Mál nr. 510/2014

Lykilorð
  • Úrbætur
  • Lausafjárkaup
  • Skaðabótaábyrgð
  • Galli

                                     

Fimmtudaginn 11. júní 2015.

Nr. 510/2014.

 

Þ. Þorgrímsson & Co ehf.

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

gegn

Önnu Björgu Gunnarsdóttur og

Sveini Trausta Hannessyni

(Ásbjörn Jónsson hrl.)

 

Lausafjárkaup. Galli. Skaðabótaábyrgð. Úrbætur.

Á árunum 2001 og 2002 festu A og S kaup á utanhússklæðningu í verslun Þ ehf. Klæðningin var framleidd í Kanada og kynnt með 25 ára ábyrgð á efni en 15 ára ábyrgð á yfirborði hennar. Um mitt ár 2009 tóku A og S eftir skemmdum í klæðningunni og kvörtuðu við Þ ehf. sem skoðaði hana í júlí það ár. Eftir að aðilar höfðu árangurslaust reynt að ná samkomulagi um úrbætur höfðuðu A og S mál á hendur Þ ehf. og kröfðust skaðabóta á þeim grundvelli að klæðningin hefði verið gölluð þar sem hún hefði ekki haft þá eiginleika sem Þ ehf. hafði gefið í skyn að hún hefði við markaðssetningu vörunnar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ábyrgð Þ ehf. á endingu klæðningarinnar hefði verið með öllu fyrirvaralaus á ábyrgðartímanum. Því skipti engu í lögskiptum aðila þótt erlendur framleiðandi hafði gert þá takmörkun á ábyrgð sinni að hún lækkaði með tilteknum hætti eftir því sem liði á gildistímanum. Af bæði yfir- og undirmati dómkvaddra matsmanna yrði ráðið að klæðningin hefði ekki fullnægt þeim eiginleikum sem heitið hefði verið af Þ ehf. Samkvæmt þessu hefði klæðninguna skort áskilda kosti og því bæri Þ ehf. skaðabótaábyrgð. Loks var fallist á með héraðsdómi að Þ ehf. hefði ekki boðið viðhlítandi úrbætur með því að bjóða nýja klæðningu af sömu tegund sem ætla yrði að fullnægði heldur ekki þeim áskildu kostum sem kynntir hefðu verið við sölu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. júlí 2014. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu, en til vara að hann verði aðeins dæmdur til að afhenda og setja upp nýja utanhússklæðningu á fasteign þeirra að Suðurvöllum 14 í Reykjanesbæ. Að því frágengnu krefst áfrýjandi þess að krafa stefndu verði lækkuð. Verði aðal- eða varakrafa áfrýjanda tekin til greina krefst hann þess að stefndu verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, en að öðrum kosti verði málskostnaður felldur niður.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Hinn 18. maí 2001 og 18. júní 2002 festu stefndu kaup á utanhússklæðningu af gerðinni Canexel í byggingavöruverslun áfrýjanda, en klæðningin var framleidd í Kanada. Um var að ræða klæðningu úr pressuðum viði sem átti ekki að þarfnast venjulegs viðhalds viðarklæðingar. Með aðilum er ágreiningslaust að klæðningin var kynnt með 25 ára ábyrgð á efni en 15 ára ábyrgð á yfirborði hennar. Stefndu settu klæðninguna á hús sitt að Suðurvöllum 14 í Reykjanesbæ og önnuðust þau það verk sjálf.

Um mitt ár 2009 tóku stefndu eftir skemmdum í klæðningunni og kvörtuðu við áfrýjanda sem kom og skoðaði hana 14. júlí það ár. Í kjölfarið fengu þau byggingartæknifræðing til að athuga klæðninguna og skilaði hann skýrslu til stefndu 21. janúar 2010.

Eftir að aðilar höfðu árangurslaust reynt að ná samkomulagi um úrbætur hlutuðust stefndu til um dómkvaðningu matsmanns 2. desember 2011 og skilaði hann matsgerð í mars 2012. Í matsgerðinni var meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að klæðningin væri gölluð vegna þess að yfirborðshúð útveggja og þakkanta flagnaði frá. Einnig var það álit matsmanns að ástand yfirborðshúðar klæðningar væri ekki í samræmi við lýsingu áfrýjanda á eiginleikum hennar. Taldi matsmaður að kostnaður við úrbætur næmi 3.155.000 krónur, svo sem sundurliðað er í hinum áfrýjaða dómi.

Að ósk áfrýjanda voru dómkvaddir yfirmatsmenn 13. júní 2013 til að meta ástand klæðningarinnar og hvort hún væri gölluð. Í matsgerð þeirra 5. september sama ár kom fram að málning hefði flagnað eða farið af á blettum víðsvegar á klæðningunni, jafnt á veggflötum sem á þakköntum. Það væri alvanalegt og fyrirsjáanlegt með viðarklæðningar hér á landi. Klæðningin væri því ekki gölluð heldur hrörnaði hún eins og fyrirsjáanlegt væri. Aftur á móti væri hún að vissu marki gölluð miðað við fyrirheit og lýsingu seljanda um endingu. Þá kom fram að frágangur klæðningarinnar væri í samræmi við byggingarreglugerð og fyrirmæli framleiðanda með nokkrum frávikum þó sem hvorki hefðu haft áhrif á endingu hennar né valdið þeim skemmdum sem á henni væru. Yfirmatsgerðin laut ekki að kostnaði við úrbætur, en með hinum áfrýjaða dómi var áfrýjanda gert að greiða stefndu skaðabætur í samræmi við undirmat.

II

Stefndu keyptu klæðninguna af áfrýjanda í maí 2001 og júní 2002. Að því er fyrri viðskiptin varðar fór um þau eftir lögum um lausafjárkaup nr. 39/1922 en um þau síðari eftir lögum um sama efni nr. 50/2000, sem tóku gildi 1. júní 2001. Verður leyst úr málinu á þeim lagagrundvelli.

Svo sem áður er rakið var klæðningin kynnt með 25 ára ábyrgð á efni en 15 ára ábyrgð á yfirborði hennar. Samkvæmt 2. mgr. 42. laga nr. 39/1922 gat kaupandi krafist skaðabóta ef hlut skorti við kaupin einhverja þá kosti sem ætla mátti að áskildir væru. Sama regla leiðir af 1. mgr. 18. gr. og b. lið 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/2000.

Ábyrgð áfrýjanda á endingu klæðningarinnar var með öllu fyrirvaralaus á ábyrgðartímanum. Því skiptir engu í lögskiptum aðila þótt erlendur framleiðandi hafi gert þá takmörkun á ábyrgð sinni að hún lækkaði með tilteknum hætti eftir því sem liði á gildistímann. Af bæði yfir- og undirmati verður ráðið að klæðningin fullnægði ekki þeim eiginleikum sem heitið var af áfrýjanda þar sem yfirborð flagnaði eða fór af á blettum víðs vegar á klæðningunni, jafnt á veggflötum sem þakköntum, löngu áður en ábyrgðartími var liðinn. Samkvæmt þessu skorti klæðninguna áskilda kosti og á því ber áfrýjandi skaðabótaábyrgð. Þá verður fallist á það með héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, að áfrýjandi hafi ekki boðið viðhlítandi úrbætur með því að bjóða nýja klæðningu af sömu tegund sem ætla verður að fullnægi heldur ekki þeim áskildu kostum sem kynntir voru við sölu klæðningarinnar. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Þ. Þorgrímsson & Co. ehf., greiði stefndu, Önnu Björgu Gunnarsdóttur og Sveini Trausta Hannessyni, 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. apríl 2014.

                Mál þetta, sem dómtekið var hinn 3. apríl sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Önnu Björgu Gunnarsdóttur og Sveini Trausta Hannessyni, á hendur Þ. Þorgrímssyni & Co. ehf., með stefnu áritaðri um birtingu 27. febrúar 2013.

                Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 3.155.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. júní 2012 til greiðsludags.

                Til vara krefjast stefnendur þess að stefndi verði dæmdur til að afhenda og setja upp nýja utanhússklæðningu á fasteign stefnenda að Suðurvöllum 14, Reykjanesbæ.  Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefnda að viðbættum virðisaukaskatti.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnenda og málskostnaðar að skaðlausu, en til vara sýknu gegn því að afhenda og setja upp nýja utanhússklæðningu á fasteign stefnanda og að stefnendum verði gert að greiða honum málskostnað.  Til þrautavara krefst stefndi þess að krafa stefnenda verði lækkuð og málskostnaður verði felldur niður.

II

                Málavextir eru þeir, að stefnendur keyptu utanhússklæðningu af gerðinni Canexel á fasteign sína að Suðurvöllum 14, Reykjanesbæ, af stefnda á árinu 2001.  Í auglýsingu stefnda á Canexel-utanhússklæðningunni kemur fram að 25 ára ábyrgð sé á efni klæðningarinnar, en 15 ára ábyrgð á yfirborðshúð klæðningarinnar.  Stefnendur settu klæðninguna sjálf á íbúðarhúsið sem og á bílskúr þess. 

                Í júní árið 2009 tóku stefnendur eftir því að litur klæðningarinnar var farinn að breytast og einnig að komnar voru hvítleitar doppur í klæðninguna.  Stefnendur höfðu símleiðis samband við stefnda og báðu hann um að skoða klæðninguna, sem hann gerði um miðjan júlí 2009.  Í kjölfarið bauð stefndi stefnendum málningu á góðum aflsætti til að mála klæðninguna.   

                Í janúar 2010 fengu stefnendur Sigurð H. Valtýsson byggingartæknifræðing til að meta ástand klæðningarinnar.  Skýrsla hans liggur frammi í málinu og er hún dagsett 21. janúar 2010.  Mat hans var það að klæðningin virtist ekki þola þær aðstæður sem hún væri í og taldi hann klæðninguna taka í sig raka gegnum yfirborðshúðina og klæðningin væri of veikburða og yfirborð hennar ekki nógu þétt til að þola rakanna.  Við það að raki kæmist í gegnum yfirborð klæðningarinnar yrði það til þess að efnið þrútnaði og verptist á milli lekta og klæðningin opnaðist.  Taldi hann að klæðningin hefði verið sett upp í samræmi við leiðbeiningar seljanda.

                Með bréfi stefnenda, dagsettu 22. mars 2010, var óskað eftir viðbrögðum af hálfu stefndu vegna þessarar skýrslu.  Sú ósk var ítrekuð með bréfi stefnenda, dagsettu 4. maí 2010.

                Með bréfi, dagsettu 29. júní 2010, bauðst stefndi til að skipta út klæðningunni og leita orsaka flögnunarinnar.

                Með bréfi stefnenda til stefnda, dagsettu 12. nóvember 2010, kröfðu stefnendur stefnda um þær úrbætur sem hann hefði lofað í bréfi sínu, dagsettu 29. júní 2010.

                Með tölvuskeyti stefnenda til stefnda, dagsettu 22. desember 2010, ítrekuðu stefnendur kröfu sína um úrbætur. 

                Hinn 20. október 2011, óskuðu stefnendur eftir dómkvaðningu matsmanns.  Í matsgerð hins dómkvadda matsmanns, dagsettri í mars 2012, er komist að þeirri niðurstöðu að klæðningin sé gölluð og að kostnaður stefnenda við að kaupa nýja sambærilega klæðningu á útveggi og þakkanta, sé samtals 3.155.000 krónur.  Kostnaðurinn er sundurliðaður þannig: Ný klæðning 1.045.000 krónur og 70.000 krónur að afla nýrrar klæðningar, 655.000 krónur að taka niður núverandi klæðningu og 1.385.000 krónur að setja upp nýja klæðningu.

                Með bréfi, dagsettu 3. maí 2012, kröfðu stefnendur stefnda um skaðabætur.

                Með tölvuskeyti lögmanns stefnenda til stefnda, dagsettu 11. júní 2012, var stefndi inntur eftir því hvort hann myndi greiða lögfræðikostnað stefnenda ef þau ákveddu að þiggja nýja klæðningu frá stefnda.

Með tölvuskeyti lögmanns stefnda, dagsettu 12. júní 2012, neituðu stefndu greiðslu lögmannskostnaðar og matskostnaðar. 

Stefnendur ítrekuðu kröfu sína um skaðabætur úr hendi stefnda í tölvuskeyti, dagsettu 22. október 2012.

Stefndi óskaði eftir dómkvaðningu yfirmatsmanna eftir að málið var höfðað og er yfirmatsgerðin dagsett í september 2013.  Niðurstaða þeirra er sú að málning hafi flagnað eða farið af á blettum víðs vegar á húsinu og bílskúr hússins, jafnt á veggflötum sem á þakköntum.  Að mati yfirmatsmanna sé klæðningin ekki gölluð heldur hrörni hún eins og fyrirsjáanlegt sé.  Klæðningin sé hins vegar gölluð að vissu marki miðað við fyrirheit og lýsingu seljanda.  Frágangur klæðningarinnar sé í samræmi við byggingarreglugerð en ófaglegur að nokkru leyti, m.a. vegna þess að grind sé ekki rétt af á ósléttu yfirborði, ekki sé þverloftað undir og yfir gluggum og notaðir séu smábútar í klæðninguna hér og hvar.  Þetta hafi þó ekki áhrif á endingu klæðningarinnar.  Frágangur klæðningarinnar sé í samræmi við fyrirmæli framleiðanda þó með undantekningum sem ekki hafi áhrif á endingu hennar og valdi ekki þeim skemmdum sem séu á málningu. 

III

                Stefnendur byggja kröfu sína um skaðabætur á því, að utanhússklæðning, sem þau keyptu af stefnda hafi verið gölluð í skilningi c-liðar 1. mgr. 16. gr. laga nr. 48/2003, þar sem hún hafi ekki haft þá eiginleika sem stefndi hafi gefið í skyn að hún hefði við markaðssetningu vörunnar.  Vísa stefnendur þessari kröfu sinni til stuðnings til álits dómkvadds matsmanns, en í skýrslu hans komi fram það mat hans að yfirborðshúð klæðningarinnar sé ekki í samræmi við lýsingu seljanda á henni.  Þá sé ljóst að klæðningin taki í sig raka og þrútni, sem valdi flögnun hennar og því að hún gegni ekki hlutverki sínu sem vörn fyrir veðri og vindum.  Stefnendur telja klæðninguna því ekki fullnægja því hlutverki sem henni sé ætlað, í skilningi a-liðar 2. mgr. 15. gr. laga nr. 48/2003.  Stefndi hafi auglýst klæðninguna þannig að stefnendur hafi mátt ætla að hún hefði góðan endingartíma og hefði í það minnsta þá eiginleika sem utanhússklæðningar hafi almennt.  Annað hafi komið á daginn og því telji stefnendur hana gallaða í skilningi b-liðar 2. mgr. 15. gr. laga nr. 48/2003.  Stefnendur benda og á að stefndi hafi tekið á sig ríkari ábyrgð með yfirlýsingu sinni um 25 ára ábyrgð á efni klæðningarinnar og 15 ára ábyrgð á yfirborðshúð hennar.

                Augljóst sé að stefndi hafi vitað í hvaða tilgangi nota hafi átt klæðninguna og í hvers konar veðráttu, enda hafi klæðningin verið seld á íslenskum markaði og markaðssett hér á landi.  Klæðningin sé því einnig gölluð í skilningi c-liðar 2. mgr. 15. gr. laga nr. 48/2003.  Þá sé það með öllu óstaðfest hvort klæðningin standist skilyrði f-liðar 2. mgr. 15. gr. sömu laga, þar sem matsmaður bendi á í matsgerð sinni að klæðningin hafi ekki fengið formlega vottun á Íslandi og því sé ekki ráðlegt að nota hana hér á landi. 

                Niðurstaða matsmannsins sé að klæðningin sé gölluð og ekki sé um einangrað tilfelli að ræða.  Aðrar eignir með sömu klæðningu, sem hann hafi skoðað, hafi einnig sýnt sömu gallaeinkenni.  Stefnendur telji því nýja afhendingu á grundvelli 29. gr. og 30. gr. laga nr. 48/2003, ekki bæta tjón sitt.

                Stefnendur byggja á því að þau hafi í einu og öllu fylgt leiðbeiningum seljanda við uppsetningu klæðningarinnar.  Í samræmi við það eigi þau, samkvæmt e-lið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 48/2003, rétt á að krefjast skaðabóta á grundvelli 33. gr. laganna, enda hafi þau orðið fyrir tjóni, sem leitt hafi verið í ljós með matsgerð dómkvadds matsmanns.  Stefnendur telja og að uppfyllt séu skilyrði skaðabótaréttarins, þar sem saknæmt hafi verið af stefnda að hafa ekki aflað sér vottunar fyrir vöru sína og orsakatengsl þess við tjón stefnenda sé augljóst.

                Stefnendur byggja á því að um neytendakaup sé að ræða og því skuli í einu og öllu fara eftir ákvæðum laga nr. 48/2003, um neytendakaup, enda falli umrædd kaup undir 2. og 3. mgr. 1. gr. laganna.  Kaupin hafi verið gerð til persónulegra nota og stefndi hafi atvinnu af sölu utanhússklæðninga.  Þá hafi stefnendur sjálf sett klæðninguna á hús sitt og því falli kaupin ekki undir d-lið 2. mgr. 2. gr. laga nr. 48/2003, sem undanþiggi vissa samninga gildissviði laganna.  Stefnendur benda á að þar sem um neytendakaup sé að ræða, sé stefnda ekki heimilt að bera fyrir sig málsástæður sem veiti stefnendum lakari réttarvernd en lögin heimili, þar sem þau séu ófrávíkjanleg, samkvæmt 3. gr. laganna.

                Varakröfu sína byggja stefnendur á því, að verði stefndi ekki talinn skaðabótaskyldur hvíli á honum skylda samkvæmt 29. og 30. gr. laga nr. 48/2003, að afhenda stefnendum nýja utanhússklæðningu í stað þeirrar sem hafi reynst gölluð.  Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 48/2003, sé stefndi og skuldbundinn til að gera þau skaðlaus af uppsetningu klæðningarinnar.  Vísa stefnendur einnig til ábyrgðaryfirlýsingar stefnda til stuðnings varakröfu sinni, sem og þeirra málsástæðna sem færðar séu fram með aðalkröfu.

                Um lagarök vísa stefnendur til laga nr. 48/2003, um neytendakaup, meginreglna kauparéttarins og skaðabótaréttarins.

                Kröfu um dráttarvexti og vaxtavexti byggja stefnendur á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

                Kröfu um málskostnað byggja stefnendur á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggja stefnendur á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.  Stefnendur séu ekki virðisaukaskattsskyld og því beri þeim nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda.

IV

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að aðalkrafa stefnanda eigi ekki við rök að styðjast þar sem ekki liggi fyrir að umdeild klæðning sé gölluð.  Ljóst sé að miklir ágallar séu á uppsetningu viðkomandi klæðningar og sé þar af leiðandi komin skýring á því að ending viðkomandi klæðningar sé ekki sem skyldi.  Þá kunni, auk rangrar uppsetningar, að hafa láðst að taka burt af húsinu rakan og fúinn við, áður en klætt hafi verið yfir með nýju klæðningunni.  Hafi sú klæðning sem sé fyrir innan þá klæðningu verið blaut og ónýt kunni það að hafa áhrif á endingu umdeildrar klæðningar.  Byggir stefndi á því að sá galli sem stefnendur telji vera á ábyrgð stefnda stafi af því að klæðningin hafi verið ranglega sett á viðkomandi fasteign.  Byggir stefndi á því, að ekki hafi verið farið að leiðbeiningum framleiðanda og seljanda við uppsetningu umdeildrar klæðningar.  Ljóst sé að ekki séu næg loftskipti á bak við klæðninguna til að koma í veg fyrir raka í klæðningunni, sem valdið geti skemmdum á framhlið hennar. 

                Stefndi byggir og á því, að félagið hafi á sínum tíma boðið stefnendum að skipta út klæðningunni og fá í leiðinni að rannsaka undirlag klæðningarinnar og öndun hennar.  Yrði þetta liður í því að útbúa nákvæmari leiðbeiningar um uppsetningu klæðningar svo koma mætti í veg fyrir ranga meðferð á efninu.  Byggir stefndi á því að enn standi stefnendum til boða að fá klæðningunni skipt út með þeim hætti að stefndi sjái um að taka niður umdeilda klæðningu og setja upp aðra eins, stefnendum að kostnaðarlausu. Krefst stefndi þess að stefnendum verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu þar sem það úrræði að fá afhenta nýja klæðningu hafi ávalt staðið þeim til boða, en þau aldrei þekkst það boð.  Byggir stefndi á meginreglu laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, sem og 29. gr. laga um neytendakaup nr. 48/2003.  Í þeim ákvæðum sé skýrt kveðið á um að neytandi geti valið um að láta seljanda bæta úr galla á eigin reikning eða afhenda nýjan söluhlut.  Þá vísar stefndi og til 3. mgr. 29. gr. laga nr. 48/2003, til stuðnings kröfu sinni um að stefnendum verði gert að greiða honum málskostnað.

                Varakröfu sína um lækkun dómkröfu byggir stefndi á því, að ljóst sé að stefnendur hafi ekki farið að tilmælum stefnda og framleiðanda við uppsetningu klæðningar og því hljóti þau að þurfa að bera tjón sitt sjálf að hluta eða öllu leyti.

                Um lagarök vísar stefndi til meginreglu kröfuréttar um sönnunarbyrði fyrir tilvist kröfu, laga nr. 48/2003, um neytendakaup, og laga nr. 50/200, um lausafjárkaup.

                Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

                Í máli þessu greinir aðila á um hvort utanhússklæðning sem stefnendur keyptu af stefnda á árinu 2001 og klæddu með hús sitt hafi verið gölluð og ef svo er hvaða kröfur stefnendur eigi þá á hendur stefnda. Um viðskipti aðila gilda lög nr. 48/2001, um neytendakaup, en samkvæmt 1. gr. þeirra laga er með neytendakaupum átt við sölu hlutar til neytanda þegar seljandi eða umboðsmaður hans hefur atvinnu sína af sölu.

Við upphaf aðalmeðferðar fóru dómarar, aðilar og lögmenn á vettvang.

                Óumdeilt er í málinu að samkvæmt auglýsingu stefnda á utanhússklæðningunni var ábyrgð á efni klæðningarinnar 25 ár en 15 ára ábyrgð á yfirborði hennar.  Þá liggur fyrir samkvæmt framlagðri matsgerð dómkvadds matsmanns sem og yfirmatsmanna, að klæðningin uppfyllir ekki auglýsta eiginleika, þar sem yfirborð hennar hefur flagnað á blettum víðs vegar á húsinu jafnt á veggflötum sem á þakköntum og skemmdir voru komnar í klæðninguna sjálfa á nokkrum stöðum, þegar rúmum átta árum frá kaupum. Telja matsmenn að vinnubrögð við uppsetningu klæðningarinnar hafi ekki valdið skemmdunum og að úrbætur felist í að fjarlægja klæðninguna og klæða húsið að nýju.  Þótt fallast megi á skoðun yfirmatsmanna að ástand viðarklæðningarinnar sé eins og búast má við hér á landi telur dómurinn að stefnendur hafi, í ljósi auglýsingar stefnda um endingu klæðningarinnar, mátt vænta mun lengri endingar á klæðningu hússins en raun bar vitni.  Átti stefnda og að vera þetta ljóst, sem seljandi vörunnar.  Uppfyllti klæðningin því ekki áskilda kosti og ber stefndi ábyrgð gagnvart stefnendum að þessu leyti, sbr. c-lið 1. mgr. 16. gr. laga nr. 48/2001. 

                Í umfjöllun hér að framan má sjá að viðbrögð stefnda í upphafi voru þau að bjóða stefnendum afslátt af málningu og það var ekki fyrr en eftir að matsgerð lá fyrir, eða nokkrum árum seinna, að stefndi bauðst til að endurklæða húsið.  Af gögnum málsins og framburði aðila hér fyrir dómi er ekki ljóst hvers vegna það var ekki gert, en hins vegar virðist sem ágreiningur um kostnað af því að staðreyna gallann hafi haft einhver áhrif þar um.  Þegar það er virt að stefndi getur ekki með afhendingu sams konar klæðningar uppfyllt þá áskildu kosti sem auglýstir voru um endingartíma klæðningarinnar, þykir rétt að fallast á fjárkröfu stefnenda sem byggir á mati dómkvadds matsmanns.  Samkvæmt því verður aðalkrafa stefnenda tekin til greina eins og hún er fram sett ásamt dráttarvöxtum eins og krafist er, en hvorki er tölulegur ágreiningur með aðilum né ágreiningur um upphafsdag dráttarvaxta.

                Eftir þessari niðurstöðu ber, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, að dæma stefnda til að greiða stefnendum in solidum málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.500.000 krónur, þar með talinn útlagður kostnaður stefnenda af öflun matsgerðar, 739.864 krónur, og virðisaukaskattur á málflutningsþóknun.

                Dóminn kvað upp Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómsmönnunum Frey Jóhannessyni tæknifræðingi og Ríkharði Kristjánssyni verkfræðingi.

D Ó M S O R Ð:

                Stefndi, Þ. Þorgrímsson & Co. ehf., greiði stefnendum, Önnu Björgu Gunnarsdóttur og Sveini Trausta Hannessyni, 3.155.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 3. júní 2012 til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnendum in solidum 1.500.000 krónur í málskostnað.