Print

Mál nr. 498/2005

Lykilorð
  • Eignarréttur
  • Fasteign
  • Þjóðlenda
  • Afréttur
  • Hefð
  • Gjafsókn
  • Sératkvæði

Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. september 2006.

Nr. 498/2005.

Íslenska ríkið

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

gegn

Nönnu Sigurðardóttur og

Olgu Friðjónsdóttur

(Ólafur Björnsson hrl. og

 Ragnar Aðalsteinsson hrl.)                       

 

Eignarréttur. Fasteign. Þjóðlenda. Afréttur. Hefð. Gjafsókn. Sératkvæði.

Með úrskurði 14. nóvember 2003, þar sem fjallað var um mörk þjóðlendna og eignarlanda í Lóni í Sveitarfélaginu Hornafirði, komst óbyggðanefnd að þeirri niðurstöðu að land á syðsta og austasta hluta svæðisins væri eignarland. Hið sama gilti um allt svæðið sunnan og vestan Jökulsár, á milli hennar, Skyndidalsár og Vatnajökuls. Nefndin taldi hins vegar land norðan og austan Jökulsár, allt að norðurmörkum kröfusvæðisins, vera þjóðlendu og var réttur eigenda jarðarinnar Stafafells til afréttarnota þar viðurkenndur. Nefndin ákvað jafnframt að mörk eignarlands og þjóðlendu við Vatnajökul skyldu miðast við stöðu jökuljaðarsins eins og hann var við gildistöku laga nr. 58/1998. Í krafðist ógildingar á úrskurði nefndarinnar varðandi landsvæðið sunnan og vestan Jökulsár að Skyndidalsá og viðurkenningar á að það teldist þjóðlenda. N og O höfðuðu gagnsök og kröfðust ógildingar á úrskurði nefndarinnar um landsvæðið norðan og austan Jökulsár og viðurkenningar á að það teldist eignarland. Með héraðsdómi voru kröfur N og O teknar til greina og jafnframt dæmt að mörk þjóðlendu og eignarlands Stafafells fylgi jökulbrún eins og hún er á hverjum tíma.

Fyrir Hæstarétti snerist ágreiningur aðila annars vegar um svæðið sunnan og vestan Jökulsár, sem til suðurs markast af Skyndidalsá, og hins vegar um svæðið norðan og austan Jökulsár. Hvað varðar fyrrgreint svæði var litið til þess að merkjalýsing í landamerkjabréfi Stafafells frá 1914 féll í stórum dráttum saman við eldri heimildarskjöl. Með vísan til gróðurfars og líklegra landnámsmarka var ekki talið loku fyrir það skotið að land á hásléttunum sunnan Jökulsár eða hluti þess kynni að hafa verið numinn þannig að samrýmdist landamerkjabréfinu og eldri heimildum. Staðhættir og fyrirliggjandi heimildir um gróðurfar voru þó ekki talin styðja að stofnað hefði verið til beins eignarréttar á fjalllendinu milli hásléttanna og Vatnajökuls með námi. Hins vegar var ekki talið unnt að horfa framhjá því að Í hefði hvorki gert sérstaka kröfu um að landsvæðið yrði undanskilið eignarlandi Stafafells né fært nokkuð fram sem leggja mætti til grundvallar við nánari afmörkun lands sem þannig yrði farið með. Í ljósi þessa voru ekki talin skilyrði til að skilja þetta landsvæði undan beinum eignarrétti N og O. Var því lagt til grundvallar að umrætt svæði, sem landamerkjabréf Stafafells tók til, væri eignarland og fylgt fordæmi Hæstaréttar í máli nr. 345/2005 við ákvörðun marka eignarlands og þjóðlendu við Vatnajökul. Hvað varðar land norðan og austan Jökulsár var komist að þeirri niðurstöðu að ekki fengi stoð í eldri heimildum að það hefði verið innan landamerkja Stafafells fyrir gerð landamerkjabréfsins 1914. Var þannig ekki talið njóta við heimilda sem gætu bent til þess að landið hefði nokkurn tíma verið háð beinum eignarrétti. Þá voru staðhættir, einangrun landsvæðisins og fjarlægð frá byggð talin vera með þeim hætti að ólíklegt væri að nokkur hluti þess hefði verið numinn. N og O voru heldur ekki taldar hafa fært fram sönnun þess að skilyrðum eignarhefðar að landinu hefði verið fullnægt með þeim venjubundnu afréttarnotum, sem umráðamenn Stafafells hefðu ásamt fleirum haft af þeim hluta landsins, sem taldist gróinn. Þá var ekki talið að eigandi Stafafells árið 1914 þegar landamerkjabréfið var gert hefði getað stuðst við neina haldbæra eldri heimild um þau merki hennar norðan Jökulsár sem greint var frá í bréfinu. Að þessu virtu var ekki talið að N og O, sem leiddu rétt sinn frá þeim eiganda, gætu borið því við að þær hefðu haft réttmæta ástæðu til að vænta þess að eignarréttur hefði unnist að landi, sem ekki hefði átt undir Stafafell áður, með landamerkjabréfinu 1914, sem að auki var ekki samþykkt af hálfu þeirra sem kunna að hafa talið til réttinda yfir landi til austurs og norðurs við merkin eins og þeim var lýst fyrir norðan Jökulsá. Var samkvæmt því fallist á með Í að þrætulandið norðan Jökulsár væri innan marka þjóðlendu og voru mörk hennar dregin með nánar tilgreindum hætti. Í hafði ekki andmælt rétti eigenda Stafafells og Brekku til hefðbundinna afréttarnota á svæðinu og var það því jafnframt talin afréttareign N og O.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 6. október 2005. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 23. nóvember 2005 og var áfrýjað öðru sinni 29. sama mánaðar. Áfrýjandi krefst þess að viðurkennt verði að mörk þjóðlendu og eignarlands Stafafells ásamt Brekku, sem ákveðin voru í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 5/2001, Lón í Austur-Skaftafellssýslu, ráðist af eftirfarandi línu: Frá Hvannadalsvarpi að austanverðu yfir í Grákinnartind í Stigafjöllum og eftir fjallsbrúnum þeirra þar til kemur að hæsta tindi Stigafjalla í 1150 metra hæð yfir sjávarmáli. Þaðan verði dregin lína yfir í hæsta punkt á Hellisskógsheiði og í Jökulsá þar sem hún kemur úr þrengslum austan Kjarrdalsheiðar sunnan Svínadalshnútu. Frá þeim punkti verði dregin lína beint í Svínadalshnútu og þaðan yfir neðri hluta Kjarrdalsheiðar, yfir Tæputungur og Flötutungur fyrir sunnan Hafragil, og í punkt í Suðurfjalli fyrir ofan Skyndidalsháls. Frá þeim stað í Suðurfjalli verði dregin lína yfir Skyndidal og Dalsheiði í Brennhöfða fyrir innan Dalsskóga. Þaðan sem sú lína sker Skyndidalsá verði kröfulínan eftir henni allt inn að Hoffells-Lambatungum. Áfrýjandi krefst þess að viðurkennt verði að landsvæði norðan framangreindrar línu innan hins afmarkaða svæðis í máli nr. 5/2001 sé þjóðlenda í skilningi 1. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta með áorðnum breytingum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt hér fyrir dómi.

Dómarar Hæstaréttar gengu á vettvang 31. ágúst 2006.

I.

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 58/1998 skal óbyggðanefnd kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna. Nefndin ákvað 4. júlí 2000 að taka til meðferðar Sveitarfélagið Hornafjörð, en svæðið var nánar afmarkað með vesturmörkum jarðarinnar Skaftafells í Öræfasveit og austurmörkum nokkurra jarða í Lóni, en þær eru Hvalnes, Vík, Svínhólar, Reyðará, Bær, Hlíð og Stafafell. Til suðurs afmarkaðist svæðið af hafinu, en á Vatnajökli til norðurs af línu, sem samvinnunefnd um svæðisskipulag um miðhálendi Íslands hefur notað við vinnu sína. Bárust nefndinni kröfur áfrýjanda 13. desember 2000, sem vörðuðu allt svæðið. Þann 3. janúar 2001 birti nefndin kröfugerð áfrýjanda í samræmi við ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 og skoraði á þá, sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem féll innan kröfusvæðis áfrýjanda, að lýsa kröfum sínum fyrir nefndinni fyrir 3. maí 2001. Bárust nefndinni fjölmargar kröfur og athugasemdir við kröfur áfrýjanda. Að liðnum settum fresti ákvað nefndin að fjalla um svæðið í fimm aðskildum málum. Var eitt þeirra nr. 5/2001 um þjóðlendur í Lóni og tók það meðal annars til svæða sem stefndu, eigendur jarðanna Stafafells og Brekku, töldu til eignarlanda sinna.

Úrskurður óbyggðanefndar í málinu féll 14. nóvember 2003. Varð niðurstaðan sú að á syðsta hluta svæðisins í Lóni, svo og á austasta hluta þess, var kröfum áfrýjanda að verulegu leyti hafnað og lagt til grundvallar að land þar væri eignarland. Hið sama gilti um allt svæðið sunnan og vestan Jökulsár á milli hennar, Skyndidalsár og Vatnajökuls. Nefndin taldi hins vegar land norðan og austan Jökulsár, allt að norðurmörkum kröfusvæðisins, vera þjóðlendu. Réttur eigenda Stafafells til afréttarnota þar var viðurkenndur. Ákvað nefndin jafnframt að mörk eignarlands og þjóðlendu við Vatnajökul skyldu miðast við stöðu jökuljaðarsins eins og hann var 1. júlí 1998 við gildistöku laga nr. 58/1998.

Áfrýjandi höfðaði málið 26. maí 2004 og krafðist þess að ógiltur yrði úrskurður óbyggðanefndar um að landsvæði innan kröfulínu, sunnan og vestan Jökulsár að Skyndidalsá, væri eignarland og að viðurkennt yrði að það teldist vera þjóðlenda. Stefndu kröfðust sýknu. Þær höfðuðu jafnframt gagnsök og kröfðust ógildingar á úrskurði nefndarinnar um að landsvæðið norðan og austan Jökulsár að norðurmörkum kröfusvæðisins væri þjóðlenda og að viðurkennt yrði að það teldist vera eignarland þeirra. Með hinum áfrýjaða dómi voru kröfur stefndu teknar til greina og jafnframt dæmt að mörk þjóðlendu og eignarlands Stafafells fylgi jökulbrún, eins og hún er á hverjum tíma, frá fyrrum hreppamörkum Nesja og Lóns við jaðar Austurtungnajökuls norður að sýslumörkum Austur-Skaftafellssýslu og Norður-Múlasýslu. Krafa áfrýjanda fyrir Hæstarétti er efnislega sú sama og gerð var fyrir héraðsdómi.

II.

Kröfugerð stefndu er einkum reist á yfirlýsingu þáverandi eiganda jarðarinnar Stafafells, Jóns Jónssonar prófasts, 23. apríl 1914, sem ber fyrirsögnina: „Landamerki Stafafells með hjáleigum og ítökum.“ Hann var þá ábúandi á jörðinni og hafði eignast hana með afsali ráðherra Íslands 28. maí 1913, en í því var tekið fram að nafngreindar hjáleigur og eyja undan ströndinni fylgdi og að jörðin væri seld með öllum gögnum og gæðum að undanskildum námum í jörðu. Var hin selda jörð sögð vera 80,4 hundruð að nýju mati, en ekki var getið um stærð hennar eða landamerki. Lýsing landeigandans á merkjum jarðarinnar í áðurnefndu bréfi frá 1914 er tekin upp í héraðsdómi að því marki, sem hér skiptir máli, en samkvæmt því er innan hennar allt það svæði, sem ágreiningur málsaðila snýst um. Í stórum dráttum markast það í suðri af Skyndidalsá, í vestri af Lambatungnaá og Vatnajökli, en til norðurs af sýslumörkum, vatnaskilum yfir í Fljótsdal og háfjöllum milli Lóns og Álftafjarðar. Landamerkjabréfið var áritað um samþykki fyrir hönd eigenda níu jarða í Lóni, sem sumar liggja að Stafafelli en aðrar ekki. Það var hins vegar ekki áritað um samþykki eigenda jarða í Álftafirði eða Fljótsdal. Afsal fyrir jörðinni fékk eigandinn þinglesið 23. maí 1914, en landamerkjabréf hans var ekki þinglesið fyrr en 10. júlí 1922.

Í málatilbúnaði stefndu er á því byggt að eldri heimildir styðji jafnframt að þær eigi allt hið umþrætta land. Það hafi verið numið í öndverðu og nýtt eftir það eins og búskaparhættir á hverjum tíma gáfu tilefni til. Engin þjóðlenda sé á þessu svæði og mótmæla stefndu að eignarréttur þeirra á landi, sem áfrýjandi gerir kröfu til, sé á einhvern hátt takmarkaður. Allt land innan lýstra merkja jarðarinnar sé háð fullkomnum eignarrétti þeirra og verði að því leyti enginn munur gerður á fjalllendi hennar og láglendi. Telja þær eignarrétt sinn vera varinn meðal annars af 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Því hafi aldrei verið hreyft fyrr en við rekstur þessa máls fyrir óbyggðanefnd að efast mætti um að landið væri allt háð fullkomnum eignarrétti og hafi stefndu því mátt hafa réttmætar væntingar um þann rétt. Þær bera jafnframt fyrir sig hefð, auk þess sem langvarandi tómlæti áfrýjanda við að gæta ætlaðs réttar síns hljóti að verða metið honum í óhag við úrlausn málsins.

Áfrýjandi reisir kröfur sínar á því að mörk eignarlanda og þjóðlendu á svæðinu eigi að vera þau sömu og landnámsmörk. Landnám og athafnir í kjölfarið við að brjóta land til ræktunar og gera það að bújörð hafi leitt af sér beinan eignarrétt. Annað eigi við um land sem liggi fjær og hafi ekki verið tekið til slíkra nota. Verði að gera greinarmun á stofnun beins og óbeins eignarréttar, en utan við numin svæði hafi land víða verið tekið til sérstakra afnota og þá helst beitar og fyrir venju stofnast réttur til slíkrar notkunar. Telur hann að heimildir og sönnunargögn, sem fyrir liggja um afréttarnot af fjalllendi því sem um ræðir, bendi ekki til beins eignarréttar. Samkvæmt reglum um landnám hafi verið erfitt eða ókleift að nema hálendi eða fjöll. Þá gerir hann grein fyrir heimildum um landnám í Lóni, sem hann telur að styðji ekki kröfur stefndu. Áðurnefndur Jón Jónsson prófastur hafi keypt Stafafell 1913 án landamerkjalýsingar, en ráðist í það ári síðar að gera landamerkjabréf fyrir jörðina. Með því hafi hann eignað henni gríðarlegt landflæmi með jöklum og öræfum og gengið miklum mun lengra að því leyti en eldri heimildir gerðu ráð fyrir. Tengsl verði að vera á milli eldri og yngri eignarheimilda svo að til álita geti komið að leggja slíkar einhliða yfirlýsingar til grundvallar um fullkominn eignarrétt á afréttum á hálendi landsins. Sé ljóst að sú aðferð að teygja mörk jarða til fjalla og inn til jökla með einhliða merkjalýsingum, þar sem engum var til að dreifa til að andmæla, dugi ekki ein sér til að menn geti unnið eignarrétt. Þá mótmælir hann að eigendur Stafafells geti hafa unnið beinan eignarrétt fyrir hefð eða að sjónarmið stefndu um tómlæti skipti máli. Málsástæðum aðilanna er að öðru leyti nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.

III.

Við úrlausn málsins verður litið til þess að eftir gildistöku laga nr. 58/1998 hafa í Hæstarétti verið kveðnir upp dómar í fimm málum, þar sem skorið var úr ágreiningi um mörk þjóðlendna og eignarlanda á landsvæðum í Bláskógabyggð og vesturhluta Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Hinn fyrsti þessara dóma var í máli nr. 48/2004, en aðrir dómar eru í málum nr. 47/2004, 496/2005, 454/2005 og 345/2005. Eru þeir fordæmi við úrlausn málsins að því leyti, sem í þeim var fjallað um almenn atriði sem reynir á með sama hætti nú.

Í II. kafla dóms í máli nr. 48/2004 var rakið tilefni setningar laga nr. 58/1998, efni þeirra og réttarstaðan fyrir gildistöku þeirra að því er varðar eignarréttalega stöðu lands utan eignarlanda. Var meðal annars fjallað sérstaklega um dóma Hæstaréttar í dómasafni 1981, bls. 1584 og 1955, bls. 108, þar sem deilt var um beinan eignarrétt að afrétti og fengin niðurstaða um lagalega stöðu slíkra landsvæða. Í sama kafla dómsins var jafnframt gerð grein fyrir skilgreiningu laga nr. 58/1998 á þremur grundvallarhugtökum, sem notuð eru til að lýsa eignarréttindum yfir landi, en það eru eignarland, þjóðlenda og afréttur. Þar var einnig vikið að óbyggðanefnd, skipan hennar og hlutverki, svo og reglum sem gilda um meðferð mála fyrir nefndinni.

Í niðurstöðu í VII. kafla sama dóms um mörk þjóðlendu gagnvart eignarjörðum tók rétturinn almenna afstöðu til mats á gildi landamerkjabréfa og því hvert væri inntak eignarréttar á svæði, sem í þeim væri lýst. Var þar sagt að almennt skipti máli hvort um væri að ræða jörð eða annað landsvæði, en þekkt væri að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig til dæmis afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð. Var þar sagt að landamerkjabréf fyrir jörð fæli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland væri að ræða þótt jafnframt yrði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Þá var talið að það yki almennt gildi landamerkjabréfs væri það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða. Hins vegar yrði ekki litið framhjá þeirri staðreynd að fyrir gildistöku laga nr. 58/1998 var engum til að dreifa, sem gat sem handhafi beins eignarréttar gert samninga um mörk þess lands sem nú kallast þjóðlenda. Jafnframt var sagt að þess yrði að gæta að með því að gera landamerkjabréf gátu menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það. Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir, sem fallið geti að lýsingu á landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands. Ber við niðurstöðu máls þessa að hafa framangreint í huga.

IV.

Í Landnámabók er greint frá upphafi byggðar í Lóni á þann veg að Þórður skeggi, sonur Hrapps Bjarnarsonar bunu og Þórunnar græningarrjúpu, hafi numið þar land og reist sér bú í Bæ. Er ljóst af þeirri frásögn að landnám hans var norðan Jökulsár að Lónsheiði. Sunnan Jökulsár nam land Þorsteinn leggur. Því er ekki lýst hversu langt inn til fjalla landnámin náðu og verða engar afdráttarlausar ályktanir dregnar af Landnámabók eða öðrum heimildum um hvort í öndverðu hafi verið stofnað til eignarréttar á landi þar með námi.

Í úrskurði óbyggðanefndar er gerð ítarleg grein fyrir gróðri og staðháttum á svæðinu. Um fyrrnefnda atriðið segir meðal annars að ætla megi að við landnám hafi gróðurþekja í Lóni verið mun meiri að víðáttu og grósku en nú er og jöklar minni. Megi ætla að talsverður hluti þess lands, sem þá var íslaust, hafi verið gróið upp í 600-800 metra hæð þar sem klettabelti og brattar lausar skriður hafi ekki komið í veg fyrir að gróður næði svo hátt. Allstór hluti fjalllendisins hafi hins vegar verið lítt gróinn vegna þess hve hlíðar eru brattar og skriðubornar. Hálendið milli Jökulsár og Skyndidals hafi þó verið allvel gróið að austanverðu. Fjallað er um skóglendi á svæðinu, en ráða megi að í byrjun 18. aldar hafi sá gróður víða verið orðinn lítilfjörlegur og eyddur sakir versnandi veðurfars og mikillar áníðslu. Það gefi einnig vísbendingu um ástand annars gróðurs. Í fjalllendi Lóns séu nú víðáttumikil ógróin eða lítt gróin svæði og eigi þetta við bæði norðan og sunnan Jökulsár. Eyðingu gróðurs og jarðvegs í Lóni, sem stóð yfir öldum saman, hafi nú verið snúið við og í heild sé gróður þar í framför. Um helming alls skóglendis í sveitarfélaginu sé nú þar að finna. Jöklar hafi gengið töluvert til baka eftir framskrið, sem stóð í nokkrar aldir.

Um staðhætti á svæðinu segir í úrskurði óbyggðanefnd að það sé mjög hálent, hlíðar víða brattar og skörp landfræðileg og gróðurfarsleg mörk milli undirlendis og fjalllendis. Hæstu fjöll séu allt að 1300 metra há. Inn í fjalllendið skerist margir þröngir dalir, en Skyndidalur sé þeirra lengstur og mestur. Undirlendi sé lítið en helst upp af ströndinni, meðfram helstu ám og í dalbotnum. Um fjarlægðir segir að norður að hreppamörkum í um 1000 metra hæð séu um 45 kílómetrar í loftlínu frá sjó og að Austurtungnajökli um 30 kílómetrar. Lýsingu á fjalllendinu er að finna í ýmsum eldri heimildum, sem vitnað er til. Þannig segir til dæmis í bréfi prófastsins í Stafafelli 1794 að jörðin eigi afrétt í Kollumúla, sem er norðan Jökulsár, en hann liggi afskekkt, þangað sé illfært og lífsháski að gefa sig þangað í leitir. Í lýsingu Jóns Jónssonar prófasts 1898 segir að fjalllendi Stafafells sé víðlent en fjarlægt og allt sundurskorið af vatnsföllum, klettabeltum, giljum og gljúfrum „svo að fjallgöngur kosta ótrúlega mikinn tíma og fyrirhöfn.“ Sambærilega lýsingu gáfu dómkvaddir matsmenn 25. júní 1912, þar sem einnig er sagt að jörðin sé einhver sú erfiðasta og fólksfrekasta landbúnaðarjörð sem þeir þekki og afréttarlandið mjög slæmt yfirferðar.

Niðurstaða óbyggðanefndar var sú að sé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga verði að telja fremur ólíklegt að land í norðanverðu Lóni hafi verið numið frá sjávarmáli og upp á fjallsbrúnir og vatnaskil við Múlasýslur. Vafi um þetta hljóti að vaxa eftir því sem innar dregur. Óvissa um aðferðir við landnám sé þó of mikil til þess að unnt sé að fullyrða um stærð landnáma á þessum grundvelli. Verður fallist á þessa ályktun nefndarinnar. 

V.

Til Stafafellstorfu teljast Stafafell, Brekka, Byggðarholt og Hraunkot. Þrjár síðasttöldu jarðirnar voru á sínum tíma seldar frá Stafafelli og þá með ákveðnum merkjum. Stefndu telja Stafafell og Brekku eiga saman óskipt það land, sem ágreiningur aðilanna stendur um, í þeim hlutföllum að Stafafell eigi 75% en Brekka 25%. Af úrskurði óbyggðanefndar er ljóst að við sölu jarðanna Byggðarholts og Hraunkots hafi ekki fylgt hlutdeild í hinu óskipta landi. Að einhverju leyti hafi þó verið kveðið á um tiltekin takmörkuð réttindi þeirra, meðal annars til upprekstrar og afréttarnota. Engar kröfur munu hafa verið gerðar vegna tveggja síðasttöldu jarðanna fyrir nefndinni og ekki lögð fram gögn um nýtingu þeirra á hinu óskipta landi.

Í héraðsdómi er greint frá efni ýmissa misjafnlega gamalla skriflegra heimilda, þar sem vikið er að hinu umþrætta landi eða einstökum hlutum þess, og aðilarnir telja að hafi þýðingu við úrlausn ágreinings um eignarrétt að því. Vísast um slík skjöl til þess, sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi. Áður var þess getið að Jökulsá markaði skil milli landnáms tveggja manna. Verður hér á eftir fjallað sérstaklega um svæðið sunnan og vestan Jökulsár, sem til suðurs markast af Skyndidalsá.

Sunnan Jökulsár er jörðin Þórisdalur, sem áður mun hafa verið nefnd Þórólfsdalur. Sérstakt landamerkjabréf hefur ekki verið gert fyrir þá jörð. Meðal gagna málsins er jarðakaupabréf frá 19. desember 1467, þar sem greint er frá því að Hermundur Árnason hafi selt Teiti Gunnlaugssyni jörðina Þórólfsdal í Lóni fyrir 18 hundruð með öllum þeim gögnum og gæðum, sem henni hafi fylgt að fornu og nýju. Í bréfinu eru landamerki jarðarinnar tilgreind, en þar segir meðal annars: „Sagdi hermundur til þessara landamerkia epter þvi sem hans fader hafdi honum sagt. og hann hafdi heyrt af sira gudmundi þosteinssyni. at dalur ætti jord alla ofan at þiodgautunum fyrer nordan uada. og þar yfer um þuerholltin. og so alla jord oslitna j millum jokulsär og laxär. og allt in under jokul ...“. Ljóst er að þessi lýsing á seldu landi tók til svæðisins milli Skyndidalsár og Jökulsár auk enn stærra landsvæðis, enda liggur Laxá sunnar og austar en Skyndidalsá. Jökulsá hefur á þeim tíma markað skil milli Stafafells og Þórólfsdals en ekki Skyndidalsá, eins og síðar varð, en áður er komið fram að landnám Þórðar skeggja náði að Jökulsá.

Elsta landamerkjalýsing fyrir Stafafell mun vera í vísitasíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar frá 1641. Taldi biskup að þeirri jörð tilheyrði að minnsta kosti verulegur hluti lands milli Jökulsár og Skyndidalsár, sem talið var til Þórólfsdals í framangreindu jarðakaupabréfi 1467. Ekki er vitað hvernig eða hvenær það land hefur lagst til Stafafells á þeim tæpu tveimur öldum, sem liðu á milli þess að nefndar heimildir voru skráðar, en eigendur Þórólfsdals um miðja 16. öld voru kirkjurnar í Stafafelli og Skálholti að hálfu hvor. Í vísitasíubókinni segir meðal annars um landamerki Stafafells: „Þadan ofan j Hymbrynis tiorn, sydan rædur Jokulz á ad sunnan j Bygdum og á stadurin allt land, og skoga ad frateknum Þoru skoge Einholltz kyrkiu, millum hen<n>ar og skindildalz ár og á fioll vpp f[yrer] Jnnan Keteldalz heidi, og Vydedal allann“. Í þessari lýsingu segir að Stafafell eigi land milli Jökulsár og Skyndidalsár á fjöll upp fyrir innan Ketildalsheiði án þess að mörk inn til landsins séu frekar skýrð. Í eldra bréfinu var Þórólfsdal hins vegar eignað allt land milli ánna inn til jökuls. Þá er óljóst hvar Ketilsdalsheiði liggur, en örnefnið mun nú vera týnt. Í málatilbúnaði áfrýjanda hefur verið á því byggt að Ketildalsheiði og Kjarrdalsheiði sé ein og hin sama. Ketilhlíð er hins vegar samkvæmt landakortum á Suðurfjalli norðaustanverðu upp af láglendi.

Samkvæmt endurriti úr þingbók aukadómþings Skaftafellssýslu 9. október 1970 var gerð sátt í landamerkjamáli eigenda Þórisdals gegn eigendum Stafafells. Í samkomulagi aðilanna segir meðal annars um mörk milli jarðanna: „Ofar Dímu ræður Jökulsá inneftir þangað, sem Skyndidalsá fellur í hana. Eftir það ræður Skyndidalsá mörkum inní Jökla.“ Er ljóst af þessu að hvað sem líður óvissu um hvernig Stafafell kom í stað Þórisdals um tilkall til lands sunnan Jökulsár að Skyndidalsá er enginn ágreiningur um það fyrir hendi lengur milli eigenda þessara jarða. Þessi færsla á merkjum milli jarðanna skiptir ekki máli hér.

Samkvæmt öllu framanröktu hafa verið lögð fram heimildarskjöl fyrir Þórólfsdal og síðar Stafafell, sem eru eldri en fyrrnefnt landamerkjabréf 23. apríl 1914. Verður af þeim ráðið um merki jarðarinnar á svæðum sunnan Jökulsár og falla lýsingar í þeim í stórum dráttum saman við merkjalýsingu í landamerkjabréfinu. Er með þessum gögnum sýnt fram á hvar umráðamenn jarðanna í nokkrar aldir töldu vera rétt mörk lands þeirra og að með landamerkjabréfinu 1914 hafi ekki verið gengið lengra í því að helga jörðinni land á þessu svæði en áður var gert.

Til álita kemur hvort staðhættir og heimildir um gróðurfar og nýtingu, sem áður var getið, mæli því í mót að land sunnan Jökulsár geti hafa verið numið þannig að fái samrýmst landamerkjabréfinu 1914 og eldri heimildum. Í IV. kafla að framan var greint frá staðháttum á svæðinu og hvernig þeir einkennast af háum fjöllum. Sú lýsing á þó ekki við um Skyndidal, sem er um tólf kílómetra langur og liggur allt inn að Lambatungnajökli, sem er skriðjökull úr Vatnajökli. Í dalbotninum er hæð 100-200 metrar yfir sjávarmáli. Sú almenna ályktun, sem getið er í niðurlagi IV. kafla um líkleg takmörk landnáms inn til landsins, getur ekki tekið til Skyndidals þar sem staðhættir eða aðrar ástæður stóðu því augljóslega ekki í vegi að hann yrði numinn. Að öðru leyti eru staðhættir þannig sunnan og vestan Jökulsár að tvær hásléttur taka yfir töluverðan hluta svæðisins, en þær eru annars vegar Suðurfjall, sem nær hæst rúmlega 850 metra yfir sjó, og hins vegar Kjarrdalsheiði, þar sem mesta hæð er 700-800 metrar. Vestan þeirra að Vatnajökli hækkar land enn og þar eru nokkrir háir tindar. Er Sauðhamarstindur þeirra mestur í rúmlega 1300 metra hæð. Samkvæmt því, sem að framan er rakið um gróðurfar og líkleg landnámsmörk, verður ekki loku fyrir það skotið að land á hásléttunum eða hluti þess kunni að hafa verið numinn þannig að fái samrýmst landamerkjabréfinu 23. apríl 1914 og eldri heimildum. Þetta á þó ekki við um fjalllendið milli hásléttanna og Vatnajökuls, en ekki verður ráðið af gögnum málsins að líkur séu til að teljandi hluti þess geti hafa verið gróinn þegar landnám hófst eða síðar. Þótt staðhættir og fyrirliggjandi heimildir um gróðurfar á þessu svæði styðji ekki í þessu ljósi að stofnað hafi verið til beins eignarréttar yfir landinu með námi verður ekki horft framhjá því að áfrýjandi hefur hvorki gert sérstaka kröfu um að það verði undanskilið eignarlandi Stafafells og fellt undir þjóðlendu né hefur hann í málatilbúnaði sínum fært nokkuð fram, sem leggja mætti til grundvallar við nánari afmörkun lands, sem þannig yrði farið með, en að því hefði sérstaklega þurft að gæta með tilliti til legu þess innan merkja Stafafells að öðru leyti, sbr. einnig áðurnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 48/2004. Þegar alls þessa er gætt eru ekki skilyrði til að skilja þetta land af þessum ástæðum undan beinum eignarrétti stefndu.

Samkvæmt þessu verður lagt til grundvallar að svæðið milli Jökulsár, Skyndidalsár og Vatnajökuls, sem landamerkjabréf fyrir Stafafell 23. apríl 1914 tekur til, sé eignarland. Verður kröfu áfrýjanda um að mörk þjóðlendu verði dregin inn á það því hafnað. Við ákvörðun marka eignarlands og þjóðlendu við Vatnajökul verður fylgt fordæmi Hæstaréttar í dómi 11. maí 2006 í máli nr. 345/2005.

VI.

Nánast allt land norðan og austan Jökulsár, sem aðilarnir deila um, stendur hátt og eru hæstu tindar í meira en 1300 metrum yfir sjávarmáli. Undirlendi er einungis í þröngum dalverpum, sem skerast inn á milli fjallanna. Jökulsá kemur undan Vatnajökli í 800–900 metra hæð. Stórir hlutar svæðisins eru nær gróðurlausir með öllu en töluverður gróður er þó á nokkrum stöðum og þá helst í Víðidal og Kollumúla. Um staðhætti og gróðurfar er að öðru leyti fjallað í IV. kafla dómsins.

Elsta heimild þar sem vikið er sérstaklega að þessu landsvæði er áðurnefnd vísitasíubók Brynjólfs Sveinssonar biskups 1641. Er að framan tekinn upp sá hluti umfjöllunar í bókinni, sem hér skiptir máli, en í niðurlagi hennar segir að Stafafell eigi Víðidal allan. Dalurinn liggur langt inn til landsins í um 500 metra hæð og mjög afskekkt, en milli hans og Jökulsár er Kollumúli. Í Víðidal er stærsta samfellda gróðurlendi fjalllendisins. Dalurinn hefur ekki skýr landfræðileg mörk, en þó er ljóst að hann er einungis lítill hluti af því landsvæði norðan Jökulsár, sem landamerkjabréfið 1914 gerir ráð fyrir að tilheyri Stafafelli. Fram er komið að á 19. öld hafi þrír menn hver á eftir öðrum sest að í Víðidal með fjölskyldum sínum og hafið búskap. Var búið í dalnum með hléum í samtals 17 ár og að minnsta kosti í eitt skiptið var þetta gert í skjóli heimildar frá prestinum í Stafafelli. Einn þessara ábúenda í dalnum mun hafa komið frá Álftafirði, en leið til byggða mun einkum hafa legið þangað.

Í yngri heimildum var með ýmsum hætti vikið að rétti Stafafells til lands á svæðinu. Árið 1714 voru landamerki jarðarinnar lögfest að því er virðist í samræmi við lýsingu í vísitasíubók Brynjólfs biskups og sama lýsing er í vísitasíu Jóns Árnasonar biskups 1727. Í vísitasíum annarra biskupa var einungis greint frá eignum kirkjunnar eins og venja var við slíkar úttektir. Í jarðabók Ísleifs Einarssonar sýslumanns 1709 er gerð grein fyrir eignum kirkjunnar í Stafafelli, en þar segir að staðurinn eigi afrétt í Kollumúla og að honum sé eignaður Víðidalur. Í bréfi prófastsins í Stafafelli til biskups 17. maí 1794 er fjallað um rétt til ómarkaðs fjár „á þeim so kolludu Kollumúla Öræfum“. Taldi hann það ekki óréttmæta kröfu að þeir fáu, sem lögðu líf sitt og heilsu í hættu til að fara inn í Kollumúla, fengju helming alls þess sem þeir kynnu að finna þar af ómörkuðu fé. Biskupinn féllst á þessa skoðun prófasts í bréfi 18. júlí sama ár. Notaði hann hugtökin „Udørken“ og „Grund og Græsmark“ um Kollumúla. Í jarðamati 1804-5 eru nefndar fimm hjáleigur með Stafafelli og vikið að því að jörðinni fylgi afréttur fyrir tiltekinn fjölda fjár. Í Jarðatali Johnsens 1847 er Stafafell metið á 26 hundruð, sem var hið sama og í jarðabók 1697, en í Nýrri jarðabók 1861 er jörðin talin 46,1 hundruð að dýrleika. Svonefnd Fornbréfabók Stafafells frá 19. öld hefur að geyma heimildir um eignir kirkjunnar þar og landamerki, en þar er vikið að því sem nefnt er tilraun Álftfirðinga til að ná til sín yfirráðum í Víðidal með því að senda þangað nafngreindan mann til búsetu þrátt fyrir að þeir hafi mátt vita að dalurinn tilheyrði Stafafelli. Í vísitasíubók prófasts 1824 segir meðal annars að kirkjan eigi hálfan Skyndidal, ásamt Kollumúla og Lambatungum. Í gerðabók jarðamatsmanna Skaftafellssýslu frá 1849 segir að Stafafell eigi Kollumúla og Víðidal. Þá ber að geta svonefndra brauðamata frá 19. öld, en í einu slíku frá 1854 kemur fram að meðal annarra tekna kirkjunnar hafi verið leiga fyrir Kollumúla. Í öðru brauðamati frá 1898 segir að nokkur hluti afréttarlandsins, Víðidalur og Kollumúli, hafi verið byggður fjögur ár af þeim fimm, sem matið tók til, og er greint frá eftirgjaldi fyrir það. Ári síðar var gerð úttekt á jörðinni að tilmælum Jóns Jónssonar prófasts. Virtu úttektarmenn þá til afgjalds prestsetrið Stafafell, en meðal hlunninda var talið upp afréttarland.

Í áðurnefndri Fornbréfabók er að finna yfirlýsingu séra Bjarna Sveinssonar, sem þjónaði um skeið í Stafafelli, um landamerki jarðarinnar 6. febrúar 1882 og ber hún fyrirsögnina: „Lítill viðbætir um landamerki Stafafells.“ Þar er landamerkjum Stafafells lýst mun ítarlegar og á ólíkan hátt frá því sem var í eldri heimildum. Yfirlýsingin hefst þannig: „Eptir visitatiunum og skjölunum hér að framan eru landamerki Stafafells: ... Frá Hafrafellstindi að austanverðu inneptir ráða fjallseggjarnar alla leið inneptir og svo norður á við milli Sviftungna og innsta botns af Flugustaðadal í Álftafirði. Þaðan yfir Hofsjökul og gegnum skarðið milli hans og Þrándarjökuls þar sem vötnum hallar á báðar síður til Víðidals og Geithelladals og loks frá Þrándarjökli innanverðum inn í aðaljökulinn fyrir botni Víðidals þar sem Sauðahnúkur heitir og vötnum hallar norður frá til Fljótsdals.“ Áður er vikið að landamerkjabréfi fyrir Stafafell 23. apríl 1914, en merkjalýsing í því á svæðinu, sem hér um ræðir, fellur að mestu efnislega saman við þessa yfirlýsingu.

Í málinu nýtur við nokkurra heimilda um afréttarnot og fjallskil. Verður ráðið að litið hafi verið svo á að ekki hafi verið almenningsafréttir í sýslunni, en fjalllendi heyrt vissum jörðum til utan þess að hjáleigur hafa átt óskipt afréttarnot með aðaljörð. Er áður vikið að afréttarnotum Byggðarholts og Hraunkots auk þess sem fé úr Álftafirði mun oft hafa leitað í Víðidal og bændur þar sótt sitt fé að hausti. Elsta fjallskilareglugerð er frá 1891 og skipaði hreppsnefnd fyrir um göngur. Framan af 20. öld var fyrsta lögsafnið miðað við þann tíma sem stjórn Kaupfélags Austur-Skaftfellinga ákvað sauðfjárslátrun í hverri sveit. Hreppsnefnd ákvað safndaga og skipaði menn í hvert gangnasvæði og einnig gangnaforingja og réttarstjóra. Hún mun einnig hafa tekið þátt í kostnaði vegna smölunar í Kollumúla.

Árið 1977 voru Lónsöræfi friðlýst samkvæmt heimild í 24. gr. þágildandi laga nr. 47/1971 um náttúruvernd, sbr. auglýsingu nr. 31/1977 með síðari breytingum. Áður gáfu eigendur og ábúendur Brekku og Stafafells út yfirlýsingar um að þeirra vegna væri heimil friðlýsing Lónsöræfa eða Stafafellsfjalla, eins og þau voru einnig nefnd í yfirlýsingunum. Tekur friðlýsingin einkum til verulegs hluta hins umþrætta lands norðan og sunnan Jökulsár. Í auglýsingunni segir að reglur gildi um friðlandið, sem síðan er lýst í fimm liðum. Kemur meðal annars fram að mannvirkjagerð, jarðrask og önnur breyting á landi sé háð leyfi náttúruverndar ríkisins og að hefðbundnar nytjar landeigenda, svo sem búfjárbeit og veiðiréttur, haldist óskertar, en sérstaklega skuli þess gætt að misbjóða ekki beitarþoli afrétta og hlífa kjarri og skóglendi eftir föngum. Þá er kveðið á um umgengni á svæðinu og loks að náttúruvernd ríkisins skuli í samvinnu við aðra, sem í hlut eiga, sjá um að haldið sé við vegslóðum, göngubrúm, gömlum götum og vörðum. Á sama hátt skuli tryggð önnur lágmarksaðstaða fyrir ferðafólk. Þá skal náttúrvernd ríkisins tryggja vörslu og eftirlit á svæðinu að sumarlagi.

VII.

Við úrlausn um eignarréttarlega stöðu deilusvæðisins norðan og austan Jökulsár er fyrst til þess að líta að engra fornra heimilda nýtur við um það, sem settar verða á bekk með áðurnefndu jarðakaupabréfi 1467 um land sunnan árinnar. Ýmsar heimildir eru hins vegar fyrir hendi allt frá 1641 fram undir lok 19. aldar, þar sem vikið er að rétti Stafafells á ákveðnum svæðum norðan Jökulsár og þá fyrst og fremst Víðidal og Kollumúla. Yfirlýsing Bjarna Sveinssonar 1882 hefur sérstöðu meðal þeirra gagna um þessi efni, sem áður er getið, en að henni verður vikið nánar síðar.

Áður er komið fram að stefndu telja kröfu sína um viðurkenningu beins eignarréttar á landi norðan Jökulsár samkvæmt landamerkjabréfi 1914 fá stoð í eldri heimildum. Hin elsta þeirra er vísitasíubók Brynjólfs Sveinssonar biskups 1641. Verður þá fyrst að líta til þess að vísitasíur og þar með talin sú síðastnefnda voru almennt skráðar til þess að halda til haga eignum viðkomandi kirkju. Í umræddri vísitasíubók er svo sem áður greindi að nokkru leyti lýst merkjum Stafafells sunnan Jökulsár. Í lok þeirrar umfjöllunar er vikið að landi norðan ár með þeim orðum einum að Stafafell eigi Víðidal allan. Ekki er um eiginlega merkjalýsingu að ræða á þessu svæði, enda er í engu getið um það land sem liggur nær og er á milli Víðidals og Jökulsár, en það er einkum Kollumúli. Verður að telja framsetningu og orðalag í vísitasíunni bera með sér að um sé að ræða tilgreiningu á óbeinum eignarréttindum Stafafellskirkju á fjarlægu landsvæði en ekki framhald á lýsingu merkja jarðarinnar sunnan Jökulsár. Orðalag í jarðabók Ísleifs Einarssonar 1709 um að Stafafell eigi afrétt í Kollumúla styður þá skýringu að um óbein eignarréttindi jarðarinnar á svæðinu sé að ræða, en jarðabókin er elsta heimild um rétt Stafafells í Kollumúla. Víðidalur hefur ekki skýr landfræðileg mörk og samanlagt eru dalurinn og Kollumúli einungis nokkur hluti þess lands norðan Jökulsár, sem stefndu telja eignarland sitt. Þótt í enn yngri heimildum komi fyrir orðalag, sem í sumum tilvikum geti bent til beins eignarréttar, er ekkert fram komið um breytta notkun landsins eða annað, sem stutt geti að þær hafi sérstakt gildi við úrlausn málsins. Varðandi aðra hluta þessa landsvæðis hafa stefndu vísað til þess að samkvæmt gögnum málsins hafi á árinu 1731 verið rekið fyrir dómi mál, sem prófastur hafi höfðað á hendur nafngreindum mönnum fyrir óheimilt skógarhögg í landi Stafafells. Um þetta er þess að gæta að ekki verður annað ráðið af þessum gögnum en að málið hafi varðað skóg „j nedannverdre Einstigskinnenne, firer innann Hnappadalsá“. Verður ekki annað séð en að sá staður hafi verið utan þess svæðis, sem áfrýjandi krefst að dæmt verði þjóðlenda.

Með 3. gr. landamerkjalaga nr. 5/1882, sem staðfest voru 17. mars á því ári, var eiganda eða umráðamanni hverrar jarðar gert skylt að skrásetja nákvæma lýsingu á landamerkjum jarðarinnar eins og hann vissi þau réttust. Yfirlýsing Bjarna Sveinssonar, „Lítill viðbætir um landamerki Stafafells“ er frá 6. febrúar 1882. Dagsetning yfirlýsingarinnar bendir til að merkjalýsingin hafi verið fest á blað í tengslum við þá skyldu, sem lögleidd var um líkt leyti, en áður er komið fram að með henni var talið til Stafafells margfalt stærra land norðan Jökulsár en nokkur eldri heimild hafði áður getið um að jörðin ætti rétt til. Ekki liggur fyrir á hverju höfundur yfirlýsingarinnar reisti þá skoðun að jörðin ætti landið norðan Jökulsár, sem hann taldi henni, að öðru leyti en því að yfirlýsingin hefst á þeim orðum að landamerki Stafafells séu þessi „eptir visitatiunum og skjölunum hér að framan“. Enga stoð er að finna í vísitasíum fyrir því að merki jarðarinnar norðan Jökulsár séu þar sem höfundur segir þau vera. Um önnur skjöl í Fornbréfabók, sem höfundurinn sýnist bera fyrir sig, liggur ekkert fyrir í málinu sem stutt gæti staðhæfingu hans. Er óhjákvæmilegt að líta á umrædda yfirlýsingu sem haldlaust gagn, sem hafi engan stuðning í eldri heimildum.

Niðurstaðan samkvæmt öllu framanröktu er sú að ekki fær stoð í eldri heimildum að hið umþrætta land norðan Jökulsár hafi verið innan landamerkja Stafafells fyrir gerð landamerkjabréfsins 23. apríl 1914. Nýtur þannig ekki við heimilda, sem bent geta til þess að landið hafi nokkurn tíma verið háð beinum eignarrétti. Þá eru staðhættir, einangrun landsvæðisins og fjarlægð frá byggð með þeim hætti að ólíklegt er að nokkur hluti þess hafi verið numinn. Stefndu hafa heldur ekki fært fram sönnun þess að skilyrðum eignarhefðar á landinu hafi verið fullnægt með þeim venjubundnu afréttarnotum, sem umráðamenn Stafafells hafa ásamt fleirum haft af þeim hluta landsins, sem telst gróinn. Er þá meðal annars til þess að líta að inn á land þetta, sem ekki er afgirt, hefur búfénaður leitað frá öðrum jörðum án hindrana. Friðlýsing Lónsöræfa 1977 skiptir hér ekki máli, en enga viðurkenningu stjórnvalda um að landið sé háð beinum eignarrétti er að finna í auglýsingu nr. 31/1977 eða öðrum yfirlýsingum frá sama tíma. Varðandi þá málsástæðu stefndu að þær hafi haft réttmæta ástæðu til að vænta þess að brigður yrðu ekki bornar á beinan eignarrétt þeirra að öllu því landi, sem féll innan merkja Stafafells eins og þeim var lýst í landamerkjabréfinu frá 1914, verður að líta til þess að ekkert liggur fyrir til stuðnings því að við gerð hennar hafi verið byggt á eldri lýsingu þeirra frá árinu 1882 í fyrrgreindri yfirlýsingu Bjarna Sveinssonar. Jafnvel þótt svo hefði verið gat sú heimild ekki gefið tilefni til að álykta að réttur eigenda Stafafells ætti sér eldri rætur, enda var þar vitnað um þetta til vísitasía og annarra skjala, sem veittu enga stoð fyrir slíkum rétti. Hvernig sem atvikum var annars háttað að þessu leyti gat eigandi jarðarinnar á árinu 1914 ekki hafa stuðst við neina haldbæra eldri heimild um þau merki hennar norðan Jökulsár, sem greint var frá í landamerkjabréfinu. Stefndu, sem leiða rétt sinn frá þeim eiganda, geta ekki að þessu virtu borið því við að þær megi hafa haft réttmæta ástæðu til að vænta þess að eignarréttur hefði unnist að landi, sem ekki átti undir Stafafell áður, með landamerkjabréfinu 23. apríl 1914, sem að auki var ekki samþykkt af hendi þeirra, sem kunna að hafa talið til réttinda yfir landi til austurs og norðurs við merkin eins og þeim var lýst fyrir norðan Jökulsá. Breytir í þessum efnum engu að landamerkjabréfið hafi verið þinglesið 10. júlí 1922. Verður samkvæmt þessu öllu að fallast á með áfrýjanda að þrætulandið norðan Jökulsár sé innan marka þjóðlendu og sýkna hann af kröfu stefndu um að viðurkennt verði að það sé eignarland þeirra. Verða mörk þjóðlendu dregin eins og nánar segir í dómsorði.

Fyrir óbyggðanefnd varð niðurstaðan sú að allt umrætt land taldist vera í afréttareign eigenda Stafafells og Brekku. Áfrýjandi hefur ekki andmælt rétti þeirra til hefðbundinna afréttarnota þar. Telst allt svæðið samkvæmt því vera þjóðlenda jafnframt því sem það er afréttareign stefndu, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 58/1998.

Rétt er að málskostnaður falli niður í héraði og fyrir Hæstarétti. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað stefndu skal vera óraskað, en um gjafsóknarkostnað þeirra fyrir Hæstarétti fer eins og nánar segir í dómsorði.

 

 

Dómsorð:

Viðurkennt er að land sunnan og vestan Jökulsár í Lóni tilheyri landi Stafafells og Brekku með þeim merkjum, sem ákveðin voru í úrskurði óbyggðanefndar 14. nóvember 2003 í máli nr. 5/2001. Að því leyti, sem landið liggur að jaðri Vatnajökuls, skal miðað við stöðu hans 1. júlí 1998.

Að öðru leyti er áfrýjandi, íslenska ríkið, sýkn af kröfum stefndu, Nönnu Sigurðardóttur og Olgu Friðjónsdóttur, en þjóðlenda norðan Jökulsár og vestan línu frá hæsta hnjúk Jökulgilstinda eftir fjallseggjum í hæsta tind Stigafjalla er afréttareign jarðanna Stafafells og Brekku.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað stefndu skulu vera óröskuð.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna þeirra, 500.000 krónur til hvors.

                                                                                                                 


Sératkvæði

Hrafns Bragasonar

Ég er sammála atkvæði meirihluta dómara að öðru leyti en að því er varðar landsvæðið milli Vatnajökuls og hæstu fjalla, sem sjást frá byggð, og fjallað er um í V. kafla dómsins. Nánar tiltekið er um að ræða Suður- og Norður-Lambatungur auk Öxarfells og landsins þar inn af til jökla. Á þessu svæði tel ég engar heimildir fyrir einkaeignarrétti stefndu og staðhætti og náttúrufar styðja þá niðurstöðu að um þjóðlendu sé að ræða. Röksemdir meirihluta dómenda hníga einnig í þessa átt. Ég greiði því atkvæði með að niðurlag kaflans frá því er stendur: ,,...hluti þess geti hafa verið gróinn þegar landnám hófst eða síðar.“ hljóði svo:

Staðhættir og fyrirliggjandi heimildir um gróðurfar styðja ekki að stofnað hafi verið til beins eignarréttar yfir þessu landi með námi. Landið er illt yfirferðar og hefur aldrei verið nýtt nema til mjög takmarkaðrar sumarbeitar það litla af því sem nýtanlegt er í því skyni.

Landamerkjabréfið frá 1914 lýsir suðurmörkum þess lands, sem er til umræðu í þessum kafla, svo að Skyndidalsá ráði inn í jökla. Áin á upptök í Lambatungnajökli og nær því að honum. Eldri heimildir sem að framan eru raktar styðja ekki að jörðin hafi verið talin ná inn í Vatnajökul sjálfan eða eftir jökuljaðrinum, heldur inn til þeirra jökla sem sáust frá byggðinni þegar þessar heimildir urðu til. Engum var til að dreifa til að samþykkja mörk þessa svæðis til jökulsins fyrr en með gildistöku þjóðlendulaga. Í Lambatungnajökul sést þar sem hann kemur niður í botni Skyndidals og við gerð landamerkjabréfsins náði hann lengra fram. Þá segir í vísitasíu Brynjólfs biskups frá 1641 að jörðin nái á fjöll upp. Frá byggðinni séð er þar um að ræða Múlatinda og Sauðhamarstind, en ljóst er að landinu er í öllum heimildum lýst frá því sjónarhorni. Jökull hefur verið á haddi síðarnefnda tindsins þegar máldagi kirkjunnar var rakinn í vísitasíu Brynjólfs biskups og einnig þegar landamerkjabréfið var gert og svo hefur verið allt til dagsins í dag. Af Kjarrdalsheiði byggðarmegin við greind fjöll sést inn í Öxarfellsjökul og Öxarfell, en ekki lengra norður. Óbyggðanefnd hefur úrskurðað landið að norðan og austan Jökulsár, sem afmarkar þetta landsvæði, þjóðlendu og einnig Hoffells-Lambatungur, sem liggja sunnan og vestan svæðisins. Með þessum dómi Hæstaréttar og dómi uppkveðnum í dag í máli nr. 497/2005 er fallist á þá niðurstöðu.

Samkvæmt öllu framanrituðu verður lagt til grundvallar að svæðið milli Jökulsár, Skyndidalsár og Vatnajökuls sé eignarland að því undanskildu að talin verður þjóðlenda landsvæðið að jöklinum norðan og vestan línu sem dregin er úr Lambatungnajökli eftir Skyndidalsá að mótum Lambatungnaár og þaðan beina línu í hæsta Múlatind og síðan beint í Sauðhamarstind, þaðan í Öxarfellsjökul og línan síðan framlengd þar til hún sker Jökulsá. Aðaláfrýjandi hefur ekki mótmælt því að land þetta verði talið til afréttareignar Stafafells samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 58/1998. Við ákvörðun marka þessa lands og þjóðlendu í Vatnajökli verður fylgt fordæmi Hæstaréttar í dómi 11. maí 2006 í máli nr. 345/2005.

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 26. júlí 2005.

             Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi hinn 2. júní sl., er í aðalsök höfðað fyrir Héraðsdómi Austurlands af íslenska ríkinu til ógildingar á úrskurði óbyggðanefndar í málinu nr. 5/2001, Lón í sveitarfélaginu Hornafirði frá 14. nóvember 2003, birtum í Lögbirtingablaðinu 2. desember 2003, og til viðurkenningar á mörkum þjóðlendu gegn Nönnu Sigurðardóttur, kt. 230720-2239, Hátúni 19, Reykjavík, (þinglýstur eigandi Stafafells) og Olgu Friðjónsdóttur, kt. 140756-4909, Brekku í Lóni, 781 Höfn, (þinglýstur eigandi Brekku) með stefnu birtri 26. maí 2004.

Af hálfu aðalstefnanda eru eftirfarandi dómkröfur gerðar í málinu:

1. Stefnandi krefst þess að úrskurður óbyggðanefndar dags. 14. nóvember 2003 í málinu nr. 5/2001 um eftirfarandi mörk milli eignarlanda og þjóðlendu (gagnvart Stafafelli í Lóni), verði felldur úr gildi: Það er við þann hluta úrskurðarlínu óbyggðanefndar, sem er með upphafspunkt að norðanverðu þar sem línan kemur í Jökulsá í þrengslum austan Kjarrdalsheiðar, sunnan Svínadalshnútu. Sú lína er látin gilda að þeim stað í Jökulsá, sem bein lína úr Svínadalshnútu sker ána í sjónhendingarátt að punkti í Fláatindi. Krafist er svo ógildingar á eftirfarandi línu:

Frá punkti A í Jökulsá í þrengslum austan Kjarrdalsheiðar, sunnan Svínadalshnútu meðfram ánni allt til upptaka hennar í Vesturdal. Frá þeim stað þar sem Jökulsá kemur undan jökli í Vesturdal og til suðuráttar, meðfram jaðri Vatnajökuls, þar til kemur að hreppamörkum Nesja og Lóns við jaðar Austurtungujökuls, þaðan meðfram Lambatungnaá, þar sem hún rennur saman við Skyndidalsá (punktur E).

2.  Þess er krafist að mörk þjóðlendu og eignarlands gagnvart jörðinni Stafafelli (með Brekku) verði ákveðin með dómi á eftirfarandi hátt:

Frá punkti A í Jökulsá í þrengslum austan Kjarrdalsheiðar, sunnan Svínadalshnútu beint í hana (punktur B). Úr Svínadalshnútu er dregin lína þvert yfir neðri hluta Kjarrdalsheiðar, yfir Tæpitungur og Flötutungur fyrir sunnan Hafragil og í Suðurfjallið (punktur C)  fyrir ofan Skyndidalsháls, sem verður hornmark. Frá punktinum í Suðurfjalli er dregin lína yfir Skyndidal og Dalsheiði í Brennhöfða fyrir innan Dalskóga. Þar sem sú lína  sker Skyndidalsá verður kröfupunktur D. Þaðan liggur svo kröfulínan meðfram Skyndidalsá allt inn að Hoffellslambatungum, punktur E.

Þess er krafist að land fyrir norðan og norðvestan þessa línu allt að útmörkum kröfusvæðisins í vestri og norðri sé þjóðlenda.

3.    Málskostnaðar er krafist að skaðlausu.

Dómkröfur stefndu í aðalsök eru um sýknu af öllum kröfum stefnanda.

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.   

             Stefndu í aðalsök höfðuðu mál á hendur aðalstefnanda með stefnu þingfestri 9. júní 2004 vegna sama úrskurðar óbyggðanefndar í máli nr. 5/2001.  Í því þinghaldi var það mál sameinað máli þessu og er það síðan rekið sem gagnsök í málinu.

Gagnstefnendur krefjast þess aðallega að úrskurður óbyggðanefndar, dags. 14. nóv. 2003, í málinu nr. 5/2001, um eftirfarandi mörk milli eignarlands og þjóðlendu, verði felldur úr gildi, þ.e. landsvæðið Fram­fjöll ofan Hvannadalsvarps og Innfjöll austan Jökulsár, þ.m.t. Víðidalur og Kollumúli, og landsvæði það á Vatnajökli sem til meðferðar er í máli þessu, sé þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið laga nr. 58/1998:

Frá hreppamörkum Nesja og Lóns við jaðar Austurtungnajökuls (punktur 44, sbr. einnig punkt 17 í kröfugerð vegna Hoffells­lamba­tungna í máli nr. 4/2001 hjá óbyggðanefnd, Nes) er dregin lína í hnjúk (1526 m háan) og áfram í annan hnjúk (1505 m háan) og loks í þann þriðja, nafnlausan hnjúk sunnan Grendils (punktur 45) og áfram í Grendil, þaðan yfir hnjúk (1438 m háan) og í Geldingafell (punktur 46), þar sem eru mörk sveitar­félagsins Horna­fjarðar við Fljótsdals­hrepp. Þeim mörkum er fylgt og einnig mörkum sveitar­félagsins Horna­fjarðar við Djúpvavogshrepp, allt að hæsta hnjúk Jökulgilstinda (punktur 51). Þaðan er haldið áfram eftir fjallseggjum Stigafjalla og í hæsta tind þeirra, yfir í hæsta punkt á Hellisskógsheiði og í Jökulsá, þar sem hún kemur úr þrengslum austan Kjarrdalsheiðar, sunnan Svínadalshnútu. Loks er Jökulsá fylgt allt til upptaka sinna í Vesturdal. Frá þeim stað þar sem Jökulsá kemur undan jökli í Vesturdal og til suðuráttar, meðfram jaðri Vatnajökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendu­laga 1. júlí 1998, þar til kemur að hreppamörkum Nesja og Lóns við jaðar Austurtungnajökuls.

 Jafnframt er þess krafist að viðurkennt verði að í landi Stafafells, eins og því er lýst í landamerkjabréfi 14. maí 1914, sbr. uppdrátt á dskj. 4, sé enga þjóðlendu að finna. Til vara er þess krafist að aðeins eftirfarandi lína verði viðurkennd sem þjóðlendumörk:

Frá þeim stað þar sem Lambatungnaá kemur undan jökli í Austurtungnajökli (pkt. 44 á dskj. nr. 4) og meðfram jaðri Vatnajökuls, eins og hann er á hverjum tíma, þar til kemur að mörkum sveitarfélagsins Hornafjarðar við Fljótsdalshrepp, þ.e. að Vatnajökull eins og hann er á hverjum tíma sé þjóðlenda.

Til þrautavara er gerð sama krafa og fram kemur í varakröfu með þeirri breytingu að miðað sé við jökuljaðarinn eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998.

Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Í gagnsök krefst gagnstefndi þess að úrskurður óbyggðanefndar dags. 14. nóvember 2003 í málinu nr. 5/2001 verði ekki ógiltur hvað varðar þann hluta kröfusvæðisins, sem kröfur gagnstefnenda taka til. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.

Með úrskurði dómstjóra Héraðsdóms Austurlands uppkveðnum 8. október 2004 vék dómstjórinn sæti í málinu. Með bréfi 19. janúar 2005 voru héraðsdómararnir Eggert Óskarsson, sem dómsformaður, Hervör Þorvaldsdóttir og Skúli Magnússon, skipaðir til að fara með málið.

I.

Málsatvik

Atvik málsins eru ágreiningslaus.

Óbyggðanefnd starfar samkvæmt lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, og hefur það hlutverk að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna. Samkvæmt 8. gr. laganna, eins og henni var breytt með 3. gr. laga nr. 65/2000, skal nefndin að eigin frumkvæði taka til meðferðar og úrskurða um málefni sem undir hana heyra. Skal hún ákveða hvaða landsvæði tekið er til meðferðar hverju sinni. Í 10. gr. laganna, eins og greininni var breytt með 4. gr. laga nr. 65/2000, eru nánari fyrirmæli um málsmeðferð nefndarinnar, meðal annars þau að þegar nefndin hefur ákveðið að taka svæði til meðferðar ber henni að tilkynna fjármálaráðherra um það og veita honum minnst þriggja en mest sex mánaða frest til að lýsa kröfum ríkisins um þjóðlendur á svæðinu.

Með bréfi 13. júlí 2000 tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra þá ákvörðun sína að taka til meðferðar sveitarfélagið Hornafjörð í samræmi við 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998. Svæðið var nánar tiltekið afmarkað með vesturmörkum jarðarinnar Skaftafells í Öræfasveit og austurmörkum jarðanna Hvalsness, Víkur, Svínhóla, Reyðarár, Bæjar, Hlíðar og Stafafells. Til suðurs afmarkast svæðið með hafinu og til norðurs af tiltekinni línu á Vatnajökli. Kröfulýsingar fjármálaráðherra vegna íslenska ríkisins um þjóðlendur í Lóni, Nesjum, Mýrum, Suðursveit og Öræfum í sveitarfélaginu Hornafirði bárust 13. desember 2000. Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð á framangreindu svæði og útdrátt úr kröfum ríkisins, ásamt uppdrætti, í Lögbirtingablaðinu 3. janúar 2001, Morgunblaðinu 7. janúar og fleiri blöðum síðar í sama mánuði, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998. Skorað var á þá sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði, sem félli innan kröfusvæðis ríkisins, að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd innan fjögurra mánaða. Samkvæmt gögnum málsins tóku meðal annars til varna fyrir nefndinni og lýstu kröfum sínum þinglýstir eigendur jarðanna Stafafells og Brekku sem eru gagnstefnendur í máli þessu.

Í júlí 2001 var aðilum tilkynnt að ákveðið hefði verið að fjalla um svæðið í fimm aðskildum málum. Var í máli nr. 5/2001 fjallað um Lón í sveitarfélaginu Hornafirði, þ.e. svæði sem afmarkast til vesturs af Nesjum, þar sem áður voru hreppamörk, og til austurs af mörkum sveitarfélagsins Hornafjarðar gagnvart Djúpavogs­hreppi og Fljótsdalshreppi, allt norður í Geldingafell (punktur 46), áður sýslumörk Austur-Skaftafells­sýslu við annars vegar Suður-Múlasýslu og hins vegar Norður-Múla­sýslu. Framangreind viðmiðun til vesturs endar við jaðar Austurtungna­jökuls (punktur 44, sbr. einnig punkt 17 í kröfugerð vegna Hoffellslambatungna í máli nr. 4/2001 hjá óbyggðanefnd, Nes). Þaðan er dregin lína í hnjúk (1526 m háan) og áfram í annan hnjúk (1505 m háan) og loks í þann þriðja, nafnlausan hnjúk sunnan Grendils (punktur 45) og áfram í Grendil og þaðan yfir hnjúk (1438 m háan) og í Geldingafell (punktur 46). Lína þessi, sem afmarkar svæðið á Vatna­jökuli, byggir á kröfugerð vegna Stafafells, markalínu þeirri á Vatnajökli sem samvinnu­nefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands hefur notað við vinnu sína og sýslumörkum, sbr. einnig kröfugerð vegna Hoffells­torfu í máli nr. 4/2001, Nes. Til suðurs afmarkast svæðið með hafinu.

 Málið var fyrst tekið fyrir af óbyggðanefnd 7. ágúst 2001. Málið var tekið til úrskurðar að lokinni vettvangsferð, skýrslutökum og munnlegum málflutningi 8. til 11. september 2002. Málið var endurupptekið 14. nóvember 2003 og lögð fram ný gögn en að því loknu tekið til úrskurðar að nýju. Úrskurður óbyggðanefndar nr. 5/2001 var kveðinn upp 14. nóvember 2003. Skiptist hann í alls 11 kafla og er 200 bls. fyrir utan viðauka og fylgiskjöl. Í kafla 1 er gerð grein fyrir úrlausnarefni, skipan og aðild fyrir óbyggðanefnd. Í kafla 2 er er gerð grein fyrir málsmeðferð. Í kafla 3 er kröfugerð aðila lýst. Í kafla 4 er gerð grein fyrir gögnum og gagnaöflun nefndarinnar. Í kafla 5 er rætt um staðhætti og náttúrufar í Lóni. Í kafla 6 er fjallað um landnám í Lóni og farið ítarlega yfir sögu einstakra jarða auk þess sem afréttarnotum er lýst. Í köflum 7 og 8 er gerð grein fyrir sjónarmiðum aðila fyrir nefndinni. Í kafla 9 er að finna viðauka við almennar niðurstöður óbyggðanefndar, en þar er vísað til umfjöllunar nefndarinnar í úrskurðum hennar nr. 1-7/2000 sem allir fjalla um lönd í Árnessýslu. Í kafla 10 koma niðurstöður óbyggðanefndar í málinu fram og er kafli 11 úrskurðarorð nefndarinnar. Úrskurður óbyggðanefndar verður rakinn eftir því sem sakarefni málsins gefur tilefni til.

Kröfugerð málsaðila fyrir óbyggðanefnd

Fyrir óbyggðanefnd gerði aðalstefnandi þá kröfu að viðurkennt yrði að þjóðlendumörk í Lóni séu svo sem hér segir:

Kröfulína fjármálaráð­herra um þjóðlendumörk í Lóni byrjar við landamerki Hvalsness, sem jafnframt eru sveitarmörk og sýslumörk við sjó í austri. Síðan fylgir lína þessi sýslumörkum meðfram efri landamerkjum jarðanna Víkur, Svínhóla og Reyðarár, allt þar til landamerkjalína Reyðarár kemur að landamerkjalínu jarðarinnar Bæjar á milli Svartagilsheiðar og Hvítamelsbotna. [/] Hin eiginlega kröfulína fjármálaráðherra byrjar þannig við ströndina við sýslumörkin milli Austur-Skaftafellssýslu og Suður-Múlasýslu og er það punktur A og fer síðan eftir sýslumörkum þar sem landamerki jarðarinnar Reyðarár sker landamerkjalínu jarðarinnar Bæjar í punkti B, sem er mitt á milli Svartagilsheiðar og Hvítamelsbotna og fer þaðan beina sjónhendingu í Hafradalstind (891m), sem verður punktur C, þaðan í Fláatind (880m) (punktur D), síðan yfir Stigafjöll og Hellisskógsheiði í Svínadalshnútu (punktur E), sem verður hornmark.

Úr Svínadalshnútu er svo dregin lína þvert yfir neðri hluta Kjarrdalsheiðar, yfir Tæpitungur og Flötutungur fyrir sunnan Hafragil og í Suðurfjallið (punktur F) fyrir ofan Skyndidalsháls, sem verður hornmark. Frá punktinum í Suðurfjalli er dregin lína yfir Skyndidal og Dalsheiði í Brennhöfða (punktur G) fyrir innan Dalskóga og þaðan í punkt í Dalsfjalli (punktur H) og frá þeim punkti yfir Laxárdal, yfir Hvammsheiði og efsta hluta Gjádals og Þorgeirsstaðadal og sjónhendingu í punkt efst á Fjarðarheiði (729m) (punktur I), sem verður hornmark. Frá punktinum efst í Fjarðarheiði er dregin lína beint í Skálatinda (838m) (punktur J) og er þá komið að gömlu sveitarfélagamörkunum milli Nesja og Bæjarhrepps (Lóns) og inn á næsta svæði.

Við aðalmeðferð málsins fyrir óbyggðanefnd var gerð sú krafa varðandi ríkisjörðina Volasel, sem áður var hjáleiga frá Hvammi, að ef einhver hluti lands innan merkja jarðarinnar Hvamms yrði úrskurðaður þjóðlenda, þá yrði viðurkenndur réttur Volasels til afréttarnota þar.

Af hálfu þinglýstra eigenda Stafafells og Brekku var kröfugerð ríkisins mótmælt og þess krafist að kröfu ríkisins um þjóðlendumörk verði hafnað.

Þá var þess krafist af hálfu þinglýstra eigenda greindra jarða að viðurkennt yrði að þeir ættu beinan eignarrétt að öllu landi jarðanna, að undanskildu því landi sem látið hafi verið frá jörðinni, og að undanskildum námum í jörðu, og að viðurkennt yrði að heildar­landamerki jarðanna séu þessi:

 

Mörkum ráða fjallseggjarnar fyrir austan Víði­dal út á Sviptungnavarp, (p. 50) þaðan ráða enn fjallseggjar út á Hafradals­stafninn (p. 54). Eftir það ræður á sú sem fellur út Hafradal allt út í gljúfur­kjaftinn austanvert við Bláberjamýri; (p. 55) þaðan liggja mörkin beina leið í Sker­nabba (p. 56) á ofanverðum Nýgræðum.- sem nú verður hresstar upp og audkenndar- þaðan sjónhending í vörðuna á Steinsholti sem kallast venjulega Mark­hraun. Úr því beint út yfir Himbrimistjörn (p. 57) yfir Hrútshöfða (p. 58) þannig, að sjónhending verði úr vörðunni við á Markhrauni í austustu klettasnös á í Vigrinni. Að utan ræður affallið fyrir ofan fjöruna (p. 59) [/] Að sunnan ræður Jökulsá (p. 43) þ.e. sá farvegur hennar, sem rennur á milli Nautsholts að austan og Krossalands að vestan -Þorvaldshöfðakvísl- alla leið inn eftir þangað sem Skyndidalsá rennur í hana. (p. 39) Eftir það ræður Skyndidalsá mörkum inn í jökla. (p. 38) (p. 44). [/] Að norðan „nær Stafafellsland þangað, sem vötn skilur milli Lóns og Fljóts­dals(p. 45) (p. 46) (p. 47) (p. 48) (p. 49) “.[/] Innbyrðis milli jarðanna Stafafells og Brekku að því marki sem land jarð­anna er skipt, eru landamerki í samræmi við landamerkjasamning dags. sept. 1983, sbr. kaupsamning og afsal fyrir jörðinni Brekku, dags. 24. maí 1933.

 

Einnig var gerð krafa til málskostnaðar úr ríkissjóði. Tekið var fram í kröfugerðinni að landeigendur líti svo á að í kröfugerð þeirra felist jafnframt krafa um afnotarétt þeirra í þjóðlendu, að öllum venjubundnum afnotum, að fornu og nýju, kæmi til þess að einhver hluti landsins teldist þjóðlenda.

Samkvæmt framangreindu gerir aðalstefnandi sömu kröfu fyrir héraðsdómi um mörk þjóðlendu og eignarlands gagnvart jörðunum Stafafelli og Brekku og gerð var krafa um fyrir óbyggðanefnd.

Staðhættir og náttúrufar í Lóni

Í úrskurði óbyggðnefndar er ítarleg grein gerð fyrir staðháttum og náttúrufari. Þar segir m.a. svo:

Lónshreppur er mjög hálendur, hlíðar víða brattar og skörp landfræðileg og gróðurfarsleg mörk milli undirlendis og fjalllendis. Hæstu fjöll í hálendinu milli Lóns og Nesja eru um 800-900 m að hæð, en hæstu fjöll norður undir jökli eru allt að 1300 m há. [/] Undirlendi hreppsins er miklu minna að víðáttu en fjalllendið. Það  saman­stendur fyrst og fremst af lítt og ógrónum áreyrum Jökulsár í Lóni og vel grónum áreyrum fjær ánni, undir hlíðum fjallanna. Jökulsá í Lóni á upptök sín í suðaustanverðum Vatnajökli. Hún fellur efst um mikil gljúfur, en um miðbik sveitarinnar og til sjávar rennur hún á breiðum eyrum. Inn í fjalllendið, bæði austan og vestan Jökulsár, skerast margir þröngir dalir og eru Laxárdalur og Skyndidalur þeirra lengstir og mestir [...]

Í úrskurðinum er fjallað um gróðurfar frá landnámi. Þar segir að loftslag hafi verið mun hlýrra um landnám en síðar varð og jöklar minni en nú. Ætla megi að talsverður hluti þess lands sem var íslaust um land­nám hafi verið gróið upp í 600-800 m hæð þar sem klettabelti og brattar, lausar skriður hafa ekki komið í veg fyrir að gróður næði svo hátt.  Ætlað sé að skógur og kjarr hafi þakið undirlendi Lóns­ins og dalbotna og undirhlíðar fjalla allt inn undir jökul, eða upp í 300-400 m hæð yfir sjávarmáli. Allstór hluti fjalllendisins hafi hins vegar verið lítt gróinn, vegna þess hve hlíðar þess séu brattar og skriðubornar. Hálendið milli Jökuls­ár og Skyndidals að austan og Hoffellssdals að vestan hafi þó verið allvel gróið, svo og einstakir dalir í hálendinu milli Lóns og Nesja. Ljóst sé að gróður­þekjan sé í heild mun minni að útbreiðslu og rýrari að gæðum en um land­nám. Skógur og kjarr eyddist og annar gróður og jarðvegur hans í kjölfarið.

Í úrskurðinum eru breytingar á jöklum raktar frá landnámi. Kemur þar fram að jöklar hafi verið mun minni um landnám en þeir eru nú. Fram kemur að jöklar hafi náð hámarki um 1890 en hafi síðan hopað.

Lýsing óbyggðanefndar á sögu Stafafellsjarða

Í úrskurði óbyggðanefndar er ítarleg grein gerð fyrir landnámi í Lóni svo og sögu Stafafellsjarða. Af hálfu aðila málsins hafa ekki verið gerðar athugasemdir við þessa umfjöllun óbyggðanefndar. Með hliðsjón af þessu, svo og því að umrædd umfjöllun óbyggðanefndar er að stærstum hluta endurtekin í niðurstöðum nefndarinnar, sem raktar eru síðar, þykir rétt að rekja þessa umfjöllun nefndarinnar og  niðurstöður hennar í einu lagi.  

Almennar niðurstöður óbyggðanefndar

Í úrskurði óbyggðanefndar er vísað til almennra niðurstaðna nefndarinnar um lagaleg atriði, gildi heimilda og gróðurfar á Íslandi í úrskurðum nefndarinnar nr. 1-7/2000. Eru þessar niðurstöður nefndarinnar ítarlega raktar í dómi Héraðsdóms Suðurlands 6. nóvember 2003, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 48/2004. Í úrskurði óbyggðanefndar kemur einnig fram að í Austur Skaftafellssýslu komi til skoðunar nokkur ný álitaáefni sem þýðingu kunni að hafa víðar og sé því ástæða til að bæta við fyrri umfjöllun nefndar um almenn atriði.

Í niðurstöðukafla nefndarinnar er aðdragandi að setningu laga nr. 58/1998 rakinn og hlutverk nefndarinnar samkvæmt lögunum reifað. Segir m.a. að fyrir gildistöku laganna hafi legið fyrir að tiltekin landsvæði á hálendi landsins hafi ekki verið í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Hafi réttarstaða þessara svæða, sem nú séu kölluð þjóðlendur, verið óljós og hafi lögin verið sett til að leysa þennan vanda. Þá er hlutverk óbyggðanefndar samkvæmt lögum nr. 58/1998 rakið og fjallað um mat nefndarinnar samkvæmt lögunum.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að frumstofnun eignarréttar hér á landi hafi farið fram með landnámi, hefð og lögum, sbr. löggjöf um nýbýli og þjóðlendur. Rakin er Landnáma og heimildir um landnám. Segir að af takmörkuðum lýsingum í Landnámu verði engar afdráttarlausar ályktanir dregnar um það hvort í öndverðu hafi verið stofnað til eignarréttar yfir landsvæði með námi. Óbyggðanefnd telur hefð vera annan frumstofnunarhátt eignarréttar. Dómstólar hafi hafnað því að eignar­hefð verði unnin á grundvelli hefðbundinna afréttarnota af landi utan landa­merkja jarða.  Hins vegar hafi hefð verið viðurkennd á grundvelli sambærilegra nota innan landamerkja jarðar. Jafnframt sé ljóst að nytjar af þessu tagi hafi ekki nægt til að vinna eignarhefð með útrýmandi hætti innan marka jarðar svo sem þau hafa verið afmörkuð í landamerkjabréfi hennar. Óbyggðanefnd telur að við mat á því hvort tekist hafi að fullna eignarhefð yfir landsvæði skipti máli hvort það sé innan eða utan landamerkja jarðar. Skilyrði fyrir því að eignarhefð verði unnin á landsvæði utan landa­merkja jarðar séu þröng, þó að ekki sé slíkt útilokað. Lög séu þriðji frumstofnunarháttur eignarréttar, sbr. nýbýla­tilskipun frá 15. apríl 1776 og lög um nýbýli frá 6. nóvember 1897.

             Óbyggðanefnd rekur flokkun lands í jarðir, afrétti og almenninga. Þýðing þeirrar flokkunar nú ræðst af því hvernig hún fellur að hugtökunum eignarland og þjóðlenda. Um jörð segir óbyggðanefnd eftirfarandi:

Óbyggðanefnd telur að almennt megi gera ráð fyrir að jörð sé landsvæði sem upprunalega hefur verið ráðstafað úr einstökum landnámum, stofnað til nýbýlis á eða eignar­hefð unnin yfir. Tilgangurinn með stofnun hverrar jarðar hefur verið að stunda þar búskap árið um kring. Samt sem áður getur að sjálfsögðu verið land innan jarðar sem ekki verður nýtt til landbúnaðar, enda getur setning merkja hæglega hafa tekið mið af öðrum atriðum. Nýting landsins hefur verið í samræmi við búskaparhætti og umfang bús á hverjum tíma. Land hverrar jarðar hefur frá öndverðu borið að afmarka með landamerkjum. Innan merkja jarðar sinnar hefur eigandi almennt séð farið með umráð og hagnýtingu, gert ráðstafanir með löggerningum, veðsett jörðina og látið hana ganga að erfðum, á sama hátt og gildir um eignarland yfirleitt. Óbyggðanefnd telur hvorki verða ráðið af eldri né yngri löggjöf að almennt séð hafi verið gert ráð fyrir því að land innan jarðar hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu. Staðhættir, gróður­far og nýtingarmöguleikar verða ekki taldir hafa úrslitaáhrif í því sambandi. Einstök dæmi um slíka skiptingu finnast þó og eins kann það í öðrum tilvikum að valda nokkrum vafa þegar afréttur liggur eða lá sjálfstætt undir einstakar jarðir. Þá kunna að finnast svæði innan merkja jarða sem kölluð eru afréttur, e.t.v. með vísan til þess að sá hluti hennar hafi helst verið nýttur til beitar, án þess þó að eignarréttarleg staða þess landsvæðis hljóti að vera önnur. Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að líkur séu á því að land sem samkvæmt fyrirliggjandi heimildum er eða hefur verið jörð sé beinum eignarrétti háð. Sönnunarbyrðin hvílir því á þeim sem öðru heldur fram.

      Óbyggðanefnd telur að tilvist ítaks í fasteign bendi fremur til þess að svæði það sem ítakið er á sé eða hafi einhvern tímann verið eignarland. Þá fjallar nefndin um almenninga og kemst að þeirri niðurstöðu að heimildir bendi ekki til að hér á landi hafi verið að finna afmörkuð landsvæði inn til landsins sem lotið hafi reglum um almenninga svo óyggjandi sé. Hafi einhvern tímann verið svo, hefur munur á þeim og afréttum orðið lítill eða enginn er fram liðu stundir.  Þá er ljóst að stærstur hluti lands utan einstakra jarða hefur fyrr og síðar verið í afréttarnotum. Samkvæmt þessu verður ekki talið að hugtakið almenningur hafi mikið sjálfstætt gildi við mat á grunneignarrétti á landi sem verið hefur í slíkum notum. Það getur hins vegar haft þýðingu við mat á takmörkuðum eignar­réttindum og eins verður ekki útilokað að slík landsvæði finnist.

             Að því er varðar samnotaafrétti telur óbyggðanefnd ekki unnt að útiloka að slík landsvæði hafi verið numin. Vísað er til reglna um nýtingu slíkra afrétta og notkun þeirra að öðru leyti, sem einkum fólst í beit. Telur nefndin með vísan til úrlausna dómstóla að beinn eignarréttur verði ekki byggður á slíkum notum. Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að líkur séu á því að land sem samkvæmt fyrirliggjandi heimildum er samnotaafréttur sé þjóðlenda. Sönnunar­byrðin hvíli á þeim sem öðru heldur fram. Þetta telur nefndin hins vegar ekki eiga við afrétti einstakra jarða og stofnana. Hafi þessar afréttir lotið öðrum reglum og landeigandi notið þar ríkari réttinda. Hvort tiltekinn afréttur einstakrar jarðar eða stofnunar sé undirorpinn beinum eða óbeinum eignarrétti heimajarðar sé hins vegar ekki einhlítt og verði að meta í hverju tilviki fyrir sig. Kröfur dómstóla til sönnunar að því er varðar annars vegar afrétti einstakra jarða og stofnana og hins vegar samnotaafrétti virðast þó sambærilegar að mati óbyggðanefndar.

             Óbyggðanefnd rekur reglur um skráningu fasteigna með svofelldum hætti:

Landfræðileg afmörkun fasteigna var ekki skráð á samræmdan máta fyrr en í lok 19. aldar. Fram er komið að fyrir þann tíma eru heimildir um mörk jarða fágætar. Þá liggur fyrir að heimildargildi Landnámu er umdeilt og lýsingar hennar oft ónákvæmar. Úrskurður um eignarland eða þjóðlendu verður ekki byggður á þeim einum. [/] Með setningu laga um landamerki, nr. 5/1882, var í fyrsta skipti í íslenskri löggjöf kveðið á um almenna skyldu eigenda og umráðamanna jarða til að skrásetja nákvæma lýsingu á landamerkjum jarða sinna. Tilgangur löggjafans með setningu laga um landamerki 1882 og laga um hefð 1905 var sá að koma fastri skipan á afmörkun fasteigna og heimildir til þeirra. Hér má einnig nefna lög um fasteignamat 1915 þar sem kveðið var á um reglubundið mat fasteigna á tíu ára fresti. Með þessu móti leitaðist löggjafinn við að skapa traustan grundvöll undir sölu, veðsetningu og skatt­lagningu jarða og annarra fasteigna. [/] Samkvæmt ákvæðum landamerkjalaganna skyldi sýslumaður hafa eftirlit með því að menn uppfylltu skyldur sínar til skrásetningar merkja. Hafi bréf verið þinglesið, fært í landamerkjabók og á því byggt síðan um merki tiltekinnar jarðar, án athugasemda yfirvalda eða ágreinings við nágranna eða sveitarfélag, virðist það benda til þess að lýsing merkja hafi verið í samræmi við það sem almennt var talið gilda. Séu bréf aðliggjandi jarða samhljóða hlýtur það að benda til hins sama. Könnun óbyggða­nefndar á dómum Landsyfirréttar á tímabilinu 1886-1920 bendir ekki til þess að í kjölfarið á setningu landamerkjalaganna hafi komið upp umtalsverður ágreiningur milli sveitarfélaga og eigenda efstu jarða um mörk jarða og afrétta. Jafnframt er ljóst að þinglýstir eigendur hafa haft réttmætar ástæður til að vænta þess að merkjum sé þar rétt lýst. Ennfremur hlýtur gildistaka hefðarlaga árið 1905 að styrkja eignartilkall slíkra aðila.

      Óbyggðanefnd telur ljóst af úrlausnum dómstóla að við mat á gildi landamerkjabréfs, skipti máli hvort um er að ræða jörð eða annað landsvæði. Hafi gögn máls þótt bera með sér að afréttarlandsvæði væri einungis óbeinum eignarréttindum háð hafi tilvist landamerkja­bréfs ekki breytt þeirri niðurstöðu. Í slíkum tilvikum hafi landamerkja­bréf einungis verið talin ákvarða mörk afréttareignar. Hins vegar hafi dómstólar í einka­málum talið landamerkjabréf ákvarða mörk eignarlands í tilvikum þar sem um var að ræða landsvæði sem áður höfðu legið innan landamerkja jarða. Þá segir eftirfarandi í úrskurði óbyggðanefndar:

Með vísan til tilgangs landamerkjalaga 1882, síðari tíma löggjafar og úrlausna dóm­stóla, telur óbyggðanefnd að leggja verði til grundvallar að jörð, svo sem hún er afmörkuð í landamerkjabréfi, sé beinum eignarrétti háð. Útilokað er að fullyrða um rétta afmörkun og órofa yfirfærslu eignarréttinda allt frá landnámi og til dagsins í dag. Í þeim tilvikum þar sem einstaklingar eða lögaðilar hafa samkvæmt elstu heimildum farið með þau réttindi og skyldur sem í beinum eignarrétti felast, verður að telja eðlilegt að íslenska ríkið beri hallann af þeim vafa sem fyrir hendi kann að vera. Einstaklingar og lögaðilar hafa haft réttmætar ástæður til að vænta þess að beinn eignar­réttur væri fyrir hendi og getað leitað til handhafa opinbers valds honum til verndar. Hins vegar er þó ljóst að meta verður sérstaklega gildi hvers landamerkja­bréfs. Þannig dregur úr gildi landamerkjabréfs ef eldri heimildir mæla því í mót. Á hinn bóginn telur óbyggðanefnd að líkur séu á því að land sem samkvæmt fyrir­liggjandi heimildum hefur ekki með einum eða öðrum hætti tilheyrt jörð, hafi ekki orðið beinum eignarrétti háð fyrr en með setningu þjóðlendulaga. Ekki er hægt að útiloka að þessi landsvæði hafi verið numin eða á annan hátt orðið undirorpin beinum eignarrétti en samhengi eignarréttar og sögu liggur ekki fyrir. Í stað þeirra almennu heimilda til umráða, hagnýtingar, ráðstöfunar o.s.frv. sem eigandi jarðar hefur um aldir verið talinn fara með hefur einungis verið um að ræða heimildir til takmarkaðrar nýtingar sem snemma urðu lögbundnar. Með vísan til úrlausna dómstóla er ljóst að beinn eignarréttur verður ekki byggður á slíkum notum. Sönnunarbyrðin hvílir því á þeim sem slíku heldur fram.

                Um eignarréttarlega stöðu þess lands sem hulið er jökli telur óbyggðanefnd að fara beri eftir sömu reglum og um önnur landsvæði. Þegar merki jarðar séu miðuð við jaðar jökuls og þeim því ekki lýst nema að takmörkuðu leyti í landamerkjabréfi beri að miða við stöðu jökul­jaðarsins við gildistöku laga nr. 58/1998 1. júlí 1998, enda sé jökullinn í þjóðlendu. Um þetta atriði segir nánar eftirfarandi í kafla 9.3 úrskurðarins, þar sem sérstaklega er fjallað um jökla:

Ef líkindi eru fyrir því að land hafi verið numið inn til jökla styður það  þá niðurstöðu að land sem jökullinn hefur skilað frá gerð landmerkjabréfanna falli til aðliggjandi jarða. Ekki verður talið að jökull hafi hopað svo hratt undanfarna rúma öld að komið sé í ljós að ráði land jarða sem ofar kunna að hafa legið, enda staða jökuls 1998 nær því sem var um 1900 en um land­nám. Tilkall til lands sem komið hefur undan jökli kann jafnframt að byggjast á hefðar­reglum. Til skoðunar koma þá almenn atriði eins og tímalengd, yfirráð, hagnýting, ráðstafanir að lögum, viðhorf hefðanda og annarra aðila o.fl. Staðhættir kunna að vera með þeim hætti að um eðlilegt framhald tiltekinnar jarðar sé að ræða, líkt og landauki til hafs, og nýting annarra útilokuð. Frávik frá þessum almennu ályktunum eru þó að sjálfsögðu möguleg og verður að skoða hvert tilvik fyrir sig. Jafnframt hlýtur réttur þessi að takmarkast við land sem komið var undan jökli við gildis­töku þjóðlendulaga 1998, þegar löggjafinn kvað á um eignarhald ríkis á öllu því landi sem ekki væri sannanlega undirorpið beinum eignarrétti. Mögulegar væntingar jarð­eigenda um rétt til þess lands sem kemur undan jökli eftir þann tíma njóta ekki réttar­verndar sem eignarréttindi í skilningi 72. gr. stjórnarskrár. Þá ber þess að geta að frá gildistöku þjóðlendulaganna er ekki unnt að öðlast eignarréttindi innan þjóð­lendna fyrir nám eða hefð, sbr. 8. mgr. 3. gr. [/] Niðurstaða óbyggðanefndar er því sú að gildistaka þjóðlendulaga hafi undir þessum kringumstæðum haft það í för með sér að merki jarða gagnvart jökli væru fastsett, án tillits til síðari breytinga á jökul­jaðrinum. Sú niðurstaða er jafnframt í eðlilegu samræmi við markmið og tilgang löggjafarinnar. Þegar merki jarðar eru miðuð við jaðar jökuls og þeim því ekki lýst nema að takmörkuðu leyti í landamerkja­bréfi ber þannig að miða við stöðu jökul­jaðarsins 1. júlí 1998, sbr. 22. gr. þjóðll., enda sé jökullinn í þjóðlendu. Lega jökuljaðarsins kann þó að virðast óljós þar sem smájöklar eða fannir liggja aðskilið frá meginjöklinum. Í þeim tilvikum þar sem eignarland liggur að jökli í þjóðlendu verður að telja eðlilegt að íslenska ríkið beri hallann af þeim vafa sem þannig kann að vera fyrir hendi. Óbyggðanefnd telur því eðlilegt að í slíkum tilvikum miðist þjóðlendulína við jaðar meginjökuls, eins og hann er skilgreindur af sérfræðingum á því sviði. Smájöklar og fannir verða þá innan eignar­lands á sama hátt og jökulsker eða annað land umlukið jökli verður innan þjóðlendu.

                Sé jökul­svæði innan merkja jarðar telur óbyggðanefnd hins vegar að almenn sjónarmið gildi um túlkun landa­merkja.

Landnám í Lóni

             Í úrskurði óbyggðanefndar eru raktar frásagnir Landnámu um upphaf byggðar í Lóni. Greint er frá því að Þórður skeggi, sonur Hrapps Bjarnarsonar bunu, hafi numið land milli Lónsheiðar og Jökulsár í Lóni. Þykir ekki leika vafi á því hversu vítt landnám Þórðar náði. Í Landnámu er því ekki lýst nákvæmlega hversu langt inn til fjalla landnámið náði. Er í þessu sambandi vísað til frásagna Landnámu um að fé hafi verið beitt til fjalla og upplýsinga um gróðurfar og jöklafar á landnámsöld. Talið er vafalaust að við landnám hafi gróðurþekja í Lóni verið mun meiri að víðáttu og grósku en nú er og jöklar minni.

Í niðurstöðum óbyggðanefndar í máli þessu segir að austur- og vesturmörk landnámsins í Lóni séu nokkuð ljós, a.m.k. til sjávar, en um mörk inn til landsins sé ekki getið í Land­námu. Í þessu samhengi megi þó hafa til hliðsjónar það sem segir í Hauksbók að sumir þeir sem fyrstir komu til landsins hafi reist sér bú við fjallsrætur („byggðu næstir fjöllum“) til að nýta þar landkosti, einkum beitina. Þá segir að land í Lóni sé afmarkað af jöklum hið efra og sjó hið neðra. Þar á milli sé mikið fjall­lendi og heiðarlönd sem nái upp í allt að 1000-1300 m hæð við jökul­röndina, sundurskorið af stórum og smáum dölum. Undirlendi í Lóni sé lítið. Það liggi upp af ströndinni, með fram helstu ám og í dalbotnum. Norður að hreppamörkum í um 1000 m hæð við Marköldu innan við Kollumúla­heiði sé um 45 km fjarlægð. Stysta fjarlægð frá sjó að Austurtungnajökli við austurbrún Vatna­jökuls sé um 30 km í loft­línu.  Ef tekið sé mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun land­náms­lýsinga verði að telja fremur ólíklegt að land í norðanverðu Lóni hafi verið numið frá sjávar­máli og upp á fjallsbrúnir og vatnaskil við Múlasýslur.

Niðurstaða óbyggðanefndar um Stafafellsjarðir

Í úrskurði óbyggðanefndar er Stafafellstorfu lýst með svofelldum hætti:

Til Stafafellstorfu teljast Stafafell, Brekka, Byggðarholt og Hraunkot. Þrjár síðasttöldu jarðirnar voru á sínum tíma, sbr. kafli 6.5., seldar frá Stafafelli og þá með ákveðnum merkjum, þó svo ekki liggi fyrir nein tiltæk gögn um að fram hafi farið formleg landskipti. Ágreiningslaust er að jarðirnar Stafafell og Brekka eiga saman í óskiptu það land Stafafellstorfunnar sem ágreiningur í máli þessu stendur um, Stafafell 75% en Brekka 25%...

Að Stafafellstorfu, eins og henni er lýst í landamerkjabréfi jarðarinnar liggja að vestan Þórisdalur og Krossaland í Lóni, auk Hoffells­lamba­tungna í Nesjum. Að norð­vestan er Vatnajökull ásamt skrið­jökl­unum Austurtungna­jökli, Norðurtungna­jökli og Axarfellsjökli, en norðurkinn hans er stundum kölluð Suðurfjallsjökull, og nyrst er Vesturdalsjökull. [/] Til norðurs eru svokallaðir Suðurafréttir í Fljótsdal, þ.e. Múli og Suðurfell í Norður-Múlasýslu, og Flugustaðir, Hof og Múli í Geithellnahreppi (nú Djúpavogs­hreppi), Suður-Múla­sýslu. Þá liggja að austan­verðu jarðirnar Bær og Hlíð í Lóni en til suðausturs er hafið. [/] Landsvæði það sem hér er til skoðunar nær frá fjöru í Lóni um 45 km leið norð­vestur að vatnaskilum við Marköldu. Á u.þ.b. miðri þeirri leið eru vesturmörk þess í innsta hluta Skyndidals en austurmörk í Jökulgilstindum. Þar á milli eru u.þ.b. 16 km. Á norðanverðu þessu svæði er mikið hálendi en undirlendi þegar sunnar dregur og víðast skörp og brött skil þar á milli. [/] Fjalllendið, sem stundum er nefnt Lónsöræfi eða Stafafellsfjöll, er að stærstum hluta í 500-1000 m hæð en hæstu fjöll 1100-1570 m há. Það er sundurgrafið af ár­farvegum, gljúfrum og dalverpum og einkennist af bröttum lausaskriðum og kletta­beltum. Dalverpin eru víðast djúp, aðeins í 150-250 m hæð inn á milli fjallanna, og svo þröng að í þeim er ekki umtals­vert undirlendi. Jökulsá kemur undan jökli í 800-900 m hæð ofan dalbotns Vestur­dals og klýfur þetta land­svæði í tvennt, þar sem hún rennur tæplega 50 km leið til sjávar. [/] Vestan Jökulsár eru Eskifellsfjöll. Syðst á því svæði er Skyndidalur, um 12 km langur og allvíður með dalbotn í 100-200 m hæð. Ofan Skyndidals eru tvær há­sléttur, Suður­fjall (858 m) og Kjarrdals­heiði (mest 700-800 m). Jökulsá rennur fram úr löngum þrengslum austan Kjarrdalsheiðar og þar litlu sunnar, neðan við Eski­fell, sameinast Jökulsá og Skyndidalsá og dreifa sér fram á sandinn. Þegar dregur vestur og norður fyrir framan­greindar hásléttur og inn að jökli hækkar landið mjög. Þar eru hæstir Múla­tindar (1085 m), Sauðhamarstindur (1319 m), þar sem leifar eru af jökli að norðan­verðu, Suðurtungnatindur (1279 m) og tindar við austurbrún Vatna­jökuls milli Austurtungna- og Norðurtungna­jökla (1244 m) og í Norður-Lamba­tungum (1203 m). Nyrst er Suðurfjall (1028 m), og inn af því liggur Vestur­dalur, þar sem Jökuls­á á upptök sín. [/] Austan Jökulsár eru Framfjöll og Innfjöll. Framfjöll ná inn að Víðidalsá og Hnappa­dals­tindi. Syðsti hluti þeirra nefnist Heimafjall og liggur á milli Jökuls­ár og Hlíðar­ár, inn að Hvannagili og Fláatindi. Það er að miklu leyti í 200-300 m hæð, og er þar hæst Gullaugarfjall, 259 m. Þar norður af rís fjall­lendið bratt upp í 880 m hæð í Fláa­tindi. Austurskógar eru innan við Hvannagil og ná inn að Hnappadalsá og allt inn á Sviptungnavarp. Syðsti hluti Austur­skóga er flatlendar eyrar, ofan þeirra taka við brattar, hömróttar og gilskornar hlíðar en norður af þeim rísa Grákinnartindar (1114 m) og Stigafjöll. Ofan Stiga­fjalla eru Jökulgilstindar (1313 m) þar sem eru umtals­verðar leifar af jökli. Hellis­skógur tekur við af Austurskógum, fyrir innan Hnappa­dalsá. Þar fyrir ofan er Hellisskógsheiði, sem nær mest um 600 m hæð. Norðan og austan hennar, að mörkum Austurskóga við Sviptungnavarp, er mikið fjall­lendi sem rís hæst í Hnappadalstindi (1212 m).

Innfjöll taka við af Framfjöllum norðan við Hnappadalstind. Svip­tungna­varp liggur norðaustur af Hnappadalstindi, upp undir Flugustaða­tinda (1122 m) og þar norður af eru Tungutindar (1175 m). Er þá komið að mörkum Lóns­hrepps og Geit­hellna­hrepps, á vatnaskilum. Á bæði Flugustaða­tindum og Tungutindum eru leifar af jökli en nokkru norðar, upp af Víðidal, er Hofsjökull eystri (1180 og 1069 m), nokkurra ferkílómetra jökul­hetta. Víðidalsá kemur úr Víðidalsdrögum norð­vestan Hofs­jökuls og rennur um Víðidal, í nálægt 500 m hæð, en sameinast Jökulsá neðan við Kollumúla. Austan árinnar og upp að framangreindu fjalllendi og jökul­leifum á sýslu­mörkum eru Sviptungur (914 m), Grísatungur (1094 m) og þegar norðar dregur Dagmála­hlíðar, Fláar, Innri-Sand­hólar, Hnúta og Norðurhnúta í nálægt 600-1000 m hæð. Vestan við Víðidalsá og Víðidal er Kollumúli (mest 901 m). Síðan lækkar landið til norðurs niður í 600-700 m hæð allt norður að Vatns­hlíðum. Þá tekur Kollumúla­heiði við, og er mikill hluti hennar í 800-900 m hæð. Markalda (982 m) og Víðidals­varp (892 m) eru á sýslumörkum og vatna­skilum á Hraunum. Jökulsá rennur vestan við Kollumúlasvæðið og skilur það frá Norður-Lambatungum og Suður­fjalli, í efsta hluta Eskifellsfjalla. [/] Undirlendi Stafafells er fyrst og fremst hinar miklu áreyrar Jökulsár í Lóni sem teygja sig frá Eskifelli og til sjávar, um 17 km leið. Víðast eru þær um 1,5 km breiðar en mest um 2,5 km, framan við Eskifell, vestanmegin Jökulsár. Mest eru þær í um 80-100 m hæð yfir sjó innst, þ.e. framan við Eskifell og við mynni Skyndidals. Upp með Jökulsá austanverðri, milli ár og hlíðar, er mjó og nokkuð sundurslitin undirlendis­ræma frá Gullaugarfjalli norður að Einstigi við Hellis­skóg. Einnig er lítils háttar undir­lendi í Hellisskógi og norðan í Eskifelli. Austan áreyranna er loks undirlendi sem nær frá Gildrufjalli suður til sjávar milli Jökulsár og Bæjarár, um 7 km langt, 1,5 km breitt og nánast allt neðan 40 m hæðar.

 

Til stuðnings kröfum íslenska ríkisins fyrir óbyggðanefnd var vísað til landnáms, sem í megin­dráttum hafi einungis verið á undirlendi, staðhátta, víðáttu, öræfalands, gróður­fars, hæðar yfir sjó og afréttarnota fjalllendis. Samkvæmt gildandi rétti þurfi landeigandi að færa sönnur á eignarheimildir sínar og Hæstiréttur hafi gert ríkar kröfur til sönnunar á beinum eignarrétti að hálendi, fjöllum og öræfum. Jöklar hafi flokkast með öræfum og verið einskismannsland, en eftir lög­töku þjóðlendulaga verði að gera kröfu til þess að þeir teljist þjóðlenda. Með landamerkjabréfi Stafafells 1914 hafi verið innlimað í merkja­lýsingu jarðar­innar gríðarlegt landflæmi, gegn eldri heimildum. Samningur Náttúru­verndar­ráðs og eigenda Stafafells hafi ekki falið í sér viðurkenningu á eignar­rétti þeirra yfir öllu landi innan merkjalýsingar í landamerkjabréfi, enda komi ekkert fram um það.

Þinglýstir eigendur Stafafells og Brekku vísa til heimildar­skjala sinna, svo sem afsala, en þau byggi á eldri heimildum, sbr. og veðbókarvottorð. Íslenska ríkið hafi selt jörðina einkaaðilum 1913. Enn fremur er vísað til atriða eins og land­náms, hefðar, umráða og nýtingar, kunnra og óumdeildra landa­merkja samkvæmt landa­merkjabréfi, dags. 23. apríl 1914, athugasemda­lausra þinglýsinga, lýsingar landa­merkja í vísitasíu Brynjólfs biskups 1641 og lög­festu Stafafells 1714, og fyrirkomu­lags smölunar. Í landi Stafafells hafi verið byggð nokkur býli, þ. á m. Grund í Víðidal, og leiga verið greidd fyrir. Jafnframt er byggt á friðlýsingu hluta jarðar­innar 1977 og samningum jarð­eigenda við ríkið um það efni. Af heimildum megi ráða að hluti Þóris­dals hafi verið lagður undir Stafafell og sé ekkert óeðlilegt við það, enda hafi kirkjan átt báðar jarðirnar. Jörðin hafi frá fornu fari verið ein af stærstu jörðum landsins. Engar heimildir séu um almenningsafrétt á þessu svæði. Jökull hafi verið miklu minni við landnám. Þá er vísað til greiðslu lögboðinna gjalda af jörðinni og réttmætra væntinga jarðeigenda. Ríkisvaldið beri sönnunarbyrði fyrir því að umrætt land sé ekki eignarland.

Í úrskurði óbyggðanefndar kemur fram að Stafafells sé getið í heimildum frá um 1200 en sagnir um búsetu þar megi rekja aftur til 10. aldar. Af þeim verði ráðið að um sjálfstæða jörð hafi verið að ræða, sbr. umfjöllun um hugtakið jörð í almennum niðurstöðum óbyggða­nefndar. Brekka og fleiri býli á jörðinni séu upphaflega hjáleigur úr landi Stafa­fells og sé þeirra síðar getið í heimildum.

Svo sem fyrr greinir séu austur- og vesturmörk landnáms í Lóni nokkuð ljós, en um mörk inn til landsins sé ekki getið í Land­námu. Lýsing á land­námi fyrir landi Stafafells sé þannig takmörkuð.

Í umfjölllun óbyggðanefndar í kafla 6.5. um Stafafellsjarðir segir að samkvæmt kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá um 1200 hafi frá því um árið 1000 verið kirkja að Stafafelli, en elsta skjalið um kirkjuna muni vera máldagi sem talinn sé frá árinu 1343. Þar var þá Maríukirkja sem átti heima­land allt með gögnum og gæðum, rekum og skógum milli Bæjarfjöru og Papafjarðar­óss. Stafafell var þannig sjálfstæð kirkjustofnun, staður.

Elsta landamerkjalýsing Stafafells er líklega í vísitasíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar frá 1641:

 

Mariu Kyrkia á Staffafelle j Lóne a Heimaland allt med gognum og gædum skogum og rekum thil Fiallz og fioru til þessara vmmerkia epter hefdar hallde og til sogn Sra Hogna Jonz sonar og Sra Gudmundar Laurentius sonar j motz vid hlyd og Bæ sio‹n›hending vr steinenum á steinzhollte og j mógil þad sem fellur vr hafrafellztinde hinum vestara, stód sá steirn vpp vr þufu fyrst þá Sra Hogne hafde staden sem han‹n› sialfu‹r› hefur medkentt, huer nu er blasin og steirnin nidur fallinn. Bifalar B[ysku]p lata vpphressa landamerke med godramanna raade sem thil vita ad til kolludum þeim er j motz vid eigu. Þadan ofan j Hymbrynis tiorn, sydan rædur Jokulz á ad sunnan j Bygdum og á stadurin allt land, og skóga ad frateknum Þoru skoge Einholltz kyrkiu, millum hen‹n›ar og skindildalz ár og á fioll vpp f[yrer] Jnnan Keteldalz heidi, og Vydedal allann, hun á skogar teig j skalahuamme annan skogar teig ‹j› styfinga hlyd, Selfor og v hrossa Beit j Barma a sumar og skogar teig j Hlydar dal.

 

Árið 1714 voru landamerki Stafafells lögfest að því er virðist í samræmi við áðurgreinda lýsingu í vísitasíubók Brynjólfs biskups:

 

Eg Gudmundur Magnusson lögfeste hier i dag stadenn Stafafell i Lone med öllum gögnum og giædum. skogum og rekum til fialls og fiöru til þessara ummerkia i mótz vid Hlijd og bæ siónhendingu ur Steinshollte og i Mógil þad sem fellur ur Stafafellstindi hinum vestara. Þadann ofani Himbrinistiörn. sijdann rædur Jokulsá ad sunnann i bigd. á stadurenn allt land og skoga millum Jökulsár og Skindedalsár og so á fiöll upp. Jtem Ketelstadaheijde og Vijdedal allann. Jtem skogarteig i Skálahvamme og annann i Stifingahlijd. selför og 5 hrossa beit j barmá á sumar. Skogarteig i Hlydardal. selveide i millum Straumsness og Skernabba sem stendur i lonenu fyrir ofann óshöfda. Vigur med öllum gögnum og giædum. Jtem allann hrutzhöfda. reka allann á millumm bæarfiöru og Papafiardaróss. Lögfeste eg og under stadenn Stafafell land allt vid sió fra Bæaróse ad austann og vestur ad Papaóse med öllumm gögnumm og giædumm. …Sömuleides lögfeste eg Gudmundur Magnusson Stafafells kyrkiu jörd halfann Þorersdal i Lone og Stafafells kyrkiusokn. akra og tödur. Eingiar og haga. Skóga. vötn og veidestade og allar landsnitiar sem því lande filgia Eiga og filgt hafa. Fyrerbyd eg hvörium manne ad bruka. i ad vinna edur sier nyta. nema vyrduglegum höfdingsmanne Þorde Þorkelssyni og þeim sem hann leifer. til annara fardaga 1715 frá þessu. Þessar mijnar lögfestur vitna eg til þijn Högne Högnason og Þijn Hinrich Jonsson og allra þeirra dánumanna er ord mijn heijra.

Landamerkjalýsing Brynjólfs biskups er tekin upp í vísitasíu Jóns biskups Árnasonar 1727, en í vísitasíum annarra biskupa er einungis greint frá eignum kirkjunnar eins og venja var við slíkar úttektir.

Í jarðabók Ísleifs Einarssonar 1709 er dýrleiki Stafafells sagður óviss enda ekki venja að tíunda kirkjulén (beneficium) til skatts. Gerð er grein fyrir eignum kirkjunnar, og kemur þar fram að henni var eignaður Víðidalur og einnig Kollumúli sem nefndur er afréttur staðarins:

Skógur er seldur og tekinn tollur fyrir, 5 ál. [álnir] fyrir 5 tunnur kola, og 5 fiskar fyrir hvörn raftviðarhest, og hefur þetta svo að fornu selt verið.

Eggvarp af æðarfugli á jörðin í Vigrinu og selveiði.

Staðurinn á afrétt í Kollumúla.

Item er staðnum eignaður Víðidalur.

Álftveiði á staðurinn á Lóninu.

Item reka allan á millum Bæjarfjöru og Papafjarðaróss.

Hrútshöfða á jörðin.

Staðnum er eignað Hornssker fyrir Fjarðarlandi. Ábúandinn á Horni á að gjalda 5 ál. þar eftir árlega, eftir sem gömul venja verið hefur. En til forna hefur þetta sker verið tíundað að tveim tíundum af xij til staðarhaldarans að Stafafelli.

             Ekki er tekið fram hvar skógur Stafafells var, en þó er þess getið að árið 1731 fékk prófasturinn í Stafafelli mann nokkurn dæmdan fyrir skógar­högg innan Hnappadalsár. Í jarðabók Ísleifs er minnst á „Stafafellshjáleigu“ sem gæti verið sama býli og síðar var nefnt Brekka. Traustar heimildir um búsetu í Brekku eru þó ekki eldri en frá 18. öld.

Í jarðamati 1804-1805 eru nefndar fimm hjáleigur með Stafafelli: Garðakot, Brekka, Kiðavellir, Byggðarholt og Hraunkot. Þar er einnig vikið að „afrétti“ jarðar­innar með þessum orðum: „Jorden tilhører Afret for 2d stoer Hundrede [þ.e. 240] gælde Faar.“  Í jarðatali Johnsens 1847 er Stafafell metið á 26 hundruð, eins og í jarðabókinni 1697, en í Nýrri jarðabók 1861 er hún talin 46,1 hundrað að dýrleika. Brekka er nefnd í Jarðatali Johnsens sem annað heiti yfir hjáleiguna Eskifelli. Það nafn, Eskifell, er ekki að finna í eldri jarða­bókum, en Johnsen hafði það frá presti og sýslumanni. Í Nýrri jarða­bók er Brekku ekki lengur getið, enda mun hjáleigan hafa farið í eyði 1842, en Eski­fell er þar skráð með Valskógsnes sem annað heiti. Eftir öðrum heimildum er vitað að síðustu ábúendurnir í Valskógsnesi fluttu þaðan 1875 og settust að í Smiðjunesi. Þar var búið til ársins 1892 þegar búskapur hófst að nýju að Brekku.

             Í skjalagögnum Stafafellskirkju er m.a. að finna svonefnda „Fornbréfa­bók“. Hún var tekin saman á 19. öld og geymir ýmsar heimildir um eignir kirkjunnar og landamerki. Þar er gerð sú athugasemd að engar úttektir hafi varðveist á eignum Stafafellskirkju eftir að Hannes biskup Finnsson vísiteraði kirkjuna, og var þó skylt að gera slíkar úttektir í hvert sinn sem nýr prestur tók við staðnum. Fullyrtu þeir sem athugasemdina gerðu (sennilega snemma á 20. öld) að við þetta hefðu eignir kirkjunnar, bæði í föstu og lausu, rýrnað mjög.

Í brauðamati sem undirritað er 30. desember 1898 segir m.a:

Kostir jarðarinnar eru einkum þeir, að hún er veðursæl og hagasæl, og hefir víðáttu­mikið fjall-lendi og kjarngott afréttarland, sem að nokkru leyti er skógi vaxið, en ókostir þeir, að hér er fremur létt undir bú, jörðin mjög erfið og mannfrek, sauðfé mjög ullarlítið og afréttarlandið bæði fjarlægt, einkum hið besta úr því, og alt sundurskorið af vatnsföllum, klettabeltum, giljum og gljúfrum, svo að fjallgöngur kosta ótrúlega mikinn tíma og fyrirhöfn.

             Tekið er fram að „nokkur hluti afréttarlandsins (Víðidalur og Kollu­múli)“ hafi verið byggður fjögur ár af þeim 5 sem brauðamatið nái yfir og hafi eftir­gjaldið verið 30 merkur smjörs, reiknað á 56 aura pundið, eða 16 kr. og 80 aurar að jafnaði árlega. Sama ár lýsti prófasturinn á staðnum, Jón Jóns­son, kostum jarðarinnar og hlunnindum á svipaðan hátt. Ári síðar, 7. febrúar 1899, var gerð úttekt á jörðinni að tilmælum prófasts. Jón Jónsson hreppstjóri og Sveinn Bjarnason úttektarmaður virtu þá til afgjalds „prestsetrið Stafafell, sem bújörð, ásamt meðfylg‹j›andi 4 kú­gildum og þeim hlunnindum jarðar­innar, sem við álítum að henni eigi að fylgja sem bújörð, og reiknast með, þegar hún er metin til eftirgjalds, sem eru afréttar­land, skógur til heimilis­þarfa, trjáreki af fjörum staðarins og silungsveiði í Jökulsá“. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að sanngjörn land­skuld af jörðinni væri 100 kr., og reiknuðu þeir þá með í matinu afréttarland, skóg til heimilisþarfa, trjáreka af fjöru staðarins og silungsveiði í Jökulsá.

Víðidalur er fyrst nefndur, að ætla má, í vísitasíu Brynjólfs biskups Sveins­sonar frá 1641 og er þar eignaður Stafafellskirkju. Í lögfestu 1714 er Ketilstaðaheiði nefnd ásamt Víðidal, en í jarðabók Ísleifs Einars­sonar frá svipuðum tíma (1709) eru „afréttur“ í Kollumúla og Víðidalur sagðir eign Stafafellskirkju. Þetta er síðan staðfest í gerðabók yfirjarðamatsnefndar 1849: „Slægjur utan túns eru ekki „miklar“ né víðlendar; hagarnir aðeins góðir fyrir sauðfé en ill hrossagánga á vetrum. Staðurinn á „Víðidal“ og „Kollumúla“.“ Á Grund í Víðidal var búið með hléum frá 1835-1897. Ekki verður séð af fyrirliggjandi heimildum að sótt hafi verið um heimild til stofnunar nýbýlis í dalnum, en vitað er að síðustu ábúendur þar, Sigfús Jónsson og Ragnhildur Jónsdóttir, fengu byggingar­leyfi hjá séra Markúsi Gíslasyni að Stafafelli.

Í skriflegu mati á Stafafelli frá 1912 lýsa úttektarmenn yfir því að jörðin sé

einhver sú erfiðasta og fólksfrekasta landbúnaðarjörð, er við þekkjum, sérstaklega hvað fjárhirðingu snertir, þar eð jörðin er landrík og fjalllendi sérstaklega víðáttu mikið. Afréttarland er kjarngott og að nokkru leyti skógi vaxið, en í mjög mikilli fjarlægð, auk þess, sem það er sundurskorið af vötnum, giljum og gljúfrum og mjög slæmt umferðar.

Loks er nefnt að í fasteignamati frá 1916 sé komist svo að orði að beiti­landið sé „víðlent fjalllendi með skógarkjarri, snjólétt og skjólgott, en grýtt“. Einnig er tekið fram að jörðin eigi „stórt afréttarland, en afar ervitt og illa lagað til gangna“. Skóg mikinn átti jörðin, og Einholtskirkja átti „skógarítak á Skyndi­dal, sem kallast Þóruskógur“. Jörðin var þá komin í einkaeigu, seld ábúand­anum, Jóni prófasti Jónssyni, í samræmi við lög um sölu kirkjujarða, nr. 50/1907, og er afsalið dagsett 28. maí 1913. (sic) Með í sölunni fylgdu hjá­leigurnar Brekka, Byggðarholt og Hraunkot og eyjan Vigur, alls 80,4 hundrað að dýrleika eftir nýju jarðamati. Í jarða­matinu frá 1916 er Brekka metin sem sérstök jörð, en hún mun hafa byggst að nýju árið 1892. Beitiland Brekku var þá sameiginlegt með Stafafelli og upp­rekstur í Stafafellsfjöllum. Brekka var seld samkvæmt samningi 24. maí 1933 og var þá talin 9,24 hundruð að dýrleika og ¼ hluti úr Stafafellslandi, að ytri bæjunum frátöldum. Í september 1983 var gerð sú viðbót við eldri kaup­samning að lýst var stefnu landamerkjagirðingar sem aðskildi ræktað land Brekku frá ræktuðu landi Stafafells.

Árið 1937 seldi Sigurður Jónsson á Stafafelli Skafta Benediktssyni jörðina Hraunkot með tilgreindum landamerkjum. Jörðinni fylgdi „réttur til uppreksturs og skógarítaks í Stafafellsfjöllum, að undanskyldu heimalandi Stafafells og Brekku“.

Elstu landamerkjalýsingar Stafafells er að finna í vísitasíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar frá 1641 og í lögfestu hennar frá 1714, eins og fyrr greinir.  Þá er landamerkjum jarðarinnar nánar lýst í yfirlýsingu séra Bjarna Sveinssonar, dags. 6. febrúar 1886, sem er að finna í fornbréfabók Stafafellskirkju.

Landamerkjabréf Stafafells með hjáleigum og ítökum var undirritað 23. apríl 1914 og þinglesið á manntalsþingi í Bæjarhreppi 10. júlí 1922:

 

Að austanverðu ráða mörkum fjallseggjarnar fyrir austan Víðidal út á Sviptungnavarp, þaðan ráða enn fjallseggjar út á Hafradalsstafninn. Eftir það ræður á sú, sem fellur út Hafradal al‹l›t út í gljúfurkjaftinn austanvert við Bláberjamýri; þaðan liggja mörkin beina leið í Skernabba á ofanverðum Nýgræðum – sem nú verður hres‹s›tar upp og auðken‹n›dar – þaðan sjónhending í vörðuna á Steinsholti, sem nú kallast venjulega Markhraun. Úr því beint út yfir Himbrimistjörn yfir Hrútshöfða þannig, að sjónhending verði úr vörðunni á Markhrauni í austustu klettasnös í Vigrinni. Að utan ræður affallið fyrir ofan fjöruna. Að sunnan ræður Jökulsá þ.e. sá farvegur hennar, sem rennur á milli Nautholts að austan og Krossalands að vestan – Þorvaldshöfðakvísl – alla leið inn eftir þangað sem Skyndidalsá rennur í hana. Eftir það ræður Skyndidalsá mörkum inn í jökla. Að norðan nær Stafafellsland þangað, sem vötn skilur á milli Lóns og Fljótsdals. Undir Stafafell liggur fjara með öllum reka og öllum landsnytjum frá landamerkjum fjarðar austur til Óshöfða og eru suðurmörk þeirrar fjöru þar sem Ólafshelli ber milli hátinda, þegar staðið er á fjörunni, og verða þar mörk sett. Ennfremur á Stafafell allan reka á fjörunni frá Óshöfða austur að Bæjarfjöru, og eru austurmörkin þar sem há-Skiphólakollinn ber í skriðumótin – rauðu og dökku – í Reyðarártindi, en landsnytjar á þessari fjöru, sem nefnd er Prestsfit, liggur undir Hvalnes. Loks fylgir Stafafelli eyin Vigur með Böðvarsskeri og öllum gögnum og gæðum. Auk þess eigna gömul skjöl Stafafelli álft alla á Lóni, en önnur ítök, sem skjölin nefna, virðist óþarft að tilgreina, þar sem þau eru bundin við örnefni, sem enginn veit nú lengur hvar eru. [/] Ítök nefna skjölin engin, sem aðrir eigi í Stafafellslandi, nema aðeins Þóruskóg á Skyndidal, sem Einholtskirkja eigi, en óljóst eru um takmörk hans.

             Undir bréfið ritar eigandi og ábúandi Stafafells, en að auki er efni þess samþykkt vegna eftirtalinna jarða: Hlíðar, Bæjar, Þórólfsdals, Hvamms og Vola­sels, Þorgeirsstaða, Efri-Fjarðar, Syðri-Fjarðar og Hvalness.

             Landamerkin milli Stafafells ásamt Brekku og Þórisdals voru til umfjöllunar í aukadómþingi sem haldið var föstudaginn 9. október 1970. Aðdragandi málsins er ekki rakinn, en komist var að eftirfarandi samkomulagi um landamerki jarðanna:

Neðan Dímu ræður mörkum bein lína úr austurhorni Þorvaldshöfða í vörðuna á há-Dímu. Ofar Dímu ræður Jökulsá inneftir þangað, sem Skyndidalsá fellur í hana. Eftir það ræður Skyndidalsá mörkum inní Jökla. Díma ásamt kraga af sandinum umhverfis hana verður friðlýst land og afhent Náttúruverndarráði að gjöf til eignar og umráða.

              Í nóvember 1985 lagði sýslumaðurinn í Austur-Skaftafellssýslu fyrir sýslunefndarmenn og oddvita að gera skrár yfir alla afrétti héraðsbúa með tilvísun í lög nr. 42/1969. Í svari oddvita og hreppstjóra Bæjarhrepps, dags. 6. des. 1985, kemur fram sú skoðun að í hreppnum „sé tæpast um afrétt að ræða, fremur heimalönd“. Síðan segir orðrétt:

Þó viljum við geta um eftirfarandi varðandi Eskifellsfjöll, nú vanalega rangnefnd Lónsöræfi en þau eru víðáttumestu beitarlönd í hreppnum og erfið í smölun vegna klettagljúfra og stórvatna.

Mörkum Eskifellsfjalla er lýst með svofelldum orðum:

Eskifellsfjöll eru talin byrja norðan Skyndidalsár, en vestan Jökulsár. Þá er og Kollumúli og Víðidalur norðaustan Jökulsár en vestan þess fjallgarðs sem aðskilur Bæjarhrepp frá Geithellnahreppi í Suður-Múlasýslu. Mörkin að norðan eru á Marköldu, sem er sýslumark á milli Norður-Múlasýslu og Austur-Skaftafellssýslu. Að vestan og norðvestan takmarkast þetta svæði af skriðjöklum Vatnajökuls.

Bréfinu lýkur með þessu orðum:

Þrátt fyrir víðáttu þessa fjalllendis teljum við undirritaðir eins og í upphafi var sagt að þetta beitiland teljist og skilgreinist fremur heimaland í einkaeign en afréttur.

Óbyggðanefnd telur í úrskurði sínum að heimildir bendi ekki til annars en að búseta hafi verið nokkuð samfelld í Skafta­felli frá því að jarðarinnar er fyrst getið í heimildum, og að eftir gerð landamerkja­bréfsins hafi jörðin og síðar einnig Brekka framselst á hefðbundinn hátt og verið veðsett eftir að hún komst í einkaeigu.

             Í niðurstöðum sínum telur óbyggðanefnd að af heimildum um Stafafell verði ráðið að um sjálfstæða jörð hafi verið að ræða. Þess er getið að til séu lýsingar frá ýmsum tímum á merkjum Stafafells í vestur og austur, sú elsta frá miðri 17. öld. Norðurmerkjum sé fyrst lýst sérstaklega 1886 en suðurmörkum ekki fyrr en í landamerkja­bréfi jarðarinnar 1914. Síðar­nefndu merkin séu miðuð við „affallið fyrir ofan fjöruna“ og verði ekki talin þarfnast frekari athugunar. Fjallað er ítarlega um lýsingu landamerkja í landamerkjabréfum og öðrum heimildum um mörk jarðarinnar. Raktar eru þær lýsingar á merkjum Stafafells sem fram koma í heimildum frá 1641 og síðar. Einnig er kannað og borið saman hvernig merkjum gagnvart Stafafellslandi er lýst í heimildum um þau landsvæði sem merki eiga á móti að austan- og norðanverðu. Komist er að þeirri niðurstöðu að eldri og yngri heimildum beri saman um að Skyndidalsá hafi ráðið mörkum Stafafells að vestanverðu, ofan ármóta við Jökulsá, a.m.k. frá 1641. Þá verði merki Stafafells gagnvart Hoffellslambatungum ekki talin valda vafa.

Í landamerkjabréfi Stafafells 1914 segir um mörkin að austanverðu að þar ráði fjalls­eggjarnar fyrir austan Víðidal út á Sviptungnavarp og áfram eftir fjalls­eggjum út á Hafradalsstafninn. Eftir það ræður á sú, sem fellur út Hafra­dal allt út í gljúfur­kjaftinn austanvert við Bláberjamýri; þaðan liggi mörkin beina leið í Sker­nabba á ofan­verðum Nýgræðum og sjónhending í vörðuna á Steins­holti (Mark­hraun). Úr því beint út yfir Himbrimistjörn yfir Hrútshöfða, þannig að sjón­hending verði úr vörð­unni á Markhrauni í austustu klettasnös í Vigrinni. Um norðurmörk jarðarinnar segir í bréfinu að Stafafellsland nái þangað, sem vötn skilur á milli Lóns og Fljótsdals. Landa­merkja­bréf Stafa­fells er áritað af hálfu Hlíðar og Bæjar en ekki vegna land­svæða í Múla­sýslum.

Óbyggðanefnd telur að heimildir um merki Stafafells bendi til þess að eigendur jarðar­innar hafi litið svo á að merki hennar, milli Skyndidalsár og Jökulsár, næðu allt að Vatnajökli, enda náði hann um aldir nokkru sunnar en nú, væntanlega lengst um 1890. Þannig miða vísitasíur 1641 og 1727 og lögfesta 1714 við Skyndidalsá og Jökulsá sem báðar koma undan jökli, auk þess sem tekið er sérstaklega fram að staðurinn eigi allt land og skóga á milli ánna og á fjöll upp. Þessu til stuðnings eru heimildir um merki Þórisdals frá 1467 þar sem segir að Dalur eigi „alla jörð óslitna í millum Jökulsár og Laxár og allt inn undir jökul“. Þá er í landa­merkja­bréfi Stafafells 1914 kveðið á um að Skyndidalsá ráði „mörkum inn í jökla“ en að norðan er miðað við vatnaskil milli Lóns og Fljótsdals, sbr. einnig lýsingu séra Bjarna Sveinssonar frá 1886. Jafnframt megi vísa til þess að mörkum gagnvart jökli sé ekki lýst að öðru leyti í þessum heimildum. Jökull­inn hafi afmarkað það land sem máli skipti með svo augljósum hætti til vesturs að ekki var talið þurfa umfjöllunar við.

Mörk sýslna- eða sveitarfélaga hafi ekki verið dregin á jöklinum fyrr en á síðustu árum og þá einungis óformlega. Ákvæði landamerkjabréfsins um að Stafafells­land nái að norðan „þangað, sem vötn skilur milli Lóns og Fljóts­dals“ verði ekki talið eiga við jökulsvæðið, sbr. einnig eldri heimildir um merki Stafafells. Þá telur óbyggðanefnd að ákvæði auglýsingar nr. 31/1977 sé ekki bindandi um túlkun á landamerkja­lýsingum Stafafells, enda sé þar lýst mörkum friðlýsts lands á Lóns­öræfum (Stafafells­fjöllum) en ekki Stafafells­jarðar. Krafa eigenda Stafafells og Brekku um að merki Stafafellsjarða og beinn eignarréttur nái til hluta Vatnajökuls verði því ekki talin geta stuðst við heimildir um merki Stafafells eða auglýsingu nr. 31/1977.

Þá telur nefndin að ekki sé í ljós leitt að land austan Jökulsár og ofan Hvannadalsvarps hafi verið innan landamerkja Stafafells fyrir gerð landamerkja­bréfsins 1914. Fyrirliggjandi gögn bendi hins vegar ekki til annars en að landa­merkjum Stafafells til annarra átta sé þar rétt lýst, svo langt sem sú lýsing nái.

          Niðurstaða óbyggðanefndar um eignarréttarlega stöðu lands innan Stafafellsjarðarinnar er eftirfarandi:

Ekki eru heimildir um annað en að jörðin Stafafell, eins og hún var afmörkuð fyrir gerð landamerkjabréfsins 1914 og yfirlýsingu sr. Bjarna Sveinssonar 1886, og að því marki sem land hefur komið undan Vatnajökli síðan hafi verið byggð og nýtt eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma, fram til friðunar hluta landsins 1977. Innan þeirra marka sem fyrst eru tilgreind um miðja sautjándu öld hafa eigendur jarðarinnar farið með umráð og hagnýtingu og gert ráðstafanir með löggerningum á sama hátt og gildir um eignarland almennt. Framfjallasvæðið, inn að Hvannadalsvarpi, hefur ekki verið þar undanskilið, enda þótt nýting þar hafi verið takmörkuð. Undirlendi á þessu svæði er lítið og skortur á ræktanlegu landi. Fjalllendið liggur upp af áreyrum Jökulsár og verður ekki skilið frá landi jarðarinnar, enda mikilvægur hluti hennar á þeim tíma þegar búskapur byggðist á beit. Óbyggðanefnd telur að ítak á Skyndidal styrki beinan eignarrétt þar, sbr. umfjöllun um ítök í almennum niðurstöðum óbyggðanefndar. Hjáleigur Stafafells, að undanskilinni Grund í Víðidal, voru á undirlendinu upp með Jökulsá, á Eskifells- og Framfjallasvæðinu. Ekki verður annað séð en að þetta eignarhald hafi verið án ágreinings eða athugasemda. Engar heimildir eru um að land innan þessara merkja hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu og verða stað­hættir, gróðurfar eða nýtingarmöguleikar ekki taldir hafa úrslitaáhrif í því sambandi. [/] Óbyggðanefnd telur hins vegar ekki verða ráðið af heimildum að réttur Stafa­fells til Víðidals og Kollumúla hafi verið meiri en fylgja afréttareign. Heimildir um búsetu í Grund í Víðidal með hléum á tímabilinu 1835-1897, þar sem fram kemur að sótt hafi verið leyfi til Stafafellsmanna og leiga greidd þangað, ber að skoða í þessu ljósi. Augljóst er að þessi búseta hefur haft áhrif á afréttarnot Stafafells af svæðinu. [/] Þá er ekki í ljós leitt að annað fjalllendi austan Jökulsár og ofan við Hvannadals­varp og svæðið innan jaðars Vatna­jökuls, á milli upptaka Skyndidalsár og Geldingafells, hafi verið nýtt frá Stafafelli og engar heimildir eru um tiltekin réttindi staðarins á því svæði. Ráðstafanir og nýting eigenda Stafafells á þessu landsvæði eftir gerð landamerkja­bréfsins 1914, þ.e. óformlegt samþykki við skálagerð, aðild að frið­lýsingu, forganga um gerð deiliskipulags og flutningur ferðamanna inn á Lóns­öræfi, getur ekki grundvallað eignarrétt byggðan á hefð eða öðrum þeim stofnunar­háttum eignarréttinda sem grein hefur verið gerð fyrir í almennum niðurstöðum óbyggða­nefndar. Jafnframt telur óbyggðanefnd að svo óljós yfirlýsing einstaks hand­hafa framkvæmdar­valds sem aðild Náttúruverndar ríkisins að friðlýsingu Lónsöræfa, sbr. auglýsingu nr. 31/1977, hafi ekki stofnað til réttinda Stafafellsbænda yfir annars vegar landinu austan Jökulsár og ofan við Hvannadalsvarp og hins vegar innan Vatna­jökuls, á milli upptaka Skyndidalsár og Geldingafells. Krafa eigenda Stafafells um beinan eignar­rétt á þessum svæðum verður því ekki talin eiga við rök að styðjast.

Þegar litið er til alls þess sem að framan er rakið um afmörkun Stafafells, eins og því er lýst í landamerkjabréfi 1914, og nýtingu þess, verður ekki talið að það hafi nokkurn tímann í heild sinni verið undirorpið fullkomnum eignarrétti einstaklinga, kirkjunnar eða ríkisins, hvorki fyrir nám, hefð, löggerninga né með öðrum hætti. Rannsókn óbyggðanefndar leiðir þannig til þeirrar niðurstöðu að land innan landamerkja Stafafells, eins og þeim er lýst í landamerkjabréfi 1914, hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu; eignarland á Eskifells­svæðinu milli Skyndidalsár og Jökuldalsár, eignarland í Framfjöllum, upp að Hvannadals­varpi, þjóðlenda í Framfjöllum ofan Hvannadalsvarps og þjóðlenda í Innfjöllum austan Jökulsár, þ.m.t. í Víðidal og Kollumúla, þó þannig að síðastnefndu tvö svæðin eru í afréttareign Stafafells. Þá er það og niðurstaða óbyggðanefndar, sbr. framangreint, að land innan jökul­jaðars Vatnajökuls, á milli upptaka Skyndidalsár og Geldingafells, sé þjóð­lenda.

Að því er varðar það álitaefni hver séu mörk eignarlands og þjóðlendu milli Hvanna­dals­varps og Jökulsár og afréttareign Stafafells í Víðidal og Kollu­múla segir svo í niðurstöðu nefndarinnar:

Af hálfu íslenska ríkisins hefur ekki verið sýnt fram á að land innan landa­merkja jarðarinnar Stafafells eins og þeim er lýst í heimildum frá því fyrir 1886, sé þjóðlenda. Rannsókn óbyggða­nefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé um eignarland að ræða, sbr. einnig umfjöllun í kafla 9.4., án þess þó að tekin sé afstaða til þess hver fari með þau eignarréttindi eða hver séu mörk milli eignarlanda, sbr. 7. gr. laga nr. 58/1998. [/] Af hálfu eigenda Stafafells og Brekku hefur ekki verið sýnt fram á að land utan landamerkja Stafafells samkvæmt heimildum frá því fyrir 1886, þ.e. Fram­fjöll ofan línu sem dregin er á milli Hvannadalsvarps, hæsta tinds Stiga­fjalla, hæsta punkts á Hellisskógsheiði og þess staðar þar sem Jökuls­á kemur úr þrengslum austan Kjarrdalsheiðar, og í Innfjöllum austan Jökulsár, þ.m.t. Víðidal og Kollumúla, sé eignarland, hvorki fyrir nám, lög­gerninga né með öðrum hætti. Eins og notkun landsins hefur verið háttað, hefur ekki heldur verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því. Sama máli gegnir um landsvæðið innan jökul­jaðars Vatnajökuls, á milli upptaka Skyndidalsár og Geldingafells. Rannsókn óbyggða­nefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að framangreint svæði, innan og utan jökuljaðars, sé þjóðlenda.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða óbyggðanefndar að landsvæðið Fram­fjöll ofan Hvannadalsvarps og Innfjöll austan Jökulsár, þ.m.t. Víðidalur og Kollumúli, og landsvæði það á Vatnajökli sem til meðferðar er í máli þessu, svo sem það er afmarkað í úrskurðarorði, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.  Þá var tilgreindur hluti þessa landsvæðis þ.e. Fram­fjöll ofan Hvannadalsvarps og Innfjöll austan Jökulsár, allt að jaðri Vatnajökuls, talinn vera í afréttareign eigenda jarðarinnar Stafafells, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.  Þá var við það miðað að landamerki jarðarinnar til jökuls skyldu miðast við jaðar jökulsins eins og hann var við gildistöku laga nr. 58/1998, sbr. 3. mgr. 1. gr. laganna. Þá er það jafnframt niðurstaða óbyggðanefndar að Stafafellsland, eins og það er afmarkað í landamerkjabréfi frá 1914, að öðru leyti teljist ekki til þjóð­lendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58/1998, án þess þó að tekin sé afstaða til þess hver sé efnislega réttur handhafi þeirra eignarréttinda eða hver séu mörk milli eignarlanda, sbr. 7. gr. laga nr. 58/1998. Friðlýst svæði á Lónsöræfum, sbr. auglýsingu nr. 31/1977, nær til stærsta hluta þess landsvæðis sem lýst var þjóðlenda, og að hluta afréttareign jarðarinnar Stafafells. Það er háð sérstökum eignarréttarlegum takmörkunum samkvæmt lögum um náttúruvernd nr. 44/1999.

II.

Vettvangsganga dómara 2. júní 2005        

Dómarar fóru á vettvang ásamt lögmönnum aðila. Leiðsögumaður var Gunnlaugur Ólafsson frá Stafafelli.  Ekið var frá þjóðvegi 1 upp með Jökulsá í Lóni. Dómuru  var bent á gömukl bæjarstæði við Valskógsnes og Eskifell. Ekið var upp vestan við Eskifell og upp á Kjarrdalsheiði. Þar var staðnæmst á góðum útsýnisstað í um það bil 700 metra hæð yfir sjávarmáli. Þaðan sást meðal annars vel yfir Kollumúla, Kollumúlaheiði og mynni Víðidals. Einnig var dómurum bent á Sauðhamarstind og Múlatinda. Þegar gengið var á vettvang var nokkuð gott veður, bjart og skyggni sæmilegt. Hofsjökull og Jökulsgilstindar voru í skýjum.

III.

Málsástæður og lagarök aðalstefnanda

Aðalstefnandi reisir kröfur sínar á því að mörk eignarlanda á kröfusvæðinu eigi að vera þau sömu og landnámsmörk. Utan þjóðlendulínu séu eignarlönd, sem numin hafi verið til eignar, en innan þjóðlendulínu sé þjóðlenda sem aðliggjandi jarðeigendur hafi í einhverjum mæli haft afnot af. Stefnandi vísar til að landnám hafi verið grundvöllur frumstofnunar eignarréttar að landi hérlendis og eini gjörningurinn sem leiddi af sér beinan eignarrétt. Um landnámið séu glöggar heimildir í íslenskum fornritum, aðallega Landnámu. Við námið og eftirfarandi aðgerðir landnámsmannsins við að brjóta land til ræktunar og gera landið að bújörð hafi orðið honum til honum beinn eignarréttur að þessum hluta náttúrunnar. Fyrir utan skriflegar heimildir um landnámið hérlendis hafi fornleifar og búsetusaga staðfest að byggð hafi í stórum dráttum haldist á þeim svæðum sem numin voru til eignar. Sums staðar hafi byggð dregist saman, en í örfáum tilvikum hafi byggð sótt á eftir að eiginlegu landnámi lauk.

Aðalstefnandi gerir greinarmun á stofnun beins eignarréttar að landi og óbeins eignarréttar, eða réttar til afnota, sem hafi grundvallast á töku í upphafi en síðar helgast af venju. Telur stefnandi að á umræddu kröfusvæði hafi land verið tekið „afnotatöku“ einstakra jarðeigenda þar sem möguleiki var til beitarafnota og sums staðar allt að jökulrönd, ef þar var gróður. Byggist það á því að engar heimildir sé að finna um að almenningar hafi verið í sýslunni, en þeir hafi verið sameiginlegt afnotaland fjórðungsmanna og síðan þjóðarinnar. Stefnandi telur að jöklar hafi aldrei talist til eiginlegra almenninga, þar sem þeir voru ekki nytjaland. Jöklarnir hafi verið taldir öræfi og verið einskins manns land, en eftir lögtöku laga nr. 58/1998 teljist þeir þjóðlenda.

Aðalstefnandi vísar til þess að erfitt eða ómögulegt hafi verið samkvæmt landnámsreglum að nema hálendi eða fjöll. Er þar vísað til frásagnar Hauksbókar um að kona hafi mátt nema land með því að leiða tvævetra kvígu vorlangan dag sólsetra í millum um það land sem numið var, en karlmaður farið um land með eldi sólsetra á milli.

Stafafell eigi land syðst í landnámi Þórðar skeggja, en landnám hans var fyrir norðan Jökulsá, þ.e. ”hann nam lönd öll í Lóni fyrir norðan Jökulsá og Lónsheiðar.” Hvergi verði af þessari lýsingu ráðið, að námið hafi náð upp til fjalla, frekar en annars staðar í Austur-Skaftafellssýslu. Í átt að Vatnajökli hafi námið aldrei náð lengra upp með Jökulsá, en á móts við Kjarrdalsheiði, því þar þrjóti undirlendi.

Land sunnan Jökulsá hafi verið í öðru landnámi, en samt telur jörðin Stafafell sér land sunnan Jökulsár, þar sem Skyndidalsá kemur í hana og einnig allt til Vatnajökuls milli Skyndidalsár og Jökulsár og einnig fyrir norðan Jökulsá allt að vatnaskilum við næstu sveitarfélög að norðan og austan. Sú heimild sem byggt sé á varðandi þessi mörk sé landamerkjabréf fyrir Stafafell gert 1914, eftir að Jón Jónsson prófastur hafði keypt jörðina af kirkjunni.

Talsverður munur sé á því landi, sem nú teljist til Stafafells og því landi, sem eftir hafi verið úr landnámi Þórðar skeggja, þegar landrými landnámsjarðarinnar Bæjar hafði skipst í sjö jarðir. Spurning sé hvernig land sunnan Jökulsá hafi komist undir Stafafell og hvernig allt hálendið, norðan Jökulsá, sem nú sé innan merkja Stafafells, féll undir jörðina.

             Aðalstefnandi telur einnig að leiða megi af dómum Hæstaréttar að tengsl verði að vera milli eldri og yngri eignaheimilda. Nýrri heimildir um merki verði að víkja fyrir eldri eða upprunalegum heimildum. Beri þeir sem geri kröfu um beinan eignarrétt að umræddum svæðum sönnunarbyrðina í þessu efni.  

Málsástæður er varða Stafafell

Aðalstefnandi fjallar um heimildir um Stafafell og vísar til þess að samkvæmt máldaga 1343 hafi kirkjan að Stafafelli átt heimaland allt. Samkvæmt vísitazíu Brynjólfs biskups Sveinssonar frá 1641 eigi kirkjan heimalandið, sem er á milli fjalls og fjöru. Að öðru leyti sé landamerkjum lýst með vísan til hefðarhalds og frásagnar tveggja presta. Merkjum á móti Bæ og Hlíð sé lýst og ekki nái þau lengra til fjalla en að Steinsholti og í mógil, það sem fellur úr Hafrafellstindi hinum vestari (nú á korti Hafradalstindur). Síðan segir í vísitazíunni um mörkin í átt að Vatnajökli: „síðan ræður Jökulsá að sunnan í byggðum og á staðurinn allt land millum hennar og Skyndidalsár og á fjöll upp fyrir innan Ketildalsheiði og Víðidal allan.“ Þarna sé greinilega að hluta til verið að lýsa landi, sem samkvæmt kaupbréfi 1467 var talið tilheyra jörðinni Þórisdal. Landi Þórisdals sé lýst svo í kaupbréfinu 2. desember 1467: „Alla jörð milli Laxár og Jökulsár inn undir jökul.“

Aðalstefnandi bendir á að um það séu engar heimildir hvernig landtungan milli Skyndidalsár og Jökulsár varð hluti af Stafafellsjörðinni, en benda megi á að í vísitazíunni 1755 eða rúmum 100 árum eftir vísitasíu Brynjólfs Sveinssonar sé hálf jörðin Þórisdalur eign Stafafellskirkju og þá geti allt eins verið um að ræða annað land Þórisdals, en þessa tungu, sem hér sé álitaefnið.

Í jarðabók Ísleifs 1709 er ekki fjallað um landamerki, en staðurinn á afrétt í Kollumúla og svo segir að staðnum sé eignaður Víðidalur. Rétt er að benda á að Kollumúli og Víðidaur eru hvort tveggja norðan Jökulsár.

Lögfestan 1714 segir að staðurinn eigi “allt land og skóga millum Jökulsár og Skyndidalsár og svo á fjöll upp, item Ketildalsheiði og Vídidal allan.” Greinilegt er að lögfestan tekur mið af vísitazíu Brynjólfs. Lögfest er einnig eign staðarins að hálfum Þórisdal í Lóni og er þá ekki annað líklegt, en um sé að ræða annað land Þórsdals en fjalllendið umdeilda.

Vísitazía Finns Jónssonar 1755 segir ekkert um landamerki, en segir að kirkjan eigi heimaland allt og hálfan Þórisdal.

Þessi hluti Þórisdals er svo seldur af stiftyfirvöldum  frá Stafafelli 1888 án þess að lýst sé landamerkjum. Árið 1913 er svo Stafafellið selt eins og fyrr var sagt og ekki lýst merkjum og svo er það árið eftir, sem landamerkjabfréfið er útbúið þar sem þessi mikla víðátta er öll sögð innan merkja jarðarinnar.

Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að samkvæmt heimildum þá voru það ekki Stafafellsmenn, sem leyfðu ábúð í Víðidal. Þar mun hafa verið að verki sr. Bergur á Hofi og síðan lá samgönguleið ábúendanna frá 1835-1838 til byggða til Álftafjarðar.

Ekkert byggingarbréf var gert við Stafafellspresta varðandi byggingu Víðidals, þegar stofnað var þar til byggðar í þau þrjú skipti, sem heimildir greina frá. Aldrei var landi skipt úr landi Stafafells og stofnað til nýbýlis. Er þannig vandfundið að sjá nein rök fyrir því að til beins eignarréttar hafi stofnast að Víðidalnum. Benda má á að Kollumúla er í gömlum heimildum getið sem afréttar frá Stafafelli, en Kollumúlinn er á milli Víðidals og Stafafells.

Ljóst sé af vísitazíu Brynjólfs að talað sé um byggðir með fram Jökulsá og allt til ármótanna við Skyndidalsá. Þar taki við óbyggðir og þar hafi Ketildalsheiði væntanlega verið. Þannig að Brynjólfur telur Stafafelli tilheyra undirlendið og væntanlega Eskifell líka innan ármótanna og svo fjöllin upp af ármótunum milli Skyndidalsár og Jökulsár, en nefnir engan rétt til Kollumúla, sem er norðan Jökulsár, heldur bara Víðidal allan, sem er enn lengra frá byggð en Kollumúli.

Í jarðabók Ísleifs 1709 sé ekkert á landamerki minnst, en samkvæmt þeirri heimild eigi staðurinn afrétt í Kollumúla og svo sé sagt að staðnum sé eignaður Víðidalur.

Aðalstefnandi segir lögfestu Guðmundar Magnússonar 1714 vera í anda vísitazíu Brynjólfs biskups. Þessu sé svo lýst:  síðan ræður Jökulsá að sunnan í bigd. á stadurenn allt land og skóga millum Jökulsár og Skindidalsár og so á fiöll upp. Item  Ketelstaðaheijde og Vijdedal allann.

Ekkert nýtt komi fram í vísitazíu Finns Jónssonar 1755 um landamörk.

Í úttektinni frá 1824 sé landi lýst á þrennan hátt. Fyrst rétti til fjöru, svo sé vísað til skógareignar svo langt, sem fjöll ná eftir landamerkjum og svo virðist talað um fylgifé, sem er skógur í Eskifelli og Stífingahlíð, hálfur Skyndidalur,  Kollumúli og Lambatungur. Eftir þessu að dæma sé þetta fylgifé talið utan landamerkja, annars hefði þetta ekki verið orðað á þennan veg. Víðidalur sé ekki talinn þarna meðal eigna kirkjunnar.

Árið 1888 hafi stiftsyfirvöldin yfir Íslandi afsalað eignarhluta Stafafells í jörðinni Þórisdal til einkaaðila. Ekkert sé minnst á landamerki.

Árið 1913 hafi Stafafelli verið afsalað af stiftsyfirvöldum til Jóns prófasts Jónssonar og þar sé ekkert getið landamerkja, en þá eigi Stafafell ekki neitt eftir af landi Þórisdals, að minnsta kosti eru ekki heimildir um það. Þrátt fyrir þetta útbúi Jón prófastur Jónsson landamerkjabréf fyrir Stafafell, þar sem gríðarlegt landflæmi sé innlimað í merkjalýsingu jarðarinnar. Meðal þess sé sá hluti jarðarinnar Þórisdals, sem sé á milli Skyndidalsár og Jökulsár, allt inn til jökuls og svo fjalllendið norðaustan Jökulsár allt þar til vötn skilur milli Lóns og Fljótsdals. Þar sé meðal annars Kollumúli, sem eldri heimildir sögðu afrétt tilheyrandi Stafafelli og svo Víðidal, sem hafði fyrir 1824 verið eignaður Stafafelli, en sé ekki með í úttektinni 1824 og auk þess sé tekið með mikið annað af öræfum og háfjöllum, þannig að allt land að jökli fari inn í merkjalýsingu.

Heimildir og sönnunargögn sem fyrir liggja um afréttarnot af  þessu fjalllendi bendi ekki til beins eignarréttar. Heimildir um nám styðji sömuleiðis ekki beinan eignarrétt auk þess sem tengsl verði að vera á milli yngri og eldri landréttar. Fyrir utan þessi atriði öll komi til fjölmörg önnur atriði, eins og staðhættir, víðátta, gróðurfar og hæð yfir sjó. Það liggi og fyrir að mikið af þessu landi sé hreint öræfaland og háfjöll.

Aðalstefnandi bendir á að samkvæmt úttektinni á Stafafelli 1824 sé Víðidalur ekki talinn meðal eigna Stafafells og bærinn Grund í Víðidal byggðist fyrst 1835. Talið sé að sr. Bergur á Hofi hafi útvegað Stefáni Ólafssyni og Önnu konu hans verustað þar. Samgönguleið þeirra til byggða muni hafa legið til Álftafjarðar. Tveir aðrir ábúendur byggðu síðar í Víðidal og ekki sé vitað til þess að búsetan hafi byggst á rétti Stafafellsstaðar. Ekki séu heimildir um byggingabréf eins og þá tíðkaðist er jarðir voru leigðar út. Sömuleiðis sé ekki vitað til þess að landi hafi verið skipt út úr Stafafelli og stofnað nýbýli. Þá bendir aðalstefnandi á að er hjáleigur Stafafells urðu að sjálfstæðum jörðum hafi þær fengið útskipt heimaland, en afréttarlandið (fjalllendið) hafi verið í óskiptu, eins og landskiptalög geri ráð fyrir.

Sé þjóðlendulína dregin frá Hafradalstindi í norður eftir fjalllendinu allt að Hellisskógsheiði og þaðan beint fyrir neðan Kjarrdalsheiðina og svo fyrir mynni Skyndidals yfir í Dalsfjall sé búið að gera hring um það land, sem nokkuð samfelldar heimildir segja að geti hafa tilheyrt Stafafelli, allt frá tíma Brynjólfs Sveinssonar. Þá séu innan þess lands allt land úr landnámi Þórðar skeggja og gömlu heiðarbýlin Eskifell, Valskógsnes og Smiðjunes meðtalin.

Aðalstefnandi víkur í fyrsta lagi að þeim sjónarmiðum landeigenda að allt land í A- Skaftafellssýslu hafi frá landnámi verið undirorpið beinum eignarrétti, engir almenningar og afréttir væru á svæðinu, nýting og búseta bendi til þess að allt land til jökla hafi verið nytjað allt frá landnámi og tilheyrt ákveðnum jörðum.  Aðalstefnandi telur það vera rækilega rökstutt að land í sýslunni var ekki numið til jökla. Sömuleiðis hafi verið rökstutt með vísan til margra heimilda að afréttir séu mjög margir og afréttarmál í svipuðu horfi og í flestum sýslum landsins. Hvað varðar almenninga sé ekki útilokað, að slík lönd hafi verið í einhverjum mæli upp af afréttum í Lóni og hægt að færa fram fyrir þeirri staðhæfingu fjölmörg rök. Þannig sé ekki ljóst að allt land hafi tilheyrt ákveðnum jörðum og svo virðist, sem fullkomin yfirtaka lands í Lóni með landamerkjalýsingum eigi sér ekki nema tæplega 100 ára sögu.

Heimildir segja að Víðidalur hafi verið nýttur til búskapar í samtals 17 ár á 19. öldinni og það hafi ekki verið fyrr en eftir 1897 er byggð leggst af í Víðidal, að farið var að nota þessa afrétt frá Stafafelli og síðastur Stafafellsbænda rak þar á fjall til 1965, Skafti bóndi í Hraunkoti. Í þessu sambandi er minnt á lýsingu prestsetursins Stafafells frá 30/12 1998, en þar segir, að árið 1897 hafi byggð lagst niður í Víðidal og hafi enginn viljað búa þar síðan, né leigja afréttarlandið til uppreksturs svo að það hefur verið ónotað að öðru en því, sem fé héðan og af nokkrum næstu jörðum hefir gengið þar endurgjaldslaust.

Í öðru lagi hafi því verið haldið fram af landeigendum að landamerki Stafafells væru ævaforn og bendi til þess að jörðin hafi verið numin með þeim hætti, sem hún nú sé, þ.e. allt til sveitarmarka á jökli.

Þetta sé auðvitað fráleit fullyrðing. Stafafell sé í landnámi Þórðar skeggja, sem hafi náð frá rótum Lónsheiðar til Jökulsár í suðri. Samkvæmt gömlum máldögum t.d. frá 1343 megi fullyrða að ákveðið svæði frá fjalli til fjöru hafi verið heimaland Stafafells og þar hafi verið um að ræða hið numda land og til þess lands hafi verið grunneignarréttur. Brynjólfur biskup, sem virðist fyrstur hérlendra  manna til að telja afréttarlönd með heimalöndum í einhliða merkjalýsingum, gangi margfalt skemmra í lýsingunni sinni 1641, en núverandi merkjalýsing geri ráð fyrir. Hann geri ráð fyrir því að heimalandið sé milli fjalls og fjöru (kirkjan á heimaland með gögnum og gæðum til fjalls og fjöru), en svo virðist sem fjörur hafi ekki verið taldar til heimalands, heldur hafi réttindi í fjörum verið talin sem ítök.

Merkjalýsing Brynjólfs milli Bæjar og Hlíðar séu einungis byggðamörk og svo ræður Jökulsá að sunnan í byggðum (þar með ræður hún í numdu landi Þórðar skeggja). Síðan eignar Brynjólfur staðnum landið milli Jökulsár og Skyndidalsár (allt land milli….) og á þar augljóslega við láglendið, sbr. framhaldið á fjöll upp fyrir innan Ketildalsheiði (að öllum líkindum það sem í dag nefnist Kjarrdalsheiði). Með yfirtöku þessa láglendis sé verið að seilast í næsta landnám, sem sé heimildarlaust. Hefði meiningin verið sú að segja allt land milli Skyndidalsár og Jökulsár allt inn til jökuls, tilheyra Stafafelli, hefði þetta verið orðað á þann veg,  (í því sambandi eru ýmsar þversagnir varðandi hversu langt árnar báðar ná). Það segir Brynjólfur ekki, heldur á staðurinn land á fjöll upp fyrir innan Ketildalsheiði og Víðidal allan. Hvaða lönd þetta séu sem staðurinn á fyrir innan Ketildalsheiði sé ekki gott að segja, gæti verið Kollumúlinn, en alla vega segir ekki að staðurinn eigi allt fjalllendi fyrir innan Ketildalsheiði. Víðidalurinn sjálfur sé ekki nema brot af því landsvæði, sem núverandi landamerkjabréf frá 1914 gerir ráð fyrir, að tilheyri Stafafelli fyrir norðan Jökulsá (ekki sé ljóst heldur hversu langt að jökli Jökulsá í Lóni nær, því margar ár úr jöklinum sameinast er fjær byggð dregur). Nú séu innan merkja Vatnadæld, Kollu­múlaheiði, hálfur Hofsjökull, Suðurfjall, Geldingafell, Axarjökull, Norður­tungna­jökull, Austurtungnajökull og hluti Vatnajökuls þar norður af.

Lögfesta Guðmundar Magn           ússonar 1714 sé í anda vísitasíu Brynjólfs, en þó gangi hann lengra og segir staðinn eiga land allt og skóga milli Jökulsár og Skyndidalsár og svo á fjöll upp og bætir við Ketilstaðaheiði.

Fyrsta heimild um Kollumúla sé í jarðabók Ísleifs 1709, en þar sé sagt að staðurinn eigi afrétt í Kollumúla. Kollumúli sé einnig nefndur í úttekt Stafafells 1824 og þá sé búið að bæta við Lambatungum. Á núverandi kortum séu Lambatungur þrjár, Norður Lambatungur, Suður Lambatungur og Hoffells Lambatungur. Núverandi kröfulýsing frá Stafafellseigendum taki ekki til Hoffells Lambatungna, sem þó séu Stafafellsmegin við Skyndidalsá og sé í því ákveðin þversögn. Fyrir utan þessar tvær Lambatungur sé gerð krafa til alls fjalllendis frá þeim að byggð í austri að meðtöldu Suðurfjalli, Múlaheiði, Sauðhamarstindi og Kjarrdalsheiði.

Jón Jónsson, sem hafi keypt Stafafell 1913 án landamerkjalýsingar, hafi ráðist í gerð landamerkjabréfs 1914, þar sem hann gangi margfalt lengra en Brynjólfur biskup og eigni Stafafelli og þar með sér og erfingjum sínum, gríðarlegt landflæmi með jöklum og öræfum allt að sýslumörkum að norðan og austan. Megi segja að hann hafi tekið í merkjalýsingu sína allt land í norðanverðu Lóni, sem aðrir höfðu ekki eignað sér, en aðrar jarðir norðan Jökulsár séu með landamerkjabréf frá því fyrir 1890, nema Bær, sem ekki fái landamerkjabréf fyrr en 1922.

Í þriðja lagi hafi því verið haldið fram af landeigendum að landamerkjum hafi verið þinglýst athugasemdalaust og hafi verið viðurkennd af öllum aðilum, þ.m.t. hinu opinbera um áratugaskeið og íslenska ríkið hafi sjálft selt jörðina 1914 (sic) með öllum gögnum og gæðum.  Þá sé fallist á það að í vísitazíu Brynjólfs Sveinssonar 1641 gæti hluti Þórisdals verið lagður undir Stafafell og ekkert óeðlilegt við það, þar sem kirkjan hafi átt báðar jarðirnar.

             Í því sambandi megi benda á að hluti Stafafells í Þórisdal hafi verið seldur til einkaaðila með afsali 1913 eða sama ár og Stafafell er selt. Í hvorugu afsalinu sé á það minnst að í hlut Stafafells eigi að koma hluti af landi Þórisdals. Við þessar tvær sölur hefði land Stafafells frá 1641 þannig frekar átt að minnka en stækka.

Athugasemdalaus þinglýsing landamerkjabréfs hafi auðvitað ekkert gildi, varðandi ágreining um þjóðlendumörk og þurfi ekki frekar að fjölyrða um það. Það megi hins vegar geta þess að landamerkjabréf Stafafells sé bara samþykkt frá jörðum í Lóni, en ekki frá Fljótsdal eða frá Álftafirði, sem telja sér lönd fyrir norðan og austan. Hvers vegna allar jarðir í Lóni samþykkja bréfið sé vandséð, því ekki eigi nemar fáar lönd aðliggjandi.

Aðalstefnandi vísar til samnings landeigenda við Náttúruverndarráð um friðlýsingu hluta Stafafellsfjalla 1976. Hvergi komi þar fram að verið sé að semja um eignarland, t.d. sé sagt að hefðbundnar nytjar landeigenda svo sem búfjárbeit og veiðiréttur skuli haldast óskertar, en það séu einmitt þessar nýtingaheimildir, sem afréttarréttur taki til. Þá sé tekið fram að þess skuli sérstaklega gætt að misbjóða ekki beitarþoli afrétta.

Fjórða fullyrðingin í máli landeigenda sé sú að þar segi að smölun sauðfjár hafi ætíð verið skipulögð af landeigendum, en ekki opinberum aðilum og enginn hafi getað nýtt landið til beitar, nema með samningum við landeigendur.

Hvorug þessara fullyrðinga standist, ef tekið sé mið af fyrirliggjandi heimildum. Til dæmis segi í lýsingu á prestsetrinu Stafafelli 30/12 1898, að fé af næstu jörðum hafi gengið endurgjaldslaust á öræfunum og auðvitað hafi fé úr Fljóts­dal, Álftafirði og frá nágrannabæjum gengið á Lónsöræfi, án þess að nokkur réði við, þar sem allt sé ógirt. Það sé svo ekki fyrr en á 20. öldinni að beitarafnot séu afhent öðrum með samningum, eftir að öræfin hafi verið innlimuð í Stafafellsjarðir.

Varðandi fyrri fullyrðinguna bendir aðalstefnandi á  umfjöllun Braga Sigurjónssonar í bókinni “Göngur og réttir”, en þar segi um Stafafellsfjöll að aðliggjandi fjöllunum séu 4 jarðir, sem á sínum tíma hafi verið kirkjujarðir og síðan eign bóndans í Stafafelli, og þó nokkrar af þeim séu nú komnar í sjálfseign, munu afréttir þeirra vera sameiginlegir eftir sem áður. Frá þessum bæjum var svo af hreppsnefnd raðað niður í göngur, að sjálfsögðu eftir fjáreign, þannig að Stafafell lagði til 4 menn, Byggðarholt 2, Hraunkot og Brekka sinn manninn hvor, eða samtals 8 menn, sem gengu þessi fjöll.

Að lokum hafi því verið haldið fram af landeigendum, að búseta á innlandi Stafafells, t.d. Grund í Víðidal, sé ein besta sönnun þess að jörðin sé öll fullkomið eignarland.

Í þessu sambandi vísar aðalstefnandi sérstaklega til dóms Hæstaréttar um Öxarfjarðarheiði frá 6. maí 1999. Í því máli lá fyrir að öll Öxarfjarðarheiðin var samkvæmt nýlegu landamerkjabréfi innan merkja jarðarinnar Sandfellshaga. Í gögnum málsins lágu fyrir heimildir um eyðibýli á heiðinni, þar sem búið var skamma hríð á 19. öld. Segir í dómi Hæstaréttar að engin gögn hafi verið lögð fram um að eigendur Sandfellshaga hafi heimilað að það nýbýli yrði reist eða að þeim hafi verið afsalað landi þess, þegar byggð lagðist þar af.

Í þessu sambandi sé vert að hafa í huga nokkur atriði. Samkvæmt Jónsbók mátti reisa sel í almenningum, en ekki afréttum. Samkvæmt nýbýlatilskipun konungs 1776 mátti reisa nýbýli í afréttum og almenningum. Væri gefið út nýbýlisleyfi samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar varð útskipt afmarkað land undirorpið beinum eignarétti samkvæmt konungsboði. Varðandi byggingu nýbýla í eignarjörðum þurfti landskipti og afsal. Væri land í einkaeign leigt út til ábúðar, var lögum samkvæmt gengið frá byggingabréfi, þar sem landamerkja var getið. Í Hæstaréttardómi um Jökuldalsheiði hafi heimildir um eyðibýli á heiðinni ekki verið til framdráttar staðhæfingu um beinan eignarrétt að fjalllendi jarðarinnar Gilsár.

 Almennar athugasemdir stefnanda við úrskurð óbyggðanefndar

             Aðalstefnandi mótmælir þeirri afstöðu óbyggðanefndar að hann þurfi að sýna fram á að land innan tilgreindra landamerkja Stafafellsjarða eins og þeim var lýst í heimildum fyrir 1886 sé þjóðlenda. Hafi nefndinni verið rétt að leggja sönnunarbyrðina um eignarrétt á þá sem gerðu kröfu til beins eignarréttar að umræddum svæðum sbr. m.a. 52. kafla landsleigubálks Jónsbókar.Vísar stefnandi til þess að þetta eigi sérstaklega við þegar um er að ræða eyðilönd, gróðurlaus háfjöll og öræfi. 

         Þá mótmælir aðalstefnandi því að merki jarðar séu miðuð við jaðar jökuls og miðað sé við stöðu jökuljaðarsins við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998. Á þetta geti ríkið ekki fallist. Í þeim tilvikum sem beinn eignarréttur jarðar kunni að hafa náð að jökli, þegar landamerkjalýsing var gerð, geti ekki orðið til landauki og bæst við land jarðar frá upphaflegri merkjagerð. Telur aðalstefnandi að lög nr. 58/1998 hafi engu breytt um þetta efni.

Vesturhluti kröfusvæðisins þ.e. sá hluti þess, sem þjóðlendukrafa fjármálaráðaherra náði til, en óbyggðanefnd úrskurðaði eignarland liggur að landi Þórisdals að vestan, síðan í framhaldinu að Hoffellslambatungum (þjóðlenda í Nesjum). Að norðvestan sé Vatnajökull ásamt skriðjöklunum Austurtungnajökli og Axarfellsjökli, en norðurkinn hans sé stundum kölluð Suðurfjallsjökull og nyrst sé Vesturdalsjökull. Svæði þetta afmarkist svo að austan af Jökulsá frá þröng og allt til jökuls í Vesturdal.

Fyrstu lýsingu á þessum vesturmörkum sé að finna í vísitasíu Brynjólfs Sveinssonar frá 1641. Óbyggðanefnd skilji þessa lýsingu þannig að miðað sé við Jökulsá að sunnanverðu og Skyndidalsá þegar norðar dregur, sbr. einnig lögfestu 1714 og vísitasíu frá 1727. Í yfirlýsingu séra Bjarna Sveinssonar um landamerki Stafafells frá 1886 sé miðað við sömu ár. Í landamerkjabréfi Stafafells 23. maí 1914 (sic) séu merkin til vesturs miðuð við tiltekinn farveg Jökulsár þangað sem Skyndidalsá renni í hana og eftir það ræður Skyndidalsá mörkum inn í jökla. Í heimild frá 1467 sé hins vegar landið milli Skyndidalsár og Jökulsár innan merkja Þórisdals, þar sem Þórisdalur átti allt land milli Laxár og Jökulsár. Hvergi sé samt minnst á Lambatungnaá, sem afmarkar Hoffellslambatungur og liggi inn í Austurtungnajökul. Eftir því að dæma ættu Hoffellslambatungur að falla innan merkja Stafafells, ef miða ætti við þá aðferðarfræði óbyggðanefndar, í þeim tilvikum að sé mörkum óljóst lýst í jökul í tveimur punktum skuli allt land þar á milli að jökulbrún vera eignarland.

Óbyggðanefnd telur þrátt fyrir þetta að merki Stafafells gagnvart Hoffells­lambatungum valdi ekki vafa. Á þennan skilning geti aðalstefnandi ekki fallist og telur Hoffellslambatungur vera víðsfjarri eignarlandi Stafafells, þótt það liggi landfræðilega betur að Stafafelli en Hoffelli.

Óbyggðanefnd telur orðalag í vísitazíu Brynjólfs Sveinssonar bæði um Ketildalsheiði og Víðidal fremur bera með sér að rétti Stafafellskirkju til þessara staða sé skipað með óbeinum eignarréttindum kirkjunnar. Ketilstaðaheiði eða Ketildalsheiði þekkist þó ekki lengur. Aðalstefnandi fallist á þetta álit óbyggða­nefndar að Víðidalur og Ketildalsheiði flokkist með óbeinum eignarréttindum kirkjunnar. Það megi þó alls ekki eigna kirkjunni meira land, en orðalag gefi tilefni til. Til dæmis segi skýrt að Jökulsá ráði að sunnan í byggðum. Hún ráði þannig einungis suðurmörkunum í byggðum og Eskifellið, sem eitt sinn hafi verið byggt sé fyrir sunnan Jökulsá.  Þá geti Eskifellið og annað land þar fyrir vestan á fjöll upp verið talið tilheyrandi kirkjunni, þ.e. sá hluti lands innan kröfulínu aðalstefnanda, sem sé milli Skyndidalsár og Jökulsár.

Fráleitt sé að álykta á sama veg og óbyggðanefnd gerir, að með þessu orðalagi og orðalagi síðari heimilda, geti öll öræfin milli upptaka Jökulsár í Vesturdal og Skyndidalsár við Lambatungnajökul verið hlutar af eignarlandi kirkjunnar í Stafafelli. Skyndidalur sé um 12 km langur og allvíður við dalbotn í 100 – 200 m hæð. Ofan Skyndidals séu tvær hásléttur, Suðurfjall (858m), Kjarrdalsheiði (mest 700-800 m). Þegar vestur dragi og norður fyrir framangreindar hásléttur og inn að jökli hækki landið mjög. Þar séu hæstir Múlatindar (1085m), Sauðhamarstindur (1319 m), þar sem leifar séu af jökli að norðanverðu, Suðurtungnatindur (1279 m) og tindar við austurbrún Vatnajökuls milli Austurtungna- og Norðurtungnajökla (1244 m) og í Norður-Lambatungum (1203 m). Nyrst sé Suðurfjall   (1028 m), og inn af því liggi Vesturdalur, þar sem Jökulsá eigi upptök sín.

Aðalstefnandi byggir kröfur sínar í gagnsök á því að það svæði sem kröfur gagnstefnenda taka til sé þjóðlenda utan marka eignarlanda og því eigi að staðfesta úrskurð óbyggðanefndar um þetta svæði. Um nánari útskýringu og rökstuðning er vísað til stefnu í aðalsök.

Aðalstefnandi vísar til þjóðlendulaga nr. 58/1998, laga um afréttarmálefni og fjallskil nr. 6/1986 og landamerkjalaga nr. 41/1919 og eldri laga frá 1882.

IV.

Málsástæður og lagarök gagnstefnenda í aðalsök

Gagnstefnendur gera athugasemd við það að aðeins sé stefnt þeim aðilum í aðalsök er gerðu kröfu til óbyggðanefndar um réttindi á þrætusvæðinu. Hafi hugsanlega verið nauðsynlegt að gefa út eignardómsstefnu í samræmi við reglur laga nr. 91/1991 og komi því til greina að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi. Ljóst sé að kröfugerðin brjóti í bág við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga auk þess sem því er haldið fram að aðalstefnandi fari út fyrir tilgang laganna með kröfugerðinni og því sé hún lögleysa sem vísa beri frá dómi af sjálfsdáðum.

Gagnstefnendur byggja á því að með kröfugerð ríkisins í aðalsök í þessu máli er gerð alvarleg aðför að eignarrétti sem varinn sé 72. gr. Stjórnarskrár Íslands, sbr. og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994. Telja gagn­stefnendur, m.a. með hliðsjón af dómum Mannréttindadómstóls Evrópu, að ríkis­valdið hafi með einum eða öðrum hætti viðurkennt eignarrétt þeirra, t.d. með því að þinglýsa eignayfirfærsluskjölum athugasemdalaust um áratugaskeið, gera um þær samninga og skattleggja þær, og séu réttmætar væntingar þeirra verndaðar af þessum ákvæðum.

             Fallist dómurinn á þá kröfu að gagnstefnendum sé skylt að lögum að sanna eignarrétt sinn með þeim hætti að leggja fram frekari eignarheimildir en þeir gera, þá er því haldið fram að gagnstefnendur sæti mismunun sem sé andstæð stjórnarskrá. Þeim sé gert að sanna eignarrétt sinn með öðrum hætti en öðrum landeigendum í landinu. Öðrum nægi að leggja fram hefðbundin eignaskjöl lögum samkvæmt. Mismunun þessi sé lögleysa sem sé andstæð stjórnarskrá og sé sjálfstæð sýknuástæða. Einnig vísa gagnstefnendur til þess að stefnandi hafi ákveðið að hlíta öðrum úrskurðum óbyggðanefndar og sé gagnstefnendum því mismunað gróflega með því að þeim einum sé stefnt til að þola aðra niðurstöðu. Það beri því að sýkna stefndu þegar á þeirri forsendu að um ólögmæta mismunun sé að ræða sem ekki standist stjórnarskrána.

Gagnstefnendur benda á að samkvæmt eignaheimildum þeim sem lagðar voru fram með kröfulýsingum þeim sem lagðar voru fram fyrir óbyggðanefnd vegna Stafafells, og ítarlega eru raktar í úrskurði, hafi gagnstefnendur óskoraðan eignarrétt fyrir þessum eignarjörðum sínum, Stafafelli og Brekku,  með öllum gögnum og gæðum,  m.a. á grundvelli hefðar.

Gagnsstefnendur leiða rétt sinn frá Jóni prófasti Jónssyni er keypti jörðina Stafafell með öllum gögnum og gæðum af stefnanda árið 1913. Þá hafi legið fyrir landamerkjalýsing Stafafells í fornbréfabók Stafafells, og jörðin hafi því verið seld samkvæmt þeim merkjum. Prestar staðarins, sem voru um leið umboðsmenn eigandans, íslensku þjóðkirkjunnar, höfðu sjálfir samið þessar lýsingar, og ríkið hljóti því að viðurkenna þær.

Árið eftir hafi verið gengið frá formlegu landamerkjabréfi fyrir jörðina í samræmi við hinar fornu heimildir í bréfabókinni, og því þinglýst athugasemdalaust í samræmi við gildandi landamerkajalög.

Enginn aðili hafi nokkurn tíma gert athugasemdir við merkjalýsingu jarðarinnar frá því henni var þinglýst. Enginn hafi haldið því fram, aðrir en Stafafells­torfueigendur, að hann ætti sjálfstæð eignar- eða afnotaréttindi innan jarðarinnar, nema með samþykki jarðeiganda.

Eigendur hafi farið með öll hefðbundin eignarréttindi jarðarinnar, sem m.a. hafa lýst sér í því að þeir hafi bannað öðrum not eignarinnar svo sem víða sé rakið í úrskurði óbyggðanefndar með vísan til eldri heimilda varðandi Stafafell. Þá hafa gagnstefnendur borgað af allri eigninni lögboðin gjöld, þ.m.t eignarskatta.

Með vísan til almennra niðurstaðna óbyggðanefndar um skilgreiningu á hvað séu jarðir ljóst að Stafafell falli undir þá skilgreiningu. Jörðin sé á land­s­væði sem upp­runa­lega hafi verið ráð­stafað úr ein­s­tökum land­námum, stofnað til ný­býla á eða eignar­hefð unnin yfir. Nýting Stafafells hafi verið í sam­ræmi við bú­skapar­hætti og um­fang bús á hverjum tíma. Land hverrar jarðar hafi frá öndverðu borið að af­marka með landa­merkjum. Svo hefur verið gert í samræmi við lög og venjur á hverjum tíma.

Innan merkja jarðar sinnar hafi eigandi al­mennt séð farið með um­ráð og hag­nýtingu, gert ráð­stafanir með lög­gerningum, veð­sett jörðina og látið hana ganga að erfðum, á sama hátt og gildi um eignar­land yfir­leitt. Svo hafi verið með Stafafell samkvæmt elstu heimildum, svo sem rakið sé með ítarlegum hætti í úrskurði óbyggðanefndar.

Gagnstefnendur hafi því haft réttmætar ástæður til að vænta þess að beinn eignarréttur væri fyrir hendi á hinu umþrætta landssvæði enda hafi þeir getað leitað til handhafa opinbers valds honum til verndar. Þessar réttmætu væntingar njóti sjálfstæðrar verndar eignarréttarins, m.a. með vísan til úrlausna mannréttindadómstóls Evrópu.

Ljóst sé af gögnum málsins, og  því sé í raun ómótmælt af hálfu ríkisins, að nánast allt land í A-Skaftafellssýslu hafi við landnám orðið undirorpið beinum eignarrétti. Engir almenningar og afréttir séu á svæðinu og nýting og búseta segi til um að allt land til jökla hafi verið nytjað allt frá landnámi, og tilheyrt ákveðnum jörðum.

Ríkið hafi í raun fallist á þetta enda ekki skotið úrskurði óbyggðanefndar í Lóni að öðru leyti til dómstóla. Land allra annara jarða, t.d. Þórisdals sem aðalstefnandi fjalli nokkuð um í stefnu í aðalsök, sé viðurkennt eignarland allt frá fjöru til fjalls.

Eignarréttarkrafa ríkisins virðist því fyrst og fremst byggjast á því að einhverskonar undantekningarsjónarmið eigi við um land Stafafells.

Gagnstefnendur benda á að ljóst sé að kröfugerð ríkisins á hendur gagn­stefnendum fari í bág við þann skilning sem flestir úr röðum ráðamanna og stjórnvalda hafi lagt í þjóðlendulögin. Minnt er á að engin þörf sé á að úrskurða meira land þjóðlendu en augljóslega sé eigendalaust, og verði ekki  séð að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að land sé úrskurðað þjóðlenda, þar sem allur arður af þjóðlendu skuli renna til hennar sjálfrar samkvæmt þjóðlendulögunum. Aðalstefnandi njóti því meiri arðs af eignarlöndum manna en þjóðlendum með vísan til skattalaga. Þetta leiði til þess að eðlilegra sé að einstaklingar njóti vafans ef fyrir hendi sé í baráttu sinni við ríkisvaldið.

Að öðru leyti vísast til raka gagnstefnenda í gagnsök til stuðnings máls­ástæðum þeirra.

Málsástæður og lagarök gagnstefnenda í gagnsök

Gagnstefnendur vísa til þess að Stafafell sé ekki landnámsjörð, heldur virðist ljóst að jörðin sé upphaflega úr landnámi Þórðar skeggja er nam allt land í Lóni norðan Jökulsár og nefndi býli sitt Bæ. Stafafells sé hinsvegar fyrst getið í heimildum fyrir árið 1000 í tengslum við kristniboðsferðir Þangbrands, en talið sé að prestsetur hafi verið á Stafafelli frá því um 1200. Enn sé þar kirkja þó ekki sé þar prestsetur lengur. Jörðin hafi frá fornu fari verið ein af stærstu jörðum landsins, en fyrstu þekktu landamerki jarðarinnar séu frá 1641 samkvæmt vísitasiugerð Brynjólfs biskups Sveinssonar, og sé þeim þar líst með svipuðum hætti og gert sé í núverandi landamerkjabréfi jarðarinnar  frá árinu 1914.

Út frá Stafafelli byggðust hjáleigur einsog títt sé um stórbýli. Í Stafafelllstúni voru hjáleigurnar Garðakot og Kiðuvellir.  Þar var búið til 1840. Á Þorbjarnartúni vestan lækjarins, reis nýbýli um 1841, en stóð ekki lengi. Syðst í landi Stafafells var hjáleigan Byggðarhollt nú í eyði, og Hraunkot lítið eitt ofar. Brekka, býli næst brúnni á Jökulsá var áður hjáleiga Stafafells, en sé nú sjálfstæð jörð.  Hún telst ¼ Stafafells­torfunnar.

Auk hjáleiganna í “túninu heima” byggðust fjögur býli út úr Stafafellslandi á 19. öldinni. Eitt þeirra var Smiðjunes, nú í sumarbústaðalandinu inn með Jökulsá, en þar var búið til 1892. Samskonar býli, Valskógsnes, var byggt nokkru innar með Jökulsá, og var búið þar frá 1850-1875. Þriðja býlið, Eskifell, var innar og enn afskekktara, en það fór í eyði 1862.  Þrátt fyrir mikla fjarlægð frá öðrum byggðum bólum byggðist enn eitt býli út úr Stafafelli árið 1835, en það var Grund í Víðidal. Þar var búið framundir 1900. Þessi afbýli voru þó jafnan leigulönd frá Stafafelli.

Árið 1891 fluttu forfeður núverandi eigenda Stafafells að Stafafelli er Jón prófastur Jónsson tók við jörðinni og árið 1913 keypti hann jörðina af ríkinu á grundvelli laga nr. 50/1907 og hafi hún verið í einkaeigu síðan.

Þann 8. og 14. júlí og 7. september 1976 rituðu þáverandi eigendur Stafafells undir yfirlýsingu um stofnun friðlands í Lónsöræfum (Stafafellsfjöllum) sem tekur yfir innri hluta jarðarinnar.

Á jörðinni sé nú rekinn umfangsmilill sauðfjárbúskapur auk vaxandi ferðaþjónustu.

Almennt um eignarréttarkröfur gagnstefnenda

Gagnstefnendur vísa til 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Telja gagnstefnendur, m.a. með hliðsjón af dómum mannréttindadómstóls Evrópu, að ríkisvaldið hafi með einum eða öðrum hætti viðurkennt eignarrétt þeirra, t.d. með því að þinglýsa eignayfirfærslu­skjölum athugasemdalaust um áratugaskeið, gera um þær samninga og skattleggja þær, og séu réttmætar væntingar þeirra verndaðar af þessum ákvæðum. Bent er á að jörðin Stafafell hafi verið í opinberri eigu og hafi forverar gagnstefnenda keypt hana af ríkinu árið 1913.

             Gagnstefnendur benda á að hér skuli gæta að hinum almennu sönnunarreglum og því hvernig sönnunargögn eru metin en um það séu ákvæði í  VI.-XII. kafla einkamálalaga nr. 91/1991. Sú almenna regla hafi verið talin gilda í eignarrétti að sá sem haldi fram beinum eignarrétti verði að færa sönnur að eignarrétti sínum. Gagnstefnendur telja að þeir hafi sannað eignarrétt sinn með framlagningu heimildarskjala og landamerkjabréfs fyrir jörðinni Stafafelli.  Eldri heimildir mæli þeim ekki í mót. Aðalstefnandi hafi því sönnunarbyrðina fyrir því að land sem er innan þinglýstra landamerkja jarðarinnar Stafafells teljist til þjóðlendna, sbr. almennar niðurstöður úrskurðar óbyggðanefndar 21. mars 2002. Vafa um það hvort land hafi verið numið í öndverðu ætti að meta landeiganda í vil, ef athugasemdalausar landamerkjagjörðir, einkum ef þær fari ekki í bág við eldri heimildir, bendi til beins eignarréttar.

             Gagnstefnendur rekja aðdraganda, setningu og nánari fyrirmæli landamerkja­laganna nr. 5/1882 og síðan 41/1919 og þá ráðagerð löggjafans að framkvæmdavaldið hefði frumkvæði að því að gengið yrði frá landamerkjum jarða, þau skráð og leyst úr ágreiningi um þau ef hann væri fyrir hendi. Telja gagnstefnendur að sú skoðun hafi virst óumdeild við setningu þessara laga að jarðeigandi ætti fullkominn eignarrétt innan landamerkja jarðar sinnar. Vísa stefndu þessu sjónarmiði til stuðnings til ákvæða Grágásar, reglna um veiði dýra og fiska og reglna um nýtingu vatnsréttinda.

             Gagnstefnendur benda á að landamerkjalýsingar þær sem gerðar hafi verið í kjölfar landamerkjalaganna 1882 hafi víða verið byggðar á eldri heimildum, svo sem máldögum, lögfestum og eldri landamerkjabréfum. Svo sé einnig um Stafafell. Þessum lýsingum hafi síðan verið gefið aukið vægi með þinglýsingu og eftirlitsskyldu valdsmanna sem stefndu telja að leiði til þess að þarna verði til fullkomnar heimildir um landamerki og eignarrétt þinglýstra eigenda. Þess sé krafist að land sem í tugi ára hafi verið talið innan þinglýstra landamerkja jarða eða eftir atvikum í sameign einhvers tiltekins fjölda jarða teljist eignarland. Á því sé einnig byggt að venjuréttur og hefðarsjónarmið leiði til sömu niðurstöðu. Er tekið undir niðurstöður óbyggðanefndar að þessu leyti.

Þá byggja gagnstefnendur á því að jafnræðisreglur og meðalhófsreglur stjórnsýslu og stjórnskipunarréttar leiði til þess að gagnstefnendur  þurfi ekki að leggja fram frekari sannanir fyrir eignarrétti sínum en þeir hafa gert. Verði á það fallist sé lögð önnur og meiri sönnunarbyrði á gagnstefnendur en aðra landeigendur í landinu. Slík mismunun sé andstæð stjórnarskrá og leiði því til sýknu.

Gagnstefnendur benda á að hefð hafi fyrst og fremst gildi sem eignarheimild eftir gildistöku laga 46/1905 og vísa til þess að reglur um hefð heimili eignarhefð lands sem er í opinberri eigu. Af þessu draga gagnstefnendur þá ályktun að því frekar hljóti að vera unnt að hefða land sem er engum eignarrétti háð.  Telja gagnstefnendur að sjónarmið um hefð styrki eignartilkall þeirra og vísa til fræðirita í því sambandi. Venjuréttur og hefð falli hér saman og eigi að leiða til þess að allt land Stafafells sé eignarland.

Gagnstefnendur telja að landssvæði það sem deilt sé um í þessu máli hafi allt verið numið í öndverðu. Gagnstefnendur benda á að meðal germanskra þjóða hafi ríkt sú meginregla, a.m.k. frá upphafi miðalda eða fyrr, að allt land sé háð einkaeignarrétti einstakra manna. Frá þeirri reglu sé sú undantekning að sumt land sé í óskiptri sameign þeirra. Algengustu dæmin þar um séu skógar og beitilönd. Hugmyndir um takmarkað landnám sé seinni tíma hugsmíð sem eigi sér enga stoð í sögulegum eða réttarlegum heimildum.

Gagnstefnendur vísa til fræðiskrifa um „Landnám í Skaftafellsþingi“ og rekja lýsingar Landnámu á landnámi í Lóni og telja að ekkert í þessum lýsingum bendi til annars en að landið hafi verið numið allt til jökla. Þetta landsvæði sé nú allt innan landamerkja jarða og hafi svo verið samkvæmt elstu heimildum. Útilokað sé að fullyrða um rétta afmörkun og órofa yfirfærslu eignarréttinda allt frá landnámi og til dagsins í dag.  Hinsvegar verði að telja eðlilegt að aðalstefnandi beri hallann af þeim vafa sem fyrir hendi kann að vera um hvort landnámin náðu til jökla í Lóni.

Gagnstefnendur vísa til umfjöllunar óbyggðanefndar um gróðurfar og þeirrar meginniðurstöðu að umrætt landsvæði hafi verið mun grónara við landnám og jökullinn verið miklu minni. Atriði eins og staðhættir, víðátta og gróðurfar ráði  því ekki úrslitum þegar eignarréttur á landi sé metinn á þessu svæði. Sé það í samræmi við niðurstöðu óbyggðanefndar í sambærilegum málum. Þá er og bent á að að búseta hafi verið á þessu svæði allt til jökla, sbr. heimildir um byggð í Víðidal. Sama eigi við notkun lands. Að því er notkun lands varðar benda gagnstefnendur á að innan landamerkja Stafafells sé ekki um afrétt að ræða í hefðbundinni merkingu þess orðs. Hér sé ekki um að ræða landsvæði sem nytjað sé af öllum hreppsbúum og lúti stjórn hreppsfélagsins svo sem gildir um samnotaafrétti. Enginn afréttarmörk séu til á þessu svæði og enginn rekur fé á land Stafafells nema með leyfi landeigenda. Innan jarðartorfu Stafafells höfðu menn hinsvegar nýtingarrétt á grundvelli sameignar eða samnings. Þegar rætt sé um afréttir á þessu svæði sé vísað til beitilands jarðar. Gagnstefnendur telja ekki að reglur um afréttarmálefni og fjallskil, sbr. nú lög nr. 6/1986, haggi þessu. Þvert á móti telja stefndu þessar reglur benda til þess að um eignarlönd sé að ræða. Þannig hafi landeigendur sjálfir séð um smölun á þessum svæðum, en ekki fjallskilastjórn svo sem henni er skylt að gera með afrétti sbr. 49. gr. laga nr. 6/1986, sbr. 51 gr.  Er því mótmælt öllum sjónarmiðum um að til séu einhvers konar almenningsafréttir innan jarðanna sem og kenningum um að land á þessu svæði hafi verið numið til afnota.

Gagnstefnendur vísa til þess að frá því að áhugi fór að myndast á annarri starfsemi en kvikfjárrækt hafi verið litið á það sem sjálfsagðan hlut að landeigendur þyrftu að veita leyfi til nýtingar umræddra svæða. Stafafellseigendur hafi nú hafið stórfellda ferðaþjónustu á sinni jörð. Þeir hafi skipulagt jörðina sem slíka og séu að byggja brýr og skála allt inn í Víðidal. Gagnstefnendur telja ekki að dómar Hæsta­réttar í opinberum málum sem varða réttarstöðu landsvæða hafi fordæmisgildi í málinu og taka undir niðurstöður óbyggðanefndar hvað það varðar.

Nánar um kröfugerð gagnstefnenda

Gagnstefnendur krefjast þess að viðurkennt verði að innan landamerkja jarðarinnar Stafafells sé þjóðlendu ekki að finna, sbr. framlagt kröfukort. Landamerki jarðarinnar séu samkvæmt  landamerkjabréfi frá 1914 sem þinglesið var á manntalsþingi í Bæjarhreppi 10. júlí 1922.  Í samræmi við punkta á framlögðu korti séu mörkin þessi:

Mörkum ráða fjallseggjarnar fyrir austan Víðidal  út á Sviptungnavarp, (p.50) þaðan ráða enn fjallseggjar út á Hafradalsstafninn(p.54). Eftir það ræður á sú sem fellur út Hafradal allt út í gljúfurkjaftinn austanvert við Bláberjamýri;(p.55) þaðan liggja mörkin beina leið í Skernabba (p.56) á ofanverðum Nýgræðum.- sem nú verður hresstar upp og audkenndar- þaðan sjónhending í vörðuna á Steinsholti sen kallast venjulega Markhraun. Úr því beint út yfir Himbrimistjörn (p.57) yfir Hrútshöfða(p.58) þannig, að sjónhending verði úr vörðunni við á Markhrauni í austustu klettasnös á í Vigrinni. Að utan ræður affallið fyrir ofan fjöruna (p.59). [/] Að sunnan ræður Jökulsá (p.43) þ.e. sá farvegur hennar, sem rennur á milli Nautsholts að austan og Krossalands að vestan-Þorvaldshöfðakvísl- alla leið inn eftir þangað sem Skyndidalsá rennur í hana.(p39) Eftir það ræður Skyndidalsá mörkum „inn í jökla“ (p38) (p.44). Að norðan nær Stafafellsland þangað, sem vötn skilur milli Lóns og Fljótsdals  (p.45)(p.46)(p.47)(p.48)(p.49).

Um eignarheimildir Stafafells er vísað til og raktar þær heimildir að fornu og nýju sem fyrr getur. Verður vísað til þeirra eftir því sem málsástæður og rökstuðningur gagnstefnenda gefur tilefni til.

Krafa gagnstefnands Nönnu byggir á þinglýstum afsölum dags. 19. september 1958, afsali dags. 15. apríl 1983 og afsali dags. 20. apríl 1985, sbr. og skiptayfirlýsingu dags. 19. nóvember 1979, sem aftur byggjast á eldri heimildum. Afi Nönnu Jón prófastur Jónsson keypti jörðina af ríkinu 1913.

Krafa gagnstefnandans Olgu byggir á afsali frá 15. nóvember 1989, sbr. landamerkjasamning í september 1983 sem aftur vísa til eldri heimilda, sbr. og veðbókarvottorð jarðanna.

Landeigendur halda því fram að landamerkjabréfið hafi fullan stuðning í eldri heimildum, og sé þeim gerð nákvæm skil í úrskurði óbyggðanefndar á bls. 45-66 en nokkuð sé til af eldri gögnum um Stafafell. Öll þessi gögn bendi til beins eignarréttar stefnenda.

Sérstaklega er vísað til vísitasíu Brynjólfs Sveinssonar biskups 1641. Mikilvægt sé í þessu sambandi að vísitasíunni og landamerkjabréfinu beri saman í meginatriðum. Í vísitasíunni segir:

[S]íðan ræður jökulsá að sunnan í byggðum, og á staðurinn allt land og skóga að fráteknum Þóru skógi Einholtskirkju, millum hennar og Skyndidals ár  og á fjöll upp fyrir innan Ketildalsheiði og Víðidal allan.

Séu þetta orðalag skoðað, sem svipi mjög til orðalags í lögfestu Stafafells frá 1714, sé ljóst að jörðin eigi allt land á fjöll upp norðan Ketildalsheiðar og Víðidal allan, en þessi lýsing eigi við allt nyrsta land jarðarinnar.

Það sé því fráleit niðurstaða hjá óbyggðanefnd að heimildum fyrir 1886 beri ekki saman við eldri heimildir sem aftur leiði til þeirrar niðurstöðu hjá óbyggðanefnd að hún telur landið einungis afréttareign gagnstefnenda. Þetta beri að skoða með hliðsjón af  samanburði af hinum forna vitnisburði um landamerki Þórisdals frá 1467 en þar komi fram að jörðin eigi land allt til jökuls. Þá sé rétt að nefna lýsingu dómkvaddra matsmanna á jörðinni frá 24. júní 1912. Í umsögn þeirra komi greinilega fram að vísað sé til þess mikla landsvæðis er fylgi jörðinni. Þetta land hafi forfeður gagnstefnandans Nönnu keypt af íslenska ríkinu.

Þegar eldri heimildir um Stafafell séu bornar saman við gildandi landamerkja­bréf komi í ljós að bréfið frá 1914 sé eingöngu nákvæmari útfærsla á fyrri lýsingum, svo sem landamerkjalögin frá 1882 hafi skikkað landeigendur til að gera.

Engar heimildir séu um almenningsafrétt á þessu svæði. Ef eitthvert slíkt land væri norðan við land Stafafells þá hlytu að vera til einhverjar heimildir um það, og þá hvar væri mörk Stafafellslands við slíkt land. Þessu sé ekki til að dreifa, og því ljóst að landið sunnan vatnaskila við Fljótsdal tilheyrir Stafafelli.

Til stuðnings þeirri skoðun að jörðin eigi land allt að vatnaskilum vísa gagnstefnendur einnig til fasteignamata um jörðina þar sem Stafafell sé ætíð metin langdýrasta jörðin en þar komi einnig fram að jörðin eigi Víðidal og Kollumúla. Víðidalur sé mjög langur og nái hann að vatnaskilum.  Einnig er vísað til jarðatals Jonsens 1847 og til fasteignamatsbókanna. Mötin beri skýrt með sér að Stafafell sé lang stærsta jörðin í Lóni og landverð jarðarinnar metið í samræmi við það. Þessar eignaheimildir bendi eindregið til þess að jörðin hafi verið numin með þeim hætti sem hún sé nú þ.e. allt til sveitarmarka á jökli. Raunar sé ljóst að jökullinn hafi verið miklu minni við landnám.

Gagnstefnendur benda á að smölun sauðfjár í Stafafelli hafi ætíð verið skipulögð af landeigendum Stafafells enda hafi enginn getað nýtt landið til beitar, hvað þá annars, nema með samningum við landeigendur.  Þetta hafi þó að sjálfsögðu verið gert í samræmi við gildandi fjallskilasamþykkt og í samráði við þá aðila sem eigi upprekstrarrétt á Stafafellsland á hverjum tíma.

Gagnstefnendur benda á að allt land Stafafells hafi verið nýtt af eigendum Stafafells eins og hagkvæmt hafi þótt á hverjum tíma, og eins og möguleiki hafi verið á, og bannað öðrum not hennar, t.d. það að Stafafellsprestur hafi kært menn fyrir óheimilt skógarhögg fyrir innan Hnappadalsá, sbr. og  dóm um skógarhögg í landi Stafafells frá 1483. Sem dæmi um það hvernig innlandið hafi verið nýtt megi nefna að fyrir liggi að á 19. öld hafi verið reist sjálfstætt býli með fastri búsetu um alllangan tíma á innlandi Stafafells, þ.e. Grund í Víðidal, svo sem nánar sé rakið í úrskurði óbyggðanefndar, bls.53-55. Landeigendur telja þetta  renna stoðum undir þá fullyrðingu þeirra að jörðin sé öll fullkomið eignarland, en ábúandi Grundar hafi borgað leigu til eiganda Stafafells, sem og aðrir leiguliðar jarðarinnar.

Stefnendur telja að landamerki jarðarinnar séu rétt dregin inná kort sem fylgdi kröfulýsingu þeirra. Á því er byggt að þar séu sýnd merkin einsog þau séu, þ.e. við vatnaskil.

Gagnstefnendur vísa sérstaklega til samnings landeigenda við Náttúruverndar­ráð um friðlýsingu á hluta Stafafellsfjalla, dags. 7. september 1976. Við friðlýsing­una hafi verið stuðst við landamerkjalýsingu Stafafells og þá hafi talsmenn ríkis­valdsins ekki verið í vafa  um að eignarréttur Stafafellsbænda náði yfir allt það land sem friðlýst var.  Af þessu tilefni hafi verið gerður uppdráttur af landi Stafafells, sem friðlýsingin nái til. Landeigendur telja að með þessum uppdrætti hafi ríkisvaldið samþykkt fyrir sýna hönd hver landamerki Stafafells séu, og þannig samþykkt þessa útfærslu á orðunum í landamerkjabréfinu “Að norðan nær land Stafafells þangað, sem vötn skilur á milli Lóns og Fljótsdals.”

             Er sérstaklega byggt á því að að friðlýsingin sem slík, sem er ákveðin ráð­stöfun eigandans á eign sinni, sanni með órækum hætti að eigendur Stafafells hafi unnið fullkomna eignarhefð á landinu. Fullur hefðartími sé liðinn frá því friðlýsingin fór fram. Eftir friðlýsinguna sé ljóst að öll afnot og nytjar landsins séu háðar leyfi Náttúruverndarráðs sem landeigendur fólu umsjón svæðisins í samráði við þá sjálfa. Með þessum hætti telja landeigendur að þeir geti sannað að þeir hafi bannað öðrum not eignarinnar, sem sé einn meginþátturinn sem þurfi að sýna fram á ef sanna eigi eignarhefð. Heimildir bendi ekki til annars en að búseta hafi verið nokkuð samfelld í Stafafelli frá því að jarðarinnar sé fyrst getið í heimildum, og að eftir gerð landa­merkja­bréfsins hafi jörðin, og síðar einnig Brekka, framselst á hefðbundinn hátt og verið veðsett eftir að hún komst í einkaeigu.

Gagnstefnendur telja að tilgangurinn með lögum um þjóðlendur hafi fyrst og fremst verið sá að gera ríkið þinglýstan eiganda þeirra landsvæða sem enginn hafi skjöl fyrir að hann eigi, en svo háttar til um hluta afrétta og jökla á miðhálendi Íslands. Óbyggðanefnd eigi að finna út hver þessi eigendalausu svæði séu. Gagnstefnendur hafi lagt fram hefðbundin eignaskjöl fyrir jörð sinni, og sýnt framá að hér sé um víðfemt heimaland að ræða en ekki sjálfstætt liggjandi afrétt, sem aðrir byggðarmenn hafi sjálfstæðan rétt að nýta á grundvelli venju. Landið hefur verið nýtt af eigendum þess og engum öðrum frá ómunatíð (posessio immemorialis) Samkvæmt því beri aðalstefnanda að sanna að nám, raunveruleg og venjubundin nýting jarðar gagnstefnenda eða önnur atriði, hafi ekki tekið til jarðarinnar allrar.

Varakrafa gagnstefnenda byggir á sömu sjónarmiðum og aðalkrafan, en miðar mörk jarðarinnar til norðurs við jökulinn.

V.

Niðurstaða

             Ekki eru efni til þess að vísa máli þessu í heild sjálkrafa frá dómi með vísan til þess að nauðsynlegt hafi verið að gefa út eignardómsstefnu í málinu í samræmi við XVIII. kafla laga nr. 91/1991 eða vegna þess að óbyggðanefnd hafi skort stjórnskipulega gilda lagaheimild til að kveða upp umræddan úrskurð. Þá er haldlaus sú málsástæða gagnstefnenda að kröfugerð aðalstefnanda brjóti gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

             Lög nr. 58/1998 kveða á um sérstaka málsmeðferð sem hefur það að meginmarkmiði að ganga úr skugga um hvaða landsvæði teljast utan eignarlanda einstaklinga og lögaðila og þannig til þjóðlenda, sbr. 1. gr. laganna. Með lögunum eru ekki gerðar ríkari kröfur til sönnunar fyrir eignarrétti að landi en leiðir af almennum réttarreglum. Í samræmi við almennar lögskýringarreglur verða lög nr. 58/1998 skýrð til samræmis við stjórnarskrána og alþjóðlegar reglur um mannréttindi, þar á meðal reglur um vernd eignarréttarins. Að þessu virtu verður ekki talið að lög nr. 58/1998 eða tilteknar heimildir óbyggðanefndar samkvæmt lögunum séu andstæðar 72. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. 10. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, eða almennum jafnræðisreglum. Með vísan til VI. kafla dóms Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 48/2004 verður enn fremur ekki fallist á að réttlát málsmeðferð hafi ekki verið tryggð fyrir óbyggðanefnd, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, eins og henni var breytt með 8. gr. laga nr. 97/1995, og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Kemur því til skoðunar efnisleg niðurstaða óbyggðanefndar í máli nr. 5/2001 um þjóðlendumörk að jörðinni Stafafelli.

             Í máli þessu liggur fyrir landamerkjabréf Stafafells með hjáleigum og ítökum 23. apríl 1914, þinglesið 10. júlí 1922. Undir bréfið ritaði eigandi og ábúandi Stafafells, en auk þess var það samþykkt af eigendum allra jarða í Lóni. Bréfið var ekki samþykkt af eigendum jarða í Múlasýslum að því er varðar austur- og norðurmörk jarðarinnar. Lýsingu bréfins ber þó í megindráttum saman við landamerkjabréf sem gerð voru á árunum 1884 og 1885 vegna jarðanna Flugustaða, Hofs og Múla í Suður-Múlasýslu. Fyrir liggur að ágreiningur reis síðar um merki Stafafellstorfunnar og Þórisdals sem lyktaði með sátt 9. október 1970, en sá ágreiningur hefur ekki þýðingu fyrir sakarefni málsins.

Umrætt landamerkjabréf var gert fljótlega eftir að jörðin Stafafell var seld ábúand­anum, Jóni prófasti Jónssyni, af ráðherra Íslands í samræmi við lög um sölu kirkjujarða nr. 50/1907 með afsali 28. maí 1913. Með í sölunni fylgdu hjá­leigurnar Brekka, Byggðarholt og Hraunkot og eyjan Vigur, alls 80,4 hundrað að dýrleika eftir nýju jarðamati. Jörðin var seld með öllum gögnum og gæðum, en undanskildar sölunni voru námur sem voru í jörðu eða síðar kynnu að finnast þar. Í afsalinu er ekkert getið um landamerki jarðarinnar, en þegar salan fór fram lá fyrir lýsing séra Bjarna Sveinssonar á landamerkjum Stafafells frá 1886. Þá lágu jafnframt fyrir fyrrgreind landamerkjabréf vegna jarðanna Flugustaða, Hofs og Múla í Suður-Múlasýslu, sem bar í megindráttum saman við lýsingu séra Bjarna. Merki voru þannig miðuð við fjallseggjar og vatnaskil sem jafnframt eru sýslu- og hreppamörk.

             Samkvæmt framangreindu er hér um að ræða jörð sem fyrirsvarsmaður íslenska ríkisins seldi ábúanda Stafafells árið 1913 og leiða gagnstefnendur rétt sinn af þessu afsali. Líta verður svo á, í samræmi við almennar reglur fjármunaréttar, að við söluna árið 1913 hafi verið fyrir hendi óorðaðar forsendur samningsaðila um endimörk hinnar seldu jarðar. Að mati dómsins fær það ekki samrýmst afstöðu íslenska ríkisins við umrædd kaup að gera kröfu um að hluti þess lands, sem viðsemjandi þess hafði réttmæta ástæðu til að ætla að væri afsalað árið 1913, verði nú þjóðlenda og þar með eign ríkisins. Er í því sambandi litið til þess að réttmætar væntingar eiganda um eignarrétt sinn, eins og þær sem að framan greinir, njóta verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannrétt­inda­sátt­mála Evrópu sem lögfestur var með samnefndum lögum nr. 62/1994. Kemur því til skoðunar hvort kaupandi jarðarinnar Stafafells, sem hafði verið ábúandi hennar um langt skeið, hafi mátt vænta þess að landamerki jarðarinnar væru þau sem lýst var með landamerkjabréfinu 1914.

Áður hefur verið greint frá því að þegar salan fór fram árið 1913 lá fyrir lýsing séra Bjarna Sveinssonar á landamerkjum Stafafells frá 6. febrúar 1886 og þá lágu jafnframt fyrir frá árunum 1884 og 1885 landamerkjabréf vegna jarðanna Flugustaða, Hofs og Múla í Suður-Múlasýslu, sem bar í megindráttum saman við landamerkjabréf Stafafells. Í þessum gögnum voru austur- og norðurmerki jarðarinnar miðuð við fjallseggjar og vatnaskil sem jafnframt eru sýslu- og hreppamörk. Lýsing séra Bjarna Sveinssonar á merkjum Stafafells er fyrsta heimildin þar sem merkjum jarðarinnar er lýst með heildstæðum og ítarlegum hætti. Kemur þá til athugunar hvort eldri heimildir mæli gegn umræddri lýsingu eða hvort staðhættir, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu landsins mæli gegn því að umrætt landssvæði hafi getað talist eignarland þannig að rétt sé að líta svo á að kaupandi Stafafells árið 1913 hafi ekki getað vænst þess að umrætt svæði væri hans eign.

         Á það verður fallist með óbyggðanefnd að af lýsingum Landnámu á landnámi í Lóni verði engar fortakslausar ályktanir dregnar um stærð landnáma inn til landsins. Hafa lýsingar í Landnámu, einar og sér, því ekki þýðingu um afmörkun á jörðinni Stafafelli gagnvart þjóðlendu. Eins og áður greinir eru elstu landamerkjalýsingar Stafafells að finna í vísitasíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar frá 1641, í lögfestu frá 1714 og vísitasíu frá 1727. Á það verður fallist með óbyggðanefnd að af þessum heimildum, svo og gögnum um landamerki Þórisdals og Hoffells, verði ráðið að Skyndidalsá hafi ráðið merkjum Stafafells til vesturs allt þar til hún féll saman við Jökulsá, en merki við Hoffellslambatungur (frá ármótum Skyndidalsár og Lambatungnaár) hafi ekki verið talin valda vafa. Samkvæmt þessu er það álit dómsins að kaupandi Stafafells árið 1913 hafi með réttu getað vænst þess að vesturmörk Stafafells ofan við ármót Jökulsár og Skyndidalsár væru þau sem fram koma í landamerkjabréfinu 1914.

         Skilja verður ógildingar- og viðurkenningarkröfu gagnstefnenda þannig að þeir krefjist þess meðal annars að enga þjóðlendu sé að finna innan landssvæðis sem afmarkast af línu sem dregin er frá Hreppamörkum Nesja og Lóns við jaðar Asturtungujökuls (punktur 44 á kröfukorti) í 1526 m háan hnjúk, áfram í 1505 m háan hnjúk og þá í þann þriðja nafnlausa hnjúkinn, 1438 m háan, (punktur 45 á kröfukorti) og þaðan í Geldingafell (punktur 46 á kröfukorti). Dómurinn fellst á það með óbyggðanefnd að Vatnajökull hafi verið talinn afmarka það land sem máli skipti með svo augljósum hætti að ekki var talið þurfa umfjöllunar við. Í samræmi við þetta verður sú lýsing í landamerkjabréfinu 1914 að Skyndidalsá ráði mörkum „inn í jökla“ ekki skilin þannig að lýst sé merkjum inn á jökul. Fær krafa gagnstefnenda að þessu leyti því ekki stoð í landamerkjabréfi jarðarinnar frá 1914.

         Að því er varðar afmörkun jarðarinnar til norðurs og austurs kemur meðal annars fram í framangreindum gögnum frá 17. og 18. öld að Stafafell eigi Ketilstaðaheiði og Víðidal allan. Þá segir í vísitasíunni frá 1727 að staðurinn eigi „afrétt í Kollumúla“. Auk þess benda gögn málsins til þess að eigendur Stafafells hafi talið sig eiga skóg allt upp í Hnappadal, sbr. dóm um skógarhögg frá 1731. Síðari heimildum ber saman um að beitiland jarðarinnar sé að verulegu leyti víðáttumikið fjalllendi og kemur meðal annars fram í þessum heimildum að Stafafell „eigi“ Kollumúla eða eigi „afrétt“ í Kollumúla. Einnig ber gögnum málsins saman um að Kollumúli og Víðidalur hafi verið smalaður af eigendum Stafafells. Þá liggur fyrir að búið var í Víðidal, með leyfi ábúanda Stafafells, með hléum frá 1835 til 1897.

Samkvæmt framangreindu benda gögn málsins til að Stafafell hafi verið talið eiga land norður fyrir Jökulsá, þ.e. Kollumúla, Víðidal og Hnappadal. Þegar  haft er í huga að hvorki Víðidalur né Kollumúli eiga sér skýr landfræðileg mörk telur dómurinn að umræddar heimildir frá 17. og 18. öld um landamerki Stafafells til austurs og norðurs séu ekki skýrar. Samkvæmt þessu er ekki unnt að slá því föstu að lýsingin á landamerkjum Stafafells árið 1886 og landamerkjabréfið 1914, að því er varðar mörk jarðarinnar til austurs og norðurs, fari í bága við fyrri heimildir.

Í úrskurði óbyggðanefndar er gróðurfari og staðháttum á umræddu svæði ítarlega lýst. Eins og þar greinir nánar er svæðið fjalllent, að stærstum hluta í 500-1000 metra hæð, en hæstu fjöll eru yfir 1300 metar, t.d. Sauðhamarstindur (1319 m) og Jökulsgilstindar (1313 m). Er þar að finna víðáttumikil ógróin svæði, en landslagið skapar þó víða skilyrði til gróðurs í hlíðum og dalbotnum, jafnvel þótt komið sé upp í talsverða hæð. Meðal annars kemur fram að í Víðidal (í nálægt 500 m hæð) sé stærsta samfellda gróðurland fjalllendisins og Kollumúli (mest 901 m) sé að framan vaxinn kjarri langt upp í hlíðar.

         Að mati dómsins eru staðhættir og gróðurfar á ýmsum hlutum hins umdeilda svæðis með þeim hætti að telja verður ólíklegt að þeir hafi verið numdir. Er þá fyrst og fremst litið þeirra svæða sem hálendust eru og heimildir benda ekki til að hafi verið nýtt til beitar sauðfjár. Þótt staðhættir og fyrirliggjandi heimildir um gróðurfar styðji ekki í þessu ljósi að stofnað hafi verið til beins eignarréttar yfir öllu umræddu svæði með námi verður ekki fram hjá því litið að aðalstefnandi hefur ekkert fært fram í málatilbúnaði sínum sem leggja mætti til grundvallar við nánari afmörkun tiltekinna svæða innan landamerkja Stafafells sem þjóðlendu. Að þessu virtu þykja staðhættir og gróðurfar ekki útiloka að kaupandi Stafafells árið 1913 hafi mátt ætla að það landssvæði sem lýst er í landamerkjabréfinu 1914 væri eignarland jarðarinnar.

         Samkvæmt framangreindu er það álit dómsins að heimildir frá 17. og 18. öld um merki Stafafells mæli ekki skýrlega gegn þeirri lýsingu merkja sem fram kemur í landamerkjabréfinu 1914. Þá útiloka staðhættir og gróðurfar ekki að land innan merkja jarðarinnar sé eignarland. Dómurinn telur ekkert í gögnum málsins benda til þess að það svæði sem afmarkað er í landamerkjabréfinu 1914 hafi, fyrr eða síðar, verið greint upp í eignarland og afrétt, þar sem afréttareigandi átti fyrst og fremst aðeins beitarrétt. Getur það ekki haggað þessari niðurstöðu þótt í heimildum sé tekið svo til orða að Stafafell eigi „afrétt“ á tilteknum stöðum, enda getur orðið afréttur í mæltu máli haft sömu merkingu og beitarland og þannig vísað til notkunar án tillits til eignaréttarlegrar stöðu landsins. Með hliðsjón af framangreindum gögnum og fyrirliggjandi upplýsingum um staðhætti, gróðurfar og nýtingu, telur dómurinn að árið 1913 hafi kaupandi Stafafells haft réttmæta ástæðu til að ætla að það svæði sem lýst er í landamerkjabréfinu 1914 væri fullkomin eign hans. Líkt og áður greinir njóta þessar væntingar verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannrétt­inda­sátt­mála Evrópu. Verða lög nr. 58/1998 ekki skýrð á þá leið að gagnstefnendur þurfi að sýna frekar fram á, en þegar hefur verið gert, að umrætt landssvæði Stafafells, eins og það er afmarkað í landamerkjabréfinu 1914, sé utan þjóðlendu.

         Líkt og áður greinir fær ógildingar- og viðurkenningarkrafa gagnstefnenda vegna þess svæðis sem afmarkast af annars vegar af jökulbrún og hins vegar línu sem dregin er frá Hreppamörkum Nesja og Lóns við jaðar Asturtungujökuls (punktur 44 á kröfukorti) í 1526 m háan hnjúk, áfram í 1505 m háan hnjúk og þá í þann þriðja nafnlausa hnjúkinn, 1438 m háan, (punktur 45 á kröfukorti) og þaðan í Geldingafell (punktur 46 á kröfukorti) ekki stoð í landamerkjabréfi jarðarinnar frá 1914. Umrætt svæði er þakið jökli og mæla staðhættir og gróðurfar því eindregið gegn því að það geti verið háð einkaeignarrétti. Í ljósi þess að gagnstefnendur hafa ekkert fært fram fyrir eignartilkalli sínu varðandi þetta svæði verður kröfum þeirra þar að lútandi hafnað.

         Að því er varðar mörk þjóðlendu frá upptökum Lambatungnaár (punktur 44 á kröfukorti) norður með Vatnajökli telur dómurinn rétt að miða við jökulbrún á hverjum tíma í samræmi varakröfu gagnstefnenda. Er þá litið til þess að hér er um að ræða afmörkun sem fer saman við almennt viðurkenndir hugmyndir í Austur-Skaftafellssýslu um endimörk jarða til jökuls og er ekki komið fram að þessi regla hafi valdið ágreiningi á svæðinu, sé óskýr eða óhaganleg með einhverjum hætti. Verður einnig að horfa til þess að landeigendur í Lóni hafa almennt haft réttmæta ástæðu til að ætla að þeir ættu land allt að jökulbrún, eins og hún væri á hverjum tíma. Fær sú almenna niðurstaða óbyggðanefndar að miða þjóðlendulínu við jökulbrún við gildistöku laga nr. 58/1998 hinn 1. júlí 1998 hvorki fá stoð í heimildum um landnám í Lóni, sögu einstakra jarða né almennum eða staðbundnum réttarreglum um fasteignir og endimörk þeirra. Bendir dómurinn á í þessu sambandi að hér er um að ræða skýringu á lögum nr. 58/1998, sem skerðir réttmætar væntingar landeigenda um endimörk eignarlands, án þess að slíkri skýringu verði þó fundin stoð í ákvæðum laganna eða lögskýringagögnum. Með hliðsjón af framangreindum ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu um vernd eignaréttarins kemur slík lögskýring auk þess ekki til greina. Samkvæmt öllu framangreindu verða landamerki að Vatnajökli miðuð jökulbrún, eins og hún er á hverjum tíma.

         Samkvæmt framangreindu verður tekin til greina sú aðalkrafa gagnstefnenda að fella úrskurð óbyggðanefndar 14. nóvember 2003 í máli nr. 5/2001 úr gildi að því er varðar mörk þjóðlendu og eignarlands Stafafells í Lóni (ásamt Brekku). Eins og kröfugerð gagnstefnenda er háttað verður viðurkennt að eftirfarandi lína verði mörk þjóðlendu og eignarlands Stafafells innan kröfusvæðis óbyggðanefndar nr. 5 í Austur-Skaftafellssýslu: Frá hreppamörkum Nesja og Lóns við jaðar Austurtungnajökuls (punktur 44 á kröfukorti) er fylgt jökulbrún, eins og hún á hverjum tíma, að sýslumörkum Norður-Múlasýslu og Austur-Skaftafellssýslu. Samkvæmt þessu telst vera þjóðlenda á kröfusvæði 5 það svæði sem afmarkast með eftirfarandi hætti: Frá hreppamörkum Nesja og Lóns við jaðar Austurtungnajökuls (punktur 44 á kröfukorti) er dregin lína í hnjúk (1526 m háan) og áfram í annan hnjúk (1505 m háan) og loks í þann þriðja, nafnlausan hnjúk sunnan Grendils (punktur 45 á kröfukorti) og áfram í Grendil, þaðan bein lína yfir hnjúk (1438 m háan) í átt að Geldingafelli (punktur 46 á kröfukorti) að jökulbrún, eins og hún er á hverjum tíma, en þaðan er jökulbrún fylgt, eins og hún er á hverjum tíma, að hreppamörkum Nesja og Lóns við jaðar Austurtungnajökuls (punktur 44 á kröfukorti). Þessi niðurstaða í gagnsök leiðir til þess að sýkna ber gagnstefnendur af kröfu aðalstefnanda í aðalsök.

         Gagnstefnendur hafa gjafsókn við rekstur málsins fyrir héraðsdómi samkvæmt gjafsóknarleyfi 20. september 2004. Í ljósi gjafsóknar gagnstefnenda þykir ekki ástæða til að dæma aðalstefnanda til greiðslu málskostnaðar sem rynni í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður gagnstefnenda, þar með talin þóknun lögmanna þeirra, Ólafs Björnssonar hrl. og Ragnars Aðalsteinssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 900.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.

         Af hálfu aðalstefnanda flutti málið Ólafur Sigurgeirsson hrl.

         Af hálfu gagnstefnenda fluttu málið Ólafur Björnsson hrl. og Ragnar Aðalsteinsson hrl.

         Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Eggert Óskarsson, sem dómsformaður, Hervör Þorvaldsdóttir og Skúli Magnússon.

D Ó M S O R Ð

         Gagnstefnendur, Nanna Sigurðardóttir og Olga Friðjónsdóttir, eru sýkn af kröfum aðalstefnanda í aðalsök.

         Úrskurður óbyggðanefndar 14. nóvember 2003 nr. 5/2001 er felldur úr gildi að að því er varðar mörk þjóðlendu og eignarlands Stafafells í Lóni (ásamt Brekku).

         Viðurkennt er að mörk þjóðlendu og eignarlands Stafafells (ásamt Brekku) á kröfusvæði óbyggðanefndar nr. 5 í Austur-Skaftafellssýslu séu eftirfarandi: Frá hreppamörkum Nesja og Lóns við jaðar Austurtungnajökuls (punktur 44 á kröfukorti) er fylgt jökulbrún, eins og hún á hverjum tíma, að sýslumörkum Norður-Múlasýslu og Austur-Skaftafellssýslu.

         Gjafsóknarkostnaður gagnstefnenda, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar hrl. og Ragnars Aðalsteinssonar hrl., að fjárhæð 900.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.