Print

Mál nr. 90/2002

Lykilorð
  • Stjórnsýsla
  • Stöðuveiting
  • Opinberir starfsmenn
  • Skaðabótamál

Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. september 2002.

Nr. 90/2002.

Guðrún Gyða Ölvisdóttir

(Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl.)

gegn

Heilbrigðisstofnuninni Blönduósi

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

 

Stjórnsýsla. Stöðuveiting. Opinberir starfsmenn. Skaðabótamál.

G var ein þriggja umsækjenda um stöðu hjúkrunarforstjóra á Heilbrigðisstofnuninni B en allir umsækjendurnir störfuðu þar. Í samræmi við ákvæði 4. mgr. 31. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, voru umsóknirnar sendar hjúkrunarráði til umsagnar. Fyrir lá að hjúkrunarráð hafði einungis lagt mat á tvær umsóknir en ekki umsókn G vegna skorts á framlögðum gögnum. Fallist var á það með héraðsdómi að málsmeðferð hinna lögbundnu umsagnaraðila hefði verið ábótavant þar sem hjúkrunarráð lét undir höfuð leggjast að óska eftir frekari gögnum um G og taka afstöðu til umsóknar hennar. Þá hefði framkvæmdastjóra stofnunarinnar borið, þegar umsagnir hjúkrunarráðs bárust H, að hlutast til um að senda ráðinu þau gögn sem vantaði og kalla eftir fullnægjandi umsögn um G. Ekki hefði verið rétt að taka ákvörðun um ráðningu í starfið fyrr en fullnægjandi umsögn um alla umsækjendur lágu fyrir. Hins vegar var talið að heilbrigðisstofnunin hefði sýnt nægjanlega fram á að allar umsóknirnar hefðu komið til álita við atkvæðagreiðslu í stjórn stofnunarinnar sem var einungis umsagnaraðili. Var tekið fram að gögn málsins sýndu að allir umsækjendurnir hefðu verið hæfir til að gegna stöðu hjúkrunarforstjóra. Þótt ekki væri unnt að fullyrða hver niðurstaða stjórnar stofnunarinnar hefði orðið ef umsögn hjúkrunarráðs um hæfi áfrýjanda hefði legið fyrir þótti stofnunin hafa sýnt fram á að ákvörðunin hefði verið reist á málefnalegum sjónarmiðum og gert líklegt að umsögn hjúkrunarráðs hefði ekki leitt til annarrar niðurstöðu. Var því ekki unnt að ákvarða áfrýjanda skaðabætur á þeim grundvelli að hún hefði orðið af stöðunni vegna brots á lögum nr. 97/1990. Þá voru ekki talin lagaskilyrði til að dæma áfrýjanda miskabætur. Var niðurstaða héraðsdóms því staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 20. febrúar 2002. Hún krefst þess aðallega, að stefnda verði gert að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 5.000.000 krónur með 4,5%  vöxtum frá 1. ágúst 1999 til 1. júlí 2001 en dráttarvöxtum samkvæmt III. og V. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hún þess, að stefnda verði gert að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 4.400.209 krónur, en til þrautavara 2.857.898 krónur, með nánar tilgreindum dráttarvöxtum frá 1. september 1999 til greiðsludags. Áfrýjandi krefst þess einnig, að stefnda verði gert að greiða sér miskabætur að fjárhæð 300.000 krónur með 4,5% vöxtum frá 1. ágúst 1999 til greiðsludags og vaxtavöxtum samkvæmt meginreglu 1. málsliðar 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. nú V. kafla laga nr. 38/2001. Loks krefst áfrýjandi málskostnaðar úr hendi stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti látinn falla niður.

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi voru sjúkrahúsið og heilsugæslan á Blönduósi sameinuð í desember 1998. Ákveðið var að sameina stöður hjúkrunarforstjóra á heilsugæslu og sjúkrahúsi í eina stöðu, sem auglýst var í Morgunblaðinu 9. maí 1999. Var áfrýjandi einn þriggja umsækjenda um stöðuna, en um hana sótti einnig Kristjana Arnardóttir og Sveinfríður Sigurpálsdóttir, en allar störfuðu þær hjá stefnda. Umsóknirnar voru sendar til heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytisins, sem sendi þær hjúkrunarráði til umsagnar, en samkvæmt 4. mgr. 31. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, sbr. lög nr. 83/1997, skulu hjúkrunarforstjórar sjúkrahúsa ríkisins ráðnir af  forstjóra eða framkvæmdastjóra að fenginni umsögn hjúkrunarráðs og viðkomandi sjúkrahússtjórnar. Samkvæmt 5. mgr. sömu greinar má ráða hvern þann hjúkrunarforstjóra til starfa, sem hæfur hefur verið talinn. Hjúkrunarráð lagði ekki mat á umsókn áfrýjanda á fundi sínum 12. júlí 1999 „vegna skorts á framlögðum gögnum“ og fjallaði eingöngu um umsóknir hinna tveggja umsækjendanna og mat þær báðar jafnhæfar í stöðuna. Á fundi í stjórn stefnda 23. júlí 1999 er eftirfarandi bókað: „Hjúkrunarráð hefur yfirfarið umsóknir þessar og metur Kristjönu og Sveinfríði jafnhæfar og raðar þeim ekki en gögn vantaði með umsókn Gyðu. Greidd voru atkvæði um umsóknir þessar og hlaut Kristjana 4 atkvæði en Sveinfríður 1.“ Var Kristjana ráðin í stöðu hjúkrunarforstjóra frá 1. ágúst 1999.

Fallist er á það með héraðsdómi, að málsmeðferð hinna lögbundnu umsagnaraðila hafi verið ábótavant. Hjúkrunarráð lét undir höfuð leggjast að óska eftir frekari gögnum um áfrýjanda og taka afstöðu til umsóknar hennar. Þegar umsagnir hjúkrunarráðs bárust til stefnda, bar framkvæmdastjóranum að hlutast til um að senda því þau gögn, sem vantaði, og kalla eftir fullnægjandi umsögn um áfrýjanda. Ekki var rétt að taka ákvörðun um ráðningu í starfið fyrr en fullnægjandi umsögn um alla umsækjendur lægi fyrir. Þótt tíminn væri naumur, þar til hjúkrunarforstjóri skyldi taka við starfinu, réttlætti það ekki að það var látið farast fyrir.

II.

Áfrýjandi heldur því fram, að umsókn hennar hafi ekki komið til greina við atkvæðagreiðslu í stjórn stefnda, þar sem hjúkrunarráð hafi ekki lagt mat á umsóknina. Styður hún það við yfirlýsingu og framburð fyrrverandi yfirlæknis stefnda, sem var á fundinum 23. júlí 1999. Framangreind bókun frá fundinum kveður ekki óyggjandi á um þetta. Stjórnarmenn stefnda báru fyrir dómi, að allar umsóknirnar hefðu verið til umfjöllunar hjá stjórninni. Það hafi enga þýðingu haft fyrir afstöðu þeirra, að ekki hafi borist umsögn um áfrýjanda frá hjúkrunarráði. Þeir þekktu allir vel til áfrýjanda, sem hafði starfað hjá stefnda frá árinu 1987, og vissu að hún var vel hæf til að gegna stöðu hjúkrunarforstjóra engu síður en hinir tveir umsækjendurnir. Í framburði stjórnarmanna stefnda fyrir dómi kom fram, að það sem fyrst og fremst hafi ráðið niðurstöðu þeirra hafi verið að ráða til starfans þann umsækjanda, sem þeir töldu hæfastan til að lægja öldurnar meðal starfsfólks og koma á vinnufriði við stofnunina á ný, en veruleg óánægja hafði ríkt meðal starfsfólksins um ýmis samskipti við helstu yfirmenn stofnunarinnar. Þeir hefðu metið það þannig að sú, sem ráðin var til starfans, væri færust til að koma þeim vinnufriði á. Verður að telja, að stefndi hafi sýnt nægilega fram á það, að allar umsóknirnar hafi komið til álita á fundinum 23. júlí, en þess ber að gæta, að stjórn stefnda var að lögum einungis umsagnaraðili.

Í málinu liggja fyrir gögn um alla umsækjendur, störf þeirra og menntun. Gögn þessi sýna, að þeir voru allir hæfir til að gegna stöðu hjúkrunarforstjóra. Þótt ekki sé unnt að fullyrða, hver niðurstaða stjórnar stefnda hefði orðið, ef umsögn hjúkrunarráðs um hæfi áfrýjanda hefði legið fyrir, þykir stefndi hafa sýnt fram á, að ákvörðunin hafi verið reist á málefnalegum sjónarmiðum og gert líklegt, að umsögn hjúkrunarráðs hefði ekki leitt til annarrar niðurstöðu. Samkvæmt þessu er ekki unnt að ákvarða áfrýjanda skaðabætur á þeim grundvelli, að hún hafi orðið af stöðunni vegna brots á lögum nr. 97/1990.

Ekki eru lagaskilyrði til að dæma áfrýjanda miskabætur í máli þessu.

Samkvæmt framansögðu er niðurstaða héraðsdóms staðfest.

Rétt þykir, að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 23. okt. sl., var höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 1. mars 2001.

Stefnandi er Guðrún Gyða Ölvisdóttir, kt. 260354-5239, Húnabraut 28, Blönduósi.

Stefndi er Heilbrigðisstofnunin Blönduósi, kt. 511297-2309, Flúðabakka 2, Blönduósi.

Dómkröfur stefnanda:

A   Krafa um skaðabætur fyrir fjártjón

1.        Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði með dómi gert að greiða stefnanda skaðabætur vegna fjártjóns að fjárhæð 5.000.000 kr., ásamt 4,5% vöxtum frá og með 1. ágúst 1999 til greiðsludags og vaxtavöxtum skv. meginreglu 1. ml. 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta.

2.   Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði með dómi gert að greiða stefnanda skaðabætur vegna fjártjóns 4.400.209 kr., ásamt dráttarvöxtum skv. 10. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 90/1992, af 221.646 kr. frá og með 1. september 1999, af 443.292 kr. frá og með 1. október 1999, af 664.938 kr. frá og með 1. nóvember 1999, af 886.584 kr. frá og með 1. desember 1999, af 1.118.641 kr. frá og með 1. janúar 2000, af 1.311.453 kr. frá og með 1. febrúar 2000, af 1.504.265 kr. frá og með 1. mars 2000, af 1.697.077 kr. frá og með 1. apríl 2000, af 1.889.889 kr. frá og með 1. maí 2000, af 2.082.701 kr. frá og með 1. júní 2000, af 2.280.788 kr. frá og með 1. júlí 2000, af 2.478.876 kr. frá og með 1. ágúst 2000, af 2.817.009 kr. frá og með 1. september 2000, af 3.155.142 kr. frá og með 1. október 2000, af 3.308.764 kr. frá og með 1. nóvember 2000, af 3.501.576 kr. frá og með 1. desember 2000, af 3.739.890 kr. frá og með 1. janúar 2001, en af (3.946.376*1,115=) 4.400.209 kr. frá og með 1. febrúar 2001 til greiðsludags, ásamt vaxtavöxtum skv. 1. ml. 12. gr. vaxtalaga, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta.

3.  Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefnda verði með dómi gert að greiða stefnanda skaðabætur vegna fjártjóns 2.857.898 kr.,  ásamt dráttarvöxtum skv. 10. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 90/1992, af 221.646 kr. frá og með 1. september 1999, af 364.933 kr. frá og með 1. október 1999, af 462.358 kr. frá og með 1. nóvember 1999, af 516.154 kr. frá og með 1. desember 1999, af 581.731 kr. frá og með 1. janúar 2000, af 788.925 kr. frá og með 1. febrúar 2000, af 925.779 kr. frá og með 1. mars 2000, af 1.058.995 kr. frá og með 1. apríl 2000, af 1.201.926 kr. frá og með 1. maí 2000, af 1.324.671 kr. frá og með 1. júní 2000, af 1.347.766 kr. frá og með 1. júlí 2000, af 1.610.448 kr. frá og með 1. september 2000, af 1.948.581 kr. frá og með 1. október 2000, af 2.023.068 kr. frá og með 1. nóvember 2000, af 2.175.387 kr. frá ogmeð 1. desember 2000, af 2.356.651 kr. frá og með 1. janúar 2001, en af (2.563.137 kr.*1,115=) 2.857.898 kr. frá og með 1. febrúar 2001 til greiðsludags, ásamt vaxtavöxtum skv. 1. ml. 12. gr. vaxtalaga, í fyrsta sinn 12. mánuðum eftir upphafsdag vaxta.

B   Krafa um sérstakar miskabætur

Stefnandi krefst þess einnig að stefnda verði með dómi gert að greiða stefnanda miskabætur vegna meðferðar málsins fyrir stjórnvöldum að fjárhæð 300.000 kr., ásamt 4,5% vöxtum frá og með 1. ágúst 1999 til greiðsludags og vaxtavöxtum skv. meginreglu 1. ml. 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta.

Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins að teknu tilliti til þess að um sé að ræða einstakling sem hafi verið sviptur rétti sem veita hefði átt honum án eftirgangsmuna eða málsóknar.

Dómkröfur stefnda:

Aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins.

Til vara er þess krafist að stefnukröfurnar verði stórkostlega lækkaðar og málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

Málavextir

Í desember 1998 voru sjúkrahúsið og heilsugæslan á Blönduósi sameinuð. Vegna þessa var ákveðið að sameina stöður hjúkrunarforstjóra á heilsugæslu og sjúkrahúsi í eina stöðu. Staðan var auglýst í Morgunblaðinu þann 9. maí 1999. Í auglýsingunni sagði svo:

"Laus er til umsóknar staða hjúkrunarforstjóra heilbrigðisstofnunarinnar. Um er að ræða nýja stöðu sem verður til vegna sameiningar sjúkrahúss og heilsugæslu. Á sjúkrasviði er nú 23 rúma blönduð sjúkradeild sem einnig sinnir bráðainnlögnum, einnig nýendurbætt 12 rúma öldrunardeild og 12 vistrýma dvalardeild. Á heilsugæslusviði starfa þrír hjúkrunarfræðingar, þar af einn við heilsugæslustöð á Skagaströnd, íbúafjöldi á starfssvæði stofnunarinnar er um 2.300. Þrír læknar starfa við stofnunina. Umsóknarfrestur er til 4. júní nk. Nánari upplýsingar veitir Bolli Ólafsson framkvæmdastjóri."

Stefnandi, sem m.a. hafði starfað hafði hjá stefnda frá árinu 1987, sótti um stöðu þessa. Það gerðu einnig tveir aðrir hjúkrunarfræðingar, þær Sveinfríður Sigurpálsdóttir, sem var starfandi hjúkrunarforstjóri á sjúkrasviði Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi og Kristjana Arnardóttir aðstoðardeildarstjóri við Heilbrigðisstofnunina.

Umsóknir þessara þriggja umsækjenda voru sendar til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Ráðuneytið sendi umsóknirnar ásamt fylgigögnum til hjúkrunarráðs. Um 20. júlí barst Heilbriðisstofnuninni umsögn hjúkrunarráðs. Í umsögn ráðsins segir um umsókn stefnanda: "Vegna skorts á framlögðum gögnum getur hjúkrunarráð ekki lagt mat á umsögn Guðrúnar Gyðu Ölvisdóttur."

Í umsögn ráðsins er fjallað um umsóknir hinna tveggja umsækjenda. Ráðið mat þær Sveinfríði og Kristjönu báðar jafnhæfar í auglýsta stjórnunarstöðu og raðar þeim jafnt.

Á fundi Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi hinn 23. júlí 1999 voru greidd atkvæði um umsækjendur og hlaut Kristjana fjögur atkvæði, Sveinfríður eitt en stefnandi ekkert. Í fundargerð segir m.a.: "Hjúkrunarráð hefur yfirfarið umsóknir þessar og metur Kristjönu og Sveinfríði jafnhæfar og raðar þeim ekki en göng vantaði með umsókn Gyðu."  Í framhaldi af þessu var Kristjana Arnardóttir ráðin í stöðu hjúkrunarforstjóra.

Hinn 12. apríl 2001 var staða hjúkrunarforstjóra stefnda auglýst að nýju. Í þeirri auglýsingu segir m.a. að umsóknum skuli fylgja náms- og starfsferill viðkomandi. Um þessa stöðu sótti stefnandi og fjórir aðrir umsækjendur. Hinn 26. maí sl. fjallaði hjúkrunarráð um umsóknir þessara fimm umsækjenda. Niðurstaða ráðsins var að allir umsækjendur væru hæfir. Ráðið raðaði umsækjendum þannig að umsækjandinn Sveinfríður Sigurpálsdóttir var sett í 1. sæti og stefnandi í 2. sæti.

Málsástæður og rökstuðningur stefnanda

Af hálfu stefnanda er því haldið fram, að þar sem viðurkennt hafi verið með bréfi framkvæmdastjóra stefnda, dags. 8. okt. 1999, til Bandalags háskólamanna að réttra formreglna hafi ekki verið gætt við meðferð á umsókn stefnanda, þurfi ekki að deila um sök í skilningi sakarreglu skaðabótaréttar. En sú regla hafi ótvírætt verið talin gilda um skaðabótarétt ríkisstarfsmanna, umsækjenda um störf og annarra borgara gagnvart stjórnvöldum sem brjóti málsmeðferðar- eða efnisreglur stjórnsýsluréttar eða vinnuréttar við úrlausn mála. Í þessu tilviki sé brotin rannsóknarregla stjórnsýsluréttar og skýr lagaskylda stefnda til fullnægjandi álitsumleitunar, sbr. 4. og 5. tl. 31. gr. laga nr. 97/1990. Meðorsök tjóns stefnanda sé handvömm hjúkrunarráðs enda hefði verið auðvelt að nálgast þau gögn sem ráðið taldi sig þurfa, bæði hjá stefnanda og stefnda. Frumorsök tjónsins sé sú handvömm stefnda að geta þess ekki í auglýsingu að farið væri fram á tiltekin gögn til sönnunar lífshlaupi umsækjenda. Ef það hefði verið gert hefði stefnandi að sjálfsögðu sent þau gögn með umsókn sinni. Reyndar séu allar nauðsynlegar upplýsingar um menntun, starfsferil og lífshlaup stefnanda að finna í  starfsumsókn hennar.

Með umsögn hjúkrunarráðs, dags. 16. júlí 1999, fylgi skjal með heitinu "Yfirlit yfir gögn sem Hjúkrunarráð leggur til grundvallar við mat á hæfni umsækjenda um stöður hjúkrunarforstjóra." Skjal þetta hafi enga þýðingu í málinu þar sem stefnanda hafi ekki verið kunnugt um það fyrr en ákvörðun hafði verið tekin í málinu. Í plaggi þessu komi ekki fram að umrædd gögn skuli fylgja umsókn um starf hjúkrunarforstjóra.

Meginsök stefnda felist annars vegar í þeirri ákvörðun stjórnar og framkvæmdastjóra stefnda að láta greiða atkvæði um umsækjendur um starfið án þess að lögbundin umsögn um stefnanda lægi fyrir og hins vegar í þeirri ákvörðun stjórnar og framkvæmdastjóra stefnda að ráða í starfið án þess að lögbundin umsögn um stefnanda lægi fyrir enda þótt stefnandi hefði áður gefið stefnda kost á að bæta úr málsmeðferðargöllum. Hið síðarnefnda geri sök stefnda enn ríkari og staðfesti auk þess að stefnandi hafi leitað allra tiltækra úrræða til þess að koma í veg fyrir tjón.

Ákvörðun stjórnar og framkvæmdastjóra stefnda að taka málið til efnislegrar afgreiðslu áður en umsögn hafði borist frá hjúkrunarráði um alla þrjá umsækjendur sé á ábyrgð stefnda sem ríkisstofnunar og handhafa veitingarvalds. Lögbundnum álitsgjafa þurfi ekki að stefna í máli sem þessu enda séu ekki gerðar kröfur á hendur hjúkrunarráði.

Auðvelt hefði verið að afla þeirra gagna sem hjúkrunarráð taldi standa í vegi fyrir efnislegri umsögn um stefnanda. Öll nauðsynleg gögn séu til í fórum stefnda. Skipti þá ekki máli að hjúkrunarráð hafi sem slíkt gert sjálfstæð mistök með því að kalla ekki eftir þeim gögnum sem það taldi nauðsynleg til þess að staðfesta skýr ummæli í umsókn stefndanda. Þá hafi það einnig verið á ábyrgð stefnda að málið væri nægilega upplýst áður en ákvörðun væri tekin um veitingu starfsins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 svo og að í auglýsingu kæmu fram fullnægjandi upplýsingar um þau fylgigögn sem óskað væri eftir með umsókn, sbr. 7. gr. stjónsýslulaga. Ummæli í bréfi framkvæmdastjóra stefnda, dags. 3. ágúst 1999, um að auglýsing hafi verið nægilega greinargóð geti ekki átt við um leiðbeiningar um  nauðsynleg gögn þar sem auglýsingin, sem birtist í Morgunblaðinu 9. maí 1999, víki alls ekkert að gögnum sem fylgja skuli umsókn. Væri því undarlegt ef slíkt gæti verið réttmæt og lögmæt ástæða frávísunar umsóknar við umsögn og í raun við ákvörðun um ráðningu. Af hálfu stefnanda er ekki á það fallist að einstakir umsækjendur eigi að gera ráð fyrir því að umsagnaraðili vænti skriflegrar staðfestingar á þeim upplýsingum um menntun, reynslu og annað sem fram komi í umsókn, nema slíkt sé tekið fram eða þess óskað sérstaklega við meðferð málsins, sbr. og 7. gr. stjónsýslulaga.

Augljóst sé að umsögn hjúkrunarráðs um stefnanda hefði getað haft úrslitaþýðingu um úrlausn málsins, þ.e. um tillögugerð og niðurstöðu í atkvæðagreiðslu stjórnar stefnda og ákvörðun stjórnar og framkvæmdastjóra stefnda. Þetta sé augljóst af gagnályktun frá 5. tl. 31. gr. laga nr. 97/1990.

Við úrlausn um skaðabótaskyldu stefnda skipti að sjálfsögðu ekki máli þótt hin lögbundna álitsumleitan feli ekki í sér að umsögn hjúkrunarráðs sé bindandi eins og stefndi hafi í fyrstu virst telja að réttlætti afgreiðslu stefnda. Stefnandi hafi ekki sönnunarbyrði um orsakatengsl stjórnsýslulegs annmarka og niðurstöðu. Hér sé fyrst og fremst um að ræða lögfræðilegt úrlausnarefni en ekki sönnunaratriði.

Þar að auki hafi stefnandi sýnt nægilega fram á að vanræksla stefnda á því að afla lögmæltrar umsagnar um stefnanda eins og aðra umsækjendur hafi orðið til þess að stefnandi kom ekki til álita við ákvörðun stjórnar og framkvæmdastjóra stefnda, sbr. bréf Páls N. Þorsteinssonar, þáverandi yfirlæknis stefnda, dags. 13. ágúst 1999.

Óviðunandi sé ef einstaklingur þurfi að sanna orskatengsl milli svo verulegs málsmeðferðargalla sem hér um ræðir og niðurstöðu máls eins og stefndi geri ráð fyrir í bréfi framkvæmdastjóra stefnda, dags. 3. ágúst 1999. Telja verði að bréf framkvæmdastjóra og stjórnarformanns stefnda, dags. 23. júlí 1999, fundargerð stefnda þar sem greidd voru atkvæði um umsækjendur og yfirlýsing eins fundarmanna,  Páls N. Þorsteinssonar, feli í sér nægilega sönnun slíkra tengsla. Ekki skipti máli þótt ekki sé um að ræða bindandi álitsumleitan.

Þrátt fyrir að sönnunarbyrðin sé stefnda fyrir þeirri óréttmætu en hugsanlegu mótbáru að útilokað sé að stefnandi hefði verið ráðin í starf hjúkrunarforstjóra  hjá stefnda sé því ex tuto haldið fram að miðað við nær aldarfjórðungs farsælan starfsferil, menntun og metnað stefnanda sem hjúkrunarfræðings, svo og verulega endurmenntun og reynslu stefnanda af félagsstörfum og stjórnun, sbr. það sem fram kemur í umsókn stefnanda, sé ekki aðeins hugsanlegt heldur líklegt að stefnandi hefði verið ráðinn í starfið hefði  réttra formreglna verið gætt.

Þótt handvömm hjúkrunarráðs hafi verið meðorsök í máli þessu þá sé meginorsökin sú vanræksla stefnda að fá ekki hjúkrunarráð til þess að bæta úr umsögninni að því er varðar stefnanda og sú handvömm að taka ákvörðun um ráðningu í starfið án þess að umsögn lægi fyrir um alla umsækjendur, sbr. 5. tl. 31. gr. laga nr. 97/1990. Stefnda hafi borið að óska eftir því að hjúkrunarráð bætti úr annmarkanum áður en málinu var ráðið til lykta.

Dómkrafa stefnanda styðjist við almennar reglur skaðabótaréttar og stjórnsýsluréttar.

Bótafjárhæð aðalkröfu sé miðuð við að tjón stefnanda megi ákveða að álitum. Sé fjárhæðin miðuð við þá erfiðleika sem stefnandi standi frammi fyrir við að þurfa að leiða líkur að tjóni sínu, hvað þá sanna tjón sitt, með rökstuddum hætti og gögnum. Aðallega sé því krafist 5.000.000 kr. í bætur fyrir áætlað fjártjón stefnanda. Séu töpuð lífeyrisréttindi stefnanda þá talin með í þeirri áætlun, sbr. lög nr. 2/1997 um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.

Í sambandi við þessa áætlun á tjóni stefnanda megi nefna að samkvæmt bréfi framkvæmdastjóra stefnda til stéttarfélags stefnanda, dags. 5. júní 2000, njóti hjúkrunarforstjóri þeirra hlunninda að fá greiddan akstur til og frá vinnu sem sé viðbót við önnur kjör sem stefnanda sé ekki unnt að reikna í útreikningum varakrafna í 2. og 3. tl. Þá séu ótalin önnur föst kjör og hlunnindi hjúkrunarforstjóra svo og breytilegar launatekjur.

Fjárhæð bóta í varakröfu sé þannig fundin að tekin séu föst laun hjúkrunarforstjóra stefnda, sem ráðinn var, frá og með 1. ágúst 1999 til og með 31. janúar 2001 að viðbættri fastri yfirvinnu og frá henni dregin föst laun stefnanda á sama tíma (að hluta til í námsleyfi), þ.e. án vaktaálags og breytilegrar yfirvinnu. Við niðurstöðu þessa útreiknings sé bætt 11,5% vegna tapaðra lífeyrisréttinda stefnanda vegna lífeyrisframlags ríkisstofnana til lífeyrissjóðs starfsmanna sinna og eftir atvikum bakábyrgðar þeirra. Skipti þá ekki máli hvort stefnandi hefði haldið aðild að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga, sbr. lög nr. 2/1997 vegna starfsins eða valið aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sbr. lög nr. 1/1997 þar sem verðmæti lífeyrisskuldbindinga ríkisstofnana gagnvart Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga og B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hafi verið metið samsvarandi 11,5% í stað almennra 6% en 11,5 sé mótframlag ríkisstofnana til A-deildar LSR. Þannig reiknuð sé skaðabótakrafa stefnanda til vara 4.400.209 kr. ( 3.946.3766 x 1,115).

Fjárhæð bóta í þrautavarakröfu sé þannig fundin að tekin séu föst laun hjúkrunarforstjóra stefnda sem ráðinn var frá og með 1. ágúst 1999 til og með 31. janúar 2001 að viðbættri fastri yfirvinnu og frá henni dregin heildarlaun stefnanda á sama tíma (að hluta til í námsleyfi). Við niðurstöðu  þeirra útreikninga 2.563.137 kr. sé bætt 11,5% vegna tapaðra lífeyrisréttinda stefnanda vegna lífeyrisframlags ríkisstofnana. Þannig reiknuð sé þrautavarakrafa stefnanda 2.857.898 kr. (2.563.137 x 1.115).

Í aðalkröfu sé miðað við tjónsdaginn eða því sem næst, 1. ágúst 1999, sbr. 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum enda þótt þá hafi verið um áætlað framtíðartjón stefnanda að ræða en stefndi hafi loks viðurkennt 8. okt. 1999 að réttra formreglna hafi ekki verið gætt. Það hafi fyrst verið 5. júní 2000 að stefndi hafi upplýst um kjör hjúkrunarforstjórans sem ráðinn var.

Krafa um dráttarvexti er studd við þá staðreynd að stefndi hafi viðurkennt að réttra formreglna hefði ekki verið gætt en samt dregið lengi að upplýsa um kjör hjúkrunarforstjórans sem ráðinn var frá og með 1. ágúst 1999. Dráttarvaxtakrafa sé miðuð við höfuðstól eins og hann sé á hverjum tíma þó að teknu tilliti til höfuðstólsfærslu dráttarvaxta skv. 1. ml. 12. gr. vaxtalaga sem krafist sé. Fyrsti upphafstími dráttarvaxta miðist ex tuto við 1. september 1999 sem sé lögákveðinn gjalddagi launa ríkisstarfsmanna skv. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 70/1996, sbr. hins vegar 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum, en hefði stefnandi verið ráðinn hjúkrunarforstjóri hefði það verið frá 1. ágúst 1999 eins og sá umsækjandi sem ráðinn var. Verði því að telja eðlilegt að upphafstími dráttarvaxta miðist eigi við síðari tíma en 1. september 1999 og síðan 1. hvers mánaðar. Þess er krafist að almennir vextir á aðalkröfu eða dráttarvextir á varakröfur verði höfuðstólsfærðir árlega.

Krafa um sérstakar miskabætur fyrir ófjárhagslegt tjón er  studd með vísan til þess að málsmeðferð stefnda hafi ekki aðeins valdið stefnanda tilfinnanlegu fjártjóni heldur einnig tilfinningalegu tjóni og álagi á stefnanda og nánasta umhverfi hennar og m.a. dregið úr starfsþreki hennar með þeim hætti sem ekki verði reiknað út í rökstuddum kröfum vegna fjártjóns.

Rétt sé að miskabætur verði ákveðnar með hliðsjón af þeirri staðreynd að þær séu vel til þess fallnar að auka varnaðaráhrif bótaákvarðana og hvetja stjórnvöld og vinnuveitendur almennt til þess að standa löglega að verki og fjalla um mál af sanngirni. Formgalli eins og sá sem viðurkenndur sé í máli þessu sé ekki aðeins almennur formgalli heldur sérstaklega til þess fallinn að leiða til ólögmætrar niðurstöðu og tjóns. Í sambærilegu máli hafi Hæstiréttur Danmerkur ákveðið helmingi hærri viðurlagabætur en þegar um hreinan formgalla sé að ræða. Ljóst sé af gögnum málsins að stefnandi hafi árangurslaust gefið stefnda kost á að bæta úr gallanum í því skyni að stefnandi kæmi til álita við ákvörðun stjórnar og framkvæmdastjóra stefnda um ráðningu í starf hjúkrunarforstjóra, sbr. 5. tl. 31. gr. laga nr. 97/1990 en stefndi hafi ekki nýtt sér þann möguleika.

Krafa um málskostnað styðjist við 129. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að því er fjárhæð varðar. Að því er varðar skyldu stefnda til greiðslu málskostnaðar styðst krafa stefnanda aðallega við það að stefndi tapi máli í öllu verulegu. Að öðrum kosti styðst krafa stefnanda um málskostnað til vara við þá staðreynd að stefndi hafi viðurkennt mistök í málinu en hafi ekki gert það fyrr en löngu eftir að mistökin urðu, þegar stefnandi hafði kvartað til umboðsmanns Alþingis. Auk þess hafi stefndi sem opinber vinnuveitandi bæði yfirburðastöðu gagnvart einstökum launamönnum og forgangsrétt til túlkunar. Borgararnir verði að hlíta ákvörðunum einstakra ríkisstofnanan, sbr. 2. ml. 60. gr. stjórnarskrárinnar. Sama gildi um stéttarfélag stefnanda eins og önnur samtök launamanna sem einungis geti látið reyna á afstöðu vinnuveitenda með málsókn í grófari málum enda hafi stefndi ekki gefið kost á samningaviðræðum um bætur og ríkið almennt lagst gegn öllum ráðum ríkisstarfsmanna og samtaka þeirra til þess að hnekkja ákvörðunum þess sem vinnuveitanda. M.a. hafi ríkið, þrátt fyrir 14. gr. stjórnarskrárinnar, fengið lögtekið ákvæði 49. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hafi ógildanleg eða ólögmæt ákvörðun stefnda því ekki verið kæranleg til ráðherra.

Krafa stefnanda byggist á almennum reglum skaðabótaréttar og stjórnsýsluréttar sbr. 4. tl. 31. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. einnig 7. gr. stjórnsýslulaga, svo og 4. gr. reglna nr. 464/1996 um auglýsingar á lausum störfum sem settar séu samkvæmt samningi  heildarsamtaka launafólks, þ.m.t. BHM, sem stéttarfélag stefnanda, FÍH, eigi aðild að. Í því sambandi er vísað í samkomulag BHM, BSRB og ASÍ við fjármálaráðherra frá 12. ágúst 1996 um lágmarksreglur við auglýsingar á lausum störfum samkvæmt 7. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríksins.

Krafa stefnanda um sérstakar miskabætur styðjist við meginreglur á sviði EES-vinnuréttar og meginreglur stjónsýslu-, starfsmanna- og skaðabótaréttar og dómafordæmi.

Greiðsluskylda stefnda að því er varðar almenna vexti á aðalkröfu um bætur fyrir fjártjón styðjist við 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1999 en samkvæmt því ákvæði séu vextir á bætur bæði fyrir tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku 4,5% og reiknist frá því að tjón varð. Upphafstími almennra vaxta hljóti því að hefjast 1. ágúst 1999. Þess er krafist að almennir 4,5% vextir skv. 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 leggist við höfuðstól og vaxtavextir eins og dráttarvextir sbr. meginreglu 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta. Um upphafstíma dráttarvaxta á varakröfur er vísað til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 70/1996. Að því er vaxtafót varðar miðist dráttarvaxtakrafa stefnanda við 10. gr. laga nr. 25/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 90/1992. Um rétt til þess að höfuðstólsfæra dráttarvexti árlega er vísað til 12. gr. vaxtalaga.

Málskostnaðarkrafa stefnanda styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991. Fjárhæð málskostnaðar styðjist við 129. gr. sömu laga. Krafa um greiðslu málskostnaðar styðjist aðallega við 1. mgr. 130. gr. laganna en til vara við 2. ml. 3. mgr. 130. gr.

Málsástæður og rökstuðningur stefnda

Samkvæmt 4. mgr. 31. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu skuli hjúkrunarforstjórar sjúkrahúsa ríkisins ráðnir af framkvæmdastjóra að fenginni umsögn hjúkrunarráðs samkvæmt hjúkrunarlögum nr. 8/1974 og viðkomandi sjúkrahússtjórnar. Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. megi ráða hvern þann hjúkrunarforstjóra til starfa sem hæfur hafi verið talinn.

Stefnandi hafi ekki verið látinn gjalda þess að hjúkrunarráð hafi látið hjá líða að meta umsókn  hennar og að of seint hafi verið að fá úr því bætt. Við umfjöllun  stjórnar um umsóknirnar og við ráðstöfun stöðunnar hafi verið lagt til grundvallar að stefnandi væri ekki síður en hinir umsækjendurnir tveir hæf í skilningi 5. mgr. 31. gr. laga nr. 97/1990. Á stjórnarfundi þann 23. júlí 1999 hafi allar þrjár umsóknirnar verið lagðar fram og umsögn hjúkrunarráðs um þær kynntar. Allir fundarmenn hafi gert sér grein fyrir því að umsögn hjúkrunarráðs hafi ekki verið bindandi fyrir stjórnina. Þeir hafi verið upplýstir um að menntunarlega stæðust allir umsækjendur þær kröfur sem gerðar voru. Allir umsækjendur hafi haft að baki framhaldsnám og langan starfsaldur. Stefnandi og Kristjana hafi haft nokkurra ára starfsreynslu í stjórnunarstörfum og Sveinfríður hafi starfað um 25 ára skeið sem hjúkrunarforstjóri.

Þar sem framkvæmdastjóri hafi verið nýlega kominn til starfa hafi hann óskað eftir að stjórnin tæki afstöðu til þess hver af þessum þremur umsækjendum teldist hæfust til að gegna starfinu. Í leynilegri kosningu milli umsækjendanna þriggja hafi atkvæði fallið á þann veg að Kristjana Arnardóttir hafi fengið flest atkvæði en stefnandi ekkert.

Staðhæfingar stefnanda um að hún hafi ekki komið til greina í starfið fái ekki staðist og að það verði rakið til annmarka á auglýsingu um starfið og málsmeðferðar við lögboðna umsögn hjúkrunarráðs. Í auglýsingu um starfið hafi ekki verið tilgreind öll þau atriði sem kveðið sé á um í 4. gr. reglna  nr. 464/1996.  Í þeim reglum sé ekki skilgreint hvort og hvaða gögn skuli fylgja umsókn né gerð krafa um tilgreiningu á slíku. Áskilnaður hjúkrunarráðs um gögn hafi því ekki verið sóttur til auglýsingarinnar né lágmarksreglnanna. Hjúkrunarráði hafi borið að kalla eftir þeim gögnum sem ráðið áskildi samkvæmt starfsreglum sínum og gefa umsögn um umsókn stefnanda. Þeir annmarkar á málsmeðferð hjúkrunarráðs hafi  hins vegar ekki valdið stefnanda neinu tjóni þar sem stefnandi hafi í engu verið látin gjalda þeirra við eftirfarandi málsmeðferð hjá stefnda. Lagt hafi verið til grundvallar að hún væri hæf í skilningi 5. mgr. 31. gr. laga nr. 97/1990.

Til starfsins hafi valist hæfur umsækjandi og við það val hafi annmarkar á auglýsingu og lögboðinni álitsumleitan ekki haft þýðingu. Ekkert tjón verði því að lögum við það tengt. Lög hafi ekki staðið til að stefnandi ætti rétt á stöðunni framar þeim umsækjanda er starfið fékk né meðumsækjanda sínum, Sveinfríði. Ljóst megi vera að það sem fyrst og fremst réð afstöðu stjórnarmanna við val sitt hafi verið að ráðinn yrði til starfsins sá umsækjandi er þeir hafi talið hæfastan til að lægja öldurnar meðal starfsfólks og koma þannig á vinnufriði við stofnunina á ný ásamt því að móta stefnu hennar til framtíðar.

Beri því að sýkna stefnda af öllum bótakröfum stefnanda í málinu.

Verði ekki á sýknukröfu stefnda fallist krefst stefndi stórkostlega lækkunar stefnukrafna. Þeim er mótmælt sem fjarri lagi og allt of háum.

Aðalkrafa stefnanda um bætur að álitum fái ekki staðist og sé svo vanreifuð að frávísun varði.

Í varakröfum stefnanda sé byggt á launasamanburði sem ekki fái staðist. Stefnandi beri þar saman laun sín í 60% starfi með og án yfirvinnu og vaktaálags við laun hjúkrunarforstjóra í fullu starfi að meðtaldri yfirvinnu. Stefnandi hafi sjálf valið þann kost að vera í 60% starfi en henni hafi staðið til boða fullt starf við stofnunina. Af hálfu stefnda hafi verið gerður samanburður á heildarlaunum hjúkrunarforstjóra og  heildarlaunum sem stefnandi hefði haft í fullu starfi. Samkvæmt þeim útreikningi hafi launamunur á samanburðarhæfum grunni, skipt upp á einstök launatímabil sem stefnukröfur taki mið af,  í mesta lagi numið 383.302 kr.

Viðmiðunartímabili, og kröfum á því reistum, er mótmælt sem alltof löngu og er krafist stórkostlegrar styttingar þess. Í stefnu sé miðað við 18 mánaða tímabil, það er frá 1. ágúst 1999 til og með 31. janúar 2001. Ráðning í starf hjúkrunarforstjóra sé hins vegar með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti og fái því ekki staðist að miða við svo langt tímabil. Stefnandi hafi að eigin ósk farið í námsleyfi frá 1. des. 1999 og í framhaldi af því hafi hún tekið launalaust leyfi frá júlí til september 2000. Kröfum vegna 11,5% verðmætis lífeyrisskuldbindinga á heildarmismun er mótmælt. Verði ekki lagt til grundvallar að stefnandi hefði breytt lífeyrissjóðsaðild sinni þar sem framlag atvinnurekanda var 6%. Yfirvinna myndi hvorki lífeyrisréttindi í Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga né B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og engum töpuðum lífeyrisskuldbindingum sé til að dreifa þeim tengdum.

Kröfum stefnanda um miskabætur og rökstuðningi stefnanda þar að lútandi er vísað á bug. Stefndi kannist ekki við meintar meginreglur EES réttar um miskabætur og telur ljóst að í þessu máli geti miskabætur því aðeins komið til greina að slíkt eigi stoð í 26. gr. skaðbótalaga en þeim atvikum er þar greinir og grundvallað geti áfall miskabóta sé ekki til að dreifa í þessu máli. Þetta leiði til sýknu af þessari kröfu en til vara er krafist lækkunar hennar.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að hjúkrunarráð hafi vísvitandi fyrir gróf mistök eða ásetning brotið á stefnanda með því að kalla ekki eftir gögnum. Þá verði kröfum á því byggðum ekki beint að stefnda. Heilbrigðisstofnun Blönduóss fari ekki með yfirstjórn né beri fjárhagslega ábyrgð á störfum hjúkrunarráðs sem starfi samkvæmt 3. mgr. 2. gr.  laga nr. 8/1974. Stefndi verði því ekki að lögum gerður bótaábyrgur fyrir mistökum er verða kunna í starfi ráðsins og tjóni og miska er af  þeim kunna að leiða.

Vaxta- og dráttarvaxtakröfu stefnanda og upphafstíma er mótmælt. Stefnandi hafi ekki orðið fyrir líkamstjóni og það hafi fyrst verið við þingfestingu málsins sem rökstudd krafa var sett fram.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu fyrir dómi svo og Vigdís Magnúsdóttir, varaformaður hjúkrunarráðs, Páll Níels Þorsteinsson, fyrrum yfirlæknir stefnda, Bolli Ólafsson, framkvæmdastjóri stefnda, og  Pétur Arnar Pétursson, fyrrum framkvæmdastjóri stefnda, Lárus Björn Jónsson, formaður stjórnar stefnda, og stjórnarmennirnir, Sturla Þórðarson, Jóhann Guðmundsson og Bóthildur  Halldórsdóttir.

Niðurstaða

Aðilar sömdu um varnarþing í máli þessu sbr. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stjórn stefnda leitaði umsagnar hjúkrunarráðs um umsóknir um stöðu hjúkrunarforstjóra, sem auglýst var í Morgunblaðinu 9. maí 1999. Þegar litið er til fyrirmæla 4. mgr. 31. gr. laga nr. 97/1990 er ljóst að stjórninni bar að endursenda hjúkrunarráði umsóknirnar til umsagnar ásamt þeim gögnum sem ráðið taldi vanta varðandi stefnanda áður en tekin var afstaða til umsóknanna. Það var ekki gert enda hefur stefndi viðurkennt að ekki hafi verið gætt réttra formreglna við meðferð umsóknar stefnanda.

Það var í verkahring framkvæmdastjóra stefnda að ráða hjúkrunarforstjóra. Framkvæmdastjórinn, Pétur Arnar Pétursson, var nýkominn til starfa. Vegna þessa óskaði hann eftir því við stjórn stefnda að hún tæki afstöðu til umsækjenda.

Ágreiningur er með aðilum um það hvort umsókn stefnanda hafi komið til álita við atkvæðagreiðslu í stjórn stefnda 23. júlí 1999 eða ekki. Fullyrðingar um að tekin hafi verið afstaða til umsóknar stefnanda hafa stuðning af framburði stjórnarmanna stefnda, en fullyrðingar stefndanda um að hún hafi ekki komið til greina við atkvæðagreiðsluna hafa stuðning af yfirlýsingu og framburði Páls Níelsar Þorsteinssonar, fyrrum yfirlæknis stefnda. Samkvæmt 5. mgr. 31. gr. laga nr. 97/1990 má ráða hvern þann sem hæfur hefur verið talinn. Þar sem hjúkrunarráð hafði ekki lagt mat á umsókn stefnanda hafði ráðið ekki lýst því yfir að stefnandi væri hæf. Það styður fullyrðingar stefnanda um að hún hafi ekki komið til greina við atkvæðagreiðsluna.

Þá er að taka afstöðu til þess hvort þessi mistök, að endursenda ekki umsóknirnar til hjúkrunarráðs að fengnum viðbótargögnum, hafi valdið stefnanda tjóni sem fellir skaðabótaábyrgð á stefnda. Við mat á því verður að líta til þess hvort rétt afgreiðsla hjúkrunarráðs og stjórnar stefnda hefði leitt til þess að stefnandi fengi stöðuna.

Hjúkrunarráð mat báða meðumsækjendur stefnanda jafnhæfa og raðaði þeim ekki. Þá er litið er til menntunar og starfsreynslu umsækjendanna þriggja eins og því er lýst í skjölum málsins verður ekki séð að stefnandi hafi staðið framar meðumsækjendum sínum og þá um leið ekki umsækjandanum sem ráðinn var, Kristjönu Arnardóttur. Hér er og til þess að líta að þá er hjúkrunarforstjórastaðan var auglýst 12. apríl 2001 sóttu fimm hjúkrunarfræðingar um stöðuna þar á meðal stefnandi og meðumsækjandi hennar á árinu 1999, Sveinfríður Sigurpálsdóttir. Hjúkrunarráð mat alla fimm umsækjendur hæfa en raðaði Sveinfríði í 1. sæti og stefnanda í 2. sæti. Það gefur til kynna að þótt réttra aðferða hefði verið gætt á árinu 1999 hefði stefnanda ekki verið raðað jafnt og meðumsækjendum hennar og þá ekki heldur framar þeim.

 Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi hvorki sýnt fram á né gert líklegt að hefði réttra aðferða verið gætt þá hefði hún, frekar en hjúkrunarfræðingurinn sem ráðinn var, fengið stöðu hjúkrunarforstjóra stefnda á árinu 1999.

Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda vegna fjártjóns.

Enda þótt fallist sé á  það með stefnanda að stefndi hafi ekki gætt réttra aðferða við val  á hjúkrunarforstjóra stefnda á árinu 1999 eru ekki lagaskilyrði til þess að dæma stefnanda miskabætur.

Niðurstaða málsins er því sú að stefndi er sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Málið dæmir Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Heilbrigðisstofnunin Blönduósi, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Guðrúnar Gyðu Ölvisdóttur, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.