Print

Mál nr. 444/2009

Lykilorð
  • Ráðningarsamningur
  • Kjarasamningur
  • Uppsögn
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta

                                                        

Fimmtudaginn 25. mars 2010.

Nr. 444/2009.

Brynja Eir Thorsdóttir

(Hanna Lára Helgadóttir hrl.)

gegn

Icelandair ehf.

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

Ráðningarsamningur. Kjarasamningur. Uppsögn. Kröfugerð. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.

B, er starfaði sem flugfreyja hjá I ehf., var sagt upp störfum hjá félaginu ásamt fjölda annarra starfsmanna. Hún fékk greidd laun í kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti en var leyst undan vinnuskyldu. B taldi uppsögn sína ólögmæta og krafðist skaða- og miskabóta úr hendi I ehf., auk þess að viðurkenndur yrði réttur hennar til frímiða hjá félaginu í tilgreindan tíma. Með dómi héraðsdóms var talið að B hefði ekki fært fram fullnægjandi rök fyrir því að uppsögn hennar eða önnur háttsemi I ehf. í tengslum við hana hefði verið ólögmæt. Bótaskyldu var því hafnað og I ehf. sýknað í málinu. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms að öðru leyti en því að vísa frá héraðsdómi kröfu B um rétt hennar til frímiða hjá I ehf. þar sem talið var að sú krafa uppfyllti ekki skilyrði d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. ágúst 2009. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér bætur að fjárhæð 3.900.372 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. september 2008 til greiðsludags og að viðurkenndur verði „réttur áfrýjanda til frímiða“ hjá stefnda í 8,5 ár frá 1. nóvember 2008. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Krafa áfrýjanda um að viðurkenndur verði réttur hennar til frímiða hjá stefnda í tilgreindan tíma, sem hún segir reista á ákvæði í kjarasamningi, hefur ekki verið skýrð að efni til af hennar hálfu. Ekkert liggur því fyrir um inntak þeirra réttinda, sem um er krafið. Krafa áfrýjanda uppfyllir að þessu leyti ekki skilyrði d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og verður því vísað frá héraðsdómi.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann að öðru leyti staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Vísað er frá héraðsdómi kröfu um viðurkenningu á rétti áfrýjanda, Brynju Eirar Thorsdóttur, til frímiða hjá stefnda, Icelandair ehf., í 8,5 ár frá 1. nóvember 2008.

Hinn áfrýjaði dómur skal að öðru leyti vera óraskaður.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, 350.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 28. apríl sl., var höfðað 4. desember 2008 af Brynju Eir Thorsdóttur, Hamratanga 9, Mosfellsbæ, gegn Icelandair ehf., Reykja­víkur­flugvelli í Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 3.900.372 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. september 2008 til greiðsludags. Jafnframt er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í samræmi við 12. gr. sömu laga, í fyrsta sinn 15. september 2009. Krafist er að viðurkenndur verði réttur stefnanda til frímiða hjá stefnda í 8,5 ár frá 1. nóvember 2008, þ.e. hlutfall af unnum tíma, sbr. kjarasamning milli FFÍ og stefnda, grein 08.02., en réttur þessi er ekki metinn til fjár í kröfugerð. Þess er einnig krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts af mál­flutnings­þóknun.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að þær verði lækkaðar. Krafist er að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.

Af hálfu stefnanda var lögð fram endanleg kröfugerð við upphaf aðal­meðferðar og er hún eins og að ofan greinir. Af hálfu stefnda var því mótmælt að sú kröfugerð kæmist að í málinu þar sem þar væri að hluta til um nýja kröfu að ræða. Viðurkenningarkrafa stefnanda kemur fram í stefnu þótt hún sé ekki talin í þeim kafla stefnunnar þar sem aðrar kröfur stefnanda eru tilgreindar. Engar athuga­semdir komu fram í greinargerð stefnda varðandi þessa framsetningu á kröfugerð stefnanda. Með tilliti til þess verður að líta svo á að krafan hafi verið nægilega fram sett af hálfu stefnanda.        

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi hóf störf hjá stefnda sem flugfreyja á árinu 1993. Henni var sagt upp störfum með bréfi starfsmannastjóra stefnda 30. júní 2008. Ástæðan var í bréfinu sögð sú að félagið þyrfti að bregðast við samdrætti í flugi vegna utanaðkomandi aðstæðna. Ákveðið hefði verið að fækka ferðum í áætlunarflugi og leiddi það óhjá­kvæmilega til fækkunar starfsmanna. Stefnandi fékk laun á uppsagnarfresti en var leyst undan starfsskyldum frá og með 1. júlí. s.á. Stefnanda var sagt upp störfum ásamt fjölda annarra starfsmanna en af hálfu stefnda er því haldið fram að farið hafi verið að lagareglum sem gildi um hópuppsagnir. Við val á því hverjum skyldi sagt upp störfum hafi stefndi haft til viðmiðunar frammistöðu starfsmanna og starfsaldur. 

Stefnandi telur uppsögnina ólögmæta og krefst skaðabóta vegna tjóns og miska sem hún telur sig hafa orðið fyrir af þeim sökum. Af hálfu stefnda er bóta­skyldu mótmælt og því haldið fram að uppsögnin hafi verið lögmæt í alla staði og löglega staðið að henni. Stefnda hafi verið heimilt að segja stefnanda upp störfum og greiða laun út uppsagnarfrest. Uppsagnarréttur stefnda fari eftir almennum reglum vinnu­réttarins og kjarasamningi.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að hún hafi byrjað að starfa sem flugfreyja hjá stefnda um 1993. Hún hafi unnið sem „C-freyja“ til sumarsins 2006 er hún tók við stöðu „B-freyju“ sem hún hafi gegnt að mestu eftir þörfum stefnda til vors 2007 en þá hafi stefnandi fengið tímabundna ráðningu í stöðu „A-freyju“. Þegar stefndi fækkaði þeim stöðum hafi stefnandi verið færð niður í stöðu „B-freyju“. Stefnandi hafi ávallt verið í 100% starfi þar til 1. júní 2008 en þá hafi hún farið í 75% starf.

Stefnandi hafi verið kölluð í starfsmannaviðtal hjá yfirflugfreyju og stað­gengli hennar 22. maí 2006. Á fundinum hafi stefnandi fengið tiltal þar sem yfirflugfreyja hafi talið að viðmót stefnanda gagnvart viðskiptavinum þyrfti að breytast. Í framhaldi fundarins hafi stefnandi fengið sent bréf 7. júní s.á. þar sem segi að hún fái tækifæri til að starfa sem B-freyja um borð í flugvélum stefnda og sýna fram á breytta hegðun gagnvart viðskiptavinum stefnda. Stefnandi hafi ekki verið hvött til að taka trúnaðar­mann stéttarfélags síns, Flugfreyjufélags Íslands, með á áðurgreindan fund né hafi stefndi boðað trúnaðar­manninn sérstaklega. Hæfnismöt, svokölluð „c/c línutékk“, hafi komið vel út hjá stefnanda en í þeim báðum komi fram að hún sé rösk, dugleg og glaðleg.

Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) hafi fengið í hendur tilkynningu fyrrverandi starfsmanna­stjóra stefnda 16. júní 2008 um fyrirhugaða hópuppsögn hjá stefnda.  Þar komi fram að segja ætti upp 89 stöðugildum. Viðmiðanir við val á stafs­mönnum, sem segja ætti upp, væri  frammistaða og starfsaldur. Síðar hafi verið ritað á bréfið að jafnframt yrði gerð breyting á A-, B- og C-stöðum. Þegar komið hafi til ráðninga, uppfærslna í starfi, hópuppsagna eða breytinga hafi stefndi ávallt miðað við starfsaldur starfsmanna. Stefnandi vísi í því sambandi til kjara­samnings, einkum greina 01.05 og 03.02. 

Vinnuskrá fyrir júlímánuð hafi komið út 25. júní s.á. og hafi stefnandi verið skráð á hana. Á sama tíma hafi hópstjórar tilkynnt starfsmönnum, er tilheyrðu starfs­aldurstengdri hópuppsögn og voru í hópum þeirra, um fyrirhugaða uppsögn sem hafi ýmist átt að taka gildi 1. október eða 1. nóvember 2008.

Að morgni 30. júní s.á. hafi stefnandi og tveir flugþjónar verið kölluð hvert um sig fyrirvaralaust á fund yfirflugfreyju og staðgengils hennar. Á fundunum hafi þeim verið afhent uppsagnarbréf. Þeim hafi hvorki verið greint frá ástæðu fundarins né hafi þau verið hvött til að hafa trúnaðarmann stéttarfélags síns með sér á fundinn eða hann boðaður sérstaklega af stefnda á fundinn. Í uppsagnarbréfinu segi að bregðast þyrfti við samdrætti í flugi vegna utanaðkomandi aðstæðna. Ákveðið hafi verið að fækka ferðum í áætlunarflugi og leiddi það óhjákvæmilega til fækkunar starfsmanna. Vegna þeirra aðgerða hafi félagið því miður neyðst til að segja upp starfi hennar frá og með næstu mánaðarmótum, þ.e. 1. júlí 2008, með samn­ings­bundnum uppsagnar­fresti. Jafnframt hafi hún verið leyst undan starfsskyldum hjá félaginu frá og með 1. júlí. Í uppsagnarbréfinu og á fundinum hafi verið vísað til hópuppsagnar og hafi orð yfirflugfreyju verið að ekki hefði komið til uppsagnar hjá stefnda ef ekki hefði komið til hópupp­sagnar­innar. Umræddir þrír starfsmenn hafi ekki fallið undir þann starfs­aldurs­tengda hóp annarra starfsmanna sem sagt var upp og hafi þau verið einu starfsmennirnir sem kallaðir voru á fund yfirflugfreyju og auk þess verið þau einu sem ekki þurftu að vinna í uppsagnarfresti. Á fundi stefnanda með yfirflugfreyju hafi henni jafnframt verið tjáð að hún væri hörkudugleg en viðhorf gagnvart viðskipta­vinum væri ekki nægilega gott. Yfirflug­freyjan hafi harmaði uppsögn og hafi hún getið þess sérstak­lega að hún væri tilbúin að gefa stefnanda meðmæli.

Stefnandi hafi óskað eftir því við starfsmannahald stefnda 3. júlí s.á. að fá afrit gagna um hana í starfmannaskrá. Fallist hafi verið á það og hafi mátt sækja gögnin síðar sama dag. Lögmaður stefnanda hafi síðan farið þess á leit við staðgengil yfirflugfreyju næsta dag að fá meðmælabréf og hafi verið lofað að það yrði með í um­slagi í afgreiðslu ásamt umbeðnum gögnum. Það hafi ekki gengið eftir og hafi með­mælabréf ekki verið veitt þegar eftir því var frekar leitað. Lögmaður stefnda hafi haft samband við lögmann stefnanda og hafi þau átt fund um málið. Niðurstaða fundarins hafi verið að stefnandi setti fram formlegt kröfubréf sem stefndi tæki síðan afstöðu til. Lögmaður stefnanda hafi sent stefnda kröfubréf 15. september s.á. þar sem farið var fram á bætur er næmu jafnvirði fjögurra mánaða fullra launagreiðslna auk meðaltals dagpeninga og sölulauna sl. 12 mánuði er stefnandi var í fullu starfi (til viðbótar við þriggja mánaða uppsagnarfrestinn og áunnið orlof) auk frímiðaréttinda í 10 ár. Kröfum stefnanda hafi verið hafnað með bréfi lögmanns stefnda 22. september s.á.

Í málinu krefjist stefnandi skaðabóta vegna hinnar fyrirvaralausu uppsagnar sem hún telji ólögmæta bæði að formi og efni.

Í kjarasamningi milli Flugfreyjufélagsins og stefnda, grein 01.11., segi að telji Icelandair að flugþjónn eða flugfreyja vanræki skyldur sínar eða hafi gerst sek um aðrar misfellur í starfi, skuli flugfélagið aðvara viðkomandi skriflega. Sé um ítrekað eða alvarlegt brot að ræða geti Icelandair leyst viðkomandi frá störfum þar til gerðardómur hafi skorið úr sannleiksgildi hins meinta brots, enda sé þess óskað af öðrum hvorum aðila.

Í uppsagnarbréfi stefnanda sé vísað til hópuppsagnar. Í lögum um hóp­uppsagnir nr. 63/2000 sé átt við uppsagnir starfsmanna af ástæðum sem ekki tengdust hverjum einstökum þeirra. Stefnandi byggi á því að uppsögn hennar geti ekki flokkast undir hópuppsagnir þar sem hún hafi verið með öðrum hætti en annarra flugliða (flugfreyja/þjóna) sem fengu uppsagnarbréf. Uppsögnin sé ólögmæt enda hafi stefndi ekki fylgt áðurgreindu verklagi kjarasamnings. Sú áminning sem stefndi hafi vísað til á fundinum 30. júní 2008 geti ekki á nokkurn hátt talist formleg áminning. Aldrei hafi komið fram að um áminningu væri að ræða að viðlögðum starfs­missi. Þá hafi enginn trúnaðarmaður verið kallaður til svo sem hefð sé fyrir þegar starfsmaður hafi brotið af sér í starfi. Stefnandi hafi ávallt sýnt frábæra frammi­stöðu í starfi og hlotið lof samstarfsmanna sinna og farþega eins og sjá megi af  hrósbréfum. Stefnandi hafi gegnt starfi A-flugfreyju og auk þess komið vel út úr línutékkum. Stefnandi geri sérstakar athugasemdir varðandi það hversu yfirlitsblöð vegna línutékks séu ófullkomin og oft ekki dagsett eða þess getið hver hafi framkvæmt línutékkið eða í hvaða flugi það var gert. Þá hafi stefndi ekki upplýst um hverjar reglur gildi hjá félaginu um starfsmöt og hver sundurliðun sé á vægi í hæfnis­mötum. Stefndi hafi ekki með nokkrum hætti sýnt fram á að stefnandi hafi haft í frammi slæleg vinnubrögð í starfi sínu eða brotið af sér í starfi er réttlætt geti hina fyrirvaralausu brottvísun.  

Við hópuppsagnir flugfreyja og -þjóna beri að taka mið af starfsaldri eins og við ráðningar, sbr. ákvæði kjarasamnings, grein 01-12 og 03-2 um forgangsrétt til vinnu. Slíkt hafi tíðkast um áratugaskeið þegar stefndi hafi sagt upp fjölda flugfreyja og -þjóna en þá hafi þeir sem skemmstan starfsaldur höfðu misst vinnu fyrst. Stefnandi og tveir aðrir starfsmenn, sem hafi verið sagt upp, hafi haft mun lengri starfsaldur og því ekki verið næstir í starfsaldursröð og hefðu því átt að hafa forgang um að halda vinnu sinni við fækkun starfsmanna. Stéttarfélag stefnanda eða Vinnumálastofnun hafi ekki verið upplýst með skýrum hætti um að ekki yrði fylgt hefðbundnum reglum um starfsaldur við hópuppsögnina.

Auk bóta fyrir hina ólögmætu uppsögn krefjist stefnandi miska­bóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Stefnandi hafi ung að árum hafið störf hjá stefnda og tengdum fyrirtækjum og þar hafi hún starfað alla sína starfsævi. Hún hafi verið sett á útgefna flugskrá fyrir júlí. Hún hafi síðan ekki mætt í flug vegna hinnar fyrir­varalausu brottvikningar en það hafi leitt til margvíslegra sögusagna innan félagsins sem ófært sé að leiðrétta. Hafi uppsögn þessi, eins og að henni var staðið af hálfu stefnda, torveldað stefnanda að fá sambærilegt starf. Þetta hafi ótvírætt haft í för með sér röskun á stöðu og högum stefnanda, skaðað æru og persónu hennar þannig að áhrif geti haft á framtíðarmöguleika hennar til starfa. Af þessari ástæðu beri stefnda að bæta tjón stefnanda sem hún telji hæfilega metið að fjárhæð 2.000.000 króna.

Með vísan til ofangreinds geri stefnandi kröfu um að stefndi bæti tjón hennar vegna hinnar ólögmætu uppsagnar. Krafan hljóði upp á fjárhæð er nemi jafnvirði þriggja mánaða fullra launagreiðslna auk hlutfalls sölulauna og dagpeninga í sex mánuði er nemi meðaltali sl. tólf mánaða, enda megi líta á greiðslur þessar sem hluta launagreiðslna sem stefnandi hafi orðið af vegna brottrekstrarins. Uppsögnin hafi verið í fyrsta mánuðinum þegar stefnandi hafði minnkað við sig vinnu úr 100% í 75% starf. Krafan sé því byggð á að um hafi verið að ræða 100% launatap.

Dagpeningakrafan sé miðuð við gengi USD 63,86 (meðalgengi ársins 2007 reiknuð af heildardagpeningagreiðslum til stefnanda árið 2007). Krafan sé reiknuð þannig: 847.998/63,86 = 13.279 USD/12 = 1.107 x USD 91,78 (gengi 15. september 2008) = 101.562 x 6 = 609.374 krónur.

Krafa um hlutfall í sölu miðist við meðaltal frá júlí 2007 til júlí 2008 = 192.790/12 x 6 = 96.395 krónur).

Gerð sé krafa um hlutfall orlofs (3/12 hluta af 37 dögum = 9,25 daga = 267.404/37 x 9,25 = 66.851 krónur).

Hlutfall desemberuppbótar (25% af föstum launum í A-þrepi 21 í stafsaldri = (384.123 x 25% =  96.030) /12 x 3 = 21.681), 

Afnotagjald síma og netáskriftar (áætlað 5.000 krónur á mánuði í 6 mánuði)   og bílastyrkur, 53.457 krónur á mánuði, í 3 mánuði.  

Auk þessa sé krafist viðurkenningar á að stefnandi haldi frímiðaréttindum í 8,5 ár frá 1. nóvember 2008 að telja, sem sé hlutfall af unnum tíma, sbr. kjarasamning, grein 08.02., þar sem segi að frímiðaréttur haldist í 10 ár eftir 20 ára starf (stefnandi hafi starfað í u.þ.b. 15,6 ár hjá stefnda).  Vísað sé til ákvæða kjarasamnings.

Dómkrafan sundurliðist þannig:

1.   Miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga

2.000.000 krónur

2.  Grunnlaun í 3 mánuði 3 x 267.404 krónur

802.212    

3.   Orlof

66.851   

4.  Desemberuppbót (3/12 af 96.030 krónum)

21.681    

5.   Síma og netáskrift (6 x 5.000 krónur)

30.000    

6.   Handbókargjald ( 3 x 16.437 krónur)

49.311    

7.   Bílakostnaður (3 x 53.457 krónur)

160.371    

8.   Hlutfall dagpeninga

609.374    

9.   Hlutfall í sölu

96.395     

10. Lífeyrissjóður 8% x 3 mánuðir

64.177    

                                                              Samtals

3.900.372 krónur.

                      Upphafsdagur dráttarvaxtakröfu miðist við kröfubréf til stefnda 15. septem­­ber 2008.

                      Máli þessu sé ekki vísað til Félagsdóms enda um að ræða miskabótakröfu og launakröfu sem byggist á kjarasamningi og hafi þótt rétt að héraðsdómur mæti þau atriði er þær kröfur varði og skýri að því leyti ákvæði kjarasamningsins, sbr. Hrd. í máli nr. 20/1997.

Um lagarök vísist til laga nr. 63/2000 um hópuppsagnir, einkum 2. mgr. 5. gr. og 11. gr., laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, almennra reglna vinnuréttar og samningalaga nr. 7/1936 með síðari breytingum. Einnig vísist til orlofslaga, almennra reglna skaðabótaréttar og skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 26. gr. Þá vísist til almennra reglna kröfuréttarins. Krafa um dráttarvexti styðjist við 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og krafa um vaxtavexti við 1. mgr. 12. gr. V. kafla sömu laga. Krafan um málskostnað styðist við 129. gr., sbr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. 

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er málsatvikum lýst þannig að fyrir nokkrum árum hafi farið að berast kvartanir vegna framkomu stefnanda við farþega og í sumum tilvikum samstarfsfólk. Fyrri hluta árs 2006 hafi því í tvígang þótt ástæða til að ræða við stefnanda um það sem betur mætti fara í starfi hennar. Í síðara skiptið hafi hún verið boðuð til fundar við yfir­flug­freyju þar sem rætt hafi verið um að hún þyrfti að breyta framkomu sinni og viðhorfi gagnvart farþegum. Litið hafi verið á fundinn sem leiðbeinandi samtal milli stjórnanda og undirmanns. Í samræmi við vinnureglur stefnda hafi stefnandi fengið bréf til staðfestingar á að samtalið hafi átt sér stað og hver niðurstaða þess var. Stefnandi hafi engu að síður fengið tækifæri til að sinna stjórnunarstörfum um borð í flugvélum stefnda sem B-freyja (aðstoðarmanneskja yfirflugfreyju) og tímabundið sem A-freyja (yfirflugfreyja). Það sé í samræmi við stefnu fyrirtækisins um að starfsmenn hafi tækifæri til að bæta sig í starfi og sanna sig í stjórnendastörfum þrátt fyrir að hafa fengið leiðbeiningu vegna starfa sinna.

Í byrjun sumars 2008 hafi verið ljóst að mikill samdráttur yrði í flugi og því óhjákvæmilegt að grípa til umfangsmikilla uppsagna flugliða. Flugfreyjum og flug­þjónum í 89 stöðugildum hafi verið sagt upp í lok júnímánaðar, þar á meðal stefnanda. Við þá ákvörðun hafi verið tekið mið af starfsaldri og frammistöðu starfs­manna. Þótt stefnandi hefði bæði verið dugleg til vinnu og ósérhlífin hafi það verið mat stefnda að henni hefði ekki tekist að bæta framkomu sína nægjanlega þrátt fyrir leiðsögnina. 

Um hafi verið að ræða hópuppsögn í skilningi laga nr. 63/2000 og hafi stefndi því haft lögbundið samráð við stéttarfélag stefnanda þar sem m.a. hafi komið fram hvaða viðmið áformað hefði verið að nota við val á milli þeirra sem sagt yrði upp og þeirra sem héldu starfi sínu. Á fundi yfirflugfreyju með formanni og varaformanni FFÍ 25. júní hafi einnig komið fram að um væri að ræða 89 stöðugildi og að í flestum tilfellum yrði farið eftir starfsaldri en í þremur tilvikum réðist valið af frammistöðu viðkomandi starfsmanna. 

Eðlilegt hafi þótt að gefa stefnanda og öðrum starfsmönnum, sem svipað hafi verið ástatt um, skýringu á því hvers vegna þau voru í hópi þeirra sem sagt var upp. Stefnandi hafi því verið boðuð til fundar við staðgengil yfirflugfreyju 30. júní 2008 og tilkynnt um uppsögn og skýrt frá ástæðum hennar. Trúnaðarmaður FFÍ hafi verið með stefnanda á fundinum. Ekki hafi verið óskað eftir því að stefnandi ynni uppsagnarfrest sinn.

Stefndi byggi sýknukröfu sína á því að löglega hafi verið staðið að uppsögn stefnanda. Stefndi hafi staðið frammi fyrir því að þurfa að fækka starfsmönnum verulega og átt val um það hvaða viðmið yrðu þar lögð til grundvallar. Við slíkar aðstæður hafi stefndi að öllu jöfnu miðað við starfsaldur. Svo hafi einnig verið gert í þessu tilviki. Óhjákvæmilega komi þó frammistaða starfsmanna einnig til skoðunar við slíkar ákvarðanir sem feli eðli máls samkvæmt í sér val á milli starfsmanna. Hvorki lög né kjarasamningur takmarki rétt stefnda til að meta frammistöðu starfs­manna við ákvörðun um uppsagnir. Mat stefnda hafi verið að stefnanda hafi ekki tekist að bæta framkomu sína.

Stefndi hafi aldrei haldið því fram að stefnandi hafi vanrækt skyldur sínar eða gerst sekur um aðrar misfellur í starfi í skilningi gr. 01-11 í kjarasamningi FFÍ og stefnda. Sú grein eigi ekki við um úrlausnarefni þessa máls né sé viðvörun forsenda uppsagnar. Stefnandi hefði þó áður fengið tiltal og bréf sem jafna megi til skriflegrar aðvörunar.

Lög um hópuppsagnir setji því ekki skorður hvaða viðmið fyrirtæki noti við val á starfsmönnum sem sagt er upp við hópuppsögn, hvorki samkvæmt 2. mgr. 1. gr., 2. mgr. 6. gr. eða öðrum ákvæðum. 

Stefnanda hafi verið í sjálfs vald sett hvort trúnaðarmaður stéttarfélags hennar kæmi með henni á fundi þá sem hún var boðuð til hjá yfirflugfreyju. Stefnda hafi engin skylda borið til að boða trúnaðarmann til funda um persónuleg málefni stefnanda og enn síður sé það venjubundin framkvæmd enda áhöld um hvort það sé heimilt. 

Því sé mótmælt sem röngu að stefnandi hafi sætt fyrirvaralausri brottvísun og henni hafi ekki verið vikið úr starfi. Stefnanda hafi verið sagt upp með samnings­bundnum þriggja mánaða uppagnarfresti sem hún hafi fengið greiddan án þess að óskað væri vinnuframlags á uppsagnarfresti. Löglega hafi verið staðið að þessu öllu af hálfu stefnda. 

Stefndi mótmæli því einnig sem röngu að forgangsréttarákvæði kjarasamnings FFÍ og stefnda og ákvæði samningsins um ráðningu feli í sér að við hópuppsagnir beri að taka mið af starfsaldri. Því sé einnig mótmælt sem röngu og ósönnuðu að bindandi venja hafi skapast um slíka framkvæmd.

Hvað miskabótakröfu stefnanda varði þá telji stefndi ekki lagaskilyrði fyrir henni auk þess sem hún sé allt of há. Uppsögn stefnda hafi verið lögmæt og eðlilega staðið að henni auk þess sem algengt sé að ekki sé óskað eftir vinnuframlagi á upp­sagnar­fresti.

Varakrafa stefnda sé byggð á því að stefnandi hafi verið í 75% starfi frá og með 1. júní 2008 og beri því að miða bótakröfuna við það starfshlutfall.

Þóknun vegna sölu um borð greiðist eingöngu þeim sem annist sölu á við­kom­andi flugi, sbr. gr. 04-6 í kjarasamningi FFÍ og stefnda.

Dagpeningakröfu stefnanda sé mótmælt. Dagpeningar væru greiddir vegna kostnaður stefnanda við flug og miðist við fjarvistartíma frá heimili, sbr. 8. kafla kjarasamningsins.

Stefnandi eigi ekki rétt á frímiðahlunnindum þar sem hún uppfylli ekki 20 ára starfsskilyrði gr. 03-5 í kjarasamningnum. 

Síma- og nettengingar væru ætlaðar til að auðvelda samskipti milli stefnda og starfsmanna, sbr. kjarasamning gr. 05-4, og því ekki grundvöllur bóta­greiðslna. 

Kröfu stefnanda um greiðslu lífeyrisiðgjalds sé mótmælt með vísan til þess að stefnandi eigi ekki forræði kröfunnar, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 204/2004.

Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé mótmælt. Upphaf dráttarvaxta beri að miða við þingfestingu stefnu, sbr. 4. mgr. 5. gr. vaxtalaga. Stefnandi hafi verið á launum til loka september 2008.

Stefndi byggi fyrst og fremst á meginreglum íslensks vinnuréttar, lögum um hópuppsagnir nr. 63/2000, kjarasamningi FFÍ og stefnda og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Um málskostnað vísist til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála, 129. og 130. gr. 

Niðurstaða             

Stefnanda var sagt upp flugfreyju­starfinu með bréfi 30. júní 2008 og voru henni greidd laun á þriggja mánaða uppsagnarfresti. Ástæður fyrir uppsögninni voru þær að samdráttur varð á flugi og vegna þess að frammistaða stefnanda í starfi þótti lakari en annarra starfsmanna sem áttu á hættu að vera sagt upp störfum vegna samdráttarins.

Af hálfu stefnanda er byggt á því að uppsögnin hafi verið ólögmæt. Sú málsástæða hennar er aðallega studd þeim rökum að af kjarasamningi milli Flug­freyju­félags Íslands og stefnda leiði að við hópuppsagnir flugfreyja beri að taka mið af starfsaldri, eins og við ráðningar, en þetta sé vinnuregla og hafi tíðkast um áratuga­skeið þegar stefndi hafi sagt upp fjölda flugfreyja eða flugþjóna. Á þetta er ekki fallist með þeim rökum sem hér verða færð fyrir því.

Ákvæði kjara­samningsins hafa engin fyrirmæli um að taka beri mið af starfs­aldri við hópuppsagnir en ákvæði hans, sem vísað er til af hálfu stefnanda um for­gangs­rétt til vinnu, eiga ekki við um uppsagnir starfsmanna. Kjarasamnings­ákvæðið, sem vísað er til af hálfu stefnanda um málsmeð­ferðar­reglur þegar starfsmaður er leystur frá störfum án uppsagnarfrests vegna vanrækslu á starfs­skyldum eða stefndi telur að hann hafi orðið sekur um aðrar misfellur í starfi, á heldur ekki við um upp­sögn stefnanda enda var ekki um slíkar ásakanir að ræða á hendur henni og henni var ekki sagt upp án uppsagnarfrests. Með vísan til þess sem fram hefur komið í málinu og hér hefur verið rakið verður að telja ósannað af hálfu stefnanda gegn and­mælum stefnda að venja hafi skapast eða starfsregla, sem réttur verði byggður á, um að stefnda hafi borið að taka mið af starfsaldri við fjölda­uppsagnir, en samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga um meðferð einka­mála nr. 91/1991 verður málsaðili, sem ber fyrir sig venju, að leiða tilvist hennar og efni í ljós. 

Lög um hópuppsagnir gilda samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna um hópupp­sagnir atvinnurekanda á starfsmönnum af ástæðum sem ekki tengjast hverjum ein­stökum þeirra þegar fjöldi starfsmanna, sem sagt er upp, er sá sem lagagreinin mælir fyrir um á 30 daga tímabili. Þótt stefnandi haldi því fram að uppsögn hennar geti ekki flokkast undir hópuppsögn verður ekki séð að það hafi áhrif á úrslit málsins, enda verður uppsögn ekki ólögmæt vegna þess eins að af hálfu stefnda var farið eftir lögum um hópuppsagnir í umræddu tilviki. Í lögunum eru fyrirmæli um skyldu atvinnu­rekanda til að veita upplýsingar, hafa samráð og tilkynna um fyrirhugaðar hópupp­sagnir. Í málatil­búnaði aðila málsins er þó ekki lagt annað til grundvallar en að farið hafi verið að fyrirmælum laganna við uppsögn stefnanda að því frátöldu að haldið er fram af hálfu stefnanda að stéttarfélag hennar eða Vinnumálastofnun hafi ekki verið upplýst með skýrum hætti um að ekki yrði fylgt hefðbundnum reglum um starfsaldur við hópuppsögnina. Tilkynnt var um uppsögnina samkvæmt upplýsingablaði til trúnaðar­­manns starfs­manna 16. júní 2008 og kemur fram á blaðinu að afrit yrði sent til svæðisvinnu­miðlunar. Þar kemur einnig fram að viðmiðanir við val á starfsmönnum, sem segja átti upp, séu frammistaða og starfsaldur. Við meðferð málsins kom fram að ekki hefði verið sérstaklega rætt á samráðsfundum stefnda með formanni og vara­for­manni stéttarfélags stefnanda hverjar forsendur væru fyrir þeim tilteknu upp­sögnum sem voru raktar til þess að frammistöðu starfs­mannanna, sem þær áttu við um, þótti ábótavant. Af því sem fram hefur komið í málinu verður þó ekki talið annað í ljós leitt en að stefndi hafi farið að fyrirmælum laga um upplýs­ingaskyldu og samráð varðandi uppsögn stefnanda.

Í grein 03-1 í kjara­samningnum er kveðið á um uppsagnarfrest, sem er að loknum reynslutíma þrír mánuðir miðað við mánaðamót, og skulu uppsagnir vera skriflegar. Stefnanda var sagt upp starfinu í samræmi við þetta. Ekki var óskað vinnuframlags hennar á uppsagnar­fresti en hún fékk laun allan þann tíma, eins og áður er komið fram. Er ekki fallist á að ólögmætt hafi verið af hálfu stefnda að leysa stefnanda undan starfsskyldum á uppsagnarfresti. Af hálfu stefnda hefur komið fram að ástæður fyrir því væru þær að almennt væri fylgt þeirri reglu að, þegar starfsmanni væri sagt upp vegna þess að frammistaða hans hefði ekki þótt nógu góð, væri ekki óskað eftir vinnuframlagi hans á uppsagnarfresti. Ekki er fallist á að þetta hafi verið ólög­mætt af hálfu stefnda enda verður að gera ráð fyrir því að almennt eigi stefndi mat um frammistöðu starfsmanna í starfi og hvað þar er haft til viðmiðunar. Við aðal­meðferð málsins kom fram að sífellt væru gerðar auknar kröfur til frammistöðu starfsmanna. Einnig kom fram að ekki væri aðeins miðað við afköst heldur einnig framkomu, viðmót og samstarfshæfni. Ekki hefur verið sýnt fram á að reglur hafi verið brotnar við mat á frammi­stöðu stefnanda. Þótt stefnandi hafi verið sett á vinnu­skrá fyrir júlí 2008 en síðan leyst undan starfsskyldum frá og með 1. þess mánaðar hefur ekki verið sýnt fram á af hennar hálfu að slíkt hafi verið ólögmætt af hálfu stefnda.

Með vísan til alls þessa verður að telja að stefnandi hafi ekki fært fullnægjandi rök fyrir því að uppsögn hennar eða önnur háttsemi stefnda í tengslum við hana hafi verið ólögmæt. Þar með eru ekki skilyrði fyrir því að til bótaskyldu stefnda hafi stofnast gagnvart stefnanda. Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála að málskostnaður falli niður.

Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Icelandair ehf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Brynju Eir Thorsdóttur, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.