Mál nr. 465/2013

Lykilorð
 • Fjármagnstekjuskattur
 • Stjórnarskrá
 • Stjórn
 • Mannréttindasáttmáli Evrópu
 • Frávísunarkröfu hafnað
 • Sekt
 • Vararefsing

Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 15. maí  2014.

Nr. 465/2013.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Bjarna Ármannssyni

(Garðar Valdimarsson hrl.)

Fjármagnstekjuskattur. Stjórnarskrá. Stjórn. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Frávísunarkröfu hafnað. Sekt. Vararefsing.

B var ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa vantalið alls 20.487.295 krónur í fjármagnstekjur á skattframtölum sínum fyrir gjaldárin 2007, 2008 og 2009. Með dómi Hæstaréttar var hafnað kröfu B um að málinu yrði vísað frá héraðsdómi vegna stjórnsýslulegra annmarka á ákvörðun skattrannsóknarstjóra. Meðal annars var vísað til þess að ákvörðun ákæranda um ákæru væri hluti af valdheimildum hans sem honum væru fengnar að lögum. Reyndist mat hans rangt og í ljós kæmi að á skorti að rennt væri nægjanlegum stoðum undir sakargiftir bæri ákæruvaldið halla af því með því að ákærði yrði sýknaður af þeim. Þá var ekki fallist á að vísa bæri málinu frá héraðsdómi með vísan til 2. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008, 70. gr. stjórnarskrárinnar, 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða 4. gr. 7. samningsviðauka sama sáttmála. Var það virt B til stórfellds hirðuleysis í skilningi 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt að haga framtalsskilum sínum eins og hann gerði. Með vísan til 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var B fundinn sekur um brot gegn 1. mgr. sömu lagagreinar og var honum gert að sæta fangelsi í átta mánuði en refsingin skilorðsbundin til tveggja ára. Þá var B gert að greiða 35.850.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari, Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.  

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. júlí 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara sýknu en að því frágengnu að refsing verði milduð.

I

Eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdóms 23. apríl 2013 þar sem frávísunarkröfu ákærða var hafnað, reisir ákærði kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi einkum á því í fyrsta lagi, að skattyfirvöld hafi hvorki sinnt rannsóknarskyldu sinni né gætt að andmælarétti hans, með því að honum hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaða ákvörðun um refsimeðferð áður en skattrannsóknarstjóri ríkisins tók ákvörðun um hana, sbr. 2. mgr. 35. gr. reglugerðar nr. 373/2001 um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna.

Ágreiningslaust er að með bréfi 6. október 2010 tilkynnti skattrannsóknarstjóri ákærða um lok rannsóknar málsins og um fyrirhugaða töku ákvörðunar um refsimeðferð. Í bréfinu segir að þar sem ákærði kunni að hafa skapað sér refsiábyrgð gæfist honum kostur á að tjá sig um ,,fyrirhugaða refsimeðferð, sbr. 2. mgr. 35. gr. reglugerðar nr. 373/2001“. Var ákærða veittur 30 daga frestur til þess að tjá sig um ákvörðunina, en að þeim tíma liðnum myndi ,,skattrannsóknarstjóri ríkisins taka ákvörðun um refsimeðferð á grundvelli fyrirliggjandi gagna“. Fresturinn var síðan framlengdur að ósk ákærða til 19. nóvember sama ár. Í tölvuskeyti skattrannsóknarstjóra til ákærða 11. sama mánaðar var fallist á að ákvörðun um refsimeðferð í máli ákærða yrði ekki tekin fyrr en boðunarbréf ríkisskattstjóra lægi fyrir ,,varðandi endurákvörðunarþátt málsins.“

Hinn 2. maí 2011 sendi ríkisskattstjóri ákærða boðunarbréf á grundvelli skýrslu skattrannsóknarstjóra þar sem meðal annars var boðuð endurákvörðun skatta gjaldárin 2007, 2008 og 2009 vegna ætlaðra vanframtalinna tekna ákærða í tengslum við starfslok hans hjá Glitni banka hf., samtals 548.689.716 krónur. Eftir andmæli  sem ákærði sendi ríkisskattstjóra 27. júní 2011 endurboðaði ríkisskattstjóri ákærða skatta vegna sama máls 16. janúar 2012, þar sem sú breyting var gerð að fallið var frá  boðaðri breytingu vegna ætlaðra vanframtalinna tekna í tengslum við starfslok ákærða. Skattrannsóknarstjóri tilkynnti síðan ákærða 1. mars 2012 að hann hefði þann dag með bréfi til sérstaks saksóknara vísað máli hans til rannsóknar lögreglu, þar á meðal þeim hluta málsins er varðaði þá fjárhæð sem ríkisskattstjóri hafði fallið frá vegna starfstengdra greiðslna. Ákærði sendi skattrannsóknarstjóra bréf degi síðar, þar sem hann taldi sig enn hafa frest til að tjá sig um fyrirhugaða refsimeðferð. Í tölvuskeyti skattrannsóknarstjóra til ákærða 5. mars sama ár var vísað til þess að ákveðið hefði verið að bíða með að taka ákvörðun um refsimeðferð í málinu þar til boðunarbréf ríkisskattstjóra lægi fyrir varðandi endurákvörðunarþátt málsins. Frestur til að tjá sig um refsimeðferðina hefði því verið liðinn þegar ákvörðun um refsimeðferð var tekin.  

Af framangreindu verður ráðið að ákærða var tilkynnt með bréfi 6. október 2010 um fyrirhugaða ákvörðun um refsimeðferð og honum gefinn kostur á að tjá sig um þá ákvörðun. Frestur til andmæla við þá fyrirhuguðu ákvörðun var ítrekað framlengdur að ósk ákærða og síðast til þess tíma er boðunarbréf ríkisskattstjóra lægi fyrir um endurákvörðunarþátt málsins, en ákvörðunin var ekki tekin fyrr en nokkru eftir að það bréf lá fyrir.

Eins og að framan greinir vísaði skattrannsóknarstjóri máli ákærða til sérstaks saksóknara sem í kjölfar eigin rannsóknar lögum samkvæmt höfðaði mál þetta í samræmi við 145. gr. laga nr. 88/2008. Við rannsókn sérstaks saksóknara var felldur niður sá þáttur kæru skattrannsóknarstjóra sem laut að ætluðum vanframtöldum tekjum ákærða í tengslum við starfslok hans hjá Glitni banka hf. og var ákærða kynnt sú ákvörðun 26. september 2012. Samkvæmt 53. gr. laga nr. 88/2008 er markmið rannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að henni lokinni að ákveða hvort sækja skuli mann til saka samkvæmt 152. gr. laganna. Ákærandi hefur metið rannsókn málsins fullnægjandi og á grundvelli hennar gefið út ákæru. Sú ákvörðun hans er hluti af valdheimildum sem honum eru fengnar að lögum en reynist mat hans rangt og í ljós kemur að á skorti að rennt sé nægjanlegum stoðum undir sakargiftir ber ákæruvaldið halla af því með því að ákærði verði sýknaður af þeim.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á með ákærða að vísa beri málinu frá héraðsdómi á þeim grunni að stjórnsýslulegir annmarkar hafi verið á þeirri ákvörðun skattrannsóknarstjóra að vísa máli ákærða til embættis sérstaks saksóknara.

Í annan stað byggist frávísunarkrafa ákærða á því að vísa eigi málinu frá héraðsdómi á grundvelli 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, þar sem segir að enginn skuli sæta lögsókn eða refsingu að nýju fyrir sama brot. Þá vísar ákærði í þessu sambandi til 2. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008, 70. gr. stjórnarskrár og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Með vísan til dómafordæma Hæstaréttar 22. september 2010 í máli nr. 371/2010 og 23. janúar 2014 í máli nr. 323/2013 verður að hafna kröfu ákærða um frávísun málsins á þessum grundvelli.

Samkvæmt framansögðu en að öðru leyti með vísan til úrskurðar héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um höfnun frávísunarkröfu ákærða.

II

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi vantaldi ákærði fjármagnstekjur sínar á þriggja ára tímabili. Verður að virða ákærða til stórfellds hirðuleysis í skilningi 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 að haga framtalsskilum sínum eins og hann gerði, en honum sem fyrrum forstjóra í stórum banka hefði öðrum fremur átt að vera ljóst hvernig það bæri að gera í samræmi við lög. Þá hefur Hæstiréttur ítrekað litið svo á að þegar um svo háar fjárhæðir er að tefla sem í tilviki ákærða sé um meiri háttar brot að ræða í skilningi 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og verður brot hans því einnig heimfært undir 1. mgr. sömu lagagreinar.

Samkvæmt öllu framangreindu verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða staðfest. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í átta mánuði sem bundin verður skilorði á þann hátt sem í dómsorði greinir. Þá verður með vísan til forsendna héraðsdóms staðfest niðurstaða hans um fjárhæð sektar en að viðlagðri vararefsingu sem í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Bjarni Ármannsson, sæti fangelsi í átta mánuði en fresta skal fullnustu fangelsisrefsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 35.850.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í eitt ár.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.068.960 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Garðars Valdimarssonar hæstaréttarlögmanns, 1.000.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 4. júní 2013, er höfðað með ákæru, útgefinni af sérstökum saksóknara 17. desember 2012, á hendur Bjarna Ármannssyni, [...] fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2007, 2008 og 2009 vegna tekjuáranna 2006, 2007 og 2008, en samkvæmt ákæru lét ákærði undir höfuð leggjast að telja fram á:

 1. Skattframtali sínu gjaldárið 2007 vegna tekjuársins 2006, söluhagnað samtals að fjárhæð kr. 196.776.196, vegna sölu á hlutabréfum í Sjávarsýn ehf. sem skattskyldur er skv. 8. tölul. C-liðar 7. gr., sbr. 18. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.
 2. Skattframtölum sínum gjaldárin 2007 og 2008 vegna tekjuáranna 2006 og 2007 arðgreiðslur af erlendum hlutabréfum sínum hjá E-Trade Securites LLC, samtals að fjárhæð kr. 1.571.663 tekjuárið 2006 og kr. 1.133.551 tekjuárið 2007, sem skattskyldar eru skv. 4. tölul. C-liðar 7. gr., sbr. 11. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.
 3. Skattframtölum sínum gjaldárin 2007 og 2008, vegna tekjuáranna 2006 og 2007 vaxtatekjur af viðskiptum sínum hjá E-Trade Securities LLC, samtals að fjárhæð kr. 135.176 tekjuárið 2006 og kr. 179.193 tekjuárið 2007, sem skattskyldar eru skv. 3. tölul. C-liðar 7. gr., sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.
 4. Skattframtölum sínum gjaldárin 2007, 2008 og 2009 vegna tekjuáranna 2006, 2007 og 2008 vaxtatekjur vegna reikninga í Vestjysk bank og í Bank of Scotland, samtals að fjárhæð kr. 1.232.197 tekjuárið 2006, kr. 2.288.042 tekjuárið 2007 og kr. 4.967.001 tekjuárið 2008, sem skattskyldar eru skv. 3. tölul. C-liðar 7. gr., sbr. 8. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.
 5. Skattframtölum sínum gjaldárin 2008 og 2009, vegna tekjuáranna 2007 og 2008, tekjur af  29 gjaldmiðlasamningum árið 2007 og 7 gjaldmiðlasamningum árið 2008 sem gerðir voru við Glitni Banka hf., samtals að fjárhæð kr. 30.445.000 tekjuárið 2007 og kr. 10.183.684 tekjuárið 2008, sem skattskyldar eru skv. 3. tölul. C-liðar 7. gr., sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sem sundurliðast sem hér greinir:

Tekjur af gjaldmiðlasamningum árið 2007:

 

 

 

 

 

Samn. dagur

Nr. samnings

Afhend-ingard.

k/s

GVT

Fjárhæð ISK

Samn.gengi

Gengi SB

Hagn./tap

Tekjur

23.5.2007

FX0000211215

25.5.2007

k

4.000.000

-450.000.000

112,50

113,47

3.864.000

 

24.5.2007

FX0000211217

25.5.2007

s

-1.000.000

113.500.000

113,50

113,47

34.000

 

24.5.2007

FX0000211216

25.5.2007

s

-2.000.000

226.600.000

113,30

113,47

-332.000

 

25.5.2007

FX0000211218

25.5.2007

s

-1.000.000

113.550.000

113,55

113,47

84.000

3.650.000

16.5.2007

TE0000010788

29.5.2007

s

-4.000.000

462.480.000

115,62

112,83

11.168.800

 

21.5.2007

TE0000010787

29.5.2007

k

4.000.000

-459.520.000

114,88

112,83

-8.208.800

2.960.000

1.6.2007

FX0000212336

6.6.2007

k

4.000.000

-448.760.000

112,19

114,60

9.620.000

 

4.6.2007

FX0000213159

6.6.2007

k

1.500.000

-170.625.000

113,75

114,60

1.267.500

 

4.6.2007

FX0000213156

6.6.2007

k

2.000.000

-229.200.000

114,60

114,60

-10.000

 

4.6.2007

FX0000213160

6.6.2007

s

-2.000.000

228.100.000

114,05

114,60

-1.090.000

 

5.6.2007

FX0000213312

6.6.2007

s

-2.500.000

289.750.000

115,90

114,60

3.262.500

 

5.6.2007

FX0000213313

6.6.2007

s

-2.000.000

230.800.000

115,40

114,60

1.610.000

 

5.6.2007

FX0000213308

6.6.2007

s

-1.000.000

115.900.000

115,90

114,60

1.305.000

15.965.000

5.6.2007

FX0000213321

7.6.2007

k

2.000.000

-230.800.000

115,40

114,60

-1.592.000

 

7.6.2007

FX0000213898

7.6.2007

s

-2.000.000

231.000.000

115,50

114,60

1.792.000

200.000

6.6.2007

FX0000214410

8.6.2007

k

2.000.000

-231.580.000

115,79

117,20

2.820.000

 

8.6.2007

FX0000214413

8.6.2007

s

-2.000.000

233.100.000

116,55

117,20

-1.300.000

1.520.000

13.6.2007

FX0000215391

13.6.2007

k

1.500.000

-172.050.000

114,70

115,14

654.000

 

13.6.2007

FX0000215392

13.6.2007

s

-1.500.000

173.250.000

115,50

115,14

546.000

1.200.000

13.6.2007

FX0000215295

15.6.2007

k

1.500.000

-172.650.000

115,10

113,80

-1.944.000

 

13.6.2007

FX0000215296

15.6.2007

s

-1.500.000

173.250.000

115,50

113,80

2.544.000

600.000

22.6.2007

FX0000217702

26.6.2007

k

2.000.000

-227.200.000

113,60

115,06

2.918.000

 

26.6.2007

FX0000217707

26.6.2007

s

-2.000.000

230.150.000

115,08

115,06

32.000

2.950.000

26.6.2007

FX0000217964

28.6.2007

k

2.000.000

-229.000.000

114,50

114,27

-458.000

 

27.6.2007

FX0000217965

28.6.2007

s

-2.000.000

230.300.000

115,15

114,27

1.758.000

1.300.000

27.6.2007

FX0000218483

29.6.2007

k

4.000.000

-457.380.000

114,35

114,01

-1.356.000

 

28.6.2007

FX0000218482

29.6.2007

s

-4.000.000

457.480.000

114,37

114,01

1.456.000

100.000

6.7.2007

FX0000219848

6.7.2007

k

2.000.000

-229.820.000

114,91

113,19

-3.436.000

 

2.7.2007

TE0000011363

6.7.2007

s

-2.000.000

229.820.000

114,91

113,19

3.436.000

0

 

 

 

 

 

Samtals

30.445.000

k/s þýðir kaup/sala á gengisvísitölu

Tegund samninga er GVT/ISK

GVT er gengisvísitala

Gengi SB þýðir Seðlabankagengi á afhendingardegi

Hagn./tap er hagnaður/tap af hverjum samningi mv. SB gengi.              

Tekjur af gjaldmiðlasamningum 2008:

 

 

 

 

 

Samn.   dagur

Auðkenni samnings

Afhend-ingard.

k/s

Fjárhæð í erl.

Fjárhæð ISK

Samn.-gengi

Gengi SB

Hagn./tap

Tekjur

22.7.2008

SW0000064710

5.8.2008

k

425.000

-62.135.000

146,2

154,81

3.659.250

 

5.8.2008

FX0000314758

5.8.2008

k

10.607

-1.642.111

154,82

154,81

0

 

23.7.2008

TE0000021376

5.8.2008

s

-435.607

69.148.189

158,74

154,81

1.711.934

5.371.184

17.9.2008

FX0000324817

22.9.2008

s

-250.000

42.345.000

169,38

164,82

1.140.000

 

17.9.2008

FX0000325029

22.9.2008

s

-250.000

42.177.500

168,71

164,82

972.500

 

19.9.2008

FX0000325766

22.9.2008

k

500.000

-83.260.000

166,52

164,82

-850.000

1.262.500

10.1.2008

TE0000015332

15.1.2008

k

10.000.000

-117.740.000

11,774

12,13

3.550.000

3.550.000

k/s = kaup/sala á erlendum gjaldmiðli

 

 

 

 

Samtals

10.183.684

Tegund samninga er GBP/ISK nema samnings TE0000015332 er NOK/ISK

 

Með þeirri háttsemi sem lýst er í töluliðum 1 til 5 hér að framan vanframtaldi ákærði fjármagnstekjuskattstofn sinn um samtals kr. 204.872.949, sem honum bar að greiða af fjármagnstekjuskatt samtals að fjárhæð kr. 20.487.295, sem sundurliðast eins og hér að neðan greinir:

Gjaldárið 2007:

Fjármagnstekjur:

Vanframtalinn söluhagnaður                                                                                           kr. 196.776.196

Vanframtaldar vaxtatekjur                                                                                              kr.     1.367.373

Vanframtaldar arðstekjur                                                                                                 kr.     1.571.663

Of framtalinn söluhagnaður                                                                                             kr.       -894.093

Samtals vanframtaldar fjármagnstekjur                                                                       kr. 198.821.139

Vanframtalinn fjármagnstekjuskattur, skattprósenta 10%                                       kr.   19.882.114

Gjaldárið 2008:

Fjármagnstekjur:

Vanframtalinn gengishagnaður                                                                                        kr.   30.445.000

Vanframtaldar vaxtatekjur                                                                                              kr.     2.467.235

Vanframtaldar arðstekjur                                                                                                 kr.     1.133.551

Of framtalinn söluhagnaður                                                                                             kr.  -30.737.830

Samtals vanframtaldar fjármagnstekjur                                                                       kr.     3.307.956

Vanframtalinn fjármagnstekjuskattur, skattprósenta 10%                                       kr.        330.796

Gjaldárið 2009:

Fjármagnstekjur:

Vanframtalinn gengishagnaður                                                                                        kr.   10.183.684

Vanframtaldar vaxtatekjur                                                                                              kr.     4.967.001

Of framtalinn söluhagnaður                                                                                             kr.  -12.406.831

Samtals vanframtaldar fjármagnstekjur                                                                       kr.     2.743.854

Vanframtalinn fjármagnstekjuskattur, skattprósenta 10%                                       kr.        274.385

Samtals vanframtaldar fjármagnstekjur:                                                                      kr. 204.872.949

Samtals vangreiddur fjármagnstekjuskattur:                                                              kr.    20.487.295

Framangreind brot ákærða teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Verjandi krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að honum verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna, sem greiðist úr ríkissjóði.

Málsatvik

Með bréfi, dagsettu 1. mars 2012, vísaði skattrannsóknarstjóri ríkisins máli ákærða til Embættis sérstaks saksóknara til sakamálarannsóknar. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra, sem fylgdi kærubréfinu, kemur fram að skattrannsóknarstjóri hafi hafið rannsókn á skattskilum ákærða með það fyrir augum hvort hann hefði talið fram ávinning af sölu hlutabréfa í tengslum við starfslok sín sem forstjóri Glitnis banka hf. í aprílmánuði 2007. Í framhaldinu hafi verið tekin ákvörðun um að hefja rannsókn á skattskilum hans vegna tekjuáranna 2006, 2007 og 2008. Hafi niðurstaða rannsóknarinnar verið sú að ákærði hefði staðið skil á efnislega röngum skattframtölum og með því vanframtalið fjármagnstekjuskattstofn sinn á umræddu tímabili. Með bréfi skattrannsóknarstjóra, dagsettu 6. október 2010, var skýrsla embættisins send ríkisskattstjóra til endurákvörðunar á sköttum. Í meðförum ríkisskattstjóra á málinu var fallið frá fyrirhugaðri endurákvörðun tekjuskattsstofns vegna meintra vanframtalinna tekna í tengslum við starfslok. Hinn 15. maí 2012 úrskurðaði ríkisskattstjóri um endurákvörðun opinberra gjalda ákærða gjaldárin 2007, 2008 og 2009. Með úrskurðinum var 25% álagi bætt við vantalinn skattstofn öll gjaldárin, sbr. heimild í 2. mgr. 108. gr. laga um tekjuskatt. Úrskurðurinn var ekki kærður til yfirskattanefndar.

Sem fyrr greinir gaf sérstakur saksóknari út ákæru í málinu 17. desember 2012, vegna meintra brota ákærða gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Ákærði neitaði sök við þingfestingu málsins, en gerir ekki athugasemdir við tölulega hlið ákæru.

Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði líta svo á að málinu hefði átt að ljúka með því að hann greiddi því sem nam fullnaðarálagningu með álagi samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra. Ákærði kvaðst sjálfur hafa annast gerð skattframtala sinna á því tímabili sem um ræðir og hefði hann staðið skil á þeim rafrænt. Að því er varðar 1. ákærulið kvaðst ákærði hafa verið stofnandi og eigandi einkahlutafélaganna Sjávarsýnar og Gláms og kannaðist við að hafa ritað undir kaupsamning 26. janúar 2006 sem kaupandi og seljandi vegna sölu fyrrnefnda félagsins til hins síðarnefnda. Hann kvaðst hvorki muna hvers vegna hann sameinaði þessi félög, né hvers vegna hann gerði það með þessum hætti. Þá hefði hann ekki munað eftir þessum gjörningi er hann fyllti út skattframtal vegna tekjuársins 2006. Hann hefði því á framtali sínu hvorki gert grein fyrir kaupsamningnum né söluhagnaði sem myndaðist við þetta.

Borin voru undir ákærða yfirlit um rafræn viðskipti með erlend hlutabréf á því tímabili sem ákæra tekur til, sbr. 2. og 3. ákæruliði. Ákærði kvað ónákvæmni og handvömm um að kenna að hann hefði ekki talið fram arðgreiðslur og vaxtatekjur af viðskiptum sínum og benti jafnframt á að tap hefði verið á sölu hlutabréfa á þessum þremur gjaldárum, sem hann hefði ekki gert grein fyrir. Hann kvað það jafnframt hafa verið handvömm af sinni hálfu að telja ekki fram vaxtatekjur vegna reikninga í erlendum bönkum, sbr. 4. ákærulið.

Að því er varðar 5. ákærulið kvaðst ákærði ekki hafa haldið utan um ávinning eða tap vegna gjaldmiðlasamninga við Glitni banka hf. og hefði hann ekki farið yfir viðskiptin hverju sinni. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa fengið yfirlit yfir viðskiptin, en taldi þó að hann hlyti að hafa fengið send slík yfirlit í lok hvers árs. Ákærði kvaðst hafa talið að bankinn hefði haldið eftir og staðið skil á fjármagnstekjuskatti vegna viðskiptanna. Hann hefði þó ekki leitað eftir því við bankann hvort sú væri raunin. Hann kvaðst ekki hafa gert grein fyrir ávinningi sínum vegna þeirra og hefði það verið handvömm af hans hálfu.

Ákærði gerði nánar grein fyrir mistökum sem hann hefði gert við gerð skattframtals gjaldárið 2007, þar sem ekki var talinn fram hagnaður vegna sölu á hlutabréfum í Sjávarsýn ehf. Ákærði kvaðst hafa selt öll hlutabréf Sjávarsýnar ehf. til Gláms ehf. og hefði hið sameinaða félag borið heitið Sjávarsýn ehf., en haldið kennitölu Gláms ehf. Hann hefði notast við upplýsingar í skattframtali vegna gjaldársins 2006 þegar hann gerði grein fyrir hlutabréfaeign sinni, kaup og sölu, á sérstöku eyðublaði við framtalsgerðina. Þar hefðu komið fram upplýsingar um hlutafjáreign í Sjávarsýn ehf. án þess að kennitala væri tilgreind. Ákærði kvaðst ekki hafa munað eftir því að hafa selt félagið öðru félagi og hefði hann því ekki gert grein fyrir þeim breytingum sem höfðu orðið á hlutfjáreigninni.

Ákærði áréttaði að hann gerði ekki athugasemdir við tölulega hlið ákæru, en að hann hefði ekki vantalið fjármagnstekjur sínar af ásetningi, heldur hefði verið um mistök að ræða af sinni hálfu. Hann tók fram að vantalinn fjármagnstekjuskattur samkvæmt ákæru hafi numið tæplega 7,4% af heildarskattgreiðslum hans það tímabil sem ákæra tekur til.

Niðurstaða

                Ákærði neitar sök í málinu. Hann viðurkennir að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram fjármagnstekjur sínar sem í ákæru greinir, en telur að málinu hefði átt að ljúka með úrskurði ríkisskattstjóra. Ákærði hafði áður krafist frávísunar ákæru í málinu, m.a. með vísan til þess að refsikrafa sé andstæð meginreglunni um bann við endurtekinni málsmeðferð vegna refsiverðrar háttsemi eða tvöfaldri refsingu vegna sömu háttsemi (ne bis in idem), sbr. 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Íslands. Með úrskurði, uppkveðnum 23. apríl 2013, hafnaði dómurinn kröfu ákærða um frávísun með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands frá 22. september 2010 í málinu nr. 371/2010.

Svo sem rakið hefur verið tók skattrannsóknarstjóri ríkisins mál ákærða til rannsóknar að eigin frumkvæði og vísaði því síðar til sérstaks saksóknara á grundvelli 4. mgr. 110. gr. laga um tekjuskatt og 35. gr., sbr. 38. gr. reglugerðar um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna nr. 373/2001. Kemur fram í bréfi skattrannsóknarstjóra til sérstaks saksóknara, dagsettu 1. mars 2012, að meint brot ákærða séu talin varða við 262. gr. almennra hegningarlaga. Meðferð máls ákærða var í samræmi við lög og reglur sem gilda um skattrannsókn og réttarframkvæmd á því sviði. Sérstakur saksóknari hefur höfðað mál á hendur ákærða vegna hluta þeirrar háttsemi sem kæra skattrannsóknarstjóra laut að og er háttsemi hans talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt.

Ákærði hefur gefið þær skýringar á því að hann vanframtaldi fjármagnstekjur sínar að um handvömm eða mistök hafi verið að ræða af hans hálfu. Fjármagnstekjur sem ákærði viðurkennir að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram voru skattskyldar samkvæmt ákvæðum tekjuskattslaga sem í 1. til 5. ákærulið greinir. Verulegur hluti þeirra tekna sem um ræðir voru hagnaður vegna sölu á hlutabréfum í Sjávarsýn ehf., sbr. 1. ákærulið. Ákærði hefur gert grein fyrir því hvernig hann stóð að því að sameina tvö félög í sinni eigu, en við þá samningsgerð myndaðist söluhagnaður að fjárhæð 196.776.196 krónur, sem gögn málsins bera með sér að hafi runnið inn á bankareikning hans. Hefur ákærði rakið hvernig hann stóð að framtalsgerð sinni vegna tekjuársins 2006 og að hann hafi ekki munað eftir því að telja fram tekjur sínar að þessu leyti. Varnir ákærða samkvæmt 2. til 5. ákærulið eru reistar á sama grunni. Að því er 5. ákærulið varðar er ljóst að ákærði átti í umtalsverðum viðskiptum samkvæmt gjaldmiðlasamningum þann tíma sem ákæra tekur til. Námu tekjur hans 30.445.000 krónum tekjuárið 2007 og 10.183.684 krónum tekjuárið 2008. Ákærði hefur borið að hann hafi talið að starfsmenn bankans hefðu haldið eftir og staðið skil á fjármagnstekjuskatti vegna viðskiptanna, en að hann hafi þó ekki kannað það sérstaklega. Ákærði er fyrrum forstjóri bankans, en hefur starfað sem fjárfestir eftir starfslok þar. Í ljósi fyrri stöðu hans og starfsreynslu á þessu sviði hefði mátt vænta að hann þekkti til þess hvernig framkvæmdinni var háttað að þessu leyti innan bankans. Hvað sem því líður er óumdeilt að ákærði gerði ekki grein fyrir tekjum sínum vegna viðskiptanna á skattframtölum.

Saknæmisskilyrði samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt eru ásetningur eða stórfellt hirðuleysi, en ásetningur eða stórfellt gáleysi samkvæmt 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Eins og rakið hefur verið vanframtaldi ákærði fjármagnstekjur sínar á því tímabili sem ákæra tekur til og var um verulegar fjárhæðir að ræða. Skiptir ekki máli í því sambandi að skattgreiðslur ákærða hafi á sama tíma numið háum fjárhæðum. Af því sem rakið hefur verið og gögnum málsins að öðru leyti verður ráðið að ákærði hafði ekki reiður á fjármunum sínum. Verður að virða ákærða sem stórfellt hirðuleysi eða gáleysi að láta undir höfuð leggjast að telja fram fjármagnstekjur sínar sem í ákæru greinir. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og varða brot hans við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt. 

                Ákærði, sem fæddur er árið 1968, hefur ekki áður sætt refsingu. Hann er í máli þessu sakfelldur fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, en háttsemin er ekki virt honum til ásetnings. Þá liggur fyrir að ákærði hefur greitt að fullu opinber gjöld, samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, auk álags. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Auk refsivistar ber að dæma ákærða til greiðslu sektar, samkvæmt þeim lagaákvæðum sem í ákæru greinir. Við útreikning vanframtalins fjármagnstekjuskatts hefur í ákæru verið tekið tillit til of framtalins söluhagnaðar á skattframtali vegna hvers gjaldárs og verður við það miðað við ákvörðun sektar í málinu. Fjárhæð sektar verður ákvörðuð í samræmi við lögbundið sektarlágmark, að frádregnum skatti af álagi, sbr. 109. gr. laga um tekjuskatt. Samkvæmt framansögðu verður ákærði dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð 35.850.000 krónur, að viðlagðri vararefsingu sem í dómsorði greinir.

                Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Garðars Valdimarssonar hrl., 1.691.113 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Ásmunda Björg Baldursdóttir aðstoðarsaksóknari.

                Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

                Ákærði, Bjarni Ármannsson, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

                Ákærði greiði 35.850.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 8 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

                Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Garðars Valdimarssonar hrl., 1.691.113 krónur.