Print

Mál nr. 331/2016

Kristinn Hugason (Jón Sigurðsson hrl.)
gegn
íslenska ríkinu (Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.)
Lykilorð
  • Opinberir starfsmenn
  • Uppsögn
  • Stjórnsýsla
Reifun

K hóf störf hjá sjávarútvegsráðuneytinu, nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, á árinu 2002 og starfaði þar fram í janúar 2014 er honum var sagt upp störfum vegna hagræðingar í rekstri ráðuneytisins, sbr. 43. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. K höfðaði mál gegn Í og krafðist bóta vegna uppsagnarinnar þar sem hann taldi að uppsögnin ætti sér ekki lögmæta stoð, m.a. með tilliti til þess að sér hafi sem trúnaðarmanni verið sagt upp störfum og að forsendur að baki uppsögninni stæðust ekki. Var talið í ljósi hinna skýru lagaákvæða V. kafla laga nr. 94/1986 um aðferð við val trúnaðarmanns yrði ekki litið svo á að K hefði haft stöðu kjörins trúnaðarmanns í skilningi laganna. Þá var talið að ítarleg greiningarvinna hefði verið unnin í ráðuneytinu í aðdraganda uppsagnarinnar og að ákvörðun um hana hefði verið reist á málefnalegum sjónarmiðum. Var Í sýknað af kröfum K.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. maí 2016. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 20.751.440 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. janúar 2014 til 18. janúar 2015, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. 

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

                     Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2016.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 13. janúar sl., er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 18. desember 2014, Kristni Hugasyni, Línakri 1, Garðabæ, á hendur stefnda, fjármála- og efnahagsráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, f.h. íslenska ríkisins, Arnarhváli við Lindargötu í Reykjavík.

Stefnandi krefst þess stefnda verði gert að greiða stefnanda 20.751.440 krónur, að viðbættum vöxtum af þeirri fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 29. janúar 2014 til 18. janúar 2015, en frá þeim degi að viðbættum dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags.

                Þá krefst stefnandi að auki málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Stefndi gerir þá kröfu aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, að mati réttarins. Til vara er krafist verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda og að málskostnaður verði látinn niður falla.

II

Helstu málavextir eru þeir að stefnandi starfaði sem sérfræðingur í því ráðuneyti sem þá hét sjávarútvegsráðuneyti og hlaut fastráðningu 2002 svo sem fram kemur í ráðningarsamningi, dagsettum 1. júlí 2002. Stefnandi varð síðar starfsmaður sameinaðs sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis sem 1. september 2012 varð hluti af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Hinn 29. janúar 2014 barst stefnanda uppsagnarbréf frá stefnda, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Með bréfinu var stefnanda tilkynnt um uppsögn ráðningarsamnings og vísað til uppsagnarheimildar í ráðningarsamningi og 43. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með samningsbundnum fjögurra mánaða fyrirvara.

Stefnanda var tilkynnt um að hann gæti óskað eftir skriflegum rökstuðningi fyrir uppsögninni og gerði hann það. Stefnandi vakti um leið sérstaka athygli á því í beiðninni, að hann væri trúnaðarmaður starfsmanna ráðuneytisins sem tilheyra stéttarfélagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, og að sem trúnaðarmaður nyti hann sérstakrar verndar í starfi. Stefndi skilaði rökstuðningi með bréfi, dagsettu 14. febrúar 2014, þar sem ástæður uppsagnar voru sagðar vera niðurstaða fjárlaga 2014 þar sem Alþingi hefði ákveðið að auka hagræðingarkröfu á aðalskrifstofur ráðuneyta um 5%, sem þýddi að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti þyrfti að spara 40 milljónir króna til viðbótar við 1,5% sparnaðarkröfu sem gerð hefði verið á haustdögum. Fjárframlög til aðalskrifstofu myndu því lækka samtals um 53 milljónir króna milli ár. Ekki væri hægt að gera ráð fyrir því að um tímabundna aðgerð væri að ræða. Þá var því lýst, að greiningarvinna í ráðuneytinu hefði leitt í ljós að þegar litið væri til fagskrifstofa ráðuneytisins, væri mest svigrúm til fækkunar á stöðugildum á skrifstofu matsvæla, landbúnaðar og byggðamála, þar sem stefnandi starfaði. Fram kom í bréfinu að við mat á fækkun stöðugilda hafi verið litið til ýmissa atriða, s.s. faglegrar þekkingar, málastöðu og persónulegrar færni.

Mótmæli stefnanda við uppsögninni voru sett fram í bréfi lögmanns hans, dagsettu 3. mars 2014, þar sem gerð var krafa um tafarlausa afturköllun uppsagnar eða greiðslu fébóta vegna ólögmætrar uppsagnar, einkum þar sem stefnandi taldi að með uppsögn trúnaðarmanns væri brotið í bága við lög. Þá væri uppsögnin ólögmæt þar sem hún væri raunverulega byggð á ástæðum sem féllu undir áminningu en ekki uppsögn, auk þess sem uppgefnar ástæður fyrir uppsögn héldu ekki. Stefndi ritaði svarbréf hinn 21. mars 2014 þar sem kröfum stefnanda var hafnað. Með bréfi, dagsettu 28. október s.á., var stefnda tilkynnt um málshöfðun af hálfu stefnanda og veitt færi á að semja um kröfuna. Með svarbréfi stefnda, dagsettu 14. nóvember s.á., var kröfum stefnanda enn á ný hafnað. Stefnandi höfðaði því mál þetta 18. desember 2014, eins og áður er rakið.

III

Stefnandi reisir dómkröfur sínar á hendur stefnda á því að stefndi hafi brotið með ólögmætum og saknæmum hætti gegn stefnanda með uppsögn 29. janúar 2014 á ráðningarsamningi aðila. Ákvörðun stefnda um uppsögn sé jafnframt ógild að stjórnsýslurétti. Með uppsögninni hafi stefndi bakað stefnanda tjón sem stefndi beri fébótaábyrgð á gagnvart stefnanda. Byggir stefnandi hvort tveggja á að uppsögnin hafi ekki átt sér lögmæta stoð, m.a. með tilliti til þess að stefnanda hafi sem trúnaðarmanni verið sagt upp störfum, og að forsendur að baki uppsögn standist ekki eða séu hið minnsta ekki nægilegar.

Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að stefndi hafi með uppsögn á ráðningarsamningi aðila brotið í bága við reglur laga um vernd trúnaðarmanna stéttarfélaga gegn uppsögn og annarri mismunun. Stefnandi hafi verið kjörinn trúnaðarmaður stéttarfélags síns, Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, á vinnustað sínum í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu og hefði fram að uppsögn gegnt þeim starfa í fimm ár, svo sem ráðuneytinu hafi verið kunnugt um. Hafi stefnandi verið kjörinn trúnaðarmaður stéttarfélags samkvæmt 28. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. einnig samkomulag um trúnaðarmenn hjá ríki o.fl. frá árinu 1989. Því hafi stefnandi notið svokallaðrar trúnaðarmannaverndar samkvæmt þessum reglum og hafi því verið óheimilt að segja honum upp störfum. Af hálfu stefnanda sé málsástæða þessi reist á því að stefndi hafi brotið verulega gegn 30. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna með uppsögninni, bæði gegn ákvæðum 2. og 4. mgr. ákvæðisins.

Stefnandi vísar til þess að samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 30. gr. laga nr. 94/1986 skuli trúnaðarmaður sitja fyrir um að halda vinnunni við uppsögn og því hafi stefndi við umræddar uppsagnir innan ráðuneytisins borið að sjá til þess að stefnanda yrði ekki sagt upp störfum. Stefndi hafi ekki gætt þessarar skyldu sinnar við uppsögn stefnanda en engar nauðsynlegar ástæður hafi heldur staðið til þess að trúnaðarmaður héldi ekki vinnunni og yrði sagt upp störfum. Þá verði að líta sérstaklega til þess að stefndi hafi vitað að stefnandi gegndi starfi trúnaðarmanns og hafi einnig verið ljósar lagalegar skyldur sínar að því leyti. Vísar stefnandi til tölvuskeyti síns frá 29. janúar 2014 þar sem hann hefði vakið athygli stefnda á stöðu sinni sem trúnaðarmanns og áréttað trúnaðarmannaverndina. Allt að einu hafi stefndi virt þær reglur að vettugi við ákvörðun sína um uppsögn stefnanda og þær hafi ekki orðið til þess að uppsögnin væri dregin til baka. Þá bendir stefnandi á að ekki hafi verið sýnt fram á að segja hafi þurft stefnanda upp störfum fremur en öðrum starfsmönnum ráðuneytisins en sé ástæða uppsagnar rekstrarleg, beri vinnuveitanda að láta trúnaðarmann ganga fyrir um að halda vinnunni.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi með uppsögninni látið stefnanda gjalda fyrir trúnaðarmannsstarfið en við því sé lagt bann í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 94/1986. Stefnandi vísar til hliðsjónar til efnislegra eins reglna, sem gildi um starfsmenn á almennum vinnumarkaði, sbr. 11. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, en einnig til dómafordæma sem gengið hafi um þá lagareglu.

                Stefnandi byggir kröfur sínar jafnframt á því að ekkert hald sé í uppgefnum ástæðum stefnda fyrir uppsögn stefnanda. Í rökstuðningi stefnda í bréfi hans, dagsettu 14. feb. 2014, sé byggt á því að ástæður uppsagnarinnar séu hagræðingarkrafa á ráðuneytið og niðurskurður fjárframlaga, sem hafi leitt til þess að mest svigrúm til fækkunar stöðugilda hafi verið á þeirri skrifstofu sem stefnandi hafi starfað á. Við mat á fækkun stöðugilda innan skrifstofunnar, hafi verið horft til þeirra skilgreindu verkefna sem hafi verið á forræði hennar og lýst sé á heimasíðu ráðuneytisins. Einnig hafi verið litið til þeirrar faglegu þekkingar, sem nauðsynlegt sé að sérfræðingar skrifstofunnar hafi, og jafnframt til verkefnastöðu hvers starfsmanns fyrir sig. Þá hafi verið lagt mat á persónulega færni starfsmanna.

Stefnandi byggir á því að ákvörðun um uppsögn hafi verið ómálefnaleg þar sem ekki verði séð að með neinu móti hafi verið réttlætanlegt að segja stefnanda upp störfum umfram aðra starfsmenn ráðuneytisins. Við uppsögn ráðningarsamnings samkvæmt 43. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sé stefndi sem stjórnvald bundinn af þeirri óskráðu meginreglu stjórnsýsluréttar að byggja ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum. Því þurfi stefndi að rökstyðja og réttlæta nauðsyn þess að skerðing á fjárframlögum til rekstrar ráðuneytisins þurfi hvort tveggja að bitna sérstaklega á skrifstofu þeirri, sem stefnandi hafi starfað á, en einnig að nauðsynlegt og réttlætanlegt hafi verið að segja stefnanda fremur en öðrum á þeirri skrifstofu upp störfum.

Á skrifstofu matvæla, landbúnaðar og byggðamála, sem stefnandi starfaði á, hafi starfað nokkrir sérfræðingar en stefnandi hafi verið sá eini sem hafi verið gert að þola beina uppsögn, jafnvel þótt hann hefði lengri starfsferil, meiri menntun og reynslu en flestir aðrir sérfræðingar innan sviðsins. Stefnandi mótmælir því, að fagleg þekking hafi getað ráðið einhverju um uppsögn stefnanda en hann sé einn afar fárra sérfræðinga, sem hafi starfað við tiltekna málaflokka innan skrifstofunnar sem séu meðal þeirra málaflokka sem ráðuneytinu beri að sinna samkvæmt forsetaúrskurði. Þekking stefnanda og reynsla, a.m.k. á þeim málaflokkum, hafi því verið bæði ótvíræð og nauðsynleg, t.d. að því er varðar dýravelferðarmál, hrossarækt, matvælamál og matvælaeftirlit.

Þá bendir stefnandi á að stefnda hafi borið að taka með í reikninginn alla starfsmenn ráðuneytisins og allar undirskrifstofur innan þess en ekki einvörðungu þá skrifstofu sem stefnandi starfaði á. Því verði að draga verulega í efa að þau rök haldi, að nauðsynlegt hafi verið að segja stefnanda upp störfum og hafi stefnandi í það minnsta í engu sýnt fram að þá nauðsyn. Hér verði m.a. að líta til þess að stefnandi hafi mikla menntun á sviði stjórnkerfis fiskveiða og ennfremur mikla starfsreynslu úr þeim hluta ráðuneytisins.

Stefnandi byggir á því að uppsögnin eigi í raun rætur í persónulegum ávirðingum stefnda á hendur stefnanda og fyrir frammistöðu stefnanda í starfi. Þegar af þeirri ástæðu hafi stefnda borið að veita stefnanda áminningu samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 og gefa honum færi á að bæta sig, sbr. 1. málslið 44. gr. sömu laga, áður en gripið var til uppsagnar. Þar sem að þetta hafi ekki verið gert, sé ljóst að uppsögnin sé ólögmæt. Til stuðnings þessu vísar stefnandi til bréfa ráðuneytisins frá 14. febrúar og 21. mars 2014, þar sem komi fram, að uppsögnin hafi verið byggð á ástæðum sem vörðuðu stefnanda sjálfan og persónu hans. Því sé ljóst, að persónulegir þættir starfsmanns hafi verið látnir ráða því að stefnandi hafi verið valinn, umfram aðra, til að þola uppsögn og séu orð stefnda sjálfs sönnun þess. Stefnandi bendir jafnframt á að mótsagna gæti í málatilbúnaði stefnda í bréfi hans, dagsettu 21. mars 2014, þar sem rakið hafi verið að persónulegir þættir hafi ráðið för við ákvörðun um val á starfsmönnum, sem segja hafi átt upp, en hins vegar að hlutlæg atriði hafi ráðið för við ákvörðunina. Bendir stefnandi á að huglægir þættir liggi að baki ákvörðun sem grundvölluð sé á atriðum sem snúi að persónu starfsmanns.

Stefnandi byggir jafnframt á því, að sú greiningarvinna, sem unnin hafi verið í ráðuneytinu, og ráðið hafi ákvörðun um það, hverjum yrði sagt upp, og málsmeðferð við hana hafi verið með þeim hætti, að stjórnvaldsákvörðun um uppsögn verði í engu byggð á henni og að með þeirri vinnu hafi verið brotið í verulegu gegn lögvörðum rétti stefnanda. Málsmeðferðin hafi hvorki uppfyllt ákvæði stjórnsýslulaga né annarra laga en stefnanda hafi aldrei verið kunnugt um að slík greiningarvinna eða matsvinna varðandi hæfni starfsmanna væri unnin innan ráðuneytisins og þá hafi honum hvorki verið tilkynnt um að slík vinna væri fyrirhuguð né að hún væri hafin eða um niðurstöðu hennar. Stefnanda hafi heldur ekki verið veittur réttur til andmæla vegna þessa. Því sé um að ræða brot a.m.k. gegn andmælaréttarreglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, tilkynningarreglu 14. gr. sömu laga og upplýsingaréttarreglu 15. gr. laganna. Þá liggi ekkert fyrir um það, hvernig greiningin hafi verið framkvæmd eða hverjar hafi verið forsendur hennar og stefndi hafi ekki afhent stefnanda nein gögn sem sýni fram á hvernig matið hefði verið framkvæmt áður en ákvörðun var tekin.

Varðandi ætlaða greiningarvinnu verði ekki betur séð en að hún hafi í engu tekið mið af því, hvort unnt væri að færa stefnanda til í starfi innan ráðuneytisins í ljósi þekkingar hans, menntunar, reynslu og vilja hans sjálfs, og komast þar með hjá því að segja honum upp störfum. Stefnandi sé m.a. með MA-gráðu í opinberri stefnumótun og stjórnsýslu og hafi ritað lokaritgerð um stjórnkerfi fiskveiða, auk þess sem hann hefði áður starfað í sjávarútvegsráðuneytinu um nokkurra ára skeið. Hefði hann sótt um að komast aftur í þann hluta atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og hafi því hlotið að koma til greina að færa stefnanda til og yfir í sjávarútvegshluta ráðuneytisins. Hins vegar virðist enginn reki hafa verið gerður að því af hálfu stefnda að ganga úr skugga um hvort þetta væri mögulegt og hljóti stefndi að bera hallann af því. Af því verði dregin sú ályktun að uppsögn stefnanda hafi ekki verið nauðsynleg.

Þá byggir stefnandi á því að ekki sé hald í hinum rekstrarlegu rökum stefnda fyrir uppsögn þegar litið sé til þess háa sérfræðikostnaðar sem stefndi greiði á hverjum tíma. Sérfræðikostnaður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis á tímabilinu 1. júlí 2013 til 15. mars 2014 hafi numið 108 milljónum króna en meirihluti þeirrar fjárhæðar muni vera vegna sérfræðikostnaðar, sem ráðuneytið hafi þurft að greiða á umræddu tímabili. Í rökstuðningi stefnda fyrir uppsögn sé vísað til niðurskurðarkröfu fjárlaga, sem numið hafi 40 milljónum króna vegna aðalskrifstofu ráðuneytisins. Stefnandi bendir á að framangreindur sérfræðiþjónustukostnaður komi allur til greiðslu af sama lið fjárlaga og sé greiddur af aðalskrifstofu ráðuneytisins. Með vísan til þess hversu hár sá kostnaður sé í samanburði við niðurskurðarkröfu fjárlaga, verði ekki séð að rökbundin nauðsyn hafi staðið til þess að segja stefnanda upp störfum. Skera hefði mátt niður með því að draga úr kostnaðarútgjöldum aðalskrifstofu stefnda, s.s. vegna sérfræðikostnaðar. Stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að það hafi ekki verið hægt. Fréttir af framangreindum sérfræðikostnaði gefi sterkar vísbendingar um að komast hefði mátt hjá því að láta niðurskurðarkröfu bitna á stefnanda með uppsögn, hvað þá að nauðsynlegt hafi að segja trúnaðarmanni upp við þessar aðstæður. 

Af framangreindu sé ljóst að framferði ráðuneytisins sem stjórnvalds í tengslum við uppsögn stefnanda brjóti gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gegn óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar og sé jafnframt í andstöðu við góða stjórnsýsluhætti.  Ákvörðunin sé því ógild, bæði að efni og formi.

Stefnandi kveður ákvörðun stefnda um uppsögn stefnanda vera brot gegn lögmætisreglunni þar sem hún sé brot gegn ákvæðum laga nr. 94/1986, laga nr. 70/1996 og stjórnsýslulögum. Þar sem ákvörðunin hafi jafnframt verið byggð á ómálefnalegum grundvelli, byggir stefnandi á því að stefndi hafi brotið gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttar með því að segja stefnanda upp störfum, án málefnalegrar ástæðu. Líta verði sérstaklega til þess að ekkert forsvaranlegt hæfismat hafi verið gert og þá hafi trúnaðarmannavernd ekki verið virt. 

Stefnandi byggir á því að málsmeðferð stefnda brjóti í bága við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en samkvæmt ákvæðinu skuli tryggt að íþyngjandi ákvörðun verði ekki tekin nema því aðeins að ljóst sé að markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti.

Þá verði ekki séð að málsmeðferðin fram til þessa standist ákvæði rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vísar stefnandi að þessu leyti m.a. til  framanritaðs um einstök atriði í rökstuðningsbréfi ráðuneytisins en af því sé ljóst að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst til þess að ákvörðunartaka um uppsögn gæti farið fram. Þá standist sú greiningarvinna, sem stefndi haldi fram að hafi verið unnin, ekki sömu reglu.

Stefnandi krefst bóta vegna hinnar ólögmætu uppsagnar, auk miskabóta, og sundurliðast krafa hans með eftirfarandi hætti:

1. Skaðabætur vegna uppsagnar á ráðningarsamningi:                            17.751.440 kr.

2. Miskabætur:                                                                                                    3.000.000 kr.

Samtals                                              20.751.400 kr.

Um kröfu sína um skaðabætur vegna ólögmætrar uppsagnar tekur stefnandi fram, að þær eigi ekki að ákvarðast með sama hætti og bætur fyrir missi launa í uppsagnarfresti. Tjón vegna ólögmætrar uppsagnar sé annars eðlis og verði að ákvarða bætur að álitum. Krafan miðist við 20 mánaða laun, að teknu tilliti til þess að stefnandi hafi fengið laun greidd í uppsagnarfresti og einnig að teknu tilliti til launatengdra greiðslna, sem sé til samræmis við dómaframkvæmd. Til grundvallar kröfu um bætur sem nemi launum í 20 mánuði, vísar stefnandi til þess að hann hafi verið atvinnulaus allt frá 29. janúar 2014 þegar hann hafi verið leystur ótímabundið frá störfum. Þá hafi honum nánast reynst ógerningur að finna sér annað starf við hæfi en við aðalmeðferð málsins kvaðst stefnandi nú vera í tímabundnu hlutastarfi til ágústloka á þessu ári sem forstöðumaður Söguseturs íslenska hestsins. Stefnandi sé á sextugsaldri og hafi starfað á afar sérhæfðu sviði og því hafi honum reynst verulega örðugt um vik að fá starf sem hæfi menntun hans, reynslu og kjörum sem hann hafi haft í fyrra starfi. Ekki verði séð að breyting verði þar á.

Framsetning launakröfu taki mið af launum stefnanda síðastliðna mánuði áður en ráðningarsamningi hafi verið sagt upp en þau hafi numið föstum mánaðarlaunum og fastri yfirvinnufjárhæð samkvæmt framlögðum launaseðlum. Framangreint tímabil gefi því raunsanna mynd af meðaltalsheildarlaunum stefnanda sem samanstandi af föstum mánaðarlaunum, fastri yfirvinnu og orlofi á yfirvinnu. Til viðbótar komi launatengd gjöld. Heildarstarfsgreiðslur til stefnanda á mánuði hafi numið 887.572 krónum og nemi krafan vegna þessa liðar því margfeldinu af 20 mánuðum og 887.572 krónum.

Mánaðarlaun

                                                         488.792 kr.

Yfirvinna föst

                                                         197.968 kr.

Föst laun

                                                          686.760 kr.

 

Orlofsuppbót 1/12

                                                             2.392 kr.

Persónuuppbót 1/12

                                                             4.342 kr.

Orlof 13.04%

                                                           89.554 kr.

 

 

Launatengd gjöld

11,50% LSR A deild

                                                           78.977 kr.

Framlag í séreignarsjóð 2%

                                                           13.735 kr.

Styrktarsjóður 0.55%

                                                             3.777 kr.

Orlofssjóður 0.25%

                                                             1.717 kr.

Starfsm.sjóður 0.22%

                                                             1.511 kr.

Starfsþróunarsetur 0.7%

                                                             4.807 kr.

 

 

Samtals mánaðarlaun m/launat.gj. mánaðarlam/launat.gj.

                                                         887.572 kr.

 

Miskabótakröfu sinni til stuðnings vísar stefnandi til framangreindrar lýsingar sinnar á málsmeðferð og framkomu yfirmanna stefnda, sérstaklega ákvörðun um að virða ekki þá helgu reglu að trúnaðarmanni skuli hlífa við uppsagnir af því tagi sem ráðist hafi verið í. Eftir þá aðför, sem stefnandi telji sig hafa þurft að sæta, hafi hann orðið að leita sér áfallahjálpar og sé enn að vinna úr áfallinu og þeirri niðurlægingu sem hann hafi orðið fyrir. Stefnandi hafi glímt við andlega kvilla í framhaldinu, sem rekja megi til uppsagnarinnar, og hafi málið í heild, undanfari þess og framkoma stefnda valdið stefnanda andlegum áhyggjum, kvíða og sárindum og rýrt starfsheiður hans. Þá hafi aðgerðir stefnda verulega skaðað möguleika stefnanda á að finna sér annað starf við hæfi. Stefndi hafi þannig með háttsemi sinni og framferði í garð stefnanda valdið stefnanda miska og beri þannig ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn æru og persónu stefnanda í skilningi b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Af þeim sökum beri stefnda að greiða stefnanda miskabætur sem í samræmi við framangreint verði dæmdar að álitum og þyki hæfilega ákvarðaðar 3.000.000 króna.

Stefnandi krefst svonefndra skaðabótavaxta af kröfunni frá og með uppsagnardegi 29. janúar 2014, þ.e. frá þeim degi þegar hið bótaskylda atvik hafi átt sér stað, og fram til 18. janúar 2015, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Hið síðara tímamark sé að liðnum mánuði frá útgáfudegi stefnu, þ.e. 18. janúar 2015, en frá þeim degi og fram til greiðsludags sé krafist dráttarvaxta af kröfufjárhæð, sbr. ákvæði 9. gr. og 5. gr. laga nr. 38/2001.

Þá vísar stefnandi einnig til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, vinnuréttar og stjórnsýsluréttar. Vísað er til ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til orlofslaga nr. 30/1987 og til ákvæða kjarasamnings Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Stefnandi vísar einnig til almennu skaðabótareglunnar. Þá er vísað til 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi krefst skaðabótavaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og dráttarvaxta samkvæmt ákvæðum 9. gr. og 5. gr. sömu laga. Krafa um málskostnað er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr. laganna. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði byggir á l. nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur og sé honum því nauðsyn að fá skattinn dæmdan úr hendi stefnda.

IV

Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda og vísar á bug þeim kröfum sem á þeim byggja. Ástæða uppsagnar stefnanda hafi verið sú sama og ástæða uppsagna allra annarra starfsmanna Stjórnarráðsins sem hafi þurft að sæta uppsögnum í kjölfar þeirrar hagræðingarkröfu sem sett hafi verið fram á aðalskrifstofur ráðuneytanna við lokavinnslu fjárlaga í desember 2013.

Stefndi vísar til þess, að samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eigi forstöðumaður stofnunar rétt á að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem fyrir sé mælt í ráðningarsamningi. Það hafi verið mat stefnda í janúar 2014 að segja þyrfti upp fjórum starfsmönnum, þ. á m. stefnanda, vegna hagræðingar í rekstri. Þá hafi stefndi metið það svo, að leggja þyrfti niður stöður fimm skrifstofustjóra.

Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 segir að ekki sé skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar sé hana að rekja til fækkunar starfsmanna vegna hagræðingar í rekstri stofnunar. Ástæða uppsagnar stefnanda hafi verið sú hagræðingarkrafa, sem komið hafi fram í desember 2013 við lokavinnslu fjárlaga fyrir árið 2014. Þar sem ljóst hafi verið að krafan myndi leiða til endurmats á verkefnum og þjónustustigi ráðuneytisins, hafi farið fram greiningarvinna á starfsemi þess og verkefnum sem unnin hafi verið með faglegum hætti.  Niðurstaða greiningarvinnunnar hafi leitt í ljós að þegar litið væri til fagskrifstofa ráðuneytisins, væri mest svigrúm til fækkunar á stöðugildum á skrifstofu matvæla, landbúnaðar og byggðamála. Í framhaldi af því hafi farið fram mat á verkefnum og hæfni einstakra starfsmanna. Á þeim tíma, sem uppsögnin hafi farið fram, höfðu þegar orðið breytingar á starfslýsingu stefnanda á þann veg að tiltekin verkefni, sem þar séu tilgreind, svo sem vinna við dýravelferð, hafi verið að miklu leyti komin til eins af lögfræðingum skrifstofunnar, enda sé oft þörf á lagaþekkingu vegna úrskurða í málaflokknum. Þá hefðu verkefni tengd íslenska hestinum verið færð frá stefnanda vegna hættu á hagsmunaárekstrum. Niðurstaða framangreindrar greiningarvinnu hafi leitt til þess að ákveðið hafi verið að leggja niður starf stefnanda í hagræðingarskyni og að segja honum upp störfum.

Stefndi vísar til þess, að í 28. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, komi fram að á hverri vinnustöð, þar sem a.m.k. fimm menn vinni, sé starfsmönnum heimilt að kjósa úr sínum hópi einn trúnaðarmann. Einnig komi þar fram að ef fjöldi starfsmanna sé fimmtíu eða fleiri megi kjósa tvo trúnaðarmenn og jafnframt að trúnaðarmenn skuli kosnir til tveggja ára í senn. Þá segir að val trúnaðarmanns skuli tilkynna vinnuveitanda og stjórn stéttarfélags þegar í stað.

Eftir að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi verið stofnað 1. september 2012, hafi öllum starfsmönnum ráðuneytisins borist fjölpóstur frá starfsmanni ráðuneytisins, sem þá hafi einnig verið formaður Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins. Þar hafi komið fram að tveir starfsmenn ráðuneytisins væru trúnaðarmenn í hinu nýja ráðuneyti og hafi stefnandi verið sagður annar þeirra. Ekki hafi fundist gögn í ráðuneytinu um að kosning trúnaðarmanna hafi farið fram í ráðuneytinu áður en þessi tölvupóstur var sendur og ekkert komi heldur fram um það í tölvupóstinum sjálfum. Umræddir starfsmenn, sem sagðir hafi verið trúnaðarmenn í hinu nýstofnaða ráðuneyti, virðist því hafa verið trúnaðarmenn í eldri ráðuneytunum sem sameinuð hafi verið og lögð niður við stofnun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Virðist þannig hafa verið gert ráð fyrir að þeir héldu áfram sem trúnaðarmenn í hinu nýja ráðuneyti, án þess að kosning þeirra hafi farið fram með formlegum hætti í samræmi við lög og reglur um það efni, sbr. framangreinda 28. gr. laga nr. 94/1986.

Engin formleg tilkynning hafi fundist í skjalasafni ráðuneytisins um kosningu trúnaðarmanna í hinu nýja ráðuneyti, eins og gert sé ráð fyrir í 3. málslið 1. mgr. 28. gr. laga nr. 94/1986. Á vefsíðu Bandalags háskólamanna sé birt eyðublað fyrir tilkynningu um kjör trúnaðarmanna en slík tilkynning hafi ekki fundist í skjalasafni ráðuneytisins. Þegar stefndi hafi óskað eftir upplýsingum frá Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins um hvort slík tilkynning hefði verið send, hafi engin svör fengist, heldur hafi einungis verið sent afrit af fyrrgreindum tölvupósti. Bendir stefndi á, að á framangreindri vefsíðu Bandalags háskólamanna sé fjallað um hlutverk trúnaðarmanna og þar komi fram að mjög mikilvægt sé að þessari tilkynningu sé sinnt, enda séu ákvæðin um réttindi trúnaðarmanns annars ekki virk. Jafnframt segi að ekki verði sýnt fram á að tilkynningarskyldu hafi verið sinnt nema vinnuveitandi kvitti fyrir móttöku.

Stefnandi vekur athygli á því, að í tölvubréfi til allra starfsmanna ráðuneytisins frá 23. september 2013 hafi stefnandi lagt til að kosning trúnaðarmanna færi fram með formlegum hætti í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu en hins vegar hafi ekki fundist gögn í ráðuneytinu um að það hafi komist til framkvæmda.

Af hálfu stefnda er lögð á það áhersla, að um kosningu trúnaðarmanna og réttarstöðu þeirra gilda ákveðnar reglur sem koma fram í V. kafla laga nr. 94/1986.  Samkvæmt framansögðu er upplýst að stefnandi kom fram undir heitinu trúnaðarmaður í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu eftir stofnun þess. Síðari skoðun hafi hins vegar leitt í ljós að kosning hans sem trúnaðarmanns hafi aldrei farið fram í samræmi við lög og reglur. Það að stefnandi var aldrei kosinn trúnaðarmaður í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samræmi við ákvæði laga sem gilda um það efni, hafi þá þýðingu að draga megi í efa að hann njóti þeirrar verndar sem trúnaðarmenn njóti samkvæmt lögum nr. 94/1986. Skipti því ekki máli þótt stefnandi hafi komið fram sem trúnaðarmaður en það eitt geti ekki leitt til þess að hann njóti verndar sem slíkur. Þá breyti ekki þeirri niðurstöðu þótt stefnandi kunni að hafa verið kosinn nokkrum árum áður sem trúnaðarmaður í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, þegar af þeirri ástæðu að það ráðuneyti hafi verið lagt niður við stofnun hins nýja ráðuneytis. Skýrt sé af 3. málslið 1. mgr. 28. gr. laga nr. 94/1986 að trúnaðarmenn skuli kjósa til tveggja ára og gildi skipunartími þeirra einungis í þann tíma en framlengist ekki sjálfkrafa þegar honum ljúki þótt kosning trúnaðarmanns á viðkomandi vinnustað hafi ekki farið fram að nýju. Þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að skipunartími stefnanda sem trúnaðarmanns á grundvelli kosningar í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu hafi verið liðinn þegar stefnanda var sagt upp störfum.

Stefndi bendir á að með lögum sé trúnaðarmönnum færð ákveðin staða innan vinnustaðar, sem þeir njóti umfram aðra starfsmenn, sbr. ákvæði laga nr. 94/1986, og því verði að gera ríkar kröfur til þess að öllum formkröfum sé fylgt varðandi tilkynningu á því hver hafi stöðu trúnaðarmanns á vinnustað. Almenn tilkynning, sem beint sé til allra starfsmanna ráðuneytisins með fjölpósti, geti ekki talist tilkynning til vinnuveitanda í skilningi 28. gr. laga nr. 94/1986, auk þess sem Bandalag háskólamanna geri ríka kröfu um hvernig skuli staðið að slíkri tilkynningu með formlegum hætti. Að þessum formkröfum hafi ekki verið gætt í tilviki stefnanda og eigi hann því ekki að njóta meiri verndar en aðrir starfsmenn vegna tómlætis um að uppfylla ofangreind skilyrði og því gildi lagaákvæði um trúnaðarmenn ekki um stefnanda. Stefndi hafni því málsástæðu stefnanda um að stefndi hafi með uppsögninni brotið gegn 4. mgr. 30. gr. laga nr. 94/1986.

Jafnvel þótt litið væri svo á að stefnandi hefði verið löglega kosinn trúnaðarmaður, telur stefndi að orðin „að öðru jöfnu“ í 4. mgr. 30. gr. leiði til þess að einnig skuli fara fram mat á störfum trúnaðarmanna ráðuneyta og stofnana þegar gerð sé hagræðingarkrafa á hendur þeim sem hafi mögulega í för með sér uppsagnir starfsmanna. Trúnaðarmenn skuli aðeins sitja fyrir um að halda starfinu, séu þeir a.m.k. jafn hæfir eða hæfari en aðrir starfsmenn sem lagt sé mat á.

Við mat á fækkun stöðugilda á skrifstofu matvæla, landbúnaðar og byggðamála hafi verið horft til þeirra skilgreindu verkefna sem séu á forræði skrifstofunnar og lýst sé á heimasíðu ráðuneytisins. Jafnframt hafi verið horft til þeirrar faglegu þekkingar sem nauðsynlegt sé að sérfræðingar skrifstofunnar hafi til að bera sem og verkefnastöðu hvers starfsmanns fyrir sig. Út frá framangreindu hafi verið lagt mat á hvaða þekking væri til staðar hjá sérfræðingum skrifstofunnar og hvernig sú þekking nýttist við að vinna að þeim verkefnum sem séu á forræði hennar, svo sem komi fram á framlögðu skjali um greiningarvinnu ráðuneytisins. Málaskrá ráðuneytisins hafi verið skoðuð til að fá yfirlit yfir hvaða mál væru í gangi hjá hverjum og einum starfsmanni, skráning á vinnutíma og staða vinnuskyldu yfirfarin og farið yfir með skrifstofustjóra hvernig starfsmenn stæðu við verkefnaskil, sem og almennt framlag hvers starfsmanns við að sinna þeim verkefnum sem undir skrifstofuna heyri. Þá hafi verið lagt mat á persónulega færni eins og ástundun, frumkvæði í starfi, samstarf við aðra starfsmenn og viðskiptavini og almenn áhrif á starfsmannahópinn, bæði innan skrifstofunnar og í ráðuneytinu í heild. Uppsögn stefnanda hafi verið ákveðin að lokinni þessari ítarlegu greiningu á starfsemi ráðuneytisins og verkefnum, hún hafi verið unnin með faglegum hætti og komið til vegna kröfu um hagræðingu og sparnað sem ráðuneytinu hafi verið gert að framfylgja.

Stefndi bendir jafnframt á að lagatexti og lögskýringargögn með 30. gr. laga nr. 94/1986, sem gildi um opinbera starfsmenn, leiði ekki til þess að uppsögn trúnaðarmanns sé ávallt ólögmæt, verði á annað borð litið svo á að stefnandi hafi gegnt stöðu trúnaðarmanns. Í 4. mgr. 30. gr. segi að þegar trúnaðarmaður sé valinn úr hópi starfsmanna, sem ráðnir eru með uppsagnarfresti, skuli hann „að öðru jöfnu“ ganga fyrir um að halda vinnunni. Sé orðalagið ekki ófrávíkjanlegt og ekkert komi heldur fram í ákvæðinu um að það gildi í þeim tilvikum þegar fækka þurfi starfsmönnum vegna hagræðingar. 

Stefndi vísar til þess að ákvæði 2. málsliðar 11. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, sem gildi um starfsmenn á almennum vinnumarkaði, sé hins vegar orðað með öðrum hætti en þar segi:  „Nú þarf atvinnurekandi að fækka við sig verkamönnum, og skal þá trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni.“

Orðalag framangreindra ákvæða 4. mgr. 30. gr. laga nr. 94/1986 og 2. málsliðar 11. gr. laga nr. 80/1938 sé mismunandi og að mati stefnda leiði það til þess að réttarstaða og vernd trúnaðarmanna samkvæmt þeim kunni að vera mismunandi. Ákvæði 4. mgr. 30. gr. laga nr. 94/1986 sé undantekningarákvæði frá þeirri meginreglu, sem komi fram í 43. gr. laga nr. 70/1996, að forstöðumanni stofnunar sé heimilt að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem mælt sé fyrir um í ráðningarsamningi. Slík undantekningarákvæði verði að vera skýrt og afdráttarlaust orðuð og þau beri að skýra samkvæmt orðanna hljóðan eða með þröngri lögskýringu. Við skýringu og túlkun 4. mgr. 30. gr. laga nr. 94/1986 séu menn bundnir við orðalag ákvæðisins og geti ekki gefið sér að hægt sé að túlka það svo að það hafi sömu þýðingu og orðalag annars ákvæðis í öðrum lögum sem ætlað sé að gilda um aðra starfsmenn en þá sem falli undir lög nr. 94/1986. Að mati stefnda sé það ekki tæk lögskýring að ætla að ákvæði 2. málsliðar 11. gr. laga nr. 80/1938 skuli koma til fyllingar framangreindu ákvæði 4. mgr. 30. gr. laga nr. 94/1986 um tiltekin atriði sem ekki komi fram í texta síðarnefndu laganna. Þannig sé ekkert sem bendi til þess að ákvæði 4. mgr. 30. gr. laga nr. 94/1986 gildi þegar fækka þurfi starfsmönnum, líkt og gildi um ákvæði 2. málsliðar 11. gr. laga nr. 80/1938.

Stefndi byggir á því, að sérstaklega hafi verið litið til þess í greiningarvinnu ráðuneytisins hvort mögulegt væri að færa stefnanda  til í starfi innan ráðuneytisins en sú könnun hafi leitt í ljós að það væri ekki mögulegt. Annað starf hafi ekki verið fyrir hendi í ráðuneytinu og í því sambandi bendir stefndi á að með umræddum hagræðingaraðgerðum hafi einnig verið fækkað störfum á öðrum skrifstofum ráðuneytisins. Því sé hins vegar ranglega haldið fram í stefnu að mat á því hverjum yrði sagt upp, hefði einungis náð til starfsmanna á skrifstofunni sem stefnandi hafi starfað á. Greiningarvinna stefnda hafi farið fram á öllum skrifstofum ráðuneytisins og hún hafi leitt til fækkunar skrifstofa og sameiningar við aðrar, auk þess sem starfsmönnum ráðuneytisins hafi fækkað um fjóra og aðrir hafi fengið lægra starfshlutfall eða farið á eftirlaun.  

Stefndi mótmælir því, að hann hafi brotið gegn reglum stjórnsýslulaga og óskráðum reglum stjórnsýsluréttar við málsmeðferð sína. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á að lögmætisregla stjórnsýsluréttarins hafi verið brotin. Hvorki hafi verið um að ræða brot gegn ákvæðum laga nr. 94/1986 né ákvæðum laga nr. 70/1996. Jafnframt mótmælir stefndi því að hann hafi brotið gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttar með því að segja stefnanda upp störfum án málefnalegrar ástæðu. Í öllum undirbúningi og framkvæmd þeirra aðgerða, sem farið hafi verið í innan ráðuneytisins í janúar 2014, vegna kröfu Alþingis um hagræðingu og sparnað, hafi verið gætt að skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins, þ.m.t. rannsóknarreglu, jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Í þessu sambandi vísar stefndi til framlagðs svarbréfs ráðuneytisins til lögmanns stefnanda sem dagsett er 21. mars 2014.

Stefndi hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga með þeirri greiningarvinnu sem hafi farið fram og hún hafi leitt til skipulagsbreytinga á öllum skrifstofum ráðuneytisins. Því verði ekki séð að með henni og hagræðingaraðgerðum í kjölfar hennar hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Uppsögn fjögurra starfsmanna hafi verið óhjákvæmileg, auk þess sem aðrir hafi þurft að sæta því að vera færðir í lægra starfshlutfall og færast úr skrifstofustjórastöðum í stöðu sérfræðinga sem séu lægra settir.

Stefndi bendir á að hagræðingaraðgerð, sem ráðuneytið hafi staðið frammi fyrir, hafi verið afar umfangsmikil. Samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga skuli stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Þá skuli gæta þess að fara ekki strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Fjárveiting til reksturs aðalskrifstofu ráðuneytisins hafi lækkað verulega og fyrir liggi að um verulegar breytingar var að ræða á rekstri ráðuneytisins á árinu 2014. Að mati stjórnenda ráðuneytisins yrði ekki hjá því komist að fara í viðamikla endurskipulagningu á bæði starfsemi og rekstri en ljóst sé af gögnum málsins að ráðist hafi verið í viðamiklar breytingar á skipuriti, auk þess sem áður hefði verið gripið til ýmissa viðamikilla hagræðingaraðgerða innan ráðuneytisins og leitast við að skera niður í rekstri eins og hægt var, án þess að segja upp starfsmönnum.  Þegar hins vegar gerð hafi verið enn frekari hagræðingarkrafa í desember 2013 hafi stefndi metið það svo, að ekki yrði hægt að ná settu markmiði með öðru og vægara úrræði en uppsögn í þessu tilviki. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 þurfi ekki að veita starfsmanni andmælarétt við uppsögn vegna skipulagsbreytinga og hafi því ekki verið um að ræða brot gegn 13. gr. stjórnsýslulaga að ræða. Að sama skapi verði ekki heldur talið að skylt hafi verið að upplýsa stefnanda um umrædda greiningarvinnu og því hafi stefndi ekki brotið gegn 14. gr. stjórnsýslulaga um tilkynningaskyldu, né heldur gegn upplýsingareglu 15. gr. laganna.

Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda að uppsagnarákvörðun hafi í raun verið byggð á atriðum sem eigi undir 21. gr. laga nr. 70/1996 og því hafi ráðuneytinu borið að veita stefnanda áminningu. Við ákvörðun um uppsögn stefnanda hafi eingöngu verið byggt á ástæðum, sem vörðuðu skipulagsbreytingarnar í ráðuneytinu, en að engu leyti hafi verið byggt á öðrum ástæðum sem varði störf stefnanda eða meintar ávirðingar á hendur honum í starfi. Tekur stefndi fram að á fundi ráðuneytisstjóra með fulltrúum stéttarfélags stefnanda í loks árs 2013, hafi verið fallið frá því að veita stefnanda áminningu eða gera eitthvað frekar í máli vegna meintra ávirðinga á hendur stefnanda vegna meintra óviðurkvæmilegra ummæla um tiltekið starfsfólk Matvælastofnunar í einkasamtali á haustfundi heilbrigðissvæðanna. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að upp hafi komið tilvik í starfi hans sem gætu gefið tilefni til áminningar eftir að fallið var frá fyrrgreindu máli, þ.e. frá lokum árs 2013 til 29. janúar 2014.

Stefndi áréttar, að sá skilningur hafi verið lagður í 34. gr. laga nr. 70/1996 að greinin taki til niðurlagningar á stöðu vegna atvika sem ekki varði starfsmanninn sjálfan. Þannig sé það frumákvörðun að leggja niður stöðu vegna annarra óviðráðanlegra ytri atvika, svo sem vegna kröfu um niðurskurð. Ákvörðun um niðurlagningu stöðu sé þannig ekki tekin vegna einhverra atvika, sem varði starfsmanninn sjálfan, heldur vegna þess að leggja verði niður stöðu þar sem rekstrarstaða kalli á það. Það leiði til þess að þegar forstöðumenn standi frammi fyrir vali á því, hvaða starfsmönnum eða starfsmanni skuli sagt upp, byggi það mat aftur á móti óhjákvæmilega að einhverju leyti á atvikum sem varði starfsmanninn persónulega, svo sem afköst í starfi eða árangur, en ákvörðun sem þessi verði ávallt að byggjast á því, hvernig markmiðum og tilgangi í starfsemi viðkomandi stofnunar verði náð á sem bestan og hagkvæmastan hátt. Stefnandi hafi samkvæmt framansögðu ekki fært fram neinar sannanir fyrir því að uppsögn hans hafi verið byggð á atriðum sem heyri undir 21. gr. laga nr. 70/1996.

Stefndi mótmælir sem rangri og ósannaðri fullyrðingu stefnanda að rekstrarleg rök hans fyrir uppsögn stefnanda haldi ekki með vísan til mikils tímabundins sérfræðikostnaðar ráðuneytisins. Hagræðingarkrafa fjárlaga fyrir árið 2014 hafi beinst að aðalskrifstofum ráðuneytanna. Aðalskrifstofa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sé skráð undir fjárlagalið 04-101 en undir hann falli almennur rekstur ráðuneytisins og laun starfsmanna. Fjárlagaliður ráðuneytisins nr. 04-190 nefnist „ýmis verkefni“ en þar séu m.a. bókfærðar greiðslur til ýmissa nefnda, þ.m.t. lögbundinna úrskurðarnefnda á vegum ráðuneytisins ásamt Endurskoðendaráði, Eftirlitsnefnd félags fasteignasala o.fl. Öll vinna úrskurðarnefndanna, auk Endurskoðendaráðs og Eftirlitsnefndar félags fasteignasala, færist sem ráðgjafarþjónusta á lið nr. 04-190 en rúmlega 90 milljónir af þeim rúmlega 100 milljónum, sem stefnandi vísi til í stefnu sinni að hægt hefði verið að skera niður, hafi verið greiddar af lið nr. 04-190 en ekki af lið nr. 04-101, sem sé aðalskrifstofa ráðuneytisins. Hér sé að miklu leyti um að ræða lögbundin verkefni og svigrúm til niðurskurðar vegna þeirra sé takmarkað.

Ráðuneytinu sem framkvæmdavaldi sé skylt að framkvæma lögin í samræmi við orðalag þeirra og hafi ekkert svigrúm til að breyta eða færa einstaka kostnaðarliði milli fjárlagaliða, heldur beri að framkvæma hvern og einn kostnaðarlið í samræmi við orðalag viðkomandi fjárlagaliðar. Ef gera eigi breytingar á einstökum fjárlagaliðum, verði það aðeins gert með breytingu á fjárlögum sem Alþingi samþykki í samræmi við þær reglur sem um það gildi. Vísar stefndi að þessu leyti einnig til 41. og 42. gr. stjórnarskrárinnar og laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, sbr. og lög nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins með síðari breytingum.

Stefndi áréttar að til aðkeyptrar sérfræðiþjónustu komi einkum í þeim tilvikum þegar ljóst sé að þekkingu skorti í ráðuneytinu á tilteknum sérfræðisviðum til að vinna tiltekin afmörkuð verkefni sem krefjist slíkrar sérfræðiþekkingar.

Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um skaðabætur með þeim rökum að uppsögn stefnanda hafi verið byggð á lögmætum og málefnalegum forsendum. Stefnandi geti ekki vænst þess að halda starfi sínu til venjulegra starfsloka opinbers starfsmanns en samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996 hafi forstöðumaður rétt til þess að segja upp starfsmanni í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings. Ekki hafi verið sýnt fram á tjón stefnanda vegna þessa, auk þess sem stefnandi beri að takmarka tjón sitt en ekki hafi verið sýnt fram á að hafi hann gert það. Þá hafi stefnandi ekki lagt fram nein gögn því til staðfestingar að ógerningur sé fyrir hann að fá vinnu við hæfi en atvinnuleysi sé nú með því lægsta sem þekkst hafi lengi.

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda, krefst hann þess til vara krafist að krafa stefnanda verði lækkuð verulega. Stefndi telur að taka verði tillit til þess til lækkunar hafi stefnandi notið greiðslna úr atvinnuleysistryggingarsjóði. Jafnframt verði að meta það til lækkunar að krafa stefnanda sé sett fram án þess að dregin hafi verið frá lögbundin staðgreiðsluskylda, sem renni í ríkissjóð, en í því samhengi sé bent á að ekki sé greiddur skattur af skaðabótum. Auk þess verði að draga frá aðrar launatengdar greiðslur, sem ekki renni til stefnanda, t.d. greiðslur í styrktarsjóð, orlofssjóð, starfsmenntunarsjóð og starfsþróunarsetur. Þá telur stefndi jafnframt að ef dómurinn fallist á að önnur launatengd gjöld, svo sem framlög í lífeyrissjóð og séreignarsjóð, skuli metin til skaðabóta, líkt og farið sé fram á í stefnu, þá skuli slík upphæð renna til lífeyrissjóðs sem og að stefnandi þurfi þá að standa skil á sínu framlagi til lífeyrissjóðs.

Stefndi mótmælir miskabótakröfu stefnanda með vísan til framangreinds. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að í ákvörðun stefnda hafi falist ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda í skilningi 26. gr. skaðabótalaga. Þá sé miskabótakrafan vanreifuð og styðjist ekki við nægileg gögn. Ákvörðun stefnda um að segja stefnanda upp hafi ekki falið í sér ólögmæta meingerð gegn persónu stefnanda, enda hafi hún eingöngu grundvallast á sjónarmiðum vegna niðurskurðar í rekstri ráðuneytisins. Ákvörðunin hafi því verið lögmæt og byggð á málefnalegum sjónarmiðum og beri því að sýkna stefnda af miskabótakröfu stefnanda.

Til vara, verði ekki fallist á sýknukröfu, sé þess krafist að miskabætur verði lækkaðar verulega, enda sé miskabótakrafan vanreifuð og í engu samræmi við dómafordæmi.

Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísar hann í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslur stefnandi málsins, Kristinn Hugason, og Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðneytinu. Þá gáfu skýrslur vitnin, Hanna Dóra Hólm Másdóttir, fyrrverandi formaður Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Halldór Karl Valdimarsson, framkvæmdastjóri þjónustuskrifstofu félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Guðrún Gísladóttir, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, og Kristín Edda Sigfúsdóttir, trúnaðarmaður félags starfsmanna stjórnarráðsins. Verða skýrslur þeirra raktar eins og þurfa þykir.

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, hefur forstöðumaður stofnunar rétt til að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem fyrir er mælt í ráðningarsamningi. Í framlögðum ráðningarsamningi stefnanda kemur fram að gagnkvæmur uppsagnarfrestur sé þrír mánuðir og miðast við mánaðamót. Ágreiningslaust er og ljóst af gögnum málsins að stefnanda var með bréfi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dagsettu 29. janúar 2014, sagt upp störfum með fjögurra mánaða fyrirvara miðað við næstu mánaðamót þar á eftir. 

                Ágreiningur aðila í máli þessu lýtur að því, hvort uppsögn stefnanda úr starfi sínu sem sérfræðingur á skrifstofu matvæla, landbúnaðar- og byggðamála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hinn 29. janúar 2014 hafi verið ólögmæt og hvort forsendur að baki uppsögninni standist eða hafi verið nægilegar til uppsagnar. Stefnandi byggir á því að við uppsögn hans hafi hvorki verið gætt að reglum laga um vernd trúnaðarmanna stéttarfélaga, auk þess sem ekki verið farið að skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins.

                Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að hann hafi verið trúnaðarmaður og því notið verndar samkvæmt ákvæðum 2. og 4. mgr. 30. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Stefndi mótmælir þessu og vísar til þess að ósannað sé að stefnandi hafi verið kosinn trúnaðarmaður í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, svo sem beri að gera samkvæmt fyrirmælum 28. gr. laganna. Stefnandi geti því ekki notið þeirrar trúnaðarmannaverndar sem mælt sé fyrir um í 30. gr. sömu laga.

                Í málinu liggur frammi tilkynning frá Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, dagsett 28. október 2010, um að Kristinn Hugason hafi verið kosinn trúnaðarmaður samkvæmt 28. gr. laga nr. 94/1986. Þá er meðal gagna málsins tölvupóstur Hönnu Dóru Hólm Másdóttur, þáverandi formanns framangreinds félags, til allra starfsmanna í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, sem sendur var 28. september 2012, rétt eftir að hið nýja ráðuneyti var stofnað. Um er að ræða tilkynningu um að trúnaðarmenn félagsins í ráðuneytinu séu Anna S. Gunnarsdóttir og Kristinn Hugason. Í skýrslu Hönnu Dóru Hólm fyrir dóminum kom fram að hún hefði litið svo á að með þessari tilkynningu hefði staða stefnanda sem trúnaðarmanns í ráðuneytinu verið endurnýjuð. Loks liggur fyrir í málinu tölvupóstur stefnanda til félagsmanna í Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hjá ráðuneytinu frá 23. september 2013 þar sem hann vekur athygli á því að það sé orðið tímabært að skipa tvo trúnaðarmenn úr röðum þeirra. Hann kveðst vera fús til að starfa áfram sé vilji til þess hjá félagsmönnum en jafnframt óskar hann eftir tillögu um annan trúnaðarmann. Síðan er talað um að hægt sé að „klára þetta mál í viku 42“ eða síðar. Fram kom í skýrslu Hönnu Dóru Hólm að enginn starfsmaður hefði boðið sig fram sem trúnaðarmaður og því hefði ekki komið til þess að fundur hefði verið haldinn í kjölfar þessa bréfs stefnanda. Hafi hún því litið svo á að frá áramótum 2012/2013 hefði stefnandi verið eini trúnaðarmaðurinn í ráðuneytinu og kæmi það fram á heimasíðu stéttarfélagsins.

                Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, er starfsmönnum heimilt að kjósa úr sínum hópi einn trúnaðarmann á vinnustað þar sem eru a.m.k. fimm starfsmenn en tvo þar sem starfa 50 eða fleiri. Síðan er  mælt fyrir um að það skuli kjósa trúnaðarmenn til tveggja ára í senn og að val trúnaðarmanna skuli tilkynnt vinnuveitanda og stjórn stéttarfélags þegar í stað. Af ákvæðunum verður ráðið að starfsmönnum sé ekki skylt að velja sér trúnaðarmann en jafnljóst er að sé það gert, beri að láta fara fram kosningu með þeim hætti sem þar er lýst. 

Að því virtu, sem hér hefur áður verið rakið um þau gögn varðandi trúnaðarmenn í ráðuneytinu sem liggja frammi í málinu, er ljóst að stefnandi var ekki kosinn trúnaðarmaður í formlegri kosningu á síðustu tveimur árum áður en honum var sagt upp störfum í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, svo sem framangreint lagaákvæði mælir fyrir um. Eingöngu var um það að ræða að öllum starfsmönnum ráðuneytisins var tilkynnt um að stefnandi væri trúnaðarmaður rétt eftir að ráðuneytið var stofnað eftir sameiningu ráðuneyta í september 2012. 

Ákvæði 1. mgr. 28. gr. laga nr. 94/1986 verða hins vegar ekki skilin á annan veg en þann, að það beri undantekningarlaust að fara fram kosning trúnaðarmanns til tveggja ára í senn. Það var ekki gert. Trúnaðarmenn njóta sérréttinda og verndar samkvæmt ákvæðum 30. gr. laganna, umfram aðra starfsmenn, m.a. með ákvæði 4. mgr. lagagreinarinnar sem mælir fyrir um að trúnaðarmenn skuli að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni. Þegar litið er til þeirrar sérstöku verndar, sem trúnaðarmönnum er tryggð umfram aðra starfsmenn í ákvæðum 30. gr. laganna, verður að skýra ákvæði um trúnaðarmenn þröngri lögskýringu. Í ljósi alls framangreinds verður því ekki litið svo á að stefnandi hafi haft stöðu kjörins trúnaðarmanns í skilningi ákvæða V. kafla laga nr. 94/1986. Í ljósi hinna skýru lagaákvæða um aðferð við val trúnaðarmanns, þykir ekki breyta þeirri niðurstöðu þótt bæði Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, og Guðrún Gísladóttir, skrifstofustjóri í sama ráðuneyti, hafi litið svo á að stefnandi væri trúnaðarmaður og átt með honum fund vegna fyrirhugaðra starfsmanna í janúar 2014. Verður ábyrgð á því að ekki var staðið að vali á trúnaðarmanni í samræmi við ákvæði laga ekki lögð á ráðuneytið sem vinnuveitanda og verður ekki séð að það hafi verið ráðuneytisins að gera sérstakar athugasemdir við stöðu mála að þessu leyti. Með sömu rökum verður heldur ekki talið að tilkynning formanns Félags starfsmanna háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins um stefnanda sem trúnaðarmann, sem send var öllum starfsmönnum ráðuneytisins í september 2012, geti ráðið hér úrslitum, enda var ekki um að ræða lögboðna tilkynningu um kjör stefnanda sem trúnaðarmanns. Að þessu virtu verður að hafna þeirri málsástæðu stefnanda að við uppsögn hans hafi ekki verið gætt að reglum laga um vernd trúnaðarmanna stéttarfélaga. Koma því ekki til frekari skoðunar sjónarmið stefnanda sem lúta að stöðu hans sem trúnaðarmanns.

Óumdeilt virðist að við lokavinnslu frumvarps til fjárlaga 2014 í desember 2013 hafi Alþingi gert kröfu um frekari hagræðingu á aðalskrifstofum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um 5% til viðbótar fyrri kröfu frá hausti 2013 um 1,5% sparnað, svo sem lýst er í rökstuðningi ráðuneytisins fyrir uppsögn stefnanda frá 14. febrúar 2014. Þar segir jafnframt að ástæður uppsagnar stefnanda megi fyrst og fremst rekja til þessarar viðbótarhagræðingarkröfu Alþingis sem hafi þýtt 40 milljóna króna sparnað til viðbótar fyrri hagræðingu. Hafi fjárframlög til aðalskrifstofu ráðuneytisins því lækkað samtals um 53 milljónir króna á milli ára. Í svarbréfi ráðuneytisins 21. mars sama ár við bréfi lögmanns stefnanda frá 3. sama mánaðar er því lýst, að óformlegur starfshópur hafi verið stofnaður innan stjórnarráðsins til að koma með tillögur um það, hvernig unnt væri að bregðast við auknum sparnaðarkröfum á hendur ráðuneytunum. Tillögur hópsins hafi m.a. falið í sér að horft yrði til endurmats á verkefnum og þjónustustigi ráðuneytanna. Í kjölfarið hafi komið til víðtækra breytinga á starfsmannahaldi stjórnarráðsins sem hafi snert tæplega 50 einstaklinga en ýmist hafi verið um að ræða uppsagnir, lægra starfshlutfall, tilfærslu í störfum, að starfslokum væri hraðað og að tilkynnt var að tímabundnir ráðningarsamningar yrðu ekki framlengdir.

Fram kom í vætti þeirra Kristjáns Skarphéðinssonar ráðuneytisstjóra og Guðrúnar Gísladóttur skrifstofustjóra að óumflýjanlegt hefði verið að fækka starfsfólki ráðuneytisins vegna hinnar auknu sparnaðarkröfu fjárveitingarvaldsins. Hefði því verið farið í ítarlega greiningarvinnu og gagnaöflun um alla vinnu í ráðuneytinu sem og verkefnastöðu til framtíðar. Kom fram hjá Guðrúnu að starfsmenn hefðu verið látnir fylla út eyðublöð með starfslýsingum sínum og síðan hefðu skrifstofustjórar farið yfir verkefnastöðuna.

Í framangreindum rökstuðningi fyrir uppsögn stefnanda kemur fram að greiningarvinnan hafi leitt í ljós að mest svigrúm hefði verið til fækkunar á stöðugildum á skrifstofu matvæla, landbúnaðar og byggðamála þar sem stefnandi starfaði. Segir jafnframt að við matið hafi verið horft til þeirra skilgreindu verkefna, sem væru á forræði skrifstofunnar, og jafnframt hefði verið litið til þeirrar faglegu þekkingar, sem nauðsynlegt væri að sérfræðingar skrifstofunnar hefðu til að bera, sem og verkefnastöðu hvers starfsmanns fyrir sig. Út frá framangreindu hafi verið lagt mat á það, hvaða þekking væri til staðar hjá sérfræðingum skrifstofunnar og hvernig sú þekking nýttist við að vinna að þeim verkefnum sem væru á forræði hennar. Í þeim tilgangi hafi málaskrá ráðuneytisins verið skoðuð til að fá yfirlit yfir það, hvaða mál væru í gangi hjá hverjum og einum starfsmanni, skráning á vinnutíma og staða vinnuskyldu yfirfarin. Þá hafi verið farið yfir það með skrifstofustjóra, hvernig starfsmenn stæðu við verkefnaskil sem og almennt framlag hvers starfsmanns við að sinna verkefnum skrifstofunnar. Síðan er tekið fram að lagt hafi verið mat á persónulega færni eins og ástundun, frumkvæði í starfi, samstarf við aðra starfsmenn og viðskiptavini og almenn áhrif á starfsmannahópinn, bæði innan skrifstofu og í ráðuneytinu í heild. Í lok bréfsins segir síðan: „Með tilliti til hagræðingarkröfu til aðalskrifstofu ráðuneytisins og til stöðu þeirra verkefna sem þér hafið einkum gegnt á undanförnum árum, sem og þeirrar faglegu þekkingar sem nauðsynlegt er að starfsmenn skrifstofunnar hafi yfir að ráða og hvernig sú þekking nýtist við að vinna þau verkefni sem eru á forræði hennar var niðurstaðan sú að yður yrði sagt upp störfum.“

Af framlögðu yfirliti yfir hagræðingu hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti 2014 kemur fram að hagræðingaraðgerðirnar höfðu í för með sér breytingar á öllum sjö skrifstofum ráðuneytisins. Stöðugildum á þremur þeirra fækkaði, tvær skrifstofur voru lagðar niður en starfsmönnum á tveimur skrifstofum, þ.e. skrifstofu iðnaðar og orkumála og skrifstofu fjárlaga og árangursstjórnunar, var fjölgað í kjölfar þess að verkefni annarra skrifstofa voru færð yfir til þeirra. Á skrifstofu matvæla, landbúnaðar og byggðamála var stöðugildum fækkað um eitt, án þess að verkefni væru færð annað.

Á framlögðum lista yfir sérfræðinga og helstu störf þeirra á skrifstofu matvæla, landbúnaðar og byggðamála í janúar 2014 kemur fram að helstu verkefni stefnanda hafi lotið að vinnu við dýravelferð, búfjárhald og undirbúning nýrrar löggjafar á því sviði. Þá hafi hann unnið við matvælamál, séð um samskipti við Matvælastofnun og setið í norrænum nefndum á því sviði. Stefnandi hafi einnig unnið við ýmis landbúnaðarmál á sviði búfjárræktar og jarðræktar, auk þess sem hann hefði áður annast málefni íslenska hestsins og unnið í nefndum um útflutning hrossa og um þróunarframlag til hrossaræktar. Jafnframt kemur þar fram að menntun hans hafi einkum nýst vel á sviði hrossaræktar og við endurskoðun á dýravelferðarlöggjöfinni. Síðan segir: „Þessi vinna er nú að baki og vinna við setningu reglugerða vel á veg komin og verður unnin að mestu leyti af lögfræðingum skrifstofunnar. Þá hefur Kristinn komið að eftirlits- og samræmingarhlutverki varðandi matvælaöryggismál gagnvart Matvælastofnun og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga. Innleiðing á aðalköflum matvælalöggjafar ESB er lokið og reiknað er með að afskipti ráðuneytisins verði einkum fólgin í úrskurðum vegna stjórnsýslukæra sem eru unnir af þar til bærum lögfræðingum. Málefni íslenska hestsins hafa verið flutt frá Kristni vegna hættu á hagmunaárekstrum.“ Af hálfu stefnanda hafa ekki verið gerðar efnislegar athugasemdir við þessar lýsingar í skjalinu. Þá kom fram í framburði Kristjáns Skarphéðinssonar ráðuneytisstjóra að eftir greiningarvinnu ráðuneytisins hefði verið talin þörf á aukinni lögfræðiþekkingu í ljósi þess að fyrir lægi að framundan væri frekari lögfræðileg vinna við reglugerðir en áður hefði verið. 

Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, ber forstöðumaður ábyrgð á að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunar, sem hann stýrir, sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Að framangreindu virtu er ljóst að yfirstjórn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins komst að þeirri niðurstöðu, eftir að áðurraktar sparnaðarkröfur Alþingis í fjárlagafrumvarpi 2014 lágu fyrir, að nauðsynlegt væri að fækka starfsmönnum ráðuneytisins. Litið hefur verið svo á að játa beri forstöðumönnum rúmar heimildir við slíkar aðstæður og sætir slík ákvörðun ekki öðrum takmörkunum en þeim að aðgerðir, sem gripið er til, þurfa að vera í samræmi við lög og meginreglur stjórnsýsluréttar. Ekki er í lögum nr. 70/1996 að finna reglur um það, hvað skuli ráða vali forstöðumanna á starfsmanni sem segja skal upp við þær aðstæður sem hér um ræðir en ljóst er að vali þeirra eru settar skorður af grunnreglum stjórnsýsluréttar. 

Stefnandi byggir á því, að stefnda hafi verið unnt að grípa til vægari úrræða en uppsagnar með því að verða við ósk stefnanda um að vera færður til í starfi yfir á skrifstofu sjávarútvegs og fiskeldis. Hér verður að líta til þess sem fram kemur í gögnum málsins og framburði þeirra Kristjáns Skarphéðinssonar og Guðrúnar Gísladóttur um að hagræðing innan ráðuneytisins hafi náð til allra skrifstofa þess og að skrifstofa sjávarútvegs og fiskeldis hafi sætt fækkun um eitt stöðugildi. Kváðu þau Kristján og Guðrún það vera ástæðu þess að tilfærsla stefnanda í starfi hefði ekki verið möguleg. Af hálfu stefnanda hafa ekki verið færð fram frekari rök fyrir því að slík tilfærsla hefði allt að einu getað komið til greina. Að því gættu og öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á það með stefnanda að ómálefnalegar ástæður hafi ráðið því að hann var ekki færður til í starfi og að með því hafi ekki verið gætt meðalhófs. Í ljósi þess, sem rakið hefur verið um greiningarvinnu ráðuneytisins á öllum skrifstofum þess vegna hagræðingarkröfu fjárveitingarvaldsins, er það mat dómsins að stefnanda hafi ekki tekist að færa fyrir því haldbær rök að stefnda hefði verið unnt að ná þeirri hagræðingu með öðrum og vægari hætti. Sjónarmið stefnanda sem lúta að aðkeyptri sérfræðiþjónustu ráðuneytisins eða öðrum útgjöldum þykja ekki heldur studd haldbærum rökum og þykja því engu breyta að þessu leyti.

Stefnandi byggir kröfu sína jafnframt á þeirri málsástæðu að uppsögn hans hafi í raun átt rætur að rekja til ávirðinga í hans garð og frammistöðu hans í starfi. Hafi því átt að veita stefnanda áminningu samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 og gefa honum færi á að bæta sig, sbr. 1. mgr. 44. gr. sömu laga, áður en gripið var til uppsagnar hans. Stefnandi bar um það fyrir dóminum að þeim Kristjáni Skarphéðinssyni ráðuneytisstjóra hefði gengið illa að starfa saman og vísaði til þess að haustið 2013 hefði hann verið kallaður á fund hjá Kristjáni vegna ummæla sem hann hefði látið falla utan ráðuneytisins. Sú uppákoma og almennir samstarfserfiðleikar þeirra Kristjáns hafi því verið raunveruleg ástæða uppsagnar hans en ekki hagræðingarsjónarmið. Þessu hefur stefndi mótmælt og vísað til þess að uppsögnin hafi einungis komið til vegna hagræðingarkröfu Alþingis. Hvorki Kristján Skarphéðinsson né Guðrún Gísladóttir könnuðust við samstarfserfiðleika þeirra stefnanda og Kristjáns. Vitnið, Halldór Karl Valdimarsson, framkvæmdastjóri þjónustuskrifstofu Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, sem sat fund þeirra stefnanda og Kristjáns ásamt lögfræðingi félagsins, kvað hafa komið fram á fundinum að verið væri að íhuga áminningu stefnanda vegna tiltekinna ummæla, án þess þó að hún hefði verið fyrirhuguð. Hann hefði síðar fengið tilkynningu um að ekki yrði áminnt. Aðspurður kvaðst hann ekki geta metið hvort „andað hefði köldu“ milli stefnanda og ráðuneytisstjórans, svo sem stefnandi héldi fram.  

Engra annarra gagna nýtur við um hugsanlegan ágreining stefnanda og Kristjáns Skarphéðinssonar og er ósannað að tengsl séu á milli uppsagnar stefnanda og þeirrar áminningar hans, sem fyrir liggur að kom til tals haustið 2013 áður en aukin hagræðingarkrafa Alþingis var gerð á hendur ráðuneytinu. Þá er ekkert komið fram sem rennir haldbærum stoðum undir það, að eitthvað annað en hagræðing í rekstri ráðuneytisins hafi ráðið því að stefnanda var sagt upp störfum. Í ljósi alls þess, sem rakið hefur verið, verður heldur ekki fallist á það með stefnanda að ummæli í rökstuðningi ráðuneytisins um að við val á því, hverjum skyldi sagt upp vegna hagræðingarsjónarmiða, hafi verið litið til atriða er snerta persónulega færni, ástundun, frumkvæði í starfi, samtarf og áhrif á starfsmannahópinn, sýni fram á að fyrir uppsögn hans hafi legið aðrar ástæður en þær að fækka þyrfti starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri.    

Í ljósi þeirra sjónarmiða, sem fram koma í rökstuðningi ráðuneytisins fyrir uppsögn stefnanda, og þegar litið er til þeirra fyrirliggjandi gagna um greiningarvinnu, sem unnin var innan ráðuneytisins áður en til uppsagnarinnar kom, verður að fallast á það með stefnda að fram hafi farið ítarleg greiningarvinna í aðdraganda uppsagnarinnar og að ákvörðun um hana hafi verið reist á málefnalegum sjónarmiðum. Þá er það mat dómsins að með greiningarvinnunni og þeim gögnum, sem ráðuneytið aflaði við þá vinnu, hafi ráðuneytið uppfyllt skyldur sínar samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins sem fram kemur í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til framangreinds og þess, sem að áður er rakið um fækkun stöðugilda á öllum skrifstofum ráðuneytisins, verður heldur ekki fallist á það með stefnanda að ekki hafi verið gætt meðalhófs að stjórnsýslurétti þegar ákvörðun um uppsögn hans var tekin. 

Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 er ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún tekur gildi ef hún stafar af því að starfsmönnum er fækkað vegna hagræðingar í rekstri stofnunar, svo sem hér á við. Því verður ekki fallist á það með stefnanda að brotið hafi verið gegn andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með sömu rökum verður heldur ekki fallist á það með stefnanda að stefndi hafi brotið gegn ákvæðum 14. og 15. gr. laganna.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að við uppsögn stefnanda hafi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið farið að lögum, bæði við undirbúning ákvörðunar um uppsögn og við framkvæmd hennar, og að hún hafi verið reist á málefnalegum sjónarmiðum og því réttmæt og í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Verður því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu er það mat dómsins að rétt sé að málskostnaður milli aðila falli niður.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

                Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Kristins Hugasonar, í þessu máli.

Málskostnaður fellur niður.