Print

Mál nr. 749/2012

Lykilorð
  • Stjórnarskrá
  • Skattur
  • Atvinnufrelsi
  • Framsal valds
  • Stjórnsýsla
  • Andmælaréttur
  • Tollur
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta

                                     

Fimmtudaginn 30. maí 2013.

Nr. 749/2012.

Íslenska ríkið

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

gegn

Bílaleigunni Bergi ehf.

(Daníel Isebarn Ágústsson hrl.)

Stjórnarskrá. Skattur. Atvinnufrelsi. Framsal valds. Stjórnsýsla. Andmælaréttur. Tollar. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.

B ehf. krafðist þess annars vegar að ógilt yrði með dómi ákvörðun tollstjóra um að afturkalla eftirgjöf af vörugjaldi vegna bílaleigubifreiðar í eigu B ehf. og hins vegar að Í yrði gert að greiða sér þá fjárhæð sem félagið hafði greitt vegna ákvörðunar tollstjóra. Deildu aðilar um hvort lagastoð hefði verið fyrir þeim skilyrðum sem B ehf. hefðu verið sett við eftirgjöf vörugjaldsins og einnig um heimild til afturköllunar á þeirri eftirgjöf. Meðal þeirra skilyrða sem B ehf. gekkst undir við eftirgjöf vörugjaldsins var að félaginu væri óheimilt að gera leigusamning við sama leigutaka, einstakling eða lögaðila, eða aðila tengdan honum, lengur en 45 daga af sérhverju 100 daga tímabili nema að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Hæstiréttur taldi að ekki yrði leyst úr fjárkröfu B ehf. án þess að afstaða yrði tekin til gildis stjórnsýsluákvörðunar tollstjóra. B ehf. hefði ekki sýnt fram á að félagið hefði hagsmuni að lögum af því að viðurkennt yrði sérstaklega með dómi ógildi þeirrar ákvörðunar og var því fyrri hluta kröfu hans sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi. Að því er varðaði fjárkröfu B ehf. var hvorki fallist á með félaginu að nánari útfærsla skilyrða í reglugerð í samræmi við fyrirmæli þágildandi 5. töluliðar 2. mgr. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 39/1993 varðandi notkun og leigutíma bílaleigubifreiða hefði falið í sér framsal skattlagningarvalds andstætt ákvæðum 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar né að um hefði verið að ræða brot gegn 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi. Þá taldi Hæstiréttur að B ehf. hefði mátt vera ljóst að þegar tollstjóri kallaði eftirleigusamningum vegna bifreiðarinnar í kjölfar beiðni félagsins um afléttingu kvaða af fjölmörgum bifreiðum vegna eigendaskipta, að tollstjóri væri að athuga hvort skilyrðum fyrir lækkun vörugjaldsins hefði í reynd verið fullnægt. Ágreiningslaust væri með aðilum að samkvæmt þeim leigusamningum sem B ehf. sendi tollstjóra vegna bifreiðarinnar hefði verið gerður samningur við BB ehf. í 63 daga á 100 daga tímabili. Yrði ekki ráðið að ágreiningur væri uppi milli aðila sem hefði getað haft áhrif á niðurstöðu ákvörðunarinnar og breytti framburður starfsmanna B ehf. engu þar um. Var ekki fallist á að málsmeðferð tollstjóra skyldi leiða til þess að B ehf. bæri réttur til endurgreiðslu þess gjalds sem innt hefði verið af hendi og var Í sýknað af fjárkröfu B ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. desember 2012. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara lækkunar á kröfum stefnda og að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., sbr. 36. gr. laga nr. 147/2008, skal greiða í ríkissjóð vörugjald af ökutækjum sem skráningarskyld eru samkvæmt umferðarlögum nr. 50/1987 eftir því sem segir í lögunum. Samkvæmt 2. gr. nær gjaldskyldan til allra vara, sbr. 1. gr., nýrra sem notaðra, sem fluttar eru til landsins eða eru framleiddar, unnið er að eða settar eru saman hér á landi. Í 1. mgr. 3. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 156/2010, er að finna meginreglur um gjaldflokka á fólksbifreiðum og öðrum vélknúnum ökutækjum miðað við sprengirými aflvélar. Í 2. mgr. 3. gr., 4. gr. og 5. gr. laganna með síðari breytingum eru ýmsar undantekningareglur um niðurfellingu vörugjalds eða eftirgjöf þess miðað við orkugjafa bifreiðar eða í hvaða starfsemi hún er notuð. Þar á meðal er í 5. gr. að finna reglur um eftirgjöf á vörugjaldi vegna bifreiða sem ætlaðar eru til útleigu hjá bílaleigum.

II

Stefndi er bílaleiga og lýsir starfsemi sinni þannig að hann stundi útleigu á bifreiðum, aðallega til ferðamanna en einnig til einstaklinga, hópa og fyrirtækja. Í starfsemi sinni nýti hann sér því ákvæði laga sem veiti bílaleigum ívilnun sem felist í lækkun vörugjalds af bifreiðum sem ætlaðar séu til útleigu. Vegna innflutnings á bifreiðinni HLN81, af gerðinni Porsche Cayanne, árgerð 2009, var 1. október 2009 sótt um „eftirgjöf frá greiðslu vörugjalds vegna ökutækis samkvæmt V. kafla reglugerðar nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum og lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.“ Á staðlað eyðublað umsóknarinnar var fyllt út í viðkomandi reiti að innflytjandi bifreiðarinnar væri Bílabúð Benna, en stefndi umsækjandi eftirgjafar við tollafgreiðslu, báðir með lögheimili að Vagnhöfða 23, Reykjavík. Þá var ritað til viðbótar: „Rekstrarleiga: Bílabúð Benna ehf.“ og í reitinn „undirskrift umsækjanda“ var ritað undir fyrir hönd bílabúðarinnar.

Hinn 2. október 2009 var gefin út „yfirlýsing v/eftirgjafar vörugjalds af bílaleigubifreið“ þar sem sagði meðal annars: „Ég undirritaður, Bílaleigan Berg ehf. ... hef fengið eftirgefið vörugjald að upphæð kr. 2.640.235.- af ökutækinu HLN-81 samkvæmt ákvæðum laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. með síðari breytingum og reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum, viðurkenni hér með að eftirgjöfin er bundin því skilyrði að ökutækið hafi áður verið skráð á nafn bílaleigunnar sem eiganda eða umráðamanns, hafi bílaleigan gert eignarleigusamning við eignarleigufyrirtæki. Einnig lýsi ég því yfir að bifreiðin verður skráð sem bílaleigubifreið í ökutækjaskrá og að hún verði nýtt sem slík og tryggð sem bílaleigubifreið. Mér er ljóst að óheimilt er að umskrá ökutækið nema með leyfi tollstjóra. Mér er ljóst að lækkun vörugjalds er háð því skilyrði að bílaleigan hafi leyfi samgönguráðuneytisins til reksturs bílaleigu og að starfsemi bílaleigunnar verði hagað í samræmi við þær reglur sem um bílaleigur gilda. Mér eru einnig eftirtalin skilyrði lækkunar ljós: Bifreið skal að öllum jafnaði leigð út til þriggja vikna eða skemur vegna tímabundinna þarfa leigutaka, svo sem vegna ferðalaga eða tímabundins afnotamissis eigin bifreiðar. Bílaleigu er óheimilt að gera leigusamning við sama leigutaka, einstakling eða lögaðila, eða aðila tengdan honum, lengur en 45 daga af sérhverju 100 daga tímabili, hvort heldur sem um sömu bifreið er að ræða eða aðra bifreið, nema í eftirtöldum tilvikum: a) þegar leigutaki er vátryggingafélag, sem hefur starfsleyfi hér á landi og bifreið er tekin á leigu vegna tímabundins afnotamissis vátryggingataka af eigin bifreið. b) þegar leigutaki er lögaðili og bifreið er tekin á leigu vegna ferðalaga starfsmanna hans. Bifreið skal eingöngu nýtt til útleigu hjá viðkomandi bílaleigu. Við mat á því skal miðað við að unnt sé að gera grein fyrir a.m.k. 90% af akstri hennar með framlagningu leigusamninga eða með öðrum hætti sem tollstjóri metur fullnægjandi. Bílaleiga skal haga bókhaldi sínu með þeim hætti að hún geti á hverjum tíma gert grein fyrir akstri bifreiðar. Tollstjóri getur án fyrirvara óskað eftir gögnum þar um. Verði brotið gegn skilyrðum laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum, og reglugerð nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum, sbr. framangreind skilyrði, skuldbind ég mig til að greiða mismun á fjárhæð vörugjalds sem greitt var og þeirri fjárhæð sem borið hefði að greiða ef ekki hefði komið til lækkunar eða niðurfellingar, ásamt 50% álagi, auk dráttarvaxta frá niðurfellingardegi til greiðsludags ... Selji ég ökutækið eða taki það til annarrar notkunar en lá til grundvallar lækkun eða niðurfellingu, innan tilgreindra tímamarka, greiði ég hluta eftirgefins vörugjalds í réttu hlutfalli við þann tíma sem eftir er, miðað við heildartíma kvaðar. Greiðsla eftirgefins vörugjalds vegna sölu eða annarrar notkunar en þeirrar sem lá til grundvallar lækkun eða niðurfellingu, ákvarðast sem svarar til fjölda mánaða sem eftir eru miðað við heildartíma kvaðar. Greiðsla skal miðast við heila mánuði þannig að 15 dagar eða fleiri teljist heill mánuður, en færri dögum skal sleppt ... f.h. Bílaleigan Berg ehf., eu Bílabúð Benna ehf.“

Hinn 28. september 2011 sendi Haraldur Haraldsson, sem bæði var aðalbókari hjá Bílabúð Benna ehf. og stefnda, Arnaldi Rögnvaldssyni tollsérfræðingi hjá tollstjóra svofellt tölvubréf: „Sæll Arnaldur, meðf. listi er yfir bíla hjá okkur sem breytingalás er á. Tími breytingaláss er útrunninn, er ekki hægt að losa lásinn af þeim öllum í einu svo ekki þurfi endalaust að vera senda ykkur beiðni í hvert skipti sem bíll er seldur.“ Framangreind bifreið HLN81 var á lista þessum, sem tók til nokkurra tuga bifreiða í eigu stefnda, en hugtakið breytingalás mun vera notað um það atriði sem tilgreint er í framangreindri umsókn stefnda 1. október 2009 og yfirlýsingu degi síðar að án leyfis tollstjóra sé óheimilt að umskrá ökutæki sem tilgreint hefur verið í ökutækjaskrá sem ökutæki er ekki sætir fullu vörugjaldi, sbr. 4. mgr. 21. gr. reglugerðar nr. 331/2000, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 792/2000. Bréfi Haraldar svaraði Arnaldur sama dag með þeim hætti að verið væri „að vinna í þessu.“ Hinn 10. október 2011 sendi Haraldur á ný bréf til Arnalds þar sem sagði: „Sæll, gengur ekki að losa allan listann? Núna vantar mig að losa UTH90, MEF50, DSH80“. Daginn eftir sendi Arnaldur svarbréf þar sem sagði: „Getið þið sent okkur leigusamninga yfir bílana HLN81 og HVE98. Ég er að losa allan listann nema þessa tvo bíla (stikkprufa).“ Stefndi varð við þessari beiðni, en óumdeilt er að hann mun hafa selt bifreiðina HLN81 27. október 2011 til Bílabúðar Benna ehf. Á hinn bóginn liggur frammi reikningur sem sýnir að Bílabúð Benna ehf. hafi selt bifreiðina tilgreindum manni sama dag. Hinn 10. nóvember 2011 sendi Haraldur svofellt bréf til Arnalds: „Sæll Arnaldur, er breytingalásinn á HLN81 nokkuð að losna, við erum búnir að selja bifreiðina og vantar umskráningu.“ Í svarbréfi degi síðar sagði: „Sæll, Bílaleigan Berg fær formlegt bréf sem er á leiðinni vegna HLN81.“

Bréf það sem vísað var til var dagsett 11. nóvember 2011 og kvað á um afturköllun tollstjóra á eftirgjöf vörugjalds vegna bifreiðarinnar HLN81 með kröfu um endurgreiðslu á 2.640.235 krónum. Í bréfinu kom fram rökstuðningur fyrir kröfu áfrýjanda sem um ræðir í máli þessu og var meðal annars vísað til þess að samkvæmt leigusamningum sem stefndi sendi tollstjóra hafi bifreiðin verið leigð Bílabúð Benna ehf. í 63 daga á tímabilinu frá 6. október 2009 til 13. janúar 2010 og væri það í andstöðu við skilyrði 5. gr. laga nr. 29/1993 og 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000. Var stefnda veittur frestur til 26. nóvember 2011 til að greiða umkrafða fjárhæð sem hann gerði 21. nóvember það ár „með fyrirvara um betri rétt greiðanda og lögmæti umræddrar gjaldheimtu sem og um lögmæti þeirrar stjórnvaldsákvörðunar sem greiðslan grundvallast á.“ Höfðaði stefndi síðan málið 13. janúar 2012 með kröfu um endurgreiðslu fjárhæðarinnar.

III

Ágreiningur er með aðilum um hvort lagastoð hafi verið fyrir þeim skilyrðum sem stefnda voru sett við eftirgjöf vörugjalds 2. október 2009 vegna bifreiðarinnar HLN81 og einnig um heimild til afturköllunar á þeirri eftirgjöf 11. nóvember 2011. Fyrir Hæstarétti hefur stefndi fallið frá þeirri málsástæðu að lagastoð fyrir reglugerð nr. 331/2000 hafi fallið niður með 3. gr. laga nr. 156/2000 sem mælti fyrir um breytingar á 5. gr. laga nr. 29/1993, þannig að 1. mgr. og 1.–3. töluliður 2. mgr. féllu brott, og breyttist röð annarra liða samkvæmt því. Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi eru röksemdir fyrir kröfum stefnda reistar á því að ákvörðun tollstjóra 11. nóvember 2011 hafi verið í andstöðu við 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem fram komi að skattamálum skuli skipað með lögum og verði stjórnvöldum ekki falin ákvörðun um slík málefni. Þá sé sú aðferð sem viðhöfð var í andstöðu við ákvæði 75. gr. stjórnarskrárinnar um að atvinnufrelsi skuli setja skorður með settum lögum. Þeir skilmálar sem tollstjóri setti fyrir eftirgjöf vörugjalds hafi verið reistir á reglugerð nr. 331/2000 sem mæli fyrir um frekari skilyrði en lög heimili. Í 2. tölulið 2. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993, áður 5. tölulið 2. mgr. greinarinnar, komi fram með tæmandi hætti þau skilyrði sem tollstjóri geti reist ákvörðun sína á. Þessi skilyrði séu þau ein að bifreið sé skráð á leyfisskylda bílaleigu sem noti bifreiðina til útleigu. Þá kveður stefndi tollstjóra ekki hafa virt andmælarétt sinn áður en hann tók hina íþyngjandi ákvörðun um afturköllun eftirgjafar á vörugjaldinu.

Í máli þessu hefur stefndi uppi þá kröfu að felld verði úr gildi með dómi ákvörðun tollstjóra 11. nóvember 2011 um afturköllun á eftirgjöf vörugjalds, en eins og að framan greinir gerir hann jafnframt á þeim grunni fjárkröfu á hendur áfrýjanda. Ekki verður leyst úr fjárkröfu stefnda án þess að taka afstöðu til gildis þeirrar stjórnsýsluákvörðunar sem um ræðir. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi hagsmuni að lögum af því að viðurkennt verði sérstaklega með dómi ógildi þeirrar ákvörðunar og verður fyrri hluta kröfu hans því sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi.

IV

Eins og áður segir er það meginregla samkvæmt 1. gr. og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 29/1993 að vörugjald skuli lagt á fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki. Í 2. mgr. 3. gr., 4. gr. og 5. gr. laganna eru undanþágur frá hinni almennu gjaldskyldu. Ákvæði um ívilnun á vörugjöldum vegna bifreiða sem notaðar eru til útleigu á vegum bílaleigufyrirtækja komu í lög með lögum nr. 8/2000 um breyting á lögum nr. 29/1993 og voru samkvæmt almennum athugasemdum með frumvarpi til laganna sögð vera í samræmi við stefnu um að lækka vörugjald af ökutækjum sem notuð væru í atvinnurekstri. Hátt verð á bifreiðum til þeirrar starfsemi hafi hamlað nokkuð uppbyggingu slíkrar þjónustu. Með þessum breytingum væri stefnt að því að koma til móts við ferðaþjónustu á þessu sviði og gera hana betur samkeppnishæfa í samanburði við slíka þjónustu í öðrum löndum. Samhliða þessu voru sett lög nr. 64/2000 um bílaleigur sem ætlað var að ná yfir starfsemi og starfskilyrði bílaleiga.

Frá því í október 2009, er stefndi sótti um og fékk eftirgefið vörugjald af bifreiðinni HLN81, hafa lög nr. 29/1993 tekið nokkrum breytingum hvað varðar gjaldhæð og skyldu til greiðslu vörugjalds. Á þeim tíma voru ákvæði um heimildir til lækkunar á vörugjaldi af bifreiðum ætluðum til útleigu hjá bílaleigum í 5. tölulið 2. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993, sjá nú 2. tölulið málsgreinarinnar. Samkvæmt 5. tölulið 2. mgr. 5. gr. skyldi vörugjald af bifreiðum sem ætlaðar væru til útleigu hjá bílaleigum vera ýmist 10% eða 13%, sbr. 1. málslið 5. töluliðar 2. mgr. 5. gr., en í síðari málsliðum töluliðsins sagði einnig, sbr. nú 2. tölulið 2. mgr. 5. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr 156/2010 og 173. gr. laga nr. 126/2011: „Bifreið sem ber lægra vörugjald samkvæmt þessum tölulið skal skráð á bílaleigu sem hefur leyfi þess ráðuneytis sem fer með málefni bílaleiga [áður samgönguráðuneytisins] til að leigja bifreiðar eða á fjármögnunarleigu vegna fjármögnunarleigusamnings við bílaleigu. Einungis er heimilt að nýta bifreið samkvæmt þessum tölulið til útleigu hjá þeirri bílaleigu sem skráð er fyrir bifreiðinni. Bílaleiga skal haga bókhaldi sínu þannig að hún geti á hverjum tíma gert grein fyrir akstri þeirra bifreiða sem bera lægra vörugjald samkvæmt þessum tölulið. Tollstjóri getur án fyrirvara óskað eftir gögnum þar um. Sé bifreið notuð til annars er tollstjóra heimilt að innheimta fullt vörugjald skv. 3. gr. laganna, með 50% álagi. Við mat á því hvort bifreið hafi einungis verið notuð til útleigu skal miðað við að unnt sé að gera grein fyrir a.m.k. 90% af akstri hennar með framlagningu leigusamninga eða öðrum hætti sem tollstjóri metur fullnægjandi. Ráðherra getur í reglugerð sett nánari reglur um þær bifreiðar sem njóta undanþágu samkvæmt þessum tölulið. Brot á ákvæðum hans varðar því að hin brotlega bílaleiga missir rétt til lækkunar í þrjú ár frá síðasta broti.“ Í 3. mgr. 5. gr. laganna er svofellt ákvæði um reglugerðarheimild ráðherra sem gildir sérstaklega fyrir ökutæki eins og þau sem hér um ræðir: „Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari skilyrði um þau ökutæki sem falla undir 2. mgr., svo sem um notkun ökutækis, búnað þess og hvað teljist vera aðalatvinna skv. 4. tölul. 2. mgr., svo og ákvæði um endurgreiðslu á mismun vörugjalds skv. 3. gr. annars vegar og 2. mgr. hins vegar ef skilyrðum er ekki fylgt.“

Í 3. tölulið 2. mgr. 14 gr. reglugerðar nr. 331/2000, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 922/2002, er kveðið á um að bifreið skuli að jafnaði leigð út til þriggja vikna eða skemur vegna tímabundinna þarfa leigutaka og að bílaleigu sé óheimilt að gera leigusamning við sama leigutaka, einstakling eða lögaðila, eða aðila tengdan honum, lengur en 45 daga af sérhverju 100 daga tímabili.

Í framangreindum lögum nr. 64/2000 er kveðið á um starfsemi bílaleiga og skilyrði starfsleyfis þeirra. Samkvæmt 1. gr. laganna gilda þau um leigu á skráningarskyldum ökutækjum í atvinnuskyni án ökumanns. Lögin taka þó ekki til starfsemi kaupleigu- eða fjármögnunarfyrirtækja eða leigu í eigin þágu eða til tengdra aðila. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna er bílaleiga starfsemi sem rekin er í atvinnuskyni þar sem almenningi eða fyrirtækjum er boðið til leigu skráningarskylt ökutæki, að jafnaði um skemmri tíma, sbr. þó 2. mgr. 6. gr. þar sem segir: „Leigusamningur milli bílaleigu og leigutaka skal að jafnaði takmarkast við þrjár vikur ef ökutæki sem leigt er hefur notið lægri vörugjalda, sbr. 5. tölul. 2. mgr. 5. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, með síðari breytingum. Ef ökutæki hefur ekki notið lægri vörugjalda eða 15 mánuðir eru liðnir frá nýskráningu ökutækis sem notið hefur lægri vörugjalda, sbr. 1. málsl., er bílaleigu heimilt að leigja það til lengri tíma.“

Samkvæmt framansögðu hafa ákvæði 5. gr. laga nr. 29/1993 að geyma undantekningar frá meginreglum laganna um gjaldskyldu og gjaldhæð varðandi ökutæki sem eingöngu eru notuð í tiltekinni starfsemi, í þessu tilviki rekstri bílaleigu, sem felur það í sér að ökutæki er tekið á leigu til skemmri tíma vegna tímabundinna þarfa leigutaka. Í 5. gr. laganna koma fram skilyrði er lúta að því að bifreið skuli vera skráð á bílaleigu sem hafi leyfi til slíks reksturs og bifreiðin skuli einungis nýtt þar til útleigu. Verða ákvæði þessi skýrð með tilliti til framangreindra ákvæða laga nr. 64/2000 er kveða á um hvað teljist vera bílaleiga í skilningi laga. Með 3. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993 er ráðherra heimilað að setja nánari reglur um bifreiðar sem skyldu njóta undanþágu samkvæmt 5. tölulið 2. mgr. 5. gr. sem og um notkun þeirra. Verður talið að þar falli meðal annars undir takmörkun á leigutíma sé hún innan marka laga sem gilda um bílaleigur. Samkvæmt þeim ákvæðum sem rakin hafa verið og um þetta gilda verður ekki fallist á með stefnda að nánari útfærsla skilyrða í reglugerð í samræmi við fyrirmæli 5. töluliðar 2. mgr. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993 varðandi notkun og leigutíma hafi falið í sér framsal skattlagningarvalds andstætt ákvæðum 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar. Þá hafa ekki verið færð fram haldbær rök fyrir því að um sé að ræða slíkar skorður við atvinnufrelsi stefnda að í bága fari við 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar.

V

Eins og áður greinir ritaði stefndi undir yfirlýsingu 2. október 2009 um að bifreiðin HLN81 skyldi að jafnaði leigð út til þriggja vikna eða skemur vegna tímabundinna þarfa leigutaka. Jafnframt komu fram í yfirlýsingunni þau skilyrði 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 922/2002, að bílaleigu væri óheimilt að gera leigusamning við sama leigutaka, einstakling eða lögaðila, eða aðila tengdan honum lengur en 45 daga á sérhverju 100 daga tímabili. Með yfirlýsingunni skuldbatt stefndi sig til að greiða mismun á fjárhæð vörugjalds sem hann greiddi og þeirri fjárhæð sem borið hefði að greiða ef ekki hefði komið til lækkunar, bryti hann gegn skilyrðum laga nr. 29/1993 og reglugerðar nr. 331/2000. Er ágreiningslaust í málinu að umþrætt fjárhæð miðast við þetta.

Stefnda mátti vera ljóst 10. október 2011, þegar tollstjóri kallaði eftir leigusamningum vegna bifreiðarinnar HLN81, í kjölfar beiðni stefnda um afléttingu kvaða af fjölmörgum bifreiðum vegna eigendaskipta 28. september 2011, að tollstjóri væri, vegna sérstakrar „stikkprufu“, að athuga hvort skilyrðum fyrir lækkun vörugjalds samkvæmt framangreindum lögum og reglugerð hefði í reynd verið fullnægt. Áðurnefnd ákvörðun tollstjóra byggði á leigusamningum um bifreiðina sem stefndi lét honum í té vegna þessarar athugunar og í yfirlýsingu stefnda við eftirgjöf vörugjalds lágu fyrir skilyrði eftirgjafar og hverju það sætti að brotið væri gegn þeim. Ágreiningslaust er að samkvæmt leigusamningum sem stefndi lagði fram vegna bifreiðarinnar hafði verið samið við Bílabúð Benna ehf. um leigu bifreiðarinnar í 63 daga á tímabilinu frá 6. október 2009 til 13. janúar 2010. Lá með þeim hætti fyrir að lögbundin skilyrði eftirgjafar vörugjalds höfðu ekki verið virt.

Guðmundur Orri Sigurðsson framkvæmdastjóri stefnda og áðurnefndur Haraldur Haraldsson gáfu skýrslur fyrir héraðsdómi. Hvorugur þeirra kvaðst hafa vitað um rannsókn tollstjóra vegna vörugjalds á umræddri bifreið. Kvaðst Haraldur ekki hafa átt í öðrum samskiptum við tollstjóra vegna bifreiðarinnar en fram kemur í áðurgreindum tölvubréfum. Aðspurður um hvaða andmælum stefndi hefði viljað koma á framfæri áður en umþrætt stjórnsýsluákvörðun var tekin kvaðst Guðmundur vilja nefna að félagið hefði „getað greint ökumenn í tilfellum þessara leigusamninga, sem voru ... fleiri en einn á hverjum leigusamningi fyrir sig.“ Aðspurður um hvaða máli þær upplýsingar hefðu getað skipt þá sagði Guðmundur: „... þetta er leigusamningur sem við gerum við bílaumboð. Bílaumboðið áframleigir eða ... sem sagt gefur ökumönnum leyfi til að nota bílinn í ... þeim tilfellum þegar að bíll er í þjónustu hjá fyrirtækinu og í þeim tilfellum þá hefur þessi bíll farið og verið með þeim ökumönnum.“ Bílaumboðið sem hann ætti við væri Bílabúð Benna ehf. Væri bifreið í ábyrgð hjá umboðinu og í viðgerð hjá því fengi viðskiptavinur einatt aðra bifreið léða meðan á viðgerð stæði. Þá væru dæmi þess að stefndi leigði með einum samningi bifreið til annarrar bílaleigu í ákveðið tímabil sem aftur leigði bifreiðina til margra aðila samkvæmt jafnmörgum samningum. Þannig að sú aðferð sem viðhöfð hefði verið væri í raun „hagræðing.“ Eins og áður segir er ágreiningslaust með aðilum að samkvæmt leigusamningum þeim sem stefndi sendi áfrýjanda vegna bifreiðarinnar HLN81 hafði verið gerður samningur við Bílabúð Benna ehf. í 63 daga á 100 daga tímabili. Verður samkvæmt framansögðu ekki ráðið að ágreiningur sé uppi milli aðila sem hefði getað haft einhver áhrif á niðurstöðu áfrýjanda um ákvörðun gjaldheimtunnar og breytir framburður starfsmanna stefnda engu þar um. Samkvæmt því er ekki fallist á með stefnda að framangreind málsmeðferð tollstjóra skuli leiða til þess að stefnda beri réttur til endurgreiðslu þess gjalds sem hann innti af hendi.

Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda, en rétt þykir að hvor aðili beri sinn hluta málskostnaðar á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Viðurkenningarkröfu stefnda, Bílaleigunnar Bergs ehf., í fyrri hluta aðalkröfu er vísað frá héraðsdómi.

Áfrýjandi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfu stefnda.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2012.

Mál þetta, sem var dómtekið 10. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Bílaleigunni Bergi ehf., Tangarhöfða 8, Reykjavík á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík, með stefnu birtri 13. janúar 2012.

Stefnandi krefst þess að ógilt verði með dómi ákvörðun tollstjóra frá 11. nóvember 2011, þess efnis að afturkalla eftirgjöf á vörugjaldi vegna bílaleigubifreiðar HLN81.

Stefnandi gerir einnig þá kröfu að stefnda verði gert að greiða stefnanda 2.640.235 kr. „með almennum vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. nóvember 2011 til greiðsludags og dráttarvöxtum, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 13. janúar 2012 til greiðsludags“. Einnig krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Til vara er krafist lækkunar stefnukrafna og að málskostnaður verði látinn niður falla.

Málavextir

Stefnandi er bílaleiga sem stundar útleigu á bifreiðum, aðallega til ferðamanna en einnig til einstaklinga, hópa og fyrirtækja. Í starfsemi sinni nýtir stefnandi sér því ákvæði tollalaga sem veita bílaleigum ívilnun sem felst í lækkun vörugjalda af bifreiðum sem ætlaðar eru til útleigu. Þegar slík undanþága er veitt er settur svokallaður breytingalás á viðkomandi bifreið.

Hinn 28. september 2011 sendi stefnandi tollstjóra lista yfir ákveðnar bifreiðar sem til stóð að eigendaskipti yrðu á og óskaði eftir því að breytingalási þeirra yrði aflétt. Bifreiðin HLN81 var ein þeirra bifreiða. Hinn 10. október 2011 ítrekaði stefnandi beiðnina. Daginn eftir óskaði tollstjóri eftir bílaleigusamningum tveggja bifreiða, HLN81 og HVE98. Kvað tollstjóri að um stikkprufu væri að ræða. Stefnandi varð við þeirri beiðni.

Hinn 27. október sl. var bifreiðin HLN81 seld, en á þeim tíma hafði breytingalási hennar ekki enn verið aflétt. Hinn 10. nóvember 2011 óskaði stefnandi eftir svörum um hvort afléttingar á breytingalási umræddrar bifreiðar væri að vænta. Daginn eftir, eða hinn 11. nóvember, barst stefnanda ákvörðun tollstjóra um að afturkalla eftirgjöf vörugjalds vegna bílaleigubifreiðarinnar HLN81. Þá krafðist tollstjóri endurgreiðslu af eftirgefnu vörugjaldi af þeirri bifreið, að fjárhæð 2.640.235 kr. Stefnandi greiddi umrætt gjald hinn 21. nóvember 2011 með fyrirvara um betri rétt stefnanda.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi telur að ákvörðun tollstjóra frá 11. nóvember 2011, þess efnis að afturkalla eftirgjöf vörugjalds vegna bílaleigubifreiðarinnar HLN81, hafi ekki viðhlítandi lagastoð og sé því ógild. Að auki telur stefnandi að umrædd ákvörðun tollstjóra hafi verið annmörkum háð og sé því ógildanleg.

Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að lagastoð stjórnvaldsákvörðunarinnar skorti. Þau skilyrði sem ákvörðun tollstjórans frá 11. nóvember 2011 byggist á og sett séu fyrir lækkun vörugjalda í reglugerð 311/2000 séu ólögmæt. Sú afstaða byggist á því að engin heimild sé í lögum fyrir umrætt skilyrði um hámarksleigutíma og að önnur skilyrði reglugerðarinnar gangi auk þess lengra en heimild sé til í lögum.

Í 2. tl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjöld af ökutækjum, eldsneyti o.fl. sé kveðið á um að vörugjald af bílaleigubifreiðum sé lækkað að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Lögbundin skilyrði fyrir slíkri lækkun séu tæmandi talin í ákvæðinu. Þau séu tvö: Í fyrsta lagi að bifreiðin sé skráð á leyfisskyldri bílaleigu og í öðru lagi að hún sé notuð til bílaleigu af umræddri bílaleigu. Önnur skilyrði komi þar ekki fram.

Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993 sé svo að finna heimild ráðherra til að setja nánari reglur um þær bifreiðar sem njóti undanþágu skv. ákvæðinu. Enga heimild sé þar að finna til að skilyrða notkun umræddra bifreiða eða tiltaka ákveðinn hámarksleigutíma þeirra. Í 28. gr. umræddra laga sé svo að finna almenna reglugerðarheimild. Á grundvelli þessara heimilda hafi verið sett reglugerð nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum, sem tollstjóri byggi umrædda afturköllun á. Í 14. gr. ofangreindrar reglugerðar sé kveðið á um nánari skilyrði þess að vörugjald sé lækkað á bílaleigubifreiðum en mörg þeirra skilyrða sem þar séu sett fram eigi sér ekki stoð í lögum nr. 29/1993. Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. umræddrar reglugerðar komi til dæmis fram að lækkun komi ekki til greina ef gerður er leigusamningur við sama leigutaka, eða aðila tengdum honum, lengur en í 45 daga af sérhverju 100 daga tímabili, hvort sem um sömu bifreið er að ræða eða aðra. Hér séu skilyrði lækkunar vörugjalds þrengd verulega án þess heimild sé til þess í lögum.

Þessi takmörkun sé alls ósamrýmanleg því sem komi fram í ofangreindu lagaákvæði þar sem skilyrðin séu mun almennari og vægari. Slíkt sé ótækt enda takmarka ákvæði stjórnarskrár að verulegu leyti þess konar framsal löggjafarvaldsins til framkvæmdarvaldsins Þá gangi umrædd skilyrði þvert á markmið heimildarákvæðisins um bætta samkeppnisstöðu bílaleigufyrirtækja.

Stjórnskipan ríkisins byggist á lögmætisreglunni sem feli það meðal annars í sér að stjórnvaldsfyrirmæli verði að eiga viðhlítandi stoð í lögum og megi ekki fara í bága við lögin. Engin slík stoð sé hins vegar fyrir þeirri reglu að bílaleigu sé óheimilt að gera leigusamning við sama leigutaka, lengur en í 45 daga af sérhverju 100 daga tímabili. Til að stjórnvaldsfyrirmæli öðlist réttarheimildarlegt gildi í íslenskum rétti þá verði þau að eiga sér viðhlítandi stoð í settum rétti, almennum lögum og stjórnarskrá. Í ljósi þess að umrætt ákvæði reglugerðar nr. 311/2000 eigi sér enga slíka stoð hafi ákvæðið ekkert réttarheimildalegt gildi. Af þeim sökum sé ákvörðun tollstjóra frá 11. nóvember 2011, sem byggð sé á ákvæðinu, ógild og sé krafist dóms þar að lútandi.

Í öðru lagi vísar stefnandi til 1. mgr. 75. mgr. stjórnarskrárinnar. Stefnandi tekur fram að umrætt reglugerðarákvæði, sem feli það í sér að bílaleigur geti ekki leigt út bifreiðar sínar til sama aðila lengur en í 45 daga á hverju 100 daga tímabili, sé takmörkun á atvinnufrelsi stefnanda sem varið sé með 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar. Atvinnufrelsi verði hins vegar ekki skert nema með lagaboði. Stæði til að takmarka atvinnufrelsi stefnanda með því að setja hámark við því hversu lengi honum sé heimilt að leigja bifreiðar sé ljóst að slík takmörkun hefði þurft að koma fram í settum lögum. Svo sé hins vegar ekki í þessu tilfelli. Þar með sé ljóst, að umrætt reglugerðarákvæði sé andstætt 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar. Á reglugerðarákvæðinu verði ekki byggt við töku íþyngjandi stjórnvaldsákvörðunar og sé umrædd ákvörðun tollstjóra því ógild af þeim sökum.

Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að ákveðnar kröfur þurfi að gera til gjaldtökuheimilda. Í 1. ml. 40. gr. stjórnarskrárinnar segi að engan skatt megi á leggja, breyta né af taka nema með lögum. Í 1. mgr. 77. gr. sé ákvæði sem lúti að sama efni. Þar segi: „Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.“ Með lögfestingu 15. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 hafi 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar verið breytt í það horf sem að ofan sé lýst. Í athugasemdum greinargerðar við umrædda 15. gr. komi fram að hugtakið skattur væri ekki bundið við gjöld sem væru bókstaflega nefnd skattar í lögum eins og eigi t.d. við um tekjuskatt, eignarskatt og virðisaukaskatt, heldur næði það einnig til gjalda sem hefðu sömu einkenni, svo sem tolla.

Sú takmörkun á eftirgjöf vörugjalds á bifreiðum, sem ætlaðar séu til útleigu og finna megi í reglugerð nr. 331/2000, gangi lengra en samrýmst geti þeim kröfum sem leiddar verði af ákvæðum 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar. Í umræddri reglugerð sé stjórnvaldið, fjármálaráðherra, að setja skilyrði fyrir lækkun skatta sem ekki sé að finna heimild fyrir í settum lögum. Þar með hafi stjórnvaldið tekið sér vald sem samkvæmt skýlausum ákvæðum stjórnarskrár sé einungis á hendi löggjafans. Slíkt sé ótækt. Umræddar kröfur, sem fram komi í reglugerð 331/2000, séu því ólögmætar og ekki á þeim byggjandi. Af þeirri ástæðu sé umdeild stjórnvaldsákvörðun tollstjóra, sem byggist á hinu ólögmæta ákvæði, ógild og sé krafist dóms þar um.

Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að honum hafi ekki verið veittur andmælaréttur. Stefnanda hafi aldrei verið tilkynnt að mál um fyrirhugaða afturköllun eftirgjafar umrædds vörugjalds væri til meðferðar hjá tollstjóra þrátt fyrir afdráttarlausa tilkynningarskyldu stjórnvalds þess efnis skv. 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá hafi stefnandi ekki mátt búast við að slík ákvörðun væri í vændum enda ljóst að gagnaöflun tollstjóra hafi farið fram undir þeim formerkjum að um stikkprufu væri að ræða, og ekki útskýrt fyrir stefnanda hvað í slíkri stikkprufu fælist.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skuli aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald taki ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Meginreglan um andmælarétt og tilgangur hennar sé afar skýr í íslenskum rétti.

Réttur stefnanda til andmæla hafi verið fortakslaus miðað við atvik málsins. Stefnandi hafi hins vegar hvorki fengið tækifæri til að tjá sig um fyrirhugaða ákvörðun né að tjá sig um þau gögn sem fram hafi verið komin, eða skýra þau nánar. Sá annmarki á málsmeðferð tollstjóra við töku umræddrar ákvörðunar teljist vera verulegur. Megi því ætla að umrædd íþyngjandi ákvörðun tollstjóra sé ógildanleg og sé í máli þessu krafist dóms þar um.

Krafa um málskostnað byggist á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað byggist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Krafa um vexti og dráttarvexti byggist á ákvæðum laga nr. 29/1995, sér í lagi 2. gr. laganna, sem og 125. gr. laga nr. 88/2005, bæði með vísan til laga nr. 38/2001, sér í lagi til 1. mgr. 6. gr. laganna og 1. mgr. 8. gr. Upphafsdagur vaxta sé greiðsludagur oftekinna gjalda en upphafsdagur dráttarvaxta stefnubirtingardagur. Um varnarþing vísast til 3. mgr. 33. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi vísar sjónarmiðum stefnanda og kröfum á þeim reistum eindregið á bug. Í 3. tl. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 922/2002 um vörugjald af ökutækjum sé kveðið á um að bifreið skuli að jafnaði leigð út til þriggja vikna eða skemur vegna tímabundinna þarfa leigutaka og að bílaleigu sé óheimilt að gera leigusamning við sama leigutaka, einstakling eða lögaðila, eða aðila tengdan honum, lengur en í 45 daga af sérhverju 100 daga tímabili. Sú regla eigi fulla stoð í ákvæðum laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum og reglugerðarheimildum ráðherra samkvæmt þeim.

Í 3. gr. laga nr. 29/1993 sé kveðið á um að vörugjald skuli lagt á fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki. Í 2. mgr. 3. gr., 4. gr. og 5. gr. sé svo að finna undanþágur frá hinni almennu gjaldskyldu.

Ákvæði um ívilnun vörugjalda vegna bifreiða sem notaðar séu til útleigu á vegum bílaleigufyrirtækja hafi upphaflega komist á með lögum nr. 8/2000 um breytingu á lögum nr. 29/1993 samhliða setningu laga um bílaleigur nr. 64/2000 og tengdist ívilnunin í vörugjaldslögunum setningu síðargreindu laganna.

Þegar stefnandi hafi sótt um og fengið eftirgefið vörugjald af bifreiðinni hafi ákvæði verið um heimildir til lækkunar á vörugjaldi af bifreiðum sem ætlaðar séu til útleigu hjá bílaleigum í 5. tl. 2. mgr. 5. gr., sbr. d. lið 3. gr. laga nr. 8/2000 (sjá nú 2. tl. 2. mgr. 5. gr. laganna sbr. lög nr. 156/2010.) Samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 5. gr. skyldi vörugjald af bifreiðum sem ætlaðar væru til útleigu hjá bílaleigum vera ýmist 10 eða 13%, sbr. 1. málslið 5. tl. 5. gr. Í framhaldi af því sé í 5. tl. kveðið á um skilyrði lækkunar vörugjalds og séu ákvæði um það svohljóðandi:

„Bifreið sem ber lægra vörugjald samkvæmt þessum tölulið skal skráð á bílaleigu sem hefur leyfi samgönguráðuneytisins til að leigja bifreiðar eða fjármögnunarleigu vegna fjármögnunarleigusamnings við bílaleigu. Einungis er heimilt að nýta bifreið samkvæmt þessum tölulið til útleigu hjá þeirri bílaleigu sem skráð er fyrir bifreiðinni. Bílaleiga skal haga bókhaldi sínu þannig að hún geti á hverjum tíma gert grein fyrir akstri þeirra bifreiða sem bera lægra vörugjald samkvæmt þessum tölulið. Tollstjóri getur án fyrirvara óskað eftir gögnum þar um. Sé bifreið notuð til annars er tollstjóra heimilt að innheimta fullt vörugjald skv. 3. gr. laganna, með 50% álagi. Við mat á því hvort bifreið hafi einungis verið notuð til útleigu skal miðað við að unnt sé að gera grein fyrir a.m.k. 90% af akstri hennar með framlagningu leigusamninga eða öðrum hætti sem tollstjóri metur fullnægjandi. Ráðherra getur í reglugerð sett nánari reglur um þær bifreiðar sem njóta undanþágu samkvæmt þessum lið. Brot á ákvæðum hans varðar því að hin brotlega bílaleiga missir rétt til lækkunar í þrjú ár frá síðasta broti.“

Þá sé í 3. mgr. 5. gr. ákvæði um reglugerðarheimild ráðherra sem gildi sérstaklega fyrir þau ökutæki sem falli undir 2. mgr. 5. gr. sem hljóði svo:

„Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari skilyrði um þau ökutæki sem falla undir 2. mgr., svo sem um notkun ökutækis, búnað þess og hvað teljist vera aðalatvinna skv. 4. tl.. 2. mgr., svo og ákvæði um endurgreiðslu á mismun vörugjalds skv. 3. gr. annars vegar og 2. mgr. hins vegar ef skilyrðunum er ekki fylgt.“

Ákvæði 5. gr. laganna feli í sér undantekningu frá meginreglum 3. gr. laganna um gjaldskyldu og gjaldhæð sem taki til ökutækja sem eingöngu séu notuð við tiltekna starfsemi, í þessu tilviki rekstur bílaleigu, sem feli það í sér að ökutæki sé tekið á leigu til skemmri tíma vegna tímabundinna þarfa leigutaka. Samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 5. gr. geti ráðherra þannig sett nánari reglur um bifreiðar sem njóti undanþágu samkvæmt 5. tl., svo sem um notkun þeirra eins og skýrlega sé tekið fram í 3. mgr. 5. gr. og falli þar m.a undir takmörkun á leigutíma. Í 5. tl. komi skýrt fram skilyrði sem lúta að því að bifreið skuli vera skráð á bílaleigu, einungis nýtt þar til útleigu og að bílaleigan skuli hafa leyfi til reksturs bílaleigu.

Í lögum um bílaleigur nr. 64/2000 sé kveðið á um starfsemi bílaleigna og skilyrði starfsleyfis þeirra. Samkvæmt 1. gr. þeirra laga gildi þau um leigu á skráningarskyldum ökutækjum í atvinnuskyni án ökumanns. Lögin taki þó ekki til starfsemi kaupleigu- eða fjármögnunarfyrirtækja eða leigu í eigin þágu eða til tengdra aðila. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 26/2006, sé bílaleiga starfsemi sem rekin sé í atvinnuskyni þar sem almenningi eða fyrirtækjum sé boðið til leigu skráningarskylt ökutæki, að jafnaði um skemmri tíma, sbr. þó 2. mgr. 6.gr.

Ákvæði 2. mgr. 6. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 26/2006 er svohljóðandi:

„Leigusamningur milli bílaleigu og leigutaka skal að jafnaði takmarkast við þrjár vikur ef ökutæki sem leigt er hefur notið lægri vörugjalda sbr. 5. tl. 5. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993 með síðari breytingum. Ef ökutæki hefur ekki notið lægri vörugjalda eða 15 mánuðir eru liðnir frá nýskráningu ökutækis sem notið hefur lægri vörugjalda, sbr. 1. málsl. er bílaleigu heimilt að leigja það til lengri tíma.“

Af framangreindu sé alveg ljóst að sjónarmið stefnanda, um að takmörkun leigutíma hafi ekki lagastoð og brjóti gegn lagaáskilnaðarreglu atvinnufrelsisákvæðis stjórnarskrár, fái ekki staðist hvernig sem á það sé litið. Þá sé vandséð að álagning skatta, hvað þá ívilnun vegna þeirra, geti yfirhöfuð falið í sér skorður við frelsi til að stunda atvinnu sem menn kjósi sér í skilningi 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrár, allra síst í ljósi sérstakra ákvæða í 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrár um skatta.

Ekki fái heldur staðist, sbr. það sem að framan sé rakið, að nánari útfærsla skilyrða í reglugerð í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 5. tl. 5. gr. laga nr. 29/1993 og 3. mgr. 5. gr. varðandi notkun og leigutíma geti falið í sér framsal skattlagningarvalds andstætt ákvæðum 40. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar.

Staðhæfingum stefnanda, um að brotið hafi verið gegn andmælarétti stefnanda og tilkynningarskyldu við málsmeðferðina og að ákvörðun tollstjóra sé ógildanleg af þeim sökum, sé eindregið vísað á bug.

Ekki fái staðist sú fullyrðing stefnanda að hann hafi ekki haft vitneskju um að til innheimtu eftirgefins vörugjalds gæti komið þegar tollstjóri hafi farið fram á að fá afrit af leigusamningum vegna bifreiðarinnar. Stefnanda hafi verið fullkomlega ljós skilyrði fyrir því að vörugjald hafi verið gefið eftir við innflutning bifreiðarinnar og hafi hann gefið út sérstaka yfirlýsingu vegna eftirgjafarinnar. Í yfirlýsingunni komi fram að bifreið skuli að jafnaði leigð út til þriggja vikna eða skemur vegna tímabundinna þarfa leigutaka. Jafnframt komi fram í yfirlýsingunni þau skilyrði 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000, sbr. reglugerð nr. 922/2002, að bílaleigu sé óheimilt að gera leigusamning við sama leigutaka, einstakling eða lögaðila, eða aðila tengdan honum, lengur en í 45 daga á sérhverju 100 daga tímabili. Í yfirlýsingunni komi einnig fram að ef brotið verði gegn skilyrðum laga nr. 1993 og reglugerðarinnar skuldbindi stefnandi sig til að greiða mismun á fjárhæð vörugjalds sem greitt hafi verið og þeirri fjárhæð sem borið hefði að greiða ef ekki hefði komið til lækkunar.

Stefnanda hafi mátt vera ljóst þegar hann hafi farið fram á afléttingu kvaða af bifreiðinni vegna eigendaskipta, og tollstjóri hafi kallað eftir leigusamningum, að tollstjóri væri vegna stikkprufu að athuga hvort skilyrðum fyrir lækkun vörugjalds samkvæmt lögum nr. 29/1993 og reglugerð nr. 331/2000 m.s.br. hefði í reynd verið fullnægt. Stefnanda hafi einnig mátt vera ljóst vegna erindis hans sjálfs að slíkt væri til athugunar. Ákvörðun tollstjóra hafi byggst á leigusamningum sem stefnandi hafi sjálfur lagt fram og í yfirlýsingu stefnanda vegna umsóknar hans um eftirgjöf vörugjalda hafi legið fyrir þau skilyrði er henni hafi verið sett og viðurlög við brotum á þeim. Um hafi verið að ræða gögn sem telja verði óþarft að veita aðila færi á að tjá sig um, þar sem afstaða aðila og rök hafi legið fyrir í gögnum málsins.

Verði ekki á sýknukröfu umbjóðanda míns fallist sé til vara krafist lækkunar stefnukrafnanna. Í því sambandi sé á því byggt, komist dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að ógilda beri ákvörðun tollstjóra vegna ætlaðra brota á andmælarétti, að allt að einu beri að sýkna af endurgreiðslukröfu stefnanda.

Vaxtakröfum stefnanda sé mótmælt. Af hálfu stefnanda sé gerð krafa um bæði vexti skv. 1. mgr. 8. gr. og dráttarvexti skv. 6. gr. frá 13. janúar 2012 til greiðsludags sem ekki fái staðist skv. lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Niðurstaða

Stefnandi byggir mál sitt bæði á því að formlega hafi ekki verið rétt staðið að ákvörðun tollstjóra sem og að efnislega standist hún ekki.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Í 14. gr. sömu laga kemur fram að eigi aðili máls rétt á að tjá sig um efni þess skv. 13. gr. skuli stjórnvald, svo fljótt sem því verður við komið, vekja athygli aðila á því að mál hans sé til meðferðar, nema ljóst sé að hann hafi fengið vitneskju um það fyrir fram.

Fyrir liggur í málinu að stefnandi sótti um eftirgjöf á vörugjaldi af bílaleigubifreið hinn 1. október 2009 í samræmi við 2. tl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 133/2000 um vörugjald af ökutækjum. Hinn 2. október 2009 er undirrituð yfirlýsing fyrir hönd stefnanda, þar sem fram kemur að stefnanda sé óheimilt að gera leigusamning við sama leigutaka, einstakling eða lögaðila eða aðila tengdan honum, lengur en í 45 daga af sérhverju 100 daga tímabili, hvort heldur sem er um sömu bifreið að ræða eða aðra bifreið. Þá kemur fram að verði brotið gegn skilyrðum laga nr. 29/1993 og reglugerð nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum, skuldbindi bílaleigan sig til að greiða mismun á fjárhæð vörugjalds sem greitt var og þeirri fjárhæð sem borið hefði að greiða ef ekki hefði komið til lækkunar eða niðurfellingar, ásamt 50% álagi, auk dráttarvaxta frá niðurfellingardegi til greiðsludags.

Hinn 28. september 2011 óskaði stefnandi eftir því að svokölluðum breytingarlás tiltekinna bifreiða yrði aflétt, þar á meðal á bifreiðinni HLN81 þar sem til stæði að selja bifreiðarnar. Hinn 11. október 2011 óskaði tollstjórinn eftir bílaleigusamningum vegna bifreiðarinnar HLN81 og annarrar bifreiðar og kvað tollstjóri að um „stikkprufu“ væri að ræða. Hinn 10. nóvember 2011 óskaði stefnandi eftir svörum við því hvort aflétting á breytingarlás væri að vænta. Daginn eftir, eða hinn 11. nóvember 2011, afturkallaði tollstjórinn eftirgjöfina á vörugjaldinu vegna bifreiðarinnar HLN81 og krafðist greiðslu að fjárhæð 2.640.264 kr. innan 15 daga. Í málinu er þess krafist að ákvörðunin verði ógilt og að nefnd fjárhæð verði endurgreidd stefnanda.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að ákvörðunin hafi verið tekin án þess að stefnanda hafi verið kynnt að mál hans væri til rannsóknar. Það að tilgreina að „stikkprufa“ væri tekin varðandi leigusamninga tveggja bifreiða nægir hér ekki. Það orðalag gefur ekki til kynna að um rannsókn sé að ræða sem leitt gæti til íþyngjandi ákvörðunar fyrir stefnanda án frekari fyrirvara. Ákvörðun tollstjóra hinn 11. nóvember 2011 var einnig tekin án þess að stefnanda væri gefinn kostur á að andmæla. Ekki er fallist á að afstaða stefnanda hafi legið fyrir í gögnum málsins áður en tollstjórinn tók ákvörðunina, þótt stefnandi hafi ritað undir yfirlýsinguna 2. október 2009. Fyrir fram gat tollstjóri ekki ákveðið að óþarft væri að gefa stefnanda andmælarétt. Málssókn þessi og skýrslutökur fyrir dómi sýna að stefnandi hafði athugasemdir um niðurfellinguna á eftirgjöfinni sem átt hefði að gefa honum kost á að hafa uppi fyrir tollstjóra. Um verulegan annmarka á málsmeðferð tollstjóra er að ræða. Með vísan til þess sem að framan greinir er fallist á kröfu stefnanda um að málsmeðferð tollstjóra hafi verið í andstöðu við 13. gr. og 14. gr. stjórnsýslulaga. Þegar af þessari ástæðu er krafa stefnanda um ógildingu ákvörðunar tollstjóra frá 11. nóvember 2011 tekin til greina. Í ljósi þessarar niðurstöðu ber stefnda einnig að endurgreiða stefnanda 2.640.235 kr. Engin efni standa til lækkunar þeirrar kröfu. Samkvæmt dómkröfu krefst stefnandi vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. nóvember 2011 til greiðsludags og dráttarvaxta, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 13. janúar 2012 til greiðsludags. Vaxtakrafan er í andstöðu við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu m.s.br. og uppfyllir ekki skilyrði 80. gr. laga um meðferð einkamála og er henni vísað frá dómi.

Með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 700.000 kr.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Vaxtakröfu stefnanda, Bílaleigunnar Berg ehf., er vísað frá dómi

Ógilt er ákvörðun tollstjóra frá 11. nóvember 2011, þess efnis að afturkalla eftirgjöf á vörugjaldi vegna bílaleigubifreiðar HLN81.

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Bílaleigunni Bergi 2.640.235 kr. og 700.000 kr. í málskostnað.