Print

Mál nr. 279/2011

Lykilorð
  • Verðbréfaviðskipti
  • Innherjaupplýsingar
  • Innherjasvik
  • Upptaka
  • Sératkvæði

                             

Föstudaginn 17. febrúar 2012.

Nr. 279/2011.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)

gegn

Baldri Guðlaugssyni

(Karl Axelsson hrl.)

Verðbréfaviðskipti. Innherjaupplýsingar. Innherjasvik. Upptaka. Sératkvæði.

B var ákærður fyrir innherjasvik með því að hafa selt hlutabréf sín í L hf. þrátt fyrir að hafa búið yfir innherjaupplýsingum um bankann sem hann varð áskynja um í starfi sínu sem ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins og þá einkum vegna setu sinnar í samráðshópi stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Kröfum B um frávísun málsins frá héraðsdómi og ómerkingu héraðsdóms var hafnað. Í dómi Hæstaréttar var fjallað um stöðu B og að hann hefði haft aðgang að upplýsingum frá tilteknum aðilum. Að því virtu var talið að B hefði uppfyllt efnisleg skilyrði til að teljast tímabundinn innherji í skilningi 2. töluliðar 121. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Þær upplýsingar sem vísað var til í ákæru, og komu til skoðunar fyrir Hæstarétti, voru taldar hafa verið innherjaupplýsingar. B var því sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 123. gr. laga nr. 108/2007. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til þess að brot B hefði verið stórfellt og brotaandlagið hátt og að hann hefði misnotað stöðu sína sem opinber starfsmaður. Þegar litið var til eðlis brots ákærða, á hvaða tíma það var framið og stöðu hans þá, var ekki talið unnt að fallast á að mikil fjölmiðlaumfjöllun, þótt óvægin hefði verið á köflum, gæti haft áhrif á ákvörðun refsingar. Var B því gert að sæta fangelsi í 2 ár og upptöku á peningainnstæðum sem svöruðu til söluverðs hlutanna í L hf. að frátöldum kostnaði af sölunni vegna afgreiðslugjalds, söluþóknunar og fjármagnstekjuskatts.

   

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Garðar Gíslason, Greta Baldursdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. maí 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði ,,sakfelldur í samræmi við ákæruliði 1, 2, 4, 5 og 6“ og að refsing hans verði þyngd. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að sæta upptöku á 192.658.716 krónum.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu heimvísað en að því frágengnu sýknu. Verði ekki á það fallist krefst ákærði þess að refsing verði milduð. Í öllum tilvikum krefst ákærði aðallega frávísunar á upptökukröfu, til vara að henni verði hafnað en að því frágengnu að hún verði lækkuð.

I

Ákærði, sem er fæddur árið 1946, er lögfræðingur að mennt og starfaði sem lögmaður frá árinu 1978. Samhliða lögmannsstörfum sat hann í stjórnum ýmissa fyrirtækja, auk þess sem hann var einn stofnenda nokkurra félaga, sem störfuðu á sviði viðskipta með fjármálagerninga. Hann var einn af stofnendum Kaupþings hf. árið 1982 og formaður stjórnar þess félags í upphafi. Hann var jafnframt einn stofnenda Hlutabréfamarkaðarins hf. árið 1985 og Hlutabréfasjóðsins hf. 1986 og var formaður stjórna beggja þessara félaga í upphafi.

Ákærði var skipaður ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu á árinu 2000. Hann hefur upplýst að á þeim tíma hafi hann átt hlutafé í Hf. Eimskipafélagi Íslands. Fyrir nokkrum árum kveður hann viðskipti með hluti í síðastnefndu félagi, sem hann hafi engan þátt átt í, hafa leitt til þess að hann fékk hlutafé í Landsbanka Íslands hf. í skiptum fyrir hluti sína í Hf. Eimskipafélagi Íslands. Frá þeim tíma hafi hann átt hluti í Landsbanka Íslands hf., en það hafi honum þótt bæði óþægilegt og óheppilegt vegna stöðu sinnar sem ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneyti.

II

Í febrúar 2006 var af hálfu stjórnvalda settur á fót samráðshópur forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað við hugsanlegum áföllum í fjármálakerfinu. Í skriflegu samkomulagi 21. febrúar 2006 um stofnun og störf samráðshópsins segir meðal annars að með samkomulaginu sé verið að formbinda samráð sem eigi rætur að rekja til samstarfs Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands frá árinu 1999. Í samkomulaginu segir einnig: ,,Góð almenn umgjörð í lögum, reglum og eftirliti með starfsemi fjármálafyrirtækja og markaða er grundvallarforsenda fjármálastöðugleika og traust og skilvirkt fjármálakerfi er mikilvæg forsenda fyrir vexti og velferð þjóðarbúsins. Aðilar samkomulagsins stuðla saman að því að þessar forsendur séu til staðar á grundvelli lögbundinna hlutverka og verkefna sinna. Þá leitast þeir við að samhæfa viðbrögð sín við hugsanlegu fjármálaáfalli.“ Þá segir að samráðshópurinn skuli hittast eigi sjaldnar en tvisvar sinnum á ári, en hann skuli þó kallaður saman ef forstjóri Fjármálaeftirlitsins eða bankastjórn Seðlabanka Íslands leggi það til vegna atvika ,,sem varða stöðu fjármálafyrirtækja eða markaða.“ Fulltrúi forsætisráðuneytisins skyldi samkvæmt samkomulaginu stýra samráðshópnum. Þá er mælt fyrir um að við undirbúning kynninga og í umræðum skyldi gætt þeirrar þagnarskyldu sem hver aðili í hópnum væri bundinn af. Samráðshópurinn átti að vera vettvangur upplýsinga- og skoðanaskipta. Hópnum var einungis ætlað ráðgefandi hlutverk. Í samkomulaginu sagði einnig: ,,Skapist þær aðstæður að fjármálakerfinu sé talin hætta búin vegna áfalls í fjármálafyrirtæki eða á markaði skal efnt til umfjöllunar í samráðshópnum án tafar. Viðbrögð við slíkum vanda eru háð aðstæðum hverju sinni en grundvallaratriði er að eigendur og stjórnendur fjármálafyrirtækja sem og markaðsaðilar leysi vanda sinn sjálfir.“ Loks er í samkomulaginu getið sérstaks samstarfs Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands þar sem meðal tilgreindra markmiða sé að tryggja samræmd viðbrögð við hugsanlegri ,,kerfisáhættu á fjármálamarkaði.“

Í skýrslum fyrir dómi báru þeir sem sátu í samráðshópnum að þau efni sem þar hafi verið til umfjöllunar hafi almennt verið trúnaðarmál.

Ákærði var fulltrúi fjármálaráðuneytisins í samráðshópnum, sem starfaði undir forystu E ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu. Vegna ástands á fjármálamarkaði voru fundir í samráðshópnum tíðir á árinu 2008. Hélt hópurinn 25 fundi frá 10. janúar til 16. september það ár.

Auk þátttöku á fundum samráðshópsins er upplýst að ákærði átti, ásamt ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytis, fund með L og K, þáverandi bankastjórum Landsbanka Íslands hf. 13. ágúst 2008, sem haldinn var að frumkvæði bankastjóranna. Þá sat ákærði sem fulltrúi fjármálaráðuneytisins fund viðskiptaráðherra með F fjármálaráðherra Bretlands 2. september 2008, en þann fund sátu einnig fulltrúar Fjármálaeftirlitsins. Fundur þessi var haldinn að frumkvæði íslenskra stjórnvalda. Um þann fund segir í bréfi ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytis 13. mars 2009 til Fjármálaeftirlitins að ,,megintilgangur fundarins hafi verið að ræða kröfu breskra stjórnvalda um að færa innstæðureikninga [Icesave-reikninga] hjá útibúi Landsbankans í London í breskt dótturfélag ... Tilgangurinn með fundinum var að fara fram á að bresk stjórnvöld heimiluðu að innlánsreikningarnir yrðu fluttir í breskt dótturfélag strax, en að Landsbankanum yrði gefinn eðlilegur frestur til skipulegs flutnings á eignum á móti innstæðum þannig að fjármögnunarsamningar bankans röskuðust sem minnst.“

Ákærði sat fund með samráðshópnum 16. september 2008, sem haldinn var degi eftir að bú bandaríska fjárfestingarbankans, Lehman Brothers, var tekið til gjaldþrotaskipta. Á fundinum var meðal annars fjallað um stöðu og horfur á fjármálamarkaði, stöðu fjármálafyrirtækja og málefni Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Fram kemur meðal annars í fundargerð að gjaldþrotaskipti á búi Lehman Brothers hefði ekki stórfelld áhrif á ,,eiginfjárgrunn“ þriggja stærstu íslensku bankanna.

III

Dagana 17. og 18. september 2008 seldi ákærði allt hlutafé sitt í Landsbanka Íslands hf.  samtals 9.059.809 hluti fyrir 192.658.716 krónur. Fyrri daginn seldi hann 4.696.791 hlut fyrir 99.533.845 krónur og seinni daginn 4.363.018 hluti fyrir 93.124.871 krónur. Frá þessum fjárhæðum var dregið afgreiðslugjald og söluþóknun. Kaupandi allra hlutanna var Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis.

Með bréfi 11. nóvember 2008 óskaði Fjármálaeftirlitið upplýsinga hjá ákærða um framangreind viðskipti hans, sem það kvaðst hafa til athugunar. Í bréfinu segir að 6. október sama ár hafi Fjármálaeftirlitið stöðvað viðskipti með alla fjármálagerninga sem gefnir hafi verið út af Landsbanka Íslands hf. og teknir höfðu verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Hafi slíkt verið gert þar sem aðstæður bankans hafi verið með þeim hætti að viðskipti myndu skaða hagsmuni fjárfesta þar sem umtalsverð óvissa ríkti og kæmi í veg fyrir eðlilega verðmyndun fjármálagerninganna. Væri það mat Fjármálaeftirlitsins að jafnræði fjárfesta yrði ekki tryggt með öðrum hætti þar sem verðmótandi upplýsingar væru of dreifðar til þess að unnt væri að tryggja trúnað þeirra. Hinn 9. október 2008 hafi svo Fjármálaeftirlitið tekið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. Í bréfinu segir einnig: ,,Af framangreindu er ljóst að mikið ójafnræði ríkti um aðgang fjárfesta að upplýsingum sem haft gætu verðmótandi áhrif á hlutabréf í Landsbanka Íslands hf.“ Í bréfinu er jafnframt vísað til nokkurra ákvæða í lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sem varða innherja og innherjasvik og viðurlög við brotum á þessum ákvæðum. Loks segir að óskað sé upplýsinga hjá ákærða um viðskiptin vegna stöðu hans sem ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneyti og mögulegum aðgangi hans að upplýsingum þess vegna.

Ákærði svaraði bréfinu 18. nóvember 2008 og færði fram skýringar, auk þess sem hann lét fylgja gögn til stuðnings máli sínu. Nokkur frekari bréfaskipti áttu sér stað milli Fjármálaeftirlitsins og ákærða, sem nánar verður gerð grein fyrir í V. kafla dómsins, en þeim lauk að sinni með bréfi eftirlitsins til hans 7. maí 2009. Þar kemur fram að Fjármálaeftirlitið hafi farið yfir upplýsingar og gögn sem fram hafi komið í málinu með hliðsjón af skýringum ákærða og það telji að ,,fullnægjandi skýringar og gögn hafi komið fram til stuðnings fullyrðinga ... um að [ákærði hafi] ekki búið yfir innherjaupplýsingum“ á þeim tíma sem viðskiptin áttu sér stað. Í niðurlagi bréfsins sagði svo: ,,Fjármálaeftirlitið telur því ekki tilefni til frekari athugunar á máli þessu. Fjármálaeftirlitið áskilur sér þó þann rétt að taka málið aftur til skoðunar ef ný gögn eða upplýsingar koma fram er varða mál þetta.“

Ákærða var tilkynnt 9. júlí 2009 að mál hans hefði verið tekið til athugunar á nýjan leik og aflað ýmissa gagna og upplýsinga meðal annars teknar skýrslur af H settum ráðuneytisstjóra í viðskiptaráðuneyti og G sem 1. ágúst 2008 hafi tekið aftur við ráðuneytisstjórastarfi í viðskiptaráðuneyti. Niðurstaða Fjármálaeftirlitsins eftir öflun nýrra gagna og upplýsinga væri sú, að rökstuddur grunur væri um að ákærði hefði brotið gegn 1. tölulið 1. mgr. 123. gr. laga nr. 108/2007 með framangreindum viðskiptum sínum. Var málið sama dag sent embætti sérstaks saksóknara til meðferðar, sem hóf nokkru síðar rannsókn þess.

IV

Með bréfi 19. nóvember 2009 til Héraðsdóms Reykjavíkur krafðist ákærði þess að rannsókn sérstaks saksóknara á ætluðum innherjasvikum hans yrði lýst ólögmæt og hún felld niður. Sömu kröfu hafði ákærði áður beint til sérstaks saksóknara, sem hafnaði henni. Krafa ákærða, sem hér greinir, var sett fram á grundvelli í 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sem heimilar sakborningi að leggja fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda. Röksemdum ákærða fyrir kröfunni var teflt fram í nokkrum liðum, en meðal þeirra voru að athugun Fjármálaeftirlitsins á háttsemi hans hafi lokið með endanlegri stjórnvaldsákvörðun samkvæmt bréfi 7. maí 2009. Ekki hafi verið lögmætt að binda þá ákvörðun fyrirvara, svo sem Fjármálaeftirlitið hafi gert, og hafi ákærði haft réttmætar væntingar um að niðurstaðan væri endanleg. Með síðari athugun Fjármálaeftirlitsins og kæru í kjölfar hennar hafi ennfremur verið brotið gegn banni við endurtekinni málsmeðferð til úrlausnar um refsiverða háttsemi samkvæmt 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994 um lagagildi hans.

Héraðsdómur hafnaði kröfu ákærða með úrskurði, sem ákærði skaut til Hæstaréttar. Í dómi Hæstaréttar 3. febrúar 2010 í máli nr. 15/2010 sagði að Fjármálaeftirlitinu hefði verið heimilt að binda ákvörðun sína 7. maí 2009 um að hætta athugun á ætluðum brotum ákærða þeim fyrirvara að athugun yrði fram haldið ef ný gögn eða upplýsingar kæmu fram í málinu, enda hafi sá fyrirvari verið í eðlilegu samræmi við ákvörðunina og það markmið með athuguninni að upplýsa málið til hlítar. Ákærða hafi verið kynnt ákvörðunin í bréfi sama dag. Hann hafi því ekki með réttu haft væntingar um að þar með væri málinu endanlega lokið. Var ekki fallist á að röksemdir um að réttmætar væntingar ákærða gætu staðið í vegi fyrir framangreindri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að taka málið til rannsóknar á ný. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um framhald málsins hafi verið reist á því að ný gögn og upplýsingar hefðu komið fram. Var um þau vísað til hins kærða úrskurðar og til bréfs Fjármálaeftirlitsins til embættis sérstaks saksóknara 9. júlí 2009. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að mat Fjármálaeftirlitins um að hin nýju gögn og upplýsingar skyldu leiða til frekari athugunar og eftirfarandi kæru yrði ekki vefengt. Þá segir að þótt vera kynni að málsmeðferð fyrir stjórnvöldum og eftirfarandi ákvörðun á stjórnsýslustigi um niðurfellingu máls gæti fallið undir ákvæði 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum, yrði ekki talið að bréf Fjármálaeftirlitsins 7. maí 2009 teldist ígildi lokaafgreiðslu máls í merkingu ákvæðisins. Kæra Fjármálaeftirlitsins hafi þegar af þeirri ástæðu ekki falið í sér brot gegn banni við endurtekinni málsmeðferð til úrlausnar um refsiverða háttsemi.

V

Ákærði krefst aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi.

1

Frávísunarkrafan er studd við 159. gr. laga nr. 88/2008, en samkvæmt því ákvæði getur dómari með eða án kröfu vísað sakamáli frá dómi ef hann telur slíka ágalla vera á málinu, að þeir eigi að leiða til frávísunar þess. Frávísunarkrafa ákærða er annars vegar reist á því að ákæra í málinu og málsóknin gegn ákærða sé andstæð 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Krafa um frávísun málsins af þessum ástæðum var gerð fyrir héraðsdómi, sem hafnaði henni með úrskurði 7. janúar 2011 og krefst ákærði endurskoðunar á úrskurðinum. Hins vegar er krafa ákærða um frávísun reist á því að rannsókn málsins hafi verið verulega áfátt.

Í tilkynningu ákærða um áfrýjun málsins 3. maí 2011 óskaði hann einnig endurskoðunar á nefndum úrskurði héraðsdóms, sbr. 2. mgr. 196. gr. laga nr. 88/2008. Er sá úrskurður því hér til endurskoðunar.

2

Ákærði telur að dómur Hæstaréttar 3. febrúar 2010 í máli nr. 15/2010, sem áður er getið, standi því ekki í vegi að hann geti nú krafist frávísunar málsins, þótt sú krafa sé einnig reist á reglunni í 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Ákærði kveður það fyrst hafa verið eftir útgáfu ákæru í málinu, sem ljóst hafi verið að málatilbúnaður ákæruvaldsins hafi ekki byggst á öðrum upplýsingum en þeim sem legið hafi fyrir Fjármálaeftirlitinu, eða verið því tiltækar, þegar ákærða var birt bréf þess 7. maí 2009 um að eftirlitið teldi ekki tilefni til frekari athugunar á máli hans. Ákærði styður kröfu sína einnig sömu rökum og kröfuna, sem hann gerði á rannsóknarstigi málsins, um að rannsóknin yrði lýst ólögmæt og hún stöðvuð, en henni var hafnað með áðurnefndum dómi Hæstaréttar. Hann kveður jafnframt að það sé, hvað sem öðru líði, skilyrði fyrir endurupptöku málsins sem leiddi til ákæru og eftirfarandi sakamáls á hendur honum, að nýjar upplýsingar hafi sannanlega komið fram eftir 7. maí 2009. Þetta skilyrði leiði bæði af 2. mgr. 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu og af orðalagi ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins um að ekki væri tilefni til frekari athugunar á máli ákærða nema ný gögn og upplýsingar, er málið vörðuðu, kæmu fram. Samkvæmt því hljóti dómstólar að þurfa að endurskoða hvort þessu skilyrði hafi verið fullnægt. Ákærði ítrekar í þessu sambandi að það hafi ekki verið fyrr en eftir útgáfu ákæru, sem unnt hafi verið að leggja mat á hvort ,,hin endurtekna málsmeðferð“ hafi í reynd byggst á nýjum upplýsingum og gögnum. Telur ákærði að hafi ákæra aðeins byggst á upplýsingum, sem legið hafi fyrir hjá Fjármálaeftirlitinu, eða verið því tiltækar, er athugun á máli ákærða var hætt af hálfu eftirlitsins, séu öll efnisskilyrði 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu fyrir hendi. Beri þá að vísa málinu frá dómi. Ákærði staðhæfir að ákæra sé reist á upplýsingum sem í reynd hafi legið fyrir hjá Fjármálaeftirlitinu eða verið því tiltækar 7. maí 2009. Í því sambandi bendir ákærði á að Fjármálaeftirlitið átti aðild að samráðshópi varðandi fjármálastöðugleika og viðbúnað og hafi verið ,,aðalupplýsingaveita“ hópsins. Fjármálaeftirlitið hafi haft tiltækar meiri upplýsingar og gögn en ákærði átti aðgang að og hafi engin breyting orðið á því eftir 7. maí 2009. Meðal gagna, sem verið hafi hjá Fjármálaeftirlitinu, telur ákærði hafa verið allar fundargerðir samráðshópsins frá upphafi. Upplýst sé að starfsmenn Fjármálaeftirlitsins sem rannsökuðu mál ákærða hafi kynnt sér fundargerðir vegna funda sem hópurinn hélt í september 2008, þar á meðal fundar 4. september þetta ár, þar sem gerð hafi verið grein fyrir fundi fulltrúa íslenskra stjórnvalda með fjármálaráðherra Bretlands tveimur dögum fyrr. Til þessa fundar sé vísað í 5. tölulið í ákæru.

Ákærði bendir á að ætlaðar innherjaupplýsingar sem tíundaðar séu í töluliðum 4, 5 og 6 í ákæru séu allar reistar á upplýsingum sem fram hafi komið á fundum samráðshópsins og fundinum með fjármálaráðherra Bretlands. Þá hafi ætlaðar innherjaupplýsingar, sem tilgreindar séu í töluliðum 1 og 2 í ákæru, verið til umræðu á fundum samráðshópsins 22. júlí til 16. september 2008. Í tölulið 2 sé einnig nefndur fundur sem ákærði og ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins sátu með bankastjórum Landsbanka Íslands hf. 13. ágúst 2008. Telur ákærði að á þessum fundi hafi ekkert komið fram sem ekki hafði þá þegar komið til umræðu á fundum samráðshópsins eða kom til umræðu á næsta fundi þar á eftir.

3

Eins og fram er komið var í dómi Hæstaréttar í máli nr. 15/2010 leyst úr því sakarefni hvort lýsa bæri rannsókn á ætluðum innherjasvikum ákærða ólögmæta og stöðva hana vegna þess að ekki hafi verið heimilt að hefja rannsókn að nýju eftir fyrrgreinda tilkynningu Fjármálaeftirlitsins 7. maí 2009 til ákærða og málið hefði því ekki átt að senda til sérstaks saksóknara. Niðurstaða Hæstaréttar í þessu máli kemur ekki til endurskoðunar í máli því sem hér er til úrlausnar. Á hinn bóginn á ákærði rétt á því að leyst sé úr kröfu hans um frávísun málsins á þeim grundvelli sem hún er höfð uppi í máli þessu og rakið hefur verið. Breytir engu í því efni þótt hann vísi einnig nú til ákvæða 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu kröfunni til stuðnings.

4

Í I. kafla dómsins er gerð grein fyrir meginefni bréfs Fjármálaeftirlitsins 11. nóvember 2008 til ákærða þar sem honum var tilkynnt að athugun stæði yfir á viðskiptum hans 17. og 18. september 2008 með 9.059.809 hluti í Landsbanka Íslands hf. Í bréfinu eru raktar reglur í lögum nr. 108/2007 sem taka til innherja og innherjasvika. Í lok bréfsins er óskað upplýsinga frá ákærða um viðskiptin, um ástæður viðskiptanna, hvenær hann hafi fyrst eignast hluti í bankanum svo og afrita gagna.

Ákærði svaraði erindinu með bréfi 18. nóvember 2008. Þar kvaðst hann hafa tekið þá ákvörðun þegar hann hóf störf sem ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneyti haustið 2000 að stunda engin hlutabréfaviðskipti á meðan hann gegndi starfinu að frátalinni mögulegri sölu á hlutabréfum, sem hann átti í nokkrum félögum, er hann tók við starfinu. Hann kvaðst, eins og áður greinir, hafa eignast hlutaféð í Landsbanka Íslands hf. á árinu 2005 þegar ,,einhver uppskipti í viðskiptalífinu“ hafi orðið og að viðbættum jöfnunarhlutum, sem síðar voru gefnir út. Hafi hann eingöngu átt það hlutafé í bankanum, sem hann seldi tilgreinda daga í september. Í bréfinu gerði ákærði grein fyrir mikilli opinberri umræðu um viðkvæma stöðu íslensku bankanna í marga mánuði áður en hann seldi hluti sína og þess vegna hafi fjárfestar haft aðgang að óvenjumiklum opinberum upplýsingum til að leggja til grundvallar fjárfestingarákvörðunum sínum varðandi íslensku bankana. Ákærði tók fram að hvorki Landsbanki Íslands hf. eða aðrir bankar né fjármálamarkaðurinn heyrði stjórnsýslulega undir fjármálaráðuneytið. Þá sagði í bréfi hans: ,,Sjálfur átti ég engin samskipti við stjórnendur Landsbankans eða annarra fjármálafyrirtækja og sótti enga hluthafafundi hjá Landsbankanum.“ 

Að þessu búnu gerði ákærði þá grein fyrir ástæðu sölu á hlutunum að hún hefði verið tvíþætt. Í fyrsta lagi hafi honum stöðu sinnar vegna þótt óheppilegt og óþægilegt að eiga hlutina eftir að málefni bankanna komust í brennidepil. Í öðru lagi hafi honum verið ljóst, þótt hann teldi að Landsbanki Íslands hf. kæmist í gegnum þann mótvind, sem ríkti á fjármálamarkaði, að verðmæti hluta í bankanum myndi lækka vegna versnandi útlits í alþjóðlegum og innlendum efnahagsmálum, sem alkunnugt væri. Ákærði kvaðst í bréfinu hafa kosið að selja hluti sína í Landsbanka Íslands hf. fyrr, en ástæða þess að það dróst hafi verið sú að hann vildi vera þess fullviss þegar hann seldi að hann byggi ekki yfir neinum verðmyndandi upplýsingum um bankann, sem markaðurinn gerði ekki. Tvennt hafi valdið því að hann beið með að selja.

Fyrra atriðið, sem olli því að ákærði beið með að selja hlut sinn í bankanum, hafi verið vitneskja hans um viðræður Landsbanka Íslands hf. og breska fjármálaeftirlitsins um flutning svonefndra Icesave-reikninga í Bretlandi úr útibúi bankans í London yfir í dótturfélag, en ástæða þeirra hafi einkum verið vanmáttur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Honum hafi verið kunnugt um að óleyst væru álitamál tengd því að lánssamningar Landsbanka Íslands hf. gerðu bankanum erfitt fyrir að framkvæma slíkar breytingar í einum áfanga. Fjölmiðlar hafi sagt fréttir af umræðum, sem átt hefðu sér stað á Bretlandi og greint frá því að nokkurt útstreymi hafi verið af Icesave-reikningunum í kjölfarið. Ákærði gerði í þessu sambandi grein fyrir fundi íslenskra embættismanna 2. september 2008 með fjármálaráðherra Bretlands þar sem rætt hafi verið um færslu Icesave-reikninganna yfir í dótturfélag. Engar ákvarðanir hafi verið teknar á fundinum en staðfest að áfram yrði unnið að málinu í samstarfi fjármálaeftirlita landanna. Á fundi í samráðshópnum 16. september 2008 hafi verið upplýst að stjórnendur Landsbanka Íslands hf. hafi fundað með breska fjármálaeftirlitinu deginum áður um þetta mál. Á fundinum hafi verið upplýst að Fjármálaeftirlitið hafi ekki fregnað frá breska fjármálaeftirlitinu eftir fundinn en ,,hafði eftir Landsbankamönnum að fundurinn hefði verið jákvæður og að þeir teldu að málin væru að leysast.“ Útflæði af Icesave-reikningunum hefði stöðvast og skýrsla breskrar þingnefndar, sem hefði nýverið komið út, og fjallaði meðal annars um innlánssöfnun erlendra banka í London hefði ekki valdið ,,óróleika umfram það sem áður var.“ Með tilliti til alls þessa taldi ákærði ljóst að hann ,,byggi ekki á þessum tímapunkti yfir neinni vitneskju um Icesave-reikningana umfram markaðinn sem áhrif gæti haft á markaðsverð hlutabréfa í Landsbankanum.“

Síðara atriðið, sem skipt hafi máli um tímasetningu sölunnar á hlutabréfunum í bankanum, kvað ákærði hafa verið nýleg opinber umfjöllun um að Landsbanki Íslands hf. stæði frammi fyrir umtalsverðum útlánatöpum. Þá tók ákærði fram í bréfinu að hann hefði 17. september 2008, áður en hann seldi hlutina, rætt við E formann samráðshópsins um þá ákvörðun sína að selja og það mat hans að hann byggi á því tímamarki ekki yfir neinum verðmyndandi upplýsingum um bankann umfram markaðinn. Hafi formaðurinn ekki gert athugasemdir við það mat. Loks kvað ákærði stöðu íslensku bankanna hafa breyst fyrirvaralaust til hins verra í lok september og byrjun október og þá hafi byrjað atburðarás sem verið hafi ófyrirsjáanleg með öllu um miðjan september. Með bréfinu lét ákærði fylgja ýmis gögn máli sínu til stuðnings.

Fjármálaeftirlitið ritaði ákærða aftur bréf 28. nóvember 2008 og óskaði frekari upplýsinga um efni fundar íslenskra embættismanna 2. september 2008 með fjármálaráðherra Bretlands, auk gagna sem stutt gætu upplýsingar ákærða.

Ákærði svaraði bréflega 5. desember 2008 og sagði meðal annars að fundurinn hefði verið haldinn að frumkvæði viðskiptaráðherra til að reyna að greiða fyrir lausn á flutningi Icesave-reikninganna yfir í dótturfélag. Hann hefði fengið boð um að mæta á fundinn með stuttum fyrirvara og þátttaka hans hefði fyrst og fremst verið formsins vegna. Hann hefði hvorki séð ástæðu til að halda fundargerð né taka saman minnisblöð um fundinn.

Fjármálaeftirlitið ritaði ákærða enn bréf 20. apríl 2009. Í því bréfi voru raktar uppgefnar ákvörðunarástæður ákærða fyrir sölu hans á hlutabréfunum og tekið fram að eftirlitið hefði ekki getað fundið fréttaumfjöllun í fjölmiðlum fyrir 17. september 2008 til að renna stoðum undir skýringar hans. Minnti Fjármálaeftirlitið á skilgreiningu á innherjasvikum í 123. gr. laga nr. 108/2007 og óskaði eftir upplýsingum og gögnum, sem styddu frásögn ákærða, um fjölmiðlaumfjöllun vegna vanda Landsbanka Íslands hf. í tengslum við Icesave-reikningana, sem orðið hefði fyrir sölu ákærða á hlutum sínum.

Ákærði svaraði með bréfi 28. apríl 2009 þar sem hann í upphafi leiðrétti ætlaðan misskilning, sem fram hefði komið í síðastgreindu bréfi Fjármálaeftirlitsins, um ástæður hans fyrir sölu hlutanna. Hann tilgreindi í fimm töluliðum umfjöllun erlendra fjölmiðla um málefnið, sem í nokkrum tilvikum hafi verið gerð grein fyrir í íslenskum fjölmiðlum. Lét hann fylgja gögn upplýsingunum til stuðnings.

Að fengnum þessum upplýsingum og gögnum tilkynnti Fjármálaeftirlitið svo ákærða 7. maí 2009 að framkomnar skýringar hans og gögn væru fullnægjandi og eftirlitið teldi því ekki tilefni til frekari athugunar á málinu.

5

Á fundi stjórnar Fjármálaeftirlitsins 19. júní 2009 komu fram ábendingar um hvar ný gögn og upplýsingar gæti verið að finna um mál ákærða. Bent var á að aðrir í samráðshópnum gætu ef til vill veitt nánari upplýsingar og rétt væri að athuga fleiri fundargerðir vegna funda hópsins en þær þrjár vegna funda 4., 9. og 16. september 2008, sem legið höfðu til grundvallar fyrri athugun. Í kjölfarið voru teknar skýrslur af H og G sem sátu í samráðshópnum hvor á sínum starfstíma sem ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneyti. Þá var meðal annars aflað fundargerða samráðshópsins frá byrjun janúar til loka ágúst 2008, auk fylgiskjala með fundargerðunum.

Að undangenginni þessari athugun var tekin ákvörðun um að senda málið til sérstaks saksóknara með bréfi 9. júlí 2009. Í bréfinu og minnisblaði Fjármálaeftirlitsins um málið 8. júlí sama ár kemur fram, hvaða nýju gögn og upplýsingar hafi verið grundvöllur þess að málið var tekið upp að nýju og það sent sérstökum saksóknara til meðferðar. Þar segir að í skýrslu, sem tekin var af H fyrrum settum ráðuneytisstjóra í viðskiptaráðuneyti, hafi komið fram að hún teldi að innherjaupplýsingar hafi borið á góma á fundi samráðshópsins 1. apríl 2008 þess efnis að innlán á Icesave-reikningum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi væru að minnka á því tímamarki. Hafi ákærði tekið fram á fundinum að það myndi skipta máli hvort bankanum tækist að flytja innlán útibús bankans í London yfir í dótturfélag. Þá kom fram hjá H að á fundi samráðshópsins 31. júlí 2008 hafi verið rætt um 5.000.000.000  sterlingspunda hámark sem breska fjármálaeftirlitið hefði ákveðið að setja á samanlagðar innstæður Icesave-reikninga. Innstæður á reikningunum hefðu á þessum tíma verið nálægt 4.800.000.000 sterlingspunda. Hún kvað Landsbanka Íslands hf. hafa verið orðinn aðalfundarefni samráðshópsins á þessum tíma. Einnig er getið skýrslu G ráðuneytisstjóra í viðskiptaráðuneyti, sem tók á ný við því starfi sínu eftir fæðingarorlof 1. ágúst 2008. Hún upplýsti að á fundi samráðshópsins 12. ágúst 2008 hefði verið rætt um stöðu svonefndra kjölfestufjárfesta í Landsbanka Íslands hf. og hefði henni þótt það sérstakt, enda ekki gert fyrr né síðar á fundum hópsins að því er henni væri kunnugt. Þá gat hún um fund, sem hún og ákærði hefðu átt með bankastjórum Landsbanka Íslands hf. 13. ágúst 2008, en þar hefðu bankastjórarnir fullyrt að það væri mjög erfitt fyrir bankann að uppfylla kröfu breska fjármálaeftirlitsins og að slíkt gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir bankann. Erfitt væri að meta eignasöfn, sem færð yrðu á milli og lánssamningar sem bankinn hefði gert myndu vera í uppnámi. Á fundinum hefðu bankastjórarnir margítrekað að þessar upplýsingar væru algert trúnaðarmál og hafi öllum fundarmönnum verið ljóst hve alvarleg staðan væri fyrir bankann og úrlausnarefnið erfitt. G upplýsti einnig að þeim hefðu verið afhent gögn á fundinum, sem höfðu að geyma bréfleg samskipti Landsbanka Íslands hf. og breska fjármálaeftirlitsins.

Síðastnefnd gögn bera með sér að breska fjármálaeftirlitið leitaðist við að knýja fram kröfu sína um flutning innstæðna á Icesave-reikningunum. Landsbanki Íslands hf., sem taldi sér að lögum ekki skylt að verða við kröfunni, sá sig þó knúinn til að fallast á hana. Bankinn dró að fara að kröfunni á þann hátt sem hún var sett fram og lýsti því í bréfi 12. ágúst 2008 til breska fjármálaeftirlitsins að í raun væri bankanum það ókleift. Þá eru í minnisblaðinu og bréfi Fjármálaeftirlitins til sérstaks saksóknara rakin atriði, sem lesa mátti í fundargerðum samráðshópsins vegna funda sem haldnir voru fyrir septembermánuð 2008.

Fundargerðir samráðshópsins frá janúar til ágústloka 2008 ásamt fylgigögnum, gögn sem ákærði og G fengu afhent á fundi með bankastjórum Landsbanka Íslands hf. 13. ágúst 2008 og þær upplýsingar, sem að framan eru raktar, voru ný gögn og upplýsingar, sem ekki lágu fyrir við upphaflega rannsókn. Þótt forstjóri Fjármálaeftirlitsins hafi haustið 2008 haft drög að hluta fundargerðanna í möppu á skrifstofu sinni þar til hann óskaði eftir þeim í heild sinni frá ritara samráðshópsins í desember það ár, beindi hann starfsmönnum eftirlitsins sem að rannsókninni unnu einnig til ritara samráðshópsins til að fá fundargerðirnar þar sem það væri að formi til eðlilegra að þær kæmu þaðan. Þá verður einnig litið á gögnin, sem afhent voru ákærða og G á fundi með bankastjórum Landsbanka Íslands hf. 13. ágúst 2008, sem ný gögn við rannsóknina þótt vera kunni að Fjármálaeftirlitinu hefðu borist þau sem afrit er þau voru send. Jafnframt voru það nýjar upplýsingar að ákærði hefði átt framangreindan fund með bankastjórum Landsbanka Íslands hf. og verður hið sama sagt um efni fundarins sem laut að knýjandi vanda bankans. Í því efni skiptir ekki síst máli að ákærði sagði í bréfi sínu til Fjármálaeftirlitsins 18. nóvember 2008 ranglega að hann hefði engin samskipti átt við stjórnendur bankans.

Í rannsókn sérstaks saksóknara var rennt frekari stoðum undir þýðingu hinna nýju upplýsinga. Í skýrslum sem teknar voru við rannsóknina af K og L bankastjórum Landsbanka Íslands hf. kom fram að breska fjármálaeftirlitið hefði á þessum tíma verið orðið ósveigjanlegt í kröfu sinni um flutning innstæðna á Icesave-reikningunum og bankinn hefði ekki getað orðið við þeim að óbreyttu. Því hefði verið leitað til íslenskra stjórnvalda um að reyna hafa þau áhrif á bresk stjórnvöld að þau kæmu til móts við bankann til þess að slíkur flutningur yrði framkvæmanlegur. Hefðu ákærði og G mætt á fundinn með bankastjórunum og verið sett inn í málið. Það sem fram hefði komið á fundinum hefði verið algert trúnaðarmál sem hefði verið á fárra vitorði innan bankans og breska fjármálaeftirlitsins.

6

Í ákæru málsins er ákærði borinn sökum um eitt brot, innherjasvik, sem talið er varða við 1. tölulið 1. mgr. 123. gr., sbr. 3. tölulið 146. gr., laga nr. 108/2007, sbr. og 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Broti hans er lýst svo að hann hafi búið yfir innherjaupplýsingum en þrátt fyrir það selt hluti sína í Landsbanka Íslands hf. á þeim tíma og á þann hátt sem áður er gerð grein fyrir. Í töluliðum 1 til 6 í ákæru er lýst þeim innherjaupplýsingum, sem ákærði á að hafa búið yfir, en fallið var frá því fyrir Hæstarétti að þær upplýsingar, sem greinir í 3. tölulið, hefðu þýðingu. Af ákærunni og málflutningi ákæruvalds er ljóst að ætlaðar innherjaupplýsingar í hverjum og einum hinna fimm töluliða, sem eftir standa, séu að þess mati nægilegar til sakfellingar ákærða.

Að gættu því sem að framan greinir verður talið að veigamiklar nýjar upplýsingar og gögn hafi komið fram við framhaldsrannsókn Fjármálaeftirlitsins, sem rennt var frekari stoðum undir með rannsókn sérstaks saksóknara. Ákæra var svo reist á þessum upplýsingum ásamt því sem lá fyrir er athuguninni var hætt 7. maí 2009. Verður því hafnað kröfu um frávísun málsins sem reist er á því að útgáfa ákæru og eftirfarandi málsókn fari í bága við reglu 1. og 2. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu.

7

Ákærði reisir kröfu sína um frávísun málsins einnig á því að rannsókn þess hafi verið verulega áfátt. Á skorti að teknar hafi verið skýrslur af ýmsum þeim, sem hefðu getað varpað ljósi á málsatvik og réttmæti þeirra atvika, sem að baki ákæru búa, meðal annars þeirra innherjaupplýsinga, sem ákærði átti að hafa búið yfir. Ákærði nefnir þessu til stuðnings ýmis atvik, sem hann telur óupplýst og nauðsynlegt hefði verið að taka skýrslur af þeim, sem um þau gætu borið. Eigi þetta við bæði undir rannsókn málsins og um skýrslutökur fyrir dómi. Nefnir ákærði ýmsa til í þessu sambandi, sem hefðu getað veitt upplýsingar. Telur hann að rannsókn málsins fyrir útgáfu ákæru hafi að þessu leyti farið í bága við 53. gr. laga nr. 88/2008.

Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 skal dómur reistur á sönnunargögnum, sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Annmarkar sem vera kunna á rannsókn máls og leiða til þess að sakir verða ekki sannaðar hafa þýðingu við efnisúrlausn máls en leiða almennt ekki til frávísunar þess. Ákærði átti þess sjálfur kost að óska eftir því að leggja fram skjöl við meðferð málsins hjá sérstökum saksóknara, sbr. 5. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008, og fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 110. gr. sömu laga, auk þess sem honum var rétt að kveðja vitni fyrir dóm ef hann taldi þess þörf, sbr. 1. mgr. 120. gr. sömu laga. Ekki verður séð að fyrirstaða hafi verið á framlagningu gagna hans og ekki er bókað að fram hafi komið óskir af hans hálfu í þinghöldum í héraði um að tiltekin vitni yrðu leidd. Verður ekki á það fallist að þeir annmarkar séu á rannsókn máls fyrir eða eftir útgáfu ákæru, sem leiða skuli til frávísunar þess og verður þeirri kröfu því hafnað.

VI

Til vara krefst ákærði ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar málsins.

Þá kröfu styður hann í fyrsta lagi þeim rökum að borið hafi að fjölskipa héraðsdóm í málinu, sbr. 3. gr. laga nr. 88/2008. Hafi verið á þetta bent við þingfestingu málsins, enda hafi mátt vera ljóst frá upphafi að niðurstaða um sök myndi ráðast að verulegu leyti af mati á sönnunargildi munnlegra skýrslna fyrir dómi. Þá sé málið umfangsmikið, sakarefnið mikilvægt frá almennu sjónarmiði og úrlausnarefni málsins á flóknu réttarsviði, sem lítt hafi reynt á í dómaframkvæmd hér á landi. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 88/2008 er meginreglan sú að einn dómari skipi dóm í hverju máli, nema svo standi á sem segir í 3. til 5. mgr. greinarinnar. Þar kemur fram í 3. mgr. að þegar sérkunnáttu er þörf til þess að leysa úr ágreiningi um staðreyndir geti dómari kvatt til tvo meðdómsmenn sem hafa sérþekkingu á því sviði sem um ræðir. Í málinu er ekki deilt um atriði sem sérkunnáttu þarf til að skera úr um og var því ekki ástæða fyrir héraðsdómara að kveðja til sérfróða meðdómsmenn. Í 4. mgr. er kveðið á um að neiti ákærði sök, geti dómstjóri ákveðið að þrír héraðsdómarar skipi dóm telji dómari sýnt að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Ákvæðið er heimildarákvæði en felur ekki í sér skyldu til að þrír héraðsdómarar skipi dóm í máli þegar svo stendur á sem þar greinir. Eins og atvikum er hér háttað, einkum með hliðsjón af viðamikilli skjalaframlagningu í málinu, verður ekki fallist á að það eigi að leiða til ómerkingar héraðsdóms að umrædd heimild var ekki nýtt. Í 5. mgr. er mælt fyrir um heimild dómstjóra til að ákveða að þrír héraðsdómarar skipi dóm í máli eða tveir héraðsdómarar og einn sérfróður meðdómsmaður ef málið er annars umfangsmikið eða sakarefnið mjög mikilvægt frá almennu sjónarmiði. Í máli þessu er ákært fyrir eitt tiltekið brot, innherjasvik, sem lýst er refsivert í lögum nr. 108/2007. Efnislega er málið ekki umfangsmikið. Þótt sakarefnið sé að sönnu mikilvægt frá almennu sjónarmiði, leiðir það ekki til ómerkingar héraðsdóms að dómstjóri hafi ekki nýtt síðastnefnda heimild til að fjölskipa dóminn.

Þá er ómerkingarkrafan í öðru lagi reist á því að sönnunarmati héraðsdómara sé áfátt. Hann hafi ekki gert sönnunargögnum viðunandi skil og ekki tekið skýra afstöðu til þýðingar skriflegra sönnunargagna, sem lögð voru fram til stuðnings málatilbúnaði ákærða. Ákærði telur einnig að reifun framburðar vitna sé áfátt í héraðsdómi, einkum hafi skort á að reifaðir væru þeir þættir í framburðum vitna, sem hafi verið ákærða í hag. Í 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 er mælt fyrir um hvaða atriði skuli tilgreina í dómi. Samkvæmt þessari málsgrein skal meðal annars greina í dómi ,,svo stutt og glöggt sem verða má: ... d. hver málsatvik séu í aðalatriðum, e. við hvaða sönnunargögn og rök hvert ákæruatriði sé stutt og hvaða andsvör ákærði færi við þeim ef því er að skipta, f. röksemdir dómara fyrir því hvað teljist sannað í málinu og með hverjum hætti, g. röksemdir dómara fyrir niðurstöðu um önnur atriði máls, þar á meðal um viðurlög ...“ Dómur héraðsdóms fer að efni og uppbyggingu ekki í bága við framangreind fyrirmæli og verður kröfu um ómerkingu af þessari ástæðu því hafnað.

Loks verður hafnað röksemdum, sem ákærði hefur teflt fram í þriðja lagi til stuðnings kröfu um ómerkingu héraðsdóms og lýtur að því, að dráttur hafi orðið á aðalmeðferð vegna þess að beðið var komu tilgreinds vitnis til landsins. Þótt þessi skýrsla hafi um síðir verið tekin af vitninu símleiðis samkvæmt ákvörðun dómara, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008, getur þetta ekki valdið ómerkingu héraðsdóms.

VII

  Sýknukrafa ákærða er bæði reist á röksemdum sem lúta að ágöllum á rannsókn málsins og skorti á skýrleika refsiheimilda en einnig á því að sakir þær, sem bornar eru á ákærða, séu ósannaðar og skilyrðum laga um innherjaupplýsingar og innherjasvik ekki fullnægt.

1

Ætlaðir annmarkar á rannsókn málsins koma til athugunar við mat á því hvort sannað sé að ákærði hafi búið yfir þeirri vitneskju sem tilgreind er í töluliðum 1, 2, 4, 5 og 6 í ákæru og hvort um innherjaupplýsingar sé að ræða. Þeir koma því koma ekki sjálfstætt til athugunar sem sýknuástæða.

2

Ákærði telur skorta á skýrleika þeirra refsiheimilda, sem ákæruvaldið krefst að beitt verði í málinu. Í þeim efnum bendir hann á að útfærslu vanti í almennum stjórnvaldsfyrirmælum á hlutlægum refsiskilyrðum 120. gr. laga nr. 108/2007. Hátternislýsing greinarinnar hafi í reynd að geyma beina tilvísun til reglugerða, sem setja skuli um grundvallarskilyrði refsiábyrgðar samkvæmt ákvæðinu, nánar tiltekið hvað felst í orðasambandinu ,,líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninganna ef opinberar væru“. Ekki hafi verið sett reglugerð svo sem skylt hafi verið og styðji ákæruvaldið mál sitt við 2. gr. reglugerðar nr. 630/2005 um innherjaupplýsingar og markaðssvik. Sú reglugerð hafi verið sett með stoð í eldri lögum nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti með síðari breytingu. Hann telur að ekki fái staðist að reglugerð, sem sett sé samkvæmt eldri lögum, verði lögð til grundvallar við mat á refsinæmi háttsemi. Eigi þessi annmarki á skýrleika refsiheimilda, sem krafist er að beitt verði,  að leiða til sýknu.

Í 120. gr. laga nr. 108/2007 eru reglur um innherjaupplýsingar. Þar segir að setja eigi reglugerð þar sem meðal annars skuli kveða nánar á um hvaða atriði séu líkleg til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninga ef opinberar væru. Reglugerð sú, sem mælt er fyrir um að setja skuli, hefur ekki verið sett og er í ákæru vísað til 2. gr. reglugerðar nr. 630/2005, sem sett var samkvæmt eldri lögum nr. 33/2003. Ákvæði 57. gr. þeirra laga, eins og þeim var breytt með lögum nr. 31/2005, er efnislega samhljóða 120. gr. laga nr. 108/2007. Þegar svo háttar til halda gildi sínu stjórnvaldsfyrirmæli, sem sett eru samkvæmt eldri lögum, uns ný eru sett samkvæmt yngri lögum. Á þetta einnig við um reglur sem mæla fyrir um refsiábyrgð. Verður því fallist á með héraðsdómi að ekki skorti á skýrleika þeirra refsiheimilda, sem krafa ákæruvaldsins er reist á að þessu leyti.

3

Í 120. gr. laga nr. 108/2007 segir að með innherjaupplýsingum sé átt við nægjanlega tilgreindar upplýsingar sem ekki hafi verið gerðar opinberar og varði beint eða óbeint útgefendur fjármálagerninga, fjármálagerningana sjálfa eða önnur atriði og séu líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninganna ef opinberar væru. Í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 630/2005 segir að líta skuli svo á að upplýsingar séu nægjanlega tilgreindar ef þær gefi til kynna aðstæður, sem séu fyrir hendi eða sem ætla má að verði fyrir hendi eða atburð, sem átt hefur sér stað eða sem ætla má að muni eiga sér stað. Upplýsingarnar verði þó að vera nægilega nákvæmar til að unnt sé að draga ályktun um möguleg áhrif þeirra aðstæðna eða atburðar á verð fjármálagerninga eða afleiddra fjármálagerninga sem þeim tengjast. Í 3. mgr. greinarinnar segir að innherjaupplýsingar sem væru líklegar til að hafa marktæk áhrif á verð fjármálgerninga eða afleiddra fjármálagerninga, sem þeim tengjast, yrðu þær gerðar opinberar séu þær upplýsingar, er líkur séu á að upplýstur fjárfestir noti sem hluta af þeim grunni sem hann byggir fjárfestingarákvarðanir sínar á.

Reglum um innherjaviðskipti er ætlað að vernda fjárfesta og trúverðugleika verðbréfamarkaðar og útgefendur fjármálagerninganna. Reglurnar eru settar til þess að treysta gegnsæi fjármálamarkaðar, jafnræði fjárfesta og heiðarleika í verðbréfaviðskiptum. Reglur um innherjaupplýsingar verður meðal annars að skýra í þessu ljósi. Af þessu leiðir að ákæruvaldið verður að sýna fram á að sá sem talinn er innherji búi yfir upplýsingum, sem telja má innherjaupplýsingar. Verður samkvæmt þeim skilyrðum, sem tilgreind eru að framan, að vera ljóst hverjar hinar afmörkuðu upplýsingar eru og að þær séu nákvæmar og líklegar til að hafa áhrif á markaðsverð á þann hátt sem lýst hefur verið. Þótt þetta feli í sér að sýna verði fram á afmarkaðar og nægilega nákvæmar upplýsingar, sem ekki hafa verið gerðar opinberar, er jafnframt ljóst að nægilegt er að upplýsingarnar séu þess eðlis að þær, ásamt öðrum upplýsingum sem kunna að hafa verið gerðar opinberar eða séu opinberar af öðrum ástæðum, hafi þau áhrif sem lýst er að framan.

Ákærði var sem fyrr segir ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu í september 2008. Hann var í því starfi bundinn trúnaði um vitneskju sem hann fékk í starfi sínu um það sem leynt átti að fara, sbr. 18. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hann var, eins og áður greinir, bundinn trúnaði um það sem fram kom á fundi samráðshóps þess, sem hann starfaði í, bæði vegna starfs síns og vegna eðlis þeirra upplýsinga sem þar voru til meðferðar. Svo sem fram er komið áréttuðu bankastjórar Landsbanka Íslands hf. á fundi þeirra með ákærða og ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytis 13. ágúst 2008 að ríks trúnaðar yrði að gæta um það sem þar kom fram og um gögn, sem afhent voru. Þá var efni fundar íslenskra embættismanna með fjármálaráðherra Bretlands 2. september 2008 einnig eðli málsins samkvæmt trúnaðarmál. Til þess verður að líta að ákærði var í þeirri stöðu, er hann seldi hluti sína, að hann bjó yfir upplýsingum sem hann fékk á fundum samráðshópsins, sem tiltekin stjórnvöld áttu aðild að, auk þess sem hann bjó yfir upplýsingum sem hann hafði fengið frá Landsbanka Íslands hf. á fundinum með bankastjórum 13. ágúst þetta ár. Þá bjó hann yfir upplýsingum um viðhorf breskra stjórnvalda sem hann fékk á fundinum með fjármálaráðherra Bretlands 2. september 2008. Að þessu virtu uppfyllti ákærði efnisleg skilyrði til að teljast tímabundinn innherji í skilningi 2. töluliðar 121. gr. laga nr. 108/2007.

Ákærði hefur aldrei leynt sölu hluta sinna í Landsbanka Íslands hf. á þann hátt sem í ákæru greinir, enda upplýsti hann það í bréfi sínu til Fjármálaeftirlitsins 18. nóvember 2008 og studdi gögnum. Hann neitar því á hinn bóginn eindregið að hann hafi þá búið yfir innherjaupplýsingum. Ákæruvaldið reisir mál sitt fyrir Hæstarétti á því að í fimm tilgreindum tilvikum hafi ákærði búið yfir innherjaupplýsingum er hann seldi hluti sína í Landsbanka Íslands hf. 17. og 18. september 2008.

Í fyrsta lagi vísar ákæruvaldið til upplýsinga um þá kröfu breska fjármálaeftirlitins að innstæður á Icesave-reikningum útibús Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi yrðu fluttar í breskt dótturfélag ásamt hluta af eignum bankans og upplýsingar um erfiðleika bankans á því að verða við kröfunni. Þessar upplýsingar hafi verið til umfjöllunar á fundum samráðshópsins  22. júlí til 16. september 2008. Fallist er á með héraðsdómi að upplýsingar þessar séu nægjanlega tilgreindar og nægilega nákvæmar. Landsbanki Íslands hf. hafði ekki gert þær opinberar og ákærði var bundinn trúnaði um þær. Þær vörðuðu auk þess miklu um það hvernig Landsbanka Íslands hf. tækist að komast í gegnum þá erfiðleika, sem hann stóð frammi fyrir. Fyrir lá krafa um að bankinn flytti umtalsverðar eignir til Bretlands, sem hann gat ekki orðið við, bæði vegna þess að eignir voru ekki tiltækar og einnig vegna þess að slík tilfærsla eigna hefði stofnað í hættu fjármögnunarsamningum, sem bankinn hafði gert. Ákærði fékk ótvíræðar upplýsingar um þetta á fundi hans með bankastjórum Landsbanka Íslands 13. ágúst 2008, en þær voru til þess fallnar að hafa marktæk áhrif á verð hluta í bankanum og hefðu án efa haft áhrif á fjárfestingarákvarðanir þeirra sem veltu fyrir sér kaupum á slíkum hlutum. Verður því fallist á með héraðsdómi að um hafi verið að ræða innherjaupplýsingar í skilningi laga.

Í öðru lagi er í ákæru vísað til upplýsinga um þá ákvörðun breska fjármálaeftirlitsins að setja 5.000.000.000 sterlingspunda hámark á samtölu innstæðna á Icesave-reikningum í Bretlandi og tilmæli eftirlitsins til Landsbanka Íslands hf. um að haga vaxtakjörum á reikningunum þannig að draga myndi úr vexti innstæðna á þeim, auk athugasemda eftirlitsins við auglýsingar bankans á reikningunum. Þessi atriði hafi verið til umfjöllunar á fundum samráðshópsins 22. júlí til 16. september 2008 og á áðurnefndum fundi með bankastjórum Landsbanka Íslands hf. 13. ágúst sama ár. Fyrir liggur að fjármunir, sem lagðir voru á nefnda Icesave-reikninga í Bretlandi og Hollandi, voru einn mikilvægasti þáttur í að fjármagna starfsemi Landsbanka Íslands hf., sem gagngert hafði verið stefnt að eftir þá erfiðleika sem bankinn lenti í á árinu 2006. Fallist er á með ákæruvaldinu að sannað sé með gögnum málsins að fram hafi verið komin krafa frá breska fjármálaeftirlitinu um að sett yrði áðurgreint hámark á samanlagðar innstæður Icesave-reikninga þar í landi. Einnig er ljóst að innstæðurnar voru á tímabili um sumarið 2008 orðnar um 4.800.000.000 sterlingspund. Því var sennilegt að ákvörðun um hámark hefði mikil áhrif til hins verra á fjármögnun bankans, einkum þar sem lántökur á alþjóðlegum lánamörkuðum fjármálafyrirtækja voru á þessum tíma afar erfiðar. Þótt bankinn teldi sér ekki skylt að verða við slíkri kröfu, liggur fyrir, meðal annars með framburði K fyrir dómi og við rannsókn sérstaks saksóknara, að bankinn taldi sig ekki eiga þann kost að standa gegn henni. Um allt þetta hlaut ákærða vera kunnugt. Upplýsingar þessar voru nægilega tilgreindar og nákvæmar og áhrif þeirra á verðmæti hluta í Landsbanka Íslands hf. marktæk með þeim hætti sem lýst er í 2. gr. reglugerðar nr. 630/2005. Þessar upplýsingar höfðu heldur ekki verið gerðar opinberar. Verða þær því taldar innherjaupplýsingar.

Í þriðja lagi heldur ákæruvaldið því fram að upplýsingar, sem ákærði bjó yfir um að seðlabanki Hollands hygðist stöðva frekari innlán á Icesave-reikninga þar í landi og kynntar voru á fundi samráðshópsins 4. september 2008, væru innherjaupplýsingar. Upplýsingar sem hér um ræðir voru veittar af forstjóra Fjármálaeftirlitsins á fundi í samráðshópnum framangreindan dag, en honum hafði verið kynnt þessi afstaða í heimsókn hans til eftirlitssviðs hollenska seðlabankans fáeinum dögum áður. Hann upplýsti einnig að hollensk yfirvöld hefðu rætt um að stjórna þyrfti ,,niðurbremsuninni“ á innstæðum þessara reikninga. Fallist er á með héraðsdómi, að sannað sé, að upplýsingar þessar uppfylli framangreind skilyrði laga til að teljast innherjaupplýsingar. Þær höfðu heldur ekki verið gerðar opinberar.

Í fjórða lagi er vísað til upplýsinga sem ákærði fékk á fundi með fjármálaráðherra Bretlands 2. september 2008. Þótt þær upplýsingar, sem komu fram á þessum fundi, hafi flestar komið fram áður, svo sem upplýsingar um að flytja innstæður á Icesave-reikningum yfir í dótturfélag í Bretlandi, kom skýrt fram hve alvarlega bresk stjórnvöld töldu stöðuna vera, einkum að því er laut að Landsbanka Íslands hf. Er fallist á með héraðsdómi að upplýsingar um þessa afstöðu breskra stjórnvalda, til viðbótar við þær upplýsingar sem ákærði bjó þegar yfir, séu innherjaupplýsingar í skilningi laga. Verður fallist á forsendur héraðsdóms um þennan lið.

Í fimmta lagi er vísað til vitnisburðar þeirra, sem sátu fund samráðshópsins 16. september 2008 um þær upplýsingar, sem þar komu fram, um líkleg viðbrögð íslenskra stjórnvalda við fjármálahruni. Er fallist á forsendur héraðsdóms fyrir því að um hafi verið að ræða innherjaupplýsingar. Það breytir ekki þeirri niðurstöðu þótt telja megi líklegt að aðgerðir stjórnvalda til björgunar banka í vandræðum leiði venjulega ekki til þess að hluthafar haldi sínum hlut að fullu. Jafnframt er fallist á, miðað við vitnaframburði annarra í málinu sem sátu fund samráðshópsins þennan dag, að engar forsendur hafi verið fyrir ákærða til þess að álykta að loknum þessum fundi að lausn væri í sjónmáli á vandamálum Landsbanka Íslands hf. vegna Icesave-reikninganna í Bretlandi. Verður að líta svo á að fullyrðing hans um þetta, sem fram kom í bréfi til Fjármálaeftirlitsins 18. nóvember 2008, hafi verið röng.

4

Samkvæmt framansögðu bjó ákærði yfir innherjaupplýsingum, sem lýst er í fimm liðum í ákæru. Er sannað að með sölu hluta sinna í Landsbanka Íslands hf., þrátt fyrir að búa yfir upplýsingunum, hafi hann gerst sekur um innherjasvik. Er háttsemi hans réttilega færð til refsiákvæða í héraðsdómi. Verður fallist á með héraðsdómi að ætluð lögvilla ákærða eigi ekki að leiða til sýknu hans.

VIII

1

Ákærði hefur borið fyrir sig að líta verði til þess við ákvörðun refsingar að málsmeðferðin yfir honum hafi tekið langan tíma. Honum hafi fyrst verið tilkynnt um rannsókn Fjármálaeftirlitsins 11. nóvember 2008, en ákæra hafi fyrst verið gefin út tæplega tveimur árum síðar eða 13. október 2010. Þá hafi orðið óskýrðar tafir á afhendingu málsgagna til Hæstaréttar frá því að áfrýjunarstefna var gefin út 4. maí 2011. Eftir að Fjármálaeftirlitið sendi sérstökum saksóknara málið til meðferðar 9. júlí 2009 og rannsókn þess hjá því embætti hófst, krafðist ákærði þess 19. nóvember að rannsóknin yrði lýst ólögmæt og felld niður. Úrskurður var kveðinn upp um kröfu þessa í Héraðsdómi Reykjavíkur 6. janúar 2010 og honum skotið til Hæstaréttar, sem kvað upp dóm í málinu 3. febrúar sama ár. Ákærði krafðist þess 27. nóvember 2009 að felld yrði úr gildi ákvörðun um kyrrsetningu sem fram fór í innstæðum á tilteknum bankareikningum í hans eigu, sem farið hafði fram 13. sama mánaðar. Úrskurður gekk um kröfu þessa í Héraðsdómi Reykjavíkur 5. febrúar 2010 og var honum skotið til Hæstaréttar, sem kvað upp dóm í málinu 26. sama mánaðar. Þótt fallast megi á með ákærða að meðferð máls hans hjá Fjármálaeftirlitinu, fram til þess að honum var tilkynnt að ekki væri ástæða til frekari rannsóknar á máli hans 7. maí 2009, hafi dregist úr hömlu, verður að öllu virtu ekki séð að sá dráttur hafi orðið á málinu að leiða eigi til lækkunar á refsingu.

Þá telur ákærði að við ákvörðun refsingar í málinu verði að líta til þess að hann hafi vegna málsins orðið fyrir dæmalausum ágangi á mannorð sitt, sem áhrif hafi haft á persónulegt líf hans. Í því sambandi hafi miklu skipt óvenjulega rætin og hlutdræg fjölmiðlaumfjöllun sem farið hafi langt út fyrir sakarefni málsins. Hefur ákærði lagt fram gögn, sem renna nokkrum stoðum undir framangreindar staðhæfingar. Þegar litið er til eðlis brots ákærða, á hvaða tíma það var framið og stöðu hans þá, verður ekki fallist á að mikil fjölmiðlaumfjöllun, þótt óvægin hafi verið á köflum, geti haft áhrif á ákvörðun refsingar hans.

Fallist verður á forsendur og niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um ákvörðun refsingar ákærða.

2

Í ákæru er krafist upptöku á ætluðum ólögmætum ávinningi ákærða af brotinu, sem hann hefur verið sakfelldur fyrir. Krafan er reist á 2. mgr. 147. gr. laga nr. 108/2007 og 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 2. mgr. 147. gr. fyrrnefndu laganna er heimilt að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laganna, sem varða sektum eða fangelsi. Við mat á því hver hagnaður ákærða er af brotinu verður, eins og stöðu hans og vitneskju var háttað, að miða við að hann hefði ekki átt þess kost að selja hluti sína fram til 6. október 2008 er Fjármálaeftirlitið stöðvaði viðskipti með fjármálagerninga útgefna af Landsbanka Íslands hf., þar með talið hluti í bankanum. Með hliðsjón af því að hlutabréfin urðu verðlaus eftir síðast greindan dag svarar ávinningur ákærða af broti til söluandvirðis þeirra að frádregnum sölukostnaði, eins og hann er tilgreindur á greiðslukvittunum vegna sölunnar, svo og þeim fjármagnstekjuskatti sem honum var gert að greiða vegna sölunnar. Samkvæmt þessu verður söluverð hlutanna 192.658.716 krónur lækkað um kostnað af sölunni vegna afgreiðslugjalds og söluþóknunar, samtals 771.234 krónur og fjármagnstekjuskatts, sem samkvæmt upplýsingum embættis ríkisskattstjóra var 17.123.130 krónur. Hagnaður ákærða af brotinu í skilningi 2. mgr. 147. gr. laga nr. 108/2007 verður því talinn 174.764.352 krónur. Verður hann dæmdur til að sæta upptöku þeirrar fjárhæðar.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málflutningsþóknun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Staðfest er niðurstaða hins áfrýjaða dóms um refsingu ákærða, Baldurs Guðlaugssonar, og um greiðslu sakarkostnaðar.

Ákærði sæti upptöku á 174.764.352 krónum sem eru hluti innstæðu á bankareikningi hans í Arion banka hf., 100.144.000 krónur á reikningi nr. [...] og 74.620.352 krónur sem er hluti innstæðu á reikningi nr. [...]. Fjárhæðirnar eru hluti þess fjár, sem kyrrsett var 13. nóvember 2009.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 3.917.399 krónur þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Karls Axelssonar hæstaréttarlögmanns, 3.765.000 krónur.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

I

Eins og rakið er í dómi Hæstaréttar 3. febrúar 2010 í máli nr. 15/2010 og atkvæði meirihluta dómenda hóf Fjármálaeftirlitið haustið 2008 athugun á sölu ákærða á hlutum sínum í Landsbanka Íslands hf. 17. og 18. september 2008. Athugunin mun einkum hafa beinst að því hvort ákærði hafi búið yfir innherjaupplýsingum er nefnd viðskipti áttu sér stað vegna starfa sinna sem ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis og sem nefndarmaður í sérstökum samráðshópi forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Vegna þessarar athugunar áttu sér stað bréfaskipti milli Fjármálaeftirlitsins og ákærða frá 11. nóvember 2008 til 7. maí 2009, sem rakin eru í atkvæði meirihlutans, en síðarnefndan dag sendi Fjármálaeftirlitið ákærða bréf, undirritað af M núverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins og N lögfræðingi eftirlitsins, þar sem segir: „Fjármálaráðuneytið vísar til fyrri samskipta vegna athugunar á viðskiptum yðar með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf., dags. 17. og 18. september 2008. Hefur athugunin beinst að því hvort þér hafið búið yfir innherjaupplýsingum vegna starfa yðar sem ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins og nefndarmaður í sérstökum samráðshópi [...] um fjármálastöðugleika og viðbúnað, er nefnd viðskipti áttu sér stað, sbr. 120., 121. og 123. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Í síðasta bréfi yðar, dags. 28. apríl 2009, kemur fram ítarleg umfjöllun um ástæðu viðskipta yðar og tímasetningu þeirra auk gagna til stuðnings fullyrðinga yðar um að sú vitneskja sem leiddi til þess að viðskiptin hafi átt sér stað á umræddum tíma hafi verið almenn og teldist þ.a.l. ekki til innherjaupplýsinga. Bréfinu fylgdu gögn er sýndu innlenda og erlenda fjölmiðlaumfjöllun um stöðu Icesave reikninga Landsbanka Íslands hf. áður en umrædd viðskipti áttu sér stað. Einnig fylgdi bréfinu yfirlit Seðlabanka Íslands um fjármögnun íslensku viðskiptabankanna sem lagt var fyrir fyrrnefndan samráðshóp þann 16. september 2008. Fram kemur í bréfinu að á nefndum fundi samráðshópsins hafi einnig komið fram upplýsingar um að þáttaskil hefðu orðið í Icesave-málinu á þessum tímapunkti, þ.e. að útflæði af Icesave reikningnum hefði stöðvast og að skýrsla bresku þingnefndarinnar vegna málsins, hefði ekki valdið sérstökum óróleika. Er slík umfjöllun staðfest í fundargerð samráðshópsins, dags. 16. september sl. Fjármálaeftirlitið hefur farið yfir þær upplýsingar og gögn sem fram hafa komið í málinu með hliðsjón af þeim ástæðum sem þér hafið veitt varðandi tímasetningu viðskipta yðar m.t.t. þess hvort þér hafið mögulega búið yfir innherjaupplýsingum á þessum tíma, sbr. 120., 121. og 123. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Með hliðsjón af framangreindu og þeim gögnum sem aflað hefur verið vegna málsins telur Fjármálaeftirlitið að fullnægjandi skýringar og gögn hafi komið fram til stuðnings fullyrðinga yðar um að þér hafið ekki búið yfir innherjaupplýsingum á þessum tíma. Fjármálaeftirlitið telur því ekki tilefni til frekari athugunar á máli þessu. Fjármálaeftirlitið áskilur sér þó þann rétt að taka málið aftur til skoðunar ef ný gögn eða upplýsingar koma fram er varða mál þetta.“ Bréfinu til grundvallar lágu ítarleg minnisblöð um rannsókn eftirlitsins.

Með bréfi Fjármálaeftirlitsins 9. júlí 2009 til ákærða var skírskotað til áðurgreinds fyrirvara um lok athugunar þess en síðan segir: „Með vísan til framangreinds tilkynnist yður hér með að Fjármálaeftirlitið hefur hafið aftur athugun máls yðar þar sem nýjar upplýsingar komu fram í málinu. Á grundvelli þeirra upplýsinga og gagna sem fram komu ákvað Fjármálaeftirlitið þann 8. júlí sl. að vísa máli yðar til embættis sérstaks saksóknara, sbr. 2. og 3. mgr. 1. gr. laga um embætti sérstaks saksóknara nr. 135/2008. Samkvæmt 3. mgr. 148. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 gilda ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ekki um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.“ Málið var sama dag sent til embættis sérstaks saksóknara með rökstuðningi um að líta bæri svo á að ný gögn hefðu komið fram. Ákærði andmælti þessari ákvörðun með bréfum til Fjármálaeftirlitsins 21. júlí og 25. september 2009.

Ákærða eru í máli þessu gefin að sök innherjasvik í opinberu starfi sem ráðuneytisstjóri Fjármálaráðuneytisins með því að hafa 17. og 18. september 2008 selt hlutabréf sín í Landsbanka Íslands hf., þrátt fyrir að hafa búið yfir innherjaupplýsingum um bankann sem hann hafi orðið áskynja um í starfi sínu sem ráðuneytisstjóri, einkum í tengslum við setu sína í áðurnefndum samráðshópi um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Í inngangskafla ákæru er tilgreint að ákærði hafi fengið innherjaupplýsingar á sex fundum samráðshópsins á tímabilinu 22. júlí til 16. september 2008, á fundi með bankastjórum Landsbankans 13. ágúst 2008 og á fundi með fjármálaráðherra Bretlands 2. september það ár. Í ákærunni eru umræddar upplýsingar tilgreindar í sex liðum. Segir að upplýsingar á þessum fundum hafi verið „líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð hlutabréfa í bankanum, yrðu þær opinberar.“

II

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 15/2010 kom fram að ákvörðun Fjármálaeftirlitins um framhald málsins yrði að vera á því reist að ný gögn og upplýsingar hefðu komið fram. Var nefnt að grein hefði verið gerð fyrir þeim í bréfi Fjármálaeftirlitsins til embættis sérstaks saksóknara 9. júlí 2009 og taldi Hæstiréttur að ekki skyldi vefengt mat Fjármálaeftirlitins um að þessi gögn og upplýsingar væru ný og gætu leitt til frekari rannsóknar.

Í umræddu bréfi Fjármálaeftirlitsins til sérstaks saksóknara segir meðal annars um þetta: „Á stjórnarfundi Fjármálaeftirlitsins þann 19. júní sl. komu fram ábendingar um að nýjar upplýsingar í málinu gæti verið að finna í fundargerðum fyrrnefnds samráðshóps ef athugað væri lengra tímabil en áður hafði verið gert. Einnig var bent á að nýjar upplýsingar gætu komið fram í málinu ef G, ráðuneytisstjóri og nefndarmaður í samráðshópnum, og H, settur ráðuneytisstjóri og nefndarmaður í samráðshópnum í fjarveru G frá janúar til ágúst 2008, yrðu kallaðar til skýrslugjafar. Í skýrslugjöfum H og G þann 25. júní sl. kom fram ábending um að upplýsingar hafi komið fram í fylgigögnum funda hópsins sem gætu talist til innherjaupplýsinga. Fór Fjármálaeftirlitið þegar fram á afrit af þeim gögnum hjá Seðlabanka Íslands þar sem samráðshópurinn hafði aðstöðu sína. Auk þessa komu fram upplýsingar í skýrslugjöf G um að hún og Baldur hefðu sótt fund með stjórnendum bankans þann 13. ágúst 2008 og að þar hefðu verið lögð fram gögn um samskipti breska fjármálaeftirlitsins (The Financial Services Authority – FSA) og bankans varðandi yfirfærslu Icesace reikninga bankans í dótturfélag. Fór Fjármálaeftirlitið einnig fram á afrit af þeim gögnum.“ Í framhaldi bréfsins er rakið í ítarlegu máli hverjar gætu verið „mögulegar innherjaupplýsingar í gögnum málsins.“ Í atkvæði meirihluta dómenda eru rakin þau atriði sem leiða eiga til þess að telja beri ný gögn hafa komið fram í málinu.

Við flutning málsins nú fyrir Hæstarétti var ákæruvaldið sérstaklega innt eftir því hvaða upplýsingar hefðu nákvæmlega verið nýjar í framangreindum skilningi. Af hálfu ákæruvalds var annars vegar vísað til framangreindra skýrslna H og G en hins vegar til þess að eftir að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var tekin hefði komið í ljós að ákærði hafði setið fund með bankastjórum Landsbankans 13. ágúst 2008.

III

Þegar í sérstöku svarbréfi G við fyrirspurn Fjármálaeftirlitsins 13. mars 2009 kom fram að Bretar hefðu gert „mjög stífar kröfur“ um flutning innlána í breskt félag og fjallaði hún í bréfinu um efni fundarins við breska fjármálaráðherrann. Bréfinu fylgdu einnig minnispunktar eða svokallaðir talpunktar vegna fundarins. Þá kom fram í bréfi Fjármálaeftirlitsins til ákærða 28. nóvember 2008 að þáverandi viðskiptaráðherra hefði svarað spurningum eftirlitsins um meginefni fundarins með breska fjármálaráðherranum. Um fund með bankastjórum Landsbankans 13. ágúst 2008, sem G sat ásamt ákærða, sagði G í skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara 13. ágúst 2009 að bankastjórarnir hefðu einungis verið að kynna kröfur breska fjármálaeftirlitsins sem þeim hefðu fundist ósanngjarnar en að þeir væru í „dialog“ við það.

Eins og fram er komið voru kröfur breska fjármálaeftirlitsins og viðhorf bankastjóra Landsbankans síðar til umfjöllunar á þeim fundum samráðshópsins sem Fjármálaeftirlitið athugaði sérstaklega áður en það felldi niður málið. Þrátt fyrir að ákærði hafi látið hjá líða í bréfaskiptum sínum við Fjármálaeftirlitið að geta umrædds fundar með bankastjórum Landsbankans 13. ágúst 2008 verður að líta til þess að þessi málefni Landsbankans voru til ítarlegrar umræðu strax á næsta fundi samráðshópsins 20. ágúst 2008, en hann sátu bæði G og ákærði. Einnig kom málefnið margoft síðar til umræðu á fundum hópsins.

Þá verður ekki fallist á ályktun meirihluta dómenda að líta beri á gögn sem ákærða og G voru afhent á fundi með bankastjórum Landsbankans 13. ágúst 2008 sem ný gögn, þegar af þeirri ástæðu að miða verður við að Fjármálaeftirlitinu hafi borist þau sem afrit áður en það tók ákvörðun sína um niðurfellingu málsins.

Þótt H hafi greint frá því að á fundi samráðshópsins 1. apríl 2008, sem ekki kemur við sögu í ákæru, hafi verið rætt um minnkandi innlán á Icesave reikningum var ekki um að ræða nýjar upplýsingar enda var einnig fjallað um slík atriði á síðari fundum hópsins í september 2008. Hið sama gildir um skilning H á fundi hópsins 31. júlí 2008.

Ljóst má vera að allar fundargerðir samráðshópsins voru Fjármálaeftirlitinu tiltækar við fyrstu athugun þess í málinu, en fyrrverandi forstjóri eftirlitsins hafði vísað starfsmönnum sínum sem önnuðust mál ákærða á að þær mætti nálgast í gagnasafni Seðlabanka Íslands. Þá ber að líta til þess að umfjöllunarefni eldri funda samráðshópsins en þeirra sem Fjármálaeftirlitið athugaði við fyrri skoðun voru á frumstigi. Voru þau því einnig tekin fyrir á síðari fundum sem Fjármálaeftirlitið athugaði sérstaklega áður en það felldi niður málið. Þá kom fram hjá ákæruvaldinu við flutning málsins fyrir Hæstarétti að telja verði að samráðshópurinn hafi bæði fjallað um efni framangreinds fundar ákærða og G með Landsbankastjórum 13. ágúst 2008 og fundarins með fjármálaráðherranum 2. september 2008.

Í 1. mgr. 148. gr. laga nr. 108/2007 er sú sérstaka regla að brot gegn lögunum sæti aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins. Hefur Fjármálaeftirlitið því endanlegt vald til að ákveða um meðferð máls. Af því sem fram er komið í málinu er nú með öllu ljóst að upplýsingar um þau atriði sem komu upp á þeim fundum sem ákæra er reist á voru Fjármálaeftirlitinu tiltækar áður en það tók hina lögbundnu ákvörðun sína með bréfinu 7. maí 2009 um niðurfellingu málsins. Er nú að fullu fram komið að ákæra í málinu var ekki reist á nýjum upplýsingum eins og Fjármálaeftirlitið gerði áskilnað um í ákvörðun sinni um niðurfellingu málsins 7. maí 2009. Hefði Fjármálaeftirlitinu þegar af þeim sökum borið að láta kyrrt liggja í stað þess að senda málið til sérstaks saksóknara eins og það gerði 9. júlí 2009.

Þrátt fyrir að dómur Hæstaréttar í máli nr. 15/2010 hafi verið með þeirri niðurstöðu að fallast bæri á fullyrðingar stjórnvaldsins um að ný gögn hefðu komið fram við meðferð málsins er réttlættu áframhaldandi rannsókn á háttsemi ákærða, verður ekki hjá því komist að líta til þess sem nú er komið fram, sbr. 3. mgr. 159. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt því ákvæði er dómari ekki bundinn af úrskurði um að hrinda frávísunarkröfu ef nýjar upplýsingar koma fram síðar undir rekstri máls um þau atriði sem úrskurðað var um. Eins og áður segir er í raun nú að fullu í ljós leitt við rannsókn og meðferð málsins fyrir dómi að engin ný gögn eða upplýsingar bárust Fjármáleftirlitinu eftir hina lögbundnu tilkynningu þess til ákærða 7. maí 2009 heldur lágu þau allan tímann fyrir við rannsókn Fjármálaeftirlitsins. Eins og hér háttar til og með hliðsjón af meginreglum laga um réttláta málsmeðferð, sbr. og fyrrgreinda 3. mgr. 159. gr. laga nr. 88/2008 tel ég að vísa beri málinu þegar af þeim ástæðum frá héraðsdómi.

Aðrir dómendur Hæstaréttar eru mér ekki samþykkir um þessa niðurstöðu og samkvæmt 2. mgr. 209. gr. laga nr. 88/2008 ber mér að greiða atkvæði um efni málsins, en taka verður fram að ég er sammála forsendum og niðurstöðu meirihluta dómenda um að ekki skuli ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til nýrrar meðferðar.

IV

Samkvæmt c lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 skal í ákæru skal greina svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er vegna, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla, ef því er að skipta. Í máli þessu hefur ákæruvaldið talið þörf á og nýtt sér heimild í d lið greinarinnar og lagt fram sem hluta af ákærunni sérstakar röksemdir sem málsóknin er byggð á. Er slíkt heimilt ef málið er flókið eða umfangsmikið, en tekið er fram að röksemdafærslan skuli þá vera gagnorð og svo skýr að ekki fari á milli mála hverjar sakargiftir eru.

Í röksemdum í ákæru segir meðal annars: „Ótvírætt er að ákærði hafði réttarstöðu innherja, þ.e. var annar innherji í skilningi 3. tl. 121. gr. laga nr. 108/2007, þar sem hann hafði vegna starfa sinna sem ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins innherjaupplýsingar er féllu að hugtaksskilyrðum 120. gr. laga nr. 108/2007. [...] Réttarstaða innherja í skilningi 3. tl. 121. gr. laga nr. 108/2007 er ekki háð formlegri skráningu eða tilkynningu heldur tekur til efnislegrar vitneskju um innherjaupplýsingar.“ Er ákæra þannig á því reist að ákærði hafi hvorki mátt telja sig fruminnherja né tímabundinn innherja heldur annan innherja. Í hinum áfrýjaða dómi segir eftirfarandi um þetta: „Á því er byggt í ákæru að ákærði hafi verið annar innherji í skilningi 3. tl. 121. gr. laga nr. 108/2007“ og kemst síðan dómurinn að þeirri niðurstöðu að það hafi ákærði verið. Málflutningur ákæruvaldsins og vörn ákærða tóku mið af þessu. Meirihluti Hæstaréttar kemst á hinn bóginn að því að ákærði hafi uppfyllt efnisleg skilyrði þess að teljast tímabundinn innherji.

Í 121. gr. laga nr. 108/2007 segir: Með innherja er átt við: 1. fruminnherja, þ.e. aðila sem hefur að jafnaði aðgang að innherjaupplýsingum vegna aðildar að stjórn, rekstri eða eftirliti eða vegna annarra starfa á vegum útgefanda fjármálagerninga, 2. tímabundinn innherja, þ.e. aðila sem telst ekki fruminnherji en býr yfir innherjaupplýsingum vegna eignaraðildar, starfs síns, stöðu eða skyldna, og 3. annan innherja, þ.e. aðila sem hvorki telst fruminnherji né tímabundinn innherji en hefur fengið vitneskju um innherjaupplýsingar, enda hafi viðkomandi vitað eða mátt vita hvers eðlis upplýsingarnar voru.

Eins og sést af ákvæðinu er gerður töluverður greinarmunur á mismunandi gerðum innherja. Til að mynda þurfa fruminnherjar ekki að búa yfir innherjaupplýsingum til að teljast slíkir innherjar heldur nægir að þeir hafi að jafnaði aðgang að slíkum upplýsingum. Er staða þeirra þess eðlis að þeir búa ætíð yfir eða hafa aðgang að innherjaupplýsingum, sbr. 1. tölulið greinarinnar. Við samanburð á ákvæðum 2. og 3. töluliða greinarinnar sést einnig að löggjafinn gerir greinarmun á hvort menn teljist tímabundnir innherjar eða aðrir innherjar þannig að um hina síðari er sérstaklega tekið fram að nauðsynlegt sé að þeir hafi „vitað eða mátt vita“ hvers eðlis upplýsingar voru. Verður hér að byggja á svokölluðu samtímamati sem miðast við þann tíma er viðskiptin áttu sér stað, en ekki því sem síðar varð þótt slíkt kunni í sérstökum tilvikum að geta gefið einhverja vísbendingu við það samtímamat. Þá verður að líta til þess hvort háttsemi grundvölluð á upplýsingum eða upplýsingarnar sjálfar hafi viðeigandi tengingu við það sem gerist síðar. Auk þess er útgefendum fjármálagerninga samkvæmt XIII. kafla laga nr. 108/2007 skylt, að viðlagðri ábyrgð, að útbúa lista um alla fruminnherja, tímabundna innherja og aðila sem eru fjárhagslega tengdir þeim. Ber að senda listana til Fjármálaeftirlitsins og uppfæra þá reglulega, sbr. 128. gr. laganna. Jafnframt þarf að kynna innherjum þessa skráningu og ýmis atriði er hana varða. Ekkert slíkt átti sér stað í tilfelli ákærða. Nefna má í þessu samhengi að hann upplýsti á fundi samráðshópsins að hann ætti hlutabréf í Landsbankanum. Bæði forstjóri Fjármálaeftirlitsins og bankastjórar Landsbankans vissu um stöðu hans og var ekkert rætt um nauðsyn slíkrar skráningar á fundum samráðshópsins sem starfaði allt frá byrjun árs 2006. Voru aðrir í hópnum heldur ekki skráðir sem tímabundnir innherjar vegna starfa sinna þar eins og skylt hefði verið að lögum hefðu þeir búið yfir innherjaupplýsingum. Atriði sem hér um ræðir kunna að geta komið til álita við mat dómstóls á refsinæmi verknaðar og eftir atvikum á refsingu.

Samkvæmt framansögðu skiptir staða ákærða sem ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu engu þegar metið er hvort þær upplýsingar sem tilgreindar eru í ákæru hafi verið innherjaupplýsingar. Til þess að ákærði teljist annar innherji, eins og honum er gefið að sök í ákæru, eða tímabundinn innherji, eins og meirihluti dómenda hefur með sínum hætti fjallað um, þarf ákæruvaldið áður en lengra er haldið fyrst að sanna að ákærði hafi búið yfir innherjaupplýsingum í skilningi laga nr. 108/2007, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 630/2005 um innherjaupplýsingar og markaðssvik.

Samkvæmt öllu framansögðu er ég ósammála þeirri aðleiðslu meirihlutans að niðurstöðu í málinu að álykta sérstaklega um að ákærði hafi uppfyllt skilyrði þess að teljast tímabundinn innherji sem ráðuneytisstjóri og vegna stöðu sinnar í umræddum samráðshópi og fjalla síðan um hvort þær upplýsingar sem um ræðir í hinum einstöku liðum ákærunnar hafi verið innherjaupplýsingar í skilningi laga nr. 108/2007, sbr. reglugerð nr. 630/2005.  Ég tel að við úrlausn máls þessa þurfi fyrst að taka afstöðu til þess hvort ákærði hafi búið yfir innherjaupplýsingum er hann seldi hlutabréf sín í Landsbankanum. Því næst beri að athuga önnur skilyrði laga fyrir því að telja að beitt hafi verið „innherjasvikum í opinberu starfi“, eins og segir í ákæru.

V

Í 120. gr. laga nr. 108/2007 segir: „Með innherjaupplýsingum er átt við nægjanlega tilgreindar upplýsingar sem ekki hafa verið gerðar opinberar og varða beint eða óbeint útgefendur fjármálagerninga, fjármálagerningana sjálfa eða önnur atriði og eru líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninganna ef opinberar væru, eins og nánar er kveðið á um í reglugerð sem sett er skv. 131. gr. Upplýsingar teljast opinberar þegar útgefandi fjármálagerninga hefur birt almenningi á Evrópska efnahagssvæðinu þær, sbr. 122. og 127. gr.“ Eins og greinir í atkvæði meirihluta dómenda er hugtakið innherjaupplýsingar nánar útfært í reglugerð nr. 630/2005 og hefur reglugerðin nægilega stoð í lögum nr. 108/2007.

Beita ber þeirri aðferðarfræði að athuga fyrst hvort upplýsingar teljist nægilega tilgreindar til að geta talist innherjaupplýsingar áður en kannað er hvort þær uppfylli önnur skilyrði 120. gr. laganna og 2. gr. reglugerðarinnar. Í 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar segir að litið skuli svo á að upplýsingar séu nægilega tilgreindar ef þær gefa til kynna aðstæður sem eru fyrir hendi eða sem ætla megi að verði fyrir hendi eða atburð sem átt hefur sér stað eða sem ætla megi að muni eiga sér stað. Þá segir að upplýsingarnar verði einnig að vera nægilega nákvæmar til að unnt sé að draga ályktun um möguleg áhrif þeirra aðstæðna eða atburðar á verð fjármálagerninga eða afleiddra fjármálagerninga er þeim tengjast. Um þetta verður að beita samtímamati, en ekki meta háttsemi út frá atvikum sem síðar komu til, en samkvæmt réttri þýðingu á 1. mgr. 1. gr. tilskipunar Framkvæmdastjórnarinnar 2003/124/EB skal litið til atburða sem ætla má af sanngirni að verði fyrir hendi. Sams konar aðferð verður einnig að beita við mat á því hvort önnur skilyrði teljist uppfyllt, það er hvort upplýsingar hafi verið líklegar til að hafa marktæk áhrif á verð fjármálagerninga eða afleiddra fjármálagerninga sem þeim tengjast, yrðu þær gerðar opinberar og hvort líkur væru á að upplýstur fjárfestir noti þær sem hluta af þeim grunni sem hann byggir fjárfestingarákvarðanir sínar á, sbr. 3. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar. Hefur verið talið að miða megi við svokallaðan gegnan og skynsaman fjárfesti í þessu sambandi.

Auk þess að öll skilyrði 120. gr. laga nr. 108/2007 þurfa að vera uppfyllt til þess að upplýsingar teljist innherjaupplýsingar, verður efnisinntak greinarinnar ekki slitið úr samhengi við ákvæði 122. gr. laganna þar sem kveðið er á um að allar innherjaupplýsingar skuli tilkynntar og birtar eins fljótt og auðið er eftir að þær liggja fyrir, nema í undantekningartilfellum, sbr. 3. mgr. greinarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 135. gr. laganna skal Fjármálaeftirlitið fylgjast með því að útgefendur birti slíkar upplýsingar og liggja viðurlög við brotum á skyldu til birtingar samkvæmt XV. kafla laganna. Við mat á upplýsingum þeim sem um ræðir í þessu refsimáli má líta til þess að þær voru hvorki birtar samkvæmt ákvæðum laganna áður en ákærði seldi bréf sín né eftir þann tíma og ekki heldur viðbótarupplýsingar sem síðar komu til á fundum samráðshópsins og vörðuðu málefnið.

VI

Í héraði var ákærði sýknaður af þriðja lið ákærunnar þar sem honum var gefið að sök að hafa nýtt sér upplýsingar sem fram komu á fundi samráðshópsins 31. júlí 2008 um slæma stöðu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og áhyggjur íslenskra og breskra stjórnvalda af stöðu hans og getu til að tryggja innstæður á Icesave reikningum. Í rökstuðningi héraðsdóms fyrir sýknu ákærða segir: „Í lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta er lýst hvernig tryggingasjóðurinn er fjármagnaður. Af lögunum og reikningum sjóðsins, sem eru opinberir og aðgengilegir á netinu, mátti ráða stöðu sjóðsins að hluta. Samkvæmt vitnisburði B var unnt að afla sér upplýsinga um heildarinnlán banka á þeim tíma sem hér um ræðir, þar með talið Landsbanka Íslands. Þá liggur fyrir samkvæmt gögnum málsins að opinber umræða fór fram á þessum tíma um veika stöðu sjóðsins. Að öllu þessu virtu er það mat dómsins að það sem fram kom á fundum samráðshópsins um stöðu sjóðsins og getu til að tryggja innstæður á Icesave reikningunum hafi ekki verið neitt sem skipti máli umfram það sem opinbert gat talist. Kemur þegar af þessari ástæðu ekki til álita að virða upplýsingarnar sem ákærði komst yfir við setu í samráðshópnum um þetta sem innherjaupplýsingar.“

Ákæruvaldið hefur unað þessari niðurstöðu héraðsdóms og tekið undir forsendur hans. Samkvæmt framansögðu verður að slá því föstu að með öllu hafi verið upplýst þegar í lok júlí 2008 að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta hafði enga getu til að tryggja innlán á Icesave reikningunum og að sú vitneskja hafi verið opinber. Var á fundum samráðshópsins fjallað um hvort nauðsynlegt væri að leitast við að stöðva frekari innlán á Icesave reikningunum eða tryggja rétt innstæðueigenda þar sem opinbert var að það gat tryggingarsjóðurinn íslenski ekki gert. Sprottið hafði upp opinber umræða um veika stöðu íslenska fjármálakerfisins og fjallað hafði verið opinberlega um Icesave reikningana í því samhengi. Hefur þetta áhrif á hið huglæga mat sem fram þarf að fara vegna ákæruliða 1, 2, 4 og 5 og þá einnig með sínum hætti hvort upplýsingarnar teljist hafa verið nægilega tilgreindar þannig að efnisskilyrðum 120. gr. laga nr. 108/2007 sé fullnægt. Á hinn bóginn var fundur samráðshópsins sem um ræðir í 6. lið ákærunnar annars eðlis og varðaði ekki tryggingarsjóðinn.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan greinir verður nú fjallað um einstaka liði ákærunnar.

VII

1

Samkvæmt 1. lið ákæru voru það innherjaupplýsingar að á fundum samráðshópsins 22. júlí til 16. september 2008 var fjallað um „kröfu“ breska fjármálaeftirlitsins um að innstæður á Icesave reikningum útibús Landsbanka Íslands í Bretlandi, ásamt hluta af eignum bankans, yrðu fluttar í breskt dótturfélag. Hefði bankinn átt í vandræðum með að uppfylla umrædda kröfu.

Við mat á því hvort umræddar upplýsingar hafi verið nægilega tilgreindar ber að hafa sérstaka hliðsjón af eftirfarandi, sem fjallað er um í fundargerðum samráðshópsins 22. júlí til 16. september 2008. Á fundi hópsins 22. júlí var bókað að breska fjármálaeftirlitið „hvatti“ Landsbankann til að flytja innstæður í breskt dótturfélag. Á fundi 31. júlí kom fram að Fjármálaeftirlitið hefði „gert athugasemdir“ við fyrirætlanir þess breska. Þá kom fram að þótt breska fjármálaeftirlitið teldi að ljúka mætti yfirfærslunni á þremur mánuðum þyrfti að fara með gát og „skoða vel allar afleiðingar yfirfærslunnar.“ Í fundargerð 12. ágúst kom fram hjá Fjármálaeftirlitinu að ennþá væru lausir endar varðandi málefni breska fjármálaeftirlitsins og var bókað eftir ákærða að hann hefði átt formlegan og jákvæðan símafund með fulltrúa breska fjármálaráðuneytisins sem væri kunnugt um samskipti Landsbankans og fjármálaeftirlita landanna beggja varðandi innlán útibús bankans í Bretlandi. Þá hafi komið fram sú hugmynd í samtali við fyrirsvarsmenn Englandsbanka að „Landsbankinn gæti selt Icesave afurð sína.“ Í fundargerð 20. ágúst kemur fram að þótt breska fjármálaeftirlitið setti stífar kröfur væri það ennþá tilbúið að athuga nýjar tillögur og útfærslur í samningum. Segir í fundargerðinni að breska fjármálaeftirlitið skildi sjónarmið íslenska fjármálaeftirlitsins um að Landsbankasamstæðan yrði ekki veikari eftir yfirfærslu innlána frá útibúi í dótturfélag og að mörgu bæri að hyggja „í samningum“ um yfirfærslu eigna samhliða yfirfærslu skulda. Þrátt fyrir að bókanir á fundinum 20. ágúst um harðar kröfur breska fjármálaeftirlitsins kom fram á fundi 9. september að Landsbankinn hafði sent breska fjármálaeftirlitinu bréf „með tillögum“ sínum um framkvæmd yfirfærslu í tveimur áföngum til dótturfélags, en fram væri komið frá breskum yfirvöldum að íslensk stjórnvöld tækju ekki málið nógu alvarlega og áríðandi væri að Landsbankinn kæmi með raunhæfar tillögur, en beðið væri eftir þeim.

Þá ber að athuga að fyrir dómi bar G að á fundinum 16. september 2008 hafi komið fram að Landsbankinn og breska fjármálaeftirlitið hefðu ekki enn náð niðurstöðu „vegna þess að þetta voru samningaviðræður og hérna, ég allavega, maður vissi í rauninni, það var ekki komin niðurstaða í málið þannig að þarna að hérna, þannig að það voru allavega samskipti þarna á milli sem við fengum ekki afrit af heldur, ekki á þessum tíma, ekki á þessum fundi.“ Þá bar C þáverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins að á fundinum 16. september „höfðu menn þá trú að menn myndu ná að lenda einhverjum samningi ef menn hefðu fengið kannski aðeins meiri tíma en síðan varð. [...] ég man bara að þetta var bara í ákveðnu ferli. Menn svona voru að reyna að ýta sér áfram í að reyna að ná lendingu. Ég held að menn hafi trúað því á þessum tíma að menn myndu á endanum ná lendingu en síðan bara gerast atburðir og hérna hin almenna fjármálakrísa fer bara á slíkt stig að, að hérna, allt umpólaðist og breyttist í heiminum.“ B, einn af þremur bankastjórum Seðlabankans, bar að málefnið hefði enn verið á viðræðustigi. L og K bankastjórar Landsbankans og J forstöðumaður lögfræðiráðgjafar bankans báru allir að dagana 17. og 18. september 2008 hafi málefnið verið á viðræðustigi og það hafi ekki verið fyrr en í október sem sorfið hafi til stáls. Nefndi L að allir fundir þeirra við breska aðila hafi borið með sér að þeir myndu aldrei knýja bankann til að gera eitthvað sem hann gæti ekki staðið við og að hann hafi ekki haft áhyggjur af því að ekki næðist samkomulag. Þá kom fram bæði hjá G og B að samráðshópurinn hafi aldrei metið sjálfstætt getu Landsbankans til að færa útibúið í Bretlandi yfir í breskt félag.

Fjármálaeftirlitið, sumir aðrir opinberir aðilar og fjölmargir sérfræðingar töldu ekki ástæðu til að ætla í september 2008 að eiginfjárstaða íslensku bankanna væri slæm eða að þeir væru í bráðri hættu hvað varðar lausafé og þá hvorki í innlendri né erlendri mynt. Bera gögn málsins með sér að einhver opinber umræða hefði verið um möguleika á að Landsbankinn færi í þrot sumarið 2008 og var opinbert að horfur í efnahagsmálum færu versnandi. Þá var fjallað um bankastarfsemi almennt á sömu lund. Hafði gengi hlutabréfa í bankanum farið lækkandi allt árið 2008. Fram hafði komið í opinberri umræðu að veikleikar væru í fjármálakerfinu og bent hafði verið á nauðsyn þess að bankarnir drægju úr þörf fyrir erlent lánsfé og löguðu sig að gerbreyttum aðstæðum. Þá var eins og áður segir ætluð krafa til komin vegna opinberrar umræðu um stöðu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Var því opinber umræða nokkuð misvísandi, en skynsamir fjárfestar áttu að geta nálgast og metið upplýsingar þar um. Þá er fram komið að hinn ráðgefandi samráðshópur hafði ekki aðgang að nauðsynlegum upplýsingum um stöðu bankanna.

Af öllu ofangreindu má ráða að þótt breska fjármálaeftirlitið hafi sett fram vissar kröfur um flutning Icesave reikninga í breskt dótturfélag hafi fyrst og fremst verið um að ræða samningaviðræður sem fyrir 16. september 2008 voru ekki komnar á það stig að fyrir lægi hvort og þá með hvaða hætti flytja ætti innstæður og eignir í breskt dótturfélag. Þá lá heldur ekki fyrir hvaða áhrif þessi afstaða breska fjármálaeftirlitsins myndi hafa á rekstur Landsbankans. Gögn málsins bera einnig með sér að vilji bankastjóra Landsbankans hafi staðið til þess að innlánsreikningar í Bretlandi yrðu færðir í sérstakt dótturfélag en þá innan eðlilegs aðlögunartíma. Töldu þeir sig raunar hafa átt nokkurt frumkvæði að því.

Af samtímagögnum sést að hvorki Landsbankinn né þáverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins töldu á þeim tíma sem skiptir máli að fram væru komnar innherjaupplýsingar og tilkynnti bankinn enga þá ráðgjafa sem unnu að samskiptum við breska fjármálaeftirlitið sem tímabundna innherja samkvæmt 128. gr. laga nr. 108/2007. Hinn 20. ágúst 2008 var gerð svofelld bókun í samskiptaskrá regluvarðar Landsbankans, en hann hefur það sérstaka lögbundna hlutverk að fylgja eftir reglum um innherjaviðskipti: „Lagt var mat á það hvort mál tengdum flutningi Icesave í UK yfir í dótturfélag Landsbankans teljist til verðmótandi upplýsinga. Ekki talið verðmótandi að svo stöddu enda óljóst hvort af því verði og hvort það komi til með að hafa áhrif á tekjur og vöxt Landsbankans.“ Undir þetta mat rita þrír menn, regluvörður bankans, staðgengill hans og forstöðumaður lögfræðiráðgjafar bankans. Eins og áður segir mat Fjármálaeftirlitið ekki heldur upplýsingar þessar sem innherjaupplýsingar samkvæmt bréfi sínu til ákærða 7. maí 2009 þrátt fyrir athugun á öllum fundum samráðshópsins í september 2008.

Upplýsingar þær sem lágu fyrir ákærða 17. og 18. september 2008 verða eins og áður segir ekki metnar miðað við síðara tímamark. Með þetta allt í huga sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að ákæruvaldinu hafi tekist að sýna fram á að upplýsingar þær sem um ræðir í þessum tölulið ákæru hafi verið nægilega tilgreindar til þess að teljast innherjaupplýsingar í skilningi 120. gr. laga nr. 108/2007, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 630/2005. 

2

Fallast verður á með héraðsdómi að hvorki gögn málsins né framburður vitna leiði til þess að dregin verði sú ályktun að ákvörðun hafi verið tekin af breska fjármálaráðuneytinu fyrir 17. og 18. september 2008 um að setja fimm milljarða sterlingspunda hámark á Icesave reikninga eins og segir í fyrri hluta 2. töluliðar ákærunnar þótt tilmæli hafi verið gefin í þá veru. Verður ekki séð af gögnum málsins að ákærði hefði á þeim tíma sem hér skiptir máli getað talið að um ákvörðun hafi verið að ræða. Því hefur það ekki þýðingu að eitt vitni, annar bankastjóra Landsbankans, hafi löngu síðar, eða við rannsókn sérstaks saksóknara og aðspurður fyrir dómi, látið í ljós þá skoðun sína að bankinn hefði varla getað staðið gegn slíkri kröfu breska fjármálaeftirlitsins um hámark innstæðna, þótt vefengja mætti lögmæti kröfu af því tagi. Þá er framburður annarra um þetta atriði ekki á sama veg og bankastjórans. Verður því að fallast á samtímamat þáverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins og síðara mat núverandi forstjóra eftirlitsins eftir rannsókn á efni funda í september 2008 að ekki hafi verið um innherjaupplýsingar að ræða, sbr. bréf eftirlitsins til ákærða 7. maí 2009. Síðari hluti þessa liðs ákærunnar fjallar um „tilmæli“ og „tilraunir“ breska fjármálaeftirlitsins, sem einungis var almennt rætt um á fundum samráðshópsins fyrir daganna 17. og 18. september 2008.

Tel ég samkvæmt öllu framanrituðu að ekki hafi verið sýnt fram á að upplýsingar þær sem um ræðir í þessum tölulið ákæru hafi verið nægilega tilgreindar til þess að geta talist innherjaupplýsingar í skilningi 120. gr. laga nr. 108/2007, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 630/2005.  

3

Upplýsingar samkvæmt 4. tölulið ákærunnar varða einungis einn fund samráðshópsins sem var 4. september 2008. Lúta þær að því að Seðlabanki Hollands „hygðist“ stöðva frekari innlán á Icesave reikninga í Hollandi. Ekki eru marktæk gögn um ákvarðanir eða aðgerðir af þessu tagi, nema mögulega helst lýsingar í fundargerð samráðshópsins af frásögn forstjóra Fjármálaeftirlitsins um samskipti við Seðlabanka Hollands og að hollensk yfirvöld hefðu „fallist á að stjórna þyrfti niðurbremsunni.“ Fyrir dómi kom fram hjá forstjóranum að einungis hafi verið um að ræða „fyrstu skrefin“ að fyrirhugaðri lausn. Ekki verður séð af gögnum málsins að viðræður hafi átt sér stað að einhverju marki eða ákvörðun verið tekin sem leiði til þess að meta beri þessa umfjöllun á fundinum sem innherjaupplýsingar. Verður það einnig ráðið af lestri fundargerða samráðshópsins 9. og 16. september 2008, að málið hafi enn verið á frumstigi hjá hollenska Seðlabankanum sem sá um fjármálaeftirlit þar í landi. Hefur því ekki verið sýnt fram á að upplýsingar þær sem um ræðir í þessum tölulið ákæru hafi verið nægilega tilgreindar til þess að geta talist innherjaupplýsingar í skilningi 120. gr. laga nr. 108/2007, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 630/2005. 

4

Í 5. tölulið ákærunnar er byggt á að upplýsingar sem fram komu á fundi er ákærði sat ásamt öðrum með fjármálaráðherra Bretlands 2. september 2008 hafi verið innherjaupplýsingar sökum þess að þar hafi komið fram að bresk stjórnvöld myndu halda fast við „kröfur“ breska fjármálaeftirlitsins í viðræðum við íslensk stjórnvöld. Þá er tiltekið að fjármálaráðherrann hafi viðhaft þau orð að bresk stjórnvöld myndu ábyrgjast innstæður á Icesave reikningum að fullu og spurt hverjum ætti að senda reikninginn. Meirihluti dómenda kemst að þeirri niðurstöðu að um innherjaupplýsingar í skilningi laga hafi verið að ræða þegar litið væri til annarra upplýsinga í öðrum liðum ákæru.

Ummæli eins og hér um ræðir á fundi verða að skoðast í ljósi þess tilefnis og tíma er þau koma fram og þess sem áður er rakið um opinbera vitneskju um stöðu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Umræddur fundur var milli fjármálaráðherra Bretlands og viðskiptaráðherra Íslands. Af Íslands hálfu munu einnig hafa verið viðstödd fundinn H, G, ákærði, O sendiherra og D formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins. Einungis tvö vitni, G og H, gáfu skýrslu um efni fundarins fyrir dómi og styður framburður þeirra nokkuð skýrslu ákærða um efni hans. Aðspurð fyrir dómi sagði G meðal annars þetta: „Nei ég man ekki eftir því að það hafi komið einhverjar nýjar upplýsingar þar sem að sko, ekki varðandi afstöðu fjármálaeftirlitsins til málsins, en það komu, maður fékk svona kannski tilfinningu fyrir málinu að ráðherrann væri inni í því og þessi ummæli hans um hvert hann ætti að senda reikninginn voru, man ég vel eftir.“ Spurð hvort þetta hafi verið almenn orð um ástandið þá sagði vitnið: „Ég, já ég man eftir sko að ráðherrann sagði að, minnir að hann hafi sagt ef að illa færi eða eitthvað slíkt, þá eru samningar á milli sjóðanna, tryggingarsjóðanna og hérna, þá myndu Bretar þurfa að greiða og þá hérna, þá væri spurning hvert hann þyrfti að senda reikninginn.“ Aðspurð um bókun í fundargerð um að ráðherrann hafi sýnt því skilning að það mætti ekki ganga of hart fram, þá svaraði vitnið að skilningur fundarmanna væri sá að verið væri „að veita eitthvað svigrúm hvað varðar tíma og hérna á flutningum og skuldbindingum á móti innlánum.“ H kvaðst ekki muna eftir því að eitthvað nýtt eða óvænt hefði komið fram á fundinum að „það var bara verið í rauninni aðeins að ræða þessi mál og hérna það komu bara fram áhyggjur breskra stjórnvalda þá, en það var svo sem ekkert sem við vissum ekki þannig, en það var svona í rauninni tilgangur fundarins að reyna að fá þá til að slaka á kröfunum í rauninni á þeim tíma sem Landsbanka væri gefinn til að færa eignir á móti innstæðum.“ Ekki kvaðst hún muna eftir spurningu fjármálaráðherrans sem tilgreind er í ákæru en  hún kvað fjármálaráðherrann hafa sagt að hann liti málið alvarlegum augum.

Ekki verður önnur ályktun dregin af þessu öllu en að þær upplýsingar sem fram komu á fundinum hafi komið áður fram á fundum samráðshópsins. Í ljósi niðurstöðu minnar í köflum VII 1 og VII 2 og samkvæmt öllu framansögðu hefur ekki verið sýnt fram á að upplýsingar þær sem um ræðir í þessum tölulið ákæru hafi verið nægilega tilgreindar til þess að geta talist innherjaupplýsingar í skilningi 120. gr. laga nr. 108/2007, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 630/2005. 

5

Það atriði sem getur í 6. lið ákærunnar hafði komið til tals á fleiri fundum en 16. september 2008 og varðar það atriði að seint skyldi bjarga hluthöfum banka sem færi í greiðsluþrot. Þá segir í samkomulagi um stofnun hins ráðgefandi samráðshóps frá 21. febrúar 2006 að „grundvallaratriði sé að eigendur og stjórnendur fjármálafyrirtækja sem og markaðsaðilar leysi vanda sinn sjálfir.“ Er hér um að ræða almenna vitneskju sem er því í eðli sínu opinberar upplýsingar og því ekki innherjaupplýsingar í skilningi 120. gr. laga nr. 108/2007, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 630/2005. 

VIII

Síðast kemur til athugunar hvort upplýsingar þær sem að framan greinir, þótt hverjar um sig teljist ekki innherjaupplýsingar í skilningi laga nr. 108/2007, geti samanlagt verið slíkar að þær skuli meta sem innherjaupplýsingar. Þar sem engar af þeim upplýsingum sem um ræðir í málinu voru nægilega tilgreindar geta þær ekki talist innherjaupplýsingar, hvorki einar sér né allar saman.

Samkvæmt öllu framanrituðu sé ég ekki ástæðu til að hnekkja hinu upphaflega mati Fjármálaeftirlitsins um að ákærði hafi ekki búið yfir innherjaupplýsingum er hann seldi hlutabréf sín 17. og 18. september 2008. Ber því að sýkna ákærða af kröfum ákæruvaldsins og leggja málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti á ríkissjóð.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2011.

Málið er höfðað með ákæru setts ríkissaksóknara, dagsettri 13. október 2010, á hendur:

,,Baldri Guðlaugssyni, [...]

fyrir innherjasvik í opinberu starfi sem ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, með því að hafa 17. og 18. september 2008, selt öll hlutabréf sín í Landsbanka Íslands hf., alls 9.059.809 hluti fyrir samtals 192.658.716 krónur, þrátt fyrir að hafa þá búið yfir innherjaupplýsingum um bankann sem hann varð áskynja um í starfi sínu sem ráðuneytisstjóri, einkum í tengslum við setu sína í samráðshópi fulltrúa forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Um var að ræða eftirgreindar innherjaupplýsingar, sem komu til umræðu á sex fundum samráðshópsins, sem haldnir voru á tímabilinu 22. júlí 2008 til 16. september 2008, fundi með bankastjórum Landsbanka Íslands hf. þann 13. ágúst 2008 og fundi með fjármálaráðherra Bretlands þann 2. september 2008, og voru líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð hlutabréfa í bankanum, yrðu þær opinberar:

1)       Upplýsingar um þá kröfu breska fjármálaeftirlitsins að innstæður á Icesave-reikningum útibús Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi yrðu fluttar í breskt dótturfélag ásamt hluta af eignum bankans og upplýsingar um erfiðleika Landsbanka Íslands hf. við að verða við kröfu breska fjármálaeftirlitsins. Þessar upplýsingar voru til umfjöllunar á fundum samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað, 22. júlí til 16. september 2008.

2)       Upplýsingar um þá ákvörðun breska fjármálaeftirlitsins að setja fimm milljarða sterlingspunda hámark á samtölu innstæðna á Icesave-reikningum Landsbanka Íslands hf. sem og tilmæli breska fjármálaeftirlitsins til bankans um að haga vaxtakjörum reikninganna þannig að drægi úr vexti innstæðna á þeim. Jafnframt upplýsingar um tilraunir breska fjármálaeftirlitsins til að takmarka markaðssetningu Landsbanka Íslands hf. á Icesave reikningum með auglýsingum. Þessi atriði voru til umfjöllunar á fundum samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað á tímabilinu 22. júlí 2008 til 16. september 2008 sem og fundi með bankastjórum Landsbanka Íslands hf. 13. ágúst 2008.

3)       Upplýsingar sem fram komu á fundi samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað 31. júlí 2008, um slæma stöðu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta samkvæmt lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta og áhyggjur íslenskra og breskra stjórnvalda af stöðu hans og getu til að tryggja innstæður á Icesave reikningum.

4)       Upplýsingar um að seðlabanki Hollands hygðist stöðva frekari innlán á Icesave reikninga í Hollandi sem kynntar voru á fundi samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað 4. september 2008.

5)       Upplýsingar sem fram komu á fundi sem ákærði sat með fjármálaráðherra Bretlands 2. september 2008 um að bresk stjórnvöld héldu fast við kröfur breska fjármálaeftirlitins í viðræðum við íslensk stjórnvöld. Fjármálaráðherrann gat þess að bresk stjórnvöld myndu ábyrgjast innistæður á Icesave reikningum að fullu og innti eftir því hverjum ætti að senda reikninginn. 

6)       Upplýsingar sem fram komu á fundi samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað 16. september 2008 um efni fundar ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis með forsætisráðherra og utanríkisráðherra um viðbragðsáætlanir ef stór banki færi í greiðsluþrot og umfjöllun um að stjórnvöld myndu styðja stærstu bankana þrjá en að líklegt væri að þeir kæmust allir í vanda ef einn færi í þrot. Meðal annars var rætt um í hve ríkum mæli skyldi tryggja innstæður í bönkunum og að ekki væri ætlunin að bjarga hluthöfum.

Innherjasvik ákærða er fólust í að hagnýta sér ofangreindar upplýsingar,  fyrir eigin reikning, teljast varða við 1. tl. 1. mgr. 123. gr., sbr. 146. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar, sbr. 216. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. 218. gr. sömu laga. Þá er þess krafist, með vísan til 2. mgr. 147. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, að ákærða verði gert að sæta upptöku á 192.658.716 krónum sem eru innstæður á bankareikningum ákærða í Arion banka hf.,  100.144.000 krónum á reikningi nr. [...] og 92.514.716 krónum á reikningi nr. [...] sem kyrrsettar voru þann 13. nóvember 2009.

Röksemdir sem málsóknin er byggð á, sbr. d. lið 152. gr. laga nr. 88/2008

Ótvírætt er að ákærði hafði réttarstöðu innherja, þ.e. var annar innherji í skilningi 3. tl. 121. gr. laga nr. 108/2007, þar sem hann hafði vegna starfa sinna sem ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins innherjaupplýsingar er féllu að hugtaksskilyrðum 120. gr. laga nr. 108/2007. Upplýsingar þessar fékk ákærði einkum á sex fundum fulltrúa samráðshóps forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað á tímabilinu 22. júlí 2008 til 16. september 2008, á fundi með bankastjórum Landsbanka Íslands hf. þann 13. ágúst 2008 og á fundi viðskiptaráðherra Íslands með fjármálaráðherra Bretlands, þann 2. september 2008.

Af hálfu ákæruvaldsins er á því byggt að upplýsingarnar sem ákærði bjó yfir samkvæmt töluliðum 1 – 6 í ákæru falli að hugtaksskilyrðum innherjaupplýsinga og ákærði hafi verið í stöðu innherja er hann hagnýtti sér þær með ólögmætum hætti og gerðist þar með sekur um innherjasvik. Hvert þessara tilvika sem talin eru í nefndum töluliðum nægir eitt og sér í þeim efnum. Réttarstaða innherja í skilningi 3. tl. 121. gr. laga nr. 108/2007 er ekki háð formlegri skráningu eða tilkynningu heldur tekur til efnislegrar vitneskju um innherjaupplýsingar.

Öllum hugtaksskilyrðum innherjaupplýsinga í skilningi 120. gr. laga nr. 108/2007, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 630/2007 er fullnægt. Innherjaupplýsingar þessar eru nægjanlega tilgreindar og afmarkaðar en auk þess var mikils trúnaðar krafist um þær og þær þannig ekki gerðar opinberar. Upplýsingarnar vörðuðu Landsbanka Íslands hf. beint en brot ákærða fólst í sölu á hlutabréfum hans í bankanum.  Líklegt er að þau hlutabréf hefðu lækkað marktækt í verði ef komið hefði til fjöldaúttekta af Icesave reikningum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Slíkar fjöldaúttektir voru raunhæft vandamál sem óttast var að gæti átt sér stað ef innstæðueigendum hefðu orðið ljósar áhyggjur þarlendra eftirlitsaðila og breskra stjórnvalda af getu Landsbankans til að efna skuldbindingar sínar gagnvart innstæðueigendum. Sem og vangetu tryggingasjóðs innstæðueigenda samkvæmt lögum nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, til að sinna hlutverki sínu ef á myndi reyna. Öllum þessum upplýsingum bjó ákærði yfir.

Að sama skapi er líklegt að það hefði haft marktæk áhrif á verð hlutabréfa Landsbankans ef vitnast hefði að íslensk stjórnvöld teldu þrjá stærstu bankana í vanda ef einn þeirra kæmist í greiðsluþrot og uppvíst yrði að rætt væri um aðgerðir sem fælu í sér viðbrögð við slíku greiðsluþroti banka, meðal annars í hve ríkum mæli skyldi tryggja innstæður í bönkunum og að ekki væri ætlunin að bjarga hluthöfum. Þetta var til umræðu á fundi samráðshóps forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika 16. september 2008, sem ákærði sat. Á næstu tveimur dögum seldi ákærði hlutabréf sín í Landsbanka Íslands hf.

Þessar innherjaupplýsingar voru nægjanlega tilgreindar í skilningi 120. gr. laga nr. 108/2007 og í þeim birtist rökstutt vantraust nefndra eftirlitsaðila og stjórnvalda á getu Landsbankans til að standa við skuldbindingar sínar. Fjöldaúttektir og eða greiðsluþrot hefðu að öllum líkindum leitt til þess að hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. hefðu lækkað verulega eða orðið verðlaus. Vænta má að upplýstur fjárfestir hefði lagt þessar upplýsingar til grundvallar og byggt ákvarðanir um viðskipti með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. á þeim ef þær hefðu verið honum aðgengilegar.

Ákærði sótti tilgreinda fundi í krafti embættis síns sem ráðuneytisstjóri og fellur sem slíkur ótvírætt undir hugtaksskilgreiningu 141. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem opinber starfsmaður. Innherjasvik af hálfu ákærða fela í sér misnotkun á stöðu hans sem opinbers starfsmanns er hann hagnýtti innherjaupplýsingar sem hann bjó yfir vegna starfa sinna í eigin þágu með því að ráðstafa fjármálagerningum, hlutabréfum, með beinum hætti, fyrir eigin reikning en andvirðið lagði ákærði inn á bankareikning.“

Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu og að upptökukröfu verði vísað frá dómi en til vara að upptökukröfunni verði hafnað. Þess er krafist að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greidd úr ríkissjóði að mati dómsins.

Ákærði seldi hlutabréf sín í Landsbanka Íslands hf.  17. og 18. september 2008. Síðar um haustið hóf Fjármálaeftirlitið (FME) athugun á sölu hlutabréfanna og því hvort ákærði hefði við sölu þeirra búið yfir innherjaupplýsingum. Bréfleg samskipti FME og ákærða liggja fyrir um þetta. FME lauk skoðun sinni og sendi ákærða bréf þar um, dags. 7. maí 2009. Í niðurlagi bréfsins áskildi FME sér rétt til að taka málið upp að nýju ef ný gögn eða upplýsingar kæmu fram. Það var gert með bréfi FME til ákærða, dags. 9. júlí 2009. Leiddi það til rannsóknar málsins og útgáfu ákæru. Fjallað var um þennan þátt málsins fyrir aðalmeðferðina og á rannsóknarstigi og sætti sumt kæru til Hæstaréttar. Ekki þykir ástæða til að reifa þetta frekar hér.   

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi.

Ákæra málsins er á því reist að ákærði hafi búið yfir innherjaupplýsingum er hann seldi hlutabréf sín í Landsbanka Íslands hf. og að hann hafi orðið upplýsinganna áskynja í starfi sínu sem ráðuneytisstjóri, einkum í tengslum við setu sína í samráðshópnum svo sem lýst  er í ákærunni. Fundargerðir samráðshópsins eru ekki undirritaðar og staðfestar og í greinargerð verjandans er á því byggt að hin óstaðfestu drög fundargerða séu ekki tæk sönnunargögn í skilningi 1. mgr. 111. gr. sakamálalaga nr. 88/2008. Meðlimir í samráðshópnum komu allir fyrir dóm. Það sem fram fór á fundum samráðshópsins og upplýsingar sem ákærði fékk með setu sinni í hópnum er hryggjarstykkið í ákærunni. Verður ekki hjá því komist að reifa ítarlega vitnisburð hvers og eins nefndarmanna svo unnt sé að taka afstöðu til einstakra ákæruliða. Þetta hefur hins vegar í för með sér nokkra endurtekningu þar sem vitni bera að mestu á sama veg um það sem fram fór a fundunum. En vegna mikilvægis vitnisburðarins er vitnisburður hvers um sig rakinn en vitnin báru þess utan hvert með sínum hætti um annað eins og rakið verður. 

Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa starfað sem lögmaður í tuttugu ár og á þeim tíma hafi hann verið einn af stofnendum og fyrsti stjórnarformaður Hlutabréfamarkaðarins sem stofnaður var árið 1985 en hafið störf í fjármálaráðuneytinu á árinu 2000 og verið ráðuneytisstjóri þar á þeim tíma sem í ákæru greinir. Hann lýsti aðdraganda stofnunar samráðshóps fulltrúa forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika (hér á eftir nefndur samráðshópurinn). Ákærði lýsti tilgangi samráðshópsins og vinnu hans. Aðspurður hvort ekki hafi ríkt trúnaður um það sem fram fór á fundum samráðshópsins kvað ákærði það leiða af eðli máls að seta í hópi sem þeim er hér um ræðir hefði það í för með sér að ekki sé haft hátt um þau mál sem væru til umræðu, eins og ákærði orðaði það. Hins vegar hafi ekki verið trúnaður um ástandið á almennum fjármálamörkuðum á þessum tíma og lýsti ákærði því nánar. Ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu hefði leitt starf samráðshópsins. A hefði skráð fundargerðir sem nefndar voru drög. Fundargerðum hefði verið dreift og meðlimum hópsins gefinn kostur á því að gera athugasemdir og taldi ákærði mögulegt að hann hefði gert athugasemd í eitt eða tvö skipti snemma á starfstíma samráðshópsins. Spurður um áreiðanleika fundargerðanna kvaðst ákærði telja að í grófum dráttum væri greint frá því sem rætt var á fundum samráðshópsins þótt ekki væri þar ritað nákvæmlega eða orðrétt eftir fundarmönnum.

Ákærði kvað rétta lýsingu ákærunnar um sölu hans á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. eins og þar er lýst, en mótmælti lýsingu ákærunnar um að hann hefði búið yfir innherjaupplýsingum á þeim tíma.

Í ákærunni er ákærða gefið að sök að hafa búið yfir innherjaupplýsingum um Landsbanka Íslands sem hann varð áskynja í starfi sínu sem ráðuneytisstjóri, einkum í tengslum við setu í samráðshópnum og á fundi með bankastjórum hinn 13. ágúst 2008 og á fundi með fjármálaráðherra Bretlands 2. september 2008, eins og lýst er í ákærunni. Verður nú vikið að hverju og einu þessara atriði og framburður ákærða og vitnisburður rakinn um hvern ákærulið fyrir sig á þann hátt sem lýst var að framan.

1.       Ákærði mótmælti því að hafa búið yfir upplýsingum um Landsbanka Íslands

sem hér um ræðir og þá á þeim grunni eins og málið er lagt upp í ákærunni. Hann kvað Landsbanka Íslands hafa haft frumkvæði að því veturinn 2008 að ræða við breska fjármálaeftirlitið (FSA) um að innstæður á Icesave í Bretlandi yrðu fluttar yfir í þarlent dótturfélag. Aðspurður hvort hann hafi vitað um tregðu Landsbanka Íslands við að verða við kröfum FSA kvað ákærði viðræður hafa verið í gangi og verið að finna lausn á málinu og mótmælti ákærði þannig orðalagi ákærunnar að um erfiðleika hafi verið að ræða. Þá mótmælti ákærði því sem ákæran byggi, þ.e. að þessar upplýsingar væru innherjaupplýsingar.

Á fundi samráðshópsins 22. júlí 2008 er bókað eftir B að FSA hafi hvatt Landsbanka Íslands til að flytja innlánasafn sitt í þarlent dótturfélag og að Landsbanki Íslands virtist þessu mótdrægur. Þá er bókað um slæma stöðu Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (hér á eftir nefndur tryggingasjóður) að ekki væri hægt að standa við lágmarkstryggingar um innstæðuvernd. Þá er haft eftir C að sjóðurinn gæti staðið við skuldbindingar ef Sparisjóður Mýrasýslu færi, en um leið tæmdist sjóðurinn.

Aðspurður hvort þessar upplýsingar hefðu komið fram á fundinum kvaðst ákærði ekki hafa ástæðu til að efast um það. Rædd hafi verið staða tryggingasjóðsins og viðræður um að flytja starfsemi Landsbanka Íslands í Bretlandi í dótturfélag.

Á fundi samráðshópsins 31. júlí 2008 greindi B frá fimm milljarða sterlingspunda hámarki á Icesave reikninga Landsbanka Íslands í Bretlandi fram að yfirfærslu í dótturfélag. Þá kom fram hjá C að FSA hefði sett fram nýjar kröfur af mikilli hörku og í framhaldinu var yfirfærslan rædd. Ákærði spurði á fundinum hvenær tilkynnt hefði verið um fimm milljarða hámarkið og í framhaldi hefði B minnt á mikilvægi þess að gæta vel að trúnaðarupplýsingum sem þessum. Þá er haft eftir ákærða að hann telji það geta orðið banabita fyrir bankana ef umræða um veikleika tryggingasjóðsins færi af stað. Þá kemur fram að B hafi greint frá því að Seðlabankinn setji þrýsting á Landsbanka Íslands um að klára yfirfærsluna. Þá er bókað á fundinum að C hafi farið yfir áhyggjur FSA um veikleika tryggingasjóðsins íslenska og skýrði hann það nánar.

Aðspurður hvort ákærði kannaðist við að þessar upplýsingar hefðu komið fram, kvaðst hann ekki hafa talið að búið hafi verið að taka ákvörðun um fimm milljarða punda hámarkið og tók hann þá mið af því sem eftir fór og viðræður um yfirfærsluna. Aðspurður hvort hann hefði látið þau orð falla um tryggingasjóðinn sem rakin voru kvaðst ákærði ekki geta staðfest hvort orðalagið í fundargerðinni væri rétt, en ákærði kveðst hafa verið að vísa til þess sem gerðist um vorið og umræðurnar í Bretlandi og munarins sem væri á innstæðutryggingakerfi í útibúi og móðurfélagi. Hann skýrði þetta nánar. Ákærði kvað opinbera vitneskju hafa verið fyrir hendi um stöðu tryggingasjóðsins. Ársreikningur hans hafi verið aðgengilegur á heimasíðu sjóðsins. Ákærði kvaðst hafa byggt umræðuna á opinberum upplýsingum og atburðum sem hefðu gerst með umræðu um þetta í Bretlandi og vísaði ákærði um þetta til gagna sem liggja fyrir í málinu, m.a. fjölmiðlaumfjöllunar í Bretlandi.

Á fundi samráðshópsins 12. ágúst 2008 var samkvæmt drögum að fundargerð fjallað um kröfur FSA og ákærði spurði hvort komið væri samkomulag í grundvallaratriðum þótt enn væru lausir endar. C greindi frá vendingum í málinu og að FSA hefði komið fram með nýjar kröfur. Þá kom fram hjá C að komið væri að þolmörkum Landsbanka Íslands um það hversu langt bankinn gæti teygt sig vegna krafna frá FSA. Fleira var rætt um þessi mál og bókað á fundinum. Þá er haft eftir ákærða að Landsbanki Íslands gæti lent í þeirri aðstöðu að ganga að óásættanlegum kröfum við yfirfærslu innlána í dótturfélag, eða að halda þeim áfram í útibúi sem væri erfitt fyrir íslensk stjórnvöld. Þá var haft eftir B að FSA hefði fundist Landsbankinn ganga of hart fram í vaxtaboðum og auglýsingum. Þá voru umræður á fundinum um tryggingasjóðinn og innstæðuvernd. Þá er haft eftir ákærða að hann hefði spurt hvaða úrræði íslensk stjórnvöld hefðu til að ýta lánum í dótturfélag erlendis og að þetta væri stórt áhyggjuefni, ekki aðeins vegna Landsbankans. Í umræðu um tryggingasjóðinn er haft eftir C að sjóðurinn gæti tæmst ef meðalstór sparisjóður gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Á fundinum er haft eftir B að sú tímasprengja sem hættulegust væri núna væru innlánin erlendis.

Ákærði skýrði fyrir dóminum umræður á fundinum sem lutu að þessu og hættu á áhlaupi á Landsbanka Ísland í Bretlandi, en að það þýddi ekki að efnisleg innstæða væri fyrir áhlaupinu og skýrði hann það nánar út frá stöðu Landsbanka Íslands.

Spurður hvort ákærði kannaðist við að upplýsingarnar sem raktar voru hefðu komið fram á fundinum 12. ágúst staðfesti ákærði það þótt hann teldi hluta þess sem rakið var ekki upplýsingar heldur fremur skoðanaskipti. Ákærði tók fram að ummæli sín á fundinum um erfiðleika Landsbanka Íslands hafi verið mögulegir erfiðleikar, en sú staða hafi ekki verið komin upp.

Á fundi samráðshópsins, 20. ágúst 2008, er samkvæmt drögum að fundargerð í upphafi vikið að fundi C, forstjóra FME, og D, stjórnarformanns FME, með stjórnendum FSA í London 18. sama mánaðar. Þar er gerð grein fyrir áhyggjum FSA að innlánsáhlaupi á Landsbanka Íslands og áhyggjum FSA af auglýsingaherferð Landsbankans og þá segir að bankinn hafi ekki verið samvinnuþýður. Þá kom fram að FSA telji aðgerðir sínar standast Evrópurétt, en víða í gögnum málsins er fjallað um heimildir FSA til inngripa eins og þeirra sem hér er einkum rætt um. Þá er greint frá fundi forstjóra Landsbankans með FSA 19. ágúst 2008 og þar meðal annars rætt um að skilaboð FSA um yfirfærsluna væru skýr. C greindi frá því að kröfur FSA stigmagnist og gerð væri krafa til þess að Landsbanki Íslands samþykkti yfirfærsluna án skilyrða. Á fundinum spurði ákærði um tímafresti FSA og hver vandkvæði Landsbankans væru við stöðuna. Þá er haft eftir E varðandi kröfur FSA að hann sjái ekki að Landsbankinn sé í nokkurri stöðu til að andmæla og að auðvelt sé að setja sig í spor breskra yfirvalda um þetta.

Fyrir dóminum kvaðst ákærði gefa sér að umræðurnar sem raktar eru hafi átt sér stað þótt hann geri fyrirvara um orðalag og hvernig fært er til bókar í einstökum tilvikum. Ákærði kvað fleira í þessari fundargerð sýna að ekki hafi verið búið að leiða málið um yfirfærsluna til lykta og hafnaði ákærði því sem lýst er í 1. lið ákæru um erfiðleika Landsbanka Íslands við að verða við kröfu FSA. Samningum um yfirfærsluna hafi ekki verið lokið.

Á fundi samráðshópsins, 4. september 2008, er í upphafi rætt um stöðuna og horfur á fjármálamarkaði og að Hollendingar ætli að stöðva innlánasöfnun Landsbanka Íslands í Hollandi og þá er haft eftir E að það séu efnislega sömu kröfur og kröfur FSA í Bretlandi. Í áframhaldi eru umræður um þetta og haft eftir ákærða að ljóst sé að FSA gefi hvergi eftir. Þá var á fundinum farið yfir fund viðskiptaráðherra með F, fjármálaráðherra Bretlands. Haft var eftir F að bresk yfirvöld myndu ábyrgjast innstæður að fullu og hann hafi spurt hvert ætti að senda reikninginn. Þá er haft eftir E að Landsbankamenn þráist enn við að skilja alvöruþunga breskra og hollenskra stjórnvalda.

Fyrir dóminum kannaðist ákærði við umræðurnar sem hér voru raktar. Þetta væri í stórum dráttum það sem rætt var á fundinum. Á fundinum kom fram að rætt hefði verið um það að Landsbankamenn í London áttuðu sig ekki fyllilega á stöðunni. Aðspurður hvað átt væri við kvað ákærði þessi ummæli vera til komin eftir heimsókn í útibú Landsbankans í London og viðræður við útibússtjóra bankans þar en ekki við bankastjóra bankans.

Á fundi samráðshópsins, 9. september 2008 voru enn rædd erindi FSA og málefni tryggingasjóðsins. C lýsti því að Landsbankinn væri langstærsti höfuðverkurinn og spurningin væri hvort lánardrottnar gerðu kröfu vegna fyrirhugaðrar yfirfærslu. Þá vísaði C til fundar Seðlabankastjóra í Basel og í framhaldinu að litið væri á fjármálakerfið á Íslandi sem veikan kanarífugl í námunni, eins og það er bókað í fundargerðinni.

Fyrir dóminum staðfesti ákærði að umræðurnar um íslenska fjármálakerfið, og áhyggjur sem uppi voru um það, hafi verið mjög til umræðu í fjölmiðlum á þessum tíma. Þá nefndi ákærði að ummælin á fundinum og umræður sýni að hugsanlega væri í sjónmáli lausn á þeim vanda sem um var rætt varðandi yfirfærsluna.

Á fundi samráðshópsins, 16. september 2008, var í upphafi rætt um gjaldþrot Lehman bankans og ákærði greindi frá lækkunarhrinu á mörkuðum í Evrópu í kjölfarið. Þá greindi C frá því á fundinum að stjórnendur FSA sætu fund um málefni Landsbankans. Þá voru ræddar viðbragðsáætlanir við falli banka. Þar hafi E greint frá því að hann hefði fundað með forsætis- og utanríkisráðherra og ráðherrarnir hafi rætt um hverjum ætti að bjarga kæmi til falls bankanna og komið hefði fram að ekki væri ætlunin að bjarga hluthöfum.

Fyrir dómi kannaðist ákærði við þessar umræður á fundinum en tók fram að horfa þyrfti á málið allt í samhengi. Ákærði tók fram að fundur E með ráðherrunum hafi ekki verið ,,krísufundur“ heldur hafi hann verið hluti af ferli sem hafði verið í gangi mánuðum saman. Viðfangsefnið hefði verið að setja saman möguleg viðbrögð við falli banka. Ákærði var spurður hvort eitthvað hefði komið fram á þessum fundi um að yfirfærslumálið og kröfur FSA væru að leysast. Hann kvað forstjóra FME hafa greint frá fundinum ytra um málefni Landsbankans eins og rakið var. Þá hefði C sagt frá því að FSA hefði verið ánægt með fund um málefni Landsbankans nokkru fyrr og hafi talið að samkomulagsflötur væri að finnast. Spurður hvort þetta væru nýjar upplýsingar kvað ákærði málinu ekki hafa verið lokið á þessum tíma, en það hafi verið að komast á ,,lygnan sjó“. Ákærði kvað hafa komið fram hjá C að eftir fund hans með FSA hafi hann trúað því að verið væri að lenda málinu um yfirfærsluna og að FSA myndi samþykkja tillögur sem lagðar voru fram til lausnar málsins. Niðurstaða hafi hins vegar ekki verið komin.

Ákærði kvaðst hafa setið fund með bankastjórum Landsbanka Íslands hinn 13. ágúst 2008. Tilefni fundarins hafi verið það að bankastjórar Landsbankans hafi viljað upplýsa um viðræðurnar við FSA varðandi yfirfærsluna. Ákærði lýsti gögnum sem afhent voru á fundinum, en fram kom hjá honum að hluti þeirra gagna hefðu áður komið fram á fundum samráðshópsins. Ákærði kvað ekkert sem einhverja þýðingu hafði hafa komið fram á þessum fundi sem ekki hefði komið fram á fundum samráðshópsins. Ákærði kvað bankanum hafa komið á óvart er FSA tók málið upp á ný eftir samkomulag sem bankinn taldi hafa komist á í maí 2008. Þá hefði komið fram að vaxtakjör reikninganna sem í þessum ákærulið greinir hafi verið í um það bil tíunda sæti á lista sem sýndur var um vaxtakjör innlánsreikninga á þessum tíma. Ákærði kvað ekki hafa verið rætt á fundinum að upplýsingar sem þar komu fram væru innherjaupplýsingar sem þyrfti að tilkynna.

Ákærði sat ásamt fleirum fund viðskiptaráðherra og F, fjármálaráðherra Bretlands, 2. september 2008. Umræðuefnið var yfirfærslan sem fjallað hefur verið um hér að framan. Breski fjármálaráðherrann hefði tekið undir skilning þess að þannig þyrfti að standa að málum varðandi yfirfærsluna að Landsbankinn kæmi ekki verr frá henni. Ákærði kvað breska fjármálaráðherrann hafa viðhaft ummælin sem lýst er í ákærulið 5. Ummælin hefðu verið viðhöfð í umræðum um tryggingasjóðinn. Breski ráðherrann hefði sagt að ef bresk stjórnvöld myndu greiða út lágmarksinnstæðutryggingu, hvert ætti þá að senda reikninginn.

Meðal gagna málsins er bréf ákærða til FME, dagsett 18. nóvember 2008. Í sama bréfi er svofelldur kafli. ,,Þegar hér var komið sögu taldi ég ekkert vera því lengur til fyrirstöðu að hrinda í framkvæmd þeim áformum að selja hlutabréf mín í Landsbankanum þar sem ég hefði nú örugglega enga verðmyndandi vitneskju sem markaðurinn hefði ekki.“ Spurður hvort ákærði hefði talið að hann hafi einhvern tímann á þeim tíma sem hér um ræðir talið sig búa yfir verðmyndandi upplýsingum, kvað ákærði svo ekki vera. Hann kvaðst hafa viljað fara ,,rosalega varlega“ og ,,alveg extra varlega í ljósi viðkvæmrar stöðu“. Spurður um það hvað hafi gert það að verkum að þessi tími var valinn til sölu hlutabréfanna og hvort eitthvað hafi breyst kvað ákærði margt koma þar við sögu. Eitt af því hefði verið að hann taldi að FSA og Landsbankinn væru að ná saman. Það hefði verið eitt af mörgu sem hafði áhrif á ákvörðun hans um að selja hlutabréfin á þessum tíma. Þetta undirstrikaði í hans huga að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þeim þætti en hann tók fram að hann hafi ekki talið sig hafa búið yfir innherjaupplýsingum. Hann kvað sér hafa liðið betur við að vita að umhverfið var eins slétt og það gat verið. Sér hafi liðið ,,extra vel“ að vita að málin virtust vera í eins miklu jafnvægi og þau gátu verið og skýrði ákærði þetta nánar. Þá kvað ákærði það styrkja álit sitt um að hann hefði ekki búið yfir innherjaupplýsingum vegna umræðunnar um yfirfærsluna að Landsbanki Íslands hefði ekki tilkynnt sig sem innherja.

Fram kom í ofangreindu bréfi ákærða og við skýrslutöku af ákærða hjá lögreglu að hann hefði greint E, formanni samráðshópsins, frá sölu hlutabréfanna fyrir fram, en hann hafi ekki verið að leita samþykkis E. Hann hafi farið yfir þetta með E og hvernig ákærði upplifði fundinn í samráðshópnum 16. september og eftir það komist að þeirri niðurstöðu að hann gæti selt hlutabréfin. Ákærði kvaðst standa við þetta. Haldi E öðru fram kvaðst ákærði ekki efst um að hann hefði þá upplifað orð ákærða svo að hann hefði þegar selt hlutabréfin. Þetta gæti byggst á misskilningi og hvernig hann hefði látið orð falla.

Ákærði kvað aldrei hafa komið til umræðu í samráðshópnum að nefndarmenn yrðu tilkynntir sem tímabundnir innherjar í fjármálafyrirtækjum sem hópurinn var með upplýsingar um. Ákærði kvaðst ekki hafa lagt sérfræðilegt mat á það hvort FSA hafði að lögum heimild til þess að skipa einhliða yfirfærslu innlánsreikninga Landsbankans í breskt dótturfélag. Hins vegar kvaðst hann vita að Landsbankinn hefði leitað lögfræðiálits um þetta álitaefni og það álit hneig í þá átt að FSA hefði ekki heimildir til að fyrirskipa þetta einhliða. Þessir hlutir hafi verið ræddir í samráðshópnum, einkum hjá forstjóra FME. Ákærði kvað hvorki að hann sjálfur né samráðshópurinn hefðu metið getu Landsbankans til að færa innlánin yfir í dótturfélag. Hann kvaðst hvorki sjálfur né hafi samráðshópurinn haft forsendur til þess. Ákærði kvað aldrei á þeim tíma sem hér um ræðir og til 16. september 2008 hafa komið fram endanlega afstöðu FSA til tímamarka yfirfærslunnar eða eitthvað varðandi viðurlög.

2.  Ákærði mótmælti þessum lið ákærunnar á sömu forsendu og lið 1. Þá mótmælti ákærði því að fyrir hafi legið ákvörðun FSA um fimm milljarða sterlingspunda hámark innstæðna, enda hafi m.a. verið deilt um það hvort FSA væri bært til að taka slíka ákvörðun. Þetta hefði verið eitt af því sem rætt var og verið í viðræðuferli að sögn ákærða. Þá kvað ákærði ekki hafa legið fyrir neinar endanlegar ákvarðanir um annað sem nefnt er í þessum ákærulið, svo sem vaxtakjör til að draga úr vexti innstæðna á reikningunum, en litið var svo á að FSA gæti ekki einhliða tekið ákvarðanir sem að þessu lúta. Þá hafi legið fyrir að Landsbankinn hafi ekki fallist á að þeir höguðu þessum málum öðruvísi en þeir töldu samrýmast eðlilegum sjónarmiðum sínum varðandi bankarekstur.

3.  Aðspurður hvort ákærði mótmælti því að hafa búið yfir upplýsingum sem hér

um ræðir tók hann fram að ekki hefði þurft annað en að lesa dagblöð frá þessum tíma til að fá þessar upplýsingar sem hafi þannig verið opinberar og ekki hafi leikið vafi á því hvert fjárhagslegt bolmagn íslenska innstæðutryggingasjóðsins var.

4.  Aðspurður hvort ákærði hefði búið yfir þessum upplýsingum sem fram hafi komið á fundi samráðshópsins 4. september 2008, eins og lýst er í ákærunni, kvaðst ákærði mótmæla að hafa komist að upplýsingunum með þeim hætti sem í ákæru greinir. Hann kvað hið sama eiga við um þetta og áhyggjur FSA um stöðu íslenska innlánakerfisins. Þá var talað um að finna aðra tilhögun á innlánasöfnum Landsbankans í Hollandi. Ákærði kvað hafa verið farið yfir það mál á fundi samráðshópsins 4. september 2008. Forstjóri FME greindi frá fundi sínum við bankastjóra Seðlabanka Hollands. Ákærði hefði skilið þá frásögn svo að svipuð sjónarmið Hollendinga væru varðandi stöðu innstæðutrygginga í útibúum og staða tryggingasjóðsins væri þannig að það væri ,,áhættufactor“ sem hollenska Seðlabankanum hafi fundist óþægilegur og þeir talið æskilega aðra tilhögun á innlánssöfnun. Ekki hefði staðið til að breyta fyrirkomulaginu með einhliða inngripi, en þeir hefðu viljað koma starfsemi Landsbankans í Hollandi yfir í dótturfélög. Hann kvaðst hafa talið að þetta mál yrði tekið til umfjöllunar ,,í næstu framtíð“ en á fundi samráðshópsins 4. september kom fram að FME og hollenski Seðlabankinn ætluðu að funda um þetta síðar. Ekkert kom fram um þetta eftir þetta.

5.  Aðspurður hvort þessar upplýsingar hefðu komið fram á fundinum 2. september, eins og lýst er í ákærunni, kvað ákærði það ekki hafa verið í því samhengi sem lýst er í ákærunni. Ákærði kvaðst ekki kannast við að fyrir hefðu legið kröfur FSA á hendur íslenskum stjórnvöldum. Ákærði kvað ákæruefninu stillt þannig upp að breski fjármálaráðherrann hefði verið að kveða upp dóm yfir Landsbanka Íslands sem sé alls ekki rétt. Það sem hafi legið fyrir hafi verið að vegna umræðna um stöðu innlánakerfisins og stöðu tryggingasjóðsins hafi ráðherrann nefnt á fundinum að ef til áfalla kæmi á fjármálamarkaði og Bretar myndu sjálfir greiða lágmarkstryggingu innstæðna, sem Íslendingar ættu formlega séð að standa skil á, hvert ætti þá að senda reikninginn. Þetta hefði verið til að undirstrika stöðu tryggingasjóðsins. Ákærði kvað engar nýjar upplýsingar hafa komið fram á fundinum 2. september og engar kröfur af hálfu Breta.

6.  Aðspurður hvort ákærði hefði búið yfir þessum upplýsingum er hann seldi hlutabréf sín í Landsbanka Íslands og að upplýsingarnar sem lýst er í ákærunni hafi komið fram á fundi samráðshópsins 16. september 2008 kvað ákærði þetta hafa verið til umfjöllunar vikum og mánuðum saman. Í samráðshópnum voru rædd viðbrögð við fjármálakreppu. Viðbrögð, ef til kæmu, hefðu ekki tekið á sig endanlega mynd. Ákærði fór yfir það sem rætt var á fundinum en ekkert nýtt hefði komið fram að hans sögn og engar endanlegar tillögur verið kynntar. Ekkert hefði legið fyrir um hver vernd innstæðna yrði ef til fjármálaáfalls kæmi, þótt ljóst væri að tryggingin yrði hærri en sem næmi lágmarkinu. Þá var rætt að stóru bankarnir þrír væru mikilvægastir og að komið yrði þeim til aðstoðar ef til kæmi. Legið hafi fyrir, að sögn ákærða, að kæmist einn stóru bankanna í þrot yrðu áhrifin keðjuverkandi á hina tvo stóru bankana. Þá hefði legið fyrir að ekki hefði staðið til að bjarga hluthöfum ef illa færi. Ákærði kvað það þekkt viðbrögð og lýsti hann því.

Vitnið G var ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneytinu á þeim tíma sem um ræðir í ákæru. Hún kvaðst hafa hafið störf á ný 1. ágúst 2008 eftir fæðingarorlof og frá þeim tíma sat hún í samráðshópnum uns hún hætti störfum í ráðuneytinu. Hún lýsti samkomulagi sem hópurinn byggði á. Hún lýsti tilhögun funda, en A hefði skráð fundargerðir. Á þeim tíma sem hér um ræðir komu fram upplýsingar um erfiðleika banka. Samráðshópurinn hafði áhyggjur af stöðunni í heild en málefni Landsbankans hefðu komið sérstaklega til umfjöllunar. Hún kvaðst hafa fengið drög að fundargerð í tölvuskeyti og hún hefði stundum gert athugasemdir við það sem að eftir henni var haft. Eftir það hefðu verið send út ný drög. Fundardrögin virki ítarleg en ekki komi allt þar fram sem rætt var á fundunum. G lýsti því að meðferð gagna frá samráðshópnum og fundargerðardrögin hefðu verið trúnaðarupplýsingar. Hjá lögreglu greindi hún svo frá að hún teldi upplýsingarnar sem hér um ræðir svo viðkvæmar að hætta væri á áhlaupi á bankana yrðu þær opinberar. Hún staðfesti þetta fyrir dóminum. Hún kvað það ekki hafa komið til tals á fundum samráðshópsins að meðlimir hans yrðu tilkynntir sem tímabundnir innherjar hjá fjármálafyrirtækjunum sem hópurinn fjallaði um. G kvað samráðshópinn ekki hafa metið getu Landsbankans til að færa innstæðurnar úr útibúi í breskt dótturfélag. Hún kannaðist við umræður á árinu 2008 um fjárhagslegt bolmagn íslenska innstæðutryggingasjóðsins og upplýsingar um stöðu hans voru opinberar. Hún kvað engan vafa hafa leikið á stöðu sjóðsins sem ekki var góð. Hún mundi ekki hvort til umræðu kom á fundum samráðshópsins hvort almenningi væri ljós staða tryggingasjóðsins, en hópurinn hefði haft áhyggjur af stöðunni í heild og að áhlaup á banka gæti orðið ef ,,þessi balance færi að hnikast til“ og umræða færi af stað um tryggingasjóðinn.

G sat fund samráðshópsins 12. ágúst 2008. Á fundinum var ræddur erindisrekstur FSA, sem lýst hefur verið að framan, og að ákærði hefði spurt á fundinum hvort samkomulag væri komið í grundvallaratriðum og C hefði greint frá vendingum í málinu og lýsti hann því nánar. Þá er bókað eftir ákærða að Landsbankinn gæti lent í þeirri aðstöðu að ganga að óásættanlegum kröfum varðandi yfirfærsluna og er því nánar lýst í bókuninni og var farið yfir það með G. Þá komu fram upplýsingar um að FSA hefði fundist Landsbankinn ganga of hart fram í vaxtaboðum og auglýsingum. Þá voru rædd málefni tryggingasjóðsins um innstæðuvernd og ákærði hefði spurt um möguleika íslenskra stjórnvalda til að ýta innlánum í dótturfélag erlendis og að þetta væri mikið áhyggjuefni. Málefni sjóðsins voru rædd frekar meðal annars að hann gæti tæmst ef meðalstór sparisjóður gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Þá kemur fram í fundargerðinni að B hafi greint frá því að sú tímasprengja sem hættulegust væri væru innlán erlendis.

Fyrir dóminum kannaðist G við að upplýsingarnar sem raktar voru úr fundargerðinni hefðu komið fram á fundinum 12. ágúst 2008 og verið ræddar þar.

G sat fund samráðshópsins 20. ágúst 2008. Á fundinum var í upphafi gerð grein fyrir áhyggjum FSA af innlánsáhlaupi á Landsbankann og áhyggjur FSA af auglýsingaherferð Landsbankans og að bankinn væri ekki samvinnuþýður. Þá var greint frá því að FSA stæði fast á því að aðgerðir þeirra stæðust Evrópurétt. Greint var frá fundi FSA með Landsbankanum og skýr skilaboð FSA um yfirfærsluna. C hefði sagt að kröfur FSA færu stigmagnandi og nú væri gerð krafa um yfirfærslu án skilyrða. Ákærði hefði á fundinum spurt um tímafresti Landsbankans og var það rætt í kjölfarið. Þá er bókað að E hefði sagt auðvelt að setja sig í spor breskra yfirvalda og að hann sæi ekki að Landsbankinn væri í nokkurri aðstöðu til að andmæla.

Fyrir dóminum kannaðist G við að upplýsingarnar sem raktar voru úr fundargerðinni hefðu komið fram á fundinum 20. ágúst 2008 og verið ræddar þar. Hún kvaðst ekki muna eftir einstökum umræðuefnum en mundi eftir fundargerðinni og að hafa lesið hana yfir.

G sat fund samráðshópsins 4. september 2008. Á fundinum hafi verið greint frá því að Hollendingar ætli að stöðva Landsbankann í að auka innlán í Hollandi. Þar segir að E hafi greint frá því að þetta væri sama krafa og krafa FSA varðandi Bretland. Þá er haft eftir G og ákærða í fundargerðinni að Landsbankamenn, sem rætt var við í London, átti sig ekki fyllilega á stöðunni. Þá er því lýst að vitnið hafi á fundinum farið yfir fundinn með breska fjármálaráðherranum sem hefði greint frá því að hann gerði ráð fyrir því að bresk yfirvöld myndu ábyrgjast innstæður að fullu og síðan spurt hvert ætti að senda reikninginn. Þá er haft eftir E að Landsbankamenn þráist enn við að skilja alvöruþunga breskra og hollenskra stjórnvalda.

Fyrir dóminum kannaðist G við upplýsingarnar sem raktar voru úr fundargerðinni og rétt sé eftir henni haft. Í fundargerðinni er því lýst að viðmælendur C í Hollandi hefðu lýst því að stjórna þyrfti niðurbrennslunni í Hollandi. Hún mundi ekki eftir þessu sérstaklega en mundi eftir áhyggjum af þessum málum í heild.

G sat fund samráðshópsins 9. september 2008. Á fundinum er haft eftir C að mál Landsbanka Íslands sé langstærsti höfuðverkurinn og spurningin væri hvort lánardrottnar gerðu kröfu vegna fyrirhugaðrar yfirfærslu.

Fyrir dóminum kvað hún þetta hafa verið í umræðunni á þessum tíma almennt séð.

G sat fund samráðshópsins 16. september 2008. Þar hafi enn verið rædd staða Landsbankans og samskiptin við FSA og greindi C frá því að stjórnendur FSA sætu þá fund um málið. Þá greindi E frá fundi sínum með ráðherrum þar sem hafi verið rætt um hverjum ætti að bjarga kæmi til fjármálaáfalls. Á fundinum hafi komið fram upplýsingar um forgangsröðunina og að ekki stæði til að bjarga hluthöfum bankanna og að það væri hið eina endanlega sem fram kom á fundinum.

Fyrir dóminum kvaðst hún muna eftir ummælum E. Hún kvaðst eiga erfitt með að muna nú, löngu síðar, umræður og það sem haft var eftir öðrum á fundunum, svo sem frásögn C um fundinn um málefni Landsbankans sem rakinn var. Aðspurð kvað G ekkert hafa komið fram á fundinum 16. september sem gaf til kynna að þáttaskil væru í samskiptum Landsbankans og FSA varðandi yfirfærsluna. Niðurstaðan hafi ekki verið fengin á þessum tíma og hún mundi ekki til þess að fram hefði komið að niðurstaða væri að nást í málinu.

G sat ásamt ákærða fund með bankastjórum Landsbanka Íslands 13. ágúst 2008, en bankinn boðaði til fundarins. Hún kvaðst hafa komið til starfa 1. ágúst 2008 eftir leyfi og bankinn hefði viljað kynna henni kröfur FSA og samskiptin milli bankans og FSA. Á fundinum voru kröfur FSA ræddar varðandi stöðu Landsbankans og að flytja innstæður í dótturfélag ytra og að þetta væri erfitt úrlausnarefni fyrir Landsbankann sem þurfti að færa eignir á móti. Hún lýsti erfiðleikum Landsbankans við að verða við kröfum FSA og samskiptum bankans við FSA. Hún mundi ekki hvort upplýsingarnar hefðu komið fram á fundunum um fimm milljarða punda hámarkið sem lýst er í ákærulið 2.

G sat ásamt fleirum fund með F 2. september 2008. Fundurinn hefði verið að frumkvæði viðskiptaráðherra. Henni hefði verið greint frá því að Landsbankinn hefði átt hugmyndina um að óska eftir fundinum. Tilgangur fundarins var sá að freista þess að setja pólitískan þrýsting á það að gefið yrði svigrún varðandi yfirfærsluna. Hún kvað stjórnvöld hafa viljað fyrir alla muni að innstæðurnar sem hér um ræðir færu yfir í dótturfélag til að létta ábyrgðinni af tryggingasjóði innstæðueigenda. Stjórnvöld hefðu því viljað gera sitt til að svigrúm yrði gefið í tíma varðandi flutninginn á eignum á móti þannig að innstæðurnar í Bretlandi gætu farið yfir í dótturfélag sem fyrst. Hún mundi ekki eftir því að neinar nýjar upplýsingar hefðu komið fram á þessum fundi. Hins vegar hafi hún fengið það á tilfinninguna að breski ráðherrann væri vel upplýstur um málið og hún mundi vel eftir ummælum hans um það hvert ætti að senda reikninginn. Þetta hefði verið nefnt í tengslum við það ef illa færi og Bretar greiddu innstæðueigendum. Fram kom skilningur á því að veita eitthvert tímasvigrún varðandi flutning skuldbindinga á móti innlánum.

Vitnið C var forstjóri Fjármálaeftirlitsins á þeim tíma sem hér um ræðir og sat í samráðshópnum stöðu sinnar vegna. Hann lýsti starfi hópsins og að lögð hafi verið rík áhersla á trúnað innan hans. A skráði fundargerðir sem hafi að mestu leyti verið áreiðanlegar um það sem fram fór á fundum. Hann lýsti athugasemdum sem hann gerði tíðum við fundargerðir eftir að hafa fengið uppkast sent í tölvupósti. Ekki hefði komið til tals í hópnum að meðlimir hans yrðu tilkynntir sem tímabundnir innherjar í fjármálastofnunum sem þeir fjölluðu um. Hann kvað engan vafa hafa verið um stöðu tryggingasjóðsins á þessum tíma. Um hann gildi lög og rakti hann þetta nánar.

C sat fund samráðshópsins 22. júlí 2008. Þá var meðal annars farið yfir slæma stöðu tryggingasjóðsins og rætt um það að eins og staðan væri, væri ekki hægt að standa við lágmarksskuldbindingar um innstæðuvernd og C greindi frá því að sjóðurinn gæti staðið við skuldbindingar ef Sparisjóður Mýrasýslu færi, en um leið tæmdist sjóðurinn.

Fyrir dóminum kannaðist hann við þessar umræður og kvað þetta hafa verið staðreynd og kvað alla tryggingasjóði í Evrópu hafa verið þannig setta að þeir gætu ekki ráðið við að tryggja nema innstæður í einum meðalstórum banka.

C sat fund samráðshópsins 31. júlí 2008. Þar hafi B upplýst um fimm milljarða punda hámark á Icesave innstæður fram að yfirfærslu í breskt dótturfélag. Þá er haft eftir C á fundinum að FSA hefði sett fram kröfur í síðustu viku af mikilli hörku. C hafi greint frá því að undirbúa yrði slíkt vel og auglýsa opinberlega. Fram kemur á fundinum að ákærði hefði spurt hvenær tilkynnt hefði verið um  fimm milljarða punda hámarkið. Þá hefði B minnst á mikilvægi þess að gæta vel að trúnaðarupplýsingum sem þessum. Þá hefði ákærði nefnt á fundinum að það gæti orðið banabiti fyrir íslensku bankana ef umræðan um veika stöðu tryggingasjóðsins færi af stað. Fram kom að B hefði sagt að Seðlabankinn setti þrýsting á Landsbanka Íslands um að ljúka yfirfærslunni. C fór yfir áhyggjur FSA af íslenska trygginga-sjóðnum.

Fyrir dómi kvað C allt það sem rakið var hafa verið rætt á fundinum. Hann kvað mestar áhyggjur hafa verið af því að umræða um innlánsreikningana gæti kallað fram áhlaup á bankann.

C sat fund samráðshópsins 12. ágúst 2008. Þar kom fram að ákærði hefði spurt hvort samkomulag um yfirfærsluna væri komið í grundvallaratriðum þótt enn væru lausir endar. C lýsti síðan ýmsum vendingum í málinu og að FSA hefði komið fram með nýjar kröfur. Þá hefði C  lýst höfnun FSA á þeirri hugmynd að leggja fjárhæð umfram fimm milljarða hámarkið á reikning í Seðlabankanum. Þá voru ræddar hugmyndir um efasemdir um lögmæti hámarksþaksins. C hefði greint frá því að komið væri að þolmörkum Landsbanka Íslands um það hversu langt bankinn gæti teygt sig. Haft er eftir ákærða að Landsbankinn gæti lent í þeirri aðstöðu að ganga að óásættanlegum kröfum við yfirfærsluna í dótturfélag, eða að halda þeim áfram í útibúi sem væri erfitt fyrir íslensk stjórnvöld. Þá kemur fram að FSA hafi fundist Landsbankinn ganga of hart fram í vaxtaboðum og auglýsingum. Málefni tryggingasjóðsins voru rædd og ákærði hefði spurt hvaða úrræði stjórnvöld hefðu til að ýta lánum í dótturfélag erlendis, þetta væri mikið áhyggjuefni. Haft var eftir B að sú tímasprengja sem hættulegust væri núna væru innlánin erlendis.

Fyrir dóminum kvað C það sem rakið var hafa verið rætt á fundinum. Málið hefði snúist um það að færa innlánin í Bretlandi yfir í dótturfélag, en erfiðleikarnir varðandi það hafi verið þeir að færa hefði þurft eignir á móti og að það kynni að fara í bága við lánaskilmála bankans sem gæti leitt til þess að kröfuhafar bankans myndu bregðast við sem yrði gífurlega erfitt fyrir bankann. Þá nefndi C að vegna þaksins á innstæðurnar gæti orðið erfitt um lausafjárstýringu fyrir Landsbankann en það hún verið mjög erfið á þeim tíma sem hér um ræðir. Hann lýsti því að umræða eða neikvæðar upplýsingar gætu leitt til úttekta í Bretlandi.

C sat fund samráðshópsins 20. ágúst 2008. Þar var gerð grein fyrir fundi vitnisins og fleirum með FSA  og rætt um áhyggjur FSA um innlánsáhlaup á Landsbankann og að bankinn væri ekki samvinnuþýður. Þá hafi komið fram að FSA héldi fast við að aðgerðir þeirra stæðust Evrópurétt. Gerð var grein fyrir fundi Landsbankans og FSA þar sem skýrar kröfur FSA komi fram. Haft er eftir C á fundinum að kröfur FSA fari stigmagnandi og gerð væri krafa um yfirfærslu án skilyrða. E hefði sagst skilja afstöðu breskra stjórnvalda og að hann sæi ekki að Landsbankinn væri í nokkurri aðstöðu til að andmæla.

Fyrir dóminum kvað C það sem rakið var hafa komið fram á fundinum. Spurður um yfirfærsluna án skilyrða kvaðst hann ekki muna bréfaskriftir nákvæmlega. Hins vegar hafi kröfur FSA til Landsbankans harðnað og tíminn til yfirfærslu hafi styst.

C sat fund samráðshópsins 4. september 2008. Þar voru áfram rædd málefni tryggingasjóðsins og kröfur FSA. Rætt var um að Hollendingar hygðust stöðva innlánasöfnun Landsbanka þar í landi. E hefði greint frá því að þær kröfur væru efnislega hinar sömu og kröfur FSA. Haft er eftir ákærða að ljóst væri að FSA gæfi hvergi eftir. Þá var farið yfir það á fundinum að F hefði greint frá því að bresk yfirvöld myndu ábyrgjast innstæður að fullu og ráðherrann hefði spurt hvert ætti að senda reikninginn. Þá er haft eftir E að Landsbankamenn þráist enn við að skilja alvöruþunga breskra og hollenskra stjórnvalda. C lýsti samskiptum sínum við Hollendinga varðandi söfnun innlána þar í landi og að Hollendingar hafi fallist á það að stjórna yrði niðurbremsunni. Hann lýsti þessu nánar og að markmiðið hafi verið að stöðva söfnun innlána en hann lýsti hættunni sem því fylgdi ef innlánasöfnun yrði stöðvuð skyndilega, það kynni að valda áhlaupi á bankann.

Fyrir dóminum staðfesti C að umræðurnar sem raktar voru hefðu farið fram á fundinum. Enn var verið að ræða yfirfærsluna sem fjallað hefur verið um að framan.

C sat fund samráðshópsins 9. september 2008. Þar er haft eftir honum að mál Landsbankans sé stærsti höfuðverkurinn og spurt hvort lánardrottnar geri kröfur vegna fyrirhugaðrar yfirfærslu.

Fyrir dóminum staðfesti C að þessi umræða hefði farið fram á fundinum og kvað málefni Landsbankans hafa hvílt þyngst á samráðshópnum á þessum tíma.

C sat fund samráðshópsins 16. september 2008. Málefni tryggingasjóðsins voru rædd og greint frá því að stjórnendur FSA sætu þá fund um málefni Landsbankans. E hafi  greint frá því að ráðherrarnir sem hann hitti á fundi hafi rætt um það hverjum ætti að bjarga og að komið hafi fram að ekki væri ætlunin að bjarga hluthöfum kæmi til fjármálaáfalls.

Fyrir dóminum staðfesti C að þetta hefði komið fram og kvað hann þetta hafa komið fram snemma, þ.e. að ef einhverjum þyrfti að bjarga yrði hluthöfum bankanna ekki bjargað. Aðspurður kvað C ekkert hafa komið fram á þessum fundi sem benti til þess að Landsbankinn væri að ná landi í viðræðum sínum við FSA um yfirfærsluna. Fundurinn 16. september hefði ekki markað nein þáttaskil í þessu. Hann kvað ekkert bindandi samkomulag hafa legið fyrir á þessum tíma, þ.e. 16. september 2008. Á þessum tíma hafi verið fjármálaórói. Meðal annars af þeim sökum hafi hópurinn rætt möguleg viðbrögð ef fjármálaáfall yrði hér á landi. Það sem mest var óttast sumarið 2008 var að neikvæðar umræður gætu orðið til þess að áhlaup yrði gert á banka. Hann lýsti því að uppgjör Landsbankans um mitt ár 2008 hafi ,,litið vel út“ og rakti hann það í tölum. Hins vegar hafi alltaf verið til staðar ótti um að bankinn kynni að verða fyrir áhlaupi sem ekki yrði við ráðið.

Vitnið E var ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu á þeim tíma sem hér um ræðir. Hann kvað samráðshópinn stofnaðan í febrúar 2006 og var E formaður hópsins sem ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu. Fyrir stofnun hópsins hafi verið í gangi óformlegar viðræður milli stofnana og ráðuneytanna sem síðar áttu fulltrúa í hópnum, en hópurinn var stofnaður í því skyni að setja upp viðbúnaðaráætlun til að bregðast við hugsanlegu áfalli á fjármálamarkaði. Hann kvaðst hafa litið svo á að ákærði væri staðgengill sinn sem formaður samráðshópsins. E kvað A hafa skrifað fundargerðir sem hafi verið sendar í tölvupósti og fundarmenn gerðu athugasemdir ef þeir óskuðu. Fundargerðirnar hafi verið áreiðanlegar um það sem fram fór á fundum samráðshópsins að hans mati og voru ítarlegar á köflum. Fundargerðirnar hafi verið trúnaðarmál, enda hafi hópurinn fjallað um mál og leiðir til að verjast fjármálaáfalli og nefndarmenn ræddu opið um stöðu banka og annarra og því hafi verið litið á umræðurnar sem trúnaðarmál. E lýsti því að frá því í mars 2006 hafi verið farið reglulega yfir stöðu á fjármálamarkaði og nefndarmenn hafi reglulega fengið upplýsingar um þetta og rætt á fundunum.

E sat fund samráðshópsins 22. júlí 2008. Þar kemur fram að B hafi greint frá hvatningu FSA til Landsbankans að flytja innlánasafn sitt í Bretlandi í þarlent dótturfélag. Þá var rædd slæm staða tryggingasjóðsins og að ekki væri hægt að standa við lágmarkstryggingar um innstæðuvernd og C hefði sagt að sjóðurinn gæti staðið við skuldbindingar ef Sparisjóður Mýrasýslu færi, en þá tæmdist sjóðurinn.

Fyrir dómi staðfesti E að þessar upplýsingar hefðu komið fram á fundinum. Hann kvað öllum meðlimum samráðshópsins hafa verið ljós slæm staða tryggingasjóðsins. Fjárhæð á reikningi sjóðsins hafi verið lág miðað við skuldbindingar hans.

E sat fund samráðshópsins 31, júlí 2008. Á fundinum var fyrst getið kröfu FSA um fimm milljarða punda hámark á Icesave innlán þar til yfirfærslan færi fram. Þá var bókað að B hefði minnt á mikilvægi þess að gæta vel að trúnaðarupplýsingum sem þessum. Þá var rætt um að FSA hefði sett fram nýjar kröfur í síðustu viku af mikilli hörku og að C hefði sagt að slíkt þyrfti að undirbúa vel. Þá er bókað eftir ákærða að það gæti orðið banabiti fyrir bankana ef umræðan færi af stað um veikleika tryggingasjóðsins. Þá greindi B frá því að Seðlabankinn setti þrýsting á Landsbankann til að klára yfirfærslurnar. Þá fór C yfir áhyggjur FSA af íslenska tryggingasjóðnum.

Fyrir dómi staðfesti E að það sem rakið var hefði verið til umræðu á fundinum.

E sat fund samráðshópsins 12. ágúst 2008. Þar var áfram ræddur erindisrekstur FSA og ákærði hefði spurt hvort komið væri samkomulag í grundvallaratriðum þótt enn væru lausir endar. C hefði greint frá vendingum í málinu, meðal annars höfnun FSA á hugmynd Landsbankans um að leggja það innlánsfé sem kynni að fara yfir fimm milljarða hámarkið inn í Seðlabanka. Þá var fjallað um lögmæti innlánaþaksins og C hefði sagt að komið væri að þolmörkum Landsbanka Íslands varðandi það hversu langt þeir gætu teygt sig. Þá var bókað eftir ákærða að Landsbankinn gæti lent í því að ganga að óásættanlegum kröfum við yfirfærslu innlána í dótturfélag eða að halda þeim áfram í útibúi, sem væri erfitt fyrir íslensk stjórnvöld. Þá hafi B greint frá því á fundinum að FSA hefði fundist Landsbankinn ganga of hart fram í vaxtaboðum og auglýsingum. Ákærði hefði spurt hvaða úrræði íslensk stjórnvöld hefðu til að ýta innlánum í dótturfélag erlendis, hann hafi sagt þetta mikið áhyggjuefni og ástæðu til að skoða möguleikana í heild. Áfram var rætt um að tryggingasjóðurinn kynni að tæmast ef meðalstór sparisjóður gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Þá hafi B talið að sú tímasprengja sem nú væri hættulegust væri innlánin erlendis.

Fyrir dóminum staðfesti E að umræðurnar sem raktar voru að ofan hefðu farið fram.

E sat fund samráðshópsins 20. ágúst 2008. Þar var gerð grein fyrir fundi C og D með FSA og gerð grein fyrir áhyggjum FSA af innlánsáhlaupi á Landsbankann og áhyggjur FSA af auglýsingaherferð Landsbankans sem ekki hafi verið talinn samvinnuþýður, auk þess sem FSA hafi staðið fast við að aðgerðir þeirra stæðust Evrópurétt. Þá var greint frá skýrum skilaboðum um kröfur FSA sem komið hafi fram á fundi FSA með Landsbankanum 19. ágúst 2008. Þá er haft eftir C að kröfur FSA fari stigmagnandi og að nú væri gerð krafa um að Landsbankinn samþykkti yfirfærslu án skilyrða. Þá er haft eftir E að hann skilji afstöðu breskra stjórnvalda og að hann sjái ekki að Landsbankinn sé í nokkurri aðstöðu til að andmæla. Þá hafi ákærði spurt um vandkvæði Landsbankans í þessari stöðu, auk þess að spyrja um tímafresti FSA. C hafi greint frá því að líkur væru á samskiptum hollenskra og breskra stjórnvalda um þennan vanda.

Fyrir dóminum kvað E allt sem rakið var hafa komið fram og verið rætt á fundinum. Aðspurður kvaðst hann telja FSA hafi ekki haft lagaheimild til að knýja Landsbankann einhliða til að yfirfæra innlánin í dótturfélag. Þetta hafi verið hluti vandans að hans mati.

E sat fund samráðshópsins 4. september 2008. Sömu mál voru rædd á þessum fundi og öðrum sem raktir hafa verið að framan. Á fundinum hafi verið rædd viðbrögð Hollendinga og komið hafi fram að Hollendingar hefðu fallist á að stjórna þyrfti niðurbremsuninni varðandi minnkun innlána. Þetta hafi verið sama viðfangsefnið í Hollandi og Bretlandi. Á fundinum er haft eftir ákærða að ljóst sé að FSA gefi hvergi eftir. Þá er haft eftir G og ákærða að eftir heimsókn í Landsbankann í London að hafi verið ljóst að Landsbankamenn áttuðu sig ekki fyllilega á stöðunni. Þá var farið yfir fundinn 2. september með F og haft eftir G að F hefði gert ráð fyrir því að bresk stjórnvöld myndu ábyrgjast innstæður að fullu og spurt hvert ætti að senda reikninginn. C hefði greint frá því að ef tiltekinn misskilningur varðandi stöðu tryggingasjóðsins yrði leiðréttur opinberlega kynni það eitt og sér að valda útstreymi innlána frá íslensku bönkunum. Þá er haft eftir E að Landsbankamenn þráist enn við að skilja alvöruþunga breskra og hollenskra stjórnvalda.

E staðfesti fyrir dóminum að það sem rakið var hefði komið fram og verið rætt á fundinum. Varðandi það að Landsbankamenn þráist við kvaðst E hafa átt við það að ítrekað hafi komið fram í þessum samskiptum að Landsbankamenn hafi notað hvert tækifæri til að draga málið á langinn og tefja það. Þeir hafi svarað bréfum frá FSA seint og illa að hans sögn. Þá hafi verið ljóst að Landsbankamenn hafi ekki verið mjög fúsir að ganga til samstarfsins, enda, eins og fram kom í þessu ferli, að hefðu innlánsreikningarnir erlendis verið til að fjármagna slæma stöðu bankans hér á landi. Samningar um að breyta fyrirkomulagi bankans í Bretlandi hefðu þýtt að bankinn gæti ekki nýtt sér þessa fjármögnunarleið nema að mjög litlu leyti. Gæti bankinn ekki sótt þetta fé myndi hann hrynja og skýrði E þetta nánar. Hann taldi þetta öllum ljóst í samráðshópnum.

E sat fund samráðshópsins 9. september 2008. Á fundinum hefði C sagt málefni Landsbankans langstærsta höfuðverkinn á þessum tíma og spurning hvort lánardrottnar gerðu kröfur vegna fyrirhugaðrar yfirfærslu. Þá hafi C sagt að erlendis væri litið á íslenska fjármálakerfið sem veikan kanarífugl í námunni, eins og það var bókað.

E staðfesti fyrir dóminum að það sem hér var rakið hefði komið fram á fundinum.

E sat fund samráðshópsins 16. september 2008. Rædd voru málefni tryggingasjóðsins eftir gjaldþrot Lehman og fleira rætt. E hefði spurt um stöðuna á samskiptum FSA og Landsbankans.C hefði þá greind frá fundi FSA sama dag um málefni bankans. Farið var yfir ,,ólystuga matseðilinn“. Þá hafi E greint frá fundi sínum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra þar sem rætt hefði verið um hverjum ætti að bjarga kæmi til fjármálaáfalls. Þar hefði komið fram að ekki væri ætlunin að bjarga hluthöfum banka við slíkar aðstæður.

E staðfesti að það sem rakið var hefði komið fram og verið rætt á fundinum. Aðspurður hvort um ,,krísufund“ með ráðherrunum hafi verið að ræða kvað hann svar sitt velta á því hvernig krísa sé skilgreind á þessum tíma. Hins vegar hafi á fundinum verið horft á mikinn óróleika og 16. september hafi Lehman bankinn farið í þrot og þá hafi staðan hér verið orðin ansi erfið þótt menn hafi ekki séð fram á fall íslensku bankana eftir tvær til þrjár vikur. Hins vegar hefðu menn verið svartsýnni í september en þeir voru í júlí og ágúst. Spurður um það hvenær hafi verið tekin ákvörðun um að hluthöfum banka yrði ekki bjargað kæmist banki í þrot kvað hann þetta ekki hafa verið beina ákvörðun. Hins vegar hafi þessu verið lýst á fundi hans með ráðherrunum. E var spurður hvort eitthvað hefði komið fram á fundi samráðshópsins 16. september um að verið væri að ná landi varðandi kröfur FSA um yfirfærsluna. Hann kvaðst ekki muna eftir því en taldi líklegt að hann myndi það hefði eitthvað því líkt komið fram. Niðurstaða hefði aldrei fengist í það mál sem endalaust hefði dregist á langinn.

E kvað ákærða hafa greint sér frá sölu hlutabréfa sinna í bankanum í símtali eftir sölu bréfanna. E kvaðst ekki muna hvenær þetta gerðist en kvaðst viss um að sér hefði verið greint frá þessu eftir söluna. Hann kvaðst muna þetta vel þar sem hann hefði lagst gegn sölu hlutbréfanna hefði sér verið greint frá henni fyrir fram. Hann kvaðst hafa metið stöðu sína þannig, verandi í embættinu sem hann gegndi og með setu í samráðshópnum og með aðgang að miklum óskilgreindum upplýsingum um stöðu fjármálafyrirtækja, að hann gæti ekki, ef ekki lagalega þá siðferðislega, selt hlutabréf sín í bönkunum. Sjálfur kvaðst E hafa átt hlutabréf í bankanum sem hann taldi sig ekki geta selt vegna upplýsinganna sem hann bjó yfir. Sú staða hefði verið uppi alveg frá því að samráðshópurinn var settur á legg. Frá árinu 2006 hafi verið ljóst að íslenska bankakerfið myndi verða undir smásjánni. Eftir að hafa tekið setu í samráðshópnum var ljóst að ekki var mögulegt að eiga viðskipti með hlutabréf í bönkunum. Hann kvað ekki hafa verið rætt í samráðshópnum að tilkynna meðlimi hópsins sem tímabundna innherja. Aðspurður um slæma stöðu bankanna á þeim tíma sem hér um ræðir kvað hann hafa verið ljóst að bankarnir, þar með talinn Landsbankinn, myndi ekki þola áhlaup. Það hafi verið áhætta varðandi bankana og ástæðan fyrir því að erfitt hafi verið fyrir stjórnvöld að grípa til aðgerða og þá vegna þess að þær aðgerðir sem gera þyrfti kynnu að leiða til áhlaups sem felldu bankana. Þetta hafi verið staða íslensks fjármálalífs frá því í byrjun árs 2008 þar til bankarnir féllu.

E kvað hafa legið fyrir að staða tryggingasjóðs hafi verið slík að hann gæti ekki ráðið við fall eins af stærri sparisjóðum landsins hvað þá eins þriggja stærstu bankanna.

Vitnið H var settur ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneytinu frá miðjum desember 2007 til 31. júlí 2008 og sat í samráðshópnum þann tíma sem fulltrúi viðskiptaráðuneytisins. A ritaði fundargerðir sem hafi verið stuttar og hnitmiðaðar þar sem því helsta sem fram fór á fundinum var lýst.

H sat á fundi samráðshópsins 22. júlí 2008. Þar er bókað að B hafi vikið að móttöku innlána í útibú Landsbanka erlendis og að FSA hafi hvatt Landsbankann til að flytja innlánasafn sitt í þarlent dótturfélag. Fram kom að Landsbankinn virtist þessu mótdrægur. Þá var farið yfir slæma stöðu tryggingasjóðs innstæðueigenda.

Fyrir dóminum kannaðist H við að þessar umræður hefðu farið fram á fundinum.

H sat fund samráðshópsins 31. júlí 2008. Þar kemur fram að B hafi upplýst um fimm milljarða hámark innlána fram að yfirfærslu og að B hefði minnt á það að mikilvægt væri að gæta að trúnaðarupplýsingum sem þessum. Þá hafi verið rætt um það að FSA hefði sett fram nýjar kröfur í síðustu viku af mikilli hörku. Þá hafi ákærði greint frá því að það gæti orðið banabiti fyrir íslensku bankana ef umræða færi af stað um veikleika tryggingasjóðsins. B hefði greint frá því að Seðlabankinn setti þrýsting á Landsbankann um að klára yfirfærsluna og að C hafi gert grein fyrir áhyggjum FSA af íslenska tryggingasjóðnum.

H staðfesti fyrir dóminum að þessar upplýsingar hefðu komið fram á fundinum. Aðspurð um áhyggjur FSA kvaðst hún þarna hafa séð í fyrsta sinn bréfaskriftir milli Landsbankans og FSA um yfirfærsluna. Áhyggjur hafi verið um það að nauðsynlegt væri að Landsbankinn fengi lengri tíma til að flytja eignir til Bretlands á móti innstæðunum. Hún lýsti því að Landsbankinn ætti mjög erfitt að verða við þessu.

H var formaður stjórnar tryggingasjóðs innstæðueigenda á þessum tíma. Aðspurð hvort upplýsingar um erfiðleika sjóðsins og slæma stöðu hans hefðu verið opinberar kvað hún hvern sem er hafa getað reiknað út stöðu sjóðsins sem hefði upplýsingar um heildarinnlán íslenskra fjármálafyrirtækja. Þær upplýsingar hefðu hins vegar ekki legið á lausu en voru lagðar fram á fundi samráðshópsins og kvaðst hún ekki vita til þess að þær hefðu legið fyrir annars staðar, en heildarinnlán hafi aukist gríðarlega á árinu 2008 og upplýsingar þar um hefðu ekki verið opinberan. Hún kvað ársreikning sjóðsins hafa legið fyrir á vefsíðu sjóðsins og verið opinberar og þar komið fram upplýsingar um eignir sjóðsins. Hún kvað veika stöðu sjóðsins hafa verið í umræðu öðru hverju erlendis á þessum tíma án þess að hún myndi einstök tilvik.

H sat fund með F 2. september 2008. Tilgangur fundarins hafi verið sá að fá Breta til að slaka á kröfum um tíma sem Landsbankanum var gefinn til yfirfærslunnar. Hún kvaðst muna eftir því að breski ráðherrann spurði á fundinum hvort íslenskir þátttakendur gerðu sé ekki grein fyrir alvarleika málsins.

Vitnið B sat í bankastjórn Seðlabankans þann tíma sem hér um ræðir. Hann lýsti setu sinni í samráðshópnum sem fulltrúi Seðlabankans og lýsti hann starfi og tilgangi hópsins, en E hefði leitt starf hópsins. B lýsti tilhögun fundargerða sem ekki voru staðfestar af meðlimum samráðshópsins heldur hafi fundargerðum verið dreift eftir fundi og fundarmönnum gefinn kostur á að gera athugasemdir sæju þeir ástæðu til. Fundargerðirnar hafi hins vegar ekki verið undirritaðar, en þær voru stutt lýsing á því sem fram fór og þar sé skráð það mikilvægasta sem fram kom á fundunum.

B sat fund hópsins 22. júlí 2008. Þar er greint frá því í fyrsta sinn að komið hafi fram hvatning frá FSA til Landsbankans um að flytja innlánasafn sitt í Bretlandi í dótturfélag. Þá var á fundinum farið yfir stöðu tryggingasjóðsins og að ekki væri hægt að standa við lágmarkstryggingar um innstæðuvernd eins og staðan væri.

B kvaðst ekki draga í efa að það sem rakið var hefði komið fram. Ella hefði það ekki verið skráð.

B sat fund samráðshópsins 31. júlí 2008. Þar er í upphafi bókað að B hafi upplýst um ákvörðun um fimm milljarða punda hámark á Icesave fram að yfirfærslu. C hefði greint frá því að FSA hefði sett fram nýjar kröfur í síðustu viku og af mikilli hörku. Þá er bókað að ákærði hefði spurt hvenær tilkynnt hefði verið um fimm milljarða punda hámarkið. Þá er bókað eftir B sem minnti á að gæta þyrfti að trúnaðarupplýsingum sem þessum. Þá  er bókað eftir ákærða að það geti orðið banabiti fyrir íslensku bankana ef umræða um veikleika tryggingasjóðsins færi af stað.

Aðspurður fyrir dómi kvaðst B ekki telja að neitt meira hefði komið fram á fundinum um stöðu tryggingasjóðsins en það sem ráða mátti af opinberum gögnum, til dæmis þeim sem tiltæk voru á netinu.

Þá greindi hann frá því á fundinum að Seðlabankinn setti þrýsting á Landsbanka Íslands um að klára yfirfærsluna. Þá hafi C gert nánari grein fyrir áhyggjum FSA.

Fyrir dómi kvaðst B ekki efa að þessar upplýsingar hefðu komið fram á fundinum. Aðspurður um fimm milljarða punda hámarkið kvaðst B ekki muna hvernig hann fékk upplýsingar um það. Spurður hvort hámarkið hafi verið komið á kvaðst hann ekki muna þetta nákvæmlega en ásetningur breskra stjórnvalda um hámarkið hafi verið eindreginn þótt hann muni ekki hvernig þetta var orðað í gögnum sem hann sá um þetta.

Við skýrslutöku hjá lögreglunni greindi B svo frá að ef upplýsingar um þetta hefðu hvissast út hefði það getað haft þau áhrif í London að menn tækju innstæður sínar í bankanum út þar og það gæti haft miklar afleiðingar. Hann staðfesti þetta fyrir dóminum og að fréttir um að peningar leki úr banka séu alltaf slæmar fréttir.

B sat fund samráðshópsins 12. ágúst 2008, þar sem áfram var ræddur erindisrekstur FSA. Þá spurði ákærði hvort komið væri samkomulag í grundvallaratriðum þótt enn væru lausir endar. C hefði greint frá nýjum vendingum í málinu, m.a. höfnun FSA um að leggja innlán sem fóru upp fyrir hámarkið í Seðlabankann. C hefði greint frá því að komið væri að þolmörkum Landsbankans varðandi hversu langt bankinn gæti teygt sig. Þá er haft eftir ákærða að bankinn gæti lent í því að ganga að óásættanlegum kröfum við yfirfærslu innlána í dótturfélag, eða að halda þeim áfram í útibúi, sem væri erfitt fyrir íslensk stjórnvöld. Þá kom fram á fundinum að FSA hefði fundist Landsbankinn ganga of hart fram í vaxtaboðum og auglýsingum. Síðan voru rædd málefni tryggingasjóðsins, bókað eftir ákærða, sem spurði hvaða úrræði íslensk stjórnvöld hefðu til að ýta innlánum inn í dótturfélag erlendis og lýsti hann því að þetta væri mikið áhyggjuefni. Áfram var farið yfir stöðu tryggingasjóðsins síðan bókað eftir B að sú tímasprengja sem hættulegust væri núna væru innlánin erlendis.

Fyrir dómi kvaðst B ekki draga í efa að það sem skráð var hefði farið fram á fundinum. Aðspurður um tímasprengjuna, sem hættulegust væri, kvaðst B hafa átt við það að mjög erfitt hafi verið fyrir banka að afla sér lausafjár og mikilvægt að halda í það fé sem þeir höfðu. Umræðan um öryggi innlána gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir banka ef útstreymi yrði sem hefði þýtt lausafjárerfiðleika um þá sem þegar voru fyrir hendi hjá Landsbankanum sem öðrum.

B sat fund samráðshópsins 20. ágúst 2008. Þar var í upphafi gerð gein fyrir fundi C og D með FSA í London 18. ágúst og þar hefðu Bretar greint frá því að þeir teldu mikla hættu á innlánsáhlaupi gangvart Landsbankanum auk þess að greina frá áhyggjum af auglýsingaherferð Landsbankans og nefnt að bankinn væri ekki samvinnuþýður. Þá hafi FSA haldið við það að aðgerðir þeirra stæðust Evrópurétt. Greint var frá fundi Landsbankans og FSA þar sem fram komu skýr skilaboð FSA um kröfur á hendur Landsbankanum. C hefði greint frá því að kröfur FSA væru stigmagnandi og nú væri gerð krafa um yfirfærslu án skilyrða. Ákærði hefði spurt hver vandkvæði Landsbankans væru í þessari stöðu, auk þess að spyrja um tímafresti FSA. Þá hafi verið haft eftir E að hann skildi afstöðu breskra yfirvalda og að Landsbankinn væri ekki í nokkurri stöðu til að andmæla. Þá hafi C greint frá því að allar líkur væru á samskipum breskra og hollenskra stjórnvalda um þennan vanda.

B staðfesti fyrir dóminum að það sem bókað var á fundinum hefði komið þar fram og verið þar rætt.

B sat fund samráðshópsins 4. september 2008. Þar kom meðal annars fram að Hollendingar hygðust stöðva innlánasöfnun Landsbanka Íslands þar í landi. E hefði greint frá því að þar væri efnislega það sama og í kröfum FSA. C nefndi að ef misskilningur sem uppi var varðandi tryggingasjóðinn yrði leiðréttur opinberlega kynni það eitt og sér að valda útstreymi innlána úr íslenskum bönkum. Þá hafi G og ákærði greint frá því áliti sínu að starfsmenn Landsbankans í London sem þau hittu gerðu sér ekki fyllilega grein fyrir stöðunni. Þá er bókað eftir ákærða að ljóst sé að FSA gefi hvergi eftir. Þá var farið yfir fundinn með F 2. september 2008 og þar haft eftir G að F hefði gert ráð fyrir því að bresk stjórnvöld myndu ábyrgjast innstæður að fullu og spurt hvert ætti að senda reikninginn. Haft er eftir E að Landsbankamenn þráist enn við að skilja alvöruþunga breskra og hollenskra stjórnvalda.

Fyrir dóminum staðfesti B að það sem bókað var hefði komið fram á fundinum og verið rætt þar. Aðspurður um ástandið í Hollandi og að þeir hafi haft hug á því að stöðva frekari innlánasöfnun þar í landi kvað B engin bein afskipti hafa verið á milli Seðlabankanna í löndunum tveimur. Hann vissi hins vegar af umræðunni um þetta.

B sat fund samráðshópsins 9. september 2008. Ákærði hefði nefnt að færa þyrfti yfir miklar eignir til að geta haldið því uppstreymi fjármagns sem eftir yrði. C hefði nefnt að mál Landsbankans væri langstærsti höfuðverkurinn. Þá hafi C lýst því að litið væri á fjármálakerfið íslenska sem veikan kanarífugl í námunni.

Fyrir dómi staðfesti B að það sem bókað var hefði komið fram á fundinum og verið rætt þar. Hann lýsti miklum áhyggjum af Landsbankanum á þessum tíma og að samskipti við FSA hafi verið hafin og kröfur breskra yfirvalda væru skýrar, en einnig hafi verið vilji innan Landsbankans til að færa innlánin í Bretlandi í dótturfélag.

B sat fund samráðshópsins 16. september 2008. Í upphafi var rætt um fall Lehman bankans og áhrif þess. B kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir því strax við fall bankans hversu víðtæk áhrif fallsins yrðu. Þá voru á fundinum rædd málefni tryggingasjóðsins og greint frá því að stjórnendur FSA sætu þá fund um Landsbankann. Þá hafi verið farið yfir ,,ólystuga matseðilinn“ og E hafði eftir ráðherrum sem hann hitti á fundi að ekki væri ætlunin að bjarga hluthöfum banka kæmi til fjármálaáfalls.

Fyrir dóminum mundi B ekki hvort áður hefði verið rætt á fundum samráðshópsins að ekki stæði til að bjarga hluthöfum kæmi til fjármálaáfalls. Hins vegar sé það almennt viðurkennt að hluthafar njóti ekki sérstakrar verndar komist banki í þrot.

B kvaðst ekki muna að rætt hafi verið í samráðshópnum að meðlimir hans yrðu tilkynntir sem tímabundnir innherjar í þeim fjármálafyrirtækjum sem hópurinn fjallaði um. Þá minntist hann ekki umræðu um það hvort meðlimir hópsins kynnu að vera innherjar í skilningi 3. tl. 121. gr. laga nr. 108/2007. B kvað ljóst að upplýsingar sem fram komu í samráðshópnum hafi verið trúnaðarupplýsingar.

B staðfesti að það sem bókað var á fundinum 16. september hefði þar verið rætt. Hann mundi ekki eftir því að neitt hefði komið fram á þessum fundi sem benti til þess að verið væri að ná landi í samskiptum FSA og Landsbankans varðandi yfirfærsluna. Hann kvað samskipti FSA og Landsbankans hafa byrjað sem viðræðuferli og Landsbankinn hefði gert samning við FSA en er leið á sumarið 2008 hafi kröfur FSA aukist í garð Landsbankans. B kvað lausafjárstöðu íslensku bankana um miðjan september 2008 hafa verið þrönga, en hálfs árs uppgjör bankanna fyrri hluta árs 2008 hefðu sýnt að bankarnir hefðu staðið allvel á miðju ári. B kvað reikning innstæðutryggingasjóðs hafa verið opinberan og lögin skýr um inngreiðslur í sjóðinn. Aðspurður hvort almenningur hafi haft upplýsingar um það hversu miklar innstæður voru á árinu 2008, en þær hafi aukist mjög, kvað hann þá sem áhuga höfðu hafa getað kynnt sér það en kvað erfitt að svara þessu en vísaði í lögin um sjóðinn.

Vitnið A, var á þeim tíma sem hér um ræðir, og er framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabanka Íslands og var annar tveggja fulltrúa Seðlabankans í samráðshópnum og var ritari hópsins. Hann lýsti stofnun samráðshópsins í febrúar 2006, tilefni og tilgangi. E leiddi starf hópsins. A hefði skráð fundargerðir og sent þær út til meðlima hópsins ásamt fylgiskjölum sem dreift hefði verið á fundunum. Þannig hefði meðlimum hópsins verið gefinn kostur á því að gera athugasemdir við það sem skráð var. Hann lýsti því hvernig tekið var tillit til athugasemda og samskipta sem fóru á milli en allar séu þessar upplýsingar tiltækar í skjalakerfi Seðlabankans. Hann kvaðst hafa reynt að hafa fundargerðirnar eins áreiðanlegar og hann gat. Í upphafi hafi þær verið efnisminni, en eftir því sem ástandið varð alvarlegra urðu fundargerðirnar ítarlegri, auk þess sem það var í samræmi við vilja formanns samráðshópsins og annarra meðlima hans. A taldi það sem fram kom á fundinum hafa verið trúnaðarupplýsingar og lýsti hann upplýsingunum sem fram komu bæði frá einstökum stofnunum og ráðuneytum og í umræðu meðal nefndarmanna. A kvaðst hafa átt hlutabréf í öllum íslensku bönkunum og kvaðst hann hafa talið að hann gæti ekki átt viðskipti með hlutabréfin meðal annars vegna upplýsinga sem hann fékk með setu sinni í samráðshópnum. Nánar aðspurður, síðar í skýrslutökunni, greindi A svo frá að vegna starfs síns í Seðlabanka og vegna setu í samráðshópnum og vegna hluta sem hann yrði áskynja í starfi sínu væru honum mjög miklar takmarkanir settar varðandi viðskipti með hlutabréf.

A sat fund samráðshópsins 22. júlí 2008. Þar koma fyrst fram upplýsingar um að FSA hafi hvatt Landsbankann til að flytja innlánasafn sitt í þarlent dótturfélag. Þá hafi verið rædd slæm staða tryggingasjóðsins og rætt að sjóðurinn gæti ekki staðið við lágmarkstryggingu um innstæðuvernd og C hefði sagt að sjóðurinn gæti staðið við skuldbindingar ef Sparisjóði Mýrasýslu færi, en um leið tæmdist sjóðurinn.

A staðfesti fyrir dóminum að upplýsingarnar sem raktar voru hefðu komið fram á fundinum.

A sat fund samráðshópsins 31. júlí 2008. Þar hafi B upplýst um fimm milljarða sterlingspunda hámark á Icesave fram að yfirfærslu. Þá kom fram að FSA hefði sett fram kröfur í síðustu viku af mikilli hörku og rædd hafi verið möguleg yfirfærsla. Ákærði hefði spurt hvenær tilkynnt hafi verið um hámarkið. B hefði minnst á að gæta þyrfti sérstaklega að trúnaðarupplýsingum sem þessum. Þá er bókað eftir ákærða að hann hefði talið það geta orðið banabita íslensku bankanna ef umræða um veikaleika tryggingasjóðsins færi af stað. B hefði upplýst að Seðlabankinn setti þrýsting á Landsbanka Íslands um að klára yfirfærsluna. Þá hafi C greint frá áhyggjum FSA af íslenska tryggingasjóðnum.

A staðfesti fyrri dóminum að upplýsingarnar sem raktar voru hefðu komið fram á fundinum. Hann kvað upplýsingarnar um fimm milljarða hámarkið hafa borist frá FME og Seðlabankinn hefði þetta ekki frá fyrstu hendi.

A sat fund samráðshópsins 12. ágúst 2008. Áfram var ræddur erindisrekstur FSA. Þá spurði ákærði hvort komið væri samkomulag í grundvallaratriðum þótt enn væru lausir endar. C hefði greint frá nýjum vendingum í málinu, meðal annars höfnun FSA á hugmynd Landsbankans um að leggja innlán sem fóru upp fyrir hámarkið á reikning í Seðlabanka. C hefði greint frá því að komið væri að þolmörkum Landsbankans varðandi það hversu langt bankinn gæti teygt sig. Þá er haft eftir ákærða að Landsbankinn gæti lent í þeirri aðstöðu að ganga að óásættanlegum kröfum við yfirfærslu innlána í dótturfélag, eða að halda þeim áfram í útibúi sem væri erfitt fyrir íslensk stjórnvöld. Þá kom fram á fundinum að FSA hefði fundist Landsbankinn ganga of hart fram í vaxtaboðum og auglýsingum. Þá voru rædd málefni tryggingasjóðsins, bókað eftir ákærða, sem spurði hvaða úrræði íslensk stjórnvöld hefðu til að ýta innlánum yfir í dótturfélag erlendis og lýsti hann því að þetta væri mikið áhyggjuefni og ástæða til að skoða möguleikana í heild. Þá var farið yfir erfiðleika tryggingasjóðsins. Síðan var bókað eftir B að  sú tímasprengja sem hættulegust væri væru innlánin erlendis.

A staðfesti fyrir dóminum að upplýsingarnar sem raktar voru hefðu komið fram á fundinum. Hann kvaðst ekki viss um það hvort á þessum tíma hefðu verið komnar fram upplýsingar um fimm milljarða punda hámakið. Hins vegar hafi áhyggjur FSA verið ljósar og viðleitni þeirra í því að takmarka áhættuna sem uppbygging innstæðnanna gat haft fyrir bresk yfirvöld.

A sat fund samráðshópsins 20. ágúst 2008. Á fundinum var í upphafi gerð grein fyrir fundi C og D með FSA í London 18. ágúst og þar hefðu Bretarnir greint frá því að þeir teldu mikla hættu á innlánsáhlaupi gagnvart Landsbankanum, auk þess að greina frá áhyggjum af auglýsingaherferð Landsbankans og hefðu þeir nefnt að bankinn væri i ekki samvinnuþýður. Þá hafi FSA haldið við það að aðgerðir þeirra stæðust Evrópurétt. Greint var frá fundi Landsbankans og FSA 19. ágúst þar sem fram komu skýr skilaboð FSA um kröfur á hendur Landsbankanum. C hefði greint frá því að kröfur FSA færu stigmagnandi og nú væri gerð krafa um yfirfærslu án skilyrða. Ákærði hefði spurt hver vandkvæði Landsbankans væru í þessari stöðu auk þess að spyrja um tímafresti FSA. Þá er haft eftir E að hann skilji afstöðu breskra yfirvalda og að hann sæi að Landsbankinn væri ekki í nokkurri aðstöðu til að andmæla. Þá hefði C greint frá því að allar líkur væru á samskiptum breskra og hollenskra stjórnvalda um þennan vanda.

A staðfesti fyrir dóminum að upplýsingarnar sem raktar voru hefðu komið fram á fundinum.

A sat fund samráðshópsins 4. september 2008. Þar kom meðal annars fram að Hollendingar hygðust stöðva innlánasöfnun Landsbankans þar í landi. E hefði greint frá því að þær kröfur væru efnislega hinar sömu og kröfur FSA. C nefndi að ef misskilningur sem var uppi varðandi tryggingasjóðinn yrði leiðréttur opinberlega kynni það eitt og sér að valda útstreymi innlána úr íslensku bönkunum. Þá hafi G og ákærði greint frá því áliti sínu að starfsmenn Landsbankans í London sem þau hittu áttuðu sig ekki fyllilega á stöðunni. Þá er bókað eftir ákærða að ljóst sé að FSA gæfi hvergi eftir. Þá var farið yfir fundinn með F 2. september 2008 og þar haft eftir G að F hefði gert ráð fyrir því að bresk yfirvöld myndu ábyrgjast innstæðurnar að fullu og spurt hvert ætti að senda reikninginn. Haft er eftir E að Landsbankamenn þráist enn við að skilja alvöruþunga breskra og hollenskra stjórnvalda.

A staðfesti fyrir dóminum að upplýsingarnar sem raktar voru hefðu komið fram á fundinum.

A sat fund samráðshópsins 9. september 2008. Ákærði hefði nefnt að færa þyrfti yfir miklar eignir til að geta haldið því uppstreymi fjármagns sem eftir yrði. C hefði nefnt að mál Landsbankans væri langstærsti höfuðverkurinn og spurt hvort lánardrottnar gerðu kröfur vegna fyrirhugaðrar yfirfærslu. Þá hafi C lýst því að litið væri á fjármálakerfið íslenska sem veikan kanarífugl í námunni.

A staðfesti fyrir dóminum að upplýsingarnar sem raktar voru hefðu komið fram á fundinum.

A sat fund samráðshópsins 16. september 2008. Á fundinum voru rædd málefni tryggingasjóðs og greint frá því að stjórnendur FSA sætu þá fund um málefni Landsbankans. Þá var farið yfir ,,ólystuga matseðilinn“. E hafði eftir ráðherrum sem hann hitti á fundi að ekki væri ætlunin að bjarga hluthöfum bankanna, kæmi til fjármálaáfalls.

A staðfesti fyrir dóminum að upplýsingarnar sem raktar voru hefðu komið fram á fundinum. Aðspurður kvaðst A ekki minnast þess að neitt hefði komið fram á fundinum 16. september sem gaf til kynna að samskipti Landsbankans og FSA væru að ná landi. Hann kvað aldrei hafa verið uppi þá stöðu að samkomulag næðist í samskiptum bankans og FSA. Landsbankinn hefði greint frá gangi þessa frá upphafi og að bakslag hefði komið í samskiptin. A mundi eftir frásögn E af fundi hans með ráðherrunum og lýsti hann umræðunum um þetta, meðal annars viðbrögðum stjórnvalda og að sér hefði fundist athyglisvert það sem E greindi frá um það hvernig tekið yrði á málum kæmi til fjármálaáfalls, því það hafi ekki verið sjálfgefið hvernig tekið yrði á vandanum sem upp kæmi og hvar stjórnvöld vildu draga línur. Við vinnuna að viðbragðsáætlun var tekið mið af aðstæðum sem virtust vera að skapast og vinnan við þetta hefði verið orðin mjög brýn, óháð því hvenær þyrfti að grípa til viðbragðsáætlunarinnar. A kvaðst hafa talið að vinna hefði þurft hraðar að þessu og fleiri hafi verið sama sinnis. A var spurður hvort hálfs árs uppgjör bankanna hefði gefið til kynna einhverja sérstaka vá fyrir dyrum. Hann lýsti vinnu Seðlabankans í greiningu að þessu leyti og nefndi að allt frá nóvember 2003 hefði aldrei verið sagt að ástandið væri að batna. Hann lýsti áhyggjum Seðlabanka af lausafjárstöðu bankanna og skýrði það nánar. Hann lýsti vinnu samráðshópsins og stofnana sem þar áttu fulltrúa til að undirbúa viðlagaáætlun og þær hafi byggt á því að átakapunkturinn yrði um miðjan október 2008. Aðspurður hvort einhver vafi hefði verið um fjárhagslegt bolmagn tryggingasjóðsins á þeim tíma sem hér um ræðir kvað A FME hafa unnið að úttekt á því hvað tryggingasjóðurinn þyrfti að leggja út ef illa færi. Þær niðurstöður hafi verið kynntar á fundum samráðshópsins.

Vitnið I var regluvörður Landsbanka Íslands á þeim tíma sem hér um ræðir. Hann lýsti starfi regluvarðar í bankanum en starf hans fólst meðal annars í því að framfylgja reglum bankans um meðferð innri upplýsinga og viðskipti innherja, frumherja og tímabundinna innherja samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti. Hann hefði fengið sínar upplýsingar frá framkvæmdastjóra lögfræðisviðs bankans. I kvaðst á þeim tíma sem hér um ræðir engar upplýsingar hafa fengið um kröfur FSA um yfirfærslu Icesave í dótturfélag í Bretlandi. Hann kvað augljóst, miðað við upplýsingar sem hann hefði í dag, að sér hefði ekki verið gerð grein fyrir því hversu alvarleg staðan var og átti hann þá við hámark á innstæður á Icesave reikninga í Bretlandi. Hann kvaðst engar upplýsingar hafa haft á þessum tíma um það hvort sett hafi verið hámark á innstæður. Hann kvaðst því ekki hafa haft nægar upplýsingar til að meta hvort um innherjaupplýsingar hafi verið að ræða varðandi það sem rakið var.

Vitnið J var forstöðumaður lögfræðiráðgjafar Landsbanka Íslands sumarið og haustið 2008. Hann lýsti samskiptum bankans við FSA, en hann kvaðst hafa annast þau samskipti í samráði við bankastjóra bankans, en mjög fáir innan bankans vissu af samskiptunum við FSA, eða fjórir til fimm starfsmenn að hann taldi. Ástæðan hafi verið sú að upplýsingarnar hafi verið taldar miklar trúnaðarupplýsingar. Hjá lögreglu greindi J svo frá að ástæða þess að svo fáir vissu af samskiptum við FSA hafi verið sú að menn óttuðust áhlaup á bankann yrðu upplýsingarnar kunnar. Fyrir dóminum lýsti J því að menn hafi löngum óttast áhlaup á bankann árið 2008 eins og á erlenda banka óháð rekstri og afkomu þeirra, eins og erlend dæmi sýndu að hans sögn. Upplýsingarnar sem hér um ræðir hafi því verið trúnaðarupplýsingar fyrir bankann. J kvaðst muna óljóst eftir fundi bankastjóra Landsbankans með G og ákærða 13. ágúst 2008. Hann mundi lítið eftir fundinum og tilefni hans, en taldi sig hafa tekið saman gögn vegna fundarins. Aðspurður hvort eitthvað hafi gerst í samskiptum Landsbankans og FSA um miðjan september 2008 sem gaf til kynna að málið væri að leysast varðandi yfirfærsluna kvaðst hann ekki minnast þess, menn hafi hins vegar stöðugt færst nær lausn. Hann lýsti vinnu sem fram fór innan bankans við yfirfærsluna. Hann kvaðst telja óljósan lagagrundvöll sem FSA hafði uppi í bréfasamskiptum sínum við Landsbankann varðandi takmörkun innlána og yfirfærsluna og fleira og lýsti hann þessu nánar en kvað FSA hins vegar hafa haft mjög víðtækar heimildir. J kvað samskipti Landsbankans við bankayfirvöld í Hollandi hafa verið óformlegri heldur en samskiptin við FSA. Hann lýsti fundi með Hollendingunum þar sem fram kom beiðni þeirra um að hætta að taka við innlánum í Hollandi. Landsbankinn hafi beðið um að nánari grein yrði gerð fyrir þessari ósk og þá hafi Hollendingarnir lýst almennum áhyggjum af íslensku efnahagslífi. Þessu hafi ekki verið fylgt eftir með valdboði, en fundað hafi verið um þetta, að hann taldi snemma í september 2008.

Vitnið K var annar Landsbankastjóra á þeim tíma sem hér um ræðir. Hann kvað bankastjóra Landsbanka hafa setið fund 13. ágúst 2008, ásamt G, ráðuneytisstjóra í viðskiptaráðuneytinu, og ákærða. Hann lýsti aðdraganda fundarins og tilefni, en það hafi tengst fyrirhugaðri ferð viðskiptaráðherra til Bretlands. Erindið til Bretlands var að reyna að fá Bretana til að fallast á að hægt væri að breyta útibúi Landsbankans í Bretlandi í dótturfélag þannig að bankinn gæti gert það en ekki eftir kröfum sem bresk yfirvöld hefðu gert, en þær hefðu verið óleysanlegar að hans sögn. Hann lýsti þessu nánar og að Bretar hefðu verið mjög ósveigjanlegir og því hafi verið talið að málið væri komið á pólitískt stig og því hafi ráðherrann farið út. K lýsti samskiptum bankans við Breta og að í lok maí 2008 hefði fundist lausn sem Bretar voru sáttir við. Hann kvað viðhorf Bretanna hafa breyst í júlí 2008 eftir umræður um málið í breska þinginu. Þá hefði málið verið tekið upp að nýju og eftir það hafi Bretar verið mjög ósveigjanlegir og ekki viljað koma til móts við Landsbankann til að ná lausn. Hann lýsti því hvers vegna Landsbankinn gat ekki orðið við kröfum Bretanna. Það var vegna þess að færa þurfti eignir frá móðurfélaginu í dótturfélag í Bretlandi í einu lagi. Þetta hefði ekki verið hægt því þá hefði bankinn brotið gegn ákvæðum í lánasamningum sínum sem hefði getað leitt til uppsagnar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir bankann. Þessu hefði verið komið á framfæri við FSA, en þeir verið ósveigjanlegir og beðið um framkvæmd sem var ómöguleg að hans sögn. Þetta mál hafi verið rætt á fundinum 13. ágúst 2008 sem getið var um að framan og þar verið kynnt bréfaskipti bankans og FSA. Aðspurður hvort búið hafi verið að leysa málið varðandi yfirfærslurnar um miðjan september 2008 kvað hann málið aldrei hafa leyst. Málið hafi verið fast, eins og lýst var, og engin þáttaskil verið um miðjan september 2008. Aðspurður um fimm milljarða punda hámarkið á Icesave, kvað hann aldrei hafa reynt á það. Aðspurður hvort hámarkið hafi verið komið á formlega, kvað hann það hafa verið rætt og skilgreiningaratriði hvort það hafi verið formlega komið á eða ekki, en kvaðst geta ímyndað sér að FSA hafi talið hámarkið komið á. Borið var undir vitnið bréf FSA, dagsett 5. ágúst 2008 til beggja Landsbankastjóra, þar sem fram komu upplýsingar um fimm milljarða punda hámarkið á Icesave innstæðurnar. K lýsti þá afstöðu bankans um hæpnar lagalegar forsendur FSA varðandi þetta, en það hafi verið álitaefni FSA samkvæmt bréfinu hvort hámarkið hafi verið komið á. Hann mundi ekki hvort bankinn hefði samþykkt hámarkið en bankinn hefði ekki verið í aðstöðu til að andmæla FSA þótt lagagrundvöllur FSA væri hæpinn að mati bankans og skýrði K þetta nánar.

Vitnið L var annar bankastjóra Landsbankans á þeim tíma sem hér um ræðir. Hann lýsti fundi bankastjóranna og G, ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytisins, og ákærða 13. ágúst 2008. Hann kvaðst telja að tilefni fundarins hafi verið bréfaskipti bankans og FSA í júlí eða ágúst 2008. Eftir að í ljós kom að FSA hafði sent afrit bréfaskiptanna til breska fjármálaeftirlitsins hafi þótt eðlilegt að kynna íslenskum stjórnvöldum málið og stöðu viðræðna við FSA. Á þeim tíma hafi verið hafnar endurnýjaðar viðræður um að dótturfélagavæða starfsemi Icesave-reikninganna í London og um tilhögun um færslu eigna á móti. L lýsti þessu nánar og vandkvæðum Landsbankans við framkvæmdina. Hann lýsti tilraunum Landsbankans við að reyna að fá frest til að framkvæma þetta. Fundurinn hafi verið liður í því að fá stuðning við þessi sjónarmið bankans um að færa eignir í tveimur áföngnum og að fá lengri tíma til verksins. Hann kvað kröfur FSA hafa breyst en áður hafði náðst samkomulag við FSA 29. maí 2008 og þá hafði FSA dregið til baka kröfuna um að færa starfsemi Icesave i dótturfélag. Krafan um dótturfélagavæðinguna hafi síðan  komið upp aftur og nýjar kröfur um það komið fram um mánaðamótin júlí/ágúst 2008. Eftir þetta snerust viðræðurnar um hinar nýju og breyttu kröfur. Hann kvað fáa innan bankans hafa vitað af kröfum FSA og starfsmenn voru bundnir trúnaði um þetta.  L kvað hafa verið vandasamt fyrir bankann að verða við kröfum FSA um að yfirfærslan færi fram í einu lagi og lýsti hann ástæðunum, m.a. vegna ákvæða í lánasamningum bankans. Hann kvað ýtrustu kröfur Breta hafa komið fram í bréfasamskiptunum og á fundum hafi þeir verið fullir vilja til samvinnu og að finna lausnir og kvað hann sér hafa verið ljóst að Bretarnir myndu ekki knýja fram lausn sem bankinn gæti ekki staðið við.  Það hefði verið andstætt þeirra hagsmunum.

L kvað samskiptin við FSA um yfirfærsluna enn hafa verið í viðræðuferli 16. september 2008. Þá höfðu engir úrslitakostir verið gefnir út. Spurður hvort umræður hefðu orðið um að upplýsingarnar um það sem hér um ræðir kynnu að vera innherjaupplýsingar kvaðst L hafa talið að upplýsingarnar væru trúnaðarupplýsingar en hann kvaðst ekki hafa talið að þær væru verðmyndandi. Aðspurður hvort hann hefði talið að upplýsingarnar sem hér um ræðir gætu valdið áhlaupi á bankann spyrðust þær út tók L fram að allur órói í kringum banka og neikvæðar fréttir af banka við aðstæður sem þessar sé eitt af því sem menn forðist með öllum ráðum til að forðast þá áhættu enda áhlaup á banka það alvarlegasta sem fyrir banka geti komið.

Niðurstaða

Ákærði neitar sök og kveðst ekki hafa búið yfir innherjaupplýsingum er hann seldi hlutabréf sín í Landsbanka Íslands hf. 17. og 18. september 2008.

Ákærða eru gefin að sök innherjasvik í opinberu starfi sem ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins með því að hafa selt öll hlutabréf sín í Landsbanka Íslands hf. hinn 17. og 18. september 2008, þrátt fyrir að hafa þá búið yfir innherjaupplýsingum um bankann sem hann varð áskynja í starfi sínu sem ráðuneytisstjóri, einkum í tengslum við setu sína í samráðshópi, eins og lýst er í ákærunni, auk upplýsinga sem fram komu á fundi með bankastjórum Landsbanka Íslands 13. ágúst 2008 og á fundi með fjármálaráðherra Bretlands 2. september 2008. Segir í ákærunni að innherjaupplýsingarnar hafi verið líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð hlutabréfanna í bankanum yrðu þær opinberar.

Í þeim kafla ákæru þar sem brot ákærða eru færð til refsiákvæða segir að innherjasvik hans hafi falist í því að hagnýta sér upplýsingarnar sem um ræðir.

Verjandi ákærða telur að með þessu sé gerður meiri áskilnaður um brotalýsingu en mælt sé fyrir um í 1. tl. 1. mgr. 123. gr. laga nr. 108/2007 sem ákærða er gefið að sök að hafa gerst brotlegur við.

Ætluðu broti ákærða er lýst í upphafskafla ákæru svo, að honum er gefið að sök að hafa selt öll hlutabréf sín í Landsbanka Íslands, þrátt fyrir að hafa búið yfir innherjaupplýsingum eins og nánar er lýst. Þarna er lýst brotinu sjálfu og enginn viðbótaráskilnaður verður skilinn með hinum tilvitnuðu orðum í heimfærslukafla ákærunnar. Kom þetta sjónarmið ákæruvaldsins einnig skýrt fram við flutning málsins.

Eins og rakið var að framan voru fundargerðir samráðshópsins ekki undirritaðar og staðfestar af meðlimum hópsins og hefur verjandi ákærða andmælt sönnunargildi fundargerðanna. Allir sem sátu þá sex fundi samráðshópsins sem vitnað er til í ákæru komu fyrir dóminn undir aðalmeðferð málsins. Öll staðfestu vitnin að það sem skráð er í fundagerðirnar eða drögin hafi komið fram á fundunum. Hið sama á við um vitnisburð bankastjóra Landsbankans sem báru um fundinn 13. september 2008. Vísað er til þess sem um þetta var rakið að framan.  Er samkvæmt þessu sannað, með vitnisburði vitna sem báru um hvern og einn fund samráðshópsins sem hér um ræðir og með drögum að fundargerðum og með framburði ákærða að hluta, að fundargerðirnar og upplýsingarnar af fundunum sem í ákæru greinir og eru taldar hafa verið innherjaupplýsingar komu fram á þessum sex fundum samráðshópsins og á fundinum með bankastjóra Landsbankans 13. ágúst 2008 og með fjármálaráðherra Bretlands 2. september 2008.

Að framan var vikið að samráðshópnum, stofnun hans, tilgangi og fleiru. Þeir sem í hópnum sátu þann tíma sem í ákæru greinir lýstu trúnaði sem ríkti og að upplýsingarnar sem fram komu hafi verið trúnaðarupplýsingar og mjög viðkvæmar, yrðu þær opinberar. Reifunin hér að framan hefur að þessu leyti beinst sérstaklega að upplýsingum sem fram komu um Landsbanka Íslands og var mikið af þeim upplýsingum þessu marki brennt og mörg vitni sem báru um þetta og lýstu mikilvægi upplýsinganna að þessu leyti og hversu varlega var farið með þær. Auk þess kom ítrekað fram á fundum samráðshópsins að nefndarmenn voru minntir á mikilvægi þess að gæta trúnaðar um það sem fram fór.

Það er mat dómsins að meðlimir samráðshópsins hafi haft stöðu annars innherja í skilningi 3. tl. 1. mgr. 121. gr. laga nr. 108/2007, er samráðshópurinn fjallaði um upplýsingar sem vörðuðu íslenskar fjármálastofnanir. Á þetta alveg sérstaklega við um upplýsingarnar um Landsbanka Íslands sem mest var til umræðu á fundum samráðshópsins á þeim tíma sem hér um ræðir, en lítið af þeim upplýsingum sem hér skipta máli var opinbert á þessum tíma. Þá var ljóst í mörgum tilvikum hver yrðu líkleg áhrif á markaðsverð hlutabréfa í bankanum yrðu upplýsingarnar opinberar. Allar þessar upplýsingar fékk ákærði með setu sinni í samráðshópnum, en hann sat alla fundi hópsins á tímabilinu 22. júlí 2008 til 16. september 2008. Vegna þessa má vísa til vitnisburðar E og A sem hvorugur taldi sig geta selt hlutbréf sín í bönkum eins og rakið var en vitnisburður þeirra um þetta ræður ekki úrslitum um niðurstöðu málsins.

Trúnaðurinn einn nægir ekki til að taka afstöðu til sektar ákærða. Taka verður afstöðu til þess hvort einstök tilvik sem í ákæru greinir uppfylli skilyrði laga um að teljast hafa verið innherjaupplýsingar á hverjum tíma. Á því er byggt í ákæru að ákærði hafi verið annar innherji í skilningi 3. tl. 1. mgr. 121. gr. laga nr. 108/2007. Í lagagreininni segir að annar innherji sé aðili sem hvorki teljist fruminnherji né tímabundinn innherji, en hefur fengið vitneskju um innherjaupplýsingarnar, enda hafi viðkomandi vitað, eða mátt vita, hvers eðlis upplýsingarnar voru. Ákærði, með sína þekkingu, vissi eða mátti vita  hvers eðlis upplýsingarnar sem hér um ræðir voru að þessu leyti. Samkvæmt 1. mgr. 120. gr. laga nr. 108/2007 er með innherjaupplýsingum átt við nægjanlega tilgreindar upplýsingar sem ekki hafa verið gerðar opinberar og varða beint eða óbeint útgefendur fjármálagerninga, fjármálagerningana sjálfa eða önnur atriði og eru líklegri til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninganna ef opinberar væru eins og nánar er kveðið á um í 2. gr. reglugerðar nr. 630/2005, er þetta varðar og er svohljóðandi:

,,Með innherjaupplýsingum er átt við nægjanlega tilgreindar upplýsingar sem ekki hafa verið gerðar opinberar og varða beint eða óbeint útgefendur verðbréfa, verðbréfin sjálf eða önnur atriði og eru líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninganna ef opinberar væru, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti.

Litið skal svo á að upplýsingar séu nægjanlega tilgreindar ef þær gefa til kynna aðstæður sem eru fyrir hendi eða sem ætla má að verði fyrir hendi eða atburð sem hefur átt sér stað eða sem ætla má að muni eiga sér stað. Upplýsingarnar verða þó að vera nægilega nákvæmar til að unnt sé að draga ályktun um möguleg áhrif þeirra aðstæðna eða atburðar á verð fjármálagerninga eða afleiddra fjármálagerninga sem þeim tengjast.

Innherjaupplýsingar sem væru líklegar til að hafa marktæk áhrif á verð fjármálagerninga eða afleiddra fjármálagerninga sem þeim tengjast, yrðu þær gerðar opinberar, eru þær upplýsingar sem líkur eru á að upplýstur fjárfestir noti sem hluta af þeim grunni sem hann byggir fjárfestingarákvarðanir sínar á.“

Verjandi ákærða telur skorta á skýrleika refsiheimilda í málinu þar sem ekki hafi verið gefin út reglugerð á grundvelli 131. gr. laga nr. 108/2007 eins og mælt er fyrir um í 1. mgr. 120. gr. laganna. Reglugerð nr. 630/2005, sem vísað er til í ákærunni, var sett með heimild í lögum nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti. 120. gr. laga nr. 108/2007 er efnislega samhljóða 57. gr. laga nr. 33/2003, sbr. breytingalög nr. 31/2005. Þegar þannig háttar hefur verið litið svo á í réttarframkvæmd að eldri stjórnvaldsfyrirmæli haldi gildi sínu þar til ný eru sett á grundvelli yngri laga. Samkvæmt þessu þykir hvorki skorta refsiheimildir né skýrleika þeirra að þessu leyti.

Í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 630/2005 er fjallað um það hvenær upplýsingar sem hér um ræðir séu nægjanlega tilgreindar. Ákærði var upplýstur fjárfestir með víðtæka reynslu eftir því sem fram hefur komið undir rekstri málsins. Upplýsingarnar sem um ræðir í ákæruliðum 1-6 voru því að mati dómsins í öllum tilvikum nægjanlega tilgreindar til að ákærði gæti dregið ályktun um möguleg áhrif þeirra aðstæðna og/eða atburða á verð fjármálagerninga, hér hlutabréfanna, eða afleiddra fjármálagerninga sem þeim tengjast eins og lýst er í 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar nr. 630/2005. Það er mat dómsins að þær upplýsingar sem lýst er í liðum 1-6 í ákæru séu slíkar að líkur séu á að upplýstur fjárfestir noti þær sem hluta af þeim grunni sem hann byggir fjárfestingaákvarðanir sínar á, sbr. 3. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar nr. 630/2005, en ákærði var eins rakið var upplýstur fjárfestir.

Í 120. gr. laga nr. 107/2008 er því lýst að upplýsingar sem gerðar hafi verið opinberar verði ekki metnar sem innherjaupplýsingar. Í 120. gr. i.f. segir að upplýsingarnar teljist opinberar þegar útgefandi fjármálagerninga hefur birt almenningi á Evrópska efnahagssvæðinu þær, sbr. 122. og 127. gr. laganna. Í þessum lagagreinum er lýst reglum um birtingu upplýsinga og nánar er kveðið á um sama efni í 3. kafla reglugerðar nr. 707/2008 um upplýsingagjöf og tilkynningaskyldu skv. lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Eins og síðar verður rakið telur dómurinn ósannað að ákvörðun hafi verið tekin um fimm milljarða punda hámarkið sem lýst er í 2. lið ákæru og þá telur dómurinn að upplýsingarnar sem í 3. lið ákæru greinir hafi verið opinberar. Að þessu frátöldu liggur fyrir að ekkert af þeim upplýsingum sem í 1.-6. lið ákæru greinir hafi verið birt opinberlega og er því í öllum tilvikum uppfyllt lagaskilyrðið um að upplýsingarnar hafi ekki verið opinberaðar í skilningi laga.

Verður nú vikið að hverjum og einum tölulið ákærunnar og afstaða tekin til þess hvort upplýsingarnar sem þar er getið um hafi verið innherjaupplýsingar eins og á stóð.

1. Sannað er með vitnisburði allra sem sátu fundi samráðshópsins á þeim tíma sem hér um ræðir og vitnisburði bankastjóra Landsbankans og með öðrum gögnum málsins að breska fjármálaeftirlitið gerði þá kröfu til Landsbanka Íslands sem lýst er í þessum ákærulið. Á sama hátt er sannað að Landsbankinn átti í erfiðleikum með að verða við þessum kröfum. Allt kom þetta fram og var rætt á fundum samráðshópsins sem í ákæru greinir en erfiðleikarnir komu einnig fram á fundinum með bankastjórum Landsbankans  13. ágúst 2008. Ákærði sat alla þessa fundi. Ljóst er af því sem rakið var um þennan ákærulið og af sjálfu leiðir að um upplýsingarnar ríkti mikill trúnaður og upplýsingarnar voru viðkvæmar yrðu þær opinberar. Upplýsingarnar sem hér um ræðir voru ítarlega ræddar í samráðshópnum, tímafrestir og fleira, og voru upplýsingarnar nægjanlega tilgreindar og uppfylla þær lagaskilyrði þar um eins og rakið var. Þá er það mat dómsins að ljóst sé að upplýsingarnar voru líklegar til að hafa áhrif á verð hlutabréfa í bankanum yrðu þær opinberar og vísast um það sem rakið var að framan um þetta. Er því sannað með öllu ofanrituðu, gegn neitun ákærða, að upplýsingarnar sem hér um ræðir voru innherjaupplýsingar, sbr. 1. mgr. 120. gr. laga nr. 108/2007.

2. Vísað er til alls þess sem rakið var að framan og vitnisburðar um það hvort ákvörðun um fimm milljarða sterlingspunda hámark innstæðna hafi verið tekið af breska fjármálaeftirlitinu á þeim tíma er ákærði seldi hlutabréf sín í Landsbankanum hinn 17. og 18. september 2008. Það er mat dómsins að ósannað sé að þessi ákvörðun hafi verið tekin á þessum tíma og kemur því ekki til þess að meta hvort ákærði hafi búið yfir innherjaupplýsingum um þetta.

Hins vegar er sannað með vitnisburði sem rakinn var um fundi samráðshópsins á því tímabili sem hér um ræðir, og með öðrum gögnum málsins, að tilmæli FSA voru þau sem lýst er í þessum ákærulið og tilraunir sama aðila til að takmarka markaðssetningu Landsbankans á Icesave eins og rakið er. Allt kom þetta fram og var rætt á fundum samráðshópsins á því tímabili sem í ákæru greinir og ákærði sat fundina. Ljóst er á því sem rakið var um þennan ákærulið, og af sjálfu leiðir, að um þessar upplýsingar ríkti mikill trúnaður og upplýsingarnar voru viðkvæmar yrðu þær opinberar. Upplýsingarnar sem hér um ræðir voru ítarlega ræddar af samráðshópnum og voru upplýsingarnar nægjanlega tilgreindar til að uppfylla lagaskilyrði um innherjaupplýsingar. Þá má ráða af öllu því sem rakið hefur verið að framan að upplýsingarnar voru líklegar til að hafa áhrif á verð hlutabréfa í bankanum yrðu þær opinberar. Er því sannað með öllu ofanrituðu, gegn neitun ákærða, að upplýsingarnar sem hér um ræðir voru innherjaupplýsingar, sbr. 1. mgr. 120. gr. laga nr. 108/2007.

3. Í lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta er lýst hvernig tryggingasjóðurinn er fjármagnaður. Af lögunum og reikningum sjóðsins, sem eru opinberir og aðgengilegir á netinu, mátti ráða stöðu sjóðsins að hluta. Samkvæmt vitnisburði B var unnt að afla sér upplýsinga um heildarinnlán banka á þeim tíma sem hér um ræðir, þar með talið Landsbanka Íslands. Þá liggur fyrir samkvæmt gögnum málsins að opinber umræða fór fram á þessum tíma um veika stöðu sjóðsins. Að öllu þessu virtu er það mat dómsins að það sem fram kom á fundum samráðshópsins um stöðu sjóðsins og getu til að tryggja innstæður á Icesave reikningunum hafi ekki verið neitt sem skipti máli umfram það sem opinbert gat talist. Kemur þegar af þessari ástæðu ekki til álita að virða upplýsingarnar sem ákærði komst yfir við setu í samráðshópnum um þetta sem innherjaupplýsingar.

4. Vísað er til vitnisburðar þeirra sem sátu fund samráðshópsins 4. september 2008. Er sannað með vitnisburði þeirra og með öðrum gögnum málsins að Seðlabanki Hollands hugðist stöðva frekari innlán á Icesave reikningum í Hollandi. Áður var lýst trúnaði sem gilti um upplýsingar sem fram komu á fundum samráðshópsins. Upplýsingarnar sem hér um ræðir voru mjög viðkvæmar yrðu þær opinberar. Upplýsingarnar um þetta voru ræddar í samráðshópnum og voru nægjanlega tilgreindar til að uppfylla skilyrði laganna um innherjaupplýsingar. Augljóst er að þær voru líklegar til að hafa áhrif á verð hlutabréfa í bankanum yrðu þær opinberar. Er því sannað með öllu ofanrituðu, gegn neitun ákærða, að upplýsingarnar sem hér um ræðir voru innherjaupplýsingar, sbr. 1. mgr. 120. gr. laga nr. 108/2007.

5.  Vísað er til vitnisburðar þeirra sem sátu fundinn með breska fjármálaráðherranum 2. september 2008 er rakinn var að framan. Er sannað með þeim vitnisburði, og með öðrum gögnum málsins, að upplýsingarnar sem í þessum ákærulið greinir komu fram á fundinum sem hér um ræðir. Upplýsingarnar eru að hluta hinar sömu og komu fram á fundum samráðshópsins á þeim tíma sem hér um ræðir, sbr. ákærulið 1 að framan. Þótt upplýsingarnar hafi þannig ekki verið nýjar var á þeim hnykkt á fundinum með breska fjármálaráðherranum og alvara málsins var ljós eins og vitni báru um. Upplýsingarnar sem ákærði varð áskynja á fundinum voru nægjanlega tilgreindar til að uppfylla skilyrði laganna um innherjaupplýsingar og þær voru ekki opinberar og augljóst að þær voru líklegar til að hafa áhrif á verð hlutabréfa í bankanum yrðu þær opinberar. Með þessu er sannað, gegn neitun ákærða, að upplýsingarnar sem hér um ræðir voru innherjaupplýsingar, sbr. 1. mgr. 120. gr. laga nr. 108/2007.

6. Vísað er til vitnisburðar þeirra sem sátu fund samráðshópsins 16. september 2008, en vitnisburðurinn var rakinn að framan. Er sannað með þeim vitnisburði, og með öðrum gögnum málsins, að upplýsingarnar sem lýst er í þessum ákærulið komu fram á fundi samráðshópsins. Þótt engar ákvarðanir hafi verið teknar á fundinum og ekki hafi verið endanlega ljóst hvernig brugðist yrði við fjármálahruni voru upplýsingarnar um að ekki hafi staðið til að bjarga hluthöfum banka færi banki í þrot nægjanlega tilgreindar til að uppfylla skilyrði laganna um innherjaupplýsingar og augljóst að þær voru líklegar til að hafa áhrif á verð hlutabréfa í bankanum yrðu þær opinberar. Með þessu er sannað, gegn neitun ákærða, að upplýsingarnar sem hér um ræðir hafi verið innherjaupplýsingar, sbr. 1. mgr. 120. gr. laga nr. 108/2007.

Ákærði bar að margt hefði orðið þess valdandi að hann seldi hlutabréfin í Landsbankanum 17. og 18. september 2008. Eitt af því hafi verið að hann hafi talið að Landsbankinn og FSA væru að ná samkomulagi varðandi yfirfærsluna. Ekkert kom fram um þetta á fundi samráðshópsins 16. september 2008, daginn fyrir sölu hlutabréfanna. Má um þetta vísa til vitnisburðar þeirra sem sátu fundinn. Enginn vitnisburður styður mat ákærða um þetta. Samkvæmt þessu kom ekkert fram á fundi samráðshópsins 16. september 2008 sem gaf ákærða ástæðu til að draga þá ályktun að lausn væri fyrirsjáanleg í máli Landsbankans og FSA og að ákærði gæti þess vegna selt hlutabréf sín í bankanum. Þvert á móti komu fram á fundinum ákvarðanir ráðherra um að ekki stæði til að bjarga hluthöfum banka kæmi til fjármálaáfalls. Það er mat dómsins að ekkert hafi komið fram á ofangreindum fundi né hafi verið nokkuð fyrir hendi annað sem gaf til kynna að erfiðleikar Landsbankans varðandi yfirfærsluna væru að breytast í átt til lausnar.

Að frátöldum 3. lið ákæru og hluta 2. liðar, sem rakið var, bjó ákærði yfir þeim innherjaupplýsingum sem raktar voru og lýst er í ákærunni er hann seldi hlutabréf sín í Landsbanka Íslands hinn 17. og 18. september 2008 og var hann því innherji í skilningi 3. tl. 121. gr. laga nr. 108/2007. Með sölu hlutabréfanna braut ákærði gegn 1. tl. 1. mgr. 123. gr. laga nr. 108/2007 eins og í ákæru greinir. Auk þessa ber að vísa til 138. gr. almennra hegningarlaga þar sem ákærði framdi brot sín í opinberu starfi sem ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins. Brot ákærða varða allt að 6 ára fangelsi skv. 3. tl. 1. mgr. 146. gr. laga nr. 108/2007.

Til stuðnings sýknukröfu vísar verjandi ákærða til sjónarmiða um lögvillu. Ákærði gjörþekkir þau lagaákvæði sem mál þetta varða og er augljóst að honum er vel ljóst samhengi hluta sem máli skipta. Það er mat dómsins að ekkert af því sem verjandinn tilgreinir né annað komi til álita að virða sem lögvillu og er öllum þeim sjónarmiðum hafnað, en ekki þykir eins og á stendur ástæða til að rekja þau frekar.

Ákærði hefur ekki áður gerst brotlegur við lög. Brot ákærða eru stórfelld og brotaandlag hátt. Með broti sínu misnotaði ákærði stöðu sína sem opinber starfsmaður eins og lýst er í 138. gr. almennra hegningarlaga en þar segir að er þannig stendur á skuli viðkomandi sæta þeirri refsingu sem við broti liggur, en þó svo aukinni að bætt sé við hana allt að helmingi hennar. Að öllu þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2 ár.

Krafist er upptöku á andvirði hinna seldu hlutabréfa að andvirði 192.658.716 krónur. Í ákærunni er vísað til heimildar 2. mgr. 147. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og til 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga má gera upptæka með dómi muni eða ávinning sem aflað hefur verið með broti og enginn á löglegt tilkall til eða fjárhæð sem svarar til slíks ávinnings eða muni sem keyptir eru fyrir ávinninginn. Ef ekki er unnt að færa fullar sönnur á fjárhæð ávinnings er dómara heimilt að áætla fjárhæðina. Samkvæmt 2. mgr. 147. gr. laga nr. 108/2007 er heimilt að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laganna er varða sektum eða fangelsi, en eins og rakið var varða brot ákærða allt að 6 ára fangelsi. Í máli þessu nemur brotaandlag þeirri fjárhæð sem krafist er að dæmd verði upptæk eða 192.658.716 krónum, en fjárhæðin hefur verið kyrrsett og sérgreind. Með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga er framangreind fjárhæð dæmd upptæk.

Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með taldar 4.543.100 krónur í málsvarnarlaun til Karls Axelssonar hæstaréttarlögmanns, en þóknunin er fyrir vinnu verjandans undir rannsókn málsins og við dómsmeðferð og er þóknun verjandans ávörðuð með virðisaukaskatti.

Björn Þorvaldsson saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Baldur Guðlaugsson, sæti fangelsi í 2 ár.

Upptækar eru dæmdar 192.658.716 krónur sem eru innstæður á bankareikningi ákærða í Arion banka hf., 100.144.000 krónur á reikningi nr. [...] og 92.514.716 krónur á reikningi nr. [...]. Fjárhæðirnar voru kyrrsettar 13. nóvember 2009.

Ákærði greiði Karli Axelssyni hæstaréttarlögmanni 4.543.100 krónur í málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti