Print

Mál nr. 70/2011

Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Sératkvæði

                                                         

Fimmtudaginn 3. febrúar 2011.

Nr. 70/2011.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir

settur vararíkissaksóknari)                   

gegn

X

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Sératkvæði.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. febrúar 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 15. febrúar 2011, klukkan 16.  Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Ekki er unnt að fallast á með sóknaraðila að fram sé kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um tilraun til manndráps sem varðað geti við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða stórfelldrar líkamsárásar sem geti varðað við 2. mgr. 218. gr. sömu laga, sbr. sératkvæði mitt 7. janúar 2011 í hæstaréttarmálinu nr. 6/2011. Tel ég þegar af þessari ástæðu að ekki séu uppfyllt skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála fyrir gæsluvarðhaldi varnaraðila og beri því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2011.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði kærða X, kt. [...], [...], Reykjavík, með dvalarstað í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg í Reykjavík, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi í 2 vikur eða til 15. febrúar 2011, kl. 16.00.

Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að samkvæmt rannsóknargögnum málsins hafi kærði farið þann 24. desember sl.  ásamt þremur öðrum mönnum að [...], Reykjavík, í því skyni að ráðast þar að húsráðanda kæranda, A. Fyrir liggi að þegar komið hafi verið á vettvang hafi tveimur haglaskotum verið skotið á útidyrahurð hússins en kærandi, sambýliskona hans og tvö ung börn þeirra höfðu þá flúið úr íbúðinni. Fyrir liggi að kærði og félagar hans hafi flúið af vettvangi þegar lögregla hafi komið á vettvang skömmu eftir að skotunum hafði verið hleypt.

Samkvæmt rannsóknargögnum eigi árásin sér nokkurn aðdraganda. Íbúi í [...] hafi skýrt frá því í framburði sínum hjá lögreglu að hún hafi fengið heimsókn tveggja manna eftir kl. 01.00 aðfaranótt 24. desember sem hafi bankað og kallað á A. Þegar hún hafi opnað hurðina hafi þeir ruðst inn og farið um íbúðina til þess að leita að A. Á leið út hafi þeir skellt hurð á hendi hennar og hafi hún við það hlotið áverka á hægri hendi. Vitnið kvaðst hafa verið svo skelkuð að hún hafi ekki þorað að hringja á lögreglu.

Kærandi hafi lýst því í framburði sínum hjá lögreglu að hann hafi um nokkurt skeið orðið að þola hótanir og líkamsárásir frá nafngreindum manni og félögum hans. Þessi maður hafi margsinnis reynt að rukka hann vegna fíkniefnaviðskipta og segir hann að atgangur mannsins hafi verið mjög ógnandi og hættulegur. Hann hafi fengið heimsókn þessa manns 21. desember og hafi maðurinn þá barið hann fyrir framan börnin sín. Aftur hafi menn komið á heimili hans á Þorláksmessu og verið með mikinn fyrirgang. Á aðfangadag hafi menn sem hann telji að séu á vegum sama manns bankað hjá honum. Hann hafi þá verið búinn að koma konu sinni og börnum út um bakdyr og til nágranna sinna. Hann kvaðst hafa stuggað við þeim með því að stinga járnröri út um bréfalúguna og farið í kjölfarið sjálfur til nágranna sinna. Skömmu seinna hafi verið skotið á hurðina.

Gögn málsins bendi til þess að kærði hafi í félagi við þrjá aðra, vopnaðir haglabyssu, ætlað að brjóta sér leið inn í íbúðarhús í því skyni að fremja þar líkamsárás. Kærði hafi viðurkennt að hafa verið á vettvangi í umrætt sinn, að hafa áður komið á heimili kæranda í því skyni að innheimta skuld vegna fíkniefnaviðskipta, og að hafa fengið þrjá aðra (kærðu) með sér á vettvang. Kærði hafi einnig viðurkennt að hafa skotið úr haglabyssunni á útidyrahurðina.

Mál þetta hafi borist ríkissaksóknara þann 24. janúar sl. og liggi fyrir að ákæra verði gefin út í málinu á allra næstu dögum.

Kærði hafi verið samfellt í gæsluvarðhaldi frá því að hann hafi verið handtekinn þann 24. desember sl., sbr. úrskurðir Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. R-530/2010 og R-2/2011 og dómur Hæstaréttar í máli nr. 6/2011.

Grunur leiki á að kærði hafi með háttsemi sinni brotið gegn 2. mgr. 218. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga eða 211., sbr. 20. gr. sömu laga en brot samkvæmt nefndum lagaákvæðum geti varðað allt að 16 ára fangelsi og brot samkvæmt 211. gr. allt að ævilöngu.

Með vísan til tilvitnaðra lagaákvæða, alvarleika sakarefnis og á grundvelli almannahagsmuna þyki nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur hafi  gengið í máli hans.

Með vísan til framangreinds sé þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga.

Með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 6/2011 hefur því verið slegið föstu af Hæstarétti að kærði er undir sterkum grun um að hafa framið brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940, sem varðað getur 10 ára fangelsi, með því að hafa í félagi við aðra, vopnaðir haglabyssu, ætlað að brjóta sér leið inn í íbúðarhús í því skyni að fremja þar líkamsárás. Í þeim dómi var fallist á að ætlað brot kærða sé þess eðlis að uppfyllt sé skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Ekkert er nýtt fram komið í málinu sem hnekkir þessu fyrra mati Hæstaréttar. Þá liggur fyrir að ákæra verður gefin út á næstu dögum vegna verknaðarins. Með hliðsjón af þessu eru uppfyllt skilyrði fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi yfir kærða og verður fallist á kröfu ríkissaksóknara eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi í 2 vikur eða til 15. febrúar 2011, kl. 16.00.