Print

Mál nr. 328/2012

Lykilorð
  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Kröfugerð
  • Málshöfðunarfrestur
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta

                                                                                              

Miðvikudaginn 6. júní 2012.

Nr. 328/2012.

Drómi hf.

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Arion banka hf. og

(Andri Árnason hrl.)

Fjármálaeftirlitinu

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Stjórnvaldsákvörðun. Kröfugerð. Málshöfðunarfrestur. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta.

Með ákvörðun 21. mars 2009 tók FME yfir vald hluthafafundar SPRON hf., vék stjórn bankans frá störfum og skipaði skilanefnd yfir honum. Samkvæmt ákvörðuninni skyldi A hf. meðal annars taka yfir skuldbindingar SPRON hf. vegna innistæðna í bankanum. Þá skyldi stofnað sérstakt hlutafélag í eigu SPRON hf., sem varð D hf., til að taka við öllum eignum SPRON hf. og tryggingaréttindum. Félagið átti einnig að taka yfir skuldbindingar gagnvart A hf. vegna yfirtöku A hf. á innistæðuskuldbindingum SPRON hf. Sem endurgjald fyrir þessar skuldbindingar skyldi D hf. gefa út skuldabréf til A hf. D hf. og A hf. komu sér ekki saman um vaxtakjör af skuldabréfinu og tók FME ákvarðanir um vaxtakjör þess. Í málinu krafðist D hf. þess aðallega að þrjár ákvarðanir sem FME tók í tengslum við deilur D hf. og A hf. um vaxtagreiðslur yrðu dæmdar ógildar en til vara að dæmt yrði um vaxtakjör og vaxtagreiðslur á tiltekinn veg. Talið var að málshöfðunarfrestur varðandi 1. og 2. tl. aðalkröfu D hf. hefði verið liðinn þegar málið var höfðað og var þeim kröfum vísað frá héraðsdómi. Hvað varðaði varakröfur D hf. kom fram að samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar gætu dómstólar ógilt ákvarðanir framkvæmdarvaldshafa ef þeim væri áfátt að formi eða efni til. Það leiddi hins vegar af þrískiptingu ríkisvaldsins, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar, að almennt væri það ekki á færi dómstóla að taka nýjar ákvarðanir um málefni sem stjórnvöldum væri falið með lögum og ógildanlegar kynnu að vera eða gefa stjórnvöldum fyrrimæli um efnislegt innihald slíkra nýrra ákvarðana. Þar sem D hf. krafðist ekki ógildingar á ákvörðunum FME með varakröfum sínum, heldur að ákveðið yrði hvert skyldi vera efni ákvarðana sem í þeirra stað kæmi, var þeim kröfum jafnframt vísað frá dómi. Hins vegar var talið að D hf. hefði hagsmuni af því að dómur yrði felldur á 3. tl. aðalkröfu sinnar og var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi hvað þann lið varðaði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. maí 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. apríl 2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast hvor fyrir sitt leyti staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt gögnum málsins tók varnaraðilinn Fjármálaeftirlitið ákvörðun 21. mars 2009 um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. og neytti um leið heimildar í þágildandi 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í félaginu, víkja stjórn þess frá og setja yfir það skilanefnd. Jafnframt var meðal annars ákveðið þar að Nýi Kaupþing banki hf. tæki í meginatriðum yfir skuldbindingar sparisjóðsins vegna innstæðna og ábyrgða fyrir efndum fyrirtækja og einstaklinga og vegna innflutnings og útflutnings, en Nýi Kaupþing banki hf. ber nú heiti varnaraðilans Arion banka hf. og verður hann nefndur svo hér á eftir. Stofnað yrði sérstakt hlutafélag í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., sem tæki við öllum eignum og tryggingarréttindum sparisjóðsins, en einnig við skuld hans við varnaraðilann Arion banka hf. vegna yfirtöku þess síðarnefnda á fyrrgreindum skuldbindingum. Fyrir þeirri skuld ætti nýja hlutafélagið að gefa út skuldabréf til varnaraðilans og skyldu allar eignir félagsins og hlutabréf í því sett honum að veði til tryggingar skuldinni. Tekið var fram að tryggja skyldi að vextir af skuldabréfinu stæðu undir kostnaði og áhættu vegna þessara ráðstafana. Ljúka átti aðgerðum á grundvelli ákvörðunarinnar ekki síðar en 6. apríl 2009, en sérstakur fyrirvari var gerður í henni um að varnaraðilinn Fjármálaeftirlitið gæti gert á henni hvers kyns breytingar. Í samræmi við þessa ákvörðun var stofnað hlutafélag til að taka við eignum og tryggingarréttindum sparisjóðsins og er það sóknaraðili.

Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði urðu tafir á að hrinda öllum atriðum samkvæmt framangreindri ákvörðun í framkvæmd og tók varnaraðilinn Fjármálaeftirlitið þrívegis nýjar ákvarðanir til að framlengja fresti í þessu skyni, þar á meðal til að ljúka yfirfærslu eigna og útgáfu skuldabréfs og tryggingarskjala, síðast til 5. júní 2009. Þá tók varnaraðilinn jafnframt ákvörðun 17. apríl sama ár um að bæta eftirfarandi ákvæðum við fyrirmæli í upphaflegu ákvörðuninni um útgáfu skuldabréfs og tryggingarskjala til varnaraðilans Arion banka hf.: „Ef ágreiningur er með aðilum sker Fjármálaeftirlitið úr. Skilanefnd SPRON hf. er óheimilt að ráðstafa eignum SPRON hf., nema með samþykki Fjármálaeftirlitsins, fram að útgáfu skulda- og tryggingarskjala ... en eftir það tímamark skal ráðstöfun eigna SPRON hf. vera í samræmi við skilmála umræddra skjala. Útgáfa skulda- og tryggingarskjala skal háð endanlegu samþykki Fjármálaeftirlitsins.“ Um stoð fyrir þessari ákvörðun var vísað til áðurnefndrar 100. gr. a. laga nr. 161/2002.

Enn tók varnaraðilinn Fjármálaeftirlitið ákvörðun 5. júní 2009, þar sem vísað var til upphaflegrar ákvörðunar hans og ákvörðunarinnar frá 17. apríl sama ár, svo og að honum hafi orðið ljóst 29. maí 2009 að samkomulag tækist ekki milli sóknaraðila og varnaraðilans Arion banka hf. um „vaxtakjör og vaxtagreiðslur.“ Í þessari síðustu ákvörðun sagði meðal annars eftirfarandi: „Það er ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að skuldin skuli bera ársvexti, sem skulu vera jafnir eins mánaðar vöxtum á íslenskum millibankamarkaði (REIBOR vöxtum eins og þeir eru skráðir af Seðlabanka Íslands ...) að viðbættu 1,75% vaxtaálagi frá þeim tíma þar til skuldin hefur verið að fullu greidd upp. Vextir skulu reiknast frá yfirtökudegi innlána og skulu greiðast mánaðarlega inn á reikning sem kröfuhafi tilgreinir. Vextir reiknast þannig að á ársgrundvelli er margfaldað með fjölda daga og deilt í með 360. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka ákvörðun þessa til endurskoðunar að beiðni aðila á sex mánaða fresti og þá að teknu tilliti til aðstæðna á fjármálamarkaði, þróunar á yfirteknum innlánum, kostnaði og áhættu sem Nýja Kaupþing hf. tekur á sig, sem og öðrum atvikum.“

Eftir að varnaraðilinn Fjármálaeftirlitið tók síðastgreinda ákvörðun gerðu sóknaraðili og varnaraðilinn Arion banki hf. samning 22. júní 2009 „um endurgreiðslu skuldar“, þar sem sóknaraðili viðurkenndi að skulda síðarnefnda varnaraðilanum 96.700.000.000 krónur, sem greiða ætti eftir nánari ákvæðum samningsins. Um vexti af skuldinni sagði meðal annars eftirfarandi: „Skuldari lofar að greiða vexti af höfuðstól skuldarinnar, eins og hún er á hverjum tíma, og skulu þeir vera þeir vextir sem Fjármálaeftirlitið ákveður á hverjum tíma, sbr. ákvörðun þess frá 5. júní 2009, nú eins mánaðar vextir á íslenskum millibankamarkaði (REIBOR vextir) að viðbættu 1,75% álagi. ... Vextir reiknast frá yfirtökudegi innlána 21. mars 2009. Vexti skal greiða einu sinni í mánuði þann 5. hvers mánaðar þar til skuldin hefur verið að fullu endurgreidd. Vextir eru greiddir eftirá fyrir hvert vaxtatímabil fyrir sig. Fyrsta vaxtatímabilið skal vera frá upphafsdegi vaxta til 5. júlí 2009 er næsta vaxtatímabil hefst. Fyrsti gjalddagi vaxta er því þann 5. júlí 2009.“

Með bréfi 2. desember 2009 til varnaraðilans Fjármálaeftirlitsins leitaði sóknaraðili eftir því að ákvörðun varnaraðilans frá 5. júní sama ár yrði tekin til endurskoðunar „um vaxtakjör“ af skuldbindingu sóknaraðila við varnaraðilann Arion banka hf. Í hinum kærða úrskurði er greint frá meðferð þessa erindis, en henni lauk varnaraðilinn Fjármálaeftirlitið með ákvörðun 4. febrúar 2011 „vegna ágreinings um vaxtakjör og vaxtagreiðslur milli Arion banka hf. og Dróma hf. vegna samnings um endurgreiðslu skuldar sem gerður var í kjölfar yfirtöku Arion banka hf. á innstæðum í SPRON hf.“ Niðurstaða þessarar ákvörðunar var sú að vextir af skuld sóknaraðila skyldu vera þeir sömu og ákveðnir voru 5. júní 2009 vegna tímabilsins frá „yfirtökudegi“ til og með 30. júní 2010, en frá þeim tíma skyldu greiðast ársvextir, sem væru jafnháir eins mánaðar vöxtum á íslenskum millibankamarkaði, án vaxtaálags. Í þessari ákvörðun voru að öðru leyti endurtekin efnislega óbreytt þau atriði, sem greindi í niðurstöðu ákvörðunarinnar frá 5. júní 2009.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta gegn varnaraðilum 4. maí 2011 og krafðist þess aðallega að felld yrði úr gildi í fyrsta lagi ákvörðun varnaraðilans Fjármálaeftirlitsins 5. júní 2009, í öðru lagi svofellt ákvæði í ákvörðun varnaraðilans 17. apríl sama ár: „Ef ágreiningur er með aðilum sker Fjármálaeftirlitið úr“ og í þriðja lagi ákvörðun varnaraðilans 4. febrúar 2011. Til vara krafðist sóknaraðili þess að „dæmt verði að vaxtakjör og vaxtagreiðslur milli stefnda Arion banka hf. og stefnanda Dróma hf., vegna samnings um endurgreiðslu skuldar sem gerður var í kjölfar yfirtöku stefnda Arion banka hf. á innstæðum í SPRON hf., skuli frá upphafsdegi miðast við meðalvexti óverðtryggðra innlána stefnda Arion banka hf. eins og þeir eru hverju sinni, auk 0,5% álags.“ Að þessu frágengnu krafðist sóknaraðili þess að ákvörðun varnaraðilans Fjármálaeftirlitsins 4. febrúar 2011 yrði breytt á þann veg að skuld sóknaraðila við varnaraðilann Arion banka hf. beri ársvexti, sem séu jafnháir eins mánaðar vöxtum á íslenskum millibankamarkaði án vaxtaálags frá 20. ágúst 2009. Báðir varnaraðilar kröfðust þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, en til vara að þeir yrðu sýknaðir af kröfum sóknaraðila. Með hinum kærða úrskurði var málinu sem áður segir vísað frá dómi. Þess er að geta að varnaraðilinn Arion banki hf. höfðaði mál 3. maí 2011 á hendur öðrum aðilum þessa máls og krafðist þess að ákvörðun varnaraðilans Fjármálaeftirlitsins 4. febrúar 2011 yrði felld úr gildi „að því er varðar niðurfellingu 1,75% vaxtaálags á REIBOR-vexti af skuld“ sóknaraðila við sig. Því máli var einnig vísað frá dómi, en um það er fjallað í dómi Hæstaréttar í máli nr. 327/2012, sem kveðinn er upp samhliða dómi í þessu máli.

II

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að vísa málinu frá dómi að því er varðar 1. og 2. lið í aðalkröfu sóknaraðila sökum þess að frestur samkvæmt 18. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi hafi verið liðinn 4. maí 2011 til að höfða mál til ógildingar á ákvörðunum varnaraðilans Fjármálaeftirlitsins frá 17. apríl og 5. júní 2009. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður jafnframt staðfest niðurstaða hans um að vísa varakröfum sóknaraðila frá dómi.

Fallist verður á með héraðsdómi að við höfðun málsins hafi frestur samkvæmt 18. gr. laga nr. 87/1998 ekki verið liðinn til að leita ógildingar á ákvörðun varnaraðilans Fjármálaeftirlitsins 4. febrúar 2011, svo sem sóknaraðili gerir með 3. lið í aðalkröfu sinni. Í þeirri ákvörðun var sem áður segir tekin afstaða til beiðni sóknaraðila 2. desember 2009 um endurskoðun á vaxtakjörum af skuld hans við varnaraðilann Arion banka hf. samkvæmt samningi þeirra 22. júní sama ár og kveðið á um tiltekna lækkun vaxtanna eftir 30. júní 2010. Ógilding þessarar ákvörðunar myndi að sönnu valda því, svo sem greinir í hinum kærða úrskurði, að upphafleg ákvörðun varnaraðilans Fjármálaeftirlitsins 5. júní 2009 um vexti af skuldinni rakni við og þeir þar með hækka. Fram hjá því verður á hinn bóginn ekki litið að með ógildingu ákvörðunarinnar frá 4. febrúar 2011 yrði varnaraðilinn Fjármálaeftirlitið að taka nýja ákvörðun um beiðni sóknaraðila 2. desember 2009 um endurskoðun vaxtanna, sem kynnu þar með að sæta lækkun frá tímamarki hvenær sem er eftir síðastgreindan dag fram að því að ný ákvörðun yrði tekin. Að því virtu hefur sóknaraðili hagsmuni af því að dómur verði felldur á þessa kröfu hans. Með því að ekki verður séð að aðrir annmarkar séu á kröfunni, sem valdið gætu því að málinu verði vísað frá dómi að því er hana varðar, verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi að þessu leyti og lagt fyrir héraðsdóm að taka hana til efnismeðferðar.

Ákvörðun um málskostnað í héraði vegna þessa þáttar málsins verður að bíða efnisdóms, en rétt er að hver aðili beri sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi að því er varðar 3. lið í aðalkröfu sóknaraðila, Dróma hf., og er lagt fyrir héraðsdóm að taka málið að því leyti til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. apríl 2012.

Stefnandi máls þessa er Drómi hf., Lágmúla 6, Reykjavík, en stefndu Fjármálaeftirlitið, Suðurlandsbraut 32, Reykjavík og Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík. 

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að neðangreindar ákvarðanir stefnda, Fjármálaeftirlitsins, verði ógiltar og stefnda, Arion banka hf., verði gert að þola dóm um ógildi þeirra:

  1. Ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, um vaxtakjör og vaxtagreiðslur milli Arion banka hf. og Dróma hf., vegna samnings um endurgreiðslu skuldar sem gerður var í kjölfar yfirtöku Arion banka hf. á innstæðum SPRON hf., dagsett 5. júní 2009 svohljóðandi: ,,Það er ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að skuldin skuli bera ársvexti, sem skulu vera jafnir eins mánaðar vöxtum á íslenskum millibankamarkaði (REIBOR vöxtum eins og þeir eru skráðir af Seðlabanka Íslands skv. 7. gr. reglna Seðlabanka Íslands nr. 177 frá 16. mars 2000 um viðskipti á millibankamarkaði í íslenskum krónum) að viðbættu 1,75% vaxtaálagi frá þeim tíma þar til skuldin hefur verið að fullu greidd upp. Vextir skulu reiknast frá yfirtökudegi innlána og skulu greiðast mánaðarlega inn á reikning sem kröfuhafi tilgreinir. Vextir reiknast þannig að á ársgrundvelli er margfaldað með fjölda daga og deilt í með 360. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka ákvörðun þessa til endurskoðunar að beiðni aðila á sex mánaða fresti og þá að teknu tilliti til aðstæðna á fjármálamarkaði, þróunar á yfirteknum innlánum, kostnaði og áhættu sem Nýja Kaupþing hf. tekur á sig, sem og öðrum atvikum“.
  2. Ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, um aðra breytingu á ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 21. mars 2009, um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., dagsett 17. apríl 2009 2. ml. 1. tl. svohljóðandi ,,Ef ágreiningur er með aðilum sker Fjármálaeftirlitið úr.“
  3. Ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, um vaxtakjör og vaxtagreiðslur milli Arion banka hf. og Dróma hf., vegna samnings um endurgreiðslu skuldar sem gerður var í kjölfar yfirtöku Arion banka hf. á innstæðum SPRON hf. dagsett 4. febrúar 2011 svohljóðandi: ,,Það er ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að skuldin skuli bera ársvexti, sem skulu vera jafnir eins mánaðar vöxtum á íslenskum millibankamarkaði (REIBOR vöxtum eins og þeir eru skráðir af Seðlabanka Íslands skv. 7. gr. reglna Seðlabanka Íslands nr. 177 frá 16. mars 2000 um viðskipti á millibankamarkaði í íslenskum krónum) að viðbættu 1,75% vaxtaálagi frá yfirtökudegi til og með 30. júní 2010, en án vaxtaálags frá þeim tíma þar til skuldin hefur verið að fullu greidd upp. Vextir skulu reiknast frá yfirtökudegi innlána og skulu greiðast mánaðarlega inn á reikning sem kröfuhafi tilgreinir. Vextir reiknast þannig að á ársgrundvelli er margfaldað með fjölda daga og deilt í með 360. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka ákvörðun þessa til endurskoðunar að beiðni aðila á sex mánaða fresti og þá að teknu tilliti til aðstæðna á fjármálamarkaði, þróunar á yfirteknum innlánum, kostnaði og áhættu sem Arion banki hf. tekur á sig, sem og öðrum atvikum.“

Til vara krefst stefnandi þess að dæmt verði að vaxtakjör og vaxtagreiðslur milli stefnda, Arion banka hf., og stefnanda vegna samnings um endurgreiðslu skuldar sem gerður var í kjölfar yfirtöku stefnda, Arion banka hf., á innstæðum í SPRON hf., skuli frá upphafsdegi miðast við meðalvexti óverðtryggðra innlána stefnda, Arion banka hf., eins og þeir eru hverju sinni, auk 0,5% álags.

Til þrautavara krefst stefnandi þess að ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, vegna ágreinings um vaxtakjör og vaxtagreiðslur á milli Arion banka hf. og Dróma hf. vegna samnings um endurgreiðslu skuldar sem gerður var í kjölfar yfirtöku Arion banka hf. á innstæðum í SPRON hf. frá 4. febrúar 2011 verðu breytt á þann veg að skuldin skuli bera ársvexti, sem skulu vera jafnir eins mánaðar vöxtum á íslenskum millibankamarkaði (REIBOR vöxtum eins og þeir eru skráðir af Seðlabanka Íslands skv. 7. gr. reglna Seðlabanka Íslands nr. 177 frá 16. mars 2000 um viðskipti á millibankamarkaði í íslenskum krónum) án vaxtaálags frá 20. ágúst 2009. 

Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefjast þau þess að verða sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Þá krefjast stefndu málskostnaðar.

Í þessum hluta málsins er til úrlausnar frávísunarkrafa stefndu. 

Varnaraðili krefst þess að frávísunarkröfunni verði hrundið.

Málið var munnlega flutt um frávísunarkröfuna 27. mars sl. og tekið til úrskurðar að því loknu.

I

Með ákvörðun sinni 21. mars 2009 tók stefndi, Fjármálaeftirlitið, yfir vald hluthafafundar SPRON hf., vék stjórn félagsins frá störfum og skipaði skilanefnd yfir félaginu. Var ákvörðunin tekin með heimild í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra ástæðna á fjármálamarkaði o.fl. Samkvæmt ákvörðuninni tók stefndi, Arion banki hf., sem þá bar nafnið Nýi Kaupþing banki hf., yfir skuldbindingar SPRON hf. vegna innstæðna í bankanum. Einnig skyldi stefndi, Arion banki hf., yfirtaka skuldbindingar samkvæmt inn- og útflutningsábyrgðum og öðrum nánar tilgreindum ábyrgðum. Þá skyldi stofnað sérstakt hlutafélag í eigu SPRON hf. Átti það félag að taka við öllum eignum SPRON hf. og jafnframt öllum tryggingaréttindum. Félagið átti einnig að taka yfir skuldbindingar gagnvart stefnda, Arion banka hf., vegna yfirtöku á innstæðuskuldbindingum SPRON hf. Skyldi hið nýstofnaða dótturfélag gefa út skuldabréf til handa stefnda, Arion banka hf., sem endurgjald fyrir hinar yfirteknu innstæðuskuldbindingar og ábyrgjast hinar yfirteknu ábyrgðir. Þá skyldu allar eignir hins nýja dótturfélags SPRON hf. veðsettar til tryggingar fyrir skuldabréfinu sem og hlutabréf í dótturfélaginu. Þá var einnig tiltekið að tryggja skyldi að vextir skuldabréfsins stæðu undir kostnaði og áhættu vegna gjörningsins og að hagsmunir veðhafans væru tryggðir með viðeigandi skilmálum í trygginga- og lánsskjölum. Í 7. tl. ákvörðunarinnar frá 21. mars 2009 var kveðið á um það að stofnun dótturfélags, yfirfærsla eigna og útgáfa skulda- og tryggingaskjala skyldi fara fram eigi síðar en kl. 12, 6. apríl 2009.  Dótturfélag þetta var stofnað og fékk heitið Drómi hf.

Með ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, 5. apríl 2009, var fyrri ákvörðun stefnda breytt að því leyti að stofnun dótturfélags, yfirfærsla eigna og útgáfa skulda- og tryggingaskjala skyldi fara fram eigi síðar en 25. maí 2009. Ekki hafði reynst mögulegt að ljúka yfirfærslu eigna og útgáfu skulda- og tryggingarskjala á þeim tíma sem upprunalega ákvörðunin gerði ráð fyrir vegna tæknilegra vandkvæða. Stefndi, Fjármálaeftirlitið, gerði 17. apríl 2009 aðra breytingu á ákvörðun stofnunarinnar frá 21. mars 2009. Breytingin fólst m.a. í því að við 4. tl. fyrri ákvörðunar var bætt ákvæði um að ef ágreiningur væri með aðilum myndi stefndi, Fjármálaeftirlitið, skera úr honum. Stefnandi og stefndi, Arion banki hf., sáu um alla skjalagerð og náðu samkomulagi um öll atriði nema það sem snéri að vaxtakjörunum. Stefndi, Fjármálaeftirlitið, gerði 25. maí 2009 enn breytingu á ákvörðun sinni frá 21. mars. Snéri breytingin að því að stofnun dótturfélags, yfirfærsla eigna og útgáfa skulda- og tryggingaskjala skyldi fara fram eigi síðar en 29. maí 2009. Þann 29. maí var frestur til stofnunar dótturfélags, yfirfærslu eigna og útgáfu skulda- og tryggingaskjala enn framlengdur með ákvörðun stefnda, Fjármálaeftirlitsins, í þetta sinn til 5. júní 2009.

Þann 29. maí 2009 höfðu aðilar ekki ná samkomulagi um vaxtakjör og vaxtagreiðslur. Barst stefnda, Fjármálaeftirlitinu, bréf 29. maí 2009, frá stefnda, Arion banka hf., þar sem fram kom að ágreiningur væri milli bankans og skilanefndar SPRON hf. um ákvörðun vaxta og heiti skjals. Einnig var í bréfinu tillaga að ákvæðum um vexti. Stefnda, Fjármálaeftirlitinu, bárust bréf frá stefnanda 29 maí og 2. júní, þar kom fram að stefndi, Arion banki hf. og stefnandi hefðu ekki náð samkomulagi um vaxtakjör. Einnig komu fram í bréfunum afstaða bráðabirgðastjórnar SPRON hf. til umræddra vaxtakjara. Þar sem aðilar náðu ekki ná samkomulagi um vaxtakjör tók stefndi, Fjármálaeftirlitið, ákvörðun um vaxtakjör og vaxtagreiðslur á skuldabréfinu 5. júní 2009. Varð það niðurstaða að skuldin skyldi bera ársvexti, sem skyldu vera jafnir eins mánaðar vöxtum á íslenskum millibanka markaði (REIBOR vöxtum) að viðbættu 1,75% vaxtaálagi frá þeim tíma þar til skuldin hefur verið að fullu greidd upp. Skyldu vextir reiknast frá yfirtökudegi innlána og greiðast mánaðarlega inn á reikning sem kröfuhafi tilgreinir. Í ákvörðuninni kom jafnframt fram að stefnda, Fjármálaeftirlitinu, væri heimilt að taka ákvörðunina til endurskoðunar að beiðni aðila á sex mánaða fresti og þá að teknu tilliti til aðstæðna á fjármálamarkaði, þróunar á yfirteknum innlánum, kostnaði og áhættu sem meðstefndi tæki á sig, sem og öðrum atvikum. Að beiðni aðila sendi stefndi, Fjármálaeftirlitið, bréf 9. nóvember 2009, þar sem gerð var grein fyrir þeim forsendum sem lágu til grundvallar ákvörðuninni frá 5. júní 2009.

Stefnandi sendi stjórn stefnda, Fjármálaeftirlitsins, beiðni 2. desember 2009 um endurskoðun á ákvörðun stefnda 5. júní 2009, um vaxtakjör og vaxtagreiðslur milli stefnda, Arion banka hf. og stefnanda. Óskaði stefndi, Fjármálaeftirlitið, eftir sjónarmiðum og athugasemdum stefnda, Arion banka hf., vegna málsins.  Barst svar stefnda, Arion banka hf., 11. janúar 2010. Í kjölfarið óskaði stefndi, Fjármálaeftirlitið, eftir svörum aðila við tilteknum spurningum. Barst stefnda svar frá stefnda, Arion banka hf., með bréfi 15. febrúar 2010, og frá stefnanda 28. febrúar 2010. Í bréfum stefnda, Fjármálaeftirlitsins, 7. apríl 2010, kom fram að aðstæður og forsendur hefðu skýrst frekar frá því að ákvörðun stefnda 5. júní 2009 var tekin auk þess sem frekari reynsla væri komin á þróun yfirtekinna lána. Í ljósi þess ákvað stefndi, Fjármálaeftirlitið, að veita aðilum tækifæri til að ná samningum um vaxtakjör og vaxtagreiðslur á samningi um endurgreiðslu skuldar stefnanda, eða til 28. apríl 2010. Voru frestir í kjölfarið framlengdir að beiðni aðila til 1. júní 2010. Þann 1. júní 2010 barst stefnda, Fjármálaeftirlitinu, bréf frá stefnda, Arion banka hf., þar sem m.a. var lýst áhyggjum bankans af rekstri stefnanda og þróun á verðmæti eignasafns þess. Í bréfinu var lögð áhersla á að stefndi, Fjármálaeftirlitið, myndi ekki gera breytingar á vaxtakjörum samningsins áður en frekari viðræður hefðu átt sér stað milli aðila. Lýsti bankinn sig enn fremur reiðubúinn til að horfa með jákvæðum augum á afslátt á vaxtaálagi og leggja sitt af mörkum til að ná sátt í málinu. Stefndi, Fjármálaeftirlitið, hélt fund með aðilum 7. júní 2010 til að ræða um framgang viðræðna, þar sem aðilar hefðu ekki enn náð samkomulagi um vaxtakjör né lokið frágangi á höfuðstól skuldarinnar. Stefndi, Fjármálaeftirlitið, veitti því aðilum frest til 21. júní 2010 til að ná samkomulagi. Var aðilum enn fremur boðið að leggja fram frekari sjónarmið og gögn vegna málsins. Stefnda, Fjármálaeftirlitinu, barst 16. júní 2010 afrit af tillögu stefnda, Arion banka hf., um breytingu á vaxtakjörum milli stefnanda og stefnda, Arion banka hf. Kom þar fram að bankinn væri reiðubúinn að fallast á að endurskoða vaxtakjörin enda væru þau sett í samhengi við afborganir höfuðstólsins. Var lögð á það áhersla að bankanum yrði bætt það útstreymi innstæðna sem átt hefði sér stað áður en til lækkunar vaxta kæmi. Þegar því marki yrði náð var mælt fyrir um að vextir myndu lækka um 15 til 30 punkta fyrir hverja tíu milljarða sem greiddust af höfuðstólnum. Bankinn taldi enn fremur að samhliða breytingum á vaxtaálagi þyrfti að gera tilteknar breytingar á samningnum varðandi upplýsingaskyldu og uppgjör. Óskaði bankinn viðbragða stefnanda við framangreindum tillögum.

Stefnda, Fjármálaeftirlitinu, barst 21. júní 2010 bréf frá stefnanda þar sem gerðar voru athugasemdir við þær röksemdir sem settar höfðu verið fram af hálfu stefnda, Arion banka hf., í bréfi 15. febrúar 2010 og á fundi 7. júní 2010, auk þess sem að í bréfinu kom fram að stjórn stefnanda hafði hafnað tillögum stefnda, Arion banka hf., enda fæli tillagan í sér hærri vaxtakjör en rök stæðu til auk þess sem stjórnin taldi hugmyndirnar stríða gegn ákvæðum laga um slitameðferð fjármálafyrirtækja sem áttu að koma í veg fyrir að eignir yrðu seldar á „brunaútsölu“. Með bréfi stefnda, Fjármálaeftirlitsins, 20. júlí 2010, var óskað eftir frekari upplýsingum frá stefnda, Arion banka hf., er síðar bárust frá bankanum með bréfi 6. ágúst 2010. Í bréfi bankans kom að auki fram að bankinn stefndi að því að halda fund með fyrirsvarsmönnum stefnanda í því skyni að ræða tölulegar forsendur, en meðal þeirra mála sem leysa þurfti væri meðhöndlun einstakra innlána auk þess sem meta þyrfti þá yfirdrætti sem eftir hefðu orðið í bankanum. Þann 5. nóvember 2010 hittust fulltrúar stefnda, Fjármálaeftirlitsins, og stefnda, Arion banka hf., á fundi vegna málsins. Taldi bankinn í framhaldinu nauðsynlegt að koma á framfæri skriflega þeim sjónarmiðum sem höfð voru uppi af hans hálfu á fundinum. Bárust þau með bréfi 10. nóvember 2010, þar sem fram kom að samningar hefðu ekki tekist milli aðila og því væri sýnt að stefndi, Fjármálaeftirlitið, yrði að skera á hnútinn. Í bréfinu sagði enn fremur að engin rök stæðu til þess að vaxtakjörin yrðu lækkuð frá því sem nú væri. Taldi bankinn þvert á móti að hækka ætti kjörin svo að þau yrðu a.m.k. jafn há og þau væru hjá þeim aðilum sem hefðu best lánshæfi í íslensku rekstrarumhveri. Lagði bankinn því til að vaxtakjörum yrði breytt á þann veg að stefnandi greiddi REIBOR að viðbættu 2,5% vaxtaálagi frá næstu ákvörðun stefnda.

Með tölvubréfi 12. nóvember 2010, gaf stefndi, Fjármálaeftirlitið, stefnanda kost á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum vegna fyrrgreinds bréfs stefnda, Arion banka hf. Barst stefnda, Fjármálaeftirlitinu, svar frá stefnanda 2. desember 2010, þar sem stefnandi mótmælti sérstaklega kröfu meðstefnda um hækkun á vaxtaálagi. Stefndi, Fjármálaeftirlitið, tók ákvörðun 4. febrúar 2011, um að skuld stefnanda við stefnda, Arion banka hf. skyldi bera ársvexti sem skyldu vera jafnir eins mánaðar vöxtum á millibankamarkaði (REIBOR) að viðbættu 1,75% vaxtaálagi frá yfirtökudegi til og með 30. júní 2010, en án vaxtaálags frá þeim tíma þar til skuldin hefur verið að fullu greidd upp. Þá var tekið fram að stefnda, Fjármálaeftirlitinu, væri heimilt að taka ákvörðunina til endurskoðunar að beiðni aðila á 6 mánaða fresti.   

II

Sóknaraðili, Fjármálaeftirlitið, byggir frávísunarkröfu sína á því að málshöfðunarfrestir hafi verið liðnir þegar mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 4. maí 2011. Þær ákvarðanir sóknaraðila, Fjármálaeftirlitsins, sem varnaraðili krefjist ógildingar á hafi verið teknar 21. mars 2009, 5. júní 2009 og 4. febrúar 2011. Samkvæmt 18. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, skuli aðili sem ekki vilji una ákvörðun Fjármálaeftirlitsins höfða mál til ógildingar ákvörðunarinnar fyrir dómstólum og skuli mál höfðað innan þriggja mánaða frá því að aðila hafi verið tilkynnt um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Ákvæðið hafi verið lögfest með lögum nr. 67/2006 og segi í skýringum við frumvarpið að talið sé mikilvægt að mál sem varði ágreining um ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins komi sem fyrst til kasta dómstóla og því sé rétt að kveða á um málshöfðunarfrest þessara mála. Ljóst sé að umræddur þriggja mánaða málshöfðunarfrestur hafi verið liðinn í öllum þremur tilvikunum. Við höfðun málsins hafi verið liðnir meira en 25 mánuðir frá ákvörðun sóknaraðila, Fjármálaeftirlitsins, frá 21. mars 2009, tæpir 23 mánuðir frá ákvörðuninni frá 5. júní 2009 og þrír mánuðir og einn dagur frá ákvörðun sóknaraðila, Fjármálaeftirlitsins frá 4. febrúar 2011, en í ákvæðinu segi að höfða skuli mál innan þriggja mánaða. Á grundvelli þessa ber að vísa málinu frá dómi.

Sóknaraðili telji jafnframt að vísa verði frá dómi vara- og þrautavarakröfu varnaraðila. Byggi krafa sóknaraðila um frávísun í fyrsta lagi á því  að sóknaraðili telji kröfugerðina vera það óskýra að ekki sé unnt að leggja dóm á hana, en kröfugerðin sé meðal annars andstæð d-lið 1. tl. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

Í öðru lagi telji sóknaraðili það ekki vera á valdi dómstóla að leysa úr því hver vaxtakjör og vaxtagreiðslur milli sóknaraðilans, Arion banka hf., og varnaraðila skuli vera. Enda þótt dómstólar skeri samkvæmt 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda og geti þannig ógilt ákvarðanir framkvæmdavaldshafa ef þeim sé áfátt að formi eða efni, leiði af þrískiptingu ríkisvaldsins, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar, að almennt sé ekki á færi dómstóla að taka nýjar ákvarðanir um málefni sem stjórnvöldum séu falin með lögum í stað stjórnvaldsákvarðana sem ógiltar kunni að verða með dómi. Beri því að vísa vara- og þrautavarakröfu varnaraðila frá dómi.

Sóknaraðili, Arion banki hf., telur að vísa verði frá dómi aðalkröfu varnaraðila þar sem varnaraðila sé óheimilt að bera lögmæti umræddra ákvarðana meðstefnda undir dómstóla þar sem lögbundinn þriggja mánaða málshöfðunarfrestur frá því aðila sé tilkynnt um ákvörðun meðstefnda, sbr. 18. gr. laga nr. 87/1998 hafi verið runninn út þegar varnaraðili hafi höfðað mál þetta þann 4. maí sl. Eigi það ótvírætt við um fyrstu tvær ákvarðanirnar, enda þær teknar 5. júní 2009 og 17. apríl 2009. Telji sóknaraðili hið sama gilda um þriðju ákvörðunina frá 4. febrúar 2011, enda geri lagaákvæðið ráð fyrir að mál sé höfðað innan þriggja mánaða. Í samræmi við það verði að telja að síðasti málshöfðunardagur hafi verið 3. maí 2011. Verði því að vísa aðalkröfu varnaraðila frá dómi í heild sinni, en að öðrum kosti a.m.k. að því er varði fyrsttöldu tvær ákvarðanirnar sem krafist sé ógildingar á. Verði tilvísaður málshöfðunarfrestur af einhverjum ástæðum ekki talinn gilda um þær ákvarðanir sóknaraðilans, Fjármálaeftirlitsins, sem hér séu til úrlausnar telji sóknaraðili allt að einu rétt að beita ákvæðinu með rýmkandi lögskýringu og/eða lögjöfnun. Sé þá til þess að líta að tilgangurinn með málshöfðunarfresti sem þessum sé meðal annars að tryggja að ákvarðanir, sem aðilar starfi eftir, séu ekki ógiltar með dómi löngu síðar, enda slíkt eðli máls samkvæmt óviðunandi fyrir þá sem í hlut eigi. Eigi þau sjónarmið fullum fetum við um þær ákvarðanir sóknaraðilans, Fjármálaeftirlitsins, sem hér séu til úrlausnar.

Sóknaraðili telji jafnframt óhjákvæmilegt að vísa vara- og þrautavarakröfu varnaraðila frá dómi. Sóknaraðili vísi í þessu sambandi til þess að umþrættar kröfur feli að því er best verði ráðið ekki í sér kröfu um ógildingu, í heild eða að hluta, á ákvörðunum sóknaraðilans, Fjármálaeftirlitsins, heldur að dómstólar taki í reynd nýja ákvörðun um sakarefni sem sé á forræði sóknaraðilans, Fjármálaeftirlitsins, sbr. ákvörðun þess frá 17. apríl 2009 þar sem ráðgert hafi verið að ef ágreiningur yrði með aðilum bæri sóknaraðila, Fjármálaeftirlitinu, að skera úr. Í þessu sambandi sé til þess að líta að tilvísuð ákvörðun sem feli sóknaraðila, Fjármálaeftirlitinu, ákvörðunarvald, sé tekin með stoð í 100. gr. a. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Fái sóknaraðili ekki ráðið að það falli undir valdsvið dómstóla, sbr. einnig 24. gr. laga nr. 91/1991, að taka ákvörðun sem sé að þessu leyti að lögum á forræði stjórnvalda. Nánar tiltekið að það falli eingöngu undir valdsvið dómstóla að kveða upp úr um hvort lögmætra aðferða hafi verið gætt við meðferð máls hjá umræddu stjórnvaldi og hvort niðurstaða þess sé í samræmi við lög en ekki að leggja stjórnvaldi til forsendur fyrir ákvörðunum sínum eða breyta frjálsu mati stjórnvalda, og um leið taka í reynd nýja ákvörðun, svo sem umþrættir kröfuliðir fela í sér.

Stefndi telji jafnframt óhjákvæmilegt að vísa varakröfu- og þrautavarakröfu varnaraðila frá dómi þegar af þeim ástæðum að með þeim sé farið á svig við málshöfðunarfresti laga nr. 87/1998, enda í reynd, eins og málstæður þær er liggi þeim til grundvallar beri með sér, verið að krefjast endurskoðunar, í formi nýrrar ákvörðunar, á ákvörðunum Fjármáleftirlitsins sem ekki verði bornar undir dóm þar sem málshöfðunarfrestir teljist liðnir.

Varnaraðili mótmælir því að málinu  beri að vísa frá dómi. Málshöfðunarfrestir hafi ekki verið liðnir er mál þetta hafi verið höfðað. Skýra beri tilvitnuð ákvæði í samræmi við orðalag um málshöfðunarfresti í öðrum lögum. Hafi dómstólar skýrt sambærileg ákvæði þannig að nægjanlegt sé að mál sé höfðað á síðasta degi frestsins til að skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt. Þá verði málinu ekki vísað frá dómi á þeirri forsendu að með kröfugerðinni séu dómstólar að taka ákvarðanir sem eigi undir stjórnvöld að taka ákvörðun um.

III

Svo sem fyrr var rakið tók sóknaraðili, Fjármálaeftirlitið, með ákvörðun sinni 21. mars 2009 yfir vald hluthafafundar SPRON hf., vék stjórn félagsins frá störfum og skipaði skilanefnd yfir félaginu. Fram kemur að ákvörðunin hafi verið tekin með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Samkvæmt ákvörðuninni skyldi hið nýstofnaða dótturfélag SPRON hf., varnaraðili þessa máls, gefa út skuldabréf til handa Nýja Kaupþing banka hf., sem endurgjald fyrir hinar yfirteknu innstæðuskuldbindingar og ábyrgjast hinar yfirteknu ábyrgðir. Skyldu Nýja Kaupþing banki hf. og hið nýstofnaða dótturfélag meðal annars ná saman um vaxtakjör af skuldabréfinu. Sóknaraðili, Fjármálaeftirlitið, gerði 17. apríl 2009 breytingu á ákvörðun stofnunarinnar frá 21. mars 2009 sem fólst m.a. í því að við 4. tl. fyrri ákvörðunar var bætt ákvæði um að ef ágreiningur væri með aðilum myndi sóknaraðili, Fjármálaeftirlitið, skera úr honum. Með 2. tl. aðaldómkröfu sinnar krefst varnaraðili þess að ákvörðun um þetta atriði verði ógilt. Þar sem aðilar náðu ekki samkomulagi um vaxtakjör tók sóknaraðili, Fjármálaeftirlitið, ákvörðun um vaxtakjör og vaxtagreiðslur af skuldabréfinu 5. júní 2009. Að ógildi þeirrar ákvörðunar lítur 1. tl. aðaldómkröfu varnaraðila. Sóknaraðili, Fjármálaeftirlitið, tók síðan nýja ákvörðun 4. febrúar 2011 um vaxtakjör af nefndu skuldabréfi. Að ógildi þeirrar ákvörðunar lítur 3. tl. aðaldómkröfu varnaraðila.

Samkvæmt 100. gr. a laga nr. 161/2002, eins og ákvæðið hljóðaði 21. mars 2009, voru sóknaraðila, Fjármálaeftirlitinu, fengnar heimildir til að grípa til sérstakra ráðstafana á fjármálamarkaði í kjölfar hins svokallaða efnahagshruns haustið 2008. Samkvæmt ákvæðinu gat sóknaraðili meðal annars tekið yfir vald hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir, þar á meðal að takmarka ákvörðunarvald stjórnar, víkja stjórn frá að hluta til eða í heild sinni, taka yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta eða ráðstafa slíku fyrirtæki í heild eða að hluta, meðal annars með samruna þess við annað fyrirtæki. Þessa heimild er nú að finna í VI ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002. Á grundvelli þessarar heimildar tók sóknaraðili ákvörðun sína 21. mars 2009, svo sem ákvörðunin ber með sér, og þær þrjár ákvarðanir sem ógildingarkröfur varnaraðila lúta að.

Nú vill aðili ekki una ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og getur hann þá samkvæmt 18. gr. laga nr. 87/1998  höfðað mál til ógildingar hennar fyrir dómstólum. Skal mál höfðað innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Í máli þessu er ekki ágreiningur um að ákvarðanir þær er sóknaraðili, Fjármálaeftirlitið, tók og mál þetta varðar voru kynntar aðilum samdægurs. Með hliðsjón af þessu var málshöfðunarfrestur varnaraðila til ógildingar á ákvörðunum sóknaraðila, Fjármálaeftirlitsins, frá 17. apríl og 5. júní 2009 liðinn er mál þetta var höfðað með stefnu birtri 4. maí 2011.

Sambærilegt orðalag um málskotsfrest og fram kemur í 18. gr. laga nr. 87/1998 er að finna í 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991. Orðalag þetta hefur verið skýrt með þeim hætti að miða beri mánaðarhugtakið við sama dag næsta mánaðar. Má um það meðal annars vísa til dóms Hæstaréttar frá 1994 á blaðsíðu 1947 í dómasafni réttarins frá því ári. Verður málskotsfrestur í þessu efni skýrður með sama hætti varðandi lög nr. 87/1998. Í því ljósi var málshöfðunarfrestur varnaraðila ekki liðinn varðandi 3. tl. aðaldómkröfu varnaraðila þegar mál þetta var höfðað. Verður 3. tl. aðaldómkröfunnar ekki vísað frá dómi á þeim grundvelli. Er dómkrafa skýr og verður ekki vísað frá dómi á grundvelli vanreifunar.

Yrði niðurstaða í efnisdómi á þann veg að dómkrafa varnaraðila samkvæmt 3. tl. aðaldómkröfu væri tekin til greina myndi leiða af eðli máls að við myndi rakna vaxtaákvörðun sóknaraðilans, Fjármálaeftirlitsins, frá 5. júní 2009. Vaxtaákvörðun sóknaraðila frá 4. febrúar 2011 var varnaraðila hagfelldari heldur en sú frá 5. júní 2009. Niðurstaða í efnisdómi í þessu máli yrði varnaraðila þar af leiðandi aldrei í hag. Hefur varnaraðili því ekki lögvarða hagsmuni af dómi um aðalkröfu í málinu. Á framangreindum forsendum verður aðaldómkröfum varnaraðila vísað frá dómi.  

Dómstólar skera samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda og geta þannig ógilt ákvarðanir framkvæmdavaldshafa ef þeim er áfátt að formi eða efni. Það leiðir hins vegar af þrískiptingu ríkisvaldsins, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar, að almennt er ekki á færi dómstóla að taka nýjar ákvarðanir um málefni sem stjórnvöldum eru falin með lögum og ógildanlegar kunna að vera eða gefa stjórnvöldum fyrirmæli um efnislegt innihald slíkra nýrra ákvarðana, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 19. júlí 2010 í máli nr. 436/2010. Í vara- og þrautavarakröfu varnaraðila er ekki krafist ógildingar þeirra ákvarðana er þar um ræðir heldur beinist kröfugerðin að því að ákveðið verði hvert skuli vera efnislegt innihald ákvarðana sem í þeirra stað komi. Þar sem slíkt er samkvæmt framansögðu ekki á færi dómstóla verður þessum kröfum vísað frá dómi.

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 greiði varnaraðili sóknaraðilum málskostnað svo sem í úrskurðarorði er mælt fyrir um.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Varnaraðili, Drómi hf., greiði sóknaraðilum, Fjármálaeftirlitinu og Arion banka hf., hvoru um sig 400.000 krónur í málskostnað.