- Kærumál
- Málskostnaður
- Óbyggðarnefnd
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
|
Mánudaginn 13. júní 2005. |
Nr. 217/2005. |
Þorleifur Hjaltason(Jón Hjaltason hrl.) gegn íslenska ríkinu (Skarphéðinn Þórisson hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður. Óbyggðarnefnd. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta.
Þ höfðaði mál á hendur Í þar sem hann krafðist þess í fyrsta lagi að lög nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta yrðu felld úr gildi, í öðru lagi að tilgreindur úrskurður óbyggðanefndar yrði felldur úr gildi, í þriðja lagi að núverandi landamerki jarðarinnar Hóla yrðu staðfest, í fjórða lagi að viðurkennt yrði að hann ætti skaðabótarétt á Í vegna þinglýsingar og aflýsingar óbyggðanefndar á kvöðum á jörðinni Hólum. Var þessum kröfum Þ vísað frá dómi. Þá krafðist hann þess að Í yrði gert að greiða málskostnað hans fyrir óbyggðanefnd. Var Þ talinn hafa lögvarða hagsmuni af því að bera ákvörðun nefndarinnar að þessu leyti undir dóm, auk þess sem ákvæði laga nr. 58/1998 stæðu því ekki í vegi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. maí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 6. maí 2005, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili gerir meðal annars þá kröfu í málinu að ríkissjóði verði gert að greiða kostnað hans við hagsmunagæslu vegna jarðarinnar Hóla fyrir óbyggðanefnd. Hafði nefndin með úrskurði sínum í máli nr. 4/2001, um þjóðlendumörk á nánar tilgreindu svæði í Sveitarfélaginu Hornafirði, lagt þann kostnað á sóknaraðila sjálfan með vísan til 17. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta með áorðnum breytingum. Verður sóknaraðili talinn hafa lögvarða hagsmuni af því að bera ákvörðun nefndarinnar að þessu leyti undir dóm. Samkvæmt lokamálslið 19. gr. laga nr. 58/1998 er unnt að leggja til úrlausnar dómstóla hverja þá kröfu sem gerð hefur verið fyrir óbyggðanefnd. Þá standa önnur ákvæði laganna ekki því í vegi að sóknaraðili geti borið ákvörðun nefndarinnar um málskostnað samkvæmt 17. gr. laganna undir dóm. Verður þessi krafa sóknaraðila ekki talin svo vanreifuð að varði frávísun.
Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi að því er varðar kröfu sóknaraðila um að ríkissjóði verði gert að greiða málskostnað hans fyrir óbyggðanefnd og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar að þessu leyti. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur að öðru leyti.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi að því er varðar kröfu sóknaraðila, Þorleifs Hjaltasonar, um að ríkissjóði verði gert að greiða málskostnað hans fyrir óbyggðanefnd og lagt fyrir héraðsdómara að taka þann þátt málsins til efnismeðferðar.
Að öðru leyti en að framan greinir er hinn kærði úrskurður staðfestur.
Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði sóknaraðila 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 6. maí 2005.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 22. apríl sl. um frávísunarkröfu stefnda, er höfðað fyrir Héraðsdómi Austurlands af Þorleifi Hjaltasyni, kt. 231030-3019, Hólum, Hornafirði, Austur-Skaftafellssýslu, á hendur íslenska ríkinu og til réttargæslu Vilhjálmi Geir Þórhallssyni, kt. 220828-4689, Sóltúni 5, Reykjavík, og Ragnari Sigurðssyni, kt. 180630-3339, Firði, Höfn, með stefnu birtri 5. apríl 2004 og framhaldsstefnu þingfestri 12. apríl 2005.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þessar:
1. Að lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlenda og afrétta nr. 58/1998 verði felld úr gildi með dómi.
2. Að úrskurður Óbyggðanefndar verði úr gildi felldur.
3. Að núverandi landamerki Hóla, sem lýst var af Þórunni Þorleifsdóttur með yfirlýsingum, dags. 8. maí 1885, verði staðfest í einu og öllu með dómi.
4. Viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi skaðabótarétt á íslenska ríkið vegna þinglýsingar og aflýsingar Óbyggðanefndar á kvöðum á jörðinni Hólum, hvorttveggja án hans vitundar.
Ennfremur er þess krafist að héraðsdómurinn ákveði að íslenska ríkið greiði hæfilegan málskostnað lögmanns stefnanda fyrir Óbyggðanefnd samkvæmt framlögðum reikningi 1.883.648 kr., þó ekki undir 900.000 kr. til jafns við aðra hæstaréttarlögmenn er komu að málinu.
Þá er þess krafist að íslenska ríkið greiði hæfilegan málskostnað stefnanda fyrir Héraðsdómi Austurlands allt að skaðlausu samkvæmt mati héraðsdóms eða síðar samkvæmt framlögðum reikningi, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að öllum dómkröfum stefnanda verði vísað frá dómi.
Til vara krefst stefndi sýknu af öllum dómkröfum stefnanda.
Stefndi krefst í báðum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfum stefnda verði hafnað og að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað í þessum þætti málsins.
Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefndu og hafa þeir ekki látið málið til sín taka.
Málavextir
Tildrög máls þessa eru þau að þann 14. nóvember 2003 var kveðinn upp úrskurður hjá óbyggðanefnd í máli nr. 4/2001: Nes í sveitarfélaginu Hornafirði sem varðaði þjóðlendumörk á því svæði. Stefnandi er bóndi og eigandi jarðarinnar Hóla innan þessa svæðis. Í úrskurði óbyggðanefndar er fjallað um afmörkun máls nr. 4/2001 og um aðild stefnanda að því. Þar kemur fram að upphaflega hafi kröfugerð íslenska ríkisins náð til lands sem samkvæmt landamerkjabréfi liggur innan landamerkja Hóla. Upphaflega gerði stefnandi ekki athugasemdir við kröfugerð ríkisins en síðar á málmeðferðartíma komu fram andmæli frá honum þar sem krafist var m.a. staðfestingar á landamerkjum Hóla samkvæmt landamerkjabréfi. Við aðalmeðferð málins hjá óbyggðanefnd lýsti fulltrúi stefnda sig reiðubúinn til þess að gera ekki athugsemdir við norðurmörk Hóla og þar með að draga til baka fyrri kröfu um þjóðlendumörk innan landamerkja Hóla. Þessu var hafnað af hálfu stefnanda. Um þetta segir svo í úrskurði óbyggðanefndar:
“Óbyggðanefnd lítur svo á að með þessu hafi íslenska ríkið dregið umrædda kröfu til baka. Endanleg kröfugerð íslenska ríkisins snertir því ekki land sem samkvæmt landamerkjabréfi liggur innan landamerkja Hóla. Hólar koma því ekki sérstaklega til umfjöllunar í úrskurði þessum umfram það sem sjálfstæð rannsóknarskylda óbyggðanefndar, sbr. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998, leiðir af sér, nema að því er varðar ákvörðun málskostnaðar."
Í úrskurði óbyggðanefndar var kveðið á um það að stefnandi skyldi sjálfur bera kostnað vegna þátttöku í aðalmeðferð málsins, en lögmanni hans, Jóni Hjaltasyni hrl., var ákvörðuð 300.000 kr. þóknun.
Samkvæmt 10. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998 lét óbyggðanefnd þinglýsa 2. janúar 2001 yfirlýsingu um kröfulínu fjármálaráðherra. Sú yfirlýsing tók meðal annars til Hóla. Að gengnum úrskurði óbyggðanefndar var yfirlýsingu þessari aflýst. Aflýsing úr þinglýsingarbókum er dags. 20. janúar 2004.
Málsástæður stefnda vegna frávísunarkrafna
Stefndi krefst þess að öllum kröfum stefnanda verði vísað frá dómi og þar með málinu í heild. Stefndi fjallar um einstaka kröfuliði stefnanda í sömu röð og stefnandi gerir í dómkröfum sínum og eru kröfuliðirnir tölusettir frá 1-5.
1. Stefndi krefst þess að fyrstu dómkröfu stefnanda um ,,að lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlenda og afrétta nr. 58/1998 verði felld[ur] úr gildi með dómi” verði vísað frá dómi. Frávísunarkrafa stefnda er byggð á því að málatilbúnaður og kröfugerð stefnanda að þessu leyti sé andstæður stjórnskipunarlögum íslenska lýðveldisins og ákvæðum laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um sakarefni, sbr. aðallega 24.-26. gr. og 80. gr. laganna.
Dómstólar geti ekki ógilt lög í heild sinni sem sett eru af Alþingi á stjórnskipulegan hátt. Til þess hafi þeir ekki stjórnskipulega heimild. Dómstólar geti á hinn bóginn hafnað beitingu tiltekinnar réttarreglu í lögum ef hún er andstæð tilteknum stjórnarskrárákvæðum. Dómkrafa stefnanda kveður einungis á um ógildingu á lögunum í heild sinni. Að mati stefnda sé kröfugerðin því ódómtæk.
Ljóst sé ennfremur af áskilnaði 1. mgr. 24. gr. eml., um að dómstólar dæmi sakarefni, að þess sé krafist að um sé að ræða tiltekinn afmarkaðan ágreining sem dómstólar eigi lögsögu um. Í 1. mgr. 25. gr. eml. segi skýrt að dómstólar verði ekki krafðir álits um lögfræðilegt efni eða hvort tiltekið atvik hafi gerst nema að því leyti sem nauðsynlegt sé til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli. Af hálfu stefnanda hafi ekki verið sýnt fram á að neinu raunverulegu sakarefni í framangreindum skilningi sé til að dreifa er tengst geti þessari dómkröfu hans né að lesin verði út úr ógildingarkröfu hans nein ákveðin krafa í skilningi 2. mgr. 25. gr. eml. er leitt geti til lykta tiltekið ágreiningsefni, sem hann hafi lögvarða hagsmuni af að fá skorið úr um, sbr. 2. mgr. 25. gr. eml. Í kröfugerð stefnanda felist því í reynd ekki annað en beiðni um lögfræðilega álitsgerð andstætt skýrum fyrirmælum 1. mgr. 25. gr. eml. Framangreindar málsástæður séu byggðar á þeirri staðreynd sem rakin sé hér að framan, að úrskurður óbyggðanefndar hafi á engan hátt tekið efnislega til jarðar stefnanda um þjóðlendumörk enda hafði stefndi fyrr fallið frá slíkum kröfum. Um þessa staðreynd megi jafnframt vísa til 1. mgr. 26. gr. eml. um ókomnar skyldur.
Dómkrafa stefnanda sé auk þess ekki svo skýr og glögg sem áskilja verði til að hún geti talist dómhæf, sbr. 25. og 80. gr. eml. Krafa stefnanda sé ekki nægilega ljós efnislega til þess að hún geti orðið grundvöllur að dómsorði er geti ráðið til lykta tiltekna réttarstöðu. Þá sé málsreifum stefnanda beinlínis þversagnarkennd enda eigi stefnandi ekki lengur neinna hagsmuna að gæta að gengum úrskurði óbyggðanefndar.
Allt framangreint leiði til bess að vísa beri þessari kröfu stefnanda frá dómi.
2. Um annan kröfulið stefnanda um ,, að úrskurður Óbyggðanefndar verði úr gildi felldur” vísar stefndi til sömu málsástæðna og hann byggir á í afstöðu sinni til fyrsta kröfuliðs stefnanda, ef undan er skilin umfjöllun stefnda um setningu laga og heimildir dómstóla til að ógilda lög. Jafnframt vísar stefndi til 18. gr. eml. um samaðild. Úrskurður óbyggðanefnar sem stefnandi krefst ógildingar á varði marga hagsmunaaðila. Engum þeirra sé stefnt inn í málið til hagsmunagæslu. Það eitt og sér varði frávísun dómkröfunnar. Enn sé endurtekið að úrskurðurinn varði ekki stefnanda efnislega því hann leggur engar skyldur á herðar honum.
Í þriðju dómkröfu stefnanda sé þess krafist ,, að núverandi landamerki Hóla,
sem lýst var af Þórunni Þorleifsdóttur með yfirlýsingum, dags. 8. maí 1885, verði staðfest í einu og öllu með dómi. Af hálfu stefnda er á því byggt að dómkrafa þessi sé ódómtæk enda varði hún hvorki úrskurð óbyggðanefndar né hlutverk hennar. Hlutverk óbyggðanefndar sé skilgreint í 7. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998. Þar sé hvergi kveðið á um það hlutverk nefndarinnar að kveða á um og skilgreina tiltekin landamerki eignarlanda. Meginhlutverk nefndarinnar sé að skilgreina mörk eignarlanda og þjóðlendna og taka afstöðu til afrétta og eignarréttinda innan þjóðlendna. Kröfugerð stefnanda að þessu leyti sé því utan verksviðs óbyggðanefndar. Jafnframt megi til fyllingar frávísunarkröfu stefnda vísa til 18. gr. eml. um samaðild annarra hagsmunaaðila. Málsókn stefnanda uppfylli augljóslega ekki nauðsynleg skilyrði 18. gr. eml.
Stefnandi vísar til stuðnings viðurkenningarkröfu sinni til 19. gr. þjóðlendulaga og XVIII. kafla eml. um ógildingar- og eignardómsmál. Þessar réttarheimildir fari ekki saman og fjalli um óskilda hluti. 19. gr. þjóðlendulaga fjalli um málskot til dómstóla ef aðili vill ekki una úrskurði óbyggðanefndar. Sú málskotsheimild eigi ekki við um stefnanda af ástæðum sem fyrr hafi verið gerð grein fyrir, nema um ákvörðun málskostnaðar, sbr. síðar. Síðari réttarheimildin eigi heldur ekki við enda sé ekki hægt að tengja þann málshöfðunargrundvöll við úrskurð óbyggðanefndar. Þar að auki eigi stefndi engra hagsmuna að gæta við ákvörðun landamerkja lands stefnanda og yrði aldrei aðili að eignardómsmáli stefnanda á grundvelli XVIII. kafla eml. Þessu til viðbótar sé málsmeðferð mála skv. XVIII. kafla eml. önnur en málsmeðferð almennra einkamála samkvæmt einkamálalögum. Að mati stefnda verði ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá á grundvelli 24. gr., 25. gr., 26. gr. og 80. gr. eml. nr. 91/1991.
Samkvæmt fjórða kröfulið í dómkröfum stefnanda sé krafist viðurkenningar á því “að stefnandi eigi skaðabótarétt á íslenska ríkið vegna þinglýsingar og aflýsingar Óbyggðanefndar á kvöðum á jörðinni Hólum, hvorttveggja án hans vitundar.” Hér sé um að ræða nýja kröfu í framhaldsstefnu, sem sé algjörlega órökstudd með tilliti til skaðabótasjónarmiða og því ekki unnt að taka afstöðu til kröfunnar með eðlilegum hætti. Krafan sé því vanreifuð og beri að vísa henni frá með vísan til e-f- og g-liða 80. gr. laga nr. 91/1991. Að mati stefnda hefði verið brýn nauðsyn af hálfu stefnanda að rökstyðja kröfulið þennan vegna þess að í 10. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998 séu skýr fyrirmæli um að óbyggðanefnd skuli þinglýsa kröfulýsingu ríkisins á þær eignir sem kröfulýsing varðar. Enn sem fyrr sé það óútskýrt af hálfu stefnanda hvernig skaðabótaskylda vegna þessa geti stofnast. Enn fjarlægari sé meint bótaskylda vegna aflýsingar á kvöðum á jörðinni Hólum vegna sama, að gengnum úrskurði óbyggðanefndar.
Stefndi hafi ekki í fyrri greinargerð sinni krafist frávísunar vegna málskostnaðarkröfu stefnanda vegna meðferðar máls hans fyrir óbyggðanefnd. Þrátt fyrir órökstudda fjárkröfu stefnanda taldi stefndi að stefnandi myndi síðar leggja fram frekari gögn til stuðnings fjárkröfu sinni og væri því ástæðulaust að krefjast frávísunar á þessum þætti dómkrafna stefnanda. Þetta hafi ekki gengið eftir og enn séu fjárkröfur stefnanda jafn órökstuddar og áður. Af þessari ástæðu, með tilliti til nýrrar kröfugerðar stefnanda, sé nú líka krafist frávísunar á þessum kröfulið með tilvísun til ákvæða 80. gr. eml. um vanreifun.
Niðurstaða
Varðandi fyrsta kröfulið í dómkröfum stefnanda er fallist á það með stefnda, að án tillits til venjuhelgaðra heimilda dómstóla til skera úr um stjórnskipulegt gildi laga, séu þeir ekki til þess bærir að fella úr gildi lög sem sett hafa verið af löggjafanum. Þá felur dómkrafan ekki í sér tiltekinn afmarkaðan ágreining um sakarefni, sem dómstólar hafa vald til að dæma um samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til rökstuðnings stefnda í umfjöllun um þessa dómkröfu ber að vísa kröfunni frá dómi.
Svo sem fram er komið tók úrskurður óbyggðanefndar frá 14. nóvember 2003 ekki til jarðarinnar Hóla í Hornafirði. Úrskurðurinn varðar ekki stefnanda efnislega og hefur hann því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá honum hnekkt. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til röksemda stefnda ber að vísa dómkröfu stefnanda samkvæmt öðrum kröfulið frá dómi.
Varðandi þriðja kröfulið í dómkröfum stefnanda er tekið undir það með stefnda að dómkrafa þessi sé ódómtæk þar sem hún varði hvorki úrskurð óbyggðanefndar né hlutverk hennar eins og það er skilgreint í 7. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998. Óbyggðanefnd sker ekki úr um landamerki eignarlanda og er óútskýrt af hálfu stefnanda hvers vegna umræddri kröfu er beint að stefnda. Ber því einnig að vísa þessari kröfu frá dómi.
Upphaflega gerði stefnandi kröfu til þess að “aflýst verði tafarlaust kvöð Óbyggðanefndar á þinglýsingarvottorði Hóla.” Kvöð þessari var aflýst 20. janúar 2004 að gengnum úrskurði óbyggðanefndar. Í framhaldssök var þessi kröfuliður stefnanda felldur niður en í staðinn sett fram dómkrafa um viðurkenningu á skaðabótarétti vegna þinglýsingar og aflýsingar óbyggðanefndar á kvöðinni. Skaðabótakrafa þessi er í engu rökstudd í framhaldsstefnu og tilvísun um rök fyrir kröfunni í tilgreind sóknargögn er haldlaus. Fallist er á með stefnda að vísa beri þessari kröfu frá vegna vanreifunar með vísan til e-, f- og g-liða 80. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi krefst þess að málskostnaðarkröfu stefnanda vegna meðferðar máls hans fyrir óbyggðanefnd verði vísað frá vegna vanreifunar. Óbyggðanefnd hefur úrskurðað um málskostnað til handa stefnanda á grundvelli 1. mgr. 17. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998. Stefndi á rétt á bera þessa stjórnvaldsákvörðun undir dómstóla. Hins vegar gerir stefnandi hvorki þá kröfu að umrædd stjórnvaldsákvörðun verði felld úr gildi, né að honum verði dæmdar skaðabætur vegna ætlaðs ólögmætis hennar. Í stað þess krefst hann þess að héraðsdómurinn ákveði honum málskostnað samkvæmt umræddu ákvæði laga nr. 58/1998. Það er í valdi óbyggðanefndar, en ekki dómstóla, að ákveða stefnanda málskostnað samkvæmt 17. gr. laga nr. 58/1998. Haggar það ekki þessari niðurstöðu þótt dómstólar séu bærir til að fjalla um gildi ákvarðana óbyggðanefndar á þessum grundvelli svo og hugsanlega skaðabótaskyldu stefnda vegna þessara ákvarðana. Með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 verður þessari kröfu stefnanda sjálfkrafa vísað frá dómi.
Samkvæmt framansögðu verður málinu í heild vísað frá dómi.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður. Stefnandi hefur gjafsókn við rekstur málsins fyrir héraðsdómi. Allur gjafsóknarkostnaður hans, þar með talin þóknun lögmanns hans, Jóns Hjaltasonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 70.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan ásamt meðdómsmönnunum, Hervöru Þorvaldsdóttur Skúla Magnússyni héraðsdómurum.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, Jóns Hjaltasonar hrl., að fjárhæð 70.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.