Print

Mál nr. 32/2006

Lykilorð
  • Vinnusamningur
  • Uppsögn

Mánudaginn 19

 

Mánudaginn 19. júní 2006.

Nr. 32/2006.

Oddur bakari ehf.

(Jón R. Pálsson  hrl.)

gegn

Inger Rut Hansen

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

 

Vinnusamningur. Uppsögn.

Aðilar deildu um hvort fyrirsvarsmaður O hafi sagt I fyrirvaralaust upp starfi í bakaríi þess fyrrnefnda í símtali 10. mars 2005. Þann dag hafði samstarfskona I borið hana sökum um að hafa afgreitt systur sína fyrr um daginn með vörur án þess að hafa látið hana greiða kaupverð þeirra að fullu. I var talin bera sönnunarbyrði um að O hafi sagt henni upp starfi í símtalinu. Var henni ekki talin hafa tekist sú sönnun. Kom þá til úrlausnar hvort atburðarásin næstu daga hafi verið með þeim hætti að I hafi mátt líta svo á að um fyrirvaralausa uppsögn hafi verið að ræða. Var talið að forsvarmanni O hafi verið rétt að óska eftir því við I að hún kæmi ekki til vinnu meðan hann kannaði ávirðingarnar nánar, svo sem hann kvaðst hafa gert. Hins vegar hafi honum borið án ástæðulausrar tafar að tilkynna I um lyktir málsins. Var hann talinn hafa brugðist nægilega fljótt við er hann sagði I upp með þriggja mánaða fyrirvara með bréfi 18. mars 2005, sem stefnda áritaði um móttöku, og var uppsögnin 18. mars því lögmæt. Sýknukrafa O var því tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. janúar 2006. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsaðilar deila um hvort fyrirsvarsmaður áfrýjanda hafi sagt stefndu fyrirvaralaust upp starfi í bakaríi sínu í símtali 10. mars 2005. Þann dag hafði samstarfskona hennar borið hana sökum um að hafa afgreitt systur sína fyrr um daginn með vörur án þess að hafa látið hana greiða kaupverð þeirra að fullu, en í febrúar sama ár hafði áfrýjanda borist ábending frá samstarfskonunni um svipað tilvik. Stefnda ber sönnunarbyrði um að áfrýjandi hafi sagt henni upp starfi í símtalinu. Engin vitni voru að því og hefur henni ekki tekist þessi sönnun í málinu. Kemur þá til úrlausnar hvort atburðarásin næstu daga hafi verið með þeim hætti að stefnda hafi mátt líta svo á að um fyrirvaralausa uppsögn væri að ræða. Forsvarsmaður áfrýjanda kveðst hafa óskað eftir því við stefndu að hún kæmi ekki til vinnu meðan hann kannaði ávirðingarnar nánar. Telja verður að honum hafi verið rétt að bregðast við með þessum hætti. Bar honum síðan án ástæðulausrar tafar að tilkynna stefndu um lyktir málsins. Með bréfi 18. mars 2005, sem stefnda áritaði um móttöku, sagði áfrýjandi henni upp starfi með þriggja mánaða fyrirvara. Telst hann með þessu hafa brugðist við nægilega fljótt og var uppsögnin 18. mars því lögmæt. Leiðir þetta til þess að sýknukrafa áfrýjanda verður tekin til greina.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur niður.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Oddur bakari ehf., er sýkn af kröfu stefndu, Inger Rut Hansen.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 16. desember 2005.

Mál þetta sem dómtekið var 13. desember 2005 höfðaði stefnandi Inger Rut Hansen, Iðnbúð 4, Garðabæ, þann 6. október 2005, á hendur Oddi bakara ehf., Stekkjarhvammi 1 í Hafnarfirði til greiðslu vangoldinna launa.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða henni kr. 533.247,- með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 630.699,- frá 10. mars 2005 til 1. apríl 2005, en frá þeim degi af kr. 533.247,- til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni málskostnað að skaðlausu ásamt 24,5% virðisaukaskatti í samræmi við framlagðan  málskostnaðarreikning.

Stefndi krefst aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu og að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.

Til vara er þess krafist að stefnukrafan verði lækkuð verulega og stefnda verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu.

I.

Helstu málsatvik eru þau að stefnandi hóf störf sem afgreiðslustúlka í bakaríi stefnda að Grensásvegi 26 í Reykjavík í september 2003. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við hana.

Fimmtudaginn 10. mars 2005 hafi ráðningarsamningi hennar verið sagt upp án fyrirvara frá og með sama degi og henni sagt að hún skyldi ekki mæta framar til vinnu. Í stefnu er ástæða brottrekstursins sögð sú að stefnandi hafi tekið ófrjálsri hendi peninga úr sjóðvél fyrirtækisins. Fyrir dómi bar stefnandi að ekkert hefði borið til tíðinda í vinnu hennar fimmtudaginn 10. mars. Hún hefði lokið vakt sinni upp úr hádegi og yfirgefið verslunina. Um klukkan 18:15 þann sama daga hefði hún hringt í verslun stefnda til þess að hafa tal af samstarfsmanni sínum.  Hafi forsvarsmaður stefnda svarað símanum og þau tekið tal saman. Í samtalinu hafi hann gagnrýnt hvernig hún stimplaði í sjóðvél. Það væri mikið um útstrikanir í sjóðvél sem að mestu væru raktar til hennar. Stefnandi kvaðst kannast við það og hafi gefið skýringu á því. Forsvarsmaður stefnda hafi fundið að þessu og samræðan spunnist orð frá orði. Bar stefnandi fyrir dómi að forsvarsmaður stefnda hafi borið brigður á heiðarleika hennar. Stefnandi kvaðst hafa mótmælt þessum alvarlegu ásökunum. Hafi samtalinu lokið með því að fyrirsvarsmaður stefnda hafi sagt henni upp störfum og hafi tjáð henni að hún þyrfti ekki að mæta frekar til vinnu. Í samræmi við ummæli stefnda mætti stefnandi ekki aftur til vinnu hjá fyrirtækinu. Fyrir dómi bar stefnandi að forsvarsmaður stefnda hafi ekki haft frumkvæði að hafa samband við stefnanda eftir þetta símtal, fimmtudaginn 10. mars. Hún kveðst sjálf hins vegar hafa hringt í forsvarsmann stefnda fimmtudaginn 17. mars til þess að fá gögn frá stefnda varðandi uppsögn sína, að beiðni lögmanns síns, en hún hafði þá leitað sér aðstoðar lögmanns. Á þeim tímapunkti hafði enginn af hálfu stefnda óskað eftir því að hún mætti aftur til vinnu.

Fyrir dómi mótmælti stefnandi frásögn Hugborgar Grétarsdóttur í ódagsettu skjali, dskj. 12,  þar sem meintum ávirðingum stefnanda er lýst, en hún á að hafa afhent systur sinni tvo fulla poka af vörum gegn greiðslu að fjárhæð kr. 359,-, þann 10. mars 2005. Þá mótmælti stefnandi sem röngu að þær meintu ávirðingar hafi borið á góma milli hennar og forsvarsmanns stefnda þegar þau ræddu saman í síma þann 10. mars 2005. Stefnanda bar fyrir dómi að í eitt sinn hafi systir hennar ekki haft nægilegt fé handbært þegar kom að greiðslu og kvaðst hún þá hafa týnt vörur aftur úr pokanum.

Rósa Ágústa Rögnvaldsdóttir, systir stefnanda kom fyrir dóm og mótmælti alfarið að hafa nokkurn tíma tekið við vörum úr hendi stefnanda án þess að hafa greitt fyrir þær fullt verð. Vitnið bar að hún hefði ekki komið í verslun stefnda 10. mars 2005. Vitnið minnti að hún hefði komið í verslunina að hitta systur sína þann 8. mars 2005.

Vitnið Katrín Regína Rúnarsdóttir, fyrrverandi starfsmaður hjá stefnda, bar fyrir dómi að stefnandi hafi hringt í sig seinni partinn þann 10. mars 2005 og tjáð sér að hún hefði verið rekin og sagt að hún þyrfti ekki að koma aftur. Ástæða uppsagnar hafi verið sú að forsvarsmaður stefnda hafi borið brigður á heiðarleika stefnanda, þar sem of oft kæmi fyrir að hún væri með leiðréttingarfærslur í sjóðvél. Vitnið bar ennfremur að þegar hún hafi komið til vinnu næsta dag hafi starfsmannastjóri stefnda upplýst vitnið að búið væri að reka stefnanda og ekki væri von á henni framar. Starfsmannastjórinn hafi gefið þá skýringu að stefnandi lægi undir grun að draga að sér fé úr sjóðvél fyrirtækisins. Vitnið kvaðst ekki hafa heyrt þá skýringu á uppsögninni sem lýst er í frásögn Hugborgar Grétarsdóttur. Vitnið bar fyrir dómi að sér hafi fallið mjög illa hvernig tekið hefði verið á málum stefnanda. Hún kvaðst hafa sinnt vinnu sinni næstu tvo daga en hafi verið reið. Hún hafi því á sunnudeginum þann 13. mars haft samband við starfsmannastjórann og rift ráðningarsamningi sínum.

Daginn eftir að stefnandi hringdi í forsvarsmann stefnda og óskaði eftir gögnum ritaði lögmaður stefnanda bréf dagsett 18. mars 2005 til stefnda vegna hinnar fyrirvaralausu uppsagnar þar sem því er lýst yfir að brottreksturinn sé ólögmætur og að stefnandi muni með vísan til ákvæða kjarasamnings milli Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins og meginreglna vinnuréttar krefja félagið um full laun fyrir mars og jafnframt um bætur sem samsvari launum stefnanda auk orlofs í þriggja mánaða uppsagnarfresti. Þennan sama dag var boðsent bréf til stefnanda  frá stefnda þar sem henni var að nýju sagt upp störfum og þess óskað að hún starfaði út uppsagnarfrest til 30. júní 2005. Í bréfinu er stefnandi enn á ný sökuð um alvarlegt trúnaðarbrot án þess þó að þau séu tilgreind. Stefnandi kvittaði fyrir móttöku bréfsins.

Framangreindu bréfi stefnda, dagsett 18. mars 2005, var svarað með bréfi lögmanns stefnanda, dagsett 21. mars 2005, þar sem m.a. var óskað eftir því að stefndi tilgreindi hin meintu trúnaðarbrot stefnanda. Athygli var vakin á því að áður hafði stefndi ekki óskað eftir vinnuframlagi stefnanda í samningsbundnum uppsagnarfresti. Var stefndi jafnframt upplýstur um að í samræmi við fyrri tilkynningu félagsins hafi stefnandi ekki mætt til vinnu hjá fyrirtækinu auk þess sem henni væri óskylt að mæta framar til vinnu þar sem henni hefði verið tilkynnt að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi hennar. Fyrrgreind “uppsögn” dagsett 18. mars 20005 væri því marklaus enda hafði henni áður verið sagt upp fyrirvaralaust. Var gerð krafa um að henni yrðu greidd laun fyrir marsmánuð auk launa í uppsagnarfresti.

Fyrir dómi kom fram að af hálfu stefnda var ekki svarað í hverju hin meintu trúnaðarbrot stefnanda væru fólgin. Í greinargerð stefnda er tekið fram að stefndi mat bréf stefnanda ekki svaraverð.

Stefndi greiddi stefnanda þann 1. apríl 2005 kr. 97.452,- í laun. Að öðru leyti hefur ekki komið til greiðslu vangreiddra launa af hálfu stefnda og málshöfðun því nauðsynleg. Fyrir dómi var upplýst af hálfu stefnda, að laun hafi verið greidd vegna vinnuframlags stefnanda til 18. mars 2005.

 

Stefndi ber ekki á sama veg og stefnandi um aðdraganda þess að hún lét af störfum hjá stefnda. Forsvarsmaður stefnda bar fyrir dómi að í febrúar 2005 hafi starfsmaður sinn, Hugborg Grétarsdóttir, komið að máli við sig og sagt sér frá grunsemdum sínum um að stefnandi væri fyrirtækinu ótrú. Vaknað hafi grunsemdir hjá Hugborgu þegar systir stefnanda komi í bakaríið til að versla. Konan bíði ávallt eftir afgreiðslu stefnanda. Systirin versli mikið, en lítið af framleiðsluvörum fyrirtækisins. Hún kaupi t.d. mikið af áleggi, safa, sultum og mjólkurvörum. Framkvæmdastjóri stefnda hafi af þessu tilefni beðið Hugborgu að fylgjast nánar með þessu og kanna sölunótu í kassa ef þetta myndi gerast aftur.

Fimmtudaginn 10. mars 2005 hafi það síðan gerst að systir stefnanda kom í bakaríið. Hún hafi verslað heilmikið af áleggi, mjólkurvörum, sultum og brauði. Systirin hafi greitt vörurnar með debetkorti. Eftir að hafa afgreitt systur sína hafi stefnandi  afgreitt tvo til þrjá viðskiptavini og hafi lokið vakt sinni klukkan 13:00. Hugborg hafi þá  hafa kannað sölunótu úr kassa og hafi komið í ljós að systirin hafði greitt  fyrir eina sultukrús, kr. 359,- með debetkorti. Forsvarsmaður stefnda kvaðst í framhaldi hafa rætt við stefnanda og borið frásögn Hugborgar Grétarsdóttir upp á hana. Stefnandi hafi viðurkennt að systir sín hafi verslað og hún afgreitt hana. Hún hafi verið búin að setja vörur í poka en þegar hún hafi átt að greiða hafi komið í ljós að ekki var nægileg innistæða á debetkorti hennar og hafi því stefnandi týnt upp úr pokanum aftur. Forsvarsmaður stefnda bar að hann hefði beðið stefnanda að vera heima á meðan hann skoðaði þetta alvarlega mál. Aðspurður fyrir dómi kvaðst hann ekki hafa tekið fram við stefnanda hversu lengi hún mætti búast við að hann óskaði ekki eftir starfskröftum hennar. Hann kvaðst daginn eftir hafa verið í sambandi við starfsmenn Samtaka atvinnulífsins til þess að fá ráðleggingar hvernig hann ætti að bregðast við. Fram kom í skýrslu forsvarsmanns stefnda fyrir dómi að starfsmenn Samtaka atvinnulífsins sem hann var í sambandi við hafi bent honum á að hann hefði sönnunarbyrði fyrir meintum ávirðingum stefnanda í garð stefnda. Sú sönnun gæti reynst erfið. Forsvarsmaður stefnda bar fyrir dómi að í verslun sinni væri eftirlitsvél og hefði hann skoðað myndir úr vélinni. Við skoðun hafi grunur hans um meint trúnaðarbrot stefnanda styrkst. Hins vegar hafi honum fundist myndbandið óljóst og ekki taka af öll tvímæli um háttsemi stefnanda. Hann hafi því ekki varðveitt myndbandið.

Í greinargerð er því haldið fram að framkvæmdastjóri stefnda hafi verið í símasambandi við stefnanda næstu viku meðan hann var að kynna sér málið. Fyrir dómi bar forsvarsmaður stefnda að hann hafi tvisvar til þrisvar sinnum verið í sambandi við stefnanda tímabilið 10. mars til 18. mars. Forsvarsmaður stefnda bar líka fyrir dómi að vel mætti vera að stefnandi hafi hringt í hann 17. mars. Hann hafi sagt henni að vera heima á meðan hann væri að skoða málið með sínum mönnum. Það hafi orðið úr að segja stefnanda upp störfum með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Stefnandi var ekki leyst undan vinnuskyldu. Uppsögnin var skrifleg með bréfi dagsett 18. mars 2005 og staðfesti stefnandi móttöku þess með nafnritun sína á bréfið. Með þessu hafi stefnanda verið gefinn kostur á að vinna uppsagnarfrestinn og stefndi myndi ekki kæra málið til lögreglu.

Föstudaginn 19. mars mætti stefnandi hins vegar ekki til vinnu og náðist ekki í hana næstu daga. Þriðjudaginn 22. mars gerist það svo að stefnda berst ábyrgðarbréf frá Forum, dagsett fimmtudaginn 18. mars, þar sem því er haldið fram að stefndi hafi sagt stefnanda upp störfum þann 10. mars. Miðvikudaginn 23. mars berst annað ábyrgðarbréf frá sömu lögmannsstofu, sem er dagsett mánudaginn 21. mars 2005. Mat stefndi bréf þessi ekki svaraverð.

Vitnið Hugborg Grétarsdóttir bar fyrir dómi að það hefðu vaknað hjá henni grunsemdir um óheiðarleika stefnanda, þegar systir stefnanda komi í verslun stefnda og hafi ítrekað verslað mikið af vörum, sem ekki eru  framleiðsluvörur stefnda. Hún hafi því fært þetta í tal við forsvarsmann stefnda, sem hafi sagt henni að gefa stefnanda gætur. Það hafi hún gert er systir stefnanda kom í verslunina þann 10. mars 2005 og hafi farið út með tvo fulla poka af vörum. Eftir að stefnandi hafi lokið störfum hafi vitnið aðgætt að greiðslukvittuninni og hafi þá séð að skuldfært hafði verið á kortið rúmlega 400,- kr. Vitnið staðfesti undirritun sína á dskj. 12. Aðspurð kvaðst hún hafa skráð frásögnina niður að beiðni forsvarsmanns stefnda u.þ.b. hálfum mánuði síðar.

II.

Í fyrsta lagi byggir  stefnandi á þeirri málsástæðu að henni hafi verið sagt upp störfum fyrirvaralaust  fimmtudaginn 10. mars 2005 og því hafi henni verið óskylt að mæta framar til vinnu.

Í öðru lagi er byggt á þeirri málsástæðu að uppsögn, dagsett 18. mars 2005, hafi verið marklaus þar sem áður hafi verið búið að reka stefnanda fyrirvaralaust úr starfi.

Í þriðja lagi er á því byggt að hinar alvarlegu ásakanir sem m.a. er vísað til í bréfi stefnda, dagsett 18. mars 2005, hafi falið í sér fyrirvaralausa uppsögn enda starfsmanni ekki gert að vinna undir slíkum ásökunum.

Í fjórða lagi er á því byggt að þar sem ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda, þrátt fyrir að stefnda væri það skylt skv. ákvæðum kjarasamnings, þá hafi stefnandi verið með ótímabundinn ráðningarsamning með þriggja mánaða uppsagnarfrest samkvæmt almennum kjarasamningi milli Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins.

Ex tuto er öllum fullyrðingum stefnda um ávirðingar stefnanda í starfi mótmælt og á því byggt að engin atvik hafi verið fyrir hendi sem réttlættu fyrirvaralausa riftun stefnda á ráðningarsamningi stefnanda.

Krafa stefnanda um ógreidd laun er að fjárhæð kr. 533.247,- og sundurliðast þannig:

 

1.

Laun í mars 2005

kr.

135.554,-

2.

Framlag vinnuv. í lífeyrissj.v/mars 2005 (7%)

kr.

9.448,-

3.

Laun í uppsagnarfresti (apríl til og með júní 2005)

kr.

406.662,-

4.

Framlag vinnuv. í lífeyrissjóð í uppsagnarfresti (7%) 

 

28.466,-

5.

Desemberuppbót

kr.

22.500,-

6.

Orlofsuppbót

kr.

17.225,-

7.

Framlag vinnuv. v/viðbótarlífeyrissparnaðar

kr.

10.844,-

8.

Að frádr. innborgun stefnda 1. apríl 2005

kr.

97.452,-

 

 

Í fyrsta lið kröfugerðar er gerð krafa um greiðslu launa í mars 2005 sem nemur meðaltali launa s.l. tveggja launaseðla, þ.e. janúar og febrúar 2005 en um 3% hækkun varð á launum um áramótin 2004 - 2005 skv. kjarasamningi og því ekki unnt að miða við lengra tímabil.

Í öðrum lið kröfugerðar er gerð krafa um greiðslu 7% framlags vinnuveitanda í lífeyrissparnað vegna marsmánaðar 2005.

Í þriðja lið kröfugerðar er gerð krafa um laun í uppsagnarfresti í þrjá mánuði, sbr. grein 12.1 kjarasamnings VR og SA. Mánaðarlaun taka mið af meðaltali launa í janúar og febrúar 2005.

Í fjórða lið kröfugerðar er gerð krafa um 7% framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð í þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Í fimmta lið kröfugerðar er gerð krafa um desemberuppbót, sem grein 1.3.1. kjarasamnings VR og SA. Desemberuppbót skv. kjarasamningnum er kr. 45.000,- á ári. Gerð er krafa um desemberuppbót fyrir tímabilið janúar 2005 til og með júní 2005, samtals kr. 22.500,- (45.000,- / 12 x 6 mánuðir)

Í sjötta lið kröfugerðar er gerð krafa um orlofsuppbót skv. grein 1.3.2. kjarasamnings VR og SA. Annars vegar er gerð krafa um vangreidda orlofsuppbót vegna tímabilsins 1. maí 2004 til 1. maí 2005 kr. 15.900,-  og hins vegar vegna júní 2005 kr. 1.325,- (kr. 15.900,-  / 12 mánuðir)

Í sjöunda lið kröfugerðar er gerð krafa um 2% framlag vinnuveitanda vegna viðbótarlífeyrissparnaðar. Annars vegar er gerð krafa um greiðslu framlags vegna mars 2005, kr. 2.711,- (kr. 135.554,- x 2%) og hins vegar kr. 8.133,- vegna framlags vinnuveitanda í þriggja mánaða uppsagnarfresti (kr. 406.662,- x  2%). Samtals kr. 10.844,-. Ef í ljós kemur að stefndi hefur vangreitt framlag vegna fyrra tímabils er áskilinn réttur til að leggja fram sakaukastefnu eða höfða nýtt mál til heimtu þeirrar kröfu.

Í áttunda lið kröfugerðar hefur verið tekið tillit til innborgunar sem stefndi greiddi til stefnanda hinn 1. apríl 2005 að fjárhæð kr. 97,452,-.

Kröfum sínum til stuðnings vísar stefnandi til laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks, laga nr. 30/1987 um orlof, laga nr. 19/1979 um rétt launafólks til uppsagnarfrests o.fl. Þá er vísað í kjarasamning milli Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins.

Dráttarvaxtakrafan byggir á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Krafan um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991.

III.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að fyrirtækið skuldi stefnanda ekki stefnufjárhæðina. Kröfugerð stefnanda hafi hvorki stoð í lögum né kjarasamningi stéttarfélags stefnanda þegar litið sé til raunverulegra atvika málsins. Atvikalýsing sú, sem fram komi í stefnu um ástæðu brotthvarfs stefnanda sé alröng.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnanda hafi ekki verið sagt upp eða ráðningarsamningi rift fyrirvaralaust við hana þann 10. mars 2005, eins og stefnandi byggir á. Á því er byggt að stefnandi hafi ekki verið sökuð um að stela peningum úr sjóðvél, eins og haldið er fram í bréfi frá Forum lögmönnum dagsett 18. mars 2005. Málið snúist um það hvort stefnandi hafi gert vísvitandi mistök eða ekki, þegar hún afgreiddi systur sína þann 10. mars 2005. Stefnandi hafi aldrei verið þjófkennd. Engir fjármunir hafi verið teknir úr sjóðvél svo vitað sé, heldur hafi verið uppi grunur um að stefnandi hafi látið systur sína borga of lítið miðað við það verðmæti og vörumagn sem hún hafi fengið afhent.

Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnanda hafi fyrst verið sagt upp störfum með uppsagnarbréfi þann 18. mars 2005. Hafi henni verið sagt upp störfum með samningsbundnum þriggja mánaða uppsagnarfresti og ástæða þess skýrð. Stefnanda var sagt upp vegna alvarlegs trúnaðarbrests. Ástæða þessa trúnaðarbrest megi rekja til framangreindra atvika, sem byggðist á trúverðugum framburði og lýsingu samstarfsmanns hennar á málsatvikum.

Ljóst sé að stefnandi gat engar skýringar gefið á þeim ávirðingum, sem samstarfsmaður hennar, Hugborg Grétarsdóttir, taldi sig knúna til að greina framkvæmastjóra stefnda frá í febrúar og mars 2005. Þrátt fyrir þetta hafi stefndi verið tilbúinn til að láta stefnanda vinna uppsagnarfrest sinn. Þannig hafi stefndi gefið stefnanda kost á að hætta strax kysi hún það, eins og fram komi í uppsagnarbréfinu.

Þá byggir stefndi á þeirri málsástæðu, telji dómurinn að stefnanda hafi verið “vikið úr starfi”, að sú brottvikning hafi verið lögmæt, sbr. lokamálsgrein 12. gr. kjarasamnings milli Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins, sem heimili riftun vegna vítaverðrar vanrækslu í starfi.

Ennfremur byggir stefndi á þeirri málsástæðu að sú grundvallarregla gildi í vinnurétti, að sá aðili ráðningarsamnings, sem byggja vill rétt á uppsögn eða riftun, verði að sanna hana. Stefnanda beri því að sanna að henni hafi verið sagt upp störfum þann 10. mars 2005. Á því er byggt að stefnanda var sagt upp störfum með bréfi þann 18. mars 2005 sem hún tók sjálf við og kvittaði fyrir móttöku þess sama dag.

Þá mótmælir stefndi kröfum stefnanda um vexti eða dráttarvexti samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Stefndi byggir varakröfuna á sömu málsástæðum og lagarökum og í aðalkröfu. Ósannað sé með öllu að stefnandi hafi orðið fyrir nokkru fjárhagstjóni. Hafi stefnandi orðið fyrir fjárhagstjóni, þá eigi stefnandi sjálf alla sök á því tjóni með athöfnum sínum. Það er að segja með því að vinna ekki hjá stefnda, eins og henni stóð til boða. Óskýrt sé með öllu af hverju stefnandi hafi verið án atvinnu í meira en þrjá og hálfan mánuð, eins og ætla megi af kröfugerð stefnanda. Ljóst sé að á þessu tímabili, mars-júní 2005 vantaði atvinnuvegi landsins sárlega verkafólk til starfa.

Af hálfu stefnda er þess krafist hafi stefnandi unnið til launa eða hefði getað unnið til launa á uppsagnarfresti þá komi þær tekjur allar til frádráttar launakröfunni.

Þá mótmælir stefndi kröfu stefnanda um greiðslu lífeyrisiðgjalda. Krafa um greiðslu 6% lífeyrisiðgjalds atvinnurekanda á sér heldur enga lagastoð og er þessari málsástæðu til stuðnings vísað til hæstaréttardóms nr. 204/2004. Á því er byggt að stefnandi sé ekki réttur aðili að innheimtu lífeyrissjóðskrafna launþega, heldur sé viðkomandi lífeyrissjóður réttur aðili.

Krafa stefnda um málskostnað byggist á 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

Aðila greinir á um það hvort stefndi hafi rift fyrirvaralaust starfssamningi við stefnanda þann 10. mars 2005 án uppsagnarfrests eins og stefnandi heldur fram eða að henni hafi verið sagt upp störfum með bréfi 18. mars 2005 með þriggja mánaða uppsagnarfresti eins og stefndi heldur fram.

Um aðdraganda þess að stefnandi mætti ekki til vinnu hjá stefnda eftir 10. mars 2005 stendur orð gegn orði.

Það er meginregla í vinnurétti að sá aðili er ber fyrir sig uppsögn á ráðningarsamningi hefur sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu. Stefnandi hefur því sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu að henni hafi verið fyrirvaralaust sagt upp störfum 10. mars 2005.

Máli sínu til stuðnings hefur stefnandi leitt fyrir dóm sem vitni Katrínu Regínu Rúnarsdóttur, fyrrverandi starfsmann stefnda. Framburður vitnisins rennir stoðum undir lýsingu stefnanda á málsatvikum. Vitnið staðfesti fyrir dómi að stefnandi hafi hringt í sig þann 10. mars 2005 og sagt sér að búið væri að reka hana og hún ætti ekki að koma aftur til vinnu. Stefnandi hafi sagt vitninu að ástæða brottvikningar væri tíðar útstrikanir í kassa og því heiðarleiki hennar dreginn í efa. Ennfremur bar vitnið að daginn eftir hafi starfsmannastjóri upplýst sig um það er vitnið kom til vinnu að búið væri að reka stefnanda. Starfsmannastjórinn hefur að sögn stefnanda ekki fengist til að bera vitni í málinu.

Gegn mótmælum vitnisins Rósu Ágúst Rögnvaldsdóttur er ósannað að hún hafi verslað í verslun stefnda 10. mars 2005. Þá ber stefndi hallann af sönnunarkorti þar sem hann varðveitti ekki myndband úr eftirlitsvél sem var í gangi í verslun stefnda 10. mars 2005. Stefndi byggir alfarið á framburði vitnisins Hugborgar Grétarsdóttur. Skjalfest frásögn vitnisins um meintar ávirðingar stefnanda ber vitnið fyrir dómi að hafa skráð að beiðni forsvarsmanns stefnda hálfum mánuði eftir að atvikið hafi átt að eiga sér stað. Sá dagur ber upp á skírdag. Þá var ósamræði í framburði vitnisins fyrir dómi og því sem hún hafði ritað á framlagt skjal um ávirðingar stefnanda. Fyrir dómi bar vitnið að Rósa Ágústa Rögnvaldsdóttir hefði greitt rúmlega 400,- kr. fyrir þá vöru sem hún hefði fengið en í skjali því sem vitnið skráði og byggt er á af hálfu stefnda segir að Rósa hafi greitt 359,- krónur. Frásögn vitnisins á sér ekki neina aðra stoð í málinu. Með hliðsjón af þessum atriðum og gegn mótmælum stefnanda telur dómurinn ósannað að forsvarsmaður stefnda hafi borið á stefnanda meintar ávirðingar er vitnið Hugborg Grétarsdóttir hefur lýst, þegar þau ræddu saman í síma þann 10. mars 2005.

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið verður litið svo á að stefnandi hafi fært sönnur að þeirri staðhæfingu sinni að forsvarsmaður stefnda hafi sagt henni upp störfum fimmtudaginn 10. mars 2005 og leyst hana undan vinnuskyldu í uppsagnarfresti.

Fallast verður á það með stefnanda að uppsögn ráðningarsamnings sé ákvöð í skilningi samningalaga, sem hefur réttaráhrif frá því að hún berst viðtakanda. Dómurinn hefur þegar slegið því föstu að stefndi hafi slitið ráðningarsamningi við stefnanda þann 10. mars 2005 og er því uppsögn stefnda í bréfi dagsett 18. mars 2005 marklaus.

Á það verður fallist með stefnanda að hún átti allan rétt til þess að vita í hverju hinn alvarlegi trúnaðarbrestur væri fólginn, sem réttlætt gæti fyrirvaralausa brottvikningu úr starfi ef stefnandi gerðist uppvís að frekari samnings- eða trúnaðarbrotum.

Ágreiningslaust er að kjarasamningur milli Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins gilti um kjör stefnanda og ekki hafi verið gerður við hana skriflegur ráðningarsamningur. Ennfremur er ágreiningslaust að stefnandi átti rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti skv. 1. mgr. 12. gr. í 12. kafla í framangreindum kjarasamningi.

Stefndi byggir annars vegar á því að stefnanda hafi verið sagt upp störfum með þriggja mánaða uppsagnarfresti þann 18. mars 2005 og hins vegar byggir stefndi á þeirri málsástæðu að hún hafi gerst sek um vítaverða vanrækslu í starfi sem réttlæti fyrirvaralausa riftun á ráðningarsamningi, skv. lokamálsgrein 12. gr. kjarasamnings milli Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins. Vanrækslan hafi verið fólgin í þeirri meintri háttsemi sem vitnið Hugborg Grétarsdóttir hefur lýst. Stefndi byggir á því að í uppsagnarbréfinu sé fólgin áminning sem réttlætt geti fyrirvaralausa brottvikningu. Eins og hér að framan hefur verið rakið er þessi meinta háttsemi stefnanda sem stefndi byggir á ósönnuð. Dómurinn lítur því svo á að stefndi hafi ekki sýnt fram á þær ávirðingar stefnanda sem gætu réttlætt fyrirvaralausa og bótalausa uppsögn án aðvörunar en ósannað er að stefnandi hafi fengið viðvörun um það að óbreytt hegðun kynni að varða uppsögn. Viðvörun sem sett er fram í uppsagnarbréfi þann 18. mars hefur ekkert gildi vegna brottvikningar þann 10. mars 2005. Dómkröfu stefnda er hafnað.

Samkvæmt framangreindu verður að fallast á að stefnanda beri bætur úr hendi stefnda vegna hinnar ólögmætu uppsagnar er svari til fullra mánaðarlauna hennar í hinum þriggja mánaða uppsagnarfresti auk þess hluta marsmánaðar er eftir lifði er henni var vikið frá störfum. Ekki er ágreiningur um fjárhæð mánaðarlauna né fjárhæð innborgunar stefnda vegna þess hluta marsmánaðar sem koma skal til frádráttar þessum kröfulið. Er hann því tekin til greina með samtals kr. 444.764,- auk vaxta eins og greinir í dómsorði. Kröfur um desemberuppbót kr. 22.500,- og orlofsuppbót kr. 17.255,- sæta ekki andmælum og eru teknar til greina með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Stefnandi gerir kröfu um greiðslu stefnda vegna framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð vegna mars 2005, svo og vegna framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð í uppsagarfresti. Ennfremur framlags vinnuveitanda vegna viðbótarlífeyrissparnaðar. Stefndi mótmælir greiðsluskyldu á þeirri forsendu að viðkomandi lífeyrissjóður fari með forræði kröfunnar. Á það verður fallist með stefnda og koma þessir kröfuliðir því ekki til álita í málinu.

Stefndi reisir varakröfu sína um lækkun bóta á því að stefnandi hafi borið að takmarka tjón sitt með því að leitast við að fá sér annað starf. Fyrir dómi lýsti stefnandi því að hún hefði reynt með ýmsu móti að fá sér annað starf sem ekki hafi tekist fyrr en 1. ágúst 2005. Því er ekki tekin til greina krafa stefnda að dómkrafa stefnanda sæti lækkun, enda hefur stefndi ekki með neinum hætti rennt stoðum undir þá fullyrðingu að stefnanda hefði verið í lófa lagið að fá sér vinnu hefði hún borið sig eftir því.

Samkvæmt ofangreindu verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda samtals krónur 484.489,- (38.102+(135.554x3)406.662+22.500+17.225).

Stefndi hefur mótmælt dráttarvaxtakröfu stefnanda. Með vísan til 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu skulu dráttarvextir reiknast frá málshöfðun 6. október 2005.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000,- krónur og hefur þá verið litið til virðisaukaskattsskyldu lögmannsþóknunar.

Ólöf Pétursdóttir dómstjóri kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Stefndi, Oddur bakari, ehf., greiði stefnanda Inger Rut Hansen, 484.489,- krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu frá 6. október 2005 til greiðsludags og 250.000,- krónur í málskostnað.