Print

Mál nr. 816/2017

Íslenska ríkið (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)
gegn
Steindóri Inga Erlingssyni (Kristján B. Thorlacius lögmaður)
Lykilorð
  • Stjórnsýsla
  • Opinberir starfsmenn
  • Lögreglumaður
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Rannsóknarregla
  • Meðalhóf
  • Miskabætur
Reifun

S starfaði sem lögreglumaður hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu en var veitt lausn um stundarsakir í janúar 2016 á grundvelli 2. málsliðar 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1990 vegna ætlaðra brota í starfi. S kærði ákvörðun lögreglustjóra til innanríkisráðuneytisins sem með úrskurði sínum í júlí sama ár felldi ákvörðunina úr gildi. Áður en úrskurður ráðuneytisins lá fyrir hafði héraðssaksóknari lokið rannsókn á ætluðum brotum S og komist að þeirri niðurstöðu að eftir ítarlega rannsókn hefði ekkert komið í ljós sem rennt gæti stoðum undir að S hefði með einhverjum hætti gerst brotlegur í starfi. Hefði málið því verið fellt niður með vísan til 145. gr. laga nr. 88/2008. S krafðist skaðabóta vegna miska og fjártjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna meðferðar málsins. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að ákvörðun lögreglustjóra hefði gengið lengra en efni stóðu til og ekki hefði verið lagður viðhlítandi grunnur að þeirri ákvörðun. Hefði málsmeðferðin því farið í bága við 10. gr. stjórnsýslulaga og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Fallist var á að S ætti rétt á miskabótum úr hendi Í sem voru hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir landsréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. desember 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og falli þá málskostnaður niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Stefndi hefur starfað sem lögreglumaður frá árinu 2000, fyrst við embætti lögreglustjórans í Reykjavík en síðan hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eftir breytingar á lögregluembættunum árið 2007. Eftir að hafa starfað í nokkurn tíma við langtímarannsóknir í ávana- og fíkniefnadeild var starfssviði hans breytt árið 2009 og fólst eftir það í að koma á tengslum við svokallaða upplýsingagjafa lögreglu. Kveður stefndi að nokkru eftir það hafi komist á kreik orðrómur um að hann þægi greiðslur frá sínum upplýsingagjafa gegn því að veittar yrðu upplýsingar um störf lögreglu. Vegna þessa orðróms ritaði Karl Steinar Valsson, þáverandi aðstoðaryfirlögregluþjónn, minnisblað 30. janúar 2012 vegna upplýsinga sem komu frá einstaklingi er tengdist virkum upplýsingagjafa lögreglu, en viðkomandi hafði greint frá því að stefndi þægi greiðslu fyrir veittar upplýsingar. Í niðurstöðu minnisblaðsins kom fram það álit Karls Steinars að hann bæri „100%“ traust til samskipta stefnda við upplýsingagjafa og hefði hann ekki trú á því að hann hefði tekið við fjármunum frá upplýsingagjafa lögreglu. Jafnframt sagði þar að hann teldi mjög mikilvægt að brugðist yrði við þessum orðrómi og væri stefndi tilbúinn til að gera allt til að upplýsa málið.

Stefndi ritaði minnisblað 31. sama mánaðar þar sem fram kom að hann teldi ásakanir á hendur sér vera mjög alvarlegar og nauðsynlegt að yfirstjórn lögreglu tæki afstöðu til þeirra eins og fljótt og auðið væri. Hann tók fram í lokaorðum minnisblaðsins að hann myndi veita atbeina sinn í öllu til þess að hið rétta kæmi fram. Ekkert var þó aðhafst um sinn af hálfu yfirstjórnar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til þess að komast að raun um sannleiksgildi þeirra ávirðinga sem á hann höfðu verið bornar.

Hinn 1. janúar 2013 mun stefndi hafa verið settur í stöðu lögreglufulltrúa hjá fíkniefnadeildinni og stýrt á þeim tíma bæði svokölluðum aðgerðahóp og upplýsingateymi en það var hann mjög ósáttur við og taldi það ekki samrýmanlegt að sá sem stýrði aðgerðahóp væri jafnframt í forsvari fyrir upplýsingateymi.

Í skýrslu innri endurskoðunar frá apríl 2014, sem unnin var að beiðni þáverandi lögreglustjóra um úttekt á samskiptum fíkniefnadeildar við uppljóstrara, var tekið undir það sjónarmið stefnda að ekki væri æskilegt að sá sem stýrði upplýsingateyminu væri jafnframt í forsvari fyrir aðgerðahópinn. Einnig sagði þar að það væri mat innri endurskoðunar að mjög vel og fagmannlega hefði verið staðið að verki varðandi samskipti við uppljóstrara.

Í bréfi Ásgeirs Karlssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá ríkislögreglustjóra, til ríkissaksóknara 18. maí 2015 kom fram að vikurnar fyrir ritun bréfsins hefðu alls átta lögreglumenn leitað til sín og lýst yfir áhyggjum vegna hugsanlegra brota stefnda í starfi er lytu að því að hindra rannsókn á ætluðum brotum tilgreinds manns. Lögreglustjóra barst sama dag bréf ríkissaksóknara þar sem óskað var eftir lýsingu lögreglustjóra og mati á málefninu auk upplýsinga um hvort og þá hvernig lögreglustjóri hygðist bregðast við framangreindum upplýsingum. Í kjölfarið fól yfirstjórn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tveimur lögreglumönnum, þeim Baldvini Einarssyni og Kristjáni Inga Kristjánssyni, að afla upplýsinga um ávirðingar á hendur stefnda með viðtölum við þá starfsmenn fíkniefnadeildar sem höfðu kvartað yfir störfum stefnda og leitað til fyrrgreinds Ásgeirs vegna ásakana á hendur honum. Skýrslu var skilað um upplýsingarnar 4. júní 2015 og var hún byggð á viðtölum við átta lögreglumenn, auk Ásgeirs Karlssonar.

Hinn 23. júní 2015 munu ríkissaksóknari og lögreglustjóri hafa átt fund þar sem ákveðið var að lögreglustjórinn kannaði ákveðin atriði sem komið hefðu fram í fyrrgreindri skýrslu 4. júní 2015. Var fyrrgreindum Baldvini falið það verkefni og skilaði hann skýrslu sinni 14. desember sama ár. Í upphafi skýrslunnar kom fram að Baldvini hafi verið ætlað að fá nánari skýringar á tilteknum atvikum er rakin voru í skýrslu hans og Kristjáns Inga 4. júní 2015. Ekki væri um formlega lögreglurannsókn að ræða, heldur innanhússathugun. Munu ásakanir á hendur stefnda hafa verið tengdar við einstök mál og skoðaðar í tengslum við lögregluskýrslur og skráningar í þau kerfi sem upplýsingateymi fíkniefnadeildarinnar notaði.

Yfirstjórn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tók ákvörðun um að flytja stefnda úr fíkniefnadeild yfir í ofbeldis- og kynferðisbrotadeild 1. júlí 2015. Stefndi var aftur fluttur til innan embættisins 15. nóvember sama ár og þá í tölvurannsóknardeild.

Sama dag og Baldvin skilaði skýrslu hófst umfjöllun fjölmiðla um málið. Næsta dag var ríkissaksóknara afhent skýrsla Baldvins, en þann dag setti Húnbogi J. Andersen, fyrrum lögreglumaður, sig í samband við ríkissaksóknara og kvað skjólstæðing sinn búa yfir upplýsingum sem sneru að ætluðum brotum ákveðinna yfirmanna í ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar. Í kjölfar þess hringdi ríkissaksóknari í Húnboga sem upplýsti að skjólstæðingur hans, sem jafnframt væri upplýsingagjafi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, væri reiðubúinn að uppfylltum tilteknum skilyrðum að veita upplýsingar um að stefndi hefði brotið af sér í starfi með því að þiggja greiðslur fyrir upplýsingar um málefni fíkniefnadeildarinnar.

Hinn 17. desember sama ár tók ríkissaksóknari ákvörðun um að hefja sakamálarannsókn á ætluðum brotum stefnda og óskaði eftir liðsinni ríkislögreglustjóra við rannsóknina. Degi síðar var stefndi fluttur í tæknideild lögreglunnar að ákvörðun lögreglustjóra. Hinn 8. janúar 2016 sendi ríkissaksóknari héraðssaksóknara málið til viðeigandi meðferðar á grundvelli 28. gr. og 3. mgr. 29. gr. laga nr. 47/2015 um breytingu á lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála og lögreglulögum nr. 90/1996 og afturkallaði beiðni sína um aðstoð ríkislögreglustjóra. Með bréfinu fylgdu meðal annars fyrrgreindar innanhússathuganir sem eins og áður greinir, byggðu á viðtölum við þá lögreglumenn sem höfðu kvartað yfir störfum stefnda og borið á hann sakir.

Með bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til stefnda 14. janúar 2016 var honum veitt lausn frá störfum um stundarsakir. Í því var vísað til framangreindra bréfa ríkissaksóknara og að fram hefði komið að ætluð brot stefnda vörðuðu við 128. og 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hefði málið verið sent til héraðssaksóknara til viðeigandi meðferðar. Í bréfinu sagði jafnframt að það væri niðurstaða lögreglustjóra að þær athafnir sem stefndi væri grunaður um væru ósamrýmanlegar því embætti sem hann gegndi. Í ljósi þess að sú háttsemi sem hann væri grunaður um hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga, yrði hann sakfelldur, væri honum veitt lausn um stundarsakir með vísan til síðari málsliðar 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Með bréfi stefnda til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 15. janúar 2016 óskaði hann eftir gögnum er vörðuðu mál hans á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en var tilkynnt með tölvubréfi þess síðarnefnda 21. sama mánaðar að ekki fengjust gögn frá héraðssaksóknara.

Stefndi kærði fyrrgreinda ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 24. febrúar 2016 til innanríkisráðuneytisins sem kvað upp úrskurð sinn 8. júlí sama ár.  Með úrskurðinum var felld úr gildi ákvörðun lögreglustjórans um að veita stefnda lausn frá embætti um stundarsakir. Þar kom meðal annars fram að ekki hafi verið gætt meðalhófs við töku ákvörðunarinnar og brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins.

Áður en úrskurður innanríkisráðuneytisins lá fyrir hafði rannsókn héraðssaksóknara á ætluðum brotum stefnda lokið, eins og fram kom í bréfi hans 8. júní 2016 um niðurstöðu rannsóknarinnar. Þar sagði að eftir ítarlega rannsókn héraðssaksóknara á ætluðum brotum stefnda í starfi hefði ekkert komið í ljós sem rennt gæti stoðum undir að stefndi hefði með einhverjum hætti gerst brotlegur í starfi. Hefði fyrrgreindur „umbjóðandi“ Húnboga J. Andersen verið yfirheyrður og með öllu neitað að hafa átt þau samskipti við stefnda sem Húnbogi hafi tjáð ríkissaksóknara. Héraðssaksóknari hefði því fellt málið niður, sbr. 145. gr. laga nr. 88/2008. Enn fremur sagði í niðurstöðu héraðssaksóknara að svo virtist sem samskiptaörðugleikar innan fíkniefnadeildar, orðrómur meðal brotamanna og hugsanlega persónulegur ágreiningur skýrt að einhverju leyti þrálátan orðróm um hið gagnstæða.

Í kjölfar þessara málalykta var stefndi boðaður til starfa á ný með bréfi aðstoðarlögreglustjóra 9. júní 2016.

Stefndi kærði fyrrgreindan Húnboga fyrir rangar sakargiftir með bréfi til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 24. júní 2016. Í bréfinu sagði meðal annars að Húnbogi hefði „veitt saksóknara vísvitandi rangar upplýsingar í samtali þann 15. desember 2015 ... hann viðurkenndi síðan í skýrslutöku hjá héraðssaksóknara að þær upplýsingar sem hann lét ríkissaksóknara í té voru einvörðungu hans ágiskanir.“

Með bréfi 25. október 2016 setti stefndi fram skaðabótakröfu sína gagnvart áfrýjanda vegna miska og fjártjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna meðferðar málsins.

II

Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína á því að meðferð málsins og ákvörðun lögreglustjóra 14. janúar 2016 um að veita stefnda lausn frá embætti um stundarsakir hafi verið í samræmi við lög. Gætt hafi verið að ákvæðum stjórnsýslulaga og hvorki hafi rannsóknarregla verið virt að vettugi né hafi verið farið gegn meðalhófi. Áfrýjandi kveður ákvörðunina hafa verið byggða á því að stefndi hafi sætt sakamálarannsókn vegna gruns um mjög alvarleg brot. Í ákvörðuninni, sem byggst hafi á síðari málslið 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996, hafi falist ákveðið meðalhóf, en um bráðabirgðaúrræði sé að ræða sem beita megi við þær aðstæður sem verið hafi uppi í máli stefnda.

Stefndi kveður ákvörðun lögreglustjóra um að veita honum lausn frá embætti um stundarsakir hafa falið í sér ólögmæta meingerð gegn æru hans og persónu í skilningi b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við málsmeðferð og undirbúning ákvörðunarinnar hafi verið farið á svig við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, meðalhófsreglu og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins.

Undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti kom fram sá skilningur áfrýjanda að ágreiningur aðila væri einskorðaður við lögmæti ákvörðunar lögreglustjóra um að veita stefnda lausn frá embætti um stundarsakir. Af stefnda hálfu var hins vegar áréttað að krafa hans um miskabætur tæki jafnframt til nánar greindrar háttsemi lögreglustjóra gagnvart honum í aðdraganda hinnar tímabundnu lausnar frá starfi á árunum 2015 og 2016.

III

Ekki verður fallist á það með stefnda að háttsemi lögreglustjóra í hans garð í aðdraganda lausnar hans frá starfi um stundarsakir hafi verið með þeim hætti að leitt geti til bótaskyldu af hálfu áfrýjanda. Er þá meðal annars til þess að líta að stefndi samþykkti flutning milli deilda og kallaði sjálfur eftir því að fram færi rannsókn á ásökunum á hendur honum um brot í starfi. Snýr málið því alfarið að þeim þætti hvort  ákvörðun lögreglustjóra um að veita stefnda lausn frá embætti um stundarsakir hafi verið lögmæt og ef ekki hvort skilyrði séu til greiðslu miskabóta honum til handa á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996 veitir það stjórnvald er skipar í embætti lausn frá því um stundarsakir. Í síðari málslið 3. mgr. sömu greinar er mælt fyrir um að lausn megi veita um stundarsakir ef embættismaður er grunaður um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga. Í samræmi við þetta ákvæði veitti lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu stefnda lausn um stundarsakir og vísaði til þess að þær athafnir sem hann væri grunaður um væru ósamrýmanlegar því embætti sem hann gegndi og að ef sök sannaðist hefði háttsemin í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga.

Ákvörðun um lausn frá embætti um stundarsakir er íþyngjandi ákvörðun og bar lögreglustjóra í því ljósi að rannsaka til hlítar og af hlutlægni þær ávirðingar sem bornar höfðu verið á stefnda. Slík rannsókn fór ekki fram. Einungis var unnin „innanhússathugun“ þar sem aðeins var rætt við þá lögreglumenn sem kvartað höfðu undan störfum stefnda og borið á hann sakir, en hvorki stefnda, næstu yfirmenn hans né aðra. Þá upplýsti lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fyrir dómi að hún hefði ekki kynnt sér fyrrgreint minnisblað Karls Steinars Valssonar frá 2012, er hún kom að máli stefnda árið 2015. Hún kvaðst heldur ekki muna niðurstöður innanhússathugunar fyrrgreinds Baldvins og send var ríkissaksóknara og mun meðal annars hafa orðið grundvöllur þess að ríkissaksóknari ákvað að hlutast til um að rannsókn færi fram á ætluðum brotum stefnda. Hún kvaðst þó hafa ,,flett“ skýrslunni, en aldrei verið „inni í neinu af þessu“.

Á lögreglustjóra hvíldi sérstaklega rík skylda til að rannsaka sannleiksgildi þeirra ávirðinga sem á stefnda voru bornar og gæta meðalhófs við töku ákvörðunar sinnar, ekki síst í ljósi þess að stefndi hafði nokkrum árum áður sætt slíkum áburði, án þess að fyrir honum væri nokkur fótur, eins og rakið var í áðurnefndu minnisblaði fyrrverandi aðstoðaryfirlögregluþjóns 2012. Athuganir þeirra Baldvins og Kristjáns Inga leiddu ekki til neinnar eiginlegrar niðurstöðu og þá lágu ekki neinar nýjar upplýsingar fyrir um ætluð brot stefnda í starfi þegar lögreglustjóri tók hina umdeildu ákvörðun. Breytir þar engu að ríkissaksóknari hafði ákveðið að hlutast til um rannsókn á ætluðum brotum stefnda. Var málsmeðferð lögreglustjóra að þessu leyti andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga. Þegar ákvörðun lögreglustjóra var tekin hafði stefndi þegar verið fluttur í tæknideild. Bar því eins og á stóð ekki nauðsyn til að grípa til svo afdrifaríkrar ákvörðunar sem tímabundin lausn úr starfi er og gekk hún því lengra en efni stóðu til og fór þannig í bága við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

Kröfu sína um miskabætur reisir stefndi á því að ákvörðun lögreglustjóra hafi valdið sér gífurlegum álitshnekki. Með henni hafi verið vegið að starfsheiðri hans og starfsframi borið varanlegan hnekki. Í ákvörðun lögreglustjóra hafi falist meingerð gegn æru stefnda og persónu, sbr. b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga.

Stefndi hefur starfað sem lögreglumaður frá árinu 2000 og má ráða af gögnum málsins að hann hafi verið metnaðarfullur og farsæll í störfum sínum. Með ákvörðun lögreglustjóra var vegið mjög að starfsheiðri hans og æru. Er samkvæmt öllu framangreindu fullnægt skilyrðum b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga til að dæma stefnda miskabætur úr hendi áfrýjanda sem eru ákveðnar 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Eftir framangreindum úrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Steindóri Inga Erlingssyni, 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 2.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                                          

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2017.

Mál þetta var höfðað 29. nóvember 2016 af Steinþóri Inga Erlingssyni, Lækjarvaði 20, 110 Reykjavík gegn íslenska ríkinu, Vegmúla 3, Reykjavík. Málið var dómtekið eftir lok aðalmeðferðar þess 5. september sl.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 5.144.210 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 4.000.000 króna frá 14. janúar 2016 til 24. nóvember 2016, af fjárhæðinni allri frá 24. nóvember 2016 til 25. nóvember  2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi krefst málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda en til vara er krafist lækkunar. Þá krefst stefndi málskostnaðar en til vara að hann verði látinn niður falla.

I.

Stefnandi er lögreglumaður. Hann útskrifaðist úr Lögregluskóla ríkisins á árinu 2000, með góða meðaleinkunn og var valinn „lögreglumaður skólans“ af kennurum. Stefnandi hefur starfað hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík, síðar lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu eða LRH, allar götur síðan. Á árinu 2002 hóf stefnandi störf hjá ávana- og fíkniefnadeild sem rannsóknarlögreglumaður. Hann hefur komið að og stýrt rannsóknum margra stórra fíkniefnamála á starfsferli sínum hjá deildinni. Þá hefur hann oft þurft starfs síns vegna að hafa afskipti af þeim sem hafa gerst sekir um fíkniefnabrot.

 

Eftir að stefnandi hafði starfað í nokkurn tíma við langtímarannsóknir í ávana- og fíkniefnadeild var starfssviði hans breytt. Eftir breytinguna, eða frá 2009, fólst starf hans eingöngu í að starfa í svokölluðu upplýsingateymi deildarinnar. Hlutverk upplýsingateymisins var að koma á tengslum við aðila, sem voru taldir búa yfir upplýsingum sem gætu nýst við lögreglurannsóknir, afla upplýsinga og koma þeim áfram til þeirra lögreglumanna sem mögulega gætu nýtt þær.

Stefnandi segir að af einhverjum ástæðum, sem honum séu ekki kunnar, hafi farið af stað orðrómur um að hann ætti í óeðlilegu sambandi við upplýsingagjafa deildarinnar. Orðrómurinn um óeðlileg samskipti stefnanda við tiltekinn upplýsingagjafa hafi komist á flug síðla árs 2010 eða í byrjun árs 2011. Á svipuðum tíma hafi verið unnið að því að breyta verklagsreglum lögreglu varðandi upplýsingagjafa. Fram að þeim tíma höfðu sömu lögreglumenn og unnu að rannsókn mála oft einnig séð um samskipti við upplýsingagjafa. Hið breytta verklag hafi falist m.a. í því að nú sá upplýsingateymið um öll samskipti við upplýsingagjafa. Aðrir starfsmenn fíkniefnadeildar áttu ekki að annast slík samskipti. Rannsóknarlögreglumenn hafi svo fengið upplýsingarnar í gegnum upplýsingateymið og hafið rannsókn á grundvelli þeirra. Reglur um breytt verklag tóku gildi á árinu 2011 og kveður stefnandi ákveðna óánægju hafa verið með þær innan fíkniefnadeildar.

Í byrjun árs 2012 bárust upplýsingar frá öðrum upplýsingagjafa lögreglu um að stefnandi þægi greiðslur frá sínum upplýsingagjafa gegn því að veita honum upplýsingar um störf lögreglu. Stefnandi vakti athygli yfirmanna sinna á þessum upplýsingum. Karl Steinar Valsson, þáverandi yfirmaður fíkniefnadeildar, ákvað þá að taka málið til sérstakrar skoðunar. Í janúar 2012 vann Karl Steinar minnisblað vegna orðrómsins og kynnti yfirstjórn LRH. Í minnisblaðinu, sem er dagsett 30. janúar 2012, er farið yfir hvernig málið snýr að Karli Steinari og færð rök fyrir því að ekkert bendi til að stefnandi hafi þegið greiðslu frá upplýsingagjafa eða veitt upplýsingar um störf lögreglu. Stefnandi skilaði jafnframt minnisblaði um stöðuna, sem er frá 31. janúar 2012, þar sem hann fór yfir málið eins og það sneri að honum og upplýsti jafnframt að hann væri boðinn og búinn að gera allt sem embættið teldi nauðsynlegt til þess að hið sanna og rétta kæmi fram í málinu. Á þessum tíma virðist yfirstjórn LRH að mati stefnanda hafa ákveðið að það væri ekki tilefni til frekari aðgerða vegna málsins enda hafi ekkert legið fyrir um ætluð brot stefnanda annað en gróusögur.

Þann 1. janúar 2013 var stefnandi settur í stöðu lögreglufulltrúa hjá fíkniefnadeildinni og stýrði á þeim tíma bæði svokölluðum aðgerðarhóp og upplýsingateyminu líkt og áður. Stefnandi var frá upphafi ósáttur við að gegna báðum þessum störfum samhliða en tók þetta að sér tímabundið að beiðni Karl Steinars þangað til staða lögreglufulltrúa yfir aðgerðarhóp yrði auglýst. Dráttur varð hins vegar á því að staða yfirmanns aðgerðarhóps væri auglýst. Um miðjan apríl 2014 tók Aldís Hilmarsdóttir við stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns í fíkniefnadeildinni í stað Karls Steinars. Stefnandi ítrekaði við hana að hann vildi eingöngu gegna starfinu í upplýsingateyminu en ekki stýra aðgerðarhópnum. Stefnandi lét nýjan yfirmann fíkniefnadeildar einnig vita af orðrómnum um sig og óskaði eftir því að málið yrði tekið til almennilegrar skoðunar.

Í apríl 2014 tók innri endurskoðun LRH fíkniefnadeild til skoðunar m.t.t. sérstakra aðferða og aðgerða deildarinnar. Megináhersla skoðunarinnar var lögð á samskipti við uppljóstrara. Almenn niðurstaða þeirrar skoðunar var að mjög vel og fagmannlega hafi verið staðið að verki varðandi samskipti við uppljóstrara. Innri endurskoðun taldi þó ekki æskilegt, líkt og yfirmaður deildarinnar og stefnandi, að sá sem stýrði upplýsingateymishópnum stýrði jafnframt aðgerðarhópnum. Við því var þó ekki brugðist.

Í 1. september 2014 var Sigríður Björk Guðjónsdóttir skipuð í embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Eftir að Sigríður Björk hóf störf sem lögreglustjóri var hún upplýst um stöðu stefnanda hjá fíkniefnadeild af hálfu Aldísar Hilmarsdóttur og að þörf væri á öðrum lögreglufulltrúa í deildina til að taka við stjórn aðgerðarhóps.

Vorið 2015 fékk orðrómurinn um stefnanda enn byr undir báða vængi og leituðu starfsmenn deildarinnar þá til þáverandi aðstoðarlögreglustjóra, Öldu Hrannar Jónsdóttur. Aldís Hilmarsdóttir, nýr aðstoðaryfirlögregluþjónn yfir deildinni, ákvað þá, í samráði við Friðrik Smára Björgvinsson yfirlögregluþjón, að boða til fundar í fíkniefnadeildinni og gefa öllum starfsmönnunum færi á að ræða þetta mál opinskátt saman í þeim tilgangi að minnka baktalið í deildinni og sætta menn. Áður en fundurinn var haldinn, sem fyrirhugaður var 22. apríl 2015, ákvað Sigríður Björk lögreglustjóri að stöðva þessi áform og taldi ástandið á deildinni of viðkvæmt fyrir slíkan fund. Varð því úr að Friðrik Smári afboðaði hann. Stefndi lýsir því þó þannig að það hafi verið að ósk nokkurra starfsmanna sem fundinum var frestað, vegna óróa á deildinni sem hafi verið nánast óstarfhæf.

Eftir að starfsmannafundurinn var afboðaður ákváðu tilteknir lögreglumenn að fara til Ásgeirs Karlssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá ríkislögreglustjóra og fyrrum yfirmanns fíkniefnadeildar, og gefa honum upplýsingar um hugsanleg brot stefnanda í starfi. Ásgeir Karlsson fór þann 15. maí 2015 til fundar við ríkissaksóknara vegna málsins. Í kjölfarið sendi ríkissaksóknari Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra erindi og óskaði eftir lýsingu hennar og mati á málefninu auk upplýsinga um hvort og þá hvernig hún hygðist bregðast við.

Í framhaldinu, eða þann 19. maí 2015, fól yfirstjórn LRH tveimur lögreglumönnum að afla upplýsinga með viðtölum við þá starfsmenn fíkniefnadeildar sem höfðu leitað til Ásgeirs vegna málefna stefnanda. Upplýsingaöfluninni var lokið með skýrslu þann 4. júní 2015. Niðurstaða skoðunar sýndi að verulegt vantraust var milli nafngreindra starfsmanna. Ljóst var því að ekki yrði lengur unað við óbreytt starfsumhverfi og starfseminni yrði ekki haldið áfram án þess að breytingar yrðu gerðar á mönnun deildarinnar. Var því ákveðið að stefnandi yrði færður yfir í ofbeldisbrotadeild.

Þann 23. júní 2015 áttu ríkissaksóknari og lögreglustjóri fund þar sem ákveðið var að LRH myndi kanna nánar tiltekin atriði sem komu fram í áðurnefndri skýrslu frá 4. júní. Ríkissaksóknari þurfti frekari upplýsingar til þess að embættið gæti tekið ákvörðun um hvort sakamálarannsókn yrði hafin eða ekki. Var Baldvini Einarssyni lögreglufulltrúa falið að taka verkefnið að sér að beiðni yfirstjórnar LRH. Lögð mun hafa verið áhersla á að um innanhúsathugun væri að ræða en ekki formlega lögreglurannsókn.

Yfirstjórn LRH tók ákvörðun um að flytja stefnanda úr fíkniefnadeild og yfir í ofbeldis- og kynferðisbrotadeild þann 1. júlí 2015. Stefnandi hafði áður samþykkt tímabundinn flutning gegn því að málið yrði þá skoðað.

Í október 2015 voru auglýstar til umsóknar sjö stöður lögreglufulltrúa í miðlægri rannsóknardeild, sem m.a. fer með rannsóknir fíkniefnamála. Stefnandi ákvað að sækja um enda hafði hann enn mestan áhuga á að sinna störfum í þeirri deild auk þess sem hann hafði aflað sér mikillar sérþekkingar á málefnum deildarinnar.

Stefnandi var aftur fluttur til innan LRH þann 15. nóvember 2015. Stefnandi óskaði þá sjálfur eftir flutningi í tæknideild en var samkvæmt ákvörðun yfirmanns síns fluttur í tölvurannsóknardeild. Ástæðu þess að stefnandi óskaði eftir starfi í tæknideild kveður hann þá að hann hafi viljað í ljósi stöðunnar sem upp var komin frekar vera í starfi þar sem hann hefði engin afskipti eða aðkomu að þeim viðkvæmu upplýsingakerfum sem hann hafði áður starfað við. Hann hafði áður en hann var fluttur verið fullvissaður um að það væri sátt um flutninginn hjá stjórnendum LRH, þ.m.t. lögreglustjóra, þrátt fyrir þann mikla aðgang að upplýsingum sem starfsmenn tölvurannsóknadeildar hafa að öllum rannsóknum á landsvísu. Mætti var svo fluttur yfir í tæknideild eins og hann hafði óskað 18. desember sama ár þegar fyrir hafi legið að nægilegt fjármagn væri til staðar til að standa straum af flutningi hans yfir í deildina.

Vegna tilfærslna stefnda í starfi bendir stefndi á að fyrir liggur að stefnandi hafi verið settur í stöðu lögreglufulltrúa í fíkniefnadeild í eitt ár í fjarveru skipaðs lögreglufulltrúa, frá 1. janúar 2013 til 31. desember sama ár. Hann hafi haldið áfram að gegna stöðu lögreglufulltrúa frá 1. janúar 2014 til 31. maí sama ár þar sem óvíst var hvort hinn skipaði lögreglufulltrúi kæmi til starfa á ný. Stefnandi hafi svo verið settur á ný sem lögreglufulltrúi í áframhaldandi fjarveru skipaðs lögreglufulltrúa 1. júní 2014 til 15. september sama ár og svo aftur 16. september 2014 til 30. júní 2015 þar sem ákveðið var að auglýsa ekki stöðuna vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga. Eftir flutning í ofbeldisbrotadeild hafi stefnandi verið settur lögreglufulltrúi frá 1. júlí 2015 til 30. september 2015 í fjarveru skipaðs lögreglufulltrúa deildarinnar.

Stefnandi hafi lýst því í tölvupósti 19. júní 2015 til Friðriks Smára Björgvinssonar yfirlögregluþjóns og Aldísar Hilmarsdóttur aðstoðaryfirlögregluþjóns að hann væri tilbúinn og sammála þeirri ákvörðun að víkja tímabundið úr deildinni á meðan skoðun á ávirðingum í hans garð færi fram.

Ríkissaksóknari upplýsti LRH í desember 2015 að embættið hefði ákveðið að hefja formlega sakamálarannsókn vegna máls stefnanda og hafði verið óskað eftir liðsinni ríkislögreglustjóra við rannsóknina. Formlegt bréf sama efnis barst 11. janúar 2016 en þar kom fram að rannsókninni hefði verið vísað til héraðssaksóknara. Með hliðsjón af meðalhófi var ákveðið að bíða með að víkja stefnanda úr starfi tímabundið í desember 2015 þegar yfirstjórn LRH var upplýst um að rannsókn væri hafin, enda hafði formleg staðfesting ekki borist.

Þann 14. desember 2015 skilaði Baldvin Einarsson lögreglufulltrúi af sér skýrslu um frekari skoðun sína á gögnum innan LRH í tengslum við þær ásakanir sem höfðu komið fram gagnvart stefnanda. Ásakanirnar gagnvart stefnanda voru tengdar við einstök mál, n.t.t. 22 tilvik, og skoðaðar í tengslum við lögregluskýrslur og skráningar í þau kerfi sem upplýsingateymi fíkniefnadeildar notar. Sama dag mun hafa hafist umfjöllun fjölmiðla um málið og birtust t.d. tvær fréttir um það á vef Vísis.

Daginn eftir, 15. desember 2015, var ríkissaksóknara afhent ofangreind skýrsla og gögn um málið. Sama dag setti Húnbogi J. Andersen, lögfræðingur og fyrrum lögreglumaður í fíkniefnadeild LRH, sig í samband við ríkissaksóknara með tölvupósti og sagðist vera umbjóðandi (sic!) aðila sem byggi yfir upplýsingum sem sneru að meintu broti ákveðins/ákveðinna lögreglumanna sem gegndu stöðum yfirmanna í ávana- og fíkniefnadeild LRH. Ríkissaksóknari hringdi í Húnboga þann sama dag. Í símtalinu upplýsti Húnbogi að einn umbjóðandi hans, sem væri jafnframt upplýsingagjafi LRH, væri reiðubúinn að bera um að stefnandi hefði brotið af sér í starfi með því að veita upplýsingar um mál/málefni fíknadeildarinnar gegn greiðslu. 

Stefnandi var sem fyrr segir enn færður til í starfi 18. desember 2015, nú fluttur yfir í tæknideild LRH eftir ákvörðun lögreglustjóra. Í framhaldi af flutningnum ákvað stefnandi að draga umsókn sína um lögreglufulltrúastöðu til baka.

Ríkissaksóknari upplýsti Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra, með tölvupósti þann 11. janúar 2016, um ákvörðun sína um að hefja sakamálarannsókn. Í kjölfarið tók lögreglustjóri ákvörðun um að veita stefnanda lausn frá embætti um stundarsakir. Honum var tilkynnt það á fundi þann 14. janúar 2016 þar sem honum var afhent bréf um sama efni.

Stefnandi leitaði í kjölfar þessa til lögmanns, sem þann 15. janúar 2016 óskaði eftir öllum gögnum frá LRH f.h. stefnanda sem vörðuðu mál hans. Með tölvupósti 21. janúar 2016 upplýsti Jón H. B. Snorrason aðstoðarlögreglustjóri að embættið þekkti ekki gögn málsins og hefði ekki yfirlit yfir þau. Stefnandi taldi þetta ekki eiga við rök að styðjast. Stefndi tekur fram að LRH hafi verið beinlínis óheimilt vegna rannsóknarhagsmuna að afhenda stefnanda gögn og þess vegna hafi verið vísað um beiðnina til héraðssaksóknara.

Stefnandi ákvað að kæra ákvörðun lögreglustjóra um að víkja honum úr embætti um stundarsakir. Stjórnsýslukæra var send f.h. stefnanda til innanríkisráðherra 24. febrúar 2016.

Héraðssaksaksóknari hóf í millitíðinni umfangsmikla sakamálarannsókn vegna máls stefnanda og voru teknar skýrslur af fyrrum og núverandi starfsmönnum fíkniefnadeildar, upplýsingagjafanum sem sögusagnir snerust margar um, stefnanda o.fl. Alls voru teknar skýrslur af 29 vitnum auk stefnanda og upplýsingagjafans.

Niðurstaða héraðssaksóknara lá fyrir þann 8. júní 2016 þar kom fram að rannsókn á meintum brotum stefnanda í starfi hefði ekkert leitt í ljós sem renndi stoðum undir að hann hefði með einhverjum hætti gerst brotlegur í starfi. Rannsókn málsins var felld niður með vísan til 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Í framhaldi af því að niðurstaða héraðssaksóknara lá fyrir, eða með bréfi til lögreglustjóra þann 9. júní 2016, krafðist stefnandi þess að hann yrði boðaður til starfa og honum greidd laun vegna tímans sem honum hafði verið veitt lausn frá störfum um stundarsakir. Með bréfi þann sama dag var stefnanda boðið til starfa hjá LRH að nýju. Þann 24. júní 2016 var óskað eftir því með bréfi til lögreglustjóra að stefnanda yrðu afhent þau gögn sem lágu til grundvallar þegar ákveðið var að leysa hann frá störfum tímabundið. Stefnandi ákvað jafnframt að kæra Húnboga J. Andersen fyrir rangar sakargiftir.

Þann 8. júlí 2016 kvað innanríkisráðuneytið upp úrskurð í máli stefnanda. Mat ráðuneytið það svo að ekki yrði séð að nauðsynlegt hefði verið að veita stefnanda lausn frá embætti um stundarsakir enda hafði hann áður verið færður úr því starfi sem rannsókn ríkissaksóknara beindist að. Felldi ráðuneytið hina kærðu ákvörðun úr gildi einkum með vísan til sjónarmiða um meðalhóf.

Með bréfi þann 11. júlí 2016 upplýsti lögreglustjóri að í gögnum málsins væri ekki að finna lista lögreglumanna sem óskað hafði verið eftir af hálfu stefnanda í lok júní. Upplýsti embættið þannig að listinn sem ítrekað hafði að sögn stefnanda verið vísað til við meðferð málsins af hálfu lögreglustjóra væri ekki til. Stefndi mótmælir þessari fullyrðingu sem rangri enda hafi framangreindur listi legið fyrir löngu áður og hafi meðal annars verið vegna hans sem stefnandi var fluttur yfir í aðra deild. Listinn hafi hins vegar ekki verið hluti af gögnum málsins og því hafi lögreglustjóri greint rétt frá í bréfi sínu.

Þann 25. október 2016 var send bótakrafa af hálfu stefnanda til embættis ríkislögmanns f.h. stefnda vegna háttsemi lögreglustjóra í málefnum hans. Sama krafa er gerð í máli þessu.

II.

Stefnandi gerir annars vegar kröfu um að stefndi greiði honum miskabætur að fjárhæð 4.000.000 kr. og hins vegar skaðabætur að fjárhæð 1.144.210 kr. vegna fjártjóns.

Stefnandi vísar til þess að LRH sé ríkisstofnun og stefnandi ríkisstarfsmaður sem njóti réttinda og beri skyldur samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt 6. mgr. 6. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 fari lögreglustjóri með stjórn lögregluliðs í sínu umdæmi, annist daglega stjórn og rekstur lögreglunnar í umdæminu og beri ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess.

Stefnandi byggir á því að lögreglustjóri beri ábyrgð á brotum embættisins gagnvart honum. Hann byggir jafnframt á því að stefndi beri ábyrgð á háttsemi lögreglustjóra, á grundvelli meginreglu skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð, sbr. 1. mgr. 1. gr. og 4. gr. lögreglulaga.

Stefnandi byggir á því að í stjórnunarskyldum lögreglustjóra felist að honum beri að stuðla að góðum starfsanda og vinnuumhverfi innan embættisins. Það sé einnig í samræmi við mannauðsstefnu lögreglunnar. Þar sé einnig kveðið á um að upplýsingagjöf til starfsmanna skuli vera skilvirk og gagnvirk. Lögreglustjóra hafi samkvæmt þessu borið að grípa til allra tiltækra ráða, innan ramma laga og málefnalegra sjónarmiða, til að leysa úr þeirri stöðu sem upp kom á fíkniefnadeildinni. Stefnandi telur að það hafi ekki verið gert. Þvert á móti hafi lögreglustjóri tekið sér stöðu gegn honum á grundvelli gróusagna, einhliða og ósannaðra fullyrðinga um ætluð brot hans í starfi, og hann í raun hrakinn úr starfi sínu sem hann hafði mikinn metnað fyrir. Lögreglustjóri hafi t.d. komið í veg fyrir að haldinn væri starfsmannafundur fyrir fíkniefnadeildina þar sem ræða átti málið. Lögreglustjóri hefði auk þess með mjög auðveldum hætti getað fundið gögn sem hröktu gróusögurnar um stefnanda. Stefnandi byggir á því að lögreglustjóri hafi með háttsemi sinni brotið gegn trúnaðar- og tillitsskyldu sinni gagnvart honum.

Vegna háttsemi lögreglustjóra hafi öllum starfsmönnum hjá embætti LRH mátt vera fullljóst hver staða stefnanda innan embættisins var, þ.e. að hann væri sakaður um alvarleg brot og lögreglustjóri virtist telja meiri líkur en minni á sekt hans. Auk þess telur stefnandi að fjölmiðlaumfjöllunin hafi verið þannig að ljóst sé að hluta hennar megi rekja beint til háttsemi yfirstjórnar LRH.

Miskabótakrafa stefnanda byggir á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi telur þannig að háttsemi embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gagnvart honum og hans málefnum, feli í sér ólögmæta meingerð gegn æru og persónu hans og á henni beri stefndi ábyrgð. Stefnandi vísar einkum til eftirfarandi atriða því til stuðnings.

Þegar í ljós hafi komið að þær aðgerðir sem yfirmaður fíkniefnadeildar greip til í janúar 2012, til að stemma stigu við þrálátum gróusögum um stefnanda höfðu ekki skilað árangri, hafi lögreglustjóra borið að grípa inn í og gera allt sem í hans valdi stóð til að leysa úr málinu. Stefnandi telur að rík ástæða hafi verið til að grípa inn í, a.m.k. fyrri part ársins 2015 þegar staðan var orðin alvarleg. Í stað þess að láta fara fram hlutlæga óháða rannsókn hafi lögreglustjóri látið sögurnar grassera þangað til stefnanda var svo til óvært í starfi. Lögreglustjóri hafi komið í veg fyrir að haldinn yrði starfsmannafundur þar sem málið yrði rætt og reynt að hreinsa upp þær ranghugmyndir sem einhverjir samstarfsmenn stefnanda virðast hafa haft um hann og hans störf. Stefnandi hafi allan tímann verið boðinn og búinn að veita upplýsingar um málið til að leysa úr stöðunni. Það hafi hann hins vegar ekki getað gert einn síns liðs og hafi því orðið að sitja undir mjög alvarlegum ásökunum í lengri tíma án þess að geta hreinsað nafn sitt.

Frá 1. janúar 2013 hafi stefnanda verið falið að stýra bæði svokölluðum aðgerðarhóp fíkniefnadeildar og upplýsingateyminu. Stefnandi kveðst hafa verið frá upphafi mótfallinn þessu fyrirkomulagi, þar sem hann taldi þetta tvennt ekki geta farið saman, en samþykkti það tímabundið þar til nýr lögreglufulltrúi yrði ráðinn til að stýra aðgerðarhópnum. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir frá yfirmanni fíkniefnadeildar hafi lögreglustjóri ekki gripið til neinna aðgerða til að ráða inn nýjan lögreglufulltrúa eða breyta þessu fyrirkomulagi með öðrum hætti, ekki einu sinni eftir að það var niðurstaða innri endurskoðunar embættisins í apríl 2014 að það væri nauðsynlegt. Þetta fyrirkomulag, að stefnandi sinnti báðum þessum stöðum samhliða, hafi aukið á tortryggni gagnvart honum innan deildarinnar. Með því að viðhalda fyrirkomulaginu hafi lögreglustjóri þannig stuðlað að því að gróusögurnar innan deildarinnar grasseruðu enn frekar en þær hefðu annars gert.

Í maí 2015, eftir að tilteknir lögreglumenn við fíkniefnadeild höfðu leitað til aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá ríkislögreglustjóra, hafi loksins verið tekin ákvörðun af hálfu yfirstjórnar LRH um að grípa til einhverra aðgerða vegna ástandsins. Tveimur lögreglumönnum hafi verið falið að tala eingöngu við þá lögreglumenn sem höfðu kvartað undan störfum stefnanda. Ekki hafi verið rætt við aðra starfsmenn fíkniefnadeildar en þá sem höfðu kvartað, stefnanda sjálfan eða yfirmann deildarinnar. Að mati stefnanda er ljóst að þessi aðferð, sem lögreglustjóri beri ábyrgð á, hafi ekki byggt á hlutlægum og málefnalegum grunni. Stefnandi telur að með þessu hafi lögreglustjóri tekið sterka stöðu gegn honum, veikt stöðu hans enn frekar og séð til þess að málið fór í þann farveg sem síðar varð, þrátt fyrir að ekkert lægi fyrir um ætluð brot hans annað en kjaftasögur.

Lögreglustjóri hafi ákveðið að flytja stefnanda á milli deilda hjá LRH eftir að skýrslan frá 4. júní 2015 lá fyrir. Stefnandi kveðst hafa samþykkt flutninginn í góðri trú með því skilyrði að málið yrði þá tekið til almennilegrar skoðunar þannig að hann gæti hreinsað nafn sitt. Þeir flutningar á milli starfa sem fylgdu í kjölfarið hafi kallað á mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Þótt stefnandi hafi upphaflega samþykkt flutning telur hann að þessir síendurteknu flutningar hafi enn grafið undan honum í starfi og vegið að starfsheiðri hans. Þeir gerðu honum ómögulegt að sinna starfi sínu af þeim metnaði sem hann hefur. Auk þess hafi þessar ákvarðanir lögreglustjóra sýnt samstarfsmönnum stefnanda, og öðrum sem fylgdust með fjölmiðlum, að lögreglustjóri bar ekki fullt traust til starfa hans þrátt fyrir að ekki lægi fyrir neitt annað um ætluð brot hans í starfi en gróusögur. Þá hafi þetta orðið til þess að stefnandi sá sér ekki annað fært en að draga umsókn sína um lögreglufulltrúastöðu til baka.

Lögreglustjóri ákvað að veita stefnanda lausn frá embætti um stundarsakir 14. janúar 2016. Það liggi fyrir samkvæmt úrskurði innanríkisráðuneytis að sú ákvörðun lögreglustjóra var ólögmæt. Staðfest sé með úrskurðinum að lögreglustjóri hafi ekki gætt meðalhófssjónarmiða við meðferð málsins og vandaði ekki undirbúning og meðferð ákvörðunarinnar líkt og ber samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Að mati stefnanda vegur þetta atriði þyngst við ákvörðun miskabóta honum til handa. Hin ólögmæta ákvörðun lögreglustjóra var enda sérlega íþyngjandi fyrir stefnanda og hafði mikil áhrif á hann. Ákvörðunin var aukinheldur ekki í samræmi við meðferð annarra mála þar sem lausn frá embætti hefur að jafnaði ekki verið veitt fyrr en við útgáfu ákæru.

Framangreind atriði hafi öll valdið stefnanda gríðarlegum álitshnekki. Ákvarðanir lögreglustjóra hafa leitt til þess að stefnandi hafi misst orðspor sitt, sem var honum gríðarlega mikilvægt, enda hafi hann verið metnaðarfullur í sínu starfi og ætlað að sinna því áfram. Ásakanirnar sem stefnandi sat undir séu einhverjar þær alvarlegustu sem starfandi lögreglumenn geta orðið fyrir. Fjölmiðlaumfjöllun um málefni stefnanda, sem var umfangsmikil, hafi einnig verið þannig að auðvelt var fyrir utanaðkomandi að átta sig á við hvern var átt, sbr. framlagðar útprentanir af helstu veffréttamiðlum landsins um málefni stefnanda. Stefnandi telur að ákvarðanir lögreglustjóra hafi skaðað starfsframa hans með varanlegum hætti.

Stefnandi telur að hin ólögmæta ákvörðun lögreglustjóra, um að veita honum lausn frá embætti um stundarsakir, og sá álitshnekkir sem hann hafi búið við síðan, vegi þyngst við mat á fjárhæð miskabóta. Sú ákvörðun lögreglustjóra leiddi til umfangsmikillar fjölmiðlaumfjöllunar og þess að flestir töldu stefnanda sekan um þau brot sem hann var ranglega sakaður um. Stefnandi telur að krafa hans sé sanngjörn og ekki úr hófi fram miðað við aðstæður og það tjón sem hann hafi orðið fyrir.

Stefnandi gerir einnig kröfu um að stefnda greiði honum skaðabætur vegna fjártjóns. Það fjártjón kveður hann tilkomið vegna hinnar ólögmætu ákvörðunar lögreglustjóra um að veita honum lausn frá embætti um stundarsakir. Vegna hennar hafi stefnandi þurft aðstoð lögmanns, m.a. til að kæra ákvörðunina til innanríkisráðherra. Fullt tilefni var af hálfu stefnanda til að kæra ákvörðunina enda taldi ráðuneytið hana ólögmæta og felldi hana úr gildi. Stefnandi byggir kröfu þessa á sakarreglu skaðabótaréttar auk þess sem hann vísar til meginreglunnar um vinnuveitendaábyrgð líkt og fyrr. Stefnandi telur að önnur skilyrði skaðabótaréttar fyrir greiðslu bóta séu uppfyllt og að ríkinu beri að bæta honum þetta tjón.

Stefnandi byggir kröfu sína um vexti á skaðabætur á 8. gr. laga nr. 38/2001. Í ákvæðinu sé kveðið á um að skaðabótakröfur beri vexti, samkvæmt 4. gr. laganna, frá þeim degi er bótaskylt atvik átti sér stað. Hvað miskabæturnar varðar byggir stefnandi á því að upphafsdagur vaxta sé 14. janúar 2016. Þann dag hafi lögreglustjóri tekið ákvörðun um að veita honum lausn frá embætti um stundarsakir. Stefnandi telur rétt að miða við þá dagsetningu enda hafi það verið síðasta ólögmæta ákvörðunin sem lögreglustjóri tók í málefnum stefnanda og jafnframt sú alvarlegasta. Stefnandi telur eðlilegt að miða við að hið bótaskylda atvik hafi þá átt sér stað í skilningi 8. gr. laga nr. 38/2001. Upphafsdagur vaxta af skaðabótum vegna fjártjóns stefnanda miðast við dagsetningu reiknings vegna vinnu lögmanns.

Upphafsdagur dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga, af kröfunni allri taki mið af þeim degi er mánuður var liðinn frá því að stefnandi krafði stefnda um skaðabætur vegna málsins, sbr. 9. gr. sömu laga. Stefnda hafi verið send bótakrafa þann 25. október 2016 og sé upphafsdagur dráttarvaxta þ.a.l. 25. nóvember s.á.

Stefnandi styður kröfur sínar fyrst og fremst við meginreglur skaðabótaréttar, einkum sakarregluna og meginregluna um vinnuveitandaábyrgð. Þá vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 26. gr.

Stefnandi vísar einnig til laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, meginreglna vinnuréttar, ólögfestra reglna starfsmannaréttar sem og lögreglulaga nr. 90/1996, t.d. 1. gr., 4. gr. og 6. gr.

Um varnarþing vísast til 33. gr. laga um meðferð einkamála og um málskostnaðarkröfu til 129. og 130. gr. sömu laga.

III.

Stefndi mótmælir miskabótakröfu stefnanda og að háttsemi LRH gagnvart honum hafi falið í sér ólögmæta meingerð gagnvart æru og persónu hans. Stefndi byggir á því að ákvarðanir lögreglustjóra í málefnum stefnanda hafi þvert á móti verið grundvallaðar á faglegu mati og verið í samræmi við lög og meðalhóf.

Stefndi bendir á að stjórnun og starfsmannahald ríkisstofnana sé almennt í höndum hlutaðeigandi forstöðumanns. Heimildir hans í þessum efnum byggi fyrst og fremst á ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og hinni óskráðu meginreglu vinnuréttarins um „stjórnunarrétt vinnuveitanda“. Þá kunni sérákvæði laga um hlutaðeigandi stofnun eða starfsstétt einnig að skipta máli.

Í reglunni um „stjórnunarrétt vinnuveitanda“ felist valdheimildir til að stýra og stjórna starfseminni innan þeirra marka sem lög og kjarasamningar setja. Forstöðumenn ríkisstofnana þurfi jafnframt að gæta að öðrum atriðum, sér í lagi fyrirmælum æðra stjórnvalds.

Stefndi leggur áherslu á að stjórnunarheimildir forstöðumanns lúti meðal annars að ákvörðunum um skipulag vinnunnar, hvaða verk skuli vinna, hver skuli vinna þau, með hvaða hætti, hvenær og hvar. Ákvarðanir sem teknar séu daglega um störf og verksvið einstakra starfsmanna rúmist jafnan innan þeirra heimilda sem felast í reglunni um „stjórnunarrétt vinnuveitanda“. Almennt séu ekki gerðar sérstakar formkröfur til slíkra ákvarðana.

Í 2. málslið 3. mgr. 26. gr. laga nr. nr. 70/1996 komi fram að ef embættismaður er grunaður um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 megi veita honum lausn frá störfum um stundarsakir. Í 1. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga kemur fram að fremji opinber starfsmaður refsiverðan verknað megi þá í sakamáli á hendur honum svipta hann heimild til að rækja starfann ef hann telst ekki lengur verður eða hæfur til þess.

Stefndi byggir á því að LRH hafi ekki tekið þá ákvörðun að veita stefnanda lausn um stundarsakir fyrr en 14. janúar 2016 þegar greint var frá því í tölvupósti að 17. desember 2015 hefði ríkissaksóknari farið þess á leit við ríkislögreglustjóra, með vísan til þágildandi lögreglulaga, að hann veitti ríkissaksóknara aðstoð við rannsókn á ætluðum refsiverðum brotum stefnanda við framkvæmd lögreglustarfa. Nánar tiltekið hafi verið um að ræða meint brot gegn 128. og 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Gegn brotum við 128. gr. laganna liggi allt að 6 ára fangelsi og gegn 136. gr. laganna liggi allt að 3 ára fangelsisrefsing.

Áður hafi farið fram innanhússkoðanir á málum stefnanda og í ljósi þess orðróms sem hafi gengið innan lögreglu um óeðlileg samskipti stefnanda við brotamenn hafi hann verið færður til í starfi. Það sama hafi verið gert í desember 2015 eða allt þangað til ríkissaksóknari ákvað að hefja formlega sakamálarannsókn vegna athafna stefnanda. Unnið hafi verið í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, en þegar ríkissaksóknari hafi tekið framangreinda ákvörðun hafi nýr kafli málsins hafist þar sem stefnandi fékk réttarstöðu grunaðs manns og var sakaður um alvarleg brot.

Stefndi bendir á að úrræði laga nr. 70/1996, um lausn um stundarsakir, sbr. 2. málslið 3. mgr. 26. gr. laganna, sé lögmælt bráðabirgðaúrræði sem lög nr. 70/1996 veita til að bregðast við sérstökum aðstæðum. Rökin hér að baki séu þau að ekki sé forsvaranlegt að embættismaður, sem grunaður er um að hafa framið refsivert brot, gegni því embætti á meðan slíkur grunur er til staðar. Í því sambandi verði hins vegar að horfa til bæði eðlis og alvarleika brots og hvaða starfsstétt embættismanna eigi í hlut.

Í 38. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 sé fjallað um þær kröfur sem gera verði til nýnema í Lögregluskóla ríkisins. Einnig bendir stefndi á 28 gr. a laganna. Samkvæmt framangreindum ákvæðum sé ljóst að afar ríkar vammleysiskröfur séu lagðar með lögum á starfsstétt lögreglumanna og verði ávallt að meta möguleg brot þeirra í því ljósi, það er hvort viðkomandi sé sætt í starfi reynist ávirðingar réttar.

Stefndi bendir á að nefnd sérfróðra manna samkvæmt 27. gr. starfsmannalaga nr. 70/1996, sem á að rannsaka atvik að baki lausnar um stundarsakir, hafi í fyrri álitum sínum slegið því föstu að skilyrði fyrir því að stjórnvald beiti 2. málslið 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996, það er lausn um stundarsakir, sé samkvæmt orðanna hljóðan tvíþætt. Í fyrsta lagi að grunur liggi fyrir um refsiverða háttsemi og í öðru lagi að háttsemin sé þess eðlis að hún hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga.

Að mati stefnda leikur ekki vafi á því að fyrra skilyrði ákvæðisins er uppfyllt, enda hafði héraðssaksóknari hafið rannsókn á stefnda vegna brota í opinberu starfi sem heimfært var undir 128. gr. almennra hegningarlaga sem kveður á um 6 ára fangelsisvist og gegn 136. gr. laganna þar sem við liggur allt að 3 ára fangelsisvist yrði stefndi fundinn sekur. Um var að ræða grun gegn ákvæðum almennra hegningarlaga þar sem þung refsing liggur við og leggur stefndi áherslu á að líta verði á viðbrögð LRH í því ljósi.

Hefði verið gefin út ákæra á hendur stefnanda og hann svo fundinn sekur í dómsmáli sé ljóst að sú háttsemi sem hann var grunaður um hefði haft í för með sér embættismissi.

Hefði stefnanda ekki verið veitt lausn um stundarsakir hefði hann farið áfram með lögregluvald og ákveðna stöðu innan lögreglu sem slíkur. Að mati stefnda sé það eðlilegt verklag að aðilar sem grunaðir eru um alvarlega refsiverða háttsemi njóti ekki slíkrar stöðu á meðan þeir eru til rannsóknar.

Stefndi telur ljóst að þeim brotum í opinberu starfi sem stefnandi var grunaður um að hafa framið þegar ákvörðun um lausn um stundarsakir var tekin í byrjun árs 2016 sé ekki hægt að jafna við þá stöðu sem stefnandi var í þegar ákvörðun var tekin um að flytja viðkomandi til í starfi. Á þeim tíma hafi alvarleiki málsins verið orðinn annar og í því ljósi verði að meta stöðuna. Ávirðingarnar hafi verið það alvarlegar að ríkissaksóknari taldi rétt að taka stefnanda til formlegrar rannsóknar.

Að mati stefnda skiptir ekki máli hvort gefin hafi verið út ákæra eða ekki, sú staðreynd að stefnandi var til formlegrar rannsóknar sé næg ástæða þess að hafa verið veitt lausn um stundarsakir eða allt þar til niðurstaða fengist í rannsóknina.

Stefndi mótmælir fullyrðingum í stefnu um að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotnar. Stefndi bendir á að LRH hafi fengið formlegt bréf um rannsókn héraðssaksóknara á hendur stefnanda 11. janúar 2016. Stefndi tekur sérstaklega fram að embætti LRH hafi ekki farið með rannsókn máls stefnanda og því ekki haft rannsóknargögn málsins undir höndum og jafnframt takmarkaða möguleika á að krefjast eða óska þess að ríkissaksóknari eða héraðssaksóknari léti embættinu í té rannsóknargögn sakamáls.

Réttur aðila að málsskjölum sé hins vegar rúmur, sbr. 16. gr. laga nr. 88/2008. Eigi framangreint við um embætti LRH, þrátt fyrir að vera lögregluembætti, sem og önnur embætti.

Stefndi mótmælir því að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga en miklar upplýsingar lágu fyrir og mikil vinna hafi farið fram innan LRH fram að því að formleg sakamálarannsókn hófst. Líkt og fram hafi komið hafi verið beðið með ákvörðun um lausn um stundarsakir þar til ríkissaksóknari vísaði málinu til formlegrar rannsóknar hjá héraðssaksóknara.

Hvað varði sjónarmið um andmælarétt málsaðila bendir stefndi á að ekki sé skylt að gefa embættismanni kost á að tjá sig um ástæður lausnar áður en ákvörðun tekur gildi þegar hún byggi á þeim grundvelli að embættismaður sé grunaður um háttsemi sem kunni að hafa för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996.

Stefndi ítrekar að LRH hafi ekki tekið ákvörðun um að veita stefnanda lausn um stundarsakir fyrr en 14. janúar 2016 þegar upplýsingar bárust með tölvupósti um að ríkissaksóknari hefði 17. desember 2015 farið þess á leit við ríkislögreglustjóra að hann veitti ríkissaksóknara aðstoð við rannsókn á ætluðum refsiverðum brotum stefnanda við framkvæmd lögreglustarfa.

Niðurstaða héraðssaksóknara barst LRH 8. júní 2016. Taldi héraðssaksóknari að stefnandi hefði ekki orðið uppvís að brotum í starfi sínu sem lögreglumaður. LRH hafi sent stefnanda bréf strax degi síðar og boðað hann til starfa á ný. Hafi honum jafnframt verið greint frá því að honum yrðu greidd laun sem upp á vantaði frá því honum var veitt lausn um stundarsakir 15. janúar sama ár, allt í samræmi við lög nr. 70/1996. Með vísan til framangreinds hafni stefndi því að brotið hafi verið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga um meðalhóf.

Stefndi hafnar því einnig að jafnræðisregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin í málinu. Stefndi leggur áherslu á að fjölmörg dæmi séu um að embættismenn, sem og lögreglumenn, hafi verið leystir frá embætti um stundarsakir þegar mál hafa verið tekin til rannsóknar. Stefndi telur að líta verði á hvert einstakt mál og leysa úr því hverju sinni. Engin tvö mál séu nákvæmlega eins. Í máli stefnanda hafi verið litið til alvarleika mögulegra brota og þeirrar stöðu sem stefnandi var í innan embættis LRH. Hér verði jafnframt að líta til þess að stefnandi var færður til í starfi vegna þeirra ásakana sem komu fram eftir innanhússkoðun áður en formleg sakamálarannsókn hófst vegna starfa hans á grundvelli 128. og 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Vegna umfjöllunar í stefnu um miskabótakröfu bendir stefndi á nokkur atriði til viðbótar því sem þegar hafi verið tíunduð. Stefndi kveðst ekki sjá betur en að stefnandi byggi á því að lögreglustjóri hafi átt að koma í veg fyrir að sögusagnir gengju um stefnanda. Stefndi telur ekki hægt að gera embætti LRH ábyrgt fyrir sögusögnum. Stefndi geti ekki talist bótaskyldur enda þótt ákvarðanir stjórnenda LRH í máli stefnanda hafi ekki verið á þann hátt sem hann sjálfur hefði óskað.

Stefnandi virðist telja að það fyrirkomulag að hann hafi stýrt bæði aðgerðarhóp og upplýsingateymi fíkniefnadeildar hafi aukið á tortryggni gagnvart honum innan deildarinnar. Stefndi bendir á að yfirstjórn LRH hafi viðurkennt að umrætt fyrirkomulag hafi ekki verið heppilegt, enda hafi breytingarferli hafist haustið 2014 sem fól meðal annars í sér endurskipulagningu á þessu atriði. Stefndi vísi því hins vegar á bug að staða stefnanda sem stjórnanda aðgerðarhóps og upplýsingateymis hafi leitt til þess hvernig fór, hvað þá að stefndi teljist bótaskyldur vegna þess.

Stefndi mótmælir því að umfjöllun fjölmiðla geti verið grundvöllur skaðabótakröfu. Stefndi geti ekki borið ábyrgð á umfjöllun fjölmiðla, en málið var hvorki rætt í fjölmiðlum af hálfu LRH né hafði embættið tök á að stýra þeirri umræðu á nokkurn hátt. Stefndi bendir á að þótt stefnanda hefði ekki verið veitt lausn um stundarsakir hefði fjölmiðlaumfjöllun orðið síst minni eða óvægnari í ljósi alvarleika þeirra brota sem stefnandi var til rannsóknar vegna.

Stefndi leggur áherslu á að LRH hafi óskað eftir endurupptöku á úrskurði innanríkisráðuneytisins 8. júlí 2016. Niðurstaða úrskurðarins virðist á því byggð að ekki hafi komið fram ný gögn þegar rannsókn ríkissaksóknara hófst sem réttlætt hafi á því stigi að stefnanda yrði veitt lausn frá embætti um stundarsakir. Stefndi bendir á að í ákvörðun héraðssaksóknara 8. júní sama ár komi fram að ýmis gögn hafi fylgt erindi ríkissaksóknara til héraðssaksóknara. Þau gögn sýni svo ekki verði um villst að ekki hafi verið uppi sömu aðstæður í málinu þegar formleg rannsókn hófst í janúar 2016 og voru þegar stefnandi var fluttur til í starfi um mitt ár 2015. Þrátt fyrir að beiðni um endurupptöku hafi verið hafnað telur stefndi engu að síður að gögn málsins sem fylgdu er héraðssaksóknari tók við því hafi verið til vitnis um að ný staða var í máli stefnanda er hann var leystur frá embætti um stundarsakir í janúar 2016.

Að lokum bendir stefndi á að í gögnum málsins komi fram að stefnandi hafi kært Húnboga J. Andersen fyrir rangar sakargiftir 24. júní 2016. Brot Húnboga var að mati stefnanda falið í því að hafa haft samband við embætti ríkissaksóknara og upplýsa um að hann væri að störfum fyrir aðila sem byggi yfir upplýsingum um meint brot lögreglumanna sem gegndu stöðu yfirmanna í ávana- og fíkniefnadeild LRH. Stefndi bendir hér á að eigi upphaf málsins rætur að rekja til þess að bornar hafi verið rangar sakir á stefnanda af hálfu framangreindra aðila geti stefndi ekki borið ábyrgð á því. Telji stefnandi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna málsins þá telur stefndi því að bótakröfum sé beint að röngum aðila.

Kröfu stefnanda um skaðabætur er mótmælt. Það sé meginregla að borgarar skuli sjálfir bera kostnað vegna reksturs mála í stjórnsýslunni. Engar réttarheimildir séu fyrir kröfu stefnanda um greiðslu þessa kostnaðar. Ljóst sé að menn geti nýtt sér leiðir til að fá ákvarðanir stjórnvalda endurskoðaðar, eftir atvikum á grundvelli sérstakra heimilda í lögum eða ákvæðum stjórnsýslulaga. Kostnaði vegna þess verði hins vegar að meginreglu ekki velt á stefnda.

Stefndi bendir á að samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996 skuli óháð og sjálfstæð nefnd rannsaka hvort rétt sé að veita embættismanni lausn að fullu eða láta hann taka aftur við embætti sínu. Í 4. gr. starfsreglna nefndarinnar segi meðal annars að nefndinni sé ætlað sérstakt rannsóknarhlutverk, það sé hlutverk hennar að rannsaka hvert einstakt mál svo upplýst verði hvort rétt hafi verið að veita embættismanni lausn um stundarsakir eða ekki. Reglurnar séu afar ítarlegar og sé nefndinni ætlað, óháð því hvort aðilar hafi yfir að ráða lögmanni eða ekki, að gæta hagsmuna allra aðila.

Það að kæra mál til innanríkisráðherra, líkt og stefnandi kaus að gera, heyri til undantekninga. Stefndi bendir á að það hafi alfarið verið ákvörðun stefnanda og að jafnframt hafi það alfarið verið ákvörðun stefnanda að efna til kostnaðar vegna málsins. Stefnanda hafi þegar verið bætt allt launatap þann tíma sem um ræðir.

Til vara er kröfunni mótmælt sem of hárri.

Stefndi mótmælir jafnframt miskabótakröfu stefnanda. Til viðbótar þeim sjónarmiðum sem rakin hafi verið telur stefndi að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að í ákvörðun stefnda hafi falist ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda í skilningi 26. gr. laga nr. 50/1993. Ákvörðun um að veita stefnanda lausn frá embætti um stundarsakir hafi einvörðungu grundvallast á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum sem eiga sér stoð í lögum.

Stefndi bendir auk þess á að samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga sé heimilt að láta þann sem ábyrgð beri á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert er við. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skaðabótalögum segi að í skilyrðinu um ólögmæta meingerð felist að um saknæma hegðun sé að ræða. Gáleysi myndi þó þurfa að vera verulegt til þess að tjónsatvik yrði talið ólögmæt meingerð. Af dómafordæmum Hæstaréttar verði ráðið að lægsta stig gáleysis uppfylli ekki kröfu þessa ákvæðis um ólögmæta meingerð. Stefndi leggur áherslu á að ákvörðun um að veita stefnanda lausn frá embætti um stundarsakir og öll málsmeðferð LRH hafi verið í samræmi við lög.

 

Stefndi mótmælir einnig fjárhæð miskabótakröfu stefnanda sem of hárri og í engu samræmi við dómaframkvæmd. Verði talið að stefnandi eigi rétt til miskabóta sé því til vara krafist verulegrar lækkunar á henni.

Þá er vaxtakröfu einnig mótmælt.

IV.

Stefnandi og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gáfu aðilaskýrslu. Þá gáfu skýrslu, Erna Dís Gunnþórsdóttir, eiginkona stefnanda, Eiríkur Valberg lögreglumaður, fyrrum starfsmaður fíkniefnadeildar, Þorbjörn Valur Jóhannsson lögreglumaður, þá í upplýsingateymi LHR, Ásgeir Karlsson lögreglumaður, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, Kristinn Sigurðsson lögreglumaður, áður rannsóknarlögreglumaður í fíkniefnadeild, Guðbrandur Hansson, lögreglufulltrúi í fíkniefnadeild, Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri og saksóknari, Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fyrrum settur aðstoðarlögreglustjóri og síðar yfirlögfræðingur hjá LHR, Baldvin Einarsson lögreglufulltrúi, Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn rannsóknardeildar, og í gegnum síma frá Sviss gaf skýrslu Karl Steinar Valsson, fyrrum yfirmaður stefnanda. Framburðar verður getið eftir því sem þurfa þykir í niðurstöðukafla.

V.

Af skýrslutökum í málinu verður því slegið föstu að stefnandi hafi sýnt mikinn metnað í störfum sínum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, verið afkastamikill og ósérhlífinn. Að auki hafi hann leitast við að afla sér, jafnvel einnig utan vinnutíma, þekkingar á þeim viðfangsefnum sem hann sinnti hverju sinni. Fyrrum yfirmenn stefnanda, Karl Steinar Valsson og Friðrik Smári Björgvinsson, kváðust fyrir dómi alla tíð hafa borið fullkomið traust til stefnanda. Friðrik sagði stefnanda vera mjög traustan stjórnanda og kvaðst aldrei hafa trúað því að nokkur fótur væri fyrir þeim sögusögnum sem gengu um stefnanda á deildinni. Karl Steinar bar á sama veg og lýsti enda sérstökum trúnaðarstörfum sem hann hefði falið stefnanda að sinna, einkum varðandi upplýsingakerfi, sem kölluðu á endurmenntun þ.m.t. í útlöndum, en þessum verkefnum hafi stefnandi sinnt með miklum sóma. Jón H. B. Snorrason aðstoðarlögreglustjóri kvaðst ekki hafa haft ástæðu til að hafa efasemdir um stefnanda, heldur hafi hann litið á hann sem hæfan og efnilegan starfsmann. Ásgeir Karlsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og fyrrum yfirmaður fíkniefnadeildar í tíu ár, kvaðst enga ástæðu hafa haft til að vantreysta stefnanda. Vitnin Eiríkur Valberg og Þorbjörn Valur Jóhansson báru á sama veg og sögðu stefnanda afburða lögreglumann.

Ljóst er af skýrslutökum að nokkrir flokkadrættir voru meðal starfsmanna í fíkniefnadeildinni. Eitt vitni lýsti því svo að þar hefðu verið þrír hópar, einn sem studdi stefnanda, annar hópur sem var mjög á móti honum og svo einhver hluti starfsmanna sem stóð utan þessa. Kom þetta glöggt í ljós við skýrslutökur af fyrrum undirmönnum stefnanda. Tveir þeirra sögðu stefnanda mjög góðan og hæfan stjórnanda sem þeir hefðu borið mikið traust til en tveir lögreglumenn sögðu hins vegar farir sínar ekki sléttar í samskiptum við stefnanda, hann hefði til að mynda ásakað þá um að sinna illa starfsskyldum sínum og talað þá niður við aðra starfsmenn. Þessir starfsmenn voru meðal þeirra sem kvörtuðu við yfirstjórn lögreglunnar undan stefnanda, lýstu þeim sögusögnum sem heyrst hefðu og voru í þeim hópi manna sem Baldvin Einarsson lögreglufulltrúi og Kristján Ingi Kristjánsson aðstoðaryfirlögregluþjónn tóku viðtal við, við gerð samantektar um ásakanir á hendur stefnanda sem lá fyrir í júní 2015. Jón H. B. Snorrason taldi skýringar á flokkadráttum þær að stefnandi hafi gert miklar kröfur til undirmanna sinna sem mönnum líkaði misvel. Jón kvaðst þó ekki hafa upplifað mikla flokkadrætti fyrr en líða tók á ferlið.

Enn verður vísað til framburðar fyrir dómi sem styðst við önnur gögn málsins, þegar skoðað er hvað hafi orðið til þess að ásakanir á hendur stefnanda fóru af stað og þó einkum varðandi það á hverju ásakanir á hendur honum byggðust.

Fyrst þegar orðrómur komst á kreik innan embættisins, líkast til öðru hvorum megin við áramótin 2010/2011, um að stefnandi væri í óeðlilegum tengslum við ákveðinn upplýsingagjafa og síðar að hann þægi jafnvel greiðslur frá honum varð niðurstaðan sú að yfirmaður stefnanda, Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn, ákvað að skoða málið sjálfur. Karl Steinar skoðaði upplýsingakerfi lögreglunnar og tók saman minnisblað um athugun sína sem dagsett er 30. janúar 2012. Í seinni hluta minnisblaðsins segir Karl Steinar: „Það er mat mitt á þessum upplýsingum að ég hef 100% traust á samskiptum Steindórs við upplýsingagjafa.“ Karl Steinar kynnti þetta minnisblað fyrir yfirstjórn LRH og verður ekki annað séð en að með því hafi málinu lokið eða að minnsta kosti virðist það hafa legið í láginni allt fram til vorsins 2015. Fram kemur í minnisblaðinu og víðar í málinu að stefnandi var mjög áfram um að allar ásakanir á hendur honum yrðu rannsakaðar ofan í kjölinn, helst af óháðum aðila, svo hann gæti hreinsað sig af þessum áburði.

Vorið 2015 verður ekki betur séð en að flokkadrættir hafi magnast, m.a. vegna misklíðar sem ljóslega kom upp á vinnustaðnum fljótlega eftir að Aldís Hilmarsdóttir tók við stöðu Karls Steinars um miðjan apríl 2014 og boðaði nokkrar breytingar sem stefnandi studdi, en nokkur andstaða var við á deildinni. Ekki er óvarlegt að draga þá ályktun að þessi endurnýjun lífdaga sögusagna um stefnanda þetta vor, megi hugsanlega rekja til óánægju nokkurra starfsmanna m.a. með störf stefnanda. Að minnsta kosti varð niðurstaðan sú að óánægðir starfsmenn fóru á fund lögreglustjóra um vorið og kvörtuðu undan stefnanda. Þar hafi umræddar sögusagnir verið látnar fylgja með sbr. framburð fyrir dómi. Það sem styrkir þessa niðurstöðu er sú staðreynd að frá athugun Karls Steinars á málinu í ársbyrjun 2012 og til vorsins 2015 verður ekki séð að nokkuð hafi gerst í málinu og engin ný gögn eða upplýsingar litið dagsins ljós í millitíðinni, að því er best verður séð.

Þegar Ásgeir Karlsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, fékk heimsókn frá nokkrum óánægðum starfsmönnum á fíkniefnadeild LRH, lágu þannig engin ný gögn fyrir og sem fyrr var engum gögnum teflt fram til að styðja ásakanir á hendur stefnanda. Aðspurður fyrir dómi sagði Ásgeir að þó hefði verið vísað til framburðar eins manns en hann hefði ekki verið nafngreindur. Ásgeir kvaðst enga ástæðu hafa haft á þessum tíma til að vantreysta stefnanda en taldi þó rétt að tilkynna embætti ríkissaksóknara um stöðu mála í ljósi alvarleika ásakana á hendur stefnanda. Af þessu má ráða að á þessum tímapunkti lágu engin áþreifanleg gögn fyrir í málinu sem bentu til þess að stefnandi hefði gerst sekur um brot í starfi, einungis sögusagnir. Þrátt fyrir það sendi ríkissaksóknari lögreglustjóranum erindi 18. eða 19. maí 2015 þar sem vísað var til fundar hans með Ásgeiri og eftirfarandi ósk sett fram: „Ríkissaksóknari óskar því eftir að fá yðar lýsingu og mat á málefninu auk upplýsinga um hvort og þá hvernig þér hyggist bregðast við framangreindum upplýsingum.“

Baldvin Einarssyni lögreglufulltrúa og Kristjáni Inga Kristjánssyni aðstoðaryfirlögregluþjóni var þann 19. maí falið að taka viðtal við nokkra nafngreinda starfsmenn og gera í kjölfarið samantekt um ásakanir á hendur stefnanda. Stefnandi gagnrýnir mjög að þessi athugun hafi verið afar einhliða í stað þess að málið yrði skoðað í heild sinni þannig að reynt væri að komast í eitt skipti fyrir öll til botns í því með skoðun óháðs aðila, og viðtölum við starfsmenn; einnig þá sem voru hliðhollir honum. Stefndi hafi litið fram hjá því að málið hafi einnig varðað réttindi stefnanda sem starfsmanns embættisins. Því hafi þurft að gæta meginreglna stjórnsýsluréttar s.s. jafnræðis, andmælaréttar og rannsóknarreglunnar. Stefndi leggur hins vegar áherslu á að hér hafi alls ekki verið um lögreglurannsókn að ræða og embættið hafi ekki verið að rannsaka sig sjálf. Hér hafi einungis verið um að ræða upplýsingaöflun og könnun á hvers eðlis ávirðingar á hendur stefnanda væru.

Setja má ákveðin spurningarmerki við það hvernig innanhússskoðun yfirstjórnar var háttað. Það skiptir þó ekki meginmáli við úrlausn þessa máls um lausn um stundarsakir, enda blasir og við að eftir hana, þ.e. þegar skýrslunni var skilað í júní 2015, stóð málið í sömu sporum og áður nema að nú voru ávirðingar stefnanda komnar á prent. Ekki verður þannig séð að frekari gagna hafi verið aflað.

Fór það enda svo að ríkissaksóknari fór fram á það á fundi með lögreglustjóra þann 23. júní 2015 að fram færi ítarlegri skoðun í málinu og frekari upplýsinga yrði aflað. Var Baldvin Einarsson fenginn til verksins og skilaði hann 49 síðna skýrslu 14. desember 2015 þar sem fjallað var um 22 tilvik á tímabilinu frá 12. október 2006 til 9. apríl 2015. Í þetta sinn voru öll upplýsingakerfi lögreglunnar skoðuð ásamt lögregluskýrslum og reynt, að því er viðist, að skoða hvert tilvik ofan í kjölinn eins og hægt var. Skýrsluhöfundur tók hins vegar ekki afstöðu til þess hvort þar væri í einhverju tilvika um meinta refsiverða háttsemi að ræða.

Skýrslan ásamt fylgigögnum var afhent ríkissaksóknara daginn eftir eða 15. desember. Sama dag mun Húnbogi J. Andersen, lögfræðingur og fyrrum lögreglumaður í fíkniefnadeild, hafa sent ríkissaksóknara tölvuskeyti þar sem hann kvaðst vera umjóðandi (sic!) aðila sem byggi yfir upplýsingum um meint brot stefnanda í starfi. Hringt var í Húnboga í kjölfarið og kvað hann umbjóðanda sinn búa yfir upplýsingum um að stefnandi hefði tekið við einhverjum milljónum fyrir upplýsingagjöf til uppljóstrara. Fyrir dómi taldi Jón H. B. Snorrason mjög líklegt að þessar upplýsingar frá Húnboga hefðu vegið þungt við ákvörðun um að hefja rannsókn á málinu og lögmaður stefnda tók undir þá kenningu í munnlegum málflutningi. Það er hugsanlegt en þó ber að líta til þess að upplýsingar í þessa veru lágu fyrir í málinu a.m.k. frá vorinu áður þegar Kristinn Sigurðsson greindi þeim Baldvin og Kristjáni Inga frá því að Húnbogi Jóhannsson (Andersen), fyrrum rannsóknarlögreglumaður í fíkniefnadeild, byggi yfir upplýsingum um að uppljóstrarinn sem um ræddi, hefði verulegan hag af stefnanda við brotastarfsemi sína.

Í rannsókn héraðssaksóknara er þess síðan hins vegar getið að við skýrslutöku af þeim aðila sem Húnbogi hafði bent á hafi komið fram að sá kannaðist ekkert við að hafa greint Húnboga frá því að hann hefði slíkar upplýsingar. Húnbogi hefði boðað sig á skrifstofu sína og þegar hann hafi greint honum frá því að hann hefði gert einhvern samning við ríkissaksóknara um að hann yrði „fríaður“ af málinu hafi hann komið af fjöllum, ekkert vitað um hvað Húnbogi var að tala og labbað út. Hann greindi frá því að Húnbogi þyldi ekki stefnanda og að hann kenndi stefnanda um að hafa verið rekinn af fíkniefnadeildinni. Þá taldi viðkomandi að stefnandi ætti marga óvini sem vildu klekkja á honum.

Ríkissaksóknari tók ákvörðun 17. desember 2015 um að hefja sakamálarannsókn á ætluðum brotum stefnanda og óskaði liðsinnis ríkislögreglustjóra. Með bréfi ríkissaksóknara 8. janúar 2016 var embætti héraðssaksóknara sent málið til viðeigandi meðferðar. Var talið að brot stefnanda gætu varðað við 128. gr. og 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu var svo send tilkynning um rannsóknina með tölvuskeyti 11. janúar 2016. Þremur dögum síðar, eða 14. janúar, var stefnanda tilkynnt á fundi að honum væri veitt lausn frá embætti um stundarsakir og fékk hann afhent bréf þess efnis.

Héraðssaksóknari óskaði í upphafi rannsóknar eftir viðbótargögnum frá LRH ásamt því að rannsakendur skoðuðu tölvugrunna sem notaðir eru hjá því embætti. Þá var óskað upplýsinga frá bönkum og fjármálastofnunum um fjármál stefnanda og eiginkonu hans en þau gáfu bæði samþykki sitt fyrir því, auk þess sem tölvuskeyti stefnanda voru skoðuð. Teknar voru skýrslur af 29 vitnum og tvær skýrslur þar sem aðilar höfðu stöðu sakbornings, þ.e. af stefnanda og öðrum til. Í bréfi frá embætti héraðssaksóknara 8. júní 2016 þar sem farið var yfir rannsóknina og kynnt ákvörðun um niðurfellingu málsins kemur fram að rannsökuð höfðu verið framangreind 22 tilvik en tekið fram að „að því er varðar sum þeirra lágu engin gögn fyrir og jafnvel ekki hægt að átta sig á með hvaða hætti tilvikin tengdust kærða og/eða vörðuðu meint brot hans í starfi“. Ef tilvik sem um var fjallað í bréfinu gaf tilefni til að álykta um slíkt, kemur fram í öllum tilvikum að ekkert í gögnum málsins eða framburði aðila hafi bent til neinnar refsiverðrar háttsemi af hálfu stefnanda. Í öðrum tilvikum kemur fram að ekkert bendi til óeðlilegra afskipta stefnanda af málum o.s.frv.

Í niðurlagi bréfsins frá 8. júní 2016 sagði svo: „Að mati héraðssaksóknara hefur ítarleg rannsókn á meintum brotum kærða í stafi sínu ekkert leitt í ljós sem rennir stoðum undir það að hann hafi með einhverjum hætti gerst brotlegur í starfi. Svo virðist sem samskiptaörðugleikar innan fíkniefnadeildar (m.a. þar sem ekki hafi allir starfsmenn haft yfirsýn yfir og upplýsingar um alla starfsemina), orðrómur meðal brotamanna og hugsanlegur persónulegur ágreiningur skýri að einhverju leiti þrálátan orðróm um hið gagnstæða.“ Málið var því fellt niður sbr. 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Ágreiningslaust er í málinu að þær sakir sem bornar voru á stefnanda eru með þeim alvarlegri sem bornar verða upp á lögreglumann; sakir um að yfirmaður í fíkniefnadeild taki við greiðslum í staðin fyrir upplýsingar til uppljóstrara til að spilla rannsókn mála og halda hlífiskildi yfir viðkomandi. Vafalaust er að grunur um slík brot geti heimilað yfirmönnum að veita viðkomandi starfsmanni lausn um stundarsakir samkvæmt 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, enda ljóst að ef sakfellt væri fyrir brot í framangreinda veru, hefði það í för með sér að viðkomandi embættismaður yrði sviptur réttindum skv. 68. gr. almennra hegningarlaga. Ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu verður því sem slík talin standast að formi til.

Slík ákvörðun verður þó að byggja á málefnalegum forsendum, viðkomandi stjórnvald þarf að sinna rannsóknarskyldu sinni eins og frekast er unnt og gæta þarf meðalhófs. Lögmenn aðila voru sammála, við munnlegan málflutning, um að ákvörðun um lausn um stundarsakir væri undirseld reglum stjórnsýsluréttar.

Dómurinn telur og að grunur í skilningi ákvæðisins verði að vera eðli máls samkvæmt rökstuddur. Ófært er að hægt sé að veita embættismönnum, án eftirmála, lausn frá störfum ef engin áþreifanleg og nokkuð afdráttarlaus gögn styðja slíkan grun.

Eins og að framan er rakið er óhjákvæmilegt að ganga út frá því að ásakanir á hendur stefnanda hafi alla tíð verið með öllu órökstuddar. Þær byggðu þannig einungis á orðrómi og engu öðru. Þar má hugsanlega taka út úr upplýsingar frá Húnboga J. Andersen, þ.e. ef horft er til afstöðu ríkissaksóknara þegar ákvörðun var tekin um sakamálarannsókn. Dómurinn telur þó að þær upplýsingar hafi ekki réttlætt lausn um stundarsakir því fullyrðingar viðkomandi höfðu þá í engu verið staðreyndar eða skýrsla tekin af meintum umbjóðanda hans. Verður heldur ekki betur séð af gögnum þessa máls en að meintur umbjóðandi lögfræðingsins hafi komið af fjöllum og ekki veitt lögfræðingnum neinar slíkar upplýsingar.

Er það því svo að yfirstjórn LRH virðist öll, sem og flestir starfsmenn fíkniefnadeildar, hafa allan tímann borið fyllsta traust til stefnanda að undanskildum lögreglustjóranum að því er virðist. Vitnið Eiríkur Valberg kvaðst hafa verið kallaður á fund lögreglustjóra í lok ágúst 2105 og tekið þar við skömmum fyrir að mæla stefnanda bót á vinnustaðnum. Eiríkur byggði þá afstöðu sína á því að hann taldi stefnanda faglegan og vandaðan í störfum sínum og með öflugri og traustari lögreglumönnum. Eiríkur benti á að hann hefði og sjálfur kannað það í kerfum lögreglunnar hvort þessi orðrómur ætti við rök að styðjast, en það hafi verið mjög einfalt, og hann hefði séð strax að augljóst væri að enginn fótur væri fyrir þessum ásökunum. Lögreglustjóri hefði hins vegar ekki verið til viðræðu um þá hlið málsins og bar því við að hún hefði yfirsýn yfir allar hliðar málsins en ekki vitnið.

Þá verður ekki önnur ályktun dregin en að þeir starfsmenn, a.m.k. hluti þeirra, sem kvörtuðu yfir stefnanda við yfirstjórnina, lögðu fram vantraust á hann, og fóru á fund Ásgeirs Karlssonar hafi lagt allt að því fæð á stefnanda.

Fram kom í skýrslutökum fyrir dómi að ástæða þess að orðrómur um stefnanda hafi farið af stað væri líkast til óvarleg ummæli ölvaðra lögreglumanna á bar einum í Reykjavík í eyra aðila sem tengdust fíkniefnaheiminum, um að stefnandi væri spilltur lögreglumaður. Engar aðrar getgátur komu fram um upphaf málsins.

Horfa verður til þess við úrlausn þessa máls að ástandið á fíkniefnadeildinni var afar slæmt á þeim tíma þegar ásakanir á hendur stefnanda voru rifjaðar upp vorið 2015. Grunur var um einhvern leka á þessum tíma, en síðar kom í ljós að einn þeirra sem lýsti grunsemdum um brot stefnanda var sjálfur dæmdur í apríl sl. fyrir brot á þagnarskyldu sem lögreglumaður, fyrir að taka í starfi við ávinningi sem hann átti ekki tilkall til, að heimta greiðslu við framkvæmd starfs síns. Jafnframt fyrir brot á reglum sem um starfa hans giltu, vanrækslu og hirðuleysi í starfi. Viðkomandi lögreglumaður fékk fimmtán mánaða fangelsisdóm.

Lögreglumenn sem gáfu skýrslu fyrir dómi og voru hliðhollir stefnanda greindu frá því að þeir hefðu forðast að láta sjá sig með stefnanda til dæmis í mötuneytinu til að verða ekki spyrtir við hann af yfirstjórninni. Þá hafa sömu menn borið því við að stuðningur þeirra við stefnanda hafi haft bein áhrif á starfsframa þeirra. Eiríkur Valberg kvaðst hafa það skriflegt frá lögreglustjóra að afstaða hans hefði kostað hann stöðu lögreglufulltrúa og að blásin hafi verið af námsferð sem hann átti að fara í nokkrum dögum eftir fund hans og lögreglustjóra. Þorbjörn Valur kveðst hafa verið færður til í starfi vegna stuðnings hans við stefnanda. Þá má rekja slæmt ástand til komu Aldísar Hilmarsdóttur í stöðu yfirmanns í stað Karls Steinars Valssonar vorið 2014 og þær breytingar sem hún vildi gera á deildinni, en Aldís var flutt til í starfi um svipað leyti og stefnandi var leystur frá embætti.

Ekki er í málinu gerður ágreiningur um að LRH sé ríkisstofnun og stefnandi ríkisstarfsmaður sem njóti réttinda og beri skyldur samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt 6. mgr. 6. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 fer lögreglustjóri með stjórn lögregluliðs í sínu umdæmi, annast daglega stjórn og rekstur lögreglunnar í umdæminu og ber ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess. Þá verður lagt til grundvallar að stefndi, íslenska ríkið, beri ábyrgð á háttsemi lögreglustjóra, á grundvelli meginreglu skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð, sbr. almennar reglur skaðabótaréttar, sbr. 1. mgr. 1. gr. og 4. gr. lögreglulaga.

Að virtu öllu framangreindu, einkum um aðdraganda málsins og þau atriði sem réðu því að ákvörðun var tekin, er það niðurstaða dómsins að yfirstjórn LHR hafi gengið of langt gagnvart stefnanda þegar ákveðið var að veita honum lausn um stundarsakir 14. janúar 2016 og að sú ákvörðun hafi verið ólögmæt. Rannsóknarreglu stjórnsýslu­réttar hafi ekki verið gætt sem skyldi og heldur ekki andmælaréttar stefnanda þar sem honum hefði verið hægt að koma við. Jafnframt hafi meðalhófs ekki verið gætt í ljósi atvika málsins og þá einkum þeirrar staðreyndar að engin afgerandi gögn sem ekki var auðveldlega hægt að hnekkja koma fram í málinu frá því að orðrómur fæddist um áramótin 2010/2011, um að stefnandi væri ekki allur þar sem hann væri séður og reyndar gjörspilltur, og þar til framangreind ákvörðun um lausn var tekin. Kröfur um að gæta meðalhófs verða enn meiri og strangari þegar um jafn íþyngjandi ákvörðun er að ræða og þá sem hér er fjallað um. Það undirstrikar að mati dómsins að ákvörðunin var ólögmæt að jafnvel eftir lausn og mjög ítarlega rannsókn héraðssaksóknara varð engu við bætt. Þvert á móti kváðu rannsakendur þar margar ávirðingar á hendur stefnanda óskiljanlegar og óútskýrt væri hvernig þær rötuðu inn í málið og gætu varðað starfsskyldur hans. Dómurinn telur og að stefndi hafi ekki sýnt fram á að málefnaleg sjónarmið hafi verið lögð til grundvallar þegar ákvörðunin var tekin, heldur hafi aðstæður og ástand á vinnustaðnum og persónuleg óvild nokkurra starfsmanna í garð stefnanda verið nokkur drifkraftur þar. Ekki sé nægjanlegt að byggja ákvörðun sem þessa á orðrómi þótt ásakanir séu vissulega alvarlegar.

Dómurinn telur að yfirstjórn LHR hefði hæglega, í ljósi málsatvika, getað réttlætt það og rökstutt að stefnandi héldi þáverandi starfi sínu og vammleysiskröfur sem vissulega eru gerðar til lögreglunnar hafi ekki staðið því í vegi. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að sú leið hafi ekki komið til álita. Ef slík niðurstaða var ekki tæk, eins og yfirstjórnin hlýtur að hafa álitið, þá hefði væntanlega sem fyrr, sbr. málavaxtalýsingu, verið hægt að leita enn og aftur eftir tilfærslu stefnanda í starfi, þar sem útilokað væri að hann gæti haft áhrif á þau atriði og atvik sem talin voru andlag meintra brota stefnanda. Ekki verður reyndar betur séð en að það hafi átt við það starf sem stefnandi gegndi þegar honum var veitt lausn og til flutnings hefði því ekki þurft að koma.

Ef yfirstjórn LHR taldi með öllu útilokað að stefnandi væri áfram sýnilegur í störfum sínum fyrir lögregluna, eins og virðist hafa verið, þá hefði sá kostur einnig verið fær að leysa hann undan vinnuskyldu meðan á rannsókn stæði án þess að um lausn samkvæmt 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga um stundarsakir væri að ræða, eins og dæmi munu vera um.

Því er það niðurstaða dómsins að ákvörðun yfirstjórnar LHR um að víkja stefnanda frá störfum um stundarsakir hafi í senn verið óþörf og ólögmæt. Ákvörðunin var án nokkurs vafa til þess að gefa á þeim tíma mjög alvarlegum ásökunum samstarfs­manna embættisins á hendur stefnanda byr undir báða vængi og valda stefnanda miklum álitshnekki og andlegri vanlíðan. Ákvörðunin fól í sér ólögmæta meingerð gegn æru og persónu stefnanda og eru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sbr. b-lið um að gera stefnda að greiða stefnanda miskabætur.

Við ákvörðun fjárhæðar miskabóta verður litið til þess hversu alvarlegar ásakanir á hendur stefnanda voru, sbr. framangreint, sem reyndist ekki fótur fyrir. Fram kom við skýrslutökur fyrir dómi að stefnandi væri að mati samstarfsmanna hans og yfirmanna heiðarlegur maður og tæki störf sín mjög alvarlega. Stefnandi sé metnaðarfullur og hafi átt vaxandi velgengni að fagna innan lögreglunnar og hafi ætlað sér að ná enn frekari árangri. Í ljósi þessa verður að telja að ákvörðun yfirstjórnar LHR um að veita honum lausn um stundarsakir hafi verið stefnanda ákaflega þungbær eins og fram kom fyrir dómi. Eins og atvikum háttar þá verður í þessu máli einnig horft nokkuð til gríðarlegrar umfjöllunar fjölmiðla um málið sem reyndist stefnanda mjög erfið. Það var heldur ekki til þess fallið að bæta líðan stefnanda, en því hefur ekki verið andmælt, að honum var fyrst í skýrslutöku hjá héraðssaksóknara 29. janúar 2016 kynnt formlega hver meint brot hans í starfi áttu að hafa verið.

Þá verður að telja að líkur standi til þess að framangreind ákvörðun hafi skert mjög möguleika stefnanda til framgangs í starfi innan lögreglunnar og jafnvel víðar og gert honum erfitt um stöðuval. Þá er ekki óvarlegt að álykta sem svo að það muni taka langan tíma fyrir stefnanda að hreinsa að fullu af sér orðróm um spillingu innan raða lögreglunnar þrátt fyrir að sá orðrómur hafi verið innihaldslaus, líkt og gerðist þegar málið komst aftur í hámæli vorið 2015 eftir að rannsókn yfirmanns stefnanda hafði í ársbyrjun 2012 hreinsað hann af þeim ásökunum sem þá voru hafðar uppi.

Ekki verður talið að tilfærslur í starfi eða sú staðreynd að stefnanda var gert að sinna um langt skeið starfi bæði yfirmanns yfir götudeild og upplýsingateymi, þrátt fyrir sannanleg mótmæli hans, sem hann taldi vekja tortryggni og gera sér erfitt um vik í starfi, hafi sérstök áhrif á ákvörðun miskabóta.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða telur dómurinn að hæfilegar miskabætur til handa stefnanda skuli nema 2.200.000 krónum.

Þótt komist sé að þeirri niðurstöðu að ákvörðun yfirstjórnar LHR hafi verið ólögmæt telur dómurinn ekki efni til að fallast á kröfu stefnanda um greiðslu skaðabóta vegna kostnaðar við rekstur málsins í stjórnsýslunni, einkum vegna kæru til innanríkisráðuneytisins. Sú meginregla hefur þannig verið talin gilda samkvæmt íslenskum rétti að borgararnir verði sjálfir að bera þann kostnað sem þeir hafa af erindum sínum til stjórnvalda og málarekstri fyrir þeim. Kjósi þeir að nota aðstoð sérfræðinga við slík erindi og hafa af því kostnað geti þeir ekki krafist þess að sá kostnaður sé þeim bættur, hvort sem erindið skilar þeim árangri eða ekki. Sérstaka lagaheimild þarf til þess að unnt sé að krefjast endurgreiðslu slíks kostnaðar, en slík lagaheimild er ekki fyrir hendi í máli þessu. Stefnandi hefur í málinu ekki teflt fram haldbærum rökum sem styðja kröfu hans um að víkja frá þessari meginreglu.

Því verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 2.200.000 krónur í miskabætur auk vaxta eins og þeirra er krafist í stefnu, þ.e. samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá tjónsdegi, sem telst vera sá dagur er stefnanda var veitt lausn frá störfum, og með dráttarvöxtum frá því mánuður var liðinn frá því að kröfubréf var sent, sbr. 9. gr. laganna, sbr. nánar í dómsorði.

Eftir úrslitum málsins og með hliðsjón af framlagðri tímaskýrslu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 2.000.000 króna í málskostnað.

Fyrir hönd stefnanda flutti málið Kristján B. Thorlacius hæstaréttarlögmaður og fyrir hönd stefnda Fanney Rós Kristjánsdóttir hæstaréttarlögmaður.

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Steindóri Inga Erlingssyni, 2.200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. janúar 2016 til 25. nóvember 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 2.000.000 krónur í málskostnað.