Print

Mál nr. 454/2009

Lykilorð
  • Ærumeiðingar
  • Tjáningarfrelsi
  • Ómerking ummæla
  • Skaðabætur

                                                        

Fimmtudaginn 11. mars 2010.

Nr. 454/2009.

Rúnar Þór Róbertsson

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

gegn

Sigurjóni Magnúsi Egilssyni og

Erlu Hlynsdóttur

(Þórður Bogason hrl.)

Ærumeiðingar. Tjáningarfrelsi. Ómerking ummæla. Skaðabætur.

R krafðist þess að ómerkt yrðu nánar tilgreind ummæli sem birtust í DV í júlí 2007. Voru ummælin í grein um sakamál, þar sem R var gefið að sök innflutningur á kókaíni ætluðu til söludreifingar. Var E nafngreind sem höfundur greinarinnar, en S var á þeim tíma ritstjóri blaðsins. R var sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins með héraðsdómi, sem gekk réttri viku eftir birtingu ummælanna í DV, og var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti 29. maí 2008. Með þeim málalokum var því þannig hafnað að R og meðákærði hefðu í þessu tilviki orðið sannir að sök um að vera „kókaínsmyglarar“ og jafnframt að R hefði í febrúar 2007 tekið bifreið í sínar vörslur „í þeirri trú að kókaínið væri á sínum stað“, en þetta tvennt var fullyrt í þeim ummælum sem R leitaði ómerkingar á, án nokkurs efnislegs fyrirvara um að þær staðhæfingar væru reistar á ákæru, sem varist væri fyrir dómi. Að virtum málalokum um þá ákæru var talið að þessi ummæli hefðu falið í sér aðdróttun í garð R og voru ekki efni til annars en að verða við kröfu hans um ómerkingu þeirra. Ekki þóttu skilyrði til að ómerkja önnur ummæli, þar sem þau hefðu aðeins falið í sér lýsingu á staðreyndum, sem lágu fyrir í sakamálinu. Voru E og S dæmd í sameiningu til að greiða R 100.000 krónur í miskabætur vegna ummælanna og 50.000 krónur til að standa straum af kostnaði af opinberri birtingu niðurstöðu málsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. ágúst 2009. Hann krefst þess að ómerkt verði eftirfarandi ummæli, sem birtust í 96. tölublaði DV 5. júlí 2007, annars vegar í forsíðufyrirsögninni „Hræddir kókaínsmyglarar“ og hins vegar í grein á blaðsíðu 2: „Kókaínið var falið í bifreið sem Rúnar flutti til landsins í þeirri trú að kókaínið væri á sínum stað en lögregla hafði þá gert efnið upptækt og skipt því út fyrir gerviefni.“ Þá krefst áfrýjandi þess að stefndu verði gert í sameiningu að greiða sér 3.000.000 krónur, þar af 2.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. október 2008 til greiðsludags, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð.

I

Samkvæmt gögnum málsins höfðaði ríkissaksóknari mál á hendur áfrýjanda og öðrum nafngreindum manni með ákæru 11. maí 2007, þar sem áfrýjanda var gefið að sök að hafa seinni hluta árs 2006 ásamt óþekktum samverkamanni flutt til landsins 3.778,5 g af kókaíni, sem ætlað hafi verið til söludreifingar, falið í tiltekinni bifreið af gerðinni Mercedes Benz, sem komið hafi með flutningaskipi 15. nóvember á því ári. Áfrýjandi hafi annast tollafgreiðslu bifreiðarinnar og tekið hana í sínar vörslur 7. febrúar 2007 í þeirri trú að fíkniefnin væru falin í henni, en lögregla hafi þá áður lagt hald á þau og komið fyrir gerviefni í þeirra stað. Áfrýjandi hafi ásamt meðákærða fjarlægt efnin úr bifreiðinni og sá síðarnefndi síðan tekið þau. Taldist þessi háttsemi þeirra varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum og var þess krafist að þeim yrði gerð refsing, auk þess að fíkniefnin yrðu gerð upptæk ásamt fyrrnefndri bifreið. Áfrýjandi og meðákærði neituðu báðir sök.

Grein birtist um þetta sakamál í DV 5. júlí 2007 í tengslum við aðalmeðferð þess fyrir héraðsdómi ásamt fyrirsögn á forsíðu og var stefnda Erla Hlynsdóttir nafngreind sem höfundur greinarinnar, en stefndi Sigurjón Magnús Egilsson var á þeim tíma ritstjóri blaðsins. Á forsíðunni var stór ljósmynd af áfrýjanda og felld inn í hana fyrirsögnin „Hræddir kókaínsmyglarar“ með áberandi letri, en neðan við hana sagði að áfrýjandi ætti yfir höfði sér sjö til átta ára fangelsi vegna innflutnings á kókaíni og mætti meðákærði, sem var nafngreindur, búast við þriggja til fjögurra ára fangelsi fyrir að fjarlægja ætluð fíkniefni úr bifreið áfrýjanda. Sagði einnig að „báðir óttast hefndaraðgerðir samverkamanna gefi þeir upp nöfn þeirra“ og var síðan vísað til umfjöllunar á 2. blaðsíðu. Efst á þeirri síðu var endurtekin frásögnin, sem kom fram í undirfyrirsögninni á forsíðu, en þar fyrir neðan voru stórar ljósmyndir af áfrýjanda og meðákærða. Inn á ljósmyndina af áfrýjanda var settur texti, þar sem sagði að fyrir dómi hafi hann ekki viljað „gefa upp nafn mannsins sem hann er ákærður fyrir að hafa flutt inn fíkniefnin með. Rúnar sagðist óttast um öryggi sitt og fjölskyldu sinnar.“ Neðan við þessar ljósmyndir var síðan greinin, sem ásamt fyrirsögninni „Næstum hreint kókaín í pallbíl“ náði yfir tæplega hálfa blaðsíðu. Í fyrsta hluta greinarinnar komu meðal annars fram ummæli, sem ómerkingarkröfu áfrýjanda er beint að, en í kröfugerð hans eru þau þó ekki fyllilega höfð rétt eftir. Þessi hluti greinarinnar er eftirfarandi og eru ummælin, sem um ræðir, auðkennd hér með breyttu letri: „Ríkissaksóknari fer fram á sjö til átta ára fangelsi yfir Rúnari Þór Róbertssyni sem ákærður hefur verið fyrir innflutning á tæpum 3,8 kílóum af kókaíni ætluðum til sölu ásamt óþekktum samverkamanni. Farið er fram á þriggja til fjögurra ára fangelsi yfir ... sem einnig var ákærður í málinu fyrir að hafa í félagi við Rúnar Þór fjarlægt ætluð fíkniefni úr bifreiðinni. Kókaínið var falið í bifreið sem Rúnar flutti til landsins og tók í sína vörslu í febrúar 2007 í þeirri trú að kókaínið væri á sínum stað en lögregla hafði þá gert efnið upptækt og skipt því út fyrir gerviefni. Efnið var nálægt því að vera 90 prósent hreint en síðustu ár hefur lögreglan ekki fundið hreinna efni en sem nemur 43 prósentum. Fyrir dómi hélt Rúnar Þór því fram að ónefndur aðili sem skuldaði honum pening fyrir iðnaðarstörf hafi boðið sér bíl til að greiða skuldina. Hann þyrfti sjálfur að flytja bílinn inn frá Þýskalandi og borga tolla en myndi í kjölfarið eignast hentugan vinnubíl. Rúnar sagðist hafa litið á þetta sem gott boð og flutti bílinn inn á nafni félaga síns þar sem hann var sjálfur gjaldþrota. Bifreiðin, Mercedes-pallbíll frá 1997, kom til landsins í nóvember í fyrra. Þessi félagi hans bar vitni og sagðist hafa spurt Rúnar hvort innflutningurinn tengdist fíkniefnum en hann hafi neitað því.“

Áfrýjandi og meðákærði voru báðir sýknaðir af refsikröfu ákæruvaldsins með héraðsdómi 12. júlí 2007 og var jafnframt hafnað kröfu um upptöku bifreiðar, en fíkniefnin á hinn bóginn gerð upptæk. Af hálfu ákæruvaldsins var þeim dómi áfrýjað til Hæstaréttar, sem staðfesti hann með dómi 29. maí 2008 í máli nr. 435/2007. Áfrýjandi höfðaði þetta mál 17. október 2008.

II

Þegar ummælin, sem málið varðar, birtust í DV 5. júlí 2007 var beðið dóms í héraði í máli ákæruvaldsins á hendur áfrýjanda og öðrum manni. Þetta kom skýrlega fram í greininni, þar sem sakargiftir á hendur þeim voru raktar efnislega ásamt nokkrum meginatriðum úr sönnunarfærslu ákæruvaldsins og skýrslum þeirra við aðalmeðferð málsins. Því er ekki borið við af áfrýjanda að sú frásögn hafi í einhverju verið röng, ef frá er talinn sá hluti hennar, sem dómkröfur hans varða. Þessi skrif sneru að alvarlegu sakamáli, sem rekið var fyrir dómi í heyranda hljóði, og sætti því engum takmörkunum eftir 10. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að fjölmiðlar neyttu frelsis samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar til að fjalla um málið, þar á meðal með því að nafngreina þá, sem sökum voru bornir. Í þeirri umfjöllun bar á hinn bóginn að gæta sérstaklega að því að það er hlutverk dómstóla að slá því föstu hvort sakaðir menn séu sannir að broti, en ekki fjölmiðla.

Sem fyrr segir var áfrýjandi sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins með héraðsdómi, sem gekk réttri viku eftir birtingu ummælanna í DV, og stóð sú niðurstaða óröskuð samkvæmt dómi Hæstaréttar 29. maí 2008. Með þeim málalokum var því þannig hafnað að áfrýjandi og meðákærði hafi í þessu tilviki orðið sannir að sök um að vera „kókaínsmyglarar“ og jafnframt að áfrýjandi hafi í febrúar 2007 tekið fyrrnefnda bifreið í sínar vörslur „í þeirri trú að kókaínið væri á sínum stað“, en þetta tvennt var fullyrt í þeim ummælum, sem áfrýjandi leitar hér ómerkingar á, án nokkurs efnislegs fyrirvara um að þær staðhæfingar væru reistar á ákæru, sem varist væri fyrir dómi. Að virtum málalokum um þá ákæru fólu þessi ummæli í sér aðdróttun í garð áfrýjanda og eru ekki efni til annars en að verða við kröfu hans um ómerkingu þeirra. Að því er varðar önnur ummæli, sem áfrýjandi krefst að verði ómerkt, er til þess að líta að orðið „hræddir“ í fyrirsögn á forsíðu fól í sér gildisdóm og studdist að auki við ummæli, sem féllu við skýrslugjöf áfrýjanda og meðákærða í sakamálinu. Frásögn í greininni á innsíðu blaðsins um að kókaín hafi verið falið í bifreiðinni, sem áfrýjandi flutti til landsins og tók í sínar vörslur í febrúar 2007, eftir að lögregla hafði lagt hald á fíkniefnin og sett gerviefni í þeirra stað, fól aðeins í sér lýsingu á staðreyndum, sem lágu fyrir í sakamálinu. Eru því engin skilyrði til að ómerkja ummæli, sem að þessu lutu.

Ef frá er talið eitt orð í forsíðufyrirsögn á blaðinu birtust ummælin, sem ómerkt eru, sem fyrr segir í grein, sem stefnda Erla var nafngreind sem höfundur að, og ber hún fébótaábyrgð á þeim samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Á hinn bóginn var enginn nafngreindur sem höfundur forsíðufyrirsagnarinnar og fellur því fébótaábyrgð vegna hennar á stefnda Sigurjón Magnús sem ritstjóra blaðsins, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Milli ummælanna í forsíðufyrirsögninni á blaðinu og greinarinnar á 2. blaðsíðu voru þau tengsl að dæma verður stefndu í sameiningu til að greiða áfrýjanda miskabætur vegna þeirra. Þegar litið er til þess að ómerking ummælanna ein út af fyrir sig réttir eins og hér stendur á hlut áfrýjanda að verulegu leyti eru þær bætur að öllu öðru virtu hæfilega ákveðnar 100.000 krónur, en sú fjárhæð ber dráttarvexti eins og nánar greinir í dómsorði. Með vísan til 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga verður stefndu einnig gert að greiða áfrýjanda 50.000 krónur til að standa straum af kostnaði af opinberri birtingu niðurstöðu þessa máls, en af þeirri fjárhæð hefur hann ekki krafist vaxta.

Niðurstaða héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verður staðfest. Stefndu verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Að kröfu áfrýjanda, Rúnars Þór Róbertssonar, er ómerkt orðið „kókaínsmyglarar“, sem birtist á forsíðu 96. tölublaðs DV 5. júlí 2007, og orðin „í þeirri trú að kókaínið væri á sínum stað“, sem birtust í grein á 2. blaðsíðu sama tölublaðs.

Stefndu, Sigurjón Magnús Egilsson og Erla Hlynsdóttir, greiði í sameiningu áfrýjanda 150.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 100.000 krónum frá 17. október 2008 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Stefndu greiði í sameiningu áfrýjanda 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 27. maí sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Rúnari Þór Róbertssyni, Flétturima 15, Reykjavík, á hendur Sigurjóni Magnúsi Egilssyni, Klapparhlíð 38, Mosfellsbæ og Erlu Hlynsdóttur, Ægissíðu 105, Reykjavík, með stefnu þingfestri 21. október 2008.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að eftirgreind ummæli verði dæmd dauð og ómerk:

A. Forsíðufyrirsögn í dagblaðinu DV, 96. tölublaði, 97. árg., fimmtudaginn 5. júlí 2007: „Hræddir kókaínsmyglarar“.

B.  Eftirfarandi ummæli í grein á bls. 2 í sama tölublaði DV:

„Kókaínið var falið í bifreið sem Rúnar flutti til landsins í þeirri trú að kókaínið væri á sínum stað en lögregla hafði þá gert efnið upptækt og skipt því út fyrir gerviefni.“

Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði óskipt dæmdir til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 2.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 17. október 2008 til greiðsludags.  Stefnandi krefst þess og að stefndu verði óskipt dæmd til að greiða honum 500.000 krónur til greiðslu kostnaðar við birtingu dóms í þremur dagblöðum, sbr. 2. gr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði óskipt dæmd til að greiða honum málskostnað.

Endanlegar dómkröfur stefndu eru þær, að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda, til vara, að stefnufjárhæðir verði lækkaðar verulega.  Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda.

II

Málavextir eru þeir, að á forsíðu DV, 96. tölublaði, 97. árg., hinn 5. júlí 2007, var birt stór mynd af stefnanda, þar sem hann, að eigin sögn, mætti til aðalmeðferðar sakamáls í Héraðsómi Reykjavíkur, sem höfðað hafði verið á hendur honum vegna ætlaðs innflutnings fíkniefna.  Undir ljósmyndinni var fyrirsögn með stóru letri, þar sem segir: „Hræddir kókaínsmyglarar“.  Nafn stefnanda var birt á forsíðu DV.  Á bls. 2 í blaðinu er að finna umfjöllun um málið.  Þar var jafnframt birt ljósmynd af stefnanda og nafn hans ítrekað nefnt.  Í fyrrgreindri grein á bls. 2 segir m.a.: „Kókaínið var falið í bifreið sem Rúnar flutti til landsins og tók í sína vörslu í febrúar 2007 í þeirri trú að kókaínið væri á sínum stað, en lögregla hafði þá gert efnið upptækt og skipt því út fyrir gerviefni“.

Stefnandi kveður, að í fyrrgreindri umfjöllun sé fullyrt að stefnandi hafi gerst sekur um innflutning kókaíns.  Komi sú fullyrðing skýrt fram í forsíðu blaðsins, en þar segi að stefnandi sé hræddur kókaínsmyglari.  Þegar fyrrgreind umfjöllun birtist hafði dómur ekki gengið í málinu.  Hinn 12. júlí 2007 sýknaði héraðsdómur stefnanda af kröfu ákæruvaldsins og hinn 29. maí 2008 staðfesti Hæstiréttur sýknudóm héraðsdóms.  Eins og fram kemur í fyrrgreindum dómi héraðsdóms fannst hinn 17. nóvember 2006 pakki með fjórum kílóum af kókaíni falið í bifreið sem stefnandi flutti inn til landsins á nafni annars manns.  Stefnandi annaðist tollafgreiðslu bifreiðarinnar hinn 7. febrúar 2007, en vissi ekki, að eigin sögn, um pakkann í bílnum.

Stefndu gerðu frávísunarkröfu í málinu og var þeirri kröfu þeirra hafnað með úrskurði uppkveðnum 20. mars 2009.

III

Stefnandi byggir kröfu sína á því, að með fyrrgreindri umfjöllun Dagblaðsins hafi verið brotið gegn rétti hans og virt að vettugi sú grundvallarregla íslensks réttar að maður teljist saklaus uns sekt hans sé sönnuð.  Sú mikilvæga regla sé lögfest í 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, í lögum nr. 62/1994 og 45. gr. laga nr. 19/1991.  Fyrrgreind umfjöllun um stefnanda hafi verið óvægin, hvöss og beinlínis röng, enda fullyrt í blaðinu að stefnandi hafi gerst sekur um mjög alvarlegt afbrot.  Þá hafi verið birt stór mynd af stefnanda á forsíðu blaðsins og minni mynd af stefnanda á bls. 2 í blaðinu.  Stefnandi hafi verið sýknaður af ætluðu hegningarlagabroti og liggi því fyrir að stefnandi sé saklaus.  Með fyrrgreindri umfjöllun hafi opinberlega verið vegið alvarlega að æru, frelsi og friði stefnanda.  Þá hafi með umfjölluninni verið ráðist á einkalíf stefnanda, sem njóti verndar samkvæmt lögum og stjórnarskrá.  Í umfjöllun­inni hafi falist grófar ærumeiðandi aðdróttanir af hálfu stefndu, enda ranglega fullyrt að stefnandi hefði gerst sekur um mjög alvarlegt afbrot.  Stefnandi bendir á að DV sé útbreitt dagblað og séu brot stefndu því alvarlegri en ella.  Þá beri einnig að hafa í huga að DV sé á sölustöðum stillt upp með afar áberandi hætti þannig að fleiri en aðeins lesendur blaðsins geti kynnt sér efni forsíðunnar.  Þá hafi umfjöllunin verið sett fram gegn betri vitund og í hagnaðarskyni.  Umfjöllunin hafi verið opinber og því sérstaklega vítaverð.  Fyrrgreind umfjöllun hafi falið í sér mjög grófa og ólögmæta meingerð gegn persónu og æru stefnanda og hafi fyrrgreind umfjöllun valdið stefnanda miklu tjóni.

Stefnandi telur að stefndu hafi með fyrrgreindri umfjöllun brotið gegn 234. gr., 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Þá hafi stefndu jafnframt brotið gegn 71. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944.  Stefndu hafi sannanlega meitt æru stefnanda með því að fullyrða opinberlega að stefnandi hefði gerst sekur um svívirðilegan glæp.  Þá telur stefnandi að stefndu hafi meitt æru hans gegn betri vitund, enda hafi þeim verið það ljóst er umfjöllunin hafi birst að stefnandi hefði ekki verið dæmdur sekur um ætlað brot og jafnframt að stefnandi hafi frá upphafi máls lýst yfir sakleysi sínu.

Stefnandi byggir miskabótakröfu sína á b-lið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993 og almennu skaðabótareglunni.  Byggir stefnandi á því, að stefndu hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið sér tjóni enda felist í hinni ósönnu umfjöllun ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði og æru stefnanda.

Um aðild stefndu vísar stefnandi til ákvæða V. kafla laga nr. 57/1956, einkum 15. gr.  Stefnda Erla sé nafngreind sem höfundur umfjöllunar um stefnanda á bls. 2 í fyrrgreindu tölublaði DV og beri því ábyrgð á ærumeiðandi umfjöllun um stefnanda er þar hafi birst, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956.  Höfundur fyrirsagnar á forsíðu fyrrgreinds tölublaðs DV hafi ekki verið nafngreindur og beri því útgefandi blaðsins eða ritstjóri ábyrgð á henni, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956.  Stefndi Sigurjón hafi verið ritstjóri DV á þessum tíma og sé honum því stefnt til ábyrgðar á fyrirsögn á forsíðu blaðsins.  Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefnda Erla sé höfundur fyrirsagnar á forsíðu blaðsins vegna nafngreiningar á bls. 2 í blaðinu krefst stefnandi þess, að stefnda Erla verði dæmd til að þola dóm um ómerkingu fyrirsagnarinnar og jafnframt til að greiða miskabætur, kostnað vegna birtingar dóms og málskostnað.

Um lagarök vísar stefnandi til 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, XXV. kafla laga nr. 19/1940, einkum 234. gr., 235. gr., 236. gr. og 241. gr., 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og laga um prentrétt nr. 57/1956.

Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra laga.

IV

Stefndu gera athugasemdir við aðild málsins.  Stefndu sé báðum stefnt vegna beggja ummæla.  Ljóst sé að enginn höfundur sé tilgreindur við fyrirsögn á forsíðu og getur stefnda Erla því ekki borið ábyrgð á þeirri fyrirsögn, auk þess sem um ritstjórnarefni sé að ræða.  Þá geti stefndi, Sigurjón, ekki sem ritstjóri borið ábyrgð á efni sem merkt sé höfundi.

Kröfu sína um sýknu byggja stefndu á því, að löggjafinn ásamt dómstólum hafi játað fjölmiðlum verulegt svigrúm til almennrar umfjöllunar um menn og málefni, enda sé tjáningarfrelsi í landinu varið af stjórnarskrá, sbr. 73. gr. laga nr. 33/1944, sbr. 11. gr. laga nr. 97/1995.  Réttur fjölmiðla til þess að taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum skipti meginmáli fyrir almenning og fjölmiðla, en öll starfsemi fjölmiðla byggist á að afla og birta upplýsingar og skoðanir um málefni, sem almenning varði og almenningur hafi áhuga á.  Sjónarmið þessi búi einnig að baki 10. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994, og sáttmálanum sjálfum.  Dómstólar hafi talið að fara beri varlega við að hefta umræðu í lýðræðislegu þjóðfélagi með refsikenndum viðurlögum.  Það sé hornsteinn lýðræðis og forsenda réttarríkis að fjölmiðlar fjalli um brýn málefni með sjálfstæðum rannsóknum á upplýsandi hátt og með gagnrýni að leiðarljósi.  Sjónarmið þessi beri að hafa til hliðsjónar í máli þessu þegar litið sé til þess að ummælin hafi verið birt í tengslum við aðalmeðferð alvarlegs refsimáls.

Stefndu byggja á því, að ekki hafi falist ærumeiðingar eða aðdróttanir í ummælunum í skilningi 234. gr. eða 235. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.  Ummælin hafi verið birt þegar aðalmeðferð í opinberu refsimáli á hendur stefnanda hafi farið fram.  Stefnandi hafi fellt á sig sterkan grun um aðild að innflutningi á miklu magni hættulegs fíkniefnis.  Mál stefnanda hafi augljóslega verið metið svo af ákæranda, að það sem fram hefði verið komið um þátt stefnanda í því hafi verið nægilegt eða líklegt til sakfellis, svo ástæða hafi verið til að ákæra stefnanda, sbr. 112. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.  Ákærði hafi verið undir sterkum grun um stórfelld fíkniefnalagabrot og undir það mat hafi bæði héraðsdómur og Hæstiréttur tekið, er stefnandi var úrskurður í gæsluvarðhald.  Ummælin í DV hafi á engan hátt farið út fyrir það sem stefnanda hafi verið gefið að sök meðan mál hans hafi verið þar til umfjöllunar í opnum dómsal, þar sem hver sem er hafi haft tækifæri til að fylgjast með og kynna sér efnisatriði málsins.

Stefnandi hafi, á umræddri forsíðu DV, verið kallaður kókaínsmyglari.  Samkvæmt ákæru hafi stefnanda verið gefið að sök að hafa ásamt ónefndum manni flutt inn verulegt magn af hreinu kókaíni, ætlað til söludreifingar.  Fyrirsögn DV, sem greint hafi frá þessum ákæruefnum, hafi því á engan hátt farið út fyrir lögvarinn rétt stefndu til tjáningarfrelsis og rétt fjölmiðla til að taka við og miðla áfram upplýsingum til almennings, sbr. 73. gr. stjórnarskrár Íslands, nr. 33/1944, og 10. gr. laga um Manréttindasáttmála Evrópu.  Í fyrirsögninni hafi stefnanda ekki verið gefið að sök neitt annað en það sem honum hafi með ákæruskjali verið gefið að sök, en ákæruskjalið sé opinbert skjal sem hvaða aðili sem er hafi getað kynnt sér og sé birt opinberlega í dómasafni, m.a. nú á vefsíðu Hæstaréttar.  Eftir að dómur hafi fallið hafi stefndu ekki sagt stefnanda vera kókaínsmyglara.

Í frétt  DV um málið, á bls. 2, hinn 5. júlí 2007, hafi verið vitnað nánast orðrétt til ákæruskjalsins í málinu gegn stefnanda.  Samkvæmt ákærusjali hafi stefnanda verið gefið að sök að hafa flutt til landsins tæp fjögur kíló af kókaíni, ætlað til söludreifingar.  Orðrétt segi í ákæruskjalinu, sem birt hafi verið opinberlega í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. júlí 2007: „Ákærði annaðist tollafgreiðslu bifreiðarinnar og tók síðan í sínar vörslur í þeirri trú að í henni væru falin framangreind fíkniefni, en lögreglan hafði þá lagt hald á efnið og komið fyrir gerviefni í þeirra stað“.  Hin tilvitnuðu ummæli, er þau hafi verið rituð, hafi því ekki farið út fyrir lögvarin rétt stefndu til tjáningarfrelsis og rétt fjölmiðla til að greina frá og miðla slíkum upplýsingum, sbr. 73. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, og 10. gr. laga um Mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994.   Ummælin hafi því ekki, á þeim tíma sem þau hafi verið birt, talist ærumeiðing eða falist í þeim aðdróttun að stefnanda.

Stefndu byggja sýknukröfu sína á því, verði ekki fallist á framagreindar málsástæður, að ummælin í DV hafi verið sönn.  Reglunni um refsileysi sannaðra ummæla megi finna stað í mörgum dómum sem snúist um meiðyrði.  Þrátt fyrir að stefnandi hafi verið sýknaður í opinberu refsimáli, þar sem strangar sönnunarkröfur gildi, bendi allt til þess, að stefnandi hafi átt þátt í innflutningi á miklu magni af kókaíni, þótt dómstólar í refsimálinu hafi komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi væri saklaus.  Stefnandi hafi verið sýknaður með þeim ummælum í Hæstarétti, að þótt skýrsla ákærða væri í ýmsu með ólíkindablæ yrði ekki hjá því komist að fallast á forsendur héraðsdómara fyrir því að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að færa sönnur fyrir sakargiftum á hendur honum.  Stefnandi hafi og setið í gæsluvarðhaldi í fimm mánuði, m.a. með vísan til þess að hann væri undir sterkum grun um stórfellt fíkniefnalagabrot.  Bendi málavextir og málið allt til þess, sem og ummæli í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar Íslands, að stefnandi hafi rétt sloppið við sakfellingu og hann hafi einungis verið sýknaður vegna hinna geysiströngu sönnunarreglna sem gildi í opinberum málum.  Einkum hafi ráðið niðurstöðu málsins sú handvömm lögreglumanna sem önnuðust rannsóknina.  Stefndu telja, að þegar málið sé metið í heild sé afar líklegt að stefnandi hafi staðið að innflutningi ólögmætra fíkniefna.  Í ljósi þess að ummælin séu að öllum líkindum sönn beri að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.

Stefndu hafna því, að hafa brotið gegn rétti stefnanda og virt að vettugi reglu 2. mgr. 70. gr. Stjórnarskrá Íslands, nr. 33/1944, um að hver maður teljist saklaus uns sekt sé sönnuð.  Regla þessi tryggi einungis réttláta málsmeðferð fyrir dómstólunum og tryggi sakborningum ákveðna stöðu gagnvart ákæruvaldinu í opinberu refsimáli.  Stefndu geti því ekki talist hafa brotið reglu þessa og geti slíkar fullyrðingar ekki haft nein áhrif í máli þessu.

Stefndu byggja og á því, að skilyrði b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, séu ekki uppfyllt.  Stefndu hafi einungis fjallað um mál stefnanda meðan það hafi verið til meðferðar í opnum dómsal, með því að vitna til ákæruefna.  Það hafi og aðrir fjölmiðlar gert, sem einnig hafi birt myndir af stefnanda.  Í umfjöllun stefndu hafi því ekki falist ólögmæt meingerð gegn friði hans, frelsi eða æru.  Frásögn af opnu þing­haldi geti ekki talist saknæm og ólögmæt meingerð, eins og haldið sé fram í stefnu.  Líkur séu og á því að stefnandi hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem lýst hafi verið í DV.  Af þeim sökum geti hann ekki átt kröfu á greiðslu miskabóta.  Ef ekki verði talið upplýst að stefnandi hafi gerst sekur um háttsemina, byggja stefndu á því, að ljóst sé að stefnandi hafi fellt á sig grun um brot gegn almennum hegningarlögum.  Stefndu vísa til þess að sá grunur hafi verið svo sterkur, að ákveðið hafi verið að ákæra stefnanda, en slík ákvörðun hefði aðeins verið tekin ef líkur hafi verið á sakfellingu, sbr. 112. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.  Stefndu hafi einungis vitnað til gagna málsins í umfjöllun sinni og þar sem stefnandi hafi fellt á sig svo sterkan grun um fíkniefnainnflutning geti stefndu ekki hafa valdið honum miska með umfjöllun sinni.

Til vara krefjast stefndu þess, ef talið verði að ummælin hafi verið meiðandi fyrir stefnanda og honum beri miskabætur vegna þess, að miskabótakrafa stefnanda verði lækkuð verulega.  Miskabótakrafan sé ekki í neinu samræmi við dómvenju á Íslandi.  Tilefni hafi verið til umfjöllunarinnar á þeim tíma sem greinin hafi birst, og umfjöllunin hafi átt erindi til almennings í ljósi aðstæðna og umfjöllunar á þeim tíma.  Af þeirri ástæðu sé krafist að miskabótakrafa stefnanda verði lækkuð verulega, enda hafi verið um að ræða minniháttar brot gegn stefnanda.

Stefndu krefjast þess, verði ekki fallist á sýknukröfu þeirra, að krafa stefnanda um greiðslu vegna birtingar dóms verði lækkuð verulega.  Telja þau kröfuna allt of háa miðað við þann kostnað, sem fylgi birtingu dóms, en kostnaður við slíka birtingu sé langtum minni heldur en krafa stefnanda segi til um.  Þá telja þau, að einungis þurfi að birta dómsorðið en ekki dóminn í heild sinni, verði á annað borð fallist á kröfu stefnanda vegna ummælanna.

Stefndu mótmæla sérstaklega kröfu stefnanda um dráttarvexti.  Engin rök hafi verið færð fram um það hvers vegna dráttarvaxtakrafa miðist við 17. október 2008.  Einungis sé vísað til 1. mgr. 6. gr. laganna, sem kveði á um vaxtafót.  Krefjast stefndu þess, verði fallist á kröfu stefnanda, að upphaf dráttarvaxta verði miðað við dómsuppsögudag.

Um lagarök vísa stefndu til 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 57/1956, einkum 15. gr. laganna.  Þá vísa stefndu til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, 73. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. 11. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, sem og 10. gr. laga um Mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994.

                Kröfu um málskostnað byggja stefndu á 129. gr. og 130. gr. laga nr.91/1991, um meðferð einkamála.

V

Stefnandi hefur stefnt stefndu til ómerkingar á fyrrgreindum ummælum, greiðslu miskabóta, greiðslu kostnaðar við birtingu dóms og málskostnaðar. 

Ummæli þessi birtust annars vegar í forsíðufyrirsögn í dagblaðinu DV og hins vegar í umfjöllun stefndu Erlu á bls. 2 í sama blaði.  Í dómkröfum er ekki sundurliðað hvort hinna stefndu beri ábyrgð á hvaða ummælum.  Í stefnu gerir stefnandi nánari grein fyrir aðild stefndu að hvorum ummælunum um sig.  Verður því að telja að aðild stefndu sé nægilega skýr og með vísan til 15. gr. prentlaga nr. 57/1956, ber stefnda Erla Hlynsdóttir ábyrgð á umfjöllun sem krafist er ómerkingar á í B-lið dómkröfu stefnanda, en hún er nafngreindur höfundur greinarinnar, þar sem ummælin birtust.  Hins vegar er ekki nafngreindur höfundur fyrirsagnar á forsíðu blaðsins, sem krafist er ómerkingar á í A-lið dómkröfu stefnanda.  Ber því stefndi Sigurjón, sem ritstjóri blaðsins, ábyrgð á þeim, í samræmi við 3. mgr. 15. gr. sömu laga.     Kröfur stefnanda eru tilkomnar vegna umfjöllunar í DV um sakamál, þar sem stefnandi var ákærður fyrir ætlaðan innflutning fíkniefna.  Krafa um ómerkingu styðst við 241. gr. almennra hegningarlaga og miskabótakröfu sína byggir stefnandi á því að í ofangreindum ummælum hafi falist ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs stefnanda og frelsi hans og byggir á 234. gr., 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með fyrrgreindri umfjöllun DV og ummælunum er birtust þar í fyrirsögn „Hræddir kókaínsmyglarar“ með stórri ljósmynd af stefnanda, þar sem hann var á leið í dómsal, er og greint frá því á forsíðu, að stefnandi eigi yfir höfði sér 7 til 8 ára fangelsi vegna innflutnings á kókaíni og er vísað í umfjöllun um málið á bls. 2 í blaðinu.  Í umfjöllun stefndu, Erlu, á bls. 2 í blaðinu, er greint frá því sem fram kom við yfirheyrslur yfir ákærða og meðákærða í opinberu máli sem höfðað var á hendur stefnanda vegna fíkniefnainnflutnings sem og því sem fram kom í ákæruskjalinu.  Er umfjöllunin í samræmi við það sem síðar var greint frá í dómi héraðsdóms í máli ákærða.

Tjáningarfrelsið nýtur verndar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar, þótt því séu settar skorður í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir að tjáningarfrelsinu megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmast lýðræðishefðum.

Samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar nýtur einkalíf manna, heimili og fjölskylda friðhelgi. 

Þegar skarast fyrrgreindir hagsmunir stefndu af því að njóta tjáningarfrelsis og hagsmunir stefnanda af því að njóta friðhelgi einkalífs síns, ber að líta til þess hvort hið birta efni sem stefndu bera ábyrgð á, geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings.  Umdeild ummæli birtust í umfjöllun blaðsins um opinbert mál, þar sem stefnanda hafði verið gefinn að sök alvarlegur glæpur.  Réttarhaldið var opið almenningi og þeim sem vildu á hlýða, eins og tíðkanlegt er, og er frásögn stefndu í samræmi við það sem þar kom fram.  Verður að telja það eðlilegt að færðar séu fréttir af sakamálum sem til meðferðar eru í dómstólum landsins og þátt í störfum fréttamanna.  Verður ekki gerð sú krafa að beðið sé niðurstöðu dómsmáls áður en greint er frá málinu.  Breytir þar engu um þó svo stefnandi hafi síðar verið sýknaður af ákærunni.  Verður því að telja að hið birta efni hafi á þeim tíma, sem það var birt, átt erindi við almenning og hafi haft fréttagildi.  Þó svo fyrirsögn á forsíðu sé færð í stílinn verður að líta til þess, að þar er vitnað í það sem fram kom við yfirheyrslu yfir stefnanda í sakamálinu, þ.e. að hann vildi ekki gefa upp nafn mannsins sem stefnandi var ákærður fyrir að hafa flutt inn fíkniefni fyrir, þar sem hann óttaðist um öryggi sitt og fjölskyldu sinnar.  Þegar allt framangreint er virt verða ummælin því ekki talin hafa verið móðgandi eða meiðandi fyrir stefnanda, sbr. 234. gr. almennra hegningarlaga eða falið í sér aðdróttun, sbr. 235. gr. sömu laga.  Þá verða þau ekki talin hafa verið ólögmæt meingerð gegn persónu hans og æru.  Ber því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu málsins þykir rétt að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.

Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dagsettu 1. desember 2009.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur og greiðist úr ríkissjóði.  Við ákvörðun málskostnaðar hefur ekki verið litið til virðisaukaskattsskyldu stefnanda.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndu, Sigurjón Magnús Egilsson og Erla Hlynsdóttir, eru sýkn af kröfum stefnanda, Rúnars Þórs Róbertssonar.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, Rúnars Þórs Róbertssonar, 400.000 krónur, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, Þorsteins Einarssonar hrl., greiðist úr ríkissjóði.