Print

Mál nr. 314/2012

Lykilorð
  • Ærumeiðingar
  • Tjáningarfrelsi
  • Ómerking ummæla
  • Miskabætur

                                     

Fimmtudaginn 6. desember 2012.

Nr. 314/2012.

Ingi Freyr Vilhjálmsson

Jón Trausti Reynisson

Reynir Traustason og

DV ehf.

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

gegn

Jóni Snorra Snorrasyni

(Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.)

Ærumeiðingar. Tjáningarfrelsi. Ómerking ummæla. Miskabætur.

J höfðaði mál gegn I, JT, R og DV ehf. vegna umfjöllunar um hann sem birt var annars vegar í prentaðri útgáfu DV og hins vegar netútgáfu þess á www.dv.is. Krafðist J þess m.a. að ummæli um hann yrðu ómerkt, að I, J og R yrðu dæmdir til refsingar og gert að greiða honum miskabætur og tiltekna fjárhæð vegna kostnaðar við birtingu dóms í fjölmiðlum. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um ómerkingu ummælanna m.a. með vísan til þess að þau hefðu verið röng og meiðandi fyrir J. Þá hefði verið synjað að leiðrétta það sem rangt hefði verið farið með þegar gefinn hefði verið kostur á því. Var I, JT og R gert að greiða J miskabætur samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá var einnig staðfest niðurstaða héraðsdóms um birtingu dóms og forsendna hans í næsta tölublaði DV og í næstu netútgáfu dv.is eftir uppkvaðningu dómsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 8. maí 2012 að fengnu áfrýjunarleyfi. Þeir krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara sýknu af kröfum stefnda. Í báðum tilvikum krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. 

Mál þetta var höfðað af stefnda til ómerkingar á tveimur tilgreindum ummælum, sem að mestu eru sama efnis, auk þess sem krafist var refsingar, miskabóta, fjárhæðar til þess að standa straum af kostnaði við birtingu ummæla með nánar tilgreindum hætti og að dómur og forsendur hans verði birtar í tveimur miðlum áfrýjandans DV ehf. Fallist er á það sem fram kemur í úrskurði héraðsdóms 28. október 2011 að annmarkar í stefnu til héraðsdóms á lýsingu málsástæðna og annarra atvika, sem nauðsynlegt er að gera grein fyrir til að samhengi málsástæðna verði ljóst, séu ekki slíkir að í bága fari við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður kröfu um frávísun málsins frá héraðsdómi því hafnað.

Ummælin, sem ómerkingar er krafist á, birtust í 31. tölublaði 101. árgangs DV, sem sagt er útgefið 14. til 15. mars 2011. Í ummælunum er staðhæft að stefndi, sem starfaði sem lektor í viðskiptafræði, sæti lögreglurannsókn. Fyrir liggur að þrjár kærur, sem vörðuðu meðal annars málefni Sigurplasts ehf. og stefnda, höfðu verið sendar til lögreglu, ein til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og tvær til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Af hálfu stefnda var aflað upplýsinga frá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra um hvort rétt væri að rannsókn lögreglu væri hafin vegna framangreindra kæra. Svar setts saksóknara við efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra í tölvupósti 16. mars 2011 hljóðaði svo: ,,Ég get staðfest það að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefur borist tilkynning skv. 84. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 frá skiptastjóra Sigurplasts ehf. ... Þá get ég jafnframt staðfest það að tvær kærur liggja fyrir hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu á hendur umbjóðendum þínum ... Hjá efnahagsbrotadeild er tilkynning skiptastjóra til skoðunar og eins er litið til framangreindra kæra hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Ekki hefur verið tekin formleg ákvörðun um lögreglurannsókn eða sakarefni afmarkað.“ Að fengnum þessum tölvupósti sendi lögmaður stefnda 16. mars 2011 þær upplýsingar til eins ritstjóra DV, áfrýjandans Reynis Traustasonar, að ,,engin formleg ákvörðun hafi verið tekin um lögreglurannsókn“. Var krafist leiðréttingar á ,,rangfærslum“ sem settar höfðu verið fram. Með tölvupósti sama dag var því hafnað af hálfu ritstjórans að ástæða væri til leiðréttinga eða ,,frekari umræðu um málið okkar í milli“.

Framangreindur tölvupóstur efnahagsbrotadeildarinnar verður ekki skilinn á annan veg en þann að svarið taki til þess að engin rannsókn hafi þá verið hafin vegna þeirra þriggja kæra, sem borist höfðu og vísað er til í póstinum. Ekkert liggur fyrir um að slík rannsókn hafi hafist síðar og verður stefndi ekki látinn bera hallann af því að hafa ekki undir rekstri málsins sinnt áskorun áfrýjenda um að afla frekari staðfestingar á því að rannsókn væri ekki hafin.

Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, verður staðfest niðurstaða hans um ómerkingu ummæla og um birtingu dóms og forsendna hans í næsta tölublaði DV og í næstu netútgáfu dv.is eftir uppkvaðningu dóms þessa. Hin ómerktu ummæli voru röng og meiðandi fyrir stefnda. Við athugun á umfjöllun og myndbirtingum um málefni Sigurplasts ehf. og fyrirsvarsmanna þess í prentaðri útgáfu DV og netútgáfunni dv.is er gerð atlaga að mannorði stefnda, sem þá voru engar forsendur fyrir. Auk þess var synjað að leiðrétta það sem rangt hafði verið farið með, þegar gefinn var kostur á því, eins og að framan greinir. Er fallist á með héraðsdómi að nýta beri heimild b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og dæma áfrýjendurna Inga Frey, Jón Trausta og Reyni óskipt til að greiða stefnda miskabætur. Héraðsdómi hefur ekki verið gagnáfrýjað og verður staðfest niðurstaða hans um fjárhæð miskabóta og um greiðslu fjárhæðar vegna kostnaðar við að birta dóminn og forsendur hans í tveimur dagblöðum.

Niðurstaða héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.

Áfrýjendur greiði stefnda óskipt málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Ingi Freyr Vilhjálmsson, Jón Trausti Reynisson, Reynir Traustason og DV ehf., greiði óskipt stefnda, Jóni Snorra Snorrasyni, málskostnað fyrir Hæstarétti, 500.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 9. febrúar 2012, er höfðað af Jóni Snorra Snorrasyni, Suðurhlíð 38C, Reykjavík, með stefnu birtri 28. og 29. apríl 2011, á hendur Inga Frey Vilhjálmssyni, Sæviðarsundi 27, Reykjavík, Jóni Trausta Reynissyni, Vesturgötu 79, Reykjavík, Reyni Traustasyni, Aðaltúni 20, Mosfellsbæ, og DV ehf., Tryggvagötu 11, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru :

Á hendur stefndu Jóni Trausta og Reyni:

Að eftirfarandi ummæli, sem birt voru á forsíðu DV í 31. tbl. 101. árg. 14.–15. mars 2011, verði dæmd dauð og ómerk: 

„LÖGREGLAN RANNSAKAR LEKTOR.“

Á hendur stefnda Inga Frey:

Að eftirfarandi ummæli sem birt voru í DV í 31. tbl. 101. árg. 14. – 15. mars 2011 bls. 2 og 3, verði dæmd dauð og ómerk: 

Lektor í viðskiptafræði flæktur í lögreglurannsókn.“

Á hendur stefndu Inga Frey, Jóni Trausta og Reyni:

Að þeir verði látnir sæta þyngstu refsingu, sem lög leyfa fyrir brot á 229. gr., 234. gr. 235. gr., og 236. gr.  almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ásamt síðari breytingum. 

   Að þeir verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 5.000.000  króna, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þingfestingardegi til greiðsludags. 

Að þeir verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda  400.000  krónur til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendna og dómsorðs, í tveimur dagblöðum, sbr. 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Á hendur stefnda DV ehf.:

Þess er krafist að forsendur og dómsorð dóms í málinu verði birt í næsta tölublaði DV og næstu útgáfu dv.is eftir að dómur gengur, sbr. 22. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt.

Á hendur öllum stefndu:

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu að teknu tilliti til virðisaukaskatts en stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur aðili.         

Af hálfu stefndu er aðallega krafist frávísunar málsins en til vara að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda. Þá krefjast þeir í báðum tilvikum málskostnaðar að mati dómsins auk virðisaukaskatts.

I.

Málavextir eru þeir helstir, að í tölublöðum nr. 30 til og með 35 101. árgangs  DV, sem gefin voru út á tímabilinu frá 11. til og með 24. mars 2011, og á netmiðlinum dv.is á sama tímabili, var umfjöllun um málefni Sigurplasts ehf., sem var tekið til gjaldþrotaskipta 30. september 2010. Stefnandi, sem er lektor við Háskóla Íslands, hafði verið stjórnarformaður félagsins og var nafni hans, stöðuheiti og mynd af honum slegið upp í þessari umfjöllun á þann hátt að stefnandi telur að einkalífi sínu, æru og starfsheiðri vegið með ólögmætum hætti. Telur stefnandi síendurteknar myndbirtingar af sér í umfjölluninni sérlega meiðandi en alls hafi þar birst 14 myndir af honum. Hafi stefndu ítrekað farið með rangt mál og m.a. haldið því áfram eftir 16. mars 2011 þegar lögmaður stefnanda sendi ritstjóra DV tilkynningu um að engin rannsókn lögreglu væri í gangi á hendur stefnanda. Þá hafi stefndu ítrekað haldið fram tengslum stefnanda við fyrirtækið Viðarsúlu ehf., þrátt fyrir að ekkert benti til þeirra og stefnandi hefði í tölvupósti til stefnda, Inga Freys, upplýst að hann kæmi ekki að því félagi. Sé stefnanda því nauðsyn að höfða mál þetta. 

Stefndu lýsa málavöxtum þannig að í september 2010 hafi verið mikil umræða um fyrirtækið Sigurplast ehf. Lögmaður stefnanda hafi m.a. komið fram í Kastljósi Ríkissjónvarpsins og fullyrt að óréttlæti og klíkuskapur réði för hjá bönkunum og hafi hann þá verið að tala um fyrirtækið. Í lok sama mánaðar hafi félagið sjálft óskað eftir gjaldþrotaskiptum en af því tilefni hafi lögmaður félagsins komið fram í fjölmiðlum og sagt sig mæta annarlegum sjónarmiðum hjá viðskiptabanka félagsins. Með úrskurði upp kveðnum 30. september 2010 var bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta.

Hinn 6. október 2010 hafi birst frétt á vef Ríkisútvarpsins þar sem fram kom að Arion banki hf. hefði kært fyrrverandi eigendur Sigurplasts ehf. til lögreglu fyrir misnotkun á fyrirtækinu en stefnandi hafi verið einn eigenda þess. Í kjölfarið hafi skiptastjóri þrotabús Sigurplasts ehf. óskað eftir rannsókn á bókhaldi félagsins, sem framkvæmd hafði verið af endurskoðunarfyrirtækinu Ernst & Young. DV hafi birt fjölda frétta, sem byggja á skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins. Hafi blaðið talið að lýsing fyrrum eigenda félagsins samræmdist illa niðurstöðu endurskoðunarfyrirtækisins, auk þess sem í ljós hafi komið úttektir, sem ætla megi að vörðuðu ekki rekstur þess.

Með úrskurði upp kveðnum 28. október var frávísunarkröfu stefndu hafnað. 

II.

 Stefnandi kveður grundvöll krafna sinna á hendur stefndu um ómerkingu, refsingu og miskabætur vera að finna í skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins Ernst & Young um Sigurplast ehf. Umfjöllun í DV hafi hafist í helgarblaði 11.- 13. mars sl. en ekkert samband hafi verið haft við stefnanda í aðdraganda umfjöllunarinnar og virðist sem hún hafi að miklu leyti verið byggð á framangreindri skýrslu Ernst & Young um málefni félagsins. Skýrslan hafi verið unnin án samskipta við stefnanda og aðra stjórnendur Sigurplasts ehf. og hafi stefnandi ekki fengið aðgang að skýrslunni, þrátt fyrir eftirgangsmuni. Ekki hafi verið minnst á stefnanda berum orðum í þessari fyrstu umfjöllun.

Í næstu umfjöllun DV í 31. tbl. hinn 14. – 15. mars sl. hafi síðan verið uppsláttur með stórri mynd á forsíðu af stefnanda. Þá hafi aðalfyrirsagnir verið: „Kolsvört skýrsla um Sigurplast“ og „LÖGREGLAN RANNSAKAR LEKTOR“ með mjög stóru letri. Undirfyrirsagnir hafi verið eftirfarandi: „Jón Snorri Snorrason, lektor í viðskiptafræði, var stjórnarformaður“, „Jón Snorri hafði umsjón með MBA-námi í Háskóla Íslands“, „Sigurplast greiddi persónulegan kostnað stjórnarformanns“, „Símakostnaður lektorsins upp á 740 þúsund“ og „Risareikningar fyrir veitingar“. Á forsíðu hafi jafnframt birst stór andlitsmynd af stefnanda, sem skeytt hafi verið með áberandi hætti við fyrirsagnir blaðsins.

Þessi umfjöllun sé ómerkt höfundi og beri því ritstjórar blaðsins ábyrgð á efninu. Að mati stefnanda séu allar þessar fullyrðingar ólögmætar og krefjist hann þess að fyrirsögnin „lögreglan rannsakar lektor“ verði dæmd dauð og ómerk. Þá varði þessi ummæli öll við 229. gr., 234. gr. , 235. gr., 236. gr. almennra hegningarlaga og styðji refsikröfu hans og miskabótakröfu og fjárkröfu um kostnað við birtingu dóms og birtingu dóms í DV.

Á  bls. 2-3 í sama blaði sé fjallað nánar um málefni Sigurplasts ehf. og stefnanda undir flennifyrirsögninni: „Lektor í viðskiptafræði flæktur í lögreglurannsókn.“ Síðan segi orðrétt: „Jón Snorri Snorrason, lektor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og fyrrverandi umsjónarmaður með MBA-námi í skólanum, var stjórnarformaður og einn af eigendum iðnfyrirtækisins Sigurplasts í Mosfellsbæ sem er til rannsóknar hjá lögreglunni vegna gruns um að stórfelld lögbrot hafi verið framin í starfsemi þess. Líkt og DV greindi frá á föstudaginn leikur grunur á að skattalagabrot, skilasvik, umboðssvik og fjárdráttur séu meðal þeirra brota sem hafi átt sér stað í rekstrinum. Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafa Sigurplastsmálið til rannsóknar … Sigurður L. er skráður eigandi Viðarsúlu að öllu leyti en heimildir DV herma að Jón Snorri komi að rekstri hins félagsins … Heimildir DV herma að Jón hafi aðeins átt að þiggja umrædd laun frá fyrirtækinu fyrir starf sitt en ekki aðrar sporslur umfram þau … Heimildir DV herma að rannsókn lögreglu á meintu samráði byggingarvöruverslananna Byko og Húsasmiðjunnar með grófvöru, sem greint var frá í fjölmiðlum í síðustu viku, hafi sett strik í reikninginn varðandi rannsóknina á Sigurplastsmálinu. Rannsókn lögreglunnar á málefnum Sigurplasts hefur því tafist vegna þessarar rassíu lögreglunnar í síðustu viku en þá var gerð húsleit í byggingarvöruverslununum. Rannsóknin gæti því dregist eitthvað á langinn … Auk lögreglurannsóknar er afar líklegt að þrotabú Sigurplasts muni höfða riftunar- og eða skaðabótamál gegn fyrrverandi stjórnendum félagsins...Ekki náðist í Jón Snorra vegna málsins um helgina. Eina símanúmerið sem skráð er á Jón Snorra í símaskránni er lokað.“

Hið rétta sé að þótt blaðamaður DV hafi ekki haft símanúmer stefnanda undir höndum, hafi hann enga tilraun gert til að hafa samband. Blaðamaður hafi ekki sent stefnanda tölvupóst, hvorki þessa helgi né dagana á undan þegar hann var að vinna umfjöllunina, sem birst hafi í DV föstudaginn 11. mars. Hann hafi heldur ekki gert tilraun til að ná í stefnanda um skiptiborð Háskóla Íslands. Blaðamaðurinn hafi því í raun enga tilraun gert til að leita viðbragða stefnanda.

Myndatexti með mynd af húsnæði Sigurplasts ehf. að utan sé eftirfarandi: „Til ríkislögreglustjóra. Lögreglan rannsakar málefni Sigurplasts vegna gruns um að fjölmörg lögbrot hafi átt sér stað í starfsemi félagsins áður en það varð gjaldþrota. Skiptastjóri Sigurplasts sendi um 7 blaðsíðna kæru til Ríkislögreglustjóra vegna málsins. Jón Snorri Snorrason var stjórnarformaður Sigurplasts.“ Stefndi, Ingi Freyr Vilhjálmsson, sé merktur sem höfundur greinarinnar á bls. 2 -3 og beri því ábyrgð á því efni, sem þar kemur fram, m.a. á fyrirsögn greinarinnar.

 Stefnandi telji allar þessar fullyrðingar og umfjöllun ólögmætar og krefjist þess að fyrirsögnin „Lögreglan rannsakar lektor“ verði dæmd dauð og ómerk.  Þá telji hann þessi ummæli og umfjöllun varða við 229. gr., 234. gr., 235. gr. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga og styðji refsikröfu hans og miskabótakröfu og fjárkröfu um kostnað við birtingu dóms og birtingu dóms í DV.

Umfjöllun um Sigurplast ehf. haldi áfram í 32. tbl. DV 16.- 17. mars 2011 bls. 10. Ekki sé þar oft vikið að stefnanda, að öðru leyti en því að þar komi fram, raunar með smæsta letri, almenn afstaða hans til gjaldþrots Sigurplasts ehf. en hann hafi talið viðskiptabanka félagsins, Arion banka hf., hafa gengið of hart fram í innheimtu erlendra, ólögmætra og stökkbreyttra lána. Sé því ekki gerð krafa í þessu máli vegna þessarar umfjöllunar, heldur sé að henni vikið til skýringar.

Stefnandi telji að í umfjöllun í 33. tbl. DV 18.- 20. mars 2011 bls. 4 sé hvergi vísað til hans með þeim hætti, að það réttlæti birtingu stórrar andlitsmyndar af honum í tengslum við hana. Með birtingu andlitsmyndarinnar sé verið að gefa fullyrðingum um einhverja ólögmæta háttsemi andlit stjórnarformannsins, stefnanda í máli þessu, án þess að hann eigi hlut að máli. Þar segi m.a.: „[L]eikur grunur á að Sigurður, og aðrir stjórnendur hjá Sigurplasti, hafi gengið á fjármuni og eignir fyrirtækisins í aðdraganda gjaldþrotsins með því að færa þessar eignir yfir í annað nýstofnað félag sem þeir áttu, Viðarsúlu, án þess að tilhlýðileg greiðsla kæmi fyrir.“ Sé hér gefið í skyn að stefnandi sé eigandi Viðarsúlu og sé þetta löngu eftir að búið var að svara spurningum blaðamanns og segja honum að stefnandi tengdist ekki félaginu. Stefndi, Ingi Freyr Vilhjálmsson, sé merktur sem höfundur greinarinnar og beri því ábyrgð á því efni sem þar kemur fram.

Stefnandi telji þessa umfjöllun ólögmæta og varða við 229. gr., 234. gr., 235. gr. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga og styðji refsikröfu hans, miskabótakröfu og fjárkröfu um kostnað við birtingu dóms og birtingu dóms í DV.

Stefnandi telji að í umfjöllun í 34. tbl. DV 21.- 22. mars 2011 bls. 3 sé hvergi vísað til hans með þeim hætti sem réttlæti birtingu stórrar andlitsmyndar af honum í tengslum við hana. Með birtingu andlitsmyndarinnar sé verið að gefa fullyrðingum um ólögmæta háttsemi andlit stefnanda, án þess þó að í tilvísaðri endurskoðunarskýrslu virðist ýjað á nokkurn hátt að því að hann hafi átt hlut að máli. Þá er í umfjölluninni fullyrt að Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglu­stjóra rannsaki meint lögbrot í starfsemi Sigurplasts ehf., þrátt fyrir að ritstjóri og blaðamaður hafi verið upplýstir um það hinn 16. mars 2011 að engin slík rannsókn væri í gangi. Með þessari fullyrðingu og birtingu myndar af stefnanda sé enn haldið áfram að fullyrða að hann sæti lögreglurannsókn, gegn betri vitund blaðamanns. Stefndi, Ingi Freyr Vilhjálmsson, sé merktur sem höfundur greinarinnar og beri því ábyrgð á því efni sem þar kemur fram.

Stefnandi telur þessa umfjöllun ólögmæta og varði hún við 229. gr., 234. gr., 235. gr. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga og styðji refsikröfu hans, miskabótakröfu og fjárkröfu um kostnað við birtingu dóms og dómsorðs í DV.

Umfjöllun um Sigurplast ehf. haldi áfram en ljúki í 35. tbl. DV 23.- 24. mars 2011 bls. 8 og sé ekki vikið að stefnanda þar. Sé því ekki gerð krafa í þessu máli vegna þessarar umfjöllunar, heldur sé hennar getið til skýringar.

Stefnandi byggir á því, að margendurteknar myndbirtingar af honum í DV miðlum hafi verið sérlega meiðandi fyrir hann. Þannig hafi birst mynd af honum samtals 14 sinnum í umfjöllun miðlanna með eftirfarandi hætti:

Í DV – 4 stórar andlitsmyndir.

Í dv.is – 3 stórar myndir (aðalmynd með frétt) og 7 birtingar í minni útgáfu (hliðarmynd með tilvísun í frétt).

Nánar tilgreint í prentaðri útgáfu DV:

14. mars – stór mynd á forsíðu,

14. mars – stór mynd á bls. 3,

18. mars – stór mynd á bls. 4,

21. mars – stór mynd á bls. 3,

Nánar tilgreint í dv.is:

14. mars – stór mynd af stefnanda undir fyrirsögninni: „Lektor í viðskiptafræði flæktur í lögreglurannsókn.“

15. mars – fyrirsögn: „Rannsókn á Sigurplasti: Keyptu ónothæfa tappa á yfirverði“ – engin mynd af stefnanda.

16. mars – fyrirsögn: „Seldi Sigurplasti bíl en eignaðist hann svo aftur rétt fyrir gjaldþrot.“ – Til hliðar við fréttina er tilvísun með minni mynd af stefnanda með fyrirsögninni „Lektor í viðskiptafræði flæktur í lögreglurannsókn.“

17. mars – stór mynd undir fyrirsögninni: „Sigurplast: Jón Snorri skelli skuldinni á Arion-banka.“ – Til hliðar við fréttina er tilvísun með minni mynd af stefnanda með fyrirsögninni „Lektor í viðskiptafræði flæktur í lögreglurannsókn.“

18. mars – stór mynd undir fyrirsögninni: „Stjórnendur Sigurplasts kærðir til lögreglu vegna gruns um fjárdrátt.“ – Til hliðar við fréttina eru tvær tilvísanir með minni myndum af stefnanda, annars vegar með fyrirsögninni „Lektor í viðskiptafræði flæktur í lögreglurannsókn“ og hins vegar „Sigurplast: Jón Snorri skellir skuldinni á Arion-banka“.

18. mars – fyrirsögn „Gögnum um Sigurplast var eytt eftir gjaldþrotið.“ – Til hliðar við fréttina er tilvísun með minni mynd af stefnanda með fyrirsögninni „Sigurplast: Jón Snorri skellir skuldinni á Arion-banka“

22. mars – fyrirsögn „Sigurplast keypti óútskýrða viðskiptavild á 15 milljónir.“ – Til hliðar við fréttina eru tvær tilvísanir með minni myndum af stefnanda, annars vegar með fyrirsögninni „Stjórnendur Sigurplasts kærðir til lögreglu vegna gruns um fjárdrátt“ og hins vegar „Sigurplast: Jón Snorri skellir skuldinni á Arion-banka“.

Stefndi, Ingi Freyr Vilhjálmsson, sé merktur sem höfundur allra framangreindra umfjallana í dv.is  og beri því ábyrgð á því efni sem þar kemur fram. Stefnandi telji umfjöllunina ólögmæta og að hún varði við 229. gr., 234. gr., 235. gr. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga og styðji refsikröfu hans, miskabótakröfu og fjárkröfu um kostnað við birtingu dóms og birtingu dóms í DV.

Varðandi kröfu um að stefndu verði in solidum gert að greiða stefnanda 400.000 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendna og dómsorðs, í tveimur dagblöðum, sbr. 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, bendi stefnandi á framlögð gögn um auglýsingakostnað hjá tveimur dagblöðum, þar sem sjá megi upplýsingar um listaverð auglýsinga á þeim miðlum. Telji stefnandi kröfu sína síst of háa svo hann geti komið hæfilegri auglýsingu á framfæri um dóminn. Þá bendir stefnandi á að dv.is sé mjög mikið lesinn miðill og hugsanlega sé hann mun meira lesinn en DV og hafi birtingar þar engu minni áhrif en í blaðinu.

Með netbréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 14. mars 2011, hafi embætti Ríkislögreglustjórans verið innt eftir því hvort stefnandi sætti rannsókn lögreglu. Svar hafi borist hinn 16. mars s.á. þar sem fram hafi komið að engin slík rannsókn væri í gangi. Sama dag hafi lögmaður stefnanda ritað stefnda, Reyni Traustasyni, netpóst þar sem hann upplýsti um svar lögreglu og skoraði á ritstjórann að leiðrétta missagnir um þetta í miðlum sínum. Stefndi Reynir hafi svarað bréfinu samdægurs en ekki talið ástæðu til leiðréttingar.

Stefnandi telji að framsetning stefndu, ritstjóra og fréttastjóra DV og dv.is, lýsi forhertri afstöðu þeirra til réttar þeirra, sem umfjöllunin snúi að, og að ítrekaðar málsóknir á hendur þeim lýsi fremur framgöngu þeirra en þeirra sem að þeim sæki.

Stefnandi byggir á því, að friðhelgi einkalífsins setji tjáningarfrelsinu ákveðnar skorður samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar.  Þau sjónarmið, sem réttlætt geti skorður við tjáningarfrelsinu, geti t.a.m. verið röskun allsherjarreglu eða öryggi ríkisins, sjónarmið til verndunar heilsu eða siðgæði manna og vegna réttinda eða mannorðs annarra. Sem dæmi um skorður, sem beinist að því að vernda réttindi annarra, sé ákvæði 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ásamt síðari breytingum, en þar sé mælt fyrir um að hver sem skýri opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi er réttlæti verknaðinn, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

Á dómstólum hvíli skylda til að leita ákveðins jafnvægis á milli tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs og verndar æru og álits. Hafi dómstólar þannig staðfest rýmra tjáningarfrelsi á vettvangi stjórnmálaumræðu og umræðu um almannaheill og ekki megi grafa undan þeim frjálsu skoðanaskiptum og skiptum á upplýsingum, sem séu lýðræðinu nauðsyn.  Þá hafi dómstólar einnig staðfest það hlutverk fjölmiðla að veita upplýsingar um málefni sem snerti almenning. Ekkert af þessu réttlæti hins vegar málsmeðferð stefndu á stefnanda.

Um aðild stefndu, Inga Freys, Jóns Trausta og Reynis, að málinu vísar stefnandi til 15. gr. laga nr. 57/1956, um prentrétt.  Samkvæmt ákvæðinu beri höfundur refsi- og fébótaábyrgð á efni rits, hafi hann nafngreint sig og sé auk þess annað hvort heimilisfastur hér á landi þegar ritið kemur út eða undir íslenskri lögsögu, þegar mál er höfðað. Hafi enginn slíkur höfundur nafngreint sig, beri útgefandi rits eða ritstjóri ábyrgðina.

 Í málinu sé bæði um að ræða prentaða umfjöllun og umfjöllun, sem birst hefur á veraldarvefnum á svæðinu dv.is.  Þrátt fyrir að lögin nr. 57/1956, um prentrétt, fjalli ekki beint um ábyrgð vegna útgáfu miðla á veraldarvefnum, telji stefnandi að sömu meginreglur skuli gilda varðandi ábyrgð aðila á birtu efni þar eins og í prentuðum miðlum, samkvæmt lögjöfnun og með vísan til meginreglna um ábyrgð á birtu efni.

Útgefanda DV miðlanna sé stefnt til að þola dóm vegna kröfu stefnanda um að honum verði gert að birta niðurstöður dómsins og byggi aðild hans á 22. gr. laga nr. 57/1956, um prentrétt, og með lögjöfnun um birtingu dóms á dv.is.

Tilgreindur höfundur umfjallana, sem mál þetta varðar, sé sagður stefndi, Ingi Freyr Vilhjálmsson, fréttastjóri DV, en ritstjórn blaðsins skipi stefndu, Jón Trausti Reynisson og Reynir Traustason. Eru stefndu, Jón Trausti og Reynir, einnig ritstjórar heimasíðu DV, www.dv.is. Í þeim tilvikum, þar sem enginn höfundur sé nafngreindur sérstaklega, telji stefnandi rétt að ritstjórar blaðsins og vefmiðilsins séu ábyrgir, sbr. m.a. ákvæði fyrrgreindrar 15. gr. laga nr. 57/1996.

Stefnandi byggir á því að tilgreind umfjöllun stefndu um málefni stefnanda feli í sér brot á rétti stefnanda til að njóta friðhelgi einkalífs. Friðhelgi einkalífs njóti verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, ásamt síðari breytingum, og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá sé einnig kveðið á um þessi réttindi í 17. gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá árinu 1966.

Stefnandi gerir grein fyrir lagarökum í stefnu þannig:

1.         Krafan um ómerkingu ummæla höfundar og ritstjóra byggir á 234. gr., 235. gr. og 236. gr., sbr. 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2.         Krafan um að stefndu ábyrgðarmenn ummæla, sbr. 15. gr. laga nr. 57/1956, um prentrétt, verði gerð refsing vegna birtingar ummæla byggir á 229., 234. gr, 235. og  236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sbr. og 18. gr. og 3. tl. 1. mgr.  242 gr. laganna.

3.         Krafan um að stefnda, útgefanda DV, verði gert að birta niðurstöður dómsins  byggir á 22. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt og með lögjöfnun um birtingu dóms á dv.is.

4.         Krafan um að ábyrgðarmenn efnis verði in solidum dæmdir til að greiða kr. 400.000,- til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendna og dómsorðs, í tveimur dagblöðum byggir á. 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

5.         Krafan um miskabætur byggist á b-lið, 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennum skaðabótareglum, s.s. sakarreglunni, auk þess að við mat á þeim sé vísað til grunnraka að baki 229., 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Krafan um dráttarvexti af miskabótum byggist á 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 5. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

6.          Hvað varðar tjáningarfrelsi og einkalíf vísar stefnandi til 71. og 73. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944 og bendir á að virða beri einkalíf hans og að tjáningarfrelsi njóti ekki verndar þegar brotið sé gegn mannorði manna. Þá vísar hann einnig til 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá sé einnig kveðið á um þessi réttindi í 17. gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá árinu 1966.

7.         Um aðild málsaðila að öðru leyti en að framan greinir er vísað til ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

8.         Krafan um málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan um virðisaukaskatt af málskostnaði byggir á 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

III.

Stefndu vísa til þess að merking þeirra ummæla, sem krafist sé ómerkingar á, séu í raun sömu merkingar, þ.e. að lögreglan sé að rannsaka stefnanda. Stefndu mótmæla ómerkingarkröfum stefnanda á þeim grundvelli að ummælin séu sönn og sé vísað til meginreglunnar um að sannindi ummæla leysi undan ábyrgð í þeim efnum en reglan komi jafnframt í veg fyrir að ómerkingarkrafa nái fram að ganga. Hér beri að líta til annars vegar þeirra staðreynda sem fyrir liggja í málinu og hins vegar þess hvað felst í þeirri staðhæfingu að lögregla rannsaki tiltekinn aðila samkvæmt almennri málvenju.

Fyrir liggi að á þeim tíma, sem ummælin voru látin falla, hafði efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra borist tilkynning um atvik, sem skiptastjóri fái vitneskju um í starfi sínu sem hann telji geta gefið tilefni til rökstudds gruns um að þrotamaðurinn eða aðrir kunni að hafa gerst sekir um refsivert athæfi. Framangreint sé staðfest í tölvupósti Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, setts saksóknara efnahagsbrotadeildar, til lögmanns stefnanda, þar sem segi orðrétt:

,,Ég get staðfest það að efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra hefur borist tilkynning skv. 84. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 frá skiptastjóra Sigurplasts ehf., Grími Sigurðssyni hrl.“

Í sama skjali sé jafnframt staðfest að fyrir liggja tvær kærur hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu á hendur stefnanda, önnur þar sem kærendur séu Pétur Richter og Þórarinn Ólafsson f.h. Vesturlands hf. og hin þar sem kærandi sé Arion banki hf. Síðan segi orðrétt í bréfi setts saksóknara :

„Hjá efnahagsbrotadeild er tilkynning skiptastjóra til skoðunar og eins er litið til framangreindra kæra hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Ekki hefur verið tekin formleg ákvörðun um lögreglurannsókn eða sakarefni afmarkað.“

Samkvæmt þessu liggi fyrir að efnahagsbrotadeildin hafði „til skoðunar“ tilkynningu skiptastjóra og að litið var til kæra hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Stefndu telji hér ekki skipta máli, hvort formleg ákvörðun Ríkislögreglustjóra um lögreglurannsókn hafi verið tekin eða ekki. Ekki komi fram í þeim ummælum, sem krafist sé ómerkingar á, að sérstök formleg ákvörðun hafi verið tekin um rannsókn hjá Ríkislögreglustjóra. Ekki beri að túlka hin umstefndu ummæli rýmra en almenn merking orðanna gefi tilefni til. Það að Ríkislögreglustjóra hafi borist kærur á hendur tilteknum aðila og að þær kærur séu „til skoðunar“ hljóti, samkvæmt almennri málvenju, að falla undir það að lögregla rannsaki viðkomandi aðila, enda sé lögreglunni það skylt um leið og kæra berst. Þá sé ekki að sjá að í lögum sé að finna sérstakt ákvæði, sem mæli fyrir um hvenær skuli telja rannsókn formlega hafna, og jafnvel þótt svo væri, yrði varla gerð sú krafa til ólöglærðra manna að þeir þekktu slíkar reglur til hlítar, heldur yrði frekar að leggja almenna málvenju til grundvallar.

Auk þessa liggi fyrir að framangreindar kærur á hendur stefnanda hafi verið sendar Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu en ekki Ríkislögreglustjóra, eins og greinilega komi fram í framangreindum tölvupósti. Að mati stefndu sanni sú staðreynd hin umstefndu ummæli og sýni fram á að lögreglan hafi verið að rannsaka stefnanda. Í 2. mgr. 51. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 segi:

„Lögregla skal hvenær sem þess er þörf hefja rannsókn út af vitneskju eða grun um að refsivert brot hafi verið framið hvort sem henni hefur borist kæra eða ekki.“

Sé því ljóst að lögreglu beri skylda til að hefja rannsókn þegar henni berst kæra um refsivert brot eins og fyrir liggi að gerðist í tilviki stefnanda. Stefndu hafi ekki lögum samkvæmt heimild til að fá aðgang að gögnum um kærur á hendur stefnanda eða fyrirliggjandi rannsókn Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á málefnum stefnanda. Stefnandi hafi hins vegar slíkan rétt og hvíli því sönnunarbyrðin á stefnanda að sýna fram á að Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki hafið rannsókn á málefnum hans. Sé því skorað á stefnanda að leggja fram gögn eða sanna þetta atriði með öðrum hætti. Takist honum ekki slík sönnun, beri að leggja til grundvallar að hin umstefndu ummæli séu rétt, sbr. meginregluna um að sönnunarbyrðin hvíli á þeim, sem hefur tök á að sanna umdeild atvik. Með vísan til framangreinds sé ljóst að hin umstefndu ummæli eru sönn og séu þau því stefndu að refsilausu og beri því jafnframt að hafna ómerkingarkröfum stefnanda.

Að því er refsi- og miskabótakröfur stefnanda varðar vísa stefndu til eftirfarandi málsástæðna:

a. Umfjöllun DV í 31. tbl. þann 14-15. mars sl:

Hér vísi stefnandi í fyrsta lagi til setninganna „LÖGREGLAN RANNSAKAR LEKTOR“ og „LEKTOR Í VIÐSKIPTAFRÆÐI FLÆKTUR Í LÖGREGLURANNSÓKN“. Þegar hafi verið fjallað um sannindi þessara ummæla hér að framan og vísist um ábyrgðarleysi stefndu til þeirrar umfjöllunar. Í öðru lagi vísi stefnandi til eftirfarandi ummæla, sem hann telur að varði við 229. gr., 234. gr., 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga:

 „Kolsvört skýrsla um Sigurplast.“ Ekki verði séð hvernig þessi setning geti varðað við tilvitnuð ákvæði almennra hegningarlaga eða að hún snerti stefnanda með nokkrum hætti. Þá sé það með öllu vanreifað af hálfu stefnanda við hvert eða hver hinna tilvitnuðu ákvæða setningin eigi að varða.

„Jón Snorri Snorrason, lektor í viðskiptafræði, var stjórnarformaður“ og „Jón Snorri Snorrason hafði umsjón með MBA-námi í Háskóla Íslands“. Ekki verði séð hvernig þessar setningar geti varðað við tilvitnuð ákvæði almennra hegningarlaga. Þá verði ekki betur séð en að ummælin séu í báðum tilvikum sönn. Þá sé það með öllu vanreifað af hálfu stefnanda við hvert eða hver hinna tilvitnuðu ákvæða setningarnar eigi að varða og af hverju.

„Sigurplast greiddi persónulegan kostnað stjórnarformanns“,  „Símakostnaður lektorsins upp á 740 þúsund“  og „Risareikningur fyrir veitingar“. Í fyrsta lagi sé það með öllu vanreifað af hálfu stefnanda við hvert eða hver hinna tilvitnuðu ákvæða setningarnar eigi að varða. Í öðru lagi telji stefndu ljóst að öll ummælin séu sönn og vísist í þessu sambandi til kafla 12.1. í rannsóknarskýrslu Ernst & Young á bókhaldi Sigurplasts ehf. en þar segi m.a:

„Við skoðun bókhalds Sigurplasts ehf. kom í ljós ýmis kostnaður sem gæti talist persónulegur kostnaður Jóns Snorra Snorrasonar, sem var greiddur og gjaldfærður af Sigurplasti ehf. Hér á eftir verður gerð frekari grein fyrir þessum kostnaði.“

Síðan sé í skýrslunni fjallað um ýmsan kostnað stefnanda og töflur m.a. yfir símakostnað hans o.fl. en síðan segi orðrétt:

„Ofangreindar fjárhæðir voru bókaðar á gjaldalykil 4020 „Sími – borðtæki og fax“, samtals kr. 280.942 án vsk. Samkvæmt reikningunum var verið að greiða fyrir heimasíma og sjónvarp Jóns Snorra. Ekki verður séð hver rekstrarlegur tilgangur þessa kostnaðar er fyrir Sigurplast ehf.  [...] Ofangreindar fjárhæðir voru bókaðar á gjaldalykil 4021 „Sími – gsm“, samtals kr. 740.834 án vsk. Samkvæmt reikningunum var verið að greiða fyrir kostnað vegna gsm síma Jóns Snorra. Draga verður í efa rekstrarlegan tilgang þessa kostnaðar fyrir Sigurplast ehf., þó hugsanlega megi réttlæta einhvern hluta af þessum kostnaði vegna starfa Jóns Snorra sem stjórnarformanns félagsins.“

Síðan sé fjallað um kostnað vegna veitinga sem Sigurplast ehf. hafi greitt fyrir af kreditkorti stefnanda og segi þar m.a: „Ofangreindur kostnaður er samtals að fjárhæð kr. 435.162 og var bókaður á ýmsa gjaldalykla í bókhaldi Sigurplasts ehf. á árunum 2008-2010. Við teljum að þessir reikningar séu líklega vegna persónulegs kostnaðar Jóns.“ Þá sé á þessum stað í skýrslunni að finna langt yfirlit yfir þann veitingakostnað, sem stefnandi hafi sett á fyrirtækið á hinum ýmsu skyndibitastöðum, veitingahúsum, krám og kaffihúsum. Í flestum tilvikum sé þar um að ræða matar- og áfengiskostnað.

Með vísan til alls þessa verði að telja augljóst að framangreind ummæli, þ.e.a.s: „Sigurplast greiddi persónulegan kostnað stjórnarformanns“,  „Símakostnaður lektorsins upp á 740 þúsund“  og „Risareikningur fyrir veitingar“ séu öll sönn og þar af leiðandi hafi stefndu verið það að ábyrgðarlausu að viðhafa þau með vísan til reglunnar um að sönnun leysi undan refsingu.

Næst í stefnu komi síðan beinar tilvitnanir í ýmsar setningar og langa málsgrein úr umfjöllun DV í 31. tbl. hinn 14.-15. mars sl. Ekki sé ástæða til að taka allar tilvitnanirnar hér upp og fjalla um hverja fyrir sig, enda sé með öllu óljóst hvað stefnanda gengur til með umræddum tilvísunum. Þegar stefnandi hafi tekið upp þessa texta segi einfaldlega í stefnu að stefnandi telji allar þessar fullyrðingar og umfjöllun ólögmætar og að hann telji ummælin varða við 229. gr., 234. gr., 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga og styðja refsikröfu hans og miskabótakröfu og fjárkröfu um kostnað við birtingu dóms og birtingu í DV. Þessi málatilbúnaður sé svo vanreifaður að stefnda sé ótækt að taka til varna gegn honum. Verði ekki bætt úr þessu á síðari stigum málsins og beri því að líta svo á að allar málsástæður, sem stefnandi kunni síðar að bera fram og varði umræddar tilvitnanir, séu of seint fram komnar. Telji stefndu jafnframt að þetta eigi að leiða til frávísunar.

Auk þessa árétta stefndu, að allar hinar tilvitnuðu setningar og málsgreinar séu sannar og brjóti í engum tilvikum gegn nokkru ákvæði almennra hegningarlaga eða annarra laga.

b. Umfjöllun DV í 33. tbl. þann 18.-20. mars sl. bls. 4:

Hér vísi stefnandi í fyrsta lagi til þess, að ekki sé réttlætanlegt að birt sé mynd af honum í tengslum við umfjöllunina. Stefndu mótmæla þessu, enda hafi stefnandi verið stjórnarformaður og stór eigandi félagsins og hafi borið ábyrgð sem slíkur samkvæmt lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá eigi það sama við hér eins og annars staðar, að umfjöllunin sé hluti af mörgum greinum um sama efni þar sem fjallað hafi verið um gjaldþrot Sigurplasts ehf. og þá háttsemi sem m.a. stefnanda var gefin að sök í rannsóknarskýrslu Ernst & Young á bókhaldi félagsins. Hvað sem þessu líði, sé það án nokkurra útskýringa af hálfu stefnanda hvernig þetta atriði eigi að leiða til þess að stefndu hafi brotið gegn ákvæðum almennra hegningarlaga en hér sé, eins og annars staðar í stefnu, án nokkurra útskýringa vísað til 229. gr., 234. gr., 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga.

Stefnandi byggi á að gefið sé í skyn að hann sé eigandi að Viðarsúlu ehf. í eftirfarandi texta:

 „Leikur grunur á að Sigurður, og aðrir stjórnendur hjá Sigurplasti, hafi gengið á fjármuni og eignir fyrirtækisins í aðdraganda gjaldþrotsins með því að færa þessar eignir yfir í annað nýstofnað félag sem þeir áttu, Viðarsúlu, án þess að tilhlýðileg greiðsla kæmi fyrir.“

Þrátt fyrir að stefnandi hafi ekki verið eigandi að félaginu Viðarsúlu ehf., sé ljóst að aðrir stjórnarmenn Sigurplasts ehf. voru það. Ekki sé hægt að skilja hinn tilvitnaða texta svo að þar sé óhjákvæmilega verið að tala um alla stjórnarmenn Sigurplasts ehf. og því beri að hafna því að stefnandi þurfi að falla þar undir. Þá sé það með öllu vanreifað af hálfu stefnanda við hvert eða hver hinna tilvitnuðu ákvæða almennra hegningarlaga þessi ummæli eigi að varða.

c. Umfjöllun DV í 34. tbl. þann 21-22. mars sl. bls. 3:

Vísað sé til þess, sem að framan segi um myndbirtingu af stefnanda. Það að mynd af stjórnarformanni gjaldþrota félags sé birt með fréttum, sem fjalla eiga m.a. um háttsemi stjórnarformannsins og um ýmis atriði sem hann ber ábyrgð á stöðu sinnar vegna og lögum samkvæmt, verði að teljast eðlilegasti hlutur í blaðamennsku. Þá sé því harðlega mótmælt að stefnanda sé gefið að sök eitthvað annað en hann beri ábyrgð á. Þrátt fyrir að mynd af honum fylgi fréttinni, þýði það ekki að blaðamönnum DV hafi verið óheimilt að fjalla jafnframt í sömu frétt um ólögmæta háttsemi annarra stjórnarmanna og starfsmanna Sigurplasts ehf., enda verði ekki séð að stefnandi sé á nokkurn hátt tengdur við eða honum gefin að sök háttsemi sem hafi verið honum óviðkomandi.

Þá eigi það sama við hér, eins og annars staðar, að stefnandi geri ekki á nokkurn hátt grein fyrir því hvernig háttsemi stefndu verði heimfærð undir ákvæði 229. gr., 234. gr., 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga.

Stefndu mótmæla kröfu stefnanda um að stefndu verði gert að greiða 400.000 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu þar sem 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga eigi ekki við, enda hafi stefndu ekki gerst sekir um ærumeiðandi aðdróttanir í garð stefnanda, eins og rakið sé hér að framan. Verði ekki fallist á það, sé fjárhæðinni mótmælt sem allt of hárri og þess krafist að  hún verði lækkuð umtalsvert. Sömu rök eigi við um kröfu um birtingu dóms í DV og sé byggt á sömu málsástæðum gagnvart þeirri kröfu stefnanda.

Að lokum vísa stefndu til meginreglunnar um tjáningarfrelsi, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, en samkvæmt ákvæðinu séu allir menn frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar. Í þessu sambandi sé jafnframt vísað til 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Byggja stefndu á því að efni þeirra blaðagreina, sem deilt sé um í máli þessu, hafi átt fullt erindi við almenning sem hluti af þjóðfélagsumræðunni. Um hafi verið að ræða gagnrýni á stjórnendur hlutafélags, sem farið hafi í gjaldþrot, sem óhjákvæmilega hafi leitt til þessa að fjöldi aðila tapaði miklu fé. Að minnsta kosti verði að telja að hluti orsaka gjaldþrotsins hafi verið sú ólögmæta háttsemi, sem lýst sé í skýrslu Ernst & Young á bókhaldi Sigurplasts ehf., sem leitt hafi til gríðarlegs fjártjóns fyrir félagið. Með vísan til þessa, verði að telja að stefndu hafi notið rýmkaðs tjáningarfrelsis eins og margstaðfest er í dómaframkvæmd að eigi við þegar um sé að ræða mál sem eigi erindi í þjóðfélagsumræðuna.

Sýknukröfu sína byggja stefndu einkum á 229. gr., 234. gr., 235. gr., 236. gr. og 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Jafnframt er byggt á 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Kröfu um málskostnað styðja stefndu við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er byggð á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

IV.

Í málinu er gerð krafa um að tilgreind ummæli, sem birtust í 31. tölublaði DV 14.-15. mars 2011, verði dæmd dauð og ómerk með vísan til 234., gr. 235. gr. og 236. gr., sbr. 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt dómkröfukafla í stefnu er hér um að ræða tvenn ummæli, þ.e.: „LÖGREGLAN RANNSAKAR LEKTOR“ og „Lektor í viðskiptafræði flæktur í lögreglurannsókn.“ Þá er þess krafist að stefndu, Ingi Freyr Vilhjálmsson, Jón Trausti Reynisson og Reynir Traustason, verði látnir sæta refsingu með vísan til ákvæða 229. gr., 234. gr., 235. gr. og 236. gr. sömu laga. Auk þess krefst stefnandi miskabóta úr hendi stefndu með vísan til b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra skaðabótareglna og kostnaðar vegna birtingar dóms í málinu með vísan til 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hins vegar eru tjáningarfrelsinu settar skorður í 3. mgr. ákvæðisins. Þar segir tjáningarfrelsi manna megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Í XXV. kafla almennra hegningarlaga er tjáningarfrelsinu settar skorður vegna réttinda og mannorðs annarra. Þegar ávörðuð eru mörk tjáningarfrelsisins verður að líta til þess að tryggja þarf að fram geti farið þjóðfélagsleg umræða.

Stefndu byggja á því að tilgreind ummæli séu sönn og vísa til meginreglunnar um að sannindi ummælanna leysi undan ábyrgð. Óumdeilt er að áður en umrædd umfjöllun hófst hafði efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra borist tilkynning skiptastjóra Sigurplasts ehf., þar sem stefnandi sat í stjórn, vegna rökstudds gruns um refsivert athæfi stjórnarmanna í félaginu. Liggur fyrir að tilkynning skiptastjóra byggði á upplýsingum úr skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins Ernst & Young frá 31. janúar 2011. Í tölvupósti saksóknara efnahagsbrotadeildar til lögmanns stefnanda frá 16. mars 2011 kom fram að tilkynning skiptastjóra væri „til skoðunar“. Þá segir í tölvupóstinum að tvær kærur hafi legið fyrir hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, m.a. á hendur stefnanda, og sé „litið til framangreindra kæra“. Hins vegar er þar fullyrt að ekki hafi verið tekin formleg ákvörðun um lögreglurannsókn eða sakarefni afmarkað.

Stefndu byggja á því að ekki komi fram í ummælum þeim, sem krafist sé ómerkingar á, að sérstök formleg ákvörðun hafi verið tekin um rannsókn hjá Ríkislögreglustjóra og að ekki beri að túlka ummælin rýmra en almenn merking orðanna gefur tilefni til. Hér verður að líta til þess, að almennt eru gerðar þær kröfur til fjölmiðla að þeir byggi umfjöllun sína á vandaðri könnun á staðreyndum. Að þessu virtu og með hliðsjón af því, sem að framan er rakið um stöðu máls Sigurplasts ehf. og stjórnarmanna þess, þ. á m. stefnanda, hjá Ríkislögreglustjóra, verður ekki á framangreind sjónarmið stefndu fallist. Engin lögreglurannsókn var hafin gegn stefnanda og voru ummælin „LÖGREGLAN RANNSAKAR LEKTOR“ og „Lektor í viðskiptafræði flæktur í lögreglurannsókn“ því efnislega röng en ummælin eru í raun sömu merkingar. Verður ekki talið að það hefði verið óhæfilegum erfiðleikum bundið að sannreyna hvort slík lögreglurannsókn væri í raun hafin. Þá var orðfærið til þess fallið að vekja þann skilning lesenda að stefnandi væri sakborningur í lögreglurannsókn vegna saknæmrar og refsiverðrar háttsemi sinnar. Var með þessu vegið að æru stefnanda. Af þessum sökum verður að fallast á það með stefnanda að stefndu, Ingi Freyr, Jón Trausti og Reynir, hafi, með birtingu framangreindra ummæla, brotið gegn ákvæðum 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Samkvæmt öllu framansögðu og með vísan til ákvæða 1. mgr. 241. gr. sömu laga er fallist á kröfu stefnanda um ómerkingu hinna tilgreindu ummæla. Hins vegar þykja ekki efni til að beita refsingu og er refsikröfu stefnanda því hafnað.

Samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skal sá sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn æru manns greiða honum miskabætur. Þau skilyrði eru uppfyllt í þessu máli. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til alls framangreinds verða stefndu, Ingi Freyr, Jón Trausti og Reynir, dæmdir til að greiða stefnanda óskipt miskabætur, sem teljast hæfilega ákveðnar 200.000 krónur, með dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. Þá verða stefndu, Ingi Freyr, Jón Trausti og Reynir, dæmdir til að greiða stefnanda 200.000 krónur til að standa straum af birtingu á forsendum og niðurstöðu dómsins tveimur dagblöðum. Loks er fallist á kröfu stefnanda um að stefnda, DV ehf. verði gert að birta forsendur og dómsorð dómsins í næsta tölublaði DV og næstu útgáfu dv.is eftir að dómur gengur, sbr. 22. gr. þágildandi laga nr. 57/1956, um prentrétt.

Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndu, Inga Frey, Jóni Trausta og Reyni, gert að greiða stefnanda málskostnað óskipt, sem telst hæfilega ákveðinn 500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Málskostnaður milli stefnanda og stefnda, DV ehf., fellur niður.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Eftirfarandi ummæli, sem birtust í 31. tölublaði DV, 101. árgangi, 14.-15. mars 2011, eru dauð og ómerk:

„LÖGREGLAN RANNSAKAR LEKTOR“

Lektor í viðskiptafræði flæktur í lögreglurannsókn“.

Stefndu, Ingi Freyr Vilhjálmsson, Jón Trausti Reynisson og Reynir Traustason, greiði óskipt stefnanda 200.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 3. maí 2011 til greiðsludags.

Stefndu, Ingi Freyr Vilhjálmsson, Jón Trausti Reynisson og Reynir Traustason, greiði óskipt stefnanda 200.000 krónur vegna kostnaðar við birtingu dómsins í tveimur dagblöðum og 500.000 krónur í málskostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Stefndi, DV ehf., skal birta forsendur og dómsorð dóms þessa í næsta tölublaði DV og í næstu útgáfu dv.is.

Málskostnaður milli stefnanda og stefnda, DV ehf., fellur niður.