Print

Mál nr. 618/2006

Lykilorð
  • Ráðningarsamningur
  • Orlof
  • Tómlæti
  • Fyrning
  • Sératkvæði

Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. febrúar 2008.

Nr. 618/2006.

Grindavíkurbær

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

gegn

Petrínu Baldursdóttur

(Guðni Á. Haraldsson hrl.

Hulda Rós Rúriksdóttir hdl.)

 

Ráðningarsamningur. Orlof. Tómlæti. Fyrning. Sératkvæði.

P hóf störf hjá G árið 1984. Hún krafðist greiðslu orlofs á fasta yfirvinnu fyrir árin 2000 til og með 2005. G reisti kröfu sína um sýknu á því að P hefði fengið greidd án vinnuframlags jafnhá mánaðarlaun á orlofstímabili og með þeim hætti uppfyllt skyldu sína um greiðslu orlofs samkvæmt 7. gr. laga nr. 30/1987 um orlof. Í tilefni af dómi Hæstaréttar í máli nr. 473/1999 frá 11. maí 2000 sendi Samband íslenskra sveitarfélaga erindi 20. júní 2000 til meðal annars G þar sem kom fram að nauðsynlegt væri að það kæmi skýrt fram í samningi um fasta yfirvinnu að með greiðslu hennar í 12 mánuði væri orlof innifalið í greiðslunum. Ráðningarsamningur P og G var endurnýjaður 7. apríl 2004 og greiðsla vegna yfirvinnu P þar tilgreind 50 fastir yfirvinnutímar á mánuði. Í dómi Hæstaréttar sagði að sönnunarbyrðin um að tekið hefði verið tillit til orlofs á fasta yfirvinnu í ráðningarsamningi aðila hvíldi á áfrýjanda, sbr. áðurnefndan dóm Hæstaréttar. Þar sem ekkert væri kveðið á um orlof P ofan á fasta yfirvinnutíma hennar, hvorki á launaseðlum né í umræddum ráðningarsamningum yrði að fallist á með P að ekki hefði verið tekið tillit til orlofs á fasta yfirvinnu í ráðningarsamningum aðila. Var því fallist á kröfu P þó með þeirri takmörkun að krafa hennar um greiðslu orlofs fyrir 1. maí 2001 var talin fyrnd, sbr. 1. töluliður 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda og 3. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1987.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. desember 2006. Mál þetta var fyrst flutt fyrir þremur dómurum og tekið til dóms 30. maí 2007. Það var síðan endurupptekið og flutt á ný 25. janúar 2008. Áfrýjandi krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málavextir eru raktir í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram réði áfrýjandi stefndu árið 1984 forstöðumann leikskólans í Grindavík. Árið 1991 gerði áfrýjandi nýjan ráðningarsamning við stefndu og var þá tekið inn í samninginn nýtt ákvæði um að hún fengi greidda 30 fasta yfirvinnutíma mánaðarlega. Þeim tímum mun hafa verið fjölgað í 40 á árinu 1996 og í 50 árið 1999. Ráðningarsamningurinn var endurnýjaður 7. apríl 2004 og voru fastar yfirvinnustundir enn 50 talsins. Fram kemur á launaseðlum stefndu að greiðslur vegna fastrar yfirvinnu voru inntar af hendi mánaðarlega alla mánuði ársins.

Með bréfi 20. júní 2000 sendi Samband íslenskra sveitarfélaga erindi til „allra sveitarfélaga”, þar á meðal áfrýjanda. Tilefnið var dómur Hæstaréttar í máli nr. 473/1999 frá 11. maí 2000, en í því máli var fallist á kröfu starfsmanns tiltekins sveitarfélags um greiðslu orlofs á fasta yfirvinnu hans. Í bréfinu segir meðal annars: „Niðurstaða Hæstaréttar var sú að talið var ósannað að aðilar hefðu samið svo um að orlofslaun væru innifalin í greiðslum fyrir yfirvinnu. ... Það má hins vegar læra af þessum dómi að nauðsynlegt er að það komi skýrt fram í samningi um fasta yfirvinnu að með greiðslu hennar í 12 mánuði sé orlof innifalið í greiðslunum svo komast megi hjá málaferlum sem þessum. Niðurstaða undirritaðs er því sú að dómur þessi hafi ekki almennt fordæmisgildi gagnvart öðrum sem svipað er ástatt um. Hins vegar er ljóst að allar líkur eru á því að sönnunarbyrði í þessum efnum hvíli á vinnuveitanda og því mikilvægt að þeir tryggi sér sönnun um þetta efni með skýrum ákvæðum í ráðningarsamningum.” Eins og fyrr segir var ráðningarsamningur áfrýjanda endurnýjaður 7. apríl 2004 og greiðsla vegna yfirvinnu stefndu þar tilgreind 50 fastir yfirvinnutímar á mánuði. Ekkert var þar fjallað um hvernig fara skyldi með greiðslu orlofs af föstu yfirvinnunni og það þrátt fyrir tilmæli í fyrrgreindu bréfi til áfrýjanda 20. júní 2000. 

Áfrýjandi reisir kröfu sína um sýknu á því að stefnda hafi fengið greidd án vinnuframlags jafnhá mánaðarlaun á orlofstímabili og með þeim hætti uppfyllt skyldu sína um greiðslu orlofs samkvæmt 7. gr. laga nr. 30/1987 um orlof. Með hinum mánaðarlegu föstu yfirvinnutímum hafi hann meira að segja greitt stefndu umfram þá skyldu, sem á árinu 2004 hafi numið 14.121 krónu. Fjármálastjóri áfrýjanda sagði aðspurður fyrir dómi um hvernig orlofsgreiðslu væri háttað á fasta yfirvinnu stefndu og annarra yfirmanna áfrýjanda að hún væri greidd „jafnhliða dagvinnukaupi í orlofi, sem sagt yfirvinnan sem greidd er í orlofi er orlofsgreiðsla.“ Áfrýjandi byggir kröfu sína jafnframt á því að stefnda hafi lýst því yfir að ekki væri um hreina launauppbót á launagreiðslur að ræða, heldur ynni hún því sem næst 50 yfirvinnustundir á mánuði. Er þessu til stuðnings vísað til minnisblaðs af fundi stefndu og forsvarsmanna áfrýjanda 17. maí 2005 um ágreiningsefni máls þessa, en þar segir meðal annars: „Fram kom í máli Petrínu að hún teldi sig vera skila allt að 50 klst. á mánuði í yfirvinnu, hún liti þannig ekki á föstu yfirvinnuna sem kaupauka. Jafnframt kom fram hjá Petrínu að hún hefur þurft að sinna verkefnum þrátt fyrir að vera í orlofi. (Ekki kom fram að hún teldi þau verk vera sinnt í yfirvinnu). Petrína ósammála.” Fyrir dómi sagðist stefnda alltaf hafa litið á föstu mánaðarlegu yfirvinnugreiðslurnar sem fyrirkomulagsatriði og að hluta til væri um að ræða laun vegna stjórnunarstarfa hennar og að þeim væri dreift á 12 mánuði. Ekki hafi verið fylgst með því hversu mikla yfirvinnu hún hafi innt af hendi. Í starfslýsingu í ráðningarsamningi hennar og áfrýjanda frá 21. janúar 1991 kemur meðal annars fram að hún skuli hafa eftirlit með nafngreindu dagmæðraheimili og vera félagsmálafulltrúa innan handar í öðru dagmæðraeftirliti.

Þegar framangreint er virt þykir í ljós leitt að í ráðningarsamningi áfrýjanda og stefndu 7. apríl 2004 hafi falist samkomulag um fasta yfirvinnutíma óháða vinnuframlagi stefndu, enda hefur sú skýring stoð í orðalagi samningsins. Ummæli sem eftir henni eru skráð á áðurnefndum fundi með forsvarsmönnum áfrýjanda breyta hér engu. Sönnunarbyrðin um að tekið hafi verið tillit til orlofs á fasta yfirvinnu í ráðningarsamningum aðila hvílir á áfrýjanda, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 473/1999 frá 11. maí 2000. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1987 skulu orlofslaun reiknast af heildarlaunum og sérstaklega skráð á launaseðli. Þar sem ekkert var kveðið á um orlof stefndu ofan á fasta yfirvinnutíma hennar, hvorki á launaseðlum né í umræddum ráðningarsamningum, og það þrátt fyrir sérstök tilmæli til áfrýjanda um það í áðurnefndu bréfi 20. júní 2000, verður fallist á með stefndu að ekki hafi verið tekið tillit til orlofs á fasta yfirvinnu í ráðningarsamningum aðila sem hér eru til umfjöllunar. Ekki er lengur umdeilt að hlutfall orlofs af launum hennar skuli vera 13,04%.

Áfrýjandi ber fyrir sig tómlæti stefndu við að halda fram rétti sínum. Því er ómótmælt að stefnda hafi leitað til launafulltrúa áfrýjanda eftir að dómur Hæstaréttar í máli nr. 473/1999 gekk 11. maí 2000. Kveðst hún hafa fengið þau svör að sá dómur breytti engu fyrir hana og hún tekið það trúanlegt. Eftir áðurnefndan fund með forsvarsmönnum áfrýjanda 17. maí 2005 sendi stefnda áfrýjanda bréf 20. júní 2005 og krafðist greiðslu orlofs vegna fastrar yfirvinnu. Þeirri kröfu var hafnað 22. september 2005. Í kjölfarið höfðaði stefnda mál þetta á hendur áfrýjanda. Jafnvel þó að nokkur tími hafi liðið áður en hún hafðist nokkuð að verður ekki talið að hún hafi fyrirgert launakröfu sinni á hendur áfrýjanda.

Áfrýjandi reisir varakröfu sína á því að kröfur áfrýjanda sem eru eldri en frá janúar 2002 séu fyrndar með vísan til 14. gr. laga nr. 30/1987, en þar segir að kröfur samkvæmt lögunum fyrnist eftir sömu reglum og kaupkröfur samkvæmt lögum nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Stefnda fellst á niðurstöðu héraðsdóms þess efnis að kröfur hennar fram til 1. maí 2000 séu fyrndar, en mótmælir þeim skilningi áfrýjanda að kröfur eftir það tímamark séu fyrndar. Óumdeilt er að fyrning var rofin með birtingu stefnu 24. janúar 2006. Fyrningarfrestur kaupkrafna er fjögur ár samkvæmt 1. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905. Eftir 3. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1987 skulu áunnin orlofslaun greidd næsta virkan dag fyrir töku orlofs og greiðast miðað við dagvinnutímakaup starfsmanns frá upphafi orlofsárs vegna þess greiðslutímabils. Þó er heimilt eftir 4. mgr. ákvæðisins að semja svo um að tilteknum skilyrðum uppfylltum að orlof sé greitt þeim starfsmönnum sem fá greidd laun mánaðarlega á sama tíma og reglubundnar launagreiðslur eða að orlofsgreiðslur verði jafnharðan lagðar á sérstaka orlofsreikninga. Verður samkvæmt meginreglu 3. mgr. 7. gr. laganna að telja að vangreidd orlofslaun hafi fallið í gjalddaga í lok næsta orlofsárs eftir að krafa stofnaðist. Eru kröfur hennar fyrir 1. maí 2001 því fyrndar. Verður áfrýjandi samkvæmt því dæmdur til að greiða stefndu 744.197 krónur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

          Áfrýjandi, Grindavíkurbær, greiði stefndu, Petrínu Baldursdóttur, 744.197 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 117.495 krónum frá 30. apríl 2002 til 30. apríl 2003, en af 278.326 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2004, en af 443.982 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2005, en af 619.980 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2006, en af 744.197 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

          Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

          Áfrýjandi greiði stefndu 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar og

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Stefnda var launþegi í vinnu hjá áfrýjanda og naut launakjara sem miðuð voru við hvern almanaksmánuð og greidd mánaðarlega. Launin samanstóðu af föstum mánaðarlaunum og fastri viðbót, sem hvíldi á þeim grunni að vinnuskylda stefndu var meiri en nam venjulegri dagvinnu. Nam þessi viðbót endurgjaldi fyrir 50 yfirvinnustundir á mánuði og var greidd mánaðarlega með hinu fasta kaupi án þess að yfirvinna hennar hvern mánuð væri sérstaklega mæld. Í málinu er enga stoð að finna fyrir þeim skilningi stefndu að samið hafi verið við hana um greiðslu álags á fast kaup hennar sem jafngilti 600 yfirvinnustundum á ári og greiðslu þess dreift með eins konar afborgunum á 12 mánuði ársins, en dómur Hæstaréttar í máli nr. 473/1999 á bls. 1874 í dómasafni árið 2000, sem meiri hluti dómara vísar til, var sýnilega byggður á þeirri forsendu að svo hefði verið samið við þann launþega sem þar átti hlut að máli. Aðrir starfsmenn áfrýjanda munu ekki hafa fengið orlofsgreiðslur með þeim hætti sem stefnda krefst í málinu.

Óumdeilt er að stefnda tók sér orlof þau ár sem krafa hennar tekur til. Einnig er óumdeilt að í orlofi naut hún óskertra þeirra launa sem að framan eru greind. Þar með voru að fullu gerð upp við hana þau orlofslaun sem hún átti rétt til, enda greiðast orlofslaun ekki af orlofslaunum, sbr, 5. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1987 um orlof. Leiðir þetta að okkar áliti til þess að sýkna ber áfrýjanda af kröfu stefndu og dæma hana til að greiða áfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                              

 

                             Dómur Héraðsdóms Reykjaness 24. október 2006.

Mál þetta var þingfest 1. febrúar 2006 og tekið til dóms 26. september sl.

Stefnandi er Petrína Baldursdóttir,  Heiðarhrauni 22, Grindavík en sefndi er Grindavíkurkaupstaður.

Stefnandi krefst þess að stefndi verið dæmdur til að greiða stefnanda vangreidd orlofslaun að fjárhæð kr. 868.590 með dráttarvöxtum af kr. 9.554 frá 01.01.2000 til 01.02.2000, frá þeim degi af kr. 19.108 til 01.03.2000, frá þeim degi af kr. 28.662 til 01.04.2000, frá þeim degi af kr. 38.216 til 01.05.2000, frá þeim degi af kr. 47.770 til 01.06.2000, frá þeim degi af kr. 57.324 til 01.07.2000, frá þeim degi af kr. 66.878 til 01.08. 2000, frá þeim degi af kr. 76.432 til 01.09. 2000, frá þeim degi af kr. 85.986 til 01.10.2000 frá þeim degi af kr. 95.540 til 01.11. 2000, frá þeim degi af kr. 105.094 til 01.12.2000, frá þeim degi af kr.114.648 til 01.01.2001, frá þeim degi af kr. 124.393 til 01.06.2001, frá þeim degi af kr. 137.276 til 01.07.2001, frá þeim degi af kr. 150.159 til 01.08.2001, frá þeim degi af kr. 163.042 til 01.09.2001, frá þeim degi af kr. 175.925 til 01.12. 2001, frá þeim degi af kr. 188.808 til 01.01.2002, frá þeim degi af kr. 202.078 til 01.02.2002, frá þeim degi af kr.215.348 til 01.03.2002, frá þeim degi af kr. 228.618 til 01.04.2002, frá þeim degi af kr. 241.888 til 01.05. 2002, frá þeim degi af kr. 255.158 til 01.06.2002, frá þeim degi af kr. 268.428 til 01.07. 2002, frá þeim degi af kr. 281.698 til 01.08. 2002, frá þeim degi af kr. 294.968 til 01.09. 2002, frá þeim degi af kr. 308.238 til 01.10.2002, frá þeim degi af kr. 321.508 til 01.11.2002, frá þeim degi af kr. 334.778 til 01.12.2002, frá þeim degi af kr.348.048 til 01.01.2003, frá þeim degi af kr. 361.716 til 01.02. 2003, frá þeim degi af kr. 375.384 til 01. 03. 2003, frá þeim degi af kr. 389.052 til 01.04. 2003, frá þeim degi af kr. 402.720 til 01.05.2003, frá þeim degi af kr. 416.388 til 01.06.2003, frá þeim degi af kr. 430. 056 til 01.07.2003, frá þeim degi af kr. 443.724 til 01.08.2003, frá þeim degi af kr. 457.392 til 01.09.2003, frá þeim degi af kr. 471. 060 til 01.10. 2003, frá þeim degi af kr. 487.728 til 01.11.2003, frá þeim degi af kr.498.396 til 01.12.2003, frá þeim degi af kr. 512.064 til 01.01.2004, frá þeim degi af kr. 526.142 til 01.02.2004, frá þeim degi af kr. 540.220 til 01.03.2004, frá þeim degi af kr. 554.298 til 01.04.2004, frá þeim degi af kr. 568.376 til 01.05.2004, frá þeim degi af kr. 582.454 til 01.06.2004, frá þeim degi af kr. 596.532 til 01.07.2004, frá þeim degi af kr. 610.821 til 01.08.2004, frá þeim degi af kr. 625.110 til 01.09.2004, frá þeim degi af kr. 639.399 til 01.10.2004, frá þeim degi af kr.653.655 til 01.11.2004, frá þeim degi af kr. 667.977 til 01.12.2004, frá þeim degi af kr.682.266 til 01.01.2005, frá þeim degi af kr. 697.793 til 01.02.2005, frá þeim degi af kr. 713.320 til 1.03.2005, frá þeim degi af kr. 728.847 til 01.04.2005, frá þeim degi af kr. 744.374 til 01.05.2005, frá þeim degi af kr. 759.901 til 01.06. 2005, frá þeim degi af kr.775.428 til 01.07.2005, frá þeim degi af kr. 790.955 til 01.08. 2005, frá þeim degi af kr.806.482 til 01.09. 2005, frá þeim degi af kr. 822.009 til 01.10. 2005 frá þeim degi af kr. 837.536 til 01.11.2005, frá þeim degi af kr. 853.063 til 01.12. 2005, frá þeim degi af kr. 868.590. til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Málskostnaðar er krafist í báðum tilvikum.

                                                                                  I.

   Í  málinu er deilt um hvort greiða eigi orlof á svokallaða fasta yfirvinnu en stefnandi fær greiddan ákveðinn tímafjölda á mánuði alla mánuði ársins burtséð frá því hvort hún er í sumarfríi eða hvort hún vinnur umsamdan tímafjölda að öllu leyti.

   Stefnandi hóf störf hjá stefnda 15. ágúst 1984 sem forstöðumaður leikskóla en hún er lærður leikskólakennari. Hún vinnur ennþá hjá stefnda. Þann 21. janúar 1991 var ráðningarsamningur hennar endurnýjaður og var þá samið við hana um 30 fastar yfirvinnustundir á mánuði. Á árinu 1999 var samið við stefnanda um að yfirvinnustundir yrðu 50 talsins á mánuði og var það vegna aukinna verkefna vegna skipulagsbreytinga. Þetta fyrirkomulag var staðfest með ráðningarsamningi sem gerður var árið 2004. Samkvæmt þeim samningi gegnir stefnandi nú stöðu leikskólastjóra við leikskólann Laut í Grindavík.

Stefnandi eignaðist barn 7. janúar 2001 og fékk greidd laun frá stefnda í janúar það ár en fór síðan í fæðingarorlof út maí 2001. Hún vann júní til september 2001 og fór aftur í fæðingarorlof í október og nóvember 2001.

Stefnandi segir að eftir dóm Hæstaréttar í málinu 473/1991, sem kveðinn var upp 11. maí 2000, hafi flest sveitarfélög farið að greiða orlof ofan á fasta yfirvinnu. Stefnandi kvaðst þá hafa rætt við launafulltrúa stefnda sem hafi sagt henni að þáverandi bæjarstjóri og þáverandi fjármálstjóri bæjarins hefðu rætt þessi mál og væri niðurstaða þeirra að stefnandi ætti ekki rétt á orlofi ofaná fasta yfirvinnu. Stefnandi kvaðst hafa tekið þessi orð trúanleg og ekki gert neitt frekar í málinu.

   Við gerð kjarasamnings Félags leikskólakennara í mars 2005 hafi verið gerður svokallaður fastlaunasamningur við leikskólastjóra. Í aðdraganda þessarar samningsgerðar hafi forysta félagsins sent út tölvupóst til leikskólastjóra um helstu atriði væntanlegs fastlaunasamnings. Þá hafi hún rekið augun í að gert hafi verið ráð fyrir orlofi á fasta yfirvinnu. Hún hafi spurt varaformann félagsins um þetta og fengið þau svör að eftir áðurnefndan dóm Hæstaréttar árið 2000 væri það almenn regla hjá sveitarfélögum að greiða orlof á fasta yfirvinnu. Þá hafi hún áttað sig á því að brotið hefði verið á henni réttur á þessu leyti.

   Stefnandi sagði að það hafi ekki komið til umræðu er hún hafi gert samning við stefnda 1991 og 1999 hvort orlof væri innifalið í fastri yfirvinnu eða ekki.

   Fundur var haldinn með aðilum 17. maí 2005 þar sem stefnandi var mættur ásamt bæjarstjóra og fjármálastjóra. Bókað var m.a:

„Bæjarstjóri fór yfir afstöðu bæjaryfirvalda til málsins. Það er skilningur bæjaryfirvalda að öll orlofslaun hjá forstöðumönnum Grindavíkurbæjar, bæði vegna fastra mánaðarlauna og fastra yfirvinnu, eru greidd í því formi að sömu laun eru greidd í orlofi og aðra mánuði. Það kom fram að allir aðrir forstöðumenn hjá Grindavíkurbæ, nema Petrína, hafa skrifað undir yfirlýsingu þess efnis að þeir líti svo á að skyldu til greiðslu orloflauna ofan á yfirvinnu sé fullnægt með því að greidd er sama yfirvinna í orlofi.

Fram kom í máli Petrínu að hún teldi sig vera skila allt að 50 klst. á mánuði í yfirvinnu, hún liti þannig ekki á föstu yfirvinnuna sem kaupauka. Jafnframt kom fram hjá Petrínu að hún hefur þurft að sinna verkefnum þrátt fyrir að vera í orlofi. (Ekki koma fram að hún teldi þau verk vera sinnt í yfirvinnu.) Petrína ósammála.

 Fram kom hjá Petrínu að þegar farið var að tala um fastlaunasamning þá hafi hún fengið útreikning frá sínu félagi og í þeim útreikningi var reiknað orlof ofaná föstu yfirvinnuna. Þegar hún fór að kanna málið hjá sínum kollegum þá sagði hún að þeir fengju reiknað orlof ofan á alla fasta yfirvinnu, líka þá yfirvinnu sem greidd væri í orlofi. Fram kom reyndar að svo eigi ekki við um Reykjanesbæ né Árborg. Petrína taldi það réttindamál að hún fengi líka orlof ofan á föstu yfirvinnuna eins og kollegar hennar þar sem um sama kjarasamning væri að ræða og sömu lög.“

Með bréfi lögmanns stefnanda 20. júní 2005 var stefndi krafinn orlofsgreiðslna en með bréfi lögmanns stefnda 22. september 2005 var kröfum stefnanda hafnað.

                                                                                  II.

Stefnandi byggir á því að hún hafi allt frá árinu 1999 fengið 50 fastar yfirvinnustundir á mánuði til viðbótar við föst laun hennar sem leikskólastjóri hjá stefnda. Þetta sé yfirborgun á laun sem dreift sé á 12 mánuði ársins. Stefnda beri sem launagreiðandi að greiða orlof ofan á laun starfsmanna sinna. Föst yfirvinna í formi greiðslu á 50 klst. á mánuði sé laun og falli þannig undir meginreglu 1. gr. orlofslaga nr. 30/1987 þar sem segi að allir þeir, sem starfi í þjónustu annarra gegn launum, hvort sem þau séu greidd í peningum eða öðrum verðmætum,  eigi rétt á orlofi og orlofslaunum.

Þá byggir stefnandi einnig á því að samkvæmt 7. gr. orlofslaga eigi orlofslaun að reiknast af heildarlaunagreiðslum starfsmanns. Yfirvinnugreiðslur séu hluti af heildarlaunagreiðslum starfsmanns. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. orlofslaga sé óheimilt að hafa þennan rétt af starfsmönnum.

Þá heldur stefnandi því fram að aldrei hafi verið gerður samningur þess efnis að orlof hafi verið innifalið í yfirvinnugreiðslum hennar. Það hafi staðið stefnda nær að tryggja sér sönnun fyrir slíkum samningi enda eigi laun og launakjör að vera skýr. Stefnandi telur að við gerð hins nýja ráðningarsamnings 2004 hafa verið full ástæða af hálfu stefnda  að kveða á um að orlof væri innifalið í fastri yfirvinnu ef hann á annað borð taldi slíkt fyrirkomulag vera við lýði. Það hafi stefndi hins vegar ekki gert.

Þá vísar stefnandi til tilskipunar EBE nr. 91/553 þar sem sú skylda sé lögð á vinnuveitanda að skýra frá öllum ráðningarskilmálum og taka þannig af allan vafa um laun og launakjör launþegans hverju sinni. Það hafi stefndi hins vegar ekki gert og verði að skoðast honum í óhag.

Samkvæmt kjarasamningi stéttarfélaga stefnanda og launaseðlum hennar sé orlofsprósenta hennar 13.04. Stefnda beri að greiða orlofslaun ofan á greidda yfirvinnu í samræmi við þá prósentu. Þá vísar stefnandi til greinar 4.2.1 í kjarasamningi Félags leikskólakennara og Launanefnda sveitarfélaga um orlof og orlofsprósentu. Þá vitnar stefnandi einnig til almennra reglna kröfuréttar.

Stefnandi sundurliðar dómkröfu sína þannig:

„Krafið er um vangreidd orlofslaun fyrir árin 2000 til og með 2005. Krafan er þannig fundin að tekin eru 13.04% af greiðslu fyrir yfirvinnutíma eins og hann er fyrir hvern mánuð. Þannig eru orlofslaun fyrir hvert ár fyrir sig eftirfarandi: Árið 2000 gera 50 yfirvinnustundir kr. 73.264. Orlof af þeirri fjárhæð er kr. 9.554 í 12 mánuði á því ári. Samtals árið 2000 kr. 114.648. Árið 2001 er stefnandi með sama yfirvinnustundafjölda, en fær greidd laun í 6 mánuði. Miðað við mánaðarlaun í janúar það ár eru 50 yfirvinnustundir kr. 74.729.  Orlof fyrir þann mánuð kr. 9.745. Greiðsla fyrir yfirvinnustundir aðra mánuði ársins er kr. 98.799 og orlof því kr. 12.883 í 5 mánuði. Samtals árið 2001 kr. 74.160. Árið 2002 nemur greiðsla fyrir 50 yfirvinnustundir kr. 101.763 og orlof af þeirri fjárhæð kr. 13.270 í 12 mánuði eða samtals kr. 159.240. Árið 2003 nemur greiðsla fyrir 50 yfirvinnustundir kr. 104.816 og nemur orlof af þeirri greiðslu kr. 13.668 í 12 mánuði eða samtals kr. 164.256. Árið 2004 nemur greiðsla fyrir 50 yfirvinnustundir kr. 107.960 fyrir mánuðina janúar til og með júní það ár. Orlof af þeirri fjárhæð nemur kr. 14.078 í 6 mánuði eða kr. 84.468. Frá júlí til og með desember það sama ár nemur orlofið kr. 14.289 í 6 mánuði eða kr. 85.734. Samtals fyrir árið 2004 kr. 170.202.  Árið 2005 nemur greiðsla fyrir 50 yfirvinnustundir kr. 109.580 fyrir tímabilið janúar til og með maí það ár og orlof af þeirri fjárhæð kr. 15.527 í 5 mánuði eða samtals kr. 77.635. Fyrir tímabilið júní út desember það sama ár nemur orlof kr. 15.527 á mánuði í 7 mánuði eða kr. 108.689 eða samtals fyrir árið 2005  kr. 186.324. Samtals fyrir árin 2000-2005  kr. 868.830.“

                                                                                  III.

Stefndi bendir á að stefnandi hafi lýst því yfir á fundi með bæjarstjóra og fjármálstjóra 17. maí 2005 að hún líti ekki svo á að um „fasta“ yfirvinnutíma sé að ræða heldur greiðslu fyrir yfirvinnu sem raunverulega hafi verið unnin. Greiðsla yfirvinnutímanna sé því ekki hrein uppbót á laungreiðslu hennar sem dreift sé jafn yfir 12 mánaða tímabil heldur vinni stefnandi því sem næst 50 klst. yfirvinnu á mánuði.

Stefndi byggir á því að hann hafi með engu móti brotið gegn lögum, ákvæðum kjarasamninga eða ráðningarsamningi við stefnanda, eins og haldið sé fram í málinu.

Samkvæmt 1. gr. laga um orlof nr. 30/1987 skuli greiða öllum launþegum orlofslaun. Orlof skuli vera tveir dagar fyrir hvern unnin mánuð, sbr. 3. gr. laganna. Samkvæmt 7. gr. laganna sé unnt að greiða orlof  með þrennum hætti, næsta virka dag fyrir töku orlofsins (3. mgr.), á sama tíma og reglulegar launagreiðslur fari fram eða inn á sérstakan orlofsreikning (4. mgr.). Samkvæmt 5. mgr. reiknist ekki orlofslaun af orlofslaunum. Tilgangur laganna sé sá að starfsmaður missi einskis í launakjörum sínum þann tíma sem hann sé í orlofi. Launakjör hans séu því þau sömu þann tíma ársins sem starfsamaður skili vinnuframlagi og þann tíma sem hann sé í orlofi. Af þessum sökum sé orlofsfé greitt af heildarlaunum starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr. Á þessari grundvallarreglu byggist launakjör stefnanda. Hún njóti fastrar greiðslu fyrir hvern unninn mánuð sem saman standi af dagvinnulaunum og greiðslum vegna yfirvinnu. Orlofsmánuðinn njóti stefnandi nákvæmlega sömu kjara en án nokkurs vinnuframlags. Þannig séu uppfyllt öll ákvæði laga nr. 38/1987 svo og ákvæði kjarasamninga og ráðningarsamninga aðila.

Ekki sé unnt að finna skynsamlega ástæðu fyrir því af hverju gera eigi greinarmun á greiðslu fyrir dagvinnu stefnanda og yfirvinnu að þessu leyti. Sem yfirmaður leikskóla verði stefnandi að inna af hendi vinnuframlag sem nemi meiru en venjuleg dagvinna. Fyrir það fái hún að sjálfsögðu greitt og séu laun hennar hærri fyrir hverja einingu sem unnin sé í yfirvinnu en dagvinnu.

Á laun stefnanda sé greitt orlof  eins og lög geri ráð fyrir. Enginn greinarmunur sé gerður á því hvort þær fjárhæðir, sem stefnandi fái greiddar um hver mánaðarmót, séu samsettar úr greiðslum fyrir dagvinnu eða yfirvinnu. Stefnandi njóti einfaldlega réttar til greiðslu orlofs af launum. Sá réttur sé svo greiddur stefnanda við töku orlofsins. Þannig fái hún nákvæmlega sömu laun í orlofi og hún fái fyrir fulla vinnu.

Engin rök séu færð fyrir því að tvígreiða beri stefnanda orlof af yfirvinnutíma. Við orlofstöku vinni stefnandi ekki 50 klst. í yfirvinnu en fái samt sem áður jafnháa greiðslu. Sú greiðsla sé orlofsfé stefnanda. Ef fallist verði á kröfu stefnanda fái stefnandi orlofsfé tvígreitt auk þess sem brotið sé þá gegn 5. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1987.        

Stefndi hafnar því að yfirvinnugreiðslur stefnanda séu einhvers konar fyrirkomulagsatriði. Grundvallarmunur sé á greiðslum vegna yfirvinnu stefnanda þann tíma ársins sem hún sé við störf og hins vegar orlofsgreiðslum. Stefnandi hafi vinnuskyldu þá mánuði sem hún sé við störf  og vinni þá því sem næst 50 klst. yfirvinnu á mánuði. Fyrir það fái hún greidd samningsbundin laun. Þegar stefnandi sé í orlofi hvíli hins vegar ekki vinnuskylda á henni og njóti hún þá greiðslna af orlofsfé sínu. Grundvallarmunur sé á þessum greiðslum. Rétt til greiðslu vegna yfirvinnu njóti stefnandi samkvæmt ráðningarsamningi sínum gegn vinnuframlagi. Réttar til greiðslu til orlofslauna, jafnháum mánaðarlaunum, njóti hún hins vegar samkvæmt lögum nr. 30/1987.

Allir starfsmenn stefnda hafi undirritað samkomulag sem staðfesti framangreint. Stefndi byggir á því að stefnandi beri fulla sönnunarbyrði fyrir því að um ráðningarsamning hennar gildi önnur sjónarmið en að framan greinir.

Þá byggir stefndi á því að ráðningarsamningur aðila hafi verið skýrður og framkvæmdur með þeim hætti sem að framan sé lýst í áratugi án nokkurra athugasemda eða mótmæla af hálfu stefnanda. Stefnandi geti því ekki sett nú fram kröfur um breytingar. Fyrri samningar séu að fullu upp gerðir. Samningssamband aðila hafi hafist árið 1984. Árið 1991 hafi verið gerður samningur við stefnanda þar sem gert hafi verið ráð fyrir launagreiðslum vegna yfirvinnu. Þá þegar hafi stefnandi átt að gera athugasemdir við framkvæmd samningsins ef hún hafi talið sig eiga rétt  á frekari greiðslu orlofsfjár vegna yfirvinnu. Aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við framkvæmd samningsins frá 1991. Nýr ráðningarsamningur hafi verið gerður við stefnanda árið 2004. Þá hafi legið fyrir dómafordæmi Hæstaréttar og Félagsdóms í málum er vörðuðu svipaðar kröfur og stefnandi hafi nú uppi á hendur stefnda. Samt hafi verið samið um ný kjör á þeim sama grundvelli og verið hafði og í engu hreyft kröfum eða mótmælum af hálfu stefnanda vegna greiðslu orlofsfjár. Samningurinn frá 2004 hafi því verið gerður á sama grunni og samningurinn 1991. Þar af leiðandi sé ekki nokkur vafi á forsendum og skilningi aðila um efni samningsins að þessu leyti.

Í málarekstri sínum hafi stefnandi byggt rétt sinn á dómi Hæstaréttar í málinu nr. 473/1999, sem kveðinn hafi verið upp 11. maí 2000, 4 árum áður en ráðningarsamningur stefnda og stefnanda hafi verið endurnýjaður. Stefnandi hafi því haft fullt tilefni til að hreyfa sjónarmiðum sínum við samningsgerðina en það hafi hún hins vegar ekki gert og verði að bera hallan af því tómlæti.

Stefndi mótmælir því að framangreindur dómur hafi fordæmisgildi í málinu enda málsatvik um margt ólík og málsástæður aðila aðrar.

Í þau 22 ár sem stefnandi hafi starfað hjá stefnda, þar af öll þau 15 ár sem hún hafi fengið greidd laun fyrir yfirvinnu, hafi uppgjörsgögn og launaseðlar alltaf borið með sér að um væri að ræða fullnaðaruppgjör á orlofsgreiðslum. Endurnýjun ráðningarsamnings á tímabilinu, án nokkurra athugasemda við fyrri framkvæmd, styrki enn frekar þá niðurstöðu að fullnaðaruppgjör orlofsfjár hafi þegar farið fram.

   Skýringarlaus dráttur á að setja fram kröfu feli í sér bindandi afstöðu til efnis samnings aðila. Stefnandi verði að bera hallan af því.

   Varakröfu sína styður stefndi þeim rökum að fallist dómurinn ekki á sýknuástæðu stefnda beri að lækka kröfu stefnanda.

   Samkvæmt 14. gr. laga nr. 30/1987 fyrnist kröfur á grundvelli laganna eftir sömu reglum og kaupkröfur samkvæmt fyrningarlögum nr. 14/1905. Samkvæmt 3. gr. þeirra laga fyrnist kaupkröfur á 4 árum. Fyrningarfrestur kröfu stefnanda hafi ekki verið rofinn fyrr en með birtingu stefnu í janúar 2006. Allar kröfu stefnanda eldri en frá janúar 2002 séu því fyrndar. Krefst stefndi lækkunar á kröfu stefnanda í samræmi við það.

             Dómkröfur stefnanda séu reistar á þeirri forsendu að orlofsgreiðslur hennar nemi 13.04% af launum hennar. Það sé hærra en lágmark 2. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1987. Ekki sé rökstutt í stefnu eða gögnum málsins að umrætt hlutfall hafi verið hluti af samningi stefnda og stefnanda allan þann tíma sem krafa stefnanda taki til. Gerir stefndi kröfu um lækkun á kröfu stefnanda vegna þessa og krefst þess að miðað sé við lágmark 2. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1987. Sönnunarbyrði um annað hvíli á stefnanda.

             Dráttarvaxtakrafa stefnanda sé ekki skýrð í stefnu. Vextir eldri en 4 ára frá málshöfðun séu fyrndir. Stefndi mótmælir einnig dráttarvaxtakröfu stefnanda frá fyrra tímamarki en dómuppsögudegi, meðal annars vegna tómlætis stefnanda við að halda fram kröfu sinni.

IV.

             Stefnandi hefur starfað sem leikskólastjóri hjá stefnda frá 1984 og starfar þar enn. Þann 21. janúar 1991 var ráðningarsamningur hennar endurnýjaður og samið svo um að henni yrðu greiddir 30 fastir yfirvinnutímar á mánuði. Á árinu 1999 var yfirvinnutímum fjölgað í 50 á mánuði vegna aukinna verkefna. Sérstakur ráðningarsamningur var gerður á árinu 2004 þar sem þetta fyrirkomulaga var staðfest.

             Stefnanda hafa verið greiddar umræddar yfirvinnustundir 12 mánuði ársins og einnig þegar hún er í orlofi. Hún þarf ekki að gera sérstaka grein fyrir yfirvinnu á hverjum tíma heldur var samið um svokallaða fasta yfirvinnu.

             Stefnandi hefur ekki fengið greitt orlof á hina föstu yfirvinnu og gerir kröfu um það í málinu. Stefndi lítur aftur á móti svo á að orlof sé innifalið í umsömdum tímafjölda enda fái stefnandi greidda yfirvinnu í þeim mánuði sem hún taki orlof enda þótt ekkert vinnuframlag komi á móti. Heldur stefndi því fram að stefnandi fengi orlof sitt tvígreitt yrðu kröfur hennar teknar til greina í málinu.

             Talið verður að sönnunarbyrðin hvíli á stefnda fyrir þeirri staðhæfingu hans að tekið hafi verið tillit til orlofs í samningum aðila og tímafjöldi ákveðinn hærri sem því nemur. Þeirri staðhæfingu verður ekki fundinn staður í þeim skriflegu gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu svo sem launaseðlum og samningum aðila. Gegn andmælum stefnanda telst þessi fullyrðing stefnda því ósönnuð. Breytir engu þó aðrir starfsmenn hafi fallist á sjónarmið stefnda og undirritað yfirlýsingu þess efnis.        Fram hefur komið í málinu að það eru einungis starfsmenn stefnda í stjórnunarstörfum sem njóta þeirra kjara að fá geidda fasta yfirvinnu. Telja verður að það hafi fyrst og fremst verið fyrirkomulagsatriði að dreifa þessum kaupauka á alla mánuði ársins.

             Samkvæmt 1. gr. orlofslaga nr. 30/1987 eiga allir þeir sem starfa í þjónustu annarra gegn launum, hvort sem þau eru greidd í peningum eða öðrum verðmætum, rétt á orlofi og orlofslaunum. Samningur um minni rétt til handa launþegum en lög þessi ákveða er ógildur, sbr. 2. mgr. 2. gr. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. er það meginregla orlofslaga að greiða skuli orlof á heildarlaun. Samkvæmt framansögðu hefur stefnandi ekki fengið greitt orlof samkvæmt þessari meginreglu orlofslaga.

             Stefndi ber fyrir sig tómlæti stefnanda við að halda fram rétti sínum. Því er haldið fram að hálfu stefnanda, sem stefndi hefur ekki mótmælt, að stefnandi hafi leitað til þáverandi forsvarsmanna stefnda eftir að dómur Hæstaréttar í málinu nr. 473/1999 gekk þann 11. maí 2000 og spurt um rétt sinn til orlofs á yfirvinnu. Hafi hún fengið þau svör að sá dómur breytti engu fyrir hana og lét hún við svo búið standa.

             Samningur um minni rétt til handa launþega er ógildur, sbr. 2. mgr. 2. gr. orlofslaga. Því verður litið svo á að tómlæti stefnanda við að halda fram rétti sínum skipti ekki máli þar sem um lögbundin lágmarksréttindi var að ræða, réttindi sem óheimilt var að semja sig undan. Stefnandi vakti athygli stefnda á þessum rétti sínum en fylgdi málinu ekki frekar eftir í bili. Þó dregist hafi hjá stefnanda að setja fram kröfur vegna orlofsréttar síns, verður ekki talið samkvæmt framsögðu, eins og hér háttar, að sá dráttur hafi getið losað stefnda undan þeirra lagaskyldu sem á stefnda hvíldi samkvæmt orlofslögum, umfram það sem fellst í ákvæðum laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.

             Krafa stefnda um orlof á fasta yfirvinnu verður því tekin til greina.

             Samkvæmt kjarasamningi launanefndar sveitarfélaga og Félags íslenskra leikskólakennara, gr. 4.2.1, er orlofsprósenta stefnda 13.04.

             Deilt er um vexti og fyrningu. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 30/1987 fyrnist krafa á hendur vinnuveitanda samkvæmt lögunum eftir sömu reglum og gilda um kaupkröfur samkvæmt lögum nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Samkvæmt 1. tl. 3. gr. þeirra laga er fyrningarfrestur kaupkrafna 4 ár. Samkvæmt dómi Hæstaréttar nr. 83/2000 fellur krafa til orlofs í gjalddaga í lok næsta orlofsárs eftir að krafan stofnast. Fyrningarfrestur kröfu stefnanda var rofinn með birtingu stefnu 24. janúar 2006. Samkvæmt framansögðu teljast því kröfur stefnanda um orlof fyrndar sem taka til janúar til apríl 2000. Að öðru leyti verða kröfur stefnanda teknar til greina og greiðast vextir eftir ákvæðum 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

             Niðurstaða málsins verður því sú að stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda 830.374 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

             Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 400.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.

             Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

                                                          DÓMSORÐ:

Stefndi, Grindarvíkurkaupstaður, greiði stefnanda, Petrínu Baldursdóttur, 830.374,00, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af kr. 9.554,00 frá 01.05.2000 til 01.06.2000, af kr. 19.108,00 frá 01.06.2000 til 01.07.2000, af kr. 28.662,00 frá 01.07.2000 til 01.08.2000, af kr. 38.216,00 frá 01.08.2000 til 01.09.2000, af kr. 47.770,00 frá 01.09.2000 til 01.10.2000, af kr. 57.324,00 frá 01.10.2000 til 01.11.2000, af kr. 66.878,00 frá 01.11.2000 til 01.12.2000, af kr. 76.432,00 frá 01.12.2000 til 03.01.2001, af kr. 86.177,00 frá 03.01.2001 til 01.06.2001, af kr. 99.060,00 frá 01.06.2001 til 02.07.2001, af kr. 111.943,00 frá 02.07.2001 til 01.08.2001, af kr. 124.826,00 frá 01.08.2001 til 03.09.2001, af kr. 137.709,00 frá 03.09.2001 til 03.12.2001, af kr. 150.592,00 frá 03.12.2001 til 03.01.2002, af kr. 163.862,00 frá 03.01.2002 til 01.02.2002, af kr. 177.132,00 frá 01.02.2002 til 01.03.2002, af kr. 190.402,00 frá 01.03.2002 til 02.04.2002, af kr. 203.672,00 frá 02.04.2002 til 02.05.2002, af kr. 216.942,00 frá 02.05.2002 til 03.06.2002, af kr. 230.212,00 frá 03.06.2002 til 01.07.2002, af kr. 243.482,00 frá 01.07.2002 til 01.08.2002, af kr. 256.752,00 frá 01.08.2002 til 02.09.2002, af kr. 270.022,00 frá 02.09.2002 til 01.10.2002, af kr. 283.292,00 frá 01.10.2002 til 01.11.2002, af kr. 296.562,00 frá 01.11.2002 til 02.12.2002, af kr. 309.832,00 frá 02.12.2002 til 03.01.2003, af kr. 323.500,00 frá 03.01.2003 til 03.02.2003, af kr. 337.168,00 frá 03.02.2003 til 03.03.2003, af kr. 350.836,00 frá 03.03.2003 til 01.04.2003, af kr. 364.504,00 frá 01.04.2003 til 02.05.2003, af kr. 378.172,00 frá 02.05.2003 til 02.06.2003, af kr. 391.840,00 frá 02.06.2003 til 01.07.2003, af kr. 405.508,00 frá 01.07.2003 til 01.08.2003, af kr. 419.176,00 frá 01.08.2003 til 01.09.2003, af kr. 432.844,00 frá 01.09.2003 til 01.10.2003, af kr. 446.512,00 frá 01.10.2003 til 03.11.2003, af kr. 460.180,00 frá 03.11.2003 til 01.12.2003, af kr. 473.848,00 frá 01.12.2003 til 05.01.2004, af kr. 487.926,00 frá 05.01.2004 til 02.02.2004, af kr. 502.004,00 frá 02.02.2004 til 01.03.2004, af kr. 516.082,00 frá 01.03.2004 til 01.04.2004, af kr. 530.160,00 frá 01.04.2004 til 03.05.2004, af kr. 544.238,00 frá 03.05.2004 til 01.06.2004, af kr. 558.316,00 frá 01.06.2004 til 01.07.2004, af kr. 572.605,00 frá 01.07.2004 til 03.08.2004, af kr. 586.894,00 frá 03.08.2004 til 01.09.2004, af kr. 601.183,00 frá 01.09.2004 til 01.10.2004, af kr. 615.472,00 frá 01.10.2004 til 01.11.2004, af kr. 629.761,00 frá 01.11.2004 til 01.12.2004, af kr. 644.050,00 frá 01.12.2004 til 04.01.2005, af kr. 659.577,00 frá 04.01.2005 til 01.02.2005, af kr. 675.104,00 frá 01.02.2005 til 01.03.2005, af kr. 690.631,00 frá 01.03.2005 til 01.04.2005, af kr. 706.158,00 frá 01.04.2005 til 01.05.2005, af kr. 721.685,00 frá 01.05.2005 til 01.06.2005, af kr. 737.212,00 frá 01.06.2005 til 01.07.2005, af kr. 752.739,00 frá 01.07.2005 til 01.08.2005, af kr. 768.266,00 frá 01.08.2005 til 01.09.2005, af kr. 783.793,00 frá 01.09.2005 til 01.10.2005, af kr. 799.320,00 frá 01.10.2005 til 01.11.2005, af kr. 814.847,00 frá 01.11.2005 til 01.12.2005, af kr. 830.374,00 frá 01.12.2005 til greiðsludags og kr. 400.000 í málskostnað.