Print

Mál nr. 478/2008

Lykilorð
  • Aðflutningsgjald
  • Endurkrafa

Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. mars 2009.

Nr. 478/2008.

Jónar Transport hf.

(Lilja Jónasdóttir hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

 

Aðflutningsgjöld. Endurkrafa.

Málsaðilar deildu um ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda vegna nánar tilgreindra vörusendinga fyrirtækisins H en J annaðist um nokkurra ára skeið tollafgreiðslu og tollskjalagerð fyrir félagið. Árið 2002 flutti félagið inn til landsins frá Danmörku tvær vörusendingar. Fyrri sendingin kom til landsins 29. janúar en síðari 24. apríl og kom J fram fyrir hönd félagsins við tollafgreiðslu sendinganna. Á aðflutningsskýrslum vegna þeirra var verð ranglega tilgreint í dönskum krónum en hefði átt að vera í evrum samkvæmt reikningum. Var útreikningur aðflutningsgjalda því byggður á röngum fjárhæðum og því greidd of lág aðflutningsgjöld í íslenskum krónum vegna sendinganna. Fyrir Hæstarétti féll J frá kröfu um endurgreiðslu aðflutningsgjalda vegna síðari sendingarinnar en eftir stóð ágreiningur vegna vörusendingarinnar í janúar 2002. Aðflutningsgjöld vegna þeirrar sendingar voru skuldfærð á innflytjandann H 12. febrúar sama ár. J leiðrétti mistökin vegna janúarsendingarinnar 20. ágúst 2002 en þann sama dag úrskurðaði T um endurákvörðun aðflutningsgjalda á þeirri sendingu. Bú H var tekið til gjaldþrotaskipta 18. desember 2003 og lýsti T kröfum vegna vangreiddra aðflutningsgjalda í búið. Skiptum á búi H lauk í október 2004 án þess að nokkuð fengist greitt upp í kröfur T. Í júlí 2005 var J krafið um hin vangreiddu aðflutningsgjöld vegna framangreindra sendinga. J mótmælti því að félagið bæri ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjaldanna og að ákvæði 2. málsliðar 2. mgr. 111. gr., sbr. 4. málsliðar 1. mgr. 14. gr. þágildandi tollalaga nr. 55/1987 væru uppfyllt þar sem tollafgreiðslan sem slík hefði verið leiðrétt. Með ákvörðun T 21. október 2005 var niðurstaðan sú að J bæri ábyrgð á hinum vangreiddu aðflutningsgjöldum vegna þessara vörusendinga. Héraðsdómur féllst ekki á það með J að ábyrgð hans á greiðslu aðflutningsgjalda vegna janúarsendingarinnar hefði fallið niður við það að gjöldin hefðu í upphafi verið skuldfærð á innflytjandann þar sem hann mátti vita að upplýsingar í aðflutningsskýrslu væru rangar. Þótti engu breyta um ábyrgð J að hin vangreiddu leiðréttu aðflutningsgjöld hefðu ekki verið skuldfærð á innflytjandann sérstaklega. Þá hefði J ekki sýnt fram á að T hefði með framgöngu sinni í málinu hagað málum öðruvísi en aðrir tollstjórar á landinu og þannig orðið uppvís að ósamkvæmni í stjórnsýslu. Var J því talinn ábyrgur fyrir greiðslu vangreiddra aðflutningsgjalda vegna janúarsendingarinnar. Breytti engu um ábyrgð hans að þessu leyti hvort leiðréttingar hans á útreikningi gjaldanna hefðu borist tollstjóra áður en hann kvað upp úrskurð um endurákvörðun aðflutningsgjalda vegna janúarsendingarinnar en ekki var í málinu ágreiningur um fjárhæð gjaldanna. Þá var ekki fallist á það að T hefði fyrirgert kröfum sínum á hendur J á þeim forsendum að hann hefði sýnt af sér tómlæti við innheimtu þeirra á hendur innflytjanda. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 24. júní 2008, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 6. ágúst 2008. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 2. september 2008. Hann krefst þess nú að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.813.156 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, frá 4. júlí 2006 til greiðsludags og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara lækkunar á stefnukröfum og niðurfellingar málskostnaðar.

Áfrýjandi hefur breytt kröfugerð sinni fyrir Hæstarétti þannig að fallið er frá kröfu um endurgreiðslu aðflutningsgjalda vegna innflutnings í apríl 2002. Eftir stendur ágreiningur um hver hafi átt að greiða endurákvörðuð aðflutningsgjöld vegna vörusendingar í janúar 2002.

Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Jónar Transport hf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2008.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 19. mars 2008, var höfðað 13. júlí 2007.  Stefnandi er Jónar Transport hf., Kjalarvogi 7-15, Reykjavík, en stefndi er íslenska ríkið.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.254.167 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, frá 4. júlí 2006 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað.  Til vara krefst hann þess að stefnu­kröfur verði stórlega lækkaðar og málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

II

Málavextir eru þeir að fyrirtæki að nafni HL og Co. ehf. flutti inn til Íslands varning frá ýmsum löndum og annaðist stefnandi um nokkurra ára skeið tollafgreiðslu og tollskjala­gerð fyrir félagið.  Á árinu 2002 flutti félagið inn til landsins frá Danmörku þær tvær vörusendingar sem mál þetta fjallar um.  Kom fyrri sendingin til landsins 29. janúar 2002 en hin síðari 24. apríl 2002 og kom stefnandi fram fyrir hönd innflytjandans við tollafgreiðslu sendinganna.  Á aðflutningsskýrslum vegna vöru­sending­anna var verð ranglega tilgreint í dönskum krónum sem átti samkvæmt reikningum að vera í evrum.  Var útreikningur aðflutningsgjalda því byggður á röngum fjárhæðum og þar sem gengi danskrar krónu var mun lægra en gengi evru voru aðflutningsgjöldin verulega vanreiknuð af þessum tveim sendingum.  Stefnandi kveður mistök þessi hafa orðið vegna innsláttarvillu.

Aðflutningsgjöld vegna janúarsendingarinnar voru skuldfærð á innflytjandann HL og Co. ehf. 12. febrúar 2002 en aðflutningsgjöld vegna aprílsendingarinnar var skuldfærð á stefnanda 14. júní 2002, að sögn stefnanda vegna þess að tollyfirvöld hefðu tímabundið lokað fyrir skuldfærslu á innflytjandann.  Stefnandi kveðst hafa greitt aðflutningsgjöldin vegna aprílsendingar og hafi innflytjandinn endurgreitt honum þann kostnað.

Stefnandi kveður starfsmenn sína fara reglulega yfir aðflutningsskýrslur og við slíkt reglubundið eftirlit hafi mistökin komið í ljós og þá þegar hafi verið lagðar inn leiðréttingar til Tollstjórans í Reykjavík.  Leiðréttingar stefnanda vegna aprílsendingar voru samkvæmt gögnum málsins mótteknar hjá Tollstjóranum í Reykjavík 18. júlí 2002. Var sú leiðrétting tekin til greina og ákvarðaði Tollstjórinn í Reykjavík vanreiknuð aðflutningsgjöld á grundvelli hennar hinn 14. ágúst 2002.

Stefnandi leiðrétti mistökin vegna janúarsendingarinnar hinn 20. ágúst 2002 en þann sama dag úrskurðaði Tollstjórinn í Reykjavík um endurákvörðun aðflutningsgjalda á þeirri sendingu.  Kveðst stefnandi hafa sent nauðsynlegar leiðréttingar að morgni þessa dags áður en úrskurður tollstjóra var kveðinn upp.  Stefndi hins vegar heldur því fram að umrædd leiðrétting hafi ekki borist fyrr en í kjölfar úrskurðarins og hafi stefnanda verið kunnugt um að úrskurður tollstjóra um endurákvörðun hafi verið í undirbúningi.  Hafi stefnanda verið send tilkynning þess efnis 2. ágúst 2002 og hafi hún verið móttekin af stefnanda 6. ágúst 2002.  Hafi stefnanda þar verið veittur frestur til að tjá sig um fyrirhugaða endurákvörðun til 19. ágúst 2002. 

Bú HL og Co. ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 18. desember 2003.  Lýsti Tollstjórinn í Reykjavík kröfum vegna vangreiddra aðflutningsgjalda í búið.  Með bréfi 27. apríl 2004 tilkynnti Tollstjórinn í Reykjavík stefnanda að fengi hann ekki greiddar kröfur sínar úr þrotabúinu myndi hann krefja stefnanda um greiðslu aðflutningsgjaldanna.  Var skiptum á búi HL og Co. ehf. lokið hinn 13. október 2004 án þess að nokkuð fengist greitt upp í kröfur Tollstjórans í Reykjavík.

Með bréfi 7. júlí 2005 var stefnandi krafinn um hin vangreiddu aðflutningsgjöld vegna framangreindra sendinga og honum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  Með bréfi lögmanns stefnanda til Tollstjórans í Reykjavík 17. ágúst 2005 var því mótmælt að stefnandi bæri ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda vegna umræddra vöru­sendinga.  Þá var því enn fremur mótmælt að ákvæði 2. ml. 2. mgr. 111. gr., sbr. 4. ml. 1. mgr. 14. gr. þágildandi tollalaga væru uppfyllt þar sem tollafgreiðslan sem slík hefði verið leiðrétt.

Með ákvörðun Tollstjórans í Reykjavík 21. október 2005 var niðurstaðan sú að stefnandi bæri ábyrgð á hinum vangreiddu aðflutningsgjöldum vegna þessara vörusendinga og skorað á stefnanda að greiða þau.  Með bréfi 8. nóvember 2005 var stefnandi krafinn um greiðslu aðflutningsgjaldanna, að öðrum kosti yrði lokað á tollafgreiðslu hans.  Stefnandi kærði framangreinda ákvörðun tollstjóra til fjármála­ráðuneytisins með bréfi 25. nóvember 2005.  Með úrskurði fjármálaráðuneytisins 4. júlí 2006 staðfesti ráðuneytið ákvörðun tollstjórans.

Stefnandi greiddi kröfu Tollstjórans í Reykjavík 4. júlí 2006 með fyrirvara um lögmæti kröfunnar og endurkrefur stefnda um þá fjárhæð í máli þessu. 

III

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að samkvæmt 1. mgr. 111. gr. þágildandi tollalaga nr. 55/1987 hvíli ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda á innflytjanda eða viðtakanda vöru.  Í 2. mgr. ákvæðisins komi fram að ef annar en innflytjandi eða viðtakandi vöru komi fram gagnvart tollyfirvöldum vegna tollmeðferðar vöru beri hann ásamt innflytjanda in solidum ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda.  Ábyrgð umboðsmanns falli brott hafi aðflutningsgjöld verið skuldfærð á innflytjanda eða viðtakanda vöru, sbr. þó 4. ml. 1. mgr. 14. gr. laganna.  Þar komi fram að tollafgreiðsla sem eigi sér stað með skjalasendingum milli tölva leiði til þess að ábyrgð umboðsaðila falli niður hafi aðflutningsgjöld verið skuldfærð á innflytjanda eða viðtakanda vöru hjá tollstjóra, nema umboðsaðili hafi ekki haft heimild frá innflytjanda eða viðtakanda til skuldfærslunnar, eða ef umboðsaðili vissi eða mátti vita að upplýsingar sem veittar voru í tengslum við tollafgreiðslu væru rangar eða ófullnægjandi.

Stefnandi byggir aðallega á því að hann beri ekki ábyrgð á umræddum aðflutnings­gjöldum þar sem þau hafi sannanlega verið skuldfærð á HL og Co. ehf. í samræmi við lög og reglur þar að lútandi. Ekki sé unnt að líta svo á að stefnandi hafi vitað eða mátt vita að upplýsingar sem veittar hafi verið í tengslum við tollafgreiðslu væru rangar eða ófull­nægjandi.  Skilyrði 4. ml. 1. mgr. 14. gr. fyrir því að ábyrgðin falli ekki brott séu ekki uppfyllt.  Stefnandi hafi haft heimild frá innflytjanda til skuldfærslu og óumdeilt sé að búið hafi verið að skuldfæra umrædd gjöld á innflytjanda.

Varðandi skilyrði fyrir því að ábyrgð umboðsaðila falli ekki brott, sbr. 4. ml. 1. mgr. 14. gr., byggi stefnandi á því að umrædd innsláttarvilla geti ekki talist uppfylla það skilyrði að stefnandi hafi vitað eða mátt vita að upplýsingar sem veittar hafi verið í tengslum við tollafgreiðslu væru rangar eða ófullnægjandi.  Varðandi það hvernig skýra beri inntak þess „að vita“ eða „mega vita“ í skilningi tollalaga verði að líta til ákvæða þeirra um refsingu og önnur viðurlög, enda sé sú greiðsluskylda sem lögð sé á stefnanda verulega íþyngjandi.  Vísi stefnandi til 1.–3. mgr. 126. gr. þágildandi tolla­laga hvað þetta varði en skilyrði refsinga og refsikenndra viðurlaga á grundvelli tolla­laga sé ásetningur, stórkostlegt gáleysi eða ítrekað athæfi.

Það óhapp sem orðið hafi við tollmeðferð stefnanda vegna sendinganna geti ekki talist uppfylla þessi skilyrði um ásetning eða stórkostlegt gáleysi.  Sé fráleitt að ætla að starfsfólk stefnanda hafi vitað að umræddar upplýsingar væru ekki réttar.  Hafi stefnandi hagsmuni af því að öll aðstoð starfsfólks við viðskiptamenn séu sem vönduðust, bæði gagnvart viðskiptamönnunum sjálfum og ekki síst gagnvart hinu opinbera.  Við vinnslu upplýsinga hafi orðið það óhapp að röng mynt hafi verið færð inn á aðflutningsskýrslu og hafi verið um einfalda og skiljanlega innsláttarvillu að ræða.  Þá bendi stefnandi á að tollstjóri fái allar upplýsingar sem liggi til grundvallar álagningu frá stefnanda.  Verði stefnandi að geta treyst því að ef nauðsynlegt reynist að leiðrétta upplýsingar komist slíkar leiðréttingar hratt og vel í framkvæmd.

Að mati stefnanda uppfylli huglæg afstaða starfsmanna stefnanda ekki skilyrði um að þeir hafi vitað eða mátt vita að upplýsingarnar væru ekki réttar.  Þá geti afleiðingar óhappa ekki verið meira íþyngjandi en afleiðingar af brotum á tollalögum.  Jafnvel þó talið væri um gáleysi að ræða dygði það ekki til, sbr. 1. mgr. 126. gr. þágildandi tollalaga.

Þá byggi stefnandi á að við ákvörðun á því hvort hann beri ábyrgð á hinum vangreiddu aðflutningsgjöldum verði að líta til þeirra breytinga sem gerðar hafi verið á 111. gr. laganna með 17. gr. laga nr. 81/1998.  Fyrir breytinguna hafi það verið meginregla að þegar annar aðili en innflytjandi hafi komið fram fyrir hans hönd við tollafgreiðslu vöru hafi sá aðili borið ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda ásamt innflytjanda. Með breytingunni hafi verið dregið úr ábyrgð þeirra sem kæmu fram gagnvart tollyfirvöldum fyrir hönd innflytjenda þar sem talið hafi verið að ábyrgðin væri of víðtæk.  Breytingarnar hafi verið á þá leið að aðilum sem hafi haft heimild til þess að koma fram fyrir hönd innflytjenda við tollafgreiðslu, hafi verið gert kleift að skuldfæra aðflutningsgjöld beint á þá innflytjendur sem hafi notið greiðslufrests á aðflutningsgjöldum í tolli.  Fram að þeim tíma hafi aðflutningsgjöld að jafnaði verið skuldfærð á umboðsaðilann sjálfan. Þá hafi möguleikar innflytjenda til að fá að­flutnings­­gjöld skuldfærð verið rýmkaðir.  Komi fram í athugasemdum með lög­unum að ekki verði séð að rök séu til þess að aðila, sem annist í atvinnuskyni tollmeðferð vara fyrir innflytjendur, verði gert að greiða aðflutningsgjöld innflytjenda sem öðlast hafi greiðslufrest á aðflutningsgjöldum í þeim tilvikum er innflytjandi greiði ekki áfallin gjöld á gjalddaga.  Af þeim sökum sé lagt til að ábyrgð umboðsaðila falli brott við skuldfærslu aðflutningsgjaldanna á innflytjanda.  Telji stefnandi að þessar breyt­ingar á lögunum styðji sjónarmið þau sem hann leggi til grundvallar.

Þá byggi stefnandi á því að þegar leiðréttingar hafi borist tollstjóranum hafi honum borið að skuldfæra hin leiðréttu gjöld á innflytjanda.  Í úrskurði ráðuneytisins segi um þetta að engin heimild sé í lögum til skuldfærslu vangreiddra innflutningsgjalda hjá inn­flytjanda.  Að mati stefnanda fái sú lagatúlkun ekki staðist.  Heimild til skuldfærslu nái til aðflutnings­gjalda en þau séu samkvæmt 1. gr. þágildandi tollalaga tollur svo og aðrir skattar og gjöld sem greiða beri við tollmeðferð vöru.  Þegar leiðrétta verði gjöld vegna þess að þau voru ranglega reiknuð upphaflega sé leiðréttingin eitthvað sem hafi borið að greiða en ekki verið greitt.  Heimili sumir tollstjórar að leiðréttingar séu skuldfærðar en aðrir, þar með talinn Tollstjórinn í Reykjavík, ekki.  Slík ósamkvæmni í stjórnsýslu sé ólíðandi.

Í ljósi þess að hin leiðréttu gjöld hafi ekki verið skuldfærð á innflytjanda byggi stefnandi á því að Tollstjórinn í Reykjavík hafi ekki gengið nægilega á eftir greiðslu frá HL og Co. ehf. þegar leiðréttingar hafi átt sér stað á árinu 2002.  HL og Co. ehf. hafi á þeim tíma verið í fullum rekstri og hafi bú félagsins ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta fyrr en rúmu ári síðar.  Hefði það verið gert, og þeim úrræðum sem tollstjóri hafði verið beitt, hefði félagið greitt gjöldin eins og önnur álögð gjöld á þeim tíma.  Hafi embætti Tollstjórans í Reykjavík með þessu sýnt af sér tómlæti og það leiði til þess að stefndi geti ekki snúið sér að stefnanda með greiðslu.

Um lagarök að öðru leyti en að framan eru rakin vísar stefnandi til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi málskostnaðarkröfu sína.

IV

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi komið fram gagnvart tollyfirvöldum við tollafgreiðslu sendinganna, og hafi af þeim sökum verið krafinn um greiðslu vanreiknaðra og vangreiddra aðflutningsgjalda á grundvelli ábyrgðar sinnar sem umboðsmaður samkvæmt 2. mgr. 111. gr. þágildandi tollalaga nr. 55/1987.  Þar sem aðflutningsgjöld vegna aprílsendingarinnar hafi aldrei verið skuldfærð á innflytjanda hafi stefnandi borið ábyrgð á greiðslu þeirra ásamt innflytjanda á grundvelli 1. ml. 2. mgr. 111. gr. laganna. 

Varðandi endurákvörðun aðflutningsgjalda vegna janúarsendingar hafi ekki borist andmæli frá stefnanda innan þess frests sem honum hafi verið gefinn af Tollstjóranum í Reykjavík.  Hafi leiðréttingarskýrsla ekki verið látin tollstjóra í té fyrr en eftir að tilkynning um fyrirhugaða endurákvörðun hafði verið send innflytjanda og stefnanda. Málið hafi sætt tiltekinni lögboðinni málsmeðferð samkvæmt 99. gr. þágildandi tollalaga og því hafi ekki verið unnt að taka leiðréttingar­skýrslu stefnanda fyrir hönd HL og Co. ehf. til greina.  Aðflutningsgjöld hafi verið skuldfærð á innflytjanda og solidarisk ábyrgð hafi hvílt á stefnanda á vanreiknuðum gjöldum vegna sendingar­innar, sbr. 2. ml. 2. mgr. 111. gr., sbr. 4. ml. 1. mgr. 14. gr.  Þótt sendingarnar tvær hafi sætt mismunandi meðferð sé stefnandi í báðum tilvikum ábyrgur fyrir greiðslu aðflutningsgjalda.

Stefnandi hafi sem umboðsmaður innflytjanda við tollafgreiðslu sendinganna borið ábyrgð á því að upplýsingar sem veittar voru í aðflutningsskýrslu væru réttar.  Stefnandi hafi enn fremur borið ábyrgð á því að um væri að ræða allar þær upplýsingar sem hefðu átt að koma fram vegna tollafgreiðslunnar og að þær væru byggðar á viðeigandi tollskjölum, sbr. 1. mgr. 16. gr. þágildandi tollalaga.

Um ábyrgð umboðsmanns á greiðslu innflutningsgjalda hafi verið fjallað í 111. gr. þágildandi tollalaga, en þar segi í 1. ml. 2. mgr. að ef annar en innflytjandi eða viðtakandi vöru komi fram gagnvart tollyfirvöldum vegna tollmeðferðar vöru, beri hann ásamt innflytjanda in solidum ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda.  Þá segi í 2. ml. ákvæðisins að ábyrgð umboðsmanns falli brott hafi aðflutningsgjöld verið skuld­færð á innflytjanda eða viðtakanda, sbr. þó 4. ml. 1. mgr. 14. gr., og sé þar vísað til þess að ábyrgð umboðsmanns falli ekki brott ef hann hafi vitað eða mátt vita að upplýsingar sem veittar voru við tollafgreiðslu væru rangar eða ófullnægjandi.

Stefndi telur ljóst að samkvæmt ákvæðum 4. ml. 1. mgr. 14. gr. sé ekki krafist stórkostlegs gáleysis eða ásetnings til að ábyrgð umboðsmanns á greiðslu aðflutnings­gjalda haldist.  Lögboðin álagning aðflutningsgjalda byggi á upplýsingum sem inn­flytjandi eða eftir atvikum umboðsmaður hans láti tollstjórum í té.  Það standi innflytjendum og umboðs­mönnum þeirra nær að hafa undir höndum rétt gögn og öll þau gögn sem eigi að liggja til grundvallar tollafgreiðslu, þannig að tryggja megi rétta innheimtu aðflutningsgjalda.  Auk þess standi það þessum aðilum nær að láta toll­yfirvöldum þessar upplýsingar í té.  Eitt sé að tryggja með lögum innheimtu réttra aðflutningsgjalda hjá þeim sem sannanlega hafi haft möguleika á að láta réttar upplýsingar í té en annað að refsa fyrir þá yfirsjón sem leitt hafi til rangrar ákvörðunar aðflutningsgjalda við tollafgreiðslu. 

Þá sé að mati stefnda ekki unnt að fallast á að um einfalda innsláttarvillu hafi verið að ræða.  Stefnandi sé fagaðili með sérþekkingu í tollskýrslugerð og selji inn- og út­flytjendum þá þjónustu.  Hafi vörureikningar borið skýrt með sér að verð væri tilgreint í evrum og hafi það ekki getað farið fram hjá stefnanda við þá könnun sem honum hafi borið að gera.  Stefnanda hafi borið að ganga úr skugga um að upplýsingar í að­flutnings­skýrslu væru byggðar á þeim tollskjölum sem lágu til grundvallar SMT-toll­afgreiðslu.  Stefnandi hafi því mátt vita í skilningi 4. ml. 1. mgr. 14. gr. og 1. ml. 2. mgr. 111. gr. þágildandi tollalaga, að röng mynt hafi verið tilgreind í aðflutnings­skýrslum vegna sendinganna.

Stefndi hafnar því að breyting á 111. gr. tollalaga á árinu 1998 styðji málflutning stefnanda.  Með breytingunni hafi löggjafanum þótt rétt að losa umboðsaðila undan ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda, enda hafi greiðsla þeirra verið tryggð með skuldfærslu hjá innflytjanda, en að því gefnu og tilskildu að umboðsaðilinn hafi ekki vitað eða mátt vita að upplýsingar sem voru látnar tollyfirvöldum í té hafi verið rangar eða ófullnægjandi.  Það skilyrði sé ekki uppfyllt í þessu máli.

Samkvæmt skuldfærsluheimildum þágildandi tollalaga hafi innflytjendum verið veitt heimild til þess að fá aðflutningsgjöld af innfluttum sendingum, sem tollafgreiddar voru á tilteknum uppgjörstímabilum skuldfærðar um tiltekinn tíma, sbr. 109. gr. þágildandi tollalaga og 4. gr. þágildandi reglugerðar nr. 390/1999.  Skuldfærsla á innflytjanda vegna janúarsendingar hafi verið hinn 12. febrúar 2002, með eindaga 15. mars 2002, og skuldfærsla á stefnanda vegna aprílsendingar þann 14. júní 2002, með eindaga 15. júlí 2002.  Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. þágildandi tollalaga hafi eindagi aðflutningsgjalda verið tollafgreiðsludagur varanna, í þeim tilvikum að innflytjandi hafi vanreiknað aðflutnings­gjöld í aðflutningsskýrslu eða þau reynst vanreiknuð samkvæmt upplýsingum sem gefnar höfðu verið.  Samkvæmt því hafi hin vanreiknuðu aðflutningsgjöld vegna sendinganna fallið í eindaga við tollafgreiðslu hinn 12. febrúar og 14. júní 2002.  Engin heimild hafi verið í tollalögum né reglugerðum til að skuldfæra eindöguð aðflutningsgjöld hjá innflytjanda og því engin heimild til skuldfærslu eindagaðra leiðréttra aðflutningsgjalda samkvæmt 2. mgr. 108. gr. hjá innflytjanda vegna sendinganna.

Stefndi kveður stefnanda ekki hafa sýnt fram á að mismunandi framkvæmd sé viðhöfð hjá tollstjórum landsins í slíkum tilvikum sem hér um ræðir og hafnar öllum slíkum fullyrðingum sem röngum.  Þá kveður stefndi ekki unnt að fallast á það með stefnanda að kröfurnar séu fallnar niður vegna tómlætis tollstjóra á að skuldfæra aðflutnings­gjöld á innflytjanda, en greiðslufrestun hafi verið stöðvuð þegar í júní.  Ekki hafi tekist að innheimta vangreidd aðflutningsgjöld hjá inn­flytjanda, en bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og hafi ekkert fengist greitt upp í kröfurnar.  Tollstjóri hafi sótt efndir krafna sinna innan þeirra fresta sem lög bjóði og séu þær ekki niður fallnar á hendur stefnanda.

Varakröfu sína kveðst stefndi styðja við sömu sjónarmið og aðalkröfu sína.  Ekki sé unnt að fallast á að stefnandi geti átt rétt til endurgreiðslu leiðréttra aðflutningsgjalda sem hann hafi borið ábyrgð á samkvæmt 1. ml. 2. mgr. 111. gr. vegna aprílsendingar sem skuldfærð hafi verið á stefnanda sjálfan en aldrei á innflytjanda.  Þá mótmæli stefndi upphafstíma dráttarvaxta og krefst þess, með vísan til 7. gr. laga nr. 38/2001, að dráttarvextir miðist ekki við fyrri tíma en þingfestingu málsins.  Stefnandi hafi að þarflausu dregið að hafa uppi kröfur sínar um rúmlega eins árs skeið, en úrskurður fjármálaráðuneytisins hafi legið fyrir hinn 4. júlí 2006 og sama dag hafi stefnandi greitt kröfuna með fyrirvara en fyrst með höfðun þessa máls hafi hann uppi kröfur um endurgreiðslu.

V

Í málinu er ekki ágreiningur um fjárhæð kröfu stefnanda sem er vegna leiðréttingar á ranglega útreiknuðum aðflutningsgjöldum, annars vegar að fjárhæð 1.800.456 krónur vegna janúarsendingar og hins vegar að fjárhæð 441.011 krónur vegna aprílsendingar auk innheimtukostnaðar að fjárhæð 12.700 krónur.  Þetta er sú fjárhæð sem stefnandi greiddi Tollstjóranum í Reykjavík 4. júlí 2006 og endurkrefur stefnda nú um í málinu.

Á þeim tíma sem umræddar vörusendingar voru tollafgreiddar voru í gildi tollalög nr. 55/1987.  Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. þeirra laga hvíldi ábyrgð á greiðslu aðflutnings­gjalda á innflytjanda eða viðtakanda vöru.  Þá sagði í 2. mgr. ákvæðisins að ef annar en innflytjandi eða viðtakandi vöru kæmi fram gagnvart tollyfirvöldum vegna toll­meðferðar vöru bæri hann ásamt innflytjanda in solidum ábyrgð á greiðslu að­flutnings­gjalda.  Ábyrgð umboðsmanns félli þó brott hefðu aðflutnings­gjöld verið skuldfærð á innflytjanda eða viðtakanda, sbr. þó 4. ml. 1. mgr. 14. gr. laganna, en þar sagði að ábyrgðin félli ekki niður ef umboðsmaður vissi eða mátti vita að upplýsingar sem veittar voru í tengslum við tollafgreiðslu væru rangar eða ófullnægjandi.

Gögn málsins bera með sér að aðflutningsgjöld vegna sendingarinnar sem kom til landsins í apríl 2002 voru skuldfærð 14. júní 2002 á stefnanda, ekki innflytjandann HL og Co. ehf.  Greiddi stefnandi þau gjöld í kjölfarið og fékk þau síðan endurgreidd af innflytjanda.  Er óumdeilt að þau gjöld voru vanreiknuð vegna þess að þau voru í upphafi reiknuð út frá rangri mynt.  Með vísan til framangreinds ákvæðis 2. mgr. 111. gr. þágildandi tollalaga bar stefnandi, sem kom fram gagnvart tollyfirvöldum við tollmeðferð vörunnar, ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda með innflytjanda og þar sem aðflutningsgjöldin voru skuldfærð á hann en ekki innflytjandann féll ábyrgð hans ekki niður.  Á það sama við um hin vangreiddu leiðréttu aðflutningsgjöld sem féllu í eindaga á tollafgreiðsludegi varanna, sbr. 2. mgr. 108. gr. þágildandi tollalaga, enda hefðu þau verið skuldfærð á stefnanda í upphafi, hefði hann gefið réttar upplýsingar í aðflutningsskýrslu.  Bar stefnandi því ábyrgð á gjöldum þessum.

Þá bera gögn málsins með sér að aðflutningsgjöld vegna sendingarinnar sem kom til landsins í janúar 2002 var skuldfærð á innflytjandann 12. febrúar 2002.  Er óumdeilt að þau gjöld voru vanreiknuð á sama hátt og gjöld vegna aprílsendingarinnar vegna þess að upphaflegir útreikningar byggðust á rangri mynt.  Með vísan til framangreinds ákvæðis 2. mgr. 111. gr. þágildandi tollalaga féll ábyrgð umboðsmanns á greiðslu aðflutningsgjalda niður ef aðflutningsgjöld voru skuldfærð á innflytjanda, nema ef umboðsmaður vissi eða mátti vita að upplýsingar sem veittar voru í tengslum við tollafgreiðslu væru rangar eða ófullnægjandi.  Stefnandi kom fram fyrir hönd inn­flytjanda við toll­afgreiðslu sendingarinnar og bar ábyrgð á því að þær upplýsingar sem veittar voru í aðflutningsskýrslum væru réttar en stefnandi er fagaðili á sviði tollskýrslugerðar og veitir fyrirtækjum þjónustu á því sviði. 

Verður ekki annað af gögnum málsins ráðið en að þeir reikningar sem umræddar aðflutningsskýrslur byggðu á bæru með sér ótvírætt að verð þeirra væri í evrum en ekki dönskum krónum og mátti stefnandi því, sem fagaðili á sviði tollskýrslugerðar, vita að upplýsingar sem fram komu í aðflutningsskýrslunni væru rangar.  Liggur í augum uppi að öllu máli skiptir að verð sem aðflutningsgjöld reiknast af séu uppgefin í réttri mynt í aðflutningsskýrslu og því mikilvægt að vandað sé til verks við útfyllingu skýrslunnar. 

Stefnandi vísar til ákvæða í XIV. kafla þágildandi tollalaga og telur að líta eigi til þeirra við skýringar á inntaki orðanna „að vita“ eða „mega vita“ í tilvitnuðu ákvæði 14. gr. laganna og með hliðsjón af því þurfi að vera fyrir hendi ásetningur, stórkostlegt gáleysi eða ítrekað athæfi.  Í þessum kafla laganna er fjallað um refsingar og önnur viðurlög við tollalagabrotum sem er ekki sambærilegt við það ágreiningsefni sem hér er uppi og varðar leiðréttingar á útreikningi aðflutningsgjalda vegna rangra upplýsinga.  Verður því ekki séð að skýra beri orðin „að vita“ eða „mega vita“ þannig að stefnandi hefði þurft að hafa gefið rangar upplýsingar af ásetningi, stórkostlegu gáleysi eða ítrekað. 

Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður ekki fallist á það með stefnanda að ábyrgð hans á greiðslu aðflutningsgjalda vegna janúarsendingarinnar hafi fallið niður við það að gjöldin voru í upphafi skuldfærð á innflytjandann þar sem hann mátti vita að upplýsingar í aðflutningsskýrslu voru rangar.  Með vísan til þessa þykir engu breyta um ábyrgð stefnanda að hin vangreiddu leiðréttu aðflutningsgjöld hafi ekki verið skuldfærð á innflytjandann sérstaklega, en eins og fram er komið er eindagi hinna leiðréttu aðflutningsgjalda tollafgreiðsludagur varanna.  Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að Tollstjórinn í Reykjavík hafi með framgöngu sinni í því máli sem hér er til umfjöllunar hagað málum öðruvísi en aðrir tollstjórar á landinu og þannig orðið uppvís að ósamkvæmni í stjórnsýslu.  Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið var stefnandi ábyrgur fyrir greiðslu vangreiddra aðflutningsgjalda vegna janúar­sendingarinnar.  Breytir engu um ábyrgð stefnanda að þessu leyti hvort leiðréttingar hans á útreikningi gjaldanna hafi borist tollstjóra áður en hann kvað upp úrskurð um endurákvörðun aðflutningsgjalda vegna janúarsendingarinnar en ekki er ágreiningur um fjárhæð gjaldanna.

Að öllu framanrituðu virtu þykir ljóst að stefnandi bar ábyrgð á hinum vangreiddu leiðréttu aðflutningsgjöldum beggja sendinganna með vísan til 2. mgr. 111. gr. þágildandi tollalaga og breyta rökin sem lágu til grundvallar breytingu á því ákvæði á árinu 1998 engu um ábyrgð hans samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins.

Þá verður ekki fallist á það að Tollstjórinn í Reykjavík hafi fyrirgert kröfum sínum á hendur stefnanda á þeim forsendum að hann hafi sýnt af sér tómlæti við innheimtu þeirra á hendur innflytjanda.  Bú innflytjandans var tekið til gjaldþrotaskipta rúmu ári eftir endurákvörðun aðflutningsgjaldanna og lýsti tollstjóri kröfum í búið innan lögbundins frests.  Þegar það lá fyrir að ekkert fengist greitt upp í kröfurnar úr þrotabúinu krafði hann stefnanda um greiðslu.

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið var stefnandi réttilega krafinn um greiðslu aðflutningsgjaldanna og kostnaðar vegna innheimtu þeirra sem hann greiddi 4. júlí 2006 og verður ekki hjá því komist að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir þó rétt að fella málskostnað niður.

Af hálfu stefnanda flutti málið Dýrleif Kristjánsdóttir hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.     

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð

Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Jónar Transport hf., í máli þessu. 

Málskostnaður fellur niður.