Print

Mál nr. 571/2006

Lykilorð
  • Þjóðlenda
  • Stjórnsýsla
  • Málsforræði
  • Kröfugerð

Miðvikudaginn 16

 

Miðvikudaginn 16. maí 2007.

Nr. 571/2006.

Íslenska ríkið

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

gegn

Rangárþingi ytra

(Guðjón Ægir Sigurjónsson hrl.)

 

Þjóðlenda. Stjórnsýsla. Málsforræði. Kröfugerð.

Aðilar deildu vegna úrskurðar óbyggðanefndar 10. desember 2004 í máli nr. 3/2003. Eftir að Í hafði lýst kröfu um þjóðlendu á því svæði sem málið tók til lýsti R kröfum sínum fyrir nefndinni og tóku þær meðal annars til Rangárvallaafréttar. Kröfugerð Í tók jafnframt til afréttarins, en þó ekki að lýstum merkjum þeirra jarða, sem næst honum liggja. Í úrskurði nefndarinnar var engu að síður komist að þeirri niðurstöðu að mörk þjóðlendu skyldu ekki miðast við kröfulínu Í, heldur skyldi hún ná lengra til vesturs eða allt að merkjum nánar tilgreindra jarða. R krafðist þess að úrskurðurinn yrði að þessu leyti felldur úr gildi og viðurkenningar á að mörk þjóðlendu á afréttinum væru með þeim hætti sem Í hafði krafist fyrir nefndinni. Talið var að skilyrði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 58/1998 fyrir aðild R að málinu væru fyrir hendi og að engu breytti þó hann gerði ekki beina kröfu sér til handa. Gæti þá ekki reynt á að tekin yrði afstaða til þess hvernig eignarréttindum á landsvæðinu væri háttað. Ekki var talið að ákvæði laga nr. 58/1998 takmörkuðu forræði málsaðila fyrir óbyggðanefnd á hagsmunum sínum eða að 5. mgr. 10. gr. laganna veitti nefndinni heimild til að fara út fyrir kröfur aðila, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 367/2005. Þar sem Í hafði ekki gert kröfu til hins umdeilda landsvæðis fyrir óbyggðanefnd og með vísan til ofangreinds var fallist á kröfur R.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. nóvember 2006. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

I.

Ágreiningur málsaðila er til kominn vegna úrskurðar óbyggðanefndar 10. desember 2004 í máli nr. 3/2003, sem samkvæmt heiti sínu varðar fyrrum Rangárvallahrepp, nú í Rangárþingi ytra. Eftir að fjármálaráðherra hafði fyrir hönd áfrýjanda lýst kröfu um þjóðlendu á því svæði, sem málið tók til í samræmi við ákvæði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, lýsti Rangárvallahreppur kröfum sínum fyrir nefndinni, sbr. 2. mgr. 10. gr. sömu laga. Var kröfum lýst vegna tveggja jarða, Rauðnefsstaða og Þorleifsstaða, og að auki vegna Rangárvallaafréttar. Eigandi afréttarins var í kröfugerðinni sagður vera „Rangárvallahreppur ... og jarðir í Rangárvallahreppi.“ Þar sagði jafnframt að einungis væri lýst kröfu vegna jarða, þar sem kröfulína áfrýjanda færi inn á eignarland þeirra, en einnig vegna afréttarlands hreppsins og jarðanna, sem væru allar jarðir í Rangárvallahreppi. Er fram komið að stefndi sé meðal jarðeigenda í sveitarfélaginu. Um aðild hreppsins að málinu sýnist hafa verið byggt á 2. mgr. 11. gr. laga nr. 58/1998. Sátt var síðan gerð fyrir óbyggðanefnd varðandi mörk þjóðlendu og eignarlanda áðurnefndra tveggja jarða.

Svo sem rakið er í héraðsdómi tók kröfugerð áfrýjanda um þjóðlendu fyrir óbyggðanefnd til Rangárvallaafréttar, en þó ekki að lýstum merkjum þeirra jarða, sem næst honum liggja. Þar er jafnframt greint frá umfjöllun fyrir óbyggðanefnd um kröfulínuna, sem áfrýjandi stóð fast við. Í úrskurði nefndarinnar var engu að síður komist að þeirri niðurstöðu að mörk þjóðlendu skyldu ekki miðast við kröfulínu áfrýjanda, heldur skyldi þjóðlenda ná lengra til vesturs eða allt að merkjum þeirra jarða, sem tilgreindar eru í héraðsdómi.

II.

Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi borið fyrir sig að vegna ákvæða 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála geti stefndi ekki staðið einn að máli þessu og því kunni að eiga að vísa því frá héraðsdómi án kröfu. Varðandi þetta er til þess að líta að krafa stefnda felur í sér að fá fellda úr gildi þá niðurstöðu óbyggðanefndar að landsvæðið milli kröfulínu áfrýjanda og eignarlanda jarða í vestri skuli teljast þjóðlenda. Er ekki um það að ræða að krafa stefnda lúti að hagsmunum einhvers, sem ekki eigi aðild að málinu, sbr. síðari málslið 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Stendur lagagreinin ekki í vegi fyrir málsókn stefnda á sitt eindæmi. Krafa Rangárvallahrepps fyrir óbyggðanefnd tók ekki aðeins til þess svæðis, sem áfrýjandi gerði kröfu til, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998, heldur einnig þess svæðis vestan við það, sem ágreiningur málsaðila stendur um. Skilyrði eru því fyrir hendi samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga til að stefndi geti átt aðild að þessu máli, og breytir þá engu þótt hann geri ekki beina kröfu sér til handa, heldur aðeins að sú niðurstaða að svæðið sé þjóðlenda verði felld úr gildi. Getur þá ekki reynt á að nokkur afstaða verði tekin til þess hvernig fari um eignarréttindi á því landsvæði, sem um ræðir í málinu.

Að því virtu, sem að framan greinir, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms og dóms Hæstaréttar 6. september 2005 í máli nr. 367/2005 verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað stefnda fer samkvæmt því, sem nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, Rangárþings ytra, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 3. ágúst 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 8. júní s.l., er höfðað með stefnu birtri 14. september s.l.

Stefnandi er Rangárþing ytra, kt. 520602-3050, Laufskálum 2, Hellu.

Stefndi er íslenska ríkið og fyrir hönd þess er fjármálaráðherra stefnt.

Af hálfu stefnanda eru eftirfarandi kröfur gerðar:

a)       Að úrskurður óbyggðanefndar frá 10. desember 2004 í máli nr. 3/2003 um mörk þjóðlendu og Rangárvallaafréttar verði felldur úr gildi að því leyti er úrskurðurinn tekur til lands sem liggur á milli austur eða norðausturmarka Næfurholts, Selsunds, Kots, Keldna, Árbæjar, Foss og Rauðnefsstaða og kröfulínu fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins fyrir óbyggðanefnd. 

b)      Að viðurkennt verði að mörk þjóðlendu á Rangárvallaafrétti verði afmörkuð með sama hætti og krafist var af hálfu stefnda fyrir óbyggðanefnd í málinu nr. 3/2003 að teknu tilliti til leiðréttingar stefnda á kröfulínu sinni, þ.e. nánar tiltekið úr punkti A (Hæringsfell), úr Hæringsfelli (punktur A) liggur línan í hæsta punkt á Efridalabrún og þaðan í Vondugil í Stóra-Valagili næsti punktur B er í Vondugil í Stóru-Valagili, næsti C austast á Hafrafelli 555 m, næsti punktur D er hæst á Geldingafjöllum og punktur E er í Rauðöldum í 507 m hæð, þá er punktur F, sem er efst í Ófærugili, svo liggur kröfulínan niður gilið og í Ytri Rangá og þar er punktur G, eins og nánar er sýnt á uppdrætti á dskj. nr. 3.

Þess er jafnframt krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og honum verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu.

Málavextir.

 Málavöxtum er þannig lýst í stefnu að með bréfi dagsettu 12. október 2000 hafi óbyggðanefnd tilkynnt fjármálaráðherra þá ákvörðun sína að taka til meðferðar landsvæðið vestan sveitarfélagsins Hornafjarðar og austan Þjórsár í samræmi við 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998. Svæðið var nánar tiltekið afmarkað til austurs af vesturmörkum jarðarinnar Núpsstaðar í Fljótshverfi (Skaftárhreppi), að sunnan af hafi, til norðurs í samræmi við tillögur starfshóps um stjórnsýslumörk á miðhálendinu frá 1996 og á Vatnajökli af línu þeirri sem samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands hefur notað við vinnu sína.  Fjármálaráðherra hafi verið veittur frestur til 1. apríl 2001 til að lýsa kröfum um þjóðlendur á þessu svæði, sbr. 1. mgr. 10. gr. þjóðlendulaga, væri um slíkar kröfur að ræða.  Fyrirsvarsmönnum sveitarfélaga á svæðinu auk Bændasamtaka Íslands hafi verið tilkynnt um ákvörðun óbyggðanefndar.  Frestur fjármálaráðherra hafi síðan verið framlengdur til 27. apríl 2001.

Kröfulýsingar fjármálaráðherra hafi borist óbyggðanefnd 27. apríl 2001.  Hafi óbyggðanefnd birt tilkynningu um meðferð á framangreindu svæði og útdrátt úr kröfum ríkisins, ásamt uppdrætti í Lögbirtingarblaðinu 1. júní 2001, Morgunblaðinu 3. júní og fleiri blöðum síðar í sama mánuði.  Skorað hafi verið á þá sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem félli innan kröfusvæðis ríkisins að lýsa kröfum fyrir óbyggðanefnd fyrir 1. desember 2001.  Nokkrir frestir hafi verið veittir til skila á kröfulýsingum og síðustu viðbætur og  lagfæringar á kröfulýsingum hafi borist óbyggðanefnd 11. september 2002.

Í janúar 2003 hafi lögmönnum aðila verið tilkynnt að óbyggðanefnd hefði ákveðið að fjalla um svæðið í 9 málum og hafi hreppamörkum þar verið fylgt í meginatriðum.  Það mál er varðaði það landsvæði sem um ræðir í máli þessu sé mál nr. 3/2003, fyrrum Rangárhreppur, nú í Rangárþingi ytra.  Það svæði sem verið hafi til meðferðar í málinu afmarkist til vesturs af Ytri-Rangá, sem jafnframt hafi verið  hreppamörk fyrrum Rangárvallahrepps annars vegar og fyrrum Holta- og Landsveitar og Djúpárhrepps, sem nú sé einnig í Rangárþingi ytra, hins vegar.  Til norðurs afmarkist svæðið af fyrrum hreppamörkum Rangárvallahrepps og Holta- og Landsveitar og að litlum hluta af mörkum fyrrum Rangárvallhrepps og fyrrum Skaftártunguhrepps, sem séu jafnframt mörk Rangárvallasýslu gagnvart Vestur-Skaftafellssýslu.  Til austurs afmarkist svæðið af umræddum sýslumörkum, sem jafnframt hafi verið mörk fyrrum Rangárvallahrepps og fyrrum Álftavershrepps.  Til suðurs hafi svæðið verið afmarkað af sveitarfélagsmörkum Rangárþings ytra og Rangárþings eystra, sem áður hafi verið mörk fyrrum Rangárvallahrepps gagnvart fyrrum Hvol-, Fljótshlíðar- og Vestur-Landeyjarhreppum.  Þá hafi verið til meðferðar landsvæði á Mýrdalsjökli, til suðvesturs inn á jökulinn í stefnu á upptök Fúlalækjar við suðvestanverðan jökulinn, þar til kemur að skurðpunkti við línu sem dregin sé úr Entu (1374m) í norðvestanverðum Mýrdalsjökli, í Huldufjöll (730m) í suðvestanverðum jöklinum.  Úr framangreindum skurðpunkti hafi síðan verið dregin lína í upptök Bláfjallakvíslar, við norðurjaðar Mýrdalsjökuls.

Á framangreindu svæði hafi fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins lýst kröfum um þjóðlendu innan tilgreindra marka.  Jafnframt hafi komið fram kröfur tiltekinna aðila um að sama landsvæði teldist eignarland þeirra.  Við aðalmeðferð málsins hafi tekist sættir með aðilum um vesturmörk Rauðnefsstaða.  Hafi kröfulína íslenska ríkisins ekki snert land innan landamerkja jarðarinnar.  Þá heldur stefnandi því fram að málsaðilar hafi verið sammála fyrir óbyggðanefnd um að það landsvæði, sem mál þetta taki til, væri eignarland og hafi ríkið ekki gert kröfur til þessa svæðis.

Málið hafi fyrst verið tekið fyrir af óbyggðanefnd 15. apríl 2003. Málið hafi verið tekið til úrskurðar að lokinni vettvangsferð, skýrslutökum og munnlegum málflutningi.  Fyrri hluti aðalmeðferðar hafi farið fram dagana 16. – 18. september 2003 en síðari hluti aðalmeðferðar hafi farið fram 2. október 2003. Úrskurður óbyggðanefndar nr. 3/2003 hafi verið kveðinn upp 10. desember 2004 og hafi niðurstaðan verið sú að Rangárvallaafréttur og sá hluti Mýrdalsjökuls sem var til meðferðar í málinu teldist þjóðlenda í skilningi 1. gr. sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.  Útdráttur úr úrskurðinum hafi verið birtur í Lögbirtingablaðinu 15. mars 2005.  Stefnandi segist ekki geta unað við úrskurð nefndarinnar sökum þess að nefndin hafi gengið lengra en kröfulýsing ríkisins hafi náð.

Stefndi gerir þær athugasemdir við málavaxtalýsingu stefnanda að málsaðilar hafi ekki verið sammála um að hið umdeilda land væri eignarland.  Þvert á móti hafi stefndi haldið því fram að allur Rangárvallaafréttur væri þjóðlenda en hins vegar hafi ekki verið talin ástæða til að færa kröfulínu til samræmis við landamörk aðliggjandi jarða, þar sem ekki hafi verið annað vitað en að málsforræðisreglan gilti ekki fyrir óbyggðanefnd.  Væri því á valdi nefndarinnar að ákveða þjóðlendumörk út fyrir kröfulínu stefnda ef ástæða væri til. 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Ágreiningsefni máls þessa segir stefnandi fyrst og fremst lúta að því að hvort óbyggðanefnd hafi haft heimild til að virða að vettugi kröfulýsingu ríkisins fyrir nefndinni og sammæli landeigenda og ríkisins um að það landsvæði, sem hér um ræðir, væri eignarland.  Stefnandi byggir á því að lög nr. 58/1998 veiti nefndinni ekki heimild til að ganga lengra en kröfulýsing ríkisins nái eða upphefja sammæli málsaðila um afmörkun þjóðlendu gagnvart eignarlandi.

Stefnandi hafi fyrir óbyggðanefnd upphaflega gert eftirfarandi kröfu um mörk afréttarins:   „Úr Hæringsfelli í hæsta tind Tindfjallajökuls (Ými).  Úr Ými í Hvítmögu við Faxatagl.  Hvítmaga í Markarfljót, úr því ræður fljótið þar til Emstrukvísl (Bratthálskvísl) fellur í það og ræður hún að Bláfjallakvísl, sem ræður austur fyrir norðan Bláfjöll í Sléttjökul.  Úr upptökum Jökulsárs á Sólheimasandi (Fúlalalækjar) í hæst Mælifell, þaðan lína í hæstan Meyjarstrút og þaðan eftir línu í Strútslaug (Hólmsárbotna).  Úr Strútslaug í há-Torfajökul, þaðan í upptök syðri kvíslar Markarfljóts, þá í Krakatind og þaðan efst í Ófærugil.  Síðan ráða að sunnanverðu landamerki aðliggjandi jarða, Næfurholts, Selsunds, Kots, Keldna, Árbæjar og Rauðnefsstaða.”

Krafa stefnda fyrir óbyggðanefnd hafi upphaflega verið sú að eftirfarandi lína yrði viðurkennd sem þjóðlendumörk á Rangárvöllum:  „Fyrsti punktur í kröfulínu fjármálaráðherra í Rangárvallahreppi er sá sami og síðasti punktur í kröfulínunni í Fljótshlíðarhrepi og er hér nefndur A (Hæringsfell), næsti punktur B er við upptök Valagils, næsti C austast á Hafrafelli 555 m, næsti punktur D er hæst á Geldingafjöllum og punktur E er í Rauðöldum í 507 m hæð, þá er punktur F, sem er efst í Ófærugili, svo liggur kröfulínan niður gilið og í Ytri Rangá og þar er punktur G.” 

Við aðalmeðferð málsins hafi verið gert samkomulag af hálfu íslenska ríkisins við eigendur jarðarinnar Rauðnefsstaða og kröfulínu íslenska ríkisins breytt þannig að úr Hæringsfelli (punktur A) liggi línan í hæsta punkt á Efridalabrún og þaðan í Vondugil í Stóra-Valagili.

Stefnandi byggir á því að undir rekstri málsins fyrir óbyggðanefnd hafi komið í ljós að kröfugerð íslenska ríkisins hafi ekki tekið til landræmu vestast á Rangárvallaafrétti eins og hún hafi verið afmörkuð af stefnendum.  Nánar tiltekið sé hið umdeilda svæði landsvæði sem liggi milli austur- eða norðausturmarka Næfurholts, Selsunds, Kots, Keldna, Árbæjar, Foss og Rauðnefsstaða annars vegar og kröfulínu stefnda hins vegar.    Miðað við kröfulýsingu stefnda hafi töluvert landsvæði verið milli efri marka aðliggjandi jarða Næfurholts, Selsunds, Kots, Keldna, Árbæjar og Rauðnefsstaða, og afréttar en ekki hafi verið ágreiningur milli aðila um að þetta svæði væri undirorpið einkaeignarrétti sveitarfélagsins og jarða í sveitarfélaginu.  Hafi því verið litið á þetta sem ágreiningslaust svæði undir rekstri málsins og varnir stefnanda fyrir óbyggðanefnd því tekið mið af þessari kröfugerð stefnda. Óbyggðanefnd hafi hins vegar vísað til sjálfstæðrar rannsóknarskyldu sinnar og afmarkað afréttarlandið við suðurmörk greindra jarða og skilgreint sem þjóðlendu og afrétt.  Hafi nefndin talið að umrætt landsvæði, sem hafi verið fyrir utan kröfulínu ríkisins, hefði ekki aðra eignarréttarlega stöðu en afréttarlandið, og að engin efnisleg rök væru fyrir öðru.  Skipti hér ekki máli þótt upplýsingar lægju fyrir um landnám á þessu svæði sem og afréttinum að öðru leyti eða að byggð hefði verið þar fyrr á tímum. 

Eins og fram komi í úrskurði óbyggðanefndar á bls. 9 hafi stefndi kosið að samræma kröfugerð sína ekki kröfugerð stefnanda að þessu leyti.  Byggir stefnandi á því að í þeirri ákvörðun sem og kröfulýsingu stefnda felist ákvörðun um að gera ekki kröfu til umrædds landsvæðis.  Af þeim sökum hafi nefndinni ekki verið heimilt að ákveða að svæðið teldist til þjóðlendu, án kröfu stefnda.  Þvert á móti hafi nefndinni borið að fallast á þá kröfu stefnanda að landið væri einkaeignarrétti háð, eins og stefndi hefði samþykkt með kröfugerð sinni.

Stefnandi telur hlutverk óbyggðanefndar vera að ákvarða hvar eignarlöndum sleppir og draga þar svokallaða þjóðlendulínu.  Í því ljósi byggir stefnandi á því að nefndin hafi ekki heimild til þess að ákveða að þjóðlendur séu stærri en kröfugerð fjármálaráðherra geri ráð fyrir, enda liggi þá ekki rökstudd krafa fyrir um það heldur rökstudd krafa um að þjóðlendumörk eigi að vera lengra inn til landsins.  Stefnandi vísar til niðurstöðu norsku Háfjallanefndarinnar í úrskurði sínum frá 20. mars 1933 (nr. 38 á bls. 45) en í honum sé tekið fram að nefndin gæti ekki ákveðið ríkisalmenning á svæði í rýmra mæli en ríkið hefði gert kröfu um.  Til frekari stuðnings þessu vísar stefnandi til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, sem feli í sér að stjórnvald skuli ekki ganga lengra í ákvarðanatöku en nauðsyn beri til.

Eins og fram komi í úrskurði nefndarinnar sé vísað til sjálfstæðrar rannsóknarskyldu hennar, sem kveðið sé á um í 5. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998, en þar segi orðrétt m.a. svo:

 „Nefndin skal, þrátt fyrir ákvæði 1.–4. mgr. hafa frumkvæði að því að afla heimilda og gagna um eignar- og afnotaréttindi yfir því landsvæði sem til meðferðar er og framkvæma rannsóknir og athuganir um staðreyndir og lagaatriði sem þýðingu hafa fyrir niðurstöðu í einstökum málum.”

Stefnandi byggir á því að nefndin hafi ekki talið það hafa þýðingu í þessu sambandi að kröfugerð stefnda tæki ekki til þessa landsvæðis, enda hefðu engin efnisleg rök verið færð fram fyrir þeirri tilhögun.  Stefnandi byggir á því að þessi niðurstaða óbyggðanefndar sé röng og ekki í samræmi við lög.  Vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar frá 6. september 2005 í málinu nr. 367/2005, íslenska ríkið gegn íslenska ríkinu, til frekari rökstuðnings þeirri málsástæðu sinni.  Í forsendum dómsins sé fjallað um skyldur óbyggðanefndar skv. framangreindu lagaákvæði og komist að þeirri niðurstöðu að skyldan felist í að afla heimilda og gagna um eignarréttindi og afnotaréttindi og framkvæma rannsóknir og athuganir á staðreyndum og lagaatriðum, sem þýðingu hafi fyrir niðurstöðu í einstökum málum, en færi nefndinni ekki vald til að virða að vettugi sammæli ríkisins og eiganda lands um mörk þess við þjóðlendu eða horfa fram hjá yfirlýsingu eigandans um að hann falli frá tilkalli sínu.  Bent er á að það sé ekki í verkahring óbyggðanefndar að gæta að því hvort ráðstafanir fjármálaráðherra, sem hann geri að viðlagðri embættisábyrgð, fái samrýmst síðari málslið 40. gr. stjórnarskrárinnar.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að með meðvitaðri ákvörðun af hálfu stefnda að lýsa kröfum sínum með þeim hætti sem að framan er lýst og með því að breyta ekki kröfulínu sinni þannig að hún lægi að kröfulínu stefnanda hafi verið fallist á af hálfu stefnda að stefnandi eigi óskoraðan eignarrétt að landsvæðinu, eins og krafa var gerð um fyrir óbyggðanefnd. Óbyggðanefnd hafi í úrskurði sínum ekki verið heimilt að fara út fyrir kröfugerð aðila og úrskurða landsvæðið þjóðlendu án þess að til þess væri gerð sérstök krafa.  Af þeim sökum beri að fallast á kröfur stefnanda um ógildingu úrskurðarins að því er umrætt landsvæði varðar.

Stefnandi byggir á því að ekki sé ástæða til ítarlegrar reifunar á sjónarmiðum  um eignarrétt að umræddu landsvæði, þar sem stefnandi og stefndi séu sammála um að hér sé um eignarland þeirra að ræða og að málið snúist eingöngu um það hvernig óbyggðanefnd ákvað að afmarka mörk þjóðlendu í beinni andstöðu við vilja aðila málsins.  Að öðru leyti vísar stefnandi til þess sem fram kemur í kröfulýsingu stefnanda sem og greinargerð hans til óbyggðanefndar og gerir þær málsástæður og lagarök, sem þar eru greind, hluta af stefnunni.  

Stefnandi vísar um lagarök til ákvæða laga nr. 58/1998 um þjóðlendur, sérstaklega til ákvæðis 5. mgr. 10. gr. laganna.  Þá er vísað til meginreglna einkamálaréttarfars um forræði aðila á sakarefni í einkamáli og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.  Þá er vísað til ákvæða stjórnarskrár um vernd eignarréttarins skv. 72. gr. og almennra reglna eignarréttar um eignarhald á landi.  Um málskostnaðarkröfu vísast til  XXI. kafla einkamálalaga nr. 91/1991.   

Málsástæður og lagarök stefnda. 

Stefndi vísar til heimilda um landnám og heldur því fram að afmörkun óbyggðanefndar á mörkum eignarlanda og þjóðlendu í Rangárþingi Ytra fylgi landnámsmörkum.  Sé um afréttarland að ræða sem að meginstefnu til sé utan eignarlanda.  Á tíma Grágásar og Jónsbókar hafi enginn vafi leikið um á um hvað geldfjár- og lambaafréttur merkti.  Það hafi verið sumarbeitilönd tilheyrandi ákveðnum jörðum eða kirkjum og hafi verið undirorpin óbeinum eignarrétti.  Þegar Rangárvallaafréttar sé getið í fyrirliggjandi heimildum sé það í öllum tilvikum tengt upprekstri og afréttarnotum, sbr. t.d. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1709, sættargerð frá 1811, sýslu- og sóknarlýsingum frá 19. öld, fjallskilareglugerðum frá 1894 og síðar.  Hafi búfjáreigendur í fyrrum Rangárvallahreppi þannig haft hefðbundin afréttarnot af afréttinum undir umsjón hreppsins á sama hátt og gildi um samnotaafrétti almennt og séu engar heimildir um hvernig þeir séu að þessum rétti komnir.  Virðist sem þetta hafi gerst á sama hátt og Hæstiréttur lýsi í fyrra Landmannaafréttardómi sínum, að íbúar á Rangárvöllum hafi tekið þetta landsvæði til sumarbeitar fyrir búpening og ef til vill til annarrar takmarkaðrar notkunar.

Stefndi byggir á því að fyrir utan skort á heimildum um nám liggi ekkert landamerkjabréf fyrir, engin þinglýst eignarheimild, afréttarskákin sé ekki í fasteignabók, hafi ekki fasteignamat og ekki liggi fyrir upplýsingar um að greidd hafi verið fasteignagjöld af landinu.  Telur stefndi allt þetta benda til þess að um þjóðlendu sé að ræða.  Eina heildstæða lýsingin á merkjum Rangárvallaafréttar sé lýsing sveitarstjóra Rangárvallahrepps frá 1979.  Hvað vesturmörk afréttar varðar sé miðað við landamerkjalýsingar aðliggjandi jarða sem gerðar hafi verið í lok 19. aldar.  Þær hafi allar verið samþykktar, a.m.k. vegna hluta aðliggjandi jarða og sumar af fyrirsvarsmönnum hreppsins vegna afréttarins.  Þessum landamerkjalýsingum hafi jafnframt verið þinglýst og þær færðar í landamerkjabók án þess að séð verði að nokkrar athugasemdir eða mótmæli hafi komið fram.  Stefndi tekur undir þá niðurstöðu óbyggðanefndar að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að Rangárvallaafréttur væri eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti.  Þá hafi ekki verið sýnt fram á að eignarhefð hefði verið unnin á landinu eins og notkun þess hefði verið háttað.

Stefndi vísar til þjóðlendulaga nr. 58/1998, laga um afréttarmálefni og fjallskil nr. 6/1986 og landamerkjalaga nr. 41/1919 og eldri laga frá 1882.  Þá er vísað til ákvæða lögbókanna Grágásar og Jónsbókar sem fjalla um afréttarmál.

Niðurstaða.

Með lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna.  Með bréfi dagsettu 12. október 2000 tilkynnti nefndin fjármálaráðherra að tekin yrðu til meðferðar nánar tilgreind landsvæði í Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu, þ.e.a.s. vestan sveitarfélagsins Hornafjarðar og austan Þjórsár, sbr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. laganna, en þetta svæði var hið þriðja sem til meðferðar kom hjá nefndinni.  Hér að framan hefur ferli málsins hjá óbyggðanefnd verið lýst en nefndin kvað upp úrskurð í máli nr. 3/2003 þann 10. desember 2004.  Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að hið umdeilda landsvæði væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laganna.  Ljóst er að Rangárvallaafréttur, samkvæmt afmörkun í kröfugerð jarðeigenda og niðurstöðu óbyggðanefndar, náði yfir stærra landsvæði en þjóðlendukrafa stefnda tók til eða hið umdeilda svæði í máli þessu.  Taldi nefndin að með hliðsjón af sjálfstæðri rannsóknarskyldu hennar, sbr. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998, verði ekki talið hafa þýðingu í þessu sambandi að kröfugerð íslenska ríkisins taki ekki til landræmu vestast í afréttinum, enda hafi engin efnisleg rök verið færð fram fyrir þeirri tilhögun.

Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar í málinu nr. 3/2003 var birtur í Lögbirtingablaðinu 15. mars 2005, og er mál þetta því höfðað innan lögmælts málshöfðunarfrests, sbr. 19. gr. þjóðlendulaga.

 Eins og að framan er lýst náði kröfugerð stefnda fyrir óbyggðanefnd aldrei til hins umdeilda svæðis.  Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að þrátt fyrir ábendingar af hálfu nefndarinnar hafi stefndi kosið að samræma ekki kröfugerð sína kröfugerð landeigenda að þessu leyti en með hliðsjón af sjálfstæðri rannsóknarskyldu sinni taldi nefndin þetta ekki hafa þýðingu, enda hafi engin efnisleg rök verið færð fram fyrir þeirri tilhögun.  Við aðalmeðferð fyrir nefndinni 2. október 2003 lýsti lögmaður stefnda því yfir, aðspurður af nefndarmönnum um bilið á milli austurmerkja efstu jarða annars vegar og kröfulínu stefnda vegna Rangárvallafréttar hins vegar, að kröfulína á þessu svæði sé dregin eftir sömu sjónarmiðum og hingað til.  Hann hafi ekki umboð til að breyta þeirri kröfulýsingu sem ráðherra hafi unnið á sína ábyrgð, en benti á að óbyggðanefnd væri ekki bundin af málsforræði aðila.  Þá er bókað eftir lögmanni stefnanda að ekki sé ágreiningur á milli ríkisins og gagnaðila þess að landsvæðið vestan við kröfulínu ríkisins sé eignarland.  Ekki verður séð að lögmaður stefnda hafi mótmælt þessari fullyrðingu lögmanns stefnanda.

Með gildistöku þjóðlendulaga nr. 58/1998 var þeirri skipan komið á að landinu var skipt annars vegar í eignarlönd, en samkvæmt 1. gr. laganna er það landsvæði sem háð er einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma, og hins vegar þjóðlendur, en þar er átt við landsvæði utan eignarlanda  þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.  Þá var afréttur skilgreindur sem landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.  Hlutverk óbyggðanefndar er eins og áður er rakið að kanna og skera úr um hvaða land teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þess og eignarlanda, að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.  Í því skyni er leitað eftir kröfulýsingu fjármálaráðherra um þjóðlendur og að fram kominni slíkri kröfulýsingu skal leitað eftir kröfulýsingu þeirra er telja sig eiga eignarréttindi eða önnur réttindi á svæði, sem ríkið gerir kröfu til, sbr. nánar 10. gr. þjóðlendulaga.   Samkvæmt 11. gr. laganna fer fjármálaráðherra með fyrirsvar fyrir hönd ríkisins og stofnana á vegum þess vegna krafna um eignarréttindi innan þjóðlendna og við úrlausn um hvort land teljist til eignarlands eða þjóðlendu.   Þá segir í 3. mgr. 13. gr. laganna að komi það fram við meðferð máls að aðili, sem kann að telja til eignarréttinda, hafi ekki lýst kröfum sínum, skuli nefndin hafa frumkvæði að því að kanna hvort hann falli frá tilkalli, en ella gefa honum kost á að gerast aðili máls.  Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna leitar óbyggðanefnd sátta með aðilum nema telja verði að sáttatilraun verði árangurslaus.  Samkvæmt framansögðu er ljóst að óbyggðanefnd er falið að skera úr ágreiningi að fram kominni tiltekinni kröfugerð aðila og er hvergi að finna í þjóðlendulögum ákvæði sem takmarka forræði aðila á hagsmunum sínum.  Þá verður ekki talið að ákvæði 5. mgr. 10. gr. laganna um gagnaöflun og rannsóknarskyldu nefndarinnar veiti henni heimild til að fara út fyrir kröfur aðila eða horfa fram hjá sátt sem takast kann milli þeirra.  Í  máli þessu háttar svo til að stefndi gerði aldrei kröfu til hins umdeilda landsvæðis fyrir óbyggðanefnd og þá verða samskipti og málflutningur lögmanna málsaðila við aðalmeðferð fyrir nefndinni ekki skilin á annan hátt en þann að sammæli hafi náðst milli þeirra um að umrætt svæði væri eign stefnanda.  Með hliðsjón af öllu framansögðu verður niðurstaða máls þessa því sú að fallist er kröfur stefnanda eins og nánar greinir í dómsorði.

 Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri, kvað upp dóminn.  Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest vegna mikilla embættisanna dómarans, en lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.

DÓMSORÐ:

Úrskurður óbyggðanefndar frá 10. desember 2004 í máli nr. 3/2003 um mörk þjóðlendu og Rangárvallaafréttar er felldur úr gildi að því leyti er úrskurðurinn tekur til lands sem liggur á milli austur eða norðausturmarka Næfurholts, Selsunds, Kots, Keldna, Árbæjar, Foss og Rauðnefsstaða og kröfulínu fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins fyrir óbyggðanefnd.  Viðurkennt er að mörk þjóðlendu á Rangárvallaafrétti skuli afmörkuð með sama hætti og krafist var af hálfu stefnda fyrir óbyggðanefnd í málinu nr. 3/2003 að teknu tilliti til leiðréttingar stefnda á kröfulínu sinni, þ.e. nánar tiltekið úr punkti A (Hæringsfell), úr Hæringsfelli (punktur A) liggur línan í hæsta punkt á Efridalabrún og þaðan í Vondugil í Stóra-Valagili næsti punktur B er í Vondugil í Stóru-Valagili, næsti C austast á Hafrafelli 555 m, næsti punktur D er hæst á Geldingafjöllum og punktur E er í Rauðöldum í 507 m hæð, þá er punktur F, sem er efst í Ófærugili, svo liggur kröfulínan niður gilið og í Ytri Rangá og þar er punktur G.

Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.