Print

Mál nr. 235/2011

Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi
  • Sératkvæði

Miðvikudaginn 20. apríl 2011.

Nr. 235/2011.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi. Sératkvæði.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. apríl 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. apríl 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hennar er til meðferðar fyrir Hæstarétti, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 16. júní 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 17. desember 1010 var varnaraðili dæmd í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir fjölmörg brot framin annars vegar á tímabilinu apríl til ágúst 2008 en hins vegar september 2009 til október 2010. Voru það einkum auðgunar- og umferðarlagabrot. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til greiðlegrar játningar varnaraðila en sú háttsemi sem ákært var fyrir tengdist með einum eða öðrum hætti fíkniefnaneyslu hennar. Varnaraðili áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar 13. janúar 2011.

Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 allt frá 22. október 2010, samkvæmt þremur úrskurðum héraðsdóms Reykjaness, 22. október 2010, 19. nóvember 2010 og 14. janúar 2011, sem staðfestir voru í Hæstarétti með dómum 26. október 2010 í máli nr. 605/2010, 23. nóvember 2010 í máli nr. 649/2010 og 18. janúar 2011 í máli nr. 39/2011, en í síðastgreindum dómi var kveðið á um að varnaraðili skyldi sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hennar væri til meðferðar fyrir Hæstarétti, en þó eigi lengur en til 14. apríl 2011 klukkan 16. Eins og áður segir gekk hinn kærði úrskurður 15. apríl 2011 og með honum var varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 16. júní 2011 klukkan 16. Ákveðið hefur verið að mál varnaraðila vegna áfrýjunar dóms Héraðsdóms Reykjaness 17. desember 2010 verði flutt í Hæstarétti 23. maí 2011.

Samkvæmt framanrituðu hefur varnaraðili nú þegar sætt gæsluvarðhaldi í tæplega sex mánuði og verða þeir að minnsta kosti sjö verði hinn kærði úrskurður staðfestur. Þegar litið er til þessa langa tíma verður ekki fullyrt á sama hátt og áður að ætla megi að varnaraðili muni halda áfram brotum meðan máli hennar er ekki lokið þannig að nauðsyn sé á að hún sæti áfram gæsluvarðhaldi, sbr. c. lið 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómsorð:

 Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Sératkvæði

Páls Hreinssonar

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness 17. desember 2010 kemur fram að varnaraðili sé fædd árið [...]. Samkvæmt sakavottorði hlaut hún á árunum 1989-1997 sjö fangelsisdóma fyrir skjalafals, þjófnað og fjársvik, þar af þrjá óskilorðsbundna. Þá hlaut hún hinn 11. september 2002 dóm fyrir líkamsárás, en var ekki gerð sérstök refsing. Hinn 13. febrúar 2004 hlaut varnaraðili eins mánaðar fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir þjófnað og fjögurra mánaða fangelsisdóm 26. júlí 2006, fyrir þjófnaðar- og fíkniefna- og umferðarlagabrot. Næst var varnaraðili hinn 15. desember 2006 dæmd í sex mánaða fangelsi fyrir skjalafals, gripdeild, þjófnað og fjársvik og þá hinn 20. mars 2007 í tólf mánaða fangelsi fyrir þjófnaðar-, fjársvika-, nytjastuldar- og umferðarlagabrot. Varnaraðili hlaut síðan dóm fyrir fjársvik hinn 12. október 2007. Síðast hlaut hún dóm 17. desember 2010 sem áfrýjað hefur verið til Hæstaréttar. Í honum var varnaraðili sakfelld fyrir á fjórða tug auðgunarbrota, auk umferðarlagabrota og nytjastuldar. Um var að ræða tvær brotahrinur annars vegar á tímabilinu 28. apríl 2008 til 20. ágúst 2008 og hins vegar frá 3. september 2009 til 21. október 2010, er hún var síðast handtekin. Í millitíðinni afplánaði hún 12 mánaða refsidóm sem hún hlaut 20. mars 2007, þá einkum fyrir auðgunarbrot.

Með framangreindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til hins kærða úrskurðar tel ég að það beri að staðfesta hann.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. apríl 2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að dómþoli, X, kt. [...], [...], [...], verði með úrskurði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hennar er til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 16. júní 2011, kl. 16.00. 

Dómþoli mótmælir kröfunni og gerir aðallega þá kröfu að henni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 605/2010 hafi dómfelldu verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til 17. desember 2010, á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála. Þann sama dag hafi hún hlotið tveggja ára fangelsisdóm fyrir fjölmörg afbrot, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-566/2010 og í kjölfarið hafi henni með úrskurði héraðsdóms verið gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga um meðferð sakamál til dagsins í gær kl. 16.00.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-566/2010 sé ekki fullnustuhæfur þar sem dómfellda ákvað að áfrýja dómnum til Hæstaréttar Íslands, sbr. yfirlýsingu hennar þar að lútandi er hafi borist ríkissaksóknara hinn 13. janúar sl. Áfrýjunarstefna var gefin út 17. janúar sl. og samkvæmt upplýsingum Hæstaréttar verður mál dómfelldu flutt 3. júní nk. og því megi vera ljóst að dómur gangi í málinu innan þess tíma sem gæsluvarðhaldskrafan tiltekur.

Með framangreindum héraðsdómi hafi dómfellda verið sakfelld fyrir á fjórða tug auðgunarbrota, auk umferðarlagabrota og nytjastuldar. Um hafi verið að ræða tvær brotahrinur, annars vegar á tímabilinu 28. apríl 2008 til 20. ágúst 2008 og hins vegar frá 3. september 2009 til 21. október 2010, er hún hafi síðast verið handtekin. Í millitíðinni hafi dómþoli afplánað 12 mánaða refsidóm sem hún hafi hlotið 20. mars 2007, einkum fyrir auðgunarbrot.

Það sé mat lögreglustjóra að dómfellda mun halda áfram brotum verði hún látin laus. Nauðsynlegt sé því að henni verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hennar í Hæstarétti Íslands.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr.  laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Fyrir liggur að dómfellda ákvað að áfrýja áðurgreindum dómi til Hæstaréttar Íslands. Með vísan til þess sem að framan er rakið er fallist á að líkur séu til þess að ákærða muni halda áfram brotastarfsemi á meðan mál hennar er til meðferðar hjá Hæstarétti. Samkvæmt þessu er fallist á að uppfyllt séu skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að taka til greina kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Dómfellda, X, kt. [...], sæti áfram gæsluvarðhaldi, á meðan mál hennar er til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 16. júní 2011, kl. 16.00.