Print

Mál nr. 469/2002

Lykilorð
  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Skattur
  • Fyrning

Föstudaginn 1

 

Föstudaginn 1. nóvember 2002.

Nr. 469/2002.

Lúðvík Sigurðsson

(Helgi Jóhannesson hrl.)

gegn

tollstjóranum í Reykjavík

(Óskar Thorarensen hrl.)

 

Kærumál. Fjárnám. Skattar. Fyrning.

Krafa T á hendur L vegna ógreiddra opinberra gjalda hans frá gjaldárunum 1993 og 1994 var fyrnd þegar leitað var eftir því að gert yrði fjárnám fyrir kröfunni á árinu 2002. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að krafan hafi fallið í gjalddaga tíu dögum eftir að ríkisskattstjóri endurákvarðaði opinber gjöld L á árinu 1997, sbr. 6. mgr. 110. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, en ekki þegar hann leysti úr kæru L af þessu tilefni á árinu 1998, enda hafi sá úrskurður eingöngu haft í för með sér lækkun á opinberum gjöldum L.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. október 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að ógilt yrði fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá honum 24. júní sama árs fyrir kröfu varnaraðila að höfuðstól 1.150.266 krónur. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárnámið verði fellt úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

I.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði er upphaf máls þessa að rekja til endurákvörðunar ríkisskattstjóra 1. apríl 1997 á opinberum gjöldum sóknaraðila. Við þessa endurákvörðun hækkuðu opinber gjöld sóknaraðila vegna gjaldársins 1993 um samtals 453.664 krónur, en vegna gjaldársins 1994 um 489.782 krónur. Sóknaraðili kærði endurákvörðunina til ríkisskattstjóra og krafðist þess aðallega að hún yrði felld úr gildi, en til vara að hækkun á tekjuskatts- og útsvarsstofni hans umrædd gjaldár yrði minni og álag fellt niður. Ríkisskattstjóri tók kæruna til úrlausnar með úrskurði 14. október 1998 og hafnaði kröfum sóknaraðila að öðru leyti en því að hann féll frá því að bæta álagi við þá hækkun, sem var gerð á tekjuskatts- og útsvarsstofni sóknaraðila gjaldárið 1994, og hækkuðu gjöld þess árs því um 391.824 krónur í stað áðurgreindra 489.782 króna.

Meðal gagna málsins er beiðni 12. apríl 1999 til sýslumannsins í Reykjavík, þar sem varnaraðili krafðist þess að gert yrði fjárnám hjá sóknaraðila fyrir ógreiddum opinberum gjöldum hans gjaldárin 1993, 1994 og 1998, samtals að fjárhæð 776.942 krónur auk dráttarvaxta og kostnaðar. Liggja engar frekari upplýsingar fyrir í málinu um afdrif þessarar beiðni. Með beiðni 24. apríl 2002 leitaði varnaraðili á ný fjárnáms hjá sóknaraðila fyrir ógreiddum opinberum gjöldum hans gjaldárin 1993 og 1994, auk gjaldáranna 1998 til 2001, samtals að fjárhæð 1.547.121 króna að meðtöldum áföllnum dráttarvöxtum og kostnaði. Sóknaraðili greiddi 21. júní 2002 varnaraðila skuld sína vegna gjaldáranna 1998 til 2001, þannig að eftir stóð skuld vegna tveggja fyrstnefndu gjaldáranna að fjárhæð 1.031.176 krónur. Var greiðslan innt af hendi með fyrirvara sóknaraðila um réttmæti skuldarinnar, sem hann taldi að væri mynduð með ráðstöfun fjár upp í ætlaðar skuldir vegna eldri gjaldára. Þegar sýslumaður tók fyrir beiðni varnaraðila um fjárnám 24. sama mánaðar mótmælti sóknaraðili því að gerðin næði fram að ganga, þar sem krafa varnaraðila væri fyrnd, auk þess sem hún ætti sér ekki stoð í fyrirliggjandi gögnum. Ákvað sýslumaður að hafna framkomnum mótmælum og var fjárnám gert í fasteign í eigu sóknaraðila. Sóknaraðili beindi 25. júní 2002 kröfu til Héraðsdóms Reykjavíkur um að fjárnámið yrði fellt úr gildi. Var mál þetta þingfest af því tilefni 22. júlí sama árs. Með hinum kærða úrskurði var kröfu sóknaraðila sem áður segir hafnað.

II.

Sóknaraðili reisir kröfu sína um ógildingu fjárnámsins á því að krafa varnaraðila hafi verið fyrnd þegar sýslumanni barst beiðni um gerðina, sbr. 3. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Krafa varnaraðila eigi rætur að rekja til endurákvörðunar ríkisskattstjóra 1. apríl 1997 á fyrrnefndum opinberum gjöldum sóknaraðila og hafi gjalddagi kröfunnar verið 11. sama mánaðar, sbr. 6. mgr. 110. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Engu breyti að ríkisskattstjóri hafi í úrskurði sínum 14. október 1998 fallið frá því að bæta álagi við þá hækkun, sem hann gerði á tekjuskatts- og útsvarsstofni sóknaraðila gjaldárið 1994, sbr. dóm Hæstaréttar 21. september 2000 í máli nr. 346/2000. Af þessum sökum hafi fjögurra ára fyrningarfrestur verið liðinn þegar varnaraðili krafðist fjárnáms hjá honum 24. apríl 2002. Ákvæði 4. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, sem gilt hafi um mál sóknaraðila, sbr. 24. gr. laga nr. 145/1995, og krafa varnaraðila sé studd við, haggi ekki þessari niðurstöðu, eins og leiða megi af ákvæðum 1. mgr. 111. gr. og 1. mgr. 112. gr. fyrrnefndu laganna.

Krafa varnaraðila um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur er reist á því að krafa hans á hendur sóknaraðila hafi ekki verið fyrnd þegar beiðni um fjárnám var sett fram, enda beri samkvæmt 4. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981 að miða gjalddaga kröfunnar við úrskurð ríkisskattstjóra 14. október 1998. Þá fyrst hafi verið heimilt fyrir varnaraðila að innheimta kröfuna og unnt fyrir sóknaraðila að greiða hana. Því eigi ákvæði 6. mgr. 110. gr. laga nr. 75/1981 ekki við í málinu, eins og það hafi verið skýrt í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar 21. september 2000.

III.

Eins og að framan greinir snýst ágreiningur aðilanna um hvort krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila vegna ógreiddra opinberra gjalda hans hafi verið fyrnd þegar varnaraðili leitaði fjárnáms hjá honum 24. apríl 2002. Krafan á rætur að rekja til endurákvörðunar ríkisskattstjóra 1. apríl 1997, sem var að mestu leyti staðfest með úrskurði hans 14. október 1998. Í 6. mgr. 110. gr. laga nr. 75/1981 kemur fram að séu skattar gjaldanda hækkaðir eftir álagningu falli viðbótarfjárhæðin í gjalddaga tíu dögum eftir að honum var tilkynnt um það. Um mál sóknaraðila gilti ákvæði 4. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, eins og það stóð áður en því var breytt með 16. gr. laga nr. 145/1995, sbr. 24. gr. þeirra laga, en samkvæmt því skyldi tilkynning um skattbreytingu ekki send innheimtumanni fyrr en að loknum kærufresti til skattstjóra eða að loknum úrskurði kæru. Ákvæði þetta verður ekki skýrt svo að það haggi reglu 6. mgr. 110. gr. laga nr. 75/1981 um gjalddaga viðbótarfjárhæðar, enda segir í 1. mgr. 111. gr. laganna að áfrýjun skattákvörðunar eða deila um skattskyldu fresti hvorki eindaga tekju- eða eignarskatts né leysi undan neinum viðurlögum, sem lögð séu við vangreiðslu hans. Þar sem úrskurður ríkisskattstjóra um kæru sóknaraðila 14. október 1998 hafði eingöngu í för með sér lækkun á opinberum gjöldum hans verður fallist á með honum að krafa varnaraðila hafi fallið í gjalddaga 11. apríl 1997.

Í málinu liggur sem áður segir fyrir beiðni varnaraðila 12. apríl 1999 um fjárnám hjá sóknaraðila, sem ekkert liggur nánar fyrir um. Virðist varnaraðili ekki byggja á því að fyrningu kröfunnar hafi verið slitið með þeirri beiðni. Samkvæmt 3. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 fyrnast kröfur, sem lögtaksréttur fylgir, á fjórum árum. Var krafa varnaraðila því fyrnd þegar hann leitaði fjárnáms hjá sóknaraðila 24. apríl 2002. Samkvæmt þessu verður fallist á kröfu sóknaraðila og fellt úr gildi fjárnámið, sem varnaraðili fékk gert hjá honum 24. júní 2002.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem er ákveðinn í einu lagi eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Fellt er úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði 24. júní 2002 hjá sóknaraðila, Lúðvík Sigurðssyni, að kröfu varnaraðila, tollstjórans í Reykjavík.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2002.

Mál þetta var þingfest 22. júlí 2002 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 16. september sl.

Sóknaraðili er Lúðvík Sigurðsson, kt. 230240-3459, Lambastaðabraut 7, Seltjarnarnesi.

Varnaraðili er tollstjórinn í Reykjavík, kt. 650269-7649, Tryggvagötu 19, Reykjavík.

Dómkröfur sóknaraðila eru að fjárnámsgerð sýslumannsins í Reykjavík, nr. 011-2002-08135, sem fór fram hjá sóknaraðila 24. júní 2002 að kröfu varnaraðila, til tryggingar kröfu að fjárhæð 1.547.121 kr. í fasteign sóknaraðila að Lambastaðabraut 7, Seltjarnarnesi, verði ógilt með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur.  Þá gerir gerðarþoli kröfu um greiðslu málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur varnaraðila eru að hafnað verði öllum kröfum sóknaraðila og að fjárnámsgerð sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-2002-08135, sem fram fór að kröfu varnaraðila 24. júní 2002, verði staðfest fyrir 1.031.174 kr. auk áfallandi dráttarvaxta og annars kostnaðar, þ.m.t. stimpilgjalds 15.488 kr., þinglýsingarkostnaðar 1.200 kr. og aðfarargjalds að fjárhæð 11.500 kr. auk annars kostnaðar til greiðsludags.  Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.

Helstu málavextir eru að með úrskurði ríkisskattstjóra 1. apríl 1997 voru opinber gjöld sóknaraðila gjaldárin 1993 og 1994 endurákvörðuð.  Sóknaraðili kærði endur-ákvörðunina til ríkisskattstjóra sem úrskurðaði 14. október 1998 að hinn kærði úrskurður skyldi standa óbreyttur að öðru leyti en fallið var frá álagsbeitingu gjaldárið 1994.

Af hálfu varnaraðila er talið að innheimtukerfi ríkissjóðs hafi fengið umrædda skatta til innheimtu 20. október 1998.  Fjárnámsbeiðni hafi verið send til sýslumannsins í Reykjavík 12. apríl 1999, en ekki sé nú að finna neinar upplýsingar um afdrif fjárnámsbeiðninnar hjá sýslumanni, hvorki birtingarvottorð né bókanir um fyrirtöku.  Hins vegar er hjá tollstjóranum í Reykjavík að finna afrit af þessari aðfararbeiðni, sbr. dskj. nr. 2, fskj. nr. 7.  Þann 3. maí 2002 var síðan móttekin hjá sýslumanni fjárnámsbeiðni, sem fjárnám það sem hér er deilt um, er reist á.

Sóknaraðili greiddi inn á kröfu varnaraðila 594.544 kr. þann 21. júní 2002.  Þessu fé var ráðstafað af hálfu varnaraðila inn á skuldir áranna 1998 til og með 2002 í samræmi við tilmæli sóknaraðila.  Þann 24. júní 2002 var umdeilt fjárnám gert og þann 26. sama mánaðar var móttekin í Héraðsdómi Reykjavíkur krafa sóknaraðila um ógildingu aðfarargerðarinnar.

Af hálfu sóknaraðila er byggt á því að umrædd skuld sé fyrnd.  Greiðslustöðuyfirlit varnaraðila yfir ætlaða gjaldfallna skuld sóknaraðila hjá varnaraðila sé óskiljanlegt og skírskoti með engum hætti til fyrirliggjandi úrskurða ríkisskattstjóra.  Aðfararbeiðni, sem varnaraðili lagði fram 12. apríl 1999, hafi ekki verið framfylgt, fjárnám ekki framkvæmt á grundvelli hennar.  Augljóst sé að beiðnin sé fallin niður fyrir tómlæti þar sem rúm þrjú ár séu síðan beiðnin var sett fram.

Af hálfu varnaraðila er byggt á því að krafa hans hafi verið ófyrnd þegar sýslumaður tók við beiðni hans 3. maí 2002.  Upphaf fyrningarfrests hafi verið 14. október 1998 við síðari úrskurð ríkisskattstjóra, en þá hafi krafan fyrst gjaldfallið lögum samkvæmt.  Samkvæmt 3. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda fyrnist kröfur svo sem hér um ræðir á fjórum árum.  Samkvæmt 52. gr. laga um aðför nr. 90/1989 þá sé fyrningu aðfararhæfrar kröfu slitið, ef aðfararbeiðni berist sýslumanni fyrir lok fyrningartíma og gerðinni síðan fram haldið án ástæðulauss dráttar.   Þá sé tekið tillit til innborgunar sóknaraðila 21. júní 2002 á fjárnámskröfunni í dómkröfum varnaraðila.

Niðurstaða: Fallist er á með varnaraðila að krafa hans hafi verið ófyrnd er sýslumaður tók við aðfararbeiðni hans 3. maí 2002.  Almennt má búast við því að einstök mál geti dregist og jafnvel misfarist í viðamiklu kerfi er þarf til álagningu opinberra gjalda og innheimtu þeirra.  Verður því ekki fallist á þá málsástæðu sóknaraðila að varnaraðili hafi sýnt af sér slíkt tómlæti við innheimtu umræddra opinberra gjalda að fella beri þau niður.

Samkvæmt framangreindu verður hafnað öllum kröfum sóknaraðila og staðfest fjárnámsgerð sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-2002-08135, sem fram fór að kröfu varnaraðila 24. júní 2002, til tryggingar 1.031.174 kr. svo sem nú er krafist.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hafnað er kröfum sóknaraðila, Lúðvíks Sigurðssonar.  Staðfest er fjárnámsgerð sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-2002-08135, sem fram fór að kröfu varnaraðila, tollstjóranum í Reykjavík, 24. júní 2002, eins og krafist er fyrir dómi, til tryggingar 1.031.174 kr.

Málskostnaður fellur niður.