Print

Mál nr. 221/2007

Lykilorð
  • Höfundarréttur
  • Málshöfðunarfrestur
  • Miskabætur
  • Skaðabætur

Dómsatkvæði

 

Fimmtudaginn 13. mars 2008.

Nr. 221/2007.

Auður Sveinsdóttir

(Halldór H. Backman hrl.

 Herdís Hallmarsdóttir hdl.)

gegn

Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni

(Heimir Örn Herbertsson hrl.)

og gagnsök

 

Höfundaréttur. Málshöfðunarfrestur. Miskabætur. Skaðabætur.

Árið 2003 kom út bókin Halldór 1902-1932, ævisaga Halldórs Kiljans Laxness. Var H höfundur bókarinnar. A sem sat í óskiptu búi eftir HKL taldi að H hefði við ritun bókar sinnar nýtt sér í miklum mæli texta HKL og með því framið umfangsmikil brot á höfundarétti. Voru af hennar hálfu afmörkuð 120 tilvik þar hún taldi að H hefði brotið meðal annars gegn 3. og 4. gr. höfundalaga nr. 73/1972. Krafðist hún þess að H yrði dæmdur til refsingar samkvæmt 54. gr. höfundalaga, til greiðslu skaðabóta samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laganna og til greiðslu miskabóta samkvæmt 2. mgr. 56. gr. þeirra. Talið var að sex mánaða frestur, samkvæmt 29. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 til höfðunar einkarefsimáls hefði verið liðinn er málið var höfðað og var refsikröfu A því sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi. Um miskabótakröfu A sagði Hæstiréttur að þar sem réttur til að krefjast miskabóta vegna brota á höfundarétti væri bundinn við höfundinn sjálfan gæti A ekki átt aðild að slíkri kröfu og var H því sýknaður af þessum kröfulið. Kröfu H um að fébótakröfu A yrði vísað frá dómi var hafnað. Var talið að H hefði í um það bil tveimur þriðju hluta þeirra tilvika er A hafði afmarkað, brotið með fébótaskyldum hætti gegn höfundarétti að verkum HKL, með því að nýta sér texta HKL ýmist lítt breyttan eða nokkuð breyttan en haldið stíleinkennum og notað þá einstaka setningar og setningarbrot notuð lítt breytt og án þess að vísa til heimildar. Ekki var fallist á með H að allsherjartilvísun hans í fimm minningarbækur HKL í eftirmál ævisögunnar uppfyllti skilyrði 14. gr. höfundalaga um tilvísun. Voru fébætur til handa A metnar að álitum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Páll Hreinsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. febrúar 2007. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 28. mars 2007 og var áfrýjað öðru sinni 25. apríl sama ár. Hún krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til refsingar samkvæmt 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972, að gagnáfrýjandi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta samkvæmt 1. mgr. 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972 að fjárhæð 2.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. desember 2005 til greiðsludags og að gagnáfrýjandi verði dæmdur til greiðslu miskabóta samkvæmt 2. mgr. 56. gr. höfundalaga að fjárhæð 2.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. desember 2004 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 3. júlí 2007 og gerir þær kröfur  aðallega að skaðabótakröfu aðaláfrýjanda samkvæmt 1. mgr. 65. gr. höfundalaga verði vísað frá héraðsdómi og  hinn áfrýjaði dómur að öðru leyti staðfestur um annað en málskostnað. Til vara krefst hann þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og  fyrir Hæstarétti.

I.

Í byrjun desember 2003 kom út bókin Halldór 1902-1932, ævisaga Halldórs Kiljans Laxness. Gagnáfrýjandi er höfundur bókarinnar og tilgreindur handhafi höfundarréttar aftan á titilsíðu. Um var að ræða fyrsta bindi ævisögu skáldsins, sem náði eins og heitið ber með sér til fyrstu þrjátíu æviára hans, en höfundur lýsti því í eftirmála að fyrirhugað væri að ævisagan öll yrði þrjú bindi. Bókin er í heild 620 þéttletraðar blaðsíður. Meginmál hennar er tæpar 560 blaðsíður og skiptist í átta kafla, sem hverjum um sig er skipt upp í allmarga undirkafla. Í bókarlok er skrá yfir tilvísanir á 44 blaðsíðum, nafnaskrá á 11 síðum og loks eftirmáli höfundar á tveimur síðum.

 Halldór Kiljan Laxness lést 8. febrúar 1998. Aðaláfrýjandi situr í óskiptu búi eftir hann samkvæmt leyfi sýslumannsins í Reykjavík 24. apríl 1998. Hún höfðaði mál á hendur gagnáfrýjanda 23. nóvember 2004. Taldi hún að gagnáfrýjandi hefði við ritun bókar sinnar nýtt sér í miklum mæli texta Halldórs, og með því framið umfangsmikil brot á höfundarétti. Krafðist hún  þess að gagnáfrýjandi yrði  dæmdur til refsingar samkvæmt 54. gr. höfundalaga, til greiðslu miskabóta samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laganna að fjárhæð 2.500.000 krónur auk dráttarvaxta og til greiðslu fébóta samkvæmt 3. mgr. 56. gr. laganna að fjárhæð 5.000.000 krónur auk dráttarvaxta. Þá krafðist hún málskostnaðar. Gagnáfrýjandi krafðist aðallega frávísunar málsins og féllst héraðsdómur á þá kröfu með úrskurði 9. júní 2005. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 308/2005, sem birtur er í dómasafni það ár á bls. 3205, var auðgunarkröfu aðaláfrýjanda samkvæmt 3. mgr. 56. gr. höfundalaga vísað frá héraðsdómi, en kröfu gagnáfrýjanda um frávísun annarra krafna hafnað. Aðaláfrýjandi höfðaði síðan annað mál á hendur gagnáfrýjanda 26. október 2005. Gerði hún þar kröfu um að gagnáfrýjandi yrði dæmdur til greiðslu skaðabóta samkvæmt 1. mgr. 56. gr. höfundalaga að fjárhæð 2.500.000 krónur auk málskostnaðar. Var sú krafa einnig reist á ætluðum brotum gagnáfrýjanda á höfundarétti verka Halldórs og var málatilbúnaður aðaláfrýjanda mjög hliðstæður þeim sem verið hafði í fyrrgreinda málinu. Frávísunarkröfu gagnáfrýjanda í þessu síðara máli var hafnað með úrskurði héraðsdóms 7. apríl 2006 og leitar gagnáfrýjandi endurskoðunar á þeim úrskurði með aðalkröfu sinni. Í þinghaldi 25. ágúst 2006 voru málin sameinuð og hinn áfrýjaði dómur upp kveðinn 10. nóvember 2006.

II.

Eins og fyrr greinir var málatilbúnaður aðaláfrýjanda hliðstæður í málunum tveimur sem sameinuð voru 25. ágúst 2006. Tók hún fram í báðum stefnunum að ætluð brot gagnáfrýjanda væru umfangsmikil en til glöggvunar væru tilgreind með sundurliðuðum hætti þau atriði sem að hennar mati fælu í sér brot á höfundalögum af hálfu gagnáfrýjanda. Voru þessi atriði síðan rakin í 120 tölusettum liðum, sem eru samhljóða í stefnunum báðum, en tekið fram að í hluta þessara tilgreindu liða væri um fleiri en eitt einstakt tilvik að ræða. Varðandi hvern þessara liða var fyrst getið blaðsíðu eða blaðsíðna í bók gagnáfrýjanda en síðan blaðsíðu eða blaðsíðna í tilgreindu ritverki Halldórs. Þá var tilgreint í fáum orðum í hverju aðaláfrýjandi teldi umrætt brot á höfundalögum felast, en í hinum áfrýjaða dómi er þessum tilgreiningum aðaláfrýjanda skipað í flokka. Loks var í hverjum tölulið vísað til héraðsdómskjals og varðaði eitt skjal hvern tölulið. Þessi skjöl eru ljósrit af áður tilgreindum síðum í bók gagnáfrýjanda annars vegar og ritverki Halldórs hins vegar og er sá hluti textans á viðkomandi síðum sem brot gagnáfrýjanda er talið varða afmarkaður með römmum. Þar sem málatilbúnaður aðaláfrýjanda grundvallast á þessum atriðum verður ekki hjá því komist að tilgreina þau hvert og eitt. Er það gert þannig að fyrst er tilfærður orðréttur texti úr stefnunum varðandi hvern tölulið, síðan sá texti bókar gagnáfrýjanda sem til er vísað og loks samsvarandi texti úr ritverki Halldórs. Þar sem um fleiri en eitt tilvik er að ræða í hverjum tölulið eru einstakir undirliðir merktir bókstöfum og raktir með sama hætti. Neðangreindar númeraðar tilvísanir eru teknar orðrétt úr héraðsdómsstefnu og er því vitnað þar til gagnáfrýjanda sem „stefnda“.

 

1.       „Bók stefnda, bls. 10. Brekkukotsannáll, bls. 14 – 15. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 6.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 10:

Á vetrarvertíð og að áliðnu sumri dró hann aðallega þorsk og ýsu, en stundum kola eða jafnvel smáflyðru. Það, sem ekki seldist strax, hengdi hann upp á rár í hjalli og herti í skreið. Þegar kom fram á útmánuði, hætti hann að róa til fiskjar og fór að stunda hrognkelsi, sem hann sótti út í þarann, ýmist í Skerjafirði eða úti við Granda.   

 

Bók Halldórs, Brekkukotsannáll, bls. 14 – 15:

Á vetrarvertíð og eins að áliðnu sumri veiddi hann aðallega þorsk og ýsu, en stundum kola eða jafnvel smáflyðru; annar fiskur var ekki sýndur. Það sem ekki seldist um leið verkaði afi heima og heingdi uppá rár útí hjalli og herti í skreið. Þegar kom frammá útmánuði hætti hann að róa til fiskjar sem kallað var, og fór að stunda hrokkelsi. Þau sótti hann útí þarann, ýmist í Skerjafirði eða útvið Granda.

 

 

2.       „Bók stefnda, bls. 16. Í túninu heima, bls. 10. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 7.“          

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 16:

Dóri litli trítlaði líka þriggja ára á hverjum degi með ömmu sinni að sækja mjólk niður á Klapparstíg, þar sem Einar Finnsson verkstjóri bjó og hélt eina kú. Mjólkin var látin í málaða fötu, sem drengurinn fékk aldrei að bera, nema hún væri tóm.

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 10:

Fyrsta ferðalag mitt, og endurtók sig víst á hverjum degi alt sumarið sem ég var á þriðja árinu, það myndaði einlægt hið sama rétt horn án botnlínu, frá steinbænum á Laugavegi 32 og niðrá Klapparstíg til hans Einars Finnssonar verkstjóra sem ég reyndar aldrei sá, en hann átti kú sem ég sá ekki heldur og vissi ekki hvað var, og við keyptum úr henni mjólk að láta í emaléraða fötu og ég fékk aldrei að bera nema hún væri tóm.

 

 

3.       „Bók stefnda, bls. 16. Í túninu heima, bls. 37 – 38. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 8.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 16:

A. Dóri litli fór líka stundum með ömmu sinni að finna systur hennar í Melkoti. Bærinn stóð við Suðurgötu, sem hlaut nafn sitt af því, að hún lá í suður frá Aðalstræti. Öðrum megin götunnar voru margir fyrirmenn bæjarins að reisa sér hús fyrir neðan svo háa brekku, að aðeins sást ofan á þökin hjá þeim. Hinum megin var kirkjugarðurinn.

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 37 – 38:

A. Og þá sjaldan ég hafði farið í skemtitúr með henni ömmu minni var það til að finna systur hennar hana Guðrúnu í Melkoti, en þángað var bara meiri gata. Sá bær stóð við Suðurgötu sem var hálfpartinn í eyði, því öðrumegin við hana bjuggu allir höfðíngjarnir fyrir neðan háa brekku svo það sást aðeins ofaná húsþökin hjá þeim, en hinumegin var kirkjugarðurinn ...

 

Í bók gagnáfrýjanda hefur aðaláfrýjandi afmarkað texta merktan B, en enga samsvarandi merkingu er að finna í bók Halldórs. Er sá texti því ekki rakinn.

 

 

4.       „Bók stefnda, bls. 17 – 18. Í túninu heima, bls. 22. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 9.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 17 – 18:

Vorið 1905, þegar Dóri litli var þriggja ára, kom maður með hatt og í svörtum frakka heim til foreldra hans á Laugaveginn. Hann settist á tal við föður hans, en hatturinn og frakkinn héngu á snaga í fordyri. Þetta var Sighvatur Bjarnason, bankastjóri Íslandsbanka. Erindi hans var að greiða fyrir því, að Guðjón seldi húsið á Laugaveginum og fengi þess í stað jörðina Laxnes í Mosfellssveit, sem frægur hrossakaupmaður, Páll Vídalín, hafði setið.

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 22:

Einusinni kom venjulegur maður með hatt, í svörtum frakka, og var boðið til stofu. Hann sat leingi á tali við föður minn. Hatturinn og frakkinn héngu á snaganum í fordyrinu. Skrýtið að ég skuli enn muna að þessi maður sem ég sá bara frakkann hans og hattinn hét Sighvatur Bjarnason bánkastjóri. Erindi hans var að kaupa af okkur þetta nýa og fallega hús þar sem var svo gaman, og hafa milligaungu fyrir Íslandsbánka í því að faðir minn skyldi í staðinn fá jörð uppí sveit af Páli nokkrum Vídalín, frægum hrossakaupmanni.

 

 

5.       „Bók stefnda, bls. 18. Í túninu heima, bls. 24 – 28. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (3 tilvik A, B og C). Sjá dskj. nr. 10.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 18:

A. Dóri litli þekkti alla hesta föður síns, sem voru í þessari för. Einn var mjög stór og hét Axel. Hann hafði verið keyptur norður í Eyjafirði og nefndur eftir fyrri eiganda. Annar hesturinn hét Blesi, kubbslegur, samanrekinn vatnahestur úr Austur-Skaftafellssýslu. Hann var kaldlyndur og einrænn, alinn upp við að vaða og synda straumvötn á söndunum undan Vatnajökli og kunni aldrei við sig sunnan vatna. Hann kunni ekki heldur við Dóra litla. Tveir hestanna voru úr Borgarfjarðardölum og báðir ljósir. Hét annar Drafnar, af því að hann hafði nokkra svarta depla, hinn Hermundur, af því að hann var frá Hermundarstöðum. Enn var gamall hestur, rauður á hausinn, og kallaður Kúfur. Amma Dóra litla, sem nú hafði þrjá um sjötugt, var sett upp á Kúf. Síðar meir var hesturinn eignaður drengnum. Bak hans var svo breitt, að fætur Dóra litla stóðu hvor í sína áttina eins og á fimleikamanni, þegar hann var settur upp á hestinn.

B. Vegurinn úr Reykjavík upp í Mosfellssveit var þá varla nema troðningur, sem þræddi sig með sjónum í niðursveitinni, upp með Grafarvogi, fyrir voginn og yfir Keldnaholt, ...

C. ... þegar þangað kom, var Dóri litli sofnaður.

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 24 – 28:

A. Ég man eftir öllum hestunum og átti þó eftir að glöggva mig betur á þeim síðar. ... þar var Axel, stærstur hestur á Íslandi, keyptur norður í Eyafirði og skírður í höfuðið á fyrri eiganda sínum; Blesi, kubbslegur samanrekinn vatnahestur úr Austur-Skaftafellssýslu ... þetta var kaldlyndur og einrænn hestur ... Þessi hestur var uppalinn við að vaða eða synda straumvötn á söndunum undan Vatnajökli, og kunni aldrei við sig sunnan vatna; kunni ekki við aðra hesta og kunni ekki við mig sem altaf var að berja hann svo að hann sisaðist úr sporunum þegar ég var að flytja á honum mjólk síðar; ... Tveir hestar voru ættaðir úr Borgarfjarðardölum og báðir ljósir, annar með svörtum púnktum og af því nefndur Drafnar, hinn hét Hermundur af því hann var frá Hermundarstöðum. Gamall klár rauður á hausinn hét Kúfur; amma mín 73gja ára var sett uppá hann, því hann var talinn með eindæmum hrekklaus hestur handa gamalli konu. En meðþví hún fór ekki í fleiri útreiðartúra það sem eftir var ævinnar, var Kúfur gamli eignaður mér. Það var svo breitt á honum bakið að þegar ég var sestur uppá hann stóðu fæturnir á mér sitt í hvora áttina einsog ég væri kominn í splitt.

B. Vegurinn uppí Moskó sem þessi sveit var þá kölluð af einhverri misskilinni fyrirlitníngu á Rússlandi, það voru bara lestamannatroðníngar; ...

... þræddi sig með sjónum í niðursveitinni, og var farið upp með Grafarvogi, síðan fyrir voginn yfir litla heiði eða háls sem ég aldrei í minni bernsku heyrði nefnt öðru en því undursamlega nafni Kjalnolt.

C. ... enda hef ég fyrir satt að ég hafi altíeinu verið sofnaður, ...

 

 

6.       „Bók stefnda, bls. 18. Í túninu heima, bls. 28 – 29. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 11.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 18:   

Hann vaknaði ekki aftur, fyrr en vatnið úr Varmá gusaðist framan í hann á vaðinu móts við Leirvogstungu. Þar hækkaði landið, og við tóku mikil sandvörp. Dóri litli rak nývaknaður augun í þau, benti þangað og spurði: „Hvur hefur mokað þessa hóla?“ 1

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 28 – 29:

Mér er sagt ég hafi ekki vaknað fyren vatnið gusaðist framaní mig úr Varmá á vaðinu móts við Leirvogstúngu. Þar hækkaði landið og tóku við mikil sandvörp, ... En nú er ég semsé vaknaður í miðri Varmá ... og rek augun í þessi sandfjöll meiren lítið hlessa, bendi þángað og spyr: hvur hefur mokað þessa hóla?

 

 

7.       „Bók stefnda, bls. 18 – 19. Í túninu heima, bls. 29 – 30. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 12.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 18 –19

Kaldakvísl kemur undan brúnum Mosfellsheiðar og rennur um endilangan Mosfellsdal miðjan til vesturs og úr honum um skarð í Ásunum norður undir Helgafell. Þegar hún kemur ofan af heiðinni niður á sléttar eyrar Mosfellsdals, rennur hún í fimm hlykkjum, og á hverjum hlykk eru tvö vöð. Gatan heim að Laxnesi lá um alla hlykkina. Þegar Guðjón, Sigríður og skyldulið þeirra voru loksins komin yfir tíunda vaðið, voru þau stödd á heimreiðinni að Laxnesi. En hún var ósýnileg, ösla þurfti yfir mýrarslörk að bænum. Eitt fyrsta verk Guðjóns í Laxnesi var að leggja upphleyptan veg malarborinn heiman frá bænum yfir túnið niður að á.

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 29 – 30:

Kaldakvísl, áin sem kemur undan brúnum Mosfellsheiðar, og Eyjólfur á Hvoli, sem eitt ár bjó í Laxnesi, nefnir Kaldaklofsá, og þykir víst ekki nógu fínt, þessi á fellur um endilángan Mosfellsdal miðjan til vesturs, og útúr honum gegnum skarð í Ásunum norðrundan Helgafelli; en þá er stutt í Leiruvoga þar sem fornmenn komu út. Þegar þessi á kemur ofanaf heiðinni niðrá sléttar eyrar Mosfellsdals, þá rennur hún þar í fimm hlykkjum og á hverjum hlykk eru tvö vöð. Gatan heimað Laxnesi lá í gegnum alla hlykkina. Þegar við vorum loks komin yfir tíunda vaðið vorum við stödd á heimreiðinni að Laxnesi, en hún var ósýnileg, ...

 

 

8.       „Bók stefnda, bls. 19. Í túninu heima, bls. 30 – 33. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (2 tilvik A og B). Sjá dskj. nr. 13.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 19:

A. Torfbæir voru á flestum býlunum í dalnum nema í Laxnesi, þar sem stóð timburhús, er Páll Vídalín hafði reist. Verið var að reisa prestssetur úr timbri að Mosfelli, og hafði presturinn í Lágafellssókn, séra Magnús Þorsteinsson, fengið að búa í húsinu í Laxnesi á meðan. Á suðurgafli þess miðjum voru þrep upp að myndarlegu fordyri, og þar stóð presturinn sjálfur til að taka á móti nýjum eigendum, góðlegur höfðingi, bláklæddur, sköllóttur með mikið yfirskegg. Hann bauð þau velkomin og bar Dóra litla yfir þröskuldinn, sem var í hærra lagi.

B. Laxnes stendur í miðjum dal á grasi vöxnu landflæmi. Aðrir bæir kúra undir lágum fellum beggja vegna í dalnum, en bak við þau hærri fjöll. Norðan megin rísa fjöll eins og Kistufell, Hágöngur og Móskarðshnúkar og eru öll hluti af Esju. Til austurs er heiðin, en í vestri fjallagirðing, sem byrgir sýn til Reykjavíkur. Skál er í girðingunni, þar sem hún er lægst, og þar rennur áin í Laxnesi út í sjó. Með berum augum má grilla í hluta sjávarins gegnum þetta hálfa gat, en ekki sést nema Engey í skarðinu. Einmitt í þessu skarði var miðaftanstaður úr dyrunum í Laxnesi. Sólin stóð beint yfir skarðinu klukkan sex að kvöldi. Í þveröfuga átt var austur, þar sem sólin kom upp. Þess vegna var óþarfi að nota klukku um bjargræðistímann í Laxnesi. Sólin sagði fyrir um, hvenær skyldi farið á fætur og í háttinn.

 

 

 

Bók Halldórs, Í túninu heima,, bls. 30 – 33:

A. Á þessum tímum voru eintómir „bæir“ í dalnum, það er að segja torfarkitektúr; „hús“, sem þá voru kölluð til aðgreiníngar frá torfbæum, var aðeins í Laxnesi, reist nokkrum árum á undan af þeim frægum hrossakaupmanni Páli Vídalín; og verið að reisa prestsetur á Mosfelli. ...

Seinasta árið hafði nýi presturinn séra Magnús Þorsteinsson, kjörinn til Lágafellssóknar 1904, feingið að vera viðloðandi í laxneshúsunum meðan verið var að reisa honum prestsetur að Mosfelli. Á suðurgaflinum miðjum voru tröppur uppað myndarlegu fordyri og þar stóð presturinn sjálfur á þröskuldinum að taka formlega á móti okkur, góðlegur höfðíngsmaður, sköllóttur með stórt yfirskegg, í bláum klæðisfötum og bauð okkur velkomin og bar mig yfir þröskuldinn sem var í hærra lagi.

B. Laxnesbærinn stendur í miðjum dal á grasivöxnu landflæmi sem átti nú um sinn að verða minn himinn og jörð, Laxnestúnið. Aðrir bæir stóðu undir lágum fellum sitt hvorumegin í dalnum, en bakvið þau, einkum norðanmegin, risu þó fjöll sem mark var á takandi einsog Kistufell Hágaungur Móskarðahnúkar og öll tilheyrðu Esju. Til austurs var opin leið inní óendanleikann. ...

... myndaðist skál í fjallgirðínguna í vestur, þar sem hún verður lægst og útum þessa glufu rann áin okkar í Laxnesi útí sjó, og mátti grilla með berum augum part af sjónum gegnum þetta hálfa gat sem var í laginu einsog maður hefði bitið skarð í röndina á undirskál; því miður sást ekki nema Eingey í skarðinu. En akkúrat í þessu skarði var miðaftanstaður úr kjallaradyrunum í Laxnesi, og hafði svo verið frá því guð skapaði heiminn; einlægt var klukkan sex að kvöldi þegar sólin í Laxnesi stóð beint yfir skarðinu þar sem Kaldakvísl fellur úr heiminum útí alheiminn. Í þveröfuga átt var austur þar sem sólin kom upp, svo hér var í raun og veru óþarfi að eiga klukku, sólin sagði fyrir um hvunær átti að fara á fætur og hvunær fara að sofa; líka hvunær bóa, sem var skammstöfun fyrir borða.

 

 

9.       „Bók stefnda, bls. 19. Í túninu heima, bls. 38. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 14.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 19:

Fyrsta morguninn í Laxnesi tók Guðjón bóndi Dóra litla við hönd sér, og þeir gengu austur fyrir tún. Þar sáu þeir lítinn læk með rauðum steinum renna úr mýrinni ofan við Hólhús, sem voru ærhúsin þeirra. Þaðan fóru þeir út í silfurgrátt lyngholt með grænum lautum. Þetta var sólskinsdagur. Dóri litli sá lóu í fyrsta skipti. Hún fylgdi þeim feðgum nokkra faðma og horfði á þá. Drengurinn var hugfanginn af fugli með svart silkibrjóst, sem ekki var hæna. Hann langaði til að grípa hann. „Reyndu,“ sagði faðir hans, settist niður í móanum og sleppti af honum hendi. En lóan hljóp undan, og þegar snáðinn nálgaðist hana, flaug hún upp. Hann furðaði sig á því, að hún vildi ekki lofa honum að ná sér. Hann ætlaði sér ekki að gera henni neitt illt.

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 38:

En þennan vormorgun eftir að við komum að Laxnesi, og ég var búinn að sofa fyrstu nóttina mína í sveit, tók faðir minn mig við hönd sér, og við geingum austurfyrir tún þar sem þá sáust merki um garðlög úr fornöld; og mótar fyrir þeim enn. Við sáum lítinn læk með rauðum steinum og kemur ofanúr mýrinni fyrir ofan Hólhús, ærhúsin okkar. Héðan stefndum við á silfurgrá lýngholt með grænum lautum. Sólskinsdagur. Af hverju man ég eftir þessum degi, hvað gerðist? Ég sá lóuna í fyrsta sinn. Hún fylgdi okkur á hlaupum nokkra faðma í burtu og horfði á okkur með því auganu sem að okkur vissi. Ég var svo hugfánginn af fugli með svart silkibrjóst, og ekki einsog pútur, að mig lángaði að grípa hann og fara með hann heim og eiga hann. Reyndu, sagði faðir minn og settist niður í mónum og slepti af mér hendinni svo ég gæti náð í fuglinn. En lóan hljóp undan og þegar ég nálgaðist hana flaug hún upp. Af hverju vill hún ekki lofa mér að ná sér? Af hverju flýgur hún upp? Ég ætlaði ekki að gera henni ílt. ...

Nýtt líf var byrjað ...

 

 

10.     „Bók stefnda, bls. 19 – 20. Í túninu heima, bls. 40 – 41. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (4 tilvik A, B, C og D). Sjá dskj. nr. 15.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 19 – 20:

A. Tíkin á bænum hét Díla, svört með hvítum dílum, snoðin og öll á langveginn. Hún elti Dóra litla, hvert sem hann fór. Hún settist stundum hjá honum og lofaði honum að toga í skottið á sér og eyrun og opna á sér kjaftinn og skoða hann að innan.

B. Köttur rataði einhvern veginn upp í rúm til ömmu drengsins og hreyfði sig ekki þaðan úr því.

C. Á stekknum sá snáðinn smávaxnar kýr, sem voru kallaðar kindur. Þær jörmuðu á lömbin sín og þau á móti. Lömbin voru eins og grátandi börn með fjóra fætur.

D. Karlar sváfu í norðausturherberginu í kjallaranum. Þeir héldu með skóflu út í mýri, þegar þeir vöknuðu á morgnana. Þegar Dóri litli rogaðist til þeirra með skóflu, ráku þeir hann heim.

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 40 – 41:

A. Síst ætti ég þó að gleyma því að einhvernveginn höfðum við eignast tík sem hét Díla, svört með hvítum dílum, snoðin og öll á lángveginn; ... tók hún upp hjá sjálfri sér að fylgja mér hvar sem ég fór til að vernda mig fyrir illu; og þegar ég settist þá settist hún hjá mér og lofaði mér að toga í skottið á sér og eyrun og opna á sér þennan stóra fallega kjaft og skoða hann að innan.

B. Kattarafmán hafði líka lymskast inní húsið utanúr náttúrunni og fann auðvitað strax ömmu mína og lagðist uppí rúmið hennar og hreyfði sig ekki þaðan úr því, ...

C. Starsýnt varð mér á þessar litlu kýr sem eru kallaðar kindur og ég sá nú nálægt mér í fyrsta skifti á stekknum og þar heyrði ég þær líka jarma á lömbin sín og lömbin jarma á móti; þau voru í rauninni grátandi börn með fjóra fætur.

D. ... kallar sem voru látnir sofa í norðausturherberginu í kjallaranum á nóttunni, en fóru að moka með skóflu útí mýri þegar þeir vöknuðu á mornana; en þegar ég kom með mína skóflu ráku þeir mig heim.

 

 

11.     „Bók stefnda, bls. 20. Í túninu heima, bls. 49 – 50. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 16“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 20:

Hún og maður hennar höfðu búið í húsinu árið á undan. Arndís var að því skapi fasmikil sem Sigríður Halldórsdóttir var orðfá. Hún taldi, að eigum sínum hefði verið kastað hér á hauga og var komin að vitja þeirra. Hún leitað í hrundum kofum fyrir austan bæinn og haugum og hrúgum, sem enn voru til bak við húsið. Dóri litli fylgdi konunni áhugasamur eftir. Þegar hún hafði valið úr þá hluti, sem hún vildi síst án vera, kom hún í bæinn aftur og hélt áfram að rekast í týndum eigum sínum við húsmóðurina, hugði þær vera í hennar vörslu. Sigríður hélt áfram að svara fáu. Dóra litla fannst móðir sín taka aðkomukonunni heldur illa, svo að hann trítlaði út á hauga og kom í bæinn með stóra pönnu, ryðgaða og úr henni botninn, og lagði að fótum konunnar. „Átt þú ekki þessa pönnu?“ sagði Dóri litli. Konan horfði kuldalega á hann og svaraði: „Það er best, að pannan sú arna fylgi staðnum.“2

                          

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 49 – 50:

Einhverju sinni snemma um sumarið kemur til okkar sköruleg kona að sunnan og heitir Arndís. Þessi kona hafði bollokað hér með bónda sínum, ég held árið á undan. Konan var að því skapi fasmikil sem móðir mín var orðfá; hún taldi að búslóð sinni og öðrum eignum hefði verið kastað hér á hauga og var nú komin að vitja góðra gripa sinna. Konan leitaði í hrundum kofum fyrir austan bæinn og þeim sorpdýngjum sem enn lifðu bak húsum. Í þessum stöðum valdi hún úr þá hluti sem hún vildi síst án vera. Ég tók mikinn þátt í áhugamálum konunnar. Þegar hún hafði leitað af sér grun í haugunum kom hún í bæinn aftur og hélt áfram að rekast í týndum auðæfum sínum við móður mína; hugði þau vera í hennar vörslu, eða kanski hefði móðir mín falið þau fyrir sér. Móðir mín hélt áfram að svara fáu. Samt fanst mér hún ekki nærri nógu góð við konuna. Þá fór ég útá hauga aftur og kom í bæinn með gríðarstóra pönnu, kolryðgaða og úr henni botninn, lagði nú þennan grip að fótum konunnar. Átt þú ekki þessa pönnu? spurði ég.

Mér fanst konan horfa nokkuð kuldalega á mig, en hún svaraði með orðtaki sem ég heyrði í fyrsta sinn þá og hef ekki gleymt síðan, „það er best að pannan sú arna fylgi staðnum“. Það var ekki fyren áratugum síðar að ég komst að því að þetta orðatiltæki er haft um dýrgripi sem fylgja sömu kirkju mann frammaf manni og aldrei má flytja burt af staðnum. Fjaska hefur þetta verið skemtileg kona og haft munninn vel fyrir neðan nefið, ...

12.     „Bók stefnda, bls. 20 – 21. Í túninu heima, bls. 46 – 47. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 17.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 20 – 21:

Í túninu skiptist á votlendi með mýrgresi og valllendur þúfnakargi, þar sem hærra bar. Sléttur höfðu verið gerðar í kargann á nokkrum stöðum fyrir tíð Guðjóns bónda. Í mýrarsvakkana höfðu verið grafin ræsi, sem voru svo grunn, að Dóra litla stafaði ekki önnur hætta af þeim en að verða leirugur. Innan túns norðan við bæinn hafði mór verið stunginn upp. Þessar fornu mógrafir stóðu hálfar af leðju, sem þykknaði, þegar leið á sumarið. Í sumum voru brunnklukkur. Drengnum var sagt, kæmi hann nálægt brún á mógröf, að þá myndi brunnklukka stökkva upp úr henni beint ofan í hann og éta innan úr honum lifrina. Engin lækning væri til önnur en sú að gleypa jötunuxa, sem væri eina flugan til að fljúga lóðrétt. Eftir þetta þurfti Dóri litli ekki annað en sjá brunnklukku niðri í mógröf. Þá varð hann skelkaður og flýði. Síðar átti hann eftir að hafa gaman af að taka upp mó á vorin í mýrinni fyrir ofan holtið og fara í skítkast með hann blautan við drengi á sama reki.

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 46 – 47:

Í þessu túni skiftist á votlendi með mýrgresi og vallendur þúfnakargi þar sem hærra bar. Sléttur höfðu verið gerðar í þennan karga fyrir tíma föður míns hér og hvar, ... Í mýrarsvakkana höfðu fyrri menn gert ræsi sem voru svo nett að ég gat ekki druknað í þeim, bara orðið leirugur. En hér höfðu líka stórhuga kotbændur lagt í mýrlend svæði innantúns norðanvið bæinn og stúngið upp mó. ... Þessar fornu mógrafir stóðu hálfar af einhverskonar mauki og þyknaði æ því meir sem á leið sumar. Í sumum voru brúnklukkur sem svo eru kallaðar af því þær hafa þá náttúru, að komi maður nálægt brúninni á svona mógröf, þá hoppar brúnklukkan uppúr og beina leið oní mann og tekur til óspiltra mála að éta innanúr manni lifrina. Það er eingin lækníng við brúnklukku nema gleypa jötunux. Jötunux er með leiðinlegri flugum og sú ein fluga sem flýgur lóðrétt einsog einglar á póstkortum, ... Ekki þurfti annað en ég sæi í hvítan botninn á brúnklukku oní mógröf, en með botninum anda þessi kvikindi, þá flýði ég alt hvað fætur toguðu ...

Síst grunaði mig, þetta fyrsta sumar mitt í sveitinni, að það ætti eftir að verða ein af mörgum góðum skemtunum komandi daga að fá að taka upp mó á vorin í mýrinni fyrir ofan holtið og fara í skítkast með blautan mó við aðra stráka á sama reki.

 

 

13.     „Bók stefnda, bls. 21. Í túninu heima, bls. 50 – 57. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (4 tilvik A, B, C og D). Sjá dskj. nr. 18.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 21:

A. Nálægt bæjarhúsum í Laxnesi lágu leifar af gömlum kofum, vallgrónum tóftarbrotum og stekkjartúnum. Í tóftarbrotunum óx hávaxinn puntur og safamikill lággróður. Dóri litli gekk að því vísu, að huldufólk byggi í slíkum brotum.

B. Dag einn í björtu sólskini tók hann rögg á sig og réðst til uppgöngu í eina huldtutóftina. Hann kastaði kveðju á huldufólkið og hóf við það löng samtöl. Hann skoðaði sig um í grasinu og vissi ekki fyrr til en hann rakst á kassa, sem var sokkinn í svörðinn og hann fékk ekki hnikað. Hann reyndist fullur af ílátum, brúsum og staukum, belgjum og sívalningum, sumir eins og lágir menn siginaxla, aðrir því nær hálslausir, nokkrir með krækju í baki. Drengnum fannst þessi leyniþjóð, dulbúin sem gler, mjög litrík. Á sumum voru jafnvel bréfmiðar, þar sem letruð voru nöfn þessa fólks. Hann bar þessa hluti heim og ætlaði að taka einhverja þeirra í mannatölu. Þá sagði móðir hans honum að fara með þetta sorp þangað, sem hann hefði sótt það. 

C. Prestshjónin á Mosfelli áttu margt barna á reki Dóra litla. Hann hafði aldrei áður séð börn svo nálægt sér. Börnin á Mosfelli hópuðust í kringum hann. Drengurinn í Laxnesi var í stígvélum, matrósatreyju og kraga út á axlir, með barðastóran hatt og rauðan göngustaf. Ein stúlkan, Matthildur, kölluð Matta, var á svipuðum aldri. Hún líktist föður sínum, séra Magnúsi, í útliti. Hún steig út úr hópnum og sagði: „Lommér klappa lilla stáka.“ Hún vildi vita, hvort þessi Reykjavíkurpiltur væri raunverulegur. Dóri litli horfði á hana stórum augum.

D. Næsta sunnudag fór hann með foreldrum sínum til kirkju að Lágafelli. Þau settust á söngpallinn uppi á lofti frammi við pílárana. Þegar Dóri litli lét hökuna hvíla á slánni á grindverkinu, sá hann hnakkana á syngjandi söfnuðinum niðri í kirkjunni, altaristöfluna og altarið með dúk og ljósum. Hann þekkti myndina á altaristöflunni. Það var Jesús Kristur í hvítum náttkjól, með hár niður á axlir og tjúguskegg.

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 50 – 57:

A. Í heimalandi okkar í Laxnesi var einkennileg bygð, nokkurskonar huldubygð og samanstóð af laungu aflögðum kofum, vallgrónum tóttarbrotum og stekkatúnum útum alt. ...

Í tóttarbrotum þessum vallgrónum, þar sem ég var tíður gestur, óx hávaxinn puntur og safamikill lággróður, ... Í svona tóttum bjó líka huldufólk einsog í stórum steinum.

B. Það er einn dag í björtu sólskini að ég tek rögg á mig og ræðst til uppgaungu í eina huldutóttina. Ég kastaði kveðju á fólkið og upphóf við það miklar skrafræður ... Nú fer ég að skoða mig um í háu grasinu þar í tóttinni og veit ég þá ekki fyren ég rekst á kassa sem ég fékk ekki hnikað, enda var hann sokkinn í svörðinn. Þessi kassi reyndist fullur af merkilegum ílátum, ... Það voru brúsar og staukar, belgir og sívalníngar, oft með kynlegu sköpulagi: sumir einsog lágir menn siginaxla og raunar náðu axlirnar niðrundir hné; aðrir voru þvínær hálslausir en þeim mun meiri í öxlunum og mjókkuðu síðan niðrávið; nokkrir höfðu haunk í bakinu; eða mjókkuðu um sig miðja eins og fínar stúlkur. ... Á sumum voru ennþá furðu heillegir bréfmiðar áletraðir með nöfnum þessa fólks. Þegar ég fór að bera þessar flöskur heim til að eiga þær, og jafnvel búinn að taka sumar þeirra í mannatölu ... þá sagði móðir mín mér að fara með þetta sorp þángað sem ég hefði sótt það.

C. Prestshjónin á Mosfelli áttu mart barna á mínu reki, ... Ég hafði aldrei áður séð börn svo nálægt mér. ... Það var fróðlegt reykjavíkurpilti í stígvélum, matrósatreyu og kraga útá axlir, með barðastóran hatt og rauðan spássérstokk, að fá skorið úr því hvort hann sjálfur væri ekta. Prestbörnin horfðu á mig úr öllum áttum þar sem þau stóðu kríngum mig. Lommér klappa lilla stáka, sagði ein, og seinast sté hún fram og kom við mig til að vita hvort svona stáki væri ekki úr tusku og úttroðinn af sagi. Hún hét Matta og var því næst að vera jafnaldra mín.

D. Nú er frá því að segja að fyrsta sunnudag okkar í sveitinni fórum við öll til kirkju að Lágafelli, sóknarkirkju séra Magnúsar; en kirkja hafði ekki risið að Mosfelli sjálfu síðan hún var brotin árið 1889 í Innansveitarkroniku. Við settumst á saungpallinn uppá lofti framvið pílárana; og þegar kirkjugestur af minni stærð lét hökuna hvíla á slánni á grindverkinu, þá gaf útsýn yfir hnakkana á sýngjandi söfnuðinum niðrí kirkjunni, svo og á altaristöfluna og altarið með dúk og ljósum. ... Ég þekti óðar myndina af Jesú á altaristöflunni; þá voru móðins sérkennilegar myndir af frelsaranum í hvítum náttkjól, með hár niðrá axlir skift fyrir miðju, og tjúguskegg, en rauðmálað blikkhjarta utaná náttkjólnum.

 

 

14.     „Bók stefnda, bls. 24 – 25. Innansveitarkronika, bls. 21 – 29. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (4 tilvik A, B, C og D). Sjá dskj. nr. 19.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 24 – 25:

A. Þegar Ólafur á Hrísbrú sótti kirkju, fór hann ævinlega í sparifötin, stutta vaðmálstreyju nokkuð víða, kragalausa og hneppta í hálsmálið með heimagerðum beintölum, og í lokubuxur eins og Napóleon mikli. Hann hafði mjóan vangakraga, eins og var algengur á fyrri hluta nítjándu aldar. Hann girti ekki tún sín, en varði þau með hundi og hrossabresti. Sjö sambyggð burstahús úr torfi sneru göflum fram á hlað á Hrísbrú, en inngöngubærinn einn hafði heilan timburgafl, bæjardyrnar svonefndu. Fram með húsaröðinni var hlaðstétt úr hellugrjóti, fremur mjó. Fáir áttu leið um Hrísbrú, svo að ekki stæði þar maður úti, einn eða fleiri. Oft stóð Ólafur bóndi sjálfur úti fyrir opnum skemmudyrum, stundum að prjóna sokk eða tálga brúnspón í hrífutinda með sjálfskeiðungi. „Hverjir eru þar?” spurði hann án þess að líta upp, ef hann heyrði umgang í forinni, sem lá upp að stéttinni. Margur lét þó staðar numið í hlaðforinni til að rabba við bónda. Synir hans bættust stundum í hópinn alskeggjaðir. Hrísbrúingar voru þægilegir í viðmóti, en höfðu enga sérstaka löngun til að draga menn upp úr svaðinu utan stéttar og bjóða til stofu. Þeir spurðu frétta af sauðfé hvaðanæva af landinu, miðuðu allt líf við sauðfé.

B. Langferðamenn töldu Hrísbrúarsvöð eina mestu torfæru á leiðinni norður í land.

C. Hann var glaðbeittur á svipinn og áreitti engan. Hann sá heldur illa, þekkti menn oft ekki í sundur og talaði eins við alla. En við hvern sem hann ræddi, fór hann aldrei út í þá sálma, sem hann kunni ekki.

 

 

 

D. Andrés þótti fyrir þeim Hrísbrúarfeðgum, enda komst hann í hreppsnefnd. Hann átti meira að segja bækur.

 

Bók Halldórs, Innansveitarkronika, bls. 21 – 29:

A. Þegar hann fór til kirkju fór hann ævinlega í sparifötin, stutta vaðmálstreyu nokkuð víða, kragalausa og hnepta í hálsmálið, með heimagerðum beintölum og í lokubuxum einsog Napóleon mikli. Hann hafði mjóan vángakraga einsog mun hafa tilheyrt gervi manna uppúr aldamótunum fyrri. ... Aldrei girti Ólafur á Hrísbrú tún sitt, en var þeim mun reiðubúnari með hund og hrossabrest. ...

Sjö sambygð burstarhús úr torfi sneru göflum frammá hlaðið á Hrísbrú, en aðeins inngaungubærinn hafði heilan timburgafl, „bæardyrnar“. Frammeð húsaröðinni var hlaðstétt úr hellugrjóti, reyndar nokkuð mjó, ... Fáir áttu leið um á Hrísbrú svo ekki stæði þar maður úti, einn eða fleiri. Oft stóð Ólafur bóndi sjálfur úti fyrir opnum skemmudyrum, stundum að prjóna sokk eða hann tálgaði brúnspón í hrífutinda með sjálfskeiðíngnum sínum ...

Hverjir eru þar, spurði hann án þess að líta upp ef hann heyrði brölt í forinni sem lá uppað stéttinni.

Það eru strákar, svöruðu vegfarendur eftir landsið. Margur lét þó staðar numið í hlaðforinni og fór að rabba við karl. Synir hans bættust í hópinn, alskeggjaðir. ...

Hrísbrúíngar voru heldur þægilegir í viðmóti nema Ólafur karl þegar hann var að skattyrðast við prestinn, en höfðu aungva sérstaka laungun til að draga menn uppúr svaðinu fyrir utan stéttina og bjóða þeim til stofu. Þeir spurðu frétta af sauðfé hvaðanæva af landinu, því alt líf í landinu var einsog þann dag í dag miðað við sauðfé.

B. Lángferðamenn töldu Hrísbrúarsvöð eina mesta torfæru á leiðinni norður í land.

C. Bogi þessi var glaðbeittur við alla menn og áreitti aldrei mann eða skepnu svo vitað sé. Hann sá heldur illa, talinn hafa verksjón en ekki lestrarsjón, þekti menn oft ekki í sundur og talaði eins við alla menn, ... En við hvern sem hann ræddi fór hann aldrei útí þá sálma sem hann kunni ekki.

D. Andrés þótti fyrir þeim hrísbrúarfeðgum ... enda varð hann sem áður getur fyrstur innborinna mosdæla til að komast í hreppsnefnd í héraðinu. Hann átti meira að segja bækur ...

 

 

15.     „Bók stefnda, bls. 26. Í túninu heima, bls. 42. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 20.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 26:

Dóri litli í Laxnesi kunni best við sig nálægt móður sinni. Á meðan hún sinnti húsmóðurstörfum, elti hann hana um allt til að segja henni frá ýmsum furðum, ...

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 42:

Ég kunni einna best við mig í nánd við móður mína, einkum þegar hún gekk um húsið og sinti húsmóðurstörfum; ég var þá oft að ræða við hana ýmis alger undur ...

 

 

16.     „Bók stefnda, bls. 27 – 28. Í túninu heima, bls. 70 – 73. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (2 tilvik A og B). Sjá dskj. nr. 21.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 27 – 28:

A. Svana sagði Dóra litla eitt sinn, að hann myndi ganga aftur, vendi hann sig á að ganga aftur á bak frekar en áfram. Þetta hafði þau áhrif á hann, að hann gekk sem mest aftur á bak. Þegar Svana sá það, kallaði hún á hann til að segja honum dálítið í trúnaði. Það gerði ekkert til, þótt maður gengi aftur, þegar hann væri dáinn, það væri svo langt þangað til. Hitt væri verra, að sá, sem tæki upp á því að ganga aftur á bak í staðinn fyrir áfram, væri með því að ganga móður sína ofan í jörðina. Hann gengi hana eins mörg spor ofan í jörðina og hann gengi sjálfur mörg spor aftur á bak. Snáði varð hugsi. En hann var forvitinn og ákvað að sannprófa kenninguna. Við norðurgaflinn á húsinu í Laxnesi var skuggsælt og rólegt, jafnvel um bjartan sumardag, og ekki umferð nema á vanhúsið. Norður af bæjarhólnum voru mógrafir, og þangað átti enginn erindi. Hér gat hann því gengið aftur á bak í ró og næði. Dóri litli lét sér ekki nægja minna en fjörutíu spor aftur á bak í fyrstu lotu. Síðan tók hann til fótanna og hljóp inn í bæ til að gá að móður sinni. Hann settist lafmóður út í horn og horfði á hana galopnum augum, þar sem hún sinnti heimilisverkum eins og ekkert hefði í skorist. „Er nokkuð að, Dóri minn?“ spurði hún. „Nei, nei,“ sagði hann. Hún sá, að drengurinn hafði orðið hræddur og kyssti hann. Eftir þetta varð Dóri litli því afhuga að ganga aftur á bak.

B. Fyrsta sumar Dóra litla í sveitinni kom Egill Árnason í heimsókn. Hann var tveimur árum eldri, sonur Árna Einarssonar í Frón, góðkunningja hjónanna í Laxnesi og fyrrverandi nágranna. Egill hafði mikinn áhuga á því að ganga blindandi. Þetta var hægt í sveitinni, en síður á Laugaveginum. Dóra litla fór líka að langa til að ganga blindandi. Eitt sinn, þegar þeir höfðu leikið sér norður af bænum, ákváðu þeir að ganga blindandi heim. Þeir drógu húfur niður fyrir nef, áður en þeir lögðu af stað, og leiddust til að missa ekki hvor af öðrum. Þetta fór auðvitað svo, að þeir féllu niður í mógröf, sem var full af glerbrotum og járnarusli. Tíkin Díla, sem hafði elt þá um allt, stóð á barminum og gelti. Þeir svömluðu æpandi um stund, uns þeir náðu landi á lægri bakkanum, þar sem aðeins var bjargar von, því að hærri bakkinn í mógröfinni var fyrir þeim eins og standberg. Þeim tókst að krafla sig upp og litu grátandi hvor á annan, leirugir frá hvirfli til ilja, nema hvað þeir voru alblóðugir í framan og á höndum af því að hafa skorið sig á gleri og járni niðri í mógröfinni. Nú bættust tárin við. Heima voru þeir færðir úr hverri spjör, settir ofan í bala og þvegnir, en bundið um sárin. Síðan voru þeir háttaðir ofan í rúm um miðjan dag.

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 70 – 73:

A. Svana sagði að ef ég vendi mig á að gánga aftrábak í staðinn fyrir áfram mundi ég gánga aftur þegar ég væri dauður. Þó ekki væri nema viðvörunin, hversu vel sem hún var meint, gerði hún ekki annað en stæla upp í mér strákinn að gánga sem allra mest aftrábak í staðinn fyrir áfram. Uns þar kom að Svana sá sér ekki annað sýnna en kalla á mig í annað sinn til að segja mér dálítið í trúnaði. ... Nú kom hún með það að ekkert gerði til þó maður geingi aftur þegar maður væri dauður; það var svo lángt þángatil. Annað var verra: hver sem tók uppá því að gánga aftrábak í staðinn fyrir áfram, hann var að gánga móður sína oní jörðina; hann gekk hana eins mörg spor oní jörðina einsog hann hafði geingið mörg spor aftrábak. Af þessum vísdómi varð ég hugsi, ... Þó skömm sé frá að segja höfðu þessar fortölur ekki önnur áhrif en hvetja mig til að sannprófa kennínguna. Við norðurgaflinn á húsinu var skuggsælt og rólegt, jafnvel um bjartan sumardaginn, og ekki umferð nema á vanhúsið; en norðuraf bæarhólnum voru mógrafirnar þángað sem einginn átti skylt erindi. Hér var því tilvalinn staður að ganga aftrábak í ró og næði. Mig minnir ég hafi ekki látið mér nægja með minna en fjörutíu spor aftrábak í fyrstu lotu. Síðan tók ég til fótanna og hljóp inní bæ alt hvað aftók til að gá að móður minni. Ég settist lafmóður útí horn og horfði á hana uppspertum augum þar sem hún var að þrífa til í húsinu einsog ekkert hefði ískorist. Er nokkuð að Dóri minn, spurði hún. Neinei, sagði ég. Hún sá að ég hafði verið hræddur og kysti mig. ... varð ég því afhuga að gánga aftrábak eftir þetta.

B. Nokkru seinna kom Egill. Hann hafði tvö ár yfir mig, sonur kunníngjafólks okkar og nágranna af Laugaveginum. Faðir hans stundaði verslunarstörf og varð seinna sjálfstæður kaupmaður. ...

... Egill bar mikinn áhuga fyrir því að gánga blindandi. Hann uppgötvaði að einn kosturinn við það að vera í sveit var sá að þar væri hægt að gánga blindandi, en ekki á Laugaveginum. Mig fór líka að lánga til að gánga blindandi. Einhverju sinni þegar við höfðum verið að heimsækja flöskur í tóttarbroti norðuraf bænum sættum við lagi að gánga blindandi heim. Við drógum húfurnar okkar niður fyrir nef áður en við lögðum á stað. Við leiddumst til að missa ekki hvor af öðrum. Það gat auðvitað ekki á annan veg farið en að við álpuðumst oní eina af þessum voðalegu mógröfum frá fornöld, þar sem í marga mannsaldra hafði safnast saman mikil hniskja af glerbrotum járnarusli og eldgömlum koppum; ... Þarna svömluðum við æpandi um stund uns við náðum landi á lægribakka mógrafarinnar, en aðeins þeim megin var bjargarvon því hærribakkinn í mógröf er einsog standberg. Við litum hvor á annan grátandi og vorum ekki annað en leðja frá hvirfli til ilja, nema alblóðugir í framan og á höndunum af því við höfðum skorið okkur á draslinu niðrí gröfinni. Nú bættust tárin við. Báðir háöskruðu hvor framaní annan althvað aftók. Svona útverkaðir komum við loksins heim og vorum færðir úr hverri spjör og settir oní bala og þvegnir upp, en bundið um sárin; síðan vorum við látnir fara oní rúm um miðjan dag.

 

 

17.     „Bók stefnda, bls. 28. Í túninu heima, bls. 75 – 78. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (3 tilvik A, B og C). Sjá dskj. nr. 22.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 28:

A. Þegar tíkin Díla var í för með þeim Dóra litla og Agli, var hún þung í spori og dró kvið við jörð. Hún var hvolpafull. Einn góðan veðurdag gaut hún. Guðný gamla sinnti um kvikindið. Hvolparnir hurfu. 

B. Þær voru leystar úr fjósi snemma á morgnana og snúið á götu í austur úr túninu og þar yfir lítinn læk með rauðum steinum og þá upp á langt og mishæðótt lyngholt með krókóttum troðningum. Lautirnar á báðar hendur ilmuðu af lyngi og heitu blóðbergi. Tíkin var vön að lötra á eftir þeim. Þegar þeir voru komnir á háholtið, áttu þeir að láta kýrnar eiga sig, því að þar könnuðust þær við sig og fundu haga sína einar. Efst á þessari hæð var stór steinn og varla nema fjórðungur upp úr jörð vaxinn gráum litunarmosa. Hann kölluðu sveinarnir Hvílustein og settust þvervega á hann, á meðan þeir köstuðu mæðinni og ræddu um undur veraldar.

C. Þeir tóku eftir því, þegar Díla hljóp, að mjólkina lagaði úr hinu langa júgri, sem tíkur hafa eftir endilöngum kviðnum. Þeir komust að þeirri niðurstöðu eftir að hafa orðið vitni að öllum mjöltunum heima á bænum, að kominn væri tími til að mjólka tíkina. Þeir fundu í keldu ílát, sem þeir þvoðu úr læknum fyrir austan túnið og báru síðan upp að Hvílusteini. Tíkin lötraði á eftir. Þegar þangað kom, lögðu þeir tíkina á hliðina í krækiberjalyngið hjá steininum og tóku til við að mjalta hana í ílátið. Tíkin veitti enga mótspyrnu. Síðan drukku þeir úr ílátinu volga nytina úr tíkinni. Þetta var fyrirtaksmjólk.

 

Bók Halldórs, Í túninu heima,bls. 75 – 78:

A. Hún rölti á eftir okkur hvurt sem við fórum og dró kviðinn við jörð, því hún var hvolpafull. ... Jæa, nema einn góðan veðurdag gýtur tíkin sex eða átta hvolpum. Amma mín sinti um kvikindið ... Nema einn dag eru hvolparnir horfnir.

B. Beljurnar voru leystar útúr fjósinu og síðan snúið á götu í austur úr túninu, og þar yfir litla lækinn með rauðu steinunum og þá uppá lángt og mishæðótt lýngholt með krókóttum troðníngum sem aunguðu af ferskum kúadillum; en lautirnar á báðar hendur geisluðu að sínu leyti ilmi af lýngi og heitu blóðbergi, og bylgjaði að vitum okkar í sólskininu. ... Tíkin var vön að lötra á eftir okkur, en þegar við vorum komnir á háholtið áttum við að lofa beljunum að eiga sig, því þá könnuðust þær við sig og fundu haga sína einar. Efst á þessari hæð var stór steinn og varla meiren fjórðipartur af honum uppúr jörð; ... Þennan stein, meðan ... vaxinn gráum litunarmosa ... kölluðum við strákar Hvílustein og settumst þvervega á hann meðan við vorum að kasta mæðinni og gera nauðsynlega úttekt á veröldinni ...

C. Við tókum eftir því að þegar hún hljóp, og jafnvel þegar hún fleygði sér á hliðina, þá lagaði mjólkin úr þessu lánga júgri sem tíkur hafa sitthvorumegin eftir endilaungum kviðnum. ... Við komumst að þeirri niðurstöðu, undir áhrifum af öllu því mjaltafargani sem viðgekst hér á heimilinu, að nú væri tími til kominn að fara að mjólka tíkina.

... við fundum í keldu emalérað fornaldarílát dældað og dottin uppúr því emaléríngin. ... Þetta ílát þvoðum við úr læknum fyrir austan túnið og bárum það síðan sem leið lá á eftir beljunum upp að Hvílusteini. Tíkin drallaði á eftir. Við sögðum adjö við beljurnar og lögðum tíkina á hliðina í krækiberjalýngið hjá steininum og tókum til við að mjalta hana í ílátið. Kvikindið veitti aungva mótspyrnu en lét sér þetta vel líka, ... Síðan drukkum við úr þessu óviðeigandi íláti volga nytina úr tíkinni. Ekki man ég betur en þetta hafi verið fyrirtaksmjólk.

 

 

18.     „Bók stefnda, bls. 28 – 29. Í túninu heima, bls. 242 – 245. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (2 tilvik A og B). Sjá dskj. nr. 23.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 28 – 29:

A. Úr vatnsbólinu í Laxnesi liðaðist lækur niður til Köldukvíslar. Hann var ekki nema spannarbreiður, slýið í börmunum tók saman í botninum. Þar voru oft silungsbröndur á hraðri ferð upp eftir eða undan straumi. Þar sem læknum tókst að breiða úr sér, myndaði hann polla. Upp úr tæru vatninu óx hófsóley í þéttum skúfum. Á þessum pollum var krökkt af grænni stokkönd. Hingað komu líka álar úr dýpstu botnum veraldarhafsins mikla. Einu sinni kippti Svana vinnukona einum upp úr á hrífuskaftinu. Hann kom niður langt úti í mýri, og Dóri litli hljóp á eftir reiðubúinn að grípa hann. En állinn hrökktist svo fljótt áfram í grasinu, að hann hafði fundið sér nýja bugðu í dýjalæknum, áður en varði.

B. Til útnorðurs í túnjaðri Laxnestungu er uppsprettulind og há grasbrekka umhverfis hana á þrjár hliðar. Þar var vatnsból þess fólks, sem hafði búið í Laxnestungu. Í dalnum trúðu allir á þessa lind. Þegar einhver var hættulega sjúkur, var sótt vatn í hana. Eitt sinn fékk Guðjón í Laxnesi lungnabólgu. Þá var sonur hans látinn sækja vatn handa honum í þessa lind tvisvar á dag, þar til honum batnaði. Lindin er kölluð Guddulaug. Afrennslið úr Guddulaug var neðanjarðar, jarðvegurinn gróinn yfir lækinn. En sums staðar voru holur niður gegnum jarðveginn ofan í lækinn. Þar dorguðu Dóri litli, Dodo og Beddi og Sverrir Briem langtímum saman og drógu smáfisk. Stundum komu systur Sverris, Ásthildur, sem hafði gælunafnið Dídí, og Ingibjörg, sem kölluð var Stella, að dorga með þeim eða tína ber í lautunum norðan við Tungutúnið. Þessi Viðeyjarsystkin voru oft í sumarfóstri hjá Valgerði á Mosfelli.

                  

Bók Halldórs, Í túninu heima bls. 242 – 245:

A. En svökkunum, þar sem lækurinn úr vatnsbólinu okkar bugðaðist oneftir, í átt til árinnar Köldukvíslar – einginn hafði tímt að spilla þeim. ... Þessir dýalækir sem liðuðust gegnum túnið voru víðast ekki nema rúmlega spannar breiðir; slýið í börmunum tók saman í botninum. Þarna voru einlægt litlir silúngar á hraðri ferð uppeftir eða undan straumi. Þar sem læknum tókst að breiða úr sér myndaði hann polla; uppúr tæru vatninu óx hófsóley í þéttum skúfum. Á þessum pollum var krökt af önd. Mest stokkönd, græn á hálsinn, ... Híngað komu líka álar úr dýpstum botnum veraldarhafsins mikla. Einusinni í fyrndinni kipti Svana einum uppúr á hrífuskaftinu. Hann kom niður lángt útí mýri og ég hljóp á eftir reiðubúinn að grípa hann. En állinn hröktist svo fljótt áfram í grasinu að áður en varði hafði hann fundið sér nýa bugðu á dýalæknum okkar, ...

B. Til útnorðurs í túnjaðri Laxnestúngu er uppsprettulind umlukt hárri grasbrekku á þrjár hliðar; þar var vatnsból þess fátæka fólks sem búið hafði í Laxnestúngu. ... Í dalnum trúðu allir á þessa lind; einlægt ef einhver var hættulega sjúkur var sótt vatn í þessa lind. Faðir minn trúði á þessa lind. Ég trúi líka á þessa lind. Þegar faðir minn var hætt kominn í lúngnabólgu í fyrra sinnið var ég látinn sækja vatn handa honum í þessa lind tvisvar á dag og honum batnaði. ... Lindin er kölluð Guddulaug núna, ...

Afrenslið úr Guddulaug var neðanjarðar, jarðvegurinn gróinn yfir lækinn. En sumstaðar voru holur niður gegnum jarðveginn oní lækinn; þar dorguðum við lángtímum saman og drógum lítinn fallegan fisk; sem betur fór ekki of oft. Stundum komu systur Sverris að dorga með okkur ellegar tína ber í lautunum norðanvið Túngutúnið. Þessi viðeyarsystkin voru einlægt í sumarfóstri hjá frú Valgerði, og félagar prestbarnanna.

 

 

19.     „Bók stefnda, bls. 35 – 36. Í túninu heima, bls. 42 – 45. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 24.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 35 – 36:

En hvað sem á dundi, fann drengurinn sér ætið skjól á stokknum hjá ömmu sinni, Guðnýju Klængsdóttur, þar sem hún var að kemba ull og spinna. Þar þurfti hann ekki að vera hræddur við ill augu. Guðný gamla var lagin að spyrja hann, svo að hann hefði nóg að svara, en sagði honum ekki margt sjálf. Hún kunni þó ótal vísur og kenndi drengnum margar þeirra. Hún átti bók, sem var fyrsta sögubók Dóra litla og gat fengið allar sorgir lífsins til að hverfa eins og dögg fyrir sólu. Bókin var á dönsku, útdráttur úr Grimmsævintýrum. Í henni voru myndir, og skýrði Guðný vandlega út fyrir honum hverja mynd um sig án þess að skeyta um textann. Hún var aldrei svo önnum kafin, að hún hefði ekki tíma til að skýra út myndirnar. Dóri litli vildi helst alltaf heyra sömu sögurnar um sömu myndirnar. Ein myndin var af manni með skóarasvuntu, sem var í þann mund að skera geit. Þennan mann nefndi amma hans Bótólf og bókina eftir honum. „Hvað sagði geitin við Bótólf? Og af hverju hætti Bótólfur við að skera geitina?“ spurði Dóri litli. „Það var af því geitin var svo vel máli farin,“ svaraði amma hans, „og auk þess skáldmælt.“2

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 42 – 45:

... nema það hafi verið enn skemtilegra að setjast á stokkinn hjá ömmu þar sem hún var að kemba ull og ætlaði að fara að spinna. ... Hún var lagin að spyrja mig svo ég hefði nógu að svara, en sagði mér ekki mart sjálf, ... hún var ... óendanleg vísna-amma, ... lærði ég athugasemdalaust fjöldann allan af vísum ...

... amma mín átti eina bók og það var mín fyrsta sögubók og hafði þann eiginleika að hún gat feingið allar sorgir lífsins til að hverfa einsog dögg fyrir sólu. Þessi bók hét Bótólfur. Það var ekki fyren laungu seinna, um það bil sem ég fór að læra að lesa, að ég komst að raun um að bók þessi var á dönsku. Í þessari bók voru myndir, og þegar konan las mér uppúr bókinni þá kom aldrei fyrir að hún fletti við blaði, heldur ... útskýrði hverja mynd fyrir sig eftir sínu höfði án þess að hirða um textann. ... Amma mín var aldrei svo önnum kafin að hún hefði ekki nógan tíma til að útskýra fyrir mér myndirnar í þessari bók. Ég fyrir mína parta var þannig gerður að ég vildi helst altaf heyra sömu söguna um sömu myndirnar. Ávalt var ný fyrir mér myndin af asnanum sem taddi gullpeníngum handa húsbónda sínum; líka einlægt jafnfögur af manninum með skóarasvuntuna og stromphúfuna sem ætlaði að fara að skera geitina sína með rakhníf; en einlægt datt geitinni dáldið í hug að segja við manninn svo hann hætti við. Þennan mann nefndi amma mín Bótólf og bókina eftir honum. Hvað sagði geitin við Bótólf? Og af hverju hætti Bótólfur við að skera geitina? Það var af því geitin var svo vel máli farin, sagði amma mín; og auk þess skáldmælt.

 

 

20.     „Bók stefnda, bls. 36. Heiman eg fór, bls. 20 – 22. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 25.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 36:

Dóri litli var hændur að ömmu sinni. Hún hafði fæðst á þeim helmingi nítjándu aldar, sem bar allan svip af undanfarinni öld. Guðný Klængsdóttir var í raun átjándu aldar kona. Hún hafði í æsku umgengist fólk, sem hafði lifað Skaftárelda og skammtað börnum sínum skóbætur. „Kona sem hefur skamtað skóbætur hlýtur að leggja börnum sínum alt aðrar lífsreglur en nú gerist,“ sagði Halldór síðar.3 Margar nýjungar tímans fóru fram hjá Guðnýju. Sími var lagður í bæinn. Þótt gamla konan heyrði oft í honum, neitaði hún að trúa því, að hann væri til. Hún var sannfærð um, að þetta væri fals eitt. Fréttir úr síma væri ekki að marka. Þegar reynt var að skýra út fyrir henni talsamband um þráð, hló hún við. Hún vék ekki orðum að slíkum hégóma. Vatnsbólið í Laxnesi lá langt fyrir neðan bæinn. Þegar komið var fyrir sogdælu í kjallaranum og vatnið kom rennandi upp í móti, sagði Guðný: „Nei.“ Hún sá vatnið koma úr dælunni, hún dreypti á því, hún vissi, að það var vatn. En ekki kom til mála að hún tryði því, að vatn rynni upp í móti.

 

Bók Halldórs, Heiman eg fór, bls. 20 – 22:

Amma mín var fædd á þeim helmíngi nítjándu aldar, sem hefur allan svip af hinni undanförnu öld, alin upp meðal fólks ... lifði í Skaftáreldum og bar skóbætur á borð fyrir fólk sitt. Kona sem hefur skamtað skóbætur hlýtur að leggja börnum sínum alt aðrar lífsreglur en nú gerist. ...

Amma mín var átjándu-aldar-kona ... Því er ekki furða þótt nýúngar tuttugustu aldar væru henni hjóm og snertu hana lítt. ... Nú kom símastöð til okkar og var áhaldið sett í næsta herbergi við ömmu gömlu. En þótt símaskrattinn glymdi látlaust við eyrað á henni þau ár sem hún átti ólifuð, dó hún svo að hún var hjartanlega sannfærð um að sími væri hégómi og eftirsókn eftir vindi. Fréttir sem komu úr síma var aldrei að marka. Reyndi einhver að útskýra fyrir henni firðtal, þá brosti hún við og nenti ekki að eyða orðum að þessum hégóma, vék talinu að öðru. Vatnsbólið liggur lángt fyrir neðan bæinn, og þegar við létum sogdælu í kjallarann, og vatnið kom rennandi upp á móti, þá sagði amma mín aðeins bittinú! Að vísu sá hún vatnið koma úr dælunni og hún dreypti á vatninu, og það var vatn, en hún sagði bittinú fyrir því. Hún tók ekki í mál að samsinna því að vatn rynni upp á móti.

 

 

21.     „Bók stefnda, bls. 36 – 37. Í túninu heima, bls. 122 – 124. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 26.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 36 – 37:

Guðnýju Klængsdóttur féll aldrei verk úr hendi. Hún gerði það af kurteisi að ýta frá sér rokknum á sunnudögum, en prjónana lagði hún ekki frá sér nema á jóladag og undir húslestri. Hún sá sjaldan slegna mynt, nema ef hún hafði vikið að fólki prjónlesi og það munað eftir henni með lítilli peningagjöf. Það kom aldrei fyrir, að hún notaði handa sjálfri sér aura, sem henni áskotnuðust. Hún lét kaupa fyrir þá gjafir handa niðursetningum, blindu fólki eða öðrum aumingjum, sem hún vissi um í nágrenninu. Einu sinni, þegar dóttursonur hennar fór í bæinn með sér eldri mjólkurpósti, kom hún með spegilfagran tveggjakrónupening og bað hann að kaupa sætabrauð. Þá kostaði rjómakaka fimm aura, enda hét hún öðru nafni fimmaurakaka. Dóri litli keypti fjörutíu fimmaurakökur handa ömmu sinni. Bakarinn lét þær í snyrtilegar pappaöskjur og vafði utan um skrautlegu bréfi. Drengurinn vonaði, að amma hans myndi gefa sér að minnsta kosti eina köku strax, ef til vill tvær. En gamla konan dró fram tréstokkinn undan rúmi sínu, þar sem hún geymdi aleiguna, og lét öskjurnar með góðgætinu þar niður og ýtti síðan tréstokknum inn undir rúmið aftur. Daginn eftir grennslaðist Dóri litli gætilega fyrir um, hvort hún ætlaði ekki að taka utan af öskjunni. Þá sagði amma hans, að gömul og blind kona, Guðfinna Bjarnadóttir, niðursetningur á Hraðastöðum, fengi kökurnar. Hún ætti afmæli eftir viku.4 Þá myndi hún opna öskjurnar, og Dóri litli fengi eina köku líka. Þetta þótti dóttursyni hennar miður, en hann huggaði sig við það, að vika er fljót að líða. Þegar á leið vikuna, fór að verða einkennileg súrlykt í horninu hjá ömmu hans. Afmælisdagur blindu konunnar rann upp. Guðný kallaði á Dóra litla að rjúfa umbúðirnar um kökurnar og þiggja sinn skerf. En þegar askjan var opnuð, gaus upp hinn versti fnykur. Kökurnar voru runnar saman í kökk og farin að vaxa grágræn mygluskán á honum. Sigríði húsfreyju bar að í þeim svifum. Hún tók glásina burt þegjandi og bar út á sorphaug.

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 122 – 124:

Oft var hún beðin að hætta að spinna, stundum skipað að hvíla sig, en vinnan var henni slík ótæmandi ánægja að það var af kurteisi einni saman sem hún gerði fólki það til geðs að ýta frá sér rokknum á sunnudögum; en prjónana lagði hún ekki frá sér nema á jóladag og undir húslestri. ... Hún sá sjaldan slegna mynt öll þessi ár hjá okkur, nema ef fyrir kom hún hafði vikið nýunnum sokkaplöggum eða jafnvel þríhyrnu að góðum vin eða vinkonu, og þetta fólk síðan munað eftir henni ef svo bar undir með lítilli peníngagjöf, kanski tveggjakrónupeníngi og hún kallaði dal. En aldrei kom fyrir að hún notaði handa sjálfri sér aura sem henni áskotnuðust. Hún lét einlægt kaupa fyrir þessa aura gjafir handa niðursetníngum, blindu fólki eða öðrum aumíngjum sem hún vissi um í nágrenninu. Einhvern sumarmorgun þegar ég fór í bæinn kódéri eldra stráks við mjólkurflutnínga, þá kom hún með spegilfagran dal og bað mig að kaupa fyrir hann sætabrauð. ... Í þann tíð kostaði ein rjómakaka 5 aura, og hét öðru nafni fimmaurakaka. Það var sjaldgæft að maður á mínu reki ætti fyrir meira en einni slíkri köku. Fyrir þessar tvær krónur keypti ég nú fjörutíu fimmaurakökur handa ömmu minni. Þær voru af bakaranum látnar oní snyrtilegar pappöskjur og vafið um skrautlegu bréfi. Ég hafði verið að vona að um leið og ég afhenti ömmu minni þessa dýrð mundi hún opna öskjurnar og gefa mér að minstakosti eina strax, kanski tvær. Þó undarlegt væri gerðist ekki neitt. Konan dró fram tréstokkinn undan rúmi sínu þar sem hún geymdi aleigu sína, ... og lét öskjurnar með góðgætinu þar niður, ýtti síðan tréstokknum innundir rúmið aftur. Ég sagði ekki neitt. Daginn eftir kom ég þó til hennar og ýaði að því hvort hún ætlaði ekki að taka utanaf öskjunum. Þá sagði hún mér að gamla konan blinda á næsta bæ ætti afmæli eftir viku og væru kökurnar handa henni; mundi hún þá opna öskjurnar og gefa mér eina köku líka. Mér þótti hart að fá ekki köku þegar í stað, en huggaði mig þó við að vika er stutt. En nú ekki orðleingja það, nema þegar á líður vikuna fer að verða einkennileg súrlykt í horninu hjá ömmu minni. Þar kom að lokum að afmælisdagur gömlu konunnar blindu rann upp. Amma mín kallaði á mig að rjúfa umbúðirnar um kökurnar og þiggja minn skerf einsog hún hafði lofað. Það var mikil stund. En því miður, þegar askjan var opin, ... gaus upp hinn versti fnykur og var nú ekki leingur bara súr, heldur orðinn merkilegt sambland af alskonar pest. Rjómakökurnar voru runnar saman í eina klessu ... meira að segja farin að vaxa grágræn mygluskán á þessu. Móðir mín kom að í þeim svifum, tók burt glásina þegjandi og bar hana útá sorphaug ...

 

 

22.     „Bók stefnda, bls. 37. Í túninu heima, bls. 115 – 116 og Sjöstafakverið, bls. 11 (smásagan Tryggur staður). Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. (2 tilvik A og B). Sjá dskj. nr. 27.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 37:

A. Guðný Klængsdóttir var ónæm á kynjasögur, skrum og skjall. Ef djarflega var tekið til orða í auglýsingu um gæði einhverrar vöru, þá vísaði hún til nornarinnar í ævintýrinu um Mjallhvíti og dvergana sjö. Sú hafði boðið góðan varning, gott verð. Einu sinni kom gamla konan að dóttursyni sínum, þar sem hann var að lesa Biblíuna, sem var komin út í nýrri þýðingu. Hann var þá níu ára. B. „Hvað ertu að lesa núna, Dóri litli?“ sagði hún. „Það er biflían“, svaraði drengurinn. „Það var réttog,“ sagði gamla konan og stakk vísifingrinum milli tannholdanna, eins og hún gerði oft, þegar hún var hugsi. Síðan gekk hún burt frá drengnum og tautaði fyrir munni sér: „Það er nú ekki allt satt, sem í henni stendur, Biblíunni þeirri arna.“5

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 115 – 116 og Sjöstafakverið bls. 11:

A. Þó Guðný gamla Klængsdóttir væri teingd íslenskum þjóðsögum ... þá hygg ég hún hafi tilheyrt þeim fátíða sala hér á landi sem er ónæmur á kynjasögur. Ef kom stórkallaleg auglýsíng í blaði með lofi um eitthvað sem var til sölu var Guðný gamla fyrirfram nokkurnveginn viss um að „það væri ekki alt satt“ sem sagt var til dýrðar þeirri vöru og vísaði til vondu kellíngarinnar í Mjallhvít sem bauð góðan varníng, gott verð. Meira að segja kom hún einusinni að mér þar sem ég var að lesa Biflíuna, og urðu þessi einkennilegu orð á munni við barnið um leið og hún gekk framhjá: „Það er nú ekki alt satt sem í henni stendur, Biflíunni þeirri arna.“

B. Hvað ertu að lesa núna Dóri litli, segir konan.

Það er biflían, segi ég.

Það var réttog, segir konan.

Hún stakk oft vísifíngrinum milli tannholdanna þegar hún var hugsi.

 

 

23.     „Bók stefnda, bls. 37 – 38. Í túninu heima, bls. 116 – 119. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (3 tilvik A, B og C). Sjá dskj. nr. 28.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 37 – 38:

A. Guðný sagði aldrei langar sögur, helst ekki lengri en svo, að þær kæmust fyrir í einni eða tveimur málsgreinum. Kjarninn í sögunni fólst síðan í hnyttilegu, jafnvel napurlegu tilsvari. Til dæmis var sagan um flakkarann: Hann kemur í Skálholt, gengur fyrir biskupsfrúna og beiðist ölmusu. Biskupsfrúin má ekki vera að því að sinna flökkurum og segir manninum að biðja biskup. Nokkru síðar sér frúin til flakkarans, þar sem hann dragnast burt af staðnum. Hún kallar á eftir honum og spyr: „Gaf hann þér nokkuð?“ Flakkarinn svarar: „Ójá, roðbita gaf hann mér.“ Þá segir biskupsfrú: „Eins verður hann Jón minn að kaupa roðin.“

B. Ef einhver sagði draugasögur í nánd við Guðnýju, tók hún fram rokkinn og saug þráðinn út gegnum rokkpípuna og tók að spinna, meira af áhugaleysi um efnið en til andmæla.

C. Halldór spurði móður sína og ömmu, hvora í sínu lagi og með löngu millibili, hvort þær hlökkuðu ekki til jólanna. Amma hans taldi jólunum það helst til gildis, að þá væri sunginn eftirlætissálmur hennar, „In dulce jubilo,“ Sjá himins opnast hlið. Móðir hans sagðist hlakka til jólanna, því að þá færi að lengja daginn.

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 116 – 119:

A. Einsog ég drap áður á, þá sagði hún aldrei lángar sögur, helst ekki leingri en svo að þær kæmust fyrir í einni eða tveimur setníngum þó hvor um sig væri nóg efni í róman. Kjarninn í sögunni kom venjulega seinast í hnyttilegu tilsvari. Ég tek til dæmis söguna um flakkarann í Skálholti sem vel má vera að alkunna sé, þó ég minnist ekki að hafa lesið hana neinstaðar. Flakkari kemur að Skálholti, geingur fyrir biskupsfrúna og biðst ölmusu. Biskupsfrúin má ekki vera að því að sinna flökkurum og segir manninum að biðja biskup. Nokkru síðar sér frúin til flakkarans þar sem hann er að dragnast burt af staðnum. Hún kallar á eftir honum og spyr: „Gaf hann þér nokkuð?“ Flakkarinn: „Ójá, roðbita gaf hann mér.“ Þá svarar biskupsfrúin: „Eins verður hann Jón minn að kaupa roðin.“

B. En ef einhver kom upp með draugasögur í nánd við ömmu mína tók hún fram rokkinn og kysti ráðskonurassinn, sumsé saug þráðinn út gegnum rokkpípuna, og fór að spinna – þó alsekki með þóttasvip; áreiðanlega meir af áhugaleysi á efninu en andmælum við hugmyndinni.

C. Ég spurði báðar þessar konur, sína í hvoru lagi og með laungu millibili, hvort þær hlökkuðu ekki til jólanna. Amma mín taldi það jólunum helst til gildis að þá væri súngið uppáhalds sálmalag hennar In dulci jubilo, Sjá himins opnast hlið. Móðir mín sagðist einlægt hlakka til jólanna því þá færi að leingja daginn.

 

 

24.     „Bók stefnda, bls. 38. Í túninu heima, bls. 126 – 127. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 29.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 38:

En hún bað dótturson sinn aðeins að lesa sér eina bók: Þórðar sögu Geirmundarsonar úr Hattardal eftir Benedikt Gröndal. Dóri litli hafði ekki lengi lesið, þegar hann varð var við, að amma hans var gripin djúpum brjóstsogum, áþekkt andarteppu. Fyrst hélt drengurinn, að þetta væri hóstakast. En þegar hún virtist ekki ætla að komast í samt lag aftur, bað hún hann að hætta. Þetta var hlátur. Hann sá hana aðeins hlæja í þetta eina skipti.

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 126 – 127:

Eina bókin sem Guðný Klængsdóttir bað mig nokkurntíma að lesa sér var Þórðar saga Geirmundarsonar úr Hattardal eftir Gröndal, ... En ég hafði ekki leingi lesið þegar ég varð var við að áheyrandi minn var gripinn djúpum brjóstsogum, áþekt andarteppu. fyrst hélt ég þetta væri hóstakast; en þegar hún virtist ekki ætla að komast í samt lag aftur bað hún mig að hætta. Þetta var hlátur. Ég man ekki til að þessi kona hlægi nokkru sinni nema að stílsmáta Benedikts Sveinbjarnarsonar Gröndals þegar hann var að lýsa framförum í Reykjavík.

 

 

25.     „Bók stefnda, bls. 38 – 39. Sjöstafakverið, bls. 13 – 15 (smásagan Tryggur staður). Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 30.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 38 – 39:

Í umtali um dýr fór hún eftir föstum, þjóðlegum venjum. Hún sagði dóttursyni sínum, að það ætti aldrei að biðja Guð fyrir hundi, ekki heldur tala vel um né við hund. Það mætti ekki kalla hann dýr og helst ekki skepnu, heldur kvikindi, grey og skarn. Kött skyldi kalla skömm, afmán, forsmán, ótæti og skratta. En alltaf hellti gamla konan lögg af mjólkinni sinni á undirskál handa kattarforsmáninni. Eitt sinn bannaði Guðný Dóra litla að strjúka köttinn andhæris. Aldrei sá drengurinn hana þó strjúka kettinum eftir hárunum eða tala hlýlega við þennan skratta. En alltaf taldi kötturinn sér sjálfsagt bæli ofan á rúminu hjá Guðnýju. Þótt hún minntist aldrei á hundinn Snata, sem nú var kominn í stað tíkurinnar Dílu, öðruvísi en sem kvikindi eða skarn, geymdi hún honum alltaf bein úr kjötbitanum sínum snúið roð af harðfiski eða rúgbrauðsskorpur, sem hún vann ekki á. Hún vafði þetta góðgæti í dulu að hafa í pilsfaldinum, yrði henni gengið út. Ekki var gamla konan fyrr komin út fyrir dyr en seppi gleymdi Dóra litla, einkavini sínum, og tók að flaðra upp um hana af fögnuði og trúnaðartrausti. Hún hafði aldrei neina tilburði að strjúka honum, en dró ruðurnar upp úr pilsvasa sínum og fleygði í hann þessum orðum: „Hananú og svei þér.“

Einn kyrran, sólhvítan haustdag fór Dóri litli með ömmu sinni og Snata að tína reyrgresi í laut neðst í túninu Laxnesi, þar sem mættust þrír lækir. Fuglar voru farnir og hljóðnað í náttúrunni. Sterkur ilmur var af reyrgresinu. Þau Dóri litli og Guðný söfnuðu því í litla vendi að leggja innan í sparitreyju Guðnýjar. „Það er gaman þegar við erum þrjú útí góða veðrinu að tína eitthvað,“ sagði drengurinn við ömmu sína. „Við erum nú ekki nema tvö, Dóri minn,“ sagði gamla konan. „Eitt, tvö, þrjú,“ taldi drengurinn. „Hundur er ekki talinn,“ sagði Guðný. „Hann er þó skepna,“ svaraði Dóri litli. „O, ekki hef ég nú heyrt það,“ sagði gamla konan. „Kýrin aftur á móti, hún var kölluð skepna og meira að segja blessuð skepna fyrir austan fjall.“ Hundurinn velti sér í mónum og umlaði af velsælu yfir þessu ferðalagi. „Enn finst mér að slík ferð hafi verið einna mest þeirra ferða sem ég hef farið og sú ein sem ég er líklegur að muna þegar ég sit tíræður í djúpa stólnum við gluggann án þess að sjá,“ skrifaði Halldór síðar.8

 

Bók Halldórs, Sjöstafakverið, bls. 13 – 15:

Í umtali um dýr fór hún eftir föstum þjóðlegum tignarstiga. Þar var ekki ruglast í gráðunum. Hún sagði að það ætti aldrei að biðja guð fyrir hundi, ekki heldur tala vel um né við hund. Það mátti ekki kalla hann dýr og helst ekki skepnu, heldur kvikindi, grey og skarn. Skömm, afmán, forsmán, ótæti og skratti var hinsvegar það titlatog sem var áskilið kettinum. Afturámóti helti konan einlægt lögg af mjólkinni sinni á undirskál handa kattarforsmáninni. ... Einusinni bannaði hún mér að strjúka köttinn andhæris. Aldrei kom þó fyrir að ég sæi hana strjúka kettinum eftir hárunum né heyrði hana tala hlýlega við þennan skratta. Samt man ég ekki heldur til þess alla mína bernskutíð, að kötturinn teldi sér sjálfsagt og óumdeilanlegt bæli annarsstaðar en ofaná í rúminu hjá þessari gömlu konu. Þó hún mintist sjaldan á Snata öðruvísi en kvikindi eða skarn geymdi hún honum altaf bein úr kjötbitanum sínum og snúið roð af harðfiski, ellegar rúgbrauðsskorpur sem hún vann ekki á. Hún vafði þessar lystisemdir í dulu að hafa í pilsvasanum ef henni yrði geingið utarfyrir. ... En ekki var kona þessi fyr komin útfyrir dyr en seppi gleymdi mér, einkavini sínum og tók til að flaðra uppum hana af fögnuði og trúnaðartrausti. ... Hún hafði aldrei nokkra tilburði með að strjúka honum, en dró ruðurnar uppúr pilsvasa sínum og fleygði í hann með þessum orðum: hananú og svei þér.

 

 

26.     „Bók stefnda, bls. 39 – 40. Sjöstafakverið, bls. 17 – 21. (smásagan Tryggur staður). Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 31.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 39 – 40:

Hundinum Snata var stranglega bannað að koma inn í húsið í Laxnesi. Hann hafði poka sinn við kjallaradyrnar. Inn af dyrunum var stórt fordyri, þar sem vinnufólk lagði af sér vosklæði og færur. Þá komu dyr með skellihurð, sem laukst upp, ef þrýst var á hana að utan. Síðan tók við stigi upp í eldhúsið. Úr því var opið í kvennabaðstofuna, sem var í senn svefnskáli og tóvinnuhús. Þar sat Guðný Klængsdóttir ein öllum dögum á sumrin, þegar aðrir voru að útiverkum. Hún var þá að kemba ull, spinna og prjóna. Það var einn dag um sláttinn sumarið 1909, þegar Dóri litli var sjö ára, að hann var úti á teig hjá fólkinu, en hundurinn svaf. Sól skein á heiðum himni. Drengurinn hafði breitt gras ofan á hundinn og skemmti sér við að steypa sér kolskít. Þá dró allt í einu fyrir sólu. Blásvörtum skýjabólstrum hlóð upp fyrirvaralaust og andaði köldu. Eldleg mynd birtist í skýinu. Rosaljósin gengu fjöllunum hærra. Síðan kom skruggan. Það dunaði í einu fjalli og tók undir í öðru. Dóri litli vissi ekki, hvað var að gerast. Hann hafði aldrei orðið vitni að þrumuveðri áður. „Fjöllin skjálfa eins og laufblað,“ sagði ein kaupakonan. „Það er áreiðanlega að koma heimsendir,“ sagði önnur og gaf Dóra litla gætur í laumi. Drengurinn stóð agndofa í teignum. Allir héldu áfram að slá og raka um stund, eins og ekkert hefði í skorist. Drengurinn vissi ekki, hvort hann ætti að fara að skæla eða reyna að harka af sér. Hann vissi ekki heldur, hvert hann ætti að flýja. Blásvarta skýið ljóta helltist yfir fólkið, og þrumugnýrinn jókst. Enginn virtist þó enn taka mark á því, sem var að gerast, nema hundurinn. Hann var staðinn á fætur með skottið milli fótanna og spangólaði ámátlega beint upp. Það varð slíkur úrhellir, að ekki var þurr þráður á nokkrum manni.

Snati tók þá skyndilega til sinna ráða og hljóp allt hvað af tók til bæjar. Greyið dró ýlfrandi eftir sér skottið eins og einhver væri á eftir honum með barefli. Dóri litli var farinn að skæla. Kallað var á fólkið að leggja frá sér amboðin, ganga heim og standa af sér skúrina. Þrumuveðrið hélt enn áfram um stund án uppstyttu. „Hvar er Snati?“ stundi Dóri litli kjökrandi. „Og ég sosum veit varla,“ sagði gamla konan og hélt áfram að prjóna. „Það skyldi þó aldrei vera, að einhver eymdarfarangur leynist undir rúminu mínu,“ bætti hún við. Dóri litli gægðist inn undir rúmið og sá þá glitta í eitthvað tvennt eins og grænar tórur í myrkrinu. „Ég sé augu,“ sagði Dóri litli. „Og svei því sem það eru augu í hundum, skepnan mín,“ sagði gamla konan, „það eru kallaðar glyrnur.“ Regninu slotaði upp úr nóni, og sólin skein aftur. Hundurinn skreið skömmustulegur undan rúminu. Hann hafði brotið allar reglur, hlaupið yfir þröskuldinn, ýtt skellihurðinni frá stöfum með trýninu, sem hann hafði aldrei gert áður, ætt upp stigann inn í eldhús og loks þefað sig inn í kvennabaðstofu til gömlu konunnar. Snati hristi sig, svo að úðinn stóð framan í Dóra litla „Farðu, sneypan þín,“ sagði gamla konan. Hundurinn fór út í sólskinið.

 

Bók Halldórs, Sjöstafakverið, bls. 13 – 15:

Snati fór aldrei leingra en í bíslagið við kjallaradyrnar. Þar var pokinn hans. ... Innaraf bíslaginu var stórt fordyri þar sem vinnufólk lagði af sér vosklæði sín og færur. Þá komu dyr með skellihurð sem laukst upp ef aðeins var þrýst á hana að utan. Síðan tók við stigi uppí eldhúsið. Úr eldhúsi var opið í kvennabastofuna sem í senn var svefnskáli og tóvinnuhús. Þar var rúmið þessarar gömlu konu inst undir glugga. Hún sat þar ein öllum dögum á sumrin þegar aðrir voru að útiverkum. Hún var þá að kemba ull, spinna og prjóna. ...

Það var einn dag um túnasláttinn að ég var útá teig hjá fólkinu og hundurinn svaf í ljánni. Þá komu skruggurnar. Ætli ég hafi ekki verið sosum sjö ára. Það var fyrsta þrumuveður sem ég lenti í á ævinni og það kom flatt uppá mig. Ég hafði aldrei gert ráð fyrir að þessháttar væri til. Rétt áðan skein sólin á heiðum himni. Ég var búinn að breiða gras oná hundinn og farinn að steypa mér kolskít í slægjunni. Altíeinu dró fyrir sólu. Það hafði orðið snöggur uppsláttur á hitann. Hann hlóð upp blásvörtum skýbólstrum og andaði köldu. Það birtist eldleg mynd í skýinu. Rosaljósin geingu fjöllunum hærra. Svo kom skruggan. Það dunaði í einu fjalli og tók undir í öðru.

Fjöllin skjálfa einsog laufblað, sagði skáldlega kaupakonan.

Það er áreiðanlega að koma heimsendir, sagði svartsýn kaupakona og gaf mér gotur einsog til mín væri leikurinn gerður.

Ég stóð agndofa í teignum. Allir héldu áfram að slá og raka um stund einsog ekkert væri, líka stúlkan sem spáði heimsendi. Ég vissi ekki hvort ég ætti að fara að skæla ellegar reyna að harka af mér. Ég vissi ekki heldur hvert ég ætti að flýa. Þarnæst heltist blásvarta skýið ljóta yfir okkur öll og þrumugnýrinn óx. Einginn virtist samt taka mark á því sem var að gerast – nema hundurinn. Hann var staðinn á fætur með skottið milli fótanna og spangólaði ámátlega beint upp. Það var slíkur úrhellir að á svipstundu var ekki þur þráður á nokkrum manni. ... þá tók kvikindið til sinna ráða og hljóp alt hvað af tók til bæar. Greyið dró ýlfrandi eftir sér skottið einsog einhver væri á eftir honum með barefli. Ég var farinn að skæla.

Það var kallað á fólkið að leggja frá sér amboðin, gánga heim og standa af sér skúrina. Þrumuveðrinu hélt enn áfram um stund án uppstyttu.

Hvar er Snati?

... ég var enn skælandi þegar ég spurði um félaga minn í skelfíngunni. Og ég sosum veit valla, sagði gamla konan og hélt áfram að prjóna.

...

Það skyldi þó aldrei vera að einhver eymdarfarángur leynist undir rúminu mínu, bætti konan við.

Ég gægðist innundir og sé þá glitta í eitthvað tvent einsog grænar tórur í myrkrinu.

Ég sá augu, sagði ég.

Og svei því sem það eru augu í hundum, skepnan mín, sagði gamla konan: það eru kallaðar glyrnur.

Regninu slotaði uppúr nóni og sólin fór aftur að skína. ... Hundurinn skreið skömmustulega undan rúminu. Þessi hundur hafði brotið allar siðferðisreglur hunda af hræðslusökum. Hann hafði hlaupið yfir þröskuldinn sinn í bíslaginu, ýtt skellihurðinni frá stöfum með trýninu og það hafði hann aldrei gert fyr; síðan ætt upp stigann inní eldhús ... Loks hafði hann þefað sig áfram inní kvennabastofu til gömlu konunnar. ... Hann hristi sig svo úðinn stóð framaní mann því hann var enn blautur.

Farðu sneypan þín, sagði gamla konan.

Með það dróst seppi ofan og fór að tanna sig útá hlaði í sólskininu.

 

 

27.     „Bók stefnda, bls. 48. Í túninu heima, bls. 84 – 85. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 32.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 48:

Út undir kálgarðsvegg söng drengurinn fyrir Snata rómantísk, þýsk lög við íslensku textana, sem hann lærði á söngæfingunum. Þegar hann kunni ekki fleiri lög eða kvæði, samdi hann ný. Snati átti það til að verða ljóðrænn og spangóla undir með aumkunarverðum tón. Oft komst Dóri litli sjálfur svo við, að tárin streymdu niður kinnarnar á honum, einkum ef hann reyndi að syngja bassa eins og Kristján á Minna-Mosfelli. Stundum stöðvaðist því söngurinn af gráti söngvarans og gjammi hundsins.

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 84 – 85:

... við þennan hund saung ég stundum hina fögru þýsku lýrík útundir kálgarðsvegg ... Þegar ég kunni ekki leingur fleiri lög né meiri kvæði bjó ég til ný lög og nýtt mál við þau. Seinast varð Snati lýrískur og fór að spángóla undir með aumkunarverðum tón, ... Oft komst ég sjálfur svo við ... að tárin byrjuðu að streyma niður kinnar mér, þó einkum og sérílagi ef ég reyndi að sýngja bassa einsog Kristján á Minna-Mosfelli. Oft stöðvaðist þessi hrifni saungur af óstöðvandi gráti og hósta saungvarans og gjammi hundsins.

 

 

28.     „Bók stefnda, bls. 52 – 53. Í túninu heima, bls. 216-218. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (3 tilvik A, B og C). Sjá dskj. 33.“

Bók gagnáfrýjanda, bls. 52 – 53:

A. Eitt sinn fann Dóri ásamt öðrum pilti aðferð til að hala mykju úr fjósi í skjólu. Þeir notuðu til þess strengi, sem voru festir í loftið. Það fór að vísu svo, að skjólan lenti uppi í rjáfri í fjósinu. Skemmtilegra var í fjósinu í vætutíð, þegar mikil for myndaðist í kringum það. Þá fóru drengirnir á heimilinu í það, sem þeir kölluðu „drulluslag“. Þeir köstuðu berhentir hvor í annan blautri for, þangað til annar gafst upp, af því að vit hans fylltust, eða menn gáfust upp eftir röð, ef fleiri voru. Húsfreyjunni í Laxnesi líkaði ekki þessi skemmtun. Hún skipaði drengjunum að þvo sér. Í Tungulæknum norðaustur af bænum, í átt til Svínaskarðs, eru dálitlir hyljir á einum stað. Þangað fóru drengirnir, óðu upp í háls og þvoðu á sér höfuðin með grænsápu undir fossbunu.

B. Stundum þurfti Dóri að fara langar leiðir að leita að hestum. Hann var því fegnastur, ef hann fann þá ekki eða ef þeir voru svo styggir, að tilgangslaust var að reyna að banda þá. Drengurinn var einnig tregur að fara í sendiferðir á aðra bæi, en landsímastöð var í Laxnesi, sem fyrr segir, og átti að svara 3-4 tíma á dag og auk þess að sækja menn, sem voru kvaddir til viðtals í síma.

C. Á vorin fór Dóri að gá til kinda um sauðburðinn. Hann átti að athuga, hvort fé væri dottið ofan í pytt eða hrapað í snjó yfir jarðfalli. Hann átti líka að gæta að nýfæddum lömbum og setja þau á spena, ef þau voru of máttlaus til að komast það af sjálfsdáðum. Halldór rifjaði þessa daga síðar upp:2 ...

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 216 – 218:

A. Einhverntíma fann ég ásamt öðrum strák aðferð til þess að hala þetta efni útúr fjósinu í skjólu; við notuðum til þess streingi sem voru festir við loftið. Þetta fór svo að mykjufatan lenti uppí rjáfri á fjósinu og situr þar enn, hafi fjósið ekki verið rifið síðan. Okkur þótti mikið til koma þeirra býsna af for sem vildi myndast í kríngum fjós og haughús í vætutíð. Þá fórum við í skítkast sem við nefndum drulluslag okkur til skemtunar, og köstuðum berhentir hver í annan blautri for þángatil annar gafst upp af því skilníngarvitin á honum voru orðin full; ellegar menn gáfust upp eftir röð ef fleiri voru. ... Ekki líkaði móður minni þessi skemtun. Vinnukonurnar sögðu okkur að snáfa sjálfir og þvo af okkur dabbíuna utanhúss, í læk eða á. Í Túngulæknum norðausturaf bænum, í átt til Svínaskarðs, verða dálitlir hyljir á einum stað og þángað fórum við og óðum uppí háls og þóum okkur hausinn með grænsápu undir fossbunu.

B. Sumir snúníngar ... leiddust mér, einkum að fara lángar leiðir útí bláinn að leita að hestum. Fegnastur varð ég ef ég fann hestana alsekki, og þarnæst ef hestarnir voru svo styggir að það var tilgángslaust að reyna að banda þá ... Ekki var ég heldur snokinn fyrir að fara í sendiferðir á aðra bæi, ... því hjá okkur var landsímastöð; við höfðum svarskyldu 3-4 tíma á dag og áttum þaraðauki að sækja útum allar jarðir menn sem kvaddir voru til viðtals í síma.

C. Ein mest skemtun var að fara snemma vors að gá að fé um sauðburðinn með fyrirskipun um að athuga hvort það væri dottið oní pytt ellegar hefði pompað onum snjóhem yfir jarðfalli. Ég átti líka að gá að nýfæddum lömbum, einkum hvort þau hefðu broddskitu, og koma þeim á spena ef þau voru of máttlaus til þess að komast það af sjálfsdáðum.

 

 

29.     „Bók stefnda, bls. 53 – 54. Í túninu heima, bls. 223 – 226. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 34.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 53 – 54:

Guðjón hafði son sinn með sér í nokkur vor austur á Mosfellsheiði, þar sem hann var að leggja veg. Fyrst fór Dóri með honum níu ára, vorið 1911, og var í viku. Guðjón lét hann taka til í tjaldinu hjá sér og sjóða ýmist saltfisk eða nýjan silung úr Þingvallavatni. Vegagerðarmenn fengu skonrok, mysuost og brauðmeti einu sinni í viku frá Reykjavík upp á heiðina. Sumir pöntuðu jafnvel sykursnúða þangað. Þetta fyrsta vor sitt í vegagerð fékk Dóri að keyra hest, sem dró malarvagn. Seinni vorin var hann látinn aka möl fullan vinnutíma og keyra tvo vagna í einu, en það var hægt með því að binda þann hestinn, sem dró seinni vagninn, aftan í hinn vagninn, sem á undan fór. Fyrir þetta fékk Dóri kúskakaup og mátti sjálfur eiga féð. Sumir bændur sendu vinnumenn sína í vegagerð og hirtu kaup þeirra. Dóri sá slíka menn með grjótharða þorskhausa heiman að frá sér: Þeir fengu að stinga þeim ofan í soðið hjá náunganum, áður en því var hellt niður, til þess að mýkja þá. Dóra varð starsýnt á einn slíkan leigumann, sem bjó í næsta tjaldi við hann. Hann var ættaður úr Kjósinni, og fylgdi honum draugurinn Írafellsmóri, að því er sagt var. Hann lifði á svörtu rúgbrauði og kaffi. Rúgbrauðssneiðar þessa manns voru hátt upp í tvo þumlunga á þykkt, og hann haugaði á þær smjörlíki og drakk með svart kaffi og mokaði í það sykri. Þessum manni varð aldrei misdægurt.

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 223 – 226:

Faðir minn hafði mig með sér í nokkur vor austur á Mosfellsheiði þar sem hann annaðist vegagerð; ég fór fyrst með honum 9 ára og var í viku. Hann lét mig taka til í tjaldinu hjá sér og sjóða ýmist saltfisk eða nýan silúng úr Þíngvallavatni, ... Heimsins lystisemdir svo sem skonrok mysost og brauðmeti feingum við á Heiðina einu sinni í viku „að sunnan“; hjá sumum komst býlífið á það stig að þeir pöntuðu úr bakaríunum ekta gunsusnúða austrá heiði. ... Í nokkra tíma á dag fékk ég að keyra hest sem dró malarvagn. Seinni vorin var ég látinn aka möl fullan vinnutíma, og keyra tvo vagna í einu, en þetta er hægt með því að binda þann hestinn sem dregur seinni vagninn aftaní hinn vagninn sem á undan fer; fyrir þetta fékk ég kúskakaup og mátti sjálfur eiga peníngana; hef þessvegna einlægt hælt mér af því að hafa verið daglaunamaður um skeið.

Það þætti einkennilegt núna ef bændur gerðu út syni sína og vinnumenn til utanheimilisvinnu og hirtu síðan kaup þeirra einsog vegahestanna sem þeir einnig seldu á leigu. ... menn sá ég vera með grjótharða þorskhausa heimanað frá sér og feingu að stínga þeim oní soðið hjá náúnganum áður en því var helt niður, því það þurfti ögn að mýkja harðhaus, annars var ekki gerlegt að rífa hann. ...

Fjórði maður í næsta tjaldi við okkur var sú tegund leigumanna sem ég er að tala um, vann á annarra snærum og var „gerður út“. Þessi maður var ættaður úr Kjósinni og fylgdi honum Írafellsmóri. ... enda lifði hann einsog séra Jón Prímus, á svörtu rúgbrauði og því fræga rótarkaffi sem hét export og sagt var bæði undirstöðubetra og hollara en baunakaffi; ... Rúgbrauðsneiðar þessa manns voru hátt uppí tvo þumlúnga á þykt og hann haugaði á þær magaríni sem einnig ku vera hollara en smjör ... Með þessu holla brauði, sem líklega er sama brauðið og talað er um í faðirvorinu, drakk gamli maðurinn sitt holla svarta exportkaffi úr hálfpottsföntum og mokaði með matskeið í það faríni, sem sumir kalla sykurúrgáng og ku vera hollara en melís. Þessum manni varð aldrei misdægurt ...

 

 

30.     „Bók stefnda, bls. 54 – 55. Í túninu heima, bls. 220 – 221. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 35.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 54 – 55:

Í hjásetunni kom Óla til hans upp úr hádegi með sætt mjólkurkaffi á brúsa ásamt mat, sem móðir hans hafði tínt til, jafnvel stundum heitar pönnukökur. Óla var tveimur árum eldri en Dóri og stór og digur eftir aldri. Þau voru ekki samrýnd. Dóri var feiminn við hana, ekki síst þegar hún settist á þúfu andspænis honum svo gleitt, að hann sá upp undir hana.

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 220 – 221:

... tökutelpan Óla kom til mín uppúr hádegi með sætt mjólkurkaffi á brúsa ásamt því lostæti sem móðir mín tíndi ... stundum meira að segja heitar pönnukökur. ... meiren tveim árum eldri og með stærstu kvenmönnum á Íslandi tólf ára. ... Fyrir bragðið gátum við ekki orðið samrýnd. Ég var á aldri kynfælninnar og mér stóð stuggur af henni, einkum þegar hún settist á þúfu andspænis mér svo gleitt að ég sá uppundir hana.

 

 

31.     „Bók stefnda, bls. 55. Í túninu heima, bls. 229 – 230. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 36.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 55:

Í Mosfellsdal var mjólkurakstri í bæinn jafnað niður á kúabændur eftir mjólkurmagni hvers um sig. Það kom í hlut Laxnessbúsins að flytja mjólkina fimmta hvern dag um hásumarið. Dóra féll þetta starf betur en malarakstur á heiðum og hjáseta. Daginn, sem hann átti að flytja mjólk, þurfti hann að fara á fætur fimm að morgni og leita uppi hestinn Blesa, ... Dóri spennti hestinn fyrir kassavagn, sem var opinn að aftan. Vegurinn í bæinn var torfær. Kaldakvísl var aðalfarartálminn. Drengurinn varð að fara yfir hana tíu sinnum frá Laxnesi og niður úr. Hann hafði gaman af að láta hestana fara yfir ána, heyra brúsana skrölta og sjá vatnið skvettast. „Á leiðinni til höfuðstaðarins var svo gott næði til að velta fyrir sér skáldsögum,“ ...

 

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 229 – 230:

Mjólkurakstri í bæinn var jafnað niðrá kúabændur í dalnum eftir mjólkurmagni hvers um sig; mig minnir að komið hafi á okkur að flytja mjólkina fimta hvern dag um hásumarið. Þetta starf átti betur við mig en bæði hjáseta og malarakstur á heiðum.

Sá dagur vikunnar sem var helgaður mjólkurakstri byrjaði fyrir mér klukkan að gánga 5 að morni á því að leita uppi lurkinn Blesa, ...

 

 

32.     „Bók stefnda, bls. 55. Í túninu heima, bls. 230 – 232. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 37.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 55:

Fyrsti áfangastaður Dóra var inni hjá gasstöð við Rauðará. Þar var kona, sem skammaði hann iðulega fyrir að koma of seint í búðina til sín: Börn í nágrenninu væru farin að gráta af mjólkurskorti. Næst var áð í bakaríi á Laugavegi 10. Þar var digur kona, sem hét Lóa og hafði mörg orð um það, að hún vorkenndi þessum aumingja litlu drengjum, sem væru vaktir upp af værum svefni og sendir af stað um hánótt langt ofan úr dölum með þessa ógurlegu brúsa. Lóa bauð Dóra stundum bolla af lútsterku kaffi í samúðarskyni, en hann þáði hann sjaldnast. Loks kom drengurinn með mjólk í Templarasund 4, þar sem Sigríður í Sundinu rak greiðasölu. Sú kona var alger tröllkona, líka í framan, fannst Dóra, en ævinlega sparibúin, í svörtum gullsaumuðum upphlut með silfurmillum, reimuðum með silfurfesti, og fyrirmannleg í tali. Hjá henni fengust ljúffeng vínarbrauð. Dóri fékk sér sæti við lítið borð í horni, þegar hann hafði skilað af sér í öll bakaríin, og keypti sér mjólk og vínarbrauð.

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 230 – 232:

Við nefndum mjólkursölurnar kellínguna þarna og kellínguna á hinum staðnum. Mín fyrsta kellíng var innhjá gasstöð, ... Þessi kona var einlægt jafnvond útaf því hvað ég kæmi seint, og þó var hennar búð efst í bænum svo hún fékk sína mjólk á undan öðrum; börnin voru nær dauða en lífi af öskri altíkríngum gasstöðina. Afturámóti var í bakaríinu á Laugavegi 10 digur kona sem hét Lóa, og var einlægt að vorkenna okkur þessum aumíngja litlu dreingjum og hvaða meðferð var þetta eiginlega á börnum að vera að vekja þessa vesalínga upp af værum svefni og senda þá á stað um hánótt lángt ofanúr dölum með þessa ógurlega altuppí-tuttugu-potta brúsa ... Hún bauð mér einatt bolla af lútsterku kaffi í samúðarskyni, sem ég þó sjaldan þá. Mín lokakellíng var í Templarasundi 4, ... hjá Sigríði í Sundinu, ... Þessi kona var alger tröllkona, líka í framan, en ævinlega sparibúin, á svörtum gullbaldýruðum silkiupphlut með silfurmyllum, reimuðum með silfurfesti; hún hafði frammistöðustúlku, því þarna voru veitíngar á litlum borðum og komu fínir menn. Þessi mikla kona hafði óhemju fyrirmannlegan talanda úr Þíngeyarsýslum. Þarna mátti kaupa vínirbrauð, ... Þarna fékk ég mér sæti við lítið borð í horni þegar ég var búinn að skila af mér í öll bakaríin, og keypti mér mjólk og vínirbrauð ...

 

 

33.     „Bók stefnda, bls. 56 – 57. Í túninu heima, bls. 234- 240. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (2 tilvik A og B). Sjá dskj. nr. 38.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 56 – 57:

A. Daginn eftir átti Dóri að fara með mjólkina. Honum var sagt, að hann ætti að taka þessa stúlku með sér í bæinn. Hún sat í reiðpilsi móður hans á baki klárnum Leira, sem var gamall kvenhestur. Hún hafði líka fengið að láni nýjan söðul móður hans með rauðu plussi í setunni og ofan á henni útsaumaðri söðulsessu, en stangað leðurverk var á hlífunum. Engin orð fóru á milli Dóra og stúlkunnar á leiðinni. Hann sat uppi á mjólkurvagninum í öllu brúsaglamrinu og keyrði Blesa gamla, en stúlkan reið þögul fram með vagninum. Dóri átti að hafa með sér söðulhestinn heim aftur, bundinn aftan í mjólkurvagninn. Hann fékk að binda hestinn við staur í húsagarði við Lindargötu, þar sem var mjólkurbúð. Þangað ætlaði hann að ganga að hestinum, þegar hann hefði erindað í bænum. En þegar Dóri var kominn þrjá fjórðu hluta leiðarinnar heim þennan fagra sumardag, uppgötvaði hann, að hann hafði gleymt hestinum á Lindargötunni.

B. Hann spennti Blesa gamla frá mjólkurvagninum og batt hann undir aktygjum við símastaur á víðavangi. Síðan gekk hann niðurlútur upp túnið heim að húsinu að Lágafelli. Frá því heyrðist kliður af glaðværum röddum úr stofu. Fyrirmannleg kona, móbrún í augum, í silfurbúnum upphlut, kom til dyra. Hún var húsmóðirin, Níelsína Abigael Ólafsdóttir. Hún vissi deili á unga manninum og heilsaði honum elskulega. Dóri sagðist hafa gleymt hesti með söðli í bænum og ekki vita, hvað hann ætti að taka til bragðs. Níelsína spurði, hvort hann vildi ekki gera svo vel að koma inn í stofu og drekka súkkulaði með gestunum. Inni voru nokkrar ungar og vel greiddar stúlkur, karlmannlegir piltar með menntunarsvip og virðulegt fólk á miðjum aldri. Daníel bóndi hafði kónganef og á því nefklemmur (loníettur). Hann var hinn ljúfasti við Dóra. Rýmt var til við borðið fyrir honum. Síðan var hann látinn segja söguna af hestinum gleymda. Sumir brostu vorkunnarbrosi. Tvær eldri stúlkurnar á heimilinu, Guðrún og Solveig, sem voru 18 og 16 ára, voru blíðar og þægilegar stúlkur og buðu Dóra kökur og sögðu, að þetta myndi allt enda vel. Á borðinu voru líka pönnukökur með þeytirjóma og berjamauki. Dóra varð litið upp og út undan sér á yngstu systurina, Kristínu, sem var 14 ára, tveimur árum eldri en hann. Hún sat skáhallt við borðið á móti honum og horfði á hann stórum augum. Dóri sá hvorki hluttekningu né samúð, gamansemi eða hneykslun í þessum augum. Hann sá aðeins augun. Hann vissi ekki, hvað hann átti af sér að gera. Hann var feiminn við stúlkuna. Honum fannst hún jafnvel stara ásakandi á sig. Smám saman fór fólk að standa upp frá borðum. Dóra fannst stúlkan spyrja sig með augunum, hvort hann, boðflennan, ætlaði að sitja lengst. Hann stóð snögglega upp án þess að ljúka úr bollanum. Þegar hann var kominn fram á gólf, klappaði Daníel á öxlina á honum og sagði: „Við hringjum bara í bæinn og biðjum þá í Dýraverndunarfélaginu að taka klárinn til handargagns til morguns ...“

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 234 – 240:

A. Daginn eftir átti ég að fara með mjólkina. Mér var sagt að ég ætti að hafa þessa stúlku í farteski mínu í bæinn, og sat hún þar uppábúin í reiðpilsi móður minnar á baki klárnum Leira sem var gamall vekríngur og kvenhestur, ... Eingin orð fóru milli mín og þessarar stúlku fremuren fyrri daginn. ... Ég sat uppá mjólkurvagninum í öllu brúsaglamrinu og keyrði Blesa gamla, en valkyrjan reið þögul frammeð vagninum; henni hafði í sárabætur verið léður nýi söðullinn móður minnar og var rautt pluss í setunni og þaráofan lögð útsaumuð söðulsessa, en stángað leðurverk á hlífunum. Síðan átti ég að hafa með mér söðulhestinn heim aftur, bundinn aftaní mjólkurvagninn. Matrónan í mjólkurbúðinni á Lindargötu leyfði að ég byndi hestinn við stagstaur í húsagarði ... Þar ætlaði ég að gánga að hestinum þegar ég væri búinn að erinda í bænum.

... Nú þegar ég er kominn þrjá fjórðu leiðarinnar heim, þennan fagra sumardag, uppgötva ég að mér hefur heldren ekki orðið á í messunni: ... Þessum hesti undir söðli móður minnar hafði ég gleymt bundnum við staur í porti á Lindargötunni.

B. Ég spenti Blesa gamla frá mjólkurvagninum og batt einnig hann undir aktýgjum við símastaur á víðavángi. Í meira lagi rínglaður í þaunkunum slángraði ég niðurlútur upp túnið heimað húsinu. ... En altíeinu hef ég borist inní fordyrið, þar sem ég heyri klið af glaðværum röddum úr stofu. Fyrirmannleg kona, móbrún í augum, á silfurbúnum upphlut, á leið um fordyrið í því ég birtist. Hún hefur líklega kannast við þennan dreing í sjón og heilsar mér blíðlega og ég segist hafa gleymt hesti með söðli í bænum. ... Ég sagðist ekki hafa nokkra hugmynd um hvað ég ætti að taka til bragðs. Konan spurði hvort ég vildi ekki gera svo vel að koma inní stofu og drekka súkkulaði með gestunum.

Það var alsetið kríngum borðið, vel útlítandi bæarfólk, úngar vel greiddar stúlkur og karlmannlegir piltar með mentunarsvip, ... virðulegt fólk, farið að hærast, ... Bóndinn sjálfur hafði kónganef og á því þær einar raunverulegar lonnéttur sem ég sá nokkurntíma á bóndanefi á minni æskutíð. Samt var hann ljúfmenskan sjálf ... það var meira að segja rýmt til við borðið fyrir mér. Síðan var ég látinn segja söguna af Gleymda Hestinum ... Sumir gestanna hlustuðu með öllu áhugalaust, ... Aðrir brostu vorkunnarbrosi ... Tvær eldri systurnar voru blíðar og þægilegar stúlkur og buðu mér fleiri og fleiri kökur og sögðu með töfrum að þetta mundi alt fá góðan enda; ... Hér voru líka pönnukökur með þeytirjóma og berjamauki. En þá verður mér litið upp og útundan mér og kem auga á ýngstu systurina, hún sat skáhalt við borðið á móti mér; og þar sá ég loksins þau augu sem hvorki lýstu af samúð með ógæfu minni, þaðanafsíður að vottaði fyrir örðu af gamansemi yfir bjálfalegum hrakföllum manna, ekki einusinni tilraun til uppgerðarhluttekníngar; í rauninni ekki viðkomníng af neinu tagi. ... Seinast fanst mér hún vera farin að stara á mig ásakandi ...

Smám saman fer fólkið að standa upp frá borðum. ... Þá sé ég að stúlkan situr þarna enn og nú finst mér hún spyrja mig með augunum úr sæti sínu: ætlar þú boðflennan að sitja leingst? Ég stóð snögglega upp án þess að klára úr bollanum. Þegar ég er kominn frammá gólf klappar húsbóndinn á öxlina á mér og segir: Við hríngjum bara í bæinn og biðjum þá í Dýraverndunarfélaginu að taka klárinn til handargagns til morguns. Þeir hafa hesthús.

 

 

34.     „Bók stefnda, bls. 58. Í túninu heima, bls. 145. Notkun á  texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 39.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 58:

Stefán var alinn upp hjá Árna sýslumanni Gíslasyni í Krýsuvík, framaðist í Englandi og náði góðum tökum á enskri tungu. Hann lagði fyrir sig að segja enskum ferðalöngum til vegar á Íslandi og var þess vegna kallaður Stebbi guide. Þennan vetur í Laxnesi var hann að semja bókina Iceland, sem kom út árið 1911. Hann skrifaði handrit sín aftan á dagatöl af veggalmanökum. Stefán var rauðbirkinn maður, lágur vexti, hvatur í spori, allra manna fljótgáfaðastur og að sama skapi málhreifur, þó gagnorður, jafnvel fornyrtur.

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 145:

Stefán guide var af merkisfólki, en hefur líklega verið munaðarlaus, alinn upp hjá Árna sýslumanni í Krísuvík, framaðist í Einglandi og fékk gott tángarhald á enskri túngu; lagði síðan fyrir sig þann starfa að segja enskum ferðalaungum til vegar. Einmitt þennan vetur, ... var hann að semja bókina „Iceland“ ... Hann skrifaði handrit sín aftaná dagatöl af veggalmanökum. Stefán var rauðbirkinn maður lágur vexti, hvatur í spori, allra manna fljótgáfaðastur, og að sama skapi málhreifur, þó gagnorður, jafnvel fornyrtur.

 

 

35.     „Bók stefnda, bls. 59. Í túninu heima, bls. 248 og Íslandsklukkan, bls. 475 – 476. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (2 tilvik A og B). Sjá dskj. nr. 40.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 59:

A. Hann bar nú öll sín ritverk að haugnum, hellti yfir þau nógri steinolíu og lagði eld að. Brátt logaði ágætt bál undir þúfunni. Pappírssnifsin fuku, sviðin að kolum, út í veðrið. Dóri hélt bálinu við, uns yfir lauk og ekki var eftir nema svart brunaflag. Næsta morgun fóru Guðjón og Dóri á fætur, áður en bjart var orðið. Guðjón náði í hestana, og þeir stóðu söðlaðir á hlaðinu, þegar sonur hans kom ofan. Fólk var ekki komið á fætur. Sigríður húsfreyja gaf feðgunum kaffi í eldhúsinu og með því bragðgott brauð. Hún hafði látið vatn á ketilinn aftur í nýja hitu handa fólkinu, þegar það kæmi ofan. Drengurinn og foreldrar hans vissu, að Dóri var að fara að heiman alfarinn, en þau létu öll sem ekkert væri. Guðjón var genginn út til hestanna, þegar Dóri kvaddi móður sína. Hún sagði: „Guð fylgi þér.“ Lokið á katlinum var byrjað að glamra því að suðan var að koma upp á vatninu í seinni hituna. Dóri gekk út. Hann og Guðjón bóndi stigu á bak hestum sínum og riðu úr hlaði.

B. Sigríður brá sér út í dyr og horfði á eftir eiginmanni sínum og syni ríða brott. Það var komið haust, en í morgundögginni stirndi á svartfexta hestana.

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 248, og Íslandsklukkan bls. 475 – 476:

A. Að þessum forna haug bar ég nú safnverk mitt alt ... Ég helti yfir alt saman nógri steinolíu og bar eld að. Brátt logaði ágætt bál undir þúfunni. Pappírsnifsin fuku, sviðin að kolum, útum hvippinn og hvappinn í golunni. Ég hélt bálinu við uns yfir lauk og ekki var eftir nema svart brunaflag fyrir dyrum haugbúans.

Um morguninn fórum við pabbi á stað áður en bjart var orðið; hann hafði sjálfur náð í hestana og þeir stóðu söðlaðir á hlaðinu þegar ég kom ofan. Fólkið var ekki komið á fætur. Móðir mín gaf okkur kaffi í kokkhúsinu; og þetta góða brauð. Hún hafði látið vatn á ketilinn aftur í nýa hitu handa fólkinu þegar það kæmi ofan. Ég vissi vel að ég var að fara að heiman fyrir fult og alt, við vissum það öll en létum sem ekkert væri. Faðir minn var geinginn út til hestanna og ég kvaddi móður mína í fyrsta sinn. Hún sagði í fyrsta sinn: guð fylgi þér. Lokið á katlinum var byrjað að glamra, því suðan var að koma upp á vatninu í seinni hituna; ...

B. Og glæpamennirnir stóðu undir klettunum og horfðu á biskupshjónin ríða; og það glitti á döggslúngin svartfext hrossin í morgunsárinu.

                  

36.     „Bók stefnda, bls. 61. Í túninu heima, bls. 212 – 213. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 41.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 61:

Kennarinn, Þórarinn B. Þorláksson, var lágvaxinn vindlareykingamaður í fínofnum tweed-fötum með snyrtilegt hafurskegg og gullbúin gleraugu, sem voru í laginu eins og hálfmáni. Halldóri þótti í fyrstu nýnæmi að fást við hluti eins og kubba, klömbruhnausa, strýtur, keilur og önnur rúmfræðileg sköpunarverk.

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 212 – 213:

Meistarinn var lágvaxinn vindlareykíngamaður í fínofnum tweed-fötum með snyrtilegt hafurskegg og gullbúin gleraugu sem voru formuð einsog hálftúngl. ...

Framanaf var nýnæmi að vera staddur í heimi sem samanstóð af kubbum klömbruhnaus, öðru nafni rombu, strýtum keilum og öðru rúmfræðilegu fígúruverki; ...

 

 

37.     „Bók stefnda, bls. 64. Grikklandsárið, bls. 81 – 82. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 42.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 64:

Stúlkur voru teknar að hafa áhrif á Halldór. Eitt sinn vorið 1916 átti hann erindi á prestssetrið að Mosfelli fyrir föður sinn. Hann batt reiðhest sinn, Hæring, við sáluhliðið, gekk heim að húsinu og kvaddi dyra. Hann vissi þá ekki fyrr til en hann var lentur innan um stúlkur, sem voru einu eða tveimur árum eldri en hann, og vildu syngja. Halldór lét undan óskum þeirra um að setjast við hljóðfærið og leika það, sem þær bentu á. Stúlkurnar komu upp að hljóðfærinu og mynduðu hálfhring utan um hann, þar sem hann var að leika „Sólskríkjuna“: „Sú rödd var svo fögur, svo hugljúf og hrein ...“. En við sönginn tók að leggja hita frá þessum stúlkum, þungan, kvenlegan ilm, sem orkaði sterkt á Halldór. Honum sortnaði fyrir augum. Hann ætlaði ekki að ná andanum. Hann fór að slá ranga tóna í laginu. Hann hélt, að hann myndi líða út af hér og nú. Hann varð að taka eitthvað til bragðs. Hann spratt á fætur í miðjum samhljómi, leitaði dyra, hljóp út, fann hest sinn á réttum stað, bundinn við sáluhliðið, stökk á bak og reið burt, allt hvað af tók. „Frá því ég var um fermíngu varð ég að fylla mig ofstopa til að þola ofþúngan andardrátt meykvenna nærri mér semog augnatillit dregin heitri hulu,“ sagði hann síðar.17

 

Bók Halldórs, Grikklandsárið, bls. 81 – 82:

Þegar ég var kominn heim úr bænum til að fermast vorið 1916, og hafði nýlokið skáldsögunni Aftureldíngu, átti ég erindi á prestsetrið í einhverju hrossasnatti fyrir vegagerðina einsog fyrri daginn. Ég batt reiðhestinn minn við sáluhliðið, gekk heim að húsinu og kvaddi dyra. Ég vissi ekki fyren ég var lentur innanum stúlkur sem kanski höfðu fermst árinu á undan, voru amk ekki minn árgángur, og vildu sýngja. Þetta voru í rauninni þroskaðar konur og þessvegna vildu þær sýngja úr því ég hafði álpast þarna inn. Ég lét tilleiðast að setjast við hljóðfærið og leika það sem þær bentu á. Þær komu uppað hljóðfærinu og mynduðu hálfhríng utanum mig þegar ég var byrjaður að spila Sólskríkjuna: Sú rödd var svo fögur svo hugljúf og hrein. En við saunginn fór að leggja mikinn hita frá þessum vitru konum, nokkurskonar dimma kvenlega ofljómun, sem varla verður meiri á öðru æviskeiði. Loftþýngslin urðu mér um megn þegar svo margar súngu utanum mig í einu; mér sortnaði fyrir augum og ég ætlaði ekki að ná andanum og fór að spila skakt og fanst í bókstaflegum skilníngi að líða mundi uppaf mér hér og nú. Snarræði varð mér til lífs. Ég spratt á fætur í miðjum samhljómi, leitaði dyra, hljóp út og fann hest minn á réttum stað, bundinn við sáluhliðið, stökk á bak og reið burt hvað af tók ...

... Frá því ég var um fermíngu varð ég að fylla mig ofstopa til að þola ofþúngan andardrátt meykvenna nærri mér semog augnatillit dregin heitri hulu; ...

 

 

38.     „Bók stefnda, bls. 64 – 65. Heiman eg fór, bls. 36- 38. Notkun á texta án aðgreiningar, réttrar heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 43.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 64 – 65:

Fólk var sofnað á öllum bæjum. Nokkur hægfara purpuraský voru á sveimi yfir Kistufelli, en vesturhiminninn skreyttur gullnum dreglum. Landnorður var skýlaust og djúpt og þreyjandi undir sólarupprásina. Jörðin var fagurgræn af vaknandi sumri og frjóilmur úr sverðinum, ár niðlausar og tærar. „Hvílíkt musteri!“ sagði Halldór við sjálfan sig. Hann kom ekki heim þessa nótt. Hann hélt austur til fjallabringnanna, þar sem björkin vex og sólin skín fyrst á morgnana. Sál hans var eitt fagnaðarhaf og lofsöngur. „Vorheimurinn og æska mín, alt var eingilfagurt ljóð, ég og náttúran eitt, eilífðin líkt og hörpusláttur í barmi mér,“ sagði Halldór. Hann reikaði um hálflaufgað kjarrið, en þrestirnir vöknuðu og tókust á loft í leifturhröðum sveiflum og hófu söngva yfir bjarkirnar. Hann kastaði sér niður í grösugum hvammi og fór að tala við Drottin: „Þú er voldugur og óumræðilegur og ég, sem er ekki neitt annað en andvarp frá duftinu, hef þegið dýrðlegar gjafir af þér; allir mættir sálar minnar eru þegnir af þér! Drottinn minn, lof mér að lifa þér og deya þér! Ég vil gera stórvirki og inna af höndum ógleymanlegar dáðir til dýrðar þér, sem gafst mér máttu! Drottinn minn, hve krafturinn ólgar í líkama mínum, hve sál mín er gagntekin af þér, sem gafst mér máttu! Ég get spyrnt við himinhvolfinu með hvirfli mínum! Kærleiki þinn fyllir sál mína svo að hjarta mitt elskar allan heiminn og ég segi við alt sem lifir: bróðir minn, systir mín! komið hér upp að brjósti mér, því að hjarta mitt er svo ríkt! Hjarta mitt ætlar að sprínga af því að það er svo ríkt! Drottinn, ef þú kallar mig til að yfirvinna borgir, sjá, þá er ég hér! Ef það er vilji þinn að ég boði mannkyninu nýan sannleik, sjá, ég er hér! Ef ég á að þola píslarvætti og brenna yfir hægum eldi, þá kalla þú, sjá, þjónn þinn heyrir; sjá, hann er hér.“18 Söngur þrastanna hljóðnaði. Ekkert bærðist lengur í hinni djúpu óttukyrrð, döggin féll. Halldór þrýsti vitum sínum niður í grasið. Honum var síðar ljúft að minnast þessarar nætur.

 

Bók Halldórs, Heiman eg fór, bls. 36 – 38:

Fólk sofnað á öllum bæum, nótt yfir öllu nema sköpun Guðs; yfir Kistufelli vóru nokkur hægfara purpuraský á sveimi en vesturhiminn skreyttur gullnum dreglum, landnorðrið skýlaust og djúpt og þreyandi undir sólarupprásina, jörðin fagurgræn af vaknanda sumri, frjóilmur úr sverðinum, árnar niðlausar og tærar.

Þessa nótt kom ég ekki heim. Ég hélt austur á við til fjallabríngnanna þar sem björkin vex og sólin skín fyrst á morgnana, sál mín fagnaðarhaf eitt og lofsaungur. Vorheimurinn og æska mín, alt var eingilfagurt ljóð, ég og náttúran eitt, eilífðin líkt og hörpusláttur í barmi mér. ...

Ég reikaði um hálflaufgað kjarrið en þrestirnir vöknuðu og vippuðu sér til lofts í leifturhröðum sveiflum. Ég kastaði mér niður í grösugum hvammi og fór að tala við Drottin.

Þú ert voldugur og óumræðilegur og ég sem er ekki annað en andvarp duftsins hef þegið af þér dýrlegar gjafir. Ég vil gera stórvirki og inna af höndum ógleymanlegar dáðir til dýrðar þér sem gafst mér þessar gjafir! Krafturinn ólgar í líkama mínum, ég spyrni við himinhvolfinu með hvirfli mínum! Hjarta mitt elskar allan heiminn og ég segi við alt sem lifir: bróðir minn, systir mín! komið upp að brjósti mér. Hjarta mitt ætlar að sprínga af því það er svo ríkt!

Drottinn, ef þú kallar mig til að vinna borgir, sjá, þá er ég hér! Ef það er vilji þinn að ég boði mannkyninu nýan sannleik, sjá, ég er hér! Ef ég á að þola píslarvætti og brenna yfir hægum eldi, einsog Savonarola, þá kalla þú, þjónn þinn heyrir; hann er hér!

Nú hljóðnar þrastasaungurinn aftur og ekkert bærist í hinni djúpu óttukyrð, en döggvar falla. Ég þrýsti vitum mínum niður í grasið, niður í jörðina, þaðan sem ég á smæð mína, en himinn drottins míns hvelfist yfir mig, ómælisvíður. Hve ljúft að minnast þessarar nætur við brjóst móðurjarðarinnar, undir himni Drottins!

 

 

39.     „Bók stefnda, bls. 68. Sjömeistarasagan, bls. 13 – 14. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 44.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 68:

Í borðstofunni var stækkanlegt matarborð á miðju gólfi, stólar í kring, en upp við vegginn skenkur eða buffet, sem þá var kallað. Inn af borðstofunni var betri stofa með nokkrum flosdregnum rauðum stólum og tvíbreiðum sófa. Á veggnum var mynd af Gullfossi, sem heimasætan, Sigríður Árnadóttir, sem kölluð var Sigga, hafði saumað út undir handleiðslu systranna í Landakoti. Stofuborðið stóð á miðju gólfi, úr rauðaviði, og á því var guðvefjardúkur með kögri og á honum kortaskál úr rauðu gleri, ógagnsæju. Upp við vegg var hilluborð og á því glervasi með puntstrám og fagurlituðum páfuglafjöðrum. Á hillunum stóðu vel innrammaðar myndir af virðulegum vandamönnum húsráðenda, en í efstu hillu fyrir miðju stækkuð ljósmynd af glæsilegum ungum Dana í sjóliðsforingjabúningi: Á þeim árum þótti virðulegt að þekkja slíkan mann og hafa á hillu hjá sér. Aðalprýði betri stofunnar var þó flygill, sem Halldór lék stundum á. Hann átti nokkur þýsk hefti, sem Eggert Gilfer hafði fengið honum, með lögum eftir gamla meistara.

 

Bók Halldórs Sjömeistarasagan, bls. 13 – 14:

Borðstofan var allaðeina og í Kaupmannahöfn; þar var tískumuflan buffet á réttum stað uppvið vegg; stækkanlegt matborð á miðju gólfi, stólar í kríng. Um leið og dúkað var á málum var einlægt látin vasskarafla og plattmanasía á borðið. Þetta voru kórrétt stöðutákn góðs fólks einsog í Danmörku. Innaraf borðstofunni var stásstofa með nokkrum flosdregnum rauðum stólum samlitum og do sóffa tvísættum; kúnstbróderað skilirí af Gullfossi drotnaði á vegg saumað af heimasætunni Siggu, 14 ára, undir handleiðslu landakotssystra; ... Í þá daga stóð stofuborðið á miðju gólfi í stásstofum, og á borðinu í Frón, sem var áreiðanlega úr rauðaviði, var guðvefjardúkur með kögri og á honum kortaskál úr rauðu gleri ógagnsæu. En á fíngerðri muflu sem hét etasér, með mörgum hillum og stóð í horni, og er orðin hæstmóðins aftur núna, var glervasi með puntstrám síðan í fyrra ásamt fagurlitum páfuglafjöðrum úr Danmörku; á hillum þessarar muflu voru vel innrammaðar kabínettmyndir af frambærilegum ættíngjum og traustum og góðum kaupmönnum, og þaraðauki stóð í efstu hillu fyrir miðju stækkuð ljósmynd af glæsilegum úngum dana í sjóliðsforíngjabúníngi; það þótti mikilsvert stöðutákn á mínum sokkabandsárum að þekkja þvílíkan mann „úti“, og hafa á hillu hjá sér. Kóróna stásstofunnar var þó píanóið og sótti ég mjög í það ef færi gafst, ...

Ég átti nokkur þýsk hefti, feingin af Eggert Gilfer, með sæmilega auðveldum stykkjum eftir meistarana ...

 

 

40.     „Bók stefnda, bls. 70 – 71. Sjömeistarasagan, bls. 48 – 49. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 45.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 70 – 71:

Hann var gráti nær, þegar Halldór strauk eitt kvöld austur á Kolviðarhól sér til skemmtunar og sat þar veðurtepptur næturlangt í stað þess að grúfa sig niður yfir Oldnordisk, kennslubók eftir danskan málfræðing, Ludvig Wimmer. Þeir Halldór, Tómas og Sigurður lásu þá bók af aðdáun, þótt meginboðskapur hennar væri, að íslenska hefði ekki verið til í fornöld, heldur fornnorræna, „oldnordisk,“ sem hefði verið sameiginleg tunga á dönsku eyjunum, Noregi og Íslandi. Nútímaíslenska væri líka eins konar mállýska.

 

Bók Halldórs, Sjömeistarasagan, bls. 48 – 49:

... hann var gráti nær ef lærisveinn hans strauk austurá Kolviðarhól sér til skemtunar að kvöldlagi og sat þar kanski veðurteptur í öskubyl næturlángt að spila uppá penínga við bílstjórann, í stað þess að lesa Wimmer. Sigurður Guðmundsson var þesskonar íslenskukennari, að þó hann væri ófríður maður, þá var hann uppljómaður og í rauninni forkláraður, einsog sagt er á biflíumáli, af djúpum og innilegum skilníngi sínum á þeim forntextum sem að vísu verða fundnir í Wimmer; og þessari hrifníngu miðlaði hann okkur strákum svo við höfðum aldrei lifað aðra eins dýrð og læra Wimmer. Sjaldan hefur nokkur bók, sem í grundvallaratriðum er eins innilega illmúruð í garð íslendínga og kenslubók Wimmers í Oldnordisk, verið lesin af jafnmikilli aðdáun af sönnum íslendíngum einsog og okkur Tomma og Sigga undir handleiðslu Sigurðar meistara Guðmundssonar. Grundvallartilgángur þessa óskammfeilna rits var að sanna að íslenska hefði ekki verið til í fornöld, allrasíst á bókum, heldur aðeins Oldnordisk sem átti að hafa verið einhverskonar sameiginlegt túngumál á dönsku eyunum, Noregi og slíkum plássum, minnir mig. Sömuleiðis gat Wimmer og hans menn í Danmörku sannað að nútímaíslenska væri nokkurskonar málíska handa aplafylum.

 

 

41.     „Bók stefnda, bls. 71. Sjömeistarasagan, bls. 77. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 46.“

Bók gagnáfrýjanda, bls. 71:

Halldór samdi grein um „Dagbækur og búreiknínga“, sem birtist í Vísi mánudaginn 10. desember 1917. Þar brýndi hann fyrir bændum að láta eftir sig eitthvað til endurminninga og húsfreyjum að halda vel á. Húsráðandinn á Laugavegi 28, Árni kaupmaður, var ekki hrifinn af slíkum skrifum. En hann þurfti að drekka sig vel hýran til að segja svo. Um kvöldið talaði hann við borðið um kjaftagang ungmenna í dagblöðunum, stóð síðan upp, áður en máltíð var lokið, og kastaði Vísi framan í Halldór. Hann sagði um leið, að allt, sem börn skrifuðu í blöðin, væri foreldrum þeirra til skapraunar og hneisu.

 

Bók Halldórs, Sjömeistarasagan, bls. 77.

... nokkru áður en ég hvarf úr skóla samdi ég umvandandi grein í Vísi um Dagbækur og Búreiknínga og brýndi fyrir bændum að láta eftir sig eitthvað í endurminníngaformi og húsfreyur að halda vel á. Húsbóndinn, Árni minn Einarsson, var ekki beint hrifinn af svona skrifum; en hann þurfti að drekka sig meiren vel hýran til að segja svo. Um kvöldið talaði hann við borðið um kjaftagáng úngmenna í dagblöðunum; stóð síðan upp áður en máltíð var lokið og kastaði Vísi framaní mig, segjandi um leið að alt sem börn skrifuðu í blöðin væri foreldrum þeirra til skapraunar og hneisu.

 

 

42.     „Bók stefnda, bls. 71 – 73. Sjömeistarasagan, bls. 78 – 83. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. (2 tilvik A og B). Sjá dskj. nr. 47.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 71 – 73:

A. Skömmu síðar kom Halldór heim seint um kvöld. Það var kaffiilmur í eldhúsinu. Ráðskonan María Kokkilsdóttir, lauk upp dyrunum, þegar hún heyrði til Halldórs í stiganum og bauð honum bolla af kaffi. Milla stóð upp við eldhúsborðið og var að tala við Maríu. Halldór settist á eldhúskollinn hjá þeim. Meðan hann sötraði kaffið tóku þær aftur upp hjal sitt, þar sem hlé hafði orðið við gestkomuna. Milla var ekki í upphlut, heldur hversdagskjól og í kápu utan yfir, með bláan silkiklút í hendinni, berhöfðuð. Halldór spurði: „Hvar er Dóra?“ Milla svaraði: „Já, svo þú ert bara svona hrifinn af Dóru,“ og hætti að tala í hljóði við Maríu. „Getur bara ekki án Dóru verið.“ Halldór spurði: „Af hverju ert þú ekki í upphlut í kvöld?“ Milla svaraði: „Það er rigning.“ María sagði: „Það er úrhellisrigning og þar að auki komið fram yfir miðnætti og kolsvartamyrkur. Þú verður að fylgja henni Millu heim, Dóri minn.“

Það týrði á götuljósum. Útmánaðahrái var í lofti, en ekki hvasst. Milla var með bláa klútinn sinn í hendinni, því að hún vildi ekki setja hann upp í rigningunni. Þau gengu lengi hlið við hlið í þögulum vandræðum. „Þú ert voðalega fyndinn,“ sagði Milla. „Ég hef aldrei þekkt neinn eins fyndinn. Og þakka þér líka fyrir greinina. Mikið afskaplega var hún góð. Og áreiðanlega alveg rétt. En þú forstöndugur, eins og pabbi segir. Ertu virkilega svona forstöndugur eins og stendur í greininni, að halda bæði dagbækur og búreikninga?“ Halldór svaraði játandi. Milla spurði: „Skrifarðu í dagbókina til að mynda: Í kvöld fylgdi ég Millu heim?“ Halldór kvað aftur já við. Milla spurði: „Og skrifar hjá þér hvern eyri, sem þú lætur úti?“ Halldór kinkaði kolli. Milla hélt áfram: „Allir, sem ég hef talað við, segja, að þetta hafi verið svo góð grein.“ Halldór sagði: „Ekki þótti nú Árna Einarssyni í Frón það. Hann gaf mér á hann með Vísisblaðinu sem greinin var í.“ Milla spurði: „Og hvað sagðirðu við karlinn? Varðstu ekki voðalega reiður?“ Halldór svaraði neitandi og sagði: „Ég vissi sjálfur að það var ekki satt orð í greininni. Mér hefur aldrei á ævinni dottið í hug að halda dagbók um sjálfan mig. Og því síður halda búreiknínga. Ef fyrir kemur ég eignist krónu hendi ég henni strax.“1 Þau höfðu gengið nokkrar húslengdir niður Laugaveginn. Milla nam staðar og tók um höndina á Halldóri í hellirigningunni og myrkrinu og hló, svo að hún kiknaði í hnjánum. Hún sagði: „Mikill voðalegur prakkari geturðu verið! Mikið voðalega er ég fegin að þú skulir ekki hafa meint þetta bull.“

Síðan héldust þau Halldór og Milla í hendur upp Klapparstíginn og beygðu austur Njálsgötu, þar sem Milla átti heima í litlu bárujárnsklæddu timburhúsi. Þau leiddust ekki undir hönd, heldur hönd í hönd eins og börn. Halldór fann, eins og hann sagði síðar, hvað Milla var miklu meiri stúlka í sér en hann piltur. Þau gátu ekkert sagt og ekki heldur hætt að haldast í hendur í rigningunni. Það rigndi á heita fingur þeirra samtvinnaða. Þau höfðu bæði mikinn hjartslátt. Þegar þau voru komin að húsi Millu, vildi Halldór rjúfa sambandið. „Veistu ekki að ég er að fara?“ sagði hann. „Fara? Hvurt?“ spurði hún hissa. „Burt,“ sagði Halldór. „Guð minn góður, drengur, veistu ekki, hvurt þú ætlar? Vonandi ferðu ekki þangað sem þú þekkir engan,“ sagði Milla. „Jú einmitt,“ sagði Halldór. „Get ég nokkuð gert?“ spurði Milla. „Nei,“ sagði Halldór. „Dóra kannski?“ sagði Milla. „Ekki heldur,“ sagði Halldór. „Þá hlýturðu að eiga ríkan pabba,“ sagði Milla. „Já ef ég er ekki búinn að gera hann fátækan,“ sagði Halldór. „Á hverju ætlarðu að lifa?“ spurði Milla. „Ég er að hugsa um að gera dálítið,“ sagði Halldór. „Þú ert ekki nema fimmtán ára. Ég er viss um, að ég gæti hjálpað þér. Hvað gætum við gert? Og hvað hefur þú hugsað þér að gera?“ sagði Milla.

B. Halldór hafði í æsku lesið grein í Heimdalli, tímariti Íslendinga í Kaupmannahöfn, um landkönnuðinn Davíð Livingstone, sem fór langt inn í svörtustu Afríku. „Það starf sem ég gæti hugsað mér væri að leita að upptökum Nílar.“

 

Bók Halldórs, Sjömeistarasagan, bls. 78 – 83:

A. Þó myrkt væri af kvöldi og liðið nær miðnætti var kaffiilmur hjá Maríu Kokkilsdóttur í eldhúsinu, og hún lauk upp hurðinni þegar hún heyrði til mín í stiganum og bauð mér bolla af kaffi. Milla stóð uppvið eldhúsborðið og var að tala við konuna. Ég settist á eldhúskollinn hjá þeim. Meðan ég var að sötra kaffið tóku þær aftur upp hjal sitt þar sem hlé hafði orðið við gestkomuna. Hún var ekki í upphlut, heldur hvundagskjól og kápu utanyfir, með bláan silkiklút í hendinni, berhöfðuð.

Hvar er Dóra, sagði ég til að láta þær hætta pískrinu.

Já svo þú ert bara svona hrifinn af Dóru, sagði stúlkan og hætti að tala í hljóði við konuna. Getur bara ekki án Dóru verið.

Af hverju ert þú ekki í upphlut í kvöld? spurði ég.

Það er rigníng, sagði hún.

Þá segir María Kokkilsdóttir: Það er úrhellisrigníng og þaraðauki komið frammyfir miðnætti og kolsvartamyrkur. Þú verður að fylgja henni Millu heim Dóri minn.

Svo átti að heita að týrði á götuluktum; það var ekki beint hvast en útmánaðahrái í lofti. Hún var með bláa klútinn sinn í hendinni af því hún tímdi ekki að setja hann upp í rigníngunni.

Við geingum leingi hlið við hlið í þögulum vandræðum einsog piltur og stúlka geta komist í.

Er það satt þú sért hættur í skóla, sagði hún.

Já, sagði ég.

Þú ert voðalega fyndinn, sagði hún. Ég hef aldrei þekt neinn eins fyndinn. Og þakka þér líka fyrir greinina þína. Mikið afskaplega var hún góð. Og áreiðanlega alveg rétt. En þú forstöndugur, einsog pabbi segir. Ertu virkilega svona forstöndugur einsog stendur í greininni, að halda bæði dagbækur og búreiknínga?

Já, sagði ég.

Skrifarðu í dagbókina tilamunda „í kvöld fylgdi ég Millu heim“?

Já, sagði ég.

Og skrifar hjá þér hvern eyri sem þú lætur úti?

Já, sagði ég.

Allir sem ég hef talað við segja að þetta hafi verið svo góð grein, sagði hún. Og það var áreiðanlega alveg afskaplega góð grein.

Ekki þótti nú Árna Einarssyni í Frón það, sagði ég. Hann gaf mér á hann með Vísisblaðinu sem greinin var í.

Og hvað sagðirðu við kallinn? Varðstu ekki voðalega reiður?

Nei, sagði ég. Ég vissi sjálfur að það var ekki satt orð í greininni. Mér hefur aldrei á ævinni dottið í hug að halda dagbók um sjálfan mig. Og því síður halda búreiknínga. Ef fyrir kemur ég eignast krónu hendi ég henni strax.

Hún nam staðar og tók um höndina á mér í hellirigníngunni og myrkrinu og hló svo hún kiknaði í hnjánum, og sagði: mikill voðalegur prakkari geturðu verið. Mikið voðalega er ég fegin að þú skulir ekki hafa meint þetta bull.

Við höfðum geingið nokkrar húsleingdir niður Laugaveginn, síðan héldumst við í hendur upp Klapparstíginn og beygðum síðan austrá Njálsgötu þar sem hún átti heima í litlu timburhúsi með bárujárni. Við leiddumst ekki undir hönd heldur hönd í hönd einsog börn, og ég fann hvað hún var miklu meiri stúlka í sér en ég piltur, og þaraðauki búin að gera mig beran að lygum og hræsni í blöðunum.

Við gátum ekkert sagt og ekki heldur hætt að haldast í hendur í rigníngunni. Ég er viss um að við höfum haft meiren lítinn hjartslátt als, bæði til samans. Það rigndi á heita fíngur okkar samtvinnaða. En bráðum var þetta búið. Ég vissi svona hérumbil hvar hún átti heima á Njálsgötunni. Það voru ekki tök til að draga á lánginn það sem þurfti að segja.

Ég varaðist að nefna nafn hennar, því við höfðum aldrei verið kynt; og fyrir bragðið sá ég mér ekki annað sýnna en segja formálalaust það sem mér var efst í hug: Veistu ekki að ég er að fara?

Fara, spurði hún hissa. Hvurt?

Burt, sagði ég.

Guð minn góður dreingur, veistu ekki hvurt þú ætlar? Vonandi ferðu ekki þángað sem þú þekkir aungan.

Jú einmitt, sagði ég.

Get ég nokkuð gert?

Nei.

Dóra kanski?

Ekki heldur.

Þá hlýturðu að eiga ríkan pabba.

Já ef ég er ekki búinn að gera hann fátækan.

Á hverju ætlarðu að lifa?

Ég er að hugsa um að gera dálítið, sagði ég.

Þú ert ekki nema sextán ára, sagði hún. Ég er viss um ég gæti hjálpað þér. Dóra líka. Hvað gætum við gert? Og hvað hefur þú hugsað þér að gera?

Það starf sem ég gæti hugsað mér væri að leita að upptökum Nílar, sagði ég.

B.Við þennan draum voru endurminníngar blandnar úr Heimdalli, tímariti íslendínga í Kaupmannahöfn 1884, og var í bókaskápnum heima. Ég fletti þessari bók árum saman eftir að ég lærði að lesa, og það var áreiðanlega mér að kenna að hún var öll orðin í blöðum; auk þess sem ég kunni hana utanbókar mikinn part. Í þessari bók var meðal annars sagt frá Davíð Livingstone sem sendur var til Afríku að leita að upptökum Nílar.

 

 

43.     „Bók stefnda, bls. 84 – 85. Sjömeistarasagan, bls. 39 – 45. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. (2 tilvik A og B). Sjá dskj. nr. 48.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 84 – 85:

A. Óðar en Halldór náði sér af spænsku veikinni, hringdi hann heim í Laxnes til að spyrja um heilsufar þar á bæ. Hvorki móðir hans né amma höfðu lagst og ekki heldur próventukarlinn á heimilinu, Magnús úr Melkoti. Vinnufólkið hafði hins vegar flest veikst. Halldór vildi skreppa upp að Laxnesi, en allt var gengið úr skorðum í bænum. Farartæki sáust varla á götum. Halldór leitaði til Þorleifs Andréssonar í Pípugerðinni, sem bjó á Barónsstíg og var vinur föður hans. Hann átti hesta. Hélt Halldór upp að Laxnesi á einum hesta hans. Þetta var frostleysudagur í svartaskammdegi. Guðjón, faðir Halldórs, var gugginn og óstyrkur, fámáll að venju. Hann hafði orðið að ganga í flest verk vinnufólksins í veikindum þess. Það var honum áreynsla, því að hann var ekki sterkur fyrir. Guðjón spurði son sinn tíðinda af námi. Halldór sagðist ýmist skrópa eða vera aðgerðarlaus í mörgum námsgreinum, af því að sér fyndust þær toga sig í öfuga átt við takmark sitt. En í þeim greinum, sem sér væru hugleiknar, fengist ekki kennsla, sem því nafni gæti heitið. Til dæmis væri kennslubókin í sögu „eitthvert næfurþunnt hefti eftir danskan hálfvita sem heitir Múnk“. Halldór sagði: „Svona bækur eru ekki til annars nýtar en rífa þær í tætlur og hnoða úr þeim bréfkúlur að henda í hausinn á kennurum sem láta sér sæma að dreifa út svona eymdarfarángri.“ Halldór sagði föður sínum, að hann væri ekki heldur hrifinn af enskukennslunni. Í stað þess að lesa rit Dickens eins og þau legðu sig væru mönnum fengnar „einhverjar tilraunir í pelabarnaensku eftir danskan fáráðlíng“. Halldór sagðist hins vegar hafa gaman af latneskri málfræði. Hann væri ráðinn í því að læra latínu vel, því að það mál lyki upp miðöldunum fyrir Íslendingum.

B. Guðjón bóndi horfði rólega á Halldór og hlustaði þolinmóður á hann. „Það er ekki nema eitt sem ég óttast með hrolli,“ sagði Halldór, „og það er að eiga nú að gleypa allt skólakerfið einsog það leggur sig, með þeirri afneitun frjálsrar mannlegrar hugsunar, sem þar fylgir, uns þar kemur að maður stendur uppi sem – ja hvað? Kanski prófessor.“ Guðjón sagði: „Svo þér líst ekki á að fara varðaða leið, Dóri minn. Ég hélt, að þekking af hvaða tagi sem er kæmi rithöfundum í góðar þarfir.“ Halldór sagðist vilja varða sjálfur sinn veg. Hann væri að skrifa skáldsögu, og hún kæmi fyrst, síðan skólinn. Hver stund, sem sér ynnist, færi til þess að hreinrita söguna, sem héti Barn náttúrunnar. Allt annað yrði að mæta afgangi. Þá sagði Guðjón syni sínum sögu um bónda fyrir austan. Hann var mikill bókamaður og höfundur Sjömeistarasögunnar. Einhvern tíma á túnaslætti eftir langan rosakafla var allt í einu komið á norðan með sólfari og brakþerri á blauta töðuna. Allir kepptust við að breiða og snúa til að fá þurrkað sem mest, áður en kæmi á aftur. En þegar liðið var á dag og heyhirðing stóð sem hæst, kastaði bóndi frá sér hrífunni og hljóp inn í bæ, um leið og hann mælti: „Einhvers þarf Sjömeistarasagan við.“8 Halldór sagði, að eins væri raunar komið fyrir sér og höfundi Sjömeistarasögunnar. „Nú er svo lángt komið,“ sagði hann, „og bók mín er byrjuð að rísa.“ Guðjón sagði: „Kannski lofarðu mér einhvern tíma að glugga í handritið að bókinni þinni mér til gamans.“ Halldór sagðist vera með handritið í hnakktösku sinni. Það væri þó ekki prenthæft. Guðjón sagði, að það gerði ekki til. „Hvað er prenthæft lesmál, Dóri minn? Er það ekki bara texti, sem setjaranum tekst að stauta sig fram úr?“ Guðjón tók handritið og las um nóttina. Morguninn eftir sagði hann syni sínum, að öll dugandi skáld á Íslandi hefðu gengið menntaveginn, þótt þau hefðu ekki öll tekið góð próf. „Ekki Egill Skallagrímsson,“ sagði Halldór. „Kannski ekki,“ svaraði Guðjón. „En sá, sem setti saman söguna um Egil, er maður, sem þér er óhætt að taka þér til fyrirmyndar, ef þú ætlar að verða skáld.“ Hann hélt á handritinu, á meðan þeir töluðu saman um morguninn, og slétti með handarjaðrinum úr svínseyrunum á blöðunum. „Leist þér illa á þetta?“ spurði Halldór. Guðjón svaraði: „Það er kvæði inni í miðri sögu. Ég staldraði við það. Það minnir mig á „Stóð ég úti í tunglsljósi“. Viltu lesa fyrir mig síðustu vísuna í þessu kvæði.“ Halldór fór með vísuna:

 

Já það er sælt að sofna

og svífa í draumlönd inn.

Dáið er alt án drauma

og dapur heimurinn.

 

„Þetta er þekkileg vísa,“ sagði Guðjón. „Ég vissi alltaf þú værir dálítið hagmæltur, Dóri minn.“ Hann rétti syni sínum handritið og minntist ekki frekar á bókina.

 

Bók Halldórs, Sjömeistarasagan, bls. 39 – 45:

A. Óðar en ég fór að ná mér hríngdi ég heim að spyrja um heilsufar. Móðir mín hafði ekki sýkst, amma mín ekki heldur né próventukallinn okkar hann Magnús í Melkoti. ... En vinnufólkið hafði flest orðið veikt og varð faðir minn að gánga í verk þess utanhúss, og reyndi að fylgja fötum um miðjan daginn þó sjálfur væri hann maður ekki heill. ...

Bæarlíf í Reykjavík var alt úr greinum geingið eftir pláguna; sáust varla farartæki á götu utan líkvagnar; ... Mér datt í hug Þorleifur í Pípugerðinni, kunníngi föður míns og átti reiðhesta; bjó á Barónsstíg. Þetta var frostleysudagur í svartaskammdeginu. Faðir minn var gugginn og óstyrkur, lítt talaður; ... Hann spurði mig tíðinda af námi ... Ég sagði föður mínum sem var að ég ýmist skrópaði eða væri aðgerðarlaus í mörgum námsgreinum af því mér fyndist þær toguðu mig í öfuga átt við takmark mitt; en í þeim námsgreinum sem mér væru hugleiknar feingist ekki kensla sem því nafni gat heitið; tilamunda var gert ráð fyrir því að ég ... ætti nú að fara að fletta einhverju næfurþunnu hefti eftir danskan hálfvita sem hét Múnk; svona bækur voru ekki til annars nýtar en rífa þær í tætlur og hnoða úr þeim bréfkúlur að henda í hausinn á kennurum sem létu sér sæma að dreifa út svona eymdarfarángri. ... Sömuleiðis sagði ég við föður minn að í staðinn fyrir að lesa Dickens einsog hann lagði sig á ósvikinni ensku, þá væru manni í þessum skóla feingnar einhverjar tilraunir í pelabarnaensku eftir danskan fáráðlíng og fældi fólk frá ensku. Hinsvegar þætti mér gaman að latneskri málfræði, sagði ég ... væri ég í því ráðinn að læra latínu amk eins vel og íslensku, því þetta mál lyki upp miðöldunum fyrir okkur íslendíngum, ...

B. Faðir minn ... horfði rólega á mig; ... Ég vissi ekki fyr til en ég var farinn að segja að ekki væri nema eitt sem ég óttaðist með hrolli, og það var að eiga nú að gleypa alt skólakerfið hrátt einsog það lagði sig, með þeirri afneitun frjálsrar mannlegrar hugsunar sem þar fylgdi, uns þar kæmi að maður stæði uppi sem – ja hvað? Kanski prófessor.

Svo þér líst ekki á að fara varðaða leið Dóri minn, sagði hann. Ég hélt að þekkíng af hvaða tæi sem er kæmi rithöfundi í góðar þarfir.

Ég sagðist vilja varða sjálfur minn veg.

Og af því faðir minn var auðveldur í hugsun og þægilegur í tali, ... þá lét ég goppast uppúr mér að Barn náttúrunnar kæmi fyrst, síðan skólinn. Ég sagði að hver stund sem mér ynnist næði færi til þess að hreinrita þó ekki væri nema eina eða tvær línur í senn af Barni náttúrunnar. Annað varð að mæta afgángi.

Hann sagði mér þá sögu um bónda fyrir ustan, mikinn bókabéus ... einkum um kotúnga og fáráðlínga; sá var höfundur Sjömeistarasögunnar. Einhverntíma á túnaslætti eftir lángan rosakafla var hann altíeinu kominn á norðan með sólfari og brakþerri á blauta töðuna, og allir keptust við að breiða og snúa til að fá þurkað sem mest áður en kæmi á aftur. En þegar liðið var á dag og heyhirðíngin stóð sem hæst kastaði bóndi frá sér hrífunni og hljóp inní bæ svo mælandi: Einhvers þarf Sjömeistarasagan við.

Þá sagði ég föður mínum einsog var, að í rauninni væri akkúrat svona komið fyrir mér: ... Nú var svo lángt komið, sagði ég, að bók mín var byrjuð að rísa, ...

Kanski lofarðu mér einhverntíma að glugga í handritið af bókinni þinni mér til gamans, sagði hann.

Ég sagði þá sem var, að eitthvað af þessu krábulli væri ég með í hnakktösku minni; ekkert þó prenthæft. Hann sagði það gerði ekki til, ... Hvað er prenthæft lesmál Dóri minn? Er það ekki bara texti sem setjaranum tekst að stauta sig frammúr?

Hann hafði þetta krabb mitt hjá sér til morguns. Ég er næstum viss að hann las pródúktið um nóttina. En í stað þess að fara að fjasa um bókina byrjaði hann að segja mér að öll dugandi skáld hér á Íslandi hefðu geingið mentaveginn þó þau hefðu kanski ekki öll tekið há próf.

Ekki Egill Skallagrímsson, sagði ég.

Kanski ekki, sagði hann. En sá sem setti saman söguna um Egil er maður sem þér er óhætt að taka þér til fyrirmyndar ef þú ætlar að verða skáld.

Hann hélt á handritsgreyinu mínu á meðan við vorum að tala saman um morguninn og slétti með handarjaðrinum úr svínseyrunum á blöðunum meðan hann mælti við mig. ...

Leist þér illa á þetta? spurði ég.

Hann sagði: Það er kvæði inní miðri sögu; ég staldraði við það. Það minnir mig á Stóð ég útí túnglsljósi. Viltu lesa fyrir mig síðustu vísuna í þessu kvæði.

Ég fór með vísuna:

 

Já það er sælt að sofna

og svífa í draumlönd inn.

Dáið er alt án drauma

og dapur heimurinn.

 

Þetta er þekkileg vísa, sagði hann. Ég vissi altaf þú værir dálítið hagmæltur Dóri minn.

Hann mintist ekki á staf í bókinni utan þessa vísu, en rétti mér handritið með andvara.

 

 

44.     „Bók stefnda, bls. 92 – 93. Sjömeistarasagan, bls. 147 – 151. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. (3tilvik A, B og C). Sjá dskj. nr. 49.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 92 – 93:

A. Skólavarðan stóð, þar sem Hallgrímskirkja er nú. Hún var ferstrendur turn úr kalki og grjóthnullungum. Í nágrenni hennar var lítið um jarðveg, en miklar klappir og lyngskákir á milli þeirra.

B. Halldór gekk þar iðulega fram hjá frakkaklæddum manni með hatt. Hann komst að því, að maðurinn gerði lítið annað en ganga í kringum vörðuna frá morgni til kvölds. Halldór tók ætíð ofan fyrir honum, en maðurinn lést ekki sjá hann, þangað til einn daginn, að hann tók kveðju hans, nam staðar og gekk til Halldórs með hattinn í hendinni. Hann sagðist hafa heyrt, að Halldór væri stórgáfaður maður ofan úr Mosfellssveit. „Nú ætla ég að leggja fyrir yður eina spurningu, sem ég hef lagt fyrir marga hámenntaða menn,“ sagði hann. „Og ég skal segja yður fyrirfram, að ég dæmi menn algerlega upp á lífstíð, ef þeir svara henni ekki rétt: Með leyfi, er ypsilon í yður?“ Halldór svaraði kurteislega: „Það fer nú eftir því hverskonar iður þér eigið við.“ Þótt maðurinn þakkaði svarið, stríkkaði á honum. Hann setti upp hattinn, sneri sér snúðugt við og gekk burt. Næst þegar Halldór átti leið um, kom maðurinn á móti honum, tók snöggt ofan og sagði í embættistón: „Ég hef lagt fyrir yður að svara mér: Á að vera ypsilon í iður?“ Halldór varð ögn smeykur, enda maðurinn bersýnilega bilaður á geði. Hann svaraði þó: „Ef þér eigið við blómursiður, nei; annars kanski.” Í þriðja sinn, nokkrum dögum seinna, skálmaði maðurinn á móti honum með hattinn á höfði og hvessti á hann augun. „Eruð þér að hlæja að mér?“ spurði hann. „Þér eruð bjáni. Ég læt yður ekki mokka mig.“

C. Á tíðum göngum upp Skólavörðustíginn mætti Halldór ósjaldan horaðri konu, sem virtist búa á Kárastíg. Hún var klædd eins og sígauni, í dagtreyju og sítt léreftspils og með prjónahúfu á höfði. Hún hafði aldrei yrt á Halldór, þegar hún vék sér eitt sinn skyndilega að honum og spurði: „Vitið þér, að píslarvottarnir þurfa ekki að rísa upp á dómsdegi?“ Halldóri hugkvæmdist ekki annað svar en það, sem hann hafði lært af prestinum í Mosfellssveit: „Já hvur röndóttur.“ Konan fór þá að tala og bar ört á: Píslarvottarnir færu beint upp í himininn, eftir að þeir hefðu skilið við, og sama gilti um Lúter. Hún hefði heyrt, að páfanum yrði líka hleypt strax inn. Sjálf þyrfti hún hins vegar sennilega að bíða í gröf sinni, uns lúður gylli á dómsdegi. „Eigum við ekki heldur að tala um eitthvað fréttnæmt úr bænum frú?“ sagði Halldór vingjarnlega. „Bænum, hvaða bæ?“ spurði konan ringluð. „Ég á við hvort við ættum ekki heldur að tala um þennan heim frú,“ sagði Halldór. Þá umhverfðist konan, stappaði niður fæti framan í Halldór, sagði: „Drulla og andskoti“, skyrpti og gekk leiðar sinnar.1

 

Bók Halldórs, Sjömeistarasagan, bls. 147 – 151:

A. Skólavarðan, þar sem Hallgrímskirkja stendur núna, var ferstrendur turn úr kalki og grjóthnullúngum ... Hér var lítið um jarðveg, enda gróður að því skapi; en ...

B. Tilamunda var frakkaklæddur maður með hatt að gánga um gólf á ísaldarklöppunum hjá Skólavörðu. Ég gekk framhjá honum og ... þegar ég kom til baka eftir þó nokkra stund var hann enn að gánga kríngum Skólavörðu. Mér þótti viðkunnanlegra að lyfta ögn frollunni minni um leið og ég gekk framhjá honum; en hinn ókunni maður lét sem ekkert væri. Ég komst að því að hann var á gángi hrínginn í kríngum þessa vörðu allan daginn frá morgni til kvölds í heilsubótarskyni. ...

... En einmitt þennan dag fruktaði hann fyrir mér að fyrra bragði; meira að segja staldraði við til að leggja áherslu á athöfnina, gekk síðan í átt til mín með hattinn í hendinni. Hann sagðist hafa heyrt ég væri stórgáfaður maður ofanúr Moskó, ...

Nú ætla ég að leggja fyrir yður eina spurníngu sem ég hef lagt fyrir marga hámentaða menn, sagði hann. Og ég skal segja yður fyrirfram að ég dæmi menn algerlega uppá lífstíð ef þeir svara henni ekki rétt: Með leyfi, er ypsilon í yður?

Það fer nú eftir því hverskonar iður þér eigið við, sagði ég.

Takk fyrir, sagði hann og stríkkaði á honum; hann setti upp hattinn, sneri sér snúðugt við og rixaði burt.

Næst þegar ég átti þarna leið kom hann á móti mér og tók snögt ofan hattinn og sagði í embættistón: Ég hef lagt fyrir yður að svara mér: á að vera ypsilon í iður?

Ég varð ögn smeykur en svaraði þó eftir bestu samvisku: Ef þér eigið við blómursiður, nei; annars kanski.

Í þriðja sinn, nokkrum dögum seinna, var hann bersýnilega ekki búinn að fá botn í þetta mál. Hann skálmaði á móti mér með hattinn á höfðinu og hvesti á mig augun: Eruð þér að hlæa að mér? spurði hann. Þér eruð bjáni. Ég læt yður ekki mokka mig.

C. Á Skólavörðustígnum ofarlega mætti ég stundum horaðri konu á mornana; ég held hún hafi átt heima á Kárastígnum; hún var í dagtreyu og síðu léreftspilsi einsog sígaunar á myndum, ... Á höfðinu bar hún prjónahúfu sem var í laginu einsog nátthúfur ... Ég var búinn að mæta henni þó nokkrum sinnum þegar hún byrjaði við mig kunníngskap, ... nú snarvék hún að mér og spurði úr djúpum sálar sinnar ...

... Vitið þér að píslarvottarnir þurfa ekki að rísa upp á dómsdegi?

...

Konan fór þá að tala, og bar ört á, ... hún sagði mér að þessi tiltekna stétt sem hún hafði nefnt mundi fara beint uppí himininn þegar þeir dæu: Þeir eru látnir skopa skeið yfir píslirnar í helvíti; og sama er að segja um Lúter.

... það sem konan óttaðist þó mest var að hún hafði frétt að páfanum mundi líka verða hleypt í gegn strax. Áhyggjur konunnar stöfuðu einkum af því að með slíku fyrirkomulagi mundi hún verða ein þeirra sem þyrftu að bíða í gröf sinni uns lúður gylli á dómsdegi.

Eigum við ekki heldur að tala um eitthvað fréttnæmt úr bænum frú, sagði ég.

Bænum, hvaða bæ? spurði þessi rínglaða kona.

Ég á við hvort við ættum ekki heldur að tala um þennan heim frú, sagði ég.

Þá umhverfðist konan, stappaði niður fætinum framaní mig einsog reið sauðkind og sagði: drulla og anskoti, - skyrpti og gekk leiðar sinnar.

 

 

45.     „Bók stefnda, bls. 95. Sjömeistarasagan, bls. 211 – 212. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 50.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 95:

Halldóri var vísað inn á skrifstofu Jóns. „Hvað get ég gert fyrir yður?“ spurði lögreglustjóri. Halldór sagðist vera að leita leyfis til að lesa upp úr nýrri bók sinni í Bárubúð á laugardagskvöldið kæmi. „Úr nýrri bók,“ sagði Jón. „Hm. Á laugardagskvöldið, já. Í Bárunni. Það er það. Gerið svo vel.“ Daginn eftir var Halldór á gangi skammt frá lögreglustöðinni. Þá gekk lögreglustjóri fram hjá honum, klæddur í síðan frakka og með ljósgráan hatt bryddaðan á börðunum. Hann nam staðar, ræskti sig fyrir aftan Halldór og spurði, þegar Halldór sneri sér við: „Á að spila músík á eftir?“ Halldór svaraði neitandi. „Þá er þetta komið í lag,“ sagði lögreglustjóri. „Reyndar gerir ekkert til, þó það sé músík. En á að dansa?“ Halldór svaraði: „Það á ekki heldur að dansa.“ Sagði þá lögreglustjóri: „Gerið þér svo vel.“ Hann lyfti hatti sínum og hélt leiðar sinnar.

 

Bók Halldórs, Sjömeistarasagan, bls. 211 – 212:

Og þegar mér var vísað inní skrifstofu hans á lögreglustöðinni gekk ég til hans og sagði til nafns. Hann heilsaði mér að vísu ekki, en með viðbragði sem ekki var fráhrindandi gaf hann í skyn að hann kannaðist við mig: hvaða get ég gert fyrir yður? Ég spurði formálalaust hvort ég mætti lesa þátt eftir mig úr nýrri bók í Bárubúð núna á laugardagskvöldið kemur. ...

Úr nýrri bók, segir hann. Hm. Á laugardagskvöldið já. Í Bárunni. Það er það. Gerið svo vel.

En daginn eftir var ég á gángi ekki lángt frá lögreglustöðinni, og þá er þessi stóri maður þarna á gángi aftur í þessum síða frakka og með ljósgráa hattinn bryddaða á börðunum. Hann skundar leiðar sinnar framhjá mér ... En þegar hann hefur fjarlægst mig nokkur skref, man hann altíeinu eftir dálitlu og ræskir sig fyrir aftan mig; og þegar ég sný mér við fer hann lauslega með fíngur uppað hattinum og kallar:

Á að spila músík á eftir?

Nei, segi ég.

Þá er þetta komið í lag, segir hann. Reyndar gerir ekkert til þó það sé músík. En á að dansa?

Það á ekki heldur að dansa, segi ég.

Gerið þér svo vel, sagði hann.

Lögreglustjórinn var ánægður með mig og lyfti hattinum tæpan þumlúng, hélt síðan leiðar sinnar ...

 

 

46.     „Bók stefnda, bls. 99. Sjömeistarasagan, bls. 109 – 112. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 51.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 99.

Halldór lagði leið sína í Félagsprentsmiðjuna. Forstjóri hennar, Steindór Gunnarsson, var spengilegur maður, rösklega þrítugur, fattur, ljóslitaður og alger bæjarmaður í fasi og háttum. Hann var upphaflega prentari, en bróðir hans, Þorleifur, var bókbindari og var að dunda sér á skrifstofunni, en lagði ekki til mála. Halldór spurði, hvort þeir vildu gefa út bók. Steindór spurði, hvort Halldór hefði handrit. Halldór dró handritið að Barni náttúrunnar upp úr skólatösku sinni. „Nú, skárri er það góflan,“ sagði Steindór og leit hissa á Halldór. „Hafið þér skrifað allt þetta sjálfur?“ Halldór svaraði: „Já, alt þrisvar. Sumt fjórum sinnum.“ Steindór sagði: „Ha? Þrisvar fjórum sinnum sama handritið? Sömu bókina? Nú er ég hissa. Af hverju svona oft? Og ofan úr Moskó? Vill nokkur ganga í ábyrgð fyrir yður?“ Halldór svaraði: „Ég ábyrgist mína bók.“ Steindór fletti blöðum í handritinu, meðan hann var að hugsa málið. Síðan las hann titilblaðið. „Halldór frá Laxnesi? Eruð það þér? Eruð þér sonur Guðjóns? Ástarsaga, það mátti ekki minna kosta!“ sagði hann. Hann kannaðist við föður Halldórs og sagði: „Reisti hann ekki hús á Laugaveginum og fór svo upp í sveit? Gerir hann það ekki gott?“ Halldór svaraði: „Jútakk.“ Steindór sagði: „Orðinn efnaður, er það ekki?“ Halldór sagði, að faðir sinn hefði komið sér upp góðu búi, auk þess sem hann hefði stjórnað vegalagningu fyrir landsjóð á sumrin. Þorleifur bókbindari kom að borðinu. Þeir flettu handritinu drjúga stund. Síðan fór Þorleifur út og kvaddi Halldór kumpánlega. „Þetta er nokkuð gott handrit til setningar,“ sagði Steindór upp úr skrifuðum blöðunum. „Hvergi verður mislesið orð. Kannski ég biðji hann Jakob Smára að renna yfir þetta augum fyrir mig.“ Hann lagði handritið til hliðar á borðið fyrir framan sig og bætti við: „Ég hef raunar enga peninga til að leggja í bækur. Þetta er prentsjoppa. Það er þá helst að sumrinu, á fríatíma, að fellur úr hjá okkur dagur og ekkert í vélinni, meðan við erum að bíða eftir verkefni. Þá neyðist maður stundum til að taka eitthvað inn í hjáverkum á eigin kostnað, svo ekki þurfi að loka. En það verður að vera gott. Lofið þér þessu að liggja hérna um tíma.“

 

Bók Halldórs, Sjömeistarasagan, bls. 109 – 112:

Forstjóri prentsmiðjunnar Steindór Gunnarsson var speingilegur maður, varla mikið yfir þrítugt, dálítið fattur, ljóslitaður og alger bæarmaður í fasi og háttum. Hann var upprunalega prentari, en bróðir hans Þorleifur var held ég bókbindari og ögn stórskornari. Sá var eitthvað að dunda þarna á kontórnum en lagði ekki til mála. Ég spurði hvort þeir vildu gefa út bók. Forstjórinn spurði hvort ég hefði handrit.

Ég dró ástarsöguna af Barni náttúrunnar uppúr skólatöskunni minni.

Nú skárri er það góflan, sagði prentsmiðjustjórinn og leit hissa á dreinginn. Hafið þér skrifað alt þetta sjálfur?

Já, sagði ég. Alt þrisvar. Sumt fjórum sinnum.

Ha, sagði prentsmiðjustjórinn: þrisvar fjórum sinnum sama handritið? Sömu bókina! Nú er ég hissa. Af hverju svona oft? Og ofanúr Moskó? Vill nokkur gánga í ábyrgð fyrir yður?

Ég ábyrgist mína bók, sagði ég.

Hann fletti blöðum í handritinu ögn yfirborðslega meðan hann var að hugsa málið. Síðan las hann titilblaðið: Halldór frá Laxnesi? Eruð það þér? Eruð þér sonur Guðjóns? Ástarsaga, það mátti ekki minna kosta!

Jújú, hann kannaðist sosum við föður minn – reisti hann ekki hús á Laugaveginum og fór svo uppí sveit? Gerir hann það ekki gott?

Jútakk.

Orðinn efnaður, er það ekki?

...

Ég mun hafa bætt því við að faðir minn hefði komið sér upp góðu búi auk þess sem hann hefði frammeð búskapnum stjórnað vegalagníngu fyrir landsjóð á sumrin í öllum landsfjórðúngum síðan laungu áður en ég fæddist.

Þorleifur bókbindari kom að borðinu forstjórans og þeir flettu handritinu góða stund. Síðan fór bókbindarinn út og kvaddi mig furðu kumpánlega.

Þetta er nokkuð gott handrit til setníngar, sagði prentsmiðjustjórinn uppúr skrifuðum blöðunum. Hvergi verður mislesið orð. Kanski ég biðji hann Jakob Smára að renna yfir þetta augum fyrir mig.

Síðan leggur hann handritið til hliðar á borðið fyrir framan sig og bætir við:

Ég hef raunar aunga penínga til að leggja í bækur. Þetta er prentsjoppa. Það er þá helst að sumrinu, á fríatíma, að fellur úr hjá okkur dagur og ekkert í vélinni meðan við erum að bíða eftir verkefni. Þá neyðist maður stundum til að taka eitthvað inn í hjáverkum á eiginkostnað svo ekki þurfi að loka; en það verður að vera gott. Lofið þér þessu að liggja hérna um tíma.

 

 

47.     „Bók stefnda, bls. 116. Sjömeistarasagan, bls. 225 – 226. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 52.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 116.

Hann hafði frétt, að Guðjón, faðir hans, hefði lagst veikur í taksótt. Hann hafði ofkælst mánudagskvöldið 9. júní eftir að Halldór hitti hann, á leiðinni heim neðan úr sveit. Honum hafði dvalist við að lagfæra galla í uppslætti fyrir steypu á brú, sem átti að smíða á Suðurá. Það setti að honum við þetta verk. Hann kom sjúkur heim. Halldór hafði áhyggjur af líðan föður síns, en tók þátt í því með félögum sínum að halda útkomu Láka hátíðlega. Seint á björtu júníkvöldi gekk Halldór neðan úr bænum upp á Vegamótastíg 9. Hann sá þá, að tveir hestar stóðu undir reiða bundnir við grindverkið fyrir utan. Guðrún Skaftadóttir hafði beðið eftir honum á húsþrepunum. Hún sagði formálalaust: „Hann Sveinn í Leirvogstungu er að bíða eftir þér með bréf frá henni mömmu þinni. Hann er með hest handa þér og ætlar að fylgja þér upp eftir í kvöld.“ Í stofunni sat Sveinn Gíslason í Leirvogstungu í Leirvogi. Andlit hans var ekki með venjulegu gleðibragði, heldur strengt. Hann heilsaði Halldóri hlýlega, en þegjandi, og rétti honum bréf frá móður hans. Það hljóðaði svo:

 

Laxnesi, 19. júní 1919.

Halldór minn, faðir þinn andaðist í morgun. Mig langar, að þú komir heim.

Mamma þín.

 

Halldór reið þessa björtu júnínótt ásamt Sveini í Tungu heim til sín í Mosfellsdal.

 

Bók Halldórs, Sjömeistarasagan, bls. 225 – 226:

Á öðrum degi eftir ... bárust mér þau tíðindi að faðir minn hefði lagst veikur í taksótt. ...

Hann hafði ofkælst á sunnudagskvöldið á leiðinni heim neðanúr sveit. Honum hafði dvalist við að lagfæra galla í uppslætti fyrir steypu á brú, sem verið var að setja á hans verkstjórnarsvæði, á Suðurá. Það setti að honum um nóttina við þetta verk. Hann kom fársjúkur heim. Fréttir af veikindum föður míns héldu mér á milli vonar og ótta alla vikuna. ...

... Ég gekk neðanúr bænum frá afstöðnum hátíðahöldunum seint á björtu júníkvöldi, uppá Vegamótastíg 9. Tveir hestar stóðu undir reiða bundnir við grindverkið fyrir utan. Guðrún Skaftadóttir var að bíða eftir mér á tröppunum hjá sér, og segir við mig formálalaust: Það eru sorgarfréttir Dóri minn. Hann Sveinn í Leirvogstúngu er að bíða eftir þér með bréf frá henni mömmu þinni. Hann er með hest handa þér og ætlar að fylgja þér uppeftir í kvöld.

Í stofunni á Vegamótastíg situr þessi glaði öðlíngsmaður, trygðavinur föður míns, Sveinn í Túngu. Gleðibragðið sem í mínum augum var aðal þessa manns var horfið og ég átti erfitt með að átta mig á andliti hans svona streingdu. Hann heilsaði mér af þögulli hlýu og rétti mér bréf frá móður minni. Bréfið hafði formlega áritun og dagsetníngu.

„Laxnesi, 19. júní 1919.“ Textinn var þessi:

„Halldór minn,“ (hún hafði aldrei nefnt mig með fullu nafni fyr) „faðir þinn andaðist í morgun. Mig lángar að þú komir heim. Mamma þín.“

Þessa björtu nótt um sólstöður reið ég ásamt nágranna okkar Sveini í Túngu heim til mín í dalinn.

 

 

48.     „Bók stefnda, bls. 119. Úngur eg var, bls. 12 –14. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (2 tilvik A og B). Sjá dskj. nr. 53.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 119:

A. Fljótlega varð Halldór fyrir því óhappi, að gleraugun hrukku af honum uppi á þilfari, og brotnaði í þeim annað glerið. Fólk horfði vorkunnaraugum á unglinginn. Enginn vissi, að þetta væri rúðugler. Einn farþeginn fór til Halldórs og leit á skaðann. Hann bauðst til að lána Halldóri varagleraugu sín.

B. Þetta var gildvaxinn maður, dökkur yfirlitum, brúneygur með mikið, uppásnúið yfirskegg og postulínsgljáandi hörund, klæddur kolsvörtum frakka. Halldór hafði ekki fyrr heyrt mann hátta með slíkum erfiðismunum. Þorvaldur blés og saup hveljur og tautaði um leið ýmislegt ófagurt fyrir munni sér, að því er Halldóri heyrðist. Þegar Þorvaldur var kominn upp í, bylti hann sér, svo að brakaði í skipinu. Þó keyrði um þverbak á morgnana, þegar hann var að koma sér í fötin. Á öðrum degi spurði Halldór hann, hvort hann væri lasinn.

 

Bók Halldórs, Úngur eg var, bls. 12 – 14:

A. Nú varð ég fyrir því óhappi að þessi gleraugu hrukku af mér uppá dekki og brotnaði í þeim annað glerið. Þetta var í besta veðri og fólk horfði vorkunnaraugum á barnið safna saman brotunum, þó allir sem áhuga höfðu á því máli hefðu getað sagt sér sjálfir að þetta var rúðugler. ... Aðeins einn farþega lét svo lítið að koma til mín og líta á skaðann.

B. Þetta var þrekinn maður dökkur yfirlitum og hefði vel getað verið franskur einsog margur góður íslendíngur, brúneygur með stórt uppásnúið yfirskegg og postulínsgljái á hörundinu, klæddur kolsvörtum prestafrakka og fylgdi þeim búníngi brjóst og lausar manséttur, ...

... Ég hafði ekki fyr heyrt mann hátta með öðrum eins erfiðismunum. ... blés ... einsog hann væri að súpa hveljur oní vatni ... Á milli þess sem hann púaði eða réttara sagt frísaði, heyrði ég hann tauta með sjálfum sér eitthvað sem mér fanst ekki mjög fagurt ... Þegar hann var kominn uppí bylti hann sér svo brakaði í skipinu meðan hann var að leita að réttri legustellíngu. Þó keyrði um þverbak á mornana þegar hann var að berjast við að koma sér í fötin. Á öðrum degi spurði ég hvort hann væri lasinn.

 

 

49.     „Bók stefnda, bls. 120 – 122. Úngur eg var, bls. 18 – 29. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (7 tilvik A, B, C, D, E, F og G). Sjá dskj. nr. 54.“

 

 

 

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 120 – 122:

A. Skipið lagðist að hjá Tollbúðinni inni í miðri Kaupmannahöfn klukkan hálfsjö að morgni þriðjudagsins 5. ágúst 1919. Eftir stutta stund stóð Halldór á bryggjunni með föggur sínar, töskur og poka og kistu fulla af bókum.

B. Hann var með ólgandi ljósgult hár, heiðblátt silkislifsi út á axlir, í nýjum sjakket, gráteinóttum buxum eftir nýjustu tísku og á gulum skóm.

C. Þá ók hann á Hotel d’Angleterre við Kóngsins nýja torg, nokkrar bíllengdir í burtu, þar sem ekkert herbergi var laust heldur, síðan á Hótel Palace við Ráðhústorgið og önnur gistihús þar í grennd. Alls staðar var sama sagan. Loks tók bílstjórinn fyrir frekari keyrslur. Hann sagðist vilja frá greiðslu hér og nú og láta farþegann út. Halldór spurði, hvort hann þekkti engan, sem gæti lofað sér að vera eina eða tvær nætur. Þá gerðist bílstjórinn óðamála.

D. Hann var bjartur yfirlitum og sviphreinn, fattur með ístru og hnakkaspik og snúið upp á yfirskeggið. Hann var verkstjóri í Ørstedsparkens Kuranstalt, sem framleiddi gosdrykki. Þegar Halldór sagði, að faðir hans hefði verið verkstjóri, sagði Scheuermann: „Þá er ég föðurbróðir yðar!“ og faðmaði hann að sér.

E. „Takið þér yður snaps og skolið honum niður með Gamla Carlsberg,“ sagði Scheuermann vingjarnlega, „þá fer sjóveikin af yður.“ Halldór dreypti á snapsinum, sem minnti hann á bragðvond lyf fyrir börn. Honum svelgdist á. Þegar Scheuermann bar síðan bjórglas að vörum hans, var honum öllum lokið. Hann varð að leita að vaskinum frammi í eldhúsi. Á meðan hann kúgaðist þar, fór frúin að gráta. Hún tók nærri sér, hversu lítt gesturinn kunni að meta matargerð hennar. Eftir að grátinn lægði, spurði konan, hvort hún mætti ekki gera Halldóri eggjaköku. Halldór stundi upp úr sér, að hann hefði aðallega vanist kindakjöti heima hjá sér. Þá hló Scheuermann. „Þá sjaldan hér fæst kindakjöt, kaupum við það til að gefa hundunum, ha, ha, ha.“ 

F. Þegar Halldór gekk út að skoða borgina eftir hádegisverðinn hjá Scheuermann-hjónunum, var komin þoka, Hafnargufan, sem skáldin höfðu kveðið um.

G. Í glerskáp á veggnum hjá Høst sást, að innangengt var þaðan í prentsmiðju, þar sem fólki voru gerð nafnspjöld. Halldór leit þangað inn og pantaði sér hundrað spjöld með áletruninni: ... Nafnspjöldin voru tilbúin daginn eftir. Hann festi strax eitt á dyrnar að setustofu Scheuermann-hjónanna.

 

Bók Halldórs, Úngur eg var, bls. 18 – 29:

A. Við lögðum að hjá Tollbúðinni inní miðri borginni. Ég stend á hafnarbakkanum með föggur mínar, töskur og poka og koffort fult með bækur ...

B. Það var ekkert pláss heldur handa hálfkrökkum ... með ólgandi ljósgult kúnstnerhár og heiðblátt silkislifsi útá axlir, í nýum skraddarasaumuðum sjakket, gráteinóttum buxum eftir tískunni og þaráofan á gulum skóm.

C. Bílstjórinn ekur uppað dyrum á d’Angleterre nokkrar bílleingdir í burtu, síðan á Palace og hótelin í kríngum Ráðhústorgið, en hvergi var pláss, uns bílstjórinn tók með öllu fyrir meiri keyrslur, og mér skildist hann helst vilja láta mig borga fljótt og skilja mig síðan eftir ásamt dótinu mínu á gángstétt þar í hliðargötu. Ég spurði hvort hann þekti aungvan í bænum sem gæti lofað manni að vera eina eða tvær nætur. Maðurinn fór að tala hundrað orð á mínútu.

D. Hann var fattur maður með ístru og hnakkaspik og snúið uppá yfirskeggið, bjartur yfirlitum og sviphreinn; hann var yfirmaður í verksmiðjunni Örstedsparkens Kuranstalt sem bjó til ropvatn. ... ég huggaði hann með því að faðir minn hefði verið verkstjóri einsog hann. Þá er ég föðurbróðir yðar, sagði herra Scheuermann og faðmaði mig að sér.

E. Takið þér yður snafs og skolið honum niður með Gamlakalsberg, sagði herra Scheuermann, þá fer sjóveikin af yður.

Ég dreypti á snafsinum og hann minti mig á þau óþverrameðul sem á fyrri tímum var vant að gefa litlum börnum inn og haldið um nefið á þeim á meðan. En meðan mér var að svelgjast á af snafsinum bar Scheuermann bjórglas að vörum mér; og það var kollrak. Ég varð að leita að vaskinum frammí eldhúsi. En meðan ég var að kúgast vissi ég ekki fyren upp kom grátur fyrir konunni og var það í fyrsta sinn sem ég heyrði fullorðna manneskju gráta. Svo nærri gekk konunni matvendni gestsins; bóndi hennar þurfti að fara fram og hugga hana.

Geðshræríngarnar lægði smám saman og konan spurði hvað hún ætti að taka til bragðs og hvort hún mætti þá ekki búa til handa mér eggjaköku. Þegar farið var að yfirheyra mig ... þá kom uppúr dúrnum að ég gat helst ekkert hugsað mér að borða nema kindakjöt. Nú hló herra Scheuermann og gat ekki orða bundist: þá sjaldan hér fæst kindakjöt kaupum við það til að gefa hundunum hahaha.

F. Þegar ég gekk út að skoða borgina eftir hádegisverð var komin þoka. ... Hafnar í gufu hér, þeirri borg sem íslensk stórskáld hafa úthúðað í ódauðlegum ljóðmælum.

G. Í glerskáp á veggnum hjá Höst mátti sjá að búðin átti innangeingt í prentsmiðju þar sem voru búin til nafnspjöld handa fólki. ... Ég greiddi fyrir hundrað stykki fyrirfram ... Er þar skemst frá að segja að nafnspjöldin voru tilbúin daginn eftir, og ég flýtti mér að festa eitt á stásstofudyrnar Scheuermannshjónanna.

 

 

50.     „Bók stefnda, bls. 50. Úngur eg var, bls. 61 – 62. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 55.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 122:

Þau hjónin tóku Halldór iðulega með sér í veislur hjá ættingjum og vinafólki. Stöku sinnum kom fyrir, að Halldór væri þar spurður, hvað menn legðu sér til munns á Íslandi. Halldór svaraði harðfisk, og var það látið gott heita, en þegar hann bætti við ögn feimnislega „lammekød“, sló þögn á gesti. En hver var þjóðardrykkur Íslendinga? Þegar Halldór svaraði „myse“, vandaðist málið. Enginn kannaðist við þann drykk. Menn voru engu nær, þegar Halldór sagði, að hann rynni af skyri. Enginn hafði heyrt minnst á skyr.

 

Bók Halldórs, Úngur eg var, bls. 61 – 62:

Ég var boðinn með gestgjöfum mínum í tíðar átveislur hjá þessu fólki, ... Þó var ekki örgrant um að einhverjar utangarnaspurníngar beindust að mér um lífið á Íslandi, ... hvað væri etið, ... Hvað borðar fólk á Íslandi? Ég sagði harðfisk og það var látið slarka; en þegar ég bætti því við, ögn feiminn, að menn ætu líka lammeköd á Íslandi, þá sló ömurlegri þögn á þetta matgóða fólk. Síðan sagði ég að þjóðdrykkur væri myse og þá fór nú að vandast málið. Orsök þess að ég nefndi „myse“, og einginn skildi, var sú að hvað mikið sem ég reyndi gat ég ekki komið fyrir mig hvað mysa heitir á dönsku; ...

 

 

51.     „Bók stefnda, bls. 123. Úngur eg var, bls. 70 – 71. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 56.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 123:

Í ljósaskiptunum áttu þeir Scheuermann leið heim um smágötu í gamla hverfinu í Kaupmannahöfn, þvert á Borgaragötu og Aðalsgötu. Þrjár konur stóðu á gangstéttinni utan dyra og skröfuðu saman í rökkrinu, og voru tvær þeirra við aldur, önnur varla undir sjötugu, akfeit. Þriðja konan var í meira lagi skorpin, en hafði borið á sig þykkan farða til að hressa upp á sig. Hún sagði við þá Scheuermann: „Vil de herrer ha’et lille kneb for tre kroner?“ Vilja herrarnir fá smádrátt fyrir þrjár krónur? Scheuermann tók kursteislega ofan, bauð gott kvöld, en afþakkaði boðið. Halldór spurði, eftir hverju þessar konur væru að bíða. Scheuermann svaraði: „Det er de Gamle Piger.“8 Þetta eru gömlu stúlkurnar. Halldór spurði, hvort til væru karlar, sem kæmu að finna þessar konur. Scheuermann hló við og sagði, að það væru þá helst karlar eins og hann, stundum líka ungir drengir.

 

Bók Halldórs, Úngur eg var, bls. 70 – 71:

Á heimleið í ljósaskiftunum um kvöldið æxlaðist svo til að við áttum leið um gamla kvartérið, einhverja heldur óaðlaðandi smágötu sem mér finst hafi legið þvert á Borgaragötu og Aðalsgötu. ... Þrjár konur stóðu á gángstéttinni utan dyra og voru að skrafa saman í rökkrinu, tvær þeirra nokkuð við aldur, önnur varla undir sjötugu, hin þjáðist af þesskonar fitu sem í þá daga var kend við vatnsýki; sú þriðja var í meira lagi skorpin, en hafði borið á sig mikið af farða til að hressa uppá sér. Og það var þessi sem segir við okkur í trúnaði um leið og við fórum framhjá:

Vil de herrer ha’ et lille kneb for tre kroner?

Scheuermann tók kurteislega ofan, bauð gott kvöld, en afþakkaði boðið: takk, ekki núna; kanski seinna.

Eftir hverju eru þessar konur að bíða, spurði ég.

Det er de Gamle Piger, sagði hann.

Það eru þó vænti ég ekki til karlmenn sem koma að finna þessar konur, spurði ég.

Það væru þá helst svona kallar einsog ég, sagði hann og hló við. Stundum líka úngir dreingir.

Og við eyddum málinu.

 

 

52.     „Bók stefnda, bls. 124. Úngur eg var, bls. 62. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 57.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 124:

Frá gulu hári hennar og litarhætti lagði útgeislun eins og af sumarsmjöri, og við bættust bláskær, geislandi augu.

 

Bók Halldórs, Úngur eg var, bls. 62.

... frá gulu hári og litarhætti hennar lagði útgeislun einsog af sumarsmjöri, og ofaná þetta bættust bláskær geislandi augu ...

 

 

53.     „Bók stefnda, bls. 125 – 126. Úngur eg var, bls. 75 – 76. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 58.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 125 – 126:

Í fyrsta samtali sínu á Café Himmerige haustið 1919 tóku þeir Halldór og Jón sér fyrir hendur að gera úttekt á íslenskum skáldum, sem þá voru uppi. Þessi árin voru ort mörg grátljóð, og mátti taka efni þeirra saman í frægu vísuorði Sigurðar Grímssonar: „Mér fannst ég finna til.“

 

Bók Halldórs, Úngur eg var, bls. 75 – 76:

Í fyrsta samali okkar Jóns Helgasonar á Himnaríki 1919 tókum við okkur fyrir hendur að gera úttekt á íslenskum skáldum sem þá voru; ...

...

... þau fáu ár sem ég hángdi við skóla ríkti grátljóðastefna; þó held ég lykilorð þeirrar andagiftar sem efst var í úngum skáldum um þær mundir hafi verið sögð í ógleymanlegri ljóðlínu Sigurðar Grímssonar: „Mér fanst ég finna til.“

 

 

54.     „Bók stefnda, bls. 127 – 128. Úngur eg var, bls. 91 – 92. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 59.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 127 – 128:

Nokkrum dögum síðar var drepið á dyr í stofu Halldórs í Stórukóngsins götu 96. Á ganginum stóðu tveir unglingar. Annar var skólabróðir Halldórs til gagnfræðaprófs, Þorbjörn Georg Gunnarsson, kallaður Gíó, kaupmannssonur úr Reykjavík, en danskur í móðurætt, þegar orðinn drykkfelldur þrátt fyrir ungan aldur. Hinn var Már Benediktsson, sonur Einars, laglegur piltur og fullorðinslegur, en varla kominn af fermingaraldri.9 Hann var með ferðatösku í hendi og spurði Halldór, hvort hann vildi vera svo vænn að koma með sér til „frænda“. Hann væri fullorðinslegri, svo að tekið yrði meira mark á honum en sér. Halldór vissi vel, að „frændi“ var veðlánari. Hjá slíkum manni fengu menn lán gegn veði í vöru, sem hann geymdi, uns lánið hafði verið greitt, og væri það ekki greitt, hirti hann vöruna, sem jafnan var miklu verðmætari en lánið. Halldór spurði, hvers vegna Már léti ekki Gíó fara með sér. Gíó svaraði því til, að hann hefði svo oft komið þangað, að „frændi“ væri orðinn leiður á sér og vildi helst ekki við sig tala. Már sýndi Halldóri niður í töskuna. Þar lágu vönduð karlmannsföt af föður hans, skáldinu. Már sagðist ekki eiga fyrir bjór, en faðir sinn væri farinn til Lundúna. Hann og Gíó hefðu báðir týnt vegabréfum sínum, en „frændi“ vildi ekki afgreiða menn án skilríkja. Halldór sagði, að ekkert væri sjálfsagðara en sinna málinu. Þeir fóru þrír í búðina til „frænda“. Þar var mikið af hreinum og vel pressuðum fötum á slám. Maðurinn bak við borðið var svartklæddur eins og útfararstjóri. Halldór lagði fram vegabréf sitt og skrifaði undir skjal. Maðurinn skrifaði undir það líka, tók við fötum Einars og taldi fram nokkra peningaseðla handa Má. Á eftir bauð Már Halldóri upp á bjórkollu í dimmum kjallara á Strikinu, Rydbergs kælder, sem Íslendingar nefndu oft Hroðann. Kjólklæddur þjónn stóð álengdar og horfði illilega á þessa kornungu menn. Þeir flýttu sér því að drekka bjórinn og kveðja. Halldór var einni reynslunni ríkari, þótt aldrei lægi leið hans aftur til neins „frænda“.

 

Bók Halldórs, Úngur ég var, bls. 91 – 92:

Nokkrum dögum síðar ber svo til að hríngt er á bjölluna hjá mér og fyrir utan standa tveir únglíngar, annar á mínum aldri og hafði reyndar verið námsfélagi minn til gagnfræðaprófs, en að öðru leyti höfðum við átt fátt saman að sælda; ég var meira að segja hræddur við hann afþví hann drakk sig stundum fullan; hinn var aðlaðandi piltur, varla fermdur, ... Þessi laglegi fullorðinslegi piltur sem þó var einum fjórum árum ýngri en ég, stóð þar með ferðatösku í hendinni, nefndi nafn sitt hátíðlega, Már Benediktsson, og spurði hvort ég vildi vera svo vænn að koma með sér til frænda; sagði að ég færi fullorðinslegri en hann, frændi mundi taka meira mark á mér en sér. Af hverju læturðu ekki Gíó fara með þér, spurði ég. Gestirnir litu hvor á annan, uns Gíó trúði mér fyrir því að hann hefði svo oft komið til frænda að frændi væri orðinn leiður á honum og vildi helst ekki við hann tala. Hvaða maður er þetta, mér er spurn, og hvað viljið þið honum? Svarið var að hann væri sá sem tæki líka við gömlum fatnaði, en ekki eintómum gimsteinum einsog sumir frændar. Síðan sýndi hann mér ofaní töskuna og lágu þar samankuðluð mjög þokkaleg karlmannsföt af miklu stærri manni en honum. Hann sagði til útskýríngar að faðir sinn væri farinn til London og kvaðst ekki eiga fyrir bjór. Síðan spurði hann hvort ég hefði passa; hann var búinn að týna sínum, Gíó líka, en frændi vildi ekki sinna mönnum nema þeir væru amk í föruneyti einhvers sem ekki var búinn að týna þessu skjali. Ég sagði að ekkert væri sjálfsagðara en ljá málinu stuðníng, ef ég væri til nokkurs nýtur. Síðan fórum við í búðina til þessa einkennilega manns þar sem var forógnadómur af hreinum og velpressuðum fötum á slám, en maðurinn sjálfur eins svartklæddur og jarðarfararstjóri. Ég lagði fram passa minn og skrifaði undir einhvern skrambann og maðurinn skrifaði sjálfur eitthvað að sínu leyti; síðan tók hann við þessum höfínglegu fötum og taldi fram nokkra bánkuseðla handa Má, og ég var meinlausri reynslu ríkari. Þetta er í eina skiftið á ævinni sem ég hef komið til frænda. Á eftir bauð Már mér uppá kollu af bjór í dimmum kjallara á Strikinu, hefur sennilega verið næturklúbbur, en kuldalegt dimt og mannlaust þar um miðjan dag, líklega sú stofnun sem íslendíngar nefndu Hroðann (Rydbergs kælder). Kjólklæddur þjónn stóð áleingdar og góndi illilega á okkur svo við flýttum okkur að drekka af og kveðja.

 

 

55.     „Bók stefnda, bls. 129. Úngur eg var, bls. 99. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 60.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 129:

Einn daginn síðsumars 1919 var drepið á dyr Halldórs að Stóru kóngsins götu 96. Á ganginum stóð virðulegur maður í gráyrjóttum frakka og með hatt, sem ekki var brotið ofan í. Hann hélt upp digrum, gljáfögrum reyrstaf, varlega eins og kerti. Maðurinn var vel rakaður, grannleitur, nefstór, með kafloðnar augabrúnir ljósar og þó með rauðum blæ, og sami litur á hári. Hann hafði bláskær augu.

 

Bók Halldórs, Úngur eg var, bls. 99:

Einhvern dag síðsumars er drepið á fyrnefndar póetískar dyr, og þar stendur virðulegur maður í gráyrjóttum frakka og hefur hatt sem ekki er brotið ofaní, kanski keyptur í morgun; hann hélt upp digrum gljáfögrum reyrstaf, varlega, einsog logandi kerti; þetta virtist ekki stafur til að reka í götuna; vel rakaður maður, grannleitur, nefstór, kafloðnar augabrúnir ljósar, þó með írauðum blæ, og svo var alt hárafar mannsins; jafnvel á handarbökum hans óx loðna með þessum litblæ; og ekki þarf að taka fram að svona maður hefur bláskær augu.

 

 

56.     „Bók stefnda, bls. 129 – 130. Úngur eg var, bls. 133 – 138. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 61.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 129 – 130:

Hann tók það til bragðs að gera boð fyrir Karl Sigvaldason. Hann kom með reyrstafinn digra, ekki sást á frakkanum og hvergi brot í hattinum. Undir börðunum grillti í bláskær ugluaugu og kafloðnar augabrúnir. Hann lagði hatt og staf hægt og vandlega á rúm Halldórs, settist og spurði tíðinda. Halldór sagði: „Já það er nefnilega það. Ég er að verða krúkk.“ Karl sagði svipbrigðalaus: „Já, ertu það?“ Hann horfði lengi á Halldór og sagði síðan fjarlægur: „Ég hélt þú værir af efnuðu fólki.“ Halldór sagðist vera að hugsa um að taka lán. Karl taldi öll tormerki á því. Hann sagði, að Halldór hlyti að geta aflað sér tekna af skáldskap sínum eins og Gunnar Gunnarsson hafði gert. „Af hverju ferðu ekki að skrifa fyrir stórblöðin?“ sagði Karl. Þessi hugmynd kom Halldóri á óvart. „Hvaða stórblöð?“ sagði hann. „Til dæmis Berlingske Tidende,“ svaraði Karl. Hann sagði, að ritstjóri Berlingske Tidende, Svend Poulsen, væri Íslandsvinur og ætti meira að segja jörðina Bræðratungu á Íslandi.

 

Bók Halldórs, Úngur eg var, bls. 133 – 138:

Ég sendi landbúnaðarkandídatnum línu og bað hann finna mig.

... Hann var í nýa raglan-frakkanum sínum sem var fallegri en minn; enn var ekki komið brot í nýa hattinn né hafði fallið á hann dropi. Leingst innundir börðunum grilti í bláskær ugluaugu og kafloðnar augabrúnir með litnum rósa. Á Birni Hannessyni sá hvergi örðu fremuren á guðs vilja. Ég bað hann sitja. Hann lagði hattinn og stafinn vandlega ofaná rúmið mitt. ... spurði frétta af sjálfum mér kurteislega og formlega, ...

Já það er nefnilega það, sagði ég. Ég er að verða krúkk.

Hann horfði fyrst leingi á mig hreyfíngarlaus og án svipbrigða.

Já ertu það, sagði hann loks.

Síðan horfði hann á mig leingi enn.

Ég hélt þú værir af efnuðu fólki, sagði hann síðan úr sömu fjarlægð og áður.

...

... Og mér hefur helst verið að detta í hug að fá lán hér í Danmörku.

Hvurnin lán?

Bánkalán.

Í hvaða bánka? Og útá hvað? Og borga hvenær?

...

Ef þú ert skáld þá ættu þér að geta orðið peníngar úr öllu. ... Líttá Gunnar Gunnarsson. Hann hefur orðið nóg af peníngum.

...

Af hverju ferðu ekki að skrifa fyrir stórblöðin, spyr þá Björn Hannesson.

...

Hvaða stórblöð, spyr ég.

Til dæmis Berlingske Tidende.

...

... Hann útskýrði uppástúngu sína með því að hjá blaði þessu væri ritstjóri, ágætur maður, og ætti jörð á Íslandi, Svenn Poulsen.

 

 

57.     „Bók stefnda, bls. 135. Úngur eg var, bls. 153 – 155. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 62.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 135:

Sú bók, sem hafði mest áhrif á hann þetta misserið, var Inferno eftir Ágúst Strindberg. Hún er saga innri baráttu. Söguhetjan er ungur listamaður í París, sem kvatt hefur konu og barn. Hann stundar rannsóknir í efnafræði, en kemst að þeirri niðurstöðu, að Guð hafi bölvað honum. Hann sé staddur í helvíti innan um ýmsa dulspekinga, þar á meðal Swedenborg og frú Blavatsky. Strindberg lýsir því síðan, hvernig hann flæmist undan þessu helvíti víðs vegar um Norðurálfuna. Hámarki ná ofsóknir djöfla hans í austurrískum sveitabæ, þar sem hann hefur leitað aðstoðar frómra kvenna og hins kaþólska sóknarprests.

 

Bók Halldórs, Úngur eg var, bls. 153 – 155:

Bókin Inferno hafði mikil áhrif á mig ...

... Inferno er saga af manni, ... og heitir August Strindberg. Þessi maður verður að upphafi sögu fyrir hittur í París; er lentur þar án frekari skýrínga eða annarra skuldbindínga, einsog súltekúnstner Hamsun í Kristjaníu. Þessi maður er á upphafsdegi bókar að segja bless fyrir fult og fast við konu sína og barn á járnbrautarstöð í París, snýr síðan heim í íbúð sína aftur og fer að stúdéra brennistein; hann er nokkuð góður í efnafræði, ... Eftir nokkurra daga starf að sundurgreiníngu þessa leiðinlega efnis kemst hann ekki aðeins að því hver sé efnasamsetníng brennisteins séráparti, ... en fær síðan staðfest með hjálpargögnum úr svartagaldri frá rússum píetistum jesúítum guðspekíngum Swedenborg maddömu Blavatsky, ... osfrv, að guð hefur bölvað honum og hann er sjálfur staddur í helvíti ... Þessi aumi maður, ... flæmist síðan undan helvíti víðsvegar um Evrópu misserum saman; ... Þessi yfirþyrmíng nær hámarki í kaþólsku sveitaplássi í Austurríki, þángað sem hann hafði flúið á náðir heilagra sveitakvenna roskinna, auk sóknarprestsins í héraðinu, ...

 

 

58.     „Bók stefnda, bls. 136. Úngur eg var, bls. 161 – 164. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (2 tilvik A og B). Sjá dskj. nr. 63.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 136:

A. „Til hvaða staðar ætlarðu í Svíþjóð?“ spurði Jón. Halldór svaraði: „Þess staðar, þar sem mig fyrst ber að landi.“ Á siglingum hafði Jón farið um Eyrarsund. Hann stakk nú upp á því, að Halldór legði leið sína til Helsingjaborgar. Það væri ágæt borg hinum megin við sundið. Það varð úr, að Halldór keypti sér farmiða þangað frá Østbanegaarden. Um morguninn hjálpuðu Scheuermann og Jón honum til að búa bagga sína, bera þá niður og út í vagn. Síðan fylgdu þeir honum á brautarstöðina. Halldór settist inn. Fylgdarmenn biðu á auðri stöðinni í hráköldum vindi snemma morguns, þangað til lestin bifaðist af stað. Þá tóku þeir ofan og veifuðu höttum sínum. Þegar lestin var horfin af stöðinni og stéttin auð, tók Scheuermann í hönd Jóns, sem hann sá hvorki fyrr né síðar á ævinni, og sagði um leið: „Jeg tror han har en stor fremtid for sig,“ Ég held hann eigi mikla framtíð fyrir sér.

 

Bók Halldórs, Úngur eg var, bls. 161 – 164:

A. Til hvaða staðar ætlarðu í Svíþjóð? Svar: þess staðar þar sem mig fyrst ber að landi. ... Jón Pálsson hafði ... siglt um Eyrarsund og stakk uppá Helsíngjaborg og væri ágæt borg á bakkanum hinumegin við sundið.

Það varð úr að ég keypti mér farmiða frá Östbanegaarden, ...

Að morni hjálpuðu þessir tveir ólíku menn mér til að búa upp baggana mína og bera þá niður og útí vagn; síðan fylgdu þeir mér á járnbrautarstöðina og héldu enn áfram að bera þángatil ég var sestur í klefann: ... Þeir biðu á auðri járnbrautarstéttinni í hráköldum vindi snemma morguns, þángatil lestin fór á stað, þá tóku þeir ofan og veifuðu höttum sínum. Þeir höfðu aldrei sést fyren þennan morgun og sáust aldrei síðan.

Jón Pálsson sagði mér síðar frá því að þegar lestin var brunuð af stöðinni með skjólstæðíng þeirra, og þeir búnir að veifa, og stéttin orðin auð, þá hafði hvorugur öðrum neitt að segja; en þá hafi formand Scheuermann tekið í hönd sér, sagði Jón, kvatt sig og sagt um leið: Jeg tror han har en stor fremtid for sig. .

 

Í bók Halldórs hefur aðaláfrýjandi afmarkað texta merktan B, en enga samsvarandi merkingu er að finna í bók gagnáfrýjanda. Er sá texti því ekki rakinn.

 

 

59.     „Bók stefnda, bls. 137. Úngur eg var, bls. 169 – 170. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (2 tilvik A og B). Sjá dskj. nr. 64.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 137:

A. Eitt fyrsta verk Halldórs í Helsingjaborg var að spyrja upp rit eftir Strindberg í bókabúð. Hann fann bókina Likt och olikt (Líkt og ólíkt); það var þjóðmálarit, þar sem hinni óspilltu sveit var teflt fram gegn hinni spilltu borg (eins og Halldór gerði raunar sjálfur löngu seinna í Atómstöðinni). Hjálpsamur búðarmaður gaf honum áritun á bókasafn staðarins. Þetta var Halldóri hvalreki. Lesstofu bókasafnsins var lokið upp, hlýrri og hljóðri, seinni hluta dags og ekki lokað fyrr en seint. Í þessum stað sökkti Halldór sér niður í rit Strindbergs. Hann gerði samanburð á Inferno Strindbergs og Sulti eftir Hamsun.

B. Nálægt höfninni fann Halldór hreinlegan matsölustað. Hann teygði svo úr vinnu sinni, að venjulega var áliðið dags, þegar hann kom til að fá sér eitthvað í svanginn. Honum tókst þó oftast að fá stúlkurnar á staðnum til að smella einhverju á pönnu fyrir sig. Að öðru leyti talaði Halldór ekki við nokkurn mann. Hann leitaði uppi þjóðvegina frá borginni og þrammaði eftir þeim klukkutímum saman, stundum langt fram í myrkur.

 

Bók Halldórs, Úngur eg var, bls. 169 – 170:

A. Eitt mitt fyrsta verk í Helsíngjaborg var að spyrja uppi rit eftir Strindberg, en það var undir hælinn lagt hvað fékst í bókabúðum. Ég man til dæmis að fyrsta daginn lagði ég á stað heim með bók sem hét Líkt og ólíkt og var þjóðmálarit ...

Vænn búðarmaður gaf mér áritun á bókasafn staðarins og þessi vitneskja var mér á við hvalreka. Lesstofu bókasafnsins var lokið upp hlýrri og hljóðri seinnipart dags og ekki lokað fyren að áliðinni vöku. Í þessum stað gerði ég samanburð á Sulti og Inferno ...

B. Nálægt höfninni í Helsíngjaborg fann ég hreinleg salarkynni ... í líkíngu við kaffiteríu. Ég teygði svo leingi úr vinnutíma mínum að venjulega var áliðið dags og allir laungu búnir að borða þegar ég var orðinn viðurtækilegur fyrir eitthvað í svánginn. Rosknar stúlkur ... litu á mig fálátar ... Venjulega var þó hægt að hafa útúr þeim Jansons frästelse eða steiktan kola ef vel lá á þeim. Að öðru leyti talaði ég aldrei við nokkurn mann. Ég leitaði uppi þjóðvegina útúr borginni og þrammaði eftir þeim klukkutímum saman, stundum lángt frammí myrkur.

 

 

60.     „Bók stefnda, bls. 137. Úngur eg var, bls. 175. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 65.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 137:

Hann teygði svo úr vinnu sinni, að venjulega var áliðið dags, þegar hann kom til að fá sér eitthvað í svanginn. Honum tókst þó oftast að fá stúlkurnar á staðnum til að smella einhverju á pönnu fyrir sig. Að öðru leyti talaði Halldór ekki við nokkurn mann. Hann leitaði uppi þjóðvegina frá borginni og þrammaði eftir þeim klukkutímum saman, stundum langt fram í myrkur. Hann fékk sér kaffibolla á kvöldin í litlu veitingahúsi, sem hann fann á misvindasömu horni hins auða, myrka hverfis, þar sem hann bjó. Gengið var niður nokkur þrep og inn um horndyr. Þar var kringlótt borð og logandi eldur í stó. Fyrir framan eldinn voru tveir stólar. Halldór sat á öðrum, en heimilisköttur á hinum. Við stóra borðið sátu útlendir menn, ...

 

Bók Halldórs, Úngur eg var, bls. 175:

Á einu misvindasömu horni þessa auða myrka hverfis var geingið ofan nokkur þrep; og innum horndyr; þar var litla veitíngahúsið og krínglótta borðið. Í stónni logaði eldur. Fyrir framan eldinn voru tveir stólar; á öðrum sat ketlíngsaftótið, á hinum sat ég. Kríngum borðið sátu útlendir menn.

 

 

61.     „Bók stefnda, bls. 138. Úngur eg var, bls. 180 – 181. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (2 tilvik A og B). Sjá dskj. nr. 66.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 138:

A. Einn góðan veðurdag í byrjun desember taldi Halldór krónurnar upp úr vösum sínum og komst að því, að hann ætti ekki einu sinni fyrir fari aftur til Kaupmannahafnar. Fé hans hrökk í mesta lagi fyrir einni máltíð. Hann ákvað hins vegar að sleppa henni og fara á hljómleika, sem heimsfrægur fiðlumeistari, ungverskur, Ferenc von Vecsey, hafði auglýst í Maríukirkjunni í Helsingjaborg. Hann sat dúðaður um daginn í herbergi sínu við skriftir. Þegar hann bjóst til að fara út, kom kerlingin, húsráðandi hans, fram og spurði, hvort herrann hefði verið „klen“, lasinn. Halldór sagðist ekki einu sinni vita, hvað „klen“ væri. Hún sagðist ekki hafa orðið vör við, að herrann færi út að snæða í dag. Halldór svaraði, að hann ætlaði sér ekki að gera það, heldur fara á hljómleika. Þegar hann sneri aftur í berbergi sitt um kvöldið, stóð konan á ganginum og spurði: „Var det bra med folk?“ Var allt í lagi?

B. Í herberginu stóð heitur leirdallur á borðinu. Í honum var þykk kálsúpa með baunum og sneiðar af svínakjöti. Halldóri þótti þetta vondur matur og gat ekki innbyrt nema eina súpuskeið og einn eða tvo bita af kjötinu. Hann fór að sofa.

 

Bók Halldórs, Úngur eg var, bls. 180 – 181:

A. Nú kom að því, þegar ég taldi saman uppúr vösum mínum í Helsíngjaborg, þá átti ég bersýnilega ekki fyrir fari aftur til sama lands. ... Ég átti í hæsta lagi fyrir einni máltíð. En þá vildi svo til að heimsfrægur fiðlumeistari, úngverjinn von Vecsey, auglýsti konsert í Maríukirkjunni í Helsíngjaborg. Ég ákvað að fara að hlusta á það helduren eta, og sat inni hjá mér í tveim frökkum og með hanska allan daginn að skrifa hina ágætu bók Salt jarðar ... Um kvöldið þegar dró að auglýstum hljómleikatíma fór ég út. Digra kellíngin ... kemur ... frammá gáng þegar ég er að fara út og spyr: hefur herrann verið klen? Ég svaraði: ég veit ekki einusinni hvað „klen“ er. Þá segir hún: ég hef ekki orðið vör við að herrann færi út að eta middag í dag.

Ég svaraði að það ætlaði ég ekki heldur að gera; ég væri að fara á konsert. ... Þegar ég kom inn aftur stóð konan á gánginum og spurði: var det bra med folk?

B. Það var matarlykt í herberginu hjá mér og stóð heitur leirdallur á borðinu. Ég lyfti lokinu af og þá kom á móti mér gufa af þykkri kálsúpu með baunum ásamt ýmsum þeim garðjurtum sem ég hataðist við, líka var hángilykt af feitri svínsíðu; og glitrandi brák oná öllu saman. Gegn vilja mínum setti ég í mig skeið af sufli en það vildi ekki niður; mig hrylti upp. Einum eða tveim bitum af reyktu spiki kom ég þó ofaní mig og þar við sat. Ég setti lokið á stampinn aftur og fór að hátta.

 

 

62.     „Bók stefnda, bls. 139. Úngur eg var, bls. 187. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 67“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 139:

Þegar þeir læddust fram ganginn um morguninn, lauk kerling upp dyrum sínum og gægðist út um gáttina úfin af reiði.

 

Bók Halldórs, Úngur eg var, bls. 187:

... þegar við vorum að læðast fram gánginn lýkur kella upp dyrum sínum og gægist útum gáttina bólgin af reiði; ...

 

 

63.     „Bók stefnda, bls. 140. Úngur eg var, bls. 195 og 197. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 68.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 140:

Kona opnaði, roskin, mikil og breiðvaxin, en slapholda, hæruskotin ...

 

Bók Halldórs, Úngur eg var, bls. 195 og 197:

Kona kom til dyra, mennileg og prúð; nokkuð farin að roskna. ...

...

Konan var semsé mikil og breiðvaxin, en slapholda hæruskotin og skrúfhár, ...

 

 

64.     „Bók stefnda, bls. 145. Úngur eg var, bls. 214 – 216. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 69.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 145:

Bærinn var úr rauðum múrsteini, stofur niðri, svefnherbergi undir súð. Halldór fékk íveruherbergi móti sól, gegnt ökrum og skógi. Hann var látinn snæða á öðrum tímum en fólkið, einn sér í borðstofu niðri, eða honum var fært á herbergi. Hjónin voru innan við miðjan aldur. Nielsen bóndi var þrekinn maður, vingjarnlegur, dálítið feiminn. Kona hans var há vexti og sköruleg, ekki hlý.

 

Bók Halldórs, Úngur eg var, bls. 214 – 216:

Á þessum bæ var húsasamstæða af rauðum múrsteini, einhöluhús, stofa af stofu, ... uppi voru svefnherbergi undir súð. ... Mér var feingið velbúið íveruherbergi móti sól, gegnt ökrum og skógi.

... Ég var látinn borða á altöðrum tímum en annað fólk, einn sér í borðstofu niðri, eða mér var fært á herbergi, ... Hjónin voru innanvið miðjan aldur, ... Bóndinn var þrekinn maður ... vingjarnlegur en dálítið feiminn, ... Konan var há vexti og sköruleg og kunni vel til bústjórnar; en ekki hlý.

 

 

65.     „Bók stefnda, bls. 145 – 146. Úngur eg var, bls. 224 – 226. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 70“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 145 – 146:

Í einni veislunni tók rúmlega þrítug kennslukona hann tali. Hún heilsaði honum úr sæti sínu, eins og hún þekkti hann. „Ég varð svo hissa; þegar ég frétti, að þér væruð hér. Velkominn hingað. Ó, ég kenndi svo mikið í brjósti um blessað fólkið. Á aumingja fólkið virkilega svona bágt á Íslandi?“ sagði hún. „Með leyfi, um hvaða fólk er frúin að tala?“ spurði Halldór kurteislega. „Æ, um hann Þórð í Kálfakoti,“ sagði konan. „Ég klippti söguna út úr Berlingnum og geymi hana. Ég get ekki tára bundist, þegar mér detta þessi ósköp í hug.“ Halldór sagði: „Þetta er nú bara saga.“ Konan sagði: „Í rauninni þykir mér mest varið í sorglegar sögur. Þær komast svo nærri lífinu. Ætlið þér að skrifa fleiri svona sorglegar sögur?“ Halldór svaraði: „Ég skrifaði móður minni mjög sorglega sögu um daginn.“ Konan sagði: „Móður yðar! Hugsa sér! Eruð þér svona kær drengur? Um hvað er sagan?“ Halldór svaraði „Á aðfángadagskvöld fór ég út með tveim vinum mínum að halda jólin ...“ Þá greip konan fram í: „Ó, ekki segja mér hana núna. Það eru svo margir hérna. Ég er svo hrædd um að ég fari að skæla. Ég veit ekki, hvað oft ég fór að skæla, meðan ég var að lesa söguna yðar.“ Halldór sagði: „Nýa sagan er að ýmsu leyti betri en sagan um Þórð í Kálfakoti og sannari afþví hún gerðist í raun og veru. Hún kom fyrir vin minn.“ Konan sagði: „Viljið þér skrifa hana líka fyrir mig, en ósköp öðruvísi.“ Halldór spurði: „Hvurnig öðruvísi?“ Konan svaraði: „Eins og hún væri um yður sjálfan.“

 

Bók Halldórs, Úngur eg var, bls. 233 – 234:

Mér er einnig boðið til veislu ... og verður litið til hvar kona situr ... hún heilsar mér viðkunnanlega úr sæti sínu einsog hún þekki mig. ...

Ég varð svo hissa þegar ég frétti að þér væruð hér. Velkominn híngað. Ó ég kendi svo mikið í brjóst um blessað fólkið. Á aumíngja fólkið virkilega svona bátt á Íslandi?

Með leyfi, um hvaða fólk er frúin að tala?

Æ, um hann Þórð í Kálfakoti, sagði konan. Ég klipti söguna útúr Berlíngnum og geymi hana. Ég get ekki tára bundist þegar mér detta þessi ósköp í hug.

Þessi kona reyndist vera ný kenslukona í sveitinni. ...

Þetta er nú bara saga, sagði ég ...

Í rauninni þykir mér mest varið í sorglegar sögur, sagði konan. Þær komast svo nærri lífinu. Ætlið þér að skrifa fleiri svona sorglegar sögur?

...

Ég skrifaði móður minni mjög sorglega sögu um daginn, sagði ég.

Móður yðar, sagði konan. Hugsa sér! Eruð þér svona kær dreingur. Um hvað er sagan?

Á aðfángadagskvöld fór ég út með tveim vinum mínum að halda jólin, upphófst ég.

Ó, ekki segja mér hana núna, sagði konan. Það eru svo margir hérna. Ég er svo hrædd um ég fari að skæla. Ég veit ekki hvað oft ég fór að skæla meðan ég var að lesa söguna yðar.

Nýa sagan er að ýmsu leyti betri en sagan um Þórð í Kálfakoti, segi ég; og sannari afþví hún gerðist í raun og veru. Hún kom fyrir vin minn.

Viljið þér skrifa hana líka fyrir mig, spurði konan. En ósköp lítið öðruvísi.

Hvernig öðruvísi?

Einsog hún væri um yður sjálfan.

 

 

66.     „Bók stefnda, bls. 148 – 149. Úngur eg var, bls. 233 – 234. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (4 tilvik A, B, C og D). Sjá dskj. nr. 71.“

 

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 148 – 149:

A. Lars Larsson í Trusta var gildur bóndi og fræðimaður og orti ljóð á mállýsku sinni. Húsfreyja hans var mikill skörungur og stóð framarlega í skóla- og menningarmálum í héraðinu.

B. Í sérstakri, rauðri „stuga“ bjó móðir Lars Larssonar, níræð, glaðleg kona, sem söng þjóðvísur og skýrði þær út fyrir Halldóri. Hún sagði honum líka sögur af vættum í skógi og vatni. Hann hafði yndi af því að heyra gömlu konuna tala jamtlensku.

C. ... í vist á bænum var fjöldinn allur af lostfögrum sveitastúlkum.

D. Mestur hluti hvítasunnunnar fór í hringdansa, söng og hlaup. Dansinn dunaði til morguns, og fuglarnir í trjánum hættu ekki heldur að kvaka alla nóttina; talþröstur kvakar aldrei af meiri ákafa en um óttubil.

 

Bók Halldórs, Úngur eg var, bls. 233 – 235:

A. Lars Larsson í Trusta var gildur bóndi og fræðimaður og lagði sérstaka stund á að yrkja ljóð á málísku sinni; ... Húsfreya hans, mikill skörúngur, var að sínu leyti frammámaður í skólamálum og menníngar í héraðinu.

B. Í sérstakri rauðri „stugu“ einsog þeir reisa útum öll foldarból, þar bjó gamla konan móðir Lars Larssonar í Trusta níræð. Hún var glaðleg kona og saung þjóðvísur og útskýrði þær fyrir mér, sagði mér líka sögur af vættum í skóginum og vatninu. Mest unun var mér þó að heyra gömlu konuna tala við mig bláttáfram þetta undursamlega mál fult af fornum orðatiltækjum sem gætu verið íslenska, en er jemtska, jamtlenska, ...

C. Hér var mart manna í heimili, ...

D. Mestur partur hvítasunnunnar fór í hríngdansa sem fylgdi óstöðvandi saungur og sífeld hlaup. ... Og áfram dunaði dansinn til morguns og fuglarnir í trjánum hættu ekki heldur að kvaka alla nóttina; talþrösturinn kvakar af aldrei meiri ákafa en um óttubil.

 

 

67.     „Bók stefnda, bls. 151. Salka Valka, bls. 403. Notkun texta án aðgreiningar, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 72.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 151:

Ekkert er yndislegra en ást pilts og stúlku í góðu veðri á vornótt þegar hestar eru sofnaðir í túnum.

 

Bók Halldórs, Salka Valka, bls. 403:

Ekkert á jörðinni er eins yndislegt og sönn ást milli pilts og stúlku í góðu veðri um nótt á vori, þegar hestarnir eru sofnaðir á túnunum.

 

 

68.     „Bók stefnda, bls. 152. Grikklandsárið, bls. 15 – 17. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 73.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 152:

Fyrsti maðurinn, sem hann kynntist á skipinu, var dr. Helgi Pjeturss, jarðfræðingur og heimspekingur. Helgi hafði lesið Barn náttúrunnar og vissi deili á Halldóri. Hann var fríður maður sýnum, grannur og spengilegur, sundmaður og hlaupari, með rauðleitt skegg. Hann heyrði illa, talaði án raddbrigða, eins og þegar talað er í gjallarhorn, en lá nokkuð hátt rómur. Þótt röddin væri köld, lýsti úr bláum augum hans forvitni, jafnvel spaugsemi.

 

Bók Halldórs, Grikklandsárið, bls. 15 – 17:

Nú vildi svo til að sá maður sem ég kyntist fyrstum á þessu únga og bjartsýna skipi, ... var sá mikli spekimaður og alheimslíffræðingur Helgi Pjeturss. Af einhverjum ástæðum lagði þessi einstæði maður mikið uppúr því að titillinn „dr“ væri gaumgæfilega njörvaður við nafn hans. ...

... Helgi Pjeturss var að ég held eini maðurinn um borð í Gullfossi sem kannaðist við svo óskildan fróðleik sem afrek undirritaðs í bókmenntum voru, amk þá. Þessi maður var að auki einn fríðastur maður og dreingilegastur sem þá var uppi á Íslandi. Hans plagsiður var að synda í Laugunum, stundum marga klukkutíma á dag, og þreyta eins manns þolhlaup um götur Reykjavíkur, og lýsti af snyrtilegu skeggi hans rauðleitu ... Hann heyrði illa, talaði án raddbrigða, einsog þegar talað er í gjallarhorn, en lá nokkuð hátt rómur. Með kaldri rödd, ... talaði hann við mig ... Því fór fjarri að þetta bláa augnaráð væri kalt; það var meira að segja forvitið, jafnvel spaugsamt ...

 

 

69.     „Bók stefnda, bls. 153. Grikklandsárið, bls. 46. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 74.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 153:

Amma Halldórs var á sínum stað í baðstofunni í Laxnesi. Þar sat hún enn á rúmi sínu úti í horni og hélt áfram tóvinnu, eftir að aðrir voru gengnir til náða. Hún var sest við rokkinn, þegar annað fólk kom að eta morgunskattinn.

 

Bók Halldórs, Grikklandsárið, bls. 46:

Í borðstofu okkar uppi, sem líka hafði verið verkstofa áður, og haldið bastofusniði eftir gamalli venju, þar sat amma mín enn á rúmi sínu í horni og hélt áfram tóvinnu eftir að aðrir voru geingnir til náða. Hún var sest við rokkinn þegar annað fólk kom að eta litla skattinn að morni.

 

 

70.     „Bók stefnda, bls. 153 – 154. Grikklandsárið, bls. 42 – 43. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 75.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 153 – 154:

Frá Laxnesi lokar Grímmannsfell sjóndeildarhringnum til suðausturs. Klettabelti vita í norður mót bænum og safna skugga. Efst í klettabeltunum klofnar fjallið fyrir miðju, en neðan við kluftina byrja grænar hlíðar og hallar niður að Köldukvísl, sem fellur meðfram fjallinu og ofan dalinn. Hátt í þessu bratta gili Grímmannsfells átti hrafn sér laup. Þeir Einar Ólafur og Halldór klifu niður snarbrattan gjárvegginn til að gá að laup hrafnsins. Þegar þeir lásu sig ofan hamarinn, sveimaði hrafnsfjölskyldan gargandi í kringum þá án þess að angra þá frekar. „Hversvegna er gorhljóð hrafns svo skært og músíkalskt og listrænt?“ spurði Halldór, þegar hann rifjaði þetta atvik upp síðar. „Það er af því hrafninn er undir niðri kristinn fugl einsog maðurinn og hermir eftir litlum mjóróma kirkjuklukkum til sveita þegar hann sveingir.“5 Fyrir neðan kluftina tók skriðan við, þá hlíðin græn og fögur.

 

Bók Halldórs, Grikklandsárið, bls. 42 – 43:

Frá Laxnesi lokar Grímansfell sjóndeildarhríngnum til suðausturs og horfa klettabelti fjallsins í norður mót okkur, og safna skugga; fjallið hefur upphaflega verið kent við Grímar sem síðar breyttist í Grímann uppá dönsku einsog annað hér. Efst í klettabeltunum klofnar fjallið fyrir miðju, en fyrir neðan kluftina byrja grænar hlíðar og hallar niðrað á þeirri sem fellur meðfram fjallinu og ofan dalinn, Köldukvísl.

Hátt í þessu bratta gili Grímansfells átti hrafn sér laup síðan ómunatíð, riðinn af tágum, og aungvan bandamann utan þann sem áður segir.

Niður þennan snarbratta gjárvegg, framhjá þar sem hrafninn var vanur að eiga, klifum við Einar Ólafur Sveinsson krakkvorið mikla.

...

Við héldum áfram að reyna að lesa okkur ofan hamarinn. Hjónin höfðu súngið mjótt áður en við klifum ofanaf brúninni en nú voru þau farin að brýna raustina; familían sveimaði gargandi kríngum okkur Við vissum að það er samkomulag milli þriggja aðilja, guðs hrafns og manns, að hrafn slær aldrei mann. Hversvegna er gorhljóð hrafns svo skært og músíkalskt og listrænt? Það er af því hrafninn er undir niðri kristinn fugl einsog maðurinn og hermir eftir litlum mjóróma kirkjuklukkum til sveita þegar hann sveingir.

Fyrir neðan kluftina tók skriðan við, síðan hlíðin græn og fögur.

 

 

71.     „Bók stefnda, bls. 154. Grikklandsárið, bls. 46 – 47. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (Sjá dskj. nr. 76.“

Bók gagnáfrýjanda, bls. 154.

En eitt hafði breyst. Móðir Halldórs hafði tekið við dvalargestum úr Reykjavík þetta sumar. Þeir bjuggu í húsinu, en höfðu tjald í hlaðvarpanum fyrir gesti, svo að fólk á bænum yrði ekki fyrir ónæði. Þetta voru embættismannshjón með tvo litla syni, annan hvítvoðung, hinn nýfarinn að ganga. Fljótlega vingaðist Halldór við konuna. Henni tókst að hafa út úr honum Napóleonshatt, sem geðbilaður maður, Gunnlaugur O. Bjarnason, hafði nokkrum árum áður skilið eftir hjá honum.

 

Bók Halldórs, Grikklandsárið, bls. 46 – 47:

Túnið var sprottið, sláttur ekki lángt undan. Mig furðaði á því að tjaldað var í hlaðvarpanum ... Móðir mín hafði tekið við dvalargestum úr bænum hásumarmánuðina, því rúm var ærið: embættismannshjón úr bænum ásamt tveim sonum sínum bernskum. ... Fólk þetta hafði semsé tjald í hlaðvarpanum þar sem það hélt gestum sínum paról, stundum með veislugleði á nætur fram, til að trufla ekki fólkið á bænum ...

... Mér leist ekki á blikuna að sjá stássfrú aka barnavagni með hvítvoðúngi fram og aftur um hlöðin og leiða við hönd sér eldri dreinginn sem var þó ekki nema rétt farinn að gánga. ... Bráðlega vingaðist ég þó við þetta fólk, einkum frúna með smábörn sín tvö, og tókst henni að hafa útúr mér hatt sem var napóleonshattur. ... hafði geðbilaður maður skilið eftir hjá mér þessa gersemi þegar ég var dreingur; ...

 

 

72.     „Bók stefnda, bls. 155 – 156. Grikklandsárið, bls. 52 – 53. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 77.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 155 – 156:

Þegar Halldór hafði farið með vísunar tvær, sagði Páll án þess að brosa: „Heyrið þér, ungi maður, fer þetta nú ekki að verða gott?“ Páll hélt áfram: „Sumir segja, að við séum leiðinlegasta þjóð á Norðurlöndum. Ég held við séum skemmtilegastir, af því við kunnum meira af leirburði en aðrir menn. Þó er ekkert til hroðalegra en vont kvæði, hm, nema ef vera skyldi gott kvæði. Meðal annarra orða: Bók náttúrunnar, - er það eftir yður?“ Halldór svaraði: „Bók náttúrunnar, - það er eftir Topelius. Hann var barnakennari. Afturámóti hef ég samið Barn náttúrunnar og sumir telja besta bók hér á landi.“ Páll sagði eins og hann væri að tala við annan mann: „Sögðuð þér Barn náttúrunnar? Ég er hræddur um, að allt, sem skáldskap varðar, sé um götur gengið á Íslandi, fyrir bí sem kallað er. Ætli það síðasta hafi ekki farið, þegar hann Jóhann fór Sigurjónsson.“ Halldór sagði: „Ég var við jarðarförina.“ Páll fór nú að taka eftir Halldóri og sagði: „Já, svo þér voruð við jarðarförina.“ Hann fyllti tjaldið með reyk og hélt áfram: „Sem sagt, bókin þarna í fyrra, -hm, hvað hét hún nú aftur? Það var ekki nógu gott. Bók náttúrunnar eða Barn náttúrunnar, það stendur á sama. En það er eins og máltækið segir: Fátt er svo með öllu illt, - en það er óþarfi að fara út í það. Síðan las ég eftir yður þessar þrjár smásögur í Sunnudagsberlingnum í vetur. Hm. Fór þá ekki allt, þegar hann Jói á Laxamýri fór?“ Páll vitnaði í skáldskap Jóhanns Sigurjónssonar og fór nokkrum orðum um framþróunarkenninguna. Hann sagði síðan: „Halldór frá Laxnesi? Kannski hafið þér náð í skottið á neistanum.“10

 

Bók Halldórs, Grikklandsárið, bls. 52 – 53:

Heyrið þér úngi maður, sagði Páll Bjarnason lögfræðíngur án þess að brosa þegar ég var búinn að fara með vísurnar; ... Fer þetta nú ekki að verða gott? Sumir segja að við séum leiðinlegasta þjóð á Norðurlöndum. Ég held við séum skemtilegastir af því við kunnum meira af leirburði en aðrir menn. Þó er ekkert til hroðalegra en vont kvæði, hm, nema ef vera skyldi gott kvæði. Meðal annarra orða: Bók náttúrunnar – er það eftir yður?

Bók náttúrunnar, skáskaut ég inn til leiðréttingar – það er eftir Topelíus. Hann var barnakennari. Afturámóti hef ég samið Barn náttúrunnar og sumir telja besta bók hér á landi.

Sögðuð þér Barn náttúrunnar, hélt hann áfram einsog hann væri að tala við einhvern til hliðar eða bakvið mig. Ég er hræddur um að alt sem skáldskap varðar sé um götur geingið á Íslandi; fyrir bí sem kallað er. Ætli það síðasta hafi ekki farið þegar hann Jóhann fór Sigurjónsson.

Ég var við jarðarförina, svaraði undirritaður.

Já svo þér voruð við jarðarförina, sagði Páll Bjarnason og fór að taka eftir mér. Hvað hét aftur bókin yðar?

Hann fylti tjaldið með reyk úr vindli. Frúrnar sögðu eitthvað líka. Sem betur fór var nóttin björt í byrjun júlí á Íslandi 1920.

Sem sagt, bókin þarna í fyrra – hm, hvað hét hún nú aftur? Það var ekki nógu gott. Bók náttúrunnar eða Barn náttúrunnar, það stendur á sama. En það er einsog máltækið segir: fátt er svo með öllu ílt – en það er óþarfi að fara útí það. Síðan las ég eftir yður þessar þrjár smásögur í Sunnudagsberlíngnum í vetur. Hm. Fór þá ekki alt þegar hann Jói á Laxamýri fór? „Vei, vei, yfir hinni föllnu borg. Hvar eru þín stræti, þínir turnar, og ljóshafið – “. Er þá nokkuð eftir nema myrkrið? Berlingske Tidende? Er það ekki bara meiri nótt? Eruð þér eitthvað einkennilegur með leyfi? Hattur Napóleons? Kanski verður nótt í hundraðþúsund ár. Núna á þessum árum eru skjaldbökurnar miklu á Galapagos að deya út, og skapaðar voru fyrir 175 miljón árum. Jörðin verður aldrei aftur söm. Halldór frá Laxnesi? (Hann mundi altíeinu hvað ég hét.) Kanski hafið þér náð í skottið á neistanum.

 

 

73.     „Bók stefnda, bls. 158 – 159. Grikklandsárið, bls. 72 – 79. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (2 tilvik A og B). Sjá dskj. nr. 78.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 158 – 159:

A. Þeir fóru í gönguferð, töluðu um skáldskap og trúarbrögð, gengu hægt upp Laugaveginn og út úr bænum samkvæmt göngulagi Jóhanns, sem hafði staurfót. Áður en þeir vissu af, voru þeir komnir inn fyrir Hlemm. Þar var ekki samfelld byggð, heldur aðeins grjóturð og nokkur hús á stangli. Þeir voru orðnir þyrstir og svangir. Halldór rámaði í það frá mjólkurpóststíðinni, að í holtinu skammt frá þjóðbrautinni stæði hús, sem auglýsti greiðasölu undir nafninu „Norðurpóllinn“. Hann hafði aldrei komið þar inn, en stakk upp á því við Jóhann, að þeir keyptu sér þar að eta og drekka. Þeir fundu húsið og drápu á dyr. Út kom stór kona, ung, samt ekki ungleg, langleit, þurrleg. „Það er orðið nokkuð framorðið,“ sagði konan. „Við framreiðum ekki svona seint.“ Þeir Jóhann reyndu að telja konunni trú um, að þeir hefðu verið í grjótvinnu í holtinu og orðið seinir fyrir vegna stórgrýtis. Konunni leist ekki á þá, en hún sagðist eiga bolla af mjólk, þótt matur væri ekki lengur uppi við. Hún vísaði þeim inn í matstofuna, sem var hrein og snyrtileg, og bauð þeim sæti. Síðan bar hún þeim framúrskarandi mjólk í stórri, blárósóttri könnu. Þetta var eins og hjá huldufólki, fannst Halldóri. Enginn mælti orð. Þeir Jóhann drukku mjólkina, en á meðan stóð konan frammi við dyr og horfði á þá alvörugefin. Í þá hljóp galsi. Þeir fóru að skellihlæja, svo að mjólkin stóð út úr þeim. Ekki sáust svipbrigði á konunni. Þeir skömmuðust sín og stóðu upp sneyptir. Þeir spurðu, hvað þeir ættu að borga. „Ekki neitt,“ sagði konan. Þegar þeir buðu góða nótt, var hún farin að taka af borðinu og hætt að heyra.

 

Bók Halldórs, Grikklandsárið, bls. 72 – 75:

A. Við geingum hægt en taktfast samkvæmt gaungulagi Jóhanns og vorum að tala um skáldskapinn og trúskapinn; og þó við hefðum ekki nema hálft skref í spori ... vorum við samt fyren varði komnir innfyrir hlemm, ... Þegar kom austurfyrir þessi mannvirki var ekki leingur neitt bæarlag á bænum, heldur mestanpart grjóturð með óútskýranlegu húsi hér og hvar. Við vorum orðnir þyrstir ... má bæta því við að báðir mundu altíeinu eftir því að okkur hafði láðst að borða til kvölds.

Nú vildi svo til að forn mjólkurpóstur var ekki ókunnugur þessari leið útúr bænum. ... þá rámaði mig í að þarna uppí holtinu skamt frá þjóðbrautinni ætti að standa hús sem auglýsti greiðasölu ... Auðvitað hafði ég aldrei komið þar áður og kom þar að vísu aldrei síðan; en stakk uppá því við Jóhann að við færum þángað og keyptum okkur einhverja lítilfjörlega glás ... Eftir nokkra gaungu fundum við húsið í þessu stórgrýtisholti; ... Við drápum á dyr. Þar kom út ein feiknarlega stór og hrein kona, úng en samt ekki úngleg, lángleit, dálítið þur ...

Það er orðið nokkuð frammorðið, sagði þessi stóra hreina þura og goðfræðilega kona. Við framreiðum ekki svona seint. Ekki var sint þeirri viðbáru okkar að við hefðum verið í grjótvinnu hér í holtinu og værum orðnir nokkuð seinir fyrir að borða vegna mikils stórgrýtis. Konunni leist áreiðanlega ekki á okkur. ... hún sagði, ... að það væri ekki matur uppivið; í hæstalagi ætti hún bolla af mjólk.

Hún lét okkur koma inní heldur sneyðilega matstofu, ... Alt var hér hvítþvegið ... Hún bauð okkur sæti. Síðan bar hún okkur frammúrskarandi mjólk í stórri blárósóttri könnu. Alt var þetta einsog hjá huldufólki. Einginn mælti orð. Við lögðum á stað til botns í þessari stóru könnu. Þessi stóra gríska gyðja stóð framvið dyr svo alvörugefin að við þorðum ekkert aðsegja, og horfði á okkur drekka; það hljóp í okkur galsi ... við sprúngum sem kallað er, og við útbrotið þeystum við uppúr okkur mjólkinni útum allar trissur. Ekki varð vottur af titríngi í andliti þessarar stóru tignarlegu konu, ... Við fyrirurðum okkur því meir sem við hlógum meira, ... stóðum upp sneyptir niðrí tær.

...

Ekki neitt, sagði Venus frá Míló.

Þegar við buðum góða nótt var hún farin að taka af borðinu og hætt að heyra.

 

Í bók Halldórs hefur aðaláfrýjandi afmarkað texta merktan B, en enga samsvarandi merkingu er að finna í bók gagnáfrýjanda. Er sá texti því ekki rakinn.

 

 

74.     „Bók stefnda, bls. 160 – 161. Grikklandsárið, bls. 155. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 79.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 160 – 161:

Nikkólína var bláeyg, bjarthærð og grönn, með hörund eins og fílabein.

 

Bók Halldórs, Grikklandsárið, bls. 155:

Hún var bláeyg bjarthærð og grönn, þó ekki beint horuð, með hörund einsog fílabein, ...

 

 

75.     „Bók stefnda, bls. 162. Grikklandsárið, bls. 105 – 107. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 80.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 162:

Einu sinni í ágústlok 1920 var Halldór orðinn þreyttur á lestri í bók, náði í gamla hestinn sinn, Hæring, lagði á hann hnakk og hélt burt úr byggð. Hann reið í misstóra hringi, en ekki fram og aftur í beinni línu. Ein hringbraut hans var í kringum Grímmannsfell. Þetta fell er þó aðeins fjall sunnan megin, þar sem þeir Einar Ólafur Sveinsson höfðu klifið ofan fyrr um sumarið. Ef farið var meðfram fjallinu til austurs, smáhækkar undirlendið, en fjallið lækkar að sama skapi, uns komið er austur á Mosfellsheiði. Fjallinu hallar ekki niður að sunnanverðu, heldur myndast þar hálendi, víða nokkuð úfið. En sé beygt til vesturs ofan af Grímmannsfelli, þá endar fjallið þar í aflíðandi hlíðum með djúpum árgiljum; þar eru mýrar í Helgadal. Það var farið að skyggja, þegar Halldór kom ofan af fjallinu. Niðri á valllendisbakka við ána, þar sem Brennholt reis síðar, vissi hann ekki fyrr til en hann rakst inn í hóp útreiðarfólks, sem áði þar hestum sínum. Þetta var ungt fólk, og kannaðist Halldór við sumt. Í hópnum voru stúlkur, sem höfðu sýnt honum áhuga. Þær vissu ekki, að hann var trúlofaður Helgu Jóhannsdóttur í Brautarholti. Hann var raunar ekki viss um það sjálfur.

 

Bók Halldórs, Grikklandsárið, bls. 105 – 107:

Þegar ég var búinn að vera mestallan daginn að lesa bækur ... þá náði ég í hann Hæríng minn gamla, ... og lagði á hann hnakk og reið burt úr bygð.

...

Ég reið í misstóra sirkla, en helst ekki fram og aftur beina línu. Ein af hríngbrautum mínum var kríngum Grímansfell. Þetta fell er þó ekki fjall nema á einn veg, sunnanmegin þar sem við Einar Ólafur Sveinsson klifum ofan. Ef farið er meðfram fjallinu til austurs smáhækkar undirlendið en fjallið lækkar að sama skapi uns maður er staddur austrá Mosfellsheiði. Fjallinu hallar nefnilega ekki niður að sunnanverðu, heldur myndast þar hálendi, víða nokkuð úfið, ... En beygi maður til vesturs ofanaf Grímansfelli þá endar fjallið þar í aflíðandi hlíðum með djúpum árgiljum og maður kemur niðrá mýrar sem tilheyra Helgadal.

Það var farið að skyggja ... þegar ég kom ofanaf fjallinu. Niðrá vallendisbakka við ána þar sem Brennholt stendur núna veit ég ekki fyr en ég rekst inní hóp af útreiðarfólki sem áir þar hestum sínum. Þetta er úngt fólk, sumt kannast ég við ... Þarna var í hópnum þessi einkennilega stúlka ... Hún heilsar mér ... Síðan lítur hún á stallsystur sína ...

... og það kom uppúr dúrnum að þær höfðu verið að tala um mig ...

 

76.     „Bók stefnda, bls. 164. Grikklandsárið, bls. 116 – 118. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 81.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 164:

Halldór sagði móður sinni, að hann ætlaði aðeins að skreppa til útlanda sem boðsgetur um borð í fiskflutningaskipi. Hann flýtti sér að bæta við henni til huggunar, að hann kæmi vonandi heim aftur með sama skipi upp úr jólum. Sigríður í Laxnesi horfði þögul á son sinn, kyssti hann og sagði: „Guð fylgi þér.“ Þegar Halldór kom að skipshlið við hafnarbakkann, tók hann töskur sínar á bakið og kleif um borð. Þar var áhöfn að starfi ásamt hafnarverkamönnum. Þegar Halldór kom á skipsfjöl, hættu menn störfum og stöðvuðu vindur, færðu sig nær, virtu hann fyrir sér þegjandi. Hann gerði boð fyrir brytann. Maður kom til hans, sem var að vísu ekki bryti, heldur stýrimaður á skipinu. Hann hét Oddur Björnsson. Hann sagði Halldóri að snauta aftur upp í land. Hann væri landeyða, sem lægi upp á móður sinni, fátækri ekkju, auk þess sem hann væri sjálfum sér til óþurftar og öllum Íslendingum til skaða, skapraunar og skammar, hvar sem þeir færu. Oddur stýrimaður sagði, að þetta skip tæki ekki að sér að verða skemmtiferðaskip auðnuleysingja og einhvers konar strokumanna, sem lægju í ómennsku og væru annarra manna brauðbítar. Halldór kom heim í Laxnes um kvöldið. Það var stórrigning.

 

Bók Halldórs, Grikklandsárið, bls. 116 – 118:

Ég sagði móður minni að ég ætlaði aðeins að skreppa til útlanda sem boðsgestur um borð í fiskflutníngaskipi og flýtti mér að bæta við henni til huggunar að ég kæmi vonandi heim með sama skipi aftur uppúr jólum. Hún horfði á mig þögul og kysti mig og sagði þrjú orð, en táraðist ekki.

... Það var stórrigníng ...

... Þegar ég kom að skipshlið við hafnarbakkann tók ég tösku mína á bakið og kleif um borð. Þar voru skipverjar að starfi ásamt eyrarköllum ... Þegar ég kom um borð með klyfsöðulinn á bakinu hættu menn störfum og stöðvuðu vindurnar; komu nær; virtu piltinn fyrir sér þegjandi. Ég gerði boð fyrir brytann.

Er nú skemst frá að segja að hvorki var það með fögrum orðum né góðum óskum að þessi ágæti maður, sem ég hélt brytann, sneri mér aftur í land, heldur þörfum athugasemdum um landeyður sem lægju uppá mæðrum sínum, fátækum ekkjum, auk þess sem þeir væru sjálfum sér til óþurftar og öllum íslendíngum til skaða skapraunar og skammar hvar sem þeir færu, ... Þetta skip tók ekki að sér að verða skemtiferðaskip auðnuleysíngja og einhverskonar strokumanna sem lægju í ómensku og væru annarra manna brauðbítar.

... Ég hélt leingi að það hefði verið brytinn sem var svona gáfaður; seinna frétti ég að sá sem talaði hefði verið stýrimaðurinn.

 

 

77.     „Bók stefnda, bls. 165 – 167. Grikklandsárið, bls. 124 – 125, 127 – 134 og 137 – 138. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (4 tilvik A, B, C og D). Sjá dskj. nr. 82.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 165 – 167:

A. Þar sem Þórður stóð á miðju gólfi, kvaðst hann því miður ekki sjá sér fært að taka þátt í umræðu um smábændamál. Hann myndi allt í einu eftir því, að einmitt núna kortér yfir níu hefði hann lofað að eiga vingott við mann uppi á Kjalarnesi, svo að ekki væri seinna vænna að grípa bíl á stundinni. Allir hlytu að skilja, að nokkuð þyrfti til að toga mann eins og hann sjálfan út af opinberum fundi með skáldi eins og Halldóri frá Laxnesi. Til þess að bæta fyrir þetta ódæði sagðist hann hafa einsett sér að gefa Halldóri afmælisgjöf, sem vert væri að bera fram á tvítugsafmæli slíks manns og færi í hönd næsta vor. Hann hefði hugsað sér að rétta honum merka bók, sem aðeins væri til í þrjú hundruð eintökum. Síðan hló Þórður fínlega gegnum nefið og brá fingrum í ilmstokkið hár sitt, gránað, skipt fyrir miðju, um leið og hann vatt sér út um dyrnar. 

B. Eftir að kaffidrykkju var lokið og Þórður farinn, hófst fundurinn í Unuhúsi á því, að Erlendur sótti bréfpoka upp í skáp. Hann hvolfdi úr honum á borðið fyrir framan Sigurð Jónasson. Þetta var handrit, nokkrar útþvældar stílakompur útkrotaðar með ýmislegag lituðu bleki. „Ég sting upp á því, að þú reifir málið,“ sagði Erlendur við Sigurð Jónasson og bætti því við, að höfundur handritsins hefði lagt á herðar honum ábyrgð á útgáfu þess. Sigurður fletti heftunum um stund, en lestur handritsins var torsóttur. Loks rak hann upp tröllslegan hlátur. Hann hló lengi, hristist, emjaði og grét úr hlátri. Aðrir fundarmenn sátu hljóðir. Loks hnippti Erlendur varlega í Sigurð og sagði: „Heyrðu, góði, þú ert málaflutningsmaðurinn, viltu ekki reifa málið?“ Sigurður hætti að hlæja og þerraði tárin. Hann sagði, að höfundur þessarar bókar væri vinur sinn, Gísli Ólafsson á Eiríksstöðum. Hann hefði lofað Gísla að koma á prent fyrir hann ljóðabók. „Af hverju?“ spurði Erlendur. „Af því ég tel Gísla á Eiríksstöðum vera það mikið skáld, að ég er reiðubúinn að vaða fyrir hann eld og vatn.“

C. Síðan sagði hann örlög handritsins. Gísli hefði sent það skáldum og lærðum mönnum nokkurra sýslna til yfirlestrar í þeirri trú, að þeir gætu leiðrétt það og betrumbætt. Við þetta hafði safnast saman í því hinn furðulegasti aragrúi innskota og breytinga, oft ólæsilegra. Handritið hefði auk þess lent í margvíslegu volki á vegum og í vötnum norðanlands. Umræður hófust um málið. Sigurður sagði, að hann kveddi úr þessum hópi til menn, sem gætu tínt saman verk Gísla úr þessari sópdyngju. Á næstu fjórum árum tókst þeim Erlendi, Hallbirni, Ingimar og Þórbergi auk Stefáns frá Hvítadal að lesa í mál handritsins texta í bundnu máli. Þegar bókin kom út undir heitinu Nokkrar stökur, vakti hún enga athygli.

D. Gísli á Eiríksstöðum kunni þeim mönnum sem búið höfðu kver hans til prentunar, litlar þakkir, orti aðra ljóðabók í skyndi og gaf út, en seldi ekki eitt einasta eintak af henni.

 

Bók Halldórs, Grikklandsárið, bls. 124 – 125, 127 – 134, og 137 – 138:

A. ... þá stóð Þórður snögglega upp og sagðist því miður ekki sjá sér fært að taka þátt í umræðu um smábændapólitík sem hér yrði á dagskrá, þar sem hann mundi altíeinu eftir því að hann var teptur; en svo vildi til, sagði hann, að einmitt núna klukkan kortér yfir níu var hann búinn að lofa að eiga vingott við mann uppá Kjalarnesi, svo ekki var seinna vænna að grípa bíl á stundinni. ... Allir hlytu að skilja að nokkuð þyrfti til að toga mann einsog hann, Þórð sjálfan, útaf opinberum fundi með skáldi því er hann nú hafði nefnt. Til þess að bæta fyrir þetta ódæði sagðist hann hafa einsett sér að gefa Halldóri þessum afmælisgjöf sem vert væri að bera fram á tvítugsafmæli slíks manns og í hönd færi á vori komanda. Ég hafði hugsað mér að rétta að honum merka bók sem ég hef eignast: hún er aðeins til í þrjúhundruð eintökum ...

Síðan hló Þórður fínlega gegnum nefið og brá fíngrum í grámeingað hár sitt ilmstokkið, skift fyrir miðju, um leið og hann vatt sér útum dyrnar.

B. Áhyggjur þíngsins lágu of þúngt á mönnum til þess þeim þætti tíðindum sæta um snögga brottför Þórðar uppá Kjalarnes. Kom nú að því að Erlendur sótti í skáp sinn gögn málsins eða réttara sagt gagn; ... Sú kóngsgersemi var varðveitt í bréfpoka ... því sem í pokanum var hvolfdi Erlendur á borðið fyrir framan Sigurð Jónasson. Það var einhverskonar handrit og stóð saman af nokkrum útþvældum stílakompum, kvergreyum krábulluðum án eyðu með ýmislega lituðu bleki. ...

Ég stíng uppá því þú reifir málið, sagði Erlendur við Sigurð Jónasson, og bætti því við að ef hann væri rétt bréfaður, þá hefði skáldið lagt á herðar honum ábyrgð á útgáfu þessarar bókar.

Sigurður fletti heftunum um stund, en lestur handritsins var torsóttur, ... Loks rak hann upp einn af hlátrum sínum sem stóðust samanburð við sagnfræga hlátra úr bókmentum, ...

Varla er of miklu logið þó sagt sé að hlátrar Sigurðar Jónassonar veltust í holskeflum yfir þetta þíng ... síðast var hann farinn að emja. Akademían sat hljóð í kríng ... uns Erlendur hnipti varlega í lögfræðínginn ... og sagði næstum í hljóði: Heyrðu góði, þú ert málaflutníngsmaðurinn, viltu ekki reifa málið.

Þegar Brúðguminn kom loksins til sjálfs sín þurkaði hann af sér tárin og flutti í lágum hljóðum erindi sem þessa meiníngu hélt: Höfundur þessarar kvæðabókar ... þessi góði maður Gísli á Eiríksstöðum, hann er eini vinur minn í heiminum heimahjá mér í Húnavassýslu. Nú er lángt um liðið síðan ég lofaði honum að koma á prent fyrir hann ljóðabók.

Erlendur: Af hverju?

Svar: Af því ég tel Gísla á Eiríksstöðum vera það mikið skáld að ég er reiðubúinn að vaða fyrir hann eld og vatn.

C. Þau höfðu í stuttu máli orðið örlög ofangreindrar bókar að höfundur sendi frumrit sitt lærðum og háttsettum mönnum nokkurra sýslna til yfirsýnar, auk ofvaxinna þjóðskálda, í þeirri trú að þessleiðis menn væru líklegir til að bæta málvillur sem múgamenn á Íslandi ímynda sér að aungvir geri nema þeir sjálfir. ...

Ef undan voru skildar í þessu ljóðahandriti neftóbaksklessur og aðrar persónulegar bleytur, var furðulegastur sá grúi innskota og betrumbóta, þó víðast ólæsilegra, sem gerður hafði verið á textanum með ólíkum rithöndum og blekum útí hvern auðan blett þessa frumhandrits. ... Undrun vakti að þessir innskotsstjórar virtust stundum hafa dottið ofaní vötn, og sum djúp, í embætti sínu; ellegar leirkeldur – einlægt með bókina í brjóstvasanum; ...

... upphófst Sigurður Jónasson tvíelleftur, ... og mælti eitthvað á þessa leið:

Ég, ... ætla að leyfa mér að kveðja til úr hríngnum kríngum þetta góða matborð Unuhúss þá fræðimenn snillínga og meistara sem ég trúi fyrir því að tína saman hann Gísla minn uppúr þessari dýngju af þjóðskáldum sýslumönnum alþíngismönnum og próföstum, og endurreisa þar með skáldið í anda hans sjálfs, ...

... nefndi Sigurður nöfn þeirra manna nærstaddra sem hann trúði fyrir nýrri endurskoðun bókarinnar og umsjón með prentun hennar, ...

Á fjórum næstu árum ... tókst þeim meisturum Erlendi Hallbirni Íngimar og Þórbergi auk Stefáns frá Hvítadal, og reyndar nokkrum fleiri útvöldum mönnum, að lesa í málið aftur texta sem verið höfðu lærdóminum og embættismannastéttinni algjör augnaraun. Enda held ég fullyrða megi að opinber bókmentagagnrýni á Íslandi hafi lagt frá sér þessa bók þegjandi og hljóðalaust þegar hún kom ... hvergi minnist ég að hafa séð hennar getið.

D. Því er óþarft að gleyma að Gísli fyrirgaf aldrei þeim mönnum sem Sigurður Jónasson setti til að búa „nokkrar stökur“ hans til prentunar. ... Til að bjarga sóma sínum orti hann aðra ljóðabók í skyndi og gaf hana út að öllum forspurðum. Af þeirri bók hef ég þau tíðindi að ekki hafi eintak selst, ...

 

 

78.     „Bók stefnda, bls. 170. Grikklandsárið, bls. 166 – 167. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 83.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 170.

Halldór fór til Nikkólínu Árnadóttur til að biðja hana að syngja fyrir sig að skilnaði. Jóhann Jónsson sat á stokknum hjá unnustu sinni. Hún var að gráta. Gítarinn lá þversum til fóta í rúminu. „Farðu ekki,“ sagði Nikkólína. Jóhann stóð upp og gekk út að glugga og horfði hnykluðum brúnum og niðurdregnum munnvikum á, hvernig rigndi í mórauða pollana á Laugavegi. „Hvað hefur gerst?“ spurði Halldór. „Jóhann hefur ráðið sig sem heimiliskennara austur á land að kenna tveimur dömum,“ sagði Nikkólína. „Það hef ég líka og meira til,“ sagði Halldór. „Mín eru sex.“ Jóhann hafði ráðið sig til að kenna dætrum verslunarstjórans á Djúpavogi, en sú höfn er næst Hornafirði að austan. Þegar Halldór og Jóhann voru komnir út á götu, hlógu þeir þorparalega í slagviðrinu. Þeir voru að hlaupast á brott frá unnustum sínum.

 

Bók Halldórs, Grikklandsárið, bls. 166 – 167:

Ég fór til Nikkólínu að biðja hana að sýngja mér þennan yndislega sálm Jag och Torvald och Johannes.

Jóhann Jónsson sat á stokknum hjá ástmey sinni og hún var að gráta. Gítarinn lá þversum til fóta í rúminu. Líklega var ég að ónáða.

Farðu ekki, sagði Nikkólína.

Jóhann stóð upp og gekk útað glugganum og horfði hnykluðum brúnum og niðurdregnum munnvikum á hvurnin rigndi í morauða pollana á Laugaveginum.

Hvað hefur gerst, spurði ég.

Jóhann hefur ráðið sig sem heimiliskennara austrá land að kenna tveimur dömum, sagði Nikkólína.

Það hef ég líka og meira til, sagði ég. Mín eru sex.

... kom uppúr dúrnum að Halldór Kolbeins hafði ráðið Jóhann til að kenna tveimur úngum stúlkum, dætrum verslunarstjórans á Djúpavogi; en sú höfn ... er næst Hornafirði að austan. ... Þegar við Jóhann vorum komnir útá götu, burt frá Nikkólínu, hlógum við þorparalega í slagviðrinu.

 

 

79.     „Bók stefnda, bls. 171. Grikklandsárið, bls. 170 – 174. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 84.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 170 – 171:

Þegar ekki var lengur vært í stofunni fyrir roki og regni, bauð Sigurbjörn þeim Jóhanni til hjónaherbergis uppi. Þar voru ekki aðrir innanstokksmunir en hjónarúmið og koffort. Sigurbjörn gerðist íbygginn á svip og bjó sig til að ljúka upp koffortinu. Halldór vonaði, að hann geymdi þar einhvern skrínukost. Svo reyndist ekki vera. Koffortið var troðfullt af ástarbréfum, sem Sigurbjörn hafði safnað á ferðum sínum um landið. Sagði Sigurbjörn, að þar væru að minnsta kosti fimm hundruð bréf, hóf lestur upp úr þeim gestum sínum til skemmtunar, en hafði varla lesið fimm bréf, þegar Jóhann var sofnaður. Skömmu síðar féll Halldór út af frá lestrinum. Slagviðrið hélt áfram að lemja gluggana. Þegar Halldór vaknaði um morguninn, var hann einn í hjónarúminu og hafði ekki aðeins gleymt að fara úr frakkanum, heldur og stígvélum og hálsbúnaði. Jóhann kom að utan og hafði frétt, að brottfarartími Sterlings úr Vestmannaeyjum yrði klukkan tíu. Þeir stigu um borð.

 

Bók Halldórs, Grikklandsárið, bls. 170 – 174:

Þegar ekki var leingur vært fyrir roki og regni í stofunni bauð Sigurbjörn okkur til hjónaherbergis uppi. Í hjónaherberginu voru ekki aðrir innanstokkmunir en hjónarúmið og eitt koffort. ...

Sigurbjörn gerði sig nú í meiralagi íbygginn og bjó sig til að ljúka upp koffortinu. Ég var farinn að vona að hann geymdi þarna einhvern skrínukost, ...

Þarmeð lauk hann upp koffortinu. ...

Það kom uppúr dúrnum að Sigurbjörn hafði árum saman safnað ástabréfum hvaðanæva af landinu. ... Skrína sú sem auk hjónarúmsins prýddi herbergið, og lokuð var með tveim lyklum, reyndist vera troðin og skekin af ofangreindri framleiðslu allra landshorna. ... Sjálfur sagðist Sigurbjörn hafa fyrir sið að byrja ætíð á leingstu bréfunum þegar hann læsi ástabréf fyrir fólk. Þarna voru að sögn hans fimmhundruð ástabréf ... Jóhann var sofnaður í frakkanum áður en mér sýndist Sigurbjörn hafa komist gegnum meiren 100asta part af þessum lofnarkríubókmentum heimsins; bráðum var ég sofnaður líka, ... En slagviðrið hélt áfram vild sína að lemja gluggana ...

Þegar ég vaknaði að morni var ég einn í hjónarúminu og hafði ekki aðeins gleymt að fara úr frakkanum, heldur og stígvélum og hálstaui. ...

Jóhann kom að utan, og hafði frétt að brottfarartími Sterlíngs úr Vestmanneyum yrði klukkan 10. Við fórum að hafa okkur um borð.

 

 

80.     „Bók stefnda, bls. 174. Grikklandsárið, bls. 212 – 213. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 85.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 174:

Halldóri var vel tekið í húsi verslunarstjórans á Djúpavogi, og hann fékk að sofa úr sér sjóvolkið. Honum fannst andrúmsloftið í húsinu samt einkennilegt, ekki vinsamlegt og glaðlegt, skammt í þögn. Húsfreyjan sást ekki. Jóhann Jónsson var eins og bólgið þrumuský á svip, en fálátur. Hann ætlaði ekki suður með strandferðaskipinu eins og Halldór, heldur ríða landleiðina, um veglausa sanda með jökul á aðra hlið og Norður-Atlandshafið á hina, yfir ótal beljandi sundvötn.

 

Bók Halldórs, Grikklandsárið, bls. 212 – 213:

Ekki stóð á góðum viðurtekjum í húsi Verslunarfélagsins; ... Jóhann var dramatískur einsog bólgið þrumuský, en fálátur. Hann var rakinn í að dveljast hér leingra frammá vor en ráð var fyrir gert; vildi ekki verða af happi sem bauðst, að fara landveg suður í öruggri samfylgd ... Hann hlakkaði til að kynnast veglausum söndum sem hafa mestu jökla Evrópu á aðra hlið og Norðuratlantshafið á hina, auk ótal beljandi sundvatna, ...

 

 

81.     „Bók stefnda, bls. 175. Grikklandsárið, bls. 224. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 86.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 175:

Koma séra Halldórs Kolbeins til Flateyjar dróst. Halldór naut nálægðarinnar við náttúruna. Hann átti til að fara í rosabullur og olíuföt og leggjast í þarabing suðaustanvert á eynni til að hlusta á gargið í sjófuglum. Stundum sofnaði hann í þessari votu sæng. Dagar og nætur héldu áfram að renna saman, og enn var presturinn í óskilum.

 

Bók Halldórs, Grikklandsárið, bls. 224:

Þegar dagar liðu og dróst úr hömlu að nafni minn vitjaði brauðs síns, fann ég stundum hvað það er að standa uppi í eyðieyu án þess að hafa gúru. Mér til skemtunar fór ég oft í rosabullurnar mínar og olíufötin og lagðist í þarabrúkið suðaustanvert á eynni, að hlusta á gargið í sjófuglinum. Stundum sofnaði ég í þessari votu sæng ...

Dagar og nætur héldu áfram að vera ein og sama birtan, og ég var einsog farteski í óskilum ...

82.     „Bók stefnda, bls. 175 – 176. Grikklandsárið, bls. 225 – 230. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 87.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 175 – 176:

Halldóri varð stundum litið út um gluggann á svefnherbergi sínu á annarri hæð Vertshússins. Þaðan sást niður í þröngan húsagarð milli þess og svonefnds Bentshúss, sem stóð því næst. Hann tók eftir því, að á hverjum degi milli hádegis og nóns kom stúlka út úr því húsi með stól. Hún setti stólinn á stað, þar sem ekki sást neitt inn af stígnum framan við húsin, klæddi sig úr að ofan og dró föt upp á efri læri, settist og lét sól skína á sig. Öðru hverju hagræddi hún sér í stólnum eða stóð upp og náði í kökubita inn eða bók. Halldóri þótti stúlkan gullfalleg, en hafði nokkrar áhyggjur af því, að hann væri að liggja á gægjum. Hann komst að því, að þessi stúlka hét Sigurlína Sigríður Jóhannsdóttir og var 21 árs. Hún var í vist í Bentshúsi og giftist síðar húsráðanda á neðri hæðinni, Guðmundi Jóhannessyni loftskeytamanni. Einn daginn skellti Halldór aftur bókinni, sem hann var að lesa, tók rögg á sig, gekk ofan og út, ráðinn í því að segja til nafns við Sigurlínu. Hann gekk út um framdyrnar á Vertshúsinu og beygði inn í opið sundið milli húsanna, þar sem stúlkan sat í sólinni. En hann rak óvart tána í steinvölu, svo að Sigurlína heyrði umbrot og skruðninga að baki sér. Hún hrökk við, kom auga á karlmann og spratt upp úr hægindi sínu og var horfin inn um bakdyrnar hjá sér á svipstundu. Eftir voru í stólnum útsaumuð sessa hennar og handþurrka. Eftir það sást Sigurlína aldrei í sólbaði. Þegar Halldór mætti henni fyrir framan búðina á staðnum nokkrum dögum síðar, leit hún hátt upp og langt burt.

 

Bók Halldórs, Grikklandsárið, bls. 225 – 230:

Úr svefnhúsglugga mínum þar á vershúsloftinu gerði ég meira að því að horfa útá sjó en lesa, ... Útum gluggann sást þó einkum og sérílagi niðrí tiltölulega þraungan húsagarð milli vershússins og næsta húss, og skein þar sól sem af því má ráða að eldhúsmegin útúr því húsi kom stúlka með stól á hverjum degi. Hún klæddi sig úr að ofan og gerði sig berfætta uppá þykkvalær, settist síðan í stólinn til að láta skína á sig í horni sem myndaðist við bíslag á húsi hennar og kom svo í veg fyrir að hún sæist utanaf stígnum. ... hvenær sem mér verður litið útum svefnherbergisgluggann milli hádegis og nóns, þá situr þar þessi hálfbera stúlka, breiðir sig út glóhærð og litfögur og leggur aftur augun á móti sólinni. Stundum ránkaði hún við sér og hagræddi sér í sætinu eða stóð upp og lét stólinn sinn mynda öðruvísi horn við gluggann minn; stundum brá hún sér inn eldhúsmegin og sótti sér aðra bók, jafnvel kökubita, ... ég held ég hafi ekki í annan tíma séð jafnfallega stúlku ...

... Ég fór þá að hugsa hvort það væri ekki á móti guðs og manna lögum, og auk þess algert virðíngarleysi við fagrar konur, að láta sem maður yrði þess ekki áskynja að þarna var stúlka. Eða mundi eftirtektarleysi mitt verða til þess að stúlkan færi að hatast við mig fyrir að liggja á gægjum? Mundi ekki hvur ærlegur maður ... bjóða góðan daginn og segja til nafns? Þó var einsog mig hálfminti að einhverstaðar varðaði við lög að gægjast á kvenmann úr leyni ... Nú er það einn dag ... þá skelli ég aftur bókinni sem ég var að lesa, tek rögg á mig, geing ofan og út, í því ráðinn að segja til nafns míns við þessa stúlku, ... Með þessum fróma ásetníngi sæti ég lagi og geing ofan og útum framdyrnar á hótelinu en beygi innum opið sundið milli húsanna þángað sem stúlkan situr í sólinni.

...

Fyrir mér fór svo að ég kynni að hafa skrikað á steinvölu, eða rekið tána í; nema það dugði til að stúlka með ofgóð skilníngarvit heyrði umbrot og skruðnínga að baki sér ... hún hrökk við, kom auga á karlmann og spratt uppúr hægindi sínu og var horfin innum bakdyrnar hjá sér, alt á einni sekúndu; og ekki eftir í stólnum utan útsaumuð sessan hennar og handþurkan.

Aldrei bar við að stúlkan færi í sólbað eftir þetta; ...

Nokkrum dögum seinna mætti ég þessari stúlku ... á plássinu fyrir utan búðina hjá Guðmundi Bergsteinssyni. Hún sá mig ekki, ... leit amk mátulega hátt upp og lángt burt til að sanna það.

 

 

83.     „Bók stefnda, bls. 176. Íslendingaspjall, bls. 106 – 107. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 88.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 176:

Séra Halldór Kolbeins kom loks til Flateyjar. Hann ákvað að taka nafna sinn frá Laxnesi með sér í ferð um sóknina og nálægar byggðir. Séra Halldór drakk ekki kaffi. Þegar prófasturinn í héraðinu, séra Bjarni Símonarson á Brjánslæk, stuttur maður með jólasveinaskegg, heyrði það, setti hann upp áhyggjusvip. „Mætti nú kannski segja, að það væri heldur heppilegra, að prestur drykki kaffi,“ sagði hann og dró seiminn. „Mér þykir það vont,“ sagði séra Halldór. Séra Bjarni svaraði því til, að sumt yrði að gera fyrir fólk, þótt það væri ekki skemmtilegt. Hver meðalprestur yrði að vera við því búinn í embættisferðum að drekka kaffi á hverjum bæ.

 

Bók Halldórs, Íslendingaspjall, bls. 106- 107:

Yfirboðari séra Halldórs þar vestra var prófastur séra Bjarni Símonarson á Brjánslæk, stuttur maður með skegg einsog jólasveinn á jólakorti. Séra Halldór var ... bindindismaður á kaffi og aðra hressandi drykki, ... Þegar prófasturinn séra Bjarni varð þess áskynja að nýi presturinn drakk ekki kaffi færðist áhyggjusvipur yfir hinn aldna drottinsþjón.

Mætti nú kanski segja að það væri heldur heppilegra að prestur drykki kaffi, sagði prófasturinn.

Mér þykir það vont, sagði séra Halldór.

En séra Bjarni var heilagur maður og hélt því þessvegna fram að það yrði að gera ýmislegt fyrir fólkið sem manni væri sjálfum ekki alténd jafn skapfelt, og bætti við að hver meðalprestur ætti að vera við því búinn á embættisferðum að drekka þrjátíu mál af rótarkaffi ... á hverjum bæ.

 

 

84.     „Bók stefnda, bls. 197 – 198. Alþýðubókin – Þjóðerni, bls. 39 – 40. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. (2 tilvik A og B). Sjá dskj. nr. 89.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 197 – 198:

A. Klefanautur Halldórs á bakaleiðinni var aldraður þýskur úrsmiður, sem hafði stundað iðn sína áratugum saman í bandarískum bæ. Þeir Halldór urðu góðir kunningjar, og sótti Halldór honum bjór bæði á nóttu og degi þvert ofan í bann læknis, en smiður bauð Halldóri að launum úr sitt, sem hann þáði þó ekki. Kvöld eitt, þegar smiður var að hátta, rann á hann blundur, þar sem hann sat þversum í rúmi sínu og var að búa sig undir að fara úr buxum. Halldór reyndi að vekja hann með því að kalla til hans á ensku og þýsku. Síðan kleip Halldór hann og hristi. En allt kom fyrir ekki. Úrsmiðurinn var allur. Nóttina eftir, þegar flestir farþegar voru gengnir til svefns, var hann settur í poka og sökkt til botns að Halldóri ásjáandi.

B. Í sömu ferð varð Halldóri starsýnt á gömul sveitahjón úr Rínarlöndum. Konan var nærri níræðu, en bóndinn hafði fimm um áttrætt. Þau höfðu flust vestur fyrir fimmtíu árum, þegar þau voru í blóma lífsins og sest að í námunda við Milwaukee. Þau áttu níu börn á lífi, förutíu barnabörn og fjöldann allan af barnabarnabörnum, sem dreifðust um Bandaríkin. Höfðu sumir afkomenda þeirra barist í stríðinu 1914-1918. En nú höfðu gömlu hjónin selt bú sitt og voru á leið heim. Þau mæltu ekki á enska tungu, heldur var rínlenska með þekkum, upprunalegum hreimi þeim jafntöm og fyrir fimmtíu árum. Þau sátu á þiljum uppi í bjartviðrinu hvort við annars hlið án þess að gefa gaum að hafinu. Þau voru búin eins og bændafólk, gamla konan í svartri treyju og skósíðu pilsi, með snotran skýluklút bundinn yfir höfuðið, gamli maðurinn snöggklæddur, í grárri skyrtu, með bláan klút um hálsinn, í sunnudagsskóm og tottaði pípustert af gömlum vana. Þau töluðust ekki við, en sátu þögul eins og einn maður, og þegar talað var við þau, svöruðu þau eins og einn maður. „Út úr þessum falslausu andlitum upprunans sjálfs talaði það samræmi landslags og örlaga sem kallað er þjóð,“ skrifaði Halldór sex árum síðar í Alþýðubókinni.10

 

Bók Halldórs, Alþýðubókin – Þjóðerni, bls. 39 –40 :

A. ... einkum þjóðverjar. Nokkrir voru á heimleið til átthaganna alfarnir, einsog t.d. klefanautur minn, aldraður úrsmiður þýskur, er stundað hafði iðn sína áratugum saman í amerískum bæ. Urðum við hinir bestu mátar og sótti ég honum bjór upp í veitíngaskála bæði á nótt og degi þvert ofan í bann læknisins, og hann bauð mér að gefa mér úrið sitt, sem ég þáði ekki ...

B. Þó varð ég á þessari ferð sjónarvottur annars dæmis lángtum eftirminnilegra um fólk á heimleið. ... þetta voru aðeins gömul sveitahjón, ættuð úr Rínarlöndum; þau voru á leið heim. Mig minnir konan hafi verið mjög nærri níræðu, en bóndinn hafði fimm um áttrætt. Þau höfðu flust vestur fyrir fimtíu árum, þegar þau voru í blóma lífsins, og tóku land í námunda við Milwaukee. ... þau áttu níu börn á lífi, fjörutíu barnabörn og kynstur af barnabarnabörnum, og var fólk þetta dreift út yfir öll Bandaríkin, og sumt feingið heiðurspenínga fyrir góða framgaungu í stríðinu. En gömlu hjónin, ... höfðu nú selt búið og tekið sig upp og voru á leið heim. Þau mæltu ekki á enska túngu, en rínlenskan með þekkum upprunalegum hreimi var þeim jafntöm og fyrir fimtíu árum ... Þau sátu á þiljum uppi í bjartviðrinu hvort við annars hlið án þess að gefa nokkurn gaum að hafinu. Þau voru búin einsog bændafólk lángt upp til sveita ... gamla konan í svartri treyu og skósíðu pilsi, með snotran skýluklút bundinn yfir höfuðið, gamli maðurinn snöggklæddur, í grárri skyrtu, með bláan klút um hálsinn, í sunnudagaskónum sínum og tottaði pípustertinn sinn af gömlum vana. Þau töluðust ekki við, en sátu þögul einsog einn maður, og þegar talað var við þau svöruðu þau einsog ein persóna; ...

... Út úr þessum falslausu andlitum upprunans sjálfs talaði það samræmi landslags og örlaga sem kallað er þjóð.

 

 

85.     „Bók stefnda, bls. 201 – 202. Heimsljós, Höll Sumarlandsins, bls. 291. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 90.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 201 – 202:

Var ástin Halldóri ekki nokkur sjóvot spor á gólfinu og sandur í sporunum, angan af konu, mjúkar varir í rökkri sumarnæturinnar?

 

Bók Halldórs, Heimsljós, Höll Sumarlandsins, bls. 291:

... nokkur sjóvot spor á gólfinu og sandur í sporunum, ángan af konu, mjúkar elskandi varir í rökkri sumarnæturinnar, ...

 

 

86.     „Bók stefnda, bls. 204 – 205. Um ilm og ljóma, grein í Alþýðublaðinu dags. 24.12.1924. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (2 tilvik A og B). Sjá dskj. nr. 91.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 204 – 205:

A. Hann gekk með farangur sinn neðan úr þorpinu um veg, sem lá í krákustígum upp eftir greni vaxinni hlíð, ... Efst í hlíðinni gekk Halldór um stund meðfram háum klausturmúrnum, uns hann kom að stórum steinboga yfir hliði. Hann opnaði hliðið og stóð í næsta vetfangi inni í þröngum forgarði.1 Kirkja var á vinstri hönd með voldugum, háum turni, ...

B. Rauf opnaðist, og út gægðist andlit í brúnum kufli með hettu fram á eyru. Halldór var inntur eftir nafni og þjóðerni, ... Halldór steig inn i fordyri, ... Halldóri var vísað til lítillar biðstofu.

 

Grein Halldórs Um ilm og ljóma í Alþýðublaðinu dags. 24.12.1924:

A. Vegurinn liggur í krákustígum neðan úr þorpinu, upp eftir grenivaxinni hlíð, síðan fram með klausturmúrnum um stund, þegar upp kemur á brúnina, að stóru porti. Gesturinn opnar á múrnum lágar dyr á aðra hlið við portið og stendur í næsta vetfangi inni á garðsvæði þröngu, umluktu á hvorn veg, en andspænis rísa forhliðar klausturs og kirkju með súlum framan við, en voldugum turnum upp af.

B. Loks er lúka örlítil opnuð ofarlega á hurðinni og gægist andlit fram. Þá er það bróðir Páll í kufli sínum með hettuna fram á eyru, sem heilsar þér. ... Hann spyr þig að nafni og þjóðerni og vísar þér inn í forsal klaustursins en þaðan í lítið biðherbergi ...

 

 

87.     „Bók stefnda, bls. 207. Skáldatími, bls. 12. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 92.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 207:

Hann var lágvaxinn, lotinn mjög, en fjallbreiður á herðar, með tunglmyndað andlit, girt hvítum skeggkraga, ...

 

Bók Halldórs, Skáldatími,bls. 12:

... öldúngur með túnglmyndað andlit umgirt gráum skeggkraga einsog Magnús í Melkoti, fjallbreiður á herðar og ákaflega lotinn.

 

88.     „Bók stefnda, bls. 211 – 212. Um ilm og ljóma, grein í Alþýðublaðinu dags. 24.12.1924. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 93.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 211 – 212:

Gestir streymdu að klaustrinu til að njóta jólahelgarinnar. Á aðfangadagskvöld skiptu þeir tugum. Þá sá Halldór menn af öllum stigum sitja við kvöldborðið, stjórnmálamenn og smiði, háskólaprófessora og bændur, menntaskólapilta og herforingja og fyrirmenn svo sem eiginmann stórhertogafrúarinnar í Lúxemborg, Felix prins af Bourbon-Parma, og Duarte af Bragança, ríkisarfa í Portúgal. Þetta kvöld gekk enginn til náða í klaustrinu. Öll nóttin var fagnaðarhátíð vegna fæðingar frelsarans. Að loknum náttsöng eftir málsverð var djúp kyrrð í nær tvo tíma. Halldór og aðrir gestir biðu messu í klefum sínum. Skömmu fyrir miðnætti heyrðist fyrst ómur daufrar klukku eins og úr fjarlægð. Í næstu andrá gall önnur við efldari, þá hin þriðja enn styrkari og loks hin fjórða með öflugum kliðþunga, og innan skamms var sem óteljandi klukkur kvæðu við í voldugum samhljómi. Verið var að hringja inn til fyrstu jólamessu, missa in nativitate Domini (messu til fæðingar Drottins). Nokkru áður en hún hófst, settust Halldór og aðrir gestir klaustursins inn í stúkuna aftan við kórþilið. Hundruð logandi kerta og blóma skreyttu kirkjuna. Hvolf hennar titruðu undan klukknaleiknum. Smám saman dró úr kliðnum, uns hann leið út í fjarska. Loks gall daufa klukkan ein, og hljómur hennar fjaraði einnig út, dvínaði smám saman út í eigið bergmál. Í þeim svifum tók orgelið að hljóma með voldugum þunga. Vængjum skrúðhússdyranna var slegið upp, og fyrstu messuþjónarnir stigu inn, hvítklæddir ljósberar, og því næst munkarnir, tveir og tveir samsíða, í langri fylkingu, klæddir dragsíðum kórkápum, með hendur faldar í belgvíðum ermunum. Fylkingin streymdi hægt áfram, en skildist á miðju kórgólfi, og gekk hver til sinnar handar í sæti sín í kórnum. Síðastir fóru skrúðklæddir prestar, sem þjóna skyldu við messuna, loks ábótinn sjálfur, dom Alardo, sem skyldi syngja dýrðarmessu í nótt, með mítur á höfði og bagal í hendi, klæddur skrúðkápu mikilli, en djákni og undirdjákni hvor á sinni hlið héldu upp kápuföldum. Lestina ráku nokkrir messuþjónar í hvítum silkikuflum með ljós í höndum og messuþing. Ábóta var fylgt til sætis síns vinstra megin við altarið, og sat hann þar, uns messan hófst. Þegar forleiknum lauk, var upphafstónn tíðasöngsins sleginn á orgelið, en ábótinn stóð upp og söng fyrstur upphaf tíðanna við gregoríanskt hátíðalag.

Messan fór síðan fram á svipaðan hátt og aðra daga, nema hvað haft var meira við. Í messunni gekk allur söfnuðurinn til altaris, til Guðs borðs, til sameiningar við hinn nýfædda frelsara. Strax á eftir hófst önnur jólamessa, missa en nocte, næturmessa. Að henni lokinni, um óttubil, var hlé á guðsþjónustunni. Munkarnir sátu að vísu enn um hríð í kórsætum sínum og sungu næturtíðir, en gestum var vísað í borðsal klaustursins og fengu þar súkkulaði, kökur og klausturlíkjör. Munkarnir föstuðu hins vegar næturlangt og vöktu fram eftir. Undir dag var sungin morgunmessa, missa in aurora, og því næst óttusöngur, en um dagmál á jólamorgni var hámessa og fullt út úr dyrum.

 

Grein Halldórs, Um ilm og ljóma í Alþýðublaðinu dags. 24.12.1924:

Aldrei er þó svo gestkvæmt hjá Benediktínum sem á jólum. Streyma gestir að úr öllum áttum til að njóta jólahelginnar, fela sig þar hinum nýfædda Kristi í bæn. Hygg ég gestina hafa skift tugum á aðfangadagskvöld. Við kvöldborðið þóttist ég sjá stjórnmálamenn og snikkara, prófessora og sveitamenn, mentaskólapilta og herforíngja, klerka og listamenn, og af tignum mönnum var þar kominn „maðurinn drotningarinnar“ af Luxembourg, auk portúgalska konugssonarins, prinsins af Bragansa, sem dvaldi að staðaldri gestur í klaustrinu. ...

Menn ganga ekki til svefns í klaustrum á jólanóttina. ...

Að loknum síðasta kvöldsöng (completarium) ríkir djúp kyrð í klaustrinu, næstum tvo tíma. Það er magnum silentium og hjal á ganginum væri brot á siðum hússins; aðeins fótatak óklaustursvanra gesta heyrist endrum og eins í stigunum. Vér bíðum messunnar í klefum okkar.

Stundu fyrir lágnætti heyrist ómur daufrar klukku líkt og úr geysi fjarlægð. Í næstu andrá gellur önnur við nokkru efldari og nokkru nær, þá hin þriðja enn styrkari og loks hin fjórða með öflugum kliðþunga, og innan skamms er sem óteljandi klukkur kveði við í voldugum samhljómi, þúsund voldugar klukkur svo að jötunmúrar klaustursins titra. Það er verið að hringja til messunnar in nativitate Domini – til fæðingar herrans.

Innangengt er úr klaustri í kirkju og nokkru fyrir messu setjumst vér gestir í stúkur þær sem oss eru ætlaðar neðan við kórþrepin, ...

 

 

89.     „Bók stefnda,bls. 219 – 220. Dagar hjá múnkum, bls. 93 – 94. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 94.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 219 – 220:

Halldór sat að kvöldverði í borðsalnum 2. mars. Gráfíkjur voru í ábæti. Hann tók þrjár á disk sinn, en þær reyndust svo harðar og seigar undir tönn, að Halldór var enn að tyggja, þegar framreiðslumaður hneigði sig fyrir ábóta til að láta vita af því, að allir hefðu lokið málsverðinum. Venjan var þá sú, að ábóti gæfi þeim, sem las upp, merki um að hætta, en eftir það var sungið stutt lag. Halldór hamaðist við að tyggja. Ábóti sat með hamar í hendi albúinn að slá í borðið, en munkarnir horfðu á Halldór tyggja eins og hann ætti lífið að leysa og kímdu. Loks fékk Halldór rennt niður einhverjum hluta af gráfíkjunum og lét eins og hann hefði lokið við þær. Þá sló ábóti hamri sínum í borðið. Þegar munkarnir stóðu upp til borðsöngs, kraumaði í þeim hláturinn. Halldór skrifaði í dagbók sína um kvöldið: „Náttúrlega hló ég líka. Og ég dáist að hvílík blessuð saklaus börn þeir menn eru sem geta hlegið að því að einn maður skuli vera hálfa mínútu á eftir öðrum að tyggja gráfíkju!“10

 

Bók Halldórs, Dagar hjá múnkum, bls. 93 – 94:

Við kvöldborðið gerðist eftirfarandi sensatíon í refektóríinu:

Gráfíkjur vóru til eftirmatar. Ég tók þaraf þrjár á diskinn minn, en þær reyndust vera svo harðar og seigar í mínum tannveika munni, að þegar servitörinn hneigði sig fyrir ábóta til marks um að allir væru búnir, þá var ég enn með fullan gúlinn.

Nú er það mikið hlátursefni í klaustrum ef einhver er étandi ennþá eftir að ábótinn hefur gefið lectör signal um að hætta lestri og byrja eftirborðsaunginn.

Ég hamaðist að tyggja.

Ábóti sat með signalhamarinn í hendinni tilbúinn til að slá í borðið, en allir prestarnir mændu kímandi á mig tyggja í blóðspreing. Loksins fékk ég rent einhverjum hluta niður af gráfíkjunum og lét sem ég væri búinn.

Þegar allir múnkarnir stóðu upp til borðsaungs var hláturinn spilandi í hverju andliti. Náttúrlega hló ég líka. Ég dáist að hvílík blessuð saklaus börn þeir menn eru sem geta hlegið að því að einn þeirra skuli vera hálfa mínútu á eftir öðrum að tyggja gráfíkju!

 

 

90.     „Bók stefnda, bls. 220 – 221. Dagar hjá múnkum, bls. 116 – 119. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (2 tilvik A og B). Sjá dskj. nr. 95.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 220 – 221:

A. Aðfaranótt 16. mars heyrði Halldór kvalastunur innan úr klaustrinu og aftur um morguninn. Hann fékk að vita, að þær kæmu frá Bengt Ballin, sem væri þungt haldinn. Þar sem Halldór sat við skrif sín um sexleytið um daginn, kom père Clause inn til hans og spurði, hvort hann vildi ekki kveðja Bengt, því að flytja ætti hann á sjúkrahús í Ettelbrück. Bíll væri á leiðinni. Halldór flýtti sér inn í vistarverur nýmunka til að kveðja Bengt. Sjúklingurinn lá náfölur, kolsvört augun logandi af sótthita, svört skeggrótin óhreyfð í vöngum hans. Halldór varð skelkaður, en reyndi að láta ekki á því bera. Hann gekk að rúmi hans, rétti honum hönd og sagði: „Jeg kommer bare for að sige på gensyn til Dem og ønske Dem god bedring“ (Ég kom aðeins til að kveðja og óska yður góðs bata). Bengt rétti Halldóri máttlitla hönd undan rekkjuvoðinni, reyndi að brosa og sagði: „Mange tak“ (Kærar þakkir). Prestur og munkur stóðu við rúmið. Un compatriot“ (landi yðar), sagði presturinn glaðlega. „Altså på gensyn,“ sagði Halldór, „og jeg ønsker at det snart måtte gå bedre!“ (Sem sé, verið þér blessaðir, og ég vona, að þetta lagist allt fljótlega). Bengt átti auðheyrilega erfitt um mál. Hann sagði lágt, um leið og Halldór sleppti hendi hans: „Bed for mig!“ (Biðjið fyrir mér). Halldór sagði: „Ja det gør jeg. Jeg beder meget for Dem“ (Já, það mun ég gera. Ég bið oft fyrir yður). Hann bjóst til að fara, en þegar hann staldraði við fótagafl rúmsins, sagði Bengt og nú á frönsku: „Peut-être vous allez me voir quelquefois?“ (Viljið þér ekki stundum heimsækja mig?) Halldór svaraði: „Med glæde, med glæde!“ (Með ánægju, með ánægju). Þeir père Clause fóru út.

B. Daginn eftir, 17. mars, sótti Halldór óttusöng og bað fyrir Bengt. Hann settist síðan við að skrifa. Hringt var fyrir klukkan tíu um morguninn til hámessu. Halldór settist í einn gestastólinn. Meðan munkar sungu, læddist dyravörður klaustursins að príornum, Alexander Ely, og hvíslaði einhverju að honum. Príór stóð upp, hvarf um stund og kom aftur inn, gekk beint til Halldórs og hvíslaði að honum: „Bengt Ballin est mort ce matin“ (Bengt Ballin lést í morgun). Halldór leit orðlaus á hann. Þá endurtók hann: „Il est mort.“ Halldór féll saman. Príór gekk út úr kirkjunni, en Halldór fór inn í Kristskapelluna í klaustrinu, kastaði sér niður fyrir framan altarið og grét.

 

Bók Halldórs, Dagar hjá múnkum, bls. 116-119:

A. Svaf illa um nóttina, heyrði einhver óhljóð, hafði tannpínu.

Fór mjög seint á fætur (um 8). Heyrði aftur óhljóðin fyrrihluta dagsins og fékk að vita að þau komu frá Bengt Ballin. ...

...

Meðan ég var við skrif mín um 6-leytið kom pére Clause inn og spurði hvort ég vildi ekki kveðja Ballin, því læknirinn hefði skipað að best mundi að flytja hann á spítala í Ettelbrück. Bíllinn sem ætti að sækja hann væri á leið híngað. ...

Ég gekk strax með pére Clause inní nóvisíatið til að kveðja sjúklínginn.

Strax og ég kom inní klefadyrnar sá ég hvar hann lá náföflur, kolsvört augun logandi af sótthita, svört skeggrótin stóð óhreyfð í vaungum hans. Andlitið fylti mig af skelk sem ég þó strax fékk yfirunnið, reyndi að vera sem glaðlegastur á svip og gekk að rúmi hans, rétti honum höndina og sagði: Jeg kommer bare for at sige på gensyn til Dem og ønske Dem god bedring.

Hann rétti mér hálfmáttvana höndina undan rekkjuvoðunum, reyndi að brosa sínu unaðslega barnsbrosi sem altaf hefur hrifið mig svo mikið og sagði: Mange tak.

Einn prestur og bróðir Louain stóðu við rúmið.

Un compatriot! sagði presturinn glaðlega.

Altså; på gensyn, sagði ég, og jeg ønsker at det snart måtte gå bedre!

Þegar ég hafði slept hönd hans, sagði hann lágt, átti auðsjáanlega erfitt um mál: Bed for mig!

Ja, det gør jeg. Jeg beder meget for Dem, sagði ég og bjóst til að fara út aftur. Andartak staldraði ég við fótagafl rúmsins og þá sagði hann, í þetta sinn á frönsku: Peut-être vous allez me voir quelquefois?

Med glæde, með glæde! svaraði ég og síðan fylgdumst við pater Clause að út aftur.

B. Í morgun við hina heilögu kommúníón bað ég fyrir Bengt. Það var sólskin og fagurt veður. Síðan settist ég við að skrifa.

Nú var hríngt til hámessu og ég settist í gestastólinn einsog að vanda.

Meðan múnkarnir súngu ad nonam læddist frére portier inní kórinn, inní pietà-kapelluna og uppað sæti príórs og hvíslaði einhverju að honum. Príór stóð upp, hvarf um stund og kom aftur útúr Kristskapellunni. Hann gekk beint til mín og hvíslaði að mér: Bengt Ballin est mort ce matin. Og þegar ég leit næsta andartak orðlaus á hann endurtók hann: Il est mort.

Og ég endrutók: Il est mort, og féll saman.

Príór gekk útúr kirkjunni, en ég inní Kristskapelluna, kastaði mér niður fyrir framan altarið og grét.

 

 

91.     „Bók stefnda, bls. 242 – 243. Reisubókarkorn, bls. 292 – 295. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. (3 tilvik A, B og C). Sjá dskj. nr. 96.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 242 – 243:

A. Það kom Halldóri á óvart fyrstu dagana í fylgd Jóns, að hann tók venjulega djúpt ofan fyrir úrhraki mannlífsins, drukknum mönnum og betlurum, og skrafaði jafnvel við þetta fólk af mikilli kurteisi. Stundum vék hann sér að örvasa gamalmennum, sem sátu fyrir dyrum úti eða hímdu á almenningsbekkjum, og átti við þau langar hrókaræður. „Þekkirðu þetta fólk?“ spurði Halldór. „Nei,“ svaraði Jón, „en það hefur gaman af, að talað sé við það.“7

B. Þessa Parísardaga tók Jón Halldór stundum með sér á fyrirlestra, sem hann hélt um Ísland. Einu sinni lá leiðin í heimavistarskóla kvenna, sem nunnur ráku. Þar voru stúlkur víðs vegar að úr nýlenduveldi Frakka. Halldór var hálffeiminn. Honum fannst Jón vera að steikja sig lifandi, þegar hann kallaði á hann upp á ræðupallinn og bað hann að sitja þar sem sýningardæmi, meðan hann segði frá Íslendingum.

C. En Jón var með afbrigðum skemmtilegur rabbari. Áheyrendur stóðu á öndinni, á meðan hann lýsti furðulandinu í norðri, ægifögru og órafjarlægu, þar sem yndislegar lífshættur sátu um hrausta drengi á hverri bæjarleið, næstum því í hverri stekkjargötu, en þeir reyndust hetjur í hverri raun og gerðu þó engum miska.

Bók Halldórs, Reisubókarkorn, bls. 292 – 295:

A. Og það þótti mér einna undarlegast fyrstu dagana sem ég var í fylgd Jóns Sveinssonar í París, að hann tók að jafnaði mjög djúpt ofan fyrir andstyggilegum persónum, einsog drukknum mönnum og betlurum, fór meira að segja oft að skrafa við fólk þetta, ræddi við það leingi af mikilli kurteisi. Oft vék hann sér að örvasa gamalmennum sem sátu fyrir dyrum úti eða hímdu á almenníngsbekkjum, og hafði uppi lángar hrókaræður við þetta fólk, ég sé hann enn fyrir mér standandi fyrir framan þessa smælíngja, með þetta mikla heiða yfirbragð og með brosi sem var góðvilji og gamansemi til helmínga. Vanalega hélt hann á hattinum í hendinni uns samtalinu var lokið. Þekkirðu þetta fólk, sagði ég. Nei, sagði hann, en það hefur gaman af að talað sé við það.

B. Ég slóst stundum í för með honum þegar hann var að halda fyrirlestra 1923, það var í París, en þá var hann prestur á einhverju barnaheimili sem kristmúnkar höfðu í rue Vaugirard. Einusinni fór ég með honum í heimavistarskóla kvenna sem nunnur héldu þar í staðnum, þar voru stúlkur víðsvegar að úr franska heimsveldinu: „sástu þessa sem sat þarna yst á fremsta bekk, hún var blámaður,“ sagði hann við mig á eftir. Ég var um tvítugt og hálffeiminn í slíkum selskap, og fanst hann vera að steikja mig lifandi þegar hann kallaði á mig uppá ræðupallinn og bað mig að sitja þar sem sýníngardæmi meðan hann héldi ræðu um Ísland og íslendínga fyrir konum þessum. 

C. Í fyrirlesarasæti var hann með afbrigðum skemtilegur rabbari. Efni fyrirlestra hans var ævinlega Ísland, furðulandið þaðan sem Nonni var kominn. Það var hið ægifagra og órafjarlæga land elds og ísa, fyrir norðan allar aðgæslur, þar sem yndislegar lífshættur sátu um hrausta dreingi á hverri bæarleið, næstumþví í hverri stekkjargötu, og mannlífið var sambland af hetjuskap, sem þó aldrei olli neinu tjóni, ...

 

 

92.     „Bók stefnda, bls. 251. Vefarinn mikli frá Kasmír, bls. 117. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 97.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 251:

Eitt sinn skoðaði Halldór Bretasafn, British Museum. Þar sá hann fjögur þúsund ára yngismey frá Egyptalandi, sem var til sýnis fyrir gesti og gangandi. Brjóst hennar voru eins og myglaðar rúsínur, hár hennar líkast strýi af ódýrri brúðu, munnurinn svört geil eins og sprunga á berki, nefið dottið af, augun tvær svartar dældir; hörundið minnti á hanginn, sótorpinn kæfubelg.3

 

Bók Halldórs, Vefarinn mikli frá Kasmír, bls. 117:

Og ég hef séð fjögur þúsund ára gamla yngismey frá Egyftalandi; hún er til húsa á British Museum, situr þar í hrauk, alsnakin, til sýnis fyrir gest og gangandi. Brjóst hennar eru einsog myglaðar rúsínur, hár hennar líkast strýi af tuttugu-og-fimm-aurabrúðu, munnurinn svört geil einsog sprúnga í trjáberki, nefið er dottið af, augun tvær svartar dældir; hörundið minnir á hánginn sótorpinn kæfubelg.

 

 

93.     „Bók stefnda, bls. 253 – 254. Vettvángur dagsins – Heiðin jól og kristin, bls. 424 – 429. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (4 tilvik A, B, C og D). Sjá dskj. nr. 98.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 253-254:

A. Munkarnir voru flestir franskir og spænskir, fáir breskir. Þetta er þögul regla. Munkar af þessari reglu tala aðeins hálftíma á viku. Þeir stunda hins vegar tíðagerðir allt að því tólf eða fjórtán stundir á sólarhring og eru á fótum mikinn hluta nætur. Klaustrið var mikið hús, en munkarnir höfðust við í sundurskildum smáhýsum, sem tengd voru með göngum, einn í hverju, og fékk enginn að hitta þá, eftir að þeir höfðu tekið vígslur. Hver munkur hafði garðholu við kofa sinn. Gamall, franskur leikmunkur í mórauðum kufli tók á móti Halldóri og vísaði honum til klefa. Á leiðinni sá Halldór munkum bregða fyrir, hvítklæddum með hettur dregnar yfir höfuð fram. Þegar þeir gengu fyrir kirkjudyr, köstuðu þeir sér jafnan á grúfu á gólfið. Munkurinn í mórauða kuflinum veitti Halldóri beina í klefa sínum. Eftir að Halldór hafði matast, kom gestafaðirinn á fund hans. Hann var í hvítum kyrtli og ýtti hettunni aftur af hnakkanum, um leið og hann kom inn. Hann settist andspænis Halldóri við arininn, lagði úr sitt á arinhilluna og sagðist mega tala í stundarfjórðung. Hann spurði, hvort Halldór vildi láta fara með sig sem gest í þessu húsi eða hvort hann vildi fylgja siðum þess. Halldór var hæverskur og bað um, að ekkert sérstakt yrði haft fyrir sér. Hann kvaðst vilja fylgja siðum hússins. Gestafaðirinn sagði, að einn bróðirinn myndi þá leiðbeina honum. Síðan skipti hann um tón, horfði á Halldór rannsökulum föðuraugum og spurði: „Hvað getið þér sagt mér um sál yðar?“ Halldór svaraði því, sem hann gat. Honum þótti gott að eiga orðastað við manninn. Hann vitnaði síðar stundum til þess, sem gestafaðirinn sagði: „Our only true attitude before God is that of a little child“ (Hið einna sanna viðhorf okkar til Guðs er eins og hjá litlu barni).11 Allt í einu sá faðirinn, að stundarfjórðungur var liðinn, þagnaði í miðri setningu, tók úrið ofan af arinhillunni, dró hettuna yfir höfuð sér og var á brott.

B. Halldóri þótti þögnin í hinu mikla klausturshúsi stórkostleg eftir jólays Lundúna. Munkurinn í mórauða kuflinum kom með guðrækileg rit, sem hann lagði á skrifborðið hjá Halldóri, og var horfinn án þess að hafa mælt orð. Dagur leið að kvöldi, án þess að nokkuð truflaði þögnina nema klukknahringingar öðru hverju. Halldór gekk um gólf. Þegar honum fór að leiðast, settist hann og blaðaði í guðrækilegu ritunum. Um miðaftan, þegar hann var farinn að búast við jólakrásum, hófust miklar hringingar. Innan skamms birtist munkurinn í mórauða kuflinum, lagði fingur á vör til merkis um, að ekki mætti tala, og fylgdi Halldóri í krók uppi á kirkjulofti. Þaðan sást ekki niður í kirkjuna nema altarið. Þar norpaði Halldór í tvo tíma með sálmabók í höndum og kerti fyrir framan sig og hlustaði á kvöldsöng munkanna. Honum fundust Karþúsamunkar tóna miklu verr en Benediktsmunkar.

C. Þegar hann var aftur kominn inn til sín, vænti hann enn jólarétta, jafnvel fremur en áður, enda orðinn svangur. En ekkert heyrðist, og enginn kom. Alls staðar var myrkur og þögn. Halldór drakk glas af köldu vatni til hátíðabrigða á þessum merkilega degi og fór að hátta. En ekki var hann fyrr sofnaður en munkurinn vakti hann. Gaf hann Halldóri merki um að standa á fætur og leiddi hann í sama skot uppi á kirkjulofti og áður. Nú stóð náttsöngur í þrjá tíma. Klukkan var tvö um nótt, þegar munkurinn í mórauða kuflinum vísaði Halldóri aftur inn í klefa sinn, þar sem hann sofnaði óðar. En hann fékk ekki að sofa nema í hálfan þriðja tíma. Þá vakti munkurinn í mórauða kuflinum hann aftur, fylgdi honum upp í kirkjukrókinn og kveikti á kerti. Nú stóðu tíðir til klukkan sjö um morguninn. „Ég sat hjá kertinu með Saltarann og naut þess að halda þó einu sinni á ævinni kristileg jól,“ sagði Halldór síðar háðskur.12 Eftir sjö hófust svokallaðar kyrrar messur og stóðu í tvo tíma, og klukkan tíu um morguninn voru munkarnir loks tilbúnir að syngja hámessu, sem stóð til klukkan hálfellefu. Eftir það hélt Halldór til klefa síns á ný.

 

Bók Halldórs, Vettvángur dagsins – Heiðin jól og kristin, bls. 424 – 429:

A. Þetta voru aðallega franskir og spænskir munkar, en fáir brezkir, klaustrið var mikil bygging. Þetta er þögul regla, þeir tala aðeins hálftíma á viku. En þeir hafa miklar tíðagerðir, allt að tólf-fjórtán stundir á sólarhring, og eru uppi mikinn hluta nætur. Þeir hafast við í sundurskildum smáhýsum, sem eru tengd saman með göngum, einn í hverju, og það fær enginn að sjá þá eftir að þeir hafa tekið vígslur. Hver um sig hefur sérstaka garðholu bak við kofann sinn.

Gamall, franskur leikmunkur í mórauðum kufli tók á móti mér og vísaði mér til herbergis. ... hér sást bregða fyrir hvítklæddum verum með hettur dregnar yfir höfuð fram, ... Það vakti athygli mína, að hvenær sem þeir gengu fyrir kirkjudyrnar, köstuðu þeir sér á grúfu á gólfið ...

... En þegar ég hafði matazt kom gestafaðirinn, í hvítum kyrtli, ýtti hettunni aftur af hnakkanum um leið og hann kom inn, settist andspænis mér fyrir framan arininn, lagði úrið sitt upp á arinhilluna og kvaðst mega tala við mig í stundarfjórðung. Hann spurði mig síðan, hvort ég vildi láta fara hér með mig sem gest, eða hvort ég kysi að fylgja siðum hússins. Af mikilli hæversku bað ég um, að ekkert sérstakt væri haft fyrir mér, og óskaði að fá að fylgja siðum hússins. Hann sagði, að bróðirinn mundi þá leiðbeina mér. Síðan skipti hann um tón, horfði á mig rannsökulum föðuraugum og spurði:

Hvað getið þér sagt mér um sál yðar?

Ég sagði honum undan og ofan af um sálartetur það, sem ég hef þó aldrei verið sannfærður um að ég hefði, og þótti mér gott að eiga orðastað við manninn, en allt í einu sá hann, að stundarfjórðungur var liðinn, þagnaði í miðri setningu, tók úrið ofan af arinhillunni, dró hettuna yfir höfuð sér og var horfinn.

B. Þögnin í húsinu var stórfengleg-ekki hvað sízt eftir jólays Lundúna. Þá kom bróðirinn, mókuflungurinn, með heilög rit, sem hann lagði á skrifborðið hjá mér, og var horfinn án þess að hafa mælt orð. Dagurinn leið til aftans, án þess nokkuð truflaði þögn þessarar voldugu byggingar, utan daufar klukknahringingar úr óákveðinni átt stöku sinnum, og seinast var ég orðinn þreyttur að ganga um gólf og fór að blaða í sölturunum mér til dægradvalar.

En um miðaftan, um það leyti sem ég var farinn að búast við jólakrásum, upphófust miklar hringingar, með ferlegum gný, eins og allt ætlaði um koll að keyra, og innan skamms birtist mókuflungur, lagði fingur á vör til merkis um, að ekki mætti tala, og flutti mig í krók nokkurn uppi á kirkjulofti, þaðan sem ekki sást niður í kirkjuna, nema blá-altarið, og norpaði ég þar í tvo tíma með saltarann í höndunum og kerti fyrir framan mig og hlýddi kvöldsöng munkanna. Karþúsínar hafa miklu ömurlegri tón en t.d. Benedikts-munkar, ...

C. Þegar ég var kominn aftur inn til mín, eftir þennan langa kvöldsöng, fannst mér ég hefði enn fyllri rétt en áður til að vænta jólakrásanna, enda tók sulturinn að sverfa að. En ekkert heyrðist til Móra á göngunum, það heyrðist yfirleitt hvorki stuna né hósti nokkurs staðar í þessari álmu hússins, né reyndar annars staðar, myrkur á óraflýstum göngunum, myrkur í hverjum einasta glugga, hvergi glætu að sjá í umhverfinu, regn úti. Ég drakk eitt glas af köldu vatni til hátíðabrigðis á þessum merkilegu jólum og fór að hátta.

En þegar ég var liðinn á vit þeirra drauma, sem veita allar krásir, sem jarðnesk jól hafa frekast að bjóða óandlegum manni, þá er ég vakinn af svefni. Mókuflungur er í dyrunum með skriðbyttu í hendi og gefur mér merki um að standa á fætur sem skjótast. Þá var klukkan fáum mínútum yfir ellefu. Síðan fylgdi ég skriðbyttu bróðurins eftir hinum endalausu göngum, þangað til hann hafði komið mér fyrir í skotinu uppi á kirkjuloftinu, eins og fyrr um kvöldið. ... Þessi langdregni, ömurlegi söngur í kyrrum óuppljómuðum djúpum næturinnar, að ógleymdum kulda og súgi, stóð í fulla þrjá klukkutíma. Að lokum féllu munkarnir enn til jarðar og lágu þannig á bæn um stund, áður en þeir tíndust út. Og mókuflungur kom með skriðbyttuna og vísaði mér enn gegnum hin myrku völundarhús, til herbergis míns. Ég var mjög feginn að komast aftur í rúmið og sofnaði þegar í stað.

En sú frakt líkamans, sú jarðneska og heiðna sæla, sem er í því falin að sofa á jólanóttina, stóð ekki lengi. Von bráðar stendur kuflungur aftur við rekkjustokkinn með skriðbyttuna. Hann gefur mér merki um að klæða mig í skyndi og fylgja sér, og ég fram úr með stírurnar í augunum. Þá var klukkan að verða hálf fimm. Hann fylgdi mér enn upp á loftskrókinn og kveikti á kertinu, og nú hófust tíðir ad matutinum í sama stíl og áður og stóðu að þessu sinni fram undir klukkan sjö um morguninn. Ég sat hjá kertinu með saltarann og naut þess að halda þó einu sinni á ævinni kristileg jól. Upp úr sjö hófust hinar svo kölluðu kyrru messur, og stóðu í tvo tíma, með ógreinilegu tauti og hringingum frá bjöllum, sem virtust ekki stærri en fingurbjargir. Klukkan tíu um morguninn voru munkarnir loks tilbúnir að syngja hámessu, og stóð hún fram til klukkan hálf ellefu. Að henni lokinni hélt ég til herbergis míns á ný.

 

Í bók Halldórs hefur aðaláfrýjandi afmarkað texta merktan D, en enga samsvarandi merkingu er að finna í bók gagnáfrýjanda. Er sá texti því ekki rakinn.

 

 

94.     „Bók stefnda, bls. 258 – 259. Í túninu heima, bls. 129 – 130. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 99.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 258 – 259:

Amma Halldórs, Guðný Klængsdóttir, hafði nú tvo um nírætt og var orðin ellimóð. Morguninn, sem von var á Halldóri, hafði hún spurt systur hans, hvort þeim fyndist, að hún ætti að heilsa honum Dóra litla í rúmi sínu eða klæða sig upp á og heilsa honum úr sæti. Hún valdi seinni kostinn og tók á móti Halldóri sitjandi og lét hann setjast hjá sér. Halldór rifjaði upp kveðjuna, sem hún hafði beðið hann fyrir, þegar hann fór í fyrsta skipti til útlanda sumarið 1919: „Ef þú hittir einhvers staðar úti í heimi kerlingu, sem er eins aum og ég, þá berðu henni kveðju mína.“ Halldór spurði, hvort hún myndi eftir þessari kveðju. „Skilaðirðu henni?“ sagði Guðný og brosti dauflega. „Nei,“ sagði Halldór, en ég hef lifað á henni síðan ég fór.“ Um nóttina svaf Halldór í gamla hjónaherberginu í Laxnesi. Að morgni, þegar hann kom til ömmu sinnar, spurði hún að líðan hans. „Er þér það nógur svefn, sem þú sefur þarna?“ Hann fullvissaði hana um það. Þá spurði gamla konan: „Kunnirðu nú alténd við matinn hjá því þar sem þú varst?“ Halldór svaraði, að maturinn hefði verið góður, nema hann hefði ekki fengið kjöt á föstudögum. Guðný hló við og sagði: „Og það var rétt og, - eimir eftir af gömlum sið!“4

 

Bók Halldórs, Í túninu heima, bls. 129 – 130:

Hún hafði tvo um nírætt og gerðist nokkuð ellimóð. Daginn sem ég kom á land spurði hún systur mínar um morguninn hvort þeim fyndist hún ætti að heilsa honum Dóra litla hvílandi í rúmi sínu ellegar klæða sig uppá og heilsa honum úr sæti. Hið seinna varð ofaná. Hún tók á móti mér uppisitjandi og lét mig setjast hjá sér einsog þegar ég var lítill og átti að fara að prjóna íleppa á ónefnt kvikindi.

Þegar ég hafði fyrst farið til annarra landa fyrir fimm árum hafði hún beðið mig fyrir kveðju: Ef þú hittir einhverstaðar útí heiminum gamla kellíngu sem er eins aum og ég, þá berðu henni kveðju mína.

Nú segi ég: Amma mín, manstu eftir kveðjunni sem þú baðst mig fyrir?

Skilaðirðu henni? sagði hún og brosti dauft.

Nei, sagði ég. En ég hef lifað á henni síðan ég fór.

Um nóttina svaf ég í gamla herberginu foreldra minna. Að morni þegar ég kom til hennar spurði hún að líðan minni tveim spurníngum með þessum orðum: Er þér það nógur svefn sem þú sefur þarna?

Ég mun hafa fullvissað hana um það.

Hin spurníngin var um líðan mína í útlöndum, hver verið hefði: Kunnirðu nú alténd við matinn hjá því þar sem þú varst?

Ég sagði að maturinn hefði verið góður, nema ekki étið kjöt á föstudögum. Hún svaraði og hló við aftur: Og það var réttog – eimir eftir af gömlum sið!

Ég stóð ekki við heima í Laxnesi nema einn dag, en fór síðan aftur í bæinn. Á öðrum degi var hún látin. Hún hafði frestað því að deya þángatil Dóri litli kæmi heim.

 

 

95.     „Bók stefnda, bls. 312. Vefarinn mikli frá Kasmír, bls. 89 – 90. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 100.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 312:

Í franska landamærabænum Modane nam lestin staðar. Í klefanum voru auk Halldórs bresk hjón, roskin, sem steinsváfu, konan vafin inn í þykkt teppi, bóndi hennar undir meginlandsútgáfunni af Daily Mail. Biðin á brautarstöðinni var löng og þreytandi. Hressingarsalar og blaðakarlar þyrptust hverjir innan um aðra rauðir og bláir af öskri, raddir þeirra ýmist eins og neyðaróp eða hótanir. Burðarkarlar, brautarþjónar, tollverðir og löggæslumenn hlupu upp í fangið hver á öðrum. Þessi æðibunugangur var illskiljanlegur, því að farþegar voru löngu afgreiddir og flestir stignir inn. Hermenn með löng sverð og vindling í munni spígsporuðu um stéttina og flimtuðu um stúlkur. Ringlaður ferðalangur, sem hafði týnt af sér hattinum, stóð uppi eins og þvara framan í þremur embættismönnum og var skrifaður upp. Nokkrir vanir ferðamenn gengu um gólf á brautarstöðinni. Þeir vissu, að ekkert stoðaði að kvarta, og notuðu biðina til að liðka sig eftir dægurlanga lestarsetu. Halldór hallaði sér upp í hornið við vagngluggann og beið aðgerðalaus að öðru leyti en því, að öðru hverju seildist hann niður í jakkavasann eftir hnot og mölvaði undir lokinu á öskubikarnum, sem var festur inn á klefahurðina, og stakk síðan kjarnanum í munn sér.6 Loksins tók lestin kipp, fyrst aftur á bak eins og hún ætlaði að hlaupa til, síðan lítið eitt fram, því næst tók hún úrslitakippinn, rann af stað.

 

Bók Halldórs, Vefarinn mikli frá Kasmír, bls. 89 – 90:

Í klefa annars farrýmis Roma-Paris-hraðlestarinnar situr Steinn Elliði að kvöldi norðrí Modane, franska landamærabænum. Hann hefur sveipað að sér þykkum ferðafrakkanum, situr við gluggann, horfir út og bíður þess að lestin haldi á stað til Parísar. Í klefanum eru auk hans bresk hjón roskin, sofandi einsog múrmeldýr, frúin vafin innaní heljarmikið ferðabrekán, bóndinn undir meginlandsútgáfunni af Daily Mail. Biðin á landamærastöðvunum er laung og þreytandi. Fyrir utan gluggann stendur maður með æki af koddum sem eru falir til leigu fyrir tvær lírur. Frúr mínar og herrar! segir maðurinn í sífellu, mjúkur koddi á tvær lírur! Hressíngarsalar og blaðakarlar þyrlast hverjir innanum aðra rauðir og bláir af öskri, raddir þeirra ýmist einsog neyðaróp eða hótanir. Burðarkarlar, brautarþjónar, tollverðir og löggæslumenn hlaupa uppí fángið á öðrum og eru að bjarga ríkinu, og einginn skilur þennan æðibunugáng, því farþegar eru laungu afgreiddir og flestir stignir inn. Reykjandi hermenn með laung sverð spígspora fram og aftur um stéttina og flimta um stelpurnar í bænum. Rínglaður ferðalángur sem hefur gert einhverja vitleysu og týnt af sér hattinum stendur uppi einsog þvara framaní þremur embættismönnum ríkisins og er skrifaður upp. Einstöku reyndir ferðamenn gánga um gólf á járnbrautarstöðinni, vita að ekkert stoðar að fjasa, en nota biðina til að liðka sig eftir dægurlánga lestarsetu.

Steinn hallar sér uppí hornið við vagngluggann og bíður aðgerðarlaus að öðru leyti en því að við og við seilist hann niðrí frakkavasann eftir hnot og mölvar undir lokinu á öskubikarnum, sem festur er innaná klefahurðina, stíngur síðan kjarnanum í munn sér.

Loksins!

Lestin tekur kipp, fyrst aftrábak einsog hún ætli að hlaupa til, þá lítið eitt áfram; þvínæst tekur hún úrslitakippinn, rennur á stað.

 

 

96.     „Bók stefnda, bls. 313. Vefarinn mikli frá Kasmír, bls. 91. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 101.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 313.

Lestin beið lengi í Torínó, en brunaði síðan áfram suður yfir Ítalíu eins og óhemjustórt ílangt skordýr frá frumtímum jarðar, öskraði og skellti.

 

Bók Halldórs, Vefarinn mikli frá Kasmír, bls. 91:

Lestin brunar áfram vestryfir Frakkland einsog óhemjustórt ílángt skordýr frá frumtímum jarðar, öskrar og skellir, ...

 

 

97.     „Bók stefnda, bls. 314. Vefarinn mikli frá Kasmír, bls. 117 – 118. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á fumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 102.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 314:

Halldór notaði tækifærið, á meðan hann var í Róm, til að skoða Péturskirkjuna, enda átti hún að koma við sögu í skáldsögunni, sem hann hafði í huga. Þegar hann gekk inn í kirkjuna, tók hann eftir því, að skráð var viðvörun á dyrunum á fjórum tungum: „Vietato l’ingresso alle signore indecentemente vestite“ (Ósæmilega klæddum konum synjað inngöngu). Hann tautaði með sjálfum sér: „Áletrunin Jesus Nazarenus Rex Judæorum er aðeins gerð á þremur tungum.“13 Hann velti þessu áfram fyrir sér og komst að skýringu, sem hann orðaði seinna svo: Konan er hvorki meira né minna en hættulegasti meðbiðill Guðs og keppinautur. Péturskirkjan er risastór.

 

Bók Halldórs, Vefarinn mikli frá Kasmír, bls. 117 – 118:

Það sem einkum vakti athygli mína þegar ég gekk inní höfuðdómkirkju kristninnar fyrsta sinni, Péturskirkjuna í Róm, var að lesa þessa hlægilegu viðvörun á dyrunum, ritaða á fjórum túngum: Vietato l’ingresso alle signore indecentemente vestite, ósæmilega klæddum konum synjað inngaungu.

Áletrunin Jesus Nazarenus Rex Judæorum var aðeins gerð á þremur, hugsaði ég.

...

En þegar ég fór að hugsa betur um þetta skildist mér að því fer fjarri að þar sé um hégóma að ræða, ... Konan er nefnilega hvorki meira né minna en hættulegasti meðbiðill guðs og keppinautur þar sem sál mannsins er í tafli.

 

 

98.     „Bók stefnda, bls. 314. Vefarinn mikli frá Kasmír, bls. 231. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 103.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 314:

Eftir að Halldór hafði skoðað kirkjuna, settist hann á veitingahús, trattoríu, skammt frá. Við næsta borð sat þýskur pílagrímur, gamall sveitamaður, sem kunni enga ítölsku og hafði enga ítalska peninga. Hann drakk bjór. „Wie viel?“ (Hve mikið) spurði hann, þegar kollan var tóm. Framreiðslumaðurinn rétti upp fimm fingur, en það táknaði fimm lírur. Þá tók bóndinn upp fimm gullmarka seðil og ætlaði að gjalda þetta möglunarlaust. Halldór sá, að maðurinn var fátækur og auðmjúkur, skarst í leikinn og galt sjálfur fyrir bjór pílagrímsins, en lét hann halda gullmörkum sínum.14

 

Bók Halldórs, Vefarinn mikli frá Kasmír, bls. 231:

Einusinni hafði hann verið staddur á trattoríu í Róm, skamt frá Péturskirkjunni. Við næsta borð sat þýskur pílagrímur, gamall sveitamaður, sem hafði hvorki ítalska penínga né kunni að mæla á ítalska túngu, og drakk bjór. Wie viel? sagði hann þegar krukkan var tóm. Frammistöðumaðurinn rétti upp fimm fíngur, en það táknaði fimm lírur. Þá tók bóndinn upp fimm gullmarka seðil og ætlaði að gjalda þetta möglunarlaust. Steinn sá að maðurinn var fátækur og auðmjúkur, skarst í leikinn og galt sjálfur fyrir bjór pílagrímsins, en lét hann halda gullmörkunum sínum.

 

 

99.     „Bók stefnda, bls. 315 – 316. Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dags. 27.05.1925. Notkun texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar, birting áður óbirts texta án heimildar höfundar. Sjá dskj. nr. 104.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 315 – 316:

Að morgni þriðjudagsins 26. maí lagði Halldór af stað til Sikileyjar. Hann hafði keypt sér farseðil til Palermo, en var sagt í Róm, að Taormina væri fallegasti staður á Ítalíu og raunar í Evrópu allri og þar væri prýðilegt gistiheimili, sem dönsk kona ræki ásamt manni sínum ítölskum. Hann ákvað því að skrifa skáldsögu sína í Taormina. Fyrst fór hann landveg til Reggio og þaðan á ferju yfir örmjótt Messinasundið. Ferðin frá Róm til Messina tók sólarhring. Á leiðinni kynntist hann ungum Svía, sem var í skyndiferð til Sikileyjar frá Vín. Fór vel á með þeim, og deildu þeir herbergi um nóttina á góðu gistihúsi í Messina. Svíinn lagði út fyrir gistingunni, þótt félítill væri, en vændiskona hafði rænt hann í Feneyjum. Hann lánaði líka Halldóri smáræði í sænskum krónum.17 Morguninn eftir stóð Halldór á brautarstöðinni í Messina og átti aðeins örfáar lírur í vasanum. Hann ákvað að stíga inn í hraðlestina frá Messina til Syracusa, sem kom við í Taormina, þótt hann hefði ekki farseðil þangað. Hann gekk um á fyrsta farrými og skimaði inn í klefana. Í einum þeirra sá hann tvo Suðurlandabúa, sem sváfu vært, en litu út eins og kauphallarbraskarar, og tvær enskar stúlkur. Hann settist þar og gaf sig á til við stúlkurnar, sem voru hinar vingjarnlegustu. Þau spjölluðu um náttúrufegurð á Ítalíu og alþjóðastjórnmál, kaffi í Frakklandi og te á Englandi. Halldór beið þess fullur eftirvæntingar, hvort vörður kæmi til að skoða farmiðana. Eftir liðugan hálftíma, birtist borðalagður maður. Hann bað um miðana. Þeir voru allir í lagi nema miði Halldórs, sem var gefinn út í Lundúnum og á öðru farrými til Palermo! Lestarvörðurinn sagði Halldóri, að miði hans væri ógildur. Hann yrði að kaupa sér miða frá Messina til Taormina, sem kostaði 35 lírur á fyrsta farrými. Halldór maldaði fyrst í móinn, en þóttist loksins samþykkja að greiða aukafarið, fór niður í veski sitt og uppgötvaði þá, að hann átti ekki aðra peninga en sænskar krónur. Enginn í klefanum vissi gengið á sænskum krónum, svo að Halldór yppti öxlum og gretti sig framan í lestarvörðinn, sneri sér síðan að ensku stúlkunum og spurði elskulega, hvort þær gætu hjálpað sér um ítalska peninga, þangað til hann fengi skipt í Taormina. Þær voru hinar fegnustu að gera Halldóri þennan greiða, og héldu þau áfram talinu í mestu makindum.

... Halldór týndi stúlkunum tveimur, sem höfðu lánað honum lírurnar, ...

 

Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dags. 27.05.1925.

Þegar ég hafði skilið við hann (manngreiið hálf-blánkur sjálfur, hafði látið mellu stela frá sér í Feneyjum), stóð ég á járnbrautarstöðinni, án þess að eiga einn einasta skilding í nokkurri mint í vösunum. ...

Sem sagt Taormina var takmarkið. Mér hafði verið sagt í Róm, að ekki væri Taormina der schönste Punkt der Welt einvörðungu, heldur le plus mondain, ...

Ég uppgötvaði strax hvað ég átti að gera til þess að komast til Taormina, og fór inn á firsta klassa í lestinni, en þar ferðast ekki aðrir en útlendir ríkismenn og fascistagenerálar. Ég sá þar tvo Suðurlandabúa sem sváfu, hvor gagnvart öðrum, og litu út eins og úngir kauphallar-braskarar – og svo tvær enskar dömur. Við vorum 5 í klefanum.

Ég gaf mig á tal við þær og þær vóru hinar vingjarnlegustu, við spjölluðum um ítalska fegurð og alþjóðapólitik, kaffið í Frakklandi og teið í Englandi.

Nú kemur það bísna oft firir að lestarverðirnir koma ekki inn í klefana tímum saman að skoða farseðla, einkanlega á hraðlestunum. Ég var dálítið spentur, hvort nokkur kæmi. Eftir liðugan hálftíma kom einn. Allir miðar vóru allright, nema minn. Hann var gefinn á 2. klassa til Palermo, frá London! Nú liggur Taormina í öfugri átt við Palermo, og gerði maðurinn mér það skiljanlegt að farseðill minn væri ógildur. Ég irði að fá nían seðil á leiðina Messina-Taormina, og hann kostaði 35 líra á firsta farrími. Ég maldaði stundarkorn í móinn ... Loks þóttist ég láta til leiðast að borga aukafarið, fór niður í veskið mitt og uppgötvaði þá mér til mestu mæðu, að ég átti ekki aðra penínga, en tómar sænskar krónur (!!). Nú vissi einginn í vagninum geingið á sænskum krónum, svo ég ipti öxlum og gretti mig framan í lestarvörðinn, sneri mér síðan með hinum mestu elskulegheitum að ensku dömunum, og spurði þær hvort þær gætu hjálpað mér um ítalska penínga, þángað til ég feingi skift í Taormína; þær vóru hjartanlega fegnar að gera mér þennan greiða, og héldum við síðan áfram talinu í mestu makindum uns þángað kom; þá tapaði ég af þeim á járnbrautarstöðinni.

 

 

100.   „Bók stefnda, bls. 315 – 316. Frá Sikiley, grein í Morgunblaðinu dags. 29.07.1925. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 105.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 315 – 316:

Lestin brunaði meðfram strandlengjunni, aðra hverja mínútu um kolsvört brautargöng, uns hún nam staðar í litlu þorpi við sjóinn, Diadina. Þar stigu þeir út, sem áttu erindi til Taormina.

 

Grein Halldórs, Frá Sikiley, í Morgunblaðinu dags. 29.07.1925:

Messina-Syracusa-lestin brunar meðfram strandlengjunni, aðra hvora mínútu um kolsvört brautargöng, uns hún nemur staðar í litlu þorpi við sjóinn, Diadina, og hjer stígur ferðamaðurinn út, sem leið á til Taormina, en bifreið flytur hann eftir krákustígum upp hæðirnar ...

 

 

101.   „Bók stefnda, bls. 316. Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dags. 27.05.1925. Notkun texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar, birting áður óbirts texta án heimildar höfundar. Sjá dskj. nr. 106.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 316:

Klukkan var þrjú síðdegis, þegar Halldór knúði þar dyra. Hann sagði hjónunum, sem ráku heimilið, strax eins og var, að hann væri peningalaus og þyrfti að síma heim til Íslands eftir fé. Frú Riis, skilningsrík, hjartagóð og feit, sagðist aldrei á ævi sinni hafa kynnst öðru eins hugrekki, „dristighed“, að birtast peningalaus á Sikiley.19 Hún skellihló og gekk öll í bylgjum. Halldór hló með, þótt honum fyndist þetta allt annað en hlægilegt.

 

Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dags. 27.05.1925.

Ég tók inni hér á hótel Bolognari, og sagði konu hóteleigandans, sem er dönsk, alt um fjárþurð mína, og sagðist hún aldrei á æfi sinni hafa vitað dæmi um slíka Dristighed, að koma peníngalaus til Sikileyjar, og gekk öll í bilgjum af hlátri að þessum furðulega atburði, og náttúrlega hló ég líka, þótt mér findist alt annað en hlægilegt.

 

 

102.   „Bók stefnda, bls. 318 – 319. Taormina, úr bókinni Og árin líða, bls. 130 – 132 og bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dags. 22.06.1925. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar, birting áður óbirts texta án heimildar höfundar. Sjá dskj. nr. 107.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 318 – 319:

Svalahurðin var aldrei aftur, heldur marraði nótt og dag. Halldór vildi ekki draga fyrir opinn svalagluggann á kvöldin og loka þannig himnaríki næturinnar úti, þegar hann hallaði höfði upp úr lágnættinu. Stundum stóð neistaflug upp úr Etnu. Þegar Halldór slökkti á rafmagnsljósi sínu og fór að sofa, fylltist herbergið hjá honum af skríkjandi og skrjáfandi pöddum, og auk þess voru leðurblökur á lofti. Halldóri fundust þær hafa frítt snjáldur, geðslegt og sakleysislegt. Þær hengdu sig öfugar upp í ljósakrónu í loftinu, með höfuðið lóðrétt niður, þegar þær héldu, að skáldið væri sofnað. Fyrir utan síopinn gluggann hrein sorgbitinn asni marga nóttina, bundinn við járnkeng í húsveggnum. Hann hélt vöku fyrir betlara staðarins, Leonardo Peppino, sem svaf í göturykinu og hafði drepið mann. Þessi glaðlegi beiningamaður átti þrífætta tík svarta, sem lá fram á lappir sínar við hlið honum. Sjálfur var hann einfættur og lék sama lagið á hrosslegg fyrir hundinn og Halldór allar nætur út sumarið. Stundum varð aðsóknin af háværum kvikindum svo mikil, að Halldór varð að kveikja, taka stórt handklæði og lemja þá af þessum óboðnu gestum, sem hann náði í. Þá þagnaði hyskið og hrökklaðist út, svo að ekki urðu eftir aðrir en leðurblökur hangandi öfugar niður úr ljósakrónunni og hrínandi asninn fyrir utan gluggann.10

 

Bók Halldórs, Og árin líða, Taormina, bls. 130 – 132

Svalahurðin hjá mér var aldrei aftur, heldur marraði nótt og dag. Á kvöldin tímdi ég einhvernvegin ekki að draga fyrir opinn svalagluggann og loka þannig himnaríki næturinnar einsamalt úti þegar ég fór að kúra uppúr lágnættinu.

... opingáttin hélt mér ... sambandi við ... hina eilífu Etnu sem blasti við svaladyrum mínum, oft með fínu neistaflugi uppá himininn.

... á kvöldin þegar ég slökti á rafmagnsljósinu mínu og fór að sofa, fyltist herbergið hjá mér af skríkjandi skrollandi og skrjáfandi pöddum ... að leðurblökunni ekki undanskildri, því spendýri sem hefur eitt fríðast snjáldur sem ég þekki, bæði geðslegt og sakleysislegt. Tilamunda í myrkri heingdu þær sig öfugar uppí ljósakrónurnar í loftinu hjá mér, með höfuðið lóðrétt niður, þegar þær heyrðu að ég var sofnaður á nóttunni.

Fyrir utan síopinn gluggann minn hrein sorgbitinn asni alla nóttina, bundinn við þartilgerðan járnkeing í húsveggnum, og hélt vöku fyrir betlara staðarins Leonardo Peppino, miklum öðlíngsmanni sem svaf við hlið asna þessum í göturykinu, og hafði drepið mann (sem ég leyfi mér að efast um). Þessi glaðlegi beiníngamaður átti þrífætta tík svarta sem lá frammá lappir sínar við hlið honum. Sjálfur var hann einfættur og spilaði sama lagið á hrosslegg fyrir hundinn og mig allar nætur út sumarið.

Stundum var svo mikil aðsókn hjá mér af háværum aðkomnum aukreitiskvikindum í náttmyrkrinu, að ég varð að kveikja ljós til að gá hvort ég væri kominn á hljómleika hjá lúðraflokki bæarins. Við snögt ljós þagnaði þetta hyski og druslaðist út, svo ekki urðu eftir utanúr tóminu nema leðurblakan mín hángandi öfug niðrúr ljósakrónunni og hrínandi asninn fyrir utan gluggann.

 

Bréf Halldórs til Erlends Guðmundssonar dags. 22.06.1925.

Það sem helst amar að, eru einhver helvítis kvikindi, sem filla öll herbergi á kvöldin, og ætla að éta mann upp til agna á næturnar eftir að maður er sofnaður, og er skrokkurinn á mér allur orðinn eins og ein allsherjar raderíng, eftir prjónana á þessum bölvuðum skepnum. Venjulega neiðist ég til að fara upp úr rúmi mínu kl. 2 og 3 á næturnar, taka stórt handklæði og lemja í hel alt hvað ég næ á af þessum ófögnuði.

 

 

103.   „Bók stefnda, bls. 319. Frá Sikiley, grein í Morgunblaðinu dags. 29.07.1925. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 108.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 319:

Stærstu hús bæjarins voru gistihús, Hotel Excelsior, Hotel Metropole og Grand Hotel. Við Corso Umberto, aðalgötu bæjarins, sem lá á milli Porto Catania og Porto Messina, stóðu glæsileg kaffihús og tesalir, þar sem dansað var frá klukkan fimm á daginn. Þaðan glumdi jasstónlist „með sínum viltu og tryllandi, tryltu og villandi hrynjöndum“. Þegar Halldór var að ganga eftir Corso, fannst honum oft eins og hann væri kominn í stórborg. Honum varð starsýnt á konurnar. Þær voru klæddar eftir nýjustu tísku, kjóllinn nam við hnéskelina neðanverða, jafnvel við hana ofanverða á hispursmeyjum frá Kanada, sem voru hreyknar af þreknum fótleggjum sínum. Erlendu konurnar í Taormina voru allar vandlega málaðar um augun, knapahárið klippt upp í miðjan hnakka, kögursjali lausbrugðið um herðar, en japanskir blævængir mynduðu súg í götunni, angandi gust af ilmstokknu hörundi. Karlar gengu í fötum, sem voru mjög aðskorin í bakið, ermin þröng og handlínið stóð allt fram úr. Þeir voru sumir með einglyrni.

 

 

Grein Halldórs, Frá Sikiley, í Morgunblaðinu dags. 29.07.1925:

Gistihúsin eru stærstu byggingarnar; - hjer er Hotel Excelsior, Hotel Metropole og Grand Hotel, rjett eins og maður væri kominn til Brighton eða Ostende og við við aðalgötuna standa glæsileg kaffihús og tesalir, þar sem dansað er frá klukkan 5, og jazz-músíkin glymur í almætti, með sínum viltu og trillandi, triltu og villandi hrynjöndum. Þegar jeg á leið um Via Corso seinni hluta dags, og mæti einum hópnum öðrum glaðari, þá finst mér jeg ekki vera í sikileysku sveitaþorpi lengur-jeg er kominn til Piccadilly, eða í Unter den Linden eða í Boulevard des Italiens eða á Via nazionale ...: konurnar í nýjustu tískubúningum, kjóllinn nemur við knjeskelina neðanvert, - jafnvel ofanvert á kanadiskju meyjunum, sem eru hreyknari af þreknum fótleggjum sínum en nokkru öðru undir sólinni; augnaumbúnaðurinn er gaumgæfilega litaður samkvæmt forskriftum frá „Antoine“ í París, knapahárið klipt upp í miðjan hnakka, kögursjalinu lausbrugðið um herðarnar en japanskir blævængir mynda súg í götunni, angandi gust af ilmstokknu hörundi.

Um karlmennina gegnir sama máli, heimsborgara-einkennin sömu við sig, nema hvað einglirnið, er miklu algengari hlutur til hversdagsnotkunar hjer suður frá en t.d. í Mið-Evrópu, fötin eru mjög nærskorin í bakið, ermin þröng, handlínið stendur alt fram úr, ...

 

 

104.   „Bók stefnda, bls. 320. Skáldatími, bls. 26 – 27. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (2 tilvik A og B). Sjá dskj. nr. 109.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 320:

A. Halldór kynntist lauslega ýmsum gigolos, draumamönnum, sem fylltu gangstéttarkaffihúsin að úthallandi nóni, þegar þeir höfðu sofið af sér hitann. Þetta voru sannir gullmunnar í tali og fyrirmyndarmenn í klæðaburði, þótt þeir ættu ef til vill ekki nema eina skyrtu, sem þeir þvoðu, þegar þeir komu heim að næturlagi, en spikfeitt brilljantín lýsti langar leiðir af blásvörtu hárinu. Sumir þessara ungu manna héldu við ljótar kerlingar frá Þýskalandi og Bandaríkjunum, beinaberar eins og geitfé.

B. Margir hinna ítölsku kunningja Halldórs hneigðust að eigin kyni, þegar þeir máttu sjálfir ráða, þótt þeir ynnu fyrir sér á annan hátt. Taormina var raunar um miðjan þriðja áratug tuttugustu aldar samkomustaður samkynhneigðs fólks.

 

Bók Halldórs, Skáldatími, bls. 26 – 27:

A. Ég slóst í félagsskap útlendra slæpíngja sem sumruðu í bænum og var málvinur draumamanna af því tagi sem þá hétu gigolos en nú playboys, og fyltu gángstéttarkaffihúsin að úthallandi nóni þegar þeir voru búnir að sofa af sér hitann. Þetta voru sannir gullmunnar í tali og fyrirmyndarmenn í klæðaburði þó þeir ættu kanski ekki nema þessa einu skyrtu sem þeir þvoðu þegar þeir komu heim á nóttinni; spikfeitt briljantínið lýsti lángar leiðir af bláu hárinu. Sumir þessara úngu glæsimenna héldu við ljótar kellíngar úr Þýskalandi og Ameríku, beinaberar einsog geitfé.

B. Ýmsir þessara ítölsku vina minna voru kynvillíngar þegar þeir máttu sjálfir ráða, þó þeir ynnu fyrir sér á annan hátt. Yfirleitt var Taormína góður staður fyrir þesskonar fólk, ...

 

 

105.   „Bók stefnda, bls. 320 – 322. Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dags. 13.09.1925. Notkun texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar, birting áður óbirts texta án heimildar höfundar. (2 tilvik A og B). Sjá dskj. nr. 110.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 320 – 322:

A. Einn hét Bambara Salvatori og hafði búið í Bandaríkjunum. Hann var af aðalsættum, að því er hann sagði, með meistarapróf í fögrum listum, fertugur, arkaði um í silkisokkum, með íbyggið háðsglott, einglyrni, stóran hund í bandi og byltingarskoðanir í stjórnmálum, sem hann þorði ekki að trúa öðrum fyrir en útlendingum, því að hann taldi alla aðra ofsækja sig. Hann las verk Evrípídesar og Aristofanesar á grísku og talaði fagra Boston-ensku. „Hann talar í hvössum, kýnískum, bombastískum setníngum sem bregða leiftrum; það er einginn efi á því að hann er geníal.“ Hann bauð Halldóri eitt sinn heim til sín í te og sýndi honum þá handrit sín á ensku og ítölsku, full af spakmælum um stjórnmál. „Þér megið reiða yður á, að einn góðan veðurdag verð ég drepinn,“ sagði hann.

B. Þriðji maðurinn í hópnum var Richard Becker frá Berlín, þekktur listmálari og kennari, líkur Trotskí í útliti. Þeir Halldór drukku oft saman morgunkaffi hjá lágvaxinni konu, sem rak greiðasölu við Corso. Becker sagði með sjálfsöryggi afburðamannsins við Halldór: „Ég hugsa ekki; ég veit. Ég skoða ekki; ég sé í gegn.“ Hann var expressíónisti.

 

Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dags. 13.09.1925:

A. Hann heitir Bambara Salvatore, aðalsmaður að ætt, dottore di lettere (svipað og mag. art.), fertugur, og arkar um í silkisokkum, með íbiggið háðsglott, einglirni, stóran hund í bandi og rammar biltíngaskoðanir í pólitík, sem hann þorir ekki að trúa öðrum firir en útlendíngum, því hann þjáist af ofsóknarbrjálæði. Hann leggur ekki stund á annað en pólitík, pólitík, og er úti á þekju ef um annað er talað; auk þess les hann Euphrides og Arostophanes á grísku, og geingur með slíka doðranta um allar götur „til þess að villa óvinum sínum sjónir“. Hann talar fegurstu Boston-ensku. Læri ég afarmikið af honum um alla innri staðháttu í ítalska ríkinu; - hann talar í hvössum, kýriskum, bombastiskum setníngum sem bregða leiftrum; það er einginn efi á því að hann er geníall; hann bauð mér um daginn heim til sín, upp á te, og síndi mér með hátíðasvip mikið af handritum sínum á ítölsku og ensku; alt pólitískir aforismar, - margir þeirra verulega frappant. Raunalegt að hann skuli halda að allir sitji á svikráðum við sig. „Þér megið reiða iður á að einn góðan veðurdag verð ég drepinn“ sagði hann við mig við þetta tækifæri.

B. Fjórði maðurinn í hópnum er Þjóðverji, prófessor Richard Becker frá Berlin, þektur listmálari og kennari. Á að sjá er hann lifandi tvífari Trotzkis. Það hefur verið mér stórkostlegur viðburður að komast í kinni við þennan hámentaða gáfumann (auðvitað er hann ókvæntur, sömul. Salvatore), sem segir með sjálfstilfinníngu afburðarmannsins: Ég hugsa ekki. Ég veit. Ég skoða ekki. Ég sé í gegn. – Hann er expressíonisti ...

 

 

106.   „Bók stefnda, bls. 322. Skáldatími, bls. 31 – 33. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 111.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 322:

A. Hann málaði sundurgerðarlegar myndir af gulgráu, skrælnuðu landslagi Sikileyjar. Þær líktust myndum Cézannes, húsin í þorpunum skær í miskunnarlausri birtu, trén skafin. Becker málaði líka myndir af nöktum konum, oft skessur í frekjulegum og klúrum stellingum.

B. Sjálfur var Becker hrifinn af tággrönnum unglingsstúlkum og þær af honum. Hann kunni vel að laða þær að sér. Halldór sá tvær þeirra. Þetta voru ljósvakakenndar vatnadísir, hvergi á þeim blettur né hrukka. En vandi Beckers var, að hann var getulaus. Þess vegna átti hann það til að flýja þessar lifandi huldumeyjar á einhvern fjarlægan stað og taka til við að mála skessur á nýjan leik.

C. Kornung stúlka og fögur bjó í húsi beint á móti Becker, við þvengmjótt stræti. Hún var oft úti á svölum heima hjá sér. Faðir hennar var liðsforingi, sem kom stundum heim á laugardögum klæddur skrautlegum einkennisbúningi. Á sunnudagskvöldum gekk hann um Corso með eiginkonuna á aðra hönd, en dótturina á hina. Becker og stúlkan voru farin að sitja hvort fyrir öðru niðri í bæ og reyna að skipuleggja stefnumót. Mætti hann festa hana á mynd? Stúlkan fór að finna móður sína og spurði, hvort þýski listmálarinn hinum megin við götuna mætti gera af sér uppdrátt. Þjónustustúlkan var óðar send með boð frá móður stúlkunnar, að hann væri velkominn yfir götuna.

 

Bók Halldórs, Skáldatími, bls. 31 – 33:

A. Richard Becker var sundurgerðarlegur náttúrueftirlíkjari sem gat léð gulgráu skrælnuðu sikileyarlandslagi svo sterkan hugblæ af Cézanne að fyrirmyndin var orðin aukaatriði. ... Hann málaði húsaþorp áþekkast því sem þau hefðu verið rökuð ... Þessámilli málaði hann einkennilega klárvíga kvenmenn alsbera, oft í frekjulegum og klúrum stellíngum, ...

B. Afturámóti var hann hrifinn af tággrönnum únglíngsstúlkum og þær af honum á móti.

Já það var meira en að mæla hvað hann var laginn að koma ljósvakakendum jómfrúm til við sig. Ég sá tvær þeirra. Þær voru einsog vatnadísir án blett og hrukku á sál og lífi. En þegar svo lángt var komið kunníngsskapnum að þessar einkennilegu verur vildu afklæðast ljósvakanum við hann, þá hljóp snurða á Richard Becker, sem hann var seinþreyttur að útmála með árifamiklum dæmum fyrir kunníngjum sínum. Vissu þær ekki fyr til en hann var floginn burt frá þeim í fjarlæga staði þar sem hann tók til að mála einhverjar bannsettar tröllskessur ...

C. „Fyrirburður í djúpinu“ er saga um viðskipti Richards Beckers við kornúnga alfagra júngfrú sem var andbýlingur hans hinumegin við þveingmjótt stræti, og var oft að geispa frammá svölunum fyrir utan hjá sér. Faðir hennar var liðsforíngi sem hélt sig hjá herdeildinni mestan part, en kom stundum heim á laugardögum klæddur einsog Daníló greifi. Á sunnudagskvöldum spásseraði hann á korsóinu í túnglsljósi við hornablástur og leiddi dóttur sína á aðra hönd sér en frú sína á hina; hún var stórfögur kona eftir ítölskum hugmyndum.

...

... málarinn og stúlkan voru farin að sitja hvort fyrir öðru niðrí bæ og reyna að skipuleggja stefnumót, - mætti hann kanski gera af henni mynd? Stúlkan fór að finna móður sína og spurði hvort þýski prófessorinn hinumegin við götuna mætti gera af sér uppdrátt. Þjónustustúlkan var óðar send með boð frá móður dísarinnar að hann væri velkominn yfir götuna.

 

 

107.   „Bók stefnda, bls. 323 – 324. Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dags. 08.07.1925. Notkun texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar, birting áður óbirts texta án heimildar höfundar. (4 tilvik A, B, C og D). Sjá dskj. nr. 112.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 323 – 324:

Sunnudagsmorguninn 5. júlí 1925 fékk Halldór tilkynningu um, að hann ætti á pósthúsinu peningasendingu frá Erlendi Guðmundssyni, á Íslandi, 450 gulllírur. En þegar til átti að taka, fékk hann féð ekki afhent. Hann var síðan kallaður til viðtals við póstmeistarann miðvikudaginn 8. júlí. Hann sagði Halldóri, að mistök hefðu verið gerð í fyrra mánuði, þegar hann fékk 220 gulllírur greiddar út sem 1.025 pappírslírur. Samkvæmt póstreglunum mætti ekki greiða út í gullgildi. Væru 220 gulllírur greiddar inn í Reykjavík, þá væri aðeins hægt að greiða út jafnmargar pappírslírur á Ítalíu. Halldór hefði gefið út kvittun fyrir að hafa tekið á móti 1.025 pappírslírum, svo hann skuldaði pósthúsinu 805 lírur. Nú myndi pósthúsið taka þessar 450 lírur til sín, svo að hann skuldaði eftir það aðeins 355 lírur! Halldór mótmælti hástöfum. Hann krafðist þess, að pósthúsið sendi skeyti til Reykjavíkur til að leiðrétta málið, en póstmeistarinn sagði, að Halldór skyldi gera það sjálfur. Hann bað Halldór síðan að láta frú Bolognari koma í viðtal, en hún hafði skrifað nafn sitt á kvittunina fyrir fyrri peningasendingunni til Halldórs í því skyni að staðfesta, hver Halldór væri. Þau Halldór og frú Bolognari fóru síðar um daginn bæði á pósthúsið. Þá krafðist póstmeistarinn þess af henni, að hún greiddi sér þessar 355 lírur, sem vantaði upp á, þar eð hún hefði skrifað kvittunina. Hann sagðist vilja veita henni tilsögn, „lezione,“ í því, hvenær hún ætti að skrifa undir skjöl og hvenær ekki. Sökin væri ekki sín, heldur hennar, hún yrði að taka afleiðingunum af því, sem hún ábyrgðist með undirskrift sinni. Það sló í brýnu milli póstmeistarans og þeirra Halldórs og frú Bolognari, „og sitt af hverju hefði mátt vera ósagt“, sagði Halldór.7

 

Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundsonar dags. 08.07.1925:

Mikið gladdist ég þegar ég fékk tilkinníngu frá pósthúsinu hér um að ég ætti þar 450 líra gulls frá Íslandi. Það var á sunnudagsmorguninn (5.) að ég fékk tilkinnínguna. Daginn eftir þegar ég ætlaði að fá peníngana útborgaða var þó einhver firirstaða, og first í dag er ég kallaður á pósthúsið, til viðtals við póstmeistarann. Hann segir mér þá að það hafi verið um misskilníng að ræða, seinast þegar ég hafi feingið penínga 220 líra frá Árna í Múla, í firra mánuði-, hann hafi borgað mér of mikið; það sé ekki hægt; samkv. póstreglunum, að borga í gullgildi (nfl. gull-líra umreiknaðan til pappírs) og gull sé heldur ekki firir hendi, 220 gull-lírar innborgaðar í Reikjavík megi aðeins útborgast með jafnmörgum pappírslírum hér í Ítalíu. Pósthúsið hér í Taormina hafi af misskilníngi reiknað þessa 220 gulllíra í firra mánuði til pappírslíra, og ég hafi gefið kvittun firir mótteknum 1025 lírum. Ég skuldi því pósthúsinu hér í Taormina 805 líra, eða réttara sagt þegar þessir síðast mótteknu 450 lírar séu hirtir í kassa pósthússins, aðeins 355 líra!

Ég mótmælti auðvitað af öllum kröftum, en það var gagnslaust, hann ásakaði pósthúsið í Reikjavík firir að hafa gert vitleisu, með því að senda ávísun á gull-líra, þar eð hér irði ekki útborgað í öðru en pappírslírum, jafnmörgum. Ég þverneitaði að borga þennan 355 líra mismun og krafðist þess að pósthúsið hér telegraferaði eða skrifaði strax til Reikjavíkur til að leiðrétta málið, en hann sagði að það irði ég að gera sjálfur. – Bað mig síðan að láta frú Bolognari (konu gestgjafans) koma til viðtals við sig hið firsta, en hún hafði skrifað nafn sitt á kvittunina mína til pósthússins í firra mánuði, til staðfestíngar ídentíteti mínu.

Nú fór ég á pósthúsið með frúnni aftur, og þá krafðist póstmeistarinn þess af henni, að hún greiddi sér þenna 350 líra mismun, þar eð hún hefði ábirgst þessar kvittanir. Hann sagðist hér með vildu gefa henni tilsögn (lezione) í því, hvenær hún ætti að undirskrifa og hvenær ekki! Póstmeistarinn neitaði þá með egta ítölsku cant, að sökin væri sín, sökin væri hennar, hún irði að sæta afleiðíngunum af því sem hún ábirgist etc. Það varð hnakkrifrildi á pósthúsinu milli hans og frúarinnar, og sitt af hverju hefði mátt vera ósagt.

 

Aðeins er afmarkað eitt tilvik í tilvitnuðu riti gagnáfrýjanda og bréfi Halldórs þó aðaláfrýjandi vísi til stafliða A, B, C og D í stefnu.                  

                  

 

108.   „Bók stefnda, bls. 336. Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dags. 24.10.1925. Notkun texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar, birting áður óbirts texta án heimildar höfundar. Sjá dskj. nr. 113.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 336:

Halldór gerði upp við frú Bolognari. Hún tók ekkert í húsaleigu, en Halldór skuldaði henni enn 700 lírur, þegar hann fór. Tárin runnu niður eftir kinnum frúarinnar, þegar hann kvaddi. Halldór bað Erlend að greiða þessa skuld.13

 

Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dags. 24.10.1925:

Ég gerði upp við frú Bolognari áður en ég fór frá Taormina og skulda ég henni 700 (pappírs) líra – hún tók ekkert firir húsaleigu! Ég er einn eilífur lukkunnar panfíll; tárin runnu niður eftir kinnum frúarinnar þegar ég kvaddi. Það er ótrúlegt en samt er það satt! Nú bið ég þig að koma þeim skildíngum sem ég skildi eiga í Reikjavík í ítalskan gjaldmiðil og senda henni pr. tjekk eða einhvernveginn. Ég treisti þér til að gera þetta. Bolognari-hjónin hafa auðsínt mér slíkt göfuglindi að ég má ekki láta undir höfuð leggjast að gjalda þeim skuldir mínar.

 

 

109.   „Bók stefnda, bls. 336 – 337. Vefarinn mikli frá Kasmír, bls. 62. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. (2 tilvik A og B). Sjá dskj. nr. 114.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 336 – 337:

A. Þeir Becker dvöldust í nokkra daga í Napólí. Þar gisti Halldór á Hotel Patria. Honum gekk erfiðlega að sofa. Hávaðinn í borginni var óskaplegur, alla liðlanga nóttina skrölti í vögnum og small í svipum, en síðari hluta dags heyrðust látlaus hróp og köll götusala, tartara og vitfirringa. Þegar hann hætti sér út á strætið, var hann umkringdur þessum lýð, sem reyndi að selja útlendingum alls konar skran. „Það hefur verið aumi fábjáninn sem fann upp þennan málshátt: vedi Napoli e poi muori,“ sagði Halldór.1 Sjáið Napólí og deyið síðan.

B. Hann skoðaði þó San Carlo söngleikahúsið og Bellini leikhúsið.

 

Bók Halldórs, Vefarinn mikli frá Kasmír, bls. 62:

A. Og altaf þessi ótti einsog áður og lángar svefnlausar nætur. Hávaðinn hér er alveg afskaplegur, alla liðlánga nóttina vagnskrölt og svipusmellir, og síðari hluta dags ymur borgin af látlausum hrópum og köllum götusala, tartaralýðs og vitfirrínga. Hætti maður sér útá strætið er maður umkríngdur af þessum lazzaroni, sem ofsækja útlendínga með alskonar gotaterri. Það hefur verið aumi fábjáninn sem fann upp þennan málshátt: vedi Napoli e poi muori.

B. Og þegar ég kem heim á kvöldin með ensku stúlkunni minni hafandi orðið fyrir vonbrigðum í San Carlo-óperunni eða Teatro Bellini ...

 

 

110.   „Bók stefnda, bls. 338. Vefarinn mikli frá Kasmír, bls. 195. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 115.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 338:

„Bruxelles-Berlin-Moscou!“ kallaði lestarvörðurinn í biðsalnum á brautarstöðinni í Basel eins og þetta væru þrjú þorp hvert við hliðina á öðru. Bjöllur gullu. Innan tveggja mínútna var hraðlestin runnin af stað. Allt kvöldið var slík úrhellisrigning, að engu var líkara en lestin rynni eftir fljótsbotni og í fljótinu væri þungur straumur. Gegnum vatnið grisjaði í skóga, akra og mannabústaði eins og kvikmyndir bak við maríugler, en regnið skall á stöðvarstéttirnar með háreysti líkast lófaklappi í stórum sal.4

 

Bók Halldórs, Vefarinn mikli frá Kasmír, bls. 195:

Bruxelles – Berlin – Moscou! kallar lestarvörðurinn í biðsal fyrsta farrýmis á stöðinni í Bâle einsog þetta væru þrjú þorp hvert við hliðina á öðru, og klukkan slær. Það er morgunn, og innan tveggja mínútna er hraðlestin runnin á stað. Og allan daginn bylur slíkt úrfellisregn á klefagluggunum að það er eingu líkara en rynni lestin eftir fljótsbotni og í fljótinu væri þúngur straumur. Gegnum vatnið grisjar í skóga, akra og mannabústaði einsog kvikmyndir bakvið maríugler, en regnið skellur á stöðvarstéttirnar með háreysti einsog lófaklapp í stórum sal.

 

 

111.   „Bók stefnda, bls. 338. Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dags. 24.10.1925. Notkun texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar, birting áður óbirts texta án heimildar höfundar. Sjá dskj. nr. 116.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 338:

Halldór átti nákvæmlega 65 svissnesk centimes, þegar hann lagði af stað frá Basel. Hann svaf samt prýðilega um nóttina á öðru farrými, kom til Lúxemborgar klukkan sjö að morgni og fór þá beint til dómkirkjuprestsins, sem hann var kunnugur frá fyrri tíð. Klerkur tók Halldóri höfðinglega. Halldór drakk, snæddi, svaf og talaði í húsi hans fram eftir degi. Hann fékk 50 franka lán til að komast til Clervaux, og var þar um kvöldverðarbil.5 Hann gekk eftirvæntingarfullur upp fjallshlíðina að kvöldi fimmtudagsins 22. október 1925. Það var kolniðamyrkur milli svartra grenitrjánna, en hann þekkti hverja bugðu á veginum. Urðu fagnaðarfundir við kvöldverðinn í klaustrinu. „Ég held ég verði ekki sælli daginn sem ég kem til Himnaríkis en ég var fyrsta kvöldið í refectóríinu og sá fyrir mér öll hin góðu, gamalkunnu andlit og fann mig umluktan af samúð og vinarþeli hinna fátöluðu og kyrlátu guðsmanna.“6 Halldóri var vísað til síns gamla herbergis, og þar fann hann í skrifborðinu böggul með uppköstum af sögunni Undir Helgahnúk. Vindurinn rjálaði við vafningsviðinn kringum gluggann hans eins og fyrir þremur árum.

 

Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dags. 24.10. 1925.

Það var eftirvæntíngarfull gánga sem ég átti hér upp fjallshlíðina í firrakvöld (kol-niðamirkur milli svartra grenitrjánna, en ég þekti hverja bugðu á veginum frá fornu fari) og strax innilegur fagnafundur við dirnar, þar sem ég mætti bróður Páli, óbreittum frá því er áður var, auðmjúkum og vingjarnlegum. Ég held að ég verði ekki sælli daginn sem ég kem til Himnaríkis, en ég var firsta kvöldið í refectónínu, og sá firir mér öll hin góðu, gamalkunnu andlit, og fann mig umluktan af samúð og vinarþeli hinna fátöluðu og kirlátu guðsmanna. Mér var vísað til gamla herbergisins míns hér í klaustrinu, og þar var alt eins og ég skildi við það, meira að segja í skrifborðinu fann ég heilan handritapakka af drögum að Undir Helgahnúk; vindurinn fitlar við vafníngsviðinn kríngum gluggann minn, eins og firir þrem árum, og minnir mig á alla rómantíkina sem gagntók á mér brjóstið firstu dagana mína í þessu blessaða húsi haustið 1922, þegar mig bar hér að garði eins og strandmann og vesælíng.

Ferð mín og fjáreign stóðust á endum. Það er að segja, ég borðaði síðustu máltíðina mína á konúnglega vísu í Basel, að kvöldi firir þrem dögum, og átti þá nákvæmlega 65 centimes svissnesk eftir. Ég hafði tekið mér farmiða til Luxembourgar í Róm. Um nóttina svaf ég príðilega á 2. klassa, vaknaði í Luxembourg kl. 7 að morgni og kom dóti mínu firir til geimslu, fór síðan beint til dómkapítúlarins í Luxembourg, sem ég er vel kunnugur, og tók hann mér höfðínglega mjög og bauð mér að dvelja með sér. Át ég, drakk, svaf og talaði í húsi hans þann dag fram undir kvöld, að ég sló hann um 50 fránka firir ferðinni til Clervaux. Híngað kom ég um kvöldverðarbil.

 

 

112.   „Bók stefnda, bls. 339 – 340. Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dags. 11.11.1925. Breyting á frumtexta höfundar, birting áður óbirts texta án heimildar höfundar. Sjá dskj. nr. 117.“

 

Bók gagnáfrýjanda, 339 – 340:

11. nóvember hafði hann lokið uppkasti að öllu verkinu, átta bókum, þá um 120 köflum. Hann skrifaði Erlendi yfirlit um söguhetjurnar:

 

                    Steinn Elliði, afbrigðamaður, þúngamiðja verksins.

 

                          Höfuðpersónur auk Steins

                          Örnólfur, útgerðarmaður, föðurbr. Steins, gáfaður stóriðjuhöldur.

                          Diljá, kona Örnólfs, sönn kona.

                         Frú Jófríður, móðir Steins, morbid [dauðaleg].

                        

                          Illustratívar persónur

                          Faðir Alexander, múnkur, masochisti, afbrigðam.

                          Signor Bambara, forngripasali, sadisti, afbrigðam.

                          Ljónharður Pípín, beiníngamaður, mýta.

 

                          Tekniskar hjálparpersónur (ómerkilegar)

                          Grímúlfur, faðir Steins, andlaus stóriðjuhöldur.

                          Carrington, prófessor úr breskri nýlendu, chauvinisti [þjóðrembumaður].

                         Frú Valgerður, amma Steins, broddborgarasál.

                          Miss Bradford, þerna frú Jófríðar.

                          Ítalskur veitíngamaður.

                          Fjöldi statista.

 

                          Form & staðir & tími

                         I. bók. Sem næst einþáttúngsformi. Þingvellir. Sumarnótt 1921.

                         II. bók. Sendibréfaform. (Reykjavík, París, Ítalía).

                         III. bók. Impressíónískt frásagnarform. Reykjavík.

                         IV. bók Essay-form (heimsádeila), rammexpressíónísk (London).

                         V. bók. Hreinn súrrealismi (Taormina).

                         VI. bók. Bænir, lýsingar, sálarlífslýsingar, meðferð súrrealistísk. Belgískt klaustur.

                         VII. bók. Realismi, samheingisfastur atburðagángur. (Rvík og Þingvellir).

                         VIII. bók. Súrrealismi. Drama. Róm. Haustnótt 1926.

                        

Halldór sagði Erlendi, að tileinkun í byrjun hljóðaði svo: „Bók þessi er tileinkuð herra Ljónharði Pipín, fyrrum galeiðuþræli, nú betlara í Taormina, í þakkarskyni fyrir flautublístrið við gluggann minn í sumar. Höfundurinn.“12

 

Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dags. 11.11.1925:

Þá er þar til máls að taka, að ég hef lokið öllu uppkastinu af Vefaranum. Hann er sem sagt í 8 bókum, ca. 120 kapitulum. ... Efniviðir verksins eru þetta:

 

Steinn Elliði, afbrigðamaður; þúngamiðja verksins.

Örnólfur útgerðarmaður, fóstubr. Steins, gáfaður stóriðjuhöldur

Diljá, kona Örnólfs, sönn kona

Frú Jófríður, móðir Steins, morbid -: höfuðpersónur auk Steins.

 

Faðir Alexander, múnkur; masochisti, afbrigðam.

Signor Bambara, forngripasali, sadisti; afbrigðam.

Ljónharður Pípín, beiníngamaður; mýta: illustratívar persónur.

 

Grímúlfur, faðir Steins, andlaus stóriðjuhöldur

Carríngton, prófessor úr breskri nílendu; chauvinisti

Frú Valgerður, amma Steins, broddborgarasál

Miss Bradford, þerna frú Jófríðar

Ítalskur veitingamaður

Fjöldi statista: (teknískar hjálparpersónur (ómerkilegar)

 

Form & staðir & tími.

 

I. bók            Sem næst einþáttúngsformi. Þingvellir. Sumarnótt 1921

II.                   Sendibréfaform (Reykjavík, Paris, Ítalía)

III.                              Impressiónistiskt frásagnarform. Reikjavík.

IV.                              Essay-form (heimsádeila) rammexpressionistisk (London)

V.                   Hreinn surrealismi. (Taormina)

VI.                              Bænir, lísíngar, sálarlífslísingar; meðferð surrealistisk. Belgía.

VII.                Realismi, samheingisfastur atburðagángur. (Rvík og Þíngvellir)

VIII.               Surrealismi. Drama. Róm. Haustnótt 1926.

 

Stíll og frásagnarmeðferðir hinar allra breitilegustu: drastiskur geðblær, líriskur, blaséraður, sentimentalt. Höfuðlífsskoðanir vorra tíma dregnar upp, hver um aðra þvera. Einkunnarorð ritsins: Nemo tamen isto ditior, nemo potentior, nemo liberior: que se et omnia relinguere scit, et ad infinum se ponere. De Imit Jesu Christi. Lib. II. Cap. XI. Tileinkun hljóðar þannig: „Bók þessi er tileinkuð herra Ljónharði Pípín, firrum galeiðuþræli, nú betlara í Taormina, í þakkarskini firir flautblístrið við gluggann minn í sumar. Höfundurinn.“

 

 

113.   „Bók stefnda, bls. 361 – 364. Dagleið á fjöllum, bls. 7 – 15. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (5 tilvik A, B, C, D og E). Sjá dskj. nr. 118.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 361 – 364:

A. Vetur lagðist snemma að með fannalögum í uppsveitum og til heiða og miklum frostum. Halldór sammæltist til ferðar við bónda norðan af Jökuldal, Jón Snædal á Eiríksstöðum, orðlagðan þrekmann og skemmtinn vel, sem þó var bæklaður á fæti, svo að honum var erfitt um gang. Veður voru rysjótt, ýmist ofanhríð eða neðan. Gamall maður úr Fljótsdalnum lét þau orð falla, kvöldið áður en Halldór og Jón lögðu upp, að þeir kæmust aldrei lifandi yfir Fljótsdalsheiði daginn eftir. Meinhægt veður var að morgni. Halldór var í hnéháum stígvélum úr leðri.1 Þeir Jón fóru snemma á fætur og lögðu á fjallið frá Bessastöðum í Fljótsdal, þáðu spenvolga nýmjólk við fjósdyrnar hjá mjaltakonunni og voru á fjallsbrún í lýsingu. Þá var tekið að snjóa, og þegar þeir litu um hæl niður í dalinn, var drífan þykk eins og reykjarkaf. Frost var fremur vægt. Óðar en upp var komið, tók við hnésnjór á jafnsléttu, en djúpir skaflar í lautum. Á brúninni tygjuðu þeir Halldór sig til göngu. Hann gekk einn á skíðum. Jón frá Eiríksstöðum sat á litlum skíðasleða, sem hestur gekk fyrir, en maður, sem fylgdi þeim og kallaður var Elli, öslaði snjóinn í hné allan daginn. Halldór brunaði áfram léttilega, en hann hafði ekki komið á skíði frá því í Alpafjöllum veturinn 1921.

B. Framan af degi fylgdu þeir félagar vörðum, en eftir hádegi þóttust fylgdarmenn Halldórs vita um skemmri leið beint í Eiríksstaði og vildu beygja af alfaraleið. Halldóri leist illa á, en lét undan. Stefndu þeir síðan vegleysur norður heiði í átt til Eiríksstaða á Jökuldal.

Um miðjan dag voru Halldór og félagar hans komnir að lítilli á, Lambakíl, sem rennur úr vatni á heiðinni og var nú öll bólgin af krapi. Hesturinn sökk í krapinu og barðist um ákaflega, en Elli hélt í tauminn og stóð þó ekki nema hálfur upp úr. Loksins þegar hesturinn var kominn upp úr hinum megin með miklum erfiðismunum, lögðu Halldór og Jón bóndi í kílinn. Tók Halldór hann aftur fyrir sig á skíðunum. Um stund flutu þeir ofan á, en þegar fjarlægðist land,var krapið of meyrt til að bera þungann, uns allt úthaldið sökk til botns og þeir stóðu báðir í mitti í krapinu. Skíðin voru spennt um fætur Halldórs, og varð hann að dýfa höndum niður í krapann alla leið upp undir handarkrika til að spenna þau af sér og ná þeim upp úr. Þeir voru holdvotir, þegar þeir höfðu bægslast gegnum krapið til lands hinum megin. Þegar leið á daginn, styttist milli élja, og í rökkurbyrjun um fjögurleytið var komin óslitin mugga. Enn var frostið ekki hart, en þegar þeir félagar opnuðu malpoka sína og settust að snæðingi, fraus maturinn í höndum þeirra.

C. Þeir héldu síðan áfram um hríð. En þegar rökkur var tekið að færast yfir, voru fylgdarmenn Halldórs bersýnilega orðnir rammvilltir. Hann greip þá áttavita, sem hann hafði tekið með sér. Orðið var skuggsýnt og erfitt að lesa á hann, en þó kom í ljós, að þeir stefndu í hávestur í stað norðurs. Fylgdarmenn Halldórs vildu ekki trúa áttavitanum, en hann byrsti sig og sagðist þá myndu skilja við þá og stefna eftir áttavitanum og láta skeika að sköpuðu um, hverjir fyrr kæmust til byggða. Samþykktu fylgdarmennirnir þá að fylgja áttavitanum. En þeir félagar höfðu ekki nema einn eldspýtustokk með í ferð, og gekk fljótt á spýturnar. Til að spara þær varð Halldór að leggjast niður í snjóinn og gera skjól undir úlpu sinni, svo að ekki slokknaði, í hvert skipti sem hann þurfti að líta á áttavitann. Niðamyrkur var og mikil fannkoma, og sá ekki út úr augum, en þeir urðu að líta á áttavitann á stundarfjórðungsfresti eða oftar til að vera vissir um, að ekki skeikaði af réttri leið. Tafsamt var að koma hestinum upp úr fönnum, en hann braust um, og virtist stundum svo af honum dregið, að hann mætti sig hvergi hreyfa.

D. Langt var liðið á kvöld, og höfðu Halldór og félagar hans ekki matast frá því á miðjum degi, en einkum sótti á þá þorsti. En um það bil, sem eldspýtur þraut, voru þeir Halldór svo heppnir, að lítið eitt rofaði til, svo að grillti í stjörnu, og tóku þeir félagar stefnu á hana um sinn. Brátt skyggði fyrir hana aftur, og í röskan klukkutíma héldu þeir áfram eins og blindingjar. Nú var áttavitinn orðinn gagnslaus sökum eldspýtnaleysis. En um það bil, sem þeir félagar voru farnir að svipast um eftir hentugum skafli í því augnamiði að grafa sig í fönn, tók að bera á aflíðandi halla. Skíðin fóru að renna sjálfkrafa. Nú kom litla stjarnan aftur í ljós og fullvissaði þá félaga um, að þá hefði ekki borið mikið af leið síðasta klukkutímann. Enn paufuðust þeir áfram, en voru orðnir örþreyttir. Þeir námu staðar á leiti og hvíldu sig. Snjórinn hélt áfram að sáldrast niður í myrkrinu. En sem þeir sátu í muggunni, spurði Jón bóndi allt í einu upp úr eins manns hljóði: „Heyrið þið niðinn?“ Þegar þeir hlustuðu nákvæmlega, heyrðu þeir jafnan og hægan nið gegnum kyrrðina, frá vatnsfalli, sem líður áfram í máttugri ró. Það var Jökulsá á Dal! Þetta var mál byggðarinnar. Þreyttir menn stóðu Halldór og félagar hans á fætur og gengu á hljóðið. Eftir stundarkorn byltust þeir niður brekkur og giljadrög, eftir fjallshlíðinni, uns þeir voru komnir niður í dalinn. Þegar neðar dró, sniðskáru þeir sig út með ánni, og var víða erfitt að koma við skíðum í hliðarhallanum, en niðamyrkur. Innan skamms heyrðu þeir hundgá úr fjarska. Von bráðar voru þeir í túni.

E. Bærinn, sem þeir komu að, hét Stuðlafoss, lítill og fátæklegur, illa hýstur. Þeir vöktu upp fólkið, ung hjón og vel menntuð, Sigurð Haraldsson og Hróðnýju Stefánsdóttur, sem bjuggu þar með fimm börnum sínum. Ferðalöngunum var tekið með kostum og kynjum. Slegið var upp veislu strax um nóttina með sviðum, rjúpnasteik, nýmjólk og öðrum kræsingum. Á meðan konan reytti rjúpurnar, háttaði Halldór ofan í hlýja, dúnmjúka sæng í baðstofunni til að hvíla lúin bein. Eftir átján tíma ferð var hvíldin ljúf. Halldór heyrði brátt snarkið í steikinni gegnum svefninn.2

 

Bók Halldórs, Dagleið á fjöllum, bls. 7 – 15:

A. Veturinn 1926 lagðist snemma að á Austurlandi með fannalögum í uppsveitum og til heiða, og miklum frostum. Ég dvaldi hjá lækninum á Brekku í Fljótsdal þangað til nokkru innan við miðjan nóvember að mér var ekkert lengur að vanbúnaði og sammæltist þá til ferðar við bónda norðan af Jökuldal, Jón á Eiríksstöðum, sem er hollvinur minn síðan, orðlagður þrekmaður og skemmtinn vel, en bæklaður á fæti svo honum er erfitt um gang. Nú voru veður rysjótt í frekara lagi, ýmist ofanhríð eða neðan. ...

Veðurútlitið var ekki glæsilegra en svo kvöldið áður en við lögðum upp, að gamall maður úr Fljótsdalnum lét þau orð falla, að við kæmumst aldrei lifandi yfir Fljótsdalsheiði á morgun. Þó var meinhægt veður að morgni. Við vorum á fótum í býti og lögðum á fjallið frá Bessastöðum í Fljótsdal, þáðum spenvolga nýmjólk við fjósdyrnar hjá mjaltakonunni og vorum á fjallsbrún í lýsingu. Þá var tekið að snjóa og er við litum um hæl niður í dalinn var drífan þykk eins og reykjarkaf. Frost var með vægara móti. Strax og upp var komið tók við hnésnjór á jafnsléttu, en djúpir skaflar í lautum. Á brúninni týgjuðum við okkur til göngu. Við vorum þrír saman, en ég einn hafði skíði. Jón frá Eiríksstöðum sat á litlum skíðasleða sem hestur gekk fyrir, en fylgdarmaður okkar öslaði snjóinn í hné og klyftir allan daginn. Hann var kallaður Elli ... Ferðayndið féll í minn hlut vegna skíðanna sem skutu mér áreynslulítið yfir fannbreiðuna. Þá hafði ég ekki stigið á skíði síðan suður í Alpafjöllum veturinn 1921.

B. Framan af degi fylgjum við vörðum, en að aflíðandi hádegi þóttust samfylgdarmenn mínir vita skemmri leið beint í Eiríksstaði, og vildu beygja af alfaraleið. Mér leizt strax illa á þetta ... Ég lét undan síga og stefndum við síðan vegleysur norður heiði í áttina til Eiríksstaða á Jökuldal.

Frá þessum degi miðjum er mér sérstaklega minnisstætt æfintýrið í Lambakíl, ... Það er lítil á, sem rennur úr vatni á heiðinni og var nú öll uppbólgin af krapi. Hesturinn sökk óðar í bóghnúta í krapinu og barðist um ákaflega, en Elli hélt í tauminn og stóð þó ekki nema hálfur upp úr. Loks þegar hesturinn var kominn upp úr hinumegin eftir mikla erfiðismuni, lögðum við Jón bóndi á kílinn þannig að ég tók hann fyrir aftan mig á skíðin. Um stund flutum við ofan á, en þegar fjarlægðist land, var krapið of meyrt til að bera þungann, unz allt úthaldið sökk til botns og við stóðum báðir í mitti í krapinu. Skíðin voru spennt um fætur mér, og ég varð að dýfa höndunum niður í krapann alla leið upp undir handkrika til að spenna þau af mér og ná þeim upp úr. Við vorum hundvotir þegar við höfðum bægslazt gegn um krapið til lands hinumegin.

Þegar á daginn leið styttist milli élja og í rökkurbyrjun um fjögurleytið var komin óslitin mugga. Frost var að vísu ekki hart, en ... þegar við höfðum opnað malpokana og setzt til snæðings fraus maturinn í höndunum á okkur.

C. Svo héldum við áfram enn um hríð. ... Er nú ekki að orðlengja það, nema þegar rökkrið var tekið að færast yfir, gerði ég mér engar gyllingar framar um forustu þeirra, en vissi að þeir voru rammvilltir.

... Nú var ég svo heppinn að hafa tekið með mér áttavita, og loks er ég var að fullu sannfærður um skeikulleik fylgdarmanna minna, tók ég hann fram, ... Samfylgdarmenn mínir héldu því nú fram að áttavitinn vísaði rangt ... og varð út af þessu talsvert þjark sem lauk svo að ég sagðist mundu skilja við þá og stefna eftir áttavitanum, og láta skeika að sköpuðu um það, hverjir fyrr kæmust til byggða. ...

Nú var sem sagt sú hugmynd orðin ofan á að fylgja áttavitanum. En það var aðeins einn eldspýtustokkur með í ferðinni og gekk fljótt á spýturnar. Til að spara þær varð ég að leggjast niður í snjóinn og gera skjól undir úlpunni minni svo ekki slokknaði í hvert skifti sem ég þurfti að líta á áttavitann. Það var niðamyrkur og mikil fannkoma, og sá ekki út úr augunum, en við urðum að líta á áttavitann á ekki skemmra en stundarfjórðungsfresti til þess að vera vissir ... Það var sérstaklega tafsamt að koma hestinum upp úr fönnunum, en hann brauzt um á ýmsum endum, og virtist stundum svo af honum dregið að hann mætti sig hvergi hreyfa.

D. Nú var langt liðið á kvöld og við höfðum ekki matazt síðan á miðjum degi, en einkum sótti fast á okkur þorsti, ... En um það bil sem eldspýturnar var að þrjóta, vorum við svo heppnir að lítið eitt rofaði til, svo við grilltum eina stjörnu og tókum stefnu af henni um sinn; en brátt skyggði fyrir hana aftur og í röskan klukkutíma héldum við áfram eins og blindingjar. Áttavitinn var nú orðinn gagnslaus vegna eldspýtnaskortsins, við vissum ekki hót lengur hvar við vorum staddir og vorum farnir að ræða um að hyggilegra væri að nátta sig í fönn en halda öllu lengur áfram út í óvissuna. En um það bil sem við vorum farnir að svipast um eftir hentugum skafli í því augnamiði að grafa okkur í fönn, fór að bera á aflíðandi halla, skíðin fóru að renna sjálfkrafa. ...

... þá kom litla stjarnan í ljós aftur og fullvissaði okkur um, að við hefðum ekki hrapað mikið af réttri leið síðasta klukkutímann. Enn þaufuðum við lengi áfram ... uns við námum staðar á einu leitinu og hvíldum okkar lúin bein. Snjórinn hélt áfram að sáldrast niður í myrkrinu ... En sem við sátum þarna í muggunni, spyr Jón bóndi allt í einu upp úr eins manns hljóði:

Heyrið þið niðinn?

Það var orð að sönnu. Þegar við hlustuðum nákvæmlega heyrðum við jafnan og hægan nið gegn um kyrðina, frá vatnsfalli sem líður fram í máttugri ró.

Það er Jökulsá á Dal!

Það var sama sem að heyra mál byggðarinnar. Afþreyttir menn stóðum við á fætur og gengum á hljóðið. Eftir stundarkorn byltumst við niður brekkur og giljardrög, niður eftir fjallshlíðinni unz við vorum komnir niður í dalinn, ... Þegar neðar dró sniðskárum við okkur út með ánni og var víða erfitt að koma við skíðum í hliðarhallanum, en niðamyrkur; ... innan skamms heyrðum við hundgá mikla úr nokkrum fjarska. Von bráðar vorum við í túni.

E. Mig minnir að bærinn þangað sem við komum um nóttina héti Stuðlafoss, skáldlegt nafn, lítill fátæklegur bær, illa hýstur. Við vöktum upp og var tekið með kostum og kynjum af ungum og vel menntum hjónum. Við höfðum verið nær átján stundum á fjalli milli byggða og þóttumst nú vel að húsaskjóli komnir, enda var slegið upp veizlu fyrir okkur strax um nóttina með sviðum, rjúpnasteik, nýmjólk og öðrum kræsingum. Síðan háttuðum við niður í mjúk og notaleg rúm ...

 

 

114    „Bók stefnda, bls. 364 – 365. Dagleið á fjöllum, bls. 16 – 18. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (2 tilvik A og B). Sjá dskj. nr. 119.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 364 – 365:

A. Snemma morguns lögðu þeir félagar af stað og ætluðu alla leið í Möðrudal. En tungls naut ekki að kvöldi sakir ofanhríðar, og skíðafæri var í lakasta lagi, svo að ferðin sóttist seint. Þeir komu við í Veturhúsum hjá Önnu Einarsdóttur og ráðsmanni hennar, Bjarna Þorgrímssyni, og drukku kaffi. Anna hafði keypt jörðina ári áður. Bjarni hafði um aldamót verið smalamaður séra Arnljóts Ólafssonar í Sauðanesi og þá orðið alræmdur fyrir að hafa skrifað fjandanum bréf, látið í flösku og kastað á haf út. Flöskuskeytið rak upp á fjöru skammt frá Sauðanesi, og þótti auðsætt, að smalamaður hefði skrifað það.3 Í bréfinu hafði hann beðið fjandann um að útvega sér konu og bújörð. Bjarni hafði nú loks hlotið bænheyrslu, jörð og konu.4 Hús voru lágreist og tóku litla birtu. Úr Veturhúsum héldu þeir Halldór áfram ferð sinni, en urðu veðurtepptir í kotinu Sænautaseli í Jökuldalsheiði.5 Þessi næturstaður var langt frá mannabyggðum. Ekki var sjónarmunur á kotinu og jöklinum. Fylgdarmenn Halldórs hittu á kotið með því að fylgja sérstökum miðum. Þeir gengu mörg þrep niður í jökulinn til að komast inn í bæjardyrnar. Baðstofukytran var á loftinu, niðri var hey og fénaður. Hér bjuggu karl og kerling, Guðmundur Guðmundsson og kona hans, Jónína Guðnadóttir, sonur þeirra, Pétur, og móðir bónda, gömul og farlama, sem hét Petra Jónsdóttir.6 Guðmundur bóndi átti nokkrar ær, en hafði slátrað einu kúnni til að hafa nóg handa kindunum. Fólkið var guggið og matarlítið, einkum sveinninn og gamla konan. Hún stundi í sífellu og kveinaði og sagði, að sig langaði í mjólk. Halldór og fylgdarmenn hans gáfu henni mjólk af nesti sínu. „Ég held, að mér hafi aldrei verið beðið viðlíka guðsblessunar fyrir neitt, sem ég hef gert,“ sagði Halldór síðar.7 Gamla konan hellti mjólkinni í skál og saup einn sopa, setti síðan lok á skálina og lét hana upp á hornhillu. Seint um kvöldið fékk hún sér sopa og setti síðan lokið á skálina. Um miðja nótt fékk hún sér aftur sopa. Hún sagðist ætla að geyma sér þennan leka í nokkur dægur.

B. Fólkið í kotinu gerði eins vel við þá og það gat. Þeir fengu soðið beljukjöt um kvöldið og aftur soðið beljukjöt um morguninn, kaffi og grjótharðar kleinur. Guðmundur bóndi var heylítill eins og flestir heiðabændur. Hann átti ekkert nema ánægjuna. Á meðan lagt var á borð fyrir gestina, lék hann á hljóðfæri og söng við raust tónlist eftir sjálfan sig.8 Eftir matinn sat Guðmundur í fleti sínu, reri fram á gráðið og brosti út undir eyru. Halldór spurði, hvort hann langaði ekki til að flytjast burt. Nei, honum hafði aldrei dottið það í hug, en nágranni sinn utar í heiðinni fengi blaðið Hæni frá Seyðisfirði; þar hefði birst merkileg ritgerð um Grænland, sem væri eitt auðugasta og frjósamasta land í heimi.9 Heiðabændur höfðu talað mikið saman um þetta land. Þeim hafði komið saman um það, að líklega væri nú best að flytja þangað. Í hugum þessara kotunga var aðeins ein paradís til dýrlegri en heiðin: Grænland. Fylgdarmenn Halldórs réðu bónda frá að flytjast þangað; þar væru villimenn. Bóndi sagði, úr því að svo væri, að þá væri best að vera á heiðinni. „Nema ef vera skyldi á Ítalíu, þar sem þessi maður hefur verið,“ sögðu fylgdarmenn Halldórs og bentu á hann. Guðmundur bóndi leit á Halldór stórum augum og sá hann í nýju ljósi. „Eru góðar afréttir á Ítalíunni?“ spurði hann.

 

Bók Halldórs, Dagleið á fjöllum bls. 16 – 18:

A. ... hafði lagt af stað ... snemma morguns og ætlað alla leið í Möðrudal, en tungls naut ekki að kvöldinu sakir ofanhríðar, skíðafæri í lakara lagi, ferðin sóttist seint.

Þessi næturstaður er langt frá mannabyggðum ...

Það var ekki sjónarmunur á kotinu og jöklinum; samferðamenn mínir hittu á það með því að fylgja sérstökum miðum. Við gengum mörg þrep niður í jökulinn til að komast inn í bæjardyrnar. Baðstofukytran var á loftinu, niðri var hey og fénaður. Hér bjó karl og kerling, sonur þeirra og móðir bónda, farlama gamalmenni. Bóndinn átti nokkrar kindur, en hafði slátrað einu kúnni til þess að hafa nóg handa kindunum. Hann sagði að það gerði minna til þótt fólkið væri mjólkurlaust og matarlítið, aðalatriðið væri að hafa nóg handa kindunum. Fólkið var mjög guggið, einkum strákurinn og gamla konan. Hún sagðist vera veik, stundi í sífellu og kveinaði og sagði að sig langaði í mjólk. ...

Samferðamenn mínir komu með mjólk upp úr malnum og gáfu henni. Hún hellti mjólkinni í skál og saup einn sopa, setti síðan lok á skálina og lét hana upp á hornhilluna. Seint um kvöldið saup hún aftur einn sopa og setti síðan lokið á skálina. Um miðja nótt fékk hún sér aftur einn sopa. „Ég með alla mjólkurílöngunina“, tautaði hún fyrir munni sér. Hún sagðist ætla að geyma sér þennan leka í nokkur dægur.

B. Kotungarnir gerðu fyrir okkur allt sem í þeirra valdi stóð; ... Við fengum soðið beljukjöt um kvöldið og soðið beljukjöt um morguninn, kaffi og grjótharðar kleinur. Samfylgdarmenn mínir sögðu að bóndinn væri heylítill eins og flestir heiðabændur; ... Þeir eiga ekkert nema ánægjuna, hamingjuna og sæluna. Bóndinn reri fram í gráðið og brosti út undir eyru ... Ég spurði hvort hann lángaði ekki til að flytja héðan burt. Nei, í rauninni hafði honum aldrei dottið það í hug í alvöru. En það var annar bóndi, nágranni hans, nokkra tugi kílómetra utar í heiðinni, sem keypti blaðið Hæni frá Seyðisfirði. Nábúarnir töluðu stundum saman, meðal annars um innihald þessa ágæta blaðs. Það hafði staðið í blaðinu merkileg ritgerð um Grænland, þar sem var haldið fram, að Grænland væri auðugasta og frjósamasta land í heimi og þangað væri þeim Íslendingum ráð að flytja sem erfitt ættu heima fyrir. Þeir höfðu talazt mikið við um Grænland, heiðabændurnir, og komið saman um að líklega væri nú bezt að flytja þangað. Í hugum þessara kotunga var aðeins ein paradís dýrlegri en heiðin: Grænland. Samferðamenn mínir töldu bóndann mjög frá því að flytja til Grænlands og sögðu að þar væru villimenn. Honum þótti einkennilegt að Hæni skyldi hafa láðzt að geta um þennan annmarka á landinu, og komst að þeirri niðurstöðu, að þegar öllu væri á botninn hvolft, þá væri bezt hér í heiðinni. Nema ef vera skyldi á Ítalíu þar sem þessi maður hefur verið, sögðu samfylgdarmenn mínir og bentu á mig. Bóndinn leit á mig stórum augum og sá mig í nýju ljósi.

Eru góðir afréttir á Ítalíunni? spurði hann.

 

 

115.   „Bók stefnda, bls. 400. Þjóðhátíðarrolla, bls. 189 – 190. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 120.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 400:

Einn heitan sumardag í Winnipeg 1927 kynnti Sigfús Halldór fyrir Stefáni Bjarman rithöfundi, sem þá var staddur þar. Þeir fóru inn á kaffihús við höfuðstræti borgarinnar, Portage Avenue. Þar var skrautlegt; vel klæddar fyrirkonur sátu settlegar og drukku síðdegiskaffi og gæddu sér á rjómakökum. Sigfús skildi þá þar eftir. Það var eins og gamlir kunningjar hefðu hist. Þeir Halldór og Stefán höfðu sameiginlega þekkingu á mörgum málum, líka svipaðan smekk á bókmenntum og höfðu hlustað á sömu tónlist frá æsku. Það kom líka í ljós, að Stefán þekkti Erlend í Unuhúsi. Þeir sátu lengi yfir kaffinu.12

 

Bók Halldórs, Þjóðhátíðarrolla, bls. 189 – 190:

... sem ég hitti þennan glæsilega skagfirðíng, nánar tiltekið í Winnipeg Man., Can., þar á höfuðstrætinu Portage Avenue einn heitan júlídag árið 1927. Frændi hans Sigfús Halldórs frá Höfnum, og um þær mundir ritstjóri í Winnipeg, hann kynti okkur og fór með okkur inní kaffihús af sjaldséðara tagi í þeim parti heimsins, þar í útflúraðan viðhafnarsal fullan af uppáklæddum háborgaralegum frúm sem voru að drekka sér nónkaffið mjög settlega með „dönsku peistrí“, það er að segja rjómakökum. Þarna skildi ritstjórinn okkur eftir og fór leiðar sinnar.

Það var einsog við værum gamalkunnugir. Við höfðum sameiginlega þekkíngu á umtalsverðum efnum, líka svipaðan smekk á bókmentum, og höfðum heyrt sömu tónlist frá æsku; það kom uppúr dúrnum að við áttum sömu kunníngja heima í Reykjavík, ... En mestu máli skifti að hann var rótgróinn vinur eins manns sem var slíkur vinur vina sinna, að þeir sem voru hans vinir, voru bræður fyrir hann; það var Erlendur.

Þegar við höfðum setið leingi yfir kaffinu ... kvöddumst við ...

 

 

116.   „Bók stefnda, bls. 402 – 403. Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dags. 20.07.1927. Notkun texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar, birting áður óbirts texta án heimildar höfundar. Sjá dskj. nr. 121.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 402 – 403:

Himinninn var fagurblár, en sólskinið næstum því gullið í mjaðmarháu, safaríku engjagrasinu og kjarrskóginum með laufin þung af vatni. Á meðan Halldór virti fyrir sér fegurð sléttunnar, hugsaði hann um erfið kjör íslensku landnemanna í þessum byggðum.

 

Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dags. 20.07.1927:

Stóð leingi á brúnni yfir Íslendíngafljót í Riverton og hugsaði um hina erfiðu æfi Íslendínga í þessu landi; alt um það í sögunni Nýa Ísland. Canada má heita óbygt land. Maður ekur hér yfir stór flæmi, sem er á víxl kjarrskógur, stórskógur eða eingjar með mjaðmarháu grasi, sem lifir og deyr. Það er fagurt og undarlegt að sjá alt þetta í sólskininu. Himininn hér er skínandi blár og sólskinið verður næstum gullið á safaríku eingjagrasinu og þessum kjarrskógum sem standa í bússnum runnum með þúng laufin af vatni.

 

117.   „Bók stefnda, bls. 434. Alþýðubókin – Inngangur að rannsókn á orsökum glæpa, bls. 147 – 148. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 122.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 434.

Á meðan Halldór dvaldist í Norður-Kaliforníu, gerði hann sér eitt sinn ferð til Oakland til að hlusta á dómara í Hæstarétti Kaliforníuríkis flytja erindi um glæpi. Fyrirlesarinn var með yfirskegg eins og púðilhundur. Hann sagði, að glæpum væri að fjölga, svo að horfði til stórvandræða. Öll fangelsi væru full. En nú væru vitrir menn að komast á snoðir um, að glæpir gætu stafað af öðru en mannvonskunni einni. Margur hungraður atvinnuleysingi kysi heldur að fara í fangelsi en liggja úti í skemmtigörðum. Dómarinn sagði, að auðugt fólk í landinu gerði of mikið af því að berast á. Hvað væri skiljanlegra en að peningalaus flakkari hnuplaði fyrsta bílnum, sem fyrir augun bæri, ef hann þyrfti nauðsynlega að flýta sér bæjarleið? Hann kvað það ekki undarlegt, þótt hefðarkonur, sem gerðu sér að leik að láta demanta glóa á hverjum fingri á opinberum stöðum, væru rændar. Sá fátæklingur, sem kæmist undan með einn demantshring, hefði með því tryggt sér framtíð. Nauðganir væru einkum framdar af mönnum, sem hefðu ekki efni á að kaupa sér ódýra skækju og því síður á að gifta sig. Halldóri þótti lítið til lestursins koma. „Eftir að ég kom út af þessum fyrirlestri var ég sannfærðari um það en nokkru sinni fyr að einu heiðarlegu mennirnir í Bandaríkjunum væru þjófar þeir og ránmorðíngjar sem fylla tukthúsin,“ skrifaði hann í grein, sem birtist síðar í Alþýðubókinni. „Auðvaldsskipulagið er í eðli sínu ekkert annað en ein einasta glæpastofnun frá upphafi til enda, bygð á einu aðalgrundvallaratriði, sérréttindum yfirgángsfrekasta mannhatarans. Hið borgaralega þjóðfélag með ójöfnuði sínum, lögvernd ránglætisins og hervernd, er ekki aðeins móðir allra glæpa, heldur skorar það á menn til allra glæpa.

 

Bók Halldórs, Alþýðubókin – Inngangur að rannsókn á orsökum glæpa, bls. 147 – 148:

Fyrir nokkrum dögum hlustaði ég á einn háæruverðugan háyfirdómara úr háyfirréttinum í Kaliforníu (hann var með yfirskegg eins og púðulhundur) flytja erindi um glæpi. Þetta var í Oakland. Lýsing hans á nútímaglæpum var hroðaleg, enda fara glæpir vaxandi með ári hverju ... Hann sagði að þetta horfði til stórvandræða; tukthúsin troðfyltust jafnóðum og þeim væri fjölgað; ... En þó var það eftirtektarverðast í ræðu dómarans, er hann sagði að nú væru ýmsir mestu vitríngar farnir að renna grun í að glæpir gætu stafað af öðru en illmensku. ... Hann lét á sér skiljast að margur húngraður atvinnuleysíngi kysi heldur að fara í tukthús en liggja úti í skemtigörðum, ... Hann sagði að í landinu viðgeingist vítaverð tilhneigíng hjá fólki, sennilega betra fólki, til þess að hampa auðæfum sínum framaní almenníng. Um bílaþjófnað sagði hann að hvað væri skiljanlegra en peníngalaus flakkari hnuplaði fyrsta bílnum sem fyrir augun bæri, ef hann þyrfti nauðsynlega að flýta sér bæarleið? Sömuleiðis sagði hann að spekíngum væri farið að þykja eigi undarlegt þótt hefðarkonum sem gerðu sér það að leik að láta demanta glóa á hverjum fíngri á opinberum stöðum væri „haldið uppi“, þær ræntar. Ef húngraður atvinnuleysíngi kæmist undan með einn demantshríng væri hann búinn að tryggja sér framtíð. Hann kvað nauðganir einkum framdar af mönnum sem hefðu ekki efni á að kaupa sér ódýra skækju og þaðan af síður gifta sig.

 

 

118.   „Bók stefnda, bls. 446. Skáldatími, bls. 39 – 43. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. Sjá dskj. nr. 123.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 446:

Halldór hélt líka áfram að flytja fyrirlestra um Ísland. Eitt sinn skyldi hann koma fram hjá bandarískum verkalýðssamtökum, I.W.W. (International Workers of the World). Þóttu þessi samtök mjög róttæk, jafnvel hættuleg. Fundurinn var haldinn í litlum sal í fornfálegu samkomuhúsi við Main Street í miðborg Los Angeles. Flestir voru áheyrendur af léttasta skeiði. Halldór sagði þeim frá fiskveiðum á Norðurslóðum, hákarlalegum í Dumbshafi og hinum fræga sólþurrkaða saltfiski, bakkalaó, sem suðrænar þjóðir kaupa frá Íslandi og neyta á föstudögum sér til sáluhjálpar. Þegar Halldór þagnaði, reis ungur maður á fætur, fölur yfirlitum með kolsvart hár, hvítglóandi augnaráð og stórar tennur. Hann sagði, að Halldór væri útsendari auðvaldsaflanna. Sjálfur myndi hann eftir því, þegar hann hefði verið tötradrengur í Napólí, að enginn í fjölskyldu sinni hefði haft efni á að seðja hungur sitt á góðmeti eins og ávöxtum og dúfnasteik, heldur hefðu allir orðið að láta sér nægja daunillan fisk, sem norrænir menn hefðu prangað inn á Ítali. Fundarstjóri spurði, hvort Halldór vildi ekki svara manninum. Hann kvaðst ekki nenna að stæla hér um fæðutegund, sem hann neytti aldrei utan heimalands síns og hefði ekki bragðað í tvö ár. Hann hefði ekki heldur meiri tíma, því að hann ætlaði að fara að hitta stúlku. Þá stóð upp gamall maður með gráa kampa og glettni í augum. Hann sagðist vera fæddur og alinn upp í Norður-Noregi, þar sem öll þjóðin lifði á fiskæti og þætti óbragð að ávöxtum, en enginn gæti fengið neinn á þeim slóðum til að leggja sér dúfur til munns. Börnin væru þar hýr og rjóð og lékju sér allan daginn. Fiskætur úr því landi gengju yfir þveran Grænlandsjökul á skíðum og sigldu til Suðurskautslandsins á smákænu, en Norðmaðurinn Nansen hefði bjargað Rússum frá hungursneyð. Eftir þetta þakkaði Halldór áheyrnina, kvaddi og fór.

 

Bók Halldórs, Skáldatími, bls. 39 – 43:

Einusinni fór ég að flytja fyrirlestur um Ísland hjá IWW. Fángamarkið táknar Industrial Workers of the World. Menn í þessu félagi voru herskáir stéttabaráttumenn ... Á þeim lá sú hjátrú að þeir væru mestir hálsskurðarmenn í Ameríku. ...

Þetta var í litlum sal í fornfálegu samkomuhúsi við Main Street. ... Flestir voru áheyrendur af léttasta skeiði ...

... Svo ég brá á það ráð að skrafa heldur lítið eitt um fiskveiðar í Norðurhöfum, lagði sérstaka áherslu á hákarlalegur norður í Dumbshafi á þorranum, og endaði á þeim fræga bakkalaó sem er sólþurkaður til að ávinna kaþólskum mönnum við Miðjarðarhaf sáluhjálp á föstudögum.

... Ég var ekki fyr þagnaður en tiltölulega úngur maður reis á fætur, fölur yfirlitum með stórt miðjarðarhafshár blátt, hvítglóandi augu og tanngarð sem eftilvill var einu númeri of stór. ... benti á mig með vísifíngrinum, samviskulausan útsendara auðvaldsafla ... Hann sagðist sosum muna þegar hann var tötradreingur í Napólí og einginn af hans fólki hafði efni á að seðja húngur sitt á því góðmeti sem úir og grúir af á Ítalíu, til dæmis ávöxtum og dúfnasteik. Svindlarar og blóðsugur norður í heimi tóku saman við sinn sala á Ítalíu til að pránga inná okkur lassaróna daunillu fiskæti ...

Að lokinni ræðu ítalans spurði fundarstjóri hvort ég óskaði ekki eftir að taka til máls ... Ég kvað svo ekki vera, sagðist ekki nenna að fara að stæla hér um fæðutegund sem ég aldrei neytti sjálfur utan míns heimalands og hefði nú ekki bragðað í tvö ár. ... ég hefði heldur ekki meiri tíma aflögu því ég ætlaði að fara að hitta stúlku.

Þá stóð upp gamall forkláraður maður með gráa kampa og glettu í auganu einsog títt er um aldna húðarjálka sem kippa sér ekki upp þó þeir heyri eitthvert smávegis skrölt á götunni. Hann sagðist vera fæddur og uppalinn í Norður-noregi þar sem öll þjóðin lifði á fiskæti og þætti óbragð að ávöxtum, nema helst kartöflum; einginn kraftur milli himins og jarðar gæti feingið þá til að leggja sér dúfur til munns, né annan fugl. Hann sagði að börn væru þarna hýr og rjóð og hoppuðu í sífellu allan daginn; fiskætur af þessum slóðum geingju á skíðum yfir þveran Grænlandsjökul sér til skemtunar; þeir hefðu farið á skektu til Suðurpólsins; loks hefði Nansen læknað húngursneyðina í Rússlandi þegar Lenín var kominn í bobba. ...

Að ræðu þessari lokinni stóð ég upp og þakkaði fyrir óviðjafnanlega sæmd mér veitta, ... kvaddi og fór.

 

 

119.   „Bók stefnda, bls. 460 – 462. Dagleið á fjöllum, bls. 46 – 53. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar. (2 tilvik A og B). Sjá dskj. nr. 124.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 460 – 462:

A. Faðir miðilsins, kankvís öldungur, vísaði gestum, sem voru tæplega tuttugu, til lítils salar í húsi hennar. Stólum var raðað í hring, en í miðjum hringnum stóð skrifstofustóll með sæti, sem gat snúist. Hjá stólnum var komið fyrir tveimur pappalúðrum með pjátursmunnstykki. Í salnum hékk stjörnukort, og hafði gamli maðurinn ofan af fyrir Halldóri og öðrum gestum með því að tala um stjörnuspádóma, á meðan þeir biðu eftir miðlinum. Frú White reyndist vera lítil, feitlagin kona, kvik í fasi og vingjarnleg. Ekkert í útliti hennar eða fasi benti til þess, að hún væri sérstakur fulltrúi ódauðleikans. Hún leit rannsökulum augum á Halldór, áður en fundurinn hófst, en flestir aðrir gestir virtust vera gamlir kunningjar hennar. Hún settist í snúðstólinn í miðjum hringnum og slökkti ljósið. Faðir hennar hóf að blása á munnhörpu sálminn „Hærra, minn Guð, til þín“. Feðginin báðu alla að haldast í hendur og syngja. Ekkert gerðist í fyrsta erindinu, en þegar komið var fram í annað erindið, var Halldór snertur lauslega ofan á höfðinu, þá var komið við annað hné hans, síðan var hann snertur með málmköldum hlut á gagnaugað. Halldór var viss um, að engin þessara snertinga hefði verið gerð með höndum. Fór hann smátt og smátt að losa hendur sínar úr greipum sessunauta sinna. Þegar annað erindi sálmsins var á enda, tók faðir miðilsins að hafa yfir faðirvorið, og tóku gestir undir. Bænalestrinum var ekki fyrr lokið en rödd heyrðist gegnum lúðurinn, dimmari en venjuleg rödd frúarinnar, og heilsaði upp á fólkið, ávarpaði hvern einstakan með nafni, en spurði ókunnuga nafns. Röddin margspurði Halldór nafns, en gekk illa að hafa það eftir. Sagði hún, að margir andar vildu komast í samband í kvöld. Voru nú nöfn kölluð upp í lúðrinum. Gestir virtust kannast við þessi nöfn og hófu samtöl við raddirnar. Andaraddirnar töluðu í hvíslingum, og aldrei heyrðist nema ein rödd í einu. Stundum var ein setning sögð gegnum annan lúðurinn öðrum megin í hringnum, en jafnskjótt og henni var sleppt, ný setning gegnum hinn lúðurinn hinum megin í hringnum. Þess í milli greip rödd frú White  án lúðurs inn í milli setninga.

B. Næst, þegar höfuð Halldórs var snert, var hann nógu fljótur að þreifa um fyrir sér og greip þá í lúðurinn yfir höfði sér. Það var tekið laust á móti, síðan sleppt. „Hvað er þetta?“ sagði rödd frúarinnar felmtruð. „Hvað eruð þér að gera?“ Halldór svaraði: „Ég var snertur á höfuðið með lúðrinum. „Þér megið ekki snerta neitt,“ sagði rödd frúarinnar æst. „Hvar er lúðurinn?“ Halldór svaraði, að hann væri með hann á hnjánum. Rödd frúarinnar skipaði gremjulega: „Látið þér hann á gólfið. Það er hans staður.“ Við þetta truflaðist fundurinn. Faðir miðilsins tók því aftur að blása í munnhörpuna. Andarnir tóku aftur til máls. Rödd, sem Halldóri heyrðist vera nær óbreytt rödd frú White, hélt langa ræðu um nauðsyn góðs siðferðis. Miðillinn kvartaði undan því, að einhver væri of jákvæður í hringnum. Sessunautur Halldórs sagði honum, að hann mætti ekki vera of jákvæður, það fældi andana burt. Halldór sagðist einskis óska frekar en fá samtal. Þá kallaði faðir miðilsins: „Ég sé fyrir framan yður unga konu með blá augu og ljóst hár. Kannist þér við hana?“ Halldór kannaðist við margar slíkar stúlkur, svo honum vafðist tunga um tönn. Þá gall frú White við: „Ég sé fyrir framan yður háan, fölleitan, ungan mann. Eigið þér bróður, sem er dáinn?“ Halldór neitaði því. Frúin sagði: „Þessi maður er nú samt eitthvað skyldur yður. Hann virðist hafa dáið mjög ungur.“ Ekkert samtal gat komist af stað milli Halldórs og hins fölleita manns. Þótt niðamyrkur væri í salnum, gátu þau feðgin, frú White og faðir hennar, séð fólk og það svo skýrt, að þau gátu sagt til um litarhátt andlits, hárs og augna. Nokkru síðar sagði frú White, að nú væri gömul kona fyrri framan Halldór, hrukkótt og liti út fyrir að hafa misst tennurnar. Rödd hvíslaði framan í Halldór í gegnum lúðurinn: „Grandmother.“ Halldór skildi þetta svo, að röddin segðist vera amma hans, svo að hann fór að rabba við hana á íslensku. Það tókst ekki. Amma hans virtist hafa týnt niður móðurmálinu. Frú White sagði, að þessi andi ætlaði alveg að kyrkja sig, erfiðleikarnir við að ná tali af Halldóri kæmu allir niður á sér. Í þessum svifum sagði kona í hópnum, að lýsing hinnar tannlausu, hrukkóttu konu ætti við um móður sína, og hófst upp úr því samtal með þessari konu og röddinni. Var Halldór þannig rændur ömmu sinni. Lítil telpurödd talaði til sessunautar Halldórs. Hún skríkti, og komið var við kinn Halldórs svo snöggt, að hann hafði ekki tíma til að hremma þann, sem hafði snert hann. Sessunautur Halldórs bað telpuna um að holdgast. Kom þá fram lítill ljósglampi, sem hvarflaði um herbergið. Fannst Halldóri glampinn vera eins og frá vasalampa með dulu bundinni yfir glerið. Skömmu eftir að ljósið var horfið, var gripið framanvert um höfuð Halldórs. Nú var hann nógu fljótur að þreifa fyrir sér og fann greinilega tvær mjúkar, feitlagnar, hlýjar hendur, sem tóku snöggt viðbragð í myrkrinu, þegar þær voru snertar. Rödd frú White kallaði aftur felmtruð: „Þér megið ekki snerta!“ Síðan söng andi lag við enskan texta, en faðir miðilsins blés undir á munnhörpu sína. Enn var sungið, en litlu síðar stundi frúin og sagði, að þessi samkoma væri sér erfið, einhverjir væru of jákvæðir í hópnum. Hún kveikti ljós og gekk rakleiðis út án þess að kveðja. Faðir hennar tók við aðgangseyrinum.

 

Bók Halldórs, Dagleið á fjöllum, bls. 46 – 53:

A. Faðir frú White, kankvíslegur öldungur ... vísaði okkur til lítils salar í húsi frúarinnar. Hér var stólum raðað í hring, en í miðjum hringnum stóð skrifstofustóll með sæti sem getur snúizt. Hjá stólnum stóðu tveir hérumbil álnarlangir pappalúðrar með pjátursmunnstykki. Í salnum hékk geysimikið stjörnuspáfræðilegt kort, og gamli maðurinn hafði ofan af fyrir okkur með tali um stjörnuspádóma meðan við biðum eftir miðlinum. ...

Frú White er lítil feitlagin kona, kvikleg og vingjarnleg, mjög lík verzlunarkonu í fasi, en ekkert í svip hennar né látbragði bendir til þess, að hún ali í brjósti þá hrifnu gleði sem vér ósjálfrátt væntum hjá fulltrúum ódauðleikans og boðberum annars heims.

Frúin leit tvisvar sinnum rannsakandi á mig áður en fundurinn hófst, en hinir sátarnir virtust flestir vera gamlir kunningjar í húsinu. ...

Frúin settist nú á snúðstólinn í miðjum hringnum og slökkti ljósið. Gamli maðurinn, faðir hennar, tók að blása á munnhörpu lagið Hærra minn guð til þín, og báðu feðginin alla að haldast í hendur og syngja. Í fyrsta erindinu bar ekkert til tíðinda, en þegar komið var fram í annað erindi, var ég snertur lauslega ofan á höfðinu, þá var komið við annað hnéð á mér, síðan var ég snertur með málmköldum hlut á gagnaugað. Ég þóttist þess vís að engin þessara snertinga hefði verið gerð með höndum. ... fór ég smátt og smátt að losa hendur mínar úr greipum þeirra sem sátu sitt hvoru megin við mig ...

Þegar annað erindi sálmsins var á enda tók faðir frúarinnar að hafa yfir faðirvorið, og höfðu sátar það upp eftir honum. Ekki var bænalestrinum fyrr lokið en rödd heyrðist gegn um lúðurinn, nokkuð dimmri en hin venjulega rödd frúarinnar, og heilsar upp á fólkið, ávarpar hvern einstakan með nafni, og spyr um nafn þeirra sem ókunnugir voru. ...

Röddin margspurði um nafn mitt, en gekk illa að hafa það eftir. Hún sagði að það væri heilmikið kraðak af öndum fyrir handan, sem vildu komast í samband í kvöld. Var nú tekið að kalla upp nöfn gegn um lúðurinn og virtust viðstaddir kannast við nöfn þessi, og fóru að hafa samtal við „raddirnar“.

Andaraddirnar töluðu mest í hvíslingum, og staðreyndi ég að aldrei talaði nema ein andarödd í einu. En stundum var ein setning sögð gegn um annan lúðurinn öðru megin í hringnum, en jafnskjótt og henni var sleppt sögð ný setning gegnum hinn lúðurinn hinumegin í hringnum; þess í milli greip rödd frú White, án lúðurs, inn í milli setninga, ...

B. Næst þegar höfuð mitt var snert, var ég nógu fljótur að þreifa um fyrir mér, og greip þá í lúðurinn yfir höfði mér; það var tekið laust í á móti, síðan sleppt.

Hvað er þetta, sagði rödd frúarinnar felmtruð. Hvað eruð þér að gera?

Ég var snertur á höfuðið með lúðrinum, svaraði ég.

Þér megið ekki snerta neitt, sagði rödd frúarinnar æst, spurði síðan: Hvar er lúðurinn?

Ég sagðist vera með hann í hnjánum. Þá skipaði frúin hið gremjulegasta: Látið þér hann á gólfið. Það er hans staður.

Ég lét lúðurinn á gólfið.

Þetta orsakaði dálitla truflun á fundinum, svo faðir frúarinnar tók aftur að blása í munnhörpuna.

Á eftir þessu sneru andarnir máli sínu til þeirra sem sátu andspænis mér í hringnum. Tímafrekust var kvenrödd sem mér heyrðist vera þvínær óbreytt rödd frú White, ... Röddin hélt leiðinlega ræðu ... um nauðsyn á góðu siðferði ...

... miðillinn kvartaði yfir því að einhver væri alltof jákvæður „positive“, í hringnum. Sessunautur minn varaði mig við því að vera of jákvæður, sagði að það fældi andana burt. Ég sagðist einskis óska fremur en fá samtal. Þá kallaði faðir frúarinnar til mín:

Ég sé fyrir framan yður unga konu með blá augu og ljóst hár. Kannizt þér við hana?

Með því ég kannast við margar slíkar konur, vissi ég ekki upp á hverri ég átti helzt að geta og vafðist tunga um tönn. Þá gellur frú White við og segir:

Ég sé fyrir framan yður háan fölleitan ungan mann. Eigið þér bróður sem er dáinn?

Ég neitaði því.

Frúin: Þessi maður er nú samt eitthvað skyldur yður. Hann virðist hafa dáið mjög ungur.

En ekkert samtal gat komizt á stað milli mín og hins fölleita manns. Hitt undaðist ég mest, hvernig þau feðgin gátu farið að því að sjá hér fólk í glórulausu myrkri, og meira að segja svo skýrt að þau gátu leikandi sagt til um litarhátt andlits, hárs og augna.

Nokkru síðar tilkynnti frú White að nú væri gömul kona fyrir framan mig, hrukkótt og liti út fyrir að hafa misst tennurnar. Rödd hvíslar framan í mig gegnum lúðurinn: Grandmother.

Ég hlaut að skilja þetta sem svo að röddin segðist vera amma mín og fór að reyna að rabba við hana á íslenzku, en það vildi ekki lánast, amma mín virtist hafa gleymt móðurmálinu eins og hispursmeyjar sem fara til útlanda, en frú White sagði að þessi andi ætlaði alveg að kyrkja sig, erfiðleikarnir við að ná af mér tali kæmu allir niður á sér. ...

...

Í þessum svifum sagði einhver kvenmaður í hópnum að lýsing hinnar tannlausu, hrukkóttu konu ætti við um móður sína, og hófst upp úr því vel heppnað samtal með kvenmanni þessum og „röddinni“. Var ég þannig rændur ömmu minni.

...

Litla telpuröddin talaði aftur til sessunautar míns, sagðist færa honum fjólur og bæði miðillinn og allir sátarnir sögðust finna lyktina af fjólunum og dáðust að hve góð hún væri, (ég fann enga lykt). Síðan skríkti telpuröddin og það var komið við kinnina á mér svo snöggt að ég hafði ekki tíma til að hremma þann er káfað hafði. Sessunautur minn bað telpuna að holdgast, og kom þá fram dálítill ljósglampi sem hvarflaði um herbergið nokkrum sinnum eins og frá vasalampa með dulu bundinni yfir glerið. Skömmu eftir að ljósið var horfið var gripið framanvert um höfuð mitt, en í þetta sinn var ég nógu fljótur að þreifa fyrir mér og fann greinilega tvær mjúkar, feitlagnar, hlýjar hendur, sem tóku snöggt viðbragð í myrkrinu, þegar þær voru snertar.

Aftur kallaði rödd frú White felmtruð:

Þér megið ekki snerta!

Síðan söng andinn Mr. Bow í alto ... lag við enskan texta ... en faðir frúarinnar blés undir á munnhörpu sína; ...

Síðan söng sama djúpa kvenröddin alþekktan amerískan húsgang, ...

Litlu síðar stundi frúin þungan og sagði að sér væri mjög erfitt í kvöld, einhverjir væru of jákvæðir í sátahópnum, kveikti ljós og gekk rakleiðis út, án þess að gefa mönnum tækifæri til að þakka fyrir og kveðja, en faðir hennar tók við inngangseyrinum.

 

 

120.   „Bók stefnda, bls. 560 – 561. Skáldatími, bls. 169 – 171 og 174. Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar. (4 tilvik A, B, C og D). Sjá dskj. nr. 125.“

 

Bók gagnáfrýjanda, bls. 560 – 561:

A. Erlendur var að sögn Halldórs gæddur óvenjulegu næmi. Skilningur hans var í senn skarpur og hraður. Einbeitingargáfan var sjaldgæf, svo að hann gat jafnvel í þvargi snögglega hætt að heyra og sjá, ef hann vildi beina huganum að verkefni. Að sama skapi var þolinmæði hans við verkefni, ef á þurfti að halda. Hann var af náttúrunni gæddur frjórri og djarflegri hugsun, og honum var frá bernsku tamt að brjóta hvert umræðuefni til mergjar á eigin forsendum. Hann samsinnti engu fyrir fram. Frá móður sinni hafði hann náttúrlega hugarhlýju og skilyrðislausa hjálpfýsi.

B. Erlendur hafði fullt vald á höfuðtungum Evrópu auk Norðurlandamálanna og hafði lesið ógrynni bókmennta, bæði sígildra og nýtískulegra, auk fræðirita um hagfræði og stjórnmál. Hann hafði dálæti á tónlist alla ævi og var skákmaður góður. Þótt hann kynni vel að meta sígild afrek, var hugur hans umfram allt bundinn við vaxtarsprotann í hverri grein.

C. Þegar Erlendur var ungur maður, hneigðist hann helst til stjórnleysisstefnu í anda Krapotkíns. Síðar mótaðist hann af speki Austurlandanna. Um það leyti, sem Halldór kynnist honum fyrst, var hann hugfanginn af taó og vakti áhuga Halldórs á því.

D. Erlendur var ekki harðskeyttur eða réttrúaður sósíalisti, heldur hreyfanlegur og óflokksbundinn.

 

Bók Halldórs, Skáldatími, bls. 169 – 171:

A. Erlendur var gæddur óvenjulegu næmi. Skilníngur hans var í senn skarpur og hraður, einbeitíngargáfan sjaldgæf svo hann gat jafnvel í þvargi og ærustu snögglega hætt að heyra og sjá, ef hann vildi beina huganum að verkefni; að sama skapi var þolinmæði hans við verkefni ef á þurfti að halda. Hann var af náttúrunni gæddur frjórri og djarfri hugsun og honum var frá bernsku tamt að brjóta hvert umræðuefni til mergjar á eigin býti; hann samsinti aungu fyrirfram. Náttúrlega hugarhlýu og skilyrðislausa hjálpfýsi hafði hann frá móður sinni.

B. Hann fór snemma að vinna fyrir heimilinu, fyrst sem búðardreingur, síðan sem póstþjónn, varð síðan lágtsettur embættismaður hjá tollheimtunni og loks skrifstofustjóri. Hann hafði ekki á æskuárum tíma til að sitja á skólabekk, en í húsi móður hans voru einatt utanbæarskólapiltar á vist og hann las með þeim þær námsgreinar sem tíðkuðust í latínuskólanum. Hann hafði þegar ég kyntist honum fyrst dreingur, fult vald á höfuðtúngum Evrópu auk skandínavisku málanna og hafði lesið ógrynni bókmenta, bæði sígildra og nýtískulegra, auk fræðirita einkum um hagvísindi og þjóðfélagsmál, jafnvel allskonar heimspeki. Tónlist var frá upphafi mikið eftirlætisviðfángsefni hans og hann stundaði hana ævilángt ... þó var hugur hans umfram alt bundinn við vaxtarsprotann í hverri grein.

C. Ég hygg að Erlendur hafi á gelgjuárum sínum hneigst til anarkisma einsog hjá Krapotkín, ... Síðar mun hann hafa mótast af austrænni göfgun hugans í samræmi við sérstakar greinar yoga, eftilvill helst Kharmayoga, sem indverskir meistarar höfðu þá gert heyrinkunna á Vesturlöndum. Hugmyndalíf hans hafði líka þegið óhjákvæmilega skvettu frá Bergson sem lá í tímanum að upphafi aldarinnar. Um það bil sem ég kynntist honum var hann hugfánginn af taó og kom mér uppá það krambúðarloft sem ég hef aldrei yfirgefið síðan.

D. Erlendur var ekki þvermóðskufullur harðúðugur og síst af öllu rétttrúaður sósíalisti heldur hreyfanlegur tilfærilegur og óflokksbundinn.

 

 

Þegar vísað er til bóka eða bréfa Halldórs Kiljans Laxness í framanrituðum texta er samkvæmt málatilbúnaði aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti átt við neðangreindar útgáfur bókanna. Bréf sem vitnað er til og að neðan greinir hafa ekki verið gefin út svo kunnugt sé.

Halldór Laxness. Alþýðubókin. [Reykjavík, Jafnaðarmannafélag Íslands, 1929].

Halldór Laxness. Þjóðhátíðarrolla. Reykjavík: Helgafell, 1974.

Halldór Laxness. Brekkukotsannáll. Reykjavík: Helgafell, 1957.

Halldór Laxness. Dagar hjá múnkum (1987). 2. útgáfa. Reykjavík: Vaka-Helgafell, 1992.

Halldór Laxness. „Dagleið á fjöllum.“ (1937). 2. útgáfa. Reykjavík: Helgafell, 1962.

Halldór Laxness. Reisubókarkorn (1950). 2. útgáfa. Reykjavík: Helgafell, 1963.

Halldór Laxness. „Frá Sikiley.“ Morgunblaðið 29. júlí 1925.

Halldór Laxness. Grikklandsárið. Reykjavík: Helgafell, 1980.

Halldór Laxness. „Heiðin jól og kristin.“ Vettvángur dagsins (1941). 2. útgáfa. Reykjavík: Helgafell, 1962.

Halldór Laxness. Heiman eg fór. Sjálfsmynd æskumanns. Reykjavík: Helgafell, 1952.

Halldór Laxness. Heimsljós I (1937-1938). 2. útgáfa. Reykjavík: Helgafell, 1955.

Halldór Laxness. Innansveitarkronika. Reykjavík: Helgafell 1970.

Halldór Laxness. Í túninu heima. Reykjavík: Helgafell, 1975.

Halldór Laxness. Íslandsklukkan (1943-1946). 2. útgáfa. Reykjavík: Helgafell, 1957.

Halldór Laxness. Íslendingaspjall. Reykjavík: Helgafell, 1967.

Halldór Laxness. Og árin líða. Reykjavík: Helgafell, 1984.

Halldór Laxness, Salka Valka (1931-1932). 3. útgáfa. Reykjavík: Helgafell, 1959.

Halldór Laxness. Sjömeistarasagan, Reykjavík: Helgafell, 1978.

Halldór Laxness. Sjöstafakverið. Reykjavík: Helgafell, 1964.

Halldór Laxness. Skáldatími. Reykjavík: Helgafell, 1963.

Halldór Laxness. „Um ilm og ljóma. (Minning jólanætur í klaustri)“ Alþýðublaðið 24. desember 1924.

Halldór Laxness. Úngur eg var. Reykjavík: Helgafell, 1976.

Halldór Laxness. Vefarinn mikli frá Kasmír (1927). 3. útgáfa Reykjavík: Helgafell, 1957.

Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dagsett 27.5. 1925. (Frumrit)

Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dagsett 22.6. 1925. (Uppritun)

Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dagsett 13.9. 1925. (Uppritun)

Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dagsett 8.7. 1925. (Uppritun)

Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dagsett 24.10. 1925. (Uppritun)

Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dagsett 11.11. 1925. (Uppritun)

Bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar dagsett 20.7. 1927. (Uppritun)

III.

Aðaláfrýjandi hefur í fyrsta lagi uppi kröfu um að gagnáfrýjandi verði dæmdur til refsingar samkvæmt 54. gr. höfundalaga. Hefur hún í málatilbúnaði sínum talið að gagnáfrýjandi hafi meðal annars brotið gegn 4. gr. og 26. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 59. gr. þeirra hefur hún heimild til að höfða einkarefsimál meðal annars út af brotum gegn 1. og 2. mgr. 4. gr. sem og 2. og 3. mgr. 26. gr.

Í höfundalögum eru ekki sérstök ákvæði um frest til höfðunar einkamáls til refsingar vegna brota á þeim. Um það fer því samkvæmt 29. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt þeirri grein fellur heimild til slíkrar málshöfðunar niður sé mál ekki höfðað áður en sex mánuðir eru liðnir frá því að sá sem heimildina hefur fékk vitneskju um hinn seka.

Af gögnum málsins er ljóst að opinber umfjöllun um að gagnáfrýjandi hafi hugsanlega gengið nærri höfundarétti að verkum Halldórs hófst skömmu fyrir jól 2003 og stóð fram yfir áramótin 2003/2004. Guðný Halldórsdóttir, dóttir skáldsins, tók þátt í þeirri umræðu og sakaði hún gagnáfrýjanda um ritstuld meðal annars í Morgunblaðinu 10. janúar 2004. Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi kvað Guðný sér hafa orðið ljóst kringum jól eða áramót 2003/2004 að gagnáfrýjandi hefði brotið gegn höfundarétti að verkum föður síns, en endanlega hefði fjölskyldan ekki gert sér grein fyrir umfangi málsins fyrr en eftir lestur á skýrslu Helgu Kress, en skýrsla hennar um meðferð texta og tilvísana í bók gagnáfrýjanda er frá ágúst 2004.

Aðaláfrýjandi telur að miða eigi upphaf frestsins við það tímamark er málshöfðandi hefur fengið allar þær upplýsingar sem honum eru nauðsynlegar til að höfða mál. Í þessu tilviki hafi umfang brota gagnáfrýjanda ekki legið fyrir fyrr en eftir útkomu skýrslu Helgu Kress, sem hafi verið 10. ágúst 2004. Við þann dag beri að miða upphaf frestsins og hafi hann því ekki verið liðinn við höfðun refsimálsins 23. nóvember það ár.

Í 29. gr. almennra hegningarlaga er fresturinn miðaður við hvenær sá sem málið má höfða „fékk vitneskju um hinn seka.“ Orðalag ákvæðisins er skýrt að þessu leyti og engin lögskýringargögn til stuðnings því að skýra beri það rýmkandi skýringu með þeim hætti sem aðaláfrýjandi krefst. Verður því talið að sex mánaða málhöfðunarfresturinn hafi byrjað að líða í upphafi árs 2004 og var hann því liðinn er málið var höfðað. Heimild aðaláfrýjanda til að hafa uppi refsikröfu í einkamáli var því niður fallin. Leiðir það til þess að vísa verður þessum kröfulið sjálfkrafa frá héraðsdómi.

IV.

Aðaláfrýjandi gerir í öðru lagi kröfu um miskabætur úr hendi gagnáfrýjanda og vísar um það til 2. mgr. 56. gr. höfundalaga. Eins og að framan er rakið situr hún í óskiptu búi eftir Halldór Kiljan Laxness. Fer hún með höfundarétt að verkum skáldsins, sbr. 1. mgr. 30. gr. og 1. mgr. 31. gr. höfundalaga og II. kafla erfðalaga nr. 8/1962. Samkvæmt 2. mgr. 56 gr. höfundalaga, sbr. 7. gr. laga nr. 78/1984, skal dæma höfundi og listflytjanda miskabætur úr hendi þess sem raskað hefur rétti þeirra með ólögmætri háttsemi. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 73/1972 sagði um þetta: „Í 2. málsgr. ræðir um miskabætur, sem aðeins höfundi eða listflytjanda verða dæmdar, og það allt að einu þó að þeir kunni að hafa framselt rétt sinn til annarra aðila.“ Var ekki hróflað við lagatextanum í þessari málsgrein að þessu leyti með 7. gr. laga nr. 78/1984 þótt skilyrði miskabóta hafi þá annars verið rýmkuð. Í orðalagi ákvæðisins felst að réttur til að krefjast miskabóta vegna brota á höfundarétti er bundinn við höfundinn sjálfan. Taka framangreind ummæli í athugasemdum með frumvarpinu af öll tvímæli um að svo sé, sbr. einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. 160/1984 í dómasafni 1986 á bls. 993, en eftir lát höfundar er sæmdarréttur hans varinn af refsiákvæði 54. gr. höfundalaga. Aðaláfrýjandi getur því ekki átt aðild að slíkri kröfu og verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnáfrýjanda af þessum kröfulið.

V.

Þriðja krafa aðaláfrýjanda er um fébætur að fjárhæð 2.500.000 krónur auk dráttarvaxta úr hendi gagnáfrýjanda. Krefst aðaláfrýjandi að þessari kröfu verði vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar. Eins og áður er getið var kröfu gagnáfrýjanda um frávísun frá héraðsdómi vegna vanreifunar á refsi- og miskabótakröfu hans hafnað með áðurnefndum dómi réttarins í máli nr. 308/2005. Í stefnu í síðara málinu, sem höfðað var 26. október 2005, þar sem málatilbúnaður og málsgrundvöllur var í öllum aðalatriðum sá sami og í fyrra málinu, gerði aðaláfrýjandi þá grein fyrir fjártjóni sínu að bók gagnáfrýjanda, sem að verulegu leyti væri byggð á bókum og ritverkum Halldórs, væri til þess fallin að draga úr sölu á ýmsum bókum og ritverkum skáldsins og raska með öðrum hætti þeim fjárhagslegu hagsmunum, sem bundnir væru við höfundarétt að verkum hans. Jafnframt var á því byggt að krafan væri ekki hærri en sú fjárhæð sem gagnáfrýjanda hefði verið gert að greiða fyrir notkun á texta skáldsins í svo víðtækum mæli sem hann hafi gert. Hefur aðaláfrýjandi til viðmiðunar í því efni lagt fyrir Hæstarétt nýtt skjal sem hefur að geyma leiðbeinandi gjaldskrá Rithöfundasambands Íslands fyrir birtingu í safnritum, tímaritum, blöðum, bæklingum og dreifibréfum, en þar kemur fram að fyrir hverja meðalsíðu eða byrjaða síðu af lausu máli, frumsömdu, sé gjald 6.605 krónur. Í ljósi þess hversu erfitt er að sýna með vissu fram á hversu mikið tjón kann að hafa hlotist af ætluðu broti gagnáfrýjanda verða ekki gerðar ríkari réttarfarskröfur til málsreifunar að því leyti en að ljóst sé á hvaða grundvelli bótakrafan sé reist, leitast sé við að færa sönnur á bótaskyldu gagnáfrýjanda og að vísað sé til viðmiðunar um bótafjárhæð til endurgjalds sem líklegt er að fengist hefði ef aðilar hefðu samið um gjald fyrir birtinguna. Verður að telja að málatilbúnaður aðaláfrýjanda fullnægi þeim kröfum. Skiptir þá ekki máli þótt aðaláfrýjandi hafi lýst því yfir að gagnáfrýjanda hafi ekki staðið til boða að gera slíkan samning, enda er hér um að tefla fjárhæð til viðmiðunar bóta vegna ætlaðs réttarbrots gagnáfrýjanda. Verður frávísunarkröfu gagnáfrýjanda því hafnað.

 

VI.

Aðaláfrýjandi telur að gagnáfrýjandi hafi brotið gegn 3. gr. höfundalaga með því að birta án viðunandi og réttrar heimildar efni eftir Halldór Kiljan Laxness sem ekki hafi verið birt áður. Sé þar einkum um að ræða sendibréf til nafngreindra manna, sem afhent voru Landsbókasafninu til varðveislu. Eigi þetta við átta af þeim 120 tilvikum, sem rakin eru í II. kafla hér að framan. Nánar eru það tilvik sem um er fjallað í töluliðum 99, 101, 102, 105, 107, 111, 112 og 116. Aðaláfrýjandi afhenti Landsbókasafni handritasafn Halldórs 16. nóvember 1996 á degi íslenskrar tungu. Samkvæmt 22. gr. a. höfundalaga, eins og lögunum var breytt með 25. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, átti gagnáfrýjandi rétt til aðgangs að þessum gögnum í safninu, sbr. nú 18. gr. laga nr. 23/2006. Þessi aðgangsheimild breytir þó engu um einkarétt höfundar eða handhafa höfundaréttar til birtingar á þessum gögnum. Guðný Halldórsdóttir, dóttir Halldórs, sagði í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að fólk úr fjölskyldu hans hefði farið yfir áður óbirt efni skáldsins í bókarhandriti gagnáfrýjanda fyrir útgáfu þess og beðið útgefandann um að stytta það. Hafi þau farið til Péturs Más Ólafssonar, þáverandi útgáfustjóra Vöku-Helgafells sem sá um útgáfu verka skáldsins, og beðið hann um að koma því til leiðar að tilvísanir í áður óútgefið efni yrðu styttar. Hafi Pétur Már yfirfarið handritið með það fyrir augum og verður að skilja framburð Guðnýjar þannig að gagnáfrýjandi hafi farið að þeirra óskum um þessar styttingar. Bjarni Þorsteinsson útgáfustjóri Almenna bókafélagsins, sem hafði yfirumsjón með útgáfu bókar gagnáfrýjanda, skýrði svo frá fyrir héraðsdómi að haldinn hafi verið fundur með dætrum Halldórs til að ræða tilvísanir í handriti gagnáfrýjanda til óbirts efnis skáldsins. Að þessu hafi komið Sigríður og Guðný dætur skáldsins. Hafi þær farið yfir áður óbirta texta og niðurstaðan orðið sú að birting þeirra væri heimil innan settra marka, sem vitnið minnti að hefði verið að hver tilvitnun yrði ekki lengri en fjórar setningar. Hafi Pétur Már Ólafsson verið fenginn til að lesa handritið yfir til að tryggja að tilvitnanirnar yrðu innan áskilinna marka. Pétur Már bar einnig vitni fyrir héraðsdómi. Hann sagði að í byrjun nóvember 2003 hafi verið haldinn fundur með fulltrúa fjölskyldu Halldórs og útgáfunni og á þeim fundi hafi verið fallist á að gagnáfrýjandi mætti birta úr áður óbirtum bréfum skáldsins „svona þrjár til fjórar línur ... úr hverju bréfi“. Hann hafi síðan fengið handritið og metið hvort tilvitnanirnar væru innan þess ramma sem um hefði verið rætt og hann síðan beðið um að þær yrðu styttar eins og við átti. Verður með ofangreindum skýrslum fyrir héraðsdómi að telja sannað að fyrirfram hafi legið samþykki fulltrúa fjölskyldu Halldórs fyrir birtingu úr bréfum í ofangreindum átta tilvikum.

 Fyrir Hæstarétti hefur aðaláfrýjandi haldið því fram að þeir fulltrúar fjölskyldu skáldsins sem komu að samskiptum við útgáfuna vegna birtingar á tilvísunum í bréfin hafi ekki verið bærir til að veita slíkt samþykki þar sem hún fari ein með forræði á höfundarétti að verkum skáldsins. Af gögnum málsins er ljóst að dætur skáldsins, einkum Guðný, hafa komið fram út á við fyrir hönd fjölskyldunnar vegna höfundaréttar að verkum þess. Það verður því ekki metið gagnáfrýjanda til gáleysis á grundvelli sakarreglunnar að treysta því að í framangreindum samskiptum hafi falist fullnægjandi samþykki til birtingarinnar. Verður fébótaábyrgð hans ekki reist á því að svo hafi ekki verið í raun.

VII.

Í I. kafla höfundalaga eru meginákvæði laganna um réttindi höfunda. Í 1. gr. þeirra er kveðið á um að höfundur eigi eignarrétt að bókmenntaverki sínu með þeim takmörkunum sem í lögunum greinir. Greint er á milli sæmdarréttar höfundar annars vegar, en meginákvæði um hann eru í 4. gr. laganna sem fjallar um rétt höfundar til að nafns hans sé getið og virt séu höfundarsérkenni hans og höfundarheiður, og fjárhagslegra réttinda höfundar hins vegar, en meginákvæði um þau eru í 3. gr. laganna sem kveða á um einkarétt höfundar til eintakagerðar og birtingar. Í II. kafla höfundalaga eru svo ákvæði um takmarkanir á höfundarétti, þar á meðal ákvæði 14. gr. um að heimil sé tilvitnun í bókmenntaverk að nánari skilyrðum uppfylltum. Aðaláfrýjandi telur gagnáfrýjanda meðal annars hafa brotið gegn 3. gr. og 4. gr. laganna með þeim hætti sem nánar er lýst í framangreindum 120 tilvikum.

Óumdeilt er að gagnáfrýjandi hefur í miklum mæli leitað fanga í ritverkum Halldórs Kiljans Laxness við ritun ævisögunnar. Ágreiningur aðila er hins vegar í meginatriðum tvíþættur. Í fyrsta lagi snýst hann um að hvaða marki gagnáfrýjandi hafi einungis nýtt ritverk skáldsins sem heimild við ævisöguritunina án þess að hægt sé að segja að texti skáldsins hafi sem slíkur verið nýttur þannig að það varði við höfundarétt samkvæmt I. kafla höfundalaganna. Að því marki sem gagnáfrýjandi telst hafa nýtt texta skáldsins með þeim hætti deila aðilar í annan stað um hvort og þá að hvaða marki slík nýting geti helgast af undanþáguákvæðum II. kafla laganna, einkum ákvæðum 14. gr. um heimild til tilvitnana.

Að því er fyrra atriðið varðar er ljóst að engin skýr og afdráttarlaus skilgreining verður gefin á því hvar mörkin liggja milli þess sem talist getur annars vegar heimil nýting á efnisatriðum eða staðreyndum úr höfundaréttarvernduðum texta og þess hins vegar að nýting textans sé með þeim hætti að hún varði lögvernduð höfundaréttindi samkvæmt I. kafla laganna. Hljóta þessi mörk að ráðast í hverju tilviki á mati, sem óhjákvæmilega getur á stundum orðið vandasamt og umdeilanlegt. Í þessum þætti málsins er fjallað um fébótakröfu gagnáfrýjanda, en samkvæmt 1. mgr. 56. gr. höfundalaga skal bæta slíkt tjón eftir almennum reglum. Samkvæmt því hvílir sönnunarbyrðin um að gagnáfrýjandi hafi framið saknæmt brot á aðaláfrýjanda. Verður hún þess vegna að bera hallann varðandi þau tilvik sem vafi kann að leika á hvorum megin hryggjar liggja. 

Að því er undanþáguákvæði II. kafla höfundalaganna áhrærir er til þess að líta að samkvæmt 14. gr. þeirra er heimil tilvitnun í birt bókmenntaverk ef hún er gerð í sambandi við gagnrýni, vísindi, almenna kynningu eða í öðrum viðurkenndum tilgangi, enda sé hún gerð innan hæfilegra marka og rétt með efnið farið. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. Bernarsáttmálans til verndar bókmenntum og listaverkum, sem veitt var lagagildi hér á landi með lögum nr. 80/1972, er heimilt að nota tilvitnanir úr verkum, sem þegar hafa verið löglega birt almenningi, enda sé notkunin í samræmi við venjur, sem telja megi sanngjarnar og gangi ekki lengra en tilgangurinn réttlæti. Ekki verður talinn á því vafi að ritun ævisögu rithöfundar telst út af fyrir sig viðurkenndur tilgangur í merkingu 14. gr. höfundalaga. Vafinn lýtur að því hvort fullnægt sé öðrum skilyrðum greinarinnar um að tilvísun sé innan hæfilegra marka og rétt með efni farið, sem og hvort áðurnefndum skilyrðum 10. gr. Bernarsáttmálans hafi verið fullnægt. Í sáttmálanum er beinlínis vísað til venja við mat á því hvort tilvitnun teljist heimil og venjur hljóta einnig að skipta miklu við mat á fyrrnefndum skilyrðum 14. gr. höfundalaganna þótt ekki sé bein vísun til venja í ákvæðinu. Hefur gagnáfrýjandi, sem ber fyrir sig undanþáguákvæði 14. gr. höfundalaga, ekkert gert til að leiða í ljós hvaða venjur gilda hér á landi um tilvísanir í verk höfunda við ritun á ævisögum þeirra, hvorki með matsgerð né á annan hátt. Verður hann að bera hallann af skorti á þeim upplýsingum að því marki sem slíkt kann að skipta máli við úrlausn málsins, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Út frá framangreindum viðmiðunum hefur hvert tilvikanna 120, sem sum hafa að geyma fleiri en einn lið, verið metið. Hefur við það mat í fyrsta lagi verið leitast við að greina á milli þeirra tilvika þar sem ritverk Halldórs hafa verið notuð sem heimild um efnisatriði eða staðreyndir og hinna þar sem texti skáldsins hefur verið notaður ýmist lítt breyttur eða nokkuð breyttur en stíleinkennum haldið og einstakar setningar eða setningabrot notuð lítt breytt þannig að talið verði varða við I. kafla höfundalaga. Við þetta mat hefur vafi verið túlkaður gagnáfrýjanda í hag, sbr. það sem að framan greinir. Undir fyrrnefnda flokkinn falla tilvik 2, 3, 8A, 15, 42B, 44, 49A, 49C, 49F, 49G, 50, 57, 61, 66C, 71, 77C, 77D, 80, 86, 99, 101, 106C, 107, 108, 109B, 115 og 120C. Verður samkvæmt því sem að framan greinir ekki talið að gagnáfrýjandi sé bótaskyldur gagnvart aðaláfrýjanda á grundvelli 1. mgr. 56. gr. höfundalaga vegna þessara tilvika. Verulega skortir á að gagnáfrýjandi vísi í öllum þessum tilvikum til þess hvaðan hann hefur viðkomandi upplýsingar. Enda þótt það kunni að stríða gegn góðum venjum við ritun verka af þessu tagi verður fébótaábyrgð ekki á því reist.

Þeim tilvikum sem eftir standa hefur síðan verið leitast við að skipta aftur í tvo flokka eftir því hvort gagnáfrýjandi hefur varðandi hvert og eitt þeirra leitast við að vísa til heimildar eða ekki. Við þá skiptingu verður ekki talið að tilvísun í merkingu 14. gr. höfundalaga felist í því einu að gagnáfrýjandi lætur þess getið í eftirmála að hann hafi leitað fanga í fimm minningabókum skáldsins, sem hann tilgreinir. Miðað við umfang og eðli ritsins er lesandinn við þessar aðstæður litlu sem engu nær um hvað er haft eftir skáldinu og þá úr hvaða verki og hvað er óstuddur texti ævisöguritara. Samkvæmt þessari flokkun teljast eftirtalin tilvik vera án vísunar til heimildar í merkingu 14. gr. höfundalaga: 1, 4, 5, 7, 8B, 9, 10, 12, 13, 14, 16, 17, 18, 21, 22B, 23, 24, 26, 27, 28, 29, 30, 31, 32, 33, 34, 35A, 36, 40, 41, 43A, 45, 46, 47, 48, 49B, 49D, 49E, 52, 53, 54, 55, 56, 58A, 59, 60, 62, 64, 65, 66A, 66B, 66D, 67, 68, 69, 73, 74, 76, 77A, 77B, 78, 79, 81, 82, 83, 85, 87, 88, 90, 91B, 91C, 93A, 93B, 96, 105, 113A-D, 114, 116, 118, 119, 120A, 120B og 120D. Í þessum tilvikum telst gagnáfrýjandi samkvæmt framansögðu hafa nýtt sér texta Halldórs án heimildar og með því skapað sér bótaskyldu samkvæmt 1. mgr. 56. höfundalaga.

Eftir standa þá þau tilvik þar sem gagnáfrýjandi notar texta Halldórs, sem nýtur verndar höfundalaga, en vísar sérstaklega til heimildar. Ekki verður sett fram almenn skilgreining á því hvernig tilvísun þurfi að vera úr garði gerð til að teljast fullnægjandi. Hlýtur það nokkuð að velta á aðstæðum hverju sinni og geta þá venjur skipt máli, þótt ekki reyni á þær hér. Í riti á borð við það sem hér er til umfjöllunar verður að telja að nægilegt sé að hverju sinni sé vísað til höfundar og rits og að það sé gert með þeim hætti að lesandinn megi gera sér grein fyrir hvar hinum höfundarvarða texta sleppir og hvar texti ævisöguritara taki við. Sýnast tilvísanir gagnáfrýjanda fullnægja þessum kröfum í tilvikum 6, 11, 19, 22A, 25, 38, 42A, 43B, 63, 84, 92, 93C, 95, 97, 98, 102, 109A, 110, 111, 112, 113E og 117. Verður talið að fullnægt sé ákvæðum 14. gr. höfundalaga í þessum tilvikum enda þótt gagnáfrýjandi hafi gert breytingar á þeim frumtexta sem vísað er til í sumum þeirra. Með því kann hann að hafa brotið gegn sæmdarrétti höfundar, sem eftir andlát hans er varinn af refsiákvæði 54. gr. höfundalaga, sbr. umfjöllun um refsikröfu aðaláfrýjanda í III. kafla hér að framan. Með þessu einu hefur gagnáfrýjandi hins vegar ekki brotið gegn fjárhagslegum rétti handhafa höfundaréttar samkvæmt 3. gr. höfundalaga, enda hefðu honum verið þessar tilvísanir heimilar án endurgjalds ef rétt hefði verið með farið og að því tilskildu að tilvísanirnar teljist hafa verið innan hæfilegra marka. Þessi brot gagnáfrýjanda leiða því ein og sér ekki til fébótaábyrgðar hans. Kemur þá til álita hvort það skilyrði 14. gr. höfundalaga að tilvísanir séu gerðar innan hæfilegra marka hafi verið brotið. Eins og að framan er rakið er um að ræða 22 staði í bók gagnáfrýjanda þar sem fullnægjandi tilvitnanir í merkingu 14. gr. höfundalaga í ritverk Halldórs teljast hafa verið nýttar. Er fulljóst að umfang þessara tilvísana gagnáfrýjanda í bók sinni til verka Halldórs er ekki slíkt að gangi út fyrir það sem 14. gr. höfundalaga heimilar. Samkvæmt því verður fébótaábyrgð ekki lögð á gagnáfrýjanda vegna þeirra tilvika þar sem hann telst hafa með fullnægjandi hætti vísað til verka Halldórs í ævisögunni.

Í öðrum tilvikum en þeim er að ofan getur fullnægja beinar tilvísanir gagnáfrýjanda ekki þeim lágmarkskröfum sem að framan eru raktar og gera verður til þess að undanþáguákvæði 14. gr. höfundalaga um heimila birtingu eigi við. Eru þessar tilvísanir gagnáfrýjanda ýmist ófullnægjandi, rangar eða villandi. Þetta á við um tilvik 20, 37, 39, 51, 70, 72, 75, 89, 91A, 94, 100, 103, 104, 106A og 106B. Verður gagnáfrýjanda gert að greiða fébætur samkvæmt 1. mgr. 56. gr. höfundalaga vegna óheimilar birtingar á texta Halldórs í þessum  tilvikum.

Loks verður ekki séð að gagnáfrýjandi hafi með ótvíræðum hætti nýtt texta Halldórs við ritun ævisögunnar í tilviki 35B.

Samkvæmt framansögðu telst gagnáfrýjandi í um það bil tveimur þriðju hluta þeirra tilvika, sem aðaláfrýjandi tilgreinir, hafa brotið með fébótaskyldum hætti gegn höfundarétti að verkum Halldórs Kiljans Laxness. Í málatilbúnaði sínum fyrir Hæstarétti byggði aðaláfrýjandi á því að ef litið væri til allra tilvikanna hefði gagnáfrýjandi nýtt sér 320 síður eða byrjaðar síður úr ritverkum Halldórs. Var því ekki sérstaklega mótmælt. Séu hin fébótaskyldu tilvik metin með svipuðum hætti gætu þau samsvarað rúmlega 210 síðum eða byrjuðum síðum úr verkum skáldsins. Verða fébætur til handa aðaláfrýjanda metnar að álitum með hliðsjón af því og leiðbeinandi gjaldskrá Rithöfundasambands Íslands, sem vikið er að í V. kafla hér að framan. Teljast þær hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur.

Skaðabótakrafa á grundvelli 1. mgr. 56. gr. höfundalaga var fyrst sett fram af hálfu aðaláfrýjanda með höfðun síðara málsins 26. október 2005, sbr. I. kafla hér að framan. Fyrrgreind leiðbeinandi gjaldskrá Rithöfundasambands Íslands var ekki lögð fram af hálfu aðaláfrýjanda fyrr en við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001 verður upphafstími dráttarvaxta í ljósi þess miðaður við uppsögu dómsins.

Gagnáfrýjandi verður með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda hluta málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins í dómsorði greinir.

 

Dómsorð:

Kröfu aðaláfrýjanda, Auðar Sveinsdóttur, um að gagnáfrýjanda, Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, verði gerð refsing samkvæmt 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972 er vísað frá héraðsdómi.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. mars 2008 til greiðsludags.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 1.600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. nóvember 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 27. október sl., er höfðað með stefnu birtri 23. nóvember 2004.

Stefnandi er Auður Sveinsdóttir Laxness, Hlaðhömrum 2, Mosfellsbæ.

Stefndi er Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Hringbraut 24, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

1. Að stefndi verði dæmdur til refsingar samkvæmt 54. gr. laga um höfundarétt

nr. 73/1972.

2. Að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta, skv. 1. mgr. 56. gr. laga um

höfundarétt nr.   73/1972,    fjárhæð  kr.   2.500.000  auk  dráttarvaxta af

fjárhæðinni skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 03.12.2005 til greiðsludags.

3. Að stefndi verði dæmdur til greiðslu miskabóta, skv. 2. mgr. 56. gr. laga um

höfundarétt  nr.   73/1972,    fjárhæð  kr.   2.500.000  auk  dráttarvaxta  af

fjárhæðinni  skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 23.12.2004 til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

 

Með úrskurði héraðsdóms, uppkveðnum 9. júní 2005, var kröfum stefnanda samkvæmt stefnu birtri 23. nóvember 2004, vísað frá dómi en með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 20. september 2005, var lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfur sóknaraðila sem greinir í töluliðum 1 og 3 hér að framan til efnismeðferðar en úrskurður héraðsdómara, um að kröfu skv. 3. mgr. 56. gr. höfundalaga yrði vísað frá dómi, staðfest.

Stefnandi höfðaði síðan mál á hendur stefnda með stefnu birtri 26. október 2005 þar sem krafist var fébóta skv. 1. mgr. höfundalaga. Með úrskurði 7. apríl 2006 hafnaði dómari kröfu stefnda um frávísun þeirrar kröfu og voru málin síðan sameinuð og kröfugerð stefnanda á hendur stefnda er nú eins og hér að framan er lýst.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar.

Stefnandi er ekkja Halldórs Laxness rithöfundar og höfðar mál þetta í eigin nafni en hún situr í óskiptu búi eftir eiginmann sinn, sbr. II. kafli erfðalaga nr. 8/1962 með síðari breytingum, sbr. einnig 2. mgr. 59. gr. laga um höfundarétt nr. 73/1972.

Í byrjun desember 2003 var gefin út bók stefnda, Halldór - Ævisaga Halldórs Kiljans Laxness 1902 - 1932.  Eins og titill bókarinnar ber með sér er um 1. bindi ævisögu Halldórs Laxness að ræða og tekur hún til fyrstu þrjátíu æviára hans.  Útgefandi bókarinnar er Almenna bókafélagið en stefndi er titlaður höfundur hennar og höfundarréttarhafi.

Við ritun bókarinnar sótti stefndi heimildir sínar í útgefin ritverk Halldórs og annarra höfunda, en einnig sótti stefndi heimildir í óútgefin verk Halldórs og bréf hans til þriðju aðila, sem afhent höfðu verið Landsbókasafninu til varðveislu.  Af hálfu stefnanda er því haldið fram að ekki hafi legið fyrir samþykki stefnanda eða annarra erfingja Halldórs fyrir notkun stefnda á óútgefnu efni höfundarins, en jafnframt hafi bókin verið rituð án samráðs við stefnanda eða aðra erfingja Halldórs.

Stefnandi kveðst hafa komist að því eftir útkomu bókarinnar að stefndi hefði, við ritun hennar, nýtt sér í miklum mæli texta Halldórs Laxness, bæði í heimildaskyni án þess að geta heimilda með viðhlítandi hætti og með beinum hætti án þess að tilgreina réttan höfund textans.  Þá hafi talsverð brögð verið að því að stefndi hafi beinlínis nýtt texta Halldórs Laxness, en breytt honum að eigin geðþótta og birt í bók sinni, í flestum tilvikum sem eigin texta.

Umfang brota stefnda og málsins í heild sé slíkt að ekki hafi reynst mögulegt að höfða mál þetta fyrr en gert var með birtingu stefnu 23. nóvember 2004.

Í stefnu er vísað til 120 atriða sem stefnandi telur að feli í sér tilvik þar sem stefndi hafi gerst sekur um brot á höfundalögum. Í 84 atriðum, sem merkt eru nr. 1-5, 7-10, 12-18, 21, 23-36, 39-41, 46-50, 52-66, 68-69, 71, 73-83, 85-90, 93, 96, 100, 103-104, 106, 113-114, 118 og 120, er vitnað til bókar stefnda og blaðsíðutals í henni. Er síðan tilgreint heiti rits Halldórs Laxness og blaðsíðutal og segir síðan í stefnu: „Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar.“ Þá er í 26 atriðum, sem merkt eru 6, 11, 19-20, 22, 37, 42-45, 51, 70, 72, 84, 91-92, 94-95, 97-98, 102, 109-110, 115, 117 og 119, vitnað til bókar stefnda og blaðsíðutals í henni. Er síðan tilgreint heiti bókar eða ritverks Halldórs Laxness og blaðsíðutal og segir síðan: „Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar.“ Í einu atriði sem merkt er nr. 38 er vitnað til bókar stefnda og blaðsíðutals í henni. Er síðan tilgreint heiti bókar Halldórs Laxness og blaðsíðutal og segir síðan: „Notkun á texta án aðgreiningar, réttrar heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar.“ Í atriði merktu nr. 67 er vitnað til bókar stefnda og blaðsíðutals í henni. Er síðan tilgreint heiti bókar Halldórs Laxness og blaðsíðutal og segir síðan: „Notkun texta án aðgreiningar, breyting á frumtexta höfundar.“ Í atriðum merktum nr. 99, 101, 105 og 116 er vitnað til bókar stefnda og blaðsíðutals í henni. Eru síðan tilgreind bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar og dagsetning þeirra. Síðan segir: „Notkun texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar, birting áður óbirts texta án heimildar höfundar.“ Í atriðum merktum 107-108 og 111 er vitnað til bókar stefnda og blaðsíðutals í henni. Eru síðan tilgreind bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar og dagsetning þeirra. Síðan segir:  „Notkun texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar, birting áður óbirts texta án heimildar höfundar.“ Loks er í atriði merktu nr. 112 vitnað til bókar stefnda og blaðsíðutals í henni. Er síðan tilgreint bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar, dagsett 11. nóvember 1925. Síðan segir: „Breyting á frumtexta höfundar, birting áður óbirts texta án heimildar höfundar.“

Í stefnu er áréttað að framangreind atriði séu ekki tæmandi talning þeirra tilvika þar sem talið er að stefnandi hafi gerst brotlegur við höfundarétt Halldórs Laxness.  Hafi stefnandi þó kosið að láta hér við sitja, enda séu framangreind brot stefnda að mörgu leyti sambærileg og fullnægjandi til rökstuðnings kröfugerðum stefnanda í málinu.

Stefnandi kveður kröfugerð sína byggða á ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972.  Þannig sé í fyrsta lagi gerð sú krafa að stefndi verði dæmdur til refsingar samkvæmt 54. gr. laganna.  Sé enda á því byggt að brot stefnda hafi verið framin af ásetningi eða að minnsta kosti stórfelldu gáleysi eins og áskilið er í 1. mgr. 54. gr. laganna.  Með vísan til 1. mgr. 59. gr. byggir stefnandi á því að henni sé heimilt að hafa uppi refsikröfu í málinu, enda samrýmist það réttarframkvæmd.  Um refsiramma er vísað til 2. mgr. 54. gr. laganna, en á því er byggt að taka verði tillit til stöðu stefnda, gríðarlegs umfangs málsins og þess að brot stefnda voru framin í ágóðaskyni við ákvörðun refsingar.

Í öðru lagi geri stefnandi kröfu um miskabætur samkvæmt beinni lagaheimild í 2. mgr. 56. gr. höfundalaga. Byggir stefnandi á því að hin umkrafða fjárhæð, 2.500.000 krónur, sé hæfileg með hliðsjón af miklu umfangi brotanna og þeim grundvallarréttindum höfundarréttarins sem stefndi hefur brotið gegn, af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.  Telur stefnandi að hafa beri í huga að Halldór Laxness hafi verið og sé enn einhver merkasti rithöfundur þjóðarinnar og að verk hans og sá höfundarréttur sem þeim fylgir sé í senn mikilvægur og verðmætur.  Stefndi hafi, með ólögmætum og saknæmum hætti, eignað sér ritverk Halldórs í miklum mæli, sér til hagsbóta, sbr. t.d. 5. gr. höfundalaga.

Um málshöfðun, þar sem krafist er fébóta samkvæmt 1. mgr. 56. gr. höfundalaga, segir að málið sé höfðað á sama grundvelli og sömu atvikum og fyrra mál milli sömu aðila, þ.e. mál Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-10030/2004.  Sé stefnanda óhjákvæmilegt að höfða mál þetta í ljósi þess að skaðabótakröfu hans í fyrrgreindu máli, sem byggð hafi verið á 3. mgr. 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972 hafi verið vísað frá með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 308/2005 frá 20. september 2005.  Byggir stefnandi á því að málshöfðun þessi sé heimil, sbr. m.a. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991.

Kröfugerð stefnanda sé byggð á ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972, einkum 1. mgr. 56. gr. laganna.  Er á því byggt að kröfugerðin sé í samræmi við það fjártjón sem stefnandi og dánarbú Halldórs Laxness hafi orðið fyrir vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda.  Krafa þessi komi til viðbótar áður gerðum kröfum um refsingu og miskabætur og á því byggt að stefnanda sé heimilt að hafa kröfuna uppi samhliða öðrum kröfum í fyrra máli aðila.

Byggir stefnandi á því að stefndi hafi, af ásetningi eða gáleysi, brotið gegn höfundarrétti þeim sem stefnandi fer með eftir Halldór Laxness með ritun fyrrgreindrar bókar sinnar.  Jafnframt byggir stefnandi á því að öll skilyrði til greiðslu bóta séu uppfyllt og heldur því  fram m.a. að samkvæmt dómvenju séu bætur skv. 1. mgr. 56. gr. höfundalaga metnar að álitum.  Bendir stefnandi m.a. á að bók stefnda, sem að verulegu leyti sé byggð á bókum og ritverkum Halldórs Laxness, sé til þess fallin að draga úr sölu á ýmsum bókum og ritverkum skáldsins og raska með öðrum hætti þeim gríðarlegu fjárhagslegu hagsmunum sem bundnir séu við höfundarrétt hans.  Jafnframt er á því byggt að fjárhæð bótakröfunnar sé ekki hærri en sú fjárhæð sem stefnda hefði verið gert að greiða fyrir notkun á texta Halldórs í svo víðtækum mæli sem gert er.  Alkunna sé að höfundarréttur Halldórs Laxness sé í senn afar mikilvægur og verðmætur.  Röskun á honum hafi því fyrirsjáanlega í för með sér umtalsvert fjártjón sem stefnandi telur hér hæfilega metið.

Krafa stefnanda um dráttarvexti er byggð á 4. mgr. 5. gr. sbr. 9. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001.  Er þannig krafist dráttarvaxta að liðnum mánuði frá þingfestingu málsins.

Krafa stefnanda um dráttarvexti af 2. og 3. kröfulið er byggð á 4. mgr. 5. gr. sbr. 9. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001.  Er þannig krafist dráttarvaxta að liðnum mánuði frá höfðun máls þessa í samræmi við téð ákvæði laganna.

Loks krefst stefnandi málskostnaðar, að skaðlausu úr hendi stefnda, í samræmi við meginreglur réttarfars og ákvæði laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Byggir stefnandi á því að henni skuli tryggt skaðleysi af málsókninni, sem sé í senn óhjákvæmileg og nauðsynleg.  Umfang málsins sé gríðarlegt og hefur stefnandi þurft að kosta miklu til við undirbúning málshöfðunar. 

 

MÁLSÁSTÆÐUR: 

Aðild stefnanda, sem situr í óskiptu búi eftir Halldór Laxness á grundvelli II. kafla erfðalaga nr. 8/1962, byggist meðal annars á 2. mgr. 59. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. einnig 11. gr. erfðalaga.  Málsókn stefnanda sé byggð á því að stefndi hafi, með ritun framangreindrar bókar sinnar og í þeim tilfellum sem að framan er lýst, brotið gegn höfundarrétti Halldórs Laxness með ítrekuðum og grófum hætti.  Óumdeilanlegt sé, samkvæmt 43. gr. höfundalaga, að höfundaréttur haldist óraskaður í 70 ár frá næstu áramótum eftir lát höfundar.  Öll þau ritverk sem stefndi hafi hagnýtt við ritun bókar sinnar hafi því verið og séu háð höfundarétti samkvæmt ákvæðum laganna, sbr. einkum 1. gr. þeirra.  Höfundaréttur teljist til eignarréttinda skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944 auk þess sem tjáningarfrelsi sé háð sérstökum takmörkunum skv. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, m.a. vegna réttinda annarra.

Bók stefnda sé að miklu leyti endursögn á endurminningabókum Halldórs Laxness, þ.e. bókunum Í túninu heima, Úngur eg var, Sjömeistarasagan, Grikklandsárið og Skáldatími.  Bækur þessar hafi Halldór sjálfur skilgreint sem „skáldsögur í ritgerðarformi (essay roman)“ og því hafi efni þeirra ekki endilega borið keim sagnfræðilegs sannleika.  Eins hafi stefndi nýtt sér ýmis önnur ritverk Halldórs, ritgerðir, smásögur og skáldsögur. Stefndi hafi í miklum mæli endursagt texta Halldórs, sem sé með miklum höfundareinkennum, með því að fella inn í sinn eigin texta, með eða án breytinga og oftast án aðgreiningar eða tilvísunar til viðeigandi heimilda.  Í eftirmála bókar sinnar viðurkenni stefndi í raun athæfi sitt með orðunum: „Allt þetta efni hef ég reynt að hagnýta mér og fella saman í eina heild […].“

Þessar upplýsingar sem lesanda séu veittar breyti því ekki, að mati stefnanda, að stefnda hafi borið að halda texta annarra höfunda, þ.m.t. texta Halldórs Laxness, aðskildum frá sínum eigin texta, svo ekki færi á milli mála hver höfundurinn væri í raun í hverju tilfelli.

Brot stefnda felist einkum í því að stefndi hafi hagnýtt sér höfundarréttarverndaðan texta úr bókum og öðrum ritverkum Halldórs Laxness, fellt hann inn í bók sína og gert textann þannig að sínum eigin, án þess að aðgreina hann sérstaklega eða geta heimildar með fullnægjandi hætti.  Telur stefnandi að þetta athæfi stefnda feli í sér brot á megininntaki höfundarréttarins og ákvæðum 14., sbr. 26. gr. höfundalaga nr. 72/1973.  Eins telur stefnandi að þetta feli í sér brot á 6. gr. a, 9. gr. og 10. gr. Bernarsáttmálans, en ákvæði hans hafa lagagildi hér á landi samkvæmt 1. gr. laga nr. 80/1972.

Höfundaréttur sé samkvæmt ákvæðum höfundalaga háður þeirri takmörkun að þriðja aðila sé, undir vissum kringumstæðum, heimil tilvitnun í birt bókmenntaverk, sbr. t.d. 14. gr. höfundalaga.  Slík heimild feli í sér veigamikil frávik frá höfundarétti, sé háð ströngum skilyrðum og beri að skýra þröngt, að mati stefnanda.  Byggir stefnandi á því að heimildir stefnda til að vísa til birtra bókmenntaverka Halldórs Laxness í riti sínu hljóti að takmarkast við þá meginskyldu stefnda að tilvísanir séu skýrar og afdráttarlausar í hverju einasta tilviki, aðgreining texta sé alger, tilvísanir séu allar innan hæfilegra marka og að rétt sé með efnið farið.  Ekkert þessara grundvallarskilyrða hafi verið uppfyllt af hálfu stefnda í þeim tilvikum sem mál þetta varði.

Nokkur brögð séu að því að stefndi hafi getið heimilda eða vísað til tiltekins rits Halldórs Laxness með tilvísun í neðanmálsgrein, en slíkar tilvísanir, þar sem þær komi fram, séu alsendis ófullnægjandi og villandi að mati stefnanda.  Í þeim tilvikum þar sem um þetta sé að ræða sé tilvísun stefnda mjög almenns eðlis og eftir sem áður sé frumtexti Halldórs Laxness ekki aðgreindur með neinum hætti.  Á því er byggt að tilvísanir stefnda, þar sem þær komi á annað borð fram, séu verulega villandi og sýni ekki með fullnægjandi hætti hver raunverulegur höfundur textans sé. Eigi það t.d. við í þeim tilfellum þegar stefndi vísar til neðanmálsgreinar á eftir tilvitnuðum orðum innan tilvitnunarmerkja og láti þannig í það skína að eingöngu hin tilvitnuðu orð séu tekin úr viðkomandi heimild, þó svo að texti á undan tilvitnuninni sé einnig að öllu eða mestu leyti fenginn úr sömu heimild.  Þau tilvik þar sem þetta eigi sérstaklega við séu nr. 6, 11, 19, 20, 22, 37, 42, 43, 44, 45, 51, 70, 72, 84, 91, 92, 94, 95, 97, 98, 102, 107, 110, 111, 115, 117 og 119.

Stefnandi byggir einnig á því að stefndi hafi með ítrekuðum og grófum hætti brotið gegn höfundarétti Halldórs Laxness með því að breyta frumtexta höfundarins og laga hann að eigin texta.  Þannig hafi stefndi ýmist slitið einstakar setningar úr samhengi og bætt þeim inn í sinn eigin texta, fellt út orð eða bætt við orðum.  Byggir stefnandi á því að stefnda hafi borið, auk þess að aðgreina texta Halldórs sérstaklega og geta heimildar með fullnægjandi hætti, að halda frumtextanum óbreyttum og óröskuðum í bók sinni í stað þess að endursegja og endurorða textann eða taka stærri eða smærri hluta hans úr samhengi og fella inn í sinn eigin texta.  Um þetta vísar stefnandi til 3. gr., 2. mgr. 4. gr., 14. gr. i.f. og 3. mgr. 26. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. einnig 6. gr. a og 12. gr. Bernarsáttmálans, sbr. lög nr. 80/1972.

Þau 120 tilvik sem að framan séu greind feli öll, að frátöldu tilviki nr. 112, í sér brot þau sem byggt er á að stefndi hafi orðið uppvís að hér að framan.  Þannig séu þau öll þess eðlis að tilvísun til viðeigandi heimildar skorti alfarið eða að hún sé ófullnægjandi, frumtexta hafi ekki verið haldið aðgreindum og hann þess í stað felldur inn í og gerður að texta stefnda, ásamt því að frumtexta hafi verið breytt án samþykkis stefnanda.

Til viðbótar framangreindum brotum á höfundarétti telur stefnandi að stefndi hafi gerst brotlegur við hagsmuni stefnda með því að birta í bók sinni í umtalsverðum mæli áður óbirt efni eftir Halldór Laxness.  Sé þar um að ræða bæði stóra og smáa hluta af bréfum Halldórs til Erlends Guðmundssonar sem ekki hafi verið birt opinberlega áður.  Byggir stefnandi á því að stefnda hafi borið að afla sér fyrir fram heimildar til birtingar, sbr. einkum 3. gr. höfundalaga nr. 73/1972.  Undir þetta falli atriði nr. 99, 101, 102, 105, 107, 108, 111, 112 og 116 í framangreindri upptalningu.

Bók stefnda hafi verið birt opinberlega og teljist því brot stefnda á höfundarétti Halldórs Laxness hafa verið framin.  Þá séu brot stefnda framin í fjárhagslegum tilgangi, þ.e. stefndi hafði fjárhagslegan ávinning af brotum sínum, og undirstriki það alvarleika brotanna, að mati stefnanda.  Enn fremur telur stefnandi það til marks um alvarleika brotanna að stefndi aðgreini í nokkrum tilvikum sérstaklega texta annarra og gefi þannig lesendum bókarinnar tilefni til að ætla að sá hluti textans sem ekki sé sérstaklega aðgreindur, sé í raun eftir stefnda.  Á það er bent að stefndi kveðist sjálfur, í eftirmála bókar sinnar, hafa tekið „þann kost að hafa textann með samræmdri nútímastafsetningu nema það, sem haft er eftir Kiljan: Það er allt með þeirri stafsetningu, sem hann gerði sér.  Vitnað er í skáldverk Halldórs […]“  Með þessari yfirlýsingu sinni gefi stefndi lesendum bókarinnar það til kynna að hann sé höfundur þess texta sem ekki sé birtur með stafsetningu Halldórs Laxness eða ekki sé sérstaklega vitnað til í bókinni.  Þessar villandi upplýsingar ýti undir alvarleika brota stefnda, sem þar að auki verði, stöðu sinnar vegna sem prófessor við Háskóla Íslands, að lúta ríkari kröfum en ella um fagleg vinnubrögð.  Stefnda hafi ekki getað dulist, sem fræðimanni, að hann hafi verið að brjóta gegn höfundarétti Halldórs Laxness í veigamiklum atriðum með aðferðum sínum.

Á blaðsíðum 563 – 607 í bók stefnda sé ítarleg skrá um tilvitnanir. Með sama hætti og að framan greini byggi stefnandi á því að tilvist þessarar skrár gefi lesendum bókarinnar tilefni til að ætla að sá texti sem ekki tengist sérstakri tilvitnun í skránni sé runninn undan rifjum stefnda.  Úr því að stefndi hafi kosið að hafa tilvitnanaskrá í bók sinni hafi honum borið að hafa þá skrá í senn fullkomna og tæmandi um allar tilvitnanir og allar heimildir sem byggt var á.  Engu breyti þótt stefndi boði, í upphafi tilvitnanaskrárinnar, að „[H]eimildaskrá með bókfræðilegum upplýsingum verð[i] í þriðja og síðasta bindi þessa verks“.  Stefnda hafi borið að gera bók sína þannig úr garði að ekki færi milli mála fyrir lesanda þessarar tilteknu bókar hver væri höfundur textans í hverju einstöku tilfelli.  Bók stefnda verði því að meta sem eina sjálfstæða heild, enda verði að telja fráleitt að stefndi geti bætt úr brotum sínum með ítarlegri tilvitnana- eða heimildaskrá í bók sem enn hafði ekki verið gefin út. Eins sé ljóst að brot stefnda, eins og þau blasi hér við, sé ekki hægt að leiðrétta nema bók stefnda verði endurprentuð í heild sinni með öllum nauðsynlegum breytingum og lagfæringum, aðgreiningu á texta annarra höfunda og réttmætum tilvitnunum til heimilda í öllum þeim tilfellum sem það á við.

Stefnandi byggir í málinu einkum á ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972, svo og almennum og óskráðum meginreglum á sviði höfundaréttar ásamt ákvæðum stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins skv. 72. gr. laga nr. 33/1944 með síðari breytingum, auk 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrár um takmarkanir á tjáningarfrelsi vegna réttinda annarra.  Þá er byggt á ákvæðum Bernarsáttmálans um höfundarétt, sbr. 1. gr. laga nr. 80/1972.  Stefnandi vísar einnig til ákvæða erfðalaga nr. 8/1962 eftir því sem við á og laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.  Um málskostnað og réttarfar er byggt á lögum nr. 91/1991.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Stefnandi krefjist þess að stefndi verði dæmdur til refsingar samkvæmt 54. gr. höfundalaga.  Samkvæmt 24. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal sérhver refsiverður verknaður sæta opinberri ákæru, nema annað sé sérstaklega ákveðið í lögum.  Um þetta sé fjallað í 59. gr. höfundalaga en í 1. mgr. segir, að brot gegn lögunum sæti opinberri ákæru, en jafnan skuli málshöfðun heimil þeim sem misgert er við.  Í 2. mgr. 59. gr. sé nokkru takmarkaðri heimild veitt tilteknum aðilum ef höfundur er látinn.  Ljóst sé að stefnandi byggi heimild sína til að hafa uppi refsikröfu á þessu lagaákvæði.  Í höfundalögum sé að öðru leyti ekki fjallað um skilyrði slíkrar kröfugerðar og gildi því reglur almennra hegningarlaga þar um, sbr. einkum 29. gr. þeirra laga.  Þar segi að heimild til þess að höfða einkamál til refsingar falli niður sé mál ekki höfðað áður en 6 mánuðir eru liðnir frá því sá, sem heimildina hefur, fékk vitneskju um hinn seka.

Fyrir liggi að vitneskju um meint brot stefnda gegn höfundarrétti stefnanda hafi hann haft þegar eftir að bókin var komin út.  Meint brot stefnda hafi margsinnis verið til ítarlegrar umfjöllunar í fjölmiðlum vikurnar eftir útgáfu bókarinnar og raunar reglulega til þessa dags.  Aðstandendur stefnanda hafi tjáð sig í fjölmiðlum í lok árs 2003 og byrjun árs 2004 um meint brot stefnda og þjófkenndu hann vegna þeirra.  Mál þetta var þingfest þann 25. nóvember 2004 en stefna var birt þann 23. nóvember sama ár.  Þá hafi framangreindur 6 mánaða frestur 29. gr. almennra hegningarlaga löngu verið liðinn. 

Í því sambandi bendir stefndi einnig á, að stefnandi styðji kröfur sínar um ætluð lögbrot stefnda jöfnum höndum við ákvæði í höfundalögum sem falli utan sem innan málsóknarheimildar hans, samkvæmt 2. mgr. 59. gr. höfundalaga. Samkvæmt því ákvæði geti stefnandi höfðað mál vegna meintra brota gegn 1. og 2. mgr. 4. gr. höfundalaga og 2. og 3. mgr. 26. gr. laganna. Stefnandi vísi aðeins á tveimur stöðum sérstaklega til lagaákvæða sem eigi undir þessa málsóknarheimild hans, og þá án nokkurra nánari skýringa þar að lútandi, en jafnframt vísi stefnandi til meintra brota gegn öðrum ákvæðum höfundalaga sem hann hafi ekki heimild til að höfða mál vegna.  Þá leiði sú staðreynd, sem að framan er fjallað um, að enginn greinarmunur sé gerður í stefnu á stefnda sem höfundi eða útgefanda bókarinnar Halldór, til þess, að krafist er refsingar gagnvart stefnda fyrir háttsemi sem hann eigi engan þátt í.

 Höfundarréttarvernd felist einkum í því, að óheimilt sé að gefa út eða hagnýta sér verk annars manns sem sitt eigið, eða að afbaka höfundarverk annars manns honum til vansæmdar.  Þetta hefur stefndi ekki gert.  Bókin Halldór, 1. bindi ævisögu Halldórs Laxness, sé sjálfstætt höfundarverk stefnda.  Við samningu þess verks hafi stefndi nýtt sér ýmsar upplýsingar úr verkum sem áður hafa birst, einkum úr endurminningabókum Halldórs Laxness sjálfs.  Vandséð sé hvernig öðruvísi hafi verið hægt að rita ævisögu Halldórs, enda vandfundar aðrar og betri heimildir um æsku skáldsins en frásagnir og endurminningar hans sjálfs.  Í þessu sambandi vekur stefndi athygli á því, að þau tilvik sem stefnandi telji upp til marks um ætluð brot stefnda á höfundarrétti samsvari innan við 10% af texta bókar stefnda.  Í bók stefnda birtist endursagnir og útdrættir úr þessum heimildum en slíkt brjóti ekki gegn höfundarrétti nokkurs manns.

Höfundalög heimili þar fyrir utan og gera ráð fyrir þessari nýtingu á verkum annarra, sbr. 14. gr. laganna en einnig að sínu leyti 2. mgr. 5. gr. þeirra.  Í 14. gr. höfundalaga segi, að heimil sé tilvitnun í birt bókmenntaverk, ef hún er gerð í sambandi við gagnrýni, vísindi, almenna kynningu eða í öðrum viðurkenndum tilgangi, enda sé hún gerð innan hæfilegra marka og rétt með efni farið.  Í 2. mgr. 5. gr. kemur fram að hafi verk verið notað sem fyrirmynd eða með öðrum hætti við gerð annars verks, sem telja megi nýtt og sjálfstætt, sé hið nýja verk óháð höfundarrétti að hinu eldra.  Þær athugasemdir sem stefnandi hafi gert við bók stefnda rúmist allar innan þeirra heimilda sem í framangreindum ákvæðum felist.  Stefndi hafi nýtt sér texta úr öðrum verkum, í þeim lögmæta tilgangi að rita bók um ævi eins af merkustu skáldum þjóðarinnar.  Sá texti hafi einkum lotið að lýsingu á staðreyndum úr lífi skáldsins.  Textinn hafi verið umskrifaður og felldur inn í heildstæða lýsingu á ævi skáldsins, eða með öðrum orðum nýtt og sjálfstætt verk stefnda, eins og heimilt sé samkvæmt m.a. 2. mgr. 26. gr. höfundalaga.  Stefndi telur fráleitt, að í því felist brot á höfundarrétti, að hann hafi með þessum hætti nýtt sér verk Halldórs Laxness sem efnivið eða innblástur í bók sína.

Málatilbúnaður stefnanda virðist byggja á þrenns konar meginathugasemdum við rit stefnda.  Í fyrsta lagi að stefndi hafi tekið upp texta eftir Halldór Laxness úr bókum hans og notað hann sem sinn eigin, í öðru lagi að stefndi hafi ekki getið heimilda með fullnægjandi hætti og í þriðja lagi að stefndi hafi birt áður óbirtan texta án heimildar höfundar, en þar sé átt við ýmis bréf Halldórs Laxness sem varðveitt eru á Landsbókasafni.

Hvað fyrsta atriðið varðar er því mótmælt að stefndi hafi afritað verk eða texta Halldórs Laxness á þann veg að brjóti gegn höfundarrétti stefnanda.  Texti stefnda sé hvergi samhljóða texta Halldórs þótt vissulega séu þeir stundum líkir.  Því er mótmælt að höfundarréttur stefnanda taki til staðreynda og upplýsinga um æviferil Halldórs Laxness, sem birtar eru í bók stefnda.

Hvað annað atriðið varðar er því mótmælt að heimilda sé ekki getið eða á ófullnægjandi og/eða villandi hátt.  Stefndi bendir á, að allsherjartilvísun sé í eftirmála bókarinnar til þeirra rita, sem stefndi hafi einkum stuðst við.  Þá sé fjöldi beinna tilvísana neðanmáls til þeirra rita sem stefnandi telji höfundarréttarbrot beinast gegn.  Stefndi telji það blasa við hverjum þeim sem lesi bók hans, að víða er stuðst við upplýsingar úr endurminningabókum Halldórs. Það leiði enda af eðli máls þar sem bókin Halldór fjalli um ævi skáldsins, einkum æskuár hans.  Fyrir þeirri reglu um tilvísanir sem stefndi hafi stuðst við séu mýmörg fordæmi, svo sem fram komi í aðilaskýrslu stefnda.  Þá bendir stefndi á að ekki verði leidd sérstök regla um tilvísanir af ákvæðum höfundalaga sjálfra, sem bók stefnda sé í andstöðu við.

Hvað þriðja atriðið varðar er því mótmælt, að umrædd bréf teljist óbirt í skilningi höfundalaga.  Mestu máli skipti, að umrædd bréf hafi verið gerð aðgengileg almenningi.  Þar með hafi bréfin talist birt í skilningi höfundalaga og stefnda heimilt að vísa til þeirra eins og annarra birtra verka. Þá vísar stefndi til þess að aðstandendur skáldsins hafi heimilað honum not bréfa þessa við gerð verks síns.

Stefndi krefst sýknu af refsikröfu stefnanda enda sé heimild stefnanda til að höfða refsimál fallin niður, sbr.  29. gr. almennra hegningarlaga. Ósannað sé að stefndi hafi brotið gegn höfundarrétti stefnanda og hvað sem öðru líði sé ósannað að skilyrði 1. mgr. 54. gr. höfundalaga um ásetning eða stórkostlegt gáleysi sé uppfyllt. Hvað síðastnefnda atriðið varðar bendir stefndi á, að við undirbúning handrits að bókinni Halldór hafi verið viðhaft umfangsmikið samráð við bæði aðstandendur stefnanda og helstu sérfræðinga um bókmenntir Halldórs Laxness sem starfi hjá AB, en það forlag gefi einnig út bækur Halldórs.  Fulltrúar þessara aðila hafi lesið yfir handrit stefnda og stefndi farið eftir öllum athugasemdum þeirra sem máli skiptu.  Engar athugasemdir hafi verið gerðar við notkun stefnda á heimildum úr endurminningabókum Halldórs Laxness eða öðrum verkum sem um sé fjallað í máli þessu. Stefndi hafi því augljóslega verið í góðri trú um að rit hans samrýmdist þeim kröfum sem gera mátti til þess vegna ákvæða höfundalaga.  Þá bendir stefndi á, að hann hafi á engan hátt reynt að leyna því að hann hefði nýtt sér upplýsingar og texta úr umræddum ritum heldur hafi þess þvert á móti verið rækilega getið.  Hvort sem heimildanotkun og tilvísanakerfi stefnda samrýmist ströngustu og nýjustu fræðilegum kröfum á sviði ævisagnaritunar eða ekki, sé langur vegur því frá, að um refsiverða eða bótaskylda háttsemi af hálfu stefnda sé að ræða í þessu máli. 

Stefndi krefst sýknu af miskabótakröfu stefnanda og vísar til 2. mgr. 56. gr. höfundalaga en samkvæmt ákvæðinu sé það aðeins höfundur sjálfur eða listflytjandi sem geti gert kröfu um miskabætur vegna höfundarréttarbrota sem gegn honum beinast.  Um þetta ákvæði segi svo í greinargerð með frumvarpi til höfundalaga sem lagt var fyrir Alþingi á 92. löggjafarþingi: „Í 2. mgr. ræðir um miskabætur, sem aðeins höfundi eða listflytjanda verða dæmdar, og það allt að einu, þó að þeir kunni að hafa framselt rétt sinn til annarra aðilja.“  Um aðild að miskabótakröfum vegna höfundarréttarbrota hafi dómstólar og fræðimenn fjallað og telur stefndi þá umfjöllun sýna, að stefnandi eigi ekki aðild að þessari kröfu á hendur stefnda.  Leiði það til sýknu, sbr. 16. gr. laga um meðferð einkamála.

Þá byggir stefndi á því, að þau meintu brot sem stefnandi telji hafa verið framin gegn höfundarrétti hans, hljóti einkum að felast í því, að handrit stefnda hafi verið birt almenningi við útgáfu bókarinnar Halldór.  Stefndi hafi ekki verið aðili að útgáfusamningi um bókina og ekki gefið hana út. Þeir sem til greina kæmi að telja fébótaskylda gagnvart stefnanda vegna útgáfu bókarinnar séu AB og BF.  Það sé rangt sem fram komi í stefnu að stefndi hafi fengið greidd höfundalaun vegna útgáfu bókarinnar.  Réttur til höfundalauna vegna útgáfunnar hafi verið á hendi handhafa útgáfuréttarins, BF.  Sé því um aðildarskort að ræða sem leiðir til sýknu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála. 

Stefndi heldur því fram að skaðabótakrafa stefnanda sé fallin niður sökum tómlætis og aðgerðarleysis stefnanda við að halda henni til laga.  Stefndi mótmælir því, að skilyrði 2. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála séu uppfyllt til þess að stefnanda sé unnt að gera fjárkröfu sína á hendur stefnda í þessu máli.  Af hálfu stefnda er á því byggt að með því að stefnandi hafði ekki uppi skaðabótakröfu gegn honum í máli nr. 10030/2004 hafi stefndi mátt líta svo á, að slík krafa yrði ekki gerð á hendur honum.  Því er mótmælt að nokkuð hafi verið því til fyrirstöðu að stefnandi gerði slíka kröfu.  Stefnandi gerði ekki slíka kröfu heldur hafði uppi fjárkröfu á hendur stefnda með vísan til 3. mgr. 56. gr. höfundalaga nr. 72/1972.  Af ástæðum sem raktar séu í dómi Hæstaréttar í máli nr. 308/2005 hafi þeirri kröfu verið vísað frá dómi. Lutu þær einkum að vanreifun kröfunnar.  Í stað þess að höfða mál að nýju með sömu dómkröfu og bæta úr vanreifuninni hafi stefnandi höfðað nýtt mál með annars konar dómkröfu.  Stefndi telur þetta andstætt 27. gr. laga nr. 91/1991, hvort heldur samkvæmt orðalagi ákvæðisins eða undirstöðurökum, sem og andstætt meginreglum réttarfars og kröfuréttar.

Dómkröfur stefnda eru reistar á þeim lagarökum sem grein er gerð fyrir í textanum hér að framan.  Málskostnaðarkrafa stefnda styðst við ákvæði XXI. kafla laga um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. og 130. gr. þeirra.

Dráttarvaxtakröfu stefnanda er mótmælt.  Fari svo ólíklega að dómur fallist á einhverjar fjárkröfur stefnanda í máli þessu telur stefndi að þær kröfur geti fyrst borið vexti frá dómsuppsögudegi, enda hefur stefndi engin gögn eða sjónarmið fært fram fyrir grundvelli eða fjárhæð krafna sinna.

Stefndi mótmælir framlagningu skýrslu Helgu Kress prófessors.  Skjalið virðist vera einhvers konar sérfræðiálit sem stefnandi byggi málsókn sína augljóslega á.  Skjalið sé ekki matsgerð og umrædd Helga sé heldur ekki vitni í skilningi laga um meðferð einkamála.  Efni skjalsins og þeim hugleiðingum sem þar koma fram er mótmælt.

Málskostnaðarkröfu stefnanda er jafnframt sérstaklega mótmælt.  Stefndi fær ekki séð að undantekningarreglur 2. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eigi við um málskostnaðarkröfu eða málatilbúnað stefnanda í þessu máli. 

 

NIÐURSTAÐA

Stefnandi höfðar mál þetta á grundvelli 2. mgr. 59. gr. höfundalaga nr. 73/1972, en hún situr í óskiptu búi eftir mann sinn, Halldór Laxness rithöfund. Samkvæmt ákvæði þessu nær heimild stefnanda til þess að höfða einkarefsimál út af brotum á 1. og 2. mgr. 4. gr. höfundalaga, 2. og 3. mgr. 26. gr. sömu laga, 1. mgr. 28. gr. laganna og fyrirmæla höfundar skv. 2. mgr. 31. gr. Í höfundalögum er ekkert ákvæði um frest til að höfða mál til refsingar á grundvelli 54. gr. og 59. gr. laganna, og ber því að beita ákvæði 29. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um það atriði. Þar segir að heimild til þess að bera fram kröfu um opinbera málssókn eða höfða einkamál til refsingar falli niður, sé krafa ekki gerð eða mál höfðað, áður en 6 mánuðir eru liðnir frá því að sá, sem heimildina hefur, fékk vitneskju um hinn seka. Sá frestur var löngu liðinn er stefnandi höfðaði mál þetta og verður stefndi af þeim sökum sýknaður af refsikröfu stefnanda.

             Ekki er fallist á það með stefnda að með honum og BF og Almenna Bókafélaginu sé bundin samaðild sem leiði til sýknu og stefnda réttilega stefnt.

Stefnandi krefst miskabóta úr hendi stefnda skv. 2. mgr. 56. gr. höfundalaga en  samkvæmt því ákvæði skal dæma höfundi eða flytjanda miskabætur úr hendi þess sem hefur raskað rétti hans með ólögmætri háttsemi.  Samkvæmt hljóðan ákvæðis þessa tekur það einungis til höfunda eða flytjenda og verður ekki fallist á það með stefnanda að hún eigi aðild að kröfu þessari eins og ákvæðið er orðað. Verður stefndi því sýknaður af miskabótakröfu stefnanda sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Kemur því næst til úrlausnar krafa stefnanda um fébætur skv. 1. mgr. 56. gr. höfundalaga en þar segir að þegar saknæmt brot á lögum þessum hefur haft fétjón í för með sér, beri að bæta það eftir almennum reglum fébótaréttar.

Stefndi hefur í mörgum tilvikum fellt efni texta úr bókum Halldórs Laxness inn í meginmál bókar sinnar með því að endursegja hann lítt breyttan að efni til, án þess að geta þess í hvert sinn hvaðan hann sé upprunninn og frá hverjum. Hefur hann með þessum hætti hagnýtt sér verk Halldórs Laxness við ritun bókar sinnar. Í eftirmála bókar sinnar segir stefndi m.a. eftir að hafa greint frá því að margir hafi aðstoðað hann á ýmsan veg, veitt honum aðgang að óbirtum gögnum, sýnt honum bréf og skjöl og gefið  munnlegar upplýsingar: „Ég hef auðvitað haft ómælt gagn af rannsóknum annarra fræðimanna á verkum Halldórs Kiljan Laxness, einkum þeirra Peters Hallbergs í nokkrum ritgerðum og fjórum bindum (Vefarinn mikli, I.-II:, og Hús skáldsins, I.-II.) og Eiríks Jónssonar kennara í mörgum greinum og bók (Rætur Íslandsklukkunnar). Halldór hefur sjálfur skrifað fimm minningarbækur (Skáldatími, Í túninu heima, Úngur ég var, Sjömeistarasagan og Grikklandsárið), og viðtalsbækur hafa birst um báðar eiginkonur hans [...]. Allt þetta efni hef ég reynt að hagnýta mér og fella saman í eina heild, en hef vísað fyrirvörum og athugasemdum í neðanmálsgreinar til að trufla ekki hinn almenna lesanda, þótt mér beri auðvitað að gera fræðimönnum skil á forsendum mínum.“  Þá segir stefndi undir fyrirsögninni „Tilvísanir“  að heimildaskrá með bókfræðilegum upplýsingum verði í þriðja og síðasta bindi þessa verks.

Í II. kafla höfundalaga eru ákvæði um takmarkanir á höfundarétti. Samkvæmt 14. gr. þeirra er tilvitnun í birt bókmenntaverk, þar á meðal leiksviðsverk, svo og birt kvikmyndaverk og tónverk, heimil ef hún er gerð í sambandi við gagnrýni, vísindi, almenna kynningu eða í öðrum viðurkenndum tilgangi, enda sé hún gerð innan hæfilegra marka og rétt með efni farið. Í 1. mgr. 26. gr. laganna segir að ákvæði II. kafla, að undanskilinni 13. gr., raski ekki rétti höfundar eftir 4. gr. Í 2. mgr. 26. gr. segir að þegar verk er birt almenningi samkvæmt II. kafla, skuli auk nafns höfundar geta þeirrar heimildar, sem notuð er, eftir því sem ástæður leyfa. Loks segir í 3. mgr. 26. gr. að þegar eintök af verki séu gerð samkvæmt II. kafla, megi ekki án samþykkis höfundar gera breytingar á verkinu fram yfir það, sem lögmæltur tilgangur með eintakagerðinni leyfir.

Sú hagnýting verka Halldórs Laxness sem stefndi beitti felur í sér notkun texta sem nýtur höfundarverndar. Dómari telur að tilvísun sú til bóka Halldórs Laxness sem fram kemur í eftirmála bókarinnar og hér að framan er rakin uppfylli ekki þær kröfur sem gera verði í tilvikum sem þessum, þ.e.a.s. þegar höfundur ævisögu fellir texta úr verkum þess sem ævisagan fjallar um inn í verk sitt. Hefði stefnda verið rétt að geta þess skýrlega hvaðan texti sá sem hann hagnýtti væri fenginn með beinni eða óbeinni tilvitnun í hvert sinn. Telur dómari stefnda hafa með þessu farið út fyrir hæfileg mörk við meðferð texta Halldórs Laxness er stefndi ritaði verk sitt. Verður því fallist á það með stefnanda að stefndi hafi brotið gegn höfundarétti á verkum Halldórs Laxness sem stefnandi hefur á hendi.

Fram kom í skýrslu Guðnýjar Halldórsdóttur, dóttur stefnanda og Halldórs Laxness, og vitnanna, Bjarna Þorsteinssonar og Péturs Más Ólasonar, að um það hafi verið fjallað hvort stefnda yrðu heimilað að vitna í óbirt efni, aðallega bréf Halldórs Laxness, enda skyldi tilvitnun ekki lengri en fjórar aðalsetningar að því er vitnið Bjarna minnti. Verður á því að byggja að stefnda hafi verið heimiluð birting þessa efnis og notkun hans á því verður ekki metið honum til sakar.

Af hálfu stefnanda hefur ekki verið gert nægjanlega líklegt að stefnandi hafi beðið tjón af broti stefnda á höfundalögum. Af þessari ástæðu verður stefndi sýknaður af bótakröfu stefnanda.

Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda en málskostnaður verður felldur niður.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

DÓMSORÐ

             Stefndi, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, skal sýkn af öllum kröfum stefnanda, Auðar Sveinsdóttur Laxness.

             Málskostnaður fellur niður.