- Brot gegn valdstjórninni
- Ærumeiðingar
- Dómari
- Ítrekun
|
Fimmtudaginn 21. febrúar 2013. |
Nr. 497/2012.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn Berki Birgissyni (Brynjar Níelsson hrl.) |
Brot gegn valdstjórninni. Ærumeiðing. Dómari. Ítrekun.
B var sakfelldur fyrir ærumeiðingar og brot gegn valdstjórninni með því að hafa haft uppi niðrandi og ósæmileg ummæli um héraðsdómara og hrækt á hann er B var kominn fyrir dóm sem gæsluvarðhaldsfangi í tilefni af kröfu ákæruvaldsins um að honum yrði gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem honum hafði verið veitt reynslulausn á. Var refsing B ákveðin fangelsi í sex mánuði með hliðsjón af 1. mgr. 73. gr. og 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brotið ítrekað gegn síðarnefndu ákvæði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. júlí 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærða, sem verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir þá háttsemi, sem í ákæru greinir. Auk þeirra atriða, sem getið er í héraðsdómi, verður við ákvörðun refsingar ákærða að gæta að því að þegar hann framdi þau brot, sem hann er sakfelldur fyrir, var hann kominn fyrir dóm sem gæsluvarðhaldsfangi í tilefni af kröfu ákæruvaldsins um að honum yrði gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sem honum hafði verið veitt reynslulausn á. Hér verður því jafnframt beitt 1. mgr. 73. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu gættu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Börkur Birgisson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 269.413 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 27. júní 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var 22. júní sl., er höfðað af ríkissaksóknara með ákæru dagsettri 1. júní 2012, á hendur Berki Birgissyni, kt. [...], [...],[...], fyrir ærumeiðingar og brot gegn valdstjórninni, með því að hafa föstudaginn 27. apríl 2012, í dómsal 1 í Héraðsdómi Reykjaness við Fjarðargötu 9 í Hafnarfirði, þar sem tekin var fyrir krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að ákærði skyldi hefja afplánun eftirstöðva fyrri dóma vegna rofs á reynslulausn, í tvígang kallað A héraðsdómara ,,tussu“ er hún kvað upp úrskurðarorð um afplánun eftirstöðva og í kjölfar uppkvaðningar úrskurðarins hrækt á sama héraðsdómara inni í dómsalnum, en hrákinn hafnaði á skikkju og hægra handarbaki dómarans.
Er talið að háttsemi þessi varði við 1. mgr. 106. gr. og 234., sbr. b. lið 2. töluliðar 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Er þess krafist að ákærði verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ákærði neitar sök. Hann hefur viðurkennt að hafa hrækt á héraðsdómarann svo sem ákæra miðar við. Þá hefur hann viðurkennt að hafa í tvígang kallað ,,tussa“ í dómsalnum, en þeim orðum verið beint að öðrum en héraðsdómaranum. Af hálfu verjanda ákærða er þess krafist að ákærða verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa og að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu frá föstudeginum 27. apríl 2012 var lögregla þann dag kl. 11.12 að flytja Börk Birgisson, ákærða í máli þessu, frá fangelsinu að Litla-Hrauni að Héraðsdómi Reykjaness. Í skýrslunni kemur fram að málflutningur hafi farið fram í héraðsdómi og hlé verið gert. Eftir hlé hafi ákærði orðið æstur og tekið að stara á héraðsdómarann. Hafi héraðsdómarinn, A, óskað eftir því að ákærði myndi ekki stara á sig. Hafi ákærði orðið enn æstari og héraðsdómari þá gert hlé. Eftir hlé hafi ákærði hnerrað með orðunum ,,tussa“. Hafi dómari beðið verjanda ákærða um að hafa hemil á ákærða. Aftur hafi ákærði hnerrað orðin ,,tussa“. Dómari hafi lokið við að lesa upp úrskurðarorð sín og í framhaldi yfirgefið dómsalinn. Hafi ákærði gengið í átt að dómaranum og hrækt á dómarann. Í framhaldi hafi ákærði verið færður í handjárn.
Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins hefur ákærði greint svo frá að hann hafi umrætt sinn verið að bíða þess að ákvörðun yrði tekin um hvort ákærði þyrfti að afplána eftirstöðvar refsingar vegna hugsanlegra rofa á reynslulausn. Hafi ákærði haft af því mikla hagsmuni hvort hann þyrfti að fara aftur í fangelsi eða hvort hann gæti farið heim til fjölskyldu sinnar. Hafi hann verið ósáttur við ákvörðun dómsins um að hann þyrfti að afplána refsingu og lýst þeirri vanþóknun sinni með því að hrækja á héraðsdómarann. Ákærði kvaðst hafa setið við hlið verjanda síns og verjandinn setið nær dómaranum. Hafi ákærði staðið á fætur, snúið sér við og hrækt í átt að dómaranum. Ekki hafi hann gengið í átt að honum og því ekki reynt að nálgast dómarann. Ákærði kvaðst ekki hafa horft óvenjulega á dómarann í þinghaldinu og alls ekki ógnað honum. Ákærði kvaðst viðurkenna að hafa í tvígang sagt ,,tussa“ í dómsalnum. Þeim orðum hafi ekki verið beint að dómaranum. Ekki kvaðst ákærði vilja upplýsa að hverjum þeim orðum hafi verið beint.
A héraðsdómari kvaðst hafa tekið fyrir í héraðsdómi kröfu ákæruvalds um að ákærði skyldi afplána eftirstöðvar refsingar vegna rofa á reynslulausn. Hafi þurft að gera hlé á þinghaldi vegna gagna sem hafi þurft að afla. Eftir að þinghald hafi fram haldið og verjandi ákærða verið að kynna sér yfirlýsingu hafi ákærði setið og horft ógnandi á dómarann. Hafi A haft orð á þessu en ákærði haldið áfram að horfa ógnandi á hana. Hafi hún gert hlé á þinghaldinu. Hafi hún tjáð verjanda ákærða að hún vildi ræða einslega við verjandann vegna ákærða þar sem hún hafi viljað að verjandinn myndi róa ákærða niður. Ákærði hafi hins vegar komið að og ekki orðið af því að þau ræddu einslega saman. Ákærði hafi verið ósáttur við þessa fyrirætlan. Í framhaldi af þessu hafi A kveðið upp úrskurð sinn um að ákærði skyldi afplána eftirstöðvar refsingar. Á sama tíma hafi ákærði í tvígang látið sem hann hóstaði og um leið sagt ,,tussa“. Þessum orðum hafi ákærði greinilega beint að A og engum öðrum. Eftir að úrskurðarorð hafi verið lesin upp hafi A slitið þinghaldi og gengið í átt að dyrum dómsalarins. Hafi hún séð útundan sér að eitthvað væri í uppsiglingu hjá ákærða. Hafi hún séð hann koma að henni um leið og hann hafi hrækt á hana. Hráki frá ákærða hafi lent á skikkju A og hægra handarbaki hennar.
B dómritari kvaðst hafa verið í þinghaldinu. Ákveðið hafi verið að taka þinghaldið upp. Um leið og A héraðsdómari hafi lesið upp úrskurðarorð um að ákærði skyldi afplána eftirstöðvar refsingar hafi ákærði í tvígang hóstað og sagt um leið orðin ,,tussa“. Þeim orðum hafi ákærði beint að A en hann hafi horft á hana um leið og hann hafi sagt þessi orð. Hafi B setið nálægt ákærða um leið og þetta hafi verið og horft á hann um leið og úrskurðarorðin hafi verið lesin upp. Eftir að A hafi slitið þinghaldinu hafi ákærði staðið upp. Hafi hann safnað hráka uppi í munni sínum með tilheyrandi hávaða og B séð það. Hafi hana grunað hvað myndi gerast og því beygt sig niður. Ákærði hafi gengið í átt að A og hrækt á hana. Hafi hrákinn lent á A.
C, aðstoðarsaksóknari hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, kvaðst hafa verið í þinghaldi í Héraðsdómi Reykjaness er fyrir hafi verið tekin krafa ákæruvalds um að ákærði skyldi afplána eftirstöðvar refsingar vegna rofs á reynslulausn. Í því þinghaldi hafi ákærði í tvígang kallað ,,tussa“ og hafi ákærði beint þeim orðum að héraðsdómaranum A, sem tekið hafi fyrir mál ákærða. Hafi C upplifað aðstæður þannig að ákærði hafi beint orðum sínum til A. Einnig hafi hún orðið vitni að því er ákærði hafi hrækt á héraðsdómarann. Áður en ákærði hafi hrækt hafi hann staðið á fætur, safnað hráka saman í munnholi með tilheyrandi hljóðum og stigið skref í átt að A áður en hann hafi hrækt.
D, fulltrúi hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, kvaðst hafa verð stödd í þessu sama þinghaldi. Hafi ákærði verið æstur og meðal annars sent sækjendum svokallað ,,fokk“ merki með fingrum. Í tvígang hafi verið gert hlé á þinghaldinu. Þegar A héraðsdómari hafi lesið upp úrskurðarorð sín hafi ákærði í tvígang hóstað og um leið sagt orðin ,,tussa“. Þeim orðum hafi augljóslega verið beint að A. Eftir að A hafi slitið þinghaldinu hafi ákærði staðið á fætur, gengið í átt að A og hrækt á hana. Kvaðst D hafa farið og hitt A eftir þinghaldið og A verið í miklu uppnámi vegna framferðis ákærða.
E lögreglumaður kvaðst hafa annast flutning ákærða í dóminn þennan dag. Hafi ákærði verið fremur rólegur en orðið æstur eftir að í ljós hafi komið að annar einstaklingur í sömu stöðu og ákærði hafi verið úrskurðaður til að afplána eftirstöðvar refsingar vegna rofa á reynslulausn. Er héraðsdómarinn A hafi lesið upp úrskurðarorð sín hafi ákærði í tvígang látið sem hann hnerraði og um leið sagt orðin ,,tussa“. E kvaðst í fyrstu hafa setið fyrir aftan ákærða en fært sig nær honum er ákærði hafi verið orðin órólegur. Hafi ákærði verið á ská fyrir aftan ákærða er þessi orð hafi fallið. Hafi E séð að ákærði hafi beint þeim að A. Eftir að A hafi slitið þinghaldinu hafi ákærði hrækt á hana.
Niðurstaða:
Ákærða er gefið að sök ærumeiðingar og brot gegn valdstjórninni með því að hafa föstudaginn 27. apríl 2012 í dómsal 1 í Héraðsdómi Reykjaness, í tvígang kallað A héraðsdómara ,,tussu“ og að hafa í kjölfar uppkvaðningar úrskurðar um að ákærði skyldi afplána eftirstöðvar refsingar vegna rofs á reynslulausn hrækt á dómarann og hrákinn hafnað á skikkju dómarans og hægra handarbaki.
Ákærði játar sök að hluta til. Hefur hann viðurkennt að hafa hrækt á A héraðsdómara en þá háttsemi telur hann vera ærumeiðingu sem varði við 234. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði hefur einnig viðurkennt að hafa sagt orðin ,,tussa“ í tvígang í dómsalnum en þeim orðum hafi ekki verið beint að héraðsdómaranum. Með vísan til samhljóða framburða þeirra vitna sem komu fyrir dóminn telur dómurinn sannað að ákærði hafi beint orðunum ,,tussa“ að héraðsdómaranum A.
Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 19/1940 skal sá sæta fangelsi allt að 6 árum sem ræðst með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi á opinberan starfsmann þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu eða út af því. Dómstólar hafa áður um það dæmt að sú háttsemi að hrækja á opinberan starfsmann þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu, varði við 1. mgr. 106. gr. laga nr. 19/1940. Verður um það atriði dæmt á sama veg í máli þessu. Með hliðsjón af því er það niðurstaða dómsins að með því að hrækja á A héraðsdómara hafi ákærði ráðist með ofbeldi á opinberan starfsmann þegar hann var að gegna skyldustarfi sínu. Með hliðsjón af því verður ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. laga nr. 19/1940.
Samkvæmt 234. gr. laga nr. 19/1940 varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári að meiða æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum. Í máli þessu hefur verið slegið föstu að ákærði hafi kallað A héraðsdómara ,,tussu“ í tvígang í þinghaldi. Að kalla dómara því nafni í þinghaldi var móðgun í orðum og hefur án nokkurs vafa verið til þess fallið að meiða æru dómarans. Með hliðsjón af því verður ákærði jafnframt sakfelldur fyrir brot gegn 234. gr. laga nr. 19/1940.
Ákærði er fæddur í júní 1979. Á hann að baki sakaferil frá árinu 1997. Á árunum 1997 til 2003 var ákærði þrisvar sinnum dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Þá gekkst hann á þessu tímabili einu sinni undir viðurlagaákvörðun fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Ákærði var með dómi Hæstaréttar 16. júní 2005 dæmdur í 7 ára og 6 mánaða fangelsi fyrir tilraun til manndráps og annarra brota gegn almennum hegningarlögum og umferðarlögum. Var honum veitt reynslulausn 6. ágúst 2009 í þrjú ár á eftirstöðvum refsingar 900 dögum. Ákærði rauf skilyrði reynslulausnarinnar og var 27. apríl 2012 gert að afplána eftirstöðvarnar. Ákærða var með dómi 8. desember 2008 ekki gerð sérstök refsing vegna brota gegn 1. mgr. 106. gr. laga nr. 19/1940. Loks var ákærða gerð sekt í dómi 26. nóvember 2009 vegna brota gegn umferðarlögum.
Háttsemi ákærða í máli þessu var ósæmileg og niðrandi en hann hefur verið sakfelldur fyrir að hrækja á héraðsdómara og kalla hana ,,tussu“. Samkvæmt 3. mgr. 106. gr. laga nr. 19/1940 má hækka refsingu allt að helmingi hafi sá sem dæmdur er fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. áður sætt refsingu samkvæmt greininni eða verið refsað fyrir brot sem tengt er við vísvitandi ofbeldi. Ákærði hefur áður verið dæmdur fyrir brot gegn valdstjórninni. Þá hefur hann innan ítrekunartíma áður hlotið þungan dóm fyrir ofbeldisbrot. Með hliðsjón af þessari ítrekunarheimild er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Verður refsingin ekki bundin skilorði.
Ákærði greiði sakarkostnað svo sem í dómsorði er mælt fyrir um.
Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Börkur Birgisson, sæti fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hólmgeirs Elíasar Flosasonar, héraðsdómslögmanns, 502.000 krónur og ferðakostnað verjandans að fjárhæð 40.185 krónur.