Print

Mál nr. 179/2011

Lykilorð
  • Ærumeiðingar
  • Meiðyrði
  • Ómerking ummæla
  • Skaðabætur

                                     

Fimmtudaginn 24. nóvember 2011.

Nr. 179/2011.

Pálmi Haraldsson

(Gísli Guðni Hall hrl.)

gegn

Svavari Halldórssyni

(Karl Axelsson hrl.)

Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur og

Páli Magnússyni

Viðar Lúðvíksson hrl.)

Ærumeiðing. Meiðyrði. Ómerking ummæla. Skaðabætur.

P höfðaði mál gegn S og M og PM til vara, vegna tiltekinna ummæla sem viðhöfð voru um hann í aðalfréttatíma RÚV kl. 19 hinn 25.mars 2010. Krafðist hann m.a. ómerkingar ummælanna og að S yrði dæmdur til refsingar samkvæmt 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í Hæstarétti var S sýknaður af kröfum P vegna ummæla sem tilgreind voru í staflið a í dómkröfum P„Milljarðar hurfu í reyk“þar sem S hefði ekki verið flytjandi þeirra í skilningi a. liðar 26. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 og engu breytti í þeim efnum þótt hann hefði samið ummælin. Þá taldi Hæstiréttur að fyrrgreind ummæli og ummælin sem tilgreind voru í staflið e „en þeir peningar finnast hins vegar hvergi“ sem S flutti sjálfur væru sömu merkingar. Í ljósi þessa og þeirrar ábyrgðarraðar sem mælt væri fyrir um í einstökum stafliðum 26. gr. útvarpslaga yrðu ummælin í staflið a ekki ómerkt sérstaklega og var PM þegar af þeirri ástæðu sýknaður af kröfum P. Þá taldist S ekki flytjandi ummæla í stafliðum b og c í skilningi 26. gr. útvarpslaga og var hann því einnig sýknaður vegna þeirra. Óumdeilt var að S væri höfundur ummælanna í stafliðum b, c og d og yrði því hvorki talið að M hefði í skilningi a. liðar 26. gr. útvarpslaga flutt sjálf efni þetta í eigin nafni né teldist hún flytjandi í skilningi b. liðar ákvæðisins. Taldi Hæstiréttur að þulur sem einvörðungu kynnir efni við útsendingu þess, og hefur hvorki samið efnið né á í ljósi starfsskyldna sinna nokkurn ákvörðunarrétt um flutning þess, teldist ekki flytjandi í skilningi b. liðar 26. gr. laganna. Yrði ábyrgð M ekki reist á þessum ákvæðum og var hún því sýknuð af kröfum P. Hæstiréttur taldi að þegar ummælin í staflið e „en þeir peningar finnast hins vegar hvergi“sem S samdi og flutti að loknum inngangi fréttarinnar væru virt í samhengi við önnur ummæli í fréttinni yrðu þau ekki skilin á annan veg en þann að með þeim væri verið að bera P á brýn refsiverða háttsemi sem félli undir ákvæði almennra hegningarlaga. S hefði ekki sýnt fram á að þetta ætti við rök að styðjast og við vinnslu fréttarinnar leitaði hann ekki eftir upplýsingum frá P um efni hennar. Með þessu gætti hann ekki að þeirri skyldu sem fram kæmi í 2. gr. reglna Ríkisútvarpsins frá 1. maí 2008 og gæti ekki talist hafa verið í góðri trú um sannleiksgildi þeirra ummæla sem í fréttinni fólust. Þessi ummæli voru því ómerkt en ekki voru talin efni til að dæma S til refsiábyrgðar vegna flutnings þeirra eða til greiðslu kostnaðar af birtingu dómsins með vísan til þeirrar heimildar sem fram kæmi í 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn var S dæmdur til að greiða P 200.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. mars 2011. Hann krefst þess að eftirtalin ummæli sem viðhöfð voru um sig í aðalfréttatíma Ríkisútvarpsins kl. 19 hinn 25. mars 2010 verði ómerkt:

a.    „Milljarðar hurfu í reyk“.

b.    „2.500 milljónir króna, sem Pálmi Haraldsson fékk lánaðar hjá Glitni fyrir hrun, virðast gufaðar upp í flókinni viðskiptafléttu“.

c.    „... þegar hann fékk tveggja og hálfs milljarða króna lán frá Glitni rétt fyrir hrun“.

d.    „... og peningarnir eru týndir“.

e.    „... en þeir peningar finnast hins vegar hvergi“.

Áfrýjandi krefst þess að stefndi Svavar Halldórsson verði dæmdur til refsingar samkvæmt 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 vegna ofangreindra ummæla. Þá krefst áfrýjandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.000.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. apríl 2010 til greiðsludags. Áfrýjandi krefst þess einnig að stefndi greiði sér 600.000 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu, bæði forsendna og dómsorðs, í tveimur dagblöðum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Verði stefndi Svavar sökum aðildarskorts sýknaður af kröfu um ómerkingu einstakra ummæla í liðum b., c. og d. gerir áfrýjandi sömu kröfu um ómerkingu á hendur stefndu Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur, auk kröfu um miskabætur, kostnað vegna birtingar dóms í málinu og málskostnað eins og að framan greinir, að frádregnum þeim fjárhæðum sem stefndi Svavar kann að verða dæmdur til að greiða. Verði stefndi Svavar sýknaður af kröfu um ómerkingu ummæla í lið a. gerir áfrýjandi sömu kröfu á hendur stefnda Páli Magnússyni, auk kröfu um miskabætur, kostnað vegna birtingar dóms í málinu og málskostnað eins og að framan greinir, að frádregnum þeim fjárhæðum sem stefndi Svavar kann að verða dæmdur til að greiða.

Stefndi Svavar krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

Stefndu María Sigrún og Páll krefjast þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur en til vara að fjárkröfur áfrýjanda verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefjast þau málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Í málinu krefst áfrýjandi ómerkingar áðurgreindra ummæla sem féllu í aðalfréttatíma í sjónvarpi Ríkisútvarpsins kl. 19 hinn 25. mars 2010. Í yfirliti um helstu fréttir í upphafi fréttatímans las stefnda María Sigrún svohljóðandi texta: „2.500 milljónir króna, sem Pálmi Haraldsson fékk lánaðar hjá Glitni fyrir hrun, virðast gufaðar upp í flókinni viðskiptafléttu. Veðið var skuldaviðurkenning frá helsta eiganda bankans.“ Á orðunum, sem hér eru auðkennd, krefst áfrýjandi ómerkingar í b. lið fyrrgreindra dómkrafna sinna. Þegar þessi texti var lesinn var fyrst í stað mynd af áfrýjanda, en síðan höfuðstöðvum Glitnis banka hf. Meðan á þessu stóð birtust í rituðu máli á skjánum orðin: Milljarðar hurfu í reyk. Þetta eru orðin, sem krafist er ómerkingar á í a. lið dómkrafna áfrýjanda.

Að loknum inngangi var fyrsta umfjöllunarefni í fréttatímanum um áfrýjanda, sem hófst með því að stefnda María Sigrún las eftirfarandi texta: „Pálmi Haraldsson notaði skuldaviðurkenningu frá Baugi sem veð þegar hann fékk tveggja og hálfs milljarða króna lán frá Glitni rétt fyrir hrun. Baugur og eigendur hans voru ráðandi hluthafar í Glitni og viðskiptafélagar Pálma. Bankinn hefur ekkert fengið greitt og peningarnir eru týndir.“ Auðkenndu orðin hér að framan eru þau, sem c. og d. liðir í dómkröfum áfrýjanda snúa að. Að þessu loknu tók við myndskeið, þar sem stefndi Svavar las eftirfarandi texta: „Pálmi Haraldsson í Fons kom víða við í góðærinu. Hann átti Iceland Express, Skeljung, Securitas, flugfélagið Sterling og hluti í FL Group og bresku verslunarkeðjunni Iceland. Meðal helstu viðskiptafélaga hans var Jón Ásgeir Jóhannesson. Hann átti meðal annars Gaum og réði ríkjum í Glitni. Fons, félag Pálma, átti hlutabréf í Högum og Debenhams sem Pálmi seldi félaga sínum Jóni Ásgeiri í Baugi, snemma árs 2007. Á móti fékk Pálmi skuldabréf á Baug. Allir pappírar virðast hafa verið útbúnir í samræmi við lög og reglur. Pálmi fór með skuldabréfið í Glitni og lagði það að veði fyrir tveggja og hálfs milljarða króna láni sem hann fékk greitt út í peningum. Á þeim tíma var Baugur Jóns Ásgeirs í miklum vanskilum við Glitni Jóns Ásgeirs, en skuldabréfið þótti samt sem áður fullnægjandi trygging. Hlutabréfin hurfu síðar úr Baugi yfir í önnur félög Jóns Ásgeirs en allir gjalddagar voru framlengdir inn í framtíðina. Félögin þrjú í þessari fléttu fóru öll á hausinn eitt af öðru, Glitnir, Baugur og Fons. Þessa sögu má lesa úr lánasamningum, viðaukum og allskyns skjölum sem fréttastofa hefur undir höndum. Allar skuldaviðurkenningar liggja ógreiddar í búum hinna gjaldþrota fyrirtækja. Einu alvöru peningarnir í þessum viðskiptum voru 2500 milljónir króna, sem fóru úr Glitni og í hendur Pálma Haraldssonar, en þeir peningar finnast hins vegar hvergi.“ Til síðastgreindra orða tekur e. liður í dómkröfum áfrýjanda.

II

Stefndu María Sigrún og Páll reisa kröfu sína um sýknu meðal annars á því að ummæli þau sem greinir í liðum a., d. og e. snúi að Fons hf. og lántökum þess félags en varði ekki áfrýjanda. Fons hf. sé ekki aðili að málinu og því geti áfrýjandi ekki haft uppi kröfur vegna ummæla sem snúa að félaginu. Í umræddri frétt er áfrýjandi margsinnis nafngreindur og til hans skírskotað með öðrum hætti í tengslum við lánveitingu þá sem var tilefni fréttarinnar og eftirfarandi meðferð þess fjár sem tekið var að láni, á þann hátt að æra áfrýjanda var að hans mati meidd. Þegar af þessari ástæðu verður hafnað kröfum þessara stefndu um sýknu vegna aðildarskorts áfrýjanda.

III

Áfrýjandi krefst í fyrsta lagi ómerkingar ummælanna: Milljarðar hurfu í reyk. Er þar um að ræða skrifaðan texta sem óumdeilt er að stefndi Svavar samdi, og birtist textinn neðst á skjá sem fyrirsögn við skýringarmynd fréttarinnar um leið og stefnda María Sigrún las inngang að fréttinni, en sjálf ummælin voru ekki lesin. Kröfur sínar á hendur stefnda Svavari vegna þessara ummæla reisir áfrýjandi á því, að stefndi hafi verið flytjandi þeirra í skilningi a. liðar 26. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 sem í gildi voru þegar fréttin var flutt. Með vísan til þess sem að framan er rakið um birtingu ummælanna telst stefndi Svavar ekki hafa verið flytjandi þeirra í skilningi a. liðar 26. gr. útvarpslaga, og verður ábyrgð hans þegar af þeirri ástæðu ekki reist á hinu tilvitnaða lagaákvæði en engu breytir í þeim efnum þótt hann hafi samið ummælin. Ber samkvæmt því að sýkna stefnda Svavar af kröfum áfrýjanda vegna ummælanna. Kröfu sína til vara um ábyrgð stefnda Páls reisir áfrýjandi á d. lið 26. gr. útvarpslaga. Ummælin Milljarðar hurfu í reyk eru sömu merkingar og ummæli þau sem stefndi Svavar flutti sjálfur og krafist er ómerkingar á í e. lið dómkrafna áfrýjanda. Í ljósi þessa og þeirrar ábyrgðarraðar sem mælt er fyrir um í einstökum stafliðum 26. gr. útvarpslaga verða hin auðkenndu ummæli í a. lið dómkrafna áfrýjanda ekki ómerkt sérstaklega, og ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda Pál af kröfum áfrýjanda í málinu.

Þá krefst áfrýjandi ómerkingar ummælanna: 2.500 milljónir króna, sem Pálmi Haraldsson fékk lánaðar hjá Glitni fyrir hrun, virðast gufaðar upp í flókinni viðskiptafléttu. Ummælin samdi stefndi Svavar en stefnda María Sigrún las þau upp í yfirlit um helsta efni fréttatímans. Ummælin: þegar hann fékk tveggja og hálfs milljarða króna lán frá Glitni rétt fyrir hrun og ummælin og peningarnir eru týndir komu síðan fram í inngangi fréttarinnar sem stefnda las. Þar sem stefndi Svavar telst samkvæmt framansögðu ekki flytjandi þessara ummæla í skilningi a. liðar 26. gr. útvarpslaga verður ábyrgð hans á þeim þegar af þeirri ástæðu ekki reist á því lagaákvæði, og ber samkvæmt því að sýkna stefnda Svavar af kröfum áfrýjanda vegna ummælanna. Kröfur sínar um ábyrgð stefndu Maríu Sigrúnar til vara á ummælunum reisir áfrýjandi á ákvæðum a. og b. liða 26. gr. útvarpslaga. Ómdeilt er að stefndi Svavar er höfundur ummælanna. Verður því ekki talið að stefnda María Sigrún hafi í skilningi a. liðar ákvæðisins flutt sjálf efni þetta í eigin nafni, og verður ábyrgð hennar á ummælunum því ekki reist á því ákvæði. Þulur sem einvörðungu kynnir útvarpsefni við útsendingu þess, og hefur hvorki samið efnið né á í ljósi starfsskyldna sinna nokkurn ákvörðunarrétt um flutning þess, telst ekki flytjandi í skilningi b. liðar 26. gr. útvarpslaga. Verður ábyrgð stefndu Maríu Sigrúnar því heldur ekki reist á því ákvæði, og ber þegar af þessum ástæðum að sýkna hana af kröfum áfrýjanda.

Loks krefst áfrýjandi ómerkingar ummælanna: en þeir peningar finnast hins vegar hvergi. Eins og áður er fram komið voru hin tilvitnuðu ummæli samin af stefnda Svavari og flutt af honum að loknum inngangi fréttarinnar sem þulur las. Þegar hin tilvitnuðu ummæli eru virt í samhengi við önnur ummæli í fréttinni og efni hennar í heild, verða þau ekki skilin á annan veg en þann að með þeim sé verið að bera áfrýjanda á brýn refsiverða háttsemi sem fellur undir ákvæði almennra hegningarlaga. Stefndi Svavar hefur ekki sýnt fram á að þetta eigi við rök að styðjast og er í því sambandi til þess að líta, að áfrýjandi lagði fram undir rekstri málsins í héraði bókhaldsgögn um það, að lánsfjárhæðinni að frádreginni þóknun til lánveitanda hafi annars vegar verið ráðstafað til greiðslu af láni Fons hf. hjá Landsbanka Íslands hf. og til kaupa á svokölluðum peningabréfum sama banka, og hins vegar til kaupa Fons hf. á tilteknum fjölda eininga í Sjóði 9 hjá Glitni banka hf. Þá er og til þess að líta sem fram er komið í málinu, að við vinnslu fréttarinnar leitaði stefndi Svavar ekki eftir upplýsingum frá áfrýjanda um efni hennar. Gætti hann samkvæmt því ekki þeirrar skyldu sem fram kemur í 2. gr. reglna Ríkisútvarpsins frá 1. maí 2008 um fréttir og dagskrárefni tengt þeim að leita „... upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og leitast við að kynna sjónarmið þeirra sem jafnast.“ Getur hann því ekki talist hafa verið í góðri trú um sannleiksgildi þeirra ummæla sem í fréttinni fólust. Að þessu virtu verður fallist á kröfu áfrýjanda um ómerkingu ofangreindra ummæla með vísan til 241. gr., sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga.

Þótt ekki hafi verið leiddar sönnur að ummælunum en þeir peningar finnast hins vegar hvergi eru ekki efni til að dæma stefnda Svavar til refsiábyrgðar vegna flutnings þeirra. Þá eru heldur ekki efni til að dæma stefnda Svavar til greiðslu kostnaðar af birtingu dómsins í dagblöðum með vísan til þeirrar heimildar sem fram kemur í 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar á áfrýjandi rétt á miskabótum samkvæmt b. lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 úr hendi stefnda Svavars vegna áðurnefndra ærumeiðandi ummæla. Að því virtu að með dómi um ómerkingu þessara ummæla er hlutur áfrýjanda verulega réttur eru miskabætur hæfilega ákveðnar 200.000 krónur.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað úr hendi áfrýjanda til stefndu Maríu Sigrúnar og Páls skal vera óraskað. Þá verður áfrýjanda gert að greiða þeim málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Í ljósi niðurstöðu málsins verður málskostnaður milli áfrýjanda og stefnda Svavars felldur niður á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Ummælin en þeir peningar finnast hins vegar hvergi, sem stefndi Svavar Halldórsson viðhafði í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins 25. mars 2010, eru ómerkt.

Stefndi Svavar greiði áfrýjanda, Pálma Haraldssyni, 200.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. apríl 2010 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað milli áfrýjanda og stefndu Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur og Páls Magnússonar skal vera óraskað.

Áfrýjandi greiði stefndu Maríu Sigrúnu og Páli hvoru um sig 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Að öðru leyti fellur málskostnaður niður á báðum dómstigum.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 22. mars 2011.

Mál þetta var þingfest 21. apríl 2010 og tekið til dóms 1. mars 2011. Stefnandi er Pálmi Haraldsson, Bretlandi. Aðalstefndi er Svavar Halldórsson, Fálkahrauni 9,  Hafnarfirði, en varastefndu eru María Sigrún Hilmarsdóttir, Bragagötu 34a, Reykjavík, og Páll Magnússon, Sunnuflöt 14, Garðabæ. 

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur á hendur aðalstefnda:

1.       Að eftirfarandi ummæli, í stafliðum a til e, sem voru viðhöfð um stefnanda í aðalfréttatíma ríkisútvarpsins kl. 19:00 hinn 25. mars sl., verði dæmd dauð og ómerk:

a.       Milljarðar hurfu í reyk.

b.       „2.500 milljónir króna, sem Pálmi Haraldsson fékk lánaðar hjá Glitni fyrir hrun, virðast gufaðar upp í flókinni viðskiptafléttu.

c.        ...þegar hann fékk tveggja og hálfs milljarða króna lán frá Glitni rétt fyrir hrun. 

d.       ...og peningarnir eru týndir.

e.        ...en þeir peningar finnast hins vegar hvergi.

2.       Að stefndi verði dæmdur til refsingar vegna ofangreindra ummæla og birtingar þeirra, samkvæmt 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga.

3.       Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 3.000.000 króna í miskabætur auk dráttarvaxta af fjárhæðinni samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá stefnubirtingardegi til greiðsludags.

4.       Að stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendna og dómsorðs, í tveimur dagblöðum.

5.       Þá er krafist málskostnaðar auk virðisaukaskatts samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi við aðalmeðferð eða samkvæmt mati dómsins en stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur aðili.

Stefnandi gerir eingöngu kröfur á hendur varastefndu Maríu Sigrúnu í því tilviki að aðalstefndi Svavar verði sýknaður af kröfum í kröfuliðum 1.b, 1.c eða 1.d hér að framan sökum aðildarskorts. Í því tilviki gerir stefnandi sömu kröfur á hendur varastefndu Maríu Sigrúnu og greinir í þessum kröfuliðum (þ.e. 1.b, 1.c eða 1.d), þ.e. þeim kröfuliðum sem aðalstefnandi Svavar verður sýknaður af. Til viðbótar gerir stefnandi í því tilviki sömu kröfur og hér aða framan greinir í kröfuliðum 3, 4 og 5 á hendur varastefndu Maríu Sigrúnu. 

Stefnandi gerir eingöngu kröfur á hendur varastefnda Páli í því tilviki að aðalstefndi Svavar verði sýknaður af kröfu í kröfulið 1.a hér að framan sökum aðildarskorts. Í því tilviki gerir stefnandi sömu kröfur á hendur varastefnda Páli og greinir í kröfulið 1.a. Til viðbótar gerir stefnandi í því tilviki sömu kröfur og hér að framan greinir í kröfuliðum 3, 4 og 5 á hendur varastefnda Páli.

Af hálfu aðalstefnda Svavars er krafist sýknu og málskostnaðar.

Af hálfu varastefndu Maríu Sigrúnar og Páls er aðallega krafist sýknu en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Málskostnaðar er krafist.

II.

Málavaxtalýsing stefnanda.

Stefnandi kveðst vera fyrrum aðaleigandi og framkvæmdastjóri Fons hf. sem hafi verið fjárfestingarfélag þangað til það hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta hinn 30. apríl 2009. Fons hf. hafi átt viðskipti bæði hérlendis og erlendis. Félaginu hafi gengið vel þar til íslenskt efnahagslíf hafi hrunið nánast á einni nóttu í endaðan september og byrjun október 2008 og eignir félagsins orðið verðlausar á skömmum tíma.

Stefnandi hafi frá upphafi hrunsins verið umfjöllunarefni fjölmiðla. Þannig hafa ítrekað verið fluttar fréttir af þátttöku hans í íslensku atvinnulífi fram að hruni. Oft hafi verið hallað réttu máli. Steininn hafi tekið úr í fjölmiðlaumfjöllun um stefnanda í aðalfrétt ríkissjónvarpsins 25. mars sl. undir fyrirsögninni „milljarðar hurfu í reyk“. Útskriftir fréttanna frá Fjölmiðlavaktinni hafi verið lagðar fram í málinu.   Varastefnda María Sigrún hafi lesið innganginn og fyrstu málsgrein. Byggt sé á því að inngangurinn og fréttin sjálf myndi eina heild og að flytjandi fréttarinnar allrar hafi verið aðalstefndi Svavar, þrátt fyrir að María Sigrún hafi lesið fyrir hann inngangstextann, sem hún virðist lesa af textavél. Stefnandi hafi vissu fyrir því að stefndi Svavar hafi unnið fréttina alla og sé honum því einum stefnt aðallega sem flytjanda. Stefndu Maríu Sigrúnu og Páli sé stefnt til vara, verði ekki fallist á það með stefnanda að aðalstefndi Svavar hafi flutt alla fréttina, þar með talið innganginn og beri ábyrgð á honum.

Inngangur fréttarinnar, sem varastefnda María Sigrún hafi lesið, sé svohljóðandi:

Milljarðar gufaðir upp – 2.500 milljónir króna, sem Pálmi Haraldsson fékk lánaðar hjá Glitni fyrir hrun, virðast gufaðar upp í flókinni viðskiptafléttu hans með Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Pálmi seldi Baugi hlutabréf gegn skuldaviðurkenningu sem hann síðan lagði að veði fyrir láninu frá Glitni og fékk þaðan peninga. Jón Ásgeir réði ríkjum bæði í Baugi og Glitni. Fyrirtækin þrjú eru öll farin á hausinn, en bankinn fékk aldrei greitt og peningarnir eru týndir.

Meginmál fréttarinnar, sem aðalstefndi Svavar hafi lesið, sé eftirfarandi:

Pálmi Haraldsson notaði skuldaviðurkenningu frá Baugi sem veð þegar hann fékk tveggja og hálfs milljarðs króna lán frá Glitni rétt fyrir hrun. Baugur og eigendur hans voru ráðandi hluthafar í Glitni og viðskiptafélagar Pálma. Bankinn hefur ekkert fengið greitt og peningarnir eru týndir. Pálmi Haraldsson í Fons kom víða við í góðærinu. Hann átti Iceland Express, Skeljung, Securitas, flugfélagið Sterling og hluti í FL Group og bresku verslunarkeðjunni Iceland. Meðal helstu viðskiptafélaga hans var Jón Ásgeir Jóhannesson. Hann átti meðal annars Gaum og réði ríkjum í Glitni. Fons, félag Pálma, átti hlutabréf í Högum og Debenhams sem Pálmi seldi félaga sínum Jóni Ásgeiri í Baugi snemma árs 2007. Á móti fékk Pálmi skuldabréf á Baug. Allir pappírar virðast hafa verið útbúnir í samræmi við lög og reglur. Pálmi fór með skuldabréfið í Glitni og lagði það að veði fyrir tveggja og hálfs milljarðs króna láni sem hann fékk greitt út í peningum. Á þeim tíma var Baugur Jóns Ásgeirs í miklum vanskilum við Glitni Jóns Ásgeirs, en skuldabréfið þótti samt sem áður fullnægjandi trygging. Hlutabréfin hurfu síðar úr Baugi yfir í önnur félög Jóns Ásgeirs en allir gjalddagar voru framlengdir inn í framtíðina. Félögin þrjú í þessari fléttu fóru öll á hausinn eitt af öðru, Glitnir, Baugur og Fons. Þessa sögu má lesa úr lánasamningum, viðaukum og allskyns skjölum sem fréttastofa hefur undir höndum. Allar skuldaviðurkenningar liggja ógreiddar í búum hinna gjaldþrota fyrirtækja. Einu alvöru peningarnir í þessum viðskiptum voru 2.500 milljónir króna, sem fóru úr Glitni og í hendur Pálma Haraldssonar, en þeir peningar finnast hins vegar hvergi.

Stefnandi heldur því fram að fréttin sé alröng frá upphafi til enda um þau atriði sem hér skipti máli. Þannig segi að stefnanda hafi verið veitt lán að fjárhæð 2.500 milljónir króna frá Glitni banka hf. rétt fyrir hrun. Hið rétta sé að Fons hf. hafi fengið lán hjá Glitni banka hf. samkvæmt lánssamningi dagsettum 7. desember 2007. Lánið hafi verið greitt út 10. desember 2007, að fjárhæð kr. 2.487.500.000, en mismunurinn verið þóknun bankans. Lánið hafi því ekki verið veitt rétt fyrir hrun.

Daginn eftir, þ.e. 11. desember, hafi Fons hf. ráðstafað í þremur millifærslum  2.000 milljónum króna til Landsbanka Íslands. Sama dag hafi lán við Landsbanka Íslands  nr. 4458 að fjárhæð 1.986.089.426 krónur verið greitt upp. Mismunurinn,  13.910.574 krónur, hafi verið lagður inn á bankareikning Fons hf. hjá Landsbanka Íslands. Afgangur lánsins hafi farið til kaupa í Sjóði 9 hjá Glitni.  Þeir fjármunir hafi verið greiddir til Fons hf. með vöxtum hinn 17. janúar 2008. Til tryggingar láninu hafi verið sett krafa á hendur Baugi Group hf. samkvæmt lánssamningi, upphaflega að fjárhæð 3.700.000.000 króna. Samkvæmt ársreikningi Baugs Group hf. fyrir árið 2007 hafi Baugur Group hf. á þeim tíma verið með vel yfir 30% eiginfjárhlutfall, handbært fé upp á tæpa 40 milljarða króna og ekki í vanskilum.

Með því að halda því fram að lánveitingin hafi átt sér stað rétt fyrir hrun sé verið að ýja að því að eitthvað ámælisvert hafi verið við hana. Þegar það sé síðan sett í samhengi við efni fréttarinnar um að veðið á bak við lánveitinguna, sem var 50% hærra en lánið, og að Baugur Group hf. hafi á þessum tíma verið í vanskilum við Glitni banka hf., sér ljóst að sannleikanum sé snúið á hvolf. Röng framsetning á fjárhagslegri stöðu skuldarans samkvæmt lánasamningnum, sem settur hafi verið sem trygging, geri hlut stefnanda í fréttinni enn verri.   

Við vinnslu fréttarinnar hafi ekki verið haft samband við stefnanda, þrátt fyrir að starfsreglur RÚV kveði á um að slíkt skuli gert.

Stefnandi telur að með fréttinni hafi verið vegið gróflega að æru sinni og heiðri. Lögmaður stefnanda hafi sent símskeyti, strax daginn eftir að fréttin birtist, til stefnda Svavars með afriti á Óðin Jónsson fréttastjóra og Pál Magnússon útvarpsstjóra. Í símskeytinu hafi stefnda Svavari verið gefinn kostur á að leiðrétta fréttina og biðjast afsökunar í sjónvarpsfréttatíma daginn eftir. Við þeirri áskorun hafi ekki verið orðið. Þess í stað hafi enn verið flutt frétt af málefnum stefnanda og Fons hf. Í fréttinni hafi ekki örlað á afsökun, heldur verið haldið áfram og af einhverjum ástæðum áréttað að stefnandi væri ekki í persónulegum ábyrgðum fyrir Fons hf. Í fréttinni hafi m.a. komið frami: „Af frétt gærdagsins hefði mátt skilja að Pálmi hafi sjálfur tekið umrætt 2.500 milljóna lán persónulega, en ekki eignarhaldsfélag hans, Fons hf., sem nú er í skiptameðferð. Hér með er áréttað að Fons tók lánið...“. Sé þessi framsetning alveg dæmalaus og beinlínis röng. Í fyrri fréttinni hafi verið sagt að Pálmi hefði tekið lánið. Það sé því beinlínis rangt að segja í seinni fréttinni að það sé  „áréttað“ að Fons hf. hafi tekið lánið.

Stefnandi telur sig því eiga þann einan kost að höfða þetta mál og fá ummæli úr fréttinni dæmd dauð og ómerk.

Málsástæður stefnanda og lagarök.

Stefnandi segir að aðalstefnda Svavari sé stefnt fyrir öll ummælin af ástæðum sem gerð sé grein fyrir hér að framan í málavaxtalýsingu. Honum sé stefnt sem flytjanda með heimild í a-lið 1. mgr. 26. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 en samkvæmt ákvæðinu beri flytjandi útvarpsefnis refsi- og fébótaábyrgð á því. Sé aðallega byggt á að fréttainnganginn og nánari umfjöllun í framhaldi af innganginum verði að skoða sem eina heild og að fréttamaðurinn, er flutt hafi fréttina, hafi verið stefndi Svavar.

Verði ekki fallist á framangreint um ábyrgðaraðild aðalstefnda Svavars sé nánar tilgreindum kröfum beint að varastefndu, Maríu Sigrúnu og Páli. Ummælin, sem tilfærð séu í kröfuliðum 1.b, 1.c og 1.d, hafi  verið lesin upp af Maríu Sigrúnu. Verði ekki fallist á það með stefnanda að aðalstefndi Svavar beri ábyrgð á þeim sé ljóst, samkvæmt a- og b-lið 1. mgr. 26. gr. útvarpslaganna, að stefnda María Sigrún beri á þeim ábyrgð.

Texti, sem tilfærður sé í kröfulið 1.a, hafi birst á sjónvarpsskjánum og hafi ekki verið lesinn beint upp. Verði ekki talið að aðalstefndi Svavar beri ábyrgð á honum sem flytjandi sé ljóst að útvarpsstjóri beri ábyrgðina samkvæmt d-lið 1. mgr. 26. gr. útvarpslaga. 

Stefnandi geri ekki athugasemd við að fréttir séu fluttar af viðskiptum sem hann hafi komið nálægt, hvort sem er fyrir eða eftir hrun. Hann geri hins vegar þá kröfu að þær séu réttar, faglega unnar og ekki settar fram með röngum og villandi hætti. Stefnandi telur að framsetning fréttarinnar hafi verið með þeim hætti að hún verði ekki skilin öðruvísi en að stefnandi hafi tekið lánið persónulega og það síðan týnst eða „gufað upp“, eins og svo smekklega sé að orði komist. Með öðrum orðum sé dróttað að stefnanda að hann hafi með auðgunarbroti haft fé af Glitni Banka hf. og notað til þess flókna viðskiptafléttu sem tengdist Baugi Group hf.

Í fréttinni séu eðlileg viðskipti gerð tortryggileg, bæði með því að halda fram röngum upplýsingum og með því að leggja sem verst út frá því sem gerðist. Með því sé dregin upp sú mynd af stefnanda að hann sé fjárglæframaður. Þessari framsetningu til fyllingar sé í fréttinni sett upp eitthvað sem eigi að vera skýringarmynd en hún sé raunar óskiljanleg. Í henni sé stefnandi afskræmdur með því að klippa andlit hans og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, fyrrum stjórnarformanns Baugs Group hf., inn á einhverjar spariklædda teiknimyndafígúrur. Myndinni sé augljóslega ætlað að láta stefnanda og téð lánsviðskipti líta út einhvern veginn öðruvísi en sem lögleg lánsviðskipti.

a.  „Milljarðar hurfu í reyk.

Þessi fyrirsögn hafi verið á fréttinni í inngangskafla fréttatímans. Með henni sé vísað til þess að stefnandi hafi látið peninga hverfa með óeðlilegum hætti.  Fyrirsögnin að hverfa í reyk vísi einnig til þess sem síðar segi í fréttinni um ,,flókna viðskiptafléttu“ og að eitthvað meira en lítið óeðlilegt hafi verið við ráðstöfun fjármunanna. Sé þessi framsetning beinlínis röng og villandi þegar fyrir liggi að hægt sé að rekja fjármunina í bókhaldi Fons hf. Staðreyndin sé að þeir hafi annars vegar farið til niðurgreiðslu láns hjá Landsbanka Íslands hf. og hins vegar til kaupa á sjóðsbréfum hjá Glitni banka hf. Skýrari og eðlilegri geti notkunin vart verið.  Fullyrðingin sé því  röng og þar með ærumeiðandi fyrir stefnanda.

b.2.500 milljónir króna, sem Pálmi Haraldsson fékk lánaðar hjá Glitni fyrir hrun, virðast gufaðar upp í flókinni viðskiptafléttu

Þessi orð eigi sér enga stoð í raunveruleikanum og framsetning sé röng. Það hafi verið Fons hf., með takmarkaðri ábyrgð og sem sjálfstæður lögaðili, sem hafi fengið fjármunina að láni en ekki stefnandi.  Stefnandi þurfi ekki að sæta því að vera samsamaður fyrirtæki sem hann hafi átt hlutafé í og verið í forsvari fyrir. Öllum sem hlusti á fréttina sé ljóst að þegar fjármunir gufi upp eða hverfi án skýringa, sérstaklega í rekstri fyrirtækja, geti það ekki átt sér aðra skýringu en að auðgunarbrot hafi verið framið og svo búið um hnútana að færsla fjármunanna verði ekki rakin í bókhaldi hlutaðeigandi. Setningin og orðanotkunin ,,gufaðir upp í flókinni viðskiptafléttu“ vísi einnig til þess að fjármunir hafi horfið með tortryggilegum hætti sem sé af og frá. Framsetningin sé því röng og þar með ærumeiðandi.

c.  ,,...þegar hann fékk tveggja og hálfs milljarða króna lán frá Glitni rétt fyrir hrun. 

        Röksemdir hér að ofan um b-lið eigi einnig við um þennan lið og vísist til þeirra. Lánið hafi verið veitt í desember 2007. Síðan hafi liðið tæpt ár áður en íslenskt fjármálalíf hafi fallið eins og spilaborg á einni nóttu í byrjun október 2008. Í millitíðinni hafi ráðamenn komið fram og sagt að allt væri í lagi í íslensku fjármálalífi og ekkert væri að óttast. Stefnandi hafi ekki verið í stjórn neinna banka eða fjármálafyrirtækja. Hann hafi því ekki verið í þeirri aðstöðu að sjá að jafn illa væri komið fyrir undirstöðum íslensks fjármálalífs og síðar hafi komið á daginn. Stefnandi telur að sú framsetning fái ekki staðist að fjármunirnir hafi verið veittir ,,rétt fyrir hrun“. Þó svo að ,,rétt fyrir“ feli ekki í sér nákvæm tímamörk verði að telja að tæpt ár, með tilliti til alls þess sem gerst hafi á því ári, geti í þessu samhengi ekki verið sett fram sem ,,rétt fyrir“. Með slíku orðalagi sé um ranga eða a.m.k. villandi framsetningu að ræða og gefið í skyn að fjármunirnir hafi verið veittir þegar stefnandi hafi átt að vita að íslenskt fjármálakerfi var við það að hrynja. Skilyrði séu því til að dæma ofangreindar setningar dauðar og ómerkar.

d. ,,...og peningarnir eru týndir.

e.  ,,...en þeir peningar finnast hins vegar hvergi.“

Með þessum fullyrðingum sé verið að væna stefnanda um refsivert athæfi. Séu dómskjölin skoðuð sé ljóst að fjarstæðukennt sé að halda því fram að peningarnir séu týndir. Þeir séu auðrekjanlegir í bókhaldi Fons hf. Peningar sem teknir séu að láni af bókhaldsskyldum aðila og finnist svo hvergi, geti ekki horfið nema refsiverð háttsemi hafi átt sér stað. Í þessu samhengi verði einnig að hafa í huga fjárhæð lánveitingarinnar. Þar sem stefnandi sé aðalefni fréttarinnar verði fréttin ekki skilin með öðrum hætti en þeim að stefnandi beri ábyrgð á hvarfi peninganna. Við það þurfi hann ekki að una.

Stefnandi byggir á því að öll ofangreind ummæli í stafliðum a til e feli í sér ærumeiðingar, sbr. 234. gr. alm. hgl. og séu virðingu hans til hnekkis, sbr. 235. gr. alm. hgl. Skilyrði séu því til þess að ómerkja þau og þar með taka aðrar dómkröfur stefnanda til greina.

Miskabótakrafa sé gerð vegna framangreindra ummæla og vegna fréttarinnar í heild sinni. Haldið hafi verið fram röngum, villandi og meiðandi upplýsingum um stefnanda. Fréttin verði ekki skilin á annan veg en að dróttað hafi verið að stefnanda um glæpsamlegt og siðferðislega ámælisvert athæfi hans. Í því felist ólögmæt meingerð gegn æru stefnanda og persónu. Á því beri aðalstefndi miskabótaábyrgð samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Við ákvörðun fjárhæðar þeirra beri að miða við að um alvarlegt brot á æru stefnanda sé að ræða, framin í Ríkissjónvarpinu, sem bæði hafi mesta útbreiðslu fjölmiðla hér á landi og sé sá fjölmiðill sem þjóðin treysti best. Sérstaklega sé þetta alvarlegt í ljósi þess að Ríkissjónvarpið starfi á grundvelli sérlaga nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf. Samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 3. gr. laganna skuli gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð. Samkvæmt 7. tl. 2. mgr. 3. gr. laganna skuli Ríkisútvarpið veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar. Brotið hafi verið alvarlegt gegn þeim skyldum sem lög um Ríkisútvarpið leggi starfsfólki þess á herðar. Það sem hér hafi verið ritað eigi einnig við um ábyrgð varastefndu, sbr. umfjöllun hér að framan um ábyrgðarröð útvarpslaga og aðild þeirra til vara.     

Stefnandi telur að lagaskilyrði séu til að dæma stefnda Svavari refsingu í málinu þar sem framsetning fréttarinnar og rangindi hafi verið með þeim hætti. Um það vísar stefnandi til 234. og 235. gr. alm. hgl. 

Verði dæmt áfall á hendur aðalstefnda eða varastefndu í málinu byggir stefnandi á því að skilyrði séu til að dæma viðkomandi til greiðslu birtingar dóms í þremur dagblöðum, sbr. 2. mgr. 241. gr. alm. hgl. Fjárhæð kröfunnar sé byggð á gjaldskrá Fréttablaðsins um birtingu auglýsingar á hálfri síðu. Miðað sé við eina auglýsingu í Morgunblaðinu og eina í Fréttablaðinu, 300.000 krónur í hvoru blaði, sem sé verðskrá Fréttablaðsins en lagt sé til grundvallar að verð á þessum tveimur prentmiðlum sé sambærilegt.            

Stefnandi eigi rétt til þess að fjallað sé um þátttöku hans í íslensku atvinnulífi með réttum hætti. Stefnandi þurfi ekki að sæta því að hann sé samsamaður sjálfstæðum lögaðila sem hann hafi verið í forsvari fyrir. Enn síður þurfi stefnandi að sætta sig við að fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu geti, án þess að bera ábyrgð á ummælum sínum, haldið því fram í aðalfréttatíma Ríkisútvarpsins, sem njóti mikillar útbreiðslu, að stefnandi beri ábyrgð á hvarfi fjármuna upp á 2.500 milljónir króna. Ekki hafi verið haft samband við stefnanda við vinnslu fréttarinnar, þrátt fyrir að borið hafi að gera það á grundvelli 2. og 3. gr. reglna um fréttir og dagskrárefni tengt þeim í Ríkisútvarpinu. Með því hafi ekki verið sinnt þeirri grunnskyldu fréttamanns að  sjá til þess að hið rétta kæmi fram og ekki væri hallað réttu máli. Sérstaklega hafi þetta verið alvarlegt í þessu tilviki þar sem fjallað hafi verið um lánveitingu banka til einstaklings en um slíkar lánveitingar gildi reglur um bankaleynd. Vera megi að í einstökum tilvikum kunni fréttir af slíkum lánveitingum allt að einu að eiga rétt á sér en þá sé lágmarkskrafa að vinnubrögð við flutning slíkra frétta standist ýtrustu kröfur.  Ljóst sé að fréttin hafi meitt æru stefnanda. Lögð hafi verið fram útprentun af sömu frétt af vefritinu Eyjunni. Þegar athugasemdir við fréttina séu skoðaðar fari ekki á milli mála að þeir sem sáu fréttina hafi skilið hana með þeim hætti að stefnandi hafi gerst sekur um glæpsamlegt athæfi með því að taka umrædda fjármuni ófrjálsri hendi, skilið slóð þeirra eftir í reyk, þannig að ekki hafi verið hægt að rekja hana og notað til þessa ónýt veðskjöl. Eins og skjöl málsins beri með sér sé þetta víðsfjarri öllum raunveruleika.  Framsetning fréttarinnar sé sérlega alvarleg í því ljósi að hún sé sett fram sem sannindi. Hún feli ekki í sér gildisdóma um stefnanda eða skoðanir stefnda á honum. Þvert á móti sé hún ósönn og beinlínis röng um atriði sem myndu varða stefnanda fangelsisrefsingu ef sönn væru. Þá þurfi vart að fjölyrða um að fréttin hafi verið til þess fallin að rýra stefnanda í áliti og gera hann ótrúverðugan í viðskiptum.Varnir byggðar á tjáningarfrelsi stefnanda hafi því enga þýðingu fyrir málið.  

Stefnandi styður kröfur sínar einkum við ákvæði 234. og 235. gr. alm. hgl. Krafa um ómerkingu er byggð á 1. mgr. 241. gr. alm. hgl. og greiðsla á kostnaði vegna birtingar dómsins er byggð á 2. mgr. 241. gr. Krafa um miskabætur er byggð á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Þá er einnig vísað til 26. gr. útvarpslaga nr. 50/2000 og laga nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf. Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. 

II.

Málavaxtalýsing stefnda Svavars.

Stefndi kveður atvik máls, eins og þau snúi að stefnda, vera eftirfarandi: Stefndi starfi sem fréttamaður hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins. Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins kl. 19.00, þann 25. mars sl., hafi birst frétt sem stefndi hafi unnið og varðað hafi lántöku Fons hf. hjá Glitni banka hf. í desember 2007. Í fréttinni komi fram að um hafi verið að ræða lán að fjárhæð 2.500 milljónir króna og að til tryggingar láninu hafi verið skuldabréf gefið út af Baugi Group hf. til Fons hf. að veði. Í fréttinni hafi jafnframt verið fjallað nokkuð almennt um þátttöku stefnanda í íslensku viðskiptalífi og því að lokum haldið fram að peningarnir sem fengnir hefðu verið að láni, fyndust hvergi. Fréttina hafi stefndi byggt á upplýsingum og gögnum frá heimildarmönnum sem stefndi meti trúverðuga.

Í seinni fréttum Ríkisútvarpsins sama kvöld kl. 22.00 hafi verið birt yfirlýsing frá stefnanda þar sem fram komi að fjármunirnir sem fengnir hefðu verið að láni hjá Glitni hafi verið notaðir til að greiða skuld við Landsbankann og kaupa sjóðsbréf af Glitni. Daginn eftir, þann 26. mars sl., hafi lögmaður stefnanda sent skeyti til Ríkisútvarpsins þar sem athugasemdir hefðu verið gerðar við efni fréttarinnar og málsókn hótað yrði hún ekki dregin til baka og stefnandi beðinn afsökunar. Í kvöldfréttatíma Ríkisútvarpsins kl. 19.00 þann 26. mars sl. hafi verið greint frá því að stefnandi gerði athugasemdir við efni fréttarinnar og jafnframt hvað stefnandi teldi að hefði orðið um fjármunina. Þá hafi í fréttinni þann 26. mars sl. verið áréttað að Fons hf. hefði tekið umrædd lán en ekki stefnandi sjálfur persónulega. Í kjölfarið hafi stefnandi höfðað mál þetta.

Stefndi telur mikilvægt að fara örfáum orðum um forsögu málsins og þær aðstæður sem fréttin sé sprottin úr en stefndi telur forsöguna og aðstæðurnar varða málið miklu, bæði við skýringu á ummælunum og við mat á ímynd og orðspori stefnanda. Eins og alkunnugt sé urðu miklar hörmungar í íslensku efnahagslífi haustið 2008 sem gerðu það að verkum að allt umhverfi í viðskiptalífinu og þjóðfélaginu almennt gjörbreyttist frá því sem áður var. Stærstu viðskiptabankarnir hafi hrunið og verið teknir yfir af íslenska ríkinu, gengi krónunnar hrapað, holskefla gjaldþrota fyrirtækja og einstaklinga gengið yfir, og vofi raunar enn yfir, mótmæli orðið daglegt brauð og sviptingar orðið í ríkisstjórn landsins, svo fátt eitt sé nefnt. Allt frá haustmánuðum 2008 hafi fjölmiðlar verið undirlagðir fréttum um bankahrunið, kreppuna og helstu þátttakendur í því hvernig fór. Alþingi hafi skipað sérstaka rannsóknarnefnd sem skyldi leita sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Rannsóknarnefndin hafi birt skýrslu sína þann 12. apríl 2010 og hafi skýrslan verið mest selda ritið á Íslandi síðan þá. Stefnandi, ásamt fyrirtækjum sem honum tengist, fái talsverða umfjöllun í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, enda hafi stefnandi verið afar áberandi í íslensku viðskiptalífi undanfarin ár. Stefnandi hafi verið fastagestur í fjölmiðlum síðastliðin ár, ýmist í jákvæðu eða neikvæðu ljósi, en umfjöllun eftir bankahrun hafi þó fremur verið í anda þess síðarnefnda. Stefnandi hafi þannig birst í persónulegu forsíðuviðtali í helgarblaði DV þann 5. mars sl., undir fyrirsögninni „Ég iðrast“, en þar hafi hann rætt þátt sinn í hruni efnahagslífsins. Hlutafélagið Fons, sem stefnandi hafi verið í forsvari fyrir, hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta þann 30. apríl 2009 og snemma á þessu ári hafi skiptastjóri þrotabúsins höfðað mál á hendur stefnanda persónulega, þar sem krafist sé greiðslna vegna einkaútgjalda stefnanda. Síðast en ekki síst beri að nefna stefnu slitastjórnar Glitnis banka hf. á hendur stefnanda, ásamt öðrum einstaklingum og lögaðilum, sem þingfest hafi verið í New York í Bandaríkjunum þann 11. maí sl. Samkvæmt henni telji slitastjórnin þá, að stefnanda meðtöldum, hafa verið hluta klíku sem rænt hefði bankann innan frá. Stefnandi hafi þannig ítrekað verið í fréttum undanfarin misseri og varði þær margar alvarlegri hluti en lántökur og flóknar viðskiptafléttur. Málsatvikalýsingu stefnanda sé mótmælt að því leyti sem hún fari í bága við málavaxtalýsingu stefnda hér að framan.

Málsástæður og lagarök stefnda Svavars.

Stefndi krefst sýknu vegna aðildarskorts hvað varðar ummæli í a-, b-, c- og d-liðum í kröfulið 1 í stefnu. Í útvarpslögum segi í a-lið 1. mgr. 26. gr. að sá sem flytji sjálfur efni í eigin nafni beri ábyrgð á því. Fyrir liggi í málinu að ummæli í a-lið í kröfulið nr. 1 í stefnu birtist sem fyrirsögn við skýringarmynd fréttarinnar um leið og inngangur að fréttinni hafi verið lesinn. Þá liggi jafnframt fyrir að ummæli í b-, c- og d-liðum í kröfulið nr. 1 í stefnu hafi verið í inngangstexta fréttarinnar sem stefndi hafi ekki flutt sjálfur. Stefndi geti aðeins borið ábyrgð á þeim ummælum sem hann telist vera flytjandi að. Með hliðsjón af ákvæði 26. gr. útvarpslaga, sem og dómafordæmum Hæstaréttar um ábyrgð samkvæmt ákvæðinu, sé ljóst að stefndi geti ekki borið ábyrgð á umræddum ummælum og beri því að sýkna hann af kröfum stefnanda hvað varðar umrædd ummæli vegna aðildarskorts. Um ábyrgð umræddra ummæla fari eftir ákvæðum b- og d-liðar 1. mgr. 26. gr. útvarpslaga.

Komist dómurinn hins vegar að þeirri niðurstöðu að stefndi Svavar beri ábyrgð á öllum eða hluta ofangreindra ummæla í kröfulið nr. 1 krefst stefndi engu að síður sýknu af kröfum stefnanda og vísar til umfjöllunar um málsástæður í kaflanum hér á eftir.

Af hálfu stefnda er öllum kröfum og málsástæðum stefanda mótmælt. Byggir stefndi einkum á þeim málsástæðum sem hér fara á eftir til stuðnings sýknukröfu sinni.

Í umfjöllun stefnanda um ummæli í b- og c-lið fyrsta kröfuliðar, og raunar á fleiri stöðum í stefnu, geri stefnandi nokkuð mikið úr því að hann eigi ekki að þurfa að sæta því að vera samsamaður fyrirtæki sem hann hafi átt hlutafé í og verið í forsvari fyrir. Í þessu sambandi bendir stefndi í fyrsta lagi á, að í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins þann 26. mars sl., eða daginn eftir að upphaflega fréttin var birt, hafi því verið komið skýrt á framfæri að Fons hf. hefði tekið umrætt lán en ekki stefnandi persónulega. Með umræddri frétt þann 26. mars hafi verið tekinn af allur vafi um framangreint og því ekki um neina „samsömun“ af hálfu stefnda að ræða. Að auki hafi verið augljóst þeim sem horfðu á fyrri fréttina þann 25. mars af myndskreytingu og grafík að hún fjallaði um verk stefnanda sem forsvarsmanns og aðaleiganda Fons hf. Þar birtist t.d. mynd af samningi milli Glitnis banka hf. og Fons hf. vegna umrædds láns.

Verði hins vegar svo ólíklega talið að umrædd árétting í fréttum Ríkisútvarpsins þann 26. mars sl. hafi ekki verið nægileg, vísar stefndi því alfarið á bug að sá hluti ummælanna sem snýr að samsömun stefnanda við hlutafélagið Fons geti talist fela í sér brot gegn 234. og 235. gr. alm. hgl. Stefnandi hafi verið aðaleigandi hlutafélagsins, annar tveggja prókúruhafa og einn skráður í framkvæmdastjórn. Það megi því vera nokkuð augljóst að engar stærri ákvarðanir hafi verið teknar í hlutafélaginu, svo sem um stórar lántökur, án þess að stefnandi sjálfur hefði um það allt að segja. Þá bendir stefndi jafnframt á að stefnandi hafi um árabil verið kenndur við hlutafélagið Fons, án þess að stefnandi hafi gert við það athugasemdir. Stefnandi hafi raunar sjálfur margsinnis og endurtekið samsamað sig félaginu Fons hf., eins og sjá megi af framlögðum gögnum sem tekin hafi verið saman af Fjölmiðlavakt CreditInfo. Þannig hafi stefnandi í að minnsta kosti 50 tilfellum samsamað sig félaginu, meðal annars með því að nota persónufornafnið „ég“ þegar hann hafi fjallað um Fons hf., eins og sjá megi af framlögðum gögnum. Málatilbúnaður stefnanda að þessu leyti gangi því einfaldlega ekki upp. Við þetta megi ennfremur bæta að skiptastjóri Fons hf. hafi höfðað mál á hendur stefnanda og farið fram á að stefnandi endurgreiði búinu greiðslur vegna persónulegra útgjalda sem Fons hf. muni hafa greitt fyrir stefnanda. Bendi þetta allt til þess að stefnandi hafi sjálfur ekki gert greinarmun á sjálfum sér og hlutafélaginu Fons.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á þeirri dómvenju íslensks réttar í málum sem þessum að sannindi ummæla valdi sýknu og sá sem borinn sé sökum njóti vafans um sönnun. Að baki frétt stefnda liggi upplýsingar frá heimildarmönnum sem stefndi meti trúverðuga og áreiðanlega. Réttur fréttamanna og fréttastofa til að standa vörð um og halda leynd yfir heimildum og heimildarmanni sem hafðir séu fyrir fréttum sé hornsteinn lýðræðislegrar og frjálsrar fréttamennsku. Þessi réttur sé meðal annars lögfestur í 2. mgr. 119. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og staðfestur með dómsúrlausnum Hæstaréttar.

Stefndi hafi lagt sjálfstætt og hlutlægt mat á upplýsingarnar og metið trúverðugleika heimildanna í samræmi við almennt viðurkenndar starfsreglur fréttamanna. Með allt þetta í huga, auk mats stefnda á fréttagildi upplýsinganna, hafi stefndi talið sér sem fréttamanni bera skyldu til að flytja fréttir af umræddu málefni, enda ættu upplýsingarnar fullt erindi við almenning. Það hafi líka verið mat fréttastjóra Ríkisútvarpsins og vaktstjórans umræddan dag sem skipulagt hafi fréttatímann og lagt mat á hvaða fréttir ættu þar heima og í hvaða röð þær skyldu vera.  Stefnandi haldi því fram að ekkert sé til í fréttinni og að peningarnir séu ekki týndir, heldur hafi þeim verið ráðstafað á nánar tiltekinn hátt. Annars vegar með greiðslu 2000 milljóna króna til Landsbankans sem hafi verið varið til uppgreiðslu á láni Fons hf. við bankann. Hins vegar hafi um 500 milljónum króna verið varið til kaupa á bréfum í Sjóði 9 hjá Glitni. Í fyrsta lagi hafnar stefndi því að skilja ætti fréttina bókstaflega þannig að peningarnir hefðu raunverulega „gufað upp“ eða horfið sporlaust en nánar sé vikið að þessu hér á eftir. Í öðru lagi mótmælir stefndi því að stefnanda hafi tekist að færa fullnægjandi sönnur á að nákvæmlega þeir fjármunir sem fengnir voru að láni með umræddri 2.500 milljóna króna lánveitingu Glitnis banka hf. sem fréttin snýst um, hafi verið notaðir til þess að annars vegar greiða lán hjá Landsbankanum og hins vegar til að kaupa í Sjóði 9. Hið eina sem gögn stefnanda sýni fram á sé að Fons hf. hafi ráðstafað ákveðnum fjárhæðum á umræddan hátt. Ekki sé hægt að fallast á það á neinn hátt að nægilega hafi verið sýnt fram á að um hafi verið að ræða nákvæmlega þá peninga sem fengust með umræddu láni frá Glitni banka hf. Það liggi fyrir, meðal annars samkvæmt upplýsingum úr skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, að Fons hf. hafi fengið til viðbótar verulegar fjárhæðir að láni frá Glitni á sama tíma og lán það var veitt sem mál þetta snýst um. Meðal annars mun Fons hf. hafa fengið lán að fjárhæð um 10 milljarðar króna í árslok 2007 samkvæmt upplýsingum úr skýrslunni. Þá hafi verið gerð grein fyrir því í seinni fréttinni þann 26. mars að samtals hefðu fyrirtæki tengd stefnanda fengið um 22 milljarða króna að láni frá Glitni á nokkurra mánaða tímabili frá desember 2007. Hafi fjármunum sem fengust við umrætt 2.500 milljarða króna lán sannarlega verið ráðstafað á þann hátt sem stefnandi heldur fram, ætti að standa honum nær að sýna fram á það með óyggjandi hætti. Stefndi skori á stefnanda að gera slíkt. Það hafi reyndar Ingólfur Bjarni Sigfússon líka gert, einn varafréttastjóra Ríkisútvarpsins, í samtali við stefnanda að morgni 26. mars. Stefnandi hafi neitað en sent stefnda loks færslunúmer í tölvupósti í kjölfar símtals þeirra seinnipart sama dags. Stefndi hafi gert stefnanda strax grein fyrir því í símtalinu að gögnin væru ófullnægjandi til að hrekja það sem fram hefði komið í fréttinni 25. mars og óskað eftir ítarlegri og betri gögnum. Þau hafi ekki borist. Hafi peningarnir sem fengust við lánveitinguna verið notaðir á þann hátt sem stefnandi heldur fram sé ljóst að skilmálar lánsins hafi verið brotnir en í 1. gr. segir að ráðstafa skuli láninu til almennra fjárfestinga. Uppgreiðsla á láni í Landsbankanum og kaup á bréfum í Sjóði 9 í Glitni falli ekki undir almennar fjárfestingar. Þá sé ennfremur ljóst að lánið hafi ekki verið greitt frekar en nokkurt hinna lánanna sem sagt hafi verið frá í fréttinni 26. mars. Stefndi hafi undir höndum gögn sem sýni fram á að þegar áðurnefnd inneign í Sjóði 9 var innleyst af Fons hf., þann 17. janúar 2008, hafi vextir numið 6.247.019 krónum. Ætla megi að Fons hf. hafi því haft 493.747.019 krónur í handbært fé á þeim tíma sem inneignin var innleyst, þ.e. sú fjárhæð sem upphaflega var keypt fyrir, auk vaxta. Stefndi hafi jafnframt heimildir fyrir því að þrátt fyrir þetta hafi Fons hf. ekki staðið skil á afborgun lánsins þann 28. febrúar 2008, eða um mánuði síðar, þrátt fyrir hið handbæra fé. Fyrsta afborgun samkvæmt skilmálum lánasamningsins hafi numið 833 milljónum króna auk vaxta. Slíkt veki óneitanlega upp spurningar um hvort til hafi staðið frá upphafi að standa skil á láninu. Enn og aftur áréttar stefndi að staðfest sé samkvæmt gögnum frá Glitni banka að lánið hafi ekki verið greitt og sé í vanskilum. Að mati stefnda staðfestir þetta að peningarnir „hurfu“, það er í þeim skilningi að tjón Glitnis banka hf. af lánveitingunni er algert. Stefnandi ber allan halla af skorti á sönnun fyrir fullyrðingum sínum í stefnu. 

Stefndi byggir á grundvallarreglunni um tjáningarfrelsi sem lögvarin sé af 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Tjáningarfrelsið sé einnig varið af 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Nauðsynlegt sé að taka mið af ákvæðum um tjáningarfrelsi við úrlausn málsins, enda ljóst að verði fallist á kröfu stefnanda að hluta eða að öllu leyti sé um að ræða takmörkun á tjáningarfrelsi stefnda. Öll skerðing á tjáningarfrelsi verði að hafa stoð í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. byggjast á lögum, þjóna lögmætu markmiði og vera nauðsynleg. Þá megi ráða af framkvæmd dómstóla, bæði hér á landi og Mannréttindadómstóls Evrópu, að allar takmarkanir á tjáningarfrelsi verði að skýra þröngt og að varlega beri að fara við að hefta umræður í lýðræðislegu þjóðfélagi með refsikenndum viðurlögum. Stefndi hafnar því að stefnanda hafi tekist að sýna fram á að skilyrði takmörkunar á tjáningarfrelsi stefnda séu uppfyllt í málinu, þ.e. með því að brotið hafi verið gegn æru stefnanda. Stefndi bendir á að fjölmiðlar hafi mikilvægu hlutverki að gegna í nútímaþjóðfélagi og nauðsynlegt sé að blaðamenn hafi frelsi til tjáningar. Við mat á því hvort hagsmunir skarist, þ.e. tjáningarfrelsi og meint brot gegn æru manna, beri að líta til þess hvort hið birta efni geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings. Eins og fram hafi komið hafi umfjöllun í fréttinni snúist um lántöku hlutafélags, þar sem stefnandi hafi verið fyrirsvarsmaður, á gríðarlega háum fjárhæðum, hvernig fénu var ráðstafað samkvæmt upplýsingum heimildarmanns stefnda og ekki síst þá staðreynd að ekkert hafi verið greitt af umræddu láni og muni væntanlega aldrei verða gert. Þá hafi einnig verið sagt frá því hvernig veðið fyrir láninu hafi komist í hendur Fons hf. en það hafi verið skuldaviðurkenning frá Baugi Group hf. sem nú sé gjaldþrota. Aðaleigandi þess fyrirtækis hafi verið viðskiptafélagi stefnanda til margra ára, ráðandi eigandi í Glitni í gegnum fyrirtæki sín og einn þeirra sem slitastjórn Glitnis banka hf. hafi stefnt í Bandaríkjunum ásamt stefnanda.

Við mat á því hvort efni fréttarinnar skuli teljast þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings verði að hafa í huga að stefnandi sjálfur, sem og hlutafélagið Fons, hafi um árabil verið mikið í fjölmiðlum og umræðu manna á milli. Stefnandi hafi ennfremur verið mjög áberandi í viðskiptalífi hérlendis og erlendis, ýmist í jákvæðu eða neikvæðu ljósi. Þá verði ekki hjá því litið að Fons hf., sem stefnandi hafi verið í forsvari fyrir, hafi um tíma verið stór hluthafi í FL Group hf. (síðar Stoðir hf.) sem farið hafi með virkan eignarhlut í Glitni banka hf. Fréttir um stefnanda hafi því oftar en ekki snúið að hans hlutverki í bankahruninu en eftir hrun íslensku bankanna haustið 2008 hafi fjölmiðlar verið undirlagðir fréttum um bankahrunið og kreppuna, orsakir þeirra og tengd atriði. Almenningur í landinu hafi allt frá hruninu krafist þess af fjölmiðlum að þeir miðli öllu efni sem varðað geti almenning, sér í lagi þegar efnið sé til þess fallið að varpa ljósi á þætti sem varði aðila sem gegndu lykilhlutverkum í íslensku efnahagslífi.

Mannréttindadómstóll Evrópu hafi bent á að tjáning njóti mestrar verndar ef um þátttöku í svokölluðum pólitískum umræðum sé að ræða eða framlag til umræðu um málefni sem varði almenning. Þannig verði stjórnmálamaður að una harkalegri gagnrýni, ekki síst ef hann hafi sjálfur látið orð falla sem séu til þess fallin að vekja viðbrögð. Að mati stefnda eigi framangreint fullum fetum við það efni sem birst hafi í fréttinni þann 25. mars sl. Þá telur stefndi að stefnandi verði, líkt og stjórnmálamenn, að þola harkalegri gagnrýni en almenningur sem ekki hafi látið á sér bera í fjölmiðlum og viðskiptalífi undanfarin ár.

Stefndi telur í ljósi framangreinds að efni fréttarinnar hafi átt fullt erindi við almenning og hafi verið þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu. Stefndi telur jafnframt mikilvægt að missa ekki sjónar á inntaki fréttarinnar og hver voru þar aðalatriðin. Grundvallaratriðið í frétt stefnda sé að hlutafélag, sem stefnandi hafi verið í forsvari fyrir, hafi fengið háa fjárhæð að láni síðla árs 2007 og lán þetta hafi ekki verið greitt til baka í samræmi við skilmála lánsins um endurgreiðslu. Vegna gjaldþrots Fons hf. sé ennfremur fyrirséð að lítið sem ekkert muni fást greitt upp í lánið. Kröfuhafar Glitnis banka hf. beri því tjónið. Það sé fráleitt að mati stefnda að taka út örfá orð eða örfá ummæli úr fréttinni og halda því fram að þau hafi átt að hafa bókstaflega merkingu. Það hljóti að blasa við að ummælin „hurfu í reyk“ og „gufaðar upp“ beri ekki að taka bókstaflega. Þá vísi stefndi því jafnframt alfarið á bug að orðalagið „rétt fyrir hrun“ geti falið í sér ærumeiðingar fyrir stefnanda. Stefnandi heldur því fram að þar sem lánið hafi verið tekið í desember 2007, eða um 9 mánuðum fyrir hrun, séu ummælin hvað þetta varðar röng. Þessu mótmælir stefndi. Ummælin „rétt fyrir hrun“ lúti að tímamörkum sem séu afstæð og ómögulegt að halda því fram að þau séu röng. Óneitanlega geti eitthvað sem gerist 8-9 mánuðum fyrir bankahrun talist vera „rétt fyrir“ að mati stefnda. Þá beri einnig að hafa í huga að greiðslum af láninu hafi  ítrekað verið frestað með sérstökum gerningum fram á sumarið 2008.

Stefndi hafnar því ennfremur að orðalagið „peningarnir eru týndir“ og „en þeir peningar finnast hins vegar hvergi“ feli í sér ærumeiðandi ummæli fyrir stefnanda sem skuli teljast vera brot gegn 234. eða 235. gr. alm. hgl. Það sem stefndi hafi átt við með umræddum ummælum sé einfaldlega að ekki hafi tekist að rekja slóð peninganna samkvæmt heimildum sem stefndi hafi talið áreiðanlegar. Líkt og þegar hafi verið færð rök fyrir telur stefndi að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á hið gagnstæða. Stefndi hafi ennfremur átt við með ummælunum að ekki hafi verið greidd króna af umræddu láni og muni líklega aldrei verða gert. Stefndi bendir á að tilgangur með ummælum skipti máli við mat á því hvort skilyrði fyrir því að takmarka tjáningarfrelsi séu fyrir hendi. Tilgangur stefnda með fréttinni hafi verið að draga athygli að málefni sem verðskuldi athygli almennings.

Til viðbótar við framangreint bendir stefndi á að í nauðsynlegri og frjálsri umræðu í lýðræðislegu þjóðfélagi geti komið fyrir að einhver einföldun finnist í fréttum. Í almennum fréttatímum sé jafnan leitast við að setja flókna hluti fram á einfaldan og skiljanlegan hátt á máli sem allur almenningur skilji. Stefndi telur slíkt hins vegar ekki eiga að leiða til þeirrar niðurstöðu að sá sem fréttin varðar eignist refsi- og/eða miskabótakröfu vegna meiðyrða.

Stefndi vísar á bug málatilbúnaði stefnanda þess efnis að fréttin hafi verið til þess fallin að rýra stefnanda í áliti og gera hann ótrúverðugan í viðskiptum. Stefndi bendir á að staðhæfing stefnanda að þessu leyti sé vart í samhengi við það orðspor og ímynd sem ætla megi að stefnandi hafi meðal almennings á Íslandi nú um stundir. Stefnandi hafi um langt skeið verið í hópi svokallaðra „útrásarvíkinga“, en umfjöllun um þá í fjölmiðlum og meðal almennings hafi verið í neikvæðu ljósi allt frá hruni bankanna. Stefnandi sé þar hvergi undanskilinn. Stefnandi hafi raunar sjálfur viðurkennt að bera sína ábyrgð á hruninu og að hafa tekið þátt í „siðferðislega vafasömum viðskiptum“, sbr. viðtal við stefnanda sem birst hafi í DV þann 5. mars 2010 undir fyrirsögninni „Ég iðrast“. Því sé vandséð hvernig frétt sú er mál þetta varði hafi verið til þess fallin að rýra stefnanda enn frekar í áliti.

Stefndi telur einsýnt að tilgangur stefnanda með málshöfðun sé að fæla stefnda, Ríkisútvarpið og aðra fjölmiðla frá því að fjalla um viðskipti stefnanda og annarra í hópi útrásarvíkinga, frá því að fjalla um aðdraganda og orsakir hrunsins á beittan og gagnrýninn hátt.

Hvað sem öllu öðru líði telur stefndi nauðsynlegt að litið sé heildstætt á það efni sem birst hafi í fréttinni þann 25. mars sl. og það virt í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu hér á landi undanfarin misseri. Sem fyrr segir séu þröng skilyrði fyrir því að heimilt sé að takmarka tjáningarfrelsi. Engin slík skilyrði séu fyrir hendi í málinu. Stefnandi hafi einfaldlega ekki sýnt fram á að lagaskilyrði séu til staðar sem réttlæti takmörkun á tjáningarfrelsi stefnda. Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Stefndi krefst sýknu af refsikröfu stefnanda samkvæmt kröfulið 2. Stefndi mótmælir refsikröfunni alfarið og telur ekki grundvöll fyrir henni. Eins og færð hafi verið rök fyrir telur stefndi sig hvorki hafa brotið gegn 234. né 235. gr. almennra hegningarlaga með ummælum sínum í frétt Ríkisútvarpsins þann 25. mars sl. Stefndi telur sig þannig ekki með neinu móti hafa meitt æru stefnanda með móðgun í orðum eða athöfnum eða borið slíkt út í skilningi 234. gr. laganna. Þaðan af heldur telur stefndi fréttina hafa falið í sér aðdróttun sem myndi verða virðingu stefnanda til hnekkis í skilningi 235. gr. laganna.

Fari svo ólíklega að stefndi verði talinn hafa brotið gegn 234. gr. og/eða 235. gr. alm. hgl. krefst hann samt sem áður sýknu af refsikröfu stefnanda. Stefndi bendir á að tilvitnun stefnanda til refsiákvæða sé of almenns eðlis og skorti með öllu að sýnt sé fram á með hverjum hætti hver og ein ummæli geti bakað stefnda refsiábyrgð samkvæmt tilvitnuðum lagaákvæðum. Verði því ekki hjá því komist að sýkna stefnda af refsikröfu stefnanda.

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu af miskabótakröfu stefnanda á því sem fram hefur komið hér að framan. Jafnframt byggir stefndi á því að saknæmisskilyrði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 hafi ekki verið uppfyllt við fréttaflutning hans. Stefndi bendir á að ákvæði b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga geri að skilyrði fyrir greiðslu miskabóta að tjónvaldur hafi gerst sekur um „ólögmæta meingerð“. Krafa um ólögmæta meingerð sé samofin saknæmisskilyrðinu og feli í sér að miskabætur verði ekki dæmdar nema að um ásetning eða stórkostlegt gáleysi hafi verið að ræða þegar umrædd ummæli voru viðhöfð. Skilyrði þetta sé ekki uppfyllt í tilfelli stefnda, enda hafi hann flutt fréttina í góðri trú og stuðst við heimildir sem hann hafi talið traustar og áreiðanlegar. Beri því að sýkna stefnda af miskabótakröfu stefnanda.

Komist dómurinn hins vegar að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi gerst sekur um ólögmæta meingerð í skilningi 26. gr. skaðabótalaga mótmælir stefndi kröfu stefnanda um greiðslu á miskabótum að fjárhæð 3.000.000 króna. Í ljósi aðstæðna telur stefndi kröfuna allt of háa og ekki í samræmi við dómvenju. Stefndi telur mannorð og æru stefnanda ekki hafa orðið fyrir tjóni vegna fréttar stefnda. Telji dómurinn stefnanda hins vegar hafa orðið fyrir tjóni telur stefndi slíkt tjón svo smávægilegt að dómur í málinu hljóti að teljast nægilegur til að rétta hlut stefnanda. Því séu ekki efni til að dæma miskabætur í málinu eða í öllu falli einungis smávægilega fjárhæð.

Stefndi mótmælir kröfu stefnanda samkvæmt kröfulið nr. 4 um greiðslu á  600.000 krónum vegna kostnaðar við birtingu dóms í tveimur dagblöðum og krefst sýknu af kröfunni. Um rökstuðning vegna kröfu um sýknu af þessum kröfulið vísar stefndi til umfjöllunar hér að framan. Stefndi bendir jafnframt á að krafa stefnanda að þessu leyti sé of há og ekki í samræmi við dómvenju.

Um lagarök er vísað til almennra reglna um ærumeiðingar og meiðyrði sem og 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefndi vísar jafnframt til 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944 með síðari breytingum sem og til 6. og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá vísar stefndi til framangreindrar umfjöllunar eftir því sem við á. Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. og 130. gr. laganna.

III.

Málavaxtalýsing varastefndu, Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur og Páls Magnússonar.

Varastefndu telja óhjákvæmilegt að gera nokkrar athugasemdir við málavaxtalýsingu stefnanda og mótmæla málavaxtalýsingu stefnanda að því marki sem hún fer gegn lýsingu varastefndu á málavöxtum. Af hálfu varastefndu er tekið undir lýsingu málavaxta í greinargerð aðalstefnda Svavars. Til viðbótar vilja varastefndu taka fram að varastefnda María Sigrún er starfandi fréttamaður á fréttastofu Ríkisútvarpsins en starfi enn fremur sem fréttaþulur. Varastefndi Páll gegni stöðu útvarpsstjóra samkvæmt 10. gr. laga nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf.  Hvorugt þeirra komi nærri gerð fréttar þeirrar sem um sé deilt í málinu eða nálægt ákvörðunum um hvort fréttin skyldi unnin, á hvaða hátt hún skyldi sett fram eða hvar og hvenær hún skyldi birt. 

Þann 25. mars 2010 hafi aðalstefndi Svavar unnið frétt fyrir aðalfréttatíma Ríkissjónvarpsins um lán sem Glitnir banki hf. hafði veitt Fons hf. að fjárhæð 2.500 milljónir króna. Frá því hafi verið greint að stefnandi  hefði sett skuldaviðurkenningu frá Baugi Group hf. að veði þegar Fons hf. var veitt lánið rétt fyrir hrun þriggja stærstu viðskiptabanka Íslands, þ.e. Glitnis banka hf., Kaupþings banka hf. og Landsbanka Íslands hf., í byrjun október 2008. Í inngangi að fréttatímanum komi fram að fyrrgreind fjárhæð virtist hafa gufað upp í flókinni viðskiptafléttu með Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Þá komi og fram í fréttinni að Baugur Group hf. hafi verið í miklum vanskilum við Glitni banka hf. á þeim tíma þegar skuldaviðurkenning félagsins var tekin að veði til tryggingar greiðslu lánsins til Fons hf. Í niðurlagi fréttarinnar komi fram að þau félög sem tengdust þessum viðskiptum, þ.e. Glitnir banki hf., Baugur Group hf. og Fons hf., væru öll gjaldþrota en peningarnir fyndust hvergi. Í engu hafi verið getið um eða ýjað að auðgunarbroti eða annarri refsiverðri háttsemi í fréttaflutningnum.

Mjög stytt útgáfa fréttarinnar var flutt í fréttum Ríkissjónvarpsins kl. 22:00 sama kvöld. Í báðum fréttatímum hafi varastefnda María Sigrún verið fréttaþulur og lesið inngang fréttarinnar í fréttatímanum kl. 19:00 og útdráttinn í fréttatímanum kl. 22:00.

Í símskeyti lögmanns stefnanda til aðalstefnda, sem sent hafi verið þann 26. mars 2010, komi fram athugasemdir við fréttaflutninginn auk þess sem bent hafi verið á meintar rangfærslur í fréttinni. Í frétt sem aðalstefndi hafi unnið um sama mál og birt hafi verið í aðalfréttatíma Ríkissjónvarpsins þann 26. mars 2010 komi fram að stefnandi teldi sig geta gert grein fyrir því hvað orðið hefði um lánsfjárhæðina. Hún hafi verið notuð til að greiða lán Fons hf. við Landsbankann og til kaupa á sjóðsbréfum Glitnis banka hf. Einnig komi fram í fréttinni að fréttastofu hefðu verið afhentar færslukvittanir sem ætlað væri að sýna fram á þetta en að ekki væri unnt að lesa það út úr þeim.  Með hliðsjón af athugasemdum lögmanns stefnanda hafi í fréttinni sérstaklega verið tekið fram að „[a]f frétt gærdagsins hefði mátt skilja að Pálmi hafi sjálfur tekið umrætt 2.500 milljóna lán persónulega, en ekki eignarhaldsfélag hans, Fons, sem nú er í skiptameðferð. Hér með er áréttað að Fons tók lánið, en Pálmi var þar aðaleigandi, annar tveggja prókúruhafa og einn skráður í framkvæmdastjórn samkvæmt fyrirtækjaskrá.“.

Málsástæður og lagarök varastefndu.

Krafa varastefndu um sýknu byggir í fyrsta lagi á aðildarskorti stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi hafi sjálfur haldið því fram frá upphafi málsins að það hafi verið lögaðilinn Fons hf., en ekki stefnandi sjálfur, sem hafi tekið lánið frá Glitni sem fréttin fjalli um. Stefnandi hafi krafist þess að fréttin yrði leiðrétt og að fram kæmi að Fons hf. hefði tekið lánið. Fallist dómurinn á það sé ljóst að stefnandi eigi ekki aðild að málinu að því leyti sem það varði ummæli um afdrif láns sem þriðji aðili, þ.e. Fons hf., hafi tekið. Eigi þetta við um kröfuliði 1.a, 1.d og  1.e, þar sem ummæli í þeim liðum snúi að Fons hf. og lántöku þess félags. Fons hf. sé ekki aðili að máli þessu og stefnandi geti ekki haft uppi kröfur vegna ummæla sem snúi að Fons hf. Í þessu sambandi byggja varastefndu einnig á því að í fréttatíma Ríkissjónvarpsins þann 26. mars 2010 hafi sérstaklega verið áréttað að Fons hf. hefði tekið umrætt lán en ekki stefnandi persónulega. Hafi verið uppi vafi að því leyti eftir fréttaflutninginn þann 25. mars 2010 þá hafi þeim vafa verið eytt í fréttatíma Ríkissjónvarpsins þann 26. mars 2010. Af því leiði að ummæli í kröfuliðum 1.b og 1.c hafi einnig fjallað um Fons hf. en ekki stefnanda.  Eigi því sömu sjónarmið um aðildarskort við um þá kröfuliði og um kröfuliði 1.a, 1.d og 1.e hér að framan. Virðist raunar sem afstaða stefnanda sé nokkuð á reiki hvað þetta atriði varðar.  Stefnandi virðist öðrum þræði vilja aðgreina sig frá Fons hf. en þess megi einnig sjá merki að hann hafi samsamað sig með félaginu svo sem meðal annars sé rakið í greinargerð aðalstefnda og þeim skjölum sem aðalstefndi hafi lagt fram í málinu. Varastefndu byggja á því að stefnandi fái ekki bæði sleppt og haldið að þessu leyti en í ljósi þess að stefnandi hafi uppi þungbærar kröfur á hendur varastefndu og þess að sönnunarbyrðin í málinu hvíli á stefnanda verði að skýra allan vafa hér að lútandi varastefndu í hag.

Varastefndu byggja á því að þau ummæli, sem mál þetta varði, hafi verið sannleikanum samkvæm og byggð á áreiðanlegum heimildarmönnum. Sannindi ummælanna leiði til sýknu af öllum kröfum stefnanda á grundvelli almennra reglna um ærumeiðingar og meiðyrði. Vísa varastefndu að þessu leyti til sömu málsástæðna og raktar eru í greinargerð aðalstefnda varðandi þetta atriði. Taka varastefndu jafnframt undir áskorun aðalstefnda gagnvart stefnanda um að leggja fram gögn sem sýni með óyggjandi hætti hvernig þeim 2.500 milljónum króna, sem vísað hafi verið til í fréttinni, hafi verið varið. Varastefndu byggja á því að ekki megi gera óhæfilegar kröfur til þeirra um sönnun á sannleiksgildi hinna umstefndu ummæla. Varastefndu byggja á því að það myndi reynast þeim óhæfilega íþyngjandi ef þeim væri gert að sanna hin umstefndu ummæli til fullnustu og að slíkar kröfur myndu fela í sér ósanngjarnar takmarkanir á tjáningarfrelsi þeirra, sem verndað sé af 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. stjórnskipunarlög nr. 33/1944 með síðari breytingum, sbr. einkum 3. mgr. þeirrar greinar. Skilyrði 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar geri að verkum að varastefndu verði ekki dæmd til greiðslu miskabóta, eða sök felld á þau að öðru leyti í málinu, nema að það verði talið nauðsynlegt og samræmist lýðræðishefðum að gera þau skaðabótaskyld vegna lestrar á inngangi fréttar (að því er varðar Maríu Sigrúnu) eða vegna stöðu sinnar sem útvarpsstjóri (að því er varðar Pál). Verði einkum að hafa í huga að varastefndu hafi ekki verið í beinu sambandi við heimildarmenn fyrir fréttinni, þau ekki komið að vinnslu hennar og hafi í starfi sínu enga raunhæfa möguleika á því að staðreyna efni frétta. Varastefndu telja óbilgjarnt og ósanngjarnt af stefnanda að beina kröfum að þeim í ljósi framangreinds. Varastefndu benda á að stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn eða upplýsingar sem hreki sannleiksgildi þeirra ummæla sem mál þetta lúti að. 

Ekki verði séð að stefnandi byggi á sakarreglu skaðabótaréttar til stuðnings kröfum sínum en sakarreglan sé með réttu grundvöllur bótakrafna í meiðyrðamálum.  Þess í stað byggi stefnandi eingöngu á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og því að í hinum umstefndu ummælum hafi falist „ólögmæt meingerð gegn æru stefnanda og persónu“. Þar eð stefnandi byggi kröfur sínar ekki á fullnægjandi bótagrundvelli eða málsástæðum beri að sýkna varastefndu af bótakröfum stefnanda í málinu. Þá byggja varastefndu á því að saknæmisskilyrði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 hafi ekki verið uppfyllt að því er varðar hin umdeildu ummæli. Beri því að sýkna varastefndu af öllum kröfum stefnanda í málinu. Ákvæði 26. gr. skaðabótalaga geri að skilyrði fyrir greiðslu miskabóta að tjónvaldur hafi gerst sekur um ólögmæta meingerð. Sú krafa sé samofin saknæmisskilyrðinu og feli í sér að miskabætur verði ekki dæmdar nema að um hafi verið að ræða ásetning eða stórkostlegt gáleysi þegar ummæli voru viðhöfð.  Þau skilyrði séu síst uppfyllt í málinu. Jafnframt sé ljóst að háttsemi þurfi að vera af tilteknum grófleika til að teljast ólögmæt meingerð.  Þá skuli bent á að í norrænum rétti hafi verið talið að niðurlæging sé helsta einkenni ólögmætrar meingerðar í skilningi skaðabótalaga. Það sé niðurlægingin sem grundvalli miskabótakröfuna. Eins og nánar verði fjallað um hér síðar verði ekki séð að ummæli stefnda geti með nokkru móti talist óviðurkvæmileg eða niðurlægjandi fyrir stefnanda. Geti því ekki hafa verið um að ræða ólögmæta meingerð.  Hér verði og að hafa í huga að stefnandi, líkt og aðrir áberandi menn úr viðskiptalífinu, stjórnmálum o.s.frv., verði að þola aðgangsharðari umfjöllun en almennir borgarar.

Varastefndu byggja á grundvallarreglunni um tjáningarfrelsi, sem vernduð sé jafnt í 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 62/1994.  Umrædd mannréttindaákvæði hafi fengið verulega aukið vægi á undanförnum árum, jafnt í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands sem Mannréttindadómstóls Evrópu.  Ákvæðin verði að hafa í huga við úrlausn málsins, enda myndi skylda varastefndu til að greiða miskabætur fela í sér takmarkanir á tjáningarfrelsi þeirra og í raun atvinnufrelsi sem njóti verndar samkvæmt 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.  Hæstiréttur Íslands sem og Mannréttindadómstóll Evrópu hafi margsinnis staðfest að skýra verði undantekningar frá tjáningarfrelsi þröngt, enda verði þær samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar að teljast „nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum“ og samkvæmt 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verði að bera „nauðsyn til þeirra í lýðræðislegu þjóðfélagi“. Varastefndu telja, með vísan til eðlis og efnis ummælanna, fjarri lagi að slík nauðsyn sé fyrir hendi í þessu máli.  Verði því að sýkna þau af kröfum stefnanda. Að öðru leyti vísa varastefndu til þeirra málsástæðna sem raktar séu í greinargerð aðalstefnda.

Varastefndu mótmæla því að í ummælunum hafi falist ólögmæt meingerð gegn æru stefnanda og persónu, meiðyrði, móðganir eða aðdróttanir. Telja varastefndu jafnframt ósannað að nokkuð í þeim ummælum hafi verið til þess fallið að valda stefnanda tjóni. Ummælin, sem mál þetta varði, hafi öll verið sett fram á hlutlausan hátt. Þar sé ekki með neinum hætti dróttað að stefnanda, ráðist á æru hans eða með nokkru móti vísað til þess að stefnandi hafi haft í frammi refsiverða eða siðferðilega ámælisverða háttsemi. Að öðru leyti vísa varastefndu til þeirra málsástæðna sem raktar séu í greinargerð aðalstefnda varðandi þetta efni.

Stefnandi haldi því meðal annars fram í stefnu að hin umstefndu ummæli séu ósönn og virðingu stefnanda til hnekkis og að þau hafi verið til þess fallin að rýra stefnanda í áliti og gera hann ótrúverðugan í viðskiptum. Varastefndu mótmæla þessum fullyrðingum stefnanda og öðrum sambærilegum í stefnu, sem röngum og ósönnuðum, enda telja varastefndu þær tæplega vera í samhengi við það orðspor og þá ímynd, sem ætla verði að stefnandi hafi meðal almennings á Íslandi eða þeirra sem sérhæfa sig í viðskiptum almennt. Allt frá hruni bankanna í október 2008 hafi nafn stefnanda verið tengt við hina svokölluðu „útrás“ íslensks fjármálalífs í neikvæðri merkingu. Stefnandi hafi verið aðaleigandi og framkvæmdastjóri fjárfestingarfélagsins Fons hf. sem nú sé gjaldþrota.  Í umfjöllun fjölmiðla hafi nafn stefnanda verið órjúfanlega tengt bankahruninu, afleiðingum bankahrunsins á íslenskt efnahagslíf o.fl. Umfjöllun fjölmiðla um stefnanda í tengslum við framangreind atriði hafi verið neikvæð, hvort sem stefnandi telji þá umfjöllun ósanngjarna eður ei.

Varastefndu halda því ekki fram að einungis menn með óflekkaða æru og mannorð geti krafist miskabóta vegna ærumeiðinga en hér verði þó að meta hlutina í samhengi. Stefnandi sé í hópi manna sem hafi verið úthrópaðir á spjallsíðum, í fjölmiðlum og víðar, hús þeirra ötuð málningu og hróp að þeim gert. Megi leiða að því líkur að virðing almennings fyrir stefnanda hafi verið takmörkuð og ímynd hans miður góð eftir hrun bankanna í október 2008. Þá megi nefna að Glitnir banki hf. hafi höfðað mál á hendur stefnanda ásamt öðrum í New York og stefnandi hafi viðurkennt í viðtali við DV að hafa tekið þátt í siðferðilega vafasömum viðskiptum og að eiga þátt í bankahruninu. Stefnandi geti þannig ekki með nokkru móti haldið því fram að mannorð hans sé óflekkað eða æra hans ómenguð.

Hér verði sérstaklega að hafa í huga að æra manns sé ekki gildi manns í sjálfu sér, heldur hugmynd, dómur eða álit um þetta gildi. Verði þannig ekki séð hvernig hin umstefndu ummæli geti með sjálfstæðum hætti hafa valdið því að orðspor eða ímynd stefnanda skaðaðist, enda séu ummælin algjörlega minniháttar og vart merkjanleg stærð í samhengi við þá stöðu sem stefnandi hafi í íslensku viðskiptalífi og meðal almennings í dag. Hafi stefnandi raunar alls ekki reynt að sýna fram á tjón sitt nema með almennum fullyrðingum í stefnu. Meint tjón stefnanda sé því ósannað.

Varastefnda María Sigrún byggir á því að hún beri ekki ábyrgð á þeim ummælum sem stefnt sé fyrir. Í málinu sé óumdeilt að aðalstefndi hafi aflað upplýsinganna og heimildanna að baki fréttunum og skrifað þær. Eðli máls samkvæmt geti varastefnda María Sigrún ekki borið ábyrgð á því efni. Nauðsynlegt sé að skýra b-lið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 53/2000 á þann veg að lesinn inngangur fréttar sé hluti af fréttinni og verði ekki frá henni skilinn. Aðalstefndi teljist þar af leiðandi höfundur og flytjandi þeirra ummæla í skilningi a og b-liða 1. mgr. 26. gr. útvarpslaga nr. 53/2000. Þá byggir varastefnda María Sigrún á því að við framsetningu inngangs að fréttunum hafi hún einungis kynnt fréttina með saklausum og hlutlausum inngangi, gætt hófs og lesið innganginn í góðri trú. Engin ritstjórnarleg ábyrgð fylgi starfi varastefndu Maríu Sigrúnar, enda sé hún fyrst og fremst textalesari sem flytji fréttir í myndveri til útsendingar. Varastefnda komi ekki að vinnslu umræddrar fréttar, frekar en annarra frétta sem fluttar séu í Ríkissjónvarpinu. Aðrir aðilar semji bæði umræddar kynningar og fréttir. Það sé því hvorki nauðsynlegt né samræmist lýðræðishefðum að gera varastefndu Maríu Sigrúnu skaðabótaskylda í málinu, sbr. skilyrði 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Varastefnda María Sigrún byggir einnig á því að fréttaþulur geti ekki talist flytjandi í skilningi b-liðar 1. mgr. 26. gr. útvarpslaga nr. 53/2000. Hugtakið flytjandi sé ekki skilgreint í lögunum. Í ljósi þess hve ákvæði 26. gr. útvarpslaga geti reynst íþyngjandi verði ákvæði þeirrar greinar ekki skýrð rýmkandi skýringu að þessu leyti. Skilja verður hugtakið „flytjandi“ sem svo að átt sé við einstakling sem taki ígrundaða ákvörðun um að flytja tiltekið efni sem hann þekki áður en það sé flutt. Slíkt geti ekki tekið til fréttaþula sem lesi fréttir og sjái textann, sem þeir flytja, einungis nokkrum mínútum fyrir útsendingu. Sú skýring að fella fréttaþul undir flytjanda falli heldur ekki að markmiði löggjafans með setningu útvarpslaga. Í því sambandi skuli bent á að með nýjum útvarpslögum árið 2000 hafi verið gerðar breytingar á ábyrgðarreglum í 26. gr. sem hafi miðað að því að breyta þeim svo að þeir sem ekki hefðu með efnistök að gera yrðu ekki látnir bera ábyrgð. Hafi þessu t.d. verið breytt í tilfelli stjórnenda útsendinga sem höfðu áður borið ábyrgð þrátt fyrir að fást aðeins við tæknihlið útsendinga. Þá byggir varastefnda María Sigrún á því að þar sem hún hafi ekki verið höfundur efnisins sem um ræðir geti stefnandi heldur ekki reist kröfur sínar gagnvart henni á a-lið 1. mgr. 26. gr. útvarpslaga.

Varastefndi Páll byggir á því að líta verði á ummælin í kröfulið 1 a í stefnu (þ.e. fyrirsögn á fréttinni í inngangskafla fréttatímans) sem hluta af fréttinni í heild.  Aðalstefndi teljist þar af leiðandi höfundur og flytjandi þeirra ummæla í skilningi a og b-liða 1. mgr. 26. gr. útvarpslaga nr. 53/2000.

Stefnandi byggi á því að ef ekki verði talið að aðalstefndi beri ábyrgð sem flytjandi á ummælunum í kröfulið 1 a beri varastefndi Páll ábyrgðina sem útvarpsstjóri á grundvelli d-liðar 1. mgr. 26. gr. útvarpslaga. Því mótmælir varastefndi Páll. Þrátt fyrir að aðalstefndi verði ekki talinn bera ábyrgð á umræddri fyrirsögn þá sé ekki þar með sagt að útvarpsstjóri geri það. Stefnanda beri að leiða í ljós hver telst raunverulegur flytjandi að umræddu efni en sá einn geti borið ábyrgð á því. Ef svo ólíklega vill til að aðalstefndi teljist ekki höfundur þess og flytjandi þá hljóti að geta verið öðrum til að dreifa í því sambandi. Sönnunarbyrðin þar um hvíli hins vegar alfarið á stefnanda.

Þrautavarakrafa varastefndu byggir á því að dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu efni, þrátt fyrir framangreint, til að vísa kröfum stefnanda á hendur varastefndu frá dómi eða að sýkna varastefndu af kröfum stefnanda.

Varastefndu mótmæla kröfu stefnanda um greiðslu á miskabótum að fjárhæð  3.000.000 króna. Í ljósi aðstæðna og aðkomu varastefndu sé sú krafa allt of há og í ósamræmi við dómvenju. Varastefndu telja æru og mannorð stefnanda ekki hafa orðið fyrir tjóni vegna lesturs stefnda en hafi svo verið þá sé tjón stefnanda svo smávægilegt að dómur í málinu teljist fyllilega nægjanlegur til að rétta hlut stefnanda. Séu því ekki efni til að dæma neinar miskabætur í málinu eða þá einungis smávægilega fjárhæð.  Þá vísa varastefndu til sjónarmiða að baki 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til stuðnings lækkunarkröfu sinni en sanngjarnt hljóti að teljast að lækka dæmdar miskabætur í ljósi þess hve smávægileg aðkoma varastefndu hafi verið að málavöxtum og vegna þess að ætla verði að stefnandi sé vel efnaður.

Varastefndu mótmæla kröfu stefnanda um greiðslu á 600.000 krónum til að standa straum af birtingu forsendna og dómsorðs í tveimur dagblöðum. Krafa stefnanda að þessu leyti sé allt of há og í ósamræmi við dómvenju. Þá hafi stefnandi ekki rökstutt hvers vegna þörf geti verið á birtingu í fleiri blöðum en einu.

Sökum óvissu í málinu sé því mótmælt að stefnandi eigi rétt til málskostnaðar úr hendi varastefndu þó að kröfur hans verði að einhverju leyti teknar til greina, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dráttarvextir verði fyrst dæmdir af kröfum stefnanda frá dómsuppsögudegi.  Kröfur stefnanda séu bæði óljósar og háðar verulegum vafa sem hafi gert varastefndu nauðsynlegt að taka til varna í máli þessu. Ósanngjarnt sé að stefnandi njóti þess í formi dráttarvaxta. Vísa varastefndu að þessu leyti til sjónarmiða að baki 9. gr. laga nr. 38/2001.

Varastefndu byggja á almennum reglum um ærumeiðingar og meiðyrði sem og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá vísa varastefndu til 73. og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. stjórnskipunarlög nr. 33/1944 með síðari breytingum.  Varastefndu vísa og til 6. og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 18. og 19. gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

Málskostnaðarkrafa varastefndu eigi sér stoð í 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa varastefndu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Varastefndu séu ekki virðisaukaskattsskyld í þessu tilliti og því nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskattsins við ákvörðun málskostnaðar. Varastefndu byggja og á því til stuðnings öllum kröfum að það fái ekki staðist að miskabótakröfu stefnanda sé beint gegn aðalstefnda og varastefndu in solidum.  Miskabótakrafa stefnanda byggi á ólíkum atvikum, grundvelli og rökum gagnvart öllum þessum aðilum. Engin rök séu fyrir því að allir þessir aðilar verði dæmdir saman til greiðslu sameiginlegrar fjárhæðar þar sem þeim væri með því gert að bera ábyrgð á greiðslu hinna stefndu.  Telja varastefndu þennan annmarka á málatilbúnaði stefnanda eiga að leiða til frávísunar en ella sýknu af kröfum stefnanda.

IV.

Af hálfu stefnanda komu fyrir dóminn Guðný Reimarsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Fons hf., Rannveig Guðmundsdóttir, fyrrverandi starfsmaður Fons hf., og Stefán Hilmarsson, fyrrverandi fjármálastjóri Baugs Group hf. Aðalstefndi, Svavar Halldórsson, gaf einnig skýrslu.

Þann 25. mars 2010 birtist í aðalfréttatíma Ríkissjónvarpsins frétt sú sem er tilefni þessa máls og er efni fréttarinnar rakið hér að framan. Fyrir liggur að aðalstefndi, Svavar Halldórsson, aflaði heimilda, samdi fréttina og las meginefni hennar í fréttatímanum en aðkoma varastefndu Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur var einungis sú að lesa inngang fréttarinnar. Varastefndi Páll Magnússon kom ekki að fréttinni en er stefnt til vara á þeim grunni að hann beri ábyrgð samkvæmt d-lið 26. gr. útvarpslaga nr. 53/2000, komi til þess að meðstefndu verði sýknuð.

Af hálfu stefnanda hefur farið fram sönnunarfærsla fyrir dóminum um sannindi hinna umstefndu ummæla. Hefur stefnandi kallað til vitni og lagt fram skjöl sem hann telur að sanni að lán frá Glitni banka hf. að fjárhæð 2.500 milljónir króna hafi verið ráðstafað til greiðslu á láni hjá Landsbanka Íslands hf. og til kaupa á bréfum í peningamarkaðssjóði. Óumdeilt er að ekki var greitt af láninu frá Glitni banka hf. en fyrsti gjalddagi þess var 28. febrúar 2008. Fons hf. var tekið til gjaldskipta 30. apríl 2009.

Stefnandi var nokkrum sinnum nefndur á nafn í umræddri frétt og verður því ekki fallist á með varastefndu að hann eigi ekki aðild að málinu.

Tjáningarfrelsi nýtur verndar samkvæmt 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 þótt því séu settar skorður í 3. mgr. 73. gr. Allar takmarkanir á tjáningarfrelsi verður að skýra þröngt og ber að varast að hefta opinbera og lýðræðislega umræðu með refsikenndum viðurlögum. Samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar nýtur einkalíf manna, heimili og fjölskylda friðhelgi. Menn eiga samkvæmt því rétt á að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi.

Þegar framangreindir hagsmunir skarast, rétturinn til tjáningar annars vegar og æruvernd hins vegar, ber m.a. að líta til þess jarðvegs sem ummælin spruttu úr, stöðu þeirra aðila sem hlut eiga að máli og til þess hvort hið birta efni geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi því erindi til almennings.

Við bankahrunið í október 2008 varð mikil breyting á viðskiptalífinu og í þjóðfélaginu almennt. Hrina gjaldþrota reið yfir fyrirtæki og einstaklinga, gengi krónunnar hrundi og sviptingar urðu í ríkisstjórn landsins svo fátt eitt sé nefnt. Fjölmiðlar hafa fjallað um þessa atburði allt frá því er kreppan hófst og ennfremur fjallað um þá einstaklinga sem komu við sögu, þ. á m. stefnanda, sem hefur verið áberandi í viðskiptalífinu undanfarin ár. Fréttir hafa oft fjallað um hlut hans og fyrirtækja hans í bankahruninu. Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki við að miðla upplýsingum til almennings um þjóðfélagslega hagsmuni. Í ljósi þeirra aðstæðna sem sköpuðust eftir bankahrunið verður stefnandi að þola nærgöngula umræðu um verk sín og persónu sína. Lánveitingar og fjármagnsflutningar í aðdraganda bankahrunsins eru mikilvægar fréttir og eiga brýnt erindi til almennings.

Þó að aðalstefnda kunni við samningu fréttarinnar að hafa skjátlast að einhverju leyti í mati sínu á heimildum, en stefnandi hefur leitt nokkrar líkur að því, hefur ekki verið sýnt fram á að þær fullyrðingar, sem birtust í fréttinni, hafi verið settar fram í vondri trú. Verður í þessu sambandi að líta til þess jarðvegs sem ummælin spruttu úr og til nauðsynlegrar umræðu í þjóðfélaginu um orsakir og afleiðingar bankahrunsins.

Í framangreindu ljósi verður að skoða fréttina í heild sinni en ekki út frá einstökum ummælum. Þegar hún er þannig metin þykir efni hennar og inntak ekki brjóta í bága við ákvæði 234. eða 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þegar af þessum ástæðum verða öll stefndu sýknuð af kröfum stefnanda.

Eftir þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða aðalstefnda 1.000.000 króna í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti og varastefndu Maríu Sigrúnu og Páli 500.000 krónur í málskostnað.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndu, Svavar Halldórsson, María Sigrún Hilmarsdóttir og Páll Magnússon, skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Pálma Haraldssonar, í máli þessu.

Stefnandi greiði aðalstefnda, Svavari Halldórssyni, 1.000.000 króna í málskostnað.

Stefnandi greiði varastefndu, Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur og Páli Magnússyni, 500.000 krónur í málskostnað.