkannanir voru gerðar á þessum tíma. Tæknilega séð hafi þær ekki verið á ábyrgð ákærða en hann hafi aldrei talið að þær væru framkvæmdar á rangan hátt. Ákærði kvaðst hafa beðið ákærða Leif að gera verðkannanir á annan hátt en hafði verið og framkvæma þær eins og í „den“. Ákærði kvaðst hafa talið að starfsmenn hafi haft nokkuð frjálsar hendur við aðferðir við verðkannanir.

Ákærukafli II.

Ákærði taldi atvikalýsingu rétta í þessum ákærulið en kvaðst lítið hafa vitað um að upplýsinga væri aflað frá Úlfinum og hafi hann ekki verið sérstaklega upplýstur um það.

Ákæruliður 2.

Ákærði kvað háttsemina ekki hafa verið samkvæmt hans fyrirmælum. Þá vissi ákærði ekki hvað hafi verið gert með upplýsingar frá Úlfinum.

Ákæruliðir 3-1. voru bornir undir ákærða. Ákærði kvaðst ekkert vita um þá háttsemi sem þar sé lýst né hvað hafi verið gert með þær upplýsingar. 

Símtal þar sem Ragnar Már ræðir við ónefndan starfsmann Úlfsins var borið undir ákærða, en í því kemur fram að Ragnar Már segist vera að selja á sérverði plötur, og eiga sér stað samræður um framleiðendur og verð. Ræða þeir m.a. um lágt verð í stórum tilboðum sem ákærðu Stefán Ingi og Steingrímur hafi með að gera. Þá spyr ákærði Ragnar Már hvort þeir hafi eitthvað verið að breyta verðum. Ákærði kvað sér ekki hafa verið kunnugt um að samskipti starfsmanns BYKO og samkeppnisaðila hafi verið á þennan hátt og hafi það komið ákærða á óvart. Þá hafi ekki verið lagt upp með slíka framkvæmd.  Skjal um hlutverk, markið, stefnu og ábyrgð var borið undir ákærða. Kvaðst ákærði halda að um sé að ræða kynningu á skipulagsbreytingum á fyrirtækinu 2010. Ákærði kvað forstjóra, SER, hafa verið sinn yfirmann. KV hafi verið vörustjóri á vörustjórnunarsviði og séð um innkaup og dreifingu í búðir. Ákærði hafi verið fagstjóri fagsölusviðs og undir það heyri sérvörur o.fl. Ákærði kvaðst hafa fengið verðkannanir sendar í tölvupósti til sín eftir að þær höfðu verið framkvæmdar. Vörustjóri hafi mest haft með verðkannanir að gera þar sem vöruverð sé á hans ábyrgð. SER hafi gjarnan skipt sér af verði til að standa undir verðvernd sem BYKO hafi staðið fyrir. Til að geta staðið við verðvernd verði að hafa skilvirkar verðkannanir til að miða við. Skilvirkasta leiðin hafi verið að hringja og kanna verð. Auk þess hafi verið hægt að fara á staðinn og sækja verðlista eða fara á heimasíður samkeppnisaðila en það taki miklu lengri tíma. Ákærði kvað verðlista hafa legið frammi í timburversluninni hjá BYKO og vissi ekki annað en að Húsasmiðjan hafi einnig verið með sambærilega verðlista í verslunum sínum. Ákærði kvað verðbreytingar hafa verið á hendi KV. Ákærði taldi að það hafi verið hlutverk meðákærða Leifs Arnar að láta framkvæma verðkannanir. Aðspurður um að meðákærði Leifur hafi fengið fyrirmæli um að láta verðkannanir fara fram, kvað ákærði það rétt. Ef Leifur hafi ekki verið við þá hafi aðstoðarverslunarstjóri látið framkvæma þær ef ósk um það hafi komið fram. Ákærði kvað Leif ekki hafa haft neinar heimildir til að breyta verðum.

                Ákærði kvaðst ekki hafa vitað um stöðu Úlfsins á samkeppnismarkaði. Sú verslun hafi í huga ákærða ekki skipt miklu máli á markaðnum. Tölvupóstur frá Ragnari Má til Stefáns Inga, Leifs Arnar og ákærða frá 4. febrúar 2011 ásamt verðkönnun í fylgiskjali var borinn undir ákærða. Í því skjali kemur fram verðmunur Úlfsins og BYKO en þar sé mínus á öllum samanburðarverðum. Ákærði kvað verðmun í gipsi vera lítinn en krossviður væri mjög erfiður í samanburði. Það gæti skýrt verðmuninn. Taldi ákærði litla áherslu hafa verið lagða á verð Úlfsins. Þessi verðmunur væri hins vegar ekki í samræmi við verðverndina. Tölvupóstur frá Ragnari Má til Leifs Arnar, Stefáns Inga og Steingríms frá 28. janúar, ásamt verðkönnun í fylgiskjali og athugasemdum um að  „Úlfurinn svari ekki, vikugömul verð séu hjá honum og líklega óbreytt“, var borinn undir ákærða.  Ákærði kvaðst ekki geta svarað fyrir efni póstsins og kvaðst ekki hafa spáð í það hvers vegna verðkönnun hjá Úlfinum hafi komið inn í október 2010. Ákærði kvað, aðspurður um verðkannanir sem komu frá meðákærða Ragnari Má, þær hafa verið hafðar til hliðsjónar við verðlagningu hjá BYKO. Þá taldi ákærði að verðlistar sem lægju frammi væru prentaðir út eftir þörfum ef þeir kláruðust eða ef verð breyttust. Ákærði kvað verðkannanir ekki hafa verið á hans könnu á fagsölusviði en þær væru fyrst og fremst skjal fyrir vörustjóra, þ.e. KV og Stefán Inga, og þeir hafi viljað hafa sig með í ráðum varðandi verðbreytingar. Aðspurður um það hversu mikið vægi þær vörur í veltu grófvörudeildar hefðu haft, sem voru í verðkönnunarskjalinu, kvaðst ákærði ekki geta svarað því en  kvað þær vörur sem voru í verðkönnunum hafa verið þverskurður yfir vörur í grófvörum og þarna hafi verið vörur sem hafi skipt máli.

Ákærukafli IV.

Símtal milli ákærða og meðákærða Júlíusar, starfsmanns Húsasmiðjunnar, þann 28. febr. 2011 var borið undir ákærða. Aðspurður kvaðst ákærði hafa borið ábyrgð á tilboðsgerð grófvöruhluta BYKO, m.a. átt að leggja línurnar til annarra starfsmanna. Kvað ákærði þetta símtal hafa verið vanhugsað en tilgangur ákærða með þessu símtali hafi verið að afvegaleiða Húsasmiðjuna með röngum upplýsingum. Tilgangurinn hafi verið að fá Húsasmiðjuna til að breyta verðum sínum í ljósi upplýsinga frá ákærða. Þær upplýsingar hafi hins vegar verið alrangar og ekki átt við neitt að styðjast. T.d. hafi 4% hækkun átt að fara fram á einu ári en ekki nokkrum vikum. 4% hafi bara verið einhver tala sem hann hafi slegið fram en um framlegð hafi verið að ræða. Aðspurður um það hvað „hjaðningavíg“ hafi þýtt, kvað ákærði það þýða að slást blóðugum slag. Aðspurður um að ætla að „handstýra tilboðsgerð“, kvað ákærði það hafa verið rangt hjá sér, þeir hafi verið fjórir sem hafi stýrt tilboðsgerð. Ákærði kvaðst ekki hafa upplýst neinn um þetta símtal sitt. Kvað ákærði umfjöllunina um rekstur verslananna á Selfossi og Akureyri hafa verið alranga frá sinni hálfu. Ákærði kvaðst hafa talið að Júlíus hafi ekkert haft með tilboð að gera en Júlíus hafi sennilega verið eini maðurinn sem ákærði hafi verið málkunnugur í Húsasmiðjunni á þessum tíma. Aðspurður hvað ákærði hafi meint með því að „draga vagninn“  kvað ákærði það þýða að sá sem dragi vagninn hafi verið á undan með verðhækkanir. Ákærði var inntur eftir því hvað hann hafi meint með því að „slást á eðlilegum nótum“. Kvaðst ákærði hafa samþykkt ýmislegt í símtali þessu án þess að hafa hugsað út í það. Aðspurður um að „hækka levelið“, kvaðst ákærði hafa meint þessi 2%. Með því að tiltaka tvisvar sinnum 2% kvaðst ákærði hafa ætlað að leika á meðákærða Júlíus. Ákærði var inntur eftir því hvað hann hafi átt við með orðunum „ég vona að þú merkir þetta“, og kvaðst ákærði hafa verið að vísa til þess að tilboð fari á milli verslana. Aðspurður um það hvað ákærði hafi meint með orðunum „þið hafið ekki gott af þessu“,  kvað ákærði það vera einhverja vitleysu af sinni hálfu. Aðspurður um „græna efnið“ kvað ákærði það vera gagnvarið timbur. Þá sé vísað í valvöru í símtalinu og kvað ákærði það vera parket, flísar, innihurðir o.fl. Það séu aðrar vörur en grófvörur. Ákærði fullyrti að hann hafi aldrei hringt slíkt símtal áður. Á þessum tíma hafi reksturinn verið mjög erfiður. Tölvupóstur frá ákærða til EK, ásamt fundargerð frá 25. febrúar 2011, og framlegðarátak í tilboðsgerð var borið undir ákærða en þar kemur fram  að það þurfi að hækka framlegð um 1-2% frá og með 1. mars 2011. Ákærði kvaðst kannast við þessa umræðu. Ákærði kvað 1,5% hækkun hafa verið ákveðna á árinu. Tölvupóstur frá 25. og 28. febr. 2011, þar sem rætt sé um framlegðarátak í tilboðum mars 2011, var borinn undir ákærða og hann inntur eftir því hvort þessi tölvupóstur tengdist símtalinu við meðákærða Júlíus. Kvað ákærði að þetta framtak hafi átt að standa allt árið. Tölvupóstur frá Leifi Erni Gunnarssyni til JÓ, Ragnars Más, V, VJ, VM og VBA frá 1. mars 2011 var borinn undir ákærða en þar sé vísað til þess að þeir muni eflaust fá tilkynningu frá ákærða síðar þann dag þess efnis að öll tilboð sem fari yfir vissa upphæð muni fara í gegnum ákærða og Stefán Inga. Ákærði kvaðst hafa sent þennan tölvupóst sjálfur en tilgangurinn með símtalinu hafi verið að gefa villandi upplýsingar. Taldi ákærði að textinn í tölvupóstinum væri frá meðákærða Leifi. Tölvupóstur frá SP á hópa ásamt fundargerð framkvæmdarstjórafundar þann 1. mars 2011 var borinn undir ákærða en þar komi fram í lið 3, verðhækkanir, lið 4. verðkannanir og lið 7, framlegðarmál. Ákærði kvað umræðu þessa fundar ekki hafa tengst símtalinu við Júlíus. Tölvupóstur frá Leifi Erni þann 1. mars 2011 til JS, Leifs Arnar, Ragnars Más, STS, VJ, VM og VB, ásamt fylgiskjali um framlegðarátak í tilboðum í mars ásamt athugasemdum um að þeir fari eftir þessu í einu og öllu, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst muna eftir þessum pósti en átakið hafi verið lengi í bígerð. Tölvupóstsamskipti frá 2. mars 2011 milli ákærða og SP, þar sem kemur fram að þeir séu að hræra í ansi mörgum breytum núna, hækka útsöluverð, vöruhúsaálag, reyna að hækka einingaverð í tilboðsgerð, að rætt hafi verið um 1,5% og að öll sala fari ekki í gegnum tilboðsgerð hjá þeim og að 1,5% hafi verið það sem þeir ræddu um, voru borin undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna sérstaklega eftir þessum pósti. Kvað ákærði niðurstöðuna hafa verið 1,5% hækkun og sagði að ekki hafi verið uppi hugmyndir um að gera þetta tvisvar sinnum eins og hann hafi sagt í símtalinu. Símtal frá 2. mars 2011 var borið undir ákærða og hann inntur eftir því hvort það væri ekki í samræmi við símtalið við meðákærða Júlíus, en þá hringdi ákærði í SIG, sölumann BYKO á Selfossi. Bað ákærði SIG að hækka sig eins og hann gæti og senda upplýsingar um það til ákærða. Þá lagði hann fyrir SIG að taka ákvörðun, stundum verði að „brjóta reglurnar“. SIG ætti síðan að senda tilboðið til umsagnar til ákærða. Þetta snúist um að fá Húsasmiðjuna til að hækka sig svo að þeir þurfi ekki að vera á þessum verðum. Kvað ákærði þetta bara hafa verið einhverjar tölur sem hann nefndi, enda hafi hann sagt að engar reglur giltu. Aðspurður um að senda hafi átt ákærða tilboð yfir ákveðinni fjárhæð til samþykkis, kvað ákærði þá hafa sett upp nýtt eftirlitskerfi sem þeir hafi verið að vinna eftir. Aðspurður um tilefni símtals ákærða við SIG kvað ákærði það hafa verið vegna fyrirspurnar frá SIG um fyrirkomulag á tilboðsafsláttum. Tölvupóstur frá 4. mars 2011 frá SER til ákærða, þar sem fram kemur að heldur virðist framlegðarprósenta vera að hækka, var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði ekki muna eftir þessu sérstaklega. Aðspurður hvort þessi tölvupóstur tengdist verðhækkunum, kvað ákærði þetta tengjast mörgum þáttum sem hafi haft áhrif á batnandi framlegð. Aðspurður hvort hann hafi verið að vísa til undanfarinna daga eða undanfarinna vikna, kvað ákærði klárlega sig vera að vísa til undanfarinna vikna. Ákærði kvað fjóra starfsmenn hafa fengið tölvupóst um að fjórir starfsmenn hafi átt að fara yfir tilboð sem hafi verið yfir 250.000 krónur. EK og BF hafi átt að sjá um verslunarhlutann og ákærði og Stefán Ingi hafi átt að sjá um grófvöruhlutann. Fundargerð framkvæmdastjórnarfundar frá 1. mars 2011, þar sem fjallað sé m.a. um verðkannanir og fram komi að þeir séu undir í flestum flokkum sem ákærði skoði og bregðist við, var borin undir ákærða. Ákærði lýsti þessu svo að SER hafi viljað að BYKO væri lægst í listaverði og því hafi þurft að lækka einhverjar vörur. Aðspurður um það hvort Júlíus myndi taka mark á upplýsingum ákærða í símtalinu, kvaðst ákærði ekki hafa getað vitað hver hans viðbrögð yrðu.

Ákærði Leifur Örn Gunnarsson.

Ákærði kom fyrir dóminn og neitaði sök í öllum ákæruliðum en kvaðst geta staðfest þá háttsemi sem tilgreind er í ákæru. Hann hafi starfað sem verslunarstjóri timburverslunardeildar BYKO. Sú deild hafi fallið undir grófvörusvið. Starf hans hafi falist í almennum rekstri timburverslunarinnar, m.a. mannahaldi. Ákærði hafi hafið störf sem gjaldkeri árið 1999 og verið þar til ársins 2003. Þá hafi ákærði farið í nám og sé með BA gráðu í lögfræði. Ákærði hafi aftur hafið störf hjá BYKO árið 2007 á sviði sem hét Tæknisölusvið, sem hafi þá séð um stærri sölur. Ákærði hafi byrjað sem verslunarstjóri árið 2008. Yfirmenn hans hafi verið Steingrímur Birkir Björnsson sem framkvæmdastjóri byggingarsviðs í byrjun en árið 2010 hafi staða ákærða flust undir EK sem hafi verið framkvæmdastjóri verslunarsviðs og aðstoðarforstjóri. Ákærði hafi þrátt fyrir það litið á meðákærða Steingrím Birki sem sinn yfirmann þar sem mikil samvinna hafi verið á milli þessara deilda. Ákærði hafi verið með mannaforráð yfir um þrjátíu manns í byrjun en eftir hrunið hafi þurft að fækka mönnum. Ákærði Ragnar Már hafi verið undirmaður ákærða en KI hafi verið samstarfsmaður sinn og hafi ákærði þá verið kominn í starfið hans en KI hafi þá heyrt tæknilega beint undir meðákærða Steingrím. Ákærði og meðákærði Ragnar Már hafi verið með skrifstofur á sömu hæð í starfstöð BYKO.

Ákærði kvað verðkönnun hafa heyrt undir sig en hún hafi verið stunduð á þeim tíma er ákærði hóf störf og hún hafi haldið áfram í rútínu eftir það. Aðspurður kvaðst ákærði ekkert hafa haft með verðkannanirnar að gera en Ragnar Már hafi séð um þær með því að hringja og fá uppgefin verð. Í hverja hann hringdi vissi ákærði ekki og kvaðst hafa haft lítinn áhuga á þessu. Þá kvað ákærði þá hafa getað náð í verð í gengum heimasíðu Húsasmiðjunnar en heimasíða þeirra hafi verið mjög slæm og því tekið mjög langan tíma að afla verðupplýsinga eftir þeim leiðum. Auk þess hefðu þeir getað farið í verslanir til að ná í uppgefna verðlista. Öruggasta leiðin hafi verið að hringja því að það sé aldrei öruggt að rétt verð sé í verðlistum eða á netinu.

Ákærukafli I.

Ákæruliður 1.

Ákærði kvaðst ekki muna hvort sú verðkönnun, sem þar sé ákært fyrir, hafi verið gerð að fyrirmælum ákærða, hann hafi yfirleitt ekki skipt sér af þeirri framkvæmd. Tölvupóstur frá Ragnari Má til ákærða og Stefáns Inga þann 13. september 2010, þar sem verðkönnun fylgdi með í fylgiskjali og sú athugasemd kom fram að þeirra verð væru komin inn, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessum tölvupósti sérstaklega. Aðspurður af hvaða tilefni hann hafi fengið þennan tölvupóst sendan kvaðst ákærði vera næsti yfirmaður Ragnars Más og samkvæmt goggunarröðinni fái hann afrit þessara pósta. Eina sem ákærði hafi gert hafi verið að kanna hvort Stefán Ingi eða Steingrímur Birkir hafi einnig fengið póstinn og ef ekki þá hafi ákærði áframsent póstinn til þeirra. Ákærði hafi ekki beðið um það persónulega að könnunin væri gerð. Kvað ákærði verðkannanir hafa verið skoðaðar af framkvæmdastjórn en ákærði hafi ekkert haft með verðbreytingar að gera og hann hafi lítinn áhuga haft á þessum verðkönnunum. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa veitt því sérstaka athygli að símanúmer starfsmanna Húsasmiðjunnar hafi verið inni í excel-skjalinu sem verðin voru færð inn á. Aðspurður sérstaklega kvaðst ákærði ekki hafa komið að því að búa til excel-skjalið sem unnið var með af hálfu Ragnars Más fyrir utan að laga villur í formúlum, sem ákærði Ragnar Már eyddi kannski út óvart, og að setja inn dálk fyrir Múrbúðina að beiðni Steingríms Birkis en það sé eina aðkoma hans að skjalinu.  Aðspurður um „TB“ og „SV“ í excel-skjalinu, kvað ákærði það standa fyrir tilboðsverð og sérverð sem bæru ekki neinn afslátt. Ákærði kvaðst ekki hafa fylgst með því hvort einhverjar verðbreytingar hafi orðið hjá BYKO eftir verðkannanir.

Ákæruliður 2.

Ákærði kvað þessa verðkönnun ekki hafa verið að fyrirmælum ákærða, enda hafi hún verið í vissri rútínu. Hafi ákærði Ragnar Már ekki verið við þá hafi ákærði ekki látið framkvæma verðkönnun nema ákærði hafi fengið sérstök fyrirmæli þar um. Tölvupóstur frá Ragnari Má til ákærða og Stefáns Inga ásamt verðkönnun frá sama degi var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu sérstaklega. Ákærði kvaðst gera ráð fyrir því að hann hafi lesið póstinn, hann geri það yfirleitt. Ákærði kvaðst ekki hafa verið viðstaddur verðkönnunina og ekki vita hvort eða hvernig hún hafi verið nýtt í framhaldi.

Ákæruliður 3.

Kvað ákærði sömu svör eiga við og við fyrri ákæruliði. Kannaðist ákærði við að hafa fengið tölvupóst sem byggt var á í þessum ákærulið.

Ákæruliður 4.

Tölvupóstur frá Ragnari Má til ákærðu Steingríms Birkis og Leifs Arnar frá 8. október 2011, þar sem verðkönnun fylgdi með þeim athugasemdum að „þeirra verð væru komin inn“, var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði hafa fengið þann póst. Sömu svör eigi við og að ofan.

Ákæruliður 5.

Tölvupóstur frá ákærða til meðákærða Ragnars Más ásamt verðkönnun var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna hvers vegna hann hafi sent það skjal á Ragnar Má. Þar hafi verið búið að taka út öll verð en Ragnar Már hafi oft skemmt skjöl og ákærði þá þurft að laga formúlur. Taldi ákærði að það ætti við í þessu tilviki. Tölvupóstur frá Ragnari Má til ákærða og Stefáns Inga þann 15. október 2011 þar sem verðkönnun, „frumskjal“, fylgdi með sem fylgiskjal ásamt athugasemd um að „þeirra verð væru komin inn“, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu sérstaklega né hvað sé verið að leiðrétta.

Ákæruliður 6.

Tölvupóstur frá Ragnari Má til Stefáns Inga og ákærða frá 22. október 2010, ásamt verðkönnun og athugasemdum um að „Múrbúðin hafi aldrei tíma til að gera verð og Úlfurinn sé með sömu verð og í síðustu viku“, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessum pósti en hann hafi ekki velt því fyrir sér hvernig þessara upplýsinga hafi verið aflað þegar hann sá bréfið en hann hafi vitað að Ragnar Már hafi hringt og aflað verða.

Ákæruliður 7.

Tölvupóstur frá Ragnari Má til Steingríms Birkis og ákærða frá 29. október 2010, ásamt verðkönnun í fylgiskjali og athugasemdum um að „Úlfurinn sé ekki inni í þessari könnun, það sé vonlaust að fá verð hjá þeim í gegnum síma, tómar afsakanir, hafi ekki tíma og svo framvegis“, var borinn undir ákærða.  Kvaðst ákærði ekki hafa velt þessum pósti neitt sérstaklega fyrir sér en það kæmi fram að meðákærði Ragnar Már hafi fengið upplýsingarnar í gegnum síma. Tölvupóstur frá ákærða til Steingríms Birkis og Ragnars Más frá 29. október 2010, ásamt verðkönnun í fylgiskjali og þeim athugasemdum að þar komi „rétt skjal, línur hafi færst til í fyrra skjalinu“, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu sérstaklega en taldi að Ragnar Már hafi skemmt skjalið og ákærða sennilega verið bent á það og ákærði lagað skjalið. Ákærði gæti þó hafa séð skemmdirnar sjálfur þegar hann opnaði skjalið, hann væri fljótur að sjá slíkar villur.

Ákæruliður 8.

Tölvupóstur frá ákærða til Stefáns Inga, ásamt verðkönnun frá sama degi og þeirri athugasemd að „ekki fengjust uppgefin verð frá Múrbúðinni“, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessum pósti. Þá mundi ákærði ekki á hverju hann byggði þá vitneskju sem standi í skjalinu. Upplýsingarnar hafi sennilega komið frá Ragnari Má eða öðrum sem gæti hafa gert verðkönnunina. Æ hafi t.d. gert eina könnun þegar Ragnar Már var veikur en þá hafi verið ýtt á ákærða með að láta framkvæma verðkönnun.

Ákæruliður 9.

Tölvupóstur frá Ragnari Má til Stefáns Inga og Leifs Arnar frá 19. nóvember 2010, ásamt verðkönnun og athugasemdum um að „óbreytt verð sé hjá Úlfinum og hann hafi hringt í G í Múrbúðinni, sem hafi sagt Ragnari Má að hringja í BB en hann svari ekki sína“, var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði ekki muna eftir þessum pósti. Varðandi starfsmann Múrbúðarinnar, sem nefndur sé í póstinum, kvaðst ákærði ekki muna eftir því hvenær hringt hafi verið í þá en Múrbúðin hafi þá verið að opna grófvörudeild. Það hafi því átt að gera verðkönnun hjá þeim. Tölvupóstur frá ákærða til Stefáns Inga, ásamt skjali sem ber heitið „VERÐK.Rétt xlsx“ og þeirri athugasemd að „þar fylgi skjalið rétt og formúlur hafi verið að leita upplýsinga í rangar línur fyrir Úlfinn“, var borinn undir ákærða. Ákærði mundi ekki eftir þeim pósti sérstaklega en hann hafi líklega verið að leiðrétta eða laga skjalið.

Ákæruliður 10.

Tölvupóstur frá Stefáni Inga Valssyni til Steingríms Birkis, KV, SER, EK, sölu- og verslunarstjóra BYKO, frá 26. nóvember 2010, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessum pósti.

Ákæruliður 11.

Kvað ákærði sama svar eiga við þennan ákærulið og að ofan.

Ákæruliður 12.

Tölvupóstur frá Ragnari Má til Stefáns Inga og ákærða frá 2. desember, ásamt verðkönnun í fylgiskjali og þeim athugasemdum að það hafi orðið „smá breytingar hjá Úlfinum en þeirra verð séu komin inn“, var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði greinilega hafa fengið póstinn. Fundargerð verslunarstjórafundar frá 13. desember 2010 var borin undir ákærða. Ákærði kvað þessa fundi hafa í raun verið hjá grófvörusviði og hafi Steingrímur Birkir, KV og ákærði mætt á þessa fundi og farið yfir stöðuna. Aðspurður um þá bókun að bæta þyrfti fleiru inn í verðkönnunina, kvað ákærði það ekki vera á hans könnu að ákveða slíkt. Steingrímur Birkir hafi yfirleitt gefið sér fyrirmæli um það hvort einhverjar breytingar hafi átt að gera á verðkönnunum.

Ákæruliður 13.

Tölvupóstur frá ákærða til Ragnars Más, ásamt verðkönnun í fylgiskjali frá 16. desember 2010, var borinn undir ákærða. Kvaðst hann  hafa sent umræddan póst og líklega hafi hann verið að bæta inn línum eða laga breytingar á excel-skjalinu. Aðspurður um breytingar á vöruliðum í verðkönnunum, kvað ákærði vöruliði stundum hafa dottið út eða nýja vöruliði koma inn og sé það skýringin á því að fjölgun eða fækkun hafi orðið á vöruliðum í skjalinu. Ákærði kvaðst ekkert hafa haft með það að gera hvort slíkar breytingar urðu en ákærði hafi ekki breytt þessu skjali nema að beiðni. Tölvupóstur sendur sama dag frá Ragnari Má til Stefáns Inga og ákærða, ásamt verðkönnun og athugasemdum um að „óbreytt verð væri hjá Úlfinum og að hann hafi talað við G en Múrbúðin væri að bjóða Brasilíukrossvið 122x244 cm á 2800 krónur plötuna“, var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði ekki muna sérstaklega eftir þessu.

Ákæruliður 14 og 15.

Kvað ákærði sama svar eiga hér við þannig að háttsemin hafi ekki verið að hans undirlagi eða ákvörðun.

Ákæruliður 16.

Tölvupóstur frá Ragnari Má til ákærða, Stefáns Inga Valssonar og Steingríms Birkis þann 28. janúar 2011, ásamt verðkönnun í fylgiskjali og athugasemdum um að „Úlfurinn svari ekki og vikugömul verð séu frá honum, líklega óbreytt“, var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði ekki muna eftir skjalinu.

Ákæruliður 17.

Í þeim ákærulið segir að ákærðu Ragnar Már og Guðmundur Loftsson hafi veitt hvor öðrum upplýsingar. Ákærði kvaðst ekki hafa orðið var við neinar breytingar á verðum í kjölfar þessarar verðkönnunar. Tölvupóstur frá 4. febrúar 2011 frá Ragnari Má til Stefáns Inga og ákærða, sendur í framhaldi af ofangreindu símtali ásamt verðkönnun, var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði kannast við tölvupóstinn.

Ákæruliður 18.

Kvaðst ákærði ekki taka neina afstöðu til þessa ákæruliðs.

Ákæruliður 19.

Kvaðst ákærði ekki taka neina afstöðu til þessa ákæruliðs.

Ákæruliður 20.

Borið var undir ákærða símtal milli Steingríms Birki og ákærða þann 28. febrúar 2011, þar sem Steingrímur Birkir biður ákærða um að láta gera verðkönnun ef hún hafi ekki þegar verið gerð eða kláruð. Það þurfi að klára hana sem fyrst því að þeir séu sennilega að fara að hækka plöturnar. Ákærði kvaðst geta látið Æ í að gera verðkönnunina þar sem aðrir starfsmenn væru ekki tiltækir. Ákærði kvaðst hafa litið á þessa beiðni Steingríms Birkis sem fyrirmæli og því sent póst á aðstoðarverslunarstjóra sinn með beiðni um að láta gera þessa könnun. Ákærði hafi sent tölvupóst á STS í framhaldi þar sem hann hafi beðið hann um að láta Æ klára fyrir sig þessa verðkönnun um leið og hann komi. „Bara kanna Húsasmiðjuna og taka út öll gömlu verðin, það sé beðið eftir þessu“. „Bæta þurfi í þetta fleiri spónaplötum en séu í skjalinu, fleiri þykktir og allar gerðir“. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað hvernig þessi verðkönnun fór fram utan að það hafi átt að hringja til að fá upp verð. Tölvupóstur frá Æ til ákærða þann 28. febrúar 2011 ásamt verðkönnun í fylgiskjali var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði ekki muna eftir bréfinu sérstaklega en Æ hafi sent sér verðkönnunina og ákærði sent hana áfram í framhaldi. Ákærði hafi ekkert gert við verðkönnunina sem slíka. Tölvupóstur frá ákærða til KV, SEE, Steingríms Birkis, sölustjóra og verð@byko.is þann 28. febrúar 2011 ásamt verðkönnun var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu sérstaklega en það sé áframsending á verðkönnuninni. Ákærði mundi ekki hvers vegna hann hafi sent könnunina á alla þessa aðila. Hann hafi ekki verið vanur að senda slíkt á verslunarstjóra eða vörustjóra og þá mundi ákærði ekki eftir því hvers vegna hann hafi sent forstjóra fyrirtækisins verðkönnunina.

Ákæruliður 21.

Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa látið framkvæma verðkönnunina og neitaði að hún hafi verið gerð að hans undirlagi. Tölvupóstur frá Steingrími Birki til KV, Stefáns Inga Valssonar og ákærða þann 3. mars 2011, ásamt verðkönnun í fylgiskjali og þeim athugasemdum hvort „þeir eigi ekki að hætta að bera saman þennan birkikrossvið eins og þeir geri alltaf“, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu skjali sérstaklega.

Ákærði kvað Steingrím Birki, yfirmann sinn, hafa hringt í sig og  sagt sér að hætta að láta gera verðkannanir á sama hátt og viðhafður var eftir að þetta mál kom upp heldur láta hringja í fimm númer í hverjum vöruflokki, helst með númeraleynd, eins og gert hafi verið í „den“, tvö þrjú símtöl og að taka líka verðin á netinu. Ákærði kvaðst hafa ákveðið að hunsa þessi fyrirmæli Steingríms Birkis og engar verðkannanir hafi verið framkvæmdar innan hans deildar eftir þetta. Aðspurður kvaðst ákærði hafa haft valdheimildir til að ákveða það. Ef ákærði hefði óskað eftir því að undirmenn hans breyttu aðferðum sínum, þá hefði verið farið eftir því. Aðspurður kvað ákærði verðkannanirnar hafa verið framkvæmdar þegar hann hóf störf og ekki ætlað annað en að hringt væri út og verð fengin hjá samkeppnisaðilanum og hann ekki talið sig þurfa að fylgjast með því sérstaklega. Ákærði kvaðst ekki geta sagt til um það hvort þær hafi verið á hans ábyrgð eða ekki, þetta hafi bara verið hluti af hans starfi á þessum tíma.

Ákærukafli II.

Ákærði neitaði því að sú háttsemi sem lýst er í ákæruliðnum væri að hans undirlagi eða að hans beiðni. Verðkannanir hafi verið framkvæmdar í rútínu og hafi ekki þurft að biðja um þær í hvert sinn. Ákærði kvað rétt að ákærði Ragnar Már hafi gert þá verðkönnun sem lýst er í ákærulið 1 og að versluninni Úlfinum hafi verið bætt við á listann sem hafður var til hliðsjónar við verðkönnunina. Taldi ákærði að meðákærði Steingrímur Birkir eða forstjórinn hafi lagt til að bæta Úlfinum í verðkönnunina. Ákærði kvaðst ekki þekkja til hvaða vöruúrval hafi verið hjá þeirri verslun né hver hafi sett tiltekin vörunúmer inn í skjalið. Ákærði kvað rétt að starfsmaður hjá sér hafi framkvæmt verðkönnunina samkvæmt almennum fyrirmælum. Ekki hafi þurft að biðja um það sérstaklega, verðkannanir hafi verið gerðar á þessum tíma. Skjal með heitinu „BYKO Fagsölusvið, hlutverk, markmið, stefna og ábyrgð“ var borið undir ákærða og liður í skjalinu undir heitinu „Markaðsvakt“ var borinn undir ákærða. Ákærði kannaðist ekki við „Markaðsvaktina“ sem komi fram í skjalinu. Ákærðu Steingrímur Birkir og Stefán Ingi hafi heyrt undir fagsölusvið, sem allar verðkannanir hafi verið framsendar til, en verðkannanirnar hafi verið framkvæmdar á timbursölusviði þar sem þar hafi verið starfsmenn til að sinna þeim. Færri starfsmenn hafi verið á fagsölusviði. Verðkannanirnar hafi ekki verið nýttar í timbursöludeild. Ákærði mundi ekki til þess að í starfslýsingu hans sé tiltekið að verðkannanir heyri undir hann. Þá var liður í skjalinu undir heitinu „Innkoma á verslunarstjórnarfundi“ borinn undir ákærða. Ákærði taldi að hann hafi ekki setið þessa fundi og eigi tilvísun í þessum pósti ekki við ákærða. Ákærði kvað fundi, sem hann hafi haldið og höfðu yfirskriftina „verslunarstjórafundir“, hafa heitið það frá gamalli tíð en ákærði hafi verið eini verslunarstjórinn sem sat þá fundi timburverslunarinnar. Ákærði kvað engan almennan vettvang hafa verið til að ræða verðkannanir og mundi ákærði ekki til þess, né að rætt hafi verið um framkvæmd þeirra. Ákærði kvaðst hafa byrjað störf hjá BYKO árið 1999. Verðkannanir hafi þá verið byrjaðar en ákærði vissi ekki hvenær þær hófust. Ákærði hafi ekki þurft að hafa neina aðkomu að framkvæmd þeirra. Þá hafi ákærði ekki haft neinar heimildir til að ákveða verð né breyta verðum. Hann hafi ekki haft neitt um það að segja umfram aðra starfsmenn. Þeir sem hafi tekið ákvarðanir um verð hafi verið vöruflokkastjóri, framkvæmdastjóri og forstjóri. Ákærði kvaðst hafa fengið tilkynningar um verðbreytingar oftast frá KV sem vöruflokkastjóra og einnig munnlega og þá hafi KV sent tilkynningar til verslunarstjóra, þ. á m. ákærða. Þeir hafi verið með verðlistaskjal sem hafi þurft að breyta og prenta út aftur til að setja fram í sal hjá þeim en verðlistar hafi legið frammi fyrir alla. Ákærði kvaðst aldrei hafa hringt í samkeppnisaðila til að gera verðkönnun né svarað fyrirspurnum þeirra um slíkt. Ákærði kvaðst hafa vitað að verðkannanir voru framkvæmdar með þeim hætti að hringt var í einhvern aðila innan Húsasmiðjunnar sem gaf upp gildandi verðlistaverð á hverjum tíma. Aldrei hafi verið farið fram á að skipst væri á upplýsingum í slíkum samtölum og um það hafi ákærði ekki vitað. Ákærði kvaðst ekki hafa talið að Húsasmiðjan hafi framkvæmt verðkannanir á sama hátt og BYKO. Ákærði kvaðst halda að kerfi BYKO á vefnum hafi verið mun betra en kerfi Húsasmiðjunnar og því auðvelt að ná verðum BYKO af vefnum en það hafi hins vegar verið erfitt af vef Húsasmiðjunnar. Ákærði útskýrði að „afsláttarkjör“ væru sérkjör sem einstakir viðskiptavinir hafi fengið hjá BYKO og þau kjör væru aldrei upplýst. Væri þar helst um að ræða stóra verktaka. Það gæti verið allt annað verð en listaverð sem mátti nálgast á vefnum. Ákærði kvað meðákærða Steingrím Birki ekki hafa gefið sér fyrirmæli um framkvæmd verðkannana, það hafi ekki verið ástæða til að ræða framkvæmdina. Framburður ákærða Steingríms Birkis hjá lögreglu var borinn undir ákærða, þar sem haft er eftir Steingrími Birki að starfsmaður BYKO hafi hringt nafnlaust eða undir gervinafni í þjónustuver Húsasmiðjunnar og beðið um gervitilboð, sem innihaldi nokkrar grófvörutegundir. Það væri af og frá að alltaf væri hringt í tiltekinn sama starfsmann Húsasmiðjunnar. Steingrímur Birkir hafi neitað því að starfsmaður BYKO hafi hringt og kynnt sig sem starfsmann BYKO og þyldi upp lista á vörutegundum í þeim tilgangi að skiptast á verðum. Var þessi framburður Steingríms Birkis borinn undir ákærða. Ákærði hafi sagt hjá lögreglunni að verðkannanir hafi verið framkvæmdar eins og þær hafi verið gerðar fyrir þó nokkrum tíma síðan en Steingrímur Birkir hafi ekki komið nálægt framkvæmd kannana í mjög langan tíma. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessum framburði hjá lögreglu en hann hljóti að hafa sagt þetta. Ákærði kvað rétt að Steingrímur Birkir hafi hringt í sig eftir yfirheyrslur hjá lögreglunni og farið fram á að ákærði léti framkvæma verðkannanir eins og þær hafi verið gerðar í „den“, sem sé mun nær því og ákærði hélt að þær væru framkvæmdar. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað um stöðu verslunarinnar Úlfsins á markaði. Niðurstöður verðkannana frá 18. febrúar 2011 voru bornar undir ákærða þar sem fram kemur að verð Úlfsins er miklu lægra og óbreytt á milli mánaða. Ákærði kvaðst ekki geta svarað því hvort verð Úlfsins hafi skipt BYKO máli og ákærði hafi ekkert með eftirvinnslu verðkannana haft að gera.    

Ákærði Stefán Ingi Valsson.

Ákærði kom fyrir dóminum og neitaði sök í öllum ákæruliðum en kvað háttsemina sem tilgreind sé í ákæruliðum hafa átt sér stað. Kvaðst ákærði hafa starfað hjá Bykó á ákærutímabilinu sem sölustjóri fagsölusviðs. Hans hlutverk hafi verið að gera tilboð til verktaka og heimsækja þá og „sækja sölur“. Fagsölusvið hafi heyrt undir meðákærða Steingrím Birki. Ákærði kvaðst hafa starfað í þrjátíu ár hjá BYKO. Fyrir núverandi stöðu hafi hann verið sölustjóri timburverslunar, verslunarstjóri, verkstjóri og almennur starfsmaður. Yfirmaður ákærða hafi verið meðákærði Steingrímur Birkir og hafi þeir unnið náið saman. Ákærði hafi verið yfirmaður JS og GR. ÓS hafi tekið við af ákærða sem verslunarstjóri en meðákærði Leifur tekið við starfi ÓS. Þar áður hafi ákærði verið verslunarstjóri Leifs en ekki eftir að Leifur tók við stöðu ÓS. Ákærði hafi ekki verið yfirmaður meðákærða Ragnars Más og ekki getað gefið honum nein fyrirmæli.

Ákæruliður 15.

Skjal með heitinu „BYKO Fagsölusvið, hlutverk, markmið, stefna og ábyrgð“ var borið undir ákærða. Ákærði kannaðist ekki við skjalið. Kvað hann meðákærða Leif hafa séð um verðkannanir. Það eina sem ákærði hafi komið að þeim hafi verið að áframsenda þær að beiðni SER. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað hvernig verðkannanir fóru fram á grófvöru, nema að það hafi átt að hringja og fá verð. Ákærði kvaðst þó aldrei hafa spurst fyrir um það. Í því hafi verið starfsmaður og hafi hann fyllt út lista við það. Ákærði kvaðst ekki hafa útbúið excel-skjalið, en hann héldi að hún heiti ÁK, ritari framkvæmdarstjóra, sem hafi útbúið skjalið. Meðákærði Leifur hafi séð um að láta framkvæma verðkannanir. Ákærði kvaðst hafa rekið á eftir Leifi með að láta gera verðkannanir ef rekið hafi verið á eftir ákærða en hann taldi að aldrei hafi komið til þess. Taldi ákærði að verðkannanir hafi upphaflega verið þannig að hringt hafi verið úr leyninúmeri og verð kannað á fáum vörum en einhvern tímann hafi þetta breyst og engin umræða hafi átt sér stað um það. Taldi ákærði að hægt hefði verið að fá þessar upplýsingar í gegnum vefinn en hann hafi ekki staðreynt það. Ákærði hafi þó vitað að verið var að kanna yfir eitt hundrað vörunúmer á ákærutímabilinu. Tölvupóstur frá Ragnari Má til ákærða og Leifs Arnar, ásamt verðkönnun í fylgiskjali og athugasemdum um að þeirra verð væru komin inn, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst hafa fengið þennan tölvupóst til að senda á SER. Ákærði hafi örugglega kynnt sér verðin í fylgiskjalinu í leiðinni og ákærði kannaðist við vörunúmerin. Þessar vörur hafi ekki endilega verið vörur sem seldust mikið en ákærði hafi ekki vitað hvers vegna þessi vörunúmer hafi verið sett inn í skjalið. Ákærði kvað ÁK hafa hætt fyrir mörgum árum og ekki starfað á árinu 2010. Hún hafi því ekki breytt skjalinu á ákærutímabilinu. Aðspurður um bein símanúmer í skjalinu til starfsmanna Húsasmiðjunnar, kvaðst ákærði ekki þekkja þau. Tölvupóstur frá ákærða til Steingríms Birkis, KV og SER þann 13. september 2010 ásamt verðkönnun í fylgiskjali var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir skjalinu en hann hafi sent það á Steingrím Birki. Aðspurður kvaðst ákærði hafa breytt heiti á fylgiskjalinu þar sem hann hafi vistað verðkönnunina í tölvunni sinni. Ákærði hafi skoðað verðin í skjalinu. Ákærði kvaðst ekki hafa gert neitt með skjalið, ákærði hafi ekki getað breytt verðum en hann hafi getað látið skoðanir sínar í ljós við Steingrím Birki, SER og KV. Taldi ákærði að þeir hafi farið með skjalið fyrir framkvæmdastjórn sem hafi séð um verðbreytingar. Tölvupóstur frá KV til SER, ákærða og Steingríms Birkis þann 14. september 2010, með þeim athugasemdum að þeir „virðist ekki þurfa að SV merkja 25x150 miðað við söluna það sem af sé september, hins vegar sjái hann ekkert á móti því í sjálfu sér að gera það; Múrbúðinni virðist ganga afskaplega hægt með nýju timbursöluna“, var borinn undir ákærða ásamt fyrri tölvupósti sendum sama dag frá SER til Stefáns Inga Valssonar, Steingríms Birkis og KV þar sem SER spyr hvort þeir eigi að bregðast við verði á 25x150 mm hjá Húsasmiðjunni. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessum samskiptum eða „að bregðast við“ og vissi ekki hvað það þýddi og ákærði vissi ekki hver niðurstaðan hafi verið. KV hafi örugglega sent tilkynningu til þeirra ef hann hafi lækkað eða hækkað verð á vöru. Ákærði hafi ekki svarað þessum tölvupósti og hafi örugglega verið úti að selja. Ákærði kvað Steingrím Birki og SER hafa verið í framkvæmdarstjórn, KV hafi verið innkaupastjóri og ákærði sölustjóri og hafi því fengið sendar upplýsingar um hækkanir eða lækkanir en hann hafi aldrei tekið ákvarðanir um það. Þá kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa lagt slíkt til og farið hafi verið eftir því. Ákærði kvað að það hafi átt að gera verðkannanir vikulega og samkvæmt fyrirmælum SER hafi hann átt að senda SER þær vikulega. Ef SER hafi rekið á eftir verðkönnun hafi ákærði einnig gert það við sína undirmenn. Tölvupóstur frá Ragnari Má til Leifs Arnar og ákærða þann 23. september 2010, ásamt verðkönnun í fylgiskjali og athugasemd um að þeirra verð væru komin inn, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir póstinum en ákærði hafi átt að senda póstinn áfram. Tölvupóstur frá ákærða til Steingríms Birkis og KV þann 23. september 2010 ásamt verðkönnun í fylgiskjali var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir póstinum en kvaðst greinilega hafa sent hann. Nafnabreyting á viðhenginu sé vegna þess að ákærði hafi vistað skjalið í tölvunni hjá sér. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa getað lagað skjalið eða breytt því þar sem hann kynni ekki mikið í excel. Taldi ákærði að tölvupósturinn hafi farið fyrir framkvæmdastjórn. Tölvupóstur frá Steingrími Birki til ákærða og KV þann 23. september 2010 með þeirri fyrirspurn „hvort þeir eigi ekki að lækka gipsið um einhverjar krónur“, og síðan svar í tölvupósti frá KV sama dag til Steingríms Birkis og ákærða um að „það sé búið“, var borinn undir ákærða. Ákærði mundi ekki eftir póstinum né umræðu um efni hans. Tölvupóstur frá Ragnari Má til ákærða og Leifs Arnar þann 30. september 2010 ásamt verðkönnun í fylgiskjali var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði ekki muna eftir póstinum en hann hafi áframsent hann til  Steingríms Birkis, SER og KV eins og annar tölvupóstur beri með sér. Tölvupóstur á milli ákærðu Ragnars Más, ákærða og Leifs Arnar með verðkönnunum í fylgiskjali dagana 8. og 15. október 2010 var borinn undir ákærða og hann inntur eftir nafnabreytingu sem fylgiskjölin beri með sér. Kvaðst ákærði einungis hafa vistað skjölin í tölvunni sinni í þeim tilgangi að eiga þau. Um skýringu á því að Ragnar Már sé þá að senda ákærða verðkannanir, þegar ákærði var verslunarstjóri, kvað hann ákærða Ragnar Má hafa sent verðkannanir á ákærða áður og bara haldið því áfram. Tölvupóstur frá Ragnari Má til ákærða og Leifs Arnar, ásamt verðkönnun í fylgiskjali með þeim athugasemdum að Múrbúðin hafi aldrei tíma til að gefa verð og Úlfurinn sé með sömu verð og í síðustu viku, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir póstinum né efni hans né hver hafi sett Múrbúðina inn í skjalið. Minnti ákærða að Steingrímur Birkir hafi beðið Leif um það. Tölvupóstur frá ákærða til Steingríms Birkis, KV og SER, ásamt verðkönnun í fylgiskjali þann 22. október 2010 og þeirri athugasemd að Múrbúðin hafi ekki gefið upp verð, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessum pósti. Um það að Múrbúðin gæfi ekki upp verð vissi ákærði ekki á hverju hann byggði þær upplýsingar, sennilega hafi þær skýringar komið úr fyrri tölvupósti. Tölvupóstur frá ákærða til Steingríms Birkis, KV og SER, ásamt verðkönnun sem fylgiskjal þann 22. október 2010 með þeim athugasemdum að „Múrbúðin gæfi ekki upp verð“ og svarpóstur frá SER til sömu aðila þar sem hann spyr hvort þeir eigi ekki að „hækka verð á timbri m.a. um 2% í burðarvið og tæp 3% í alhefluðu“ og fleiri hugleiðingar um verð á grófvöru, var borinn undir ákærða. Ákærði taldi að einhver umræða hefði farið fram um verðkannanir en mundi ekki hver. Tölvupóstur frá Leifi Erni til Steingríms Birkis, ákærða og Ragnars Más, ásamt verðkönnun í fylgiskjali og athugasemd um að þar kæmi „rétt skjal“, var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði ekki muna eftir umræðu um þetta skjal. Tölvupóstur frá Leifi Erni til Stefáns Inga og Steingríms Birkis 4. nóvember 2010, ásamt verðkönnun í fylgiskjali og þeirri athugasemd að „ekki fengjust upp verð hjá Múrbúðinni“, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessum tölvupósti en hann hafi fengið hann. Þá kvaðst hann ekki hafa velt því neitt fyrir sér varðandi athugasemdina um Múrbúðina né hvernig verðkönnunin fór fram og hann hafi örugglega sent póstinn áfram eins og venjulega á KV o.fl. Tölvupóstur frá Ragnari Má til ákærða og Leifs Arnar frá 19. nóvember 2010, ásamt verðkönnun í fylgiskjali með athugasemdum um að verð væri „óbreytt hjá Úlfinum og G í Múrbúðinni hafi sagt Ragnari Má að hringja í BB sem svari ekki síma“, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir umræðu um þetta efni og hafi ekki velt því fyrir sér hvernig þessar kannanir fóru fram. Tölvupóstur frá Leifi Erni til ákærða og Ragnars Más frá 19. nóvember 2010, ásamt verðkönnun sem fylgiskjal og athugasemd um „að þar væri rétt og formúlur hafi verið að leita upplýsinga í rangar línur fyrir Úlfinn“, var borinn undir ákærða.  Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessum pósti og ekki vita hvort þessi póstur hafi verið mikilvægur, meðákærði Leifur gæti eflaust svarað því. Aðspurður kvaðst ákærði hafa átt, að beiðni SER, að senda honum verðkannanir vikulega. Tölvupóstur frá KV til SER, Steingríms Birkis og ákærða þann 24. nóvember 2010, með efnislýsingu um að verðbreyting skv. síðustu verðkönnun væri frágengin, var borinn undir ákærða.  Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessum pósti né til hvaða verðbreytinga væri verið að vísa. Tölvupóstur frá 26. nóvember 2010 sem áframsendur var á milli ákærða, Ragnars Más, Leifs Arnar, KV o.fl., m.a. með þeirri athugasemd „hvort þeir ættu ekki að minnka verðmuninn á græna efninu um alla vega helming“, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki vita hvað hafi verið gert með þá verðkönnun sem þar fylgdi með, hann hafi áframsent skjalið. Tölvupóstur frá 2. og 10. desember 2010 var borinn undir ákærða en hann kvaðst ekki muna eftir þeim pósti en hann hafi áframsent þann tölvupóst og fylgiskjöl. Aðspurður sérstaklega kvað ákærði vörunúmer sem koma fram á skjali 755 ekki vera inni í excel-skjalinu. Fundargerð verslunarstjórafundar frá 13. desember 2010, þar sem ákærði var einnig mættur, var borin undir ákærða. Kvaðst ákærði ekki muna eftir fundargerðinni og mundi ekki eftir umræðu um verðhækkanir en vöruflokkastjóri og framkvæmdastjóri hafi þá tekið ákvörðun um verðbreytingu ef einhver hefur verið. KV og hugsanlega Leifur hafi getað bætt inn á skjalið og mögulega Steingrímur Birkir. Ákærði hafi ekki gert það. Tölvupóstur frá Ragnari Má til ákærða og Leifs Arnar frá 16. desember 2010 ásamt verðkönnun í fylgiskjali var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst sjá að þeim vörum sem ræddar hafi verið um í fyrra skjali hafi verið bætt inn í verðkönnunina, þ.e. panel og vatnsklæðningu. Ákærði hafi framsent þann póst á Steingrím Birki, KV, SER, EK og sölustjóra. Tölvupóstur frá 17. til 20. desember 2010, ásamt verðkönnunum og athugasemdum um að „þeir [KV] hafi verið búnir að ákveða að hækka græna efnið“, og hugleiðingum um hvort þeir eigi að hækka pallaefni um ca. 10% þar sem Húsasmiðjan sé 15% dýrari en þó með sitt efni á tilboði, hvert sé verðið á steinullinni frá Múrbúðinni og fl., var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessum samskiptum. Tölvupóstur frá ákærða þann 17. desember 2010 til SER, með þeirri athugasemd að þeir gefi sér ekki upp verð og hann þurfi að fá verktaka til að fá verð í þetta fyrir sig, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst hafa verið að reyna að fá verð á steinull frá Múrbúðinni sem hann hafi ekki fengið. Hann hafi örugglega talað við G eða aðra hjá Múrbúðinni og vel gæti verið að hann hafi hringt en Múrbúðin hafi ekki viljað gefa upp verðin sín og ekki viljað vera í samkeppni. Það væri skýringin á þessum pósti. Ákærði var inntur eftir því hvers vegna vörunúmerum hafi fækkað í verðkönnunarskjali sem sent var með tölvupósti 12. janúar 2011. Ákærði kvaðst engar skýringar hafa á því. Ákærði var inntur eftir því hvers vegna verðkönnunarskjal sem hann fékk í tölvupósti hafi fengið annað heiti þegar hann áframsendi skjalið á EK þann 12. janúar 2011. Kvaðst ákærði hafa vistað skjalið í tölvunni sinni áður en hann áframsendi það og þar með hafi heitið á skjalinu breyst. Tölvupóstur frá ákærða til Steingríms Birkis, KV, SER, verslunar- og sölustjóra, þann 12. janúar 2011, sem síðan var áframsendur með athugasemdum um „hvort þetta gæfi ekki tilefni til verðhækkunar og það strax, ekki veiti af að ná upp framlegð og hvort ekki þurfi að gera ítarlegri verðkönnun með mun fleiri vöruliðum“, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki kannast við þá umræðu. Tölvupóstur frá 19. janúar 2011 var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessum pósti en ástæða þess að hann ætti að setja verðhækkunarferli í gang hafi örugglega verið verðkönnunin. Verðhækkunarferlið hafi hins vegar átt að fara í tölvudeildina, ákærði kvaðst ekki geta svarað því hvers vegna hann hafi átt að framkvæma það. Það hljóti að vera eitthvert ferli eftir verðkönnun. Ákærði kannaðist ekki við að annaðhvort BYKO eða Húsasmiðjan hafi átt að leiða ákveðin verð. Tölvupóstur frá 14., 17., 21. og 28. janúar 2011, þar sem verðkannanir fylgdu með í fylgiskjali, skjal um framlegðarmarkmið og ýmsar athugasemdir, s.s. að Húsasmiðjan hafi hækkað timburverðin og það sé tækifæri fyrir BYKO að hækka líka, enda hafi heimsmarkaðsverð á timbri hækkað, hvað þeir segi um það ákærði og EK og hvort þeir haldi ekki bara sama verðmun og hafi verið áður en þeir hækkuðu og að leyfa Húsasmiðjunni að leiða þessa hækkun, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki vita hvað hafi verið gert við þessar upplýsingar og mundi ekki eftir þessum samskiptum. Tölvupóstur frá ákærða til SER, KV og Steingríms Birkis, sem síðan var endursendur frá Steingrími Birki með þeirri spurningu hvort þeir „eigi ekki að laga verðið á þeim spónaplötum sem séu dýrari hjá þeim en Húsasmiðjunni í hvelli“ og svar frá KV um að það sé búið, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessum samskiptum. Þá mundi ákærði ekki eftir umræðu um verð á spónaplötum. Verð hafi þó lækkað í kjölfar verðkannana. Tölvupóstur frá SER til ákærða, KV og Steingríms Birkis í kjölfar tölvupósts frá ákærða til þeirra, þar sem SER segist sjá að Húsasmiðjan sé miklu ódýrari en þeir í plastborðplötum en þeir séu með það á sérverði og hvort BYKO eigi ekki að gera nákvæmari verðkönnun og þá líka í sólbekkjum og færa það undir sérverð ef Húsasmiðjan sé ódýrari, var borinn undir ákærða.  Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessari umræðu og vissi ekki hvað var gert með þessar hugmyndir.

Ákæruliður 16. 

Ákærði mótmælti því að upplýst hafi verið um „tilboðskjör“, eingöngu verðlistaverð og mundi ekki eftir breytingum af hálfu Húsasmiðjunnar á þessum tíma og hann hafi aldrei átt samskipti við starfsmenn Húsasmiðjunnar. Tölvupóstur frá Ragnari Má til ákærða o.fl. frá 4. febrúar 2011 ásamt verðkönnun í fylgiskjali var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst hafa fengið þetta tölvubréf og hafa áframsent það eins og venjulega. Tölvupóstur frá ákærða til sölustjóra og verslunarstjóra þann 4. febrúar 2011 ásamt verðkönnun í fylgiskjali var borinn undir ákærða og þá hvers vegna hann hafi sent verðkönnunina á sölu- og verslunarstjóra. Ákærði kvað ekkert sérstakt tilefni fyrir því að hann sendi póstinn á þessar deildir, það hafi verið gert til að þeir sæju verðkönnunina. Þetta séu um átta til níu manns. Tölvupóstur frá Steingrími Birki til ákærða og KV í framhaldi af verðkönnun, með þeirri fyrirspurn „hvort þeir eigi ekki að lækka sig undir Húsasmiðjuna og þá þurfi þeir kannski að gera víðtækari könnun“, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessum samskiptum né umræðu um víðtækari verðkönnun. Ákærði vissi ekki um hvað það snerist nema að bæta við númerum í könnunina. Þá vissi ákærð ekki hvað var gert í framhaldi.

Ákæruliður 18.

Ákærði mótmælti orðalaginu „tilboðskjör“. Tölvupóstur frá 10. febrúar 2011 þar sem verðkönnun er sem fylgiskjal var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst hafa fengið skjalið en hann hafi áframsent þær upplýsingar.

Ákæruliður 19.

Tölvupóstur frá ákærða til KV, SER, EK, sölu- og verslunarstjóra, ásamt verðkönnun í fylgiskjali, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst hafa fengið verðkönnunina senda með tölvupósti frá Ragnari Má og síðan áframsent á ofangreinda. Breyting á nafni skjalsins stafi af því að hann hafi vistað skjalið í tölvuna sína. Kvað ákærði sömu ástæðu eiga við um nafnabreytingar á fylgiskjalinu þegar hann áframsendi tölvupóstinn. Ákærði kvaðst ekki vita hvað hafi verið gert í framhaldi af þessari verðkönnun. Tölvupóstur frá Steingrími Birki til ákærða og KV þann 18. Febrúar, ásamt verðkönnun í fylgiskjali og þeirri athugasemd að „það sé orðinn mikill munur víða og hvenær þeir hafi eiginlega hækkað“, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessari umræðu né mundi hann eftir því hvort þar hafi verið átt við of mikinn mun á vöruverði. Tölvupóstur frá KV til ÞS og ákærða, Steingríms Birkis, PA, SER og EK frá 18. febrúar 2011, þar sem KV biður ÞS um að hækka útsöluverð á nokkrum vöruflokkum eftir lokun þann daginn, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst mögulega hafa fengið þessar upplýsingar sem sölustjóri en mundi ekki eftir umræðu um það. Tölvupóstur frá KV til ákærða og fjölda annarra, þar sem tilkynnt var um að verðhækkanir á timbri og kambstáli yrðu framkvæmdar eftir lokun þann daginn og þeir vinsamlegast beðnir að taka viðkomandi verðlista sem liggi frammi hjá þeim og prenta út nýja daginn eftir og að verðhækkanirnar séu vegna hækkunar frá birgjum þeirra, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst hafa fengið þetta skjal en ekki vita hvort það hafi verið rétt með hækkun frá birgjum því að hann hafi ekki verið í samskiptum við þá. Aðspurður um meðferð á upplýsingum um hækkun frá birgjum, kvað ákærði KV hafa haft með það að gera. Tölvupóstur frá 28. febrúar og 3. mars 2011 var borinn undir ákærða þar sem verðkannanir voru sem fylgiskjöl. Kvaðst ákærði ekki muna eftir þessu né vita hvers vegna vöruflokkarnir sem kannaðir voru fóru úr 103 í 106.

Ákærði Stefán Ingi kvað það ekki hafa komið til tals á milli sín og forstjóra hvernig verðkannanir færu fram. Verðkannanir hafi ekki verið ræddar, forstjóri hafi á sínum tíma beðið um þetta og ákærði hlýtt því. Skjal með yfirskriftinni „Hvernig ætlum við að ná framlegðarmarkmiðum okkar fyrir 2011“, var borið undir ákærða og þá liðurinn „virkari verðkönnun“. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessari umræðu, ákærði hafi bara verið beðinn um verðkannanir einu sinni í viku og hann farið eftir því. Ákærði kvaðst ekki muna eftir neinni breytingu á milli áranna 2010 og 2011. Ákærði kvað verðkannanir hafa hætt eftir að mál þetta kom upp en kvaðst ekki vita hvers vegna. Framburður ákærða hjá lögreglu var borinn undir hann. Aðspurður um það hvort hann hafi farið fram á það við sölumenn að þeir létu gera verðkannanir í gegnum síma, kvað ákærði það eflaust vera rétt þegar hann var sölustjóri en hann myndi ekki eftir því sérstaklega. Ákærði kvaðst ekki hafa neitað þessu hjá lögreglu, hann bara myndi ekki eftir því. Hann hafi verið verslunarstjóri árið 2004 eða 2005. Ákærði kvaðst ekki hafa spáð í það hvernig upplýsinga hafi verið aflað í verðkönnunum BYKO. Aðspurður kvað ákærði starfsmenn hafa mátt hringja undir nafni, það hafi ekki verið bannað, hann sæi ekkert ólöglegt við það. Ákærði kvaðst hafa komið verðkönnunum í gang á sínum tíma að beiðni SER, þannig að hringt væri eftir verðum. Það hafi átt að hringja og fá verð og búið. Ákærði kvaðst gera greinarmun á því að biðja um upplýsingar og um leið að fá upplýsingar á móti, það hafi ekki verið gert að hans beiðni.

Ákærukafli II. 

Ákærði vísaði í þessum ákærukafla til fyrri svara varðandi ákærukafla I. Aðspurður kvaðst ákærði hafa séð í verðkönnunarskjölunum að verslunin Úlfurinn var einnig í skjalinu en sú verslun hafi ekkert verið rædd á framkvæmdastjórafundum. Þá hafi ákærði ekki vitað hvenær Úlfurinn hafi bæst inn í skjalið. Ákærði kvaðst ekki vita um það hvort meðákærða Ragnari Má hafi verið gefin fyrirmæli um að hringja í Úlfinn. Framburður ákærða hjá lögreglu um að að ákærði Ragnar Már hafi átt að hringja í Úlfinn og fá upp verð var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu og halda að það hafi ekki verið frá sér komið. Þá kvaðst ákærði ekki hafa gefið fyrirmæli um að veita samkeppnisaðilum röng eða villandi upplýsingar um verð frá þeim. Ákærði kvað sér ekki finnast óeðlilegt að hringja og spyrja um verð samkeppnisaðila. Þá hafi afsláttarkjör einstakra viðskiptavina ekki verið gefin upp í verðkönnunum. Ákærði kvaðst aldrei hafa fengið fyrirmæli um að láta framkvæma verðkannanir þannig að spurt væri um verð á móti. Framburður ákærða fyrir lögreglu, um það hverjum hafi verið falið að gera verðkannanir og að ákærði hafi kannast við að hann hafi látið ákærða Ragnar Má gera þær, var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði kannast við að hafa látið Ragnar Má gera verðkannanir og það hafi hann gert þegar hann gegndi stöðu verslunarstjóra. Tölvupóstur frá Ragnari Má til Leifs Arnar, ákærða og Steingríms Birkis þann 28. janúar 2011, ásamt verðkönnun í fylgiskjali og athugasemdum um að Úlfurinn svari ekki, vikugömul verð og sennilega óbreytt, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki vita hvort það hafi skipt máli að verð Úlfsins voru ekki inni í verðkönnuninni. Um verðkönnun frá 12. janúar 2011, þar sem 30% verðmunur er á Úlfinum og BYKO í einum vörulið, kvaðst ákærði ekki þekkja það hvort menn hafi velt verðum Úlfsins fyrir sér, ákærði hafi ekki setið framkvæmdarstjórafundi.

Ákærði Ragnar Már Amazeen.

Ákærukaflar I og II.

Ákærði kom fyrir dóminn og neitaði sök. Kvaðst ákærði hafa starfað hjá BYKO frá árinu 2004 sem almennur starfsmaður við sölu í timbursöludeild. Sú deild heyri undir grófvörusvið en ákærði hafi ekki haft mannaforráð. Ákærði væri menntaður húsasmiður. Næstu yfirmenn ákærða hafi verð meðákærðu, Leifur Örn, Stefán Ingi og Steingrímur Birkir. Ákærði kvaðst neita refsiverðri háttsemi í öllum ákæruliðum en staðfesti að atvikin sem slík, er snerti ákærða og lýst sé í ákæruliðum, séu rétt. Ákærði kvaðst hafa séð um verðkannanir fyrir BYKO þannig að hann hafi hringt og beðið um verð. Ákærði kvaðst ekkert muna hvernig það hafi komið til að hann hringdi í samkeppnisaðila til að fá verð þeirra en hann hafi bara verið fljótari að ná í verðin þannig en að leita að þeim á heimasíðum, m.a. heimasíðu Húsasmiðjunnar. Allur gangur hafi verið á því úr hvaða símanúmeri ákærði hafi hringt en það hafi verið nokkrar línur sem hafi verið í vali í símakerfinu. Verðkannanirnar hafi farið þannig fram að hann hafi hringt, beðið um verð og skráð þau niður í excel-skjal hjá sér sem hann var með í tölvunni. Almennt hafi verið um að ræða rúmlega hundrað vörunúmer og hafi könnunin farið að jafnaði fram vikulega. Hafi þetta verið hluti af hans starfsskyldum. Yfirmenn hans hafi ráðið því að hann hafi gert þetta en aðallega hafi það verið meðákærði Stefán Ingi og sennilega Leifur líka. Komið hafi fyrir að ákærði hafi veitt upplýsingar á móti ef spurt var um verð hjá Bykó. Aðspurður kvaðst ákærði telja að hann hefði getað nálgast sömu upplýsingar eftir öðrum leiðum, þessar upplýsingar hafi verið á heimasíðum að hann taldi og í verðlistum. Þá kvað ákærði að viðbótardálkur fyrir Úlfinn hafi verið settur inn í excel-skjalið vegna fyrirmæla, hann myndi ekki hvenær eða hver hafi gert það. Engin ástæða hafi verið fyrir því að ákærði gerði verðkannanir í gegnum síma utan að hann hafi verið beðinn um það. Kvaðst ákærði ekki hafa verið beðinn um það sérstaklega að framkvæma þessar kannanir á annan hátt. Ákærði hafi alltaf hringt og kynnt sig en hann taldi víst að hans yfirmenn hafi vitað um þann hátt. Staðfesti ákærði að þau símtöl sem koma fram í rannsóknargögnum lögreglu hafi átt sér stað á milli hans, Húsasmiðjunnar, Múrbúðarinnar og Úlfsins. Kannski verið einn eða tveir menn hjá Úlfinum sem hann hafi hringt í. Þá staðfesti ákærði að hann hafi sent verðkannanir í tölvupósti til meðákærðu Leifs Arnar og Stefáns Inga og eftir atvikum til Steingríms Birkis. Það hafi verið gert að þeirra beiðni. Þá minnti ákærða að gert hafi verið ráð fyrir að verðkannanir væru gerðar í vikulok. Engin umræða hafi átt sér stað um það að ákærði kynnti sig ekki í slíkum símtölum. Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu um að þetta ætti að vera „svona leyndó“, kvaðst ákærði ekki muna það sérstaklega í dag en líklega hefði hann munað það á þeim tíma. Ákærði kvaðst ekki hafa útbúið eða hannað excel-skjalið sem verðin hafi verið færð inn í en hann hafi fært verðin inn í skjalið jafnóðum og hann gerði verðkannanir. Annaðhvort hafi það verið Stefán Ingi eða Leifur en ákærði var ekki viss um það. Ákærði taldi að hann hafi þó sett símanúmer meðákærðu Y og X hjá Húsasmiðjunni inn í skjalið sér til hægðarauka. Ákærða minnti að það hafi annaðhvort verið ákærði Stefán Ingi eða Leifur sem hafi sett inn vörunúmer Bykó í excel-skjalið, sem átti að kanna verð á hjá samkeppnisaðilunum. Auðkennin „TB“ og „SV“ þýddi tilboðsverð og sérverð. Ákærði taldi að hann hefði sjálfur sett inn tilboðsverð og eða sérverð frá samkeppnisaðilanum þegar hann fékk upplýsingar um slíkt. Ákærði kvaðst ekki vita hvað tilvísunin „styttri“ og „lengri lengd“ stæði fyrir. Ákærði kvaðst ekki vita hvað hafi verið gert við þessar verðkannanir og ákærði mundi ekki til þess að hafa nokkuð spáð í það. Þá kvaðst ákærði ekki vita, né hafa fylgst með því hvort breytingar hafi orðið á verðum eftir hverja verðkönnun. Ákærði útskýrði hvers vegna hringt hafi verið úr símanúmeri VJ en ákærði hafi bara tekið þá símalínu. Að öðru leyti væri engin skýring á þessu. Tölvupóstsamskipti ákærða við meðákærðu voru borin undir hann og staðfesti ákærði að hafa sent þann póst. Aðspurður um texta í tölvubréfi um að Úlfurinn hafi ekki viljað gefa upp verð, kvað ákærði það hljóta að vera rétt. Hvort átt hafi verið við Múrbúðina í umrætt sinn, kvaðst ákærði ekki muna. Ákærði kvaðst almennt ekki muna eftir efni tölvubréfa sem hann sendi til yfirmanna sinna en staðfesti texta þeirra og skilaboð sem stöfuðu frá ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna hvenær hann hafi fyrst haft samband við ákærða Guðmund Loftsson, en honum fyndist hann oftast hafa hringt í ákærða Y en hann myndi ekki hvenær það breyttist. Símtal frá 10. mars 2011 var borið undir ákærða þar sem hann ræddi við ákærða Y í Húsasmiðjunni. Ákærði var spurður hvort sá háttur væri hafður á að ef viðskiptavinur kvartaði undan verði BYKO, þá hringdi ákærði í samkeppnisaðilann og þeir bæru saman bækur sínar. Kvaðst hann ekki muna til þess að hafa látið Húsasmiðjuna vita um eitt eða neitt. Ákærði kannaðist ekki við að það ætti að hækka verð eftir verðkannanir. Slíkt hafi aldrei verið borið undir ákærða. Ákærði var ekki viss hvort timbursalan hafi heyrt undir fagsölusviðið eða ekki á þessum tíma. Ákærði kvað verðkannanir hafa hætt eftir að mál þetta kom upp hjá BYKO. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað hver framlegð hverrar vörutegundar var en hann hefði getað gefið sér það með vissa vöruflokka. Aðspurður kvað hann laun sín ekki hafa verið tengd framlegð en einhvern tímann hefði hann fengið bónusa. Ákærði kvaðst hafa reynt að hringja í EGS í Múrbúðinni í nokkur skipti en Múrbúðinni hafi verið bætt inn í verðkönnunina af hálfu yfirmanna hans. Ákærði kvaðst aldrei hafa gert sér í hugarlund að hann hafi verið að brjóta lög með því að hringja í samkeppnisaðila og fá upp verð á tilgreindum vörum. Ákærði kvaðst ekki hafa haft heimild til að ákvarða framtíðarverð fyrir BYKO, eingöngu hafi verið skipst á gildandi verðum. Þá kvað ákærði sína yfirmenn hafa hringt í sig og spurt hvort hann hafi fengið „verð hjá þeim“ eftir verðkannanir. Ákærði kvaðst hafa þekkt meðákærða Y frá gamalli tíð en þeir hafi kynnst þegar ákærði vann hjá Húsasmiðjunni fyrir lögnu síðan. Ákærði kvaðst ekki geta svarað því hversu oft meðákærði Y hafi hringt í sig til að fá verð, það gæti hafa verið jafnoft og ákærði hringdi í Y en hann gæti ekki sagt neitt frekar til um það, hann myndi það ekki. Þá kvað hann þá eingöngu hafa rætt listaverð og ef eitthvað hafi verið á tilboði eða á sérverði þá hafi þeir rætt það. Ákærði kvaðst ekki muna til þess að þeir hafi rætt fyrirhugaðar hækkanir eða lækkanir hjá fyrirtækjunum en þeir hafi kannski rætt veðrið og þetta venjulega. Aðspurður um frásögn ákærða í skýrslutöku hjá lögreglu, þar sem hann nefnir Ó, kvað ákærði sig minna að viðkomandi Ó hafi beðið sig í upphafi um að hringja í Húsasmiðjuna við gerð verðkannana og þá ekki undir nafni. Nefndur Ó hafi þó ekki verið yfirmaður sinn. Ákærði kvaðst aðspurður hafa litið á ákærða Stefán Inga sem sinn yfirmann, þótt hann hafi ekki verið hans næsti yfirmaður. Það hafi þó ekki verið neinar „pælingar“ hjá ákærða hvort Stefán Ingi væri hjá fagsölusviði eða í timbursölu. Ákærði kvaðst ekki muna hvort hann hafi látið Stefán Inga vita það sérstaklega með hvaða hætti hann aflaði verðs í verðkönnunum en allavega hafi Stefán Ingi spurt sig hvort hann hafi fengið verð eftir að Húsasmiðjan hringdi, hann myndi það. Ákærði kvaðst aðspurður hafa verið beðinn um það sérstaklega að hafa samband við verslunina Úlfinn en mundi ekki hvort það hafi verið meðákærði Leifur eða Stefán Ingi sem báðu um það. Það gæti vel staðist að það hafi verið Stefán Ingi eins og ákærði sagði í lögregluskýrslu. Aðspurður hvort það væri rétt að Stefáni Inga og Leifi hafi verið kunnugt um að skipst hafi verið á verðupplýsingum þegar hringt var á milli, kvað ákærði að ef hann hafi svarað því svo í skýrslu hjá lögreglu þá hafi hann munað það þannig. Ákærði myndi ekki sérstaklega eftir slíku í dag. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa gert neinn greinarmun á því hvort hann eingöngu spyrði samkeppnisaðilann um verð eða þeir veittu hvor öðrum upplýsingar um sín verð í símtölum. Ákærði kvaðst ekki geta staðfest hversu oft hann hafi hringt í Úlfinn, kannski fimm sex sinnum til að fá upp verðin þeirra. Þá kvaðst ákærði hafa litið á verslunina Úlfinn sem keppinaut á markaðnum. Ákærði lýsti því að verktakar hringdu gjarnan inn og lýstu því hvað þeir væru að fara að gera og vantaði þá verð í ákveðin mörg vörunúmer. Aðspurður kvaðst ákærði ekki muna sérstaklega eftir því að hafa rætt við meðákærða Steingrím Birki um framkvæmd verðkannana. Aðspurður hvers vegna hann hafi þá verið að senda verðkannanirnar til ákærða Steingríms Birkis kvaðst hann örugglega hafa verið beðinn um það en hann hafi litið á Steingrím Birki sem sinn yfirmann. 

Ákærukafli V.

Ákæruliður 1.

Ákærði neitaði sök í þessum ákærulið en staðfesti að þessi háttsemi hafi átt sér stað sem lýst er í ákæruliðnum en kvaðst ekki muna sérstaklega eftir símtalinu né við hvern hann hafi rætt. Þá taldi ákærði að hann hafi einhvern tímann verið beðinn um að hringja í Múrbúðina, hann hafi ekki sjálfur sett inn dálk í excel-skjalið fyrir Múrbúðina. Aðspurður um texta í tölvupósti um að „Múrbúðin hefði aldrei tíma til að gefa upp verð“, kvað ákærði þessi skilaboð hafi verið byggð á svörum Múrbúðarinnar. Aðspurður um það að ákærði hafi beðið starfsmann Múrbúðarinnar um að skiptast á verðupplýsingum við BYKO, kvaðst ákærði ekki kannast við það. Þá kvaðst ákærði ekki muna sérstaklega eftir tölvupósti sem fór á milli manna eða hvort eitthvað hafi verið gert við verðkannanir eftir að hann sendi þær í tölvupósti til sinna yfirmanna. Ákærði staðfesti að hann hafi verið beðinn sérstaklega um að hringja í Múrbúðina af Stefáni Inga hafi hann sagt það hjá lögreglu. Við það hefði hann engu að bæta.

Ákærði Stefán Árni Einarsson.

Ákærði kom fyrir dóminn og neitað sök. Kvaðst hann hafa starfað sem framkvæmdastjóri vörustýringarsviðs Húsasmiðjunnar, og vörustjórar hafi heyrt undir hann og timbursalan. Hann hafi starfað hjá Húsasmiðjunni frá árinu 2007. Næsti yfirmaður hans hafi verið SAS forstjóri. Aðspurður kvaðst ákærði ekki muna hversu margir hafi heyrt undir hann en hann hafi stýrt stórum hluta Húsasmiðjunnar. Staðfesti ákærði skipurit fyrir Húsasmiðjuna sem liggur fyrir í málinu. Kvað ákærði VP hafa hætt í desember 2010. Að öðru leyti væri skipuritið rétt. Ákærði kvað verðkannanir hafa heyrt undir VP. VP hafi komið til ákærða í janúar eða febrúar 2010 þar sem hann bar ábyrgð á vinnu vörustjóranna og m.a. verðkönnunum. Sérstakt forrit hafi verið hannað til að halda utan um verðkannanir þannig að hægt væri að koma þeim inn í hagtölur fyrirtækisins. Þá hafi verið ráðinn sérstakur maður til að sjá um verðkannanir. Ákærði hafi síðan tekið við starfi VP í árslok 2010. Ákærði kvaðst hafa borið ábyrgð á því eftir það að verðkannanir færu fram og hafi ákærði gefið þau fyrirmæli að taka verð af netinu. Þá hafi ákærði vitað að starfsmenn BYKO hafi hringt til að fá upp verð í einstökum tilfellum. Ákærði hafi síðan fylgst með því hvort verð hækkuðu eða lækkuðu í tölvupósti. Ákærði kvaðst hafa vitað að mánaðarlegar kannanir hafi farið fram og það hafi allir átt að gera. Menn gætu auðvitað hafa hringt og kannað verð þess í milli. Ákærði kvaðst ekki vita til þess að verðkannanir í grófvörum hafi farið fram með öðrum hætti en aðrar verðkannanir en ákærði hafi líka vitað að verið var að hringja eftir verðum. Tölvupóstur frá Kenneth Breiðfjörð til Júlíusar og ákærða þann 27. janúar 2010, þar sem verðkönnunarlisti BYKO fylgir í fylgiskjali með athugasemdinni að þar sé listinn sem BYKO geri verðkannanir eftir alla miðvikudaga, og hugmyndin sé að Y og þeir í þjónustuveri spyrji um sömu vörur á sama tíma og BYKO geri könnun hjá þeim, var borinn undir ákærða. Ákærði kannaðist við tölvupóstinn en vissi ekki til þess að neitt hafi verið gert með þennan póst. Aðspurður hvort meðákærði Y hafi neitað að spyrja um verð á móti kannaðist ákærði ekki við þá umræðu. Ákærði kvaðst telja að þær vörur sem væru í verðkönnunarskjalinu væru sennilega helstu vörur undir helstu vöruflokkum í grófvörunni. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að það væru sömu vörur og var verið að hringja eftir og ekki velt því fyrir sér. Ákærði vissi ekki hver hafi átt þá hugmynd sem fram kemur í tölvupóstinum. Ákærði mundi ekki til þess að hafa svarað honum heldur né að það hafi orðið einhver niðurstaða í framhaldi. Ákærði vissi ekki upphaf þess að starfsmenn BYKO fóru að hringja í starfsmenn Húsasmiðjunnar til að fá verð. Borinn var undir ákærða tölvupóstur frá Kenneth til SE, VP og ákærða ásamt verðkönnunarskjali frá 27. janúar 2010 þar sem Kenneth segir að þar sé síðasta verðkönnunin. Hann hafi ekki náð í BYKO til að kanna verðlagningu á græna efninu. Það sé á tilboði og þá þurfi þeir að stilla það rétt af. Hann sé búinn að hringja fjórum sinnum en aldrei náð sambandi. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessum pósti sérstaklega en ljóst sé að verið var að kanna verð á græna efninu. Ákærði kvaðst hafa fengið um 150 til 200 tölvuskeyti á dag og gerði ekki annað í vinnunni ef hann þyrfti að lesa þau öll. Ákærði kvaðst hafa fengið þennan póst og kvaðst ekki hafa hugmynd um það hver hafi samið skjalið sem var í viðhengi. Aðspurður um hvað það hafi þýtt að „Stilla verðið rétt af“,  kvað ákærði að líklega væru þeir með þetta á tilboði og því hafi Húsasmiðjan þurft að lækka sig. Aðspurður kvað ákærði framkvæmdastjórnina hafa hist að morgni hvers dags og farið yfir sölur í öllum vöruflokkum í versluninni og þá sérstaklega kannað framlegðina. Ef framlegðin hafi versnað þá hafi orsökin verið gengi krónunnar, verð frá birgjum og kostnaður við flutninga. Ef framlegðin lækkaði þá féll það í hlut ákærða að kanna það hvers vegna framlegðin lækkaði í vörunni. Vörustjórarnir áttu að fylgjast með þessu og ef framlegðin var að lækka þá var varan bara hækkuð. Þessu samhliða var verð sambærilegrar vöru hjá samkeppnisaðilanum kannað og út frá þessum forsendum var verð vörunnar ákveðið. Tölvupóstur frá VP til vörustjóra o.fl., 30. september 2010, vegna ráðningar Guðmundar Loftssonar, var borinn undir ákærða. Kvað ákærði nýjan forstjóra hafi komið í Húsasmiðjuna og hann hafi viljað láta efla verðkannanir. Það hafi verið ákveðið að ráða sérstakan starfsmann til að sinna þeim þætti. Ráðningarsamningur við Guðmund Loftsson hafi verið undirritaður af VP en VP hafi séð á þessum tíma um vörustjórana en Guðmundur Loftsson um „Concord“ kerfið, að taka það út og sjá um að menn gerðu þessar verðkannanir. Ef verðkannanir skiluðu sér ekki inn í Concord-kerfið var það hlutverk VP  að kanna hvers vegna. Ákærði gerði ráð fyrir því að VP hafi farið yfir starfslýsingu Guðmundar með honum þegar hann hóf starfið. Eftir að VP hætti störfum hafi engin breyting orðið á framkvæmd verðkannana, ákærði hafi fengið þær mánaðarlega í framhaldi. Fundargerð stjórnarfundar Húsasmiðjunnar frá 16. mars 2011, þar sem m.a. kemur fram að forstjóri setji upp kannanir vegna verkferla sem kynnu að vera brotnir, var borin undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki kannast við þetta skjal. Ákærði vissi ekki annað en að verkferlarnir hafi verið eins og hann hafi áður lýst. Tölvupóstur sendur frá ákærða til Guðmundar Loftssonar og VP þann 14. október 2010, þar sem fram komi að Guðmundur sé kominn með allar heimildir sem vörustjóri og geti þá lagfært verð og tilboð í samráði við vörustjóra, var borinn undir ákærða. Kvað ákærði þá hafa lent í vandræðum með helgartilboð og vörustjórar voru ekki við þannig að Guðmundi hafi verið veitt heimild til að breyta verði, aðallega tengt tilboðsvörum í öllum vöruflokkum. Guðmundur hafi einnig verið vörustjórum til aðstoðar. Tölvupóstur sendur frá ákærða til nokkurra aðila innan Húsasmiðjunnar, með efnislýsingunni „Byko voru að gera könnun á öllu draslinu“ þann 17. desember 2010 og þar sem ákærði segir að hann hafi verið búinn að ræða við Y en BYKO hafi ekki verið að hringja í hann að undanförnu, auk þess að hann biður viðtakendur að láta sig vita og Guðmund þegar þeir geri verðkönnun, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna sérstaklega eftir þessum tölvupósti, „... að láta ákærða og Guðmund vita þegar þeir gerir verðkönnun“. Þetta hafi vafalaust átt við um allar vörur. Ákærði kvaðst eingöngu hafa verið að biðja um upplýsingar um verðkönnun af forvitni sem kaupmaður. Tölvupóstur frá ákærða til vörustjóra Húsasmiðjunnar 19. janúar 2011 var borinn undir ákærða. Kvað ákærði Húsasmiðjuna hafa verið að fara í verðhækkanir á öllum vörum Húsasmiðjunnar og því hafi þessi tölvupóstur verið sendur til allra vörustjóra. Framkvæmdastjórnin hafi tekið ákvörðun um það. Tölvupóstur frá 17. til 19. janúar 2010, þar sem fram kemur tilboð frá Húsasmiðjunni til viðskiptavinar upp á 167.837 krónur í spónaplötur o.fl., athugasemd frá IR til SE um að í svona smá tilboðum sé BYKO að taka þá í „rassg“ og mismunur sé 20-30% eftir vöruflokkum, var borinn undir ákærða. Ákærði kvað að þarna væri verið að gera tilboð að fjárhæð 167 þúsund krónur frá Selfossi og tölvupóstur komi þar sem kvartað sé undan því að „verið sé að taka þá í rass..... þiljur séu 29% ódýrari hjá Bykó“. Af þeim sökum hafi orðið að lækka vöruna. Þær vörur sem væru taldar upp í tölvupóstinum væru svokallaðar valvörur en ekki grófvörur. Valvörur væru t.d. flísar og gólfefni, innréttingar, hurðir, gluggar of.l. Verðkönnunarlisti frá Guðmundi Loftssyni var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir skjalinu eða hafa séð það. Ákærði kvaðst á þessum tíma ekki hafa setið vörustjórafundi en þar hafi verið farið yfir verðþróun o.fl. Ákærði hafi verið í öðru starfi á þessum tíma en VP hafi sinnt þessu starfi og setið vörustjórafundi, eða frá janúar til desember 2010.

Ákæruliður 1.

Ákærði neitaði því að þetta símtal hafi farið fram að hans undirlagi. Ákærði kvaðst ekki vita neitt um þetta mál. Ákærði hafi lagt fyrir undirmenn sína að gera verðkannanir mánaðarlega. VP hafi borið ábyrgð á verðkönnunum en sérhannað forrit hafi séð um að koma upplýsingum úr verðkönnunum inn í hagtölur Húsasmiðjunnar. Verðkönnunarskjal frá BYKO var borið undir ákærða. Ákærði kannaðist ekki við þau vörunúmer sem þar komi fram. Þá séu ekki sambærileg heiti í þessu skjali og hjá Húsasmiðjunni.

Ákæruliðir 2 til 18.

Skjal sem ber heitið „samanburður á söluverði“ frá Guðmundi Loftssyni, þar sem verðsamanburður kemur fram á níu vörutegundum Húsasmiðjunnar annars vegar og hjá samkeppnisaðilum hins vegar og fannst á skrifstofu ákærða, var borið undir hann. Kvað ákærði þetta skjal vera prentað út úr Concord-kerfinu. Guðmundur hafi unnið alla vöruflokka inn í það kerfi en Guðmundur hafi þó fengið upplýsingar frá vörustjórum um það hvort og hvaða vörunúmer hafi átt að taka út úr könnuninni eða setja inn í verðkönnunina. Sambærilegt skjal og að ofan greinir og fannst á skrifstofu ákærða Júlíusar var borið undir ákærða. Ákærði kvað Guðmund Loftsson hafa prentað slíka lista út fyrir alla vörustjórana. Ákærði kvaðst ekki vita hvers vegna Guðmundur hafi aflað upplýsinga um þær vörur sem voru í verðkönnunarlistanum. Guðmundur hafi átt að senda slíka lista mánaðarlega á ákærða til að hafa sér til hliðsjónar. Vel gæti verið að hann hafi fengið slíka lista oftar ef verðbreytingar hafi verið örar. Þessir listar hafi síðan farið inn á framkvæmdastjórafundi mánaðarlega og samanburðurinn skoðaður. Concord-kerfið hafi verið hannað um mitt sumar 2010 til að auðvelda þeim að bera saman verð samkeppnisaðila. Verðkönnunarskjal þar sem verð BYKO og Húsasmiðjunnar koma fram var borið undir ákærða. Kvaðst hann ekki hafa séð það skjal áður. Ákærði kvaðst ekki vita hvers vegna þessi tilteknu vörunúmer væru inni á listanum, ákærði hefði ekkert haft með það að gera, vörustjórarnir hafi séð um það. Ákærði kvaðst aðspurður ekki vita hvers vegna sambærilegar vörur væru bæði á lista BYKO og Húsasmiðjunnar. Hins vegar hafi verið vörur á lista þeirra sem sýndu þversnið af því sem hafi verið að seljast.

Ákæruliðir 19-21.

Excel-skjal frá 2. mars 2011, þar sem vörunúmer BYKO og Húsasmiðjunnar koma fram ásamt verði þeirra, var borið undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu skjali. Símtal frá 8. mars 2011 var borið undir ákærða þar sem ákærði ræddi við Guðmund Loftsson. Ákærði kvað þá félagana í Húsasmiðjunni hafa hist eftir skýrslutökur hjá lögreglunni og rætt tilefni rannsóknarinnar. Ákærði kvaðst hafa rætt aðferðir við verðkannanir við Guðmund Loftsson þar sem ákærði hafi ekki haft vitneskju um það að þeir væru að skiptast á verðum. Þær skrár sem ákærði hafi rætt um hafi verið listarnir úr Concord-kerfinu þeirra. Aðspurður um það að hafa „ekki hringt í þá að ráði“, kvað ákærði það hafa komið fram í pósti frá sér að hann hafi vitað að það hafi verið hringt. Ákærði hafi ekki verið að tala um að hringt hafi verið vikulega, hálfsmánaðarlega eða mánaðarlega. Þá hafi auðvitað verið hringt tilfallandi út af t.d. græna efninu en það hafi ekki verið skipst á verðum, það hafi aldrei verið rætt að menn skiptust á verðum. Ákærði kvaðst hafa verið að heyra það í fyrsta sinn í þessu símtali að skipst hafi verið á verðum í sama símtali milli starfsmanna BYKO og Húsasmiðjunnar. Símtal frá 9. mars 2011 var borið undir ákærða þar sem SLB hringdi í ákærða. Aðspurður um að eitthvað gæti verið viðkvæmt í sambandi við verðkannanir, kvaðst ákærði ekki vita hvað SLB hafi átti við. Aðspurður um að „þeir hafi bara verið að létta sér vinnuna með að fá runu í einu“  kvað ákærði það ljóst að verið var að hringja í Húsasmiðjuna til að fá runu af verðum. Aðspurður um hvað ákærði eigi við með „bara einstefna eru bara að hringja í okkur“, kvaðst ákærði eiga við BYKO og það væri hans ályktun að BYKO hringdi í þessum tilgangi. Símtal frá 1. mars 2011, þar sem ákærði hringdi í SE, rekstrarstjóra Húsasmiðjunnar á Selfossi, var borið undir ákærða. Var ákærði inntur eftir því hvað hann hafi meint með því að stilla af verðin“ og kvað ákærði að Húsasmiðjan hafi verið komin í kerfisbundnar hækkanir og SE hafi hringt til að kanna ástæðu þess að verið var að hækka verðin. Tölvupóstur frá Kenneth Breiðfjörð til Júlíusar og ákærða ásamt verðkönnunarlista frá BYKO var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði ekki hafa tengt þá hugmynd, sem kom fram í skjalinu, málinu síðar. Þá kvaðst ákærði ekki hafa upplifað neinar sérstakar breytingar hjá fyrirtækinu eftir að Guðmundur Loftsson tók til starfa. Ákærði kvað verðlista hafa legið frammi í búðum fyrirtækisins og þeir lagfærðir eftir þörfum. Þeir hafi einnig verið aðgengilegir á netinu.

Ákærukafli III.

Ákæruliður 1.

Ákærði neitaði sök en neitaði ekki atvikum. Símtal frá 23. febrúar 2011. var borið undir ákærða þar sem hann og Kenneth Breiðfjörð hringdi í ákærða til að gleðja ákærða með því að BYKO væri búið að hækka græna timbrið. Kvað ákærði að framkvæmdastjórnin hafi verið búin að ákveða að hækka vöruflokka þeirra, það komi fram í tölvupósti frá 19. janúar 2011. Kenneth og Júlíus ásamt öllum vörustjórum komi fram á þeim lista sem pósturinn hafi verið áframsendur til. Auðvitað hafi ákærði orðið ánægður með að BYKO hafði hækkað verðið á græna efninu því að annars hefði sá möguleiki verið fyrir hendi að Húsasmiðjan þyrfti að lækka verðið aftur. Kenneth hafi verið að lýsa því að verðin væru komin inn á netið. Aðspurður hvað Guðmundur Loftsson hafi átt að láta fréttast, kvað hann það hafa verið runukeyrslur sem búið var að færa frá E til Guðmundar. Guðmundur hafi átt að taka við þessu því að þegar hækkanir væru gerðar þá þurfi að keyra vöruflokkana inn í ákveðna biðskrá. Guðmundur hafi átt að senda þær upplýsingar til vörustjóra eftir ákveðnu kerfi. Vörustjórarnir áttu síðan að hækka vöruflokkana eftir því. Framburður ákærða hjá lögreglu frá 14. mars 2011 var borinn undir ákærða þar sem ákærði segir aðspurður að verðhækkanir hafi átt að fréttast til þeirra sem geri verðkannanir hjá BYKO. Kvað ákærði ekki rétt að upplýsingarnar hafi átt að berast til starfsmanna BYKO, það sé misskilningur. Guðmundur hafi átt að láta þetta berast til starfsmanna Húsasmiðjunnar. Framburður ákærða hjá lögreglu 30. apríl 2013 var borinn undir ákærða en þar hafi ákærði neitað að svara spurningum lögreglu. Ákærði kvaðst hafa verið þráspurður og verið orðinn þreyttur og því nýtt sér rétt sinn til að svara ekki. Símtal frá 23. febrúar 2011 milli SAS og ákærða var borið undir ákærða. Kvað ákærði þá aðallega hafa spjallað saman almennt. Aðspurður hvort „gleðitíðindi“ hafi tengist fyrra símtali og að „þeir hækkuðu“ kvað ákærði að  „þeir“ hljóti að vera BYKO. Að þeir „voru fljótir að þessu sem sé óvanalegt“ kvað ákærði ekki vísa til neins en BYKO hafi verið fljótir að hækka í þessu tilviki. Ákærði vissi ekki hvort bein samskipti hafi verið á milli starfsmanna BYKO og Húsasmiðjunnar vegna þessa. Símtal frá 25. febrúar 2011 var borið undir ákærða þar sem ákærði og SER, forstjóri Húsasmiðjunnar, ræða saman. Aðspurður hvað átt sé við með „þeir hafi elt þá í verði“ kvað ákærði SER vera að vísa til þess að BYKO hafi hækkað í þeim flokkum sem Húsasmiðjan hafi verið búin að ákveða löngu áður að hækka. Ákærði kvaðst ekki í kjölfar þessa hafa áttað sig á því að starfsmenn Húsasmiðjunnar og BYKO hafi verið að skiptast á verðum né lesið það út úr þessu samtali. Aðspurður hvað átt hafi verið við með orðunum að „passa sig á því að fara ekki út í einhverja vitleysu“, kvað ákærði það ekki hafa haft neina meiningu. Húsasmiðjan hafi verið búin að hækka og BYKO hafi hækkað á eftir þeim. Ef BYKO hefði ekki hækkað verð hjá sér þá hefði Húsasmiðjan orðið að lækka þá vöruflokka aftur. Símtal frá 23. febrúar 2011 milli ákærða og Kenneth Breiðfjörð var borið undir ákærða og ákærði inntur eftir því hvað hann hafi átt við með orðunum „Þetta er bara glæsilegt ... gætirðu græjað annað að Guðmundur láti þetta fréttast þá með hina vöruflokkana sem við vorum að breyta núna“. Ákærði kvað að eftir ákvörðun um stórar verðbreytingar í janúar hafi vörustjórar ákveðið hvernig þær færu í gegn. E hafi átt að sjá um það taka verðbreytingarskrár fyrir hvern vörustjóra, 4-500 númer sem hægt var að keyra út daglega og senda viðkomandi vörustjórum. Vörustjórarnir hafi hækkað í skránum, þeir látið E vita og E komið því áfram út. Guðmundur hafi tekið við þessu starfi E. Guðmundur hafi ekki sent fyrirmæli um ákveðnar hækkanir heldur um að það sé komið að viðkomandi vörustjóra. Þá hafi Guðmundur einnig ýtt á þá að hækka verð frá vikunni á undan.

Ákærði Y.

Ákærði kom fyrir dóminn og neitaði sök en kvaðst staðfesta þá háttsemi sem lýst er í ákærunni og snúi að honum. Ákærði kvaðst hafa starfað hjá Húsasmiðjunni síðan 1957. Í kringum árið 1990 hafi hann unnið sem sölumaður en ákærði væri menntaður húsasmiður. Á ákærutímabilinu hafi hann starfað sem sölumaður í þjónustuveri, sérstaklega fyrir timbur og grófvöru. Þjónustuverið hafi tilheyrt verslunarsviðinu. EIS, Stefán Árni og fleiri hafi í gegnum tíðina verið hans yfirmenn. Að auki líti hann á sem yfirmenn sína vörustjórana sem sjái um verðlagningu en á ákærutímabilinu hafi það m.a. verið Kenneth Breiðfjörð og Júlíus Sigurþórsson. Ákærði hafi fyrst og fremst svarað í síma og þá gefið upplýsingar um verð auk þess að láta vörustjóra vita ef það vantaði vörur. Ákærði kvaðst ekki hafa unnið sérstaklega með framkvæmdastjóra en hann hafi vafalaust vitað hver ákærði var. Ráðningarsamningur var borinn undir ákærða og kvað hann samninginn hafa verið gerðan þegar ákærði minnkaði við sig starfshlutfall og vinnufyrirkomulag. Þá kvaðst ákærði ekki hafa gert greinarmun á því hvort það væri almennur viðskiptamaður að hringja og spyrja um verð eða t.d. starfsmenn BYKO. Ákærði kvað verðkannanir hafa heyrt undir vörustjóra en vörustjórar hafi séð um alla verðlagningu. Ef ákærða hafi fundist eitthvað athugavert við verð þá hafi hann látið vörustjórana gjarnan vita, sérstaklega ef þeir væru með hærra verð en aðrir. Ákærði kvaðst einstaka sinnum hafa hringt og kannað verð hjá samkeppnisaðilum, sérstaklega ef það var borið á þá að vera með hærra verð en t.d. BYKO. Þá hafi ákærði hringt og kannað hvort slíkt væri rétt og ef svo reyndist þá hafi ákærði punktað það hjá sér og látið vörustjóra vita. Ákærði kvað rétt að hann hafi verið beðinn af sínum yfirmönnum um að hringja í BYKO og spyrja um verð á svokölluðu græna efni. Hafi hann þá hringt í meðákærða Ragnar Má og ef hann hafi ekki verið við þá hafi hann spurt einhvern annan hjá BYKO. Hafi það verið um það bil tíu vörunúmer. Aðspurður kvað ákærði rétt að ákærði Ragnar Már hafi hringt í sig annað slagið til að fá uppgefin verð en ákærði hafi unnið þrjá daga í viku. Hafi verið hringt þegar ákærði var ekki við þá hafi aðrir starfsmenn gefið Ragnari Má upp verð. Fyrirspurnir hafi almennt snúið að algengum byggingarvörum, sjálfsagt um hundrað vörunúmer. Verð sem ákærði hafi gefið upp hafi verið í vöruskrá Húsasmiðjunnar. Hinn almenni viðskiptavinur hafi ekki haft aðgang að þessari vöruskrá en hann hafi haft aðgang að ákærða. Ákærði kvaðst halda að misræmi í verðum hjá þeim hafi orðið til þess að hann hafi blandast í þessi mál en ákærði kvaðst ekki hafa getað neitað neinum um verðupplýsingar sem spurt hafi verið um. Ákærði myndi ekki eftir neinni umræðu um þessa upplýsingagjöf, allavega ekki við sig. Ákærði kvaðst ekki muna hvaða yfirmaður hans hafi beðið sig um að hringja og spyrja BYKO um verð á græna efninu, en það hafi örugglega verið einhver í timbursölunni. EIS hafi verið yfirmaður timbursölu og jafnvel fleiri. Þá kvaðst ákærði hafa þekkt meðákærða Ragnar Má og því vitað þegar hann hringdi en fyrir utan það hafi ákærði ekkert vitað hverjir voru að hringja í sig. Ákærði kvað háttsemina í ákærulið I-1 eflaust vera rétta en hann myndi ekki sérstaklega eftir þessu tilviki. Ákærði kvaðst ekki hafa velt fyrir sér hvaða þýðingu slíkar upplýsingar, sem fóru til Ragnars Más, hefðu fyrir Húsasmiðjuna. Ákærði kvaðst aldrei hafa spurt um verð á móti, en mögulega hafi ákærði verið búinn að hringja áður til að spyrja um verð á sérstöku efni. Ákærði kvaðst ekkert vita hvort verðbreytingar hafi orðið hjá BYKO eftir slíka upplýsingagjöf. Ákærði kvað rétt að beini sími hans í Húsasmiðjunni kæmi fram á verðkönnunarlista BYKO. Kvað ákærði þau vörunúmer sem væru á verðkönnunarlistanum vera þær vörur sem mest seldust í grófa efninu. Aðspurður um fjölda símtala vegna verðkannana kvaðst ákærði halda að það hafi verið svona einu sinni í mánuði. Tölvubréf frá 26. janúar 2010 frá Kenneth til Júlíusar og Stefáns Árna var borið undir ákærða, þar sem fram kemur að þeir í þjónustudeild geri ákveðna könnun. Ákærði kvaðst kannast við þá umræðu sem rætt var um í tölvubréfinu og hafi ákærði neitað að framfylgja því. Hafi ákærða fundist það ekki hafa passað auk þess sem það hafi verið tímafrekt. Ákærði hafi spurt Ragnar Má einstaka sinnum um verð hjá þeim, bara af forvitni, en að öðru leyti hafi honum ekki fundist þetta passa. Efni tölvubréfsins hafi verið dreift í þjónustuverinu og því orðið umræða um það en ákærða ekki fundist þetta passa. Ákærði mundi ekki eftir því að hafa rætt viðhorf sitt við sína yfirmenn. Vörulisti sem fylgdi tölvubréfinu var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði ekki vita hvaðan skjalið kom en eflaust hafi verið unnið með skjalið þar sem verð BYKO hafi verið þar inni. Tölvubréf frá 17. desember 2010 frá BÞK til ákærða var borið undir ákærða. Efni skjalsins sé að „Byko sé að gera verðkönnun á öllu draslinu“. Ákærði kvaðst kannast við skjalið og umræðuna í kjölfarið en listi með um 100 vörunúmerum hafi fylgt með. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að slík tölvubréf væru tíð, alla vega ekki til ákærða. Ákærði kvaðst ekki hafa neinar heimildir til að veita afslætti. Þá hafi ákærði ekki haft neina þekkingu á samkeppnislögum né hafi þau verið sérstaklega kynnt fyrir honum. Aðspurður um framburð ákærða hjá lögreglu um að hann hafi litið á þessar upplýsingar um verð á milli BYKO og Húsasmiðjunnar sem samvinnu, kvaðst ákærði gjarnan hafa hringt í meðákærða Ragnar Má hjá BYKO ef Húsasmiðjan átti ekki vöruna og spurt hvort þeir ættu viðkomandi vöru og svo öfugt. Ákærði kvaðst aðspurður ekki kannast við að sérstakir verklagsferlar hafi verið viðhafðir innan Húsasmiðjunnar í sambandi við verðkannanir. Þeim hafi þó verið bannað að hringja í BYKO eftir mars 2011 en fyrir þann tíma þá hafi þeir séð að þetta hafi ekki verið rétt.  

 

 

Ákærði X.

Ákærði kom fyrir dóminn og neitaði sök. Kvaðst hann hafa starfað hjá Húsasmiðjunni sem sölumaður í timbursölu frá árinu 2004. Ákærði sé kennaramenntaður. Nokkru fyrir þann tíma hafi ákærði einnig starfað hjá Húsasmiðjunni. Verksvið ákærða hafi verið að svara fyrirspurnum í síma, gera smávegis af tilboðum og taka niður pantanir. Næsti yfirmaður ákærða á ákærutímabilinu hafi verið EIS en ákærði hafi ekki haft nein mannaforráð. Ákærði kvaðst neita sök í málinu en kvaðst staðfesta þá háttsemi sem komi fram í ákæruliðum og snúi að honum. Kvaðst ákærði ekki geta sagt til um undir hverja hjá fyrirtækinu verðkannanir heyrðu en þær heyrðu ekki undir ákærða. Verið gæti að ákærði hafi hringt í BYKO einu sinni til að kanna verð á sjö til tíu vöruliðum í græna efninu en þá hafi hann verið beðinn um að hringja. Ákærði kannast við að hafa svarað fyrirspurnum frá Húsasmiðjunni um verð en að jafnaði hafi það verið meðákærði Ragnar Már sem hafi hringt í ákærða og þá spurt um ca hundrað vöruliði. Ákærði hafi ekki spurt um verð Bykó á móti. Ákærði hafi stutt upplýsingar sínar til Ragnars Más við vöruverð í tölvunni hjá sér. Sá verðlisti hafi ekki verið aðgengilegur öllum starfsmönnum heldur bara öðrum sölumönnum og vörustjórum. Ákærði vissi ekki hver sá um að uppfæra þann verðlista. Þá kvaðst ákærði ekki muna hvenær þetta hafi byrjað en það hafi verið töluvert eftir árið 2004. Ákærði kvaðst aðspurður hafa haft heimild til að gefa starfsmönnum BYKO upp gildandi verð þegar spurt var. Ef vörur hafi verið á tilboðsverði þá hafi hann einnig gefið það upp. Þá hafi verðlistar legið frammi í verslunum um grófvöru. Þá taldi ákærði að sínum yfirmönnum hafi verið ljóst að hann veitti BYKO upplýsingar í gegnum síma. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað hvort verðbreytingar urðu hjá BYKO eða Húsasmiðjunni eftir upplýsingagjöfina en hann hafi ekki fylgst með því. Ákærði kvaðst heldur ekki hafa velt því fyrir sér hvort vörunúmerum fjölgaði eða fækkaði sem spurt var um. Símtal frá 8. mars 2011 á milli ákærða og Guðmundar Loftssonar var spilað fyrir ákærða. Kannaðist ákærði við samtalið og kvað það bara hafa verið almennt spjall þeirra um rannsókn málsins og framkvæmd verðkannana á ákærutímabilinu. Þá kvað ákærði að meðákærði Guðmundur Loftsson hefði getað sótt umrædd verð á heimasíðu BYKO. Aðspurður um það hvort meðákærði Guðmundur hafi tjáð ákærða að hann hafi einnig fengið verð á móti þegar hann hafi gefið upp verð Húsasmiðjunnar, mundi ákærði ekki eftir því, það gæti þó verið að hann hafi sagt sér að það hafi gerst í eitt skipti. Ákærði kvaðst ímynda sér að menn hafi verið fljótari að sækja verðin í gegnum síma en að sækja þau af heimasíðum. Ákærði hafi aldrei prófað það sjálfur en hafi heyrt af því að fyrri aðferðin væri fljótlegri. Ákærði kvaðst ekki muna eftir umræðu um verðkannanir í gegnum síma í þjónustuveri Húsasmiðjunnar. Þá kannaðist ákærði ekki við neinar breytingar á framkvæmd verðkannana á ákærutímabilinu utan að meðákærði Guðmundur Loftsson hafi sagt sér að það ætti að leggja meiri áherslu á verðkannanirnar. Engin sérstök tilmæli hafi hins vegar komið til ákærða um það.      

Ákærði Guðmundur Loftsson.

Ákærði kom fyrir dóminum og neitaði sök. Ákærði kvað þó þá háttsemi sem lýst er í þeim ákæruliðum sem snúa að honum vera rétta. Ákærði kvaðst hafa starfað frá 4. október 2010 á vörustýringarsviði Húsasmiðjunnar og átt að sjá um allar verðkannanir fyrir öll svið Húsasmiðjunnar. Ákærði hafi verið ráðinn sérstaklega til að sjá um verðkannanir almennt fyrir Húsasmiðjuna og hafi VP ráðið sig á sínum tíma. Fyrir þann tíma hafi ákærði starfað við aðrar deildir og verslanir hjá Húsasmiðjunni til margra ára. Ákærði kvaðst hafa gagnfræðapróf. Þegar ákærði tók við þessu starfi hafi verið búið að vinna grunn að verðkönnunarkerfi innan Húsasmiðjunnar sem átti að tengjast viðskiptamannakerfi Húsasmiðjunnar og nefndist Concord. Ákærði vissi ekki hvenær sú vinna hafi farið fram en meðákærði Kenneth og H sem unnu þá í tölvudeildinni hafi unnið þá vinnu. Ákærða hafi verið gert að kynna sér þá vinnu áður en hann hóf sín störf og vinna verðkannanir í samræmi við það. Ákærði kvaðst ekki vita hvernig verðkannanir hafi verið unnar fyrir hans tíð en taldi að vörustjórar hafi gert það hver fyrir sig. Ákærði hafi ekki fengið nein sérstök fyrirmæli en hann hafi fengið skjalið og séð þá hvernig hann varð að vinna verðkannanirnar. Ákærði hafi rætt við hvern vörustjóra fyrir sig og spurt hvernig þeir hafi unnið þær og þá hvort þeir gætu látið ákærða hafa afrit af excel-skjölum sínum svo að hann gæti samræmt það sínum gögnum. Þetta hafi  átt við um allar vörur Húsasmiðjunnar. Á tímabilinu hafi meiri upplýsingar bæst við hjá sér. Ákærði hafi farið inn á heimasíðu BYKO og sett verð inn í skjalið sitt og þannig búið sér til ákveðinn grunn til að vinna verðkannanir. Ákærði hafi sjaldan hringt í starfsmenn BYKO og beðið um upplýsingar, í mesta lagi í fjögur skipti og þá spurt um örfá vörunúmer. Ákærði hafi verið kominn með allar upplýsingar um verð BYKO af vefnum og því hafi hann ekki haft ástæðu til að hringja í BYKO. Ákærða minnti að meðákærði Ragnar Már hafi hringt í sig og spurt hvort ákærði hefði tíma til að lesa upp verð sem hann vantaði frá ákærða. Ákærði kvaðst hafa þurft að stimpla hvert vörunúmer, sem meðákærði Ragnar Már spurði um, inn í viðskiptakerfi Húsasmiðjunnar til að geta séð hvað varan kostaði og þannig lesið upp verðin fyrir meðákærða Ragnar Má. Ákærði kvaðst í byrjun ekki hafa spurt um verð BYKO á móti, hann hafi ekki þurft þess því að hann hafi verið kominn með öll verð BYKO af netinu áður en hringt var frá þeim. Því hafi hann ekkert haft með þau verð að gera sem Ragnar Már gaf honum upp. Síðar hafi það þróast þannig að annar hvor þeirra spurði um verð og hinn svaraði eins og fram hafi komið í símtali á milli þeirra. Ákærði vissi ekki hvenær það fyrirkomulag hafi farið í þann farveg. Ákærði kvaðst hafa verið fimm til tíu mínútur að sækja þær upplýsingar sem hann þurfti á vefinn hjá BYKO en hann hafi getað prentað þær út. Símtal þeirra um rúmlega hundrað vörunúmer hafi tekið um fjörutíu mínútur og hafi þeir á þeim tíma ekki rætt um neitt annað en vöruverð. Þá hafi það komið fram á vefnum hjá BYKO að sumar vörur voru merktar „SV“ sem ákærði hafi ekki haft hugmynd um í fyrstu hvað þýddi. Hjá Húsasmiðjunni hafi sumar vörur verið merktar „TB“ sem stóð fyrir tilboð auk þess að sumar vörur hjá þeim voru stjörnumerktar sem þýddi að frekari afsláttur var ekki gefinn af þeim vörum. Þegar ákærði var búinn að keyra verðkannanir inn í viðskiptamannakerfi Húsasmiðjunnar hafi ákærði prentað það út og farið með til sinna yfirmanna, VP, meðákærða Stefáns Árna og vörustjóra viðkomandi vöru en ákærði hafi prentað þetta út eftir vöruflokkum. Ákærði hafi ekki haldið eintökum eftir fyrir sig þar sem hann taldi sig ekkert hafa með þær upplýsingar að gera. Ákærði kvaðst ekki hafa notað verðupplýsingar frá BYKO í sínum verðkönnunum, eingöngu upplýsingar sem hann hafi aflað af heimasíðu BYKO. Ákærði kvaðst ekki hafa gert neinn greinarmun á því hvort hann var að gefa BYKO verðupplýsingar eða hvort þeir skiptust á verðum. Ákærði kvaðst halda að hann hafi ekki upplýst sína yfirmenn sérstaklega um aðferðir við verðkönnunina en taldi fullvíst að þeir vissu um þessi upplýsingaskipti, þar sem slíkar aðferðir hafi verið við lýði áður en ákærði tók við starfinu, og taldi að þeir hafi ekki vitað um það hvernig hann framkvæmdi eða svaraði Ragnari Má. Ákærði kvaðst ekki hafa haft mjög náin samskipti við vörustjórana. Annar hafi verið meðákærði Kenneth og hinn meðákærði Júlíus Þór. Aðrir vörustjórar hafi ekki tilheyrt grófvörunni. VP hafi ráðið ákærða til starfa og lagt línurnar um það hvernig ætti að vinna verkið en hann hafi ekki fylgst með ákærða. Hann hafi ekki sest yfir ákærða og fylgst með störfum hans. VP hafi hætt hélt ákærði í nóvember-desember 2010 og meðákærði Stefán Árni tekið við sem yfirmaður ákærða. Aðspurður um það hvaða þýðingu það hefði að ákærði fengi allar heimildir sem vörustjóri, kvað hann það tengjast útgáfu vörubæklinga en það gat verið að verðin væru þar önnur en uppgefið verð hjá Húsasmiðjunni. Hafði ákærði þá haft heimild til að breyta verðinu í samráði við vörustjóra ef þeir væru ekki við. Ákærði kvaðst ekki hafa haft nein mannaforráð. Ákærði kvað meðákærða Kenneth hafa verið vörustjóra yfir timbursölu og Júlíus Þór yfir spónaplötum og öðru slíku.

Ákæruliður 16.

Ákærði kvaðst neita sök en ekki þeirri háttsemi sem lýst er í ákæruliðnum fyrir utan að hann hafi ekki gefið upp „tilboðskjör“. Ákærði kvaðst hafa veitt upplýsingar um tilboðsverð sem væri annað en tilboðskjör. Tilboðsverð væri það verð sem væri skráð í tölvuna en tilboðskjör væru þau kjör sem vörustjóri setti inn hjá sér og ákærði hefði ekkert með að gera. Staðfesti ákærði að símtalið hafi átt sér stað. Tölvupóstur frá Ragnari Má þann 28. janúar 2011, ásamt verðkönnunarskjali sem fylgiskjali, var borinn undir ákærða. Ákærði staðfesti að þar kæmu fram þær vörur sem hann og meðákærði Ragnar Már hafi rætt um. Ákærði kvaðst ekkert vita hvað hafi gerst hjá fyrirtækjunum í framhaldi af verðkönnuninni. Ákærði kvaðst enga skýringu hafa á því hvers vegna Ragnar Már var með tilteknar vörutegundir á verðlistanum sínum. Til að geta gefið upp verð á sambærilegum vörum hafi ákærði þurft að bera þá vöru saman við sína vöru til að verðið væri vegna sömu vöru. Nákvæmlega sama heiti hafi ekki verið milli fyrirtækja á sömu eða sambærilegri vöru. Ef ákærði hafi ekki verið viss um að hann væri að gefa upp verð á sambærilegri vöru og BYKO bað um, þá hafi hann sent vörustjórum fyrirspurn um það hvort hann væri að gefa upp verð á sambærilegri vöru og þeir þá staðfest það.  Varðandi timbrið hafi ákærði leitað til meðákærða Kenneth og Júlíusar.

Ákæruliður 17.

Ítrekaði ákærði að tilboðskjör ættu ekki við í þessum ákærulið frekar en þeim fyrri. Að öðru leyti væri háttseminni rétt lýst. Símtal milli ákærða og Ragnars Más þann 4. febrúar 2011 var borið undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa rætt þetta símtal við sína yfirmenn og almennt hafi hann ekki gert það. Ef ákærði hafi verið spurður um það hvort Ragnar Már hafi hringt hafi hann svarað þeim um það. Kvaðst ákærði vita með nokkurri vissu að hans yfirmenn hafi vitað um þessi samskipti ákærða og Ragnars Más. Ákærði kvaðst ekki hafa fylgst með því hvort verðbreytingar hafi orðið hjá BYKO eftir slík samtöl.

Ákæruliður 18.

Áréttaði ákærði aðspurður fyrri svör sín varðandi tilboðskjör. Ákærði neitaði því að hafa upplýst meðákærða Stefán Árna um þær upplýsingar sem koma fram í ákæruliðnum. Ekki hafi verið um að ræða skjal sem hann hafi prentað út eftir að ákærði ræddi við Ragnar Má heldur hafi það verið upplýsingar sem hann hafi sótt inn á heimasíðu BYKO og hann prentað út. Samanburður á söluverði níu vöruliða frá 11. febrúar 2011 var borinn undir ákærða. Kvað hann það vera skjalið sem ákærði hafi prentað út og meðákærði Kenneth hafi fengið ásamt meðákærða Stefáni Árna. Kvað ákærði áletranir vera inni á skjalinu sem sennilega vörustjórar hafi bætt inn á skjalið eftir að ákærði hafi dreift því til vörustjóra. Skjalið sé prentað út úr Concord-kerfi Húsasmiðjunnar og verðupplýsingar um verð hjá BYKO séu sóttar á heimasíðu BYKO. Ákærði hafi ætíð sótt upplýsingar á þann hátt um verð BYKO. Ákærði kvað að stundum hafi komið í ljós í samtölum við meðákærða Ragnar Má að verð höfðu breyst hjá BYKO. Þá hafi ákærði yfirleitt sótt sér upplýsingar um verðin aftur á heimasíðuna þeirra. Ákærði hafi yfirleitt verið með lista yfir vöruverð Húsasmiðjunnar á borðinu sínu svo að hann gæti svarað Ragnari Má þegar hann hringdi og þá upplýst hann um það hvað varan kostaði. Hugsanlega hafi ákærði skrifað inn á listann ef Ragnar Már upplýsti hann um annað verð en ákærði hafi þá fengið upplýsingar um á heimasíðu BYKO en hann hafi yfirleitt ekki notað uppgefin verð frá Ragnari Má ef þau voru önnur en verðin á heimasíðu þeirra. Sambærilegur samanburðarlisti og að ofan greinir frá 11. febrúar 2011 var borinn undir ákærða. Staðfesti ákærði að hann hafi prentað þann lista út og afhent meðákærðu Júlíusi og Stefáni Árna og eitt eintak hafi farið til VP. Ákærði hafi ekki prentað slíkar upplýsingar út í öðrum tilgangi. Excel-skjal með vörunúmerum BYKO og Húsasmiðjunnar frá 17. febrúar 2011 var borið undir ákærða. Ákærði kvað skjalið sýna að upplýsingarnar hafi verið unnar 17. nóvember 2010. Ákærði hafi verið með það skjal á borðinu sínu til að geta upplýst Ragnar Má um verð Húsasmiðjunnar þegar hann hringdi. Hafi ákærði verið með þennan sama lista við upplýsingagjöf áður og notað sama lista þann 17. nóvember og því handskrifað ofan í listann. Breytt verð hjá BYKO frá síðustu verðkönnun hafi verið handrituð inn á skjalið. Ákærði hafi síðan farið inn á heimasíðu BYKO í framhaldi og sótt rétt verð og keyrt þau inn í kerfi Húsasmiðjunnar. Ákærði hafi ekki farið inn á heimasíðu þeirra áður en meðákærði Ragnar Már hringdi því að ákærði hafi ekki vitað nákvæmlega hvenær Ragnar Már myndi hringja.

Ákæruliðu 19.

Staðfesti ákærði háttsemina í þeim ákærulið. Símtal frá 8. mars 2011 var borið undir ákærða þar sem hann ræddi við meðákærða Stefán Árna, m.a. um framkvæmd vörukönnunar milli Húsasmiðjunnar og BYKO. Ítrekaði ákærði að þar kæmi fram að hann hafi farið á heimasíðu BYKO til að sækja verðupplýsingar frá þeim og að hann hafi ekki þurft að hringja í þá til að fá þær upplýsingar. Ákærði kvaðst hafa skráð hjá sér hversu oft ákærði hafi hringt í BYKO. Hafi það verið fjórum sinnum og í eitt skiptið hafi ákærða vantað verð á timbri af ákveðinni lengd sem ekki hafi verið í skrá frá þeim og einnig komi fram í símtalinu við Ragnar Má að þeir hafi verið með eina lengd en Húsasmiðjan með tvær lengdir. Þess vegna hafi ákærði hringt í Ragnar Má til að fá verðið. Í einhverju tilviki hafi ákærði hringt og spurt um hurðir en það hafi verið fyrir þennan tíma. Ákærði var inntur eftir því sem hann sagði við meðákærða Ragnar Má að „þeir skiptust á verðum“. Kvað ákærði það hafa bara verið eðlilega frásögn eftir skýrslutökur hjá lögreglu. Kvað ákærði að þeir hafi ekki skipst á verðum í upphafi en síðan hafi þetta þróast í það að þeir skiptust á verðum. Hafi Ragnar Már leitt spurningarnar í þessu símtali. Ákærði kvað Stefán Árna hafa verið yfirmann sinn á þessum tíma. Ákærði kvaðst ekki geta staðfest hvort það hafi verið almenn vitneskja hjá yfirmönnum hans um aðferðina þar sem þeir hafi ekki setið við hliðina á sér þegar símtölin fóru fram. Símtal ákærða og meðákærða X 8. mars 2011 var borið undir ákærða. Hafi í símtalinu komið fram að ákærði hafi talið sig þurfa að fá upplýsingar símleiðis frá meðákærða Ragnari Má. Kvað ákærði það ekki hafa verið rétt. Kvaðst ákærði hafa verið fimm til tíu mínútur að sækja verðupplýsingar BYKO á netið því að símtölin hafi tekið lengri tíma. Eftirfarandi frásögn ákærða: „... það er eins og þú veist [X], þeir hafa nú verið, verið að þegar við höfum hækkað að þessi verð berist til þeirra þannig að þeir hækki líka, ég meina hefur það ekki verið hluti af dæminu líka,“ var borin undir ákærða. Kvað ákærði sig hafa verið að vísa í gamla tímann þegar þeir unnu saman í þjónustuverinu. Þá hafi kannski á einhverjum tímapunkti komið til tals hvernig þessi verðkönnun hafi þróast en ákærði hafi þá ekki verið kominn til vinnu yfir vetrarmánuðina. Ákærði kvaðst ekki geta gefið neina aðra skýringu á þessu. Aðspurður kvaðst ákærði halda að Húsasmiðjan hafi yfirleitt verið með hærri verð en Bykó en ákærði hafi ekki fylgst sérstaklega með því. Aðspurður kvaðst ákærði hafa velt því fyrir sér þegar hann, X og einn annar unnu saman í þjónustuverinu, hvort þessi aðferð við verðkönnun væri í lagi en hann hafi ekki rætt það sérstaklega við aðra. Útskrift úr áminningarkerfi tölvupóstforrits frá 7. janúar 2011 þar sem segir: „Hringja í Ragnar í BYKO út af verðkönnun,“ var borin undir ákærða. Í þessu tilviki minnti ákærða að Ragnar Már hafi hringt á föstudeginum og ákærði ekki getað gefið honum upplýsingar þann dag og líklega hafi ákærði ætlað að hringja í Ragnar Má til baka í framhaldi eftir helgina. Hvort hann gerði það eða ekki myndi hann ekki. Handritað skjal, þar sem segir m.a. að Ragnar Már hafi hringt kl. 15:30, og dagsetningin 7.01 2011 að „Ragnar hafi hringt, tala við hann á mánudag“, var borið undir ákærða. Kvað ákærði það hafa verið vinnuskjal fyrir ákærða. Tölvupóstur frá Stefáni Árna til BÞK, Guðmundar L., Y þar sem yfirskriftin er „Byko voru að gera könnun á öllu draslinu“ var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði muna eftir því að hafa fengið það tölvubréf frá Stefáni Árna. Taldi ákærði að tilkoma þessa pósts væri að BÞK hafi talað við Ragnar Má og BÞK látið Stefán Árna vita af því samtali. Framburður ákærða hjá lögreglu, þar sem hann segir að það hafi tekið hann tvo til þrjá daga að afla upplýsinga um verð BYKO, var borinn undir ákærða. Kvað ákærði það ekki rétt eftir sér haft. Í símtali við BYKO væri ákærði að afla upplýsinga um 106 vörunúmer en það tæki hann hins vegar fimm til tíu mínútur að afla þeirra upplýsinga á vefnum. En að ná í allar skrár inni á vef BYKO og afrita þær inn í kerfi Húsasmiðjunnar gæti tekið tvo til þrjá daga. Væri þar um að ræða allar vörur, ekki bara þær sem heyrðu til timbursölunni. Vöruskrá Húsasmiðjunnar hafi talið um fjörutíu þúsund vörunúmer og það hafi örugglega hlaupið á þúsundum hjá BYKO. Upplýsingar í skýrslu 8. mars 2011 hjá lögreglu um að ákærði hafi fengið grunnskýrslu hjá vörustjórum í upphafi starfa síns kvað hann réttar, sumir vörustjórar hafi átt skýrsluna en aðrir ekki. Aðspurður um þær handskrifuðu verðbreytingar sem ákærði skrifaði inn á útprentað skjal, sem stafaði frá honum, kvaðst hann hafa getað sótt þær upplýsingar á netinu en ekki hafa gert það því að hann hafi ekki vitað fyrirfram hvenær Ragnar Már myndi hringja. Aðspurður kvað ákærði meðákærða Ragnar Má hafa getað sótt umbeðin verð til meðákærðu X eða Y, auk þess að fá þær upplýsingar af Husa.is þó að það hafi kostað hann nokkuð lengri tíma að sækja upplýsingarnar þangað. Ákærði kvaðst ekki hafa fengið neinar leiðbeiningar um samkeppnismál né upplýsingar um að vinna hans gæti verið saknæm. Verðkannanir hafi ekki verið trúnaðarupplýsingar og starfsmenn Húsasmiðjunnar hafi haft aðgang að verðum verslunarinnar í tölvum og af verðlistum. Ákærði kvað laun sín ekki hafa verið bundin við framlegð eða árangurstengd. Þá hafi ákærði ekkert með verðákvarðanir haft að gera, það hafi verið vörustjórarnir. Ákærði kvaðst ekki hafa fengið bein fyrirmæli frá Stefáni Árna um að ræða við Ragnar Má en hann taldi að hans yfirmenn hafi vitað um að þeir ræddu saman. Þá hafi hann ekki fengið fyrirmæli um að eiga skipti á upplýsingum um verð við Ragnar Má. Ákærði hafi fengið upphaflega fyrirmæli í tölvubréfi frá Stefáni Árna árið 2008 um það hvernig hann ætti að nálgast verðupplýsingar frá BYKO. Ákærði kvað aðspurður VP og Stefán Árna hafi verið hans yfirmenn en ákærði hafi litið á samband sitt og vörustjóranna meira sem samstarfsmenn þar sem ákærði hafi unnið fyrir þá í þeim tilgangi að afla þeim upplýsinga. Ákærði sagði vörustjórana ekki hafa gefið sér fyrirmæli en þeir gátu beðið hann um að framkvæma verðkannanir sem ákærði hafi gert í framhaldi.  

Ákærði Kenneth Breiðfjörð.

Ákærði neitaði sök fyrir dóminum. Kvaðst hann hafa starfað sem vörustjóri í timburstölu og steinull, þakjárni o.fl. hjá Húsasmiðjunni. Það tilheyri grófvörum og heyri undir vörustýringarsvið. Fyrir utan ákærutímabilið hafi ákærði starfað hjá Húsasmiðjunni haustið 2009 og þá verið í sambærilegu starfi. Ákærði sé menntaður byggingarfræðingur. Yfirmenn ákærða hafi verið Stefán Árni Einarsson, framkvæmdastjóri sviðsins, en VP hafi gegnt því starfi í skamman tíma eða þar til hann hætti störfum um áramótin 2010/2011. Ákærði kvaðst ekki hafa haft mannaforráð í starfi sínu.

Ákærukafli III.

Ákæruliður 1.

Ákærði neitaði sök en kvað símtalið sem komi fram í ákæruliðnum hafa átt sér stað. Símtalið hafi átt sér stað snemma að morgni en ekki í þeim tilgangi að koma sérstökum skilaboðum áfram. Kvaðst ákærði hafa rætt við Guðmund Loftsson í þessu símtali en þar hafi verið vísað til Ragnars Más sem hafi gert verðkannanir fyrir BYKO á grófvöru. Ástæðan fyrir símtalinu hafi verið miklar verðbreytingar sem höfðu verið í undirbúningi frá lokum janúar en þær hafi tekið langan tíma. Meðákærði Stefán Árni hafi sent skilaboð um að verðhækkanirnar skyldu gerðar í röð eftir vörustjórum og ákærði hafi ekki getað klárað sinn hluta á réttum tíma. Tilgangur símtalsins hafi verið að láta Guðmund vita að upplýsingar um verð þann daginn væru ekki réttar þar sem verðbreytingarnar hefðu ekki verið komnar í gegn. Ákærði kvað þetta ekki hafa skipt neinu máli varðandi upplýsingagjöf um verð almennt. Aðspurður kvað ákærði verðhækkanirnar hafa verið aðallega í timbri en vörunúmerin hafi verið nokkur hundruð. Aðspurður um setninguna „eiginlega ekkert að marka það sem þú segir honum í dag“ kvað ákærði hann líklega hafa átt við að hann hafi verið búinn að keyra hluta af þeim verðupplýsingum inn, sem átti að vera búið að keyra inn í kerfið, eins og ákærði kvaðst skilja þetta svona löngu seinna. Aðspurður hvort almennur viðskiptavinur hefði fengið sömu upplýsingar ef hann hefði hringt inn, kvað ákærði að almennur viðskiptavinur myndi ekki hringja beint í Guðmund Loftsson, hann hafi ekki sinnt fyrirspurnum viðskiptavina. Viðskiptavinur sem hefði hringt í einhverja verslun hefði fengið þau verð sem voru á þeirri mínútu í tölvunni. Aðspurður um að „gera þetta til öryggis“ kvaðst ákærði ekki átta sig á hvað hann hafi meint. Ákærði kvað verðin í kerfinu þeirra og á netinu hafa breyst um leið og ákærði keyrði verðbreytingarnar inn. Tölvupóstur frá ákærða Júlíusi til fjölda starfsmanna í Húsasmiðjunni frá 16. febrúar 2011, þar sem tilgreindar eru verðbreytingar á nokkrum vörutegundum og starfsmenn beðnir um að passa upp á að laga merkingar hjá sér og verðlista, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst bara vera með hluta af grófvörunni en í þessum pósti komi fram hluti af þeim vörum sem hafi átt að verðbreyta. Símtal frá 17. febrúar 2011 milli ákærða og ónafngreinds starfsmanns Húsasmiðjunnar var borið undir ákærða. Ákærði kvaðst þar ræða við VG, sölumann í Húsasmiðjunni. Kvað ákærði þetta ekki hafa verið ÓG sem hann tilgreindi fyrir lögreglu. Ákærði kvaðst ekki geta útilokað að þetta samtals tengdist samtölum deginum áður. Aðspurður hvað ákærði hafi átt við með orðunum „gerði til að vekja þá til umhugsunar og selja á skynsamlegu verði einu sinni“ kvaðst ákærði ekki muna nákvæmlega hvað hann hafi átt við með þessum orðum en VG nefni að hann hafi gert tilboð í gagnvarða efnið og farið með það niður í 214 krónur. Sé VG að biðja sig um að kanna hvort slík verðlagning hjá þeim sé möguleg og sé að velta fyrir sér hvort hann sjái allar upplýsingar um framlegð í tölvunni. Varðandi „þá“ taldi ákærði að hann hafi átt við Bykó í þessu sambandi. Ákærði kvaðst ekki hafa hringt upp á sitt eindæmi í Guðmund 16. febrúar 2011 en mundi ekki sérstaklega til þess að einhver hefði beðið hann um það. Ákærði kvaðst ekki hafa, á þessum tíma, verið yfirmaður Guðmundar Loftssonar og því ekki getað gefið slík fyrirmæli, þeir séu bara samstarfsmenn og því sé þetta þannig. Ákærði kvaðst hafa haft heimild til verðbreytinga og hafi oftast haft þann hátt á að hafa borið það undir Stefán Árna hvort þeir ættu að breyta verðum. Ákærði hafi hins vegar verið frekar tregur til að vera í verðbreytingum, frekar hafi átt að ráðast á afsláttarverðin en að hækka listaverðin. Borið var undir ákærða símtal frá 17. febrúar 2011, þar sem ákærði ræddi við SE, starfsmann Húsasmiðjunnar. Aðspurður hvað hann hafi meint með „þú veist að þetta er bara ein tilraun til þess að pota þessu uppá við“  kvað ákærði þetta eiga við sömu verðbreytingu og hann skýrði frá fyrr. Þeir hafi hækkað verð og þurft að fylgjast með því hvort samkeppnisaðilar hafi breytt sínum verðum og ákærði þá þurft að draga sína hækkun til baka og þá frekar reynt að ná aukinni framlegð út úr afsláttarverðunum. Ákærði kvað þá hafa fylgst með verðum með því að fara inn á vefsíðu samkeppnisaðila eins og meðákærði Stefán Árni hafi ítrekað óskað eftir. Aðspurður hvað ákærði hafi meint með því að „það hafi tekist og vonandi tekst það aftur“, kvaðst hann væntanlega hafa átt við að þeir hafi hækkað verð og BYKO hafi þá hækkað sín verð líka. Ákærði kvað græna efnið í tölvupóstinum vera pallaefnið og skjólgirðingar. Aðspurður um hvers vegna vísað sé í fimm helstu stærðirnar, kvað ákærði það vera algengustu vörurnar í timburhlutanum. Aðspurður um hvað þýddi að „stilla af stærðirnar“ kvaðst ákærði hafa verið að stilla af verðin á ákveðinni timburstærð en græna efnið hafi ekki selst vel yfir vetrarmánuðina. Ákærði hafi verið að laga verðin miðað við kostnaðarverð úr síðustu sendingu. Aðspurður um orðin „ég vildi gera þetta núna til að sjá hvort þeir myndu ekki bregðast við því og sjá meiri framlegð,“ kvaðst ákærði hafa verið að hækka verðin þarna fyrir sumarið  og heldur fyrr en ætlað var. Ákærði hafi ætlað að auglýsa verðin næstu daga á eftir og þeir hafi ætlað að koma hreyfingu á timbrið fyrr en venjulega. Símtal ákærða og Guðmundar Loftssonar frá 16. febrúar 2011 var borið undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki vita hvort haft hafi verið samband við Guðmund eftir símtal þeirra. Kvað ákærði að ef hann hafi ætlað sér að Guðmundur brygðist við á ákveðinn hátt eftir símtalið, þá hefði ákærði hreinlega sagt honum að gera svo. Ákærði kvað BYKO hafa farið í breytingar á þessum tíma og hafi það komið fram í símtali á milli ákærða og Stefáns Árna. Tölvupóstur frá ákærða til fjölda starfsmanna Húsasmiðjunnar 16. febrúar 2011, þar sem fram kemur að eftirfarandi verðbreytingar hafi verið gerðar þann daginn og þegar tekið gildi, var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst sennilega hafa byrjað á verðbreytingum deginum áður og vænti þess að hann hafi verið í þessu þennan dag og verðbreytingar hafi verið framkvæmdar þegar hann sendi tölvupóstinn. Kvað ákærði verðin koma strax fram í tölvu Húsasmiðjunnar eftir að þau hafi verið keyrð inn. Ákærði kvaðst ekki hafa fylgt símali sínu við Guðmund eftir og hann vissi ekki um það að Guðmundur hafi gert nokkuð sjálfur í kjölfarið. Í byrjun árs 2010 taldi ákærði verðkannanir vera gerðar á miðvikudögum eða ekki, ákærði vissi ekki hvort hann hafði lesið það í gögnum en þær hafi verið gerðar vikulega. Ákærði kvað framkvæmdastjórn hafa ákveðið að fara í miklar verðbreytingar í janúar á öllum vörum Húsasmiðjunnar. Hafi það stafað af hækkun gengisins, hækkun frá birgjum og vegna flutningskostnaðar. Ákærði kvað misræmi hafa verið í verðlistum sem lágu frammi í búðunum á meðan var verið að keyra verðbreytingar í gegn en eftir að þeirri keyrslu var lokið þá fóru menn í að prenta út nýja verðlista til að setja fram í búðina.

Ákærukafli V.

Ákæruliður 2.

Ákærði neitaði sök en taldi háttseminni þar vera rétt lýst. Ákærði lýsti því að efni símtalsins hafi verið annað en ákæruvaldið byggi á. Ákærði kvað sig og Júlíus hafa farið deginum áður í heimsókn í Múrbúðina eða 14. október. Múrbúðin hafði nokkrum dögum áður opnað grófvörudeild. Þeir vildu því kanna hvað þeir væru að selja. Þar hafi þeir hitt fyrir gamlan samstarfsmann, EGS. Þeir hafi gengið hring í búðinni og þeir séð hvað var til sölu. Hinn tilgangur heimsóknarinnar var að kanna hvort verðlisti hafi ekki legið frammi. Verðlistar hafi ekki verið sjáanlegir og ákærði spurt EGS hvort þeir yrðu ekki lagðir fram. EGS hafi sagt þeim að málið hjá þeim hafi ekki verið komið svo langt og við það hafi ákærði og Júlíus farið í burtu. Daginn eftir hafi ákærði hringt í EGS og spurt hann hvort hann hafi klárað umræðuna við BB um verðlista. EGS hafi þá sagt við sig að hann skyldi bara senda ákærða verðlistann. Ákærði hafi þá lokið símtalinu. Ákærði hafi rætt símtalið við meðákærða Júlíus og það að EGS hafi ætlað að senda þeim verðlistann. Júlíus hafi þekkt EGS heldur betur en ákærði og því hafi orðið úr að Júlíus myndi hringja í EGS og óska eftir því að verðlistinn yrði ekki sendur. Þeir vildu bara fara á netið og finna verð þar eða fara á staðinn og punkta verð þannig niður. Síðar hafi niðurstaðan orðið sú að Múrbúðin myndi láta verðlista liggja frammi og Guðmundur Loftsson ætlað á staðinn til að punkta niður verðin en af því hafi ekki orðið þar sem verðlistar hafi aldrei legið frammi. Ákærði kvaðst ekki hafa viljað fá verðlista í tölvupósti því að fyrirmælin frá Stefáni Árna hafi verið að nálgast verðin á netinu. Aðspurður um að ákærði hafi vitað um símtöl vegna verðkannana og þá hvort hann sæi einhvern mun á þeim og tölvubréfum, kvað ákærði Húsasmiðjuna almennt ekki hafa kannað verð í síma nema í nokkur skipti sem hringt var í Bykó þar sem ákærði hafi hringt í aðalnúmerið, ekki kynnt sig sérstaklega, sennilega verið í bílnum og viljað nýta tímann, fengið samband við timbursöluna og fengið verð á tveimur þremur vörum. Ákærði kvaðst hafa vitað af því að starfsmenn Bykó hringdu í Húsasmiðjuna til að fá uppgefin verð. Ákærði kvaðst sjá mikinn mun á því hvort hann væri að fá upplýsingar eða veita upplýsingar. Ákærði var spurður um símtal og heimsókn til Múrbúðarinnar. Kvaðst hann halda að hann hafi ekki verið beðinn sérstaklega um að fara í þá heimsókn, frekar hafi það verið forvitni ákærða og Júlíusar. Aðspurður um framhald símtalsins kvaðst ákærði hafa rætt símtalið við Júlíus og niðurstaðan hafi verið að Júlíus myndi hringja í EGS. Taldi ákærði að Júlíus hafi hringt og komið hafi verið í veg fyrir að Múrbúðin sendi þeim verðlista í tölvupósti. Aðspurður hvort ákærði hafi upplýst sína samstarfsmenn eða yfirmenn um þessi samskipti, kvaðst ákærði ekki muna til þess fyrir utan Júlíus. Frásögn úr fundargerð Samkeppniseftirlitsins 21. október 2010 var borin undir ákærða. Kvaðst ákærði ekki hafa hringt í EGS til að skiptast á einu eða neinu. Tölvupóstur frá ákærða til VP, Guðmundar Loftssonar og Júlíusar Sigurjónssonar þann 15. október 2010, þar sem fram kemur hjá ákærða að Guðmundur fari í Múrbúðina og punkti hjá sér verð á nokkrum viðartegundum o.fl., var borinn undir ákærða.  Ákærði kvaðst ekki muna sérstaklega eftir þessum pósti. Tilefnið hafi verið að VP hafi sent tölvupóst og beðið um verðkönnun í Múrbúðinni strax. Sé tölvupóstur ákærða svar til VP. Kvað ákærði hafa dregið þá ályktun eftir símtalið við EGS að hann myndi láta verðlistana liggja frammi. Taldi ákærði þá einhvern möguleika hafa verið á að punkta niður verð í Múrbúðinni. VP hafi verið aðstoðarframkvæmdastjóri á vörustýringarsviði og haft það hlutverk á þessum tíma að fylgjast með því að verðkannanir yrðu framkvæmdar. VP hafi líka verið í sambandi við birgja og hjálpað til við að kreista niður verð. Ákærði hafi litið á VP sem sinn yfirmann. Ákærði þorði ekki að fullyrða að VP hafi verið upplýstur um heimsóknina í Múrbúðina né símtalið. Ákærði taldi að Guðmundur Loftsson hafi síðan farið í Múrbúðina.

Ákærði Júlíus Þór Sigurþórsson.

Ákærukafli V.

Ákæruliður 1.

Ákærði kom fyrir dóminn og neitaði sök en kvað háttsemina sem lýst sé í ákæruliðnum vera rétta. Ákærði kvaðst vera tæknifræðingur að mennt og hafi hann verið vörustjóri á þungavörusviði Húsasmiðjunnar á ákærutímabilinu sem hafi heyrt undir vörustýringarsvið.. Ákærði hafi verið í sama starfi frá árinu 1998. Yfirmenn hans hafi verið VP og Stefán Árni Einarsson. Hafi ákærði hitt yfirmenn sína reglulega. Ákærði hafi ekki haft mannaforráð. Kvaðst ákærði hafa fengið óvænt og óundirbúið símtal og hafi ákærði brugðist óvænt við því og finnist hann hafa verið leiddur í gildru. Ákærði kvaðst aldrei hafa fengið slíkt símtal áður. Enginn aðdragandi hafi verið að símtalinu. Ákærði kvaðst kannast við meðákærða Steingrím Birki. Aðspurður hvað hafi verið átt við með „þetta verður bara hjaðningavíg“ kvað ákærði það þýða að samkeppnin væri hörð. Ákærði kvað sér hafa skilist á Steingrími Birki að hann hafi ætlað að lækka tilboðsafslætti  hjá sínum sölumönnum. Aðspurður um orðin „við lifum þetta ekki af ef við höldum þessu áfram“ kvaðst ákærði hafa átt við að samkeppnin væri grimm og hörð. Ákærði kvaðst bara hafa tekið þannig til orða. Hann hafi verið leiddur inn í símtalið og farið að „fabúlera“ um markaðinn eins og tvær fótboltabullur ræði saman. Aðspurður um það hvers vegna rætt hafi verið um Akureyri og Selfoss, kvað ákærði þau svæði hafa verið erfið markaðssvæði. Ákærði kvaðst eftir á að hyggja hafa hugsað hversu skrýtið samtalið hafi verið og sér fundist það hafa verið einhver stressviðbrögð hjá Steingrími Birki sem ákærði hafi óvart tekið þátt í. Aðspurður um að „Húsasmiðjan hafi sjálf verið búin að hækka undanfarið þar sem þeir voru búnir að fá á sig hellings hækkanir“ kvað ákærði þá hafa verið búna að hækka undanfarið vegna hækkana frá birgjum. Ákærði kvaðst aðspurður ekki hafa upplýst Steingrím um „að fylgja ykkur eftir þar... verið á eftir og þið dregið vagninn“. Kvaðst ákærða telja að Steingrímur hafi verið að vísa í að Húsasmiðjan hafi verið búin að hækka á undan BYKO. Ákærði kvaðst hafa skilið Steingrím Birki þannig að hann hafi verið að tala um grófvöruna . Aðspurður hvað hafi verið átt við með orðunum „megum ekki missa þetta frá okkur núna“, kvaðst  ákærði hafa verið að vísa til þess að markaðurinn væri erfiður og erfitt tímabil væri framundan. Kvað ákærði grófvörurnar hafa verið um 40% af veltu fyrirtækisins. Aðspurður um að „slást á eðlilegum nótum“ kvaðst ákærði hafa meint að þeir stunduðu heiðarlega samkeppni. Aðspurður um „að hækka levelið“  kvaðst ákærði ekki muna hvað ákærði Steingrímur Birkir hafi sagt fyrir dóminum um það en ákærði hafi ekki lagt neinn sérstakan skilning í það. Aðspurður um orðin „ég vona að þið merkið þetta“ kvaðst ákærði ekki hafa lagt sérstakan skilning í það en líklega ætlast til að það fréttist eitthvað. Aðspurður um orð Steingríms Birkis að „þeir væru svo langt frá þeim að það hafi ekki verið heilbrigt fyrir þá“ kvaðst ákærði telja að það snerist um ofnapakka en þá hafi ákærði ekkert haft með að gera. Aðspurður kvaðst ákærði ekkert hafa haft með græna efnið að gera en oft hafi verið rætt um það innan fyrirtækisins. Aðspurður um að „menn séu ekki að jarða sig fyrir sísonið“ kvað ákærði að hann hafi bara verið að fabúlera um það. Aðspurður um orðin „við verðum að lyfta okkur upp núna“ kvaðst ákærði hafa verið að tala um hversu erfitt undanfarin tímabil hafi verið. Aðspurður um orð ákærða Steingríms Birkis þar sem hann talaði um geggjun kvaðst ákærði ekki hafa lagt neinn skilning í það. Aðspurður um að „koma á rétta staði“ kvaðst ákærði bara hafa tekið þannig til orða þar sem hann hafi ekkert haft með þetta að gera. Ákærði kvað valvöru vera parket og flísar og fleira sem fólk hafi val um. Aðspurður um að „það þýði ekkert annað en að handstýra“ kvaðst ákærði hafa skilið það þannig að Steingrímur Birkir hafi ætlað að handstýra sínum sölumönnum. Ákærði kvaðst ekkert hafa frétt af þessu fyrr en hann hafi verið tekinn í yfirheyrslur. Ákærði kvaðst ekki hafa fylgst með verðbreytingum hjá BYKO í framhaldi af símtalinu. Söludeildin hafi haft með tilboð að gera en ekki ákærði. Ákærði taldi eftir á að Steingrímur Birkir hafi leitt sig í gildru, ákærði hafi ekkert með þennan málaflokk að gera. Ákærði kvaðst ekki hafa upplifað símtalið þannig að Steingrímur Birkir hafi verið að leiða sig í gildru. Ákærði kvaðst hafa staðið nánast strax upp eftir símtalið, þar sem honum hafi þótt það skrýtið, og ætlað að upplýsa sinn yfirmann um það. Hann hafi ekki verið við og því hafi hann farið til Ó og Z og upplýst þá um efni símtalsins. Þeir hafi orðið mjög hissa. Þeir væru hins vegar ekki yfirmenn sínir. Enginn annar hafi rætt þetta símtal við ákærða og ákærði hafi aldrei rætt það við nokkurn mann. Þá hafi Z og Ó beðið ákærða að segja ekki nokkrum manni frá þessu símtali. Ákærði kvaðst hafa kannast við Steingrím Birki og hitt hann einu sinni til tvisvar á ári í einhverjum boðum. Þá kvaðst ákærði aldrei hafa fengið neina fræðslu varðandi samráðs- eða samkeppnismál. Hann hafi látið brjóstvitið ráða. Ákærði kvaðst hafa stjórnað listaverði á sínum vörum og innkaupum á plötum en ekkert haft með verðlagningu að gera. Ef átt hafi að breyta listaverði á þeim vörum sem ákærði hafði umráð með hafi hann sett verðin inn. Ef vörurnar áttu að vera á tilboði eða sérverði þá hafi ákærði sett það inn í verðlista Húsasmiðjunnar.

Ákæruliður 3.

Kvað ákærði lýsingu ákærða Kenneth á undan sér fyrir dóminum vera í samræmi við sína lýsingu. Kvaðst ákærði hafa átt samtal við Kenneth eftir símtal Kenneth við EGS og þeir orðið sammála um að ákærði myndi hringja í Múrbúðina til að afþakka það að þeir sendu verðlista til Kenneth. Ákærði hafi gert það og ákærði hafi ekki óskað eftir neinum verðupplýsingum í þessu símtali. Minnti ákærða að hann hafi upplýst Kenneth um að hann hafi hringt og afþakkað vörulista í tölvupósti. Kannaðist ákærði við að hafa orðað eitthvað um eftirlitsaðila í tengslum við það. Honum hafi fundist orka tvímælis að senda vörulista með tölvupósti. Tölvupóstur frá ákærða til VP, Guðmundar og Júlíusar frá 15. október, þar sem ákærði segir Guðmund fara í  Múrbúðina og punkta hjá sér verð í ýmsum viðartegundum o.fl., var borinn undir ákærða. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu tölvubréfi. Eina sem ákærði myndi eftir var að Guðmundur L. hafi komið tómhentur til baka frá Múrbúðinni en hann og Kenneth höfðu áður farið fýluferð þangað. Aðspurður kvað ákærði 14. og 15. október vera einu skiptin sem ákærði hafi verið í sambandi við EGS í Múrbúðinni. Ákærði kvað það vera hluta af starfsskyldum sínum að fylgjast með verði samkeppnisaðilanna.

Ákærði Z.

Ákærði kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri verslunarsviðs í febrúar 2011. Ákærði hafi heyrt beint undir forstjóra, SAS. Ákærði hafi verið framkvæmdastjóri verslunarsviðs allt frá árinu 2006. Hann hafi þá áður verið framkvæmdastjóri Blómavals til margra ára og hafi mikla reynslu á verslunarsviði. Ákærði kvaðst hafa haft nokkur mannaforráð.

Ákærukafli IV.

Ákæruliður 2.

Ákærði neitaði sök. Aðspurður um það hvernig ákærði Júlíus hafi skýrt honum frá símtalinu milli hans og Steingríms Birkis, kvaðst ákærði hafa séð eftir skýrslutökur af öðrum ákærðu að hann hafi verið rangur maður á röngum stað. Málefnið hafi ekki heyrt undir ákærða en honum hafi fundið efni símtalsins mjög einkennilegt og óvenjulegt. Ákærði hafi aldrei frá 1983 heyrt annað eins og alltaf talið að menn stunduðu heilbrigða viðskiptahætti. Aðspurður hvort ákærði hafi beðið Júlíus um að segja engum frá þessu, kvaðst ákærði ekki muna hvort hann eða ÓÞJ hafi sagt það, þetta hafi verið upplýsingar sem ekki ættu að fara um fyrirtækið. Ef svo væri, þá yrði það að vera forstjórinn sem dreifði þessu. Þeir hafi allir sammælst á þessari stundu um að þeir myndu upplýsa forstjórann um símtalið en ákærði hafi staðið í þeirri trú að ÓÞJ myndi upplýsa forstjórann um það. Aðspurður hvað ákærði hafi meint með því að segja að fara verði með þetta eins og mannsmorð, kvaðst ákærði hafa fengið þennan bolta í fangið og hann velt því fyrir sér hvernig hann ætti að koma þessu frá sér. Honum hafi því verið létt þegar hann var búinn að koma boltanum yfir til forstjórans. Honum hafi ekki fundist koma til greina að upplýsa sölumenn um símtalið. Ákærði taldi að ekkert hafi verið gert með þær upplýsingar sem komu fram í símtalinu á milli Júlíusar og Steingríms Birkis. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa haft heimildir til að breyta verði á grófvöru þar sem hann hafi ekki haft aðgang að því kerfi. Þá hafi ákærði ekki getað gefið sölumönnum fyrirmæli um afslætti. Ef fyrirmæli hafi átt að koma um aukna afslætti eða að breyta þeim, þá hafi það verið ÓÞJ sem gat gefið slík fyrirmæli en aðkomu forstjóra hafi ekki þurft til. Ákærði kvað Júlíus hafa verið mjög hissa yfir símtalinu þegar hann kom inn til þeirra og skýrði frá símtalinu við Steingrím Birki.

Ákærði kvaðst hafa fengið símtal frá SAS þennan dag. Aðspurður um samræður um að „[S] sé að gefa hint um að hækka framlegðina“ og „hver staðan á Akureyri og Selfossi sé á þessum tíma“, kvað ákærði að það væru þeir staðir þar sem samkeppnin væri hörðust. Aðspurður um hvað átt hafi verið við með því að „berjast mest á?“ kvað ákærði þá hafa rætt um Akureyri og Selfoss en þar séu nokkuð stórir verktakar en miklu skipti að halda þeim sem viðskiptavinum. Aðspurður um græna efnið og „að það megi ekki endurtaka sig“ kvað hann græna efnið vera pallaefni og efni sem sumarbústaðaeigendur versli mikið. Fyrra sumar hafi framlegð verið mjög lág í pallaefni og þeir hafi ekki viljað lenda í því aftur. Aðspurður um orð sín „bara fínt“  kvað ákærði að það sé fínt þegar keppinautar hækki verð og þeir séu að fagna því að þeim sé farið að ganga betur og séu að ná vopnum sínum í samkeppninni við BYKO. Aðspurður um símtal SAS og ákærða, þar sem þeir ræða um verðhækkanir og framlegð, kvað ákærði þá hafa verið búna að hækka verð eftir miðjan janúar þar sem allt hafi verið á móti þeim. Hækkanir hafi verið gerðar mjög kerfisbundið. Alla morgna hafi þeir mætt á fund, forstjóri og þeir framkvæmdastjórar sem höfðu með sölu að gera. Þeir hafi farið yfir allar lykiltölur um sölur deginum áður. Þeir hafi verið að fjalla um birgðir, mínus birgðir og fleira. Aðspurður um það hvort SAS væri búinn að heyra í Ó, kvað ákærði sér hafa fundist það standa Ó nær að hafa samband við forstjórann vegna símtals Júlíusar og Steingríms Birkis, en hann mundi ekki hvort þeir hafi sammælst um það hvor þeirra myndi hringdi í hann. Fyrst forstjórinn hafi hringt í sig hafi ákærði létt þessu af sér. Honum hafi fundist forstjórinn taka þessu símtali frekar létt. Engin niðurstaða hafi orðið með þetta símtal. Aðspurður kvað ákærði þá SAS hafa rætt þetta símtal Júlíusar og Steingríms Birkis aftur daginn eftir og það hafi verð klárt hjá SAS að það ætti ekki að gera neitt með símtalið. Ákærði kvaðst ekki hafa þekkt til samkeppnislaga á þessum tíma en vitað að óheimilt væri að stunda samráð. Ákærði kvað að eftir að mál þetta kom upp hafi verið gerð samkeppnisáætlun hjá Húsasmiðjunni og regluvörður tekið til starfa. 

Ákærði Þ.

Ákærði kom fyrir dóminn og kvaðst hafa starfað hjá Úlfinum frá 2009 til mars 2011 í símsölu, tilboðsgerð og afgreiðslu. Tveir starfsmenn hafi verið á tímabili í versluninni á ákærutímabilinu. Ákærði væri menntaður í markaðsfræði og í flutningafræði. Ákærði gerði athugasemdir við lýsingu á háttsemi í ákæru. Ákærði kvað verðkannanir hafa verið gerðar hjá fyrirtækinu, þó ekki formlegar. Þeir hafi farið í verslanir, verðlistar hafi legið frammi hjá BYKO og verð hafi verið á netinu. Þá hafi menn komið með tilboð frá samkeppnisaðilum og þeir því séð verð þannig. Ákærði kvaðst hafa haldið utan um verðupplýsingar en verðlagning hjá þeim hafi verið stöðug og upplýsingar um önnur verð hafi haft lítil áhrif á þeirra verð. Kvað ákærði meðákærða Ragnar Má hjá BYKO hafa hringt í sig og fengið upp verð á um átt til níu vörum. Kvaðst ákærði Ragnar Má hafa byrjað að hringja fljótlega eftir að Múrbúðin opnaði grófvörudeildina. Verðlistar hjá ákærða hafi legið frammi í afgreiðslu hjá þeim en ekki verið á netinu. Múrbúðin hafi komið á markaðinn um haustið 2010 og hafi þá markaðurinn breyst. Ákærði kvaðst hafa gefið Ragnari Má upp verð frá sér en hann hafi ekki spurt um verð á móti. Þá hafi starfsmönnum Úlfsins þótt sérstakt að BYKO skyldi hafa haft samband við þá þar sem starfsemi Úlfsins hafi verið að fjara út á þessum tíma. Þeir hafi rætt þetta og þeir talið skyldu sína að gefa upp listaverð sem þeir voru með. Þá hafi verið mikið um það að verktakar kæmu á vegum BYKO eða Húsasmiðjunnar með tilboð og bæðu um betra tilboð frá Úlfinum. Ákærði kvað þá HÚ ekki alltaf hafa verið við og þeir haft tvo eða þrjá aðila sem hafi leyst þá af og getað gefið upp verð. Ákærði kvaðst ekki hafa fylgst með verði BYKO eftir símtal þeirra og það hafi ekki haft áhrif á verð Úlfsins. Verðkönnunarskjal  frá BYKO var borið undir ákærða. Ákærði kvaðst kannast við vöruheitin á verðlistanum og þeirrar vörur hafi verið með sambærileg heiti. Aðspurður um það hvort þurfi ekki að fara fram samanburður á vörunni þegar verið var að bera saman verð, kvað ákærði svo vera. Aðspurður kvað ákærði BYKO hafa reynt að bera saman vöruna til að vera vissir um að bera saman epli og epli.

Ákærukafli II.

Ákæruliður 10.

Símtal frá Guðmundi Loftssyni var borið undir ákærða. Kvað ákærði hann hafa gefið Ragnari Má upp listaverð hjá sér og því upplýst að listaverðin væru óbreytt. Kvað ákærði mjög lítið af vörum hafa verið til hjá Úlfinum á þessum tíma. Ákærði kvað meðákærða Stefán Inga frá BYKO hafa komið í verslunina í vettvangskönnun ásamt tveimur öðrum mönnum. Þeir hafi farið beint inn á lager og skannað hann. Svona heimsóknir hafi ekki verið algengar og þetta var eina skiptið sem ákærði varð vitni að því.

Ákæruliður 11.

Varðandi þennan ákærulið kvað ákærði Ragnar Má þar ræða við sig. Ákærði Guðmundur hafi hringt í Ragnar Má. Ákærði kvaðst þá hafa grunað að verið væri að flytja inn gips frá Lettlandi og þeir haft áhuga á því hverjir væru að flytja það inn aðallega vegna þess að Úlfurinn hafi fengið gagnrýni á að hafa flutt inn gips sem uppfyllti ekki allar gæðakröfur. Kvað ákærði þetta hafa verið í eina skiptið sem hann hafi spurt Ragnar Má um verð og þá hvort ekki væri allt við það sama og að því leyti hafi þetta símtal verið öðruvísi en önnur símtöl. Ákærði kvaðst aldrei hafa hringt í Húsasmiðjuna til að fá upp verð. Þeir félagar hafi rætt þetta og þótt það athyglisvert en þeir hafi ekki haft bolmagn til að gera neinar breytingar. Aðspurður kvað ákærði verðlista hafa verið á borðinu hjá sér, einblöðung, en hann hafi ekki verið í sérstökum standi frammi á gólfi. Ákærði kvaðst viss um að verðlistinn hafi legið á borðinu hjá sér. Ákærði kvað HÚ hafa stofnað Úlfinn 2007 en ákærði komið inn 2009. Ákærði kvað reksturinn hafa verið að lognast út af á ákærutímabilinu. Engin innkaup hafi verið frá haustinu 2010. Mest hafi þeir verið í verktöku. Ekki hafi verið mikil sala á ákærutímabilinu. Lagerstaðan hafi verið slæm, mjög lítið hafi verið til. Þá hafi þeir átt mjög lítið af þeim vörutegundum sem BYKO var að spyrja um. Ákærði kvaðst ekki hafa ákveðið verð hjá Úlfinum. Kvað ákærði listaverð hafa verið óbreytt hjá Úlfinum á ákærutímabilinu og upplýsingar frá BYKO hafi ekki haft nein áhrif á verðlagningu Úlfsins.

 Framburður vitna.

Ákærði Stefán Ingi Valsson gaf einnig skýrslu sem vitni vegna ákærukafla V. Kvaðst vitnið ekki hafa haft vitneskju um að ákærði Ragnar Már hafi hringt í starfsmann Múrbúðarinnar. Vitnið kvaðst hafa farið í Múrbúðina um haustið 2010 og beðið um verðlista en ekki fengið. Vitnið hafi farið tvisvar í heimsókn til þeirra. Kvaðst vitnið hafa farið upp á sitt eindæmi og ekki verið beðið um það.

                Ákærukafli IV var borinn undir vitnið. Símtal vitnisins og Z frá 28. febrúar 2011 var borið undir vitnið. Vitnið kvaðst ekki hafa verið á staðnum þegar það símtal átti sér stað. Vitnið hafi verið mikið frá skrifstofunni þessa viku og fengið upplýsingar um símtalið í lok þeirrar viku en vitnið mundi það svo ekki. Minnti vitnið að ákærði Júlíus hafi sagt sér frá símtalinu. Vitnið hafi ekki rætt símtalið við neinn.

                Ákærukafli III var borinn undir vitnið. Kvað vitnið að í símtali þeirra Guðmundar Loftssonar hafi þeir rætt um verðhækkanir sem hafi verið hluti af þeim verðhækkunum sem hafi verið fyrirhugaðar frá lok janúar.

Ákærði Guðmundur Loftsson gaf einnig skýrslu sem vitni vegna ákærukafla III. Aðspurður vegna ákæruliðar III-1 kvað vitnið ákærða Kenneth hafa hringt í sig og beðið sig um að láta Ragnar Má vita að þeir hafi ekki náð að klára verðhækkanir og ef ákærði heyrði í Ragnari Má ætti hann að láta hann vita að þeir myndu klára verðhækkanir samdægurs eða daginn eftir. Kenneth hafi hringt í sig klukkan átta að morgni og ákærði þá ekki vitað hvort Ragnar Már myndi hringja í sig sama dag eða síðar. Ákærði hafi hundsað þessi tilmæli og hafi ekki hringt í Ragnar Má til að láta hann vita að verðin væru ekki tilbúin. Þó svo að ákærði hafi sagt í símtalinu við Kenneth að hann myndi láta Ragnar Má vita, þá hafi ákærði ekki hringt í Ragnar Má og látið hann vita af því að verðhækkanir væru í farvatninu. Eftir að hafa hlustað á símtal, sem vísað er í í þessum ákærulið, kvað ákærði að um verðhækkanir á timbri hafi verið að ræða. Vitnið hafi ekki vitað nánar hvaða vörutegundir Kenneth hafi átt við. Vitnið kvaðst ekki hafa velt því sérstaklega fyrir sér í hvaða tilgangi Kenneth hafi hringt í sig. Aðspurt um það hvort það hafi skipt BYKO  máli að hafa upplýsingar um verðkannanir, kvaðst vitnið ekki hafa velt því fyrir sér. Vitnið var spurt hvort þeir Ragnar Már hafi rætt saman 18. febrúar 2011. Kvað vitnið Ragnar Má þá hafa hringt í vitnið og kvaðst vitnið ekki minnast þess að samtalið við Kenneth hafi borist í tal.

Ákærukafli II, ákæruliður 2, var borinn undir vitnið. Kannaðist vitnið ekki við lýsinguna í ákæruliðnum. Vitnið kvaðst hafa fengið nýtt verkefni frá Stefáni Árna, sem E hafi verið með áður. Aðspurt um símtal í þessum ákærulið, kvaðst vitnið hafa tekið við nýju verkefni í ársbyrjun 2011 varðandi verðbreytingar og keyrslu þeirra. Hafi það verkefni falist í því að almennar verðbreytingar hafi þurft að gera í Húsasmiðjunni þannig að ákveðinn vöruflokkur var tekinn og keyrður inn. Hann hafi síðan verið sendur viðkomandi vörustjóra í excel-skjali og hann beðinn um að kanna hvort mætti hækka þá vöru sem væri tilgreind í skjalinu. Vörustjórinn hafi haft ákvörðunarvald um það hvort mætti hækka þær vörur eða ekki. Vitnið hafi ekki haft neina vitneskju um það hvort vöruflokkurinn þyldi hækkun eða ekki. Þetta verkefni hafi vitnið verið með í mjög stuttan tíma, kannski sent um tíu skjöl til þeirra. Vitnið hafi ekki haft heimild til að keyra þær færslur í gegn nema með samþykki vörustjóranna.  Símtal milli ákærða Kenneth Breiðfjörð og Stefáns Árna 23. febrúar 2011 var borið undir ákærða þar sem Kenneth er beðinn um að „Guðmundur láti það fréttast áfram“ og „já hann er búinn að taka þetta að sér af [E]“. Kvað vitnið þetta hafa verið runukeyrsluna  sem það sagði frá áður. Vitnið kvaðst hins vegar ekki geta sagt neitt um það hvað ákærðu voru að ræða um í þessu símtali.

Ákærði Kenneth Breiðfjörð gaf skýrslu sem vitni vegna ákærukafla I og III, ákæruliðar 2. Vitnið kvaðst hafa verið vörustjóri á ákærutímabilinu og því fylgst með verðkönnunum. Verðlistar hafi verið teknir út af netinu hjá BYKO og settir inn í excel-skjal sem Guðmundur Loftsson hafi lagað til. Sú skrá hafi verið keyrð inn í Concord-kerfi þeirra. Þá hafi verið búið að para saman upplýsingar BYKO og þeirra þannig að kerfið þeirra hafi lesið þessar upplýsingar inn af excel-skjalinu. Samanburðarskýrsla hafi verið prentuð út af Guðmundi fyrir vörustjóra og Stefán Árna. Vörustjórarnir hafi parað þessar upplýsingar saman hver fyrir sig. Vitnið hafi t.d. parað þessar upplýsingar saman við sínar upplýsingar þannig að hann hafi prentað þessa lista út, rennt yfir þá og annaðhvort sett vörunúmer þeirra inn á skjalið sitt eða öfugt. Þetta hafi bara þurft að gera einu sinni og hafi það líklega verið síðsumars 2010. Vitnið hafi komið að því að smíða þetta kerfi. Vitnið kvaðst ekki muna hversu mörg vörunúmer hafi verið pöruð saman, sennilega einhver hundruð. Vitnið kvaðst ekki hafa þurft að ræða við BYKO til að geta lagt þeirra vörur að jöfnu við vörur Húsasmiðjunnar, lýsingin hafi verið það nákvæm. Vitnið kvaðst hafa í byrjun árs 2010 spurt ákærða Y um það hvað verið væri að spyrja um þegar hringt væri til að kanna verð. Minnti vitnið að það hafi haft grófa hugmynd um það hvað væri spurt um. Vitnið mundi ekki til þess að hafa fengið mjög nákvæmar upplýsingar um fjölda og tegundir sem spurt var um. Um sumarið 2010 hafi verið farið í meiri vinnu við verðkannanir og vitnið búið til lista yfir þær vörur sem það vildi láta kanna fyrir sig. Vitninu hafi ekki fundist neitt athugavert við það að menn hafi hringt inn og beðið um verð hjá Húsasmiðjunni. Tölvupóstur frá ákærða til Júlíusar og STE, ásamt fylgiskjali með heitinu „Verðkönnunarlisti  BYKO 2010, xls, husa_logo.jpg“, var borinn undir ákærða en þar segir ákærði að þar komi listinn sem BYKO geri verðkannanir eftir alla miðvikudaga. Hugmyndin sé að Y og þeir í þjónustuverinu spyrji um sömu vörur á sama tíma og BYKO geri könnun hjá þeim. Vitnið mundi ekki eftir þessum tölvupósti né tilefninu. Vitnið kvaðst hafa punktað niður upplýsingar frá ákærða Y en ákærði mundi ekki hvort hann hafði punktað það niður áður eða um leið. Sú hugmynd hafi byggst á einhverri umræðu á þessum tíma um hvernig þessu ætti að vera háttað og greinilega hafi ákærði sent þetta til Júlíusar og Y. Það hafi verið umræður almennt um verðkannanir. Vitnið kvaðst þó ekki vita nákvæmlega hvaðan þessi hugmynd hafi komið. Vitnið vissi ekki hvort meðákærði Y hafi haft þennan lista útprentaðan en það væri ekki ólíklegt. Aðspurt hvort Y hafi átt að spyrja um verð á móti þegar hringt væri í hann, kvaðst vitnið ekki hafa vitað það svo nákvæmlega. Vitnið kvaðst ekki vita það hvort einhver munur væri á að spyrja um upplýsingar og að gefa þær, ákærði kvaðst ekki hafa þekkt reglur um það á þessum tíma. Aðspurt um lista sem hafi fylgt tölvubréfinu kvað ákærði það hafa verið hluta af grófvörunni.  Vitnið kvaðst hafa sótt upplýsingar frá BYKO á netinu og sett þær inn í excel-skjöl frá sjálfum sér til flýtis og þæginda. Tölvupóstur frá ákærða til SE, VP og Stefáns Árna Einarssonar 27. janúar 2010, ásamt fylgiskjali um verðkönnun frá janúar 2010, var borinn undir vitnið. Vitnið kvaðst ekki muna sérstaklega eftir þessu skjali en gerði ráð fyrir að það hafi verið annar flipi á skjalinu á undan. Þeirra vörunúmer og vöruheiti komi ekki fram á þessum lista. Vitnið kvaðst telja að það hafi búið það skjal til, vitnið var þó ekki visst. Tölvupóstur frá ákærða til SAS frá 27. júlí 2010, þar sem ákærði lagði til verðhækkanir á nokkrum vöruflokkum, var borinn undir ákærða. Vitnið  kvaðst ekki muna eftir þessu skjali sérstaklega en í skjalinu sé tekið fram að verðkannanir sem Ragnar Már hjá BYKO geri hjá Húsasmiðjunni í gengum síma séu oftast gerðar á miðvikudögum. Vitnið kvaðst halda að það hafi ekki vitað á þessum tíma um umfang verðkannana sem Ragnar Már gerði. Vitnið gæti þó ekki útilokað það. Vitnið kvaðst greinilega hafa verið með hugmyndir um verðbreytingu í þessum pósti en það myndi að það hafi verði með hugmyndir um verðbreytingar á ákveðinni timburtegund og BYKO hafi verið með auglýsingar um sambærilegt timbur en þeir verið með rangar upplýsingar í auglýsingunni. Vitnið kvaðst hafa vakið athygli SIG á þessum auglýsingum BYKO á þessum tíma. Ráða megi af bréfinu að lítið hafi verið um verðkannanir eða þær gerðar með öðrum hætti. Aðspurt um tölvupóst um gagnkvæm skipti á upplýsingum um að Y hafi neitað að framfylgja fyrirmælum um að gefa upp verð um leið og hann væri spurður, kvaðst vitnið ekki vita til þess. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað um gagnkvæma upplýsingagjöf fyrr en við yfirheyrslur hjá lögreglu.

Vitnið var spurt um ákærukafla III, ákærulið 2. Vitnið kvaðst ekki muna eftir símtalinu sem er í ákæruliðnum en vildi sjá afrit af því. Kvaðst vitnið hafa viljað gleðja ákærða Stefán Árna með upplýsingum um að BYKO hefði hækkað einhvern hluta af timbrinu. Hafi þeir fylgst með því hvort breyting yrði á verði BYKO, allavega frá því að Húsasmiðjan hækkaði verð 16. eða 17. febrúar 2011 og fram að símtalinu 23. febrúar.  Þá hafi Guðmundur L. átt að fylgjast með og segja þeim frá því. Kvaðst vitnið hafa litið svo á að Guðmundur hafi átt að láta það fréttast til vörustjóranna að það hafi orðið einhverjar breytingar á verði BYKO. Aðspurt um það hvaða upplýsingum hafi átt að koma áleiðis, kvað vitnið að verðbreytingar hafi staðið lengi yfir og Guðmundur L. hafi haft það hlutverk að keyra inn verðbreytingar frá vörustjórnunum, öllum nema vitninu og Júlíusi, hélt vitnið, og þar sem Guðmundur hafi vitað hversu mikið var búið að keyra inn í verðbreytingakerfið  hverju sinni, hafi vitnið látið viðkomandi vörustjóra vita hvað hafi verið búið að hækka og hvað ekki.

Ákærukafli IV var borinn undir vitnið. Kvaðst vitnið hafa haft heimildir til verðbreytinga á þeim vöruflokkum sem vitnið bar ábyrgð á. Vitnið kvaðst einnig hafa sett vörur á tilboð og þá merkt „TB“. Vitnið hafi hins vegar ekki séð um tilboðsgerð til viðskiptavina. Vitnið var spurt um símtal frá  28. febrúar 2011 á milli Steingríms Birkis og Júlíusar. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað um þetta símtal fyrr en það var spilað fyrir vitnið í yfirheyrslum lögreglu. Vitnið kvaðst hafa hækkað græna efnið þennan dag þar sem vitnið var að auglýsa efnið daginn eftir. Minnti vitnið að einhver umræða hafi verið um verðhækkanir vikuna á undan. Vitnið kvaðst hafa hringt í Stefán Árna þennan dag og spurt hvort þeir ættu ekki að hækka verðið, sem þeir hafi svo gert.

Ákærði Júlíus Þór Sigurþórsson gaf skýrslu sem vitni vegna ákærukafla I. Aðspurt kvaðst vitnið hafa vitað um framkvæmd  verðkannana á sínum tíma og að Guðmundur Loftsson hafi séð um þær. Ákærði kvaðst hafa heyrt um að starfsmaður BYKO hafi hringt í starfsmann Húsasmiðjunnar til að fá verð. Vitnið hafi heyrt það á kaffistofunni eða á göngum Húsasmiðjunnar. Taldi vitnið að hringt hafi verið í skiptiborðið og þar hafi Guðmundur, X eða VJ svarað. Tölvupóstur frá Kenneth til Júlíusar og Stefáns 27. janúar 2011 var borinn undir vitnið. Vitnið kvaðst ekki þekkja þennan tölvupóst. Þá vissi vitnið ekki að verðkannanir hafi verið gerðar vikulega. Vitnið kvað allar verðkannanir hafa verið fengnar af netinu. Ákæruliður I-18 var borinn undir vitnið. Skjal frá Húsasmiðjunni með heitinu „Samanburður á söluverði“ var borið undir vitnið.  Vitnið kvaðst ekki kannast við skjalið en kannaðist við ásýnd þess. Þá vissi vitnið að skjalið hefði fundist á skrifstofu sinni en vörur sem komi fram á skjalinu hafi tilheyrt Kenneth, hann hljóti að hafa gleymt skjalinu inni hjá vitninu. Vitnið hafi fengið sambærilegt skjal frá Guðmundi yfir þær vörur sem vitnið sá um. Það hafi kannski verið einu sinni í mánuði og vitnið þá rennt yfir skjalið til að skoða sínar vörur. Vitnið kvað Stefán Árna hafa gefið fyrirmæli um að taka verð samkeppnisaðila af netinu. Símtal frá 23. febrúar 2011 var borið undir vitnið og það spurt um runukeyrslur. Vitnið kvaðst ekki hafa séð um runukeyrslur,  það hafi séð um sínar verðbreytingar sjálft.

Ákærði Z gaf skýrslu sem vitni vegna ákærukafla I. Aðspurt kvaðst vitnið ekki vita hvernig verðkannanir hafi farið fram á ákærutímabilinu. Þær hugmyndir sem vitnið hafði voru að hugsanlega hafi eitthvað verið hringt inn, hvort það hafi verið undir nafni eða ekki hafi vitnið ekki vitað um. Vitnið hafi fyrst heyrt af því í skýrslutökum hjá lögreglu. Vitnið kvaðst hafa haft einhverja hugmynd um gamlan karl frá BYKO sem væri að hringja inn en það hafi ætíð haldið að það væri undir nafnleynd. Þó minnti vitnið að fyrrverandi  forstjóri, SLB, hafi rætt um að það væri verið að hringja inn til að spyrja um verð. Það hafi meira verið umræða á kaffistofunni. Símtal frá 8. mars 2011 var borið undir vitnið. Símtal þar sem vitnið ræðir við TG, verslunarstjóra í Grafarvogi, var borið undir vitnið. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu símtali. Aðspurt um vitneskju vitnisins um aðkomu Y og X kvað vitnið að eftir fyrri handtöku lögreglunnar hafi þeir sem voru handteknir hist og farið yfir stöðuna og velt því fyrir sér hvað lögreglan hefði á þá. Þá hafi menn farið að draga ályktanir um að það væru þær verðkannanir sem fóru fram. Vitnið kvaðst ekki hafa fengið upplýsingar um X og Y frá lögreglu heldur hafi hann fengið þær upplýsingar frá félögum sínum eftir skýrslutökur hjá lögreglu. Það eigi einnig við um símtalið við SLB, fyrrverandi forstjóra Húsasmiðjunnar.

Ákærði Stefán Árni Einarsson gaf skýrslu sem vitni vegna ákærukafla V. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað um að Kenneth og Júlíus hafi hringt í starfsmann Múrbúðarinnar  né hafi vitnið lagt áherslu á að fá verð frá henni. Vitnið kvað meðákærðu Júlíus eða Z hafa sagt vitninu frá heimsókn þeirra í Múrbúðina.  Kvað vitnið það hafa fallið undir þeirra svið að kanna verð samkeppnisaðila.

Vitnið EGS kom fyrir dóminn.

Ákærukafli V.

Kvaðst vitnið vera fyrrverandi starfsmaður Múrbúðarinnar. Múrbúðin hafi opnað nýja deild með svokallaðri grófvöru haustið 2010. Eigandi Múrbúðarinnar hafi fengið vitnið til að aðstoða sig við það. Vitnið kvað einhver samskipti hafa verið á milli Múrbúðarinnar, Húsasmiðjunnar og BYKO um það leyti sem deildin var opnuð. Hafi þeir haft mikinn áhuga á því hvað Múrbúðin væri að selja o.fl. Hafi starfsmenn Húsasmiðjunnar og BYKO komið í heimsókn til þeirra, bæði fyrir og eftir opnun deildarinnar. Kvaðst vitnið hafa unnið í mörg ár áður hjá Húsasmiðjunni og kannast við nokkra starfsmenn þeirra. Hafi þeir sóst eftir upplýsingum um hvaða vörur þeir ætluðu að bjóða upp á og eftir að deildin var opnuð hafi Guðmundur Loftsson frá Húsasmiðjunni, og Ragnar Már og einn yfirmaður timbursölunnar frá BYKO komið og beðið um verðlista og síðan hafi vitnið fengið símtöl frá ákærðu Ragnari Má, Kenneth og Júlíusi Þór. Hafi hann allavega fengið tvö eða þrjú símtöl frá ákærða Kenneth. Hafi þeir allir verið að spyrja um og beðið um verð á grófvöru í nýju verslun Múrbúðarinnar. Múrbúðin hafi hins vegar tekið þá ákvörðun að gefa ekki út verðlista um grófvöru sína heldur gefið viðskiptavinum upp verð í hvert skipti. Vitnið hafi aldrei látið frá sér verð til ofangreindra aðila en þeir hafi allir beðið um verðlista. Þann 15. október 2010 hafi verið hringt í Múrbúðina á stuttum tíma frá bæði BYKO og Húsasmiðjunni og hafi vitninu fundist áhugi og afskipti þeirra á verðum Múrbúðarinnar ganga of langt og því beðið eigandann BB að koma í verslunina og hafi hann verið viðstaddur og hlustað á símtal sitt við ákærða Júlíus Þór. Vitnið staðfesti að ákærði Ragnar Már hafi hringt í sig og beðið sig um að skiptast á upplýsingum eins og vitnið skýrði frá á fundi með Samkeppniseftirlitinu og tekið er fram í ákærulið V-1. Vitnið staðfesti einnig að ákærði Kenneth hafi hringt í sig og falast eftir upplýsingum um verð Múrbúðarinnar. Vitnið kvaðst ekki muna sérstaklega eftir orðalagi í símtalinu en símtalið hafi snúist um hvaða vörur væri verið að bjóða upp á og verð á þeim í Múrbúðinni. Það hafi verið efni þessara símtala allra þó svo að vitnið gæti ekki staðfest nú að símtölin hafi verið klukkan „þetta eða þetta“. Vitnið hafi reynt að víkja sér undan því að svara ofangreindum aðilum og borið því við að það hefði ekki tíma í þetta. Þá hafi vitnið verið beðið um að skiptast á upplýsingum en vitnið kvaðst ekki geta fullyrt um það hvort það hafi verið nákvæmlega í þessu símtali eða öðru símtali. Vitnið kvaðst aðspurt ekki hafa verið upplýst af starfsmönnum þessara fyrirtækja að svona væri þetta gert á milli annarra fyrirtækja. Aðspurt um að ákærði Kenneth hafi sagt vitninu að þetta væri fyrirkomulag sem aðrar verslanir hefðu, kannaðist vitnið ekki við það. Í kjölfar þessara símtala hafi vitnið og BB ákveðið að tilkynna þessar aðferðir BYKO og Húsasmiðjunnar til Samkeppniseftirlitsins. Vitnið kvað umfang vöruframboðs þeirra hafa verið um tíu til fimmtán vöruflokka og undir hverjum vöruflokki hafi verið tugir vöruliða. Vitnið lýsti símtalinu við Kenneth þannig að hann hafi viljað fá verðlista en vitnið sagst myndu senda honum listann í tölvupósti síðar þann sama dag, vitnið mætti ekki vera að þessu. Ákærði Júlíus Þór hafi hringt stuttu seinna og beðið vitnið um að senda listann ekki í tölvupósti, en hann hafi nefnt að hann vildi ekki að menn kæmust í það. Vitnið mundi ekki hvort ákærði hafi viljað fá upplýsingarnar með einhverjum öðrum hætti. BB, eigandi Múrbúðarinnar, hafi einnig hlustað á það símtal. Staðfesti vitnið framburð sinn á fundi með Samkeppniseftirlitinu sem tekinn er upp í fundargerð þess og liggur fyrir í málinu. Ákærði kvaðst muna atvikin frá þessum tíma nokkuð vel þó að það gæti ekki sagt í dag að símtölin hafi verið á ákveðinni mínútu. Vitnið kvaðst þó á þessum tíma hafa skrifað þetta hjá sér í dagbók og líklega verið með hana með sér þegar það fór á fund Samkeppniseftirlitsins. 

Vitnið Æ kom fyrir dóminn og kvaðst hafa unnið hjá BYKO sumarið 2011 sem sumarstarfsmaður og í afleysingum í timbursölu. Vitnið kvaðst hafa framkvæmt verðkönnun í eitt sinn. Hafi vitnið fengið lista yfir grófvörur  og átt að hringja í Húsasmiðjuna til að fá verð á þeim vörum. Það hafi sennilega verið STS sem bað vitnið um þetta. Þá mundi vitnið ekki við hvern það hafi rætt hjá Húsasmiðjunni. Vitnið hafi séð í gögnum málsins að tölvupóstur hafi farið frá Leifi Erni til STS og STS síðan beðið vitnið að framkvæma verðkönnunina.  Vitnið kvaðst ekki muna eftir frásögn sinni í lögregluskýrslum um að Leifur Örn hafi sagt sér að framkvæma verðkönnunina.  Rámaði vitnið í símtalið frá 28. janúar 2011, en kvaðst ekki hafa þekkt viðmælanda sinn. Hafi símtalið verið í samræmi við fyrirmælin sem það fékk. Vitnið kvað símtalið bara hafa þróast þannig að það gaf einnig upp verð á móti. Vitnið kvaðst síðan hafa sent verðkönnunina í tölvupósti til Leifs.

Vitnið JHS kom fyrir dóminn. Var sátt Húsasmiðjunnar og Samkeppniseftirlitsins borin undir vitnið. Aðspurt um tilurð sáttarinnar kvað vitnið viðskiptalegar forsendur hafa legið að baki sáttarinnar sem gerð hafi verið við Samkeppniseftirlitið. Hafi þeir sem stóðu að sáttinni komið að fyrirtækinu löngu eftir að hin meintu brot höfðu farið fram. Hafi Húsasmiðjan fengið lögfræðilega ráðgjöf áður en sáttin var gerð.

Vitnið ÁS, forstjóri Húsasmiðjunnar, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið að sátt sem Húsasmiðjan hafi gert við Samkeppnisstofnun. Vitnið hafi hafið störf hjá Húsasmiðjunni í júní 2013. Lýsti vitnið aðdragandanum að þeirri sátt og aðkomu vitnisins að henni. Þá lýsti vitnið þeim ferli sem komið var á í fyrirtækinu sem starfsmönnum hefur verið kynnt og ber að fara eftir. Meðal annars hafi regluvörður verið ráðinn til starfa sem eigi að taka á atvikum sem geta heyrt undir brot á samkeppnislögum.

Vitnið BB, framkvæmdastjóri Múrbúðarinnar , kom fyrir dóminn og kvað um tuttugu manns starfa hjá fyrirtækinu. Vitnið kvaðst ekki hafa haft nein samskipti við starfsmenn Húsasmiðjunnar eða BYKO á ákærutímabilinu en bæði fyrirtækin hafi leitað til EGS, samstarfsmanns síns. Hafi EGS tjáð sér að starfsmenn BYKO hafi verið að koma og kíkja á gluggana á nýrri verslun sem þeir voru að opna. Að morgni 15. október 2010 hafi EGS hringt til vitnisins og sagt því að þeir væru farnir að hringja hver ofan í annan til að biðja um verð. Vitnið hafi farið á starfstöð EGS og orðið vitni að því þegar Júlíus Þór hringdi í EGS og vildi skiptast á verðupplýsingum en ekki með tölvupósti þar sem aldrei væri að vita hvað eftirlitsaðilar gerðu. Vitnið kvaðst ekki muna nákvæmlega hvað var sagt en það hafi verið með þeim hætti að vitnið hafi talið símtalið grafalvarlegt og því farið beint niður í Samkeppniseftirlit og kært þetta. Kvaðst vitnið ekki hafa skilið símtalið öðruvísi en svo að þeir hafi viljað koma upp „setupi“ til að skiptast á verðum en hann hafi sagst ætla að senda mann til þeirra. Starfsmaður frá Húsasmiðjunni hafi komið í verslunina seinna sama dag. Verðin hjá Múrbúðinni hafi ekki verið aðgengileg nema fyrir viðskiptamenn sem komu í verslunina og fengu þau uppgefin. Stundum væru verðin á heimasíðu Múrbúðarinnar  og stundum ekki og taldi vitnið að þau hafi ekki verið á heimasíðunni þegar þetta átti sér stað. Verslunin hafi verið nýopnuð og taldi vitnið að verðin hafi ekki verið komin inn á vefsíðuna þegar ákærðu komu í verslunina og hringdu. Staðfesti vitnið undirritun sína á fundargerð frá Samkeppniseftirlitinu. Vitnið kvað starfsmenn BYKO hafa verið eins og gráa ketti í versluninni eftir að þeir opnuðu grófvörudeildina, m.a. forstjóri BYKO. Ítrekaði vitnið að Júlíus hafi sagt í símtalinu að hann vildi skiptast á verðum en ekki fá þær upplýsingar sendar í tölvupósti.Vitnið kvaðst ekki hafa skýringar á því hvers vegna upplýsingar um beiðni um verðupplýsingar kæmu ekki fram í fundargerð Samkeppniseftirlitsins.

Vitnið SER, fyrrverandi forstjóri BYKO, kom fyrir dóminn. Kvaðst vitnið hafa verið forstjóri félagsins frá október 2007 til  2012. Vitnið kvaðst hafa starfað lengi hjá BYKO fyrir þann tíma. Skipurit BYKO var borið undir vitnið. Kvaðst vitnið ekki muna sérstaklega eftir því hvort einhver stefnumótun hafi farið fram hjá félaginu á þessum tíma en samkvæmt gögnum málsins hafi það verið. Skjöl fylgjandi skipuritinu voru borin undir vitnið, m.a. vegna fagsölusviðs. Kvaðst vitnið ekki muna eftir því hvort þau skjöl hafi verið samþykkt sérstaklega. Skjal með heitinu „BYKO Fagsölusvið“, „Markaðsvakt“ var borið undir ákærða og hvort rétt væri að verðkannanir hafi verið á ábyrgð fagsölusviðs. Vitnið mundi það ekki sérstaklega. Kvað vitnið þessi skjöl hafa verið hluta af stefnumótun félagsins. Aðspurt um verðkannanir á grófvöru á ákærutímabilinu  kvaðst vitnið ekki hafa vitað hvernig þær fóru fram og ekki kynnt sér það sérstaklega en fengið þær sendar til upplýsingar. Yfirleitt hafi það verið vörustjórnunarsvið sem hafi séð um verðkannanir á grófvöru en vitnið hafi leitað til PA og Steingríms Birkis til að fá verðkannanir sendar. Taldi vitnið að þær hafi verið gerðar á eins eða tveggja vikna fresti. Aðallega hafi það verið Steingrímur Birkir og Stefán Ingi Valsson sem sendu vitninu verðkannanir og þá stundum að beiðni vitnisins, vitnið mundi það ekki. Vitnið kvað þær vörur sem væru á verðkönnunarlistanum hafa verið söluhæstu vörurnar og skipta miklu máli fyrir félagið. Þá lýsti vitnið því hvernig verðmyndun yrði og markaðist af innkaupsverði, flutningskostnaði o.fl. Tölvupóstur sem innihélt verðkannanir í fylgiskjali var borinn undir vitnið. Vitnið kvaðst yfirleitt hafa leitað til Stefáns Inga eða Steingríms Birkis til að fá verðkannanir sendar og hafi umræðan um þær verið almenn. Verðkannanir hafi verið einn hluti af því sem þeir hafi skoðað. Fjöldi tölvubréfa var borinn undir vitnið og mundi það ekki sérstaklega eftir að hafa fengið viðkomandi tölvubréf né efni þeirra sérstaklega. Vitnið kvað Steingrím Birki, Stefán Inga, KV og vitnið hafa haft ákvörðunarvald um verðbreytingar. Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna sérstaklega eftir neinum breytingum í byrjun árs 2011. Kvað vitnið framkvæmdastjórafundi hafa verið vikulega auk þess að menn hittust vikulega í hádegi þar fyrir utan. Stundum hafi verð og verðkannanir verið ræddar. Aðspurt kvaðst vitnið hafa litið á verslunina Úlfinn sem samkeppnisaðila á markaði. Aðspurt um verðmismun á krossviði hjá Úlfinum og BYKO kvað vitnið mögulegt að ekki væri um sambærilega vöru að ræða og mikinn gæðamun á vörunni. Aðspurt um það hvort vitnið hafi lagt áherslu á að verðkannanir væru gerðar, ítrekaði vitnið að það hafi beðið Steingrím Birki og Stefán Inga að koma þeim í framkvæmd, vitnið hafi ekki vitað neitt um það með hvaða hætti þær væru framkvæmdar. Vitnið kvaðst ekki muna til þess að starfsmönnum hafi verið gerð grein fyrir ólögmætum aðferðum við verðkannanir. Aðspurt kvað vitnið Leif Arnar ekki hafa haft heimildir til verðbreytinga á grófvörum. Ákærði hafi hins vegar sent vitninu einhverjar verðkannanir. Hlutverk fagsölusviðs og sambærileg skjöl tengd því voru borin undir vitnið. Aðspurt mundi vitnið ekki hvort um drög hafi verið að ræða. Nokkur tölvubréf frá Stefáni Inga og KV voru borin undir vitnið. Kvað vitnið KV hafa séð um að framkvæma flestar verðhækkanir og séð um innkaup. Taldi vitnið að eingöngu KV hafi getað gefið fyrirmæli til tölvudeildar um breytingar á verði. Aðspurt um fyrirmæli um verðhækkanir sem komi fram í tölvupósti og hvort Stefán Ingi hafi haft ákvörðunarvald um verðbreytingar kvað vitnið þá yfirleitt hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu um verðbreytingar. Vitnið mundi það ekki. Borinn var undir vitnið tölvupóstur sendur frá vitninu 4. mars 2011 til EK, Steingríms Birkis, PA, BF, SIG og IÞ, ásamt fylgiskjali með heitinu daglegar upplýsingar, en í skjalinu er fjallað um batnandi framlegð, sölu í timburdeild  o.fl. Vitnið mundi ekki eftir póstinum né efni hans. Aðspurt um að búið væri að hækka framlegð í nokkrum tilboðum um 1,5-3%, kvað vitnið að hækkun á lagerverðum  gæti haft áhrif á hækkun tilboða.

Vitnið EK kom fyrir dóminn og kvaðst hafa starfað sem framkvæmdastjóri verslunarsviðs BYKO í september 2010 en um áramót hafi vitnið orðið aðstoðarforstjóri. Vitnið hafi starfað sem framkvæmdastjóri frá maí 2005. Skjal með heitinu „BYKO Markaðssvið“ var borið undir vitnið. Vitnið kvaðst kannast við skjalið sem hafi verið samið af vitninu. Vitnið mundi ekki til þess að skjalið hafi verið samþykkt formlega en önnur svið hafi unnið sambærileg skjöl. Þá mundi vitnið ekki hvenær skjalið hafi verið unnið.

Ákærukafli I var borinn undir vitnið. Kvað vitnið verðkannanir í grófvöru ekki hafa heyrt undir vitnið. Það hafi heyrt undir fagsölusvið á ákærutímabilinu.  Framkvæmd þeirra hafi ekki verið rædd svo að vitnið myndi til en vitnið hafi fengið verðkannanir á grófvöru sendar. Tölvupóstur frá 25. október 2010 var borinn undir vitnið en honum fylgdi verðkönnun í fylgiskjali. Vitnið mundi ekki eftir þessum pósti en kvaðst hafa séð viðhengið sem væri verðkönnun. Vitnið hafi setið í framkvæmdastjórn fyrirtækisins og því fengið verðkannanir sendar. Þá hafi vitnið tekið þátt í umræðu um verðákvarðanir fyrirtækisins ásamt framkvæmdastjórn. Vitnið kvaðst ekki hafa velt fyrir sér bein símanúmer starfsmanna á excel-skjalinu. Vitnið kvaðst ekki hafa skoðað verðkannanir frá grófvöru sérstaklega þar sem grófvaran hafi ekki heyrt undir vitnið. Fjöldi tölvuskeyta sem byggt er á varðandi kafla I í ákærunni var borinn undir vitnið en vitnið hafði fengið afrit af þeim tölvupósti send. Kvaðst vitnið yfirleitt telja að það hafi fengið þennan tölvupóst þar sem það væri á sendingarlistanum en mundi ekki eftir póstinum né efni hans sérstaklega.

Ákærukafli II var borinn undir vitnið. Ákæruliður I fjallar um verðkannanir hjá Húsasmiðjunni og ákæruliður II um verðkannanir hjá Úlfinum. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa fylgst með verðkönnunum hjá Úlfinum né hafa skoðað verð hjá þeim. Vitnið kvaðst ekki hafa kynnt sér verðlista hjá samkeppnisaðilum sérstaklega. Vitnið kvaðst hafa verið aðstoðarforstjóri BYKO eftir 14. janúar 2011 og hafi ákærði Leifur heyrt undir sig eftir þann tíma. Þá hafi Ragnar Már heyrt undir Leif frá þeim tíma. Ragnar Már hafi framkvæmt verðkannanir en vitnið hafi ekki vitað um hvernig framkvæmdin var gerð en hún hafi heyrt undir timburverslunina. Þá kvað vitnið verðlista hafa legið frammi í verslunum BYKO og verið aðgengilegir á netinu.

 Ákærukafli IV var borinn undir vitnið. Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna sérstaklega hvort breyting hafi orðið í tilboðsgerð í janúar 2011. Þá mundi vitnið ekki til þess hvort framkvæmdastjórn hafi lagt á það sérstaka áherslu að það þyrfti aukna framlegð  í tilboðsgerð. Dagskrá stjórnarfundar BYKO frá 23. febrúar 2010 var borin undir vitnið. Aðspurt sérstaklega um liðinn „tilboðseftirlitsforrit“ kvaðst vitnið ekki muna sérstaklega eftir því hvernig það forrit leit út né hver hafði samið það. Tölvupóstur frá Steingrími Birki þann 25. febrúar til vitnisins með fundargerð í fylgiskjali var borinn undir vitnið. Vitnið kvaðst hafa fengið póstinn sendan en mundi ekki eftir honum sérstaklega. Vitnið var innt eftir því að hækka þyrfti framlegð um 1,5 til 2%. Kvað vitnið að Steingrímur Birkir hafi átt að koma með útfærslu og hafa eftirlit með tilboðum en fyrirtækið hafi verið að fylgjast með framlegð. Ekkert sérstakt hafi verið að gerast í fyrirtækinu á þessum tíma. Þá mundi vitnið ekki hver hefði tekið ákvörðun um að hækka framlegðina en framkvæmdastjórnarfundur hafi tekið ákvörðun um það. Þá mundi vitnið ekki eftir tölvupósti frá SER frá 4. mars 2011 um stöðu fyrirtækisins en kvaðst örugglega hafa fengið póstinn sendan.  

Vitnið KV kom fyrir dóminn og kvaðst hafa starfað sem vöruflokkastjóri  í grófvöru á ákærutímabilinu.  Vitnið hafi verið í því starfi lengi en það hafi starfað hjá BYKO frá árinu 1999. Aðspurt um það hvernig verðkannanir á grófvöru fóru fram kvaðst vitnið ekki vita það en það hafi vitað að verðkannanir hafi farið fram. Vitnið hafi fengið þær sendar eftir að þær voru gerðar, í þeim tilgangi að fylgjast með verði á vörum samkeppnisaðila sem vitnið flutti inn fyrir BYKO. Verðkannanir hafi komið reglulega. Vitnið kvaðst ekki hafa gert neitt með þessar verðkannanir annað en að vista þær hjá sér og senda þær áfram.

Ákærukafli I var borinn undir vitnið. Fjöldi tölvuskeyta var borinn undir vitnið þar sem verðkannanir fylgdu í fylgiskjali. Vitnið kvaðst líklega hafa fengið þennan tölvupóst enda vitnið á viðtakendalista. Kannaðist vitnið við excel-skjalið sem verð voru færð inn á. Vitnið kvaðst ekki vita hvernig vörutegundir hafi valist á þennan lista né hver væri höfundur skjalsins. Þá mundi vitnið ekki eftir umræðu um það hvað ætti að vera inni á listanum. Vitnið kvaðst ekki hafa velt því fyrir sér hvernig farið var að því að afla upplýsinga um verð frá samkeppnisaðilum, það hafi eingöngu skoðað upplýsingarnar. Vitnið kvaðst telja að það hafi vitað að hringt hafi verið eftir upplýsingum. Aðspurt um „SV“ verð kvað vitnið það vera sérverð þar sem viðskiptamenn fengju engan afslátt.

Ákærukafli II var borinn undir vitnið. Vitnið kvaðst ekki vita hvernig upplýsingaöflun fór fram hjá Úlfinum. Vitnið kvaðst hafa komið að verðmyndun á grófvöru en ekki tekið ákvörðun um verðlagningu. Innkaupsverð og kostnaður sem til falli við að koma vörunni heim ráði verðinu og það verð sem kaupandinn vill borga fyrir vöruna. Verðkannanir hafi verið gerðar til að átta sig á því verði sem var á markaðnum en þær hafi ekki eingöngu verið notaðar til að finna út verð á vöru. Aðspurt um að hækka ætti verð á kambstáli eftir lokun þess dags og beiðni um að taka út verðlista o.fl., kvað vitnið verðlista hafa legið frammi í grófvörunni þar sem varan var ekki verðmerkt í hillum. Verðlistar séu því hafðir frammi fyrir viðskiptavini. Til að þeir séu alltaf réttir þá þurfi að prenta nýja verðlista út eftir lokun verslunar ef verðbreytingar hafi verið í framkvæmd.  Allir verslunarstjórar eigi að sjá til þess að réttir verðlistar liggi frammi. Tölvupóstur frá Steingrími Birki til vitnisins 26. nóvember 2010, ásamt fyrirspurn um hvort þeir eigi ekki að minnka verðmuninn á græna efninu um allavega helming, var borinn undir vitnið. Kvað vitnið ákærða Steingrím Birki vera að biðja um álit þeirra á þessu. Tölvupóstur frá SER til m.a. vitnisins um að hækka pallaefni, og að þeir KV væru búnir að ákveða að hækka það, var borinn undir vitnið og kvað það Steingrím Birki ekki hafa getað hækkað græna efnið án aðkomu vitnisins þar sem Steingrímur Birkir hafi ekki haft aðgang að verðbreytingarkerfinu. Vitnið kvaðst fá verðlagningar til sín til að fara yfir og ef vitnið sjái að einhverjar villur séu í kerfinu þá lagfæri vitnið villuna strax í samráði við þann sem gerði villuna. Vitnið kvaðst þó ekki vita nákvæmlega hverjir hafi aðgang að verðbreytingarkerfinu. Vitnið kvaðst hafa fengið tillögur frá Steingrími Birki um verðbreytingar í tölvupósti og stundum hafi vitnið tekið undir það og hækkað eða lækkað verð í samræmi við það. Tölvupóstur frá Steingrími Birki þann 4. febrúar 2011 til m.a. vitnisins, þar sem Steingrímur Birkir segir að samkvæmt verðkönnun Ragnars Más sé BYKO aðeins hærri og hvort þeir eigi ekki að lækka sig undir Húsasmiðjuna, var borinn undir vitnið. Kvað vitnið þetta vera tillögu um verðlækkun. Vitnið hafi tekið undir það og ákveðið að lækka verð í framhaldi. Aðspurt um 30% lægra verð á mótakrossviði hjá Úlfinum  kvaðst vitnið ekki sjá á þessari verðkönnun hvort verið væri að bera saman sambærilega vöru. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa farið í heimsókn til Úlfsins.

Vitnið BF kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið rekstrarstjóri verslunarsviðs til okt. 2010 og eftir það framkvæmdastjóri stoðsviða. Skjal með yfirskriftinni „Stoðþjónusta BYKO“ var borið undir vitnið. Vitnið kvaðst kannast við skjalið en það hafi verið grófur rammi fyrir framkvæmdarstjórnina. Þá mundi vitnið ekki til að þetta hafi verið samþykkt sérstaklega.

Ákærukafli I var borinn undir vitnið. Aðspurt taldi vitnið verðkannanir hafa verið gerðar frá september 2010 til mars 2011 en mundi ekki sérstaklega til þess að það hafi verið rætt í framkvæmdastjórn. Verðkannanir hafi ekki verið á ábyrgð vitnisins. Vitnið kvaðst ekki hafa haft hugmynd um það á sínum tíma hvernig verðkannanir fóru fram. Aðspurt um verðkönnunarskjal í grófvöru kvaðst vitnið hafa séð það skjal en þar væri um grófvörur að ræða. Mundi vitnið ekki hvort það hafi séð sambærilegt skjal um heimilistæki og parket en vitnið hafi stundum fengið verðkannanir sendar. Nokkur tölvubréf voru borin undir vitnið sem kvaðst ekki muna eftir þeim sérstaklega né neinni umfjöllun um þau.

Ákærukafli IV var borinn undir vitnið. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa komið að tilboðsgerð í grófvöru, sölumenn hafi séð um það. Aðspurt kvað vitnið ákvörðun hafa verið tekna í janúar eða febrúar 2011 um að fara í átak til að hækka framlegð og vafalaust hafi það verið framkvæmdastjórnin sem ákvað það þar sem framlegð var orðin of lág. Aðspurt kvaðst vitnið muna eftir því að talað hafi verið um að búa til sérstakt tilboðseftirlitsforrit en mundi ekki til þess að af því hafi orðið.

Vitnið STS kom fyrir dóminn og kvaðst hafa starfað sem sölumaður hjá BYKO og minnti að það hafi verið orðið aðstoðarverslunarstjóri í febrúar 2011. Yfirmaður vitnisins hafi verið Leifur Örn verslunarstjóri á þeim tíma. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað hvernig verðkannanir á grófvöru fóru fram frá september 2010 til mars 2011. Minnti vitnið að eftir þann tíma hafi verð hringt í viðkomandi fyrirtæki og beðið um verðlistaverð.

Vitnið VMS kom fyrir dóminn og kvaðst hafa starfað í timbursölu BYKO og símsvörun á ákærutímabilinu. Aðspurt kvaðst vitnið vita að verðkannanir hafi farið fram hjá fyrirtækinu en við þær hafi verið hringt og spurt um verð. Vitnið hafi sjálft gert slíkt. Í tilfelli vitnisins hafi það verið fimm til tíu vörur í einu. Mundi vitnið ekki til þess að sérstakt skjal hafi verið notað við verðkönnun þegar það sá um það. Oft hafi vitnið hringt nafnlaust og fengið slíkar fyrirspurnir nafnlaust. Vitnið hafi ekki kannað hvort hægt væri að fá upplýsingar eftir öðrum leiðum. Ragnar Már hafi einnig kannað verð.

Vitnið ÓÞJ kvaðst fyrir dóminum hafa starfað sem framkvæmdastjóri þungavörusviðs hjá Húsasmiðjunni á ákærutímabilinu og setið í framkvæmdastjórn. Hafi vitnið borið ábyrgð á byggingarefni til stórnotenda, verktaka og byggingaraðila o.fl. Gat það bæði verið grófvara og smávara ef hún var í miklu magni eða óskað eftir tilboðum í vöruna. Þá hafi vitnið haft mannaforráð en næstu undirmenn hafi verið timbursalan, grófvörudeildin í Grafarholti og fleiri deildir. Vörustjórar hafi ekki heyrt undir vitnið.

Ákærukafli I var borinn undir vitnið. Vitnið kvaðst hafa vitað til þess að verðkannanir fóru fram hjá fyrirtækinu en meiri áherslur hafi verið lagðar á þær á þessum tíma. Hafi upplýsingaöflun farið fram með þeim hætti að fara inn á heimasíður fyrirtækja og örugglega með öðrum hætti einnig. Vitnið kvaðst ekki hafa komið að verðkönnunum sjálfum. Einhverjir tugir vara hafi verið kannaðir. Aðspurt kvað vitnið líklegt að það hafi heyrt af því að hringt hafi verið frá Húsasmiðjunni til að kanna verð en vitnið vissi ekki hvernig það hafi farið fram. Sérstakur starfsmaður hafi haldið utan um þær en vitnið hafi ekki átt nein sérstök samskipti við þann starfsmann. Borinn var undir vitnið tölvupóstur frá vitninu til Z, Stefáns Árna og SAS þann 19. október 2010, þar sem vitnið spyr viðtakendur hver sé vinnureglan með samkeppnisverð  og þegar vitnið skoði, þá sé Guðmundur L. búinn að gera verðkönnun. Sambærilegar þiljur séu 29% ódýrari í BYKO (verðlistaverð) og spyr vitnið hvort Guðmundur láti ekki vörustjórana vita og hann lagi verðið. Ljóst sé að BYKO geti ekki verið með þetta dýrara verð. Kvaðst vitnið ekki muna eftir póstinum sérstaklega. Af póstinum megi þó sjá að eitthvað hafi verið að verðlagningu Húsasmiðjunnar og vitnið sé að biðja vörustjóra um að skoða og laga. Stundum komi upp mistök í verðlagningu eða innsláttarvilla og þarna sé vitnið greinilega að skoða verðið. Vitnið kvaðst greinilega vera að vekja máls á því hvort vörustjóri átti sig á því að hann sé hátt í 30% dýrari en samkeppnisaðili en slíkt gangi ekki upp hjá fyrirtækjum í samkeppni.

Ákærukafli IV. Símtal frá 28. febrúar 2011 milli ákærðu Steingríms Birkis og Júlíusar var borið undir vitnið. Kvaðst vitnið kannast við það en líklega stuttu eftir að símtalið átti sér stað hafi Júlíus kom inn á skrifstofuna til sín og sagði vitninu frá símtalinu. Júlíus hafi verið að leita að sínum næsta yfirmanni sem var Stefán Árni en hann hafi ekki verið við. Júlíus hafi tjáð sér að starfsmaður BYKO hafi hringt og sagt sér að á Selfossi og Akureyri hefðu verið fá verk í gangi og barist hafi verið um þau verk, framlegð hafi verið orðin mjög lág og ákærði Steingrímur Birkir hafi sagt Júlíusi að hann ætlaði að hækka verð þar í tveimur þrepum. Ákærði Z hafi verið inni hjá sér á skrifstofunni þegar Júlíus kom inn og því heyrt frásögn Júlíusar. Þeir hafi orðið mjög hissa. Vitnið kvaðst ekki minnast þess sérstaklega að hafa sagt eitthvað við Júlíus, enda hafi vitnið talið að það hafi ekki þurft. Aðspurt hvort Z hafi beðið Júlíus um að segja ekki nokkrum manni frá samtalinu kvaðst vitnið ekki minnast þess sérstaklega, það hélt þó að Z hafi ekki nefnt neitt um það. Símtal frá sama degi milli ákærða Z og SAS var borið undir vitnið. Vitnið kvaðst aðspurt vera sammála þeirri upplifun sem vitnið fékk þegar Júlíus sagði þeim frá símtalinu. Þeir hafi ekki rætt neitt um það hvað ætti að gera með þessar upplýsingar fyrir utan að gera ekki neitt og tilkynna forstjóra. Ekki hafi verið ákveðið hver ætti að tilkynna forstjóra það. Það hafi hins vegar verið skýrt af þeirra hálfu að aðhafast ekkert en það þyrfti að tilkynna það forstjóranum. Vitnið mundi eftir því að símtalið hafi verið rætt síðar þar sem ákvörðun var tekin um að nýta upplýsingar ekki. Ef það hefði átt að nýta sér þær þá hefði þurft að fara með upplýsingarnar fyrst í rekstarstjórana og síðan til sölumannanna sem væru um átta talsins. Það hafi ekki átt að gera. Ef hefði átt að gera miklar breytingar á tilboðsverði hefði slík ákvörðun verið tekin á framkvæmdastjórafundi með forstjóra. Það hafi ekki verið gert. Vitnið kvaðst ekki vita hvort einhver breyting hafi orðið hjá BYKO í kjölfar símtalsins. Aðspurt kvað vitnið Júlíus hafa verið í uppnámi, hann hafi lokað hurðinni inn á skrifstofuna til sín þegar hann sagði frá símtalinu. Júlíus hafi ekki lagt fram neinar tillögur um framhaldið eða hvað ætti að gera með upplýsingarnar. Taldi vitnið að Júlíus hafi komið inn til sín þar sem yfirmaður hans, Stefán Árni, hafi ekki verið við. Kvað vitnið Júlíus ekkert hafa haft með tilboðsgerð að gera, hann hafi séð um verðlagningu á þungavöru. Vitnið kvaðst hafa stjórnað afsláttarkjörum á grófvöru á þessum tíma. Z hafi verið framkvæmdastjóri verslunarsviðs. Z hafi verið yfir rekstri búðanna og  sölunni á mjúkvöru. Forstjórinn hafi sagt þeim að aðhafast ekki neitt og málið hafi fallið niður.

Vitnið SAS kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið forstjóri Húsasmiðjunnar frá miðju ári 2010 til miðs árs 2013. Framkvæmdastjórar hafi verið hans næstu undirmenn samkvæmt skipuriti.

Ákærukafli I var borinn undir vitnið. Vitnið kvað verðkannanir hafa farið fram á ákærutímabilinu á öllum vörutegundum og öllum vöruflokkum. Varðandi grófvöru þá hafi fyrirmæli verið um að nálgast verð í gegnum heimasíður og eftir öðrum leiðum eftir þörfum. Vitnið kvaðst hafa lagt aðrar línur við kannanir þegar það kom til starfa og hafa breytt þessu. Ákveðnir starfsmenn hafi átt að afla upplýsinga um verðkannanir og síðan var framkvæmdastjórn sem ákvað verðbreytingar en þar höfðu margir aðrir þættir áhrif. Slíkir fundir hafi verið frekar óformlegir. Vitnið kvaðst ekki hafa kynnt sér verðkannanir á grófvöru sérstaklega. Vitnið kvaðst ekki minnast þess sérstaklega að hafa vitað um að starfsmenn BYKO hafi hringt í Húsasmiðjuna og beðið um verð á grófvöru. Þegar rannsókn málsins hófst hafi vitnið fengið upplýsingar um atvikin. Vitnið vissi að í einhverjum tilvikum hafi starfsmenn Húsasmiðjunnar nálgast verð samkeppnisaðila á annan hátt en í gegnum netið, eðli málsins vegna. Excel-skjal tengt verðkönnun Húsasmiðjunnar var borið undir vitnið. Vitnið kvaðst ekki kannast við skjalið en það kannaðist við vörurnar sem þar væru tilgreindar. Það væru grundvallarvörur og þurft hafi að fylgjast með landslaginu í því verði. Mjög líklegt sé að verðkannanir hafi verið gerðar á fleiri vörum en komi fram í þessu skjali. Excel-skjal tengt verðkönnunum BYKO var borið undir vitnið. Vitnið kannaðist ekki við skjalið. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað að frá janúar til mars 2011 hafi starfsmenn BYKO og Húsasmiðjunnar skipst á verðupplýsingum. Vitnið kvað verðupplýsingar hafa verið skoðaðar af framkvæmdastjórn á fundum og hún metið heildarmyndina, m.a. með tilliti til verðkannana og ákvarðanir teknar í framhaldi af því, ýmist formlega eða óformlega. Aðspurt kvaðst vitnið hafa ætlast til að verðkannanir yrðu gerðar, m.a. á grófvöru þar sem þær væru hluti af vörum verslunarinnar. Vitnið kvaðst hafa lagt fyrir verslunarstjóra að láta gera verðkannanir á eins til tveggja vikna fresti. Tölvupóstur frá júlí 2010 til febrúar 2011 var borinn undir vitnið. Mundi vitnið eftir fæstum tölvuskeytanna. Þá kvað vitnið aðspurt um ráðningasamning Guðmundar Loftssonar að VP hafi örugglega verið falið að sjá um hann. VP hafi verið yfirmaður Guðmundar. Guðmundur hafi fengið fyrirmæli um að framkvæma verðkannanir fyrst og fremst í gegnum netið. Minnti vitnið að það hafi fengið tölvupóst frá Stefáni Árna um slíkt. Kvað vitnið vörustjóra hafa átt að breyta verði á vöru eftir ákvörðun framkvæmdastjórnar en við slíka ákvörðun hafi margir þættir spilað inn í, s.s. innkaupsverð og margt fleira. Verðkannanir hafi verið innlegg í þá umræðu.

 Ákærukafli III var borinn undir vitnið. Vitnið kvað að ekki hafi þurft að tilkynna sér sérstaklega þegar grófvörur hækkuðu í verði, enda hafi það verið rætt áður. Aðspurt hvort mikilvægar breytingar hafi verið gerðar á grófvöru í Húsasmiðjunni 16. til 23. febrúar 2011, kvaðst vitnið ekki muna það sérstaklega en verðbreytingar hafi mjög oft verið gerðar. Borið var undir vitnið símtal frá 23. febrúar 2011 þar sem vitnið ræddi við ákærða Z. Var vitnið innt eftir því hvað það hafi meint þegar rætt var um að fara með upplýsingarnar frá Júlíusi eins og mannsmorð. Kvað vitnið símtalið alls ekki hafa mátt leka út, enda hafi þetta verið mjög óvenjulegt. Símtalið staðfesti bara þá samkeppni sem sé á þessum markaði, enda berjist þessi fyrirtæki mjög hart. Vitnið kvaðst ekki hafa hugsað mikið um símtal Steingríms Birkis við Júlíus nema að því leyti að sjá til þess að það færi ekki að leka út til starfsmanna fyrirtækisins, auk þess að ekkert yrði gert í kjölfar þessa símtals. Vitnið hafi verið í fríi þegar það fékk þetta símtal en strax á mánudagsmorgni hafi það kallað á Júlíus og Z og sagt þeim að ekkert yrði gert með upplýsingarnar frá Steingrími Birki. Aðspurt um það hvað það hafi meint með orðunum „þetta er bara fínt“, kvaðst vitnið hafa átt við að það væri fínt að þeir væru að ná árangri á mörkuðum, enda Húsasmiðjan nýkomin út úr endurskipulagningu. Vitnið kvaðst hafa litið svo á að Z hafi verið að létta á sér með því að segja sér frá símtali Júlíusar og Steingríms Birkis. Vitnið kvaðst hafa velt fyrir sér hvort það ætti að tilkynna símtalið til yfirvalda en fljótlega hafi lögreglan verið komin inn á gólf til sín svo að það hafi aldrei reynt á það. Aðspurt kvað vitnið tilboð á grófvöru heyra undir framkvæmdastjóra grófvöru. Z hafi verið í allt öðrum störfum, hann hafi ekki verið í grófvörum. Kvað vitnið að á þessum tíma hafi ekki verið unnið sérstaklega í kynningu á samkeppnislögum. Eftir innkomu lögreglu hafi ráðgjafi verið fenginn til að sjá um samkeppnismál fyrirtækisins og útbúa reglur þess efnis sem væru í gildi í dag.

Vitnið GÞ kvaðst fyrir dóminum hafa starfað sem sölumaður hjá Húsasmiðjunni á ákærutímabilinu. Næsti yfirmaður hans hafi verið EIS. Ákærukafli I var borinn undir vitnið. Vitnið kvaðst ekki þekkja til verðkannana en þær hafi oft verið gerðar. Vitnið hafi ekkert komið að þeim. Gerði vitnið ráð fyrir að vörustjórar hafi séð um þær. Vitnið kvaðst muna til þess að starfsmenn BYKO hafi hringt og spurt um verð, einu sinni eða tvisvar. Kvað vitnið engin fyrirmæli hafa verið gefin um það hvað eða hvernig ætti að gefa starfsmönnum BYKO upp verð. Vitnið kvað símtal frá vitninu Æ hafa komið sér á óvart en vitnið hafi ekki þekkt hann. Vitnið kvaðst m.a. vinna við það að gefa upp verð alla daga en vitninu hafi fundist þetta meira „bríarí“ því að verðskrá BYKO hafi verið á netinu. Vitnið kvaðst ekki hafa fengið fyrirmæli um að spyrja viðmælanda sinn á móti og það hafi ekki skráð niður verðin sem viðmælandi þess gaf vitninu. Vitnið minnti að það hafi rætt við einn vinnufélaga sinn um símtalið. Vitnið kvaðst hafa heyrt af því að BYKO -menn væru að hringja en þeir hafi líka komið í verslunina og fengið verðlista. Vitnið kvaðst hafa slitið símtalinu þar sem það hafi ekki þurft á því að halda og fundist það óþægilegt. Aðspurt mundi vitnið til þess að Múrbúðin hafi hringt og spurt um timbur, kannski tvær eða þrjár tegundir.

Vitnið VP kvaðst fyrir dóminum hafa starfað sem aðstoðarframkvæmdastjóri innkaupasviðs hjá Húsasmiðjunni fram til desember 2010. Vitnið hafi verið yfir vörustýringarsviði og því vörustjórum og innkaupastjórum. Vitnið kvaðst hafa byrjað störf árið 2000 eða 2001. Vitnið vissi til að verðkannanir hafi almennt verið gerðar hjá Húsasmiðjunni. Á grófvörum hafi þær farið þannig fram að farið var yfir allar auglýsingar sem birtust frá samkeppnisaðilum, á netinu, með verðlistum eða með hringingum og oft komu upplýsingar í gegnum verktaka. Taldi vitnið að hringingar hafi ekki verið miklar að umfangi. Stundum hafi verð verið fengið á tíu til tuttugu númer í hverjum vöruflokki og birt í hagtíðindum Húsasmiðjunnar. Þessar verðkannanir hafi verið gerðar einu sinni til tvisvar í mánuði. Misjafnt hafi verið hver hringdi, stundum vörustjórar, rekstrarstjórar úti á landi eða úr þjónustuveri Húsasmiðjunnar. Aðspurt kvaðst vitnið hafa vitað að starfsmenn BYKO hafi hringt og spurt um verð en taldi það ekki hafa verið mikið umfangs áður fyrr. Frá september 2010 kvaðst vitnið hafa vitað að starfsmenn BYKO hafi hringt í þjónustuver Húsasmiðjunnar en hvort eða hvernig menn báru sig að vissi vitnið ekki. Tölvupóstur frá ákærða Ragnari Má til ákærðu Stefáns Inga og Leifs Arnar frá 13. september 2010 ásamt verðkönnun í fylgiskjali var borinn undir vitnið. Kvaðst vitnið ekki kannast sérstaklega við símanúmer sem fram kæmu á skjalinu en það kannaðist við vöruheitin í skjalinu, þau væru eins og mjólkin í Bónus, þetta væru lykilvörur í þungavörum hjá fyrirtækinu. Vitnið kvað Húsasmiðjuna einnig hafa átt excel-skjal sem hélt utan um verð Húsasmiðjunnar og samkeppnisaðila við verðkannanir. Þau hafi aðgang að verðlistum BYKO á netinu og væntanlega séu verðin sótt þangað. Vitnið kvaðst hafa komið að ráðningu Guðmundar Loftssonar en á þeim tíma hafi verið lögð mikil áhersla á verðkannanir en fyrirtækið hafi verið í harðri samkeppni. Dagskipunin hafi verið sú að fylgjast daglega með verðum og bregðast við ef verð breyttust og dagskipun að vernda framlegð félagsins. Það hafi þurft stöðugildi til að sinna þessu og því verið leitað til Guðmundar. Guðmundur hafi ekki fengið nein fyrirmæli á þessum tíma, starfið hafi verið í mikilli mótun en einnig verið pressa frá forstjóra um að koma þessum málum sem fyrst í réttan farveg. Hafi Guðmundur átt að sjá um verðkannanir á öllum vörum Húsasmiðjunnar. Hafi VP síðan verið falið að hrinda þessu í framkvæmd. Í kjölfar hafi átt að fylgjast betur með verði á markaði en gert hafi verið. Um það hafi verið rætt sérstaklega. Það hafi átt að hringja í keppinauta, hafa eftirlit með verði á netinu og vera með verðkönnunarteymi á ferðinni, en sú leið hafi aldrei farið í framkvæmd. Aðspurt um að fara hafi átt inn á netið til að fá verð samkeppnisaðila, kvað vitnið það svo sem ekki hafa verið meginreglu. Vitnið kvað að um það leyti sem vitnið var að láta af störfum hafi tölvuforritið Concord komist í notkun en þar hafi verð verið sett inn. Tölvupóstur frá Stefáni Árna til Guðmundar Loftssonar, þar sem fram komi að Guðmundur sé kominn með allar heimildir sem vörustjóri og geti þá lagfært verð og tilboð í samráði við vörustjóra, var borinn undir vitnið. Kvaðst vitnið ekki átta sig almennilega á þessu skjali því að það hefði talið að Guðmundur hefði aldrei fengið heimildir til að breyta verðum og tilboðum. Vitninu fannst það óeðlilegt ef svo hafi verið en það gæti ekki tjáð sig meira um það. Aðspurt um það hvort Guðmundur hafi fengið fyrirmæli um að veita upplýsingar, kvaðst vitnið ekki muna til þess né að því hafi verið bannað að veita upplýsingar.

Ákærukafli V var borinn undir vitnið. Verðkannanir hjá Múrbúðinni. Vitnið mundi eftir því að verðkannanir hafi verið gerðar hjá Múrbúðinni og eflaust hafi vitnið gefið Júlíusi, J og Kenneth fyrirmæli um það en mundi það ekki sérstaklega. Tölvupóstur frá Kenneth Breiðfjörð til VP, Guðmundar og Júlíusar frá 15. október 2010, þar sem fram kemur að Guðmundur fari í Múrbúðina og punkti hjá sér verð á birkikrossviði og fleiri viðartegundum og kanni einnig hvort þeir eigi eitthvað til af byggingartimbri og fái verðið á því, var borinn undir vitnið. Vitnið kannaðist við þennan póst en hann hafi líklega verið sendur á svipuðum tíma og Múrbúðin var að koma á markaðinn með grófvöru. Það hafi verið gefin fyrirmæli um að gera verðkönnun vegna þess. Yfirlit yfir lykilvörur séu lykilvörur í ákveðnum vöruflokkum, t.d. timbri, gipsi o.fl. Minnti vitnið að Kenneth og Júlíus hafi farið í heimsókn til Múrbúðarinnar og hitt vitnið EGS sem hafi séð um deildina. Vitnið mundi ekki hvort þeir hafi beðið um verðlista en þegar eitthvað var að gerast á markaðnum þá hafi menn farið og litið yfir mörkina. Minnti vitnið að Kenneth hafi sagt sér hvaða vöruflokka Múrbúðin hafi verið með en líklega hafi enginn verðlisti komið frá þeim.

Vitnið SLB, fyrrverandi forstjóri Húsasmiðjunnar, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa starfað hjá Húsasmiðjunni frá árinu 2005 til mars 2010. Vitnið kvað verðkannanir hafa verið gerðar þegar það starfaði hjá fyrirtækinu. Þegar nýjar vörur hafi komið þá hafi vörustjórar farið til að kanna verð hjá samkeppnisaðilum og í framhaldi hafi verið skoðað hvort tilefni væri til að hækka eða lækka vöruna. Vitnið mundi ekki til þess að hringt hafi verið í samkeppnisaðilana þegar hann starfaði fyrir Húsasmiðjuna. Vitnið kvaðst halda að þjónustuverið hafi verið flutt úr Súðarvoginum 2009. Þá hafi þeir iðulega komist að verðum samkeppnisaðila þegar viðskiptavinir komu og óskuðu eftir lægra tilboði en þeir höfðu t.d. fengið frá BYKO. Vitnið kvaðst einu sinni hafa orðið vitni að því að starfsmaður á gólfi hafi verið að gefa upp fullt af verðum. Starfsmaðurinn hafi svaraði sér eftir á að það hafi verið maður frá BYKO að biðja um verð en það hafi komið vitninu á óvart. Símtal frá 8. mars var borið undir vitnið þar sem vitnið og Z ræða saman. Kvað vitnið þá hafa verið búna að vera í yfirheyrslum hjá lögreglu í fleiri klukkustundir og hist eftir það og hafi þeir verið að ræða hugsanlegt sakarefni í símtalinu. Símtalið hafi verið hugleiðingar um það. Vitnið kvaðst ekki vita hvernig verðkannanir fari fram í dag en menn hafi örugglega tamið sér eitthvert verklag.

Vitnið HÚ kvaðst fyrir dóminum hafa stofnað verslunina Úlfinn árið 2007 og verið framkvæmdastjóri félagsins. Frá október 2010 til mars 2011 hafi verið einn starfsmaður á launaskrá, ákærði Þ.

Ákærukafli II var borinn undir vitnið. Aðspurt hvort verðkannanir hafi farið fram á þessu tímabili, kvaðst vitnið ekki muna eftir verðkönnunum almennt á byggingavörumarkaði. Vitnið vissi til þess að starfsmenn BYKO hringdu og spurðu um verð en vitnið hafi ekki svarað slíkri fyrirspurn. Taldi vitnið að það hafi vitað hver hafi hringt. Mest hafi verið spurt um krossvið og gips. Fyrirspurnum hafi verið svarað en starfsmanninum hafi ekki verið gefin nein sérstök fyrirmæli um það. Minnti vitnið að þetta hafi verið haustið 2010. Verð hjá Úlfinum hafi ekki verið hægt að nálgast með öðrum hætti fyrir utan að sennilega hafi þau verið á netinu. Úlfurinn hafi verðið hálfgert bílskúrsfyrirtæki. Verðlistar hafi verið til og prentaðir út ef menn báðu um þá. Aðspurt kvað vitnið fjölskyldu sína hafa unnið hjá sér. Aðspurt hvort margir hafi komið til greina sem hafi getað svarað í síma, kvað vitnið fjölskyldu og vini oft hafa verið hjá þeim í vinnunni þar sem vitnið og Þ hafi ekki alltaf verið í versluninni. Vitnið kvað Þ fyrst og fremst hafa séð um innkaup en þeir hafi unnið öll verk sem til féllu. Vörusala hafi engin verið, þeir hafi verið undirverktakar hjá Adakris UAB ehf., sem hafi byggt Norðlingaskóla og Sæmundarskóla, og oft verið á verkfundum á þessum tíma. Á þessum tíma hafi greiðslur hætt að koma frá Adakris og fyrirtækið ekki þolað það og hægt og sígandi farið í gjaldþrot. Velta félagsins á tímabilinu október 2010 til febrúar 2011 hafi klárlega verið undir milljón á mánuði. Öll þeirra starfsemi hafi snúist um þessa skóla. Birgðastaða félagsins hafi ekki verið nein, nokkrar plötur kannski. Vitnið rifjaði  upp lagerstöðu sína á þessum tíma og virtist lítið hafa verið til af grófvörum. Aðallega hafi vitnið átt ódýran krossvið á þessum tíma. Vitnið kvaðst muna til þess að starfsmenn BYKO hafi komið einu sinni eða tvisvar til sín í verslunina. Þeir hafi áttað sig á umfangi verslunar sinnar strax þar sem lítið hafi verið á lager.

Vitnið SE kom fyrir dóminn og kvaðst starfa sem verslunarstjóri hjá Húsasmiðjunni á Selfossi og heyra undir framkvæmdastjóra verslunarsviðs. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað neitt sérstaklega um verðkannanir en þær hafi örugglega verið framkvæmdar. Þær hafi ekki verið framkvæmdar á Selfossi. Í kerfi Húsasmiðjunnar sé samkeppnisverð sjáanlegt. Tölvupóstur frá ákærða Kenneth Breiðfjörð til vitnisins, VP og Stefáns Árna með fyrirsögninni „Timburverð“, ásamt verðkönnunarskjali sem fylgiskjali, var borinn undir vitnið. Kannaðist vitnið við skjalið sem væri greinilega verðkönnun á grófvöru. Kvaðst vitnið ekki minnast þess sérstaklega að hafa fengið slíkar verðkannanir sendar. Aðspurt hvort vitnið hafi getað fundið verð samkeppnisaðila öðruvísi en af verðkönnunarskjalinu kvaðst vitnið hafa getað náð í verðin ef samkeppnisverðið hafi verið komið inn í kerfið þeirra.

Ákærukafli III var borinn undir vitnið. Símtal milli ákærða Kenneth Breiðfjörð og vitnisins var borið undir vitnið. Vitnið kvaðst ekki muna eftir þessu símtali sérstaklega né efni þess. Hins vegar þá lítist verslunarmönnum almennt illa á hækkanir þegar samkeppnin sé mikil og samkeppni hörð. Aðspurt um það hvað átt hafi verið við með því að „stilla af fimm stærðirnar“, taldi vitnið að verið væri að tala um helstu stærðirnar í timbrinu. Vitnið kvað hækkanir oft geta þýtt tapaða sölu.

Vitnið IJ kom fyrir dóminn og kvaðst hafa setið í stjórn BYKO árin 2010 og 2011. Aðspurt kvaðst vitnið ekki vita hversu stórt hlutfall grófvaran væri í veltu BYKO en hún væri stór hluti af þeirra starfsemi. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að verðkannanir hafi verið ræddar á stjórnarfundum félagsins. Þær hafi verið ræddar eftir að mál þetta kom upp og í framhaldi gerðar viðeigandi ráðstafanir. Verkferlar við verðkannanir hafi ekki verið ræddar enda stjórnin ekki í daglegum rekstri. Vitnið kvað efni stjórnarfunda vera um stafsemina sem slíka en ekki daglegan rekstur. Verðlagning og framlegð einstakra vara hafi ekki verið rædd.

Vitnið EBÓ kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið fengið sem sérfræðingur til Húsasmiðjunnar eftir að mál þetta kom upp til að vinna að innra eftirliti og gera reglur um samskipti og samráð innan sem utan félagsins. Nú væri starfandi regluvörður og ákveðnar hátternisreglur hafi verið settar komiupp vafi hjá starfsmönnum um brot á samkeppnisreglum. Þá beri starfsmönnum að greina næsta yfirmanni eða forstjóra frá atvikum sem þeir telji brjóta samkeppnislög.

E.

Forsendur og niðurstöður.

Ákærðu neita allir sök í málinu og telja að samskipti þeirra í milli hafi verið með lögmætum hætti.

Verðkannanir almennt.

Verðkannanir eiga sér sífellt stað í nútímasamfélagi og í samkeppni aðila á almennum markaði. Verðkannanir eru framkvæmdar af opinberum aðilum og einkaaðilum í þeim tilgangi að upplýsa almenning um verð og verðsamanburð á sölu og þjónustu almennt. Hafa þeir aðilar sem gera slíkar verðkannanir engin áhrif á verð utan að fyrirtæki geta nýtt sér slíka verðkönnun við ákvörðun á verðlagningu innan síns fyrirtækis.

Í samkeppni á markaði fara fram verðkannanir hjá samkeppnisaðilum til að fyrirtæki og félög hafi upplýsingar um það hvort þau séu samkeppnisfær á markaði með vöru sína eða ekki. Hefur verðkönnun eðli málsins samkvæmt áhrif á verðmyndun innan fyrirtækja telji þau verðlagningu sína ekki í takt við samkeppnisaðila eða markaðinn og geta því haft áhrif við verðmyndun að einhverju eða öllu leyti. Þá eiga verðkannanir eða verðsamanburður viðskiptavina sér stað daglega þegar viðskiptavinir verslana kanna verð á vörum og þjónustu og velja sér verslun eða þjónustuaðila þar sem þeim hentar best að eiga viðskipti við. Allar ofangreindar verðkannanir eru lögmætar fari þær fram með eðlilegum hætti.

Verðsamráð.

Með samkeppnislögum nr. 44/2005 frá 19. maí 2005, sem tóku gildi 1. júlí 2005, voru settar ýtarlegar reglur með það markmið að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins eins og segir í 1. gr. laganna. Í IV. kafla laganna eru ítarleg ákvæði um bann við samkeppnishömlum og segir í 10. gr. að allir samningar og samþykktir milli fyrirtækja, hvort heldur þær séu bindandi eða leiðbeinandi, og samstilltar aðgerðir sem hafi að markmiði eða af þeim leiði að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað séu bannaðar. Í 2. mgr. segir að bannið taki m.a. til samninga, samþykkta og samstilltra aðgerða sem hafi áhrif á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör með beinum eða óbeinum hætti, sem takmarki eða stýri framleiðslu, mörkuðum, tækniþróun eða fjárfestingu, sem skipti mörkuðum eða birgðalindum, mismuni viðskiptaaðilum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og veiki þannig samkeppnisstöðu þeirra, og síðast, setji sem skilyrði fyrir samningagerð að hinir viðsemjendurnir taki á sig viðbótarskuldbindingar sem tengist ekki efni samninganna, hvorki í eðli sínu sé samkvæmt viðskiptavenju.

                Með 4. gr. laga nr. 52/2007 var 41. gr. a bætt inn í lög nr. 44/2005 þar sem sakarábyrgð er felld á starfsmenn og stjórnarmenn fyrirtækja. Segir svo að hver starfsmaður eða stjórnarmaður fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja, sem framkvæmi, hvetji til eða láti framkvæma samráð sem brjóti gegn 10. og eða 12. gr. laganna og varði þau atriði sem tilgreind séu í 2. og 3. mgr., skuli sæta sektum eða fangelsi allt að sex árum. Í 2. mgr. segir að ákvæði 1. mgr. taki til eftirfarandi brota fyrirtækja eða samtaka fyrirtækja á sama sölustigi í 10. og 12. gr. og getið er í liðum a-f. Í a-lið er tekið fram að samráð um verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör varði refsingu og í b-lið varðar samráð um takmörkun eða stýringu á framboði, framleiðslu, mörkuðum eða sölu refsingu. Þá er atvik tilgreind í c-, d- og f-lið sem einnig varða refsingu. Í 2. mgr. er tekið fram að með samráði í þessari grein sé átt við samninga, samþykktir, ákvarðanir eða samstilltar aðgerðir fyrirtækja eða samtaka fyrirtækja.

Eins og að framan er rakið er verðsamráð milli fyrirtækja á markaði bannað en greinarmun verður að gera á milli verðsamráðs og verðkannana. Munur á verðsamráði og verðkönnun er að öllu jöfnu sá að með verðsamráði gera samkeppnisaðilar samninga, með einhverjum hætti, um verð sín í þeim tilgangi að hafa hamlandi áhrif á samkeppni og verð. Með slíkum aðgerðum slaknar á samkeppni og almennur neytandi geldur fyrir. Er slíkt bannað í 10. gr. samkeppnislaga. Með verðkönnun kanna aðilar verð samkeppnisaðila í þeim tilgangi að meta stöðu sína gagnvart sambærilegri samkeppni. Geta slíkar verðkannanir haft áhrif á verðákvarðanir fyrirtækja almennt.

Í máli þessu er m.a. ákært fyrir að hafa haft áhrif á tilboðskjör. Tilboð, sérverð, viðskiptakjör og tilboðskjör eru hugtök sem fjallað er um í máli þessu. Ágreiningslaust er að vara sem er á tilboðsverði er vara sem allir viðskiptamenn geta keypt á því verði sem hún er auglýst á meðan á tilboðinu stendur. Vara sem er á sérverði er vara sem einnig hefur fengið annað verð en listaverð í þeim tilgangi að auka sölu á henni en samkvæmt því sem fram kom í málinu þá verður ekki frekari afsláttur gefinn á vöru sem er á sérverði. Viðskiptakjör hafa almenna merkingu og geta átt við þau sérstöku kjör sem einstakur viðskiptavinur fær við mikil magnkaup. Tilboðskjör eru sérkjör samkvæmt því sem fram kom í málinu og eru þau kjör sem einstakur viðskiptavinur fær, s.s. byggingaverktakar og stórir viðskiptavinir, en um slík kjör þurfi þeir að semja sérstaklega, m.a. við lánadeildir fyrirtækja. Þá sé samið um afslætti, gjalddaga og vexti og séu slík kjör bundin við einstakan viðskiptavin. Séu slík kjör einkamál fyrirtækis og viðskiptavinar og ekki gefin upp.

                Ákæruvaldið byggir á því að um sé að ræða brot gegn samkeppnislögum nr. 44/2005, ásamt áorðnum breytingum. Sakarefni málsins séu aðallega verðsamráðsbrot og tilraunir til verðsamráðsbrota, einkum við verðupplýsingagjöf á grófvörum sem séu einkum bygginga- og timburvörur. Hin brotlega háttsemi hafi verið drýgð að frumkvæði starfsmanna BYKO við framkvæmd svonefndra verðkannana á grófvörum. Einkum sé um að ræða upplýsingagjöf símleiðis af hálfu starfsmanna Húsasmiðjunnar og Úlfsins til starfsmanna BYKO, en þegar á leið, frá lokum janúar 2011, hafi sú upplýsingagjöf verið gagnkvæm.

Í köflum I og II í ákæru sé um að ræða framhaldsbrot. Afbrotin hafi verið framin að undirlagi yfirmanna og/eða samstarfsmanna þeirra sem hafi annast hina verklegu framkvæmd af hálfu BYKO og Húsasmiðjunnar. Um sé að ræða samverknað við verðsamráð. Þá komi fram í sönnunargögnum málsins að verðupplýsingum þeim, sem aflað hafi verið, hafi verið miðlað áfram, þær hagnýttar innan fyrirtækjanna og verið grundvöllur að einstökum verðbreytingum á grófvörum. Eigi þetta einkum við um framkvæmd innan BYKO. Kaflar III og V í ákæru tengist ákæruefnum í köflum I og II. Ákæruefni í VI. kafla ákæru skeri sig nokkuð úr þrátt fyrir að umfjöllunarefni þar séu að einhverju marki grófvörur.

Ákæruvaldið byggir á því að samkeppnislög taki til hvers konar atvinnustarfsemi, svo sem framleiðslu, verslunar og þjónustu, án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum opinberum aðilum eða öðrum, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Ákvæði 10. gr. samkeppnislaga hafi að geyma hátternisreglur laganna sem leggi bann við samkeppnishamlandi aðgerðum fyrirtækja sem feli í sér samráð. Samkvæmt 2. tölul. 4. gr. samkeppnislaga sé með fyrirtæki átt við einstakling, félag, opinberan aðila og aðra sem stundi atvinnurekstur. Ákvæði 10. gr. samkeppnislaga samanstandi af tveimur málsgreinum. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar sé bann meðal annars lagt við samningum og samstilltum aðgerðum er hafi að markmiði eða af þeim leiði að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað. Ákvæði 2. mgr. hafi svo að geyma upptalningu á samráðsbrotum í stafaliðum a til e. Ákvæði a-liðar feli í sér bann við verðsamráði sem sé einkum fólgið í samningum og samstilltum aðgerðum keppinauta um verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör. Þá byggir ákæruvaldið á því að ákvæði 10. gr. samkeppnislaga skoðist með hliðsjón af 41. gr. a samkeppnislaga sem hafi að geyma refsiákvæði laganna við samráðsbrotum einstaklinga, þ. á m. verðsamráði, en ákvæðið hefur meðal annars að geyma tilvísun til 10. gr. laganna. Ákvæði 10. gr. samkeppnislaga sé samhljóða 10. gr. eldri samkeppnislaga, nr. 8/1993, sem lögfest hafi verið með lögum nr. 107/2000 um breytingu á þágildandi samkeppnislögum, nr. 8/1993. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 107/2000 komi meðal annars fram að lagt sé til að reglur samkeppnislaga verði færðar til samræmis við reglur sem giltu í EES-samkeppnisrétti. Þá komi fram í greinargerðinni með frumvarpinu að fyrirmynd ákvæðisins sé sótt til 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins og sé framkvæmd Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins, auk dómstóla EB og framkvæmdastjórnar ESB, leiðbeinandi við túlkun ákvæðisins eftir því sem við eigi um markaðsaðstæður hér á landi. Af þessu leiði að stefnt hafi verið að því með lögum nr. 107/2000 að 10. gr. þágildandi samkeppnislaga yrði túlkuð til samræmis við fyrirmynd greinarinnar í Evrópurétti. Ákvæði þau sem 10. gr. samkeppnislaga hafi að geyma séu talin ein þau þýðingarmestu í lögunum. Þeim sé ætlað að tryggja að keppinautar hegði sér að öllu leyti sjálfstætt á markaði á þeim sviðum sem mestu máli skipti fyrir samkeppni. Kjarni þeirrar samkeppni sé að fyrirtæki taki sjálfstæðar ákvarðanir um markaðshegðun sína og keppi þannig sín á milli. Þetta sé meðal annars talið stuðla að lægra verði til neytenda, auknum gæðum og framförum almennt en þar að baki liggi þau almennu hagfræðilegu sannindi að samkeppni í viðskiptum efli hagvöxt. Ávinningi samkeppni sé hins vegar stefnt í hættu ef fyrirtæki hafi samskipti eða samvinnu um framangreind atriði. Háttsemi sem feli í sér brot gegn 10. gr. samkeppnislaga sé talin alvarlegt afbrot. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 107/2000 komi meðal annars fram að vart sé að finna alvarlegri samkeppnistakmarkanir en þegar fyrirtæki komi sér saman um verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör. Komi þetta jafnframt fram í greinargerð með frumvarpi því er varð að samkeppnislögum nr. 8/1993. Kunni slíkt samstarf að koma í veg fyrir verðsamkeppni eða takmarka hana verulega. Þá komi fram í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 52/2007, um breytingu á samkeppnislögum nr. 44/2005, að breytingar þær er þar voru gerðar á refsiákvæðum samkeppnilaga miði að því að leggja einungis refsingar við þeim brotum á efnisreglum samkeppnislaga sem mestum skaða gætu valdið. 

Þá byggir ákæruvaldið á því að bann 10. gr. samkeppnislaga taki meðal annars til samninga og samstilltra aðgerða sem lúti að verði, afslætti, álagningu eða öðrum viðskiptakjörum fyrirtækja. Samningur í skilningi 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga hafi verið skýrður rúmt innan samkeppnisréttar og t.d. verið talinn fyrir hendi þegar aðilar hans fylgi sameiginlegri áætlun, sem takmarki eða sé líkleg til að takmarka sjálfstæða hegðun þeirra á markaði með því að stuðla að sameiginlegum aðgerðum eða athafnaleysi. Talið hafi verið að slík áætlun þurfi ekki að vera heildstæð, tæmandi eða lýsa í smáatriðum þeim aðgerðum sem fyrirtæki ætli að grípa til. Hugtakið samningur í skilningi 1. mgr. 10. gr. geti þannig tekið til ófullkomins eða lauslegs sameiginlegs skilnings manna og skilyrtra og afmarkaðra samninga sem í samningaferli leiða til endanlegs samnings. Samningar geti enn fremur verið bæði láréttir og lóðréttir en hinir fyrsttöldu taki til fyrirtækja í beinni samkeppni og á sama stigi. Samningur í skilningi 1. mgr. 10. gr. laganna geti jafnframt verið í hvaða formi sem er. Samningur hafi þannig verið talinn geta verið óundirritaður eða undirritaður, munnlegur eða skriflegur og þurfi ekki að vera bindandi. Komi þetta meðal annars fram í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 107/2000. Þá hafi verið talið að tilvist samnings geti birst í hegðun viðkomandi fyrirtækja, t.d. með reglulegum samskiptum um verðlagsmálefni. Þá hafi verið talið að um samning sé að ræða ef fyrirtæki hafi á einhvern hátt lýst yfir sameiginlegum vilja sínum til að hegða sér á markaði með tilteknum hætti. Í 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga sé gerður greinarmunur á samningi og samstilltum aðgerðum. Með samstilltum aðgerðum sé átt við að tvö eða fleiri fyrirtæki samræmi aðgerðir sínar, án þess að eiginlegur samningur sé gerður þar um. Talið hafi verið skilyrði að fyrirtæki sem um ræði hafi átt með sér einhvers konar bein eða óbein samskipti, t.d. í formi fundahalda eða með því að skiptast á upplýsingum, og háttsemin hafi að markmiði eða af henni leiði samræmd markaðshegðun. Tilgangur þessa sé að fella undir bann ákvæðisins samráð milli keppinauta, sem ekki hafi náð því stigi að teljast til samnings í skilningi 1. mgr. 10. gr., er feli í sér að fyrirtæki hafi með sér samvinnu í stað þess að taka þá áhættu sem felst í því að keppa með sjálfstæðum hætti á markaði. Með því að lagt sé bann við bæði samningum og samstilltum aðgerðum sé samkeppnisreglum ætlað að taka til hvers konar samráðs keppinauta sem sé til þess fallið að raska samkeppni. Talið hafi verið að um samstilltar aðgerðir geti verið að ræða þótt keppinautar hafi ekki fallist á eða hegðað sér samkvæmt fyrirfram gerðri áætlun. Við skýringu á því hvað felist í samráði sem falli undir hugtakið samstilltar aðgerðir hafi verið talið að líta þurfi til þess grundvallaratriðis að í samkeppni í skilningi samkeppnisréttarins felist að hvert fyrirtæki fyrir sig verði að ákveða sjálfstætt hvernig það ætlar að hegða sér á markaði. Krafa þessi um sjálfstæði hafi ekki verið talin banna að fyrirtæki grípi til aðgerða vegna hegðunar eða hugsanlegrar hegðunar keppinauta á markaði. Á hinn bóginn liggi bann við hvers konar samskiptum milli keppinauta, beinum eða óbeinum, sem hafi það markmið eða af þeim leiði að reynt sé að hafa áhrif á hegðun núverandi eða væntanlegs keppinautar á markaði eða honum greint frá aðgerðum sem viðkomandi fyrirtæki ætlar að grípa til eða hugleiðir að grípa til. Þá hafi verið talið að það kunni að fela í sér samstilltar aðgerðir í skilningi 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga þegar starfsmenn keppinauta á fundi, í símtali, í bréfi, í tölvupósti eða með öðrum hætti eigi viðræður eða skiptist á eða taki við upplýsingum um atriði sem hafi þýðingu fyrir verðákvörðun eða önnur atriði sem falli undir 2. mgr. greinarinnar. Samkvæmt því hafi verið talið að brotið sé gegn 10. gr. samkeppnislaga ef starfsmaður fyrirtækis taki t.d. á móti upplýsingum um atriði sem falli undir 2. mgr. ef upplýsingar séu veittar og viðkomandi starfsmaður láti ekki uppi nein mótmæli eða seti fram skýra fyrirvara þegar honum er látin vitneskjan í té. Í samkeppnisrétti hafi ekki verið talið nauðsynlegt að flokka brot með þeim hætti að skilgreint sé nákvæmlega hvort tiltekin samskipti teljist annaðhvort vera samningur eða samstilltar aðgerðir. Hugtökin samningur og samstilltar aðgerðir séu samkvæmt framangreindu teygjanleg og geti skarast.

Ennfremur byggir ákæruvaldið á því að í banni samkvæmt 10. gr. samkeppnislaga felist meðal annars bann við samningum og samstilltum aðgerðum sem hafi að markmiði eða af þeim leiði að komið sé í veg fyrir samkeppni þannig að haft sé áhrif á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör með beinum eða óbeinum hætti. Við mat á því hvað falli undir það bann beri að árétta að 10. gr. samkeppnislaga krefjist þess að fyrirtæki taki sjálfstæðar ákvarðanir um viðskiptastefnu sína. Verðsamkeppni sé kjarni samkeppnisréttarins og gerir 10. gr. kröfu um fullkomið sjálfstæði um alla þætti verðlagningar. Hafi meðal annars verið talið að brotið sé gegn ákvæðinu ef starfsmenn fyrirtækja hafi verðsamráð um hvers konar atriði sem tengist verðlagningu þeirra. Geti verðsamráð t.d. falist í viðræðum og hvers kyns upplýsingaskiptum um atriði sem tengjast verðlagningu. Ekki hafi verið talið að máli skipti þótt upplýsingaskipti milli keppinauta séu ekki gagnkvæm.  

Brot gegn 10. gr. samkeppnislaga sé ekki háð því að samráð hafi í raun haft áhrif á markaði. Komi þetta meðal annars fram í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 107/2000, þar sem segi að ákvæði þágildandi 10. gr. samkeppnislaga geri ekki þá kröfu að hið ólögmæta samstarf hafi í raun haft áhrif á samkeppni. Hið sama gildi samkvæmt núgildandi 10. gr. samkeppnislaga. Að þessu leyti séu brot þau sem feli í sér samráð í skilningi 10. gr. samkeppnislaga samhverf þar sem þau lýsi verknað refsinæman án tillits til afleiðinga. Hafi nánar tiltekið verið litið svo á að engu máli skipti þótt samráðinu sé ekki hrint í framkvæmd á markaði eða að ekki sé sýnt fram á skaðleg áhrif af samningum eða samstillum aðgerðum fyrirtækja. Þá verði að telja að sama regla gildi í íslenskum rétti og gilt hafi í EES/ESB-samkeppnisrétti, að nægjanlegt sé að t.d. samráð hafi það að markmiði sínu að raska samkeppni alveg án tillits til áhrifa þess í raun. Með öðrum orðum hafi t.d. verið litið svo á að engu máli skipti þótt ekki sé sýnt fram á skaðleg áhrif af samstillum aðgerðum. Af þessu leiði að mótbárur eins og að upplýsingaskipti hafi verið þýðingarlaus og engin áhrif haft á markaði hafi almennt ekki áhrif á refsinæmi brotsins. Þá byggir ákæruvaldið m.a. á því að markmið 41. gr. a laganna hafi m.a. verið að afmarka nánar refsiábyrgð einstaklinga vegna brota á samkeppnislögum. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar varði það fangelsi allt að sex árum hvern þann starfsmann eða stjórnarmann fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja, sem framkvæmir, hvetur til eða lætur framkvæma samráð sem brjóti gegn 10. og/eða 12. gr. laganna og varðar þau atriði sem tilgreind eru í 2. og 3. mgr. greinarinnar. Í 2. mgr. 41. gr. a séu talin upp í stafaliðum a til f samráðsbrot fyrirtækja eða samtaka fyrirtækja á sama sölustigi á 10. eða 12. gr. laganna. Í a-lið er tilgreint samráð um verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör og í d-lið samráð um gerð tilboða. Í 4. mgr. greinarinnar sé að finna sérstaka skýringarreglu á hugtakinu samráð en þar segi að með samráði í greininni sé átt við samninga, samþykktir, ákvarðanir eða samstilltar aðgerðir fyrirtækja eða samtaka fyrirtækja. Samkvæmt 6. mgr. greinarinnar sé tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt greininni refsiverð eftir því sem segi í almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Sé þar átt við tilraun og hlutdeild samkvæmt III. kafla hinna almennu hegningarlaga. Samkvæmt framangreindu sé refsiábyrgð bundin við starfsmann eða stjórnarmann fyrirtækis sem framkvæmi, hvetji til eða láti framkvæma samráð. Sú refsiábyrgð einskorðist við hátternisreglur þær sem feli í sér samráðsbrot og bannaðar séu samkvæmt samkeppnislögum. Sé hér átt við háttsemi þá sem lýst sé og/eða falli undir 2. mgr. 41. gr. a og 10. gr. laganna. Byggir ákæruvaldið á saknæmisreglunni sem grundvallast í íslenskum refsirétti.

Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hvílir sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvika, sem telja má honum í hag eða til sektar, á ákæruvaldinu. Verður lagt mat á sönnun hvers ákæruliðar eins og ákæran liggur fyrir í máli þessu.

Ákærði Steingrímur Birkir Björnsson.

Ákærukafli I.

Ákærði neitaði sök í þessum ákærulið en þar er ákærði sakaður um að hafa sem framkvæmdastjóri Fagsölusviðs BYKO ásamt meðákærðu Leifi Erni og Stefáni Inga, starfsmönnum BYKO, á tímabilinu 13. september 2010 til 3. mars 2011, haft verðsamráð með skipulagðri upplýsingagjöf um verð og tilboðskjör sérgreindra grófvörutegunda, einkum bygginga- og timburvara í símtölum milli starfsmanna fyrirtækjanna, sem hafi verið til þess fallið að hafa áhrif á verð, afslætti, álagningu og önnur viðskiptakjör innan umræddra fyrirtækja. Verðsamráðið hafi verið af hálfu starfsmanna Byko, viðhaft að undirlagi og/eða samkvæmt fyrirmælum ákærðu Steingríms Birkis, Leifs Arnar og Stefáns Inga. Í liðum 1-21 í ákærukafla I eru þau tilvik tilgreind sem ákærði er sakaður um í þessum kafla ákærunnar. Í þeim ákæruliðum liggur fyrir að starfsmaður BYKO, oftast meðákærði Ragnar Már, fékk upplýsingar um verð og tilboðsverð hjá samkeppnisaðilum og færði í sérstakt excel-skjal hjá sér, sem hann síðan áframsendi til yfirmanna sinna í BYKO, ýmist til ákærða Steingríms Birkis, Stefáns Inga og Leifs Arnar með tölvupósti. Er ekki ágreiningur um að þau símtöl hafi átt sér stað sem tilgreind eru í þessum ákæruliðum, né um þau tölvubréf sem liggja fyrir í málinu. Fyrir liggur að ákærði Ragnar Már fékk í þessum símtölum upplýsingar um verð á ákveðnum vörum hjá starfsmönnum Húsasmiðjunnar. Þá liggur fyrir að ákærði Ragnar Már hafði þann starfa hjá BYKO að sjá um reglulegar verðkannanir, sem samkvæmt þessum ákærulið fóru fram nánast vikulega, þó með mislöngu millibili. Samkvæmt framburði ákærða Ragnars Más hringdi hann yfirleitt í starfsmann Húsasmiðjunnar til að gera verðkönnun en það hafi verið tímasparnaður í stað þess að fletta verðum upp á heimasíðu Húsasmiðjunnar, sem hafi verið illa aðgengileg.

Eins og rakið er að framan, þá er byggt á tölvupóstsendingum þar sem tölvupóstur var sendur ásamt verðkönnunum á milli starfsmanna og yfirmanna BYKO. Kvað ákærði verðkannanir hafa verið framkvæmdar nokkuð reglulega og hafi Ragnar Már séð um þær eða aðrir starfsmenn í þjónustuveri ef hann var ekki við. Verðkannanir hafi verið nauðsynlegar á þessum tíma við endurskoðun á rekstri fyrirtækisins þar sem mjög erfitt hafi verið rekstrarlega á þeim tíma. Að auki hafi BYKO auglýst sérstaklega verðvernd og því verið hlutverk þeirra að vera meðvitaðir um verð samkeppnisaðila á markaði.

Ljóst er að mikil áhersla var lögð á að verðkannanir væru gerðar reglulega og skipulega innan BYKO á ákærutímabilinu. Hafa ákærðu og vitni lýst því svo að á þeim tíma hafi rekstur fyrirtækisins verið afar erfiður en skýringar á erfiðum rekstri hafi m.a. verið afleiðingar bankahrunsins og lágt gengi íslensku krónunnar í kjölfarið. Því hafi innkaupsverð og flutningskostnaður hækkað auk þess sem íslenska krónan veiktist. Því hafi framlegð fyrirtækisins minnkað verulega. Þá hafi allra leiða verið leitað til að auka framlegð, bæði með tilboðsverðum og með því að leggja áherslu á að fyrirtækið væri samkeppnishæft í samanburði við samkeppnisaðila. Til að sinna verðkönnunum var sérstakur starfsmaður ráðinn og virðist stór hluti af hans starfi hafa verið að framkvæma verðkannanir. Þá liggur fyrir að ákærði Ragnar Már eða aðrir starfsmenn í þjónustuveri sendu niðurstöður verðkönnunar á næsta yfirmann sinn, sem var ýmist Stefáni Inga eða Leifi Arnari eftir ákærutímabili. Framsendu þeir síðan niðurstöðurnar áfram á sína yfirmenn og eða til sölu- eða vörustjóra með mismunandi áherslum. Þrátt fyrir að ákærði Steingrímur Birkir hafi borið ábyrgð á fagsölusviði og því timburdeildin ekki heyrt undir hann, litu starfsmenn timburdeildar á hann sem sinn yfirmann. Í skjóli þess fór ákærði fram á að verðkannanir yrðu gerðar á grófvöru hjá samkeppnisaðilum.

Í því verslunar- og viðskiptaumhverfi sem BYKO starfaði, hefur verið rík þörf fyrir skipulag og reglu á fyrirkomulagi rekstrarins og telur dómurinn að verðkannanir hafi verið eðlilegur hluti þess. Áhyggjur starfsmanna og yfirmanna af afkomu fyrirtækisins og rekstrarumhverfi er ekki saknæm háttsemi. Áhyggjur eða viðhorf og umræða hafa, samkvæmt gögnum málsins, oftar en ekki átt sér stað með skilaboðum í tölvupósti milli starfsmanna og stjórnenda svo og á fundum.

Í ákærukafla þessum er byggt á því að háttsemi meðákærða Ragnars Más í ofangreindum ákæruliðum sé að undirlagi eða samkvæmt fyrirmælum ákærða Steingríms Birkis. Ákærði Ragnar Már hafi síðan komið upplýsingum um meint verðsamráð til annarra stjórnenda BYKO í þeim tilgangi að yfirmenn gætu nýtt sér niðurstöðurnar við verðákvarðanir. Í forsendum dómsins fyrir sýknu ákærða Ragnars Más eru færð rök fyrir því að háttsemi hans hafi ekki verið saknæm í skilningi a-liðar 2. mgr. 41. gr. a laga nr. 44/2005. Þrátt fyrir að verðkannanir hafi verið framkvæmdar með þeim hætti sem gert var, telur dómurinn það ekki saknæma háttsemi. Þá telur dómurinn ósannað að þær aðferðir sem meðákærði Ragnar Már viðhafði undir lok ákærutímabilsins við verðkannanir hafi verið að undirlagi eða samkvæmt fyrirmælum ákærða Steingríms Birkis. Ekkert hefur komið fram í málinu né er að finna í gögnum þess, sem bendir til að ákærði Steingrímur Birkir hafi lagt til eða fyrirskipað að verðkannanir yrðu framkvæmdar í þeim tilgangi að viðhafa verðsamráð. Þessu til stuðnings eru tölvupóstar frá 17. desember 2010 þar sem ákærði Stefán Ingi Valsson og vitnin SER og KV tala um að Húsasmiðjan sé 15% dýrari í pallaefni og hvort BYKO geti þá ekki hækkað sig um 10%. Tölvupóstur 14. janúar 2011 frá ákærða Steingrími Birki þar sem talað er um að leyfa Húsasmiðjunni að leiða hækkunina. Tölvupóstur frá vitninu SER til ákærða Steingríms Birkis, Stefáns Inga og KV þar sem fram kemur að vitnið SER sjái að Húsasmiðjan sé miklu ódýrari en þeir í plast-og borðplötum. Tölvupóstur 18. febrúar 2011 frá ákærða Steingrími Birki til meðákærða Stefáns Inga og vitnisins KV þar sem ákærði nefnir að það sé orðinn mikill munur víða og hvenær Húsasmiðjan hafi eiginlega hækkað. Tölvupóstur 18. febrúar 2011 frá ákærða þar sem hann segir að um talsverða hækkun sé að ræða hjá Húsasmiðjunni og hvort þeir þurfi ekki að ræða það á næsta fundi og tölvupóstur frá 17. og 19. janúar 2010 þar sem segir að í svona smá tilboðum sé BYKO að taka þá í „rass.... þiljur séu 29% órýrari hjá BYKO.  Benda öll þessi skilaboð til þess að hið gagnstæða hafi verið, mikil og hörð samkeppni en ekki verðsamráð.  

Hefur ákæruvaldinu ekki tekist að sanna að ákærði hafi, eins og honum er gefið að sök, gefið fyrirmæli um verðsamráð eða það verið gert að hans undirlagi eins og segir í I. kafla ákærunnar. Ber því að sýkna ákærða af þessum kafla ákærunnar.

Ákærukafli II.   

Ákærði neitar sök í þessum ákærulið en samkvæmt honum er ákærða gefið að sök að hafa sem framkvæmdastjóri Fagsölusviðs BYKO, ásamt fleirum, viðhaft verðsamráð samkvæmt fyrirmælum ákærða eða að hans undirlagi.

                Með vísan til sömu raka og koma fram í ákærukafla I, telur dómurinn að  ákæruvaldið hafi ekki sýnt fram á að ákærði hafi viðhaft þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærukafla. Ber því að sýkna ákærða af þessum ákærukafla.

Ákærukafli IV.

Ákæruliður 1.

Ákærði neitar sök. Í málinu liggur fyrir hljóðupptaka af símtali þar sem ákærði Steingrímur Birkir hringdi í meðákærða Júlíus Þór, starfsmann Húsasmiðjunnar, þann 28. febrúar 2011 og stóð símtalið yfir í rúmlega ellefu mínútur. Er það sem skiptir máli við úrlausn málsins rakið í IV. kafla ákærunnar. Ákærði neitaði því ekki fyrir dóminum að hafa hringt umrætt símtal og átt þær samræður sem tilgreindar eru í þessum kafla ákærunnar en bar því við fyrir dóminum að hann hafi ætlað sér að afvegaleiða starfsmenn Húsasmiðjunnar með þeim upplýsingum sem hann hafi gefið meðákærða Júlíusi. Hafi þetta símtal verið vanhugsað og upplýsingarnar sem hann hafi gefið um rekstur, verð og tilboð BYKO verið rangar. Hafi ætlunin verið að fá Húsasmiðjuna til að breyta verðum sínum í ljósi upplýsinga frá ákærða. Fyrir lögreglu bar ákærði á annan hátt. Í ákærukaflanum er ákærði sakaður um verðsamráð og hvatningu til verðsamráðs milli BYKO og Húsasmiðjunnar í tengslum við tilboðsgerð o.fl. 28. febrúar 2011. Fyrir liggur að háttsemi ákærða hafði engar afleiðingar fyrir markaðinn almennt né innanbúðar hjá Húsasmiðjunni. Samkvæmt framburði meðákærðu Júlíusar Þórs, Z og vitnisins SAS fór engin umræða fram innan Húsasmiðjunnar um símtalið né efnisinnihald þess nema milli þessarar þriggja aðila og hafi ekkert verið gert með upplýsingarnar frá ákærða Steingrími Birki.  Er brot ákærða heimfært til a- og d-liða 2. mgr. 41. gr. a, sbr. 1. mgr. laga nr. 44/2005, sbr. 4. gr. laga nr. 52/2007, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 44/2005.

                Eins og rakið hefur verið telur dómurinn engum vafa undirorpið að ákærði hvatti sannanlega meðákærða Júlíus Þór til verðsamráðs og samráðs í gerð tilboða í ofangreindu símtali. Breytir engu framburður ákærða fyrir dóminum um að upplýsingarnar sem hann hafi gefið meðákærða Júlíusi hafi verið í þeim tilgangi að afvegaleiða Húsasmiðjuna í verðlagningu. Telur dómurinn háttsemi ákærða hafa falið í sér hvatningu til samráð um verð og afslætti sbr. a-lið 2. mgr. 41. gr. a, og hvatningu um samræmi í tilboðsgerð eins og kveðið er á um í d-lið 2. mgr. sömu greinar. Er ekki skilyrði í lagaákvæðinu né í lögskýringargögnum að hvatningin þurfi að hafa tilteknar afleiðingar.

Telur dómurinn lögfulla sönnun fram komna um að ákærði hafi gerst brotlegur við ofangreind lagaákvæði og verður hann sakfelldur fyrir hana.

Ákærði Leifur Örn Gunnarsson.

Ákærukafli I.

Ákærði neitar sök í þessum ákærukafla. Með vísan til sömu raka og tilgreind eru í þessum ákærukafla varðandi ákærða Steingrím Birki, telur dómurinn að ákæruvaldið hafi ekki sýnt fram á að ákærði hafi viðhaft þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Ber því að sýkna ákærða af þessum ákærukafla.

Ákærukafli II.  

Ákærði neitar sök í þessum ákærukafla. Með vísan til sömu raka og tilgreind eru í þessum ákærukafla varðandi ákærða Steingrím Birki, telur dómurinn að ákæruvaldið hafi ekki sýnt fram á að ákærði hafi viðhaft þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Ber því að sýkna ákærða af þessum ákærukafla.

Ákærði Stefán Ingi Valsson.

Ákærukafli I.

Ákærði neitar sök í þessum ákærukafla. Með vísan til sömu raka og tilgreind eru í þessum ákærukafla varðandi ákærða Steingrím Birki, telur dómurinn að ákæruvaldið hafi ekki sýnt fram á að ákærði hafi viðhaft þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Ber því að sýkna ákærða af þessum ákærukafla.

Ákærukafli II.

Ákærði neitar sök í þessum ákærukafla. Með vísan til sömu raka og tilgreind eru í þessum ákærukafla varðandi ákærða Steingrím Birki, telur dómurinn að ákæruvaldið hafi ekki sýnt fram á að ákærði hafi viðhaft þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Ber því að sýkna ákærða af þessum ákærukafla.

Ákærði Ragnar Már Amazeen.

Ákærukafli I.

Ákæruliðir 1-15. Ákærði neitar sök í þessum ákæruliðum. Upplýst er í málinu að ákærði var ráðinn sérstaklega haustið 2010 til að sjá um verðkannanir fyrir BYKO ásamt öðrum störfum í þjónustuveri félagsins. Eins og rakið er í upphafi þessa kafla dómsins eru verðkannanir fyrirtækja í verslun og þjónustu nauðsynlegur hluti af starfseminni til að vita stöðu fyrirtækisins á markaði almennt. Eru verðkannanir, hvort sem þær eru gerðar af opinberum aðilum, einkaaðilum, viðskiptavinum eða innan fyrirtækjanna sjálfra, ekki saknæm háttsemi. Í ofangreindum ákæruliðum hringdi ákærði Ragnar Már í meðákærðu Y, X og óþekkta aðila, allt starfsmenn Húsasmiðjunnar, í þeim tilgangi að fá uppgefin verð á ákveðnum vörutegundum. Var um að ræða allt að 106 vörutegundir. Skráði ákærði upplýsingarnar niður í sérstakt excel-skjal sem útbúið hafði verið í þessum tilgangi. Áframsendi ákærði síðan upplýsingarnar til yfirmanna sinna með tölvupósti. Ákærði kvaðst aldrei hafa haft neitt meira með þær niðurstöður að gera. Styður framburður annarra ákærðu og vitna þann framburð ákærða, enda hefur honum ekki verið hnekkt. Þá er ekkert í framlögðum tölvupósti, sem styður annað.

Ákæruliðir 16-19 og 21.

Ákærði neitar sök í þessum ákæruliðum en játar að hafa skipst á upplýsingum eins og segir í ákæruliðunum. Í gögnum málsins liggja fyrir hljóðupptökur af símtölum ákærða Ragnars við Guðmund Lofsson og X, starfsmenn Húsasmiðjunnar. Af hljóðupptökunum er ljóst að ofangreindir starfsmenn gefa hverjir öðrum upp verð og láta í té gagnkvæmar upplýsingar um verð á grófvöru. Skráði ákærði þær upplýsingar niður í tiltekið excel-skjal og áframsendi til yfirmanna sinna. Með þessari upplýsingagjöf fór ákærði Ragnar Már út fyrir umboð sitt og heimildir við að framkvæma verðkannanir. Ekkert er framkomið í málinu um að ákærði hafi gert það að undirlagi eða samkvæmt fyrirmælum yfirmanna sinna, en bæði meðákærðu og vitni hafa staðfest fyrir dóminum að þeir hafi ekki haft hugmynd um að skipst væri á verðum þegar leitað var upplýsinga um verð hjá samkeppnisaðilum við verðkannanir.

                Ákærði byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi ekki framið refsiverða háttsemi og að hún falli ekki undir verknaðarlýsingu 10. gr., né a-lið 2. mgr. 41. gr. a samkeppnislaga.

Í 41. gr. a samkeppnislaga segir að hver starfsmaður eða stjórnarmaður fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja, sem framkvæmi, hvetur til eða láti framkvæma samráð sem brjóti gegn 10. gr. og varði þau atriði sem tilgreind séu í 2. og 3. mgr. skuli sæta sektum eða fangelsi allt að sex árum. Í 2. mgr. segir að 1. mgr. taki á eftirfarandi brotum fyrirtækja eða samtaka á sama sölustigi: a. samráði um verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör. Brot ákærða er heimfært til a-liðar 2. mgr. 41. gr. a laganna. Verður einstaklingi því ekki gerð refsing fyrir aðra háttsemi en lýst er í þessu ákvæði. Í símtölum ákærðu Ragnars Más og Guðmundar Loftssonar kemur fram að þeir gefa hvor öðrum upplýsingar um verð hvor annars í sambærilegri vöru. Ekkert er komið fram í málinu um að aðferðir þeirra hafi verið að fyrirmælum yfirstjórnenda eða með vitneskju þeirra. Þá hefur heldur ekki verið sýnt fram á að verðkannanir ákærða hafi haft áhrif á verðákvörðun Húsasmiðjunnar eða Úlfsins sérstaklega og því verið hluti af verðsamráði. Þá kemur ekkert fram í ofangreindum símtölum um að ákærðu Guðmundur eða Ragnar Már hafi sammælst um að breyta verðum sínum í takt við verð gagnaðila né hafi þeir sammælst um verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör eins og kveðið er á í a-lið 2. mgr. 41. gr. a laganna. Hefur ákæruvaldið því ekki sýnt fram á að ákærði hafi sýnt af sér þá háttsemi sem lýst er refsiverð í ákvæðinu, með þeim upplýsingaskiptum um verð, sem fóru fram samkvæmt þeim ákæruliðum í þessum kafla ákærunnar. Ber því að sýkna ákærða.

Ákærukafli II.

Ákærði neitar sök í þessum ákærulið. Þau sönnunargögn sem ákæruvaldið byggir á í þessum ákærukafla eru staðfestingar frá símafyrirtækjum á því að þau símtöl hafi átt sér stað milli þeirra starfsmanna sem tilgreindir eru í ákæruliðum 1-9. Er ekki ágreiningur um að þau símtöl hafi átt sér stað. Ákærði Ragnar Már kvaðst fyrir dóminum hafa hringt í þeim tilgangi að fá upp verð á nokkrum vörutegundum.

                Í ákærulið 10 liggur fyrir hljóðupptaka af símtali ákærða og meðákærða Þ þann 4. febrúar 2011 þar sem Ragnar Már hringdi í Þ og þeir ræða almennt um erfiðleika á markaðnum og pólitík. Svaraði Þ fyrirspurn ákærða um verð þannig að allt væri óbreytt.

Í ákærulið 11 liggur fyrir hljóðupptaka af símtali ákærða og meðákærða Þ þann 17. febrúar 2011 þar sem þeir ræða saman um gæði gipsplatna og almennt um erfiðleika í rekstri.

Gegn neitum ákærða og með vísan til umfjöllunar um verðkannanir í kafla E, svo og þeirra raka í I. kafla ákærunnar varðandi ákærða fellur háttsemi hans ekki undir verknaðarlýsingu 41. gr. a, sbr. 10. gr. laga nr. 44/2005, og telur dómurinn ósannað að ákærði hafi með símtölum í þessum ákærukafla brotið gegn nefndu ákvæði. Verður ákærði því sýknaður af þessum ákærukafla.

Ákærukafli V.

Ákæruliður 1.

Í þessum ákærulið er ákærði Ragnar Már sakaður um tilraun til verðsamráðs með því að hafa 15. október 2010 í símtali reynt að fá starfsmann Múrbúðarinnar til að skiptast á upplýsingum um vöruval og verðupplýsingar á grófvörum Múrbúðarinnar og að þær upplýsingar yrðu aðeins veittar munnlega. Ákærði neitar sök.

Ekki liggur fyrir upptaka á tilgreindu símtali og verður því ekki byggt á því en ákærði viðurkennir að símtalið hafi átt sér stað þótt hann myndi ekki sérstaklega eftir því. Þá kvaðst ákærði hafa hringt í umrætt sinn að beiðni meðákærða Stefáns Inga. Einnig staðfesti ákærði að hann hafi sent skilaboð eftir verðkannanir um að Múrbúðin hefði aldrei tíma til að gefa upp verð með tölvupósti til yfirmanna sinna. Vitnið EGS, starfsmaður Múrbúðarinnar, kvað fyrir dóminum að mikill áhugi hafi verið hjá samkeppnisaðilum um verð og vöruval hjá nýju deildinni sem Múrbúðin var að opna á þessum tíma. Hafi starfsmenn BYKO og Húsasmiðjunnar komið í heimsókn til þeirra og spurst fyrir um verð og beðið um verðlista. Vitnið staðfesti að ákærði Ragnar Már hafi hringt í sig og beðið sig um að skiptast á upplýsingum eins og vitnið hafi skýrt frá á fundi með Samkeppniseftirlitinu og tekið sé fram í ákærulið V-1. Vitnið staðfesti einnig að ákærði Kenneth hafi hringt í sig og falast eftir upplýsingum um verð Múrbúðarinnar. Vitnið kvaðst ekki muna sérstaklega eftir orðalagi í símtalinu en símtalið hafi snúist um hvaða vörur væri verið að bjóða upp á og verð á þeim í Múrbúðinni. Það hafi verið efni allra þessara símtala þó svo að vitnið gæti ekki staðfest nú að símtölin hafi verið klukkan „þetta eða þetta“. Vitnið hafi reynt að víkja sér undan því að svara ofangreindum aðilum og borið því við að það hefði ekki tíma í þetta. Þá hafi vitnið verið beðið um að skiptast á upplýsingum en vitnið kvaðst ekki geta fullyrt um það hvort það hafi verið nákvæmlega í þessu símtali eða öðru símtali. Þó svo að vitnið EGS hafi fullyrt að ákærði hafi beðið sig um að skiptast á verðum þá liggur einnig fyrir að vitnið gat ekki fullyrt efni hvers símtals fyrir sig við ákærða og aðra ákærðu þennan sama morgun.

Gegn neitun ákærða svo og með vísan til umfjöllunar í ákærukafla I um refsiverða háttsemi a-liðar 2. mgr. 41. gr. a samkeppnislaga, telur dómurinn ósannað að ákærði hafi í þessu símtali gerst sekur um þá refsiverðu háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærukafla. Ber því að sýkna hann af henni.

Ákærði Stefán Árni Einarsson.

Ákærukafli I.

Ákærði neitar sök í þessum ákærukafla en þar er hann sakaður um að hafa sem framkvæmdastjóri vörustýringarsviðs Húsasmiðjunnar, á tímabilinu 13. september 2010 til 3. mars 2011, haft verðsamráð með skipulagðri upplýsingagjöf um verð og tilboðskjör sérgreindra grófvörutegunda, einkum bygginga- og timburvara, í símtölum milli starfsmanna fyrirtækjanna, sem hafi verið til þess fallið að hafa áhrif á verð, afslætti, álagningu og önnur viðskiptakjör innan umræddra fyrirtækja. Verðsamráðið hafi verið af hálfu starfsmanna Húsasmiðjunnar, viðhaft að undirlagi og/eða samkvæmt fyrirmælum ákærða Stefáns Árna.

Í liðum 1-21 eru þau tilvik tilgreind sem ákærði er sakaður um í þessum kafla ákærunnar. Í þeim ákæruliðum liggur fyrir að starfsmaður BYKO fékk upplýsingar um verð og tilboðsverð hjá samkeppnisaðilum og færði í sérstakt excel-skjal hjá sér sem hann síðan áframsendi til yfirmanna sinna í BYKO. Þeir starfsmenn Húsasmiðjunnar sem sáu um verðkannanir eða gáfu starfsmanni BYKO upp verð á grófvörum eru ekki sakaðir um að koma slíkum upplýsingum áfram til ákærða Stefáns Árna né er slíkri háttsemi lýst í ákærunni.

 Liður í sönnun ákæruvaldsins er að starfsmenn Húsasmiðjunnar hafi fært verðupplýsingar samkeppnisaðila í sérstakt excel-skjal til þess gert, og komið þeim upplýsingum áfram til sinna yfirmanna, meðal annars ákærða að hans fyrirmælum. Er ekki ágreiningur um að þau símtöl hafi átt sér stað sem tilgreind eru í þessum ákæruliðum, né um þann tölvupóst sem liggur fyrir í málinu. Fyrir liggur að meðákærðu Y og X, starfsmenn Húsasmiðjunnar, gáfu meðákærða Ragnari Má, starfsmanni BYKO, verðupplýsingar þegar Ragnar Már hringdi til Húsasmiðjunnar. Þrátt fyrir að innanhúsnúmer meðákærðu í þessum ákærukafla hafi verið í excel-skjali starfsmanna BYKO, felur það ekki í sér neina sönnun þess að um verðsamráð hafi verið að ræða. Annað og meira þarf að koma til. Samkvæmt framburði meðákærða Ragnars Más hringdi hann yfirleitt í starfsmann Húsasmiðjunnar til að gera verðkönnun en það hafi verið tímasparnaður í stað þess að fletta verðum upp á heimasíðu Húsasmiðjunnar, sem hafi verið illa aðgengileg. Fram kom í málinu að starfsmenn Húsasmiðjunnar gerðu verðkannanir með mánaðarmillibili. Ákærði kvaðst hafa borið ábyrgð á verðkönnunum frá áramótum 2010/2011 en fyrir þann tíma hafi þær heyrt undir VP. Ákærði hafi gefið þau fyrirmæli að sækja verð samkeppnisaðila af netinu og allir hafi átt að gera það. Staðfestu vitni þann framburð fyrir dóminum. Þá hafi ákærði fylgst með því hvort verð hækkuðu eða lækkuðu í tölvupósti. Þá neitaði ákærði því að hafa átt þá  hugmynd sem kom fram í tölvupósti um að meðákærði Y spyrði um verð á sömu vörum á sama tíma og BYKO gerði verðkönnun hjá þeim. Þá styður framburður vitnisins ÓÞJ framburð ákærða þar sem vitnið spyr m.a. ákærða hver sé vinnureglan með samkeppnisverð og hvort ekki eigi að láta vörustjóra vita um tæplega 30% verðmismun á þiljum hjá BYKO svo að þeir geti skoðað þetta. Þá hafði ákærði ekki með verðkannanir að gera fyrr en í janúar 2011 og voru þær því ekki á ábyrgð ákærða eins og ákært er fyrir í ákærukaflanum. Ekkert er framkomið hjá vitnum né meðákærðu sem hnekkir framburði ákærða um að honum hafi ekki verið kunnugt um að starfsmenn hans gæfu jafnframt upp verð á vörum Húsasmiðjunnar þegar samkeppnisaðilar gerðu sínar verðkannanir. Þá verður sök ekki felld á ákærða á grundvelli símtals frá 8. mars 2011 þar sem fyrir liggur að ákærði og viðmælandi hans höfðu hist ásamt fleirum sem handteknir höfðu verið í aðdraganda málsins og rætt málin sín í milli.

Í ákærukafla þessum er byggt á því að sú háttsemi meðákærðu Y, X og óþekkts starfsmanns sé að undirlagi eða samkvæmt fyrirmælum ákærða. Ákærði hafi síðan komið upplýsingum um meint verðsamráð til annarra stjórnenda Húsasmiðjunnar. Fyrir liggur að starfsmenn Húsasmiðjunnar framkvæmdu verðkannanir á ákærutímabilinu og er ekki ágreiningur um það. Vísar dómurinn til fyrri umfjöllun í kafla E um verðkannanir og verðsamráð.

Er ekkert fram komið í málinu sem sýnir fram á að verðsamráð hafi átt sér stað og stafi af undirlagi eða sé samkvæmt fyrirmælum ákærða Stefáns Árna. Hefur ákæruvaldinu ekki tekist að sanna að ákærði hafi, eins og honum er gefið að sök, gefið fyrirmæli um verðsamráð eða það verið gert að hans undirlagi eins og segir í I. kafla ákærunnar. Ber því að sýkna ákærða af þessum kafla ákærunnar.

Ákærukafli III.

Ákæruliður 2.     

Ákærði neitar sök í þessum ákærulið og kvað vöruhækkanir hafa staðið fyrir dyrum allt frá því í janúar 2011 eins og tölvupóstur beri með sér. Þá lýsti ákærði því að slíkar verðhækkanir þyrfti að keyra inn í áföngum þar sem um mörg þúsund vörunúmer sé um að ræða og hafi Guðmundur Loftsson átt að keyra vöruflokkana inn í ákveðna biðskrá. Í framhaldi hafi hann átt að láta vörustjórana vita hvað var búið að keyra mikið inn eftir ákveðnu kerfi. Áttu vörustjórarnir síðan að hækka verðin í kjölfarið. Styður framburður ákærðu Guðmundar og Kenneth þessa frásögn ákærða einnig. Ákærði kvað framburð sinn hjá lögreglu ekki réttan varðandi það að Guðmundur hafi átt að láta þetta fréttast til starfsmanna BYKO, hann hafi átt að láta það fréttast til vörustjóra Húsasmiðjunnar þegar runukeyrslur voru búnar. Þá er framburður ákærða um símtöl, þar sem hann fagnar því að BYKO hafi hækkað verð í kjölfar hækkana Húsasmiðjunnar, trúverðugur. Hafi verðsamráð átt sér stað, telur dómurinn að þessi umræða hafi ekki þurft að fara fram. Ber umræða ákærða í símtölum þess frekar merki að um harða samkeppni hafi verið að ræða og menn fagnað því þegar samkeppnisaðilar hækkuðu verð á sambærilegri vöru. Hlýtur það að vera markmið rekstraraðila að ná sem mestri framlegð út úr vörusölu sinni. Telur dómurinn framburð ákærða trúverðugan en hann fær einnig stoð í framburði annarra ákærðu svo og gögnum málsins. Telur dómurinn að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að færa fram lögfulla sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið. Vísar dómurinn þessu til stuðnings til fyrri umfjöllunar í kafla E um verðkannanir og verðsamráð. Ber því að sýkna ákærða af þessum ákærukafla.

Ákærði Y.

Ákærukafli I.

Ákæruliðir 1 og 14

Ákærði neitar sök í þessum ákæruliðum. Ákærði starfaði í hlutastarfi í þjónustuveri Húsasmiðjunnar á ákærutímabilinu og hafði það hlutverk að svara í síma og m.a. kvaðst hann hafa hringt einstaka sinnum í BYKO og spurt um verð ef hann hefði frétt að Húsasmiðjan væri með hærra verð. Með vísan til umfjöllunar um verðkönnun og verðsamráð í kafla E, telur dómurinn ósannað að ákærði hafi, með því að gefa samkeppnisaðilum upp verð á völdum vöruflokkum í gegnum síma, brotið gegn samkeppnislögum. Þá er einnig vísað til fyrri umfjöllunar um refsiverða háttsemi varðandi meðákærða Ragnar Má en samkvæmt þeirri niðurstöðu fellur háttsemi ákærða ekki undir refsiverða háttsemi a-liðar 2. mgr. 41. gr. a samkeppnislaga nr. 44/2005. Verður ákærði því sýknaður af þessum ákæruliðum.

Ákærði X.

Ákærukafli I.

Ákæruliðir 2-8, 11-13 og 20-21.

Ákærði neitar sök í þessum ákæruliðum. Í ákæruliðum þessum er ákærða gefið að sök að hafa veitt meðákærða Ragnari Má Amazeen upplýsingar um verð á vörutegundum sem Ragnar Már spurðist sérstaklega fyrir um. Ekkert annað liggur fyrir í málinu en játning ákærða á að hafa svarað umbeðnum fyrirspurnum en hljóðupptökur þeirra símtala sem byggt er á liggja ekki fyrir. Er því ekkert annað í málinu sem sök ákærða verður byggð á en hans játning og framburður meðákærða Ragnars Má. Verðkannanir sem slíkar eru ekki ólögmætar eins og fjallað hefur verið um í þessum kafla. Ekkert er fram komið í þessu máli annað en að ákærði hafi verið að sinna vinnu sinni í þjónustuveri og svara fyrirspurnum sem honum var skylt. Þá hefur meðákærði Stefán Árni verið sýknaður af þeirri háttsemi að hafa látið m.a. ákærða X framkvæma verðsamráð af hans undirlagi eða samkvæmt hans fyrirmælum.

                Ákærði byggir sýknukröfu sína m.a. á því að hann hafi ekki brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga, hvorki 10. gr. laganna né ákvæðum 41. gr. a með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæru en refsiverðri háttsemi sé ekki lýst í ákærunni. Samkvæmt heimfærslukafla í ákæru sé ákærða gefið að sök að hafa með háttsemi samkvæmt I. kafla ákærunnar brotið gegn a-lið 2. mgr. 41. gr. samkeppnislaga, sbr. 1. mgr. ákvæðisins, sbr. einnig a-lið 2. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Af hálfu ákærða er á því byggt að almennt ákvæði 10. gr. samkeppnislaga þoki fyrir sérákvæði 41. gr. a laganna í samræmi við almenn sjónarmið í refsirétti. Því gildi eingöngu verknaðarlýsing 41. gr. a um háttsemi ákærða en ekki 10. gr. að því leyti sem verknaðarlýsing 10. gr. er rýmri en verknaðarlýsing 41. gr. a. Að sama skapi verði háttsemi ákærða ekki metin út frá túlkun samkeppnisyfirvalda á 10. gr. né heldur út frá túlkun innlendra eða erlendra dómstóla á sambærilegu ákvæði Lissabonsamningsins, heldur eingöngu út frá refsiákvæði samkeppnislaganna. Þegar ákvæði 1. og 2. mgr. 41. gr. a séu skýrð saman mæli þau fyrir um refsinæmi þess að framkvæma, hvetja til eða láta framkvæma „samráð um verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör“. Ákærði verði því ekki sakfelldur samkvæmt ákæru nema sú háttsemi sem lýst sé í ákæru feli í sér „samráð um verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör“ samkvæmt verknaðarlýsingu refsiákvæðis samkeppnislaga. Ákærði byggir á því að sú háttsemi sem lýst sé í ákæru feli ekki í sér samráð um verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör. Samkvæmt ákæru feli háttsemin í sér að ákærði hafi veitt starfsmanni BYKO upplýsingar um gildandi verð á tilteknum vörutegundum sem starfsmaður BYKO spurðist sérstaklega fyrir um. Umræddir starfsmenn sammæltust ekki um tiltekið verð á umræddum vörum, né heldur tiltekinn afslátt, álagningu eða önnur viðskiptakjör. Þvert á móti hafi eingöngu verið veittar upplýsingar um gildandi verð samkvæmt verðlista. Það hafi afar takmörkuð áhrif út á markaðinn vegna þess að grófvörumarkaðurinn sé tilboðsmarkaður þar sem verðsamkeppni felist fyrst og fremst í tilboðum og afsláttarkjörum. Ákærði byggi þannig á því að sú háttsemi sem lýst sé í ákæru falli ekki undir verknaðarlýsingu 41. gr. a samkeppnislaga.

Með vísan til rökstuðnings meðákærða Ragnars Más og í ákærukafla I og II og þeirra forsendna, telur dómurinn háttsemi ákærða ekki verða heimfærða til a-liðar 2. mgr. 41. gr. a samkeppnislaga nr. 44/2005 og ber því að sýkna ákærða af þessum ákærukafla.

Ákærði Guðmundur Loftsson.

Ákærukafli I.

Ákæruliðir 16-19.

Ákærði neitar sök í þessum ákæruliðum en viðurkennir að háttsemin hafi átt sér stað eins og hljóðupptökur af símtölum frá 4. febrúar til 18. febrúar 2011 beri með sér. 

Varðandi ákærulið 16 liggur ekki fyrir hljóðupptaka af símtölum og verður niðurstaða í þeim ákæruliðum byggð á framburði ákærða og meðákærða Ragnars Más. Ákærði kvaðst fyrir lögreglu ekki muna eftir þessu samtali en líklega hafi það verið Ragnar Már sem hafi hringt en ákærði var ekki viss þar sem hringt hafi verið úr landsbyggðarnúmeri. Fyrir dóminum kvað ákærði þessa lýsingu vera rétta fyrir utan að hann hafi ekki upplýst um tilboðskjör.

 Varðandi ákæruliði 17-19 liggja fyrir hljóðupptökur af símtölum milli ákærða og meðákærða Ragnars Más og kemur fram að báðir ákærðu skiptast á upplýsingum um verð á vissum vörutegundum og er allur gangur á því hvor spyr og hvor svarar en ekki fer á milli mála að þeir gefa hvor öðrum upp sín verð yfir sömu vöru.

Ákærði hefur neitað því að hann hafi framkvæmt ofangreinda verðkönnun, með þeim hætti sem hann gerði í þessum ákæruliðum, að fyrirmælum yfirmanna sinna. Þessi samskipti milli hans og ákærða Ragnars Más hafi bara þróast á þennan hátt. Þá hefur ákærði neitað því að yfirmenn hans hafi vitað um þau upplýsingaskipti sem fóru fram í símtölum hans við meðákærða Ragnar Má, þeir hafi bara vitað að Ragnar Már hafi hringt í ákærða og ákærði gefið upp verð samkvæmt fyrirspurn Ragnars Más.  

Ákærði byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að hann hafi ekki brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga, hvorki 10. gr. laganna né ákvæðum 41. gr. a með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæru. Þá lýsi ákæran ekki refsiverðri háttsemi eins og hún sé skilgreind í ákvæðinu. Telur ákærði að almennt ákvæði 10. gr. laganna þoki fyrir sérákvæði 41. gr. a í samræmi við almenn sjónarmið í refsirétti. Gildi því eingöngu  sérákvæði 41. gr. a. Þegar ákvæði 1. og 2. mgr. 41. gr. a séu skýrð saman, mæli þau fyrir um refsinæmi þess að framkvæma, hvetja til eða láta framkvæma „samráð um verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör“. Ákærði verði því ekki sakfelldur samkvæmt ákæru nema sú háttsemi sem lýst sé í ákæru feli í sér „samráð um verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör“ samkvæmt verknaðarlýsingu refsiákvæðis samkeppnislaga. Ákærði byggir á því að sú háttsemi sem lýst sé í ákæru feli ekki í sér samráð um verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör. Samkvæmt ákæru feli háttsemin í sér að ákærði hafi veitt starfsmanni BYKO upplýsingar um gildandi verð á tilteknum vörutegundum sem starfsmaður BYKO spurðist sérstaklega fyrir um. Umræddir starfsmenn hafi ekki sammælst um tiltekið verð á umræddum vörum, né heldur tiltekinn afslátt, álagningu eða önnur viðskiptakjör. Þvert á móti hafi eingöngu verið veittar upplýsingar um gildandi verð samkvæmt verðlista. Það hafi afar takmörkuð áhrif út á markaðinn vegna þess að grófvörumarkaðurinn sé tilboðsmarkaður þar sem verðsamkeppni felist fyrst og fremst í tilboðum og afsláttarkjörum. Ákærði byggi þannig á því að sú háttsemi sem lýst er í ákæru falli ekki undir verknaðarlýsingu 41. gr. a samkeppnislaga og því beri að sýkna ákærða.

Í 41. gr. a samkeppnislaga segir að hver starfsmaður eða stjórnarmaður fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja, sem framkvæmi, hvetur til eða láti framkvæma samráð sem brjóti gegn 10. gr. og varði þau atriði sem tilgreind séu í 2. og 3. mgr. skuli sæta sektum eða fangelsi allt að sex árum. Í 2. mgr. segir að 1. mgr. taki á eftirfarandi brotum fyrirtækja eða samtaka á sama sölustigi: a. samráði um verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör. Brot ákærða er heimfært til a-liðar 2. mgr. 41. gr. a laganna. Verður einstaklingi því ekki gerð refsing fyrir aðra háttsemi en lýst er í þessu ákvæði. Í símtölum ákærðu Ragnars Más og Guðmundar Loftssonar kemur fram að þeir gefa hvor öðrum upplýsingar um verð hvor annars í sambærilegri vöru. Ekkert er komið fram í málinu um að aðferðir þeirra hafi verið að fyrirmælum yfirstjórnenda eða með vitneskju þeirra. Þá felur sú aðferð, sem ákærðu beittu við upplýsingaskiptin, ekki í sér samráð um verð, samráð um afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör eins og kveðið er á í a-lið 2. mgr. 41. gr. a laganna. Hefur ákæruvaldið því ekki sýnt fram á að ákærði hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi með þeim upplýsingaskiptum um verð, sem fóru fram samkvæmt  þeim ákæruliðum í þessum kafla ákærunnar. Ber því að sýkna ákærða. 

Ákærði Kenneth Breiðfjörð.

Ákærukafli III.

Ákæruliður 1.

Ákærði neitar sök í þessum ákærulið. Ákærði skýrði fyrir dóminum að á þessum tíma hafi verið miklar verðbreytingar í framkvæmd á vörum Húsasmiðjunnar og hafi vörustjórar átt að stýra því. Ákærði hafi þann 16. febrúar 2011 ekki verið búinn að keyra inn allar verðbreytingar á sínum vörum, hann hafi vitað að BYKO gerði verðkönnun hjá þeim ca vikulega og því hafi hann látið Guðmund vita að öll verð væru ekki komin inn og myndi hann fá rangar upplýsingar um verð Húsasmiðjunnar. Ákærði vissi ekki til að nokkuð hafi verið gert með þessar upplýsingar til meðákærða Guðmundar eftir það. Hafi ákærði ætlast til að Guðmundur gerði eitthvað sérstakt með þessar upplýsingar ákærða hefði hann sagt Guðmundi það hreint út. Þá bera símtöl ákærða við aðra starfsmenn Húsasmiðjunnar ekki með sér að um verðsamráð með samkeppnisaðilum hafi verið að ræða. Tölvupóstur frá ákærða til fjölda starfsmanna Húsasmiðjunnar, þar sem fram kemur að tilteknar verðbreytingar hafi átt sér stað, styður framburð ákærða um að miklar verðbreytingar hafi átt sér stað á þessum tíma. Er framburður ákærða trúverðugur, enda fær hann stoð í framburði annarra ákærðu og vitna um almennar verðbreytingar og runukeyrslur á þessum tíma.

                Telur dómurinn að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sýna fram á að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið. Ber því að sýkna ákærða.

Ákærukafli V.

Ákæruliður 2.

Ákærði neitaði sök í þessum ákærulið. Lýsti ákærði því að hann hafi bæði heimsótt Múrbúðina og hringt í hana degi síðar í þeim tilgangi að fá upp verð á grófvöru í nýrri grófvörudeild Múrbúðarinnar. Þá kvað ákærði ranglega farið með símtalið í ákærunni. Símtalið deginum eftir heimsóknina hafi verið í þeim tilgangi að fá frá Múrbúðinni verðlista, sem ekki hafi verið til deginum áður. Starfsmaður Múrbúðarinnar hafi boðist til að senda ákærða verðlista daginn eftir. Kvaðst ákærði ekki hafa boðið honum gagnkvæmar upplýsingar. Þá hafi ákærða og meðákærða Júlíusi ekki þótt rétt að fá verðupplýsingar sendar í tölvupósti og þar sem Júlíus hafi þekkt vitnið EGS betur en ákærði, hafi þeir ákveðið að Júlíus myndi hringja í hann og beðið EGS að senda verðlista ekki í tölvupósti. Fyrirmæli Stefáns Árna hafi verið að sækja verðupplýsingar á heimasíður samkeppnisaðila en ekki með tölvupósti. Ekkert í gögnum málsins né framburði meðákærðu sýna fram á annað. Vitnið EGS staðfesti fyrir dóminum að ákærði ásamt fleiri starfsmönnum Húsasmiðjunnar hafi hringt í Múrbúðina og óskað eftir verðlistum.

                Brot ákærða er heimfært til a-liðar 2. mgr. 41. gr. a samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. sömu laga með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Með vísan til umfjöllunar um verðkannanir og forsendna meðákærða Ragnars Más um refsiverða háttsemi a-liðar 2. mgr. 41. gr. a samkeppnislaga, að breyttu breytanda, telur dómurinn þessa háttsemi ákærða Kenneth ekki falla undir refsiverða háttsemi ákvæðisins. Ber því að sýkna ákærða af þessum ákærulið. 

Ákærði Júlíus Þór Sigþórsson.

Ákærukafli 1V.

Ákæruliður 1.

Ákærði neitar sök í þessum ákærulið. Lýsti ákærði því að meðákærði Steingrímur Birkir hafi hringt í sig og leitt símtalið eins og það beri með sér. Ákærði hafi einhvern veginn orðið meðákærða samsinna og tekið undir yfirlýsingar Steingríms Birkis án þess þó að hafa gert sér grein fyrir því hvað hafi falist í því. Ákærði hafi í beinu framhaldi ætlað til síns yfirmanns til að greina frá símtalinu en hann ekki verið við. Hann hafi því farið inn á skrifstofu vitnisins ÓÞJ til að skýra honum frá samtalinu en þar inni hafi einnig verið meðákærði Z. Hafi ákærða verið mjög brugðið eftir símtalið og sagt frá því efnislega. Þeir hafi sammælst um að þegja yfir símtalinu en láta forstjóra þeirra vita um það sem fyrst. Fær þessi framburður stoð í framburði meðákærða Z og vitnisins ÓÞJ fyrir dóminum og einnig í símtali meðákærða Z daginn eftir við SAS, forstjóra Húsasmiðjunnar. Framburður ákærða Steingríms Birkis um símtalið fyrir dóminum er ótrúverðugur og verður ekki á honum byggt. Dómurinn hlustaði á ofangreint símtal og telur óyggjandi að ákærði Júlíus hafi tekið þátt í símtali sem hvorki var á hans valdi að hafa áhrif á, né að hann hafi átt von á slíku símtali. Þá eru svör hans við yfirlýsingum meðákærða Steingríms Birki ekki á þann veg að í þeim hafi falist vilji til verðsamráðs eða samráðs í tilboðsgjöf. Þá telur dómurinn háttsemi ákærða Júlíusar í beinu framhaldi benda til þess að símtalið hafi komið honum í opna skjöldu og hann verið undrandi yfir því. Telur dómurinn því ósannað að, þrátt fyrir gáleysi ákærða um að slíta ekki samtalinu strax,  að hann hafi ekki vitað á hverju hann átti von né hafa getað brugðist við símtalinu á annan hátt en hann gerði. Þá styður sú háttsemi ákærða að fara beint eftir símtalið og tilkynna það yfirmönnum sínum, að vilji hans hafi ekki staðið til að taka þátt í fyrirætlunum meðákærða Steingríms Birkis. Á gáleysi ekki við í þessu tilviki þar sem ákærði brást við með þeim hætti sem hann gerði. Verður ákærði því ekki sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. 

Ákærukafli V.

Ákæruliður 3.

Ákærði neitar sök í þessum ákærulið. Ákærði hefur viðurkennt að hafa hringt í starfsmann Múrbúðarinnar umrætt sinn. Staðfesti vitnið BB fyrir dóminum að hafa hlustað á umrætt símtal og ákærði hafi sagt að hann myndi veita verðupplýsingar á móti, fengi hann upplýsingar um verð frá Múrbúðinni. Með vísan til fyrri umfjöllunar um refsiverða háttsemi a-liðar 2. mgr. 41. gr. a samkeppnislaga, telur dómurinn að sú háttsemi ákærða um að leita eftir verðupplýsingum og lofa verðupplýsingum á móti, falli ekki undir þá háttsemi sem lýst er í ákvæðinu. Ber því að sýkna ákærða af þessum ákærulið.

Ákærði Z.

Ákærukafli IV.

Ákæruliður 2.

Ákærði neitar sök. Í þessum ákærulið er ákærði sakaður um hlutdeild í verðsamráði með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæruliðnum. Dómurinn hlustaði á símtalið en þar upplýsti ákærði forstjóra Húsasmiðjunnar, SAS, um vitneskju sína af símtali meðákærðu Steingríms Birkis og Júlíusar. 28. febrúar 2011 var á föstudegi og kom fram að SAS var í fríi en kæmi til vinnu á mánudeginum. Hringdi SAS að fyrra bragði í ákærða þegar umrædd umræða fór fram. Ræddu þeir í upphafi m.a. um framlegð í málningarvörum og erfitt væri að skilja tölvukerfi Húsasmiðjunnar og þar væri að finna töluverðar villur um birgðastöðu. Þá ræddu þeir um framlegð í öðrum vöruflokkum. Stóðu þær umræður í tæpar sex mínútur. Þá spurði ákærði SAS hvort hann hafi heyrt í ÓÞJ og þar sem svo var ekki lýsti ákærði símtali meðákærðu Steingríms og Júlíusar efnislega fyrir SAS sem virtist koma af fjöllum við þá fréttir. Upplýsti ákærði SAS um að meðákærði Júlíus hafi sagt þeim frá símtalinu strax um morguninn. Þá ræddu þeir um þær fyrirætlanir sem meðákærði Steingrímur Birkir sagði frá og er ekkert að heyra í símtalinu um að þeir hafi mátt búast við slíkum yfirlýsingum frá meðákærða Steingrími Birki eða starfsmanni BYKO. Gefur símtalið ekkert annað til kynna en að um tilfallandi, óvænt og óundirbúið símtal hafi verið að ræða frá meðákærða Steingrími Birki sem kom ákærða á óvart. Þá kvaðst ákærði fyrir dóminum hafa spurt SAS um það hvort ÓÞJ hafi rætt við sig um símtal Júlíusar og þar sem hann var ekki búinn að því, hefði ákærði ákveðið að gera það, þó svo að það hafi ekki verið á hans könnu að hann taldi. Þá staðfestu Júlíus, ÓÞJ, Z og SAS að efni símtals Steingríms Birkis og Júlíusar hafi aldrei verið rætt frekar innan fyrirtækisins og á meðan SAS hafi verið að velta því fyrir sér hvort hann ætti að tilkynna það yfirvöldum hafi húsleit, sem leiddi til þessa dómsmáls, verið gerð svo aldrei hafi komið til þess að hann hafi tilkynnt um símtalið til réttra yfirvalda.

                Telur dómurinn, eftir að hafa hlustað á símtal ákærða við SAS, ekkert þar koma fram sem styðji að ákærði Z sé að miðla upplýsingum sem verði Húsasmiðjunni að gagni í verðsamráði. Þvert á móti virðist ákærði Z hissa á þessu símtali í frásögn sinni. Telur dómurinn ósannað, með þessari upplýsingagjöf ákærða til SAS, að  ákærði hafi með því átt hlutdeild í verðsamráði eins og ákært er fyrir í þessum ákærulið. Verður ákærði því sýknaður af honum.

Ákærði Þ.

Ákærukafli II.

Ákæruliðir 7, 10 og 11.

Ákærði neitar sök í þessum ákæruliðum. Kvaðst hann hafa gefið upp verð á nokkrum vörutegundum með því að svara fyrirspurnum meðákærða Ragnars Más að það væri allt óbreytt eða að þetta væri allt við það sama.

                Fyrir liggur í verðkönnunarskjölum BYKO að verð nokkurra vörutegunda hjá versluninni Úlfinum hafi verið langt undir verði svipaðrar vöru hjá BYKO. Ekki er að sjá að Úlfurinn hafi í kjölfar símtala breytt sínum verðum, hækkað þau eða lækkað og ekki er að sjá af sömu skjölum að BYKO hafi lækkað sín verð í samræmi við verð Úlfsins. Er því ósannað að um verðsamráð hafi verið að ræða. Þá liggur fyrir að í ofangreindum símtölum var verið að gefa upp verð á vörutegundum. Vísar dómurinn til fyrri umfjöllunar um verðkannanir í kafla E í dóminum. Þá vísar dómurinn einnig til fyrri umfjöllunar um meðákærða Ragnar Má að breyttu breytanda um refsiverða háttsemi sem lýst er í a-lið 2. mgr. 41. gr. a samkeppnislaga. Með vísan til þessa ber að sýkna ákærða af þessum ákæruliðum.  

F.

Í máli þessu hafa allir ákærðu verið sýknaðir fyrir utan ákærða Steingrím Birki. Hefur hann verið sakfelldur fyrir hvatningu til verðsamráðs og brot gegn a- og d-lið 2. mgr. 41. gr. a laga nr. 44/2005. Ákærða hefur ekki verið gerð refsing áður. Við ákvörðun refsingar verður að taka tillit til ásetnings ákærða og í hvaða tilgangi verknaðurinn var unninn. Þá verður einnig að taka tillit til þess að langt er síðan brotið var framið en skýrslutökum og rannsóknum var sannanlega lokið í júní 2013. Mál þetta er mjög umfangsmikið og snýr að mörgum ákærðu og stórum málaflokki. Verður ekki lagt á rannsóknaraðila að slíta þátt hvers ákærða frá öðrum og hefur því verið óhjákvæmilegt að rannsaka málið í heild sinni. Þó virðist hafa orðið hlé á skýrslutökum af vitnum og ákærðu í tvö ár eða frá mars 2011 til mars 2013. Þá voru engar skýrslur teknar af vitnum eftir mars 2013, utan þriggja vitna en síðasta skýrslan var tekin í júní 2013. Ákæra var gefin út 23. apríl 2014. Telur dómurinn ekki slíkan drátt hafa verið á rannsókn málsins að meta skuli það ákærða til refsilækkunar.

                Með hliðsjón af öllu ofansögðu telur dómurinn hæfilega refsingu ákærða vera fangelsi í einn mánuð en með hliðsjón af eðli málsins, hreins sakaferils ákærða, afleiðingum brotsins og þess tíma sem rannsóknin hefur tekið, sem ákærða verður ekki kennt um, þykir rétt að skilorðsbinda refsinguna og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Allur sakarkostnaður ákærða sem sýknaðir hafa verið skal greiddur úr ríkissjóði eins og segir í dómsorði.

 Mál þetta er mjög umfangsmikið og hefur tekið langan tíma. Rannsóknargögn ákæruvaldsins telja yfir sex þúsund blaðsíður og að auki hafa verjendur ákærðu lagt fram mikinn fjölda gagna. Verður að líta til þessa við ákvörðun málsvarnarlauna. Þá verður einnig að líta til þess við ákvörðun málsvarnarlauna verjanda ákærða Steingríms Birkis, að hann hefur verið sýknaður af tveimur ákæruliðum af þremur en óhjákvæmilegt var fyrir verjandann að kynna sér öll skjöl málsins samhengisins vegna og verður ákærða gert að greiða 1/10 hluta af málsvarnarlaunum verjanda síns en 9/10 greiðist úr ríkissjóði.

Gætt var ákvæða 184. gr. laga nr. 88/2008 við dómsuppsögu.

Mál þetta dæma Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari og meðdómsmennirnir Bogi Hjálmtýsson og Jóni Höskuldsson héraðsdómarar.

DÓMSORÐ.

Ákærði Leifur Örn Gunnarsson er sýkn í máli þessu.

Ákærði Stefán Ingi Valsson er sýkn í máli þessu.

Ákærði Ragnar Már Amazeen er sýkn í máli þessu.

Ákærði Stefán Árni Einarsson er sýkn í máli þessu.

Ákærði Y er sýkn í máli þessu.

Ákærði X er sýkn í máli þessu.

Ákærði Guðmundur Loftsson er sýkn í máli þessu.

Ákærði Kenneth Breiðfjörð er sýkn í máli þessu.

Ákærði Júlíus Þór Sigurþórsson er sýkn í máli þessu.

Ákærði Z er sýkn í máli þessu.

Ákærði Þ er sýkn í máli þessu.

Ákærði Steingrímur Birkir Björnsson sæti fangelsi í einn mánuð, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Málsvarnarlaun verjanda ákærða Steingríms Birkis Björnssonar, Geirs Gestssonar hdl., samtals 9.881.095 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist að 9/10 hlutum úr ríkissjóði en að 1/10 hluta af ákærða.

                Málsvarnarlaun verjanda ákærða Leifs Arnar Gunnarssonar, Þórhalls Hauks Þorvaldssonar hrl., samtals 11.071.650 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist úr ríkissjóði.

Málsvarnarlaun verjanda ákærða Stefáns Inga Valssonar, Lúðvíks Arnar Steinarssonar hrl., samtals 7.125.520 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist úr ríkissjóði.

Málsvarnarlaun verjanda ákærða Ragnars Más Amazeen, Skarphéðins Péturssonar hrl., samtals 7.871.768 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist úr ríkissjóði.

                Málsvarnarlaun verjanda ákærða Stefáns Árna Einarssonar, Þorsteins Einarssonar hrl., samtals 7.584.460 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist úr ríkissjóði.

                Málsvarnarlaun verjanda ákærða Y, Brynjólfs Eyvindssonar hdl.,  samtals 5.724.460 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist úr ríkissjóði.

Málsvarnarlaun verjanda ákærða X, Smára Hilmarssonar hdl., samtals 5.577.520 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist úr ríkissjóði.

                Málsvarnarlaun verjanda ákærða Guðmundar Loftssonar, Grétars Dórs Sigurðssonar hdl., samtals 6.094.600 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist úr ríkissjóði.

                Málsvarnarlaun verjanda ákærða Kenneth Breiðfjörð, Árna Helgasonar hdl., samtals 5.211.720 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist úr ríkissjóði.

                Málsvarnarlaun verjanda Júlíusar Þórs Sigurþórssonar, Braga Björnssonar hdl., samtals 7.805.180 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist úr ríkissjóði.

                Málsvarnarlaun verjanda ákærða Z, Jónu Bjarkar Helgadóttur hdl., samtals 12.376.781 króna að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist úr ríkissjóði.

                Málsvarnarlaun verjanda ákærða Þ, Sverris Pálmasonar hdl., samtals 5.865.975 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist úr ríkissjóði.