Print

Mál nr. 562/2012

Lykilorð
  • Kærumál
  • Upplýsingaskylda
  • Fjarskipti
  • Friðhelgi einkalífs
  • Stjórnarskrá

Mánudaginn 27. ágúst 2012.

Nr. 562/2012.

Lögreglustjórinn á Selfossi

(Margrét Harpa Garðarsdóttir)

gegn

Símanum hf.

(Andri Árnason hrl.)

Kærumál. Upplýsingaskylda. Fjarskipti. Friðhelgi einkalífs. Stjórnarskrá. 

L krafðist þess að S hf. yrði gert að afhenda upplýsingar um „inn- og úthringingar um fjarskiptamöstur sem nást inn í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum“ á nánar tilteknu tímabili. Í dómi Hæstaréttar kom fram að heimild til að afla gagna samkvæmt 80. gr. laga nr. 88/2008 væri íþyngjandi rannsóknarúrræði sem fæli í sér undantekningarreglu frá 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og af þeim sökum yrði ákvæðið ekki skýrt rýmra en leiðir af texta þess. Skilyrði til að afla umræddra gagna væri að rökstuddur grunur væri fyrir hendi um að tiltekinn sími eða fjarskiptatæki hefði verið notað í tengslum við refsivert brot og væri það skilyrði samhljóða eldra ákvæði laga nr. 19/1991. Í því máli sem hér var til meðferðar beindist krafa lögreglu ekki að tilteknum síma eða fjarskiptatæki, heldur að því að veittar yrðu allar upplýsingar um alla farsíma sem hringt var úr eða í um fjarskiptamöstrin á tilgreindum tíma. Þar sem krafa lögreglustjóra gekk lengra en rúmaðist innan orðalags 80. gr. laga nr. 88/2008 var henni hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. ágúst 2012, sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 17. ágúst 2012, þar sem varnaraðila var gert að afhenda lögreglunni á Selfossi upplýsingar „um inn- og úthringingar um þau fjarskiptamöstur sem nást inni í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum á tímabilinu frá kl. 05:35-05:45 þann 6. ágúst 2012.“ Kæruheimild er í i. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og honum dæmdur kærumálskostnaður.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með tölvubréfi sóknaraðila 20. ágúst 2012 var þess farið á leit að varnaraðili léti í té upplýsingar samkvæmt hinum kærða úrskurði. Fékk varnaraðili þá fyrst vitneskju um úrskurðinn og því var kæru lýst innan lögboðins kærufrests, sbr. 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008.

I

 Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði rannsakar lögreglan á Selfossi ætlað kynferðisbrot gegn ólögráða stúlku aðfaranótt mánudagsins 6. ágúst sl. við Fjósaklett í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum. Er brotið talið varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brotaþoli hefur gefið lýsingu á sakborningi og klæðnaði hans og telur sóknaraðili að við skoðun á upptöku úr eftirlitskerfi, sem sett var upp vegna Þjóðhátíðar um helgina, megi sjá karlmann, sem svipi til lýsingar á sakborningi, hlaupa frá brotavettvangi. Á upptökunni megi einnig greina að maðurinn tali í farsíma. Lögreglan telur mikilvægt að fá umbeðnar upplýsingar um símtöl í Herjólfsdal á þessu tímabili svo sanna megi deili á þeim manni sem sést á upptökunni úr eftirlitskerfinu. Krafan er reist á 80. gr., sbr. 1. mgr. 83. gr. og 1. mgr. 84. laga nr. 88/2008.

Varnaraðili telur að skilyrði þess að ákvæði 80. gr. laga nr. 88/2008 verði beitt sé að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að tiltekinn sími eða fjarskiptatæki hafi verið notað í tengslum við refsivert brot. Í því tilviki sem hér um ræðir sé sú aðstaða ekki fyrir hendi.

II

Samkvæmt 80. gr. laga nr. 88/2008 er heimilt í þágu rannsóknar sakamáls að leggja fyrir fjarskiptafyrirtæki að veita upplýsingar um símtöl eða önnur fjarskipti við tiltekinn síma, enda sé fullnægt skilyrðum 1. mgr. 83. gr. og 1. mgr. 84. gr. laganna.

Heimild til að afla fjarskiptagagna samkvæmt 80. gr. laga nr. 88/2008 er íþyngjandi rannsóknarúrræði, sem felur í sér undantekningu frá 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Af þeim sökum verður ákvæðið ekki skýrt rýmra en leiðir af texta þess.

Skilyrði þess að heimilt sé að afla umræddra gagna er að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að tiltekinn sími eða fjarskiptatæki hafi verið notað í tengslum við refsivert afbrot. Er þetta skilyrði að þessu leyti samhljóða skilyrði sem áður var að finna í b. lið 86. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en um beitingu þess má vísa til dóma í dómasafni réttarins 2001, bls. 1339, 2006, bls. 5758 og 17. nóvember 2008 í máli nr. 613/2008.

Í því máli sem hér er til úrlausnar beinist krafa sóknaraðila ekki að tilteknum síma eða fjarskiptatæki heldur að því að veittar verði upplýsingar um alla farsíma sem hringt var úr eða í um fjarskiptamöstur og náðust inni í Herjólfsdal á tilgreindum tíma. Þar sem krafa sóknaraðila gengur lengra en rúmast innan heimildar 80. gr. laga nr. 88/2008 verður henni hafnað.

Varnaraðila verður dæmdur kærumálskostnaður úr ríkissjóði eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, lögreglustjórans á Selfossi, um að varnaraðila, Símanum hf., verði gert að afhenda lögreglu upplýsingar um inn- og úthringingar um þau fjarskiptamöstur sem náðu inni í Herjólfsdal á tímabilinu frá kl. 5.35 til 5.45 mánudaginn 6. ágúst 2012.

Kærumálskostnaður varnaraðila, 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 17. ágúst 2012.

Héraðsdómi Suðurlands hefur borist krafa lögreglustjórans á Selfossi, dagsett 16. ágúst sl., ásamt rannsóknargögnum, með vísan til 80. gr., sbr. 83. og 84. gr., laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og 4. og 7. mgr. 47. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 þess efnis að fjarskiptafyrirtækjum, sem bjóða farsímaþjónustu í Vestmannaeyjum, verði með úrskurði gert skylt að afhenda lögreglunni á Selfossi upplýsingar um inn- og úthringingar um þau fjarskiptamöstur sem nást inni í Herjólfsdal á tímabilinu frá kl. 05:35-05:45 þann 6. ágúst sl.

Í kröfunni kemur fram að lögreglan rannsaki nú ætlað kynferðisbrot gegn ólögráða stúlku, X aðfaranótt 6. ágúst sl. við Fjósaklett í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum, en ætlað brot sé talið varða við 194. gr. almennra hegningarlaga. Hvorki brotaþoli né aðrir sem með henni hafi verið umrædda nótt hafi getað borið kennsl á ætlaðan geranda. Brotaþoli hafi gefið lýsingu á manninum og þeim fatnaði sem hann hafi klæðst. Við skoðun á myndbandsupptöku úr eftirlitskerfi, sem sérstaklega hafi verið sett upp vegna Þjóðhátíðarinnar í Vestmannaeyjum þann 3.-6. ágúst sl., megi sjá karlmann sem svipi til lýsingar brotaþola á ætluðum sakborningi, hlaupa frá brotavettvangi og niður á bifreiðastæði í Herjólfsdal. Einungis vinstri hlið hans og bak sjáist, en á upptökunni sjáist maðurinn tala í síma á framangreindum tíma, skömmu eftir að hið ætlaða brot hafi verið framið. Sé nauðsynlegt vegna rannsóknar málsins að afla umræddra fjarskiptagagna svo takast megi að upplýsa hver hafi verið á ferð á umræddum stað og tíma.

Lögreglustjóranum á Selfossi sé því nauðsyn á að fá nefndan úrskurð sbr. tilvitnuð lagaákvæði, enda sé full ástæða til að ætla að upplýsingar, sem miklu geti skipt fyrir rannsókn málsins, fáist með þessum hætti. 

Verið er að rannsaka brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga og hefur grunur beinst að óþekktum manni sem sést tala í síma í kjölfar hins kærða brots og í nágrenni þess.  Fallast  ber á það með lögreglu að full ástæða sé til að rannsaka hverjir hafi verið á ferli við brotavettvang á þeim tíma sem hér skiptir máli.  Má ætla að upplýsingar þær sem lögregla fer fram á að fá geti skipt sköpum við rannsókn málsins. Með vísan til þess og með því að fullnægt er skilyrðum 80. og 83. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 þykir rétt að heimila framangreindar rannsóknaraðgerðir, sem krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.

Hjörtur O. Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Fjarskiptafyrirtækjum, sem bjóða farsímaþjónustu í Vestmannaeyjum, er skylt að afhenda lögreglunni á Selfossi upplýsingar um inn- og úthringingar um þau fjarskiptamöstur sem nást inni í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum á tímabilinu frá kl. 05:35-05:45 þann 6. ágúst 2012.

                                                                                        .