Print

Mál nr. 130/2016

SPB hf. (Andri Árnason hrl.)
gegn
Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. (Guðmundur Ingvi Sigurðsson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Réttindaröð
  • Lánssamningur
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem krafa E ehf. að fjárhæð 165.693.039.411 krónur var viðurkennd við slit SPB hf. og henni skipað í réttindaröð eftir 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafan var tilkomin vegna lánveitinga SÍ til SPB hf. í formi daglána, veðlána og verðbréfalána, en óumdeilt var að SPB hf. hafði notað lánsféð til að veita lán til þriggja viðskiptabanka sem síðar voru teknir til slita. Slitastjórn SPB hf. hafnaði að viðurkenna kröfu E ehf. á þeim grundvelli að um málamyndagerning hefði verið að ræða, að gerningarnir hefðu verið haldnir ógildingarannmörkum, að forsendur hefðu brostið og unnt hefði verið að rifta þeim á grundvelli reglna XX. kafla laga nr. 21/199. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom meðal annars fram að engin skylda hafi getað hvílt á SÍ að upplýsa SPB hf. um vitneskju sína um erfiða stöðu viðskiptabankanna þriggja þar sem starfsmenn SÍ hefðu verið bundnir þagnarskyldu skv. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Yrði þvert á móti að ætla að SPB hf., sem starfandi fjármálafyrirtæki sem sérhæfði sig í viðskiptum á millibankamarkaði, hefði sjálft þurft að leggja mat á og bera áhættu af því við hverja það kaus að eiga viðskipti og hvaða áhættu rétt hefði verið að taka í því tilliti. Það var því mat dómsins að engin efni væru til að skuldbindingum SPB hf. yrði vikið til hliðar á grundvelli þeirra ógildingarreglna laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga sem SPB hf. hafði einkum vísað til. Þá var tekið fram að þrátt fyrir að gögn málsins hefðu bent til þess að SÍ hafði talið að nauðsynlegt væri að viðskiptabankarnir þrír hefðu nægilegan aðgang að lausafé væri ekkert í málinu sem bent hefði til þess að SÍ hefði sérstaklega hvatt til eða ýtt undir að því markmiði yrði náð með milligöngu SPB hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. febrúar 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2016, þar sem krafa varnaraðila að fjárhæð 165.693.039.411 krónur var viðurkennd við slit sóknaraðila og henni skipað í réttindaröð eftir 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði að viðurkenna kröfu varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, en til vara að viðurkennd verði krafa sín við slit sóknaraðila að fjárhæð 132.000.000.000 krónur og henni skipað í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var mál þetta munnlega flutt 2. maí 2016.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, SPB hf., greiði varnaraðila, Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf., 2.500.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2016.

                Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar varnaraðila 7. desember 2010. Um lagagrundvöll vísaði slitastjórn til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Málið var fyrst tekið til úrskurðar 26. október sl. en endurflutt og tekið til úrskurðar að nýju 12. janúar sl.

                Sóknaraðili er Eignsafn Seðlabanka Íslands ehf., Kalkofnsvegi 1, Reykjavík en varnaraðili er SPB hf., Rauðarárstíg 27, Reykjavík.

                Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa hans, sem lýst var fyrir slitastjórn varnaraðila 3. nóvember 2009, verði viðurkennd sem almenn krafa, samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 165.693.039.411 krónur, en til vara að fjárhæð 132.000.000.000 krónur. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar.

                Varnaraðili krefst þess að ofangreindum kröfum verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.

                Kröfugerð sóknaraðila tók breytingum undir rekstri málsins en nánari grein er gerð fyrir því hér síðar.

                Eins og mál þetta er vaxið þykir rétt að gera hér fyrst grein fyrir upphafi slitameðferðar varnaraðila, kröfulýsingu sóknaraðila og afdrifum hennar við slitameðferðina, auk lýsingar á meðferð málsins fyrir dómi. Ekki er teljandi ágreiningur um málsatvik hvað þetta varðar.

                Þar á eftir verður í sérstökum kafla gerð grein fyrir málsatvikalýsingum beggja málsaðila varðandi tilurð kröfunnar og forsendur sem þeir telja skipta máli svo samhengi málsástæðna sem þeir byggja á sé ljóst, en verulega ber í milli varðandi það hvað hvor aðili um sig telur skipta máli í þessu samhengi. Verður málatilbúnaður hvors aðila fyrir sig ekki skilinn með fullnægjandi hætti að mati dómsins nema umræddum málavaxtalýsingum verði gerð nokkuð ítarleg skil.

I

                Hinn 21. mars 2009 ákvað Fjármálaeftirlitið að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila og víkja til hliðar félagsstjórn hans samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Varnaraðila var skipuð skilanefnd 27. mars 2009 og slitastjórn 19. maí s.á. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2009 var varnaraðila veitt heimild til greiðslustöðvunar til 15. júní 2009, en sú heimild var framlengd til 15. desember 2009, svo aftur til 15. september 2010 og loks til 15. mars 2011. Frestdagur við slitameðferðina er 15. desember 2008, sbr. ákvæði III til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Kröfulýsingarfresti lauk 3. nóvember 2009.

                Með kröfulýsingu, 3. nóvember 2009, lýsti fjármálaráðuneytið f.h. ríkissjóðs kröfu við slitameðferð varnaraðila sem veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Fékk krafa þessi númerið 190 við í kröfuskrá og er grundvöllur deilna aðila í þessu máli. Kröfunni var lýst í þremur meginliðum og voru tveir þeirra vegna lánveitinga Seðlabanka Íslands til varnaraðila í formi annars vegar daglána og hins vegar veðlána, en þriðji liðurinn vegna verðbréfalána sem fjármálaráðuneytið hafði veitt varnaraðila. Er kröfunni var lýst hafði Seðlabanki Íslands framselt fjármálaráðuneytinu kröfur sínar vegna daglána og veðlána. Kröfurnar voru síðar framseldar allar til sóknaraðila.

                Krafa vegna veðlána, gjaldfallinna 22. október 2008, var að fjárhæð 131.237.112.471 króna, ásamt dráttarvöxtum fram til 3. nóvember 2009, að fjárhæð 31.251.194.786 krónur (að frádreginni innborgun að fjárhæð kr. 2.269.768.774 krónur.

Samtals nam þessi kröfuliður því 160.218.538.483 krónum.

                Krafa vegna daglána, gjaldfallinna 31. desember 2008, var að fjárhæð 10.556.020.450 krónur, ásamt áföllnum dráttarvöxtum fram til 3. nóvember 2009, að fjárhæð 1.955.502.788 krónur. Samtals nam þessi kröfuliður 12.511.523.238 krónum.

                Krafa vegna verðbréfalána, gjaldfallinna 17. október 2008, að fjárhæð 23.914.242.320 krónur, ásamt áföllnum dráttarvöxtum til 3. nóvember 2009, að fjárhæð 5.592.716.971 króna (að frádregnum innborgunum á höfuðstól að fjárhæð 927.530.275 krónur og inn á dráttarvexti að fjárhæð 1.108.130.203 krónur. Samtals nem þessi kröfuliður 27.471.298.813 krónum.

                Auk framangreindra krafna var lýst kröfu vegna lögfræðikostnaðar að fjárhæð 1.003.020.408 krónur.

                Í kröfulýsingu kom fram að eftirtaldar eignir hefðu verið settar Seðlabankanum að veði til tryggingar veðlánum varnaraðila:

 

ISIN

Flokkur

Gjaldm.

Nafnverð

IS0000015444

KAUP 08 1114

ISK

10.000.000.000

IS0000015451

KAUP 08 1215

ISK

20.000.000.000

IS0000016103

GLB 08 1103

ISK

4.900.000.000

XS0327897491

GLB 09 1028

ISK

19.100.000.000

XS0337049091

GLB 09 0618

ISK

2.165.000.000

XS0356469493

GLBIRFLOAT 03/09

ISK

10.000.000.000

IS0000017614

LAIS 09 0401

ISK

8.000.000.000

XS0337005390

LANISL Float 06/09

ISK

10.000.000.000

XS0354616988

LANISL Float 04/09

ISK

47.000.000.000

 

 Kemur fram í greinargerð sóknaraðila að 2.269.768.774 krónur hefðu þegar verið greiddar inn á skuld varnaraðila vegna veðlána, en um hafi verið að ræða greiðslu vegna uppgjörs sem falið hafi í sér veðbandslausn á skuldabréfinu LAIS 09 0504, ISIN IS0000017937, samkvæmt samkomulagi sem gert hafi verið 16. júlí 2009 og hafi fjárhæðinni verið ráðstafað til greiðslu áfallinna dráttarvaxta.

                Til tryggingar á daglánum til varnaraðila hafi eftirtaldar eignir settar Seðlabankanum að veði:

ISIN

Flokkur

Gjaldm.

Nafnverð

XS0327897491

GLB 09 1028

ISK

525.000.000

XS0337049091

GLB 09 0618

ISK

40.000.000

IS0000015436

KAUP 08 1015

ISK

10.000.000.000

                Lýsir sóknaraðili því að framangreind verðbréf hafi verið lögð fram til tryggingar í reglulegum dag- og veðlánaviðskiptum varnaraðila við Seðlabankann. Samkvæmt veðsamningi aðila þá standa veðin til tryggingar öllum fjárskuldbindingum sem veðsali takist á hendur gagnvart Seðlabankanum hvort sem sé vegna viðskipta eða vegna trygginga í stórgreiðslukerfi Seðlabankans. Veðin standi til tryggingar á skilvísri og skaðlausri greiðslu á framangreindum fjárskuldbindingum hvort sem um sé að ræða höfuðstól, vexti eða hvers kyns kostnað sem af vanefndum kunni að hljótast.

 Þá er einnig til þess vísað að varnaraðili hafi einnig átt í beinum verðbréfalánaviðskiptum við fjármálaráðuneytið, en framkvæmd þeirra lána hafi verið í höndum Seðlabankans. Til tryggingar á skuldbindingum varnaraðila vegna þessa hafi eftirfarandi verðbréf verið sett fjármálaráðuneytinu að veði:

 

ISIN

Flokkur

Gjaldm.

Nafnverð

IS0000006989

RIKB 13 0517

ISK

799.101.712

XS0205348427

HFF150914

ISK

290.238.464

XS0195066146

HFF150224

ISK

73.218.388

XS0195066658

HFF150644

ISK

2.490.921.131

XS0336519961

GLB 09 1217

ISK

10.345.000.000

XS0337049091

GLB 09 0618

ISK

7.795.000.000

XS0327897491

GLB 09 1028

ISK

375.000.000

 

                Kveður sóknaraðili að framangreind veð vegna verðbréfalánaviðskipta varnaraðila hafi verið lögð fram í samræmi við reglur um verðbréfalán Seðlabankans f.h. ríkissjóðs til aðalmiðlara ríkisverðbréfa og í samræmi við lög nr. 46/2005, um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.

                Í kröfulýsingu komi fram að greiddar hafi verið inn á skuld varnaraðila 285.528.228 krónur, sem sé innflæði af tryggingarbréfum frá 17. október 2008 til 3. nóvember 2009 og hafi fjárhæðinni alfarið verið ráðstafað til greiðslu dráttarvaxta. Þá hafi einnig verið greiddar inn á skuldina 1.750.132.250 krónur, sem sé innflæði vegna hlutalokunar verðbréfalána frá 17. október 2008 til 3. nóvember 2009, en af þeirri fjárhæð hafi 927.530.275 krónum verið ráðstafað inn á höfuðstól kröfunnar, en 822.601.975 krónum hafi verið ráðstafað til greiðslu dráttarvaxta. Heildargreiðslur inn á höfuðstól verðbréfalána nemi því 927.530.275 krónum og heildargreiðslur upp í áfallna dráttarvexti nema því 1.108.130.203 krónum.

                Slitastjórn varnaraðila hafnaði framangreindum kröfum að svo stöddum með bréfi 19. nóvember 2009. Haldnir voru fundir til að freista þess að jafna ágreining og með bréfi 11. ágúst 2010 hafnaði slitastjórn alfarið kröfum vegna veðlána og daglána en féllst á hluta kröfu vegna verðbréfalána eða nánar tiltekið kröfu að fjárhæð 4.324.620.544 krónur, ásamt dráttarvöxtum til 3. nóvember 2009, að fjárhæð 610.097.724 krónur. Var krafan viðurkennd, sem veðkrafa samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991, að því leyti sem henni yrði fullnægt af andvirði viðkomandi veða en það sem eftir stæði sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Með þessari afstöðu hafnaði slitastjórn varnaraðila í raun að viðurkenna kröfur vegna þeirra lánveitinga þar sem skuldabréf útgefin af Glitni banka hf. voru sett fram sem trygging, en önnur þau bréf sem sett höfðu verið til tryggingar umræddum lántökum voru ekki gefin út af viðskiptabönkunum þremur, Landsbanka Íslands hf., Glitni banka hf. og Kaupþingi hf.

                Sóknaraðili mótmælti framangreindri afstöðu og fundir voru haldnir til að jafna ágreining en án árangurs. Ágreiningi aðila ver því vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur til úrlausnar.

                Mál þetta hefur verið lengi til meðferðar hjá dómstólnum. Það var þingfest 24. janúar 2011. Sóknaraðili lagði fram greinargerð sína 3. maí sama ár en varnaraðili 15. desember sama ár. Sóknaraðili setti fram kröfu um dómkvaðningu matsmanna 23. janúar 2012 en um beiðnina varð ágreiningur sem endanlega var leiddur til lykta með dómi Hæstaréttar í máli nr. 376/2012 sem kveðinn var upp 11. júní 2012 og var fallist á kröfu sóknaraðila. Fór dómkvaðningin fram til að leiða í ljós verðmæti þeirra veðsettu skuldabréfa sem lögð voru fram til tryggingar kröfum sóknaraðila.  Matsgerð var lögð fram á dómþingi 27. júní 2013, en málinu hafði verið frestað í tvígang mánuðina þar á undan vegna nauðasamningsumleitana. Við fyrirtöku málsins 8. október 2013 kvað sá dómari sem farið hafði með málið upp úrskurð um vanhæfi sitt vegna tengsla við nafngreint vitni sem þá lá fyrst fyrir að yrði kallað til skýrslugjafar við aðalmeðferð. Þann sama  dag tók sá dómari sem nú fer með málið við rekstri þess.

                Á grundvelli verðmats í framangreindri matsgerð leysti sóknaraðili til sín undirliggjandi veð. Sætti varnaraðili sig við það verðmat. Bókaði sóknaraðili um að hann myndi af þessum sökum lækka kröfu sína en varnaraðili að hann héldu uppi öllum sömu málsástæðum og áður en teldi að með því að leysa til sín veðin ætti sóknaraðili ekki frekari kröfur á hendur varnaraðila við slitameðferðina.

                Ágreiningur varð um gagnaöflun sem laut að framlagningu endurrita af skýrslum sem nánar tilgreindir aðilar höfðu gefið fyrir rannsóknarnefnd Alþingis. Lauk þeim ágreiningi endanlega með dómi Hæstaréttar 3. júní 2014 í máli nr. 329/2014.

                Eftir framangreint tímamark reyndu aðilar að ná sáttum en þær tilraunir reyndust árangurslausar.

                Í málinu hefur sóknaraðili lagt fram gögn sem sýna að hann hafði uppi sáttaboð til varnaraðila sem hann óskaði eftir að yrði borið undir atkvæði á kröfuhafafundi. Boðaði slitastjórn varnaraðila til slíks fundar en ekki kom til atkvæðagreiðslu þar sem slitastjórn taldi að ekki hefði verið nægilega sýnt fram á eignarhald á nánar tilgreindum kröfum og því ekki ljóst hvort atkvæðisréttur ætti að fylgja þeim við umrædda atkvæðagreiðslu. Sóknaraðili mótmælti þessari framgöngu slitastjórnar og hefur byggt á því að mikill meirihluti kröfuhafa hafi verið samþykkur sáttaboði hans og felur varakrafa  hans í málinu í sér viðurkenningu á fjárhæð umrædds sáttaboðs.

                Aðalmeðferð málsins fór fram 22. og 26. október 2015 en málið var endurflutt 12. janúar sl. og tekið til úrskurðar að nýju.

II

                Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að hann telji mikilvægt fyrir úrlausnarefni málsins að draga upp heildarmynd af þeim kringumstæðum og þeim forsendum sem umrædd viðskipti aðila hafi byggt á. Lýsir sóknaraðili því svo að Seðlabanki Íslands sé sjálfstæð stofnun, sem sé eign íslenska ríkisins, en lúti sérstakri stjórn. Hlutverk Seðlabankans sé m.a. að fara með stjórn peningamála í landinu og hafi Seðlabankinn með höndum margþætta starfsemi í þeim tilgangi. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, sé meginmarkmið Seðlabankans að stuðla að stöðugu verðlagi. Þá sé Seðlabankanum ætlað að sinna þeim viðfangsefnum sem samrýmist hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd, sbr. 4. gr. laga nr. 36/2001. Eitt af hlutverkum Seðlabankans sé jafnframt að veita lánastofnunum, sem geti átt innlánsviðskipti við bankann, lán með kaupum á verðbréfum eða á annan hátt gegn tryggingum sem bankinn meti gildar, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001. Lánaviðskipti þessi séu reglubundinn þáttur í starfsemi Seðlabankans og megi skipta slíkum lánum í tvo flokka. Annars vegar sé um að ræða daglán, sem veitt séu til eins dags í senn, og hins vegar sé um að ræða veðlán, sem veitt séu til sjö daga í senn gegn veði í verðbréfum sem Seðlabankinn meti hæf til tryggingar. Seðlabankinn setji reglur um viðskipti fjármálafyrirtækja við bankann en kjör hafi á þeim tíma, þegar þau viðskipti sem búa að baki kröfulýsingu nr. 190 hafi farið fram, verið ákveðin af bankastjórn Seðlabankans, en séu nú ákveðin af peningastefnunefnd Seðlabankans, sbr. 24. gr. laga nr. 36/2001 með síðari breytingum.

                Í reglum um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands sé m.a. kveðið á um skilyrði  lánveitinga og hæfar tryggingar. Í reglum nr. 541/2007, um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands, sem giltu frá 18. júlí 2007 til 2. apríl 2008, kemur fram að hæf verðbréf til tryggingar í viðskiptum við Seðlabankann geti verið innstæðubréf Seðlabankans, spariskírteini ríkissjóðs, ríkisbréf, ríkisvíxlar, skuldabréf Íbúðalánasjóðs, auk annarra skuldabréfa og víxla sem gefin eru út í íslenskum krónum. Með síðari reglum var jafnframt leyft að veðsetja verðbréf í erlendri mynt. Samkvæmt 11. gr. reglna nr. 541/2007 (sbr. 12. gr. reglna nr. 808/2008) hafi verðbréf sem sett hafi verið til tryggingar átt að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

                1.             Útgefið markaðsvirði flokks sé yfir 3 ma. kr. og staðfest að það magn hafi selst.

                2.             Útgefandi hafi lánshæfismat frá einhverju þriggja matsfyrirtækja: Standard & Poor‘s, Moody‘s eða Fitch og langtímalánshæfiseinkunn A- eða betra miðað við matskerfi Standar & Poor‘s og Fitch og A3 eða betra hjá Moody‘s.

                3.             Verðbréf með ábyrgð ríkissjóðs eru metin eins og ríkissjóður sé útgefandi.

                4.             Verðbréfin hafi viðskiptavaka á skipulegum verðbréfamarkaði eða viðurkenndum upplýsingaveitum sem Seðlabankinn samþykkir.

                5.             Verðbréfin skulu að jafnaði valin þannig að ekki sé um að ræða bréf með lokagjalddaga fyrir lok lánstímans.

                6.             Verðbréf, önnur en innstæðubréf Seðlabankans, skulu vera rafrænt skráð.

                Þá segi ennfremur í reglunum að útgefanda sé ekki heimilt að leggja fram eigin skuldabréf eða víxla til tryggingar fyrir eigin viðskiptum hjá Seðlabankanum, sbr. 3. mgr. 11. gr. reglnanna, önnur en sértryggð skuldabréf. Við mat á verðmæti verðbréfa, sem fjárhagslegrar tryggingarráðstöfunar vegna viðskipta við Seðlabankann, beiti Seðlabankinn  ákveðnu frádragi frá viðmiðunarverði verðbréfanna til þess að lánsfjárhæðin sé alltaf lægri en markaðsvirði veðanna. Seðlabankinn hafi svo reglulega endurmetið verðmæti þessara trygginga, sbr. 13. gr. reglnanna, og hafi eftir atvikum krafist viðbótartryggingar ef markaðsverð bréfanna hafi lækkað. Þetta hafi verið gert til að tryggja að verðmæti trygginga skyldi ávallt vera yfir ákveðnu lágmarki, og kæmi til þess að verðmæti trygginga lækkaði niður fyrir hið tilgreinda lágmark skyldi viðkomandi fjármálafyrirtæki leggja fram viðbótartryggingu þannig að tilgreint lágmark næðist.

                Efnislega sambærilegar reglur hafi verið að finna í reglum Seðlabankans nr. 317/2008 og 808/2008, um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands, sem síðar hafi tekið við af reglum nr. 541/2007. Þessu til viðbótar hafi fjármálafyrirtækin skrifað undir almenna skilmála Seðlabanka Íslands sem byggðir hafi verið á framangreindum reglum.

                Aðgangur fjármálafyrirtækja að lausafjárfyrirgreiðslum hafi þannig ekki verið takmarkaður svo lengi sem framlögð veð hafi verið í samræmi við framangreindar reglur. Þau lán sem hafi uppfyllt skilyrði reglnanna og séu almennt kölluð markaðslán hafi verið afgreidd af starfsmönnum Seðlabankans án sérstakrar heimildar bankastjórnar Seðlabankans. Frá reglum hafi ekki verið vikið nema með sérstöku samþykki bankastjóra. Lánabeiðnir fyrir markaðslán hafi verið sendar Seðlabankanum beint frá starfsmönnum lausafjárstýringar viðkomandi fjármálafyrirtækis án beinnar aðkomu stjórnar fjármálafyrirtækisins.

                Í þeim tilvikum þegar veð sem boðin séu fram af fjármálafyrirtækjum uppfylli ekki skilyrði reglnanna og þegar sérstaklega standi á og Seðlabankinn telji þörf á að varðveita traust á fjármálakerfi landsins geti hann veitt lánastofnunum í lausafjárvanda ábyrgðir eða önnur lán en um ræði í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001, þ.e. markaðslán, á sérstökum kjörum og gegn öðrum tryggingum en um geti í 1. mgr. 7. gr. eða öðrum skilyrðum sem Seðlabankinn setji. Slík lán séu í daglegu tali nefnd neyðarlán eða þrautavaralán.

                Sóknaraðili kveður að almennar aðstæður og aðgerðir á fjármálamörkuðum árið 2008 hafi verið þannig að allir stóru íslensku bankarnir hafi verið alþjóðlegir í sínum umsvifum og hafi haft mikla starfsemi erlendis. Sveiflur á alþjóðlegum mörkuðum hafi því haft bein áhrif á rekstur þeirra. Hin alþjóðlega lausafjárkreppa hafi byrjað sumarið 2007 og frá þeim tíma hafi Seðlabankinn fylgst náið með íslensku bönkunum.  Vandamál íslenskra banka hafi, líkt og hjá flest öllum öðrum bönkum í heiminum, tengst þrengri aðgangi þeirra að lausafé. Seðlabankinn hafi meðal annars  fylgst mun nánar og oftar en áður með lausafjárstöðu þeirra, langt umfram það sem reglur bankans um lausafjárkvöð hafi sagt til um og venja hafi verið til. Þá hafi bankastjórn Seðlabankans átt fundi með forsvarsmönnum stóru viðskiptabankanna þar sem farið hafi verið yfir margvíslega þætti í starfsemi þeirra og leitað upplýsinga og skýringa á framvindu einstakra þátta, svo sem lausafjárstöðu, fjármögnun, þróun inn- og útlána, sölu eigna o.fl. Bankarnir hafi eindregið verið hvattir til þess að gæta vel að öllum þessum þáttum og draga úr umsvifum þótt Seðlabankann skorti skýrar lagaheimildir til þess að þvinga fram breytingar á atferli bankanna. Seðlabankinn hafi fylgst grannt, sem fyrr segi, með lausafjárstöðu bankanna en Fjármálaeftirlitið með eigin fé þeirra.

                Síðla árs 2006 hafi bankarnir aukið verulega sókn sína á innlánamarkaði í öðrum löndum. Þeir hafi talið þessa innlánasöfnun ganga það vel að í máli sumra forsvarsmanna þeirra hafi komð fram á árinu 2008 að auðvelt ætti að verða fyrir þá að ráða við alla endurfjármögnun útistandandi skuldabréfa, þ.m.t. þeirra skuldabréfa sem varnaraðili hafi veðsett Seðlabankanum.

                Á sama tíma hafi þrengst til muna aðgangur banka um allan heim að lausafé. Millibankamarkaðir hafi þyngst mjög um leið og bankar hafi orðið tregir til þess að eiga viðskipti hver við annan. Hvarvetna hafi seðlabankar brugðist við með því að auka lausafjárfyrirgreiðslu sína við banka í löndum sínum. Þetta hafi m.a. endurspeglast í mikilli stækkun efnahagsreikninga seðlabankanna, þeirra á meðal stærstu seðlabanka heims. Seðlabankar víða um heim hafi dregið úr kröfum um gæði veða, m.a. með því að slaka á kröfum um lánshæfiseinkunn, tegundum veða sem metin hafi verið gild hafi verið fjölgað og í sumum tilvikum hafi seðlabankar átt viðskipti við fleiri gerðir stofnana en áður. Ljóst sé að margir seðlabankar hafi þannig tekið mun meiri áhættu en áður í þeirri viðleitni sinni að styðja við fjármálamarkaði og þar með stuðla að fjármálastöðugleika enda álitið að um væri að ræða tímabundinn lausafjárvanda fremur en eiginfjárvanda bankanna. Í skýrslu sem birt hafi verið á vegum Alþjóðagreiðslubankans í júlí 2008 hafi verið lýst viðamiklum aðgerðum sjö af stærstu seðlabönkum heimsins frá ágúst 2007 til júní 2008 til þess að létta á lausafjárþrengingum með ýmsum hætti.

                Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá febrúar 2010, segi m.a.: „Fjármálakreppan þvingaði seðlabanka til þess að víkka bæði að efni og umfangi  hefðbundið hlutverk sitt sem lánveitendur. Þeir útvíkkuðu lausafjárfyrirgreiðslu sína til fleiri fjármálafyrirtækja en innlánsstofnana og áttu viðskipti með fleiri tegundir fjármálagerninga annars vegar með beinum kaupum á eignum eða með því að samþykkja þessar eignir sem veð.“ Í þessu hafi falist stuðningur við fjármálakerfið í heild sinni. Þannig hafi seðlabankar stigið inn á millibankamarkaðinn með kerfisbundnum hætti með það að markmiði að tryggja fjármálastöðugleika í þeirri lausafjárkreppu sem hafi ríkt.

                Stjórnvöld og seðlabankar hafi hvarvetna leitast við að styðja banka í löndum sínum og víða hafi það kostað stuðning sem hafi nánast verið án fordæma með óvenjulegri lausafjárfyrirgreiðslu, lánum, ábyrgðum, eiginfjárframlögum, kaupum á skuldabréfum o.s.frv. Af þessum sökum sitji Seðlabanki Evrópu uppi með háar kröfur sem tryggðar séu með veðum í ótryggum eignum. Bandaríski Seðlabankinn hafi gripið til fjölbreyttra og mjög óhefðbundinna aðgerða til þess að draga úr lausafjárþrengingum bandarískra fjármálafyrirtækja með margs konar fyrirgreiðsluaðferðum. Írska ríkið hafi ábyrgst skuldbindingar írsku bankanna og sé nú í miklum vanda vegna þess. Því megi bæta við að á árinu 2010 hafi Seðlabanki Evrópu hafið stórfelld kaup á skuldabréfum á eftirmarkaði til þess að liðka fyrir viðskiptum, þvinga niður ávöxtunarkröfur og liðsinna bönkum vegna þeirra áhrifa sem hratt hækkandi ávöxtun ákveðinna skuldabréfa hafi haft á markaðsverð eigna þeirra. Eins og nú horfi sé ekki gefið að höfuðstóll allra þessara skuldabréfa innheimtist að fullu.

                Reglur Seðlabanka Íslands um viðskipti fjármálafyrirtækja við bankann hafi verið áþekkar reglum sem annars staðar hafi gilt hjá seðlabönkum, einkum innan evrópska efnahagssvæðisins, til þess m.a. að skapa innlendum fjármálafyrirtækjum rekstrarskilyrði sambærileg skilyrðum erlendra fjármálafyrirtækja sem þau hafi átt í mestri samkeppni við. Þessi stefna hafi verið mörkuð á árinu 1998 þegar ákveðið hafi verið að sníða viðskiptafyrirkomulag Seðlabankans að reglum sem þá hafi verið mótaðar fyrir Seðlabanka Evrópu en þá hafi verið stutt í að hann tæki formlega til starfa. Á grundvelli þessa og eftir atvikum fyrirmynda frá öðrum seðlabönkum, hafi reglur Seðlabanka Íslands um viðskipti við fjármálafyrirtæki verið settar, þar með talið um útgefendur, einkenni skuldabréfa, lágmarkslánshæfiseinkunnir o.s.frv. Einu útgefendur á innlendum skuldabréfamarkaði sem uppfyllt hafi skilyrði reglna um lánshæfismat hafi verið stóru bankarnir þrír. Ríkissjóður hafi skuldað lítið og því hafi verið lítið framboð á hefðbundnum ríkisskuldabréfum sem hægt hafi verið að leggja fram sem veð. Reglur um bindiskyldu hafi einnig verið lagaðar að reglum Seðlabanka Evrópu í áföngum.

                Þegar Seðlabanki Íslands hafi veitt lán gegn veðum í bréfum sem gefin hafi verið út af íslensku bönkunum hafi þau jafnframt verið metin hæf í viðskiptum bankanna við Seðlabanka Evrópu, en þau hafi farið fram í gegnum seðlabankann í Lúxemborg þar sem íslensku bankarnir hafi starfrækt dótturfyrirtæki. Seðlabankinn í Lúxemborg sé sem kunnugt er hluti af seðlabankakerfi Evrópu (European System of Central Banks). Í þessum viðskiptum muni bankarnir hafa kynnt Seðlabanka Lúxemborgar til samþykktar þau bréf sem þeir hafi haft í hyggju að leggja að veði á komandi útboðsdögum gegn lánum í Seðlabanka Evrópu og hafi ekki verið gerðar athugasemdir við þau. Tæpast hafi getað komið til álita að Seðlabanki Íslands tæki ekki gild bréf sem uppfyllt hafi skilyrði reglna bankans um veðlánafyrirgreiðslu á sama tíma og Seðlabanki Evrópu hafi tekið þau gild.

                Að baki fyrirgreiðslum Seðlabankans hafi að sjálfsögðu staðið eignir bankanna. Á þessum tíma, þ.e. árin 2007 og 2008, hafi eiginfjárstaða íslensku bankanna verið góð og vel yfir lögbundnu lágmarki samkvæmt uppgjörum sem endurskoðuð hafi verið og árituð af alþjóðlegum endurskoðunarfyrirtækjum, eignir taldar traustar og þeir hafi auðveldlega staðist álagspróf Fjármálaeftirlitsins á eiginfjárstöðu sinni. Þá hafi íslensku bankarnir haft góðar lánshæfiseinkunnir frá alþjóðlegum matsfyrirtækjum sem byggðar hafi verið á ítarlegri upplýsingaöflun þeirra m.a. frá bönkunum sjálfum og samanburði við erlenda banka sem fyrirtækin hafi einnig metið. Seðlabanki Íslands hafi aldrei haft upplýsingar um gæði útlánasafna stóru bankanna þriggja, sem síðar hafi reynst verulega ofmetin.

                Vandi íslensku bankanna á þessum tíma, líkt og fjölmargra annarra banka, hafi fyrst og fremst verið lausafjárvandi vegna mjög þröngs aðgangs að lánsfé. Atbeini seðlabanka sem falist hafi í lausafjárfyrirgreiðslu hafi haft það að markmiði að halda bankakerfum heimsins starfandi með nægu lausafé þar til úr rættist á ný. Hér sé á það bent að skv. 4. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, sé það eitt megin hlutverk bankans að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi. Slíkt sé ómögulegt nema með lausafjárfyrirgreiðslu til fjármálastofnana. Seðlabankinn hafi því hagað öllum aðgerðum sínum á markaði með sambærilegum hætti og aðrir seðlabankar.

                Reglur Seðlabankans um lausafjárfyrirgreiðslu hafi sætt stöðugri endurskoðun á árinu 2008 og hafi verið rýmkaðar í áföngum eftir því sem tregða á millibankamarkaði hafi aukist. Reglurnar  hafi þó aldrei orðið rýmri en reglur Seðlabanka Evrópu.

                Samkvæmt ársskýrslu Evrópska Seðlabankans fyrir árið 2009 hafi markaðsverðmæti þeirra veða, sem notuð hafi verið í veðlánaviðskiptum hans, aukist um 28,8% á árinu.  Hlutfall óvarinna bankabréfa hafi aukist mest milli ára og hafi verið orðinn stærsti veðflokkurinn eða 28% af heildarveðsafni bankans. Til samanburðar hafi hlutfallið hjá Seðlabankanum á árinu 2008 verið 57,6%. Hafa verði í huga þegar þessar tölur séu skoðaðar að lítið framboð hafi verið af nýjum ríkisbréfum sem séu að jafnaði stærsti flokkur veða hjá seðlabönkum.  Þá beri einnig að líta til þess að markaðurinn á Íslandi hafi verið mun einsleitari sem endurspeglist í fáum, stórum útgefendum verðbréfa. Sé tekið tilliti til veða í vörðum bankabréfum hjá Seðlabanka Evrópu, en íslensku bankarnir hafi verið mun skemmra á veg komnir í útgáfu slíkra bréfa, sé hlutfallið sambærilegt við tryggingar Seðlabankans í bankabréfum. Því sé ekki hægt að álykta að óeðlilegt hafi verið að hlutfall óvarinna bréfa hjá Seðlabankanum hafi verið hærra.

                Í greinargerð varnaraðila kemur fram að varnaraðili hafi verið reikningsbanki sparisjóðanna og þjónustubanki þeirra á sviði alþjóðaviðskipta, lausafjárstýringar og fjármögnunar á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum. Bankinn hafi að jafnaði ekki átt bein viðskipti við almenning en hafi veitt sparisjóðunum og viðskiptavinum þeirra þjónustu með gjaldeyrisviðskipti, hafi tekið þátt í útlánaverkefnum sparisjóðanna, veitti þeim rekstrarráðgjöf og sérfræðiþjónustu ýmiss konar o.fl.

                Seðlabanki Íslands sé sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Meginmarkmið Seðlabankans og peningastefnu hans á hverjum tíma sé að stuðla að stöðugu verðlagi, sbr. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Í 4. gr. laganna segi að Seðlabankinn skuli sinna viðfangsefnum sem samrýmist hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd. Segi m.a. í athugasemdum við 4. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 36/2001 að áherslan á virkt og öruggt fjármálakerfi sé í samræmi við þá „auknu áherslu, sem lögð [sé] á það í seðlabönkum flestra landa, að stuðla að öryggi fjármálakerfisins, þ.e. að tryggja fjármálastöðugleika“. Jafnframt komi fram í athugasemdunum að Seðlabankinn beini fyrst og fremst sjónum að „hinu þjóðhagslega umhverfi fjármálakerfisins og að fjármálakerfinu í heild, styrk þess og veikleikum. Bankinn leitist við að stuðla að öryggi fjármálakerfisins.“

                Seðlabankinn hafi jafnframt margvíslegt eftirlit með einstökum fjármálafyrirtækjum sem sé liður í því meginhlutverki hans samkvæmt 3. gr. laga nr. 36/2001 að stuðla að stöðugu verðlagi, þ.m.t. eftirlit með lausafjárstöðu, gjaldeyrisjöfnuði og bindiskyldu fjármálafyrirtækja, og hafi að því leyti sambærilegt eftirlitshlutverk og Fjármálaeftirlitið. Þá framkvæmi Seðlabankinn regluleg álagspróf þar sem lausafjár- og útlánaáhætta einstakra fjármálafyrirtækja sé metin og annist annars konar greiningu á fjármálafyrirtækjum og uppbyggingu fjármálakerfisins, svo að dæmi séu nefnd. Vegna framangreinds eftirlitshlutverks búi Seðlabankinn yfir veigamiklum upplýsingum um fjárhagslega stöðu fjármálafyrirtækja, umfram aðra, en bankinn hafi víðtækar heimildir til að afla upplýsinga í þessu skyni, sbr. 29.-31. gr. laga nr. 36/2001.

                Eitt af stjórntækjum Seðlabankans í peningamálum séu lán bankans til lánastofnana, sem geti átt innlánsviðskipti við bankann, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001. Samkvæmt ákvæðinu geti Seðlabankinn veitt lánastofnunum slíkt lán „með kaupum á verðbréfum eða á annan hátt gegn tryggingum sem bankinn meti gildar“, en ákvæðið vísi til svonefndra reglulegra viðskipta Seðlabankans við lánastofnanir, sbr. nánar síðar. Seðlabankinn setji nánari reglur um lánsviðskipti sín samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001. Lán Seðlabankans séu annars vegar daglán, sem veitt séu til eins dags í senn, og hins vegar veðlán, sem veitt séu til sjö daga í senn. Til hagræðis verði heitið „veðlán“ notað yfir báðar þessar tegundir lána, nema annað sé tekið sérstaklega fram. Tilgangur veðlána sé að veita lánastofnunum lausafjárfyrirgreiðslu umfram þá sem útveguð verði á millibankamarkaði og jafnframt til að auka eða draga úr framboði lausafjár á fjármálamarkaði. Um veðlánaviðskipti megi einnig vísa til þess sem fram komi um það efni í greinargerð sóknaraðila.

                Í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001 sé kveðið á um að þegar sérstaklega standi á og Seðlabankinn telji þess þörf „til að varðveita traust á fjármálakerfi landsins“ geti hann veitt „lánastofnunum í lausafjárvanda ábyrgðir eða önnur lán en um ræði í 1. mgr. sömu greinar á sérstökum kjörum og gegn öðrum tryggingum en um geti í 1. mgr. eða öðrum skilyrðum sem bankinn setji“. Ákvæðið vísi til svonefndra „neyðarlána“ eða „þrautavaralána“, sem Seðlabankinn geti veitt lánastofnunum sem búi við alvarlegan lausafjárvanda, sbr. nánari umfjöllun hér á eftir.

                Reglur Seðlabankans um viðskipti sín við fjármálafyrirtæki séu sambærilegar viðmiðum sem almennt gildi um seðlabanka. Sé þar miðað við að seðlabankar geti við sérstakar aðstæður veitt lán til fjármálafyrirtækja, ýmist með kaupum á skráðum verðbréfum, markaðsbréfum, en að því slepptu, gegn sértryggðum skuldabréfum, þ.e. verðbréfum sem tryggð séu með veði í eignum þriðja manns. Ljóst sé að á umræddu tímabili hafi seðlabankar, þ.m.t. Seðlabanki Evrópu, tekið upp það fyrirkomulag, m.a. gagnvart íslensku viðskiptabönkunum þremur, að veita lán út á sértryggð skuldabréf. Sambærilegt fyrirkomulag hafi einnig tíðkast hjá Seðlabanka Danmerkur og Svíþjóðar, gagnvart bönkum í þeim löndum. Af hálfu Seðlabanka Íslands hafi slíkar lánveitingar verið teknar upp á síðari hluta árs 2008, en um þær lánveitingar sé m.a. fjallað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem út hafi komið í apríl 2010. Seðlabanki Íslands hafi þó ekki gert viðhlítandi ráðstafanir samhliða þessu til að draga úr notkun óvarinna skuldabréfa viðskiptabankanna sem veða fyrir lánum frá Seðlabankanum, sbr. nánar hér á eftir.

                Í málinu sé þess krafist af hálfu sóknaraðila að kröfur hans ásamt dráttarvöxtum, verði viðurkenndar að fullu við slitameðferð varnaraðila. Kröfurnar eigi rætur að rekja til veðlánaviðskipta varnaraðila og Seðlabankans. Sóknaraðili hafi eignast kröfurnar fyrir framsal frá fjármálaráðuneytinu með kaupsamningi, dags. 31. desember 2009, sem fengið hafði hluta þeirra framseldar frá Seðlabankanum með samkomulagi, dags. 12. janúar 2009.

                Veðlánaviðskipti varnaraðila annars vegar og Seðlabankans hins vegar hafi verið talin byggð á 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001. Sóknaraðili byggi á því að veðlánaviðskipti þessi hafi verið eðlilegar fyrirgreiðslur, sem hafi að fullu samrýmst lögum nr. 36/2001 og þágildandi reglum Seðlabankans um viðskipti fjármálafyrirtækja við bankann. Um hafi verið að ræða einangrað réttarsamband milli varnaraðila og Seðlabankans. Af hálfu varnaraðila sé þessari lýsingu alfarið hafnað. Veðlánaviðskipti þessi hafi verið verulega frábrugðin hefðbundnum veðlánaviðskiptum Seðlabankans, hvort tveggja varðandi umfang og tilgang. Lánsviðskiptunum hafi ljóslega ekki verið ætlað að vera lausafjárfyrirgreiðsla til varnaraðila sjálfs heldur hafi verið um að ræða lausafjáraðstoð við viðskiptabankana þrjá, Landsbanka Íslands hf., Kaupþing banka hf., og Glitni banka hf., þar sem þátttaka Sparisjóðabankans hafi verið hagnýtt. Varnaraðili telji ljóst að ástæða þessarar tilhögunar hafi fyrst og fremst verið sú að gera Seðlabankanum fært að veita viðskiptabönkunum þremur aðgang að lánsfé gegn veði í óvörðum skuldabréfum og víxlum útgefnum af þeim sjálfum, gagnstætt reglum Seðlabankans, sem girt hafi fyrir slík veðlánaviðskipti. Þyki því rétt að rekja nánar aðdraganda og tilgang veðlánaviðskipta Seðlabankans, varnaraðila og viðskiptabankanna þriggja.

                Fyrstu veðlánaviðskipti varnaraðila og Seðlabankans, þar sem höfð hafi verið til tryggingar verðbréf útgefin af einum af viðskiptabönkunum þremur, Kaupþingi banka hf., hafi átt sér stað 13. febrúar 2007. Veðlánveitingar Seðlabankans til varnaraðila hafi síðan aukist umtalsvert á árinu 2007; í lok júní 2007 hafi þær numið u.þ.b. 28 milljörðum króna, í lok ágúst 2007 hafi þær numið u.þ.b. 40 milljörðum króna og í október 2007 hafi þær numið u.þ.b. 86 milljörðum króna. Til tryggingar lánunum 31. október 2007 hafi varnaraðili sett að veði verðbréf að nafnvirði 94.496.334.066 krónur. Um áramótin 2007-2008 hafi útistandandi veðlán Seðlabankans við varnaraðila numið 104.371.188.806 krónnum. Til tryggingar lánunum 27. desember 2007 hafi varnaraðili sett að veði verðbréf að nafnvirði 113.606.334.066 krónur.

                Skuld varnaraðila við Seðlabankann vegna veðlána hafi verið 150.410.597.106  krónur 1. maí 2008 og hafi sú fjárhæð að öllu verulegu leyti verið óbreytt fram til þess tíma er Fjármálaeftirlitið hafi tekið yfir stjórn og vald hluthafafundar í fjármálafyrirtækjunum Landsbanka Íslands hf., Glitni banka hf. og Kaupþingi banka hf., í október 2008. Lánsskuldbindingin hafi verið framlengd vikulega fram til 15. október 2008, án þess að raunverulegt uppgjör hafi farið fram. Til tryggingar lánsskuldbindingum 30. apríl 2008 hafi varnaraðili sett að veði eftirfarandi verðbréf:

Flokkur

Nafnverð

Markaðsverðmæti

HFF150914

1.702.000.000

1.413.987.560

HFF150224

180.000.000

179.796.600

HFF150644

623.000.000

694.476.790

RIKB 08 0613

868.000.000

935.113.760

RIKB 08 1212

442.500.000

444.924.900

RIKB 09 0612

244.500.000

251.426.685

RIKB 10 0317

30.000.000

27.667.500

RIKB 13 0517

24.000.000

21.768.720

GLB 08 0801

2.500.000.000

2.398.250.000

GLB 08 1103

4.900.000.000

4.525.395.000

KAUP 08 0915

430.000.000

405.017.000

KAUP 08 1215

20.000.000.000

18.164.000.000

LAIS 08 0603

3.000.000.000

2.955.450.000

LAIS 09 0401

8.000.000.000

7.029.200.000

GLB 08 0825

9.900.000.000

10.532.412.000

GLB 09 1028

20.000.000.000

20.967.800.000

GLB 09 0618

10.000.000.000

10.387.000.000

KAUP 08 0914

3.100.000.000

3.084.345.000

KAUP  Var 02/24

500.000.000

456.280.000

LANISL Float 06/09

10.000.000.000

10.184.600.000

LANISL Float 04/09

47.000.000.000

47.811.220.000

KAUP Float 01/10

17.000.000

1.126.186.760

GLBIRFLOAT 03/09

10.000.000.000

10.140.400.000

Alls

153.461.000.000

154.136.718.275

 

                Umrædd viðskipti varnaraðila við Seðlabankann eigi rætur sínar að rekja til beiðna frá áðurgreindum fjármálafyrirtækjum, Landsbanka Íslands hf., Glitni banka hf. og Kaupþingi banka hf. Hafi viðskiptin farið fram með þeim hætti að fjármálafyrirtækin hafi selt varnaraðila eigin skuldabréf og víxla (óveðtryggð skuldabréf og víxla útgefna af þeim sjálfum („óvarin verðbréf“)) sem varnaraðili hafi notað til veðsetningar og lántöku hjá Seðlabankanum, en lánsfjárhæðin, að frádreginni tiltekinni þóknun til handa varnaraðila, hafi samhliða verið greidd til umræddra fjármálafyrirtækja sem endurgjald fyrir verðbréfin.

                Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis komi fram að frá hausti 2007 hafi lausafjárfyrirgreiðsla Seðlabankans til handa viðskiptabönkunum þremur aukist verulega. Muni það hafa tengst skertu aðgengi umræddra fjármálafyrirtækja að lánsfé á mörkuðum. Ekki verði annað ráðið af því sem fram komi í rannsókninni en að bankastjórn Seðlabankans hafi frá hausti 2007 litið á þessa lánafyrirgreiðslu sem neyðarlánveitingar með það að markmiði að halda umræddum fjármálafyrirtækjum gangandi. Lánveitingar til umræddra fjármálafyrirtækja, fyrir milligöngu varnaraðila, hafi numið gagnvart hverju og einu margföldu eigin fé varnaraðila þegar Fjármálaeftirlitið hafi tekið yfir stjórn fjármálafyrirtækjanna þriggja í október 2008.

                Af hálfu varnaraðila sé á því byggt að ástæða þess að sú leið hafi verið farin að lána viðskiptabönkunum í gegnum varnaraðila, sé að samkvæmt þágildandi reglum Seðlabankans um viðskipti bankans við fjármálafyrirtæki hafi bankanum verið óheimilt að veita fjármálafyrirtækjum lán gegn veði í eigin skuldabréfum og víxlum, sbr. reglur nr. 541/2007, 10.-13. gr., síðar reglur nr. 317/2008 og nr. 808/2008, sem kveði nánar á um lánveitingar Seðlabankans samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001. Verði því ekki annað séð en að varnaraðili hafi verið milligönguaðili til að hægt væri að veita bönkunum lánafyrirgreiðslu gegn veði í eigin ótryggðum bréfum og komast þannig framhjá banni reglnanna við lánveitingum gegn veði í eigin skuldabréfum og víxlum. 

                Af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis verði ráðið að frá hausti 2007 hafi Seðlabankanum verið kunnugt um að lausafjárstaða viðskiptabankanna þriggja hafi verið orðin mjög slæm, og færi sí versnandi, langt umfram það sem almennt hafi verið ráðgert, auk þess sem möguleikar þeirra til fjármögnunar, með öðrum hætti en með lánveitingum frá Seðlabankanum, hafi verið orðnir mjög takmarkaðir, sbr. hér að framan. Því verði að líta svo á að Seðlabankinn hafi talið stöðu bankanna af þessum sökum gríðarlega alvarlega. Verði ráðstafanir Seðlabankans frá hausti 2007 og fram eftir ári 2008 ekki skildar öðruvísi en svo að nauðsynlegt hafi verið að bregðast við þessu þegar í stað og víkja frá gildandi reglum bankans um fullnægjandi veðtryggingar, til að koma fjármunum án tafar til viðkomandi fjármálafyrirtækja. Samhliða hafi bankanum verið ljóst, sbr. m.a. bréf Seðlabankans til Fjármálaeftirlitsins, 13. nóvember 2007, að áhætta varnaraðila hafi verið umtalsverð vegna umræddra viðskipta og í reynd gríðarleg.

                Í mars 2008 hafi Seðlabankinn gefið út innstæðubréf í íslenskum krónum á fjármálamarkaði, að fjárhæð 75 milljarða króna. Innstæðubréfin hafi verið boðin fjárfestum sem hafi sóst eftir ríkistryggðum krónubréfum, í stað innstæðna hjá umræddum fjármálafyrirtækjum, eða verðbréfa þeirra, en ella hafi verið talið að erlendir fjárfestar myndu þegar leita með fé sitt úr landi, með tilheyrandi veikingu íslensku krónunnar. Samhliða því sem bankarnir þrír hafi greitt út innstæður eða verðbréf í íslenskum krónum, hafi Seðlabankinn dregið til sín verulegt magn af lausafé á krónumarkaði með útgáfu innstæðubréfa. Ljóst sé að í kjölfarið hafi aukist verulega lánveitingar Seðlabankans til varnaraðila og í maí 2008 hafi lánsfjárhæðin verið orðin 150.410.597.106 krónur, sem fyrr greini, frá því að hafa numið u.þ.b. 76 milljörðum í lok marsmánaðar 2008, og hafi því hækkað um nálega 100% á rúmum mánuði. Varnaraðili byggi á því að með þessu hafi Seðlabankinn komið á ný fjármunum til viðskiptabankanna, einkum Landsbanka Íslands hf., í gegnum varnaraðila, þ.e. með þeim lánveitingum sem mál þetta lúti að.

                Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis komi fram að Seðlabankinn hafi, með samhljóða bréfi til viðskiptabankanna, 17. júlí 2008, greint frá því að vegna aukningar á notkun óvarinna bankaskuldabréfa sem veða síðustu mánuðina, sem sögð hafi verið „að hluta skiljanleg í ljósi erfiðra aðstæðna á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum“, hafi Seðlabankinn tekið þá ákvörðun að taka ekki inn fleiri slík bréf frá og með 17. júlí „nema að undangenginni sérstakri athugun“. Þetta væri gert í því augnamiði að auka gæði veðbókar bankans. Jafnframt yrðu sett „fjárhæðarmörk á hvern útgefanda fyrir sig og fjármálafyrirtækjum gefinn ákveðinn tími til að laga sig að breyttum reglum“. Samhliða þessu hafi Seðlabankinn ætlað að „breyta reglum um veð til þess að auðvelda fjármálafyrirtækjum notkun varinna skuldabréfa í viðskiptum við bankann“. Í umfjöllun rannsóknarnefndarinnar komi fram að þessari ráðagerð hafi ekki verið fylgt eftir af hálfu Seðlabankans að neinu teljandi marki og hafi t.a.m. lán til Sparisjóðabankans með veði í óvörðum skuldabréfum bankanna hækkað verulega frá þessu tímamarki, einkum veð í bréfum Kaupþings banka hf.

                Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis muni Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, hafa gefið þá skýringu að ekki hefði verið hægt „að loka á þessi veð“ þar sem fréttir um slíkt hefðu orðið bönkunum að falli og að „þá [hefði] þurft að margfalda starfsfólkið ef við hefðum ætlað að fara að skipta út bréfum“. Jafnframt muni hann hafa sagt: „[B]ankarnir áttu þá ekkert til [...] bankarnir voru að deyja“. Þá komi fram í skýrslunni að Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, hafi, aðspurður um hvort ekki hefði komið til greina að skipta veðum í óvörðum skuldabréfum út fyrir önnur veð, svarað svo: „Jú, en þá hefði ég alveg eins getað farið að loka bönkunum.“ Aðspurður hvort ekki hafi komið til greina að taka einhverjar lánabækur bankanna að veði í stað óvarinna skuldabréfa muni hann hafa svarað: „Nei nei nei. Við vorum búnir að opna á allt, við vorum, kjallarinn í Seðlabankanum er fullur af brettum með handhafaskuldabréfum. Við vorum búnir að taka af þeim, við tókum af þeim allt sem þeir gátu afhent. [...] Það sem við reynum að gera með því að opna á þessa ABS-a og þetta erlenda er að byrja á að opna á allt sem þeir geta afhent okkur rafrænt. Það er bara svo rosalega mikið vesen að taka við einhverju sem er fýsískt skuldabréf. Og það er í rauninni ekki fyrr en held ég bara í september sem við erum farnir að taka þetta á brettum [...]“. Í skýrslunni komist rannsóknarnefndin m.a. að þeirri niðurstöðu að það sé „illskiljanlegt að þess skyldi ekki hafa verið freistað að taka önnur veð í ljósi þess viðhorfs sem uppi hafi verið um stöðu bankanna innan og af hálfu bankastjórnar Seðlabankans allt frá því á fyrri hluta árs 2008“.

III

                Sóknaraðili byggir á því að viðurkenna eigi að fullu eftirstöðuvar krafna hans sem almennar kröfur skv. 113. gr. laga nr. 21/1991. Upphaflega hafi kröfum verið lýst sem veðkröfum samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991, en undir rekstri málsins hafi sóknaraðili leyst til sín undirliggjandi veðsett verðmæti á verði sem aðilar hafi báðir sætt sig við og byggist á niðurstöðu matsgerðar sem sóknaraðili aflaði. Byggir sóknaraðili á því að honum hafi verið heimilt að breyta kröfugerð sinni með þessum hætti enda felist í breytingunni að hann dragi úr kröfum sínum að því er rétthæð varði. Mótmælir hann þeim sjónarmiðum varnaraðila að sú krafa sem hann nú hefur uppi rúmist ekki innan þeirrar kröfugerðar sem sett hafi verið fram í kröfulýsingu og síðar í greinargerð til dómsins.

                Sóknaraðili kveðst byggja á því að öll lán sem lýst hafi verið fyrir slitastjórn Sparisjóðabankans sem veðlánum hafi verið í samræmi við 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, auk þess sem umræddar lánveitingar hafi í einu og öllu uppfyllt skilyrði reglna um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabankann. Það sama eigi við um öll þau veð sem varnaraðili hafi lagt fram til tryggingar fyrrgreindum lánum. Þannig byggi sóknaraðili á því að um markaðslán, sem hafi verið hluti reglulegra viðskipta Seðlabankans, í skilningi 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001 og reglna um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands, hafi verið að ræða.

                Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001 geti Seðlabankinn veitt lánastofnunum, sem geti átt innlánsviðskipti við bankann, lán með kaupum á verðbréfum eða á annan hátt gegn tryggingum sem bankinn meti gildar. Lánsviðskipti hafi aðallega verið í innlendri mynt en hafi getað verið í erlendri mynt með leyfi bankastjóra. Seðlabankinn setji nánari reglur um viðskipti sín samkvæmt þessari málsgrein. Nánar tiltekið sé um að ræða reglur um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands, núgildandi reglur séu nr. 553/2009, dags. 26. júní 2009, fyrri reglur hafi verið nr. 541/2007, nr. 317/2008 og nr. 808/2008. Þegar fjallað sé um reglurnar hér verði stuðst við þá útgáfu sem sé nr. 808/2008 sem í gildi hafi verið þegar umrædd viðskipti hafi farið fram.

                Veðlán sé skilgreint með eftirfarandi hætti í framangreindum reglum: „Lán sem veitt eru gegn veði, í verðbréfum sem Seðlabankinn metur hæf til tryggingar.“ Samkvæmt 7. gr. reglnanna séu lán sem veitt séu til 7 daga gegn veði í verðbréfum sem metin séu hæf til tryggingar samkvæmt 11. og 12. gr. reglnanna hluti af reglulegum viðskiptum Seðlabankans. Daglán séu hins vegar lán sem Seðlabankinn veiti til næsta viðskiptadags gegn veði í bréfum sem metin séu hæf til tryggingar með sama hætti og veðlán til 7 daga.

                Þá sé óumdeilt að ritað hafi verið 19. febrúar 2008 undir, f.h. Sparisjóðabankans, almenna skilmála um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands. Þar komi fram með hvaða hætti fjármálafyrirtæki skyldu sækja um slíka lánafyrirgreiðslu sem í veðlánum hafi falist og hvernig framkvæmd slíkra lánveitinga væri háttað. Það sé ljóst að þau lán sem uppfyllt hafi skilyrði reglna um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands, hin svokölluðu markaðslán, þ.m.t. veðlánin hafi verið afgreidd af starfsmönnum Seðlabankans án sérstakrar aðkomu bankastjórnar Seðlabankans. Það sé því ljóst að samkvæmt reglunum sem settar hafi verið með stoð í lögum nr. 36/2001 hafi aðgangur fjármálafyrirtækja að lausafjárfyrirgreiðslu ekki verið takmarkaður svo lengi sem þess hafi verið gætt að skilyrði reglnanna væru uppfyllt. Sóknaraðili byggi á því að þau veðlán sem hér séu til umfjöllunar og veitt hafi verið Sparisjóðabankanum hafi öll verið í samræmi við þau lög og þær reglur sem um viðskiptin hafi gilt á þeim tíma þegar þau hafi farið fram. Þannig sé því alfarið mótmælt sem röngu og ósönnuðu að veðlán Seðlabankans til varnaraðila hafi í raun verið neyðarlán til Landsbanka Íslands hf., Kaupþings banka hf. og Glitnis banka hf. Þegar fjármálafyrirtæki óski eftir fyrirgreiðslu sem ekki sé í samræmi við reglur um viðskipti við fjármálafyrirtæki, eða veðin sem boðin hafi verið fram uppfylli ekki skilyrði reglnanna þá sé heimild í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001, til handa Seðlabankanum til þess að veita  lánastofnunum í lausafjárvanda lán sem nefnist neyðarlán eða þrautavaralán. Aðstaðan sé hins vegar gjörólík í slíkum tilvikum en neyðarlán og þrautavaralán séu m.a. háð samþykki bankastjórnar Seðlabankans. Bankastjórn Seðlabankans hafi ekki haft aðkomu að veitingu þeirra veðlána sem hér sé um deilt. Þar af leiðandi telji sóknaraðili ljóst þegar af þeirri ástæðu að ekki geti verið um svokallað neyðarlán að ræða eins og ranglega sé haldið fram af slitastjórn varnaraðila í bréfi, 11. ágúst 2010, en þar sé afstaða slitastjórnarinnar til lýstra krafna sóknaraðila sett fram.

                Sóknaraðili byggi á því að þau veð sem varnaraðili hafi lagt fram til tryggingar fyrir lánum hjá Seðlabankanum hafi í alla staði uppfyllt þær kröfur sem kveðið sé á um í reglum Seðlabankans um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands sem í gildi hafi verið þegar lánin hafi verið veitt. Þau verðbréf sem sett hafi verið að veði hafi verið útgefin af Kaupþing banka hf., Landsbanka Íslands hf. og Glitni banka hf. Vart þurfi að taka fram að þegar leggja þurfi mat á það hvort verðbréf útgefin af þessum aðilum hafi uppfyllt skilyrði reglnanna þurfi slíkt mat að endurspegla stöðuna eins og hún hafi verið á þeim tíma þegar viðskiptin hafi farið fram, en hafið sé yfir allan vafa að verðbréfin hafi uppfyllt skilyrðin á þeim tíma. Þessu til stuðnings vísi sóknaraðili til þess að skuldabréf viðskiptabankanna þriggja hafi á þessum tíma haft hátt lánshæfismat en snemma árs 2007 hafi Moody‘s hækkað lánshæfiseinkunn íslensku bankanna í hæsta flokk (Aaa) en hafi lækkað hana á ný síðar sama ár í næst hæsta flokk (Aa) eins og sjá megi í gögnum málsins. Það liggi fyrir að lánshæfiseinkunnir bankanna hafi ekki breyst sumarið 2008, og hafi raunar ekki verið lækkaðar fyrr en í lok september og byrjun október 2008. Á þeim tíma þegar umrædd viðskipti hafi farið fram hafi eiginfjárhlutfall bankanna verið gott og yfir lögboðnu lágmarki, auk þess sem bankarnir hafi skilað hagnaði á hverju ári fram að falli þeirra, þ.m.t. á 1. og 2. ársfjórðungi 2008. Þá liggi það fyrir að bókhald viðskiptabankanna þriggja hafi verið endurskoðað af alþjóðlegum endurskoðunarfélögum, auk þess sem bankarnir hafi allir staðist álagspróf Fjármálaeftirlitsins, síðast í ágúst 2008.

                Þannig byggi sóknaraðili á því að lánveitingar Seðlabankans til varnaraðila hafi verið í fullu samræmi við þau lög og þær reglur sem um viðskiptin hafi gilt og þar hafi hvergi verið vikið frá, auk þess sem veð sem sett hafi verið til tryggingar skuldum varnaraðila vegna veðlánanna hafi uppfyllt öll skilyrði reglna um tryggingarhæfi. Í gögnum málsins megi sjá að sóknaraðili hafi lagt áherslu á að fylgja algjörlega reglum sínum, sem hafi verið í samræmi við reglur annarra seðlabanka í Evrópu, gert skýran greinarmun á fyrirgreiðsluformum lánveitinga sinna og verið meðvitaður um afleiðingar þess ef út af yrði brugðið, sbr. bréf Seðlabankans frá 17. júlí 2008 sem fyrir liggi í málinu.  Fullyrðingum slitastjórnar varnaraðila um hið gagnstæða sé því harðlega mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

                Að mati sóknaraðila byggist málflutningur varnaraðila einkum og sér í lagi á því að hann telji að Seðlabankinn hefði átt að haga lánveitingum sínum til stóru bankanna þriggja með öðrum hætti en hann gerði þegar þrengja hafi farið að á fjármálamörkuðum. Varnaraðili gefi í skyn að Seðlabankinn hafi í raun átt að neita varnaraðila um lán þótt slík neitun hefði án vafa sent mjög sterk skilaboð til markaðarins um stöðu varnaraðila og þar með valdið hruni hans og stefnt fjármálastöðugleika í mikið uppnám. Varnaraðili geri hins vegar enga tilraun til að rökstyðja hvenær Seðlabankinn hefði átt að synja varnaraðila um frekari lánveitingar gegn veði í óvörðum bankabréfum eða á hvaða lagagrundvelli slík synjun hefði átt að byggjast. Þá neiti varnaraðili að upplýsa hvers vegna hann hafi neitað að greiða þau lán sem veitt hafi verið fyrir þetta óræða tímabil, sem ættu þó að mati varnaraðila að teljast lögleg.

                Á því sé hins vegar byggt af hálfu sóknaraðila að Seðlabankinn sé stjórnvald sem beri sem slíku að fara eftir lögum og reglum á því sviði. Raunveruleikinn sé sá að hlutverk seðlabanka sé að koma í veg fyrir að lausafjárþurrð leiði til falls banka sem uppfylli kröfur um eiginfjárhlutfall. Með vísan til alls framangreinds sé ljóst að hvergi hafi verið vikið frá reglum Seðlabankans um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Hefði Seðlabanki Íslands neitað varnaraðila um lán, þrátt fyrir að  viðurkenndar tryggingar væru í boði, megi ætla að Seðlabankinn hefði bakað sér skaðabótaábyrgð gagnvart varnaraðila. Vangaveltur varnaraðila um að Seðlabankinn hefði átt að haga sér með öðrum hætti séu ekki studdar viðhlítandi lagarökum og geti aldrei leitt til þess að varnaraðili verði ekki skuldbundinn af þeim samningum sem gerðir hafi verið.

                Sóknaraðili byggi jafnframt á meginreglum íslensks samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir fjárskuldbindinga. Kröfur sóknaraðila byggist á því að varnaraðili standi við sínar skuldbindingar á grundvelli þeirra samninga sem gerðir hafi verið á milli aðila. Það liggi fyrir, enda ómótmælt af varnaraðila, að varnaraðili hafi leitað til Seðlabankans og hafi óskað eftir fyrirgreiðslu. Í lánabeiðnum varnaraðila sé sérstaklega tekið fram að óskað sé eftir láni til 7 daga, þ.e. markaðsláni, gegn þar tilgreindum veðum, sem Seðlabankinn hafi metið hæf samkvæmt þeim reglum sem um viðskiptin hafi gilt. Þá sé jafnframt óumdeilt að varnaraðili hafi fengið fjármuni frá Seðlabankanum í samræmi við efni samninga varnaraðila við Seðlabankann og séu þær fjárhæðir sem mótteknar hafi verið af varnaraðila í samræmi við þær upplýsingar sem komi fram í þeirri kröfulýsingu sem hér sé til umfjöllunar. Raunar hafi móttaka þessara fjármuna verið eðlilegur liður í rekstri varnaraðila og hafi því aldrei verið mótmælt af varnaraðila að svo hafi verið.

                Sóknaraðili byggi á því að ráðstöfun þeirra fjármuna sem varnaraðili hafi móttekið frá Seðlabankanum hafi alfarið verið á ábyrgð varnaraðila. Ráðstöfun varnaraðila á þeim fjármunum sem fengnir hafi verið að láni hjá Seðlabankanum og samningar varnaraðila við önnur íslensk fjármálafyrirtæki séu alfarið á ábyrgð varnaraðila. Öllum fullyrðingum varnaraðila um að lánveitingar til varnaraðila hafi falið í sér brot á reglum Seðlabankans um viðskipti við fjármálafyrirtæki sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Jafnframt sé fullyrðingum þess efnis að lánveitingar til varnaraðila hafi falið í sér brot á reglum um bann við lánveitingum til fjármálastofnana gegn veðum í eigin skuldabréfum viðkomandi fjármálastofnunar og að varnaraðili hafi verið milligönguaðili eða einhvers konar „leppur“ fyrir stóru viðskiptabankana harðlega mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

                Staðreyndir málsins séu í fyrsta lagi að umrædd lán sem veitt hafi verið af Seðlabankanum hafi öll verið veitt varnaraðila. Í öðru lagi hafi allar peningafærslur verið lagðar inn á reikning í eigu varnaraðila og í þriðja lagi hafi öll veð sem lögð hafi verið fram í tengslum við umrædd viðskipti verið í eigu varnaraðila. Aðrir aðilar hafi  ekki komið að þessum tilteknu viðskiptum milli varnaraðila og Seðlabankans. Þegar af þeirri ástæðu sé því mótmælt sem röngu að um málamyndagerninga hafi verið að ræða enda uppfylli þau viðskipti sem séu hér til umfjöllunar að engu leyti skilyrði þess að geta fallið undir skilgreiningu þess hugtaks.

                Sóknaraðili hafni því sem röngu og ósönnuðu að lánveitingar Seðlabanka Íslands til varnaraðila hafi ekki verið gerðar upp heldur hafi gjalddagi lánanna endurtekið verið færður fram í tímann. Slíkar yfirlýsingar slitastjórnar lýsi vanþekkingu á viðskiptum aðila. Staðreyndin sé sú að lán varnaraðila hafi ávallt verið gerð upp á gjalddaga í samræmi við efni þeirra. Nýtt lán hafi krafist nýrrar beiðni og mats Seðlabankans á þeim tryggingum sem lagðar hafi verið fram. Þegar nýtt lán hafi verið tekið hafi forvextir af nýja láninu verið greiddir samhliða uppgjöri á eldra láni. Væri einhver mismunur á eldri og yngri lánum hafi sá mismunur verið gerður upp. Lán til varnaraðila hafi aldrei verið framlengd. Sjáist það einna best í töflum varnaraðila í afstöðubréfi slitastjórnar hans, 11. ágúst 2010, en þar komi  greinilega fram að ekkert þeirra óvörðu bankabréfa, sem tilgreint sé til tryggingar á veðlánum sóknaraðila 31. október 2007, sé ennþá tilgreint sem veð í kröfulýsingu sóknaraðila.  Fimm veð, 31. október 2007, hafi verið með gjalddaga innan þriggja mánaða, eða 61,5% af heildarmarkaðsverðmæti lánanna. 10 veð, hafi verið með gjalddaga innan 12 mánaða, eða 95,7% af heildarmarkaðsvirði lánanna. Samkvæmt þessu hefði það verið brot á starfsreglum bankans að framlengja lánin með þeim hætti sem haldið sé fram af hálfu varnaraðila. Fullyrðingar varnaraðila um að svo hafi verið gert séu ekki studdar neinum gögnum.

                Á tímabilinu frá 13. febrúar 2007 til 1. október 2008 hafi 35 mismunandi flokkar óvarinna bankabréfa verið lagðir fram af varnaraðila sem veð, en einungis 12 flokkar hafi verið að veði 1. október 2008. Eðli málsins samkvæmt hljóti hinir flokkarnir að hafa komið á gjalddaga eða hafa verið seldir af varnaraðila.

                Af ofangreindu megi sjá að töluverður veltuhraði hafi verið á þeim veðum sem varnaraðili hafi lagt fram í dag- og veðlánaviðskiptum við Seðlabankann frá byrjun árs 2007. Af því megi draga þá ályktun að varnaraðili hafi ekki ekki setið fastur með sömu veðin allan þann tíma sem umrædd viðskipti hafi átt sér stað. Þvert á móti hafi varnaraðili fengið töluvert af reiðufé í sínar hendur þegar komið hafi að gjalddaga bankabréfanna og þannig greitt upp eldri lán eða keypt ný veð til að leggja fram sem tryggingu. Þannig hafi varnaraðili ávallt getað hætt þessum viðskiptum sínum við bankana ef vilji hefði verið til þess. Greiðsluloforð varnaraðila gagnvart Seðlabankanum hafi því aldrei verið vefengd.

                Þá sé á því byggt að varnaraðili hafi nú þegar viðurkennt í framkvæmd lögmæti lánanna og þeirra trygginga sem varnaraðili hafi lagt fram. Með samkomulagi, 16. júlí 2009, hafi aðilar ásamt öðrum sparisjóðum og Nýja Kaupþingi banka hf. samið um skuldir félags sem heiti Klettháls ehf., sem hafi verið að hluta til í eigu varnaraðila. Klettháls ehf. hafi verið eigandi safns veðskuldabréfa, sem það hafi m.a. keypt af varnaraðila. Klettháls ehf. hafi veðsett þessar eignir sínar til tryggingar á endurhverfum viðskiptum við Landsbanka Íslands hf. en við þau viðskipti hafi Klettháls ehf. fengið skuldabréf, útgefið af Landsbanka Íslands hf., og hafi miðlað því bréfi áfram til varnaraðila. Varnaraðili hafi síðan nýtt skuldabréfið til að nálgast lánsfé hjá Seðlabankanum. Við þessi viðskipti hafi varnaraðili átt að hagnast á vaxtamun. Við uppgjör hafi Klettháls ehf. átt að skila sama, eða eins, skuldabréfi til Landsbankans hf.

                Þegar komið hafi að uppgjöri hafi bankakerfið verið hrunið og því hafi þurft leyfi frá Seðlabankanum til að losa skuldabréf Landsbankans hf. úr veðböndum. Seðlabankinn hafi samþykkt veðbandslausnina gegn því að allt annað andvirði við uppgjör Klettháls ehf. yrði greitt upp í skuldir varnaraðila hjá Seðlabankanum. Þetta fyrirkomulag hafi verið samþykkt af varnaraðila, en á þessum tíma hafi Fjármálaeftirlitið skipað varnaraðila skilanefnd og héraðsdómur skipað aðstoðarmann í greiðslustöðvun sem og slitastjórn. Samningurinn hafi verið gerður með fullri vitund og vilja þessara aðila.

                Að mati sóknaraðila sýni ofangreind viðskipti vel þekkingu varnaraðila á endurhverfum viðskiptum. Þá sýni samningurinn glöggt að varnaraðili hafi ekki verið misnotaður af stóru bönkunum til að eiga lánsviðskipti við Seðlabankann heldur hafi hann sóst eftir þessum viðskiptum til að hagnast sjálfur, ekki eingöngu í gegnum stóru bankana, heldur einnig í samstarfi við smærri sparisjóði.

                Á því sé byggt að slitastjórn varnaraðila hefði aldrei samþykkt uppgjörssamninginn vegna Klettháls ehf. ef hún teldi sig hafa eignast umrætt skuldabréf með málamyndagerningi eða varnaraðili hefði verið misnotaður á einhvern hátt. Afstaða varnaraðila sýni hins vegar að hann hafi talið sig eiganda þessara verðbréfa, sem lögð hafi verið fram sem tryggingar hjá Seðlabanka og að þær skuldbindingar hafi borið að efna. Í samskiptum við sóknaraðila firri varnaraðili sig hins vegar allri ábyrgð á þessum lánum þar sem slíkt þjóni tilgangi hans nú sem og kröfuhafa hans, sem flestir séu erlendir. Varnaraðili sé þannig í þversögn við sjálfan sig í afstöðu sinni. 

                Þá mótmæli sóknaraðili þeirri túlkun varnaraðila á skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis að Seðlabanki Íslands hafi vitað fyrirfram um fall bankanna og honum hafi borið að upplýsa varnaraðila um þessa vitneskju sína. Að mati sóknaraðila hafi fall hins bandaríska Lehman Brothers banka þann 15. september 2008 verið vendipunkturinn á alþjóðlegum fjármálamörkuðum en við það hafi allir markaðir lokast og lausafjárkreppan hafi breyst í eignakreppu. Við það hafi eignir fjármálafyrirtækja fallið í verði og hafi íslensku bankarnir ekki verið þar undanskildir. Staða íslensku bankanna hafi því ekkert verið öðruvísi en flestra annarra banka í Evrópu. Það sé hlutverk Seðlabanka Íslands að lögum, eins og annarra seðlabanka, að styðja við íslenskar fjármálastofnanir í lausafjárvanda. Þetta hafi fyrirsvarsmenn varnaraðila vitað jafn vel og starfsmenn Seðlabanka Íslands, eins og komi fram í gögnum málsins.

                Starfsmenn varnaraðila hafi verið sérfræðingar á sviði fjármálamarkaða og hafi varnaraðili þegið háar þóknanir vegna þessara lánsviðskipta sinna við stóru bankana. Ekki stoði nú fyrir slitastjórn að bera fyrir sig vankunnáttu starfsmanna varnaraðila. Sérstaklega sé bent að 17. júlí 2008 hafi Seðlabankinn sent bréf til allra fjármálafyrirtækja og tilkynnt um breytingar á reglum um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands. Ljóslega sjáist á viðbrögðum varnaraðila við því bréfi að þeir hafi verið vel meðvitaðir um reglur Seðlabankans og að þessi lánsviðskipti hafi talist mikilvægur þáttur í starfsemi varnaraðila.

                Þá veki sóknaraðili athygli á því að starfsmenn Seðlabanka Íslands séu bundnir þagnarskyldu um allt það sem varði hagi viðskiptamanna bankans, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001. Starfsmönnum Seðlabankans hafi því verið óheimilt að deila þeim upplýsingum með varnaraðila eins og slitastjórn hans ætlist til.

                Sóknaraðili mótmæli alfarið afstöðu og málsástæðum slitastjórnar varnaraðila er lúti að höfnun slitastjórnarinnar á kröfum sóknaraðila vegna veðlána.

                Slitastjórn varnaraðila haldi því fram í afstöðubréfi sínu, 11. ágúst 2010, að í raun hafi verið um svokölluð neyðarlán að ræða samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001, en ekki markaðslán samkvæmt 1. mgr. 7. gr. s.l. Þessum fullyrðingum varnaraðila kveðst sóknaraðili mótmæla sem röngum, ósönnuðum og algjörlega órökstuddum.

                Eins og rakið hafi verið að framan sé staðreynd málsins sú, að allar lánveitingar Seðlabankans til varnaraðila hafi verið regluleg viðskipti og hafi uppfyllt reglur um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands. Öll umþrætt veðlán hafi verið veitt beint til varnaraðila og þau veð sem varnaraðili hafi lagt fram hafi öll verið í hans eigu enda skilyrði skv. reglum Seðlabankans að framlögð veð séu veðbanda og kvaðalaus. Þannig sé öllum ávirðingum slitastjórnar varnaraðila um að Seðlabankinn hafi vikið frá þeim reglum sem um viðskipti við fjármálafyrirtæki hafi gilt alfarið mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

                Þrátt fyrir tilraunir slitastjórnar varnaraðila til þess að færa fyrir því rök að um neyðarlán hafi í reynd verið að ræða til stóru viðskiptabankanna þriggja sé ljóst að staðreyndir málsins sýni annað. Raunar þyki slitastjórn varnaraðila sérstök ástæða til þess að víkja að sögu veðlánaviðskipta varnaraðila og Seðlabankans. Þrátt fyrir það séu engin rök færð fram fyrir því að stóru viðskiptabankarnir þrír hafi þurft á neyðarlánum að halda á þeim tíma. Sú staðreynd að veðlánaviðskipti varnaraðila og Seðlabankans eigi sér talsverða sögu, eins og réttilega sé bent á af slitastjórn varnaraðila, sýni hins vegar svo ekki verði um villst, að  regluleg viðskipti við Seðlabankann hafi verið hluti af eðlilegri starfsemi varnaraðila. Til þeirra hafi ekki verið gripið rétt fyrir hrun bankakerfisins, heldur hafi skuldastaða varnaraðila við Seðlabankann að öllu verulegu leyti verið óbreytt frá 1. maí 2008 þar til Fjármálaeftirlitið hafi tekið yfir vald hluthafafunda í viðskiptabönkunum þremur Kaupþingi banka hf., Glitni banka hf. og Landsbanka Íslands hf. Að þessu leyti sé málatilbúnaði slitastjórnar varnaraðili með öllu mótmælt sem röngum, órökstuddum og ósönnuðum.

                Þá sé því haldið fram í afstöðubréfi slitastjórnar að varnaraðili hafi í reynd aðeins verið  „milligönguaðili“ og hafi tekið á sig gífurlega fjárhagslega áhættu gagnvart stóru viðskiptabönkunum þremur sem ekki hafi verið í neinu samræmi við fjárhagslega stærð varnaraðila eða styrk. Í þessu sambandi vilji sóknaraðili ítreka að ráðstöfun þeirra fjármuna, sem óumdeilt sé að varnaraðili hafi fengið í reglulegum viðskiptum við Seðlabankann, hafi alfarið verið á ábyrgð varnaraðila. Þá vísi sóknaraðili til þess sem komi fram í afstöðubréfi slitastjórnar varnaraðila, 11. ágúst 2010, um að varnaraðili hafi þegið þóknun fyrir að endurlána fjármuni þá sem varnaraðili hafi tekið að láni hjá sóknaraðila. Sóknaraðili telji málatilbúnað slitastjórnar varnaraðila hvað þetta varði með ólíkindum. Að sjálfsögðu hafi varnaraðili fengið þóknun fyrir, enda byggi starfsemi fjármálastofnana m.a. að stórum hluta á því að endurlána fé gegn þóknun. Millibankamarkaður, eða peningamarkaðir, gangi einmitt út á það að fjármálafyrirtæki eigi viðskipti hvert við annað og starfsemi varnaraðila hafi að stórum hluta byggst á þátttöku í millibankamarkaði og hafi þar af leiðandi hlotið meðvitað að taka ákvarðanir um regluleg viðskipti við Seðlabankann til þess að geta endurlánað þá fjármuni gegn þóknun. Vegna þess hversu mikla fjárhagslega áhættu varnaraðili hafi tekið á sig gagnvart viðskiptabönkunum þremur, Kaupþingi banka hf., Glitni banka hf. og Landsbanka Íslands hf. og þar sem Seðlabankinn eigi að hafa búið yfir einhverjum óskilgreindum og óræðum upplýsingum, telji slitastjórn varnaraðila að í reynd hafi ekki verið neitt hald í greiðsluloforði varnaraðila gagnvart Seðlabankanum. Slíkum málatilbúnaði sé harðlega mótmælt sem röngum. Yrði á þetta fallist ættu allar skuldbindingar aðila að falla niður tæki hann ákveðið mikla áhættu, sem augljóslega kollvarpi öllum meginreglum samninga- og kröfuréttar fyrir utan að kippa grundvellinum undan millibankamarkaði.

                Þeim málatilbúnaði slitastjórnar varnaraðila að Seðlabankinn hafi með vísvitandi hætti farið á svig við eigin reglur sé harðlega mótmælt sem röngum og algjörlega ósönnuðum. Í samræmi við a-lið 1. mgr. 5. gr. almennra skilmála Seðlabankans um viðskipti við fjármálafyrirtæki hafi lánastofnunum staðið til boða lán til 7 daga í senn gegn veði í verðbréfum sem Seðlabankinn hafi metið hæf til tryggingar. Þannig hefði Seðlabankanum, sem opinberri stofnun og stjórnvaldi í skilningi stjórnsýslulaga, vart verið tækt að hafna umsókn varnaraðila um veðlán sem verið hafi í fullkomnu samræmi við og hafi uppfyllt öll skilyrði laga og reglna sem um slíkar umsóknir hafi gilt. Jafnframt komi þar fram að þær lánastofnanir sem óski slíkra lána skuli senda inn umsókn þess efnis á þar til gerðu eyðublaði. Frumkvæði að því að óska eftir láni og hvaða veð væru boðin til tryggingar hafi því komið frá varnaraðila. Ekkert liggi fyrir um það í gögnum málsins að varnaraðili eða viðskiptabankarnir þrír hafi í tengslum við lánveitingarnar óskað eftir neyðarláni frá Seðlabankanum. Ekkert í umsókn varnaraðila um regluleg viðskipti hafi verið hægt að skilja þannig að varnaraðili kæmi fram sem milligönguaðili um lausafjáraðstoð til annarra fjármálafyrirtækja sem ekki félli undir viðskipti skv. 1. mgr. 7. gr. seðlabankalaga. 

                Þvert á málatilbúnað varnaraðila, verði að ætla að ef viðskiptabankarnir þrír, þ.e. Kaupþing banki hf., Glitnir banki hf. og Landsbanki Íslands hf. hefðu haft þörf fyrir neyðarlán frá Seðlabankanum hefði þeim borið að óska slíkrar lánveitingar sem þá hefði verið afgreidd eftir þeim reglum sem um slíkar lánveitingar hafi gilt. Þessir bankar hafi þekkt reglurnar mæta vel en Glitnir banki hf. hafi óskað eftir neyðarláni 29. september 2008 og Kaupþing banki hf. 6. október 2008. Fullyrðingar varnaraðila um þetta atriði standist einfaldlega ekki enda virðist þær alfarið byggðar á því að annað verði ekki ráðið af því sem fram komi í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um að lausafjárfyrirgreiðsla Seðlabankans til handa viðskiptabönkunum þremur hafi „aukist verulega“ svo og að lausafjárstaða þeirra hafi verið orðin slæm. Þá segi að svo „virðist“ sem með þessum ráðstöfunum Seðlabankans hafi verið vikið frá reglum bankans um slíkar lánveitingar.  Þessar hugleiðingar varnaraðila geti engan veginn hnekkt staðreyndum málsins um annað eins og sóknaraðili hafi sýnt fram á.

                Í afstöðubréfi slitastjórnar varnaraðila, 11. ágúst 2010, sé því haldið fram að sú ráðstöfun sem falist hafi í lántökum varnaraðila hjá Seðlabankanum seinni hluta ársins 2007 og á árinu 2008 samhliða lánveitingum til þriggja tiltekinna fjármálafyrirtækja, og veðsetning verðbréfa umræddra fjármálafyrirtækja, séu málamyndagerningar sem hafi ekki réttaráhrif samkvæmt efni sínu. Þessari málsástæðu varnaraðila sé mótmælt sem rangri og ósannaðri.

                Þegar um málamyndagerning sé að ræða þá séu báðir aðilar sammála um að önnur merking skuli lögð til grundvallar heldur en leiða megi af orðalagi gerningsins eða formi samkvæmt almennum túlkunarreglum eða þá að ætlun annars aðilans sé önnur en almennt megi ráða af orðalagi gerningsins og hinum aðilanum sé það ljóst. Þannig sé það óhjákvæmilega skilyrði þess að um málamyndagerning sé að ræða að afstaða beggja samningsaðila sé sú að löggerningurinn eigi að hafa önnur réttaráhrif en ráða megi af efni hans og orðalagi.

                Samningar varnaraðila við Seðlabankann um veðlán hafi verið efndir og framkvæmdir í samræmi við efni þeirra. Þeim hafi ekki verið ætlað að hafa önnur réttaráhrif en efni þeirra kveði á um, þ.e. lánin hafi verið veitt varnaraðila og hann hafi verið skuldari þeirra. Þá sé það ljóst af kröfulýsingu sóknaraðila að ávallt hafi staðið til að þeir fjármunir sem varnaraðili hafi fengið að láni yrðu endurgreiddir. Þegar af þeirri ástæðu byggi sóknaraðili á því að það sé bersýnilegt að ekki hafi verið um að ræða löggerninga sem hafi verið ætlað að hafa önnur réttaráhrif en efni þeirra og orðalag hafi sagt til um. Þá ítreki sóknaraðili að eldri lán hafi ávallt verið gerð upp áður en  ný lán hafi verið veitt gegn nýjum veðum. Samningar aðila hafi því verið efndir samkvæmt efni þeirra fram að falli varnaraðila. Með vísan til þessa telji sóknaraðili ljóst að röksemdir slitastjórnar varnaraðila um málamyndagerninga séu með öllu haldlausar.

                Sóknaraðili leggi áherslu á að einvörðungu verði að horfa til réttarsambands varnaraðila og Seðlabankans við mat á því hvort um málamyndagerninga hafi verið að ræða. Ekki sé tækt að horfa til síðar tilkominna samskipta varnaraðila við aðrar fjármálastofnanir, enda um sjálfstæð réttarsambönd að ræða sem séu aðskilin því réttarsambandi sem hafi verið til staðar milli varnaraðila og Seðlabankans. Hafa verði í huga að varnaraðili hafi verið virkur á millibankamarkaði og hafi sóst eftir að vera virkur viðskiptavinur stóru bankanna þriggja. Stóru bankarnir hafi ekki þurft á varnaraðila að halda enda hafi þeir getað átt viðskipti sín á milli. Varnaraðili hafi hins vegar kosið að taka þetta hlutverk að sér gegn þóknun enda hafi þetta verið hluti af viðskiptaáætlun hans. Eins og að framan sé rakið liggi fyrir að samskipti varnaraðila við aðrar fjármálastofnanir og ráðstöfun varnaraðila á þeim fjármunum, sem fengnir hafi verið að láni hjá Seðlabankanum hafi alfarið verið á ábyrgð varnaraðila. Sóknaraðili hafni eindregið tilraunum slitastjórnar varnaraðila til að draga ályktanir af viðskiptum varnaraðila við aðrar fjármálastofnanir og heimfæra þau yfir á lánveitingar Seðlabankans til varnaraðila. Slíkt sé augljóslega ótækt enda sé um að ræða tvo eða fleiri sjálfstæða löggerninga á milli mismunandi lögaðila. Í máli þessu sé það staðreynd að lánveitingar Seðlabankans til varnaraðila hafi verið framkvæmdar í samræmi við efni þeirra samninga sem legið hafi þeim til grundvallar. Þannig hafi fjármunir verið millifærðir úr sjóðum Seðlabankans og inn á reikninga í eigu varnaraðila. Sóknaraðili byggi á því að það hafi enga þýðingu varðandi mat á gildi umræddra lánveitinga hvernig varnaraðili hafi kosið að ráðstafa þessum fjármunum, þar á meðal hvort fjármunirnir hafi síðar verið endurlánaðir frá varnaraðila til þriðja aðila gegn þóknun.

                Slitastjórn varnaraðila fullyrði að um málamyndagerning hafi verið að ræða sem eigi ekki að hafa réttaráhrif samkvæmt efni sínu. Engu að síður liggi það ljóst fyrir að Seðlabankinn hafi yfirfært fjármuni sem varnaraðili hafi tekið við. Til þess að málatilbúnaður varnaraðila gengi yfir höfuð upp, þyrfti hann að skila þeim fjármunum sem hann hafi móttekið frá Seðlabankanum en það bjóði hann ekki. Þannig sé augljóst að ef fallist yrði á málatilbúnað slitastjórnar varnaraðila ynni varnaraðili rétt með óréttmætum hætti á kostnað sóknaraðila. Þannig yrði um ólögmæta auðgun að ræða í skilningi kröfuréttar sem til væri komin á kostnað annars aðila, í þessu tilviki sóknaraðila sem ætti þá endurkröfurétt á hendur varnaraðila. Þannig telji sóknaraðili einsýnt að málatilbúnaður varnaraðila um að hinir umþrættu samningar um veðlán séu málamyndagerningar fái ekki staðist. Í reynd staðhæfi varnaraðili að um málamyndagerninga sé að ræða, en líti með öllu fram hjá réttaráhrifum slíks.

                Þá byggi sóknaraðili ennfremur á því að jafnvel þótt litið yrði svo á að um málamyndagerninga væri að ræða hafi það engin áhrif á greiðsluskuldbindingu varnaraðila. Eins og rakið hafi verið að framan þá sé það eingöngu í tilvikum þar sem ljóst sé að samningsaðilar hafi báðir haft þann skilning að löggerningi hafi ekki verið ætlað að hafa nein réttaráhrif samkvæmt efni sína að rétt sé að virða gerninginn alfarið að vettugi. Staðreyndir þessa máls sýni að svo hátti ekki til hér. Sóknaraðili hafi sýnt fram á að um skýrt kröfuréttarsamband sé að ræða. Varnaraðili hafi tekið lán hjá Seðlabankanum og hafi þar með tekið á sig þá skýru skilyrðislausu skuldbindingu að endurgreiða lánið. Samkvæmt málatilbúnaði varnaraðila hafi lánasamningnum ekki verið ætlað að hafa nein réttaráhrif. Engu að síður hafi tugir milljarða króna verið yfirfærðar af reikningum Seðlabankans yfir á reikninga varnaraðila. Það sé einsýnt að málatilbúnaður varnaraðila gangi ekki upp. Mikilvægt sé að hafa í huga þá staðreynd að fjármunir hafi skipt um hendur í samræmi við samning aðila og því geti málatilbúnaður varnaraðila ekki leitt til þess að greiðsluskuldbinding varnaraðila hverfi eins og dögg fyrir sólu þegar gögn málsins sýni að varnaraðili hafi veitt þessum fjármunum viðtöku. Það verði að líta til þessa við mat á réttaráhrifum veðlánasamninga varnaraðila við Seðlabankann. Telji sóknaraðili, með hliðsjón af framangreindu, að það fái engan veginn staðist að varnaraðili losni undan endurgreiðsluskyldu sinni.

                Þá bendi sóknaraðili jafnframt á þá staðreynd að varnaraðili hafi langt því frá staðið höllum fæti í þessu réttarsambandi. Starfsmenn varnaraðila hafi verið sérfræðingar í bankaviðskiptum og lántökur hjá Seðlabankanum hafi verið liður í viðurkenndri viðskiptaáætlun varnaraðila sem þátttakanda á millibankamarkaði enda hafi hann hagnast vel á þeirri áætlun. Þá sé ljóst að varnaraðili hafi verið eftirlitsskyldur aðili sem hafi verið undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins rétt eins og aðrar fjármálastofnanir. Telja verði líklegt að ef um víðtækt og samofið net málamyndagerninga hefði verið að ræða milli varnaraðila og annarra fjármálastofnana, til þess ætlað að hafa fjármuni af Seðlabankanum, þá verði að telja næsta víst að Fjármálaeftirlitið hefði orðið þess vart.

                Af öllu framangreindu sé ljóst, að mati sóknaraðila, að afstaða slitastjórnar varnaraðila til a) liðar kröfu nr. 190 sem varði veðlánaviðskipti varnaraðila við Seðlabankann standist ekki nánari skoðun. Afstaða slitastjórnar varnaraðila feli beinlínis í sér að öll lán þar sem lántaki noti fjármuni til slæmra fjárfestinga og tapi fjármunum í kjölfarið kunni að verða túlkuð eftir á sem málamyndagerningar. Afleiðingar þess, ef fallist verði á afstöðu slitastjórnar varnaraðila, séu að slíkt myndi kollvarpa bæði millibankamarkaði og almennum markaði með lánsfé á Íslandi og í Evrópu. Aðgangur að lánsfé myndi takmarkast verulega, ef ekki hreinlega hverfa með öllu. Bankar myndu til að mynda aldrei lána til félaga sem væru illa stödd fjárhagslega, þrátt fyrir að traust veð stæðu til boða, þar sem lántakinn gæti ávallt síðar borið því við að endurgreiðsluskyldan sé niður fallin vegna þess að bankinn hefði átt að synja um lánveitinguna vegna slæmrar skuldastöðu lántakans.

                Afstaða slitastjórnar varnaraðila virðist ennfremur vera sú að lánasamningarnir og veðsetningar í tengslum við þá séu jafnframt ógildar ráðstafanir þar sem þær hafi verið andstæðar lögum og reglum Seðlabankans um viðskipti við fjármálafyrirtæki nr. 541/2007, síðar nr. 317/2008, og nr. 808/2008 (nú nr. 553/2009). Þessum málatilbúnaði varnaraðila sé með öllu mótmælt. Eins og rakið hafi verið að framan hafi umræddar lánveitingar og veðsetningarnar í tengslum við þær verið framkvæmdar í einu og öllu í samræmi við þau lög og þær reglur sem gilt hafi um regluleg viðskipti við Seðlabankann. Fullyrðingum slitastjórnar varnaraðila um að lánveitingarnar hafi verið veittar á röngum lagagrundvelli og hafi í raun verið neyðarlán til þriðja aðila sé því alfarið mótmælt sem röngum og vísist til framangreindrar umfjöllunar hvað það varði.

                Slitastjórn varnaraðila telji að hinir ætluðu annmarkar á lánveitingunum eigi að leiða til þess að lána- og veðsamningarnir teljist ógildir. Þessu sé alfarið mótmælt og hér vísist aftur til þess ágalla sem virðist vera á öllum málatilbúnaði varnaraðila, en hann snúi að því að varnaraðili hafi móttekið og hafi veitt þeim fjármunum sem hér um ræði viðtöku og hafi þessi röksemd því engin áhrif á endurgreiðsluskyldu varnaraðila jafnvel þó fallist væri á hana. Verði talið að hinir umþrættu samningar séu ógildir sé það ekki svo að varnaraðili geti fengið að halda fjármununum án nokkurra eftirmála. Þvert á móti bæri varnaraðila þá að skila þeim fjármunum sem hann hafi veitt viðtöku enda séu engin rök fyrir því að endurgreiðsluskylda hans félli niður.

                Þá mótmæli sóknaraðili alfarið öllum röksemdum varnaraðila þess efnis að lána- og veðsamningar þeir sem gerðir hafi verið vegna veðlána varnaraðila við Seðlabankann séu ógildir, þ.m.t. á grundvelli samningalaganna nr. 7/1936, sem röngum, ósönnuðum og órökstuddum með öllu. Vísist til fyrri umfjöllunar um gildi lánveitinga Seðlabankans til varnaraðila þessu til stuðnings. Því til viðbótar sé því alfarið hafnað og mótmælt að Seðlabankinn hafi fengið varnaraðila til að taka hjá sér lán með svikum, sbr. 30. gr. laga nr. 7/1936, líkt og slitastjórn varnaraðila haldi fram. Ítrekað sé að varnaraðili hafi sjálfur óskað eftir þessum lánum, hann hafi verið sérfræðingur á þessu sviði og fyrir liggi að hann hafi hagnast verulega sjálfur á viðskiptunum.

                Þá hafni sóknaraðili öllum tilvísunum varnaraðila til 32., 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936, enda séu þær með öllu órökstuddar. Jafnframt hafni sóknaraðili því að reglur samningarréttarins um brostnar forsendur geti átt við. Forsendureglan geri ráð fyrir að til þess að loforð verði talið óskuldbindandi þurfi að uppfylla þrjú þröng skilyrði. Forsendan þurfi að vera veruleg, hún þurfi að vera sýnileg loforðsþega og sérstakar aðstæður verði að gera það eðlilegt og sanngjarnt að áhættan af forsendubresti færist yfir á hann, enda verði loforðsgjafi sjálfur að bera áhættuna af því að forsenda hans fyrir samningsgerð bresti. Ekkert af ofangreindu geti átt við í máli þessu.

                Sóknaraðili kveðst mótmæla því sem röngu og ósönnuðu að lána- og veðsamningar þeir sem leiða megi af veðlánaviðskiptum varnaraðila og Seðlabankans séu riftanlegar ráðstafanir í skilningi laga nr. 21/1991. Því hafi verið haldið fram af slitastjórn varnaraðila að lánveitingar Seðlabankans til varnaraðila gegn veðum í verðbréfum útgefnum af Kaupþingi banka hf., Glitni banka hf. og Landsbanka Íslands hf. séu riftanlegar ráðstafanir með vísan til 137. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991.

                Áður en fullyrðingar slitastjórnar varnaraðila varðandi einstakar riftunarreglur verði hraktar telji sóknaraðili nauðsynlegt að skoða hvaða almennu skilyrði séu sett fyrir beitingu þeirra reglna sem er að finna í XX. kafla laga nr. 21/1991. Nánar tiltekið séu hin almennu skilyrði m.a. þau að riftanleg ráðstöfun þurfi að hafa orðið þrotabúinu til tjóns. Þannig þurfi riftun m.a. að leiða til þess að verðmæti renni til þrotabús, sem hafi ekki verið þar við upphaf skipta, eða að verðmæti komi til skipta meðal allra kröfuhafa en ekki eingöngu veðhafa. Jafnframt geti það verið á þann veg að skuldir þrotabús lækki í kjölfar riftunar, þ.e. að fjárhæð lýstra krafna lækki, en á því virðist afstaða slitastjórnar varnaraðila byggð, a.m.k. að hluta til. Þá sé einnig almennt skilyrði riftunar að um auðgun móttakanda hinnar riftanlegu ráðstöfunar hafi verið að ræða.

                Rétt sé að ítreka enn einu sinni að varnaraðili hafi veitt fjármunum frá Seðlabankanum viðtöku í samræmi við efni samninganna. Eins og ítrekað hafi verið bent á að framan þá sé það alfarið á ábyrgð varnaraðila hvernig ráðstöfun þeirra fjármuna hafi verið háttað enda hafi Seðlabankinn ekki átt aðild að því réttarsambandi og hafi það í raun verið honum óviðkomandi. Þegar einvörðungu sé horft til þess réttarsambands sem hafi verið á milli varnaraðila og Seðlabankans þá sé ljóst að varnaraðili hafi ekki orðið fyrir tjóni í tengslum við þær ráðstafanir sem falist hafi í umræddum lánveitingum. Þvert á móti sé staðan sú að verði fallist á málatilbúnað varnaraðila leiði það til þess að varnaraðili auðgist með óréttmætum hætti á kostnað sóknaraðila sem hafi fengið kröfu Seðlabankans framselda.

                Þá sé það jafnframt skilyrði fyrir beitingu riftunarreglna laga nr. 21/1991 að um auðgun þess sem riftun sé beint að hafi verið að ræða. Í þessu tilviki hafi það verið Seðlabankinn sem hafi lánað varnaraðila fé. Varnaraðili hafi síðan ráðstafað því fé til þriðja aðila með löggerningum. Það verði því ekki séð að riftunarkrafa varnaraðila geti náð fram að ganga þar sem það liggi ljóst fyrir að Seðlabankinn hafi ekki auðgast á þeim ráðstöfunum sem hér séu til umfjöllunar. Nærtækara væri fyrir slitastjórn varnaraðila að beina þessum riftunarkröfum að viðskiptabönkunum þremur sem að sögn hafi á endanum verið viðtakendur þessara fjármuna fyrir tilstilli og á grundvelli samninga sem þeir hafi gert við varnaraðila.

                Sóknaraðli telji sérstaka ástæðu til að taka fram að ekkert komi fram í afstöðubréfi slitastjórnar varnaraðila um það hvort að þeim samningum sem síðar hafi verið gerðir við viðskiptabankanna þrjá hafi verið rift. Af þessu tilefni þyki sóknaraðila rétt að benda á að almennt sé talið að kröfugerð í riftunarmálum geti aðeins beinst að hinni riftanlegu ráðstöfun. Eins og málum sé háttað hér verði ekki séð að almenn skilyrði riftunar séu til staðar hvað varði samninga sem gerðir hafi verið á milli varnaraðila og Seðlabankans og sé því afstöðu slitastjórnar varnaraðila alfarið mótmælt.

                Með hliðsjón af framangreindu telji sóknaraðili það ljóst að ekki sé um riftanlegar ráðstafanir að ræða í skilningi XX. kafla laga nr. 21/1991 þar sem almenn skilyrði riftunar séu ekki uppfyllt eins og málum sé háttað í þessu tilviki.

                Í greinargerð sóknaraðila er til þess vísað að málatilbúnaður slitastjórnar varnaraðila um riftun á grundvelli XX. kafla hafi í afstöðubréfi slitastjórnar verið byggður sérstaklega á 1. mgr. 137. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991. Þar sem aðeins er byggt á síðarnefndu reglunni í greinargerð varnaraðila til dómsins þykir ekki ástæða til að gera grein fyrir sjónarmiðum sóknaraðila um þá fyrrnefndu.

                Sóknaraðili kveðst alfarið hafna afstöðu slitastjórnar varnaraðila um að ákvæði 141. gr. laga nr. 21/1991 veiti varnaraðila heimild til riftunar eins og atvikum sé háttað í þessu máli. Slitastjórn varnaraðila telji lagagreinina eiga við þar sem ráðstafanir sem lánveitingar Seðlabankans til varnaraðila gegn veði í verðbréfum Kaupþings banka hf., Glitnis banka hf. og Landsbanka Íslands hf. hafi á ótilhlýðilegan hátt leitt til tjóns fyrir kröfuhafa varnaraðila,  þar sem að eignir varnaraðila hafi ekki verið til reiðu til fullnustu fyrir kröfuhafa og skuldaaukning hafi orðið hjá varnaraðila.

                Sóknaraðili kveðst byggja á því að þau skilyrði sem komi fram í 141. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt. Nánar tiltekið sé skilyrðin eftirfarandi: a) að ráðstöfun hafi verið kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, eða b) að ráðstöfun hafi leitt til þess að eignir þrotamanns yrði ekki til fullnustu fyrir kröfuhafa, eða c) að ráðstöfunin hafi leitt til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns. Þá sé það alltaf skilyrði d) að skuldarinn hafi verið ógjaldfær eða hafi orðið það vegna ráðstöfunarinnar og loks e) að sá sem hag hafi haft af ráðstöfuninni hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærnina og þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg.

                Sóknaraðili telji að lánveitingar Seðlabankans til varnaraðila geti ekki talist hafa verið Seðlabankanum til hagsbóta með ótilhlýðilegum hætti. Þá hafi lánveiting Seðlabankans til varnaraðila ekki leitt til skuldaaukningar sem orðið hafi kröfuhöfum varnaraðila til tjóns vegna þess að varnaraðili hafi fengið þá fjármuni sem nú sé krafist endurgreiðslu á. Það hafi hins vegar verið ákvörðun varnaraðila um ráðstöfun á því lánsfé, til þriðju aðila, algjörlega óháð réttarsambandi því sem verið hafi á milli Seðlabankans og varnaraðila, sem orðið hafi kröfuhöfum varnaraðila til tjóns. Óumdeilt sé að það hafi hvorki verið Seðlabankinn, né sóknaraðili, sem tekið hafi við hinum umræddu fjármunum frá varnaraðila. Því mótmæli sóknaraðili alfarið riftunarkröfum slitastjórnar varnaraðila en telja verði að einhvers misskilnings gæti varðandi það að hverjum þessum riftunarkröfum sé beint.

                Þá mótmæli sóknaraðili einnig fullyrðingum slitastjórnar varnaraðila sem röngum og ósönnuðum þess efnis að stjórnendur Seðlabankans hafi vitað eða mátt vita að varnaraðili gæti aldrei endurgreitt umræddar lánveitingar og því hafi varnaraðili í raun orðið ógjaldfær við þær ráðstafanir sem í þessum lánveitingum hafi falist. Varnaraðili hafi tekið við þessum fjármunum sem lið í sinni eigin starfsemi, en hann hafi komið sér upp kerfi sem hafi gert honum kleift að hagnast á því að endurlána til annarra fjármálastofnana, gegn þóknun, þá fjármuni sem hann hafi fengið að láni hjá Seðlabankanum. Verði fallist á röksemdir varnaraðila, sem virðist lúta að því einu að lánveitingar Seðlabankans til varnaraðila hafi verið hærri en eigið fé hans  og því hafi verið ljóst að hann gæti aldrei endurgreitt umrætt fé, þá sé ljóst að slík niðurstaða myndi hafa víðtæk áhrif. Lánafyrirgreiðslur til fyrirtækja séu oft margfalt eigið fé viðkomandi fyrirtækja, slík lán séu veitt m.a. þegar til grundvallar liggi góð viðskiptaáætlun eða öruggar tryggingar, s.s. traust veð. Sóknaraðili telji að ef notast ætti einvörðungu við þennan mælikvarða, þ.e. eigið fé fyrirtækis í samhengi við lánveitingar til þess, sem slitastjórn varnaraðila telji nægja til þess að riftunarregla 141. gr. laga nr. 21/1991 eigi við, sé ljóst að slík niðurstaða myndi setja fjármögnun fjölmargra fyrirtækja í uppnám. Mótmæli sóknaraðila við þessum röksemdum varnaraðila séu því ítrekuð.

                Það sem hér skipti máli sé sú staðreynd að fjárhagsstaða varnaraðila hafi ekki versnað við lánveitingar Seðlabankans enda hafi varnaraðili nýtt þá fjármuni til að kaupa góðar eignir, þ.e. skuldabréf bankanna. Þessar eignir hafi borið hærri vexti en lán Seðlabankans. Við setningu neyðarlaganna nr. 125/2008 hafi hins vegar verðmæti þessara eigna minnkað, en sóknaraðili geti aldrei borið ábyrgð á þeirri verðmætarýrnun. Sú áhætta verði alfarið borin af varnaraðila.

                Málatilbúnaði slitastjórnar varnaraðila um að 146. gr., sbr. 142. gr. laga nr. 21/1991, eigi við sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Hvað varði röksemdir slitastjórnar varnaraðila um ætlaða grandsemi framsalshafa, þ.e. sóknaraðila, varðandi framsal 12. janúar 2009 og framsal 9. febrúar 2010, þá skuli á það bent, sem komi fram með skýrum hætti í texta 146. gr. laga nr. 21/1991, að gert sé að skilyrði að framsalshafinn hafi vitað eða mátt vita um þær aðstæður sem riftunarkrafan byggi á. Eins og rakið hafi verið hér að framan telji sóknaraðili að riftunarreglur XX. kafla laga nr. 21/1991 eigi ekki við í þeim tilvikum sem hér séu til umfjöllunar og því séu ekki til staðar neinar aðstæður sem varnaraðili geti byggt riftunarkröfur á. Því telji sóknaraðili einsýnt að ákvæði 146. gr. laga nr. 21/1991 eigi ekki við í deilumáli þessu.

                Sóknaraðili byggi ennfremur á því að 146. gr. laga nr. 21/1991 eigi aðeins við í tilvikum þar sem framsalsgjafi hafi, í andstöðu við riftunarreglur XX. kafla sömu laga, fengið verðmæti frá aðila sem síðar hafi orðið gjaldþrota, sem hann hafi framselt áfram til þriðja aðila. Hvaða verðmæti það hafi verið sem sóknaraðili hafi fengið framseld og ekki hafi verið greitt fyrir fullt verð verði ekki séð. Raunar séu málsatvik þessa máls með þeim hætti, eins og slitastjórn varnaraðila sé fullkunnugt um, að það hafi verið Seðlabankinn sem látið hafi af hendi verulegar fjárhæðir, einmitt til varnaraðila, og því verði  með engu móti séð hvar hinn ætlaði hagnaður Seðlabankans, eða sóknaraðila ætti að liggja. Þá sé það óumdeilt að sú háttsemi sem falist hafi í lánveitingum varnaraðila til þriðju aðila hafi ekki verið liður í góðgerðarstarfi heldur hafi verið um að ræða viðskiptaáætlun sem hafi verið hluti af þátttöku varnaraðila á millibankamarkaði sem varnaraðili hafi hlotið umtalsverðar tekjur af. Því hljóti sú spurning að vakna hvaða aðili það hafi verið sem raunverulega hafi notið góðs af og hafi hagnast af umræddum viðskiptum.

                Sóknaraðili kveðst byggja á því að daglán Seðlabankans til Sparisjóðabankans hafi verið í samræmi við lög og reglur og beri að viðurkenna að fullu eftirstöðvar þeirrar kröfu sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 eins og krafist sé.

                Hér að framan sé gerð grein fyrir röksemdum sóknaraðila sem hreki sambærilegar fullyrðingar slitastjórnar varnaraðila um veðlánaviðskipti Seðlabankans og varnaraðila. Þau sjónarmið gildi einnig um rangfærslur varnaraðila vegna daglánaviðskipta aðila og vísist því til þeirra.

                Sóknaraðili mótmæli sérstaklega sem röngu og ósönnuðu að daglán aðila séu riftanlegir gerningar á grundvelli 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991. Um sé að ræða daglán, sem gjaldfallið hafi 31. desember 2008, að fjárhæð 10.556.020.450 krónur, ásamt áföllnum dráttarvöxtum fram til 3. nóvember 2009, að fjárhæð 1.955.502.788 krónur með þeim frádrætti sem leitt hafi af innlausn veðsettra eigna. Slitastjórn varnaraðila hafi haldið því fram að ráðstafanir þær sem leiða megi af umræddum daglánaviðskiptum Seðlabankans og varnaraðila séu riftanlegar í heild sinni á grundvelli 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 þar sem ráðstöfunin hafi farið fram 31. desember 2008 og því eftir frestdag við slitameðferðina 15. desember 2008.

                Daglán séu lán sem veitt séu af Seðlabankanum til næsta viðskiptadags gegn veði í verðbréfum sem Seðlabankinn meti hæf til tryggingar. Ráðstafanir sem falist hafi í daglánaviðskiptum Seðlabankans og varnaraðila hafi fallið undir lög nr. 46/2005, um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, eins og veðlánaviðskiptin sem rædd hafi verið hér að framan. Í þeim lögum sé gert ráð fyrir að fjárhagslegar tryggingarráðstafanir sem falli undir gildissvið laganna njóti ákveðinnar sérstöðu, þar sem lögin mæli fyrir um sérreglur sem sé ætlað að hafa forgang gagnvart almennum reglum laga nr. 21/1991. Nánar segi í 6. gr. laga nr. 46/2005 að samningi um fjárhagslega tryggingarráðstöfun og fjárhagslegri tryggingu, sem látin sé í té fyrir upphaf greiðslustöðvunar, nauðasamningsumleitana eða gjaldþrotaskipta, verði ekki rift eingöngu vegna þess að samningurinn hafi verið gerður eða tryggingin hafi verið látin í té á þessum tíma. Það sé því ljós að mati sóknaraðila að röksemdir slitastjórnar varnaraðila um beitingu 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 geti ekki átt við í þessu sambandi.

                Þá telji sóknaraðili að jafnvel þótt beiting 2. mgr.139. gr. laga nr. 21/1991 kæmi til skoðunar, þrátt fyrir ákvæði laga nr. 46/2005, sé ljóst þegar orðalag ákvæðisins sé skoðað nánar að það geti alls ekki átt við daglánin. Það sjáist þegar texti 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 sé skoðaður, en ákvæðið hljóði svo. „Krefjast má riftunar annarra ráðstafana sem gerðar hafa verið eftir frestdag nema ráðstöfunin hafi verið nauðsynleg í þágu atvinnurekstrar þrotamannsins, eðlileg af tilliti til sameiginlegra hagsmuna lánardrottna eða til að fullnægja daglegum þörfum.“

                Sóknaraðili byggi á því og telji einsýnt, að ráðstöfun sú sem falist hafi í umræddum daglánaviðskiptum hafi verið eðlileg og nauðsynleg í þágu atvinnurekstrar varnaraðila enda megintilgangur daglána að gera fjármálafyrirtækjum kleift að ljúka uppgjöri dagsins í greiðslukerfum. Þegar þarna hafi verið komið sögu hafi varnaraðili barist í bökkum við að reyna að halda sjó til að tryggja áframhaldandi rekstur. Ástandið á alþjóðlegum lánamörkuðum hafi verið með þeim hætti að ógerlegt hafi verið fyrir varnaraðila að afla nauðsynlegs fjármagns enda hafi viðskipti á millibankamarkaði verið svo gott sem frosin. Seðlabankinn hafi því verið eina lífæð varnaraðila og eini kosturinn sem staðið hafi varnaraðila til boða. Þrátt fyrir að umrædd ráðstöfun hafi átt sér stað eftir frestdag þá hafi ráðstöfunin verið liður í daglegri starfsemi varnaraðila og liður í tilraunum til að tryggja áframhaldandi starfsemi varnaraðila. Á þeim tíma þegar hinar umræddu ráðstafanir hafi átt sér stað hafi það greinilega verið mat fyrirsvarsmanna varnaraðila að umrædd ráðstöfun væri nauðsynleg í atvinnurekstri varnaraðila ætti hann á annað borð að halda velli. Umrædd daglán Seðlabankans hafi því verið liður í tilraunum varnaraðila til þess að standa storminn af sér. Hefðu þær tilraunir borið árangur megi færa sterk rök fyrir því að þær hefðu verið til hagsbóta fyrir lánardrottna varnaraðila sameiginlega. Af þeim ástæðum sem hér hafi verið raktar mótmæli sóknaraðili því alfarið að 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 geti átt við í þessu tilviki. Að öðru leyti vísi sóknaraðili til fyrri málsástæðna sinna í málsgreinum hér að ofan

                Verðbréfalán Seðlabankans til Sparisjóðabankans hafi verið í samræmi við lög og reglur og beri að viðurkenna eftirstöðvar þeirra að fullu sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Hér að framan sé gerð grein fyrir röksemdum sóknaraðila sem hreki fullyrðingar slitastjórnar varnaraðila vegna veðlánaviðskipta Seðlabankans og varnaraðila. Þau sjónarmið eigi einnig við í tengslum við rangfærslur varnaraðila vegna verðbréfalánaviðskipta aðila og vísist því til þeirrar umfjöllunar.                Um lagarök kveðst sóknaraðili vísa til laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, laga nr. 46/2005, um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, reglna nr. 553, 26. júní 2009, um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands, reglna nr. 808, 22. ágúst 2008, um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands og reglna nr. 317/2008, um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands. Auk þess vísi sóknaraðili til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga. Þá vísi sóknaraðili einnig til eðlis máls, meginreglna samningaréttar um málamyndagerninga og ógilda löggerninga, svo og til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV

                Varnaraðili vísar til þess að í kröfulýsingu hafi sóknaraðili sett kröfur sínar fram sem veðkröfur skv. 111. gr. laga nr. 21/1991. Í greinargerð sinni fyrir héraðsdómi krefjist sóknaraðili þess að kröfur hans „verði að fullu viðurkenndar sem veðkröfur, samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.“ Sóknaraðili geri á hinn bóginn ekki dómkröfu um það þar að eftirstöðvar krafnanna verði viðurkenndar sem almennar kröfur skv. 113. gr. sömu laga, að því marki sem þær greiðist ekki af andvirði veðanna. Hafi slík krafa fyrst komið fram við upphaf aðalmeðferðar málsins.

                Um meðferð ágreiningsmáls þessa gildi sérreglur 5. þáttar laga nr. 21/1991. Þar segi í 1. mgr. 171. gr. að í kröfu til héraðsdóms skuli m.a. koma fram „um hvað ágreiningur standi og hverjar kröfur hafi komið fram í því sambandi“. Þá segi í 1. mgr. 177. gr. sömu laga að sóknaraðili ágreiningsmáls leggi fram greinargerð þar sem fram komi m.a. „til fullnaðar hverjar kröfur hann hafi uppi“. Að mati varnaraðila verði þessi ákvæði ekki skilin á annan veg en að sóknaraðila beri í greinargerð sinni til héraðsdóms að greina allar kröfur sínar og varakröfur ef því sé að skipta. Með öðrum orðum beri sóknaraðila í kröfugerð sinni að greina með tæmandi hætti hver hann vilji að málsúrslit verði gagnvart búinu. Í ljósi framangreinds, einkum þess að sóknaraðili hafi í greinargerð sinni eingöngu leitað viðurkenningar á kröfu sinni sem veðkröfu á grundvelli 111. gr. laga nr. 21/1991, telji varnaraðili að líta beri svo á að krafa sú sem hann nú hafi uppi teljist of seint fram komin. Sé af hálfu varnaraðila byggt á því að hann beri enga greiðsluskyldu gagnvart sóknaraðila umfram andvirði veðanna, en þau hafi sóknaraðili þegar leyst til sín á verði sem aðilar hafi orðið ásáttir um. Umfjöllun varnaraðila um málsástæður hér á eftir taki þó mið af því að ekki verði fallist á ofangreind sjónarmið.

                Í lið a) kröfulýsingar sóknaraðila sé lýst kröfu vegna veðlána, gjaldfallinna 22. október 2008, að fjárhæð 131.237.112.471 króna, ásamt dráttarvöxtum fram til 3. nóvember 2009, að fjárhæð 31.251.194.786 krónur (að frádreginni innborgun að fjárhæð 2.269.768.774 krónur). Undir rekstri málsins leysti sóknaraðili til sín skuldabréf þau sem veðsett höfðu verið til tryggingar umræddum lánum og lækkaði kröfu sína samsvarandi

                Kveður varnaraðili að í kröfulýsingu sóknaraðila og greinargerð sé byggt á því að veðlán þessi séu tilkomin vegna „reglubundinna“ veðlánaviðskipta Seðlabankans og varnaraðila á árinu 2008, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands og þágildandi reglur nr. 808/2008.

                Varnaraðili kveðst byggja höfnun sína á kröfu sóknaraðila á því, í fyrsta lagi, að veiting umræddra lána af hálfu Seðlabankans og taka lána varnaraðila hjá Seðlabankanum, seinni hluta ársins 2007 og á árinu 2008, samhliða lánveitingum til þriggja tiltekinna fjármálafyrirtækja, gegn veðum í skuldabréfum og víxlum umræddra fjármálafyrirtækja, hafi verið til málamynda og hafi haft þann eina tilgang að komast hjá reglum Seðlabankans um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Því geti lánveitingarnar ekki haft réttaráhrif samkvæmt efni sínu.

                Í 3. mgr. 11. gr. reglna um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands nr. 541/2007, síðar 4. mgr. 11. gr. reglna nr. 317/2008 og 3. mgr. 13. gr. reglna nr. 808/2008, sem settar hafi verið með stoð í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, segi að útgefanda sé ekki heimilt að leggja fram eigin skuldabréf til tryggingar eigin viðskiptum við Seðlabankann. Varnaraðili byggi á því að með viðskiptum Seðlabankans við varnaraðila hafi verið komist framhjá umræddum takmörkunum á veðhæfni eigin bréfa við miðlun lánsfjár til Landsbanka Íslands hf., Glitnis banka hf. og Kaupþings banka hf. Hafi lánin verið formlega veitt til varnaraðila gegn veðum í skuldabréfum og víxlum viðskiptabankanna þriggja, en ljóst hafi verið og vitað af hálfu Seðlabankans, að fjármunirnir hafi runnið beint til viðskiptabankanna þriggja í formi kaupverðs fyrir bréfin og hafi varnaraðili fengið þóknun fyrir milligönguna. Hafi þetta virst gert með fullri vitund stjórnenda Seðlabankans, sem talið hafi brýnt og nauðsynlegt að miðla lánsfé til bankanna þriggja með þessum hætti til að halda þeim gangandi. Um þetta sé m.a. fjallað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þannig sé ljóst að lánveitingarnar til varnaraðila hafi í reynd verið til málamynda að því leyti að þær hafi haft þann tilgang að miðla með skjótum og auðveldum hætti lánsfé til bankanna þriggja, en hafi ekki átt að vera lausafjárfyrirgreiðsla til varnaraðila sérstaklega. Af hálfu varnaraðila sé einnig á því byggt að aðrir starfsmenn Seðlabankans hafi við skýrslutöku hjá rannsóknarnefnd Alþingis lýst þeirri afstöðu að umrædd fyrirgreiðsla hafi í reynd verið til viðskiptabankanna þriggja og að um upplýsta ákvörðun þar að lútandi hafi verið að ræða.

                Telji varnaraðili ljóst að það hafi verið sameiginlegur skilningur og forsenda aðila að endurheimta lánanna ylti á greiðslugetu bankanna þriggja, hinna raunverulegu lántaka, en ekki að varnaraðili tæki alla áhættu af lánunum, ef greiðslufall yrði hjá viðskiptabönkunum þremur. Slíkur samningur hefði án efa verið ólögmætur með hliðsjón af skyldum Seðlabankans samkvæmt 7. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Hinir raunverulegu aðilar að lánaviðskiptunum, eins og hér hafi staðið á, hafi því verið Seðlabankinn og viðskiptabankarnir þrír, en varnaraðili hafi eingöngu þjónað hlutverki milliliðar viðskiptanna. Fjárhæð lánveitinganna hafi þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn og vald hluthafafundar fjármálafyrirtækjanna þriggja í október 2008 verið orðin hærri en tífalt eigið fé varnaraðila og þannig í engu samræmi við stærð hans og fjárhagslegan styrk. Hafi ekki verið lagt til grundvallar að varnaraðili bæri áhættuna af endurgreiðslu lánanna heldur hafi hún verið byggð á greiðslugetu hinna raunverulegu lántaka, enda lánafyrirgreiðslan ætluð þeim til bjargar. Ljóst sé að Seðlabankinn hafi á þessum tíma búið yfir vitneskju um raunverulega stöðu viðskiptabankanna, en hafi með öllu látið hjá líða að veita varnaraðila þær upplýsingar þótt brýnt tilefni væri til, sbr. hér síðar, en a.m.k. hafi Seðlabankanum borið að koma því til leiðar að varnaraðila yrði umrædd þátttaka í lánafyrirgreiðslunni ekki lengur fær, en til þess hefði Seðlabankinn hvort tveggja haft fullar heimildir og aðstöðu. Á grundvelli heimilda sinna hafi Seðlabankinn t.d. getað dregið úr þörf á milligöngu varnaraðila, og á tímabilinu losað varnaraðila undan þeirri ábyrgð sem fylgt hafi þátttöku í lánafyrirgreiðslunni, sbr. síðar. Með vísan til framangreinds telji varnaraðili að líta beri á lánasamningana milli hans og Seðlabankans sem með öllu til málamynda og að lánasamningarnir hafi því ekki réttaráhrif samkvæmt efni sínu gagnvart varnaraðila, að því er varði ábyrgð varnaraðila á endurgreiðslu.

                Af hálfu varnaraðila sé einnig til þess vísað að umræddir löggerningar, þ.e. veðlánin til varnaraðila og veðsetning óvarinna verðbréfa bankanna samfara þeim, séu ógildir. Veðlánveitingarnar og veðsetningar samfara þeim hafi verið andstæðar lögum nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands og reglum um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabankann nr. 541/2007, síðar nr. 317/2008 og nr. 808/2008. Einnig sé vísað til ógildingarreglna samningaréttar, einkum laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, 30., 32., 33. og 36. gr., auk reglna um brostnar forsendur. Varnaraðili byggi á því að honum hafi verið rétt að hafna kröfu sóknaraðila í bú varnaraðila af framangreindum sökum.

                Varnaraðili byggi þannig, í öðru lagi, á því að þeir löggerningar, er legið hafi til grundvallar veðlánaviðskiptum varnaraðila við Seðlabankann, séu ógildir þar sem þeir hafi, eins og á stóð, á engan hátt samrýmst ákvæðum laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands og reglum Seðlabankans um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabankann nr. 541/2007, síðar nr. 317/2008 og nr. 808/2008. Seðlabanki Íslands teljist vera stjórnvald og um hann gildi almennar reglur stjórnsýsluréttar. Ákvarðanir stjórnvalda megi ekki ganga í berhögg við lög og verði þær almennt að eiga sér heimild í lögum. Í lögmætisreglunni felist að stjórnvöld séu bundin af þeim almennu réttarreglum sem um þau gildi, einkum lögum og stjórnvaldsfyrirmælum.

                Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001 geti Seðlabankinn veitt lánastofnunum, sem geti átt innlánsviðskipti við bankann, sbr. 6. gr., lán með kaupum á verðbréfum eða „á annan hátt gegn tryggingum sem bankinn metur gildar. Bankinn setur nánari reglur um viðskipti sín samkvæmt þessari málsgrein.“ Með stoð í ákvæðinu hafi Seðlabankinn sett reglur um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands nr. 541/2007, síðar nr. 317/2008 og nr. 808/2008. Samkvæmt framangreindum reglum sé útgefanda ekki heimilt að leggja fram eigin (óvarin) skuldabréf eða víxla til tryggingar fyrir eigin viðskiptum við Seðlabankann. Þessi regla hafi í meginatriðum staðið óbreytt frá því að reglur nr. 541/2007 hafi verið settar og virðist upphaflega koma fram í 5. mgr. 3. gr. reglna nr. 997/2004 um viðskipti lánastofnana við Seðlabanka Íslands. Að baki búi m.a. að verðmæti slíkra veða, þ.e. óvarinna verðbréfa sem séu útgefin af lántaka sjálfum, sé nær alfarið háð greiðslugetu lántaka sjálfs, sem þýði að komi til þess að Seðlabankinn þurfi að ganga að veðunum vegna ógjaldfærni lántaka sé líklegt að „veðin“ séu þá orðin lítils eða einskis virði. Með öðrum orðum sé það mat Seðlabankans að slík veð uppfylli ekki skilyrðið um „gildar tryggingar“ í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001. Hafi verið sérstaklega brýnt, eins og hér hafi staðið á, að Seðlabankinn hefði fylgt umræddum reglum, vegna þeirrar tjónsáhættu sem frávik frá þeim hafi ljóslega skapað fyrir varnaraðila og reyndar Seðlabankann sjálfan.

                Líta verði svo á að með umræddum veðlánaviðskiptunum við varnaraðila hafi Seðlabankinn komið sér hjá tilvísuðum takmörkunum framangreindra reglna á veðhæfni eigin verðbréfa, við miðlun lánsfjár til viðskiptabankanna þriggja, sem í reynd verði að teljast lántakarnir. Framangreindar ályktanir séu að þessu leyti í samræmi við niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis, þ.e. að með umræddum viðskiptum hafi „fjármálafyrirtækin í reynd [farið] í kringum þá reglu Seðlabankans að lán séu ekki veitt gegn veði í eigin skuldabréfum fjármálafyrirtækis“. Hafi Seðlabankanum verið þetta að fullu ljóst. Varnaraðili telji að Seðlabankanum hafi verið óheimilt að hafa fyrirkomulag á lánveitingum til lánastofnana sem bersýnilega hafi verið í andstöðu við framangreindan tilgang reglna bankans, og hafi í reynd verið lagað til þess að fara í kringum bann reglnanna við lánum gegn veði í eigin verðbréfum, sbr. að framan. Hafi veðlánin til varnaraðila því verið í andstöðu við ófrávíkjanleg ákvæði þágildandi reglna Seðlabankans.

                Varnaraðili telji einnig, með vísan til framanritaðs, að lánveitingarnar hafi í reynd ekki verið lánveitingar á grunni 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001, heldur hafi verið um að ræða svonefnd „neyðarlán“ eða „þrautavaralán“, þ.e. lán sem í reynd hafi átt að eiga sér stað samkvæmt 2. mgr. 7. gr. sömu laga, en veiting slíkra lána hafi verið háð samþykki stjórnar Seðlabankans. Ákvæði 2. mgr. 7. gr. setji mun strangari skilyrði fyrir lánveitingum en 1. mgr. sömu greinar, en þar segi að þegar sérstaklega stendur á og Seðlabankinn telji þess þörf til að „varðveita traust á fjármálakerfi landsins“ geti hann veitt lánastofnunum „í lausafjárvanda“ ábyrgðir eða önnur lán en um ræðir í 1. mgr. á sérstökum kjörum og gegn öðrum tryggingum en um geti í 1. mgr. eða öðrum skilyrðum sem bankinn setji. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laganna hafi ákvæðið verið skýrt svo að neyðarlán komi til greina þegar Seðlabankinn „met[i] það svo að fyrirgreiðsla hans sé nauðsynleg til þess að ekki skapist ótti um öryggi fjármálakerfisins eða möguleiki á keðjuverkun vegna erfiðleika einnar stofnunar geti hann gripið inn í til þess að fleyta viðkomandi stofnun tímabundið yfir þá erfiðleika sem hún [kunni] að hafa ratað í“, en sérstaklega sé tekið fram að þetta gildi um lausafjárvanda einstakra stofnana en ekki eiginfjárvanda.

                Varnaraðili telji fullljóst, sbr. hér að framan, að umræddar lánveitingar teljist hafa verið  neyðarlán sem falla hefðu átt undir 2. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001, þ.e. átt að vera lán til fjármálafyrirtækja í lausafjárvanda, og til að varðveita traust á fjármálakerfi landsins. Afdráttarlaus ummæli tiltekinna stjórnenda Seðlabankans í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, um að lánsfjármagnið hafi verið nauðsynlegt bönkunum því ella hefðu þeir farið í þrot, teljist staðfesta þá afstöðu. Í því sambandi megi vísa til ummæla Sturlu Pálssonar, starfsmanns Seðlabankans, þar sem hann segi: „En í rauninni var staðan hjá þeim [bönkunum] strax í ársbyrjun 2008 þannig að allar aðgerðir til að þrengja að þeim  hefðu drepið þá og þess vegna vorum við eiginlega komnir á hjá þeim og eftir það gekk þetta bara út á það að reyna að halda kerfinu gangandi“. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar sé jafnframt dregin sú ályktun að eins og Sturla lýsi ástandinu „[hafi] hann og fleiri starfsmenn Seðlabankans þá sýn að bankarnir séu í reynd fallnir haustið 2007. Frá þeim tíma [lýsi] hann jafnframt lausafjárfyrirgreiðslu bankans og vexti hennar þannig að um neyðarlán hafi verið að ræða“. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni hafi Sturla jafnframt sagt: „Við vissum það að við þyrftum að koma lausafé út í kerfið, „no matter what“. Eina leiðin til þess að það væri smuga að þetta kerfi lifði þetta af væri að það fengi lausafjárfyrirgreiðslu [...] þetta [sé] í rauninni ekki spurning hvort að þú [lánir] þessum bönkum laust fé, heldur hvernig þú [ætlir] að gera það“.

                Þrátt fyrir þetta afdráttarlausa mat stjórnenda Seðlabankans á eðli lánafyrirgreiðslunnar, og vitneskju þeirra um afar erfiða lausafjárstöðu bankanna, hafi lánin verið veitt til Sparisjóðabankans og klædd í búning hefðbundinna veðlána á grundvelli 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001. Að mati varnaraðila verði að líta svo á að Seðlabankinn hafi notfært sér umrædda aðstöðu til að veita viðskiptabönkunum beina lausafjárfyrirgreiðslu án viðhlítandi veða, en samhliða vikið sér undan því að fara með  lánveitingarnar í samræmi við 2. mgr. 7. gr. sömu laga, þ.m.t. að afla samþykkis stjórnar Seðlabankans og afla sérstakra trygginga sem Seðlabankinn mæti gildar. Samkvæmt því telji varnaraðili að lánveitingarnar hafi byggst á röngum lagagrundvelli og því verið ólögmætar.

                Varnaraðili árétti í þessu sambandi að heimild Seðlabankans til að veita lánastofnunum lán með kaupum eða á annan hátt gegn tryggingum samkvæmt 1. mgr. 7. gr., sé háð því skilyrði að Seðlabankinn meti tryggingarnar gildar. Varnaraðili telji að afdráttarlaust viðhorf Seðlabankans til stöðu bankanna þriggja á umræddum tíma bendi til þess að þetta skilyrði, sem fyrr greini, hafi alls ekki verið uppfyllt. Sú ályktun fái stoð í niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis en í skýrslu nefndarinnar segi: „Enda þótt Seðlabankinn gerði sér grein fyrir veikleikum bankanna veitti hann engu að síður umfangsmikil veðlán gegn tryggingum í verðbréfum bankanna. Sú vitneskja fær illa samrýmst áskilnaði [1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001] um gildar tryggingar.“ Samkvæmt framansögðu verði að líta svo á að lánveitingarnar til varnaraðila hafi einnig verið í andstöðu við 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001.

                Með framangreindri háttsemi sinni hafi Seðlabankanum heldur ekki getað dulist að lánveitingarnar hafi verið stórlega áhættusamar fyrir Sparisjóðabankann. Seðlabankinn hafi allt að einu látið undir höfuð leggjast að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja hagsmuni varnaraðila, en telja verði að Seðlabankinn hafi, á grundvelli lagalegrar stöðu sinnar, borið skylda til að gæta að viðeigandi hagsmunum fjármálafyrirtækja sem bankanum sé gert að eiga viðskipti við, m.a. að slík viðskipti fari fram á löglegum grunni og á lögmætum forsendum.  

                Í greinargerð sóknaraðila sé m.a. á því byggt að lánveitingar Seðlabankans til varnaraðila hafi að öllu leyti verið í samræmi við viðeigandi ákvæði laga nr. 36/2001 og reglna um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands. Sé því m.a. haldið fram að lánin geti ekki hafa verið neyðarlán samkvæmt 2. mgr. 7. gr. fyrrgreindra laga þegar af þeirri ástæðu að bankastjórn Seðlabankans hafi ekki haft aðkomu að lánveitingunum en slíkar lánveitingar séu háðar samþykki hennar. Þá sé á því byggt að hefði Seðlabankinn synjað varnaraðila um lánveitingu hefði það „án vafa sent mjög sterk skilaboð til markaðarins um stöðu varnaraðila og þar með valdið hruni hans og stefnt fjármálastöðugleika í mikið uppnám“ og Seðlabankinn jafnvel bakað sér skaðabótaábyrgð gagnvart varnaraðila. Á þetta verði á engan hátt fallist. Í fyrsta lagi hafi Seðlabankanum hlotið að vera ljóst, með tilliti til afstöðu bankans til fjárhagsstöðu viðskiptabankanna, að hagsmunum varnaraðila væri stefnt í brýna hættu með fyrirkomulagi umræddra lánveitinga. Seðlabankanum hafi augljóslega ekki borið skylda til umræddra lánveitinga, en ljóst sé að engin þörf hefði verið á umræddu fyrirkomulagi lausafjárfyrirgreiðslu, hefði Seðlabankinn uppfyllt lagaskyldu sína í samræmi við 2. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001, og skyldu sína gagnvart einstökum fjármálafyrirtækjum sem hann hafi skipt við. Þar sem svo hafi háttað til sem að framan greini verði raunar að líta svo á að mati varnaraðila að Seðlabankanum hafi verið skylt að synja um lánveitingu eða a.m.k. draga verulega úr fyrirgreiðslu með þessum hætti, en fara frekar þá lögbundnu leið sem falist hafi í 2. mgr. 7. gr. laganna. Í þessu sambandi verði einnig að líta til þess að umfang lánveitinganna hafi í öllum meginatriðum miðast við lausafjárþörf viðskiptabankanna þriggja og hafi ekki verið í neinu samræmi við lausafjárþörf varnaraðila sjálfs. Skuldbindingarnar hafi að auki ekki verið í samræmi við t.d. eiginfjárstöðu varnaraðila. Af þessum sökum verði ekki séð að höfnun frekari lánveitinga, og lögbundnar ráðstafanir Seðlabankans, sem samhliða hefðu komið í veg fyrir umrædda fjármögnunarleið, hefði getað leitt til skaðabótaskyldu Seðlabankans eða haft neikvæðar afleiðingar á fjármálamarkaði eins og sóknaraðili haldi fram. Ráðstafanir í samræmi við 2. mgr. 7. gr., til að draga úr eftirspurn eftir lánum skv. 1. mgr. 7. gr., hefði að auki hvorki getað leitt til bótaskyldu eða skaðað orðspor varnaraðila á þessum tíma.

                Í greinargerð sóknaraðila sé fjallað um aðgerðir erlendra seðlabanka til að styðja við fjármálamarkaði í lausafjárkreppunni á árunum 2007-2008, þ. á m. aðgerðir til að auka lausafjárfyrirgreiðslu til fjármálastofnana. Þannig hafi seðlabankar víða um heim m.a. dregið úr kröfum um gæði veða, fjölgað tegundum heimilla veða og átt viðskipti við fleiri tegundir fyrirtækja en áður. Varnaraðili árétti að Seðlabankanum hafi vitaskuld verið heimilt og rétt að auka lausafjárfyrirgreiðslu sína til fjármálafyrirtækja. Það hafi hann t.d. getað gert með því að rýmka frekar reglur um tryggingarhæfi veða eða nýta heimild reglna Seðlabankans eða 2. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001 til að lána viðskiptabönkunum beint gegn veði í sértryggðum bréfum, svo sem tíðkaðist víða erlendis. Í stað þess hafi Seðlabankinn kosið að koma fé út á markaðinn með því að lána viðskiptabönkunum gegn veði í óvörðum bréfum þeirra sjálfra fyrir milligöngu smærri fjármálafyrirtækja, einkum varnaraðila, með tilheyrandi óásættanlegri áhættu fyrir fyrirtækin og kröfuhafa þeirra, þegar tekið sé tillit til upplýsinga sem Seðlabankinn, í krafti lögbundinnar stöðu sinnar sem eftirlitsaðili á fjármálamarkaði, hafi haft yfir að ráða. Þá verði að telja útilokað að það fyrirkomulag lausafjárfyrirgreiðslu, sem sóknaraðili hafi viðhaft við framangreindar aðstæður, í gegnum lítið fjármálafyrirtæki, eigi sér fyrirmynd erlendis.  Sóknaraðili hafi í það minnsta ekki getað bent á neitt slíkt dæmi.

                Í greinargerð sóknaraðila sé lögð sérstök áhersla á að varnaraðila beri að standa við gerða samninga, en fjármunirnir hafi sannanlega runnið til varnaraðila og aðrir aðilar ekki komið að viðskiptunum. Jafnframt sé það alfarið á ábyrgð varnaraðila hvernig lánunum hafi verið ráðstafað og hafi Seðlabankinn ekki haft nein afskipti af því. Varnaraðili kveðst benda á að þessi málatilbúnaður sóknaraðila sé í engu samrýmanlegur þeim málsástæðum hans að lánveitingar Seðlabankans á árunum 2007-2008 hafi fyrst og fremst helgast af lausafjárskorti íslensku bankanna vegna lausafjárkreppunnar og verið í samræmi við þróun erlendis. Þó svo Seðlabankinn hafi það hlutverk að tryggja fjármálafyrirtækjum aðgang að lausu fé með lausafjárfyrirgreiðslum hafi hann ekki frjálsar hendur um hvernig slíkt sé gert. Þvert á móti beri honum að sjá til þess að fjárhagslegir hagsmunir fjármálafyrirtækja séu tryggðir, t.d. með því að krefjast viðhlítandi trygginga og lána ekki fyrirtækjum í eiginfjárvanda, og að ráðstöfun fjármuna sé í samræmi við það meginhlutverk bankans að tryggja fjármálastöðugleika, sbr. 4. gr. laga nr. 36/2001. Að því virtu, og með vísan til sértækrar vitneskju bankans á umræddum tíma, sbr. hér að framan, sé fráleitt að líta svo á að mati varnaraðila að ráðstöfun lánsfjárins af hálfu varnaraðila hafi verið Seðlabankanum óviðkomandi.

                Á því sé sérstaklega byggt af hálfu varnaraðila að Seðlabankinn hafi haft skyldum að gegna gagnvart Sparisjóðabankanum og öðrum fjármálafyrirtækjum og hafi borið að gera ráðstafanir sem nauðsynlegar hafi talist til að tryggja fjárhagslega stöðu þeirra, og sérstaklega að koma í veg fyrir að fjárhag þeirra væri fyrirsjáanlega teflt í tvísýnu. Hvíli slík skylda (e. „duty of care“) ljóslega á Seðlabankanum m.a. vegna eftirlitshlutverks Seðlabankans, en á þeim grunni hafi bankinn búið yfir upplýsingum sem viðskiptavinir hans hafi ekki haft yfir að ráða. Við slíkar aðstæður megi gera kröfu til þess að Seðlabankinn geri ráðstafanir, sem bankanum séu að lögum tækar, til að tryggja hagsmuni fjármálafyrirtækja í viðskiptum við hann.

                Í samhengi við framangreint megi benda á að á árinu 2008 hafi Seðlabanki Evrópu og Seðlabanki Lúxemborgar tvívegis gert breytingar á kröfum til veðtrygginga vegna lánveitinga til íslensku bankanna og hafi Seðlabanki Íslands haft fulla vitneskju um það en almenningur ekki, sbr. umfjöllun í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar komi einnig fram að Seðlabanki Evrópu hafi fljótlega takmarkað notkun á skuldabréfum bankanna og þannig „gripið í taumana um leið án þess að það hefði verið gert opinbert“.

                Varnaraðili hafni þeirri staðhæfingu sem fram komi í greinargerð sóknaraðila um að varnaraðili hafi með athöfnum sínum í tengslum við skuldauppgjör Klettháls ehf., viðurkennt lögmæti umþrættra lána. Varnaraðili hafni því alfarið að með einstökum viðskiptum eða uppgjöri viðskipta geti falist almenn viðurkenning á lögmæti þeirra lána sem deilt sé um í þessu máli. Framangreint uppgjör hafi farið fram árið 2009 og hafi tengst öðrum viðskiptum varnaraðila við m.a. sparisjóðina í landinu. Varnaraðila hafi borið skylda til að gera upp framangreind viðskipti í samræmi við efni þeirra og takmarka með því tjón sitt og viðsemjenda sinna, þ.á m. sóknaraðila.

                Þá kveðst varnaraðili byggja á því í þriðja lagi að Seðlabankinn hafi sýnt af sér háttsemi við gerð framangreindra ráðstafana sem leiði til ógildis þeirra, sbr. 30. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar sé löggerningur ekki skuldbindandi fyrir þann, sem hafi gert hann, ef hann hafi verið fenginn til þess með svikum, og sá, sem við löggerningnum tók, hafi sjálfur beitt svikunum eða hann hafi vitað eða mátt vita, að gerningurinn hafi verið gerður fyrir svik annars manns. Svik samkvæmt ákvæðinu geti verið fólgin í því að móttakandi löggernings hafi sviksamlega þagað yfir atvikum sem ætla hafi mátt að hafi skipt máli um löggerninginn, sbr. 2. mgr. sömu greinar.

                Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að Seðlabankinn hafi, sem fyrr segi, alfarið látið undir höfuð leggjast að upplýsa varnaraðila um versnandi stöðu stóru viðskiptabankanna og að þeir hafi í raun verið komnir í gríðarlega erfiða stöðu þegar varnaraðili hafi tekið við lánsfé frá Seðlabankanum, til að miðla til þeirra í þeirra þágu. Raunar hafi almennar opinberar upplýsingar um bankana bent til hins gagnstæða, s.s. birt uppgjör, álagspróf Fjármálaeftirlitsins og lánshæfiseinkunnir alþjóðlegra matsfyrirtækja, eins og fram komi í greinargerð sóknaraðila. Hafi varnaraðila hins vegar ekki verið kunnugt um að Seðlabankinn hafi þá þegar búið yfir upplýsingum sem bent hafi í gagnstæða átt og hafi endurspeglað óhóflega áhættu sem Sparisjóðabankinn hafi tekið á sig með milligöngu sinni í viðskiptunum, sem hafi ekki verið í neinu samræmi við ávinning hans af þeim. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis komi afdráttarlaust fram að stjórnendur Seðlabankans hafi búið yfir sértækum upplýsingum um raunverulega stöðu bankanna, sem ekki hafi verið tiltækar varnaraðila, þ.m.t. að erlendir seðlabankar hafi gripið til beinna ráðstafana til að takmarka lánveitingar til íslensku bankanna gegn veði í óvörðum bréfum þeirra, sbr. framangreinda umfjöllun. Að mati varnaraðila hafi Seðlabankanum ekki getað dulist að slíkar upplýsingar hefðu skipt sköpum fyrir þá ákvörðun varnaraðila að taka lán hjá Seðlabankanum í þágu stóru viðskiptabankanna, og annast þar með milligöngu um öflun lausafjár á markaði, enda hafi það verið ákvörðunarástæða fyrir viðskiptunum af hálfu varnaraðila, sem Seðlabankinn hafi hlotið að gera sér grein fyrir, að viðskiptabankarnir væru alls ekki jafn illa staddir og raun hafi borið vitni, sbr. hér að framan. Allt að einu hafi Seðlabankinn ekki gert ráðstafanir til að breyta um fyrirkomulag fyrirgreiðslunnar, sbr. m.a. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001, til að koma í veg fyrir gríðarlega áhættu sem af umræddu fyrirkomulagi leiddi, hvort tveggja fyrir Sparisjóðabankann og Seðlabankann sjálfan. Að þessu virtu, sem og öðru því sem að framan greini, líti varnaraðili svo á að lánasamningarnir séu ógildir á grundvelli 30. gr. samningalaga.

                Varnaraðili kveðst í fjórða lagi byggja á því, hvað sem öðru líði, að umræddir löggerningar, þ.e. veðlánveitingar Seðlabankans til varnaraðila, séu ógildir á grundvelli 32. gr. laga nr. 7/1936. Samkvæmt ákvæðinu sé löggerningur, sem, vegna misritunar eða annarra mistaka af hálfu þess er hafi gert hann, hafi orðið annars efnis en til hafi verið ætlast, ekki skuldbindandi fyrir þann sem hafi gert hann ef sá maður, sem löggerningnum hafi verið beint til, hafi vitað eða mátt vita að mistök hafi átt sér stað.

                Varnaraðili byggi á því að ekki hafi komið til álita að hann ábyrgðist endurgreiðslur á lausafjárfyrirgreiðslum til viðskiptabanka, hefðu þeir staðið höllum fæti fjárhagslega á umræddu tímabili. Vegna vitneskju Seðlabankans um afar erfiða lausafjárhagsstöðu bankana, sem varnaraðili hafi hins vegar ekki búið yfir, sbr. að framan, verði að líta svo á að Seðlabankanum hafi verið eða mátt vera ljóst að milliganga varnaraðila hafi falið í sér stórfellda áhættu, sem varnaraðila hafi ekki verið kunnugt um og hafi ekki verið í neinu samræmi við skilning varnaraðila á áhættu og eðli viðskiptanna, eða getu hans til að standa undir slíkri áhættu. Hafi  Seðlabankanum verið eða mátt vera það ljóst að löggerningarnir, sem hafi falist í veðlántöku varnaraðila, hafi í raun verið annars efnis en varnaraðili hafi ætlast til vegna þeirra röngu forsendna sem hann hafi lagt til grundvallar. Að mati varnaraðila leiði það til þess að umræddir löggerningar teljist ekki skuldbindandi fyrir varnaraðila, sbr. 32. gr. laga nr. 7/1936 eða eftir atvikum með lögjöfnun frá því ákvæði.

                Varnaraðili kveðst í fimmta lagi byggja á því að umræddir löggerningar séu ógildir á grundvelli 33. gr. laga nr. 7/1936. Samkvæmt ákvæðinu geti aðili að löggerningi ekki borið hann fyrir sig „ef það yrði talið óheiðarlegt vegna atvika sem fyrir hendi [hafi verið] þegar löggerningurinn [hafi komið] til vitundar hans og ætla [hafi mátt] að hann hafi haft vitneskju um“. Varnaraðili telji að svo sé ástatt um sóknaraðila í máli þessu, einkum með vísan til þess sem að framan greini.

                Þá kveðst varnaraðili byggja á því, í sjötta lagi, að umræddir löggerningar séu ógildir á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986. Samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið „ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju“ að bera hann fyrir sig, en við mat á því skuli líta til „efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar [hafi komið] til.“ Varnaraðili telji þessi atriði ótvírætt eiga við í máli þessu.

                Varnaraðili bendi á að efni þeirra samninga sem um ræði og fullnusta þeirra sé verulega ósanngjörn í garð varnaraðila, en lánsféð hafi ekki komið honum að neinum notum heldur hafi það í reynd verið ætlað til þarfa viðskiptabankanna þriggja, sbr. hér að framan. Lánsfjárhæðirnar hafi ekki verið í neinu samræmi við fjárhagslega stærð varnaraðila eða styrk, og hafi það því ekki getað verið tilgangur aðila að varnaraðili myndi einn bera ábyrgð á lánunum ef illa færi. Þá telji varnaraðili ljóst að aðilar hafi á engan hátt verið jafnsettir við samningsgerðina þar sem Seðlabankinn, í krafti lögbundins eftirlitshlutverks síns, hafi búið yfir víðtækum og samræmdum upplýsingum um stöðu bankanna sem varnaraðila hafi verið alls ókunnugt um eða hafi haft aðstöðu til að leggja til grundvallar. Að sama skapi hafi atvik við samningsgerðina verið slík að ósanngjarnt verði að telja og andstætt góðri viðskiptavenju að varnaraðili sé krafinn um heildarfjárhæð lánanna. Varnaraðili bendi sérstaklega á í þessu sambandi að lánveitingarnar hafi verið í andstöðu við lög og reglur Seðlabankans, að Seðlabankinn hafi ekki upplýst varnaraðila um slæma stöðu bankanna þótt hann byggi yfir þeim upplýsingum, hafi engar viðhlítandi ráðstafanir gert á umræddum tíma til að breyta um fyrirkomulag á lausafjárfyrirgreiðslu, auk þess sem Seðlabankinn hafi vitað að lánveitingarnar væru stórlega áhættusamar, m.a. með tilliti til umfangs viðskiptanna. 

                Þá telur varnaraðili að atvik „sem síðar [hafi komið] til“, renni ótvírætt stoðum undir beitingu 36. gr. laga nr. 7/1936. Í október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið tekið yfir stjórn og vald hluthafafundar í viðskiptabönkunum þremur. Hafi ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins verið rökstuddar svo að það væri mat Fjármálaeftirlitsins að skilyrði þágildandi 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, væru uppfyllt í ljósi knýjandi fjárhags- og rekstrarerfiðleika bankanna, kerfislegs mikilvægis þeirra og þeirra keðjuverkandi áhrifa sem mögulegt gjaldþrot þeirra kynni að hafa á íslenska hagkerfið. Fall þeirra hafi leitt til þess að andvirði óvarinna verðbréfa þeirra, sem staðið hafi til tryggingar veðlánaviðskiptum varnaraðila og Seðlabankans, hafi orðið mjög takmarkað, jafnvel þó litið sé framhjá breytingum sem gerðar hafi verið á forgangsrétti krafna á hendur fjármálafyrirtækjum, sbr. lög nr. 142/2008. Telji varnaraðili ljóst að Seðlabankanum hafi verið kunnugt um fjárhagserfiðleika bankanna á þeim tíma sem veðlánveitingar hans til bankanna hafi farið fram. Hafi Seðlabankanum því mátt vera kunnugt um þá áhættu sem hann hafi tekið með því að eiga veðlánaviðskipti við viðkomandi banka gegn veði í eigin verðbréfum þeirra, í andstöðu við reglur Seðlabankans, sbr. að framan. Að framangreindu virtu telji varnaraðili sanngjarnt og eðlilegt að Seðlabankinn beri halla af verðrýrnun umræddra veðtrygginga.

                Til viðbótar framangreindu bendi varnaraðili á að í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 11/1986, sem lögfest hafi 36. gr. laga nr. 7/1936, séu til leiðbeiningar rakin tilvik þar sem til álita komi að beita fyrrnefndri lagagrein til að víkja samningi til hliðar, að öðrum skilyrðum uppfylltum, en þar sé nefnt dæmi um tilvik „þegar með samningnum [sé] verið að fara í kringum fyrirmæli ófrávíkjanlegra réttarreglna eða þegar vafi [leiki] á um það, hvort ógilda [megi] samning með beitingu ófrávíkjanlegrar réttarreglu með lögjöfnun.“ Að mati varnaraðila leiki enginn vafi á því að slíkar aðstæður séu fyrir hendi í því máli sem hér sé til úrlausnar.

                Verði litið svo á að framangreindar ógildingarreglur samningalaga eigi ekki við kveðst varnaraðili byggja á því, í sjöunda lagi, að umræddir löggerningar, þ.e. veðlánveitingar Seðlabankans til varnaraðila, séu ógildanlegar á grundvelli ólögfestra reglna um brostnar forsendur. Varnaraðili vísi til þess að við fall bankanna haustið 2008 hafi orðið slíkur forsendubrestur að varnaraðili verði ekki krafinn um endurgreiðslu lánsfjárins. Gjaldfærni bankanna hafi verið veruleg forsenda og jafnframt ákvörðunarástæða af hálfu varnaraðila fyrir því að hann hefði milligöngu um lánveitingar til viðskiptabankanna og hafi Seðlabankanum mátt vera það ljóst.

                Af hálfu varnaraðila sé í áttunda lagi til þess vísað að hafi Seðlabankinn talið nauðsynlegt á grundvelli almannahagsmuna að viðhalda þeirri aðferð að koma lausafé til viðskiptabankanna þriggja á árinu 2008 með því að veita veð út á óvarin verðbréf þeirra, í gegnum varnaraðila, verði tjón vegna þeirra ráðstafana ekki lagt á varnaraðila heldur verði sóknaraðili að bera halla af því að slíkar ráðstafanir hafi ekki borið árangur.  Byggist slíkt á sjónarmiðum um hlutlæga ábyrgð á neyðarverkum.

                Í samhengi við framangreint sé á því byggt af hálfu varnaraðila að sömu mótbárur m.a. gegn gildi löggerninganna verði hafðar uppi gegn sóknaraðila og unnt hefði verið að hafa uppi gegn Seðlabankanum, enda leiði sóknaraðili rétt sinn frá Seðlabankanum (og fjármálaráðuneytinu f.h. ríkissjóðs). Af því leiði að mat á því hvort skilyrði ógildingar séu fyrir hendi, s.s. grandsemi samningsaðila ef við eigi, snúi að Seðlabankanum. Sé sóknaraðili því samsamaður Seðlabankanum að þessu leytinu til. Að því er varði lið c) í kröfu sóknaraðila, þ.e. kröfu vegna verðbréfalána, telji varnaraðili að mótbárur varðandi háttsemi Seðlabankans verði hafðar uppi gegn fjármálaráðuneytinu og þar með sóknaraðila, sem leiði rétt sinn frá ráðuneytinu, enda hafi umrædd viðskipti varnaraðila verið við Seðlabankann í umboði fjármálaráðuneytisins og á ábyrgð þess, sbr. nánari umfjöllun hér á eftir.

                Varnaraðili kveðst og byggja á því að heimilt sé að rifta, í skilningi XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., skuldaaukningu hans gagnvart sóknaraðila, sem stofnað hafi verið til á árunum 2007-2008 og numið hafi 131.237.112.471 krónum 15. október 2008. Síðastnefndan dag hafi varnaraðili síðast tekið veðlán hjá Seðlabankanum að ofangreindri fjárhæð, með gjalddaga 22. október 2008. Varnaraðili telji framangreindar lánveitingar til málamynda og í öllu falli ógilda samninga, sbr. framangreinda umfjöllun. Verði ekki á það fallist sé á því byggt af hálfu varnaraðila, í níunda lagi, að hafna beri kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila á þeim grundvelli að framangreindri skuldaaukningu varnaraðila gagnvart Seðlabankanum hafi verið rift á grundvelli riftunarreglna XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í riftun felist að skuldaaukningunni sé hafnað, en af því leiði samsvarandi „endurheimt verðmæta“ til handa varnaraðila, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991. Með afstöðu slitastjórnar varnaraðila til kröfu sóknaraðila 11. ágúst 2010 hafi varnaraðili lýst yfir riftun gagnvart skuldaviðurkenningu varnaraðila gagnvart Seðlabankanum, sbr. síðustu lánveitingu frá 15. október 2008 að fjárhæð 131.237.112.471 króna, ásamt veðsetningu á tilgreindum verðbréfum. Hafi riftun umræddra ráðstafana einkum verið studd við 1. mgr. 137. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991. Málatilbúnaður varnaraðila í máli þessu byggist á sams konar sjónarmiðum að því undanskildu að riftun beinist ekki að veðréttindum sérstaklega, sbr. nánar síðar.

                Varnaraðili byggi á því að framangreind skuldaaukning bús varnaraðila sé riftanleg ráðstöfun á grundvelli 141. gr., sbr. 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Sé á því byggt að riftun leiði til þess að viðkomandi skuldbindingu verði ekki komið fram gagnvart búi varnaraðila.

                Skilyrði riftunar samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 séu (i) að ráðstöfun sé ótilhlýðileg, (ii) að hún hafi verið kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leitt til þess að eignir þrotamanns verði ekki til fullnustu kröfuhöfum eða leitt til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, (iii) að skuldari hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunar og (iv) að sá sem hag hafi haft af ráðstöfuninni hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærnina og þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfun hafi verið ótilhlýðileg. Varnaraðili telji öll skilyrðin uppfyllt.

                Varnaraðili telji að sú skuldaaukning, sem leitt hafi af viðskiptum hans og Seðlabankans, sé ótilhlýðileg og kröfuhöfum til tjóns. Á það sé að líta að lánveitingarnar hafi verið í andstöðu við lög og reglur sem um Seðlabankann gildi, sbr. framangreinda umfjöllun. Einnig verði í því sambandi að horfa til þess að Seðlabankanum hafi verið fullkunnugt um þá stórfelldu áhættu sem varnaraðili hafi tekist á hendur með því að taka lán í þágu viðskiptabankanna, sem Seðlabankanum hafi verið kunnugt um að væru í fjárhagsvandræðum og hefðu haft brýna þörf fyrir lausafjáraðstoð. Ljóst sé að mati varnaraðila að fjárhæð skuldaaukningarinnar, sem þarna hafi átt sér stað, sé í engu samræmi við þann ávinning sem af hafi hlotist fyrir varnaraðila, en lánsféð hafi runnið til þarfa viðskiptabankanna.

                Að mati varnaraðila sé ljóst að framangreind skuldaaukning hafi leitt til tjóns fyrir kröfuhafa Sparisjóðabankans. Seðlabankinn og síðar sóknaraðili hafi eignast kröfu á hendur Sparisjóðabankanum án þess að samsvarandi verðmæti hafi komið í staðinn, en krafan lúti að endurgreiðslu verðmæta sem ekki hafi runnið til þarfa Sparisjóðabankans og hafi ekki verið ætluð honum. Hafi Seðlabankanum verið kunnugt um þessar aðstæður. Sé krafa sóknaraðila tekin til greina jafngildi það í reynd því að sóknaraðili hafi auðgast af því að Seðlabankinn hafi haga lánveitingum sínum með framangreindum hætti.

                Varnaraðili telji skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 um ógjaldfærni uppfyllt. Hugtakið ógjaldfærni geti bæði falist í því að skuldari eigi minni eignir en nemi skuldum eða að hann sé ófær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar þegar þær falli í gjalddaga. Um áramótin 2007/8 hafi veðlánsskuld varnaraðila staðið í 104.371.188.806 krónum. Á árinu 2008 hafi skuldin aldrei farið niður fyrir 76 milljarða og hafi staðið hæst í 150.410.597.106 krónum 1. maí 2008 og hafi þá samsvarað margföldu eigin fé varnaraðila og hafi verið langt umfram greiðslugetu hans, hvernig sem á hana sé litið. Á hverjum gjalddaga hafi lánið verið endurnýjað með veitingu nýs láns í stað hins eldra. Ljóst sé að varnaraðili hafi enga burði haft, hvort heldur með tilliti til eiginfjárstöðu eða lausafjárstöðu, til að standa skil á umræddum lánsskuldbindingum hefði Seðlabankinn krafist uppgjörs á þeim á gjalddögum þeirra á árinu 2008 án þess að veita samhliða nýtt lán. Þegar veðlánsskuldbindingin hafi verið endurnýjuð 15. október 2008 hafi allir þrír viðskiptabankarnir verið teknir yfir af Fjármálaeftirlitinu og því ljóst að undirliggjandi veðtryggingar myndu að takmörkuðu leyti nægja til tryggingar skuldinni. Að framangreindu virtu telji varnaraðili engan vafa leika á því að hann hafi verið orðinn ógjaldfær eigi síðar en um áramótin 2007/8.

                Í greinargerð sóknaraðila sé því mótmælt að lánin hafi verið framlengd á þann hátt sem varnaraðili haldi fram. Þvert á móti hafi þau ávallt verið gerð upp og ný lán komið í staðinn. Varnaraðili fái ekki séð að þetta eigi við rök að styðjast. Endurfjármögnun eldra láns með töku nýs láns sé í reynd framlenging á eldra láninu, eins og hér standi á. Slík tilhögun leiði ekki til þess að varnaraðili verði talinn hafa verið gjaldfær á framangreindu tímabili. Þá fái varnaraðili ekki séð að það breyti neinu í þessu sambandi þótt ný verðbréf hafi smám saman komið í stað eldri veða. Hafi það m.a. helgast af nýrri útgáfu viðskiptabankanna á verðbréfum sem notuð hafi verið gagnvart Seðlabankanum.

                Þá byggir varnaraðili á því að stjórnendum/starfsmönnum Seðlabankans hafi í síðasta lagi um áramótin 2007/8 verið eða hafi mátt vera ljóst hvernig komið hafi verið fyrir fjárhag varnaraðila og því verið eða mátt vera ljóst að varnaraðili væri ógjaldfær á umræddu tímabili. Í ljósi framangreinds eftirlitshlutverks Seðlabankans með fjármálamarkaði sé útilokað að mati varnaraðila að bankinn hafi ekki gert sér grein fyrir greiðslugetu varnaraðila af lánunum. Að sama skapi telji varnaraðili engan vafa leika á því að Seðlabankanum hafi verið ljóst hvernig aðstæðum hafi verið háttað, sem leiði til þess að skuldaaukningin teljist ótilhlýðileg og lýst sé að framan. Varðandi ótilhlýðileika ráðstöfunarinnar og vitneskju Seðlabankans um aðstæður vísi varnaraðili einnig til umfjöllunar í tengslum við einstakar ógildingarástæður hér að framan.

                Heimild til að beina riftunarkröfu að sóknaraðila sé reist á 1. mgr. 146. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi sóknaraðili fengið framselda þá kröfu, sem riftun beinist að, frá Seðlabankanum (fjármálaráðuneytinu). Í því sambandi sé byggt á því að sóknaraðili verði, vegna tengsla sinna við Seðlabankann, að sæta því að vera samsamaður Seðlabankanum hvað snerti grandsemi og önnur atvik sem hann varði og leiði til riftunar, sbr. einnig umfjöllun um ógildingarástæður hér að framan.

                Í lið b) í kröfulýsingar var lýst lýst kröfu vegna daglána, gjaldfallinna 31. desember 2008, að fjárhæð 10.556.020.450 krónur, ásamt áföllnum dráttarvöxtum fram til 3. nóvember 2009 að fjárhæð 1.955.502.788 krónur. Í kröfulýsingu og greinargerð sóknaraðila sé á því byggt að daglán þessi séu tilkomin vegna „reglulegra“ daglánaviðskipta Seðlabankans og varnaraðila. Í kröfulýsingunni komi jafnframt fram að til tryggingar á daglánum varnaraðila hafi nánar tilgreind skuldabréf Glitnis banka hf. og Kaupþings banka hf. verið sett að veði og sé kröfunni lýst sem veðkröfu á þeim grundvelli.

                Samkvæmt reglum Seðlabankans um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands skyldu daglán veitt gegn veði í verðbréfum sem Seðlabankinn mæti hæf til tryggingar lána. Af hálfu varnaraðila sé byggt á því að framangreindar ráðstafanir, þ.e. lánveiting af hálfu Seðlabankans til varnaraðila, gegn veði í umræddum skuldabréfum, hafi verið til málamynda. Jafnframt séu ráðstafanirnar ógildar gagnvart varnaraðila. Um þessar málsástæður vísist til nánari umfjöllunar um hliðstæðar málsástæður að því er varðar lið a)  í kröfulýsingu vegna veðlána hér að framan, að breyttu breytanda.

                Auk þess sem að framan greini byggir varnaraðili á því að sú ráðstöfun sem falist hafi í skuldaviðurkenningu varnaraðila gagnvart Seðlabankanum frá 31. desember 2008, að fjárhæð 10.556.020.450  krónur (daglán) miðað við 2. janúar 2009, sé riftanleg samkvæmt 2. mgr. 139. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Að því er varði 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991, þá sé ráðstöfun þessi riftanleg þegar af þeirri ástæðu að hún hafi verið gerð eftir frestdag við slitameðferð varnaraðila (15. desember 2008) og verði ekki talin þess eðlis að hún hafi verið nauðsynleg í þágu atvinnurekstrar varnaraðila eða í öðrum tilgangi sem falli undir orðalag ákvæðisins. Að því er varði riftun samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 vísist til framangreindrar umfjöllunar um riftun skuldaaukningar vegna veðlána, að breyttu breytanda, þ.m.t. að því er varði ógjaldfærni varnaraðila og önnur skilyrði greinarinnar. Heimild til að beina riftunarkröfu að sóknaraðila byggist á 1. mgr. 146. gr. laga nr. 21/1991.

                Í lið c) í kröfulýsingu sé lýst kröfu vegna verðbréfalána, gjaldfallinna 17. október 2008, að fjárhæð 23.914.242.320 krónur, ásamt áföllnum dráttarvöxtum til 3. nóvember 2009, að fjárhæð 5.592.716.971 króna (að frádregnum innborgunum á höfuðstól að fjárhæð 927.530.275 krónur og inn á dráttarvexti, að fjárhæð 1.108.130.203 krónur). Í kröfulýsingu og greinargerð sóknaraðila sé byggt á því að verðbréfalán þessi séu vegna verðbréfalánaviðskipta fjármálaráðuneytisins og varnaraðila en framkvæmd viðskiptanna hafi verið í höndum Seðlabankans. Verðbréf hafi verið lögð fram sem veð í samræmi við reglur Seðlabankans um verðbréfalán Seðlabanka Íslands f.h. ríkissjóðs sem aðalmiðlara ríkisverðbréfa og í samræmi við lög nr. 46/2005 um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir. Í kröfulýsingunni komi jafnframt fram að verðbréfalán til varnaraðila hafi tekið til nánar tilgreindra verðbréfa og hafi kröfunni verið lýst sem veðkröfu á þeim grundvelli:

                Hinn 8. október 2008, hafi Seðlabankinn, í umboði fjármálaráðuneytisins, afhent varnaraðila tiltekin ríkisverðbréf, sbr. Security Lending Confirmation nr. 3342, dags. 8. okt. 2008. Til tryggingar þeim verðbréfaskiptum hafi varnaraðili samhliða afhent hin veðsettu verðbréf, en meðal þeirra hafi verið skuldabréf útgefin af Glitni banka hf. 

                Af hálfu varnaraðila sé byggt á því að framangreindar ráðstafanir, þ.e. lánveiting af hálfu Seðlabankans til varnaraðila, gegn veði í skuldabréfum Glitnis banka hf., hafi verið til málamynda. Jafnframt séu ráðstafanirnar ógildar gagnvart varnaraðila. Varnaraðili vísi til þess að ráðstöfunin hafi verið gerð í þeim tilgangi að víkja frá reglum Seðlabankans um verðbréfalán Seðlabanka Íslands f.h. ríkissjóðs til aðalmiðlara ríkisverðbréfa, frá 25. september 2008, 6. gr., (áður reglur frá 31. janúar 2008) um að útgefanda skuldabréfa eða víxla sé ekki heimilt að leggja fram eigin skuldabréf eða víxla til tryggingar eigin viðskiptum hjá Seðlabankanum. Telji varnaraðili að mótbárur varðandi háttsemi Seðlabanka Íslands verði hafðar uppi gegn fjármálaráðuneytinu og sóknaraðila, sem leiði rétt sinn frá ráðuneytinu, enda hafi umrædd viðskipti varnaraðila við Seðlabankann verið í umboði fjármálaráðuneytisins og á ábyrgð þess. Engu breyti í því sambandi þótt fjármálaráðuneytið hafi framselt skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 43/1990 um Lánasýslu ríkisins til Seðlabankans. Um framangreindar málsástæður vísist að öðru leyti til nánari umfjöllunar um hliðstæðar málsástæður að því er varði lið a) kröfulýsingar vegna veðlána hér að framan, að breyttu breytanda.

                Auk þess sem að framan greini byggi varnaraðili á því að sú ráðstöfun sem felist í skuldaviðurkenningu varnaraðila gagnvart fjármálaráðuneytinu frá 8. október 2008, að fjárhæð 18.034.003.925 krónur (verðbréfalán) miðað við 17. október 2008 sé riftanleg samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Um það vísist til framangreindrar umfjöllunar um riftun skuldaaukningar vegna veðlána, að breyttu breytanda, þ.m.t. að því er varði ógjaldfærni varnaraðila og önnur skilyrði greinarinnar. Heimild til að beina riftunarkröfu að sóknaraðila byggist á 1. mgr. 146. gr. laga nr. 21/1991, en í því sambandi byggi varnaraðili á því að framsal fjármálaráðuneytisins til Seðlabankans á skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 43/1990 um Lánasýslu ríkisins komi ekki í veg fyrir riftun.

                Af hálfu slitastjórnar varnaraðila hafi verið fallist á að verðbréfalánakrafa að fjárhæð 4.324.620.544 krónur, ásamt dráttarvöxtum til 3. nóvember 2009, 610.097.724 krónur, njóti réttarstöðu skv. 111. gr. laga nr. 21/1991, sem veðkrafa, þ.e. sá hluti verðbréfalánakröfu sem hafi verið tryggður með veði í ríkistryggðum verðbréfum, en að öðru leyti njóti þessi hluti kröfunnar stöðu almennrar kröfu skv. 113. gr. sömu laga. Hafi þá verið tekið tillit til innborgana inn á vexti og höfuðstól hinnar samþykktu kröfu miðað við 3. nóvember 2009.

                Upphaflega gerði varnaraðili tvær dómkröfur í málinu, auk málskostnaðarkröfu. Aðalkrafa laut að því að kröfu sóknaraðila yrði hafnað að öllu leyti gegn því að hann fengi afhentar kröfur á hendur viðskiptabönkunum samkvæmt tilgreindum skuldabréfum og víxlum, þ.e. að varnaraðili framseldi kröfurnar til sóknaraðila án ábyrgðar varnaraðila. Varakrafan hafi lotið að því að kröfum sóknaraðila yrði hafnað að því leyti sem þeim verði ekki fullnægt af andvirði og arði af veðum sem standi þeim til tryggingar, þ.e. að varnaraðili beri ekki greiðsluskyldu umfram andvirði veðanna. Raunar hafi varnaraðili litið svo á að kröfur hans færu að þessu leyti saman við kröfur sóknaraðila, sbr. umfjöllun um kröfugerð sóknaraðila hér að framan.

                Undir rekstri málsins leysti sóknaraðili veðsettar kröfur til sín á matsverði og lækkaði fjárkröfu sína ásamt því að krefjast viðurkenningar hennar sem almennrar kröfu.

                Að svo komnu krafðist varnaraðili þess að kröfunum yrði hafnað. Vísar hann einkum til þess að lánveitingarnar hafi verið til málamynda og einnig að þær byggist á ógildum löggerningum. Fyrrnefnda málsástæðan byggist á því að lán Seðlabankans hafi í reynd verið til viðskiptabankanna og hafi því ekki réttaráhrif samkvæmt efni sínu gagnvart varnaraðila. Í samræmi við það miðist krafan við að sóknaraðili eignist kröfur í bú viðskiptabankanna samkvæmt veðsettum skuldabréfum, en skuldaskil milli þeirra og sóknaraðila séu varnaraðila óviðkomandi. Að því er varði hið síðarnefnda, þá telji varnaraðili að ógildi lánveitinganna og tilheyrandi veðsetninga leiði til þess að varnaraðila beri að skila til sóknaraðila mótteknum verðmætum að því leyti sem þau hafi komið varnaraðila að notum. Eins og atvikum máls þessa sé háttað sé ljóst að mati varnaraðila að sá fjárhagslegi ávinningur, sem varnaraðila hafi áskotnast vegna umræddra ráðstafana, takmarkist í reynd við virði verðbréfa viðskiptabankanna. Sé því eðlilegt að mati varnaraðila að ógilding veðlánveitinganna leiði til þess að skuldabréfin falli til sóknaraðila og að hann eignist þannig viðkomandi kröfur í bú bankanna. Verði sóknaraðili þá eins settur fjárhagslega og ef Seðlabankinn hefði lánað beint til viðskiptabankanna gegn veði í óvörðum bréfum þeirra.

                Sóknaraðili vísi ítrekað til þess að varnaraðili hafi sannanlega móttekið fjármuni frá Seðlabankanum og beri að skila þeim, þ.e. öllu lánsfénu sem runnið hafi til viðskiptabankanna gegnum varnaraðila. Af hálfu varnaraðila sé þessu alfarið hafnað. Í ljósi háttsemi Seðlabankans, sem rakin sé hér að framan, verði sóknaraðili, sem leiði rétt sinn frá bankanum, að bera hallann af því að lánsféð hafi að stórum hluta farið forgörðum við fall viðskiptabankanna. Verði Seðlabankinn og þar með sóknaraðili sjálfur að bera tjón sitt sem af þessu hafi leitt. Önnur niðurstaða, þ.e. að lánveitingarnar teljist ógildar en varnaraðila beri allt að einu að endurgreiða lánin að fullu, jafngildi því að sóknaraðili hagnist á framangreindri saknæmri og ólögmætri háttsemi sinni gagnvart varnaraðila, á kostnað annarra kröfuhafa varnaraðila. Væri sóknaraðili þá m.ö.o. betur settur en ef lánveitingar til viðskiptabankanna hefðu farið fram í samræmi við lög, en slíkt fái ekki staðist.

                Varakrafa varnaraðila, um að kröfum sóknaraðila verði hafnað að því leyti sem þeim verði ekki fullnægt af andvirði og arði af veðum sem standi þeim til tryggingar, byggist á því að umræddum ráðstöfunum hafi verið rift með stoð í reglum XX. kafla laga nr. 21/1991. Nánar tiltekið sé á því byggt að skuldaviðurkenning varnaraðila gagnvart sóknaraðila á umræddum fjárhæðum sé riftanleg og verði viðkomandi kröfum því ekki komið fram á hendur varnaraðila. Á hinn bóginn sé ekki gerð krafa um riftun veðsetninga. Leiðir sú niðurstaða til þess að sóknaraðili verði eins settur fjárhagslega og ef Seðlabankinn hefði lánað beint til viðskiptabankanna gegn veði í óvörðum bréfum þeirra.

                Um lagarök kveðst varnaraðili vísa til laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, einkum 3., 4., 7. og 29.-31. gr. Einnig reglna Seðlabankans um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabankann nr. 541/2007, síðar nr. 317/2008 og nr. 808/2008. Ennfremur vísi varnaraðili til lögmætisreglunnar og almennra reglna stjórnsýsluréttar, svo og almennra skyldna Seðlabankans gagnvart fjármálafyrirtækjum. Þá vísi varnaraðili til III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 30., 32., 33. og 36. gr. Ennfremur sé vísað til almennra reglna og sjónarmiða í samningarétti um málamyndagerninga sem og brostnar forsendur. Þá vísi varnaraðili til XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 2. mgr. 139. gr., 141. gr. 3. mgr. 142. gr. og 1. mgr. 146. gr. Um slitameðferð varnaraðila vísist til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum, sbr. m.a. lög nr. 44/2009. Krafa um málskostnað byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.

V

                Sóknaraðili máls þessa hefur fengið framseldar þær fjárkröfur sem um er deilt í máli þessu og er ekki deilt um aðild málsins. Umræddum kröfum er lýst hér fyrr, tilurð þeirra og veðum sem sett voru til tryggingar og vísast um það til þeirrar umfjöllunar. Ekki er um það deilt að varnaraðila voru veitt umrædd lán með umræddum veðum. Byggir sóknaraðili einkum á því að hann hafi fengið framseldar kröfur vegna lána sem varnaraðili hafi tekið og engin skilyrði séu til annars en að viðurkenna skyldu varnaraðila til endurgreiðslu umræddra fjármuna. Slitastjórn varnaraðila hefur á hinn bóginn hafnað að viðurkenna umræddar kröfur við slitameðferðina á þeim grundvelli að um málamyndagerninga hafi verið að ræða, að gerningarnir séu haldnir ógildingarannmörkum, að forsendur hafi brostið eða að unnt sé að rifta þeim á grundvelli nánar tilgreindra riftunarreglna XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Verður nánari grein gerð fyrir umræddum málsástæðum hér síðar.

                Varnaraðili byggir einnig á því að hafna beri þeim kröfum sem sóknaraðili hefur nú uppi þegar af þeirri ástæðu að þær fái ekki stuðning í greinargerð hans til dómsins. Komi þar einungis fram að sóknaraðili krefjist rétthæðar kröfu sinnar eftir 111. gr. laga nr. 21/1991 en engin varakrafa sé þar sett fram um þá fjárhæð sem eftir kunni að standa þegar veðsettar eignir hafi verið seldar. Telur varnaraðili að tilvísun sóknaraðila til 113. gr. laga nr. 21/1991 varðandi eftirstöðvar kröfunnar þegar veð hafi verið seld hafi verið of seint fram sett enda sé mælt fyrir um að í 1. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991 að í greinargerð skuli greina til fullnaðar hvaða kröfur aðili hyggist hafa uppi í máli.

                Fyrir liggur að sóknaraðili lýsti tiltekinni fjárkröfu við slitameðferð varnaraðila. Hefur hann síðan lækkað þá kröfu í samræmi við verðmæti nánar tilgreindra veðsettra eigna sem hann leysti til sín á matsverði í samræmi við samkomulag málsaðila sem bókað verð sérstaklega um í þingbók. Kröfunni var lýst með rétthæð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 og var krafan einnig þannig fram sett í greinargerð til dómsins, en greinargerðin var lögð fram áður en sóknaraðili leysti til sín undirliggjandi veð.

                Það er mat dómsins að fyrir því sé dómvenja að þar sem kröfugerð aðila vísi ekki sérstaklega til þess að krafist sé tiltekinnar rétthæðar kröfu sé litið svo á að krafa teljist almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Í 111. gr. laga nr. 21/1991 er mælt fyrir um rétthæð krafna sem njóti veðréttar eða annarrar tryggingaverndar í eign þrotabús að því leyti sem þeim verði fullnægt af andvirði eignarinnar og arði eða öðrum tekjum sem þrotabúið hafi haft af henni. Þegar framangreint er virt í samhengi verður að telja að ekki sé nauðsynlegt að geta þess sérstaklega í kröfugerð að eftirstöðuvar kröfu eftir að veðsett eign hefur verið seld skuli teljast almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, enda sé ekki verið að krefjast viðurkenningar hærri fjárhæðar en í kröfulýsingu. Verður því ekki fallist á með varnaraðila að það valdi sóknaraðila réttarspjöllum að hafa þá lagatilvísun fyrst uppi við upphaf aðalmeðferðar málsins.

                Ekki er í máli þessu deilt um fjárhæðir og röksemdir sem varnaraðili hefur teflt fram til varnar gegn kröfum sóknaraðila eru sambærilegar að flestu leyti um allar kröfurnar, þ.e.a.s. kröfur vegna veðlána, daglána og verðbréfalána. Þykir því ekki ástæða til annars en að fara fyrst yfir málsástæður varnaraðila sem lúta að öllum þremur flokkum lána en víkja í lokin að röksemdum sem eiga aðeins við í afmarkaðri tilvikum.

                Ekki verður annað séð af gögnum málsins en að umræddum fjármunum hafi verið ráðstafað í öllum tilvikum inn á bankareikninga í eigu varnaraðila og þau verðbréf sem sett voru að veði hafi sömuleiðis verið í eigu hans. Á hinn bóginn liggur það og ljóst fyrir að varnaraðili keypti þau verðbréf sem hann lagði að veði af Landsbanka Íslands hf., Glitni banka hf. eða Kaupþingi banka hf. og fjármagnaði umrædd kaup með þeim lánum sem hann tók hjá Seðlabanka Íslands eða eftir atvikum Fjármálaráðuneytinu. Voru þetta skuldabréf sem umræddir bankar höfðu sjálfir gefið út og stóðu reglur Seðlabanka Íslands því í vegi að þeir gætu sjálfir fengið lánafyrirgreiðslu með veði í umræddum bréfum. Fyrir liggur í málinu að viðskiptakjör voru þannig að varnaraðili hafði hagnaðarvon af þessum viðskiptum.

                Varnaraðili byggir á því í fyrsta lagi að í lántökum þessum hafi falist málamyndagerningar og þess vegna eigi ekki að taka kröfur sóknaraðila til greina. Málamyndagerningar eru skilgreindir á þann veg að það séu samningar sem báðir aðilar hafi sammælst um að væru að einhverju eða öllu leyti annars efnis en leiða myndi af almennri túlkun á efni þeirra. Í málinu krefst varnaraðili þess að honum verði ekki gert að standa við samning um endurgreiðslu lána umfram verðmæti þeirra eigna sem veðsettar hafi verið til tryggingar þeim. Felst í þessu frávik frá efni samninganna sem og almennum reglum um samninga af þessu tagi. Sönnunarbyrði fyrir því að það hafi verið sameiginlegur skilningur aðila að endurgreiðsla lánanna skyldi ekki vera umfram verðmæti hinna veðsettu eigna hvílir á varnaraðila og hefur sú sönnun ekki tekist, enda engin skjalleg gögn eða vitnisburðir í málinu sem benda til þess að aðilar hafi skilið samninga sína með þeim hætti.

                Varnaraðili byggir einnig á því að þeir lánssamningar sem um er fjallað í málinu séu haldnir ógildingarannmörkum.

                Varnaraðili hefur lagt fram í málinu hluta úr rannsóknarskýrslu Alþingis, dóm Landsdóms í máli Alþingis gegn Geir Hilmari Haarde og dóm Hæstaréttar í máli nr. 279/2011: Ákæruvaldið gegn Baldri Guðlaugssyni. Koma fram í þessum gögnum margvíslegar upplýsingar um vitneskju nafngreindra starfsmanna Seðlabanka Íslands um stöðu íslensku bankanna í aðdraganda falls þeirra auk upplýsinga um starfsemi nokkurra viðbragðshópa sem settir voru á laggirnar til að undurbúa viðbrögð við hugsanlegu fjármálaáfalli. Þá eru í þessum gögnum raktar upplýsingar um erfiða lausafjárstöðu umræddra banka og þá afstöðu starfsmanna Seðlabanka Íslands að tryggja aðgang umræddra banka að lausafé. Allt þetta telur varnaraðili renna stoðum undir það að lánveitingar til hans, sem sagðar hafi verið með stoð í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands hafi í raun verið neyðarlánveitingar til stóru viðskiptabankanna þriggja sem með réttu hefði átt að veita á grundvelli 2. mgr. sömu lagagreinar og þá með sérgreindum tryggingum.

                Fallist er á með varnaraðila að upplýsingar úr framangreindum opinberum gögnum, sem einnig voru studdar af skýrslum fyrir dómi af nokkrum þeim starfsmönnum Seðlabanka Íslands sem um er fjallað í þeim, færi sönnur á það að vitneskja hafi verið innan Seðlabanka Íslands á þeim tíma sem hin umdeilda skuld varð til um erfiða stöðu stóru bankanna þriggja.

                Á hinn bóginn er nauðsynlegt að líta til þess að umrædd lán voru ekki veitt varnaraðila að frumkvæði Seðlabanka Íslands. Liggja engin gögn fyrir í málinu um það að Seðlabankinn eða eftir atvikum Fjármálaráðuneytið hafi leitað til varnaraðila og óskað milligöngu hans um útlán til stóru bankanna þriggja.

                Fram kemur í skýrslu Agnars Hanssonar þáverandi bankastjóra varnaraðila að varnaraðili hafi sóst eftir þessum viðskiptum og hafi talið þau verulega ábatasöm. Einnig kom fram hjá honum, sem reyndar má einnig sjá annarsstaðar í gögnum málsins, að lánshæfismat íslensku bankanna, hafi verið hátt á þessum tíma. Nefndi Agnar að hann teldi að leitun hefði verið að banka sem hefði haft eins hátt metnar eignir til tryggingar skuldum sínum og varnaraðili.

                Seðlabanki Íslands hefur skyldum að gegna til að tryggja stöðugleika á fjármálamarkaði á Íslandi og hefur í því skyni heimildir til að afla ýmissa upplýsinga um fjármálafyrirtæki á markaði. Starfsmenn bankans eru hins vegar bundnir þagnarskyldu skv. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs, svo og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls.

                Þegar litið er til framangreindra staðreynda er það mat dómsins að engin skylda geti hafa hvílt á Seðlabanka Íslands að upplýsa varnaraðila um þau atriði er vörðuðu stöðu íslensku viðskiptabankanna þriggja og leynd hvíldi yfir samkvæmt framansögðu. Verður þvert á móti að ætla að varnaraðili, sem starfandi fjármálafyrirtæki sem sérhæfði sig í viðskiptum á millibankamarkaði, hafi sjálfur þurft að leggja mat á og bera áhættu af því við hverja hann kaus að eiga viðskipti og hvaða áhættu rétt væri að taka í því tilliti. Af framangreindu leiðir þegar að mati dómsins að engin efni eru til að líta svo á að skuldbindingum varnaraðila sem um er fjallað í máli þessu verði vikið til hliðar á grundvelli þeirra ógildingarreglna samningalaga nr. 7/1936 sem varnaraðili hefur einkum vísað til. Ber hér og að hafa í huga að þrátt fyrir að gögn málsins bendi til þess að Seðlabanki Íslands hafi talið að nauðsynlegt væri að viðskiptabankarnir þrír hefðu nægilegan aðgang að lausafé er ekkert í málinu sem bendir til þess að Seðlabanki Íslands hafi sérstaklega hvatt til eða ýtt undir að þessu markmiði yrði náð með aðkomu varnaraðila. Þá verða gögn málsins ekki talin sýna annað en að varnaraðili hafi leitað eftir viðskiptum á grundvelli 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001 en engin gögn liggja fyrir um að óskað hafi verið eftir láni eða lánum á grundvelli 2. mgr. sömu lagagreinar enda verður ekki séð að Seðlabanka Íslands beri að hafa frumkvæði að slíkri lánveitingu. Verður því ekki séð að lánveitingar til varnaraðila hafi farið gegn ákvæðum laga nr. 36/2001, eða þeir hafi verðið gerðir fyrir svik Seðlabanka Íslands, sbr. 30. gr. laga nr. 7/1936,  eða vegna misritunar eða mistaka, sbr. 32. gr. sömu laga eða að hér geti átt við 33. eða 36. gr. sömu laga. Þegar af þeim ástæðum sem að framan eru raktar verður hafnað öllum málsástæðum varnaraðila sem lúta að því að umræddir lánasamningar geti talist ógildir.

                Þá leiða sömu rök til þess að ekki verður talið að varnaraðili hafi sýnt fram á að brostið hafi forsenda í samningi hans við Seðlabanka Íslands eða eftir atvikum Fjármálaráðuneytið sem sé þess eðlis að greiðsluloforð hans falli niður, enda almenn regla að veðhafi ber áhættu af verðrýrnun veðs. Er málsástæðu hans í þessa veru því hafnað. Þá verður heldur ekki séð að neyðarréttarsjónarmið geti stutt kröfur varnaraðila enda er það mat dómsins að ekkert liggi fyrir í málinu sem sanni að Seðlabanka Íslands hafi þótt nauðsynlegt að koma lausafé til viðskiptabankanna þriggja fyrir milligöngu varnaraðila. Eins og áður er komið fram er það mat dómsins að þó fyrir liggi að Seðlabanki Íslands hafi talið nauðsynlegt að lána lausafé til viðskiptabankanna þriggja liggi ekki fyrir að hann hafi talið aðkomu varnaraðila nauðsynlega í því skyni eða hafi hvatt til hennar.

                Samkvæmt því sem að framan greinir verður ekki talið sýnt að þau viðskipti sem um er deilt í máli þessu hafi stofnast fyrir frumkvæði Seðlabanka Íslands eða Fjármálaráðuneytis. Einnig ber að mati dómsins að líta til þess að til tryggingar greiðslu skuldarinnar voru sett að veði skuldabréf sem á þeim tíma höfðu markaðsverðmæti umfram skuldbindingu þá sem tryggja átti og útgefendur þeirra höfðu lánshæfismatseinkunn sem var töluvert hærri en reglur Seðlabanka Íslands gerðu lágmarkskröfu um. Eru þegar af þessum ástæðum ekki fyrir hendi skilyrði til að rifta umræddum ráðstöfunum á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991, enda ekki að sjá að þegar þær hafi átt sér stað hafi varnaraðili verið orðinn ógjaldfær eða hafi orðið það vegna ráðstafananna. Þá verður ekki séð að Seðlabanki Íslands hafi verið sá sem haft hafi hag af umræddum ráðstöfunum eins og skilyrði sé samkvæmt ákvæðinu. Kemur þegar af framangreindum ástæðum ekki til greina að beita tilvitnaðri riftunarheimild.

                Fallist er á með sóknaraðila að daglán sem gjaldféllu 31. desember 2008 verði að teljast nauðsynleg í þágu atvinnurekstrar þrotamanns í skilningi 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 enda slíkum lánveitingum ætlað að tryggja að fjármálafyrirtæki hafi nægilegt fé handbært til að gera upp skuldbindingar dagsins. Er það því mat dómsins að þegar af þeirri ástæðu beri að hafna beri sjónarmiðum varnaraðila sem reist eru á síðastnefndu lagaákvæði.

                Með hliðsjón af því sem að framan greinir eru ekki efni til annars en fallast á viðurkenningarkröfu þá sem stefnandi hefur uppi í málinu eins og hún er fram sett.

                Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn sú fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði og hefur þá verið tekið til umfangs málsins og þess tíma sem meðferð þess hefur tekið fyrir dómi.

                Af hálfu sóknaraðila flutti málið Guðmundur Ingvi Sigurðsson hrl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Andri Árnason hrl.

                Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Framangreind krafa sóknaraðila, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., að fjárhæð 165.693.039.411 krónur, er viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila, SPB hf.

                Varnaraðili greiði sóknaraðila 2.500.000 krónur í málskostnað.