Print

Mál nr. 277/2000

Lykilorð
  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Sekt
  • Vararefsing

Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. nóvember 2000.

Nr. 277/2000.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Jóni Sigurðssyni

(Örn Clausen hrl.)

                                                   

Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Sekt. Vararefsing.

J, sem var einn af eigendum fyrirtækisins R og gegndi jafnframt stöðu stjórnarmanns, var ákærður fyrir vanskil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda. Hann var sakfelldur í héraði og þóttu brot hans vera meiriháttar. Hæstiréttur taldi að J hefði átt beinan hlut að því, með stórfelldri vanrækslu, að skilaskyldu vörsluskatta hefði ekki verið sinnt og staðfesti niðurstöðu héraðsdóms. Hæstiréttur féllst ekki á það með J að ákvörðun hárrar sektar og vararefsingar vegna hennar fælu í sér brot gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar eða mannréttindasáttmála Evrópu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjörtur Torfason og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari hefur skotið málinu til Hæstaréttar 4. júlí 2000 að ósk ákærða, með vísan til a-, b- og c-liða 147. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. lög nr. 37/1994. Tveir aðrir ákærðir voru einnig sakfelldir í héraði, en ekki er áfrýjað þeirra vegna. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist, að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur, að því er ákærða varðar, bæði um sakarmat og refsingu.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins. Til vara krefst hann þess, að sér verði ekki gerð sektarrefsing, en til þrautavara, að vararefsing vegna sektar falli niður.

Í ákæru málsins er ákærði talinn eiga að sæta refsiábyrgð vegna vanskila á virðisaukaskatti, sem innheimtur var í nafni Rafsýnar ehf. á Akranesi mánuðina mars-desember 1995 og skila bar á tveggja mánaða fresti, ásamt vanskilum á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins mánuðina apríl-júní og september-desember 1995 og skila átti mánaðarlega. Að auki nær ákæran til staðgreiðsluskila vegna júnímánaðar 1994.

Hér fyrir dómi hefur ákærði sérstaklega haldið því fram, að sakfelling á hendur honum vegna þessara vanskila félagsins fari í bága við 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, þar sem sakarmatið sé reist á löglíkum vegna þátttöku hans í félaginu, er honum sé ekki unnt að hnekkja, og honum í raun gert að sæta hlutlægri refsiábyrgð. Á þetta verður ekki fallist, þar sem telja verður ákærða hafa átt beinan hlut að því með stórfelldri vanrækslu, að starfsemi félagsins var vísvitandi haldið uppi um tiltölulega langan tíma án þess að skilaskyldu vegna hinna mikilvægu vörsluskatta, sem hér var um að tefla, væri gegnt með nauðsynlegum greiðslum. Einnig hefur ákærði fært það fram, að ákvörðun hárrar sektar og vararefsingar vegna hennar feli í sér brot gegn 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, þar sem efnahag hans sé þannig farið, að þetta leiði til mismununar, er jafna megi við skuldafangelsi, sem einnig fari í bága við 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 1. gr. 4. samningsviðauka við hann, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994. Ekki eru heldur efni til þess, að á þetta verði fallist, en við ákvörðun vararefsingar á hendur ákærða hefur héraðsdómari litið til þess, hver viðurlög honum kynnu að hafa verið búin, ef ekki væri mælt fyrir um lágmark þeirra í lögum, sbr. dóm Hæstaréttar 18. febrúar 1999, H.1999.544.

Að þessu athuguðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með skírskotun til forsendna hans.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, svo sem í dómsorði segir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður.

Ákærði, Jón Sigurðsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, 90.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2000.

Málið er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra 22. desember 1999 sl. gegn ákærðu, A, […], B, […] og Jóni Sigurðssyni, Bólstaðarhlíð 64, Reykjavík, kennitala 110557-5239,

„  A. Fyrir brot framin í rekstri R ehf.

I.  Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.

a.                    Ákærðu öllum er gefið að sök,

ákærða Jóni sem stjórnarformanni, B og A sem stjórnarmönnum og öllum sem daglegum stjórnendum einkahlutafélagsins R, […] , sem úrskurðað var gjaldþrota 17. apríl 1997, fyrir að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Sýslumanninum á C skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins á árinu 1995 samtals að fjárhæð kr. 1.275.977 og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Árið 1995

Mars - apríl                              kr. 487.207

Maí - júní                                 kr. 25.761

Júlí – ágúst                              kr.763.009                                 kr. 1.275.977

Samtals:                                                                                     kr.1.275.977

b.            Ákærðu Jóni og A er gefið að sök,

ákærða Jóni sem stjórnarformanni og A sem stjórnarmanni R ehf. að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Sýslumanninum á C skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins á árinu 1995 samtals að fjárhæð kr. 1.234.948 og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Árið 1995

September – október              kr. 722.003

Nóvember – desember           kr. 512.945                                kr. 1.234.948

Samtals:                                                                                     kr. 1.234.948

c.             Ákærða A er gefið að sök,

[…]

             Háttsemi ákærðu samkvæmt a, b, og c kafla telst varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

II.   Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

a.             Ákærðu öllum er gefið að sök,

að hafa brotið gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Sýslumanninum á C skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna R ehf. á árunum 1994 og 1995 samtals að fjárhæð kr. 1.008.840 og sundurliðast sem hér greinir:

Greiðslutímabil:

Árið 1994

Júní                                           kr.176.957                                 kr.176.957

Árið 1995

Apríl                                         kr.237.148

Maí                                           kr.202.015

Júní                                           kr.283.871

September                                kr.108.849                                 kr.831.883

Samtals:                                                                                     kr. 1.008.840

b.            Þá er ákærðu A og Jóni gefið að sök,

að hafa brotið gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Sýslumanninum á C skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna R ehf. á árinu 1995 samtals að fjárhæð kr. 588.223 og sundurliðast sem hér greinir:

Greiðslutímabil:

Árið 1995

Október                                    kr.140.352

Nóvember                                kr.215.680

Desember                                 kr.232.191                                 kr.588.223

Samtals:                                                                                     kr.588.223

Háttsemi ákærðu samkvæmt köflum a og b telst varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

[…]

I.

Fyrst verður fjallað um sakargiftir í A kafla ákæru, er lúta að R ehf.

Tilgangur félagsins á því tímabili sem hér um ræðir var samkvæmt hlutafélagaskrá rekstur rafmagnsverkstæðis og nauðsynleg starfsemi tengd rekstrinum. Þetta hafa ákærðu staðfest.  Stofnsamþykktir félagsins eru dagsettar 20. september 1990, sem voru mótteknar af hlutafélagaskrá daginn eftir, en þeim var breytt 17. október 1995.  Frá stofnun félagsins og fram til breytinganna var stjórn félagsins skipuð ákærða Jóni Sigurðssyni, stjórnarformanni, ákærða B, varaformanni og ákærða A meðstjórnanda. S, fyrrverandi eiginkona ákærða A, var skráð fjármálastjóri og E, eiginkona ákærða B, ritari.  Allir stjórnarmenn voru með prókúruumboð.

Ákærði B gekk úr stjórninni 17. október 1995 og var hún nú skipuð ákærða Jóni Sigurðssyni, stjórnarformanni, og meðstjórnendunum ákærða A og S.  Með bréfum 9. júlí 1996 og 27. ágúst sama ár sögðu þau Jón og S sig úr stjórninni.  Bú félagsins var sem fyrr segir tekið til gjaldþrotaskipta 17. apríl 1997.

Rannsókn máls þessa hófst með því að skattrannsóknarstjóri ríkisins tilkynnti skiptastjóra í þrotabúi félagsins með bréfi 6. janúar 1999 að rannsókn væri hafin á skattskilum fyrirtækisins.  Rannsóknin beindist að skilum fyrrum fyrirsvarsmanna fyrirtækisins á staðgreiðsluskilum vegna tekjuáranna 1994 og 1995 og skilum virðisaukaskatts vegna uppgjörsáranna 1995 og 1996.  Nánar tiltekið beindist rannsóknin að skilum á skýrslum til skattyfirvalda vegna afdreginnar skilaskyldrar staðgreiðslu opinberra gjalda af launum starfsmanna og virðisaukaskattskyldrar starfsemi á grundvelli skýrslna og skilum fyrirsvarsmannanna og skilum þeirra á staðgreiðslu og þeim virðisaukaskatti, sem tilgreind var til greiðslu samkvæmt skýrslunum. 

Rannsókn skattrannsóknarstjóra og ríkislögreglustjóra byggðist á upplýsingum ákærðu, sem þeir veittu við skýrslutökur, staðgreiðsluskilum og sundurliðuðum afdreginni skilaskyldri staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna félagsins fyrir greiðslutímabilin júní og desember tekjuárið 1994 og mars- júní, ágúst- desember tekjuárið 1995 og yfirlýsingu sýslumannsins á C um skuldastöðu félagsins vegna skilaskyldrar staðgreiðslu opinbera gjalda launamanna fyrir ofangreind greiðslutímabil.  Þá byggðist rannsóknin ennfremur á virðisaukaskattskýrslum félagsins fyrir öll uppgjörstímabil tekjuársins 1995 og september-október 1996, samanburðar og leiðréttingarskýrslum virðisaukaskatts vegna tekjuársins 1995 í samræmi við bókhald félagsins og yfirlýsingu sýslumannsins á C um skuldastöðu félagsins vegna innheimts virðisaukaskatts fyrir ofangreind uppgjörstímabil.

Skilagreinar virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir umrætt tímabil eru ýmist undirritaðar af ákærðu A og B eða X, bókara félagsins.

Niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra var sú að vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur hjá sýslumannsins á C pr. 1. febrúar 1999, vegna þeirra tímabila sem ákæran lýtur að, nam samtals kr. 3.795.228 krónur auk álags, dráttarvaxta og kostnaðar.  Þá nam vangoldin skilaskyld staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna til sama sýslumanns á ofangreindum tíma samtals 1.700.842 krónur fyrir utan álag, dráttarvexti og kostnað.

Ákærðu og skiptastjóra þrotabúsins var send niðurstaða rannsóknarinnar 29. mars 1999 þar sem þeim var gefinn kostur á að tjá sig um skýrslurnar í samræmi við 13. gr., sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Ákærðu sendu skattrannsóknarstjóra andmæli með bréfum er bárust 28. apríl 1999.  Kváðust þeir ekki hafa komið nálægt daglegum rekstri fyrirtækisins.  Andmælin breyttu ekki niðurstöðu rannsóknarinnar og lauk henni 29. apríl 1999.  Skattrannsóknarstjóri sendi ríkisskattstjóra skýrsluna 3. maí 1999.  Sú ákvörðun var tilkynnt ákærðu samdægurs.  Ríkisskattstjóri tilkynnti skattrannsóknarstjóra ríkisins 5. sama mánaðar þá ákvörðun sína að hann hygðist ekki nýta sér heimildir sínar til endurákvörðunar í málinu.  Með bréfi skattrannsóknarstjóra 27. maí 1999 var ákærðu tilkynnt fyrirhuguð ákvörðun um refsimeðferð málsins.  Skattrannsóknarstóri vísaði málinu til ríkislögreglustjóra með bréfi 23. ágúst sl.

Samkvæmt rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, sem byggðist á sömu gögnum og rannsókn skattrannsóknarstjóra auk tölvuútskrifta úr bókhaldi innheimtumanns ríkissjóðs pr. 31. ágúst 1999, nam vangoldinn virðisaukaskattur samtals kr. 3.600.260 krónur auk álags, dráttarvaxta og kostnaðar.  Mismunur þeirrar fjárhæðar og fjárhæðar niðurstöðu skattrannsóknarstjóra, 194.968 krónur, byggist á því að tekið er tillit til innborgunar, sem innheimtumaður færði sem greiðslu á dráttarvöxtum og álagi virðisaukaskatts sem nam þessari fjárhæð, til lækkunar á höfuðstól.  Á sama hátt nam vangoldin skilaskyld staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna til sama sýslumanns á ofangreindum tíma samtals 1.597.063 krónur fyrir utan álag, dráttarvexti og kostnað.  Mismunur þeirrar fjárhæðar og fjárhæðar niðurstöðu skattrannsóknarstjóra, 103.779 krónur, byggist einnig á því að höfuðstóll lækkar vegna innborgunar, sem innheimtumaður færði sem greiðslu á dráttarvöxtum og álagi ofangreindra gjalda sem nam þessari fjárhæð.

Við meðferð málsins voru lögð fram yfirlit yfir greiðslur R ehf. til innheimtumanns frá 1. júlí 1994 til 27. desember 1999 vegna innheimts virðisaukaskatts og staðgreiðslu launamanna og skuldir vegna sömu vörsluskatta. Fram kemur á yfirlitinu að þær skuldir voru afskrifaðar 28. desember 1999.  Yfirlitin sýna hvernig greiðslum var ráðstafað inn á tiltekin greiðslutímabil.  Þá voru einnig lögð fram yfirlit yfir staðgreiðslur opinberra gjalda félagsins 1993-1995 ásamt gögnum um innborganir á virðisaukaskatti 1993-1995, sem einni sýna stöðu félagsins á skilum opinberra gjalda svo og tryggingargjaldi og hvernig greiðslum vörsluskattanna hefur verið háttað inn á hvert greiðslutímabil.

Í skýrslu sinni hjá skattrannsóknarstjóra 1. febrúar 1999 upplýsti ákærði A að launamenn hefðu fengið öll laun greidd, þrátt fyrir að staðgreiðslu opinberra gjalda af laununum hefði ekki verið skilað til innheimtumanns staðgreiðslu.  Hvorki hafi verið til fjármagn til að skila staðgreiðslunni né virðisaukaskattinum, þar sem aðalverktaki hafi ekki staðið í skilum.  Enginn hafi tekið ákvörðun um það að halda fénu eftir, það hafi hreinlega ekki verið til.  Umræddum vörslusköttum hafi ekki verið haldið aðgreindum og þeir runnið í reksturinn.  Ákærði Jón kvaðst í skýrslu sinni 17. mars sama ár hvorki vita hvort greiðslunum var skilað né hvort þeim var haldið aðgreindum frá rekstrarfénu.  A hafi borið ábyrgð á þessu. Ákærði B kvaðst ekki hafa vitað að fyrirtækið skuldaði framangreind gjöld og því ekki vitað hvers vegna þeim var ekki skilað til innheimtumanns.

Ákærðu voru yfirheyrðir við rannsókn og meðferð málsins. 

Ákærði, A, var yfirheyrður að verjanda sínum viðstöddum hjá ríkislögreglustjóra 9. desember svo og fyrir dómi.

Ákærði kvaðst vera rafvirkjameistari og hans starf á vegum félagsins hafi einkum verið að afla verkefna, sjá um tilboð í verk.  Hann hafi verið „skrifaður fyrir” verklegum framkvæmdum fyrirtækisins, skrifað upp á verkin og fylgt þeim eftir.  Jafnframt hafi hann haft umsjón með framgöngu verka og lúkningu þeirra.  Hann kvað það alrangt að hann hafi séð um fjármálastjórn félagsins enda hafi hann aðallega séð um verklegar framkvæmdir og útvegun verkefna og eftirlit með verkum, aðallega í Reykjavík.  Þar hafi hann mest starfað þótt hann hafi verið búsettur á C.  Aðspurður um það hver hafi séð um daglega fjármálastjórn félagsins kvaðst hann ekki geta svarað því.  Enginn sérstakur hafi séð um það, en þeir Jón hafi aðallega starfað í Reykjavík.  Jón hafi verið stjórnarformaður allan tímann sem hann var í félaginu og unnið við rafvirkjastörf í Reykjavík þar sem hann var búsettur.  B hafi starfað sem rafvirki á C með sama hætti og Jón í Reykjavík.  Starfsstöð félagsins og bókhald hafi verið á C.  Ákærði sagði að stjórnarafundir hafi ekki verið haldnir reglulega. Hann hafi aldrei verið boðaður formlega  á stjórnarfundi og ekki fylgst með meðferð fjármuna félagsins. Þeir hafi haft aðgang að bókhaldsgögnum og fengið ársskýrslur og undirritað þær.  Hann kvaðst heldur ekki minnast þess að hafa rætt það við meðákærðu hvernig staða umræddra vörsluskatta væri hjá félaginu.  Sjálfsagt hefði það borið á góma en á þessum tíma hafi félagið tapað töluverðum fjármunum vegna gjaldþrota annarra fyrirtækja.  Ákærði sagði að E og S hafi ekkert komið nálægt rekstri félagsins.  Þær hafi verið skráðar í upphafi til málamynda til að uppfylla skilyrði laga um fimm stjórnarmenn. S hafi verið skráð framkvæmdarstjóri félagsins jafnframt því að vera fjármálastjóri, en aldrei starfað sem slík.  Hann og meðákærðu hafi allir átt jafnan hlut í félaginu og tekið allar meiriháttar ákvarðanir sameiginlega, en enginn hafi í raun stjórnað fjármálunum.  Ákærði sagði að þeir B hafi haft eftirlit og samskipti við bókarann um vinnu hans.  B hafi þó í raun haft mest með höndum daglega fjármálastjórnun þar sem hann vann á C en þeir Jón í Reykjavík.  Jón hafi lítið komið að þeim málum þar sem hann var búsettur í Reykjavík.  Hann kvað bókara félagsins, X, hafa séð um að fylla út virðisaukaskattskýrslurnar, en hann hafi undirritað eina slíka skýrslu og nokkrar skýrslur um skil opinberra gjalda launamanna.  Hann kvaðst ekki hafa fylgst með bókhaldi félagsins, enda hefði hann ekkert vit haft á því og treyst bókaranum til þess að færa bókhaldið. 

Ákærði kannaðist við gögn um gerð og skil skilagreina vegna afdreginnar staðgreiðslu og virðisaukaskatt svo og leiðréttingarskýrslur og kvað þau byggð á bókhaldi félagsins og lögð fram á ábyrgð félagsins.  Ákærði tók fram að hann hafi átt inni ógreidd laun hjá félaginu, sem komi fram í ársreikningum félagsins 1994 og 1995, en hluti staðgreiðslu afdreginna launa, sem fjallað er um í ákæru, sé vegna hans eigin launa sem aldrei hafi verið greidd.  Hann lagði engin gögn fram þessu til staðfestu.  Hann kannaðist ekki við að frekari greiðslur hafi verið inntar af hendi af hálfu félagsins en fram eru komnar í málinu.  Ákærði taldi að meðákærði B hefði séð um að standa skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir félagið. 

Hann kvaðst hafa haft prókúruumboð eins og meðáærðu og fengið ávísanahefti, en eingöngu notað það til kaupa á efni í Reykjavík.  Félagið hafi verið með viðskipti í Íslandsbanka á C og þeir B hafi haft séð um nauðsynleg samskipti við bankann. Ákærði kvaðst engar formlegar tilkynningar hafa fengið um úrsögn meðákærðu úr stjórn félagsins í október 1995 og júlí 1996.

Ákærði sagði að ekki verið nein verkleg starfsemi hjá R ehf. eftir árslok 1995.  Hann hafi reynt að ganga frá lausum endum í sambandi við verk sem lokið var, svo sem uppmælingu o.fl.

Ákærði, B, var yfirheyrður hjá ríkislögreglustjóra 14. desember sl. að viðstöddum verjanda sínum og við meðferð þess fyrir dómi.  Ákærði kvaðst hafa verið stjórnarmaður hjá R ehf. en hafa gengið úr félaginu 17. október 1995.  Hann hafi verið rafvirki hjá félaginu og annast verkstjórn.  Hann hafi séð um verklegar framkvæmdir á C og einstaka verk í Reykjavík.  Hann hafi hins vegar ekkert haft með fjármál félagsins að gera eða daglega stjórn þess utan þess að vera með prókúru sem hann notaði.  Dagleg fjármálastjórn, skattskil o.fl. hafi alfarið verið í höndum meðákærða A.  Hann hafi ekki þekkt til virðisaukaskýrslna, staðgreiðsluskilagreina eða frágangs á þeim, en hann hafi undirritað einhverjar slíkar skýrslur sem verkstjóri félagsins og afhent til sýslumanns.  Skýrslum þessum hafi í sumum tilfellum fylgt greiðsla en í öðrum ekki.  Ákærði kvaðst ekki kunna skil á því af hverju skýrslum hafi verið skilað of seint í einhverjum tilvikum og taldi hann ástæður þess að skýrslur eru undirritaðar en ekki dagsettar af honum vera þær að Unnur, starfsmaður félagsins, hafi fyllt þær út og ritað dagsetningu.  Þá hafi einhverjar skýrslur farið til banka með öðrum pappírum og bankinn séð um greiðsluna, þessu hafi ekki fylgt nein beiðni um millifærslu.  A hafi haldið utan um viðskipti félagsins við banka þess.

Ákærði kvað hann og meðákærða, A, ekki hafa rætt skil samkvæmt þessum skýrslum og að hann hafi ekki vitað af vanskilum fyrr en fyrir rúmu ári síðan.  Ákærði viðurkenndi þó að honum hafi verið ljóst að ekki hafi verið greitt á gjalddaga þegar hann skilaði skýrslum án greiðslu, en haldið að allt hefði verið gert upp síðar. Ákærði kvaðst hafa áritað ársreikning fyrir tekjuárið 1994 þrátt fyrir að hafa ekkert haft með fjármálin að gera.  Skýringu þess kvað hann vera þá að hann hefði verið skráður stjórnarmaður félagsins.

Ákærði kvað meðákærða, Jón Sigurðsson, hafa séð um verklegar framkvæmdir í Reykjavík og verið verkstjóri þar.  Hann hafi hins vegar ekki verið með neina fjármálastjórn.  Meðákærði, A, hafi mikið séð um tilboðsgerð, samninga og einstaka verk og að mestu séð um fjármál fyrirtækisins.  A hafi verið meistari fyrirtækisins og ákærði litið svo á að hann leiddi starfsemina.

Ákærði greindi frá því að þeir hafi stofnað félagið til að annast rafvirkjastarfsemi sem þeir unnu að saman.  Þeir hafi greitt sér sömu laun hjá félaginu.  A hafi tekið ákvarðanir um hvaða reikningar og skuldir, þ.á.m. virðisaukaskattur og staðgreiðsla, skyldu greiddir.  Fyrir skattrannsóknarstjóra bar ákærði að hann vissi ekki hver tók ákvörðun um og bar ábyrgð á því að innheimtu virðisaukaskatts var ekki skilað til ríkissjóðs.

Ákærði kvaðst hafa haft aðgang að bókhaldsgögnum á starfstöð félagsins.  Hann hafi talið reksturinn ganga ágætlega og að ekki væri um vanskil að ræða.  Honum hafi verið tjáð þegar hann hætti í félaginu að fyrirtækið væri í plús.  Hann hafi spurt A um þetta og fengið þau svör að allt væri gott.  Ekkert hafi komið fram í samtölum hans og X um að skattur væri í óreiðu.

Ákærði greindi jafnframt frá því að hann hafi starfað hjá félaginu í tvo til tvo og hálfan mánuð eftir að hafa sagt sig úr félaginu.  Hann hafi ekki fylgst með félaginu og rekstri þess eftir það en taldi að það hefði verið í rekstri.  Engir stjórnarfundir hafi verið haldnir þegar hann var í stjórn félagsins og hafi hann ekki gert athugasemdir við það hvorki til þess að óska eftir að sjá skattskil eða önnur gögn.  Tilkynningu hans um úrsögn úr félaginu hafi X sent til Hlutafélagaskrár.  Hann hafi sjálfur tilkynnt meðákærðu munnlega að hann væri á leið úr fyrirtækinu.  Ástæður þess að hann hafi haldið áfram að vinna hjá fyrirtækinu hafi verið þær að hann hafi ætlað fyrr erlendis en fengið að halda vinnunni þar til af því varð.  Þá kvaðst ákærði ekki þekkja neitt til reksturs R á C og R Reykjavík og ekki hafa komið neitt að þeim félögum.

Ákærði kvað E og S ekki hafa haft neina stöðu í fyrirtækinu.  Þær hefðu verið skráðar í það til að uppfylla viss skilyrði við stofnun félagsins.  S hafi aldrei gegnt starfi framkvæmdastjóra þrátt fyrir að vera tilnefnd til þess samkvæmt stofnfundargerð.

Ákærði, Jón Sigurðsson, hefur skýrt svo frá í yfirheyrslum hjá Ríkislögreglustjóra 16. desember sl. og við meðferð málsins fyrir dómi, að hann hafi verið rafvirki hjá R ehf. og starfað sem verkstjóri.  Meðákærði, A, hafi verið starfandi framkvæmdastjóri hjá félaginu en ekki skráður sem slíkur í Hlutafélagaskrá.  A hafi verið skráður rafvirkjameistari félagsins og því ábyrgur fyrir öllum verkum þess.  Hann hafi alla tíð litið á A sem framkvæmdastjóra, enda hafi A  fljótlega litið á sig sem slíkan, greitt reikninga, staðið skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu ásamt fleiru.  Ákærðu hafi allir haft prókúru fyrir félagið.  Kvaðst ákærði Jón engin afskipti hafa haft af bókhaldi eða fjármálastjórn félagsins.  Það hafi verið í verkahring A.  Staða meðákærða B hafi verið sem rafvirki og verkstjóri á C.  Hann hafi hinsvegar hvorki haft með skil staðgreiðslu né virðisaukaskatts að gera né komið nálægt daglegri fjármálastjórn.  Ákærði kvaðst ekki hafa haft vitneskju um vanskil á staðgreiðslu og virðisaukaskatti hjá félaginu.  Ákærðu hafi haldið óformlega fundi um rekstur félagsins en ekki haldið bókaða stjórnarfundi.  Ákærði kvaðst hafa gengið úr félaginu 9. júlí 1996 en verið hættur störfum áður.  Hann hafi ekki haft nein afskipti af rekstri félagsins eftir úrsögn sína úr því.  Hann hafi leitað til F starfsmanns félagsins og A um stöðu félagsins og þá hafi ekki komið fram vanskil.  Hann hafi fengið lista yfir það sem hann taldi vera skuldir og þá við birgja og því um líkt.

Ákærði treysti sér ekki til að tjá sig um fjárhæðir í málinu, hvort virðisaukaskattskýrslur væru réttar eða hvaða greiðslur hefðu borist inn á skattinn.  Kvað hann sig ekki hafa aðstöðu til að tjá sig um fjárhæðir hvorki í I. né II. kafla A ákærunnar.  Hann hafi verið búsettur í Reykjavík  og ekki starfað neitt á C.  Hann hafi haft aðgang að bókhaldsgögnum félagsins en þóst hafa þær upplýsingar sem til þyrfti og því ekki leitað eftir því.  Hann hafi ekki haft grun um vanskil.  Ákærðu hafi fengið greidd full laun sem hafi verið jöfn á milli þeirra.  Félagið hafi verið stofnað um verktakastarfsemi þeirra í rafvirkjun.  Ákærði kvaðst vera rafvirkjameistari en ekki hafa verið skráður fyrir verkum fyrirtækisins.  A hafi verið sá meistari sem var starfandi hjá félaginu.  Að sínu áliti hefði meðákærði A haft nokkurs konar framkvæmdastjórastöðu hjá félaginu enda hefðu viðskiptavinir og aðrir komið fram við hann sem slíkan.

Ákærði kvaðst hafa undirritað reikninga og framtal vegna stöðu sinnar sem stjórnarformaður og eitt bréf eftir úrsögn sína úr félaginu af sömu ástæðum.  Bréfið hafi honum verið sagt að undirrita en hann hafi ekki skrifað það sjálfur.  Ákærði kvað sér ekki hafa orðið ljóst að vörsluskattar hefðu ekki allir verið greiddir fyrr en við rannsókn skattrannsóknarstjóra.  Hann hafi ekki haft neitt með bankamál R ehf. að gera eða haft samskipti við bankann.

Ákærði gat ekki svarað því hjá skattrannsóknarstjóra hver hefði tekið ákvörðun um og borið ábyrgð á því að afdreginni staðgreiðslu opinberra launamanna væri ekki skilað til innheimtumanns.  Fyrir dómi taldi hann A hafa borið ábyrgð á þessu og gat ekki skýrt hvers vegna hann hafi svarað þessu svona hjá skattrannsóknarstjóra. 

Ákærði taldi einhverja starfsemi hafa verið fyrir hendi eftir að hann hætti hjá R ehf.  Hann hafi ekki haft upplýsingar um þá starfsemi félagsins.

Ákærði kvað E og S ekki hafa komið nálægt rekstri félagsins heldur hafi þær verið skráðar í það vegna krafna hlutafélagalaga.  S hafi aldrei verið starfandi framkvæmdastjóri en séð um reikninga til að byrja með til ársins 1992.

Hafsteinn Hafsteinsson rannsóknarmaður hjá skattstjóranum í Reykjavík  bar vitni fyrir dómi og gerði grein fyrir yfirlitum yfir greiðslur R ehf. til innheimtumanns ríkissjóðs yfir staðgreiðslur 1993-1995, skil á virðisaukaskatti 1993-1995, og stöðu á opinberum gjöldum og tryggingargjaldi. Vitnið gerði grein fyrir því að yfirlit þessi sýndu eftirstöðvar af höfuðstól gjalda.  Mismunur á yfirlitum skýrðist annars vegar af því að skilað hefði verið inn leiðréttingarskýrslum varðandi virðisaukaskatt sem leiddu til hækkunar og hins vegar af því að skýrslu hafi verið skilað of seint og þá hafi hluti af greiðslu farið í greiðslu álagningar.  Varðandi staðgreiðslu launamanna R ehf. væri hægt að rekja sig áfram á yfirliti varðandi það sem sýni allar greiðslur sem hafi borist frá skattaðila frá upphafi.  Vitnið lýsti því yfir að við skoðun yfirlitanna sé ljóst hvaða gjöld sé verið að borga.  Greiði fyriræki t.d. bifreiðagjöld komi það ekki fram í þessum yfirlitum heldur annars staðar og sé virðisaukaskattur greiddur fari greiðslan inn á virðisaukaskattinn, en ekki einhver önnur gjödl.  Fái skattaðili inneign vegna inneignarskýrslu væri reynt að greiða virðisaukaskattskuldir með þeim og þá væri um millifærslu innan virðisaukainnheimtukerfisins að ræða.   Ekki myndist innistæður í staðgreiðslukerfinu þannig að þar væru millifærslur sjaldgæfar.

Vitnin, E, eiginkona ákærða B, og S, fyrrverandi eiginkona ákærða A, kváðust hafa verið stofnendur og hluthafar í stjórn R ehf. til málamynda til að upfylla skilyrði um 5 manna stjórn samkvæmt þágildandi hlutafélagalögum.  Þær hafi ekki komið nálægt félaginu að öðru leyti en því að S hafi séð um bókhaldið á haustmánuðum ársins 1990 og árið 1991.  S hafi hafi aldrei verið framkvæmdarstjóri fyrirtækisins þrátt fyrir tilnefningu til þess samkvæmt stofnfundargerð og sú hafi ekki verið ætlunin.  Þá kváðust vitnin ekki vita hvernig ákærðu skiptu með sér verkum innan félagsins.

Vitnið, X bókari, var starfsmaður R ehf.  Vitnið kvaðst hafa verið með bókhaldsþjónustu fyrir fyrirtækið og séð um launaútreikning.  Rétt hafi verið staðið að bókhaldi á þessum tíma og virðisaukaskattskýrslur verið í samræmi við það.  Eftir því sem vitnið kvaðst muna hafi ákærði, A, séð um greiðslur virðisaukaskatts og staðgreiðslu fyrir R ehf.  Fannst vitninu að hann hefði komið fram gagnvart sér sem daglegur stjórnandi og fyrirsvarsmaður félagsins.  Hún hafi sjálf skrifað undir skýrslur til að tryggja að þeim væri skilað réttum en hana minni að hún hafi leitað eftir undirritun ákærðu.  Mismunandi hafi verið hver hafi undirritað skýrslur varðandi virðisaukaskatt og staðgreiðslu vegna þess að ákærðu hafi verið vinnandi hér og þar og þá ekki verið á staðnum.  Kvað vitnið B jafnvel hafa skrifað undir ef A hefði ekki verið á staðnum. Vitnið kvað ákærða Jón hafa verið að vinna í Reykjavík og mjög lítið hafa komið að daglegum rekstri R ehf. og greiðslum vegna þess.  Vitnið skýrði frá því að þegar hún hóf störf, að hana minnti í kringum árin 1992 til 1993, hafi B séð um ákveðna hluti og A aðra.  A hafi þá séð um útboðin og B um þetta daglega en svo hafi A tekið við öllu og viljað sjá sjálfur um reksturinn.  Vitnið mundi ekki hvaða ár þetta var en taldi að einhvern tímann á árunum 1994-1996 hafi A alfarið verið farinn að sjá um daglegan rekstur.  Vitnið kvaðst ekki muna hversu lengi áður en R ehf. varð gjaldþrota A hafi haft umsjón með rekstrinum en hún hefði á tilfinningunni að það væri í langan tíma.  Kvað hún B hafa dregið sig í hlé frá daglegri stjórn talsvert löngu áður en hann hafi farið út úr fyrirtækinu.  Vitnið kvað það geta staðist að ákærði A hafi tekið yfir reksturinn á árinu 1996.  Einnig að hún hafi haft samskipti við hann einan á árinu 1996 en hún var ekki viss um árið 1995.

Vitnið mundi ekki eftir fundum eða samræðum við ákærðu varðandi vanskil og greiðslustöðu á virðisaukaskatti og staðgreiðslu.  Vitninu hafi þó verið kunnugt um að fyrirtækið væri að fara niður á við en gat ekki tímasett það nánar. Vitnið kvað virðisaukaskattskýrslum og skilagreinum hafa verið skilað til sýslumanns eða á skattstofuna.  Án greiðslu hafi ekki verið hægt að skila þessu til banka.  Vitnið taldi að bókhaldið hafi gefið bestu vitund af rekstri félagsins á þessum tíma.  Vitnið taldi að í tilvikum þar sem skýrslur hafi verið mótteknar seinna en þær eru dagsettar hafi þær legið og enginn sótt þær.  Hún hafi dagsett skýrslur sem ákærði B hafi skrifað undir.  Hún hafi fyllt út skýrslurnar en þær ekki verið lagðar inn fyrr en síðar.  Hún mundi ekki ástæður þess að skýrslurnar hafi legið svona lengi og sagði hún að engar reglur hafi gilt um hver skilaði þeim.  Hún hafi sent eigendurna með þær ef þeir komu eða sent þær sjálf í pósti.  Af þessum sökum hafi ákærði B stundum skrifað undir þegar A hafi ekki verið við.  Vitnið mundi ekki hvaða dagsetning var undirrituð á skýrslurnar en hélt þó að þar væri um gjalddaga að ræða.  Skýrslurnar hafi ekki endilega verið dagsettar sama dag og þær voru undirritaðar.  Henni fannst þó ólíklegt að hún hefði verið að dagsetja skýrslur langt aftur í tímann.  Einnig gæti hafa dregist að hún hafi fengið árituð eyðublöðin til baka en B og A hafi skilað þessu til hennar.  Vitnið kvaðst ekki geta tjáð sig um hvaða greiðslur hafi borist inn á staðgreiðsluskilagrA og virðisaukaskattskýrslur.

Vitnið, G, starfaði sem rafvirki hjá R ehf.  Hann kvað ákærða A hafa verið daglegan stjórnanda fyrirtækisins á árunum 1994 og 1995.  Hann hafi ekki vitað hver hafi séð um fjármál fyrirtækisins og tekið ákvarðanir um þau en sýnst það vera A, það hefði ekki leynt sér að hann hefði séð um daglega reksturinn.  Þetta hafi verið frá því að hann byrjaði í maí 1993.  Vitnið kvaðst ekki þekkja nákvæmlega verkaskiptingu milli ákærðu en ákærðu B og Jón hafi meira unnið með starfsmönnunum að þeim verkum sem þeir voru með.  Ákærði Jón hafi alltaf unnið í Reykjavík en eiginlega aldrei komið á C. Þó hefði verið hægt að leita til B varðandi laun en ákærði A hafi að mestu leyti séð um þetta. 

Vitnið, Gísli Gíslason héraðsdómslögmaður, kvað ákærða A hafa leitað til sín fyrir einhverjum árum og minnti vitnið að það hafi komið fyrst að málum þessum á árunum 1994 og 1995.  Ákærði, A, hafi þá rekið R ehf. ásamt fleirum. Ákærðu hafi allir verið í stjórn félagsins þegar vitnið kom að þessu fyrst.  Vitnið gat lítið sagt til um verkaskiptingu þeirra á milli en kvað ákærða A hafa leitað til sín vegna þessara mála.  Taldi vitnið að hann hafi að mestu leyti séð sjálfur um rekstur fyrirtækisins.  Vitnið hafi síðan komið að stofnun seinni félaga og þá hafi ákærði A og Jón komið á skrifstofu sína.  Ákærði A hafi þá komið til sín einn en síðar ákærðu og hafi rekstrinum þá verið skipt bæði á C og í Reykjavík.  Vitnið hafi svo ekki fylgst meira með þessum málum.  Vitnið mundi ekki hvort það vissi þegar ákærðu B og Jón gengu úr R ehf., ákærði Jón hafi þó e.t.v. hringt í sig á þessum tíma.  Vitnið mundi ekki hvort ákærði Jón hafi komið og rætt um þetta.

Vitnið Björgvin Filippusson var útibússtjóri Íslandsbanka á C frá árinu 1991 til ársins 1997.  Kvað vitnið að R ehf. hefði verið í viðskiptum þar lengst framan af en síðan dregið úr þeim viðskiptum.  Ákærði, A, hafi alltaf komið fram fyrir hönd félagsins og sagði vitnið að það hafi eingöngu átt fundi með honum.  Ákærði B hafi sjaldan komið í útibúið til sín og þá í fjarveru A.  Ákærða Jón hafi hann ekki hitt nema tvisvar og ekki fyrr en 1996.  Vitnið hafi hætt störfum sínum sem útibússtjóri um það leyti sem R ehf. varð gjaldþrota í apríl 1997.  R hafi allan tímann átt viðskipti við sig en það hafi dregið verulega úr þeim síðasta eitt og hálft til tvö árin.  Þá hafi verið komin ný félög sem ekki hafi verið í viðskiptum hjá sér.

Niðurstaða.

Ákærðu hafa allir viðurkennt að að fyrirtækið hafi ekki staðið skil á þeim greiðslum sem gerð er grein fyrir í ákæru og varðar það tímabil er þeir voru í stjórn þess.  Ákærðu B og Jón hafa hins vegar borið því við að þeim hafi ekki verið þetta ljóst fyrr en rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst.  Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu af hálfu ákærðu A og B.  Því er hins vegar haldið fram af hálfu ákærða Jóns að gögn þau er lögð hafi verið fram í málinu um innborganir félagsins til innheimtumanns fullnægi ekki skilyrðum bókhaldslaga um gegnsæi, og fullnægjandi gögn vanti um hvernig innborgunum félagsins vegna greiðslna á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda sé háttað.  Því sé ekki loku fyrir það skotið að innborganir félagsins hafi verið meiri en gögnin bendi til. 

Hér að framan hafa verið rakin þau gögn sem sýna greiðslur R ehf. til innheimtumanns ríkissjóðs frá 1. júlí 1994 til 27. desember 1999 vegna innheimts virðisaukaskatts og staðgreiðslu launamanna og skuldir vegna sömu vörsluskatta, en skuldir þessar voru afskrifaðar 28. desember sl.  Yfirlitin sýna hvernig greiðslum var ráðstafað inn á tiltekin greiðslutímabil og hvort greitt var inn á höfuðstól, dráttarvexti, álag eða kostnað.  Þá hafa einnig verið lögð fram gögn er sýna staðgreiðslur opinberra gjalda félagsins fyrir það tímabil er ákæran tekur til ásamt gögnum um innborganir á virðisaukaskatti þau ár, sem einnig sýna stöðu félagsins á skilum opinberra gjalda og hvernig greiðslum vörsluskattanna hefur verið háttað inn á hvert greiðslutímabil.  Fallast má á það með verjanda ákærða Jóns að ekki liggi í augum uppi við fyrstu sýn hvernig innheimtumaður ráðstafar innborgunum vegna umræddra vangoldinna vörsluskatta, en við nánari könnun þeirra yfirlita sem lögð voru fram við meðferð málsins verður ekki betur séð að þau, ásamt skilagreinum og leiðréttingarskýrslum, sýni skýrlega hvernig þessum greiðslum var ráðstafað.  Ekkert er fram komið í málinu sem bendir til þess að félagið hafi innt af hendi frekari greiðslur en þegar hefur verið tekið tillit til við rannsókn málsins, á þeim vangoldnu vörslusköttum, sem hér eru til umfjöllunar, áður en þær greiðslur voru afskrifaðar um síðustu áramót.  Verða þær fjárhæðir sem vísað er til í I. og II. kafla A kafla ákæru samkvæmt þessu lagðar til grundvallar í málinu.  Telst fyllilega sannað með þeim gögnum, sem rakin hafa verið hér að framan, að félagið hafi ekki staðið skil á þeim greiðslum, sem gerð er grein fyrir í þessum köflum ákæru.

Ágreiningur í málinu snýst aðallega um það hver hafi séð um fjármál og skattskil félagsins sem hér eru til umfjöllunar og borið ábyrgð á þeim.

Óumdeilt er að ákærðu voru allir stjórnarmenn í fyrirtækinu á þeim tíma sem fjallað er um í a-liðum þessara kafla ákæru, ákærðu A og Jón á þeim tíma sem b-liðir taka til og ákærði A á þeim tíma sem c-liður I. kafla tekur til.  Ákærði Jón Sigurðssyni var stjórnarformaður, ákærði B varaformaður og ákærði A meðstjórnandi.  Af framburði ákærðu og skilagreinum í málinu er upplýst að að ákærðu A og B rituðu stundum undir skilagreinarnar, en enginn þeirra kannast við að hafa haft daglega fjármálastjórn með höndum. 

Ákærðu B og Jón hafa báðir haldið því fram fyrir dómi að ákærði A hafi í raun verið framkvæmdastjóri félagsins og hann hafi séð um alla fjármálastjórn þess og tekið ákvarðanir um fjármál þess.  Telja þeir sig báðir enga ábyrgð hafa borið á vanskilum umræddra vörsluskatta, enda hafi það verið í verkahring ákærða A og þeir ekki betur vitað en að hann hafi séð um að greiðslurnar væru inntar af hendi eins og lög gera ráð fyrir.  Hann hafi því borið refsiábyrgð á vanskilunum.  Þessu hefur ákærði A mótmælt og sagt að enginn sérstakur hafi séð um fjármálastjórnina og skil vörsluskattanna, en ákærði B hafi séð um að standa skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir félagið og ákærði Jón hafi meðal annars undirritað ársreikninga félagsins. Framburður allra ákærðu um það hver hafi séð um daglega fjármálastjórnun félagsins hefur verið á reiki. Vætti X, bókara félagsins, styður hins vegar framburð ákærðu B og Jóns.  Hún bar fyrir dómi að hún hafi séð um launaútreikning og gerð virðisaukaskattskýrslna, en ákærði A hafi annast greiðslur virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda og hafi henni fundist sem hann kæmi fram gagnvart sér sem daglegur stjórnandi fyrirtækisins.  Ákærði A hafi ritað undir skýrslurnar og stundum ákærði B, ef ákærði A var ekki á staðnum.  Hún hafi ritað undir skýrslurnar fyrir hönd félagsins þegar ekki náðist til ákærðu Aog B til þess að skýrslunum væri skilað tímanlega.  Með framburði ákærðu B og Jóns, sem fær stoð í vætti X og G, þykir í ljós leitt að ákærði, A, hafi að verulegu leyti séð um daglega fjármálastjórn fyrirtækisins.  Þó þykir ekki nægilega fram komið að það hafi eingöngu verið í hans verkahring að annast skil umræddra vörsluskatta, nema á þeim tíma er hann var einn í stjórn þess, sbr. c-lið I. kafla ákæru.

Ákærðu voru hins vegar allir stjórnarmenn fyrirtækisins, á þeim tíma sem lýst er í a-liðum I. og II. kafla A. Félagið var þá í eigu þeirra þriggja og tveggja eiginkvenna þeirra og fóru allir með prókúruumboð.  Þeir störfuðu einnig allir hjá fyrirtækinu. Ákærðu A og Jón voru stjórnarmenn fyrirtækisins á þeim tíma sem lýst er í b-liðum I. og II. kafla, en þá var ákærði B genginn úr stjórn þess.  Í ljós er leitt að ákærði A stóð einn að rekstrinum á þeim tíma sem c-liður ákæru lýtur að, en á þeim tíma var meðákærði Jón genginn úr stjórn þess og tilkynnti það til hlutafélagaskrár 9. júlí 1996.  Þetta hlaut ákærða A að vera ljóst.  Verður því ekki fallist á þá viðbáru hans að honum hafi verið ókunnugt um göngu ákærða Jóns úr stjórninni og því gæti hann ekki borið refsiábyrgð á vanskilunum.

Ákærðu bar að afla sér vitneskju um skuldastöðu félagsins og fylgjast með rekstrinum á þeim tíma sem þeir voru í stjórn þess, þar á meðal um hvort félagið stæði í skilum með greiðslu virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna.  Þeim bar einnig að sjá um að nægilegt eftirlit væri haft með fjármunum félagsins og búa svo um hnútana að starfsemin væri í réttu og góðu horfi, sbr. 44. gr. laga um 138/1994 um einkahlutafélög, sem tóku gildi 1. janúar 1995.  Lög þessi voru í gildi á því tímabili, sem I. og II. kafli A ákæru tekur til að undanskildu greiðslutímabilinu júní 1994, sbr. a-liður II. kafla, en á þeim tíma voru í gildi samsvarandi ákvæði um skyldu félagastjórnar hlutafélaga í 52. gr. laga nr. 32/1978 um hlutafélög.  Enginn fjármálastjóri eða framkvæmdastjóri var ráðinn hjá félaginu og ekki er í ljós leitt að ákærði A hafi einum verið ætlað að sjá um fjármálastjórn og skattskil félagsins, enda er fram komið að ákærði Jón, sem var stjórnarformaður félagsins, undirritaði ársreikninga þess og ákærði B, meðstjórnandi, ritaði margsinnis undir virðisaukaskattskýrslur og skilagreinar staðgreiðslu opinberra gjalda, sem mál þetta snýst um.  Ákærðu geta því ekki borið það fyrir sig að það hafi ekki verið í þeirra verkahring að sjá um að umræddum sköttum væri skilað til innheimtumanns ríkissjóð á þann hátt sem lög áskilja.  Þeir höfðu einnig allir aðgang að bókhaldi félagsins.  Ákærðu, sem voru eigendur félagsins, hlaut öllum að vera ljós bágborin fjárhagsstaða þess og var því skylda þeirra í þessu efni enn ríkari en ella.  Þótt fram sé komið að ákærði A hafi að einhverju leyti séð um daglegan rekstur félagsins breytir það ekki eins og hér á stóð þeirri lögmæltu skyldu meðákærðu að fylgjast með því hvort félagið stæði í skilum með umræddar lögboðnar greiðslur.  Ákærðu hafa samkvæmt þessu allir unnið sér til refsingar samkvæmt þeim ákvæðum laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem vísað er til í I. og II. kafla A ákæru, að öðru leyti en því að brot ákæru að því er varðar vanskil á staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir greiðslutímabilið júní 1994 varðar við 1. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, eins og hún var áður en henni var breytt með 2. gr. laga nr.  42/1995. 

Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988 skal skila virðisaukaskatti eigi síðar en á fimmta degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils vegna viðskipta á því tímabili.  Gjalddagi afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda er hins vegar 1. dagur næsta mánaðar samkvæmt 3. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987.  Brot ákærðu á 1. mgr. 30. gr. laga nr.45/1987, sem lýst er í a-lið II. kafla ákæru, vegna greiðslutímabilsins júní 1994, vanskil að fjárhæð 176.957 krónur, var því fullframin í gildistíð laga nr. 45/1987, áður en þeim var breytt með 2. gr. laga nr. 42/1995 um breyting á refsiákvæðum nokkurra skattalaga, sem tóku gildi 9. mars 1995.  Ber því að ákveða refsingu þeirra fyrir það brot með hliðsjón af refsiákvæðum þágildandi laga, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Önnur brot þeirra, sem lýst er í I. og II. kafla A ákæru eru hins vegar fullframin eftir gildistöku laga nr. 42/1995 og ber því að gera þeim refsingu samkvæmt þeim.  

Með lögum nr. 39/1995 var ákvæðum 1. mgr. 262. gr. almennra hengingarlaga nr. 19/1940 breytt.  Samkvæmt ákvæðinu liggur nú fangelsi allt að 6 árum við meiri háttar brotum gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 1. og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sbr. nú  l. nr. 42/1995.  Lög nr. 39/1995 áttu að leysta af hólmi 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 7. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, eins og þau voru áður en þeim var breytt með lögum nr. 42/1995, en brot gegn þeim vörðuðu fangelsi allt að 6 árum ef sakir voru miklar.  Lög nr. 39/1995 öðluðust hins vegar ekki gildi fyrr en 1. júlí 1995. Á tímabilinu frá 9. mars 1995, er lög nr. 42/1995 tóku gildi, fram til 1. júlí 1995, er lög nr. 39/1995 hlutu lagagildi, voru því engin gild refsiákvæði fyrir hendi er tóku til meiri háttar brota á lögum um virðisaukaskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.  Vanskil ákærðu vegna uppgjörstímabils virðisaukaskatts fyrir mars-apríl 1995, sem féll í gjalddaga 5. júní sama ár, 487.207 krónur, gátu því eingöngu varðað við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988.  Á sama hátt gátu vanskil þeirra á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna greiðslutímabilanna apríl og maí 1995, sem féllu í gjaldaga 1. maí og 1. júní sama ár, samtals 439.163 krónur, einvörðungu varðað við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987.  Ákærði B hefur, ásamt meðákærðu, verið sakfelldur fyrir vanskil á virðisaukaskatti að fjárhæð 1.275.977, og staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna að fjárhæð 1.008.840.  Samtals nemur fjárhæð vanskila þessara 2.284.817 krónum.  Þar af verða samkvæmt framansögðu samtals 926.379 krónur ekki felldar undir meiri háttar brot.  Þegar litið er til þáttar ákærða, B, í brotunum verður ekki fallist á það með ákæruvaldinu að þau teljist í heild meiri háttar.  Verður háttsemi hans því hvorki felld undir 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 né 7. gr. laga nr. 45/1987, eins og þau voru áður en þeim var breytt með lögum nr. 42/1995, né 262. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum.  Vanskil virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna, sem ákærðu, A og Jón, hafa verið sakfelldir fyrir nema hins vegar verulegum fjárhæðum.  Þykja brot þeirra beggja meiri háttar.  Ber því jafnframt að heimfæra þau undir 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, eins og henni var breytt með fyrrgreindum lögum, sbr. og 139. gr. laga nr. 82/1998.  Við refsingu þeirra er tekur til vanskila vegna uppgjörstímabils virðisaukaskatts fyrir mars-apríl 1995 og vanskil vegna staðgreiðslu opinberra gjalda vegna greiðslutímabilanna júní 1994 og apríl og maí 1995, ber jafnframt að líta til 2. gr. laganna.

II.

[…]  

III.

[…]  

IV.

Viðurlög

Ákærði, A, hefur ekki sætt refsingu, sem skiptir máli við ákvörðun refsingar hans og ákærðu, B og Jón, hafa ekki fyrr sætt refsingu.  Ákveða ber refsingu allra ákærðu með hliðsjón af þeim fjárhæðum virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna, sem ákærðu hafa verið sakfelldir fyrir að eiga þátt í að standa ekki skil á svo sem lög mæla fyrir um, eins og rakið hefur verið í I-III. kafla hér að framan.  Þá ber að vísa til 77. gr.almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar þeirra.  Ákvæði 74. og 75. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 koma ekki til álita í máli þessu.  Refsing, A, er ákveðin fangelsi í 4 mánuði.  Auk þess ber jafnframt að dæma hann til að greiða 9.500.000 króna sekt í ríkissjóð innan 4 vikna frá uppkvaðningu dóms þessa.  Vararefsing ákærðu verður ákveðin með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í málinu nr. 327/1998. Vararefsing sektarinnar skal því vera fangelsi í 4 mánuði.  Ákærði, B, er dæmdur til að greiða 1.500.000 króna sekt í ríkissjóð innan 4 vikna frá uppkvaðningu dóms þessa.  Vararefsing ákveðst fangelsi í 40 daga. 

Refsing ákærða, Jóns, er ákveðin fangelsi í 45 daga.  Auk þess ber jafnframt að dæma hann til að greiða 3.300.000 króna sekt í ríkissjóð innan 4 vikna frá uppkvaðningu dóms þessa.  Vararefsing sektarinnar skal vera fangelsi í 75 daga.

Fresta skal fullnustu fangelsisrefsingar ákærðu, A og Jóns, og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærðu hvor um sig almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði, A, er dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur, ákærði, B, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristínar Edwald héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur og ákærði, Jón, skipaðs verjanda síns, Tryggva Agnarssonar héraðsdómslögmans, 150.000 krónur krónur.  Annan sakarkostnað eru þeir dæmdir til að greiða óskipt.

Dómsuppsaga í máli þessu hefur dregist vegna páskahátíðar og embættisanna dómarans.

Helgi Magnús Gunnarsson, fulltrúi ríkislögreglustjóra, fluttu málið af hálfu ákæruvaldsins.

Ingibjörg Benediktsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, A, sæti fangelsi í 4 mánuði. 

Ákærði, Jón Sigurðsson, sæti fangelsi í 45 daga.

Fresta skal fullnustu fangelsisrefsingar beggja ákærðu og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærðu hvor um sig almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði, A, greiði 9.500.000 króna sekt í ríkissjóð innan 4 vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 4 mánuði. 

Ákærði, B, greiði 1.500.000 króna sekt í ríkissjóð innan 4 vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 40 daga. 

Ákærði, Jón, greiði 3.300.000 króna sekt í ríkissjóð innan 4 vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 75 daga.

Ákærði, A, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

Ákærði, B, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristínar Edwald héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.

Ákærði, Jón, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Tryggva Agnarssonar héraðsdómslögmans, 150.000 krónur.

Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.