Print

Mál nr. 461/2001

Lykilorð
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Tjáningarfrelsi
  • Kynþáttamisrétti

Miðvikudaginn 24

 

Miðvikudaginn 24. apríl 2002.

Nr. 461/2001.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Hlyni Frey Vigfússyni

(Örn Clausen hrl.)

 

Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Tjáningarfrelsi. Kynþáttamisrétti.

H var ákærður fyrir brot gegn 233. gr. a almennra hegningarlaga fyrir að hafa með tilteknum ummælum í viðtali í helgarblaði DV opinberlega ráðist með háði, rógi og smánun á hóp ónafngreindra manna vegna þjóðernis, litarháttar og kynþáttar þeirra. Talið var að meta yrði hvort gengi framar, tjáningarfrelsi H eða réttur manna til þess að þurfa ekki að þola árásir vegna þjóðernis þeirra, litarháttar eða kynþáttar. Fallist var á að ummæli H í umræddu viðtali væru alhæfingar, sem ekki væru studdar neinum rökum, enda væru vandfundin rök fyrir yfirburðum á grundvelli kynþáttar. Þegar viðtalið væri virt í heild yrði að telja að með ummælum H væri leitast við að upphefja hvíta menn á kostnað manna af öðrum litarhætti með háði, rógi og smánun. Voru ummæli H því talin fela í sér háttsemi sem félli skýrlega að verknaðarlýsingu 233. gr. a almennra hegningarlaga. Lagaákvæðinu væri ætlað að koma í veg fyrir kynþáttamisrétti og kynþáttahatur og markmið þess væri því lögmætt. Þá þóttu þær skorður sem ákvæðið setur tjáningarfrelsi nauðsynlegar og samrýmast lýðræðishefðum. Var því niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu H staðfest með skírskotun til forsendna dómsins að öðru leyti. Ummæli H voru ekki talin léttvæg í því samhengi sem þau voru fram sett en við ákvörðun refsingar var þó var haft í huga að H hafði ekki haft frumkvæði að viðtalinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.

Málinu var áfrýjað 19. desember 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar er lög leyfa, en ella staðfestingar á refsiákvörðun héraðsdóms.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi og eru þau ágreiningslaus.

I.

Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti var því lýst af hálfu ákæruvalds, að af lögskýringargögnum 233. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 96/1973, mætti sjá að verknaðarlýsing ákvæðisins fælist í hugtökunum „með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt“. Þannig væri hin refsiverða háttsemi, árásin eða atlagan, fólgin í því að hæða, rægja eða smána eins og þar nánar greinir. Af hálfu ákæruvalds var jafnframt lögð áhersla á það, að tjáningarfrelsið mætti aðeins skerða að uppfylltum þeim þremur skilyrðum, sem greind væru í 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu með síðari breytingum, að það væri gert með lögum, að markmiðið væri lögmætt og að skerðingin væri nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Ekki væri deilt um að fyrstu tvö skilyrðin væru hér uppfyllt, en deilt væri um hið þriðja. Af ákvörðunum Mannréttindanefndarinnar og Mannréttindadómstóls Evrópu mætti þó ljóst vera, að tjáningarfrelsið mætti ekki hagnýta til þess að níðast á öðrum réttindum manna og að löggjöf gegn kynþáttamisrétti væri nauðsynleg í lýðræðisríki til þess að vernda minnihlutahópa, annars væri í raun ekki um lýðræðisríki að ræða.

Ákærði leggur áherslu á að mál þetta snúist um það, hvort ummæli þau sem ákært hafi verið fyrir, séu þess eðlis að honum beri að refsa fyrir þau, þrátt fyrir ákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hann telur sig ekki með ummælunum hafa farið út fyrir þau réttindi, sem honum séu tryggð í framangreindum ákvæðum. Hann segir ástæðuna fyrir ummælum sínum meðal annars hafa verið að finna í danskri heimildarmynd um vandamál Afríku, sem sýnd hafi verið í íslenska ríkissjónvarpinu 1998 og nefnist „Heimsálfan sem svaf yfir sig“. Hann vísar til dómaframkvæmdar erlendis. Danskir dómar sýni að þar í landi þurfi ummæli manna að vera mun sterkari og meira afgerandi en þau sem hér hafi verið ákært fyrir, til þess að refsað verði, enda hafi Mannréttindadómstóllinn í Strassborg ítrekað tekið þá afstöðu í dómum sínum að skerðing á tjáningarfrelsi fyrir væg ummæli sé ekki nauðsynleg í lýðræðislegu samfélagi.

II.

Dómarar Hæstaréttar hafa skoðað á myndbandi heimildarmynd þá, sem sýnd var í íslenska ríkissjónvarpinu og ákærði kveður hafa verið tilefni ummæla sinna. Við munnlegan málflutning fyrir réttinum var sýnt með gögnum um mannfjölda á Íslandi að 31. desember 2001 hefðu íbúar hér á landi, sem fæddir væru í Afríku, verið 541.

Ákærði á rétt til skoðana sinna og að láta þær í ljós samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr. 73. stjórnarskrárinnar, eins og henni var breytt með 11. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, sbr. einnig 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Skorður verða ekki settar við frelsi áfrýjanda til skoðana sinna um þjóðerni, litarhátt og kynþætti manna og því aðeins samkvæmt 3. mgr. 73. greinar við frelsi hans til að tjá þær opinberlega að nauðsyn beri til í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda sé það gert með lögum og samrýmanlegt lýðræðishefðum. Andspænis tjáningarfrelsi ákærða stendur réttur manna til þess að þurfa ekki að þola árásir vegna þjóðernis þeirra, litarháttar eða kynþáttar, sem varinn er af 233. gr. a almennra hegningarlaga með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Verður þannig að meta, eins og héraðsdómari hefur gert, hvort gangi framar, frelsi hans samkvæmt 2. mgr., sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar til að láta ummælin uppi í opinberri umræðu eða réttur þeirra sem fyrir atlögum hans verða, án þess að hafa nokkuð til þess unnið.

Fallast ber á það með héraðsdómi að ummæli ákærða í DV 17. febrúar 2001 séu alhæfingar, sem ekki séu studdar neinum rökum, enda munu vandfundin rök fyrir yfirburðum á grundvelli kynþáttar. Enda þótt ekki verði fullyrt að orðið negri sé út af fyrir sig niðrandi í íslensku máli verður, þegar dagblaðsviðtalið er lesið í heild og ummæli ákærða virt í því samhengi, að telja að með þeim sé leitast við að upphefja hvíta menn á kostnað manna af öðrum litarhætti með háði, rógi og smánun. Ummæli ákærða fela því í sér háttsemi sem fellur skýrlega að verknaðarlýsingu 233. gr. a almennra hegningarlaga. Lagaákvæðinu er ætlað að koma í veg fyrir kynþáttamisrétti og kynþáttahatur og er markmið þess því lögmætt og þær skorður sem það setur tjáningarfrelsi nauðsynlegar og samrýmast lýðræðishefðum. Verður því niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða staðfest með skírskotun til forsendna hans að öðru leyti.

Ummæli ákærða verða ekki talin léttvæg í því samhengi sem þau eru fram sett, en hafa ber í huga að hann hafði ekki frumkvæði að viðtalinu. Með vísan til þeirra atriða er í héraðsdómi greinir að öðru leyti telst refsing ákærða hæfilega ákveðin 100.000 króna sekt í ríkissjóð, sem ákærði skal greiða innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins en sæta ella fangelsi í 20  daga.

Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

Dómsorð:

Ákærði, Hlynur Freyr Vigfússon, greiði 100.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 20 daga.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 17. október sl., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 18. apríl 2001 á hendur Hlyni Frey Vigfússyni, kt. 281278-4879, Teigaseli 4, Reykjavík, fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, með því að hafa í viðtali sem ber yfirskriftina „Hvíta Ísland“ og birtist í helgarblaði DV er út kom í Reykjavík laugardaginn 17. febrúar 2001, opinberlega ráðist með háði, rógi og smánun á hóp ónafngreindra manna vegna þjóðernis, litarháttar og kynþáttar þeirra, með eftirfarandi ummælum sem er að finna undir millifyrirsögninni „Afríkunegri og Íslendingur“ í kjölfar spurningar blaðamanns: „...Það þarf engan snilling eða erfðafræðivísindamann til að sýna fram á hver munurinn er á Afríkunegra með prik í hendinni eða Íslendingi. Vestrænar þjóðir vorkenna Afríkubúum mjög mikið en þeir búa þarna í gróðursælustu álfu heims og gætu framleitt sex sinnum meira af mat en þeir þurfa ef þeir nenntu því. Við búum hér á grjóthnullungi, höfum ekkert nema fiskinn og klakann og höfum það bara stórfínt á meðan þeir nenna ekki að berja af sér flugurnar...“

Þessi ummæli ákærða eru talin varða við 233. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 96/1973 og 2. gr. laga nr. 135/1996.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu ákærða er þess krafist að hann verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði þar með talin hæfileg málsvarnarlaun til verjanda að mati dómsins. Til vara er þess krafist að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa.

Málsatvik

Upphaf máls þessa er það að hinn 17. febrúar sl. birtist í helgarblaði DV umfjöllun um Félag íslenskra þjóðernissinna og viðtal við Hlyn Frey Vigfússon, ákærða í máli þessu.  Mynd af ákærða var slegið upp á forsíðu blaðsins undir fyrirsögninni „Hvíta Ísland” og viðtalið og umfjöllunin náði yfir miðopnu.  Í viðtalinu sagði ákærði frá Félagi íslenskra þjóðernissinna, en hann er varaformaður þess, tilgangi félagsins og þeim skoðunum sem félagið stendur fyrir.  Samkvæmt því er kemur fram í viðtalinu er markmið félagsins að stöðva innflutning á fólki af öðrum uppruna en evrópskum til Íslands.  Einnig er lýst skoðunum um yfirburði hvíta kynstofnsins og nauðsyn þess að vernda  hann.  Vegna ummæla er koma fram undir lok viðtalsins, undir fyrirsögninni „Afríkunegri og Íslendingur”, fór ríkissaksóknari þess á leit við lögreglustjórann í Reykjavík að skýrsla yrði tekin af ákærða vegna hugsanlegra brota hans gegn 233. gr. a almennra hegningarlaga.  Í bréfi ríkissaksóknara, sem dagsett er 8. mars sl., var lagt fyrir lögreglu að yfirheyra ákærða um hvernig staðið hefði verið að viðtalinu, hvort ákærða hefði verið ljóst að það hefði verið ætlað til birtingar í DV og sérstaklega hvort greind ummæli væru hans og rétt eftir honum höfð.  Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 21. mars sl. og í kjölfar þess var gefin út ákæra á hendur honum vegna brots gegn 233. gr. a almennra hegningarlaga.  Ummæli þau er ákært er fyrir eru tekin upp í ákæru hér að framan.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dómi ákærði Hlynur Freyr Vigfússon og Páll Ásgeir Ásgeirsson blaðamaður á Dagblaðinu.

Ákærði neitaði sök.  Hann kvað ummæli þau sem ákært er fyrir vera efnislega rétt eftir sér höfð en kvað hugsanlegt að hann hefði gert einhverjar athugasemdir við málfarið, „reynt að orða þetta einhvern veginn betur”,  ef hann hefði lesið viðtalið yfir áður en það var birt.  Þetta væri „svolítið hrátt” eins og það birtist en efnislega rétt.  Ákærði kvaðst aðspurður ekki telja að blaðamaðurinn væri þarna að leggja sér orð í munn.  Aðspurður hvort hann hefði áskilið sér rétt til að lesa greinina yfir kvað ákærði systur sína hafa lesið hana yfir en hann hefði verið úti á sjó og faxtækið um borð hefði verið bilað.  Úr því hann hefði ekki getað lesið viðtalið yfir hefði systir hans gert það í staðinn.  Hún hefði gert einhverjar athugasemdir.  Aðspurður um tildrög viðtalsins kvað ákærði blaðamanninn, Pál Ásgeir Ásgeirsson, hafa haft samband við sig að fyrra bragði og beðið um viðtal.  Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að um forsíðuviðtal væri að ræða fyrr en ljósmyndarinn hefði misst það út úr sér við myndatökuna eftir viðtalið.  Þetta hefði verið miklu stærra viðtal en hann hefði gert sér grein fyrir. Aðspurður um markmið Félags íslenskra þjóðernissinna kvað ákærði það vera aðalmarkmiðið að „reyna að vernda Ísland fyrir plágum sem hafa gengið yfir önnur Evrópulönd í formi mikils innflutnings á láglaunavinnuafli og kemur þá út í mikilli hnignun samfélagsins”.  Markmiðið væri að bæta meðferð þessara mála hér á landi og fá umræðuna í gang.  Aðspurður kvað ákærði það rétt eftir sér haft í viðtalinu að hann væri ekki haldinn fordómum.  Hann og félagar hans segðu ekkert nema að vera búnir að kynna sér málið fyrst.  Hann kvaðst hafa kynnt sér töluvert um Afríku og hvernig ástandið væri þar og þekkja fólk sem hefði reynt að vera þar með atvinnurekstur.  Ákærði kvaðst standa við ummæli þau sem hann væri ákærður fyrir og ekki sjá eftir þeim.

Vitnið Páll Ásgeir Ásgeirsson, blaðamaður á DV, kvaðst telja að um gagnkvæman skilning hefði verið að ræða á milli hans og ákærða um að ákærði hefði ekki tök á að lesa viðtalið yfir.  Viðtalið hefði farið fram á miðvikudegi og ákærði hefði verið að fara út á sjó daginn eftir og óljóst hefði verið hvort hægt yrði að hafa samband við skipið.  Vitnið kvaðst engu að síður hafa sent viðtalið á faxnúmer skipsins en einnig til systur ákærða, sem búi í Grundarfirði.  Símtöl sem hann hefði átt við hana, ákærða og föður ákærða síðdegis á fimmtudegi og á föstudegi hefðu ekki gefið annað til kynna en að öll hefðu lesið viðtalið yfir.  Vitnið kvaðst hafa skilið ákærða þannig í símtali á föstudagsmorgninum að ef hann hefði ekki lesið viðtalið yfir væri hann a.m.k. mjög vel kunnugur innihaldi þess. Vitnið kvað venjulega ekki samið við viðmælendur um hvort viðtal yrði forsíðuviðtal eða ekki, það kæmi viðkomandi yfirleitt „þægilega á óvart.”  Hann kvaðst ekki vita hvenær ákærða hefði orðið umfang viðtalsins ljóst og hann hefði ekki verið viðstaddur þegar myndir hefðu verið teknar af ákærða.  Aðspurður um ástæður þess að hann hefði haft samband við ákærða og beðið um viðtal kvað vitnið það hafa verið mat hans og samstarfsmanna hans á þeim tíma að félagsskapur í kringum skoðanir eins og ákærði stæði fyrir væri nokkuð nýmæli og í krafti þess að fjölmiðlum væri ætlað að vera spegill samfélagsins hefði verið ákveðið að ræða við fulltrúa þessara skoðana og greina fólki frá þeim.  Félagið hefði verið í umræðunni vikurnar á undan vegna nýrrar heimasíðu þess og hefði verið að kynna sín sjónarmið með óvenju áberandi hætti.  Vitnið kvað það rétt að hann hefði stjórnað spurningunum og beðið um svör við þeim.  Viðtalið hefði verið tekið upp á segulband og ganga mætti út frá því að orðrétt væri haft eftir viðmælanda það sem væri innan gæsalappa.  Nánar aðspurður um orðalag þess kafla sem ákært er vegna sagði vitnið að ef þetta væri innan gæsalappa þá hefði ákærði sagt þetta en hugsanlega væru gerðar smávægilegar breytingar til að breyta talmáli í bókmál.  Vitnið kvað örugglega ekkert í viðtalinu vera frá sér komið.  Aðspurður hvort systir ákærða hefði óskað eftir að eitthvað yrði fellt út kvað vitnið hana ekki hafa viljað hafa nafn sitt og föður þeirra í greininni en vitnið kvaðst hafa dregið fram fjölskyldutengsl innan félagsins.

Málsástæður

Af hálfu ákæruvaldsins var vísað til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands um að virða meginreglur mannréttindahugsunarinnar um göfgi og jafnrétti allra manna með því meðal annars að koma í veg fyrir mismunun manna á grundvelli kynþáttar, litarháttar eða þjóðernis, enda væri sú vanvirðing sem í slíku hátterni felist ósamrýmanleg hverju siðuðu mannlegu samfélagi. 233. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 96/1973, hefði verið sett í þeim tilgangi að tryggja þetta markmið í samræmi við skyldur Íslands samkvæmt ýmsum tilgreindum alþjóðasáttmálum, sérstaklega Alþjóðasamningi um afnám alls kynþáttamisréttis.  Þetta kæmi skýrt fram í greinargerð með ákvæðinu. Þessi markmið væru einnig áréttuð í 65. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sbr. 11. gr. laga nr. 97/1995.

Sækjandi vék einnig að tjáningarfrelsi í málflutningi sínum og benti á að það væri háð þeim takmörkunum sem nauðsynlegar væru í lýðræðis þjóðfélagi til þess að vernda m.a. réttindi og mannorð annarra. Með málflutningi eins og þeim sem ákærði hefði gerst sekur um væri greinilega brotið gegn réttindum og mannorði annarra þannig að réttlætti skerðingu á tjáningarfrelsinu. Slíkur málflutningur væri til þess fallinn að stuðla að mótun þessara skoðana í samfélaginu.  Það væri skylda ríkisins að grípa í taumana ef kynþáttafordóma yrði vart og hindra að þeir fengju óheftir að grafa um sig. Sagan sýndi að slíkt gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og nefndi ákæruvaldið Helför Gyðinga í seinni heimstyrjöldinn sem dæmi. Nýleg dæmi væru einnig um hvernig hatursfullur málflutningur gæti leitt til voðaverka og nefndi þar til hryðjuverkin í Bandaríkjunum. Minnti sækjandi ennfremur á 17. gr. Mannréttinda­sáttmála Evrópu. Í henni fælist að engin túlkun á réttindaákvæðum samningsins skyldi leiða til skerðingar á öðrum grundvallarréttindum sáttmálans. Það dygði því ekki að vísa til tjáningarfrelsis ef það leiddi til þess að aðrar grundvallarreglur væru virtar að vettugi.

Ákæruvaldið taldi að allar þær skoðanir sem ákærði léti þarna í ljósi væru efnislega rangar, siðferðilega rangar og félagslega hættulegar. Ákærði hefði ráðist opinberlega gegn ótilgreindum hópi með því að halda því fram að allir sem búi í Afríku væru svo latir að þeir gætu ekki séð sér farborða, en við Íslendingar hefðum þessa yfirburði. Með því að viðra slíkar skoðanir í dagblaði hefði ákærði ráðist opinberlega með háði og rógi gegn þeim hópi manna sem býr í Afríku. Slík háttsemi bryti gegn banni við hvers kyns kynþáttamismunun og tilvitnuðu ákvæði refsilaga og hefði ákærði með þessu unnið sér til refsingar.

Verjandi byggði sýknukröfu sína á því að orð þau sem ákært er vegna væru ekki þess eðlis að varði refsingu. Taldi verjandi ummæli ákærða ekki sambærileg orðalagi sem refsað hefur verið fyrir á Norðurlöndum, samanber danska dóma sem lagðir voru fram í málinu. Því væri ekki neitað að efnislega væri rétt haft eftir ákærða, en hann hefði þó ekki sjálfur lesið greinina yfir áður en hún var birt. Fyrirsögn þess kafla sem hin kærðu ummæli væru tekin úr væri blaðamannsins, en þar lýsi ákærði skoðun sinni á ástandinu í Afríku. Hann hefði m.a. mótað þessar skoðanir af því að horfa á danska heimildamynd sem sýnd hefði verið í Ríkissjónvarpinu „Heimsálfan sem svaf yfir sig.” Því væri neitað að ákærði hefði með ummælum sínum ætlað að lítilsvirða Afríkubúa. Sagði verjandinn að sýndar væru í íslenska sjónvarpinu myndir af mönnum sem ekki berðu af sér flugur og kvað það ekki geta verið bannað að tjá sig um það sem menn sæju í sjónvarpinu, þá gæti ekki verið refsivert að nota orðið „negri.”

Ákærði hefði rétt til tjáningarfrelsis og hefði hann ekki farið út fyrir þann rétt sinn. Það hefði verið vitað að ákærði væri í félagi þar sem tilteknar skoðanir væru hafðar uppi. Hefði blaðamaðurinn átt frumkvæðið að viðtalinu í þeim tilgangi að segja frá þessum félagsskap og ákærði hefði látið til leiðast.  Ákærði hefði einungis verið að svara spurningum sem fyrir hann hefðu verið lagðar af blaðamanninum.

Niðurstaða

Ákærði staðfesti fyrir dóminum að ummælin væru efnislega rétt eftir honum höfð og kvaðst enga athugasemd gera við orðalagið. Hann kvaðst ekki óska eftir að draga ummælin til baka og ekki iðrast þeirra, og kvaðst hafa heimildir fyrir fullyrðingum sínum. Þykir með þessu vera fram komin fullnægjandi sönnun fyrir því að ákærði hafi af ásetningi viðhaft þau ummæli sem ákært er vegna.

Dagblöð eru vettvangur opinberrar umræðu. Ummæli ákærða voru viðhöfð í viðtali sem birtist í dagblaði og þar með opinberlega. Ákærða gat auk þess ekki dulist eftir samtal við ljósmyndara blaðsins, sem hann sjálfur ber um, að viðtalinu yrði slegið sérstaklega upp og að sérstök athygli yrði þannig vakin á orðum hans.

Ákært er fyrir brot á 233. gr. a almennra hegingarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, sbr. 1. gr. laga nr. 96/1973, en greinin er svohljóðandi: „Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum.” Ekki eru fordæmi hér á landi fyrir beitingu þessarar greinar, en dómar hafa fallið á Norðurlöndum vegna brota gegn sambærilegum ákvæðum sem og á alþjóðlegum vettvangi.

Í athugasemdum frumvarps með framangreindu ákvæði er vísað til og rakin markmið og ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og samninga þar sem hvers konar mismunun vegna þjóðernis, kynþáttar eða trúarbragða er fordæmd, og sérstaklega fjallað um Alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis frá 21. desember 1965, sem fullgiltur var af Íslands hálfu 13. mars 1967, sbr. lög nr. 14/1968. Samkvæmt 4. gr. þess samnings skuldbinda aðildarríkin sig m.a. til að fordæma „hvers konar áróður og samtök manna, sem byggja á því, að tiltekinn kynþáttur sé öðrum fremri og eigi að njóta forréttinda af þeim sökum. Ríkin binda sig til að setja lög, er lýsi refsiverða hvers konar starfsemi, sem útbreiðir skoðanir um yfirburði eins kynþáttar yfir öðrum eða yfirleitt varði kynþáttahatur, svo og starfsemi, sem hvetji til kynþáttamismununar eða til ofbeldisverka gagnvart kynþætti eða tilteknum hópi manna vegna litarháttar þeirra og þjóðernis ….” Lögð er áhersla á það að með frumvarpinu sé Ísland að uppfylla skyldur sínar samkvæmt þessum samningi og öðrum alþjóðlegum sáttmálum, svo sem hverju því ríki beri að gera „sem vill halda í heiðri og treysta almenn mannréttindi.” Einnig er vísað til hinnar almennu jafnréttisreglu sem þá þegar var talin með meginreglum stjórnskipunarinnar þótt óskráð væri. Við túlkun 233. gr. a almennra hegningarlaga nú ber að hafa í huga jafnræðisreglu 11. gr. stjónsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrárinnar eins og henni var breytt með 3. gr. laga nr. 97/1995 og grundvallarsjónarmið alþjóðlegra skuldbindinga á sviði mannréttinda, einkum Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sem hafa að leiðarljósi að allir menn eru jafnir án tillits til litarháttar, kynþáttar, þjóðernis, kyns eða trúar.

Blaðaviðtalið þar sem ummæli ákærða birtust bar yfirskriftina „Hvíta Ísland” og voru þau höfð innan gæsalappa, undir fyrirsögninni „Afríkunegri og Íslendingur.” Yfirskrift og fyrirsagnir eru blaðamannsins. Ummælin eru þessi: „...Það þarf engan snilling eða erfðafræðivísindamann til að sýna fram á hver munurinn er á Afríkunegra með prik í hendinni eða Íslendingi. Vestrænar þjóðir vorkenna Afríkubúum mjög mikið en þeir búa þarna í gróðursælustu álfu heims og gætu framleitt sex sinnum meira af mat en þeir þurfa ef þeir nenntu því. Við búum hér á grjóthnullungi, höfum ekkert nema fiskinn og klakann og höfum það bara stórfínt á meðan þeir nenna ekki að berja af sér flugurnar...“

Ákærði er varaformaður félagsskapar sem nefnir sig Félag íslenskra þjóðernissinna og hefur það að markmiði, samkvæmt framburði ákærða fyrir dómi, að reyna að vernda Ísland fyrir plágum sem hafa gengið yfir önnur Evrópulönd í formi mikils innflutnings á láglaunavinnuafli sem komi út í mikilli hnignun samfélagsins. Í blaðaviðtalinu segir hann að markmið félagsins sé að stöðva innflutning á fólki af öðrum uppruna en evrópskum til Íslands og þar er lýst skoðunum um yfirburði hvíta kynstofnsins og nauðsyn þess að vernda hann. Þegar mat er lagt á það hvort ummæli ákærða séu refsiverð verður að skoða þau í þessu samhengi og í ljósi tilgangs lagaákvæðisins sem ákært er samkvæmt og hér að framan var lýst.

Hin kærðu ummæli ákærða eru röng og niðrandi alhæfing. Hann stillir upp sem andstæðum svörtum lötum Afríkubúum og hraustum hvítum Íslendingum og lætur að því liggja að um eðlislægan mun sé að ræða. Orð hans lýsa því kynþáttafordómum. Þau eru einnig háðsk og fávísleg í garð þeirra fjölmörgu einstaklinga sem byggja Afríku, og svartra kynþátta almennt. Dómurinn hefur horft á danska heimildamynd „Heimsálfan sem svaf yfir sig” sem sýnd var í sjónvarpinu árið 1998. Ákærði vísaði til þessarar myndar hjá lögreglu og hún var nefnd í varnarræðu verjanda sem dæmi um efni sem sýnt væri í ríkisfjölmiðli hér og lýsti því sama og ákærði segði. Það er mat dómsins að sú skýring sé langsótt sé þessi heimildarmynd virt í heild sinni. Getur dómurinn ekki fallist á það að einhliða alhæfingar ákærða beri að skoða sem sambærilegt efni. Alkunna er að ensku orðin „negro” og „nigger” tengjast sögulega þrælahaldi og aðskilnaðarstefnu. Vegna þessa hafa blökkumenn beggja vegna Atlantshafsins farið fram á að vera ekki ávarpaðir með þessum orðum og tengja notkun þeirra kynþáttahatri. Orðið „negri” er bein þýðing á þessum orðum og hefur því niðrandi blæ. Íslenska sem önnur tungumál gerir okkur kleift að orða hugsanir okkar á ýmsa vegu og við vekjum ólík hughrif með þeim orðum sem við veljum. Ummælin „afríkunegri með prik í hendinni” og þau að Afríkubúar „nenni ekki að berja af sér flugurnar” eru niðrandi og bera háð og róg í garð svartra manna. Sama er að segja um hin kærðu ummæli í heild þegar þau eru virt í samhengi sínu og í ljósi þess markmiðs félags ákærða, sem viðtalið fjallar um, að fólki með dökkan hörundslit verði ekki leyfð búseta á Íslandi. Þykir hann með hinum kærðu ummælum hafa sýnt lítilsvirðandi háttsemi af því tagi sem fjallað er um í 233. gr. a almennra hegningarlaga.

Kemur þá til athugunar hvort háttsemi ákærða er vernduð af stjórnarskrár­bundnu tjáningarfrelsi hans samkvæmt 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 11. gr. laga nr. 97/1995, samanber einnig 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu lög nr. 62/1994, og hvort það leiði til þess að honum verði ekki refsað fyrir ummælin. Tjáningarfrelsi samkvæmt þessum ákvæðum er ekki skilyrðislaust. Takmörkun þess felst m.a. í því að menn verða að ábyrgjast framsetningu skoðana sinna fyrir dómi og í því að tjáningarfrelsinu má setja sérstakar skorður til verndar ákveðnum gildum, m.a. vegna „réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist [takmarkanirnar] nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum,” sbr. 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Í 17. gr. Mann­réttindasáttmála Evrópu er áréttað að ekkert ákvæði hans verði túlkað á þann veg að það heimili að öðrum réttindum sem með honum eru tryggð verði eytt eða þau takmörkuð. Virðing fyrir mannlegri reisn allra manna jafnt er sá grundvöllur sem alþjóðlegir mannréttindasáttmálar og stjórnarskrár lýðræðisríkja byggja á og vernda og þeirri vernd verður ekki vikið til hliðar með vísan til tjáningarfrelsisákvæðisins, samanber einnig undantekningarákvæði þess. Háttsemi sem brýtur gegn löggjöf sem sett er til að vernda einstaklinga og hópa fólks fyrir kynþáttafordómum og kynþáttahatri verður því ekki réttlætt með vísan til tjáningarfrelsis.

Hin kærðu ummæli þykja fela í sér háð og róg um fólk af tilteknu þjóðerni og litarhætti og þau eru sett fram á opinberum vettvangi. Jafnræði fólks án tillits til litarháttar og þjóðernis, kynþáttar, kynhneigðar eða trúarbragða er lögfest grundvallarregla sem byggist á virðingunni fyrir mennskunni. Þótt tjáningarfrelsið sé jafnframt eitt af mikilvægustu réttindum manna og stoðum lýðræðisins, er orðanotkun sem lýsir kynþáttahatri eða fordómum á opinberum vettvangi ekki refsilaus. Með vísan til ofangreindra lagaraka þykir ákærði hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi með ummælum sínum og er hún réttilega heimfærð til refsiákvæðis í ákæru.

Refsiákvörðun

Ákærði er fæddur árið 1978, hann hefur ekki áður sætt refsingu. Við ákvörðun refsingar er litið til þess að hann viðhafði ummæli sín sem forsvarsmaður og talsmaður Félags íslenskra þjóðernissinna. Á hinn bóginn er rétt að líta til þess við ákvörðun refsingar að ummælin sjálf eru ekki gróf eða mjög alvarleg, sem og til þess að ákærði er ungur að aldri og hefur ekki sakarferil. Þá átti hann ekki sjálfur frumkvæði að viðtalinu. Skal honum gert að greiða 30.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins en sæta ella fangelsi í 6 daga.

Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, 70.000 krónur.

Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Sigríði J. Friðjónsdóttur saksóknara.

Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Hlynur Freyr Vigfússon, greiði 30.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins en sæti ella fangelsi í 6 daga.

Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, 70.000 krónur.