Print

Mál nr. 254/2007

Lykilorð
  • Kærumál
  • Refsiheimild
  • Ákæra
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta

Föstudaginn 1

 

Föstudaginn 1. júní 2007.

Nr. 254/2007.

Ákæruvaldið

(Sigurður Tómas Magnússon, settur

 ríkissaksóknari)

gegn

Jóni Ásgeiri Jóhannessyni

(Gestur Jónsson hrl.)

Tryggva Jónssyni og

(Jakob R. Möller hrl.)

Jóni Gerald Sullenberger

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Kærumál. Refsiheimild. Ákæra. Frávísun héraðsdóms felld úr gildi að hluta.

Með ákæru 31. mars 2006 voru JÁJ, TJ og JGS ákærðir í 19 liðum fyrir ýmis brot í tengslum við rekstur B hf. Með úrskurði héraðsdóms 30. júní 2006, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 21. júlí sama ár var fyrsta ákæruliðnum vísað frá dómi. Með dómi héraðsdóms 3. maí 2007 var tíu liðum ákærunnar gegn JÁJ og TJ einnig vísað  frá dómi en efnislega leyst úr öðrum liðum hennar. Þá var þeim hluta ákærunnar, er beindist gegn JGS, ennfremur vísað frá dómi. Ríkissaksóknari kærði frávísun ákæruliðanna til Hæstaréttar og krafðist þess að lagt yrði fyrir héraðsdóm að taka þá til efnismeðferðar. Á það var fallist að sá annmarki, sem héraðdómur taldi vera á skýrleika refsiheimildar 104. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, gæti ekki einn út af fyrir sig leitt til þess að máli yrði vísað frá dómi. Var frávísun ákæruliða tvö til níu, þar sem JÁJ var borinn sökum um brot gegn umræddu ákvæði, því felld úr gildi. Hins vegar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að ákærulið tíu, þar sem JÁJ var aðallega borinn sökum um meiriháttar bókhaldsbrot en til vara um brot gegn áðurnefndu ákvæði laga nr. 2/1995, væri ekki lýst í ákæru í samræmi við c. lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að því leyti sem háttsemin var í ákærunni talin fela í sér bókhaldsbrot. Verknaðarlýsing ákæruliðarins olli hins vegar ekki vafa að því leyti sem háttsemin var talin varða við umrætt ákvæði laga nr. 2/1995 og var frávísun ákæruliðarins því felld úr gildi hvað varðar sakargiftir, sem hafðar voru uppi til vara. Frávísun ákærunnar gegn JGS var á því reist að á fyrri stigum málsins hefði hann haft stöðu vitnis en ekki sakbornings við skýrslutökur hjá lögreglu. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að ein skýrsla hefði verið tekin af JGS sem sakborningi eftir að settur ríkissaksóknari tók við málinu og hefði sú lögreglurannsókn lagt nægilegan grundvöll að útgáfu á ákæru gegn honum. Væru því ekki efni til að vísa sakargiftum á hendur honum frá dómi vegna þess hvernig rannsókn á þessu atriði hefði verið hagað á fyrri stigum, enda kæmi hún að því leyti ekki til álita við úrlausn málsins. Þá var ekki fallist á með JGS að svör saksóknara til verjenda annarra sakborninga í málinu, þar sem skýringar voru gefnar á því hvers vegna hann hefði ekki verið ákærður í fyrra máli, ættu að leiða til þess að óheimilt hefði verið að gefa síðar út ákæru gegn honum. Var frávísun ákærunnar á hendur JGS því felld úr gildi. Að lokum var talið að tilgreining í 19. lið ákærunnar á þeirri háttsemi, sem TJ var þar gefin að sök, væri nægilega ljós og samrýmdist c. lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991. Var ákvæði héraðsdóms um frávísun ákæruliðarins því fellt úr gildi. Lagt var fyrir héraðsdóm að taka ofangreinda ákæruliði alla til efnismeðferðar í samræmi við það sem að framan greinir.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. maí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærð eru ákvæði í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2007, þar sem nánar tilgreindum ákæruliðum í máli ákæruvaldsins gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að ákvæði dómsins um frávísun ákæruliðanna verði felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka þá til efnismeðferðar. Þá krefst hann að ákvæði dómsins um málsvarnarlaun skipaðs verjanda varnaraðilans Jóns Gerald Sullenberger og greiðslu þeirra úr ríkissjóði verði fellt úr gildi.

Varnaraðilinn Jón Ásgeir Jóhannesson krefst staðfestingar ákvæða í héraðsdómi um frávísun þeirra ákæruliða er varða hann. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Tryggvi Jónsson krefst staðfestingar ákvæðis í héraðsdómi um frávísun þess ákæruliðar er varðar hann og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Jón Gerald Sullenberger krefst staðfestingar kærðs dómsákvæðis um frávísun ákæruliðar á hendur honum, svo og um ákvörðun málsvarnarlauna verjanda hans. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

I.

Settur ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur varnaraðilum 31. mars 2006. Skiptist ákæran í fimm kafla, þar sem meginefni sakargifta er tilgreint í fyrirsögnum og í sumum tilvikum einnig undirfyrirsögnum. Einstakir ákæruliðir voru nítján. Eftir að málið var þingfest kröfðust varnaraðilar þess hver fyrir sig að sakargiftum á hendur þeim yrði vísað frá dómi. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2006 var I. kafla ákærunnar, sem hafði að geyma 1. lið hennar, vísað frá dómi, en kröfum varnaraðila að öðru leyti hafnað. Úrskurður um frávísun 1. ákæruliðar var staðfestur með dómi Hæstaréttar 21. júlí sama ár í máli nr. 353/2006.

Með dómi héraðsdóms 3. maí 2007 var leyst efnislega úr nokkrum liðum ákærunnar, en öðrum vísað frá dómi. Af þeim síðarnefndu eru 2. til 10. liður að báðum meðtöldum á hendur varnaraðilanum Jóni Ásgeiri og 19. liður varnaraðilanum Tryggva. Jafnframt var vísað frá dómi þeim hluta 15. ákæruliðar, sem beinist gegn varnaraðilanum Jóni Gerald. Tekur kæra sóknaraðila til allra þeirra ákæruatriða, sem vísað var frá héraðsdómi.

II.

Í II. kafla ákærunnar er varnaraðilanum Jóni Ásgeiri í 2. til 9. lið gefið að sök brot gegn lögum nr. 2/1995 um hlutafélög með því að hafa sem forstjóri Baugs hf. veitt lán af fjármunum félagsins til Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., Fjárfars ehf. og Kristínar Jóhannesdóttur á árunum 1999 til 2001, eins og nánar er lýst í einstökum liðum, en Baugur hf. hafi á þeim tíma verið skráð hlutafélag á aðallista Verðbréfaþings Íslands með dreifða eignaraðild. Er í ákæru vísað til nánar tiltekinna ákvæða í 104. gr. og 153. gr. laga nr. 2/1995, sem talið er að varnaraðilinn hafi brotið. Í dómi héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu að refsiheimild 104. gr. laganna sé ekki svo skýr að unnt sé að dæma einstakling til refsingar á grundvelli hennar. Af þeirri ástæðu og með vísan til 69. gr. stjórnarskrárinnar var talið óhjákvæmilegt að vísa 2. til 9. lið ákærunnar frá dómi. Sóknaraðili reisir kröfu sína um að þetta ákvæði dómsins verði fellt úr gildi meðal annars á því að ráða megi af dómaframkvæmd hér á landi að ágreiningur um skýrleika refsiheimildar sé efnislegt atriði, sem beri að leysa úr með efnisdómi, en tengist ekki formkröfum. Annmarki af þessum toga á lagaheimild geti því leitt til sýknu en ekki frávísunar. Vísar sóknaraðili til nokkurra dóma Hæstaréttar frá árunum 2000 til 2006, sem hann telur vera fordæmi að þessu leyti við úrlausn málsins.

Í héraðsdómi er greint frá efni 104. gr. og 153. gr. laga nr. 2/1995, sem þar er talið svo óljóst að ófært sé að dæma einstakling til refsingar á grundvelli þeirra. Slíkur annmarki getur ekki einn út af fyrir sig leitt til þess að máli verði vísað frá dómi og sú aðstaða er ekki fyrir hendi að hann geti hafa haft áhrif á réttarstöðu varnaraðilans á fyrri stigum málsins. Verður að þessu virtu fallist á kröfur sóknaraðila að því er varðar 2. til 9. lið ákærunnar að báðum meðtöldum.

III.

Samkvæmt III. kafla ákæru voru varnaraðilunum Jóni Ásgeiri og Tryggva gefin að sök í 10. til 16. lið meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa á árunum 2000 og 2001 rangfært bókhald Baugs hf., átt þátt í að búin voru til gögn sem áttu sér ekki stoð í viðskiptum við aðra og hagað bókhaldinu með þeim hætti að það hafi gefið ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna. Auk þess var Jóni Ásgeiri til vara í 10. lið gefin að sök ólögmæt lánveiting. Í 15. lið ákærunnar var varnaraðilanum Jóni Gerald gefið að sök að hafa á árinu 2001 aðstoðað Jón Ásgeir og Tryggva við að rangfæra bókhald Baugs hf. með því að búa til gögn, sem áttu sér ekki stoð í viðskiptum. Sakargiftir í 10. lið beindust að Jóni Ásgeiri einum, í 15. lið að öllum varnaraðilum, en í öðrum liðum þessa kafla ákærunnar að Jóni Ásgeiri og Tryggva. Með héraðsdómi var 10. lið ákærunnar vísað frá dómi og þeim hluta 15. liðar, sem beindist að Jóni Gerald, en felldur efnisdómur á sakargiftir samkvæmt þessum kafla að öðru leyti.

Í 10. lið ákæru er varnaraðilanum Jóni Ásgeiri gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að láta færa í bókhaldi Baugs hf. 30. júní 2000 sölu á hlutafé í eigu félagsins í Baugi.net ehf. að nafnvirði 2.500.000 krónur til Fjárfars ehf., sem varnaraðilinn hafi stjórnað og ráðið yfir, fyrir 50.000.000 krónur. Er framhaldi viðskiptanna, færslum í bókhaldi Baugs hf. og tilkynningum í því sambandi lýst í ákæru, svo sem nánar greinir í héraðsdómi, en með þeim er varnaraðilinn talinn hafa brotið nánar tilgreind ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940, laga nr. 145/1994 um bókhald og laga nr. 2/1995. Í þessum ákærulið er varnaraðilanum til vara gefið að sök brot gegn 1. mgr. 104. gr., sbr. 2. tölulið 153. gr. laga nr. 2/1995 með því að hafa lánað Fjárfari ehf. kaupverð hlutafjárins, 50.000.000 krónur. Í forsendum héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu að ætluðu broti varnaraðilans væri ekki lýst í þessum ákærulið í samræmi við c. lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 og því óhjákvæmilegt að vísa honum frá dómi. Með vísan til forsendna dómsins verður sú niðurstaða staðfest að því leyti, sem háttsemi varnaraðilans var í ákæru aðallega talin varða við ákvæði almennra hegningarlaga, laga nr. 145/1994 og laga nr. 2/1995. Í héraðsdómi varð niðurstaðan jafnframt sú að vísa frá varakröfu sóknaraðila um að varnaraðilanum yrði refsað fyrir brot gegn lögum nr. 2/1995 með því að hafa lánað Fjárfari ehf. 50.000.000 krónur og vísað til þess sem áður var sagt í dóminum í úrlausn um 2. til 9. lið hvað varðar skýrleika refsiheimildar. Verknaðarlýsing veldur að þessu leyti ekki vafa og geta sakargiftir, sem hafðar eru uppi til vara í þessum lið, ekki sætt frávísun frá dómi, sbr. II. kafla að framan. Verður fallist á kröfu sóknaraðila að því leyti og frávísun þessa ákæruliðar felld úr gildi hvað varðar sakargiftir, sem hafðar eru uppi til vara.

IV.

Sakargiftir á hendur varnaraðilanum Jóni Gerald í 15. lið ákæru lúta að því að hann hafi aðstoðað varnaraðilana Jón Ásgeir og Tryggva við að rangfæra bókhald Baugs hf. og stuðlað að bókhaldsbrotum þeirra með því að útbúa rangan og tilhæfulausan afsláttarreikning frá Nordica Inc. í Bandaríkjunum að fjárhæð 589.890 bandaríkjadalir að tilhlutan Jóns Ásgeirs og samkvæmt fyrirsögn Tryggva, en reikningurinn hafi ekki átt stoð í viðskiptum félaganna, sem þeir þrír voru í fyrirsvari fyrir. Er ætluðum rangfærslum í bókhaldi Baugs hf. nánar lýst og afleiðingum þeirra í árshlutareikningi félagsins. Í niðurstöðu héraðsdóms í þessum þætti var vísað til þess að varnaraðilinn Jón Gerald hafi á fyrri stigum málsins, allt frá ágúst 2002, haft stöðu vitnis en ekki sakbornings við skýrslutökur hjá lögreglu. Hann hafi engu að síður tjáð sig um eigin þátttöku í atferli fleiri manna. Þetta hafi ekki breyst fyrr en á árinu 2006 eftir að settur ríkissaksóknari hafði tekið við málinu. Lögregla hefði frá upphafi átt að taka skýrslur af varnaraðilanum sem sökuðum manni og hafi hann því ekki notið þeirra réttinda sakbornings við rannsókn hennar, sem nánar tilgreind lagaákvæði áskilji. Taldi héraðsdómur að ákæra á hendur Jóni Gerald yrði ekki reist á lögreglurannsókninni og vísaði því sakargiftum á hendur honum frá dómi.

Þótt annmarkar hafi verið á skýrslutökum af varnaraðilanum hjá lögreglu á fyrri stigum, svo sem getið er í héraðsdómi, er ekki fram komið að neinu slíku hafi verið til að dreifa þegar lögregla tók af honum skýrslu 22. febrúar 2006 eftir að settur ríkissaksóknari tók við málinu. Varnaraðilinn gaf þá skýrslu sem sakborningur og sú lögreglurannsókn lagði nægilegan grundvöll að útgáfu ákæru á hendur honum. Eru því engin efni til að vísa sakargiftum á hendur varnaraðilanum frá dómi vegna þess hvernig lögreglurannsókn á þessu atriði var hagað á fyrri stigum, enda kemur hún að því leyti ekki til álita við úrlausn málsins. Ber að leggja dóm á það á grundvelli þess, sem fram kom fyrir dómi, þar sem varnaraðilinn gaf meðal annarra ítarlega skýrslu.

Krafa varnaraðilans um frávísun sakargifta á hendur honum styðst jafnframt við það að af hálfu ákæruvaldsins hafi því verið lýst yfir á fyrri stigum að hann yrði ekki saksóttur. Sé sóknaraðili bundinn af því og geti ekki horfið frá slíkri ákvörðun með því að höfða eftir það opinbert mál á hendur sér. Vísar hann því til stuðnings til tveggja bréfa saksóknara við embætti ríkislögreglustjóra 14. október 2005 og 20. desember sama ár til verjenda tveggja sakborninga í málinu, svo og dóms Hæstaréttar í dómasafni 2005 bls. 2315, sem hann telur vera fordæmi að þessu leyti, sbr. einnig dóma réttarins 1995 bls. 791, 1997 bls. 1890 og 1998 bls. 2299.

Þau bréf, sem að framan er getið, voru rituð í tilefni máls, sem höfðað var með ákæru 1. júlí 2005 á hendur varnaraðilunum Jóni Ásgeiri og Tryggva og fleirum. Bréfin höfðu að geyma svör saksóknarans í því máli við fyrirspurn verjenda sakborninga um það hvers vegna sökum hafi þar ekki einnig verið beint að varnaraðilanum Jóni Gerald. Í fyrra bréfinu sagði það eitt að sú niðurstaða að ákæra ekki Jón Gerald væri reist á fyrirmælum 112. gr. laga nr. 19/1991 um að höfða ekki mál nema það, sem fram sé komið, sé nægilegt eða líklegt til sakfellis. Í hinu síðara kom fram að verjendur hafi óskað eftir fyllri svörum við fyrirspurn sinni og jafnframt tekið fram að settur ríkissaksóknari hafi nú tekið við málinu. Fyrra svar var síðan ítrekað og því bætt við að „við þetta mat var litið til allra gagna málsins og á grundvelli þeirra varð niðurstaðan sú að framlögð gögn gerðu það ekki líklegt að háttsemi Jóns Geralds Sullenberger yrði lögð að jöfnu við háttsemi skjólstæðinga ykkar, þeirra Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Jóhannesar Jónssonar og Kristínar Jóhannesdóttur, en þau eru ákærð fyrir það að hafa framvísað við tollafgreiðslu bifreiðanna röngum og villandi gögnum um kaup þeirra og greiðslur fyrir þá.“

Í rökstuðningi sóknaraðila í þessum þætti er vísað til þess að varnaraðilinn hafi ekki haft réttarstöðu sakbornings við rannsókn lögreglu í fyrra málinu og því aldrei gefist tilefni til að taka sérstaka ákvörðun um hvort hann skyldi saksóttur eða ekki. Bréf, sem áður var getið, hafi því ekki falið í sér formlega ákvörðun ákæruvaldsins í skilningi 112. gr. laga nr. 19/1991, heldur hafi með þeim verið gefin skýring vegna fyrirspurna á þeim atriðum, sem komu til athugunar hjá saksóknaranum. Skýringum hans hafi að auki ekki verið beint til varnaraðilans. Þá hafi síðara bréfið verið ritað eftir að settur ríkissaksóknari tók við málinu. Ákvörðun hans um að ákæra hafi ekki falið í sér endurskoðun á annarri ákvörðun, en í því umboði sem hann fékk hafi falist allar lagaheimildir ríkissaksóknara. Hann hafi lagt sjálfstætt mat á gögn málsins, jafnframt því að hlutast til um viðbótarrannsókn, sem meðal annars hafi verið fólgin í öflun matsgerðar um áreiðanleika tölvupóstsendinga, sem stöfuðu frá varnaraðilanum og fleirum. Þá hafi nýjar skýrslur verið teknar af honum og öðrum sakborningum áður en ákæra var gefin út. Vísar sóknaraðili til dóms Hæstaréttar í dómasafni 1989 bls. 1514 til stuðnings kröfu sinni, en þar hafi fleiri menn verið ákærðir en í fyrra máli vegna sömu atvika, eftir að hinu fyrra var vísað frá héraðsdómi. Atvik hafi hins vegar verið ólík í þeim dómum réttarins frá árunum 1995 til 1998, sem áður voru nefndir, en þeir eigi það sameiginlegt að þar hafi verið um að ræða formlegar yfirlýsingar ákæruvaldsins um að ekki væri krafist frekari aðgerða af þess hálfu gagnvart sakborningum, auk þess sem ekkert nýtt hafi þar komið fram frá því að þessar tilkynningar bárust frá ríkissaksóknara og þar til ný ákvörðun var tekin.

Sú varnarástæða, sem hér greinir, var áður höfð uppi í því máli, sem lauk með dómi Hæstaréttar 21. júlí 2006 og fyrr var getið. Héraðsdómur hafnaði þá að hún gæti leitt til frávísunar, en sú niðurstaða kom ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Við úrlausn málsins verður litið til þess að varnaraðilinn Jón Gerald hafði ekki stöðu sakbornings við skýrslutöku hjá lögreglu áður en ákæra var gefin út 1. júlí 2005. Bar sóknaraðila því ekki skylda til að tilkynna honum að hann yrði ekki sóttur til saka, sbr. 1. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991. Áðurnefnd svör saksóknara 14. október 2005 og 20. desember sama ár við fyrirspurn verjenda annarra manna fólu ekki í sér ákvörðun eða tilkynningu, sem ekki yrði síðar horfið frá. Sóknaraðili hlutaðist til um frekari rannsókn málsins áður en ákæra var gefin út 31. mars 2006. Að því virtu, sem að framan greinir, verður fellt úr gildi ákvæði héraðsdóms um að vísa frá 15. lið ákæru á hendur varnaraðilanum Jóni Gerald Sullenberger, sem og ákvæði dómsins um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans.

V.

Varnaraðilanum Tryggva er í 19. lið ákæru gefið að sök að hafa dregið sér samtals 1.315.507 krónur á árunum 2000 til 2002 þegar hann lét Baug hf. greiða félaginu Nordica Inc. í þrettán skipti reikninga, sem gefnir voru út af síðarnefnda félaginu á hendur því fyrrnefnda vegna persónulegra útgjalda varnaraðilans, sem hafi verið Baugi hf. óviðkomandi. Hafi Tryggvi einkum stofnað til útgjaldanna erlendis með úttektum á greiðslukorti í reikning Nordica Inc., sem það félag lagði út fyrir og innheimti síðan hjá Baugi hf. samkvæmt fyrirmælum varnaraðilans. Hann hafi áritað alla þrettán reikningana um samþykki og látið færa þá til gjalda í bókhaldi Baugs hf. sem „ferðakostnaður erlendis án vsk“ eða „tæknileg aðstoð án vsk“. Í forsendum héraðsdóms segir meðal annars að sóknaraðili telji fjárdráttinn vera vegna notkunar varnaraðilans á greiðslukorti í allmörg skipti í eigin þágu. Þeirri notkun sé þó ekki lýst nánar en að hún hafi verið vegna kaupa varnaraðilans „á varningi og þjónustu í eigin þágu, meðal annars í tónlistarverslunum, tískuvöruverslunum, golfvöruverslun, skemmtigarði, veitingastöðum og vegna kaupa á sláttudráttarvél.“ Rannsóknargögn bendi þó til að kortið hafi verið notað víðar. Þá sé ekki samræmi milli reikninganna og sundurliðunar á notkun kortsins í rannsóknargögnum. Með því að ákært sé fyrir fjárdrátt hafi nauðsyn borið til að lýsa í ákærunni notkun varnaraðilans á kortinu með þeim hætti að honum og dóminum hafi verið fært að taka afstöðu til hvers atviks fyrir sig, enda hafi vörn hlotið að byggjast á því að varnaraðilinn gæti tekið afstöðu til sérhverrar greiðslu með kortinu. Ákæran sé að þessu leyti ekki í samræmi við það, sem áskilið sé í 116. gr. laga nr. 19/1991 og því óhjákvæmilegt að vísa þessum lið hennar frá dómi.

Samkvæmt gögnum málsins munu vera 65 færslur með greiðslukorti Nordica Inc. að baki þeim þrettán reikningum, sem hér um ræðir. Lítils háttar misræmi er á milli fjárhæða reikninganna annars vegar og hins vegar yfirlita vegna kortanotkunarinnar, þar sem munurinn er frá tæplega einum bandaríkjadal allt að 35 dölum. Af hálfu sóknaraðila er haldið fram að fjárdráttarbrot varnaraðilans hafi verið fullframin þegar reikningarnir þrettán voru greiddir en ekki við notkun greiðslukortsins, enda hafi þá ekki legið fyrir að Baugur hf. myndi greiða fyrir kortanotkunina. Þá telur hann frávísun 19. ákæruliðar vera í andstöðu við dómaframkvæmd í málum út af fjárdráttarbrotum.

Tilgreining í ákæru á þeirri háttsemi varnaraðilans Tryggva að láta Baug hf. greiða áðurnefnda þrettán reikninga felur í sér lýsingu á verknaði, sem 247. gr. almennra hegningarlaga getur tekið til. Verknaðarlýsing er nægilega ljós og samrýmist ákvæði c. liðar 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991. Varnaraðilanum er því unnt að ráða af ákærunni einni hvaða refsiverð háttsemi honum er gefin að sök. Hann reisir sýknukröfu sína hins vegar á því að honum hafi verið heimilt að láta Baug hf. bera þau útgjöld, sem hann stofnaði til með notkun greiðslukorts Nordica Inc. Verður þá að líta til þess að í gögnum málsins er að finna sundurliðun á reikningsfjárhæðum og skýringar á því hvaða greiðslukortaúttektir liggja að baki einstökum reikningum. Er ekki fram komið að vörnum verði ekki komið við vegna þess hvernig sakargiftir eru fram bornar í ákæru. Óverulegt misræmi milli reikninga og yfirlita, sem áður var getið, leiðir ekki heldur til frávísunar 19. ákæruliðar í heild sinni. Verður ákvæði héraðsdóms um hann því fellt úr gildi.

VI.

Samkvæmt öllu því, sem að framan er rakið, verður fallist á kröfur sóknaraðila að öðru leyti en varðandi sakargiftir í 10. ákærulið, sem þar eru aðallega hafðar uppi. Verða því felld úr gildi ákvæði í héraðsdómi um að vísa frá 2. til 9. lið ákæru, sakargiftum til vara samkvæmt 10. lið, sakargiftum á hendur varnaraðilanum Jóni Gerald í 15. lið og 19. lið í heild sinni og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið að þessu leyti til efnismeðferðar. Verður jafnframt þessu til samræmis að fella úr gildi ákvæði héraðsdóms um málsvarnarlaun handa skipuðum verjanda varnaraðilans Jóns Gerald og um greiðslu þeirra úr ríkissjóði.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Ákvæði í héraðsdómi um að vísa frá 2. til 9. lið ákæru, sakargiftum til vara samkvæmt 10. lið, hluta 15. liðar og 19. lið eru felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka þá ákæruliði til efnismeðferðar. Jafnframt er fellt úr gildi ákvæði héraðsdóms um málsvarnarlaun skipaðs verjanda Jóns Gerald Sullenberger.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2007.

Ár 2007, fimmtudaginn 3. maí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Arngrími Ísberg, héraðs­dómara, sem dóms­formanni, Jóni Finnbjörnssyni, héraðsdómara, og Garðari Valdimarssyni, hæsta­réttar­lögmanni og löggiltum endurskoðanda, kveðinn upp þessi dómur í málinu nr. S-514/2006: Ákæruvaldið gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Tryggva Jónssyni og Jóni Gerald Sullenberger sem tekið var til dóms 29. mars sl.

I

             Með ákæru, dagsettri 31. mars 2006, höfðaði settur ríkissaksóknari samkvæmt umboðsskrá  opinbert mál á hendur þeim

“Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, kt. 270168-4509,

             Laufásvegi 69, Reykjavík,

            

Tryggva Jónssyni, kt. 140755-2739,

Vesturhúsum 22, Reykjavík,

 

Jóni Gerald Sullenberger, kt. 240664-2089,

832 Santiago Street, Coral Gables, Florida, USA.

 

             Ákærðu eru gefin að sök brot á eftirtöldum ákvæðum almennra hegningarlaga, laga um bókhald og hlutafélög á árunum 1998 til 2002, samkvæmt mála­vaxtalýsingum sem hér fara á eftir og rakið er í hverju tilviki fyrir sig.

             Brot ákærðu tengdust rekstri Baugs hf. sem stofnað var 1. júlí 1998. Hlutabréf félagsins voru skráð á aðallista Verðbréfaþings Íslands 28. apríl 1999 en afskráð af þeim lista 11. júlí 2003. Félagið var á þeim tíma almenningshlutafélag með dreifða eignaraðild.

I. kafli.  Auðgunarbrot í tengslum við viðskipti með hlutafé tveggja hlutafélaga með nafninu Vöruveltan á árunum 1998 og 1999.”

Þessum kafla var vísað frá dómi með úrskurði 30. júní 2006 sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar 21. júlí sama ár.

 

“II. kafli.  Lánveitingar andstæðar lögum um hlutafélög

Ákærða Jóni Ásgeiri eru, sem forstjóra Baugs hf., gefin að sök, í ákæruliðum 2-9, brot gegn lögum um hlutafélög með því að láta veita lán af fjármunum Baugs hf. til Fjár­fest­ingarfélagsins Gaums ehf., Fjárfars ehf. og Kristínar Jóhannesdóttur á árunum 1999-2001. Baugur hf. var á þessum tíma skráð hlutafélag á aðallista Verðbréfaþings Íslands með dreifða eignaraðild.

 

Ólögmætar lánveitingar til Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf.

2. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, hinn 20. ágúst 1999, látið veita Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð kr. 100.000.000 frá Baugi hf., til að fjármagna kaup á hlutafé í Baugi hf., en ákærði var þá jafnframt framkvæmdastjóri Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. Lánið var veitt með þeim hætti að millifærðar voru kr. 100.000.000 af bankareikningi Baugs hf., nr. 0527 26 000720, til Íslandsbanka hf., sem greiðsla Fjár­fest­ingar­félagsins Gaums ehf. vegna innheimtu bankans á hlutafjárloforði Fjárfestingar­félagsins Gaums ehf., að nafnverði kr. 10.000.000, í hlutafjárútboði Baugs hf. í apríl 1999. Gefin var út skrifleg yfirlýsing Baugs hf. til staðfestingar á lánveitingunni og að lánið bæri 12,2% vexti frá 20. júlí 1999 en gjalddagi ekki tilgreindur. Í bókhaldi Baugs hf. var lánsfjárhæðin eignfærð á viðskiptamannareikning Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. hjá Baugi hf. hinn 23. ágúst 1999. Eftir bókunina stóð skuld Fjár­fest­ingar­félagsins Gaums ehf. á viðskiptamannareikningnum í kr. 182.782.689 en staða á lánar­drottnareikningi Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. í bókhaldi Baugs hf. þennan dag nam kr. 131.350.000 sem krafa á Fjárfestingarfélagið Gaum ehf. sem þannig skuldaði Baugi hf. samtals kr. 314.132.689. Dráttarvextir voru ekki greiddir og láns­fjárhæðin ekki innheimt í samræmi við hlutafélagalög. Lán þetta var endurgreitt á tíma­bilinu 28. október 1999 til 28. júní 2000.

 

3. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, hinn 11. október 1999, látið veita Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð kr. 4.500.000 frá Baugi hf. Lánið var veitt með þeim hætti að milli­færðar voru kr. 4.500.000 af bankareikningi Baugs hf., nr. 1150 26 000077, á banka­reikning Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf., nr. 0527 26 001099, vegna kaupa þess félags á hluta fasteignarinnar að Viðarhöfða 6, Reykjavík. Gefin var út skrifleg yfir­lýsing Baugs hf. til staðfestingar á lánveitingunni og að lánið  bæri 11,5% vexti frá 1. október 1999. Gjalddagi var ekki tilgreindur. Í bókhaldi Baugs hf. var lánsfjárhæðin eign­færð á viðskiptamannareikning Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. Eftir bókunina stóð skuld Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. á viðskiptamannareikningnum í kr. 187.665.005 en staða á lánardrottnareikningi Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. í bók­haldi Baugs hf. þann dag nam kr. 3.650.000, sem skuld Baugs hf. við Fjár­fest­ingar­félagið Gaum ehf., sem þannig skuldaði Baugi hf. samtals kr. 184.015.005. Láns­fjár­hæðin var ógreidd 28. ágúst 2002.

 

4. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, hinn 3. desember 1999, látið veita Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð kr. 8.000.000 frá Baugi hf. Lánið var veitt með þeim hætti að milli­færðar voru kr. 8.000.000 af bankareikningi Baugs hf., nr. 0527 26 000720, til Spari­sjóðs Reykjavíkur og nágrennis, vegna kaupa Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. á helm­ingi hlutafjár í Viðskiptatrausti ehf., sem var í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Lánið var veitt án skriflegra gagna um endurgreiðslu og greiðslukjör. Í bókhaldi Baugs hf. var lánsfjárhæðin eignfærð á viðskiptamannareikning Fjár­festingar­félagsins Gaums ehf. hjá Baugi hf. Eftir bókunina stóð skuld Fjár­fest­ing­ar­fél­ags­ins Gaums ehf. á viðskiptamannareikningnum í kr. 168.031.286. Lánar­drottna­reikningur Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. í bókhaldi Baugs hf. stóð á núlli þennan dag. Þetta lán var gert upp 30. júní 2000 án vaxta.

 

5. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa hinn 13. febrúar 2001, látið veita Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð kr. 50.529.987 til að fjármagna kaup á hlutum í Baugi hf. Lánið var veitt með þeim hætti að Fjárfestingarfélagið Gaumur ehf. skráði sig fyrir hlutafé í Baugi hf. að verðmæti kr. 340.529.987 í hlutafjárútboði í félaginu í desember árið 2000. Þar af voru greiddar kr. 290.000.000 til Baugs hf. en eftirstöðvarnar, kr. 50.529.987, voru ekki greiddar heldur var lánsfjárhæðin eignfærð á viðskiptamanna­reikning Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. í bókhaldi Baugs hf. 13. febrúar 2001. Eftir bókunina stóð skuld Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. á viðskiptamanna­reikningnum í kr. 145.871.863. Í bókhaldi Baugs hf. stóð lánardrottnareikningur Fjárfestingar­félagsins Gaums ehf. á núlli þennan dag. Lánið var veitt án skriflegra gagna um endur­greiðslu og greiðslukjör og lánsfjárhæðin ekki innheimt í samræmi við hlutafélagalög. Láns­fjárhæðin var ógreidd 28. ágúst 2002.

 

6. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa hinn 18. maí 2001, látið veita Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð kr. 100.000.000 frá Baugi hf. Lánið var veitt með þeim hætti að milli­færðar voru kr. 100.000.000 af bankareikningi Baugs hf., nr. 0527 26 000720, inn á banka­reikning nr. 0527 26 001099 í eigu Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. Gefin var út skrifleg yfirlýsing, undirrituð af hálfu Baugs hf., til staðfestingar á lánveitingunni. Þar kom fram að lánið skyldi endurgreiða 15. júní 2001 og að lánið bæri 16% vexti auk kr. 300.000 álags. Í bókhaldi Baugs hf. var lánsfjárhæðin eignfærð á viðskipta­manna­reikning Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. Eftir bókunina stóð skuld Fjár­fest­ingarfélagsins Gaums ehf. á viðskiptamannareikningnum í kr. 262.836.989. Lánar­drottna­reikningur Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. í bókhaldi Baugs hf. stóð á núlli þennan dag. Lánsfjárhæðin var ógreidd 28. ágúst 2002.

 

Ólögmætar lánveitingar til Fjárfars ehf.

7. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, hinn 16. maí 2000, látið veita Fjárfari ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð kr. 64.500.000 frá Baugi hf. til að fjármagna kaup á hlutfé í Baugi hf. af félaginu að nafn­virði kr. 5.000.000 en að verðmæti kr. 64.500.000. Hlutaféð var selt í samræmi við óundir­ritaðan, skriflegan samning þessara aðila, dagsettan 16. maí 2000, þar sem fram kom að kaupverðið skyldi greiða 2. júní 2000 en engin greiðsla fór þá fram og engin tilraun gerð til innheimtu lánsins. Í bókhaldi Baugs hf. var lánsfjárhæðin eignfærð á viðskipta­mannareikning Fjárfars ehf. 16. maí 2000 og var um að ræða fyrstu færslu á þeim viðskiptamannareikningi. Lánsfjárhæðin var ógreidd 28. ágúst 2002.

 

8. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, hinn 13. febrúar 2001, látið veita Fjárfari ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð kr. 85.758.591 til að fjármagna kaup á hlutum í félaginu. Lánið var veitt með þeim hætti að Fjárfar ehf. skráði sig fyrir hlutafé í Baugi hf. að verðmæti kr. 85.758.591 í hluta­fjár­útboði í félaginu í desember árið 2000. Ekki var greitt fyrir hlutaféð og láns­fjárhæðin ekki innheimt í samræmi við hlutafélagalög. Lánsfjárhæðin var ógreidd hinn 28. ágúst 2002. Í bókhaldi Baugs hf. var lánsfjárhæðin eignfærð á við­skipta­manna­reikning Fjárfars ehf. 13. febrúar 2001. Eftir bókunina stóð skuld Fjárfars ehf. á viðskipta­mannareikningnum í kr. 194.350.540.

 

Ólögmæt lánveiting til Kristínar Jóhannesdóttur.

9. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, hinn 13. febrúar 2001, látið veita Kristínu Jóhannesdóttur, hluthafa í Baugi hf., lán að fjár­hæð kr. 3.786.727 til að fjármagna kaup á hlutum í félaginu. Lánið var veitt með þeim hætti að Kristín Jóhannesdóttir skráði sig fyrir hlutafé í Baugi hf. að verðmæti kr. 3.786.727 í hlutafjárútboði í félaginu í desember árið 2000. Ekki var greitt fyrir hlutaféð og lánsfjárhæðin ekki innheimt í samræmi við hlutafélagalög. Lánsfjárhæðin var ógreidd 28. ágúst 2002. Í bókhaldi Baugs hf. var lánsfjárhæðin eignfærð á við­skipta­mannareikning Kristínar 13. febrúar 2001 og var það fyrsta færslan á þeim reikningi.

 

Brot ákærða Jóns Ásgeirs samkvæmt ákæruliðum 3, 4 og 6 teljast varða við 1. mgr. 104. gr., sbr. 2. tl. 153. gr., laga um hlutafélög nr. 2/1995 en brot ákærða samkvæmt ákæru­liðum 2, 5, 7, 8 og 9 teljast varða við 2. mgr. 104. gr., sbr. 2. tl. 153. gr., laga um hlutafélög nr. 2/1995.

 

III. kafli.  Meiri háttar bókhaldsbrot, rangfærsla skjala og brot gegn lögum um hlutafélög

Ákærðu Jóni Ásgeiri, forstjóra Baugs hf., og Tryggva, aðstoðarforstjóra Baugs hf., eru í ákæruliðum 10-16 gefin að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa á árunum 2000 og 2001 rangfært bókhald Baugs hf., átt þátt í að búin voru til gögn sem áttu sér ekki stoð í viðskiptum við aðra aðila og hagað bókhaldinu með þeim hætti að það gaf ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna. Auk þess er ákærða Jóni Ásgeiri í ákærulið 10 gefin að sök ólögmæt lánveiting.

Jafnframt er ákærða Jóni Ásgeiri í ákæruliðum 10-16 gefin að sök rangfærsla skjala og brot gegn hlutafélagalögum með því að láta, sem forstjóri Baugs hf., senda frá Baugi hf. til Verðbréfaþings Íslands opinberar tilkynningar sem ákærða var ljóst að voru rangar. Um var að ræða tilkynningu, birta 28. ágúst 2000, um afkomu félagsins á fyrstu 6 mánuðum ársins 2000, tilkynningu, birta 19. mars 2001, um afkomu félagsins á árinu 2000 og tilkynningu, birta 3. september 2001, um afkomu félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins 2001. Með þessum röngu, opinberu tilkynningum sem byggðust á niðurstöðum árshlutareikninga og ársreiknings Baugs hf. skýrði ákærði Jón Ásgeir vísv­itandi og í blekkingarskyni rangt frá högum Baugs hf. á opinberum vettvangi og skapaði vísvitandi rangar hugmyndir um hag félagsins þannig að áhrif gat haft á sölu eða söluverð hluta í félaginu. 

Ákærða Jóni Gerald Sullenberger er í ákærulið 15 gefið að sök brot gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög um bókhald, með því að hafa á árinu 2001 aðstoðað ákærðu Jón Ásgeir og Tryggva við að rangfæra bókhald Baugs hf. með því að búa til gögn sem áttu sér ekki stoð í viðskiptum.

Rangar færslur á fyrri helmingi ársins 2000 höfðu þau áhrif á árshlutareikning Baugs hf. fyrir fyrstu sex mánuði þess árs að hagnaður fyrir skatta og afskriftir (EBITDA-hagnaður) var u.þ.b. 13 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 1,7% hækkun EBITDA-hagnaðar. Hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 60 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 26% hækkun hagnaðar, og eigið fé var 1,7% hærra en ella hefði verið.

Rangar færslur á árinu 2000 höfðu þau áhrif á ársreikning Baugs hf. fyrir árið 2000 að hagnaður fyrir skatta og afskriftir (EBITDA-hagnaður) var u.þ.b. 53 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 3,2% hækkun EBITDA-hagnaðar. Hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 203 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 52% hækkun hagnaðar, og eigið fé var 4,1% hærra en ella hefði verið.

Rangar færslur á fyrri helmingi ársins 2001 höfðu þau áhrif á árshlutareikning Baugs hf. fyrir fyrstu sex mánuði þess árs að hagnaður fyrir skatta og afskriftir (EBITDA-hagnaður) var u.þ.b. 108 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 15,6% hækkun EBITDA-hagnaðar. Hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 76 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 25,6% hækkun hagnaðar og eigið fé var 0,7% hærra en ella hefði verið.

 

Meiri háttar bókhaldsbrot og rangar tilkynningar til Verðbréfaþings Íslands um afkomu Baugs hf. á árinu 2000.

10. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að láta, færa í bókhaldi Baugs hf. 30. júní 2000 sölu á hlutafé Baugs hf. í Baugi.net ehf., að nafn­verði kr. 2.500.000 til Fjárfars ehf., sem ákærði stjórnaði og réð yfir, fyrir kr. 50.000.000. Í bókhaldi Baugs hf. voru kr. 2.500.000 færðar til lækkunar á hluta­bréfa­eign en kr. 47.500.000 sem tekjur af sölu hlutabréfa. Fjárfar ehf. greiddi ekki fyrir hlutaféð og voru kr. 50.000.000 eignfærðar í bókhaldi Baugs hf. á viðskiptareikning Fjárfars ehf. Bókhaldsfærslurnar voru byggðar á samningi milli Baugs hf. og Fjárfars ehf., dagsettum 16. júní 2000, um umrædd hlutafjárkaup. Viðskipti félaganna með hlutaféð gengu ekki eftir og bakfærsla var gerð í bókhaldi Baugs hf. hinn 21. febrúar 2002 með þeim hætti að eign Baugs hf. á viðskiptareikningi Fjárfars ehf. var lækkuð um kr. 50.000.000, nafnverð hlutafjár í Baugi.net ehf. kr. 2.500.000 eignfært en hagnaður af sölu hlutabréfa, kr. 47.500.000, gjaldfærður. Þessi færsla var síðan leiðrétt 28. febrúar 2002 og gjaldfærslunni var breytt í eignfærslu að fjárhæð kr. 47.500.000 og stóð þannig bókfærður söluhagnaður óhaggaður.

Tilkynning Baugs hf. til Verðbréfaþings Íslands, birt 28. ágúst 2000, um afkomu félagsins á fyrstu 6 mánuðum ársins 2000 var í samræmi við árshlutareikning félagsins fyrir sama tímabil, sem meðal annars var byggður á framangreindri rang­færslu. Umrædd færsla hafði þau áhrif að hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 33 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 12,9% hækkun hagnaðar, og eigið fé 0,9% hærra en ella hefði verið.

Tilkynning Baugs hf. til Verðbréfaþings Íslands, birt 19. mars 2001, um afkomu fél­agsins á árinu 2000 var í samræmi við ársreikning félagsins fyrir það ár, sem meðal annars var byggður á framangreindri rangfærslu. Umrædd færsla hafði þau áhrif að hagn­aður eftir skatta var u.þ.b. 33 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem sam­svarar 6% hækkun hagnaðar, og eigið fé var 0,7% hærra en ella hefði verið.

Jafnframt er ákærða Jóni Ásgeiri gefin að sök rangfærsla skjala og brot gegn hluta­félaga­lögum með því að láta senda frá Baugi hf. til Verðbréfaþings Íslands, 28. ágúst 2000 og 19. mars 2001, framangreindar, opinberar tilkynningar, sem ákærða var ljóst að voru rangar en þessar tilkynningar voru í kjölfarið birtar á heimasíðu Verð­bréfa­þings Íslands. Þannig skýrði ákærði vísvitandi og í blekkingarskyni rangt frá högum Baugs hf. á opinberum vettvangi og skapaði þar með vísvitandi, rangar hugmyndir um hag félagsins þannig að áhrif gat haft á sölu eða söluverð hluta í félaginu. Ákærði Jón Ásgeir var á þessum tíma forstjóri Baugs hf. og jafnframt rak hann og stjórnaði Fjár­fari ehf.

Til vara er ákærða gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa lánað Fjár­fari ehf. kaupverð hlutafjárins, kr. 50.000.000. Í bókhaldi Baugs hf. var krafa félags­ins eignfærð á viðskiptamannareikning Fjárfars ehf. 30. júní 2000. Eftir bók­unina stóð skuld Fjárfars ehf. á viðskiptamannareikningnum í kr. 114.500.000.

 

11. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva er gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., látið búa til gögn sem áttu sér ekki stoð í við­skiptum við aðra aðila og hagað bókhaldinu með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna þegar ákærði Tryggvi lét, með vilja og vitneskju ákærða Jóns Ásgeirs, færa til eignar á viðskiptamannareikning Kaupþings hf., í bókhaldi Baugs hf. og til tekna hjá Baugi hf. kr. 25.000.000 með eftirgreindri rangri og tilhæfulausri færslu:

Færsla nr. L0565 dags. 30.04.2000 með texta:  „Tekjur v.ábyrgð á hlutabréfum“

Bókhaldslykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

V560882-0419

Kaupþing

25.000.000

 

F 51990

Aðrar fjármunatekjur

 

25.000.000

 

Eignfærslan á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf., sem þannig myndaði tilhæfu-lausa skuld Kaupþings hf. við Baug hf. í bókhaldi Baugs hf., er byggð á fyrirmælum um færslur á bókhaldslykla, í handskrifuðu og óundirrituðu fylgiskjali,  dagsettu 30. apríl 2000, þar sem eftirfarandi skýring kemur fram: „Tekjur Baugs v/ábyrgðar á hluta­bréfum í UVS. Heildartekjur 50 mills. 25 tekjufært í apríl samkv. TJ“. Engin önnur gögn lágu færslunni til grundvallar. Færslan var bakfærð við gerð ársreiknings Baugs hf. fyrir tímabilið 1. mars 2002 til 28. febrúar 2003.

Tilkynning Baugs hf. til Verðbréfaþings Íslands, birt 28. ágúst 2000, um afkomu félagsins á fyrstu 6 mánuðum ársins 2000 var í samræmi við árshlutareikning félagsins fyrir sama tímabil, sem meðal annars var byggður á framangreindri rang­færslu. Umrædd færsla hafði þau áhrif á árshlutareikninginn að hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 17 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 6,4% hækkun hagnaðar, og eigið fé var 0,5% hærra en annars hefði verið.

Tilkynning Baugs hf. til Verðbréfaþings Íslands, birt 19. mars 2001, um afkomu félagsins á árinu 2000 var í samræmi við ársreikning félagsins fyrir það ár, sem meðal annars var byggður á framangreindri rangfærslu. Umrædd færsla hafði þau áhrif á ársreikninginn að hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 17 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 3,1% hækkun hagnaðar, og eigið fé 0,3% hærra en annars hefði verið.

Jafnframt er ákærða Jóni Ásgeiri gefin að sök rangfærsla skjala og brot gegn hluta­félaga­lögum með því að láta senda frá Baugi hf. til Verðbréfaþings Íslands, 28. ágúst 2000 og 19. mars 2001, framangreindar, opinberar tilkynningar, sem ákærða var ljóst að voru rangar en þessar tilkynningar voru í kjölfarið birtar á heimasíðu Verð­bréfa­þings Íslands. Þannig skýrði ákærði vísvitandi og í blekkingarskyni rangt frá högum Baugs hf. á opinberum vettvangi og skapaði þar með vísvitandi, rangar hugmyndir um hag félagsins þannig að áhrif gat haft á sölu eða söluverð hluta í félaginu.

 

12.        Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva er gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot, með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf. og hagað því með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna þegar ákærði Tryggvi lét, með vilja og vitneskju ákærða Jón Ásgeirs, færa til eignar á viðskiptamannareikning Kaup­þings hf., í bókhaldi Baugs hf. og til tekna hjá Baugi hf. kr. 13.045.954 með eftir­greindri rangri og tilhæfulausri færslu:

Færsla nr. L0619  dags. 30.06.2000 með texta: „Þóknun vegna hlutabréfakaupa“

Bókhaldslykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

V560882-0419

Kaupþing

13.045.954

 

F 19922

Tekjur utan samstæðu án vsk

 

13.045.954

 

Eignfærslan á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf., sem þannig myndaði tilhæfulausa skuld Kaupþings hf. við Baug hf. í bókhaldi Baugs hf., var gerð án þess að nokkur gögn lægju að baki í bókhaldi Baugs hf. Færslan var bakfærð við gerð ársreiknings Baugs hf. fyrir tímabilið 1. mars 2002 til 28. febrúar 2003.

Tilkynning Baugs hf. til Verðbréfaþings Íslands, birt 28. ágúst 2000, um afkomu félagsins á fyrstu 6 mánuðum ársins 2000 var í samræmi við árshlutareikning félagsins fyrir sama tímabil, sem meðal annars var byggður á framangreindri rangfærslu. Umrædd færsla hafði þau áhrif á árshlutareikninginn að hagnaður fyrir skatta og afskriftir (EBITDA-hagnaður) var u.þ.b. 13 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 1,7% hækkun EBITDA-hagnaðar. Hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 9 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 3,2% hækkun hagnaðar, og eigið fé var 0,3% hærra en ella hefði verið. 

Tilkynning Baugs hf. til Verðbréfaþings Íslands, birt 19. mars 2001, um afkomu félagsins á árinu 2000 var byggð á ársreikningi félagsins fyrir það ár, sem meðal annars var byggður á framangreindri rangfærslu. Umrædd færsla hafði þau áhrif á árs­reikninginn að hagnaður fyrir skatta og afskriftir (EBITDA-hagnaður) var u.þ.b. 13 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 0,8% hækkun EBITDA-hagnaðar. Hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 9 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 1,6% hækkun hagnaðar, og eigið fé var 0,2% hærra en ella hefði verið. 

Jafnframt er ákærða Jóni Ásgeiri gefin að sök rangfærsla skjala og brot gegn hluta­félagalögum með því að láta senda frá Baugi hf. til Verðbréfaþings Íslands, 28. ágúst 2000 og 19. mars 2001, framangreindar, opinberar tilkynningar, sem ákærða var ljóst að voru rangar en þessar tilkynningar voru í kjölfarið birtar á heimasíðu Verð­bréfa­þings Íslands. Þannig skýrði ákærði vísvitandi og í blekkingarskyni rangt frá högum Baugs hf. á opinberum vettvangi og skapaði þar með vísvitandi, rangar hugmyndir um hag félagsins þannig að áhrif gat haft á sölu eða söluverð hluta í félaginu.

 

13. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva er gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot, með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., látið búa til gögn sem ekki áttu sér stoð í viðskiptum við aðra aðila og hagað bókhaldi Baugs hf. með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna þegar ákærðu létu færa til eignar á við­skipta­mannareikning Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf., í bókhaldi Baugs hf. og til tekna hjá Baugi hf. kr. 40.000.000 með eftirgreindum röngum og tilhæfulausum færslum:

Dags. færslu

Skýring í bókhaldi Baugs

Fjárhæð

31.12.2000

Þátttaka í auglýsingaherferð

30.000.000

31.12.2000

Þátttaka í stjórnunarkostnaði

10.000.000

 

Samtals kr.

40.000.000

 

Færslurnar voru byggðar á tveimur reikningum, dagsettum 31. desember 2000, samtals að fjárhæð kr. 40.000.000 sem „10-11“, sem þá var deild í Baugi hf., gaf út á hendur Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf.  Reikningar þessir voru ógreiddir samkvæmt bókhaldi Baugs hf. 28. ágúst 2002.

Tilkynning Baugs hf. til Verðbréfaþings Íslands, birt 19. mars 2001, um afkomu félagsins á árinu 2000 var í samræmi við ársreikning félagsins fyrir það ár, sem meðal annars var byggður á framangreindri rangfærslu. Umrædd færsla hafði þau áhrif á árs­reikn­inginn að hagnaður fyrir skatta og afskriftir (EBITDA-hagnaður) var u.þ.b. 40 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 2,4% hækkun EBITDA-hagn­aðar. Hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 28 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem sam­svarar 5% hækkun hagnaðar, og eigið fé var 0,5% hærra en ella hefði verið. 

Jafnframt er ákærða Jóni Ásgeiri gefin að sök rangfærsla skjala og brot gegn hluta­félagalögum með því að láta senda frá Baugi hf. til Verðbréfaþings Íslands, 19. mars 2001, framangreinda, opinbera tilkynningu, sem ákærða var ljóst að var röng en þessi tilkynning var í kjölfarið birt á heimasíðu Verðbréfaþings Íslands. Þannig skýrði ákærði vísvitandi og í blekkingarskyni rangt frá högum Baugs hf. á opinberum vettvangi og skapaði þar með vísvitandi, rangar hugmyndir um hag félagsins þannig að áhrif gat haft á sölu eða söluverð hluta í félaginu.

 

14. Ákærðu Jóni og Tryggva er gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að láta rangfæra bókhald Baugs hf. og haga því með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af við­skiptum og notkun fjármuna með eftirfarandi, þremur röngum og tilhæfulausum færslum:

Ákærði Tryggvi lét í mars 2001, með vitund og vilja ákærða Jóns Ásgeirs, bókfæra í bók­haldi Baugs hf., með færsludegi 31. desember 2000, sölu á hlutabréfum félagsins í Arcadia Group Plc. að nafnverði 3.100.000 GBP til Kaupþings hf. fyrir kr. 332.010.000 en þessi sala átti sér í raun ekki stað. Baugur hf. hafði selt Íslandsbanka-FBA hf. umrætt hlutafé 13. október 2000 en bankinn selt félaginu bréfin framvirkt með afhendingardegi 13. desember 2000 en þeir skilmálar voru þá framlengdir til 18. janúar 2001 og þá aftur framlengdir til 1. febrúar 2001.

Ákærði Tryggvi lét færa kr. 332.010.000 til eignar á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf. í bókhaldi Baugs hf., kr. 167.399.464 til lækkunar á erlendri hluta­bréfa­eign og kr. 164.610.536 til tekna hjá Baugi hf., sem hagnað af sölu hlutabréfa, með eftir­greindri rangri færslu. Með þessari færslu varð til tilhæfulaus skuld Kaupþings hf. við Baug hf. í bókhaldi Baugs hf.

Færsla nr. I00296 dags. 31.12.2000 með texta: „Lokaf. Sala hlbr. Arcadia til Kaupþ. Lux“

Bókhaldslykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

V560882-0419

Kaupþing

332.010.000

 

F65595

Erlend hlutabréf

 

167.399.464

F55505

Hagnaður af sölu hlutabréfa

 

164.610.536

 

Færslan var framkvæmd í samræmi við óundirritað lokafærsluskjal frá KPMG Endurskoðun hf., dagsett 23. mars 2001. Til grundvallar þessari færslu lá samningur milli Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og Baugs hf., dagsettur 28. desember 2000, undir­ritaður af Magnúsi Guðmundssyni, framkvæmdastjóra bankans, af hálfu bankans sem kaupanda og ákærða Tryggva af hálfu Baugs hf. sem seljanda um framsal til bankans á hlutum að nafnverði 3.100.000 GBP í Arcadia Group Plc. á genginu 0,85 fyrir 2.635.000 GBP. Samningurinn var útbúinn 1. febrúar 2001 af Magnúsi Guðmundssyni.

Með eftirfarandi rangri og tilhæfulausri færslu lét ákærði Tryggvi líta svo út að Kaup­þing hf. hefði greitt Baugi hf. kaupverð hlutabréfanna 2. febrúar 2001. Með þessari færslu var skuld Kaupþings hf. á viðskiptamannareikningi í bókhaldi Baugs hf. lækkuð.

Færsla nr. T000630 dags. 02.02.2001 með texta: „Sala á Arcadia hlutabréfum“

Bókhaldslykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

B 720

Íslandsbanki hf.

332.010

 

B 720

Íslandsbanki hf.

331.677.990

 

V560882-0419

Kaupþing

 

332.010.000

 

Færslan var byggð á ódagsettu og óundirrituðu, handskrifuðu blaði, með skýringunni „Sala á Arcadia hlutabréfum“, auk afrits af bankayfirliti Baugs hf. sem sýndi innborgun sömu fjárhæðar á reikning Baugs hf. 1. febrúar 2001.

Innborguð fjárhæð var í raun lán frá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og var fjár­hæðin greidd inn á tékkareikning Baugs hf. nr. 527 26 000720 hjá Íslandsbanka hf.

Ákærði Tryggvi lét í júní 2001 bókfæra í bókhaldi Baugs hf., með færsludegi 11. maí 2000, endurkaup félagsins á framangreindum hlutabréfum í Arcadia Group Plc. fyrir kr. 544.050.000 af Kaupþingi hf., sem stofnframlag (hlutafé) í A-Holding S.A. en þessi endurkaup áttu sér í raun ekki stað. Sama fjárhæð var færð til skuldar á við­skipta­mannareikningi Kaupþings hf. í bókhaldi Baugs hf. með eftirgreindri rangri og tilhæfulausri færslu:

Færsla nr. L1073 dags. 11.05.2001 með texta: „Stofnhlutafé í A-Holding“

Bókhaldslykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

F 65193

Hlutafé, A-Holding

544.050.000

 

V560882-0419

Kaupþing

 

544.050.000

 

Færslan byggir á handskrifuðu blaði, dagsettu 27. júní 2001, merktu Jóhanna. Til grundvallar þessari færslu lá samningur milli Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og Baugs hf., dagsettur 15. febrúar 2001, undirritaður af Magnúsi Guðmundssyni fram­kvæmda­stjóra bankans, af hálfu bankans sem seljanda og ákærða Tryggva af hálfu Baugs hf. sem kaupanda, um framsal til Baugs hf. á hlutum að nafnverði 3.100.000 GBP í  Arcadia Group Plc. á genginu 1,35 fyrir 4.185.000 GBP. Í raun var verið að leggja hlutafé Baugs hf. í Arcadia Group Plc. inn í A-Holding S.A. sem framlag Baugs hf. Skjal þetta samdi Magnús Guðmundsson í febrúar 2001.

Með færslum þeim sem tilgreindar eru í þessum ákærulið var ranglega búinn til hagn­aður í bókhaldi Baugs hf. á árinu 2000 að fjárhæð kr. 164.610.536 og jafnframt var búin til skuld í bókhaldi félagsins á árinu 2001, að fjárhæð kr. 212.040.000, sem ekki átti við rök að styðjast.

Þessar færslur voru leiðréttar í bókhaldi Baugs hf. á árinu 2003 þegar reikningar Baugs hf. hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. voru færðir inn í bókhald félagsins en þeim hafði af ráðnum hug verið haldið utan þess.

Tilkynning Baugs hf. til Verðbréfaþings Íslands, birt 19. mars 2001, um afkomu fél­agsins á árinu 2000 var í samræmi við ársreikning félagsins fyrir það ár, sem meðal annars var byggður á framangreindum rangfærslum. Umræddar færslur höfðu þau áhrif á ársreikninginn að hagnaður eftir skatta var u.þ.b. kr. 115 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 24,2% hækkun hagnaðar, og eigið fé var 2,3% hærra en ella hefði verið. 

Jafnframt er ákærða Jóni Ásgeiri gefin að sök rangfærsla skjala og brot gegn hluta­félaga­lögum með því að láta senda frá Baugi hf. til Verðbréfaþings Íslands, 19. mars 2001, framangreinda, opinbera tilkynningu, sem ákærða var ljóst að var röng, enda bar ársreikningurinn það með sér að félagið ætti engin hlutabréf í Arcadia Group Plc. Þessi tilkynning var í kjölfarið birt á heimasíðu Verðbréfaþings Íslands. Þannig skýrði ákærði vísvitandi og í blekkingarskyni rangt frá högum Baugs hf. á opinberum vettvangi og skapaði þar með vísvitandi, rangar hugmyndir um hag félagsins þannig að áhrif gat haft á sölu eða söluverð hluta í félaginu.

 

Meiri háttar bókhaldsbrot og rangar tilkynningar til Verðbréfaþings Íslands um afkomu Baugs hf. á fyrstu sex mánuðum ársins 2001.

15. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva er gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., átt þátt í að búin væru til gögn sem ekki áttu sér stoð í viðskiptum við aðra aðila og hagað bókhaldi Baugs hf. með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna. Þetta gerðu þeir með því að láta færa til eignar (........) í bókhaldi Baugs hf. og til tekna hjá Baugi hf., sem lækkuð vörukaup,  kr. 61.915.000 á grundvelli rangs og tilhæfulauss kreditreiknings (afsláttar­reiknings) frá Nordica Inc., Miami í Flórída í Bandaríkjunum, dagsetts 30. ágúst 2001, að fjárhæð USD 589.890, sem jafngilti kr. 61.915.000 á færsludegi.

Ákærða Jóni Gerald Sullenberger er gefið að sök að hafa aðstoðað ákærðu Jón Ásgeir og Tryggva við að rangfæra bókhald Baugs hf. og stuðlað að bókhaldsbroti þeirra með því að útbúa framangreindan kreditreikning að tilhlutan ákærða Jóns Ásgeirs og samkvæmt fyrirsögn ákærða Tryggva. Reikningurinn átti sér ekki stoð í viðskiptum þeirra félaga sem ákærðu voru í fyrirsvari fyrir.

Samtala þessa kreditreiknings frá Nordica Inc. og þeirrar fjárhæðar sem kom fram í yfirlýsingu frá P/F SMS í Færeyjum að jafnvirði kr. 46.679.000 var vegna mistaka færð öfugt í bókhald Baugs hf., með færsludegi 30. júní 2001, sem kostnaðarfærsla í stað tekjufærslu með textaskýringunni ”Lokaf. Kreditreikn. skv. JÁJ KSV”. Fylgiskjal í bókhaldi að baki færslunni er lokafærslublað frá endurskoðendum félagsins, dagsett 27. september 2001. Færslan var síðar leiðrétt með fskj. nr. I00751, dags 30.06.2001, með texta: leiðr.lokafærsla v/bókað öfugt” Áhrif af færslunum á bókhald Baugs hf. var því eftirfarandi:

Bókhaldslykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

F 19922

Tekjur utan samstæðu (rekstrarreikn.)

 

108.594.000

F 73112

Biðreikningur (efnahagsreikningur)

108.594.000

 

 

Í árslok 2001 var tekjufærslan lækkuð um kr. 13.321.000 og sama fjárhæð færð til lækkunar eignfærðri kröfu á biðreikningi. Tekjufærslan var síðar lækkuð um samtals kr. 49.500.000 í bókhaldi Baugs hf. þannig að kr. 4.500.000 voru gjaldfærðar mánað­arlega (lotaðar) í bókhaldi Baugs hf. í ellefu skipti frá og með 16. apríl 2002. Færslur vegna þessa kreditreiknings voru gerðar í bókhaldi aðalskrifstofu Baugs hf.

Tilkynning Baugs hf. til Verðbréfaþings Íslands, birt 3. september 2001, um afkomu fél­agsins á fyrstu 6 mánuðum ársins 2001 var byggð á árshlutareikningi félagsins fyrir sama tímabil. Framangreindar færslur höfðu þau áhrif á árshlutareikninginn að hagnaður fyrir skatta og afskriftir (EBITDA-hagnaður) var u.þ.b. 62 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 8,4% hækkun EBITDA-hagnaðar. Hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 43 milljónum hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 13,2% hækkun hagnaðar, og eigið fé var 0,4% hærra en ella hefði verið. 

Jafnframt er ákærða Jóni Ásgeiri gefin að sök rangfærsla skjala og brot gegn hluta­félagalögum með því að láta senda frá Baugi hf. til Verðbréfaþings Íslands, 3. september 2001, framangreinda, opinbera tilkynningu, sem ákærða var ljóst að var röng en þessi tilkynning var í kjölfarið birt á heimasíðu Verðbréfaþings Íslands. Þannig skýrði ákærði vísvitandi og í blekkingarskyni rangt frá högum Baugs hf. á opin­berum vettvangi og skapaði þar með vísvitandi, rangar hugmyndir um hag félagsins þannig að áhrif gat haft á sölu eða söluverð hluta í félaginu.

 

16. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva er gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., átt þátt í að búin væru til gögn sem ekki áttu sér stoð í viðskiptum við aðra aðila og hagað bókhaldi Baugs hf. með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna. Þetta gerðu þeir með því að láta færa til eignar (...........) í bókhaldi Baugs hf. og til tekna hjá Baugi hf. kr. 46.679.000 á grundvelli yfirlýsingar frá P/F SMS, dagsettrar 30. júní 2001, með fyrir­sögninni: Credit Invoice og textanum: „We confirm that Bónus Iceland share af Marketing support from Dagrofa July 1. 2000 – June 30. 2001 amounts to dkr. 3.900.000 en fjárhæðin jafngilti kr. 46.679.000 á færsludegi. Yfirlýsingin var útbúin að frumkvæði ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva og höfðu ákærðu vitneskju um að hún átti sér ekki stoð í viðskiptum aðila. Baugur hf. átti stóran eignarhluta í P/F SMS. Færslur vegna þessarar yfirlýsingar voru gerðar í bókhaldi aðalskrifstofu Baugs hf.

Samtala fjárhæðarinnar sem fram kom í fyrrnefndri yfirlýsingu og kreditreikningsins frá Nordica Inc. að jafnvirði kr. 61.915.000 var vegna mistaka færð öfugt í bókhald Baugs hf., með færsludegi 30. júní 2001, sem kostnaðarfærsla í stað tekjufærslu með textaskýringunni „Lokaf. Kreditreikn.skv. JÁJ KSV”. Fylgiskjal í bókhaldi að baki færslunni er merkt I00751. Færslan var síðar leiðrétt með fskj. nr. I00751, dags 30.06.2001, með texta: leiðr.lokafærsla v/bókað öfugt”. Áhrif af færslunum á bók­hald Baugs hf. var því eftirfarandi:

Bókhaldslykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

F 19922

Tekjur utan samstæðu (rekstrarreikn.)

 

108.594.000

F 73112

Biðreikningur (efnahagsreikningur)

108.594.000

 

 

Í árslok 2001 var áhrifum tekjufærslu vegna yfirlýsingarinnar frá P/F SMS eytt úr bókhaldi Baugs hf. með færslu með færslutextanum: „Lokaf. 1 bakf. kreditreikn. frá SMS skv. TJ/JÁJ” og sama fjárhæð færð til lækkunar eignfærðri kröfu á biðreikningi.

Tilkynning Baugs hf. til Verðbréfaþings Íslands, birt 3. september 2001, um afkomu félagsins á fyrstu 6 mánuðum ársins 2001 var í samræmi við árshlutareikning félagsins fyrir sama tímabil, sem meðal annars var byggður á framangreindum rang­færslum. Framangreindar færslur höfðu þau áhrif á árshlutareikninginn að hagnaður fyrir skatta og afskriftir (EBITDA-hagnaður) var u.þ.b. 46 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 6,2% hækkun EBITDA-hagnaðar. Hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 32 milljónum hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 9,6% hækkun hagn­aðar, og eigið fé var 0,3% hærra en ella hefði verið. 

Jafnframt er ákærða Jóni Ásgeiri gefin að sök rangfærsla skjala og brot gegn hluta­félagalögum með því að láta senda frá Baugi hf. til Verðbréfaþings Íslands, 3. september 2001, framangreinda, opinbera tilkynningu, sem ákærða var ljóst að var röng en þessi tilkynning var í kjölfarið birt á heimasíðu Verðbréfaþings Íslands. Þannig skýrði ákærði vísvitandi og í blekkingarskyni rangt frá högum Baugs hf. á opin­berum vettvangi og skapaði þar með vísvitandi, rangar hugmyndir um hag félagsins þannig að áhrif gat haft á sölu eða söluverð hluta í félaginu.

Brot ákærða Jóns Ásgeirs samkvæmt ákæruliðum 10-16 teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 8. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald. Einnig teljast brot ákærða, samkvæmt framan­greindum ákæruliðum, varða við 1., sbr. 3. mgr., 158. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 153. gr. og 1. mgr. 154. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995. Brot ákærða samkvæmt ákærulið 10 telst til vara varða við 1. mgr. 104. gr., sbr. 2. tl. 153. gr., hluta­félagalaga nr. 2/1995.

Brot ákærða Tryggva samkvæmt ákæruliðum 11-16 teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 8. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald. Til vara við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. mgr. 37. gr., sbr. 8. gr., sbr. 36. gr., laga nr. 145/1994 um bókhald.

Brot ákærða Jóns Geralds, samkvæmt ákærulið 15, telst varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. mgr. 37. gr., sbr. 8. gr., sbr. 36. gr., laga nr. 145/1994 um bókhald.

 

IV. kafli.  Meiri háttar bókhaldsbrot

17. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva er gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot, með því að Tryggvi lét færa, með vilja og vitneskju ákærða Jóns Ásgeirs, rangar og tilhæfu­lausar færslur um viðskipti og notkun fjármuna í bókhald Baugs hf. þannig að þar var færð sala á hlutabréfum Baugs hf. í félaginu sjálfu að nafnverði kr. 40.000.000 en bókfærðu verði kr. 330.764.000, miðað við færsludag 30. júní 1999. Hlutabréfin voru í raun afhent Kaupthing Bank Luxembourg S.A. til varðveislu inn á fjár­vörslu­reikning Baugs hf.,  sem stofnaður var á grundvelli samnings milli Baugs hf. og bankans, dagsetts 14. október 1998. Ákærðu ráðstöfuðu bréfunum og andvirði þeirra til greiðslu ýmissa fjárskuldbindinga sem tengdust Baugi hf., þar með talið til nokkurra af æðstu stjórnendum hlutafélagsins, án þess að þessara ráðstafana væri getið í bókhaldi Baugs hf. Samkvæmt bókhaldsfærslunni var Kaupþing hf. sagður kaup­andi og kaupverð hlutanna eignfært á viðskiptareikningi Kaupþings hf. hjá Baugi hf. og myndaði færslan þannig tilhæfulausa skuld Kaupþings hf. við Baug hf. í bók­haldi Baugs.

Markmiðið með þessari færslu hlutafjárins inn á vörslureikninginn var að draga dul á hverjir væru raunverulegir viðtakendur þeirra verðmæta sem ráðstafað var af reikn­ingnum og bankareikningi Baugs hf. honum tengdum. Vörslureikningurinn var einnig notaður í tengslum við þá verknaði sem um er fjallað í ákæruliðum 1 og 14. Eftir athuga­semdir stjórnar Baugs hf. voru gerðar ráðstafanir á árinu 2003 til þess að leiðrétta bókhald Baugs hf. hvað þennan fjárvörslureikning snerti.

Rangar og tilhæfulausar færslur í tengslum við færslu hlutabréfanna á vörslu­reikn­inginn voru eftirfarandi:

Færsla nr. 9281 dags. 30.06.1999 með texta: „Hlutabréf í Baugi seld Kaupþingi“.

Bókhaldslykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

V560882-0419

Kaupþing

330.764.000

 

F 73112

Biðreikningur

 

330.764.000

 

Færslan, til eignar á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf., sem þannig myndaði til­hæfu­lausa skuld Kaupþings hf. við Baug hf. í bókhaldi Baugs hf., var eingöngu byggð á handskrifuðu, ódagsettu og óundirrituðu fylgiskjali þar sem fram kom eftirfarandi: „Baugur kaupir 5% í Baugi og fær lán hjá FBA ... Selur Kaupþingi 4/5 hlut 330.764.000 út af biðreikn. D/viðskm. KÞ“.

Brot ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva samkvæmt ákærulið 17 teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 8. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald.

 

V. kafli.  Fjárdráttur í tengslum við skemmtibátinn Thee Viking og notkun greiðslukorts

18. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva er gefinn að sök fjárdráttur með því að hafa, á tímabilinu frá 20. janúar 2000 til 11. júní 2002, dregið Fjárfestingarfélaginu Gaumi, einka­hlutafélagi sem á þessum tíma var í eigu ákærða Jóns Ásgeirs, föður hans, móður og systur, samtals kr. 32.262.645, frá Baugi hf. til að fjármagna eignarhlutdeild Fjár­festingarfélagsins Gaums ehf. í skemmtibátnum Thee Viking og greiða kostnað vegna hans. Brot ákærðu fólust í því að ákærði Tryggvi, aðstoðarforstjóri Baugs hf., lét með vitund og vilja ákærða Jóns Ásgeirs, forstjóra félagsins, félagið greiða 31 reikning, sem gefnir voru út af félaginu Nordica Inc. á hendur Baugi hf., vegna útgjalda sem voru Baugi hf. óviðkomandi. Reikningar þessir voru að stærstum hluta vegna afborgana af lánum, rekstrarkostnaðar og annars tilfallandi kostnaðar vegna skemmtibátsins Thee Viking sem staðsettur var í Miami í Flórída í Bandaríkjunum. Skráður eigandi Thee Viking, samkvæmt kaupsamningi dagsettum 30. september 1999, var félagið New Viking Inc., skrásett í Delaware í Bandaríkjunum. Eigendur Fjár­festingarfélagsins Gaums ehf. töldu félagið eiga eignarhlutdeild í skemmtibátnum. Ákærði Tryggvi gaf Jóni Gerald Sullenberger, eiganda og framkvæmdastjóra Nordica Inc. og New Viking Inc., fyrirmæli um á hendur hverjum reikningarnir skyldu gefnir út, fjárhæðir þeirra og skýringartexta. Fjárhæð umræddra reikninga var samtals 356.159 USD en sá hluti þeirra sem dreginn var Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf. úr sjóðum Baugs hf. var samtals að fjárhæð 352.809 USD. Reikningarnir voru áritaðir af ákærða Tryggva um samþykki og gjaldfærðir í bókhaldi Baugs hf. sem „Tæknileg aðstoð án vsk“ eða „Ferðakostnaður erlendis án vsk“. Gjaldfærður kostnaður í bókhaldi Baugs hf. vegna þessara reikninga var samtals kr. 32.262.645 og er þá útlagður bankakostnaður aðeins talinn með í þeim tilvikum sem annar kostnaður var ekki greiddur á sama tíma.

Í neðangreindri töflu eru fjárdráttartilvikin sundurliðuð:

Dagsetning reiknings

 

   Nr.

Texti reiknings

Erlend fjárhæð í USD

Fjárhæð í USD sem ákært er vegna

Dags. greiðslu

Gjaldfærður kostnaður í kr.

18.01.2000

 

--

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

8.000

8.000

20.01.2000

582.190

02.02.2000

 

  

10

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work. Hotel and travel exp for January 2000

9.250

8.000

29.02.2000

590.720

23.03.2000

 

 

 

 

14

contract fee for retail services commissions  finders fees and consulting work, Travel and transportation services for March 2000

10.100

8.000

24.03.2000

588.560

27.01.2000

 

 

 23

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

8.000

8.000

14.04.2000

591.390

05.05.2000

 

 

48

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

8.000

8.000

11.05.2000

614.670

07.06.2000

 

     

  61

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

8.000

8.000

14.06.2000

606.510

28.09.1999

 

 

   

71

reserch and survey work for marketing in Florida area on supermarkets warehouses and strip malls

12.000

12.000

13.07.2000

951.070

04.08.2000

 

 

82

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

10.08.2000

962.470

07.09.2000

 

 

96

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

     12.000

12.000

11.09.2000

1.005.320

07.09.2000

 

 

107

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

05.10.2000

1.009.510

06.11.2000

 

 

 117

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

07.11.2000

1.041.670

01.12.2000

 

   123

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

21.12.2000

1.029.670

09.01.2001

 

     17

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

29.01.2001

1.036.800

08.02.2001

 

 

24

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

12.02.2001

1.031.710

05.03.2001

 

 

 41

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

09.03.2001

1.031.430

05.04.2001

 

 

 78

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

18.04.2001

1.114.560

30.04.2001

 

 

114

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

03.05.2001

1.203.980

01.06.2001

 

 

146

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

11.06.2001

1.259.400

29.06.2001

 

 161

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

06.07.2001

1.239.150

23.07.2001

 

173

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

25.07.2001

1.216.710

04.09.2001

 

197

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

14.09.2001

1.186.560

26.09.2001

    205

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

01.10.2001

1.207.800

29.10.2001

 

  226

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

08.11.2001

1.274.670

27.11.2001

 

     238

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

03.12.2001

1.281.240

03.01.2002

 

     246

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

10.01.2002

1.223.760

29.01.2002

 

   253

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

12.02.2002

1.216.200

28.02.2002

 

     266

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

12.03.2002

1.213.950

27.03.2002

 

     269

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

04.04.2002

1.191.750

26.04.2002

 

     274

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

30.04.2002

1.127.550

22.05.2002

 

     279

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

16.808,8

16.809

27.05.2002

1.552.725

30.05.2002

 

     282

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

11.06.2002

1.078.950

 

 

Samtals :

356.159

352.809

 

32.262.645

 

19. Ákærða Tryggva er gefinn að sök fjárdráttur með því að hafa dregið sér samtals kr. 1.315.507 á tímabilinu frá 11. janúar 2000 til 12. febrúar 2002, þegar ákærði lét Baug hf. greiða félaginu Nordica Inc. í Bandaríkjunum í 13 skipti reikninga sem gefnir voru út af Nordica Inc. á hendur Baugi hf., vegna persónulegra útgjalda ákærða sem voru Baugi hf. óviðkomandi. Ákærði stofnaði einkum til útgjaldanna erlendis með úttektum á American Express greiðslukorti í reikning Nordica Inc., sem það lagði út fyrir og innheimti síðan hjá Baugi hf., samkvæmt fyrirmælum ákærða. Skýr­ingar­texti reikninganna gaf til kynna að þeir væru vegna ferða- og dvalarkostnaðar erlendis. Úttektirnar voru í raun vegna kaupa Tryggva á varningi og þjónustu í eigin þágu, meðal annars í tónlistarverslunum, tískuvöruverslunum, golfvöruverslun, skemmti­garði, veitingastöðum og vegna kaupa á sláttudráttarvél. Ákærði, sem var að­stoð­ar­forstjóri Baugs hf. á þessum tíma, hafði til afnota greiðslukort frá Baugi hf. til þess að greiða með kostnað vegna rækslu starfa í þágu félagsins erlendis. Ákærði áritaði alla 13 reikningana um samþykki, en þeir voru án fylgigagna og samtals að fjárhæð 14.354,10 USD, og lét færa þá til gjalda í bókhaldi Baugs hf. sem „Ferða­kostnaður erlendis án vsk“ eða sem „Tæknileg aðstoð án vsk“. Gjaldfærður kostnaður í bókhaldi Baugs hf. vegna þessara reikninga var samtals kr. 1.315.507 og er þá út­lagður banka­kostnaður aðeins talinn með í þeim tilvikum sem annar kostnaður var ekki greiddur á sama tíma.

Í neðangreindri töflu eru fjárdráttartilvikin sundurliðuð:

Dags. reiknings

Nr.

Texti reiknings

Fjárhæð reiknings í USD

Dags. greiðslu

Gjaldfærður kostnaður í kr.

31.12.1999

99107

Hotel and travel exp. Dec 99

329,58

11.01.2000

24.678

05.05.2000

49

Travel and trans-portation services

548,90

18.05.2000

43.596

07.09.2000

95

Travel expenses for July and August 2000

2.220,00

11.09.2000

186.636

10.10.2000

108

Travel lodging and telephone exp. Sep 2000

638,31

17.10.2000

55.420

11.01.2001

5

Hotel and travel exp.

270,00

29.01.2001

23.328

08.02.2001

26

Hotel and traveling expense January 01 to 31 2001

2.333,33

12.02.2001

201.536

05.04.2001

77

Travel expenses for March 2001

3.813,23

18.04.2001

354.173

16.07.2001

169

Travel expenses for June 2001

1.525,78

25.07.2001

155.357

04.09.2001

199

Food/beverage and traveling expenses

445,55

14.09.2001

44.056

26.09.2001

206

Travel expenses for September 2001

1.209,99

01.10.2001

121.785

27.11.2001

239

Travel expenses for November 2001

247,04

03.12.2001

26.372

03.01.2002

247

Travel expenses for November 2001 and December 2001

458,81

10.01.2002

46.789

29.01.2002

254

Travel expenses for January 2002

313,58

12.02.2002

31.781

 

 

Samtals :

  14.354,10

 

1.315.507

 

Brot ákærða Jóns Ásgeirs, samkvæmt ákærulið 18, telst varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Brot ákærða Tryggva, samkvæmt ákæruliðum 18 og 19, teljast varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar fyrir framangreind brot.”

             Ákærðu neita sök og hafa verjendur þeirra krafist sýknu og að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun þeirra, verði greiddur úr ríkissjóði.

II

             Upphaf máls þessa má rekja til þess að 13. ágúst 2002 kom Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður á fund Jóns H.B. Snorrasonar, sem þá var sak­sóknari við efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra.  Jón H.B. bar að Jón Steinar hefði haft með sér talsvert af gögnum og óskað eftir að leggja fram kæru fyrir hönd Jóns Geralds Sullenberger, meðal annars á hendur ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva. 

             Jón Gerald, sem einnig er ákærður, kom svo til skýrslutöku hjá efna­hags­brotadeild ríkislögreglustjóra klukkan 10.00 að morgni sunnudagsins 25. ágúst 2002.  Í skýrslunni kvaðst hann “vilja greina frá atvikum sem hann taldi að kunni að varða við lög”, eins og segir í skýrslu lögreglufulltrúa.  Jón Gerald kvaðst vera kaupsýslumaður, búsettur í Flórída og reka þar fyrirtækið Nordica Inc.  Hann hafi um langt skeið stundað stórinnkaup á vörum í Bandaríkjunum er hann hafi selt til Íslands.  Stærstu viðskiptavinir hans þar hafi verið fyrirtæki feðganna Jóhannesar Jónssonar og sonar hans Jóns Ásgeirs, sem er ákærður í málinu.  Hin síðari ár hafi þeir verið einu viðskiptavinir hans, en viðskiptin verið honum mjög óhagstæð og hafi hann tapað á þeim síðustu þrjú árin.  Kvaðst Jón Gerald hafa leitað til lögmannsins er hafi ráðlagt honum að leita til lögreglu og aðstoðað hann við það.  Jafnframt væri lögmaðurinn að undir­búa einkamál vegna viðskiptanna.  Samkvæmt gögnum málsins slitnaði upp úr sam­skiptum Jóns Geralds og Baugs hf., og þeirra sem honum tengdust, vorið 2002.  Einka­málum, sem risið höfðu milli þeirra vegna viðskiptanna, lauk með sátt í Banda­ríkjunum í ágúst 2003 og á sama ári féll niður einkamál sem höfðað hafði verið hér á landi.

             Í lögregluskýrslunni er haft eftir Jóni Gerald að meint brot þeirra feðga og Tryggva Jónssonar hafi annars vegar verið þau að fá hann til að gefa út reikninga til að ná fé út úr Baugi hf. og hins vegar snúi þau að kaupum og rekstri skemmtisnekkju í Flórída, sem hafi verið fjármögnuð af fyrirtækjum þeirra feðga.  Á grundvelli fram­burðar Jóns Geralds og gagna frá honum var krafist dómsúrskurðar 28. ágúst, er heimilaði leit í húsnæði fyrirtækjanna Aðfanga hf. og Baugs hf. og jafnframt að handtaka framangreinda Jón Ásgeir og Tryggva.  Héraðsdómur Reykjavíkur heimilaði leit þennan sama dag og við leitina var lagt hald á mikið af gögnum.  Þá var Tryggvi handtekinn og hafður í haldi lögreglu þar til síðdegis næsta dag.  Jón Ásgeir var erlendis.

             Rannsókn lögreglu sem hófst í lok ágúst 2002 hélt áfram næstu árin og teygði anga sína víða um lönd.  Henni lauk með því að ríkislögreglustjóri gaf út ákæru 1. júlí 2005 á hendur Jóhannesi Jónssyni, syni hans, Jóni Ásgeiri, dóttur hans, Kristínu, framan­greindum Tryggva og tveimur endurskoðendum, Stefáni Hilmari Hilmarssyni og Önnu Þórðardóttur, og var málið þingfest 17. ágúst.  Héraðsdómur taldi vera annmarka á málinu, er væru þess eðlis að varða kynni frávísun.  Var málflytjendum gefinn kostur á að flytja málið varðandi þau atriði 13. september og með úrskurði 20. sama mánaðar vísaði héraðsdómur málinu frá dómi.  Ríkislögreglustjóri kærði úr­skurðinn til Hæstaréttar og með dómi hans 10. október var fyrstu 32 ákæruliðunum vísað frá dómi.  Dómur gekk um þá 8 ákæruliði sem eftir voru, 15. mars 2006 og voru ákærðu öll sýknuð.  Hæstiréttur staðfesti dóminn 25. janúar sl.

             Eftir að frávísunardómur Hæstaréttar gekk sagði ríkislögreglustjóri sig frá málinu og, eftir að ríkissaksóknari sagði sig líka frá því, setti dómsmálaráðherra sérstakan ríkissaksóknara til að fara með það og gaf hann út ákæruna.  I. kafla ákærunnar, ákærulið 1, var vísað frá héraðsdómi 30. júní 2006.  Hæstiréttur staðfesti frá­vísunarúrskurðinn með dómi 21. júlí sama ár.

             Upphaf rekstrar Baugs hf. má rekja til þess að í apríl 1989 opnuðu þeir feðgar, Jóhannes og Jón Ásgeir, lágvöruverðsverslunina Bónus.  Starfsemin óx með árunum og var Baugur hf. stofnað í júlí 1998 með samruna nokkurra félaga, sem störfuðu á sviði smásöluverslunar.  Núna er starfsemin hluti af fyrirtækinu Baugur Group, sem  er alþjóðlegt fjárfestingafélag með áherslu á fjárfestingar í þjónustu og smásölu­verslun og fasteignarekstur á Íslandi og erlendis. 

             Á þeim tíma sem rannsókn lögreglu hófst, þ.e. í ágúst 2002, var ákærði, Jón Ásgeir, stjórnarformaður Baugs hf., en hann hafði verið forstjóri þess frá 7. júlí 1998 til 3. júní 2002.  Ákærði, Tryggvi Jónsson, tók þá við starfi forstjóra, en hann hafði verið aðstoðarforstjóri frá miðju ári 1998.  Á meðan ákærði, Tryggvi, gegndi stöðu aðstoðar­forstjóra fór hann með daglega stjórn fjármála fyrirtækisins.

             Gaumur ehf., sem við sögu kemur hér síðar, er fjárfestingarfélag í eigu ákærða, Jóns Ásgeirs, foreldra hans og Kristínar, systur hans, sem er fram­kvæmda­stjóri félagsins.

III

             Í II. kafla ákærunnar, sem ber heitið Lánveitingar andstæðar lögum um hlutafélög, er ákærða, Jóni Ásgeiri, sem forstjóra Baugs hf., gefið að sök brot gegn lögum um hlutafélög með því að láta veita lán af fjármunum Baugs hf. til Fjár­festingar­félagsins Gaums ehf., Fjárfars ehf. og Kristínar Jóhannesdóttur á árunum 1999-2001.  Baugur hf. hafi á þessum tíma verið skráð hlutafélag á aðallista Verð­bréfa­þings Íslands með dreifða eignaraðild.

             Í ákæruliðum 2-6 er ákærða gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa látið Baug hf. veita Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf., hluthafa í Baugi hf., lán eins og nánar er rakið í þessum liðum.  Í ákæruliðum 7-8 er ákærða gefið að sök brot gegn sömu lögum með því að hafa látið Baug hf. veita Fjárfari ehf., hluthafa í Baugi hf., lán eins og rakið er í þessum liðum ákærunnar.  Loks er ákærða í 9. ákærulið gefið að sök brot gegn sömu lögum með því láta Baug hf. veita Kristínu Jóhannesdóttur, hluthafa í Baugi hf., lán eins og rakið er í ákæruliðnum.

             Í ákærunni eru brot ákærða samkvæmt ákæruliðum 3, 4 og 6 talin varða við 1. mgr. 104. gr., sbr. 2. tl. 153. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 og brot ákærða samkvæmt ákæruliðum 2, 5, 7, 8 og 9 eru talin varða við 2. mgr. 104. gr., sbr. 2. tl. 153. gr. sömu laga.

             104. gr. laga nr. 2/1995 er í XII. kafla laganna sem ber heitið Arðsúthlutun, vara­sjóðir o.fl.  Samkvæmt 1. mgr. 104. gr. er hlutafélagi hvorki heimilt að veita hlut­höfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins, eða móðurfélags þess, lán né setja tryggingu fyrir þá.  Félagi er einnig óheimilt að veita þeim lán eða setja fyrir þann tryggingu sem giftur er eða í óvígðri sambúð með aðila samkvæmt 1. málslið eða er skyldur honum að feðgatali eða niðja ellegar stendur hlutaðeigandi að öðru leyti sérstaklega nærri.  Ákvæði þessarar málsgreinar taka þó ekki til venjulegra við­skipta­lána.

             Samkvæmt 2. mgr. má hlutafélag ekki veita lán til að fjármagna kaup á hlutum í félaginu eða móðurfélagi þess hvort heldur móðurfélagið er hlutafélag eða einka­hlutafélag.  Hlutafélag má heldur ekki leggja fram fé né setja tryggingu í tengslum við slík kaup.  Ákvæðin eiga þó ekki við um kaup starfsmanna félagsins eða tengds félags á hlutum eða kaup á hlutum fyrir þá.

             Samkvæmt 2. tl. 153. gr. laga nr. 2/1995 varðar það sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að brjóta vísvitandi ákvæði laganna um lán eða tryggingu til handa hlut­höfum o.fl. (104. gr.).

             Eins og hér kemur fram lýtur verknaðarlýsing 104. gr. ekki að athöfnum einstakl­ings heldur hlutafélags.  Í 153. gr. er engin verknaðarlýsing heldur vísar hún til 104. gr.  Í 4. mgr. 104. gr. segir að hafi félagið innt af hendi greiðslur í tengslum við ráðstafanir sem andstæðar eru 1. og. 2. mgr. skuli endurgreiða þær með dráttar­vöxtum.  Og í 5. mgr. segir að ef ekki sé unnt að endurgreiða féð eða afturkalla trygg­ingu séu þeir sem gerðu eða framkvæmdu síðar ráðstafanir samkvæmt 1. og 2. mgr. ábyrgir fyrir tapi félagsins.

             Í 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. lög nr. 97/1995, segir að engum verði gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi, sem var refsi­verð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað, eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi.  Þetta ákvæði hefur í framkvæmd verið talið gera ákveðnar kröfur til skýrleika refisheimilda, meðal annars með hliðsjón af túlkunum á 6. og 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

             Hér að framan voru rakin þau ákvæði 104. gr. laga nr. 2/1995 sem ákæru­valdið telur ákærða hafa brotið.  Í þeim ákvæðum er lagt bann við tilteknum athöfnum hluta­félags en ekki einstaklings.  Þá er í greininni kveðið á um hvernig brugðist skuli við ef veitt eru lán eða tryggingar í andstöðu við bann greinarinnar.  Í 2. tl. 153. gr. laganna er einungis sagt að það varði refsingu að brjóta gegn 104. gr. eins og rakið var.  Samkvæmt þessu er verulegur brestur á að refsiheimild 104. gr. sé svo skýr að hægt sé að dæma einstakling á grundvelli hennar.  Af þessari ástæðu og með vísan til 69. gr. stjórnarskrárinnar er óhjákvæmilegt að vísa II. kafla ákærunnar, ákæruliðum 2-9, frá dómi.

IV

              III. kafli ákærunnar, ákæruliðir 10-16, ber heitið:  Meiri háttar bókhaldsbrot, rang­færsla skjala og brot gegn lögum um hlutafélög.  Í ákærulið 10 er ákærði, Jón Ásgeir, einn ákærður, en hann og ákærði, Tryggvi, í ákæruliðum 11-16.  Ákærði, Jón Gerald, er ákærður með þeim í ákærulið 15.  Nú verður gerð grein fyrir hverjum ákærulið fyrir sig og niðurstöðu dómsins varðandi hvern þeirra. 

             Ákæruliður 10.

             Í þessum lið segir að ákærða, Jóni Ásgeiri, sé gefið að sök meiri háttar bókhalds­brot með því að láta færa í bókhaldi Baugs hf. sölu á hlutafé félagsins í Baugi.net ehf., að nafnverði 2.500.000 krónur til Fjárfars ehf., sem ákærði stjórnaði og réð yfir, fyrir 50.000.000 króna.  Síðan er því lýst í ákæruliðnum hvernig þessi sala var færð í bókhaldi Baugs hf.  Þá er því lýst að Fjárfar ehf. hafi ekki greitt fyrir hlutaféð og hvernig við hafi verið brugðist með færslum í bókhaldi Baugs hf. sem lauk með eignfærslu 28. febrúar 2002 eins og rakið er í ákærunni.

             Í þessari efnislýsingu er því í engu lýst í hverju brot ákærða á að vera fólgið.  Aðeins er lýst færslum á viðskiptum sem gengu ekki eftir og hvernig við var brugðist með bakfærslu og loks eignfærslu á hlutabréfum sem höfðu verið seld, en kaupin gengið til baka.

             Í 116. gr. laga um meðferð opinberra mála kemur fram hvað greina skuli í ákæru, en samkvæmt c – lið er það hvert brotið er sem ákært er út af, hvar og hvenær það er talið framið, heiti þess að lögum og önnur skilgreining og loks heimfærsla þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla, ef því er að skipta.  Til að ákæra geti uppfyllt þessi skilyrði laganna verður verknaðarlýsing hennar að vera þannig úr garði gerð að hvorki ákærði né dómari þurfi að vera í vafa um hvaða refsiverð háttsemi ákærða er gefin að sök.  Verður að vera hægt að ráða þetta af ákærunni einni saman og skiptir engu hvaða ályktanir megi draga af rannsóknargögnum eða hvað ákærða kann að vera ljóst vegna rann­sóknar málsins.  Með ákærunni á þannig að leggja fullnægjandi grundvöll að málinu svo hægt sé að fella dóm á það samkvæmt því sem í ákærunni er tilgreint.  Í þessum ákærulið er ætluðu broti ákærða ekki lýst og er ákæruliðurinn því ekki í samræmi við nefnt lagaákvæði og óhjákvæmilegt að vísa honum frá dómi.  Breytir engu um þessa niðurstöðu að í ákæruliðnum er talað um að tilkynningar Baugs hf. til Verð­bréfa­þings Íslands hafi byggst á “framangreindri rangfærslu”, enda rangfærslunni í engu lýst.

             Til vara er ákærða gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum eins og rakið er.  Með vísun til þess sem segir um refsiheimild hlutafélagalaga í III. kafla hér að framan er varakröfu ákæruvaldsins einnig vísað frá dómi.

             Ákæruliður 11.

             Í þessum ákærulið er ákærðu, Jóni Ásgeiri og Tryggva, gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., látið búa til gögn sem áttu sér ekki stoð í viðskiptum við aðra aðila og hagað bókhaldinu með þeim hætti  að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna.  Um hafi verið að ræða ranga og tilhæfulausa færslu að fjárhæð 25.000.000 króna til eignar á viðskipta­mannareikningi Kaupþings hf. og til tekna hjá Baugi hf. svo sem nánar er rakið í ákæru.

             Jafnframt er ákærða, Jóni Ásgeiri, gefin að sök rangfærsla skjala og brot gegn hluta­félagalögum með því að láta senda frá Baugi hf. til Verðbréfaþings Íslands, 28. ágúst 2000 og 19. mars 2001, opinberar tilkynningar sem ákærða hafi verið ljóst að voru rangar og þannig skýrt vísvitandi og í blekkingarskyni rangt frá högum Baugs hf. á opinberum vettvangi og skapað þar með rangar hugmyndir um hag félagsins þannig að áhrif gat haft á sölu eða söluverð hluta í félaginu.

             Með færslu 30. apríl 2000, sem merkt er nr. L0565, og með skýringartextanum “Tekjur v. ábyrgð á hlutabréfum” er viðskiptamannareikningur Kaupþings hf. eign­færður fyrir 25.000.000 króna með mótfærslu sömu fjárhæðar kredit á bók­halds­lykilinn F 51990  “aðrar fjármunatekjur”.  Fylgiskjalið með þessari færslu er hand­skrifað og óundirritað blað með sömu dagsetningu þar sem eftirfarandi skýring kemur fram:  “Tekjur Baugs v/ ábyrgðar á hlutabréfum í UVS. Heildartekjur 50 mills. 25 tekju­fært í apríl samkv. TJ.”  Auk þess koma fram á blaðinu færslufyrirmælin: D/viðskm. Kaupþing, K/51990-2-2. og færslumerkingin L 0565. Engin ytri gögn fylgja til staðfestingar þessarar færslu.

             Framangreind færsla er síðan millifærð með sömu dagsetningu milli bókhalds­lykla með færslu nr. L0618 og textanum “Lei.þóknun vegna hlutabréfa”, þannig að færðar eru 25.000.000 króna debet á fyrrgreindan bókhaldslykil F 51990 og kredit á bók­haldslykil F199222 “Tekjur utan samstæðu án vsk”.

             Síðastnefnd færsla er síðan bakfærð við gerð ársreiknings Baugs hf. fyrir reiknings­tímabilið 1. mars 2002 til 28. febrúar 2003 þannig að 25.000.000 króna eru færðar kredit á viðskiptamannareikning Kaupþings hf., ásamt öðrum færslum, og sama fjárhæð debet gegnum rekstrarreikning á bókhaldslykil F 52255 “Fjármagnsk. v. Kaupþ.Lux (rekstrarr)” með textanum “Bakf.fskj.L0565”.  Þessi bakfærsla, sem er dagsett 28. febrúar 2003, er gerð í tengslum við afstemmingu á vörslureikningi hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. (hér eftir nefnt Kaupthing Lux), sbr. ákærulið 17 hér á eftir, en vörslureikningnum var þá lokað.  Eftir þessa bakfærslu eru áhrif upp­haflegra færslna á efnahag og rekstrarniðurstöðu færð til baka.

             Ákærði, Jón Ásgeir, kannaðist hvorki við færslu nr. L 0565 né fylgiskjalið sem henni fylgir. Hann bar að færslan tengdist ekki hlutabréfum í félaginu Urði Verðandi Skuld.  Kvaðst hann telja að ákærði, Tryggvi, hafi útbúið færsluskjalið og fengið það stað­fest eftir á af endurskoðanda félagsins að um eðlilega tekjufærslu hefði verið að ræða.  Ákærði kvaðst ekki hafa komið nálægt gerð skjalsins.

             Ákærði, Tryggvi, kannaðist ekki við handskrifaða fylgiskjalið, sem dagsett er 30. apríl 2000, og lá til grundvallar færslu L 0565 og neitaði að hafa komið að gerð þess á nokkurn hátt eða því að það hafi verið notað í bókhaldi Baugs hf. fyrir hans tilstilli.  Hann upplýsti þó að UVS sé fyrirtækið Urður Verðandi Skuld.  Nánar að­spurður bar hann að menn í yfirstjórn Baugs hf. hafi verið mikið á ferðalögum erlendis á þessum tíma og þess vegna hafi oft þurft að fara hratt yfir sögu varðandi ýmis mál með fjármálastjóra Baugs hf.  Hann kvaðst hafa verið að segja fjár­mála­stjór­anum frá því að Baugur hf. hefði fjárfest í hlutabréfum í Urði Verðandi Skuld og jafn­framt því verið að tala við fjármálastjórann um eitt og annað varðandi vörslu­reikn­inga, sbr. ákærulið 17, og að Baugur hf. væri með hlutabréf þar inni og það ætti að færa þar verðbætur upp á 25 milljónir.  Fjármálastjórinn hafi hins vegar nokkru síðar útbúið færslu eða fylgiskjal í þessu sambandi og þar hafi þetta misfarist.  Ákærði hafi síðan ekki séð þetta fylgiskjal fyrr en við yfirheyrslur hjá lögreglu.  Fylgiskjalið sé því ekki lýsandi um það sem þarna var verið að gera eða framkvæma. Ákærði bar að engin ytri fylgiskjöl hafi legið til grundvallar þessari færslu og það eina sem sé rétt í fylgiskjalinu séu bókhaldslyklarnir.  Ekki hafi verið um að ræða neina ábyrgð Baugs hf. á hlutabréfum í Urði Verðandi Skuld, en á þessum tíma hefði Baugur hf. verið að kaupa hlutabréf í því fyrirtæki fyrir eina milljón dollara, en þau hefðu verið flutt á vörslureikninginn í Luxemborg.  Færslurnar hafi ekkert með Urði Verðandi Skuld að gera.  Þetta séu fyrst og fremst verðbætur á eigin hlutabréf, sem voru þarna úti í Luxemborg.  Hann mundi ekki nákvæmlega hvernig fjárhæðin 25 milljónir var fundin, enda sé langt um liðið, en ákvörðun fjárhæðarinnar hafi verið frekar varfærin ef eitthvað var.  Varðandi uppfærslu verðbréfaeignarinnar, sem var seld samkvæmt bókum Baugs hf., vísaði ákærði til þess að skráning á eigin hlutabréfum hafi farið að nafninu til yfir á Kaupþing hf. á árinu 1999, sbr. ákærulið 17., en síðar hafi verið litið á vörslureikninginn hjá Kaupthing Lux sem venjulegan vörslureikning.  Þessi verð­bóta­færsla hafi verið færð eingöngu í eitt skipti.  Ákærði vísaði til þess að fjárhæðin og færslan hafi verið rétt en skýringartextinn ekki réttur. Ákærði bar að tölvupóstur frá honum, frá 3. ágúst 2000, til Magnúsar Guðmundssonar framkvæmdastjóra hjá Kaupþingi í Luxemborg, styðji framburð sinn.  Þar sé minnst á hugsanlega ábyrgðar­þóknun til handa Baugi hf. frá Kaupþingi hf. að fjárhæð 500.000 bandaríkjadalir, vegna hlutabréfa í Urði Verðandi Skuld, en bréfin hafi átt að selja viðskiptavini Kaupþings hf.  Væntanlegur kaupandi hefði hins vegar hætt við kaupin og hefði því grund­völlurinn fyrir tekjum af ábyrgðarþóknuninni fallið niður.

             Nefndur tölvupóstur var borinn undir nefndan Magnús sem kannaðist ekki við að Kaupþing hf. hafi skuldað Baugi hf. hálfa milljón bandaríkjadala vegna ábyrgðar­þóknunar og bar hann að engar færslur þar að lútandi væru á bankareikningum Baugs hf. hjá Kaupthing Lux.

             Linda Jóhannsdóttir, fjármálastjóri Baugs hf., bar um fylgiskjal nr. L 0565 að það hafi orðið til í samtölum hennar og ákærða, Tryggva, og þetta hafi verið punktar sem hún tók niður á fundi með honum.  Linda bar að fyrirtækið Urður Verðandi Skuld hafi ekki verið skráð í bækur Baugs hf. hér heima.  Að öðru leyti mundi hún ekki eftir til­drögum færslunnar.  Hún kveðst hafa fært áfallnar verðbætur á öll lán í hverjum mánuði og varðandi 25 milljónirnar líti út fyrir að þarna hafi verið um að ræða upp­færslu á verðbótum á þessa eign.  Ástæða þess að þetta hafi verið fært á Kaupþing hf. sé að til hafi verið lykill á efnahagsreikningi á Kaupþing hf. og hlutabréf hafi verið í umsjá Kaupþings hf.  Linda bar að vel geti verið að hún hafi verið að rugla þessu saman við eitthvað annað.

             Af hálfu ákærðu er því haldið fram að með eign- og tekjufærslu á þeim 25.000.000 króna sem ákært er fyrir hafi verið ætlunin að tekjufæra verðhækkanir á eigin hlutum Baugs hf., sem fluttir höfðu verið á vörslureikning félagsins hjá Kaupthing Lux. Verður því ekki komist hjá því að taka afstöðu til þess hvort slík færsla kunni að hafa verið réttlætanleg.

             Eins og rakið verður hér á eftir í umfjöllun um ákærulið 17 er það niðurstaða dómsins að 40.000.000 hlutir hafi áfram verið í eigu Baugs hf., þrátt fyrir flutninginn yfir á vörslureikning félagsins í júní 1999 og tilgreiningu Kaupthing Lux sem eiganda þeirra að nafninu til.  Þá kemur fram samkvæmt yfirliti yfir vörslureikning Baugs hf. hjá Kaupthing Lux að 20.000.000 hlutir voru færðir út af reikningnum 15. júní 1999 til þess að fullnægja kaupréttarákvæðum æðstu stjórnenda Baugs hf. að hluta.  Það er þannig ljóst að í lok júní 1999  stóðu eftir 20.000.000 hlutir í Baugi hf. sem, miðað við gengið 8,2691, voru bókfærðir á 165.382.000 krónur, sbr. nánar ákærulið 17.  Miðað við yfirlit frá Kaupthing Lux yfir vörslureikning nr. 400017 voru þessir 20.000.000 hlutir óhreyfðir á vörslureikningnum í lok júní 2000.  Svo sem lýst er hér að framan var færsla nr. L 0565 dagsett 30. apríl 2000 en þá var skráð gengi hluta í Baugi hf. 13.  Gengi hlutanna í lok 6 mánaða uppgjörstímabilsins, það er 30. júní 2000, var 12,65. Af þessu verður ráðið að virði eigin hlutanna í Baugi hf. var mun hærra en bókfært verð þeirra.

              Samkvæmt áliti reikningsskilanefndar Félags löggiltra endurskoðenda frá 29. september 1999 skal færa eigin hlutabréf hlutafélags til lækkunar á eigin fé, en álit þetta byggði á áliti álitsnefndar alþjóðlegu reikningsskilanefndarinnar (Standing Interpretation Committee – SIC), sem byggði meðal annars á alþjóðlegum reiknings­skila­staðli nr. 32 (IAS 32).  Með lögum nr. 45/2005 er lögfest reglugerð ESB nr. 1606/2002, um innleiðingu reikningsskilastaðla reikningsskilanefndar IASB (International Accounting Standards Board).  Fyrir gildistöku nefndra laga kemur ekki til álita að beita þessum reikningsskilastöðlum í málinu.

             Meginreglan um skráningu veltufjármuna var í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 144/1994 um ársreikninga en þar segir að veltufjármuni skuli ekki færa til eignar við hærra verði en kostnaðarverði eða raunverði ef það er lægra, sbr. nú 1. mgr. 32. gr. laga nr. 3/2006.  Frávik frá þessari reglu var í 29. gr. þágildandi ársreikningslaga þar sem segir að verðbréf sem ekki séu ætluð til varanlegrar eignar og skráð séu á opin­beru verðbréfaþingi sé heimilt að meta við síðasta skráða kaupgengi þrátt fyrir ákvæði 26. gr.

             Samkvæmt 34. gr. þágildandi laga um ársreikninga var aðalreglan að eigin hlutir skyldu færðir til lækkunar á heildarhlutafé.  Undantekningin var að eigin hlutir, sem keyptir höfðu verið á síðustu tveimur reikningsárum, mátti færa til eignar enda hefði þeirra verið aflað í þeim tilgangi að selja þá aftur.  Samkvæmt reglugerð nr. 696/1996, um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga, er gert ráð fyrir því, sbr. t.d. í 4. tl. c liðar 3. gr., undir liðnum verðbréf og eignarhlutar, að meðal eigna í efnahagsreikningi skuli sérgreina eigin hluti, sbr. 34. gr. laga um árs­reikninga.

             Ákvæði nefndrar reglugerðar eru misvísandi varðandi það hvort færa skuli mats­breytingar eignarhluta í skráðum félögum á rekstrarreikning eða eigið fé,

þó líklegast sé að matsbreyting hlutabréfa á markaði eigi að fara á eigið fé, sbr. 2. tl. d liðar 3. og 4. gr. reglugerðarinnar.

             Af framansögðu má ráða að eignfærsla eigin hluta Baugs hf. hafi ekki verið óheimil enda hefur komið fram í málinu að þeirra hafi verið aflað til þess að uppfylla kaup­réttarákvæði í samningum við æðstu stjórnendur félagsins.  Óljósara er með heimild til tekjufærslu hækkana á matsverði eigin hluta gegnum rekstrarreikning. Þessi vafi leiðir til þess að ekki verður byggt á því í refsimáli að slík hækkun hafi verið óheimil.

             Hér fyrr var það rakið að ákærði, Tryggvi, bar fyrir dómi að fylgiskjalið frá 30. apríl 2000, sem lá til grundvallar færslu nr. L 0565, hafi verið efnislega rangt og ekki tengst fyrirtækinu Urði Verðandi Skuld eins og það bar með sér að gera.  Þá bar ákærði, Jón Ásgeir, að nefnd færsla hafi ekki tengst hlutabréfum þeim sem Baugur átti í Urði Verðandi Skuld.

             Með framburði ákærðu og vitna er sannað að framangreint fylgiskjal, sem lá til grundvallar færslu nr. L 0565, er efnislega rangt og tengist ekki fyrirtækinu Urði Verðandi Skuld, eins og það ber með sér að gera.  Fyrir liggur í málinu að fylgiskjalið varð til eftir fund milli ákærða, Tryggva, og fjármálastjóra Baugs hf.  Skýring ákærða, Tryggva, um að um misskilning hafi verið að ræða við gerð fylgiskjalsins fær stuðning í framburði fjármálastjórans, sem ekki útilokar að um slíkt hafi verið að ræða.  Samkvæmt þessu er ósannað að ákærði, Tryggvi, hafi af ásetningi eða af stór­felldu gáleysi látið búa til fylgiskjalið með hinu ranga efni og verður hann því sýknaður af þessum ákærulið.  Þá er ósannað að ákærði, Jón Ásgeir, hafi vitað um þau gögn sem til urðu í samskiptum þeirra ákærða, Tryggva, og fjármálastjórans og færslu þeirra.  Það er einnig ósannað að ákærði hafi vitað annað en tilkynningar, sem sendar voru Verðbréfaþingi Íslands, hafi verið réttar.  Ákærði, Jón Ásgeir, er því einnig sýknaður af því sem á hann er borið í þessum ákærulið.

             Ákæruliður 12.

             Ákærðu, Jóni Ásgeiri og Tryggva, er í þessum ákærulið gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf. og hagað því með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna.  Ákærða, Tryggva, er gefið að sök að hafa, með vilja og vitneskju ákærða, Jóns Ásgeirs, látið færa 13.045.954 krónur til eignar á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf. í bókhaldi Baugs hf. og til tekna hjá félaginu, með færslu sem lýst er í ákærunni.  Færslan hafi verið bakfærð við gerð ársreiknings Baugs hf. fyrir tímabilið 1. mars 2002 til 28. febrúar 2003.

             Þegar ákveðið var að hefja sölu á hlutabréfum í Baugi hf. á markaði tóku Kaup­þing hf. og Fjárfestingabanki atvinnulífsins (FBA) að sér söluna.  Forsvarsmenn Baugs hf. höfðu hins vegar milligöngu um sölu á bréfum til norska félagsins Reitan Gruppen og töldu þeir að Baugi hf. bæri hluti af þóknuninni sem bankarnir tóku fyrir söluna á bréfunum.  Framangreind færsla á rót sína í þessum viðskiptum.

             Ákærði, Jón Ásgeir, bar að um hafi verið að ræða færslu á kröfu á Kaupþing hf. vegna sölu hlutabréfa sem Kaupþing hf. átti í Baugi hf. til Reitan Gruppen.  Baugur hf. hafi séð um að selja þessi bréf.  Félagið hafi einnig séð um að selja bréf er FBA átti og hafi bankinn gefið afslátt af þóknun sinni vegna sölunnar.  Sama aðferð hafi verið notuð gagnvart kröfunni um þóknun á Kaupþing hf. og hlutfallslega sama fjár­hæð færð sem eign á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf., enda hafi félagið viður­kennt kröfuna.  Það hafi hins vegar dregist að fá hana greidda.  Ákærði kvaðst að öðru leyti ekki hafa komið nálægt færslunni í bókhaldið.  Aðspurður af hverju færslan hafi verið án fylgiskjala kvað ákærði hana hafa byggst á munnlegum samningi.  Færslan hafi síðar verið bakfærð vegna þess að þá hafi verið búið að gera þóknunina upp í öðrum viðskiptum, en ekki kvaðst ákærði muna hver þau hafi verið.

             Ákærði, Tryggvi, bar að hann og meðákærði hafi fundið fjárfesta að bréfum í Baugi hf. og, vegna þess að tregðu hafi gætt hér á landi til að kaupa, hafi verið leitað til Reitan Gruppen sem hafi keypt hluti.  Ákærðu hafi talið eðlilegt að Baugur hf. fengi hlut af þóknun FBA og Kaupþings hf. fyrir að selja bréfin og hafi verið tekið vel í það.  FBA hafi gengið frá sínum málum, en Kaupþing hf. ekki þótt það hafi sam­þykkt kröfuna og ákærðu gengið á eftir greiðslu.  Ákærði gat ekki borið um færsluna sjálfa og minntist þess ekki að hafa gefið fyrirmæli um hana, en ákærðu hafi talið rétt að bóka hana með þeim hætti sem gert var.  Fjárhæðin hafi verið reiknuð út með sama hætti og krafan á FBA.  Ákærði kvaðst hafa verið hættur störfum hjá Baugi hf. þegar færslan var bakfærð og því ekki geta borið um hana. 

             Jóhannes Jónsson bar að hann hafi, þegar erfiðlega hafi gengið að selja hluti í Baugi hf., hringt í Odd Reitan og selt honum stóran hlut í félaginu.  Taldi Jóhannes félagið hafa átt að fá þóknun fyrir þessa sölu.

             Linda Jóhannsdóttir, sem var fjármálastjóri Baugs hf. á þessum tíma, gat ekkert um færsluna borið.  Hið sama gilti um aðra starfsmenn Baugs hf. er komu fyrir dóminn. 

             Sigurður Einarsson, var forstjóri Kaupþings hf. á þessum tíma.  Hann bar að stjórnendur Baugs hf. hafi haft milligöngu um sölu á hlutafé til Reitan Gruppen og töldu þeir að félaginu bæri hluti af söluþóknun Kaupþings hf. fyrir vikið.  Ekki mundi Sigurður hvernig viðræðum um þessa kröfu lyktaði en taldi líklegast að hún hafi verið gerð upp í öðrum viðskiptum. 

             Hreiðar Már Sigurðsson, var aðstoðarforstjóri Kaupþings hf. á þessum tíma.  Hann bar að forsvarsmenn Baugs hf. hafi alfarið séð um sölu á hlutafé til Reitan Gruppen og þeir hafi talið sig eiga rétt á hlut í þóknun vegna þessa, en ekki mundi hann um hvaða fjárhæðir eða prósentutölu var rætt í því samhengi.  Um þessa kröfu hafi oft verið rætt og taldi Hreiðar Már að hún hefði verið gerð upp í sambandi við alls­herjaruppgjör á mörgum viðskiptum, en ekki gat hann gert nánari grein fyrir þeim.  Hann staðfesti hins vegar að krafan hafi verið viðurkennd í uppgjörinu. 

             Meðal gagna málsins er bréf Kaupþings banka hf. frá 1. júlí 2005 undirritað af Helga Sigurðssyni, framkvæmdastjóra lögfræðisviðs, og Guðnýju Önnu Sveinsdóttur, fram­kvæmdastjóra fjármálasviðs, þar sem svarað er spurningu efnahagsbrotadeildar ríkis­lögreglustjóra um komu Baugs hf. að viðskiptunum og hvort kostnaður vegna þeirra hafi verið færður í bókhald bankans, svo sem vegna þóknunar til Baugs hf.  Í svar­bréfinu segir:  “Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar verður ekki séð að þessi kostnaður hafi verið færður í bókhald bankans og ekki eru til skriflegir samningar eða önnur skrifleg gögn sem sýna aðkomu Baugs að viðskiptunum.”  Helgi og Guðný Anna komu bæði fyrir dóm og staðfestu efni bréfsins.

             Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis hf. áður Íslandsbanka hf., gat ekki með vissu borið um þóknun til Baugs hf. í þessum viðskiptum. 

             Ármann Harri Þorvaldsson, starfsmaður Kaupþings hf. á þessum tíma, bar að forsvars­menn Baugs hf. hafi haft milligöngu um sölu á hlutum til Reitan Gruppen vegna þess að erfiðlega hafi gengið að selja hluti í félaginu hér á landi og hafi þeir viljað að félagið fengi hlutdeild í þóknun Kaupþings hf. fyrir vikið.  Ekki gat hann  borið um með vissu hvernig þau máli voru þó leyst á endanum.

             Með framburði ákærðu og vitna, sem rakinn var, er sannað að ákærðu töldu sig eiga kröfu á Kaupþing hf. vegna þóknunar fyrir sölu hlutabréfa.  Þótt ekkert skjal hafi verið gert um kröfuna, og ekkert formlegt samkomulag, er sannað, með fram­burði framangreindra vitna, að hún var til og var gerð upp í viðskiptum Baugs hf. og Kaup­þings hf. síðar og í framhaldinu bakfærð, eins og lýst er í ákærunni.  Af þessu leiðir að ósannað er að ásetningur ákærðu hafi staðið til þess að rangfæra bókhald Baugs hf. eins og þeim er gefið að sök.  Það var hins vegar gáleysi af þeirra hálfu að afla ekki gagna, sbr. 8. gr. bókhaldslaga, áður en þeir létu færa kröfuna.  Krafan átti sér hins vegar stoð í viðskiptum og þess vegna metur dómurinn gáleysi ákærðu ekki stórfellt.  Samkvæmt þessu verða þeir sýknaðir af þessum ákærulið.  Með sömu rökum er ákærði, Jón Ásgeir, sýknaður af ákæru um rangfærslu skjala og brot gegn hluta­félagalögum.

             Ákæruliður 13.

             Ákærðu, Jóni Ásgeiri og Tryggva, er í þessum ákærulið gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., látið búa til gögn sem ekki áttu sér stoð í viðskiptum við aðra aðila og hagað bókhaldi Baugs hf. með þeim hætti að það gaf ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna eins og rakið er í ákærunni.

             Vorið 1999 keypti Baugur hf. verslanir 10-11 og voru kaupin gerð á for­sendum sem Gaumur ehf. hafði lagt fyrir hluthafa Baugs hf.  Í kjölfarið kom upp óánægja hjá hluthöfum Baugs hf. vegna slæmrar stöðu verslana 10-11, en hún mun hafa verið verri en þeir höfðu gert ráð fyrir.  Forstjóri Baugs hf., ákærði, Jón Ásgeir, lagði þá til að Gaumur ehf. myndi leggja fé til markaðssetningar og annars meðan verið væri að koma rekstrinum í betra horf.  Gefnir voru út tveir reikningar af 10-11 á hendur Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf.  Var annar að fjárhæð 30.000.000 króna en hinn að fjárhæð 10.000.000 króna og voru þeir bókaðir með þeim hætti sem lýst er í ákærunni.

             Ákærði, Jón Ásgeir, bar að hann hafi lagt mikið kapp á að Baugur hf. eignaðist verslanir 10-11 og þess vegna hafi það verið sér vonbrigði þegar í ljós hafi komið að rekstur þeirra gekk ekki sem skyldi.  Sér hafi fundist að hann bæri ábyrgð á því að Baugur hf. réðist í kaupin og því lagt það til við meðeigendur sína í Gaumi ehf. að félagið styrkti rekstur 10-11 með þessu framlagi til auglýsingaherferðar og þátttöku í stjórn­unarkostnaði vegna hennar.  Krafa um þetta hafi hins vegar ekki komið frá hlut­höfum í Baugi hf.  Reikningarnir hafi verið gefnir út af þessu tilefni og hafi hann ráðið texta þeirra.

             Ákærði, Tryggvi, bar að hann hefði ekki komið að útgáfu reikninganna, en kvað þarna hafa verið um að ræða styrk frá Gaumi ehf. til Baugs hf. vegna þess að væntingar vegna kaupa þess síðarnefnda á verslunum 10-11 hafi ekki gengið eftir.     

             Kristín Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Gaums ehf., bar að fljótlega eftir kaup Baugs hf. á verslunum 10-11 hafi komið í ljós að þær þurftu á meiri markaðs­setningu að halda og hafi verið ákveðið að Gaumur ehf. styrkti hana og hafi féð verið greitt inn á viðskiptareikning. 

             Linda Jóhannsdóttir, fjármálastjóri Baugs hf., gat ekki borið um þessa reikn­inga og færslur þeirra.

             Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs hf., bar að það hafi verið rætt í stjórn­inni að ekki hafi verið jafn góð kaup í verslunum 10-11 og höfðu átt að vera.  Ákærða, Jóni Ásgeiri, hafi fundist hann verða að koma til móts við þessi sjónarmið og beitt sér fyrir þessum greiðslum frá Gaumi ehf.

             Í þessum ákærulið er ákærðu gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot og heldur ákæru­valdið því fram að reikningarnir sem þeir hafi látið færa í bókhaldi Baugs hf. hafi ekki átt sér stoð í viðskiptum við aðra aðila.  Ákærðu hafa neitað sök og gefið þær skýringar sem að framan voru raktar.  Þessar skýringar fá stoð í framburði vitna.  Það er niðurstaða dómsins að ósannað sé að viðskipti þau sem þessi ákæruliður fjallar um hafi ekki átt sér stað og því hafi færslurnar sem byggðust á þeim verið réttmætar.  Af þessu leiðir að ákærðu verða sýknaðir af þessum lið ákærunnar.  Með sömu rökum er ákærði, Jón Ásgeir, sýknaður af ákæru um rangfærslu skjala og brot gegn hluta­félaga­lögum.

             Ákæruliður 14. 

             Í þessum ákærulið er ákærðu, Jóni Ásgeiri og Tryggva, gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að láta færa í bókhaldi Baugs hf. þrjár rangar færslur. 

             Í fyrsta lagi er færsla ákærða, Tryggva, með vitund og vilja ákærða, Jóns Ásgeirs, á sölu hlutabréfa Baugs hf. í Arcadia Group Plc. að nafnverði 3.100.000 pund til Kaupþings hf. fyrir 332.010.000 krónur.  Telur ákæruvaldið að þessi sala hafi ekki átt sér stað í raun. 

             Í öðru lagi er því haldið fram í ákæru að ákærði, Tryggvi, hafi með rangri færslu látið líta svo út að Kaupþing hf. hafi greitt Baugi hf. kaupverð hlutabréfanna 2. febrúar 2001.  Fjárhæð sú sem greidd var hafi í raun verið lán frá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. (hér eftir nefnt Kaupthing Lux). 

             Þá er því í þriðja lagi haldið fram að ákærði,Tryggvi, hafi látið færa í júní 2001, með skráðan færsludag 11. maí 2000, kaup félagsins á þessum sömu bréfum fyrir 544.050.000 krónur af Kaupþingi hf.  Í raun hafi hlutafé Baugs hf. í Arcadia Group Plc. verið lagt inn í A-Holding S.A. sem framlag Baugs hf. 

             Í ákæru er sagt að með þessum færslum hafi ranglega verið búinn til hagnaður í bókhaldi Baugs hf. á árinu 2000 að fjárhæð 164.610.536 krónur.  Þá hafi verið ranglega búin til skuld í bókhaldinu á árinu 2001 að fjárhæð 212.040.000 krónur.  Þessar færslur hafi síðan verið leiðréttar á árinu 2003 þegar reikningar félagsins hjá Kaupthing  Lux hafi verið færðir inn í bókhald félagsins. 

             Í ákæru segir einnig að tilkynning til Verðbréfaþings Íslands um afkomu félagsins á árinu 2000 hafi verið í samræmi við ársreikning er byggður hafi verið á þessum röngu færslum.  Sé því sýndur 115 milljóna króna meiri hagnaður eftir skatta en ella hefði verið, og 2,3% hærra eigið fé. 

             Loks er ákærða, Jóni Ásgeiri, gefin að sök rangfærsla skjala og brot gegn hluta­félagalögum með því að láta senda framangreinda tilkynningu til Verðbréfaþings Íslands, vitandi að hún var röng.   

             Það sem um er að ræða í þessum ákærulið er færsla nr. I00296 í bókhaldi Baugs hf. frá 31. desember 2000 þar sem færðar eru 167.399.464 krónur til lækkunar á hlutafjáreign, 164.610.536 krónur sem tekjufærsla hagnaðar af sölu og 322.010.000 krónur sem inneign á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf., svo sem nánar er rakið í ákæru, en þar kemur enn fremur fram á hvaða grundvelli hún er byggð.  Nefnd inneign er síðan jöfnuð út með færslu nr. T000630 2. febrúar 2001, þar sem látið er líta út fyrir að greiðsla á kaupverði bréfanna komi frá Kaupþingi hf. til greiðslu inn á tékka­reikning Baugs hf. hjá Íslandsbanka hf. þegar greiðslan kom í raun frá vörslu­reikningi Baugs hf. hjá Kaupthing Lux sem ekki var færður í bókhaldi Baugs hf.  Með færslu nr. L1073 11. maí 2001, eru síðan 544.050.000 krónur færðar debet sem stofn­framlag Baugs hf. í A-Holding, eignarhaldsfélagi um Arcadia bréfin, en kredit á við­skipta­reikning Kaupþings hf. í bókhaldi Baugs hf., eins og nánar er lýst í ákæru, sem þýddi að hann stóð þá í skuld að fjárhæð 544.050.000 krónur. Með færslu nr. I00743 30. júní 2001 með textanum “Lokaf. Bakf. skuld við Kaupþing” er þessi kredit mis­munur, að undanskildum 50.000 krónum, færður af viðskiptareikningi Kaupþings hf. með 544.000.000 krónum yfir á viðskiptareikning Baugs Holding S.A. í kredit.  Í bók­haldi Baugs hf. fyrir árið 2003 voru síðan gerðar leiðréttingar á framangreindum færslum með nokkrum færslum 31. desember 2003, en eftir þær færslur var búið að tekju­færa hagnað af sölu hlutabréfanna í Arcadia í bókhaldi Baugs hf. sem nam rúmum 212 milljónum króna.  Eins og að framan er lýst var áður búið að tekjufæra rúmar 164 milljónir krónur í árslok 2000 sem hagnað af sölu hlutabréfa í Arcadia þannig að eftir þessar færslur á árinu 2003 hafði hagnaður vegna þessara hluta­bréfa­viðskipta að fjárhæð rúmar 376 milljónir króna verið tekjufærður í gegnum rekstrar­reikning Baugs hf. sem hagnaður af sölu hlutabréfa. Samkvæmt framangreindu virðast færslurnar á árinu 2001 hafa í för með sér frestun tekjufærslu á 212 milljónum króna til síðari tíma.

             Ákærði, Jón Ásgeir, bar að bréfin í Arcadia hafi verið skammtímaeign og á þessum tíma hafi verið talið heimilt að færa skammtímaeignir upp til markaðsverðs.  Þessar færslur gefi því rétta mynd.  Um aðkomu sína að færslunni kvað ákærði þetta hafa verið fært á fjármálasviði félagsins, en hann hefði gefið fyrirmæli um að færa eignir eins og þessa upp að markaðsvirði.  Hann hafi ekki vitað af þessum færslum.  Komið hafi fram í samþykkt stjórnar að þetta væri skammtímaeign og hluturinn hafi raunar verið seldur inn í annað félag stuttu síðar. 

                Ákærði bar að Baugur hf. og Gaumur ehf. hefðu byrjað að kaupa bréf í Arcadia síðari hluta árs 2000.  Hann hefði að mestu séð um þessi kaup fyrir Baug hf., en ákærði, Tryggvi, komið að þeim síðar. 

                Ákærði kvaðst telja að Baugur hf. hafi haft umráð bréfanna meðan framvirkir samn­ingar voru í gangi.  Hann hafi hins vegar ekki vitað um alla framvirka samninga sem í gildi voru.  Þeir hafi varðað skammtímafjármögnun félagsins sem hann hafi ekki haft umsjón með. 

                Ákærði, Tryggvi, bar að þessi viðskipti hafi verið færð sem sala í bókhaldinu og hann hafi litið á þetta sem sölu.  Hvernig sem á það væri litið breytti það engu um reiknings­skilin.  Baugur hf. hafi verið að fjárfesta í Arcadia um nokkurt skeið er þetta átti sér stað.  Það hafi verið litið á þetta sem skammtímafjárfestingu og hafi verið fjár­magnað með láni frá Íslandsbanka hf.  Ákærði kvaðst hafa viljað selja þessi bréf og lækka skuldir.  Hann hafi sett söluferli í gang í desember, en það hafi tekið tíma að losa bréfin þar sem þau hafi verið veðsett eða í vörslu erlendis.  Þetta hafi því ekki klárast fyrr en eftir áramótin.  Í millitíðinni hafi ákærði, Jón Ásgeir, samið við FBA, Íslands­banka hf. og Kaupþing hf. um stofnun A-Holding og að lokum hafi bréfin verið lögð inn í það félag.  Taldi ákærði að færslan hefði alltaf átt rétt á sér vegna þess að það eigi sér stað tekjufærsla, hvort sem bréfin séu seld eða ekki.  Munurinn liggi í því hvort það sé söluhagnaður eða verðhækkun hlutabréfaeignar.  Hvort sé valið breyti engu um ársreikninginn.  Það breyti engu um rekstrarniðurstöðu ársins 2000, eigið fé ársins 2000, eða efnahagsreikninginn, það er niðurstöðutölur þeirra, hvort sem var innan tímabilsins eða milli áranna 2000 og 2001. 

                Ákærði hélt því fram að hann hefði verið búinn að semja um þessi viðskipti í desember 2000, þó að skjölin hefðu ekki verið undirrituð fyrr en í byrjun febrúar 2001.  Hann hefði viljað halda sig við að ganga frá þessum skjölum, þó að þá hefði verið búið að stofna A-Holding og færa bréfin inn í það félag.  Það hefði ekki breytt neinu efnislega.  Ekki hafi verið hægt að ganga frá þessu í desember vegna þess að bréfin voru þá veðsett erlendis á vegum Íslandsbanka hf. 

                Ákærði kvaðst vita að svonefndur „Share transfer agreement” fæli ekki í sér raun­verulega sölu, heldur einungis nafnskráningu til vörsluaðila. 

                Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Kaupthing Lux, gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti að samningur 29. desember 2000 hafi verið undirritaður í byrjun febrúar 2001.  Hann bar að hann hefði rætt þessi málefni við ákærða, Tryggva, fyrir ára­mótin, en ekki hefði verið gengið frá skjölunum fyrr en í febrúar. 

                Hans Kristian Hustad, stjórnarmaður í Baugi hf., kannaðist við umræður í stjórn félagsins um kaup á hlutum í Arcadia og hafi það verið ætlunin að eignast þar stóran hlut.  Hans Kristian kvaðst hafa haft efasemdir um þessi kaup vegna þess að hann hafi haft takmarkaða þekkingu á tískufatnaði kvenna.  

                Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs hf., bar að það hefði fyrst og fremst verið ákærði, Jón Ásgeir, sem vann í því að kaupa hlut í Arcadia.  Ákærði, Tryggvi, hafi verið í öðrum verkefnum á þessum tíma og verið mikið á ferðinni.  Í fyrstu hafi ekki verið skýrar hugmyndir um hvað stjórnendur Baugs hf. vildu með því að kaupa þessi hlutabréf.  Það hafi breyst er kom fram á árið 2001 og þá hafi þeir viljað eignast stóran hlut.  Það hafi hins vegar í byrjun verið ákveðin togstreita innan stjórnarinnar, því Baugur hf. hafi á þessum tíma verið smásölufyrirtæki, en ekki fjárfestingafélag.  Þegar ákveðið hafi verið að fjárfesta verulega í Arcadia hafi komið í ljós að Baugur hf. gæti ekki gert það einn og því hafi A-Holding verið stofnað. 

                Hreinn staðfesti fyrir dómi bréf frá 28. maí 2004, sem hann hafði sent lög­reglu.  Í því kemur fram að Baugur hf. stofnaði vörslureikning hjá Kaupthing Lux á árinu 1998.  Síðan er lýst aðdragandanum að því að Baugur hf. og Gaumur ehf. fengu Íslands­banka-FBA og Kaupþing hf. til samstarfs um kaup á 20% hlut í Arcadia snemma árs 2001.  Orðrétt segir síðan:  “Þeir Tryggvi (ákærði) og Magnús (vitnið Magnús Guðmundsson) virðast ekki hafa verið hafðir með í ráðum þegar útfærsla á fjár­mögnun A-Holding var á teikniborðinu.  Salan á hlut Baugs í Arcadia var bókfærð hjá Baugi eins og áður greinir (...) og samkvæmt bókhaldi félagsins var hluturinn keyptur aftur af Kaupthing Bank, eftir að ákveðið var að stofna A-Holding og leggja bréfin veðbandalaus inn í það félag.  Kaupin fóru fram á markaðsverði miðað við 15. febrúar 2001, eða GBP 1,35, alls GBP 4.185.000, sem svarar til 544 milljóna króna ... en það gengi er í samræmi við viðskipti annarra hluthafa A-Holding við stofnun þess félags um líkt leyti.  Skýrist hækkunin úr 332 í 544 milljónir króna af breytingum á gengi hlutafjár í Arcadia.  Líkt og áður segir gat Baugur ekki afhent bréfin í Arcadia þar sem veðböndum hafði ekki verið aflétt.  Viðskiptin gengu því til baka með gerð greinds kaupsamnings.  Engin greiðsla var innt af hendi vegna kaupanna.”

             Stefán Hilmar Hilmarsson, löggiltur endurskoðandi, staðfesti fyrir dómi að hann hefði séð kaupsamninginn, Share Transfer Agreement, sem færslan er byggð á áður en lokafærsluskjalið var útbúið hjá endurskoðun KPMG.  Hann kvaðst hafa litið á þetta sem kaupsamning, samning um sölu bréfanna til Kaupthing Lux.  Tilgangurinn hafi verið að fá fjármagn inn í reksturinn.  Fram kom í skýrslu Stefáns Hilmars að hann hefði ekki vitað að kaupsamningurinn var ekki undirritaður fyrr en í febrúar. 

             Anna Þórðardóttir, löggiltur endurskoðandi, sagði að sér hefði verið tjáð að viðskiptin við Kaupþing hf. um Arcadia bréfin hefðu gengið til baka.  Það hafi átt að hafa gerast í gegnum vörslureikninginn.  Mismunurinn á söluverðinu, 332 milljónum króna, og 544 milljóna króna kaupverði hefði ekki verið færður í bókhaldið fyrr en síðar.  Endurskoðendurnir hefðu staðið í þeirri meiningu að bréfin hefðu verið seld í árslok 2000 og keypt aftur fyrri hluta árs 2001 fyrir hærra verð.  Taldi hún að endan­legar færslur eftir leiðréttingar hefðu sýnt að bréfin hefðu aldrei farið úr eigu Baugs hf. 

                Ákæruliður þessi í þremur hlutum varðar færslur sem ákæruvaldið telur rangar, en þær tengjast allar innbyrðis. 

                Fyrsti hluti þessa ákæruliðar varðar það að færsla á sölu hlutabréfa í Arcadia með færsludegi 31. desember 2000 hafi verið röng.  Salan hafi ekki átt sér stað.  Þá segir að ákærði, Tryggvi, hafi látið færa 332.010.000 krónur til eignar á við­skipta­manna­reikningi Kaupþings hf. í bókhaldi Baugs hf., fært 167.399.464 krónur til lækk­unar á erlendri hlutabréfaeign og 164.610.536 krónur sem tekjur af sölu hlutabréfa.  Telur ákæruvaldið færslu þessa tilhæfulausa og bókun um skuld Kaupþings hf. við Baug hf. hafi einnig verið tilhæfulaus. 

                Það er niðurstaða dómsins að hér hafi efnislega ekki farið fram sala hlutafjár.  Hluta­féð var með samningnum afhent Kaupthing Lux til vörslu, en ekki selt og var færslan því röng.

                Annar hlutinn varðar færslu 2. febrúar 2001, þar sem látið er líta út fyrir að inn­borgun á bankareikning Baugs hf. á Íslandi sé greiðsla frá Kaupþingi hf. á kaup­verði hlutabréfanna í Arcadia, sbr. fyrsta hluti hér að framan, þegar innborgunin var í rauninni lán sem veitt var gegnum vörslureikning Baugs hf. hjá Kaupthing Lux sem ekki var færður í bókhaldi Baugs hf.  Sannað er að um ranga færslu var að ræða, en hún var til þess fallin að gefa ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna.  Er sannað, eins og rakið var, að ákærði, Tryggvi, hafi staðið að þessari færslu.       

                Þriðji hluti þessa liðar varðar færslu 11. maí 2001, en ekki 2000, eins og segir í ákæru.  Hér var verið að færa stofnhlutafé Baugs hf. í A-Holding, sem er félag stofnað  utan um eignarhlutina í Arcadia.  Debet færslan á í sjálfu sér rétt á sér enda var hér verið að leggja þessa hluti inn sem hlutafjárframlag Baugs í A-Holding.  Kredit færslan á reikning Kaupþings hf. var hins vegar ekki rétt, sbr. það sem rakið er hér á undan um fyrsta og annan hluta þessa liðar, enda var Baugur hf. hér ekki að kaupa hluta­bréf af Kaupþingi hf.  Sannað er að um ranga færslu var að ræða, en hún var til þess fallin að gefa ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna.  Er sannað, eins og rakið var, að ákærði, Tryggvi, hafi staðið að þessari færslu.

                Með framangreindu hefur ákærði, Tryggvi, gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. tl. 1. mgr. 37. gr. bókhaldslaga nr. 145/1994.

                Hins vegar er ósannað að ákærði, Jón Ásgeir, hafi með saknæmum hætti komið að þessum færslum og verður hann því sýknaður hvað það varðar. 

             Eins og áður er vikið að hefur því verið haldið fram af ákærða, Tryggva, að tekju­færslan á 164.610.536 krónum sem söluhagnaði í árslok 2000 breyti ekki niður­stöðum rekstrarreiknings Baugs hf. vegna þess að hefði þessi hagnaður ekki verið færður sem söluhagnaður á þessum tíma, hefði mátt færa hlutabréfin í Arcadia upp í markaðs­verð í árslok, en salan til Kaupþings hf. var færð á markaðsgengi Arcadia hlut­anna í árslok 2000 sem var 0,85.  Þetta myndi hafa leitt til þess að færa hefði mátt mats­hækkunina, að fjárhæð 164.610.536 krónur, af þessari fjárfestingu sem ákærði, Tryggvi, taldi hafa verið skammtímafjárfestingu, til tekna gegnum rekstrarreikning Baugs hf. sem myndi hafa leitt til sömu niðurstöðu og færsla söluhagnaðarins.

             Það er álit dómsins, að miðað við viðbrögð við fjárfestingunni innan stjórnar Baugs hf. haustið 2000, og að langtímafjármögnun hennar lá þá ekki fyrir og þann skamma tíma sem hlutabréfin í Arcadia voru í raun í eigu Baugs hf., sé ekki óeðlilegt að miða við það að um skammtímafjárfestingu hafi verið að ræða. Að fenginni þeirri niðurstöðu og með vísan til þágildandi 29. greinar laga nr. 144/1994 um ársreikninga, telur dómurinn að forráðamönnum Baugs hf. hafi verið heimilt að færa gengishækkun vegna Arcadia hlutabréfanna til tekna hjá félaginu í árslok 2000. Samkvæmt þessu telst ekki sannað að ársreikningur sá fyrir Baug hf. fyrir árið 2000 sem byggt er á í tilkynn­ingu félagsins til Verðbréfaþings Íslands, sem birt var 19. mars 2001, hafi verið efnislega rangur.  Ákærði, Jón Ásgeir, verður því alfarið sýknaður af þessum ákæru­lið.

             Ákæruliður 15.

             Í þessum ákærulið er ákærðu, Jóni Ásgeiri og Tryggva, gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., átt þátt í að búin væru til gögn sem ekki áttu sér stoð í viðskiptum við aðra aðila og hagað bók­haldi Baugs hf. með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjár­muna.  Þetta hafi þeir gert með því að láta færa til eignar í bókhaldi Baugs hf. og til tekna hjá Baugi hf., sem lækkuð vörukaup, 61.915.000 krónur, á grundvelli rangs og til­hæfu­lauss kreditreiknings (afsláttarreiknings) frá Nordica Inc., dagsetts 30. ágúst 2001, að fjárhæð USD 589.890, sem jafngilti 61.915.000 krónum á færsludegi.  Ákærða, Jóni Gerald Sullenberger, er gefið að sök að hafa aðstoðað ákærðu, Jón Ásgeir og Tryggva, við að rangfæra bókhald Baugs hf. og stuðlað að bókhaldsbroti þeirra með því að útbúa framangreindan kreditreikning að tilhlutan ákærða, Jóns Ásgeirs, og samkvæmt fyrirsögn ákærða, Tryggva.  Ákæran er á því byggð að reikning­urinn hafi ekki átt sér ekki stoð í viðskiptum þeirra félaga sem ákærðu voru í fyrirsvari fyrir eins og nánar er rakið í ákærunni.

             Texti reikningsins er svohljóðandi:  “ Discount on purchased goods and reimbursement for damage or shortages shipments to Adfong from July 01, 2000 to June 30, 2001.  This cover all cargo shipped thru Nordica Inc Warehouse in Miami Florida”.  Að öðru leyti er reikningnum lýst hér að framan.  Hann var fyrst færður á bið­reikning ásamt reikningi þeim, sem um getur í 16. ákærulið, en ekki á við­skiptareikning Nordica Inc.  Reikningurinn var aldrei innheimtur hjá Nordica Inc. og var síðan gjaldfærður í bókhaldi Baugs hf. eins og lýst er í ákæru.

             Nú verður rakinn framburður ákærðu varðandi þennan lið og síðan vitna eftir því sem við á.

             Ákærði, Jón Ásgeir, bar að Baugur hf. og þar áður Bónus hafi verið í viðskiptum við ákærða, Jón Gerald, og fyrirtæki hans allt frá árinu 1992.  Á árinu 2000 hafi ákærði, Jón Gerald, stofnað vöruhús í Bandaríkjunum til að auka viðskiptin enn frekar.  Í framhaldi af því, eða í ársbyrjun 2001, hafi viðræður hafist um eflingu við­skiptanna og þá hafi komið fram hjá forsvarsmönnum Baugs hf. að það væri tals­vert magn af “vandræðabirgðum” frá Nordica Inc., fyrirtæki ákærða, Jóns Geralds, í versl­unum og vöruhúsum Baugs hf. á Íslandi, þ.e. vörum sem höfðu ekki selst, en ekki mundi ákærði hversu mikið magnið hafði verið.  Vorið 2001 hafi samningum um þessi mál verið lokið og menn orðnir ásáttir um upphæðina, sem hafi verið fundin út í íslenskum krónum og síðan umreiknuð í bandaríkjadali.  Aðspurður hvort upphæðin hafi verið reiknuð út út frá gögnum kvað ákærði menn hafa haft tilfinningu fyrir stærð málsins og það verið leyst með “pennastriksaðferð”.  Ákærði, Jón Gerald, hafi gefið reikn­inginn út í samræmi við samkomulagið og ákærði, Tryggvi, síðan gengið frá mál­unum, þar með talið að ákveða texta reikningsins.  Síðar hafi komið í ljós að ákærði, Jón Gerald, gat ekki greitt reikninginn og hafi hann því verið gjaldfærður (lotaður) mánaðarlega í bókhaldi Baugs hf.

             Ákærði, Tryggvi, bar að hann hefði kallað eftir reikningnum frá ákærða, Jóni Gerald, sem hefði gert reikninginn.  Gerð reikningsins hefði byggst á samkomulagi ákærðu, Jóns Ásgeirs og Jóns Geralds, um ónýtar vörur er hefðu safnast saman í áranna rás.  Aðallega vegna heimildar ákærða, Jóns Geralds, til að fylla gáma, sem hann sendi til Baugs hf., með vörum til að nýta plássið í gámunum.  Þetta hafi verið að hluta til skýringin á því af hverju óseljanlegar vörur söfnuðust upp hjá Baugi hf.  Ákærði kvað meðákærðu eina hafa samið um lausn þessa máls og þar með að ákveða upp­hæð reikningsins og texta.  Hann hafi lesið textann yfir eins og hann kom frá ákærða, Jóni Gerald, og endursent honum hann með smávægilegum leiðréttingum og þannig leiðréttan hafi ákærði, Jón Gerald, sent sér reikninginn í símbréfi.  Ákærði kvaðst síðan hafa sent reikninginn til KPMG sem var að ljúka við gerð árs­hluta­reiknings á þessum tíma og hafi endurskoðendurnir fært hann sem lokafærslu.         

             Ákærði, Jón Gerald, kvaðst hafa útbúið reikninginn að beiðni ákærða, Tryggva.  Það hafi borið þannig til að 30. ágúst 2001 hafi ákærði, Tryggvi, hringt í sig og spurt hvort hann gæti útbúið fyrir sig kreditreikning og sagt sér hver texti hans ætti að vera.  Ákærði kveðst hafa skrifað textann og sent ákærða, Tryggva, í tölvupósti.  Hann hafi endursent sér textann leiðréttan og þann texta kvaðst ákærði hafa sett á reikn­inginn og endursent í símbréfi.  Engin viðskipti hafi verið á bak við reikninginn og hann því verið algerlega út í bláinn.  Ekki hafi ákærði, Tryggvi, minnst á til hvers ætti að nota reikninginn og það hafi aldrei verið rætt þeirra á milli.  Ákærði kvaðst ekki hafa fært reikninginn í bókhald sitt heldur hafi hann hafnað í pappírsbunka inn í skáp hjá sér og þar hafi lögreglumenn frá Íslandi síðan fundið hann þegar þeir voru að leita gagna hjá honum í tengslum við rannsókn málsins.  Ákærði kvað skýringar með­ákærðu ekki eiga við rök að styðjast og benti á að hann hefði ekki pantað vörur frá Banda­ríkjunum, heldur séð um að afgreiða vörupantanir.  Þá bar hann að aðallega hafi verið fluttar niðursuðuvörur frá Bandaríkjunum og þar eð þær væru mjög þungar væri oft laust pláss í gámunum sem hann hafi fyllt upp með auðseljanlegum vörum, svo sem eldhúsrúllum.

             Kristrún Sveinbjörnsdóttir, sem starfaði hjá ákærða, Jóni Gerald, þegar hann útbjó reikninginn, bar að hún hefði ekki komið að gerð hans, en séð hann, líklega daginn eftir að ákærði sendi hann.  Hún kvaðst hafa sagt ákærða að hann ætti ekki að gera þetta þar eð engin viðskipti væru á bak við reikninginn og hann hafi ekki verið færður í bókhaldi Nordica Inc., heldur hafi honum verið eytt úr bókhaldskerfinu.  Hún kvað ákærða hafa gefið sér þá skýringu á gerð reikningsins að ákærði, Tryggvi, hefði beðið sig um að gera hann.  Kristrún kannaðist ekki við að Baugur hf. hefði setið uppi með ill- eða óseljanlegar vörur frá Nordica Inc.  Stærsti hluti varanna hafi verið dósa­matur sem endist í mörg ár.  Einstaka sinnum hafi komið fyrir að sent hafi verið of mikið af vörum og hafi það verið gert upp.  Hið sama hafi gilt um skemmdir og rýrnun á vörum.

             Helgi Magnús Gunnarsson, þá löglærður fulltrúi ríkislögreglustjóra, bar að hann hafi fundið reikninginn á skrifstofu ákærða, Jóns Geralds, í Miami.  Hann hafi fundist nánast fyrir tilviljun þar eð hann hafi ekki verið færður í bókhald og ákærði hafi ekki framvísað honum.

             Einar Þórisson, innkaupastjóri hjá Aðföngum, bar að hafa séð um innkaup frá Banda­ríkjunum, þar með talið frá Nordica Inc., en fyrirtækið Aðföng er í eigu Baugs hf.  Einar bar að komið hafi fyrir að vörur hefðu borist frá Nordica Inc. sem ekki höfðu verið pantaðar og eins hafi komið fyrir að vörur hafi vantað.  Brugðist hafi verið við þessu með því að gefa út debet- eða kreditreikninga eftir því um hvort var að ræða.  Á árunum 2000 og 2001 hafi Nordica Inc. hins vegar átt orðið mikið af vörum hjá Aðföngum sem hafi stafað af því að þá hafi verið ætlunin að auka verulega viðskiptin við félagið en það ekki gengið eftir.  Það hafi stafað af tvennu:  Í fyrsta lagi hafi neytendum ekki fallið við vörurnar og í öðru lagi hafi gengið verið óhagstætt.      

             Lárus Óskarsson, framkvæmdastjóri Aðfanga, bar að farið hefði verið yfir vöru­sendingar frá Nordica Inc. á sama hátt og frá öðrum.  Hvort sem of mikið var í send­ingunni eða of lítið, hafi það verið gert upp með debet- eða kreditreikningum eftir því sem við átti hverju sinni.  Á árinu 2001 hafi verið gert átak í að auka vörukaupin frá Nordica Inc. og í framhaldinu hafi birgðir þaðan aukist hjá Aðföngum.  Það hafi hins vegar gerst áður að birgðir hafi verið miklar frá Nordica Inc.  Þannig hafi verið verulegar birgðir frá fyrirtækinu þegar hann hóf störf hjá Aðföngum 1997.  Hann gat hins vegar ekkert borið um reikninginn sem þessi ákæruliður fjallar um.

             Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, bar að þegar hann hóf störf 1998 hafi verið til mikill lager, en ekki hafi hann allur verið frá Nordica. Inc.  Hann gat ekkert um reikninginn borið.

             Árni Pétur Jónsson, yfirmaður matvörusviðs Baugs hf. á árinu 2001, bar að á árinu 2001 hafi Aðföng verið með miklar vörubirgðir frá Nordica Inc. sem hafi meðal annars stafað af því að til hafi staðið að auka verulega viðskiptin við félagið.  Það hafi ekki gengið eftir.  Hins vegar kannaðist hann ekki við reikninginn sem þessi ákæru­liður fjallar um. 

             Linda Jóhannsdóttir, fjármálastjóri Baugs hf., mundi ekki eftir reikningnum og taldi sig ekki hafa bókað hann.  Hún tók fram af gefnu tilefni að fjárhæð hans væri ekki há miðað við veltu Baugs hf.  

Auðbjörg Friðgeirsdóttir var innri endurskoðandi Baugs hf. á þessum tíma.  Hún kvaðst hafa athugað reikninginn og tildrög þess að hann var gerður, en þau hafi verið samkomulag á milli forstjóra tveggja viðskiptafélaga, Baugs hf. og Nordica Inc.  Hún bar að hafa kannað heildarviðskipti félaganna og komist að því að miðað við þau væri reikningurinn ekki hár, enda hafi hann tekið til allra þátta viðskiptanna frá upp­hafi þeirra.  Auðbjörg kvaðst hafa aflað sér upplýsinga með viðtölum við ýmsa stjórn­endur hjá Baugi hf. og hafi þau leitt í ljós að veltuhraði á vörum frá Nordica Inc. hafi ekki verið mikill.  Þá hafi það og gerst að vörur hafi runnið út á “líftíma”.  Þetta hafi verið skráð en við skráninguna hafi ekki verið greint á milli birgja þannig að ekki hafi verið hægt að greina á milli varnings frá Nordica Inc. og öðrum birgjum.  Lögreglunni hafi verið bent á að hægt væri að fá gögn um skráninguna hjá fyrirtækinu en hún hafi ekki haft áhuga á því.  Auðbjörg vann skjal, sem lagt hefur verið fram í málinu, og hún staðfest, og er það yfirlit yfir viðskipti félaganna á árunum 1995 til 2002 að báðum meðtöldum.  Í skjalinu koma fram tölur um heildarviðskiptin hvert ár fyrir sig og hvernig þau skiptist á milli matvöru og sérvöru.  Einnig er gerð grein fyrir rýrnun, bæði þekktri og óþekktri, svo og tilgreint hver afsláttur frá birgjum hafi verið, en af­sláttur hafi ekki fengist frá Nordica Inc.  Niðurstaða Auðbjargar á skjalinu er sú að “Kreditreikningur frá Nordica vegna viðskipta þessi sjö ár hefði þurft að vera á bilinu 190-230 milljónir svo hægt sé að bera þau saman við samskipti við sambærilega birgja.”

             Stefán Hilmar Hilmarsson var löggiltur endurskoðandi Baugs hf. á þessum tíma.  Hann bar að hafa séð reikninginn fyrst í lok ágúst 2001, nánar tiltekið á loka­degi milliuppgjörsins sem var sami dagurinn og reikningurinn var útbúinn.  Það hafi verið ákærði, Tryggvi, sem hafi látið koma reikningnum til sín og minnti Stefán Hilmar að ákærði hefði sagt að um væri að ræða afslætti sem félagið ætti útistandandi og því þyrfti að færa reikninginn.  Hann kvaðst ekki hafa gert athugasemdir við reikn­inginn, enda ekki óvenjulegt að birgjar veittu Baugi hf. afslætti og hefðu þeir verið færðir þegar reikningar vegna þeirra bárust. 

             Eins og nú hefur verið rakið byggðist gerð framangreinds reiknings á ákvörðun ákærða, Jóns Ásgeirs, sem hann ber að hafa tekið að undangengnum samn­inga­viðræðum við meðákærða, Jón Gerald.  Ákærði, Jón Gerald, kannast ekki við þennan samning eins og rakið var.  Framburður ákærða, Jóns Geralds, fær stuðning í fram­burði Kristrúnar Sveinbjörnsdóttur svo og því að reikningurinn var ekki færður í bókhaldi Nordica Inc. heldur fannst á skrifstofu félagsins nánast fyrir tilviljun eins og rakið var.  Framburður ákærða, Jóns Ásgeirs, styðst að nokkru við framburð starfs­manna Baugs hf., sem hafa borið að safnast hafi saman vörur hjá félaginu frá Nordica Inc. sem ekki hafi tekist að selja eins og rakið var.  Þessi framburður starfsmannanna styðst þó ekki við skrifleg gögn, hvorki gögn úr bókhaldi Baugs hf. né önnur, en fram kom að ekki hafi verið hægt að sérgreina birgðir frá Nordica Inc. frá birgðum annarra birgja.  Úttekt Auðbjargar Friðgeirsdóttur sýnir aðeins hverju hefði mátt gera ráð fyrir í viðskiptum félaganna, hefði Baugur hf. búið við sömu kjör gagnvart Nordica Inc. og gagnvart öðrum viðskiptavinum.  En í málinu hefur komið fram að viðskipti fél­ag­anna voru ekki sambærileg viðskiptum við önnur félög.  Hjá Baugi hf. og fyrirtækjum þess var frekar litið á ákærða, Jón Gerald, sem samstarfsmann en viðskiptafélaga. 

             Þegar virtur er framangreindur framburður ákærða, Jóns Geralds, sem fær stuðning í framburði Kristrúnar Sveinbjörnsdóttur, fundarstaður reikningsins hjá Nordica Inc. og sú staðreynd að engin samtímagögn hjá Baugi hf. styðja þá full­yrðingu ákærðu, Jóns Ásgeirs og Tryggva, að til hafi verið uppsafnaður vörulager frá Nordica Inc., er það niðurstaða dómsins að sannað sé, þrátt fyrir neitun ákærðu, Jóns Ásgeirs og Tryggva, að reikningurinn hafi verið rangur og tilhæfulaus og þeim hafi báðum verið það ljóst.  Brot ákærðu hafði þau áhrif á árshlutauppgjör Baugs hf. sem lýst er í ákæruliðnum og þar af leiðandi var tilkynning félagsins til Verðbréfaþings Íslands röng, en á því bar ákærði, Jón Ásgeir, ábyrgð sem framkvæmdastjóri fél­agsins.  Brot ákærða, Jóns Ásgeirs, varðar við 1., sbr. 3. mgr. 158. gr. almennra hegn­ing­arlaga sem tæmir sök ákærða og verður brot hans því ekki jafnframt talið varða við önnur þau lagaákvæði sem tilgreind eru í ákærunni.

             Brot ákærða, Tryggva, varðar við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. tl. 1. mgr. 37. gr. bókhaldslaga, eins og í ákæru greinir.

             Í II. kafla dómsins er upphafi málsins lýst og þar með hvernig það bar til að ákærði, Jón Gerald, sneri sér til ríkislögreglustjóra í ágúst 2002 og tekin var af honum skýrsla.  Við þessa skýrslutöku, og allar skýrslutökur hjá lögreglu eftir það, hafði ákærði stöðu vitnis, þótt einnig hafi verið gætt ákvæða 51. gr. laga um meðferð opin­berra mála.  Við aðalmeðferð málsins, sem dæmt var 15. mars 2006, var athygli hans í ein­staka tilvikum vakin á ákvæðum 51. gr.  Eftir að settur ríkissaksóknari tók við mál­inu var ákærði einu sinn yfirheyrður af lögreglu og hafði þá stöðu grunaðs manns.  Í fram­haldinu var hann svo ákærður.

             Í lögregluskýrslum sem teknar voru af ákærða sem vitni er í raun iðulega verið að yfirheyra hann um atferli meðákærðu og annarra sem lögreglan mat refsivert. Gætti hún ætíð viðeigandi ákvæða laganna um meðferð opinberra mála þegar þeir menn voru yfirheyrðir.  Öllum sem lesa framburðarskýrslur ákærða má þó ljóst vera að hann er þar að tjá sig um þátttöku sína í atferli þessu með þeim hætti að engum, allra síst lög­lærðum mönnum, getur dulist að þar er ekki vitni að tjá sig.  Í 2. mgr. 32. gr. lag­anna um meðferð opinberra mála segir að sá, sem yfirheyrður er við rannsókn máls, eigi rétt á því að fá vitneskju um það, þegar mál er orðið svo skýrt að þess er kostur, hvort hann er spurður vegna gruns á hendur honum um refsivert brot eða hvort hann er kvaddur vitnisburðar.  Það er mat dómsins að þegar við fyrstu lögregluyfirheyrslu, 25. ágúst 2002 og alltaf eftir það, hafi borið að láta ákærða njóta réttarstöðu sakaðs manns, enda er ákvæði 51. gr. undantekningarákvæði sem ber að skýra þröngt og fram­burður ákærða gaf ekkert tilefni til að leggja það í mat hans hvort skilyrði grein­arinnar ættu við.

             Ákvæði 69. og 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. og 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, hafa verið skýrð svo að þeim sem sakaður er um refsi­verða háttsemi sé óskylt að tjá sig eða láta í té upplýsingar sem leitt geta til sak­fell­ingar hans.  Í 3. mgr. 32. gr. laganna um meðferð opinberra mála segir að sakborningi sé óskylt á öllum stigum opinbers máls að svara spurningum sem varða refsiverða hegðun sem honum er gefin að sök og ber yfirheyranda að benda sakborningi ótvírætt á þennan rétt hans þegar efni standa til.   Ákærði var að vísu yfirheyrður af lög­regl­unni sem sakaður maður 22. febrúar 2006 og sérstaklega spurður um þau atriði sem hann er ákærður fyrir og svaraði hann á sama hátt og hann hafði gert fyrr í rannsókn málsins.  Þegar hins vegar er litið til umfangs fyrri lögreglurannsóknar, þar sem ákærði hafði stöðu vitnis, verður ekki hjá því komist að líta á þessa einu skýrslu sem mála­myndaskýrslu er ekki breyti þeirri staðreynd að hann hafði haft stöðu vitnis alla rann­sókn málsins þótt hann væri í raun að tjá sig um atriði er hefðu getað leitt til ákæru á hendur honum. Lögreglan hefði frá upphafi átt að yfirheyra ákærða sem sakaðan mann og breytir engu um það þótt lögmaður hans hafi verið viðstaddur þegar lokið var að taka fyrstu lögregluskýrsluna af ákærða og lesið hana yfir með honum.  Lögmaðurinn var einnig viðstaddur upphaf og lok næstu yfirheyrslu.  

             Með vísun til framangreinds er það niðurstaða dómsins að ákærði, Jón Gerald, hafi ekki notið þeirra réttinda sakbornings við lögreglurannsókn málsins sem nefnd laga­ákvæði áskilja.  Ákæra á hendur honum verður því ekki reist á lögreglu­rann­sókn­inni og verður ákærunni vísað frá dómi hvað ákærða varðar.  

             Ákæruliður 16. 

             Ákærðu, Jóni Ásgeiri og Tryggva, er í þessum ákærulið gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., átt þátt í að búin væru til gögn sem áttu sér ekki stoð í viðskiptum við aðra aðila og haga bókhaldi Baugs hf. með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna.  Þetta eiga þeir að hafa gert með því að láta færa til eignar í bókhaldi Baugs hf. og til tekna hjá Baugi hf. 46.679.000 krónur á grundvelli yfirlýsingar frá P/F SMS 30. júní 2001 með fyrirsögninni:  “Credit Invoice” og textanum:  “We confirm that Bónus Iceland share af Marketing support from Dagrofa July 1. 2000 – june 30. 2001 amounts to dkr. 3.900.000” en fjárhæðin hafi jafngilt framangreindri fjárhæð í íslenskum krónum, eins og nánar er rakið í ákærunni.

             Fyrirtækið P/F SMS er verslunarfyrirtæki í Færeyjum og á Baugur hf. helming í því.  Dagrofa er dönsk heildsala.  Forsvarsmenn Baugs hf. komust að því að SMS naut betri kjara við innkaup á kaffi frá Danmörku en Baugur hf. og reyndu þeir því að flytja kaffi inn til Íslands frá Danmörku í gegnum færeyska fyrirtækið.  Þetta gekk ekki þar eð færeyska fyrirtækinu var gert að hætta að hafa milligöngu um viðskiptin.  Hætti það því ekki myndi kaffiverðið til þess hækka til jafns við það sem var til Íslands.

             Ákærði, Jón Ásgeir, bar að þessi færsla hefði byggst á misskilningi.  Þarna hefði annaðhvort verið oftalinn markaðsstyrkur eða innkaupum blandað saman.  Að öðru leyti vísaði hann á meðákærða, Tryggva, sem hefði séð um þessi mál.  Þegar mis­tökin hafi uppgötvast hafi færslan verið lotuð út í lokafærslum.  Hann kvaðst ekki muna hvenær hann hafi séð yfirlýsinguna frá SMS og kannaðist ekki við að hún hafi farið um sínar hendur til endurskoðanda Baugs hf. og gat ekki skýrt af hverju upp­hafs­stafir hans væru prentaðir með færslunni.  Þá gat hann heldur ekki skýrt af hverju krafan var færð á biðreikning en ekki viðskiptamannareikning SMS.

             Ákærði, Tryggvi, bar að forsvarsmenn Baugs hf. hefðu komist að raun um að SMS gæti keypt vörur á mun hagstæðara verði en þeir.  Þar hafi einkum verið um kaffi að ræða og hefðu þeir talið að þetta gæti þýtt um 3,9 milljóna danskra króna lækkun á innkaupsverði.  Hann kveðst hafa talið að Baugur hf. ætti ógreidda inneign hjá SMS sem nam þessari fjárhæð, vegna þess að hann hafi ekki vitað að ekki hafði orðið af viðskiptunum.  Hann hafi því haft samband við feðgana Niels Heine og Hans Mortensen, framkvæmdastjóra SMS, og sagt þeim að sig vantaði fylgiskjal um þann markaðs­stuðning, sem um hafði verið rætt og samsvaraði þeirri verðlækkun sem hefði orðið ef kaffið hefði verið keypt í gegnum Færeyjar.  Ákærði kveðst ekki hafa vitað á þessum tíma að íslenskir heildsalar hefðu komið í veg fyrir að hægt væri að kaupa kaffi á þennan hátt í gegnum Færeyjar.  Þegar upp hafi verið staðið hafi þessi kredit­færsla ekki alveg átt rétt á sér.  Ákærði kvaðst hins vegar telja að þessi reikningur hefði í raun ekki skekkt árshlutauppgjör félagsins, vegna þess að ófærðir hafi verið afslættir, bæði í Færeyjum og á Íslandi.  Þetta hafi verið bakfært um haustið. 

             Niels Heine Mortensen, framkvæmdastjóri SMS, bar að ákærði Tryggvi hefði haft samband við sig varðandi útgáfu kreditnótu, en þar eð hann hafi verið staddur úti á sjó og heyrt illa í símanum hafi hann vísað honum á föður sinn, Hans Mortensen. 

             Hans Mortensen, framkvæmdastjóri SMS, bar að hann hefði útbúið framan­greinda yfirlýsingu að beiðni ákærða, Tryggva, sem hafi ákveðið texta hennar og fjár­hæð.  Hans kvað ákærða hafa sagt sér að yfirlýsinguna ætti að nota sem innan­húss­skjal, en ekki mundi hann hvort það var á fundi hjá Baugi hf. eða ekki.  Hins vegar hafi yfirlýsingin ekki verið færð í bókhaldi SMS.  Hans kvað hana ekki hafa tengst við­skiptum milli Baugs og SMS. 

             Endurskoðandi SMS í Færeyjum, Árni Ellefsen, staðfesti yfirlýsingu sína um að á árunum 2000 og 2001 hefðu ekki verið viðskipti á milli SMS og Baugs hf. og að umræddrar yfirlýsingar væri ekki getið í bókhaldi SMS.

             Eins og hér hefur verið rakið gaf Hans Mortensen út umrædda yfirlýsingu að beiðni ákærða, Tryggva.  Með játningu ákærða, Tryggva, sem fær stuðning í fram­burði nefnds Hans og Árna Ellefsen, er sannað að engin viðskipti lágu til grundvallar yfir­lýsingunni, en ákærði taldi hins vegar að þau hefðu átt sér stað og þess vegna ætti Baugur hf. rétt á afslætti vegna þeirra. Yfirlýsingin var færð í bókhaldi Baugs hf. með þeim hætti sem rétt er lýst í ákæru.  Yfirlýsing þessi átti sér ekki stoð í viðskiptum og hlaut ákærða, Tryggva, að vera það ljóst.  Tekjufærsla í bókhaldi á grundvelli þessarar yfirlýsingar var því óheimil.   Hefur ákærði, Tryggvi, því gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. tl. 1. mgr. 37. gr. bókhaldslaga nr. 145/1994.  Hins vegar er ósannað að færslan í bókhaldinu hafi verið færð með vilja og vitneskju ákærða, Jón Ásgeirs, og verður hann því sýknaður af þessum lið og þar með einnig af því að hafa látið Baug hf. senda Verðbréfaþingi Íslands ranga tilkynningu.

V

             Ákæruliður 17.

             Ákærðu, Jóni Ásgeiri og Tryggva, er í þessum ákærulið gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að ákærði, Tryggvi, hafi látið færa, með vilja og vitneskju ákærða, Jóns Ásgeirs, rangar og tilhæfulausar færslur um viðskipti og notkun fjármuna í bókhald Baugs hf. með því að færa sölu á eigin hlutabréfum í félaginu til Kaupþings hf., þegar bréfin voru í raun afhent Kaupthing Bank Luxembourg S.A. til varðveislu, inn á vörslureikning sem Baugur hf. stofnaði í þeim banka svo sem nánar er rakið í ákæru.  Eftir athugasemdir stjórnar Baugs hf. hafi verið gerðar ráðstafanir á árinu 2003 til þess að leiðrétta bókhald Baugs hf. hvað þennan vörslureikning snerti.

             Ákærði, Tryggvi, stofnaði 14. október 1998, fyrir hönd Baugs hf., vörslu­reikning nr. 400017 hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. (hér eftir nefnt Kaupthing Lux).  Í skýringum af hálfu bankans segir að þegar viðskiptavinur opni reikning hjá Kaupthing Lux og vilji koma verðbréfum í vörslu bankans sé almenna reglan sú að við­skiptavinurinn framselji (nafnbreyti) bréfin yfir á nafn Kaupthing Lux.  Bankinn komi því fram sem formlegur eigandi (nominee) bréfanna í hlutaskrá þeirra félaga sem fjárfest sé í.  Verðbréfin séu því bókuð inn á reikning viðskiptavinarins og sé hann raunverulegur eigandi (“beneficial owner”) þeirra og njóti þar af leiðandi allra réttinda og beri allar skyldur er tengjast verðbréfunum og hafi jafnan ráðstöfunarrétt yfir þeim, sem takmarkist þó af þeim skilmálum sem felist í opnun vörslureiknings.

             Baugur hf. keypti, 15. apríl 1999, 5% eignarhluta í sjálfu sér að nafnverði 50.000.000 króna af Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. á genginu 8,2691 fyrir 415.950.711 krónur.  Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. var annar tveggja um­sjón­araðila útboðs og skráningar verðbréfa Baugs hf. á Verðbréfaþing Íslands hf. í apríl 1999, en hinn aðilinn var Kaupþing hf.  Kaupverð eignarhlutanna, 413.455.006 krónur, var eignfært á biðreikning, lántökukostnaður, 2.495.705 krónur, var gjald­færður og lántaka vegna kaupanna, 415.950.711 krónur, færð til skuldar við Fjár­fest­ingar­banka atvinnulífsins.

             Með færslu 30. júní 1999 með skýringartextanum “Hlutabréf í Baugi seld Kaup­þingi” selur Baugur hf. 4% eignarhluta í sjálfu sér að nafnverði 40.000.000 króna á genginu 8,2691 til Kaupþings hf.  Söluverðið, 330.764.000 krónur, var eign­fært á viðskiptareikning Kaupþings í bókhaldi Baugs hf. og var mótfærslan til lækk­unar á eigin hlutabréfaeign, sem áður hafði verið færð til eignar í áðurnefndum bið­reikn­ingi.  Fylgiskjal að baki nefndri færslu var útprentun úr dagbók 7. júlí 1999, og hand­skrifað blað, ódagsett og óundirritað, þar sem segir, m.a., “Baugur kaupir 5% í Baugi og fær lán hjá FBA” og einnig “Selur Kaupþingi 4/5 hlut” Á fylgiskjalinu koma fram fyrirmæli um færslur.

             Samkvæmt upplýsingum frá Kaupthing Lux voru færðir 40.000.000 hluta inn á vörslureikning Baugs hf. nr. 400017 15. júní 1999 og sama dag eru færðir 20.000.000 hluta út af sama reikningi til þess að fullnægja kaupréttarákvæðum við æðstu stjórnendur Baugs hf. að hluta.

             Í bréfi ákærða, Tryggva, til hlutaskrár Baugs hf. 31. mars 1999, er tilkynnt um sölu Baugs hf. á hlutafé til Kaupthing Lux að nafnverði 40.000.000 króna.

             Útboðs- og skráningarlýsing hlutabréfa Baugs hf. á Verðbréfaþingi Íslands er dagsett 15. apríl 1999 og undirrituð meðal annars af ákærðu, Jóni Ásgeiri og Tryggva, og  Óskari Magnússyni, þáverandi stjórnarformanni Baugs hf.  Þar er því lýst yfir að útboðs- og skráningarlýsingin sé “eftir bestu vitund í fullu samræmi við staðreyndir og í hana vanti engin mikilvæg atriði sem áhrif geti haft á mat á félaginu eða hluta­bréfum þess”.  Í nefndri lýsingu er að finna lista yfir stærstu hluthafa Baugs hf. 31. mars 1999.  Þar kemur fram að Kaupthing Lux eigi 4% í Baugi hf.

             Linda Jóhannsdóttir, fjármálastjóri Baugs hf., hefur borið að hún hafi hand­ritað blaðið að baki færslunni á sölu hlutabréfa í Baugi hf. til Kaupþings hf. sem að framan er lýst.  Varðandi tilurð þessa fylgiskjals hefur Linda vísað til þess að ákærði, Tryggvi, hafi verið yfirmaður hennar.  Auk þess hefur hún borið fyrir lögreglu að færslan hefði verið færð á þennan hátt samkvæmt beiðni ákærða og hafi hann tekið ákvörðun um bókunina.  Þetta staðfesti Linda fyrir dómi.

             Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Kaupthing Lux, hefur staðfest að for­ráðamenn Baugs hf. hafi haft ráðstöfunarrétt á hlutabréfunum á vörslureikningi nr. 400017.  Þá hefur Magnús staðfest að í upphafi hafi tilgangur vörslureikningsins verið að halda utan um kaupréttarsamninga fyrir æðstu yfirmenn Baugs hf. og minntist hann þess að hafa séð gögn þar að lútandi á þeim tíma.

              Stefán Hilmarsson, endurskoðandi Baugs hf. á þessum tíma, hefur borið að hann hafi fyrst vitað um kaupréttarákvæði æðstu stjórnarmanna Baugs hf. og tilvist vörslu­reikningsins hjá Kaupthing Lux í október 2002, eða eftir að rannsókn lögreglu hófst.  Þá bar Stefán einnig  að hann hafi haldið frá upphafi að viðskiptastaðan á við­skipta­reikningi Kaupþings væri vegna sölu Baugs hf. á hlutum í sjálfu sér til Kaup­þings, enda hefðu öll tiltæk gögn bent til þess.  Hann hefur staðfest að eftir færslu á sölu á hlutunum til Kaupþings hafi ekkert legið fyrir í bókhaldi Baugs hf. sem benti til þess að félagið ætti eigið hlutafé á vörslureikningi í Luxemborg.

              Anna Þórðardóttir, sem byrjaði að vinna sem endurskoðandi að endurskoðun Baugs hf. um áramótin 1999 og 2000, hefur borið að hún hafi ekki fengið vitneskju um kaupréttarsamningana fyrr en um áramótin 2002 og 2003.  Þá staðfesti Anna að hún hafi ekki vitað um tilvist vörslureikningsins sem Baugur hf. átti hjá Kaupthing Lux fyrr en frá sama tíma.  Hún bar að þetta hafi horft þannig við sér að um hafi verið að ræða kröfu Baugs hf. á hendur Kaupþingi hf. vegna sölu á eigin hlutabréfum til þess og ekkert í bókhaldi Baugs hf. hafi bent til vörslureiknings hjá Kaupthing Lux.  Þá bar Anna að af hálfu endurskoðenda félagsins hefði verið sent svokallað stað­fest­ingarbréf til Kaupthing Lux þar sem beðið var um staðfestingu á kröfunni, en ekkert svar hefði borist.

             Ákærði, Tryggvi, kvaðst ekki vita hver ritaði blaðið, sem áður er lýst og lá til grund­vallar færslunni á sölu eigin bréfa Baugs hf. til Kaupþings hf.  Þá kvaðst hann ekki þekkja rithönd þess sem ritaði skjalið.  Enn fremur kvaðst hann ekki muna hver átti hugmyndina að því að færa færsluna sem sölu á hlutabréfum til Kaupþings hf.  Hann, það er ákærði, Tryggvi, ákærði, Jón Ásgeir, Óskar Magnússon, Kaup­þings­menn og fleiri sem að málinu komu hefðu talið að svona ætti að standa að færslunni enda væru eignir á vörslureikningi alltaf færðar sem sala.  Nánar rökstuddi ákærði, Tryggvi, færsluna sem sölu í bókum Baugs hf. þannig að þegar fært sé inn á vörslu­reikning þá flytjist nafnskráningin yfir á Kaupþing hf. og þess vegna sé þetta fært sem sala.

             Ákærði, Jón Ásgeir, bar að hafa ekki vitað nákvæmlega hvaða viðskipti fóru gegnum vörslureikninginn og hann hafi ekki komið að þessum reikningi eða ein­stökum færslum á honum.  Ákærði vísaði um færslurnar og framkvæmd þeirra á ákærða, Tryggva, og fjármálasvið Baugs hf.  Ákærði bar að sér hafi verið sagt að ekki þyrfti að færa hverja færslu vörslureikningsins í bókhald Baugs hf. heldur væri nóg að færa aðeins upphafs- og lokafærslu reikningsins.  Aðspurður um það hver hafi tekið ákvörðun um stofnun vörslureikningsins kvað ákærði að hann, það er ákærði, Jón Ásgeir, ákærði, Tryggvi, og Óskar Magnússon hafi gert það.  Ákærði skýrði þetta nánar þannig að vörslureikningnum hafi upphaflega verið ætlað að halda utan um kaup­réttarhluti og hafi eigin hlutum í Baugi hf., að nafnverði 40 milljónum króna, verið ráðstafað inn á vörslureikninginn og hafi það fé verið bundið til ráðstöfunar vegna kaupréttar æðstu starfsmanna félagsins.  Þessi kaupréttur hafi verið samkvæmt sam­starfssamningi félags í eigu Kaupþings hf., Kaupthing Lux, Fjárfestingarbanka atvinnu­lífsins og Gaums ehf., en þetta félag, Gír hf., hafi verið undanfari Baugs hf.

             Samkvæmt starfssamningum Gírs hf. við ákærðu, Jón Ásgeir og Tryggva, og Óskar Magnússon, stjórnarformann Baugs hf., frá 18. júní 1998, áttu þeir ákærði, Jón Ásgeir, og Óskar kauprétt að 1,5% hvor af væntanlegu hlutafé í Baugi hf., en ákærði, Tryggvi, kauprétt að 1%.  Samtals var því um að ræða kauprétt þessara þriggja að 4% í væntanlegu hlutafé Baugs hf., eða sem nam 40.000.000 króna að nafnverði.

             Af hálfu ákærða, Tryggva, er því haldið fram að á þeim tíma sem færslan á vörslu­reikninginn var gerð hafi það tíðkast að færa eignir sem færðar voru á vörslu­reikning sem seldar og byggðist þetta á því að við þessa færslu hafi nafnskráningin á bréfunum færst yfir á Kaupthing Lux.  Ekki hafa verið lögð  fram gögn til stuðnings þessari staðhæfingu.  Þá er ljóst að ákærðu ráðfærðu sig ekki við endurskoðendur Baugs hf. um þessa færslu eða réttmæti hennar svo sem tíðkanlegt er hjá for­svars­mönnum félaga þegar vafi leikur á tilteknum færslum í bókhaldi.  Ljóst er af ráðstöfun helmings þeirra hluta sem færðir voru á vörslureikninginn í júní 1999 að Baugur hf. taldi sig vera að uppfylla kaupréttarákvæði við æðstu starfsmenn félagsins, sem ekki hefði verið unnt nema félagið ætti viðkomandi hluti.  Þá hefur það komið skýrt fram af hálfu Kaupthing Lux að þrátt fyrir færslu hlutanna yfir á vörslureikninginn hafi Baugur hf. verið áfram raunverulegur eigandi þeirra eins og lýst er hér að framan.  Það er því niðurstaða dómsins að Baugur hf. hafi áfram átt þessa 40.000.000 hluta í félaginu, þrátt fyrir færsluna yfir á vörslureikning félagsins 30. júní 1999 og til­grein­ingu Kaupthing Lux sem eiganda þeirra að nafninu til.

             Með framburði ákærðu og vitna og öðru því sem rakið er hér að framan er sannað að færslur þær sem raktar eru í ákæru að fjárhæð 330.764.000 krónur voru rangar og til þess fallnar að gefa ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna.  Er sannað að ákærði, Tryggvi, hafi gefið fyrirmæli um þessar færslur sem honum var ljóst að voru rangar og hefur hann því gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 262. gr. al­mennra hegningarlaga, sbr. 3. tl. 1. mgr. 37. gr. bókhaldslaga nr. 145/1994.  Hins vegar er ósannað að færslurnar í bókhaldinu hafi verið færða með vilja og vitneskju ákærða, Jóns Ásgeirs, og verður hann því sýknaður af þessum lið.

VI

             Í V. kafla ákærunnar er ákærðu, Jóni Ásgeiri og Tryggva, í ákærulið 18 gefinn að sök fjárdráttur í tengslum við skemmtibátinn Thee Viking.  Í ákærulið 19 er ákærða, Tryggva einum, gefinn að sök fjárdráttur í tengslum við notkun greiðslukorts.

             Ákæruliður 18. 

             Ákærðu, Jóni Ásgeiri og Tryggva, er í þessum ákærulið gefinn að sök fjár­dráttur með því að hafa, á tímabilinu frá 20. janúar 2000 til 11. júní 2002, dregið Fjár­fest­ingarfélaginu Gaumi, einkahlutafélagi sem á þessum tíma var í eigu ákærða, Jóns Ásgeirs, föður hans, móður og systur, samtals 32.262.645 krónur, frá Baugi hf. til að fjár­magna eignarhlutdeild Gaums ehf. í skemmtibátnum Thee Viking og greiða kostnað vegna hans.  Brotin hafi verið framin með þeim hætti að ákærði, Tryggvi, hafi, með vitund og vilja ákærða, Jóns Ásgeirs, látið Baug hf. greiða 31 reikning, sem gerð er grein fyrir í ákærunni, og gefnir voru út af fyrirtækinu Nordica Inc.  Síðan segir í ákærunni:  “Skráður eigandi Thee Viking, samkvæmt kaupsamningi dagsettum 30. september 1999, var félagið New Viking Inc., skrásett í Delaware í Banda­ríkjun­um.  Eigendur Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. töldu félagið eiga eignar­hlut­deild í skemmti­bátnum.”

             Ákærðu hafa neitað þessu og halda því fram að greiðslurnar, sem þessi ákæru­liður fjallar um, hafi runnið til Nordica Inc. sem þóknun til Jóns Geralds Sullenberger fyrir störf er hann vann á vegum Baugs hf. í Bandaríkjunum við að afla og viðhalda við­skiptasamböndum, fara á vörusýningar og annað sem tengdist starfsemi félagsins.  Þessu hefur Jón Gerald hafnað og borið að greiðslurnar frá Baugi hf. hafi verið til að greiða afborganir af lánum og kostnað við að reka bátinn.  Hann hefur borið að enginn fótur sé fyrir skýringum ákærðu. 

             Í málinu hafa verið lögð fram gögn um eignarhald New Viking Inc. á bátnum, en engin gögn hafa verið lögð fram um að Gaumur ehf. hafi verið skráður eigandi bátsins eða talið hann til eignar í bókhaldi sínu.  Einkaeigandi New Viking Inc. var Jón Gerald.  Nú verður rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi varðandi eignar­haldið á bátnum.

             Ákærði, Jón Ásgeir, neitaði sök og bar að Jón Gerald hafi verið eigandi bátsins eða félag í hans eigu.  Greiðslur þær sem Baugur hf. greiddi Nordica Inc. samkvæmt reikn­ingunum í þessum ákærulið hafi verið vegna þjónustu er Nordica Inc. innti af hendi fyrir Baug hf. í Bandaríkjunum.  Hann kvaðst ekki geta borið um í hvað Jón Gerald hefði ráðstafað peningunum, hvort þeir hefðu runnið til reksturs bátsins eða í annað, en Baugur hf. hafi ekki greitt fé til Nordica Inc. vegna reksturs bátsins.  Ákærði bar að Gaumur ehf. hafi lánað Jóni Gerald fé til að kaupa bátinn og tvo báta þar áður og taldi Gaumur ehf. sig eiga kröfu á Jón Gerald vegna kaupanna.  Ekki hafi verið um það samið hvernig þetta yrði endurgreitt, en til tals hafi komið að því yrði breytt í eignarhlutdeild í New Viking Inc. sem var skráður eigandi bátsins.  Af því hafi þó ekki orðið.  Gaumur ehf. hafi hins vegar ekki kostað viðhald og útgjöld vegna bátanna, þótt eitthvað af láninu kunni að hafa runnið til þeirra þátta.  Upphaflega hafi þeir Jón Gerald leigt sér bát, enda hafi þetta verið sameiginlegt áhugamál þeirra, en síðar hafi verið keyptur bátur, sá fyrsti af þremur.  Bátar þessir hafi verið notaðir af þeim tveimur, föður ákærða og systur en einnig hafi verið farnar boðsferðir á honum með starfsmenn og viðskiptavini Baugs hf.  Jón Gerald hafi algerlega séð um bátinn, enda hans eign.  Hann einn hafi haft lyklavöld að honum og jafnvel meinað fólki á vegum ákærða afnot af honum.  Þegar samskiptum Jóns Geralds við Baug hf. og for­svars­menn þess lauk hafi Jón Gerald sett bátinn á sölu án nokkurs samráðs við sig eða aðra sér tengda.         

             Ákærði, Tryggvi, neitaði sök og bar að Jón Gerald hafi átt bátinn og engar greiðslur hafi runnið frá Baugi hf. til hans til að kosta rekstur bátsins.  Reikningarnir sem um ræðir í þessum ákærulið hafi verið greiddir Nordica Inc. vegna margvíslegrar þjónustu sem Jón Gerald hafi innt af hendi fyrir Baug hf. í Bandaríkjunum en tengdust á engan hátt rekstri bátsins.  Ákærði kannaðist hins vegar við að báturinn hafi verið notaður til skemmtiferða með viðskiptavini og starfsmenn Baugs hf.  Hann bar að Gaumur ehf. hafi lánað fé til bátakaupanna og meiningin hafi verið að félagið eða feðg­arnir, ákærði, Jón Ásgeir, og Jóhannes Jónsson, eignuðust hlut í bátnum en það hafi ekki gengið eftir. 

             Jón Gerald Sullenberger bar að hann og ákærði, Jón Ásgeir, hafi keypt saman fyrsta bátinn og hafi ætlunin verið að hvor um sig ætti helming í honum.  Jón Gerald hafi hins vegar verið einn skráður eigandi hans þar eð ekki hafi mátt vitnast að ákærði ætti hlut í skemmtibát.  Kostnaður við rekstur bátsins hafi verið greiddur af Jóni Gerald eða Nordica Inc. og svo hafi verið gerður reikningur á Bónus, er hafi verið sendur ákærða, Tryggva, sem lét greiða hann.  Jón Gerald kvaðst alfarið hafa hugsað um bátinn og alltaf verið með þegar hann var notaður, en auk hans og ákærða, Jóns Ásgeirs, hafi fjölskylda ákærða notað bátinn svo og starfsmenn og viðskiptavinir Baugs hf.  Þessi bátur var seldur og annar keyptur sem fjármagnaður var með sölu fyrsta bátsins auk þess sem Jóhannes Jónsson hafi komið með ávísun að fjárhæð 200.000 bandaríkjadali og lagt til kaupanna.  Jón Gerald kvaðst hafa litið svo á að ákærði, Jón Ásgeir, ætti bátinn á móti sér á sama hátt og fyrsta bátinn.  Báturinn hafi þó verið skráður á sig einan og hann hafi greitt kostnað vegna hans og gert reikninga fyrir honum á sama hátt og lýst var varðandi fyrsta bátinn.  Á árinu 1999 var svo þriðji báturinn keyptur og nefndist hann Thee Viking og bar Jón Gerald að þegar þau kaup voru rædd hafi hugmyndin verið að hann ætti þriðjungshlut og feðgarnir sinn þriðjung­inn hvor.  Ákveðið hafi verið að stofna félag um bátinn og reka hann með reglu­legum greiðslum frá Baugi hf. samkvæmt reikningum sem Jón Gerald átti að senda, en ákærði, Tryggvi, ákvað texta þeirra.  Eigandi bátsins var hins vegar skráður New Viking Inc., félag sem Jón Gerald átti einn.  Þetta átti að vera bráða­birgða­ráðstöfun því að til stóð að stofna fyrirtæki á Bahamaeyjum er myndi eignast bátinn.  Ekki var gert ráð fyrir að Jón Gerald ætti í því, heldur myndi hans hlutur í bátnum verða greiddur honum þegar það yfirtæki bátinn.  Um þessar ráðagerðir eru ekki til skrif­legir samningar og ekkert mun hafa orðið úr stofnun fyrirtækisins á Bahama­eyjum.  Sérstaklega aðspurður kvað Jón Gerald það aldrei hafa komið til tals að Gaumur ehf. eða önnur félög hér á landi ættu eða myndu eignast bátinn.  Hann hafi verið í eigu þeirra þriggja, hans, ákærða, Jóns Ásgeirs, og Jóhannesar Jónssonar.  Eftir að slitnaði upp úr viðskiptum og vinskap Jóns Geralds við forsvarsmenn Baugs hf. kvaðst hann hafa selt bátinn og borgað lánin og kostnað af sölunni.  Þá “var ósköp lítill afgangur eftir” bar hann og þegar hann var spurður hvort feðgarnir hafi fengið sinn hlut svaraði hann því til að enginn hlutur hafi verið eftir.  Skömmu síðar kom fram hjá honum að mikill kostnaður hafi fylgt málarekstri á hendur sér í Banda­ríkjunum, en í lausn þeirra mála hafi meðal annars falist að fallið var frá kröfum á hendur honum vegna bátsins.   

             Jóhannes Jónsson bar að Gaumur ehf. hafi lagt fram samtals 40 milljónir króna til kaupa á bátunum þremur.  Þessir fjármunir hafi verið afhentir Jóni Gerald og hafi ætlunin verið að síðar yrði Gaumur ehf. eigandi bátsins sem hverju sinni var skráður á Jón Gerald.  Ekki hafi verið gerður neinn áskilnaður um væntanlega eignarhlutdeild Gaums ehf. eða þeirra feðga, enda hafi menn treyst Jóni Gerald fullkomlega.  Það hafi hins vegar aldrei orðið að Gaumur ehf. eða þeir yrðu eigendur að hlut í bátnum.  Jóhannes mundi ekki eftir því að rætt hefði verið um hver eignarhlutur Jóns Geralds yrði í bátnum, enda kvaðst hann ekki hafa komið að þeim viðræðum.  Þá gat hann ekki upplýst hvernig rekstrarkostnaður bátsins hefði verið greiddur eða afborganir af lánum.  Hins vegar hafi Jón Gerald talað um að auðvelt væri að leigja svona stóran bát og hafa af honum tekjur.  Eftir að upp úr slitnaði með Jóni Gerald og forsvarsmönnum Baugs hf. hafi Gaumur ehf. höfðað mál á hendur Jóni Gerald en síðan gert við hann sátt sem meðal annars fól í sér að fallið var frá öllum kröfum á hendur honum vegna bátsins.  Eftir það kvaðst Jóhannes ekki hafa heyrt meira af bátnum. 

             Kristín Jóhannesdóttir, systir ákærða, Jóns Ásgeirs, hefur verið fram­kvæmda­stjóri Gaums ehf. frá haustinu 1999.  Þegar hún kom til starfa hjá félaginu var henni greint frá því að það hefði lagt fram fé til bátakaupa og reksturs þeirra.  Hún bar hins vegar að hún hefði ekkert komið nálægt þessum málum og kvaðst ekki þekkja til sam­skipta Jóns Geralds við föður sinn og bróður, en sá síðarnefndi hafi alfarið séð um þau mál.  Kristín bar að Gaumi ehf. hafi ekki tekist að breyta framlögum sínum til bátsins í eignarhlutdeild og á endanum hafi þessar kröfur tapast þegar gerð var sátt í mála­ferl­unum í Bandaríkjunum.

             Jóhanna Guðmundsdóttir, eiginkona Jóns Geralds Sullenberger, bar að ákærði, Jón Ásgeir, og Jón Gerald hafi keypt saman fyrsta bátinn, en Jón Gerald hafi einn verið skráður eigandi hans.  Ákærði hafi ekki viljað að það fréttist að hann ætti skemmti­bát.  Annan bátinn hafi þeir keypt ásamt Jóhannesi Jónssyni, en Jón Gerald hafi eftir sem áður verið einn skráður eigandi hans, þótt hann ætti bara helming á móti feðg­unum.  Eignarhlutföllin í þriðja bátnum, Thee Viking, hafi einnig verið þau sömu.  Jóhanna mundi eftir að fundað hefði verið um kröfur ákærða og Jóhannesar um að þeir eignuðust hlut í félaginu um bátinn.

             Kristrún Sveinbjörnsdóttir starfaði hjá Nordica Inc. á árunum 2000 til 2002.  Hún bar að Jón Gerald hafi einn verið skráður fyrir bátnum, en ákærðu, Jón Ásgeir og Tryggvi, hafi átt hann ásamt Jóhannesi Jónssyni.  Bar hún Jón Gerald fyrir þessu.  Hún kvaðst ekki þekkja til Gaums ehf., en vita til þess að áður en hún hóf störf hjá Nordica Inc. hafi Gaumur ehf. greitt Nordica Inc. vegna bátsins.

             Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir, sambýliskona ákærða, Jóns Ásgeirs, bar að í eitt sinn, er hún hafi verið á bátnum, hafi Jón Gerald beðið hana að yfirgefa hann vegna þess að hann þyrfti að nota hann.

             Jónína Benediktsdóttir, sem bjó með Jóhannesi Jónssyni á árunum 1999 til 2000, bar að sér hafi skilist að Jón Gerald og feðgarnir ættu Thee Viking saman. 

             Í gögnum málsins er allmikið af gögnum, svo sem tölvupóstum, útreikningum og fleiru, sem ákæruvaldið byggir á að sanni að greiðslur þær, sem þessi ákæruliður fjallar um, hafi runnið til þess að kosta rekstur Thee Viking.  Einnig eru þar gögn varð­andi rekstur dómsmáls í Bandaríkjunum.  Því máli lauk með samningi um lausn á ágrein­ingnum.  Aðilar þess samnings voru annars vegar Nordica Inc., New Viking Inc., Jón Gerald Sullenberger og Jóhanna Guðmundsdóttir, í samningnum nefndir bandarískir aðilar, og hins vegar Baugur Group hf., Gaumur ehf., Aðföng, Fjár­festingar­félagið Gaumur ehf., Jón Ásgeir Jóhannesson og Kristín Jóhannesdóttir, í samn­ingnum nefndir íslenskir aðilar.  Í samningnum segir orðrétt um Thee Viking:  “Gaumur lætur hér með niður falla allar kröfur sem hann hefur haft uppi eða kynni að hafa haft uppi í skipið “Thee Viking” og fellst á að hann eigi engan frekari rétt af neinu tagi til eignar, umráða, nota eða annars varðandi það skip.  Hinir Íslensku aðilar lýsa því yfir að þeir eigi engin réttindi til skipsins að því tagi sem nefnt var.  Íslensku að­ilarnir vísa einnig frá sér að þeir eigi nokkur réttindi varðandi félagið New Viking Inc., þar með talið til hlutafjár eða eigna eða krafna í eigu þess.  Íslensku aðilarnir skulu enga ábyrgð, kostnað eða útgjöld bera af skipinu, hvort sem slíkt er þegar til komið eða kemur til síðar.”  Að mati dómsins sýna þessi gögn fram á að Jóni Gerald hafi verið lánað fé til að kaupa bátana tvo sem keyptir voru á undan Thee Viking.  Það hafi hins vegar aldrei tekist að ganga frá málum á þann hátt sem ákærðu, Jón Ásgeir og Tryggvi, og Jóhannes Jónsson stefndu að, það er að eignarhald á bátnum yrði, að minnsta kosti að hluta til, skráð á þá eða félag í þeirra eigu.

             Í þessum lið ákærunnar er ákærðu gefið að sök að hafa dregið Fjár­fest­ing­ar­félaginu Gaumi ehf. framangreinda fjárhæð, og með þeim hætti sem lýst var, til að fjár­magna eignarhlutdeild félagsins í Thee Viking og greiða kostnað vegna hans.  Eins og fram kemur í ákærunni var félagið New Viking Inc. skráður eigandi bátsins, en einka­eigandi þess félags var Jón Gerald Sullenberger.  Hins vegar er ljóst að Gaumur ehf. lagði fram fjármuni til kaupa á bátum er keyptir voru á undan Thee Viking, en andvirði þeirra rann til kaupanna á honum.  Það er einnig ljóst af framburði ákærðu og vitna, sem rakinn var hér að framan, að ákærði, Jón Ásgeir, og faðir hans, Jóhannes Jónsson, töldu sig eiga kröfu um að eignast hlut í bátnum, en aldrei tókst að ganga frá þeim eignarhlut áður en Jón Gerald seldi bátinn án samráðs við þá feðga, að því er best verður séð.  Hins vegar nefndi enginn Gaum ehf., við yfirheyrslur í aðal­með­ferðinni, í sambandi við eignarhlut í bátnum, nema Jóhannes Jónsson, en af framburði hans má ráða að hann geri ekki greinarmun á Gaumi ehf. og fjölskyldu sinni, enda félagið í eigu hennar. 

             Fjármunir þeir, sem ákærðu eru ákærðir fyrir að hafa dregið Gaumi ehf. frá Baugi hf., runnu ekki til þess félags, heldur til Nordica Inc., en ákærðu eru þó ekki ákærðir fyrir að hafa dregið féð því félagi.  Samkvæmt 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 má ekki dæma ákærðan mann fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir og með því að ósannað er að ákærðu hafi dregið Gaumi ehf. fé, eins og þeir eru ákærðir fyrir, verða þeir sýknaðir af þessum lið ákærunnar.  Að fenginni þessari niðurstöðu er þarflaust að fjalla um skýringar ákærðu á greiðslum Baugs hf. til Nordica Inc. sem þessi ákæruliður fjallar um.

             Ákæruliður 19. 

             Í þessum ákærulið er ákærða, Tryggva, gefinn að sök fjárdráttur með því að hafa dregið sér samtals 1.315.507 krónur á tímabilinu frá 11. janúar 2000 til 12. febrúar 2002, þegar ákærði lét Baug hf. greiða félaginu Nordica Inc. í Bandaríkjunum reikninga í 13 skipti, sem gefnir voru út af Nordica Inc. á hendur Baugi hf., vegna persónulegra útgjalda ákærða sem voru Baugi hf. óviðkomandi.  Síðan segir að ákærði hafi einkum stofnað til útgjaldanna erlendis með úttektum á American Express greiðslukorti í reikning Nordica Inc., sem það hafi lagt út fyrir og innheimt síðan hjá Baugi hf. samkvæmt fyrirmælum ákærða.  Skýringartexti reikninganna hafi gefið til kynna að þeir hafi verið vegna ferða- og dvalarkostnaðar erlendis, en úttektirnar verið í raun vegna kaupa ákærða á varningi og þjónustu í eigin þágu.  Segir í ákærunni að þær hafi meðal annars verið vegna kaupa ákærða í tónlistarverslunum, tísku­vöru­versl­unum, golfvöruverslun, skemmtigarði, veitingastöðum og vegna kaupa á sláttu­dráttarvél. 

             Reikningarnir 13 hafa verið lagðir fram og eru þeir samtals að fjárhæð 14.354,10 bandaríkjadalir, eins og segir í ákærunni. Þá hafa verið lögð fram gögn þar sem fjárhæð hvers reiknings fyrir sig hefur verið sundurliðuð eftir notkun kortsins hvert tímabil fyrir sig.  Af þessum sundurliðunum má sjá að það hefur verið notað til að greiða í fríhöfnum, tískuvöruverslunum, tónlistarverslunum, skóverslun, raf­tækja­verslun, á veitingastöðum, í golfvöruverslun, garðvöruverslunum, aðgöngumiða, síma­kostnað, bækur og einnig hefur  árgjald kortsins verið greitt, auk annars sem ekki er auðvelt að átta sig á hvað er.  Sundurliðanirnar greina í einu tilfelli hærri fjárhæð en við­komandi reikningur er, þ.e. reikningur 7. september 2000 sem sagður er í ákæru vera 2.220 dalir en samkvæmt sundurliðuninni er hann 2.220,76 dalir.  Í 5 tilfellum greina sundurliðanirnar lægri fjárhæð en viðkomandi reikningur sem hér segir:  Reikningur 10. október 2000 er 638,31 dalur, en sundurliðunin er að fjárhæð 603,31 dalur, reikningur 11. janúar 2001 er 270 dalir en sundurliðunin tilgreinir 260,73 dali, reikningur 5. apríl 2001 er 3.813,23 dalir en sundurliðunin tilgreinir 3.800,13 dali, reikningur 4. september 2001 er 445,55 dalir en sundurliðunin tilgreinir 415,55 dali og reikningur 3. janúar 2002 er 458,81 dalur en sundurliðunin tilgreinir 390,52 dali.

             Í 116. gr. laga um meðferð opinberra mála kemur fram hvað greina skuli í ákæru, en samkvæmt c – lið er það hvert brotið er sem ákært er út af, hvar og hvenær það er talið framið, heiti þess að lögum og önnur skilgreining og loks heimfærsla þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla, ef því er að skipta.  Til að ákæra geti uppfyllt þessi skil­yrði laganna verður verknaðarlýsing hennar að vera þannig úr garði gerð að hvorki ákærði né dómari þurfi að vera í vafa um hvaða refsiverð háttsemi ákærða er gefin að sök.  Verður að vera hægt að ráða þetta af ákærunni einni saman og skiptir engu hvaða ályktanir megi draga af rannsóknargögnum eða hvað ákærða kann að vera ljóst vegna rannsóknar málsins.  Með ákærunni á þannig að leggja fullnægjandi grundvöll að málinu svo hægt sé að fella dóm á það samkvæmt því sem í ákærunni er tilgreint, enda verður ákærði ekki dæmdur fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir, sbr. 117. gr. laganna.

             Í þessum ákærulið gefur ákæruvaldið ákærða að sök fjárdrátt með því að láta Baug hf. greiða félaginu Nordica Inc. í Bandaríkjunum reikninga í 13 skipti, sem gefnir voru út af Nordica Inc. á hendur Baugi hf., vegna persónulegra útgjalda ákærða sem voru Baugi hf. óviðkomandi og segir hann hafa látið færa framangreinda reikninga í bókhaldi Baugs hf. eins og nánar er rakið í ákærunni.  Það kemur hins vegar fram í ákærunni að ákæruvaldið telur fjárdráttinn vera vegna notkunar ákærða á greiðslu­korti í allmörg skipti í eigin þágu án þess að lýsa notkun hans nánar en að segja hann hafa meðal annars notað það í viðskiptum á tilteknum stöðum, eins og rakið var.  Rannsóknargögn benda þó til þess að það hafi verið notað víðar.  Þá bera þau með sér að ekki er samræmi á milli reikninganna og sundurliðunar lögreglu á notkun kortsins, eins og rakið var.  Með því að ákæruvaldið ákærir ákærða fyrir fjár­drátt bar nauðsyn til þess að það lýsti notkun hans kortinu í ákærunni með þeim hætti að honum og dómnum væri fært að taka afstöðu til hvers atviks fyrir sig.  Nauðsynlegt var að hafa þennan hátt á þar eð varnir ákærða hlutu að byggjast á því að hann gæti tekið afstöðu til sérhverrar greiðslu með kortinu.  Þetta var ekki gert og er ákæran þess vegna, að þessu leyti, ekki í samræmi við það sem áskilið er í 116. gr. laga um meðferð opinberra mála.  Er óhjákvæmilegt að vísa þessum ákærulið frá dómi.

VII

             Ákæran var upphaflega í 19 liðum, en 1. lið hennar var vísað frá dómi eins og rakið var í II. kafla.  Með þessum dómi hefur 10 liðum til viðbótar verið vísað frá dómi, auk þess sem ákæru á hendur ákærða, Jóni Gerald, hefur verið vísað frá dómi.  Ákærði, Jón Ásgeir, hefur verið sakfelldur fyrir brot samkvæmt einum ákærulið og ákærði, Tryggvi, samkvæmt fjórum liðum. 

             Ákærði, Jón Ásgeir, er fundinn sekur um brot gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga og ákærði, Tryggvi, um brot gegn 2. mgr. 262. gr. sömu laga, sbr. 3. tl. 1. mgr. 37. gr. bókhaldslaga nr. 145/1994.  Sakavottorð ákærðu skipta ekki máli við ákvörðun refsingar.  Refsing ákærða, Jóns Ásgeirs, er hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði og refsing ákærða, Tryggva, fangelsi í 9 mánuði og hefur verið höfð hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar hans.  Skilyrði eru til að skilorðsbinda refsingarnar og skulu þær falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins fyrir þeim, haldi þeir almennt skilorð 57. gr. almennra hegn­ingar­laga.

             Við ákvörðun málsvarnarlauna er tekið mið af vinnuskýrslum verjenda og við­mið­unarreglum dómstólaráðs.  Þá er virðisaukaskattur innifalinn í máls­varn­ar­laununum. 

             Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Ásgeirs, Gests Jónssonar hrl. ákveðast 15.300.000 krónur og skal ákærði greiða 1/10 hluta þeirra en að 9/10 hlutum skulu þau greidd úr ríkissjóði.

             Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Tryggva, Jakobs R. Möller hrl. ákveðast 11.900.000 krónur og skal ákærði greiða 1/5 hluta þeirra en að 4/5 hlutum skulu þau greidd úr ríkissjóði.

             Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Geralds, Brynjars Níelssonar hrl. ákveðast 7.900.000 krónur og skulu þau greidd úr ríkissjóði.

             Sakarkostnaður samkvæmt yfirliti setts ríkissaksóknara nemur 55.802.221 krónu.  Samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 verða ákærðu, Jón Ásgeir og Tryggvi, dæmdir til að greiða hluta þess kostnaðar.  Þegar litið er til þess að aðeins er sak­fellt fyrir hluta ákæruatriða, lengdar aðalmeðferðar, sem var ekki að öllu leyti í sam­ræmi við umfang málsins og þess að lagt var í kostnað vegna vitna sem ekki verður séð að þörf hafi verið á að leiða, verður ákærðu gert að greiða óskipt 5.000.000 króna í sakarkostnað til ríkissjóðs.

             Af hálfu ákærða, Jón Ásgeirs, hefur verið krafist greiðslu kostnaðar vegna vinnu aðstoðarmanna verjanda hans.  Þá hefur verið krafist greiðslu kostnaðar vegna vinnu PriceWaterhouseCoopers, en það endurskoðunarfyrirtæki vann álitsgerðir um ákæru­liði 10 til 19.  Loks er krafist greiðslu 685.192 króna vegna útlagðs skrifstofu- og ritfangakostnaðar og fylgja reikningar til stuðnings þeirri kröfu.  Þegar litið er til um­fangs málsins verður ekki hjá því komist að ákvarða kostnað vegna að­stoð­ar­mann­anna 25.000.000 króna og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.  Þá verður fallist á að skrifstofu- og ritfangakostnaður ákærða teljist til sakarkostnaðar.  Hins vegar er ekki fallist á að vinna PriceWaterhouseCoopers hafi, nema að litlu leyti, verið óhjákvæmileg vegna rannsóknar og meðferðar málsins, sbr. 1. mgr. 164. gr. laga nr. 19/1991 og verður þessi kostnaður því ekki talinn til sakarkostnaðar.  Samkvæmt þessu ákveðst kostnaður ákærða, Jóns Ásgeirs, 25.685.192 krónur og skal ákærði greiða 1/10 hluta hans, en 9/10 skulu greiddir úr ríkissjóði.

             Dóminn kváðu upp Arngrímur Ísberg, héraðs­dómari, dómsformaður, Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, og Garðar Valdimarsson, hæstaréttarlögmaður og lög­giltur endurskoðandi.

             Dómsuppsaga hefur dregist fram yfir lögmæltan tíma vegna umfangs málsins.

 

Dómsorð

             Ákæruliðum 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9, 10 og 19 er vísað frá dómi.

             Ákæru á hendur ákærða, Jóni Gerald Sullenberger, er vísað frá dómi.

             Ákærði, Jón Ásgeir Jóhannesson, sæti fangelsi í 3 mánuði.

             Ákærði, Tryggvi Jónsson, sæti fangelsi í 9 mánuði.

             Fresta skal fullnustu refsinga ákærðu og falli þær niður að liðnum 2 árum frá birt­ingu dómsins fyrir þeim, haldi þeir almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

             Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Ásgeirs, Gests Jónssonar hrl., 15.300.000 krónur, skal ákærði greiða að 1/10 hluta, en að 9/10 hlutum skulu þau greidd úr ríkissjóði.

             Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Tryggva, Jakobs R. Möller hrl., 11.900.000 krónur, skal ákærði greiða að 1/5 hluta, en að 4/5 hlutum skulu þau greidd úr ríkissjóði.

             Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Geralds, Brynjars Níelssonar hrl., 7.900.000 krónur skulu greidd úr ríkissjóði.

             Ákærðu, Jóns Ásgeir og Tryggvi, greiði óskipt 5.000.000 króna í sakarkostnað til ríkissjóðs.

             Kostnaður ákærða, Jóns Ásgeirs, 25.685.192 krónur, skal að 1/10 hluta greiddur af ákærða, en að 9/10 hlutum skal hann greiddir úr ríkissjóði.