Print

Mál nr. 521/2017

Ákæruvaldið (Davíð Þór Björgvinsson settur ríkissaksóknari)
gegn
Albert Klahn Skaftasyni (Guðjón Ólafur Jónsson lögmaður), Guðjóni Skarphéðinssyni (Ragnar Aðalsteinsson lögmaður), Kristjáni Viðari Júlíussyni (Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður), Sævari Marinó Ciesielski (Oddgeir Einarsson lögmaður) og Tryggva Rúnari Leifssyni (Jón Magnússon lögmaður)
Lykilorð
  • Endurupptaka
  • Manndráp
  • Sýkna
Reifun

Með dómi Hæstaréttar 22. febrúar 1980 í máli nr. 214/1978 voru K, S og T sakfelldir fyrir manndráp samkvæmt 215. og 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa orðið nafngreindum manni að bana í janúar 1974. Jafnframt var A sakfelldur fyrir að hafa tálmað rannsókn málsins með háttsemi sinni umrætt sinn samkvæmt 2. mgr. 112. gr. sömu laga. Þá voru G, K og S sakfelldir fyrir að hafa orðið öðrum manni að bana í nóvember 1974 og voru brot þeirra heimfærð undir sömu lagaákvæði og í fyrra tilvikinu. Með úrskurðum 24. febrúar 2017 tók endurupptökunefnd afstöðu til beiðna dómfelldu um endurupptöku málsins og féllst nefndin á að málið yrði tekið upp að þeim hluta sem að framan er lýst. Taldi nefndin skilyrði þágildandi a., c. og d. liða 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 vera uppfyllt. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í úrskurðum nefndarinnar hefði verið gerð grein fyrir þeim nýju gögnum sem fram hefðu komið eftir að dómur Hæstaréttar í máli nr. 214/1978 gekk og eftir úrlausn réttarins 15. júlí 1997 um beiðni S um endurupptöku málsins. Hvorki væru sérstakir annmarkar á málsmeðferð endurupptökunefndar né mati hennar á þýðingu nýrra gagna. Hefði þegar af þeirri ástæðu verið fullnægt skilyrðum þágildandi a. liðar 211. gr. laga nr. 88/2008 og því ekki efni til að taka afstöðu til þess hvort uppfyllt hefðu verið skilyrði annarra stafliða lagagreinarinnar. Af hálfu ákæruvaldsins var þess krafist að dómfelldu yrðu sýknaðir af þeim sakargiftum sem þeir voru sakfelldir fyrir með dómi Hæstaréttar í máli nr. 214/1978 og endurupptaka málsins tók til. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að það leiddi af lögum að dómfelldu yrðu þegar á grundvelli kröfugerðar ákæruvaldsins sýknaðir af þessum sakargiftum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Með bréfi til endurupptökunefndar 31. mars 2015 leitaði dómfelldi Albert Klahn Skaftason eftir því að hæstaréttarmál nr. 214/1978, sem dómur var kveðinn upp í 22. febrúar 1980, yrði endurupptekið. Dómfelldi Guðjón Skarphéðinsson leitaði eftir endurupptöku með bréfi 26. júní 2014. Þá leituðu erfingjar dómfelldu Sævars Marinós Ciesielski, sem lést 12. júlí 2011, og Tryggva Rúnars Leifssonar, er lést 1. maí 2009, eftir endurupptöku með bréfum 12. mars 2015, sbr. lög nr. 134/2014 um heimild til endurupptöku vegna látinna manna í máli Hæstaréttar nr. 214/1978. Loks óskaði settur ríkissaksóknari með bréfi 17. desember 2015 eftir endurupptöku til hagsbóta fyrir dómfellda Kristján Viðar Júlíusson, áður Viðarsson. Með úrskurðum endurupptökunefndar 24. febrúar 2017 var fallist á endurupptöku málsins að hluta. Af því tilefni gaf settur ríkissaksóknari út fyrirköll 9. ágúst 2017, sem birt voru lögmönnum dómfelldu 9., 10. og 14. sama mánaðar. 

Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að dómfelldu Kristján Viðar, Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar verði sýknaðir af 1. lið í I. kafla ákæru 8. desember 1976 fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig er þess krafist að dómfelldi Albert Klahn verði sýknaður af 2. lið I. kafla sömu ákæru um brot gegn 2. mgr. 112. gr. almennra hegningarlaga.

Þá krefst ákæruvaldið þess að dómfelldu Kristján Viðar, Sævar Marinó og Guðjón verði sýknaðir af sakargiftum samkvæmt I. kafla ákæru 16. mars 1977 fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga.

Loks er þess krafist að málsvarnarlaun skipaðra verjenda dómfelldu verði greidd úr ríkissjóði.

Dómfelldu krefjast, hver um sig, sýknu af þeirri háttsemi sem þeim er gefin að sök samkvæmt framansögðu og að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun verjenda þeirra, verði greiddur úr ríkissjóði.

I

            Mál þetta var höfðað með fyrrgreindum ákærum 8. desember 1976 og 16. mars 1977 gegn Albert Klahn Skaftasyni, Guðjóni Skarphéðinssyni, Kristjáni Viðari Viðarssyni, síðar Júlíussyni, Sævari Marinó Ciesielski og Tryggva Rúnari Leifssyni. Þá voru E gefin að sök nánar tilgreind brot í báðum ákærum og nafngreindum einstaklingi tiltekið brot í fyrrnefndu ákærunni, en endurupptaka málsins lýtur á engan hátt að þeim brotum.

  Í 1. lið I. kafla ákæru 8. desember 1976 var Kristjáni Viðari, Sævari Marinó og Tryggva Rúnari gefið að sök að hafa aðfaranótt sunnudagsins 27. janúar 1974 í félagi ráðist á Guðmund Einarsson í kjallaraíbúð að Hamarsbraut 11, Hafnarfirði, þáverandi heimili Sævars Marinós, og misþyrmt honum svo, þar á meðal með hnífstungum er Kristján Viðar hafi veitt honum, að hann hlaut bana af, og komið líki hans síðan fyrir á ókunnum stað. Var brotið talið varða við 211. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt 2. lið I. kafla sömu ákæru var Albert Klahn gefin að sök eftirfarandi hlutdeild í fyrrgreindum verknaði með því að veita Sævari Marinó, Kristjáni Viðari og Tryggva Rúnari liðsinni við að fjarlægja og koma líki Guðmundar fyrir á ókunnum stað og þannig leitast við að afmá ummerki brotsins, bæði þegar fyrrgreinda nótt og síðar síðla sumars sama ár, er líkamsleifar Guðmundar hafi verið fluttar á enn annan stað. Hafi flutningar þessir farið fram í bifreiðum, er Albert Klahn hafi haft til umráða og ekið. Var hann talinn hafa með fyrrgreindu atferli gerst brotlegur við 211. gr., sbr. 4. mgr. og 1. mgr. 22. gr., almennra hegningarlaga, svo og við 2. mgr. 112. gr. sömu laga.

Við flutning málsins fyrir sakadómi Reykjavíkur lýsti ákæruvaldið því yfir að ekki væri lengur byggt á því í 1. lið I. kafla ákæru að Kristján Viðar hafi ráðist að Guðmundi og stungið hann með hnífi, heldur væri um óaðskiljanlegan samverknað ákærðu að ræða.

Í I. kafla ákæru 16. mars 1977 var Kristjáni Viðari, Sævari Marinó og Guðjóni gefið að sök að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 20. nóvember 1974 í félagi ráðist á Geirfinn Einarsson í Dráttarbrautinni í Keflavík og misþyrmt honum þar svo, að hann hlaut bana af. Hafi þeir síðan um nóttina flutt lík hans í bifreið, er Guðjón ók, að heimili Kristjáns Viðars að Grettisgötu 82 í Reykjavík. Fimmtudaginn 21. sama mánaðar hafi Kristján Viðar, Sævar Marinó og E flutt lík Geirfinns í bifreið, er E hafi ekið, frá Grettisgötu 82 að Rauðhólum, með viðkomu á bensínstöð á Ártúnshöfða, þar sem tekið hafi verið bensín á brúsa. Í Rauðhólum hafi þau greftrað líkamsleifar Geirfinns eftir að hafa hellt bensíni á líkama hans og lagt eld í. Voru Kristján Viðar, Sævar Marinó og Guðjón með framangreindu atferli taldir hafa gerst brotlegir við 211. gr. almennra hegningarlaga. Þá var Kristjáni Viðari gefið að sök þjófnaðarbrot með því að hafa, eftir komu ákærðu með lík Geirfinns að Grettisgötu 82, stolið seðlaveski Geirfinns úr brjóstvasa hans, sem í hafi verið 5.000 krónur, auk ýmissa skilríkja, og teikniblýanti hans.

Í II. kafla sömu ákæru var Kristjáni Viðari, Sævari Marinó og E gefið að sök að hafa borið fjóra nafngreinda menn röngum sökum um að hafa átt þátt í dauða Geirfinns Einarssonar, sbr. 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga. Þá var Albert Klahn með ákærunni 8. desember 1976 sóttur til saka fyrir hylmingu og átta brot á lögum um ávana- og fíkniefni, Guðjón fyrir brot á sömu lögum, Kristján Viðar fyrir hylmingu og sjö þjófnaðarbrot, Sævar Marinó fyrir fjársvik, brot á lögum um ávana- og fíkniefni, fimm skjalafalsbrot og níu þjófnaðarbrot og Tryggvi Rúnar fyrir brennu, nauðgun og fjögur þjófnaðarbrot. 

II

Dómur var kveðinn upp í málinu í sakadómi Reykjavíkur 19. desember 1977. Að því er varðar I. kafla ákærunnar 8. desember 1976 taldi dómurinn sannað að Kristján Viðar, Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar hafi veist að Guðmundi Einarssyni að Hamarsbraut 11 með líkamlegu ofbeldi og misþyrmt honum þannig að hann hlaut bana af og síðan komið líki hans fyrir á ókunnum stað. Var háttsemin talin varða við 211. gr. almennra hegningarlaga. Albert Klahn var sýknaður af sakargiftum um eftirfarandi hlutdeild í áðurnefndu broti, en sakfelldur fyrir að hafa tálmað rannsókn með háttsemi sinni og þar með brotið gegn 2. mgr. 112. gr. sömu laga. Þá voru ákærðu allir sakfelldir fyrir þá háttsemi sem þeim var gefin að sök í öðrum köflum ákærunnar og greinir hér að framan.

Samkvæmt niðurstöðu dómsins um I. kafla ákærunnar 16. mars 1977 var talið sannað að Guðjón, Kristján Viðar og Sævar Marinó hafi veist að Geirfinni Einarssyni í Dráttarbrautinni í Keflavík, tekið hann hálstaki og barið með hnefum og spýtu þannig að hann hlaut bana af. Var brotið talið varða við 211. gr. almennra hegningarlaga. Þá var talið sannað að ákærðu hafi, ásamt E, flutt lík Geirfinns frá Keflavík að Grettisgötu 82 og þaðan upp í Rauðhóla, þar sem þau hafi grafið það. Þá var Kristján Viðar sakfelldur fyrir þjófnað á seðlaveski, en í því hafi verið 5.000 krónur og ýmis skilríki, sem og teikniblýanti Geirfinns að honum látnum. Loks voru Kristján Viðar, Sævar Marinó og E sakfelld fyrir að hafa borið fjóra menn röngum sökum.

Með dóminum var Albert Klahn gert að sæta fangelsi  í 15 mánuði, Guðjóni fangelsi í 12 ár, Kristjáni Viðari og Sævari Marinó báðum fangelsi ævilangt og Tryggva Rúnari fangelsi í 16 ár, en gæsluvarðhaldsvist hvers þeirra skyldi koma til frádráttar refsingu.

III

Dóminum var áfrýjað til Hæstaréttar 26. júlí 1978 að því er varðaði Albert Klahn, Guðjón, Kristján Viðar, Sævar Marinó, Tryggva Rúnar og E og voru allmörg ný gögn lögð fyrir réttinn. Dómur var kveðinn upp í Hæstarétti 22. febrúar 1980, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu um sakargiftir samkvæmt I. kafla ákæru 8. desember 1976 að sannað væri að Kristján Viðar, Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar hefðu í félagi átt í átökum við Guðmund Einarsson og misþyrmt honum svo að til dauða hafi leitt. Yrði ekki fullyrt að hvaða marki þáttur hvers og eins hafi skipt sköpum í því að Guðmundur beið bana og væru ákærðu samvaldir að því að veita honum slíka áverka að bani hlaust af. Þá var talið varhugavert að fullyrða að ásetningur hafi myndast hjá ákærðu til að bana Guðmundi fyrir átökin eða á meðan á þeim stóð. Voru brot þeirra því ekki talin varða við 211. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn hafi árásin verið hrottafengin og um viljaverk að ræða og því hafi ákærðu mátt vera ljóst að bani gæti hlotist af þessari stórfelldu líkamsárás. Var brotið talið varða við 218. gr. og 215. gr. sömu laga. Þá var staðfest niðurstaða sakadóms um sakfellingu ákærðu vegna annarra brota samkvæmt ákærunni.

Um sakarefni í I. kafla ákærunnar 16. mars 1977 var lagt til grundvallar að Guðjón, Kristján Viðar og Sævar Marinó hafi í félagi átt í átökum við Geirfinn Einarsson og að Guðjón og Kristján Viðar hafi tekið Geirfinn hálstaki. Þá hafi þeir, ásamt Sævari Marinó, greitt Geirfinni hnefahögg og Guðjón og Sævar Marinó barið hann með spýtu eða lurk. Var fallist á þá niðurstöðu sakadóms að dómfelldu hafi allir orðið Geirfinni að bana með þessari atlögu. Á hinn bóginn yrði ekki fullyrt um þátt hvers þeirra og væru þeir allir samvaldir að bana Geirfinns. Þá var ekki talið sannað að með ákærðu hafi búið ásetningur um að svipta Geirfinn lífi. Væri jafnframt varhugavert að telja nægilega sýnt fram á að ákærðu hafi ekki mátt dyljast að líklegast væri að Geirfinnur biði bana af árás þeirra, þar sem lík hans hafi ekki fundist og upplýsingar skorti því um hvernig dauða hans bar að höndum. Var brot dómfelldu því ekki talið varða við 211. gr. almennra hegningarlaga, heldur 218. gr. og 215. gr. laganna. Þá var staðfest niðurstaða sakadóms um þjófnað Kristjáns Viðars á peningaveski með 5.000 krónum í, að því er ákærði hafi talið, svo og blýanti af líki Geirfinns. Loks var staðfest niðurstaða sakadóms um rangar sakargiftir Kristjáns Viðars, Sævars Marinós og E.

Með dóminum var Albert Klahn gert að sæta fangelsi  í 12 mánuði, Guðjóni fangelsi í 10 ár, Kristjáni Viðari fangelsi í 16 ár, Sævari Marinó fangelsi í 17 ár og Tryggva Rúnari fangelsi í 13 ár, en gæsluvarðhaldsvist hvers þeirra skyldi koma til frádráttar refsingu.

IV

Endurupptökunefnd tók afstöðu til beiðna dómfelldu um endurupptöku á máli Hæstaréttar nr. 214/1978 með úrskurðum 24. febrúar 2017 í málum nr. 8/2014, 5/2015, 6/2015, 7/2015 og 15/2015. Féllst nefndin á að málið yrði tekið upp að þeim hluta, sem að framan er lýst. Taldi nefndin skilyrði þágildandi a., c. og d. liða 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála vera uppfyllt, en samsvarandi ákvæði eru nú í 1. mgr. 228. gr. laganna. Var leyfi til endurupptöku veitt á grundvelli þágildandi 1. mgr. 215. gr. sömu laga, en slíka heimild er nú að finna í 1. mgr. 232. gr. þeirra, sbr. 71. gr. laga nr. 49/2016, sem öðluðust gildi 1. janúar 2018. Bæði ákæruvaldið og dómfelldu styðja kröfur sínar og málatilbúnað við röksemdir að baki úrskurðum endurupptökunefndar.

Samkvæmt 1. mgr. 232. gr., sbr. áður 1. mgr. 215. gr., laga nr. 88/2008 getur endurupptökunefnd orðið við beiðni manns, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju eftirtalinna skilyrða er fullnægt:

    a. fram eru komin ný gögn sem ætla megi að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,

    b. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,

    c. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, eða

    d. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

    Ákvörðun um endurupptöku dómsmáls er á hendi endurupptökunefndar, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla, en á þeim tíma sem endurupptökunefnd tók afstöðu til beiðna dómfelldu gilti um það 1. mgr. 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sem var efnislega samhljóða núgildandi ákvæðum laganna, að öðru leyti en því að valdsvið nefndarinnar tekur nú til endurupptöku máls bæði fyrir Landsrétti og Hæstarétti. Nefndinni, sem heyrir undir framkvæmdarvaldið, eru meðal annars með 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008, sbr. áður 1. mgr. 215. gr. sömu laga, fengin viðfangsefni sem varða úrlausn dómsmála, en dómstólar eiga eftir meginreglu fyrri málsliðar 60. gr. stjórnarskrárinnar úrskurðarvald um ákvarðanir nefndarinnar, sbr. dóm Hæstaréttar 25. febrúar 2016 í máli nr. 628/2015. Samkvæmt því verður að taka afstöðu til þess hvort lög hafi með réttu staðið til þeirrar niðurstöðu sem endurupptökunefnd komst að í úrskurðum sínum 24. febrúar 2017 og að framan greinir.

V

Sem áður segir var Albert Klahn sýknaður af eftirfarandi hlutdeild í broti dómfelldu Kristjáns Viðars, Sævars Marinós og Tryggva Rúnars gegn 211. gr. almennra hegningarlaga samkvæmt ákæru 8. desember 1976. Á hinn bóginn var hann talinn hafa tálmað rannsókn málsins með háttsemi sinni og sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 112. gr. sömu laga. Enda þótt ekki sé tekið fram í úrskurðarorðum endurupptökunefndar að endurupptaka málsins lúti að því að dómfelldi Albert Klahn hafi tálmað rannsókn á fyrrgreindu broti gegn 211. gr. almennra hegningarlaga leiðir af endurupptöku málsins vegna sakargifta um brot Kristjáns Viðar, Sævars Marinós og Tryggva Rúnars gegn síðastnefndu lagaákvæði að eins hljóti þá að fara um ætlað brot Alberts Klahn að þessu leyti.

Í úrskurðum nefndarinnar er gerð grein fyrir þeim nýju gögnum, sem fram hafa komið eftir að dómur Hæstaréttar í máli nr. 214/1978 gekk og eftir úrlausn réttarins 15. júlí 1997 um beiðni dómfellda Sævars Marinós um endurupptöku málsins. Hvorki eru sérstakir annmarkar á málsmeðferð endurupptökunefndar né mati hennar á þýðingu nýrra gagna. Var því þegar af þeirri ástæðu fullnægt skilyrðum þágildandi a. liðar 211. gr. laga nr. 88/2008 fyrir endurupptöku málsins að hluta. Eru því ekki efni til að taka afstöðu til þess hvort uppfyllt hafi verið skilyrði annarra stafliða lagagreinarinnar.

VI

Mælt er svo fyrir í 4. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008 að hafi endurupptaka máls verið heimiluð, annað hvort að öllu leyti eða að hluta, skuli upp frá því fara með það að því marki, sem heimildin nær, eftir almennum reglum XXXI. kafla laganna eins og áfrýjunarstefna hefði verið gefin út á þeim tíma þegar endurupptaka var ráðin. Verður framangreint ákvæði skýrt svo eftir orðanna hljóðan að mál þetta lúti eingöngu að þeim hluta hæstaréttarmáls nr. 214/1978, sem leyfð var endurupptaka á samkvæmt fyrrnefndum úrskurðum endurupptökunefndar.

Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að dómfelldu verði sýknaðir af þeim sakargiftum, sem þeir voru sakfelldir fyrir í áðurnefndu hæstaréttarmáli og endurupptaka málsins tekur til. Leiðir af lögum að dómfelldu verða þegar á grundvelli kröfugerðar ákæruvaldsins sýknaðir af  þessum sakargiftum eins og nánar greinir í dómsorði.

Samkvæmt 4. mgr. 231. gr., sbr. 6. mgr. 232. gr., laga nr. 88/2008 greiðist allur áfrýjunarkostnaður málsins úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda dómfelldu, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði. Tekið skal fram að Unnar Steinn Bjarndal lögmaður var skipaður verjandi Sævars Marinós frá 22. ágúst 2017 til 19. desember sama ár, en þann dag var Oddgeir Einarsson lögmaður skipaður verjandi hans.

Dómsorð:

Dómfelldu Kristján Viðar Júlíusson, Sævar Marinó Ciesielski og Tryggvi Rúnar Leifsson eru sýknir af 1. lið I. kafla ákæru 8. desember 1976 um brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 27. janúar 1974 í félagi ráðist á Guðmund Einarsson í kjallaraíbúð að Hamarsbraut 11, Hafnarfirði og misþyrmt honum svo, að hann hlaut bana af, og komið líki hans fyrir í ókunnum stað, en háttsemin var heimfærð undir 218. gr. og 215. gr. almennra hegningarlaga með dómi Hæstaréttar 22. febrúar 1980 í máli nr. 214/1978.

Dómfelldi, Albert Klahn Skaftason, er sýkn af 2. lið I. kafla ákæru 8. desember 1976 um brot gegn 2. mgr. 112. gr. almennra hegningarlaga, fyrir að tálma rannsókn á fyrrnefndu broti dómfelldu Kristjáns Viðars, Sævars Marinós og Tryggva Rúnars, með því að veita dómfelldu liðsinni við að fjarlægja og koma líki Guðmundar fyrir í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar aðfaranótt 27. janúar 1974.

Dómfelldu Kristján Viðar, Sævar Marinó og Guðjón Skarphéðinsson eru sýknir af I. kafla ákæru 16. mars 1977 um brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 20. nóvember 1974 í félagi ráðist á Geirfinn Einarsson í Dráttarbrautinni í Keflavík og misþyrmt honum þar svo, að hann hlaut bana af og að hafa flutt lík Geirfinns þaðan á Grettisgötu 82, Reykjavík, og að hafa degi síðar flutt líkið upp í Rauðhóla og grafið það þar, en háttsemin var heimfærð undir 218. gr. og 215. gr. almennra hegningarlaga í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda í málinu, lögmannanna Jóns Steinars Gunnlaugssonar, verjanda Kristjáns Viðars, 11.904.000 krónur, Oddgeirs Einarssonar og Unnars Steins Bjarndal, verjenda Sævars Marinós, 11.904.000 krónur til hins fyrrnefnda og 2.480.000 krónur til hins síðarnefnda, og Jóns Magnússonar, verjanda Tryggva Rúnars, Guðjóns Ólafs Jónssonar, verjanda Alberts Klahn og Ragnars Aðalsteinssonar, verjanda Guðjóns, 9.672.000 krónur til hvers um sig.