Print

Mál nr. 595/2015

Kári Jóhannesson (Arnbjörg Sigurðardóttir hrl.)
gegn
Tryggingastofnun ríkisins (Erla S. Árnadóttir hrl., Heiðrún Lind Marteinsdóttir hdl. 2. prófmál)
Lykilorð
  • Almannatryggingar
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Dómstóll
  • Sakarefni
  • Stjórnarskrá
  • Frávísun frá héraðsdómi
Reifun

Árið 2011 hafnaði T umsókn K um tekjutengdar greiðslur samkvæmt 8. gr. laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna þar sem ekki væri uppfyllt það skilyrði 20. gr. laga nr. 158/2007, um breytingu á lögum nr. 22/2006, að sonur hans hefði greinst með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun 1. október 2007 eða síðar. Sama ár staðfesti úrskurðarnefnd fæðingar- og orlofsmála ákvörðun T. Í málinu gerði K ekki kröfu um ógildingu þessara stjórnvaldsúrlausna, heldur krafðist þess að T yrði dæmd til að inna af hendi fjárgreiðslu til sín sökum þess að ákvörðun stofnunarinnar hefði brotið gegn nánar greindum lagaákvæðum, þar á meðal fyrirmælum 1. mgr. 65. gr. og 1. og 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt dómstólar væru almennt til þess bærir á grundvelli 60. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar að taka afstöðu til kröfu um ógildingu stjórnvaldsákvörðunar væri að jafnaði ekki á valdi þeirra að taka ákvörðun, sem undir stjórnvald heyrði samkvæmt lögum, svo sem ráðið yrði af fyrirmælum 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þó væru þau fyrirmæli því ekki til fyrirstöðu að dómstólar gætu kveðið á um athafnaskyldu stjórnvalds, svo sem skyldu til að inna af hendi greiðslu, að því tilskildu að stjórnvaldinu hefði verið falið að taka slíka ákvörðun á grundvelli laga þar sem ýmist væri ekki svigrúm til mats eða óumdeilt væri að ákvæði þeirra hefðu verið skýrð á tiltekinn hátt í framkvæmd. Talið var að 8. gr. laga nr. 22/2006 kvæði ekki á um skýlausan rétt foreldris til tekjutengdra greiðslna vegna alvarlegs og langvinns sjúkdóms eða alvarlegrar fötlunar barns og að ekki lægi fyrir í málinu hvernig ákvæðinu hefði verið beitt í framkvæmd. Fjárkröfur K væru allar reistar á því að hann ætti samkvæmt lögum rétt til tekjutengdra greiðslna úr hendi T í fimm mánuði á árinu 2011. Samkvæmt framansögðu var talið að dómstóla brysti vald til þess að taka kröfur K til greina. Var málinu því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. september 2015 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 737.193 krónur, til vara 657.195 krónur, en að því frágengnu 211.297 krónur, í öllum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. mars 2011 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Sonur áfrýjanda, Kristján Logi Kárason, sem er fæddur 14. október 2005, er alvarlega fatlaður. Óumdeilt er að hann er algjörlega öðrum háður með hreyfifærni og flestar athafnir daglegs lífs og fellur því undir 1. fötlunarstig samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

Á fyrsta aldursári Kristjáns Loga kom í ljós að hann ætti við alvarlega fötlun að stríða. Samkvæmt vottorði barnalæknis við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, þar sem drengurinn býr ásamt foreldrum sínum, 15. ágúst 2006 var sjúkdómsgreining talin vera „blandnar sértækar þroskaraskanir“. Í vottorðinu sagði jafnframt: „Við níu mánaða aldur greinileg seinkun í hreyfiþroska, sem þá nam um 3-6 mánuðum, verið í stífum þjálfunum síðan en því miður ekki mikill árangur ennþá ... er ljóst að drengurinn þarf áfram á miklum þjálfunum að halda um ófyrirséða framtíð.“ Í vottorði sama læknis 24. janúar 2007 var meðal annars tekið fram um heilsufar drengsins: „Merki alvarlegrar þroskahömlunar nú komin í ljós betur en áður var.“ Í vottorði Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins 15. mars 2011 sagði að Kristjáni Loga hafi verið vísað á greiningarstöðina af lækninum í ágúst 2006 og hafi hann „þá gengist undir talsverðar rannsóknir án þess að ástæða þroskaseinkunarinnar hafi fundist.“ Félagsráðgjafi og þroskaþjálfi frá greiningarstöðinni hafi heimsótt fjölskylduna þremur mánuðum síðar. Sagði síðan í vottorðinu: „Kristján Logi og fjölskylda komu á Greiningarstöð haustið 2007, nánar tiltekið dagana 29. október til 1. nóvember og þá fór fram fyrsta greining. Í þeirri heimsókn hitti fjölskyldan barnalækni, sjúkraþjálfara, sálfræðing, þroskaþjálfa og félagsráðgjafa. Í niðurstöðum athugunar kemur fram að drengurinn er með lága grunnvöðvaspennu, hreyfiþroskaröskun og þroskaseinkun. Við tveggja ára aldur er þroski hans á við þroska 6-7 mánaða barna.“

Að loknu fæðingarorlofi fóru foreldrar Kristjáns Loga út á vinnumarkaðinn og drengurinn í daggæslu. Í aðilaskýrslu áfrýjanda fyrir héraðsdómi kom fram að það hafi gengið „alveg þokkalega en það eru samt svona alltaf reglulega frekar stuttar sjúkrahúsinnlagnir en svo gerist það þarna árið 2009 sem það verður svona algjör toppur í sjúkrahúsinnlögnum hjá drengnum.“ Í kjölfarið kvaðst áfrýjandi, sem er grunnskólakennari, hafa fengið launalaust leyfi frá vinnuveitenda sínum til að geta sinnt syni sínum.

Eftir að áfrýjandi hafði fengið greidda sjúkradagpeninga frá stéttarfélagi sínu í sex mánuði sótti hann til stefnda um fjárhagsaðstoð. Með bréfi stefnda 28. júní 2010 var áfrýjanda synjað um tekjutengdar greiðslur fyrir foreldra á vinnumarkaði samkvæmt 8. gr. laga nr. 22/2006 þar sem ekki væri uppfyllt það skilyrði að drengurinn hefði greinst með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun 1. október 2007 eða síðar. Hins vegar var fallist á að inna af hendi til áfrýjanda grunngreiðslur eftir 19. gr. laganna frá 1. ágúst 2010 til 28. febrúar 2011. Hann sótti síðan aftur um tekjutengdar greiðslur í stað grunngreiðslna 3. febrúar 2011 fyrir tímabilið frá 1. mars til 1. september það ár. Með bréfi 7. mars sama ár samþykkti stefndi að greiða áfrýjanda áfram grunngreiðslur, en hafnaði á sama grundvelli og áður umsókn hans um tekjutengdar greiðslur. Áfrýjandi kærði þá ákvörðun stefnda til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála sem staðfesti hana með úrskurði 8. september 2011.

II

Eins og lög nr. 22/2006 hljóðuðu upphaflega var í 1. mgr. 8. gr. kveðið á um að foreldri, sem legði niður launuð störf þegar barn þess greindist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun, gæti átt sameiginlegan rétt á greiðslum með hinu foreldri barnsins. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna skyldi greiðsla til foreldris nema tiltekinni fjárhæð á mánuði og var þar aðeins gert ráð fyrir einni tegund greiðslna. Lögin öðluðust að stærstum hluta gildi 1. júlí 2006, sbr. 1. mgr. 19. gr. þeirra. Þar kom jafnframt fram að ákvæði laganna ættu almennt við um börn sem greinst hafi með alvarlega eða langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun 1. janúar 2006 eða síðar.

Með lögum nr. 158/2007 voru gerðar verulegar breytingar á lögum nr. 22/2006. Samkvæmt 2. gr. síðarnefndu laganna er markmið þeirra eftir breytingarnar að tryggja foreldrum langveikra eða alvarlega fatlaðra barna fjárhagsaðstoð þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna sérstakrar umönnunar barna sinna, þar á meðal vegna þeirra bráðaaðstæðna sem upp koma þegar börn þeirra greinast með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun, enda verði vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila ekki við komið.

Ein helsta breytingin á lögum nr. 22/2006, sem gerð var með lögum nr. 158/2007, var að breyta því greiðslukerfi, sem á hafði verið komið, í þá veru að greina greiðslur til foreldris langveiks eða alvarlega fatlaðs barns í tvennt. Annars vegar svonefndar grunngreiðslur á grundvelli IV. kafla laga nr. 22/2006, sem eftir 1. mgr. 20. gr. þeirra skyldi nema fyrst um sinn 130.000 krónum á mánuði, enda væru uppfyllt skilyrði 19. gr., og hins vegar tekjutengdar greiðslur samkvæmt III. kafla laganna. Í 1. mgr. 8. gr. þeirra er kveðið á um að foreldri, sem leggur niður launað starf vegna þeirra bráðaaðstæðna sem upp koma þegar barn þess greinist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun, geti átt sameiginlegan rétt á tekjutengdum greiðslum samkvæmt 1. mgr. 11. gr. í allt að þrjá mánuði með hinu foreldri barnsins samkvæmt mati stefnda, sem ráðherra hefur eftir 1. mgr. 5. gr. laganna ákveðið að skuli fara með framkvæmd þeirra, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 1277/2007. Í 1. málslið 2. mgr. 8. gr. laganna segir að foreldri geti átt rétt á tekjutengdum greiðslum samkvæmt 1. mgr. hafi það verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en barnið greindist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu, foreldri leggi niður störf til að annast barnið meðan greiðslur standa yfir, barn þarfnist sérstakrar umönnunar foreldris, svo sem vegna innlagnar á sjúkrahús eða meðferðar í heimahúsi, enda verði ekki annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila við komið, og foreldri og barn eigi lögheimili hér á landi þann tíma sem greiðslur eru inntar af hendi. Jafnframt segir í 3. mgr. 8. gr. að heimilt sé að framlengja sameiginleg réttindi foreldra til tekjutengdra greiðslna samkvæmt 1. mgr. um allt að þrjá mánuði þegar barn þeirra þarfnast verulegrar umönnunar vegna mjög alvarlegs og langvinns sjúkdóms eða fötlunar. Eftir 1. mgr. 11. gr. laganna skulu tekjutengdar greiðslur til foreldris, sem er launamaður, nema 80 af hundraði meðaltals heildarlauna og skal miða við tólf mánaða tímabil sem hefst tveimur mánuðum áður en barnið greindist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun.

Samkvæmt 20. gr. laga nr. 158/2007 öðluðust þau lög gildi 1. janúar 2008, en greiðslur skyldu koma til framkvæmda 1. mars 2008. Þó er svo fyrir mælt í 20. gr. að ákvæði III. kafla laga nr. 22/2006, þar á meðal 8. og 11. gr. þeirra, eigi við um foreldra barna, sem greinast með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun 1. október 2007 eða síðar, að undantekinni 28. gr., enda hafi barn greinst aftur með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða ástand þess versnað vegna sjúkdóms eða fötlunar eftir 1. október 2007.

III

Eins og áður er rakið hafnaði stefndi 7. mars 2011 umsókn áfrýjanda um tekjutengdar greiðslur samkvæmt 8. gr. laga nr. 22/2006 þar sem ekki væri uppfyllt það skilyrði 20. gr. laga nr. 158/2007 að sonur hans hefði greinst með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun 1. október 2007 eða síðar. Áfrýjandi kærði þessa ákvörðun stefnda til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála sem staðfesti hana með úrskurði 8. september 2011. Í máli þessu gerir áfrýjandi ekki kröfu um ógildingu þessara stjórnvaldsúrlausna, heldur krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að inna af hendi fjárgreiðslu til sín sökum þess að ákvörðun hans hafi brotið gegn nánar greindum lagaákvæðum, þar á meðal fyrirmælum 1. mgr. 65. gr. og 1. og 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar.

Þótt dómstólar séu almennt til þess bærir á grundvelli 60. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar að taka afstöðu til kröfu um ógildingu stjórnvaldsákvörðunar er að jafnaði ekki á valdi þeirra að taka ákvörðun, sem undir stjórnvald heyrir samkvæmt lögum, svo sem ráðið verður af fyrirmælum 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þó eru þau fyrirmæli því ekki til fyrirstöðu að dómstólar geti kveðið á um athafnaskyldu stjórnvalds, svo sem skyldu til að inna af hendi greiðslu, að því tilskildu að stjórnvaldinu hafi verið falið að taka slíka ákvörðun á grundvelli laga þar sem ýmist er ekki svigrúm til mats eða óumdeilt er að ákvæði þeirra hafi verið skýrð á tiltekinn hátt í framkvæmd.

Í 8. gr. laga nr. 22/2006 er ekki kveðið á um skýlausan rétt foreldris til tekjutengdra greiðslna vegna alvarlegs og langvinns sjúkdóms eða alvarlegrar fötlunar barns, heldur að foreldri geti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum átt rétt á slíkum greiðslum í allt að sex mánuði samkvæmt mati stefnda. Ekki nýtur við í málinu neinna gagna um hvernig þessum matskenndu lagaákvæðum hefur verið beitt í framkvæmd.

Fjárkröfur áfrýjanda eru allar reistar á því að hann eigi samkvæmt lögum rétt til tekjutengdra greiðslna úr hendi stefnda í fimm mánuði á árinu 2011. Samkvæmt framansögðu brestur dómstóla vald til þess að taka kröfur áfrýjanda til greina. Þegar af þeirri ástæðu verður málinu vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Rétt er að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Ekki verður hreyft við fjárhæð gjafsóknarkostnaðar í héraði, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Kára Jóhannessonar, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans í héraði, 800.000 krónur, og lögmanns hans fyrir Hæstarétti, 800.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2015.

Mál þetta var höfðað 20. febrúar 2014, þingfest 27. sama mánaðar og tekið til dóms 16. mars sl. að loknum munnlegum málflutningi.

Stefnandi er Kári Jóhannesson, kt. [...], Núpasíðu 6a, 603 Akureyri.

Stefndi er Tryggingastofnun ríkisins, kt. [...], Laugavegi 114, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 737.193 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 147.439 kr. frá 1. mars. 2011 til 1. apríl 2011, af 294.877 kr. frá 1. apríl 2011 til 1. maí 2011, af 442.316 kr. frá 1. maí 2011 til 1. júní 2011, af 589.755 kr. frá 1. júní 2011 til 1. júlí 2011 og af 737.193 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 657.195 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 131.439 kr. frá 1. mars 2011 til 1. apríl 2011, af 262.878 kr. frá 1. apríl 2011 til 1. maí 2011, af 394.317 kr. frá 1. maí 2011 til 1. júní 2011, af 525.756 kr. frá 1. júní 2011 til 1. júlí 2011 og af 657.195 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Að því frágengnu krefst stefndi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 211.297 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 42.259 kr. frá 1. mars 2011 til 1. apríl 2011, af 84.519kr. frá 1. apríl 2011 til 1. maí 2011, af 126.778 kr. frá 1. maí 2011 til 1. júní 2011, af 169.038 kr. frá 1. júní 2011 til 1. júlí 2011 og af 211.297 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi að mati dómsins.

Stefndi hafði á fyrri stigum uppi kröfu um frávísun málsins frá dómi, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2014.

I.

Málsatvik

Stefnandi á soninn Kristján Loga Kárason, sem er fæddur þann 14. október 2005. Kristján Logi er alvarlega fatlaður og algjörlega háður öðrum með hreyfifærni og allar athafnir daglegs lífs og fellur því undir 1. fötlunarstig, skv. 1. tl. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

Í lok árs 2009 mun stefnandi hafa lagt niður störf vegna veikinda drengsins. Hann mun fyrst um sinn hafa fengið greiðslur úr sjúkrasjóði, en þegar sá réttur var fullnýttur sótti hann um tekjutengdar greiðslur til foreldra á vinnumarkaði skv. lögum nr. 22/2006. Stefndi samþykkti, með bréfi dags. 28. júní 2010, að greiða grunngreiðslur til stefnanda skv. 19. gr. laganna, frá 1. ágúst 2010 til 28. febrúar 2011, en synjaði hins vegar um tekjutengdar greiðslur skv. 8., sbr. 11. gr. laganna, þar sem ekki væri uppfyllt það skilyrði að barnið hefði greinst með alvarlegan eða langvinnan sjúkdóm 1. október 2007 eða síðar.

Stefnandi sótti aftur um tekjutengdar greiðslur þann 3. febrúar 2011 (dskj. 14 ). Með bréfi, dags. 7. mars 2011 (dskj. 3), samþykkti stefnandi að greiða grunngreiðslur til stefnanda skv. 19. gr. laganna, í þetta skipti frá 1. mars 2011 til 31. júlí 2011, en synjaði hins vegar á sama grundvelli og áður um tekjutengdar greiðslur skv. 8., sbr. 11. gr. laganna.

Þann 3. júní 2011 kærði stefnandi ákvörðun stefnda til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála, sem staðfesti ákvörðun stefnda þann 8. september 2011. Stefnandi hafði einnig leitað til Umboðsmanns Alþingis, sem skilaði áliti sínu þann 9. október 2012. Umboðsmaður taldi ekki ástæðu til frekari athugana.

Með heimild í lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hefur móðir Kristins Loga fengið greiddar umönnunargreiðslur frá stefnda samfellt frá ágústmánuði 2006. Núgildandi umönnunarmat gildir til ársins 2016.

Stefnandi fékk 23. maí 2013 leyfi til gjafsóknar, samkvæmt 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til þess að höfða mál gegn íslenska ríkinu til ógildingar á ákvörðun stefnda 28. júní 2010.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að ákvörðun stefnda 7. mars 2011, sem staðfest var af úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála 8. september 2011, brjóti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Foreldrar sem leggja niður launuð störf til að annast barn sitt eigi rétt til tekjutengdra greiðslna samkvæmt 8. gr. laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Tekjutengdar greiðslur til foreldris, sem er launamaður, skuli, samkvæmt 1. mgr. 11. gr., nema 80% af meðaltali heildarlauna og miða skuli við tólf mánaða tímabil sem hefst tveimur mánuðum áður en barnið greindist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun. Foreldrar geti einnig fengið greiðslur samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. 12. gr. sömu laga. Þá greiði ríkissjóður 8% mótframlag í lífeyrissjóð af greiðslum skv. 8., 11. og 12. gr, sbr. 1. mgr. 13. gr. laganna. Foreldrum sé því gert kleift að njóta 80% tekna sinna auk greiðslna til lífeyrissjóðs líkt og þeir væru úti á vinnumarkaðnum, þrátt fyrir að þeir þurfi að leggja niður störf hvort sem er að fullu eða að hluta, til að annast barn sitt. Áðurgreind ákvæði nái þó aðeins til foreldra barna sem greinast eftir 1. október 2007, sbr. 20. gr. laga nr. 158/2007 um breytingu á lögum nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna.

Foreldrar barna sem greinst hafi fyrir 1. október 2007 eigi því aðeins rétt á grunngreiðslum, sem nemi nú 177.268 kr. á mánuði skv. c-lið 1. gr. reglugerðar nr. 1217/2013 um fjárhæðir greiðslna og frítekjumarks fyrir árið 2014 samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

Það sé því talsverður munur á þeirri fjárhagsaðstoð sem í boði er eftir því hvenær barn greinist. Foreldrum barna sem greind hafi verið fyrir 1. október 2007 sé gert mun erfiðara um vik að leggja niður störf til að sinna umönnun barna sinna, því tekjulækkunin sé svo mikil, en þeir eigi aðeins rétt á grunngreiðslum upp á 177.268 kr. á mánuði og njóti ekki mótframlags í lífeyrissjóð. Þá eigi þeir aðeins rétt á grunngreiðslum ef þeir leggja niður störf að fullu. Foreldrar barna sem greinast eftir 1. október 2007 geti hins vegar notið 80% af tekjum sínum á mánuði (allt að 631.986 kr. skv. a-lið 1. gr. reglugerðar nr. 1217/2013 um fjárhæðir greiðslna og frítekjumarks fyrir árið 2014 samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.), auk mótframlags í lífeyrissjóð og geti fengið greiðslur samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Ljóst sé því að talsverður munur sé á réttindum foreldra eftir því hvenær barn þeirra greinist, en engar málefnalegar ástæður liggi til grundvallar þessari mismunun.

Stefnandi byggir á því að ákvörðun stefnda brjóti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem stefnda sé mismunað á grundvelli greiningardags sonar hans. Samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar skuli allir vera jafnir fyrir lögum. Meginmarkmið jafnræðisreglunnar sé að girða fyrir að tveir menn í sömu aðstöðu fái mismunandi meðferð eða mismunandi úrlausn mála sinna á ólögmætan hátt vegna atriða sem þar eru talin og engar málefnalegar ástæður réttlæti mismununina. Með því að miða rétt til greiðslna við greiningardag geti foreldrar tveggja jafngamalla barna með sama sjúkdóm hlotið ólíka afgreiðslu. Telur stefnandi að greiningardagur geti ekki talist málefnalegt sjónarmið og því sé um brot á jafnræðisreglu að ræða.

Af hálfu stefnanda er skírskotað til þess að ákvörðunin brjóti gegn 2. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem lögfestur var hér á landi þann 13. mars 2013, sbr. lög nr. 19/2013 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Stefnandi telur ákvörðun stefnda jafnframt vera í andstöðu við 1. og 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem hún tryggi ekki þeim börnum sem greinast eftir 1. október 2007 þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Ráðstöfunartekjur heimilisins minnki til muna þegar foreldri barns, sem greinist eftir 1. október 2007, þarf að leggja niður störf, þar sem það eigi aðeins rétt á grunngreiðslum, sem séu lægri en lágmarkslaun, og það geri foreldrum í slíkum aðstæðum verulega erfitt fyrir fjárhagslega. Meðal viðurkenndra löggjafarmarkmiða sé vernd fjölskyldunnar, sbr. 10. gr. al­þjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem var fullgiltur hér á landi þann 22. ágúst 1979, sbr. auglýsingu nr. 10/1979 í C-deild Stjórnartíðinda, og 16. gr. fél­ags­málasáttmála Evrópu, fullgiltur hér á landi þann 15. janúar 1976, sbr. auglýsingu nr. 3/1976 í C-deild Stjórnartíðinda. Túlka verði stjórnarskrá og almenna löggjöf í ljósi þessara þjóð­réttarlegu skuldbindinga. 

Stefnandi vísar til markmiðs og tilgangs laga nr. 22/2006.

Stefnandi telur ákvörðun stefnda byggða á röngum forsendum því foreldrar barna sem greind voru fyrir 1. október 2007 geti öðlast rétt til tekjutengdra greiðslna ef ástand barns versnar vegna sjúkdóms eða fötlunar, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 158/2007.

Ákvörðun stefnda sem staðfest var af úrskurðarnefnd byggir að mati stefnanda á röngum forsendum. Ekki hafi verið tekið mið af því að ástand barnsins hafði versnað vegna fötlunar þess eftir 1. október 2007 né þess að stefnandi hafi orðið að leggja niður störf til að sinna umönnun barnsins. Stefnandi uppfylli þar með skilyrði 28. gr. laga nr. 22/2006, sbr. 18 gr. laga nr. 158/2007.

Stefnandi gerir því þá kröfu að stefnda verði gert að greiða honum mismun þess er hann fékk greitt og þess sem hann hefði fengið greitt ef hann hefði notið tekjutengdra greiðslna til foreldra á vinnumarkaði, skv. 8. gr., sbr. 11. gr. laga nr. 22/2006, líkt og hann eigi rétt á samkvæmt lögum ef áðurgreindrar mismununar nyti ekki við.

Aðalfjárkrafa stefnanda miðist við tekjur hans á tólf mánaða tímabili tveimur mánuðum áður en hann varð að leggja niður störf. Stefnandi gerir þá kröfu að það tímabil verði lagt til grundvallar við ákvörðun meðaltekna hans, þar sem ástand sonar hans versnaði svo stefnandi hafi orðið að leggja niður störf og því beri að leggja 28. gr. laga nr. 22/2006 til grundvallar.

Lögin geri ráð fyrir að ástand barns geti versnað vegna fötlunar og geti foreldri þá átt sameiginlegan rétt á greiðslum samkvæmt III. kafla laganna með hinu foreldrinu, þ.e. foreldri geti öðlast rétt til tekjutengdra greiðslna ef ástand barns versnar vegna sjúkdóms eða fötlunar. Skilyrðin séu að foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði eða stundað nám í jafnlangan tíma. Þess sé ekki getið í lögunum hvaða sex mánuði foreldri þurfi að hafa verið við nám eða á vinnumarkaði líkt og gert sé í 2. mgr. 8. gr. laganna. Þar sé miðað við 6 mánuði áður en barn greinist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu. 

Aðalfjárkrafa stefnanda miðast við meðaltekjur hans á tólf mánaða tímabili tveimur mánuðum áður en hann varð að leggja niður störf vegna veikinda barnsins, eða frá október 2008 til september 2009, þar sem stefnandi hafi orðið að leggja niður störf í desember 2009 og er það til samræmis við viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laganna, en lögin taka ekki á því við hvaða tímabil skuli miðað við þessar aðstæður.

Heildartekjur stefnanda á ofangreindu tímabili voru 4.419.475 kr. og meðaltekjur hans því 368.290 kr. á mánuði. Hefði hann fengið samþykktar tekjutengdar greiðslur skv. 8. gr., sbr. 11. gr., laga nr. 22/2006 og áðurgreint viðmiðunartímabil tekna verið lagt til grundvallar þá hefði hann fengið greiddar 294.632 kr. á mánuð. Vegna hinnar kærðu ákvörðunar Tryggingastofnunar, sem staðfest var af úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála, naut hann aðeins grunngreiðslna að fjárhæð 147.193 kr. (sbr. c-lið 1. gr. reglugerðar nr. 1008/2010). Mismunurinn er því 147.439 kr. á mánuði og byggir aðalfjárkrafa stefnanda á því.

Varafjárkrafa stefnanda miðast við framreiknaðar meðaltekjur stefnanda á viðmiðunartímabili 1. mgr. 11 gr., sem er tólf mánaða tímabil sem hefst tveimur mánuðum fyrir greiningardag barns eða frá júní 2005 til maí 2006. Framreiknaðar heildartekjur hans á viðmiðunartímabili eru 3.482.900 kr. miðað við vísitölu neysluverðs á ákvörðunardegi, þ.e. í febrúar 2011, sem var 367,7 og að teknu tilliti til viðmiðunartekna vegna fæðingarorlofs. Meðaltekjur stefnanda á viðmiðunartímabili voru því 348.290 kr. á mánuði, með vísan til 1. mgr. 11. gr. laganna, sbr. 2. mgr. 9. gr. sömu laga, þar sem hann var aðeins á innlendum vinnumarkaði í 10 mánuði á umræddu 12 mánaða tímabili. Þar af leiðandi hefði hann átt rétt á 278.632 kr. á mánuði í tekjutengdar greiðslur, en fékk hins vegar aðeins grunngreiðslur eða 147.193 kr. á mánuði. Mismunurinn er því 131.439 kr. á mánuði og byggir varafjárkrafa stefnanda á því.

Foreldrar eigi rétt á greiðslum samkvæmt lögunum til 18 ára aldurs barns, en fyrir liggi að alvarlega fötluð börn greinast að jafnaði mjög snemma á lífsleiðinni. Það leiði þó ekki alltaf til þess að foreldrar verði að leggja niður störf í beinum tengslum við greiningu barnsins, heldur geti foreldri orðið að leggja niður störf síðar, líkt og í tilfelli stefnanda. Þá staðfesti 28. gr. laganna að þekkt er að ástand barns geti versnað vegna sjúkdóms eða fötlunar. Þar af leiðandi sé viðmiðunartímabil 1. mgr. 11. gr., sem lagt sé til grundvallar ákvörðun á tekjutengdum greiðslum til foreldra, ekki í beinum tengslum við þær tekjur sem foreldrar höfðu er þeir urðu að leggja niður störf vegna veikinda barnsins.

Í ljósi framangreinds beri því að framreikna tekjur foreldra ef áðurgreint viðmiðunar-tímabil er lagt til grundvallar þrátt fyrir að nokkur tími sé liðinn frá upprunalegri greiningu barns. Með þeim hætti muni þær tekjur sem lagðar eru til grundvallar ákvörðun gefa réttari mynd af raunstöðu foreldris og hinar tekjutengdu greiðslur verði þá nær því að vera í tengslum við rauntekjur foreldris. Framreiknun tekna sé þekkt m.a. úr meðlagsmálum, en ákvarðanir um skyldu foreldris til greiðslu aukins meðlags og menntunarframlags samkvæmt barnalögum nr. 76/2003 byggi á meðaltekjum foreldris síðustu 2-3 ára, framreiknuðum miðað við vísitölu neysluverðs á ákvörðunardegi. 

Séu tekjur foreldris sem leggur niður störf einhverju eftir greiningu barns ekki framreiknaðar þá mismuni lögin ekki aðeins foreldrum eftir því hvenær barn þeirra greinist, heldur einnig eftir því hvenær foreldri verður að leggja niður störf vegna veikinda barnsins. Ljóst sé foreldri sem leggur niður störf í beinum tengslum við greiningu barns fái um 80% af rauntekjum sínum, en foreldri sem leggi niður störf síðar njóti aðeins 80% af meðaltekjum sínum eins og þær voru jafnvel einhverjum árum áður, sem sjaldnast sé í beinum tengslum við rauntekjur viðkomandi foreldris þegar það leggur niður störf vegna breytts efnahagsumhverfis og launaþróunar. Þar af leiðandi beri að framreikna tekjur foreldra ef viðmiðunartímabil 1. mgr. 11. gr. laganna er lagt til grundvallar í stað þess að miða við tólf mánaða tímabil sem hefst tveimur mánuðum áður en barni versnar svo að foreldri verði að leggja niður störf.

Þrautavarakrafa stefnanda byggir á meðaltekjum stefnanda frá júní 2005 til maí 2006. Heildartekjur stefnanda á áðurgreindu tímabili voru 2.368.156 kr. að teknu tilliti til viðmiðunartekna vegna fæðingarorlofs og meðaltekjur hans því 236.816 kr. á mánuði, með vísan til 1. mgr. 11. gr. laganna, sbr. 2. mgr. 9. gr. sömu laga, þar sem hann var aðeins á innlendum vinnumarkaði í 10 mánuði á umræddu 12 mánaða tímabili. Þar af leiðandi hefði hann átt rétt á 189.452 kr. á mánuði sem tekjutengdum greiðslum, en fékk aðeins grunngreiðslur að fjárhæð 147.193 kr. á mánuði. Mismunurinn er því 42.259 kr. á mánuði og byggir þrautavarakrafa stefnanda á því.

Um lagarök vísar stefnandi til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, einkum jafnræðisreglu 65. gr. og 76. gr., svo og laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna með síðari breytingum. Stefnandi vísar einnig til laga nr. 19/2013 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, til al­þjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem var fullgiltur hér á landi þann 22. ágúst 1979 og til fé­­lags­málasáttmála Evrópu, sem var fullgiltur hér á landi þann 15. janúar 1976. Krafa um vexti er byggð á IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um dráttarvexti er vísað til III. og IV. kafla sömu laga, einkum 1. mgr. 6. gr. og 9. gr. laganna. Um varnarþing vísar stefnandi til 4. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamáls. Krafa um málskostnað er byggð á ákvæðum XXI. kafla sömu laga.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að kröfur og málatilbúnaður stefnanda eigi ekki við nein rök að styðjast og að ákvörðun stefnda frá 7. mars 2011, sem um er deilt, hafi verið í samræmi við löggjöf á hverjum tíma og hvorki í andstöðu við stjórnarskrá né barnasáttmála Evrópu.

Stefndi bendir á, að ákvörðun hans hafi verið í fullu samræmi við 20. gr. laga nr. 158/2007 um breytingu á lögum nr. 22/2006. Ákvæði breytingarlaganna sé afdráttarlaust þess efnis að greint er á milli greiðslna til foreldra eftir því hvort börn þeirra greinast með alvarlega eða langvinna sjúkdóma fyrir 1. október 2007 eða síðar en feli ekki í sér heimild til mats fyrir viðkomandi stjórnvald. Stefnda hafi verið óheimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði laganna enda enga undanþágu að finna, hvorki í lögum nr. 22/2006 með síðari breytingum né í reglugerð nr. 1277/2007 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Þar sem mat stefnda á greiðslum til stefnanda hafi verið fyllilega lögmætt séu ekki forsendur fyrir því að dómstóll endurskoði þetta mat stefnda.

Ljóst sé að greining á veikindum eða fötlun sonar stefnanda í skilningi 8. gr. laga nr. 22/2006 hafi átt sér stað fyrir 1. október 2007. Í læknisvottorðum barnalæknisins Magnúsar Stefánssonar 15. ágúst 2006 og 24. janúar 2007, sbr. dskj. 15 og 16, er gerð grein fyrir alvarlegum erfiðleikum drengsins og þroskafrávikum. Í kjölfar þessa hafi barninu verið vísað á Greiningar- og ráðgjafarstöð. Þangað hafi það komið til athugunar dagana 29. október til 1. nóvember 2007.

Alvarlegar þroskaraskanir drengsins hafi þannig komið í ljós fyrir tímamörk þau er sett eru í 20. gr. laga nr. 158/2007, þ.e. fyrir 1. október 2007. Þá hafi einnig komið í ljós fyrir 1. október 2007 að sonur stefnanda væri alvarlega fatlað barn samkvæmt c-lið 3. gr. laga nr. 22/2006.  Ákvæði laga nr. 22/2006 geri skýran greinarmun á greiðslum til foreldra eftir því hvort börn þeirra greinast með alvarlega eða langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun fyrir 1. október 2007 eða síðar. Hvorki lög nr. 22/2006, síðari breytingarlög né reglugerð nr. 1277/2007 feli í sér mat fyrir stjórnvöld eða heimild til að víkja frá 20. gr. laga nr. 158/2007. Stefndi hafi ekki vald til að breyta lögum og hafi enga lagaheimild til að setja eða breyta stjórnvaldsfyrirmælum. Stjórnsýsluframkvæmd stefnda er í samræmi við gildandi lög, sem samþykkt eru af Alþingi, og reglugerðir sem settar eru af ráðherra.

Stefndi bendir á að í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 22/2006, sbr. 5. gr. laga nr. 158/2007, sé við það miðað að foreldri geti átt rétt á tekjutengdum greiðslum samkvæmt 1. mgr. 8. gr., hafi það verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en barn hafi greinst með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða fötlun samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- eða meðferðarstofnunar sem veiti barninu þjónustu. Sama skilyrði megi finna í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 22/2006 fyrir réttindum foreldra í námi og einnig í 19. gr. laganna um réttindi foreldra til grunngreiðslna. Í öllum tilvikum er vísað til þess að barnið hafi greinst með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu.

Stefndi hafi samþykkt umsókn stefnanda um grunngreiðslur úr hendi stefnda samkvæmt 19. gr. laga nr. 22/2006, þar sem stefnandi þurfti að leggja niður störf í lok árs 2009. Stefnda hafi verið óheimilt að víkja frá reglu í 20. gr. laga nr. 158/2007 en samþykkt umsókn stefnanda um greiðslur sem voru óháðar tímamarki í lögum. Með þessu hafi stefndi tryggt nægilega rétt stefnanda að þessu leyti samkvæmt 65. og 75. gr. stjórnarskrárinnar. Hér beri einnig að taka tillit til þess að stefnandi og eiginkona hans hafi fengið greiddar umönnunargreiðslur á grundvelli umönnunarmats stefnda, sbr. 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þau hafi einnig fengið greiðslur í framlengdu fæðingarorlofi, sbr. heimild í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.

Stefndi hafnar því að ákvörðunin hafi verið andstæð 65. gr. stjórnarskrárinnar eða 2. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ástæða þess tímamarks sem tilgreint er í 20. gr. laga nr. 158/2007 sé sú að það hafi verið sett til þess að gæta jafnræðis annars vegar á milli foreldra sem eru sjálfstætt starfandi einstaklingar, og eigi því ekki rétt á greiðslum úr sjúkrasjóði, og hins vegar foreldra sem eru launamenn, og eigi rétt á slíkum greiðslum. Þetta komi skýrt fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 158/2007.

Af hálfu stefnda er á því byggt að viðmið um greiningardag sé almennt og gildi óháð aldri barns, kynferði þess, ríkisborgararétti foreldra og þjóðernisuppruna og stöðu að öðru leyti. Stefndi hafnar því að viðmiðunarregla þessi feli í sér ólögmæta mismunun gagnvart stefnanda og að hún sé í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði. Hið sama gildi um 2. gr. barnasáttmálans, að breyttu breytanda.

                Stefndi hafnar þeim fullyrðingum stefnanda með öllu að brotið hafi verið gegn rétti hins síðarnefnda, samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, til aðstoðar, félagslegs öryggis og viðunandi lífskjara.

Ætla verði löggjafanum svigrúm til að ákveða viðmiðunarreglur um það hvenær menn séu taldir þurfa aðstoð. Ákvæði 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar sé ætlað að tryggja að reglur um aðstoð hvíli á jafnréttisgrundvelli án mismununar. Í samræmi við ákvæðið hafi löggjafinn talið heimilt að takmarka þennan rétt að því leyti að greining barns með langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun sé skilyrði fyrir tekjutengdum greiðslum skv. lögum nr. 22/2006. 

Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að greiðslur þær sem hann naut dugi stefnanda ekki til lágmarksframfærslu, sbr. 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár. Fjarri lagi sé að stefnandi hafi ekki notið lágmarksréttinda, eða að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu, rétti til aðstoðar, félagslegs öryggis og viðunandi lífskjara eða að íslenska ríkið hafi ekki uppfyllt skyldur sínar hvað þetta varðar.

Stefndi hafnar því að ákvörðun stefnda hafi verið byggð á röngum forsendum. Ósannað sé að ástand sonar hans hafi versnað vegna sjúkdóms eða fötlunar, í skilningi 28. gr. laga nr. 158/2007, eftir 1. október 2007. Fötlun og veikindi sonar stefnanda hafi verið sambærileg og ekki versnað frá fyrstu stigum. Þegar á fyrstu mánuðum ævi sonar stefnanda hafi orðið ljóst að hann ætti við alvarlega erfiðleika og þroskafrávik að stríða, sbr. læknisvottorð Magnúsar Stefánssonar frá 15. ágúst 2006 og 24. janúar 2007. Síðari vottorð staðfesti þessa greiningu Magnúsar. Að mati stefnda benda gögn málsins til þess að ástand drengsins sé að batna eða sé stöðugt en ekki að versna. Með vísan til þess að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að ástand barns hafi versnað í skilningi 28. gr. laga nr. 158/2007 fellst stefndi ekki á að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt.

                Stefndi mótmælir tölulegri framsetningu dómkrafna stefnanda. Þær hafi ýmist ekki lagastoð eða séu ranglega reiknaðar. Því beri að sýkna stefnda.

Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og reglugerðar nr. 1277/2007 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Krafa um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV.

Skýrslur við aðalmeðferð

Við aðalmeðferð málsins kom stefnandi fyrir dóm og rakti sögu sonar síns, svo og þau áhrif sem sjúkrasaga sonarins hefur haft á störf stefnanda.

                Eiginkona stefnanda, Vera Kristín Vestmann Kristjánsdóttir, Núpasíðu 6a, Akureyri, kom einnig fyrir dóm og gaf skýrslu. Sagði hún m.a. frá því að sonur þeirra hafi orðið mikið veikur á árinu 2009. Hann hafi haldið illa næringu og skilað illa frá sér. Fallristill drengsins hafi bólgnað og verið styttur með aðgerð í ágústmánuði 2009. Hann hafi fengið sontu og farið að klígja við mat eftir það. Í dag fái hann næringu einungis í gegnum sontu.

                Við aðalmeðferð málsins gaf Gróa Björk Jóhannesdóttir læknir vitnaskýrslu. Í vætti hennar kom m.a. fram að hún hefði annast Kristján Loga síðan seint á árinu 2006. Að hennar sögn var árið 2009 erfitt fyrir drenginn, þar sem hann hafi þá glímt við umtalsverð veikindi og verið mikið á spítala bæði á Sjúkrahúsinu á Akureyrar og á Landspítalanum. Talsvert hafi verið um sýkingar í öndunarvegi og næringarupptaka verið erfið. Drengurinn hafi einnig þurft að fara í aðgerð á ristli. Rammt hafi kveðið að uppköstum og vökvatapi. Óværð hafi verið mikil og læknar hafi gert tilraunir með ýmis svefnlyf. Mörg þessara vandamála hafi haldið áfram, en á árinu 2009 hafi verið breytt um fæði og lyf með þeim árangri að ástandið hafi orðið bærilegra. Endurtekin veikindi hafi komið til viðbótar við fötlunina og ástandið verið stigversnandi. Drengurinn hafi t.a.m. komið í 21 skipti á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri á árinu 2009 vegna veikinda. Ástandið hafi aldrei farið batnandi, en veikindi hans hafi bæst við hina undirliggjandi fötlun. Veikindin sem fylgdu fötluninni hafi verið „sveiflukennd“. Engin von sé um að þroskafrávik drengsins, sem stafi af alvarlegri röskun á miðtaugakerfi, minnki eða hverfi. Drengurinn sé með mjög alvarlega fötlun og hafi auk þess „átt við mikil veikindi að stríða til viðbótar við hana“. 

V.

Niðurstaða

Með lögum nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sem gengu í gildi 1. júlí 2006, var mælt fyrir um rétt foreldra sem eru launamenn, sjálfstætt starfandi einstaklingar á innlendum vinnumarkaði, eða námsmenn, til greiðslna er börn þeirra greinast með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun. Með lögum nr. 158/2007, sem komu til framkvæmda 1. janúar 2008, voru gerðar nánar tilgreindar breytingar á lögum nr. 22/2006. Breytingalögin fólu m.a. í sér endurskoðun á því greiðslukerfi sem komið var á með lögum nr. 22/2006. Í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 158/2007 segir m.a. að „ákvæði III. kafla laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. 5.-15. gr. laga þessara, eiga við um foreldra barna sem greinast með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun 1. október 2007 eða síðar, sbr. þó d-lið 18. gr. laga þessara enda hafi barn greinst aftur með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða ástand þess versnað vegna sjúkdóms eða fötlunar eftir 1. október 2007.“

Á fyrri stigum hefur stefndi synjað stefnanda um greiðslur sem foreldri á vinnumarkaði, sbr. 8. gr. laga nr. 22/2006. Sú ákvörðun stefnda var staðfest af úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála, sbr. úrskurð nefndarinnar 8. september 2011 í máli nr. 13/2011.

Gögn málsins bera með sér að komið hafi í ljós strax á fyrsta aldursári drengsins að hann ætti við alvarlega erfiðleika og fötlun að stríða. Í vottorði Magnúsar Stefánssonar barnalæknis frá 15. ágúst 2006 (dskj. 16) er getið um „blandnar sértækar þroskaraskanir“, „seinkun í hreyfiþroska" og „vísbendingu um galla í metabolisma“. Í vottorði sama læknis 24. janúar 2007 (dskj. 17) er getið um sértæka þroskaröskun á hreyfisamhæfingu og aðrar tal- og málþroskaraskanir. Fram kemur í bréfi Maríu Játvarðardóttur, félagsráðgjafa hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, 15. mars 2011 (dskj. 21), að Kristján Logi hafi komið á greiningarstöðina haustið 2007, nánar tiltekið dagana 29. október til 1. nóvember það ár. Í niðurstöðum athugunar hafi komið fram að drengurinn væri með „lága grunnvöðvaspennu, hreyfiþroskaröskun og þroskaseinkun. Við tveggja ára aldur er þroski hans á við þroska 6-7 mánaða barna. Drengurinn hafði fengið flogaköst en var án lyfja á þessum tíma.“ Í bréfi Fjölskyldudeildar Akureyrar til Tryggingastofnunar ríkisins 14. febrúar 2011 (dskj. 20) segir að barnið hafi verið komið með „gilt umönnunarmat árið 2006 og 100% umönnunarmat árið 2007“, auk þess sem barnið hafi verið með erfiða veikindasögu frá upphafi. Í samræmi við þetta verður við það að miða að sonur stefnanda sé alvarlega fatlað barn í skilningi c-liðar 1. mgr. 3. gr. laga nr. 22/2006. Af framlögðum gögnum, þ. á m. vottorðum Magnúsar Stefánssonar frá 15. ágúst 2006 og 24. janúar 2007, þykir verða að álykta að fötlun drengsins og þroskaskerðing hans hafi verið greind fyrir 1. október 2007, þ.e. fyrir þau tímamörk sem tilgreind eru í áðurtilvitnuðu ákvæði 20. gr. laga nr. 158/2007.

Að þessari niðurstöðu fenginni skal þess þó einnig getið í áðurnefndri skýrslu læknisins Gróu Bjarkar Jóhannesdóttur kom fram að fötlun drengsins hafi aldrei farið batnandi, en veikindi hans verið „sveiflukennd“ og fylgifiskar fötlunarinnar einnig. Í ljósi þessa þykir ekki annað verða ályktað af gögnum málsins en að hinn undirliggjandi vandi drengsins, sem greindur var fyrir 1. október 2007, sé bæði alvarlegur og langvarandi, sbr. áðurnefnda skilgreiningu laga á alvarlega fötluðu barni. Gögn málsins gefa vissa vísbendingu um að drengurinn hafi á árinu 2009 legið fleiri daga á sjúkrahúsi en á öðrum tímabilum ævi sinnar. Framlögð gögn veita hins vegar enga heildarmynd af heilsufarsþróun hans, ekki síst vegna þess að tölur skortir um komur hans og legudaga á Landspítala − háskólasjúkrahúsi á viðmiðunartímabilinu. Þá þykir ekki verða fram hjá því litið að í málinu nýtur engra fullnægjandi gagna við um ástæður fyrir komum og vistun drengsins á Sjúkrahúsi Akureyrar á árinu 2009, nánar tiltekið hvort sjúkrahúsvist hans á því ári stafaði af sjúkdómum, fötlun hans eða ótengdum veikindum. Með hliðsjón því sem að framan greinir þykir ekki staðreynt að hér liggi fyrir versnun í skilningi 28. gr. laga nr. 22/2006, sbr. 18. gr. laga nr. 158/2007. Slík ályktun yrði heldur ekki alfarið grundvölluð á skýrslum sem gefnar voru við aðalmeðferð málsins.

Fyrir liggur að á því tímabili sem hér um ræðir fékk stefnandi grunngreiðslur samkvæmt. 19. gr. laga nr. 22/2006. Með þessu var lágmarksframfærsla samkvæmt ákvæðinu tryggð. Sú tilhögun laga nr. 22/2006 sem hér er til umfjöllunar byggir á jafnræðissjónarmiðum og málefnalegum rökum. Verður því ekki talið að brotið hafi verið gegn tilvísuðum ákvæðum stjórnarskrár. Að öllu framanskráðu virtu þykir verða að hafna kröfum stefnanda.

                Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

                Svo sem áður greinir veitti innanríkisráðuneytið stefnanda gjafsókn fyrir héraðsdómi 23. maí 2013. Ber því að greiða allan gjafsóknarkostnað stefnanda úr ríkissjóði, þar með talda þóknun lögmanns hans, sem þykir hæfilega ákveðin 800.000 kr..

Arnar Þór Jónsson, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

                Stefndi, Tryggingastofnun ríkisins, skal vera sýkn af kröfum stefnanda í máli þessu.

                Málskostnaður fellur niður.

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Júlíar Óskar Antonsdóttur hdl., 800.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.