Print

Mál nr. 405/2017

Guðmundur Spartakus Ómarsson (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)
gegn
Sigmundi Erni Rúnarssyni (Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður)
Lykilorð
  • Ærumeiðingar
Reifun

G höfðaði mál á hendur S, ritstjóra vefmiðilsins H, og krafðist ómerkingar nánar tilgreindra ummæla í níu liðum sem birt voru á vefmiðlinum. Þá gerði G kröfu um að S yrði gert að greiða sér miskabætur vegna þeirra. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í umræddri frétt hefði þrívegis verið tekið fram berum orðum að hún væri um tiltekin atriði reist á fréttaflutningi fjölmiðilsins R og í eitt skipti hefði verið vísað til annars innlends fjölmiðils, en þar að auki tvisvar til erlendra fjölmiðla. Þess utan væri ljóst af orðalagi í fréttinni að gengið hefði verið út frá því að efni hennar hefði að öðru leyti verið byggt á sömu heimildum. Í heild hefði efnið þannig í reynd verið sett fram sem frétt um fréttaflutning annarra tiltekinna fjölmiða. Engin ástæða væri til að draga í efa að S hefði mátt vera í góðri trú um að þeir fjölmiðlar hefðu við gerð frétta sinna gætt grundvallarreglna, sem fjölmiðlum ber að virða, sbr. meðal annars 1. mgr. 26. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla. Var S því sýknaður af kröfum G.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Sigurður Tómas Magnússon landsréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. júní 2017. Hann krefst þess að ómerkt verði síðargreind ummæli, sem nánar eru tiltekin í níu liðum og birt voru 15. janúar 2016 á vefsíðunni hringbraut.is. Hann krefst þess einnig að stefnda verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. janúar 2016 til 25. ágúst sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins birtist frétt á vefsíðu Ríkisútvarpsins, að því er virðist í byrjun janúar 2016, undir fyrirsögninni: „Sást í Paragvæ mánuðum eftir að leit hófst“ og sagði þar meðal annars eftirfarandi: „Lögregluyfirvöld á Íslandi óttast að Íslendingur sem leitað hefur verið að frá 2013 sé látinn. Talið er að maðurinn hafi verið viðriðinn fíkniefnainnflutning þar í landi. Mannsins hefur verið leitað frá því að annar Íslendingur, Friðrik Kristjánsson, hvarf á leið sinni frá Brasilíu til Paragvæ. Paragvæski fjölmiðillinn ABC color birtir mynd af vegabréfi mannsins en hann hafði þá verið stöðvaður af lögreglu, nokkrum mánuðum eftir að leit að honum hófst. ... Greint var frá því í fréttum 10. apríl ... 2013 að manns væri leitað í Paragvæ en þá hafði ekkert til hans spurst lengi. Nokkrum dögum síðar birtist önnur frétt þar sem fram kom að tveggja manna ... væri leitað og að grunur léki á að annar þeirra hefði gert hinum mein. ... Í júlí 2013 ... lýsir lögreglan á höfuðborgarsvæðinu eftir Friðriki og óskar upplýsinga frá öllum þeim er kunna að vita um ferðir hans. Leit að hinum manninum stóð þá enn yfir ... Yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fór út til Paragvæ en ekki fannst Friðrik. Fjölskylda Friðriks ... setti upp vefsíðu á spænsku og óskaði eftir upplýsingum. Síðan fékk mikil viðbrögð sem þó leiddu ekki til þess að Friðrik fyndist. Þá fannst hinn maðurinn ekki, sá sem talinn var hafa verið í för með Friðriki og gæti í það minnsta veitt upplýsingar um málið. ... Í dag birtir svo paragvæski fjölmiðillinn ABC color ... frétt um málið og mynd af vegabréfi mannsins, sem á að sanna að lögregluyfirvöld hafi fengið upplýsingar um ferðir hans, í nóvember 2013, eða um 8 mánuðum eftir hvarf hans. Lögreglan í Paragvæ hafi stöðvað för mannsins og við það tækifæri tekið mynd af vegabréfi hans. Fram kemur í fréttinni að Interpol í Paragvæ hefði veitt lögregluyfirvöldum hér á landi þær upplýsingar að maðurinn hefði aldrei komið til landsins. Myndin sýni að það sé ekki rétt. Hvort lögregluyfirvöldum hér á landi hafi verið gert viðvart þegar þetta uppgötvaðist er ekki vitað, en síðan þá, þ.e. 1. nóvember 2013 hefur ekkert spurst til mannsins. Segir í frétt ABC color að óttast sé um líf hans og að maðurinn hafi haft tengsl við fíkniefnainnflytjendur í Brasilíu og Paragvæ. Friðrik er einnig ófundinn og leit að honum sem og rannsókn lögreglunnar hér á landi, hefur litlar vísbendingar gefið um afdrif hans.“ Frétt þessari fylgdi ljósmynd af hluta af tveimur síðum í opnu í íslensku vegabréfi og sást þar meðal annars fullt nafn áfrýjanda og mynd af honum. Ljósmynd þessi úr vegabréfinu virðist hafa verið fengin úr frétt, sem birtist 1. janúar 2016 á spænsku á fyrrnefndum vefmiðli ABC color, en í henni voru bæði áfrýjandi og áðurnefndur Friðrik ítrekað nafngreindir. Útprentun af þessari frétt og fleiri fréttum á sama vefmiðli, sem nefndar eru hér á eftir, hefur verið lögð fram í málinu en án íslenskrar þýðingar.

Sama ljósmynd af síðum úr vegabréfi áfrýjanda birtist 14. janúar 2016 með annarri frétt á vefsíðu Ríkisútvarpsins undir fyrirsögninni: „Íslendingur sagður valdamikill dópsmyglari“. Í þessari frétt sagði meðal annars: „Íslendingurinn Guðmundur Spartakus – sem ekkert hefur spurst til í rúm tvö ár – er samkvæmt lögreglunni í Paragvæ valdamikill eiturlyfjasmyglari með viðamikla starfsemi þar og í Brasilíu. Hann er sagður notast við fölsk skilríki – hann sé þýskur fasteignasali sem stundi viðskipti í löndunum tveimur. Þetta kemur fram í grein sem birtist á ABC-fréttamiðlinum ... í Paragvæ í kvöld ... Nafn Guðmundar skaut ... heldur óvænt upp kollinum í fréttum í vikunni þegar þessi sami miðill fjallaði stuttlega um hann og hvort hann væri týndur í Paragvæ. Faðir Guðmundar sagði ekkert hæft í þessum fréttaflutningi í viðtali við dv.is ... Í frétt ABC í kvöld kemur fram að Guðmundur sé talinn starfa í bæjunum Amambay og Salto del Guairá, nálægt landamærum Paragvæ og Brasilíu. Íslenska lögreglan er sögð leita Guðmundar í tengslum við hvarf annars Íslendings sem síðast sást í Paragvæ og að Guðmundur sé talinn viðriðinn hvarf hans. Blaðið er væntanlega að vísa til máls Friðriks Kristjánssonar sem ekkert hefur spurst til síðan í mars 2013. Heimildarmenn blaðamanns ABC úr röðum fíkniefnalögreglunnar í Brasilíu segja Guðmund einn höfuðpauranna á bak við umfangsmikið smygl kókaíns frá Suður-Ameríku til Evrópu og e-taflna frá Evrópu til Suður-Ameríku. Smyglið fari í gegnum Brasilíu. Brasilísku lögreglumennirnir benda á að þeir hafi handtekið Brasilíumenn og Íslendinga sem taldir eru burðardýr á vegum Guðmundar Spartakus sem smygla átti til Evrópu. Einnig rifjar blaðið upp að í júlí á síðasta ári hafi brasilíska lögreglan handtekið brasilíska stúlku sem búsett er í Lissabon, á flugvellinum í Rio de Janeiro. Í farangri hennar hafi fundist 46.000 e-pillur. Við yfirheyrslur upplýsti hún að hún ætti að afhenda efnið einum Brasilíumanni og Íslendingi. ... Báðir mennirnir séu nú í fangelsi í Brasilíu. Á annan dag jóla var svo íslenskt par ... handtekið í ... Brasilíu, með fjögur kíló af kókaíni falið í farangri sínum. Parið var að gera sig ferðbúið til að halda út á flugvöll og fara til Evrópu. Margt bendi til þess að hér sé á ferðinni umfangsmikill smyglarahringur sem stjórnað sé af Brasilíumönnum, Paragvæum og Íslendingum. ... Talið er að Guðmundur Spartakus sé einn höfuðpaura smyglhringsins sem teygir starfsemi sína til Salto del Guairá, Concepción og brasilískra bæja við landamæri Brasilíu og Paragvæ. Samkvæmt heimildum blaðsins, innan fíkniefnalögreglunnar í Brasilíu sem ekki vilja koma fram undir nafni, notar Guðmundur Spartakus fölsuð skilríki í Paragvæ. Þar kemur fram að hann sé þýskur fasteignasali sem stundi viðskipti í Paragvæ og Brasilíu.“

Fyrir liggur í málinu að fréttir um framangreint efni birtust jafnframt á vefmiðlunum visir.is og mbl.is að kvöldi 14. janúar 2016. Í báðum tilvikum var vitnað til vefsíðu Ríkisútvarpsins sem heimildar fyrir fréttunum, svo og til vefmiðilsins ABC color. Um hádegisbil daginn eftir birtist síðan einnig frétt á vefmiðlinum hringbraut.is. Fyrirsagnir hennar voru tvær, annars vegar: „Guðmundur Spartakus Ómarsson sagður hátt settur í stórtækum eiturlyfjahring“ og hins vegar: „Íslenskur eiturbarón í S-Ameríku?“ Áfrýjandi höfðaði mál þetta 14. desember 2016 og krefst að ummælin í báðum þessum fyrirsögnum verði ómerkt, en að auki tiltekin ummæli í meginmáli fréttarinnar í sjö öðrum tilvikum. Að frágengnum fyrirsögnunum var fréttin í heild svohljóðandi, en ummælin í henni, sem áfrýjandi krefst að ómerkt verði, eru auðkennd hér á eftir með hallandi letri: „Fjölmiðlar í Paragvæ halda því fram að Íslendingur sé hátt settur innan eiturlyfjahrings í Suður-Ameríku. Ríkisútvarpið greinir frá þessu. Samkvæmt frétt Rúv telur lögreglan í Brasilíu að Íslendingurinn smygli eiturlyfjum milli Evrópu og Suður-Ameríku. Hann sigli undir fölsku vegabréfsflaggi, þykist þýskur fasteignasali. Guðmundur Spartakus Ómarsson heitir hinn grunaði Íslendingur. Heldur fjölmiðillinn ABC í Paragvæ því fram að hann sé einn valdamesti maður eiturlyfjahrings sem smygli e-töflum og kókaíni milli Evrópu og S-Ameríku. Hann hafi ráðið burðardýr sem hafi flutt í einu tilviki 46.000 töflur. Burðardýrið, kona, hafi nefnt Íslendinginn skv. suðuramerískum fjölmiðlum. Ekkert hefur spurst til Guðmundar í tvö ár eftir því sem fram hefur komið en DV segir pabba hans hafa heyrt í honum á Skype um áramótin. Þá hefur nafn Guðmundar verið tengt mannshvarfi þar sem Íslendingur týndist í S-Ameríku. Er hann sagður afar hættulegur eftir því sem fram kemur í frétt Rúv sem lesa má í heild hér. (http://ruv.is/frett/islendingur-sagdur-valdamikill-dopsmyglari)“.

II

Fréttin, sem mál þetta varðar, var ekki auðkennd tilteknum höfundi. Óumdeilt er að stefndi sé ábyrgðarmaður vefmiðilsins hringbraut.is, sem fellur undir gildissvið laga nr. 38/2011 um fjölmiðla, og ber hann því sem slíkur refsiábyrgð og fébótaábyrgð á efni fréttarinnar, sbr. c. lið 1. mgr. 51. gr. þeirra laga. Við mat á því hvort þetta efni varði slíkri ábyrgð verður að hafa hugfast það hlutverk fjölmiðla í lýðræðislegu samfélagi að miðla upplýsingum um mikilvæg málefni, sem varið er af 73. gr. stjórnarskrárinnar. Orkar ekki tvímælis að inntak fréttarinnar sneri að slíku málefni.

Í texta þeirrar stuttu fréttar, sem birt var á vefmiðlinum 15. janúar 2016, kom þrívegis fram berum orðum að hún væri um tiltekin atriði reist á fréttaflutningi í Ríkisútvarpinu og í eitt skipti var vitnað til annars innlends fjölmiðils, en þar að auki tvisvar til fjölmiðla í Paragvæ. Þess utan er ljóst af orðalagi í fréttinni að gengið hafi verið út frá því að efni hennar hafi að öðru leyti verið byggt á sömu heimildum. Í heild var þetta efni þannig í reynd sett fram sem frétt um fréttaflutning annarra tiltekinna fjölmiðla. Engin ástæða er til að draga í efa að stefndi hafi mátt vera í góðri trú um að þeir fjölmiðlar hafi við gerð frétta sinna gætt grundvallarreglna, sem fjölmiðlum ber að virða, sbr. meðal annars 1. mgr. 26. gr. laga nr. 38/2011.

Þegar litið er í framangreindu ljósi til einstakra ummæla, sem áfrýjandi krefst að ómerkt verði, er þess fyrst að gæta að í fyrri hluta fyrirsagnar fréttarinnar á hringbraut.is var staðhæft að áfrýjandi, sem nefndur var fullu nafni, væri sagður vera „hátt settur í stórtækum eiturlyfjahring“. Af samhengi þessarar fyrirsagnar við efni fréttarinnar var sýnilega átt við að þetta hafi verið sagt á vefmiðli Ríkisútvarpsins. Í frétt á þeim vefmiðli var áfrýjanda að vísu ekki getið með föðurnafni, en það blasti þar á hinn bóginn við á fyrrnefndri ljósmynd af opnu úr vegabréfi hans. Ummælin í þessari fyrirsögn áttu sér að öðru leyti ekki orðrétta fyrirmynd í frétt Ríkisútvarpsins, en þar var á hinn bóginn meðal annars rætt um áfrýjanda sem valdamikinn eiturlyfjasmyglara með viðamikla starfsemi og einn höfuðpaura bak við umfangsmikið smygl fíkniefna. Þau orð eru samsvarandi merkingar. Í síðari hluta fyrirsagnarinnar var síðan kastað fram í formi spurningar hvort áfrýjandi væri „eiturbarón“ í Suður-Ameríku. Nýnefnd orð í frétt Ríkisútvarpsins stóðu efnislega undir slíkri spurningu, en orðaval í henni getur annars talist fela í sér gildisdóm, sem að auki var áréttað með spurningarmerki í lok fyrirsagnarinnar.

Í næstu tveimur liðum dómkrafna áfrýjanda er leitað ómerkingar ummæla annars vegar um að fjölmiðlar í Paragvæ haldi fram að Íslendingur sé hátt settur innan eiturlyfjahrings í Suður-Ameríku og hins vegar að samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins telji lögregla í Brasilíu þennan Íslending smygla eiturlyfjum milli Evrópu og Suður-Ameríku. Að gættu því að tekið var fram í fréttinni, sem málið varðar, að Ríkisútvarpið hafi greint frá fyrra atriðinu af þessum tveimur voru þessi ummæli í öllum atriðum rétt eftir höfð og því sönn. Í fimmta lagi varða kröfur áfrýjanda ummæli um að hann „sigli undir fölsku vegabréfsflaggi“ og þykist vera þýskur fasteignasali. Af samhengi við undanfarandi málslið í fréttinni er ljóst að átt var við að þetta hafi komið fram á vefmiðli Ríkisútvarpsins og er það samkvæmt áðurgreindu rétt. Sjötti liðurinn í kröfum áfrýjanda lýtur að málslið í fréttinni á hringbraut.is, þar sem hann var greindur með fullu nafni og sagður vera „hinn grunaði Íslendingur.“ Enn verður ráðið af samhenginu milli einstakra málsliða í fréttinni að vísað var til þess að þetta hafi komið fram á vefmiðli Ríkisútvarpsins. Þar var að sönnu rætt um að áfrýjandi, sem var þó ekki getið með föðurnafni, tengdist áðurgreindri háttsemi á þann veg að merkingarlega hafi verið átt við að hann lægi undir grun um hana. Að gættu því, sem áður segir um að fullt nafn áfrýjanda birtist á ljósmynd úr vegabréfi hans með fréttinni á vefmiðli Ríkisútvarpsins, eru þessi ummæli efnislega rétt. Í sjöunda og áttunda lið krafna áfrýjanda leitar hann ómerkingar á ummælum í fréttinni á vefmiðlinum hringbraut.is um að í tilteknum fjölmiðli í Paragvæ hafi verið haldið fram annars vegar að hann væri einn valdamesti maðurinn í eiturlyfjahring, sem standi á nánar tilgreindan hátt að smygli á fíkniefnum, og hins vegar að áfrýjandi hafi ráðið svonefnt burðardýr til tiltekins verks af þeim toga. Bæði þessi atriði komu fram í fréttinni á vefmiðli Ríkisútvarpsins, þar sem þau voru höfð eftir fjölmiðlinum í Paragvæ, og var því frásögnin um þetta rétt. Loks lúta kröfur áfrýjanda um ómerkingu í níunda lagi að ummælum í fréttinni á vefmiðlinum hringbraut.is um að nafn áfrýjanda hafi verið tengt hvarfi Íslendings í Suður-Ameríku, svo og að hann sé sagður afar hættulegur. Um þetta er þess að gæta að í niðurlagi fréttarinnar var vísað um þessi atriði til tiltekinnar fréttar á vefmiðli Ríkisútvarpsins. Í henni var fjallað um umrætt mannshvarf, en enn frekar var það gert í áðurnefndri frétt á sama miðli í byrjun janúar 2016. Þótt ekki verði séð að í þeim fréttum hafi verið tekið svo til orða að áfrýjandi væri „afar hættulegur“ gaf umfjöllunin í þeim nægilegt tilefni til slíks gildisdóms.

Að virtu öllu framangreindu eru í engu atriði efni til að verða við kröfum áfrýjanda og verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Guðmundur Spartakus Ómarsson, greiði stefnda, Sigmundi Erni Rúnarssyni, 700.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 4. apríl 2017

                                                                                  I.

Mál þetta sem dómtekið var 9. mars sl., er höfðað 14. desember 2016 af Guðmundi Spartakusi Ómarssyni, Miðvangi 2 í Hafnarfirði, gegn Sigmundi Erni Rúnarssyni, Laufásvegi 8 í Reykjavík.

                Dómkröfur stefnanda eru í fyrsta lagi þær að eftirfarandi ummæli, sem birt voru á vefsvæðinu www.hringbraut.is, 15. janúar 2016, verði dæmd dauð og ómerk: „

  1. Guðmundur Spartakus Ómarsson sagður hátt settur í stórtækum eiturlyfjahring:
  2. Íslenskur eiturbarón í S-Ameríku?
  3. Fjölmiðlar í Paragvæ halda því fram að Íslendingur sé hátt settur innan eiturlyfjahrings í Suður-Ameríku.
  4. Samkvæmt frétt RÚV telur lögreglan í Brasilíu að Íslendingurinn smygli eiturlyfjum milli Evrópu og Suður-Ameríku.
  5. Hann sigli undir fölsku vegabréfsflaggi, þykist þýskur fasteignasali.
  6. Guðmundur Spartakus Ómarsson heitir hinn grunaði Íslendingur.
  7. Heldur fjölmiðillinn ABC í Paragvæ því fram að hann sé einn valdamesti maður eiturlyfjahrings sem smygli e-töflum og kókaíni milli Evrópu og S-Ameríku.
  8. Hann hafi ráðið burðardýr sem hafi flutt í einu tilviki 46.000 töflur.
  9. Þá hefur nafn Guðmundar verið tengt mannshvarfi þar sem Íslendingur týndist í S-Ameríku. Er hann sagður afar hættulegur …“

                Í öðru lagi krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. janúar 2016 til 25. ágúst 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara er þess krafist að hafnað verði kröfu um greiðslu miskabóta eða að dómkröfur verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

                                                                                 II.

Atvik málsins eru þau að 15. janúar 2016, birtist frétt á vefsvæðinu www.hringbraut.is, með fyrirsögninni Guðmundur Spartakus Ómarsson sagður hátt settur í stórtækum eiturlyfjahring  ÍSLENSKUR EITURBARÓN Í S-AMERÍKU?

                Í fréttinni er því lýst nánar að fjölmiðlar í Paragvæ haldi því fram að Íslendingur sé hátt settur innan eiturlyfjahrings í Suður-Ameríku og að Ríkisútvarpið hafi greint frá þessu. Samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins telji lögreglan í Brasilíu að Íslendingurinn smygli eiturlyfjum milli Evrópu og Suður-Ameríku. Hann sigli undir fölsku vegabréfsflaggi og þykist vera þýskur fasteignasali. Í fréttinni er síðan tiltekið að Guðmundur Spartakus Ómarsson sé hinn grunaði Íslendingur. Því næst segir í frétt Hringbrautar að fjölmiðillinn ABC í Paragvæ haldi því fram að Guðmundur sé einn valdamesti maður eiturlyfjahrings sem smygli e-töflum og kókaíni milli Evrópu og Suður–Ameríku. Hann hafi ráðið burðardýr sem hafi flutt í einu tilviki 46.000 töflur. Burðardýrið, er sé kona, hafi nefnt Íslendinginn samkvæmt suðuramerískum fjölmiðlum. Þá segir að ekkert hafi spurst til Guðmundar í tvö ár eftir því sem fram hafi komið en DV segi pabba hans hafa heyrt í honum á Skype. Þá segir í frétt Hringbrautar að nafn Guðmundar hafi verið tengt mannshvarfi þar sem Íslendingur týndist í Suður–Ameríku. Þá er næst tiltekið í fréttinni að Guðmundur sé talinn afar hættulegur eftir því sem fram kemur í frétt Ríkisútvarpsins sem lesa megi í heild á vef ruv.is og eru gefnar nánari upplýsingar um slóð fréttarinnar http://ruv.is/frett/islendingur-sagdur-valdamikill-dopsmyglari. 

                Samkvæmt umfjöllun sem birt var á vef Ríkisútvarpsins 14. apríl 2013 kemur fram að lögregluyfirvöld á Íslandi óttist að Íslendingur sem leitað hafi verið að frá árinu 2013 sé látinn og að talið sé að hann hafi verið viðriðinn fíkniefnainnflutning þar í landi. Mannsins hafi verið leitað frá því annar Íslendingur, Friðrik Kristjánsson, hafi horfið á leið sinni frá Brasilíu til Paragvæ. Með fréttinni er birt mynd af vegabréfi stefnanda, sem birt var á paragvæska fjölmiðlinum ABC color, og segir í fréttinni að stefnandi hafi þá verið stöðvaður af lögreglu, nokkrum mánuðum eftir að leit að honum hófst. Með frétt Ríkisútvarpsins fylgir svohljóðandi athugasemd ritstjóra: „Daginn eftir að þessi frétt var birt á ruv.is kom faðir mannsins fram í fjölmiðlum og upplýsti að maðurinn er ekki látinn og hans sé ekki leitað.“

                Í frétt Ríkisútvarpsins 11. janúar 2016, er sagt frá því að tveggja Íslendinga sé leitað í Suður-Ameríku. Íslenska lögreglan hafi með aðstoð Interpol, átt í samskiptum við lögregluyfirvöld í Paragvæ vegna leitarinnar. Mennirnir séu báðir um þrítugt. Annar þeirra sé grunaður um að hafa unnið hinum mein, annað hvort í Paragvæ eða Brasilíu og að ekki sé vitað um afdrif þeirra. Segir í fréttinni að samkvæmt heimildum fréttastofu hafi mennirnir verið viðriðnir fíkniefnaviðskipti og verið staddir ytra af þeim sökum. Vitað sé að annar mannanna hafi dvalið um skeið í Brasilíu en af honum hafi frést í Paragvæ fyrir nokkrum vikum. […].

                Hinn 14. janúar 2016 birtist á vefmiðli Ríkisútvarpsins frétt með fyrirsögninni Íslendingur sagður valdamikill dópsmyglari. Með umfjölluninni fylgir mynd af vegabréfi stefnanda sem tekin hafi verið frá fréttamiðlinum ABC color. Segir í frétt ríkisútvarpsins að Íslendingurinn Guðmundur Spartakus, sem ekkert hafi spurst til í rúm tvö ár, sé að sögn lögreglunnar í Paragvæ valdamikill eiturlyfjasmyglari með viðamikla starfsemi þar og í Brasilíu. Hann sé sagður notast við fölsk skilríki. Hann sé sagður þýskur fasteignasali sem stundi viðskipti í löndunum tveimur. Er í frétt ríkisútvarpsins vísað til greinar sem birst hafi í ABC color fréttamiðlinum í Paragvæ. Segir m.a. einnig í vefmiðli ríkisútvarpsins sem útvarpið kveðst hafa frá ABC fréttamiðlinum að íslenska lögreglan sé sögð leita Guðmundar í tengslum við hvarf annars Íslendings sem síðast hafi sést í Paragvæ og að Guðmundur sé talinn viðriðinn hvarf hans og blaðið sé væntanlega að vísa til máls Friðriks Kristjánssonar sem ekkert hafi spurst til síðan í mars 2013. Segir að heimildarmenn blaðamanns ABC úr röðum fíkniefnalögreglunnar í Brasilíu segi Guðmund einn höfuðpauranna á bak við umfangsmikið smygl kókaíns frá Suður–Ameríku til Evrópu og e-taflna frá Evrópu til Suður-Ameríku. Smyglið farið í gegnum Brasilíu. Segir einnig að brasilísku lögreglumennirnir bendi á að þeir hafi handtekið Brasilíumenn og Íslendinga sem taldir séu burðardýr á vegum Guðmundar Spartakus sem smygla hafi átt til Evrópu. Þá kemur fram á vefmiðli ríkisútvarpsins, að í frétt ABC color fréttamiðilsins sé rifjað upp að í júlí 2015 hafi brasilíska lögreglan handtekið brasilíska stúlku sem búsett væri í Lissabon, á flugvellinum í Rio de Janeiro og að í farangri hennar hafi fundist 46.000 e-pillur sem hún hafi átt að afhenda Brasilíumanni og Íslendingi. Í frétt Ríkisútvarpsins segir síðan að talið sé að „Guðmundur Spartakus sé einn höfuðpaura smyglhringsins sem teygir starfsemi sína til Salto del Guará, Concepión og brasilískra bæja við landamæri Brasilíu og Paragvæ“.

                Aðrir fjölmiðar á Íslandi fjölluðu einnig um málið, sbr. frétt sem birtist á vefmiðlinum visir.is 14. janúar 2016 og mbl.is 15. janúar 2016. Á vefmiðlinum visir.is 14. janúar 2016, er fjallað um stefnanda og umfjöllunin sögð byggð á fréttum sem birst hafi á ABC-fréttamiðlinum í Paragvæ með fyrirsögninni „Íslendingur sagður valdamikill eiturlyfjasmyglari á Suður-Ameríku“. Með fréttinni er mynd af stefnanda. Í fréttinni segir m.a. svo: „Íslendingurinn Guðmundur Spartakus, sem lögreglan í Paragvæ hefur leitað að í um tvö ár, er sagður valdamikill eiturlyfjasmyglari með starfsemi í Brasilíu og Mexíkó. Hann er sagður ábyrgur fyrir flutningi kókaíns og e-taflna til Evrópu og Suður-Ameríku.“ Í frétt mbl.is 15. janúar 2016, er stefnandi nafngreindur og hann sagður valdamikill smyglari. Segir þar m.a. að stefnandi hafi verið í samskiptum við Friðrik Kristjánsson og að grunur leiki á að Guðmundur Spartakus „hafi gert honum mein“.

                                                                                 III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi reisir ómerkingarkröfu sína á því að í frétt Hringbrautar sé honum gefin að sök margvísleg háttsemi sem varði við almenn hegningarlög.

                Í stafliðum A, B, C, D, G og H, í fyrri kröfulið stefnunnar, séu honum gefin að sök stórfelld fíkniefnabrot. Þá sé hann í staflið E sakaður um að villa á sér heimildir og nota til þess falsað vegabréf, sem teljist skjalfals samkvæmt íslenskum lögum. Loks sé hann, í staflið I, sakaður um að eiga aðild að mannshvarfi eða manndrápi og sagður afar hættulegur.

                Stefnandi telur að í hinum stefndu ummælum felist ásökun um refsiverð brot sem eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum og séu til þess fallin að meiða æru stefnanda.

                Telur stefnandi ásakanir stefnda alvarlegar og þær settar fram án þess að stefnandi hafi verið ákærður eða dæmdur fyrir þau brot sem honum eru gefin að sök. Stefnandi sé ekki með sakarferil eins og sakavottorð sem lagt hefur verið fram beri með sér.

                Hin umstefndu ummæli feli í sér ásökun um siðferðislega ámælisverða háttsemi er sé ósönnuð. Brot sem stefndi ásakar stefnanda um að hafa framið séu svívirðileg að áliti almennings og varði allt að ævilöngu fangelsi ef sök er sönnuð.

                Stefnandi telur öll ummæli stefnda ærumeiðandi aðdróttanir og fela í sér brot gegn 235. gr. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ómerkja ummælin með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Þá sé birting og dreifing ærumeiðandi ummæla sjálfstætt brot.

                Stefnandi telur að stefndi hafi vegið með alvarlegum hætti að æru hans. Stefndi hafi framið ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á. Virðing stefnanda hafi borið hnekki sem og æra hans og persóna. Réttur stefnanda til æruverndar njóti verndar 71. gr. stjórnarskrár, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Krafa stefnanda um miskabætur er reist á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, enda um að ræða skýr og ótvíræð brot á réttarreglum sem ætlað er að vernda æru stefnanda svo sem 235. gr. og 1. og 2. mgr. 236. gr. laga nr. 19/1940.

                Þá vísar stefnandi til 73. gr. um tjáningarfrelsi stefnda, en það falli utan marka stjórnarskrárvarins tjáningarfrelsis þegar brotið sé gegn réttindum eða mannorði annarra manna.

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi krefst sýknu og tekur fram að öll ummælin séu byggð á fréttum annarra fréttamiðla og séu nánast orðrétt höfð eftir því sem birt hafi verið annars staðar, t.d. frétt Ríkisútvarpsins. Tekið hafi verið fram í frétt Hringbrautar, að það sem birtist í fréttinni á Hringbraut hafi verið fullyrt í paragvæskum fjölmiðlum og á vef Ríkisútvarpsins. Telur stefndi þegar af þessari ástæðu að það beri að sýkna hann, enda hafi komið skýrt fram í frétt Hringbrautar að um væri að ræða upplýsingar frá öðrum miðlum.

                Stefndi vísar til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu, þar sem litið sé m.a. til þess hvort sá sem hafi ummæli eftir öðrum hafi fjarlægt sig frá ummælunum, þ.e.a.s. tekið fram að ummælin séu ekki hans, heldur höfð eftir öðrum. Í öðrum tilvikum hefur dómstólinn jafnvel talið réttlætanleg að slíkt sé ekki gert. Vísar stefndi í þessu sambandi til dóms MDE nr. 38432/97, frá 29. mars 2001, Thoma g. Lúxemborg.

                Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því að hann hafi verið í góðri trú um að efnið sem hann birti væri rétt. Mannréttindadómstóllinn hafi litið svo á að góða trú blaðamanns skuli meta út frá þeirri vitneskju og upplýsingum sem voru fjölmiðli aðgengilegar á þeim tíma sem umfjöllun birtist, sbr. dóm í máli Erlu Hlynsdóttur nr. 3. gegn Íslandi. Telur stefndi að þær upplýsingar sem hafi birst í paragvæskum fjölmiðlum og síðar á vef Ríkisútvarpsins hafi verið þess eðlis að það væri bæði réttur og skylda fjölmiðils að fjalla um þær. Stefndi tekur fram að paragvæskir fjölmiðlar hafi bæði nafngreint stefnanda og birt af honum myndir og af vegabréfi hans og tengt hann við að vera eiturlyfjasmyglari. Hafi stefndi ekki haft nokkra ástæðu til að efast um að umfjöllun erlendra miðla væri röng eða það sem birtist á vef Ríkisútvarpsins. Ummælin verði því ekki dæmd dauð og ómerk.

                Stefndi reisir sýknukröfu sína einnig á því að engin hinna umstefndu ummæla séu röng. Í efnislegri umfjöllun Hringbrautar hafi ekki annað komið fram en það að í öðrum fjölmiðlum væri verið að fullyrða eitt og annað um stefnanda. Slík ummæli geti ekki verið röng. Hæstiréttur Íslands hafi í nýlegum dómum áréttað að ummæli sem þannig séu sett fram, þ.e.a.s. sem vísi til annarra ummæla og tilvísana er séu rétt, séu sönn ummæli og því ekki andlag ómerkingar.

                Þá bendir stefndi á að stefnandi hafi ekkert gert til þess að koma á framfæri leiðréttingum eða skýringum, sérstaklega þegar honum sé ljóst að lögregla leiti hans.

                Stefndi mótmælir miskabótakröfu stefnanda. Hann hafi ekki framið ólögmæta meingerð gegn stefnanda með umfjöllun um hann, sbr. b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, enda hafi umfjöllunin ekki farið í bága við ákvæði 234., 235. eða 236. gr. almennra hegningarlaga. Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að umfjöllunin hafi skaðað hagsmuni hans, auk þess sem hann hafi verið þögull um málið. Hann hafi ekkert gert til þess að skýra mál sitt. Gera verði þá kröfu að stefnandi sanni að hann hafi orðið fyrir miska og í hverju hann sé fólginn og að háttsemi stefnda hafi verið saknæm. Engin tilraun hafi verið gerð til þess af stefnanda að sýna fram á ásetning stefnda um að skaða æru stefnanda eða að það hafi verið gert af slíku gáleysi að réttlæti greiðslu skaðabóta.

                                                                                 IV.

Eins og lýst er í kafla II. um málsatvik krefst stefnandi ómerkingar ummæla. Er sú krafa reist á 235. gr. og 2. mgr. 236. gr., sbr. 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Auk þess sem stefnandi telur að birting og dreifing ærumeiðandi ummæla sé sjálfstætt brot. Einnig krefst stefnandi greiðslu miskabóta með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi telur að með umfjöllun sinni hafi stefndi vegið með alvarlegum hætti að æru hans er njóti verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

                Stefndi  krefst sýknu og tekur fram að ummælin séu byggð á fréttum annarra fréttamiðla og séu nánast orðrétt höfð eftir því sem birt hafi verið annars staðar. Stefndi hafi fjarlægt sig frá ummælunum m.a. með því að geta þess að þau séu höfð eftir öðrum fjölmiðlum. Auk þess hafi stefndi verið í góðri trú um að efnið væri rétt. Þá séu engin hinna umstefndu ummæla röng. Þá mótmælir stefndi kröfu stefnanda um miskabætur.

                Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að hver maður eigi rétt á að láta í ljós skoðanir sínar, en að hann verði að ábyrgjast þær fyrir dómi. Ritskoðanir og aðrar tálmanir á tjáningarfrelsi megi þó aldrei í lög leiða. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins má tjáningarfrelsi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Þá er mælt fyrir um í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Verður því að skýra ákvæði XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem mælir fyrir um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs, með hliðsjón af þessu.

                Samkvæmt 234. gr. laga nr. 19/1940 skal hver sá sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum, og hver, sem ber slíkt út, sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

                Í 235. gr. laga nr. 19/1940 er mælt fyrir um að ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því, sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka aðdróttun út, þá varði það sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

                Þá segir í 236. gr. laga nr. 19/1940 að sé ærumeiðandi aðdróttun höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund, þá varði það fangelsi allt að 2 árum og sé aðdróttun birt eða borin út opinberlega, enda þótt sakaráberi hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda hana rétta, þá varði það sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

                Samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laganna má í meiðyrðamáli dæma óviðurkvæmileg ummæli ómerk, ef sá krefst þess sem misgert var við. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins má dæma þann sem sekur reynist um ærumeiðandi aðdróttun, til þess að greiða þeim, sem misgert var við, ef hann krefst þess, hæfilega fjárhæð til þess að standast kostnað af birtingu dóms, atriðisorða hans eða forsendna jafnframt eftir því sem ástæða þykir til, í opinberu blaði eða riti, einu eða fleirum. 

                Samkvæmt b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er heimilt að láta þann sem ber ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns
greiða miskabætur til þess sem misgert var við.

                Samkvæmt þessu þarf annars vegar að kanna hvort ummælin hafi verið óviðurkvæmileg og hins vegar hvort í þeim hafi falist ólögmæt meingerð gegn æru samkvæmt b-lið 26. gr. laga nr. 50/1993.

                Ummæli þau sem birtust á vefmiðlinum Hringbraut.is verður að meta hver um sig og í heild. Meginatriðið er að vefmiðillinn lýsir grunsemdum lögreglu í Brasilíu um að stefnandi taki þátt í að smygla eiturlyfjum, hann sé hættulegur og að nafn hans tengist hvarfi annars Íslendings. Er ljóst að í umfjöllun stefnda og annarra fjölmiðla um stefnanda er kveðið fast að orði og látið liggja að refsiverðri háttsemi stefnanda.  

                Við úrlausn á því hvort stefndi hafi með ummælum sínum vegið að mannorði stefnanda með ólögmætum hætti með því að birta og dreifa ærumeiðandi ummælum um hann verður að líta til þess á hvern hátt hin umdeildu ummæli voru sett fram. Í frétt stefnda er gerð grein fyrir því að fréttin væri byggð á frétt Ríkisútvarpsins, fréttum sem birst höfðu á ruv.is, mbl.is og fréttum sem hafi verið birtar í fjölmiðli ABC color í Paragvæ.

                Þegar stefndi birti ummæli þau sem krafist er ómerkingar á í máli þessu þann 15. janúar 2016, höfðu aðrir fjölmiðlar því fjallað efnislega um mál stefnanda. Telur dómurinn ljóst að umfjöllun stefnda sé efnislega hin sama um stefnanda og fram komi í frétt Ríkisútvarpsins 11. janúar 2016 og á vefmiðli útvarpsins þann 14. janúar s.á.

                Við mat á því hvar draga skuli mörkin milli tjáningarfrelsis sem nýtur verndar samkvæmt 73. gr. stjórnarskrár, og friðhelgi einkalífs, sem varin er af 71. gr. hennar, skiptir máli hvort það efni sem birt er geti talist þáttur í þjóðfélagslegri umræðu og eigi þannig erindi til almennings. Hafa fjölmiðlar mikilvægu hlutverki að gegna við miðlun upplýsinga og skoðana um þjóðfélagsleg málefni. Á almenningur rétt á að fá upplýsingar sem slík málefni varða og þurfa sérstaklega ríkar ástæður að vera fyrir því að skerðing á frelsi fjölmiðla geti talist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi eins og nánar kemur fram í dómum Hæstaréttar Íslands, m.a. dómi frá 15. nóvember 2012 í máli nr. 69/2012. Slíkar skerðingar geta eftir atvikum átt við séu ósönn ummæli birt eða borin út opinberlega gegn betri vitund. Umfjöllun stefnda um stefnanda fellur undir framangreint enda telst það hlutverk fjölmiðla að fjalla um alvarleg mál sem kunna að vera refsiverð.

                Með umfjöllun sinni tók stefndi ekki sérstaka afstöðu til sannleiksgildis fréttanna. Með hliðsjón af því að hinar umdeildu staðhæfingar byggðu á frásögn annarra fjölmiðla, telur dómurinn, eins og atvikum er háttað í máli þessu, að ekki sé unnt að leggja þá skyldu á stefnda eða gagnrýna hann fyrir að grennslast ekki sérstaklega fyrir um sannleika hinna umdeildu staðhæfinga. Er ekki unnt að slá því föstu að stefndi hafi vitað að ummælin væru ósönn eða borin út opinberlega gegn betri vitund.

                Þegar alls þessa er gætt verður ekki talið að stefndi hafi með umfjöllun sinni vegið svo að æru stefnanda að það hafi farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Af þessu leiðir að stefnandi geti ekki átt rétt á bótum samkvæmt b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

                Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 90/2003, er stefnandi dæmdur til að greiða stefnda, 650.000 krónur í málskostnað.

                Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

                                                               DÓMSORÐ:

Stefndi, Sigmundur Ernir Rúnarsson, er sýknaður af kröfum stefnanda, Guðmundar Spartakusar Ómarssonar, í máli þessu.

                Stefnandi greiði stefnda 650.000 krónur í málskostnað.