Print

Mál nr. 670/2006

Lykilorð
  • Kærumál
  • Upplýsingaskylda
  • Fjarskipti
  • Friðhelgi einkalífs
  • Stjórnarskrá

Föstudaginn 29

 

Föstudaginn 29. desember 2006.

Nr. 670/2006.

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum

(Karl Gauti Hjaltason sýslumaður)

gegn

Og fjarskiptum ehf. og

(Gestur Jónsson hrl.)

Símanum hf.

(Andri Árnason hrl.)

 

Kærumál. Upplýsingaskylda. Fjarskipti. Friðhelgi einkalífs. Stjórnarskrá.

S krafðist þess að O ehf. og S hf. yrði gert skylt að upplýsa um öll símanúmer sem notað höfðu ákveðinn gsm sendi á tíu klukkustunda tímabili vegna rannsóknar á bruna í fiskimjölsverksmiðju. Talið var að þessi krafa gengi lengra en rúmaðist innan heimilda 86. gr. og 87. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og var henni því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 22. desember 2006, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 21. desember 2006, þar sem varnaraðilum var gert skylt að afhenda sóknaraðila „lista yfir þau símanúmer sem notuðu gsm-sendinn á Hánni í Vestmannaeyjum sem snýr í átt að Friðarhöfn og hefur einkennisnúmerið 21060 á tímabilinu frá kl. 12:00 laugardaginn 16. desember til kl. 22:00 þann sama dag.“ Með úrskurðinum var varnaraðilum einnig gert skylt „að afhenda lista um úr og í hvaða símanúmer var hringt á umræddum tíma og lista yfir sendar og mótteknar SMS sendingar.“ Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að honum verði afhentur listi yfir þau símanúmer sem notuðu umræddan gsm sendi á fyrrgreindu tímabili.

I.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði rannsakar lögregla nú orsök bruna sem varð í fiskimjölsverksmiðju Ísfélags Vestmannaeyja hf. að kvöldi 16. desember 2006. Í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti segir að ekki liggi fyrir endanlegar niðurstöður tæknideildar um orsök brunans, en samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu sé nánast örugglega um íkveikju af ásetningi að ræða. Lögð er áhersla á að þeir listar sem krafan beinist að hafi að geyma töluverðan fjölda símanúmera sem hafi verið í notkun á umræddu svæði á fyrrgreindu tímabili. Ætlunin sé að bera listana saman við önnur gögn lögreglunnar og geti þeir því skipt miklu máli við rannsóknina. Vísað er til þess að upplýsingarnar sem óskað er eftir séu almenns eðlis og víðtækar, en friðhelgi einkalífs sé ekki stefnt í hættu með afhendingu þeirra. Telur sóknaraðili að uppfyllt séu skilyrði 86. gr. og 87. gr. laga nr. 19/1991 til að varnaraðilum verði gert skylt að veita umræddar upplýsingar.

Í málatilbúnaði varnaraðila er því mótmælt að skilyrði b. liðar 86. gr. og 87. gr. laga nr. 19/1991 séu uppfyllt, þar sem ekki sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að tiltekinn sími eða fjarskiptatæki hafi verið notaður í tengslum við refsivert brot. Þá sé krafan of víðtæk með tilliti til sjónarmiða um friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Varnaraðilinn Síminn hf. hefur upplýst að farið hafi fram úttekt á umræddum gsm sendi sem taki yfir þriggja klukkustunda tímabil og hafi hún leitt í ljós 1.638 gsm færslur. Megi því ætla að úttekt sem taki til tíu klukkustunda geti varðað allt að 6000 færslur. 

II.

Samkvæmt b. lið 86. gr. og 87. gr. laga nr. 19/1991 getur lögregla krafist upplýsinga hjá síma- eða fjarskiptafyrirtækjum um símtöl eða fjarskipti við tiltekinn síma eða fjarskiptatæki að fengnum dómsúrskurði um skyldu þeirra til að veita slíkar upplýsingar, enda sé fullnægt skilyrðum 2. mgr. 87. gr. laganna.

Skilyrði þess að greindum lagaákvæðum verði beitt er að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að tiltekinn sími eða fjarskiptatæki hafi verið notað í tengslum við refsivert brot, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni 2001 blaðsíðu 1339. Í málinu er sú aðstaða ekki fyrir hendi og hefur því ekki verið haldið fram að notendur tiltekinna símtækja hjá varnaraðilum tengist þeim bruna sem til rannsóknar er. Beinist krafa sóknaraðila þvert á móti að því að veittar verði upplýsingar um öll þau símtæki sem notuðu umræddan gsm sendi á tíu klukkustunda tímabili.

Við úrlausn málsins verður að leggja til grundvallar að heimildum til að beita rannsóknarúrræðum samkvæmt 86. gr. og 87. gr. laga nr. 19/1991 séu settar þröngar skorður vegna friðhelgi einkalífs manna, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Krafa sóknaraðila gengur lengra en rúmast innan þessara heimilda og verður henni því hafnað.

Varnaraðilum verður dæmdur kærumálskostnaður úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, sýslumannsins í Vestmannaeyjum, um að varnaraðilum, Og fjarskiptum ehf. og Símanum hf., verði gert skylt að afhenda lögreglunni í Vestmannaeyjum lista yfir öll þau símanúmer sem notuðu gsm sendinn á Hánni í Vestmannaeyjum sem snýr að Friðarhöfn og hefur einkennisnúmerið 21060 á tímabilinu frá klukkan 12 laugardaginn 16. desember til klukkan 22 sama dag. Jafnframt er hafnað kröfu um að varnaraðilum verði gert skylt að afhenda lista yfir símanúmer sem hringt var úr og í á umræddu tímabili og lista yfir SMS sendingar.

Kærumálskostnaður varnaraðila, 100.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 21. desember 2006.

                Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hefur gert þá kröfu að Héraðsdómur Suðurlands úrskurði að Símanum hf. og Og Fjarskiptum ehf. verði með úrskurði gert skylt að afhenda lögreglunni í Vestmannaeyjum upplýsingar yfir öll þau símanúmer sem notuðu gsm-sendinn á Hánni í Vestmannaeyjum sem snýr í átt að Friðarhöfn og hefur einkennisnúmerið 21060 á tímabilinu frá kl. 12:00, laugardaginn 16. desember til kl. 22:00 þann sama dag. Þess er einnig krafist að heimildin nái til þess að skrá upplýsingarnar um úr og í hvaða símanúmer var hringt, og jafnframt lista yfir sendar og mótteknar SMS sendingar. 

            Lögreglan í Vestmannaeyjum rannsakar nú orsök bruna sem varð í Fiskimjölsverksmiðju Ísfélagsins í Vestmannaeyjum og kom upp laugardagskvöldið 16. desember s.l.  Rannsókn á tildrögum brunans stendur yfir, en tjón í brunanum varð geysimikið. Sterkar vísbendingar eru um að bruninn sé af mannavöldum og einnig að kveikt hafi verið í af ásetningi, en rannsóknarniðurstöður liggja ekki endanlega fyrir á þessu stigi málsins.  Í þágu rannsóknar málsins er lögreglu nauðsyn á að fá upplýsingar um þá síma sem í notkun voru á svæðinu, til þess að geta rannsakað þá sem á svæðinu voru og kannað nánar ferðir þeirra, en einkennisnúmerið 21060 vera einkennisnúmer á tiltekinni „sellu“ í gsm-sendi á Hánni í Vestmannaeyjum og hefur komið fram í prófunum að sú sella þjónustar símtöl á svæði í geisla frá brunasvæðinu sjálfu og nágrenni.

 Með vísan til þess og með því að fullnægt er skilyrðum 87. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þykir rétt að heimila þær rannsóknaraðgerðir, sem krafist er skv. heimild í b lið 86. gr sömu laga svo sem greinir í úrskurðarorði.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn,

 

Úrskurðarorð:

Símanum hf. og Og Fjarskipti ehf. skulu afhenda lögreglunni í Vestmannaeyjum lista yfir þau símanúmer sem notuðu gsm-sendinn á Hánni í Vestmannaeyjum sem snýr í átt að Friðarhöfn og hefur einkennisnúmerið 21060 á tímabilinu frá kl. 12:00 laugardaginn 16. desember til kl. 22:00 þann sama dag.  Þá er þeim einnig skylt að afhenda lista um úr og í hvaða símanúmer var hringt á umræddum tíma og lista yfir sendar og mótteknar SMS sendingar.