Print

Mál nr. 257/2001

Lykilorð
  • Fjöleignarhús
  • Grennd
  • Skaðabótamál

Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. júní 2002.

Nr. 257/2001.

Kristján Guðmundsson og

Elín Finnbogadóttir

(Sigurður Georgsson hrl.)

gegn

Baldvini Atlasyni

(Elvar Örn Unnsteinsson hrl.)

 

Fjöleignarhús. Nábýlisréttur. Skaðabótamál.

K og E, sem áttu 76% fasteignar, kröfðust bóta úr hendi B, sem átti 24% eignarinnar, fyrir fjártjón og miska er hann hefði valdið þeim með því að fella tré á lóðinni. Eins og atvikum var háttað áttu ákvæði 37. gr. og 38. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús ekki við og var því talið að B hefði verið óheimilt að fella umrædd tré án samráðs við K og E. Með því að K og E höfðu ekki sýnt fram á að B hefði valdið þeim tjóni með aðgerðum sínum, hvorki fjárhagslegu né ófjár­hags­legu, var B sýknaður af kröfum þeirra.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir. 

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 3. júlí 2001. Þau krefjast þess að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 673.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. október 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð nokkur ný gögn. Meðal þeirra er matsbeiðni áfrýjenda 3. júlí 2001 til Héraðsdóms Reykjavíkur en með henni fóru þau þess á leit að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta fjárhagslegt tjón þeirra sem leitt hafi af þeirri háttsemi stefnda að fella trjágróður, nánar tiltekið tvö álmtré, tvær sýrenur og eitt lerkitré, í sameiginlegum garði málsaðila. Skyldi matið miðað við kostnað þess að afla og gróðursetja nýjar plöntur í stað þeirra sem felldar voru. Í niðurstöðu matsgerðar hins dómkvadda matsmanns 27. október 2001 kemur fram að frá faglegu sjónarmiði skrúðgarðyrkju hafi grisjun á lóð málsaðila verið eðlileg og sjálfsögð. Um mat á fjárhagslegu tjóni segir að það hafi verið lítið sem ekkert „en tilfinningalegt tjón þeirra sem plöntuðu út og hlúðu að plöntunum fyrstu árin hafi væntanlega orðið eitthvað“. Með bréfi 2. nóvember sama árs sendu áfrýjendur Héraðsdómi Reykjavíkur beiðni um skipun nýs matsmanns, þar sem matsmaðurinn hafi ekki fjallað í matsgerð sinni um það sem honum hafi verið falið að meta. Stefndi mótmælti því að dómkvaddur yrði nýr matsmaður á grundvelli sömu matsbeiðni að því er séð yrði eingöngu vegna þess að matsbeiðendur væru óánægðir með niðurstöðu matsmannsins. Benti stefndi jafnframt á að áfrýjendum hefði verið rétt með vísan til 65. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að óska þess að matsmaðurinn kæmi fyrir dóm og gæfi skýringar á matinu eða biðja um yfirmat samkvæmt 64. gr. sömu laga. Í þinghaldi 30. nóvember 2001 var beiðni áfrýjenda um dómkvaðningu matsmannsins tekin fyrir og voru málsaðilar sammála um að leggja ágreining sinn um dómkvaðninguna í úrskurð dómsins. Með úrskurði 11. janúar 2002 var á það fallist að matsmaður hafi ekki metið það sem honum bar að meta samkvæmt dómkvaðingu sinni og var honum gert með vísan til 66. gr. laga nr. 91/1991 að framkvæma umbeðið kostnaðarmat. Matsmaðurinn boðaði áfrýjendur til matsfundar með bréfi 26. febrúar sama árs, en með símbréfi daginn eftir svöruðu áfrýjendur þeirri boðun á þann veg að matsfundurinn yrði ekki haldinn þar sem þau teldu matsmanninn alls ófæran til starfans og þau hefðu að auki óskað þess að nýr matsmaður yrði tilnefndur. Fram er komið að hinn dómkvaddi matsmaður hafi lokið mati sínu um fjárhagslegt tjón og sent það héraðsdómara. Áfrýjendur hafa hins vegar ekki viljað taka við matinu og hafa því ekki lagt það fram við meðferð málsins í Hæstarétti.

Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjendur verða dæmdir til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Kristján Guðmundsson og Elín Finnbogadóttir, greiði óskipt stefnda, Baldvini Atlasyni, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 


Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 16. mars s.l., er höfðað með stefnu birtri 27. október s.l.

Stefnendur eru Kristján Guðmundsson, kt. 220934-2769 og Elín Finnbogadóttir, kt. 211128-4109, bæði til heimilis að Rauðagerði 39, Reykjavík.

Stefndi er Baldvin Atlason, kt. 080645-3849, til heimilis að Rauðagerði 39, Reykjavík.

Dómkröfur stefnenda eru þær í fyrsta lagi að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaða­bóta að fjárhæð kr. 173.000 ásamt dráttarvöxtum frá 31. október 2000 til greiðslu­dags.  Í öðru lagi að stefndi verði dæmdur til greiðslu bóta vegna miska og ófjár­hagslegs tjóns að fjárhæð kr. 500.000 ásamt dráttarvöxtum frá 31. október 2000 til greiðsludags.  Í þriðja lagi að stefndi verði dæmdur til að þola enduröflun og gróð­ur­setningu trjáa í sameiginlegum garði aðila á þeim stöðum þar sem stefndi felldi tré.  Þá krefjast stefnendur þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda og þau verði jafnframt dæmd til að greiða honum málskostnað að mati dómsins að við­bætt­um virðisaukaskatti.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að stefnendur og stefndi eru sameigendur að húsinu nr. 39 við Rauða­gerði hér í borg.  Samkvæmt eignaskiptasamningi eru stefnendur eigendur íbúð­ar á efri hæð hússins auk hluta kjallara og öðru fylgifé, þ.m.t. hlutfallsleg eign í lóð og er eignarhluti þeirra samkvæmt eignaskiptasamningi talinn vera 76%.  Stefndi hefur frá árinu 1991 verið eigandi íbúðar á neðri hæð hússins auk hlutfallslegrar eignar í lóð og er eignarhluti hans 24%.  Fasteign aðila fellur því undir ákvæði 1. mgr. 67. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og er því ekki skipuð sérstök stjórn í húsfélagi húss­ins.  Stefnendur halda því fram að þau hafi annast nauðsynlega þætti í rekstri hússins og haldið húsfundi lögum samkvæmt.

Stefndi, sem er menntaður garðyrkjumaður, heldur því fram að hann hafi fyrstu árin eftir að hann keypti íbúð sína reynt að fá stefnendur til samvinnu um viðhald garðs­ins.  Stefnendur halda því hins vegar fram að stefndi hafi ekki mætt til húsfunda til viðræðna eða samráðs um skipulag gróðurs á lóðinni.  Virðist vera grund­vall­ar­ágrein­ingur milli aðila um viðhald og útlit garða og heldur stefndi því fram að stefn­endur séu þeirrar skoðunar að því meira sem garðurinn líkist ófærum frumskógi þeim mun betri og fallegri sé hann.  Stefndi segist hafa látið þar við sitja í fyrstu en þegar þannig hafi verið komið að birtu naut ekki í íbúð hans, auk þess sem kvartanir bárust frá nágrönnum að hans sögn vegna gróðurflækju á lóðamörkum, segist hann hafa gripið til þess ráð að klippa runna og fjarlægja tré sem hann taldi augljóslega ofaukið í garð­inum.  Er óumdeilt að þessar aðgerðir stefnda voru án samráðs við stefnendur.

Stefnendur segja stefnda hafa fellt ekki færri en fimm tré á lóðinni auk þess að raska ítrekað gróðri þar með afgerandi hætti.  Stefndi hafi fellt um fjögurra metra hátt álm­tré við vesturenda hússins 16. mars 1998.  Þremur dögum síðar hafi hann klippt 30-40 cm af Alaskavíði við vesturenda hússins og tæpri viku síðar hafi hann enn klippt af Alaskavíði við vestur- norður- og austurenda hússins.  Samdægurs hafi stefndi fellt annað um fjögurra metra hátt álmtré við vesturenda hússins og tvo um það bil tveggja metra háa sírennurunna, sem stóðu við austurhlið hússins.  Þá hafi stefndi 20. desember sama ár klippt gróna grein af álmtré og kastað henni upp á svalir stefn­enda og 8. mars 1999 hafi stefndi klippt trjágróður umhverfis húsið.  Loks hafi stefndi fellt um sjö og hálfs metra hátt lerkitré í byrjun júnímánaðar 2000.

Stefnendur kærðu háttsemi stefnda ítrekað til lögreglu en með bréfi lög­reglu­stjór­ans í Reykjavík dagsettu 5. janúar 1999 var kæru þeirra vísað frá embættinu og rann­sókn málsins hætt með vísan til 1. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991.

Stefnendur óskuðu eftir áliti kærunefndar fjöleignarhúsamála um ágreining aðila og í áliti hennar dagsettu 7. janúar 2000 segir að stefnda hafi verið óheimilt að fella tré á lóð hússins án samþykkis stefnenda.  Þá telur kærunefndin að minniháttar venju­bund­in verkefni við hirðingu garðsins, svo sem að slá grasið, tína illgresi, snyrta/­klippa gróður og önnur þrif á lóð, séu báðum aðilum heimil án þess að haldinn sé hús­fundur um málið eða aflað sérstaks samþykkis sameigenda.

Í máli þessu hefur ekki verið aflað matsgerðar dómkvaddra matsmanna en Kristinn H. Þorsteinsson, garðyrkjufræðingur, hefur að ósk stefnenda skoðað garðinn eftir aðgerðir stefnda.  Í umsögn Kristins dagsettri 14. apríl 1998 segir að við skoðun 29. mars sama ár hafi komið í ljós að í garðinum séu margar tegundir trjáa og runna og hafi gróðurinn nýlega verið klipptur og tré felld.  Að mati Kristins hafi sá sem verkið vann haft mjög takmarkaða þekkingu á þeirri vinnu.  Taldi Kristinn um verulegt tjón að ræða þar sem skorinn hafi verið niður vöxtur trjáa og runna sem taki mörg ár og ára­tugi að rækta og hafi ásýnd garðsins breyst.  Kristinn ítrekar þessa afstöðu sína í um­sögn dagsettri 8. júlí 2000.  Segir í umsögn hans m.a. að þær trjátegundir sem fjar­lægðar hafi verið séu ekki fáanlegar á markaði í þeirri stærð sem þær voru og þá verði gróð­ursetning á ný ekki framkvæmd án þess að garðurinn verði fyrir miklum skemmd­um.

Lögð hefur verið fram í málinu sameiginleg umsögn skrúðgarðyrkjumeistarans Einars Þorgeirssonar og garðyrkjufræðinganna Heiðrúnar Guðmundsdóttur og Heimis B. Janusarsonar dagsett 7. júní 1999, en stefndi aflaði þessarar umsagnar.  Er það nið­ur­staða þeirra eftir skoðun á garðinum og mati á aðgerðum stefnda að um sé að ræða fallegan, vel skipulagðan og snyrtilegan gróinn garð, sem þyrfti að fá heimsókn garð­yrkju­manns, sem gæti grisjað og klippt af fagmennsku og ákveðni.

Málsástæður og lagarök.

Stefnendur byggja á því að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið tjóni á óskiptri sameign aðila.  Sé tjónið bótaskylt í heild á grundvelli mats Kristins H. Þorsteinssonar og skipti í því sambandi engu hlutdeild aðila í fasteigninni.  Tjónið verði ekki bætt nema í einni heild og sé að öllu leyti á ábyrgð stefnda.  Stefn­endur byggja á því að stefndi hafi með athöfnum sínum brotið gegn lögvörðum hags­mun­um stefnenda, sem meðal annars njóti verndar stjórnarskrárinnar, einkum 71. og 72. gr.  Hafi stefndi með broti sínu valdið stefnendum bæði fjárhagslegu og ófjárhags­legu tjóni sem sé bótaskylt að lögum.

Stefnendur byggja einnig á því að stefndi hafi með athöfnum sínum brotið gegn ákvæð­um laga nr. 26/1994, einkum ákvæðum 1. og 2. mgr. 36. gr. og 39. gr. sbr. 41. gr. laganna.  Með brotum á nábýlisrétti stefnenda hafi stefndi sannanlega valdið tjóni á óskiptri sameign aðila og beri hann fulla bótaábyrgð á því.

Stefnendur telja engu skipta hvaða skoðun stefndi hafi á gróðurfari á lóðinni eða nauð­syn þess að fella þar tré.  Hafi stefndi talið það nauðsynlegt hafi honum láðst að sýna fram á það eða leita nauðsynlegra heimilda til slíkra breytinga.

Stefnendur byggja kröfur sínar einnig á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993.  Krafa um dráttarvexti er reist á lögum nr. 25/1987 og krafa um málskostnað er byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.  Þá er krafa um virðisaukaskatt reist á lögum nr. 50/1988.

Stefnendur reisa kröfur sínar á mati Kristins H. Þorsteinssonar og sundurliða bóta­kröfur sínar þannig að tjón vegna sjö og hálfs metra lerkitrés sé kr. 12.000, tjón vegna tveggja sírennurunna kr. 38.600, tjón vegna tveggja álmtrjáa kr. 58.000 og vinna við útskipti, efni og fleira sé kr. 64.400, eða samtals kr. 173.000 og telja stefn­endur þar um enduröflunarverðmæti að ræða.  Krafa um bætur fyrir miska og ófjár­hags­legt tjón er þannig rökstudd að athafnir stefnda hafi valdið stefnendum um­tals­verðri röskun og tilfinningalegu tjóni auk þess að fyrir liggi að tjón stefnenda verði aldrei metið fullkomlega til fjár.  Stefnendur hafi eytt miklum hluta ævi sinnar í upp­bygg­ingu þess gróðurs sem stefndi hafi skemmt og fjarlægt og hafi stefndi með ólög­mætri meingerð valdið ófjárhagslegu tjóni sem bótaskylt sé að lögum.

Stefnendur rökstyðja kröfu sína um enduröflun og gróðursetningu trjáa á því að þeim sé nauðsynlegt að afla aðfararhæfs dóms um endurbætur svo stefndi geti ekki staðið í vegi fyrir framkvæmdum og endurbótum á lóðinni.

Stefndi byggir á því að hann hafi ekki valdið stefnendum neinu tjóni.  Þvert á móti hafi umhyggja hans fyrir gróðri á lóðinni leitt til verðmætaaukningar á fast­eign­inni.  Stefndi mótmælir verðmati Kristins H. Þorsteinssonar og telur mat hans byggt á röng­um upplýsingum.  Þá mótmælir stefndi því að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni þótt fjarlægja hafi þurft trjáplöntur í sameiginlegum garði aðila, en um sé að ræða eðli­lega og venjulega umhirðu garðsins.  Hvorki liggi fyrir mat á verðmæti fasteignar stefn­enda áður en stefndi hafi snyrt garðinn né eftir aðgerðir hans.  Stefndi fullyrðir að eftir að garðurinn var snyrtur sé eignin verðmeiri og seljanlegri en áður.  Þá sé ekki tekið tilliti til þess í kröfugerð stefnenda að stefndi átti a.m.k. 24% af hinum fellda trjá­gróðri.

Stefndi byggir á því að stefnendur hafi ekki fundið miskabótakröfu sinni stoð í lög­um.  Þá sé ekki gerð tilraun til þess að útskýra að um ólögmæta meingerð af hálfu stefnda sé að ræða.  Þá byggir stefndi á því að krafa stefnenda um að stefndi verði dæmd­ur til að þola enduröflun og gróðursetningu trjáa sé með öllu ódómtæk.  Stefndi vekur athygli á því að hann hafi einungis fjarlægt þrjú tré úr garðinum, en sírennurnar séu runnar en ekki tré.  Ekki komi fram hvaða trjáa eigi að endurafla, hvar eigi að gróð­ursetja þau, hverrar tegundar þau eigi að vera og hversu stór.  Bendir stefndi á að að­för eftir slíkum dómi gæti orðið flókin.  Að mati stefnda hafa stefnendur hvorki sýnt fram á lagarök né garðyrkjufræðilega nauðsyn fyrir þessari kröfugerð sinni.

Stefndi reisir málskostnaðarkröfu sína á 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðis­aukaskatt er reist á lögum nr. 50/1988.

Kristján Guðmundsson, annar stefnenda málsins, skýrði svo frá fyrir dómi að garð­urinn hafi ekki verið vanhirtur og hafi stefnendur séð um að slá túnblettinn.  Stefn­andi kvað nágranna aldrei hafa kvartað undan garðinum.  Að mati stefnanda hafa athafnir stefnda stórlega rýrt gildi garðsins og að mati garðyrkjumanna voru lerki­trén með fegurstu trjám og sé annað þeirra nú fallið.  Stefnandi kvað landslagsarkitekt hafa hannað garðinn og hafi stefnendur séð um gróðursetningu í honum, en hann sé frá ár­inu 1983.  Stefnandi kvaðst ekki hafa látið verðmeta eignina eftir aðgerðir stefnda.

Stefndi skýrði svo frá fyrir dómi að hann væri garðyrkjufræðingur að mennt og hefði starfað við garðyrkju í 30 ár.  Stefndi taldi lerkitréð hafa verið fjögurra metra hátt en ekki hafi verið pláss fyrir það, lerkitrén hafi staðið allt of þétt ofan í inngangi stefnda.  Stefndi taldi um nauðsynlega grisjun að ræða.  Stefndi kannaðist við að hafa sag­að niður tvö af þremur álmtrjám, en þau hafi skyggt á birtu í íbúð hans.  Taldi stefndi að um nauðsynlega grisjun hafi verið að ræða.  Stefndi taldi að unnt hefði verið að flytja trén með mikilli fyrirhöfn en ekki hafi verið pláss fyrir þau annars staðar í garð­inum.

Heiðrún Guðmundsdóttir, kt. 020557-2229, staðfesti áðurgreinda umsögn sína.  Hún taldi að þurft hefði að klippa og grisja garðinn.

Heimir Björn Janusarson, kt. 240862-5069, staðfesti umsögnina.  Hann taldi fag­lega rétt að fella annað álmtréð.  Hann taldi lerkitréð sem fellt var hafa verið um tæp­lega fjögurra metra hátt og hefðu örlög þess sennilega orðið þau að það hefði vaxið þannig að það hefði fallið.

Kristinn H. Þorsteinsson, kt. 100656-3109, staðfesti álitsgerðir sínar.  Hann kvaðst hafa séð garðinn áður en trén voru felld og jafnframt kvaðst hann hafa unnið í garð­inum.  Hann kvað lerkið hafa verið sjö og hálfs metra hátt þegar það var fellt og taldi hann enga ástæðu hafa verið til að fella trén.

Guðmundur Pálsson, kt. 050745-3849, Rauðagerði 37, kvaðst hafa nefnt það við stefnda sumarið 1997 að æskilegt væri að runni á lóðamörkum væri lægri en hann var eða tveir og hálfur til þrír metrar.  Hann kvaðst ekki hafa gert athugasemdir við stefn­end­ur um þetta atriði.

Forsendur og niðurstaða.

Ágreiningur aðila máls þessa snýst framkvæmdir á lóð fjölbýlishússins að Rauða­gerði 39 hér í borg en stefnendur eru eigendur að 76% eignarinnar og eignarhluti stefnda er 24%.  Stefnendur telja stefnda hafa valdið sér fjártjóni og miska með því að fella tré á lóðinni og krefjast bóta og jafnframt þess að stefnda verði gert að þola end­ur­öflun og gróðursetningu trjáa á lóðinni.  Stefndi, sem er menntaður garð­yrkju­fræð­ingur, telur sig hins vegar einungis hafa sinnt eðlilegum vorklippingum og grisjun.  Þá hafi honum borið nauðsyn til að fella tré í þeim tilgangi að veita birtu inn í íbúð sína.

Málsaðilar eru sameigendur að fjölbýlishúsi og fer um ágreining um aðgerðir á sam­eiginlegri lóð þeirra eftir ákvæðum laga nr. 26/1994, sbr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laganna er einstökum eiganda ekki heimilt upp á sitt ein­dæmi að taka ákvarðanir eða gera ráðstafanir sem snerta sameign eða sameiginleg mál­efni nema svo sé ástatt sem greinir í 37. og 38. gr.  Samkvæmt 1. mgr. 37. gr.  lag­anna er eiganda heimilt að gera brýnar ráðstafanir til að koma í veg fyrir yfirvofandi tjón á sameign eða einstökum séreignarhlutum og ekki þola bið eftir sameiginlegri ákvörðun húsfélagsins eða stjórnar þess, ef því er að skipta.  Þá er eiganda rétt með vísan til 1. mgr. 38. gr. laganna að láta framkvæma nauðsynlegar viðgerðir á sameign á kostnað allra ef hún eða séreignarhlutar liggja undir skemmdum vegna vanrækslu á við­haldi og húsfélagið eða aðrir eigendur hafa ekki, þrátt fyrir tilmæli og áskoranir, feng­ist til samvinnu og til að hefjast handa í því efni.  Því hefur ekki verið haldið fram í málinu að svo hafi háttað um lóð aðila að ákvæði 37. og 38. gr. laganna eigi við.

Samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laga nr. 26/1994 eiga allir hlutaðeigandi eigendur  óskor­aðan rétt á að eiga og taka þátt í öllum ákvörðunum er varða sameignina, bæði innan húss og utan, og sameiginleg málefni sem snerta hana beint og óbeint. Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. laganna skulu sameiginlegar ákvarðanir teknar á sam­eig­in­legum fundi eigenda, húsfundi, en þó getur stjórn húsfélags tekið vissar ákvarðanir í um­boði eigenda sem bindandi eru fyrir þá, sbr. 69. og 70. gr. Þá hafa einstakir eig­end­ur í vissum tilvikum, sbr. 37. og 38. gr., rétt til að gera ráðstafanir sem bindandi eru fyrir aðra þótt fundur hafi ekki fjallað um þær.  Eins og að framan er rakið var atvik­um ekki svo háttað að ákvæði 37. og 38. gr. eigi við og var stefnda því óheimilt að fella umrædd tré án samráðs við stefnendur.

Kemur þá til skoðunar hvort stefndi hafi bakað stefnendum tjón með aðgerðum sínum.  Í máli þessu nýtur ekki við matsgerðar dómkvaddra matsmanna á aðgerðum stefnda og verðmæti fasteignarinnar eftir þær, en lögð hafa verið fram í málinu álits­gerðir garðyrkjufræðinga.  Er þar annars vegar um að ræða álit Kristins H. Þorsteins­sonar, en að  hans mati hefur verulegt tjón verið unnið í garðinum.  Þá er krafa stefn­enda um bætur fyrir hin felldu tré byggð á mati Kristins.  Hins vegar liggur fyrir álit skrúð­garðyrkjumeistarans Einars Þorgeirssonar og garðyrkjufræðinganna Heiðrúnar Guðmunds­dóttur og Heimis B. Janusarsonar en niðurstaða þeirra er sú að um sé að ræða fallegan, vel skipulagðan og snyrtilegan gróinn garð, sem þyrfti að fá heimsókn garðyrkjumanns, sem gæti grisjað og klippt af fagmennsku og ákveðni.  Ekki verður með hliðsjón af framansögðu fram hjá því litið að líkur benda til þess að faglega nauð­syn hafi borið til þess að fella umrædd tré.  Hafa stefnendur því ekki sýnt fram á að stefndi hafi valdið þeim tjóni með aðgerðum sínum, hvorki fjárhagslegu né ófjár­hags­legu.  Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnenda að þessu leyti.

Krafa stefnenda um að stefndi verði dæmdur til að þola enduröflun og gróð­ur­setn­ingu trjáa er ómarkviss og ekki í þeim búningi að dómur verði á hana lagður.  Ber því að vísa henni frá dómi.

Eftir öllum atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Baldvin Atlason, skal vera sýkn af fjárkröfum stefnenda, Kristjáns Guðmunds­sonar og Elínar Finnbogadóttur í máli þessu.

Kröfu stefnenda um að stefndi verði dæmdur til að þola enduröflun og gróð­ur­setn­ingu trjáa er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.