Print

Mál nr. 153/2001

Lykilorð
  • Ráðningarsamningur
  • Riftun

Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001.

Nr. 153/2001.

Valbjörn Steingrímsson

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

gegn

Lykilhótelum ehf.

(Jón G. Zoëga hrl.)

 

Ráðningarsamningur. Riftun.

Ekki var talið að ákvæði ráðningarsamings V og L hf. um endurskoðun launakjara yrði túlkað svo að það fæli í sér skilyrðislaust loforð um hækkun launa, heldur eingöngu loforð um endurskoðun sem hefði getað haft í för með sér hvort heldur hækkun eða lækkun eða þá óbreytt launakjör. Það að ekki varð af endurskoðun launakjara V var ekki talin slík vanefnd samkvæmt reglum vinnuréttar, sbr. og 24. gr. hjúalaga nr. 22/1928, að réttlætti fyrirvaralausa riftun V á vinnusamningi og var hann með þessu talinn hafa fyrirgert rétti til þeirra launa í uppsagnarfresti, sem hann krafði L hf. um. Samkvæmt þessu var L hf. sýknað af kröfum V.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 30. apríl 2001. Hann krefst þess, að stefnda verði gert að greiða sér 1.209.090 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 28. apríl 2000 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fallist er á með héraðsdómi, að það að ekki varð af endurskoðun launakjara áfrýjanda verði ekki talin slík vanefnd samkvæmt reglum vinnuréttar að réttlæti fyrirvaralausa riftun stefnanda á vinnusamningi. Verður héraðsdómur því staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Valbjörn Steingrímsson, greiði stefnda, Lykilhótelum ehf., 80.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 10. janúar sl., var höfðað með stefnu, birtri 18. apríl 2000.

Stefnandi er Valbjörn Steingrímsson, kt. 131253-3389, Vallarhúsum 31, Reykjavík.

Stefndi er Lykilhótel hf., kt. 590159-6339, Suðurlandsbraut 4a, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda:

Að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 1.209.090 kr. auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga  nr. 25/1987 frá 28. apríl 2000 til greiðsludags. Jafnframt er þess krafist að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskattskyldu lögmannsþóknunar.

Dómkröfur stefnda

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Málavextir

Með ráðningarsamningi, dags. 22. júlí 1999, réðst stefnandi sem fjármálastjóri til stefnda og samstarfsfyrirtækja hans. Í ráðningarsamningi eru talin ýmis verkefni stefnanda. Föst mánaðarlaun stefnanda skyldu vera 400.000 kr. fyrir fullt starf. Launkjör skyldu endurskoðuð eftir 3 mánuði frá dagsetningu samningsins. Laun skyldu greidd eftir á 3. virkan dag hvers mánaðar. Umsaminn uppsagnarfrestur var þrír mánuðir miðað við mánaðamót.

Ekki varð af endurskoðun launakjara stefnanda en stefnandi hélt áfram störfum sínum hjá stefnda til föstudagsins 24. mars 2000. Þann dag var starfsstofa stefnda innsigluð vegna vangoldinna skatta. Daginn eftir tilkynnti stefnandi stjórnarformanni stefnda með símskeyti að þar sem fyrirtækið hafi ekki staðið við gerðan ráðningarsamning milli aðila þrátt fyrir ítrekaðar óskir og ábendingar sé ekki hægt annað en álykta sem svo að Lykilhótel ehf. hafi einhliða rift þeim samningi. Með skeyti þessu tilkynnti stefnandi jafnframt að hann muni fela lögmanni sínum næsta mánudag að innheimta laun í lögbundnum/samningsbundnum uppsagnarfresti.

Að sögn stefnanda sammæltust aðilar um að gerður yrði starfslokasamningur. Stefnandi gerði drög að starfslokasamningi, ekki varð af undirritun hans.

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að vegna verulegra vanefnda af hálfu stefnda á ráðningarsamningi aðila dags. 22. júlí 1999 sé samningurinn óskuldbindandi fyrir stefnanda og honum hafi því verið heimilt að rifta samningnum einhliða.  Lítur stefnandi svo á að þar sem ekkert ráðningarsamband sé milli aðila beri stefnda skylda til að greiða sér laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti, tímabilið apríl, maí og júní, eins og ákvæði ráðningarsamnings aðila kveði skýrlega á um. Samkvæmt ráðningarsamningi aðila átti að miða uppsagnarfrest við mánaðamót.

Til rökstuðnings kröfu sinni bendir stefnandi á að þann 22. júlí 1999 hafi komist á gagnkvæmt samningssamband milli aðila fólgið í ráðningu stefnanda til stefnda.  Í ráðningarsamningnum komi m.a. fram að föst mánaðarlaun stefnanda skyldu vera 400.000 kr.  Jafnframt segi orðrétt í ráðningarsamningnum:

“Launakjör skulu endurskoðuð eftir 3 mánuði frá dagsetningu samningsins.”

Samkvæmt skýlausu ákvæði ráðningarsamningsins hafi endurskoðun launakjara átt að eiga sér stað í síðasta lagi þann 22. október 1999.  Af endurskoðuninni hafi hins vegar aldrei orðið og stefnandi hafi haldið áfram að fá greitt í samræmi við upprunalegan ráðningarsamning.  Rúmlega 5 mánuðum eftir að endurskoðun launakjara milli stefnanda og stefnda hafi í síðasta lagi átt að eiga sér stað og þrátt fyrir ítrekaðar óskir og ábendingar stefnanda um endurskoðun launa hafi þau haldist óbreytt. 

Telur stefnandi það furðu sæta og með öllu óforsvanlega háttsemi af hálfu forsvarsmanna stefnda að virða að vettugi ákvæði ráðningarsamningsins er kváðu á um endurskoðun launakjara.  Vilji stefnanda til að ganga að nýju til samninga við stefnda hafi verið staðfestur allt frá því í októbermánuði 1999, enda augljóst hagsmunamál fyrir stefnanda að launakjör hans yrðu endurskoðuð. Fullkomlega eðlilegt sé að fyrstu þrír mánuðir í nýju starfi fari í að komast í snertingu við starfsumhverfið og aðlögun starfsins.  Eftir að aðlögunartíma lýkur og reynsla er komin á störf starfsmannsins sé eðlilegt að til endurskoðunar launakjara komi.  Almenna reglan varðandi endurskoðun launa eftir ákveðið tímabil sé undantekningarlaust sú að til hækkunar launa komi en ekki lækkunar eða að launin standi í stað.  Hversu mikil hækkunin verður sé hins vegar samningsatriði.  Stefnandi hafi því mátt gera ráð fyrir kjarabótum að liðnum aðlögunartíma.

Stefnandi byggir á því að ekki sé unnt að túlka viljaleysi forsvarsmanna stefnda til að efna ákvæði ráðningarsamnings aðila á annan hátt en aldrei hafi staðið til að efna hann.  Launakjör séu ein af meginforsendum hvers ráðningarsamnings og um leið grundvöllur að baki samningssambandi aðila.  Sú háttsemi forsvarsmanna stefnda að virða að vettugi skýlaus samningsákvæði sem og að þæfa endurskoðun samningsins í rúmlega 5 mánuði sé veruleg vanefnd á ráðningarsamningnum.  Stefnandi hafi ítrekað reynt að fá ráðningarsamninginn endurskoðaðan án árangurs.  Hafi stefnanda verið nauðugur einn kostur að rifta samningnum líkt og hann gerði með símskeyti dags. 24. mars 2000.  Rétturinn til riftunar hafi verið ótvíræður.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði með dómi gert að greiða sér bætur sem svara launum í þriggja mánaða samningsbundnum uppsagnarfresti.  Stefnufjárhæðin taki mið af launaseðli stefnanda og sundurliðast svo:

 

1.Laun í uppsagnarfresti (apríl, maí og júní)

 

kr.   1.200.000

2.Orlof ofan á ógreidd laun 11,59%

         139.090

 

kr.  1.339.090

Til frádráttar kemur:

 

3.Fyrir fram greidd laun þann 17.03.2000

kr.      130.000

 

kr.      130.000

Samtals

     kr.   1.209.090

 

Málsástæður stefnda

Sýknukröfu sína byggir stefndi m.a. á því að ekki sé um að ræða neina vanefnd af sinni hálfu á ráðningarsamningi aðila.  Stefnanda hafi ekki verið sagt upp störfum heldur hafi stefnandi gengið út af vinnustað sínum þann 23. mars 2000 og tekið sér sjálfur laun, m.a. fyrir allan marsmánuð ef ekki hærri fjárhæð.  Stefnandi hafi greitt sér launin að hluta til eftir að hann hætti einhliða störfum.

Stefndi telur að ákvæði ráðningarsamnings aðila um að endurskoða eigi launakjör eftir 3 mánuði frá dagsetningu samnings sé ekki hægt að túlka einhliða stefnanda í hag þ.e. að launakjör hefðu átt skilyrðislaust að hækka.  Það hljóti að fara eftir því hvernig starfsmaður stendur sig í starfi hvort hækka eigi laun hans.  Er því alfarið mótmælt að túlka eigi ákvæði einhliða stefnanda í hag.  Stefndi telur að stefnandi hafi í raun verið ofborgaður með 400.000 kr. mánaðarlaun miðað við þá starfsmenntun og þekkingu sem stefnandi hafði. Stefnandi hafi ekki ráðið nægilega vel við starf sitt og í raun fengið starf sitt á fölskum forsendum.

Engar vanefndir hafi verið af hálfu stefnda vegna ráðningarsamnings aðila.  Stefndi hafi staðið við launagreiðslur til stefnanda og hafi stefnandi m.a. tekið sér laun fyrir fram fyrir marsmánuð.  Að ekki var búið að endurskoða laun stefnanda eftir ákvæði í ráðningarsamningi aðila telur stefndi ekki vera verulega vanefnd af sinni hálfu sem réttlæti það að stefnandi geti gengið fyrirvaralaust úr jafn ábyrgðarmiklu starfi og hann var í.  Ef stefnandi hafi verið óánægður með laun sín hefði hann einfaldlega átt að segja upp og leita sér að nýrri vinnu þar sem launin væru hærri og vinna út uppsagnartímann eins og siður er.  Að hætta svo skyndilega hjá stefnda sem stefnandi gerði sem fjármálastjóri þegar verst lét, en stefndi reki 5 hótel, hafi verið mjög ábyrgðarlaust og lýsi best vinnuframlagi og trúnaði stefnanda við stefnda.

Laun stefnanda hafi verið há miðað við almennan vinnumarkað, fyrir mann sem ekki sé viðskiptafræðimenntaður og starfi sem fjármálastjóri. Afar hæpið sé að reglur um brostnar forsendur eigi við hér sem ógildingarástæða ráðningarsamnings aðila, þ.e. að samningurinn sé óskuldbindandi fyrir stefnanda.  Til þess að svo geti orðið þurfi vanefnd stefnda að vera veruleg sem sé fráleitt í þessu samhengi.

Stefndi telur að stefnanda hafi verið óheimilt að hlaupast á brott úr starfi.  Hefði stefnandi viljað slíta ráðningarsamningi aðila hafi honum borið að segja honum upp með löglegum uppsagnarfresti og vera reiðubúinn að vinna út uppsagnarfrest sinn.

Til stuðnings sýknukröfu sinni vísar stefnandi til meginreglna kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og meginreglu um að gerða samninga skuli efna.  Jafnframt er vísað til meginreglna vinnuréttar um brotthlaup úr starfi og forsendur þess. Krafa um málskostnað er studd með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu fyrir dómi svo og Jón Ragnarsson, stjórnarformaður stefnda.

Fram kom hjá stefnanda að hann hafi ítrekað óskað eftir því við Valdimar Jónsson, framkvæmdastjóra stefnda, að launakjörin yrðu endurskoðuð en án árangurs. Stefnandi kvaðst hafa rætt þessi mál við Jón Ragnarsson, stjórnarformann stefnda, í byrjun mars 2000 og svo aftur um miðjan mánuðinn. Eftir það kvaðst stefnandi hafa talið að Jón Ragnarsson ætlaði sér ekki að standa við ráðningarsamninginn.

Föstudaginn 24. mars 2000 kvaðst stefnandi hafa byrjað vinnudaginn á því að keyra til Hveragerðis til fundar við útibússtjóra Búnaðarbankans vegna ýmissa óútkljáðra mála þar. Í Hveragerði gekk stefnandi frá launagreiðslu til sín fyrir marsmánuð 283.536 kr., þ.e. mánaðarlaun með orlofi að fjárhæð 446.360 kr. að frádreginni staðgreiðslu opinberra gjalda, greiðslu í lífeyrissjóð og til stéttarfélags, samtals 162.824 kr. Þetta kvaðst stefnandi hafa gert til þess að tryggja að hann fengi þessi laun greidd. Áður hafði stefnandi fengið 130.000 kr. greiddar fyrir fram. Til þeirrar fjárhæðar er litið í stefnukröfu.

Fram kom hjá Jóni Ragnarssyni að stefnandi hafi talað um launahækkun við sig og við Valdimar Jónsson og hafi þeir sagt stefnanda frá því að launahækkun kæmi ekki til greina. Jafnframt kom fram hjá Jóni að hann hafi ekki talið stefnanda valda starfi sínu og kvaðst Jón hafa greint stefnanda frá því að ef breyta ætti launum eitthvað þá væri það til lækkunar. Stefnandi hafi haldið áfram störfum og fengið fyrir það umsamin laun.

Niðurstaða

Grundvöllur réttarsambands aðila er ráðningarsamningurinn frá 22. júlí 1999. Samningur þessi er gagnkvæmur samningur og kveður á um réttindi og skyldur beggja aðila. Stefnanda var samkvæmt samningnum skylt að láta stefnda í té vinnuframlag sitt og stefnda skylt að greiða stefnanda laun sem ákveðin voru 400.000 kr. á mánuði. Uppsagnarfrestur var umsaminn þrír mánuðir.

Í ráðningarsamningnum er svofellt ákvæði: "Launakjör skulu endurskoðuð eftir 3 mánuði frá dagsetningu samnings þessa."  Ekki varð af endurskoðun launakjara þrátt fyrir ítrekuð tilmæli stefnanda allt frá því í október 1999. Stefnandi hélt áfram störfum hjá stefnda í fimm mánuði eftir að launakjörin skyldu endurskoðuð samkvæmt samningsákvæðinu og hætti svo fyrirvaralaust. Ekkert er fram komið um að stefnandi hafi nokkru sinni hreyft því við fyrirsvarsmenn stefnda, að hann myndi hætta störfum ef launakjör yrðu ekki endurskoðuð.

Ákvæðið um endurskoðun launakjara verður ekki túlkað svo að það feli í sér skilyrðislaust loforð um hækkun launa eftir þrjá mánuði, heldur eingöngu loforð um endurskoðun sem hefði getað haft í för með sér hvort heldur hækkun eða lækkun eða þá óbreytt launakjör.

Það að ekki varð af endurskoðun launakjara stefnanda verður ekki talin slík vanefnd samkvæmt reglum vinnuréttar, sbr. og 24. gr. hjúalaga nr. 22/1928, að réttlæti fyrirvaralausa riftun stefnanda á vinnusamningi. Með fyrirvaralausri riftun fyrirgerði stefnandi rétti til launa á uppsagnarfresti. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.

Samkvæmt 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að dæma stefnanda til greiðslu málskostnaðar sem eftir atvikum telst hæfilega ákveðinn 150.000 kr.

Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari dæmir málið.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Lykilhótel ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Valbjörns Steingrímssonar í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 150.000 kr. í málskostnað.