Print

Mál nr. 192/1999

Lykilorð
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Skaðabætur

Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. nóvember 1999.

Nr. 192/1999.

Samtök áhugafólks um

áfengis- og vímuefnavandann, SÁÁ

(Friðjón Örn Friðjónsson hrl.)

gegn

Þorkeli Ragnarssyni

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

og gagnsök

 

Ráðningarsamningur. Uppsögn. Skaðabætur.

Þ starfaði sem fulltrúi við meðferð áfengissjúklinga hjá S. Honum var sagt fyrirvaralaust upp störfum fyrir að hafa brotið gegn siðareglum S með því að hafa haft persónulegt samband við konu sem áður hafði notið meðferðar hjá S, en í ráðingarsamningi Þ var vísað til siðareglnanna. Þar sem S hafði greitt Þ laun í þeim uppsagnarfresti sem hann átti rétt á, var ekki talið að Þ ætti frekari bótarétt vegna tekjumissis í starfi sínu. Hins vegar var talið að uppsögnin hefði byggst á efnislega rangri ásökun um brot í starfi og að slíkt væri til þess fallið að baka Þ tjón. Voru Þ dæmdar bætur að álitum úr hendi S vegna þessa.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. maí 1999. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 11. ágúst 1999. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 3.541.991 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. febrúar 1998 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að héraðsdómur verði staðfestur. Hann krefst jafnframt málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Í greinargerð aðaláfrýjanda fyrir héraðsdómi er því lýst að hann sé sjálfseignarstofnun, sem reki umfangsmikið forvarnarstarf með fræðslu og upplýsingamiðlun um áfengis- og fíkniefnamál. Hann reki ennfremur sjúkrahús og meðferðarheimili auk göngudeildar í Reykjavík og á Akureyri.

Gagnáfrýjandi réðst til starfa hjá aðaláfrýjanda 1. mars 1995. Í skriflegum samningi málsaðila var tekið fram að ráðningin væri til þriggja mánaða. Nýr samningur var gerður 10. júlí 1995, þar sem fram kemur að ráðningin gildi til óákveðins tíma. Í reit fyrir starfslýsingu segir, að um sé að ræða almenn ráðgjafarstörf samkvæmt nánari fyrirmælum dagskrárstjóra. Þá segir í samningnum: „Gagnkvæmur uppsagnarfrestur samkvæmt samningi þessum skal vera þrír mánuðir, nema tekið sé fram að ráðningu ljúki sjálfkrafa“. Aðaláfrýjandi sagði gagnáfrýjanda fyrirvaralaust upp starfi 27. febrúar 1998 vegna ætlaðs brots hins síðarnefnda á trúnaðarskyldu samkvæmt ráðningarsamningnum, svo sem nánar er gerð grein fyrir í héraðsdómi. Var gagnáfrýjanda gert að hverfa tafarlaust úr starfi. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var lýst yfir af hálfu aðaláfrýjanda að hann hafi engu að síður greitt gagnáfrýjanda þriggja mánaða laun eftir starfslokin í samræmi við ráðningarsamninginn. Sætir það ekki andmælum af hálfu gagnáfrýjanda.

Svo sem áður er nefnt voru ákvæði í ráðningarsamningi málsaðila um gagnkvæma heimild til uppsagnar með nánar tilteknum fyrirvara. Getur gagnáfrýjandi ekki borið því við að hann hafi mátt treysta því að geta gegnt starfinu áfram hjá aðaláfrýjanda um ókominn tíma. Var aðaláfrýjanda frjálst að neyta þessarar heimildar til að segja gagnáfrýjanda upp störfum gegn greiðslu launa í uppsagnarfresti, en ekki er tekið fram að heimildin sé háð því að hinn síðarnefndi brjóti af sér í starfi eða öðrum atvikum. Ákvæði samningsins um að ráðningarkjör ráðist af kjarasamningi, sem stéttarfélag gagnáfrýjanda gerði við aðaláfrýjanda, geta ekki haggað rétti aðaláfrýjanda samkvæmt ráðningarsamningnum til að binda endi á samningssamband málsaðila með umsömdum uppsagnarfresti, en í kjarasamningnum segir meðal annars að réttindi og skyldur félagsmanna stéttarfélagsins skuli vera hliðstæð ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Sama gildir um ákvæði ráðningarsamningsins þess efnis að lög um þetta efni gildi „að svo miklu leyti sem öðruvísi er ekki fyrir mælt í samningi þessum“. Kemur þá aðeins til álita hvort gagnáfrýjandi kunni að eiga frekari rétt til skaðabóta vegna starfsloka sinna en sem nemur þriggja mánaða launum eða miskabóta vegna þess að sú aðferð, sem aðaláfrýjandi viðhafði er hann vék gagnáfrýjanda úr starfi, hafi valdið hinum síðarnefnda tjóni, sem aðaláfrýjandi beri af þeim sökum ábyrgð á gagnvart honum.

II.

Í uppsagnarbréfi aðaláfrýjanda 27. febrúar 1998 er án frekari skýringa vísað til ráðningarsamnings og siðareglna ráðgjafa sem ástæðu uppsagnarinnar. Umræddar siðareglur eru meðal málsgagna og er lítill hluti þeirra tekinn orðréttur upp í ráðningarsamningnum. Þar segir meðal annars að starfsmaður hætti störfum þegar í stað ef hann „hefur óleyfileg samskipti við sjúkling í meðferð eða innan árs frá lokum meðferðar.“ Jafnframt segir þar: „SÁÁ lítur svo á að alkohólisti, sem nýkominn er úr meðferð, sé viðkvæmur og áhrifagjarn. Fólk, sem vinnur að meðferð, ber að gera sér grein fyrir þessu. Engin samskipti við sjúklinga, þar sem persónulegir hagsmunir starfsmanna geta komið til álita eru leyfð í að minnsta kosti 1 ár frá lokum meðferðar.“ Gefur aðaláfrýjandi þá skýringu á uppsögninni, að gagnáfrýjandi hafi tekið upp náið, persónulegt samband við konu eftir að áfengismeðferð hennar lauk hjá aðaláfrýjanda, en innan þeirra tímamarka, sem tilgreind séu í ráðningarsamningnum. Í ljósi þess að starfsemi aðaláfrýjanda standi og falli með því að trúnaður og traust ríki í samskiptum hans og starfsmanna hans við þá, sem þar leita sér lækninga, sé víst að gagnáfrýjandi hafi með þessu brotið alvarlega gegn þeim skyldum, sem hann hafi gengist undir. Uppsögn hafi því verið óhjákvæmileg.

Gagnáfrýjandi andmælir því ekki að hann hafi tekið upp fast samband við áðurnefnda konu í janúar 1998. Hún hafi farið í áfengismeðferð, sem lauk 1. mars 1996. Síðar hafi hún notið svokallaðs göngudeildarstuðnings á vegum aðaláfrýjanda fram í mars 1997. Sú aðstoð, sem í því felist, teljist hins vegar ekki vera hluti meðferðar í merkingu ráðningarsamningsins. Samband þeirra hafi þannig ekki hafist fyrr en löngu eftir það eins árs tímamark frá lokum meðferðar, sem „samskiptabann“ samkvæmt ráðningarsamningnum gildi. Að auki hafi hann ekkert haft með konuna að gera í starfi sínu hjá aðaláfrýjanda 1995 til 1997 og ekki kynnst henni fyrr en í lok árs 1997. Ef vafi leiki á hvort göngudeildarstuðningur teljist hluti meðferðar í merkingu ráðningarsamningsins hljóti sá vafi að verða metinn gagnáfrýjanda í hag, enda hafi með ákvæðinu verið settar óvenjulegar hömlur á annars lögmæta háttsemi starfsmanna utan starfs þeirra.

Meðal málsgagna er skjal, sem ber fyrirsögnina „Lesefni fyrir ráðgjafa á Byrjunar- og kynningarnámskeiði SÁÁ“. Vekur gagnáfrýjandi sérstaka athygli á umfjöllun þar um konur, sem fari í meðferð, en tekið sé fram að ekki sé nauðsynlegt að þær geti stundað göngudeild að meðferð lokinni. Með þessu greini aðaláfrýjandi sjálfur á milli meðferðar annars vegar og þess að sækja göngudeild hins vegar. Að auki sé í leiðbeiningunum rætt um þá, sem stunda göngudeild, sem skjólstæðinga ráðgjafanna, sem veiti fólkinu viðtöl, en ekki sem sjúklinga. Síðarnefnda hugtakið eigi aðeins við um þá, sem sæti meðferð í starfstöðvum aðaláfrýjanda á Vogi, Vík eða Staðarfelli.

Af hálfu aðaláfrýjanda hefur því ekki verið andmælt að hugtakið skjólstæðingur sé almennt notað í starfsemi hans um þá, sem leita aðstoðar á göngudeild. Í áðurröktu ákvæði ráðningarsamnings málsaðila er hins vegar notað orðið sjúklingur um þá, sem gagnáfrýjandi má einungis hafa takmörkuð samskipti við. Eru ekki efni til að skýra ákvæðið rýmra en orðanna hljóðan segir beinlínis til um. Verður samkvæmt því fallist á með gagnáfrýjanda að „samskiptabannið“ hafi gilt í eitt ár frá 1. mars 1996, en geti ekki miðast við lok þess tíma er konan, sem áður er getið, naut stuðnings á göngudeild aðaláfrýjanda. Ráðningarsamningur málsaðila var því þannig ekki til fyrirstöðu að gagnáfrýjanda væri heimilt að taka upp það samband við konuna í janúar 1998, sem hermt er í málinu að þá hafi tekist milli þeirra. Kemur þá ekki til álita hvort ný áfengismeðferð, sem aðaláfrýjandi segir konuna hafa gengist undir í febrúar 1998, skipti einhverju um úrslit málsins, en aðaláfrýjandi hefur ekki reist kröfur sínar á því.

III.

Gagnáfrýjandi reisir kröfur sínar meðal annars á því að starfslokin hjá aðaláfrýjanda hafi valdið sér erfiðleikum við að fá nýtt starf, en tilraunir til þess hafi gengið illa. Eftir að launagreiðslum frá aðaláfrýjanda lauk hafi hann notið atvinnuleysisbóta um skeið, en síðar gegnt tímabundnu starfi hjá vátryggingafélagi, þar sem launin hafi verið lægri en þau, sem greidd voru í starfinu hjá aðaláfrýjanda. Brottreksturinn hafi verið reistur á rangri ásökun um að hann hafi misnotað aðstöðu sína í samskiptum við sjúkling og þar með um siðferðisbrest. Slíkt spyrjist óhjákvæmilega út og hann hafi orðið þess áþreifanlega var meðal þeirra, sem hann umgengst.

Hér að framan var komist að þeirri niðurstöðu að brottrekstur gagnáfrýjanda úr starfi hafi verið reistur á rangri efnislegri forsendu. Verður fallist á með gagnáfrýjanda, að slíkt hafi verið til þess fallið að skaða stöðu hans við leit að nýju starfi og að aðaláfrýjandi verði að bera bótaábyrgð á tjóni, sem af því hafi hlotist. Eins og málið liggur fyrir verður að meta tjón gagnáfrýjanda að álitum og þykir það hæfilega bætt með 300.000 krónum auk dráttarvaxta eins og krafist er. Ekki eru lagaskilyrði til að dæma miskabætur, svo sem áfrýjandi krefst.

Aðaláfrýjandi skal greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn i einu lagi eins og í dómsorði segir.

 

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, SÁÁ,  greiði gagnáfrýjanda, Þorkeli Ragnarssyni, 300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. febrúar 1998 til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. apríl 1999.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað af Þorkeli Ragnarssyni, kt. 281058-7979, Grýtubakka 22, Reykjavík á hendur Samtökum áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann ( SÁÁ ), kt. 671077-0169, Ármúla 20, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 3.541.991 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. febrúar 1998 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á mál­flutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af kröfum stefn­anda, en til vara að dómkröfur verði stórlega lækkaðar. Þá krefst stefndi máls­kostnaðar, að mati dómsins, úr hendi stefnanda, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi hinn 18. febrúar sl. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, áður en dómur var kveðinn upp.

 

II.

Stefndi, S.Á.Á., er sjálfseignarstofnun, sem rekur forvarnarstarf með fræðslu- og upp­lýsingamiðlun um áfengis- og fíkniefnamál. Þá rekur stefndi sjúkrahús og með­ferð­­arheimili auk göngudeildar í Reykjavík og á Akureyri.

Stefnandi hóf störf hjá stefnda 1. mars 1995 samkvæmt tímabundnum ráðn­ing­ar­samn­ingi til þriggja mánaða. Að þeim tíma liðnum var stefnandi ráðinn ótímabundið til starfa hjá stefnda með skriflegum ráðningarsamningi dagsettum 10. júlí 1995. Stefnandi gegndi starfi sínu hjá stefnda þar til honum var sagt upp með bréfi dagsettu 27. febrúar 1998, undirrituðu af framkvæmdastjóra stefndu. Um ástæður upp­sagn­ar­innar segir svo í bréfinu:„Með tílvísun til ráðningarsamnings þíns svo og siðareglna ráðgjafa, er þér sagt upp störfum þínum hjá S.Á.Á. frá og með deginum í dag.

Stefnandi kvað engan aðdraganda hafa verið að uppsögninni. Kvaðst hann hafa fengið munnlega skýringu á uppsögninni síðar. Skýringin hafi verið sú, að samskipti hans við konu, sem hefði verið sjúklingur S.Á.Á., hefðu falið í sér brot á siðareglum S.Á.Á., sem hljóði svo:„SÁÁ lítur svo á að alkóhólisti, sem nýkominn er úr meðferð, sé viðkvæmur og áhrifagjarn. Fólk, sem vinnur að meðferð, ber að gera sér grein fyrir þessu. Engin samskipti við sjúklinga, þar sem persónulegir hagsmunir starfsmanna geta komið til álita eru leyfð í að minnsta kosti 1 ár frá lokum meðferðar.” og jafnframt brot á sérákvæðum í ráðningarsamningi svohljóðandi:„Ef starfsmaður SÁÁ, sem er alkóhólisti og vinnur að meðferð drekkur áfengi eða neytir annarra vímuefna hættir hann störfum þegar í stað. Sama gildir ef starfsmaður hefur óleyfileg samskipti við sjúkling í meðferð eða innan árs frá lokum meðferðar.”

Að ósk stefnanda fékk hann að koma á fund starfsmanns stefnda hinn 12 mars 1998 og skýra mál sitt.

Stefnandi kveðst hafa kynnst konu í janúar 1998 og hafi þau orðið góðir vinir. kona þessi hafði verið í áfengismeðferð á meðferðarheimilinu Vík, sem stefndi rekur. Meðferðinni þar lauk í mars 1996. Síðar naut kona þessi svokallaðs göngu­deild­ar­stuðn­ings hjá SÁÁ þar til í mars 1997. Á þeim tíma starfaði stefnandi sem ráðgjafi á göngu­deild og hélt m.a. fyrirlestra fyrir stuðningshópa. Stefnandi kvaðst ekki hafa komið að meðferð á áfengissýki konunnar.

Stefndi kveður konu þessa síðar hafa notið þjónustu göngudeildar SÁÁ og í við­tali í febrúar 1998 við ráðgjafa á göngudeild hafi hún skýrt frá sambandi sínu við stefn­anda.

 

III.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að uppsögn hans hafi verið ólögmæt. Annars vegar vegna þess að uppsögnin hafi byggst á röngum forsendum og hins vegar vegna þess að formreglum laga nr. 70/1996 hafi í engu verið fylgt.

Í ráðningarsamningi stefnanda kemur fram að ráðningin sé samkvæmt kjara­samn­ingi BSRB við fjármáðaráðuneytið, nú starfsmannafélag ríkisstofnana við fjár­mála­ráðuneytið, sbr. lög nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Sam­kvæmt 2. gr. þeirra laga taki þau til starfsmanna sjálfseignastofnana, sem fá fjár­fram­lög af almannafé, enda komi til samþykki stjórnar viðkomandi stofnana. Stefndi, SÁÁ, geri kjarasamning við SFR vegna félagsmanna stofnunarinnar, sem þar starfi. Gildandi kjarasamningur SFR og SÁÁ sé frá 30. desember 1997.

Stefnandi sé félagsmaður í starfsmannafélagi ríkisstofnana. Um kjör hans hjá stefnda hafi því gilt kjarasamningur SFR við SÁÁ auk ákvæða skriflega ráðn­ing­ar­samn­ingsins. Í grein 1.5. í kjarasamningi SFR við stefnda segi, að um réttindi og skyldur starfsmanna skuli vera hliðstæð ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í ráðningarsamningnum sé um réttindi og skyldur almennt vísað til viðkomandi kjarasamnings auk þess sem vísað sé til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Reglur laga nr. 70/1996 eigi því við um réttarstöðu stefnanda hjá stefnda við ráðningarslit.

Uppsögn stefnanda hafi verið án undangenginnar áminningar, þrátt fyrir að upp­sagnartilefnið hafi átt rætur að rekja til þeirra atriða, sem falli undir 21. gr. starfs­manna­laganna. Stefnanda hafi því ekki gefist kostur á að bæta ráð sitt eins og 44. gr. laga nr. 70/1996 kveði á um.

Stefnanda hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um meint brot gegn ráðn­ing­arsamningi sínum og siðareglum. Brot hans hafi ekki verið rannsakað eða staðfest með öðrum hætti, en það sé forsenda þess að starfsmanni verði sagt upp störfum vegna sakar, sbr. 44. gr. laga nr. 70/1996. Stefndi hafi hvorki kannað með einum eða öðrum hætti hvaða persónulegir hagsmunir stefnanda komi til álita í þessu sambandi, eins og ákvæði ráðningarsamnings geri að skilyrði, né kannað hvort stefnandi og um­rædd kona hafi átt einhver samskipti á þeim tíma, er konan hafi verið í meðferð hjá stefnda.

Stefnandi telur sig ekki hafa brotið gegn áðurnefndu samskiptabannsákvæði ráðn­ing­arsamnings hans eða siðareglum að öðru leyti. Stefnandi kvaðst ekki hafa kynnst nefndri konu fyrr en rúmum tveimur árum eftir að hún hafi lokið áfengismeðferð sinni hjá SÁÁ, en samskiptabannsákvæði ráðningarsamningsins nái ekki svo langt. Sam­skipta­bannsákvæðið sé verulega óvenjulegt og íþyngjandi í hans garð. Varla sé unnt með ráðningarsamningi að takmarka athafnir starfsmanns utan vinnutíma með þeim hætti sem leiði af túlkun stefnda á ákvæðinu. Túlkun stefnda á umræddu ákvæði felist nánast sú krafa að ráðgjafar hjá SÁÁ megi ekki, utan vinnutíma síns, taka upp sam­skipti við fólk, án þess að ganga fyrst úr skugga um að viðkomandi hafi ekki verið í áfeng­ismeðferð hjá SÁÁ. Slíkar upplýsingar varði þó mikilsverð einkamálefni fólks, eðli máls samkvæmt. Ákvæði ráðningarsamningsins sé staðlað og sé að finna í ráðn­inga­rsamningum allra starfsmanna stefndu og samið einhliða af yfirstjórn stefndu. Um sé að ræða óvenjulegt frávik frá almennum reglum þar sem vinnuveitandi leitist við að leggja hömlur á lögmæta hegðun starfsmanna utan starfs þeirra. Hugsanlegan vafa um skýringu ákvæðisins beri því að túlka stefnanda í hag.

Stefnandi kveður samskipti sín og áðurnefndrar konu ekki hafa leitt til neins þess sem stefnandi telji stefnda hafa ástæðu til að skipta sér af. Í starfi sínu hjá stefnda hafi stefnandi ekki komið nálægt meðferð umræddrar konu, samskiptin hafi því ekki komist á milli þeirra í gegnum trúnaðarstörf stefnanda hjá stefndu. Stefnandi hljóti að eiga sitt einkalíf í friði og án afskipta vinnuveitanda síns, svo fremi sem hann hagnýti sér ekki yfirburðastöðu sína eða bágindi annarra í skjóli starfs síns. Ekkert bendi til að stefndi hafi gerst sekur um siðferðisbrot af því tagi. Stefnandi kveður samskipti sín og áður­nefndrar konu ætíð hafa verið vinsamleg og eigi þau enn í vinsamlegum sam­skiptum.

Stefnandi rökstyður stefnufjárhæðina með því að hann hafi sérhæft sig til starfa sem áfengisráðgjafi. Stefnandi hafi lengst af starfstíma sinn haft lág laun. Eftir 24 mán­aða starfstíma og með því að sækja ráðgjafanámskeið hjá SÁÁ utan vinnutíma síns hafi stefnandi náð að hækka sig í launum um 6 launaflokka. Uppsögnin hafi orðið til þess að stefnandi hafi ekki náð að njóta erfiðis síns nema að mjög óverulegu leyti. Þá beri að líta til þess að atvinnumöguleikar stefnanda á þessu sviði séu tak­mark­aðir hér á landi, hjá öðrum aðilum en stefnda. Með uppsögninni hafi stefndi lagt í rúst framtíðarvinnuhorfur stefnanda á því sviði sem reynsla hans og hugur hafi staðið til. Stefnandi kveðst hafa verið atvinnulaus eftir uppsögnina, en frá því í október sl starfað sem verktaki hjá tryggingafélagi, fyrir litla þóknun..

Stefnandi gerir kröfu um skaðabætur að fjárhæð 3.241.991 krónur. Fram­tíð­ar­tjón hans vegna atvinnumissis verði að meta að álitum, en fjárhæð dómkröfu samsvari launum stefnanda í tvö ár. Stefnandi kveður framangreinda fjárhæð byggjast á út­reikn­ingi framkvæmdastjóra SFR, stéttarfélags stefnanda.

Þá gerir stefnandi kröfu um miskabætur að fjárhæð 300.000 krónur, sbr. 26. gr. skaða­bótalaga nr. 50/1993. Ákvörðun stefnda um að segja stefnanda upp störfum byggist á ásökun um siðferðisbrest, þ.e.a.s. að stefnandi hafi misnotað aðstöðu sína í sam­skiptum við sjúkling. Ásökunin sé alvarleg og til þess fallin að valda ærumissi. Ljóst sé að atvinnumöguleikar manns sem missi vinnu af þessum sökum séu verulega tak­markaðir. Þá hafi ákvörðunin haft áhrif á einkalíf stefnanda.

 

IV.

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að hann hafi með lögmætum hætti sagt stefn­anda upp störfum, þar sem hann hafi alvarlega brotið gegn starfsskyldum sínum sam­kvæmt ráðningarsamningi og gegn skyldum sínum samkvæmt siðareglum stefnda. Brot hans sé í því fólgið að taka upp persónulegt samband við sjúkling, án þess að það hafi haft nokkuð með meðferð viðkomandi að gera. Stefnanda hafi frá upphafi verið eða mátt vera kunnugt um aðstæður þess aðila sem hann hafi tekið upp samband við þar á meðal meðferðarsögu hans og tengst við stefnda.

Í ráðningarsamningi sé ákvæði sem með hlutlægum hætti leggi bann við hvers konar persónulegu sambandi við sjúkling öðru en faglegu. Nauðsyn sé til að hafa ákvæðið strangt og afgerandi, m.a. vegna þess að stefndi geti ekki kallað viðkomandi sjúkling til vitnis um tilurð og efni sambandsins, vegna trúnaðarsambands við sjúkl­ing­inn.

Stefndi hafi til meðferðar sjúklinga vegna áfengis- og vímuefnaneyslu. Sjúk­dóm­ur­inn vegi jafnt að andlegri og líkamlegri heilsu. Sjúklingar séu mjög viðkvæmir og í ójafn­vægi á meðan á meðferð standi og fyrst eftir að henni ljúki. Þörf sé á að veita sjúkl­ingum ríka vernd af þessum sökum og því áréttað við starfsfólk, bæði í sérstökum siða­reglum og með beinum ákvæðum í ráðningarsamningi, að ekki sé stofnað til per­sónu­legra kynna við sjúklinga og fyrrverandi sjúklinga.

Ákvæði í siðareglum SÁÁ varði sama eða náskylt efni og sé til áréttingar og fyll­ing­ar ákvæði í ráðningarsamningi.

Samkvæmt ráðningarsamningi og viðbót við ráðningarsamning hætti starfsmaður störf­um þegar í stað brjóti hann ákvæðið og hafi óleyfileg samskipti við sjúkling í með­ferð eða innan árs frá lokum meðferðar.

Stefndi mótmælir því sem röngu að meira en eitt ár hafi verið liðið frá því að með­ferð viðkomandi sjúklings hafi lokið. Eftir meðferð á sjúkrastofnun hafi hann verið á göngudeild, sem teljist hluti meðferðar og hafi síðar verið lagður aftur inn til frekari meðferðar.

Grundvallarforsenda fyrir ráðningu stefnanda hafi verið sú, að hann héldi í heiðri „sam­skiptabann” við sjúklinga. Brot stefnanda á umræddri reglu sé mjög alvarlegt og lúti að undirstöðum starfs stefnda. Brotið grafi undan því trausti, sem nauðsynlegt sé að ríki milli stefnda og starfsfólks annars vegar og sjúklinga hins vegar. Trúnaður og traust í starfsemi stefnda sé ennfremur forsenda árangurs meðferðar.

Stefndi telur að slaka beri á sönnunarkröfum, þar sem sönnunarfærsla um sam­skipti stefnanda við umræddan sjúkling sé erfið. Allar upplýsingar, sem sjúklingar veiti í meðferð séu trúnaðarmál og verði ekki látnar af hendi nema með samþykki við­kom­andi. Stefnandi viðurkenni að hafa átt í persónulegu sambandi við sjúkling. Í ljósi fyrrgreinds ákvæðis ráðningarsamnings, sem banni samskipti við sjúkling, þar sem persónulegir hagsmunir starfsmannsins geti komið til álita og erfiðrar sönn­un­ar­færslu, beri stefnanda að sanna að sambandið hafi ekki brotið gegn nefndu ákvæði.

Stefndi mótmælir því að lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna rík­is­ins, eigi að öllu leyti við um réttarstöðu málsaðila, enda þar kveðið á um að þau taki ekki til starfsmanna sjálfseignastofnana. Ákvæði greinar 1.5. í samningi stefnda og SFR, um að ákvæði hliðstæð lögum nr. 70/1996 gildi um réttarstöðu starfsmanna, feli í sér að meta þurfi í hverju tilviki fyrir sig hvort og að hvaða leyti ákvæði laganna verði lögð til grundvallar. Í ráðningarsamningi sé bæði tekið fram að lögin gildi einungis að svo miklu leyti sem öðru vísi sé ekki fyrir mælt í samningnum og einnig um mat á því hvort starfsmaður teljist hafa vanefnt samninginn. Sérstök ákvæði ráðn­ing­arsamningsins gangi framar almennum skilyrðum laga nr. 70/1996, enda séu sér­ákvæði ráðningarsamningsins forsenda fyrir ráðningu starfsmanna. Um réttarstöðu aðila gildi því fyrst og fremst ráðningarsamningur og sérstakar siðareglur, sem séu hluti samningsins.

Stefndi mótmælir bótakröfu stefnanda, sem allt of hárri, verði fallist á bótaskyldu stefnda. Stefnandi sé ómenntaður og starf hans hafi verið ótímabundið með gagn­kvæm­um þriggja mánaða uppsagnarfresti, sem marki þann tíma sem bótaréttur og bóta­fjárhæð miðist við. Stefnanda beri að sanna tjón sitt og ennfremur að takmarka það með því að fá sér aðra vinnu.

 

V.

Samkvæmt fyrrgreindu ákvæði í ráðningarsamningi aðila gilda lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um réttarstöðu stefnanda.

Í 43. gr. þeirra laga er forstöðumanni heimilað að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem fyrir er mælt í ráðningarsamningi. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laganna er skylt að veita starfsmanni áminningu samkvæmt 21. gr. og gefa honum kost á að bæta ráð sitt, áður en honum er sagt upp störfum, ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna, sem þar eru tilgreindar, sem eru m.a. óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns og að framkoma starfsmanns eða athafnir hans í starfi eða utan þess þykja ósæmilegar, óhæfi­legar eða ósamrýmanlegar starfinu. Annars er ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar, áður en hún tekur gildi.

Stefnanda var fyrirvaralaust sagt upp störfum hjá stefnda með bréfi dagsettu 27. febrúar 1998. Ástæða uppsagnarinnar var meint brot stefnanda á ákvæði ráðning­ar­samn­ings, þar sem segir að starfsmaður hætti þegar í stað störfum ef hann hafi óleyfi­leg samskipti við sjúkling í meðferð, en öll samskipti starfsmanna við sjúklinga, þar sem persónulegir hagsmunir starfsmanna geta komið til, eru bönnuð í að minnsta kosti eitt ár frá lokum meðferðar.

Fyrir liggur að stefnandi var ekki gefinn kostur á að tjá sig um ástæður upp­sagn­ar­innar né veitt áminning eins og telja verður að skylt hafi verið að gera samkvæmt 44. gr. og 21. gr. laga nr. 70/1996, vegna meints brots hans á ráðningarsamningi, sem telja verður þess eðlis að fyrrgreindar greinar eigi við.

Samkvæmt framburði stefnanda tókust kynni með honum og konu, sem verið hafði sjúklingur stefnda, í byrjun árs 1998. Hefur stefnandi haldið því fram, að þar sem konan hafi verið útskrifuð af sjúkrastofnun stefnda í marsmánuði 1996 hafi hann ekki brotið samskiptabannsákvæði ráðningarsamningsins. Sökum eðlis fyrrgreinds ákvæðis í kjarasamningi verður að líta svo á, þrátt fyrir að starfsemi stefnda fari fram bæði á sjúkrastofnunum og göngudeildum, að orðalag þess nái ekki til samskipta stefnanda og áðurgreindrar konu, í byrjun árs 1998.

Uppsögn stefnanda úr starfi hjá stefnda var því ólögmæt og ber stefndi fébóta­ábyrgð á þeirri athöfn samkvæmt almennum sjónarmiðum skaðabótaréttar.

Við ákvörðun bóta verður að líta til þess, að þrátt fyrir að stefnandi hafi verið ráð­inn með gagnkvæmum uppsagnarfresti hafi hann mátt treysta því að fá að gegna starfi sínu áfram. Stefnandi var fertugur að aldri er hann missti starf sitt. Stefnandi hefur enga sérstaka menntun umfram gagnfræaðapróf og starfsnám sitt hjá stefnda og má ætla að þekking hans og reynsla af starfi sínu hjá stefnda komi að litlum notum annars staðar. Laun stefnanda hjá stefnda voru um það bil 96.000 krónur á mánuði fyrir dag­vinnu. Samkvæmt gögnum málsins hefur stefnandi reynt með litlum árangri að fá vinnu. Skráði hann sig atvinnulausan, en ekki liggur fyrir hverjar bætur hann hefur fengið. Þá liggur fyrir að stefnandi starfar nú sem sölumaður trygginga og fengið greitt fyrir það starf um 200.000 krónur. Þegar framanritað er virt þykja bætur til handa stefnanda hæfilega metnar 600.000 krónur. Rétt þykir að miða upphafsdag vaxta við þingfestingardag stefnu, eða 30. júní 1998. Ekki eru efni til ákvörðunar miska­bóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Samkvæmt þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda máls­kostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til þeirrar skyldu stefnanda að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan, en uppkvaðning hans hefur dregist nokkuð sökum starfsanna dómarans.

Dómsorð:

Stefndi, samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann ( SÁÁ ), greiði stefn­anda, Þorkeli Ragnarssyni, 600.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. júní 1998 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.