Print

Mál nr. 233/2003

Lykilorð
  • Könnun
  • Ráðningarsamningur
  • Riftun

Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003.

Nr. 233/2003.

Páll Þorgríms Jónsson

(Jónas Haraldsson hrl.)

gegn

S. Gunnarssyni ehf.

og Útgerðarfélaginu Lónfelli ehf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

 

Könnun. Ráðningarsamningur. Riftun.

Vanefnd S á greiðslu launa til P þótti, eins og á stóð, ekki þess eðlis að hún hafi heimilað P að slíta vinnusamningi þeirra fyrirvaralaust. Í ljósi þess var fyrirvaralaus riftun P á ráðningarsamningi aðila talin ólögmæt. Í samræmi við kjarasamning aðila og dómaframkvæmd var P gert að bæta S það tjón sem hann olli með riftun sinni og kom sú krafa S til skuldajafnaðar við þann hluta launakröfu P sem ágreiningur var ekki um, en S var dæmt til að greiða P það sem út af stóð, sbr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Til tryggingar þeirri fjárhæð var staðfestur sjóveðréttur P í bátnum B, sbr. 1. tl. 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar með stefnu 19. júní 2003. Hann krefst þess að stefndi S. Gunnarsson ehf. verði dæmdur til að greiða sér 1.639.507 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 308.839 krónum frá 15. júní 2001 til 1. júlí sama árs, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 15. júlí sama árs, af 432.290 krónum frá þeim degi til 15. ágúst sama árs, af 519.374 krónum frá þeim degi til 15. september sama árs, af 635.146 krónum frá þeim degi til 15. apríl 2002, af 1.568.897 krónum frá þeim degi til 15. maí sama árs og af 1.639.507 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Á hendur stefnda Útgerðarfélaginu Lónfelli ehf. gerir áfrýjandi þá kröfu að staðfestur verði sjóveðréttur í fiskiskipinu Blika BA 72, skipaskrárnúmer 530, fyrir 1.207.217 krónum, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 87.084 krónum frá 15. ágúst 2001 til 15. september sama árs, af 202.856 krónum frá þeim degi til 15. apríl 2002, af 1.136.607 krónum frá þeim degi til 15. maí sama árs, en af 1.207.217 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Áfrýjandi krefst málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétti reisir áfrýjandi málatilbúnað sinn á því að honum hafi verið heimilt að rifta ráðningu sinni fyrirvaralaust og án undanfarandi viðvörunar þar sem útgerðarstjóri stefnda S. Gunnarssonar ehf. hafi þann 11. apríl 2002 lýst því yfir í símtali við áfrýjanda að hann myndi ekki greiða honum vangreidd laun vegna útreiknings á aflahlut. Ekki verður séð að áfrýjandi hafi byggt á þessari málsástæðu í héraði og beindist gagnaöflun fyrir héraðsdómi ekki sérstaklega að því að leiða í ljós hvort forsvarsmenn stefnda S. Gunnarssonar ehf. hefðu gefið slíka yfirlýsingu. Kemst þessi málsástæða því gegn andmælum stefndu ekki að fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eins og henni var breytt með 17. gr. laga nr. 38/1994.

Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Með vísan til 1. málsliðar 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður hver málsaðili látinn bera sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 2. apríl 2003.

                Mál þetta var þingfest 4. september 2002 og tekið til dóms 6. mars síðastliðinn.  Stefnandi er Páll Þorgríms Jónsson, kt. 210656-5109, Yrsufelli 11, Reykjavík en stefndu eru S. Gunnarsson ehf., kt. 621193-2449, Eyrartröð 13, Hafnarfirði og Útgerðarfélagið Lónfell ehf., kt. 701299-4779, Eyrartröð 13, Hafnarfirði.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi, S. Gunnarsson ehf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.639.507 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 af 308.839 krónum frá 15. júní 2001 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 15. júlí 2001, af 432.290 krónum frá þeim degi til 15. ágúst 2001, af 519.374 krónum frá þeim degi til 15. september 2001, af 635.146 krónum frá þeim degi til 15. apríl 2002, af 1.568.897 krónum frá þeim degi til 15. maí 2002 og af 1.639.507 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar.

                Á hendur stefnda, Útgerðarfélaginu Lónfelli ehf., gerir stefnandi þá kröfu að staðfestur verði sjóveðréttur í dragnóta- og netabátnum Blika BA-72, skipaskrárnúmer 530, fyrir 1.207.217 krónum auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 87.084 krónum frá 15. ágúst 2001 til 15. september 2001, af 202.856 krónum frá þeim degi til 15. apríl 2002, af 1.136.607 krónum frá þeim degi til 15. maí 2002 en af 1.207.217 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Þá gerir stefnandi jafnframt þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða málskostnað.

                Stefndu krefjast þess að fjárhæð dómkröfu stefnanda verði lækkuð í 238.757 krónur.  Þá er gerð krafa um að málskostnaður verði látinn falla niður.

 

I

                Stefnandi réðist sem háseti á Blika BA-72, 63,7 brúttólesta dragnóta- og netabát, þann 15. febrúar 2000.  Frá því í apríl 2000 til 12. apríl 2002 gegndi stefnandi stöðu 1. stýrimanns á bátnum.  Enginn ráðningarsamningur var gerður en óumdeilt er að um ráðningarkjör fór samkvæmt sjómannalögum nr. 35/1985 og kjarasamningi á milli Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna.

                Verðlagsstofa skiptaverðs fékk til athugunar uppgjör til áhafnarinnar.  Í bréfi stofunnar 23. nóvember 2001 segir meðal annars að Verðlagsstofa skiptaverðs hafi haft til athugunar uppgjör við áhöfnina á Blika BA-72.  Könnun þessi hafi verið unnin með tilvísun í 6. gr. laga nr. 13/1998 og nái yfir tímabilið 1. júní 2000 til 31. júlí 2001.  Tilgangurinn hafi verið kanna hvort misræmis gæti milli söluverðs afla annars vegar og grunns að útreikningi á aflahlutdeild skipverja hins vegar.  Verðlagsstofa hafi sent niðurstöður úr athugun sinni til útgerðar og fengið greinargott svar.  Þegar tekið hafi verið tillit til leiðréttinga útgerðar séu niðurstöður þær að um misræmi sé að ræða.  Útgerðin geri ekki athugasemd við þá niðurstöðu Verðlagsstofu.  Í lok bréfsins er sagt að stofan sendi þessi gögn til skipverja og umbjóðenda þeirra og sé áframhaldandi framvinda málsins nú í höndum skipverja.

                Verðlagsstofa skiptaverðs fékk á ný til umfjöllunar ágreining áhafnar og útgerðar um skiptaverð.  Í bréfi 19. mars 2002 kemst stofan að þeirri niðurstöðu að útflutningskostnaður, sem dreginn hafi verið frá skiptum, sé óvenjuhár.  Í útreikningum stofunnar kemur fram að hásetahlutur fyrir tímabilið júní 2000 til júní 2001 eigi að hækka um 75.052 krónur af þessum sökum. Ágreiningslaust er að hlutur stefnanda vegna þessa er 112.578 krónur að viðbættu orlofi að fjárhæð 11.449 krónur eða samtals 124.027 krónur

                Í bréfi Verðlagsstofu skiptaverðs 12. mars 2002 er fjallað um uppgjör til áhafnar vegna skarkolaveiða mánuðina maí, júní, júlí og ágúst 2001.  Er komist að þeirri niðurstöðu í bréfinu að útgerðin hafi lagt til grundvallar fiskverðssamning aðila en ekki aflaverðmæti á fiskmarkaði eins og rétt hefði verið að gera þar sem allur skarkoli hafi verið seldur á fiskmarkaði.  Niðurstaða Verðlagsstofu er sú að vangreidd laun stefnanda vegna þessa nemi með orlofi 581.729 krónum.  Stefndi gerir ekki athugasemd við þessa útreikninga Verðlagsstofu og hefur samþykkt að hann skuldi stefnanda þessa fjárhæð vegna skarkolaveiðavertíðar  2001.

                Með bréfi stefnda til stefnanda 18. mars 2002, sem stefnandi móttók sama dag, var stefnanda sagt upp störfum frá og með 19. mars 2002.  Í uppsagnarbréfi er tekið fram að uppsagnarfrestur samkvæmt kjarasamningi sé 3 mánuðir og ljúki því starfstíma stefnanda hjá stefnda 19. júní 2002.  Með símskeyti 15. apríl 2002 rifti stefnandi ráðningarsamningi sínum hjá stefnda.  Sama dag sendi lögmaður stefnanda innheimtubréf til stefnda og gerði kröfu um vangoldin laun, greiðslu launa eða skaðabóta í uppsagnarfresti, greiðslu dráttarvaxta og innheimtuþóknunar, samtals að fjárhæð 1.978.340 krónur. 

                Stefndi mótmælti riftun stefnanda á ráðningarsamningi með skeyti 18. apríl 2002 og minnti stefnanda á að samningurinn væri enn í gildi.  Stefnanda bæri að mæta til skips í Þorlákshöfn kl. 07:00 næstkomandi sunnudagsmorgun en þá færi skipið á veiðar.  Mæti hann ekki áskilji stefndi sér rétt til að krefja stefnanda um bætur vegna tjóns sem af því kunni að leiða.

 

II.

                Stefnandi byggir á því að stefndi hafi ekki gert upp við stefnanda úr aflahlut fiskiskipsins Blika í samræmi við ákvæði laga og kjarasamninga.  Stefndi hafi litlar sem engar veiðiheimildir á skipinu og þurfi hann því að leigja til sín veiðiheimildir að langmestu leyti.  Telur stefnandi að hann hafi verið látinn taka þátt í kaupum á veiðiheimildum og þar með að taka þátt í útgerðarkostnaði stefnda.  Slíkt sé andstætt ákvæðum 1. og 2. málsliðar 1. mgr. 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, sbr. 10. gr. laga nr. 79/1994.  Þessi grundvallarregla í samskiptum útvegsmanna og sjómanna sé jafnframt staðfest í grein 1.03. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.  Þetta athæfi sé jafnframt brot á 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

                Stefnandi hafi rift fyrirvaralaust ráðningarsamningi aðila þegar honum hafi orðið kunnugt um misferli stefnda.  Skilasvik af þessum toga séu refsiverð og sé því fyrirvaralaus riftun lögmæt.  Bótarétt sinn byggir stefnandi á 25. gr. og 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.  Skaðabætur séu miðaðar við aflareynslu skipsins undanfarna mánuði.  Stefnandi hafi unnið 28 daga af uppsagnarfresti og standi því eftir 62 dagar til útreiknings skaðabótanna.  Þannig telst stefnanda til að meðallaun hans hafi numið 14.740 krónum á dag að viðbættum fæðispeningum, samtals að fjárhæð 36.611 króna. Bætur nemi því samtals 933.751 krónu.

                Dráttarvextir reiknist af meðalbótum samkvæmt 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 frá ráðningarlokum stefnanda hjá stefnda þann 15. apríl 2002.

                Af hálfu stefnda er ekki gerð athugasemd við launakröfu stefnanda að fjárhæð 705.632 krónur.  Felst stefndi á útreikninga Verðlagsstofu skiptaverðs í því sambandi og gerir ennfremur ekki athugasemd við upphafstíma dráttarvaxta hvað varðar þá kröfu.  Hann fellst einnig á að sjóveðréttur standi fyrir kröfu stefnanda.

                Hins vegar byggir stefndi á því að riftun stefnanda á ráðningarsamningi aðila þann 15. apríl hafi verið ólögmæt.  Stefnandi eigi því ekki rétt á skaðabótum sem nemi launum í uppsagnarfresti frá 15. apríl 2002 til loka uppsagnarfrests eins og krafist sé í málinu.

                Samkvæmt grein 1.21. í kjarasamningi aðila eigi útgerðarmaður rétt á bótum úr hendi yfirmanns sem fari fyrirvaralaust úr starfi, bætur sem nemi launum á hálfum uppsagnarfresti eða helmings þess tíma sem eftir sé af uppsagnarfrestinum.  Óumdeilt sé að laun stefnanda fyrir þann tíma séu 933.751 króna.  Bótakrafa stefnda á hendur stefnanda sé því helmingur þeirrar fjárhæðar eða 466.875 krónur. 

                Gagnkrafa stefnda er því þannig reiknuð að til frádráttar launakröfu að fjárhæð 705.632 krónur kemur bótakrafa stefnda að fjárhæð 466.875 krónur.  Eftirstöðvar eru því 238.757 krónur sem er stefnukrafa málsins.  Stefndi krefst þess að bótakrafan komi til skuldajafnaðar við launakröfu stefnanda miðað við 15. apríl 2002 enda hafi bótakrafan þá fallið í gjalddaga.  Stefndi viðurkenni því að skulda stefnanda 238.757 krónur og viðurkennir jafnframt að sjóveðréttur standi fyrir þeirri kröfu auk dráttarvaxta til greiðsludags.

                Stefndi mótmælir fullyrðingu stefnanda um refsiverða háttsemi fyrirsvarsmanna stefndu.  Útreikningar á skiptaverði séu flóknari en hefðbundnir launaútreikningar og vafaatriði mörg.  Byggir stefndi á því að ágreiningur hafi verið um uppgjörsútreikninga og vafaatriði í því sambandi.  Stefndi hafi hins vegar ákveðið að una við útreikninga Verðlagsstofu skiptaverðs. 

                Stefndi heldur því fram að stefnanda hafi verið fullkunnugt um uppgjörsaðferðir þessar og hafi hann unnið hjá stefnda eftir sem áður.  Stefnandi hafi horfið úr vinnu án þess að skora fyrst á stefnda að greiða vangoldin laun.  Á þeim tíma er stefnandi hafi lýst yfir riftun og í nokkra mánuði þar á undan hafi stefndi greitt stefnanda réttilega öll laun í samræmi við samninga.  Vanefnd stefnda hafi einungis varðað uppgjörsaðferð á einni fisktegund tiltekið tímabil.  Að öðru leyti hafi stefndi staðið við ráðningarsamning sinn við stefnanda.  Vanefnd stefnda hafi því ekki verið veruleg.

                Máli sínu til stuðnings vísar stefndi til sjómannalaga nr. 35/1985 og almennra reglna vinnuréttar um skyldur launþega til þess að inna vinnuskyldu sína af hendi á uppsagnarfresti.  Um bótakröfu vísar stefndi til greinar 1.21 í kjarasamningi og heimild til skuldajöfnuðar til 28. gr. laga nr. 91/1991. 

 

III.

                Stefnandi réðist sem háseti á dragnóta- og netabátinn Blika BA-72 í febrúar 2000 en gegndi stöðu stýrimanns frá apríl 2000 til 12. apríl 2002.  Honum var sagt upp starfi frá og með 19. mars 2002 og var þess krafist að hann ynni út uppsagnarfrestinn.  Stefnandi rifti hins vegar ráðningarsamningi sínum við stefnda 15. apríl 2002 og mætti ekki til vinnu eftir það.  Hann krefst launa eftir 15. apríl 2002 til loka uppsagnarfrests 19. júní 2002, samtals að fjárhæð 933.751 króna.  Þá kröfu rökstyður stefnandi með því að honum hafi verið heimilt að víkja úr starfi vegna brota stefnda á vinnusamningi aðila.

                Eins og framan er rakið er ekki deilt um í málinu að um ráðningarkjör stefnanda fór samkvæmt sjómannalögum nr. 35/1985 og kjarasamningi milli Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna.  Óumdeilt er að uppsagnarfrestur var 3 mánuðir.  Þá hefur stefndi og samþykkt útreikninga Verðlagsstofu skiptaverðs vegna skarkolavertíðar frá maí til ágúst 2001 og að hann skuldi stefnanda vegna þeirrar vertíðar 581.729 krónur.  Hann hefur einnig samþykkt útreikninga Verðlagsstofu skiptaverðs vegna ofreiknaðs útflutningskostnaðar að fjárhæð 124.027 krónur.  Samtals hefur stefndi því viðurkennt að skulda stefnanda laun að fjárhæð 705.756 krónur.  Stefndi hefur einnig viðurkennt dráttarvaxtakröfu stefnanda og að sjóveðréttur standi fyrir þessari fjárhæð.

                Ágreiningur aðila snýst því eingöngu um hvort stefnanda beri laun fyrir þann tíma er eftir stóð af uppsagnarfresti, eftir að stefnandi hvarf úr vinnu.  Óumdeilt er að laun fyrir þann tíma nema 933.751 krónu.

                Upplýst er í málinu að stefndi vanefndi samning sinn við stefnanda með því að greiða honum lægri laun en honum bar. Þó svo að stefndi hafi ekki enn gert upp við stefnanda verður ekki annað séð af gögnum málsins en að stefndi hafi viðurkennt mistök sín við útreikning launa eftir að Verðlagsstofa skiptaverðs hafði fjallað um málið.

Ósönnuð telst sú staðhæfing stefnanda að stefndi hafi brotið af sér með refsiverðum hætti við launauppgjör við stefnanda.  Stefnandi gaf stefnda ekki kost á því að greiða vangoldin laun áður en hann rifti samningi aðila fyrirvaralaust og hvarf úr vinnu. Hin vangoldnu laun voru að mestu  fyrir tímabilið maí til ágúst 2001 og hafði því stefnandi unnið hjá stefnda í rúma 7 mánuði eftir það og fengið rétt uppgert.  Vanhöld stefnda á launagreiðslum voru að mestu fyrir ákveðið tímabil vegna ákveðinnar fisktegundar.  Þegar framangreint er virt þykir fyrirvaralaust brotthlaup stefnanda úr starfi ólögmætt.  Vanefnd stefnda á greiðslu launa til stefnanda þykir ekki eins og hér stendur á  þess eðlis að hún hafi heimilað stefnanda að slíta vinnusamningi aðila fyrirvaralaust.

Samkvæmt gr. 1.21 í kjarasamningi aðila og dómaframkvæmd verður stefnandi að bæta stefnda það tjón sem stefnandi olli stefnda með ólögmætu brotthlaupi.  Er gert ráð fyrir meðalhófsbótum samkvæmt 25. gr. hjúalaga nr. 22/1928 sé fjárhæð tjóns ekki sönnuð.  Er þá miðað við helming af kaupi fyrir þann tíma sem eftir var af uppsagnarfresti.  Ágreiningslaust er að laun fyrir það tímabil er eftir stóð af uppsagnarfresti voru 933.751 króna.  Stefndi á því rétt á bótum er nemi helming þeirrar fjárhæðar eða 466.875 krónur.  Samkvæmt 28. gr. laga nr. 91/1991 kemur sú krafa til skuldajafnaðar við launakröfu stefnanda að fjárhæð 705.756 krónur.  Eftirstöðvar eru því 238.881 króna og verður stefndi dæmdur til þess að greiða þá fjárhæð með vöxtum eins og krafist er í stefnu.

 Með vísan til 1. tl. 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985 á stefnandi sjóveðrétt í Blika BA- 72, skipaskráningarnúmer 530, til tryggingar tildæmdri fjárhæð.

Eftir þessari niðurstöðu verða báðir stefndu dæmdir til þess að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ

                Stefndi, S. Gunnarsson ehf., greiði stefnanda, Páli Þorgríms Jónssyni, 238.881 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 15. júní 2001 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. 

Stefnandi á sjóveðrétt hjá stefnda, Útgerðarfélaginu Lónfelli ehf., í Blika BA- 72, skipaskrárnúmer 530, til tryggingar tildæmdri fjárhæð.

Stefndu greiði stefnanda 150.000 krónur í málskostnað.