Print

Mál nr. 561/2010

Lykilorð
  • Verðbréfaviðskipti
  • Afleiðusamningur
  • Hlutabréf
  • Brostnar forsendur
  • Svik
  • Málsástæða
  • Aðfinnslur

Fimmtudaginn 7. apríl 2011.

Nr. 561/2010.

Landsbanki Íslands hf.

(Jóhannes Sigurðsson hrl.)

gegn

Gift fjárfestingarfélagi ehf.

(Anton B. Markússon hrl.

Kristbjörg Stephensen hdl.)

Verðbréfaviðskipti. Afleiðusamningur. Hlutabréf. Brostnar forsendur. Svik. Málsástæður. Aðfinnslur.

L hf. og G ehf. gerðu 19. ágúst 2008 með sér framvirkan samning um kaup G ehf. á hlutabréfum í L hf. og var gjalddagi samningsins 19. nóvember 2008. Í millitíðinni var L hf. tekinn til slitameðferðar. Á gjalddaga neitaði G ehf. að greiða kaupverðið og höfðaði L hf. því mál og krafðist greiðslu gegn afhendingu hlutabréfanna. Vegna málsástæðu G ehf. um að forsendur hefðu brostið fyrir efndum samningsins kom fram í dómi Hæstaréttar að skylda G ehf. samkvæmt samningnum hefði verið skýr og G ehf. hefði tekið áhættuna af því að hlutabréfin gætu orðið verðlaus eða misst eiginleika sinn sem hlutabréf. Ekki hefði verið vefengt að L hf. hefði átt hlutabréf í sjálfum sér, sem hann hefði getað afhent G ehf. á gjalddaga samningsins. Ekki var fallist á að víkja ætti efni samningsins til hliðar samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936, enda bentu upplýsingar í hlutafélagskrá um tilgang G ehf. til þess að jafnræði hefði verið með samningsaðilum, auk þess sem fram kom að G ehf. hefði kynnt sér eðli framvirkra samninga og notið sérfræðiráðgjafar annarra en L ehf. áður en samningurinn var undirritaður. Einnig þóttu hvorki efni samningsins né atvik eftir samningsgerðina gefa tilefni til að víkja samningnum til hliðar. Loks var ekki talið sannað með tilvísunum til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis einum saman að L hf. hefði beitt blekkingum við samningsgerðina. Krafa L hf. var af þessum sökum tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. september 2010. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 912.016.583 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. nóvember 2008 til greiðsludags gegn útgáfu afsals fyrir 30.826.230 hlutum í áfrýjanda. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að dómkrafa áfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Stefndi, sem þá nefndist Eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga svf., gerði samning 29. mars 2007 við áfrýjanda, sem bar fyrirsögnina: „Hlutabréf – Staðfesting á framvirkum samningi“. Samningurinn var fylltur út á stöðluðu formi þar sem skilmálar voru í tveimur hlutum, annars vegar „A. Lýsing á samningi“ og hins vegar „B. Ákvæði samnings“. Í lýsingu samkvæmt A-hluta sagði meðal annars að samningsdagur væri 29. mars 2007 og gjalddagi 29. júní sama ár, seljandi væri áfrýjandi og kaupandi stefndi og seld væru hlutabréf í áfrýjanda, 30.000.000 hlutir, með „viðmiðunargengi í upphafi“ 33,0404 að innifalinni 0,5% upphafsþóknun. Vextir voru 13,8% að viðbættum 2% og „framvirkt gengi“ 34,36, en samningsfjárhæð varð þannig 1.030.799.282 krónur. Þá sagði þar: „Kauphöll: ICEX Equities“. Í B-hluta samningsins, lið I sagði: „Seljandi skuldbindur sig til að selja kaupanda framangreind hlutabréf á gjalddaga. Jafnframt skuldbindur seljandi sig á gjalddaga til að afhenda kaupanda framangreint nafnverð hlutabréfa. Landsbanki Íslands hf. skuldbindur sig til að tilkynna viðskiptin til hluthafaskrár viðkomandi hlutafélags.“ Í lið II sagði: „Á gjalddaga leggur kaupandi inn á viðskiptareikning seljanda framangreinda samningsfjárhæð.“ Þá sagði í lið VIII að auk ákvæða samningsins giltu um hann að því marki sem við ættu ákvæði í svonefndum rammasamningi áfrýjanda um markaðsviðskipti og í almennum skilmálum Sambands íslenskra viðskiptabanka og sparisjóða um vaxta- og gjaldmiðlaskipti. Loks sagði í lið XI: „Jafnframt staðfestir mótaðili LÍ að hann hafi kynnt sér eðli framvirkra samninga og notið sérfræðiráðgjafar utan Landsbanka Íslands áður en hann undirritaði samninginn.“ Þá undirrituðu málsaðilarnir 7. nóvember 2007 svokallaða almenna skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá Landsbanka Íslands hf., en í 1. gr. þeirra kom fram að þeir tækju meðal annars til afleiðuviðskipta, sem óumdeilt er að framangreindur samningur aðilanna teljist til.

Að liðnu því þriggja mánaða tímabili, sem samningurinn tók til, mun hann hafa verið gerður upp miðað við gengi hlutabréfa í áfrýjanda á gjalddaga. Að ósk stefnda var hann síðan endurnýjaður átta sinnum eftir það til misjafnlega langs tíma í senn, síðast 19. ágúst 2008. Tap stefnda í þessum viðskiptum vegna lækkunar á markaðsgengi hlutabréfa í áfrýjanda varð verulegt á árinu 2008 og virðist stefndi hafa þurft samkvæmt kröfu áfrýjanda að greiða samtals 365.000.000 krónur til að halda viðskiptunum áfram.

Eins og fram er komið var samningur aðila endurnýjaður í síðasta sinn 19. ágúst 2008 og gjalddagi ákveðinn 19. nóvember sama ár. Seldir voru 30.826.230 hlutir í áfrýjanda, viðmiðunargengi í upphafi var ákveðið 28,2088, vextir samtals 19,1%, framvirkt gengi 29,5857 og samningsfjárhæð þannig 912.016.583 krónur. Við orðið kauphöll var fært: „OMX ICE Equities“. Að öðru leyti voru ákvæði samningsins samhljóða fyrsta samningi aðilanna 19. mars 2007 sem að framan var vikið að. Áður en kom að gjalddaga ákvað Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 að taka yfir vald hluthafafundar áfrýjanda og víkja stjórn hans frá störfum þegar í stað. Var áfrýjanda jafnframt skipuð skilanefnd, sem tók við öllum heimildum stjórnar hans samkvæmt ákvæðum laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Skyldi hún meðal annars sjá um rekstur félagsins og hafa umsjón með allri meðferð eigna þess. Á gjalddaga samningsins 19. nóvember 2008 efndi hvorugur aðilanna skyldur sínar samkvæmt honum og engra gagna nýtur í málinu um samskipti þeirra frá þeim degi til 2. febrúar 2009. Í bréfi áfrýjanda til stefnda þann dag var vísað til „afleiðu- og/eða gjaldeyrisviðskipta“ stefnda við áfrýjanda og að samningssamband þeirra vegna afleiðuviðskipta héldist áfram hjá áfrýjanda samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Vísað var til meðfylgjandi yfirlits yfir „afleiðu- og/eða gjaldeyrissamninga“ stefnda við áfrýjanda og þeim fyrrnefnda boðið að „loka þeim samningum“ með skilmálum, sem nánar var lýst. Var honum veittur 14 daga frestur til að ganga frá eða semja um greiðslu, en að öðrum kosti mætti hann búast við að krafan yrði innheimt með málsókn. Ekki er fram komið að stefndi hafi svarað bréfinu.

II

Í greinargerð stefnda til héraðsdóms var krafa um sýknu í fyrsta lagi reist á því að áfrýjandi hefði ekki sannað að hann hafi verið tilbúinn að afhenda þá hluti í áfrýjanda, sem stefndi samdi um að kaupa með framvirkum hætti á gjalddaga 19. nóvember 2008. Ósannað væri að áfrýjandi hefði getað staðið við þessa grundvallarskyldu sína samkvæmt samningnum og væri greiðsluskylda stefnda því ekki heldur fyrir hendi. Í annan stað reisti stefndi kröfu sína á því að forsendur kaupsamningsins hafi brostið þegar hlutabréf í áfrýjanda urðu verðlaus með því að hann var tekinn til slita 7. október 2008. Loks vísaði stefndi til 1. og 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með áorðnum breytingum, en vegna atvika sem urðu eftir gerð samningsins bæri að víkja honum til hliðar í heild. Yrði að telja ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að áfrýjandi gæti borið fyrir sig ákvæði samningsins og innheimt greiðslur samkvæmt honum án tillits til þess að gagngjaldið var orðið verðlaust þegar kom að gjalddaga. Þessu til stuðnings vísaði stefndi fyrir Hæstarétti jafnframt til þess að hlutabréf í áfrýjanda hafi á gjalddaga ekki lengur verið skráð í kauphöll, svo sem samningur aðilanna kveði á um, og að atkvæðisréttur, sem fylgt hafi eignarrétti að bréfunum, hafi þá ekki lengur verið fyrir hendi. Við aðalmeðferð málsins í héraði tefldi stefndi einnig fram þeirri nýju málsástæðu að áfrýjandi hafi við samningsgerð beitt blekkingum, en fyrirsvarsmönnum hans hafi þá verið ljóst, sem öðrum var ókunnugt um, hvernig fjárhag áfrýjanda hafi verið komið. Með óheiðarlegum aðferðum hafi þeir stuðlað að því að halda uppi markaðsverði hlutabréfa í félaginu, en ekki hefði komið til samningsgerðar við stefnda ef þessum staðreyndum hefði ekki verið leynt. Þessu til sönnunar hefur stefndi lagt fyrir Hæstarétt hluta úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem kynnt var vorið 2010. Telur hann þá umfjöllun sanna að fyrirsvarsmenn áfrýjanda hafi þegar í janúar 2008 og ekki síðar en í mars á sama ári vitað að staða hans væri vonlaus og þeir því verið í vondri trú við gerð samningsins 19. ágúst 2008. Fyrir Hæstarétti vísaði stefndi um þessa málsástæðu til 33. gr. laga nr. 7/1936.

Málsókn áfrýjanda er á því reist að stefndi hafi með samningi þeirra skuldbundið sig til að greiða fyrir hlutabréfin á gjalddaga þegar þau skyldu jafnframt afhent honum. Sú skuldbinding standi óhögguð þrátt fyrir að gagngjaldið hafi fallið í verði, en um það vísar áfrýjandi til meginreglu fjármunaréttar að samningar skuli standa. Með því að bjóða hvorki fram greiðslu á gjalddaga né síðar hafi stefndi vanefnt skyldu sína. Hér verði einkum að líta til eðlis viðskiptanna, en kaup og sala hlutabréfa feli í sér sérstaka áhættu umfram önnur viðskipti, sem báðir aðilarnir hafi gert sér ljóst. Við gerð slíkra samninga, hvort heldur er venjulegra kaupsamninga eða framvirkra samninga eins og hér, skipti ekki máli um skuldbindingargildi þeirra hvort markaðsverð hlutabréfa breytist mikið eða lítið eftir samningsgerð. Aðilarnir séu skuldbundnir eftir sem áður. Vegna þeirrar málsástæðu stefnda að hlutabréfin hafi orðið verðlaus verði einnig að hafa í huga að hlutabréf í nánast öllum félögum, sem skráð voru á hlutabréfamarkaði, hafi orðið verðlaus við hrun íslensku viðskiptabankanna í október 2008 og því fari fjarri að eitthvað sérstakt gildi að þessu leyti um áfrýjanda. Annað hafi einnig lækkað í verði, svo sem skuldabréf og fasteignir, en eðlilegt sé að hlutabréf hafi orðið verst úti við slíkt efnahagshrun sem varð hér á landi haustið 2008. Brostnar forsendur komi því ekki til álita og lýsing í samningnum um að bréfin séu skráð í kauphöll skipti engu máli að þessu virtu. Þá mótmælir áfrýjandi að honum sé ekki unnt að inna gagngjaldið af hendi, en hann eigi nægilega mikið af hlutabréfum í sjálfum sér, sem hann geti afhent, og þrátt fyrir að þau séu verðlaus sé eftir sem áður heimilt að framselja þau. Engu breyti um það að áfrýjandi sæti slitum. Þá mótmælir áfrýjandi að málsástæða stefnda um blekkingar fái komist að í málinu, auk þess sem hún sé ósönnuð.

III

Að framan var þess getið að í fyrirsögn samnings aðilanna 19. ágúst 2008 kom fram að um framvirkan samning væri að ræða, en slíkir samningar falla undir ákvæði laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sbr. d. lið 2. töluliðar 1. mgr. 2. gr. laganna. Einkenni afleiðusamninga af þeim toga er að með þeim gengst samningsaðili undir að kaupa eða selja tiltekin verðmæti á fyrirfram ákveðnu verði og tíma, meðal annars til að eyða áhættu í viðskiptum eða til spákaupmennsku, þar sem veðjað er á tiltekna þróun fram að gjalddaga. Við úrlausn um málsástæður stefnda, sem lúta að brostnum forsendum og eiginleikum greiðslu áfrýjanda á gjalddaga, verður einkum að líta til þess eðlis samnings þeirra að með honum tók stefndi áhættu af þróun markaðsverðs hlutabréfa í áfrýjanda í von um hagstæða framvindu að gjalddaga. Sú áhætta verður almennt ekki takmörkuð við að hagnaður eða tap sé innan einhverra marka, sem stefndi hefur borið við með þeim hætti að hann sé laus undan skuldbindingu sinni fyrst hlutabréfin urðu verðlaus á gjalddaga og misstu að auki eiginleika sinn sem hlutabréf. Um þetta verður einnig að gæta að því að sveiflur á virði hlutabréfa stafa af ýmsum ástæðum og eru alkunnar, en hlutabréf geta orðið verðlaus óháð því hvort þau eru skráð í kauphöll. Skylda stefnda samkvæmt samningnum er skýr og hann tók áhættuna af því að virði hlutabréfanna lækkaði, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 225/2006 á bls. 4737 í dómasafni réttarins 2006. Ekki hefur verið vefengt að áfrýjandi hafi átt hlutabréf í sjálfum sér, sem hann hefði getað afhent stefnda á gjalddaga samningsins. Þær málsástæður stefnda, sem hér um ræðir, geta því ekki leitt til þess að hann losni undan skyldu til að efna samninginn af sinni hálfu.

Fyrir Hæstarétt hafa verið lagðar upplýsingar um stefnda úr hlutafélagaskrá, en þar segir meðal annars að tilgangur hans sé „að vera eignarhaldsfélag um hluti í öðrum félögum, kaup og sala hlutabréfa, kaup og sala fasteigna, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur.“ Tilgangurinn með starfsemi stefnda er áréttaður í heiti hans. Áður var getið málsástæðu stefnda, sem reist er á 36. gr. laga nr. 7/1936, en ljóst er að ekki er til að dreifa ójafnræði milli aðilanna, sem í öðrum tilvikum gæti stuðlað að því að ákvæðinu yrði beitt við úrlausn máls. Þá kom fram í samningi aðila að stefndi hefði kynnt sér eðli framvirkra samninga og notið sérfræðiráðgjafar annarra en áfrýjanda áður en hann undirritaði samninginn. Vegna þess, sem áður kom fram um eðli viðskipta aðilanna, er efni samningsins heldur ekki slíkt að tilefni sé til að víkja honum til hliðar. Engin atvik, sem urðu eftir samningsgerðina 19. ágúst 2008, geta heldur leitt til þeirrar niðurstöðu.

Atvik, sem voru fyrir hendi við samningsgerðina og stefndi ber fyrir sig, snúa bæði að málsástæðu, sem reist er á 36. gr. laga nr. 7/1936, og síðbúinni málsástæðu um að blekkingum hafi verið beitt og reist er á 33. gr. sömu laga. Verður ráðið af málatilbúnaði stefnda fyrir Hæstarétti að nýjum upplýsingum úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sé ætlað að styðja báðar málsástæðurnar. Varðandi þetta er til þess að líta að skýrslan gefur mikilvægar vísbendingar um stöðu áfrýjanda nokkru áður en aðilarnir endurnýjuðu samning sinn í síðasta sinn og um háttsemi áfrýjanda við að halda uppi verði hlutabréfa í félaginu. Það leysir stefnda hins vegar ekki undan því að þurfa að færa fram fullnægjandi sönnun fyrir staðhæfingum sínum eftir þeim leiðum, sem lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála bjóða. Réttmæti málsástæðunnar er því ósannað og verður 36. gr. laga nr. 7/1936 af þeim sökum ekki beitt við úrlausn málsins vegna atvika, sem haldið er fram að hafi verið fyrir hendi við samningsgerðina. Af sömu ástæðu getur 33. gr. sömu laga ekki heldur komið til álita og reynir því ekki sérstaklega á hvort málsástæðan sé nægilega snemma fram borin.

Samkvæmt öllu framanröktu verður krafa áfrýjanda tekin til greina á þann hátt, sem fram kemur í dómsorði. Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.

Það athugast að lýsing málavaxta í hinum áfrýjaða dómi er alls ófullnægjandi og er það aðfinnsluvert.

Dómsorð:

Stefndi, Gift fjárfestingarfélag ehf., greiði áfrýjanda, Landsbanka Íslands hf., 912.016.583 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. nóvember 2008 til greiðsludags gegn framsali á 30.826.230 hlutum í áfrýjanda.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2010.

I

Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 15. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, Austurstræti 16, Reykjavík, með stefnu, birtri 23. júní 2009, á hendur Gift fjárfestingarfélagi ehf., kt. 620507-2259, Suðurlandsbraut 18 í Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr.  912.016.583 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. nóvember 2008 til greiðsludags gegn útgáfu afsals fyrir 30.826.230 hlutum í stefnanda.  Stefnandi krefst jafnframt máls­kostnaðar úr hendi stefnda.

Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í þessu máli og stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

II

Málavextir

Þann 19. ágúst 2008 gerðu stefnandi og stefndi samning um framvirk kaup stefnda á 30.826.230 hlutum í stefnanda og skyldi hann greiða fyrir þá kr. 912.016.583.  Stefndi hafði áður, þ.e. hinn 7. nóvember 2007, samþykkt almenna skilmála fyrir markaðs­viðskipti hjá stefnanda.  Skyldi stefnandi selja stefnda framangreinda hluti og stefndi greiða kaupverðið hinn 19. nóvember 2008, sem var gjalddagi samningsins.  Uppgjör skyldi eiga sér stað á gjalddaga fyrir kl. 16.00.

Þegar að gjalddaga kom voru umrædd hlutabréf orðin verðlaus, og greinir aðila á um greiðsluskyldu stefnda.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi reisir kröfu sína á því, að skuld stefnda við hann samkvæmt þeim samningi, sem um ræði, sé kr. 912.016.583.  Stefnandi byggi á því, að stefndi hafi skuldbundið sig til að leggja kaup­verð 30.826.230 hluta í stefnanda, þ.e hina svonefnda samningsfjárhæð, inn á reikning stefnanda nr. 0100-26-010600 á gjalddaga samningsins 19. nóvember 2008.  Stefnandi byggi á því, að engin greiðsla hafi borizt frá stefnda.

Stefnandi vísar til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um efndir samninga og fjárskuldbindinga.  Dráttarvaxtakröfu sína styður stefnandi við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu og kröfu um málskostnað við 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína á eftirfarandi málsástæðum:

1.   Stefnandi hafi ekki sannað, eða gert líklegt, að hann hafi verið tilbúinn til að afhenda þá 30.826.230 hluti í stefnanda, sem stefndi hafði samið um að kaupa með framvirkum samningi, dags. 19. nóvember 2008, sbr. dskj. nr. 3.  Það verði því að telja ósannað, að stefnandi hefði getað staðið við sína grundvallarskyldu um afhendingu hinna seldu hluta samkvæmt ákvæðum hins framvirka samnings.  Þar af leiðandi sé ekki unnt að telja greiðsluskyldu stefnda vera fyrir hendi.

2.   Stefndi byggir sýknukröfu sína jafnframt á því, að allar forsendur fyrir gerð hins framvirka kaupsamnings, sbr. dskj. nr. 3, hafi brostið, þegar hlutabréf í stefnanda urðu verðlaus í kjölfar yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á rekstri og starfsemi stefnanda hinn 7. október 2008.  Stefndi telji umræddan samning ógildan og að víkja beri honum til hliðar í heild, með vísan til þeirra ófyrirsjáanlegu atvika, sem komu til eftir gerð hans hinn 19. ágúst 2008, sbr. ákvæði 1. og 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936.  Stefndi telji einkar ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju, að stefnandi geti borið fyrir sig ákvæði samningsins og innheimt greiðslur samkvæmt honum, án þess að taka tillit til þess, að gagngjaldið, þ.e. hlutir í stefnanda, hafi verið orðnir verðlausir, þegar á gjalddaga var komið hinn 19. nóvember 2008.

Vísi stefndi meðal annars til dóms Hæstaréttar nr. 155/2000, þar sem Hæstiréttur hafi talið rétt, með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936, að víkja samningi til hliðar að því leyti sem varðaði þann hluta hans, sem ekki hafði verið efndur.  En með vísan til sanngirnissjónarmiða hafi þótt rétt, að þær ófyrirsjáanlegu lagabreytingar, sem til hafi komið eftir samningsgerðina, og hvorugur aðila hafi ráðið neinu um, skyldu bitna jafnt á báðum aðilum.

Við aðalmeðferð málsins byggði stefndi sýknukröfu sína enn fremur á því, að stefnandi hefði beitt blekkingum í viðskiptum aðila.  Málsástæðan hafi fyrst verið sett fram við aðalmeðferð, þar sem hún hefði fyrst orðið ljós við útkomu rannsóknarskýrslu Alþingis.

Af hálfu stefnanda var málsástæðu þessari mótmælt sem of seint fram kominni, en til vara var á því byggt, að ósannað sé, að blekkingum hefði verið beitt.

Með vísan til þess að framangreind málsástæða var sett fram í fyrsta þinghaldi í máli þessu eftir að rannsóknarskýrsla Alþingis kom út, þykir málsástæðan ekki of seint fram komin, en af hálfu stefnda var vísar til skýrslunnar til stuðnings málsástæðunni.

Með hliðsjón af öllu ofangreindu beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Stefndi vísar til almennra meginreglna kröfuréttar og samningaréttar um efndir samninga og fjárskuldbindinga, einkum til ákvæða 36. gr. laga nr. 7/1936.  Málskostnaðarkrafa stefnda byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Forsendur og niðurstaða

Samkvæmt samningi aðila skuldbatt stefndi sig til að kaupa af Landsbanka Íslands hf. hlutabréf, auðkennd LAIS, Landsbanki Íslands hf., að nafnverði 30.826.230,00 hlutir, á framvirku gengi 29,5857, að fjárhæð kr. 912.016.583, með gjalddaga 19.11.2008.  Þá er í samningnum svohljóðandi texti:  „Kauphöll: OMX ICE Equities.“  Í samningnum segir undir lið B (i), að seljandi skuldbindi sig til að selja kaupanda framangreind hlutabréf á gjalddaga og jafnframt skuldbindur seljandi sig, á gjalddaga, til að afhenda kaupanda framangreint nafnverð hlutabréfa.  Og samkvæmt lið B (ii) skuldbindur kaupandi sig til, á gjalddaga, að leggja inn á viðskiptareikning seljanda samningsfjárhæðina.  Undir lið B (ix) segir síðan, að vanefni annar hvor samningsaðila efndaskyldur (samningsskyldur) sínar að hluta eða öllu leyti, sé hinum óskylt að efna efndaskyldur sínar, að því leyti sem nemi vanefndum.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að ósannað sé, að stefnandi hafi verið tilbúinn að afhenda umsamda hluti í stefnanda á gjalddaga, að forsendur fyrir samningnum hafi brostið, þegar hlutabréf í stefnanda urðu verðlaus, og að stefnandi hafi beitt blekkingum í viðskiptum aðila.

Samkvæmt yfirliti Landsbanka Íslands hf., aðalstöðva yfir verðbréfaeign bankans hinn 19.11. 2008, átti bankinn hlutabréf á umsömdu nafnverði, en á þeim tíma var markaðsgengi þeirra 0,000, þ.e. bréfin voru orðin algerlega verðlaus.  Það liggur ekki fyrir, að stefnandi hafi gert reka að því að afhenda stefnda bréfin á umsömdum degi og virðist hvorugur aðila hafa haft uppi tilburði til að efna samninginn á gjalddaga.  Það er ljóst, að umrædd hlutabréf höfðu á gjalddaga ekki þá eiginleika, sem stefndi mátti reikna með að þau hefðu.  Þannig eru bréfin ekki hæf til skráningar í Kauphöll, svo sem samningur aðila virðist gera ráð fyrir, eða hæf til að vera viðskiptabréf, en þeim fylgja hvorki réttindi né skyldur, eftir að þau urðu verðlaus.  Með vísan til þess, að þær sérstöku aðstæður, sem sköpuðust á fjármálamarkaði hér á landi eftir 6. október 2008, og sem stefndi átti engan þátt í eða gat séð fyrir, með þeim afleiðingum, að hlutabréf þau, sem stefndi skuldbatt sig til að kaupa með hinum framvirka samningi, voru orðin með öllu verðlaus og höfðu misst alla eiginleika sem viðskiptabréf, er fallizt á með stefnda, að forsendur fyrir samningnum hafi brostið í þeim mæli, að hann verði ekki krafinn um efndir.  Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.  Með hliðsjón af þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 500.000.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Gift fjárfestingafélag ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Landsbanka Íslands hf.

Stefnandi greiði stefnda kr. 500.000 í málskostnað.