Print

Mál nr. 258/2004

Lykilorð
  • Jafnrétti
  • Laun
  • Sönnun
  • Skaðabætur
  • Fyrning
  • Gjafsókn
  • Sératkvæði

Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. janúar 2005.

Nr. 258/2004.

Akureyrarbær

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.

  Hákon Stefánsson hdl.)

gegn

Guðrúnu Sigurðardóttur

(Sif Konráðsdóttir hrl.)

og gagnsök

 

Jafnrétti. Laun. Sönnun. Skaðabætur. Fyrning. Gjafsókn. Sératkvæði.

G, sem gegndi starfi deildarstjóra á félagsmálastofnun sveitarfélagsins A, höfðaði mál gegn A til greiðslu skaðabóta vegna brota A á jafnréttislögum. Taldi G starf sitt og starf deildartæknifræðings hjá A jafnverðmæt, en í starfsmati sem fram fór á nokkrum störfum hjá A árið 1996, þar á meðal á framangreindum tveimur störfum, voru störfin metin til sama stigafjölda. Var krafa G reist á því að hún ætti að njóta sömu kjara og deildartæknifræðingur. G var talin hafa leitt verulegar líkur að því, að starf hennar og deildartæknifræðings hafi verið svo sambærileg að inntaki og ytri búnaði, að henni hafi verið mismunað í kjörum hjá A í skilningi ákvæða jafnréttislaga. A yrði að sýna fram á, að svo hafi ekki verið gert á grundvelli kynferðis. A var ekki talinn hafa fært haldbær rök að því, að markaðssjónarmið hafi átt að leiða til svo mismunandi kjara þegar litið væri til stöðu þessara starfa í stjórnkerfi A. Tókst A ekki að sanna, að hlutlægar og málefnalegar ástæður hafi ráðið kjaramuninum, en mismunandi kjarasamningar gætu ekki réttlætt mismun starfskjara kvenna og karla í skilningi jafnréttislaga. Var því fallist á kröfu G, sem hún var ekki talin hafa glatað fyrir fyrningu eða tómlæti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. júní 2004. Hann krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað að nýju, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum gagnáfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 5. ágúst 2004. Hún krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi greiði sér 6.197.846 krónur, til vara 4.797.482 krónur, en til þrautavara 4.777.409 krónur, í öllum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2002 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Verði ekki á það fallist krefst hún staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en að því frágengnu að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur að álitum með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 28. júlí 1996 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjanda hefur verið veitt gjafsókn fyrir báðum dómstigum.

I.

Í áfrýjunarstefnu er meðal annars leitað endurskoðunar á úrskurði héraðsdóms 15. desember 2003 þar sem synjað var kröfu aðaláfrýjanda um framlagningu fjögurra skjala um launakjör nokkurra deildarstjóra í þjónustu hans á árabilinu 1992–2000 og samantekt á kjörum þeirra. Aðalkrafa aðaláfrýjanda er á því reist að héraðsdómari hafi ranglega synjað um framlagningu þessara gagna. Gagnáfrýjandi miðar kröfugerð sína við launakjör deildartæknifræðings hjá aðaláfrýjanda, sem viðurkennt er að hafi verið betri en kjör hennar á umræddu tímabili, þótt í sérstöku starfsmati hafi verið talið að um jafnverðmæt störf væri að ræða. Skilja verður aðaláfrýjanda svo að tilgangur hans með umdeildri framlagningu hafi verið að sýna fram á launakjör þar tilvitnaðra  deildarstjóra, sem voru karlmenn. Störf þeirra hafi í starfsmati verið talin jafnverðmæt eða verðmætari en starf deildartæknifræðings þótt launakjörin væru lakari. Hafi þetta stafað af mismunandi kjarasamningum og sýni að launamunur sá sem gagnáfrýjandi vísi til sé svo tilkominn og geti því ekki verið brot á jafnréttislögum.

Á framangreindri málsástæðu var byggt í greinargerð aðaláfrýjanda fyrir héraðsdómi og raskar framlagning skjalanna ekki grundvelli málsins. Aðaláfrýjandi hefur lagt umdeild gögn fyrir Hæstarétt. Gagnáfrýjandi hefur ekki mótmælt framlagningu þeirra, þótt hún mótmæli þeim sem þýðingalausum fyrir úrslit málsins. Gögnin eru þannig til álita fyrir Hæstarétti og verður héraðsdómur ekki ómerktur af þessum sökum. Aðalkröfu aðaláfrýjanda er því hafnað.

II.

Gagnáfrýjandi hóf störf hjá Félagsmálastofnun Akureyrarbæjar 1984 sem félagsráðgjafi og tók við starfi deildarstjóra ráðgjafardeildar á stofnuninni 1988. Næsti yfirmaður hennar var félagsmálastjóri bæjarins. Hliðsettir henni á þann hátt voru nokkrir aðrir deildarstjórar svo sem deildarstjórar leikskóladeildar og öldrunardeildar svo og íþrótta- og tómstundafulltrúi. Verkefni gagnáfrýjanda var að gera fjárhagsáætlanir fyrir deildina, þróa starfsemi hennar, ráðning starfsfólks, verkstjórn og skipulagning starfa. Bar hún ábyrgð á starfsemi deildarinnar en undir hana heyrðu barnavernd, fjárhagsaðstoð og ráðgjöf við skjólstæðinga deildarinnar, vinnumiðlun, leiguíbúðir bæjarins, félagslegt varnarstarf og samstarf við tengdar stofnanir. Gagnáfrýjandi tók laun samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags Akureyrarbæjar, STAK, og aðaláfrýjanda allt frá 1984 og til 2001. Deildarstjórastarfi hennar fylgdu 44 fastir yfirvinnutímar á mánuði, sem ná áttu til allrar yfirvinnu. Þá hafði hún aksturssamning um 200 km á mánuði.

Langflestir starfsmenn aðaláfrýjanda fengu greidd laun samkvæmt framangreindum kjarasamningi og við röðun í launaflokka var tekið mið af starfsmati. Í starfsmatsnefnd áttu sæti fulltrúar STAK og aðaláfrýjanda auk oddamanns, Böðvars Guðmundssonar, sem jafnframt var sérfræðingur nefndarinnar. Kjör starfsmanna, sem aðild áttu að öðrum kjarasamningum, voru utan starfsmats. Einstaka starfsmenn aðrir, einkum æðstu embættismenn aðaláfrýjanda, stóðu einnig utan starfsmats, þótt einhverjir þeirra ættu aðild að STAK, og munu launakjör þeirra hafa ráðist af einstaklingsbundnum samningum, sem tóku mið af kjarasamningi verkfræðinga og aðaláfrýjanda.

Jafnréttisnefnd bæjarins óskaði eftir því við kjaranefnd hans 10. júlí 1995, að „gerð verði örlítil tilraun til að nýta starfsmat til samanburðar launa og starfa karla og kvenna í deildarstjórastöðum hjá Akureyrarbæ, út fyrir þann hóp sem samkvæmt samningum gangast undir starfsmat.“ Óskað var samanburðar á störfum þriggja tvennda; í fyrsta lagi deildarstjórum leikskóladeildar og öldrunardeildar, í öðru lagi jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa og í þriðja lagi deildarstjóra ráðgjafardeildar (gagnáfrýjanda) og deildartæknifræðings hjá tæknideild. Konur gegndu þá störfum deildarstjóra leikskóladeildar og ráðgjafardeildar og stöðu jafnréttis- og fræðslufulltrúa en karlmenn hinum störfunum. Í bréfinu sagði jafnframt, að forsenda þessa vals væri sú, að ekki væru fleiri deildarstjórastöður hjá bænum skipaðar konum og reynt hefði verið að velja á móti störf, sem í fljótu bragði virtust sambærileg, væru skipuð körlum og væru á öðrum sviðum. Að ákvörðun bæjarráðs 26. júlí 1995 gerðu einungis oddamaður starfsmatsnefndar og fulltrúar aðaláfrýjanda í nefndinni umbeðinn samanburð. Fulltrúar STAK áttu hins vegar ekki að taka þátt í matinu, þar sem tilgreindir starfsmenn tækju ekki allir laun samkvæmt kjarasamningi starfsmannafélagsins við aðaláfrýjanda. Í bréfi þessa vinnuhóps 28. júní 1996 til kjarasamninganefndar aðaláfrýjanda kemur fram, að störfin hafi verið metin miðað við fyrirliggjandi starfslýsingar og gildandi starfsmatskerfi og skipti þá engu, hvort karl eða kona gegni viðkomandi starfi. Engin afstaða sé því tekin til þess, „hvort störfin séu sambærileg á grundvelli „pörunar“ jafnréttisnefndar eða hvort störfin tilheyri dæmigerðum karla- eða kvennastéttum.“ Niðurstöðurnar voru metnar til stiga á þann veg, að deildarstjóri leikskóladeildar fékk 168 stig, deildarstjóri öldrunardeildar 172 stig, jafnréttis- og fræðslufulltrúi 167 stig, atvinnumálafulltrúi 170 stig, deildarstjóri ráðgjafardeildar 169 stig og deildartæknifræðingur hjá tæknideild einnig 169 stig. Þá er fram komið, að þrjú þessara starfa, störf deildarstjóra öldrunardeildar og ráðgjafardeildar svo og jafnréttis- og fræðslufulltrúa, höfðu áður verið metin í starfsmati með hefðbundnum hætti og var sú niðurstaða látin standa í úrlausn vinnuhópsins.

Í skilgreiningu starfsmatskerfisins segir meðal annars, að um sé að ræða kerfisbundna aðferð við að bera saman afmarkaða og skilgreinda þætti viðfangsefna og lúti tilgangur matsins að því að finna innbyrðis afstætt gildi starfa, sem hafa megi til hliðsjónar við grunnröðun þeirra í launaflokka. Þá kemur fram, að matsþættir séu hæfni (um 45%), aðgæsla (um 28%), álag (um 16%) og vinnuskilyrði (um 11%). Hver þáttur sé svo metinn til stiga á nánar tilgreindum forsendum, er horfi meðal annars til þekkingar og reynslu, krafna um frumkvæði og árvekni í starfi, vitneskju um trúnaðarmál, hættu á því að valda öðrum meiðslum í starfi og þeirra þátta í starfsumhverfinu, sem áhrif hafi á vinnuskilyrði.

Í framhaldi af niðurstöðu vinnuhópsins óskaði þáverandi jafnréttis- og fræðslufulltrúi eftir leiðréttingum á kjörum sínum með hliðsjón af kjörum atvinnumálafulltrúa, en þau tóku mið af kjarasamningum verkfræðinga. Þar sem aðaláfrýjandi varð ekki við þeirri ósk var málið kært til kærunefndar jafnréttismála sem síðar höfðað mál til viðurkenningar á því að munur á launum og öðrum starfskjörum þessara tveggja starfsmanna væri ólögmætur og brot á 1. tl. 1. mgr. 6. gr., sbr.  4. gr. þágildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 28/1991. Lauk þessum deilum með dómi Hæstaréttar Íslands 31. maí 2000 í málinu nr. 11/2000 með því að fallist var á kröfu jafnréttis- og fræðslufulltrúans.

 Böðvar Guðmundsson oddamaður starfsmatsnefndar bar fyrir dómi í fyrrgreindu máli, að mat vinnuhópsins hefði verið óformlegt og haft mjög takmarkað samanburðargildi, en ekki hafi verið rætt við viðkomandi starfsmenn og aldrei staðið til, að um fullgilt starfsmat væri að ræða. Hann kvað þó, að reynt hefði verið að vinna matið nákvæmlega eins og gert hefði verið, þótt fleiri hefðu verið í hópnum, og hefði verið unnið efnislega á sama hátt og endranær. Dan Jens Brynjarsson, sem var fjármálastjóri aðaláfrýjanda, sagði fyrir dómi í sama máli, að ekki hefði verið um fullkomið starfsmat að ræða, þar sem fulltrúar STAK hefðu ekki verið með í hópnum og ekki hefði verið rætt við starfsmennina í þetta sinn, eins og venja væri. Áður hefði þó verið rætt við þá, er fyrr höfðu sætt starfsmati. Niðurstaðan hefði örugglega breyst eitthvað hefði verið um fullkomið starfsmat að ræða. Það hefði þó komið sér á óvart hefði hún breyst mjög verulega. Í áðurgreindum dómi Hæstaréttar segir að þótt þannig hafi ekki í hvívetna verið fylgt venjubundnum aðferðum við starfsmatið hafi ekki verið sýnt fram á að það hafi haft merkjanleg áhrif á efnislega niðurstöðu.

Með bréfi gagnáfrýjanda 8. apríl 1998 óskaði hún eftir endurskoðun á launum sínum með vísun til samanburðar starfsmatsnefndar á launakjörum deildarstjóra ráðgjafardeildar og deildartæknifræðings, en niðurstaða nefndarinnar var sú að störfin voru metin nákvæmlega jafnverðmæt. Vísaði gagnáfrýjandi til niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála í máli jafnréttis- og fræðslufulltrúa sem þá mun hafa legið fyrir og jafnframt til launakönnunar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands mun hafa gert fyrir Akureyrarbæ, en niðurstaða þeirrar skýrslu var að verulegur munur væri á kjörum eftir kyni starfsmanna hjá aðaláfrýjanda.

Samkvæmt drögum að starfslýsingu deildartæknifræðings, sem var karlmaður, stjórnaði hann gatna- og framkvæmdadeild í samræmi við markmið bæjarstjórnar og fjárhags-, framkvæmda- og greiðsluáætlunum bæjarins. Bar hann ábyrgð gagnvart yfirverkfræðingi sem aftur bar ábyrgð gagnvart bæjarverkfræðingi.

Bæjarráð aðaláfrýjanda hafnaði erindi gagnáfrýjanda 16. júlí 1998. Með dómi héraðsdóms Norðurlands eystra 27. febrúar 2001 var komist að niðurstöðu í máli sem deildarstjóri leikskóladeildar höfðaði á hendur aðaláfrýjanda til greiðslu skaðabóta vegna mismunar á launum hennar og deildarstjóra öldrunardeildar. Voru henni dæmdar skaðabætur. Þeim dómi hefur ekki verið áfrýjað. Gagnáfrýjandi krafði aðaláfrýjanda um þann mismun sem hún taldi vera á launakjörum sínum og deildartæknifræðings 7. janúar 2002. Þar sem aðaláfrýjandi hafnaði kröfu hennar höfðaði hún mál þetta. Krefst hún skaðabóta vegna brota aðaláfrýjanda á 4. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 28/1991, sbr., 14. gr., 22. gr. og 23. gr. núgildandi laga nr. 96/2000 um sama efni. Miðar hún kröfu sína við launamun sinnar stöðu og stöðu deildartæknifræðingsins tímabilið 1. mars 1992 til 31. ágúst 2000. Launamunurinn er reiknaður út af Jóni Erlingi Þorlákssyni tryggingafræðingi og er honum ekki tölulega mótmælt. Dómur var lagður á málið í Héraðsdómi Norðurlands eystra 19. júlí 2002. Með dómi Hæstaréttar Íslands 18. september 2003 var sá dómur ómerktur, svo og málsmeðferð í héraði frá og með aðalmeðferð, og málinu vísað heim í hérað að nýju til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Ástæða þessa var sú að héraðsdómarinn var talinn vanhæfur til meðferðar málsins vegna tengsla við eitt af vitnum þess.

III.

Í framangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 11/2000 segir að samkvæmt 4. gr. laga nr. 28/1991, sem í gildi voru mestan þann tíma er hér um ræðir, skuli konum og körlum greidd jöfn laun og þau njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Þar er kveðið á um, að með launum sé átt við venjulegt grunn- eða lágmarkskaup og hvers konar frekari þóknun, beina eða óbeina, hvort heldur sé með hlunnindagreiðslum eða öðrum hætti og sagt, að með kjörum sé átt við lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur samningsréttindi. Þá sé þar einnig tekið fram, að með jöfnum launum karla og kvenna fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf sé átt við launataxta, sem samið er um, án þess að gerður sé greinarmunur á kynjum. Samkvæmt 6. gr. laganna hafi atvinnurekendum verið óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildi það meðal annars um laun, launatengd fríðindi og hvers konar aðra þóknun fyrir vinnu. Sambærileg ákvæði eru nú í 14. gr. laga nr. 96/2000.  Framangreind ákvæði eru í samræmi við 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 3. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995.

Í áðurnefndum dómi segir jafnframt að samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, sem Ísland er aðili að, skuli skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur, sem á honum byggja. Í 69. gr. samningsins sé aðildarríkjunum gert að tryggja, að konur og karlar hljóti jöfn laun fyrir jafna vinnu, en með launum sé átt við venjulegt grunn- eða lágmarkskaup ásamt öllum öðrum greiðslum, hvort heldur sé í fé eða fríðu, sem launþegi fær beint eða óbeint frá vinnuveitanda sínum vegna starfa síns, sbr. og XVIII. viðauka samningsins um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, vinnurétt og jafnrétti kynjanna. Í 1. gr. tilskipunar ráðsins nr. 75/117/EBE segi, að meginreglan um sömu laun karla og kvenna feli í sér, að afnumin sé öll mismunun vegna kynferðis, að því er varðar sömu störf eða störf sem álitin eru jafnverðmæt, er varðar alla þætti launa og launakjara. Sé hér um sambærileg ákvæði að ræða og fram koma í lögum nr. 28/1991, sbr. núgildandi lög nr. 96/2000.

Í áliti kærunefndar jafnréttismála 23. febrúar 1998 um kæru jafnréttis- og fræðslufulltrúa Akureyrarbæjar, sem um er getið í hæstaréttardómi í málinu nr. 11/2000 segir, að úrlausn þess, hvort störf teljist jafnverðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga, verði að byggjast á heildstæðu mati og geti þannig verið um slík störf að ræða, þótt einstaka þættir þeirra kunni að vera ólíkir og þau krefjist til dæmis mismunandi menntunar. Þá segir jafnframt, að markmið jafnréttislaga um sömu launakjör kvenna og karla fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf náist ekki, ef launajöfnuðurinn eigi einungis að ná til fólks innan sömu starfsstéttar. Á þessi sjónarmið verður að fallast, en samningsfrelsi á vinnumarkaði sætir þeim takmörkunum, er leiðir af ákvæðum jafnréttislaga þannig skýrðum.

Eins og áður greinir fór fram mat á nokkrum störfum hjá aðaláfrýjanda á árinu 1996 að beiðni jafnréttisnefndar Akureyrar, þar á meðal störfum deildarstjóra ráðgjafardeildar og deildartæknifræðings. Matið var ekki unnið af fullskipaðri starfsmatsnefnd, heldur einungis fulltrúum aðaláfrýjanda og oddamanni nefndarinnar, sem jafnframt var sérfræðingur hennar, og ekki var rætt sérstaklega við þá starfsmenn, er þessum störfum gegndu. Þótt ekki hafi þannig í hvívetna verið fylgt venjubundnum aðferðum við starfsmatið hefur ekki verið sýnt fram á, að það hafi haft merkjanleg áhrif á efnislega niðurstöðu. Starfsmatið á því að gefa allskýrar vísbendingar, þó að það skeri ekki til hlítar úr um það álitaefni, hvert samræmi skuli vera um launagreiðslur vegna þeirra starfa, sem þar voru borin saman. Í matinu var starf deildarstjóra ráðgjafardeildar metið til 169 stiga og deildartæknisfræðings til sama stigafjölda. Í héraðsdómi eru starfslýsingar þessara tveggja starfa bornar saman og komist að þeirri niðurstöðu að störfin hafi almennt séð verið sambærileg að ábyrgð, inntaki og ytra búnaði þótt þau væru á mismunandi sviðum. Hefur aðaláfrýjandi ekki hrakið það.

Þegar framanritað er virt verður að telja, að gagnáfrýjandi hafi leitt verulegar líkur að því, að störf deildarstjóra ráðgjafardeildar annars vegar og deildartæknifræðings hins vegar hafi verið svo sambærileg að inntaki og ytri búnaði, að gagnáfrýjanda hafi verið mismunað í kjörum hjá aðaláfrýjanda í skilningi áðurgreindra ákvæða jafnréttislaga. Nægir það til þess samkvæmt almennum sönnunarreglum, sbr. og sönnunarreglu 2. mgr. 23. gr. laga nr. 96/2000, að aðaláfrýjandi verði að sýna fram á, að svo hafi ekki verið gert á grundvelli kynferðis. Aðaláfrýjandi hefur ekki fært haldbær rök að því, að markaðssjónarmið hafi átt að leiða til svo mismunandi kjara, sem hér um ræðir, þegar litið er til stöðu þessara starfa í stjórnkerfi bæjarins. Enginn heildarsamanburður liggur fyrir í málinu á inntaki starfa og launakjörum þeirra deildarstjóra sem voru hliðsettir gagnáfrýjanda á félags- og heilsugæslusviði. Verður ekki talið, að áfrýjanda hafi tekist að sanna, að hlutlægar og málefnalegar ástæður hafi ráðið kjaramuninum, en mismunandi kjarasamningar geta ekki einir sér réttlætt mismun starfskjara kvenna og karla í skilningi jafnréttislaga. Fallast má á úrlausn héraðsdóms varðandi málsástæður aðaláfrýjanda um fyrningu og tómlæti gagnáfrýjanda um kröfu sína.

Gagnáfrýjandi reisir fjárkröfu sína á þeim launamun, sem var á milli starfa hennar og deildartæknifræðingsins samkvæmt útreikningi tryggingafræðings. Þeim útreikningi hefur aðaláfrýjandi ekki mótmælt að öðru leyti en því að hann telur að lækka eigi kröfu hennar vegna þess tímabils, er hún var í barnsburðarleyfi, og vegna mismunar sem hann telur vera á starfsaldri hennar og þess deildartæknifræðings sem hún ber sig saman við. Í útreikningi tryggingafræðingsins er tekið tillit til barnsburðarleyfis gagnáfrýjanda. Aðaláfrýjandi hefur ekki gert viðhlítandi grein fyrir því á hvern hátt eigi að bera saman mismunandi starfsaldur gagnáfrýjanda og deildartæknifræðingsins, en því er mótmælt af hálfu gagnáfrýjanda að hann eigi að hafa áhrif til lækkunar kröfu hennar. Með vísun til forsendna héraðsdóms er rétt að staðfesta hann að því er varðar föst laun gagnáfrýjanda. Þá verður fallist á úrlausn héraðsdóms um þann þátt kröfugerðar gagnáfrýjanda, er lýtur að yfirvinnu- og akstursgreiðslum. Með vísan til kröfugerðarinnar er ákvörðun héraðsdóms um dráttarvexti staðfest.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað er staðfest.

Samkvæmt þessari niðurstöðu er rétt að aðaláfrýjandi greiði málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Niðurstaða héraðsdóms skal vera óröskuð.

Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda, Guðrúnar Sigurðardóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar á meðal málflutningslaun lögmanns hennar, 300.000 krónur.

Aðaláfrýjandi, Akureyrarbær, greiði 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, sem rennur í ríkissjóð.

 

                                                                                                                 


Sératkvæði

Garðars Gíslasonar og

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

Vísað er til kröfugerðar aðila í atkvæði meiri hluta dómenda, svo og til kafla I og II, sem við erum sammála.

Eins og þar greinir fór fram mat á sex störfum hjá aðaláfrýjanda á árinu 1996 að beiðni jafnréttisnefndar Akureyrar til þess að bera saman laun og störf kvenna og karla í deildarstjórastöðum hjá bænum. Þar var þremur tvenndum raðað saman: 1) deildarstjórum leikskóladeildar og öldrunardeildar, 2) jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa og 3) deildarstjóra ráðgjafardeildar og deildarverkfræðingi hjá tæknideild. Konur gegndu fyrrnefndu störfunum í hverri tvennd en karlmenn hinum. Niðurstöðurnar voru metnar til stiga. Þrjú starfanna höfðu áður verið metin í starfsmati með hefðbundnum hætti og var sú niðurstaða látin standa.

Í framhaldi af niðurstöðu vinnuhópsins óskaði konan í tvennd 2, þáverandi jafnréttis- og fræðslufulltrúi, eftir breytingu á kjörum sínum með hliðsjón af kjörum karlmannsins í tvenndinni, atvinnumálafulltrúanum. Kærunefnd jafnréttismála skilaði áliti sínu og höfðaði síðan mál til viðurkenningar á því að munur á launum og öðrum starfskjörum þessara tveggja starfsmanna væri brot á jafnréttislögum. Svo sem áður greinir lauk þeirri deilu með dómi Hæstaréttar Íslands 31. maí 2000 með því að fallist var á kröfu jafnréttis- og fræðslufulltrúans.

Þá óskaði konan í tvennd 1, þáverandi deildarstjóri leikskóladeildar, eftir breytingu á sínum kjörum með hliðsjón af kjörum karlmannsins í tvenndinni, deildarstjóra öldrunardeildar. Aðaláfrýjandi hafnaði þeirri kröfu og kærði konan hann til kærunefndar jafnréttismála og höfðaði síðan mál fyrir héraðsdómi Norðurlands eystra til greiðslu skaðabóta. Aðalkrafa hennar var að henni yrðu greiddar skaðabætur sem næmu mismuninum á launum hennar og atvinnumálafulltrúans, en varakrafa laut að muninum á launum hennar og deildarstjóra öldrunardeildar. Með dómi héraðsdóms 27. febrúar 2001 var aðalkröfu hennar hafnað. Kemur fram í forsendum dómsins að með vísan til starfsmatsins, sem byggja mætti á sbr. dóm Hæstaréttar frá 31. maí 2000 í máli nr. 11/2000, sé það álit dómsins að störf deildarstjóra leikskóladeildar og atvinnumálafulltrúa hafi verið því sem næst jafn verðmæt í skilningi jafnréttislaga. Það mat skæri þó ekki úr um það hvort störf þessi væru sambærileg. Þegar litið væri til starfslýsinga og þess hve ólík störfin væru, sem og að störfin væru ekki hliðsett innan skipurits bæjarins, þótti stefnanda ekki hafa tekist að sanna að störfin hafi verið sambærileg í skilningi laganna. Væri því ósannað að umræddur launamunur hafi brotið gegn ákvæðum þeirra. Hins vegar voru störf deildarstjóra leikskóladeildar og öldrunardeildar sögð hliðsett í skipuriti bæjarins og jafnsett. Þau voru borin saman og komist að þeirri niðurstöðu, að teknu tilliti til niðurstöðu fyrrnefnds starfsmats, að stefnanda hefði tekist að leiða að því nægilegar líkur að störfin hafi verið því sem næst jafnverðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga. Voru henni því dæmdar skaðabætur með hliðsjón af varakröfunni.

Loks óskaði konan í tvennd 3, deildarstjóri ráðgjafadeildar, gagnáfrýjandi máls þessa, eftir breytingu á sínum kjörum með hliðsjón af kjörum karlmannsins í tvenndinni, deildartæknifræðingsins. Aðaláfrýjandi hafnaði kröfunni og höfðaði hún þá mál þetta og reisir kröfu sína á því að þessi störf séu jafnverðmæt og sambærileg í skilningi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Samkvæmt bæði þágildandi og núgildandi jafnréttislögum ber gagnáfrýjanda að sanna að umrædd störf séu bæði jafnverðmæt og sambærileg. Eins og fram er komið vísar hún til framangreinds starfsmats frá 1996. Í gögnum málsins er bréf formanns starfshópsins um niðurstöðu starfsmatsins, þar sem sérstaklega kemur fram sá fyrirvari að með matinu sé engin afstaða tekin til þess hvort viðmiðunarstörfin séu sambærileg, enda þótt þau hafi verið talin jafnverðmæt.

Starf deildarstjóra ráðgjafadeildar, eins og því er lýst í málinu, og starf deildartæknifræðings, eins og því er lýst, eru ólík störf og unnin við mjög ólíkar aðstæður. Þau eru ekki hliðsett í skipuriti aðaláfrýjanda. Í umræddu starfsmati var ekki lagt mat á það hvort störf þessi væru sambærileg og enginn slíkur samanburður hefur farið fram á þessum störfum í málinu. Að þessu athuguðu þykir gagnáfrýjanda ekki hafa tekist að sýna nægilega fram á að störfin hafi verið sambærileg í skilningi jafnréttislaga. Þegar af þessari ástæðu ber að sýkna aðaláfrýjanda af kröfum gagnáfrýjanda.

Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Við erum sammála atkvæði meiri hluta um gjafsóknarkostnað.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 5. maí 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 16. mars s.l., hefur Guðrún Sigurðardóttir, Múlasíðu 46, Akureyri, höfðað hér fyrir dómi gegn Akureyrarbæ, Geislagötu 9 Akureyri.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega, að stefndi greiði henni 6.197.846 auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2002 til greiðsludags.  Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 4.777.409 ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2002 til greiðsludags.  Til þrautavara krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða henni skaðabætur að álitum ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25, 1987 frá 28. júlí 1996, eða öðrum degi að mati dómsins, og skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 frá 1. júlí 2001 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnda.

Dómkröfur stefnda eru, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður úr hennar hendi.

I.

1. Með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra þann 19. júlí 2002 var kveðinn upp dómur í máli þessu.  Málinu var skotið til Hæstaréttar Íslands þann 5. október 2002 af hálfu stefnda og krafðist hann þess aðallega að héraðsdómurinn yrði ómerktur og að málinu yrði vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Dómur Hæstaréttar var kveðinn upp 18. september 2003.  Í dómsorði segir m.a. svo:

„Héraðsdómur og málsmeðferð í héraði frá og með aðalmeðferð skulu vera ómerk og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.“

 

Í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar kom málið að nýju til meðferðar fyrir Héraðsdómi, og í samræmi við fyrirmæli var málið dómtekið að nýju að undangengnum vitnaleiðslum og málflutningi þann 16. mars s.l.

2.          Málsatvik eru þau að stefnandi hóf störf á Félagsmálastofnun Akureyrarbæjar, sem félagsráðgjafi árið 1984.  Var næsti yfirmaður hennar félagsmálastjóri.  Verkefni stefnanda voru á sviði barnaverndarnefndar, fjárhagsaðstoðar og ýmis konar ráðgjafar.  Árið 1988 tók stefnandi við stöðu deildarstjóra á Félagsmálastofnun (deildarstjóri ráðgjafadeildar).  Á sama sviði störfuðu nokkrir aðrir deildarstjórar hliðsettir stefnanda, m.a. deildarstjóri leikskóladeildar, deildarstjóri öldrunardeildar og íþrótta- og tómstundafulltrúi.  Verkefni stefnanda sem deildarstjóra var að gera fjárhagsáætlanir, verkstýra deildinni, ráða starfsfólk, skipta með þeim verkum og hafa eftirlit með því, auk verkefna tengdum þróun málaflokkanna sem undir deildarstjórann heyrðu.  Deildarstjóri bar ábyrgð á starfsemi deildarinnar, þ.m.t. barnavernd, fjárhagsaðstoð, ráðgjöf við skjólstæðinga deildarinnar, vinnumiðlun, leiguíbúðum stefnda, varnarstarfi á sviði félagslegra vandamála og samstarfi við tengdar stofnanir.  Deildarstjóri átti að hafa frumkvæði að nýjungum á starfssviði sínu og gera um það stefnumarkandi tillögur til yfirstjórnar stefnda.  Hlutverk hans var að stjórna starfsemi stefnda í félagslegum ráðgjafamálum í samræmi við lög, reglugerðir, samþykktir, sett markmið bæjarstjórnar og fjárhags- og greiðsluáætlanir á hverjum tíma.  Deildarstjóri var og aðili að stjórn félags- og fræðslusviðs stefnda.

Við upphaf starfs síns hjá stefnda árið 1984 og þar til á árinu 2001 tók stefnandi laun samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags Akureyrarbæjar, STAK, og stefnda.  Hluti launakjara stefnanda í deildarstjórastarfi voru 44 fastir yfirvinnutímar á mánuði og  var þeim ætlað að ná til allrar tilfallandi yfirvinnu og var ekki greitt sérstaklega þótt tímarnir væru fleiri.  Þá hafði stefnandi fastan aksturssamning um 200 km á mánuði.  Frá 1. apríl 1993 var stefnanda sagt upp 11 af föstum yfirvinnutímum með þriggja mánaða fyrirvara.  Stefnandi var á leið í fæðingarorlof er þetta var og fékk Valgerður Magnúsdóttir, sálfræðingur og síðar félagsmálastjóri, er leysti hana af í fæðingarorlofinu frá júní 1993 til maí 1994, greidda 44 yfirvinnutíma á mánuði.

Starfsmenn stefnda fengu langflestir greidd laun samkvæmt kjarasamningi stefnda og STAK og við röðun í launaflokka var tekið mið af starfsmati.  Í stafsmatsnefnd áttu sæti fulltrúar STAK og stefnda auk oddamanns, Böðvars Guðmundssonar, hagráðunautar, sem jafnframt var sérfræðingur nefndarinnar.  Kjör starfsmanna sem aðild áttu að öðrum kjarasamningum voru utan starfsmats.  Einstaka starfsmenn aðrir, einkum æðstu embættismenn stefnda, stóðu einnig utan starfsmats þótt einhverjir þeirra ættu aðild að STAK og munu launakjör þeirra hafa ráðist af einstaklingsbundnum samningum sem tóku mið af kjarasamningi verkfræðinga og stefnda.

Þann 10. júlí 1995 kom fram beiðni jafnréttisnefndar stefnda til kjaranefndar hans þess efnis, að „gerð verði örlítil tilraun til að nýta starfsmat til samanburðar launa og starfa karla og kvenna í deildarstjórastöðum hjá Akureyrarbæ, út fyrir þann hóp sem samkvæmt samningum gangast undir starfsmat.“  Var óskað eftir samanburði á störfum þriggja tvennda:

1 a) deildarstjóra leikskóladeildar og b) deildarstjóra öldrunardeildar.

2 a) jafnréttis- og fræðslufulltrúa og b) atvinnumálafulltrúa.

3 a) deildarstjóra ráðgjafadeildar og b) deildartæknifræðings í tæknideild.

Á greindum tíma gegndu konur störfum deildarstjóra leikskóladeildar og ráðgjafadeildar og jafnréttis- og fræðslufulltrúa, en karlmenn í hinum störfunum.  Í bréfi jafnréttisnefndar til kjaranefndar stefnda var því lýst, að forsendur vals starfsmanna væru þær, að ekki væru fleiri deildarstjórastöður hjá stefnda skipaðar konum og að reynt hefði verið að velja á móti störf, sem í fljótu bragði virtust sambærileg, verið skipuð körlum og verið á öðrum sviðum.

Bæjarráð stefnda samþykkti umrædda beiðni jafnréttisnefndar þann 3. ágúst 1995 og að ákvörðun ráðsins gerðu einungis áðurgreindur oddamaður starfsmatsnefndar og fulltrúi stefnda í nefndinni, Dan Jens Brynjarsson þáverandi hagsýslustjóri, umbeðinn samanburð en ekki fulltrúar STAK, þar sem tilgreindir starfsmenn tóku ekki allir laun samkvæmt kjarasamningi starfsmannafélagsins við stefnda.

Í skilgreiningu starfsmatskerfis þess, sem notað var við hina „örlitlu tilraun“, segir m.a., að um sé að ræða kerfisbundna aðferð við að bera saman afmarkaða og skilgreinda þætti viðfangsefna og lúti tilgangur matsins að því að finna innbyrðis afstætt gildi starfa, sem hafa megi til hliðsjónar við grunnröðun þeirra í launaflokka.  Þá kemur fram, að matsþættir séu hæfni (um 45%), aðgæsla (um 28%), álag (um 16%) og vinnuskilyrði (um 11%).  Hver þáttur sé svo metinn til stiga á nánar tilgreindum forsendum, er horfi m.a. til þekkingar og reynslu, krafna um frumkvæði og árvekni í starfi, vitneskju um trúnaðarmál, hættu á því að valda öðrum meiðslum í starfi og þeirra þátta í starfsumhverfinu, sem áhrif hafi á vinnuskilyrði.

Samkvæmt framlögðu uppkasti að starfslýsingu fyrir starf deildartæknifræðings tæknideildar stefnda, dags. 4. febrúar 1991, var deildartæknifræðingur yfirmaður gatna- og framkvæmdadeildar, undirdeildar tæknideildar.  Hann bar ábyrgð á rekstri deildarinnar, samræmdi störf starfsmanna hennar og fylgdist með því að þau væru vel af hendi leyst.  Bar deildartæknifræðingi að tryggja sem hagkvæmasta og besta þjónustu deildar sinnar og að leita hagkvæmustu leiða við nýframkvæmdir og viðhald gatna og holræsa.  Þá bar deildartæknifræðingi að stuðla að því að næg þekking væri til staðar hjá starfsfólki deildarinnar.  Kom deildartæknifræðingur að stjórnun tæknideildar og sat hann fundi með deildarstjórum deildarinnar undir forystu yfirverkfræðings hennar.

Samkvæmt lýsingunni var stjórnunarsvið deildartæknifræðings að stjórna starfsemi gatna- og framkvæmdadeildar í samræmi við sett markmið bæjarstjórnar og fjárhags-, framkvæmda- og greiðsluáætlanir.  Bar deildartæknifræðingur ábyrgð gagnvart yfirverkfræðingi tæknideildar á öllum stjórnunaraðgerðum.

Helstu verkefni deildartæknifræðings samkvæmt umræddri lýsingu voru auk þeirra sem að framan var getið, að bera ábyrgð á að fjárhagsáætlun gatna- og framkvæmdadeildar væri framfylgt.  Skipti hann verkefnum meðal starfsmanna deildarinnar og annaðist skráningu og færslur á vinnutíma þeirra.  Einnig hafði hann umsjón með hreinlætismálum, þ.e. snjómokstri og sandburði, hreinsun gatna og opinna svæða, sorphreinsun, sorphaugum og holræsahreinsun.

Niðurstaða starfsmatshópsins lá fyrir þann 28. júní 1996, sbr. bréf Dans Jens Brynjarssonar, þáverandi hagsýslustjóra stefnda, til Kjarasamninganefndar stefnda.   Í bréfinu kom fram, að störfin hefðu verið metin miðað við fyrirliggjandi starfslýsingar og gildandi starfsmatskerfi og hefði þá engu skipt hvort karl eða kona gegndi viðkomandi starfi.  Engin afstaða hefði því verið tekin til þess „hvort störfin séu sambærileg á grundvelli „pörunar“ jafnréttisnefndar eða hvort störfin tilheyri dæmigerðum karla- eða kvennastéttum.“.  Var niðurstaða hópsins eftirfarandi,:  Starf deildarstjóra leikskóladeildar 168 stig, starf deildarstjóra öldrunardeildar 172 stig, starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa 167 stig, starf atvinnumálafulltrúa 170 stig, starf deildarstjóra ráðgjafadeildar 169 stig og  starf deildartæknifræðings tæknideildar 169 stig.  Þrjú umræddra starfa, störf deildarstjóra öldrunardeildar og ráðgjafadeildar og jafnréttis- og fræðslufulltrúa, höfðu áður verið metin í starfsmati með hefðbundnum hætti og var sú niðurstaða látin standa í úrlausn starfsmatshópsins.

Í febrúar 1998 lá fyrir skýrsla sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hafði unnið fyrir stefnda um samanburð á launamun karla og kvenna hjá stefnda.  Var niðurstaða skýrslunnar sú að verulegur munur væri á kjörunum eftir kyni.

Með bréfi dags. 30. mars 1998 sagði stefnandi sig úr Starfsmannafélagi Akureyrarbæjar, STAK, en í bréfinu kvað hún ástæðu úrsagnarinnar vera langvarandi óánægju með launakjör.  Þann 29. janúar 1999 dró stefnandi úrsögn sína til baka með þeim skýringum, að bæjaryfirvöld viðurkenndu ekki möguleika félagsráðgjafa á því að skipta um stéttarfélagsaðild á miðju samningstímabili.

Með bréfi til bæjarráðs stefnda, dags. 8. apríl 1998, óskaði stefnandi eftir því, að kjör hennar yrðu leiðrétt með hliðsjón af kjörum deildartæknifræðings í tæknideild, væri munur á þeim.  Þessu erindi stefnanda hafnaði stefndi, sbr. bókun þar um í bæjarráði þann 16. júlí 1998.

Í febrúar 1998 lá fyrir niðurstaða kærunefndar jafnréttismála í máli er fyrrum jafnréttis- og fræðslufulltrúi stefnda bar undir nefndina í kjölfar niðurstaðna áðurgreinds starfsmatshóps.  Komst kærunefndin að þeirri niðurstöðu að sá mismunur sem verið hefði á launum og öðrum kjörum atvinnumálafulltrúa og jafnréttisfulltrúa, hefði brotið gegn jafnréttislögum.  Höfðaði jafnréttisfulltrúinn mál vegna þessa fyrir héraði á hendur stefnda.  Þann 4. nóvember 1999 dæmdi Héraðsdómur, að sá munur á launum og öðrum starfskjörum jafnréttisfulltrúa og atvinnumálafulltrúa á tilteknu tímabili hefði brotið gegn jafnréttislögum.  Var sú niðurstaða staðfest af Hæstarétti Íslands þann 31. maí 2000, í máli nr. 11/2000.

Þann 6. maí 1999 lá fyrir niðurstaða kærunefndar jafnréttismála í máli fyrrum deildarstjóra leikskóladeildar stefnda.  Komst kærunefndin að þeirri niðurstöðu að munur á kjörum hennar og deildarstjóra öldrunardeildar stefnda hefði brotið gegn jafnréttislögum.  Höfðaði deildarstjórinn skaðabótamál fyrir héraði til greiðslu launamismunar á hennar starfi og deildarstjóra öldrunardeildar.  Með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra þann 27. febrúar 2001, í máli nr. 399/2000, voru henni dæmdar skaðabætur.  Þeim dómi var ekki áfrýjað.

Með bréfi dagsettu 7. janúar 2002 krafði stefnandi í máli þessu stefnda um það sem hún kvað vera launamun á starfi sínu og starfi deildartæknifræðings, auk dráttarvaxta.  Þeirri kröfu hafnaði stefndi með bréfi dagsettu 24. janúar 2002.

II.

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar í máli þessu á því að hún hafi orðið fyrir fjártjóni vegna brota stefnda gegn ákvæðum 4. gr., sbr. 6. gr., jafnréttislaga nr. 28, 1991, sbr. nú 4. gr., sbr. 22. og 23. gr. laga nr. 96, 2000, við launaákvarðanir.

Vísar stefnandi til tilgangs þágildandi og núgildandi jafnréttislaga, sbr. 1. gr. laganna, að koma á jafnrétti og jafnri stöðu karla og kvenna á öllum sviðum og að sérstaklega skuli bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði.

Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi undirstrikað skyldur sínar og fyrirætlanir á umræddu sviði með samþykkt jafnréttisáætlunar fyrir tímabilið 1993-1997.  Í grein 2.2.2. hafi því verið lýst yfir, að við ákvörðun launa og annarra fríðinda hjá stefnda skyldi þess gætt að kynjum væri ekki mismunað.  Í því sambandi skyldi sérstaklega horft til þess að meta jafnt mismunandi starfssvið, reynslu og menntun karla og kvenna.  Í jafnréttisáætlun, samþykktri í bæjarstjórn stefnda 15. desember 1998 segi auk þess í grein 2.2.2., að unnið skuli markvisst að því að leiðrétta þann launamismun kynjanna, sem rannsóknir hafi leitt í ljós.

Í skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands frá 1998 um samanburðarkönnun, sem stefndi hafi beðið stofnunina að gera á launamun karla og kvenna hjá stefnda, kveður stefnandi koma fram, að karlstjórnendur hjá stefnda hafi að meðaltali 15 sinnum hærri greiðslur en kvenstjórnendur vegna fastra aksturssamninga.  Í niðurstöðum skýrslunnar komi einnig fram, að konur hafi verið með rúm 70% af launum karla, að karlar séu líklegri til að vera í stjórnunarstöðum, að nokkuð sé um hefðbundin karla- og kvennastörf og að konur í sambærilegum störfum á sambærilegum starfssviðum hafi að meðaltali um 24% lægri laun en karlar.  Þá komi í ljós, að áhrif starfs og starfssviðs séu ekki þau sömu á laun karla og kvenna.  Karlar í stjórnunarstörfum séu með mun hærri laun en karlar í sérfræðistörfum, en sá launamunur sé ekki til staðar hjá konum.  Niðurstaða könnunarinnar sé, að aukin ábyrgð í starfi virðist ekki skila sér í hærri launum til kvenna eins og hún geri hjá körlum.  Fram komi í skýrslunni, að niðurstöðurnar gefi til kynna að launamunur eftir kyni sé mestur í hæst launuðu störfunum.  Kveður stefnandi skýrsluna sýna vel ástandið hjá stefnda á þeim tíma sem hún taki til og sé hún því málatilbúnaði stefnanda til stuðnings.

Stefnandi bendir á að í inngangi jafnréttisáætlunar stefnda segi, að leiðarljós hennar sé að sjónarmið jafnréttis verði fléttuð inn í líf bæjarbúa og alla þætti stefnumótunar, ákvarðana og aðgerða á vegum bæjarins.  Þar segi einnig, að formlegt og lagalegt jafnrétti kynjanna nægi ekki ef það skili sér ekki í raunverulegu jafnrétti í lífi og starfi.  Í inngangi áætlunarinnar lýsi bæjarstjórn stefnda yfir vilja til að jafna stöðu karla og kvenna og að í því skyni þurfi sérstaklega að styrkja og bæta hlut kvenna.

Heldur stefnandi því fram, að stefndi hafi ekki staðið við framangreindar skuldbindingar.  Málsókn stefnanda byggi á því, að stefndi hafi brotið gegn jafnréttislögum við ákvarðanir um laun hennar.  Hafi stefndi valdið henni tjóni með saknæmri og ólögmætri athöfn eða athafnaleysi með því að greiða henni ekki sömu eða sambærileg laun og körlum sem unnið hafa sambærileg og jafnverðmæt störf hjá stefnda.  Fullyrðir stefnandi að í tveimur dómsmálum, að undangengnum tveimur álitum þáverandi kærunefndar jafnréttismála, hafi verið staðreynt, að stefndi hafi brotið jafnréttislög í hliðstæðum tilvikum og stefnanda.

Stefnandi kveðst ítrekað hafa krafist leiðréttinga á launum sínum.  Hún hafi marg oft rætt launakjör sín við yfirmenn sína, bæjarstjóra stefnda og félagsmálastjóra, og gert þeim grein fyrir óánægju sinni eftir atvikum.  Allt frá árinu 1991 hafi legið fyrir, að fleiri konur í stjórnunarstöðum hjá stefnda væru óánægðar og teldu laun sín lægri en karla í sambærilegum stjórnunarstöðum.  Þannig hefðu konur í deildarstjórastöðum hjá stefnda haft samband við þáverandi jafnréttisfulltrúa vegna óánægju með kjör sín í samanburði við karla sem gegndu deildarstjórastöðum hjá stefnda.  Enn fremur hafi hún á árinu 1993 mótmælt lækkun á föstum yfirvinnugreiðslum þar sem hún hafi verið óeðlileg og ekki í takt við yfirvinnuþörfina.

Stefnandi kveðst byggja á því, að samanburður hafi farið fram árið 1996 á starfi hennar og deildartæknifræðings í tæknideild.  Í þessum samanburði hafi stefndi tekið fullan þátt og átt kost á að koma sínum sjónarmiðum að í hvívetna.  Tilgangur starfsmats hafi verið að ákvarða „verðmæti” starfa út frá hlutlægum mælikvarða.  Niðurstaðan hafi orðið ótvíræð hvað varðaði viðmiðunarstarf starfs stefnanda.  Störfin séu því sambærileg og jafnverðmæt í skilningi 4. gr. sbr. 6. gr. jafnréttislaga nr. 28, 1991, sbr. nú 14. gr. sbr. 22. og 23. gr. laga nr. 96, 2000 svo sem þau ákvæði verði skýrð með hliðsjón af tilgangi jafnréttislaga, dómafordæmum, stjórnarskrá og skuldbindingum samkvæmt EES samningnum.  Margdæmt sé að mismunandi kjarasamningar geti ekki einir sér réttlætt launamun í málum sem þessum, en deildartæknifræðingurinn hafi fengið greitt samkvæmt kjarasamningi verk- og tæknifræðinga.

Vísar stefnandi til tveggja álita þáverandi kærunefndar jafnréttismála og eftirfarandi dómsmála þar sem staðreynt hafi verið að stefndi hafi brotið jafnréttislög í hliðstæðum tilvikum og stefnanda.  Þá kveður stefnandi stefnda hafa samið við aðrar þær konur, er gegnt hafi þeim störfum, sem í samanburðinum voru, en að þrátt fyrir það hafi ekki verið samið við stefnanda.  Stefnandi sé sú eina af þessum konum, sem enn starfi hjá stefnda og sé starfsaldur hennar frá árinu 1984 og stjórnunarstarf frá árinu 1988, mun lengri en þeirra hafi verið.  Hún hafi og lokið fjögurra ára háskólanámi.

Stefnandi kveðst í aðalkröfu krefjast skaðabóta vegna mismunar launa og annarra kjara í starfi stefnanda og í starfi deildartæknifræðings í viðmiðunarstarfi á tímabilinu 1. mars 1992 til 31. ágúst 2000 afvaxtað miðað við þingfestingardag.  Inn í þennan útreikning er tekinn mismunur fastra launa á tímabilinu, auk mismunar yfirvinnu reiknaður sem tímafjöldi stefnanda í fastri yfirvinnu, margfaldaður með mismun yfirvinnutaxta deildartæknifræðings í tæknideild og stefnanda og loks mismunur fastra akstursgreiðslna.

Stefnandi kveðst á árinu 1992 hafa notið fastra greiðslna fyrir akstur, 200 km á mánuði, en deildartæknifræðingur hafi haft fastar greiðslur fyrir 600 km sem hækkuðu í 700 km í janúar 1995.  Fastar akstursgreiðslur til stefnanda hafi frá árinu 1997 verið fyrir 500 km á mánuði.  Heldur stefnandi því fram að hjá stefnda hafi það verið almennt viðurkennt, að samningar um fastar akstursgreiðslur til yfirmanna stefnda væru í raun að verulegu leyti launabætur, sem ekki hafi endilega haft neitt að gera með raunverulegan akstur.  Hafi þannig raunverulega mikill akstur verið greiddur samkvæmt akstursbók.  Kveðst stefnandi telja að stefndi verði að sýna fram á að fastar akstursgreiðslur til deildartæknifræðings hafi allar verið samkvæmt raunverulegum akstri.  Því telji stefnandi að sá mismunur, sem verið hafi á ákvörðun um fastar akstursgreiðslur hafi verið launamismunun í skilningi jafnréttislaga, þegar stefnandi hafi í upphafi þess tímabils sem miðað sé við í málinu einungis haft um þriðjung þeirra greiðslna sem deildartæknifræðingur hafi haft, síðan aðeins 28% á árunum 1995 til 1997, en frá árinu 1997 hins vegar 70% af greiðslum deildartæknifræðings.  Á meðan stefndi sýni ekki fram á að raunverulegur akstur deildartæknifræðings í viðmiðunarstarfi hafi numið meira en nam mismun á akstursgreiðslum til hans og stefnanda sé ljóst að ólögmæt mismunun hafi falist í mismunandi greiðslum fyrir akstur.

Stefnandi kveðst hafa haft fastar yfirvinnugreiðslur á því tímabili sem um ræðir, fyrst 44 stundir á mánuði, en síðan 33 stundir.  Deildartæknifræðingur hafi hins vegar fengið samkvæmt launaseðlum mismunandi yfirvinnugreiðslur í hverjum mánuði, en fyrir fleiri tíma en stefnandi.  Kveðst stefnandi ganga út frá því að báðir hafi unnið þá yfirvinnu sem greitt hafi verið fyrir og mismunurinn reiknaður með framangreindum hætti til að nálgast raunverulegan launamismun þar sem að mati stefnanda sé ekki unnt að bera saman heildargreiðslur fyrir yfirvinnu aðila þar sem þær hafi mismunandi grundvöll.

Stefnandi kveður föst laun deildartæknifræðings frá árinu 1992 hafa verið um 25-30% hærri en föst laun stefnanda.  Árið 1999 hafi föst laun deildartæknifræðings „aðeins“ (sic.) verið um 15% hærri en föst laun stefnanda.  Þegar hins vegar hafi verið tekinn upp svokallaður embættismannasamningur við stefnanda á árinu 2000 hafi föst laun hennar orðið hærri en föst laun deildartæknifræðingsins, en frá sama tíma hafi hins vegar fallið niður samningur stefnanda um fastar akstursgreiðslur.  Föst laun stefnanda frá þeim tíma séu kr. 250.000.  Á sama tíma séu föst mánaðarlaun deildartæknifræðings um kr. 225.000.  Þegar þau séu lögð við fastar mánaðarlegar akstursgreiðslur, um kr. 35.000 séu laun deildartæknifræðingsins hærri en laun stefnanda, sem nemi um kr. 10.000 á mánuði.  Bendi launamunur nú til þess að starf deildartæknifræðings teljist eitthvað verðminna en starf stefnanda.

Varakröfu sína kveður stefnandi byggja á útreikningi á mismuni fastra launa og yfirvinnugreiðslna reiknaðra eins og að framan greini og þrautavarakrafa sé rökstudd með því, að telji dómurinn örðugt að sýna fram á tjón stefnanda megi ákvarða bætur að álitum samkvæmt dómi.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til þess, að reglan um jafnrétti karla og kvenna sé vernduð af stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands, sbr. 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1994, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97, 1995.  Þá vísar stefnandi til þess tilgangs þágildandi og núgildandi jafnréttislaga, sbr. 1. gr. laganna, að koma eigi á jafnrétti og jafnri stöðu karla og kvenna á öllum sviðum og að sérstaklega skuli bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði.

Þá vísar stefnandi til 1. gr. jafnlaunatilskipunar Evrópusambandsins, nr. 75/ 117/ EBE sbr. 69. gr. og XVIII. viðauka EES samningsins, sbr. 3. gr. laga nr. 2, 1993 um Evrópska efnahagssvæðið.

III.

Stefndi kveður stefnanda hafa verið ráðna til starfa 1984 og hafi hún gegnt stjórnunarstarfi frá árinu 1988.  Byggir stefndi á því að þar sem krafa stefnanda sé skaðabótakrafa hafi hún fyrnst á 10 árum, í síðasta lagi 1998.  Vanreifun stefnanda á stofnunartíma ætlaðrar bótakröfu valdi stefnda vandkvæðum við framsetningu sýknukröfu byggðri á fyrningu, en þó hljóti ráðningarsamningur aðila frá 3. október 1984 að ráða úrslitum um fyrningu kröfunnar.  Vísar stefndi til þess að af stefnu megi ráða að stefnandi hafi þurft að þola ætlað launamisrétti allt frá árinu 1991, en að fráleitt sé að stefnandi geti sjálf kosið upphafsdag ætlaðrar skaðabótakröfu og haft þannig ákvörðunarvald um það hvort krafan sé fyrnd eður ei.  Dagsetning ætlaðs réttarbrots stefnda hljóti ætíð að vera sú sama og geti ekki ráðist af óútskýrðum og órökstuddum hentugleika stefnanda.

Þá byggir stefndi á því að krafa stefnanda hafi fallið niður vegna tómlætis.  Kveður stefndi það ótækt að stefnandi geti komið fram með skaðabótakröfu vegna ætlaðs launamisréttis 18 árum eftir að hún var ráðin til starfa hjá stefnda.  Stefnda sé heldur ekki kunnugt um að stefnandi hafi margoft rætt launakjör sín eða gert athugasemdir við þau og mótmælir hann því fullyrðingum hennar í þá veru.  Þá hafi stefnandi tekið fyrirvaralaust við launagreiðslum allan þann tíma sem hún hafi starfað hjá honum og ekki gert áskilnað um bætur fyrr en 1998.

Stefndi kveðst byggja á því að hann hafi ekki brotið ákvæði jafnréttislaga gagnvart stefnanda.

Stefndi kveður störf stefnanda og deildartæknifræðings ekki sambærileg, enda sé ekki á því byggt af hálfu stefnanda eða rök fram færð fyrir því í stefnu á annan hátt.  Í stefnu sé ekki gerð tilraun til samanburðar á störfunum, starfi deildartæknifræðings sé ekki lýst, en það eitt og sér hljóti að leiða til sýknu þar sem dómkröfurnar njóti ekki lögverndar nema störf séu sambærileg.

Stefndi kveður umrædd störf á engan hátt sambærileg, líkt og ráða megi af starfslýsingu, þvert á móti séu þau algjörlega ósambærileg.  Bendir stefndi á að niðurstaða starfsmats segi ekkert til um það hvort störfin séu sambærileg.

Stefndi byggir á því, að ákvörðun launakjara stefnanda og deildartæknifræðings hafi byggt á hlutlægum sjónarmiðum óháð kynferði.  Launakjör stefnanda hafi verið ákvörðuð á grundvelli kjarasamnings STAK og launanefndar sveitarfélaga.  Launakjör deildartæknifræðings hafi í einu og öllu farið eftir ákvæðum kjarasamnings verk- og tæknifræðinga og launanefndar sveitarfélaga.  Stefnandi og sá starfsmaður stefnda, sem gegnt hafi starfi deildartæknifræðings, hafi verið settir í launaflokk í samræmi við ákvæði kjarasamninga.  Stefndi hafi ekki heimildir til að skikka launþega til aðildar að ákveðnum stéttarfélögum og þar með kjarasamningum og fái hann ekki séð hvernig ráðningarkjör, algjörlega ákvörðuð á grundvelli kjarasamninga, geti falið í sér brot á jafnréttislögum.  Stefnandi verði a.m.k. að sanna slíkt þar sem aðferð stefnda við launaákvarðanir bendi ekki til að kynferði hafi legið til grundvallar launamun.  Þá sé rangt hjá stefnanda að margdæmt sé að mismunandi kjarasamningar geti einir sér ekki réttætt mismunandi laun á milli kynja.  Stefndi hafi hvorki sýnt fram á, byggt á, né gert grein fyrir því, að launaákvarðanir hans hafi byggt á ómálefnalegum sjónarmiðum.  Þá komi hvergi fram í stefndu hvað sé saknæmt við launaákvarðanir stefnda.

Stefndi byggir á því, að hann hafi sagt upp hluta af fastri yfirvinnutíð stefnanda, þann 1. apríl 1993, þar sem vinnuframlag hennar hafi verið miklum mun minna en 44 yfirvinnustundir á mánuði.

Stefndi heldur því fram að launkjör stefnanda og deildartæknifræðings hafi ekki verið samanburðarhæf vegna ólíks starfsaldurs.  Hafi sá starfsmaður sem gegndi starfi deildartækinfræðings á umræddu tímabili haft mun hærri starfsaldur en stefnandi, en slíkt leiði til hærri launagreiðslna.  Stefnandi hafi ekki tekið tillit til þessa í dómkröfum sínum né séð ástæðu til að fjalla sérstaklega um það.  Byggir stefndi á því að mismunandi starfsaldur réttlæti þann mun sem var á föstum launum aðila og telur að slík mismunun sé málefnaleg og óháð kynferði.

Þá byggir stefndi á því, að laun verk- og tæknifræðinga hafi um langt skeið verið eitthvað hærri en annarra starfsmanna, óháð kyni, sem skýrist af markaðslegum ástæðum og því að umrædd menntun sé almennt dýrari á vinnumarkaðinum en önnur sambærileg.  Þannig hafi laun umrædds deildartæknifræðings verið hærri en laun deildarstjóra öldrunardeildar, skóladeildar og íþrótta- og tómstundadeildar, þrátt fyrir að karlmenn gegni þessum störfum og að þau hafi verið jafnverðmæt eða verðmætari samkvæmt starfsmati.  Telur stefndi því ljóst að mismunur á launum stefnanda og umrædds deildartæknifræðnigs hafi ráðist af málefnalegum ástæðum ótengdum kynferði.

Stefndi telur fráleitt að almennar yfirlýsingar geti verið skuldbindandi fyrir hann og skapað einhvern rétt fyrir stefnanda.  Þar að auki telji stefndi sig hafa tekið ákvarðanir í málinu í fullu samræmi við þær áætlanir og stefnuyfirlýsingar sem stefnandi vísi til.  Þá skapi tilvitnaðar yfirlýsingar ekki sjálfstæðan rétt til handa stefnanda.

Stefnandi heldur því fram að stefnanda hafi samkvæmt megin reglum skaðabótaréttarins borið skylda til að takmarka tjón sitt á þann hátt sem henni hafi verið mögulegt.  Þannig hafi stefnandi getað sagt starfi sínu lausu þegar henni var kunnugt um ætlað launamisrétti og með þeim hætti hefði hún getað komið í veg fyrir frekara tjón.  Þar sem stefnandi hafi látið þetta undir höfuð leggjast verði hún að bera meint tjón sitt sjálf, en í stefnu lýsi hún því yfir að hún hafi gert athugasemdir við launakjör sín strax árið 1991.

Stefndi byggir á því að stefnandi geti ekki núvirt kröfu sína enda sé það ekki rökstutt í stefnu.  Þá telur stefndi að stefnandi verði að miða fjártjón sitt við tjónsdag, eftir atvikum með vöxtum til greiðsludags, enda sé ekki um líkamstjón að ræða.  Stefnandi geti ekki verðbætt kröfuna þar sem lög heimili ekki slíkt.

Sönnunarbyrði í málinu kveður stefndi hvíla á stefnanda og vísar einkum til þess hversu langur tími sé liðinn frá ráðningu stefnanda.  Augljóst sé að sönnunarfærsla sé vandkvæðum bundin þegar allt að 18 ár eru liðin frá þeim atvikum sem deilt er um.  Hafi stefndi fyrst árið 1998 haft ástæðu til að ætla að stefnandi færi í mál vegna launakjara sinna.  Stefnandi hafi haft í hendi sér að fara í mál við stefnda þegar hún taldi á sér brotið, a.m.k. hefði verið eðlilegt að hún léti stefnda vita þannig að hann gæti tryggt sér sönnun fyrir fullyrðingum sínum.  Telur stefndi að fullyrðingar stefnanda séu með öllu ósannaðar.

Stefndi heldur því fram að vara- og þrautavarakrafa stefnanda séu vanreifaðar, en vísar að öðru leyti til áður greindra málsástæðna hér að framan og verði ekki fallist á sýknukröfu telur stefndi að lækka beri kröfu stefnanda.

Stefndi mótmælir því að akstursgreiðslur til deildartæknifræðings hafi falið í sér launabætur óháðar raunverulegum akstri.  Akstursþörf deildartæknifræðings sé augljóslega mun meiri en stefnanda, en í hans starfi felist m.a. eftirlit með ýmsum verklegum framkvæmdum á vegum stefnda.  Vinna hans fari að töluverðu leyti fram utan dyra á sumrin, sem kalli á akstur á milli staða.  Öðru máli gegni um starf stefnanda, enda sé á því byggt af hennar hálfu að aksturspeningar hafi falið í sér launauppbót.

Stefndi krefst sýknu af dráttarvaxtakröfu stefnanda, sem sé algjörlega órökstudd í stefnu.

Stefndi krefst þess að verði hann sýknaður verði honum dæmdur málskostnaður, enda sé málatilbúnaður stefnanda á köflum óskiljanlegur og algjörlega órökstuddur og tilefnislaus.  Að auki séu hafðar uppi í málinu kröfur, sem stefnandi hefði mátt vita að væru fyrndar.  Verði stefndi hins vegar dæmdur til greiðslu bóta sé rétt að fella málskostnað niður, þar sem eðlilegt og réttmætt sé að taka til varna vegna atvika sem eigi að hafa gerst fyrir hátt í 20 árum.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefndi til laga um fyrningu nr. 14, 1905, sem og megin reglna kröfuréttarins um fyrirvaralausa viðtöku greiðslu og tómlætis kröfuhafa.  Þá byggir stefndi á ákvæðum jafnréttislaga, nr. 65, 1985 og 28, 1991, sérstaklega ákvæðum um skilyrði bótaábyrgðar og hvenær mismunandi launakjör séu lögmæt.  Jafnframt byggir stefndi á megin reglu skaðabótaréttarins um skyldur tjónþola til tjónstakmörkunar sem og þeim sjónamiðum sem culpa reglan grundvallast á um saknæmi verknaðar sem skilyrði bótaábyrgðar.  Um sönnunarbyrði í málinu vísar stefndi til 44. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.

III.

Skýrslur fyrir dómi gáfu, auk stefnanda, Dan Jens Brynjarsson, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs stefnda og fyrrverandi hagsýslustjóri, Karl Jörundsson, fyrrverandi starfsmannastjóri stefnda, Böðvar Guðmundsson, hagráðunautur, Jón Benedikt Björnsson, sálfræðingur og félagsmálastjóri stefnda á árunum 1976 til 1995, Valgerður Magnúsdóttir, sálfræðingur og síðar félagsmálastjóri stefnda á árunum 1995 til 1999, Valgerður Bjarnadóttir, bæjarfulltrúi og fyrrverandi jafnréttis- og fræðslufulltrúi stefnda á árunum 1991 til 1995, og Ólafur Haukur Baldvinsson, fyrrverandi deildartæknifræðingur í tæknideild stefnda.

IV.

Í máli þessu er deilt um hvort stefndi hafi mismunað stefnanda á grundvelli kynferðis við ákvörðun launakjara hennar frá 1. mars 1992 til 31. ágúst 2000.  Krefst stefnandi skaðabóta vegna launamismunar skv. 22. gr. laga nr. 28, 1991 sbr. nú 28. gr. laga nr. 96, 2000, en ágreiningslaust er að stefnandi fékk fullar efndir á ráðningarsamningi sínum á greindu tímabili.

Fyrningarfrestur skaðabótakröfu er 10 ár, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14, 1995.  Mál stefnanda var þingfest 28. febrúar 2002 og þar sem hún gerir ekki kröfu vegna tímabils fyrir 1. mars 1992 er að áliti dómsins ljóst að krafa hennar getur ekki verið fyrnd.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að hún hafi haft uppi ítrekaðar athugasemdir og kvartanir um launakjör sín við yfirmenn sína, a.m.k. frá árinu 1991.  Jón Benedikt Björnsson, fyrrverandi félagsmálastjóri stefnda, staðfesti frásögn stefnanda að þessu leyti fyrir dómi, en frásögn stefnanda hefur að auki stoð í vætti Valgerðar Hjördísar Bjarnadóttur, fyrrverandi jafnréttis- og fræðslufulltrúa stefnda.  Verður að þessu virtu ekki fallist á það með stefnda að stefnandi hafi glatað bótarétti fyrir tómlæti.

Stefnandi tók við starfi deildarstjóra hjá Félagsmálastofnun stefnda, sem síðar nefndist ráðgjafadeild og enn síðar fjölskyldudeild, árið 1988.  Líkt og flestir starfsmenn stefnda fékk hún greidd laun samkvæmt kjarasamningi stefnda við Starfsmannafélag Akureyrar (STAK), en við röðun í launaflokka var m.a. tekið mið af starfsmati.  Einstaka aðrir starfsmenn stefnda, þ.á.m. deildartæknifræðingur tæknideildar, stóðu utan starfsmatsins og tók hann laun samkvæmt kjarasamningi stefnda og stéttarfélags tæknifræðinga.

Af tveimur ódagsettum skipuritum og starfslýsingum verður ráðið að stefnandi hafi sem deildarstjóri ráðgjafadeildar verið hliðsett a.m.k. fjórum deildarstjórum á félags- og heilsugæslusviði.

Samkvæmt gögnum og vætti Ólafs Hauks Baldvinssonar fyrir dómi var hann ráðinn tímabundið sem tæknifræðingur á tæknideild stefnda árið 1975, en fastráðinn þann 1. mars 1977.  Hann var ráðinn deildartæknifræðingur í tæknideild stefnda þann 1. janúar 1991.  Var yfirmaður hans yfirverkfræðingur, sem aftur heyrði undir bæjarverkfræðing.

Í máli þessu byggir stefnandi á niðurstöðu starfsmatshóps frá árinu 1996.  Liggur fyrir að ráðist var í greint starfsmat að frumkvæði jafnréttisnefndar stefnda, eftir að samþykki bæjarráðs stefnda þar um lá fyrir í júlí 1995.  Í greindu mati voru borin saman tiltekin störf hjá stefnda, þ.á.m. störf sem ekki höfðu áður gengist undir starfsmat.  Niðurstaða starfsmatshópsins var eins og áður hefur verið lýst, að starf stefnanda, sem deildarstjóra ráðgjafadeildar, var metið til 169 stiga, líkt og viðmiðunarstarfið, starf deildartæknifræðings tæknideildar.  Stefndi hefur í málinu ekki dregið niðurstöðu matshópsins í efa, en byggir á því að hin metnu störf, starf deildarstjóra ráðgjafadeildar og deildartæknifræðings hafi ekki verið sambærileg.

Dan Jens Brynjarsson, aðili í greindum starfsmatshópi og fyrrum hagsýslustjóri og núverandi sviðsstjóri stjórnunarsviðs stefnda, bar fyrir dómi að ekki hafi verið um fullkomið starfsmat að ræða, sökum þess að fulltrúar STAK hefðu ekki tekið þátt í starfsmatshópnum.  Þá hafi heldur ekki verið rætt við þá starfsmenn, sem ekki höfðu áður sætt starfsmati og að auki hafi í matinu, þrátt fyrir beiðni jafnréttisnefndar, engin afstaða verið tekin til þess hvort samanburðarstörfin væru sambærileg.  Störfin hefðu hins vegar verið metin á grundvelli fyrirliggjandi starfsmatskerfis miðað við starfslýsingar.

Böðvar Guðmundsson, hagráðunautur, bar fyrir dómi að hann hefði notast við umrætt starfsmatskerfi frá árinu 1975, þ.á.m. í starfi sínu fyrir stefnda.  Hann áréttaði áður greinda skilgreiningu starfsmatskerfisins og að tilgangur þess væri að finna afstætt gildi ákaflegra ólíkra starfa, ekki síst hjá sveitarfélugum.  Hann bar að í þessu tilviki hefði starf deildartæknifræðings tæknideildar verið metið eftir starfsmatskerfinu efnislega á sama hátt og endranær fyrir utan að ekki hefði verið rætt við viðkomandi starfsmann.  Var það álit hans að þetta hefði ekki komið að sök þar eð starfsmatshópurinn hefði þekkt vel til starfans.  Niðurstöður matsins hefðu því verið fullnægjandi.  Hann staðhæfði að starf deildarstjóra ráðgjafadeildar hefði breyst næstu misserin eftir matið, m.a. vegna vaxandi krafna sem gerðar voru til starfans, þ.á.m. vegna reglna EES-samningsins.  Kvað hann það hafa leitt til þess að talið hefði verið réttlætanlegt að hækka stigafjölda starfsins í desember 1997 úr 169 stigum í 176 stig og í júní 1998 í 178 stig.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 28, 1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, er í gildi voru stærstan hluta þess tímabils sem um er deilt í málinu var tilgangur laganna að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum og að sérstaklega skyldi bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði.

Í 4. gr. laga nr. 28, 1991 var kveðið á um, að konum og körlum skyldu greidd jöfn laun og kynin skyldu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.  Þá sagði í 6. gr. laganna, að atvinnurekendum væri óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gilti það m.a. um:  Laun, launatengd fríðindi og hvers konar aðra þóknun fyrir vinnu.

Í 1. gr. laga nr. 96, 2000, er birt voru 22. maí 2000 og leystu lög nr. 28, 1991 af hólmi segir m.a., að tilgangur laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.  Í 14. gr. laganna segir að konum og körlum er starfi hjá sama atvinnurekanda skuli greidd jöfn laun og skuli njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.  Jafnframt segir í greininni, að með jöfnun launum sé átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og að þau viðmið sem lögð séu til grundvallar launaákvörðun feli ekki í sér kynjamismun.  Þá segir í 1. gr. 23. gr. laganna, að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna starfsfólki sínu í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis þess.

Framangreind ákvæði eru í samræmi við 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97, 1995, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands, m.a í máli nr. 11/2000.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2, 1993 um Evrópska efnahagssvæðið, sem Ísland er aðili að, skal skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur, sem á honum byggja.  Í 69. gr. samningsins er aðildarríkjunum gert að tryggja, að konur og karlar hljóti jöfn laun fyrir jafna vinnu, en með launum er átt við venjulegt grunn- eða lágmarkskaup ásamt öllum öðrum greiðslum, hvort heldur er í fé eða fríðu, sem launþegi fær beint eða óbeint frá vinnuveitanda sínum vegna starfa síns, sbr. og XVIII. viðauka samningsins um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, vinnurétt og jafnrétti kynjanna.  Í 1. gr. tilskipunar ráðsins nr. 75/ 117/ EBE segir, að megin reglan um sömu laun karla og kvenna feli í sér, að afnumin sé öll mismunun vegna kynferðis, að því er varðar sömu störf eða störf sem álitin eru jafnverðmæt, er varðar alla þætti launa og launakjara.  Er hér um sambærileg ákvæði að ræða og fram koma í lögum nr. 28, 1991 og lögum nr. 96, 2000.

Stefndi undirstrikaði skyldur sínar og fyrirætlanir hvað varðaði baráttu gegn ætluðu kynjamisrétti með samþykkt jafnréttisáætlunar.  Í áætlun fyrir tímabilið 1993 til 1997, gr. 2.2.2. var því lýst yfir að við ákvörðun launa og annarra fríðinda skyldi þess gætt að kynjum væri ekki mismunað.  Í því sambandi skyldi sérstaklega horft til þess að meta jafnt mismunandi starfssvið, reynslu og menntun karla og kvenna.

Að virtum áðurgreindum dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 11/2000 verður í máli þessu á því byggt að áður rakið starfsmat starfsmatsnefndar frá árinu 1996 hafi gefið allskýrar vísbendingar hvert samræmi skuli vera um launagreiðslur vegna þeirra starfa, sem þar voru skoðuð, þrátt fyrir að það skeri ekki til hlítar úr því álitaefni.

Við úrlausn þess hvort störf teljist jafnverðmæt í skilningi jafnréttislaga, sbr. 1. gr. tilskipunar nr. 75/ 117/ EBE, verður að áliti dómsins að byggja á heildstæðu mati, og geti því verið um slík störf að ræða þótt einstaka þættir þeirra kunni að vera ólíkir.  Við úrlausnina verður ekki síst að horfa til þess markmiðs jafnréttislaga, að sömu launakjör kvenna og karla fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf náist ekki ef launajöfnuðurinn eigi einungis að ná til fólks innan sömu starfsstéttar.

Óumdeilt er að launakjör deildartæknifræðings tæknideildar voru mun betri en launakjör stefnanda á því tímabili, sem krafa stefnanda tekur til, þ.e. frá, 1. mars 1992 til 31. ágúst 2000.

Af starfslýsingum fyrir störf deildarstjóra ráðgjafadeildar og deildartæknifræðings hjá tæknideild stefnda má að áliti dómsins ráða, að þrátt fyrir að störfin lúti að mismunandi verksviðum hafi þáttur í framkvæmdum þeirra beggja m.a. verið að skipta verkum milli starfsmanna viðkomandi deilda og að hafa eftirlit með starfsmönnum þeirra.  Báðum störfunum fylgdi jafnframt ábyrgð á deildunum og aðild að stjórn viðkomandi sviðs.  Verður ráðið af þessu að störfin hafi almennt séð verið sambærileg að ábyrgð, inntaki og ytri búnaði.

Samkvæmt starfslýsingu fyrir deildarstjóra ráðgjafadeildar hafði stefnandi mannaráðningar á sinni könnu, en deildartæknifræðingur tæknideildar hins vegar ekki.  Af skipuritum og öðrum gögnum verður ráðið að nefnd störf hafi ekki verið jafn sett.  Heyrði deildarstjóri ráðgjafadeildar þannig undir félagsmálastjóra og síðar sviðsstjóra félagssviðs, en deildartæknifræðingur heyrði aftur á móti undir yfirverkfræðing, sem aftur heyrði undir bæjarverkfræðing.

Þegar framangreint er virt og áður greind lagaákvæði eru höfð í huga er það niðurstaða dómsins að stefnanda hafi tekist að sanna að starf hennar hafi a.m.k. verið sambærilegt og jafnverðmætt starfi deildarstjóra tæknideildar í skilningi laga nr. 28, 1991 og 96, 2000, sbr. 1. gr. jafnlaunatilskipunar Evrópusambandsins nr. 75/ 117/ EBE sbr. 69. gr. og XVIII. viðauka EES samningsins, sbr. 3. gr laga nr. 2, 1993 um Evrópska efnahagssvæðið.

Vegna ákvæða jafnréttislaga sætir samningsfrelsi á vinnumarkaði takmörkunum  Að áliti dómsins hefur stefndi ekki stutt það haldbærum rökum að mismunun á launakjörum stefnanda og deildartæknifræðings tæknideildar megi skýra með markaðssjónarmiðum, lægri heildarstarfsaldri stefnanda, en mismunandi kjarasamningar geta ekki réttlætt hann.  Er það niðurstaða dómsins að stefndi hafi ekki sannað að hlutrænar og málefnalegar aðstæður hafi skýrt launamismuninn.

Að áliti dómsins liggja í málinu ekki fyrir fullnægjandi gögn eða heildarmat á launakjörum þeirra deildarstjóra, sem voru hliðsettir stefnanda á félags- og heilsugæslusviði á því tímabili sem um ræðir.  Hefur stefndi því ekki fært nægar sönnur fyrir þeirri málsástæðu sinni að launakjör stefnanda hafi verið í samræmi við laun hliðsettra deildarstjóra.

Að áliti dómsins er ósannað að stefnandi hafi átt þess kost að takmarka tjón sitt með því að taka við öðru og betur launuðu starfi en því sem hún gegndi hjá stefnda á því tímabili sem um ræðir.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að stefnanda hafi tekist að leiða sönnur að því að starf deildarstjóra ráðgjafadeildar og deildartæknifræðings tæknideildar hafi því sem næst verið jafnverðmæt og sambærileg í skilningi laga nr. 28, 1991 og laga nr. 96, 2000.  Nægir það til þess samkvæmt almennum sönnunarreglum að stefndi verði að sýna fram á, að svo hafi ekki verið gert á grundvelli kynferðis.  Það hefur stefnda ekki tekist og verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti.  Þykir af þeim sökum mega slá því föstu að stefndi hafi á umræddu tímabili, þ.e. frá 1. mars 1992 til 31. ágúst 2000, við ákvörðun launakjara mismunað henni á grundvelli kynferðis og þannig brotið gegn 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28, 1991 og 1. mgr. 14. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. og 1. mgr. 23. gr. laga nr. 96, 2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.  Þar sem stefndi hefur með þessari háttsemi sinni valdið stefnanda tjóni af ásettu ráði eða vanrækslu, sbr. 22. gr. laga nr. 28, 1991, sbr. 28. gr. laga nr. 96, 2000, ber að dæma stefnanda skaðabætur, en við ákvörðun bótanna þykir mega hafa hliðsjón af launum og öðrum starfskjörum deildartæknifræðings í tæknideild eftir því sem við á.

Að virtum framburði Valgerðar Magnúsdóttur, sálfræðings og síðar félagsmálastjóra stefnda, fyrir dómi, er leysti stefnanda af í barnsburðarleyfi í um 12 mánuði á árunum 1993 og 1994, en framburður vitnisins hefur stoð í vætti Jóns Benedikts Björnssonar, fyrrum félgasmálastjóra, er að áliti dómsins nægjanlega upplýst að stefnandi hafi að jafnaði unnið allar þær yfirvinnustundir sem stefndi greiddi henni á marg nefndu tímabili.

Stefndi hefur andmælt því, að krafa stefnanda geti tekið til þess munar, sem var á akstursgreiðslum deildarstjóra ráðgjafadeildar og deildartæknifræðings tæknideildar.

Óumdeilt er í málinu að akstursgreiðslur til stefnanda voru að verulegu leyti launabætur, sem ekki hafi endilega haft neitt að gera með raunverulegan akstur.

Ólafur Haukur Baldvinsson, fyrrverandi deildartæknifræðingur, bar fyrir dómi að í starfi sínu hefði hann á grundvelli skráningar á eigin akstri fyrir stefnda rökstutt umsókn um hækkun akstursgreiðslna úr 600 km í 700 km á mánuði.  Hafi sú greiðsla miðast við raunverulegan akstur hans fyrir stefnda.  Hann staðhæfði að skattayfirvöld hefðu í tvígang kallað eftir gögnum vegna greindra greiðslna, en í bæði skiptin fallist á að þær væru í samræmi við raunverulegan akstur hans.

Karl Jörundsson, fyrrverandi starfsmannastjóri stefnda, bar fyrir dómi að bílastyrkjanefnd stefnda hefði á árinu 1995 samþykkt hækkun á akstursgreiðslum til Ólafs Hauks eftir að hann hafði lagt fram rökstuðning sinn, þ. á. m. með framlagningu á akstursdagbókum.

Að framangreindu virtu er það álit dómsins að stefndi hafi sýnt fram á að mismunur á akstursgreiðslum deildarstjóra ráðgjafadeildar og deildartæknifræðings í tæknideild hafi ráðist af málefnalegum og lögmætum ástæðum.  Verður stefndi því sýknaður af greindri kröfu stefnanda.

 

Í kröfugerð sinni hefur stefnandi bætt við framangreindan mismun á launum og öðrum starfskjörum sínum og deildartæknifræðings 4,5% vöxtum.  Af framlögðum gögnum verður ekki séð hvernig sú vaxtaprósenta er fundin.  Stefnandi vísar ekki til vaxtalaga eða annarra laga til stuðnings þessari kröfu sinni.  Hann víkur og í engu að ákvæðum laga nr. 14, 1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda í því sambandi.  Að þessu athuguðu er það niðurstaða dómsins að ekki verði fallist á umræddan vaxtareikning stefnanda.

Að öllu framangreindu virtu verður fallist á skaðabótakröfu stefnanda, sem m.a. byggir á framlögðum útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar, tryggingafræðings, að fjártjón stefnanda hafi verið sá munur er var á föstum launum hennar og deildartæknifræðings á margnefndu tímabili, kr. 2.783.146, og að yfirvinnutímafjöldi hennar á tímabilinu margfaldaður með mismun á yfirvinnutaxta hennar og deildartæknifræðings hafi verið kr 913.684.  Bætur til handa stefnanda vegna brota stefnda á ákvæðum jafnréttislaga eru þannig ákveðnar kr. 3.696.830 ásamt dráttarvöxtum frá þingfestingardegi málsins, líkt og greinir í dómsorði.

Stefnanda var veitt gjafsókn með bréfi Dóms- og kirkjumálaráðuneytis, dags. 21. maí 2002.  Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist því úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningslaun lögmanns hennar, Sifjar Konráðsdóttur hrl., kr 300.000 og er virðisaukaskattur innifalinn í þeirri fjárhæð.

Eftir úrslitum málsins þykir rétt að stefndi greiði kr. 376.248 í málskostnað til ríkissjóðs.

Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Akureyrarbær, greiði stefnanda, Guðrúnu Sigurðardóttur, kr. 3.696.830 með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6 gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2002 til greiðsludags.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningslaun lögmanns hennar, Sifjar Konráðsdóttur hrl., kr. 300.000.

Stefndi greiði kr. 376.248 í málskostnað til ríkissjóðs.