Print

Mál nr. 328/2008

Lykilorð
  • Ærumeiðingar
  • Tjáningarfrelsi
  • Ómerking ummæla
  • Miskabætur

Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. mars 2009.

Nr. 328/2008.

Ásgeir Þór Davíðsson

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

Björk Eiðsdóttur og

Guðrúnu Elínu Arnardóttur

(Þórður Bogason hrl.)

 

Ærumeiðingar. Tjáningarfrelsi. Ómerking ummæla. Miskabætur.

Á höfðaði mál á hendur B og G vegna ummæla sem birtust í tímaritinu Vikunni. Krafðist Á þess að ummælin yrðu ómerkt, honum dæmdar miskabætur og fjárhæð til að standa straum af birtingu dómsins í dagblöðum og þess að forsendur dómsins yrðu birtar í næsta tölublaði Vikunnar eftir að dómur félli. Talið var að B bæri ábyrgð á ummælum í greininni sem höfundur hennar, sbr. 2. mgr. 15. gr. prentlaga, og breytti þá engu um hvort viðmælandi hennar sem ummælin voru höfð eftir kynni einnig að geta talist höfundur greinarinnar. Með sumum ummælunum var Á borin á brýn refsiverð háttsemi. Voru þau ekki talin fela í sér lýsingu á skoðunum eða gildismat heldur fullyrðingar um staðreyndir sem rúmist ekki innan 73. gr. stjórnarskrárinnar. Það sama var talið gilda um eina millifyrirsögn sem B bar ábyrgð á. Voru þessi ummæli dæmd dauð og ómerk. Ein ummæli í greininni og tvær millifyrirsagnir voru talin almenns eðlis og ekki beinast að Á og var því sýknað vegna þeirra. Þá var G sýknuð af kröfum Á um ógildingu og miskabætur þar sem ummæli á forsíðu tímaritsins, í útdrætti í efnisyfirliti og í leiðara blaðsins, sem hún bar ábyrgð á sem ritstjóri, sbr. 3. mgr. 15. gr. prentlaga, þóttu almenns eðlis. Fallist var á kröfu Á um birtingu forsendna og niðurstaðna dómsins í fyrsta tölublaði Vikunnar eftir uppsögu dómsins en kröfum um greiðslu kostnaðar vegna frekari birtingar hafnað. Þá var B dæmd til að greiða Á 500.000 krónur í miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 30. apríl 2008. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 11. júní 2008 og var áfrýjað öðru sinni 13. sama mánaðar. Áfrýjandi krefst þess að nánar tilgreind ummæli í 34. tölublaði Vikunnar, 23. ágúst 2007, verði dæmd dauð og ómerk og að stefndu verði óskipt dæmdar til að greiða sér 5.000.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. ágúst 2007 til 13. október sama ár, en dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt krefst hann þess að forsendur og dómsorð í málinu verði birt í næsta tölublaði Vikunnar eftir að dómur fellur og að stefndu verði óskipt dæmdar til að greiða honum krónur 480.000 til þess að standa straum af kostnaði við birtingu dóms, forsendna og dómsorðs í þremur dagblöðum. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast þess að héraðsdómur verði staðfestur og þeim dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

I

Í 34. tölublaði Vikunnar, sem kom út 23. ágúst 2007, birtist grein sem byggðist á viðtali stefndu Bjarkar Eiðsdóttur við Lovísu Sigmundsdóttur. Í viðtalinu lýsti Lovísa störfum sínum sem nektardansmær á ýmsum stöðum, meðal annars Goldfinger sem var í eigu áfrýjanda. Í greininni, sem skipt er með nokkrum millifyrirsögnum, er meðal annars sagt frá lýsingu Lovísu á vændi sem hún hafi sagt að stundað væri óáreitt á þessum stöðum, meðal annars á Goldfinger, eiturlyfjaneyslu hennar eftir að hún hóf störf sem nektardansmær og hótunum sem hún hafi orðið fyrir vegna starfsins. Á forsíðu blaðsins er mynd af Lovísu og einnig á fyrstu síðu þess við hlið ritstjórnargreinar stefndu Guðrúnar Elínar Arnardóttur, sem fjallar um áðurnefnda grein. Þá eru myndir af Lovísu á titilsíðu greinarinnar og við meginmál hennar, en þar er einnig mynd af áfrýjanda. Í texta við hlið hennar kemur fram að blaðið hafi haft samband við hann og borið undir hann þá frásögn Lovísu að hann „hvetji starfstúlkur sínar til að stunda vændi og sé milligöngumaður þar um“, en hann hafi vísað því algjörlega á bug. Meðal gagna málsins er hljóðupptaka og handrit af viðtali blaðamannsins við Lovísu.

Áfrýjandi höfðaði mál þetta 5. og 6. september 2007 á hendur stefndu og Lovísu Sigmundsdóttur og krafðist þess í 1. kröfulið að eftirfarandi ummæli, sem Lovísa hafi viðhaft um áfrýjanda á nánar tilgreindum blaðsíðum í áðurnefndu tölublaði Vikunnar, yrðu dæmd dauð og ómerk: A. „Ég endaði á að vinna fyrir Geira en það var mjög mikið um vændi inni á stöðunum hans og gríðarleg pressa á þeim stelpum sem fyrir hann störfuðu að stunda slíkt. B. „Geiri hefur alltaf gert mikið út á vændi og þá inni á stöðunum. Eftir að einkadansinn var bannaður hefur vændið einfaldlega farið fram bak við tjöld sem sögð eru notuð til að hægt sé að spjalla við kúnnana í einrúmi.“ C. „Það er allur gangur á því hvort kúnnarnir borga Geira sjálfum fyrir þjónustuna eða stelpunum beint ... . D. „Ég er komin yfir hræðsluna við þessa menn þótt mér hafi vissulega verið hótað lífláti og á tímabili fór ég ekki út úr húsi vegna hræðslu. E. „Starfsstúlkur hans sem koma hingað tímabundið í þrjá mánuði í senn eru eins og í fangelsi“. F. „Þess á milli eru þær í raun kyrrsettar í húsinu fyrir utan vissan útivistartíma. G. „Ástæðan fyrir því er sú að stelpur urðu uppvísar að því að ná sér í kúnna utan klúbbsins án þess að Geiri fengi hlut af þóknuninni en hann vill geta stjórnað vændinu sjálfur.

Í 2. kröfulið var þess krafist að eftirfarandi ummæli sem birt voru sem millifyrirsagnir yrðu dæmd dauð og ómerk: A. „Vændi regla frekar en undantekning“.  B. „Hótað lífláti“. C. „Fluttar inn grunlausar um hvert stefndi“.

Í 3. kröfulið gerði áfrýjandi kröfu um að eftirfarandi ummæli í staflið A, sem birt voru sem fyrirsögn á forsíðu og í stafliðum B og C í útdrætti í efnisyfirliti yrðu dæmd dauð og ómerk: A. „Hótað lífláti ef hún segði frá“. B. „Lovísa Sigmundsdóttir vann sem strippari og segir blaðamanni Vikunnar allt um vændið og líflátshótanirnar.“ C. „Lovísa segir vændi látið vera óáreitt og það sé áberandi inni á nektarstöðunum.

Lovísa var aðallega talin bera ábyrgð á ummælunum, sem getið er í 1. lið, en til vara stefnda Björk Eiðsdóttir sem höfundur greinarinnar, sú síðarnefnda á ummælunum í 2. lið, og stefnda Guðrún Elín í 3. lið, sem ritstjóri blaðsins, en til vara „ef ekki verður fallist á að stefnda Guðrún Elín Arnardóttir beri ábyrgð á ummælum í ofangreindri fyrirsögn á forsíðu og útdrætti í efnisyfirliti ... er kröfu um ómerkingu beint að stefndu Björk Eiðsdóttur, sem höfundi greinarinnar, sem fyrirsögnin á forsíðu og útdrátturinn í efnisyfirlitinu, vísar til “. 

Í 4. lið gerði áfrýjandi þá kröfu á hendur stefndu Guðrúnu Elínu að þessi ummæli í leiðara blaðsins yrðu dæmd dauð og ómerk: „Lovísa Sigmundsdóttir er ótrúlega hugrökk að þora að stíga fram og segja frá þrátt fyrir að henni hafi verið hótað lífláti ... .

   Áfrýjandi krafðist þess einnig að stefndu og Lovísu yrði óskipt gert að greiða sér 5.000.000 krónur í miskabætur og 800.000 króna til að standa straum af birtingu forsendna og dómsorðs í málinu í þremur dagblöðum, auk sams konar birtingar í næsta tölublaði Vikunnar eftir að dómur félli.

   Eftir skýrslutökur við aðalmeðferð málsins í héraði gerði áfrýjandi dómsátt við stefndu Lovísu. Með sáttinni féll áfrýjandi frá öllum kröfum á hendur henni. Kröfur áfrýjanda á hendur meðstefndu voru hins vegar óbreyttar. Með hinum áfrýjaða dómi voru stefndu Björk og Guðrún Elín sýknaðar af öllum kröfum áfrýjanda.

II

Ágreiningur málsins snýst aðallega um það hvort stefndu beri ábyrgð á því sem haft er eftir viðmælanda stefndu Bjarkar á grundvelli 2. og 3. mgr. 15. gr. laga um prentrétt nr. 57/1956 og hvort fyrirsagnir og tilvísanir sem stefndu sömdu sjálfar, sem þær halda fram að hafi verið gert með vísan til orða viðmælanda síns, rúmist innan 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi. Málsástæðum aðila er nægilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram reisir áfrýjandi kröfu sína um ómerkingu ummælanna í fyrsta lið A til og með G á því að þau feli í sér ærumeiðandi aðdróttanir, sem stefnda Björk beri ábyrgð á sem höfundur greinarinnar samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956. Á titilsíðu greinarinnar kemur fram að texti hennar sé unninn af Björk Eiðsdóttur. Staðfesti hún við skýrslugjöf fyrir dómi að hún væri höfundur greinarinnar og hefði einnig samið millifyrirsagnirnar. Hún hafi valið orðin í millifyrirsagnirnar, en í þeim og greininni væri nær orðrétt haft eftir Lovísu, þetta væri hennar frásögn. Hún hafi tekið viðtalið upp á segulband og unnið greinina upp úr því og sent Lovísu í þeim búningi. Lovísa hafi síðan staðfest með tölvupósti að rétt væri eftir henni haft. Við samanburð á handriti af viðtalinu og hljóðupptöku af því annars vegar og hins vegar umræddri blaðagrein og millifyrirsögnum er ljóst að ekki er orðrétt haft eftir viðmælanda. Jafnframt kemur þó glögglega fram að stefnda Björk hafði í greininni í meginatriðum efnislega rétt eftir viðmælanda sínum, sem síðar staðfesti eins og fram er komið að þar væri rétt farið með eftir henni. Þar sem stefnda Björk Eiðsdóttir er á forsíðu greinarinnar tilgreind sem höfundur texta og hún hefur gengist við að hafa samið hana ásamt millifyrirsögnum hennar telst hún vera höfundur greinarinnar og millifyrirsagnanna í skilningi 2. mgr. 15. gr. nr. 57/1956 og ber sem slíkur ábyrgð á þeim. Breytir þá engu hvort Lovísa kunni einnig að geta talist höfundur greinarinnar í skilningi þessa ákvæðis.

Með ummælunum í 1. kröfulið A, B, C og G er áfrýjanda borin á brýn refsiverð háttsemi sem fellur undir 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hann hafi staðið fyrir því að stúlkur sem störfuðu hjá honum stunduðu vændi á þeim stöðum sem hann rak sér til ávinnings og beitt þær í þeim tilgangi þrýstingi. Orðin í E og F lið lúta hins vegar að því að áfrýjandi hafi svipt stúlkur, sem störfuðu hjá honum frelsi, en sú háttsemi er refsiverð samkvæmt 226. gr. almennra hegningarlaga. Í meginmáli undir millifyrirsögninni: „Vændi regla frekar en undantekning“ er meðal annars að finna orðin sem um getur í 1. kröfulið A og B auk fleiri ummæla um áfrýjanda og nektarstað hans Goldfinger. Af samhenginu milli meginmálsins og fyrirsagnarinnar er ljóst að hún beinist að áfrýjanda. Um þessa fyrirsögn á sama við og ummælin í liðum A, B, C og G hér að framan. Varða ummælin í 1. kröfulið A, B, C, E, F og G og millifyrirsögnin í A lið 2. kröfuliðar við 235. gr. almennra hegningarlaga. Þau fela ekki í sér lýsingu á skoðunum eða gildismat heldur fullyrðingar um staðreyndir og rúmast ekki innan 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi. Verða þau dæmd dauð og ómerk samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laganna.

Orðunum í 1. kröfulið D er beint að ótilgreindum mönnum en ekki að áfrýjanda. Undirfyrirsagnirnar í B og C lið 2. kröfuliðar eru almenns eðlis og verður heldur ekki ráðið af texta undir fyrirsögnunum að þær beinist að áfrýjanda. Verður stefnda Björk því sýknuð af þessum kröfuliðum. Orðin sem rakin eru í 3. og 4. kröfulið, sem stefnda Guðrún Elín ber ábyrgð á eftir 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956, eru einnig almenns eðlis og verður hún því einnig sýknuð af þessum kröfuliðum.

Birta skal forsendur og niðurstöðu dóms þessa í fyrsta tölublaði Vikunnar, sem út kemur eftir uppsögu þessa dóms, en kröfum um greiðslu kostnaðar vegna frekari birtingar er hafnað.

Áfrýjandi á rétt á miskabótum samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 úr hendi stefndu Bjarkar vegna áðurnefndra ærumeiðandi ummæla sem eru hæfilega ákveðnar 500.000 krónur með vöxtum svo sem nánar greinir í dómsorði.

Eftir þessum úrslitum verður stefnda Björk dæmd til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði. Málskostnaður fellur niður að öðru leyti.

Dómsorð:

Stefnda Guðrún Elín Arnardóttir er sýkn af fjárkröfu áfrýjanda og kröfu hans um ómerkingu ummæla.

Framangreind ummæli í 1. kröfulið A, B, C, E, F og G og 2. kröfulið A, sem nánar greinir í forsendum þessa dóms, skulu vera dauð og ómerk.

Birta skal forsendur og niðurstöðu dóms þessa í fyrsta tölublaði Vikunnar, sem út kemur eftir uppsögu dómsins.

Stefnda Björk Eiðsdóttir greiði áfrýjanda, Ásgeiri Þór Davíðssyni, 500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. ágúst 2007 til 13. október sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnda Björk greiði áfrýjanda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Málskostnaður fellur að öðru leyti niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2008.

Mál þetta var höfðað 5. september 2007 og dómtekið 12. f.m.

Stefnandi er Ásgeir Þór Davíðsson, Melaheiði 3, Kópavogi.

Stefndu eru Björk Eiðsdóttir, Nýlendugötu 22, Reykjavík, Guðrún Elín Arnardóttir, Lindargötu 56, Reykjavík og Lovísa Sigmundsdóttir, Möðrufelli 15, Reykjavík.

I

Upphaflegar dómkröfur stefnanda, eins og þær eru settar fram í stefnu, voru sem hér greinir:

1.                      Þess er krafist að eftirfarandi ummæli í stafliðum A til G, sem er að finna á bls. 31 til 34 í tímaritsgrein í 34. tölublaði Vikunnar, 23. ágúst 2007, og stefnda, Lovísa Sigmundsdóttir, viðhafði um stefnanda verði dæmd dauð og ómerk:

A.                  Ég endaði á því að vinna fyrir Geira en það var mjög mikið um vændi inn á stöðunum hans og gríðarleg pressa á þeim stelpum sem fyrir hann störfuðu að stunda slíkt.”

B.                   „Geiri hefur alltaf gert mikið út á vændi og þá inni á stöðunum. Eftir að einkadansinn var bannaður hefur vændið einfaldlega farið fram bak við tjöld sem sögð eru notuð til að hægt sé að spjalla við kúnnana í einrúmi.”

C.                   „Það er allur gangur á því hvort kúnnarnir borga Geira sjálfum fyrir þjónustuna eða stelpunum beint ... .”

D.                  „Ég er komin yfir hræðsluna við þessa menn þótt mér hafi vissulega verið hótað lífláti og á tímabili fór ég ekki út úr húsi vegna hræðslu.”

E.                   „Starfsstúlkur hans sem koma hingað tímabundið í þrjá mánuði í senn eru eins og í fangelsi.”

F.                   „Þess á milli eru þær í raun kyrrsettar í húsinu fyrir utan vissan útivistartíma.”

G.                   „Ástæðan fyrir því er sú að stelpur urðu uppvísar að því að ná sér í kúnna utan klúbbsins án þess að Geiri fengi hlut af þóknuninni en hann vill geta stjórnað vændinu sjálfur.”

Til vara, ef ekki verður fallist á að stefnda, Lovísa Sigmundsdóttir, beri ábyrgð á ofangreindum ummælum í kröfulið 1, stafliðum A til G, er kröfu um ómerkingu beint að stefndu Björk Eiðsdóttur, sem höfundi greinarinnar, og á þeim grundvelli verði ummælin, dæm dauð og ómerk.

2.                      Þess er krafist að eftirfarandi ummæli í stafliðum A til C, sem voru birtar sem millifyrirsagnir á bls. 31 og 32 í viðtali í 34. tölublaði Vikunnar, 23. ágúst 2007, og stefnda Björk Eiðsdóttir er höfundur að, verði dæmd dauð og ómerk:

A.                  „Vændi regla frekar en undantekning.”

B.                   „Hótað lífláti.”

C.                   „Fluttar inn grunlausar um hvert stefndi.”

3.                      Þess er krafist að eftirfarandi ummæli í staflið A, sem voru birt sem fyrirsögn á forsíðu 34. tölublaðs vikunnar og ummæli í stafliðum B og C í útdrætti í efnisyfirliti á bls. 4 í  34. tölublaði Vikunnar, 23. ágúst 2007, og stefnda, Guðrún Elín Arnardóttir, ber ábyrgð á sem ritstjóri, verði dæmd dauð og ómerk:

A.                  „Hótað lífláti ef hún segði frá.”

B.                   „Lovísa Sigmundsdóttir vann sem strippari og segir blaðamanni Vikunnar allt um vændið og líflátshótanirnar.“

C.                   „Lovísa segir vændi látið vera óáreitt og það sé áberandi inni á nektarstöðunum.“

Til vara, ef ekki verður fallist á  að stefnda, Guðrún Elín Arnardóttir, beri ábyrgð á ummælum í ofangreindri fyrirsögn á forsíðu og útdrætti í efnisyfirliti á bls. 4 í 34. tölublaði Vikunnar, sem ritstjóri, er kröfu um ómerkingu beint að stefndu, Björk Eiðsdóttur, sem höfundi greinarinnar, sem fyrirsögnin á forsíðu og útdrátturinn í efnisyfirlitinu, vísar til, og á þeim grundvelli verði ummælin, dæmd dauð og ómerk.

4.                      Þess er krafist að eftirfarandi ummæli í staflið A, sem er að finna í leiðara á blaðsíðu 4 í 34. tölublaði Vikunnar, 23. ágúst 2007, sem stefnda, Guðrún Elín Arnardóttir, ber ábyrgð á sem höfundur eða ritstjóri, verði dæmd dauð og ómerk:

A.                  „Lovísa Sigmundsdóttir er ótrúlega hugrökk að þora að stíga fram og segja frá þrátt fyrir að henni hafi verið hótað lífláti... .”

5.                      Þess er krafist að stefndu verði in solidum dæmdar til að greiða stefnanda krónur 5.000.000,- í miskabætur, og beri dómkröfurnar vexti frá 23. ágúst 2007 til 13. október 2007, en dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 8. og 9. gr.  IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.

Þess er krafist að forsendur og dómsorð dóms í málinu verði birt í næsta tölublaði Vikunnar eftir að dómur fellur, sbr. 22. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt.

6.                      Þess er krafist stefndu verði in solidum dæmdar til að greiða stefnanda krónur 800.000,- til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendna og dómsorðs, í þremur dagblöðum.

7.                    Þess er krafist að stefndu verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar.

Við aðalmeðferð málsins, hinn 12. f. m., varð svofelld sátt milli stefnanda og stefndu, Lovísu Sigmundsdóttur:  „Stefnandi, Ásgeir Þór Davíðsson, fellur frá öllum kröfum í málinu á hendur stefndu, Lovísu Sigmundsdóttur, og greiðir henni máls­kostnað 150.000 krónur fyrir 20. þ.m.  Greiðslustaður er lögmannsstofa Ragnars Aðalsteins­sonar hrl.“  Að því undanskildu sem leiðir af efni sáttarinnar eru endanlegar dómkröfur stefnanda óbreyttar frá því sem að framan greinir um stefnukröfur.

Af hálfu stefndu, Bjarkar Eiðsdóttur og Guðrúnar Elínar Arnardóttur, er krafist sýknu af dómkröfum stefnanda en til vara að fjárhæðir þeirra verði lækkaðar verulega.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

II

Í stefnu greinir frá málsatvikum á eftirfarandi hátt:

„Málsatvik eru með þeim hætti að á bls. 30 til 34 í  34. tbl. Vikunnar, dags.  23. ágúst 2007., birtist viðtal við stefndu Lovísu. Í viðtalinu segir stefnda frá störfum sínum sem nektardansmær í Reykjavík, eiturlyfjaneyslu, kynferðislegri misnotkun og fleiru. Stór mynd af stefndu Lovísu prýðir forsíðu framangreindrar Viku ásamt stríðsfyrirsögn þar sem segir að stefndu hafi verið hótað lífláti ef hún segði frá. Í efnisyfirliti er síðan útdráttur úr viðtalinu ásamt stórri mynd af stefndu Lovísu auk þess sem leiðari Vikunnar er helgaður þessu tímamótaviðtali, en í leiðaranum er hugrekki stefndu lofað og hún kölluð hetja.

Í viðtalinu heldur stefnda Lovísa því ítrekað fram að mikið sé um vændi á stöðum stefnanda, en stefnandi á og rekur veitingastaðinn Goldfinger í Kópavogi, og stefnandi beitti þær stúlkur sem hjá honum starfa gríðarlegum þrýstingi til þess að fá þær til að leggja stund á vændi. Þá lýsir stefnda Lovísa því að stefnandi hafi alltaf gert mikið út á vændi og vændið fari fram bak við tjöld og að annað hvort greiði viðskiptavinir staðarins stefnanda sjálfum fyrir þjónustuna eða greiðslan renni beint til stúlknanna. Síðan segir stefnda Lovísa frá því að henni hafi verið hótað lífláti og á tímabili hafi hún ekki farið út úr húsi vegna hræðslu. Í viðtalinu nafngreinir stefnda Lovísa að vísu ekki þá eða þann aðila sem beitti hana hótuninni, en af samhengi og framsetningu umfjöllunarinnar og þar sem stefnandi er sá eini sem er nafngreindur og birt mynd af í umfjölluninni, fyrir utan starfsystur stefndu og maka, verður að telja fullvíst að með hinum umstefndu ummælum sé átt við stefnanda. Síðan segir stefnda Lovísa að erlendar stúlkur sem komi til starfa hjá stefnanda séu eins og í fangelsi og þegar þær séu ekki við störf hjá stefnanda séu þær kyrrsettar á dvalarstað sínum fyrir utan vissa útivistartíma, en ástæður þessa segir stefnda vera þær að stefnandi vilji geta stjórnað vændinu sjálfur og tryggja þannig að hann fái hluta af þóknun stúlknanna.

Þegar blaðamaður Vikunnar, stefnda Björk Eiðsdóttir, hafði samband við stefnanda og bar ummæli stefndu Lovísu undir hann vísaði hann ummælum á bug sem lygum. Engu að síður birtu stefndu Guðrún Elín Arnardóttir, ritstjóri og Björk Eiðsdóttir, blaðamaður viðtalið og lögðu sitt af mörkum til að gera sem mest úr umfjölluninni, meðal annars með stríðsfyrirsögn um líflátshótanir á forsíðu, útdrætti í efnisyfirliti, krassandi millifyrirsögnum, útdregnum ummælum með stóru rauðu letri og leiðara sem var helgaður viðtalinu. Það skal tekið fram að þremur vikum áður, eða í 31. tölublaði Vikunnar, dags. 2. ágúst 2007, birtist forsíðuviðtal við þrjár nafn­greindar nektardansmeyjar sem starfa hjá stefnanda en aðspurðar í viðtalinu vísuðu þær á bug öllum sögusögnum um vændi og mannsal (svo) og að þær byggju við slæmar aðstæður.“

III

Í greinargerð stefndu, Bjarkar Eiðsdóttur og Guðrúnar Elínar Arnardóttur, segir um málavexti:

„Í 31. tölublaði tímaritsins Vikunnar birtist grein þar sem tekið var viðtal við þrjár erlendar nektardansmeyjar undir fyrirsögninni „Dansa naktar fyrir 150.000 kr. á mánuði“.  Lengi hafa verið ýmsar sögusagnir um nektardansstaði og aðstæður stúlkna sem þar starfa.  Töldu forsvarsmenn blaðsins umfjöllun um þessi málefni eiga erindi til lesenda þess og var ákveðið að skyggnast bak við tjöldin og heyra mismunandi álit þeirra sem hafa atvinnu af nekt sinni.  Hinar erlendu stúlkur létu vel af starfinu en í sama tölublaði birtist viðtal við tvær nektardansmeyjar undir nafnleynd.  Báðar hinar nafn­lausu stúlkur báru starfinu illa söguna og lýstu vændi og eiturlyfjanotkun sem fylgdi því.  Í framhaldi af þessari umfjöllun birtist umrætt viðtal við meðstefndu, Lovísu Sigmundsdóttur, sem ákvað að koma fram undir nafni og lýsa reynslu sinni í viðtali við tímaritið.  Í viðtalinu lýsir Lovísa ferli sínum sem nektardansmær, en fram kemur í viðtalinu að hún hafi byrjað þennan starfa á nektarstaðnum Þórscafé, en einnig hafi hún unnið á nektardansstöðum á Akureyri, nektarstaðnum Vegas og loks á Goldfinger.  Í viðtalinu kveðst Lovísa hafa verið orðin langþreytt á ranghugmyndum sem hún sagði þrífast um nektardansstaði og því að stúlkur, sem þar vinni, skuli ekki þora að segja sannleikann.  Hafi hún því ákveðið að segja sögu sína, meðal annars í þeim tilgangi að aðrar stúlkur lendi ekki í sömu aðstæðum og hún sjálf upplifði í þessu starfi sínu.  Viðtalið er að öllu leyti frásögn hennar og birti tímaritið þessa frásögn hennar eins og haft var eftir henni, enda eru ummæli hennar innan gæsalappa.“

IV

Málsástæður stefnanda.

Í stefnu segir að verði ekki fallist á að stefnda, Lovísa Sigmundsdóttir, beri ábyrgð á ummælum í kröfulið 1, stafliðum A til G, s.s. vegna þess að ummælin séu ekki rétt eftir henni höfð eða að hún hafi alls ekki viðhaft þau, sé kröfu um ómerkingu ummælanna beint að stefndu, Björk Eiðsdóttur, sem höfundi greinarinnar sem inniheldur hin umstefndu ummæli, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga um prentrétt nr. 57/1956, sbr. 234., 235. og/eða 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og á þeim grundvelli verði ummælin dæmd dauð og ómerk, sbr. 1. mgr. 241. gr. almennra hegn­ingar­laga.  Ummælin séu hreinn uppspuni og þar að auki óviðurkvæmileg, tilhæfu­laus og smekklaus og til þess fallin að sverta ímynd stefnanda.  Hagsmunir hans af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir.

Ummælin, sem dómkröfur stefnanda nr. 2 beinast að, eru millifyrirsagnir í viðtali á blaðsíðum 30-34 í 34. tölublaði Vikunnar.  Í stefnu segir um staflið A að millifyrirsögnin feli í sér alvarlegar aðdróttanir að æru stefnanda þar sem hann sé ásakaður um að standa fyrir vændisstarfsemi og að vændi sé regla fremur en undan­tekning en af samhengi og framsetningu umfjöllunarinnar sé ljóst að með milli­fyrirsögninni sé átt við stefnanda og veitingastaðinn Goldfinger.  Um staflið B  segir að í viðtalinu nafngreini stefnda, Lovísa, ekki þá eða þann aðila sem hótað hafi henni lífláti en af samhengi og framsetningu umfjöllunarinnar, og þar sem stefnandi sé hinn eini sem sé nafngreindur og birt mynd af í umfjölluninni, fyrir utan starfsystur stefndu og maka, verði að telja fullvíst að með hinum umstefndu ummælum sé átt við stefnanda.  Um staflið C segir að þar sé verið að ýja að því að stúlkur séu fluttar hingað til lands og látnar starfa sem nektardansmeyjar gegn vilja sínum sem teljist vera mansal.  Af framsetningu og efni umfjöllunarinnar sé ljóst að með millifyrir­sögninni sé ásökunum um mansal beint að stefnanda.

Kröfugerð stefnanda er studd þeim rökum að í öllum framangreindum aðdrótt­unum felist ásakanir um að stefnandi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi sem margra ára fangelsi liggi við, sbr. m.a. 206. gr., 233. gr. og XXIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og talin sé siðferðislega ámælisverð af þorra almennings.  Telja verði að öll ofangreind ummæli, sem stefnda, Björk, beri ábyrgð á með tilvísun í 2. mgr. 15. gr. laga um prentrétt nr. 57/1956, varði við 234. gr., 235. gr. og/eða 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ómerkja ummælin með vísun  til 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga enda séu þau óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta ímynd stefnanda sem hafi af því mikla hagsmuni að fá þau dæmd dauð og ómerk.

Dómkrafa stefnanda nr. 3, sem er aðallega beint að stefndu, Guðrúnu Elínu Arnardóttur, er studd þeim rökum að ummælin hafi að geyma aðdróttanir sem feli í sér ásakanir um að stefnandi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi sem margra ára fangelsi liggi við, sbr. m.a. 206. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og sé talin siðferðislega ámælisverð af þorra almennings.  Telja verði að öll ummælin varði við 234. gr., 235. gr. og/eða 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ómerkja þau með tilvísun í 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga, enda séu þau hreinn uppspuni og þar að auki óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta ímynd stefnanda.  Hagsmunir stefnanda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir. 

Verði ekki fallist á að stefnda, Guðrún Elín Arnardóttir, beri sem ritstjóri ábyrgð á umstefndri fyrirsögn á forsíðu og útdrætti í efnisyfirliti á bls. 4 í 34. tölublaði Vikunnar, er kröfu um ómerkingu beint að stefndu Björk Eiðsdóttur sem höfundi greinar­innar, sem fyrirsögnin á forsíðu og útdrátturinn í efnisyfirlitinu vísi til, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga um prentrétt nr. 57/1956, sbr. 234. gr., 235. gr. og/eða 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og á þeim grundvelli verði ummælin dæmd dauð og ómerk, sbr. 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga.

Um hin tilvitnuðu ummæli í dómkröfu stefnanda nr. 4 segir að í viðtalinu nafn­greini stefnda, Lovísa, ekki þá eða þann aðila sem eigi að hafa hótað henni  lífláti en af samhengi og framsetningu umfjöllunarinnar og þar sem stefnandi sé sá eini, sem sé nafngreindur og birt mynd af í umfjölluninni, fyrir utan starfssystur stefndu og maka, verði að telja fullvíst að átt sé við stefnanda.  Um sé að ræða aðdróttanir um að stefnandi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi sem allt að tveggja ára fangelsi liggi við, sbr. 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Telja verði að hin umstefndu um­mæli varði við 234. gr., 235. gr. og/eða 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ómerkja þau með vísun til 1. mgr. 241. gr. almennra hegn­ingar­­laga, enda séu þau hreinn uppspuni og þar að auki óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta ímynd stefnanda.  Hagsmunir stefnanda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir.  Hvað varðar grundvöll ábyrgðar stefndu, Guðrúnar Elínar, verði að telja að hún beri annað hvort ábyrgð á ummælunum sem höfundur, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt, eða sem ritstjóri, sbr. 3. mgr. 15. gr. sömu laga, en stefnda, Guðrún Elín, noti höfundarnafnið Elín Arnar í skrifum sínum í Vikunni sem óvíst sé að teljist fullnægjandi nafngreining höfundar samkvæmt 2. gr. 15. gr. laga nr. 57/1956.

Miskabótakrafa stefnanda er á því reist að tilvitnuð ummæli stefndu, sem hafi verið að finna í 34. tölublaði Vikunnar, dags. 23. ágúst 2007, hafi fengið mjög á stefn­anda andlega, enda um ærumeiðandi aðdróttanir að ræða sem séu uppspuni frá rótum.  Einnig sé ljóst að virðing stefnanda hafi beðið hnekki sem og æra hans og persóna þar sem því sé ítrekað haldið fram að hann hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi sem margra ára fangelsi liggi við.  Hvað varðar ábyrgð stefndu, Guðrúnar Elínar, ritstjóra Vikunnar, og stefndu, blaðamannsins Bjarkar, beri að horfa til þess að þær hafi birt hin umstefndu ummæli þrátt fyrir afdráttarlausa neitun stefnanda á sannleiksgildi þeirra og án þess, að því er virðist, að hafa nokkra aðra heimildarmenn sem væru reiðubúnir að koma fram undir nafni og staðfesta ummæli stefndu, Lovísu.  Þess beri að geta að Vikan birti forsíðu sína í öðrum fjölmiðlum í auglýsingaskyni og þannig fái hin umstefndu ummæli aukna dreifingu.  Auk þessa birti Vikan auglýsingar í hljóð­varpi þar sem fyrirsagnir af forsíðu séu gjarnan birtar.  Almenn og sérstök varn­aðaráhrif skaðabótareglna standi því til þess að stefnanda verði dæmdar háar miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Krafa stefnanda um greiðslu kostnaðar við birtingu dóms í málinu er reist á 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

V

Málsástæður stefndu, Bjarkar Eiðsdóttur og Guðrúnar Elínar Arnardóttur.

Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda þar sem þær hafi ekki með neinum hætti, sem blaðamaður eða ritstjóri, gerst brotlegar við 234., 235. eða 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1949, hvorki með beinum hætti né geti það verið ljóst af efnistökum og samhengi þeirrar umfjöllunar sem hér um ræðir.

Af hálfu stefndu er vísað til þess að löggjafinn hafi, ásamt dómstólum, játað fjölmiðlum verulegu svigrúmi til almennrar umfjöllunar um menn og málefni.  Sérstaklega sé þessi réttur rúmur þegar í hlut eigi umfjöllun um málsefni sem hafi mikla þýðingu í samfélaginu og um þá einstaklinga sem berist á í þjóðfélaginu og teljist umdeildir.  Dómstólar hafi talið að fara beri varlega við að hefta umræðu í lýð­ræðislegu þjóðfélagi með refsikenndum viðurlögum.  Það sé hornsteinn lýðræðis og forsenda réttarríkis að fjölmiðlar fjalli um brýn málefni með sjálfstæðum rannsóknum á upplýsandi hátt og með gagnrýni að leiðarljósi.

Af hálfu stefndu er því haldið fram að ótvírætt sé að stefnandi sé umdeildur einstaklingur vegna þeirrar starfsemi sem hann hafi árum saman verið viðloðandi í Reykjavík og Kópavogi.  Umræða um tengsl nektardans og vændis sé þrálát.  Óum­deilt sé að starfsemi súlustaða felist í því að fá stúlkur, í meirihluta tilvika erlenda ríkisborgara, til að dansa fáklæddar eða klæðlausar frammi fyrir gestum staðarins eða inni í einkarýmum.  Stefnandi hafi viðurkennt opinberlega að komið hafi upp tilvik á Goldfinger þar sem gestum staðarins hafi verið boðin kynlífsþjónusta, sbr. viðtal við hann á Stöð 2 hinn 1. júní 2007 (sbr. framlagt skjal).  Stefnandi verði að þola um­þrætta umfjöllun um starfsemi Goldfinger sem rekinn sé af lögaðilanum Baltik ehf.  Málatilbúnaður stefnanda sé hins vegar haldinn þeim annmarka að hann virðist samsama persónu sína við starfsemi allra súlustaða landsins.

Stefndu hafi ekki lagt sjálfstætt til efni vegna greinarinnar.  Allt, sem hafi birst í umræddu viðtali, sé haft orðrétt eftir viðmælanda tímaritsins eða þá að ummæli viðmælandans séu tekin úr gæsalöppum og vitnað til þeirra með hlutlausum hætti.  Stefnanda hafi verið boðið að koma að sínum athugasemdum við viðtalið og hafi þær verið birtar á sérstaklega áberandi hátt á rauðum fleti í viðtalinu.  Rétt sinn til að birta umfjöllunina byggja stefndu á 73. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944, sbr. 11. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, sem tryggi mönnum tjáningarfrelsi en þar segi að hver maður eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar.  Enn fremur vísa stefndu til 10. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

Um dómkröfu stefnanda nr. 1:

Ummæli stefndu, Lovísu, eru rétt eftir henni höfð á allan hátt, enda um beinar tilvitnanir að ræða og textinn því innan gæsalappa.  Stefnanda var auk þess veitt tækifæri til að koma að skoðunum sínum og svara um leið framkomnum stað­hæfingum.

Um dómkröfu stefnanda nr. 2:

Því er alfarið hafnað að í þeim millifyrirsögnum, sem hér um ræðir, sé að finna aðdróttanir að æru stefnanda eða ásakanir um að hann standi fyrir vændisstarfsemi.  Í viðtalinu sé rætt við stefndu, Lovísu Sigmundsdóttur, sem hafi rætt á opinskáan hátt um upplifun sína af störfum sem nektardansmey.  Við uppsetningu viðtalsins hafi stefnda, Björk, skipt því upp í kafla til skýrleika og sett inn millifyrirsagnir sem gefið hafi til kynna hvert umræðuefni fyrir sig.  Ekki verði með nokkru mót séð að hún hafi með því farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns sem blaðamaður.

Að auki er á því byggt varðandi stafliði A og B að fráleitt sé hægt að halda því fram af samhengi eða framsetningu greinarinnar að hér sé vísað til stefnanda.  Því sé um aðildarskort að ræða og beri því að sýkna stefndu, Björk, af þessum kröfuliðum með vísun til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.  Varðandi staflið C er á það bent að millifyrirsögnin vísi augljóslega til frásagnar stefndu, Lovísu, af dönskum stúlkum sem hafi starfað á nektarstaðnum Vegas.  Þann stað reki stefnandi ekki og hafi aldrei gert.  Því geti hann ekki átt aðild að kröfugerð á hendur stefndu vegna ummælanna.

Um dómkröfu stefnanda nr. 3:

Eins og fram komi í málavaxtalýsingu lýsi stefnda, Lovísa, í viðtalinu ferli sínum sem nektardansmær en þar komi fram að hún hafi byrjað þennan starfa á nektarstaðnum Þórscafé en einnig hafi hún unnið á nektardansstöðum á Akureyri, nektarstaðnum Vegas og loks á Goldfinger.  Réttilega komi fram í stefnu að stefnda, Lovísa, nafngreini ekki þá eða þann aðila sem hafi beitt hana hótunum.  Því sé hins vegar mótmælt, sem fram komi í stefnu, að fullvíst sé að með fyrirsögninni á forsíðu, sbr. staflið A, sé átt við stefnanda.  Stefnandi sé einungis viðriðinn rekstur eins af þeim fjölmörgu stöðum sem stefnda, Lovísa, hafi unnið hjá, og hvergi sé fullyrt á for­síðu að stefnandi hafi beitt stefndu hótunum.  Hið sama gildi um ummæli í stafliðum B og C.  Samkvæmt þessu sé um aðildarskort að ræða og beri að sýkna stefndu, Guðrúnu Elínu, af kröfunni með vísun til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991

Á því er einnig byggt af hálfu stefndu, Guðrúnar Elínar, að framangreind ummæli fari ekki út fyrir mörk tjáningarfrelsis hennar, enda sé hún einungis að skírskota til orða stefndu, Lovísu, eins og ljóst megi vera.

Varðandi það að stefndu, Björk, er stefnt til vara vegna þeirra ummæla sem hér um ræðir er á því byggt að sýkna beri hana vegna þess að telja verði, með vísun til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956, að uppsláttur á forsíðu og efnisyfirlit sé svokallað ritstjórnarefni og því á ábyrgð ritstjóra Vikunnar.  Verði ekki fallist á þá sýknuástæðu, er sýknu hennar krafist af sömu ástæðum og á sé byggt varðandi stefndu, Guðrúnu Elínu.

Um dómkröfu stefnanda nr. 4:

Því er af hálfu stefndu, Guðrúnar Elínar Arnardóttur, mótmælt að fullvíst sé að með umstefndum ummælum í leiðaranum, sem byggist á frásögn stefndu, Lovísu, sé átt við stefnanda.  Stefnda, Lovísa, hafi, eins og skýrt komi fram, unnið á fjölmörgum stöðum sem stefnandi hafi aldrei rekið og fari því fjarri að umstefnd ummæli eigi við um hann og hvergi sé fullyrt í leiðara að stefnandi hafi beitt hótunum.  Stefnandi leggi mikið upp úr því að birst hafi mynd af sér í viðtalinu.  Hún hafi verið birt við innskotsumfjöllun þar sem stefnanda hafi verið gefinn kostur á að svara tilteknum um­mælum stefndu, Lovísu, um ætlað vændi.   Samkvæmt þessu beri að sýkna stefndu af þessum kröfulið vegna aðildarskorts með tilvísun í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Um 5. kröfulið, miskabótakröfu:

 Af hálfu stefndu er krafist sýknu af kröfunni þar sem skilyrði miskabótakröfu á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu ekki uppfyllt og hafi þær ekki viðhaft ummæli sem fari út fyrir stjórnarskrárbundinn rétt þeirra til tjáningarfrelsis.  Þá hafi stefnandi á engan hátt sýnt fram á ófjárhagslegt tjón sitt í málinu.  Hann virðist hins vegar haldinn þeirri ranghugmynd að allir lögaðilar, sem reki súlustaði, sem og allir starfsmenn slíkra fyrirtækja, jafngildi sinni persónu.  Til vara krefjast stefndu þess, verði miskabótakrafa stefnanda tekin til greina, að hún verði stórlega lækkuð enda sé hún ekki í neinu samræmi við íslenska dómvenju.  Vaxtakröfu stefnanda er mótmælt og þess krafist að dráttarvextir verði í fyrsta lagi ákveðnir frá uppsögu dóms.

Um 7. kröfulið:

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefndu er þess krafist að krafa stefnanda um greiðslu vegna birtingar dóms verði lækkuð verulega.

VI

Niðurstöður.

Tímaritið Vikan, 34. tölublað, 23. ágúst 2007, er megingagn málsins. Hin umstefndu ummæli eru réttilega tilgreind í stefnu.  Einnig liggur frammi útprentun, svo og hljóðupptaka, af viðtali stefndu, blaðamannsins Bjarkar Eiðsdóttur, við stefndu, Lovísu Sigmundsdóttur, en greinin, hið prentaða viðtal á bls. 31 til 34, er unnin upp úr hljóðupptökunni á þann veg að óformleg samræða er, án efnislegra breytinga, um­orðuð þannig að úr verði frambærilegt ritmál.  Tölvupóstar, sem fóru á milli stefndu, Bjarkar og Lovísu, sýna að hin síðarnefnda samþykkti birtingu samtalsins í endanlegri mynd.  Inni í greininni er innskot með mynd af stefnanda þar sem undir hann er borin frásögn stefndu, Lovísu, um að hann hvetti starfsstúlkur sínar til að stunda vændi og hefði milligöngu þar um.  Þessu vísar hann harðlega á bug.  Kröfugerð stefnanda byggist í nokkrum liðum á ummælum sem byggð eru á eftirfarandi frásögn stefndu, Lovísu, í viðtalinu:  „Ég er orðin langþreytt á ranghugmyndunum sem þrífast um þessa staði og því að stelpur skuli ekki þora að segja sannleikann, en það eru virkilega slæmir hlutir í gangi á þessum stöðum.  Ég er komin yfir hræðsluna við þessa menn þótt mér hafi vissulega verið hótað lífláti og á tímabili fór ég ekki út úr húsi vegna hræðslu.“

Um dómkröfu stefnanda í 1. tölulið:

Fallist er á að stefnda, Lovísa Sigmundsdóttir, beri ætlaða ábyrgð á tilgreindum ummælum sínum en hins vegar hefur stefnandi fallið frá kröfugerð á hendur henni.  Af þessu leiðir að stefnda, Björk Eiðsdóttir, ber ekki ábyrgð sem „höfundur greinarinnar“ og er ekki fallist á kröfugerð stefnanda sem uppi er höfð.

Um dómkröfu stefnanda í 2. tölulið:

Fallist er á þá málsástæðu stefndu, Bjarkar Eiðsdóttur, að millifyrirsagnirnar hafi á eðlilegan hátt verið settar til niðurskipunar og kynningar á efni án þess að með því hafi verið farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis hennar sem blaðamanns.

Um dómkröfu stefnanda í 3. tölulið:

Á það er fallist með stefndu, Björk, að uppsláttur á forsíðu og efnisyfirlit sé ritstjórnarefni og einungis á ábyrgð stefndu, Guðrúnar Elínar.  Niðurstaða dómsins um þennan kröfulið er að öðru leyti sú að sýkna beri stefndu, Guðrúnu Elínu, þegar af þeirri ástæðu að hún hafi einungis skírskotað til orða stefndu, Lovísu, og ekki farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns.

Um dómkröfu stefnanda í 4. tölulið:

Ummælin fela ekki í sér að stefnandi eða menn á hans vegum hafi hótað stefndu, Lovísu Sigmundsdóttur, lífláti og ekki er fallist á að myndbirting af stefnanda með fyrrgreindri innskotsumfjöllun hafi neina þýðingu að þessu leyti.  Á kröfugerðina er því ekki fallist.

Um dómkröfu stefnanda í 5. tölulið:

Samkvæmt niðurstöðum dómsins um fyrstu fjóra kröfuliði stefnanda hafa stefndu, Guðrún Elín Arnardóttir og Björk Eiðsdóttir, ekki farið út fyrir stjórnarskrárbundinn rétt þeirra til tjáningarfrelsis og er fallist á að skilyrði miskabótakröfu á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu ekki uppfyllt.

Um dómkröfu stefnanda í 6. tölulið:

Með vísun til þeirra niðurstaðna dómsins, sem þegar eru fengnar, er ekki fullnægt skilyrðum 22. gr. laga um prentrétt nr. 57/1956 til að fallist verði á kröfuna.

Um dómkröfu stefnanda í 7. tölulið.

Samkvæmt niðurstöðum dómsins um aðrar dómkröfur stefnanda eru engar forsendur til þess að fallist verði á þessa kröfu.

Eigi er sýnt fram á að við framsetningu þess viðtals í tímaritinu Vikunni, sem um ræðir í málinu, og kynningu helstu efnisatriða þess hafi verið hafðar í frammi ærumeiðingar og aðdróttanir sem varði við 234. gr., 235. gr. og/eða 236. gr. almennra hegningarlaga öndvert löghelguðum og stjórnarskrárvörðum rétti til tjáningarfrelsis.Niðurstaða dómsins er sú, samkvæmt því sem að framan greinir, að sýkna beri stefndu, Guðrúnu Elínu Arnardóttur og Björk Eiðsdóttur, af öllum kröfum stefnanda, Ásgeirs Þórs Davíðssonar.  Eftir þessum úrslitum ber, samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, að dæma stefnanda til að greiða stefndu óskipt málskostnað og er hann ákveðinn 600.000 krónur.

Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari dæmir mál þetta.

Dómsorð:

Stefndu, Guðrún Elín Arnardóttir og Björk Eiðsdóttir, eru sýknar af kröfum stefn­anda, Ásgeirs Þórs Davíðssonar.

Stefnandi greiði stefndu óskipt 600.000 krónur í málskostnað.