Print

Mál nr. 2/2005

Lykilorð
  • Líkamsárás
  • Skilorð
  • Sératkvæði

Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. apríl 2005.

Nr. 2/2005.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Kjartani Ólafssyni

(Sigurmar K. Albertsson hrl.)

 

Líkamsárás. Skilorð. Sératkvæði.

K var gefið að sök að hafa ráðist að þáverandi eiginkonu sinni á sameiginlegu heimili þeirra og veitt henni tiltekna áverka. K viðurkenndi að hafa tekið konuna hálstaki en neitaði að hafa valdið henni þessum áverkum. Talið var nægilega sannað að konan hefði hlotið áverka á hálsi af völdum K. Með vísan til gagna málsins var talið ósannað að konan hefði gefið K tilefni til árásarinnar og að til átaka hafi komið milli þeirra. Var árásin alvarleg og átti K sér engar málsbætur. Var honum gert að sæta fangelsi skilorðsbundið í 3 mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. desember 2004 að fengnu áfrýjunarleyfi. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærða verði ákveðin refsing.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.

Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu samkvæmt heimild í 148. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 8. gr. laga nr. 37/1994, þar sem hann taldi viðurlög í héraðsdómi að mun of væg. Ákærði leitaði ekki áfrýjunarleyfis fyrir sitt leyti samkvæmt 2. mgr. 150. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1994. Kemur sýknukrafa hans því ekki til álita nema að því marki, sem efni kunna að vera til samkvæmt 2. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994.

Í máli þessu er ákærða gefið að sök að hafa ráðist að þáverandi eiginkonu sinni á sameiginlegu heimili þeirra 1. október 2003, tekið hana hálstaki og hrint henni til og frá með þeim afleiðinum að hún hlaut tognun í hálsvöðvum og hné og yfirborðsáverka á andliti og hársverði. Málavöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi.

Ákærði hefur viðurkennt við meðferð málsins fyrir dómi og lögreglurannsókn að hann hafi tekið þáverandi eiginkonu sína hálstaki með því að nota armkrika sinn og að hafa hrint henni til og frá. Hann hefur hins vegar neitað að hafa með því valdið þeim áverkum sem lýst er í ákæru. Konan leitaði á slysa-og bráðamóttöku Landspítala-háskólasjúkrahúss daginn eftir árásina. Í vottorði Hlyns Þorsteinssonar læknis 15. október 2003 er áverkum hennar lýst á sama veg og í ákæru. Í vætti hans fyrir dómi kom hins vegar fram að einu sjáanlegu áverkarnir hafi verið mar á vinstra kjálkabarði, en hann hafi skráð hina áverkana eftir frásögn konunnar. Vitnin A og B báru báðar hjá lögreglu og fyrir dómi að konan hafi borið sjáanlega áverka á hálsi, er hún kom hlaupandi fáklædd um Suðurgötuna umræddan morgun. Er nægilega sannað að konan hafi hlotið áverka á hálsi af völdum ákærða, en ekki verður fullyrt í ljósi gagna málsins að hann hafi valdið öðrum áverkum hennar. Brot hans varðar við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981.

Ákærði hefur haldið því fram að hann hafi tekið konuna hálstaki og hrint henni þegar til stimpinga kom á milli þeirra í kjölfar þess að hún hafi tjáð sér að hún hafi verið með öðrum mönnum. Hann vísar í þessu efni sér til málsbóta til 3. mgr. 218. gr. a., 70. gr., 4. töluliðar 1. mgr. 74. gr. og 75. gr. almennra hegningarlaga. Þegar gögn málsins eru virt er hvorki í ljós leitt að konan hafi gefið ákærða tilefni til árásarinnar né að til átaka hafi komið milli þeirra. Eins og fyrr segir réðist ákærði, sem er vel að manni, á varnarlausa konuna á heimili þeirra, þar sem aðrir voru henni ekki til bjargar, og tók hana meðal annars hálstaki með áðurnefndum afleiðingum. Var þessi árás hans því alvarleg og á ákærði sér ekki málsbætur. Í sakavottorði ákærða, sem lagt var fyrir í héraði, kom ekki fram að hann var dæmdur 11. apríl 1990 í þriggja mánaða varðhald, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Hann hefur ekki sætt öðrum refsingum sem hér koma til álita. Refsing hans er ákveðin fangelsi í þrjá mánuði. Langt er um liðið frá því ákærði framdi fyrra hegningarlagabrot sitt. Þykir því rétt að fresta fullnustu refsingar hans og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Kjartan Ólafsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar hans og fellur hún niður að þremur árum liðnum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurmars K. Albertssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

 

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Ég er sammála meirihluta dómenda til og með 3. málslið í þriðju síðustu málsgrein forsendna þeirra sem hljóðar svo: Þegar gögn málsins eru virt er hvorki í ljós leitt að konan hafi gefið ákærða tilefni til árásarinnar né að til átaka hafi komið milli þeirra. Í stað þess sem þar fer á eftir og aftur að næstu málsgrein vil ég orða forsendur og niðurstöðu dómsins á  eftirfarandi hátt:

Samkvæmt þessu hafa hvorki 3. mgr. 218. gr. a. almennra hegningarlaga né ákvæði 4. töluliðar 1. mgr. 74. gr. eða 75. gr. laganna þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Ákærði hefur lagt fram fyrir Hæstarétt upplýsingar um frásagnir fjölmiðla af hinum áfrýjaða dómi, einkum í tilefni orðalags í forsendum hans, og umfjöllun á opinberum vettvangi, sem hann telur hafa beinst að sér með sérstaklega ósanngjörnum og meiðandi hætti. Segir hann þetta hafa valdið breytingu á högum sínum til hins verra, meðal annars hafi hann misst starf sitt. Um það hefur hann þó ekki lagt fram sönnunargögn. Hann telur að hafa beri hliðsjón af þessu við ákvörðun viðurlaga.

Í sakarvottorði ákærða, sem lagt var fram í héraði, kom ekki fram að ákærði hlaut 11. apríl 1990 þriggja mánaða varðhald, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Sá dómur hefur ekki ítrekunaráhrif á brot það sem hann er sakfelldur fyrir nú, sbr. 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga. Hann hefur ekki sætt öðrum refsingum sem hér skipta máli. Með hliðsjón af fordæmum Hæstaréttar er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Fallast má á með ákærða að opinber umfjöllun um brot hans, þar sem meðal annars var birt mynd af honum undir nafni, hafi verið einhliða og ósanngjörn og til þess fallin að valda honum þjáningum og skaða á þann hátt, sem hann hefur lýst. Með hliðsjón af c-lið 1. mgr. 113. gr. laga nr. 19/1991 hefði þetta átt að skipta máli, ákærða til hagsbóta, við ákvörðun ákæruvalds um að óska eftir leyfi til áfrýjunar á héraðsdóminum. Verður ekki séð að sú hafi verið raunin. Virðist þessi umfjöllun fremur hafa haft gagnstæð áhrif. Með hliðsjón af þessu sem og því, að langt er um liðið síðan ákærði framdi fyrra hegningarlagabrot sitt, þykir rétt að fresta fullnustu refsingar hans og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ég er sammála niðurstöðu meirihluta dómenda um sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 19. október 2004.

Mál þetta er með ákæru útgefinni 24. maí 2004 höfðað gegn Kjartani Ólafssyni, kt. [...], Suðurgötu 79, Hafnarfirði ,,fyrir líkamsárás, með því að hafa, á tímabilinu frá klukkan 9:00 til 12:00, miðvikudaginn 1. október 2003, ráðist að X, á þáverandi sameiginlegu heimili þeirra að [...] tekið hana hálstaki og hrint henni til og frá með þeim afleiðingum að hún hlaut tognun í hálsvöðvum og hné og yfirborðsáverka á andliti og hársverði.

Telst framangreind háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. 

Af hálfu ákærða er gerð krafa um að hann verði sýknaður af refsikröfum í málinu. Þá er þess krafist, að kostnaður sakarinnar þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans Brynjars Níelssonar hrl. verði greiddur úr ríkissjóði.

I.  Málavextir.

Þann 4. október 2003 var að beiðni Kvennaathvarfsins óskað aðstoðar lögreglunnar [...]. Þar var X komin til að ná í son sinn og aðra muni sem hún þarfnaðist. Hún hafði leitað á náðir Kvennaathvarfsins eftir að eiginmaður hennar Kjartan Ólafsson hafði ráðist á hana og rekið hana af heimili þeirra. Hún hafði með sér af heimilinu buxur og peysu en var hinsvegar ekki aðstoðuð við að taka son sinn með sér. X fór síðan aftur í Kvennaathvarfið en sonur hennar varð eftir hjá föður sínum.

Miðvikudaginn 8. október 2003 kom X á lögreglustöðina í Hafnarfirði í fylgd C til að leggja fram kæru á hendur Kjartani Ólafssyni eiginmanni sínum vegna líkamsárásar og tilraunar til nauðgunar sem hún hafi orðið fyrir þann 1. október 2003. Hún lýsir atvikum svo, að hún hafi komið heim tveimur dögum áður og þá hafi ákærði ásakað hana um að hafa ekki verið að vinna heldur að halda framhjá honum. Ákærði hafi fylgt þessu eftir með því að berja hana í höfuðið og kalla hana ónöfnum. Hún kvað ákærða hafa hagað sér á þennan hátt allt frá því að skömmu eftir að þau hafi gift sig þann 14. ágúst 1999. Ofbeldið hafi átt sér stað með hléum öll sambúðarárin og u.þ.b. tvisvar á ári hafi ákærði beitt hana alvarlegum líkamsmeiðingum. Miðvikudaginn 1. október 2003 kl. 10:00 um morguninn hafi ákærði ráðist að henni þegar hún hafi verið í rúmi sínu. Þau hafi verið að ræða saman í rúminu þegar ákærði hafi skyndilega orðið viti sínu fjær af bræði. Hann hafi tekið hana hálstaki með handleggnum aftan frá í rúminu og hert að þar til hún hafi misst meðvitund. Hún kveðst ekki vita hvað það ástand hafi varað lengi en þegar hún hafi vitað af sér aftur hafi ákærði tekið hana hálstaki á ný og þá með greipunum. Þá hafi hún hinsvegar ekki misst meðvitund. Þá hafi hann einnig rifið hana úr bolnum með einu handtaki og nærbuxunum einnig. Eftir að ákærði hafi sleppt takinu hafi hann farið fram í eldhús til að hringja í vinnuveitanda hennar. Hún kveðst þá hafa farið í bol og peysu. Þegar ákærði hafi komið aftur hafi hann tekið hana kverkataki með báðum höndum framan frá og þrýst með báðum þumalputtum undir barkakýli hennar. Þegar ákærði hafi sleppt hálstakinu hafi hann þrýst henni niður með annarri hendinni en reynt að fara með lausan fingur á hinni hendinni inn í leggöng hennar. Eftir þetta hafi ákærði farið aftur fram í eldhús til að hringja. Hún kveðst hafa notað tækifærið á meðan til að fara í nærbuxur og hlaupa út úr íbúðinni með síðbuxur í hendinni. Hún hafi hlaupið beint af augum þar til að hún hafi hitt fyrir tvær konur sem hafi hjálpað henni. Önnur konan hafi komið henni í samband við Kvennaathvarfið þar sem hún hafi dvalið síðan.

Í vottorði Hlyns Þorsteinssonar, læknis á Slysa- og Bráðamóttöku Landspítala-Háskólasjúkrahús í Fossvogi kemur þetta fram um þá áverka sem kærandi hlaut og aðdraganda þeirra:

,,Sjúklingur kemur á Slysa- og Bráðamóttöku Landspítala-Háskólasjúkrahús í Fossvogi þann 02.10.2003 og er skráð inn kl. 13:37. Saga hennar er á þá leið að um kl. 10:00 að morgni þess 01.10.2003 hafði eiginmaður hennar ráðist að henni og tók hana kverkataki, en hann beitti þeirri aðferð að hann þrýsti framhandleggjum að hálsi hennar og lyfti henni upp. Að sögn sjúklings hefur eiginmaður hennar ráðist að henni í einhver skipti áður og tekið hana kverkataki og þá hafði einhvern tíma sést fingraför á hálsinum á henni. Sjálf telur hún að hann hafi gert þetta til að ekki bæri á fingraförum í þetta skiptið.

Eftir fyrstu árásina að morgni 01.10.2003 missti hún meðvitund um stund. Síðan segir hún að hann hafi tekið hana tvívegis hálstaki eftir það og hert eða þrengt að hálsinum. Þá mun hann hafa barið hana í hnakkann og snúið upp á vinstri ganglim um hnélið.

"Við skoðun er hún aum í vöðvum framan í hálsi við hreyfingar, og við þreyfingu framkallast eymsli frá vöðvum sem heita Sternocleidomastoid vöðvar, en þeir eru beggja vegna framan á hálsi og festast ofanvert aftan undir eyrum en í neðri endann við efri brún bringubeins. Ekki virðast nein eymsli í vöðvum aftan á hálsi. Síðan er mar á vinstra kjálkabarði og er það um 1,5 x 2 cm að stærð. Þá eru eymsli í hársverði aftarlega á hvirfli. Síðan finnur hún fyrir sársauka frá vinstra hné og eru þau eymsli bæði frá vöðvafestum innanvert við hnéð og frá liðbandi sem liggur innanvert yfir hnéliðinn.

Greiningar sem sjúklingur fær eru tognun í hálsvöðvum, yfirborðsáverkar á andliti, yfirborðsáverkar í hársverði og tognun um hné.

Sjúklingur hafði leitað hælis í Kvennaathvarfinu og kemur þaðan til Slysa- og Bráðamóttöku til skoðunar."

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu þann 9. október 2003. Ákærði kveðst viðurkenna að hafa að morgni miðvikudagsins 1. október 2003 lagt hendur á kæranda. Ástæðan hafi verið sú að hann hafi gjörsamlega misst stjórn á skapi sínu þegar hún hafi sagt honum frá því að hún hafi verið með öðrum manni. Ákærði kvaðst hafa farið með börnin í skólann um morguninn, en hafi síðan farið heim aftur. Hann hafi þá haft samfarir við hana en hætt þegar að hún hafi sagt honum frá því að hún hafi verið með öðrum manni. Við þessar fréttir hafi hann misst stjórn á skapi sínu og lagt hendur á hana í bræði sinni. Hann kveðst ekki muna nákvæmlega hvað hann hafi gert en hann hafi tekið hana hálstaki og tuskað hana til. Hann telur þó að hann hafi ekki meitt hana. Ákærði kveðst hafa hætt ofbeldinu fljótlega eftir að hann hafi náð stjórn á skapi sínu. Eftir þetta hafi hann farið fram í eldhús og hringt á vinnustað hennar. Seinna hafi hann síðan hringt í móður sína og á meðan á því samtali hafi staðið hafi kærandi farið út úr íbúðinni.

Ákærði gaf aftur skýrslu hjá lögreglu þann 4. nóvember 2003. Ákærði kvaðst hafa tekið kæranda hálstaki í armkrikann að morgni miðvikudagsins 1. október 2003 þar sem hún hafi ætlað að ganga frá honum. Hann hafi hinsvegar ekki haldið lengi og ekki haldið það fast að hún hafi átt erfitt með andardrátt. Þá kvaðst ákærði hafa hrint henni til og frá en neitar að hafa kýlt hana. Þegar kærandi hafi farið út úr íbúðinni hafi hann ekki séð betur en að hún hafi verið fullklædd.

Verða nú raktir framburðir ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði hefur hér fyrir dómi og við skýrslutöku hjá lögreglu viðurkennt að til átaka hafi komið á milli sín og kæranda á heimili þeirra en það hafi þó frekar verið stympingar og hrindingar því þau hafi hrint hvort öðru til og frá. Hún hafi komið heim um morguninn en hann hafi verið að fara með strákana í skólann, en síðan farið heim aftur. Þegar heim hafi verið komið hafi hann hafið samfarir við hana. Hún hafi þá sagt honum frá sambandi sínu við aðra menn og að í kjölfarið hafi orðið einhver átök, stympingar og hrindingar. Þá hafi hún kastað í hann hlutum. Hann hafi verið reiður og snúið hana af sér. Hann kveðst síðan hafa hringt í vinnuna til hennar og til móður sinnar. Hún hafi hinsvegar búið um rúmið og síðan farið út. Hann hafi ekki séð betur en að hún hafi verið fullklædd. Þau hafi hafið sambúð aftur eftir þetta um miðjan desember 2003 sem staðið hafi til síðasta vetrardags 2004. Ákærði og hún hafa síðan átt í forræðisdeilum og sé kæran hluti af því máli og til að veikja stöðu hans í því máli. Þá sé þetta einnig aðferð hennar til að hafa peninga af honum.

Kærandi kvað langt um liðið frá árásinni og að árásin hafi verið erfið lífsreynsla. Hún hafi verið að vinna og komið heim kl. 5-6 að morgni. Ákærði hafi ráðist að henni m.a. slegið hana í höfuðið og verið með ásakir um að hún hafi verið með öðrum mönnum. Það hafi hún ekki verið þó að hann hafi haldið því fram. Hún hafi verið þreytt og sofnað, en um kl. 9 hafi ákærði vakið hana og viljað ræða við hana um sambandið. Hann hafi spurt hvort hún hafi viljað fara frá honum og hvort hún hafi stað til að fara á. Hún hafi verið þreytt og viljað fá frið. Þá hafi hann orðið brjálaður og tekið hana hálstaki og síðan rifið fötin utan af henni bæði bol og nærbuxur. Við þetta hafi hún misst meðvitund um stund. Eftir þetta hafi hann farið fram og í símann til að hringja í vinnuveitanda hennar. Hún kvaðst hafa farið í bol og peysu en þegar að hann hafi komið aftur hafi hann reynt að nauðga henni. Hann hafi ýtt henni niður og það hafi komið til átaka á milli þeirra. Hann hafi síðan farið aftur fram í eldhús. Þá hafi hún gripið síðbuxur og hlaupið að dyrunum og út á götu. Á hlaupunum hafi hún séð tvær konur sem buðu henni aðstoð. Hún hafi þegið aðstoðina. Ákærði hafi áður beitt kæranda ofbeldi. Þau hafa reynt að laga samskipti sín eftir þetta aðallega vegna barnanna. Hann hafi m.a. hjálpað henni með bílinn en þau hafa þó ekki búið saman.

A, gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið kvaðst hafa staðið fyrir utan heima hjá sér ásamt B vinkonu sinni og séð kæranda koma hlaupandi niður Suðurgötuna sokkalausa og á nærbuxunum. Hún hafi verið skjálfandi af hræðslu og grátandi. Þá hafi hún verið með klórrispur á hálsinum. Hún kvaðst hafa verið tekin hálstaki og lamin. Auðséð hafi verið að tekið hafi verið á henni. Hún hafi beðið um að hurðinni yrði lokað og þá hafi hún verið hrædd við karlmenn. B vinkona hennar hafi farið með hana inn í Kvennaathvarf.

Vitnið, Hlynur Þorsteinsson, læknir, [...], staðfesti áverkavottorð sitt fyrir dómi. Áverkar kæranda hafa getað átt við þá lýsingu sem hún hefur gefið af atburðum. Hún hafi tekið fram að hún hafi verið tekin með framhandleggjum ákærða og að hann hafi lyft henni upp.  Þetta hafi ákærði gert til að fingraför myndu ekki sjást á hálsi hennar.

Vitnið, Gísli Þorsteinsson, lögreglufulltrúi, [...], staðfesti skýrslu sína fyrir dómi. Hann man ekki eftir að kærandi hafi áður kvartað yfir samskiptum sínum við ákærða. Aðspurður kannaðist hann ekki við að hafa komið að rannsókn á máli út af húsbroti.

B, gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið er hjúkrunarfræðingur og kvaðst hafa verið í morgunkaffi hjá vinkonu sinni þegar kærandi hafi komið fáklædd til þeirra. Hún hafi verið hrædd og ekki náð andanum m.a. hafi hún verið hrædd við eiginmann vinkonu hennar. Hún hafi viljað láta loka hurðinni. Þá hafi hún verið með bjúg og sár á hálsinum auk þess sem hálsinn á henni hafi verið rauður. Á barkakýlinu hafi verið skrap og mynstur eins og eftir peysu. Fram hafi komið hjá henni að ákærði hafi tekið hana hálstaki og að hann hafi gert þetta áður.

II. Niðurstöður.

Af gögnum málsins þykir ljóst að upphaf þeirra átaka sem brutust út á milli ákærða og kæranda megi rekja til erfiðleika í sambúð þeirra. Þegar kærandi hafi komið heim að morgni miðvikudagsins 1. október 2003 hafi ætlunin verið að fara að sofa. Ákærði hafi verið heima.

Ákærða og kæranda ber allskostar ekki saman um þá atburðarrás sem fór í gang í framhaldi af þessu. Í ákæru segir að á tímabilinu frá klukkan 9:00 til 12:00, miðvikudaginn 1. október 2003 hafi ákærði ráðist að kæranda og tekið hana hálstaki og hrint henni til og frá með þeim afleiðingum að hún hlaut tognun í hálsvöðvum og hné og yfirborðsáverka á andliti og hársverði.

Ákærði hefur staðfastlega neitað að hafa veitt kæranda þá áverka sem í ákæru greinir. Á hinn bóginn hefur hann viðurkennt að einhver átök hafi átt sér stað á milli þeirra. Átökin hafi verið stympingar og hrindingar en þau hafi hrint hvort öðru til og frá. Átökin hafi orðið í kjölfar þess að kærandi hafi sagt honum frá sambandi sínu við aðra menn. Hann hafi orðið reiður og snúið hana af sér.

Framburður kæranda er að hluta til andstæður framburði ákærða. Í honum kemur fram að ákærði hafi ráðist að henni þegar hún hafi komið heim um morguninn og m.a. slegið hana í höfuðið. Eftir að kærandi hafi sofnað hafi ákærði vakið hana og viljað tala við hana um samband þeirra. Hann hafi síðan orðið brjálaður og m.a. tekið hana hálstaki og síðan rifið fötin utan af henni. Hún hafi að lokum hlaupið út þegar hann hafi verið að tala í símann inni í eldhúsi.

Vitnin A og B báru fyrir dómi að kærandi hafi komið hlaupandi fáklædd niður Suðurgötuna. Hún hafi verið hrædd og grátandi. Vitnin báru um áverka á hálsi kæranda og fram hafi komið hjá vitninu B sem starfað hafi sem hjúkrunarfræðingur að kærandi hafi verið með bjúg og sár á hálsinum auk þess sem hálsinn á henni hafi verið rauður. Þá hafi verið skrap á barkakýlinu og mynstur eins og eftir peysu.

Framburður kæranda hjá lögreglu og fyrir dómi hefur verið staðfastur. Þá lýsti hún árásinni strax að átökunum afloknum fyrir vitnunum B og A og síðar fyrir læknum á Slysa– og Bráðamóttöku Landspítala-Háskólasjúkrahús í Fossvogi. Að mati dómsins þykir frásögn kæranda af atburðum vera trúverðug. Byggist það mat á framsetningu hennar auk þess sem framburður vitna og áverkavottorð styðja frásögn hennar.

Óumdeilt er að til átaka kom á milli ákærða og kæranda og hefur ákærði viðurkennt fyrir dóminum að til átaka hafi komið á milli þeirra. Hann hafi verið reiður og þau hrint hvort öðru til og frá og að lokum hafi hann snúið hana af sér. Fram hefur komið hjá kæranda að ákærði hafi slegið hana í höfuðið og tekið hana hálstaki. Telja verður að áverkar kæranda hafi komið til í þessum átökum þeirra á milli. Ákærði hefur ekki getað gefið neinar aðrar skýringar á þeim. Dómurinn telur að sannað megi teljast að afleiðingar þær sem lýst er í ákæru verði raktar til atlögu ákærða gegn kæranda og hefur ákærður því gerst brotlegur við 1. mgr. 217. gr. alm. hegningarlaga nr. 19,1940.

Við refsimat í málinu verður að líta til þess, að samkvæmt frásögn kæranda hefur sambúð hennar og ákærða verið stormasöm allt frá því að þau giftust 14. ágúst 1999 og iðulega komið til átaka milli þeirra, án þess að séð verði að það hafi leitt til kærumála, en í þessu tilviki leggur ákærður hendur á kæranda í mikilli bræði og hníga gögnin frekar að því, að kærandi kunni að hafa valdið henni.  Þannig ber þeim saman um að ákærður hafi haldið að hún héldi fram hjá honum með öðrum manni og ákærður hafi þarna um morguninn viljað hafa við hana samfarir, en horfið frá því í miðjum klíðum til að hringja í yfirmann hennar á vinnustað hennar, sem styður þá frásögn hans, að hún hafi þarna tjáð honum eða gefið í skyn að hún væri með öðrum manni á vinnustað hennar og því hafi hann hringt þangað til að kanna hvað hæft væri í frásögn hennar.  Áverkar þeir sem sáust á kæranda benda ekki til þess að hann hafi tekið mjög harkalega á henni, en hún þó verið mjög miður sín á eftir. Þá er og rétt að hafa í huga að hún er sein til að kæra og gerir það ekki fyrr en í framhaldi af því að hún fær ekki son þeirra tekinn frá ákærða með lögregluvaldi og blandast því kærumál þetta  forræðisdeilu.

Ákærður hefur tvívegis hlotið refsingu fyrir brot á 25. og 27. gr. umferðarlaga. Árið 1985 30.000 króna sekt og árið 1988 45 daga varðhald og var í bæði skiptin sviptur ökurétti.

Í ljósi aðstæðna og atvika í máli þessu þykir rétt samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 57. gr. laga nr. 57,1940 sbr. lög nr. 22,1955 að refsiákvörðun í máli þessu verði frestað og komi ekki til hennar ef ákærður haldi almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940 í 3 ár.

Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar þar með talin málsvarnarlaun til skipaðs verjanda Brynjars Níelssonar hrl. sem ákveðast 80.000 krónur.

Smátöf á dómsuppsögu er vegna anna.

Mál þetta flutti af hálfu ákæruvaldsins Arnþrúður Þórarinsdóttir fulltrúi sýslumannsins í Hafnarfirði.

Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Ákvörðun refsingar á hendur ákærða Kjartani Ólafssyni er frestað og kemur ekki til hennar, haldi ákærður almennt skilorð samkvæmt 57. gr. laga nr. 19,1940, sbr. lög nr. 22,1955 í 3 ár.

Ákærður greiði allan kostnað sakarinnar þar með talin málsvarnarlaun til skipaðs verjanda Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns 80.000 krónur.