Print

Mál nr. 623/2016

Neytendastofa (Ólafur Helgi Árnason hrl., Eiríkur Áki Eggertsson hdl.  4. prófmál) og Sigurður Freyr Magnússon (Lúðvík Örn Steinarsson hrl., Diljá Mist Einarsdóttir hdl. 1. prófmál)
gegn
Íslandsbanka hf. (Jóhannes Karl Sveinsson hrl., Áslaug Árnadóttir hdl. 3. prófmál)
Lykilorð
  • Skuldabréf
  • Neytendalán
  • Vextir
  • Lagaskil
  • Stjórnsýsla
  • Valdþurrð
Reifun

Í hf. krafðist þess að felldur yrði úr gildi úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að bankinn hefði brotið gegn 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán, með því að tilgreina ekki í tilteknum lánssamningi við S við hvaða aðstæður vextir breyttust, auk þess sem Í hf. var bannað að breyta vöxtum samkvæmt 4. lið skilmála lánssamningsins. Hæstiréttur vísaði til þess að er S beindi erindi til Neytendastofu vegna viðskipta sinna við Í hf. hefðu lög nr. 121/1994 verið fallin úr gildi og í þeirra stað komin lög nr. 33/2013, en öll atvik, er erindi S laut að, gerðust í tíð eldri laganna. Þá var vísað til þess að sömu reglur giltu eftir lögum nr. 33/2013 og giltu í tíð laga nr. 121/1994 um skyldur lánveitanda til að gefa neytanda upplýsingar um vexti við gerð lánssamnings og einnig um eftirlit Neytendastofu með neytendalánum, úrræði stofnunarinnar vegna brota á lagaákvæðum um þau og meðferð mála um beitingu slíkra úrræða. Taldi Hæstiréttur að þrátt fyrir ófullkomið ákvæði um lagaskil í 36. gr. laga nr. 33/2013 hefði nægilega skýr lagaheimild búið að baki ákvörðun Neytendastofu og úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að í fyrirsögn skuldabréfs S segði að það bæri fasta vexti hefði vegna ákvæðanna í 4. lið skilmála þess um heimild lánveitanda til að endurskoða hæð vaxta skuldin í raun borið breytilega vexti í skilningi 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994. Hefði því borið að tilgreina í skuldabréfinu við hvaða aðstæður mætti beita þeirri heimild. Taldi Hæstiréttur að þeim áskilnaði hefði ekki verið fullnægt í þessu tilviki þar sem ákvæði skuldabréfsins hefði einungis snúið að aðferð til að hrinda í framkvæmd breytingu á vöxtum en ekki tilefninu til að taka ákvörðun um hana. Um slíkt tilefni hefði þar ekkert verið sagt. Þegar að þessum sökum uppfylltu skilmálar skuldabréfsins ekki það skilyrði 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994 að þar yrði að tilgreina við hvaða aðstæður breyta mætti vöxtum af skuld S. Fékk það engu breytt í þessu sambandi að S hefði getað vikist undan breytingunni með því að greiða upp skuld sína án sérstaks kostnaðar, enda hefði S átt rétt á því að Í hf. stæði fyrir sitt leyti við lögmæta skilmála gagnkvæms lánssamnings þeirra. Voru Neytendastofa og S því sýknuð af kröfu Í hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjendur skutu málinu hvor fyrir sitt leyti til Hæstaréttar 8. september 2016 að fengnu áfrýjunarleyfi. Þeir krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi áfrýjandans Neytendastofu.

I

 Mál þetta á rætur að rekja til þess að áfrýjandinn Sigurður Freyr Magnússon gaf út skuldabréf 23. ágúst 2005 til Íslandsbanka hf., sem síðar fékk heitið Glitnir banki hf. Fyrir liggur að á þeim tíma var áfrýjandinn, sem eftir gögnum málsins er verkfræðingur og hagfræðingur að mennt, starfsmaður bankans. Í yfirskrift skuldabréfsins kom fram að það væri „bundið vísitölu neysluverðs með vaxtaendurskoðunarákvæði“ og stóðu jafnframt þar við hlið orðin: „Fastir vextir“. Skuldabréfið var að fjárhæð 6.000.000 krónur, sem tæki breytingum í samræmi við fyrrnefnda vísitölu, og átti skuldin að bera 4,15% ársvexti, en hana skyldi greiða með 300 jöfnum mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 2. október 2005. Í skuldabréfinu var meðal annars svofellt ákvæði: „4. Vaxtaendurskoðun. Íslandsbanka hf. er heimilt að breyta ofanskráðum vöxtum á vaxtagjalddögum en þó ekki fyrr en að liðnum fimm árum frá útgáfudegi skuldabréfs þessa og síðan á fimm ára fresti. Eigi síðar en einum mánuði áður en breyting á vöxtum á að taka gildi skal Íslandsbanki hf. tilkynna útgefanda um hana. Sætti útgefandi sig ekki við þessa vaxtabreytingu er honum heimilt án sérstaks uppgreiðslugjalds að endurgreiða lánið að fullu ásamt áföllnum vöxtum, verðbótum og kostnaði á þeim vaxtagjalddaga þegar breytingin átti að taka gildi, enda greini hann lánveitanda frá þeirri fyrirætlan með tveggja vikna fyrirvara.“ Áður en skuldabréfið var gefið út hafði áfrýjandinn 22. ágúst 2005 undirritað tryggingarbréf til Íslandsbanka hf. fyrir greiðslu hvers kyns skuldbindinga sinna við bankann að fjárhæð allt að 6.600.000 krónur, sem bundin var vísitölu á sama hátt og fjárhæð skuldabréfsins. Var bankanum þar veittur 3. veðréttur í nánar tilgreindri fasteign í eigu annars manns að baki verðtryggðum veðskuldum að upphaflegri fjárhæð samtals 5.935.000 krónur. Óumdeilt er að áfrýjandinn hafi ávallt haldið skuld sinni samkvæmt skuldabréfinu í fullum skilum.

Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd. Í framhaldi af því ráðstafaði Fjármálaeftirlitið 14. sama mánaðar tilteknum réttindum og skyldum félagsins til nýs banka, sem nú ber heiti stefnda, og er óumdeilt að meðal þeirra hafi verið fyrrnefnt skuldabréf, sem áfrýjandinn Sigurður gaf út 23. ágúst 2005.

Stefndi lét frá sér fara tilkynningu 24. mars 2010 um að hann hafi ákveðið að „fresta vaxtaendurskoðun verðtryggðra og erlendra húsnæðislána bankans sem eru á vaxtaendurskoðun á þessu ári, til ársins 2013.“ Fram kom að stefndi teldi ljóst að hækka þyrfti vexti af húsnæðislánum vegna breyttra aðstæðna á markaði, en sökum „þess árferðis sem ríkir hjá heimilum í landinu“ hafi verið ákveðið að gefa lántökum kost á að „fresta vaxtaendurskoðun í 3 ár til viðbótar.“ Til þess að neyta þessa boðs þyrfti lántaki að skila til stefnda útfyllu umsóknareyðublaði. Ágreiningslaust er að áfrýjandinn Sigurður hafi nýtt sér þetta.

Stefndi sendi áfrýjandanum Sigurði bréf 24. júlí 2013 með fyrirsögninni: „Tilkynning um vaxtaendurskoðun“, þar sem vísað var til þess að fyrrgreint skuldabréf væri „með endurskoðunardag vaxta á gjalddaga í september 2013.“ Skuldin bæri sem stæði 4,15% ársvexti, en á gjalddaga afborgunar og vaxta í september 2013 yrði vaxtahæð breytt í 4,85%. Fram kom að áfrýjandanum stæði til boða „endurfjármögnun á hagstæðum kjörum“ og myndi stefndi hvorki krefjast lántökugjalds ef áfrýjandinn tæki því boði fyrir 24. október 2013 né þyrfti hann að greiða stimpilgjald. Væri fjárhæð skuldarinnar hærri en sem næmi 70% af fasteignamatsverði eignar, sem stæði að veði fyrir henni, byði stefndi þann kost að skipta skuldinni í tvennt, annars vegar í húsnæðislán, sem bæri 3,85% ársvexti, og hins vegar viðbótarlán með 4,85% ársvöxtum. Í báðum tilvikum var miðað við að skuldin yrði verðtryggð, en einnig bauð stefndi að hún gæti orðið án verðtryggingar og með tilteknum hærri vöxtum. Þá var eftirfarandi tekið fram: „Hafi húsnæðislán verið með greiðslujöfnun fellur hún niður samhliða endurfjármögnun. Staða á greiðslujöfnunarreikningi leggst við lánið frá sama tímamarki. Einnig er vakin athygli á því að hægt er að greiða upp húsnæðislánið án uppgreiðslugjalds í tengslum við vaxtaendurskoðun þessa.“ Fyrir liggur að áfrýjandinn þáði hvorki boð um að breyta formi skuldarinnar né greiddi hann hana upp.

Áfrýjandinn Sigurður ritaði 8. desember 2013 bréf til áfrýjandans Neytendastofu, þar sem greint var að nokkru frá framangreindum atvikum og leitað úrlausnar þess síðarnefnda um hvort ákvæði í skuldabréfinu frá 23. ágúst 2005 um endurskoðun vaxta stæðist lög nr. 121/1994 um neytendalán, einkum 6. og 9. gr. þeirra, svo og hvort viðskiptahættir stefnda í þessum efnum gætu talist réttmætir. Að fengnum andsvörum stefnda, svo og frekari athugasemdum áfrýjandans Sigurðar og stefnda, lét áfrýjandinn Neytendastofa frá sér fara ákvörðun 23. september 2014. Var niðurstaða hennar dregin saman með eftirfarandi orðum: „Íslandsbanki hf. ... hefur brotið gegn ákvæðum 6. og 9. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán, með því að tilgreina ekki í vaxtaendurskoðunarákvæði neytendaláns við hvaða aðstæður vextir breytist. Með vísan til 26. gr. laga nr. 121/1994 er Íslandsbanka bönnuð notkun vaxtaendurskoðunarákvæðisins.“

Stefndi skaut þessari ákvörðun til áfrýjunarnefndar neytendamála 20. október 2014 og kvað hún upp úrskurð 19. júní 2015 með svofelldum úrskurðarorðum: „Íslandsbanki hf. hefur brotið gegn 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán með því að tilgreina ekki í lánssamningi bankans og Sigurðar Freys Magnússonar frá 23. ágúst 2005 við hvaða aðstæður vextir breyttust. Með vísan til 3. mgr. 29. gr. laga nr. 33/2012, sbr. 26. gr. laga nr. 121/1994, er bankanum bannað að breyta vöxtum samkvæmt 4. gr. skilmála lánssamningsins.“ Í úrskurðarorðum þessum hefur bersýnilega orðið sú misritun að vísað var til laga nr. 33/2012 í stað laga nr. 33/2013 um neytendalán.

Stefndi höfðaði mál þetta 8. og 9. september 2015 og var með hinum áfrýjaða dómi tekin til greina krafa hans um að úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála yrði felldur úr gildi.

II

Áfrýjandinn Sigurður beindi sem áður segir erindi vegna framangreindra viðskipta til áfrýjandans Neytendastofu með bréfi 8. desember 2013. Á þeim tíma voru lög nr. 121/1994 fallin úr gildi og í þeirra stað komin lög nr. 33/2013, en öll atvik, sem þetta erindi laut að, gerðust í tíð eldri laganna. Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 33/2013, eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 85/2013, var nánar tiltekið mælt fyrir um að fyrrnefndu lögin tækju gildi 1. nóvember 2013 og féllu úr gildi frá sama tíma lög nr. 121/1994 með síðari breytingum. Þó skyldi 37. gr. laga nr. 33/2013 öðlast gildi þegar í stað, en hún varðar á engan hátt ágreining í máli þessu. Þá var tekið fram í 2. mgr. 36. gr. laganna að 13. til 15. gr., 2. mgr. 19. gr. og 20. gr. þeirra skyldu „gilda um opna lánssamninga, sbr. 15. gr., sem eru í gildi við gildistöku laga þessara.“ Að öðru leyti en þessu voru engin fyrirmæli um skil eldri laga og yngri í lögum nr. 33/2013 og var því ekkert sagt þar berum orðum um hvernig fara ætti eftir gildistöku þeirra með tilvik, þar sem brotið kynni að hafa verið fyrir það tímamark gegn ákvæðum laga nr. 121/1994. Um það efni verða engar ályktanir dregnar af áðurnefndri 2. mgr. 36. gr. laga nr. 33/2013, enda er þar aðeins að finna sérreglu um beitingu tiltekinna efnisreglna laganna um opna lánssamninga, sem gerðir voru fyrir gildistöku þeirra, en samkvæmt o. lið 5. gr. laga nr. 33/2013, sbr. 6. gr. laga nr. 36/2017, er með því hugtaki átt við lánssamninga, þar sem neytanda er gert kleift að fá endurtekna fyrirgreiðslu innan umsaminnar úttektarheimildar. Er þess og að gæta að skuldabréfið, sem áfrýjandinn Sigurður gaf út 23. ágúst 2005, er ekki því marki brennt.

Samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1994 hvíldi skylda á lánveitanda við gerð lánssamnings til að veita neytanda upplýsingar um vexti, en í 2. mgr. sömu lagagreinar var tekið fram að ef breyta mætti lánskostnaði, afborgunum eða öðrum atriðum lánskjara á samningstímanum bæri lánveitanda að greina neytanda frá því við hvaða aðstæður breytingarnar gætu orðið. Einnig kom fram í 9. gr. laganna að heimilt væri að ákveða í lánssamningi að vextir yrðu að nokkru leyti eða öllu breytilegir, en þá skyldi greina þar frá vöxtum á þeim tíma, sem upplýsingar væru gefnar, með hvaða hætti vextirnir væru breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breyttust. Í stað þessara fyrirmæla, sem áfrýjandinn Neytendastofa og áfrýjunarnefnd neytendamála töldu Íslandsbanka hf. ekki hafa fylgt við gerð lánssamningsins við áfrýjandann Sigurð 23. ágúst 2005, eru nú komin ákvæði í f. lið 4. mgr. 7. gr. og f. lið 2. mgr. 12. gr. laga nr. 33/2013. Samkvæmt því fyrrnefnda ber lánveitanda áður en lánssamningur er gerður að veita neytanda upplýsingar um útlánsvexti, þar á meðal um tímabil, skilyrði og málsmeðferð við breytingu á þeim. Eftir síðarnefnda ákvæðinu er skylt að greina frá sömu atriðum í lánssamningi. Þá er þess að gæta að í d. lið og s. lið 5. gr. laga nr. 33/2013, sbr. 6. gr. laga nr. 36/2017, er að finna skilgreiningu á hugtökunum útlánsvextir og fastir útlánsvextir. Samkvæmt síðarnefnda stafliðnum er með útlánsvöxtum átt við vexti, sem eru tilgreindir sem fast eða breytilegt hlutfall og lagðir á lánsfjárhæð á ársgrundvelli. Eftir fyrrnefnda stafliðnum er um að ræða fasta útlánsvexti ef lánveitandi og neytandi samþykkja í lánssamningi sömu útlánsvexti á öllu lánstímabilinu eða mismunandi vexti á mismunandi tímabilum sé eingöngu notað fast tiltekið hlutfall. Þótt þessi ákvæði laga nr. 33/2013 séu um sumt ítarlegri en eldri reglur í 6. og 9. gr. laga nr. 121/1994 bera lánveitendur nú eins og áður skyldu til að gefa upplýsingar um vexti við gerð lánssamnings, en við úrlausn um hvort slíkra skyldna hafi verið gætt í tíð eldri laga verður eðli máls samkvæmt eingöngu tekið mið af ákvæðum þeirra.

Með fyrri málslið 1. mgr. 25. gr. laga nr. 121/1994 var áfrýjandanum Neytendastofu falið eftirlit með ákvæðum þeirra laga. Það sama segir nú um ákvæði laga nr. 33/2013 í fyrri málslið 1. mgr. 29. gr. þeirra. Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 25. gr. laga nr. 121/1994, svo sem honum var breytt með 2. gr. laga nr. 34/2007, giltu um úrræði áfrýjandans Neytendastofu og málsmeðferð hans ákvæði laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Við setningu laga nr. 34/2007 báru lög nr. 57/2005 þetta heiti, en þau eru nú kennd við eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, sbr. 4. gr. laga nr. 50/2008. Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. b. laga nr. 57/2005 gat áfrýjandinn Neytendastofa gripið til aðgerða gegn viðskiptaháttum, sem brutu gegn tilgreindum ákvæðum laganna, en þær aðgerðir gátu falið í sér bann, fyrirmæli eða heimild með ákveðnu skilyrði. Eftir 22. og 23. gr. sömu laga gat áfrýjandinn jafnframt lagt á stjórnvaldssektir og dagsektir vegna brota gegn þeim. Í 3. mgr. 29. gr. laga nr. 33/2013 er nú mælt fyrir um að áfrýjandinn Neytendastofa geti gripið til aðgerða gagnvart þeim, sem brjóta gegn ákvæðum II. til VII. kafla laganna, en fyrrnefnd 7. gr. laganna heyrir til II. kafla þeirra og 12. gr. til IV. kafla. Samkvæmt 3. mgr. 29. gr. laga nr. 33/2013 geta slíkar aðgerðir áfrýjandans falið í sér bann, fyrirmæli eða heimild með ákveðnu skilyrði, en í 30. og 31. gr. laganna er honum einnig heimilað að leggja á stjórnvaldssektir og dagsektir vegna brota gegn þeim. Með 2. mgr. 25. gr. laga nr. 121/1994 var heimilað að skjóta ákvörðunum áfrýjandans Neytendastofu á grundvelli laganna til áfrýjunarnefndar neytendamála og segir það sama nú í 3. mgr. 29. gr. laga nr. 33/2013. Þá var í 3. og 4. mgr. 25. gr. laga nr. 121/1994 mælt fyrir, á sama hátt og nú er gert í 4., 5. og 6. mgr. 29. gr. laga nr. 33/2013, um að ekki mætti bera ákvörðun áfrýjandans Neytendastofu undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála lægi fyrir, höfða mætti mál til ógildingar á slíkum úrskurði og skyldi það gert innan sex mánaða frá því að hlutaðeigandi málsaðili fengi vitneskju um úrskurðinn. Samkvæmt þessu öllu gilda sömu reglur eftir lögum nr. 33/2013 og giltu í tíð laga nr. 121/1994 um eftirlit áfrýjandans Neytendastofu með neytendalánum, úrræði hans vegna brota á lagaákvæðum um þau og meðferð mála um beitingu slíkra úrræða.

 Svo sem rakið er að framan bera lánveitendur tilteknar skyldur samkvæmt lögum nr. 33/2013 gagnvart neytendum til að veita upplýsingar um vexti í aðdraganda lánssamnings og við gerð hans og eru þær skyldur ekki minni en eftir áðurgildandi lögum nr. 121/1994. Eftirlit með því hvort slíkum skyldum hafi verið sinnt, úrræði vegna brota gegn þeim og meðferð mála um þau brot er á sama veg eftir fyrirmælum yngri laga og var eftir eldri lögum. Fram hjá því verður heldur ekki horft að áhrifa af broti gegn reglum um upplýsingaskyldu lánveitanda í lögum nr. 121/1994 gat hæglega enn gætt eða þau fyrst komið fram eftir gildistöku laga nr. 33/2013 í tilvikum, þar sem lánssamningar höfðu ekki runnið skeið sitt á enda við lagaskilin, en ekki getur staðist að ætlun löggjafans hafi verið sú að eftir þau tækju hvorug lögin til slíkra tilvika. Þrátt fyrir ófullkomin ákvæði um lagaskil í 36. gr. laga nr. 33/2013 verður því að líta svo á að nægilega skýr lagaheimild hafi búið að baki ákvörðun áfrýjandans Neytendastofu 23. september 2014 og úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála 19. júní 2015, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 2. október 2008 í máli nr. 640/2007.

III

Eins og áður kom fram var kveðið á um það í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1994 að væri heimild veitt í lánssamningi til að breyta lánskostnaði, afborgunum eða öðrum atriðum lánskjara skyldi þar greint frá því við hvaða aðstæður gera mætti breytingarnar. Í 9. gr. laganna var þetta sérstaklega áréttað um vexti með því að tekið var fram að ákveða mætti í lánssamningi að þeir yrðu að nokkru eða öllu leyti breytilegir, en þá skyldi meðal annars tiltekið með hvaða hætti það væri og við hvaða aðstæður vextirnir myndu breytast. Hvað sem líður fyrrgreindri fyrirsögn skuldabréfsins, sem áfrýjandinn Sigurður gaf út 23. ágúst 2005, er ljóst að þegar vegna ákvæðanna í 4. lið skilmála þess um heimild lánveitandans til að endurskoða hæð vaxta af skuld áfrýjandans bar hún ekki fasta, heldur breytilega vexti í skilningi áðurnefndra lagaákvæða. Í samræmi við þau hefði lánveitandanum því borið að tilgreina í skuldabréfinu við hvaða aðstæður mætti beita þessari heimild. Þeim áskilnaði var ekki fullnægt með því að taka aðeins fram að lánveitandinn gæti einhliða ákveðið að breyta hæð vaxta, að það mætti ekki gera fyrr en fimm árum eftir útgáfu skuldabréfsins og síðan aftur á fimm ára fresti og að honum bæri að tilkynna lántaka um slíka breytingu með eins mánaðar fyrirvara, enda sneru þau ákvæði í skuldabréfinu að aðferð til að hrinda í framkvæmd breytingu á vöxtum, en ekki tilefninu til að taka ákvörðun um hana. Um slíkt tilefni var þar ekkert sagt. Þegar af þessum sökum uppfylltu skilmálar skuldabréfsins ekki það skilyrði 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994 að þar yrði að tilgreina við hvaða aðstæður breyta mætti vöxtum af skuld áfrýjandans Sigurðar. Engu getur breytt við úrlausn málsins að áfrýjandinn hefði getað vikist undan breytingu á vaxtahæð eftir einhliða ákvörðun stefnda með því að greiða upp skuld sína án sérstaks kostnaðar, enda átti áfrýjandinn rétt á því að stefndi stæði fyrir sitt leyti við lögmæta skilmála gagnkvæms lánssamnings þeirra. Samkvæmt þessu og með því að málsástæður, sem stefndi hefur að öðru leyti borið fyrir sig, eru haldlausar verða áfrýjendur sýknaðir af kröfu hans.

Stefnda verður gert að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi handa hvorum þeirra svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjendur, Neytendastofa og Sigurður Freyr Magnússon, eru sýknir af kröfu stefnda, Íslandsbanka hf.

Stefndi greiði hvorum áfrýjanda fyrir sig samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. apríl 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var 14. mars sl., er höfðað með stefnu þingfestri í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 17. september 2015 af Íslandsbanka hf., Kirkjusandi, 105 Reykjavík, á hendur Neytendastofu, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, og Sigurði Frey Magnússyni, Fróðaþingi 40, 203 Kópavogi.

I.

        Stefnandi krefst þess að felldur verði úr gildi með dómi úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála frá 19. júní 2015 í málinu nr. 20/2014, um að stefnandi hafi brotið gegn 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán, með því að tilgreina ekki í lánssamningi stefnanda og stefnda Sigurðar Freys Magnússonar frá 23. ágúst 2005 við hvaða aðstæður vextir breyttust, og að banna stefnanda að breyta vöxtum samkvæmt 4. tölul. skilmála lánssamningsins.

        Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda Neytendastofu.

        Stefndi, Neytendastofa, gerir þær dómkröfur að hann verði  sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins.

         Stefndi, Sigurður Freyr Magnússon, gerir þær kröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.

II.

Málsatvik

        Helstu málsatvik eru þau að stefndi Neytendastofa tók kvörtun stefnda, Sigurðar Freys Magnússonar, dags. 8. desember 2013, til stjórnsýslumeðferðar og veitti kvartanda stöðu aðila að málinu, sbr. bréf til stefnanda, dags. 15. janúar 2014. 

        Erindi kvartanda sneri annars vegar að því að hann taldi skort á upplýsingum í tengslum við vaxtaendurskoðunarheimild stefnanda brjóta gegn ákvæðum 6. og 9. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán, en þau höfðu fallið úr gildi 1. nóvember 2013. Hins vegar taldi kvartandi vaxtahækkun stefnanda brjóta gegn góðum viðskiptaháttum.

       Stefndi, Sigurður Freyr, hafði 23. ágúst 2005 gefið út veðskuldabréf nr. [...] að fjárhæð 6.000.000 kr. til Íslandsbanka hf. Samhliða gáfu stefndi, Sigurður Freyr, og Perla Björk Egilsdóttir út tryggingarbréf þar sem fasteignin að [...], Reykjavík, [...], var sett að veði á 3. veðrétti til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á allt að 6.600.000 kr. Í fyrirsögn skuldabréfsins segir að um sé að ræða „Skuldabréf bundið vísitölu neysluverðs með vaxtaendurskoðunarákvæði“. Þá segir einnig að það beri fasta vexti og vextir eru tilgreindir 4,15% í skuldabréfinu. Í 4. tölulið skilmála skuldabréfsins, sem er auðkenndur með fyrirsögninni „vaxtaendurskoðun“, er kveðið á um að Íslandsbanka hf. sé heimilt að breyta vöxtum þeim sem kveðið er á um í skuldabréfinu á vaxtagjalddögum, en þó ekki fyrr en að liðnum fimm árum frá útgáfudegi skuldabréfsins og síðan á fimm ára fresti. Bankinn skuli tilkynna útgefanda um breytingu eigi síðar en einum mánuði áður en hún eigi að taka gildi. Þá kemur fram í ákvæðinu að ef útgefandi sætti sig ekki við slíka breytingu sé honum heimilt án sérstaks uppgreiðslugjalds að endurgreiða lánið að fullu ásamt áföllnum vöxtum, verðbótum og kostnaði á þeim vaxtagjalddaga þegar breytingin átti að taka gildi, enda tilkynni hann lánveitanda um þá fyrirætlan með tveggja vikna fyrirvara.

        Framangreindri veðsetningu var síðar aflétt af fasteigninni.

        Stefnandi tók við réttindum Íslandsbanka hf., síðar Glitnis hf., vegna hins umdeilda skuldabréfs á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, dags. 14. október 2008, sbr. a-lið 100. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008.

        Stefnandi ákvað á árunum 2009-2011 að bjóða lántakendum lána með skuldabréf, sem gefin voru út á árunum 2004-2006 og voru með ákvæði um vaxtaendurskoðun að liðnum fimm árum, að óska eftir frestun á vaxtaendurskoðun í allt að þrjú ár. Bréf þess efnis var sent á alla sem voru með slík lán og þeim bent á að skila inn umsókn um frestun á vaxtaendurskoðun. Vextir á lánum þeirra sem ekki nýttu sér frestinn hækkuðu í 5,6%, en það eru sömu vaxtakjör og voru á nýjum lánum stefnanda á þeim tíma. Þeir sem sóttu um frestun á vaxtaendurskoðun nutu óbreyttra vaxtakjara og var stefndi Sigurður einn af þeim.

        Þegar vaxtaendurskoðun á umræddum lánum hófst aftur vorið 2012 kemur fram að stefnandi hafi talið sig geta boðið hagstæðari kjör á nýjum lánum vegna breyttra aðstæðna, hagkvæmari fjármögnunar og lægra vaxtastigs. Hafi þeim sem tóku lán, þar sem veðsetningarhlutfall var innan við 70% af fasteignamati og lánin eru á fyrsta veðrétti, verið boðnir 3,85%-4,10% vextir, en jafnframt var viðskiptavinum boðið að skipta yfir í óverðtryggt lán eða greiða lánið upp án uppgreiðslukostnaðar. Í þeim tilvikum þar sem veðsetningarhlutfall var yfir 70% af fasteignamati eða lán voru ekki á fyrsta veðrétti var lántakendum tilkynnt að vextir hækki í 4,75%-4,95%. Þessir lántakendur voru jafnframt upplýstir um að unnt væri að lækka umrædda vexti með því að skipta láninu í tvo hluta, þannig að annar hlutinn sé innan 70% af fasteignamati og hinn utan þess hlutfalls, en slík skipting leiddi yfirleitt til þess að vextir yrðu í heild lægri en fyrir vaxtaendurskoðun.

        Umsamin vaxtaendurskoðun á lánssamningi stefnda, Sigurðar Freys, og stefnanda kom árið 2013 og var stefnda, Sigurði Frey, tilkynnt með bréfi, dags. 24. júlí 2013, að umrætt skuldabréf væri með endurskoðunardag vaxta á gjalddaga í september 2013. Í bréfinu kom fram að verðtryggðir vextir samkvæmt skuldabréfinu væru 4,15% en á gjalddaga í september yrði þeim breytt í 4,85% fram að næstu endurskoðun vaxta. Í bréfinu var jafnframt bent á möguleika á endurfjármögnun á hagstæðum kjörum. Stefndi Sigurður andmælti vaxtabreytingunni. Leitað var sátta, en stefndi Sigurður hafnaði boðum stefnanda.

        Hinn 8. desember 2013 kvartaði stefndi Sigurður, eins og rakið hefur verið, til Neytendastofu yfir téðri endurskoðun stefnanda á vöxtum láns samkvæmt skuldabréfinu. Stefndi, Neytendastofa, fjallaði um kvörtunina í ákvörðun nr. 44/2014 frá 20. október 2014 og varð það niðurstaða stofnunarinnar að stefnandi hefði brotið gegn 6. og 9. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán með því að tilgreina ekki í vaxtaendurskoðunarákvæði lánsins við hvaða aðstæður vextir þess breyttust. Þá var stefnanda bönnuð notkun vaxtaendurskoðunarákvæðisins með vísan til 26. gr. laga nr. 121/1994. Stefnandi kærði ákvörðun stefnda, Neytendastofu, til áfrýjunarnefndar neytendamála hinn 23. september 2014. Áfrýjunarnefndin úrskurðaði í málinu, sem er nr. 20/2014, hinn 19. júní 2015. Það var niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar að stefnandi hefði brotið gegn 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán með því að tilgreina ekki í lánssamningi bankans og stefnda Sigurðar frá 23. ágúst 2005 við hvaða aðstæður vextir breyttust. Var stefnanda bannað að breyta vöxtum samkvæmt skilmálum lánssamningsins með vísan til 3. mgr. 29. gr. laga nr. 33/2012, sbr. 26. gr. laga nr. 121/1994. Stefnandi var ósammála þessari niðurstöðu og höfðaði mál þetta.

III.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

        Stefnandi byggir ógildingarkröfu sína á tveimur meginröksemdum. Í fyrsta lagi telur stefnandi áfrýjunarnefnd neytendamála ekki hafa haft heimild til töku framangreindrar ákvörðunar á þeim lagagrundvelli sem vísað er til. Í öðru lagi telur stefnandi umrætt vaxtaendurskoðunarákvæði og ákvarðanir bankans um breytingu vaxta á grundvelli ákvæðisins að öllu leyti í samræmi við lög og reglur.

        Varðandi valdþurrð áfrýjunarnefndar neytendamála vísar stefnandi til þess að í ákvörðunarorðum áfrýjunarnefndarinnar segi m.a.: „Með vísan til 3. mgr. 29. gr. laga nr. 33/2012, sbr. 26. gr. laga nr. 121/1994, er bankanum bannað að breyta vöxtum samkvæmt 4. gr. skilmála lánssamningsins.“ Stefnandi telur að áfrýjunarnefnd neytendamála geti ekki byggt ákvörðun sína á greindum lagagrundvelli. Með gildistöku nýrra laga um neytendalán, nr. 33/2013, hinn 1. nóvember 2013, hafi eldri lög um neytendalán, nr. 121/1994, í heild sinni fallið úr gildi, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 33/2013. Lög nr. 121/1994 hafi því fallið úr gildi rúmum mánuði áður en kvörtun í málinu var lögð fram. Í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 33/2013 séu tæmandi talin þau ákvæði nýju laganna sem skyldu gilda um opna lánssamninga við lagaskilin. Viðurlagaákvæði 29. gr. núgildandi laga séu ekki þeirra á meðal.

        Í 3. mgr. 29. gr. laga nr. 33/2013, sem ákvörðun áfrýjunarnefndar neytendamála byggi á, sé kveðið á um heimild Neytendastofu til að grípa til aðgerða gegn aðilum sem brjóta gegn ákvæðum II.–VIII. kafla laga nr. 33/2013 eftir því sem við getur átt. Neytendastofu sé hins vegar ekki veitt heimild í lögum nr. 33/2013 til að grípa til úrræða ef stofnunin telur að brotið hafi verið gegn ákvæðum eldri laga um neytendalán.

        Stefnandi byggir á því að heimildir Neytendastofu til að bregðast við brotum á lögum nr. 121/1994 annars vegar og lögum nr. 33/2013 hins vegar séu ekki sambærilegar. Þannig hafi Neytendastofa getað bannað athafnir sem brutu í bága við ákvæði laga nr. 121/1994 á grundvelli 26. gr. laganna og mátti ákvörðun um dagsektir fylgja banninu. Í 3. mgr. 29. gr. laga nr. 33/2013 sé hins vegar kveðið á um að aðgerðir Neytendastofu vegna brota á ákvæðum II.–VIII. kafla laganna geti falið í sér bann, fyrirmæli eða heimild með ákveðnu skilyrði. Þá séu efnisákvæði eldri og yngri laga um neytendalán hvað varðar upplýsingagjöf um vexti ekki sambærileg, en mun ítarlegri ákvæði um upplýsingagjöf lánveitanda séu í núgildandi lögum um neytendalán nr. 33/2013 en voru í lögum nr. 121/1994.

          Því hafi engin lagaheimild verið fyrir áfrýjunarnefnd neytendamála til að leggja bann við notkun skilmála skuldabréfs sem gefið var út í tíð eldri laga og því hafði áfrýjunarnefnd neytendamála ekki heimild til að banna stefnanda að breyta vöxtum á grundvelli skilmála veðskuldabréfs nr. [...].

        Heimildir stjórnvalda til að taka ákvarðanir verði að styðjast við skýrar lagaheimildir. Það sé enn mikilvægara að lagastoð sé skýr þegar teknar eru mjög íþyngjandi ákvarðanir. Umrædd ákvörðun Neytendastofu sé mjög íþyngjandi fyrir stefnanda og geti haft áhrif á þúsundir annarra lána.

        Þar sem engin lagastoð var fyrir umræddri ákvörðun ber að fella hana úr gildi.

        Verði ekki fallist á framangreindar röksemdir byggir stefnandi jafnframt á því að ákvörðun áfrýjunarnefndar neytendamála byggi ranglega á ákvæðum 9. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán. Þá er byggt á því að áfrýjunarnefndin hafi byggt á rangri túlkun á 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán auk þess sem áfrýjunarnefndin hafi gengið lengra en tilefni var til með greindri ákvörðun.

        Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að ákvæði 9. gr. laga nr. 121/1994 eigi ekki við um ákvæði umrædds skuldabréfs. Í 9. gr. laganna segi að heimilt sé að semja um að vextir séu að nokkru eða öllu leyti breytilegir og eru þar sett þau skilyrði fyrir því að samið sé um breytilega vexti að greint skuli frá vöxtum eins og þeir eru á þeim tíma sem upplýsingarnar eru gefnar, að tilgreint skuli með hvaða hætti vextirnir eru breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breytast. Alþekkt er á bankamarkaði að semja um breytilega vexti og er í flestum tilvikum samið um að vextir breytist í takt við þróun nánar tiltekinna breytna á markaði.

        Stefnandi telur ljóst að það samningsákvæði skuldabréfsins sem úrskurður áfrýjunarnefndarinnar tekur til kveði ekki á um breytilega vexti heldur beri skuldabréfið fasta vexti, eins og skýrlega kemur fram í fyrirsögn skuldabréfsins, þar sem skrifað er með hástöfum fastir vextir. Í 4. tölul. skuldabréfsins sé að finna vaxtaendurskoðunarákvæði, sem felur í sér sérstaka heimild til að breyta föstum vöxtum skuldabréfsins að liðnum fimm árum frá útgáfudegi skuldabréfsins og síðan á fimm ára fresti eftir það. Í skuldabréfinu komi fram að hyggist stefnandi nýta þessa sérstöku heimild til vaxtaendurskoðunar skuli tilkynnt um það minnst mánuði áður en breyting á vöxtum tekur gildi. Af þessum sökum verði 9. gr. laganna ekki beitt um ákvæði skuldabréfsins. Þá verði ekki séð að úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála frá 25. september 2009 í mái nr. 6/2009, sem vísað er til í niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar, hafi fordæmisgildi í málinu, en í úrskurðinum sé fjallað um breytilega vexti og túlkun á 9. gr. laga nr. 121/1994.

        Í ljósi framangreinds telur stefnandi að einungis ákvæði 6. gr. laga nr. 121/1994 eigi við um upplýsingaskyldu lánveitanda varðandi fasta vexti. Í fyrri málslið 2. mgr. 6. gr. laganna sé sérstaklega fjallað um það þegar samið er um að breyta megi lánskostnaði, afborgunum eða öðrum atriðum lánskjara á samningstímanum, en ljóst sé að breytingar á vöxtum falli hér undir. Í ákvæðinu segi að í slíkum tilvikum skuli lánveitandi „greina neytanda frá því við hvaða aðstæður þær breytingar geta orðið“. Stefnandi telur ljóst að þetta skilyrði geti ekki falið í sér annað en að veita upplýsingar um það hvernig staðið sé að vaxtabreytingum, sbr. hefðbundna skýringu á orðinu „aðstaða“ í orðabókum en orðinu er gefin eftirfarandi merking: „hvernig einhver stendur að einverju.“

        Í úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála, sem hér sé leitað ógildingar á, var talið rétt að túlka orðið aðstaða þannig að lánveitanda væri skylt að upplýsa lántaka um allar breytur sem áhrif hefðu til hækkunar eða lækkunar á hlutfalli breytilegra vaxta lánssamningsins og ekki talið að máli skipti í því samhengi hvort einhver eða einhverjar af þeim breytum væru þess eðlis að lántaki gæti ekki aflað sér upplýsinga um breytingar á þeim.

        Stefnandi byggir á að, ef lagður yrði sá skilningur í orðið „aðstaða“ sem áfrýjunarnefnd neytendamála gerir, væri með öllu tilgangslaust að gera ítarlegri kröfur um upplýsingagjöf um breytilega vexti, skv. 9. gr. laganna en gert er í ákvæði 2. mgr. 6. gr. laganna sem heimilar breytingar á lánskjörum á samningstímanum. Sem fyrr greinir séu þær kröfur gerðar til upplýsingagjafar um breytilega vexti í síðasta málslið 9. gr. laga nr. 121/1994 að tilgreina skuli annars vegar með hvaða hætti vextir séu breytilegir og hins vegar við hvaða aðstæður þeir breytast. Þó að um mjög óskýrar kröfur sé að ræða þá sé það skilningur stefnanda að með hinu fyrrnefnda skilyrði, þ.e. að tilgreina í lánssamningi með hvaða hætti vextir séu breytilegir, sé gerð krafa um að tilgreina af hverju tekið sé mið þegar vextir breytast, svo sem breytingu á tilteknum vöxtum á millibankamarkaði, sem er sá skilningur sem áfrýjunarnefnd neytendamála leggur í orðið „aðstaða“. Síðarnefnda skilyrðið, þ.e. að tilgreina í lánssamningi við hvaða aðstæður vextir breytist, geti sem fyrr greinir ekki falið í sér annað en upplýsingar um það hvernig staðið sé að vaxtabreytingum.

        Stefnandi byggir á því að þar sem tilgreint sé hvernig standa ber að vaxtaendurskoðun í umræddu ákvæði skuldabréfsins séu skilyrði laga nr. 121/1994 um neytendalán uppfyllt. Nánar tiltekið sé kveðið á um það í ákvæðinu að til að bankinn geti nýtt sér þessa vaxtaendurskoðunarheimild þurfi fimm ár að líða frá útgáfu skuldabréfsins eða frá síðustu vaxtaendurskoðun, og að tilkynna skuli um fyrirhugaðar breytingar eigi síðar en mánuði  áður en breytingin á að taka gildi. Sætti útgefandi skuldabréfs sig ekki við vaxtabreytinguna geti hann greitt upp lánið án sérstaks uppgreiðslugjalds greini hann lánveitanda frá því innan tveggja vikna frá tilkynningu bankans.

        Stefnandi vísar til þess að kröfur um upplýsingaskyldu í lögum nr. 121/1994 um neytendalán séu mjög óskýrar. Verði, þvert gegn væntingum stefnanda, fallist á með áfrýjunarnefnd neytendamála að um hafi verið að ræða ófullnægjandi upplýsingagjöf og að 9. gr. laga nr. 121/1994 eigi við um breytingar á föstum vöxtum, byggir stefnandi á því að það eigi þó ekki að leiða til þess að lagt verði bann við notkun stefnanda á umræddum skilmálum um vaxtaendurskoðun. Stefnandi byggir á því að þær kröfur sem gerðar eru í ákvæðum 6. og 9. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán séu mjög óskýrar. Þannig sé ekki að finna neinar nánari skýringar á því hvað teljist fullnægjandi upplýsingar um það með hvaða hætti vextir séu breytilegir eða við hvaða aðstæður vextir breytist, hvorki í lögunum sjálfum né lögskýringargögnum.

        Stefnandi bendir á að úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála, sem krafist er ógildingar á í máli þessu, sé afar íþyngjandi fyrir stefnanda í ljósi þess að Neytendastofa hafi haft eftirlitsskyldu með framfylgd ákvæða laga nr. 121/1994 frá árinu 2005, sbr. 25. gr. laganna, með síðari breytingum. Stofnunin hafi í þessi tæplega 10 ár ekki gert athugasemdir við vaxtaendurskoðunarákvæði sem orðuð eru líkt og ákvæði það sem um er deilt í málinu þó að þau hafi almennt verið notuð af fjármálafyrirtækjum hér á landi á árunum 2004-2009 í trausti þess að um lögmæt samningsákvæði væri að ræða. Ákvörðunin hafi því áhrif á þúsundir annarra lána og ekki einungis íþyngjandi fyrir lánveitendur heldur jafnframt lántaka sem eiga möguleika á vaxtaendurskoðun til lækkunar. Við slíkar aðstæður beri að hafa í huga það lögskýringarsjónarmið að því meira íþyngjandi sem ákvörðun er því strangari kröfur séu gerðar til lagastoðar hennar.

        Þá verði jafnframt að hafa í huga að með ákvörðun áfrýjunarnefndar neytendamála sé verið að takmarka samningsfrelsi aðila. Meginreglan um samningsfrelsi sé ein af grundvallarreglum íslensks réttar og ljóst sé að skýra lagaheimild þurfi til að skerða frelsi til samninga.

        Í ljósi framangreinds telur stefnandi að lagastoð sú sem ákvörðun áfrýjunarnefndar neytendamála er byggð á sé ekki nægilega skýr til að hægt sé að byggja svo íþyngjandi ákvörðun á henni.

        Til viðbótar framangreindu byggir stefnandi á því að það þurfi líta til þess að óyggjandi sé að sú vaxtaendurskoðun sem átti sér stað á árinu 2013 var fyrirsjáanleg og byggð á málefnalegum sjónarmiðum, en almennt vaxtastig og kostnaður við fjármögnun bankans réðu mestu um ákvörðun vaxta. Stefnandi byggir á því að lántakanda hafi átt að vera ljóst að þegar samið er um hagstæðari vaxtakjör en gengur og gerist, eins og í fyrirliggjandi skuldabréfi lántakanda, þurfi lánveitandi að geta brugðist við utanaðkomandi aðstæðum með endurskoðun á vöxtum. Stefndi Sigurður Freyr hafi því mátt gera sér grein fyrir því að vextir gætu hækkað við vaxtaendurskoðun, en ekki verður séð að sú hækkun sem boðuð var í júlí 2013 hafi verið umfram slíkar væntingar og það sem almennt gerðist á markaði.

        Þegar vaxtaendurskoðunarákvæði séu skoðuð út frá sjónarhorni neytandans hljóti að skipta mestu máli að lánveitandi breyti ekki vöxtum eftir eigin geðþótta þannig að breytingin sé ómálefnaleg eða ósanngjörn. Neytendur sem gera samninga sem heimila vaxtaendurskoðun megi hins vegar gera ráð fyrir að breytingar geti orðið á vöxtum vegna utanaðkomandi atriða sem viðkomandi fjármálafyrirtæki getur ekki haft áhrif á, svo sem vegna breytinga í peningastefnu eða lánastefnu sem hefur áhrif á vaxtastig eða vegna annarra breytinga á vaxtastigi, breytinga á samningum við viðskiptaaðila banka, sem hafa áhrif á kostnað bankans, og svo framvegis. Í því tilliti er jafnframt bent á að við vaxtaendurskoðun á lánum sem voru tekin á árunum 2004-2006 lækkuðu vextir í 75% tilfella. Ef úrskurður áfrýjunarnefndarinnar stendur óbreyttur sé ekki bara verið að banna bankanum að hækka vexti heldur er líka lagt bann við því að bankinn geti lækkað vexti út lánstímann.

        Stefnandi bendir einnig á að helsti tilgangur upplýsingagjafar samkvæmt lögum um neytendalán sé að gera lántaka auðveldara að bera saman mismunandi lánstilboð. Ekki fáist séð að lántakandi hefði átt auðveldara með að bera saman tilboð lánveitanda þó legið hefði fyrir að við vaxtaendurskoðun yrði t.d. litið til vaxtastigs og kostnaðar við fjármögnun bankans að fimm árum liðnum. Það virðist þó mega ráða af úrskurði áfrýjunarnefndarinnar að þörf hefði verið á að tilgreina slík viðmið í ákvæði um vaxtaendurskoðun.

        Stefnandi telur ljóst að lántakandi hefði ekki, frekar en lánveitandi, getað vitað eða séð fyrir hvernig framangreindir þættir myndu þróast á lánstímanum. Í þessu samhengi sé jafnframt bent á að við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar var heimilt, samkvæmt 12. gr. laga um neytendalán nr. 121/1994, að miða við þá forsendu í upplýsingagjöf að vextir yrðu óbreyttir til loka lánstímans, þó að lánssamningur heimilaði breytingu á vöxtum. Ekki verði því séð að upplýsingagjöf um þá þætti sem áfrýjunarnefnd neytendamála telur að veita þurfi upplýsingar um hefði breytt neinu fyrir neytandann. Auk þess bendir stefnandi á að með vaxtaendurskoðunarákvæðinu var lántakandanum gert kleift að víkja sér undan mögulegri vaxtaendurskoðun með litlum tilkostnaði. Þannig er í skilmálum skuldabréfsins kveðið á um þann möguleika lántakanda að greiða lánið að fullu án sérstaks uppgreiðslugjalds. Þá var stefnda Sigurði boðin endurfjármögnun samhliða tilkynningu stefnanda um vaxtaendurskoðun, án innheimtu lántökugjalds og án þess að til greiðslu stimpilgjalds þyrfti að koma við endurfjármögnunina. Þannig var lántakanda veittur sá möguleiki að losna undan skilmálum umrædds láns. Í kjölfarið hefði hann þá getað samið um endurfjármögnun lánsins með nýjum skilmálum sem hann hefði talið ásættanlega, annað hvort hjá stefnanda eða öðru fjármálafyrirtæki. Lántakandinn hefði þannig aldrei þurft að sitja undir vaxtahækkunum sem hann teldi ósanngjarnar. Eðli málsins samkvæmt þarfnast neytandi ekki verndar gagnvart skilmálum sem hann getur vikið sér svo auðveldlega undan.

        Þannig byggir stefnandi á því að ákvæðið hafi ekki verið til þess fallið að ganga gegn þeim markmiðum sem neytendalánalögunum var ætlað að vernda. Þá ber að hafa í huga að umrætt skuldabréf er viðskiptabréf og samkvæmt þeim meginreglum sem gilda um viðskiptabréf er skuldabréfið þess efnis sem það hljóðar um.

        Í ljósi framangreinds telur stefnandi að áfrýjunarnefnd neytendamála hafi gengið of langt í úrskurði sínum með því að banna stefnanda að beita vaxtaendurskoðunarákvæði í skuldabréfi útgefnu af stefnda Sigurði Frey.

        Auk alls framangreinds bendir stefnandi á ummæli í dómi EFTA-dómstólsins frá 24. nóvember 2014 í máli nr. E-27/13, þar sem fram kemur að við mat á því hvaða áhrif ófullnægjandi upplýsingagjöf um neytendalán hafi og hvaða úrræðum sé hægt að beita af því tilefni beri að hafa hliðsjón af því hvort viðkomandi neytandi geti talist almennur neytandi, sem er ágætlega upplýstur, athugull og forsjáll. Sem fyrr greinir var stefndi, Sigurður Freyr, starfsmaður bankans á þeim tíma sem hann tók lánið, auk þess sem hann er menntaður verkfræðingur og hagfræðingur. Er því ljóst að hann hafði a.m.k. þá þekkingu sem almennir neytendur hafa.

        Þá segi í dómi EFTA-dómstólsins að leggja verði sérstakt mat á það hvaða áhrif skortur á upplýsingagjöf hefði. Vaxtaendurskoðunarákvæði skuldabréfsins sé skýrt og þar komi fram að bankanum sé heimilt að breyta umsömdum vöxtum á fimm ára fresti út lánstímann. Út frá skýru orðalagi skuldabréfsins gat ekki orkað tvímælis fyrir almennan neytanda eða stefnda Sigurð að vextir gætu breyst, til hækkunar eða lækkunar, á fimm ára fresti út lánstímann. Eins og að framan greinir verður ekki séð að það hefði breytt neinu þar um ef upplýst hefði verið um það í skuldabréfinu að við vaxtaendurskoðun yrði tekið mið af almennu vaxtastigi og fjármögnunarkostnaði bankans. Því verði ekki séð að upplýsingagjöf stefnanda við útgáfu hins umdeilda skuldabréfs hafi haft nokkur áhrif á ákvörðun stefnda um lántökuna og því ekki ástæða til að banna stefnanda notkun vaxtaendurskoðunarákvæðis skuldabréfs nr. [...].

        Um aðild vísar stefnandi til dómaframkvæmdar Hæstaréttar þar sem litið hefur verið svo á að óhjákvæmilegt sé að beina kröfu um ógildingu úrskurðar æðra stjórnvalds að þeim aðilum sem áttu aðild að málinu á málskotsstigi, enda hafi þeir átt verulegra, einstaklegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn stjórnsýslumálsins, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar 25. október 2005 í máli nr. 539/2006. Stefnandi telur að líta verði svo á að stefndi, Sigurður Freyr, hafi átt aðild að málinu á málskotsstigi enda beindist ákvörðun yfirvalda að lánssamningi stefnanda og stefnda Sigurðar Freys. Því sé óhjákvæmilegt að beina kröfum að honum samhliða Neytendastofu.

        Stefnandi reisir kröfu sína um málskostnað úr hendi stefnda Neytendastofu við 130. gr. sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda Neytendastofu

        Stefndi Neytendastofa hafnar málsástæðum og lagarökum stefnanda. Varðandi fullyrðingar stefnanda um að áfrýjunarnefnd neytendamála hafi ekki haft heimild til að taka ákvörðun sína á þeim lagagrundvelli sem vísað var til vill stefndi Neytendastofa taka eftirfarandi fram:

        Eins og fram kemur í greinargerð Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála sem og í niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar var umrætt skuldabréf gefið út í tíð laga nr. 121/1994. En þar var m.a. kveðið á um upplýsingaskyldu lánveitanda og formkröfur lánssamninga til neytenda og Neytendastofu var falið eftirlit með ákvæðum laganna, sbr. VII. kafla laganna.

        Ákvörðun Neytendastofu byggði á þeim lögum sem giltu þegar lánssamningur var gerður þar sem ekki væri unnt að gera þá kröfu að slíkur samningur uppfyllti skilyrði laga sem ekki voru í gildi þegar hann var gerður og gætu lagt ítarlegri skyldur á kæranda um upplýsingagjöf. Þegar meðstefndi leitaði til Neytendastofu og þegar ákvörðun Neytendastofu var tekin höfðu lög nr. 121/1994 verið felld úr gildi, sbr. 36. gr. laga um neytendalán nr. 33/2013.

        Áfrýjunarnefndin tók afstöðu til þess í hinni kærðu ákvörðun. Þar segir að áfrýjunarnefndin sé að þessu leyti ekki bundin af þeim lagagrundvelli sem stefndi Neytendastofa reisti ákvörðun sína á varðandi tilvísun til viðeigandi valdheimildar. Ljóst sé enda af gögnum málsins að málatilbúnaði kæranda hafi ekki verið áfátt fyrir nefndinni þó að í hinni kærðu ákvörðun hefði með réttu átt að vísa til 3. mgr. 29. gr. laga nr. 33/2013 í stað 26. gr. laga nr. 121/1994.

        Þá hefði stefnda Neytendastofu enn fremur verið rétt að byggja ákvörðun sína á því að 6. og 9. gr. laga nr. 121/1994 tækju til lánssamnings kæranda og Sigurðar Freys, eins og gert var í hinni kærðu ákvörðun, enda giltu lögin á þeim tíma þegar til samningsins var stofnað og hvorki ákvæði laga nr. 33/2013 né lögskýringagögn þeirra laga bera þess merki að ætlun löggjafans hafi verið að hafa afturvirk áhrif á réttindi og skyldur aðila slíkra samninga

        Stefndi Neytendastofa telur í sinni niðurstöðu, líkt og áfrýjunarnefnd neytendamála, að þetta sé sambærilegt ágreiningsefni og skorið hafi verið úr um með dómi Hæstaréttar Íslands frá 2. október 2008 í máli nr. 640/2007. Fullyrðingum stefnanda varðandi það að umrædd ákvörðun sé mjög íþyngjandi fyrir stefnanda og snerti þúsundir annarra lána megi með sömu rökum snúa yfir á stefnanda og telja að með þessari ákvörðun sé í raun verið að létta á þúsundum annarra lána þar sem ákvæði lánssamninga séu með sambærilegum kjörum. Stefnandi hafi útbúið lánssamninginn og það var á hans ábyrgð að skilmálar væru í samræmi við lög á hverjum tíma. Auk þess segi í haus veðskuldabréfsins að það sé með föstum vöxtum þó að einnig komi þar fram að í því séu vaxtaendurskoðunarákvæði. Þegar samið var um lánið hafi stefnandi verið í mun betri aðstöðu enda form samnings og texti frá honum kominn og verður því að meta vafa um efni hans honum í óhag.

        Neytendastofa telur vafalaust að stofnunin hafi eftirlit með og geti tekið ákvarðanir um lánssamninga sem gerðir voru í gildistíð laga nr. 121/1994 þrátt fyrir að álitamál komi til meðferðar stofnunarinnar eftir 1. nóvember 2013 eða þann dag sem lög nr. 33/2013, sem m.a. felldu úr gildi ákvæði laga nr. 121/1994, tóku gildi.

        Þrátt fyrir að í lögum nr. 33/2013 sé ekki að finna ákvæði sem eru nákvæmlega samhljóða ákvæðum 6. og 9. gr. laga nr. 121/1994 sé efnisinntak hið sama. Einnig séu þar gerðar sömu kröfur til lánveitenda um upplýsingar um vexti.

Þá sé Neytendastofu, eftir sem áður, falið eftirlit með lánssamningum sem fyrirtæki gera í atvinnuskyni við neytendur og valdheimildir stofnunarinnar þær sömu sbr. IX. kafla laga nr. 33/2013. Stefndi Neytendastofa hafnar því að um valdþurrð sé að ræða líkt og stefnandi heldur fram. 

        Varðandi síðari málsástæðu stefnanda, þ.e. að ákvæði 9. gr. laga nr. 121/1994 eigi ekki við um ákvæði umrædds skuldabréfs, er þeirri málsástæðu alfarið hafnað. Stefnandi virðist gefa sér þá forsendu að þar sem segi í fyrirsögn lánssamningsins að á bréfinu séu fastir vextir og aðeins sé verið að breyta föstum vöxtum falli slíkt ekki undir viðkomandi ákvæði. Þessum skilningi stefnanda er vísað á bug. Almennur skilningur á orðunum breytilegir vextir sé einfaldlega að vextir geti breyst.

         Í þágildandi 9. gr. laga nr. 121/1994 sagði að heimilt væri að semja um breytilega vexti að nokkru eða öllu leyti. Greina skyldi frá vöxtum eins og þeir voru á þeim tíma sem upplýsingar voru gefnar, tilgreint með hvaða hætti vextir væru breytilegir og við hvaða aðstæður þeir gætu breyst ef samið væri um að vextir væru „að nokkru eða öllu leyti breytilegir“.

        Samkvæmt orðalagi ákvæðisins var það ekki takmarkað við samninga sem beri breytilega vexti í þrengsta skilningi, heldur alla samninga þar sem kveðið er á um að lánveitandi hafi heimild til vaxtabreytinga. Það sé hvorki háð því hversu oft á samningstímanum sú heimild sé til staðar né því hvaða aðstæður ráði vaxtabreytingum. Loks sé ákvæðið óháð því hvort verið sé að breyta föstum vöxtum eins og stefnandi vill túlka lánssamninginn. Þannig taki ákvæðið samkvæmt orðanna hljóðan til þess lánssamnings sem hér er um fjallað. Ákvæði 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994 séu skýr að því leyti að þau leggja á lánveitanda þá afdráttarlausu skyldu að veita neytanda upplýsingar um það með hvaða hætti og við hvaða aðstæður m.a. samningsvextir geti tekið breytingum. Lánveitandi hafi forræði yfir vaxtabreytingum og því hvaða þættir hafi áhrif á vexti eftir skilmálum lánssamningsins og því sé eðli máls samkvæmt ekki kveðið nákvæmlega á um það í ákvæðunum hvaða upplýsingar skuli veita. Af sömu ástæðum hafi Neytendastofa ekki gefið út leiðbeiningar eða birt viðmið um hvaða upplýsingar skuli veita.

        Stefnandi geri í stefnu sérstakar athugasemdir við að frá árinu 2005 hafi Neytendastofa haft eftirlit með framfylgd ákvæða laga nr. 121/1994, sbr. 25. gr. þeirra laga. Vegna þessa bendir stefndi á að stofnunin tekur mál til meðferðar ýmist að eigin frumkvæði eða eftir ábendingum. Í tilvikum neytendalána sé stofnunin í mörgum tilvikum háð því að hafa afrit af samningi frá neytanda þar sem skilmálar geta verið breytilegir á milli samninga. Auk þess sé oft og tíðum þörf á frekari upplýsingum um samskipti milli viðkomandi aðila í tengslum við gerð samnings. Stefndi hafi því ekki tekið upp að eigin frumkvæði mál er varða tiltekna samninga eða samningsskilmála vegna neytendalána. Þá sé rangt að Neytendastofa hafi ekki gert athugasemdir við orðalag í tengslum við vaxtaendurskoðunarákvæði í neytendalánum þó ekki hafi reynt á það gagnvart stefnanda fyrr en í þessu máli. Nærtækast sé að vísa t.d. til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 672/2012, þar sem vísað er til ákvörðunar Neytendastofu í sambærilegu máli, þrátt fyrir að stofnunin hafi ekki verið aðili að dómsmálinu.

        Röksemdir stefnanda varðandi það að vaxtaendurskoðun hafi verið fyrirsjáanleg og byggð á málefnalegum forsendum hafi ekki áhrif á mat á því hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum um upplýsingaskyldu í 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. þágildandi laga. Stefndi getur heldur ekki fallist á að skýringar stefnanda þess efnis að ákvæði 12. gr. um útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar dragi úr upplýsingaskyldu samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum. Þvert á móti telur stefndi að breytilegar forsendur sem ekki koma til útreiknings við árlega hlutfallstölu kostnaðar leiði til þess að upplýsingaskylda lánveitanda í tengslum við hina breytilegu þætti sé jafnvel enn meiri og þurfi að vera gegnsæ. Vísar hann m.a. til III. kafla laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005 varðandi það atriði.

        Þá hafnar stefndi því að unnt sé að draga úr kröfum til upplýsingagjafar af hálfu lánveitanda vegna þess að neytandi geti vikið sér undan mögulegri vaxtaendurskoðun með litlum tilkostnaði. Í þágildandi lögum hafi ekki verið að finna neina undanþágu frá upplýsingaskyldu eða ákvæðum laganna að öðru leyti þó að uppgreiðsla leiði ekki til fjárhagslegs tjóns fyrir neytanda. Auk þess megi ætíð reikna með kostnaði við endurfjármögnum, t.a.m. við greiðslumat og þinglýsingu, þó að stefnandi reyni að gera lítið úr þeim kostnaði.

         Varðandi fullyrðingu stefnanda um að samningsfrelsi sé skert með ákvörðun áfrýjunarnefndar neytendamála verði að hafa í huga að lög er varða neytendur eiga að gæta hagsmuna þeirra, ekki síst þegar þeir eru í viðskiptum við aðila eins og fjármálafyrirtæki, þar sem til staðar er yfirburðaþekking. Við þær aðstæður sé samningsfrelsi ekki til staðar heldur undirgengst neytandinn almennt þá skilmála sem þegar eru til staðar án þess að geta haft sérstök áhrif þar á. Hvort meðstefndi hafi haft einhverja sérþekkingu sem breytir túlkun laganna eða að skilmálar eða annað hafi verið með öðrum hætti en gagnvart öðrum neytendum komi hvergi fram nema í stefnu. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á með lagarökum eða öðrum rökum að þekking meðstefnda hefði átt að leiða til þess að honum væri ljóst eða hefði mátt vera ljóst hvaða aðstæður kæmu til með að ráða vaxtabreytingum stefnanda. Stefndi hafi allsherjarréttarlegt eftirlit með ákvæðum laga um neytendalán og fjalli ekki um einkaréttarlegar kröfur. Þannig sé umrædd ákvörðun tekin út frá hinum almenna neytanda. Lögin séu miðuð við almennan neytanda og öll frávik frá lögum neytanda í óhag séu óskuldbindandi, sbr. 4. gr. laga nr. 33/2013.

        Að öðru leyti tekur stefndi undir þær forsendur sem fram koma í ákvörðun áfrýjunarnefndar neytendamála nr. 20/2014 og vísast til þess.

        Til stuðnings kröfu stefnda um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála. Einkum er vísað til 129. og 130. gr. þeirra laga.

Málsástæður og lagarök stefnda, Sigurðar Freys Magnússonar

        Stefndi kveðst, vegna byggingarframkvæmda á íbúðarhúsi í Kópavogi, hafa tekið lán hjá stefnanda árið 2005. Um hafi verið að ræða veðtryggt lánið var tryggt með veði í íbúðarhúsi foreldra hans. Síðar hafi komið í ljós að veðtaka bankans var ekki í samræmi við lög og veðinu hafi því verið aflétt. Því þurfi ekki að koma á óvart að bankanum sé mikið í mun að lánið verði greitt upp sem fyrst enda lánið óveðtryggt í dag.

        Íslandsbanki hafi útbúið öll skjöl í tengslum við lántökuna. Að öðrum kosti stóð lánið ekki til boða. Á þeim tíma sem lánið var tekið hafi staðið sem hæst samkeppni viðskiptabankanna þriggja, Íslandsbanka, Landsbanka Íslands og Kaupþings banka, við Íbúðalánasjóð. Kaupþing banki og Íbúðalánasjóður hafi boðið lán á föstum vöxtum til allt að 40 ára. Í tilfelli Íslandsbanka og Landsbanka Íslands hafi verið farin sú leið að lána á breytilegum vöxtum, eða það sem kallað er skilmáli um vaxtaendurskoðun í tilfelli því sem hér um ræðir. Stefndi kvaðst hafa gert ráð fyrir að ef vextir á markaði lækkuðu frá því sem var þegar lánið var tekið, myndu vextir á láni hans lækka. Út frá sérfræðiþekkingu sinni hafi stefndi að auki gert ráð fyrir að þar sem um vaxtaendurskoðun á fimm ára fresti væri að ræða væri horft til styttri enda vaxtarófsins við endurskoðun þeirra, þ.e. til ávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa til fimm ára á markaði. Enda beri tilkynning Íslandsbanka með sér að bankinn horfi til „aðstæðna á markaði“ umfram annað við ákvörðun um vexti á vaxtaendurskoðunardegi.

          Þegar stefnda hafi verið tilkynnt um endurskoðun vaxta til hækkunar árið 2013 hafi honum á sama blaði verið boðin endurfjármögnun gengist hann undir nýja skilmála bankans. Það hafi komið stefnda á óvart að vextir væru hækkaðir þvert á réttmætar væntingar hans um vaxtalækkun þar sem vextir á markaði höfðu lækkað mikið á alla mælikvarða frá því að lánið var tekið. Hann hafi upplýst bankann um að hann teldi hækkunina óeðlilega miðað við markaðsaðstæður og að verulegur vafi léki á um það hvort skilmálinn um vaxtaendurskoðun stæðist lög um neytendalán þar sem ekki væri tilgreint hvað réði vöxtunum þegar þeir væru endurskoðaðir. Stefnda hafi þótti sýnt að bankinn ætlaði sér að nýta skilmálann um vaxtaendurskoðun til að þvinga hann yfir í annað lánaform sem væri bankanum hagfelldara en hefði raunar ekkert með aðstæður á markaði að gera.

        Stefndi telur að fyrst og fremst sé til umfjöllunar hvort Íslandsbanki hafi brotið gegn lögum um neytendalán og hvort valdheimildir Neytendastofu séu nægilegar til að stöðva brotastarfsemi bankans. Einnig hvort stofnunin hafi farið að réttum lögum í úrskurðum sínum og tekur stefndi undir sjónarmið meðstefnda og áfrýjunarnefndar neytendamála.

        Stefndi kveður sér hafa komið á óvart að vera stefnt í málinu þrátt fyrir að eiga lögvarða hagsmuni af niðurstöðu málsins, en hagsmunir hans séu ekki einstaklegir. Stefndi kveðst hafa fengið tilkynningu frá stefnanda, dags. 8. september 2015, þar sem bankinn tilkynnir stefnda um óbreytta vexti vegna ákvörðunar Neytendastofu. Í þeirri tilkynningu komi fram að niðurstaða áfrýjunarnefndar neytendamála liggi ekki fyrir, en niðurstaða áfrýjunarnefndar neytendamála hafi hins vegar legið fyrir þann 19. júní 2015. Neytandi sé þar með hafður í þeirri trú að niðurstaða áfrýjunarnefndar liggi ekki fyrir og hann raunar blekktur til að aðhafast ekki þrátt fyrir að fyrir liggi fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi sem sé aðfararhæfur. Þrátt fyrir niðurstöðu áfrýjunarnefndar neytendamála hafi stefndi ekki aðhafst á neinn hátt til að rétta hlut stefnda eða þeirra sem brotið hefur verið á, sbr. niðurstöðuna.

        Stefndi tekur undir með Neytendastofu og áfrýjunarnefnd neytendamála um að Íslandsbanki hafi gerst brotlegur við lög um neytendalán og vísar til ákvarðana nefndarinnar um lagarök í málinu.

IV.

Niðurstaða

       Í máli þessu er deilt um það hvort úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála nr. 20/2014 frá 19. júní 2015, þar sem stefnanda var bannað að breyta vöxtum samkvæmt 4. gr. skilmála lánasamnings stefnanda og stefnda, Sigurðar Freys Magnússonar, verði byggður á 3. mgr. 29. gr. laga nr. 33/2013, sbr. 26. gr. laga nr. 121/1994, eins og byggt er á af hálfu áfrýjunarnefndarinnar.

        Lög nr. 121/1994, um neytendalán, voru felld úr gildi við gildistöku laga nr. 33/2013, um neytendalán, sbr. 1. mgr. 36. gr. síðarnefndu laganna. Þetta var rúmum mánuði áður en stefndi, Sigurður Freyr, lagði fram kvörtun sína til Neytendastofu.        

Áfrýjunarnefndin byggir á því í úrskurði sínum að stefndi, Neytendastofa, hafi ekki getað beitt valdheimild þeirri sem áður var að finna í 26. gr. laga nr. 121/1994 þar sem umrædd lög höfðu verið felld úr gildi þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Áfrýjunarnefndin byggði síðan á því að stefnandi hefði brotið gegn 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán, með því að tilgreina ekki í lánssamningi bankans og stefnda Sigurðar Freys frá 23. ágúst 2005 við hvaða aðstæður vextir breyttust. Bann við því að stefnandi breytti vöxtum samkvæmt skilmálum lánssamningsins byggði áfrýjunarnefndin síðan á 3. mgr. 29. gr. laga nr. 33/2012, sbr. 26. gr. laga nr. 121/1994.

        Þegar lög nr. 121/1994 voru felld úr gildi tóku ný lög um neytendalán, nr. 33/2013, gildi. Í nýju lögunum er kveðið á um það að Neytendastofa annist eftirlit með ákvæðum þessara laga, sbr. 1. mgr. 29. gr. Þá segir í 3. mgr. 29. gr. laganna að Neytendastofa geti gripið til aðgerða gegn aðilum sem brjóta í bága við ákvæði II.-VIII. kafla laganna eftir því sem við geti átt. Jafnframt segir að aðgerðir Neytendastofu geti falið í sér bann, fyrirmæli eða heimild með ákveðnu skilyrði. Þá segir að ákvörðunum sem Neytendastofa taki á grundvelli þessara laga verði skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfi á grundvelli 4. gr. laga nr. 62/2005, um Neytendastofu og talsmann neytenda.             

        Varðandi lagaskil þá kemur fram í 36. gr. laga nr. 33/2013, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2013, að við gildistöku laganna falli úr gildi lög nr. 121/1994 með síðari breytingum. Í 2. mgr. 36. gr. er síðan tekið fram að 13.-15. gr., 2. mgr. 19. gr. og 20. gr. skuli gilda um opna lánasamninga, sbr. 15. gr., sem eru í gildi við gildistöku laganna.

         Í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþings um frumvarpið segir: „Ákvæðum frumvarpsins er almennt ekki ætlað að gilda um samninga sem stofnað er til í tíð eldri laga heldur eiga þau að gilda um samninga sem gerðir eru eftir gildistöku þess verði það að lögum.“

         Ekki verður annað ráðið af framansögðu en að í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 33/2013 séu tæmandi talin þau ákvæði þessara nýju laga sem skyldu gilda um opna lánasamninga við lagaskilin. Viðurlagaákvæði 29. gr. núgildandi laga eru hins vegar þarna ekki talin gilda um opna lánasamninga við lagaskilin.

       Á því hefur verið byggt að samkvæmt lögmætisreglu skuli ákvarðanir stjórnvalda eiga stoð í lögum og í því felist að stjórnvöld geti almennt ekki tekið íþyngjandi ákvarðanir nema að hafa til þess viðhlítandi heimild í lögum. Jafnframt er almennt á því byggt að því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er þeim mun strangri kröfur verði að gera til skýrleika lagaheimildar sem ákvörðun er byggð á. Við mat á því hvort efni ákvörðunar er talið íþyngjandi er bæði litið til þess hvort réttindi eru skert og til umfangs og eðlis skerðingarinnar.

        Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 2. október 2008 í máli nr. 640/2007 segir að við úrlausn á því hvort hinu stefnda stjórnvaldi hafi verið heimilt að taka umrædda ákvörðun beri að leggja til grundvallar að heimildir stjórnvalda til að taka ákvörðun og beita viðurlögum, í tilviki því sem um ræði, verði að styðjast við skýrar lagaheimildir.

        Áfrýjunarnefndin byggir á því í úrskurði sínum að sams konar valdheimild og var í 26. gr. laga nr. 121/1994 sé að finna í 3. mgr. 29. gr. 33/2013. Einnig á því að Neytendastofu hafi verið heimilt, þrátt fyrir ófullkomin ákvæði laganna um lagaskil, að byggja ákvörðun sína á umræddu ákvæði hinna nýju laga með vísan til forsendna dóms Hæstaréttar Íslands í nr. nr. 640/2007. Þá hafi Neytendastofu verið rétt að byggja ákvörðun sína á 6. og 9. gr. laga nr. 121/1994 þar sem þau lög giltu á þeim tíma þegar til umrædds samnings var stofnað. Varðandi tilvísun áfrýjunarnefndarinnar til framangreinds hæstaréttardóms þá eru atvik ekki sambærileg. Í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 33/2013 eru, sem áður segir, talin þau ákvæði þessara nýju laga sem skyldu gilda um opna lánasamninga við lagaskilin og 29. gr. núgildandi laga þar ekki tilgreind. Ekki verður því byggt á því að í lögum nr. 33/2013 hafi verið það ófullkomin ákvæði um lagaskil að á umræddu ákvæði hinna nýju laga yrði byggt af þeim sökum. Þá er ljóst að úrskurður áfrýjunarnefndarinnar var mjög íþyngjandi fyrir stefnanda og hafði víðtæk áhrif. Gera verður því kröfu til þess að slík ákvörðun sé ekki tekin án þess að hún styðjist við skýrar lagaheimildir.

        Samkvæmt framansögðu verður ekki litið svo á að áfrýjunarnefnd neytendamála hafi haft heimild til að taka umrædda ákvörðun sína á þeim lagagrundvelli sem hún byggði á í úrskurði sínum frá 19. júní 2015 í málinu nr. 20/2014. Þegar af þessari ástæðu ber að taka til greina kröfu stefnanda um að fella úrskurðinn úr gildi.

        Að fenginni þessari niðurstöðu ber að hafna kröfu stefnda Sigurðar Freys Magnússonar um málskostnað og dæma stefnda Neytendastofu til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn eins og í dómsorði er kveðið á um.

        Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

        Felldur er úr gildi úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála frá 19. júní 2015 í málinu nr. 20/2014.

         Stefndi, Neytendastofa, greiði stefnanda, Íslandsbanka hf. 600.000 kr. í málskostnað.