Print

Mál nr. 464/2007

Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Ómerking héraðsdóms
  • Heimvísun

         

Fimmtudaginn 14. febrúar 2008.

Nr. 464/2007.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir, vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.

 Einar Þór Sverrisson hdl.)

 

Kynferðisbrot. Ómerking héraðsdóms. Heimvísun.

X var ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa þröngvað Y til samræðis og annarra kynferðismaka á salerni hótelsins S. Í héraðsdómi var X sýknaður af ákærunni. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að ályktun héraðsdóms um lögskýringu á 194. gr. almennra hegningarlaga fengi ekki staðist í ljósi dómaframkvæmdar Hæstaréttar. Jafnframt var bent á að mat á því hvort X hafi átt að vera ljóst að Y hefði ekki viljað eiga kynmök við hann yrði ekki að réttu lagi reist á þeim grunni að hún hefði ekki verið honum andhverf áður en hún fór inn á salernið. Talið var að niðurstöður héraðsdóms væru ekki reistar á viðhlítandi grunni, en við frekara mat á atriðum, sem hlytu að ráða úrslitum yrði meðal annars að taka mið af sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða og vitna fyrir dómi. Að þessu virtu þótti ekki verða hjá því komist að ómerkja sýknudóm héraðsdóms og vísa málinu heim í hérað til nýrrar aðalmeðferðar og dómsálagningar.

         

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson og Stefán Már Stefánsson prófessor.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. júlí 2007 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum gerð refsing.

Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.

Með ákæru í málinu 31. maí 2007 var ákærða, sem fæddur er 1988, gefið að sök að hafa aðfaranótt 17. mars 2007 þröngvað Y, fæddri 1987, á salerni í kjallara Hótels Sögu í Reykjavík til samræðis og annarra kynferðismaka með því að ýta henni inn á salernisbás og halda henni þar meðan hann hafi komið fram vilja sínum, en hann hafi haft við hana munnmök, sleikt á henni kynfæri, haft við hana samræði og reynt að setja getnaðarlim sinn í endaþarm hennar. Þótti þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og þeim var breytt með 3. gr. laga nr. 61/2007, sbr. áður 194. gr. fyrrnefndu laganna, svo sem þeim hafði verið breytt með 2. gr. laga nr. 40/1992.

Í hinum áfrýjaða dómi er greint í einstökum atriðum frá framburði Y og skýrslum ákærða um atvikin, sem ákæra tekur til, en um sumt er samræmi milli þeirra og um annað misræmi. Þeim ber saman um að leiðir þeirra hafi legið saman í gangi á Hótel Sögu þegar Y hafði farið út úr svonefndum Súlnasal og verið að leita að salerni, en í ganginum hafi ákærði verið fyrir ásamt tveimur eða þremur öðrum mönnum. Þau hafi aldrei hist áður og Y verið nokkuð ölvuð. Hún hafi spurt hvar salerni væri og ákærði svarað að það væri niðri og boðist til að fylgja henni þangað. Þeim ber ekki saman um hvort hún hafi þegið þetta boð. Ákærði kveðst hafa gengið með Y niður stiga og haldið um mitti hennar til að styðja hana, en fyrir dómi sagði hún þetta vel geta verið. Þau bera á sama veg um að Y hafi gengið inn á kvennasalerni þegar komið var í kjallarann, en kona, sem þar var stödd fyrir, hafi hindrað að ákærði gengi þangað inn. Y kveðst hafa farið þar inn í klefa og lokað á eftir sér, en þegar hún hafi haldið þaðan út hafi ákærði verið kominn inn á kvennasalernið og verið þar einn framan við klefana. Um atvik upp frá þessu ber mikið þeim í milli. Y segir ákærða hafa ýtt henni inn í klefa, læst að þeim, dregið niður um hana sokkabuxur og nærbuxur, ýtt henni niður á klósettsetu og neytt hana til munnmaka, en síðan ýtt henni niður á gólfið og haft við hana samfarir. Segist hún sökum andlegs áfalls hvorki hafa kallað á hjálp né veitt mótspyrnu fyrr en hún hafi fundið fyrir miklum sársauka af samförunum og náð að komast undan ákærða, opna dyrnar og fara fram úr klefanum. Ákærði segir á hinn bóginn að þegar Y hafi komið fram úr klefanum hafi hann spurt hvað ætti að gerast næst, svo sem hún hefur jafnframt borið, en hún síðan boðið honum að fá sopa af drykk, sem hún hafi haldið á, og þau farið að tala saman. Atlot hafi svo byrjað milli þeirra og þau farið inn í salernisklefa. Þau hafi afklæðst þar að nokkru og reynt án árangurs að hafa samfarir standandi, en hann svo sest á klósettið undir henni og þau haft samfarir þannig um stund. Y hafi síðan viljað hætta samförunum og þau þá farið út úr klefanum. Atvikum, sem gerðust eftir þetta, er lýst í hinum áfrýjaða dómi.

Í niðurstöðum héraðsdóms kemur fram að ef byggt yrði á frásögn Y um atburði eftir að hún og ákærði hittust framan við klefa á kvennasalerninu, nánar tiltekið að ákærði hafi ýtt henni inn í klefa, læst honum, dregið niður um hana, ýtt henni niður á salerni og síðan á gólf, væri ekki hlutrænt séð um ofbeldi að ræða í skilningi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, en þetta eitt nægi ákærða til sýknu. Ályktun þessi um lögskýringu fær ekki staðist í ljósi dómaframkvæmdar, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 8. mars 2007 í máli nr. 589/2006 og 31. maí 2007 í máli nr. 48/2007. Í hinum áfrýjaða dómi er á hinn bóginn ekki tekin í þessu sambandi skýr afstaða til þess hvort byggja eigi á frásögn Y um þessi atriði eða hver atvik að öðru leyti verði lögð til grundvallar.

Í héraðsdómi er komist að þeirri niðurstöðu að því megi slá föstu að Y hafi ekki viljað eiga samræði eða önnur kynferðismök við ákærða. Þar er þó jafnframt vísað til þess að Y hafi borið að hún hafi orðið fyrir andlegu áfalli þegar ákærði ýtti henni inn í salernisklefa og hafi hún enga mótspyrnu veitt fyrr en hún hafi fundið fyrir sársauka milli fótanna og náð að komast undan honum. Ákærði hafi farið öllu sínu fram án viðnáms hennar eða mótmæla og hún ekki kallað eftir hjálp þótt hún yrði vör mannaferða utan við klefann. Fram að því að þau fóru inn í klefann hafi hún ekki gefið honum ástæðu til að telja hana sér andhverfa, en að því virtu hafi honum ekki hlotið að vera ljóst að samræðið og kynmökin væru að óvilja hennar.

Um þetta er til þess að líta að ákærði og Y hafa borið á einn veg um að þau hafi aldrei hist fyrr en leiðir þeirra lágu saman þegar hún var að leita að salerni, svo sem áður er lýst. Ákærða var að eigin sögn ljóst að Y væri mjög drukkin. Þegar þau hittust skiptust þau samkvæmt frásögn beggja á fáeinum orðum, en fóru síðan niður stiga uns leiðir skildu framan við kvennasalernið í kjallara Hótels Sögu. Þótt ákærði kunni að hafa haldið um mitti Y á þessari stuttu vegalengd, að eigin sögn til að styðja hana sökum ölvunar, gaf það honum ekkert tilefni til ályktana um að hún vildi eiga kynferðisleg samskipti við hann. Mat á því hvort ákærða hafi átt að vera ljóst að Y hafi ekki viljað eiga kynmök við hann verður þannig ekki að réttu lagi reist á þeim grunni að hún hafi ekki verið honum andhverf áður en hún fór inn á salernið. Við það mat verður heldur ekki horft fram hjá því að ákærði fór inn á salerni, sem var sérstaklega ætlað konum, og beið þar framan við lokaðan klefa, en af frásögn hans verður ekki séð að hann hafi talið Y hafa hvatt sig til þess eða látið að því liggja að hún óskaði eftir að hann kæmi þangað. Er óhjákvæmilegt að tekið sé tillit til þess við mat á hugrænni afstöðu ákærða.

Af þeim ástæðum, sem að framan greinir, eru niðurstöður héraðsdóms ekki reistar á viðhlítandi grunni, en við frekara mat á atriðum, sem úrslitum hljóta að ráða, verður að taka meðal annars mið af sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða og vitna fyrir dómi. Vegna þessa verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til þess að aðalmeðferð geti farið eftir þörfum fram á ný og dómur verði aftur felldur á það.

Ákvörðun um sakarkostnað í héraði verður að bíða nýs efnisdóms, en fella verður áfrýjunarkostnað málsins á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2007.

          Mál þetta sem dómtekið var 20. júní sl., er höfðað með ákæru útgefinni af Ríkissaksóknara, 31. maí 2007 á hendur, X, kt. [...], [...], Hafnarfirði, „fyrir nauðgun með því að hafa aðfaranótt 17. mars 2007, á salerni í kjallara Hótels Sögu við Hagatorg í Reykjavík, með ofbeldi þröngvað stúlkunni Y, kt. [...], til samræðis og annarra kynferðismaka með því að ýta henni inn á salernisbás og halda henni þar meðan hann kom fram vilja sínum, en ákærði hafði munnmök við stúlkuna, sleikti kynfæri hennar, hafði samræði við hana og reyndi að setja getnaðarlim sinn í endaþarm hennar.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007, sbr. áður 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

 

Einkaréttarkrafa:

          Af hálfu Y er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 2.000.000 auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 17. mars 2007 til greiðsludags.”

 

Málavextir

          Samkvæmt staðfestri skýrslu Arnþórs Davíðssonar lögreglumanns var það aðfaranótt laugardagsins 17. mars sl. að tilkynnt var til lögreglu um það að stúlku hefði verið nauðgað þá um nóttina á Hótel Sögu og sagt að sá seki hefði forðað sér þaðan á hlaupum.  Lögreglumenn fóru að Sögu að sinna þessu og hittu þar fyrir Y, f. 1987, í bakherbergi í afgreiðslu hótelsins.  Þá voru þar fyrir starfsmenn hótelsins sem gátu lýst manninum og sagt að atburðurinn hefði orðið á kvennasalerni í kjallara hússins.  Y sagðist svo frá að hún hefði verið að leita að salerninu og spurt manninn hvar það væri.  Hefði hann farið niður með henni og vísað henni á það.  Hefði hann elt hana þar inn en kona sem hefði verið þar fyrir hefði sagt honum að fara út þar sem þetta væri kvennasalerni.  Maðurinn hefði svo komið aftur inn og ruðst inn á hana þar sem hún var í salernisklefa að kasta af sér vatni.  Hefði hann neytt hana til samræðis en hún verið ráðalaus og ekki vitað hvað gera skyldi.  Hefði hún ýtt manninum frá og reynt að komast út um klefadyrnar en maðurinn sagt á ensku að hann væri ekki búinn að ljúka sér af, heft för hennar og læst klefadyrunum.  Að endingu hefði hún komist út frá manninum og rekist á þjón þar fyrir utan en maðurinn hefði komið út á eftir henni og reynt að ná henni inn aftur en þjónninn komið í veg fyrir það.  Í skýrslunni segir að stúlkan hafi verið blóðug á vinstri upphandlegg og á læri.  Þá hafi hún sýnilega verið undir áhrifum áfengis.  Hún var flutt á neyðarmóttöku Landspítalans.  Á hótelinu hittu lögreglumennirnir pólskan mann að nafni C, sem sést á upptöku spjalla við ætlaðan árásarmann um kvöldið.  Kvaðst hann ekki þekkja þann mann en sá hefði kynnt sig og sagst heita X.  Gat hann engar upplýsingar gefið um atvikið.

          Y var flutt á neyðarmóttökuna á Fossvogsspítala.  Í staðfestu vottorði Óskar Ingvarsdóttur læknis um þetta segir svo: „Stúlka sem kemur eftir meinta nauðgun sem átti sér stað á WC á Hótel sögu.  Óþekktur gerandi sem setti lim sinn í munn bþ. og í leggöng en óvíst með endaþarm og fann hún sársauka við þetta.  Var læst inni meðan á þessu stóð og dofnaði upp.  Tók eftir blóði á sokkabuxum og á lærum og framhandlegg eftir þetta og kvartar um sviða að neðan.  Við skoðun eru roðablettir á 2 stöðum á baki sem eru nýlegir og blóð á innanverðum lærum og kynfærum.  Ný sprunga er við endaþarmsop, um kl 11, sem blæðir úr og jafnframt blóðlita vökvi í leggöngum sem getur verið frá umræddu sári.  Skoðun kemur vel heim og saman við lýsingu á atburðinum.  Sýni m.t.t. DNA eru tekin frá munni, andliti og ytri og innri kynfærum til rannsóknar síðar.  Sýklaræktanir teknar og konan fær neyðar-getnaðarvörn og fyrirbyggjandi sýklalyf.

[...]

27.03.2007: Kemur í eftirlit. Lítur vel út. Spurð um líðan og gang mála frá atburði.  Segir að hún muni vel hvað hún var í miklu sjokki þegar hún kom.  Lýsir því að hún muni nú vel að gerandi var að reyna að koma fram vilja sínum þar sem hún lá klemmd í hnipri upp við klósettið og fann þá skerandi sársauka.  Var gerandi þá búinn að reyna og náði að komast í leggöng en reyndi ítrekað við endaþarm en komst ekki inn, heldur hún.  Fann eins og harðsperrur í herðum og hálsi og neðst í mjóbaki fyrstu dagana og enn smá í hálsi.  Fann þannig að hún hafði eitthvað tekið á - líka af því hún var í kremju.  Fundið sviða frá sárinu þar til fyrir 2 dögum, að þetta virðist nú gróið.  Blæddi e-ð fyrst á eftir. Er hjá sálfræðingi. Áðurnefnd sprunga, sem var framan til við anus og inn að opkanti, var nokkuð djúp en náði ekki inn í endaþarm er nú gróin og sést móta fyrir hvítu öri.  Ætla má í ljósi sögunnar að sprungan hafi komið við tilraunir geranda við að komast inn í anus og átt þátt, sá kraftur sem beitt var og afstaða vegna legu bþ.. Staðsetning sprungunnar er á stað sem er þekktur fyrir að hafa áverka við tilraunir/eða innþrengingu í endaþarm án samþykkis, ef áverki er þar á annað borð. Engin óþægindi frá leggöngum og blæddi ekkert frekar þaðan.“

          Ekki er að sjá að Y hafi verið tekið blóð til alkóhólrannsóknar.

          Björgvin Sigurðsson, sérfræðingur lögreglunnar, hefur framkvæmt rannsókn á fatnaði Y og ákærða svo og ýmsum sýnum sem tekin voru af þeim.  Hefur hann gert um þá rannsókn skýrslur sem hann hefur staðfest fyrir dómi en ekki er ástæða til að gera grein fyrir þeim í smáatriðum.  Þess ber þó að geta að blóð fannst á sokkabuxum Y eins og sjá má á ljósmyndum sem sérfræðingurinn tók af fatnaðinum og fylgja málinu. 

          Ítarleg rannsókn fór fram á vettvanginum.  Á myndum af vettvangi má sjá blóðkám á klósettsetu á kvennasnyrtingu og á gólfi.  Þá má sjá flygsur á gólfinu á snyrtingunni og frammi á gangi, sem virðast geta verið pappírsþurrkur.  Ekki verður séð af gögnum málsins hvernig salernisdyrunum er læst að innan, hvort það er með lausum lykli, snerli eða renniloku, eða hvort erfitt eða auðvelt er að taka úr lás. 

Þá var athugað hvort kona á stærð við Y geti legið á bakinu við hliðina á salernisskál á klefanum og staðfesti sú tilraun að það væri hægt en þó þannig að konan getur ekki rétt úr sér og þarf að vera nærri því upp við dogg.  Loks eru í málinu myndir af stúlkunni og ákærða í málinu.  Gögn þessi eru óstaðfest.

          Meðal gagna málsins eru upptökur úr eftirlitsmyndavélum hótelsins og kyrrmyndir gerðar eftir þeim.  Þessar myndir eru óskýrar en þær eru þó tímasettar.  Ekki liggur fyrir hvort sama klukka er fyrir allar myndavélarnar eða hvort tíminn á þeim er réttur.  Má greina á myndunum mannaferðir um barinn, sem kemur við sögu, um gesta-móttöku hótelsins og um anddyri.  Ekki er hægt að bera kennsl á fólk á þeim með öruggri vissu en þó er, með hliðsjón af öðrum gögnum málsins, einkum skýrslum þeirra sem þar eru taldir sjást, að á þeim megi m.a. sjá ákærða og Y koma gangandi frá lyftunum sem eru við suðuranddyri hótelsins, að kjallaratröppunum og fara saman niður þær.  Þá er E talinn sjást koma á eftir þeim 10 sekúndum síðar og fara að tröppunum.  Skömmu síðar sést maður, sem talinn er vera ákærði, koma til baka frá tröppunum og eftir það sést til tveggja kvenna koma upp tröppurnar, hvor á eftir annarri, og er sú seinni talin vera A, sbr. hér á eftir.  Rúmum fjórum mínútum seinna sést maður, sem talinn er vera ákærði, koma gangandi að tröppunum og fara niður þær.  Rúmum átta mínútum síðar sést maður, sem talinn er vera E, koma upp og fara inn á barinn.  Sést hann þar vera að huga að farsíma sínum, en gögn málsins benda til þess að um það leyti hafi verið hringt úr farsíma ákærða í farsíma E, þótt tímanum úr myndavél og síma skakki um 3 mínútur. 

Skömmu seinna sést hann fara að kjallaratröppunum og koma aftur upp þær með þeim, sem talinn er vera ákærði, rúmum 20 sekúndum síðar, og fara þeir inn á barinn.  Rúmri mínútu síðar sést ákærði svo fara niður tröppurnar aftur en E er talinn sjást vera í anddyrinu þ. á m. við kjallaratröppurnar.  Tæpri mínútu eftir að ákærði er talinn hafa sést fara niður tröppurnar sést þjónninn D fara þar niður, að talið er.  Nokkrum sekúndum síðar er ákærði kominn upp tröppurnar að talið er.  Nokkrum sekúndum síðar sést hann fara niður tröppurnar aftur en koma þaðan upp fljótlega.  Sjást þeir E, sem verið hafði í anddyrinu, fara inn á barinn aftur.  Í sömu mund sjást karl og kona, D og Y, að talið er, koma upp og halda að gestamóttökunni.  Hún sest svo í sófa þar gegnt móttökunni.  Hálfri mínútu síðar sjást þeir ákærði og E koma aftur út af barnum og ganga að lyftunum og 40 sekúndum síðar eru þeir á leið út úr húsinu, en D og annar starfsmaður hótelsins sjást halda á eftir þeim.  Gögn þessi hafa verið borin undir fólk það sem á myndunum sést og hefur fólkið kannast við að sjást á þeim.

          Nokkur rannsókn hefur verið gerð á símatengingum við farsíma ákærða og farsíma Y og kom ekki fram að símar þeirra hefðu tengst á þeim tíma sem máli skiptir.  Þá kom fram að hringt var úr farsíma ákærða í farsíma E kl. 00:44 um nóttina, sbr. það sem segir hér að framan.  Þessi gögn eru óstaðfest.

          Y gaf skýrslu um atburðinn skömmu eftir hádegið þennan dag.  Kvaðst hún hafa verið á árshátíð í Súlnasal Hótel Sögu með vinkonu sinni.  Hefði hún þurft á salerni en ekki fundið það hjá Súlnasalnum og því farið niður á næstu hæð og þaðan sem væri stigi niður í kjallara hússins.  Þar hefðu staðið þrír menn og talað saman á máli sem henni heyrðist vera pólska.  Hefði hún þá spurt þá á ensku hvort það væri klósett þarna niðri og þeir svarað því játandi.  Einn þeirra hefði boðist til að fylgja henni niður, en hún afþakkað það og gengið niður stigann.  Þegar hún var komin inn á salernið hefði hún séð að þessi maður hafði fylgt henni niður og ætlaði inn á snyrtinguna með henni.  Kona sem var þar inni hefði þá lokað á hann.  Hún kvaðst hafa farið inn í annan salernisklefann sem þarna væri, læst að sér og kastað af sér vatni.  Þegar hún hefði opnað hurðina hefði hann komið inn á snyrtinguna og eiginlega ýtt henni strax inn í salernisklefann, sem væri fjær innganginum inn á snyrtinguna.  Hann hefði ekki lokað dyrunum alveg strax, en ýtt henni upp að veggnum og byrjað að kyssa og káfa á henni.  Hefði hún fengið hálfgert „sjokk“ og ekki trúað því að þetta væri að gerast.  Hann hefði togað niður á henni sokkabuxurnar þar sem hún stóð og sneri að honum.  Hann hefði girt niður um sig buxurnar og lokað þá og læst klefanum.  Hefði honum risið hold og hann ýtt henni á klósettsetuna og þar troðið limnum upp í munninn á henni.  Svo hefði hann ýtt henni niður á gólfið og á bakið og troðið svo limnum á sér upp í leggöngin á henni.  Hefði hún reynt að ýta honum af sér og fundið fyrir skerandi sársauka.  Hefði maðurinn svo reynt að setja liminn á sér í endaþarminn á henni.  Hefði hún svo náð að grípa í hurðina einhvern veginn og toga sig upp og hurðin einhvern veginn farið á hann.  Hefði hún reynt að komast fram og sagt á ensku að hún vildi komast heim, en hann þá reynt að ýta henni aftur inn á klósettið og svarað á sama máli og sagt nei, því hann hefði ekki lokið sér af.  Hefði hún svo náð að ýta honum frá sér með hurðinni og komist fram á ganginn.  Hefði hún verið með sokkabuxurnar niður um sig og hann reynt að toga hana aftur inn, en hún haldið áfram.  Hefði hún séð manninn koma fram og fara upp stigann.  Skömmu seinna hefði þjónn komið þarna að og hún sagt honum hvað hefði gerst.  Stuttu seinna hefði Pólverjinn komið aftur og kvaðst hún þá hafa sagt á ensku við þjóninn „hann notaði mig“.  Hefði þjóninn spurt manninn hvort það væri rétt, en maðurinn svarað því til að hann hefði verið að sýna henni hvar klósettið væri.  Hann hefði svo ætlað að taka hana aftur inn á klósett, en þjónninn þá sagt honum að láta hana í friði. Hefði hún farið upp með þjóninum og þau talað við starfsfólk þar sem kallað hefði á lögregluna.  Starfsmennirnir hefðu farið að leita að manninum en hann þá verið horfinn.

          Skýrsla var aftur tekin af Y 27. mars sl. og var sú skýrsla tekin upp.  Þá sagði hún svo frá að hún hefði spurt mennina á ensku hvort það væri salerni þarna niðri og einn þeirra sagt já við því og spurt á ensku hvort að hann ætti að fylgja henni þangað en hún afþakkað með orðunum: „No, it is okay“  Kvað hún það hugsanlegt að hann hefði misskilið orðið “okay”.  Hún hefði svo spurt hann af forvitni hvort hann væri pólskur og hann játað því.  Hefði hún þá farið niður stigann og inn á snyrtinguna.  Aðspurð kvaðst hún ekki hafa verið með glas í hendinni og ekki myndi hún eftir því að maðurinn hefði haldið utan um hana á leiðinni niður stigann en þó gæti hann hafa tekið utan um hana og hún þá slitið sig frá honum.  Þar hafi verið kona á leið út en maðurinn ætlað inn á snyrtinguna en konan lokað á hann.  Hefði hún farið inn í klefa og kastað af sér vatni og þegar hún var komin úr klefanum aftur hafi hann verið kominn þar.  Hefði hann ýtt henni inn í klefann sem væri fjær dyrunum og lokað klefanum og læst.  Hefði hann byrjað að kyssa hana og káfa á henni.  Hefði henni brugðið við þetta og fengið „sjokk“ og fundist eins og þetta væri í draumi, en hún hefði verið drukkin.  Hafi hún „frosið“ og ekkert getað gert og ekki komið upp hljóði.  Maðurinn hefði káfað á henni og tekið niður um hana sokkabuxurnar og girt niður um hana og ýtt henni niður svo að hún settist á klósettið.  Hefði hann troðið typpinu upp í munninn á henni, líklega tvisvar, og hún þá verið enn í losti og ekki alveg búin að átta sig á hvað væri að gerast.  Minnti hana að hann hefði eitthvað sleikt hana að neðan og svo ýtt henni af klósettinu og niður í horn.  Hefði hún verið skorðuð þar „í kremju“ með höfuð upp að veggnum svo að hún gat varla andað og fyndi hún enn til í baki eftir þetta.  Hafi maðurinn stungið lim sínum upp í leggöngin á henni og einnig reynt að ýta honum inn í endaþarminn.  Hefði hún fundið fyrir miklum sársauka „þegar að hann ýtti mér svona harkalega eða eitthvað og ég bara fann fyrir nístandi sársauka“ og þá rankað aðeins við sér.  Hefði hún þá reynt að ýta honum frá sér og náð að standa upp en hann viljað halda áfram en hún ýtt honum á klósettið og hana minnti einnig að hann hefði ýtt henni á klósettið og hún náð í hurðina.  Minnti hana að meðan hún lá þarna í horninu, hefði henni heyrst einhver koma inn á snyrtinguna en fara strax út aftur, kannski vegna þess að viðkomandi hefði heyrt einhver hljóð þarna inni. Hefði hún ekki gefið frá sér neitt hljóð, þótt hana langaði til þess að öskra, því hún hefði ekki getað það „eða eitthvað“.  Hún kvaðst þó halda að eitthvað hafi heyrst í manninum, einhvers konar læti eða skruðningar.  Hún segist svo hafa teygt sig í hurðina og tekið úr lás og opnað rifu en hann ýtt henni að stöfum aftur og sett í lás.  Hafi hún þá sagt á ensku að hún vildi fara en hann svarað að hann væri ekki búinn að ljúka sér af.  Hefði hún þá orðið reið og tekið hurðina úr lás og opnað og hlaupið fram.  Kvaðst hún halda að manninum hafi brugðið og ekki átt von á því að hún myndi ná að opna dyrnar.  Hafi hann klifað á því að hann væri ekki búinn að ljúka sér af en hún endurtekið að hún vildi fara og farið fram á gang með sokkabuxurnar á hælunum, og á háhæluðum skóm.  Kvaðst hún enn hafa verið í losti en hún farið aftur inn á klósett og læst að sér og girt sig.  Eftir það hefði hún farið aftur fram á gang grátandi og þá séð barþjón koma niður og gefið sig fram við hann grátandi.  Í sama mund hefði maðurinn komið aftur niður stigann og hún bent á hann og sagt á ensku að hann skyldi láta sig vera.  Maðurinn hefði látið eins og hann væri steinhissa og spurt hvað væri að.  Þjónninn hefði spurt manninn hvað hann hefði gert en maðurinn sagst aðeins hafa vísað henni á salernið.  Hefði hún þá bent á manninn og sagt á ensku að hann hefði notað hana.  Hefði hún svo farið upp með þjóninum en maðurinn orðið eftir, að hana minnti.  Lögreglan hefði svo komið á vettvang og farið með hana á slysadeild.  Vitnið var rækilega spurð út í einstök smærri atriði og gat oft ekki svarað þeim spurningum, enda tók hún fram að hún hefði verið drukkin þegar atburðurinn gerðist og hefði hún slagað.  Þá kvaðst hún einnig hafa verið orðin þreytt.

          Ákærði var handtekinn heima hjá sér um kvöldið 18. mars sl. þegar grunur hafði beinst að honum.  Var hann látinn sæta réttarlæknisrannsókn hjá varðlækni, Geir Guðmundssyni, sem komið hefur fyrir dóm og gert grein fyrir rannsókninni, eins og fram kemur hér á eftir.  Þá hefur hann verið látinn sæta geðrannsókn sem Sigurður Páll Pálsson geðlæknir hefur framkvæmt, sbr. hér á eftir.

          Ákærði var yfirheyrður um málið að kvöldi hins 18. mars sl..  Skýrði hann frá því að hann hefði verið að drekka bjór með kunningja sínum, E að nafni, á bar á hótel Sögu.  Seinna hefði hann verið staddur ásamt E  á jarðhæðinni við stiga sem liggur niður í kjallarann.  Hefði þá komið þar að stúlka sem hefði spurt hvar salernið væri.  Hefði hún verið með glas í hendi og talsvert drukkin.  Hefði hann sagt henni að það væri niðri og þegar ákærða virtist hún ekki taka þá stefnu sem hann hefði vísað á hefði hann fært sig neðar í stigann og hann þá spurt hvort hann ætti ekki að sýna henni hvar það væri og hún játað því.  Þegar þau hefðu verið á leið þangað hefðu þau farið að spjalla saman og hún boðið honum að súpa af glasinu.  Hefði hann svo spurt hana hvort hann mætti ganga með henni inn á klósettið og hún svarað á ensku „sure“.  Þegar hann hefði ætlað að ganga inn hafi kona sem þar var inni stöðvað hann og bent á merkið þar sem stóð að þetta væri kvennaklósett.  Hefði hann beðið smástund þar til þessi kona fór út og þá farið inn á salernið og beðið þar til stúlkan kom út af salernisbásnum.  Hefði hún komið til hans og spurt hvort hann vildi meira að drekka og hann þá fengið sér sopa hjá henni í gegnum rör.  Hann hefði svo tekið um mjaðmirnar á henni og þau farið kyssast nokkra stund.  Hefðu þau fært sig inn á klósettbásinn sem var fjær hurðinni inn á snyrtinguna og hann lokað að þeim með olnboganum, en ekki læst.  Hefðu þau haldið áfram að kyssast og farið að klæða sig úr.  Hefði hann byrjað að klæða hana úr og hún gefið til kynna að hún vildi það, auk þess sem hún hefði byrjaði að hneppa frá honum skyrtunni og reynt að lyfta henni upp fyrir höfuðið á honum.  Hann hefði lyft upp kjólnum hennar og dregið sokkabuxur og nærbuxur hennar niður.  Hefðu þau staðið fyrst en það ekki verið þægilegt og þau þá breytt til og hann sest á klósettsetuna og hún ofan á hann og þau haft samfarir þannig.  Eftir nokkra stund hefði heyrst að einhver gekk inn á snyrtinguna.  Hefði hún þá hætt og athugað hvort hurðin væri læst og þá læst hurðinni.  Hefðu þau hlegið að þessu og talað smávegis saman.  Hefði hann spurt hana hvort hún væri til í að gefa honum upp símanúmerið sitt og hún verið til í það.  Hefði hann hringt úr farsímanum sínum í hennar númer svo hún hefði númer hans í sínum síma og hann um leið í sínum.  Stúlkan hefði spurt hann að aldri, nafni og hvaðan hann væri.  Hefði hún sagt einhver deili á sér, að hún væri þarna á hótelinu í einhvers konar partíi, að hún ætti ekki kærasta, að hún hefði skemmt sér vel í partínu og að hún væri ekki með mörgum vinum þarna.  Í því hefði E hringt í hann og spurt hvort hann væri að koma og hann sagst alveg vera að koma.  Þau hefðu svo gengið fram og hefði E þá séð að hún var með sokkabuxurnar og nærbuxurnar niður um sig og farið að hlæja, en sjálfur hefði hann ekki tekið eftir því.  Þegar hann sá þetta hefði hann einnig farið að hlæja og sagt henni að laga sig til en hann farið upp stigann til E og fengið sér að reykja.  Hann hefði farið aftur niður að athuga með hana og beðið eftir henni fyrir framan kvennasnyrtinguna.  Þegar hún kom þaðan út hefði hún verið grátandi.  Hefði hann farið inn til hennar á klósettið og rétt henni þurrkubréf til þess að þurrka tárin en hún sagt honum að láta sig í friði og hún vildi ekki sjá hann.  Hefði hann spurt hana hvað hann hefði gert henni og hún þá sagt „ekkert“ á ensku.  Hefði hann spurt hvort hann mætti hringja í hana daginn eftir en hún engu svarað.  Barþjónn sem hefði komið gangandi þarna niður hefði spurt hana hvað komið hefði fyrir og hún sagt það sama við hann.  Hefði hún svo sagt við ákærða að láta sig í friði.  Hefði barþjóninn þá spurt hvað hann hefði gert henni og hann sagst ekkert hafa gert henni.  Kvaðst hann hafa ítrekað við stúlkuna hvort hann mætti hringja í hana, en hún sagt honum að láta sig í friði.  Hefði hann þá spurt hana hvað væri að, en hún þá sagt við barþjóninn að ákærði ætti að láta hana í friði og að hann hefði misnotað hana.  Kvaðst hann þá hafa sagt við þau að það væri ekki satt en hún sett hendurnar um hálsinn á barþjóninum.  Hefði barþjónninn sagt sér að fara í burtu og hann myndi hringja í lögregluna, en hún þá beðið hann um að gera það ekki.  Þeir E hefðu svo gengið út en barþjónninn komið út á gangstéttina fyrir utan hótelið og einnig Kínverjar.  Hefði barþjónninn bent á hann og haldið á farsíma og sagst vera að hringja á lögregluna.  Þeir hefðu komið til hans og formælt honum á ensku en hann snúið frá þeim og gengið í burtu.  Hann hefði svo fengið laust högg í hnakkann og þegar hann sneri sér við hefði hann fengið hnefahögg á nefið og blóðnasir.  Einhver hefði komið aftan að honum skellt honum.  Hefðu þeir látið högg og spörk dynja á honum þar sem hann lá.  Hefði hann staðið upp og tuskast við mennina, sem voru tveir þegar hér var komið sögu.  Hefði hann svo komist frá þeim og hlaupið undan þeim á brott.  Hann hefði gengið upp að Perlunni í Öskjuhlíð og hringt þaðan í móður sína sem hefði komið og sótt hann.

          Ákærði sagði aðspurður að stúlkan hefði tottað á honum liminn og hann sleikt hana að neðan.  Þá sagðist hann hafa tekið eftir því að stúlkunni blæddi og að hann hefði ekki skýringu á því, nema að það væri vegna þess hve samfarirnar hefðu verið hraðar.

          Hinn 23. mars var ákærði spurður nánar út í atvikin hjá lögreglu.  Ákærði sagði þá m.a. að þegar hann hefði séð stúlkuna taka ranga stefnu hefði hann sagt henni það og svo sagt eitthvað á þá leið við hana að hann færi kannski með henni á salernið.  Hefði stúlkan þegið það.  Hefði þá legið fyrir að stúlkan var til í tuskið, enda hefðu þau haldið hvort um annað á leiðinni niður stigann.  Enn var hann yfirheyrður 28. mars og loks 7. maí.  Var hann rækilega spurður út í málsatvikin í þessum yfirheyrslum og kynnt það sem fram hafði komið í rannsókninni.  Hann kvaðst halda við fyrri framburð sinn og eru ekki efni til þess að rekja þessar yfirheyrslur nánar hér.  E, sá sem ákærði hitti á hótelinu þessa nótt, var yfirheyrður hjá lögreglu 18. mars.  Kannaðist hann við að hafa hitt þar á barnum pólskan mann, [...] eða X að nafni, sem hann kannaðist við frá því áður.  Kvaðst hann hafa fengið símanúmer þessa manns vegna þess að þær ætluðu að hittast kannski einhvern tímann seinna.  Eftir að hafa drukkið þarna á barnum hefðu þeir farið að stiga þar sem gengið er niður á klósettið, en þar hægra megin væri reykingaafdrep. Meðan þeir stóðu þar hefði stelpa komið og maðurinn stöðvað hana og farið að tala við hana.  Síðan hefðu þau bæði farið niður og maðurinn með henni inn á snyrtinguna.  Á meðan hefði hann sjálfur farið á barinn og svo niður og litið inn á kvennasnyrtinguna og séð að einn básinn þar var læstur.  Hann hefði svo farið inn á karlasnyrtinguna og kastað af sér vatni og svo aftur upp á barinn.  Eftir um 10-15 mínútur hefðu þeir maðurinn hist í reykingaafdrepinu og hann sagt að hann hefði verið með íslenskri stelpu niðri á klósettinu og haft við hana samfarir.  Hann kvaðst svo hafa séð að stelpan var grátandi að tala við Spánverja sem ynni á barnum.  Hefði hann sagt manninum það og hann þá farið og talað við hana aftur. Hefði maðurinn komið aftur og sagt að það væri best að þeir færu því stúlkan segði hann hafa misnotað sig.  Hefði maðurinn hlaupið út.  Ekki vissi hann hvert, nema í áttina frá Sögu, en sjálfur kvaðst hann hafa gengið út og heim til sín.  Hefði honum heyrst einhver starfsmaður á hótelinu öskra á eftir manninum á íslensku. Hann kvað manninn hafa hringt í sig nokkrum sinnum eftir þetta og þeir talað um þennan atburð.  Kvaðst hann hafa hvatt manninn til þess að fara á lögreglustöðina að gefa sig fram.  Hann hefði hins vegar sagt að hann hefði ekki nauðgað þessari stelpu.

          Daginn eftir var tekin skýrsla af E.  Er ekki ástæða til þess að rekja úr henni annað en það að hann hefði séð á eftir ákærða og stúlkunni niður stigann og að þau stefndu að kvennasnyrtingunni.  Kvaðst hann hafa álitið að þau hefðu farið þar inn en hann ekki séð að dyrunum þar.  Hefðu þau virst eðlileg og talað saman.  Stúlkan hefði verið ölvuð.  Kvaðst hann hafa farið aftur á barinn og sagt barþjóninum, pólskum manni, að Pólverji hefði farið inn á snyrtingu með stúlku.  Þá sagði hann að þegar hann leit inn á kvennasnyrtinguna hefði hann heyrt á andardrætti sem heyrðist út um lokaðan bás að þar væri fólk líklega að maka sig.  Þá sagði hann að þegar stúlkan birtist hefði hún verið að laga sig til, fara í skó eða laga fötin.  Hefði hún verið úfin um hárið og virst hafa grátið.  Hann taldi ákærða og stúlkuna hafa verið 15 – 20 mínútur inni á snyrtingunni.   

          E var yfirheyrður aftur um sakarefnið 25. apríl sl. og spurður nánar út í ýmis smáatriði, svo sem það að ekki sæist á myndbandsupptökum hótelsins að hann hefði verið á barnum meðan ákærði var með stúlkunni á salerninu.  Kvað hann það þá rifjast upp fyrir sér að hann hefði fylgt barþjóninum, I, þegar hann fór með drykk á eitt hótelherbergið.  Kvaðst hann hafa verið undir áhrifum áfengis þegar þessi atvik urðu og ekki treysta minni sínu fyllilega um þau. 

D, barþjónn á Mímisbar, gaf skýrslu hjá lögreglu 21. mars.  Sagðist honum svo frá að hann hefði verið á leið á salerni í kjallara hótelsins þegar hann rakst á grátandi stúlku í kjallaranum, miðja vegu milli snyrtingar og stigans.  Hefði hann spurt hana hvað gengi að henni en hún svarað á íslensku sem vitnið ekki skildi.  Þá hefði hún bent á strák sem hefði gengið til þeirra í átt frá snyrtingunum þarna í kjallaranum og með honum annar maður.  Kvaðst hann hafa spurt strákinn, sem hefði virst taugatrekktur, hvað hefði gerst með þeim stúlkunni en hann svarað því að hann hefði aðeins viljað fá símanúmer hennar.  Hefði strákurinn svo farið upp.  Stúlkan hefði svo farið að segja á ensku hvað gerst hefði en D kvaðst ekki skilja vel þá tungu.  Þó skildist honum hún segja að strákurinn hefði nauðgað stúlkunni eða reynt það inni á salerni.  Ekki hefði hann tekið eftir því hvort föt hennar voru í ólagi en hann hefði þó séð blóðkám á upphandlegg hennar.  Hann kvaðst hafa farið upp og sagt manni í gestamóttökunni frá þessu og þeir farið að leita að hinum grunaða.  Hefðu þeir séð til hans og félaga hans þar sem þeir fóru út um aðaldyr hótelsins.  Hefðu þeir kallað á eftir þeim en mennirnir horfið inn í götu þar hjá.  

Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í málinu í aðalmeðferðinni, 20. júní sl.

          Ákærði, sem neitar sök, hefur skýrt frá því að hann hafi komið á hótelið með vini sínum til þess að drekka nokkra bjóra og síðan hafi þeir ætlað á diskótek annars staðar.  Hann kveðst hafa drukkið þrjá bjóra eða svo.  Hafi þeir setið þarna 2 – 3 klukkustundir og svo gengið aðeins um hótelið og upp á hæð þar sem var diskótek, reyndar ekki það sem þeir hefðu ætlað á.  Hafi þeir talað við einhverjar stelpur sem þeir hittu þar.  Eftir það hefðu þeir farið á ganginn á 2. hæð.  Þar hefði svo komið stúlka gangandi með drykk í hendi og spurt um salernið.  Kveðst ákærði hafa sagt henni að það væri niðri.  Hefðu þau talað saman smástund og farið niður.  Stúlkan hafi misstigið sig í efsta þrepinu og hann þá tekið utan um hana.  Þegar hann sá að hún hafði tekið stefnuna á barinn en ekki á salernið hafi hann sagt henni að hún væri að villast.  Hafi hann sagt henni að það væri niðri til vinstri og hún spurt aftur hvar en hann sýnt henni hvar það væri.  Stúlkan hafi verið mjög drukkin og hann þurft að hjálpa henni svo hún dytti ekki í stiganum.  Hefðu þau talað saman og þegar hún fór inn á salernið hafi hann spurt hvort hann mætti koma með inn og hún samþykkt það.  Hafi kona þá stöðvað hann í dyrunum.  Kveðst hann hafa beðið eftir því að konan færi.  Hafi stúlkan staðið inni á snyrtingunni með drykkinn og spurt hvort hann vildi drekka.  Hafi hann þegið það og þau staðið þarna og talast við.  Eftir smástund hefðu þau farið að kyssast og eftir um tvær mínútur hefðu þau farið inn í salernisklefann sem er fjær dyrunum.  Hefðu þau kysst og snert hvort annað og hún klætt hann úr bolnum.  Hann hafi lyft upp kjólnum hennar og tekið niður nærbuxurnar.  Hefðu þau reynt að hafa samfarir standandi en það ekki gengið vegna þess hve hann var hærri en hún.   Hefðu þau reynt að gera það á klósettinu með því að hún settist á hann og þau þannig haft samræði í smástund.  Hafi þau þá staðið upp og reynt aftur þannig en svo aftur gert það sitjandi.  Meðan þau voru að því hafi einhver komið inn á snyrtinguna.  Hafi þau þá haft hljótt um sig og flissað hljóðlega.  Hann kveðst hafa beðið stúlkuna um að gefa sér upp símanúmer og hún þá slegið það inn í símann hans.  Hafi þau farið út af snyrtingunni saman, en hann svo skilið hana eftir þar sem hún hafi ekki verið búin að klæða sig.  Hafi hún slagað utan í vegginn frammi á gangi og hann þá gert sér grein fyrir því hversu ölvuð hún var.  Þegar vinur hans sá að stúlkan var ekki einu sinni komin í nærfötin frammi á gangi hafi hann hlegið og einnig segist hann sjálfur hafa hlegið að þessu.  Hann kveðst svo hafa farið á barinn.  Kveðst hann hafa fengið sér bjór að drekka en eftir 5 – 6 mínútur hefði hann farið á karlasalernið og þá séð að stúlkan var grátandi á ganginum.  Hafi hann gengið til hennar og spurt hvað gerst hefði og hún ekkert sagt við hann.  Kvaðst hann hafa gefið henni pappír til þess að þurrka sér með um augun en hún ekki viljað það og sagt að hann skyldi láta hana í friði.  Hafi hann spurt hvort hann mætti hringja í hana daginn eftir en hún sagt nei við því.  Hafi hann reynt að tala við hana til að komast að því hvað væri að og hvað væri á seyði.  Hafi hún þá sagt honum að láta sig í friði og að hún vildi ekki sjá hann aftur.  Hafi hann farið inn á snyrtinguna en hún orðið eftir á ganginum.  Þegar hann kom fram aftur hafi hann enn reynt að tala við hana en hún ekki viljað það og endurtekið það sem hún sagði við hann áður.  Kveðst hann þá hafa farið upp og haldið áfram að drekka bjór.  Stuttu seinna hafi hann farið niður aftur og þá séð að stúlkan var að tala við þjón.  Hafi hann enn spurt hvað væri að og einnig hvort hann mætti hringja í hana daginn eftir.  Hafi stúlkan þá sagt við manninn eitthvað á þá lund að það yrði að fjarlægja ákærða frá henni.  Kvaðst ákærði ekki hafa vitað hvað til bragðs ætti að taka en stúlkan beðið manninn um að fjarlægja hann.  Kveðst ákærði ekki hafa viljað það en stúlkan þá sagt á ensku að hann hefði nauðgað henni.  Hafi maðurinn þá hrint sér frá og stúlkan kastað sér í fang mannsins grátandi.  Ákærði kveðst hafa mótmælt þessari ásökun.  Maðurinn hafi þá sagt á ensku að hann myndi hringja á lögregluna.  Stúlkan hafi þá sagt að hún vildi ekki að lögreglan kæmi og þeim manninum orðið sundurorða út af því.  Hafi maðurinn þá sagt að hann skyldi hypja sig á brott og ítrekað að hann ætlaði að hringja á lögregluna. Kveðst ákærði þá hafa farið upp.  Hafi hann sagt vini sínum hvað gerst hafði og vinurinn sagt að lögreglan kæmi þá.  Hann kveðst ekki hafa viljað stinga af og haldið áfram að drekka bjór.  Hann hafi svo klætt sig og farið út.  Hann hafi þá séð að maður var að tala í símann og annar maður bent á hann og spurt hvort hann, þ.e. ákærði, væri maðurinn.  Hann segist hafa orðið fyrir árás þarna og smá slagsmál hlotist af því.  Hann hefði flúið undan þessari árás, þótt hann hefði kosið að bíða þarna.  Hann hafi orðið hræddur og þess vegna hafi hann flúið á brott.  Hann kveðst hafa skoðað myndir sem gerðar voru eftir upptökunum frá hótelinu og kveðst hann ekki rengja það að þær sýni hann sjálfan, E og Y.  

          Aðspurður segir ákærði að auk E hafi verið með honum menn að nafni H og C þegar hann hitti stúlkuna fyrst.  Hafi þau stúlkan gengið saman niður allar tröppurnar og haldið utan um mjaðmirnar hvort á öðru.  Hann segir stúlkuna hafa farið fyrst inn í básinn að kasta af sér vatni og þá hafi kona sem var inni á snyrtingunni varnað honum inngöngu.  Hafi hann verið frammi á gangi meðan stúlkan fór fyrst á salernið.  Þegar hann var kominn inn hafi hann spurt hana: „Hvað gerum við nú?“.  Hafi hún þá spurt hvort hann vildi drekka úr glasinu hennar sem hann þáði og kyssti hana svo.  Hann kveðst hafa átt frumkvæðið að atlotunum og þá hafi hann ekki vitað hvort hún vildi það en svo hafi hún virst vilja það þegar þau hófu að snertast.  Hann segir að stúlkan hafi viljað að hann sleikti hana að neðan og hafi hún togað höfuð hans niður í því skyni.  Kveðst hann hafa gert það og hún notið þess.  Hafi hann þá leyst niður um sig og þau farið að kyssast standandi og hún fróað honum með hendinni.  Hafi hún sest á klósettið og tekið liminn á honum í munninn.  Hann segir stúlkuna hafa læst salernisklefanum þegar þau heyrðu að einhver kom inn á snyrtinguna.  Hann segir stúlkuna ekki hafa gefið til kynna að hún vildi ekki hafa samfarir fyrr en í lokin og þau þá hætt.  Hann segir aðspurður að eftir að þau luku sér af hafi hann tekið eftir því að blæddi úr stúlkunni.  Hafi hann haldið að stúlkan kynni að vera með blæðingar.  Hann kveður samfarirnar ekki hafa verið harkalegar heldur mjúklegar og hljóðlátar.  Um það leyti sem þau luku samförunum hafi síminn hringt hjá honum.  Hann neitar því að hafa reynt að hafa endaþarmsmök við stúlkuna og hefði það þá gerst óvart.  Hann segir stúlkuna hafa verið frekar þurra í leggöngunum við samfarirnar.  Þegar þau sátu og höfðu samfarir hafi þau snúið hvort að öðru.  Hann kveðst ekki hafa reynt að hafa samfarir í endaþarm stúlkunnar.  Hann segir þau ekki hafa legið á gólfinu við samfarirnar, enda ekki verið nóg rúm til þess að liggja.  Hann segir þau hafa talað saman áður en samfarirnar fóru fram, um hvað hún gerði, og hún að sínu leyti spurt hann að aldri og fleiru.  Hann kveðst ekki vita hvort stúlkan var með síma þarna en hún hafi slegið númerið sitt inn í hans síma.  Ekki viti hann hvar í símaminninu þetta númer hafi verið vistað.  Það gæti hafa þurrkast úr minninu við það að síminn varð batteríslaus.  Eftir að þau voru komin fram á gang kveðst hann hafa bent stúlkunni á að hún væri með allt niður um sig.  Hafi vinur hans séð það líka og hlegið, sem hann hafi einnig gert og farið til vinar síns.  Hann segir árásarmennina við hótelið hafa verið tvo og viti hann ekki hvort þeir hafi verið starfsmenn hótelsins.   Hann hafi heyrt öskur á ensku og snúið sér við en þá séð annan þeirra vera að tala í síma og benda á hann.   Hafi maðurinn spurt hvað hann hefði gert stúlkunni og hann sagt að hann hefði ekkert gert á hlut hennar.  Hafi hann gengið áfram 2 – 3 metra en þá fundið fyrir sársauka í hnakkanum.  Hann hafi svo fengið spark í sig og staðið á fætur.  Hafi hann náð einum manni og snúið hann niður en hrint hinum frá sér og hlaupið á brott.  Hann hafi svo hringt í móður sína og hún komið og sótt hann.  Hafi hann sagt henni að hann hefði þurft að slást út af stelpu. 

          Y hefur skýrt frá því að hún hafi verið á árshátíð og verið á leið á klósettið.  Hafi hún rekist á nokkra Pólverja og spurt hvort væri klósett þarna niðri.  Hafi þeir sagt að svo væri.  Hafi einn þeirra spurt hvort hann ætti að fylgja henni þangað en hún sagt nei á ensku.  Hafi hún farið niður og hann fylgt henni, sem hún hafi ekki áttað sig á fyrr en hún var komin inn á snyrtinguna.  Þar hafi verið kona á leið út og hafi hún hindrað manninn í því að fara þar inn.  Hafi hún farið inn í salernisklefann en þegar hún kom þaðan út hafi maðurinn verið kominn inn á snyrtinguna.  Hafi maðurinn sagt: „hvað gerist núna?“ á ensku og neytt hana til þess að fara inn á salernisbásinn sem er lengra frá dyrunum fram á gang með því að ýta henni þangað.  Þegar þangað kom hafi maðurinn farið að kyssa hana og tekið niður um hana sokkabuxur og nærbuxur og látið hana setjast á klósettið með því að ýta henni.  Hafi hann girt niður um sig buxurnar og ýtt og þröngvað typpinu á sér inn í munninn á henni.  Hafi hann gert þetta tvisvar eða svo.  Hafi hann neytt hana til þess að opna munninn.  Aðspurð um það hvernig hann hafi gert þetta segir hún hann hafa ýtt honum, en hún hafi verið skelfingu lostin og ekki þorað annað.  Hafi hún verið „með allar tennur úti“ þannig að þetta geti ekki hafa verið þægilegt fyrir hann.  Hún kveðst hafa verið frosin og dofin og fundist eins og þetta væri ekki að gerast.  Hann hafi svo ýtt henni niður á gólfið við klósettið svo að hún lá á bakinu í kuðli og upp að veggnum.  Hafi hann verið ofan á henni og sett liminn inn í leggöngin.  Aðspurð hvort hún hafi veitt mótspyrnu segist hún hafa verið alveg frosin og í sjokki og ekki veitt mótspyrnu fyrr en hún fann nístandi sársauka „þarna niðri“ við það að hann hreyfði sig með svo miklum látum.  Hafi hún þá rankað við sér og ýtt honum frá sér og staðið upp.  Hafi hann þá ýtt henni aftur á klósettið og sagt að hann væri ekki búinn.  Hafi hún nú verið orðin reið, teygt sig í hurðina og tekið úr lás, en maðurinn hafði áður læst klefanum.  Hafi hún opnað til hálfs en hann lokað aftur og læst og sagt aftur að hann væri ekki búinn.  Hafi hún þá opnað aftur og hurðin lent á honum.  Segist hún halda að honum hafi brugðið við þetta og hafi hún smeygt sér fram.  Hafi hann komið á eftir henni og viljað fá hana aftur inn á klósett en hún farið fram á gang, öskureið, áður en hann gat nokkuð að gert.  Maðurinn hafi svo farið í burtu og hún þá tekið eftir því að hún var enn með sokkabuxurnar á hælunum.  Hafi hún því farið aftur inn á snyrtinguna og lagað þær.  Hafi hún þá séð að hún var öll út í blóði sem muni hafa verið úr sári sem hún hafði fengið á milli kynfæra og endaþarms, eins og hún komst að síðar.  Hafi hún farið að hágráta en þjónn hafi komið niður og spurt hana hvað amaði að.  Skömmu seinna hafi svo maðurinn sem gerði henni þetta komið niður og hún bent þjóninum á hann og sagt að maðurinn hefði ráðist á sig.  Hafi þjónninn talað eitthvað við manninn en svo farið upp í gestamóttöku með hana.  Hafi menn farið að leita að hinum seka á hótelinu en lögreglan hafi komið og hún verið flutt á slysadeildina. 

          Aðspurð segist hún halda að maðurinn hafi eitthvað reynt að sleikja hana að neðanverðu og hafi honum tekist það „eitthvað smá“.  Hafi hún setið í sjokki meðan á því gekk.  Álítur hún að þetta hafi verið rétt áður en hann ýtti henni á gólfið en eftir að hann setti liminn í munninn á henni.  Aðspurð kveðst hún hafa séð til manns fara inn á karlaklósettið og hafi sá glott þegar hann sá hvernig hún var til reika.  Hún kveðst ekki hafa kallað á hjálp, þótt hana langaði til að öskra, rétt eins og í vondum draumi.  Hún kveðst hafa orðið vör við að einhver kom snöggvast inn á snyrtinguna, annað hvort meðan hún lá á gólfinu eða eftir það.  Hún kveður aðspurð einhverja skruðninga hafa heyrst af samförunum en sjálf hafi hún engu hljóði komið upp, eins og hún hefur áður sagt.  Hún segist aðspurð ekki hafa verið með glas með sér þegar hún fór að leita að salerninu en fram kemur hjá henni að hún hafi verið búin að drekka talsvert þetta kvöld, bæði áður en hún kom á Sögu og eins þar, bæði úr glösum sem hún fékk sér sjálf, eins og hún tilgreinir nánar, og sopa úr glösum annarra.  Kveðst hún hafa verið nokkuð ölvuð.  Hún kveðst þó hafa getað gengið greitt og farið niður stigann, en hún þó hafa slagað.  Hún kveðst hafa sagt nei á ensku við manninn, þegar hann bauðst til að fylgja henni niður á salerni, og að hún gæti farið þangað sjálf.  Hún kveðst ekki muna allt nákvæmlega vegna ölvunar og vel geti verið að þau hafi gengið saman niður stigann og ákærði haldið utan um hana.  Hún segir aðspurð að ekki sé rétt eftir henni haft í frumskýrslu lögreglunnar að ákærði hafi ruðst inn á hana þar sem hún var að kasta af sér vatni.  Aðspurð, hvort maðurinn hafi ýtt henni inn á básinn af einhverjum krafti, svarar hún, að segja megi það.  Hún segist halda að kynfæri hennar hafi alveg örugglega verið þurr þegar samræðið fór fram.  Þá kveðst hún halda að 5 – 10 mínútur hafi liðið frá því maðurinn ýtti henni inn í klefann og þar til hún var komin fram á gang aftur.  Hún kveðst aldrei hafa gefið manninum til kynna að hún væri viljug til samfara.  Hún segir manninn hafa reynt að fá hana aftur inn á salernisbásinn meðan þau voru enn inni á snyrtingunni en hann hafi ekki reynt það eftir að þau voru komin fram á gang, heldur hafi maðurinn farið á brott.  Þegar spænski þjónninn var kominn í spilið hafi þessi maður sagt að hann hefði ekki gert henni neitt heldur einungis verið að fylgja henni á salernið.  Hún segir það ekki vera rétt að ákærði hafi sest á klósettið og hún verið ofan á honum.  Hún kveðst hafa verið í líkamlegu og andlegu sjokki meðan á þessu gekk.  Þegar maðurinn hafi spurt hana hvað gerðist næst hafi hún sagt að hún vissi það ekki og hann þá ýtt henni orðalaust inn í básinn.  Hafi hún fengið áfall við þetta en ekkert sagt við því.  Aðspurð kveður hún ákærða samt ekki hafa haft neina ástæðu til þess að halda að hún vildi eiga mök við hann.  Hafi hún ekki gefið það til kynna með neinum hætti, brosi eða neinu öðru.  Hún kynni hins vegar að hafa brosað til hans fyrst þegar hún spurði hann til vegar. 

          Hún kveðst hafa greinst með athyglisbrest en hann sé ekki svo mikill að það hái henni í daglegu lífi.  Gæti hans aðeins í því hversu fljót hún sé að taka eftir eða „fatta hluti“ og sé hún lengur að því en aðrir.  Gæti vel verið að þessi kvilli hafi haft áhrif á hvernig hún brást við þegar maðurinn ýtti henni inn í klefann.  Hún kveðst ekki hafa slegið símanúmer sitt inn í farsíma mannsins og ekki hafa séð að hann væri með síma.  Hún segist hafa verið mjög taugaveikluð fyrst eftir atburðinn og ekki hafa getað farið ein út að ganga.  Þá hafi hún átt mjög erfitt með að sofa og ekkert getað sofið fyrstu næturnar á eftir.  Þá hafi henni liðið illa þegar hún fór fyrst á skemmtistað eftir þetta vegna drukkins fólks sem hafi verið þar margt.  Þá finnist henni erfitt að fara í sund og að þar séu karlar að glápa á hana.  Hafi henni liðið mjög illa eftir þennan atburð og sé hún sífellt á verði gagnvart því að ráðist verði á hana, t.d. á strætisvagnabiðstöðvum. 

          Geir Guðmundsson læknir, sem framkvæmdi réttarlæknislega skoðun á ákærða 19. mars, hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því maðurinn hafi verið rólegur og samvinnuþýður og alls gáður.  Hafi hann verið með sárrispur á enni og ofarlega á vinstri kinn.  Þá hafi verið rifið ofan af nokkrum bólum á bakinu á honum.  Mar hafi verið aftan á hálsi niður við hársvörð, sem hann hefði sagst hafa fengið við að raka sig þar.  Undir höku hafi verið dálítill roðablettur, sem gæti hafa verið eftir rakstur.  Sárrispur hafi verið framan á hægri úlnlið og sár þar á fingri, lófamegin.  Smávegis marblettur hafi verið innan á hægra læri.  Hafi hann sagst hafa verið barinn í höfuðið og rispast á hægri hendi við að hlaupa í gegnum trjágróður á flótta.  Læknirinn segir að ef til vill hefði mátt sjá merki um að ákærði hefði fengið blóðnasir ef skoðað hefði verið upp í nefið á honum.  Ekki hafi sést merki um slíkt utan á nefinu.    

          Gunnar Hrafn Birgisson sálfræðingur hefur komið fyrir dóm, en hann hefur gert sálfræðiskoðun á Y.  Í skýrslu hans um þá rannsókn segir að hún sé með væg einkenni um athyglisbrest og einnig að greinst hafi hjá henni einkenni áfallastreituröskunar, sem geti stafað af kynferðisbroti, og að hún sé í hættu af því að fá heilkenni þeirrar röskunar.  Hann segir að áfallastreituröskunin hafi virst tengjast atburðum málsins.  Þá segir hann að hún kunni að vera viðkvæmari fyrir slíku vegna eineltis sem hún hafi orðið fyrir á yngri árum.  Hann kveður athyglisbrest stúlkunnar ekki þurfa að tengjast viðbrögðum hennar við áreiti mannsins eða skort á viðbrögðum.  Sé það hins vegar þekkt í sálfræðinni að sumir bregðist við eins og Y þegar þeir verði fyrir árás, að þeir frjósi eða jafnvel gefi eftir og veiti ekki mótspyrnu.   

          A hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hún hafi verið á snyrtingunni á Sögu í umrætt sinn.  Hún hafi veitt athygli stúlku sem kom þar inn.  Þegar hún hafi farið út hafi komið maður þar að og ætlað inn en hætt við þegar hann mætti henni í dyrunum.  Hafi það gerst þannig að hún staldraði við í dyrunum og hurðin lokaðist svo að baki hennar.  Þá kunni hún að hafa gefið manninum til kynna með látæði að hann ætti ekki erindi inn þarna.

          Sigurður Páll Pálsson geðlæknir hefur komið fyrir dóminn en hann gerði geðheilbrigðisrannsókn á ákærða sem dómkvaddur matsmaður.  Í matsgerð hans kemur fram að ákærði eigi nú við mikið þunglyndi að stríða og gífurlega sterk sorgarviðbrögð.  Flest bendi til þess að hann þurfi lyfjameðferð við þeim, auk sálfræðiviðtala, en þunglyndið stafi án efa að einhverju leyti af aðstæðum hans nú.  Hann sé mjög hræddur í fangelsinu og umhverfið þar sé honum mjög framandi.  Hann segir rannsóknina hafa verið erfiða vegna þess m.a. hversu ákærði hafi verið lokaður og tortrygginn framan af.  Hann kveður ákærða ekki bera þess merki að vera tilfinningalaus glæpamaður heldur taki hann mjög nærri sér þær aðstæður sem hann hafi ratað í.  Hafi hann gert sjálfum sér mein með því að skera sig í fangelsinu. 

          B er kunningi ákærða og fjölskyldu hans.  Hann segir ákærða hafa komið í heimsókn til sín laugardaginn 17. mars sl. og sagt að hann héldi að hann væri í vandræðum gagnvart lögreglunni, að vitninu skildist.  Kvaðst hann hafa ráðlagt ákærða að gefa sig fram en kveðst ekki viss um að ákærði hafi skilið hann.  Ekki hafi neitt komið fram hjá ákærða um það að hann væri sekur. 

          C hefur skýrt frá því að hann hafi farið að hitta vinnufélaga sinn á Sögu og fengið sér bjór á barnum.  Þar hafi einnig verið staddur E.  Hann kveðst ekki minnast þess að hafa séð ákærða tala við stúlku þarna á hótelinu eða orðið var við að hann ætti einhver samskipti þar við stúlku.  Hann kveðst hafa verið mjög fullur í þetta sinn.

          D, barþjónn á Sögu, hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hann hafi verið að vinna á barnum í umrætt sinn.  Hafi hann verið á leið á salernið og þá hitt grátandi stúlku sem hafi verið einsömul.  Kveðst hann hafa spurt stúlkuna hvað gerst hefði og hún sagt mann hafa nauðgað sér og bent á strák sem kom þar að með öðrum strák.  Kveðst hann hafa spurt strákinn hvað hefði gerst en hann sagst einungis hafa verið að reyna að fá símanúmer stúlkunnar.  Annað hafi þeim ekki farið á milli.  Hann kveðst ekki hafa orðið var við að strákurinn reyndi að fá stúlkuna með sér inn á snyrtinguna aftur.  Strákurinn hafi svo farið upp en sjálfur hafi hann orðið eftir að tala við stúlkuna og sagt við hana að best væri að hafa samband við lögregluna.  Hafi hún samsinnt því og þau farið upp til þess að hringja á lögreglu og hann kveðst svo hafa farið að leita að stráknum með vinnufélaga sínum, japönskum manni.  Kveðst hann hafa séð strákinn útundan sér og kallað á eftir honum en hann þá tekið til fótanna í brott frá hótelinu.  Þeir hafi elt hann stuttan spöl, en hvorugur þeirra hafi náð til hans.  Lögreglan hafi svo komið.    

          E hefur komið fyrir dóminn og skýrt frá því að hann hafi hitt ákærða á barnum á Sögu.  Hafi hann hitt ákærða þar eftir að ákærði hafði hringt í vitnið.  Hafi þeir dvalið á barnum um kvöldið.  Hann segir stúlku hafa hitt þá þar sem þeir stóðu við stiga sem liggur niður af hæðinni sem barinn er á.  Hafi hún spurt ákærða hvar salernið væri og hann sagt við vitnið að stúlkan þyrfti hjálp og fylgt henni niður á salernið.  Ekki hafi hann tekið eftir því hvort hún hafi verið með glas í hendi en hún hafi haldið á veski.  Hafi þau gengið niður stigann eðlilega, eins og par væri á ferð og talað saman.  Hann kveðst ekki hafa gætt að því hvort þau snertust eitthvað en eins og þetta hafi horft við honum hafi ákærði verið að fylgja stúlkunni niður.  Sjálfur hafi hann gengið á eftir þeim og farið á bar.  Skömmu seinna hafi hann farið niður að forvitnast og opnað dyrnar að snyrtingunni og séð að einn básinn var lokaður og heyrt einhver hljóð þaðan, eðlileg kynferðisleg hljóð, að honum fannst.  Hafi hann þá farið aftur út.  Hann hafi svo séð ákærða koma út af snyrtingunni og síðan hafi stúlkan komið út og talað við Spánverja sem þarna var.  Eitthvað hafi virst ama að stúlkunni, sem hafi virst gráta.  Ákærði hafi sagt vitninu að hann hefði verið með íslensku stúlkunni inni á salerninu og virst ánægður en ekki skömmustulegur.  E kveðst hafa sagt við ákærða að eitthvað væri að hjá stúlkunni og ákærði þá farið til hennar en svo sagt vitninu að stúlkan hefði sakað hann um að hafa nauðgað sér.  Vitnið gefur annars ekki fyllilega skýra skýrslu um atvikin í kjallaranum frá því að fólkið kemur út af snyrtingunni.  Hann segist hafa fengið áfall við það að heyra hvað stúlkan bar á ákærða og viljað fara heim sem fyrst.  Þeir ákærði hafi farið á barinn og fengið sér að drekka.  Hann hafi svo gengið heim til sín.  Ekki hafi hann séð hvað hefði orðið af ákærða en hann hafi séð að lögreglan var komin á vettvang þegar hann kom út.  Hann segist hafa verið fullur þegar þetta gerðist.  Hann getur ekki fullyrt hvort hann hringdi í ákærða meðan hann var inni á snyrtingunni með stúlkunni.

          F, móðir ákærða, hefur skýrt frá því að sonur hennar hafi hringt umrædda nótt og beðið um að verða sóttur að Perlunni.  Þegar hún sótti hann þangað hafi hann virst eðlilegur í útliti og fari.  Hafi hann sagt að hann hefði viljað koma heim af því að hann nennti ekki að skemmta sér lengur.  Hafi hann sagt að eldri bróðir hans hefði rétt fyrir sér í því að íslenskar stelpur væru heimskar.  Hefði hann þurft að slást út af einni þeirra.  

          G var með Y á Hótel Sögu umrætt sinn.  Hún segir að Y hafi verið orðin frekar full þegar leiðir þeirra skildi um kvöldið.  

          Ósk Ingvarsdóttir sérfræðingur, sem skoðaði Y á neyðarmóttökunni í Fossvogsspítala, hefur komið fyrir dóm og staðfest vottorð sitt um þá skoðun.  Hún kveður sprunguna við endaþarm stúlkunnar hafa greinilega verið ferskan áverka og hafi blætt úr honum og blóð borist innan á læri konunnar og víðar.  Þá segir hún sprunguna hafa verið á húð utan við endaþarmsslímhúðina, sem hafi tilhneigingu til þess að dragast inn þegar konan sýni ósjálfráða eða sjálfráða mótspyrnu þegar reynt sé að fara inn í það op.  Á sama hátt geti slíkur áverki komið til ef getnaðarlimur karls sé rekinn óvart á þennan stað.  Staðsetning sprungunnar komi heim og saman við það sem stúlkan hafi sagt um það hvernig hún hafi legið og þrýstingur komið ofan frá.  Hún telur það mjög ólíklegt að áverki af þessu tagi geti komið vegna harkalegra samfara með samþykki konunnar.  Hún segir meiri líkur vera á áverkum af þessu tagi ef konan er þurr en sé konan hins vegar tilbúin til kynmaka sé hún venjulega rök og því fremur sem hún sé yngri.  Það sé þó háð aldri hennar og fleiru.  Ákaflega ósennilegt sé að áverki af þessu tagi geti komið við hraðar samfarir, þegar karlmaður situr og konan er ofan á honum.  Þá segir læknirinn að á baki konunnar hafi verið roði og þegar hún kom aftur á neyðarmóttökuna hafi hún sagt að hún hefði verið með harðsperrur í nokkra daga eftir atburðinn.  Hún segir stúlkuna hafa verið hrædda, í miklu uppnámi og hún hafi verið umkomulaus og óreynd.      

 

Niðurstaða

          Ákærði hefur komið vel fyrir undir málsmeðferðinni en á framburði hans hafa þó reynst vera veilur.  Á hinn bóginn hefur Y enga tilraun gert til þess að gera hlut sinn betri í meðferð málsins og álítur dómurinn hana almennt einkar trúverðuga.  Þó virðast nokkrar gloppur vera í frásögn hennar vegna ölvunar, að ætla má.

          Ákærði neitar sök og hefur sagt að samfarirnar hafi verið með vilja Y.  Þeim ber saman um upphaf samskipta þeirra og frásögn kunningja ákærða, E, af því atriði er á sama veg.  Ákærði hefur sagt að vel hafi farið á með þeim á leiðinni niður að snyrtingunni og þau haldið hvort um annað.   Þá hefur E sagt að þau hafi gengið saman niður, eins og par og talað saman.  Fyrir liggur að Y var orðin töluvert ölvuð þegar þau hittust og hefur komið fram hjá henni að hún hafi slagað og hún segist ekki muna allt nákvæmlega.  Hefur hún sagt að vel geti verið að þau ákærði hafi gengið saman niður stigann og ákærði þá haldið utan um hana.  Þeim ber ekki saman um það hvort ákærði fékk sopa hjá henni úr glasi eða hvort hún yfir höfuð hélt á glasi.  Eftir að þau hittust aftur inni á snyrtingunni ber þeim hins vegar saman um það að ákærði hafi spurt hana: “Hvað gerist næst?”, eða eitthvað í þá veru, og segist hún þá hafa svarað að það vissi hún ekki.  Þá ber þeim ekki saman um það hvort þau hafi kysst eða látið vel hvort að öðru áður en þau fóru inn í salernisklefann.  Ákærði hefur sagt að þau hafi farið þangað inn, en hún sagt að hann hafi ýtt henni þangað.  Ákærða og Y ber mikið á milli um það hvort þau létu vel hvort að öðru inni í klefanum og um það hvort hún hjálpaði honum við að fara úr.  Þá ber mikið á milli þeirra um það hvernig samræðið fór fram, en þeim ber saman um að ákærði hafi sett lim sinn í munn hennar og sleikt hana að neðan. 

          Frásögn Y er trúverðug um það sem fram fór inni í klefanum og að því er varðar samræðið hefur frásögn hennar stuðning af því sem fram kom við læknisrannsóknina á henni.  Þykir því mega slá því föstu að samræði þeirra ákærða hafi farið fram á klefagólfinu, á þann hátt sem hún hefur lýst, og að hún hafi hlotið margnefndan áverka af því að ákærði rak getnaðarliminn af afli í hana á milli skeiðar og endaþarmsops.  Ákærði kveður þetta hafa gerst óvart og hefur Y sagt að þetta hafi gerst við það að ákærði hreyfði sig með svo miklum látum.  Hefur ákæruvaldið ekki hnekkt viðbáru ákærða um þetta og jafnframt telst ósannað gegn neitun hans að hann hafi reynt að setja liminn í endaþarm konunnar.  Að öðru leyti telst sannað með framburði ákærða og vætti Y að hann hafi haft samræði við hana inni í klefanum.  Þá telst sannað á sama hátt að hann hafi haft þar við hana önnur kynferðismök með því að setja liminn í munn hennar og að sleikja kynfæri hennar, en dómurinn álítur reyndar fyrra atriðið ekki vera nægilega glöggt í ákærunni.

          Samkvæmt ákærunni í málinu og samkvæmt 18. gr. og 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga kemur það til álita hvort ákærði hafi með ofbeldi, eins og það hugtak er skilgreint í 1. mgr. 194. gr., og af ásetningi þröngvað Y til samræðis og til annarra kynferðismaka.  Fyrir liggur að þau tvö urðu samferða niður að snyrtingunni og staðhæfing ákærða um að vel hafi farið á með þeim á leiðinni þangað þykir ekki vera ótrúleg í ljósi orðaskipta þeirra þar inni.  Þá verður ekki heldur litið fram hjá því að Y kveðst ekki muna atvikin í smáatriðum vegna ölvunar, að hún hefur sagt að ákærði kunni að hafa haldið utan um hana á leiðinni og einnig að hann kunni að hafa misskilið þegar hún svaraði honum á ensku eftir að hann hafði boðist til þess að fylgja henni niður.  Verður því ekki séð að ákærði hafi, fram til þess að þau fóru inn í salernisklefann, haft ástæðu til að halda að hún væri honum andhverf. 

          Y hefur, sem fyrr segir, sagt að ákærði hafi ýtt henni inn í klefann, læst að þeim, dregið niður um hana, ýtt henni niður á salernið, sett liminn í munn hennar, sleikt kynfæri hennar, ýtt henni niður á gólfið og haft þar við hana samræði.  Hefur ótvírætt komið fram hjá henni í málinu frá upphafi, að allt þetta hafi ákærði gert móti vilja hennar.  Sagði hún þetta þjóninum, D, strax eftir atburðinn, þegar hún hitti hann á ganginum fyrir framan snyrtinguna, lögreglumanninum Arnþóri Davíðssyni, sem kom á vettvang nokkrum mínútum síðar, og lækninum Ósk Ingvarsdóttur þegar hún kom á neyðarmóttöku slysadeildar.  Þá segir ákærði Y hafa farið að gráta inni á snyrtingunni og þeir D og E segja hana hafa verið grátandi niðri á ganginum.  Þá sagði læknirinn að stúlkan hefði verið í miklu uppnámi yfir því sem gerst hafði þegar hún kom á neyðarmótökuna.  Enn er þess að geta að ákærða og Y ber saman um það að hún hafi verið þurr í leggöngunum þegar hann hafði við hana samræði og hún ber á sama veg.  Þá er að geta áverkans sem fyrr er lýst og þess sem læknirinn hefur sagt, að meiri hætta sé á slíku, sé konan þurr.  Loks er þess að geta, sem fram hefur komið við sálfræðirannsókn á Y, að hjá henni hafi greinst merki um áfallastreituröskun.  Þykir þetta allt styðja svo þann framburð hennar, að hún hafi ekki viljað eiga samræði eða önnur kynferðismök við ákærða, að óhætt sé að slá því föstu.

          Ef byggt er á frásögn Y af því sem gerðist eftir orðaskipti þeirra inni á snyrtingunni lítur dómurinn svo á, að það að ákærði ýtti Y inn í klefann, læsti klefanum innan frá, dró niður um hana, ýtti henni niður á salernið og síðan niður á gólf, geti, hlutrænt séð, ekki talist ofbeldi í skilningi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, eins og það hugtak hefur verið skýrt í refsirétti og í langri dómaframkvæmd.  Nægir þetta eitt til þess að ákærði verði sýknaður af ákærunni.

          Y hefur sagt að hún hafi frosið, orðið fyrir áfalli, fengið sjokk, verið eins og í vondum draumi þegar ákærði ýtti henni inn í salernisklefann.  Veitti hún þá og síðan enga mótspyrnu og kom ekki upp orði fyrr en hún rankaði loks við sér við sársaukann milli fótanna.  Ýtti hún þá ákærða af sér og stóð upp.  Er frásögn hennar alveg ótvíræð um það að ákærði fór öllu sínu fram við hana án þess að hún veitti athæfi hans viðnám eða mótmælti því.  Í því sambandi ber sérstaklega að hafa í huga að hún reyndi ekki að kalla á hjálp þegar hún heyrði að einhver kom inn á snyrtinguna.  Þá er að einnig að líta til þess að Y þykir, fram til þess að þau fóru inn á salernisklefann, ekki hafa gefið ákærða ástæðu til að halda það að hún væri honum andhverf.   Þegar allt þetta er haft í huga álítur dómurinn að ákærða hafi ekki hlotið að vera það ljóst að samræðið og kynferðismökin væru að óvilja Y. 

          Af því sem framan er rakið ber að sýkna ákærða af ákærunni og vísa bótakröfunni frá dómi.  Leggja ber málsvarnarlaun til Sveins Andra Sveinssonar hrl., 1.013.181 krónu, og réttargæslulaun til Margrétar Gunnlaugsdóttur hdl., 258.960 krónur, á ríkissjóð.  Dæmast málsvarnar- og réttargæslulaunin með virðisaukaskatti.  Þá ber að dæma að annar sakarkostnaður, 551.360 krónur, skuli einnig greiðast úr ríkissjóði.

Héraðsdómararnir Pétur Guðgeirsson, Ásgeir Magnússon og Sigríður Ólafsdóttir kváðu upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

          Ákærði, X, er sýkn af ákæru í máli þessu.

Málsvarnarlaun til Sveins Andra Sveinssonar hrl., 1.013.181 króna, og réttargæslulaun til Margrétar Gunnlaugsdóttur hdl., 258.960 krónur, greiðist úr ríkissjóði.  Annar sakarkostnaður, 551.360 krónur, greiðist einnig úr ríkissjóði.