Print

Mál nr. 588/2014

Lykilorð
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Vinnuveitendaábyrgð
  • Miskabætur

                                     

Fimmtudaginn 7. maí 2015

Nr. 588/2014.

Akureyrarkaupstaður

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

gegn

Ingimar Eydal

(Guðni Á Haraldsson hrl.)

og gagnsök

Ráðningarsamningur. Uppsögn. Vinnuveitendaábyrgð. Miskabætur.

I höfðaði mál gegn A til heimtu bóta vegna ólögmætrar uppsagnar og ætlaðs eineltis í starfi. I hafði fengið launalaust leyfi frá störfum sem aðstoðarslökkviliðsstjóri hjá slökkviliði A tímabilið 1. desember 2011 til 30. nóvember 2012, en þegar hann sneri aftur til vinnu að leyfi loknu var honum tilkynnt að hann hefði hætt störfum með því að fastráða sig í starf hjá nýjum vinnuveitanda. Í dómi Hæstaréttar kom fram að það eitt, að I hefði gert ótímabundinn ráðningarsamning með gagnkvæmum uppsagnarfresti við annan vinnuveitanda, hefði ekki veitt A heimild til að slíta ráðningarsambandi aðilanna án þess að fá staðfestingu á því hvort I hygðist mæta aftur til starfa á tilsettum tíma. Þar sem I hefði lýst því yfir í tölvupóstum að hann hygðist koma aftur til starfa, og síðan fylgt því eftir með því að mæta til vinnu að leyfi loknu, var talið að fyrirvaralaus slit A á ráðningarsamningi aðila hefðu verið ólögmæt. Voru honum vegna þessa dæmdar bætur að álitum 1.500.000 krónur. Ekki var hins vegar fallist á að I ætti rétt á miskabótum samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna framgöngu A við ráðningarslitin. Á hinn bóginn var talið að hann ætti rétt á miskabótum að fjárhæð 500.000 krónur vegna eineltis sem hann hefði mátt þola í störfum sínum af hálfu slökkviliðsstjóra slökkviliðs A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. september 2014. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Þá krefst hann þess að gagnáfrýjanda og lögmanni hans verði gert að greiða réttarfarssekt.

Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 17. nóvember 2014. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 5.903.360 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. desember 2012 til greiðsludags. Jafnframt krefst gagnáfrýjandi þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 27.086.811 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. fyrrgreindra laga af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. desember 2011 til 27. júní 2013, en með dráttarvöxtum af höfuðstólnum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 7.971.155 krónur en að því frágengnu 2.607.906 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. desember 2012 til greiðsludags. Samhliða þessu krefst gagnáfrýjandi þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 4.000.000 krónur með sömu dráttarvöxtum frá 27. júní 2013 til greiðsludags. Þá krefst hann þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi réðst gagnáfrýjandi í afleysingar til Slökkviliðs Akureyrar  árið 1988. Hann var fastráðinn slökkviliðsmaður árið 1993 en síðan var hann ráðinn aðstoðarslökkviliðsstjóri árið 2003. Um árabil mun hafa verið umtalsverður samskiptavandi innan slökkviliðsins og virðist sem sá vandi hafi vaxið í kjölfar þess að Þorbjörn Guðrúnarson var ráðinn slökkviliðsstjóri í lok árs 2006. Þetta leiddi til þess að Þorbjörn lagði í upphafi árs 2012 fram kvörtun um einelti og beindist hún að gagnáfrýjanda og tveimur varðstjórum slökkviliðsins. Af þessu tilefni fól aðaláfrýjandi sálfræðistofunni Líf og sál að kanna kvörtunina og tóku tveir sálfræðingar á vegum stofunnar viðtöl við þá sem hlut áttu að máli svo og aðra þá starfsmenn aðaláfrýjanda sem varpað gátu ljósi á það. Að því loknu skilaði sálfræðistofan skýrslu sinni 29. mars 2012. Í lok maí sama ár bar gagnáfrýjandi fram eineltiskvörtun á hendur slökkviliðsstjóranum og fól aðaláfrýjandi Sveinu Berglindi Jónsdóttur sálfræðingi að kanna hana. Eftir að hafa tekið viðtöl við þá sem gátu veitt upplýsingar skilaði sálfræðingurinn skýrslu sinni í september 2012. Í hinum áfrýjaða dómi eru raktar niðurstöður beggja þessara rannsókna.

Gagnáfrýjandi reisir málatilbúnað sinn meðal annars á því að aðaláfrýjandi hafi með ólögmætum hætti slitið ráðningarsambandi aðila. Telur gagnáfrýjandi að með því hafi aðaláfrýjandi fellt á sig bótaábyrgð og hefur uppi kröfur vegna fjártjóns og miska. Þá krefst gagnáfrýjandi miskabóta úr hendi aðaláfrýjanda á þeim grundvelli að hann hafi frá árinu 2008 ítrekað mátt sæta einelti af hálfu yfirmanna sinna og þá einkum slökkviliðsstjóra aðaláfrýjanda.

II

Um vorið 2011 sagði Isavia ohf. upp þjónustusamningi við Slökkvilið Akureyrar um viðbúnaðarþjónustu á Akureyrarflugvelli. Leiddi þetta til þess að fækka þurfti stöðugildum í slökkviliðinu. Af hálfu aðaláfrýjanda var brugðist við þessu með því að bjóða þeim starfsmönnum sem ekki væru í hættu að missa störf sín allt að eins og hálfs árs leyfi frá störfum frá og með 1. desember 2011. Í ódagsettri tilkynningu slökkviliðsstjóra til starfsmanna var tekið fram að starfsmaður sem tæki sér leyfi þyrfti að tilkynna þremur mánuðum áður en leyfi lyki hvort hann hygðist koma aftur til starfa. Var tekið fram að þetta væri mikilvægt svo mögulegt væri „að ganga frá starfslokum annars hvors aðilans.“ Þá var þess farið á leit að þeir starfsmenn sem ætluðu að nýta sér tilboðið settu sig í samband við slökkviliðsstjóra fyrir 15. ágúst 2011. Um þetta leyti eða 9. sama mánaðar sendi slökkviliðsstjóri tölvupóst á starfsmenn slökkviliðsins með auglýsingu frá Isavia ohf. um laus störf í boði.

Með tölvupósti 15. september 2011 til slökkviliðsstjóra óskaði gagnáfrýjandi eftir því að fá að taka launalaust leyfi í eitt ár frá 1. desember það ár að telja. Því erindi svaraði slökkviliðsstjóri með tölvupósti sama dag og féllst á beiðnina. Áður en gagnáfrýjandi fór í leyfið sendi hann bæjarstjóra aðaláfrýjanda tölvupóst 26. október 2011 og viðraði meðal annars áhyggjur sínar af því hvort hann ætti endurkvæmt í starf sitt hjá aðaláfrýjanda. Þessu svaraði bæjarstjórinn með tölvubréfi þar sem hann staðhæfði að starfsmenn í leyfi gætu gengið aftur að störfum sínum í slökkviliðinu að loknu leyfi.

Hinn 12. október 2011 gerði gagnáfrýjandi samning við Isavia ohf. um ráðningu í starf flugvallarvarðar. Hann var síðan ráðinn í starf vaktstjóra með samningi 29. október 2012. Í báðum samningunum var tiltekið að ráðið væri í fast starf en samkvæmt kjarasamningi var gagnkvæmur uppsagnarfrestur þrír mánuðir.

Í fyrrgreindri skýrslu sálfræðistofunnar Lífs og sálar 29. mars 2012 var komist að þeirri niðurstöðu að framkoma gagnáfrýjanda og tveggja varðstjóra slökkviliðsins auk nokkurra starfsmanna þess hefði falið í sér einelti í garð slökkviliðsstjórans. Þessi niðurstaða var kynnt starfsmönnum liðsins með tilkynningu bæjarstjóra aðaláfrýjanda 10. apríl 2012, en þar var meðal annars tekið fram að brugðist yrði við skýrslunni. Af þessu tilefni ritaði gagnáfrýjandi bréf 16. apríl 2012 til bæjarstjórans þar sem fram kom að hann teldi ásakanir í sinn garð ekki eiga við rök að styðjast. Í kjölfarið áttu aðilar með sér fundi í apríl og maí það ár og liggur fyrir í málinu að þar kom meðal annars til tals að gerður yrði starfslokasamningur við gagnáfrýjanda. Með tölvupósti 18. júní 2012 féllst hann á að ganga til viðræðna um starfslok. Þær viðræður stóðu síðan yfir til loka október sama ár án árangurs.

Með bréfi aðaláfrýjanda 16. nóvember 2012 var gagnáfrýjandi boðaður á fund 26. þess mánaðar til að veita upplýsingar um stöðu sína hjá Isavia ohf. Var tekið fram í bréfinu að gagnáfrýjanda hefði borið að tilkynna með þriggja mánaða fyrirvara ef hann hefði ætlað að koma á ný til starfa að loknu leyfi 1. desember 2012. Slík tilkynning hefði ekki borist 1. september sama ár og því liti aðaláfrýjandi svo á að hann væri kominn með fastráðningu í annað starf. Ef svo væri þyrfti ekki að halda áfram viðræðum um starfslok hans. Í kjölfar fundarins 26. nóvember 2012 sendi gagnáfrýjandi tölvupóst til aðaláfrýjanda 27. sama mánaðar þar sem meðal annars kom fram að hann myndi koma til starfa um næstu mánaðamót þar sem honum hefði ekki borist uppsögn. Þessu erindi var svarað með tölvupósti 28. þess mánaðar þar sem sagði að aðaláfrýjandi liti svo á að gagnáfrýjandi væri ekki lengur í starfi hjá Slökkviliði Akureyrar, enda hefði bærinn fengið staðfest að hann hefði verið ráðinn í fullt starf hjá Isavia ohf. sem vaktstjóri. Gagnáfrýjandi svaraði þessu með tölvupósti sama dag og óskaði eftir upplýsingum um hvort til stæði að segja honum upp starfi í samræmi við lög og ákvæði kjarasamnings. Að öðrum kosti mætti hann til vinnu eða fengi framlengingu á launalausu leyfi. Gagnáfrýjandi sendi síðan tölvupóst 29. nóvember 2012 og tilkynnti aðaláfrýjanda að hann myndi mæta til vinnu mánudaginn 3. desember sama ár og vænti þess að vera settur á útkallsskrá frá 1. sama mánaðar. Gagnáfrýjandi mætti síðan til vinnu umræddan dag en varð frá að hverfa þegar fyrirsvarsmaður aðaláfrýjanda hafði gert honum grein fyrir því að hann hefði hætt störfum í slökkviliðinu.

III

Þegar gagnáfrýjandi fékk launalaust leyfi frá störfum sem aðstoðarslökkviliðsstjóri á tímabilinu 1. desember 2011 til 30. nóvember 2012 var aðaláfrýjanda kunnugt um að hann hefði ráðið sig til starfa hjá Isavia ohf. Telur aðaláfrýjandi að gagnáfrýjandi hafi slitið ráðningarsamningi aðila með fastráðningu í starf hjá nýjum vinnuveitanda, fyrst með samningnum 12. október 2011 og síðan með samningnum 29. október 2012. Jafnframt hafi gagnáfrýjandi fyrirgert starfinu með því að láta hjá líða að tilkynna eigi síðar en 1. september 2012 að hann ætlaði að snúa aftur til vinnu.

Í ódagsettri tilkynningu til starfsmanna í Slökkviliði Akureyrar kom fram að starfsmaður sem tæki sér leyfi þyrfti að tilkynna með þriggja mánaða fyrirvara hvort hann kæmi aftur til starfa. Þegar þrír mánuðir voru eftir af leyfi gagnáfrýjanda stóðu yfir viðræður milli aðila um starfslok hans. Þegar þess er gætt að þær viðræður höfðu þá ekki skilað árangri og nokkuð bar á milli hafði aðaláfrýjandi enga ástæðu til að gera ráð fyrir öðru en að gagnáfrýjandi sneri aftur til starfa, enda hafði hann ekki sagt starfi sínu lausu. Var því ekkert tilefni fyrir gagnáfrýjanda að tilkynna um þetta sérstaklega, enda verður ekki talið að aðaláfrýjandi hafi sjálfur litið svo á að slík tilkynning væri nauðsynleg í ljósi þess að viðræður um starfslok héldu áfram og stóðu yfir allt til loka október 2012, en þá var rétt um mánuður eftir af leyfi gagnáfrýjanda. Verður því ekki fallist á það með aðaláfrýjanda að ráðningunni hafi verið slitið af þessum sökum.

Þótt aðaláfrýjanda hafi verið kunnugt um að gagnáfrýjandi hefði ráðið sig til starfa hjá Isavia ohf. á meðan hann var í launalausu leyfi bar gagnáfrýjanda að réttu lagi, á grundvelli trúnaðarskyldu sinnar við aðaláfrýjanda, að upplýsa við starfslokaviðræðurnar að hann hefði fastráðið sig hjá nýjum vinnuveitanda. Fastráðning hans þurfti þó ekki að girða fyrir að hann ætti afturkvæmt til starfa hjá aðaláfrýjanda, enda ekki sjálfgefið að nýr vinnuveitandi héldi fast við uppsagnarfrest ef gagnáfrýjandi vildi hverfa aftur til fyrri starfa. Er þess þá að gæta að fyrirsvarsmaður Isavia ohf. bar fyrir dómi að gagnáfrýjandi hefði getað losnað úr starfi sínu ef hann vildi hefja á ný störf hjá aðaláfrýjanda. Að þessu gættu gat það eitt, að gagnáfrýjandi hafði gert ótímabundinn ráðningarsamning með gagnkvæmum uppsagnarfresti við annan vinnuveitanda, ekki veitt aðaláfrýjanda heimild til að slíta ráðningarsambandinu, eins og hann gerði í reynd með bréfi sínu 16. nóvember 2012 þar sem fram kom að ástæðulaust væri að halda áfram viðræðum um starfslok vegna þess að gagnáfrýjandi hefði fastráðið sig annars staðar. Þess í stað var aðaláfrýjanda kleift að óska eftir staðfestingu á því frá gagnáfrýjanda að hann myndi, þrátt fyrir það sem að framan greinir, mæta aftur til starfa á tilsettum tíma. Því lýsti gagnáfrýjandi síðan afdráttarlaust yfir í tölvupóstum til aðaláfrýjanda 27., 28. og 29. nóvember 2012 og fylgdi því eftir með því að mæta til vinnu að loknu leyfinu. Samkvæmt þessu voru fyrirvaralaus slit aðaláfrýjanda á ráðningarsamningi aðila ólögmæt, en með þeim bakaði hann sér skaðabótaskyldu gagnvart gagnáfrýjanda.

Krafa gagnáfrýjanda um bætur fyrir fjártjón svarar til launa frá aðaláfrýjanda á tímabilinu frá 1. desember 2012 til 1. júní 2013, auk þess sem hann krefst skaðabóta vegna kjaraskerðingar sem nemur launamun annars vegar á tímabilinu 1. desember 2011 til 30. nóvember 2012 og hins vegar á tímabilinu frá 1. mars 2013 til loka starfsævi sinnar. Þessi kröfugerð er fjarri lagi og á sér enga stoð í dómvenju um bætur til handa þeim sem sætt hafa ólögmætri uppsögn eða frávikningu úr starfi. Við ákvörðun bóta verður litið til þess að gagnáfrýjandi var ráðinn ótímabundið hjá aðaláfrýjanda með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti, en hann mátti að öllu óbreyttu gera ráð fyrir að fá áfram að gegna starfi sínu hjá aðaláfrýjanda. Þá liggur fyrir útreikningur á launamun miðað við mars 2013, en samkvæmt honum voru kjör gagnáfrýjanda lakari hjá nýjum vinnuveitanda sem nam 109.656 krónum á mánuði. Hefur útreikningi þessum ekki verið hnekkt. Að þessu virtu þykja bætur fyrir fjártjón gagnáfrýjanda hæfilega ákveðnar að álitum 1.500.000 krónur.

Gagnáfrýjandi krefst jafnframt miskabóta vegna framgöngu aðaláfrýjanda við ráðningarslitin. Telur hann að þau hafi falið í sér ólögmæta meingerð í sinn garð, sbr. b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna kom fram að í skilyrðinu um ólögmæta meingerð fælist að um saknæma hegðun væri að ræða. Einnig sagði að gáleysi þyrfti þó að vera verulegt til þess að tjónsatvik yrði talið ólögmæt meingerð. Í réttarframkvæmd hefur verið við það miðað að lægstu stig gáleysis fullnægi ekki kröfum ákvæðisins um ólögmæta meingerð. Við mat á því hvort dæma skuli gagnáfrýjanda miskabætur vegna ráðningarslitanna er þess meðal annars að gæta að hann lét hjá líða að greina frá því að hann hefði fastráðið sig hjá nýjum vinnuveitanda þegar aðilar áttu í viðræðum um starfslok. Að því virtu verður tilvikið ekki talið aðaláfrýjanda svo saknæmt að gagnáfrýjandi eigi af þeim sökum rétt til miskabóta. Þessari kröfu verður því hafnað.

IV

Gagnáfrýjandi gerir einnig kröfu um miskabætur á þeim grundvelli að hann hafi sætt einelti í starfi sínu hjá aðaláfrýjanda, einkum af hálfu slökkviliðsstjórans, Þorbjarnar Guðrúnarsonar. Telur gagnáfrýjandi að aðaláfrýjandi hafi fellt á sig bótaábyrgð, bæði vegna eigin framgöngu og þess sem hann lét viðgangast í sinn garð, auk þess sem aðaláfrýjandi beri vinnuveitandaábyrgð á slökkviliðsstjóranum sem var næsti yfirmaður gagnáfrýjanda.

Í reglugerð nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað, sem sett var á grundvelli laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, er einelti skilgreint þannig í 3. gr. að um sé að ræða ámælisverða eða síendurtekna ótilhlýðilega háttsemi, sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Tekið er fram að með einelti sé ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kunni að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns.

Eins og áður greinir fól aðaláfrýjandi Sveinu Berglindi Jónsdóttur sálfræðingi að kanna eineltiskvörtun gagnáfrýjanda og skilaði hún skýrslu sinni í september 2012. Komst sálfræðingurinn að þeirri niðurstöðu að slökkviliðsstjórinn hefði staðið illa að því að færa verkefni úr höndum gagnáfrýjanda og ekki gefið honum viðhlítandi skýringar á því. Jafnframt taldi hún að slökkviliðsstjórinn hefði lítilsvirt gagnáfrýjanda þegar skrifstofuaðstaða var tekin af honum og lokað fyrir fjarskiptatengingu frá heimili hans haustið 2011 á meðan hann var í fæðingarorlofi. Þá áleit hún slökkviliðsstjórann hafa gert lítið úr gagnáfrýjanda fyrir framan aðra stjórnendur slökkviliðsins vegna tiltekins útkalls í upphafi árs 2011. Loks taldi hún athugunina staðfesta að upplýsingaflæði frá slökkviliðsstjóranum til gagnáfrýjanda hefði í nokkrum tilfellum verið ófullnægjandi, auk þess sem hann hefði gert lítið úr störfum gagnáfrýjanda í umræðu við aðra starfsmenn. Að þessu virtu komst sálfræðingurinn að þeirri niðurstöðu að slökkviliðsstjórinn hefði beitt gagnáfrýjanda einelti í skilningi laga nr. 46/1980 og taldi að breytingar til hins verra á líðan, högum og heilsu hans mætti rekja til þeirrar háttsemi.

Af hálfu aðaláfrýjanda var því lýst yfir við flutning málsins fyrir Hæstarétti að ekki væru vefengdar niðurstöður í umræddri skýrslu vegna kvörtunar gagnáfrýjanda. Í samræmi við það verður lagt til grundvallar í málinu að hann hafi mátt þola það einelti í sinn garð af hálfu slökkviliðsstjórans sem rakið er í skýrslunni. Sú háttsemi sem þar er lýst var viðhöfð í starfi hans sem stjórnanda Slökkviliðs Akureyrar og ber því aðaláfrýjandi bótaábyrgð á miska gagnáfrýjanda af þeim sökum á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð, sbr. dóm Hæstaréttar 18. september 2014 í máli nr. 64/2014. Aftur á móti verður með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms fallist á þá niðurstöðu að framganga aðaláfrýjanda vegna skipulagsbreytinga innan slökkviliðsins og viðbrögð vegna samstarfsörðugleika innan þess hafi ekki falið í sér einelti í garð gagnáfrýjanda.

Af hálfu aðaláfrýjanda hefur því verið borið við að gagnáfrýjandi beri sjálfur nokkra sök á samstarfsörðugleikum innan slökkviliðsins þar sem hann hafi beitt slökkviliðsstjórann einelti. Til stuðnings þessu vísar aðaláfrýjandi til skýrslu sálfræðistofunnar Lífs og sálar 29. mars 2012. Eins og áður greinir var þar komist að þeirri niðurstöðu að framkoma gagnáfrýjanda, tveggja varðstjóra og nokkurra annarra starfsmanna slökkviliðsins hefði falið í sér einelti í garð slökkviliðsstjórans. Í niðurstöðukafla skýrslunnar var hins vegar hvergi vikið að því í hverju þetta einelti af hálfu gagnáfrýjanda hefði falist. Að því gættu er ósannað að gagnáfrýjandi hafi sýnt af sér slíka hegðun og verður hann sjálfur því ekki talinn meðábyrgur vegna þess eineltis sem hann mátti þola.

Að öllu framangreindu virtu eru þær miskabætur sem aðaláfrýjanda var gert að greiða gagnáfrýjanda með hinum áfrýjaða dómi hæfilega ákveðnar. Verður sú niðurstaða staðfest og jafnframt ákvæði dómsins um dráttarvexti.

Fallist verður á það með héraðsdómi að ekki séu efni til að taka til greina kröfu aðaláfrýjanda um að gagnáfrýjanda og lögmanni hans verði gert að greiða réttarfarssekt.

Eftir þessum úrslitum verður aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Akureyrarkaupstaður, greiði gagnáfrýjanda, Ingimar Eydal, 2.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. júní 2013 til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. júní 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var 4. júní 2014, eftir endurflutning, hefur Ingimar Eydal, kt. 200666-4539, Vestursíðu 6c, Akureyri, höfðað hér fyrir dómi á hendur Akureyrarkaupstað, kt. 410169-6229, Geislagötu 9, Akureyri, með stefnu þingfestri 27. júní 2013.

Dómkröfur stefnanda eru:

  1. Aðallega:

a.         Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda vangoldin vinnulaun fyrir tímabilið frá 1. desember 2012 og til þingfestingardags, að fjárhæð kr. 5.903.360, með vöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 eins og hér fer á eftir; af kr. 858.313 frá 1. desember 2012 til 1. janúar 2013, frá þeim degi til 1. febrúar 2013 af kr. 1.675.766, frá þeim degi til 1. mars 2013 af kr. 2.493.219, frá þeim degi til 1. apríl 2013 af kr. 3.345.754, frá þeim degi til 1. maí 2013 af kr. 4.198.289, frá þeim degi til 1. júní 2013 af kr. 5.050.824 og frá 1. júní 2013 til greiðsludags af kr. 5.903.360.

b.         Að stefndi verði dæmdur til greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð samtals kr. 27.086.811, með vöxtum skv. 1. mgr. 8.gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af kr. 3.072.190 frá 1. desember 2011 til 1. desember 2012 en frá þeim degi af kr. 27.086.811 til þingfestingardags en frá þeim degi af sömu fjárhæð með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags.

2.         Til vara: Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 7.971.155 í efndabætur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 eins og hér fer á eftir; af kr. 521.156 frá 1. desember 2012 til 1. janúar 2013, frá þeim degi til 1. febrúar 2013 af kr. 1.042.282, frá þeim degi til 1. mars 2013 af kr. 1.563.438, frá þeim degi til 1. apríl 2013 af kr. 2.126.110, frá þeim degi til 1. maí 2013 af kr. 2.688.782, frá þeim degi til 1. júní 2013 af kr. 3.251.454, frá þeim degi til þingfestingardags af kr. 3.814.126, og frá þingfestingardegi til greiðsludags af kr. 7.971.155.

3.         Til þrautavara: Að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda kr. 2.607.906 með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 eins og hér segir; af kr. 869.302 frá 1. desember 2012, frá þeim degi til 1. janúar 2013, af kr. 1.738.604 og frá þeim degi til greiðsludags af kr. 2.607.906.

4.         Að stefndi verði dæmdur til greiðslu miskabóta til stefnanda að fjárhæð kr. 4.000.000 með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda, en einnig málskostnaðar.

Þá krefst stefndi þess að stefnanda og umboðsmanni hans, Guðna Á. Haraldssyni hrl., verði gerð réttarfarssekt samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála fyrir meiðandi og ósæmileg ummæli um starfsmenn stefnda í stefnu.

I.

1.         Samkvæmt stefnu, greinargerð og öðrum framlögðum gögnum eru helstu atvik máls þau að árið 1988 var stefnandi, Ingimar Eydal, ráðinn sem afleysingamaður hjá Slökkviliði stefnda á Akureyri, en árið 1993 var hann fastráðinn sem slökkviliðsmaður.  Á meðal samstarfsmanna stefnanda, frá árinu 1998, var Þorbjörn Guðrúnarson.  Stefnandi og Þorbjörn sóttu báðir um stöðu aðstoðarslökkviliðsstjóra árið 2003 og var stefnanda veitt staðan 12. desember það ár.  Er slökkviliðsstjóri liðsins lét af stöfum árið 2006 sóttu stefnandi og Þorbjörn báðir um stöðuna.  Var Þorbirni veitt staðan í lok ársins 2006.

Í máli þessu er ágreiningur með aðilum, stefnanda Ingimar Eydal og stefnda Akureyrarkaupstað, um starfslok stefnanda hjá Slökkviliði Akureyrar (SA), í lok árs 2012 og eiga kröfur stefnanda í stefnu m.a. rót sína að rekja til þess.  Varðar ágreiningurinn m.a. atvik sem tengjast aðdraganda starfslokanna og þar á meðal skilmála launalauss eins árs leyfis sem stefnandi fékk þann 1. desember 2011, en einnig ráðningu stefnanda hjá Isavia ohf. frá sama tíma og um tildrög þess að aðilar reyndu að gera með sér starfslokasamning seinni hluta ársins 2012.  Að auki varðar ágreiningurinn kvartanir starfsmanna á starfsstöð Slökkvistöðvarinnar á Akureyri, og þar á meðal ásakanir stefnanda og Þorbjörns Guðrúnarsonar um að þeir hafi orðið fyrir einelti.

2.         Á meðal gagna málsins eru tvær skýrslur sálfræðinga sem stefndi hafði forgöngu um að afla á árinu 2012, en báðar varða þær fyrrnefnt einelti á starfsstöð slökkviliðsins á Akureyri.  Er annars vegar um að ræða skýrslu sem gerð var vegna kvörtunar Þorbjörns Guðrúnarsonar, þáverandi slökkviliðsstjóra, í byrjun árs 2012.  Var sú skýrsla unnin af sérfræðingum Lífs og sálar sálfræðistofu ehf. og er dagsett í mars það ár.  Hins vegar er um að ræða skýrslu sem gerð var vegna kvörtunar stefnanda seinni hluta maí 2012, en hún var unnin af Sveinu Berglindi Jónsdóttur sálfræðingi, og er dagsett 20. ágúst sama ár.  Báðar skýrslurnar byggjast m.a. á viðtölum sálfræðinga við stefnanda og Þorbjörn Guðrúnarson, en einnig á viðtölum við yfirmenn hjá stefnda, starfsmenn Slökkviliðs Akureyrar og aðra sem vel þekktu til aðstæðna.  Skýrslum þessum er gerð nokkur skil í stefnu, og þá einkum út frá sjónarhóli stefnanda, en einnig er vikið að þeim í greinargerð stefnda.

Af gögnum málsins, og þá ekki síst nefndum sálfræðiskýrslum, verður ráðið að er Þorbjörn Guðrúnarson hóf störf sem slökkviliðsstjóri í lok árs 2006 hafi ríkt kreppa í starfsmannahaldi Slökkvistöðvarinnar.  Af þessum sökum virðist af hálfu yfirstjórnar Akureyrarkaupstaðar, stefnda, hafa verið lögð áhersla á að gera bragarbót á og efla starfsandann hjá starfsmönnum, ásamt því að bæta tækjakostinn.  Kom það m.a. í hlut nýráðins slökkviliðsstjóra, Þorbjörns Guðrúnarsonar, að hafa forgöngu um úrbæturnar.

Í sálfræðiskýrslu Sveinu Berglindar Jónsdóttur er vikið að lýstum aðstæðum, en einnig að úrbótunum og aðgerðum Þorbjörns slökkviliðsstjóra þannig: „Þorbjörn þekkti Slökkvilið Akureyrar frá fyrri tíð og vildi breyta ákveðnum þáttum þar innandyra þegar hann kom sem slökkviliðsstjóri.  Starfsmenn sem höfðu verið lengi hjá stöðinni voru að hans sögn heimaríkir og höfðu fengið að stýra sínum verkefnum að miklu leyti sjálfir.  Þorbjörn tók því fastari tökum á ýmsum verkefnum sem ... varð óvinsælt hjá sumum starfsmönnum.“  Tekið er fram í skýrslunni að Þorbjörn hafi að boði yfirstjórnar stefnda þurft að taka óvinsælar ákvarðanir í sparnaðarskyni, og þar á meðal að stytta samvistartíma slökkviliðsmanna á vaktaskiptum, fækka á vöktum og breyta reglum varðandi útköll og innkaup á rekstrarvörum.

Í skýrslu Sveinu Berglindar segir frá því að viðmælendur hafi greint frá því að stefnandi, Ingimar Eydal, hafi sem varaslökkviliðsstjóri í upphafi stutt Þorbjörn í öllum þeim ákvörðunum sem hann tók, en þegar líða hafi farið á samstarfið hafi hann í einhverjum tilfellum verið meira á hliðarlínunni og þá hvorki stutt né mótmælt Þorbirni.  Einnig er greint er frá því að í fyrstu hafi Þorbjörn haft starfsmenn slökkviliðsins með í ráðum, en að hann hafi dregið úr slíku samráði er frá leið og að lokum hætt því.  Tekið er fram að yfirmenn hjá stefnda hafi veitt þessum breytingum eftirtekt, en haft þá tilgátu síðar, að það einelti sem Þorbjörn sætti af hálfu starfsmanna hefði ýtt undir þennan stjórnunarstíl hans.  Skýrsluhöfundur tekur fram að ekki hafi verið lagt mat á þetta atriði, og er í þess stað vísað til umfjöllunar í áðurnefndri sálfræðiskýrslu Lífs og sálar sálfræðiþjónustu ehf.

Í sálfræðiskýrslu Sveinu Berglindar er greint frá því að ofanlýst ástand og aðstæður á Slökkvistöðinni á Akureyri hafi leitt til þess að mikil kergja hafi myndast milli Þorbjörns slökkviliðsstjóra og margra starfsmanna liðsins og þá ekki síst á meðal varðstjóra. Er til þess vísað að algengt hafi verið að varðstjórarnir hafi sett út á einstök málefni sem Þorbjörn kynnti á fundunum.  Hafi þetta ástand að lokum leitt til þess að Helgi Már Pálsson, byggingatæknifræðingur og yfirmaður slökkviliðsins, hafi verið kvaddur til og hafi hann á árunum 2008 og 2009 setið reglulega fundi með varðstjórunum og öðrum yfirmönnum slökkviliðsins.

Í stefnu er staðhæft að framkoma Þorbjörns Guðrúnarsonar slökkviliðsstjóra gagnvart stefnanda hafi sífellt farið versnandi.  Er í því sambandi sagt að Þorbjörn hafi takmarkað upplýsingaflæði til stefnanda, sem hafi gert það að verkum að hann hafi oft orðið afskiptur þegar mikilvægar ákvarðanir voru teknar um málefni slökkvistöðvarinnar. Af þessum sökum hafi stefnandi ekki getað veitt slökkviliðsstjóranum stuðning eða ráðgjöf við ákvarðanatökur.  Er staðhæft að stefndi hafi vakið athygli annarra yfirmanna hjá stefnda á þessu ástandi, fyrst munnlega í trúnaðarsamtölum, en síðan skriflega, símleiðis og með tölvupósti.  Í stefnu er staðhæft að viðbrögð yfirmannanna hafi í raun engin verið vegna þessa og hafi Þorbjörn því komist upp með einelti gagnvart stefnanda og fleiri starfsmönnum slökkviliðsins, a.m.k. frá árinu 2008.

Í stefnu segir að birtingarmyndir eineltisins af hálfu Þorbjörns slökkviliðsstjóra hafi verið margvíslegar.  Hafi það m.a. komið fram í neikvæðum athugasemdum, lítillækkandi framkomu, lélegu upplýsingaflæði, virðingarskorti og annars konar andlegu ofbeldi.  Þessu til viðbótar er sagt að Þorbjörn hafi leynt og ljóst unnið að því að losna við stefnanda úr hópi stjórnenda slökkviliðsins og er fullyrt að hann hafi komist nærri því haustið 2009, um það leyti sem stefnandi hafi farið í fæðingarorlof.  Er um þetta nánar vísað til þess að í september 2009 hafi skipulagsbreytingar á slökkvistöðinni verið tilkynntar, en samhliða hafi verið gerðar breytingar á starfi stefnanda sem aðstoðarslökkviliðsstjóra, og hafi hann í kjölfarið fengið uppsagnarbréf, dagsett 29. september 2009.  Þessu til viðbótar hafi Þorbjörn tekið af stefnanda, án fyrirvara, svokallaða VPN-tengingu.

Samkvæmt gögnum sendi stefnandi tölvupóst til yfirmanna hjá stefnda, þann 20. nóvember 2009, þar sem hann bar fram kvörtun vegna stjórnunarhátta Þorbjörns slökkviliðsstjóra.  Í bréfi þessu vísar stefnandi m.a. til þess að hann hefði ekki fengið skýra starfslýsingu um hina breyttu stöðu aðstoðarslökkviliðsstjóra.

Í sálfræðiskýrslu Sveinu Berglindar er vikið að ofannefndum skipulagsbreytingum og forsendum þeirra, en einnig að VPN-tengingu stefnanda.  Segir um þetta nánar:  Haustið 2009 var gerð skipulagsbreyting sem snerti starf þriggja stjórnenda og varð mikil óánægja með framkvæmd þeirra breytinga. Í fyrstu kynnir Þorbjörn þessa breytingu fyrir Ingimar þannig að þetta snúist aðallega um breytingu á starfsheiti, úr aðstoðarslökkviliðsstjóri í aðalvarðstjóri og að vaktskylda verði hluti af starfinu.  Ingimar fær svo uppsögn á starfi sínu sem aðstoðarslökkviliðsstjóri og boðin ný staða aðalvarðstjóra. Við þessa breytingu skerðast grunnlaun um nokkra launaflokka.  Stéttarfélagið gerði athugasemd um að staða aðstoðarslökkviliðsstjóra væri bundin í lög og ákvað bærinn þá að óska eftir að samráðsnefnd sveitarfélaga og stéttarfélagið kæmu að því að launaraða nýrri stöðu, aðstoðarslökkviliðsstjóra með vaktskyldu.  Samhliða þessari breytingu er starfslýsingu mikið breytt og fær Ingimar endanlega starfslýsingu degi áður en hann þurfti að svara hvort hann tæki nýju starfi.  Í nýrri starfslýsingu er búið að taka út flesta stjórnunarþætti og stjórnun felst þar eingöngu í stuðningi við stjórnun vaktar í samráði við vakthafandi varðstjóra. ... Þorbjörn segir ástæðu þeirra breytinga sem gerðar voru á starfi Ingimars vera þá að bærinn hafi viljað sjá þessa breytingu, hann hafi verið að framfylgja ákvörðun bæjarins og var skipulagsbreytingin samþykkt í framkvæmdaráði.  Yfirmenn hjá bænum hafa einnig staðfest að ákvörðun um breytingu á starfi Ingimars hafi verið tekin af framkvæmdaráði og að Helgi Már, Halla Margrét og Karl Guðmundsson hafi verið í undirbúningsvinnunni ásamt Þorbirni.  Hins vegar kom einnig fram í samtölum að ferlið allt hefði getað verið betur unnið.  Breytingin var kynnt harðneskjulega og mætti harðri andstöðu hjá Ingimar sem leitaði til síns stéttarfélags með allar breytingar á starfslýsingu sem ræddar voru.  Mikil átök urðu á milli starfsmanna og slökkviliðsstjóra um þessa skipulagsbreytingu.“ ...

Ákvörðun um breytingu á starfi Ingimars var tekin á hærri stigum stjórnsýslunnar á Akureyri en ekki af hálfu Þorbjörns Guðrúnarsonar.  Undirrituð finnur ekki rök fyrir því að breytingin á starfi Ingimars hafi verið aðgerð Þorbjörns til þess að reyna að vinna á móti Ingimar.“ ...

Slökkviliðsstjóri hefur fulla heimild til þess að taka ákvörðun um að starfsmenn hafi ekki VPN tengingu.  Hins vegar verður að teljast óeðlilegt og jafnvel niðurlægjandi að slík tenging sé tekin af næsta stjórnanda án þess að upplýsa hann um að það sé fyrirhugað.  Staðfest er að mjög stuttu eftir þessa aðgerð var sá aðili sem í dag gegnir stöðu aðstoðarslökkviliðsstjóra með þessa tengingu virka.

Undirritaðri virðist af samanlögðum athugunum sínum að Þorbjörn hafi í þessu máli lítilsvirt Ingimar.  Hann ræddi ekki við hann um fyrirhugaða ákvörðun og tók af honum tengingu sem hann var vanur að nota í tengslum við sitt starf.

Í stefnu er greint frá því að í lok nóvember 2009 hafi Þorbjörn Guðrúnarson slökkviliðsstjóri tekið af stefnanda skrifstofu hans og notað rýmið undir fundaraðstöðu.  Í sálfræðiskýrslu Sveinu Berglindar er vikið að þessum ráðstöfunum, og segir m.a.:

Þegar starfi Ingimars var breytt í vaktavinnustöðu færði Þorbjörn skrifstofu Ingimars niður í setustofu vaktanna.  Þorbjörn sagði ástæðuna vera þá að hann vildi færa Ingimar nær vaktinni og einnig að mikilvægt hefði verið að fá fundarherbergi á efri hæðina.  Ingimar mótmælti þessari breytingu og benti á að þarna væri lítill vinnufriður þar sem vaktin væri stödd þarna.  Einnig fann Ingimar mikið fyrir því að upplýsingaflæðið var skert til hans þegar hann var á annarri hæð.  Skrifstofuflutningurinn var ekki gerður í samráði við Ingimar og Þorbirni virtist liggja mikið á að hann ætti sér stað.  Viðmælendur lýstu því á þann veg að Ingimar hafi verið í miðju verki í tölvunni, farið í kaffi og þegar hann kom aftur var byrjað að taka dótið hans niður og flytja það á aðra hæð.  Ingimar tók þátt í flutningunum þegar hann sá að ekki var annað í stöðunni en nefndi að honum þættu þetta dálítið brattar aðgerðir.  Margir viðmælendur staðfestu að Þorbjörn hefði sjálfur með aðstoð nokkurra starfsmanna borið megnið af dóti Ingimars niður og að honum hefði augljóslega legið mikið á.  Flestum bar saman um að þetta hefði ekki verið heppileg staðsetning miðað við þau verkefni sem Ingimar þurfti að vinna sem aðstoðarslökkviliðsstjóri.  Þegar Ingimar fór í ársleyfi var Björn Heiðar ráðinn sem aðstoðarslökkviliðsstjóri tímabundið.  Hann sagðist ekki geta sætt sig við aðstöðu Ingimars og vildi fá skrifstofu uppi, við því var orðið og hann fékk þá skrifstofu sem Ingimar hafði áður.

Undirritaðri virðist af samanlögðum athugunum sínum að Þorbjörn hafi í þessu máli lítilsvirt Ingimar.  Hann hlustaði ekki á rök hans um að aðstaðan hentaði ekki að öllu leyti en var tilbúinn til þess að breyta þessu til baka og hlusta á rök um leið og annar aðili var komin í stöðu Ingimars.

Í stefnu er áréttað, að þrátt fyrir áðurgreindar kvartanir stefnanda til yfirmanna hjá stefnda að því er varðaði stjórnun Þorbjörns slökkviliðsstjóra og að hún væri óásættanleg, hefði fyrst verið gripið til aðgerða á vinnustaðnum í byrjun árs 2011.  Hafi þá Marteinn Steinar Jónsson vinnusálfræðingur verið kvaddur á vettvang, og þá í þeim tilgangi að gera athugun á starfsstöð slökkviliðsins og bæta starfsandann.  Í sálfræðiskýrslu Sveinu Berglindar er vikið að þessum ráðstöfunum og aðdragandanum nánar þannig:

Vinnumórall og samskipti voru erfið á stöðinni og algengt var að starfsmenn leituðu til bæjarstjóra með óánægju vegna stjórnunar Þorbjörns Guðrúnarsonar.  Eiríkur bæjarstjóri ákvað því ásamt sínu fólki að setja af stað vinnu þar sem unnið yrði með samstarfið.  Starfsmannastjóri leitaði eftir sérfræðingi innan sálfræðigeirans og eftir ábendingar var Marteinn Steinar fenginn til verksins.  Þessi vinna gengur undir heitinu „Marteinsvinnan“ og var hún í gangi frá byrjun árs 2011 og fram að sumarfríi. Í þessari vinnu áttu menn m.a. að skrifa á gula nafnlausa miða vandamál vinnustaðarins og mögulegar lausnir við þeim.  Á þessum gulu miðum komu fram miklar kvartanir yfir slökkviliðsstjóra auk þess sem nokkrir miðar voru með persónulegum níð um hann. Misjöfnum sögum fer af árangri vinnunnar en flestir töluðu um að vinnan hefði gagnast ákveðnum starfsmönnum og að þeir hefðu tekið sig á í samskiptum.  Flestum fannst þó vanta uppá að Þorbjörn tæki eitthvað af þeim ábendingum sem hann fékk til skoðunar.

Í stefnu segir að viðbrögð yfirmanna stefnda vegna fyrrnefndra kvartana starfsmanna yfir stjórnun Þorbjörns Guðrúnarsonar slökkviliðsstjóra og þeirra þungu ásakana sem á hann voru bornar af starfsmönnum slökkviliðsins á gulu miðunum í nefndri „Marteinsvinnu hafi ekki verið sýnileg.  Þannig hafi stjórnun og háttsemi Þorbjörns ekki verið rannsökuð á formlegan hátt, þrátt fyrir ásakanir um valdníðslu hans og afbrot í starfi, en einnig um einelti á vinnustað.

Óumdeilt er að vorið 2011 sagði Isavia ohf. upp þjónustusamningi við Slökkvistöð Akureyrar um viðbúnaðarþjónustu á Akureyrarflugvelli.  Leiddi þessi uppsögn til þess að fækka þurfti stöðugildum á slökkvistöðinni um tíu.  Samkvæmt gögnum brást Þorbjörn Guðrúnarson slökkviliðsstjóri við þessum vanda og til að milda áhrifin var starfsmönnum slökkviliðsins boðið að taka launalaust leyfi.  Sendi Þorbjörn starfsmönnunum bréf, sem dagsett er 9. júlí 2011, þar sem þeim var tilkynnt að þeim stæði til boða að taka allt að 18 mánaða launalaust leyfi frá og með 1. desember 2011.  Í bréfinu er tíundað að hin launalausu leyfi taki til starfsmanna „sem ekki eru í hættu að missa störf sín“.  Fram kemur í bréfinu að þrjú skilyrði séu sett fyrir leyfistökunni, en um eitt þeirra segir: „Starfsmaður er tekur sér leyfi þarf að tilkynna 3 mánuðum áður en fríi lýkur hvort hann hyggst koma til starfa aftur eður ei.  Þetta er mikilvægt svo mögulegt sé að ganga frá starfslokum annars hvors aðilans.

Í stefnu segir að stefnandi hafi ekki verið á meðal þeirra starfsmanna sem fyrirætlað var að sagt yrði fyrstum upp.  Stefnandi hafi þrátt fyrir það litið svo á að hann gæti ekki talist öruggur í starfi sínu og þar sem hann hafi verið orðinn langþreyttur á þeim starfsanda sem ríkti á slökkvistöðinni og þeirri framkomu sem hann hafði þurft að þola af hendi yfirmanna, hefði hann talið að hann ætti fárra annarra kosta völ en að láta undan augljósum vilja yfirmanna sinna.  Vegna þessa hefði hann ákveðið að þiggja hið launalausa leyfi og þá til eins árs.  Í stefnu er staðhæft að stefnandi hafi á þessum tíma verið uggandi um að ef hann tæki sér ekki leyfið yrði gerð önnur tilraun til að leggja stöðu hans niður eða breyta á þann hátt að ómögulegt yrði fyrir hann að sinna henni.  Stefnandi hafi því aflað sér upplýsinga frá yfirmönnum sínum um áhrif leyfistökunnar á réttindi og skyldur, en í framhaldi af því fengið formlegt leyfi frá slökkviliðsstjóra, með bréfi dagsettu 15. september 2011, um leyfistökuna, til eins árs, frá 1. desember 2011 að telja.

Samkvæmt gögnum var stefnandi í fæðingarorlofi fyrri hluta vetrar 2011.  Liggur fyrir að hann var vegna þessa í tölvusamskiptum við starfsmannastjóra stefnda, en í samskiptum þeirra er m.a. vikið að hinu launalausa leyfi, en einnig væntanlegu starfi hans hjá Isavia ohf., sbr. dskj. nr. 16.  Samkvæmt gögnum var stefnandi einnig í tölvusamskiptum við bæjarstjóra stefnda, í október 2011.  Segir í stefnu að tilefni þeirra samskipta hafi verið ótti hans um að Þorbjörn slökkviliðsstjóri ætlaði í fjarveru hans að gera breytingar á skipulagi Slökkvistöðvarinnar á Akureyri.  Verður ráðið að af þessum sökum, en einnig í ljósi áðurnefndra samskipta vegna VPN-tengingar, hafi stefnandi ritað fyrirsvarsmanni stefnda, bæjarstjóranum, tölvupóst, þann 25. október 2011, en þar hafi hann viðrað áhyggjur sínar að þessu leyti.  Í svarpósti bæjarstjóra segir m.a.:  Mér var ekki kunnugt um þetta með VPN aðganginn.  Varðandi skipuritið þá er alveg ljóst að þeir starfsmenn sem fara í leyfi geta gengið að störfum hjá SA aftur.  Þú átt að geta gengið að þínu starfi þó breyting hafi orðið á því.  Kjarasamningar taka á þessu með breytingar á störfum.  Við erum enn að fara yfir þessar hugmyndir að skipuriti og framkvæmdaráð mun eiga lokaákvörðun.  Ég mun senda Helga Má afrit af þessu svari mínu og erindi þínu ef þú gerir ekki athugasemd við það.  Sérstaklega þar sem þarna koma fram upplýsingar um samskipti ykkar Þorbjörns sem mikilvægt er að Helgi sem yfirmaður slökkviliðsstjóra hafi hjá sér og bregðist þá við eftir atvikum.

Í stefnu er staðhæft að skömmu áður en stefnandi fór í hið launalausa leyfi, þann 24. nóvember 2011, hafi Þorbjörn slökkviliðsstjóri krafist þess að hann fjarlægði alla hluti sem hann átti á slökkvistöðinni og skilaði að auki öðrum munum sem tilheyrðu stöðinni.  Hafi þessi framganga slökkviliðsstjórans verið harkaleg að mati stefnanda og til þess fallin að skapa þá tilfinningu að um varanleg starfslok hans væri að ræða.

Í sálfræðiskýrslu Sveinu Berglindar er fjallað um síðastgreint atriði í tengslum við eineltiskvörtun stefnanda.  Þá er í skýrslunni fjallað nánar um tildrög þess að stefnandi fór í launalaust leyfi þann 1. desember 2011 og hóf í beinu framhaldi af því störf hjá Isavia ohf. á Akureyrarflugvelli.  Segir í skýrslunni að stefnandi hefði gefið þá skýringu á leyfistökunni, að þar hafi helst ráðið vanlíðan hans í starfi og erfið samskipti við Þorbjörn Guðrúnarson.  Í skýrslunni segir að stefnandi hafi hjá Isavia ohf. verið í minna krefjandi starfi og á lægri launum en hjá stefnda, en að auki hafi hann í hinu nýja starfi ekki getað nýtt sér menntun sína eins markvisst og hjá slökkviliðinu.  Í skýrslunni er fjallað um brottför stefnanda frá slökkvistöðinni og um þá upplifun hans að verið væri að reka hann úr starfi, þannig: Enginn sérstök vinnubrögð eru til hjá Akureyrarbæ um hvernig skuli standa að málum þegar menn fara í ársleyfi, en þar sem menn voru að hverfa til annarra starfa verður að teljast eðlilegt að menn hafi þurft að skila inn búnaði og lyklum.  Viðbrögð slökkviliðsstjóra og bréf sem starfsmenn fengu þegar þeir voru að hefja ársleyfi telst ekki óeðlileg aðgerð en framgangsmátinn var þó líklega full harkalegur sem gæti verið vegna þeirrar spennu sem byggst hafði upp á milli þessara aðila.

Óumdeilt er að eftir að stefnandi fór í umrætt leyfi ritaði hann í tvígang undir ráðningarsamninga við Isavia ohf.  Í fyrra sinnið þann 12. október 2011, sem flugvallarvörður, en í það síðara, þann 29. október 2012, sem vaktstjóri.  Í báða þessa samninga er skráð að um sé að ræða 100% starfshlutfall, en enn fremur er þar hakað við reit þar sem segir að stefnandi sé „fastráðinn“.

Í stefnu er staðhæft að yfirmönnum hjá Isavia ohf. hafi er atvik gerðust verið kunnugt um að stefnandi var í launalausu leyfi hjá Slökkvistöðinni á Akureyri, og að hann myndi að öðru óbreyttu snúa þangað aftur til starfa þann 1. desember 2012.

Samkvæmt gögnum tilkynnti Þorbjörn Guðrúnarson slökkviliðsstjóri í lok janúar 2012 starfsmannastjóra stefnda, Höllu Margréti Tryggvadóttur, um að hann hefði sætt einelti af hálfu undirmanna sinna á Slökkvistöðinni á Akureyri.

Óumdeilt er að stefndi, Akureyrarbær, brást strax við og leitaði til Lífs og sálar sálfræðistofu ehf.  Í verkbeiðni stefnda er þess farið á leit að lagt verði mat á samskipti starfsmanna á slökkvistöðinni, að gengið verði úr skugga um hvort kvörtun slökkviliðsstjórans eigi við rök að styðjast.  Þá er farið fram á að sérfræðingar sálfræðistofunnar leggi fram tillögur til úrbóta.

Af gögnum verður ráðið að starfsmönnum slökkvistöðvarinnar hafi fljótlega verið kynnt að kvörtun slökkviliðsstjórans hefði komið fram og jafnframt hver hefðu verið viðbrögð stefnda.

Nefnd sálfræðistofa skilaði skýrslu um verkefnið þann 29. mars 2012.  Skýrslan er undirrituð af sálfræðingunum Einari Gylfa Jónssyni og Þórkötlu Aðalsteinsdóttur.  Í inngangi skýrslunnar segir að Þorbjörn Guðrúnarson slökkviliðsstjóri hafi kvartað yfir því að millistjórnendur sem og aðrir undirmenn hans hefðu lagt hann í einelti.  Tekið er fram að hann hafi lýst athæfi þeirra með eftirfarandi hætti: „Grafið undan trúverðugleika.  Logið upp sökum.  Árásir inn í einkalíf.“  Í skýrslunni segir að Þorbjörn hafi nefnt sem meinta gerendur m.a. stefnanda, Ingimar Eydal aðstoðarslökkviliðsstjóra, og tvo varðstjóra slökkviliðsins, en að auki sagt að aðrir starfsmenn liðsins hefðu átt hlut að máli.  Í skýrslunni er greint frá því að höfundar hefðu við vinnslu hennar átt viðtöl við alla hlutaðeigandi aðila, dagana 3. og 4. febrúar 2012, en að auki rætt við þrettán aðra starfsmenn slökkviliðsins og Akureyrarbæjar.

Við meðferð málsins hefur hluti umræddrar skýrslu Lífs og sálar sálfræðistofu ehf., vegna eineltiskvörtunar Þorbjörns Guðrúnarsonar, verið lagður fram, þ.e. 11 af 29 blaðsíðum.  Er um að ræða kafla skýrslunnar sem beinlínis varðar stefnanda.  Eru þar á meðal aðfararorð um verkefnið, frásögn stefnanda, niðurstöður og lokaorð.  Tekið er fram í skýrslunni að hlutaðeigendum hafi rækilega verið kynnt hver hafi verið tilgangur viðtala, en að jafnframt hafi þeim verið gerð grein fyrir því að þeim væri frjálst að neita að svara einstökum spurningum.  Þá hafi þeim verið kynnt eftirfarandi skilgreining á einelti, sem skýrsluhöfundar hafi stuðst við við verkefnið: „Einelti er endurtekin neikvæð og/eða niðurlægjandi framkoma sem erfitt er að verjast og leiðir til vanlíðunar hjá þeim sem að fyrir verður.

Í nefndri skýrslu er ítarlega rakin frásögn stefnanda um samskipti hans við Þorbjörn Guðrúnarson slökkviliðsstjóra.  Er hún í aðalatriðum í samræmi við það sem hér að framan hefur verið að rakið.  Haft er eftir stefnanda að kvartanir Þorbjörns eigi ekki við rök að styðjast að því er hann varði, og að því sé í raun öfugt farið, en að hann hafi ekki talið rétt að bregðast við.  Er um það atriði haft eftir stefnanda:  „Svar sitt sé, að sér finnist nóg af vandamálum samt.  ÞG (slökkviliðsstjórinn) eigi nógu erfitt með þessa „Marteinsvinnu“ og allt sem á hann er borið.“ ... „Einelti er líka vandmeðfarið og ég hef viljað halda þessu á faglegu nótunum og tala um faglegan ágreining.“ ... „Hef hins vegar í hyggju að endurskoða þessa afstöðu því eftir því sem ég skoða mín mál betur og fer yfir þau með fólki sem ég treysti og þekki, þá sé ég að hann hefur sýnt mér þá hegðun sem að hann sakar mig um.  Hann hefur á köflum verið vinsamlegur á yfirborðinu en mörg verka hans hafa hins vegar snúist um það að lítillækka mig og gera mig áhrifalausan á vinnustaðnum.  Hann í raun hrakti mig úr vinnu og er ég ekki sá fyrsti sem gefst upp á að vinna með honum.“ ... „Ég taldi mig vera lausan við þetta mál þar sem ég væri kominn í frí og óvíst að ég kæmi aftur til starfa en hann vill greinilega reyna að útiloka það að ég komi aftur og kemur því með þessa furðulegu eineltiskæru.  Þetta kalla ég svo sannarlega að setja hlutina á hvolf.“

Í niðurstöðukafla í skýrslu Lífs og sálar sálfræðistofu ehf. er áréttuð áðurrakin skilgreining á einelti, en í framhaldi af því er sagt að upplýsingar sem skýrsluhöfundar hafi aflað um framkomu og viðmót stefnanda og fyrrnefndra tveggja varðstjóra, auk nokkurra undirmanna, gagnvart slökkviliðsstjóranum, hafi verið skoðaðar í ljósi hennar.  Tekið er fram að Þorbjörn Guðrúnarson hafi lýst því að hann hafi upplifað endurtekna neikvæða framkomu frá hendi starfsmanna allt frá því að hann tók við störfum árið 2006, en að síðasta árið (2011) hafi þar keyrt um þverbak.  Að því er varðar neikvæða eða niðurlægjandi framkomu er haft eftir Þorbirni að hann hafi upplifað baktal og róg um hann og hans einkalíf.  Um þessi kvörtunaratriði segir í skýrslunni að allir viðmælendur hafi verið sammála um að slíkt hafi átt sér stað en að þar hafi komið til framkoma Þorbjörns í einkalífi, sem hafi verið mjög gagnrýnisverð og að það hafi verið nefnt á áðurnefndum gulu miðum í fyrrnefndri „Marteinsvinnu“.

Í niðurlagsorðum í umræddri sálfræði- og eineltisskýrslu er tekið undir með Þorbirni að hann hafi sætt mikilli gagnrýni á fundum og utan funda vegna vinnubragða sinna og ákvarðana.  Er í því sambandi nefnt að þar hafi sérstaklega átt í hlut tveir varðstjórar og tiltekin vakt, og að Þorbjörn hafi mætt dónaskap, hundsun og niðurlægjandi gríni.  Einnig er sagt að varðstjórafundir hafi verið átakafundir og hafi neikvæðnin þá ýmist snúist um vangaveltur um hvaða neikvæðu hvatir byggju að baki ákvörðunum Þorbjörns og það jafnvel þó svo að ljóst hafi mátt vera að hann hafi þar verið að fylgja ákvörðunum yfirmanna sinna og/eða kjörinna fulltrúa.  Þá er í skýrslunni staðhæft að nokkrir starfsmenn hafi ekki virst virða hlutverk Þorbjörns sem yfirmanns og hafi jafnvel ekki framfylgt ákvörðunum hans, en um það segir nánar:  Að mati undirritaðra hefur öflugur kjarni í starfshópnum tekið sér það vald að vinna gegn yfirmanni sínum með beinum eða óbeinum hætti.  Millistjórnendur sem eðli málsins samkvæmt ættu að styðja við sinn yfirmann, telja að ekki þurfi að sýna honum trúnað, heldur þvert á móti taka þátt í beinni eða óbeinni andspyrnu.  Ummæli meintra gerenda eru skýr dæmi um þessa afstöðu: „Þó þeir telji allir að rætnustu athugasemdirnar á gulu miðunum hafi verið óviðeigandi, réttlæta þeir í hinu orðinu ásakanirnar, með því að það sé engu að síður slæmt að það gangi kjaftasögur um einkalíf yfirmannsins og það bitni á starfsmönnum slökkviliðsins.

Niðurstöður um áhrif lýsts ástands og hegðunar á andlega líðan Þorbjörns Guðrúnarsonar eru, ásamt lokaorðum skýrsluhöfunda, sem hér segir:  Þorbjörn greinir frá þreytu og kvíða vegna ástandsins í vinnunni þó svo að hann telji að ástandið hafi lagast eitthvað við það að tveir varðstjórar fóru í leyfi. ... Það er mat undirritaðra að málsatvik uppfylli öll fjögur viðmið skilgreiningar á einelti og að framkoma þriggja millistjórnenda og nokkurra starfsmanna þeirra í garð ÞG sé einelti.

Nefndir sérfræðingar Lífs og sálar sálfræðistofu ehf. settu í skýrslu sinni, í samræmi við áðurnefnda verkbeiðni stefnda, fram tillögur í sex liðum til úrbóta.  Á meðal þeirra er að hlutaðeigandi starfsmönnum hjá slökkviliðinu sé greint frá niðurstöðu skýrslunnar, að kannaður verði vilji þeirra til áframhaldandi samstarfs og hvort og þá hvaða leiðir séu færar til þess og til sátta.  Lagt er til að starfsmönnum verði boðin aðstoð kjósi þeir sáttaleiðina.  Að auki leggja sérfræðingarnir til að unnar verði verklags- og siðareglur um meðferð kvartana og annarra viðkvæmra mála í stjórnsýslu stefnda og hjá kjörnum fulltrúum, og þar á meðal um það hvernig þessir aðilar meðhöndli erindi sem berast þeim framhjá millistjórnendum.  Einnig leggja þeir til að farið verði að ákvæðum vinnuverndarlaga og reglna um sálfélagslega áhættuþætti, að Þorbirni verði boðið upp á stuðningsviðtöl og handleiðslu til að aðstoða hann við að vinna úr hinu erfiða ferli, sem og til að meta og bæta sinn stjórnunarstíl.  Loks leggja sérfræðingarnir til að fram fari fræðsla fyrir alla starfsmenn á slökkvistöðinni um einelti og að unnin verði verkefni í þeim tilgangi að uppræta margra ára ósiði í samskiptum.

Af hálfu stefnanda er í stefnu staðhæft að eineltiskvörtun Þorbjörns Guðrúnarsonar slökkviliðsstjóra hafi í raun verið hluti af því einelti sem hann hefði mátt sæta af hans hálfu.  Í fyrrnefndri sálfræðiskýrslu Sveinu Berglindar Jónsdóttur, sem eins og áður er rakið var rituð vegna eineltiskvörtunar stefnanda og birt var í september 2012, segir um þetta atriði:  Í þeim niðurstöðum sem Ingimar fékk afhentar koma fram atvik sem eiga að staðfesta einelti í garð Þorbjörns Guðrúnarsonar.  Ingimar telur sig ekki eiga þátt í neinum þeim atvikum sem nefnd eru og hefur sent andmæli þar um til sitjandi bæjarstjóra.  Niðurstaðan hefur hins vegar ekki verið notuð til grundvallar stjórnsýsluákvörðunum og því hefur hann ekki andmælarétt.  Niðurstaða þessarar könnunar var á þann veg að um einelti í garð Þorbjörns væri að ræða og fæst því ekki staðfesting á að kvörtunin hafi verið hluti af einelti gegn Ingimar.“

Samkvæmt gögnum var starfsmönnum Slökkvistöðvar Akureyrar, þ. á m. stefnanda og öðrum þeim starfsmönnum sem höfðu tekið launalaust leyfi, kynnt meginniðurstaða eineltisskýrslu Lífs og sálar sálfræðistofu ehf.  Var þetta gert með trúnaðarbréfi, dagsettu 10. apríl 2012, sem bæjarstjóri stefnda sendi starfsmönnunum.  Í bréfinu segir m.a. að slökkviliðsstjóri hafi sætt einelti af hálfu þriggja starfsmanna slökkviliðsins, en jafnframt er tekið fram að nokkrir aðrir undirmenn hafi tekið þátt í athæfinu, en ekki er getið nafna.  Af gögnum verður ráðið að sama dag og bréfið var sent hafi stefnanda og öðrum sem málið varðaði verið kynnt efni umræddrar skýrslu á fundi með bæjarstjóra og bæjarlögmanni stefnda.  Liggur fyrir að stefnandi brást strax við efni skýrslunnar, en í bréfi hans, sem dagsett er 16. apríl 2012, andmælir hann að umrætt málefni eigi við sig.  Þá krefst hann andmælaréttar, rökstuðnings og aðgangs að skýrslunni.  Í svarbréfi bæjarlögmanns stefnda, sem dagsett er 17. apríl, er m.a. vísað til þess að fyrrnefndur fundur hafi verið ætlaður til kynningar á skýrslunni og að stefndi hafi ekki tekið stjórnvaldsákvörðun á grundvelli hennar, enda sé það ætlan stefnda að fara að tillögum skýrsluhöfunda og reyna sættir með aðilum.  Þá er sagt í bréfinu að síðari ákvarðanir á grundvelli skýrslunnar kunni að geyma stjórnvaldsákvarðanir, en að þá gildi ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37, 1993 um andmælarétt.  Með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 50, 1996 fylgdi nefndu bréfi til stefnanda hluti umræddrar skýrslu, þ.e. sá hluti sem beinlínis varðaði hann.  Var stefnanda jafnframt leiðbeint um að hann ætti rétt á því að kæra hinn takmarkaða aðgang að skýrslunni til úrskurðarnefndar um upplýsingamál innan 30 daga.

Fyrir liggur að í kjölfar ofangreindra atvika héldu aðilar máls með sér fundi, í apríl og maí 2012, en auk þess voru þeir í alltíðum samskiptum þá um sumarið og haustið.  Ekki voru haldnar formlegar fundargerðir vegna þessa, en við meðferð málsins fyrir dómi hafa aðilar lagt fram fjölda bréfa og rafpósta sem greina frá þessum samskiptum.  Að auki liggja fyrir samningsdrög að starfslokasamningi stefnanda sem slökkviliðsmanns hjá stefnda.

Í bréfi bæjarlögmanns stefnda, sem ritað var réttu ári eftir ofangreind samskipti, þann 21. maí 2013, er vikið að lýstu upphafsferli vorið 2012.  Segir þar m.a. að yfirmenn hjá stefnda hafi boðað stefnanda til fundar í lok apríl 2012 með tölvubréfi, en með því móti hafi honum jafnframt verið tilkynnt að fundarefnið varðaði mögulegar sættir hlutaðeigandi vegna eineltiskvörtunar slökkviliðsstjórans Þorbjörns Guðrúnarsonar, og að fundarefnið varðaði áframhaldandi samstarf þeirra á slökkvistöðinni og hvaða leiðir væru færar.  Tekið er fram í bréfinu að litið hafi verið til fyrrnefndra tillagna í skýrslu Lífs og sálar sálfræðistofu ehf.  Af gögnum, þ. á m. rafpósti bæjartæknifræðings, sbr. dskj. nr. 29, en einnig af málavaxtalýsingu í stefnu, verður ráðið að umræddur fundur aðila hafi verið haldinn 9. maí 2012.  Í nefndu bréfi bæjarlögmannsins frá 21. maí 2013 segir, að á þessum fundi hafi stefnandi verið inntur eftir sátt við slökkviliðsstjóra, en „jafnframt kynnt möguleg meðferð máls, sem væri að gera starfslokasamning með samkomulagi á milli aðila eða fara með málið í áminningarferli og/eða færa hann til í starfi.  Í stefnu segir að á greindum fundi, þann 9. maí, hafi honum verið boðnir þrír kostir, og með því hafi falist hótun um brottrekstur eða a.m.k. uppsögn yfirmannastöðu, auk áminningar ef hann gerði ekki „sjálfviljugur“ starfslokasamning.  Í stefnu segir að umræddir kostir hafi verið ítrekaðir af starfsmönnum stefnda á fundi aðila þann 31. maí sama ár, en að honum hafi þá jafnframt verið veittur frestur til 11. júní til að velja einn þeirra.  Lýsing stefnanda er að þessu leyti í samræmi við efni framlagðs bréfs, sem Anton Berg Carrasco, trúnaðarmaður í Landssambandi slökkviliðs og sjúkraflutningamanna (LSS), ritaði að beiðni stefnanda þann 1. maí 2013.

Í sálfræðiskýrslu Sveinu Berglindar Jónsdóttur er síðastgreindum atburðum lýst þannig:  Akureyrarbær ákvað að reyna sættir í málinu og byrjað var að ræða við Þorbjörn Guðrúnarson.  Þorbjörn treysti sér ekki til að vinna aftur með þessum aðilum.  Þá voru haldnir fundir með Ingimar, ( og X1 og X2 varðstjórum) þar sem reyndar voru sáttir. Þeir sögðust allir vera tilbúnir að skoða möguleikann á að vinna með Þorbirni, jafnvel þó að niðurstaðan yrði sú að þeir yrðu færðir til í starfi  (þeir yrðu óbreyttir slökkviliðsmenn) og/eða þeim mögulega veitt áminning.

Af hálfu stefnda sóttu umrædda fundi áðurnefndur yfirmaður Slökkviliðs Akureyrar, Helgi Már Pálsson bæjartæknifræðingur, en einnig Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður.  Eftir fyrsta fund stefnanda með yfirmönnum stefnda í apríl 2012 hafði hann með sér til fulltingis áðurnefndan Anton Berg Carrasco, sem mætti með honum á fundinn 31. maí.  Á síðari fundum hafði stefnandi með sér til fulltingis Valdimar Leó Friðriksson, framkvæmdastjóra Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna ( LSS).

Í stefnu er áréttað að stefnandi hafi á fundum með starfsmönnum stefnda hafnað þeirri niðurstöðu í skýrslu Lífs og sálar sálfræðistofu ehf., að hann hefði beitt Þorbjörn Guðrúnarson slökkviliðsstjóra einelti.  Þá er staðhæft að viðbrögð stefnda hafi verið að halda fram fyrrnefndum þremur kostum.  Við meðferð málsins hefur stefndi staðfest þessa frásögn stefnanda í aðalatriðum, að því frátöldu að hann andmælir því að stefnanda hafi verið hótað brottrekstri.  Eins og fyrr sagði fór stefnandi fram á lengri frest til að íhuga stöðu sína en stefndi hafði áður boðið.  Varð úr að aðilar héldu með sér fund þann 18. júní 2012.  Liggur fyrir að er sá fundur var haldinn hafði stefnandi, eftir að hafa ráðfært sig við fyrrnefndan framkvæmdastjóra stéttarfélags, afráðið að ganga til viðræðna við stefnda um starfslokasamning, og gekk það eftir.

Samkvæmt gögnum lagði stefnandi fram skriflega kvörtun þann 23. maí 2012 til Vinnueftirlitsins um einelti á vinnustað og beindist hún að Þorbirni Guðrúnarsyni slökkviliðsstjóra.  Hið sama gerðu tveir varðstjórar hjá slökkvistöðinni.  Af þessu tilefni leitaði stefndi til fyrrnefndrar Sveinu Berglindar Jónsdóttur sálfræðings, og ritaði hún, eins og hér að framan hefur verið rakið, skýrslu um álitaefnið.

Samkvæmt gögnum sendi stefndi stefnanda og framkvæmdastjóra stéttarfélags hans, Valdimar Leó Friðrikssyni, drög að samkomulagi um starfslok seinni hluta júnímánaðar 2012.  Liggur fyrir að aðilar áttu í kjölfarið í ítrekuðum viðræðum og tölvusamskiptum um efnið.  Þann 24. ágúst sama ár óskaði bæjarlögmaður stefnda eftir eins til tveggja vikna fresti til að svara síðasta tilboði stéttarfélags stefnanda og var sá frestur veittur.  Þann 19. september innti stefnandi framkvæmdastjóra stéttarfélags síns eftir því hvort viðbrögð hefðu borist frá stefnda, en af því tilefni var hann upplýstur um að svo væri ekki.  Í tölvupósti, dagsettum 21. september sama ár, greindi bæjarlögmaður stefnda frá því, að málsmeðferðin vegna starfslokaviðræðnanna hefði tafist vegna sumarorlofa starfsmanna stefnda.  Í sama tölvupósti greindi bæjarlögmaður frá því að stefndi hefði ákveðið að bíða átekta þar til Sveina Berglind Jónsdóttir sálfræðingur hefði lokið störfum sínum vegna eineltiskvartana stefnanda og áðurnefndra tveggja varðstjóra slökkviliðsins.  Lögmaðurinn upplýsti einnig að sálfræðiskýrsla Sveinu Berglindar hefði borist stefnda þennan sama dag, 21. september, en sagði að starfsmenn stefnda þyrftu eina til tvær vikur til að fara yfir niðurstöðu skýrslunnar.

Margnefnd sálfræðiskýrsla Sveinu Berglindar Jónsdóttur, um mat á ásökunum þriggja starfsmanna Slökkviliðs Akureyrar, þ. á m. stefnanda, um ætlað einelti Þorbjörns Guðrúnarsonar slökkviliðsstjóra, var unnin á tímabilinu frá júní til ágúst 2012.  Í formála skýrslunnar er tekið fram að málsaðilum og öðrum þeim sem málið varðaði, þar á meðal yfirmönnum hjá stefnda og öðrum sem best þekktu til, samtals tuttugu og sjö manns, hafi í viðtölum verið kynnt hver væri tilgangur verkefnisins, en að jafnframt hefði þeim verið gerð grein fyrir að þeim væri frjálst að neita að svara einstökum spurningum.  Tekið er fram í skýrslunni að við úrlausn verkefnisins hefði verið tekið mið af skilgreiningu á hugtakinu einelti í 3. gr. reglugerðar um aðgerðir gegn einelti á vinnustað nr. 1000, 2004, sbr. ákvæði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46, 1980.

Í skýrslu Sveinu Berglindar er vikið að forsögu þessa máls og þar á meðal ráðningu Þorbjörns Guðrúnarsonar sem slökkviliðsstjóra í lok árs 2006, en einnig er fjallað um áðurnefndar skipulagsbreytingar og sparnaðaraðgerðir sem gripið var til á Slökkvistöðinni á Akureyri á árunum 2008 og 2009.  Þá er í skýrslunni, eins og hér að framan hefur verið vikið að, greint frá vaxandi óánægju starfsmanna, þ. á. m. varðstjóra, upplifun stefnanda á einangrun í starfi og að kvörtunum hans við yfirmenn vegna stjórnunarstíls Þorbjörns Guðrúnarsonar slökkviliðsstjóra.  Einnig er getið um áðurnefnda sviptingu á VPN-tengingu og skrifstofuaðstöðu stefnanda og vikið að tildrögum þess að hann tók sér launalaust leyfi frá störfum, að viðbrögðum Þorbjörns Guðrúnarsonar og loks eineltiskvörtun hans.

Í skýrslunni er fjallað um aðrar kvartanir stefnanda vegna ætlaðs eineltis Þorbjörns Guðrúnarsonar og þar á meðal um þá fullyrðingu hans að markvisst hafi verið færð verkefni frá honum til annarra og að ábyrgð hans sem aðstoðarslökkviliðsstjóra hefði af þessum sökum smám saman orðið að engu.  Sem dæmi um slíkar ráðstafanir eru nefndir í skýrslunni eftirfarandi verkefnaflutningar: Fataúthlutanir, þjálfun á landsbyggðarflugvöllum, þjálfun hlutastarfandi starfsmanna SA, gerð tímaskýrslna og vakttaflna starfsmanna.  Í skýrslunni leggur skýrsluhöfundur mat á álitaefnið, eftir hafa heyrt skýringar Þorbjörns slökkviliðsstjóra og rætt við aðra aðila sem til þekktu, og segir:  Mat undirritaðrar er að Þorbjörn hafi staðið illa að því að færa verkefni af höndum Ingimars og ekki gefið honum upp viðhlítandi skýringar á því.“  Lætur skýrsluhöfundur það álit í ljós að upplýsingaflæði frá Þorbirni til stefnanda hafi í nokkrum tilfellum verið ófullnægjandi, en að auki hafi hann gert lítið úr störfum stefnanda í umræðu við aðra starfsmenn.  Að því er varðar kvörtun stefnanda um að Þorbjörn hefði ekki veitt honum tækifæri til starfsmenntunar segir skýrsluhöfundur að slíkar aðgerðir hafi ekki einskorðast við stefnanda, og að þar hafi komið til almennar sparnaðaraðgerðir hjá stefnda.

Í skýrslu Sveinu Berglindar er sérstaklega vikið að tilviki er stefnandi sinnti útkalli á brunastað í frítíma sínum, vegna skorts á mannafla, en skráði í framhaldi af því útkallið sem vinnustundir.  Greint er frá því að stefnandi hafi kvartað yfir því að Þorbjörn slökkviliðsstjóri hefði strikað tímaskráninguna út, en með því hafi hann gert lítið úr faglegu mati og ábyrgð hans sem aðstoðarslökkviliðsstjóra.  Um þetta atvik segir: „Þorbjörn staðfestir að þetta atvik hafi verið á þennan veg og segist þykja miður að hafa hlaupið á sig.  Athuganir staðfesta að þeir ræddu saman eftir atvikið og Þorbjörn sagðist virða afstöðu Ingimars.  Hann leiðrétti hins vegar ekki skráningu á tímunum né ummæli sín um Ingimar á varðstjórafundi og þykir sýnt að hann hafi gert lítið úr sínum næsta stjórnanda fyrir framan aðra stjórnendur hjá SA.“

Í sérfræðiskýrslu Sveinu Berglindar er vikið nánar að samskiptum stefnanda og Þorbjörns á starfsstöð slökkvistöðvarinnar.  Segir um það eftirfarandi:  Margir hafa nefnt að í upphafi hafi Þorbjörn haft bandamann í Ingimar, hann réttlætti ákvarðanir Þorbjörns og gerði öðrum varðstjórum ljóst að þeim ætti að fylgja.  ...  Nánast allir viðmælendur undirritaðrar sögðu að Þorbjörn hefði komið illa fram við Ingimar, tekið af honum völd og ábyrgð og hann hefði smám saman dregið sig í hlé.“

Í skýrslu Sveinu Berglindar er haft eftir stefnanda að allt árið 2011 hafi honum liðið illa.  Hann hafi kviðið því að fara til vinnu og fundið fyrir depurð vegna ástandsins í vinnunni og samskiptanna við Þorbjörn Guðrúnarson.  Af þessum sökum hafi hann leitað til heimilislæknis síns, en einnig sótt stuðning til fjölskyldu sinnar.  Og vegna lýsts ástands hefði hann farið í ársleyfi þegar honum hafi staðið það til boða.

Í niðurstöðukafla í skýrslu Sveinu Berglindar um það álitaefni; hvort ásakanir stefnanda um einelti af hálfu Þorbjörns Guðrúnarsonar eigi við rök að styðjast, segir:

Undirrituð telur fullsýnt að í sex atriðum hafi Þorbjörn Guðrúnarson, slökkviliðsstjóri SA sýnt Ingimar Eydal, aðstoðarslökkviliðsstjóra ámælisverða og ótilhlýðilega háttsemi sem stjórnandi.  Hér er um að ræða:

  • Þorbjörn stóð illa að því að færa verkefni frá Ingimar og gaf honum ekki upp málefnalegar ástæður þó hann virðist í mörgum tilfellum hafa haft þær.
  • Skrifstofuaðstaða var tekin af Ingimar og ekki hlustað á hans rök gegn því.
  • VPN tenging var tekin af Ingimar án þess að það væri rætt við hann eða hann upplýstur um það.
  • Þorbjörn gerði lítið úr faglegu mati og ábyrgð aðstoðarslökkviliðsstjóra vegna útkalls í Skútagili
  • Upplýsingaflæði var skert til Ingimars og samráð lítið í nokkrum tilfellum.
  • Gert var lítið úr störfum Ingimars í umræðu við aðra starfsmenn
  • Undirrituð telur að þær breytingar til hins verra á líðan, högum og heilsu Ingimars sem lýst hefur verið í þessari skýrslu megi rekja til háttsemi slökkviliðsstjóra.

Samkvæmt gögnum var stefnanda kynnt efni eineltis- og sálfræðiskýrsla Sveinu Berglindar Jónsdóttur þann 15. október 2012.

Samkvæmt gögnum sendi bæjarlögmaður stefnda, í tölvupósti þann 18 október 2012, framkvæmdastjóra stéttarfélags stefnanda drög að starfslokasamningum stefnanda og tveggja varðstjóra hjá Slökkviliði á Akureyrar.  Liggur fyrir að nefndir aðilar voru í tölvupóstssamskiptum vegna þessara samningsdraga þann 31. október sama ár.

Með bréfi Helga Más Pálssonar, byggingatæknifræðings og deildarstjóra framkvæmdadeildar stefnda, dagsettu 16. nóvember 2012, var stefnandi boðaður á fund 26. sama mánaðar.  Í bréfinu segir m.a. að „þreifingar um starfslokasamning“ hafi ekki borið árangur, „enda beri mikið á milli“.  Þá segir einnig í bréfinu: „Akureyrarbæ [stefnda] barst engin tilkynning 1. september sl., þess efnis að þú ætlir að koma til starfa 1. desember 2012 og lítur svo á að þú sért kominn í annað starf.  ...  Það er ljóst að sért þú kominn með fastráðningu í nýju starfi, er ekki ástæða að halda áfram viðræðum um starfslokasamning, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands nr. 220/2009.“

Af gögnum verður ráðið að yfirmenn stefnda hafi áréttað ofangreinda afstöðu, um starfslok stefnanda, á nefndum fundi aðila þann 26. nóvember 2012.  Samkvæmt tölvubréfi stefnanda til Helga Más, daginn eftir fundinn, andmælir hann þessum skilningi stefnda, og þar á meðal að honum hafi verið skylt að tilkynna stefnda um endurkomu sína á starfsstöð Slökkvistöðvar Akureyrar 1. desember sama ár, vegna áðurgreinds skilyrðis í bréfi slökkviliðsstjóra vegna hins launalausa leyfis.  Þar um vísar stefnandi til yfirstandandi samningaviðræðna aðila um starfslok hans.  Því til viðbótar nefnir stefnandi í bréfinu, að honum hafi verið nauðsynlegt að tryggja afkomu sína, en lokaorð hans eru þessi:  Staðan er því sú að þann 1. desember lýkur launalausu leyfi mínu og mun ég því koma til starfa hjá Akureyrarbæ.“  Nefndur Helgi Már svaraði síðastgreindum tölvupósti stefnanda með tölvupósti 28. nóvember og áréttaði að Akureyrarbær liti svo á að stefnandi væri ekki lengur í starfi hjá Slökkviliði Akureyrarbæjar, en vísaði til þess að stefndi hefði fengið það staðfest að stefnandi hefði ráðið sig í fullt starf hjá Isavia ohf. sem vaktstjóri.  Samkvæmt gögnum framsendi Helgi Már síðastnefndan tölvupóst þann 30. nóvember sama ár til Hjördísar Þórhallsdóttur, flugvallarstjóra Isavia ohf., og óskaði eftir efnislegri staðfestingu, en spurðist jafnframt fyrir um hvort stefnandi hefði sagt starfi sínu lausu hjá félaginu.  Í svari Hjördísar, sem sent var samdægurs í tölvupósti til Helga Más, segir að stefnandi sé fastráðinn hjá Isavia ohf., og að hann hafi ekki sagt upp, og af þeim sökum treysti hún því að hann mæti til vinnu.

Samkvæmt gögnum áréttaði stefnandi í tveimur tölvuskeytum til nefnds yfirmanns hjá stefnda, Helga Más Pálssonar, dagsettum 28. og 29. nóvember 2012, að ætlan hans væri að mæta til vinnu hjá Slökkviliði Akureyrar, sem varaslökkviliðsstjóri, þann 3. desember, og ætlist því til að hann verði settur á útkallsskrá 1. sama mánaðar.  Vísar stefnandi jafnframt til þess í tölvupóstinum, að hann hafi ekki sagt upp starfi sínu hjá stefnda og að stefndi hafi heldur ekki sagt honum upp með lögmætum hætti, sbr. ákvæði 11.1.6 í gildandi kjarasamningi.  Loks staðhæfir stefnandi að það hafi verið stefndi sem hefði einhliða slitið starfslokaviðræðunum, og að hann hafi af þeim sökum þurft að gera ráðstafanir gagnvart Isavia ohf.

Í stefnu segir að stefnandi hafi mætt til starfa sinna á Slökkvistöðinni á Akureyri þann 3. desember 2012, og að það hafi hann gert með vitneskju og samþykki flugvallarstjóra hjá Isavia ohf., en verið meinað að gegna vinnuskyldum sínum af starfsmönnum stefnda.

Samkvæmt gögnum sendi lögmaður stefnanda bréf til stefnda þann 7. maí 2013 og hafði uppi þá kröfu að stefndi greiddi honum vangoldin laun, en einnig skaða- og miskabætur.  Stefndi hafnaði erindinu með bréfi bæjarlögmanns 21. maí sama ár.

Stefnandi getur þess í stefnu að hann hafi ekki fengið upplýsingar um ástæður þess að Þorbjörn Guðrúnarson slökkviliðsstjóri var leystur frá störfum með starfslokasamkomulagi við stefnda þann 12. júní 2013.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

1.  Stefnandi reisir málatilbúnað sinn m.a. á því að stefndi hafi ekki farið að lögum í ítrekuðum tilraunum við að koma honum frá störfum og að stefndi beri húsbóndaábyrgð á ólögmætum meingerðum starfsmanna sinna, sem frá árinu 2008 hafa valdið honum fjártjóni og miska.

2.  Aðalkrafa stefnanda um vangoldin laun.

Stefnandi byggir á því að honum hafi ekki borist lögfull uppsögn frá stefnda samkvæmt kjarasamningi og því sé hann ennþá starfsmaður stefnda.  Hann byggir á því að það ástand vari allt þar til löglega hafi verið gengið frá starfslokum hans.

Stefnandi bendir á að hann hafi mætt til vinnu á fyrsta vinnudegi eftir að launalausu leyfi hans lauk í byrjun desember 2012.  Hann hafi þá lýst sig reiðubúinn til að gegna vinnuskyldu sinni, en verið meinað það af starfsmönnum stefnda með þeim rökum að þeir „litu svo á“ að hann starfaði ekki lengur hjá stefnda.  Það hafi því verið stefndi sem vanrækti skyldur sínar samkvæmt ráðningarsamningi aðila og það sé því krafa hans að stefndi standi honum skil á vangreiddum launum á tímabilinu frá 1. desember 2012 og til þess dags sem lögleg uppsögn hafi átt sér stað.  Þar um vísar stefnandi til gildandi kjarasamnings Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) og Sambands ísl. sveitarfélaga (SNS) og áðurnefnds ráðningarsamnings frá árinu 2003.

Stefnandi byggir á því að ekki liggi skýrt fyrir hvort stefndi telji sig hafa rift ráðningarsamningi aðila eða hvort hann telji að stefnandi hafi sagt honum upp.  Hafi starfsmenn stefnda orðið tvísaga um þetta atriði, en þar um vísar hann annars vegar til bréfs bæjartæknifræðings stefnda frá 16. nóvember 2012, en þar sé vísað til dómafordæmis um heimild til riftunar, og hins vegar til bréfs bæjarlögmanns stefnda, frá 21. maí 2013, þar sem því sé borið við að hann hafi slitið ráðningarsamningi aðila.  Af hálfu stefnanda er báðum þessum málsástæðum stefnda hafnað.

Stefnandi byggir á því að ósannað sé að hann hafi slitið ráðningarsambandi aðila eða að vilji hans hafi staðið til þess.  Hann bendir á að fjölmörg gögn sýni hið gagnstæða og nefnir í því sambandi áðurrakinn rafpóst sem gekk á milli málsaðila í júní og nóvember 2012, sem varðað hafi viðræður þeirra um starfslokasamning.

Stefnandi byggir á því að stefnda hafi ekki verið heimilt að rifta ráðningarsamningi aðila með lýstum hætti, enda sé um stjórnvaldsákvörðun að ræða.  Vísar stefnandi um þetta til ákvæða í kjarasamningi, grein 11.1.3.2, þar sem kveðið sé skýrt á um að uppsagnir eigi að vera skriflegar.  Þá sé það ekki á valdi stefnda að túlka óstaðfestar upplýsingar, sem starfsmenn hans kunni að hafa komist yfir með annarlegum hætti, sem ígildi uppsagnar stefnanda.  Slík túlkun, en einnig þær ráðstafanir sem fylgt hafi í kjölfarið af hálfu stefnda, sé óumdeilanlega stjórnvaldsákvörðun og sem slík ógild vegna annmarka sem á henni hafi verið.  Byggir stefnandi á því að stefndi hafi með gjörðum sínum ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37,1993.  Að auki hafi stefndi brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. og ekki virt andmælarétt samkvæmt 13. gr. sömu laga.  Einnig byggir stefnandi á því að stefndi hafi ekki rökstutt ákvörðun sína um starfslokin, sbr. 21. og 22. gr. sömu laga.  Ákvörðun stefnda um starfslokin sé því reist á ómálefnalegum forsendum, en með því hafi hann brotið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar.

Stefnandi byggir á því að skilyrði riftunar á ráðningarsamningi samkvæmt ákvæði í kjarasamningi, grein 11.1.6.1, hafi ekki verið fyrir hendi.  Hafi stefndi brotið gegn skyldum sínum sem vinnuveitandi um að afla upplýsinga um þau atvik sem gætu hafa gefið tilefni til fyrirvaralausrar uppsagnar áður en hann greip til stjórnvaldsákvörðunar í umrætt sinn.  Stefndi hafi sem stjórnvald verið bundinn af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37, 1993, en að auki hafi starf stefnanda notið sérstakrar verndar samkvæmt ráðningar- og kjarasamningi aðila.

Stefnandi hafnar því að dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 220/2009 hafi fordæmisgildi í máli þessu og vísar til þess að ekki hafi verið erfiðleikum bundið að ná til hans á neinum tímapunkti.  Þá hafi ekki verið óvíst um afstöðu hans, þar sem hann hafi gert ítrekaðar og sannanlegar tilraunir til að ræða málin við fyrirsvarsmenn stefnda eftir að stefndi hafði bundið einhliða enda á viðræður um gerð starfslokasamnings þann 26. nóvember 2012.  Í því sambandi bendir stefnandi einnig á að það hafi verið starfsmenn stefnda sem hafi dregið að svara og í reynd tekið sér margra vikna einhliða fresti.

Stefnandi byggir á því að starfslokaviðræður aðila hafi hafist að tilstuðlan stefnda þann 18. júní 2012, og að þær hafi staðið yfir a.m.k. til 31. október sama ár.

Stefnandi byggir á því að hann hafi, líkt og starfsfélagi hans, óskað eftir upplýsingum um afstöðu stefnda um endurkomu til fyrri starfa í tölvupósti þann 20. nóvember 2012, sbr. að því leyti svartölvupóst yfirmanns stefnda, Helga Más Péturssonar byggingatæknifræðings, þar sem hann hafi boðað til fundar til að ræða málefnið.  Það sé því ómarktæk átylla af hálfu stefnda að hann hafi ekki tilkynnt um endurkomu fyrir 1. september 2012, enda hafi starfslokaviðræður aðila þá enn verið í gangi.

Stefnandi byggir á því að á fundum aðila í maí 2012 hafi sú afstaða stefnda komið fram að hann gæti ekki tekið aftur við stöðu sinni sem aðstoðarslökkviliðsstjóri.  Stefndi hafi þannig lýst þeim kostum sem stefnanda stóðu til boða, þ.e. brottrekstur eða lækkun í tign og þá í almenna stöðu slökkviliðsmanns. Byggir stefnandi á því að hafi stefndi talið óvissu um hvort hann hygðist mæta til starfa á ný þann 1. desember 2012 hafi sú óvissa stafað af gjörðum stefnda en ekki hans.

Stefnandi byggir á því að hann hafi hafið áðurgreindar starfslokaviðræður vegna lýstra viðbragða stefnda og þeirra kosta sem honum hafi staðið til boða og ætlað að þeim samskiptum myndi ljúka með samningi.  Viðræðurnar hafi hins vegar tafist vegna aðgerðarleysis starfsmanna stefnda, en af þeim sökum hafi stefnanda verið ómögulegt að tilkynna um endurkomu sína fyrir 1. september 2012.  Þá hafi það ekki verið á valdi stefnanda að upplýsa um hvort hann kæmi aftur til slökkviliðsins í fyrra starf sitt, sem varaslökkviliðsstjóri, eftir að launalausu leyfi hans lauk, þar sem á þeim tíma hafi hann staðið í þeirri trú að ef ekki tækist að gera starfslokasamninginn væri það ætlun stefnda að segja honum upp störfum eða að minnsta kosti lækka hann í tign og áminna hann.  Endurkoma til fyrri starfa hafi þannig ekki verið á meðal þeirra valkosta sem stefndi hefði kynnti honum á vorfundunum 2012.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi ekki sagt honum upp störfum.  Þá hafi stefndi aldrei áminnt hann, enda hafi hann ekki brotið af sér með neinum hætti.

Stefnandi bendir á að fyrir liggi í málinu að yfirmaður hjá stefnda hafi tilkynnt honum þann 26. nóvember 2012, að „litið væri svo á“ að hann væri ekki lengur starfsmaður á Slökkvistöðinni á Akureyri.  Byggir stefnandi á því að vegna þessa hafi honum orðið ljóst að ætlan stefnda hafi verið að koma honum frá störfum óháð lögum og kjarasamningum.  Fyrri yfirlýsingar starfsmanna stefnda, bæjartæknifræðings og bæjarlögmanns, hafi hann því skoðað í þessu samhengi, þ.e. sem hótanir.  Því hafi fyrrgreindar starfslokaviðræður aðeins verið yfirvarp til að finna leiðir til að losna við hann úr starfi og þá með það fyrir augum að fara í kringum ákvæði kjarasamnings og laga, þar sem ekki hafi verið fyrir hendi nein skilyrði til uppsagnar eða riftunar á ráðningarsamningi aðila.

Stefnandi byggir á því að þegar hann fékk hið launalausa leyfi hjá stefnda hafi legið ljóst fyrir, m.a. af hálfu stefnda, að hann myndi fara til starfa hjá Isavia ohf.  Hafi þetta m.a. komið fram í tölvupósti þáverandi slökkviliðsstjóra, Þorbjörns Guðrúnarsonar, þann 9. ágúst 2011, þar sem störf hjá Isavia ohf. hafi beinlínis verið auglýst.

Stefnandi byggir á því að þó svo að hakað hafi verið við orðið ,,fastráðning“ í ráðningarsamningum hans og Isavia ohf. hafi það ekki staðið í vegi fyrir því að hann snéri aftur til starfa sinna hjá Slökkviliði Akureyrar þann 1. desember 2012.  Byggir stefnandi á því að gögn, sem starfsmenn stefnda telja sig hafa haft undir höndum og lýsi annarri atburðarás, hafi ekki verið afrakstur löglegrar rannsóknar samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga.  Að því leyti hafi ákvarðanir stefnda verið rangar og ómálefnalegar, en að auki hafi meðferð stefnda verið í andstöðu við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37, 1993, einkum 12., 13., 14., 21. og 22 gr. um meðalhóf, andmælarétt og rökstuðning.  Byggir stefnandi á því að stefnda hafi skilyrðislaust borið skylda til að sjá til þess að atvik máls væru fullupplýst áður en hann tók ákvörðun um starfslok hans.  Hafi stefnda borið að kanna hug stefnanda og þáverandi vinnuveitanda hans, Isavia ohf., þannig að ekki færi á milli mála hver afstaða þeirra væri í þessum efnum og hvert raunverulegt inntak samnings þeirra var.  Og þar sem fyrir liggi að stefnandi hafi bæði haft vilja og getu til að koma til vinnu á Slökkvistöðinni á Akureyri þann 1. desember 2012 sé ljóst að ekki hafi verið nein þörf á aðgerðum stefnda, hvorki á einhliða rofi á samningaviðræðum né þeirri undarlegu riftun á ráðningarsamningi líkt og raun varð á.

Stefnandi byggir á því að efni ráðningarsamninga hans við Isavia ohf. hafi aldrei getað orðið tilefni til fyrirvaralausrar uppsagnar af hálfu stefnda, jafnvel þó að stefndi hefði aflað gagna löglega og tekið ákvörðun sína samkvæmt stjórnsýslulögum.  Í því sambandi bendir stefnandi á að hann hafi ekki vanrækt vinnuskyldu sína gagnvart stefnda.  Þvert á móti hafi hann mætt til starfa strax á fyrsta vinnudegi eftir að hinu launalausa leyfi lauk.  Byggir stefnandi á því að hann hafi verið í aðstöðu til að efna vinnuskylda sína gagnvart stefnda.  Vera kunni að það hefði leitt til tjóns fyrir Isavia ohf., þ.e. ef stefndi hefði ekki afþakkað vinnuframlag hans.  Á það hafi hins vegar aldrei reynt.  Stefnandi bendir á að það hljóti að vera stefnanda og Isavia ohf. að leysa úr því hvernig fara skyldi með réttindi og skyldur samkvæmt samningi þeirra eftir að brostnar voru forsendur fyrir honum með því að stefndi rauf einhliða fyrrnefndar starfslokaviðræður.

Stefnandi vísar til þess að hann hafi talið einsýnt, hvað sem óskum hans liði, að mjög ólíklegt væri að hann ætti afturkvæmt til fyrri starfa hjá Slökkviliði Akureyrar eftir að hann hafði með lýstum hætti verið neyddur til þess að ganga til starfslokasviðræðna með ólögmætum hótunum stefnda.  Af þessum sökum hafi hann leitað eftir aðstoð stéttarfélags síns, en einnig til lögmanns, en þá jafnframt haft það í huga að hver sem málalokin yrðu gæti hann ekki fengið fyrra starf sitt aftur með dómi þrátt fyrir ólögmæta uppsögn.  Hann hafi því eftir fund með yfirmönnum hjá stefnda hinn 31. maí 2012 verið viðbúinn því að hann þyrfti að finna sér annað starf þar sem hann hafi ekki verið velkominn aftur í sitt gamla starf.  Stefnandi byggir á því að hafi stefndi talið það trúnaðarbrest eða stríða á annan hátt gegn skyldum gagnvart sér samkvæmt ráðningarsamningi, að hann skyldi hafa undirbúið yfirvofandi starfslok sín með því að sækjast eftir betri stöðu hjá Isavia ohf., í launalausa leyfinu, hafi það verið á valdi stefnda að fylgja löglegu ferli í því tilviki.  Það hafi stefndi ekki gert, heldur hafi hann reynt að binda endi á ráðningarsamband aðila á hátt sem ekki sé heimill að lögum eða samkvæmt kjarasamning aðila.  Byggir stefnandi á því að ákvörðun stefnda að hafna vinnuskyldu hans, rifta ráðningarsamningi aðila og/eða „líta svo á“ að hann væri ekki lengur starfsmaður stefnda leiði til þess að hún hafi frá upphafi verið ólögmæt.  Geti þessi ákvörðun stefnda því ekki leyst hann undan skyldu sinni til að efna ráðningarsamninginn við stefnanda og greiða honum full laun samkvæmt honum og gildandi kjarasamningi, allt frá endurkomu hans úr launalausu leyfi þann 1. desember 2012 og þar til hann hefur réttilega bundið endi á ráðningarsamband þeirra.

Um lagarök að þessu leyti vísar stefnandi til meginreglna samningaréttar um skyldu til að efna samninga og til vinnuréttar um réttar efndir ráðningarsamninga.  Stefnandi vísar einnig til laga nr. 94, 1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, laga nr. 55, 1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, laga nr. 30, 1987 um orlof, laga nr. 80, 1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, laga nr. 27, 1930 um greiðslu verkkaups auk fjölmarga dóma Hæstaréttar um skyldu vinnuveitanda til að greiða laun samkvæmt ráðningarsamningi.

Stefnandi byggir á því að á þingfestingardegi stefnu hafi fjárhæð launakröfu hans frá 1. desember 2012 til 1. júní 2013 numið 5.903.360 krónum, án vaxta.  Um nánari útlistun kröfunnar vísar stefnandi til skýrslu hagfræðings BSRB, Kristins Bjarnasonar, um fjártjón hans, sbr. dskj. nr. 50.

Málsástæður stefnanda um skaðabætur.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að fyrirsvarsmenn og starfsmenn stefnda hafi með ólögmætri og saknæmri hegðun sinni gert starfsumhverfi hans óásættanlegt allt frá árinu 2008. Fyrirsjáanleg og óhjákvæmileg afleiðing af þessum gjörðum starfsmanna stefnda hafi verið að ráðningarsamband aðila liði undir lok, með tilheyrandi tjóni fyrir stefnanda.

Stefnandi byggir á því að „með einelti á vinnustað, valdníðslu yfirmanna stefnanda, ólögmætri notkun á stjórnunarheimildum fyrirsvarsmanna stefnda, misvísandi upplýsingaveitu starfsmanna stefnda, meiðyrðum, rógburði og ólögmætum stjórnvaldsákvörðunum stefnda hafi honum í raun verið bolað frá störfum án þess að hann nyti réttar síns samkvæmt ráðningar- og kjarasamningum.

Stefnandi byggir á því að stefnda hafi borið að halda samning aðila samkvæmt meginreglu samningaréttar, pacta sunt servanta, en kjarasamningar séu samningar um lágmarkskjör, sbr. 24. gr. laga nr. 94, 1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.  Hafi stefnda skilyrðislaust borið að virða þennan rétt stefnanda.

Stefnandi byggir á því að hegðun tiltekinna starfsmanna stefnda, sbr. málsatvik hér að framan, hafi verið ámælisverð, meiðandi, óábyrg og til þess fallin að baka honum og öðrum starfsmönnum tjón.  Stefndi hafi ekki komið í veg fyrir að yfirmenn brytu gegn undirmönnum ítrekað yfir margra ára tímabil og þannig vanrækt skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 46, 1980 og reglugerð 1000, 2004 um að bjóða upp á öruggt vinnuumhverfi og mannsæmandi starfsskilyrði.

Stefnandi byggir á því að ákvarðanir sem teknar hafi verið af æðstu yfirmönnum stefnda um réttindi og skyldur stefnanda á árunum 2011-2013, sbr. málsatvik hér að framan, hafi verið ólögmætar, ómálefnalegar og ógildar samkvæmt lögum.  Starfsmenn sem stefndi beri húsbóndaábyrgð á hafi þannig af ásetningi, til vara gáleysi, valdið stefnanda tjóni með því að gera honum óbærilegt að gegna starfi sínu og flæmt hann frá störfum án þess að gæta á nokkurn hátt að réttindum hans.  Hann eigi því rétt á skaða- og miskabótum eftir almennu sakarreglunni og meginreglum skaðabótaréttar. Framferði yfirmanna stefnanda gagnvart honum, og sérstaklega athafnir slökkviliðsstjórans Þorbjörns Guðrúnarsonar, hafi verið til þess fallið að vega að starfsheiðri hans og gera honum ómögulegt að sinna starfi sínu áfram.  Ítrekaðar kvartanir starfsmanna, lélegur starfsandi og jafnvel fjölmiðlaumfjöllun hafi gert það alveg skýrt að allar forsendur hafi verið fyrir hendi til þess að fyrirsvarsmenn stefnda gerðu sér ljóst að Þorbjörn Guðrúnarson gæti ekki valdið stöðu slökkviliðsstjóra.  Engu að síður hafi ekki verið gripið inn í til þess að rétta hlut undirmanna hans sem orðið hafi fórnarlömb óásættanlegrar hegðunar hans og skorts á stjórnunarhæfileikum.  Þorbjörn Guðrúnarson slökkviliðsstjóri hafi gerst sekur um einelti samkvæmt áðurrakinni eineltisskýrslu Sveinu Berghildar Jónsdóttur sálfræðings.  Hafi eineltið staði yfir frá árinu 2008 og þar til stefnanda var bolað út af vinnustað sínum í desember 2011.  Sé um að ræða ólögmæta meingerð sem hafi verið framin af ásetningi.  Vanræksla annarra yfirmanna og fyrirsvarsmanna stefnda við að koma í veg fyrir eineltið, veita stefnanda stuðning, stöðva eineltið eða rétta hlut hans sé brot á lögum nr. 46, 1980 og reglugerð nr. 1000, 2004 með stoð í þeim lögum.  Stefnandi byggir á því að nefndir aðilar hafi haft vitneskju um atvik máls, en þar um vísar hann m.a. til tölvupóst- og bréfaskipta við bæjarstjóra þann 26. október 2011 og annarra yfirmanna stefnda í lok nóvember 2009, sbr. dskj. nr. 17 og 57-62.  Í því viðfangi byggir stefnandi jafnframt á því að stefndi hafi neitað að upplýsa um hvort farið hafi fram lögleg rannsókn og þá jafnframt hvort valdheimildum æðstu yfirmanna hjá stefnda hafi verið beitt til að stöðva brot Þorbjörns og tryggja öryggi annarra starfsmanna á vinnustað.  Fréttir í fjölmiðlum um brottför Þorbjörns frá slökkviliðinu breyti engu um ábyrgð stjórnenda stefnda, enda verði ekki séð að þar hafi verið leyst úr hlutum með lögmætri íhlutun yfirmanna stefnda.

Stefnandi byggir á því að æðstu starfsmenn stefnda hafi ekki einungis borið ábyrgð á tjóni hans vegna vanrækslu á skyldum sínum, heldur hafi þeir stuðlað að tjóninu með því að taka ítrekað rangar, ógildar og ómálefnalegar ákvarðanir um réttindi hans og skyldur.  Með því hafi þeir brotið á andmælarétti hans auk þess sem rannsóknarregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotin. Þá hafi stefndi ekki virt meðalhófsreglu, hvorki við val á aðferð né beitingu hennar.  Lögmætisreglan hafi enn fremur verið brotin í mörgum tilvikum.  Stefnandi byggir jafnframt á því að yfirmenn hjá stefnda hafi lagt til grundvallar mikilvægra ákvarðana um réttindi og skyldur hans rangar forsendur sem þeir hafi gefið sér án þess að kanna hug hans nánar.  Meðal ákvarðana sem hér falli undir megi nefna opinbera tilkynningu til starfsfélaga stefnanda um að hann þætti hafa gerst sekur um einelti án þess að til væru gögn um það sem honum var heimilt að sjá; þá ákvörðun að gefa stefnanda frest til að ákveða hvort hann samþykkti að fara út í starfslokaviðræður en ella yrði hann rekinn eða lækkaður í tign og mögulega áminntur; einhliða ákvarðanir bæjarlögmanns um fresti til handa stefnda; einhliða rof samningaviðræðna af hálfu stefnda og svo sú ákvörðun yfirmanns stefnda að „líta svo á“ að stefnandi starfaði ekki lengur hjá stefnda.  Þessi síðasta ákvörðun hafi leitt til þess að hafnað hafi verið vinnuframlagi stefnanda, og hafi hún ef til vill verið sú örlagaríkasta.  Byggir stefnandi á því að hún hafi með öllu verið ólögmæt, en þar um vísar hann til umfjöllunar hér að framan, en um skaðabótaskyldu stefnda vísar hann einnig til almennu sakarreglunnar.

Þá er það málsástæða stefnanda að yfirmenn hjá stefnda kunni að hafa brotið gegn 234., 235. eða 236. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa uppi og bera út ásakanir um að hann hafi beitt Þorbjörn Guðrúnarson einelti á vinnustað. Og þar sem slíkar staðhæfingar hafi ekki verið studdar gögnum, sem stefnandi hafi fengið aðgang að, og aldrei hafi að auki verið hafið stjórnsýslumál á grundvelli þeirra ásakana með löglegum hætti geti slíkar fullyrðingar ekki talist annað en rógburður og persónuárásir.  Séu þær ekki refsiverðar séu þær allt að einu ólögmætar meingerðir starfsmanna stefnda gagnvart stefnanda og skapi stefnda því bótaskyldu samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993.

Stefnandi byggir á því að hafi einhver yfirmanna stefnda lagt trúnað á ásakanir þáverandi slökkviliðsstjóra hafi þeim borið að láta rannsaka málið samkvæmt stjórnsýslulögum.  Það hafi stefndi aldrei gert, heldur hafi hann kosið að búa til nýja málsmeðferð með valdaframsali til einkaaðila.  Með því hafi stefnandi engan aðgang fengið að gögnum í málinu um sig og því ekki fengið tækifæri til að neyta andmælaréttar.  Staðhæfir stefnandi að heimild stjórnvalds til valdframsals í hendur einkaaðila sé háð því að með því sé ekki skert réttindi borgarans.  Bresti þannig skilyrði til framsals með þessum hætti.  Áskilnaður einkaaðila um trúnað haggi ekki lagaskyldum stjórnvalda, þ.m.t. upplýsingaskyldu til aðila máls, aðgangi hans að gögnum og andmælarétti.  Af þeim sökum hafi stefnandi skorað á stefnda að upplýsa um hvaða gögn hafi verið að ræða, hvernig þeirra var aflað og með stoð í hvaða lögum.  Liggi ekki fyrir fullnægjandi skýringar á athæfi starfsmanna stefnda hvað varðar leynilega gagnaöflun um stefnanda hljóti slíkt að að vera ólögmæt meingerð gagnvart stefnanda, sbr. 228. gr. almennra hegningarlaga, 14. gr. stjórnsýslulaga og b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga.

Að ofangreindu sögðu byggir stefnandi á því að málsmeðferð yfirmanna hjá stefnda í þessu máli hafi í flestu því sem varðað hafi réttindi hans og skyldur verið til þess fallin að valda honum tjóni og miska.  Og þeir yfirmenn sem ekki hafi auðsýnt saknæma óvild eða ófaglega nálgun hafi ekki beitt eftirlits- og valdheimildum sínum til að tryggja öryggi og góðan umbúnað á vinnustað, sbr. lög nr. 46, 1980, þrátt fyrir að hafa haft ríkar ástæður til þess.  Sé þar um að ræða gáleysi, sem í mörgum tilvikum verði að teljast vítavert.

Stefnandi byggir á því að tjón hans vegna lýstra atvika í máli þessu, sem stefndi beri ábyrgð á, felist í tekjutapi og miska.  Honum hafi verið gert æ erfiðara fyrir að gegna starfi sínu á árunum 2008-2011.  Eftir áralanga þrautagöngu innan vinnustaðar síns hafi afleiðingin af ólögmætum aðgerðum og aðgerðaleysi yfirmanna hjá stefnda orðið sú að hann hafi neyðst til þess að fara í launalaust leyfi þann 1. desember 2011.  Og þegar hann hafi komið aftur til starfa úr leyfinu hafi honum verið meinað að inna af hendi vinnuskyldu sína af starfsmönnum stefnda.  Vegna þess hafi stefnandi orðið af því starfi sem hann hafi gegnt undanfarinn áratug.  Allt hafi þetta haft mikil áhrif á tekjur hans á þeim tíma sem um ræðir, möguleika hans til tekjuöflunar í framtíðinni, starfsheiður hans og ánægju í starfi.  Stefnandi bendir á að hann búi á Akureyri og sé þar ekkert starf sem sé sambærilegt starfi aðstoðarslökkviliðsstjóra nema hjá stefnda.  Stefnandi hafi því ekki möguleika á því að finna sér starf við sitt hæfi, en verði að sætta sig við að starfa á svipuðum vettvangi, en í starfi þar sem menntun, reynsla og sérþekking hans nýtist verr, hann sé með minni ábyrgð og á verri kjörum.  Tjón hans sé bein afleiðing af brotahegðun starfsmanna stefnda og ólögmætum stjórnvaldsákvörðunum hans.  Samkvæmt almennri sakarreglu beri að bæta þetta tjón stefnanda og beri stefndi skýlaust húsbóndaábyrgð á meingerðum Þorbjörns Guðrúnarsonar og annarra yfirmanna; vanmætti stefnda við að ná tökum á eineltinu, sbr. reglugerð 1000, 2004, og þeim ólögmætu ákvörðunum sem teknar hafi verið af æðstu yfirmönnum stefnda.

Nánari röksemdir stefnanda um stofn skaðabótakröfu vegna fjártjóns.

Stefnandi vísar til þess að bótakrafa hans taki til tapaðra tekna þann tíma sem hann var í launalausu leyfi auk þeirrar kjaraskerðingar sem felist í því að verða af launum samkvæmt ráðningarsamningi við stefnda frá 1. desember 2012 til loka starfsævi hans.  Stefnandi byggir á því að á því ári sem hann hafi starfað hjá Isavia ohf. í launalausu leyfi hafi kjaraskerðing hans numið samtals 3.072.190 kr., en þar um vísar hann til áðurnefndrar greinargerðar hagfræðings BSRB, sbr. dskj. nr. 50, um mismun á kjörum hjá Isavia ohf. og Slökkviliði Akureyrar milli 1. desember 2011 og 1. desember 2012.  Þá sé í kröfugerðinni gert ráð fyrir orlofi og mótframlagi stefnda í lífeyrissjóð.  Um rétt til orlofs ofan á laun vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 37, 1980 um orlof, en um mótframlag í lífeyrissjóð vísar hann til laga nr. 129, 1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Stefnandi byggir á því að aðgerðir starfsmanna stefnda hafi haft þær afleiðingar að hann geti ekki starfað lengur á þeim starfsvettvangi sem hann hafi kosið sér.  Hann áréttar að engin staða sambærileg þeirri sem hann gegndi hjá stefnda sé fyrir hendi nálægt heimili hans.  Aðeins séu fjögur slökkvilið á Íslandi atvinnuslökkvilið og önnur en SA séu mjög fjarri heimili stefnanda.  Eitt sé á höfuðborgarsvæðinu, eitt á Austfjörðum og eitt á Suðurnesjum.  Því séu aðeins þrjár stöður á Íslandi sambærilegar við þá sem honum hafi verið bolað úr hjá stefnda og allar séu þær óaðgengilegar honum.  Og jafnvel þótt stefnandi væri tilbúinn og hefði tök á að flytjast búferlum með alla fjölskyldu sína hafi athæfi starfsmanna stefnda dregið mikið úr möguleikum hans til að starfa sem aðstoðarslökkviliðsstjóri/varaslökkviliðsstjóri annars staðar á Íslandi.  Stafi það af því að ósannar ásakanir og aðrar aðgerðir starfsmanna stefnda hafi frá 2008 haft í för með sér neikvætt umtal um hann, vegið að starfsheiðri hans og takmarkað starfsmenntun.  Hafi því stefnanda verið valdið varanlegu tjóni á möguleikum til starfsframa innan sinnar starfsgreinar og þannig hafi hann orðið fyrir varanlegri skerðingu á kjörum sem standi út starfsævi hans.  Byggir stefnandi á því að þetta megi rekja beint til ólögmætra meingerða starfsmanna stefnda. Vísar hann um þetta til dóms Hæstaréttar í máli nr. 258/2011.  Vegna þess gerir stefnandi kröfu um skaðabætur sem nemur mismun á þeim tekjum er hann hafi haft hjá stefnda frá því að uppsagnarfresti lýkur til loka starfsævi og þeirra tekna sem hann muni hafa hjá Isavia ohf. á sama tíma.  Vísar stefnandi um þessa útreikninga til fyrrnefndra útreikninga hagfræðings BSRB, en tjón hans samkvæmt þessum liði nemi 24.014.621 kr. frá 1. mars 2013, en þá hefði ráðningarsambandi hans við stefnda lokið ef honum hefði borist lögfull uppsögn þann 26. nóvember 2012.  Þá miðar stefnandi við að frá 1. mars 2013 hafi hann átt 219 mánuði eftir af starfsævi sinni hjá stefnda og að mismunur á tekjum hans hjá stefnda og Isavia ohf. hafi numið 109.656 kr. samkvæmt fyrrgreindum útreikningi hagfræðings BSRB á dskj. nr. 50.  Sé fallist á kröfur hans um vangoldin laun og laun á uppsagnarfresti hefjist fyrrgreind tekjuskerðing hans ekki fyrr en frá og með 1. júlí 2014, en þá sé um að ræða 16 færri mánuði fram að lokum starfsævinnar, eða samtals 203 mánuði. Skerðingin á tekjuöflunarmöguleikum hans til frambúðar næmi þannig samtals 22.260.128 kr.

Í stefnu sundurliðar stefnandi kröfur sínar nánar þannig, en um frekari rökstuðning vísar hann enn fremur til fyrrnefnds útreiknings hagfræðings BSRB, sbr. dskj. nr. 50:

Aðalkrafa stefnanda:

  1. Vangoldin laun til 1. júní 2013                                                      kr.   5.903.360
    1. 1. desember 2012                                                                             kr.      858.313
    2. 1. janúar 2013                                                                                  kr.      817.453
    3. 1. febrúar 2013                                                                 kr.      817.453
    4. 1. mars 2013                                                                                     kr.      852.535
    5. 1. apríl 2013                                                                                     kr.      852.535
    6. 1. maí 2013                                                                                        kr.      852.535
    7. 1. júní 2013                                                                                       kr.      852,536
  2. Skaðabætur                                                                                                       kr. 27.086.811
    1. Kjaramismunur frá 1. des 2011 til 1. des 2012          kr.   3.072.190
    2. Varanleg kjaraskerðing frá 1. mars 2013                   kr. 24.014.621

                                                               i.      (Ef starfslok teljast frá 1. júlí 2014                              (kr. 22.260.128)

  1. Miskabætur                                                                                                       kr.   4.000.000.

Stefnandi gerir kröfu um að dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 reiknist frá eindaga launakröfu hans, hvort sem miðað sé við vangoldin laun áður en uppsögn hafði löglega borist honum eða laun á uppsagnarfresti eftir það, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

Varakrafa stefnanda.

Stefnandi byggir á því, að verði fallist á að áðurlýst framkoma stefnda við hann í nóvember og desember 2012 teljist lögfull uppsögn á ráðningarsamningi þá geri hann kröfu um að fá sömu kjör við starfslok og þeir starfsmenn Slökkviliðs Akureyrar, sem létu af störfum í tengslum við endurskipulag hjá Slökkviliði Akureyrar þann 1. desember 2011, sbr. dskj. 51.  Þar um vísar stefnandi til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaganna.  Hann byggir á því að um sambærilegar aðstæður sé að ræða og því eigi um starfslokin að gilda hið sama, líkt og hann hafi gert í starfslokaviðræðum sínum við stefnda.

Að öðru leyti vísar stefnandi um rökstuðning vegna varakröfunnar til rökstuðnings aðalkröfu hér að framan, og þá sérstaklega að því er varðar umfjöllun um laun í uppsagnarfresti og um skaðabóta- og miskakröfur.  Því sé grundvöllur bótaskyldu stefnda óraskaður af því hvenær ráðningarsamband aðila sé talið á enda og á hið sama við að mestu leyti um fjárhæðir bótakrafnanna, utan þess að útreikningur skerðingar á framtíðartekjumöguleikum hefjist frá þeim degi sem launagreiðslur á uppsagnarfresti taka enda.  Heildarkrafan sé því 7.971.15 kr.  Þessu til stuðnings vísar stefnandi til dskj. nr. 53, þ.e. draga að samningi milli stefnanda og stefnda, sem sé í samræmi við varakröfu hans.  Stefnandi bendir á að efni samningsins sé hið sama og þeirra starfslokasamninga sem þeir starfsmenn SA, sem létu af störfum þann 1. desember 2011, fengu, að breyttri aðeins ástæðu starfsloka og dagsetningum.  Og í ljósi ráðningarsamnings hans og stefnda, gildandi kjarasamnings og fyrrnefnds útreiknings hagfræðings, sé fjárhæð kröfunnar eftirfarandi:  Frá 1. desember 2012 til 28. febrúar 2013 eru föst mánaðarlaun 378.904 kr., 2 yfirvinnutímar í viku 27.368 kr. og 75% af föstu vaktaálagi 114.884 kr.; samtals 521.156 kr. á mánuði.  Frá 1. mars 2013 til 30. nóvember 2013 eru föst mánaðarlaun 409.813 kr., 2 yfirvinnutímar í viku 28.600 kr. og 75% af föstu vaktaálagi 124.259 kr.; samtals 562.672 kr. á mánuði.  Þá sé desember- og orlofsuppbót samtals 114.200 kr.  Og sérstök greiðsla þriggja mánaðarlauna við lok samnings sé samtals 1.229.439 kr.

Þá krefst stefnandi dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá eindaga launakröfu hvers mánaðar fyrir sig, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna, og á eftirstöðvar frá þingfestingardegi, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna.

Þrautavarakrafa stefnanda

Þrautavarakrafa stefnanda er reist á ráðningar- og kjarasamningi aðila, sbr. dskj. nr. 3-4.  Stefnandi byggir á því að ekki hafi verið fyrir hendi nein skilyrði til að víkja honum fyrirvaralaust úr starfi, sbr. grein 11.1.6.1 í fyrrnefndum kjarasamningi.  Enn fremur byggir stefnandi á því að stefndi hafi ekki staðið rétt að uppsögn hans samkvæmt sama ákvæði kjarasamnings.  Af þessum sökum krefst stefnandi launa í uppsagnarfresti, en til vara bóta, sem séu ígildi launa á sama tíma.

Stefnandi byggir á því að hann hafi ekki sagt upp störfum hjá stefnda, hvorki í orði né í verki.  Þá er það málsástæða stefnanda að ekki hafi verið fyrir hendi skilyrði til riftunar ráðningarsamnings.  Engin forsenda sé þannig til annars en að hann fái greidd laun í uppsagnarfresti samkvæmt kjarasamningi aðila.

Að öðru leyti vísar stefnandi til rökstuðnings fyrir öðrum kröfum hér að framan, eins og við eigi, sérstaklega varðandi umfjöllun í aðalkröfu um laun í uppsagnarfresti.  Enn fremur vísar stefnandi til fyrri rökstuðnings um skaðabótaskyldu stefnda og um tjón hans.

Varðandi útreikning fjárhæðar launa á uppsagnarfresti vísar stefnandi til sundurliðunar aðalkröfu, en fyrir þrjá mánuði sé um að ræða 2.607.906 kr. miðað við 869.302 kr. meðallaun á mánuði.  Loks krefst stefnandi dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá eindaga launakröfu hvers mánaðar.

Krafa stefnanda um miskabætur.

Stefnandi reisir miskabótakröfu sína á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993.  Um rökstuðning vísar hann til umfjöllunar hér að framan og áréttar að grundvöllur skaðabótaábyrgðar stefnda felist í framkomu fyrirsvarsmanna og starfsmanna hans allt frá árinu 2008 til dagsins í dag.  Um sé að ræða ítrekuð tilvik þar sem nefndir aðilar hafi gerst sekir um ólögmæta meingerð gegn friði, æru og persónu hans.  Stefnandi byggir á því að hann hafi þannig verið lagður í einelti af yfirmanni sínum, eins og lýst sé í fyrrgreindri sálfræðiskýrslu Sveinu Berglindar Jónsdóttur.  Þau tilvik eineltis sem sé lýst í skýrslunni teljist án nokkurs vafa ólögmætar meingerðir gagnvart honum.  Eineltið hafi valdið því að hann hafi liðið miklar sálrænar kvalir í starfi sínu og að lokum ekki séð annan kost en að fara í launalaust leyfi þann 1. desember 2011.  Þá hafi hann ekki fengið að snúa aftur til fyrri starfa sinna.

Stefnandi byggir einnig á því að uppsögn úr starfi þann 29. október 2009 og framkoma yfirmanna hans, sérstaklega Þorbjörns Guðrúnarsonar, í því ferli, sem að sögn hafi verið ætlað að vera fagleg endurskipulagning á Slökkvistöðinni á Akureyri (SA), hafi verið ákveðinn hápunktur á því einelti sem hann hafi þurft að þola.  Sá mánuður sem hafi farið í hönd hafi verið stefnanda þungbær, en nefndu ferli hafi lokið þannig að það starf sem hann gegndi hafi verið endurskilgreint, en með því hafi mjög verið dregið úr ábyrgðar- og stjórnunarhlutverki hans.  Stefnandi byggir á því að að baki þessum gjörningi hafi legið persónuleg óvild Þorbjörns Guðrúnarsonar og að aðrir yfirmenn stefnda hafi veitt Þorbirni stuðning sinn við að koma fram ákvörðun byggðri á ómálefnalegum sjónarmiðum, sem hafi verið til þess fallin að vega að friði, starfsheiðri, æru og persónu hans.  Þá hafi fyrrnefnd uppsögn, þann 29. október 2009, haft þau varanlegu áhrif á störf hans að starf aðstoðarslökkviliðsstjóra hafi þar á eftir ekki verið sambærilegt því starfi sem hann hafði varið stórum hluta ævi sinnar í að undirbúa sig fyrir.  Hið nýja starf, sem stefnandi hafi neyðst til að sætta sig við, hafi aðeins að nafninu til verið starf næstæðsta stjórnanda Slökkviliðs Akureyrar.  Þannig hafi krefjandi og mikilvæg verkefni, sem hann hafi haft mikinn metnað fyrir, verið fjarlægð af hans starfssviði og hann af þeim sökum upplifað bæði niðurlægingu og vonbrigði þar sem ekki hafi verið sóst eftir sérþekkingu hans og reynslu.

Stefnandi rökstyður kröfu um miskabætur úr hendi stefnda samkvæmt framansögðu með því að hann hafi mátt þola fjölmörg brot og kerfisbundið einelti af hálfu Þorbjörns Guðrúnarsonar á árabilinu 2008-2009, en einnig vanrækslu af hálfu yfirmanna hjá stefnda við að koma í veg fyrir slíkt ástand og ólögmætar ákvarðanir Þorbjörns og annarra yfirmanna hans tengdar því að rúa hann starfsheiðri sínum og svipta það starf, sem hann gegndi, mikilvægum hluta af ábyrgðar- og stjórnunarhlutverki þess í því ferli sem lauk þann 29. nóvember 2009.  Um lagarök vísar stefnandi til áðurgreinds lagaákvæðis skaðabótalaga, en hann krefst bóta fyrir þennan þátt málsins að fjárhæð 1.000.000 kr.

Stefnandi byggir og á því að honum hafi verið sagt upp stöðu sinni og þurft að sætta sig við nýja stöðu hjá Slökkviliði Akureyrar í lægri launaflokki, sem fylgt hafi minni völd og ábyrgð.  Einelti fyrrnefnds slökkviliðsstjóra, Þorbjörns, hafi haldið áfram og hafi stefnandi verið í sífellt veikari stöðu til að verja sig gegn óvild yfirmannsins, þar sem kerfisbundið hafi verið fært frá honum verkefni, ábyrgð og aðgangur að upplýsingum á vinnustað.  Þar um vísar stefnandi til áðurrakinnar eineltis- og sálfræðiskýrslu sálfræðings.  Hafi þetta ástand að lokum leitt til þess að hann hafi ekki talið sig eiga annarra kosta völ en að fara í launalaust leyfi, þegar til stóð að segja upp tíu starfsmönnum SA ef ekki fengjust nægilega margir til þess að fara í slíkt leyfi.  Hafi stefnandi verið orðinn langþreyttur á stanslausu áreiti og óvild á vinnustað, þar sem kvalari hans hafi farið með völdin og enginn yfirmaður hjá stefnda verið tilbúinn að grípa inn í.  Að þessu leyti vísar stefnandi m.a. til fyrrgreindra bréfaskipta frá 26. nóvember 2011.  Byggir stefnandi á því að um hafi verið að ræða ólögmæta meingerð gegn friði og persónu hans, og að stefndi hafi haft skýra lagaskyldu til að veita öruggt starfsumhverfi, sbr. lög nr. 46, 1980, og koma þannig í veg fyrir einelti, sbr. reglugerð nr. 1000, 2004.  Grandsemi stefnda um framferði Þorbjörns geri það að verkum að um sé að ræða ásetning eða a.m.k. stórfellt gáleysi samkvæmt ákvæðum 26. gr. skaðabótalaga.

Stefnandi byggir jafnframt á því að eftir að hann hafði farið í hið launalausa leyfi í lok árs 2011 hefði framkoma nefnds slökkviliðsstjóra verið með þeim hætti að það hafi skapað hjá stefnanda og öðrum þá trú að um varanleg starfslok hans væri að ræða.  Um rökstuðning vísar hann sem fyrr til fyrrnefndrar sálfræðiskýrslu.  Byggir stefnandi á því að um hafi verið að ræða áframhald á þeirri árás á frið, persónu og æru hans sem einelti Þorbjörns var.  Þá hafi með þessu athæfi verið bundinn endir á störf stefnanda sem aðstoðarslökkviliðsstjóra SA, en um hafi verið að ræða starf sem haft hafi gildi fyrir stefnanda umfram fjárhagslegar tekjur af því.  Stefnandi hafi þannig haft mikinn metnað fyrir því að starfa við stjórnun slökkviliðs og sjúkraflutninga, hann hafi haft mikla reynslu og hæfni á því sviði og átt glæstan starfsferil.  Endalok starfa hans hjá stefnda hafi því ekki aðeins valdið honum fjárhagslegu tjóni, heldur hafi verið um að ræða mikið áfall fyrir sjálfsmynd hans og framtíðarhorfur, en eins og áður hafi verið lýst sé ekki um auðugan garð að gresja um sambærilegt starf hjá öðrum en stefnda.  Vegna þess krefjist stefnandi miskabóta samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993 fyrir að honum hafi verið bolað frá starfi sem hann mat mikils, fyrir framkomu Þorbjörns á tímabili frá 30. nóvember 2009 til 1. desember 2011, og fyrir stórfellt gáleysi yfirmanna og fyrirsvarsmanna stefnda að grípa ekki inn í áður en hann neyddist til að flýja vinnustað sinn og fyrir það hvernig staðið var að brottför hans af vinnustaðnum, en hann hafi átt þar starfsferil við góðan orðstír og mikinn árangur, með hléum allt frá árinu 1988 og stöðugt frá árinu 1995.

Stefnandi reisir miskabótakröfu sína einnig á því að hann hafi verið borinn alvarlegum sökum af yfirmönnum hjá stefnda án þess að hann fengi tækifæri til að svara fyrir þær ásakanir á löglegan hátt, sbr. dskj. nr. 24-26, 40 og 45.

Þá byggir stefnandi á því að hann hafi verið fórnarlamb ólögmæts þrýstings af hendi yfirmanna sinna þegar honum var gert að samþykkja að fara í starfslokaviðræður eða sæta ella agaviðurlögum fyrir brot sem yfirmenn hans ákváðu að hann hefði framið án þess að fram færi lögleg málsmeðferð.  Að þessu leyti vísar stefnandi til fyrrnefnds dóms Hæstaréttar í máli nr. 258/2011, þar sem ólögmæt uppsögn og brot gegn andmælarétti hafi verið talin ólögmæt meingerð í skilningi b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga.  Stefnandi bendir á að í tilviki stefnda hafi hann ekki einungis verið ásakaður um mjög alvarleg brot í einrúmi þar sem honum hafi ekki verið gefið tækifæri til að svara fyrir þau.  Niðurstaða um að einelti hans gagnvart Þorbirni Guðrúnarsyni og að það teljist sannað hafi að auki verið kynnt öllum samstarfsfélögum hans á þann hátt sem auðsjáanlega leiði til þess að vegið hafi verið að starfsheiðri og æru stefnanda.  Hafi þetta verið gert án þess að farið hafi fram rannsókn stefnda og án þess að stefnandi hefði fengið að beita andmælarétti sínum, eingöngu hafi verið um að ræða fullyrðingar einkaaðila sem stefndi hafði framselt vald sitt til án þess að gæta að ákvæðum laga.  Engum starfsmanni SA hafi getað dulist að þær niðurstöður sem kynntar voru fyrir þeim úr eineltiskönnun Lífs og sálar sálfræðistofu ehf. hafi að mati yfirmanna hjá stefnda átt við aðra en stefnanda og ákveðna samstarfsmenn hans, þ.e. þá sem voru í hærri stöðu en þeir ónafngreindu „undirmenn“ sem vísað hafi verið til í bréfi fyrirsvarsmanns stefnda, sbr. dskj. nr. 24.  Þá hafi Þorbjörn Guðrúnarson verið fljótur að staðfesta það við starfsmenn SA.

Stefnandi byggir miskabótakröfu sína einnig á því að starfslok hans hjá stefnda, eftir svo langan og farsælan feril sem slökkviliðsmaður og æðsti stjórnandi innan Slökkviliðs Akureyrar, hafi verið með þeim hætti, líkt og stefndi hafi hagað þeim, að það hafi skert starfsheiður hans verulega.  Hann eigi þannig erfiðara með að fá vinnu þegar hann þurfi að upplýsa um slík endalok starfa sinna hjá stefnda, en allt leiði þetta til þess að starfsheiður hans sé ekki sá sami og hann var áður en starfsmenn stefnda boluðu honum frá störfum.

Þá byggir stefnandi á því að framganga starfsmanna stefnda í starfslokaviðræðum sé sjálfstætt brot gegn friði hans, æru og persónu.  Staðhæfir stefnandi að bæjarlögmaður stefnda hafi engan áhuga sýnt á því að semja af heilindum og hafi viðræðuferlið verið dregið þar til fundin hafi verið átylla til að losna við stefnanda án þess að taka tillit til réttinda hans.  Stefnandi byggir á því að stefndi hafi neytt hann í starfslokaviðræður þegar yfirmenn stefnda hafi talið sig hafa undir höndum skotfæri gegn honum í formi ásakana um einelti, en þegar stefnandi hafi kvartað yfir einelti Þorbjörns Guðrúnarsonar hafi komið hik á yfirmenn stefnda, og hafi bæjarlögmaðurinn ákveðið einhliða að fresta viðræðunum, án þess að tilkynna um það, á meðan beðið var niðurstöðu úr þeirri könnun.  Um þetta vísar stefnandi sérstaklega til tölvupóstsamskipta aðila í júní og júlí og til svarbréfs starfsmanns stefnda frá 21. september 2012.  Stefnandi byggir á því að eitt það helsta sem borið hafi á milli tilboða stefnda um starfslokasamning og þess sem stéttarfélag stefnanda fyrir hans hönd var tilbúið að sætta sig við hafi verið ákvæði um að stefndi samþykkti að leita ekki réttar síns vegna brota Þorbjörns Guðrúnarsonar.  Og eftir að ekki hafði tekist að fá stefnanda til að ganga að slíkum samningi, á tímabilinu 18. til 31. október 2012, megi ætla að yfirmenn hjá stefnda hafi leitað annarra leiða til að losna við hann, þar sem ekki hafi verið hægt að ógna honum frekar með tilhæfulausum ásökunum.  Vísar stefnandi til og áréttar, að þann 26. nóvember 2012 hafi starfsmaður stefnda tilkynnt honum að „litið sé svo á“ að hann væri ekki lengur starfsmaður stefnda.  Byggir stefnandi á því að með þessu hafi verið rekið smiðshöggið á langt ferli niðurlægingar, valdníðslu og eineltis, sem bundið hafi endi á glæstan feril hans sem slökkviliðsmanns hjá Slökkviliði Akureyrar.  Hafi nefnd ákvörðun stefnda og verið byggð á gögnum sem starfsmenn hans hafi neitað að framvísa eða upplýsa um hvernig þeir hefðu komist yfir.  Slíkur endir á starfsferli stefnanda hafi með öllu verið ótækur, ólöglegur og ómálefnalegur.  Byggir stefnandi á því að í greindu athæfi starfsmanna stefnda hafi falist ólögmæt meingerð gegn friði, æru og persónu hans, auk þess sem starfsheiður hans hafi beðið mikinn hnekki.

Stefnandi áréttar að ofanrakið framferði fyrirsvarsmanna og annarra starfsmanna stefnda hafi verið saknæmt og ólögmætt.  Hafi það haft í för með sér óþægindi og andlega vanlíðan fyrir stefnanda sem hann eigi eftir reglum skaðabótalaga að fá bætt.  Vegna athæfisins hafi stefnandi þjáðst af langþreytu, þunglyndi, þrálátum áhyggjum, óróa, svefnleysi og öðrum sálrænum vandamálum.  Og í heild og að virtu áralöngu einelti og niðurlægingu stefnanda, sem stefndi hafi borið ábyrgð á, og með hliðsjón af hinum langa starfsaldri og ábyrgðarstöðu sem stefnandi hafi haft hjá stefnda, og því að hann hafi haft flekklausan starfsferil, sé krafa stefnanda sú að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 4.000.000 kr. í miskabætur.

Stefnandi vísar til þess, ofangreindu til stuðnings, að þegar stefndi hafi fyrirskipað rannsókn einkaaðila á því hvort hann hefði beitt yfirmann sinn einelti hefði hafist stjórnsýslumál stefnda gagnvart honum og geti valdframsal stefnda til Lífs og sálar sálfræðistofu ehf. ekki haft þau áhrif að þau fríi stefnda undan ábyrgð sinni eða þeirri skyldu að fara að stjórnsýslulögum.  Vísar stefnandi þar um til 15. gr. stjórnsýslulaga og byggir á því að undantekningar í 16. og 17. gr. sömu laga eigi við um málið, áður en tekin var ákvörðun í málinu.  Væri ella andmælaréttur 13. gr. laganna merkingarlaus.  Vegna þessa hafi stefndi ranglega meinað honum um aðgang að skjölum málsins.

Að því er varðar útreikninga um vangoldin laun, laun á uppsagnarfresti og fjártjón vegna kjaraskerðingar vísar stefnandi til ráðningarsamnings aðila frá 12. desember 2003, en þá hafi hann verið ráðinn aðstoðarslökkviliðsstjóri hjá stefnda.  Þá vísar hann til gildandi kjarasamnings Sambands íslenskra sveitarfélaga og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna frá 1. maí 2011 til 30. september 2014 og útborgaðra launa sinna hjá Isavia ohf., auk áðurnefnds útreiknings hagfræðings, sbr. dskj nr. 50. Um ýmis launakjör, yfirvinnu, álag, frítökurétt, bakvaktafrí, helgidagafrí, álagsgjöld, desemberuppbót og orlofsuppbót vísar hann enn fremur til nefnds ráðningarsamnings, auk 1. og 2. kafla kjarasamnings aðila, sbr. lög nr. 94, 1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.  Þá vísar hann til laga nr. 55, 1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og laga nr. 27, 1930 um greiðslu verkkaups.  Kröfu sína um orlof ofan á launagreiðslur reisir stefnandi á 4. kafla kjarasamnings, sbr. ákvæði laga nr. 37. 1980 um orlof.  Að auki vísar stefnandi til sveitarstjórnarlaga nr. 45, 1998, sérstaklega 1. mgr. 57. gr., og laga nr. 94, 1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sérstaklega 24. gr.  Þá vísar hann til laga nr. 46, 1980 um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum og reglugerðar um einelti nr. 1000, 2004 með stoð í þeim lögum; stjórnsýslulaga nr. 37, 1993; almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sérstaklega XXV. kafla; skaðabótalaga nr. 50, 1993 og almennra reglna skaðabóta- og kröfuréttar.  Um málskostnað vísar stefnandi til 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda.

1. Stefndi gerir í greinargerð sinni ekki athugasemdir við áðurrakta málavaxtalýsingu stefnanda í stefnu, að því er varðar ráðningu hans hjá Slökkviliði Akureyrar og um framgang hans í starfi.  Þá tekur stefndi undir með stefnanda að því leyti, að þegar fækka þurfti starfsmönnum slökkviliðsins um tíu í lok árs 2011, vegna uppsagnar Isavia ohf. á þjónustusamningi vegna Akureyrarflugvallar þá um vorið, hafi þáverandi slökkviliðsstjóri, Þorbjörn Guðrúnarson, boðið starfsmönnum að taka launalaust leyfi til að milda áhrifin og að stefnandi hafi verið einn af þeim sem þegið hafi boðið.  Stefndi bendir aftur á móti á, m.a. við flutning, að stefnandi hefði tekið þá ákvörðun í tvígang, í október 2011 og einnig réttu ári síðar, að fastráða sig hjá Isavia ohf. til sambærilegra starfa og hann hafði áður gegnt hjá Slökkviliðinu á Akureyri.

Stefndi andmælir að öðru leyti málavaxtalýsingu og málatilbúnaði stefnanda.  Hann vísar til þess að í stefnu sé um að ræða gildishlaðna frásögn, auk ásakana og aðdróttana í garð yfirmanna hjá stefnda, en einnig sögusagnir og tilvísanir til ummæla þriðja aðila.  Allt séu þetta ósannaðar staðhæfingar, sem séu án tengsla við sakarefni málsins.  Þá sé málatilbúnaður stefnanda, en einnig kröfugerð hans, afar óskýr og ruglingslegur, en að auki skorti þar á samhengi við lagareglur.  Leiði þetta til þess að dómkröfur stefnanda séu ekki dómhæfar.  Málatilbúnaðurinn auðveldi heldur ekki stefnda að taka til varna um hverja einstaka kröfu.

Um atvik máls vísar stefndi sérstaklega til bréfs bæjarlögmanns Akureyrar, dagsetts 25. maí 2013, sem sent hafi verið til lögmanns stefnanda í tilefni af kröfu lögmanns hans 7. sama mánaðar.

2. Stefndi andmælir öllum málsástæðum, kröfum og lagarökum stefnanda í máli þessu.  Hann byggir á því að stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum sínum og þ. á m. því að hann hafi orðið fyrir fjártjóni.  Stefndi byggir á því að stefnandi verði að sanna málsástæður sínar og þar á meðal að stefndi hafi brotið lög „í ítrekuðum tilraunum sínum til að koma honum frá störfum“, og að hann beri húsbóndaábyrgð „á ólögmætum meingerðum starfsmanna stefnda“.

3. Stefndi vísar til þess að aðalkrafa stefnanda, að því er varðar starfslok og vangoldin laun, sé byggð á því að hann hafi verið starfsmaður Slökkviliðs Akureyrar þann 1. desember 2012, en verið meinað að gegna vinnuskyldu sinni.  Stefndi byggir á því að þessi staðhæfing sé röng og vísar hann þar um til áðurrakinna málavaxta.

Stefndi bendir á að samkvæmt tölvupósti stefnanda frá 15. ágúst 2011 hafi hann þegið boð þáverandi slökkviliðsstjóra Slökkviliðs Akureyrar um að taka launalaust leyfi.  Eitt af skilyrðum fyrir töku leyfisins hafi verið að stefnandi tilkynnti þremur mánuðum áður en leyfinu lyki hvort hann hygðist koma til starfa hjá slökkviliðinu á ný eða ekki.  Í tilviki stefnanda hafi honum borið að tilkynna ákvörðun sína fyrir 1. september 2012.  Það hafi stefnandi ekki gert og andmælir stefndi öllum sjónarmiðum hans um annað.

Stefndi bendir á að er atvik gerðust haustið 2012 hafi stefnandi verið fastráðinn starfsmaður Isavia ohf.  Því hafi það staðið honum nær að tilkynna um fyrirætlanir sínar ef hann ætlaði að snúa aftur til fyrri starfa hjá stefnda.  Stefnanda hafi verið í lófa lagið að gera slíkt og þá eftir atvikum með fyrirvara um ætlaða óvissu um atvik máls.  Þetta hafi stefnandi ekki gert.  Þá hafi stefnandi ekki látið stefnda vita um að hann hefði ráðið sig til starfa hjá Isavia ohf.  Byggir stefndi á því að með þessu athæfi hafi stefnandi blekkt hann til að taka þátt í viðræðum og þreifingum um starfslokagreiðslu.  Um þetta atriði vísar hann m.a. til dóms Hæstaréttar frá 18. febrúar 2010, í máli nr. 220/2009.

Stefndi byggir á og áréttar að stefnandi hafi ritað undir fyrirvaralausan fastráðningarsamning sem flugvallarvörður við Isavia ohf. þann 12. október 2011.  Að auki hafi stefnandi ritað undi annan fyrirvaralausan fastráðningarsamning við félagið, en þá sem vaktstjóri, þann 29. október 2012.  Bendir stefndi á að í síðarnefnda ráðningarsamningnum hafi starfsaldur stefnanda verið talinn frá 1. nóvember 2011, en að þar hafi að auki verið kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila samkvæmt kjarasamningi Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Isavia ohf.  Þar sé m.a. kveðið á um gagnkvæman uppsagnarfrest að loknum reynslutíma í þrjá mánuði.  Stefndi bendir á að í nefndum ráðningarsamningum sé ekki að finna neinn fyrirvara um að stefnandi geti fyrirvaralaust sagt starfi sínu lausu hjá Isavia ohf. til að hefja störf hjá Slökkviliði Akureyrar.  Stefndi andmælir röksemdum stefnanda um að merkingar í nefndum ráðningarsamningum, þar sem hakað hafi verið við reitinn „fastráðning“, sé merkingarlaus.  Það sé ósannað og ótrúverðugt.  Stefndi byggir á því að upplýsingar um fastráðningu stefnanda hjá Isavia ohf. hafi varðað Slökkvilið Akureyrar mjög miklu, m.a. vegna skipunar á vaktir og fleiri atriða og geti því slík atriði ekki verið trúnaðarupplýsingar.  Þrátt fyrir það hafi stefnandi haldið þessum atriðum leyndum fyrir stefnda.

Stefndi bendir á að í Mannauðsstefnu Akureyrarbæjar, sem samþykkt hafi verið af bæjarstjórn þann 17. mars 2009, segi að starfsmönnum sé skylt að stofna ekki til eigin atvinnurekstrar eða umboðsstarfsemi, og að þeir megi ekki gegna starfi í þjónustu annarra eða ganga í stjórn atvinnufyrirtækis nema með leyfi yfirmanns.  Stefndi bendir á að samnings- og lagaákvæði sem þessi séu algeng, en t.a.m. sé kveðið á um sambærilegar skyldur í 20. gr. laga nr. 70, 1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.  Stefndi byggir á því að ekki fari saman að stefnandi geti verið fastráðinn í tvær stöður samtímis.

Stefni byggir á að þótt aðilar hafi reynt að komast að samkomulagi um gerð starfslokasamnings hafi stefnda engin skylda borið til að gera slíkan samning.  Það hafi þó verið reynt að ósk stefnanda í því skyni að ljúka langvinnum og leiðum deilumálum með samkomulagi og af tillitssemi við hann.  Stefndi bendir á að um það leyti sem starfsmenn hans hafi komist að því að stefnandi hafði fastráðið sig til sams konar starfa annars staðar hafi orðið ljóst að starfslokaviðræðurnar voru ekki að skila árangri.  Vegna þess hafi stefndi ekki talið rétt og raunar óþarft að gera umræddan samning við stefnanda, og þá ekki síst þegar fyrrnefndar upplýsingar voru staðfestar af vinnuveitanda stefnanda, Isavia ohf.  Bendir stefndi á að sama hefði gilt varðandi samningaviðræður við þrjá aðra starfsmenn Slökkviliðs Akureyrar þar sem reynt hafi verið til þrautar að ná samkomulagi um starfslok.

Stefndi byggir á því að með fastráðningu stefnanda hjá Isavia ohf., áður en hinu launalausa leyfi lauk, hafi hann í raun slitið ráðningarsamningi sínum við Slökkvilið Akureyrar.  Augljóst sé að stefnandi geti ekki sinnt tveimur störfum í einu, enda sé gert ráð fyrir fullu starfi hjá báðum vinnuveitendum.  Þá hafi uppsagnarfrestur stefnanda hjá Isavia ohf. verið þrír mánuðir.

Stefndi byggir á því að hann hafi ekki tekið neina stjórnvaldsákvörðun í máli stefnanda.  Aftur á móti hafi stefnandi sjálfur tekið ákvörðun um fastráðningu hjá öðrum vinnuveitanda. Stefndi hafnar því að hann hafi brotið óskráðar málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar.  Þvert á móti hafi hann reynt að semja um starfslok stefnanda að hans ósk allt þangað til það var ljóst að hann hafði fastráðið sig til annarra starfa í október 2012, en því hafi hann haldið leyndu fyrir stefnda.  Og þegar það hafi verið upplýst hafi stefndi gert stefnanda grein fyrir því að hann ætti ekki neina kröfu á hendur honum vegna ráðningarsambands þeirra.

Stefndi áréttar að í ljósi ofangreindra málsatvika hafi honum verið rétt að líta svo á að stefnandi hefði að eigin ósk látið af störfum hjá Slökkviliði Akureyrar og af þeim sökum hefði það ekki verið hann sem bundið hafi enda á ráðningu stefnanda.  Þvert á móti hafi stefnandi gert það sjálfur með gjörðum sínum, og rofið ráðningarsamband aðila.  Vegna þessa sé stefnda réttmætt að hafna öllum kröfum stefnanda um ógreidd laun.

Stefndi hafnar skaðabótakröfu stefnanda með vísan til sömu raka og hér að framan hafa verið rakin.  Byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á neitt fjárhagslegt tjón sem stefndi geti borið ábyrgð á.  Þannig hafi stefnandi farið sjálfviljugur í hið launalausa leyfi, líkt og margir aðrir starfsmenn slökkviliðsins, sem ekki hafi átt á hættu að missa störf sín vegna niðurskurðar.  Slíkt úrræði hafi þeim öllum staðið jafnt til boða.  Stefndi byggir á því að stefnandi beri sjálfur ábyrgð á þeirri ákvörðun sinni að fastráða sig hjá Isavia ohf. í launalausu leyfi sínu og þar með á þeirri launaskerðingu sem sú ákvörðun kunni að hafa fylgt en sé í raun ósönnuð.  Stefndi bendir á, að eins og fram hafi komið í áðurgreindu bréfi slökkviliðsstjóra til starfsmanna slökkviliðsins, hafi þeir starfsmenn sem fóru í hið launalausa leyfi haft val um hvort þeir snéru aftur til vinnu hjá Slökkviliði Akureyrar að leyfum loknum.  Stefnandi hafi ekki kosið að gera það.  Stefndi andmælir því að stefnanda hafi verið settir einhverjir afarkostir í þeim efnum og andmælir hann jafnframt öllum fullyrðingum um slíkt sem ósönnuðum.  Stefndi vísar til þess að röksemdir stefnanda um ætlaða andstöðu gegn honum á vinnustað séu í raun eingöngu byggðar á hans eigin hugmyndum.  Stefndi byggir einnig á því að hann geti ekki borið lagalega ábyrgð á því að einhverjar aðgerðir starfsmanna hans hafi verið ólögmætar, en staðhæfir jafnframt að stefnandi hafi ekki sannað að slíkt hafi átt sér stað.

Að því er varðar miskabótakröfu bendir stefndi á að í stefnu sé því haldið fram að yfirmenn hjá stefnda kunni að hafa brotið gegn 234., 235. eða 236. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa uppi eða bera út ásakanir um að hann hafi beitt Þorbjörn Guðrúnarson, fyrrverandi slökkviliðsstjóra, einelti á vinnustað.  Stefndi bendir á að í stefnu sé því einnig haldið fram að þar sem aldrei hafi verið hafið stjórnsýslumál á grundvelli eineltisásakana gegn honum geti niðurstaða sálfræðiskýrslu sem unnin hafi verið af utanaðkomandi aðila um málið ekki verið annað en rógburður og persónuárásir.  Stefndi vísar þessum staðhæfingum og málatilbúnaði stefnanda alfarið á bug og bendir á að hann sem atvinnurekandi hafi gripið til aðgerða í samræmi við 7. gr. reglugerðar um aðgerðir gegn einelti á vinnustað nr. 1000, 2004 þegar tilkynning um einelti á vinnustað hafi borist honum.  Hafi fyrirtækið Líf og sál sálfræðistofa ehf. verið fengið til að meta stöðuna hjá Slökkviliði Akureyrar.  Fyrirtækið sé viðurkennt af Vinnueftirlitinu sem þjónustuaðili og sérfræðingur í vinnuvernd.  Og með því að ráða sérfræðinga til starfa til að fara yfir málið hafi stefndi alls ekki framselt vald til einkaaðila, enda sé gerð sérfræðiskýrslu augljóslega ekki stjórnvaldsákvörðun.  Stefndi byggir á því að hann hafi því farið að lögum og leitað eftir utanaðkomandi sérfræðiráðgjöf í samræmi við fyrirmæli í fyrrnefndri reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað.

Stefndi byggir á því að umrædd skýrsla Lífs og sálar sálfræðistofu ehf. hafi ekki verið tilefni til þess að hefja meðferð máls sem kynni að verða lokið með ákvörðun um rétt eða skyldur stefnanda í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37, 1993.  Nefnd skýrsla hafi því ekki tengst neinu stjórnsýslumáli þar sem taka hafi átt, eða tekin hafi verið, stjórnsýsluákvörðun.  Þar af leiðandi eigi stefnandi ekki rétt á frekari aðgangi að gögnum málsins en hann þegar hafi fengið í hendur samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

Stefndi áréttar að viðbrögð hans við tilkynningu um einelti á vinnustað hafi að öllu leyti verið í samræmi við lög og reglur.  Hann hafi þannig gripið til aðgerða þegar tilefni hafi verið til, sem ekki hafi verið fyrr en kvörtun um einelti barst honum.

Þá byggir stefndi á því að það eitt að stefnandi hafi verið ósáttur við skipulagsbreytingar og framkvæmd þeirra þýði ekki að um meingerð sé að ræða af hálfu þáverandi slökkviliðsstjóra Slökkviliðs Akureyrar eða annarra yfirmanna.  Þá áréttar stefndi að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að starfsmenn hans hafi tekið einhverjar ólögmætar ákvarðanir sem hafi varðað hann sérstaklega.

Stefndi bendir á að í málinu liggi fyrir tvær skýrslur um einelti sem tengist stefnanda.  Í annarri skýrslunni sé komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi lagt fyrrnefndan slökkviliðsstjóra í einelti, en í hinni skýrslunni sé komist að þeirri niðurstöðu að slökkviliðsstjórinn hafi lagt stefnanda í einelti.  Stefndi byggir á því að skýrslurnar séu alveg jafngildar, enda séu þær unnar af sérfræðingum, sálfræðingum.  Þá sé aðdragandinn að gerð þeirra í raun hinn sami, þ.e. að starfsmaður Slökkviliðs Akureyrar hafi kvartað undan einelti.  Og að stefnandi hafi ekki fengið aðgang að öllum gögnum er varði fyrri skýrsluna dragi ekki úr trúverðugleika hennar, enda sé hún unnin af viðurkenndum utanaðkomandi sérfræðingum á sviði vinnuverndar.  Það hljóti og að teljast verulega ótrúverðugt af hálfu stefnanda að upphefja skýrslu sem unnin hafi verið vegna hans eigin kvörtunar en úthrópa skýrslu sem unnin hafi verið vegna kvörtunar annarra starfsmanna sem „rógburð og persónuárásir“.

Stefndi byggir á því að af framlögðum gögnum megi ljóst vera að á vinnustað Slökkviliðs Akureyrar hafi ríkt mikið ósætti.  Af niðurstöðum framangreindra skýrslna megi og ráða að milli stefnanda og fyrrnefnds slökkviliðsstjóra hafi verið miklir samskiptaörðugleikar og megi álykta að á því hafi þeir báðir borið einhverja sök.  Um hafi verið að ræða mjög viðkvæmar aðstæður sem erfitt sé fyrir yfirmenn hjá sveitarfélagi að taka á.  Stefndi byggir á því að ljóst sé af málsatvikum öllum að ýmsar tilraunir hafi verið gerðar af hálfu stefnda til að bæta úr, allt fram að því að stefnandi hætti störfum hjá stefnda og fékk sér vinnu annars staðar.  Af framangreindu sé þó ljóst að ekki hafi verið um ólögmæta meingerð að ræða í garð stefnanda, þannig að ákvæði 26. gr. skaðabótalaga um miskabætur geti komið til álita.

Stefndi byggir á og áréttar að í ljósi ofangreinds sé útilokað að hann geti borið fébótaábyrgð á meintum brotum nafngreindra aðila og þá ekki á háttsemi ótilgreindra starfsmanna sinna og yfirmanna þar sem þau meintu brot hafi fallið langt utan þeirra tilvika sem húsbóndaábyrgð vinnuveitenda nái yfir samkvæmt íslenskum lögum.

Stefndi byggir á því að fjárkröfur stefnanda í málinu séu allar vanreifaðar.  Mótmælir hann kröfunum af þeim sökum og krefst sýknu.

Stefndi byggir á því að enginn lagalegur grundvöllur sé fyrir neinni af fjárkröfum stefnanda, og vísar hann til málsástæðna sinna þar um hér að framan.  Stefndi mótmælir enn fremur útreikningi stefnanda, bæði forsendum og niðurstöðum, sem ósönnuðum.  Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi ekki lagt fram matsgerð dómkvadds matsmanns um meint fjártjón sitt og því séu kröfur hans einungis byggðar á lauslegri og lítt rökstuddri skýrslu Kristins Bjarnasonar, sem sönnunargagni í málinu.  Stefndi byggir á því að skýrsla Kristins sé ekki lögfullt sönnunargagn, enda hafi hennar verið aflað einhliða og því án þess að stefnda hafi verið gefinn kostur á að gæta réttar síns.  Þá sé skýrslan eingöngu byggð á upplýsingum og forsendum stefnanda og virðist að auki hafa verið unnin á vegum BSRB, stéttarfélagi stefnanda, sem ekki geti talist óvilhallur álitsgjafi í málinu.  Þessu til stuðnings og sem gagnrök vísar stefndi til framlagðra athugasemda Höllu Margrétar Tryggvadóttur, starfsmannastjóra Akureyrarbæjar.  Í dæmaskyni bendir stefndi á að stefnandi geri í kröfugerð sinni ráð fyrir því að hann muni gegna starfi aðstoðarslökkviliðsstjóra hjá Slökkviliði Akureyrar til loka starfsævi sinnar.  Forsendan sé algjörlega órökstudd þar sem uppsagnarfrestur stefnanda séu þrír mánuðir og því sé niðurstaðan í raun marklaus.

Stefndi bendir á að samkvæmt meginreglum einkamálaréttarfars beri aðilar sönnunarbyrði fyrir málsástæðum sínum og kröfum byggðum á þeim.  Byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki axlað þá ábyrgð í þessu máli.

Að því er varðar einstaka liði fjárkröfunnar bendir stefndi á að stefnandi hafi ekki verið á launum hjá Slökkviliði Akureyrar eftir 30. nóvember 2011 og að ráðningarsamningur aðila hafi verið á enda runnin ekki síðar en 30. nóvember 2012.  Stefndi bendir einnig á að stefnandi virðist ekki draga laun sín hjá Isavia ohf. frá kröfu sinni.

Stefndi byggir á því að skaðabótakrafa stefnanda að fjárhæð 27.086.811 krónur sé hvorki reifuð né rökstudd í stefnu.  Þá sé ekki að finna neinar forsendur eða vísan til sönnunargagna um kröfuna og beri því að sýkna hann af henni.  Stefndi bendir á að stefnandi starfi nú á sama starfsvettvangi og hann hafði áður gert.  Vegna þessa alls sé öllum staðhæfingum stefnanda andmælt varðandi fjárkröfur hans í málinu.

Að því er varðar varakröfu stefnanda bendir stefndi á að enginn þeirra þriggja starfsmanna sem látið hafi af störfum vegna endurskipulagningar hjá Slökkviliði Akureyrar þann 1. desember 2011 hafi fengið neinar greiðslur hjá stefnda umfram laun sín á starfstímanum, hvorki stefnandi ná aðrir.  Allir starfsmennirnir hafi notið sömu kjara.  Í því sambandi bendir stefndi á og áréttar að gagnkvæmur uppsagnarfrestur stefnanda hjá slökkviliðinu samkvæmt kjarasamningi séu þrír mánuðir, en það sé sami frestur og í kjarasamningi stefnanda við Isavia ohf.

Að því er varðar þrautavarakröfu stefnanda áréttar stefndi að stefnanda hafi ekki verið sagt upp starfi sínu.  Þvert á móti hafi stefnandi slitið ráðningarsambandi sínu við stefnda með því að ráða sig til svipaðra starfa á næsta bæ, þ.e. hjá Isavia ohf.  Þessa mikilvægu ákvörðun hafi hann ekki tilkynnt stefnda, en ráðstöfunin hafi gert stefnanda ókleift að gegna áfram föstu starfi hjá stefnda.

Að því er varðar kröfu um miskabætur byggir stefndi á því að vísan stefnanda til 26. gr. skaðabótalaga til stuðnings kröfunni sé haldlaus með öllu, enda sé í lagagreininni kveðið á um bótaskyldu þess sem ábyrgð beri á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns.  Byggir stefndi á því að af orðunum „sá“ og „annars manns“ í lagaákvæðinu sé ljóst að það eigi við um persónulega bótaskyldu eins manns gagnvart öðrum.  Vísar stefndi til þess að ákvæðinu hafi einkum verið beitt þegar maður valdi öðrum manni líkamstjóni af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.  Séu algengustu dæmin um slíkt tilkomin vegna líkamsárása, kynferðisbrota og umferðarslysa, vegna ölvunar og ofsaaksturs og að dæmdar miskabætur séu þá oftast á bilinu 200.000 til 800.000 krónur.  Fjárhæð miskabótakröfu stefnanda sé því langt úr hófi, enda geti atvik máls þessa ekki gefið tilefni til neinna ályktana um slík brot.  Þá geti lögaðili, í þessu tilviki stefndi, Akureyrarbær, ekki borið húsbóndaábyrgð á slíkum brotum starfsmanna sinna samkvæmt nefndri lagagrein skaðabótalaga, þótt sönnuð væri.

Stefndi bendir á að í stefnu séu höfð ýmis meiðandi ummæli og ásakanir um refsivert athæfi á hendur starfsmönnum Slökkviliðs Akureyrar sem og starfsmönnum Akureyrarkaupstaðar, stefnda.  Byggir stefndi á því að með þessum ummælum séu settar fram ýmsar alvarlegar og meiðandi aðdróttanir sem engu máli skipti fyrir efnislega úrlausn málsins.  Ummælin séu óþörf, enda ekki einu sinni leitast við að sanna þær meiðandi staðhæfingar sem þar komi fram.  Þau ummæli sem stefndi telji hvað alvarlegust séu eftirfarandi:

             A.  „Með einelti á vinnustað, valdníðslu yfirmanna stefnanda, ólögmætri notkun á stjórnunarheimildum fyrirsvarsmanna stefnda, misvísandi upplýsingaveitu starfsmanna stefnda, meiðyrðum, rógburði, og ólögmætum stjórnvaldsákvörðunum stefnda, hefur stefnanda í raun verið bolað frá störfum án þess að njóta réttar síns samkvæmt ráðningar- og kjarasamningum“.  Bls. 19. í stefnu.

             B.  „Þá er það málsástæða stefnanda að yfirmenn hjá stefnda kunni að hafa brotið gegn 234. gr., 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa uppi og bera út ásakanir um að hann hafi beitt Þorbjörn Guðrúnarson einelti á vinnustað“. Bls. 20 í stefnu.

             C.  „Liggi ekki fyrir fullnægjandi skýringar á athæfi starfsmanna stefnda hvað varðar leynilega gagnaöflun um stefnanda, hlýtur slíkt að vera ólögmæt meingerð gagnvart stefnanda, sbr. 228. gr. almennra hegningarlaga“.  Bls. 21 í stefnu.

Stefndi krefst þess að vegna greindra ummæla verði stefnanda og þáverandi umboðsmanni hans, Guðna Á. Haraldssyni hæstaréttarlögmanni, gerð réttarfarssekt samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.  Byggir stefndi á því að lýst ummæli eigi ekki rétt á sér og séu ærumeiðandi fyrir þá sem eigi í hlut og til þess fallin að valda þeim álitshnekki.  Þau séu sett fram í stefnu undirritaðri af fyrrnefndum umboðsmanni stefnanda, án tilvitnunarmerkja eða nokkurs fyrirvara.  Stefndi staðhæfir að nefndur umboðsmaður stefnanda hafi ekki fallist á að draga þessi mörgu og tilhæfulausu ummæli til baka skriflega og biðjast jafnframt afsökunar á þeim.  Um lagarök fyrir þessari kröfu vísar stefndi til e-liðar 1. mgr. 135. gr. laga nr. 91, 1991 og 2. mgr. sömu lagagreinar.

Stefndi andmælir vaxtakröfu stefnanda, sem og dráttarvaxtakröfu, en einnig upphafstíma þeirra.

Stefndi krefst að lokum málskostnaðar úr hendi stefnanda og vísar þar um til 1. mgr. 130. gr. eða 2. mgr. sömu greinar laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.

IV.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi, Ingimar Eydal, aðilaskýrslu.  Vitnaskýrslur gáfu starfsmenn stefnda, þau Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður, Halla Margrét Tryggvadóttir starfsmannastjóri og Helgi Már Pálsson, bæjartæknifræðingur og yfirmaður Slökkvistöðvarinnar á Akureyri.  Einnig gáfu vitnaskýrslur Anton Berg Carrasco, slökkviliðsmaður og trúnaðarmaður, Valdimar Leó Friðriksson, framkvæmdastjóri Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Magnús Viðar Arnarson, fyrrverandi slökkviliðsmaður, Jón Guðmundur Knudsen, starfsmaður sjúkra- og bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri og fyrrverandi slökkviliðsmaður, Hjördís Þórhallsdóttir, umdæmisstjóri Isavia ohf. á Norðurlandi, sálfræðingarnir Sveina Berglind Jónsdóttir, Einar Gylfi Jónsson, Þórkatla Aðalsteinsdóttir og Marteinn Steinar Jónsson og loks Kristinn Bjarnason, hagfræðingur BSRB.

Í máli þessu er ágreiningur með aðilum, stefnanda, Ingimar Eydal, og stefnda, Akureyrarkaupstað, um starfslok stefnanda hjá Slökkviliði Akureyrar í byrjun desember 2012.  Í málatilbúnaði sínum vísa aðilar m.a. til aðdraganda starfslokanna og einstakra atvika á starfsstöð slökkviliðsins á árabilinu 2008 til 2012.  Bendir stefndi m.a. á að stefnanda hafi verið veitt eins árs launalaust leyfi með tilteknum skilyrðum, sem ekki hafi verið staðið við af hans hálfu og að hann hafi að auki fastráðið sig til starfa hjá Isavia ohf.  Aðila greinir einnig á um tildrög þess að þeir reyndu að ná saman um starfslokasamning stefnanda seinni hluta ársins 2012.  Að auki greinir aðila á um atvik sem varða kvörtun stefnanda um einelti á vinnustað á árunum 2008-2011, en fyrir liggur að sú kvörtun kom fyrst fram eftir að yfirmaður stefnanda hafði lagt fram eigin kvörtun um sams konar athæfi í byrjun árs 2012.

Við meðferð málsins hafa aðilar lagt fram fjölda gagna.  Eru þar á meðal kjarasamningur Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) og Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS), Mannauðsstefna Akureyrarbæjar, ráðningasamningur stefnanda við Slökkvilið Akureyrar frá 12. desember 2003, ráðningarsamningar stefnanda við Isavia ohf. frá 12. október 2011 og 29. október 2012.  Einnig liggja fyrir í málinu launaseðlar stefnanda hjá nefndum vinnuveitendum svo og fjöldi bréfa og rafbréfa, sem aðilar sendu sín á milli á fyrrnefndu árabili.  Þá hafa aðilar lagt fram áðurraktar skýrslur sálfræðinga um einelti á vinnustað.  Er annars vegar um að ræða skýrslu vegna kvörtunar fyrrverandi slökkviliðsstjóra Slökkviliðsins á Akureyri, Þorbjörns Guðrúnarsonar, frá janúar 2012.  Skýrslan var gerð af sérfræðingum Lífs og Sálar sálfræðistofu ehf., og er hún dagsett í mars 2012.  Hins vegar er um að ræða skýrslu vegna kvörtunar stefnanda þann 23. maí 2012, sem gerð var af Sveinu Berglindi Jónsdóttur sálfræðingi, en skýrsla hennar er dagsett 20. ágúst sama ár.  Skýrslur þessar voru gerðar fyrir forgöngu stefnda, en þær byggjast m.a. á viðtölum sérfræðinganna við stefnanda og Þorbjörn Guðrúnarson, en einnig á viðræðum þeirra við yfirmenn hjá stefnda, starfsmenn Slökkviliðs Akureyrar og aðra þá aðila sem vel þekktu til aðstæðna.

Stefnandi gerir í máli þessu kröfur um vangoldin laun og laun í uppsagnarfresti.  Einnig krefst hann þess að stefndi greiði skaðabætur, þ.e. tjón hans vegna tekjutaps og miska vegna starfsloka, en jafnframt gerir hann kröfu um miskabætur vegna eineltis á vinnustað, eins og nánar er lýst í stefnu.  Stefndi hafnar öllum kröfum stefnanda.

Eins og áður er rakið starfaði stefnandi á Slökkvistöðinni á Akureyri um árabil, sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður.  Í fyrstu, á árunum 1988 til 1993, var hann í afleysingum, en eftir það var hann fastráðinn starfsmaður.  Stefnandi var ráðinn í stöðu aðstoðarslökkviliðsstjóra árið 2003 og starfaði sem slíkur þar til hann fékk eins árs launalaust leyfi þann 1. desember 2011.  Hefur stefnandi frá því að hann fékk leyfið starfað sem slökkviliðsmaður hjá Isavia ohf. á Akureyrarflugvelli.

Um starfskjör og önnur réttindi stefnanda hjá stefnda fór m.a. eftir ráðningarsamningi málsaðila frá 12. desember 2003 og kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna frá 15. júlí 2011.  Samkvæmt gögnum gildir hið sama um starfskjör stefnanda hjá Isavia ohf., sbr.  kjarasamning félagsins og nefnds Landssambands frá 1. maí 2012.

Af framlögðum gögnum verður ráðið að ósætti og samstarfsörðugleikar hafi um árabil ríkt á meðal starfsmanna Slökkvistöðvarinnar á Akureyri.  Liggur fyrir að ekki varð þar breyting á eftir að stefndi ákvað að ráða einn af starfsmönnum slökkviliðsins, Þorbjörn Guðrúnarson, sem slökkviliðsstjóra í lok árs 2006.  Verður ráðið að tiltölulega fljótlega eftir ráðningu Þorbjörns hafi orðið slík leiðindi á meðal starfsmannanna, ekki síst á meðal varðstjóra, að Helgi Már Pálsson byggingartæknifræðingur, sem hafði með málefni slökkviliðsins að gera hjá stefnda, virðist hafa séð sig knúinn til að sitja reglulega fundi með varðstjórunum og yfirmönnum slökkviliðsins, nánar tiltekið á árunum 2008 og 2009.  Og þegar þessar ráðstafanir reyndust ekki fullnægjandi afréð stefndi að kalla til, í byrjun árs 2011, Martein Steinar Jónsson vinnustaðasálfræðing.  Samkvæmt skýrslu sálfræðingsins fyrir dómi beindist starf hans einkum að lausnarmiðuðum verkefnum og fundum með starfsmönnum slökkviliðsins.  Í skýrslu sálfræðingsins kom einnig fram að í nafnlausri könnun starfsmanna slökkviliðsins, sem hann gerði í lok mars 2011, hafi störf áðurnefnds slökkviliðsstjóra verið gagnrýnd.  Um eiginlega eineltisathugun hafi hins vegar ekki verið að ræða, en að unnið hafi verið úr nefndri könnun í stjórnstöð stefnda, í Ráðhúsinu.

Fyrir liggur að vegna eineltiskvörtunar nefnds slökkviliðsstjóra og síðar sambærilegra kvartana stefnanda og fleiri undirmanna á Slökkvistöðinni, á árinu 2012, voru tilkvaddir á árinu 2012 fyrrnefndir sálfræðingar til að leggja mat á og gera skýrslur um álitaefnið.

Slökkvistöðin á Akureyri er rekin á ábyrgð stefnda, sbr. 10. gr. laga nr. 75, 2000 um brunavarnir.

Samkvæmt gögnum greip stefndi til skipulagsbreytinga á starfsemi slökkvistöðvarinnar haustið 2009, einkum vegna sparnaðaraðgerða í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008.  Var þetta gert að frumkvæði framkvæmdaráðs stefnda.  Á meðal þessara aðgerða var að stefnanda var sagt upp stöðu sinni sem aðstoðarslökkviliðsstjóra, með uppsagnarbréfi í lok september 2009.  Leiddi þetta m.a. til þess að stéttarfélag stefnanda kom að málinu og varð endirinn að lokum sá, í nóvember nefnt ár, að stefnanda var á ný boðin staðan, en með breyttri starfslýsingu.  Hann þáði það boð.

Í skjóli almenns stjórnunarréttar hefur stefndi lögmætan rétt til að taka ákvarðanir um rekstur slökkviliðs síns, að því tilskildu að farið sé eftir gildandi kjarasamningum og meginreglum stjórnsýsluréttar.  Eins og fyrr sagði voru nefndar skipulagsbreytingar gerðar að fyrirlagi yfirmanna hjá stefnda, en þáverandi slökkviliðsstjóra var falið að fylgja breytingunum eftir, þ. á m. með uppsögnum á ráðningarsamningum starfsmanna, vegna breyttra starfskjara, og þá í samræmi við ákvæði 11.1.4 í kjarasamningi.

Í skýrslu Sveinu Berglindar Jónsdóttur sálfræðings er það álit látið í ljós að ekki hafi að öllu leyti vel tekist til með skipulagsbreytingarnar, en að óánægja starfsmannanna hafi þó sérstaklega komið fram um atriði sem á eftir fylgdu og vörðuðu stjórnunarhætti þáverandi slökkviliðsstjóra.

Í málatilbúnaði stefnanda er því haldið fram að hann hafi sætt einelti af hálfu Þorbjörns Guðrúnarsonar slökkviliðsstjóra um árabil og að hann hafi af þeim sökum, en einnig vegna þrúgaðs andrúmslofts á vinnustaðnum og annarra ástæðna, afráðið að þiggja boð vinnuveitanda síns um að fara í eins árs launalaust leyfi frá 1. desember 2011 að telja.  Liggur fyrir að mörgum öðrum starfsmönnum slökkviliðsins stóð til boða að taka launalaust leyfi, í allt að átján mánuði, sökum þess að yfirmenn hjá stefnda sáu sig knúna til að segja upp tíu starfsmönnum í kjölfar þess að þá um vorið hafði Isavia ohf. sagt upp þjónustusamningi við Slökkvistöð Akureyrar um viðbúnaðarþjónustu á Akureyrarflugvelli.  Samkvæmt gögnum samþykkti stefnandi tiltekna skilmála vegna leyfisins, en þar á meðal var að hann myndi tilkynna yfirmanni sínum eigi síðar en 1. september 2012 hvort hann myndi koma aftur til starfa á slökkvistöðinni eða ekki.  Um forsendu þessa ákvæðis sagði í leyfisbréfinu: „Þetta er mikilvægt svo mögulegt sé að ganga frá starfslokum annars hvors aðilans“.

Óumdeilt er að stefnandi starfaði í hinu launalausa leyfi sínu hjá Isavia ohf.

Af gögnum verður ráðið að stefndi hafi brugðist skjótt við þegar formlegar eineltiskvartanir starfsmanna hans komu fram í ársbyrjun 2012 og þá um vorið, m.a. frá stefnanda og fyrrnefndum slökkviliðsstjóra.  Liggja fyrir í málinu ítarlegar skýrslur sálfræðinga um álitaefnið.  Og er yfirmenn hjá stefnda höfðu fengið í hendur fyrri eineltisskýrsluna, um ætlað einelti stefnanda og fleiri starfsmanna gagnvart slökkviliðsstjóranum Þorbirni Guðrúnarsyni, var stefnandi boðaður til nokkurra funda um málefnið, í apríl og maí 2012.  Að virtum þeim gögnum sem liggja fyrir um efni þessara funda svo og skýrslum hér fyrir dómi, er það niðurstaða dómsins að um hafi verið að ræða kynningarfundi um þá kosti sem gætu komið til álita eins og málum var komið.  Verður lagt til grundvallar að þessir kostir hafi verið þeir helstir, að aðilar gerðu með sér starfslokasamning ellegar að stefnandi yrði samkvæmt málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37, 1993, að undangengnum andmælarétti, eftir atvikum áminntur og/eða færður til í starfi, allt að því tilskildu að endanleg rannsókn leiddi í ljós að hann hefði gerst sekur um einelti gagnvart slökkviliðsstjóranum.  Er í þessu viðfangi til þess að líta að samkvæmt skýrslum yfirmanna hjá stefnda virðist það ekki hafa komið til álita, yrði það niðurstaða rannsóknar að stefnandi hefði gerst sekur um eineltið, að hann starfaði áfram við hlið þáverandi slökkviliðsstjóra.

Að ofangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að nefnd kynning yfirmannanna hjá stefnda á umsögnum þeirra sérfræðinga, sem hann hafði kallað til, en einnig upplýsingar þeirra um mögulega málsmeðferð, teljist ekki til stjórnvaldsákvörðunar í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37, 1993.  Þá eru viðbrögð stefnda, og þar á meðal að kalla til utanaðkomandi ráðgjafa, að áliti dómsins í samræmi við 7. gr. reglugerðar nr. 1000, 2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað.  Er málsástæðum stefnanda að þessu leyti því hafnað.

Fyrir liggur í málinu að stefnandi afréð, eftir að hafa ráðfært sig við framkvæmdastjóra stéttarfélags síns, að ganga til viðræðna við stefnda um starfslok sín hjá Slökkviliði Akureyrar.  Hófust þær viðræður seinni hluta júnímánaðar 2012 og skiptust aðilar eftir það ítrekað á samningsdrögum.  Samkvæmt áðurröktum gögnum var það ákvörðun yfirmanns hjá stefnda, bæjarlögmanns, seinni hluta ágústmánaðar, að hinkra við eða gera hlé á starfslokaviðræðunum þar til umsögn sérfræðings vegna eineltiskvörtunar stefnanda lægi fyrir.  Og er það gerðist, í lok septembermánaðar sama ár, sendi stefndi stefnanda ný drög að starfslokasamningi.  Af gögnum verður ráðið að aðilar hafi síðast verið í samskiptum um starfslokasamninginn í lok október 2012.

Eins og áður er fram komið starfaði stefnandi í hinu launalausa eins árs leyfi sínu frá slökkviliði stefnda hjá Isavia ohf. á Akureyrarflugvelli.  Er ekki ágreiningur um að stefnandi gerði stefnda ekki grein fyrir efni þeirra ráðningarsamninga sem hann gerði við félagið, og þar á meðal ekki um að þar var kveðið á um fastráðningu hans.  Hefur stefnandi borið því við að honum hafi yfirsést ákvæðið við gerð og undirritun samninganna.

Samkvæmt gögnum lýsti Helgi Már Pálsson, yfirmaður hjá stefnda og Slökkvistöðvarinnar á Akureyri, því yfir í tölvupósti til stefnanda, þann 16. nóvember 2012, að viðræður aðila um starfslokasamninginn væru á enda runnar, og áréttaði hann þá afstöðu á fundi þeirra 26. nóvember það ár.  Nefndur yfirmaður lýsti því enn fremur yfir í tölvupósti til stefnanda í lok nóvember 2012, að „litið væri svo á“ að stefnandi væri ekki lengur starfsmaður hjá Slökkviliðinu á Akureyri.  Liggur fyrir að forsendan fyrir þessari afstöðu yfirmannsins var að hann hafði í tölvupósti frá Hjördísi Þórhallsdóttur, yfirmanni hjá Isavia ohf., fengið upplýsingar um að í ráðningarsamningi stefnanda við félagið væri ákvæði um fastráðningu.  En eins og áður er rakið er á því byggt af hálfu stefnda að með undirritun sinni á samninga með lýstu ákvæði hafi stefnandi slitið ráðningarsambandi sínu við Slökkvistöðina á Akureyri.  Samkvæmt skýrslum fyrir dómi fór stefnandi fram á það við Helga Má, er vinnuframlagi hans var hafnað við komu hans á starfsstöð slökkvistöðvarinnar í byrjun desember 2012, að hann fengi rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun, sbr. ákvæði 11.1.6.1 í kjarasamningi aðila.  Óumdeilt er að stefndi varð ekki við því.

Fyrir dómi staðhæfði vitnið Hjördís Þórhallsdóttir, umdæmisstjóri Isavia ohf. á Norðurlandi, að ráðningarsamningur stefnanda við félagið hefði ekki staðið því í vegi að hann gæti sinnt vinnuskyldu sinni gagnvart stefnda.  Vísaði vitnið til þess að það hefði verið upplýst um samskipti málsaðila, stefnanda og stefnda, og þar á meðal um starfslokaviðræður þeirra, en einnig um lok þeirra.  Vitnið staðhæfði að ef til þess hefði komið að stefnandi hefði farið til fyrri starfa sinna hjá Slökkviliðinu á Akureyri hefði Isavia ohf. ráðið annan starfsmann í hans stað án eftirmála.

Samkvæmt framansögðu verður lagt til grundvallar að stefnanda hafi, þrátt fyrir ráðningarsamband sitt við Isavia ohf. og fyrrgreint ákvæði um fastráðningu í samningi þeirra, í reynd verið kleift að gegna vinnuskyldu sinni hjá stefnda.

Ágreiningslaust er að stefnandi lýsti því ítrekað yfir við yfirmann hjá stefnda, eftir að starfslokaviðræður aðila höfðu runnið út í sandinn seinni hluta nóvembermánaðar 2012, sbr. vætti Helga Más Pálssonar fyrir dómi, að ætlan hans væri að koma aftur til starfa á Slökkvistöðinni á Akureyri og að vilji hans stæði til þess að sinna þar vinnuskyldu sinni að afloknu hinu launalausa leyfi. Liggur fyrir að stefnandi stóð við orð sín og mætti til starfa á starfsstöð slökkviliðsins í byrjun desember 2012, en að stefndi hafnaði þá vinnuframlagi hans.

Í kafla 11, í fyrrnefndum kjarasamningi aðila, er m.a. kveðið á um uppsögn vinnuveitanda á ráðningarsamningi. Ákvæðið hljóðar svo: „Gagnkvæmur uppsagnarfrestur er þrír mánuðir. ... Óheimilt er að segja starfsmanni upp án málefnalegra ástæðna. Uppsögn skal vera skrifleg og miðast við mánaðarmót. Óski starfsmaður þess skal veita honum skriflegan rökstuðning.

Þá er í nefndum kafla kjarasamningsins kveðið á um áminningu til starfsmanns, en einnig um fyrirvaralausa brottvikningu úr starfi.  Um þetta segir nánar í ákvæðum 1.6.2 og 1.6.2:

Starfsmanni skal víkja úr starfi fyrirvaralaust verði hann uppvís að grófu broti í starfi enda valdi viðvera hans á vinnustað áframhaldandi skaða fyrir starfsemina, aðra starfsmenn eða viðskiptavini. Fulltrúa stéttarfélags starfsmanns skal veittur kostur á að kynna sér slík mál áður en ákvörðun er tekin.

Við þær aðstæður þegar frávikning úr starfi er til skoðunar þarf að gæta að andmælarétti starfsmanns áður en endanleg ákvörðun er tekin. Á meðan á slíkri málsmeðferð stendur er heimilt að afþakka vinnuframlag starfsmanns en starfsmaður heldur þó launum sínum.

Við þær aðstæður þegar frávikning úr starfi er til skoðunar þarf að gæta að andmælarétti starfsmanns áður en endanleg ákvörðun er tekin. Á meðan á slíkri málsmeðferð stendur er heimilt að afþakka vinnuframlag starfsmanns en starfsmaður heldur þó launum sínum.

Ef starfsmaður hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skal vinnuveitandi veita honum skriflega áminningu.

Vinnuveitandi skal gefa starfsmanni kost á að tjá sig um meintar ávirðingar áður en ákvörðun um áminningu er tekin. Starfsmaður á rétt á því að tjá sig um tilefni áminningar í viðurvist trúnaðarmanns. Vinnuveitandi skal kynna honum þann rétt.

Áminning skal vera skrifleg. Í áminningu skal tilgreina tilefni hennar og þá afleiðingu að bæti starfsmaður ekki ráð sitt verði honum sagt upp. Ber að veita starfsmanni tíma og tækifæri til þess að bæta ráð sitt áður en gripið er til uppsagnar.

Ekki er skylt að veita starfsmanni áminningu og kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún tekur gildi, ef tilefni uppsagnar er ekki rakið til starfsmannsins sjálfs, s.s. vegna hagræðingar í rekstri stofnunar eða fyrirtækis. Ekki er þó skylt að veita áminningu ef uppsögn má rekja til ástæðna sem raktar eru í 3.-5. mgr. gr. 11.1.6.1.

Vinnuveitandi skal upplýsa starfsmann um rétt hans til að leita aðstoðar trúnaðarmanns og/eða stéttarfélags í tengslum við meðferð mála samkvæmt þessari grein.

Eins og áður er rakið starfaði stefnandi í leyfi sínu hjá Isavia ohf. á Akureyrarflugvelli. Að virtum áðurröktum tölvupóstsamskiptum stefnanda og yfirmanna hjá stefnda, þ. á m. við starfsmannastjóra hans, en einnig í ljósi vættis áðurnefnds Helga Más Pálssonar fyrir dómi, er vafalaust að stefnda var fullkunnugt um starfa stefnanda hjá Isavia ohf.  Stefndi gerði engar athugasemdir við stefnanda vegna þessa og hefur því tilvísun hans, að áliti dómsins, til fyrrnefndar Mannauðsstefnu Akureyrarbæjar ekki þýðingu eins og málum og samskiptum var háttað á því tímabili sem hér um ræðir.

Þegar ofangreint er virt í heild verður fallist á með stefnanda að stefndi hafi við ákvörðun sína um starfslok stefnanda í byrjun desember 2012 ekki gætt að réttindum hans samkvæmt áðurröktu ákvæði í kjarasamningi.  Var þannig ekki gætt að andmælarétti stefnanda áður en ákvörðun var tekin um að hafna vinnuframlagi hans.  Að auki þykir stefndi í ljósi þess sem hér að framan var rakið heldur ekki hafa kannað málsatvik nægjanlega líkt og honum var skylt, sbr. ákvæði 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37, 1993.  Að áliti dómsins gat yfirsjón stefnanda um að senda ekki stefnda tilkynningu þremur mánuðum fyrir lok leyfisins, ekki veitt stefnda, eins og atvikum var háttað, tilefni til svo harkalegra úrræða sem raun varð á.  Virðast önnur og vægari úrræði af hálfu stefnda hafa verið nærtækari, en fyrir liggur að stefnanda hafði á löngum starfsferli hjá Slökkvistöðinni á Akureyri aldrei verið veitt áminning eða viðvörun.

Að ofangreindu virtu verður fallist á með stefnanda að stefndi hafi fyrirvaralaust rift ráðningarsamningi aðila með því að hafna vinnuframlagi hans er hann kom til starfa á starfsstöð slökkviliðs stefnda í byrjun desember 2012. Með þeirri háttsemi fór stefndi gegn ákvæðum kjarasamnings, en braut einnig gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37, 1993.  Með þessu bakaði stefndi sér skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda.

Í ljósi andmæla stefnda er við mat á fjárhæð bóta hafnað þeim röksemdum stefnanda um að bætur eigi að byggjast á útreikningi á ævitekjum eða álíka kröfugerð líkt og hann vísar til í stefnu.

Í ljósi dómafordæma Hæstaréttar Íslands, sbr. t.d. í málum nr. 175/2005, nr. 128/2010 og 528/2013, ber að ákvarða bætur til handa stefnanda að álitum.  Að því leyti ber m.a. að líta til þess að stefnandi var 46 ára er atvik gerðust, að hann hafði verið ráðinn ótímabundið hjá stefnda með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti, en mátti að óbreyttu gera ráð fyrir að fá að gegna starfi sínu sem sérhæfður starfsmaður áfram.  Að þessu virtu, en einnig með hliðsjón af áðurgreindum upplýsingum um launakjör stefnanda hjá stefnda og að hann hélt áfram starfi sínu hjá Isavia ohf., sbr. framlagða launaseðla, en einnig að virtum andmælum stefnda, þykja bæturnar hæfilega ákveðnar 2.000.000 króna.

Krafa stefnanda um dráttarvexti af dæmdri fjárhæð verður tekin til greina en upphaf þeirra skal miðast við þingfestingardag, 27. júní 2013.

Framgangur stefnda við riftun á ráðningarsamningi aðila fól að mati dómsins í sér brot á ákvæðum stjórnsýslulaga og kjarasamnings eins og að ofan var rakið.  Var framgangan meiðandi í garð stefnanda og fól í sér ólögmæta meingerð gagnvart honum.  Verður af þessum sökum fallist á kröfu stefnanda um miskabætur, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 26, 1993.  Þykja þær eftir atvikum hæfilega ákvarðaðar 500.000 krónur.

Í máli þessu krefst stefnandi bóta úr hendi stefnda vegna tjóns sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna eineltis á vinnustað, valdníðslu yfirmanna stefnanda, ólögmætrar notkunar á stjórnunarheimildum fyrirsvarsmanna stefnda, misvísandi upplýsingaveitu starfsmanna stefnda, meiðyrða, rógburðar og ólögmætra stjórnvaldsákvarðana.  Byggir stefnandi á því að með þessum hætti hafi stefndi í raun bolað honum frá störfum án þess að hann fengi notið réttar síns samkvæmt ráðningar- og kjarasamningum. Stefnandi byggir nánar á því að hegðun tiltekinna starfsmanna stefnda, sbr. málsatvik hér að framan, hafi verið ámælisverð, meiðandi, óábyrg og til þess fallin að baka honum tjón.  Stefndi hafi þannig ekki komið í veg fyrir að yfirmenn hans, einkum Þorbjörn Guðrúnarson, þáverandi slökkviliðsstjóri, brytu gegn honum ítrekað yfir margra ára tímabil og þannig vanrækt skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 46, 1980 og fyrrnefndri reglugerð nr. 1000, 2004, um að bjóða upp á öruggt vinnuumhverfi og mannsæmandi starfsskilyrði.

Stefndi andmælir, eins og hér að framan hefur verið er rakið, öllum málsástæðum stefnanda að þessu leyti.

Í þessu viðfangi er til þess að líta að samkvæmt 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála hafa staðhæfingar málsaðila um atvik máls ekki sönnunargildi fyrir dómi, nema um sé að ræða atriði sem honum er óhagstætt.

Samkvæmt 38. gr. laga nr. 46, 1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum setur ráðherra nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um hvaða kröfur skuli uppfylltar varðandi skipulag, tilhögun og framkvæmd vinnu, svo sem um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum, sbr. staflið e í greininni.

Í 3. gr. reglugerðar nr. 1000, 2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað, sem sett var með stoð í nefndu lagaákvæði, er einelti skilgreint þannig:

Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. ... Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna enda sé skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur hvorki viðvarandi eða endurtekinn kerfisbundið.

Af hálfu stefnanda er um röksemdir einkum vísað til áðurrakinnar eineltisskýrslu Sveinu Berglindar Jónsdóttur sálfræðings.  Í niðurstöðum í skýrslu sálfræðingsins er staðhæft að framkoma og stjórnun þáverandi slökkviliðsstjóra, áðurnefnds Þorbjörns Guðrúnarsonar, gagnvart stefnanda hafi í sex atriðum á árabilinu 2009 til 2011 verið ámælisverð og ótilhlýðileg.  Er í skýrslunni sértaklega tiltekið að slökkviliðsstjórinn hafi staðið illa að því að færa verkefni frá stefnanda á meðan hann gegndi stöðu aðstoðarslökkviliðsstjóra, að hann hafi ekki gefið stefnanda málefnalegar ástæður fyrir slíku ráðslagi, að hann hafi tekið skrifstofuaðstöðu af stefnanda gegn andmælum hans, að hann hafi skert upplýsingaflæði og ekki viðhaft samráð við stefnanda, en að auki tekið af honum VPN-tengingu án skýringa.  Í skýrslunni er einnig staðhæft að slökkviliðsstjórinn hafi gert lítið úr faglegu mati og ábyrgð stefnanda vegna tiltekins brunaútkalls, en einnig í umræðum við aðra starfsmenn.  Um afleiðingar þessarar háttsemi slökkviliðsstjórans er staðhæft að það hafi leitt til versnandi andlegrar heilsu stefnanda.  Og samandregið er það niðurstaða sálfræðingsins, sem staðfest var fyrir dómi, að nefndur slökkviliðsstjóri hefði beitt stefnanda einelti í skilningi laga nr. 46, 1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Stefnandi bar fyrir dómi að hann hefði margoft greint yfirmönnum slökkviliðsstjórans frá lýstri háttsemi hans, og þar á meðal í tengslum við þær skipulagsbreytingar sem gerðar voru á starfsemi slökkviliðsins í lok árs 2009, en án árangurs.

Í eineltisskýrslu Sveinu Berglindar Jónsdóttur er staðhæft að stefnandi og margir aðrir starfsmenn slökkviliðsins hafi vakið athygli yfirmanna hjá stefnda á því að ófremdarástand ríkti á Slökkvistöðunni á Akureyri og þá ekki síst vegna stjórnunarhátta slökkviliðsstjórans Þorbjörns Guðrúnarsonar.  Framlögð gögn, þ. á m. áðurgreind tölvusamskipti við yfirmenn hjá stefnda, styðja að áliti dómsins frásögn stefnanda að þessu leyti, en einnig að nokkru vætti Marteins Steinars Jónssonar vinnusálfræðings, sem kvaddur var á vettvang í ársbyrjun 2011.  Samkvæmt vætti sálfræðingsins tók starf hans ekki sérstaklega mið af kvörtunum stefnanda.

Af gögnum verður ráðið að fyrst hafi verið brugðist við af hálfu stefnda eftir að stefnandi hafði borið fram formlega kvörtun um einelti á vinnustað vorið 2012, eftir að nefndur slökkviliðsstjóri hafði lagt fram álíka kvörtun skömmu áður.

Samkvæmt ofangreindu hafði stefndi ekki frumkvæði að rannsókn þess hvort einelti viðgengist á Slökkvistöðinni á Akureyri þrátt fyrir ábendingar og umleitan stefnanda eftir aðstoð, að minnsta kosti frá því síðla árs 2009.

Það er álit dómsins að með eineltisskýrslu Sveinu Berglindar Jónsdóttur sálfræðings hafi verið sýnt fram á að stefnandi hafi með ofanlýstum hætti orðið fyrir einelti á vinnustað og að það hafi verið til þess fallið að valda honum andlegri vanlíðan.  Að áliti dómsins vanrækti stefndi að þessu leyti, sem vinnuveitandi, skyldur sínar, sbr. 3. gr. og 4. gr. reglugerðar nr. 1000, 2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993 er heimilt að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði og æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert er við.  Þá er það ólögfest regla í skaðabótarétti að vinnuveitandi getur orðið skaðabótaskyldur vegna tjóns sem starfsmaður hans hefur valdið með saknæmum hætti, óháð því hvort vinnuveitandinn sjálfur hefur sýnt af sér saknæma háttsemi.

Að öllu ofangreindu virtu þykja miskabætur til handa stefnanda vegna lýsts eineltis hæfilega ákveðnar 500.000 krónur ásamt vöxtum frá 27. júní 2013 til greiðsludags.

Af margnefndri eineltisskýrslu Sveinu Berglindar Jónsdóttur verður ráðið að samstarfserfiðleikar, á því tímabili sem hér um ræðir, á árunum 2008 til 2012, hafi einkum stafað af margra ára ósiðum í samskiptum starfsmanna á Slökkvistöðinni á Akureyri.  Því til viðbótar hafi bæst stjórnunarhættir nefnds slökkviliðsstjóra.  Einnig hafi fleira komið til, m.a. sparnaðaraðgerðir og skipulagsbreytingar af hálfu stefnda, vegna hallærisins í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefndi hafi, m.a. með ákvörðunum yfirmanna sinna, gert ítrekaðar tilraunir til að koma honum úr starfi.  Einnig heldur hann því fram að uppsögn hans í tengslum við skipulagsbreytingar í október 2009 hafi verið gerð í þeim tilgangi.  Þá byggir hann á því að kynning stefnda á ætluðu einelti hans gagnvart slökkviliðsstjóra vorið 2012 og það að hann hafi í kjölfarið verið knúinn til starfslokaviðræða séu sjálfstæð brot stefnda gegn friði hans, æru og persónu, auk annarra atriða sem hann vísar til í stefnu, þ. á m. að kynning á ætluðu einelti hafi farið gegn hagsmunum hans eða rétti.

Að virtum áðurnefndum stjórnunarrétti stefnda sem vinnuveitanda, en einnig í ljósi þeirra tilmæla sem sett voru fram í eineltisskýrslu Lífs og sálar sálfræðistofu ehf. um kynningu og vegna sáttaumleitana og í ljósi þess að um trúnaðarbréf var að ræða, er það niðurstaða dómsins að stefndi hafi ekki farið út fyrir eðlileg viðbrögð, sbr. ákvæði 7. gr. reglugerðar nr. 1000, 2004.  Þá hefur stefnandi að virtum andmælum stefnda og efni áðurrakinnar eineltisskýrslu Sveinu Berglindar Jónsdóttur sálfræðings að áliti dómsins ekki fært fyrir því rök að skipulagsbreytingar og uppsögn hans síðari hluta árs 2009, en einnig starfslokaviðræður aðila á árinu 2012 eða um önnur þau atriði sem hann tiltekur í stefnu, umfram það sem áður hefur verið lýst, falli undir einelti í skilningi nefndrar reglugerðar eða að háttsemi stefnda eða yfirmanna hans hafi miðað að því að koma honum með ólögmætum hætti úr starfi.  Verður því málsástæðum stefnanda og fullyrðingum að þessu leyti hafnað.

Af hálfu stefnda er þess krafist í greinargerð, líkt og við flutning, að stefnanda og þáverandi lögmanni hans verði gerð ákveðin sekt vegna nánar tilgreindra ummæla í stefnu, líkt og hér að framan var lýst.  Um lagarök fyrir þessari kröfu vísar stefndi til e-liðar 1. mgr. 135. gr. laga nr. 91, 1991 og 2. mgr. sömu lagagreinar.

Samkvæmt nefndum lagaákvæðum má ákveða sekt á hendur aðila máls og umboðsmanni hans fyrir ósæmileg skrif sem höfð eru uppi, m.a. um gagnaðila eða aðra menn, sem þá renna í ríkissjóð.

Telja verður framangreind ummæli í stefnu ámælisverð, en ekki þykja efni til þess að beita nefnda aðila réttarfarssektum.

Samkvæmt öllu ofangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 3.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. júní 2013.

Með vísan til 3. mgr. 130 gr. laga um meðferð einkamála ber stefnda að greiða stefnanda 1.100.000 krónur í málskostnað og er þá tekið tillit virðisaukaskatts.  Við ákvörðun málskostnaðar er m.a. tekið tillit til þess að samhliða þessu máli er rekið sambærilegt dómsmál annars starfsmanns gegn stefnda.

Af hálfu stefnanda flutti málið Garðar St. Ólafsson hdl., en af hálfu stefnda flutti málið Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð.

Stefndi, Akureyrarkaupstaður, greiði stefnanda, Ingimar Eydal, 3.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. júní 2013 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 1.100.000 krónur í málskostnað.