Print

Mál nr. 333/2010

Lykilorð
  • Skaðabætur
  • Dánarbætur
  • Vinnusjúkdómur
  • Orsakatengsl

Fimmtudaginn 24. mars 2011.

Nr. 333/2010:

Svanhildur Þorkelsdóttir

(Grímur Sigurðsson hrl.

Ívar Pálsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.

Arnar Þór Jónsson hdl.)

Mosfellsbæ

(Helgi Jóhannesson hrl.

Reykjavíkurborg og Kjósarhreppi

(Anton Björn Markússon hrl.

Kristbjörg Stephensen hdl.)

Skaðabætur. Dánarbætur. Vinnusjúkdómur. Orsakatengsl.

S höfðaði mál gegn Í, M, R og K og krafðist skaðabóta vegna atvika sem urðu í störfum J, fyrrum eiginmanns S, við að setja upp milliveggi í Varmárskóla í Mosfellshreppi árið 1976. S hélt því fram að J hefði þá orðið fyrir asbestmengun sem leiddi til þess að hann lést úr krabbameini árið 2006. Greindi aðila m.a. á um hvort sannað væri að asbestmengunin hefði orsakað sjúkdóm J. S hafði ekki fengið dómkvadda menn til að leggja mat á hverjar líkur væru á orsakasambandi, að teknu tilliti til fyrirliggjandi upplýsinga, um atvik málsins en leitaðist þess í stað við að afla sönnunar um þetta með framburði læknis sem annaðist J. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt læknirinn hefði lýst veikindunum og þeirri meðferð sem J fékk hefði framburður læknisins að stærstum hluta verið lýsing á þekkingu sem læknavísindin byggju yfir um orsakasambands milli asbestmengunar og sjúkdóms J auk álits hennar á ýmsum atriðum sem þar skiptu máli. Sönnun í einkamáli yrði ekki fengin með slíkum vitnisburði sérfræðings, auk þess sem lækninum hefði verið ókunnugt um ýmis atvik málsins. Gegn mótmælum stefndu þótti því ekki komin fram sönnun um orsakasamband milli ætlaðs tjónsatviks og sjúkdóms J og þar með tjóns S og voru Í, M, R og K því sýknuð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. júní 2010. Hún krefst þess að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 6.804.500 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 20. ágúst 2006 til 19. febrúar 2007, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi stefndu.

 Stefndi íslenska ríkið krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður á báðum dómstigum falli niður.

Stefndi Mosfellsbær krefst aðallega sýknu af kröfu áfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndu Reykjavíkurborg og Kjósarhreppur krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara lækkunar á kröfu áfrýjanda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Í málinu krefst áfrýjandi skaðabóta vegna atvika, sem urðu á árinu 1975 og hún telur hafa leitt til þess að eiginmaður hennar, Jóhann Björnsson, lést 20. ágúst 2006. Á fyrrnefnda árinu hafi hann unnið á vegum Trésmiðjunnar K-14 við að setja upp nýja milliveggi í Varmárskóla í Mosfellshreppi, en að hluta hafi þeir verið gerðir úr asbestplötum. Í því verki hafi Jóhann þurft að saga asbestplötur og við það myndast mikið ryk sem óhjákvæmilega hafi borist í öndunarfæri hans. Þekkt sé að slík loftmengun geti jafnvel áratugum síðar valdið krabbameini í öndunarfærum þess sem fyrir henni verði. Jóhann hafi greinst með krabbamein í brjósthimnu í febrúar 2006 og látist um hálfu ári síðar. Enginn vafi leiki á að sjúkdóm hans og andlát megi rekja til þeirra aðstæðna, sem hann hafi þurft að starfa við í umrætt sinn, enda hafi hann ekki í önnur skipti komist í snertingu við asbest. Stefndu beri ábyrgð á tjóni hennar bæði eftir reglum skaðabótaréttar um hlutlæga ábyrgð og almennu skaðabótareglunni, en skaðsemi asbests hafi verið orðin almennt kunn á árinu 1975 og því óforsvaranlegt að nota það með þeim hætti, sem þarna var gert. Hún telur stefndu bera óskipta bótaábyrgð á tjóninu, en í hinum áfrýjaða dómi greinir frá málsástæðum hennar fyrir ábyrgð hvers hinna stefndu og röksemdum fyrir bótafjárhæð.

Stefndu telja ósannað að loftmengun af völdum asbestryks hafi verið jafn mikil og áfrýjandi haldi fram þegar Jóhann vann áðurnefnt verk, enda hafi verið unnt að saga efnið utan dyra að miklu leyti. Þá hafi áfrýjandi ekki uppfyllt þær kröfur um sönnun á orsakasambandi, sem viðurkennt sé í skaðabótarétti að gera þurfi. Ekkert hafi verið upplýst um hve mikið asbest hafi verið notað eða hve lengi unnið við það, auk þess sem margt annað en þetta atvik geti hafa valdið sjúkdómi Jóhanns þrjátíu árum síðar. Hver hinna stefndu ber fyrir sig að sýkna eigi hann vegna aðildarskorts. Þá mótmæla þeir að bótaskylda verði felld á þá á grundvelli hlutlægra bótareglna og ennfremur er því mótmælt að skaðsemi asbests hafi verið orðin almennt kunn á árinu 1975 þannig að til álita komi að fella bótaskyldu á stefndu samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Í því sambandi benda þeir á að asbest hafi verið löglegt byggingarefni 1975, en almenn þekking fengist á skaðsemi þess smám saman eftir það, sem leitt hafi til þess að það var að mestu leyti bannað á árinu 1983. Hvað sem öðru líði hafi það verið á ábyrgð vinnuveitanda Jóhanns, Trésmiðjunnar K-14, að sjá til þess að starfsmenn notuðu viðeigandi hlífðarbúnað við rykmengun. Loks mótmæla stefndu fjárhæð bótakröfu áfrýjanda eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi.

II

Hvorki nýtur við í málinu glöggra heimilda um það í hvaða mæli asbest var notað í milliveggi í Varmárskóla né hvaða tegund asbests um var að ræða, en fram er komið að nokkrar tegundir af efninu hafi verið í notkun á þeim tíma sem síðari rannsóknir hafa sýnt að misjafnlega mikil hætta stafaði af. Skólinn mun hafa verið reistur á árunum 1971 til 1972 og samkvæmt hönnunargögnum, sem stöfuðu frá embætti Húsameistara ríkisins, var gert ráð fyrir notkun asbests í hluta milliveggjanna. Byggingarnefnd skólans mun hins vegar hafa ákveðið að nota vikurplötur en ekki asbest. Hluti þessara milliveggja mun fljótlega hafa gefið sig og voru þeir endurnýjaðir 1975. Af hálfu áfrýjanda er á því byggt að í það sinn hafi asbest verið notað í samræmi við upphaflega hönnun milliveggjanna. Undir rekstri málsins hlutaðist stefndi Reykjavíkurborg til um að allir milliveggir í skólanum yrðu athugaðir og er minnisblað byggingarfulltrúa hans og stefnda Mosfellsbæjar um það 9. október 2008 meðal málskjala ásamt teikningum af milliveggjum í byggingunni. Byggingarfulltrúarnir gáfu skýrslu fyrir dómi og staðfestu efni minnisblaðsins. Samkvæmt því eru allir milliveggir á fyrstu hæð hlaðnir og múrhúðaðir að undanskildum einum á milli kennslustofa. Á annarri hæð eru allir veggir milli kennslustofa hlaðnir, en langveggir milli kennslustofa og gangarýmis úr þilplötum og að auki hluti veggja við vinnuaðstöðu. Tekið var sýni úr plötuklæðningu langveggjar með kjarnabor og segir í minnisblaðinu að ekki virðist vera um dæmigert gifs að ræða, heldur megi ætla að efnið sé blanda af gifsi og asbesti. Úr því verði ekki skorið nema með sérstakri rannsókn en ljóst sé að „ekki er um hart asbest að ræða.“ Frekari rannsókn var ekki gerð á sýnishorninu. Þrátt fyrir það gefur þessi athugun nokkra mynd af því að önnur efni en asbest hafi að langmestu leyti verið notuð í milliveggi á fyrstu hæð skólans, en jafnframt að asbest kunni að hafa verið notað á annarri hæð í alla langveggi milli kennslustofa og skólaganga og hluta veggja við vinnuherbergi, en hvergi í veggi á milli kennslustofa. Ekki verður því vefengt að Jóhann Björnsson hafi unnið við asbest á árinu 1975 í Varmárskóla þótt ætla megi að þá hafi verið meira unnið með önnur byggingarefni.

Meðal málskjala er fundargerð byggingarnefndar skólans 20. júní 1975, þar sem lagfæringar á skemmdum milliveggjum voru til umræðu. Segir þar að fundarmenn telji að hefja þurfi niðurrif skemmdra veggja og uppbyggingu nýrra þá þegar. Formanni nefndarinnar var jafnframt falið að leita samninga við Trésmiðjuna K-14 um að annast smíði nýrra veggja. Af þessu má ráða að vinna við að reisa nýja veggi hefur líklega hafist í júlímánuði að því gættu að einhvern tíma hafi tekið að semja við verktakann og fjarlægja skemmda veggi. Þá liggur fyrir að verkið stóð yfir fram í september. Allt verkið virðist því hafa verið unnið á sem næst tveimur mánuðum og við einhvern hluta þess notað asbest. Einar Þorkelsson, bróðir áfrýjanda, gaf skýrslu fyrir dómi, en hann var á árinu 1975 fyrirsvarsmaður Trésmiðjunnar K-14. Hann kvað mikið ryk hafa myndast við að saga asbestplötur inni, en þær hafi verið 12 mm þykkar. Verklagi hafi því verið breytt og mynduð aðstaða til að saga efnið utan dyra. Hver asbestplata hafi verið borin út og söguð þar. Þorkell Jóhannsson, sonur áfrýjanda og Jóhanns Björnssonar, gaf einnig skýrslu fyrir dómi og kvaðst hafa unnið með föður sínum og fleiri mönnum við asbestið. Hann kvað efnið hafa verið sagað utan dyra ef veður leyfði og þannig hafi það verið lengst af. Mikið ryk hafi myndast við þá vinnu, en menn hafi borið einhvers konar andlitsgrímur meðan á því stóð og þar á meðal faðir hans.

III

Halla Skúladóttir yfirlæknir á Landspítala gaf skýrslu fyrir dómi, en fram kom að sérsvið hennar væri meðferð lungnakrabbameins og brjóstholsmeina. Hún kvaðst hafa sinnt Jóhanni Björnssyni í veikindum hans, en sú tegund krabbameins, sem hann var haldinn, væri mjög sjaldgæf og aðeins greindust einn eða tveir menn á ári hér á landi með þá tegund sjúkdómsins. Hún skýrði frá krabbameinsrannsóknum alþjóðlegrar stofnunar, þar sem niðurstaðan hafi orðið sú að asbest valdi þessari tegund krabbameins og sjálf teldi hún mjög líklegt að sjúkdóm Jóhanns mætti rekja til vinnu hans við asbest 1975, sem hann hafi lýst fyrir henni. Þessi tegund krabbameins komi nánast ekki fyrir hjá öðrum en þeim, sem hafi orðið fyrir asbestmengun, og engar aðrar ástæður séu algjörlega öruggar fyrir myndun þess. Þannig hafi til dæmis ekki tekist að tengja reykingar með vissu við þennan æxlissjúkdóm. Þá hafi Jóhann aldrei fengið geislun á brjósthol og ekki hafi heldur tekist að sanna að tiltekin veirusýking geti leitt til þessa sjúkdóms. Víst sé að einhverjir hafi fengið sjúkdóminn án þess að unnt sé að sýna fram á að þeir hafi orðið fyrir asbestmengun, en menn geti þó hugsanlega lent í slíkum aðstæðum án þess að verða það ljóst. Þá þurfi mjög lítinn skammt af asbesti til þess að fá sjúkdóminn, en mjög miklu skipti hversu mikið asbest sé í efninu sem unnið sé með. Þá staðfesti vitnið vottorð sitt 6. nóvember 2006 þar sem segir að Jóhann hafi orðið fyrir verulegri asbestmengun við vinnu sína og kvað þá staðhæfingu vera byggða á frásögn Jóhanns.

IV

Aðilana greinir á um hvort orsakasamband sé sannað í málinu milli sjúkdóms Jóhanns Björnssonar og asbestmengunar, sem hann varð fyrir sumarið 1975. Að framan greinir frá því, sem fram er komið um að hvaða marki efnið var notað í milliveggi í Varmárskóla, aðstæður þar sem unnið var með það innan dyra og utan og hve lengi megi ætla að vinnan við veggina í heild hafi staðið yfir þar sem unnið var með asbest og önnur efni. Áfrýjandi átti þess kost að fá dómkvadda menn til að leggja mat á hverjar líkur væru á orsakasambandi að teknu tilliti til fyrirliggjandi upplýsinga um atvik málsins og leitast þannig við að afla sönnunar um þetta grundvallaratriði þar sem sönnunarbyrði hvílir á henni. Það gerði hún ekki, en styðst þess í stað við framburð Höllu Skúladóttur læknis fyrir dómi, svo sem greinir að framan.

Um framburð læknisins er þess að gæta að hún lýsti veikindum Jóhanns og meðferð og er hún að því leyti vitni. Að stærstum hluta er framburður hennar þó í senn lýsing á þekkingu, sem læknavísindin búa yfir um orsakasamband milli asbestmengunar og þess tiltekna sjúkdóms sem um ræðir, og álit hennar sjálfrar á ýmsum atriðum, sem þar skipta máli. Sönnun í einkamáli verður ekki fengin með slíkum vitnisburði sérfræðings, auk þess sem ekki verður séð að lækninum hafi verið kunnugt um þau atvik málsins, sem greinir í kafla II að framan. Gegn mótmælum stefndu er sönnun því ekki fram komin um að sjúkdómur Jóhanns Björnssonar og þar með tjón áfrýjanda verði rakið til ætlaðs tjónsatviks. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu allra stefndu samkvæmt því staðfest, svo og um málskostnað.

Rétt er að hver aðilanna beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. apríl 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 16. desember sl., að lokinni aðalmeðferð var endurupptekið og flutt að nýju hinn 31. mars sl., og dómtekið að ný þann dag, var höfðað fyrir dómþinginu af Svanhildi Þorkelsdóttur, Markholti 18, Mosfellsbæ, á hendur íslenska ríkinu, Mosfellsbæ, Reykjavíkurborg og Kjósarhreppi með stefnu áritaðri um birtingu hinn 7. apríl 2009.

Dómkröfur stefnanda voru þær, að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 6.804.500 krónur, með 4.5% ársvöxtum frá 20. ágúst 2006 til 19. febrúar 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar að skaðlausu, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda, íslenska ríkisins, voru þær aðallega, að það yrði sýknað af öllum kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda yrðu stórlega lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.  Stefndi krafðist og málskostnaðar úr hendi stefnanda. 

Dómkröfur stefnda, Mosfellsbæjar, voru þær aðallega, að hann yrði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda yrðu stórlega lækkaðar.  Þá krafðist stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Dómkröfur stefndu, Reykjavíkurborgar og Kjósarhrepps, voru þær aðallega, að þau yrðu sýknuð af öllum kröfum stefnanda, en til vara að kröfur þeirra yrðu stórlega lækkaðar.  Þá kröfðust stefndu málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

II

Málavextir eru þeir, að hinn 20. ágúst 2006, lést eiginmaður stefnanda, Jóhann Björnsson, af völdum æxlis í brjósthimnu (mesotheliome), sem hann greindist með í janúar 2006.  Stefnandi kveður að árið 1975 hafi Jóhann  unnið sem almennur verkamaður og smiður á vegum stefndu við endurnýjun veggja í Gagnfræðaskólanum að Varmá, Mosfellssveit.  Skólinn var sameiginlegur fyrir Mosfellshrepp, Kjalarneshrepp og Kjósarhrepp.

Stefnandi kveður að formanni sameiginlegrar byggingarnefndar sveitarfélaganna, sem staðið hafi að byggingu skólahúsnæðisins, hafi verið falið að leita samninga við umrætt fyrirtæki til að annast smíði nýrra milliveggja.  Með Jóhanni hafi unnið Einar Þorkelsson húsameistari, en þeir hafi verið stjórnarmenn, hluthafar og jafnframt launþegar fyrirtækisins ásamt Friðþjófi Þorkelssyni, á þessum tíma. 

Á vegum hreppanna starfaði sérstök byggingarnefnd, sem skipuð var oddvitum þeirra auk Hauks Þórðarsonar læknis og Gylfa Pálssonar skólastjóra.  Innkaupastofnun ríkisins bauð út 1. áfangann að byggingu skólans, samkvæmt ákvörðun byggingarnefndarinnar og menntamálaráðuneytisins.  Byggingarnefndin fól Innkaupastofnun ríkisins enn fremur að sjá um samningsgerð við verktaka.  Gerði hún hinn 9. maí 1971 verksamning við byggingarmeistarana Hlöðver Ingvarsson og Ólaf Friðriksson um smíði hluta skólabyggingarinnar, samkvæmt útboðslýsingu húsameistara ríkisins og Verkfræðiþjónustu Guðmundar Óskarssonar.  Hinn 10. maí sama ár gerðu hrepparnir þrír samkomulag við menntamálaráðuneytið um framlög ríkissjóðs til skólabyggingarinnar.  Í útboðs- og vinnulýsingu verksins er húsameistari ríkisins tilgreindur sem arkitekt hússins og eru höfundar byggingarinnar Birgir Breiðdal, arkitekt hjá húsameistara ríkisins, og Hreggviður Stefánsson, byggingatæknifræðingur hjá húsameistara ríkisins.

Að lokinni byggingu fyrsta áfanga skólans réð byggingarnefnd skólans Hrein Þorvaldsson, byggingarfulltrúa Mosfellshrepps, sem framkvæmdastjóra nefndarinnar til að hafa eftirlit með framkvæmd verksins.  Skólinn var tekinn í notkun hinn 5. október 1972.

Stuttu eftir opnun skólans komu í ljós gallar í uppsetningu milliveggja.  Í veggina höfðu verið notaðar vikurplötur í stað asbestþilplatna, sbr. ákvörðun bygginganefndar þar um.  Veggirnir höfðu gengið til og sprungið líkt og fram kemur í fundargerð byggingarnefndar frá 15. febrúar 1973.  Á fundi byggingarnefndar skólans hinn 20. júní 1975 var formanni falið að leita samninga við Trésmiðjuna K 14 hf. til að annast smíði nýrra milliveggja.

Byggingarnefnd skólans átti fund með Bárði Daníelssyni, brunamálastjóra ríkisins, og Hreggviði Stefánssyni, byggingartæknifræðingi hjá húsameistara ríkisins, hinn 2. september 1975.  Á þeim fundi var það rætt, að fyrirmælum Birgis Breiðdal, arkitekts hússins, bar ekki saman við framlagðar teikningar á innveggjum.  Gerði brunamálastjóri kröfu um að veggirnir yrðu bættir þannig að notaðar yrðu misvíxlaðar uppistöður með asbestræmu þar sem asbestplötur mætist.  Þær yrðu síðan klæddar spónaplötum og asbestplötum utan yfir.  Veggir yrðu fylltir með steinull og asbestklæðning sett í loft við veggi.

Samkvæmt minnisblaði byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar og Reykjavíkurborgar, dagsettu 13. október 2008, og teikningu, eru langveggir skólans með gipskenndum plötum að ytra lagi en aðrir milliveggir hlaðnir.   Í upphaflegri lýsingu húsameistara ríkisins á því hvernig verkið skyldi unnið, komi fram, að asbestplötur skyldu notaðar til einangrunar á milliveggjum byggingarinnar.  Í fundargerð byggingarnefndar skólans komi fram að Brunamálastjóri ríkisins hafi gert þá kröfu að milliveggir skólans yrðu klæddir asbesti.

Einar Þorkelsson húsasmíðameistari vann með Jóhanni Björnssyni, við að reisa og klæða hina nýju veggi.  Kvað hann að starf Jóhanns við framkvæmdina hafi aðallega falist í vinnu við asbestplötur sem honum hafi verið falið að sníða og saga niður, en asbestplöturnar hafi síðan verið notaðar til einangrunar á milliveggjum byggingarinnar.  Hafi þessi vinna staðið yfir í nokkrar vikur.  Við verkið hafi þyrlast upp asbestryk og á köflum kveður stefnandi, að Jóhann hafi vart séð handa sinna skil vegna asbestryks. 

Stefnandi fullyrðir að þetta hafi verið í eina sinn sem Jóhann hafi unnið með asbest á starfsævi sinni.

Í janúar 2006 greindist Jóhann með æxli í brjósthimnu og var það niðurstaða meðferðarlæknis, Höllu Skúladóttur, að umrædd veikindi stöfuðu af asbestmengun sem Jóhann hafi orðið fyrir við ofangreint verk.  Jóhann lést af völdum sjúkdómsins hinn 20. ágúst 2006.

Hinn 12. desember 2006 ritaði lögmaður stefnanda stefndu bréf, þar sem farið var fram á viðurkenningu á bótaskyldu stefnda, íslenska ríkisins, vegna fráfalls Jóhanns.

Hinn 19. janúar 2007 var sú krafa ítrekuð.

Hinn 30. janúar 2007 var bótaskyldu hafnað.

Hinn 28. nóvember 2007 kvað Úrskurðarnefnd almannatrygginga upp þann úrskurð, að stefnandi ætti rétt til dánarbóta, samkvæmt III. kafla almannatryggingalaga, nr. 100/2007, vegna andláts eiginmanns hennar.

III

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að eiginmaður hennar hafi orðið fyrir asbestmengun við vinnu sína við Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar árið 1975.  Fyrir liggi í skjölum málsins, að asbest hafi verið notað við viðgerðir á veggjum, sem eiginmaður stefnanda hafi unnið við árið 1975, sbr. m.a. minnisblað byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar og Reykjavíkurborgar, dagsettu 13. október 2008.  Þá liggi fyrir að starf eiginmanns stefnanda hafi falist í því að saga niður umræddar asbestplötur.  Stefnandi telur því sannað að eiginmaður hennar hafi komist í tæri við asbest við vinnu sína við Gagnfræðaskólann árið 1975.

Stefnandi telur sannað, að orsök sjúkdóms þess, sem dregið hafi eiginmann hennar til dauða sé asbestmengun, sem hann hafi orðið fyrir við vinnu sína við Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar árið 1975.  Um orsakasamhengið segi m.a. í læknisvottorði Höllu Skúladóttur krabbameinslæknis: „Þrjátíu árum fyrir greiningu hafði Jóhann orðið fyrir verulegri asbestmengun vegna vinnu sinnar og er sú mengun talin orsök sjúkdóms hans.  Undirritaður hefur þegar gert Vinnueftirlitinu viðvart og rætt við Kristinn Tómasson yfirlækni þeirrar stofnunar, sem var sammála um orsakasamhengi asbest mengunar þeirrar er Jóhann varð fyrir og æxlismyndunar í brjósthimnu.“

Þar að auki verði að benda sérstaklega á eðli sjúkdómsins sem dregið hafi Jóhann til dauða.  Um sé að ræða æxli í brjósthimnu en eina þekkta og óumdeilda orsök sjúkdómsins sé asbestmengun.  Skeri sjúkdómurinn sig með afgerandi hætti frá öðrum sjúkdómum sem asbestmengun geti valdið, t.d. lungnakrabbameini, en orsakavaldur þeirra geti verið margvíslegir.  Þar af leiðandi séu engar aðrar skýringar á sjúkdómnum en asbestmengunin.  Lifnaðarhættir hafi þar engin áhrif.

Stefnandi byggir á því, að öllum stefndu hafi mátt vera ljós skaðsemi notkunar og meðhöndlunar asbests við endurbætur Gagnfræðaskólans og að öllum starfsmönnum stefndu, einkum hinum sérfróðu, hafi borið að haga efnisnotkun eftir því.  Þá hafi þeim borið skylda til að veita viðvaranir um skaðsemi þess og leiðbeiningar um örugga meðferð efnisins.

Árið 1975 hafi skaðsemi asbests verið vel kunn og hafi öllum fagmönnum á sviði húsbygginga mátt vera hún ljós.  Þannig hafi notkun asbests til einangrunar verið bönnuð í Danmörku árið 1972 og í frétt Morgunblaðsins frá sama ári komi fram að „asbesttrefjar geti valdið sjúkdómum hjá þeim, sem vinna við slíka framleiðslu“.  Í frétt Morgunblaðsins frá 10. september 1975 segi frá því, að átta starfsmenn norsks fyrirtækis hafi látist úr krabbameini af völdum asbestmengunar og tekið fram í fréttinni, að „lengi hafi verið vitað að vinna við það geti valdið lungnasjúkdómi“.  Í frétt blaðsins tveimur dögum síðar, 12. september 1975, segi frá því að asbest hafi verið bannað í Svíþjóð vegna frétta um að asbestryk geti valdið krabbameini.

Í miðopnu Morgunblaðsins hinn 11. september 1970, fimm árum áður en eiginmaður stefnanda hafi orðið fyrir asbestmengun, hafi verið ítarleg fréttaskýring um alþjóðlega baráttu gegn krabbameini, og komið þar m.a. fram að faraldsfræðilegar rannsóknir hefðu leitt í ljós að meðal þeirra sem ynnu við asbest í Finnlandi, á Bretlandi og Kýpur væri tíðni lungnakrabbameins meiri en annars staðar.

Þá liggi fyrir í málinu læknisvottorð Kristins Tómassonar, yfirlæknis Vinnueftirlits ríkisins, þar sem fram komi að sérfræðingum hafi almennt verið ljóst að asbest væri sjúkdómsvaldur frá árinu 1930 og tryggingafélög hafi breytt iðgjöldum sínum vegna asbestmengunar strax árið 1908.  Í lok fjórða áratugarins hafi Þýskaland viðurkennt krabbamein af völdum asbests sem atvinnusjúkdóm en árið 1964 -1967 hafi ítarleg umræða hafist í stærstu fjölmiðlum Bretlands og Bandaríkjanna um skaðsemi asbests.  Þá hafi þekking um skaðsemi steinryks, en asbest falli þar undir, verið í reglugerð nr. 221/1939 og lungnasjúkdómar vegna innöndunar steinryks þar nefndir sérstaklega sem bótaskyldir atvinnusjúkdómar.

Þá bendir stefnandi sérstaklega á niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-6749/2001, þar sem vinnuveitandi hafi verið talinn hafa haft vitneskju um skaðsemi asbestmengunar sem átt hafi sér stað að mestum hluta fyrir árið 1973.  Enginn vafi sé á því að sök stefnda vegna asbestnotkunar árið 1975 sé enn ríkari enda hafi vitneskja um skaðsemi asbests sífellt farið vaxandi á þessum árum.  Notkun asbests hafi verið bönnuð með reglugerð nr. 74/1983.

Stefnandi telur sannað í málinu að það hafi verið stefndi, íslenska ríkið, sem hafi fyrirskipað að asbest skyldi notað við byggingu Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar.  Í verklýsingu húsameistara ríkisins komi skýrt fram, að milliveggir byggingarinnar skuli klæddir með asbesti.  Þessi krafa hafi verið ítrekuð af brunamálastjóra ríkisins við formann byggingarnefndar skólans þegar endurbætur á milliveggjum hafi verið gerðar árið 1975, sbr. fundargerð byggingarnefndar skólans.  Það hafi verið við sögun á einangrunarplötum við endurbætur milliveggjanna sem Jóhann hafi orðið fyrir asbestmenguninni sem síðar hafi dregið hann til dauða.

Stefnandi byggir á því, að stefndi, íslenska ríkið, beri hlutlæga bótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir við fráfall eiginmanns síns.  Bótagrundvöllurinn byggist á því, að í íslenskum rétti gildi sú ólögfesta regla að sá sem taki ákvörðun um að nota stórskaðlegt efni beri hlutlæga ábyrgð á því tjóni sem hljótist af völdum þess.  Þannig beri íslenska ríkið ábyrgð á því að hafa ákveðið og fyrirskipað notkun asbestsins sem leitt geti til alvarlegra veikinda eða dauða þeirra sem nálægt því komi.  Nauðsynlegt sé að beita reglunni um mál sem varði skaðleg efni af þessu tagi því þegar tjón af völdum þess verði, sé nær ómögulegt fyrir tjónþola að sanna sök þess sem ákveðið hafi að nota það.  Þá beri að líta til þess að stefndi hafi notið þess fjárhagslega ávinnings sem falist hafi í notkun asbestsins, en sem einangrun sé efnið gætt fjölmörgum kostum umfram önnur sambærileg og jafndýr efni.  Stefnandi hafi hins vegar greitt þennan fjárhagslega ávinning stefndu dýru verði.

Þá byggir stefnandi á því, að íslenska ríkið beri hlutlæga ábyrgð á fyrirskipunum brunamálastofnunar ríkisins sem leiði til tjóns.  Brunamálastofnun ríkisins hafi borið höfuðábyrgð á brunamálum í landinu og farið með daglegan rekstur brunamála samkvæmt 2. gr. laga nr. 55/1969, um brunavarnir og brunamál.  Samkvæmt sömu grein veiti brunamálastjóri henni forstöðu.  Skýrt hafi verið samkvæmt 3. gr. sömu laga að Brunamálastofnun færi með leiðbeiningarskyldu og eftirlit með nýbyggingum og skólum.  Þannig hafi sagt í a-lið 3. gr. að brunamálastofnun leiðbeindi sveitastjórnum um allt það er lyti að brunavörnum.  Í b-lið komi fram að brunamálastofnun hefði með höndum brunavarnareftirlit með skólum.  Samkvæmt c-lið sömu greinar hafi stofnunin farið yfir uppdrætti, viðbætur og meiri háttar breytingar á mannvirkjum til að ganga úr skugga um að lögum og reglugerðum væri fylgt.  Stefnandi heldur því fram, að samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum hafi fyrirmæli brunamálastjóra verið bindandi.  Fyrirskipun um notkun asbests sé því alfarið á ábyrgð ríkisins sem beri hlutlæga bótaábyrgð á tjóni sem af fyrirmælunum leiði.

Stefnandi byggir og á því, að stefndi beri ábyrgð á tjóninu á grundvelli sakarreglunnar, eins og henni sé beitt með ströngu sakarmati og eftir atvikum með beitingu sönnunarreglna til hagsbóta fyrir tjónþola.

Stefnandi telur sannað, að á þeim tíma sem eiginmaður hennar hafi orðið fyrir asbestsmenguninni hafi stefnda, íslenska ríkinu, mátt vera vel kunnir hættueiginleikar asbests.  Sú ákvörðun að fyrirskipa notkun asbests í bygginguna, án þess að því fylgdu leiðbeiningar um skaðsemi þess og leiðir til að forðast hættuleg áhrif þess, feli í sér saknæma háttsemi.  Þar sem öðrum skilyrðum sakarreglunnar, um orsakasamband á milli hinnar saknæmu háttsemi og þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir, séu uppfyllt, beri stefndi ábyrgð á tjóni stefnanda.

Stefnandi byggir á því, að starfsmenn embættis húsameistara ríkisins hafi eðli málsins samkvæmt verið sérfróðir um húsbyggingar og þar með eiginleika þeirra efna sem notuð séu til húsbygginga.  Sama gildi um starfsmenn embættis Brunamálastofnunar ríkisins sem hafi borið að þekkja til eiginleika þeirra efna sem embættið hafi fyrirskipað notkun á.  Miðað við þá þekkingu sem fyrir hafi legið um skaðsemi asbests hefðu starfsmenn fyrrnefndra embætta vel getað séð fyrir að ef ekki yrði hugað sérstaklega að vörnum gegn skaðlegum áhrifum asbestsins gæti heilsutjón hlotist af hjá þeim sem ynnu með efnið.  Háttsemi þeirra hafi því verið saknæm og leiði til bótaskyldu stefnda, íslenska ríkisins.

Hin stefndu sveitarfélög, Mosfellsbær, Reykjavíkurborg og Kjósarhreppur, beri, að mati stefnanda, ábyrgð á byggingu skólans, þ.m.t. hvernig staðið hafi verið að smíði hans, aðbúnaði á byggingarstað og efnisnotkun.

Ábyrgð sveitarfélaganna á verkinu komi skýrt fram í samningi milli menntamálaráðuneytisins og sveitarfélaganna Mosfellshrepps, Kjalarneshrepps og Kjósarhrepps um fjárframlög ríkisins til byggingar 1. áfanga gagnfræðaskólans að Varmá í Mosfellssveit og verksamningi milli byggingarnefndar Varmárskóla í Mosfellssveit f.h. Mosfellshrepps, Kjalarneshrepps og Kjósarhrepps, sem verkkaupa, um smíði hluta af húsi gagnfræðaskóla að Varmá samkvæmt teikningum og útboðslýsingu húsameistara ríkisins og Verkfræðiþjónustu Guðmundar Óskarssonar.  Þá sé ábyrgð þeirra ótvíræð á því verki sem eiginmaður stefnanda hafi orðið fyrir mengun við að vinna, en hún byggi á verksamningi milli byggingarnefndar skólans og Trésmiðjunnar K 14 hf., sem staðfestur hafi verið af hálfu nefndarinnar á fundi hennar hinn 20. júní 1975.

Með hliðsjón af framansögðu byggir stefnandi á því, að hin stefndu sveitarfélög hafi staðið fyrir, og þar með borið ábyrgð á, framkvæmdum við byggingu skólahússins.

Bótaskylda sveitarfélaganna sé reist á tveimur meginþáttum, annars vegar því að samþykkja að asbest skyldi notað í bygginguna, þrátt fyrir að forsvarsmönnum þeirra hafi mátt vera ljósir hættueiginleikar efnisins, og hins vegar að tryggja ekki með fullnægjandi hætti öryggi þeirra verkamanna sem komið hafi að meðhöndlun efnisins, þ.m.t. eiginmanns stefnanda.

Stefnandi telur sannað að hin stefndu sveitarfélög hafi gert teikningar og verklýsingar húsameistara ríkisins að hluta af verksamningi um byggingu skólahússins, sbr. 1. gr. í verksamningi, og 1. gr. í samningi um byggingu 1. áfanga gagnfræðaskólans að Varmá í Mosfellssveit.  Þá telur stefnandi sannað að byggingarnefnd skólans hafi orðið við þeirri kröfu brunamálastjóra ríkisins að nota asbest við endurbætur á milliveggjum, sem farið hafi fram árið 1975,  Eiginmaður stefnanda hafi orðið fyrir mengun við vinnu við milliveggina.  Stefndu hafi þannig samþykkt án athugasemda notkun asbests í bygginguna og beri því sjálfstæða ábyrgð á mengun sem af henni hafi hlotist.

Stefnandi kveðst aðallega byggja á því, að hin stefndu sveitarfélög beri hlutlæga bótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir við fráfall eiginmanns síns.  Bótagrundvöllurinn byggist á því að í íslenskum rétti gildi sú lögfesta regla að sá sem taki ákvörðun um að nota stórskaðlegt efni beri hlutlæga ábyrgð á tjóni af völdum þess.  Þannig beri sveitarfélögin hlutlæga ábyrgð á tjóni af völdum asbestsins með því að hafa ákveðið notkun efnisins með samþykki og eftirfylgni við fyrirmælum brunamálastjóra ríkisins.

Verði ekki talið að hin  stefndu sveitarfélög beri hlutlæga ábyrgð á tjóni stefnanda, sé í öðru lagi byggt á því að hin stefndu sveitarfélög beri ábyrgð á tjóninu á grundvelli sakarreglunnar eins og henni sé beitt með ströngu sakarmati.

Stefnandi telur sannað, að á þeim tíma sem eiginmaður hennar hafi orðið fyrir asbestmenguninni hafi starfsmönnum eða fulltrúum sveitarfélaganna mátt vera kunnir hættueiginleikar asbests.  Þeim hafi í það minnsta borið að hafa þekkingu á þeim byggingarefnum sem þeir hafi samþykkt að notuð yrðu við byggingu skólans.  Stefnandi byggir á því að innan  hinnar sameiginlegu byggingarnefndar vegna skólans hafi verið til staðar sérþekking á byggingarmálefnum.  Nefndinni hafi borið skylda til að afla nægilegrar þekkingar á þeirri byggingu sem hún hafi staðið að.  Nefndin hafi viðurkennt það sjálf í verki með því að ráða Hrein Þorvaldsson, byggingarfulltrúa Mosfellshrepps, til að hafa eftirlit með framhaldi verkefnisins.

Þá beri að nefna að í auglýsingu um fyrirmynd að byggingarsamþykkt fyrir skipulagsskylda staði utan Reykjavíkur, nr. 23/1967, sem sett hafi verið með stoð í lögum um byggingarsamþykktir nr. 19/1905, og gilt hafi til 1. janúar 1998, sé mælt fyrir um setu sérfræðinga á fundum byggingarnefnda til að tryggja aðgang nefndarmanna að sérþekkingu á byggingarmálefnum,  Í gr. 1.2.1. sé mælt fyrir um skipun byggingarnefnda og segi þar m.a.: „Byggingafulltrúi, slökkviliðsstjóri og bæjarverkfræðingur, eiga sæti á fundum byggingarnefndar og hafa tillögurétt, svo og aðrir sérfæðingar, sem sveitarstjórn ákveður.“

Þá segi í gr. 1.4.1. um verksvið byggingarfulltrúa: „Bæjarstjórn (sveitarstjórn) skipar byggingafulltrúa að fengnum tillögum bygginganefndar, og skal hann vera húsameistari (arkitekt), byggingaverkfræðingur, byggingatæknifræðingur eða byggingafræðingur (bygningskonstruktör).“

Um aðstoðarmenn byggingafulltrúa segi í ákvæðinu: „Aðstoðarmenn skulu að öðru jöfnu vera sérfróðir menn um byggingamálefni.“

Þá segi enn fremur í gr. 1.4.2.: „Byggingafulltrúi sér um allt nauðsynlegt skrifstofuhald fyrir bygginganefndina og annast varðveizlu á skjölum hennar.  Hann annast og undirbýr þau mál, sem lögð verða fyrir byggingarnefnd, og ritar á uppdrætti hvaða afgreiðslu umsókn hefur fengið.“  Af greininni sjáist að bygginganefnd hafi fullan aðgang að þeirri sérfræðiþekkingu sem byggingarfulltrúi og aðstoðarmenn hans búi yfir, bæði við undirbúning máls og á fundum byggingarnefndar.

Þá hafi hvílt sérstakar skyldur á bæði ríkinu og sveitarfélögum þegar reist hafi verið skólahús.  Í 5. gr. laga um skólakostnað nr. 49/1967 segi að í menntamálaráðuneytinu skuli vera deild sem hafi með höndum eftirlit með byggingu skólamannvirkja.  Í deildinni skuli m.a. starfa húsameistari, verkfræðingur og byggingaeftirlitsmenn.  Þá segi í 6. gr. laganna: „Sveitarstjórnir ráða sérfræðinga til þess að gera uppdrætti að skólamannvirkjum, verklýsingar og áætlun um framkvæmd verksins og kostnað.“

Í reglugerð um stofnkostnað skóla nr. 159/1969, sem sett hafi verið með stoð í lögum nr. 49/1967, segi í 7. gr., að hafi menntamálaráðuneytið fallist á umsókn sveitarfélags um þátttöku í stofnkostnaði skólamannvirkja skuli sveitarfélagið ráða til sín sérfræðinga til að gera uppdrætti og aðra undirbúningsvinnu.  Í slíkri undirbúningsvinnu sérfræðinga felist m.a. samkvæmt 6. tl. ákvæðisins að afla vottorðs byggingarfulltrúa eða oddvita sveitarfélags um að byggingarnefnd hafi fallist á uppdrætti byggingarinnar.  Þá beri sérfræðingunum einnig að afla vottorða annarra yfirvalda um að uppdrættir séu í samræmi við lög og reglugerðir.

Í 5. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar segi að óheimilt sé að hefja verklegar framkvæmdir eða gera bindandi samninga við verksala fyrr en nauðsynlegum tæknilegum undirbúningi sé lokið.  Til slíks undirbúnings teljist m.a. samkvæmt 6. mgr. nákvæm útboðs- og verklýsing, efnisáætlun, tímaáætlun og kostnaðaráætlun.

Af laga- og reglugerðarákvæðunum sjáist berlega að byggingarnefndir sveitarfélaga hafi haft aðgang að sérfræðiþekkingu um byggingu mannvirkja.  Ef nefndarmenn sjálfir hafi ekki búið yfir slíkri þekkingu hafi m.a. mátt afla hennar hjá starfsmönnum sveitarfélagsins sem setið hafi fundi byggingarnefndar og hjá byggingarfulltrúa eða aðstoðarmönnum hans, sem allir hafi átt að vera sérfróðir um byggingarmálefni.

Þá liggi fyrir að þegar ákvörðun um byggingu skólahúsnæðis hafi verið tekin hafi hvílt þær sérstöku skyldur á sveitarstjórnum að ráða til sín sérfræðinga til að gera uppdrætti, verklýsingar, m.a. efnislýsingar og framkvæmdaáætlun.  Óheimilt hafi verið að hefja framkvæmdir við slíka byggingu fyrr en byggingarnefndir sveitarfélaga og menntamálaráðuneytið hafi látið vinna nákvæmar útboðs-, verk- og efnislýsingar.

Stefnandi byggir á því að fulltrúum hinna stefndu sveitarfélaga í sameiginlegri byggingarnefnd vegna byggingar Varmárskóla hafi mátt vera ljósir hættueiginleikar asbests þegar tekin hafi verið ákvörðun um að nota efnið við byggingu skólans.  Sömu sjónarmið eigi við verði eingöngu litið til þess að byggingarnefndin hafi engar athugasemdir gert við notkun hins skaðlega efnis þó að henni hafi mátt vera ljós skaðsemi þess.  Því til stuðnings bendir stefnandi á að nefndarmenn og starfsmenn byggingarnefndarinnar hafi eðli máls samkvæmt verið sérfróðir um húsbyggingar og þar með eiginleika þeirra efna sem notuð eru til húsbygginga.

Stefnandi telur að stefndu, Mosfellsbær, Reykjavíkurborg og Kjósarhreppur, hafi með þeirri háttsemi sinni að fela eiginmanni hennar vinnu með asbestplötur brotið gegn ákvæðum þágildandi laga um öryggisráðstafanir á vinnustöðum nr. 23/1952, sérstaklega 5. gr. laganna, með því að hafa ekki gert viðhlítandi ráðstafanir til að tryggja hollustuhætti eiginmanns stefnanda við framangreint verk.  Enginn fulltrúi hreppanna hafi upplýst eiginmann stefnanda eða yfirmenn hans um hættueiginleika asbestsins, engin fyrirmæli hafi verið veitt um meðhöndlun þess eða viðeigandi hlífðarbúnaður útvegaður.  Af lýsingum þeirra starfsmanna sem komið hafi að verkinu megi glöggt sjá hversu óforsvaranlegar aðstæður eiginmanni stefnanda hafi verið búnar við verkið.  Þar af leiðandi beri stefndu bótaábyrgð á tjóni stefnanda, enda umræddar framkvæmdir á vegum þeirra.

Í gögnum málsins sé því haldið fram að krafa stefnanda sé fyrnd.  Af því tilefni taki stefnandi fram að fyrningartími kröfunnar geti ekki byrjað að líða fyrr en tjón kemur fram.  Önnur niðurstaða komi vart til álita í ljósi eðlis sjúkdómsins og þeirrar staðreyndar að eiginmanni stefnanda hafi algjörlega verið hulið þar til á árinu 2006 að vinnan hefði leitt af sér hinn banvæna sjúkdóm.  Það sé eitt helsta einkenni mesothelioma að sjúkdómurinn komi oft ekki fram fyrr en löngu eftir að asbestmengun á sér stað, oft 20 til 50 árum síðar.  Sú hafi orðið raunin í tilviki Jóhanns og hann því verið grandlaus í 31 ár um hin skaðlegu áhrif vinnunnar.  Það hafi að sjálfsögðu ekki verið unnt að ætlast til þess að hann eða maki hans hæfu málarekstur til að rjúfa fyrningu kröfunnar um eitthvað sem þeim hafi algjörlega verið ókunnugt um.  Fyrningarfrestur hafi því ekki getað hafist fyrr en á árinu 2006, en það ár hafi sjúkdómurinn greinst og Jóhann látist.

Ofangreindu til stuðnings megi benda á fyrrnefndan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 29. janúar 2003.

Um aðild allra stefndu að máli þessu sé stuðst við 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.  Ótvírætt sé að allar þær kröfur sem hafðar séu uppi í málinu eigi rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, þ.e. til þess þegar eiginmaður stefnanda hafi orðið fyrir asbestmengun við vinnu sína í þágu allra stefndu.

Krafa á hendur stefndu sé sett fram in solidum, enda telur stefnandi alla stefndu bera ábyrgð á því tjóni sem hún hafi orðið fyrir.  Í kröfu stefnanda felist að verði bótaábyrgð einungis rakin til sumra stefndu verði þeir dæmdir til greiðslu allrar fjárhæðarinnar, en aðrir þá eftir atvikum sýknaðir.

Við ákvörðun bótafjárhæðar sé byggt á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993.  Samkvæmt gildistökuákvæði 28. gr. laganna segi að lögin taki til skaðabótaábyrgðar vegna tjóns sem verður eftir gildistöku laganna.  Í greinargerð með ákvæðinu séu tekin af öll tvímæli um að tjón sem verði vegna langvarandi ástands skuli talið koma fram þegar skaðlegar afleiðingar beri að höndum, án tillits til þess hvenær hin skaðvæna hegðun eigi sér stað, eða hve lengi hún hafi staðið.  Þannig skuli greiða bætur samkvæmt lögunum ef ólögmætt ástand hafi varað langa hríð og smám saman valdið heilsutjóni sem komi fram eftir gildistöku laganna, jafnvel þótt hinu ólögmæta ástandi sé lokið fyrir gildistöku laganna.  Tjón sem gerist hægt eða smám saman verði almennt talið hafa orðið þegar skaðlegar afleiðingar verði greinilega staðreyndar.  Tjón, sem rekja megi til vanrækslu á öryggisráðstöfunum verði þegar skaðlegar afleiðingar vanrækslunnar komi fram, en ekki þegar hin saknæma vanræksla eigi sér stað.

Óumdeilt sé að tjón stefnanda hafi komið fram á árinu 2006, þ.e. þegar eiginmaður hennar hafi látist.  Sjúkdómurinn sem dregið hafi hann til dauða og sé afleiðing asbestmengunarinnar hafi verið greindur í janúar árið 2006.  Tjón stefnanda hafi því komið fram löngu eftir gildistöku skaðabótalaganna 1. júlí 1993.  Um ákvörðun bóta fari því að lögunum og sundurliðar stefnandi kröfu sína á eftirgreindan hátt í stefnu:

1.  Útfararkostnaður

kr. 500.000

2.  Bætur vegna missis framfæranda

kr.  4.804.500

3.  Miskabætur

kr.   1.500.000

Samtals

kr.   6.804.500

Á grundvelli 1. mgr. 12. gr. skaðabótalaga sé þess krafist að stefndi greiði stefnanda „hæfilegan útfararkostnað“.  Með hliðsjón af dómafordæmum um slíkan kostnað, sbr. m.a. Hrd. 2002:2888 og Hæstaréttardóm frá 6. apríl 2006 í málinu nr. 524/2005, sé krafist 500.000 króna vegna þessa þáttar, en óumdeilt verði að teljast að stefnandi hafi orðið fyrir kostnaði af útför eiginmanns síns, sem hún eigi rétt á að fá bættan.  Sé krafan í alla staði hófleg.

Samkvæmt 13. gr. skaðabótalaga skuli bætur til maka fyrir missi framfæranda nema 30% af þeim bótum sem ætla megi að hinn látni hefði átt rétt á fyrir 100% örorku, þó ekki lægri fjárhæð en þremur milljónum króna á verðlagi í júlí 1993, kr. 4.804.500 krónur í janúar 2007, sbr. 15. gr. skaðabótalaga (5256/3282, námundað að hálfu þúsundi króna).

Lágmarksbætur 13. gr. skaðabótalaga séu lítið eitt hærri en 30% þeirra bóta sem Jóhann hafi fengið fyrir 100% örorku á andlátsdegi.  Með vísan til ofangreinds nemi krafa stefnanda vegna þessa þáttar því lágmarki sem geti í 13. gr. skaðabótalaga, þ.e. 4.804.500 krónum.

Með vísan til þeirra atvika sem rakin séu hér að framan telur stefnandi að hin saknæma háttsemi af hálfu stefndu, að gera Jóhanni Björnssyni að vinna með óforsvaranlegum hætti við hið stórhættulega asbest, hafa falið í sér stórkostlegt gáleysi.  Á þeim grunni sé þess krafist að stefnanda verði greiddar miskabætur á grundvelli 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga.  Krafist sé 1.500.000 króna vegna þessa þáttar.  Hér sé um hóflega kröfu að ræða í ljósi þeirra miklu andlegu þjáninga sem stefnandi hafi þurft að ganga í gegnum vegna hins sviplega fráfalls eiginmanns sín, sem stefndu beri ábyrgð á.

Vaxtakröfu byggir stefnandi á 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Vaxta sé krafist frá andláti Jóhanns, 20. ágúst 2006.  Dráttarvaxta sé krafist samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 19. febrúar 2007, er mánuður hafi verið liðinn frá því að lögmaður stefnanda krafði stefnda, íslenska ríkið, bréflega um greiðslu skaðabóta, enda hafi þá öll nauðsynleg gögn legið fyrir, sem stefndu hafi verið þörf á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.

Stefnandi byggir málskostnaðarkröfu á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Þess sé krafist að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.  Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og sé því nauðsynleg að taka tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.

IV

Stefndi, íslenska ríkið, byggir sýknukröfu sína á því, að það beri ekki skaðabótaábyrgð á andláti Jóhanns Björnssonar.  Smíði hússins, samningur við verktaka, eftirlit og ábyrgð sé á könnu sveitarfélaganna, sérstaklega að því er varði umrædda smíði á milliveggjum.  Stefndi byggir á því, að hann eigi ekki aðild að málinu og sýkna beri það af þeim sökum vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. 

Á þeim tíma sem mál þetta sé rakið til hafi gilt um grunnskóla lög nr. 63/1974.  Um skólamannvirki hafi verið svo fyrir mælt í 23. gr. að gerð þeirra væri undirbúin heima í héraði af sveitarstjórn í samráði við skólanefnd og fræðsluráð, en yrði að hljóta samþykki menntamálaráðuneytisins áður en framkvæmdir hæfust.  Byggingu Gagnfræðaskóla Mosfellssveitar, nú Varmárskóla, sé hins vegar að rekja til verksamnings á vegum þriggja sveitarfélaga á árinu 1971.  Sé það í samræmi við þá tilhögun grunnskólabygginga á þessum tíma, sbr. ákvæði laga nr. 49/1967, um skólakostnað og fyrrnefnd grunnskólalög, sem kveðið hafi á um eftirlit menntamálaráðuneytisins, en sveitarfélög hafi annast verksamningsgerð og munu hafa haft nánari forræði á byggingum.  Eins og gögn sýni um byggingu 1. áfanga skólans í Mosfellsbæ, hafi sveitarfélög haft hana með höndum, samningsgerð og forræði á framkvæmdinni en aðkoma og eftirlit menntamálaráðuneytisins muni fyrst og fremst hafa snúist um að byggingaráform yrðu í samræmi við fjárframlög ríkisins.

Hinn 9. maí 1971 hafi byggingarnefnd Varmárskóla í Mosfellssveit, fyrir hönd Mosfellshrepps, Kjalarneshrepps og Kjósarhrepps, gert verksamning um byggingu skólahússins á grundvelli teikninga og útboðslýsingar húsameistara ríkisins og Verkfræðiþjónustu Guðmundar Óskarssonar.  Verktakar hafi verið tveir byggingameistarar, Hlöðver Ingvarsson og Ólafur Friðriksson.  Af þessum samningi og samningi milli sveitarfélagsins og ríkisins verði ráðið að bygging hússins og samningsgerð við verktaka hafi verið á forræði sveitarfélaganna, en ekki ríkisins nema að því er fjármögnun snerti og eftirlit henni tengdri.  Liggi fyrir samningur frá 10. maí 1971 milli menntamálaráðuneytisins og nefndra sveitarfélaga um byggingu 1. áfanga gagnfræðaskólans Varmá í Mosfellssveit.  Samningurinn hafi fyrst og fremst verið um fjárframlög ríkisins.  Atbeini húsameistara ríkisins virðist hafa komið til af hálfu sveitarfélaganna í samningi þess við verktaka, en einnig ríkisins, í samningi um fjármögnun.  Í þeim samningi sé aðeins mælt fyrir um að húsið skyldi reist samkvæmt teikningum húsameistara og vísað til skilgreininga þar.  Forræði á framkvæmd verksamningsins hafi hins vegar verið sveitarfélaganna og verktaka, sem við þau hafi samið, sem fyrr segi.  Að mati stefnda hafi öll framvinda við smíði hússins og þess verkhluta sem Jóhann hafi unnið við verið undir umsjá sveitarfélaganna.  Þannig verði ekki séð að embætti húsameistara, brunamálastjóra eða annarra starfsmanna ríkisins hafi haft með höndum verkstjórn eða eftirlit með byggingu hússins.  Fram sé komið að byggingarnefnd skólans hafi ráðið byggingarfulltrúa Mosfellshrepps til að annast eftirlit með framkvæmd verksins.

Sú útboðslýsing sem liggi fyrir að hluta virðist vera sú sem nefndur verksamningur byggi á.  Á hinn bóginn sé ekki upplýst eða sannað af hálfu stefnanda að það verk sem Jóhann hafi unnið við hafi verið á grundvelli hönnunar- eða útboðslýsingar húsameistara ríkisins.  Af gögnum málsins virðist sem sveitarfélögin hafi haft fullt forræði á þeim byggingarhluta sem mál þetta snúist um, en ekki stefndi, íslenska ríkið.  Ekki sé annað að sjá, en að uppsetning milliveggja eða viðgerð á þeim hafi alfarið verið á könnu sveitarfélagsins og viðsemjanda þess um hvernig að því verki yrði staðið.  Þá bætist við að ekki virðist hafa verið farið eftir þessari hönnunarlýsingu þegar milliveggirnir hafi verið reistir, heldur muni þeir hafa verið hlaðnir úr vikri og í samráði við hönnuði hússins.

Eftir því sem málið hafi verið upplýst virðist sem vinna Jóhanns heitins hafi ekki verið í tengslum við útboðslýsingar eða hönnunargögn húsameistara varðandi fyrsta áfanga byggingarinnar.  Ekki sé þannig sannað að vinna Jóhanns hafi verið við þá milliveggi á grundvelli útboðslýsingarinnar heldur hafi verið um að ræða viðgerð á milliveggjum sem síðar hafi komið til og lotið hafi ákvörðunarvaldi sveitarfélaganna.  A.m.k. sýnist unnt að fullyrða að bygging hússins, eftirlit með verkþáttum og ábyrgð á framkvæmd þess hafi verið á forræði sveitarfélaganna um verkið í heild og smíði milliveggjanna á árinu 1975.

Jóhann virðist annað hvort hafa verið launþegi hjá sjálfstæðum verktaka eða einn af þeim verktökum sem nefndir séu í stefnu og samið hafi verið við.  Hvað sem öðru líði hafi hann ekki verið starfsmaður stefnda, íslenska ríkisins, og starfsmenn þess stefnda hafi ekki haft boðvald yfir honum eða leiðbeiningarskyldu um hvernig að verki væri staðið eða hvernig standa ætti að verki þegar og ef unnið væri með hættuleg efni, tæki og tól.  Þá hafi stefndi ekki haft með höndum eftirlit með byggingunni eða öryggisráðstafanir á verkstað

Skilyrði bótareglna séu ekki fyrir hendi gagnvart stefnda, íslenska ríkinu, hvorki á grundvelli hlutlægrar ábyrgðar né sakarreglunnar.  Engri saknæmri eða ólögmætri háttsemi sé til að dreifa.  Stefndi tekur fram, að þar sem sveitarfélögin þrjú hafi staðið að verksamningsgerð, stofnað til réttarsambands við verktaka um smíði umræddra milliveggja, haft eftirlit með verkinu og alla umsjá, sé engum atbeina stefnda, ríkisins, til að dreifa.  Þáttur starfsmanna húsameistara og brunamálastofnunar hafi verið allt annars eðlis og ekki í návígi við þá verkþætti og vinnuaðstæður sem málið sé risið af þannig að til bótaábyrgðar geti hafa stofnast.

Stefnandi virðist ekki beina máli sínu á hendur stefnda á grundvelli atbeina ríkisins almennt að skólabyggingum á þessum tíma, heldur einvörðungu vegna athafna eða athafnaleysis starfsmanna húsameistara og brunamálastjóra.  Ekki sé unnt að skilja stefnanda svo að skírskotað sé til annarra þátta eða atbeina stefnda.  Allt að einu sé því mótmælt að stefndi eða starfsmenn stefnda á þessum tíma hafi borið ábyrgð á andláti Jóhanns.

Stefnandi mótmælir málatilbúnaði stefnanda byggðum á hlutlægri ábyrgð.  Stefndi hafi ekki verið vinnuveitandi Jóhanns heitins og hafi ekki haft ákvörðunarvald um það hvaða vinnuskilyrði honum hafi verið búin, enda hafi verið um sjálfstæðan verktaka að ræða, eða starfsmenn verktaka, sem ekki hafi verið samningsbundnir stefnda heldur sveitarfélögunum.  Ekki sé því unnt að leggja til grundvallar bótasjónarmið vegna vinnu við hættuleg tæki eða efni.  Engin sönnun sé komin fram um að ákvörðun hafi verið tekin um notkun stórskaðlegs efnis eða að starfsmenn stefnda hafi verið þess meðvitaðir eða mátt vita að um stórskaðlegt efni hafi verið að ræða.  Þá liggi ekkert fyrir um að almennt hafi verið vitað um hættueiginleika umræddra platna almennt eða hvort rétt væri staðið að.  Mótmælir stefndi því að bótaskylda hafi stofnast, enda hafi verið um löglegt byggingarefni að ræða.  Enginn grundvöllur sé til að beita hlutlægri ábyrgð og engin heimild til þess í lögum. 

Stefndi mótmælir því, að starfsmenn stefnda, hvort heldur sé við embætti húsameistara, brunamálastjóra eða aðrar stofnanir, hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi.  Þá sé mótmælt sem ósönnuðu að vinna Jóhanns hafi verið í tengslum við verkþætti sem lýst hafi verið í hönnunargögnum húsameistara.  Fram sé komið að umrædd vinna Jóhanns á árinu 1975 hafi verið við önnur verk í tengslum við húsið, þ.e. smíði nýrra milliveggja, sem embætti húsameistara eða brunamálastjóra hafi ekki sérstaklega haft ákvörðunarvald um eða eftirlit með.  Komi líka fram í gögnum að hönnuðir hússins hafi ekki gert athugasemdir við að önnur efni yrðu notuð í milliveggi.  Komi þar fram að ekki virðist hafa verið farið eftir hönnunarlýsingu heldur hlaðið úr vikri í samráði við hönnuðina.  Hönnunargögnin hafi ekki verið bindandi fyrirmæli um notkun asbests eftir því sem næst verði komist.  Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir ætlaðri sök starfsmanna stefnda, svo og orsakatengslum og sennilegri afleiðingu.

Ekkert liggi fyrir um bein fyrirmæli brunamálastjóra um að skilyrðislaust skyldi notast við asbest, en til stuðnings því hafi stefnandi aðeins lagt út frá fundargerð þar sem tiltekin ummæli séu höfð eftir brunamálastjóra.  Mótmælir stefndi því sem ósönnuðu.  Í því sambandi tekur stefndi það fram, að 53. gr. reglugerðar nr. 167/1949, um brunavarnir og brunamál, mæli aðeins fyrir um eldtraust efni og að innveggir væru a.m.k. úr lítt eldnæmu efni.  Þannig liggi ekki fyrir sönnun þess að brunamálastjóri hafi gert skilyrðislausa kröfu um notkun asbests.  Asbestplötur hafi þó verið löglegt byggingarefni á þessum tíma.  Ráðagerðir brunamálastjóra hafi fyrst og fremst lotið að brunavörnum, en á engan hátt hafi hann haft á sinni könnu eftirlit með öryggi starfsmanna á byggingarstað eða hafi verið skylt að leiðbeina sérstaklega um meðhöndlun byggingarefna eða hugsanlega hættueiginleika þeirra.  Vísar stefndi hér til laga nr. 55/1969, um brunavarnir og brunamál, sem þá hafi gilt, sem og reglna settra á grundvelli þeirra.  Ekki verði ráðið af þeim lögum að brunamálastjóri hafi haft beint vald um efnisnotkun í byggingum heldur hafi hlutverk stofnunarinnar verið að leiðbeina almennt um brunavarnir.  Óraunhæft sé að leggja til grundvallar að hvílt hafi á embættinu frekari skyldur en að reglum um brunavarnir væri fylgt.  Það hafi hins vegar verið sveitarfélaganna með fulltingi brunamálanefndar þeirra, að taka ákvörðun um framkvæmd brunavarna í byggingum og að taka ákvarðanir um hvort starfsemi í húsum yrði leyfð, samkvæmt reglum um brunavarnir, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 167/1949.  Ekki sé annað að sjá af málsgögnum og reglum frá þessum tíma en að endanlega ákvörðun um efnisval til að uppfylla kröfur um eldvarnir hafi verið sveitarfélaganna, en ekki starfsmanna stefnda.

Það efni sem tilfært sé í hönnunargögnum, og stefnandi leggi út frá í máli sínu, séu gibsonite plötur.  Ekkert annað sé komið fram en að það hafi verið löglegt efni í byggingar á umræddum tíma, enda sé á því byggt af hálfu stefnanda, að asbest hafi ekki verið bannað fyrr en með reglugerð frá 1983.  Bannið hafi hins vegar ekki verið undantekningalaust samkvæmt reglugerðinni og heimilt hafi verið við tilteknar aðstæður að vinna með efnið og viðhafa nægilegar varúðarráðstafanir.  Ekkert bendi til annars en að á þeim tíma þegar skólinn hafi verið reistur á árinu 1975, þegar unnið hafi verið við milliveggina, hafi notkun asbest verið talið eðlileg og lögleg.  Sú þekking sem ýmsir kunni að hafa haft um skaðsemi asbests, breyti því ekki að efnið hafi verið löglegt á umræddum tíma.  Stefndi telur ósannað að vitað hafi verið um að þær plötur sem stefnandi hafi unnið við hefðu verið skaðlegar, en stefnandi hafi ekki leitast við að sanna eða afla gagna um hvers konar efnasamsetning hafi verið í þeim með tilliti til hugsanlegrar skaðsemi.  Eftir því sem fram sé komið í málinu, m.a. á grundvelli fyrri greinargerðar meðstefndu, muni milliveggir ekki hafa verið reistir með asbesti heldur hlaðnir úr vikri.  Hvað sem því líði liggi ekki fyrir hvort eða hvað mikið hafi verið af asbesti í gibsonite plötum þeim sem notaðar hafi verið og sé ekki fullljóst hvort um sama efnið sé að ræða, gibsonite eða asbestolux í hönnunargögnum.  Af málatilbúnaði meðstefndu hið fyrra sinn og gögnum verði einnig ráðið að ekki hafi verið um hart asbestefni að ræða.  Telur stefndi því að ýmis gögn, blaðaúrklippur eða annað um asbest hafi ekki sönnunargildi í málinu.  Ekki sé sannað að almennt hafi verið vitað um að hætta væri því samhliða að vinna með umræddar plötur.  Þá sé ekki sannað að hætta hafi verið til staðar ef rétt væri að verki staðið.  Hafi verið vitað um skaðsemi efnisins, hafi eins háttað til um það og annað, að meðhöndla  hafi orðið efnið með hliðsjón af því.  Sé því eindregið mótmælt að starfsmenn húsameistara eða brunamálastjóra hafi vitað eða getað séð fyrir á þessum tíma að umræddar plötur væru hættulegar eða gætu valdið alvarlegum sjúkdómum.  Hafi stefnandi ekki fært fram sönnur þess.  Bendi gögn til þess að hætta af efninu og orsakasamband við alvarlega sjúkdóma hafi ekki verið kunn fyrr en upp úr 1980.  Hvað sem því líði verði að ganga út frá því að efnið hafi að sönnu verið heimilt til notkunar og lögmæt.  Ekki sé sannað að starfsmenn stefnda hafi búið yfir meiri sérfræðiþekkingu um þetta en t.d. smiðir og verktakar.  Sé því hafnað að leggja beri til grundvallar að hönnuðir eða sérfræðingar í brunavörnum hafi haft eða átt að hafa sérfræðiþekkingu á hættueiginleikum þessara efna.  Ekki hafi stefnandi bent á hvaða leiðbeiningar skyldu veittar af starfsmönnum stefnda um meðhöndlun efna og á hvaða grundvelli.

Jóhann heitinn hafi ekki verið starfsmaður stefnda.  Hann muni hafa verið verktaki samkvæmt samningi við sveitarfélögin eða starfsmaður verktaka sem annast hafi byggingu hússins, einstaka verkþætti og/eða frágang fyrir sveitarfélögin og byggingarnefndina.  Stefndi hafi þannig ekki verið sá sem notið hafi afraksturs vinnunnar við gerð þess eða viðgerð á því.  Óraunhæft sé einnig að bera sakarefni þetta saman við héraðsdóm sem nefndur sé í stefnu, enda hafi þar verið um að ræða bótaábyrgð vinnuveitanda tjónþola.  Jóhann Björnsson hafi ekki unnið við bygginguna í þágu stefnda eða sem starfsmaður hans.  Stefndi eða starfsmenn stefnda hafi ekkert boðvald haft yfir honum eða umsjón með verkþáttum.

Stefndi byggir á því að ætlað tjón geti ekki verið afleiðing af því að efnið hafi verið nefnt í útboðslýsingu eða ef sannaðist að bein fyrirmæli brunamálastjóri hafi knúið fram notkun þess.   Embætti húsameistara eða brunamálastjóri hafi ekki haft eftirlit með því eða byggingarstjórn, heldur hafi einvörðungu verið um að ræða hönnunarvinnu arkitekts og verkfræðinga eða ráð um brunavarnir.  Sem fyrr segi hafi byggingarfulltrúi Mosfellsbæjar haft eftirlit með verkinu.  Öll vinna við efni og aðgát sem hafi þurft, hafi verið á vegum sveitarfélagsins, sem verkkaupa, verktakans eða Jóhanns sjálfs.  Ekkert bendi til þess að útboðslýsingin hafi átt að skoðast sem bindandi fyrirmæli og að ekki hafi verið kostur á að nota annað efni í veggina, ef á annað borð hafi verið um asbest að ræða, sem notað hafi verið.  Virðist það hafa verið verkkaupa en ekki stefnda að ákveða hvort og á hvaða forsendum yrði samið um byggingu hússins.  Hönnunargögn eða útboðslýsing geti aldrei talist vera annað en hluti af verksamningi, en í þessu tilviki hafi sveitarfélögin haft forræði á stofnun og efni verksamnings svo og efndum hans í öllum meginatriðum. Í samningi, sem menntamálaráðuneytið hafi gert, hafi aðeins verið kveðið á um að unnið skyldi eftir teikningum húsameistara.  Stefndi geti því ekki átt aðild að málinu eða hafa orsakað heilsutjón Jóhanns.  Þannig beri að sýkna sökum aðildarskorts sem fyrr sé vikið að, eða á þeim grundvelli að bótaskilyrði gagnvart stefnda geti ekki talist vera fyrir hendi.  Óraunhæft sé að fullyrða að byggingin hafi verið í þágu stefnda, hvorki almennt né í þágu embættis húsameistara ríkisins eða brunamálastofnunar.  Málsástæður stefnanda byggðar á fyrri tíma löggjöf um aðstæður á vinnustöðum eða skyldu til að upplýsa um hættueiginleika á vinnustað eða hlutast til um öruggt vinnuumhverfi, hafi ekki hvílt á starfsmönnum húsameistara eða brunamálastofnunar.  Jóhann heitinn hafi ekki verið í vinnusambandi við stefnda svo kunnugt sé á þessum tíma.  Sérstakar skyldur, samkvæmt lögum nr. 23/1952, um öryggisráðstafanir eða útvegun hlífðarfatnaðar hafi því ekki hvílt á starfsmönnum stefnda.  Enn fremur sé því hafnað að öryggisráðstafanir og vinnuumhverfi hafi verið í ósamræmi við greind lög miðað við þann tíma sem um ræði.  Verði heldur ekki litið fram hjá því að einnig hafi hvílt skylda á verkamönnum um að gæta að öryggisbúnaði og skaðlausu vinnuumhverfi, sbr. 6. gr. þessara laga.  Stefndi mótmælir því að reglugerð frá 1939, þar sem steinryk sé nefnt, styðji kröfur stefnanda nema á þann hátt að verkamönnum öllum hafi þá verið kunnugt að þeim bæri að standa forsvaranlega að vinnu við rykmengandi efni.  Bótaábyrgð í þessu máli verði ekki reist á umræddri reglugerð gegn stefnda.

Stefndi mótmælir því einnig að fyrir hendi séu orsakatengsl milli athafna starfsmanna stefnda og andláts Jóhanns heitins.  Samkvæmt upplýsingum af hálfu stefnda hafi gibsonite plötur sem þessar verið notaðar á þessum tíma í byggingum.  Stefndi telur ósannað að sjúkdómur Jóhanns hafi orsakast af vinnu við sögun á plötum við þessa byggingu sérstaklega.  Telur stefnda á engan hátt unnt að útiloka að aðrir þættir hafi valdið sjúkdómnum, lifnaðarhættir eða aðrir orsakavaldar.  Telur stefndi ósannað og ekki stutt haldbærum gögnum að sjúkdómur sá sem Jóhann hafi þjáðst af og leitt hafi til andláts, sé einvörðungu unnt að rekja til asbests eða vinnu við byggingu skólans.

Hafi mátt rekja sjúkdóminn til vinnu við asbest kunni hann allt eins að mega rekja til annarrar vinnu en við smíði skólans að Varmá.  Í stefnu sé fullyrt að þetta hafi verið eina skiptið sem hann hafi unnið við asbest.  Þá sé sem fyrr segir ekki sannað að verk sem málið sé sprottið af sé nákvæmlega það sem vikið hafi verið að í gögnum húsameistara.  Þvert á móti bendi gögn til þess nú að sveitarfélögin hafi ein komið að ákvörðun um þann verkþátt sem stefnandi reki tjónið til.

Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir orsakatengslum í málinu en að mati stefnda sé það óraunhæft að þau tengsl teljist sönnuð eins og málið sé lagt fyrir.  Engin matsgerð eða hlutlaus sönnun liggi fyrir um orsakatengsl í málinu.  Í vottorði læknis sé fullyrt að Jóhann hafi orðið fyrir asbestmengun þrjátíu árum fyrir greiningu sjúkdómsins.  Í vottorðinu komi ekki fram á hvaða rannsóknum fullyrðingar á því byggi eða um hvaða vinnu hafi verið að ræða.  Er því óhjákvæmilegt að mótmæla því að vottorðið, samantekt Kristins Tómassonar, og önnur gögn stefnanda hafi sönnunargildi í málinu.  Stefnandi hafi ekki lagt fram gögn sem byggjandi sé á um orsakasamband.  Þau gögn sem fyrir liggi séu ekki afrakstur dómkvaðningar og stefndi hafi ekki komið að gerð þeirra eða verið veittur kostur á að tjá sig við öflun þeirra.

Stefndi ítrekar, að hafi verið kunnugt um skaðsemi asbests á þessum tíma hafi sú þekking ekki verið almenn á árinu 1975 á þann hátt að rök væru komin fram um að banna alla tilvísun eða fyrirmæli um notkunina í hönnunargögnunum.  Hafi Jóhann skaðast af meðhöndlun við efnið og að hættueiginleikar þess hafi verið kunnir hafi það verið hans sjálfs, eða vinnuveitanda hans, að sjá svo um að efnið væri meðhöndlað á réttan hátt og aðgát höfð.  Stefndi telur mjög ósennilegt að gibsonite plötur eða plötur sem unnið hafi verið með hafi átt að saga niður eða vinna hafi átt með efnið í rykmekki innandyra.  Alla jafna hafi gipsplötur af öllum tegundum verið skornar til með eggjárni og brotnar eða að þær hafi verið tilsniðnar.  Sú lýsing á vinnulagi við efnið sem vísað sé til í stefnu og útlistuð sé í frásögn Jóhanns sjálfs geti tæpast hafa talist eðlileg eða á ábyrgð stefnda vegna starfsmanna húsameistara eða brunamálastjóra.  Hvergi sé komið fram eða sannað að þessir starfsmenn stefnda hafi mælt fyrir um að plötur yrðu sagaðar niður innandyra í rykmekki ef veður hamlaði útivinnu eða haft um það að segja hvernig unnið væri með efnið við nánari framkvæmd verksins.  Hafi það vísast tíðkast með öll efni sem gefið hafi frá sér þétt ryk að tilhlýðilegt hafi verið að nota grímur eða vinna við þær aðstæður að menn önduðu því ekki að sér.  Hafi það átt við um öll rykmengandi byggingarefni, svo sem sement.  Af framansögðu sé óhjákvæmilegt að líta svo á að hafi Jóhann orðið fyrir asbestmengun á þessum tíma hafi það verið um að kenna vinnulagi hans sjálfs.  Jóhann sjálfur, starfsmenn hans eða yfirmenn hjá trésmiðjunni, hljóti að hafa verið jafnfróðir og aðrir um byggingarefni og meðhöndlun þeirra, sem og hættueiginleika.  Engar réttarheimildir standi til þess að ætla að starfsmenn stefnda, sem unnið hafi við hönnun eða brunavarnar, hafi átt að hafa meiri sérþekkingu þar á.

Stefndi byggir þannig á því að verði sjúkdómur og andlát Jóhanns talið mega rekja til vinnu við plöturnar hafi það ekki verið á ábyrgð stefnda eða vegna háttsemi starfsmanna hans.  Rangt vinnulag, skortur á aðgát, eða röng notkun efnis, miðað við þekkingu á þessum tíma, hljóti að hafa verið á ábyrgð sveitarfélaganna, byggingarstjóra, verktaka eða Jóhanns sjálfs.  Almenn þekking á byggingariðnaði og efnum hlaut að hafa verið jafnkunn þessum aðilum og örðum sem á þeim vettvangi hafi starfað.  Ekki séu því forsendur til að leggja bótaábyrgð á þá starfsmenn stefndu sem byggt sé á í málinu.

Stefndi byggir einnig á því, að kröfur stefnanda á hendur stefnda séu fyrndar, sbr. 2. tl. 4. gr. eldri laga nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, en þau lög gildi um fyrningu kröfunnar.  Miða verði við að upphafstími fyrningar hafi verið þegar tjónið hafi orsakast.

Stefndi mótmælir bótakröfu stefnanda og einstökum kröfuliðum.  Óraunhæft sé að byggja á skaðabótalögum nr. 50/1993, sem samkvæmt skýrum ákvæðum taki einungis til tjóns sem orðið hafi eftir gildistöku þeirra.  Telur stefndi útfararkostnað órökstuddan og ekki studdan gögnum.  Á hinn bóginn virðist krafan innan þeirra marka sem dómafordæmi gefi ádrátt um.  Þá sé miskabótum mótmælt.  Engin efni séu til að dæma miskabætur á grundvelli 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, enda skilyrði ákvæðisins ekki fyrir hendi.  Sé því eindregið mótmælt að starfsmenn stefnda hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi.

Til stuðnings varakröfu vísar stefndi til allra framangreindra málsástæðna til stuðnings sýknukröfu, þ.á m. eigin sök Jóhanns heitins eða annarra en stefnda, sem miðað við lýsingar hafi ekki staðið eðlilega að vinnu við efnið.  Þá sé vísað til mótmæla við einstaka kröfuliði, en til vara sé þeim hverjum fyrir sig mótmælt sem of háum.

Stefndi mótmælir sérstaklega vaxta- og dráttarvaxtakröfum stefnanda, einkum upphafstíma dráttarvaxta.  Stefndi telur málið þannig vaxið að því fari fjarri að öll nauðsynleg gögn liggi fyrir til að slá megi fastri bótaskyldu og bótafjárhæð.  Ef ekki verði á sýknukröfu fallist telur stefndi að upphafstíma dráttarvaxta verði að miða við dómsuppsögu í fyrsta lagi.

V

Stefndu, Reykjavíkurborg og Kjósarhreppur, byggja kröfur sínar um sýknu aðallega á aðildarskorti á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.  Einnig byggja þau sýknukröfu á því að hvorki sé fyrir hendi hlutlæg bótaábyrgð né saknæm og ólögmæt háttsemi starfsmanna stefndu vegna tjóns stefnanda. 

Í málinu sé óumdeilt að stefndu, ásamt Mosfellsbæ og ríkinu, hafi borið ábyrgð á að umrædd bygging yrði byggð og borið ábyrgð á því að ráða til verksins verktaka.  Jóhann hafi komið að smíði milliveggja í byggingunni sem stjórnarmaður, hluthafi og jafnframt starfsmaður sjálfstæðs verktaka sem byggingarnefndin hafi gert verksamning við.  Stefndu hafi ekki verið vinnuveitendur Jóhanns við þetta tiltekna verk og hafi þ.a.l. ekki haft ákvörðunarvald um það hvaða vinnuskilyrði honum yrðu búin.  Eftirlit og ábyrgð með vinnu og vinnuaðstæðum sé samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar á ábyrgð verktaka þess sem taki að sér verkið samkvæmt verksamningi, sbr. einnig lög nr. 23/1953, um öryggisráðstafanir á vinnustöðum.   Stefndu krefjist því sýknu á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi kveður Trésmiðjuna K-14 hf. hafa tekið að sér að smíða afmarkaðan hluta í byggingu skólans og þurfi því að skoða þátt fyrirtækisins og fyrirsvarsmanna þess út frá skyldum sem á þeim hafi hvílt samkvæmt byggingarsamþykkt, sbr. auglýsingu nr. 23/1967 um fyrirmynd að byggingarsamþykkt fyrir skipulagsskylda staði utan Reykjavíkur.  Verktakanum hafi ekki aðeins verið skylt að gæta þess á sínu verksviði gagnvart byggingaryfirvöldum, að verkið væri unnið eins og áskilið sé í gr. 1.9.2 í byggingarsamþykkt, heldur einnig að sjá til þess að ekki væri stofnað í hættu við framkvæmdirnar öryggi manna sem við bygginguna unnu, sbr. gr. 1.10.2.  Á verktakanum hafi hvílt sú skylda að sjá starfsmönnum við verkið fyrir hættulausum vinnustað.  Lög nr. 23/1952 hafi enn fremur gert öryggiskröfur til vinnuveitenda, sem þeim hafi verið skylt að fara eftir, óháð því hvort opinbert eftirlit hefði hönd í bagga með að slíkum ákvæðum væri framfylgt.  Af þeim sökum sé harðlega mótmælt og því hafnað að stefndu, sem einn verkkaupa, eigi að bera hlutlæga bótaábyrgð á tjóni sem eigandi og starfsmaður sjálfstæðs verktaka.

Stefndu hafna því enn fremur að bótagrundvöllurinn geti byggst á því, að í íslenskum rétti gildi sú ólögfesta regla að sá sem taki ákvörðun um að nota stórskaðlegt efni beri hlutlæga ábyrgð á því tjóni sem hljótist af völdum þess, en slík regla hafi ekki verið talin í gildi í íslenskum rétti.

Stefndu byggja og á því, að með öllu sé ósannað að starfsmenn stefndu hafi sýnt af sér háttsemi sem telja megi saknæma og ólögmæta og að tjón stefnanda verði því ekki talið til atvika sem stefndu beri ábyrgð á.

Á þessum tíma hafi verið í gildi lög nr. 55/1969, um brunavarnir og brunamál, þar sem m.a. hafi sagt í 3. gr., að verksvið Brunamálastofnunar ríkisins hafi verið að leiðbeina sveitarstjórnum um allt það er lotið hafi að brunavörnum, þar með talið eftirlit með því að nýbyggingar kæmu að mestum notum við slökkvistarf.  Hlutverk stofnunarinnar hafi einnig verið að yfirfara uppdrætti af nýbyggingum til þess að ganga úr skugga um að lögum og reglugerðum um brunamál væri fullnægt.  Í reglugerð nr. 167/1949, um brunavarnir og brunamál, komi fram að starfsemi á þeim stöðum sem um ræði í 50. gr., þ.á m. skóla, mætti ekki reka nema brunamálanefnd hefði samþykkt húsnæði það, sem nota ætti, og að kröfum hennar um öryggi gegn eldsvoða væri fylgt í öllum greinum.  Í 53. gr. hafi það jafnframt verið boðað að skólastarfsemi mætti ekki leyfa í nýjum húsum nema þar sem burðarveggir, gólf, og stigar væru úr eldtraustu efni og innveggir úr eldnæmu efni.

Fyrirmælin um að nota asbest í milliveggi þá sem Jóhann hafi unnið við að sníða og saga, hafi komið frá brunamálastjóra ríkisins.  Byggingarnefndin, sem verið hafi í forsvari fyrir eigendur byggingarinnar, hafi borið ábyrgð á að fullnægt væri kröfum um brunavarnir, sem settar hafi verið fram í framangreindum lögum og reglugerðum.  Hafi henni verið skylt að hlíta fyrirmælum brunamálastjóra um brunavarnir.  Það liggi jafnframt fyrir að asbest hafi á þessum tíma verið lögmætt og viðurkennt byggingarefni og geti það ekki talist saknæm og ólögmæt háttsemi af hálfu fulltrúa stefndu í nefndinni, sem ekki hafi verið byggingarfróðir menn, að hafa ekki gert athugasemdir við notkun efnisins fyrst krafa um notkun þess hafi komið frá brunamálastjóra ríkisins.

Fulltrúar stefndu í byggingarnefnd skólans hafi ekki borið ábyrgð á hönnun teikninga eða verklýsinga heldur embætti húsameistara ríkisins, sbr. einnig lög nr. 49/1967, um skólakostnað.  Í útboðs- og vinnulýsingu komi skýrt fram að verkið skyldi framkvæma samkvæmt fyrirmælum húsameistara ríkisins.  Til staðar hafi verið sérþekking hans, starfsmanna hans og byggingardeildar menntamálaráðuneytisins á sviði byggingarmálefna og hafi hlutverk þeirra m.a. verið fólgið í því að velja heppileg efni til verksins.  Hafi embætti húsameistara ríkisins vitað eða mátt vita að notkun asbests sem byggingarefnis í milliveggi skólans væri vafasöm eða talsvert áhættubundin.  Starfsmönnum embættisins hafi a.m.k. borið skylda til að gefa byggingarnefndinni það til kynna áður en efnið hafi endanlega verið ákveðið.  Telja verði að ströng sakarábyrgð hvíli á sérfræðingum, þ.á m. starfsmönnum embættis húsameistara ríkisins og brunamálastjóra ríkisins, enda megi krefjast þess að þeir kynni sér vel eiginleika þeirra efna sem til greina komi við viðkomandi verk.

Ekki sé á það fallist að skaðsemi asbests hafi árið 1975 verið kunn og mátt vera öllum fagmönnum á sviði húsbygginga ljós.  Því til stuðnings sé vísað til fjölmargra greina og umfjöllunar í fjölmiðlum á þessum tíma. sbr. t.d. grein í Morgunblaðinu frá 3. mars 1977, þar sem segi frá því að Heilbrigðiseftirlit ríkisins myndi á næstunni leggja til að dregið yrði úr notkun asbests hér á landi og nauðsyn þess að sett yrði sérstök reglugerð um asbestnotkun.  Jafnframt að gerð yrði heildarúttekt á því hvernig og hvar asbest væri notað.  Daginn áður hafi í sama fjölmiðli birts grein um hættu frá asbestryki, þar sem vísað hafi verið til erlendra rannsókna sem birst hafi í erlendum tímaritum á árinu 1975, þar sem bent hafi verið á að asbestryk gæti valdið krabbameini í lungum.  Í gein Morgunblaðsins frá 5. mars 1977, þar sem fjallað hafi verið um notkun asbests í Straumsvík, hafi verið vísað til þess að meðhöndlun asbests væri í sjálfu sér á engan hátt skaðleg, en rykið gæti valdið heilsutjóni.  Árið 1984 hafi birst niðurstöður rannsóknar sem Vinnueftirlit ríkisins hafi látið gera í samvinnu við Rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði á tíðni illkynja mesótelíóma hér á landi, þar sem segi að sjúkdóminn mætti rekja til asbestmengunar og samband þeirra hafi komið æ betur í ljós, m.a. í nýjum rannsóknum frá Bandaríkjunum.  Hafi Vinnueftirlitið dregið þá ályktun af rannsóknarniðurstöðum að takmarka bæri asbestnotkun hérlendir.  Í Vísi hinn 28. júlí 1972 hafi birst frétt um að sú kenning hefði fengist staðfest, að krabbameinsáhrif reykinga ykjust að miklum mun ef reykingamenn störfuðu við asbestframleiðslu.  Hins vegar virðist það ekki valda krabbameini, svo mælanlegt sé, þótt menn störfuðu við asbest en reyktu ekki.  Í frétt Morgunblaðsins frá 22. september 1982 hafi verið vísað til þess að á síðustu árum hafi mönnum orðið það æ ljósara að asbestryk gæti valdið alvarlegum sjúkdómum.  Loks hafi í grein sem birtist í  Morgunblaðinu hinn 12. desember 1996 verið fjallað um að asbest hafi verið notað í ýmsar byggingar hér á landi þar til í byrjun níunda áratugarins og að hættan stafaði fyrst og fremst af því ryki sem myndist þegar unnið sé með efnið.

Á þeim árum sem mál þetta sé rakið til hafi verið nokkuð algengt að asbest væri auglýst til sölu sem byggingarefni í fjölmiðlum eða gert að umfjöllunarefni með öðrum hætti án þess að nokkurra athugasemda gætti af hálfu t.d. Vinnueftirlits ríkisins eða annarra eftirlitsaðila.  Tilvísun stefnanda í dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2003 í málinu nr. E-6749/2001, hafi ekkert með fordæmisgildi í þessu máli að gera enda hafi þar verið um að ræða upplýsingar sem vinnuveitandi hafi búið yfir um hættueiginleika asbests frá því fyrir árið 1980 og því bein skírskotun í huglæga afstöðu vinnuveitanda.  Í þessum dómi komi hins vegar skýrlega fram að mikil umræða hafi verið um asbestmál í kringum 1980 og fljótlega eftir setningu reglugerðar nr. 74/1983, um bann við innflutningi og notkun asbests, hafi verið byrjað að fara eftir fyrirmælum Vinnueftirlitsins og leitað til þess um undanþágur frá innflutningsbanni.  Hafi dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að almenn umræða um skaðsemi asbests hafi ekki verið mikil hér á landi fyrr en um 1980 með vísan til álita fjölmargra sérfræðinga, þ.m.t. yfirlæknis á atvinnusjúkdómadeild Heilsuverndarstöðvarinnar, Helga Guðbergssonar.  Í grein Helga, sem birst hafi í DV 12. júní 1992, komi fram að vitneskja um asbest hafi safnast hægt og langan tíma hefði tekið að koma upplýsingum á framfæri við notendur og almenning um áhrif efnisins á heilsuna.  Það sem rakið hafi verið hér að framan geti því ekki samrýmst því sem stefnandi byggi bótagrundvöll sinn á, þ.e. að þekking á hættueiginleikum efnisins hafi verið almenn og fagmönnum kunn árið 1975.  Sé því ljóst að fyrir 1980 hafi fulltrúar stefndu í byggingarnefndinni ekki mátt vera ljós hættan af notkun asbests í byggingariðnaði.  Vísist um það jafnframt til yfirlýsingar Jóhanns, þar sem segi m.a. orðrétt: „Örfáum árum síðar var þetta efni (asbest) bannað þar sem það var talið mikill krabbameinsvaldur.“

Stefndu byggja á því að sönnunarbyrðin um að fulltrúar stefndu hafi vitað af hættueiginleikum byggingarefnisins hvíli á stefnanda.  Jafnframt beri að árétta að ekki sé hægt að byggja á síðar tilkominni þekkingu á hættueiginleikum efnisins.  Þá sé á það bent að oft sé í umræðu að eitthvað kunni að vera hættulegt og að niðurstöður erlendra rannsókna sýni það með einhverjum hætti, sbr. t.d. örbylgjugeislun frá farsímum.  Marktæk þekking komi hins vegar ekki fram fyrr en fjöldamörgum árum eða áratugum síðar, eins og raunin hafi verið með byggingarefnið asbest.  Ef svo ólíklega vilji til að dómurinn fallist á að almenn þekking á skaðsemi asbests hafi verið til staðar á þessum tíma, sé á því byggt að Jóhann hafi vitað eða mátt vita af hættunni enda hljóti þekking hans að hafa verið áþekk annarra sem starfað hafi í byggingariðnaðinum.  Hefði hann því átt að bregðast við því verki sem hann hafi verið beðinn um að vinna samkvæmt verksamningi við stefndu, með því að gera athugasemdir og krefjast úrbóta varðandi öryggisbúnað, sem hann hafi ekki gert.

Stefnandi byggi á því, að með því að fela Jóhanni vinnu með asbestplötur hafi stefndu brotið gegn ákvæðum þágildandi laga nr. 23/1952, um öryggisráðstafanir á vinnustöðum, sérstaklega 5. gr. laganna.  Gildissvið þessara laga hafi tekið til sérhverrar starfsemi þar sem tveir eða fleiri verkamenn hafi unnið.  Samkvæmt þeim hafi hvílt á vinnuveitanda, þ.e. Jóhanni sjálfum, að sjá um að á vinnustað væri málum svo fyrir komið að verkamenn fengju vitneskju um ef hætta fylgdi störfum þeirra og á hvern hátt best væri að forðast hana, sbr. tilvitnað ákvæði 5. gr. laganna.  Samkvæmt 6. gr. laganna hafi verkamenn sjálfir átt að gæta þess að útbúnaður væri í góðu lagi og átt að tilkynna yfirmanni sínum ef svo væri ekki.  Í gögnum málsins sé vinnulagi Jóhanns lýst og geti það tæpast talist eðlilegt.  Tilhlýðilegt hefði verið að nota grímu eða vinna við þær aðstæður að menn önduðu ekki rykinu að sér.  Jóhanni, sem verið hafi vanur smíðameistari, hafi því mátt vera ljós áhættan sem hann hafi tekið, sérstaklega ef fallist verði á það að skaðsemi asbests hafi almennt verið þekkt meðal fagmanna á þessum tíma, eins og stefnandi haldi fram.  Í 25. gr. fyrrgreindra laga hafi verið kveðið á um að ef eigi væri hægt að veita verkamönnum nægilega vernd gegn slysum eða sjúkdómum með öðrum hætti, skyldi gera sérstakar öryggisráðstafanir þar sem því yrði við komið, t.d. með því að nota hlífðarútbúnað, og hafi sú skylda hvílt á vinnuveitanda, ekki verkkaupa, að verkamenn notuðu öryggisútbúnað, sem þeir hafi þurft á að halda hverju sinni.  Öll vinna við efni og eftirlit með því að verkið væri unnið á réttan hátt hafi hvílt á Jóhanni sjálfum og öðrum eigendum Trésmiðjunnar K-14 hf.  Lögin hafi einnig gert öryggiskröfur til vinnuveitenda, sem þeim hafi verið skylt að fara eftir, óháð því hvort opinbert eftirlit hafi verið til staðar eins og áður segi.

Í málatilbúnaði stefnanda virðist gæta misskilnings varðandi annars vegar hlutverk hinnar sameiginlegu byggingarnefndar, sem fulltrúar stefndu hafi átt sæti í, og byggingarnefndar Mosfellsbæjar, sem farið hafi með lögboðið byggingareftirlit í sveitarfélaginu hins vegar.  Hlutverk byggingarnefndar skólans hafi fyrst og fremst falist í því að skólabyggingin risi í samræmi við samninga þar um og utanumhald um byggingarkostnað.  Tilvísun í ákvæði byggingarsamþykktar geti því aðeins átt við um hina lögboðnu byggingarnefnd Mosfellshrepps sem farið hafi með byggingarmálefni sveitarfélagsins og hafi haft umsjón með því að byggingarsamþykkt væri haldin.  Byggingarfulltrúi Mosfellshrepps, Hreinn Þorvaldsson, sem jafnframt hafi verið framkvæmdastjóri byggingar skólahúsnæðisins, hafi enn fremur haft daglegt eftirlit með því að samþykktin væri haldin, sbr. gr. 1.4.1. í byggingarsamþykkt.  Á byggingarnefnd Mosfellshrepps hafi hvílt sú skylda samkvæmt gr. 6.1.1., að teldi hún að framleitt væri og boðið til sölu byggingarefni sem ekki fullnægði kröfum er gera yrði, skyldi hún að banna notkun þess.  Með vísan til þess sé því harðlega mótmælt að bótaábyrgð kunni að liggja hjá stefndu sem í raun hafi haft það eina verk á sínum höndum að sjá til þess að þarna myndi rísa gagnfræðaskóli.

Stefnandi byggi á því að byggingarnefnd skólans hafi borið skylda til að afla nægilegrar þekkingar á þeirri byggingu sem hún hafi staðið að.  Liggi fyrir að fjölmargir sérfræðingar hafi setið fundi nefndarinnar til að tryggja aðgang nefndarmanna að sérþekkingu á byggingarmálefnum, sem þeir hafi óumdeilanlega ekki haft.  Guðmundur Óskarsson verkfræðingur, sem gert hafi m.a. útboðs- og vinnulýsingu ásamt starfsmönnum embættis húsameistara ríkisins, hafi mætt á fund nefndarinnar hinn 20. október 1970, en fyrirtæki hans hafi veitt almenna ráðgjöf m.a. fyrir sveitarfélög viðvíkjandi hönnun mannvirkja.  Edgar Guðmundsson verkfræðingur hafi setið þrjá fundi en hann hafi m.a. gert greinargerð fyrir Heilbrigðiseftirlit ríkisins um hættu á mengunarvandamálum vegna asbestlagna í hitaveitum árið 1977.  Birgir Breiðdal arkitekt og Hreggviður Stefánsson verkfræðingur báðir starfsmenn embættis húsameistara ríkisins, hafi mætt á nokkra fundi nefndarinnar sem og fulltrúar frá byggingardeild menntamálaráðuneytisins.  Loks hafi Hreinn Þorvaldsson, byggingarfulltrúi Mosfellshrepps og framkvæmdastjóri byggingar skólans, setið nánast alla fundi nefndarinnar.  Nefndarmennirnir, sem verið hafi oddvitar hreppanna, Haukur Þórðarson læknir og Gylfi Pálsson skólastjóri hafi því samkvæmt framangreindu haft aðgang að nægri sérþekkingu á sviði byggingariðnaðarins.  Enginn þessara sérfræðinga hafi talið tilefni til þess að vara við notkun asbests eftir að fyrirmælin hafi komið frá brunamálastjóra ríkisins.

Með vísan til alls framanritaðs verði að telja ósannað að fulltrúi stefndu í hinni sameiginlegu byggingarnefnd hafi sýnt af sér háttsemi sem telja megi saknæma eða ólögmæta.  Jafnframt verði að teljast ósannað að þeir hafi vitað að asbestplötur þær sem Jóhann hafi unnið við, sem eigandi og starfsmaður sjálfstæðs verktaka, væru skaðlegar enda hafi komið krafa um notkun þeirra frá brunamálayfirvöldum.  Hafi þeir mátt treysta sérþekkingu brunamálastjóra og annarra sérfræðinga ríkisins sem komið hafi að byggingu hússins.  Teikningar, vinnulýsing og efnisval hafi verið á höndum embættis húsameistara ríkisins og eftirlit með byggingunni hafi lögum samkvæmt hvílt á byggingardeild menntamálaráðuneytisins, byggingarnefnd Mosfellshrepps og byggingarfulltrúa Mosfellshrepps.

Til vara byggja stefndu, Reykjavíkurborg og Kjósarhreppur, á því að krafa stefnanda sé fyrnd, sbr. 2. töluliður 4. gr. eldri laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, nr. 14/1905, og verði að miða upphafstíma fyrningar þegar tjónið hafi orsakast.

Stefndu mótmæla því og að fyrir hendi séu orsakatengsl milli athafna stefndu og tjóns stefnanda.  Það sé skilyrði skaðabótaábyrgðar að orsakatengsl séu milli háttsemi og þess tjóns, sem bóta sé krafist fyrir.  Tjón verði að teljast sennileg afleiðing saknæmrar háttsemi, þ.e. að sá bótaskyldi hafi séð eða átt að sjá afleiðingarnar fyrir þegar hann hafi viðhaft hina bótaskyldu háttsemi.  Stefnandi beri óumdeilanlega sönnunarbyrði fyrir því að tiltekin háttsemi stefndu hafi valdið tjóni.

Ósannað hljóti að teljast, miðað við fyrirliggjandi gögn, að sjúkdómur Jóhanns hafi orsakast af vinnu að saga asbestsplötu við þessa byggingu og á engan hátt hægt að útiloka að aðrir þættir hafi valdið sjúkdómnum.  Vísast um þetta m.a. til greinar í Læknablaðinu um illkynja mesótelíóma á Íslandi, þar sem segi m.a. að tíðni sjúkdómsins aukist í réttu hlutfalli við magn mengunarinnar.  Þá gæti þess nokkuð að aðrar dánarorsakir keppi við sjúkdóminn.  Jafnframt vísa stefndu til bréfs Vinnueftirlits ríkisins ásamt fræðigreinum sem fylgi um sögu asbests.  Í þessum greinum komi fram að það sé ekki óyggjandi að iðraþekjuæxli (mesótelíóma), eins og það sem hafi orðið Jóhanni að aldurtila, sé ávallt að rekja til asbestmengunar.

Stefndu telja, að ekki hafi verið færð fram ótvíræð sönnun þess, að Jóhann hafi unnið nálægt asbesti áður eða síðar, en í stefnu segi að umrætt skipti muni hafa verið það eina sem hann hafi unnið með asbest.  Liggi fyrir að Trésmiðjan K-14 hf., sem tekið hafi til starfa árið 1957 og orðið gjaldþrota árið 1997, hafi reglulega auglýst, á þeim tíma sem mál þetta taki til, að hún tæki að sér m.a. sögun og heflun í innveggi.  Þá liggi ekkert fyrir um magn asbests í plötunum en samkvæmt gögnum málsins sé talið að byggingarefnið hafi verið blandað gifsi og asbesti, en það hafi hins vegar ekki verið rannsakað frekar.  Sérstaklega sé mótmælt vottorði Höllu Skúladóttur læknis, þar sem fullyrt sé að Jóhann hafi orðið fyrir asbestmengun þrjátíu árum fyrir greiningu sjúkdómsins og að sú asbestmengun sé orsök sjúkdómsins.  Í vottorðinu komi ekki fram á hverju læknirinn byggi þessa fullyrðingu sína, hvaða rannsóknir hafi legið þar að baki og á hverju sú fullyrðing sé byggð.  Stefnandi hafi ekki fært fram næga sönnun á orsakatengslum.  Nauðsynlegt hafi verið að fá dómkvadda matsmenn til að láta í ljós álit um orsakatengsl.  Einnig sé á það bent að ekki sé hægt að ræða um sennilegar afleiðingar, þar sem ákvörðun um notkun asbests hafi komið frá brunamálastjóra ríkisins, asbests verið löglegt og viðurkennt byggingarefni hér á landi til ársins 1983, auk þess sem í gögnum málsins sé ekkert sem leitt hafi í ljós skaðsemi umræddra platna.

Til vara byggja stefndu, Reykjavíkurborg og Kjósarhreppur, á því, að lækka beri kröfur stefnanda á grundvelli eigin sakar.  Vísa stefndu, þessum kröfum sínum til stuðnings, til sömu málsástæðna og þau byggja sýknukröfu sína á, sérstaklega þá háttsemi Jóhanns að nota ekki viðeigandi öryggisbúnað við vinnu sína og að honum hafi mátt vera ljós áhættan sem hann hafi tekið.  Sé í þessum efnum vísað til reglna skaðabótaréttarins um samþykki og áhættutöku.  Jafnframt verði að líta til þess að Jóhann hafi verið meðeigandi þess verktakafyrirtækis sem tekið hafi að sér að smíða milliveggi í byggingunni og sníða og saga niður asbestplötur og því hafi hvílt á honum rík skylda til að sjá til þess að allar öryggisráðstafanir yrðu gerðar.

Stefndu mótmæla sérstaklega miskabótakröfu stefnanda, enda séu skilyrði b-liðar 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, ekki uppfyllt.  Stefndu mótmæla einnig sérstaklega vaxta- og dráttarvaxtakröfu stefnanda og upphafstíma dráttarvaxtakröfu.  Telja stefndu, ef ekki verði fallist á sýknukröfu þeirra, að miða beri upphafstíma dráttarvaxta við dómsuppsögu, í fyrsta lagi.

Um lagarök vísa stefndu til meginreglu skaðabótaréttarins.

Kröfu um málskostnað byggja stefndu á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

VI

Stefndi, Mosfellsbær, byggir kröfur sínar á því, að þrátt fyrir að sveitarfélögin og íslenska ríkið hafi borið ábyrgð á að umrætt hús yrði byggt og að ráðnir yrðu verktakar til verksins, sé ljóst að á stefnda verði ekki lögð hlutlæg ábyrgð á því líkamstjóni, sem eiginmaður stefnanda kunni að hafa orðið fyrir við byggingu skólahússins, þar sem stefndi hafi ekki verið vinnuveitandi hans.  Stefndi krefjist því sýknu á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þar sem eftirlit og ábyrgð með vinnu og vinnuaðstæðum sé, samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar, á ábyrgð verktaka þess sem taki að sér verkið samkvæmt verksamningi.

Stefndi telur auk þess, að ekki sé unnt að fella á hann sök á grundvelli hlutlægrar bótaábyrgðar, þar sem aldrei hafi verið í gildi í íslenskum rétti regla um hlutlæga ábyrgð á líkamstjóni, sem verði vegna hættulegrar starfsemi.  Verði hvorki fundinn staður fyrir slíkri reglu í dómum né í afstöðu fræðimanna og beri því eðli máls samkvæmt að sýkna stefnda.

Stefndi byggir og á því, að hann beri ekki ábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli sakarreglunnar.  Sá aðili sem hafi haft boðunarvald yfir eiginmanni stefnanda í umræddu verki hafi borið að sjá til þess að fyllsta öryggis væri gætt í málinu.  Þá hvíli, samkvæmt 6. gr. laga nr. 23/1952, um öryggisráðstafanir á vinnustöðum, einnig sú skylda á verkamönnum að gæta að öryggisbúnaði og skaðlausu vinnuumhverfi.  Eiginmaður stefnanda hafi því einnig borið ábyrgð á eigin öryggi.  Stefndi hafi ekki verið vinnuveitandi eiginmanns stefnanda.  Hafi hættueiginleikar asbests verið svona þekktir, svo sem ráða megi af stefnu, þá hafi það fyrst og fremst verið yfirmanns eiginmanns stefnanda að tryggja öryggi hans og hafna því að unnið væri með asbest í byggingunni eða að minnsta kosti að tryggja öryggi starfsmanna sem unnið hafi við asbestið.

Þá sé því sérstaklega mótmælt, sem fram komi í stefnu, að stefnda hafi mátt vera ljósir hættueiginleikar asbests þar sem nefndarmenn og starfsmenn byggingarnefndar hafi verið sérfróðir um húsbyggingar og þar með eiginleika þeirra efna sem notuð hafi verið til húsbygginga.  Hafa beri í huga að asbest hafi verið löglegt efni á þeim tíma sem eiginmaður stefnanda eigi að hafa orðið fyrir asbestmenguninni.  Það hafi því verið fullkomlega löglegt að nota efnið.  Efnið hafi ekki verið bannað fyrr en með reglugerð nr. 74/1983 og jafnvel enn þann dag í dag sé heimilt að nota efnið svo framalega sem fyllsta öryggis sé gætt, sbr. reglugerð nr. 430/2007, um bann við notkun asbests á vinnustöðum.  Eigi stefndi að beita sömu rökum og stefnandi geri í stefnu hvað þetta atriði varði, megi allt eins færa fyrir því rök að forsvarsmenn Trésmiðjunnar K-14 hf., og raunar eiginmaður stefnanda, sem hafi verið vanur húsbyggingum, hafi átt að þekkja hættueiginleika asbests.

Þá hafi stefnandi ekki upplýst það nákvæmlega hvaða vinnu eiginmaður hennar heitinn hafi haft með höndum við umrætt verk eða hvar í húsinu.  Þá liggi ekkert fyrir um hversu hátt hlutfall asbests hafi verið í þeim veggjum sem settir hafi verið upp, en afar misjafnt sé hversu mikill styrkleiki asbests sé í þeirri efnablöndu sem notuð sé.  Efnisblandan sem innihaldi asbest sé að öllum líkindum skaðlegri eftir því sem styrkleiki asbestsins sé meiri.  Þá liggi ekki fyrir hvort orsakasamband geti verið milli þeirrar vinnu eiginmanns stefnanda, sem hann hafi haft með höndum, og þess sjúkdóms sem hann hafi þjáðst af.

Af gerðarbók byggingarnefndar Gagnfræðaskólans að Varmá megi ráða að við byggingu skólans hafi verið ákveðið að nota vikurplötur í veggi í stað asbestþilplatna, enda hafi nokkur sparnaður verið í því fólginn.  Þegar hins vegar hafi þurft að lagfæra nokkra veggi árið 1975 hafi verið ákveðið, að kröfu brunamálastjóra, að notast við gibsoni- og asbestplux blöndu í lítinn hluta veggja á 2. hæð skólans.  Í ljósi þess að um lítið magn af asbesti hafi verið að ræða telur stefndi útilokað að orsakasamband sé á milli vinnu eiginmanns stefnanda við uppsetningu veggjanna í skólanum og þess sjúkdóms sem hann hafi þjáðst af.

Þá verði að hafa í huga að skólahúsið hafi verið byggt samkvæmt teikningum og útboðslýsingu húsameistara ríkisins.  Stefndi hafi því mátt gera ráð fyrir því að um eðlilegt efnisval hafi verið að ræða.  Efnisvalið hljóti að vera á ábyrgð íslenska ríkisins, þar sem með því að setja efnið í útboðslýsingu, hafi íslenska ríkið gefið sveitarfélögunum réttmæta ástæðu til að trúa því að efni þetta væri ákjósanlegt.  Þrátt fyrir að vikið hafi verið frá upphaflegri útboðslýsingu þegar ákveðið hafi verið að nota vikurplötur í stað asbestþilplatna, hafi í raun verið með endurbótunum verið að hverfa aftur til þeirrar kröfu um efnisval sem sett hafi verið fram í útboðslýsingu húsameistara ríkisins.  Verði ábyrgðin því eftir sem áður á íslenska ríkinu.

Þrátt fyrir þá staðreynd að framkvæmdirnar hafi verið á vegum sveitarfélaganna geti stefndi ekki borið ábyrgð á verklaginu og þrátt fyrir að verkkaupa, samkvæmt 4. gr. verksamnings, væri heimilt að hafa eftirlitsmann að verkinu, hafi verkkaupa verið það skylt, sbr. ákvæði verksamnings.  Ekkert komi heldur fram um það í áðurgreindum verksamningi að umræddur eftirlitsmaður ætti að hafa eftirlit með vinnuaðstæðum og hvernig farið væri með starfsmenn verktaka, enda eftirlitið á kostnað verkkaupa.  Þvert á móti komi fram í 2. mgr. 5. gr. verksamningsins að allt verkið sé á ábyrgð verktaka, þar til heildarúttekt færi fram.

Þó svo að ekki liggi fyrir skriflegur verksamningur við Trésmiðjuna K-14, megi ætla að sömu skilmálar hafi gilt um það verk sem hún hafi unnið við og það verk sem samið hafi verið um í verksamningi, enda sé þar um almenna skilmála að ræða.  Þá sé það jafnframt á ábyrgð vinnuveitanda að skapa öruggt vinnuumhverfi og sjá til þess að starfsmenn hafi aðgang að viðeigandi vinnufatnaði og hlífum, sbr. þágildandi ákvæði laga um öryggisráðstafanir á vinnustöðum nr. 23/1952.  Þá hafi ekkert verið í verksamningi stefnda sem kveðið hafi á um það hvernig vinnuaðstæðum skyldi háttað.  Það sé enda almennt ekki í verkahring verkkaupa að láta starfsmönnum verktaka í té fyrirmæli eða leiðbeiningar um hvernig framkvæma skuli verkið á sem öruggastan hátt heldur sé það almenn regla skaðabótaréttarins að verktaki beri ábyrgð enda yfirleitt best til þess fallinn.  Vönum verktaka hafi átt að vera ljóst hvers konar byggingarefni verið sé að vinna með, hættueiginleika þess og hvernig með það skuli fara svo ekki hljótist tjón af.  Verktakinn vinni verkið á eigin ábyrgð, stjórni verkinu og velji starfsmenn og tæki til verksins.  Hann geti því með árvekni sinni dregið verulega úr líkindum þess að tjón verði við framkvæmd starfans, en gáleysi hans geti aukið tjónslíkindi.  Sé því almennt og eðlilegt að tjónþoli beini kröfu sinni eingöngu að verktaka.  Í máli þessu sé ekki fyrir að fara saknæmri háttsemi verkkaupa eða manna sem hjá honum starfa.

Stefndi mótmælir því að orsakatengsl séu á milli athafna hans og andláts Jóhanns heitins.  Ósannað hljóti að teljast að sjúkdómur Jóhann hafi orsakast af vinnu við sögun á umræddum plötum við þessa byggingu og á engan hátt sé hægt að útiloka að aðrir þættir hafi valdið sjúkdómnum.  Samkvæmt framlögðum fræðigreinum um sögu asbests komi fram að ekki sé óyggjandi að iðraþekjuæxli, eins og það sem orðið hafi eiginmanni stefnanda að aldurtila, sé ávallt að rekja til asbestmengunar.  Stefnandi hafi og ekki fært fram ótvíræða sönnun þess, að hinn látni hafi ekki unnið nálægt asbesti áður eða síðar.  Asbestplötur hafi á þessum tíma verið notaðar í byggingum og ef talið verði sannað að almennt hafi verið vitað um hættueiginleika asbests, hafi ekkert komið fram um hættueiginleika umræddra platna, þ.e. hversu mikið magn asbests hafi verið í þeim og hvort, ef rétt hafi verið með farið, þessar tilteknu plötur gætu talist skaðlegar heilsu hins látna.  Þá sé ekkert í gögnum málsins um það hversu mikið magn asbests þurfi til þess að valda sjúkdómi hins látna.

Stefndi mótmælir sérstaklega vottorði Höllu Skúladóttur læknis, þar sem fullyrt sé að Jóhann hafi orðið fyrir asbestmengun þrjátíu árum fyrir greiningu sjúkdómsins og að hún sé orsök sjúkdómsins.  Í vottorðinu komi ekki fram á hverju læknirinn byggi þessa fullyrðingu sína, hvaða rannsóknir hafi legið þar að baki eða hvers vegna þessi tiltekna asbestmengun hafi valdið sjúkdóminum.

Varakröfu sína, um verulega lækkun dómkrafna, byggir stefndi á sömu málsástæðum og sýknukröfu sína, þ.á m. eigin sök Jóhanns heitins, og sakar annarra en stefnda, Mosfellsbæjar.

Stefndi mótmælir sérstaklega fjárhæð og grundvelli miskabótakröfu stefnanda.

Stefndi mótmælir og sérstaklega vaxta- og dráttarvaxtakröfu stefnanda, einkum upphafstíma dráttarvaxta með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001.  Stefndi telur að ekki liggi fyrir öll nauðsynleg gögn til að slá megi fastri bótaskyldu og bótafjárhæð og krefst þess að upphafstími dráttarvaxta verði miðaður við dómsuppsögu, í fyrsta lagi.

Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 55/1969, um brunavarnir og brunamál, laga nr. 19/1905, um byggingarsamþykktir, laga nr. 49/1967, um skólakostnað og laga nr. 23/1952 um öryggisráðstafanir á vinnustöðum.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

VIII

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að eiginmaður hennar, Jóhann Björnsson, hafi látist vegna sjúkdóms sem átt hafi rætur að rekja til vinnu við asbestplötur til einangrunar í milliveggjum við byggingu Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar.  Telur stefnandi að stefndu beri solidariska ábyrgð á tjóni hennar á grundvelli hlutlægrar bótaábyrgðar eða á grundvelli sakar starfsmanna stefndu. 

Byggir stefnandi á því að stefndu hafi mátt vera ljós skaðsemi notkunar og meðhöndlun asbests og öllum starfsmönnum stefndu hafi borið skylda til að veita viðvaranir um hættuna af notkun efnisins og leiðbeina um örugga meðferð þess.

Beinir stefnandi kröfum sínum á hendur hinum stefndu sveitarfélögum sem og íslenska ríkinu þar sem eiginmaður stefnanda hafi starfað við byggingu skólahúsnæðis í eigu þeirra.

Byggir stefnandi kröfur sínar á hendur stefnda, íslenska ríkinu, á því, að embætti húsameistara ríkisins hafi í hönnunargögnum hússins mælt fyrir um að asbestplöturnar skyldu notaðar í milliveggi.  Einnig byggir stefnandi á því, að embætti brunamálastjóra ríkisins hafi mælt fyrir um notkun asbests í milliveggi, sem Jóhann heitinn vann við að reisa.

Ekki liggja fyrir í málinu gögn um bein fyrirmæli brunamálastjóra þess efnis að skilyrðislaust hafi borið að nota asbestefni í milliveggi.  Í fundargerð frá 2. september 1975, sem stefnandi byggir á, virðist þáverandi brunamálastjóri ekki hafa verið viðstaddur heldur eru höfð eftir honum nánar tiltekin atriði vegna smíðarinnar.  Gögn málsins gefa þannig ekki ótvírætt til kynna að notkun asbests hafi verið fyrir beinan tilverknað brunamálastjóra.  Af hönnunargögnum, sem fyrir liggja í málinu, verður ekki ráðið með vissu hvernig smíði milliveggja var að endingu háttað í byggingunni almennt, en í lýsingunni er talað um að 20 cm veggir væru klæddir 2x10 cm gibsonite (Asbestolux).   Samkvæmt 3. gr. laga nr. 55/1969, um brunavarnir og brunamál fór Brunamálastofnun með leiðbeiningarskyldu og eftirlit með nýbyggingum og skólum.  Með framburði vitna og framlagðra gagna þykir í ljós leitt að asbest var í veggjum þeim sem stefnandi vann við uppsetningu og sögun á.  Í ljósi fyrrgreindrar lagagreinar verður að telja að sú ákvörðun byggingarnefndarinnar að nota asbest hafi verið tekin að ábendingu þeirrar stofnunar ríkisins, sem ábyrgð bar á brunavörnum og leiðbeindi um þau efni.  Þá kemur fram í verklýsingu húsameistara ríkisins að milliveggir byggingarinnar skuli klæddir asbesti, en í málinu liggur fyrir að það embætti ríkisins gerði verklýsingar og teikningar að hluta um byggingu skólahússins, sbr. 1. gr. verksamnings. 

Þá liggur fyrir samkvæmt lögum nr. 49/1967, sbr. reglugerð nr. 159/1969, um þátttöku í stofnkostnaði skóla, að ríkið tekur þátt í stofnkostnaði skólamannvirkja með sveitarfélögum.

Með vísan til framanritaðs verður ekki fallist á að sýkna beri stefndu sökum aðildarskorts. 

Óumdeilt er að eiginmaður stefnanda vann við endurnýjun veggja í gagnfræðaskólanum að Varmá, Mosfellssveit, er hann var starfsmaður Trésmiðjunnar K-14, sem tekið hafði að sér það verk með samningi við byggingarnefnd skólans.

Samkvæmt framburði stefnanda, og Einars Þorkelssonar, bróður stefnanda og fyrrverandi fyrirsvarsmanns Trésmiðju K-14, starfaði eiginmaður stefnanda á trésmíðaverkstæðinu frá árinu 1973 eða 1974 til ársins 1991.  Kom og fram að eiginmaður stefnanda hefði verið lærlingur á verkstæðinu á þessum tíma, en hann varð einnig einn af eigendum fyrirtækisins.  Samkvæmt framlagðri yfirlýsingu, sem eiginmaður stefnanda ritaði undir, sem og framburði stefnanda, vann hann hvorki áður né eftir þennan tíma með asbest.  Þá kom fram hjá vitninu Einari Þorkelssyni að ekki hefði á öðrum tíma verið unnið með asbest hjá trésmiðjunni.

Í stefnu er því haldið fram að stefnandi hafi unnið við að saga niður umræddar plötur, bæði innandyra sem utan.  Vitnin Einar Þorkelsson og Þorkell Jóhannsson báru að svo hefði verið gert ef ekki hafi verið unnt að gera það úti sökum veðurs og við sögunina hafi myndast mikið ryk sem þyrlast hafi upp.  Fyrir liggur að saga eða skera þurfti asbestið niður.  Ljóst er að mikið ryk myndaðist við þessa meðhöndlun á asbestinu, en samkvæmt framburði starfsmanna trésmiðjunnar voru aðeins notaðar rykgrímur við sögunina, en enginn annar hlífðarbúnaður notaður til varnar asbestrykinu.

Af gögnum málsins, sem og framburði læknanna Höllu Skúladóttur og Einars Tómassonar, verður ráðið að asbestþræðir eru fíngerðir og léttir og myndast sýnilegt og ósýnilegt ryk í andrúmslofti við slíka meðhöndlun asbests sem að framan er lýst.  Með vísan til þess sem haft er eftir eiginmanni stefnanda, og með hliðsjón af framburði vitna, þykir ljóst að eiginmaður stefnanda vann árið 1975 í asbestmenguðu umhverfi og er ekkert það fram komið í málinu sem gerir það sennilegt að hann hafi síðar komist í snertingu við asbest með þeim hætti að hættulegt væri.

Þykir því sannað að við þetta verk hafi eiginmaður stefnanda komist í snertingu við asbest.  Samkvæmt framburði læknisins Höllu Skúladóttur  þarf ekki mikið ryk til þess að valda þeim sjúkdómi sem dró eiginmann stefnanda til dauða. 

Samkvæmt framburði vitna verður lagt til grundvallar að eiginmaður stefnanda hafi komist í snertingu við asbest þegar hann vann við skólabyggingu Gagnfræðaskólans við Varmá.  Fyrir liggur að lítill sem enginn hlífðarbúnaður gegn asbesti var notaður við vinnu þess, en sem fyrr segir eru asbestþræðir mjög léttir og mynda ryk í lofti sem síðan sest en getur þyrlast upp aftur. 

Samkvæmt framlögðu læknisvottorði Höllu Skúladóttur greindist eiginmaður stefnanda, Jóhann Björnsson, með æxli í brjósthimnu (mesothelioma) í janúar 2006 og lést af völdum þess hinn 20. ágúst 2006.  Er mengun vegna vinnu hans við asbest þrjátíu árum fyrir greiningu talin orsök sjúkdómsins.  Bar læknirinn að þetta væri eina þekkta orsök þessa sjúkdóms.  Samkvæmt framburði hennar, sem og gögnum málsins, líður langur tími frá því að mengunarálag af asbesti á sér stað og þar til sjúkdómurinn kemur fram.  Með hliðsjón af vottorði læknisins, og öðru því sem fram er komið í málinu, verður að ætla að sú asbestmengun sem stefnandi kann þar að hafa orðið fyrir hafi orsakað sjúkdóm þann sem dró hann síðan til dauða.

Samkvæmt öllu framansögðu þykir í ljós leitt að eiginmaður stefnanda hafi verið með æxli í brjósthimnu og að asbestmengun sú sem hann varð fyrir við störf við gagnfræðaskólann við Varmá hafi verið orsök sjúkdómsins.  Sannað þykir að mengun af asbesti hafi orsakað sjúkdóm hans.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafa tengsl asbestmengunar og lungnasjúkdóma lengi verið þekkt innan læknavísindanna.  Ávinningur af notkun efnisins til einangrunar hafi hins vegar verið mjög mikill enda vandfundið annað einangrunarefni sem uppfyllti alla kosti asbests. 

Eins og fram hefur komið var asbest notað þegar gera þurfti við milliveggi í gagnfræðaskólanum við Varmá.  Eftir að hættueiginleikar asbests fóru að koma fram í dagsljósið var smám saman horfið frá notkun þess en þó var notkun asbests ekki bönnuð hér á landi fyrr en 1983.  Fyrir liggur að með reglugerð nr. 74/1983 var notkun á asbesti almennt bönnuð en undanþágu mátti þó veita frá því banni.  Liggur ekki annað fyrir í málinu en að við gildistöku reglugerðarinnar hafi asbest enn verið notað til einangrunar, þar sem það hafi þótt mjög brunaþolið efni.

Ljóst er að þótt læknisfræðileg þekking hafi verið til staðar um hættueiginleika asbests löngu fyrir árið 1975, var efnið notað eftir þann tíma.  Samkvæmt framlögðum gögnum kemur fram, að áhrif asbestmengunar á mannslíkamann komi oft ekki fram fyrr en 15-40 árum eftir innöndun.  Hérlendis hafi notkun efnisins í byggingariðnaði aukist mikið eftir seinni heimstyrjöldina og sé það m.a. að finna í þakklæðningum, veggklæðningum og eldvarnarveggjum.  Þó mun, samkvæmt gögnum málsins, hafa dregið úr notkun efnisins í byggingum upp úr 1970, en síðustu undanþágurnar til innflutnings hafi runnið út árið 2005.  Þá kemur fram í framlögðum greinum úr tímaritum og blöðum að umræða hafi verið um asbestmál í kringum 1980 og nefndar greinar í blöðum frá því í september 1975.  Samkvæmt framburði yfirlæknis Vinnueftirlitsins voru hættueiginleikar efnisins þekktir meðal ýmissa fagmanna fyrir þann tíma.  Bar vitnið að hann kannaðist við umræðu um hættueiginleika asbests í fagtímaritum þó nokkrum árum áður en fyrsta reglugerðin um asbest hafi verið sett.  Fljótlega eftir setningu reglugerðar nr. 74/1983 hafi verið byrjað að fara eftir fyrirmælum Vinnueftirlitsins og leitað til þess um undanþágu frá innflutningsbanni.  Strangar öryggiskröfur hafi verið settar og þeim fylgt fast eftir. 

Af því sem fram er komið í málinu verður ekkert fullyrt um það, þó svo umræða hafi verið um hættueiginleika asbests meðal lækna og í fagtímaritum, að almenn umræða um skaðsemi asbests hafi verið mikil hér á landi fyrir árið 1975.  Hefur ekki verið sýnt fram á það í máli þessu eða gert sennilegt að hættueiginleikar asbests hafi verið þeim mönnum kunnir, sem stefndu bera ábyrgð á.  Í ljósi þess verður það ekki metið stefndu til sakar að gera ekki ráðstafanir til að tryggja hollustuhætti eiginmanns stefnanda og aðgerðarleysi þeirra varðandi meðhöndlun asbests.  Verður því ekki af þeirri ástæðu fallist á bótaábyrgð stefndu á tjóni stefnanda. 

Samkvæmt framlögðum gögnum og framburði vitna fyrir dóminum hefur ekki verið sýnt fram á það að starfsmönnum stefndu, eða þeim mönnum sem þeir báru ábyrgð á í tengslum við byggingu skólans, hafi á þeim tíma sem atburðir urðu, verið ljós sú mikla hætta sem stafaði af notkun asbests.  Enda þótt ljóst sé samkvæmt framansögðu að notkun efnisins í einangrun hafi verið talin ákjósanlegust samkvæmt fyrirmælum brunamálastjóra, þar sem efnið væri svo brunaþolið, þykir, með vísan til þess að ekki liggur fyrir hver vitneskjan um hættueiginleika efnisins var á þessum tíma, heldur ekki unnt að rýmka skaðabótaábyrgðina án þess að fyrir því sé bein lagastoð, og byggja ábyrgð stefndu á reglum um hlutlæga ábyrgð.   Ber því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í máli þessu.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndu, íslenska ríkið, Mosfellsbær, Reykjavíkurborg og Kjósarhreppur, eru sýkn af kröfum stefnanda, Svanhildar Þorkelsdóttur.

Málskostnaður fellur niður.